Þurrkar upp áætlaðan rekstrarafgang

Afgreiða átti fjárhagsáætlun bæjarsjóðs og stofnana á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku þar sem hún var lögð fram til seinni umræðu. Af því varð ekki og er um að kenna nýgerðum kjarasamingi við kennara. Elliði Vignisson, bæjarstjóri hafði framsögu um fjárhagsáætlunina. Í máli hans koma fram að við gerð áætlunarinnar eins og hún liggur fyrir hafi einungis verið gert ráð fyrir 1,4% rekstrarafgangi af sveitarsjóði eða 41 milljón. Hans mat er að æskilegur rekstrarafgangur sem síðan sé nýttur til að mæta endurnýjun verkefna og fjárfestingum sé um 10 til 15%. „Fyrir liggur að nýundirritaður kjarasamningur við kennara leiðir til hækkunar launakostnaðar í grunnskólum uppá að minnsta kosti 57 milljónir króna og því ljóst að sú hækkun ein þurrkar upp allan rekstrarafgang sem áætlunin gerir ráð fyrir og myndi því halla á rekstur. Við svo verður ekki búið,“ segir í fundargerð. „Með hliðsjón af þessari miklu kostnaðaraukningu sem til kemur verði samningar við kennara samþykktir, samþykkir bæjarstjórn að fela bæjarstjóra og öðrum embættismönnum sveitarfélagsins að endurskoða fjárhagsáætlun ársins 2017 og gera þar ráð fyrir allt að 57milljóna kr. hækkun sem mætt verði eftir atvikum með samdrætti í þjónustu og annarri hagræðingu um leið og horft verði til þess að auka tekjur af gjaldskrám og álagningu,“ segir í lokaorðum. Þriggja ára áætlun Vestmannaeyjabæjar, 2018-2020 hlaut sömu örlög og var seinni umræðu frestað til næsta fundar í bæjarstjórn. Ekki náðist í Elliða vegna málsins en Sigurhanna Friðþórsdóttir,formaður Kennarafélags Vestmannaeyja sem er félag grunnskólakennara í Eyjum var hissa á skrifum bæjarstjóra. „Þetta er þvert á það sem kom fram hjá bæjarstjóra þegar við afhentum honum undirskriftir til stuðnings baráttu okkar. Einnig sagðist hann bjartsýnn á farsæla lausn tveimur dögum áður en samið var. Daginn eftir að skrifað var undir samninginn segir hann fjárhagsáætlun í uppnámi. Það var að sjálfsögðu vitað að þessi samningur eins og aðrir kjarasamningar kosta eitthvað. Það átti ekki að koma bæjarstjórn á óvart en þess má geta að við höfum verið samningslaus frá því maí í vor,“ sagði Sigurhanna.  

Þröstur Johnsen gerir bænum tilboð um leiguíbúðir að Bárustíg 2 og Sólhlíð 17

 Í bæjarráði í síðustu viku lá fyrir erindi frá frá Þresti B. Johnsen þar sem hann býður Vestmannaeyjabæ leiguíbúðir að Sólhlíð 17 og íbúðir fyrir fatlaða að Bárustíg 2. Hann býður upp á að leigja bænum íbúðirnar, bærinn kaupi þær, hafi makaskipti á húsunum og Ráðhúsinu og að byggja á lóð að Skólavegi 7 íbúðir fyrir fatlaða. Bæjarráð þakkaði einlægan áhuga bréfritara en segir að fyrir liggi að Vestmannaeyjabær stefni ekki að því að byggja leiguíbúðir fyrir almennan markað enda miklar framkvæmdir fyrirhugaðar á þeim vettvangi meðal einkaaðila. „Einu leiguíbúðirnar sem stefnt er að falla annarsvegar undir málefni fatlaðra og hinsvegar undir málefni aldraðra. Þegar er hafin hönnun og undirbúningur að framkvæmdum við nýjar íbúðir fyrir aldraða við Eyjahraun. Hvað varðar íbúðir fyrir fatlaða þá er horft til samstarfs við framkvæmdaaðila á svokölluðum Ísfélagsreit. Í því samhengi var meðal annars farið í opna hugmyndasamkeppni. Vestmannaeyjabær mun því láta reyna á þann möguleika áður en aðrar ákvarðanir verða teknar,“ segir í fundargerð bæjarráðs. Einnig segir að það sé einlægur vilji bæjarins að eiga og hafa starfsemi í Ráðhúsinu sem seinustu ár hefur hýst bæjarskrifstofur en var byggt sem spítali. Að lokum var bréfritara bent á að lóðaumsóknir falla ekki undir bæjarráð heldur umhverfis- og skipulagsráð og beri að beina umsóknum þangað á þar til gerðum eyðublöðum. Framundan eru gagngerar endurbætur á Ráðhúsinu og eru bæjarskrifstofurnar nú á annarri hæð Landsbankans við Bárustíg.  

Íslandsbanki kom færandi hendi í GRV

 „Á haustdögum gaf Íslandsbanki 20 borðtölvur, mýs og lyklaborð til Grunnskólans í Vestmannaeyjum, sem kom sér ótrúlega vel þar sem í haust voru samræmdu prófin í fyrsta skipti tekin á rafrænu formi,“ sagði Sigurlás Þorleifsson, skólastjóri. Þórdís og Sigurður frá Íslandsbanka heimsóttu skólann fyrir skömmu og afhentu tölvurnar formlega. „Við höfðum töluverðar áhyggjur af breytingunum, vorum ekki viss hvort við hefðum nægilega góðan tölvukost. En með tilkomu þessara borðtölva sem Íslandsbanki gaf Grunnskólanum, gekk þetta mjög vel og litlir sem engir hnökrar komu upp á meðan prófunum stóð.“ Starfsfólk Grunnskólans er mjög ánægt með árangurinn í prófunum hjá 4. og 7. bekk. Líka að geta endurnýjað tölvukostinn þar sem sumar tölvurnar í skólanum voru komnar til ára sinna. Vill Sigurlás, fyrir hönd Grunnskólans, ítreka þakklæti til Íslandsbanka fyrir þessa höfðinglegu gjöf. Þórdís Úlfarsdóttir útibússtjóri Íslandsbanka í Vestmannaeyjum sagði mjög ánægjulegt að geta komið að þessu verkefni. „Við höfðum fregnir af því að tölvumál skólans væru ekki upp á það besta og höfðum í kjölfarið samband við Sigurlás skólastjóra og inntum hann eftir því hvort við gætum lagt skólanum lið við endurnýjun á tölvubúnaðinum. það er frábært fyrir bankann að geta stutt við öflugt skólastarf í Eyjum með þessu hætti. Það er einnig mjög ánægjulegt að heyra af góðum árangri nemenda skólans í samræmdu prófunum nú í haust“. „Við hjá Íslandsbanka erum afar ánægð með að hafa getað orðið að liði með þessum hætti og lagt þar með okkar lóð á vogarskálarnar til að stuðla að góðri og öflugri menntun barna og unglinga hér í Vestmannaeyjum og að sama skapi við að gera góðan skóla enn betri“ sagði Þórdís að lokum.  

