Hagnaður Ísfélagsins dróst saman

Hagnaður Ísfélagsins dróst saman

Ísfélag Vestmannaeyja, eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, hagnaðist um 4,2 milljónir dala, jafnvirði um 440 milljónir króna, á síðasta ári og dróst hagnaðurinn saman um 16,7 milljónir dala eða 80 prósent frá fyrra ári, samkvæmt nýjum ársreikningi félagsins, er greint frá í frétt Fréttablaðsins
 
Neikvæður gengismunur upp á tæpar 9 milljónir dala litaði afkomuna en gengismunurinn var jákvæður um liðlega 2 milljónir dala árið 2016.
 
EBITDA félagsins - rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta - lækkaði um tæplega 9,8 milljónir dala á milli ára og nam um 25,8 milljónum dala í fyrra. Fór EBITDA-framlegð úr 32,7 prósentum árið 2016 í 24,9 prósent 2017. Umræddar tölur miðast við samstæðu Ísfélagsins en félagið á meðal annars dótturfélögin Jupiter Shipping, Fiskmarkað Þórshafnar og Iceland Pelagic.
 
Rekstrartekjur samstæðunnar voru 103,6 milljónir dala í fyrra og drógust saman um 5,3 milljónir dala frá fyrra ári og þá jukust rekstrargjöldin úr 73,3 milljónum dala 2016 í 77,8 milljónir dala í fyrra.
 
Eignir Ísfélagsins námu rúmlega 293 milljónum dala í lok síðasta árs en þar af voru aflaheimildir félagsins metnar á um 123 milljónir dala. Til samanburðar voru eignirnar 288 milljónir dala í lok árs 2016. Eigið fé var 139 milljónir dala í lok síðasta árs og eiginfjárhlutfallið 47,3 prósent.
 
 

Leo Seafood ein af tæknivæddustu bolfiskvinnslum á Íslandi

Starfsfólk Godthaab í Nöf er núna starfsfólk Leo Seafood, starfsfólki og mökum var tilkynnt um þetta í gærkvöldi. Einnig verða gerðar breytingar í vinnslu fyrirtækisins en á nýju ári mun Leo Seafood verða eitt af tæknivæddustu bolfiskvinnslum á Íslandi. Daði Pálsson einn af eigendum Leo Seafood sagði í samtali við Eyjafréttir að spennandi hlutir væru framundan hjá fyrirtækinu. „Við erum búin að fjárfesta í Flexicut vatnsskurðarvél frá Marel sem mun auka afköst fyrirtækisins til muna, með nýrri vél fáum við einnig betri nýtingu úr flakinu. Vélin gerir okkur líka kleift að framleiða bita sem hafa ákveðna lengd og þynd“ sagði Daði og bætti við að með þessu gæti fyrirtækið nú uppfyllt kröfur viðskipavina enn betur og leytað inn á nýja markaði. Einnig hefur fyrirtækið fjárfest í lausfrysti af danska fyrirtækinu Dantech og getur hann fryst um þrjú tonn á klukkutíma. „Framkvæmdirnar munu hefjast í haust og vinnsla með nýjum búnaði hefst á nýju ári,“ sagði Daði.   Notendavænna nafn Aðspurður um nafnið sagði hann að fyrst og fremst væri verið að sækjast eftir notendavænna nafni, „við settum af stað hugmyndasamkeppni meðal starfsfólks og komu tveir starfsmenn með nafnið Leo. Þar sem Leo nafnið hefur mikla tengingu innan fjölskyldunnar var þetta auðvelt val.   Engar uppsagnir Þegar talað er um að fyrirtæki séu að tæknivæðast koma uppsagnir strax upp í hugann á fólki, engar uppsagnir verða hjá fyrirtækinu í kjölfar breytinganna.     Lestu meira um málið í nýjasta tölublaði Eyjafrétta sem kemur út í dag.      

Ráðningar hjá Herjólfi ohf.

Á fundi bæjarstjórnar þann 15. maí síðastliðinn var samþykkt einróma að stofna opinbert hlutafélag utan um rekstur Herjólfs. Einnig var skipað í stjórn hlutafélagsins. Stjórnina skipa Grímur Gíslason, Lúðvík Bergvinsson, Páll Þór Guðmundsson, en þeir sátu í stýrihópi sem fór fyrir viðræðum við ríkið um yfirtökuna á rekstri ferjunnar. Grímur var stjórnarformaður Herjólfs hf. á sínum tíma. Auk þeirra eru í stjórninni Arndís Bára Ingimarsdóttir og Kristín Jóhannsdóttir. í varastjórn eru Birna Þórsdóttir og Ólöf Aðalheiður Elíasdóttir.   Framkvæmdarstjóri og vélstjóri Á fundinum ræddi stjórnin ráðningu framkvæmdastjóra. Samþykkt var að fela Grími Gíslasyni formanni stjórnar í samráði við settan famkvæmdastjóra að ganga frá auglýsingu þar að lútandi. Ekki hefur verið ráðin framkvæmdarstjóri en prófkúru hafi félagsins þangað til ráðin verður framkvæmdastjóri er Sigurbergur Ármansson fjármálastjóri Vestmannaeyjabæjar. Einnig var rætt á fundinum ráðning vélstjóra, en fyrir liggur að senda þarf vélstjóra í þjálfun til Póllands sem allra fyrst og eigi síðar en í júní. Samþykkt var að fela Grími Gíslasyni formanni stjórnar í samráði við settan framkvæmdastjóra að ganga frá auglýsingu þar að lútandi.   Fljótlega munu sjást auglýsingar frá okkur Grímur Gíslason formaður stjórnar Herjólfs Ohf. sagði í samtali við Eyjafréttir að stjórnin væri að vinna að þessum málum sem og öðrum sem að snú að yfirtökunni á rekstrinum og sagði að í mörg horn væri að líta. „Ég reikna með að fljótlega muni sjást auglýsingar frá okkur um einhver störf en ég get ekki útlistað það nánar á þessu stigi þar sem verið að að vinna undirbúningsvinnu sem þarf að klára áður en það gerist,“ sagði Grímur þegar hann var spurður um næstu skref í ráðningarmálum félagsins.    

Skrifað undir samning um forathugun á gerð baðlóns

Vestmannaeyjabær og Íslenskar heilsulindir ehf (ÍH), dótturfyrirtæki Blá lónsins, hafa gert með sér samkomulag um samstarf er lítur að fýsileikakönnun er varðar gerð baðlóns, heilsulindar, sjósundsaðstöðu og tengdra mannvirkja í Vestmannaeyjum.   Vestmannaeyjabær hefur um nokkurt skeið unnið að frumkönnun á því hvort nýta megi þá miklu orku sem verður til við byggingu nýrrar sorpbrennslu í bænum, auk varma úr hrauninu, til að styrkja afþreyingu og ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum. Sérstaklega hafa verið skoðaðir möguleikar á manngerðu lóni og heilsulind við Skansinn sem tengd yrðu við hraunið úr Heimaeyjargosinu 1973, auk þess sem þessu samofnar hafa verið reifaðar hugmyndir um gerð sjósundsaðstöðu á Skansinum. Enskt vinnuheiti á þessum hugmyndum er „LAVASPRING VESTMANNAEYJAR“, sbr. lýsingu sem Vestmannaeyjabær hefur útbúið.   Samstarfs Vestmannaeyjabæjar og ÍH felur í sér könnun á fýsileika verkefnisins og að skoðað verði með jákvæðum hætti hugsanleg fjárfesting í verkefninu ef niðurstöður fýsileikakönnunar benda til að fjárfesting í því geti orðið hagkvæm.   „Vestmannaeyjar hafa verið að byggjast hratt upp sem áfangastaður ferðamanna og það er mikið gleðiefni fyrir okkur Eyjamenn þegar stórir fagaðilar í ferðaþjónustu sjá Vestmannaeyjar sem vænlegan kost. Samstarfið við alþjóðlega stórfyrirtækið Merlin hefur þegar skilað verkefni sem valda mun straumhvörfum í ferðaþjónustu og skapa sterkan segul sem draga mun að ferðamenn og auka þjónustu við þá. Allt er það án nokkurar fjárhagslegrar aðkomu Vestmannaeyjabæjar. Við horfum nú til þess að samstarfs við ÍH verði sambærilegt verkefni,„ sagði Elliði Vignisson bæjarstjóri eftir undirskrift.  

