Íslenska sjávarútvegssýningin hefst á fimmtudaginn

Íslenska sjávarútvegssýningin hefst á fimmtudaginn

Ráðstefna Íslensku sjávarútvegssýningarinnar 2017, Fiskúrgangur skilar hagnaði (Fish Waste for Profit) hefst á fimmtudaginn 14. september, en þetta er í annað skipti sem hún er haldin.
 
Ráðstefnan er helguð endur- og fullvinnslu fiskúrgangs, en þar eru Íslendingar framarlega í flokki um margt og hefur þróunar- og frumkvöðlastarf þeirra vakið ríkulega athygli víða um heim.
 
Þannig má nefna í umfjöllun CBC News fyrr á þessu ári nefndu kanadískir sérfræðingar á þessu sviði Ísland sem sérstaka fyrirmynd þróunarstarfs á þessum vettvangi, og þeirrar hugarfarsbreytingar sem er að verða varðandi hagnýtingu fisksins í heild sinni til framleiðslu vörutegunda fyrir tískuiðnaðinn, snyrtivöruiðnaðinn, lyfjaiðnaðinn og matvælaiðnaðinn, svo eitthvað sé nefnt. Markmiðið er að ná fullum virðisauka úr öllu sjávarfangi.
 
Á meðal ræðumanna á Fish Waste for Profit-ráðstefnu IceFish má nefna forsvarsmenn nokkurra af helstu frumkvöðlafyrirtækjum hérlendis á sviði endurnýtingar fiskúrgangs í þágu m.a. lyfjaþróunar, fæðubótaefna og snyrtivöruiðnaðarins.
 
Á seinustu árum hefur líftækninni verið beitt með hugkvæmni til að nýta betur hráefni sem áður var kastað á glæ eða lítil verðmæti fengust úr, til að framleiða hágæða vörur með mikla möguleika á alþjóðamarkaði.
 
 

Vinnslustöðin kaupir Útgerðarfélagið Glófaxa ehf.

Vinnslustöðin hf. hefur eignast öll hlutabréfin í Útgerðarfélaginu Glófaxa ehf. í Vestmannaeyjum og tekur við félaginu 1. september 2017. Kaupsamningurinn var undirritaður með venjulegum fyrirvara um fjármögnun, samþykki stjórnar VSV og samþykki Samkeppniseftirlits. Kaupverðið er trúnaðarmál.   Þetta kemur fram á vef Vinnslustöðvarinnar, vsv.is. Útgerðarfélagið Glófaxi gerir út tvo báta, nótaskipið Glófaxa VE-300 og línu- og netabátinn Glófaxa II VE-301. Seljendurnir, Bergvin Oddsson og fjölskylda hans, halda eftir Glófaxa II og 50 þorskígildistonnum og stunda útgerð áfram.   Bergvin Oddsson, Hrafn Oddsson og Sævaldur Elíasson keyptu Glófaxa VE-300 á árinu 1974 og stofnuðu útgerðarfélagið Snæfell sf. um reksturinn. Bergvin keypti Hrafn og Sævald út 1986 og árið 1994 var nafni félagsins breytt í Útgerðarfélagið Glófaxi. Með samningi sínum um kaupin á Glófaxa ehf. eykur Vinnslustöðin heildaraflamark sitt um 800 þorskígildistonn.   Seljendur Glófaxa ehf. höfðu frumkvæði að viðræðum sem lyktaði með fyrirliggjandi kaupsamningi, segir Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar: „Bergvin Oddsson og fjölskylda hans buðu okkur forkaupsrétt að félaginu með tilheyrandi aflaheimildum og skipi. Með því var okkur sýnt traust og trúnaður sem við erum fjölskyldunni afar þakklát fyrir. Það er beinlínis yfirlýst stefna Vinnslustöðvarinnar að halda aflaheimildum í byggðarlaginu svo sem kostur er. Viðhorf okkar og seljendanna fara saman að þessu leyti og eru í samræmi við hagsmuni byggðarinnar og atvinnulífsins í Vestmannaeyjum.“      

Máli Brims gegn Vinnslustöðinni vísað frá dómi

Héraðsdómur Suðurlands vísaði í dag frá máli sem Brim hf. höfðaði gegn Vinnslustöðinni til ómerkingar stjórnarkjöri á aðalfundi og hluthafafundi VSV á árinu 2016. Málskostnaður fellur niður.   Brim, sem á tæplega 33% hlut í Vinnslustöðinni, krafðist þess í fyrsta lagi að ómerkt yrði kjör Einars Þórs Sverrissonar; Guðmundar Arnar Gunnarssonar, Ingvars Eyfjörð; Írisar Róbertsdóttur og Rutar Haraldsdóttur í stjórn og kjör Eyjólfs Guðjónssonar og Guðmundu Bjarnadóttur í varastjórn, sem fram fór á hluthafafundi VSV 31. ágúst 2016.   Í öðru lagi að ómerkt kjör Einars Þórs Sverrissonar; Guðmundar Arnar Gunnarssonar; Ingvars Eyfjörð; Írisar Róbertsdóttur og Rutar Haraldsdóttur í stjórn og kjör Eyjólfs Guðjónssonar og Guðmundu Bjarnadóttur í varastjórn, sem fram fór á aðalfundi stefnda þann 6. júlí 2016.   Í þriðja lagi að staðfest yrði með dómi að eftirtalin hefðu verið verið réttkjörin í stjórn og varastjórn félagsins á aðalfundi félagsins þann 6. júlí 2016.   Í stjórn:   Guðmundur Kristjánsson Ingvar Eyfjörð Íris Róbertsdóttir Rut Haraldsdóttir.   Í varastjórn:   Hjálmar Kristjánsson Guðmunda Bjarnadóttir.   Þá var og þess krafist að viðurkennt yrði með dómi að VSV bæri skylda til að boða til framhaldsfundar til að varpa hlutkesti um það hvort Einar Þór Sverrisson eða Guðmundur Örn Gunnarsson taki sæti í stjórn félagsins ásamt áðurnefndum aðilum.   Nánar á vsv.is   Myndin er af aðalfundi félagsins.

Guðmundur Kristjánsson - Hvers vegna vildum við rannsókn?

