Lögreglan varar við kolvitlausu veðri

-Hér fyrir neðan má sjá spá Veðurstofu Íslands fyrir morgundaginn 1. desember og er viðvörun í kortunum vegna óveðurs fyrir suðvesturland. Það er alveg á hreinu að við Eyjamenn fáum eitthvað af gusunni yfir okkur, hér má búast við roki og öllu sem því getur fylgt. Þó við séum ýmsu vön hér í Eyjum þá vill lögreglan biðja þig um að ganga einu sinni í kringum húsið þitt og athuga hvort allt sé ekki vel fest niður þ.e. engir lausamunir sem geta farið af stað og gluggar vel lokaðir. Að lokum þá viljum við biðja þig að fylgjast með fréttum og veðurspám í kvöld. EF AÐSTOÐAR VERÐUR ÞÖRF HRINGDU ÞÁ Í NEYÐARLÍNUNA Í 112, segir lögreglan í Vestmannaeyjum á heimasíðu sinni í gærkvöldi.   Og áfram er haldið: Veður­stofa Íslands hef­ur sent frá sér viðvör­un vegna óveðurs á land­inu á morg­un, 1. des­em­ber. Viðvör­un­in er send af vakt­haf­andi veður­fræðing­um og fer hér að neðan í heild:  „Á morg­un, 1. des­em­ber, ganga skil norðaust­ur yfir landið með aust­an stormi og hríðarbyl á öllu land­inu, fyrst suðvest­an­til. Á morg­un er því ekk­ert ferðaveður.   Spá fyr­ir landið suðvest­an­vert: Vax­andi aust­an átt í nótt. Snemma í fyrra­málið má bú­ast við slæmu skyggni vegna skafrenn­ings víða suðvest­an­lands, þar með talið á höfuðborg­ar­svæðinu og á Reykja­nes­braut. Hvess­ir enn þegar líður á morg­un­inn og fer að snjóa og bú­ast má við mik­illi snjó­komu fram eft­ir degi. Síðdeg­is milli kl 15. og 18. snýst vind­ur í hæg­ari vest­an átt með élja­gangi, fyrst á Reykja­nesi. Versn­andi veðri er spáð aust­an­lands seint.“   Skaf­byl­ur upp úr kl. 6 í fyrra­málið Í viðvör­un frá veður­fræðingi Vega­gerðar­inn­ar seg­ir: „Sjón­ir manna bein­ast að skil­um með snjó­komu sem nálg­ast úr suðvestri í nótt. Sam­kvæmt nýj­um spám frá í morg­un er gert ráð fyr­ir að storm­ur verði með skaf­byl þegar upp úr kl. 6 í fyrra­málið. Tak­markað skyggni og hætt er við að færð geti spillst víða um vest­an­vert landið. Nú er út­lit fyr­ir að skil­in kom­ist vel inn á land og þá læg­ir með vægri þíðu fljót­lega um og upp úr há­degi.“  

8.000 rúmmetrar af sorpi flutt með Herjólfi

 Um 8.000 rúmmetrar af sorpi eru árlega fluttir í gámum með Herjólfi frá Vestmannaeyjum. Sorpbrennslunni í Vestmannaeyjum var lokað árið 2012.   Sorpinu er annaðhvort ekið til Reykjaness eða alla leið norður á Blönduós. Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir þessa tilhögun ekki af hinu góða. Bæjaryfirvöld hafa verið að skoða málið undanfarin misseri og leitað leiða til að farga sorpi.   Nýjar brennslur séu orðnar mun fullkomnari en þær voru hér áður fyrr. Þessi flutningur hefur í för með sér mikla olíunotkun stórra ökutækja sem menga andrúmsloftið og slíta vegakerfinu. Því er í skoðun bæjaryfirvalda í Vestmannaeyjum að gera eitthvað í málinu.   „Mín skoðun hefur alltaf verið sú að þetta var óþarfa offors þegar brennslunum var lokað á sínum tíma. Það var til marks um skilningsleysi þáverandi stjórnvalda að gefa okkur ekki einhvern umþóttunartíma til að vinna að lausn á stöðunni.   Það að flytja sorp með ferju upp á land er ekki lausn á stöðunni,“ segir Elliði. Árið 2003 voru innleiddar hertar reglur um sorpbrennslur í gegnum EES-samninginn en undanþága fengin af hálfu íslenskra stjórnvalda fyrir eldri sorpbrennslur sem þá voru starfandi, þar á meðal á Kirkjubæjarklaustri, í Vestmannaeyjum og á Ísafirði.   Mælingar árið 2007 sýndu að díoxín í útblæstri í Eyjum var 85 sinnum meira en viðmiðunarmörk fyrir sorpbrennslur sem starfa á grundvelli EES-reglna frá 2003 gera ráð fyrir.   „Kostnaðurinn sem hefur lagst á íbúa Vestmannaeyja sem og annarra sveitarfélaga sem hafa þurft að búa við þessa stöðu er gríðarlegur. Við búum hér á eyju og þurfum að flytja sorp með farþegaferjunni okkur upp á land. Það verður ekki búið við þetta ástand mikið lengur,“ segir Elliði.   „Það er eingöngu eitt í stöðunni og það er að brenna sorp. Það er umhverfisvænast og sennilega hagkvæmast fyrir þjóðfélagið. Við þurfum skilning stjórnvalda á að búseta okkar á eyju skapi okkur sérstöðu.“   visir.is greindi frá.   

