Smiðjudagar í Grunnskóla Vestmannaeyja

Nú eru smiðjudagar í fullum gangi á unglingastigi GRV og mikið um að vera í skólanum. Nemendur í Lista- og Hönnunarsmiðju sjá um að fegra skólann. Nemendur í Góðverka- og samfélagssmiðju eru búnir að fara vítt og breitt um bæinn að gera góðverk. Þeir fóru inn á Hraunbúðir að aðstoða við umönnun eldri borgara. Einnig fóru nemendur inn á Kirkjugerði, Sóla og Víkina og léku við leikskólabörnin og lásu fyrir þau. Nemendur aðstoðuðu á Gistiheimilinu Hamri og buðust m.a. til að skafa bílrúður hjá fólki. Þeir röðuðu í poka í Bónus og hjálpuðu fólki að bera pokana út í bíl ásamt því að hlusta á yngstu kynslóðina syngja á öskudaginn.  Geir Jón Þórisson kom og sagði frá starfsemi Rauða krossins og einnig fór hann aðeins inn á fyrstu hjálp á slysstað. Matreiðslusmiðjan hefur fengið til sín tvo eðal matreiðslumenn þá Grím kokk sem kenndi nemendum að elda ýmsa fiskrétti frá grunni og Einsa Kalda sem kenndi nemendum að baka ýmiskonar súkkulaðikökur og útbúa ís. Útvarpssmiðjan sér um að halda uppi fjörinu á fm 104,7 og hópur af nemendum er í FabLab. Útipúkinn er nafn á einni smiðju þar sem nemendur hafa t.d. farið í klifurvegginn hjá Björgunarfélaginu, farið í ratleiki um bæinn o.fl. Ein smiðjan vinnur að gerð Árbókar sem nemendur í 10. bekk fá við útskrift í vor. En stærsta smiðjan er svo Árshátíðarsmiðjan sem sér um undirbúning árshátíðarinnar sem verður í kvöld í Höllinni, þar mun Einsi Kaldi sjá um matinn, nemendur sjá um skemmtiatriði og svo mun Friðrik Dór sjá um ballið.   Nemendur og starfsfólk GRV vill þakka öllum þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem hafa styrkt þau, með því að gefa vinnu sína og vinninga. Það er mikils metið að samfélagið sé til að taka þátt í þessu. GRV þakkar eftirfarandi fyrirtækjum kærlega fyrir þeirra stuðning. ·         Grímur kokkur ·         Einsi Kaldi ·         900 Grillshús ·         Landsbankinn ·         Dízo ·         Tvisturinn ·         Póley ·         Skýlið ·         Bk gler ·         Geisli ·         Eymundsson ·         Húsasmiðjan ·         Axel Ó ·         Heildverslun Karls Kristmanns ·         Kráin ·         Hressó ·         Joy ·         Miðstöðin ·         Klettur ·         Subway