JÓLIN KOMA – Í Vestmanneyjum – Stór-jólatónleikar í Höllinni 3.desember

 Af gefnu tilefni viljum við koma því á framfæri að þessi frábæri viðburður verður í Höllinni næstkomandi laugardag.   Laugardagskvöldið 3. desember verða stórglæsilegir tónleikar í Höllinni sem eiga sér enga hliðstæðu í jólatónleikahaldi í eyjum.   Miðaverði hefur verið stillt í hóf og kostar aðeins 6.900 á þessa glæsilegu tónleika. Ekki nóg með það, heldur verða fyrstu 100 miðarnir seldir með 1.000 kr afslætti, eða á 5.900 kr. Eftir tónleikana verður opið upp á HÁALOFT, þar sem Happy hour verður til kl. 02.00 eftir miðnætti og opið til klukkan 04.00 – að sjálfsögðu er frítt á HÁALOFTIÐ   Forsala miða fer fram í Tvistinum og inn á tix.is   Þeir sem framkoma eru ekki af verri endanum því þrír af vinsælustu söngvurum landsins, hvort sem að litið sé til jólatónlistar eða popptónlistar yfir höfuð, ætla að mæta og syngja inn jólin með úrvals hljóðfæraleikurum.   STEFÁN HILMARSSON hefur um árabil verið einn af fremstu söngvurum landsins. Ásamt því að hafa farið fyrir einni vinsælustu hljómsveit landsins síðustu 27 ár (Sálin hans Jóns míns), liggja eftir hann nokkrar sólóplötur.   Þar af eru tvær jólaplötur. Sú fyrri, “Ein handa þér”, kom út 2008 og hlaut gríðarlega góðar viðtökur og gullsölu. Í fyrra kom svo út platan “Í desember”, sem einnig var afar vel tekið.   Stefán vakti reyndar fyrst verulega athygli árið 1987, þegar hann söng lagið “Jólahjól”, eitt vinsælasta jólalag fyrr og síðar.   SIGRÍÐUR BEINTEINSDÓTTIR kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1983 þegar hún gerði garðinn frægan með laginu Vertu ekki að plata mig – og hefur allar götur síðan verið ein ástsælasta söngkona þjóðarinnar.   Vinsældir Siggu má að hluta rekja til þess hversu breiðs hóps tónlistarunnenda hún höfðar til, en hún hefur heillað börnin með barnaefninu í Söngvaborg, átt farsælan popptónlistarfeil með hljómsveitinni Stjórninni, sungið með flestum tónlistarmönnum þjóðarinnar á böllum, tónleikum, í veislum og brúðkaupum.   HELGA MÖLLER hefur verið ein ástsælasta söngkona landsins síðastliðna áratugi þar sem hún hefur komið víða við. Ferill hennar hefur til þessa verið afar fjölbreyttur og lög hennar átt miklum vinsælda að fagna meðal landsmanna.   Helga er hvað þekktust fyrir að syngja með dúettnum Þú og Ég ásamt Jóhanni Helgasyni sem átti marga slagara á seinni hluta síðustu aldar.   Helga var hluti af Icy tríóinu sem fór með Gleðibankann í Eurovision fyrir hönd Íslands í fyrsta skipti árið 1986. Helga hefur einnig sungið fjöldan allan af jólalögum og er oftar en ekki sögð vera jólaröddin.   Stebba, Siggu og Helgu til halds og traust verður einvalalið hljóðfæraleikara.   Húsið opnar kl 20:00 fyrir tónleikagesti. Þar sem að ekki verða númeruð sæti er skynsamlegt að mæta snemma til að ná góðum sætum. Húsið opnar kl. 18.30 fyrir matargesti og er boðið upp á stórglæsilegt jólaglaðborð að hætti EINSA KALDA. Verð á tónleika og jólahlaðborð er aðeins 12.400,- krónur   JÓLATÓNLEIKAR 3.DES 2016 – MATSEÐILL/HLAÐBORÐ FORRÉTTAR-BORÐ Sinnepssíld – Rauðrófusíld – Appelsínusíld Parmaskinka og perur í vanillusírópi Reyktur lax með piparrótarsósu Grafin gæsabringa með bláberja-vinagrette KALT-AÐALRÉTTARBORÐ Einiberja-, garðablóðberg- og rósapipar grafið naut ásamt pekanhnetu-vinagrette Drottningaskinka, karamellaður ananas, græneplasalat, rauðvínssósa Birkireykt hangikjöt, rófumauk með púðursykri, kartöflur og jafningur ásamt laufabrauði HEITT-AÐALRÉTTARBORÐ Smjörsteiktar kalkúnabringur, kalkúnafylling, ljós villibráðarsósa Brakandi svínapurusteik, hvítkál, fennel og rósakál, sykurbrúnaðar kartöflur og hvítvínssósa EFTIRRÉTTARBORÐ Jóla-tiramisú Volg súkkulaðikaka og vanilluís með birkisýrópi Dönsk eplakaka, rifsberjakrem, kanil-karamella Bláberja skyrkaka, hafrabotn með súkkulaðifyllingu og bláberjagel  