 Viðbrögð við viðtali við framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum Sigurgeir Kristgeirsson í Viðskiptablaðinu 12.apríl 2017 og vegna niðurstöðu Atvinnuvega‐ og nýsköpunarráðuneytisins um minnihlutavernd. Hafnað er rógburði framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar hf. og viljum vegna þess koma athugasemdum okkar á framfæri á málefnalegan hátt.   Forsaga rannsóknarbeiðni á starfshætti meirihluta hlutafjáreigenda Vinnslutöðvarinnar hf.   Upphaf málsins má rekja til ársins 2011, þegar meirihluti eigenda VSV kom því til leiðar að þynna út eignarhlut aðila tegndum Brimi hf. með því að virkja atkvæðarétt eigin bréfa VSV. Þessi meirihluti er leiddur af framkvæmdastjóra Seilar ehf sem er Sigurgeir Kristgeirsson en hann er stór hluthafi í Seil ehf. og jafnframt framkvæmdastjóri VSV. Með því móti tókst meirihlutanum í krafti leynilegs hluthafasamkomulags að þvinga fram aukinn meirihluta, eða 67% atkvæðavægi sem þurfti til að samþykkja samruna VSV og Ufsabergs útgerðar ehf. (UÚ) Slíkur meirihluti var ekki til staðar fyrir sölu eiginbréfa VSV til aðila innan hins leynilega hluthafasamkomulags.   Þannig var samþykkt á hluthafafundi 10.05.2011 að selja 2,5% hlut í VSV til eigenda UÚ en þeir höfðu þá skömmu áður gerst aðilar að hinu leynilega hluthafasamkomulagi. Seil ehf. keypti svo þessi sömu hlutbréf á sama undirverði og þau voru afhent eigendum UÚ. Hæstiréttur Íslands dæmdi sölu eigin bréfa félagsins til eigenda UÚ ólöglega með dómi 585/2012 enda tilgangurinn með sölunni fyrst og fremst að þynna út lögbundinn rétt aðila, tengdum Brim og skapa Seil ehf. fjárhagslegan ávinning, en í dómi Hæstaréttar segir:   „Hæstiréttur taldi að líta yrði svo á að samningur V hf [Vinnslustöðvar] . við U ehf [Ufsaberg]. 10. maí 2011 hefði engan annan tilgang haft en þann að virkja atkvæðisrétt eigin hluta í V hf. og sniðganga þannig það jafnræði og um leið atkvæðavægi sem 3. mgr. 82. gr. laga nr. 2/1995 væri ætlað að tryggja hluthöfum.”   Þá segir jafnframt í dómnum: “Þetta sýnir að samningurinn var í raun hluti af samkomulagi aðila hans um samruna félaganna og verður ekki séð að hann hafi haft neinn sjálfstæðan tilgang, sem ekki hefði í öllum atriðum verið náð með eðlilegum hætti við samruna félaganna, annan en þann að virkja atkvæðisrétt eigin hluta stefnda.”   Í kjölfari dómsins gerði meirihlutinn og eigendur UÚ viðauka við kaupsamninginn þar sem dómur Hæstaréttar var sniðgenginn með því að fella út skilyrði kaupsamnigsins. Hæstiréttur samþykkti með ótrúlegum hætti þessa útfærslu meirihlutans þrátt fyrir að umrædd bréf væru kominn í hendur Seil ehf. á sama undirverði og þau voru seld til eigenda UÚ. Þar með var ljóst að eigin bréf VSV voru kominn í hendur Seilar ehf og brotið fullframið. Eftir að fyrri dómur féll í Hæstarétti gerði Stilla/Brim tilboð í umræddan 2,5% hlut VSV fyrir 587 milljónir króna en hluthafafundur VSV hafnaði þessu kauptilboði í krafti hins leynilega hluthafasamkomulags og framkvæmdi í staðinn söluna til eigenda UÚ á 2,5% af eigin bréfum fyrir 441,6 milljónir króna. Eigendur UÚ seldu svo Seil ehf bréfin áfram á þessu sama verði og þannig varð VSV af 145 milljónum króna.   Í okkar huga var hið raunverulega samkomulag við eigendur UÚ að þeir fengju hátt verð fyrir eignina sína borgað með eigin bréfum VSV á undirverði og þau yrðu svo seld til Seilar ehf. á sama undirverðinu. Þetta var það sem rannsóknarbeiðni Brims laut að.   Beiðni til ANR   Á aðalfundi VSV þann 2.6.15 var samþykkt tillaga:   „Að skipaðir verði rannsóknarmenn með vísan til 97. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995, til að rannsaka eftirfarandi atriði í starfsemi félagsins: Meðferð eigin fjár Vinnslustöðvarinnar hf. í tengslum við samruna félagsins við Ufsabergútgerð ehf. Nánar tiltekið afhending hlutafjár í eigu félagsins til eigenda Ufsasbergs‐útgerðar ehf. Að rannsakað verði sérstaklega verðmat á eignum í viðskiptinum, einnig og hvort hagsmunir félagsins hafi verið fyrir borð bornir. Einnig með hliðsjón af tengslum aðila í gegnum svonefnt hluthafasamkomulag mili stórra hluthafa og stjórnenda í félaginu hvort samruninn og afhending eigin bréfa félagsins hafi verið til þess fallið að afla ákveðnum hluthöfum ótilhlýðilegra hagsmuna.“   Sérstakur endurskoðandi VSV skipaður af RSK, Grant Thornton lýsir því yfir eins og segir í niðurstöðubréfi ANR frá 4.4.2017, S liður: „...endurskoðunarfyrirtækið hafi orðið þess vart í störfum sínum við endurskoðun ársreikninga Vinnslustöðvarinnar hf. að komið hafi upp áleitnar spurningar um verð í viðskiptum í tengslum við samrunann sem um ræðir í málinu...“ og „...sjái ekkert því til fyrirstöðu að rannsókn fari fram.“   Þá segir í bréfi Grant Thornton til ANR í tilefni að endurupptökubeiðninni: “Hluti af rannsóknarefni því sem hér er til umfjöllunar er þannig út fyrir umfang endurskoðnunarvinnu okkar og hefur því ekki komið til álita í okkar vinnu. Við viljum þó taka fram að við störf okkar sem skipaðir endurskoðendur hjá Vinnslustöðinni hafa komið fram áleitnar spurningar um verð í viðskiptum í tengslum við samrunann, kaupum í Ufsaberg‐útgerð ehf. árið 2008, viðskiptum milli hluthafa og meðferð minnihluta hluthafa. Í áðurnefndu svarbréfi okkar til ráðuneytisins frá 8. september 2015 gerðum við ekki athugasemdir við tilnefningu rannsóknarmanna í máli þessu og teljum enn að slík rannsókn sé gagnleg. Vegna fyrirhugaðrar endurupptökubeiðni er sú skoðun okkar ítrekuð og með vísan til framangreinds getum við mælt með að slík rannsókn fari fram.”   Niðurstaða Atvinnuvega‐ og nýsköpunarráðuneytisins (ANR)   Í niðurstöðu ANR er beiðni Brims hafnað án málefnalegs rökstuðnings en í 97. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög segir m.a. að:   “Hljóti tillagan fylgi hluthafahóps sem ræður yfir minnst 1/10 hlutafjársins getur hluthafi í síðasta lagi einum mánuði frá lokum fundarins farið þess á leit við ráðherra að hann tilnefni rannsóknarmenn. Tilmælin skal taka til greina, svo framarlega sem ráðherra telur nægilegar ástæður til þeirra.” Þar sem ANR og ráðherra hefur látið hjá líðast að rökstyðja með nokkru móti niðurstöðu sína mun Brim hf. láta á það reyna fyrir dómsstólum hvort sú minnihlutavernd sem tryggð eru í 97. gr hlutafjárlaga sé virk.     Að lokum   Varðandi fullyrðingar Sigurgeirs í viðtali við Viðskiptablaðsins í dag þar sem hann vegur að æru minni og ræðir allt annað en aðalatriði málsins þá eru þær fullyrðingar ekki svara verðar.   Virðingafyllst fh Brims hf Guðmundur Kristjánsson, forstjóri.    

Aðalfundur VSV - Afkoman sú næstbesta frá upphafi

Hagnaður VSV-samstæðunnar nam tæplega 12,4 milljónum evra á árinu 2016 en var tæplega 10 milljónir evra árið áður. Þetta kom fram á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar hf. í dag. Rekstur og starfsemi Vinnslustöðvarinnar gekk vel 2016. Afkoman félagsins var sú æstbesta frá upphafi. Framlegð samstæðunnar (EBITDA) var 20,4 milljónir evra, nánast hin sama og 2015. Eigið fé jókst um 9% og eiginfjárhlutfall er nú 38%.   Fjárfestingar voru miklar á árinu. Nýtt uppsjávarvinnsluhús var tekið í notkun, nýr togari er í smíðum í Kína og skip voru seld og keypt. Framkvæmdakostnaður var 18,4 milljónir evra, að frádregnu söluverði skipa. Leiðarljósið er að láta byggðina í Vestmannaeyjum njóta góðs af arðsömum rekstri og fjárfestingum VSV og styrkja þannig stoðir samfélagsins heima fyrir. Þrátt fyrir miklar fjárfestingarnar minnkuðu heildarskuldir og skuldbindingar VSV um 3% vegna þess að handbært fé frá fyrri árum var notað til að takast á við nýfjárfestingarnar. Handbært fé dróst að sama skapi saman í reikningum félagsins eða um ríflega 60%.   VSV tók engin langtímalán á árinu en greiddi 12,4 milljón evrur af langtímaskuldum sínum. Aðalfundurinn samþykkti að greiða hluthöfum 8 milljónir evra í arð, sem svarar til 5% af áætluðu markaðsvirði hlutafjár. Þetta er fjórða árið í röð sem hluthafar VSV ákveða að greiða sér arð upp á 8 milljónir evra.   Guðmundur Kristjánsson í stjórn   Fjórir stjórnarmenn fimm voru endurkjörnir á aðalfundinum: Einar Þór Sverrisson, Guðmundur Örn Gunnarsson, Íris Róbertsdóttir og Rut Haraldsdóttir. Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims var kjörinn í stjórn í stað Ingvars Eyfjörð. Í varastjórn voru kjörnir Eyjólfur Guðjónsson og Hjálmar Kristjánsson en þriðji frambjóðandinn til varastjórnar, Guðmunda Bjarnadóttir, fór inn í varastjórn á kynjakvóta og var því endurkjörin líkt og Eyjólfur.      Mynd VSV: Atkvæðagreiðsla í stjórnarkjöri á aðalfundinum.   Af vef Vinnslustöðvarinnar - vsv.is.

Fjölmenni í afmæliskaffi Vinnslustöðvarinnar :: Bók í tilefni afmælisins

 Um hundrað manns mættu í afmæliskaffi Vinnslustöðvarinnar í Akóges á föstudaginn, 30. desember til að fagna sjötugsafmæli félagsins og útkomu bókar af því tilefni, Sjötug og síung Vinnslustöðin 1946 til 2016, sem gestir fengu afhenta í lok veislunnar. Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, Binni framkvæmdastjóri sagði frá aðdraganda bókarinnar um Vinnslustöðina í tilefni afmælisins nú. Hann sagðist fyrst og fremst hafa viljað skrá sögu fólksins sem starfaði og starfar í fyrirtækinu og varðveita minningar þess. Fyrirtækið sjálft kunni að vera eilíft en mennirnir ekki og því sé skráning sögu að þessu leyti alltaf kapphlaup við tímann. Það að halda vel utan um söguna geti orðið til hjálpar og kennt margt, til dæmis að draga ályktanir af því sem gert var og ákveðið í fortíðinni til þess að læra af því sem vel tókst og endurtaka ekki mistök úr fortíðinni. Binni vísaði til stefnuyfirlýsingar útvegsmannanna sem stofnuðu Vinnslu- og sölumiðstöð fiskframleiðenda - síðar Vinnslustöðina - fyrr sjötíu árum þar sem þeir kváðust „sameinast um fiskvinnslu til hagsbóta fyrir sig og byggðarlagið“. Sú yfirlýsing væri í raun í fullu gildi enn þann dag í dag.     Sjötug og síung   Bókarhöfundurinn, Atli Rúnar Halldórsson, kynnti verkefnið og las upp úr bókinni ásamt Hermanni Kr. Jónssyni og Þór Vilhjálmssyni sem aðstoðuðu við að afla upplýsinga og heimildarmanna fyrir bókarskrifin. Atli Rúnar þakkaði sömuleiðis Sigurgeiri Jónassyni fyrir ljósmyndir úr safni hans sem birtast í bókinni. „Það er hægt að segja sögur fólks og félaga á ýmsa vegu. Hér var valin sú leið að bregða upp svipmyndum af Vinnslustöðinni sem vinnustað í blíðu og stríðu og styðjast við minningarbrot og ummæli fólks sem starfaði þar áður eða starfar þar enn“ sagði Atli Rúnar um aðferðafræði söguskrifanna. „Svo er stiklað á stóru í sjötíu ára sögu. Við byggðum á efnisramma og aðferðafræði sem stuðst var við í afmælisriti sem búið var og dreift í hvert hús hér í bæ í tilefni sexugsafmælis VSV, en fórum lengra með þá hugmynd og sökktum okkur dýpra í viðfangsefnið. Það hefði verið hægt að taka annan pól í hæðina, búa til dæmis til myndaalbúm um fólkið og Vinnslustöðina – nóg er til af hráefni í slíkt albúm frá Sigurgeiri Jónassyni, Adda í London og fleirum. Við hefðum líka getað haft að leiðarljósi að fjalla um Vinnslustöðina sem hluta af samfélaginu í Vestmannaeyjum og sýnt fram á með dæmum hvaða áhrif það hefur ef Vinnslustöðinni líður ekki vel og vegnar illa og svo hvaða áhrif það hefur á samfélagið þegar félaginu vegnar vel og því líður vel. Við sjáum til dæmis skarpar andstæður að þessu leyti í sögu félagsins bara á síðustu tveimur áratugum eða svo. Enn einn möguleika má nefna og hann er sá að skrifa aðallega átakasögu VSV. Þá er ég ekki bara að vísa til reiptogsins í hluthafahópi félagsins á allra síðustu árum. Það hefur oft gengið miklu meira á í félaginu og í kringum það. Strax árið 1952 var til dæmis ákveðið í forystu Vinnslu- og sölumiðstöðvar fiskframleiðenda að víkja einum stofnanda félagsins og stjórnarmanni fyrstu árin úr félaginu fyrir að halda rekstrarlega fram hjá félaginu með því að leggja afla sinn inn annars staðar. Það var brot á félagssamþykktum. Sá brottrekni sætti sig ekki við þessa niðurstöðu og niðurstaðan varð sú að hann var áfram í félaginu.“ Unnið af vsv.is   Vel heppnað og gott framtak   Um bókina er það að segja að hún er bráðskemmtileg, þar sem myndir og texti koma sögunni vel til skila. Hún er vel sett upp og kryddið er sögur fólksins sem þarna hefur unnið og vinnur enn. Gott framtak hjá Vinnslustöðinni og faglega unnið eins og við má búast úr hendi Atla Rúnars.  

