Fjölbreytt dagskrá á Sjómannadaginn

Nú styttist í sjómannadagshelgina, sem haldin verður 3. - 5. júní, og að vanda verður dagskrá helgarinnar fjölbreytt og skemmtileg. Helgin byrjar að venju með golfmóti sjómanna á föstudagsmorguninn og um kvöldið rokka félagarnir í Skonrokk til heiðurs sjómönnum í Höllinni. Laugardagurinn hefst með hinu árlega dorgveiðimóti klukkan 11.00 á Nausthamarsbryggju og eru allir krakkar hvattir til þess að taka þátt í því. Klukkan 13.00 hefst dagskráin á Vigtartorginu, sem er hin glæsilegasta í ár. Halldór Ingi Guðnason, formaður Sjómannadagsráðs segir undirbúning helgarinnar ganga vel og dagskráin sé að smella saman. ,,Það er að koma mynd á þetta hjá okkur. Við munum að sjálfsögðu halda í þessa föstu dagskrárliði sem eru á hverju ári en um leið bæta nýjum viðburðum inn. Í ár ætlum við til dæmis að bæta við sjómannsþraut sem var alltaf hérna áður fyrr. Við ætlum í fyrsta skipti að veita verðlaun fyrir koddaslaginn og karalokahlaupið og við viljum endilega skora á menn, til þess að skora hver á annan í þessar þrautir og mynda skemmtilega stemmningu eins og þegar Óskar Þór og Magni Hauks mættust í koddaslagnum í fyrra.“ Á meðan dagskráin er á Vigtartorginu mun Björgunarfélag Vestmannaeyja bjóða bæjarbúum að skoða húsnæðið sitt og prufa klifurvegginn. Mótorhjólakapparnir í Drullusokkunum fagna 10 ára afmæli á árinu og verða með sýningu í tilefni að því. Kappróðurinn verður svo á sínum stað og eru áhafnir og aðrir bæjarbúar hvattir til þess að smala saman liði og taka þátt. ,,Við ætlum að sjósetja bátana í lok vikunnar, þannig að fólk getur byrjað að æfa sig um helgina. Við viljum þó brýna fyrir fólki að ganga vel um bátana.“ Á laugardagskvöldinu verður svo heljarinnar veisla í Höllinni þar sem nokkrir af vinsælustu skemmtikröftum landsins mun sjá um að skemmta. Einsi Kaldi sér um veitingarnar og Þorsteinn Guðmundsson verður veislustjóri kvöldsins. Skemmtikraftar kvöldsins eru þau Ágústa Eva, Leó Snær, Sunna Guðlaugs og Sara Reinee. Vinsælasta ballhljómsveit landsins, Buff sér svo um að skemmta gestum hallarinnar fram á rauða nótt. ,,Nú fer hver að verða síðastur að bóka borð í Höllinni og því viljum við hvetja þær áhafnir sem eiga eftir að panta borð að gera það sem fyrst. Borðapantanir eru í síma 8474086.“ Á sunnudaginn er hefðbundin dagskrá, Sjómannamessa í Landakirkju og heiðranir, ræðuhöld og verðlaunaveitingar á Stakkó.  