Japanskt fyrirtæki hefur keypt afurðir af VSV í um þrjátíu ár

Humarveiðin hefur verið frekar dræm

 „Humarbátarnir, Brynjólfur og Drangavík lönduðu á mánudaginn og landa svo aftur í lok vikunnar,“ sagði Sverrir Haraldsson sviðstjóri Bolfisks hjá Vinnslustöðinni í samtali við Eyjafréttir þegar við athugun á stöðinni hjá þeim og sagði að humarveiðin hafi verið frekar dræm en talsvert af öðrum afla sem væri að veiðast með. „Sleipnir er enn á netum en veiðin hefur farið minnkandi, vertíðarfiskurinn er allur farinn af svæðnum hér í kring eins og alltaf gerist á þessum árstíma. Þeir nota næstu daga til að reyna að veiða löngu en svo er stefnt að því að áhöfnina fari yfir á Kap II sem fer á grálúðuveiðar eins og í fyrra. Sindri landaði á mánudaginn fullfermi, það var blanda af karfa, þorski og ufsa. Það hefur verið góður afli hjá þeim, sérstaklega hefur verið góð karfaveiði,“ sagði Sverrir.   Breki í prufutúr Á mánudaginn var svo farin prufutúr á Breka VE. „Farið var austur fyrir Eyjar og gerðar ýmsar prufur á vél- og spilbúnaði. Það er skemmst frá því að segja að allt gekk vel og allur búnaður sem prófaður var virkaði eins og til var ætlast. Vissulega er eitt og annað sem þarf að laga og stilla en það er bara eins og við er að búast,“ sagði Sverrir.   Kolmunnaveiðum er lokið í bili Í fiskvinnslunnu er verið að vinna humar og ferskar afurðir auk saltfiskvinnslu sagði Sverrir. „Við höfum undanfarið pakkað miklu magni af saltfiski sem framleiddur var á vertíðinni og erum að skipa því jafnóðum út til Portúgal sem er okkar aðalmarkaður fyrir saltfisk. Kolmunnaveiðum er lokið í bili þar sem búið er að veiða það sem heimilt er innan færeyskar lögsögu. Það kemur svo í ljós hvort farið verður aftur á kolmunna í júní eða hvort það verði markíll sem taki næst við.   Uppsjávarskipin eru nú komin í slipp Eyþór Harðarson útgerðarstjóri hjá Ísfélaginu sagði í samtali við Eyjafréttir að Bolfiskskipin hafi verið að fiskað ágætlega undanfarið og halda uppi vinnslu á Þórshöfn og í Vestmananeyjum. „Uppsjávarskipin eru nú komin í slipp, Sigurður á Akureyrar en Heimaey og Álsey eru í slipp í Reykjavík.“

Fagnaðarfundur við heimkomu Breka

Gestkvæmt var um borð í Breka VE í Vestmannahöfn og margfaldur fagnaðarfundur. Fjölskyldur áhafnarinnar, Vinnslustöðvarfólk og fjöldi annarra Eyjamanna fögnuðu í gær (6. maí) heimkomu áhafnar og glæsilegs skips eftir 45 daga siglingu frá Kína.   Breki kom á heimaslóðir við Eyjar í fyrrakvöld, lónaði þar í nótt, var tollafgreiddur í morgunsárið og sigldi svo til hafnar á tólfta tímanum í dag. Skipsflautan gall aftur og aftur og Eyjamenn svöruðu með skipsflautum í höfninni og bílflautum á hafnarbakkanum.   Fjöldi fólks beið komu skipsins, stemningin var mikil og áþreifanleg og spenningur eftir því að fara um borð og skoða sig um frá brú niður í vélarrúm. Veitingar voru á millidekkinu.   Magnús Ríkarðsson skipstjóri stóð sig með stakri prýði í gestgjafahlutverki í brúnni. Hann var óþreytandi að kynna og útskýra hvort sem áttu í hlut krakkar sem litu á myndir á tölvuskjám sem tölvuleiki eða þrautreyndir skipstjórnendur sem vildu kafa djúpt í tækni og möguleika tækja og tóla.   Skipstjórinn fór fögrum orðum um skipið. Það fór vel í sjó og áhöfnin var svo heppinn að lenda í brælu á síðustu sólarhringum heimferðar. Á það reyndi líka við slíkar aðstæður.  Öllu fleiri en Eyjamenn fylgdust spenntir með Breka á 11.700 sjómílna heimsiglingu frá Kína. Skrif á Fésbók og á VSV-vefnum rötuðu í helstu fjölmiðla landsins, bæði útvarpsstöðvar og dagblöð. Breki hefur með öðrum orðum verið umtalaðasta skip íslenska flotans undanfarnar vikur en sigldi samt í fyrsta sinn inn í íslenska lögsögu síðastliðið föstdagskvöld!   Gera má ráð fyrir að Breki VE í lok júní. Fyrst þarf að koma fyrir búnaði á vinnsludekki, tækjum sem smíðuð eru annars vegar hjá Vélaverkstæðinu Þór í Vestmannaeyjum og hins vegar 3X stáli á Ísafirði. www.vsv.is greindi frá.        