Innheimtir 74 milljónum minna af mögulegum tekjum

Fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2016 var lögð fyrir seinni umræðu á fundi bæjarstjórnar í gærkvöldi. Var hún samþykkt með fimm atkvæðum meirihlusta sjálfstæðismanna en tveir fulltrúar Eyjalistans sátu hjá. Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2016 var farin sú leið að fullnýta ekki tekjustofna. Útsvar fyrir árið 2016 verður 14,36% en hámarks útsvar er 14,48%. Um er að ræða hækkun á útsvari frá árinu 2015 um 2,7%. Um leið var farin sú leið að lækka fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði úr 0,42% niður í 0,35% en hámarks fasteignagjöld eru 0,5%. Þar með lækka fasteignagjöld í Vestmannaeyjum um 16,7% frá því sem nú er. Með ákvörðun um að fullnýta ekki álagningarramma útsvars og fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði innheimtir Vestmannaeyjabær 73.512.992 kr. minna af mögulegum tekjum af þessum stofnum en annars væri. Þetta fjármagn nýtist því til reksturs heimila í Vestmannaeyjum fremur en til reksturs bæjarfélagsins.    Þetta kemur fram í frétt frá Elliða Vignissyni bæjarstjórar. „Áætlunin ber það með sér að Vestmannaeyjabær mun á næstu árum leggja höfuðáherslu á málefni aldraðra og fatlaðra auk þess sem stefnt er að því að standa myndarlega að uppbyggingu á fræða-, rannsókna og háskólaklasa. 205 milljónum verður þannig varið til stækkunar og endurbóta á Hraunbúðum hjúkrunarheimili aldraðra og byggingu nýrrar aðstöðu fyrir fólk með heilabilun svo sem Alzheimer. Auk þess er stefnt að fjölgun þjónustuíbúða fyrir aldraða. Þá verður lokið við nýja aðstöðu fyrir félagsstarf aldraðra í menningarhúsinu Kviku,“ segir Elliði.   200 milljónir í íbúðir fatlaðra   „Í samræmi við yfirlýsingar ákvað bæjarstjórn einnig að verja um 200 milljónum til byggingar á íbúðum fyrir fatlaða auk þess sem fjöliðjan Heimaey verður byggð upp og starfsemi þar efld. Meðal brýnustu verkefna Vestmannaeyjabæjar er að bregðast við aukinni áherslu á fræðastarf og áhuga íbúa á háskólanámi. Meðal annars með það að leiðarljósti mun Vestmannaeyjabær verja rúmlega 100 milljónum á komandi ári til eflingar fræðaklasa og undirbúnings þess háskólanáms sem menntamálaráðuneytið í samvinnu við HR, HA, Vestmannaeyjabæ og fl. vinna nú að.   Jákvætt um 643 milljónir fyrir samstæðu   Áætlunin gerir ráð fyrir að rekstrarafgangur á árinu verði 99 milljónir í A-hluta og 125 milljónir í samstæðu. Reiknað er með því að veltufé sveitarsjóðs frá rekstri verði jákvætt um rúmar 132 milljónir fyrir A-hluta sveitarsjóðs og 643 milljónir fyrir samstæðu.   Skuldahlutfall sveitarsjóðs er 98% og eiginfjárhlutfall 66%. Skuldahlutfall að frádregnu handbæru fé er hinsvegar 18% fyrir sveitarsjóð og 41% fyrir samstæðu. Má því ljóst vera að Vestmanneyjabær nýtur nú góðs af því að hafa greitt upp megnið af vaxtaberandi skuldum í góðærinu og hagrætt verulega í rekstri,“ segir Elliði.  

Lumar þú á mynd innan úr baðstofu?

Það er ekki nema rúmlega mannsaldur síðan þorri íslendinga bjó í baðstofum. Þessi húsakynni voru aðal íveruhús torfbæjanna og meginumgjörðin fyrir daglegt líf íbúanna.Baðstofan var löngum vagga íslenskrar menningar og hún sjálf, sem hjarta gömlu torfbæjanna, eitt merkasta menningarframlag íslendinga og norðurhjarans. Allmargir núlifandi íslendingar hafa haft beina reynslu af baðstofulífinu og muna enn þessar einstöku og fallegu stofur. Íslenski bærinn að Austur-Meðalholtum í Flóahreppi, ( www.islenskibaerinn.is) er stofnun sem hefur það að meginmarkmiði að rannsaka og sýna margvíslegar hliðar á torfbæjararfinum. Þessi stofnun hefur verið í uppbyggingu áratugum saman og á síðasta ári var opnuð í nýjum sýningarsal all yfirgripsmikil sýning um íslenska torfbæjararfinn, sýning sem er mikilvægur áfangi frekari uppbyggingar, rannsókna og sýningarhalds. Um þessar mundir er að hefjast undirbúningur að yfirlitssýningu og bókarútgáfu þar sem sjónum verður sérstaklega beint að baðstofunni. Markmið þessa verkefnis er að safna saman öllum þekktum og tiltækum myndum sem til eru innan úr baðstofum. Til þessara mynda teljast allar myndir; teikningar, málverk og sérstaklega ljósmyndir sem sýna baðstofurýmið eða einhvern hluta þess.   Mjög fáar myndir eru til innan úr íslensku baðstofunni. Á blómatíma þeirra voru ljósmyndavélar tiltölulega fágætar og birtuskilyrði óhagstæð þáverandi ljósmyndatækni. Nokkrar þekktar myndir eru þó til af íslensku baðstofunni. En mjög líklega gætu enn leynst góðar myndir hjá einstaklingum víðsvegar um land sem ástæða væri til að skoða og koma á framfæri í réttu samhengi. Hér með leitum við hjálpar almennings. Fólk sem sér þennan pistil, á eða veit um mynd eða lýsingu af baðstofu er vinsamlega beðið að hafa samband við Hannes Lárusson: islenskibaerinn@islenskibaerinn.is síma 694-8108 eða Guðmundu Ólafsdóttur: guo22@hi.is síma 846-9775. Öll úrvinnsla myndefnis og upplýsinga verður í samræmi við bestu hefðir.   Verkefni þetta er samstarfsverkefni Íslenska bæjarins og Guðmundu Ólafsdóttur nemenda í safnafræði og er þessi myndasöfnun jafnframt hluti af lokaritgerð hennar í safnafræði.      

Félagið efldist og styrktist og hluthafar sitja við sama borð

,,Héraðsdómur Suðurlands hefur ógilt ákvörðun hluthafafundar VSV frá 8. október 2014 um samruna VSV og Ufsabergs útgerðar ehf. og ákvörðun um aukningu hlutafjár í VSV og tiltekna ráðstöfun þess í tengslum við samrunann. Lögmaður VSV lýsir furðu sinni á þessari niðurstöðu og mun leggja til við stjórn félagsins að dómnum verði áfrýjað til Hæstaréttar.   Stilla útgerð ehf. krafðist ógildingar samrunans fyrir héraðsdómi. Félagið er í eigu Guðmundar og Hjálmars Kristjánssona og er hluthafi í VSV. Samruni VSV og Ufsabergs útgerðar hefur áður komið til kasta dómstóla að frumkvæði Stillu útgerðar. Héraðsdómur samþykkti þá samrunann en Hæstiréttur ógilti hann,'' segir á VSV.is um dóm Héraðsdóms Suðurlands frá í gær.     Þar segir einnig: ,,Meirihlutaeigendur VSV brugðust við með því að aðskilja félögin, bæta úr ágöllum sem Hæstiréttur fann að fyrri samruna þeirra og samþykkja samrunann á nýjan leik. Stilla útgerð krafðist þá ógildingar seinni samrunans líka og á þá kröfu féllst nú Héraðsdómur Suðurlands.   Í niðurstöðu dómsins frá í gær, 25. nóvember 2015, er tekið undir með stefnanda (Stillu útgerð) að með síðari síðari samruna VSV og Ufsabergs útgerðar hafi hluthafafundur VSV „sniðgengið“ ógildingardóm Hæstaréttar:   „Fallast ber á það með stefnanda að aðeins hafi verið gerðar formbreytingar á undirbúningi ákvarðanatöku hluthafafundar stefnda sem eftir sem áður hafi haft það að markmiði að sniðganga þau grunnsjónarmið sem dómur Hæstaréttar sé byggður á. Eru því að mati dómsins enn við lýði þau réttaráhrif Hæstaréttardómsins að óheimilt sé að nýta hlutaféð til atkvæðagreiðslu um samruna stefnda við Ufsaberg-útgerð ehf. og þegar af þeirri ástæðu verða kröfur stefnanda teknar til greina.“   Það hlutafé sem um er deilt er 2,5% hlutur í VSV sem félagið átti í sjálfu sér og nýtti sem gagngjald fyrir tæp 29% í Ufsabergi-útgerð. Síðar voru félögin sameinuð.   Í fyrri sameiningunni eignuðust fyrrum eigendum Ufsabergs útgerðar rúmlega 3% í VSV. Við seinni sameininguna, sem nú er deilt um, eignuðust þeir tæp 4%.   Helgi Jóhannesson hæstaréttarlögmaður var verjandi VSV í málinu fyrir Héraðsdómi Suðurlands og undrast mjög niðurstöðuna: „Eigendur meira en tveggja þriðju hlutafjár VSV samþykktu samruna félagsins og Ufsabergs útgerðar algerlega óháð meðferð hinna umdeildu 2,5%. Óskiljanlegt er að héraðsdómarinn taki ekki tillit til þess.   Í öðru lagi er ómögulegt annað en álykta sem svo að aðrar hvatir en viðskiptalegar liggi að baki þessum málarekstri minnihlutaeigenda í VSV. Augljóst er að fyrri samruninn var félaginu hagfelldur, enda fengu fyrrum hluthafar Ufsabergs-útgerðar stærri eignarhlut í félaginu sem gagngjald í seinna skiptið en í því fyrra.   Félagið efldist og styrktist við samrunann og hluthafar sitja við sama borð. Samruninn er í þágu allra hluthafanna, í anda hlutafélagalaga þar sem einmitt er kveðið á um að hluthafar gæti hagsmuna hlutafélaga en ekki eigin hagsmuna.“  

