Notalegt að kíkja á Tangann og Bræðrabruggið

Notalegt að kíkja á Tangann og Bræðrabruggið

Það er laugardagskvöld og veðrið eins gott og það getur orðið að hausti til í Vestmannaeyjum. Sjónvarpið hundleiðinlegt og hvað er þá til ráða, er ekki málið að kíkja aðeins út á lífið og sjá hvað skemmtanalífið hefur upp á að bjóða. Það var gert, eldra fólk úr Vesturbænum lagði í‘ann með stefnu á Tangann sem er í skemmtilegu húsi við bryggjukantinn þar sem smábátahöfnin blasir við. Þar tók Berglind Kristjánsdóttir á móti gestum og færði í hendur starfsfólks sem þjónuðu öllum af mikilli alúð. Veitingastaðurinn er einstaklega vel heppnaður og umhverfið frábært. Að sitja nánast á bryggjusporðinum og fylgjast með skipum koma og fara er einstök upplifun. Sjá líka ljós skipanna speglast á tjarnsléttum sjónum gerði þetta enn skemmtilegra. Eins og áður segir var þjónustan góð og það má líka segja um matinn sem smakkaðist prýðilega og var fallega fram reiddur. Verðið líka sanngjarnt. Þarna er notaleg stemning, ekki truflandi tónlist og tíminn leið hratt. Og það voru þakklátir gestir sem yfirgáfu staðinn en enn var nóttin ung. Kúrsinn var tekinn á Bræðrabrugghúsið, Brothers Brewery við Bárustíg þar sem Jóhann Guðmundsson og Hannes Eiríksson stóðu vaktina. Laugardagurinn var lokahnykkurinn á Októberfestinni hjá Bræðrabrugginu þar sem hápunkturinn var bingókvöldið á fimmtudeginum þar sem var fullt hús og mikið fjör. Þetta kvöld var nánast hvert sæti skipað og notalegheit svifu yfir vötnunum. Þeir státa af fjölbreyttri eigin framleiðslu og nær Jóhann fluginu þegar kemur að því segja frá þeim fjölmörgu tegundum sem þeir bjóða upp á. Meðal gesta þetta kvöld voru ung hjón frá Texas, Michael og Patrica Tyler frá New Braunsfels. Þau fylgdust með af athygli þegar Jóhann náði hæstu hæðum í bjórlýsingum sínum. Áhuga gestanna má rekja til þess að New Braunfels er þýskur bær og þar er mikil og sterk hefð fyrir bjór. Þau undu sér vel og voru ánægð með bjórinn. Það athyglisverða er að tveimur klukkustundum áður en að þau voru sest inn á Bræðrabruggið höfðu þau ekki hugmynd um að Vestmannaeyjar væru yfir höfuð til. Sáu heimreiðina frá þjóðvegi eitt og létu slag stand. Komu að ferjunni og ákváðu að drífa sig yfir og sáu ekki eftir því. Enn var nóttin ung þegar fólkið úr Vesturbænum lagði af stað heim á leið, södd og ánægð eftir þennan stutta skrens um næturlíf Vestmannaeyja sem ekki kostaði svo mikið þegar upp var staðið.    