Nýr iðnaður sem hefur vaxið gríðarlega á síðustu tveimur árum

Fyrr á þessu ári voru sett á laggirnar Samtök íslenskra handverksbrugghúsa en tilgangur samtakanna er að standa vörð um hagsmuni handverksbrugghúsa með því að fylgja eftir nokkrum mikilvægum hagsmunamálum, svo sem að smærri áfengisframleiðendum verði veittur afsláttur af áfengisgjaldi og að framleiðendur fái að selja vörur sínar beint til almennings eins og tíðkast á öðrum Norðurlöndum. The Brothers Brewery er eitt brugghúsanna sem eru aðilar að samtökunum og er Jóhann Guðmundsson, bruggmeistari, meðstjórnandi í stjórn samtakanna. Hér að neðan má sjá fréttatilkynningu samtakanna sem birt var fyrir helgi en þar rekja samtökin ítarlega sín helstu baráttumál: Í febrúar síðastliðnum komu eigendur íslenskra handverksbrugghúsa saman og stofnuðu Samtök íslenskra handverksbrugghúsa, á ensku Independent Craft Brewers of Iceland. Samtök þessi eru hagsmunasamtök smærri áfengisframleiðanda á Íslandi, sem gerja og framleiða áfengi í eigin framleiðslutækjum. Í samtökunum eru nú 21 handverksbrugghús um land allt.   Skilgreiningin að handverksbrugghúsi er að bandarískri fyrirmynd. Þrjú atriði einkenna handverksbrugghús: áhersla á gæði, stærð og sjálfstæði. Handverksbrugghús fara ótroðnar slóðir er kemur að hráefnum, en hafa gæði framleiðslu sinnar ávallt að leiðarljósi. Handverksbrugghús eru í eðli sínu smá, með framleiðslu undir milljón lítrum á ári. Að auki má framleiðandi sem ekki telst handverksbrugghús skv. skilgreiningu ekki eiga eða stýra meira en 25% í brugghúsi til að það uppfylla skilyrði samtakanna.   Aðilar í samtökunum mega setja merki samtakanna á afurðir sínar. Neytendur geta þannig séð á vörunni að brugghúsið hefur gæði í fyrirrúmi samkvæmt leiðarljósi samtakanna. Merkið auðveldar einnig neytendum að velja stuðning við smærri óháða framleiðendur á Íslandi.   Samtökin hyggjast standa vörð um hagsmuni handverksbrugghúsa með því að fylgja eftir nokkrum mikilvægum hagsmunamálum. Þar með talið; að hér á landi verði smærri áfengisframleiðendum veittur afsláttur af áfengisgjaldi í samræmi við venjur og heimildir úr Evrópusambandinu. Einnig að framleiðendur fái að selja framleiðslu sína beint til almennings út úr verksmiðju sinni, eins og tíðkast á öðrum Norðurlöndum þar sem ríkið hefur einkaleyfi á áfengissölu. Að síðustu vilja samtökin standa vörð um aðgengi handverksbrugghúsa með vörur sínar á bari og í verslanir ÁTVR. Í vor munu samtökin gefa út landakort er sýnir staðsetningu handverksbrugghúsa umhverfis landið. Með því verður hægðarleikur fyrir fólk á ferðalagi að heimsækja handverksbrugghús og leita uppi afurðir þeirra í heimabyggð, en handverksbrugghús eru staðsett í öllum fjórðungum landsins; frá Ísafirði að Breiðdalsvík, Vestmannaeyjum að Húsavík, svo nokkrir staðir séu nefndir.   Spennandi tímar framundan hjá The Brothers Brewery Í samtali við Eyjafréttir sagði Jóhann samtökin bjartsýn á að fá í gegn þær breytingar sem um ræðir enda háar fjárhæðir í húfi fyrir brugghúsin. Einnig ræddi Jóhann ferð til Portland sem þeir félagar í The Brothers Brewery fóru í fyrr í apríl og sömuleiðis bjórinn Eldfell sem nú er fáanlegur í verslunum ÁTVR. „Við erum mjög bjartsýn á framtíðina, handverksbruggun er í raun algjörlega nýr iðnaður sem hefur vaxið gríðarlega á síðustu tveimur árum en sem dæmi þegar að við fengum fyrsta leyfið okkar í janúar 2016 þá voru ca. fimm handverksbrugghús á Íslandi en nú er verið að stofna samtök með 21 handverksbrugghúsi. Handverksbrugghús samkvæmt skilgreiningu samtaka er áfengisframleiðandi sem framleiðir minna en milljón lítra á ári. Löggjafinn hefur alltaf verið mjög íhaldsamur gagnvart áfengi en við teljum að það sé mjög líklegt að við náum fram breytingum á þessum atriðum. Okkar litla brugghús hérna í Eyjum mun t.d. ef framleiðsluáætlun stendur greiða tæplega 20 milljónir í ár í áfengisgjöld sem er bara beinn skattur sem fer út úr samfélaginu. Það væri mikið nær að við fengjum einhvern afslátt á þessu gjaldi sökum stærðar og við myndum nýta þann afslátt til að búa til fleiri störf í brugghúsinu sem skilur eftir sig tekjur hér í okkar samfélagi.“   Heimsóttu kollega sína í Bandaríkjunum Fyrr í apríl fóru Jóhann og félagar í The Brothers Brewery til Bandaríkjanna til að heimsækja brugghús þar í landi en meðferðis höfðu þeir 50 kg. af íslensku skyri. „Við kynntumst nokkrum brugghúsum síðasta sumar þegar bjórhátíðin Maine Beer Box var haldin í Reykjavík á vegum Maine Brewers Guilde og Eimskips. Framkvæmdarstjóri Brewers Guilde og brugghússins Urban Farm Fermentory kom svo til Eyja eftir hátíðina og við brugguðum meðal annars bjór með Urban Farm hérna í Eyjum. Þannig að það er búið að vera á dagskránni síðan þá að fara í heimsókn út til að skoða brugghús en í Maine fylki eru rétt um 100 brugghús. Við byrjuðum svo að undirbúa ferðina í febrúar og plana tvær brugganir með Lone Pine Brewing company og Urban Farm Fermentory. Fyrir Lone Pine fluttum við út 50 kg. af íslensku skyri til þess að búa til íslenskan Skyr sour sem er nú verið að blanda saman með bláberjum og pakka í dósir í Maine. Fyrir Urban Farm fórum við með íslenskt blóðberg sem við notuðum í belgískan Saison. Það sem kannski stendur upp úr í svona ferð er hversu vel okkur var tekið alls staðar sem við fórum, við fórum meðal annars að skoða þrjú stærstu craft brugghúsin í Maine sem eru flest að brugga í kringum 60 þúsund lítra af bjór á dag en við áætlum að framleiða ca. 45 þúsund lítra á árinu 2018 hérna í Eyjum.“   Eldfell fengið góðar viðtökur í verslunum ÁTVR Nýlega fór bjórinn ykkar Eldfell í sölu í ÁTVR sem hlýtur að vera ánægjulegt fyrir ykkur. Hafið þið fengið jákvæð viðbrögð? „Já við erum að fá frábær viðbrögð en þetta ferli allt saman er mjög erfitt fyrir litla aðila eins og okkur þar sem okkur er úthlutað mjög litlu hilluplássi sem þýðir að það eru mjög algengt að það séu bara nokkrar flöskur í hillunni innst inni sem að enginn tekur eftir. Vínbúðirnar eru þess vegna í raun ekki okkar helsti markaður en eins og hefur komið fram þá vildum við geta selt beint úr brugghúsi en nú þegar hafa nokkrir aðilar byrjað að gera það án þess að vera að auglýsa það enda getur þú nú þegar farið á marga ferðmannastaði á landinu og keypt þér Reyka Vodka í litlum flöskum og gengið með út,“ segir Jóhann.   Áætlanir gera ráð fyrir fleiri heilsársstörfum 12. apríl 2013 brugguðu þeir félagar sinn fyrsta bjór en á þeim tíma óraði þá ekki fyrir því hvar þeir myndu standa fimm árum síðar. „Fyrir fimm árum hefði okkur aldrei dottið það í hug að litla 30 l plastfatan okkar væri í raun búin að búa til heilsársstarf í bruggun á bjór í Vestmannaeyjum og að það væri komið 500 l brugghús sem stefnir á framleiðslu á 45 þúsund lítrum af bjór. Þetta er ótrúlegt ævintýri sem er enn að stækka en fyrir einum mánuði síðan tókum við inn tvo nýja 1000 l gerjunartanka sem var aukning uppá ca. 3000 l framleiðslugetu brugghússins á mánuði. Okkar áætlanir gera ráð fyrir að við ættum að geta búið til eitt til þrjú störf í viðbót tengt okkar brugghúsi á næstu tveimur árum. En það eru nokkrir þættir sem við verðum að vinna betur með sem henta okkur ekki nægilega vel, sem dæmi þá er eiginlega ódýrara fyrir okkur að flytja bjór í stórum tanki uppá land til átöppunar heldur en að tappa honum á flöskur hér. Flaska kostar okkur 19 krónur afhent í Rvík en það kostar okkur 9 krónur að flytja hana til Eyja og svo þurfum við að afhenta alla flöskur einnig í Reykjavík, líka bjórinn sem fer í Vínbúðina hér í Eyjum. Þannig að er ýmislegt sem við erum að skoða varðandi hvernig við munum halda áfram að stækka og þroskast,“ segir Jóhann.   Þakklátur Að lokum þakkar Jóhann heimamönnum fyrir stuðninginn sem hann segir ómetanlegan. „Við erum afar stoltir af því hvert við erum komnir og einstaklega þakklátir öllu því góða fólki sem hefur staðið við bakið á okkur. Heimafólkið hér í Eyjum hefur tekið okkur frábærlega með því að koma reglulega út að fá sér einn til tvo bjóra á Ölstofunni en án þess í vetur hefði þetta dæmi einfaldlega aldrei gengið upp og fyrir það erum við einstaklega þakklátir. Gölli IPA bjórinn okkar er svo rétt ókominn í Vínbúðir þannig að fólk má fara að líta eftir honum fyrir næstu helgar. Munum bara að njóta gott fólk“  

