Einfaldlega að rifna af stolti og þakklæti fyrir að hafa fæðst og alist hér upp

„Þjóðhátíðin í ár toppaði sig enn og aftur með frábærri dagskrá og þvílíkri veðurblíðu. Brekkan hefur held ég aldrei verið eins þétt og flott, ljósadýrðin mögnuð og þjóðhátíðarlögin sem allir kunna orðið sungin hástöfum í magnaða Herjólfsdalnum,“ segir Eyjakonan brottflutta, Laufey Jörgensdóttir sem mætti með með fjölskylduna í Dalinn um helgina. „Maður er einfaldlega að rifna af stolti og þakklæti fyrir að hafa fæðst og alist hér upp - þvílík fegurð, þvílík hátíð og þvílíkt eðalfólk. Vinir okkar ofan af landi eru farin að fylgja okkur til Eyja á Þjóðhátíð og við vorum saman með tjald. Það var alltaf hátíðlegt hjá okkur á daginn en jafnframt mikið stuð á kvöldin enda með mann eins og Sveppa Krull innanborðs sem fagnaði 40 ára afmælisdeginum sínum í tjaldinu í góðum gír. Krakkarnir okkar Óskar Dagur og Auður Erla elska þetta og vilja alltaf fara á Þjóðhátíð. Ég hef sjálf aðeins sleppt þremur þjóðhátíðum svo þetta fer að slaga í 40 ár í Dalnum hjá manni. Það er held ég eitthvað eldheitt Þjóðhátíðarblóð sem rennur í manni, mamma heitin Erla Sigmars var nú alltaf til í fjörið. En mér finnst mikilvægt að mæta helst alltaf til að styrkja tengslin við Eyjarnar í ljósi þess að við búum nú í Reyjavík. Annars voru allir farnir að ræða bara flutninga í bíltúr um Eyjuna áðan og krakkarnir að leita að húsi, það er aldrei að vita nema maður komi aftur syngjandi; "Ég er komin heim". Til hamingju ÍBV með frábæra þjóðhátíð og takk innilega fyrir okkur,duglegu og elskulegu Eyjamenn, verið ávallt þakklát fyrir dýrmætu samkenndina sem ríkir á Eyjunni grænu...Þjóðhátíð 2018 bíður, við sjáumst þar,“ sagði Laufey himinsæl.  

Yri og Stian frá Noregi kolféllu fyrir þjóðhátíð

Wasabi Indíánar settu skemmtilegan svip á annars fjölbreytta flóru í Dalnum

Þeir Árni Þorleifsson, Jóhann Helgi Gíslason, Ólafur Freyr Ólafsson og Ævar Örn Kristinsson hafa undanfarnar þrjár Þjóðhátíðir lagt mikið kapp á búningakeppnina en hópurinn hefur einmitt staðið uppi sem sigurvegari öll árin þrjú. Fyrst sem Jókerinn árið 2015, ári seinna sem Jesú Kristur og í ár sem Wasabi Indíánar. Blaðamaður ræddi við Ólaf Frey eftir Þjóðhátíð og fékk að fræðast aðeins um áhuga hópsins á búningakeppninni.   Hvernig kom það til að vera Wasabi Indíánar? „Við fengum semsagt skilaboð frá sendiboða í kríu-líki. Sem var á þá leið að of lengi hefði hinn hvíti maður nýtt þennan fallega dal undir þjóðhátíð án þess að frumbyggjarnir fengju rönd við reist. Eftir að krían hafði ljáð okkur þessi orð í eyra féll hún í trans. Þannig lá hún allt sumarið þangað til á laugardaginn síðast liðinn þegar sigurinn var í höfn. Þá rankaði hún við sér og flaug upp í himinhvolfin til forfeðra sinna,“ segir Ólafur Freyr þessa upplifun hópsins. Aðspurður út í kostnað og annað slíkt segir Ólafur hann ekki skipta máli í stóra samhenginu. Kostnaðurinn er óverulegur ef miðað er við ábatann og stemminguna sem hlýst af búningunum, en skemmst er frá því að segja að mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Jókerinn steig á stokk, við erum t.a.m. allir í sambandi í dag. Hvort það sé tilkomið vegna búninganna eður ei verða aðrir að segja til um en ég.“ Búningagyðjan er farin að láta á sér kræla Voru Þjóðhátíðargestir í ár áhugasamir um búningana? „Þjóðhátíðargestir voru langflestir áhugasamir um búningana. Ef frá er talinn ein stúlkukind. Blygðunarkennd hennar, að hennar sögn, er særð um ókomin ár vegna okkar fjórmenningana og Kínverjans knáa sem birtist á sunnudaginn með heimaræktuð hrísgrjón og seið lífsins,“ segir Ólafur og bætir við að ekki sé búið að ákveða búningana fyrir næstu Þjóðhátíð. „Við erum með þetta á bakvið eyrað allt árið og erum vanalega klárir hvað þarf að gera og græja í byrjun sumars. Búningagyðjan á enn eftir að heimsækja okkur, þó hún sé örlítið farin að láta á sér kræla.“ Nú hafið þið unnið þrisvar í röð. Er ekki bara réttast að skora á fólk til að veita ykkur samkeppni á næsta ári? „Það þarf engan Milton Friedman til að sjá að samkeppni er alltaf góð, þannig að sjálfsögðu hvetjum við fólk til að rífa sig í gang. Annars vildi ég henda í shout out á nokkrar ósungnar hetjur sem munu að öllum líkindum aldrei lesa þetta. En það eru fjórir utanbæjarpeyjar sem mæta ár eftir ár í kraftgalla með heiðarlegt möllet og glæða brekkuna lífi,“ segir Ólafur Freyr að endingu.  

