Smiðjudagar í Grunnskóla Vestmannaeyja

Smiðjudagar í Grunnskóla Vestmannaeyja

Nú eru smiðjudagar í fullum gangi á unglingastigi GRV og mikið um að vera í skólanum. Nemendur í Lista- og Hönnunarsmiðju sjá um að fegra skólann. Nemendur í Góðverka- og samfélagssmiðju eru búnir að fara vítt og breitt um bæinn að gera góðverk. Þeir fóru inn á Hraunbúðir að aðstoða við umönnun eldri borgara. Einnig fóru nemendur inn á Kirkjugerði, Sóla og Víkina og léku við leikskólabörnin og lásu fyrir þau. Nemendur aðstoðuðu á Gistiheimilinu Hamri og buðust m.a. til að skafa bílrúður hjá fólki. Þeir röðuðu í poka í Bónus og hjálpuðu fólki að bera pokana út í bíl ásamt því að hlusta á yngstu kynslóðina syngja á öskudaginn.  Geir Jón Þórisson kom og sagði frá starfsemi Rauða krossins og einnig fór hann aðeins inn á fyrstu hjálp á slysstað. Matreiðslusmiðjan hefur fengið til sín tvo eðal matreiðslumenn þá Grím kokk sem kenndi nemendum að elda ýmsa fiskrétti frá grunni og Einsa Kalda sem kenndi nemendum að baka ýmiskonar súkkulaðikökur og útbúa ís. Útvarpssmiðjan sér um að halda uppi fjörinu á fm 104,7 og hópur af nemendum er í FabLab. Útipúkinn er nafn á einni smiðju þar sem nemendur hafa t.d. farið í klifurvegginn hjá Björgunarfélaginu, farið í ratleiki um bæinn o.fl. Ein smiðjan vinnur að gerð Árbókar sem nemendur í 10. bekk fá við útskrift í vor. En stærsta smiðjan er svo Árshátíðarsmiðjan sem sér um undirbúning árshátíðarinnar sem verður í kvöld í Höllinni, þar mun Einsi Kaldi sjá um matinn, nemendur sjá um skemmtiatriði og svo mun Friðrik Dór sjá um ballið.   Nemendur og starfsfólk GRV vill þakka öllum þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem hafa styrkt þau, með því að gefa vinnu sína og vinninga. Það er mikils metið að samfélagið sé til að taka þátt í þessu. GRV þakkar eftirfarandi fyrirtækjum kærlega fyrir þeirra stuðning. ·         Grímur kokkur ·         Einsi Kaldi ·         900 Grillshús ·         Landsbankinn ·         Dízo ·         Tvisturinn ·         Póley ·         Skýlið ·         Bk gler ·         Geisli ·         Eymundsson ·         Húsasmiðjan ·         Axel Ó ·         Heildverslun Karls Kristmanns ·         Kráin ·         Hressó ·         Joy ·         Miðstöðin ·         Klettur ·         Subway

