Ekkert fast í hendi en bjartsýni fyrir komandi vertíð

Ekkert fast í hendi en bjartsýni fyrir komandi vertíð

Það má segja að spenningur ríki fyrir komandi vertíð og menn almennt bjartsýnir fyrir henni.
Arnar Richardsson hjá Berg- Huginn sagði að vertíðin leggist vel í þá „ við eigum við von á góðri vertíð,“ sagði hann í sambandi við Eyjafréttir. Einnig heyrðum við í Eyþóri Harðasyni hjá Ísfélaginu og sagði hann að loðnuvertíðin yrði spennandi eins og alltaf „ hún leggst betur í menn þetta árið, en oft áður,“sagði hann.
Sindri Viðarsson hjá Vinnslustöðinni sagði þá einnig vera spennta „við erum spenntir fyrir komandi vertíð bæði í botnfiski og uppsjávarfiski, eins og áður þá er ekkert fast í hendi í veiðum og vinnslu og eina sem við getum gert er að undirbúa okkur sem best og það er það sem við erum að gera þessa dagana.“
 
 
 
 
 
 
 

Árleg úttekt í upphafi skólaárs á leikskólagjöldum

Á fundi fræðsluráðs í síðustu viku var umræða um leikskólagjöld hjá Vestmannaeyjabæ og vísitölutengingu þeirra.   Í fundargerð ráðsins segir að leikskólagjöld í Vestmannaeyjum séu tengd vísitölu neysluverðs, taka mið af þeim og endurreiknast á þriggja mánaða fresti líkt og aðrar gjaldskrár Vestmannaeyjabæjar skv. ákvörðun bæjarráðs. Stefna Vestmannaeyjabæjar er að þjónusta og gjaldskrár allrar þjónustu séu ætíð eins hagstæð notendum og mögulegt er og samanburðarhæf við önnur sambærileg sveitarfélög.   Til að tryggja að tenging við vísitölu verði ekki til að hækka gjaldskrár umfram það sem almennt gerist hefur ráðið reglulega tekið saman gögn um gjaldskrár annarra sveitarfélaga og leiðrétt sínar gjaldskrár í samræmi við það. Í því samhengi vísast til þess að fyrir skömmu tók fræðsluráð til þeirra ráða að lækka leikskólagjöld um rúm 19% og við síðasta samanburð ASÍ kom í ljós að leikskólagjöld í Vestmannaeyjum væru í meðaltali annarra sveitarfélaga, enda er það vilji fræðsluráðs og Vestmannaeyjabæjar að veita samkeppnishæfa þjónustu. Fræðsluráð felur skólaskrifstofu að framkvæma árlega úttekt í upphafi skólaárs á leikskólagjöldum samanburðarsveitarfélaga Vestmannaeyjabæjar.   Eyjalistinn mælist til að vísitöluhækkun á leikskólagjöldum verði ekki að veruleika Fulltrúi Eyjalistans í fræðsluráði lagði fram eftirfarandi bókun vegna málsins: Vegna góðrar stöðu bæjarsjóðs mælist Eyjalistinn til að vísitöluhækkun á leikskólagjöldum verði ekki að veruleika 2018. Nýverið var farið í lækkun á leikskólagjöldum til að koma til móts við foreldra ungra barna og við hjá Eyjalistanum viljum að foreldrar fái að njóta góðs af því áfram. Ráðið felur framkvæmdastjóra að vísa tillögu fullrúa E-lista til bæjarráðs enda mál sem varðar fjárhagsáætlun þessa árs.  

Niðurstaða dýptarmælingar við Landeyjahöfn

Í gær mældi Lóðsinn dýpið í Landeyjahöfn. Að mörgu leiti er niðurstaðan vonum framar. Eðlilega er eftirvænting meðal bæjarbúa enda eigum við allt undir því að blessuð höfnin sé nægilega djúp og sjólag sé þannig að Herjólfur geti siglt þangað. Með það í huga reynum við að miðla þeim upplýsingum sem við höfum.     Heildar niðurstöður mælingarinnar má sjá á þessari mynd. Eins og á henni sést þá er staðan nú nokkuð góð miðað við það sem oft hefur sést á þessum árstíma.   Ekki lítur út fyrir að nein alvarleg fyrirstaða sé innan hafnar en vissulega þarf að dýpka eitthvað við innrihöfnina: Á milli garða er sem fyrr sandbingur en þó minni en oft áður. Dýpið milli garða og rifs er mjög mikið: Rifið sjálft er hinsvegar nokkuð hærra en oft áður.   Án þess að ég sé einhver sérfræðingur í því að lesa úr svona mælingum þá þætti mér ekki ólíklegt að fjarlægja þurfi um 25.000 rúmmetra á milli garða og ef til vill eitthvað svipað á rifinu til að hægt sé að hefja siglingar, þótt slíkt væri þá háð sjávarstöðu.   Í heildina verður þó dýpkað mun meira eða sennilega hátt í 200.000 rúmmetrar. Í dag mun mælingabátur Vegagerðarinnar vinna stærri mælingu í kjölfar þess verður auðveldara að átta sig á stöðunni.   Galilei er nú komin til Vestmannaeyja og hefur hafið undirbúning að dýpkun. Vondir standa til að þeir geti byrjað að dýpka í dag eða á morgun.   Spáin er góð næstu daga og því leyfir maður sér að vera nokkuð bjartsýnn á gott gengi.  Elliði Vignisson Bæjarstjóri

Neitaði að borga lög­fræðingnum

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt karlmanna á áttræðisaldri til þess að greiða skuld upp á tæplega 700 þúsund krónur, með dráttarvöxtum, en það var lögmannsstofa Lúðvíks Bergvinssonar, Bonafide, sem stefndi manninum vegna skuldarinnar. www.visir.is greindi frá.   Fram kemur í dómnum að í maí 2015 hafi maðurinn veitt lögfræðingi hjá lögmannsstofu Lúðvíks umboð til að annast fyrirsvar fyrir hann vegna hugsanlegs ágreinings við nágranna vegna uppsetningar á girðingu. Í umboðinu fólst aðstoð og fyrirsvar við bréfaskriftir, kröfugerð, sáttatilraunir og málflutningur fyrir héraðsdómi eftir atvikum.   Mótmælti ekki tímaskráningu lögfræðingsins vegna málsins „Var lögbannið lagt á og höfðaði stefndi staðfestingarmál fyrir Héraðsdómi Suðurlands og var kveðinn upp í því dómur 5. apríl 2016. Voru dómkröfur stefnda, sem var þá stefnandi staðfestingarmálsins, að lögbannið yrði staðfest og að viðurkennt yrði að nágrannanum væri óheimilt að reisa girðingu við lóðamörkin, auk málskostnaðarkröfu. Var lögbannið staðfest, en stefndi í því máli sýknaður af kröfu um að honum væri óheimilt að reisa girðingu við lóðamörkin. Var málskostnaður felldur niður,“ segir í dómnum um lyktir þess máls fyrir dómstólum.   Fram kemur í þingbók staðfestingarmálsins að bæði umræddur lögfræðingur sem sótti þing og Lúðvík Bergvinsson hafi komið að vinnu við málið einnig.   „Kveður stefnandi að við framangreindan málarekstur hafi verið unnir 26,8 klukkutímar af hálfu stefnanda í þágu stefnda og hefur verið lögð fram tímaskýrsla um það. Hafa verið lagðir fram 3 reikningar stefnanda til stefnda, innheimtubréf, milliinnheimtuviðvaranir, lokaaðvaranir og löginnheimtubréf vegna innheimtu skuldarinnar, en stefnandi kveður stefnda ekki hafa greitt og er því ekki mótmælt. Mótmælir stefndi heldur ekki tímaskráningu stefnanda,“ segir í dómnum.   Hélt að lögfræðingurinn yrði einn með málið en ekki „hópur af fólki“ í Reykjavík Maðurinn hafi hins vegar neitað að greiða reikningana þar sem hann hafi talið að lögfræðingurinn yrði einn með málið en ekki „hópur af fólki í Reykjavík.“ Þá hafi lögfræðingurinn talað um að kostnaðurinn við málareksturinn yrði um 10 þúsund krónur og að aldrei hafi verið gerð fyrir öllum þessum kostnaði sem skuldin hljóðaði upp á.   Dómurinn hafnar þessari málsástæðu mannsins með öllu, segir hana ósannaða og auk þess „fráleitt“ að ætla að lögfæði- og lögmannsþjónusta líkt og maðurinn keypti af Bonafide myndi ekki kosta meira en 10 þúsund krónur. Þá var það jafnframt álit dómsins að með því að leita til lögmannsstofunnar hafi maðurinn undirgengist samningssamband við stofuna um að honum væri veitt lögfræðiaðstoð og þjónusta við málarekstur sinn.   „Þá verður að telja ósannað að stefndi hafi ekki vitað um þær dómkröfur sem hann hafi gert í téðu dómsmáli, enda verður stefndi ekki sýknaður af kröfum stefnanda vegna þess að málareksturinn hafi tapast að hluta til,“ segir jafnframt í dómnum sem sjá má í heild sinni hér.  