Fulltrúar ferðaþjónustunnar í Vestmannaeyjum taka undir að rekstri Herjólfs sé best borgið í höndum sveitafélagsins

Fulltrúar ferðaþjónustunnar í Vestmannaeyjum taka heilshugar undir bókun bæjarstjórnar þess efns að rekstri Herjólfs sé best borgið í höndum sveitafélagsins:     „Bæjarstjórn Vestmannaeyja benti á að hagkvæmast sé fyrir ríkið að láta smíða ferju og semja svo sérstaklega um rekstur hennar. Vestmannaeyjabær lítur á rekstur Herjólfs sem hornstein að innigerð samfélagsins í Vestmannaeyjum. Í raun og veru er ekki nokkur munur á rekstri Herjólfs og rekstri annara kafla vegakerfis Íslendinga. Bæjarstjórn telur því brýnt að rekstur Herjólfs verði ætíð séður sem hluti af þjóðvegakerfi Íslendinga og gjaldtöku og þjónustu verði að hagað í samræmi við þá skilgreiningu.Þá bendir bæjarstjórn á að í fjölmörgum tilvikum hefur rekstur fjölbreyttra málaflokka í nærþjónustu svo sem málefni fatlaðra, rekstur grunnskóla og rekstur heilsugæslu verið fluttur frá ríki til sveitarfélags ýmist með almennum hætti eða sértækum samningum. Slíkt er gert til að tryggja hagsmuni nærsamfélagsins, bæta þjónustu og auka hagkvæmni. Með þetta í huga samþykkir bæjarstjórn Vestmannaeyja að fela bæjarstjóra að rita innanríkisráðherra bréf og óska þar eftir því að samið verði beint um rekstur ferjunnar við Vestmannaeyjabæ.“     Með því að fá rekstur Herjólfs til sveitafélagsins verður mun auðveldara að sníða hann að þörfum vaxandi ferðaþjónustu, sem og samfélagsins alls hverju sinni. Fulltrúar ferðaþjónustunnar fagna því að bæjarstjóri ætli að hafa forgöngu um þetta mikla hagsmunamál Vestmannaeyjabæjar.  

Hættu við að taka á móti mönnum Vegagerðarinnar vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju

Norska skipasmíðafyrirtækið Fiskerstrand hætti snarlega við að taka á móti mönnum Vegagerðarinnar sem voru á leið til Noregs í morgun til að ganga frá samningum um smíði nýrrar Vestmannaeyjarferju. Fyrirtækið gaf engar skýringar á sinnaskiptum sínum. Nú verður gengið til samninga við þá sem áttu næst lægsta tilboðið en það er ríflega 640 milljón krónum hærra. ruv.is greindi frá.     Menn Vegagerðarinnar áttu bókað flug til Noregs í morgun til að ganga frá samningnum við Fiskerstrand sem átti lægsta tilboðið í smíði nýrrar ferju sem sigla á milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja. Tilboðið hljóðaði uppá 2,8 milljarða króna. Þeir þurftu hins vegar skyndilega að hætta við ferðina.   G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar: „Við ætluðum að fara að semja við lægstbjóðanda í smíði ferjunnar en þá komu bara skilaboð um það í morgun að þeir væru hættir við tilboðið.“   Fréttamaður: „Kom þetta ykkar mönnum á óvart?“   „Já þetta kom á óvart en það er nú þannig í þessum útboðsbransa að það gerist ýmislegt og það er ekkert óvanalegt að það sé hætt við tilboð. En það er náttúrulega ekki gott því menn leggja auðvita fram bindandi tilboð þannig að við verðum að skoða það í þessu tilviki en auðvita getur eitthvað komið uppá menn hafa kannski gert einhver mistök eða vitleysu og sjá svo að þetta er vonlaust en ég veit ekki hvort það er í þessu tilviki en menn verða bara að skoða það. Það er ekkert í skilaboðunum um það en Ríkiskaup fara nú yfir og skoða það mál.“   Næsta mál á dagskrá er því að leita til þeirra sem áttu næst lægsta tilboðið í smíði nýrrar ferju.   „Það er pólkst skipasmíðafyrirtæki og þeir voru líka með ágætis tilboð og vænlegt.“   Það tilboð er þó 645 milljón krónum hærra.  

Bjart framundan í íslenskum sjávarútvegi

Mikil uppsveifla hefur átt sér stað í íslenskum sjávarútvegi sem sást vel á Íslensku sjávarútvegssýningunni sem haldin var í Laugardalshöllinni í síðustu viku.   Verslunin Eyjavík, sem selur margvíslegan búnað fyrir sjómenn, var meðal fyrirtækja á sýningunni. Gréta Hólmfríður Grétarsdóttir var mjög ánægð með sýninguna og sagði hana vel heppnaða. „Þarna fengu minni fyrirtæki að kynna sig og komust færri að en vildu,“ sagði Gréta. Íslendingar stóðu fyrir sýningunni í fyrsta skipti sem henni fannst vera stór plús. „Á svona sýningu hitti ég rétta fólkið sem eru sjómenn og þetta skilar sér vel eftir á, vonandi er þetta komið til að vera því það var rosalega vel að þessu staðið,“ sagði Gréta.   Nemendur úr haftengdri nýsköpun voru meðal sýningargesta í ár. Þau voru öll sammála um að þetta hafi verið skemmtilegt, viðburðaríkt og fræðandi. Það sem kom þeim skemmtilega á óvart var hversu mikið fyrirtæki nýta sér reynslu sjómanna við nýsköpun, sem dæmi þá er Birgir Þór Sverrisson skipstjóri að vinna við að þróa hlera með fyrirtæki sem var að kynna á sýningunni. Vinnslustöðin styrkti nemendurna í þessari ferð og Eimskip bauð þeim í Herjólf. Nemendurnir fóru alla dagana í vísindaferðir, en þau heimsóttu Marel, Hampiðjuna, SFS og einnig sóttu þau málþing hjá Arion banka.   Friðrik Ingvar Alfreðsson tók myndir á sýningunni sem fylgja þessari frétt.    