Sanngjarn og eðlilegur fréttaflutningur sem ber að þakka

Morgunblaðið, mbl.is og K-100 sem heyra undir Árvakur og 365 miðlar, vísir.is, Bylgjan og Stöð 2 fylgdust vel með undirbúningi þjóðhátíðar og hátíðinni sjálfri án þess að vera með fyrirfram ákveðnar meiningar um þessa stærstu útihátíð landsins.  Þeir greindu frá því sem miður fór, kynferðisbrotum, fíkniefnamálum og öðrum málum sem komu til kasta lögreglu. Það var gert af fagmennsku og án fordæmingar en þessir miðlar sáu líka ljósu hliðina á Þjóðhátíð Vestmannaeyja og misstu ekki áhugann þegar í ljós kom að lögreglumál náðu ekki pari við venjulega helgi í Reykjavík. Sighvatur Jónsson, Eyjamaður á K-100 hefur í mörg ár verið með kvikmyndavélina á lofti á þjóðhátíð og er örugglega vel nestaður í þáttinn sinn út vikuna eftir að hafa fylgst með því sem fram fór í Herjólfsdal um helgina.  Eyjamaðurinn og ljósmyndarinn Ófeigur Lýðsson var stöðugt á vaktinni fyrir Moggann og Bylgjan var með beina útsendingu alla dagana þar sem Ásgeir Páll fór á kostum. Þá má ekki gleyma beinni útsendingu Stöðvar 2 frá Brekkusöngnum sem gaman var að skoða eftir að heim var komið. Hafið þökk fyrir.  Síðast en ekki síst er það svo okkar maður á Eyjafréttum, Óskar Pétur, sem alltaf er með myndavélina á lofti og sá líka vísir.is fyrir myndum alla helgina. Já okkar menn stóðu sig vel. Það er svo lítið skrýtið að telja þetta þakkarvert en svona er veruleikinn okkar. Það þýðir ekkert að bera sig illa yfir fréttum um það sem miður fer en hér er líka margt jákvætt að gerast og því hafa Morgunblaðið og Stöð 2 komið myndarlega til skila án þess þó að telja sig allrar þjóðarinnar. Og nú endurtekur sagan sig í bikarnum þar sem sumir standa sig betur en aðrir.    