Bragðbesta íslenska loðnan

 „Margir kaupendur og neytendur loðnuafurða í Japan hafa sagt mér að loðan á vertíðinni 2017 hafi verið sú bragðbesta frá Íslandi í manna minnum. Sumir hafa samanburð í samfleytt 25 ár og vita hvað þeir tala um,“ segir Yohei Kitayama, japanskur sölumaður About fish, sölu- og markaðsfyrirtækis Vinnslustöðvarinnar. „Nú bíða viðskiptavinir okkar í Japan spenntir eftir loðnunni sem veiðist í ár og auðvitað er alltaf heldur þægileg tilfinning að vita af eftirvæntingarfullum kúnnum! Fyrsta loðnan sem barst til Eyja með Ísleifi VE á dögunum lofar góðu. Ég hef á tilfinningunni að vertíðin 2018 skili okkur ágætri vöru og viðunandi verði. Útlitið á þessum tíma árs í fyrra var hrikalegt en úr rættist heldur betur, þökk sé útgerðarfyrirtækjum sem sendu skip sín til loðnuleitar á eigin kostnað eftir að fiskifræðingar íslenska ríkisins sögðu að enga loðnu væri að finna og aflýstu vertíðinni að mestu. Staðan var grafalvarleg og loðnuleysi hefði að óbreyttu sett fjölda lítilla japanska fjölskyldufyrirtækja í vinnslu og sölu loðnuafurða á hausinn. Þá hefðu tapast viðskipti og viðskiptavinir til frambúðar, sama hve vertíðin 2018 hefði verið góð og gjöful. Eftir allt saman fengum við sem betur fór loðnuvertíð á Íslandi og hún skilaði svona líka góðum afurðum.   Íslendingar framleiddu meira í fyrra en búist var við. Því eru til nokkrar birgðir loðnuafurða í Japan sem gætu haft einhver áhrif á verðlagið nú en ég efast samt um það. Þar kemur tvennt til: Aflamark í loðnu 2018 er minna en gert var ráð fyrir sem takmarkar að sjálfsögðu framboðið. Eftirspurn/neysla í Japan var umfram það sem við reiknuðum með fyrir hálfu ári, aðallega vegna þess að loðnan var óvenjulega stór og góð.   Stærðin skiptir máli! Í fyrra voru að jafnaði 40-50 stykki í kílógrammi en venjulega 50-60. Veitingamenn kunna vel að meta að geta selt færri en stærri fiskstykki í matarskömmtum viðskiptavinarins. Svona nokkuð telur.“ Loðnuvertíðin og afurðasalan í kjölfarið leggst þannig vel í Kitayama en hann neitar sér samt ekki um að kæla ögn væntingar með því að slá varnagla. Norskan varnagla. „Noregur er hér óvissuþáttur, eins og svo oft gerist á mörkuðum með sjávarafurðir. Ef Norðmenn veiða stóra og góða loðnu hefur það örugglega áhrif á verðlagið hjá okkur. Við höfum hins vegar ákveðið forskot sem er um að gera að nýta. Japanskir viðskiptavinir okkar vita að veiðarnar eru komnar í gang hér og að þokkalegar horfur eru með loðnuafurðirnar frá Íslandi. Þeir eru óþreyjufullir að fá loðnu ársins og bíða helst ekki eftir veiðum Norðmanna.   www.vsv.is greindi frá

Mælingar á stærð loðnustofnsins í janúar 2018

Í september - október 2017 fóru fram mælingar á stærð loðnustofnsins. Þá fannst kynþroska loðna aðallega á og við landgrunnið við Austur Grænland. Í þeim leiðangri mældust samtals 945 þúsund tonn af kynþroska loðnu og mæliskekkja (CV) var 0.29. Í framhaldi þeirra mælinga var, í samræmi við gildandi aflareglu, úthlutað 208 þúsund tonnum en jafnframt kom fram að ráðgjöfin yrði endurskoðuð í ljósi niðurstaðna veturinn 2018. Þær mælingar hófust um miðjan janúar og er nú lokið. Í mælingunum tóku þátt rannsóknaskipin Bjarni Sæmundsson og Árni Friðriksson en auk þeirra tók uppsjávarskipið Polar Amaroq fullan þátt í verkefninu. Uppsjávarskipin Aðalsteinn Jónsson SU, Álsey VE, Bjarni Ólafsson AK, Beitir NK, Heimaey VE, Jóna Eðvalds SF, Sigurður VE, Venus NS og Víkingur NS aðstoðuðu við mælinguna sem leitarskip hluta af tímanum.   Rannsóknasvæðið í janúar var landgrunnið og landgrunnsbrúnin frá Grænlandssundi, austur með Norðurlandi og út af Austfjörðum. Gerðar voru 2 mælingar á veiðistofninum. Sú fyrri fór fram dagana 17. - 22. janúar og fannst kynþroska loðna frá norðanverðum Austfjörðum norður um og vestur fyrir Kolbeinseyjarhrygg (mynd 1). Þar fyrir vestan var einkum að finna ungloðnu. Þar sem veður var slæmt þegar mælingu var um það bil að ljúka leituðu skipin vars. Síðari yfirferðin fór fram dagana 25. - 31. janúar á svæðinu frá sunnanverðum Vestfjörðum og norður um, allt að Austfjörðum (mynd 2). Veður var viðunandi á meðan mælingar fóru fram en þó náðist ekki að skoða svæðið út af Vestfjörðum í fyrri yfirferðinni.   Um 849 þúsund tonn af kynþroska loðnu mældust í fyrri yfirferðinni og mæliskekkja var metin 0.38 sem er mesta mæliskekkja sem sést hefur frá því að aflaregla var tekin upp árið 2015. Í síðari yfirferðinni mældust um 759 þúsund tonn og mæliskekkjan metin 0.18.   Þar sem ekki er marktækur munur á niðurstöðum allra þessara mælinga voru þær notaðar saman til framreikninga og ákvörðunar aflamarks samkvæmt aflareglu.   Gildandi aflaregla byggir á því að skilja eftir 150 þúsund tonn til hrygningar með 95% líkum. Tekur aflareglan tillit til óvissumats í mælingunum, vaxtar og náttúrulegrar dánartölu loðnu, auk þess sem afrán þorsks, ýsu og ufsa á loðnu er metið. Samkvæmt samantekt endurtekinna bergmálsmælinga er metið að hrygningarstofn loðnu hafi verið 849 000 tonn hinn 15. janúar. Þá er tekið tillit til þess afla sem hafði veiðst þegar mælingar voru gerðar. Í samræmi við ofangreinda aflareglu verður heildaraflamark á vertíðinni 2017/2018 því 285 þúsund tonn, eða 77 þúsund tonnum hærra en ákvarðað var í október síðastliðnum.  