Ólöglegar ákvarðanir meirihluta Vinnslustöðvarinnar

Héraðsdómur Suðurlands hefur með dómi 25. nóvember ógilt tvær ákvarðanir meirihluta hluthafa í Vinnslustöðinni hf., frá 8. október 2014. Þetta eru ákvarðanir um samruna útgerðarfélagsins Ufsabergs útgerðar og Vinnslustöðvarinnar og hins vegar ákvörðun um að auka hlutafé Vinnslustöðvarinnar. Þetta er í annað sinn sem dómstólar fjalla um samruna fyrirtækjanna en árið 2013 ógilti Hæstiréttur sameiningu áðurnefndra félaga.   Þetta kemur fram í tilkynningu Stillu útgerðar þar sem segir: „Skoðun fulltrúa Stillu útgerðar ehf., sem fer fyrir minnihluta hlutafa Vinnlustöðvarinnar er að ofangreindar ákvarðanir hafi ekki verið teknar með hagsmuni fyrirtækisins í huga. Héraðsdómur Suðurlands byggir ákvörðun sína á ákvæði um minnihlutavernd í íslenskum hlutafélögum, rétt eins og Hæstiréttur gerði árið 2013. Markmið verndarinnar er að veita minni hluthöfum, tiltekin réttindi og veita ákveðið mótvægi þannig að meirihluti hluthafa geti ekki, í krafti stærðar sinnar, misnotað aðstöðu sína á kostnað minnihlutans.     Í dómi Hæstaréttar frá 26. mars 2013 segir „Samkvæmt áðursögðu verður að líta svo á að samningur stefnanda [Vinnslustöðvarinnar] við Ufsaberg-útgerð ehf. 10. maí 2011 hafi engan annan tilgang haft en þann að virkja atkvæðisrétt eigin hluta í stefnda og sniðganga þannig það jafnræði og um leið atkvæðavægi sem 3. mgr. 82. laga nr. 2/1995 er ætlað að tryggja hluthöfum.” Um þessar ákvarðanir segir héraðsdómur Suðurlands „Á hluthafafundinum þann 8. október 2014 hafi þessi sömu atkvæði verið nýtt til að taka efnislega sömu ákvörðun.“ Þannig ógildir Héraðsdómur samruna Vinnslustöðvarinnar og Ufsaberg-útgerðar í annað sinn með sömu lagarökum. Fulltrúar Stillu töldu nauðsynlegt að fá svar dómstóla við því hvort meirihluti hluthafa og stjórnar Vinnslustöðvarinnar væru að brjóta á rétti minnihlutans. Nú liggur fyrir staðfesting tveggja dómsstiga á því að svo hafi verið.   Í framhaldi af aðalfundi Vinnslustöðarinnar í júní sl. óskaði Stilla eftir því við Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið, með vísan í þau réttindi sem minnihluta hluthafa eru tryggð í hlutafélagalögum, að ráðherra skipi rannsóknarmenn til þess að skoða viðskipti meirihluta hluthafa Vinnslustöðvarinnar og eigenda Ufsabergs útgerðar. Nú er þeirrar niðurstöðu ráðuneytisins beðið. Stilla útgerð hefur jafnframt óskað eftir því að Ársreikingaskrá framlengi úrskurð sinn um að skipa auka endurskoðendur til að vinna með kjörnum endurskoðendum í félaginu m.a. vegna þessara viðskipta. Ársreikningaskrá hefur á síðustu tveimur árum fallist á þessi sjónarmið og er nú beðið niðurstöðu um áframhaldandi skipan auka endurskoðanda fyrir Vinnslustöðina.“    

VERA – nýjung í tímabókunum og lyfjaendurnýjunum á HSU

VERA er samvinnuverkefni Embætti landlæknis, Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins og TM Software og er öruggt vefsvæði þar sem notandi getur átt í samskiptum við heilbrigðisþjónustuna og nálgast gögn sem skráð eru um hann í heilbrigðiskerfið á Íslandi. Krafist er rafrænna skilríkja til að tengjast inn á www.heilsuvera.is sem nauðsynlegt er til að tryggja öryggi þeirra upplýsinga. Í VERU er m.a. hægt að skrá afstöðu sína til líffæragjafar sem skráist þá inn í miðlægan gagnagrunn heilbrigðisþjónustunnar hérlendis. Þeir notkunarmöguleikar sem teknir hafa verið í notkun á heilsugæslustöðvum HSU og fleiri heilbrigðisstofnunum, eru lyfjaendurnýjanir og tímabókanir.   Rafrænar tímabókanir og lyfjaendurnýjanir VERA virkar jafnt í heimilistölvunni, spjaldtölvunni sem snjallsímanum. Vefurinn veitir notendum möguleika á að bóka tíma hjá heimilislækni á sinni heilsugæslustöð. Eftir sem áður er hægt að bóka læknatíma símleiðis hjá móttökuriturum. Unnið er að því að einnig verði hægt að bóka tíma hjá hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum á þennan hátt. Í VERU geta notendur einnig séð yfirlit yfir lyfseðla sem þeir eiga í Lyfseðlaskrá landlæknis og þar geta þeir óskað eftir endurnýjun á lyfjunum sínum en eingöngu á þeim lyfjum sem þeir eru þegar á. Þetta er mun öruggari leið þar sem sjúklingur notar rafræn skilríki til að skrá sig inn í VERU og beiðnin kemur inn í rafræna sjúkraskrá í stað þess að berast í netfang stofnunarinnar. Lyfjaendurnýjanir í gegnum tölvupóst á vefsíðu stofnunarinnar verða því lagðar af eftir mánaðar aðlögunartíma. Eftir sem áður er hægt að endurnýja lyf símleiðis hjá læknariturum.   Yfirlit yfir bólusetningar barna Í VERU geta foreldrar og forráðamenn einnig fylgst með lyfseðlum, tímabókunum og bólusetningum barna sinna að 15 ára aldri og bókað tíma fyrir þau hjá heimilislækni. Starfsmenn HSU vilja hvetja alla til að kynna sér möguleika VERU á www.heilsuvera.is    