Fulltrúi í samgönguhóp

Ráðleggur meiri veiði á NÍ-íslensku síldinni, makríl og kolmunna

Í fréttatilkynningu frá Hafrannsóknastofnun eru kynntar ráleggingar Alþjóðahafrannsóknaráðsins sem veitir ráð um aflamark deilistofna. Nýlokið er fundi ráðgjafarnefndar Alþjóðahafrannsóknaráðsins þar sem m.a. var veitt ráðgjöf um heildarafla norsk-íslenskrar vorgotssíldar, kolmunna, makríls og úthafskarfa í Norðaustur-Atlantshafi fyrir árið 2017. Íslendingar stunda umtalsverðar veiðar úr þeim stofnum. Ráðið leggur til aukna veiði á næsta ári í norsk-íslensku síldinni, makríl og kolmunna en telur ástand úthafskarfans vera mjög alvarlegt.     Norsk-íslensk vorgotssíld Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) ráðleggur í samræmi við samþykkta aflareglu strandríkja að afli ársins 2017 verði ekki meiri en 646 þúsund tonn sem er 104% aukning frá ráðlögðum afla fyrir árið 2016. Hrygningarstofninn hefur farið minnkandi síðan 2009. Það ár var hann í hámarki vegna fjögurra stórra árganga frá árabilinu 1998-2004. Léleg nýliðun síðan 2004 er megin skýringin á minnkandi stofnstærð. Þótt ennþá sé nokkur óvissa um stærð árganga eftir 2012 er fátt sem bendir til þess að stór árgangur gangi inn í veiðistofninn á næstu árum. Samkvæmt stofnmatinu í ár er hrygningarstofninn árið 2015 nú talinn hafa verið þriðjungi stærri en mat síðasta árs benti til. Minnkun stofnsins á undanförnum árum hafi því verið hægari en áður var metið. Eins er stofninn í upphafi árs 2017 metinn tæplega 40% stærri en í fyrri úttekt. Hærra mat nú skýrist aðallega af háum stofnvísitölum frá leiðangri á hrygningarslóð við Noreg árin 2015 og 2016. Þessi mikla aukning í ráðlögðum afla milli áranna 2016 og 2017 skýrist af tvennu, af því að stofninn er metinn stærri en áður en einnig af hærra veiðihlutfalli samkvæmt aflareglu. Í aflareglunni er veiðidánartalan (F) 0.125 þegar stofninn er metinn yfir aðgerðarmörkum (Btrigger=5 milljón tonn) en lægri þegar stofninn er metinn undir þeim mörkum. Í ár er hrygningarstofninn metinn rétt undir 5 milljónum tonna og samkvæmt því er ráðgjöfin byggð á því að veiðidánartalan verði 0.124 og aflinn samkvæmt því 646 þúsund tonn. Í mati ársins í fyrra var stofninn metinn um 4 milljónir tonna, eða 28% undir viðmiðunarmörkum og ráðlagður afli (317 þúsund tonn) byggður á að veiðidánartalan yrði 0.083. Aflamark árið 2016 var 317 þúsund tonn samkvæmt ráðgjöf ICES, en ekki náðist samstaða strandríkja um skiptingu aflaheimilda og er gert ráð fyrir að aflinn verði 377 þúsund tonn. Íslenskum skipum var úthlutað 46 þúsund tonnum fyrir árið 2016 samkvæmt ákvörðun stjórnvalda.     Kolmunni ICES leggur til að kolmunnaafli ársins 2017 verði innan við 1342 þúsund tonn. Ráðgjöfin miðar við þá veiðidánartölu (Fmsy) sem gefur hámarksafrakstur til lengri tíma litið. Hrygningarstofn kolmunna hefur stækkað frá árinu 2010 og er ofan við aðgerðarmörk (MSY Btrigger = 2,25 milljón tonn). Nýliðun er metin yfir meðallagi en með mikilli óvissu. Ráðgjöfin fyrir árið 2017 er umtalsvert hærri en hún var fyrir árið 2016 (776 þúsund tonn). Þetta er aðallega vegna hærra mats á árgöngum 2013 og 2014 í stofnmati ársins 2016 heldur en árið 2015. Stofnmat er einnig mjög viðkvæmt fyrir mati á aldursgreindum vísitölum nýjasta leiðangurs, en þær voru mun hærri árið 2016 en árið 2015. Ennfremur voru gátmörk endurreiknuð og hækkaði FMSY frá 0.3 í 0.32, en ráðgjöf byggist á FMSY. Hrygningarstofninn er nú metinn um 5 milljónir tonna og samkvæmt matinu mun stofninn áfram vaxa nema veiðar verði verulega umfram ráðgjöf. Aflareglan, sem var samþykkt árið 2008, er fallin úr gildi. Ekki hefur enn náðst samkomulag milli þeirra þjóða sem stunda veiðar úr stofninum um skiptingu, en áætlað er að heildaraflinn í ár verði tæp 1,150 milljón tonn, þar af afli íslenskra skipa um 164 þúsund tonn.       Makríll ICES ráðleggur að afli ársins 2017 verði ekki meiri en 944 þúsund tonn. Er sú ráðgjöf í samræmi við nýtingarstefnu (FMSY) sem mun leiða til hámarks afraksturs til lengri tíma litið. Hrygningarstofninn hefur vaxið frá árinu 2006 og var metinn tæp 5 milljón tonn árið 2016. Fiskveiðidauði hefur farið lækkandi frá því um 2004 en er enn yfir þeim mörkum sem stefnt er að (FMSY=0.22). Síðustu 15 ár hafa komið fram fjórir sterkir árgangar (2002, 2006, 2011 og 2014) og eins eru allir árgangar eftir 2007 yfir meðalstærð ef undan er skilinn 2013 árgangurinn. Frá árinu 2006 hefur makríll gengið á Íslandsmið og í fjölþjóðlegum togleiðangri sumarið 2016 mældist meira en nokkru sinni áður af honum innan íslenskrar lögsögu. Ástæður þessa hafa verið tengdar stækkun stofnsins, hlýnun sjávar og fæðuframboði. Alþjóðlegur eggjaleiðangur sumarið 2016 sýndi norðlægari hrygningu en nokkru sinni fyrr. Þessir tveir leiðangrar gefa nokkuð misvísandi upplýsingar um þróun stofnsins. Eggjaleiðangurinn sýnir minnkun á stofnstærð síðan 2013 meðan togleiðangurinn sýnir aukningu, þannig að til samans benda þeir til lítillar breytingar í stofnstærð og sú aukning sem kemur fram stafar af upplýsingum úr aldurssamsetningu aflans. Niðurstöður stofnmatsins undanfarin ár hafa verið sveiflukenndar og m.a. þess vegna er fyrirhugaður rýnifundur um stofnmat makríls veturinn 2017. Ráðgjöf ICES um aflamark í makríl fyrir árið 2016 var að aflinn yrði ekki meiri en 667 þúsund tonn en sú ráðgjöf var endurskoðuð fyrr í þessum mánuði og hækkuð í 774 þúsund tonn. Ekki hefur náðst samkomulag milli þeirra þjóða sem stunda veiðar úr makrílstofninum um skiptingu aflans með þeim afleiðingum að veitt hefur verið langt umfram ráðgjöf ICES. ICES gerir ráð fyrir því að heildaraflinn árið 2016 verði um 1,05 milljón tonn. Aflaheimildir íslenskra skipa fyrir árið 2016 voru 152 þúsund tonn samkvæmt ákvörðun íslenskra stjórnvalda, auk þess sem óveitt var af aflamarki ársins 2015.       Úthafskarfi – neðri stofn ICES leggur til að engar veiðar verði stundaðar úr neðri stofni úthafskarfa á árunum 2017 og 2018. Ráðgjöfin miðar við þá veiðidánartölu (FMSY) sem gefur hámarksafrakstur til lengri tíma litið. Hrygningarstofninn hefur minnkað verulega frá því að veiðar úr neðri stofni úthafskarfa hófust í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Frá sama tíma hækkaði veiðidánartala mikið og hefur verið mjög há allt frá aldarmótum. Leiðangrar til að meta stærð stofnsins hafa verið farnir annað hvert ár frá árinu 1999, síðast árið 2015. Niðurstöður þessara leiðangra sýna að stofninn hefur minnkað mikið allt tímabilið. Grunnur ráðgjafar hefur á undandförnum árum byggst eingöngu á stofnvísitölum. Í þeirri ráðgjöf sem nú er kynnt er byggt á líkani sem nýtir m.a. gögn um lengdardreifingu og aldurssamsetningu í veiðum, auk þess að nota gögn úr ofangreindum leiðangri. Niðurstöðurnar eru að stofninn hefur minnkað jafnt og þétt allt frá því um 1995 og er nú langt undir varúðarmörkum (Blim). Jafnframt sýna framreikningar að þótt engar veiðar verði stundaðar næstu 2 árin muni stofninn áfram verða undir varúðarmörkum í lok þess tímabils. Ekki hefur verið samkomulag milli veiðiþjóða um skiptingu afla um langt skeið. Jafnframt hefur verið ágreiningur um stofngerð og telja Rússar að í Grænlandshafi sé einungis einn stofn og að ástandið sé mun skárra en ICES hefur talið. Hafa þeir því úthlutað veiðiheimildum til rússneskra skipa í samræmi við það og þær heimildir verið langt umfram ráðlagðan heildarafla. ICES hefur á undanförnum árum lagt til að engar veiðar yrðu stundaðar úr efri stofni úhafskarfa (sá sem veiðist á minna en 400 metra dýpi) þar sem ástand þess stofns versnaði mikið undir lok síðustu aldar og hefur stofninn mælst mjög lítill í leiðöngrum undanfarna 2 áratugi. Því er nú svo komið að ICES leggur til að engar karfaveiðar verði stundaðar í Grænlandshafi og nærliggjandi hafsvæðum.        

Fermeterinn í Vestmannaeyjumm kostar um 181.000 kr.

Langdýrustu fermetrana í íbúðarhúsnæði er að finna í Garðabæ og í póstnúmeri 101 í Reykjavík ef marka má íbúðir til sölu á fasteignavefjum landsins.Vestmannaeyjar koma í 8. sæti yfir hæðsta fasteignaverð í landinu. Visir.is greindi frá.   Staðan er skelfileg og þúsundir íbúða þarf inn á markaðinn til að anna eftirspurn, að mati framkvæmdastjóra Félags fasteignasala. Fréttablaðið kannaði ásett verð fasteigna sem eru um 70 til 120 fermetrar að stærð vítt og breitt um landið. Einstaklingar í dag sem eru á leið út á fasteignamarkaðinn eru í mörgum tilvikum að leita sér að íbúð á þessu stærðarbili.   Verðið er nokkuð mismunandi eftir því hvar íbúðirnar eru staðsettar. Einnig eru sum svæði að byggjast upp með mörgum nýjum íbúðum í dýrari kantinum.   „Það er virkilega erfitt fyrir ungt fólk að kaupa sína fyrstu eign. Fólk þarf að eiga fimm til sex milljónir til að komast inn á markaðinn og það er ekki gefið,“ segir Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala.   Grétar segir það óskemmtilega stöðu sem gæti þá komið upp að börn efnaðra foreldra séu þá þau einu sem geti eignast fasteign.   „Fólk sem á ákaflega lítið, nýkomið úr námi, þarf að reiða sig á foreldra eða aðra sem eiga nægilegt fé til að hjálpa. Það er staða sem margir standa frammi fyrir. Við erum að sjá að þeir sem eiga efnaða foreldra eru líklegri til að geta eignast fasteign,“ segir Grétar.   Gríðarlegur munur er á fasteignaverði á milli höfuðborgarsvæðisins og síðan landsbyggðanna. Til að mynda er fasteignaverð á Akureyri aðeins hálfdrættingur á við það sem gerist í borginni. Fasteignaverð lækkar síðan tiltölulega hratt þegar komið er í nágrannasveitarfélög höfuðborgarinnar.   Atvinnusóknarsvæði höfuð­borgar­­svæðisins hefur verið að stækka síðustu áratugina með bættum samgöngum. Er nú talað um að atvinnusóknarsvæðið nái um 45 mínútna akstursvegalengd frá Reykjavík. Því eru mörg dæmi um að einstaklingar sæki vinnu til borgarinnar þó þeir séu búsettir á Selfossi í austri eða nálægt Borgarnesi í norðri frá höfuðborgarsvæðinu.   „Þess vegna þarf það fólk, sem ekki á kost á að kaupa í höfuðborginni, að skoða það hvort búseta utan borgarinnar er möguleg, setjast yfir hvort það sé leiðin til að komast inn á fasteignamarkaðinn,“ segir Grétar.   Benedikt Sigurðarson, framkvæmdastjóri Búseta á Norðurlandi, segir að hátt fasteignaverð sé ekki einu vandkvæðin við íslenskan fasteignamarkað. Íslenskur leigumarkaður eigi langt í land með að vera sambærilegur við það sem þekkist í nágrannalöndum okkar.   „Almennur leigumarkaður hefur ekki verið til staðar á Íslandi að því leyti að séreignaráherslan hefur verið svo mikil. Þegar ég segi almennur leigumarkaður á ég við leigumarkað sem ekki er rekinn sem einhvers konar skammtímahagnaður eða gróðatækifæri fjárfesta,“ segir Benedikt.   Að sögn Benedikts hafa íbúðafélög neytenda átt erfitt með að fóta sig. Engin slík félög hafi fótað sig á leigumarkaði, einungis húsnæðissamvinnufélög sem lítið hlutfall hafi á markaði.   „Ekkert eftirlit er með leigumarkaði, engin skráning á starfseminni, ekkert aðhald hins opinbera og öfugt við Svíþjóð og Þýskaland til dæmis er ekkert neytendafélag til staðar til að skaffa neytendum íbúðir á sem lægstu verði,“ bætir Benedikt við.   Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu  