Lumar fyrirtækið þitt á verkefnum fyrir Heimaey hæfingarstöð?

Lísa Njálsdóttir yfirmaður málaflokks fatlaðs fólks og forstöðumaður Heimaeyjar kynnti starfsemi Heimaeyjar - vinnu- og hæfingarstöðvar fyrir fjölskyldu- og tómstundaráð í síðustu viku. Í Heimaey fer fram dagþjónusta, hæfing, iðja, starfsþjálfun og vernduð vinna samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks og eftir reglugerð um atvinnumál fatlaðs fólks. Í Heimaey starfa 28 einstaklingar í misstórum starfshlutföllum. 8 leiðbeinendur, 9 í verndaðri vinnu, 8 í hæfingu og 3 í lengdri viðveru.   Heimaey veitir dagþjónustu fyrir fólk sem vegna fötlunar þarf sérhæfða og einstaklingsmiðaða þjónustu, létta vinnu, þjálfun, umönnun og afþreyingu. Þjónustunotendur vinna bæði verkefni frá utanaðkomandi aðilum ásamt því að þróa eigin framleiðslu. Í hæfingunni eru nokkur verkefni sem skapa tekjur. Einnig er framleitt handverk sem selt eru á árlegum jólamarkaði. Lögð er áheyrsla á heilbrigði, hreyfingu, tómstundir og afþreyingu auk ýmissa starfa sem tengjast heimilishaldi og daglegum störfum. Heimaey er mótttökuaðili á einnota umbúðum fyrir hönd Endurvinnslunnar. Einnig eru framleidd hágæða kerti á landsvísu í vinnusalnum. Starfsmenn í vinnusal þar sem m.a. kertagerðin er og í Endurvinnslunni eru skilgreindir sem starfsmenn í verndaðri vinnu. Heimaey er aðili að Hlutverki sem eru hagsmunasamtök um vinnu og verkþjálfun á Íslandi. Ánægjulegt er að sjá hversu vel hefur tekist til með þær breytingar sem gerðar voru á húsnæðinu og þjónustu í málaflokknum.   Lísa sagði á fundinum að rétt væri að benda á að sífellt er þörf á nýjum heppilegum verkefnum fyrir starfsmenn í verndaðri vinnu og eru fyriræki og félagasamtök hvött til að nýta sér þjónustu sem þar er bent á.  

Mikið álag á kennurum sem bregðast þarf við

Talsvert hefur verið fjallað um niðurstöður samantektar samstarfsnefnda sveitarfélaga og grunnskólakennara vegna starfsumhverfis kennara og vinnumats í skólum. En mikið álag er á kennurum. Vestmannaeyjabær hefur hrint af stað fyrstu aðgerðum til að bregðast við þessum niðurstöðum og deildi Elliði Vignisson bæjarstjóri þeim á heimasíðu sinni og eru sem hér segir.   Á skömmum tíma hefur skólastarf þróast hratt. Hraðinn í samfélaginu hefur vaxið og kröfur til skólastarfs samhliða. Litróf nemenda hefur einnig orðið enn fjölbreyttara til að mynda með aukinni áherslu á þjónustu við nemendur sem eru af erlendu bergi brotnir, auknum kröfum hvað lestur varðar og áherslu á greiningu og markvissa vinnu með þá sem þurfa sér stuðning við nám sitt.     Við gerð kjarasamninganna árið 2014 voru gerðar breytingar á starfsumhverfi kennara og vinnumat innleitt í grunnskólum. Þessar breytingar þóttu ekki skila árangri og því var ákveðið að fela hverju sveitarfélagi að fara betur yfir málin og greina hvernig mætti gera betur   Almennt mikið álag á kennurum Niðurstaða þeirrar vinnu hér í Vestmannaeyjum var nokkuð samhljóma því sem sama vinna skilaði í öðrum sveitarfélögum. Í ljós kom að kennarar telja að almennt sé mikið álag á kennurum í starfi sem komi niður á tíma til kennslu og undirbúnings hennar.       Styrkja þarf stoðkerfi skólans Þá benti skýrsla sem unnin var af fyrirtækinu „Ráðrík“ fyrir Vestmannaeyja á mikilvægi þess að stoðkerfi skólans verði styrkt og ákveðnar úrbætur gerðar hvað starfsaðstæður varðar.       Úrbætur Skýrslur eru þó til lítils ef þær leiða ekki til úrbóta. Í framhaldi af tilgreindum skýrslum lögðust stjórnendur í rýnivinnu með það að markmiði að finna leiðir til úrbóta þannig að tryggt verði að kennsla og undirbúningur hennar séu forgangsverkefni í skólastarfi Grunnskólans.       Óskir kennara og annars starfsfólks Þá var einnig ákveðið að taka inn í rýnivinnuna þær óskir sem kennarar og annað skólafólk hafa verið með hvað verklegar framkvæmdir við skólahúsnæði varðar sem og almennar starfsaðstæður og stoðkerfi.     Á 297. fundi fræðsluráðs var samþykkt að ráðast tafarlaust í eftirfarandi aðgerðir til að bæta starfsumhverfi kennara:     1. Bætt við stöðu sérkennsluráðgjafa Bætt verði við a.m.k. hálft stöðugildi kennslu- og sérkennsluráðgjafa á skólaskrifstofu sem starfi innan GRV og aðstoðar stjórnendur og kennara með skipulag og framkvæmd sérkennslu.   2. Aukið við stöðu sérkennslustjóra Staða sérkennslustjóra sem er inni á leikskólum færist undir skólaskrifstofu og starfshlutfall verði hækkað úr 75% í 90%.   3. Kennslustundir umfram reiknireglu Úthlutaðar kennslustundir til GRV verði samtals 1220 kennslustundir á viku og því 29 umfram þá reiknireglu sem almennt er miðað við. Umfram úthlutunin nemur rúmlega stöðugildi kennara sem hugmyndin er að nýtt sé til annarra starfa en bekkjarkennslu. Þannig verði miðað við 29 bekkjardeildir eins og á núverandi skólaári. Skiptingin verði eftirfarandi:   Almennar kennslustundir 1043,3 Sérkennsla 127,7 kennslustundir Nýbúafræðsla 23 kennslustundir Tónlistarkennsla frá Tónlistarskólanum 20 kennslustundir (innifalið í almennum kennslustundum) Viðbótarúthlutun sem skólastjóri ráðstafar alls 26 kennslust.   4. Sérfræðistuðningur styrktur Tafarlaust verði ráðið í stöðu sálfræðings. Fáist ekki sálfræðingur til starfa verður leitað eftir öðrum ráðgjafa í hlutastarf (c.a. 70%) á skólaskrifstofu. Til viðbótar verður greiningarvinna og önnur stoðþjónusta einnig áfram í verktöku hjá löggiltum sálfræðingi.   5. Húsnæði lagfært Tafarlaust verði ráðist í lagfæringar á skólahúsnæði Hamarsskóla og Barnaskólans og bætt þar með aðstöðu til kennslu og starfsmannaaðstöðu (nánar um það í nýrri færslu á morgun).       Kostnaður Áætlaður kostnaður vegna þessa eru rúmar 60 milljónir.       Fylgt úr hlaði Á seinustu árum hefur mikil áhersla verið lögð á að treysta faglegar undirstöður skólanna með það að leiðarljósi að efla menntun barnanna og vellíðan þeirra. Kennarar og annað starfsfólk hefur stigið fast fram og árangur þegar farinn að sjást.   Til að feta áfram þá slóð þarf aðstaða barnanna til náms að vera fullnægjandi og faglegt starf í hávegum haft. Á sama hátt er mikilvægt að starfsumhverfi og aðstaða kennara og annarra starfsmanna sé í samræmi við mikilvægi starfa þeirra.   Það sem að ofan greinir er ekki endanleg niðurstaða heldur fyrstu skref. Þar er höfuð áhersla lögð á að mæta tafarlaust þeim ábendingum sem kennarar hafa lagt fram með það að leiðarljósi að bæta starfsumhverfi og byggja enn frekar upp stoðkerfi í fræðslumálum.   Þessi mál verða því áfram til skoðunar og fleiri skrefa að vænta til að byggja upp fyrirmynda skólastarf í Vestmannaeyjum.  