Ályktanir 30. þings Sjómannasambands Íslands

 Á þingi Sjómannasambands Ísland 24. og 25. nóvember sl. voru samþykktar margar ályktanir. Meðal er því beint til Alþingis að sjá til þess að viðskipti með fisk milli útgerðar og fiskvinnslu verði gagnsæ og uppfylli skilyrði um heilbrigða samkeppni og góða viðskiptahætti. Þá er þess krafist að skattfríðindi íslenskra sjómanna verði lögfest að nýju þannig að þeir njóti sambærilegra skattfríðinda og sjómenn annarra fiskveiðiþjóða. Þess var krafist að fyrirtækjum í sjávarútvegi verði gert skylt að skila öllum upplýsingum um framleiddar afurðir og söluverð þeirra til Hagstofu Íslands. Með því móti sé hægt að treysta því að mælingar á breytingum á afurðaverði séu réttar á hverjum tíma.   Fagnað er fyrirhugaðri könnun á hvíldar- og vinnutíma íslenskra sjómanna. Þingið telur að aðkoma sjómannasamtakanna að könnuninni sé algert lykilatriði og að hún verði unnin í nánu samstarfi við sjómennina sjálfa eins og fyrirhugað er. Að mati þingsins þarf að gera slíkar athuganir reglulega þannig að fyllsta öryggis sé ávallt gætt um borð í skipum. Í framhaldi af þeim athugunum verði settar reglur um lágmarks mönnum fiskiskipa við veiðar eftir stærð, gerð og veiðiaðferðum þeirra. Útgerðir eru hvattar til að gera átak í starfsmenntun sjómanna í samstarfi við Sjómennt og stéttarfélög sjómanna. Einnig hvetur þingið útgerðir til að styðja við menntun sjómanna með því að greiða gjald í starfsmenntunarsjóð eins og aðrir atvinnurekendur gera. Krafist er að við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða verði veiðiskylda aukin verulega. Líka að vigtunarreglur verði endurskoðaðar. Afli verði full vigtaður á löggiltri hafnarvog þar sem ísprósenta er ákveðin og endurvigtunarleyfi verði afnumin. Hvatt er til þess áhafnir skipa og stjórnendur útgerða til að sjá til þess að björgunaræfingar séu haldnar reglulega um borð eins og lög og reglur mæla fyrir um. Þingið telur nauðsynlegt að öll áhöfnin staðfesti með undirskrift að æfing hafi verið haldin um borð. Þannig er komið í veg fyrir málamyndaæfingar. Einnig skorar þingið á yfirmenn fiskiskipa að sjá til þess að nýliðar fái lögbundna fræðslu um öryggisbúnað og hættur um borð. Þess er krafist að stjórnvöld tryggi Landhelgisgæslu Íslands nægt rekstrarfé á hverjum tíma. Sérstaklega á þetta við um rekstur þyrlusveitarinnar. Lífsspursmál er fyrir íslensku þjóðina að þyrlur séu til staðar þegar slys eða veikindi ber að höndum eins og dæmin sanna. Til að öryggi sé sem best tryggt þarf að mati þingsins að staðsetja þyrlur víðar um landið en nú er gert.   Stjórnvöld eru hvött til að auka verulega framlög til hafrannsókna. Fyrirsjáanlegar eru miklar breytingar á umhverfi hafsins á norðurslóðum á næstu árum og áratugum. Vegna mikilvægis sjávarútvegsins fyrir efnahag Íslendinga er að mati þingsins nauðsynlegt að efla haf- og fiskirannsóknir umhverfis landið til að hægt sé að meta áhrif umhverfisbreytinganna á fiskistofna við Ísland. Líka að fjarskiptamál sjófarenda verði skoðuð með það að markmiði að lækka kostnað sjómanna vegna fjarskipa þannig að hann verði sambærilegur við fjarskiptakostnað annarra landsmanna. Einnig er hvatt til þess að útgerðir og skipstjórnarmenn virði lögbundinn rétt sjómanna til hvíldar og fara eftir þeim lögum og reglum sem gilda um lagmarks hvíldartíma sjómanna. Samgöngustofu er hvött til að fylgjast vel með öryggisbúnaði skipa og afnema allar undanþágur vegna ágalla í öryggisbúnaði. Einnig hvetur þingið til þess að allar reglur um öryggisbúnað verði samræmdar burtséð frá aldri skipa. Slysavarnarskóla sjómanna er þakkað frábært starf að slysavörnum og hvetur jafnframt til áframhaldandi árvekni í þessum málaflokki. Að lokum var skorað á Íslenska útgerðarmenn að bæta samskipti sín við sjómenn. „Vantraust hefur farið vaxandi milli sjómanna og útgerðarmanna undanfarin misseri. Í sumum tilfellum er um algeran trúnaðarbrest að ræða. Skapa þarf nýtt traust milli aðila þannig að sjómenn og útgerðarmenn þessa lands geti talað saman á mannlegum nótum með það að leiðarljósi að báðir komi með reisn frá þeim samkiptum,“ segir í ályktuninni.  

Hætt verður sölu á Brúneggjum í Krónunni og Bónus

Eftir Kastjós þátt gærkvöldsins hafa fjórar verslanir tekið Brúnegg úr sölu, þ.e. Melabúðin, Bónus, Krónan og Hagkaup. Mikil reiði braust út á samfélagsmiðlum í kjölfar þáttarins í ljósi þess að Brúnegg ehf. hafa um árabil blekkt neytendur með sölu á vistvænum eggjum og það sem alvarlegra er, gerst uppvís að slæmri meðferð á dýrum en í þættinum var stuðst við um 1000 blaðsíður af skjölum og skýrslum frá Matvælastofnun. Í mörg ár gerði Mat¬væla¬stofn¬un sömu at¬huga¬semd¬irnar við aðbúnað dýr¬anna, meðal ann¬ars að of marg¬ar hæn¬ur væru á hvern fermetra, allt að 15 hænur á hvern fermetra eða 69 prósent fleiri fuglar en mega vera. Loftgæðin voru einnig slæm, loftið þungt og ammoníakslykt sem gerði skoðunarmönnum erfitt fyrir. Undirburður var blautur, fiðurhamur flestra hænanna var slæmur eða mjög slæmur og voru margar hænur daufar og sýndu ekki eðlilegt atferli.   Eggin voru alla jafna seld á tæplega 40% hærra verði en venjuleg búrhænuegg, enda merkt sem vistvæn landbúnaðarafurð. Brúnegg hafa nú breytt merkingum á umbúðum. Ekki er lengur tekið þar fram að fyrirtækið hafi vistvæna vottun. Merki um vistvæna landbúnaðarafurð er þó enn á eggjabökkunum og enn segir að velferð dýra sé höfð að leiðarljósi í framleiðslunni, þrátt fyrir að annað hafi bersýnilega komið á daginn. Á vef fyrirtækisins segir einnig um eggin að „þau eru frá frjálsum hænum sem verpa í hreiður og fá einstaklega öflugt og gott fóður, ást og umhyggju.“ Þrátt fyrir allt þvertekur Kristinn Gylfi Jónsson, annar eignandi fyrirtækisins, fyrir að neytendur hafi verið blekktir.      