Eldheimar keppa um Eyrarrósina

Framtíðarsýn og áherslur í menntamálum

 Á síðasta fundi fræðsluráðs greindi fræðslufulltrúi Vestmanneyjabæjar frá hvernig unnið er að markmiðum framtíðarsýnarinnar i menntamálum hjá sveitarfélaginu. í bókun ráðsins segir; Í leikskólunum er áhersla á daglegan lestur og margskonar leiðir til að efla málþroska, hugtakaskilning og hljóðkerfisvitund barnanna.   Starfsfólk leggur áherslu að setja orð á athafnir í öllum þáttum daglegs lífs þar sem mikilvæg hugtök stærðfræðinnar eru jafnframt kennd og notuð. Kennararnir nýta nýjustu tækni ásamt eldri gamalgrónum aðferðum þar sem öll tækifæri eru nýtt til kennslu og þjálfunar.   Búið er að þýða framtíðarsýnina yfir á pólsku og kynna fyrir forráðamönnum. Lestrarstefna Grunnskólans er leiðarljós í allri lestrar- og læsiskennslu upp allt skólastigið. Samstarf við Bókasafn hefur aukist.   Verið er að leita að leiðum til að efla stærðfræðikennarana. Skipulagning námsþátta í stærðfræði, hugtakavinna, hlutbundin stærðfræði, innleiðing kennslu í forritun með áherslu á samþættingu námsgreina hefur aukist. Stuðningi hefur verið bætt inn í stærðfræðikennsluna á elstu stigum og fagstjóri hefur fengið meiri tíma til að sinna hlutverkinu. Markmiðasetning í hverjum árgangi hefur verið í vinnslu undanfarin ár.   Endurmenntun fyrir kennara hefur skilað sér í fjölbreyttari kennsluaðferðum. Áhersla á samstarf skólans við forráðamenn hefur eflst. Stjórnendur verja meiri tíma í bein samskipti við forráðamenn en áður hefur verið enda hafa foreldrar brugðist vel við bón skólans um aukið samstarf.   Hlutverk skólaskrifstofunnar hefur verið að fylgja framtíðarsýninni eftir og kynna sem víðast í samfélaginu. Stöðupróf (skimanir) í lestri og stærðfræði hafa verið lögð fyrir nemendur í 1., 3., 5., 6., og 9. bekk og þau endurtekin eftir þjálfunarlotur svo að nemendur sjái framfarir og árangur af þjálfunarlotunum. Fræðslufulltrúi er með fasta viðveru í skólunum og tekur þátt í samstarfi við kennara, foreldra og stjórnendur eins og óskað er eftir.   Fræðsluráð þakkar fyrir yfirferðina og lýsir ánægju sinni með öflugt starf sem unnið er í skólunum og mun áfram fylgjast með framgangi mála.

Ekki um einelti að ræða

Eins og fram kom í tilkynningu frá ÍBV Íþróttafélagi í síðasta mánuði voru kallaðir til utanaðkomandi og hlutlausir sérfræðingar til að gera formlega eineltisathugun og leiðbeina félaginu um framhaldið vegna gruns um einelti sem upp kom í æfingahópi félagsins í handbolta karla.   Sérfræðingarnir hafa nú skilað stjórn félagsins skýrslu þar sem meginniðurstaðan er þessi: ''Niðurstöður þessarar athugunar eru þær að ekki sé hægt að fullyrða að um einelti hafi verið að ræða skv. skilgreiningu þess í reglugerð nr. 1009/2015. Hins vegar er ljóst að neikvæð samskipti innan hópsins hafi verið til staðar um nokkurn tíma og komið niður á liðsheildinni og samskiptamáta liðsmanna''.   Skýrsluhöfundar telja "... jákvætt að ÍBV hafi tekið málið alvarlega og leitast við að koma því í farveg sem fyrst".   Sérfræðingarnir leggja jafnframt fram tillögur til lausnar á þeim samskiptavandamálum sem urðu kveikjan að ofangreindri athugun - og sömuleiðis hvernig félagið skuli taka á málum af þessu tagi almennt í öllum flokkum félagsins. Þær tillögur verða leiðbeinandi fyrir félagið í framhaldinu.   Stjórn ÍBV Íþróttafélags vill brýna fyrir fólki að varast rætni, illmælgi og sleggjudóma í tengslum við þetta viðkvæma mál.   Fyrir hönd handknattleiksdeildar ÍBV, Karl Haraldsson formaður   Fyrir hönd aðalstjórnar ÍBV íþróttafélags, Íris Róbertsdóttir formaður