Eyjalistinn endurvekur umræðu um frístundakort:: Skipulagt æskulýðsstarf skilar ábyrgum þátttakendum út í samfélagið

Á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku ítrekaði Eyjalistinn mikilvægi þess að sem flest ungmenni eigi möguleika á að stunda einhvers konar félags- og tómstundastarf og skyldu allra   sveitarfélaga að styðja börn og unglinga við það að eiga færi á að stunda íþrótta- og tómstundaiðkun. Gerir tillaga þeirra ráð fyrir 25.000 króna styrk á barn á ári. Þetta kom fram í   umræðu um fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2016. Lögðu þau til að umræðan um frístundakortin verði tekin upp á ný. Undir þetta skrifuðu Auður Ósk Vilhjálmsdóttir og Stefán Óskar Jónasson, bæjarfulltrúar Eyjalistans og í greinargerð segir að skipulagt félags- og tómstundastarf sé ekki aðeins mikilvægur vettvangur fyrir afþreyingu ungs fólks heldur sé það talið ein af grunnstoðum uppbyggilegrar þátttöku þess í samfélaginu.       „Börn og ungmenni sem taka þátt í markmiðsbundnu æskulýðsstarfi eru líklegri til þess að líta á sig sem ábyrga þátttakendur í samfélaginu auk þess sem sjálfsmynd barna er að miklu leyti mótuð í þátttöku þeirra í frístundum og tómstundastarfi,“ segir í bókuninni.   Vitna í rannsóknir   Þau benda á að stöðugt fleiri rannsóknir bendi til þess að beint orsakasamband sé að finna á milli líkamlegs atgervis, hreyfingar og námsframmistöðu barna og unglinga. Ennfremur, og ekki síður mikilvægt sé að rannsóknir gefi mjög sterka vísbendingu um að ungt fólk sem tekur þátt í skipulögðu æskulýðsstarfi hafi síður tíma og aðstæður til að falla fyrir áhættusömum freistingum. „Mikilvægi þess að sem flest ungmenni eigi möguleika á að stunda einhvers konar félags- og tómstundastarf er gríðarlegt og í ljósi fyrrnefndra þátta ætti það að vera skylda allra sveitarfélaga að styðja börn og unglinga við tómstundaiðkun,“ segja þau og leggja til að tekin verði upp frístundakort, sem er niðurgreiðsla á gjöldum til tómstundaiðkunar. Fyrri hugmyndir þeirra hljóðuðu upp á 15.000 krónur á barn á ári en tillagan miðar að því að forráðamenn allra barna á aldrinum 6 til 16 ára með lögheimili í Vestmannaeyjum geti sótt um frístundastyrki að upphæð kr. 25.000. – á barn til að greiða niður gjöld af tómstundaiðkun.     Hugmynd að framkvæmd Lagt er til að verkefnið verði tilraunaverkefni til tveggja ára. Úthlutun frístundastyrkja fari fram í gegnum Vestmannaeyjabæ og upphæðin renni beint til þess aðildarfélags sem forráðamenn óska. Aðildarfélög þurfi að gera skriflegan samning við Vestmannaeyjabæ um samstarf. Öll félög með skipulagt íþrótta- og tómstundastarf, undir leiðsögn, með starfsemi í að minnsta kosti tíu vikur samfellt geti óskað eftir samstarfi við   Vestmannaeyjabæ. Gert er ráð fyrir að tímabil hverrar styrkveitingar sé almanaksárið og yrði því styrkurinn til ráðstöfunar frá og með 1. janúar ár hvert. Ekki verður um að ræða beingreiðslur til forráðamanna, heldur hafi þeir rétt til að ráðstafa tilgreindri upphæð í nafni barns síns til niðurgreiðslu á þátttöku- og æfingagjöldum. Forráðamenn þurfa að sækja um styrkinn til Vestmannaeyjabæjar.     Hægt að skipta á milli  „Okkar hugmynd er að hægt sé að skipta frístundastyrknum niður á fleiri en eina tómstundaiðju en það er ekki hægt að flytja styrkinn á milli tómstunda á miðju tímabili. Ekki þarf að ráðstafa öllum frístundastyrknum í einu og ekki er mögulegt að nýta frístundastyrkinn á milli ára. Þá er lagt til að aðildarfélög geti ekki hækkað gjaldskrá sína á meðan tilraunaverkefnið   stendur yfir,“ segir í lokaorðum greinargerðarinnar. „Við neyðumst til að horfast í augu við þann blákalda veruleika að börn á Íslandi í dag sitja alls ekki við sama borð þegar kemur að þeim möguleika að stunda tómstundir og íþróttastarf,“ sagði Auður Ósk við Eyjafréttir. „Hagstofan vann rannsókn sem nefnist Lífskjör og lífsgæði barna og var gefin út fyrr á árinu. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna svart á hvítu sorglegan veruleika sem of stór hluti fjölskyldufólks á Íslandi býr við í dag.  Á síðasta ári var tæpur þriðjungur barna á Íslandi ekki í reglulegu tómstundastarfi, sem er gífurleg aukning á sl. fimm árum, en árið 2009 var hlutfallið rétt um 14%. Hlutfall þeirra barna sem ekki voru í reglulegu tómstundastarfi var margfalt hærra heldur en hlutfall þeirra barna sem ekki nutu annarra lífsgæða. Niðurstöður rannsóknarinnar gáfu ennfremur til kynna að áhrif fjárhags heimila á möguleika barna til tómstundaiðju hafi aukist í kjölfar hrunsins. Þetta eru sláandi niðurstöður í ljósi þess að skipulagt félags- og tómstundastarf skipar stóran þátt í forvörnum fyrir börn og unglinga.“     Léttir undir með fjölskyldum   Auður Ósk sagði að ef litið sé til heildarútgjalda í málaflokki æskulýðs- og íþróttamála fyrir síðasta ár myndi áætlaður kostnaður frístundakortsins einungis hljóða upp á rétt rúm þrjú prósent af útgjöldunum. Hún spyr hvort þessi kostnaður sé það mikill að ekki sé hægt að koma til móts við þau börn sem eiga ekki kost á því að stunda tómstunda- og íþróttastarf eða létt sé undir með þeim fjölskyldum sem rétt ná að dekka þennan útgjaldalið.  „Mér þykir mikilvægi þess að sveitarfélög bjóði upp á frístundakort gríðarlega mikið og tel að það ætti að flokkast sem forgangsmál. Það er þáttur af okkar hlutverki að standa vörð um það að öllum börnum standi til boða að stunda tómstundir óháð fjölskylduaðstæðum,“ sagði Auður Ósk.