Mikilvægi D-vítamíns fyrir heilsu

D-vítamín er eitt af mikilvægum lífefnum líkamans, hormón sem myndast í húðinni með hjálp frá geislum sólarinnar. Líkaminn geymir vítamínið í lifrinni en líka í fituvef og vöðvum. Á Íslandi njótum við lítillar sólar á veturna og þá er mikilvægt að muna að bæta vítamíninu við fæðuinntöku. D vítamín styrkir beinin, stýrir kalkbúskapnum, minnkar líkur á beinþynningu og dregur úr líkum á slæmum afleiðingum tengdum byltum. Skortur af D vítamíni getur valdið sjúkdómnum beinkröm hjá börnum. En D vítamín er ekki bara nauðsynlegt fyrir beinin. Það spornar gegn sjúkdómum, ýmsum vöðva og taugasjúkdómum og er m.a. fyrirbyggjandi gegn þunglyndi, vöðvaverkjum, slappleika og sleni. D vítamín virkar styrkjandi á hjarta, æða og ónæmiskerfi og minnkar líkur á sjálfsofnæmissjúkdómum og sýkingum, t.d. kvefi, flensum og eyrnabólgum. Vísbendingar er um að lélegur D-vítamínbúskapur tengist einhverjum tegundum krabbameina. Erfitt getur verið að ná ráðlögðum dagskammti úr fæðunni einni saman. Vítamínið finnst í feitum fiski, náttúrulegri uppsprettu D vítamíns, sem einnig er ríkt af styrkjandi omega fitusýrum. Sama gildir um Lýsi. D-vítamíni er bætt í ýmsar fæðutegundir okkar t.d. fjörmjólk, stoðmjólk, D vítamín bætta léttmjólk, smjörlíki og einhverjar tegundir af jurtaolíum. Ráðlagt er að bæta því inn umfram fæðu, í formi fæðubótaefna, með D vítamínpillum eða með inntöku á Lýsi. D-vítamín er fituleysanlegt vítamín og safnast því upp í líkamanum. Þess vegna eru gefin út viðmið um efri mörk. Skammta umfram efri mörk ætti aðeins að taka í samráði við lækni. Foreldrum er sérstakleg bent á að gefa ekki ungbörnum lýsi og D-vítamíndropa samtímis vegna hættu á D-vítamín eitrun. Ráðlagðir dagskammtar (RDS) af D – Vítamíni fyrir börn eldri en 10 ára og fullorðna er 15 μg en 20 μg fyrir eldra fólk frá 71 árs aldri. Efri mörk eru 100 μg. Fyrir börn undir 10 ára er ráðlagður dagskammtur 10 μg. Efri mörk fyrir börn eru 50 μg en 25 μg fyrir börn yngri en eins árs. Frá 1–2 vikna aldri er ráðlagt að gefa ungbörnum D-vítamíndropa (10 μg/dag). Heimildir: landlaeknir.is, laeknabladid.is, heilsugaeslan.is, landspitali.is f.h Heilbrigðisstofnunar Suðurlands   Sólrún Auðbertsdóttir Hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar í Þorlákshöfn    

Elliði Vignisson bæjarstjóri um launamál kennara

„Ég held að það leiki ekki nokkur vafi á því að staðan er viðkvæm. Það er mikill þungi á bak við kröfu kennara. Vandinn er sá að rekstur sveitarfélaga hefur verið að þyngjast mikið á seinustu árum og mörg þeirra nánast komin að fótum í rekstrarþunga og ráða illa við bæta á sig auknum rekstrarkostnaði. Það breytir því ekki að sveitarstjórnarfólk og fulltrúar þeirra í samninganefnd þekkja mikilvægi starfa kennara og vilja finna leiðir að búa þeim góð starfsskilyrði og laun skipta þar miklu,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri um stöðuna í kjaradeilu grunnskólakennara.  Er eitthvað sem Vestmannaeyjabær einn og sér getur gert í þessu máli? „Vestmannaeyjabær einn og sér semur ekki við neina starfsmenn, það er gert á sameiginlegum vettvangi. Við getum hinsvegar fylgst með og sýnt málinu skilning. Það gerum við með allar okkar stéttir. Án starfsmanna er Vestmannaeyjabær ekkert annað en tómt hús og fallegt lógó. Við eigum allt undir hæfu starfsfólki og það þekkir launanefndin vel og mun því leita allra leiða til að leiða þetta mál til farsælla lykta,“ segir Elliði  Sérðu fyrir þér farsæla lausn í þessum málum? „Já það efast ég ekki um. Ég starfaði nú sjálfur sem kennari í meira en áratug og er reyndar enn skráður sem kennari í símaskránni. Ég veit því sem er að um leið og kennarar sem fagstétt eru þéttur og öflugur hópur þá eru þeir líka sanngjarnir og bera virðingu fyrir umbjóðendum sínum sem eru nemendur og foreldrar þeirra. Ég veit líka að hjá sveitarfélögum ríkir mikill og einlægur skilningur á mikilvægi skólastarfs og stöðu kennara. Með það að vopni hlýtur maður að vera bjartsýnn á farsæla lausn,“ segir Elliði.    

Elliði Vignisson - Landeyjahöfn sjaldan litið betur út

Meðfylgjandi er nýjasta dýptarmæling af Landeyjahöfn. Eins og þið sjáið þá er höfnin sjálf í mjög góðu ástandi og óhætt að segja að hún hafi sjaldan litið svona vel út, sérstaklega við desember byrjun.   Auðvitað erum við að vona að þetta sé til marks um að betri tök séu að nást á þeim hluta sem snúið hefur að dýpkunarmálum og dýpisvanda þannig að þegar nýtt skip kemur þá verði hægt að tryggja nægt dýpi fyrir það allt árið.   Við þetta bætist að rannsóknir í tilraunatanki Siglingstofnunar gáfu góð fyrirheit um að hægt verði að gera breytingar á innsta garðinum og tryggja þannig aukið rými fyrir ferjuna og draga úr óróa innan hafnar og fjölga þar með siglingadögum og auka öryggi.   Við höfum einnig hvatt mjög eindregið til þess að settar verði upp sandgildrur í landi þannig að minna skafi í pyttinn næst viðlegukanntinum en foksandur var þar mikil í fyrra. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið þá hefur þegar verið samið við Dofra og hans menn hjá Suðurverk að fara í að koma upp stálþiljum til að hefta fok á þessu svæði.   Eftir stendur þá fyrst og fremst það sem snýr að skipinu og ljóst að verulegar takmarkanir verða á siglingum í Landeyjahöfn þar til að fengið verður skip sem ræður við meiri ölduhæð en 2,5.   Þá er einnig ljóst að endanlegt markmið næst ekki fyrr en búið verður að finna lausnir á þeim þætti sem snýr að erfiðri aðkomu að höfninni og mikilvægt að sem fyrst verði farið í alvöru rannsóknir og útreikninga hvað það varðar.   Mestu skiptir fyrir okkur að finna að þetta mikilvæga mál sé ekki stopp heldur sé verið að leita að lausnum bæði til skemmri og lengri tíma. Við gleðjumst því núna yfir hverjum þeim áfanga árangri sem næst og viljum nota hann til að hvetja þá sem ábyrgð bera til að stíga enn fastar fram og tryggja okkur Eyjamönnum þær samögngur sem við þurfum.     -Elliði Vignisson  