Bónus oftast með lægsta verðið

  Bónus í Ögurhvarfi var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í átta verslunum á höfuðborgarsvæðinu fimmtudaginn 4. febrúar. Bónus var lægst í 81 tilviki, Krónan í 23 tilfellum og Fjarðarkaup 16. Hæsta verðið var oftast að finna í Iceland Engihjalla eða í um þriðjungi tilvika. Munurinn á hæsta og lægsta verði vöru í könnuninni var frá 7% upp í 180%. Oftast var á milli 25-50% verðmunur á hæsta og lægsta verði. Könnunin var gerð í lágvöruverðsverslunum og stórmörkuðum. Af þeim 140 vörutegundum sem skoðaðar voru, voru flestar fáanlegar hjá Fjarðarkaupum Hafnarfirði eða 138 og hjá Iceland 131. Fæstar vörurnar voru fáanlegar hjá Krónunni eða 99 af 140 og Samkaup-Úrval átti 101.   Þegar rýnt er í meðfylgjandi töflu má sjá að verðmunur á milli lágvöruverðsverslana er í um þriðjungi tilvika um og undir 2 kr. hjá Bónus og Krónunni og einnig á milli Krónunnar og Nettó. Þannig kostar 200 ml. af NAN 1 barnamjólk 157 kr. hjá Bónus, 158 kr. hjá Krónunni og 159 kr. hjá Nettó. En þessa uppröðun á verði á milli þessara verslana má sjá á fleiri stöðum í könnuninni.     Mestur verðmunur var á ávöxtum og grænmeti Af þeim vörum sem skoðaðar voru var mestur verðmunur á ávöxtum og grænmeti, eða 31-180%. Mestur verðmunur var á frosnu mangó í bitum sem var dýrast á 1.396 kr./kg. hjá Samkaupum-Úrvali en ódýrast á 498 kr./kg. hjá Bónus sem er 898 kr. verðmunur eða 180%. Það var einnig mikill verðmunur á frosnum jarðaberjum sem voru dýrust á 1.140 kr./kg. hjá Hagkaupum Skeifunni en ódýrust á 415 kr./kg. hjá Bónus sem er 175% verðmunur.   Af ávöxtum og grænmeti var minnstur verðmunur var á íslenskri agúrku sem var dýrust á 656 kr./kg. hjá Samkaupum-Úrvali en ódýrust á 477 kr./kg. hjá Bónus sem er 31%. Af öðrum vörum má nefna að mikill verðmunur var á Lambhagasalati í potti sem var ódýrast á 245 kr. hjá Víði en dýrast á 359 kr. hjá Iceland sem gerir 47% verðmun.

12 kærur vegna brot á umferðarlögum

Fyrsti Eyjabjórinn í sölu: Framleiðsla og sala eingöngu í Vestmannaeyjum til að byrja með