Smalað í Álsey - myndir

Hópur manna fór með björgunarbátnum Þór út í Álsey í hádeginu þann 11. oktober. Frændurnir Heiðar Hinriksson og fjallkóngurinn Kristinn Karlsson höfðu farið áður á tuðru Kristins til að gera klárt fyrir smalamenn sem voru á leiðinni. LJósmyndari Eyjafrétta Óskar Pétur Friðriksson var með í för og segir hér frá.     Til stóð að fara mun fyrr í smalaferðina og nota góðan laugardag eða sunnudag til verksins, veðurguðinn er ekki alltaf á sömu skoðun og fjárbændur hvenær veðrið á að vera best þannig að núna varð að fara úr vinnu í miðri viku til að smala fénu og koma því til byggða.   Þegar lagt var að stað í hádeginu á miðvikudeginum, var veður gott og leit vel út með smalaveður. Eftir stutta siglingu með Þór fóru smalamennirnir í land í Álsey. Álsey er þannig gerð að ekki þarf um mikið berg að fara til að komast upp á hana, bergið er um 7 metra hátt en nú vildi svo til að allt var blautt eftir rigningu næturinnar. Bergið var því sleipt og það varð að fara upp með varkárni og passa sig á að renna ekki á sleipu grjótinu, grasið var að sjálfsögðu blautt líka.     Aðrir sem komu með í þessa ferð út í Álsey voru eftirtaldir:   Guðni Hjörleifsson, fjárbóndi, Haraldur Geir Hlöðversson, fjárbóndi, Ágúst Ingi Jónsson, fjárbóndi, Loftur Rúnar Smárason, bifvélavirki, Friðrik Benediktsson, steypubílstjóri, Birkir Helgason, stálsmiður og Jón Helgi Sveinsson, olíubílstjóri, auk frændanna sem áður er getið.   Strax og menn voru búnir að losa sig við bakpoka og töskur er upp á eyjuna var komið, var hafist handa við að gera réttina klára, aðrir fóru að gera leiðara frá réttinni og upp eftir eyjunni til að stýra fénu í réttina. Þegar réttin var tilbúinn fóru þeir menn sem það gerðu upp eftir eyjunni og byrjuðu að smala, við hinir héldum áfarm að gera leiðarann klárann. Nú fór að rigna á okkur og var úrkoma að mestu á meðan við vorum í eyjunni. Um það leiti sem leiðarinn var að verða tilbúinn komu smalamenn með féð og það rann fljótlega í réttina. Nú varð að stía réttina af þar sem ærnar voru settar öðru megin og lömb hinu megin. Þetta gekk vel og ánum var svo sleppt og gengu þær frelsinu fegnar í burtu og átu sitt gras. Ærnar voru ekki að fást um það þó lömbin væru höfð í réttinni, þær fóru sína leið.     Nú fór að styttast í að Lóðsinn kæmi til að sækja lömb og smala. Guðni Hjörleifs og Kristinn fóru að taka niður leiðarann og eftir það í tuðruna til að taka á móti fénu. Tveimur lömbum var komið fyrir í neti sem hengt var í sleppikrók sem hangir í vír sem liggur frá eyjunni og út í sjó, Þar var lömbunum slakað niður í tuðruna sem sigldi með þau út í Lóðsinn en um borð voru þeir Regin húsasmiður og Ingvi pípari sem tóku á móti fénu. Þegar búið var að slaka niður öllum lömbunum og því dóti sem í land átti að fara var lagt af stað aftur til baka, enn var grasið blautt eftir rigningu dagsins og bergið hálft eins og reikna má með. Ég fór fyrstur niður bergið og rólega fór ég, þar sem önnur höndin er hálf ónýt og kraftlítil og því var að vera var um sig og halda fast í bandið til að slasa sig ekki eða hrapa niður. Kristinn fjallkóngur kom á fullu gasi á tuðru sinni og tók mig um borð, eins og alla hina sem í eyjunni voru.   Hér má sjá myndir frá smöluninni  