Bæjarstjórn sammála um að samgöngur ráði framtíð Eyjanna

  Bæjarstjórn Vestmannaeyja fagnaði því að fundi í gær að nú skuli loks hafa verið flutt tillaga á alþingi sem felur í sér heimild til útboðs á nýrri Vestmannaeyjaferju. Þar með verði stigið eitt af mikilvægum skrefum í átt að lausn á samgöngu vanda Eyjamanna. Bæjarstjórn minnir ennfremur á mikilvægi þess að hlustað verði eftir óskum heimamanna í því sem snýr að rekstri hinnar nýju ferju og vísar m.a. til neðangreindra áhersluatriða bæjarstjórnar:   1. Fargjald í Þorlákshöfn Bæjarstjórn Vestmannaeyja hafnar með öllu áformum um að hærra verð sé tekið fyrir siglingar í Þorlákshöfn en í Landeyjahöfn. Eðlilegt og sanngjarnt er að eitt verð gildi fyrir báðar leiðir og fráleitt að rukka sérstaklega þegar siglt er um lengri og erfiðari leið vegna náttúrulegra aðstæðna svo sem veðurs og sandburðar.   2. Lengd útboðs Bæjarráð hefur þegar lagst eindregið gegn því að samið verði um rekstur ferjunnar til lengri tíma en 3 til 5 ára í senn og þá með skýrum og virkum uppsagnarákvæðum. Siglingar í Landeyjahöfn eru þjóðvegurinn til Eyja. Mikilvægt er að slík grunnþjónusta sé ætíð kvik og hægt sé að skipta um rekstraraðila hratt og örugglega ef þörf er á. Í skemmri samningum er einnig aukinn hvati til árangurs í þjónustu.   3. Gjaldtaka fyrir afnot af þjóðvegi Gerð er krafa um að gjaldtaka í Herjólf taki mið af því að um er að ræða þjóðveginn til Eyja. Þannig ætti eingöngu að greiða fyrir bíl sambærilegt verð og kosta myndi að aka þessa leið. Ekki ætti að rukka sérstaklega fyrir farþega í bílum og hófstillt verð fyrir aðra farþega.   4. Ferðafjöldi Ítrekað í kynningu á verkefninu hefur bæjarstjórn og Eyjamönnum öllum verið kynnt að takmörkun á stærð skipsins verði mætt með stórauknum fjölda ferða. Farið er fram á að ferðir í vetraráætlun verði að lágmarki 5 ferðir á dag og 8 ferðir á dag yfir sumartímann. Þá leggur bæjarstjórn það til að inn í útboðsgögn verði byggð sjálfvirk fjölgun ferða þegar biðlistar valda orðið óþægindum fyrir notendur.   5. Árstíðarbundin áætlun Bæjarstjórn Vestmannaeyja leggur áherslu á að áætlun skipsins taki mið af þeim breytta veruleika sem fylgt hefur auknu flæði fólks og vaxandi ferðaþjónustu. Sumartími í ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum spannar í það minnsta 1. maí til 30. september. Þannig kemur til að mynda mikill fjöldi ferðamanna á haustin til að njóta pysjutímans (a.m.k. út sept. og fram í okt) og á sama hátt er tíminn þegar lundinn er að setjast upp og farfuglar að koma til sumardvalar (apríl og maí) mjög eftirsóknarverður fyrir ferðamenn. Því er farið fram á að árstíðaráætlun skiptist svo: Vetraráætlun frá 1. okt til 30. apríl. - Sumaráætlun frá 1. maí til 30. sept.   6. Flutningsgeta Þekkt er að hámarksflutningsgeta skipsins er mismunandi á sumrin og veturna. Farið er fram á að þegar sumaráætlun er í gildi (1. maí til 30. sept) sé flutningsgeta skipsins 550 farþegar.   7. Aukaferðir Samfélagið í Vestmannaeyjum er með öllu háð samgöngum á sjó. Með siglingum Herjólfs stjórna samgönguyfirvöld lífsgæðum bæjarbúa. Ítrekað gerist það að aukinn sveigjanleika þarf til að mæta sérstökum þörfum. Þannig getur það komið til að sigla þurfi aukaferð vegna stórs viðburðar á sviði íþrótta eða að bæta við ferð seint um kvöld til að koma gestum á bæjarhátíðum (goslok, Þrettándi og fl.) til síns heima. Því er eindregið óskað eftir því að í útboði verði boðið fast verð í aukaferðir, annars vegar þegar verið er að bæta ferð inn í áætlun (milli ákveðinna ferða) og hins vegar þegar ferð er bætt inn í utan áætlunnar. Þá er einnig óskað eftir því að boðin verði út ákveðinn pakki af ferðum (t.d. 30 til 50 ferðir) sem bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum geta í samráði við Vegagerðina fundið stað í viðbót við áætlun.   8. Bókunarkerfið Það bókunarkerfi sem nú er unnið eftir er afleitt og ekki boðlegt að áfram verði unnið á forsendum þess. Þá leggur bæjarstjórn Vestmannaeyja þunga áherslu á að hægt verði að bóka a.m.k. 2 ferðir á dag 12 mánuði fram í tímann innan vetraráætlunar og í allar ferðir í sumaráætlun. Slíkt er gríðarlega mikilvægt fyrir t.d. ferðaþjónustu enda skipuleggja ferðaskrifstofur sig a.m.k. ár fram í tímann.   9. Helgidagar Enn og aftur er minnt á að þjónustustig Herjólfs stjórnar lífsgæðum í Vestmannaeyjum. Í samræmi við nútíma kröfur er gerð krafa um að ferjan sigli alla daga ársins án skerðingar á þjónustu og fjölda ferða nema á aðfangadag, jóladag, gamlársdag og nýársdag þegar farnar væru að lágmarki 3 ferðir. Að rjúfa samgöngur við Vestmannaeyjar á stórhátíðardögum er eins og að loka Grindavíkurvegi eða Vesturlandsvegi þessa daga. Slíkt er ekki boðlegt.   10. Einkaeiga á innri gerð. Siglingar í Landeyjahöfn eru þjóðvegurinn til Eyja. Einkaframkvæmdir í vegakerfinu hafa eingöngu verið farnar þegar val er um aðra leið svo sem hvað varðar jarðgöngin undir Hvalfjörðinn. Eðlileg og sanngjörn krafa er að þjóðvegurinn til Eyja gegni sömu lögmálum.   11. Þjónusta í landi Bæjarstjórn hvetur til þess að í útboði sé tryggt að þjónusta í landi sé í samræmi við mikilvægi hennar. Gera þarf ríka kröfu um rúman opnunatíma, öfluga símaþjónustu og skilvirkar upplýsingaveitur. Þá þarf aðstaða í landi að taka mið af þeim mikla fjölda sem fer þar um.   12. Þjónusta um borð Bæjarstjórn Vestmannaeyja hvetur til þess að þjónusta um borð í ferjunni verði í samræmi við að um er að ræða fólksflutninga og ferðaþjónustu. Þannig sé til að mynda gerð krafa um góða nettengingu, góða leikaðstöðu fyrir börn, veitingaþjónustu og ýmislegt fl.   Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign) Páll Marvin Jónsson (sign) Elliði Vignisson (sign) Trausti Hjaltason (sign) Birna Þórsdóttir (sign) Auður Ósk Vilhjálmsdóttir (sign) Stefán Óskar Jónasson (sign)   Bókunin var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.  
>> Eldri fréttir