Margrét Rós Ingólfsdóttir: Af vettvangi skipulagsmála

Af vettvangi skipulagsmála   Eyjamenn eru almennt bjartsýnir á framtíð sína og Eyjanna. Það dylst engum sem fer um bæinn okkar að framkvæmdir eru miklar og einstaklingar og fyrirtæki eru stórhuga í framkvæmdum. Staðreyndin er sú að á árunum 2004-2016 hafa verið byggðir hér í Eyjum 15.820,3 m2 samkvæmt samþykktum Umhverfis –og skipulagsráðs. Er þá um að ræða nýbyggingar, viðbyggingar og endurbyggingar eldri húsa. Það er sennilega íslandsmet sé mið tekið af því að sveitarfélagið er ekki nema um 13 km2.   Nýtt aðalskipulag til næstu 20 ára   Á fundi Umhverfis –og skipulagsráðs í byrjun desember verður lögð fram tillaga að nýju aðalskipulagi Vestmannaeyja. Verður tillagan í framhaldi auglýst og allir sem vilja geta kynnt sér efni hennar og hafa tilskilinn frest til þess að skila inn athugasemdum. Í tillögunni koma m.a. fram tillögur um stórskipahöfn, byggð í Löngulág, að grafa út hraunið, nýtt athafnasvæði og ótal margt fleira. Það er von mín að sem flestir muni kynna sér efni tillögunnar og koma með ábendingar eða athugasemdir.   Kærkomin upplyfting   Eitt af þeim málum sem hafa verið áberandi í umræðunni undanfarið, t.d á samfélagsmiðlum, er fyrirhuguð uppbygging á lóð á Skólavegi 7, en sótt hefur verið um niðurrif hússins sem þar stendur og í staðinn að byggja 3 íbúða hús með bílastæði fyrir hverja íbúð í kjallara.   Það hús sem stendur nú á lóðinni á sér um margt merkilega sögu. Það var byggt árið 1922 og er af mörgum kallað Ásnes í daglegu tali. Í hugum margra fylgja húsinu hlýlegar minningar. Fyrir utan þá sem þar hafa búið eða dvalið, þá voru margir reglulegir gestir í blómabúðinni hjá Imbu. Það er því bæði sjálfsagt og eðlilegt að horfa á eftir húsinu, eins og það eitt sinn var, með trega. En að sama skapi er gott að gleðjast yfir því að þessi fallega lóð í hjarta bæjarins verði nýtt betur en nú er. Sjálf er ég sannfærð um að svo muni verða.   Nýtt gistiheimili í Vesturbænum   Allmargir sjá á einnig eftir því að hafa ekki verslun í vesturbænum en það er víst svo að allt er breytingum háð. Hlutverk okkar í skipulagsmálum er meðal annars að mæta þörfum samtímans og tryggja að þær falli að skipulagi almennt. Í því húsnæði sem eitt sinn hýsti Kaupfélagið í Goðahrauni og síðar m.a. 11-11 og Kjarval hafa einstaklingar fest kaup á og fengið leyfi til að útbúa þar gistiheimili. Það er fagnaðarefni að slíkir eldhugar skuli ráðast í þær aðgerðir og finna ný not fyrir húsnæði sem í nokkurn tíma hefur staðið autt og var farið að láta verulega á sjá og svæðinu ekki til framdráttar. Nú þegar er búið að saga út fyrir gluggum og lítur húsið strax skemmtilegra út fyrir vikið. Tækifærin fyrir gististað í vesturbænum eru mikil, t.d er nálægð við golfvöllinn og íþróttavelli mikil auk þess sem útsýni, t.d yfir smáeyjarnar og í Herjólfsdal er óviðjafnanlegt.   Stórhuga verkefni HS-veita   Það hefur vart farið framhjá nokkrum að framkvæmdir við nýja Varmadælustöð við Hlíðarveg eru í fullum gangi. Þar er áætlað er að dæla um 2.000 tonnum af sjó á klukkustund þegar varmadælurnar verða komnar   í gagnið. Í hundruði ára höfum við Eyjamenn nýtt sjóinn okkur til framdráttar, en aldrei fyrr með þessum hætti. Þegar varmadælustöðin verður komin í gagnið verður sjórinn umhverfis Vestmannaeyjar nýttur til að vinna úr honum varma til að hita húsnæði og ætti slíkt að leiða til sparnaðar fyrir einstaklinga og fyrirtæki, að ótöldu hversu umhverfisvænna þetta er. Áætlað er að varmadælustöðin verði klár um mitt næsta ár gangi allt að óskum.   Öryggi gangandi   Sl. ár hefur verið unnið mikið og gott starf í endurnýjun gangstétta víðsvegar um Vestmannaeyjar og telja nýjar og endurgerðar gangstéttir tugum kílómetra. Njótum við Eyjamenn þar fyrst og fremst góðs af Agga og hans öfluga gengi. Þessa dagana er verið að hefjast handa við að endurnýja gangstéttir og kanta á Boðaslóð og áfram verður svo haldið, svæði við Hlíðarveg og við Hraunbúðir eru þar framarlega í röðinni. Þá verður farið í að endurgera hraðahindranir á Vesturvegi, Vestmannabraut og á Hraunhamri, en þær verða hellulagðar. Endurnýjun gangstétta og kanta er ekki einungis fagurfræðileg, heldur er ekki síður um að ræða mikið öryggisatriði fyrir gangandi vegfarendur. Það má því ekki slá slöku við hvað það varðar og áfram verður haldið.   Tækifæri út um allt!   Í Eyjum höfum við byggt okkur byggðarkjarna sem við getum verið stolt af. Ekki eingöngu erum við nokkuð margir íbúar á mælikvarða íslenskra landsbyggða heldur er atvinnulíf hér í senn öflugt og blómlegt og þjónusta góð. Allt þarf þetta að þrífast innan náttúru og umhverfis sem á sér vart líka í veröldinni allri.   Þetta skapar okkur margvísleg og vandasöm verkefni og gerir störf Umhverfis –og skipulagsráðs í senn krefjandi og ábyrgðarmikil, en ekki síður spennandi og skemmtileg. Við höfum ótrúlega mörg tækifæri til þess að halda áfram að gera vel, nýta tækifærin sem eru allt í kringum okkur og treysta fyrirtækjum og einstaklingum áfram til góðra verka.   Margrét Rós Ingólfsdóttir   Formaður Umhverfis –og skipulagsráðs Vestmannaeyja    

Vinnslustöðin kaupir Útgerðarfélagið Glófaxa ehf.