Illa gekk að rýma Herjólf vegna sjóveiki

Illa gekk að rýma Herjólf, þegar brunaviðvörunarkerfi ferjunnar fór í gang í lok desember. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa. Reykurinn varð mestur í svokölluðum almenningi sem er salur undir undir bílaþilfari en hann var fullnýttur vegna slæms veðurs, ekki síst vegna sjóveiki hjá farþegum um borð. Í skýrslunni kemur fram að of fáir skipverjar hafi verið til að takast á við þessar aðstæður og að fleiri voru um borð en fyrst var tilkynnt um. Landhelgisgæslan setti af stað mikinn viðbúnað eftir að brunaboði í Herjólfi fór í gang þann 29. desember. Áhafnir beggja björgunarþyrlanna voru kallaðar út sem og björgunarskipið Þór og lóðsinn. Ruv.is greinir frá.   Fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar að brunaviðvörunarkerfið hafi farið í gang um klukkan fjögur en að beiðni um aðstoð hafi verið afturkölluð tæpum hálftíma seinna. Þá hafði komið í ljós að reimar höfðu slitnað í loftræstiblásara fram á skipinu og við það myndast reykur og gúmmílykt.   Í skýrslunni kemur fram að illa hafi gengið að rýma skipið vegna sjóveiki um borð en slæmt veður var á þessum tíma og almenningur, þar sem mestur reykurinn var, því fullnýttur af farþegum. Aðstoða þurfti marga farþega til að komast á mótstað og tók rýming skipsins 10 til 15 mínútur.   Fram kom hjá skipstjóra Herjólfs að of fáir skipverjar hefðu verið um borð til að takast á við þessar aðstæður. Það hafi því komið sér vel að tveir úr áhöfn Herjólfs, sem voru í fríi, voru meðal farþega. Þeir hafi aðstoðað skipverja við rýmingu. Þá voru fjarskipti milli stjórnpalls og skipverja slæm, sérstaklega frá stjórnpalli niður í almenning þar sem mestur reykurinn var.   Þá segir í skýrslunni að samkvæmt fyrstu upplýsingum frá Herjólfi til Vaktstöðvar siglinga hafi verið tilkynnt að 132 manns væru um borð. Seinna hafi komið í ljós að í áhöfn voru tólf og farþegar 137 eða samtals 149. „Í ljós kom að engin skráning var á farþegum sem voru með skipinu í þessari ferð.“ Nefndin leggur því til að fjöldi í áhöfn verði endurskoðaður að teknu tilliti til öryggi skips, áhafnar og farþega.  

Væri heiður að fá að spila fyrir Ísland

Aðalmarkmið okkar fyrir tímabilið var að vinna að minnsta kosti einn bikar þannig ég er ánægð með útkomuna,“ segir Cloé aðspurð út í árangur liðsins á liðnu tímabili. „Fyrir mig persónulega þá er ég ánægð að ég skoraði meira á þessu tímabili en árið áður, en ég vildi óska þess að ég hefði getað klárað síðustu þrjá leikina líka.“ Þegar talið barst að íslenskum ríkisborgararétti og íslenska landsliðinu sagðist Cloé vera spennt fyrir þeim kosti. „Ég mun reyna að fá íslenskan ríkisborgararétt, vonandi mun ferlið byrja núna í nóvember. Ef KSÍ telur sig síðan hafa not fyrir mig í landsliðinu og væri tilbúið til að gefa mér tækifæri þá væri það mikill heiður fyrir mig.“ Eftir að Cloé flutti frá Kanada hafa tækifærin með landsliðinu þar í landi verið af skornum skammti en samkeppnin mikil hjá eins sterku liði og Kanada. „Ég hafði tekið þátt í mörgum úrtökum fyrir landsliðið ásamt því að hafa verið partur af yngri landsliðunum. En eftir að ég yfirgaf Kanada og fór að spila í Bandaríkjunum og síðan Íslandi, hef ég ekki fengið mikla athygli frá knattspyrnusambandinu,“ segir Cloé. Eins og staðan er núna á Cloé eitt á eftir af samningi sínum við ÍBV og segir hún það hentugt fyrirkomulag að framlengja ekki lengur en í eitt ár í senn. „Ég er mjög ánægð í Vestmannaeyjum eins og staðan er í dag, samfélagið, starfsfólk ÍBV og liðið hefur alltaf komið afskaplega vel fram við mig. Ég mun samt sem áður bara taka eitt ár í einu, sérstaklega í ljósi þess að ég er að vinna að meistaragráðu samhliða fótboltanum,“ segir Cloé að endingu.  