Það var seint árið 2012 sem Jóhann Guðmundsson og Kjartan Vídó voru að vinna saman þegar sú hugmynd kviknaði hjá þeim félögum að skoða bruggun á bjór. ,,Við báðir fórum þá strax að safna að okkur upplýsingum og bókum um allt sem tengdist bruggun á bjór. Ætli það liggi ekki einhverjar tæplega 20 bækur í valnum núna, allt frá sögu bjórbruggunar til hreinsunar á tækjum. Ásamt öðrum eins haug af greinum og upplýsingum sem maður er búinn að sanka að sér og lesa frá þessum tíma,“ sagði Jónann í spjalli við Eyjafréttir.   Hann sagði á einhverjum tímapunkti við Kjartan, að þetta væri nú orðið helvíti slæmt því þeir voru farnir að sofna út frá lestri um þrif á bruggtækjum og tólum. Í byrjun ræddu þeir við nokkra félaga um að koma að þessu með þeim sem endaði með því að þeir urðu fjórir Jóhann, Davíð bróðir hans, Kjartan Vídó og Hlynur Vídó, þannig kom nafnið The brothers Brewery. ,,Þegar Hannes fór svo að troða sér í fjölskylduna mína þá tók bruggfélagið vel á móti honum þar sem hann átti bílskúr sem hentaði vel sem aðstaða.“   Átti fyrst að vera áhugamál „Þetta átti bara að vera skemmtilegt áhugamál og fyrstu bjórarnir gáfu kannski ekkert tilefni til annars,“ sagði Jóhann. ,,Við byrjuðum á að kaupa malað korn frá Brew þar sem það var búið að fyrirfram ákveða uppskriftir og brugga heima yfir nokkrum bjórum.“  Þeir höfðu það strax að markmiði að reyna að komast yfir besta mögulega hráefnið til bruggunar og frá byrjun hafa þeir keypt malt, ger og humla frá Brew.is sem er aðili sem flytur inn hráefni sem er sambærilegt að gæðum og stóru brugghúsin eru að kaupa. „Ferlið í einföldustu mynd er bara að meskja malað korn við ákveðið hitastig í ákveðnu magni af vatni sem er svo skolað í raun til að safna sykri úr korninu til að koma í suðu. Eftir suðu er svo virturinn kældur niður til þess að bæta við hann geri sem byrjar þá að breyta sykrinum í alkóhól. Þegar gerjun er lokið er komið að því að koma bjórnum á umbúðir, flöskur eða kúta.“  Það eru til ákveðnar grunngerðir af bjór sem eru í raun grunnurinn fyrir alla bjóra í heiminum. „Þannig ákveðum við t.d. að brugga í dag, Red Ale, Porter eða IPA sem dæmi. Þá förum við eftir ákveðnum leiðbeiningum fyrir þá tilteknu gerð, veljum tilheyrandi ger og malt og svo bara það sem okkur dettur í hug.“   Fyrsta tilraun ekki alltaf góð tilraun Jóhann nefndi einhvern tímann við strákana að þeir yrðu að gera bjór sem væri flottur sem Vestmannaeyja bjór. ,,Ég hafði þá nýlega verið að sjá bjór sem James og Martin hjá Brewdog blönduðu með þara og fannst tilvalið að velja söl úr Eyjum til að setja í bjór,“ sagði Jóhann.  Þeir fóru þá að leita að grunni sem passaði og Red Ale varð fyrir valinu. ,,Næsta skref var að finna humlana sem við vildum hafa með sölinni. Til þess að vinna svo á móti saltinu í sölinni ákváðum við að bæta við chilimauki sem Einar Björn á Einsa kalda reddaði okkur. Í fyrstu tilraun héldum við að við værum búnir að eyðileggja 40 l af einhverju sem hefði getað orðið góður bjór með því að bæta sölinni út í og angaði bílskúrinn hjá Hannesi eins og söl.“   Ferlið er erfitt og langt „Ferlið tók langan tíma og ekki auðvelt að fá öll leyfi upp í hendurnar,“ sagði Jóhann. ,,Við ætluðum að reyna að stytta ferlið með því að Einsi Kaldi myndi sækja um leyfi fyrir starfsemina. Einar Björn þurfti eftir sem áður að fá nýtt starfsleyfi, nýtt iðnaðarleyfi ofan á öll önnur leyfi sem hann er með. Breyta tilgangi félagsins og fá svo áfengisframleiðsluleyfi sem er svo háð reglum um áfengisgjöld. Við erum því með öll leyfi í dag til að framleiða áfengi undir Einsi Kaldi þó svo að við tölum alltaf um vöruna okkar sem The Brothers Brewery.“   Þeirra stíll sem er bragðmiklir bjórar Aðspurður út í fyrirmyndir í þessum bransa sagði Jóhann „Það eru mörg frábær brugghús hér heima og erlendis sem eflaust væri hægt að nefna. Við hinsvegar erum kannski frekar að reyna að gera okkar stíl frekar en að reyna að elta einhverjar fyrirmyndir. Það sem við viljum fyrst og fremst reyna að gera er að framleiða bjór hér í Eyjum sem gæti hentað vel með mat til að leika við bragðlaukana. Við erum meðal annars að þróa Saison bjór sem við munum kalla Sædísi sem á að henta mjög vel með sjávarréttum. Við munum því væntanlega alltaf framleiða það sem flestir tala um sem bragðmikinn bjór þó að okkur finnst við vera að tóna suma niður.“       Viðtalið í heild má sjá í nýjasta tölublaði Eyjafrétta. 