Gripið til hagræðingar á Hraunbúðum ::Ræsting og snyrting verður boðin út

 Á fundi fjölskyldu- og tómstundaráðs í síðustu viku voru lagðar fram tillögur um breytingar á rekstrarþáttum á Hraunbúðum. Í fundargerð segir að rekstrarkostnaður hafi undanfarin ár verið hærri en nemur framlagi ríkisins. Hefur það sem upp á vantar verið greitt af bæjarsjóði. Nú á að grípa til hagræðingar og á m.a. að leita tilboða í ræstingu.   Í fundargerðinni er greint frá því að stöðugt sé verið að skoða leiðir til að bæta rekstur Hraunbúða ásamt því að hagræða þannig að fjármagn nýtist sem best til þjónustunnar. Eftir vandaða yfirferð á rekstri málaflokksins og samanburð á rekstri annarra sveitarfélaga á sama málaflokki var lagt til að leitað verði tilboða í ræstingu á Hraunbúðum. Vestmannaeyjabær áskilur sér rétt til að hafna öllum tilboðum reynist þau ekki hagstæðari en núverandi fyrirkomulag.   Líka verði óskað tilboða í þá þjónustu sem veitt er í beinni og eða óbeinni samkeppni við einkaaðila. Núverandi verktakasamningum vegna fót- og hársnyrtingar verði því sagt upp og auglýst eftir rekstraraðilum með útboði. Útboðsforsendur verða leiguverð og hagstætt verð, afsláttur, til þjónustuþega. Heimilismenn greiða sjálfir fyrir þjónustuna. Vestmannaeyjabær áskilur sér rétt til að hafna öllum tilboðum ef þau eru ekki ásættanleg.   Einnig að könnuð verði hagkvæmni þess að bjóða út fleiri þætti í rekstri Hraunbúða s.s. starfsemi eldhúss og heimsendingu matar. „Allur ávinningur af hagræðingu verði nýttur áfram í þjónustu við aldraða s.s. við eflingu dagvistunar á Hraunbúðum og í starfsemi aldraðra í Kviku,“ segir í fundargerð og samþykkti ráðið tillögurnar.  

Þrír þjófnaðir voru tilkynntir í liðinni viku

Það var í ýmsu að snúast hjá lögreglu í liðinni viku vegna hinna ýmsu mála sem upp komu. Skemmtanahald helgarinnar fór fram með ágætum og lítið um útköll á öldurhúsin.   Þrír þjófnaðir voru tilkynntir til lögreglu í liðinni viku en um er að ræða þjófnað á GSM síma í einu tilvikinu en í hinum er um að ræða þjófnað á peningum úr tveimur bifreiðum. Er talið að þjófnaðurinn úr annarri bifreiðinni hafi verið að kvöldi 16. nóvember sl. eða aðfaranótt 17. nóvember sl. þar sem bifreiðin stóð í innkeyrslu neðarlega á Heiðarvegi.   Í hinu tilvikinu stóð bifreiðin við veitingastaðinn Vöruhúsið að kvöldi 22. nóvember sl. Í báðum tilvikunum voru bifreiðarnar ólæstar og eru ökumenn og eigendur bifreiða hvattir til að læsa bifreiðum sínum en nokkuð er búið að vera um það að undanförnu að farið sé inn í bifreiðar og rótað í þeim og stolið verðmætum úr þeim.   Ekki er vitað hver þarna var að verki og eru þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um það beðnir um að hafa samband við lögreglu.   Eitt mál vegna brota á vopnalögum kom til kasta lögreglu í liðinni viku en eftir ábendingu hafði lögreglan afskipti af manni inni á einum af öldurhúsum bæjarins sem var með hníf í fórum sínum. Má viðkomandi búast við sekt fyrir ólöglegan vopnaburð.   Einn ökumaður var stöðvaður vegna gruns um ölvun við akstur og hafa þá alls 8 ökumenn verið stöðvaðir vegna gruns um ölvun við akstur það sem af er árinu en á sama tíma í fyrra voru þeir orðnir 10. Í ár hafa hins vegar 14 ökumenn verið stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna en á sama tíma í fyrra voru þeir 9.   Tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt lögreglu í liðinni viku en í öðru tilvikinu blindaðist ökumaður af sólinni, sem var lágt á lofti, með þeim afleiðingum að bifreiðinn sem hann ók lenti á kyrrstæðri bifreið. Í hinu tilvikinu missti ökumaður stjórn á ökutæki sínu í hálku með þeim afleiðingum að bifreið hans lenti á ljósastaur. Ekki var um slys á fólki að ræða í þessum óhöppum ein tjón varð bæði á bifreiðum sem og ljósastaurnum.   Laust eftir hádegi þann 18. nóvember sl. var lögreglu tilkynnt um slys í fjárhúsi suður á Eyju en þarna hafði maður fallið eina fimm metra niður af þaki, en hann hafði misst meðvitund við fallið. Maðurinn skaddaðist m.a. á hrygg við fallið og var fluttur á sjúkrahús með sjúkrabifreið.          