Áfram mikil fjölgun ferðamanna

Í tilefni nýrrar skýrslu Íslandsbanka um íslenska ferðaþjónustu bauð Íslandsbanki til hádegisfundar í Eldheimum í gær. Með útgáfu skýrslunnar vill Íslandsbanki leggja sitt af mörkum við að upplýsa stöðu ferðaþjónustunnar og gefa innsýn í þróun og horfur greinarinnar hverju sinni. Þetta er í fjórða sinn sem Íslandsbanki gefur út skýrsluna og að þessu sinni var einnig gerð viðamikil greining á rekstrarniðurstöðum íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja. Bjarnólfur Lárusson, viðskiptastjóri í verslun og þjónustu og Elvar Orri Hreinsson, sérfræðingur í samskiptum og greiningu hjá Íslandsbanka kynntu skýrsluna. Hægt er að lesa skýrsluna á heimasíðu Íslandbanka.   Ísland er dýrasti áfangastaður heims Skýrslan gaf því gaum að ferðaþjónustan muni á líðandi ári halda áfram að auka umfang sitt í hagkerfinu. Vöxtur ferðaþjónustunnar hefur krafist mikilla fjárfestinga sem hefur leitt til uppsprettu hagvaxtar og aukinnar atvinnu hér á landi. Bandaríkjamenn og Bretar vega þyngt í íslenskri ferðaþjónustu og eyða Bandaríkjamenn mest af þeim öllum. Íslandsbanki spáir um 570 ma.kr. gjaldeyristekna af ferðaþjónustu árið 2018. Komið var inná að gistiþjónusta á Suðurlandi væri að sækja í sig veðrið og þá má velta fyrir sér hvort gistiþjónusta í Vestmannaeyjum sé þar á meðal. Airbnb er með rúmlega fjórðungshlutdeild á íslenska gistiþjónustumarkaðnum og allar tegundir gististaða eru að missa hlutdeild til airbnb sem hefur vaxið gríðarlega hratt. Ísland er dýrasti áfangastaður heims og er verðlag hér 28% hærra en á hinum Norðurlöndunum að meðaltali. Við erum með eitt ósamkeppnishæfasta verðlag í heimi en hæfni vinnuafls metið það samkeppnishæfasta.   Pallaborðsumræður með ferðaþjónustuaðilum Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka stýrði pallborðsumræður eftir kynningu á skýrslunni, um stöðu ferðaþjónustunnar og það sem framundan er. Í umræðunum tóku þátt, Berglind Sigmarsdóttir, eigandi Gott og formaður Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja, Bjarni Geir Bjarnason, eigandi Hótel Eyja og BGB ferðaþjónustu ehf, Hafdís Kristjánsdóttir, eigandi Tangans og Glamping and Camping og Elvar Orri Hreinsson, sérfræðingur hjá Íslandsbanka.   Bæta ímynd Vestmannaeyja og laga þann skaða sem þegar hefur orðið Í pallaumræðunum kom Berglind meðal annars inná að í Vestmannaeyjum er ferðamannatímabilið aðeins í þrír til fjórir mánuðir á ári og benti á að skýrslan hefði sagt að 85% af ferðamönnum á Íslandi kæmu í gegnum flugfélögin Wow og Icelandair, en til Vestmannaeyja kæmu 85% af ferðamönnum okkar með Herjólfi, sem væri jafn framt okkar stærsti flöskuháls. Hún sagði jafnframt að mikill hugur væri í Ferðamálasamtökunum og fólk vær bjartsýnt. Þar vilja menn bæta ímynd Vestmannaeyja og laga þann skaða sem þegar hefur orðið með ótraustum samgöngum. Hugmynd þeirra er að fá þjónustumiðstöð við Landeyjarhafnaveg þar sem afgreiðsla Herjólfs væri einnig og ná þannig tengingu við ferðamanni á Suðurlandi.   Hafdís sagði svekkjandi að sjá sumar tölur í skýrslunni sem sýna aukningu á gistingu hjá ferðamönnum yfir veturinn meðan að aukningin væri enginn hjá okkur. Hún sagðist samt sjá aukningu milli ára á tjaldsvæðinu og vera bjartsýn fyrir komandi tímum. Bjarni Geir sagðist hafa samanburð frá Keflavík og það ekki vera sambærilegt ferðamannaiðnaðinum í Vestmannaeyjum. Allt árið væri nánast fullbókað í Keflavík en aðeins fjórir til fimm mánuði ársins í Eyjum. Hann sagðist einnig hafa haldið að airbnb yrði ekki stærsti samkeppnisaðilinn í Eyjum, en það væri samt staðreyndin. Hann kallar eftir umræðu um flug og flugsamgöngur til Eyja og segir að það geta stórbætt ástandið. Þau voru öll sammála um að ljónið í veginum væri samgöngur en öll voru þau jákvæð og bjartsýn á framhaldið.      