Kennarar GRV ganga úr kennslu á morgun í mótmælaskyni

Þann 9. nóvember sl. fóru kennarar í GRV með kröfu um bætt launamál til bæjarstjóra og munu þeir á morgun kl. 13:30 ganga út úr kennslu og hittast á Bárustíg í mótmælaskyni.   Krafa frá kennurum til sveitarfélaga   Við, grunnskólakennarar á Íslandi, krefjumst þess að sveitarfélögin á landinu bregðist án tafar við því alvarlega ástandi sem skapast hefur í skólakerfinu vegna hættulegra og rangra áherslna í kjarastefnu sveitarfélaga gagnvart grunnskólakennurum. Laun kennara eru of lág og valda því með öðru að grunnskólakerfið er ekki lengur sjálfbært. Þeir kennarar sem nú starfa í grunnskólunum njóta mun verri kjara en samanburðarhópar og raunar töluvert lægri kjara en almennt tíðkast á landinu. Nú eru samningar okkar lausir og hafa verið lengi. Mánuðum saman hafa sveitarfélögin haft tíma og tækifæri til að bregðast við bráðum vanda. Ekkert bólar á viðbrögðum og samninganefnd sveitarfélaga virðist enn ekki hafa umboð til neins nema að endurtaka leikinn frá því í sumar og bjóða áfram óboðleg kjör.   Margir fulltrúar sveitarfélaga hafa gengist við því á síðustu árum að laun kennara séu allt of lág. Hin lágu laun hafa verið réttlætt með því að sveitarfélögin hafi ekki efni á betri kjörum. Með því er í raun verið að segja að sveitarfélögin séu ófær um að reka þá grunnþjónustu sem þau hafa tekið að sér fyrir íbúa þeirra. Slíkt gengur auðvitað ekki til lengdar. Við aðstæður sem þessar mun grunnþjónustan bíða skaða eða eyðileggjast með öllu. Árum saman hafa kennarar þurft að bæta fyrir getuleysi sveitarfélaga við að reka grunnskólann með ásættanlegum hætti. Nú er hinsvegar orðið ljóst að kennarar geta ekki lengur komið í veg fyrir að skólakerfið lendi í stórhættu. Nýir kennarar fást ekki til starfa, eldri kennarar heltast úr lestinni eða hverfa til annarra starfa – og þeir sem eftir standa munu ekki anna öllum þeim brýnu verkefnum sem fylgja grunnskólastarfi í landinu.   Kennarar hafa því aðeins tvo kosti. Að yfirgefa skólana og afhjúpa þannig endanlega þá skammsýni og hyskni sem einkennir störf sveitarfélaga á þessu sviði – eða stíga fram, draga sveitarfélögin til ábyrgðar fyrir stöðunni sem upp er kominn og krefjast viðbragða.   Með undirskrift okkar á þennan lista gerum við það síðarnefnda. ​  

ÁFRAMHALDANDI GÓÐUR ÁRANGUR Í REKSTRI

Rekstrarhagnaður Eimskips fyrir afskriftir (EBITDA) á fyrstu níu mánuðum ársins er 5,3 milljarðar króna. Sterkur rekstur og góð magnaukning í flutningum einkenna árið en magn jókst um 8% í áætlunarsiglingum félagsins. Fyrirtækjakaup hafa einkennt árið og m.a. festi félagið kaup á tveimur félögum á fjórða ársfjórðungi. Annars vegar fjárfesti Eimskip í hollenska fyrirtækinu EXTRACO sem sérhæfir sig í þjónustu við innflutningsfyrirtæki á frysti- og kælivörumarkaðnum í Hollandi. Velta Extraco nemur um 2,5 milljörðum króna. Einnig undirritaði Eimskip samninga um kaup á norska flutningafélaginu NOR LINES. Nor Lines er flutningafélag í sambærilegum rekstri og Eimskip og hjá því starfa um 200 manns. Félagið hefur yfir að ráða sjö skipum og 450 vörubifreiðum, ásamt því að hafa aðgang að 60 afgreiðslustöðum við norsku strandlengjuna, þar af 14 í eigin rekstri. Ársvelta Nor Lines er um 13,5 milljarðar króna. Á komandi mánuðum er stefnt að því að endurskipuleggja rekstur Nor Lines. Bæði þessi félög falla vel að rekstri Eimskips og eru þessar fjárfestingar í takt við fjárfestingarstefnu félagsins. Eimskip skrifaði undir viljayfirlýsingu um samstarf við grænlenska skipafélagið ROYAL ARCTIC LINE í maí á þessu ári. Nú er unnið að því að móta og meta möguleika samstarfsins og má búast við niðurstöðu þeirrar vinnu fyrir áramót. Meðal annarra breytinga má nefna að félagið tilkynnti að það muni ekki lengur sigla til Hamborgar í Þýskalandi heldur þess í stað sigla framvegis til Bremerhaven sem er vagga sjávarútvegs í Þýskalandi. Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskipafélags Íslands „Eimskip heldur áfram að skila góðum árangri og þetta er besti þriðji ársfjórðungur í rekstri félagsins frá árinu 2009 hvað varðar rekstrartekjur, EBITDA, EBIT og hagnað. Það er líka ánægjulegt að Eimskip hefur styrkt stöðu sína í alþjóðlegri flutningsmiðlun með kaupum á flutningsmiðlunarfyrirtækinu Extraco í Rotterdam og félagið skrifaði jafnframt undir samkomulag um kaup á fyrirtækinu Nor Lines í Noregi. Bæði þessi félög falla vel að rekstri og stefnu Eimskips. Eimskip og grænlenska skipafélagið Royal Arctic Line undirrituðu í maí viljayfirlýsingu um að móta og meta möguleika á samstarfi um smíði á þremur gámaskipum og um að deila afkastagetu þeirra. Með mögulegu samstarfi mun Grænland tengjast alþjóðlegum siglingakerfum. Vinnan hefur gengið vel á undanförnum vikum og mánuðum og markmiðið er að niðurstaða um samstarfið liggi fyrir í desember.“   Hér má nálgast fréttatilkynninguna í heild sinni: https://newsclient.omxgroup.com/cdsPublic/viewDisclosure.action?disclosureId=746487&lang=is Hér má horfa á beina útsendingu frá fjárfestafundi félagsins á Facebook síðu þess. Útsendingin hefst kl 8:30 föstudaginn 18. nóvember: https://www.facebook.com/www.eimskip.is/    