Vinnslustöðin hf. hefur eignast öll hlutabréfin í Útgerðarfélaginu Glófaxa ehf. í Vestmannaeyjum og tekur við félaginu 1. september 2017. Kaupsamningurinn var undirritaður með venjulegum fyrirvara um fjármögnun, samþykki stjórnar VSV og samþykki Samkeppniseftirlits. Kaupverðið er trúnaðarmál.   Þetta kemur fram á vef Vinnslustöðvarinnar, vsv.is. Útgerðarfélagið Glófaxi gerir út tvo báta, nótaskipið Glófaxa VE-300 og línu- og netabátinn Glófaxa II VE-301. Seljendurnir, Bergvin Oddsson og fjölskylda hans, halda eftir Glófaxa II og 50 þorskígildistonnum og stunda útgerð áfram.   Bergvin Oddsson, Hrafn Oddsson og Sævaldur Elíasson keyptu Glófaxa VE-300 á árinu 1974 og stofnuðu útgerðarfélagið Snæfell sf. um reksturinn. Bergvin keypti Hrafn og Sævald út 1986 og árið 1994 var nafni félagsins breytt í Útgerðarfélagið Glófaxi. Með samningi sínum um kaupin á Glófaxa ehf. eykur Vinnslustöðin heildaraflamark sitt um 800 þorskígildistonn.   Seljendur Glófaxa ehf. höfðu frumkvæði að viðræðum sem lyktaði með fyrirliggjandi kaupsamningi, segir Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar: „Bergvin Oddsson og fjölskylda hans buðu okkur forkaupsrétt að félaginu með tilheyrandi aflaheimildum og skipi. Með því var okkur sýnt traust og trúnaður sem við erum fjölskyldunni afar þakklát fyrir. Það er beinlínis yfirlýst stefna Vinnslustöðvarinnar að halda aflaheimildum í byggðarlaginu svo sem kostur er. Viðhorf okkar og seljendanna fara saman að þessu leyti og eru í samræmi við hagsmuni byggðarinnar og atvinnulífsins í Vestmannaeyjum.“      

Máli Brims gegn Vinnslustöðinni vísað frá dómi

Héraðsdómur Suðurlands vísaði í dag frá máli sem Brim hf. höfðaði gegn Vinnslustöðinni til ómerkingar stjórnarkjöri á aðalfundi og hluthafafundi VSV á árinu 2016. Málskostnaður fellur niður.   Brim, sem á tæplega 33% hlut í Vinnslustöðinni, krafðist þess í fyrsta lagi að ómerkt yrði kjör Einars Þórs Sverrissonar; Guðmundar Arnar Gunnarssonar, Ingvars Eyfjörð; Írisar Róbertsdóttur og Rutar Haraldsdóttur í stjórn og kjör Eyjólfs Guðjónssonar og Guðmundu Bjarnadóttur í varastjórn, sem fram fór á hluthafafundi VSV 31. ágúst 2016.   Í öðru lagi að ómerkt kjör Einars Þórs Sverrissonar; Guðmundar Arnar Gunnarssonar; Ingvars Eyfjörð; Írisar Róbertsdóttur og Rutar Haraldsdóttur í stjórn og kjör Eyjólfs Guðjónssonar og Guðmundu Bjarnadóttur í varastjórn, sem fram fór á aðalfundi stefnda þann 6. júlí 2016.   Í þriðja lagi að staðfest yrði með dómi að eftirtalin hefðu verið verið réttkjörin í stjórn og varastjórn félagsins á aðalfundi félagsins þann 6. júlí 2016.   Í stjórn:   Guðmundur Kristjánsson Ingvar Eyfjörð Íris Róbertsdóttir Rut Haraldsdóttir.   Í varastjórn:   Hjálmar Kristjánsson Guðmunda Bjarnadóttir.   Þá var og þess krafist að viðurkennt yrði með dómi að VSV bæri skylda til að boða til framhaldsfundar til að varpa hlutkesti um það hvort Einar Þór Sverrisson eða Guðmundur Örn Gunnarsson taki sæti í stjórn félagsins ásamt áðurnefndum aðilum.   Nánar á vsv.is   Myndin er af aðalfundi félagsins.

Guðmundur Kristjánsson - Hvers vegna vildum við rannsókn?

