A-sveit Taflfélags Vestmannaeyja er í efsta sæti eftir fyrri hluta Íslandsmóts skákfélaga en mótið fór fram í Rimaskóla um helgina. Eyjamenn byrjuðu ekki vel, töpuðu fyrir Taflfélagi Reykjavíkur í fyrstu umferð 5:3 en hafa ekki misstigið sig aftur og fóru hratt upp töfluna. Eyjamenn eru efstir með 20,5 vinninga, Bolvíkingar eru í öðru sæti með 20, Haukar þriðju með 19,5 og Hellir fjórðu með 19 vinninga. Það stefnir því allt í æsispennandi síðari hluta mótsins sem fer fram í byrjun mars á næsta ári.