Veiðar verið ágætar síðustu vikuna

 Þegar blaðamaður heyrði í Sverri Haraldsssyni sviðsstjóra bolfisks hjá Vinnslustöðinni, en hann var ásamt fleirum staddur í Brussel á sjávarútvegsýningunni þar. „Fyrsti sýningardagur í dag og búið að ganga mjög vel, mikið af fólki á básnum hjá okkur. Erum hér með allt okkar sölufólk.“ Sverrir sagði að Sleipnir fór af stað um helgina eftir hrygningarstoppið og hafur verið að fá ágætan afla. „Brynjólfur og Drangavík hafa verið að landa humri á Djúpavogi síðustu viku. Við höfum verið að nýta tímann betur til veiða með því að landa þar og flytja aflann til okkar. Humaraflinn hefur verið viðunnandi síðustu viku, miðað við að veður og aðrar aðstæður hafa verið frekar erfiðar. Sindri hefur mest verið að veiða karfa undanfarið og gengið vel,“ sagði Sverrir.   Vona að kolmunninn gefi sig í íslensku lögsögunni  Eyþór Harðason útgerðarstjóri hjá Ísfélaginu sagði í samali við Eyjafréttir að uppsjávarskipin hafi verið að veiða kolmunna í færeysku lögsögunni í apríl. „Við erum að klára okkar ca. 10.000 tonn sem við megum veiða þar, og síðan þurfum við að vona að kolmunninn gefi sig í íslensku lögsögunni í sumar eða haust með það sem eftir er.“ Síðan taka við slippar hjá Álsey, Heimaey og Sigurði nú í maí. „Bolfiskskipin Dala Rafn og Suðurey hafa veitt vel hér í nágrenni við Eyjar undanfarið með góðum árangri og haldið uppi stöðugri vinnslu í frystihúsum félagsins,“ sagði Eyþór.  

Vörulína frá ORA sú besta á sjávarútvegssýningunni Brussel

Iceland´s Finest vörulínan frá ORA var valin vörulína ársins á sjávarútvegssýningunni í Brussel sem fram fer í þessari viku. Vörulínan inniheldur vörurnar Creamy Masago Bites, Crunchy Caviar Bites og Rich Langoustine Soup. Tilkynnt var um vinningshafa við hátíðlega athöfn í sýningarhöllinni í Brussel. Eyjapeyinn Jóhannes Egilsson er útflutningsstjóri hjá ORA og tók á móti verðlaununum.   Árlega stendur sjávarútvegssýningin í Brussel fyrir vali á bestu nýju vörum ársins. Allar vörurnar voru sérstaklega prófaðar og metnar af fagmönnum og innkaupafólki úr smásölu og stóreldhúsageiranum auk þess sem sérfræðingar í nýjum matvörum lögðu mat sitt á þær. „Þetta er mikil viðurkenning fyrir okkur hjá ORA en við erum að keppa mörg af stærstu fyrirtækjum heims með sjávarafurðir um athygli á vörunýjungum og við stöndum skrefinu framar en þau. Í mínum huga enduspeglar þessi viðurkenning kraft, þor og metnað hjá eigendum ÍSAM/ORA á að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða og taka næsta skref í þróun og markaðssetningu á okkar frábæru afurðum,“ segir Jóhannes Egilsson útflutningsstjóri hjá ORA í samtali við Vísir.is.   Samkvæmt fréttatilkynningu frá ORA er Iceland´s Finest vörulínan forréttir sem byggja eingöngu á íslensku hágæða hráefni og gerir fólki kleift að útbúa bragðgóða og girnilega sjávarforrétti með afar einföldum og fljótlegum hætti. „Á undanförnum tveimur árum höfum við lagt mikla vinnu í vöruþróun og vörumerkjauppbyggingu sem hefur skilað okkur frábærri vöruhugmynd sem byggir á hágæða vörum unnum úr íslenskum sjávarafurðum.“  

Hádegisfundur Íslandsbanka í Eldheimum á morgun

Slógu afla­met fyrstu þrjá mánuðina

Breki VE og Páll Pálsson ÍS komnir af hættusvæði

Togaratvíburarnir Breki og Páll Pálsson komust í gær af hættusvæði sjórána í sundinu milli Sómalíu og Jemens. Siglingin um svæðið var tíðindalaus með öllu og mannskapnum létti mjög þegar komið var inn á Rauðahafið. Hermennirnir þrír, sem komu í Breka á Sri Lanka, fara frá borði á morgun og taka með sér vopnasafnið sitt. Þeir þurftu blessunarlega aldrei að hleypa af skoti til varnar skipi og áhöfn nema í æfingaskyni.   Hermennirnir hafa bækistöð í pramma á Rauðahafi og bíða þar eftir næsta verkefni. Þá gæta þeir öryggis um borð í einhverju skipi sem er á suðurleið um Súesskurð og Rauðahaf. Þannig er lífið hjá köppunum.   „Við erum mjög lukkulegir að hafa náð þessum áfanga og teljum nú niður á lokakaflanum. Að baki eru 6.400 sjómílur frá Kína og núna eru nákvæmlega 4.878 sjómílur heim til Vestmannaeyja!“ sagði Bergur Guðnason, stýrimaður á Breka, glaðbeittur á vaktinni núna um hádegisbil að íslenskum tíma. Þá var blessuð blíðan á Rauðahafi líkt og fyrri daginn, blankalogn og 35 stiga lofthiti. Sjávarhiti 28 gráður.   „Við höfum tilkynnt komu okkar að Súesskurði að morgni 19. apríl að staðartíma og stillum okkur af þannig af að það standist. Hægjum heldur á okkur því við erum ögn á undan áætlun.   Hermennirnir eru hættu að standa vaktir um hádegi. Þeir höfðu orð á því að það hefði verið óvenjulega rólegt í kringum okkur á leiðinni. Í sundinu þar sem þrengst er hefur oft verið krökkt af fiskibátum og sjóræningjar þar gjarnan innan um að sæta lagi til árása á skip. Nú sást þarna ekki einn einasti bátur. Allt með eins kyrrum kjörum og hugsast gat.   Eitt olíuskip hefur fylgt Breka og Páli um hættusvæðið og önnur skip voru skammt á undan okkur. Herskip sáum við aldrei en vitum að þau eru ekki fjarri siglingaleiðinni, við öllu búin.   Þetta gengur ljómandi vel hjá okkur og vaxandi tilhlökkun að koma heim!“ www.vsv.is greindi frá.  

Á fimmtu milljón króna til Vestmannaeyja

Verkefnastjórn Sóknaráætlunar Suðurlands á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga fjallaði um tillögur fagráðs atvinnuþróunar og nýsköpunar, annars vegar og fagráðs menningar hins vegar, um úthlutun styrkveitinga til verkefna úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands. Um var að ræða fyrri úthlutun Uppbyggingarsjóðs Suðurlands á árinu. Umsóknir að þessu sinni voru 133, þar af í flokki atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna 67 og 66 í flokki menningarverkefna.   Verkefnastjórn fór yfir tillögurnar og samþykkti að veita 89 verkefnum styrk. Samtals var úthlutað úr sjóðnum um 50 mkr. Samþykkt var að veita 36 verkefnum styrk í flokki atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna og 53 verkefnum í flokki menningarverkefna, um 25 mkr. í hvorum flokki.   Alls fengu ellefu aðilar í Vestmannaeyjum úthlutun og var heildar upphæð til þeirra 4.450.000,kr.   Í bjarma sjálfstæðis Þekkingarsetur Vestmannaeyjar 150.000 Pysjusýning 2018 Þekkingarsetur Vestmannaeyja ses 200.000    Sígild leikhúslög á goslokum Eldheimar 300.000 Sigfús Halldórsson og lögin hans Guðný Charlotta Harðardóttir 300.000   Eyjalagakeppni (val á Goslokalagi) Bandalag vestmanneyskra söngva- og tónskálda 350.000 Ungt fólk í tónlist Birgir Nielsen Þórsson 400.000 Lundaafbrigðin Þekkingarsetur Vestmannaeyja ses 400.000    Myndir, músík og mósaík Helga Jónsdóttir 400.000   Samfélagsvæðing Safnanna Þekkingarsetur Vestmannaeyja ses   450.000   Sunnansól og hægviðri Lúðrasveit Vestmannaeyja   500.000  Billit Lime ehf. 1.000.000    