Samgönguþingi unga fólksins um helgina

Samgönguþingi unga fólksins lauk í gær en á síðari hluta þingsins störfuðu umræðuhópar og síðan var samþykkt ályktun þingsins sem beint er til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Maríanna Jóhannsdóttir og Jón Gauti Úranusson voru meðal fulltrúa.   Fram kom í lokaorðum Jóns Gunnarssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að hann sæi fyrir sér að þing sem þetta yrði reglulegur viðburður hjá ráðuneytinu. Hann lýsti ánægju sinni með þátttökuna og afrakstur þingsins sem hann sagði nýtast vel.   Umræðuhóparnir fjölluðu um eftirtalin efni:   Sektir: Hækkun sekta við notkun snjalltækja og tekjutenging sekta. Akstur undir áhrifum: Áfengismörk við 0,5 prómill, 0,2 prómill eða 0,0 prómill. Bílprófsaldur og nám til bílprófs. Létt bifhjól og reiðhjól sem samgöngutæki. Hertar refsingar og lengri sviptingartími við ítrekuðum umferðarlagabrotum. Samgöngur í framtíðinni. Umræðustjórar beindu spurningum um málefnin til þátttakenda sem settu fram skoðanir sínar og vangaveltur um umræðuefnin. Hér á eftir eru nokkur atriði sem fram komu í hópunum:   Lengja nám til ökuprófs   Samfélagsþjónusta sem viðurlög við umferðarlagabroti Hækka sektir vegna notkunar snjallsíma í 40 þús. kr. Tekjutengja sektir – mánaðarlaun í sekt? Áróður betri en hækkun á sektum Herða refsingar við ítrekuð brot, senda á námskeið ef menn vilja halda bílprófi Áfengismörk verði óbreytt Fleiri hjólastíga – sérstaklega úti á landi og gera hjólreiðar meira spennandi – skylda hjálmanotkun fyrir alla Bæta strætóáætlanir Halda bílprófsaldri – skrá æfingaakstur Rafmagnsbílar – þarf að taka með í reikninginn umhverfisáhrif af framleiðslu rafgeyma og eyðingu þeirra Taka bílpróf í framhaldsskóla til að jafna aðgengi Samþykkt var eftirfarandi ályktun í lok þingsins:   Ályktun samgönguþings unga fólksins 2017   Horfa þarf til ólíkra samgöngumáta við framtíðarskipulag samgangna á Íslandi. Ungt fólk kýs í vaxandi mæli að búa smærra og nota vistvænar samgöngur. Stjórnvöld skulu þó tryggja einstaklingum svigrúm til að velja sér þann samgöngumáta sem það helst kýs, hvort sem það eru almenningssamgöngur, hjólreiðar, einkabíll eða aðrar tegundir samgangna. Fjölga þarf hleðslustöðvum á landinu til þess að flýta fyrir rafbílavæðingu. Styrkja þarf strætókerfið, meðal annars með því að fjölga ferðum á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni og bjóða upp á næturstrætó.   Öruggar samgöngur er undirstaða byggðar og atvinnulífs um land allt, meðal annars flug- og skipasamgöngur, og leggja þarf því áherslu á áframhaldandi uppbyggingu vega á landsbyggðinni, meðal annars með tilliti til hraðrar fjölgunar ferðamanna á undanförnum árum. Klára þarf að malbika hringveginn. Stjórnvöld þurfa að tryggja nýsköpunarfyrirtækjum á sviði samgangna samkeppnishæft umhverfi, svo sem fyrirtækjum sem bjóða upp á betri nýtingu farartækja og fjármagn í gegnum deilihagkerfið.   Tæknin tekur hröðum breytingum og þess vegna þarf að aðlaga regluverkið að aukinni snjalltækjanotkun í umferðinni. Hækka þarf sektir fyrir notkun þeirra undir stýri og skoða kosti og galla kerfis þar sem sektir eða refsingar komi jafnt við alla tekjuhópa í landinu. Lækka þarf áfengismörk við akstur til þess að draga úr akstri undir áhrifum. Einnig þarf að herða refsingar við ítrekuðum umferðarlagabrotum, til dæmis með stigvaxandi sektum eða samfélagsþjónustu.   Samgönguþing unga fólksins telur ekki ástæðu til að hækka bílprófsaldur upp í 18 ár í stað 17 ára, en vill skoða að samræma menntaskólaaldur og bílprófsaldur. Tryggja þarf að æfingaakstur sé nýttur við ökunámið til að undirbúa unga bílstjóra betur undir umferðina. Þingið telur ástæðu til að skoða réttindi og skyldur ungs fólks í víðara samhengi. Rannsóknir benda til þess að fólk sé lengur í áhættuhóp því seinna sem það öðlast ökuréttindi. Telur þingið það ekki vera aldur ökumanna sem auki slysatíðnina, heldur reynsluleysið sem er óhjákvæmilegt hjá nýjum ökumönnum óháð bílprófsaldri.   Ráðast þarf í gerð fleiri hjólreiðastíga til þess að styrkja frekar við hjólreiðar sem samgöngur og gæta þarf að því að fræða hjólreiðamenn um réttindi sín og skyldur í umferðinni samhliða ört vaxandi fjölda hjólreiðamanna á landinu. Skoða þarf lagningu hjólreiðastíga á landsbyggðinni til að hvetja íbúa landsbyggðarinnar til að nýta sér slíkan samgöngumáta.   Einnig þarf að skilgreina notkun léttra bifhjóla með ítarlegri hætti en nú er gert. Tengja þarf allt landið mun betur saman með því að innanlandsflug verði raunhæfur kostur fyrir alla landsmenn. Fjölga þarf stærri samgöngutengingum, t.d. með hraðlestum og bæta þarf tíðni strætókerfisins og almenningssamgangna um landið allt.  