Ný stjórn VSV sjálfkjörin -Brimverjar ósáttir og setja fyrirvara

Ný stjórn Vinnslustöðvarinnar var sjálfkjörin á hluthafafundi sem stóð yfir í einungis átta mínútur í dag. Í henni sitja Guðmundur Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri ráðgjafarfyrirtækisins Takts, Einar Þór Sverrisson hæstaréttarlögmaður, Rut Haraldsdóttir framkvæmdastjóri hjá Vestmannaeyjabæ; Íris Róbertsdóttir kennari og Ingvar Eyfjörð, eigandi Álftavíkur ehf. Í varastjórn eru Eyjólfur Guðjónsson skipstjóri á Kap VE og Guðmunda Áslaug Bjarnadóttir fiskverkandi í Vestmannaeyjum.   Skipan stjórnar er því óbreytt frá því sem var í endurteknu stjórnarkjöri í félaginu á aðalfundi þess í júlí sl. Þá buðu líka Guðmundur og Hjálmar Kristjánssynir sig fram til stjórnar en drógu framboð sín til baka nú. Því var stjórnin sjálfkjörin.   Lögmaður Brims hf., sem á tæplega 33% í Vinnslustöðinni, lét bóka á hluthafafundinum í dag það álit félagsins að hið fyrra stjórnarkjör á aðalfundinum í júlí hefði verið löglegt og ætti að standa. Bókunin hljóðar svo í heild sinni:   Brim gerir fyrirvara um lögmæti hluthafafundarins og fyrirhugaðs stjórnarkjörs.   Brim telur að ekki hafi verið boðað til fundarins með réttum hætti enda hafi sú stjórn sem sat fyrir aðalfund félagsins þann 6. júlí sl. ekki heimild til að boða til hluthafafunda. Auk þess þurfi að liggja fyrir tillaga um að sitjandi stjórn félagsins sé vikið frá störfum áður en ný stjórn er kjörin, en þess er ekki getið í fundarboði.   Brim telur að boða hefði átt til hluthafafundar í því skyni að að klára stjórnarkjörið sem hafið var á aðalfundi félagsins þann 6. júlí sl. með því að varpa hlutkesti um það hvort Einar Þór Sverrisson eða Guðmundur Örn Gunnarsson taki sæti í stjórn Vinnslustöðvarinnar ásamt þeim Ingvari Eyfjörð, Guðmundi Kristjánssyni, Írisi Róbertsdóttur og Rut Haraldsdóttur, í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga nr. 2/1995 og samþykkta félagsins.   Þá telur Brim að ólögmætt sé að halda hluthafafund í félaginu og kjósa nýja stjórn á meðan að Hlutafélagskrá hefur lögmæti stjórnarkjörsins á aðalfundi félagsins þann 6. júlí sl. til umfjöllunar.   Af þessum sökum hafa Guðmundur Kristjánsson og Hjálmar Kristjánsson ákveðið að draga framboð sitt til stjórnar og varastjórnar félagsins til baka.   Brim áskilur sér allan rétt, þ. á m. rétt til að bera lögmæti og ákvarðanir fundarins undir dómstóla.“   Af VSV.is  

Lögbanns krafist á hluthafafund VSV

Brim hf., eigandi tæplega 33% í Vinnslustöðinni hf., fer fram á það við sýslumannsembættið í Vestmannaeyjum að lögbann verði lagt við því að haldinn verði boðaður hluthafafundur í VSV á miðvikudaginn kemur, 31. ágúst, til að kjósa félaginu nýja stjórn. Lögbannsbeiðnin verður tekin fyrir hjá sýslumanni í dag en niðurstöðu er ekki að vænta fyrr en síðdegis á morgun. En þetta kom fram á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.   Gunnar Sturluson hrl. fer með málið fyrir hönd gerðarbeiðanda, Brims, en Helgi Jóhannesson hrl. fyrir hönd gerðarþola, Vinnslustöðvarinnar.   Krafa um lögbann á rætur að rekja til deilna um stjórnarkjör á aðalfundi VSV 6. júlí 2016. Fundarstjóri úrskurðaði að stjórnarkjörið væri ólögmætt þegar í ljós kom að ekki höfðu öll atkvæði í fundarsal skilað sér til talningar og að störfum talningarnefndar aðalfundar hefði ekki verið lokið. Hann lét endurtaka kosninguna með nýjum kjörseðlum.   Gerðarbeiðendur telja að fyrri kosningin á aðalfundinum hafi verið lögmæt og eigi að standa. Stjórnin sem kjörin var sé ólögmæt og því umboðslaus. Í greinargerð lögmanns Brims kemur fram að „töluverð hætta“ sé á að gerðarbeiðandi lögbannsins verði fyrir „óafturkræfu tjóni og að réttindi hans fari forgörðum ef beðið verður dóms.“   Lögmaður VSV hafnar því að tilefni lögbanns sé til staðar og segir að ekki verði séð „hvernig gerðarþoli geti orðið fyrir stórtjóni við það eitt að félagið fari að lögum og boði til hluthafafundar þegar þess er krafist.“ Hann segir enn fremur í greinargerð sinni til sýslumanns að í ljósi deilna á aðalfundinum ríki óvissa um hverjir réttilega skipi stjórn VSV. Við slíkt sé ekki búandi af hálfu gerðarþolans, þ.e. Vinnslustöðvarinnar, og því sé nú boðað til hluthafafundar sem hafi það hlutverk eitt að ákvarða hverjir skuli sitja í stjórn félagsins. Ekki verði annað séð en hagsmunir gerðarbeiðanda og gerðarþola fari saman með því að eyða þannig óvissunni.   Þá kemur fram í greinargerð lögmanns VSV að stjórnarmaðurinn Ingvar Eyfjörð hafi ekki viljað undirrita tilkynningu til fyrirtækjaskrár embættis ríkisskattstjóra um stjórnarkjör á aðalfundinum í júlí og því hafi slík tilkynning ekki verið send. Ingvar hafi samt setið stjórnarfund í framhaldi af aðalfundi og ekki gert athugasemdir við ákvörðun um skiptingu verka innan stjórnar. Nú sé meira en mánuður liðinn frá aðalfundi og fyrirtækjaskrá taki ekki við tilkynningum um nýjar stjórnir félaga ef meira en mánuður líði frá stjórnarkjöri. Í slíkum tilvikum þurfi nýjan fund sem staðfesti fyrri ákvörðun eða kjósi nýja stjórn. Því sé ómögulegt að skrá nýja stjórn VSV nema nýr hluthafafundur ákvarði skipan stjórnarinnar.  

Skólinn er verkefni nemenda, starfsfólks og foreldra

Grunnskóli Vestmannaeyja verður settur 22. ágúst en skólasetning í 1. bekk verður þriðjudaginn 23. ágúst. Það munu um 520 nemendur hefja nám við skólann auk þess bætast við um 50 nemendur í fimmára deild sem var nýverið sameinuð skólanum. Sigurlás Þorleifsson skólastjóri og Ingibjörg Jónsdóttir aðstoðarskólastjóri eru í óða önn að undirbúa haustið en gáfu sér tíma til að svara nokkrum spurningum blaðamanns.   „Einhverjar breytingar eru á starfsliði skólans eins og venjulega og þá sérstaklega í íþróttakennslunni þar sem þrír kennarar af fimm eru að fara í leyfi. Einnig eru aðrir kennarar að fara í leyfi. Síðan eru alltaf einhverjar hreyfingar í öðrum starfshópum en þó ekki miklar, “ sagði Sigurlás þegar hann var spurður um starfsmannabreytingar. Ingibjörg bætti við að hvað skipulag varðar þá er það helst að fimm ára deildin er komin undir stjórn GRV. „Styrkir það enn frekar samstarf og samfellu í námi nemenda.“ Bæði voru þau sammála um að síðasta skólaár hafi gengið vel enda traustur og öflugur starfsmannahópur sem kemur að þeirri vinnu sem þarf að inna af hendi. „Við erum vel mönnuð, mikill metnaður hjá starfsfólki til að gera góðan skóla enn betri,“ sagði Ingibjörg. „Okkur hefur síðustu ár tekist að halda vel í okkar starfsfólk þannig að við búum að reynslumiklum hópi. Þó er hægt að tala um að allra síðustu ár hafi verið meiri hreyfing en áður sem við teljum líka jákvætt, það er alltaf gaman og gott að fá inn nýtt fólk í skólann,“ sagði Sigurlás. En hverjar eru áherslur næsta skólaárs? „Við erum alltaf að reyna að þróa skólastarfið til að nemendum okkar líði sem best í skólanum. Það er vænlegra til árangurs. Áherslan næsta skólaár verður áfram á lestur eins og undanfarin ár. Einnig er stærðfræðin ofarlega í hugum okkar og við ætlum að reyna að þróa okkur áfram í þeim efnum. Tæknimálin verða líka ofarlega í okkar huga og erum við að reyna að tengja þau við sem flestar námsgreinar til að auka við fjölbreytnina. Mér finnst við vera á réttri leið þar og vonandi bætum við okkur í vetur. Við leggjum einnig ríka áherslu á öflugt samstarf heimila og skóla, því það er lykillinn að góðum árangri og vellíðan nemenda að nemendur finni fyrir því að heimili og skóli vinni saman,“ sagði Sigurlás. Hver eru markmiðin næsta skólaár? „Markmiðin hljóta alltaf að vera að bæta okkur á sem flestum sviðum, að gera skólann okkar betri þannig að starfsfólk og nemendum líði betur og finni sig vel í því sem fram fer í skólanum. Það skilar okkur betri árangri og þannig getum við öll verið stolt af því að tilheyra Grunnskóla Vestmannaeyja. Til að þetta gangi eftir þurfa allir að hjálpast að, foreldrar, nemendur og starfsfólk. Stærsta breytingin fyrir næsta skólaár er fimmára deildin sem verður hluti af Grunnskólanum og það er að sjálfsögðu spennandi verkefni og ætti að auka og auðvelda samstarfið þar sem starfsemi deildarinnar fer fram innan veggja skólans. Sem sagt spennandi skólaár framundan og við væntum þess að vel takist til og þá í góðu samstarfi við alla aðila,“ sögðu Sigurlás og Ingibjörg að lokum og vildu einnig benda á að nánari upplýsingar er hægt að fá á grv.is.

