Skólinn er verkefni nemenda, starfsfólks og foreldra

Grunnskóli Vestmannaeyja verður settur 22. ágúst en skólasetning í 1. bekk verður þriðjudaginn 23. ágúst. Það munu um 520 nemendur hefja nám við skólann auk þess bætast við um 50 nemendur í fimmára deild sem var nýverið sameinuð skólanum. Sigurlás Þorleifsson skólastjóri og Ingibjörg Jónsdóttir aðstoðarskólastjóri eru í óða önn að undirbúa haustið en gáfu sér tíma til að svara nokkrum spurningum blaðamanns.   „Einhverjar breytingar eru á starfsliði skólans eins og venjulega og þá sérstaklega í íþróttakennslunni þar sem þrír kennarar af fimm eru að fara í leyfi. Einnig eru aðrir kennarar að fara í leyfi. Síðan eru alltaf einhverjar hreyfingar í öðrum starfshópum en þó ekki miklar, “ sagði Sigurlás þegar hann var spurður um starfsmannabreytingar. Ingibjörg bætti við að hvað skipulag varðar þá er það helst að fimm ára deildin er komin undir stjórn GRV. „Styrkir það enn frekar samstarf og samfellu í námi nemenda.“ Bæði voru þau sammála um að síðasta skólaár hafi gengið vel enda traustur og öflugur starfsmannahópur sem kemur að þeirri vinnu sem þarf að inna af hendi. „Við erum vel mönnuð, mikill metnaður hjá starfsfólki til að gera góðan skóla enn betri,“ sagði Ingibjörg. „Okkur hefur síðustu ár tekist að halda vel í okkar starfsfólk þannig að við búum að reynslumiklum hópi. Þó er hægt að tala um að allra síðustu ár hafi verið meiri hreyfing en áður sem við teljum líka jákvætt, það er alltaf gaman og gott að fá inn nýtt fólk í skólann,“ sagði Sigurlás. En hverjar eru áherslur næsta skólaárs? „Við erum alltaf að reyna að þróa skólastarfið til að nemendum okkar líði sem best í skólanum. Það er vænlegra til árangurs. Áherslan næsta skólaár verður áfram á lestur eins og undanfarin ár. Einnig er stærðfræðin ofarlega í hugum okkar og við ætlum að reyna að þróa okkur áfram í þeim efnum. Tæknimálin verða líka ofarlega í okkar huga og erum við að reyna að tengja þau við sem flestar námsgreinar til að auka við fjölbreytnina. Mér finnst við vera á réttri leið þar og vonandi bætum við okkur í vetur. Við leggjum einnig ríka áherslu á öflugt samstarf heimila og skóla, því það er lykillinn að góðum árangri og vellíðan nemenda að nemendur finni fyrir því að heimili og skóli vinni saman,“ sagði Sigurlás. Hver eru markmiðin næsta skólaár? „Markmiðin hljóta alltaf að vera að bæta okkur á sem flestum sviðum, að gera skólann okkar betri þannig að starfsfólk og nemendum líði betur og finni sig vel í því sem fram fer í skólanum. Það skilar okkur betri árangri og þannig getum við öll verið stolt af því að tilheyra Grunnskóla Vestmannaeyja. Til að þetta gangi eftir þurfa allir að hjálpast að, foreldrar, nemendur og starfsfólk. Stærsta breytingin fyrir næsta skólaár er fimmára deildin sem verður hluti af Grunnskólanum og það er að sjálfsögðu spennandi verkefni og ætti að auka og auðvelda samstarfið þar sem starfsemi deildarinnar fer fram innan veggja skólans. Sem sagt spennandi skólaár framundan og við væntum þess að vel takist til og þá í góðu samstarfi við alla aðila,“ sögðu Sigurlás og Ingibjörg að lokum og vildu einnig benda á að nánari upplýsingar er hægt að fá á grv.is.
>> Eldri fréttir