Dagur íslenskrar tungu í Safnahúsinu

Í samstarfi Safnahúss og Tónlistarskóla Vestmannaeyja verður miðvikudaginn 16. nóvember kl. 17:15, á Degi íslenskrar tungu, haldin kynning í Einarsstofu í Safnahúsi á tímariti sem ber heitið Stuðlaberg og er helgað hefðbundinni ljóðlist. Ritstjóri, útgefandi og ábyrgðarmaður er Ragnar Ingi Aðalsteinsson.   Stuðlaberg kom fyrst út árið 2012 og hefur eftir það komið út tvisvar á ári, haust og vor. Í ritinu er fjallað um allt sem lýtur að bragfræði. Þar birtist jafnan mikið af vel gerðum og skemmtilegum vísum auk þess sem fjallað er um höfunda og oft er rakin sagan sem liggur að baki vísunni. Birtar eru greinar um bragfræðileg efni. Þær eru stuttar og reynt að gera efnið ekki flókið enda kemur fram í ritinu að ritstjóri telur bragfræði minna á sterkt kaffi; það er gott í smáum skömmtum en ekki æskilegt að drekka mikið af því í einu.   Ragnar Ingi mun kynna ritið og lesa valda kafla af efni þess undanfarin ár. Kynningin verður á léttu nótunum. Lesið verður upp úr ritinu og auk þess mun Ragnar Ingi, sem er vel heima í vísnagerð og hefur kynnt sér þann geira menningarinnar nokkuð vel, flytja ýmislegt skemmtiefni tengt vísnagerð og kveðskap almennt.   Dagur íslenskrar tungu skipar auk þess sérstakan sess í hugum Vestmannaeyinga þar sem hann er fæðingardagur Oddgeirs Kristjánssonar. Af þeim sökum mun Jarl Sigurgeirsson mæta á dagskrána og flytja og kynna nokkur valin Eyjalög Oddgeirs.   Að lokum gefst öllum skúffuskáldum í Vestmannaeyjum tækifæri til að kynna efni sitt með stuttri en snarpri innkomu.   Allir hjartanlega velkomnir.  

Uppbyggingarsjóður Suðurlands úthlutar 30 milljónum

Uppbyggingarsjóður Suðurlands, sem er hluti af Sóknaráætlun Suðurlands, bárust nú í síðari úthlutun ársins 86 umsóknir og var 52 verkefnum veittur styrkur. Heildarfjárhæð styrkveitinganna nam um 30 milljónum. Úthlutað var um 17 milljónum kr. til 39 menningarverkefna. Uppbyggingarsjóður Suðurlands er samkeppnissjóður sem hefur það hlutverk að styrkja menningar- og nýsköpunarverkefni í landshlutanum. Við mat á umsóknum vísast til úthlutunarreglna og við miða um mat umsóknum sem finna má á heimasíðu SASS. Verkefnastjórn Sóknaráætlunar á Suðurlandi fer með hlutverk úthlutunarnefndar en fagráð á sviði menningarmála annars vegar og nýsköpunar hins vegar, skila tillögum til verkefnastjórnar. Umsjón og ábyrgð Uppbyggingarsjóðsins er hjá Samtökum sunnlenskra sveitafélaga.   Nokkur verkefni frá Vestmannaeyjum hlutu styrki, sjö úr flokki menningar og tvö úr flokki nýsköpunar. Í síðarnefndum flokki fékk Einsi Kaldi Veisluþjónusta ehf. fyrir The Brothers Brewery 1.000.000 kr. fyrir verkefnið Vörumerkjahönnun fyrir Eldfell Volcanic Red Ale og SegVeyjar ehf. 500.000 kr. fyrir verkefnið Rafmagnslest um Heimaey – arðsemismat. Í flokki Menningarverkefna fengu þeir Gísli Pálsson og Valdimar Leifsson 800.000 kr. fyrir verkefnið Heimaey 1973: Einvígi við jarðeldinn (heimildarmynd); Vestmannaeyjabær 600.000 kr. fyrir verkefnið Gagnaver Eldheima; Leikfélag Vestmannaeyja 400.000 kr. fyrir verkefnið Benedikt Búálfur; Sæheimar - Fiskasafn 400.000 kr. fyrir verkefnið Lundapysjur í Vestmannaeyjabæ; Vestmannaeyjabær 400.000 kr. fyrir verkefnið Lögin í gosinu – tímamótatónleikar á tímamótum; Bakvarðahópur Sagnheima, byggðasafns 300.000 kr. fyrir verkefnið Saga og súpa í Sagnheimum 2017; og svo Sagnheimar, byggðasafn 300.000 kr. fyrir verkefnið Úr kompunni í 3D. Sýning safngripa á þrívíddarformi.    

Eyþór Ingi á Háaloftinu á morgun

Söngvarinn og Dalvíkingurinn Eyþór Ingi Gunnlaugsson mun vera með tónleika á Háaloftinu á fimmtudaginn 17. nóvember kl. 20:00. Tónleikarnir verða með óhefðbundnu sniði þar sem Eyþór mun fara með gamanmál á milli þess sem hann þenur raddböndin.   Nú ertu óumdeilanlega þekktastur fyrir sönghæfileika þína, hvað mun fólk líka fá að sjá á laugardaginn? „Ég mun vera með allskonar grín og eftirhermur af ýmsum einstaklingum á milli laga. Þetta eru í raun blanda af tónleikum og gríni,“ segir Eyþór sem hefur farið víðsvegar um landið með þetta prógram. „Þetta hefur verið gott ferðalag, ég er búinn að fara á flesta tanga landsins og hefur alls staðar verið fullur kofi og góð stemning,“ bætir Eyþór við. „Lögin sem ég tek verða „cover“ af mörgum af mínum uppáhalds lögum og fer það mikið eftir því hvernig skapi ég er hvað verður fyrir valinu,“ segir Eyþór en sem mun vera með píanó, gítar og trommu á sviðinu, svo eitthvað sé nefnt.   Hver var kveikjan að þessari tónleikaröð hjá þér? „Þetta var algjör tilviljun. Það gekk bara svo vel að ég fékk hringingar héðan og þaðan og allt í einu var þetta orðið að túr,“ segir Eyþór.   Hefur þú alltaf verið góður í eftirhermum? „Þegar ég segi sögur þá fer ég oft í karakter þannig eftirhermur hafa alltaf verið hluti af mér.“ Dulinn hæfileiki kannski? „Já, kannski. Þetta hefur verið svona partí trix hjá mér baksviðs á tónleikum og aldrei áður fengið pláss á sviðinu sjálfu,“ segir Eyþór og bætir við að honum þykir vænt um margar af eftirhermum sínum. „Það er alltaf gaman að taka Ladda og einnig Bubba, Páls Óskar og Egil Ólafs svo einhverjir séu nefndir,“ segir Eyþór.   Miða er hægt að nálgast í Tvistinum og einnig við dyr og kostar stykkið 2.500 kr.    