 Viðbrögð við viðtali við framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum Sigurgeir Kristgeirsson í Viðskiptablaðinu 12.apríl 2017 og vegna niðurstöðu Atvinnuvega‐ og nýsköpunarráðuneytisins um minnihlutavernd. Hafnað er rógburði framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar hf. og viljum vegna þess koma athugasemdum okkar á framfæri á málefnalegan hátt.   Forsaga rannsóknarbeiðni á starfshætti meirihluta hlutafjáreigenda Vinnslutöðvarinnar hf.   Upphaf málsins má rekja til ársins 2011, þegar meirihluti eigenda VSV kom því til leiðar að þynna út eignarhlut aðila tegndum Brimi hf. með því að virkja atkvæðarétt eigin bréfa VSV. Þessi meirihluti er leiddur af framkvæmdastjóra Seilar ehf sem er Sigurgeir Kristgeirsson en hann er stór hluthafi í Seil ehf. og jafnframt framkvæmdastjóri VSV. Með því móti tókst meirihlutanum í krafti leynilegs hluthafasamkomulags að þvinga fram aukinn meirihluta, eða 67% atkvæðavægi sem þurfti til að samþykkja samruna VSV og Ufsabergs útgerðar ehf. (UÚ) Slíkur meirihluti var ekki til staðar fyrir sölu eiginbréfa VSV til aðila innan hins leynilega hluthafasamkomulags.   Þannig var samþykkt á hluthafafundi 10.05.2011 að selja 2,5% hlut í VSV til eigenda UÚ en þeir höfðu þá skömmu áður gerst aðilar að hinu leynilega hluthafasamkomulagi. Seil ehf. keypti svo þessi sömu hlutbréf á sama undirverði og þau voru afhent eigendum UÚ. Hæstiréttur Íslands dæmdi sölu eigin bréfa félagsins til eigenda UÚ ólöglega með dómi 585/2012 enda tilgangurinn með sölunni fyrst og fremst að þynna út lögbundinn rétt aðila, tengdum Brim og skapa Seil ehf. fjárhagslegan ávinning, en í dómi Hæstaréttar segir:   „Hæstiréttur taldi að líta yrði svo á að samningur V hf [Vinnslustöðvar] . við U ehf [Ufsaberg]. 10. maí 2011 hefði engan annan tilgang haft en þann að virkja atkvæðisrétt eigin hluta í V hf. og sniðganga þannig það jafnræði og um leið atkvæðavægi sem 3. mgr. 82. gr. laga nr. 2/1995 væri ætlað að tryggja hluthöfum.”   Þá segir jafnframt í dómnum: “Þetta sýnir að samningurinn var í raun hluti af samkomulagi aðila hans um samruna félaganna og verður ekki séð að hann hafi haft neinn sjálfstæðan tilgang, sem ekki hefði í öllum atriðum verið náð með eðlilegum hætti við samruna félaganna, annan en þann að virkja atkvæðisrétt eigin hluta stefnda.”   Í kjölfari dómsins gerði meirihlutinn og eigendur UÚ viðauka við kaupsamninginn þar sem dómur Hæstaréttar var sniðgenginn með því að fella út skilyrði kaupsamnigsins. Hæstiréttur samþykkti með ótrúlegum hætti þessa útfærslu meirihlutans þrátt fyrir að umrædd bréf væru kominn í hendur Seil ehf. á sama undirverði og þau voru seld til eigenda UÚ. Þar með var ljóst að eigin bréf VSV voru kominn í hendur Seilar ehf og brotið fullframið. Eftir að fyrri dómur féll í Hæstarétti gerði Stilla/Brim tilboð í umræddan 2,5% hlut VSV fyrir 587 milljónir króna en hluthafafundur VSV hafnaði þessu kauptilboði í krafti hins leynilega hluthafasamkomulags og framkvæmdi í staðinn söluna til eigenda UÚ á 2,5% af eigin bréfum fyrir 441,6 milljónir króna. Eigendur UÚ seldu svo Seil ehf bréfin áfram á þessu sama verði og þannig varð VSV af 145 milljónum króna.   Í okkar huga var hið raunverulega samkomulag við eigendur UÚ að þeir fengju hátt verð fyrir eignina sína borgað með eigin bréfum VSV á undirverði og þau yrðu svo seld til Seilar ehf. á sama undirverðinu. Þetta var það sem rannsóknarbeiðni Brims laut að.   Beiðni til ANR   Á aðalfundi VSV þann 2.6.15 var samþykkt tillaga:   „Að skipaðir verði rannsóknarmenn með vísan til 97. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995, til að rannsaka eftirfarandi atriði í starfsemi félagsins: Meðferð eigin fjár Vinnslustöðvarinnar hf. í tengslum við samruna félagsins við Ufsabergútgerð ehf. Nánar tiltekið afhending hlutafjár í eigu félagsins til eigenda Ufsasbergs‐útgerðar ehf. Að rannsakað verði sérstaklega verðmat á eignum í viðskiptinum, einnig og hvort hagsmunir félagsins hafi verið fyrir borð bornir. Einnig með hliðsjón af tengslum aðila í gegnum svonefnt hluthafasamkomulag mili stórra hluthafa og stjórnenda í félaginu hvort samruninn og afhending eigin bréfa félagsins hafi verið til þess fallið að afla ákveðnum hluthöfum ótilhlýðilegra hagsmuna.“   Sérstakur endurskoðandi VSV skipaður af RSK, Grant Thornton lýsir því yfir eins og segir í niðurstöðubréfi ANR frá 4.4.2017, S liður: „...endurskoðunarfyrirtækið hafi orðið þess vart í störfum sínum við endurskoðun ársreikninga Vinnslustöðvarinnar hf. að komið hafi upp áleitnar spurningar um verð í viðskiptum í tengslum við samrunann sem um ræðir í málinu...“ og „...sjái ekkert því til fyrirstöðu að rannsókn fari fram.“   Þá segir í bréfi Grant Thornton til ANR í tilefni að endurupptökubeiðninni: “Hluti af rannsóknarefni því sem hér er til umfjöllunar er þannig út fyrir umfang endurskoðnunarvinnu okkar og hefur því ekki komið til álita í okkar vinnu. Við viljum þó taka fram að við störf okkar sem skipaðir endurskoðendur hjá Vinnslustöðinni hafa komið fram áleitnar spurningar um verð í viðskiptum í tengslum við samrunann, kaupum í Ufsaberg‐útgerð ehf. árið 2008, viðskiptum milli hluthafa og meðferð minnihluta hluthafa. Í áðurnefndu svarbréfi okkar til ráðuneytisins frá 8. september 2015 gerðum við ekki athugasemdir við tilnefningu rannsóknarmanna í máli þessu og teljum enn að slík rannsókn sé gagnleg. Vegna fyrirhugaðrar endurupptökubeiðni er sú skoðun okkar ítrekuð og með vísan til framangreinds getum við mælt með að slík rannsókn fari fram.”   Niðurstaða Atvinnuvega‐ og nýsköpunarráðuneytisins (ANR)   Í niðurstöðu ANR er beiðni Brims hafnað án málefnalegs rökstuðnings en í 97. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög segir m.a. að:   “Hljóti tillagan fylgi hluthafahóps sem ræður yfir minnst 1/10 hlutafjársins getur hluthafi í síðasta lagi einum mánuði frá lokum fundarins farið þess á leit við ráðherra að hann tilnefni rannsóknarmenn. Tilmælin skal taka til greina, svo framarlega sem ráðherra telur nægilegar ástæður til þeirra.” Þar sem ANR og ráðherra hefur látið hjá líðast að rökstyðja með nokkru móti niðurstöðu sína mun Brim hf. láta á það reyna fyrir dómsstólum hvort sú minnihlutavernd sem tryggð eru í 97. gr hlutafjárlaga sé virk.     Að lokum   Varðandi fullyrðingar Sigurgeirs í viðtali við Viðskiptablaðsins í dag þar sem hann vegur að æru minni og ræðir allt annað en aðalatriði málsins þá eru þær fullyrðingar ekki svara verðar.   Virðingafyllst fh Brims hf Guðmundur Kristjánsson, forstjóri.    

Aðalfundur VSV - Afkoman sú næstbesta frá upphafi

Hagnaður VSV-samstæðunnar nam tæplega 12,4 milljónum evra á árinu 2016 en var tæplega 10 milljónir evra árið áður. Þetta kom fram á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar hf. í dag. Rekstur og starfsemi Vinnslustöðvarinnar gekk vel 2016. Afkoman félagsins var sú æstbesta frá upphafi. Framlegð samstæðunnar (EBITDA) var 20,4 milljónir evra, nánast hin sama og 2015. Eigið fé jókst um 9% og eiginfjárhlutfall er nú 38%.   Fjárfestingar voru miklar á árinu. Nýtt uppsjávarvinnsluhús var tekið í notkun, nýr togari er í smíðum í Kína og skip voru seld og keypt. Framkvæmdakostnaður var 18,4 milljónir evra, að frádregnu söluverði skipa. Leiðarljósið er að láta byggðina í Vestmannaeyjum njóta góðs af arðsömum rekstri og fjárfestingum VSV og styrkja þannig stoðir samfélagsins heima fyrir. Þrátt fyrir miklar fjárfestingarnar minnkuðu heildarskuldir og skuldbindingar VSV um 3% vegna þess að handbært fé frá fyrri árum var notað til að takast á við nýfjárfestingarnar. Handbært fé dróst að sama skapi saman í reikningum félagsins eða um ríflega 60%.   VSV tók engin langtímalán á árinu en greiddi 12,4 milljón evrur af langtímaskuldum sínum. Aðalfundurinn samþykkti að greiða hluthöfum 8 milljónir evra í arð, sem svarar til 5% af áætluðu markaðsvirði hlutafjár. Þetta er fjórða árið í röð sem hluthafar VSV ákveða að greiða sér arð upp á 8 milljónir evra.   Guðmundur Kristjánsson í stjórn   Fjórir stjórnarmenn fimm voru endurkjörnir á aðalfundinum: Einar Þór Sverrisson, Guðmundur Örn Gunnarsson, Íris Róbertsdóttir og Rut Haraldsdóttir. Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims var kjörinn í stjórn í stað Ingvars Eyfjörð. Í varastjórn voru kjörnir Eyjólfur Guðjónsson og Hjálmar Kristjánsson en þriðji frambjóðandinn til varastjórnar, Guðmunda Bjarnadóttir, fór inn í varastjórn á kynjakvóta og var því endurkjörin líkt og Eyjólfur.      Mynd VSV: Atkvæðagreiðsla í stjórnarkjöri á aðalfundinum.   Af vef Vinnslustöðvarinnar - vsv.is.