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Samtaka í átt að auknu læsi

Síðastliðið haust hleypti menntamálaráðherra af stokkunumÞjóðarátaki um læsi. Skólar um allt land hafa tekið þessu átaki fagnandi, meðal annarra Grunnskóli Vestmannaeyja. Í framhaldinu hefur samstarf Bókasafns Vestmannaeyja og GRV aukist og er það vilji beggja aðila að það eflist enn frekar. Eftir áramótin fór af stað verkefni sem Bókasafnið, Grunnskólinn, FÍV og Rauði krossinn unnu saman. Nemendum af erlendu bergi brotnu var boðið upp á lestraraðstoð þrisvar sinnum í viku á bókasafninu. Foreldrar og nemendur voru duglegir að nýta sér þennan valmöguleika. Verkefni, spil og föndur voru í boði milli þess sem nemendur lásu fyrir sjálfboðaliða. Foreldrar voru áhugasamir og oft og mörgum sinnum sátu börn, foreldrar, starfsfólk og sjálfboðaliðar og spiluðu spil sem örva lestur og orðaforða og skemmtu sér konunglega. Þetta var virkilega skemmtilegt verkefni og stefnt er að því að halda áfram næsta haust. Smærri samstarfsverkefni eru af ýmsu tagi og sem dæmi má nefna að kennarar hafa verið að nýta kost bókasafnsins við þemavinnu, fengið bókakassa til að nota í yndislestri nemendur 1. bekkjar taka þátt í sumarlestrarátaki í samstarfi við Bókasafnið og á vormánuðum unnu nemendur 4. bekkjar verkefni sem nú er til sýningar í Einarsstofu í Safnahúsi. Verkefnið ber yfirskriftina Uppáhaldsbókin mín og teiknuðu krakkarnir myndir útfrá uppáhalds bókunum sínum auk þess sem þau skrifuðu líka hvers vegna þær væru í uppáhaldi. Myndirnar eru nú til sýnis, sem og bækurnar sem krakkarnir völdu. Við fengum líka Ljósmyndasafnið, Skjalasafnið og Byggðasafnið í lið með okkur og eru myndir af skólastarfi liðinna ára dregnar fram, leikföng frá ýmsum tímum sýnd sem og skemmtileg námsbók frá 4. áratugnum. Sýningin opnaði laugardaginn 21. maí þar sem starfsmenn Bókasafnsins tóku á móti þeim fáu sem komu og er ekki hægt að neita því að ósköp hefði verið gaman að sjá fleiri þátttakendur, foreldra og kennara vera við opnunina. Á mánudeginum mættu hins vegar flestir nemendurnir sem áttu verk á sýningunni ásamt kennurum sínum og var greinilegt að flestum þótti skemmtilegt að sjá eigin verk. Sýningin mun standa til 2. júní og ég hvet sem flesta foreldra til að koma og leyfa krökkunum að sýna hvað þau hafa verið að lesa. Ætlunin er að taka frá Einarsstofu tvisvar til þrisvar á ári í samstarf við Grunnskólann og vera með ýmiss konar sýningar, m.a. er hugmyndin að bjóða foreldrum að draga fram uppáhalds barnabókina sína. Þjóðarátak um læsi er rétt að hefjast og samstarf bókasafna og skóla getur gert gæfumuninn í hvernig til tekst. Ég vona að sem allra flestir taki þátt í þessu mikilvæga og sameiginlega verkefni – að auka lestur meðal grunnskólabarna í Vestmannaeyjum.    