Bæjarstjórn vill halda áfram viðræðum við ríkið

Bæjarráð ræddi samgöngumál í bæjarráði Vestmannaeyja í dag. Þar á meðal fund með Sigurði Inga Jóhannsssyni samgönguráðherra sem fram fór í seinustu viku. Fundin sátu bæjarfulltrúar ásamt stýrihóp um yfirtöku Vestmannaeyjabæjar á rekstri Herjólfs. Á fundinum var rætt um mögulegt rekstrarfyrirkomulag nýrrar Vestmannaeyjaferju. Eins og komið hefur fram hefur Vestmannaeyjabær lýst sig tilbúinn til að taka við rekstri ferjunnar og þegar liggur fyrir undiritaðuð viljayfirlýsing milli Vestmannaeyjabæjar og ráðherra samgöngumála.   Bæjarráð ítrekar þá skoðun sína að breyta þurfi viðhorfi til þjónustu Vestmannaeyjaferju á þann máta að hún taki mið af þörfum samfélgsins í Vestmannaeyjum á hverjum tíma en ekki fyrirfram gefnum forsendum undirrituðum af ríkinu og hlutafélagi sem tekur að sér reksturinn. Er í því samhengi vísað til nýlegrar úttektar Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri en þar kom ma. í ljós að þjónustan eins og ríkið hefur mótað hana hingað til er vægast sagt fjarri því sem heimamenn telja þörf á.   Á fundinum lýsti bæjarstjórn því að hún vildi halda áfram viðræðum við ríkið sem byggja á undirritaðri viljayfirlýsingu sem ma. gerir ráð fyrir:     · skipið verði nýtt til siglinga milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar lengur hvern sólarhring en nú er og gangi allt að 8 ferðir á dag í reglulegri áætlun þegar aðstæður krefjast.   · núverandi Herjólfur verði til reiðu sem varaskip fyrir ferjusiglingar í landinu eftir að ný ferja hefur siglingar.     · sama gjaldskrá gildi á báðum siglingaleiðum.   · núverandi fjárveiting til reksturs Herjólfs verði lögð til grundvallar nýs samnings. Þannig verði möguleg hagræðing vegna rekstrar nýrrar Vestmannaeyjaferju, nýtt til að bæta samgöngur á milli lands og Eyja.   · fram fari þarfagreining á þjónustuþörf skipsins. Þarfagreiningin taki mið af þörfum samfélagins en ekki eingöngu ámarksnýtingu.   · rekstur ferjusiglinga milli lands og Eyja sé almannaþjónusta og ekki hagnaðardrifin.   Á fundinum var einnig opnað á þann möguleika að samhljóða því að Vestmannaeyjabær taki reksturinn að sér verði einnig skoðaða að stofnað verði opinbert hlutafélag ríkis og sveitarfélags sem annist reksturinn.   Það er mat bæjarráðs að fundurinn hafi verið uppbyggjandi enda hafi ráðherra tekið hugmyndum heimamanna vel og verið sammála bæjarstjórn um markmiðin. Þá hafi ráðherra lýst yfir vilja til að halda viðræðum við sveitarfélagið áfram og muni því boða til nýs fundar á næstu dögum.   Gjaldskrá Herjólfs Bæjarráð lýsir yfir ánægju með þá ákvörðun valið hafi verið að lækka gjaldskrá í Þorlákshöfn nú þegar í stað þess að gera það þegar hin nýja Vestmannaeyjaferja hefur þjónustu síðsumars eins og áður hafði verið ákveðið.  

Árleg úttekt í upphafi skólaárs á leikskólagjöldum

Á fundi fræðsluráðs í síðustu viku var umræða um leikskólagjöld hjá Vestmannaeyjabæ og vísitölutengingu þeirra.   Í fundargerð ráðsins segir að leikskólagjöld í Vestmannaeyjum séu tengd vísitölu neysluverðs, taka mið af þeim og endurreiknast á þriggja mánaða fresti líkt og aðrar gjaldskrár Vestmannaeyjabæjar skv. ákvörðun bæjarráðs. Stefna Vestmannaeyjabæjar er að þjónusta og gjaldskrár allrar þjónustu séu ætíð eins hagstæð notendum og mögulegt er og samanburðarhæf við önnur sambærileg sveitarfélög.   Til að tryggja að tenging við vísitölu verði ekki til að hækka gjaldskrár umfram það sem almennt gerist hefur ráðið reglulega tekið saman gögn um gjaldskrár annarra sveitarfélaga og leiðrétt sínar gjaldskrár í samræmi við það. Í því samhengi vísast til þess að fyrir skömmu tók fræðsluráð til þeirra ráða að lækka leikskólagjöld um rúm 19% og við síðasta samanburð ASÍ kom í ljós að leikskólagjöld í Vestmannaeyjum væru í meðaltali annarra sveitarfélaga, enda er það vilji fræðsluráðs og Vestmannaeyjabæjar að veita samkeppnishæfa þjónustu. Fræðsluráð felur skólaskrifstofu að framkvæma árlega úttekt í upphafi skólaárs á leikskólagjöldum samanburðarsveitarfélaga Vestmannaeyjabæjar.   Eyjalistinn mælist til að vísitöluhækkun á leikskólagjöldum verði ekki að veruleika Fulltrúi Eyjalistans í fræðsluráði lagði fram eftirfarandi bókun vegna málsins: Vegna góðrar stöðu bæjarsjóðs mælist Eyjalistinn til að vísitöluhækkun á leikskólagjöldum verði ekki að veruleika 2018. Nýverið var farið í lækkun á leikskólagjöldum til að koma til móts við foreldra ungra barna og við hjá Eyjalistanum viljum að foreldrar fái að njóta góðs af því áfram. Ráðið felur framkvæmdastjóra að vísa tillögu fullrúa E-lista til bæjarráðs enda mál sem varðar fjárhagsáætlun þessa árs.  

Niðurstaða dýptarmælingar við Landeyjahöfn

Í gær mældi Lóðsinn dýpið í Landeyjahöfn. Að mörgu leiti er niðurstaðan vonum framar. Eðlilega er eftirvænting meðal bæjarbúa enda eigum við allt undir því að blessuð höfnin sé nægilega djúp og sjólag sé þannig að Herjólfur geti siglt þangað. Með það í huga reynum við að miðla þeim upplýsingum sem við höfum.     Heildar niðurstöður mælingarinnar má sjá á þessari mynd. Eins og á henni sést þá er staðan nú nokkuð góð miðað við það sem oft hefur sést á þessum árstíma.   Ekki lítur út fyrir að nein alvarleg fyrirstaða sé innan hafnar en vissulega þarf að dýpka eitthvað við innrihöfnina: Á milli garða er sem fyrr sandbingur en þó minni en oft áður. Dýpið milli garða og rifs er mjög mikið: Rifið sjálft er hinsvegar nokkuð hærra en oft áður.   Án þess að ég sé einhver sérfræðingur í því að lesa úr svona mælingum þá þætti mér ekki ólíklegt að fjarlægja þurfi um 25.000 rúmmetra á milli garða og ef til vill eitthvað svipað á rifinu til að hægt sé að hefja siglingar, þótt slíkt væri þá háð sjávarstöðu.   Í heildina verður þó dýpkað mun meira eða sennilega hátt í 200.000 rúmmetrar. Í dag mun mælingabátur Vegagerðarinnar vinna stærri mælingu í kjölfar þess verður auðveldara að átta sig á stöðunni.   Galilei er nú komin til Vestmannaeyja og hefur hafið undirbúning að dýpkun. Vondir standa til að þeir geti byrjað að dýpka í dag eða á morgun.   Spáin er góð næstu daga og því leyfir maður sér að vera nokkuð bjartsýnn á gott gengi.  Elliði Vignisson Bæjarstjóri