Bíó opnar á næstunni í Vestmannaeyjum

Axel Ingi Viðarsson, athafnamaður og leikstjóri, opnar á næstunni bíó í Vestmannaeyjum. Eyjabúar hafa verið bíólausir í fjórtán ár að sögn Axels og segist hann finna fyrir mikilli tilhlökkun af þeirra hálfu. Bíósalurinn verður í sýningarsal Kviku menningarhúss. Visir.is greindi frá   „Það er ekki alveg komin niðurnegld dagsetning á það hvenær við opnum, en þetta verður opnað í haust í Kviku,“ segir Axel. „Þetta verður einn salur, og mun hann taka hundrað manns í sæti.“ Axel er ekki ókunnugur bíórekstri, en hann opnaði Selfossbíó fyrir þremur árum.   Bæjarráð samþykkti hugmyndina á fundi sínum í vor og sagðist fagna aukinni fjölbreytni í menningu og afþreyingu eyjarinnar. Eyjafréttir greindu þá frá áformum Axels.   Almenningur hefur síðustu áratugi dregið verulega úr ferðum sínum í kvikmyndahús bæði vegna aukins niðurhals og aukins aðgengis að streymisþjónustu. Kjarninn greindi frá því í júlí að kvikmyndahúsum á Íslandi hafi fækkað um helming síðan árið 1995, úr 31 í 16. Öll kvikmyndahús, sem hefur verið lokað frá árinu 1995, voru utan höfuðborgarsvæðisins.   Þrátt fyrir þetta segir Axel reksturinn hafa gengið vel á Selfossi og stefnir hann að því að opna annan sal þar í lok mánaðarins eða í byrjun september. Axel segir minni samkeppni spila þar inn í. „Ég er ekki með neina samkeppni. Í Reykjavík er fjöldi kvikmyndahúsa og miklu erfiðara fyrir þau að starfa vegna samkeppni. Ég slepp við hana. En bíórekstur er ekki auðveldur rekstur, það koma hæðir og lægðir."   Axel áætlar að um átta til tíu manns muni starfa hjá bíóinu, sem mun einungis sýna nýjar myndir. Verðmiðinn verður svipaður og í öðrum bíóum eða um 1.550 krónur. Axel segist reikna með að þurfa 20 þúsund gesti á ári til að bíóið borgi sig. „Markaðssetningin skiptir öllu máli og svo verða Eyjamenn að átta sig á því að ef þeir sækja ekki bíóið verður þetta líklega aldrei gert aftur þar,“ segir Axel. Um 34 þúsund manns sóttu Selfossbíó á síðasta ári.   Í dag er Selfossbíó með daglegar sýningar og samtals þrjátíu sýningar í viku. Axel ætlar að fara hægar af stað í Eyjum. „Við ætlum að hafa sýningar frá fimmtudegi til sunnudags, þannig að samtals verða það um sjö til átta sýningar í viku. Við ætlum ekki að byrja í neinu brjálæði og fara svo að minnka, heldur byrja rólega og fjölga svo frekar sýningum.“  

Íslensk rannsókn á makríl vekur athygli

 Undanfarin misseri hefur Matís, í samstarfi við helstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins, staðið að viðamiklum rannsóknum á makríl. Þetta rannsóknasamstarf hefur snúist um umfangsmiklar rannsóknir á eðlis- og efniseiginleikum makrílsins sem hafa m.a. náð til veiða, árstíma, meðhöndlunar, vinnslu, frystitækni, geymslu og flutninga.   Þar var lögð áhersla á að rannsaka makrílinn jafnt og þétt yfir veiðiárið, sér í lagi þegar hann er hvað viðkvæmastur. Niðurstöður þessara rannsókna hafa skilað sér í auknum verðmætum og nýtingu makrílafurða. Eins hafa áhrif mismunandi hráefnisgæða á fullunnar vörur, s.s niðursoðinn og heitreyktan makríl, verið rannsökuð.   Niðurstöður makrílrannsókna Íslendinga hafa skapað talsvert umtal, en nú á vormánuðum hafa verið gefnar út þrjár vísindagreinar hjá virtum erlendum fagtímaritum (International Journal of Food Science and Technology, Journal of Food Composition and Analysis, LWT - Food Science and Technology).   Nýlega lauk þremur stórum samstarfsrannsóknaverkefnum og hefur gífurleg þekking og færni skapast á þessum misserum, að því er segir í frétt frá Matís. Ekkert lát er þó á makrílrannsóknum, en í farvatninu eru ný verkefni og nýjar áskoranir sem unnið verður markvisst að næstu misseri.       Þátttakendur í verkefnunum voru Síldarvinnslan, HB Grandi, Ísfélagið í Vestmannaeyjum, Skinney Þinganes, Samherji og önnur fyrirtæki sem komu að þessari vinnu voru Brim, HG Hnífsdal, Eskja, VSV, IceThor, Skaginn, Frost og IceCan. Þátttakendur verkefnisins kunna AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi bestu þakkir fyrir stuðninginn við þessar makrílrannsóknir.   fiskifrettir.is

Frábær árangur hjá Medilync

Fyrirtækið Medilync var á dögunum tilnefnt til verðlauna á Nordic Startup Awards, sem er ein stærsta nýsköpunar keppnin á norðurlöndunum. Fyrirtækið var tilnefnt í flokknum „Best IoT Startup“ og gerði sér lítið fyrir og hreppti þau verðlaun. Þá fékk fyrirtækið einnig verðlaunin People‘s choice award en það er fyrir flest atkvæði í almennri kosningu sem fram fór á netinu. Medilync ehf var stofnað árið 2012 af þeim Guðmundi Jóni Halldórssyni og Eyjamönnunum Jóhanni Sigurði Þórarinssyni og Sigurjóni Lýðssyni. Medilync vinnur nú hörðum höndum að nýrri lausn fyrir meðhöndlun á sykursýki og er fyrirtækið í fjármögnunarferli og því nóg að snúast. Við heyrðum í Eyjapeyjanum Sigurjóni, einum af stofnendum Medilync í eftir verðlaunaafhendinguna. „Þetta er gríðar mikil viðurkenning fyrir okkur strákana því að fjárfestar og aðrir sem gætu viljað í samstarf með okkur eru að fylgjast með keppnum sem þessari. Það skemmir ekki fyrir að fá einnig verðlaun sem vinsælasta fyrirtækið en þeir sem kusu okkur eiga allan heiðurinn að þeim verðlaunum. En almenningur virðist skilja þá þörf sem við erum að leysa. Sykursýki er alvarlegur sjúkdómur og tækni eins og okkar getur einfaldað líf þessara einstaklinga umtalsvert. Ekki síður þeirra aðstandendum. Næst á dagskrá hjá okkur er loka keppni Nordic Startup Awards en það má segja að við séum íslandsmeistarar en keppnin leggst afar vel í okkur. Þarna verða fjárfestar frá ýmsum löndum og því erum við afar spenntir. Það er óskandi að einhver fjárfestir taki eftir því sem við erum að gera og hefur áhuga að vinna að þessari lausn með okkur, það er stefnan. Að lokum langar mig að benda á að önnur netkosning fer í gang 4. Maí en þá er aftur hægt að leggja okkur lið en við munum án efa minna á það þegar fer af stað.“ Lokakeppni Nordic Startup Awards verður haldið í Hörpu, þriðjudaginn 31.maí og verður því spennandi að fylgjast með hvernig Medilync gengur á úrslitakvöldinu.   Hægt er að kjósa Medilync hér.