Eldheimar keppa um Eyrarrósina

Framtíðarsýn og áherslur í menntamálum

 Á síðasta fundi fræðsluráðs greindi fræðslufulltrúi Vestmanneyjabæjar frá hvernig unnið er að markmiðum framtíðarsýnarinnar i menntamálum hjá sveitarfélaginu. í bókun ráðsins segir; Í leikskólunum er áhersla á daglegan lestur og margskonar leiðir til að efla málþroska, hugtakaskilning og hljóðkerfisvitund barnanna.   Starfsfólk leggur áherslu að setja orð á athafnir í öllum þáttum daglegs lífs þar sem mikilvæg hugtök stærðfræðinnar eru jafnframt kennd og notuð. Kennararnir nýta nýjustu tækni ásamt eldri gamalgrónum aðferðum þar sem öll tækifæri eru nýtt til kennslu og þjálfunar.   Búið er að þýða framtíðarsýnina yfir á pólsku og kynna fyrir forráðamönnum. Lestrarstefna Grunnskólans er leiðarljós í allri lestrar- og læsiskennslu upp allt skólastigið. Samstarf við Bókasafn hefur aukist.   Verið er að leita að leiðum til að efla stærðfræðikennarana. Skipulagning námsþátta í stærðfræði, hugtakavinna, hlutbundin stærðfræði, innleiðing kennslu í forritun með áherslu á samþættingu námsgreina hefur aukist. Stuðningi hefur verið bætt inn í stærðfræðikennsluna á elstu stigum og fagstjóri hefur fengið meiri tíma til að sinna hlutverkinu. Markmiðasetning í hverjum árgangi hefur verið í vinnslu undanfarin ár.   Endurmenntun fyrir kennara hefur skilað sér í fjölbreyttari kennsluaðferðum. Áhersla á samstarf skólans við forráðamenn hefur eflst. Stjórnendur verja meiri tíma í bein samskipti við forráðamenn en áður hefur verið enda hafa foreldrar brugðist vel við bón skólans um aukið samstarf.   Hlutverk skólaskrifstofunnar hefur verið að fylgja framtíðarsýninni eftir og kynna sem víðast í samfélaginu. Stöðupróf (skimanir) í lestri og stærðfræði hafa verið lögð fyrir nemendur í 1., 3., 5., 6., og 9. bekk og þau endurtekin eftir þjálfunarlotur svo að nemendur sjái framfarir og árangur af þjálfunarlotunum. Fræðslufulltrúi er með fasta viðveru í skólunum og tekur þátt í samstarfi við kennara, foreldra og stjórnendur eins og óskað er eftir.   Fræðsluráð þakkar fyrir yfirferðina og lýsir ánægju sinni með öflugt starf sem unnið er í skólunum og mun áfram fylgjast með framgangi mála.

Ekki um einelti að ræða

Eins og fram kom í tilkynningu frá ÍBV Íþróttafélagi í síðasta mánuði voru kallaðir til utanaðkomandi og hlutlausir sérfræðingar til að gera formlega eineltisathugun og leiðbeina félaginu um framhaldið vegna gruns um einelti sem upp kom í æfingahópi félagsins í handbolta karla.   Sérfræðingarnir hafa nú skilað stjórn félagsins skýrslu þar sem meginniðurstaðan er þessi: ''Niðurstöður þessarar athugunar eru þær að ekki sé hægt að fullyrða að um einelti hafi verið að ræða skv. skilgreiningu þess í reglugerð nr. 1009/2015. Hins vegar er ljóst að neikvæð samskipti innan hópsins hafi verið til staðar um nokkurn tíma og komið niður á liðsheildinni og samskiptamáta liðsmanna''.   Skýrsluhöfundar telja "... jákvætt að ÍBV hafi tekið málið alvarlega og leitast við að koma því í farveg sem fyrst".   Sérfræðingarnir leggja jafnframt fram tillögur til lausnar á þeim samskiptavandamálum sem urðu kveikjan að ofangreindri athugun - og sömuleiðis hvernig félagið skuli taka á málum af þessu tagi almennt í öllum flokkum félagsins. Þær tillögur verða leiðbeinandi fyrir félagið í framhaldinu.   Stjórn ÍBV Íþróttafélags vill brýna fyrir fólki að varast rætni, illmælgi og sleggjudóma í tengslum við þetta viðkvæma mál.   Fyrir hönd handknattleiksdeildar ÍBV, Karl Haraldsson formaður   Fyrir hönd aðalstjórnar ÍBV íþróttafélags, Íris Róbertsdóttir formaður