Fór fram í frábæru veðri og stóð undir nafni sem fjölskylduhátíð

Að hlusta á 16.000 manna kór syngja einum rómi og það af lífi og sál gerist hvergi nema í Brekkusöng á Þjóðhátíð Vestmannaeyja sem að margra mati er hápunktur hátíðarinnar. Ingólfur Þórarinsson, Selfyssingur og Eyjamaður er verðugur arftaki Árna Johnsen sem trúlega hefur ekki gert sér grein fyrir hvað var að verða til þegar hann sló fyrstu tónana í Brekkusöng í Herjólfsdal árið 1977. Það fræ sem þar var sáð hefur vaxið og dafnað og náði enn nýjum hæðum á sunnudaginn þar sem Ingó fór fyrir fjölmennasta Brekkukór frá upphafi.   Hátíðin var sett í frábæru veðri og að viðstöddu fjölmenni. Þar var blásið í lúðra, kórsöngur fyllti Dalinn, séra Viðar Stefánsson flutti hugvekju og ræður voru fluttar. Hátíðarræðuna flutti Arndís María Kjartansdóttir og setti hátíðina í skemmtilegt samhengi við eigið líf og reynslu. Stefán Jónsson, varaformaður ÍBV-íþróttafélags setti hátíðina. Þá var komið að bjargsigi ofurhugans Bjarts Týs Ólafssonar sem aftur er orðið hluti af setningunni. Fjölbreytt dagskrá var í boði fyrir börnin eins og áður þar sem Brúðubíllinn var í stóru hlutverkin eins og venjulega. Einnig komu fram Emmsjé Gauti og BMX-Brós. Á kvöldvökunni komu fram okkar kona, Sara Renee, Hildur, Ragga Gísla sem frumflutti þjóðhátíðarlagið sitt, Sjáumst þar, Riggið hans Friðriks Ómars, Regína Ósk, Eyþór Ingi, Selma Björns, Jógvan og Matti Matt og Emmsjé Gauti. Á miðnæturtónleikum eftir brennu komu fram Emmsjé Gauti, Aron Can og Herra Hnetusmjör. Á Stóra sviðinu um nóttina voru það Eurobandið, Dj Bjarni og Basic House Effect sem léku fyrir dansi. Á Tjarnarsviðinu voru það Eyjadrengirnir í hljómsveitinni Brimnes sem trylltu lýðinn. Á laugardagskvöldið komu fram okkar maður, Sindri Freyr, Áttan, Friðrik Dór og FM95BLÖ. Þá var komið að einni glæsilegustu flugeldasýningu allra tíma en þar á eftir spilaði Dimma og Páll Óskar og Stuðlabandið fóru mikinn í dansinum um nóttina. Á kvölddagskránni á sunnudagskvöldið komu fram sigurvegarar í Söngvakeppninni, Daði Freyr, Halldór Gunnar og Albatross ásamt gestum, Sverri Bergman, Birgittu Haukdal, Bjartmari og Jóni Jónssyni. Ingó og Árni kláruðu Brekkusönginn og eftir blysin voru Albatross og Skítamórall á Stóra sviðinu og Brimnes á Tjarnarsviðinu sem ekki hætti fyrr en slökkt var á þeim klukkan sjö á mánudagsmorguninn. Margt frábærra listamanna kom fram á þjóðhátíðinni og náðu að heilla gesti með list sinni og krafti. Ekki verða þeir allir taldir upp hér en reynsluboltar eins og Ragga Gísla og Páll Óskar sýndu af hverju þau hafa haldið vinsældum í öll þessi ár. Ragga hefur náð því að vera hluti af hátíðinni frá því myndin Með allt á hreinu var að hluta tekin upp á þjóðhátíðinni 1982. Einn af hápunktum myndarinnar var Einsi kaldi þar sem Ragga og Egill Ólafsson fóru fyrir Stuðmönnum í mígandi rigningu sem engin áhrif hafði á stemninguna. Frammistaða annarra ræðst af mati hvers og eins, smekk og aldri en þeir sem rætt var við eru í heild ánægðir með dagskránna og sammála um að listafólkið hafi allt lagt sig fram um að skemmta gestum. Birgitta Haukdal kom skemmtilega á óvart og hljómsveitirnar Brimnes, Albatros og Stuðlabandið kunna tökin á að koma fólki í gírinn í dansinum. Já, það var mikil gleði á Þjóðhátíð þetta árið og samhugurinn í Brekkusöngnum var það sem einkenndi alla helgina sem skartaði frábæru veðri, sólskini, nánast logni allan tímann og droparnir sem féllu hefði mátt telja á fingrum annarrar handar. Gott veður er ávísun á velheppnaða þjóðhátíð og það sannaðist í ár. Eins og alltaf er það fólk sem hingað kemur til mikillar fyrirmyndar, vel útbúið og er hingað komið til að skemmta sér með heimafólki og njóta þess sem í boði er. Kíkja í hvítu tjöldin, dansa fram á rauða morgun og skríða í rúmið eða pokann þegar sól var komin vel á loft. Það hefur margt breyst frá 1986 en þjóðhátíð er alltaf þjóðhátíð með sínum hápunktum, brennunni á Fjósakletti á föstudeginum, flugeldasýningunni á laugardeginum og Brekkusöngnum og blysunum 143 sem eru glæsilegur lokahnykkur á frábærri dagskrá hátíðarinnar. Og ekki má gleyma Þjóðsöngnum sem Árni Johnsen gerði að hátíðarsöng þjóðarinnar allrar. Hann kom nú fram í síðasta sinn og var stórkostlegt að vera á besta stað í Dalnum þar sem kórinn hljómar sterkast og kallar fram gæshúð trekk í trekk. Hvítu tjöldin eru líka á sínum stað þar sem fjölskyldur koma saman yfir kaffi og spjalli á daginn og söng og gleði þegar skyggja tekur.  
>> Eldri fréttir