Ólíkar þríburasystur úr Eyjum

Þríburasystur fæddust á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja fyrir sextíu árum. Þær eru einu þríburarnir sem vitað er til að hafi fæðst í Vestmannaeyjum. Systurnar ætla að halda saman upp á afmælið í dag. Fæðing systranna vakti talsverða athygli og var m.a. greint frá henni í bæjarblaðinu Fylki og í landsblöðum. Foreldrar þeirra voru Sigríður Sigurðardóttir og Kolbeinn Sigurjónsson á Hvoli í Vestmannaeyjum. Þau áttu fyrir Kolbrúnu Hörpu, sem fæddist í febrúar 1954, og var á öðru ári þegar hún eignaðist systurnar þrjár, þær Önnu Ísfold, Marý Ólöfu og Guðrúnu Fjólu. Það má nærri geta hvort það hefur ekki verið nóg að gera með fjögur bleiubörn og að þurfa að þvo taubleiurnar í kolakyntum þvottapotti fyrir daga sjálfvirku þvottavélanna. Hjónin eignuðust svo þrjú börn til viðbótar, Ingibjörgu Sigríði 1957, Elvu Sigurjónu 1963 og Kolbein Frey 1973.   Margfaldur hjartsláttur Einu sinni þegar Anna ljósa var að hlusta mömmu í mæðraskoðun sá mamma að hún eldroðnaði í framan. Svo sagðist Anna ljósa heyra meira en einn hjartslátt,« sagði Marý um aðdragandann að fæðingu þeirra. Sigríður var send í röntgenmyndatöku því þá var ekki búið að finna upp ómskoðun. »Þá sáust tvö fóstur og svo var eitthvað miklu minna á bak við þau. Það var jafnvel haldið að það væri æxli en það hlýtur að hafa verið Anna því hún var minni en við Guðrún þegar við fæddumst.« Marý sagði að á þessum árum hefði ekki tíðkast að feður væru viðstaddir fæðingar barna sinna. Kolbeinn var því heima á Hvoli, en þau voru ekki með síma. Það var hins vegar sími á efri hæðinni. Hann fékk að hringja þar á spítalann.   Fyrst þegar hann hringdi sagði kona sem svaraði: Það er komið eitt og eitthvað eftir enn,« sagði Marý. »Anna fæddist fyrst og það voru fimm mínútur á milli mín og hennar. Næst þegar pabbi hringdi var sagt: Það eru komin tvö og eitthvað eftir. Pabbi skrönglaðist niður stigann. Tuttugu mínútum síðar fór hann aftur upp og hringdi. Þá var sagt: Það eru komin þrjú og það er eitthvað eftir enn. Þá hætti pabbi að hringja! Fylgjan var svo stór að þau héldu að fjórða barnið væri á leiðinni.« Vógu saman eins og stórt barn Anna Ísfold var fjórar merkur og 40 sentimetra löng, næst kom Marý Ólöf og Guðrún Fjóla síðust. Þær voru níu merkur hvor og 46 sentimetra langar, að því er sagði í Fylki. Marý hafði hins vegar heyrt að þær Guðrún hefðu verið átta merkur en Guðrún hafði heyrt að þær hefðu verið sex merkur hvor. Ljósmóðir var Anna Pálsdóttir og læknir Einar Guttormsson. Anna var nefnd eftir Önnu ljósmóður en Ísfoldarnafnið kom úr móðurættinni frá Vatnsdal í Eyjum. Marý var nefnd eftir Marie ömmusystur sinni og manni hennar Ólafi Kristjánssyni, sem var bæjarstjóri í Vestmannaeyjum og bróðir Oddgeirs Kristjánssonar tónlistarmanns. Guðrún var nefnd eftir hjúkrunarkonu á spítalanum en Fjólunafnið var út í loftið. Eins klæddar í æsku Marý sagði að þær systurnar hefðu yfirleitt verið eins klæddar á yngri árum. »Ef það var saumað á okkur þá var saumað þrennt alveg eins,« sagði Marý. »Við Anna erum dökkhærðar og brúneygar en Guðrún ljóshærð og græneyg eins og mamma var.« Systrunum ber saman um að þær séu mjög ólíkir persónuleikar og ekki eins í sér. Fylgjunni var hent á spítalanum áður en gengið var úr skugga um hvort þær Anna og Marý hefðu í raun verið eineggja tvíburar. Þegar þær komust á unglingsár fóru þær að velja sjálfar á sig föt og hættu að ganga eins klæddar. Marý sagði að þær Anna hefðu átt sama vinahóp en Guðrún átt aðra vini.   Okkur Önnu þótti voðalega erfitt þegar fólk spurði hvort við værum ekki alveg eins og hugsuðum eins því við vorum líkar í útliti,« sagði Marý. Hún sagði að það hefði farið svolítið í taugarnar á þeim að vera alltaf spyrtar saman sem »þríburarnir« og talað um þær sem eina heild en ekki sjálfstæða einstaklinga. Marý og Anna búa nú skammt hvor frá annarri í Vestmannaeyjum en Guðrún býr í Vogunum. Engin þeirra systra hefur eignast fleirbura. Anna eignaðist tvö börn, Marý fimm og Guðrún tvö. Marý sagði að þær systur hittust sjaldan allar þrjár núorðið. Þær ætla ekki að halda stóra veislu í tilefni afmælisins en fara saman í dekur og svo út að borða í Vestmannaeyjum á afmælisdaginn.   Viðtalið birtist í Morgunblaðinu í dag.

Kostnaður við hönnun á nýjum Herjólfi orðinn 147 milljónir

 Kostnaður við hönnun á nýjum Herjólfi, sem siglir milli lands og Eyja, var orðinn rúmar 147 milljónir króna í september síðastliðinn.   Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.   Í svarinu kemur fram að kostn­aður við ráðgjöf og sérfræðiaðstoð vegna hönnunar hafi numið 136,8 milljónir króna, og kostnaður vegna vatnslíkanprófana erlendis numið 139.200 evrum og var greitt fyrir þá vinnu um 21,5 milljónir króna.   Í svari við fyrirspurn Ásmundar um hver sé viðbótarkostn­aður vegna lengingar ferjunnar um 4,2 metra og tankprófana á stærri ferju segir að mat ráðgjafa Vegagerðarinnar sé að hann sé óverulegur - innan við tvö til fjögur prósent - þar sem fyrst og fremst sé um aukið stálmagn að ræða. Tilboð norska fyrirtækisins Polarkonsult í viðbótartankprófanir nemi 64.900 evrum, eða um 9,4 milljónir króna.   Ásmundur spurði jafnframt hversu hár hönnunarkostn­aður nýrrar ferju hafi upphaflega verið áætlaður.   „Algengt er að smíði og hönnun sé boðin út saman. Miðað er við að hönnunarkostn­aður ferju af þessari stærðargráðu geti numið allt að 15% af heildarkostnaði. Ákveðið var að skipta verkefninu upp og bjóða út fyrsta hluta hönnunar sérstaklega. Áætlaður hönnunarkostn­aður var 800.000 evrur (um 116 millj. kr.), þar af voru áætlaðar 300.000 evrur (44 millj. kr.) í prófanir og hermanir. Undanskilið í hönnunarkostnaði var eftirlit með hönnun, ráðgjöf við vinnuhóp, þátttaka í hermun, frekari prófanir o.fl.,“ segir í svari innanríkisráðherra.     vísir.is greindi frá. 