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Greinar >>

Háplöntum fækkar og ný smádýr finnast í Surtsey

Árlegur leiðangur vísindamanna í Surtsey leiddi í ljós færri háplöntutegundir en undanfarin ár en hins vegar uppgötvuðust nýjar tegundir smádýra. Varpárangur máfa var með besta móti.   Árlegur leiðangur til líffræðirannsókna á Surtsey var farinn á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands dagana 18.–22. júlí. Áhersla var lögð á að framfylgja hefðbundnum rútínuverkum við vöktun á stöðu og framvindu lífríkisins. Einnig var markmiðið að losa eyna við ýmsa óæskilega aðskotahluti sem rekið hafði á fjörur í gegnum tíðina og fjarlægja restar af byggingarefni sem til féll við lagfæringar á Pálsbæ, húsi Surtseyjarfélagsins, síðastliðið haust. Leiðangurinn var skipulagður í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands og Surtseyjarfélagið að fengnu dvalarleyfi á eynni frá Umhverfisstofnun.   Tíðarfarið þetta sumar hafði verið einstaklega gott og var því fróðlegt að sjá hverju fram vatt á eynni. Hins vegar var veðrið óhagstætt til margra verka meðan á leiðangrinum stóð. Mikið hafði mætt á eynni í veðrahami undanfarins veturs og voru ummerki þess augljós á tanganum. Sjór hafði gengið yfir hann með látum, grjótgarðurinn rofnað á tanganum vestanverðum og sjór gengið inn á tangaflötina, sökkt var í sand leiru sem þar var og myndað nýja rofbakka. Austan megin hafði grjótgarðurinn breikkað mjög og færst langt inn á flötina. Mikill er máttur náttúruaflanna sem á eynni mæða.   Gróður   Háplöntutegundum sem fundust á lífi hafði fækkað um fjórar frá síðasta ári. Gleym-mér-ei, beringspuntur, maríustakkur, lækjagrýta og heiðadúnurt skiluðu sér ekki að þessu sinni, en friggjargras hins vegar en það finnst af og til, ekki á hverju ári. Alls fannst 61 tegund háplantna á lífi að þessu sinni en 65 í fyrra. Frá upphafi hafa alls fundist 73 tegundir háplantna á Surtsey. Nokkrar ætihvannir hafa vaxið á afviknum stað á undanförnum árum. Tvær hvannir fundust nú á nýjum stað í rofbakka á tanganum. Þar var annar gróður einnig í miklum blóma, eins og hrímblaðka og fjörukál, eftir að sjór hafði flætt þar yfir síðastliðinn vetur.   Gróska í máfabyggðinni var með fádæmum þrátt fyrir þurrviðrasama tíð framan af sumrinu, en hlýindi höfðu verið einstök og áburðargjöf mikil frá máfavarpi í miklum blóma. Þurrt tíðarfarið mátti greina á því að haugarfi var ekki eins öflugur og verða vill í úrkomusamri tíð, en grasvöxtur var með fádæmum. Þrátt fyrir þurrkana hafði gróður haldið velli á þurrum klöppunum ofan við hraunbjörgin. Undanfarin ár hefur melablóm aukist mjög á sandorpnum hraunum en nú mátti merkja bakslag í þeirri þróun.   Úttekt var gerð á föstum mælireitum, gróðurþekja mæld og tíðni tegunda skráð. Frekari úrvinnsla mæligagna fer fram síðar. Dýralíf   Árangur varps stóru máfanna var með albesta móti. Ekki einvörðungu mátti greina fjölgun varppara hjá öllum stóru máfunum þrem, svartbaki, sílamáfi og silfurmáfi, heldur var afkoma unga þeirra betri en nokkru sinni. Þeir voru hvarvetna, jafnt fleygir sem ófleygir, og ungadauði hafði verið lítill. Fæðuframboð í hafinu hefur því verið gott. Svartbakur hafði eflst hvað mest og hafði hrakið sílamáfana til landnáms á nýjum lendum og þannig verið lagður grunnur að aukinni gróðurframvindu á minna grónu landi. Fjölgunar svartbaka gætti einnig á tanganum. Þar hafa að jafnaði orpið um þrjú pör en nú allt að 30 pör. Hins vegar sáust engin ummerki þess að ritur hefðu mætt til varps á þessu vori. Engir lundar sáust heldur á hefðbundnum varpstað þeirra. Fýlar og teistur voru með hefðbundnu móti en fýlarnir höfðu augljóslega þurft að greiða krumma sinn toll. Hrafnspar eyjarinnar hafði nefnilega orpið að vanda og komið upp tveim ungum. Snjótittlingar voru samir við sig, nokkur pör með fleyga unga, þúfutittlingspar á óðali í máfavarpinu og tvær maríuerlur sáust, ein fullorðin og einn ungfugl en óvíst hvort maríuerlan hafi orpið að þessu sinni. Ef til vill voru þær aðkomnar eins og ungur steindepill sem sást á tanganum. Í fyrra fannst æðarkolla með nýklakta unga, nú sást æðarpar á sjónum. Annars var erfitt að meta varp fugla og árangur að þessu sinni. Snemma voraði í ár og leiðangurinn var farinn í seinna lagi.   Ástand smádýralífs var erfitt að meta vegna ríkjandi veðurs á rannsóknatíma, vinda og regns. Smádýrin létu löngum sem minnst á sér kræla. Árangur söfnunar með háfum var því mun lélegri en oftast áður. Þarf því að treysta á að fallgildrur í gróðurmælireitum og tjaldgildra í máfavarpi gefi betri upplýsingar þegar tími gefst til að vinna úr afla þeirra. Þrátt fyrir óhagstætt veðrið uppgötvuðust fjórar bjöllutegundir sem ekki höfðu áður fundist á eynni. Var það afar óvenjulegt því sjaldgæft er að nýjar bjöllur skjóti upp kolli. Þær voru fjallasmiður (Patrobus septentrionis), steinvarta (Byrrhus fasciatus) og tvær tegundir jötunuxa sem þarf að staðfesta betur, báðar fágætar og önnur svo að líkast til er hún auk þess ný fyrir Ísland. Ef rétt reynist teldust tíðindin stór í þessum fræðum. Athygli vakti að kálmölur (Plutella xylostella) var áberandi á flögri og mikið var af lirfum hans á fjörukáli og melablómi, jafnvel svo að ummerki sæjust. Annars er kálmölur útlensk tegund en algengur flækingur. Stundum nær hann að fjölga sér hér á landi á plöntum krossblómaættar sem eru ættingjar kálplantna.   Leiðangursfólk   Fræðimenn frá Náttúrufræðistofnun Íslands að þessu sinni voru Borgþór Magnússon (leiðangursstjóri), Erling Ólafsson, Matthías S. Alfreðsson og Pawel Wasowicz. Frá Landbúnaðarháskóla Íslands voru Bjarni Diðrik Sigurðsson og Hafdís Hanna Ægisdóttir (sjálfboðaliði í hreinsunarátaki). Håkan Wallander frá Háskólanum í Lundi og Alf Ekblad frá Háskólanum í Örebro (rannsökuðu ákveðna þætti jarðvegsmyndunar). Þórdís Vilhelmína Bragadóttir, fulltrúi Umhverfisstofnunar. Vilhjálmur Þorvaldsson og Jón Bjarni Friðriksson frá Veðurstofu Íslands, mættu í lok tímans til að viðhalda sjálfvirku veðurstöðinni.   Náttúrfræðistofnun Íslands greindi frá.