Ferðaþjónustufyrirtæki fara í vaskinn

Skorar á þingmenn að endurskoða lögin um forkaupsrétt sveitarfélaga

Fyrir síðasta bæjarráði lá dómur í Hæstarétti í máli Vestmannaeyjabær gegn Síldarvinnslunni og Berg Huginn ehf. Bærinn fór fram á að með dómi yrði samningur um kaup Síldarvinnslunnar hf. á öllum eignarhlutum í Berg-Huginn ehf. frá því í ágúst 2012 yrði dæmdur ógildur. Dómurinn féll útgerðunum í vil og kaupsamningur þeirra á milli því gildur en áður hafði Vestmannaeyjabær unnið fullnaðarsigur í héraðsdómi.   Í fundargerð segir að bæjarráð bendi þingmönnum þjóðarinnar á að með tilgreindum dómi hafi hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að sá réttur sjávarbyggða sem löggjafinn byggði inn í lögin með svo kölluðum forkaupsréttarákvæði hefur verið veginn, metinn og léttvægur fundinn.     Bæjarráð skoraði á þingmenn að endurskoða lögin þannig að yfirlýst markmið laganna hvað varðar öryggi sjávarbyggðanna nái fram að ganga. Bæjarráð bendir enn fremur á að forkaupsréttarákvæðið skaðar ekki þá hagkvæmni í sjávarútvegi sem bundinn er við frjálst framsal. „Allt tal um slíkt lýsir vanþekkingu á lögum um stjórn fiskveiða. Forkaupsréttarákvæðið virkar þannig að þegar kominn er á samningur getur sveitastjórn nýtt forkaupsrétt ef aðrir aðilar í sveitarfélaginu treysta sér til að greiða sama verð og þegar hefur verið samið um. Verðmætin munu því ætíð leita þangað þar sem hagkvæmnin er mest enda hagkvæmnin forsenda þess að hægt sé að greiða sem mest fyrir verðmætin. Það sem forkaupsréttarákvæðið gerir er eingöngu að koma í veg fyrir að atvinnurétturinn fari frá íbúum á meðan enn er a.m.k. jafn hagkvæmt að gera út á upprunastaðnum,“ segir í ályktun bæjarráð.   Hafnar ávirðingum   Ráðið hafnar einnig með öllu ávirðingum um að annarlegar hvatir liggi til grundvallar ákvörðun um að láta reyna á forkaupsrétt vegna þessara viðskipta og beinir því til bæjarstóra að láta áfram reyna á slíkt ef slík staða kemur upp. Sjávarútvegur er undirstaða byggðar í Vestmannaeyjum og það er hlutverk bæjarráðs og bæjarstjórnar að verja hagsmuni íbúa hvað hann varðar.   Að lokum lýsir bæjarráð ánægju með það hve samheldni útgerðarfyrirtækjanna hér í Vestmannaeyjum hefur jafnan verið mikil hvað það varðar að gæta þess að tapa ekki veiðiheimildum frá okkur hér í eyjum. Það hefur orðið til þess að við höfum nánast haldið aflaheimildum okkar að fullu allt frá því að kvótakerfið var sett á. Útgerðir hafa gætt þess að fyrirtækin hér hafi keypt heimildir þeirra útgerðarmann í eyjum sem hafa viljað hætta. Bæjarráð telur að útgerðarmenn hér eigi þakkir skildar fyrir það, enda sýnir það ábyrgð, bæði gagnvart staðnum, starfsfólkinu og samfélagi okkar hér.    

Undrunarefni að bjóða ekki nýja og öfluga eigendur velkomna

Magnús Kristinsson, framkvæmdastjóri Bergs-Hugins sendir Elliða Vignissyni, bæjarstjóra tóninn í grein í Morgunblaðinu á laugardaginn. Greinina kallar Magnús, Út af með aðkomumenn! Þar segist hann seint hætta að undrast stórkarlalegar yfirlýsingar bæjarstjórans í Vestmannaeyjum í tilefni af því að nauð rak hann til að selja eignarhlut sinn í útgerðarfélaginu Bergur-Huginn ehf.    „Ég hef starfað við þessa útgerð í yfir 40 ár. Það var því ekki með glöðu geði að ég seldi hlut minn í félaginu þegar gamli Landsbankinn knúði mig til greiða fyrir ónýt hlutabréf í þessum sama banka. Það var búið að reyna allt til að fá bankann til að hægja á sér,“ segir Magnús sem árið 2012 seldi Berg-Huginn ehf. til Síldarvinnslunnar á Norðfirði. Í kaupunum fylgdu tvö skip, Bergey VE og Vestmannaey VE og um 5000 tonna kvóti.   Bæjarstjórn Vestmannaeyja vildi hnekkja kaupunum og vísaði til forkaupsréttar sveitarfélaga á aflaheimildum. Héraðsdómur dæmdi Vestmannaeyjabæ í vil en fyrir skömmu kvað Hæstiréttur upp þann dóm að samningur um kaup Síldarvinnslunnar hf. á öllum eignarhlutum í Bergi -Hugin ehf. væri gildur.   Magnús sakar bæjarstjóra um tvískinnung í málinu og segir að lítið hafi heyrst í honum á meðan Bergur Huginn keypti stóran hluta núverandi aflaheimilda annarstaðar frá. Um leið bendir hann á að ekkert hafi breyst með nýjum eigendum. Ennþá sé gert út frá Eyjum. „Ekki er það fyrir orð bæjarstjórans heldur af því að Vestmannaeyjar eru frábær útgerðarstöð með afbragðs sjómenn, fiskverkendur og þjónustufyrirtæki. Það er því undrunarefni að bæjarstjórinn og aðrir bæjarfulltrúar skuli ekki bjóða nýja og öfluga eigendur velkomna til starfa í Vestmannaeyjum og leggja frekar grunninn að góðu samstarfi í stað þess að ala á tortryggni og óvild.,“ segir Magnús m.a. Segir hann þetta ekki þjóna hagsmunum Eyjanna og nær væri að bjóða nýtt fólk með mikla reynslu velkomið.   Þegar leitað var álits Elliða á skrifum Magnúsar sagði hann að bæjarráð fjalli um dóm Hæstaréttar á næsta fundi sínum. „Þar verða frekari viðbrögð ákveðin. Þangað til vísa ég í fréttatilkynningu Vestmannaeyjabæjar vegna þess máls,“ sagði Elliði en þar segir hann.   „Lykilatriði þessa máls er að nú er komin niðurstaða og hún er sú að forkaupsréttur sveitarfélaga samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða er ekki virkur. Þar með er sú litla vörn sem löggjafinn byggði inn í lögin að engu hafður. Vörn íbúa gegn skyndilegum og miklum breytingum í atvinnuumhverfi sveitarfélagsins er engin. Krafa sjávarbyggða nú hlýtur því að vera að skerpt verði á ákvæðinu forkaupsrétt og trygg verði að útgerðir geti ekki á markvissan máta farið fram hjá vilja löggjafans með lagatæknilegum æfingum.“    „Hvað skrif Magnúsar varðar þá hef ég enga sérstaka skoðun á þeim. Ég tek þó undir það sem hann segir í þessum skrifum um að hér í Eyjum er frábær útgerðarstöð með afbragðs sjómenn, fiskverkendur og þjónustufyrirtæki. Það hefur hingað til tryggt að bátar og aflaheimildir hafa haldist hér innanbæjar. Við Magnús munum svo báðir væntanlega áfram haga orðum okkar og gjörðum í samræmi við samvisku okkar og þá hagsmuni sem okkur er falið að gæta,“ sagði Elliði þegar haft var samband við hann í gær.    „Nei, hef ekkert heyrt frá neinum,“ var svar Gunnþórs Ingvasonar þegar hann var spurður að því hvort bæjarstjórn, bæjarstjóri eða einstaka bæjarfulltrúar hefðu haft samband við hann og spurt hvað Síldarvinnslan ætlaði að gera í málum Bergs Hugins.              

Flug milli Vestmannaeyja og Bakka – Vilt þú stuðla að bættum samgöngum

Atlantsflug var stofnað árið 2004 til að bjóða upp á flugþjónustu fyrir ferðamenn sem sækja landið heim. Atlantsflug gerir út 3 starfstöðvar sem eru á Reykjavíkurflugvelli, í Skaftafelli og á Bakka flugvelli.     Atlantsflug hefur í dag 3 flugvélar í rekstri og þar af eru tvær þeirra tveggja hreyfla Piper PA31 flugvélar sem taka annars vegar 8 farþega og svo 6 farþega miðað við að tveir flugmenn séu í áhöfn. Önnur þeirra er Vestmannaeyjingum vel kunn í leigu og sjúkraflugi út frá Vestmannaeyjum í gegnum árin. Þá er félagið með mjög öfluga einshreyfils flugvél sem tekur allt að 6 farþega og er hugsuð til að þjóna suðurlandi.     Í ljósi þeirra aðstæðna sem hafa verið í samgöngumálum milli lands og eyja viljum við leggja okkar að mörkum með því að fullkanna þann möguleika að halda flugleiðinni Vestmannaeyjar – Bakki opinni allt árið um kring.     Til að skapa þann grundvöll sem þarf til að halda þessari flugleið opinni verður það að gerast í samvinnu við fyrirtæki og hagsmunaaðila í Vestmannaeyjum. Við sjáum fyrir okkur að fyrirtæki og hagsmunaðilar á svæðinu sameinist í gerð samnings við okkur um nýtingu á 5000 sætum á 12 mánaða tímabili. Með tilkomu svona samnings er verið að tryggja fasta viðveru og þjónustu á þessari flugleið sem opnar þá fyrir enn einn valmöguleika fyrir þá sem þurfa að fara á milli Eyja og lands. Svo dæmi séu tekin þá sýna kannanir að meirihluti ferðamanna sem koma til Vestmannaeyja eru dagsferðamenn eða um 75%, sem skildu eftir sig 1,9 milljarða í Vestmannaeyjum.     Á móti kemur að Atlantsflug gerir Vestmannaeyjar að aðal starfsstöð á suðurlandi í stað Bakkaflugvallar í dag. Atlantsflug staðsetur flugvélar í Vestmannaeyjum allt árið um kring ásamt flugmönnum. Félagið staðsetur í Vestmannaeyjum tveggja hreyfla flugvél til að nota á flugleiðinni sem tryggir fleiri flugdaga. Með staðsetningu flugvélar og flugmanna í Vestmannaeyjum opnast nýjir möguleikar fyrir heimamenn og það sem er meira vert er að valmöguleikar aukast.     Með þessu bréfi köllum við eftir því hvort áhugi sé fyrir hendi meðal fyrirtækja og hagsmunaaðila í Vestmannaeyjum um að halda þessari flugleið opinni og hvetjum þá sem vilja vinna þetta með okkur að hafa samband símleiðis í 854-4105 eða með því að svara þessum tölvupósti frá okkur.