Neitaði að borga lög­fræðingnum

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt karlmanna á áttræðisaldri til þess að greiða skuld upp á tæplega 700 þúsund krónur, með dráttarvöxtum, en það var lögmannsstofa Lúðvíks Bergvinssonar, Bonafide, sem stefndi manninum vegna skuldarinnar. www.visir.is greindi frá.   Fram kemur í dómnum að í maí 2015 hafi maðurinn veitt lögfræðingi hjá lögmannsstofu Lúðvíks umboð til að annast fyrirsvar fyrir hann vegna hugsanlegs ágreinings við nágranna vegna uppsetningar á girðingu. Í umboðinu fólst aðstoð og fyrirsvar við bréfaskriftir, kröfugerð, sáttatilraunir og málflutningur fyrir héraðsdómi eftir atvikum.   Mótmælti ekki tímaskráningu lögfræðingsins vegna málsins „Var lögbannið lagt á og höfðaði stefndi staðfestingarmál fyrir Héraðsdómi Suðurlands og var kveðinn upp í því dómur 5. apríl 2016. Voru dómkröfur stefnda, sem var þá stefnandi staðfestingarmálsins, að lögbannið yrði staðfest og að viðurkennt yrði að nágrannanum væri óheimilt að reisa girðingu við lóðamörkin, auk málskostnaðarkröfu. Var lögbannið staðfest, en stefndi í því máli sýknaður af kröfu um að honum væri óheimilt að reisa girðingu við lóðamörkin. Var málskostnaður felldur niður,“ segir í dómnum um lyktir þess máls fyrir dómstólum.   Fram kemur í þingbók staðfestingarmálsins að bæði umræddur lögfræðingur sem sótti þing og Lúðvík Bergvinsson hafi komið að vinnu við málið einnig.   „Kveður stefnandi að við framangreindan málarekstur hafi verið unnir 26,8 klukkutímar af hálfu stefnanda í þágu stefnda og hefur verið lögð fram tímaskýrsla um það. Hafa verið lagðir fram 3 reikningar stefnanda til stefnda, innheimtubréf, milliinnheimtuviðvaranir, lokaaðvaranir og löginnheimtubréf vegna innheimtu skuldarinnar, en stefnandi kveður stefnda ekki hafa greitt og er því ekki mótmælt. Mótmælir stefndi heldur ekki tímaskráningu stefnanda,“ segir í dómnum.   Hélt að lögfræðingurinn yrði einn með málið en ekki „hópur af fólki“ í Reykjavík Maðurinn hafi hins vegar neitað að greiða reikningana þar sem hann hafi talið að lögfræðingurinn yrði einn með málið en ekki „hópur af fólki í Reykjavík.“ Þá hafi lögfræðingurinn talað um að kostnaðurinn við málareksturinn yrði um 10 þúsund krónur og að aldrei hafi verið gerð fyrir öllum þessum kostnaði sem skuldin hljóðaði upp á.   Dómurinn hafnar þessari málsástæðu mannsins með öllu, segir hana ósannaða og auk þess „fráleitt“ að ætla að lögfæði- og lögmannsþjónusta líkt og maðurinn keypti af Bonafide myndi ekki kosta meira en 10 þúsund krónur. Þá var það jafnframt álit dómsins að með því að leita til lögmannsstofunnar hafi maðurinn undirgengist samningssamband við stofuna um að honum væri veitt lögfræðiaðstoð og þjónusta við málarekstur sinn.   „Þá verður að telja ósannað að stefndi hafi ekki vitað um þær dómkröfur sem hann hafi gert í téðu dómsmáli, enda verður stefndi ekki sýknaður af kröfum stefnanda vegna þess að málareksturinn hafi tapast að hluta til,“ segir jafnframt í dómnum sem sjá má í heild sinni hér.  

Bragðbesta íslenska loðnan

 „Margir kaupendur og neytendur loðnuafurða í Japan hafa sagt mér að loðan á vertíðinni 2017 hafi verið sú bragðbesta frá Íslandi í manna minnum. Sumir hafa samanburð í samfleytt 25 ár og vita hvað þeir tala um,“ segir Yohei Kitayama, japanskur sölumaður About fish, sölu- og markaðsfyrirtækis Vinnslustöðvarinnar. „Nú bíða viðskiptavinir okkar í Japan spenntir eftir loðnunni sem veiðist í ár og auðvitað er alltaf heldur þægileg tilfinning að vita af eftirvæntingarfullum kúnnum! Fyrsta loðnan sem barst til Eyja með Ísleifi VE á dögunum lofar góðu. Ég hef á tilfinningunni að vertíðin 2018 skili okkur ágætri vöru og viðunandi verði. Útlitið á þessum tíma árs í fyrra var hrikalegt en úr rættist heldur betur, þökk sé útgerðarfyrirtækjum sem sendu skip sín til loðnuleitar á eigin kostnað eftir að fiskifræðingar íslenska ríkisins sögðu að enga loðnu væri að finna og aflýstu vertíðinni að mestu. Staðan var grafalvarleg og loðnuleysi hefði að óbreyttu sett fjölda lítilla japanska fjölskyldufyrirtækja í vinnslu og sölu loðnuafurða á hausinn. Þá hefðu tapast viðskipti og viðskiptavinir til frambúðar, sama hve vertíðin 2018 hefði verið góð og gjöful. Eftir allt saman fengum við sem betur fór loðnuvertíð á Íslandi og hún skilaði svona líka góðum afurðum.   Íslendingar framleiddu meira í fyrra en búist var við. Því eru til nokkrar birgðir loðnuafurða í Japan sem gætu haft einhver áhrif á verðlagið nú en ég efast samt um það. Þar kemur tvennt til: Aflamark í loðnu 2018 er minna en gert var ráð fyrir sem takmarkar að sjálfsögðu framboðið. Eftirspurn/neysla í Japan var umfram það sem við reiknuðum með fyrir hálfu ári, aðallega vegna þess að loðnan var óvenjulega stór og góð.   Stærðin skiptir máli! Í fyrra voru að jafnaði 40-50 stykki í kílógrammi en venjulega 50-60. Veitingamenn kunna vel að meta að geta selt færri en stærri fiskstykki í matarskömmtum viðskiptavinarins. Svona nokkuð telur.“ Loðnuvertíðin og afurðasalan í kjölfarið leggst þannig vel í Kitayama en hann neitar sér samt ekki um að kæla ögn væntingar með því að slá varnagla. Norskan varnagla. „Noregur er hér óvissuþáttur, eins og svo oft gerist á mörkuðum með sjávarafurðir. Ef Norðmenn veiða stóra og góða loðnu hefur það örugglega áhrif á verðlagið hjá okkur. Við höfum hins vegar ákveðið forskot sem er um að gera að nýta. Japanskir viðskiptavinir okkar vita að veiðarnar eru komnar í gang hér og að þokkalegar horfur eru með loðnuafurðirnar frá Íslandi. Þeir eru óþreyjufullir að fá loðnu ársins og bíða helst ekki eftir veiðum Norðmanna.   www.vsv.is greindi frá