Árni vill 70 metra löng göng í Heimakletti

Mun að óbreyttu segja sig frá rekstrinum svo fljótt sem verða má

Í árslok 2015 var skuld Hraunbúða við aðalsjóð Vestmannaeyjabæjar orðin um 372 milljónir og að til þess að geta veitt þá nauðsynlegu heilbrigðisþjónustu sem ríkið er ábyrgt fyrir þarf Vestmannaeyjabær að greiða um 35 milljónir króna á ári með rekstrinum. Þar er því í raun um að ræða niðurgreiðslu sveitarfélagsins á lögbundinni þjónustu ríkisins. Að óbreyttu mun sveitarfélagið neyðast til að segja sig frá rekstrinum svo fljótt sem verða má. Þetta kom fram á síðasta fundi fjölskyldu- og tómstundaráðs þar sem lá fyrir minnisblað frá bæjarstjóra um rekstur hjúkrunarheimilisins að Hraunbúðum. Í því er athygli vakin á því að stofnunin glímir við alvarlegan rekstrarvanda sem skýrist eingöngu af því að framlög ríkisins duga ekki fyrir lögbundinni þjónustu. Þá er einnig minnt á að rekstur hjúkrunarheimilis er ekki lögbundið hlutverk sveitarfélagsins heldur beri ríkið alla ábyrgð á þeirri mikilvægu þjónustu samkvæmt lögum um málefni eldri borgara. Ríkið hefur enn ekki kynnt fyrir Vestmannaeyjabæ nýjan þjónustusamning sem gera átti árið 2015. Því er ekki í gildi neinn samningur um þennan rekstur í Vestmannaeyjum heldur sinnir Vestmannaeyjabær honum á forsendum hefðar.     Fram kemur að í árslok 2015 er skuld Hraunbúða við aðalsjóð Vestmannaeyjabæjar orðin um 372 milljónir og að til þess að geta veitt þá nauðsynlegu heilbrigðisþjónustu sem ríkið er ábyrgt fyrir þarf Vestmannaeyjabær að greiða um 35 milljónir króna á ári með rekstrinum. Þar er því í raun um að ræða niðurgreiðslu sveitarfélagsins á lögbundinni þjónustu ríkisins. Ráðið þakkaði minnisblaðið og segir stöðuna mjög alvarlega. „Áður hefur komið fram einbeittur vilji ráðsins til að ráðast í miklar aðgerðir í málefnum eldri borgara á komandi misserum. Umtalsverðar byggingaframkvæmdir á undanförnum árum hafa fjölgað mjög búsetuúrræðum fyrir aldraða og ber þar hæst svokallaðar 60+ íbúðir að Kleifarhrauni. Félagsstarf eldri borgara hefur einnig fengið mikinn og góðan byr í seglin með nýrri og glæsilegri félagsaðstöðu í Kviku. Á döfinni eru miklar framkvæmdir í öldrunarmálum þar sem meðal annars eru lögð drög að fjölgun þjónustuíbúða, bættri aðstöðu til dagdvalar, byggingu nýrrar álmu fyrir fólk með heilabilun við Hraunbúðir, fjölgun rýma á dvalarheimili og fl. Rétt er að ítreka að þessi alvarlegi halli á þjónustu ríkisins mun ekki hafa áhrif á þann vilja né fyrirhugaðar aðgerðir sveitarfélagsins hvað málaflokkinn varðar,“ segir í bókun ráðsins. Hins vegar geti bærinn með engu móti haldið áfram rekstri Hraunbúða með núverandi hætti þegar fyrir liggur að rekstrarframlög ríkisins duga hvergi nærri. „Að öllu óbreyttu mun hallarekstur á þjónustu ríkisins halda áfram að kalla á framlög frá sveitarfélaginu og hindra þar með aðra þjónustu. Ráðið minnir enn fremur á að nýlega lét Vestmannaeyjabær vinna vandaða rekstrarlega úttekt á heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum þar sem sýnt var fram á þá gríðarlegu hagræðingu sem fylgir því að sameina alla þá þjónustu undir einn hatt. Hagræðingin af þeirri aðgerð var umfram rekstrarhalla Hraunbúða og færi einnig langt með að greiða til að mynda fyrir aukna fæðingarþjónustu. Þeirri úttekt mætti ríkið með þögninni.“ Ráðið telur mikilvægt að heilbrigðisráðherra verði upplýstur um þessa alvarlegu stöðu og að ráðuneytið geri grein fyrir því hvernig ríkið hyggst axla ábyrgð á rekstrinum. Að óbreyttu mun sveitarfélagið neyðast til að segja sig frá rekstrinum svo fljótt sem verða má.