Ragnar Óskarsson: Enn á ný

Enn eru kosningar á næsta leiti. Tæplega ársgömul ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins sprakk nýlega vegna alvarlegra spillingarmála og því þurfum við að kjósa að nýju.   Miðað við þá umræðu sem mest ber á hjá þjóðinni nú eru kröfurnar um jöfnun lífskjara, stöðugleika og heiðarleika og öflugt heilbrigðiskerfi.   Hvernig skyldu stjórnmálaflokkarnir bregðast við þessu ákalli þjóðarinnar? Hér tek ég dæmi um tvo stjórnmálaflokka og afstöðu þeirra.   Vinstri græn munu m.a. jafna lífskjör með skattakerfinu, leggja hærri skatta á þá sem búa við auðlegð en lækka og afnema skatta til þeirra sem minnst mega sín.   Vinstri græn munu beita sér fyrir stöðugleika í samfélaginu með ríkisstjórn sem gerir raunhæfar áætlanir og situr út kjörtímabil sitt. Stjórnkerfið mun verða gagnsætt og hvorki spilltir stjórnmálamenn né aðrir munu komast upp með ólögleg og siðlaus skattaundanskot, hvorki í skattaskjólum né annars staðar.   Vinstri græn munu leggja áherslu á að byggja upp öflugt heilbrigðiskerfi í þágu og eigu þjóðarinnar, heilbrigðiskerfi sem að undanförnu hefur verið látið grotna niður og er nú í raun komið að fótum fram.   Hvernig skyldi Sjálfstæðisflokkurinn líta á ákall þjóðarinnar?   Sjálfstæðisflokkurinn mun halda áfram með skattkerfi sem hyglar þeim auðugu á kostnað þeirra sem minna hafa. Stóreignafólk þarf ekki að örvænta því hagsmuna þess mun vel gætt. Aðrir mega áfram sitja eftir með sárt ennið.   Sjálfstæðisflokkurinn mun halda áfram sveltistefnu sinni gegn heilbrigðiskerfi landsmanna og að auki færa heilbrigðisþjónustuna í auknum mæli til einkarekstrar sem hafa mun í för með sér enn meiri kostnað og enn verri stöðu fyrir almenning í landinu.   Sjálfstæðisflokknum mun á næsta kjörtímabili ekki takast að skapa stöðugleika og heiðarleika. Tvær síðustu ríkisstjórnir þar sem flokkurinn var í forustu gáfust upp vegna einmitt vegna óheiðarleika og spillingarmála.   Ég nefni þessa tvo flokka hér vegna þess að þeir verða í kosningunum 28. október fulltrúar þeirra meginsjónarmiða sem tekist verður á um, um framtíð íslensks samfélags.   Ragnar Óskarsson  
>> Eldri fréttir