Mannlíf >>

Ástarljóð til Vestmannaeyja og sorgarsöngur yfir Tyrkjaráninu - myndband

 Ólafur F Magnússon fyrrverandi borgarstjóri hefur sent frá sér nýtt lag sem ber titilinn Við Ræningjatanga. Myndband við lagið er komið í spilun á Youtube en Ólafur samdi sjálfur bæði lag og texta.   Höfundur samdi ljóðið í mars árið 2014 og lagið skömmu síðar. Það var hljómsett og hljóðritað af Vilhjálmi Guðjónssyni, árið 2015. Ólafur syngur lagið sjálfur en Gunnar Þórðarson sér um gítarútsetninguna og gítarleikinn. Myndbandið má finna hér að ofan.   Ólafur sendi lagið Fjallkonan í undankeppni Eurovision árið 2014 og gaf einnig út lögin Gott og göfugt hjarta og Ferðabæn. Myndbandið við lagið Við Ræningjatanga var tekið upp fyrr í sumar í Vestmannaeyjum við Ræningjatanga, þar sem ráðist var inn í Heimaey í Tyrkjaráninu. Friðrik Grétarsson sá um bæði kvikmyndatöku og klippingu. Ólafur segir hafa flutt lagið með tár á hvarmi, hryggur yfir örlögum síns fólks í Eyjum.   Í samtali við Vísi segir Ólafur að lagið sé bæði „Ástarljóð til Vestmannaeyja og sorgarsöngur yfir Tyrkjaráninu.“   Ljóðið Við ræningjatanga hljóðar þannig:      Hunsuð voru hædd og kvalin,    hneppt í þrældóm yfir sæ.    Örlög margra ætíð falin,    ég aldrei þetta skilið fæ.    Munum þessa menn og hrundir,    máttur gleymsku rammur er.    Um Vestmannaeyja víðu grundir,    varðveit þjáning; fólksins ber.  Vísir.is greindi frá.

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Minnihlutinn vill að bærinn borgi ritfangakostnað barna á fyrsta ári

