Allt tiltæk björgunarlið í Vestmannaeyjum, lögregla, slökkvilið, slökkvilið flugvallarins og björgunarfélag var kallað út í nótt vegna bruna í Lifrasamlagi Vestmannaeyja. Útkallið kom um fjögur í nótt en slökkvistarf stendur enn yfir. Slökkvilið er þó búið að ná tökum á eldinum en slökkvistarf var erfitt og aðstæður óhagstæðar. Hús Lifrasamlagsins er að öllum líkindum ónýtt eftir brunann en einbýlisshús sem stendur aðeins tæpum þremur metrum frá útvegg Lifrasamlagsins skemmdist nokkuð vegna reyks. Eldurinn náði þó ekki að læsa sig í húsinu en um tíma beindist slökkvistarf að mestu leyti að verja húsið.