Bónus oftast með lægsta verðið

  Bónus í Ögurhvarfi var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í átta verslunum á höfuðborgarsvæðinu fimmtudaginn 4. febrúar. Bónus var lægst í 81 tilviki, Krónan í 23 tilfellum og Fjarðarkaup 16. Hæsta verðið var oftast að finna í Iceland Engihjalla eða í um þriðjungi tilvika. Munurinn á hæsta og lægsta verði vöru í könnuninni var frá 7% upp í 180%. Oftast var á milli 25-50% verðmunur á hæsta og lægsta verði. Könnunin var gerð í lágvöruverðsverslunum og stórmörkuðum. Af þeim 140 vörutegundum sem skoðaðar voru, voru flestar fáanlegar hjá Fjarðarkaupum Hafnarfirði eða 138 og hjá Iceland 131. Fæstar vörurnar voru fáanlegar hjá Krónunni eða 99 af 140 og Samkaup-Úrval átti 101.   Þegar rýnt er í meðfylgjandi töflu má sjá að verðmunur á milli lágvöruverðsverslana er í um þriðjungi tilvika um og undir 2 kr. hjá Bónus og Krónunni og einnig á milli Krónunnar og Nettó. Þannig kostar 200 ml. af NAN 1 barnamjólk 157 kr. hjá Bónus, 158 kr. hjá Krónunni og 159 kr. hjá Nettó. En þessa uppröðun á verði á milli þessara verslana má sjá á fleiri stöðum í könnuninni.     Mestur verðmunur var á ávöxtum og grænmeti Af þeim vörum sem skoðaðar voru var mestur verðmunur á ávöxtum og grænmeti, eða 31-180%. Mestur verðmunur var á frosnu mangó í bitum sem var dýrast á 1.396 kr./kg. hjá Samkaupum-Úrvali en ódýrast á 498 kr./kg. hjá Bónus sem er 898 kr. verðmunur eða 180%. Það var einnig mikill verðmunur á frosnum jarðaberjum sem voru dýrust á 1.140 kr./kg. hjá Hagkaupum Skeifunni en ódýrust á 415 kr./kg. hjá Bónus sem er 175% verðmunur.   Af ávöxtum og grænmeti var minnstur verðmunur var á íslenskri agúrku sem var dýrust á 656 kr./kg. hjá Samkaupum-Úrvali en ódýrust á 477 kr./kg. hjá Bónus sem er 31%. Af öðrum vörum má nefna að mikill verðmunur var á Lambhagasalati í potti sem var ódýrast á 245 kr. hjá Víði en dýrast á 359 kr. hjá Iceland sem gerir 47% verðmun.
>> Eldri fréttir