 Mikið hefur verið rætt um þá kröfu foreldra að sveitarfélög borgi skólagögn fyrir grunnskólabörn. Hafa stöðugt fleiri sveitarfélög orðið við þessari kröfu og samkvæmt fréttum hafa um 30% þeirra ákveðið að greiða námsgögn fyrir grunnskólabörn. Reykjavík er ekki meðal þeirra. Á fundi í fræðsluráði Vestmannaeyja í nóvember 2016 var rætt um bóka- og ritfangakostnað vegna yngstu barna í Grunnskóla Vestmannaeyja. Þar kom fram að mikilvægt væri að halda kostnaði í lágmarki og bent á að hjá GRV eru námsgögn keypt inn fyrir alla nemendur í 1. til 6. bekk með þeim tilgangi að lágmarka kostnað foreldra og hefur verið mikil ánægja með það fyrirkomulag. Stefnt er að því að umrætt fyrirkomulag verði fyrir alla bekki GRV. Sonja Andrésdóttir fulltrúi E-listans var á annarri skoðun og lét bóka að sá bóka- og ritfangakostnaður sem fallið hefur á foreldra barna á fyrsta ári í GRV verði þeim að kostnaðarlausu. Meirihluti sjálfstæðismanna í ráðinu lýsti sig hlynntan óbreyttu fyrirkomulagi. Þegar málið kom inn á borð bæjarstjórnar í desember 2016 vildu fulltrúar E-listans fá tillögu Sonju samþykkta en sjálfstæðismenn sögðu nei og felldu hana með fimm atkvæðum gegn tveimur. Stefán Jónasson, oddviti Eyjalistans í bæjarstjórn segir að afstaða meirihlutans hafi komið á óvart. „Þarna vorum við bara að tala um fyrsta bekk, á milli 50 og 60 börn. Kostnaður við hvert barn er á bilinu 6000 til 6500 krónur, þannig að í heildina erum við að tala um 300.000 til 500.000 krónur sem bærinn hefði þurft að borga fyrir börn á fyrsta skólaári,“ segir Stefán. „Hugmyndin var aldrei að borga fyrir öll börn í grunnskóla heldur bara fyrir fyrsta bekkinn. En benda má á að sum sveitarfélög borga allan kostnað í grunnskóla en í öðrum er lögð fram ákveðin upphæð með hverju barni.“ Stefán vonast til þess að meirihlutinn sjái ljósið og breyti afstöðu sinni. „Vonandi verður þetta svipað og með frístundakortin, sem voru eitt af kosningamálum okkar, að sjálfstæðismenn komi sjálfir með tillögu um kaup á skólagögnum. Þá verður hún örugglega samþykkt.“

Páll Magnússon: Stoltur!