Jötunn aðili að samningi sem undirritaður var í gærkvöldi

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og Sjómannasamband Íslands hafa undirritað nýjan kjarasamning til næstu tveggja ára. Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur, eitt aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands, tók samningsumboð sambandsins til baka nú undir kvöld og það félag stendur því utan við gerðan kjarasamning. Þá hafa ekki tekist samningar við Sjómannafélag Íslands. Sjómannafélagið Jötunn Vestmannaeyjum er aðili að Sjómannasambandinu.   Þrátt fyrir að sjómenn hafi slitið formlegum samningaviðræðum á fimmtudag og verkfall skollið á hið sama kvöld, var ljóst að ekki bar mikið í milli aðila. Óformlegum viðræðum var því fram haldið til að reyna að þoka málum áfram og leysa þá hnúta sem urðu þess valdandi að til verkfalls kom. Sú vinna og góður vilji allra hlutaðeigandi hafa því skilað kjarasamningi sem bæði útgerð og sjómenn geta vel við unað.   Í fyrsta lagi náðu aðilar saman um fiskverðsmál. Þar er um að ræða málefni sem ágreiningur hefur staðið um til margra ára. Sú meginregla hefur verið sett, að í viðskiptum á milli skyldra aðila, þ.e. útgerðar og vinnslu í eigu sömu aðila, skuli fiskverð að jafnaði taka mið af 80% af markaðsverði á fiskmarkaði. Að því er viðskipti með uppsjávarfisk varðar, hefur gagnsæi verið aukið, samskipti útgerða og áhafna vegna fiskverðssamninga verið styrkt og upplýsingagjöf til eftirlitsaðila verið formfest. Í öðru lagi var samið um hækkun kauptryggingar, í þriðja lagi var samið um aukinn orlofsrétt, í fjórða lagi var samþykkt 130% aukning á fjármunum til kaupa á hlífðarfötum og í fimmta lagi var um það samið að fram skyldi fara óháð úttekt á öryggi og hvíldartíma sjómanna. Í sjötta lagi urðu aðilar ásáttir um að svokallað nýsmíðaákvæði yrði tímabundið frá 1. desember 2023.   Það er jákvætt að aðilar hafi borið gæfu til að ná saman um betri kjör sjómanna og SFS bindur vonir við að sjómenn samþykki fyrirliggjandi kjarasamning. Hluti skipaflotans getur haldið til veiða á næstu dögum, þrátt fyrir að verkfall Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur og Sjómannafélags Íslands standi enn. Viðræðum SFS og síðargreinda félagsins verður fram haldið í fyrramálið og SFS bindur vonir við að samningar takist við það félag.      

Stjórnmál >>

Framsókn - Góð heilsa er gulli betri

 …segir máltækið og annað sem segir: „Heilsan er fátækra manna fasteign.“ Já, heilsan er óumdeilanlega eitt það verðmætasta sem við eigum og að henni þarf að hlúa. Við berum ábyrgð á eigin heilsu en þegar slysin verða eða heilsan brestur, þá vill Framsóknarflokkurinn að á Íslandi sé góð heilbrigðisþjónusta sem allir hafi aðgang að, óháð efnahag. Til að það megi ganga eftir vill Framsóknarflokkurinn byggja nýjan Landspítala á nýjum stað, efla heilsugæsluna og heilbrigðisstofnanir um land allt. Aukin framlög til heilbrigðismála Ríkisstjórnin, undir forystu Framsóknarflokksins hefur aukið framlög til heilbrigðiskerfisins um tæpa 40 milljarða á kjörtímabilinu og útgjöld til tækjakaupa hafa sjöfaldast. Útgjöld til heilbrigðismála hafa verið stærsti liður ríkissjóðs á kjörtímabilinu, en á síðustu fjárlögum voru 162 milljarðar settir í heilbrigðiskerfið. Framsóknarflokkurinn vill efla heilbrigðiskerfið enn frekar en einnig að frekari greiningar og gæðamælingar verði gerðar á heilbrigðiskerfinu svo þeir fjármunir sem settir eru í málaflokkinn nýtist sem best. Eyðum biðlistum Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni eru margar hverjar vannýttar. Með því að nýta þessi sjúkrahús betur þá væri hægt að eyða biðlistum með einföldum aðgerðum og um leið að styrkja rekstur þessara stofnana, sem hafa margar hverjar verið fjársveltar um árabil. Um leið værum við að létta álaginu af Landspítalanum. Við þurfum að eiga gott hátæknisjúkrahús og Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að reisa nýjan Landspítala á nýjum stað. Múhammed til fjallsins Framsóknarflokkurinn vill bæta aðgengi fólks á landbyggðinni að sérfræðingum– fjallið á ekki að fara til Múhammeds. Við viljum líka efla fjarlækningaþjónustu en verkefnið á Kirjubæjarklaustri hefur gefist afar vel og því tilefni til að nýta þá reynslu til frekari uppbyggingar. Framsókn vill að komið sé til móts við þá sem þurfa að fara að heiman til að sækja sér heilbrigðisþjónustu, s.s. vegna fæðinga þar sem fæðingarstöðum hefur fækkað verulega hin síðari ár og vegna eftirlits eða eftirfylgni sem ekki er hægt að veita í heimabyggð. Réttlætismál Verðandi foreldrar á landsbyggðinni þurfa t.d. oft að hefja töku fæðingarorlofs fyrr, þar sem þeir þurfa að fara tímanlega á fæðingarstað. Þá dregst. biðtíminn eftir barninu, frá orlofinu. Barn og foreldrar njóta því styttri samveru þegar barnið kemur loksins í heiminn. Með því að breyta lögum um fæðingarorlof gætum við tryggt rétt barna til að njóta jafnlangs tíma með foreldrum sínum eftir fæðingu eins og þau börn sem eiga heima í nágrenni við fæðingarþjónustu, en annar greinarhöfunda lagði fram frumvarp þess efnis á Alþingi. Hár dvalarkostnaður Annað atriði sem þarf að huga betur að er dvalarkostnaður þeirra sem þurfa að fara að heima vegna barnsfæðinga og eiga ekki ættingja eða vini sem geta hýst þá á meðan á biðinni stendur. Ein leið væri að útvega fólki dvalarstað eða með fjárstyrk vegna dvalarkostnaðar í nágrenni við fæðingarstað. Verðandi foreldrar eiga ekki að gjalda þess að búa fjarri fæðingarstöðum og fjarri heilbrigðisþjónustu almennt.   Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og Ásgerður Kristín Gylfadóttir, hjúkrunarstjóri HSU og í 3. sæti lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.  