Raquel Isabel Diaz ráðin verkefnastjóri markaðs- og ferðamála

    Raquel Isabel Diaz hefur verið ráðin verkefnastjóri markaðs- og ferðamála í Vestmannaeyjum. Raquel hefur undanfarin ár starfað sem verkefnastjóri hjá alþjóðlegum fyrirtækjum, m.a. Actavis, Kaupþing banka og Verne Global. Á árunum 2011-2016 vann hún sem viðskiptastjóri hjá tveimur af stærstu auglýsingastofum landsins (Fíton/Pipar og Íslenska auglýsingastofan) þar sem hún vann að auglýsinga og markaðsmálum fyrir fyrirtæki eins og 365 miðlar, Iceland Express, Alvogen, Dominos, Ölgerðina, Lýsi, Icelandair, Íslandsstofu, Meet in Reykjavík, Rauða krossinn, Medis, Þjóðminjasafnið, Borgarleikhúsið o.fl.   Raquel er með háskólagráðu í almannatengslum og auglýsingafræðum (M.Sc.) frá Háskóla Leonardo Da Vinci í El Salvador. Þar að auki er hún með MBA með áherslu á stjórnun og M.Sc. gráðu í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands. Einnig er hún með diplóma í alþjóðlegum ferðamarkaðsfræðum og hefur tekið þátt í námskeiðum í verkefnastjórnun. Raquel talar og skrifar íslensku, ensku og spænsku.   Verkefni Raquel hjá Þekkingarsetrinu verða fyrst og fremst á sviði ferðaþjónustu en jafnframt mun Raquel koma að markaðsráðgjöf til atvinnulífsins almennt í Vestmannaeyjum og vinna að Sóknaráætlun Suðurlands samkvæmt þjónustusamningi Þekkingarseturs Vestmannaeyja við Samtök Sunnlenskra Sveitafélaga.   Ferðaþjónustuaðilar eða aðrir sem leitast eftir ráðgjöf í markaðsmálum geta sent Raquel tölvupóst á netfangið raquel@setur.is, eða verið í sambandi við þjónustuskrifstofu Þekkingarseturs Vestmannaeyja í síma 4811111.    

Greinar >>

Dugnaðarforkar og freyjur í Eyjum

Á dögunum kom ég í sérlega ánægjulega heimsókn til Vestmannaeyja. Mér hefur alla tíð fundist dugnaður og framtakssemi einkennandi fyrir Eyjamenn og er óhætt að segja að þessi heimsókn hafi sýnt það og sannað. Sú framtakssemi birtist ljóslifandi í heimsókn okkar til Gríms Kokks. Það var ekki annað hægt en að hrífast af þeirri ástríðu sem einkennir allt þeirra starf. Við borðuðum bestu löngu í heimi hjá Sigga á Gott og áttum sérlega skemmtilegt skátaspjall við Frosta. Þegar ég komst að því að þeir væru allir bræður mátti ég til með að spyrja Gísla föður þeirra í einlægni hvert leyndarmálið væri. Þá sagði hann mér af systur þeirra, en hún og hennar sonur stæðu að baki Slippnum og Mat og Drykk, en á báðum veitingastöðum höfum við notið sérlega góðs matar. Já Binni í Gröf má vera stoltur af sínum afkomendum.   Við heimsóttum Vinnslustöðina, en þar standa nú yfir miklar framkvæmdir. Auður tók á móti okkur hjá eldri borgurum á Hraunbúðum. Þar hittum við sérlega hressa Eyjapeyja og meyjar. Áttum m.a. ánægjulegt spjall við Möggu Karls, móður mesta sundkappa þjóðarinnar og við Sillu, en hún og systur hennar á aldrinum 91–95 voru allar búnar að ákveða að kjósa konu og tóku mér opnum örmum. Á rölti um bæinn kíktum við svo í verslanir og var vel tekið. Linda hjá Smart tískuverslun kannaðist í fyrstu ekki við forsetaframbjóðandann en eftir fjörugar umræður gerðist hún stuðningskona og skyrtan sem stóð til að kaupa varð framlag hennar til framboðsins og kann ég henni bestu þakkir fyrir.   Kvenkrafturinn var allsráðandi við lok ferðar þegar kvennalið ÍBV tók á móti kvennaliði Blika þar sem tekist var á um Lengjubikarinn. Bikarinn varð eftir í Eyjum að þessu sinni en bæði liðin sýndu snilldartakta og ég, Blikinn sjálfur, stóð mig að því að taka undir þegar lag Eyjamanna glumdi, svo skemmtilegt er það.   Ég býð mig fram til embættis forseta Íslands til að gera gagn og láta gott af mér leiða og vil vera duglegur fyrirliði heiðarleika, réttlætis, virðingar og jafnréttis. Ég fann fyrir miklum innblæstri þessa góðu daga í Eyjum og þakka Eyjamönnum einstaklega hlýjar og hressandi móttökur.