 Fyrir viku ætlaði ég að skrifa stutta grein hér í Eyjafréttir um hvað ég væri stoltur af íþróttafélaginu mínu, ÍBV, fyrir stærstu og glæsilegustu Þjóðhátíð sem haldin hefur verið. Það fer a.m.k. ekkert á milli mála að Brekkan á sunnudagskvöldinu hefur aldrei verið stærri en nú; kíkið bara á myndirnar hans Óskar P. Friðrikssonar í síðustu Eyjafréttum. Það var líka fullyrt við mig að hvítu tjöldunum hefði fjölgað mikið á milli ára, sem eru enn betri fréttir ef réttar reynast. Um þetta átti sem sé greinin að fjalla, sem EKKI var skrifuð í síðustu viku. Síðan þá hefur ÍBV orðið bikarmeistari í meistaraflokki karla í fótbolta og meistaraflokkur kvenna komist í úrslit í bikarkeppninni annað árið í röð. Ekki minnkaði stoltið við þetta.   Glæsileg Þjóðhátíð Fyrst aðeins meira um Þjóðhátíð. Það er út af fyrir sig ekkert markmið að fjölga stöðugt gestum á Þjóðhátíð og það má leiða að því býsna sterk rök að af ýmsum ástæðum sé hátíðin nú þegar komin að einhverjum efri mörkum í fjölda - miðað við inntak og innviði. Og síst af öllu viljum láta fjöldann sliga þau stórmerkilegu menningarsögulegu verðmæti sem hátíðin felur í sér fyrir okkur bæjarbúa sjálfa. En þjóðhátíðarhaldið sjálft er alltaf að verða betra og betra í höndunum á ÍBV. Aðbúnaður gesta er alltaf að batna; öryggið er að aukast; þrif og hreinlæti er stöðugt að færast í betra horf; gæslan er að styrkjast og svona mætti áfram telja. Og síðan er mér skapi næst að halda að Þjóðhátíðin sé stöðugt að laða til sín prúðari og betri gesti! Sjálfur hef ég staðið sömu vaktina í hliðinu í Dalnum mörg undanfarin ár; 16 til 19 á föstudeginum. Á föstudeginum núna fóru sjálfsagt einhver þúsund manna fram og til baka um hliðið á þessum tíma. Ég sá áfengi á tveimur. Aðeins tveimur. Þannig háttar líka til að frá útidyrum heima hjá mér í Áshamrinum eru bara nokkrir metrar að tjaldstæði þar sem mikill fjöldi aðkomandi þjóðhátíðagesta heldur til. Þarna átti ég auðvitað leið um margoft meðan á hátíðinni stóð - á öllum tímum sólarhrings. Aldrei sá ég annað en glaðværa hópa af ungu fólki að skemmta sér vandræðalaust. Nú er ég ekki svo einfaldur að halda að ekki séu skuggahliðar þar sem 15.000 til 18.000 manns koma saman til að skemmta sér í þrjá til fjóra sólarhringa, en ég fullyrði að þeir skuggar eru á undanhaldi og bragurinn á hátíðinni nú er á margan hátt betri en hann var t.d. á meðan ég var á þeim aldri sem flestir aðkomandi gestir eru nú. Af þessu öllu er ég óskaplega stoltur af ÍBV, stjórn félagsins og starfsmönnum en síðast en ekki síst öllum þeim sjálfboðaliðum sem vinna þrekvirki fyrir félagið sitt á hverju einasta ári. Ekki bara við þjóðhátíðarhaldið heldur alla þessa stóru viðburði sem félagið stendur fyrir þar fyrir utan; pæju- og pollamót, Þrettándagleðina og fleira. Ætli megi ekki fullyrða að meirihluti allra innlendra gesta, sem sækja Eyjarnar heim á hverju ári, geri það í tengslum við viðburði á vegum ÍBV?   Ótrúlegt afrek Um helgina fengum við svo staðfesta sterka stöðu ÍBV á íþróttasviðinu þegar meistaraflokkur karla í fótbolta varð bikarmeistari með sigri á gríðarsterku liði Íslandsmeistara FH í úrslitaleik. Daginn eftir tryggði kvennaliðið sér svo sæti í bikarúrslitunum annað árið í röð. Þegar hér var komið sögu var ég um það bil að rifna af stolti! Meistaraflokkar karla og kvenna í handbolta líta síðan afar vel út nú í aðdraganda keppnistímabilsins. Í þessum afreksflokkum er síðan auðvitað að finna fyrirmyndirnar sem börnin og unglingarnir sækja sér í öflugu yngriflokkastarfi félagsins - og eru þeim hvati til þátttöku í íþróttum. Þessi staða - að íþróttafélag í rúmlega fjögur þúsund manna til þess að gera einangruðu bæjarfélagi eigi sér fjögur keppnislið í fótbolta og handbolta karla og kvenna í hópi þeirra bestu á Íslandi - er ekkert minna en ótrúlegt afrek! Að öllu samanlögðu fullyrði ég að ekkert íþróttafélag á Íslandi, og jafnvel þótt víðar væri leitað, er jafn mikilvægt sínu samfélagi og ÍBV er í Vestmannaeyjum. Langflestar fjölskyldur í Eyjum eiga sér einhvern snertiflöt við félagið nánast á hverjum einasta degi. ÍBV og allt sem félagið stendur fyrir er snar þáttur af sjálfsmynd Eyjamanna - og sennilega verðmætasta vörumerki þeirra, ef menn vilja leggja mat á slíkt. Að lokum þetta. Ég hvet alla forsvarsmenn þeirra góðu fyrirtækja og félaga í Eyjum sem leitað er til með að styrkja starfsemi ÍBV undir ýmsum formerkjum að taka eftirfarandi pól í hæðina: Það er ekki verið að sníkja af ykkur aur í einhvern óþarfa. Það er verið að hvetja ykkur til að styrkja íþrótta- og æskulýðsstarf og efla þannig þá samfélagslegu innviði sem þarf til að hæfileikaríkt og dugmikið fólk vilji búa og ala upp börnin sín í bænum; sem aftur er nauðsynleg forsenda fyrir ykkur til að fá gott fólk í vinnu! Með sama hætti vil ég segja við bæjaryfirvöld: Stuðningur við ÍBV er ekki bara stuðningur við íþróttastarf í þrengstu merkingu þess orðs heldur við miklu víðtækara og afar mikilvægt samfélagslegt hlutverk sem félagið hefur með höndum. Það hlutverk snýr t.d. að sjálfsmynd Eyjamanna í gegnum viðburði eins og Þjóðhátíð og íþróttaafrek á borð við bikarmeistaratitilinn um daginn - en einnig að hreinum hagrænum atriðum eins og að standa fyrir verulegum hluta af komum innlendra ferðamanna til Eyja. Og bæjaryfirvöld mega aldrei falla í þá gryfju að nota tekjur sem ÍBV hefur af Þjóðhátíð til réttlætingar fyrir minni stuðningi en tíðkast í öðrum bæjarfélögum. Þjóðhátíðartekjurnar gera nefnilega ekki meira en að vega upp þann umframkostnað sem hlýst af því að reka íþróttafélag í Vestmannaeyjum samanborið við höfuðborgarsvæðið. Ef þær þá ná því.   Áfram ÍBV! Páll Magnússon