Mannlíf >>

Smalað í Álsey - myndir

Hópur manna fór með björgunarbátnum Þór út í Álsey í hádeginu þann 11. oktober. Frændurnir Heiðar Hinriksson og fjallkóngurinn Kristinn Karlsson höfðu farið áður á tuðru Kristins til að gera klárt fyrir smalamenn sem voru á leiðinni. LJósmyndari Eyjafrétta Óskar Pétur Friðriksson var með í för og segir hér frá.     Til stóð að fara mun fyrr í smalaferðina og nota góðan laugardag eða sunnudag til verksins, veðurguðinn er ekki alltaf á sömu skoðun og fjárbændur hvenær veðrið á að vera best þannig að núna varð að fara úr vinnu í miðri viku til að smala fénu og koma því til byggða.   Þegar lagt var að stað í hádeginu á miðvikudeginum, var veður gott og leit vel út með smalaveður. Eftir stutta siglingu með Þór fóru smalamennirnir í land í Álsey. Álsey er þannig gerð að ekki þarf um mikið berg að fara til að komast upp á hana, bergið er um 7 metra hátt en nú vildi svo til að allt var blautt eftir rigningu næturinnar. Bergið var því sleipt og það varð að fara upp með varkárni og passa sig á að renna ekki á sleipu grjótinu, grasið var að sjálfsögðu blautt líka.     Aðrir sem komu með í þessa ferð út í Álsey voru eftirtaldir:   Guðni Hjörleifsson, fjárbóndi, Haraldur Geir Hlöðversson, fjárbóndi, Ágúst Ingi Jónsson, fjárbóndi, Loftur Rúnar Smárason, bifvélavirki, Friðrik Benediktsson, steypubílstjóri, Birkir Helgason, stálsmiður og Jón Helgi Sveinsson, olíubílstjóri, auk frændanna sem áður er getið.   Strax og menn voru búnir að losa sig við bakpoka og töskur er upp á eyjuna var komið, var hafist handa við að gera réttina klára, aðrir fóru að gera leiðara frá réttinni og upp eftir eyjunni til að stýra fénu í réttina. Þegar réttin var tilbúinn fóru þeir menn sem það gerðu upp eftir eyjunni og byrjuðu að smala, við hinir héldum áfarm að gera leiðarann klárann. Nú fór að rigna á okkur og var úrkoma að mestu á meðan við vorum í eyjunni. Um það leiti sem leiðarinn var að verða tilbúinn komu smalamenn með féð og það rann fljótlega í réttina. Nú varð að stía réttina af þar sem ærnar voru settar öðru megin og lömb hinu megin. Þetta gekk vel og ánum var svo sleppt og gengu þær frelsinu fegnar í burtu og átu sitt gras. Ærnar voru ekki að fást um það þó lömbin væru höfð í réttinni, þær fóru sína leið.     Nú fór að styttast í að Lóðsinn kæmi til að sækja lömb og smala. Guðni Hjörleifs og Kristinn fóru að taka niður leiðarann og eftir það í tuðruna til að taka á móti fénu. Tveimur lömbum var komið fyrir í neti sem hengt var í sleppikrók sem hangir í vír sem liggur frá eyjunni og út í sjó, Þar var lömbunum slakað niður í tuðruna sem sigldi með þau út í Lóðsinn en um borð voru þeir Regin húsasmiður og Ingvi pípari sem tóku á móti fénu. Þegar búið var að slaka niður öllum lömbunum og því dóti sem í land átti að fara var lagt af stað aftur til baka, enn var grasið blautt eftir rigningu dagsins og bergið hálft eins og reikna má með. Ég fór fyrstur niður bergið og rólega fór ég, þar sem önnur höndin er hálf ónýt og kraftlítil og því var að vera var um sig og halda fast í bandið til að slasa sig ekki eða hrapa niður. Kristinn fjallkóngur kom á fullu gasi á tuðru sinni og tók mig um borð, eins og alla hina sem í eyjunni voru.   Hér má sjá myndir frá smöluninni  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Smíði nýrrar ferju á áætlun og á að vera tilbúin fyrri hluta næsta sumars