Um 75% sjúkrarýma á Suðurlandi lokast komi til verkfalls Fíh

Nú hefur verkfall BHM staðið í um 8 vikur. Verkfallið hefur þegar haft veruleg áhrif á daglega starfsemi stofnunarinnar. Starfsemi rannsóknarstofunnar hefur dregist saman um 70% í apríl og maí vegna verkfalls ífeindafræðinga. Engar rannsóknir eru framkvæmdar á röntgendeildinni nema í bráðatilfellum að fenginni undanþáguheimild eða vegna útkalla bakvaktar eftir kl. 16:00 á daginn, vegna allsherjarverkfalls geislafræðinga. Alls hefur HSU á Selfossi og í Vestmannaeyjum fengið 30 undanþáguheimildir vegna myndgreiningarannsókna auk bráðatilvika til myndgreininga, en að öðru leyti liggur starfsemi röntgendeildarinnar niðri. Einnig hafa 55 undanþágur verið veittar vegna blóðrannsókna sem ekki þola bið.    Ljóst er að verkfallið er þegar farið að hafa alvarleg áhrif á framvindu meðferðar margra sjúklinga sem þurfa að þola bið eftir svörum sem varða næstu skref í meðferð þeirra.  Ástandið er því orðið grafalvarlegt og óvíst hvert raunverulegt ástand sjúklinga er sem enn bíða eftir rannsóknum. Eins ríkir óvissa um hvaða áhrif töf á því að komast til meðferðar mun hafa í för með sér fyrir sjúklinga.   Til viðbótar við verkfallsástandið sem nú ríkir hefur verið boðað til í allsherjarverkfalls hjúkrunarfræðinga frá og með 27. maí. Verkfall hjúkrunarfræðinga yrði HSU geysilega erfið viðbót við yfirstandandi verkföll lífeinda- og geislafræðinga og ljósmæðra. Komi til þess verkfalls getur skapast áhætta fyrir sjúklinga ef töf verður á þjónustu og úrvinnslu undanþágubeiðna fyrir bráðveika sjúklinga. Því er alveg ljóst að allsherjarverkfall hjúkrunarfræðinga mun draga úr getu HSU til að sinna þörfum sjúklinga og meðhöndla einkenni. Það mun skapa verulega ógn við öryggi sjúklinga.    Nú er ljóst að loka þarf um 75% allra sjúkrarýma á Selfossi og í Vestmannaeyjum. Á Selfossi verða opin 5 rúm af 18 sjúkrarúmum en áfram eru öll 40 hjúkrunarrými opin. Í Vestmannaeyjum verða um 4 rúm af 15 sjúkrarúmum opin, en þegar eru þar fyrir sjúklingar sem eru í biðplássi eftir hjúkrunarrými. Þar eru áfram opin 7 hjúkrunarrými. Allir sjúklingar sem eru í virkri meðferð verða áfram á sjúkrahúsunum, en ekki verður möguleiki að taka við nýjum sjúklingum nema í bráðatilfellum. Bráðadeildir á Selfossi og í Vestmanneyjum verða opnar. Eins verður sótt um undanþágu til að veita göngudeildarþjónustu fyrir blóðskilunarsjúklinga á Selfossi og krabbameinssjúklinga í Vestmannaeyjum. Þjónusta í heimahjúkrun á Suðurlandi verður óbreytt að mestu.   Sjúklingar sem eiga bókaðan tíma á heilsugæslu eru beðnir um að fylgjast með framvindu verkfallsins, en þjónustu hjúkrunarfræðinga á heilsugæslu verður forgangsraðað. Við óttumst það ástand sem gæti skapast en munum tryggja alla neyðarþjónustu eins og kostur er.  Aðgerðir eru í fullum undirbúningi á HSU til að bregðast við yfirvofandi verkfalli. Samningsaðilar eru hvattir til að leysa kjaradeilur heilbrigðisstétta sem fyrst og ganga hratt til samninga svo forða megi því að skaði hljótist af fyrir sjúklinga. Komi til verkfalls hjúkrunarfræðinga mun það hamla getu okkar til að bregðast við ástandi sjúklinga og veita viðunandi meðferð í tæka tíð. Ástandið í heilbrigðiskerfinu einkennist nú af gífurlegri óvissu sem veldur mikilli áhættu og ljóst er að það mun taka langan tíma að vinna upp þær afleiðingar sem núverandi verkföll hafa þegar haft fyrir sjúklinga.

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Mannlíf >>

Stjórnmál >>

Eygló Harðardóttir hætti á Alþingi

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, gefur ekki kost á sér í næstu Alþingiskosningum. Þetta kemur fram í tilkynningu sem hún sendi frá sér í morgun. Eygló kveðst lengi hafa verið sannfærð um að þingmennskan eigi ekki að vera ævistarf og hefur talað fyrir stjórnarskrárbreytingum um að þingmaður skuli ekki sitja lengur en átta ár samfellt á Alþingi. Í nóvember næstkomandi verða komin níu ár hjá henni. „Því tel ég rétt á þessum tímapunkti að láta staðar numið og leita nýrra og skemmtilegra ævintýra á öðrum vettvangi,“ segir í tilkynningunni.   Eygló tók sæti á Alþingi árið 2008. Hún var félags- og húsnæðismálaráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda frá 2013 til 2017. Þá hefur hún verið ritari Framsóknarflokksins síðan 2009.   Eftirfarandi er tilkynning Eyglóar:   Í nóvember 2008 tók ég sæti á Alþingi fyrir hönd Framsóknarflokksins við erfiðar aðstæður í miðju bankahruni. Árin síðan hafa verið einstaklega viðburðarrík og árangurinn af vinnu við efnahagslega endurreisn íslensks samfélags hefur verið mikill.   Þar hef ég verið stolt af baráttu okkar framsóknarmanna gegn skuldum, hvort sem það eru skuldir heimilanna eða sá skuldaklafi sem erlendir kröfuhafar vildu hengja á þjóðarbúið. Ég er jafnframt einkar stolt af að hafa sem félags- og húsnæðismálaráðherra komið á nýju húsnæðiskerfi, bætt hag lífeyrisþega og unnið gegn ofbeldi í íslensku samfélagi.   Ég hef lengi verið sannfærð um að þingmennska á ekki að vera ævistarf og talað fyrir stjórnarskrárbreytingum um að hver þingmaður sæti ekki lengur en átta ár samfellt á Alþingi. Í nóvember 2017 verða þau ár orðin níu hjá mér. Því tel ég rétt á þessum tímapunkti að láta staðar numið og leita nýrra og skemmtilegra ævintýra á öðrum vettvangi.   Því mun ég ekki gefa kost á mér til þingstarfa fyrir Alþingiskosningarnar þann 28. október næstkomandi.   Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem hafa stutt mig í mínum störfum í gegnum árin, kjósendum fyrir það traust og trúnað sem þeir hafa veitt mér til að starfa í þeirra þágu, góðum félögum út um allt land fyrir gott samstarf og síðast en ekki síst fjölskyldu minni.   Það er von mín að komandi kosningabarátta verði jákvæð og heiðarleg og að samvinnuhugsjón Framsóknarflokksins muni þar ná góðum hljómgrunni.   www.ruv.is greindi frá.  

Greinar >>

Elliði: Við verðum að taka þennan rekstur yfir

Sem sagt, núna er staðan þessi eftir því sem ég kemst næst sagði Elliði Vignisson á heimasíðu sinni í gær:   Herjólfur er í slipp í Hafnafirði. Búið er að taka upp gírinn. Því miður er varahluturinn hinsvegar ekki á leið til landsins. Næsta skref er því að loka gírnum og sigla Herjólfi aftur til Eyja, jafn biluðum og hann var. Til landsins kom skip sem heitir „Röst“. Ágætis skip, nánast eins og Herjólfur. Eini munurinn hvað haffæri varðar er hlið sem sett var í Herjólf fyrir nokkrum árum en er ekki í Röstinni. Þess vegna má hún ekki sigla í Þorlákshöfn.   Á næstu dögum spáir skítabrælu. Ölduhæð slær yfir 4 metra og vindur í 24m pr. sek. Sem betur fer telja skipstjórnarmenn Röstina heppilegri til siglinga í Landeyjahöfn en Herjólf. Að hún ráði við hærri öldu. Til að mynda hefur hún nú þegar siglt í Landeyjahöfn í 2,7m öldu án nokkurra vandkvæða. Vonir standa til að hún ráði við talsvert hærri öldu, rétt eins og Baldur gerði. Sá böggull fylgir þó skammrifi að eftir því sem ég kemst næst þá miðar norska útgerðin við 20m vindhraða. Það er því vesen framundan.   Upplýsingaflæðið í kringum þetta er svo sér kapítuli. Engu líkara en að Vestmannaeyjabæ -sem þó er fulltrúi heimamanna- komi þetta ekki við. Enn hefur til dæmis ekki komið formleg tilkynning um að Herjólfur þurfi í slipp, né heldur að hann sé í slipp, hvað þá að okkur sé tilkynnt formlega að viðgerðin gangi ekki eftir. Við lásum um það á Facebook.   Niðurstaðan er því þessi: Herjólfur var bilaður og verður það áfram. Búið verður að taka hann úr drift í næstum tvær vikur þegar hann kemur jafn bilaður til baka. Beinn útlagður kostnaður ríkisins hleypur á tugum milljóna og kostnaður samfélgsins ómældur. Hver ber ábyrgðina? Það veit ekki nokkur maður.   Ég held að höfundar áramótaskaupsins hafi notað orðin „Helvítis fokking fokk“ yfir þær tilfinningar sem með mér bærast. Ætli eina leiðin sé ekki að bíða eftir að það opni á Brothers Brewery, fá sér einn Gölla og blóta. Bíða síðan eftir því að við tökum þennan rekstur yfir. Þetta gengur ekki svona.