Greinar >>

Páll Magnússon: Stoltur!

 Fyrir viku ætlaði ég að skrifa stutta grein hér í Eyjafréttir um hvað ég væri stoltur af íþróttafélaginu mínu, ÍBV, fyrir stærstu og glæsilegustu Þjóðhátíð sem haldin hefur verið. Það fer a.m.k. ekkert á milli mála að Brekkan á sunnudagskvöldinu hefur aldrei verið stærri en nú; kíkið bara á myndirnar hans Óskar P. Friðrikssonar í síðustu Eyjafréttum. Það var líka fullyrt við mig að hvítu tjöldunum hefði fjölgað mikið á milli ára, sem eru enn betri fréttir ef réttar reynast. Um þetta átti sem sé greinin að fjalla, sem EKKI var skrifuð í síðustu viku. Síðan þá hefur ÍBV orðið bikarmeistari í meistaraflokki karla í fótbolta og meistaraflokkur kvenna komist í úrslit í bikarkeppninni annað árið í röð. Ekki minnkaði stoltið við þetta.   Glæsileg Þjóðhátíð Fyrst aðeins meira um Þjóðhátíð. Það er út af fyrir sig ekkert markmið að fjölga stöðugt gestum á Þjóðhátíð og það má leiða að því býsna sterk rök að af ýmsum ástæðum sé hátíðin nú þegar komin að einhverjum efri mörkum í fjölda - miðað við inntak og innviði. Og síst af öllu viljum láta fjöldann sliga þau stórmerkilegu menningarsögulegu verðmæti sem hátíðin felur í sér fyrir okkur bæjarbúa sjálfa. En þjóðhátíðarhaldið sjálft er alltaf að verða betra og betra í höndunum á ÍBV. Aðbúnaður gesta er alltaf að batna; öryggið er að aukast; þrif og hreinlæti er stöðugt að færast í betra horf; gæslan er að styrkjast og svona mætti áfram telja. Og síðan er mér skapi næst að halda að Þjóðhátíðin sé stöðugt að laða til sín prúðari og betri gesti! Sjálfur hef ég staðið sömu vaktina í hliðinu í Dalnum mörg undanfarin ár; 16 til 19 á föstudeginum. Á föstudeginum núna fóru sjálfsagt einhver þúsund manna fram og til baka um hliðið á þessum tíma. Ég sá áfengi á tveimur. Aðeins tveimur. Þannig háttar líka til að frá útidyrum heima hjá mér í Áshamrinum eru bara nokkrir metrar að tjaldstæði þar sem mikill fjöldi aðkomandi þjóðhátíðagesta heldur til. Þarna átti ég auðvitað leið um margoft meðan á hátíðinni stóð - á öllum tímum sólarhrings. Aldrei sá ég annað en glaðværa hópa af ungu fólki að skemmta sér vandræðalaust. Nú er ég ekki svo einfaldur að halda að ekki séu skuggahliðar þar sem 15.000 til 18.000 manns koma saman til að skemmta sér í þrjá til fjóra sólarhringa, en ég fullyrði að þeir skuggar eru á undanhaldi og bragurinn á hátíðinni nú er á margan hátt betri en hann var t.d. á meðan ég var á þeim aldri sem flestir aðkomandi gestir eru nú. Af þessu öllu er ég óskaplega stoltur af ÍBV, stjórn félagsins og starfsmönnum en síðast en ekki síst öllum þeim sjálfboðaliðum sem vinna þrekvirki fyrir félagið sitt á hverju einasta ári. Ekki bara við þjóðhátíðarhaldið heldur alla þessa stóru viðburði sem félagið stendur fyrir þar fyrir utan; pæju- og pollamót, Þrettándagleðina og fleira. Ætli megi ekki fullyrða að meirihluti allra innlendra gesta, sem sækja Eyjarnar heim á hverju ári, geri það í tengslum við viðburði á vegum ÍBV?   