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Greinar >>

Samgöngur

 Síðan Landeyjarhöfn kom hefur hún verið mikið í umræðunni. Eðlilega heyrast efasemdaraddir um höfnina og framtíð okkar með þær samgöngubætur. Mín skoðun á málinu er að smíða eigi nýtt skip eftir þeim hugmyndum sem koma frá smíðanefndinni. Þó eflaust megi eitthvað bæta í hönnuninni eins og bæjarstjórn benti svo ágætlega á. Margir hafa verið að benda á allt það sem miður hefur farið, sérstaklega yfir vetrartímann og eru margir efasemdarmenn um þessa framkvæmd. Rétt eins og var þegar Hvalfjarðargöng voru byggð. Ég skora á fólk að fara inná heimasíðu Spalar og lesa heimsendaspárnar sem ritaðar voru í aðdraganda byggingar gangnanna. Þar gekk Jónas Kristjánsson rithöfundur hvað harðast fram ásamt ýmsum verkfræðingum og fleiri sérfræðingum með ýmsar spár, sem fæstar hafa ræst, ef einhver.   Ég vona að núna að með öðru og betra dæluskipi munu aðstæður batna töluvert. Dælingar í höfninni munu verða þá vonandi mun markvissari og minna um bilanir hjá þeim aðilum sem hafa séð um dælingar síðustu ár. En mér skilst að þau skip hafi meira verið sandflutningsskip en sanddæluskip. En við erum samt enn með hann Herjólf gamla okkar sem lætur illa að stjórn og miðast siglingar hans í höfnina við 2m ölduhæð, massa, öldulengd, mikinn vind og ég veit ekki hvað. Hann sem sagt lætur illa að stjórn miðað við allskonar aðstæður. Ég vonast til að nýtt skip muni láta betur að stjórn og verði því betri lausn. Ekki síst fyrir skipstjórnarmenn Herjólfs sem hafa ekki verið öfundsverðir í sínu starfi. Höfnin sjálf er svo sér kapituli útaf fyrir sig. Eflaust á ýmislegt eftir að breytast þar og ég hef fulla trú á því að menn hjá Samgöngustofu séu að skoða hvað megi betur fara í þeim málum. Því ég er einn af þeim sem held að þar séu menn á fullu að vinna sína vinnu rétt eins og ég og þú lesandi góður sinnum okkar verkum af bestu samvisku og trúi ég því að þeir séu að ráðfæra sig við erlenda aðila ef þurfa þykir. Auðvitað fylgja vandamál svona stórri framkvæmd. Það er ekki við öðru að búast. En vandamálin eru til að takast á við þau og leysa.   Ég hvet alla til að lesa góða grein eftir Jóa í Laufási um ýmislegt sem mætti laga í sambandi við bókanir og fleira sem snýr að þjónustuaðilanum gagnvart farþegum Herjólfs. Ef Eyjamenn ættu að sameinast um eitthvað þá væri það að Það sem ég er að segja í stuttu máli er að þessi ár sem þessi reynsla sem komin er á höfnina er ekki marktæk að öllu leyti þar sem við höfum hvorki haft hentug skip til dælinga né siglinga.   Ég veit allavega að ég mun fagna nýrri ferju og hér á Berg-Huginn mun ég bjóða samstarfsfélögum mínum uppá rjómatertu til að fagna undirskrift á smíði á nýjum Herjólfi.   Kveðja Guðni Hjöll vinur Eyjanna.