Greinar >>

Georg Eiður - Landeyjahöfn, staðan 22.11.2016

Mjög sérstök staða í Landeyjahöfn, en um leið að sjálfsögðu mjög ánægjuleg. Dýpið mikið og gott, enda gengið óvenju vel hjá Galilei 2000 að komast til dýpkunar, enda ölduhæðin í Landeyjahöfn í haust verið nokkuð hagstæð þó svo að vissulega hafi blásið nokkuð hressilega stundum og ég hef verið spurður út í þessar breytingar á stefni Galilei, en mér er sagt að eftir að skipið lauk dælingu sinni í Landeyjahöfn samkv. samningi, var þeim boðinn sérstakur auka samningur sem gekk út á það að hreinsa betur meðfram hafnargörðunum, en til þess að ná því urðu þeir að breyta rörinu framan á skipinu.   Að öðru leiti er lítið að frétta af einhverjum hugmyndum um lagfæringar á höfninni, skilst reyndar að varnargarðurinn sem reistur var með Markarfljótinu, sé að miklu leyti horfinn og einhver umræða orðin um að fjarlægja hugsanlega garðinn sem Herjólfur bakkar að þegar hann fer frá bryggju, með það að markmiði að minnka ölduhreyfingu innan hafnarinnar, en mér skilst að sú hugmynd hafi komið frá yfirmönnum Herjólfs. Veðurspáin framundan er ekkert sérstök en ef við Eyjamenn verðum heppnir með veðurfar í vetur, þá er alveg möguleiki á að það verði óvenju oft fært í Landeyjahöfn í vetur, ef miðað er við hversu gott dýpið er í höfninni.   Eitt af fjölmörgum verkefnum hafnarvarðar er að leysa og binda Herjólf. Ekki þarf maður að starfa lengur þar til þess að sjá, hvaða vandamál eru þar helst og langar mig að nefna 3 dæmi. Ég hef mjög oft tekið eftir því, að þegar bílar koma akandi niður Skildingarveginn (sérstaklega ferðamenn) og sjá bílana byrja að vera að safnast í raðirnar til að fara í Herjólf, þá reyna þeir ótrúlega oft að fara meðfram kaðlinum sem þar er, eða sömu leið og inn að bílaverkstæði Harðar og Matta og reyna síðan að komast meðfram Herjólfsafgreiðslunni að sunnanverðu og vestur inn á svæðið að biðröðinni og eiginlega furðulegt að ekki skuli nú þegar hafa orðið árekstrar þar þegar þeir mæta öðrum bílum sem eru að koma réttu leiðina. Ástæðan fyrir þessu er sú að merkingarnar sem sýna hvaða leið á að fara, sjást ekki fyrr en komið er inn í beygjuna til austurs, en að mínu viti ætti ekki að vera mikið mál að leysa þetta með því að setja áberandi skilti við kaðal vegginn, sunnan við bílaraðirnar.   Annað atriði sem mig langar að nefna tengist einnig merkingum, en fyrir nokkru varð ég vitni að því þegar rúta merkt Norðurleiðum keyrði upp undir ranann þar sem fólk gegnur um borð í Herjólf með töluverðu tjóni, og mér skilst á öðrum hafnarverðum að þetta gerist nú bara reglulega. Þarna þyrfti virkilega að bæta úr merkingum og aðvörunar skiltum. Þriðja atriðið sem mig langar að nefna fjallar um tímasetningar á ferðum Herjólfs þegar ferðirnar færast úr Landeyjahöfn í Þorlákshöfn. Við Eyjamenn sem förum yfirleitt akandi vitum að við fáum skilaboð ef breytingar verða, en þó ég hafi aðeins starfað þarna á þriðja mánuð, þá hef ég ótrúlega oft séð fólk koma hlaupandi niður á bryggju á slaginu 8, haldandi það að skipið fari ekki fyrr en hálf níu. Þessu væri að mínu viti mjög auðvelt að breyta einfaldlega með því að láta Herjólf alltaf fara á sama tíma í sínar fyrstu ferðir. Við vitum það að Herjólfur þarf að fara kl 8 til þess að halda áætlun, en hvers vegna hann fer ekki fyrr en 8:30 þegar hann fer í Landeyjahöfn, hef ég ekki hugmynd um, en gaman væri ef einhver vissi svarið.   Varðandi nýsmíðina, þá hef ég lítið heyrt annað en bara það sem komið hefur fram í fjölmiðlum að undanförnu að það sé verið að semja við Pólverja um að smíða ferjuna. Það sem ég hefði hins vegar viljað að gerðist á allra næstu árum, miðað við stöðuna í dag, það er að fundinn yrði rekstrar grundvöllur fyrir því að halda núverandi ferju um ókomin ár, enda hefur hún reynst okkur vel. Veit reyndar að það er búið að lofa okkur að halda henni í fyrstu 2 árin eftir að nýja ferjan kemur, en allar spár um þróun ferðamennskunnar benda til þess að ferðamönnum muni bara fjölga. Það ásamt að öllum líkindum meiri gámaflutningi milli lands og eyja ætti að mínu viti klárlega að geta skapað fleiri verkefni, auk þess að við gætum þá gripið til hennar þegar við þyrftum.   Að lokum verð ég að hafa eftir brandara frá vini okkar Jógvan hinum færeyska, sem mér skilst að hafi sagt í heitu pottunum fyrir nokkru síðan í Eyjum. Skrýtnir þessir Færeyingar, þeir vilja bara grafa göng í allar áttir á meðan Eyjamenn leysa þetta einfaldlega með batterís ferju.   Georg Eiður Arnarson