Fjölmenni í afmæliskaffi Vinnslustöðvarinnar :: Bók í tilefni afmælisins

 Um hundrað manns mættu í afmæliskaffi Vinnslustöðvarinnar í Akóges á föstudaginn, 30. desember til að fagna sjötugsafmæli félagsins og útkomu bókar af því tilefni, Sjötug og síung Vinnslustöðin 1946 til 2016, sem gestir fengu afhenta í lok veislunnar. Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, Binni framkvæmdastjóri sagði frá aðdraganda bókarinnar um Vinnslustöðina í tilefni afmælisins nú. Hann sagðist fyrst og fremst hafa viljað skrá sögu fólksins sem starfaði og starfar í fyrirtækinu og varðveita minningar þess. Fyrirtækið sjálft kunni að vera eilíft en mennirnir ekki og því sé skráning sögu að þessu leyti alltaf kapphlaup við tímann. Það að halda vel utan um söguna geti orðið til hjálpar og kennt margt, til dæmis að draga ályktanir af því sem gert var og ákveðið í fortíðinni til þess að læra af því sem vel tókst og endurtaka ekki mistök úr fortíðinni. Binni vísaði til stefnuyfirlýsingar útvegsmannanna sem stofnuðu Vinnslu- og sölumiðstöð fiskframleiðenda - síðar Vinnslustöðina - fyrr sjötíu árum þar sem þeir kváðust „sameinast um fiskvinnslu til hagsbóta fyrir sig og byggðarlagið“. Sú yfirlýsing væri í raun í fullu gildi enn þann dag í dag.     Sjötug og síung   Bókarhöfundurinn, Atli Rúnar Halldórsson, kynnti verkefnið og las upp úr bókinni ásamt Hermanni Kr. Jónssyni og Þór Vilhjálmssyni sem aðstoðuðu við að afla upplýsinga og heimildarmanna fyrir bókarskrifin. Atli Rúnar þakkaði sömuleiðis Sigurgeiri Jónassyni fyrir ljósmyndir úr safni hans sem birtast í bókinni. „Það er hægt að segja sögur fólks og félaga á ýmsa vegu. Hér var valin sú leið að bregða upp svipmyndum af Vinnslustöðinni sem vinnustað í blíðu og stríðu og styðjast við minningarbrot og ummæli fólks sem starfaði þar áður eða starfar þar enn“ sagði Atli Rúnar um aðferðafræði söguskrifanna. „Svo er stiklað á stóru í sjötíu ára sögu. Við byggðum á efnisramma og aðferðafræði sem stuðst var við í afmælisriti sem búið var og dreift í hvert hús hér í bæ í tilefni sexugsafmælis VSV, en fórum lengra með þá hugmynd og sökktum okkur dýpra í viðfangsefnið. Það hefði verið hægt að taka annan pól í hæðina, búa til dæmis til myndaalbúm um fólkið og Vinnslustöðina – nóg er til af hráefni í slíkt albúm frá Sigurgeiri Jónassyni, Adda í London og fleirum. Við hefðum líka getað haft að leiðarljósi að fjalla um Vinnslustöðina sem hluta af samfélaginu í Vestmannaeyjum og sýnt fram á með dæmum hvaða áhrif það hefur ef Vinnslustöðinni líður ekki vel og vegnar illa og svo hvaða áhrif það hefur á samfélagið þegar félaginu vegnar vel og því líður vel. Við sjáum til dæmis skarpar andstæður að þessu leyti í sögu félagsins bara á síðustu tveimur áratugum eða svo. Enn einn möguleika má nefna og hann er sá að skrifa aðallega átakasögu VSV. Þá er ég ekki bara að vísa til reiptogsins í hluthafahópi félagsins á allra síðustu árum. Það hefur oft gengið miklu meira á í félaginu og í kringum það. Strax árið 1952 var til dæmis ákveðið í forystu Vinnslu- og sölumiðstöðvar fiskframleiðenda að víkja einum stofnanda félagsins og stjórnarmanni fyrstu árin úr félaginu fyrir að halda rekstrarlega fram hjá félaginu með því að leggja afla sinn inn annars staðar. Það var brot á félagssamþykktum. Sá brottrekni sætti sig ekki við þessa niðurstöðu og niðurstaðan varð sú að hann var áfram í félaginu.“ Unnið af vsv.is   Vel heppnað og gott framtak   Um bókina er það að segja að hún er bráðskemmtileg, þar sem myndir og texti koma sögunni vel til skila. Hún er vel sett upp og kryddið er sögur fólksins sem þarna hefur unnið og vinnur enn. Gott framtak hjá Vinnslustöðinni og faglega unnið eins og við má búast úr hendi Atla Rúnars.  

Fulltrúar ferðaþjónustunnar í Vestmannaeyjum taka undir að rekstri Herjólfs sé best borgið í höndum sveitafélagsins

Fulltrúar ferðaþjónustunnar í Vestmannaeyjum taka heilshugar undir bókun bæjarstjórnar þess efns að rekstri Herjólfs sé best borgið í höndum sveitafélagsins:     „Bæjarstjórn Vestmannaeyja benti á að hagkvæmast sé fyrir ríkið að láta smíða ferju og semja svo sérstaklega um rekstur hennar. Vestmannaeyjabær lítur á rekstur Herjólfs sem hornstein að innigerð samfélagsins í Vestmannaeyjum. Í raun og veru er ekki nokkur munur á rekstri Herjólfs og rekstri annara kafla vegakerfis Íslendinga. Bæjarstjórn telur því brýnt að rekstur Herjólfs verði ætíð séður sem hluti af þjóðvegakerfi Íslendinga og gjaldtöku og þjónustu verði að hagað í samræmi við þá skilgreiningu.Þá bendir bæjarstjórn á að í fjölmörgum tilvikum hefur rekstur fjölbreyttra málaflokka í nærþjónustu svo sem málefni fatlaðra, rekstur grunnskóla og rekstur heilsugæslu verið fluttur frá ríki til sveitarfélags ýmist með almennum hætti eða sértækum samningum. Slíkt er gert til að tryggja hagsmuni nærsamfélagsins, bæta þjónustu og auka hagkvæmni. Með þetta í huga samþykkir bæjarstjórn Vestmannaeyja að fela bæjarstjóra að rita innanríkisráðherra bréf og óska þar eftir því að samið verði beint um rekstur ferjunnar við Vestmannaeyjabæ.“     Með því að fá rekstur Herjólfs til sveitafélagsins verður mun auðveldara að sníða hann að þörfum vaxandi ferðaþjónustu, sem og samfélagsins alls hverju sinni. Fulltrúar ferðaþjónustunnar fagna því að bæjarstjóri ætli að hafa forgöngu um þetta mikla hagsmunamál Vestmannaeyjabæjar.  