„Nú þegar komið er fram yfir miðjan október er Landeyjahöfn enn opin, sem betur fer. Allir þekkja hversu mikilvægt það er fyrir okkur Eyjamenn og gesti okkar enda fylgja þessu ekki bara aukin tækifæri í ferðaþjónustu, viðskiptum með sjávarafurðir og fl. heldur er þetta stór hluti af almennum lífsgæðum íbúa. Samgöngur skipta okkur hreinlega öllu og því mikilvægt að bæjarbúar hafi á öllum tímum sem mestar og bestar upplýsingar hvað varðar samgöngur á sjó og reyna svo fljótlega að segja frá stöðunni hvað flug varðar,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í pistli í gær. Þar segir hann frá útboði á dælubúnaði, stöðu á smíði á nýrri ferju og eindregnum vilja Vestmannaeyjabæjar til að taka við rekstri Herjólfs. Þar segir hann að dýpkun hafi gengið vel sem megi þakka öflugum tækjum en stóra verkefnið sé að þróa nýjar aðferðir til að tryggja dýpi í Landeyjahöfn eftir að nýja ferjan kemur. Segir Elliði að á næstu dögum verði boðin út lagning vega út á báða garðhausa þannig að hægt verði að koma þar fyrir hjólakrönum. Í útboðinu er einnig gert ráð fyrir kaupum á öflugum dælum og búnaði sem kranarnir geta stýrt úr landi. „Með þessu er vonast til að hægt verði að tryggja dýpi milli garða en þekkt er að vandinn þar er mestur,“ segir Elliði. Af hverju þetta hafi ekki verið gert fyrr segir Elliði að svörin sem hann fái séu að einfaldlega er mjög erfitt að halda nægu dýpi fyrir Herjólf sem ristir meira en nýja ferjan sem líka á að geta siglt í Landeyjahöfn í meiri ölduhæð. Það geri það að verkum að ölduhæð frekar en dýpi ráði því að Herjólfur þarf að sigla til Þorlákshafnar yfir vetrartímann. Elliði segir fráleitar sögusagnir um að ekkert sé að gerast í smíði nýrrar ferju. Ekki væri einu sinni byrjað á henni og tilkynnt yrði eftir kosningar að hætt hefði verið við smíðina. „Ég gerði mér satt að segja ekki grein fyrir að búið væri að tala annað eins rugl inn í bæjarbúa og hef þó séð frjálslega farið með sannleikann. Það er því ánægjulegt að segja frá því að smíði hins nýja Herjólfs er svo til á áætlun og ætti hann að vera kominn til þjónustu fyrri hluta næsta sumars.“ Þá ítrekaði Elliði einlægan vilja hjá Vestmannaeyjabæ að taka yfir rekstur Herjólfs. „Þetta er gert annarsvegar til að koma í veg fyrir að sífellt sé verið að véla um þessi mikilvægu mál án okkar þátttöku og hins vegar til að tryggja að eingöngu hagsmunir samfélagsins ráði ferðinni í þessum mikilvæga rekstri.“ Elliði vísar á bug tortryggnisröddum og segir að mikilvægt sé að hafa hugfast að allt tal um rekstrarlega áhættu sé ekki tímbært enda verður þess gætt að lágmarka slíkt. „Allt tal um að þetta verði til mismununar milli bæjarbúa er fráleit,“ segir Elliði og bendir á að bæjarfulltrúar og fjölskyldur þeirra njóti ekki forgangs þegar kemur að þjónustu bæjarins. „Það lýsir mikilli vanþekkingu á eðli starfa bæjarfulltrúa ef einhver heldur að í því sé fólgið aukið aðgengi að almennri þjónustu. Þeir sem hæst tala um slíkt eiga ef til vill stundum erfitt með að aðskilja eigin hagsmuni og hagsmuni samfélagsins í heild. Samgöngur skipta okkur öllu. Samfélagið í Eyjum á í raun allt undir samgöngum og mikilvægt að við tökumst á við þessi mál af hæfilegri blöndu af bjartsýni og raunsæi. Að gefast upp er ekki í boði,“ eru lokaorð Elliða.  

Greinar >>