Greinar >>

Það er barátta framundan

 Ísland siglir nú hraðbyri inn í nýtt góðæri, munurinn nú og áður er sá að nú erum við meðvituð um það. Við vitum hverjar hætturnar eru og höfum reynslu af því að takast á við ástandið. Eins og í seinasta góðæri þá eru fólksflutningar með mikilli fólsksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu ein af fyrstu vísbendingum um breytt ástand, því fylgir fækkun íbúa víða annarstaðar. Þensla á húsnæðismarkaði og vöxtur í innflutningi á neysluvörum fylgja með rétt eins og sala á nýjum bílum. Gengið styrkist, fjármálageirinn vex, bankarnir stofna viðburðadeildir og áfram má telja. VIð þekkjum þetta. Áhrifin eru margþætt.   Fjölgun á höfuðborgarsvæðinu Þegar gögn hagstofunnar eru skoðuð kemur í ljós að umtalsverð fjölgun er nú að eiga sér stað á höfuðborgarsvæðinu (frá Reykjanesbæ, út í Árborg og upp á Akranes). Í Fréttablaðinu í dag bendir Þóroddur Bjarnson, prófessor við HA á að byggðalög í allt að 50 km. fjarlægð frá Reykjavík eru nú að vaxa með eindæmum hratt, jafnvel tvöfalt hraðar en í borginni sjálfri. Þar ræður margt. Auðvitað eru þetta gæðasamfélög og líklegt að margir vilji með því að flytja þangað sameina kosti borgarsamfélagsins (svo sem fjölbreyttari atvinnutækifæri) og smærri samfélaga (svo sem aukin öryggistilfinning, nánd og fl.).   Fækkun í landsbyggðum Eins og gefur að skilja hefur vöxtur á einu svæði umfram heildarfjölgun þjóðarinnar áhirf á öðru svæði. Eins og í fyrra góðæri byrja þessi áhrif fjærst borginni. Þannig varð á seinasta ári fækkun bæði á Austurlandi sem og á Vestfjörðum.   Enn fjölgar lítillega í Eyjum Í Vestmannaeyjum hefur íbúum fjölgað á seinustu árum. 1.des. 2013 voru íbúar 4248. Ári seinna, 1. des. 2014 voru íbúar 4276. Á seinasta ári varð einnig fjölgun því 1. des. 2015 voru búsettir Eyjamenn orðnir 4286. Sem sagt fjölgun um 38 á 2 árum. Flestir uðru íbúar í Vestmannaeyjum um mitt seinasta ár þegar þeir urðu 4308 og er það í takt við hrynjanda seinustu áratuga. Það fjölgar á fyrrihluta árs en fækkar á seinnihluta þess.   Varnarbarátta Í mínum huga er ljóst að það er mikil varnarbarátta framundan í landsbyggðunum. Þar sem ekki tekst að bregðast við sogkrafti höfuðborgarsvæðisins þar mun íbúum fækka. Fyrir þessum veruleika fundum við Eyjamenn glögglega síðast. Fyrsta skrefið í þessu verkefni er því að átta sig á stöðunni, skilja hana og viðurkenna. Næsta skref er að falla ekki í innribaráttu í samfélaginu (það fundum við Eyjamenn einnig síðast) heldur snúa vörn í sókn.   Sóknarbarátta Hér í Eyjum er öllum ljóst hvað til þarf. Það þarf að bæta samgöngur og heilbrigðisþjónustu (ég ætla að skrifa meira um það á næstu dögum). Í viðbót við það þá verður Vestmannaeyjabær að vera meira en samkeppnishæfur hvað varðar þjónustu við íbúa. Hér í Eyjum getum við ekki boðið upp á jafn fjölbreytt atvinnulíf og á höfuðborgarsvæðinu, við höfum ekki framboð bíóhúsa, leikhúsa, leizertag og keilu. Við verðum aldrei samkeppnishæf hvað það varðar. Við getum því bara keppt í því að veita þjónustu sem er með því sem best gerist á landinu. Við erum með góða þjónustu en til að hún verði með því sem best gerist þá þarf að ráðast í aðgerðir og þá sérstaklega í því sem snýr að barnafjölskyldum.   Atvinnu- og menntatækifæri Hér í Vestmannaeyjum er enn frekar einhæf atvinnu- og menntatækifæri þótt vaxandi ferðaþjónusta hafi fjölgað eggjunum í körfunni. Það er okkur því mikilvægt að vel takist til með stofnun háskóladeildar þeirrar sem nú er unnið að. Ekki eingöngu fjölgar þar menntatækifærum í Eyjum heldur getur námið orðið uppeldisstöð fyrir frumkvöðla, lífafl framþróunar. Efling iðnmenntunar í Vestmannaeyjum er einnig sóknarfæri sem þarf að nýta betur. Hér eins og víða um land er vaxandi þörf fyrir iðnmenntað fólk. Að þessu þarf að hyggja. Þá eru fyrirtækin í Vestmannaeyjum mörg hver mjög sterk. Þegar samkeppnin frá höfuðborgarsvæðinu eykst þá þurfum við á því að halda að þau hugi að nærumhverfi sínu og geri jafnvel enn betur en nú er.   Þar grær sem girt er um Það þarf marg til ef við ætlum að halda sjó í þeim brimskafli sem er framundan. Ef við förum eins að nú og áður með innri átökum og niðurrifi þó fer illa. Ef við stöndum saman, vinnum okkar heimavinnu og krefjumst nauðsynlegra aðgerða hjá ríkinu þá óttast ég ekki þessa stöðu.   Þetta byggi ég á þeirri einföldu speki sem öllum sem átt hafa kálgarð er ljóst og felst í þessum orðum: „Þar grær sem girt er um“.