Hættu við að taka á móti mönnum Vegagerðarinnar vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju

Norska skipasmíðafyrirtækið Fiskerstrand hætti snarlega við að taka á móti mönnum Vegagerðarinnar sem voru á leið til Noregs í morgun til að ganga frá samningum um smíði nýrrar Vestmannaeyjarferju. Fyrirtækið gaf engar skýringar á sinnaskiptum sínum. Nú verður gengið til samninga við þá sem áttu næst lægsta tilboðið en það er ríflega 640 milljón krónum hærra. ruv.is greindi frá.     Menn Vegagerðarinnar áttu bókað flug til Noregs í morgun til að ganga frá samningnum við Fiskerstrand sem átti lægsta tilboðið í smíði nýrrar ferju sem sigla á milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja. Tilboðið hljóðaði uppá 2,8 milljarða króna. Þeir þurftu hins vegar skyndilega að hætta við ferðina.   G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar: „Við ætluðum að fara að semja við lægstbjóðanda í smíði ferjunnar en þá komu bara skilaboð um það í morgun að þeir væru hættir við tilboðið.“   Fréttamaður: „Kom þetta ykkar mönnum á óvart?“   „Já þetta kom á óvart en það er nú þannig í þessum útboðsbransa að það gerist ýmislegt og það er ekkert óvanalegt að það sé hætt við tilboð. En það er náttúrulega ekki gott því menn leggja auðvita fram bindandi tilboð þannig að við verðum að skoða það í þessu tilviki en auðvita getur eitthvað komið uppá menn hafa kannski gert einhver mistök eða vitleysu og sjá svo að þetta er vonlaust en ég veit ekki hvort það er í þessu tilviki en menn verða bara að skoða það. Það er ekkert í skilaboðunum um það en Ríkiskaup fara nú yfir og skoða það mál.“   Næsta mál á dagskrá er því að leita til þeirra sem áttu næst lægsta tilboðið í smíði nýrrar ferju.   „Það er pólkst skipasmíðafyrirtæki og þeir voru líka með ágætis tilboð og vænlegt.“   Það tilboð er þó 645 milljón krónum hærra.  

Bjart framundan í íslenskum sjávarútvegi

Mikil uppsveifla hefur átt sér stað í íslenskum sjávarútvegi sem sást vel á Íslensku sjávarútvegssýningunni sem haldin var í Laugardalshöllinni í síðustu viku.   Verslunin Eyjavík, sem selur margvíslegan búnað fyrir sjómenn, var meðal fyrirtækja á sýningunni. Gréta Hólmfríður Grétarsdóttir var mjög ánægð með sýninguna og sagði hana vel heppnaða. „Þarna fengu minni fyrirtæki að kynna sig og komust færri að en vildu,“ sagði Gréta. Íslendingar stóðu fyrir sýningunni í fyrsta skipti sem henni fannst vera stór plús. „Á svona sýningu hitti ég rétta fólkið sem eru sjómenn og þetta skilar sér vel eftir á, vonandi er þetta komið til að vera því það var rosalega vel að þessu staðið,“ sagði Gréta.   Nemendur úr haftengdri nýsköpun voru meðal sýningargesta í ár. Þau voru öll sammála um að þetta hafi verið skemmtilegt, viðburðaríkt og fræðandi. Það sem kom þeim skemmtilega á óvart var hversu mikið fyrirtæki nýta sér reynslu sjómanna við nýsköpun, sem dæmi þá er Birgir Þór Sverrisson skipstjóri að vinna við að þróa hlera með fyrirtæki sem var að kynna á sýningunni. Vinnslustöðin styrkti nemendurna í þessari ferð og Eimskip bauð þeim í Herjólf. Nemendurnir fóru alla dagana í vísindaferðir, en þau heimsóttu Marel, Hampiðjuna, SFS og einnig sóttu þau málþing hjá Arion banka.   Friðrik Ingvar Alfreðsson tók myndir á sýningunni sem fylgja þessari frétt.    

Fulltrúi í samgönguhóp

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Stjórnmál >>

Samgönguráðherra og bæjarstjórn funduðu í gær

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fundaði í dag með bæjarstjórn Vestmannaeyjarbæjar um mögulegt rekstrarfyrirkomulag nýrrar Vestmannaeyjaferju.Ráðherra boðaði til fundarins í framhaldi af fjölmennum íbúafundi í Eyjum, 21. febrúar sl. um samgöngur á sjó. Á fundinum með bæjarstjórn var rætt um hvaða rekstrarfyrirkomulag nýrrar ferju myndi tryggja bestu og hagkvæmustu þjónustuna. Fram kom í máli ráðherra að af þeim möguleikum, sem hann fór yfir á íbúafundinum, væri útboð til skemmri tíma, mögulega til tveggja ára, hagkvæmasta leiðin. Ráðherra minnti á að útboð væri almennt viðurkennd leið til að ná hagkvæmri niðurstöðu fyrir almenningssamgöngur, eins og gert er nú á sjó, landi og í lofti, enda sé sú þjónusta sem óskað er eftir vel skilgreind.Ráðherra hlustaði á sjónarmið heimamanna sem óskuðu eindregið eftir því að gerður yrði samningur við Vestmannaeyjabæ um rekstur ferjunnar.Á fundinum lagði ráðherra til að samráðshópur með fulltrúum Vegagerðarinnar, ráðuneytisins og Vestmannaeyingum kæmi að undirbúningi útboðsskilyrða s.s. skilgreiningu á þjónustu með hag íbúa að leiðarljósi.Engin niðurstaða náðist á fundinum, en fundargestir voru sammála um að markmiðið væri að tryggja hag íbúa Vestmannaeyja, fyrirtækja og annarra sem best.Viðræðum verður haldið áfram og mun ráðherra boða til næsta fundar eftir helgi.

Greinar >>

Óður til gleðinnar

Eitt það besta sem fyrir mann getur komið er að geta glaðst. Stundum gleðst maður ákaflega, stundum lítið og stundum allt þar á milli eins og gengur. Gleðin er í sjálfri sér sannarlega jákvæð og því ætti maður að reyna að gleðjast sem oftast ef nokkur kostur er.   Nú á dögunum hafði ég sannarlega ástæðu til að gleðjast og það hreint ekki svo lítið. Nýr samgönguráðherra ákvað sem sé að sömu fargjöld giltu milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar og Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Hann ákvað jafnframt að breytingin tæki gildi ekki seinna en strax. Nógu löngu væru fyrrverandi samgönguráðherrar búnir að velta þessu brýna hagsmunamáli okkar Eyjamanna fyrir sér, segjast sýna því skilning og lofa að kippa málum í liðinn án þess að standa við orð sín.   Í gleði minni yfir þessu framfaraspori sem stigið var með svo skjótum hætti var þó einn skuggi. Úr forystusveit sjálfstæðismanna í Eyjum bárust raddir sem greinilega glöddust ekki. Þeim fannst ákvörðun ráðherrans ekki vera neitt annað en sýndarmennska, Sjálfstæðisflokkurinn hefði hvort eð er ætlað að samræma þessi fargjöld einhvern tíma í framtíðinni. Þessi rök eru svo innantóm og marklaus að furðu sætir að nokkurri forystusveit stjórnmálaflokks skuli koma til hugar að setja þau fram. En þannig brást forystusveitin við engu að síður.   Forystusveitin hefði að mínu mati átt að gleðjast með bæjarbúum yfir samræmingu fargjalda. Í stað þess „spældist“ sveitin og varð að aðhlátursefni.   En auðvitað geta sjálfstæðismenn í Vestmannaeyjum girt upp um sig í þessu máli. Það geta þeir m.a. gert með því að leggja fram ályktun á næsta bæjarráðsfundi þar sem samgönguráðherra eru þökkuð skjót og góð viðbrögð í þessu mikla hagsmunamáli okkar Vestmannaeyinga. Í kjölfarið gætum við öll sem einn sannarlega glaðst og þá líður okkur betur.   Ragnar Óskarsson    

VefTíví >>