Hættum að fæða rotturnar

Það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir því að með því að láta matarafganga fara í holræsakerfið sé verið að fæða rotturnar sem þar dvelja, misjafnlega margar hverju sinni, fer eftir fæðuframboði og árangri í meindýraeyðingu. Spikfeitar rottur hafa á stundum litið dagsins ljós þegar þær hafa skriðið upp um opin niðurföll og þá verður fjandinn laus, sem skiljanlegt er.   Mjög mikil aukning hefur verið á að heimili, fyrirtæki og stofnanir hafi sett kvarnir við niðurföll á eldhúsvöskum og í framhaldinu látið matarafganga sem ekki eru nýttir og annað lífrænt efni í vaskinn, kvörnin sett í gang og þá um leið skellt hressilegu fæðuframboði í kerfið fyrir rotturnar. Í reynd eru þessar kvarnir algjörlega óþarfar og reyndar til óþurftar, matarafgangar sem fólk nýtir ekki eiga að fara í lífrænu tunnuna og ekkert annað. Fleiri vandamál fylgja þessu aukna magni inn í holræsakerfi bæjarins svo sem aukinn og erfiðari rekstur á dælustöðvum kerfisins, en öllu öðru en regnvatni, þar sem það fer í sérstakar ferskvatnslagnir, er dælt út fyrir Eiðið með ærnum kostnaði.     Blautklútar til vandræða Annað er það sem alls ekki má setja í horræsakerfið eru blautklútar, sem og aðrir klútar, dömubindi og hverju nafni sem það nefnist annað er klósettpappír. Sem dæmi þá eru blautklútarnir mjög teygjanlegir og reglulega þarf að taka dælur í dælustöðvunum í sundur þar sem þær hreinlega stöðvast, eftir að nokkuð magn af þessu klútum hefur vafist utan um dæluverkið. Þá stífla m.a. dömubindi lagnir. Það á varla að þurfa að nefna þessi dæmi, en reynslan sýnir að ekki er vanþörf á því, því miður.   Það er kannski einkennilegt að vera að minnast á þessi atriði í dag, á Alþjóðadegi klósettsins, sem haldinn er til vitnis um að það eru ekki allir sem búa við þau sjálfsögðu mannréttindi að hafa aðgang að klósetti og dagurinn merktur sérstaklega vegna stöðu þeirra.   En það er samt þörf á ofangreindri áminningu.

Vantar ákvæði um hefndarklám

 Það er ekki knýjandi þörf á því að breyta lagaumhverfi í kynferðisbrotum en það þarf að bæta verklag og eyða fordómum þeirra sem koma að meðferð slíkra mála. Þetta kom meðal annars fram á málþingi laganema í dag um þessi mál.   Mikil reiðialda gekk nýlega yfir samfélagið vegna þess að lögreglan fór ekki fram á gæsluvarðhald yfir tveimur mönnum sem voru kærðir fyrir nauðganir íbúð í Hlíðarhverfi í Reykjavík. Þá er mjög algengt að kærur í kynferðisbrotamálum séu felldar niður. Orator, félag laganema við Háskóla Íslands, efndi í dag til málþings þar sem spurt var hvort þörf væri á breyttu lagaumhverfi í kynferðisbrotamálum?   Þörf á ákvæði um hefndarklám Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, segir að vel hafi verið haldið utan um breytingar á kynferðisbrotakaflanum í almennum hegningarlögum. „Hann hefur fylgt tiltölulega réttri þróun á því sem þarf að vera í samfélaginu. Hann hefur svarað kalli breyttra aðstæðna, tæknivæðingar og slíks. Þannig að stóra svarið er eiginlega nei, en auðvitað þurfum við alltaf að endurskoða einhverja hluti og nú tel ég tímabært að setja inn ákvæði um hefndarklám. Það er eitthvað sem þarf að smíða og setja inn, því í dag þarf að beita að beita meðákvæði sem er inni í kafla um friðhelgi og ærumeiðingarbrot. Þetta þarf að heita kynferðisbrot og á að eiga heima undir kynferðisbrotakaflanum,“ segir Páley.   Gríðarlega mikilvægt að þolendur leiti strax til lögreglu Páley bendir á að lög um meðferð sakamála séu tiltölulega nýleg og að hegningarlögin hafi verið í sífelldri þróun. Margt megi þó bæta. „Við getum gert margt til þess að breyta og bæta aðstöðu þolenda og tilkynnenda þessara brota með breyttu verklagi. Við þurfum að koma til móts við þau og tryggja þeim verndandi umhverfi þegar þau koma á lögreglustöð og tilkynna. Það liggur fyrir og við vitum það með niðurstöðum rannsókna að það eru fleiri ákærur gefnar út í málum eftir því hversu fljótt þau berast lögreglu. Því fyrr sem tilkynningar koma til lögreglu, því meiri líkur eru á því að ákæra verði gefin út hjá ríkissaksóknara,“ segir Páley. Hún bendir á að oft sé sönnunarbyrði í slíkum málum erfið þar sem þau eru milli tveggja einstaklinga. „Þannig að við þurfum að fá fólk til þess að skilja að það er gríðarlega mikilvægt að þolendur þessara brota tilkynni þau strax til lögreglu.“   Fjölmiðlaumfjöllun þungbær þolendum Talsvert var fjallað um ákvörðun lögreglustjórans í Vestmannaeyjum að veita ekki upplýsingar um kærur vegna kynferðisbrota á síðustu Þjóðhátíð. Lögreglan hafði árum saman gefið fjölmiðlum upplýsingar um hvort og þá hversu margar kærur vegna kynferðisbrota hefðu borist á Þjóðhátíð. Slíkar upplýsingar eru ekki persónugreinanlegar, hvorki eru gefin upp nöfn brotaþolum né þeim sem liggja undir grun. Páley segir að þrátt fyrir það séu slíkar fréttir þolendum þungbærar. „Við erum bara í það litlu samfélagi að fólk er svo fljótt að finna út úr því hver er hvað. Á Þjóðhátíð er það til mynda þannig að strax og tjald einhvers er horfið, einhver stúlka er týnd og enginn veit hvar hún er og hún finnst ekki. Á sama tíma kemur tilkynning í fjölmiðlum um að það hafi verið tilkynnt um brot, þá er bara búið að finna út úr því hver það er. Þetta hefur reynst brotaþolum gríðarlega þungbært. Þess vegna tel ég algjörlega ástæðulaust að það sé verið að tilkynna um þessi brot jafnóðum og þau berast lögreglu. Það má gera það seinna. Þolandanum er líka alltaf í sjálfsvald sett að ræða þessi mál við fjölmiðla hvenær sem hann vill, en að mínu mati þá er ekki eðlilegt að þessar upplýsingar fari í fjölmiðla um leið og tilkynningarnar koma inn. Það er bara svoleiðis og það er mitt mat og ég stend við það,“ segir Páley.   Ekki þörf á að breyta nauðgunarákvæði í hegningarlögum Ragnheiður Bragadóttir lagaprófessor og héraðsdómari flutti einnig erindi á málþingi laganema í dag. Þar fjallaði hún um hvort ástæða væri til að breyta nauðgunarákvæði í hegningarlögum. Ragnheiður telur að ekki sé þörf á að breyta nauðgunarákvæðinu. Hún bendir á að ákvæði um nauðgun hafi staðið óbreytt í fimmtíu ár í hegningarlögum frá árinu 1940. „Eftir það hefur þessi kafli í lögunum verið endurskoðaður tvisvar. Fyrst árið 1992 og síðan árið 2007 með löggjöf sem tók gildi þessi ár. Þannig að við höfum löggjöf núna sem byggir á fræðilegum rannsóknum og dómaframkvæmd árin á undan,“ segir Ragnheiður. Hún bendir einnig á að sótt hafi verið í fyrirmyndir frá Norðurlöndum, Þýskalandi og fleiri stöðum sem séu með framsækna löggjöf á þessu sviði. „Við sjáum líka að þegar við lítum á dómana að þeim hefur heldur fjölgað og refsingar heldur þyngst. Ég tel að þessi ákvæði, sem við höfum nú þegar, að þau virki nokkuð vel og þar er ég að tala um nauðgunarákvæði í hegningarlögum.“         RÚV.is greindi frá