Mælingar á stærð loðnustofnsins í janúar 2018

Í september - október 2017 fóru fram mælingar á stærð loðnustofnsins. Þá fannst kynþroska loðna aðallega á og við landgrunnið við Austur Grænland. Í þeim leiðangri mældust samtals 945 þúsund tonn af kynþroska loðnu og mæliskekkja (CV) var 0.29. Í framhaldi þeirra mælinga var, í samræmi við gildandi aflareglu, úthlutað 208 þúsund tonnum en jafnframt kom fram að ráðgjöfin yrði endurskoðuð í ljósi niðurstaðna veturinn 2018. Þær mælingar hófust um miðjan janúar og er nú lokið. Í mælingunum tóku þátt rannsóknaskipin Bjarni Sæmundsson og Árni Friðriksson en auk þeirra tók uppsjávarskipið Polar Amaroq fullan þátt í verkefninu. Uppsjávarskipin Aðalsteinn Jónsson SU, Álsey VE, Bjarni Ólafsson AK, Beitir NK, Heimaey VE, Jóna Eðvalds SF, Sigurður VE, Venus NS og Víkingur NS aðstoðuðu við mælinguna sem leitarskip hluta af tímanum.   Rannsóknasvæðið í janúar var landgrunnið og landgrunnsbrúnin frá Grænlandssundi, austur með Norðurlandi og út af Austfjörðum. Gerðar voru 2 mælingar á veiðistofninum. Sú fyrri fór fram dagana 17. - 22. janúar og fannst kynþroska loðna frá norðanverðum Austfjörðum norður um og vestur fyrir Kolbeinseyjarhrygg (mynd 1). Þar fyrir vestan var einkum að finna ungloðnu. Þar sem veður var slæmt þegar mælingu var um það bil að ljúka leituðu skipin vars. Síðari yfirferðin fór fram dagana 25. - 31. janúar á svæðinu frá sunnanverðum Vestfjörðum og norður um, allt að Austfjörðum (mynd 2). Veður var viðunandi á meðan mælingar fóru fram en þó náðist ekki að skoða svæðið út af Vestfjörðum í fyrri yfirferðinni.   Um 849 þúsund tonn af kynþroska loðnu mældust í fyrri yfirferðinni og mæliskekkja var metin 0.38 sem er mesta mæliskekkja sem sést hefur frá því að aflaregla var tekin upp árið 2015. Í síðari yfirferðinni mældust um 759 þúsund tonn og mæliskekkjan metin 0.18.   Þar sem ekki er marktækur munur á niðurstöðum allra þessara mælinga voru þær notaðar saman til framreikninga og ákvörðunar aflamarks samkvæmt aflareglu.   Gildandi aflaregla byggir á því að skilja eftir 150 þúsund tonn til hrygningar með 95% líkum. Tekur aflareglan tillit til óvissumats í mælingunum, vaxtar og náttúrulegrar dánartölu loðnu, auk þess sem afrán þorsks, ýsu og ufsa á loðnu er metið. Samkvæmt samantekt endurtekinna bergmálsmælinga er metið að hrygningarstofn loðnu hafi verið 849 000 tonn hinn 15. janúar. Þá er tekið tillit til þess afla sem hafði veiðst þegar mælingar voru gerðar. Í samræmi við ofangreinda aflareglu verður heildaraflamark á vertíðinni 2017/2018 því 285 þúsund tonn, eða 77 þúsund tonnum hærra en ákvarðað var í október síðastliðnum.  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Greinar >>

„Í stað þess að axla ábyrgð á eigin mistökum er nú reynt að finna sök hjá öðrum“

Í gær sendi fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins í Vestmananeyjum frá sér ályktun þess efnis að ráðið gæti ekki litið á Pál Magnússon sem trúnaðarmann flokksins og lýstu yfir fullu vantrausti. Eyjafréttir höfðu samband við Pál og spurðu hann um hver hans viðbrögð væru við þessum fregnum. „Ástæðan fyrir því að ég hélt mig til hlés í kosningabaráttunni í Vestmannaeyjum var sú að þannig taldi ég mig best gæta heildarhagsmuna Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi öllu. Þetta gerði ég að mjög vel yfirveguðu ráði og eftir ráðfærslu við bestu og reyndustu menn. Eftir að flokkurinn klofnaði í Eyjum var ljóst að mjög stór hluti hans myndi fylgja hinu nýja framboði að málum. Reyndin varð sú að líklega gengu 30-40% af fylgjendum Sjálfstæðisflokksins til liðs við Heimaeyjarlistann. Ég leit og lít enn á það sem skyldu mína sem oddvita flokksins í kjördæminu að laða þetta fólk aftur til fylgis við Sjálfstæðisflokkinn. Ég geri svo sem ekki mikið með þessi fremur vanstilltu viðbrögð í Ásgarði í gærkvöldi. Flokkurinn klofnaði í herðar niður hér í Eyjum og tapaði öruggum meirihluta . Í stað þess að axla ábyrgð á eigin mistökum er nú reynt að finna sök hjá öðrum. Það er út af fyrir sig mannlegt en aðalatriðið er að finna leiðir til sátta þegar sjatnar í örvæntingunni og reiðinni,“ sagði Páll  

VefTíví >>

Baráttukveðjur frá ÍBV til Heimis og peyjana

Ungir sem aldnir ÍBV-arar söfnuðust saman á Hásteinsvelli á fimmtudaginn sl. og tóku upp skemmtilega kveðju. „Við fengum þá frábæru hugmynd að reyna að fá ÍBV-ara til að mæta í stúkuna og senda kveðju úr okkar fallega umhverfi á Heimi og peyjana hans í Rússlandi,“ sagði Dóra Björk Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags. „Ég veit ekki hvort fólk hér í Eyjum geri sér grein fyrir allri þeirra umfjöllun sem samfélagið okkar og félagið fær út á Heimi og árangur hans, saman ber t.d. umfjöllun CNN í gær.“  „Þeir sem þekkja Heimi vita að Ystiklettur er staðurinn hans hér sem og öll okkar fallega náttúra og ákváðum við að setja saman myndband þar sem að náttúran sem hann sækir sína orku í er aðalatriðið.   ÍBV á Heimi mikið að þakka en hann hefur þjálfað marga af okkur bestu leikmönnum í fótboltanum á einn eða annan hátt. Það eru aðeins 10 ár síðan hann var með 5. flokk ÍBV á N1 mótinu á Akureyri en núna er hann með bestu fótboltamenn Íslands á HM í fótbolta,“ sagði Dóra Björk sem sendir ásamt ÍBV og Eyjamönnum öllum Heimi baráttukveðjur, „Kæru ÍBV-arar Heimir, Íris, Hallgrímur og Kristófer við erum stolt af ykkur og hlökkum til að fá ykkur aftur heim.“   Myndbandskveðjuna sem unnin er í samvinnu við Off to Iceland má sjá í spilaranum hér að ofan.