Ótrúlegt afrek Um helgina fengum við svo staðfesta sterka stöðu ÍBV á íþróttasviðinu þegar meistaraflokkur karla í fótbolta varð bikarmeistari með sigri á gríðarsterku liði Íslandsmeistara FH í úrslitaleik. Daginn eftir tryggði kvennaliðið sér svo sæti í bikarúrslitunum annað árið í röð. Þegar hér var komið sögu var ég um það bil að rifna af stolti! Meistaraflokkar karla og kvenna í handbolta líta síðan afar vel út nú í aðdraganda keppnistímabilsins. Í þessum afreksflokkum er síðan auðvitað að finna fyrirmyndirnar sem börnin og unglingarnir sækja sér í öflugu yngriflokkastarfi félagsins - og eru þeim hvati til þátttöku í íþróttum. Þessi staða - að íþróttafélag í rúmlega fjögur þúsund manna til þess að gera einangruðu bæjarfélagi eigi sér fjögur keppnislið í fótbolta og handbolta karla og kvenna í hópi þeirra bestu á Íslandi - er ekkert minna en ótrúlegt afrek! Að öllu samanlögðu fullyrði ég að ekkert íþróttafélag á Íslandi, og jafnvel þótt víðar væri leitað, er jafn mikilvægt sínu samfélagi og ÍBV er í Vestmannaeyjum. Langflestar fjölskyldur í Eyjum eiga sér einhvern snertiflöt við félagið nánast á hverjum einasta degi. ÍBV og allt sem félagið stendur fyrir er snar þáttur af sjálfsmynd Eyjamanna - og sennilega verðmætasta vörumerki þeirra, ef menn vilja leggja mat á slíkt. Að lokum þetta. Ég hvet alla forsvarsmenn þeirra góðu fyrirtækja og félaga í Eyjum sem leitað er til með að styrkja starfsemi ÍBV undir ýmsum formerkjum að taka eftirfarandi pól í hæðina: Það er ekki verið að sníkja af ykkur aur í einhvern óþarfa. Það er verið að hvetja ykkur til að styrkja íþrótta- og æskulýðsstarf og efla þannig þá samfélagslegu innviði sem þarf til að hæfileikaríkt og dugmikið fólk vilji búa og ala upp börnin sín í bænum; sem aftur er nauðsynleg forsenda fyrir ykkur til að fá gott fólk í vinnu! Með sama hætti vil ég segja við bæjaryfirvöld: Stuðningur við ÍBV er ekki bara stuðningur við íþróttastarf í þrengstu merkingu þess orðs heldur við miklu víðtækara og afar mikilvægt samfélagslegt hlutverk sem félagið hefur með höndum. Það hlutverk snýr t.d. að sjálfsmynd Eyjamanna í gegnum viðburði eins og Þjóðhátíð og íþróttaafrek á borð við bikarmeistaratitilinn um daginn - en einnig að hreinum hagrænum atriðum eins og að standa fyrir verulegum hluta af komum innlendra ferðamanna til Eyja. Og bæjaryfirvöld mega aldrei falla í þá gryfju að nota tekjur sem ÍBV hefur af Þjóðhátíð til réttlætingar fyrir minni stuðningi en tíðkast í öðrum bæjarfélögum. Þjóðhátíðartekjurnar gera nefnilega ekki meira en að vega upp þann umframkostnað sem hlýst af því að reka íþróttafélag í Vestmannaeyjum samanborið við höfuðborgarsvæðið. Ef þær þá ná því.   Áfram ÍBV! Páll Magnússon