Íþróttir >>

ÍBV skrifar undir við unga Eyjapeyja

 Knattspyrnuráð ÍBV hefur gengið frá samningum til 3ja ára við heimamennina, Óskar Elías Zöega Óskarsson og Hafstein Gísla Valdimarsson sem leikmenn mfl. karla ÍBV í knattspyrnu. Óskar Elías og Hafsteinn Gísli eru eins og allir vita uppaldir hjá félaginu og eru með þessu að endurnýja samninga sína við félagið.   Óskar Elías er 20 ára og hefur verið hluti af leikmannahópi mfl. karla sl. 3 ár. Hann á að baki 9 leiki með liðinu í deild og bikar. Seinni hluta tímabilsins 2014 lék hann 8 leiki með BÍ/Bolungarvík og skoraði þar eitt mark. Í sumar lék hann svo 7 leiki með liði KFS seinni hluta tímabilsins, og skoraði þar 2 mörk.   Hafsteinn Gísli er 19 ára og hefur verið hluti af leikmannahópi mfl. karla sl. 2 ár, og á að baki einn leik með liðinu. Hafsteinn lék sl. sumar 14 leiki með KFS í 3. deild karla og öðlaðist þar mikla reynslu fyrir komandi ár.   ÍBV sér þá félaga fyrir sér í þeirri Eyjastemmingu sem lið ÍBV á að byggja á næstu árin, og í því verkefni að koma ÍBV í fremstu röð. Þeir félagar verða hluti af þeim hópi leikmanna, þjálfara og knattspyrnuráðsmanna sem munu sameiginlega í góðu samstarfi efla ÍBV og búa til öflugt lið. Knattspyrnuráð ÍBV lýsir yfir mikilli ánægju með að þessir Eyjapeyjar séu áfram tilbúnir í slaginn með ÍBV og væntir mikils af þeim í framtíðinni.   ÁFRAM ÍBV, alltaf og alls staðar. Á myndinni má sjá þá Hafsteinn Gísla, Óskar Elías og Halldór Páll sem skrifaði undir samning við ÍBV 19. nóvember og við sögðum frá hér.   

Greinar >>

Mánudagspistill forstjóra

Framkvæmdastjórn hefur nú haldið opna starfsmannafundi þar sem farið hefur verið yfir hvað hefur áunnist frá sameiningunni í fyrra, rekstrarhorfur og verkefnin framundan. Fundurinn í Vestmannaeyjum var haldinn 17. nóvember og sóttu um 40 manns fundinn og í dag var haldinn fundur á Selfossi sem um 50 starfsmenn sóttu.   Ljóst er að nú fyrir árið 2015 stefnir í um 0,7-0,9% hallarekstur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Megin skýringarnar á því eru aukin verkefni í sjúkraflutningum og að enn hefur ekki verið veitt rekstrarfé í starfsemi nýrrar göngudeildar lyflækninga á Selfossi. Til þessara tveggja verkefna vantar um 55 millj. kr. á þessu ári. Fjöldi sjúkraflutninga í heilbrigðisumdæmi Suðurlands hefur aukist um 27% á síðustu fimm árum og tímalengd flutninga er að meðaltali um tvær klukkustundir, en þá er ótalinn sá tími sem tekur að koma farartæki sjúkraflutninga aftur á starfstöð. Á þessu ári stefnir í yfir 3200 flutninga með sjúklinga í umdæminu. Göngudeildin á Selfossi hefur sannað sig sem mikilvæg nýjung í þjónustu við sjúklinga á Suðurlandi. Þar er nú starfrækt blóðskilun fyrir nýrnasjúklinga sem geta þegið þjónustu nærri heimabyggð. Mikilvægt er að geta haldið úti þeirri starfsemi enda mun ódýrara fyrir samfélagið að geta veitt þessa tegund þjónustu nærri heimabyggð. Möguleikarnir eru fyrir hendi að bæta enn í starfsemina og fjölga þeim sem geta þegið slíka meðferð hjá HSU og auk þess er tækifæri til að bjóða fram meðferð fyrir krabbameinssjúklinga á Selfossi. En áður en ráðist er í það verkefni er mikilvægt að tryggja fjármögnun nýrra verkefna sem þessara á landsbyggðinni.   Nú er unnið að gerð rekstaráætlunar fyrir árið 2016. Það hefur reynst vandasamt verk þar sem laun hafa hækkað umtalsvert á síðasta ári og hækkanir launa skila sér einnig inn á næsta ári. Enn er óljóst hverjar launabætur ríkisins verða til heilbrigðisstofnanna og því ekki aðgengilegt að leggja fram raunhæfar áætlanir. Það eru fjölmörg verkefni sem bíða okkar á HSU á næstu misserum til eflingar á almennri og sérhæfðir heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Á fjárlögum ársins 2016 er m.a. lögð fram aukning til eflingar heimahjúkrunar og sálfræðiþjónustu, sem er viðleitni í þá átt að byggja undir þá nauðsynlegur þjónustu. Á móti kemur að fjárframlög til grunnþjónustu eru ekki næg og lítið svigrúm til endurbóta á búnaði og tækjum sem þarf til að viðhalda og efla þjónustuna. Algjört lykilatriði er að yfirvöld bæti af myndarskap þá skerðingu sem hefur viðgengist í rekstri heilbrigðismála í landinu síðast liðin 15 ár, og jafnvel lengur. Á undanförnum 7 árum hefur verið tekin út fjórða hver króna úr rekstirnum. Búið er að herða tökin á rekstri starfseminnar eins og kostir er en þó ríkir áfram sú krafa um að veita lögbundna almenna heilbrigðisþjónustu, sem okkur ber að uppfylla. Áríðandi er að fjárveitingavaldið sjái til þess að rétt sé gefið til lögbundinna verkefna.   Ég vil hvetja starfsfólk til bjartsýni en um leið þakka öllum fyrir þrautseigju og úthald. Hlutverk stofnunarinnar okkar er að leggja grunn að skipulagi almennrar heilbrigðisþjónustu og tryggja íbúum jafnan aðgang að henni þannig að þeir eigi kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er tök á að veita. Við teljum mikilvægt að nýta allar okkar auðlindir sem best og því mikilvægt að við fáum lágmarks fjármagn til að tryggja þjónustu og endurnýjun búnaðar og tækja. Ég vil hvetja samstarfsfólk mitt til að benda á snjallar lausnir sem við getum hagnýtt til að bæta þjónustuna og aðbúnað fyrir það fjármagn sem við höfum. Ég vil kalla eftir hugmyndum frá starfsfólki og íbúum og mun kynna það betur á næstu vikum.   Með góðri kveðju, Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri.