Lögreglustjóri - Breytingar á umferð vegna þjóðhátíðar

Lögreglustjóri - Breytingar á umferð vegna þjóðhátíðar

Kæru Vestmanneyingar og gestir, eftirfarandi breytingar verða gerðar á umferð í Vestmannaeyjum á meðan á þjóðhátíð stendur. Hámarkshraði á Dalvegi er 15 km/klst og framúrakstur bannaður. Hámarkshraði á Hamarsvegi er 30 km/klst.   Biðskylda er Hamarsvegi við Dalveg vegna umferðar um dalinn frá kl. 13.00 á föstudag 29.07.16 til mánudagsins 01.08.16 kl. 13.00. ... Umferð um Dalveg er einungis leyfð til að skila fólki og sækja. Bifreiðastöður eru einungis heimilar á sérmerktum bifreiðastæðum, búast má við að bifreiðar sem er lagt andstætt banni þessu verði fjarlægðar og teknar í vörslu lögreglu á kostnað eiganda.   Fólki er bent á að nota göngustíginn inn í dal og upplýsta gangbraut frá göngustíg til að komast yfir Dalveg að bifreiðastæðum. Tangagata verður lokuð fyrir akstri ökutækja vegna Húkkaraballs frá Skildingavegi að vestan, að Skólavegi að austan. Þá verður lokað fyrir akstur á Básaskersbryggju frá bátaskýli Björgunarfélagsins upp að Tangagötu 28.-29. júlí frá kl. 23.30-06.00.   Á laugardag verður Vestmannabraut lokuð fyrir akstri ökutækja í austur frá Vestmannabraut 24 að Kirkjuvegi kl. 15.00-19.00. Laugardag og Sunnudag verður Bárustíg lokað fyrir bílaumferð frá Vestmannabraut niður að Vesturvegi kl. 11.00-20.00.     Lögreglan beinir því til ökumanna að aka varlega um helgina, mikið er af fólki í bænum, gangandi sem akandi. Lögregla mun sinna umferðareftirliti og er brýnt fyrir ökumönnum að virða umferðarreglur í hvívetna.     Með kveðju, Páley Borgþórsdóttir Lögreglustjóri í Vestmannaeyjum    

Bæjarstjórn afar stolt af Þjóðhátíð

Á fundi bæjarstjórnar í gær lögðu allir bæjarfulltrúarnir sjö fram eftirfarandi bókun: Næstkomandi verslunarmannahelgi mun ÍBV íþróttafélag halda Þjóðhátíð í Eyjum og verður það í 142. skiptið sem hátíðin er haldin. Jafnframt því að vera ein stærsta útihátíð landsins er þjóðhátíð ein af stærri menningararfleifðum Vestmannaeyja þar sem rótgrónum hefðum á borð við tjöldun hvítu tjalda heimamanna, bjargsigi, tónleikum lúðrasveitarinnar, brennunni og brekkusöng er haldið áfram kynslóð fram af kynslóð.   Skipulag hverrar þjóðhátíðar hefur langan aðdraganda og ótalmargar vinnustundir liggja að baki undirbúningi hennar ár hvert oftar en ekki frá ósérhlífnum sjálfboðaliðum heimamanna.   Bæjarstjórn er afar stolt af þjóðhátíð ÍBV og því sem hún stendur fyrir sem fyrst og fremst er gleði, söngur og samkennd.   Á þjóðhátíð í Eyjum hefur ekki og mun aldrei verða sýnt umburðarlyndi gagnvart hvers kyns ofbeldisglæpum. ÍBV íþróttafélag og þjóðhátíðarnefnd hafa jafnt og þétt unnið markvisst að því að tryggja öryggi og velferð þjóðhátíðargesta. Þannig hefur t.a.m. gæsla verið aukin til muna, salernisaðstæður og lýsing bættar verulega og öryggismyndavélum fjölgað ár frá ári. Einnig hefur forvarnarhópur ÍBV gegn kynferðisofbeldi, Bleiki fíllinn starfað í 5 ár og unnið ötullega að því að auka umræðu um kynferðisbrot og vitundarvakningu samfélagsins gagnvart þeim auk þess að vera áberandi á hátíðarsvæðinu sjálfu. Fagmenntað og reynslumikið viðbragðsteymi er að lokum til staðar ef upp koma slík hörmuleg brot.   Bæjarstjórn vill að lokum óska bæjarbúum öllum og gestum okkar góðrar skemmtunar um komandi helgi með einskærri hvatningu um að við njótum félagsskaps hvors annars, virðum hvort annað og hjálpum hvor öðru í neyð.   Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign) Elliði Vignisson (sign) Birna Þórsdóttir (sign) Páll Marvin Jónsson (sign) Trausti Hjaltason (sign) Auður Ósk Vilhjálmsdóttir (sign) Stefán Óskar Jónasson (sign)   Bókunin var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.  

Þjóðhátíð 2016 aðgerðir gegn ofbeldi

Þjóðhátíðarnefnd mun í ár leggja sérstaka áherslu á forvarnir gegn öllu ofbeldi. Föstudagskvöldið 29. júlí nk. kl. 22:15 munu hljómsveitir, gestir og gæsla vera með sameiginlega athöfn til að sýna með táknrænum hætti að ofbeldi á Þjóðhátíð verði ekki liðið. Þessi athöfn og starfshópur sem skipaður mun verða í kjölfar hátíðarinnar verður vonandi vísir að hugarfarsbreytingu gagnvart kynferðisofbeldi og öðru ofbeldi. Öflug gæsla skipuð fagfólki Á undanförnum árum hafa verið settar upp 12 eftirlitsmyndavélar á svæðinu og í ár verða settar upp fimm myndavélar til viðbótar til að efla öryggi gesta. Innan gæslusveitar hátíðarinnar starfa um 20 menntaðir lögreglu- og sjúkraflutningamenn. Þegar álagið er hvað mest á svæðinu eru um 100 manns í gæslu. Í um 200 metra fjarlægð frá Brekkusviði er sjúkraskýli þar sem læknisþjónusta er veitt frá 20:00 til 8:00 alla hátíðardagana, þar starfar læknir og þrír hjúkrunarfræðingar. Á svæðinu eru tveir sjúkrabílar til reiðu frá 20:00 til 8:00 og einnig er starfandi áfallateymi í Herjólfsdal, teymið starfar á vegum Þjóðhátíðarnefndar og er því stýrt af fagmenntuðu starfsfólki. Bleiki fílinn Forvarnarhópurinn Bleiki fílinn sem stofnaður var árið 2012 mun vera einkar áberandi í ár. Sá hópur hefur það að markmiði að fræða þjóðhátíðargesti um samþykkt kynlíf. Átakið hefur verið mjög sýnilegt á hátíðarsvæðinu frá stofnun og hafa til að myndað margar hljómsveitir og listamenn komið fram merkt átakinu í Dalnum.   Þjóðhátíðarnefnd hefur sett upp vegvísi inn á svæðinu sem sýnir hvar hægt er að leita sér aðstoðar ef eitthvað kemur upp á. Þjóðhátíðarnefnd leggur áherslu á að ofbeldi er aldrei liðið. Þjóðhátíðarnefnd

Þjóðhátíðarblað Vestmannaeyja 2016 - Afhent kl. 16:00

Þjóðhátíðarblað Vestmannaeyja 2016 kemur út á morgun, miðvikudaginn 27. júlí. Sölubörn eru hvött til að koma í Týsheimilið, miðvikudaginn 27. júlí.kl. 16.00, þar sem þau fá afhent blöð til að selja. Að venju verða góð sölulaun í boði! Skapti Örn Ólafsson er ritstjóri blaðsins í ár líkt og undanfarin ár og segir hann blaðið að venju sé stútfullt af efni tengdu Þjóðhátíð og Vestmannaeyjum.       Fjölbreytt efni og mikið af ljósmyndum   Þjóðhátíðarblað Vestmannaeyja er 76 síður að stærð og hefur verið vandað til verka hvað varðar efnistök, ljósmyndir og útlit. Meðal efnis í blaðinu er viðtal við landsliðsþjálfarann og Eyjapeyjann Heimi Hallgrímsson þar sem fjallað er um ævintýrið í Frakklandi, knattspyrnuna, Vestmannaeyjar og Þjóðhátíð. Bjargsigsmaðurinn Bjartur Týr Ólafsson er tekinn tali og rætt er við Hildi Jóhannsdóttur sem stendur fyrir kassabílarallýi á Þjóðhátíð.       „Nokkrir drátthagir Eyjamenn teiknuðu síðan fyrir okkur Þjóðhátíð og Sæþór Þorbjarnarson Vídó, sem hefur skemmt þjóðhátíðargestum í mörg ár, er í léttu þjóðhátíðarspjalli. Eins er rætt við Halldór Gunnar Pálsson höfund þjóðhátíðarlagsins í ár. Síðast en ekki síst minnumst við Sigurðar Reimarssonar, Sigga Reim, brennukóngs með meiru sem kvaddi okkur fyrr í sumar,“ segir Skapti Örn og bætir við að í blaðinu séu fjölmargar ljósmyndir frá Adda í London frá fyrri Þjóðhátíðum.       Í blaðinu er einnig hefðbundið efni eins og hátíðarræða Þjóðhátíðar 2015, sem flutt var af Eddu Andrésdóttur, fjölmiðlakonu, grein eftir Írisi Róbertsdóttur, formanni ÍBV – Íþróttafélags, dagskrá hátíðarinnar í ár og texti og gítargrip á Þjóðhátíðarlaginu í ár – Ástin á sér stað.         ÍBV – íþróttafélag  

Landsbankinn áfrýjar ekki í sparisjóðsmálinu í Eyjum

„Landsbankinn mun ekki áfrýja niðurstöðu héraðsdóms um að dómkveðja skuli matsmenn í samræmi við kröfu Vestmannaeyjabæjar fyrir hönd stofnjáreigenda í Sparsjóði Vestmannaeyja þar sem Vestmannaeyjabær og Vinnslustöðin eiga stærstan hlut. Þá stóð hópur einstaklinga eftir með skarðan hlut eftir að Sparisjóðurinn féll.     „Þannig er ljóst að dómkvaddir verða matsmenn til að meta virði stofnfjár í Sparisjóðnum þegar hann var á þvingaðan máta sameinaður við Landsbankann. Þá hefur embætti umboðsmanns í kjölfar frétta um matsmálið beðið um gögn málsins og hefur lögmaður okkar þegar sent þau,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri um stöðu málsins.   „Það gleður mig að barátta okkar skuli hafa skilað því að kominn er sáttatónn í Landsbankann hvað þessi mál varðar. Hér í Eyjum eru fjölmörg heimili sem fóru illa út úr falli Sparisjóðsins og það skiptir miklu fyrir stofnfjáreigendur að fá hlutlausar upplýsingar um það hvers virði eignarhlutir þeirra voru þegar verðmætin voru gerð upptæk.   Að mínu mati var illa staðið að sameiningu Sparisjóðs Vestmannaeyja og Landsbankans. Stofnfjáreigendur höfðu þar nánast enga aðkomu og hafa frá upphafi talið að óvissa sé um hvort verðmæti stofnfjár hafi verið rétt metið. Jafnvel var svo langt gengið að „kaupandi“ þessara eigna (Landsbankinn) reyndist hafa upplýsingar um verðmæti eignarinnar langt umfram það sem „seljandinn“ (stofnfjáreigendur) hafði. Nú verður sem sagt farið í að finna út verðmætið með hlutlausu verðmætamat á eignarhlutanum,“ sagði Elliði.    

Brim hf. - Beðið verði niðurstöðu rannsóknar Hlutafélagaskrár

Brim hf. sem minnihluta hluthafi í Vinnslustöðinni hf., vill koma eftirfarandi yfirlýsingu á framfæri sem svar við yfirlýsingu Seilar ehf. vegna stjórnarkjörs í Vinnslustöðinni og beiðnar Seilar ehf sem er í meirihluta eigu Haraldar Gíslasonar um hluthafafund:   „Brim hf., minnihlutaeigandi í Vinnslustöðinni, fer fram á að fulltrúar meirihlutans bíði niðurstöðu yfirstandandi rannsóknar Hlutafélagaskrár á gjörðum þeirra á aðalfundi 6. júlí sl. áður en boðað verði til hluthafafundar. Hlutafélagaskrá er úrskurðaraðili í svona málum samkvæmt hlutafjárlögum.   Fulltrúar meirihlutans stigu fram í fjölmiðlum um helgina og lýstu því yfir að farið yrði fram á að stjórn, sem ekki lengur hefur umboð til að starfa fyrir hönd félagsins, boði til nýs hluthafafundar þar sem enn og aftur á að kjósa nýja stjórn yfir félagið. Fulltrúar minnihluta hluthafa mótmæla þessu harðlega. Niðurstaða fyrra stjórnarkjörs á aðalfundi félagsins 6. júlí sl. var fullkomlega lögmæt og aðeins á eftir að varpa hlutkesti um það hver tekur sæti sem fimmti stjórnarmaður félagsins í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga.   Það er mikilvægt að forðast valdníðslu og virðingarleysi gagnvart lýðræðislegum kosningum. Heppilegast væri að fulltrúar meirihlutans með Harald Gíslason í broddi fylkingar sættu sig við niðurstöðu hins fyrra stjórnarkjörs, þrátt fyrir að niðurstaðan hafi ekki verið þeim þóknanleg, svo réttkjörin stjórn Vinnslustöðvarinnar hf. geti hafið störf hið fyrsta með hagsmuni félagsins, starfsmanna og annarra sem því tengjast að leiðarljósi. Slík niðurstaða er sanngjörn fyrir alla hluthafa, ekki bara meirihlutann,“ segir í yfirlýsingunni.    

Stærsti hluthafi VSV vill hluthafafund og stjórnarkosningu

Seil ehf. sem er stærsti hluthafi í Vinnslustöðinni ehf. hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu. Umræður og deilur hafa skapast um stjórnarkjör á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar hf. 6. júlí sl. Í ljósi þess hefur Seil ehf., eigandi 40,5% hlutafjár og þar með stærsti hluthafinn í Vinnslustöðinni, óskað eftir því við stjórn félagsins að boðað verði til hluthafafundar þar sem stjórnarkjörið verði endurtekið, svo tekinn verði af allur vafi um hver sé rétt kjörin stjórn félagsins.     Ósk Seilar um hluthafafund var birt stjórn Vinnslustöðvarinnar með bréfi dagsettu 15. júlí sl. Að mati Seilar er þetta einföld og eðlileg leið til að velja félaginu stjórn í samræmi við vilja hluthafa. Hluthafar í Vinnslustöðinni eru liðlega 240 talsins. Á aðalfundinum 6. júlí sl. var mætt fyrir eigendur 99,35% hluta í félaginu. Í margfeldiskosningu til fimm manna stjórnar þarf hver stjórnarmaður að fá 16,67% atkvæða til að ná kjöri.   Í hlutafélagi fer hver með atkvæði í hlutfalli við eignarhlut sinn. Guðmundur Kristjánsson, aðaleigandi Brims hf., og aðilar honum tengdir fara með 32,88% eignarhlut í Vinnslustöðinni samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra frá marsmánuði 2016.   Guðmundur hefur haldið því fram opinberlega, sbr. m.a. fréttir RÚV 8. júlí sl., að stjórnarkjör á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar hafi verið ólögmætt. Því hefði mátt ætla að hann tæki ósk um hluthafafund með nýju stjórnarkjöri fagnandi til að fá hreinar línur og að vilji hluthafa fengi að ráða. Því er samt ekki að heilsa. Seil ehf. hefur borist erindi frá lögmanni Brims þar sem hótað er lögbanni, málssókn og bótakröfum vegna óskar um hluthafafund. Slík viðbrögð eru því miður kunnugleg úr samskiptum þessa tilteknu hluthafa við meðeigendur sína frá fyrri tíð.    

Yfirlýsing - Sátt náðist við hljómsveitirnar

Í hádeginu gær fór fram fundur fulltrúa listamanna sem hafa dregið sig úr dagskrá Þjóðhátíðar, þjóðhátíðarnefndar og fulltrúa bæjaryfirvalda í Vestmannaeyjum. Á fundinum fór fram hreinskilin umræða með það að markmiði að setja niður deilur og snúa bökum saman. Ákveðið var að grípa til bæði táknrænna og raunverulegra aðgerða til að stemma stigu við nauðgunum á útihátíðum sem þessum og er þessu nánar lýst í eftirfarandi sameiginlegri yfirlýsingu aðila.     YFIRLÝSING Nauðgun er einn versti glæpur sem manneskjur geta framið. Nauðgun getur skilið eftir sig stór sár sem fólk ber ævilangt. Allt of stór hluti þeirra sem verða fyrir nauðgun treysta sér ekki til að kæra. Af þeim nauðgunum sem eru kærðar leiða aðeins örfáar til sakfellingar. Yfirleitt vegna skorts á sönnunargögnum. Að ræða kynferðisbrot á opinskáan hátt er eitt af því sem hjálpað getur fórnarlömbum að skila skömminni þangað sem hún á heima. Skortur á umfjöllun veitir gerendum skjól til að fremja sín brot og brotin eiga sér stað víða – ekki bara á útihátíðum.   Aðstandendur Þjóðhátíðar í Eyjum ætla í samvinnu við bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum að efna til átaks til að vekja þjóðhátíðargesti til vitundar um alvarleika kynferðisbrota. Þjóðhátíðarnefnd mun skipa starfshóp sem marka mun stefnu til næstu 5 ára um hvernig standa megi enn betur að þessum málum á Þjóðhátíð. Óskað verður eftir aðkomu þeirra sem best þekkja, þar á meðal fulltrúa Stígamóta. Nauðganir eru vandamál sem snertir alla sem skipuleggja stórhátíðir en Þjóðhátíð hyggst ganga á undan með góðu fordæmi.   Vestmannaeyingar eru stoltir af því að eiga stærstu útihátíð landsins. Stór hluti þjóðarinnar hefur komið á þjóðhátíð Vestmannaeyja og langflestir eiga bara góðar minningar þaðan. Einstök fjölskyldustemning og náungakærleikur þjóðhátíðar, samkenndin sem birtist árlega í brekkusöngnum, gestrisni íbúa Hvítu tjaldanna; allt var þetta okkur innblástur að því að ná sátt í þessu máli.   Undirrituð vilja hvetja aðila til samstöðu gegn þeirri þjóðfélagslegu vá sem kynferðisbrot eru og nýta samstöðukraft sinn í að berjast saman. Þjóðhátíð er ekki undanskilin hvað slíkt varðar og getur gengið fram með fordæmi. Það er krafa undirritaðra að lögregluumdæmin samræmi upplýsingagjöf hvað kynferðisbrot varðar með það að leiðarljósi að skila skömminni til þeirra sem eiga að bera hana, gerenda.   Þá má að lokum geta þess að listamenn, björgunarsveitir og aðrir gæsluaðilar á hátíðinni munu taka þátt í táknrænni athöfn vegna fyrrnefnds átaks á föstudagskvöldinu á þjóðhátíð og með því marka nýtt upphaf og vonandi eina skemmtilegustu og best heppnuðu þjóðhátíð frá upphafi.   Unnsteinn Manuel Stefánsson, tónlistarmaður Elliði Vignisson, bæjarstjóri Dóra Björk Gunnarsdóttir, þjóðhátíðarnefnd Auk eftirfarandi hljómsveita: Agent Fresco, Dikta, Emmsjé Gauti, GKR, Retro Stefson, Sturla Atlas og Úlfur Úlfur.    

Kynferðisofbeldi er mein sem við viljum uppræta

Því miður hefur nauðgun átt sér stað á Þjóðhátíð í Eyjum. Því miður hefur nauðgun átt sér stað á öðrum tímum ársins í Eyjum. Því miður eru líkur á því að nauðgun mun eiga sér stað á Þjóðhátíð í Eyjum. Því miður eru líkur á að nauðgun eigi sér stað á öðrum tímum ársins í Eyjum. Þetta er staðreynd og yfir henni hvílir engin þöggun. Mesta þöggunin í þeirri umræðu sem á sér stað í dag er að nauðganir hafa átt sér stað á fleiri stöðum en á Þjóðhátíð í Eyjum og mun eiga sér stað á fleiri stöðum en í Vestmannaeyjum. Fjöldi tilkynntra kynferðisafbrota á síðustu Þjóðhátíð voru of margar en færri en gengur og gerist í hverri viku á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er ljótur blettur á Þjóðhátíð sem okkur Eyjamönnum líður illa yfir.   Eyjamenn viðhafa ekki þöggun umræðu um kynferðisofbeldi á Þjóðhátíð eins og sumir vilja halda fram. Viðbragðsáætlun Þjóðhátíðarnefndar, lögreglunnar í Eyjum, Heilbrigðisstofnunar, áfallateymis og fleiri aðila bera öll merki um það. Allir búa sig undir að bregðast við þessari ljótu vá. Allir vona það besta en búa sig undir það versta. Gæslan er elfd, heilbrigðisþjónusta tryggð, rekinn er öflugur áróður gegn nauðgunum, fólk er hvatt til að vera á varðbergi og fylgjast með hvort öðru og vernda. Ef upp kemur tilvik um kynferðisofbeldi er brugðist við. Á öðrum tíma ársins er öflugt starfsfólk félagsþjónustu, lögreglu, heilsugæslu og fleiri til taks er upp koma slík brot. Engum dettur til hugar að fela þennan ljóta blett sem fellur á samfélagið heldur eru menn tilbúnir til að takast á við hann og helst af öllu útrýma.   Ég hef starfað innan félagsþjónustu Vestmannaeyjabæjar í 24 ár, fyrst sem sálfræðingur og á síðustu árum sem framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs. Ég hef starfað í áfallateymi á Þjóðhátíð og verið gestur Þjóðhátíðar á síðustu 23 hátíðum. Að auki hef ég starfað sem lögregluþjónn í Reykjavík. Á þessum árum hef ég kynnst reynslu þolenda nauðgunarmála frá upphafi þess að mál kemur fram, því ferli sem tekur við, úrvinnslu og afleiðingum. Þau eru þung og erfið sporin hjá þolanda frá fyrstu stigum áfalls.   Páleyju Borgþórsdóttir þekki ég vel. Hún hefur komið að nokkrum málum sem lögmaður þolenda kynferðisafbrota og lagt sig fram af elju og hugsjón við að gæta hagsmuna sinna umbjóðenda. Ásetningur hennar var einlægur þegar kom að því að vernda umbjóðendur. Sem lögreglustjóri heldur hún áfram að gæta hagsmuna þolenda og vernda rannsóknarhagsmuni. Hún tekur ákvörðun í þá átt að vernda þolendur kynferðisafbrota á þjóðhátíð frá fjölmiðlum á fyrstu stigum máls. Auðvitað eru fréttaþyrstir fjölmiðlar ósáttir og hamra á Páley með öllum þeim ráðum sem þeir þekkja.   Dregin er upp dökk mynd af ákvörðun Páleyjar og áróður rekinn fyrir því að hér sé verið að þagga niður tengingu nauðgunar og Þjóðhátíðar. Jafnvel hafa sumir gengið enn lengra og dregið upp þá mynd að samfélagið í Eyjum þaggi niður kynferðisofbeldi. Það eru óskiljanleg rök í mínum huga sérstaklega út frá því að enginn í Eyjum hefur afneitað þeirri vondu staðreynd að kynferðisofbeldi getur og hefur átt sér stað á Þjóðhátíð og á öðrum tíma ársins eins og kemur fram í upphafi þessarar greinar minnar.   Fréttaþyrstir fjölmiðlar leggja ekki vinnu í það að draga úr þöggun. Þeir þrengja umræðuna um nauðgun og kynferðislegt ofbeldi með því að benda og hrópa að einum atburði (Þjóðhátíð), einum landshluta (Vestmannaeyjum) og einum aðila (lögreglustjóra). Við það er allri athygli um nauðgun beint á einn stað og frá þeirri staðreyndin að kynferðisofbeldi á sér stað víðar á Íslandi. Fyrir mér er þetta þöggun.   Fróðlegt væri fyrir fjölmiðla að draga saman upplýsingar um fjölda nauðgana á Íslandi, hvar þær fari helst fram og undir hvaða kringumstæðum. Líklega kallar það á meiri vinnu og er ekki eins söluvæn umræða. Þetta kallar á vinnu við að fara yfir gögn eins og frá neyðarmóttöku Landsspítalans, Ríkislögreglustjóra og Stígamótum. Málin eru orðin að tölfræði og ekki eins djúsí til að selja. Árið 2014 var fjöldi kynferðisbrota 419 og að meðaltali 13 brot á landsvísu miðað við 10.000 íbúa. Í Eyjum var hlutfallið 12, á höfuðborgarsvæðinu var hlutfallið 11, á Vesturlandi 19, á Suðurnesjum 17 og á Vestfjörðum 36. Skilgreining á kynferðisbrotum eru víðari en eingöngu nauðgun. (upplýsingar af heimasíðu Ríkislögreglustjóra)   Á höfuðborgarsvæðinu var fjöldi tilkynntra kynferðisbrota árið 2014 alls 238 (tæplega 57% af heild) og þar af 71 tilkynningar um nauðgun. Það gerir rúmlega ein nauðgun á viku. Árið áður sem var met ár frá því samræmdar skráningar lögreglu fór fram var fjöldi kynferðisbrotamála 416 og þar af 114 tilkynningar um nauðgun sem gerir rúmlega tvær nauðganir að meðaltali á viku. (upplýsingar af heimasíðu Ríkislögreglustjóra)   Auðvitað er þessi tölfræði leiðinleg og ekki söluvæn. Hún er bara tölur á pappír og fjallar ekkert um alvarleika máls, hver er þolandi eða gerandi eða annað sem svalar forvitni okkar. Tölfræðin er svo leiðinleg að hún er ekki einu sinni brúklega til að fá athygli, fjármagn eða viðurkenningu á þeirri vondu staðreynd að nauðganir eiga sér stað á fleiri stöðum en í Eyjum. Fyrir fjölmiðla dugar ekki að fá tölu um fjölda tilkynntra nauðgana aðfaranótt sunnudags á Þjóðhátíð. Menn vilja fá meira til að selja sína frétt. Hvar átti brotið sér stað? Hvernig ætlar Þjóðhátíðarnefnd að bregðast við? Er búið að ná geranda? Er ekki kominn tími til að leggja Þjóðhátíð niður? Er samfélagið í Eyjum að þagga niður umræðu um kynferðisofbeldi?   Umræða um nauðganir og annað kynferðisofbeldi er nauðsynleg. Í starfi mínu sem sálfræðingur uppgötvaði ég fljótt að mun fleiri höfðu reynslu af slíku ofbeldi en höfðu ekki tilkynnt. Þeir verða því ekki að tölfræði. Þessar upplýsingar fengu mig til að til að velta fyrir mér hversu margir Íslendingar hafa þessa reynslu? Hversu margir hafa komið drukknir af skemmtistað, verið misnotaðir og ekki treyst sér til að leita aðstoðar? Á höfuðborgarsvæðinu er hverja helgi haldin ígildi Þjóðhátíðar a.m.k hvað varðar fjölda einstaklinga, skemmtanaþörf og neyslu vímuefna. Áhætta nauðgunartilfella er fyrir hendi. Engin eða lítil umræða er um þessa áhættu. Enginn fjölmiðill hangir á hurðahúninum hjá lögreglunni í Reykjavík til að fá upplýsingar um fjölda nauðgunartilfella eftir skemmtanahaldið um helgar. Þær upplýsingar liggja ekki fyrir í dagbók lögreglunnar. Þær koma vissulega fram sem tölfræði síðar, á sama hátt og tölfræði er birt af hálfu lögreglunnar í Vestmannaeyjum reglubundið. Þannig voru t.d. 23 tilkynningar um kynferðisbrot í Reykjavík í júní sl. hjá lögreglunni í Reykjavík samkvæmt upplýsingum sem birtar voru á vef RÚV þann 18. júlí sl. sem er allnokkuð eftir að brotin áttu sér stað. (upplýsingar af vef RÚV; http://www.ruv.is/frett/kynferdisbrotum-fjolgadi-mikid-i-juni)   Skemmtanahaldi öllu, þ.m.t. Þjóðhátíð getur fylgt áhætta og mikilvægt að allir gæti að sér, passi upp á náungann og samferðafólk og leggi sig fram um að hátíðin fari fram á sem besta hátt. Engin nauðgun á Þjóðhátíð er það sem við viljum. Engin nauðgun í Eyjum er það sem við viljum. Staðreyndum verður ekki þagað yfir. Í mínum huga fer lítið fyrir þöggun um þessa áhættu í Eyjum. Þöggunin er aftur á móti meiri hvað varðar aðra staði. Þöggunin er algjör varðandi fjölda tilfella nauðgana á Íslandi, hvar fara þær helst fram og undir hvaða kringumstæðum. Þöggun yfir raunverulegri stöðu nauðgana og kynferðisbrota á Íslandi birtist einna helst í þröngri og einhæfðri umfjöllun um Þjóðhátíð í Eyjum. Dettum ekki inn í óupplýsta umræðu, pólitískar þrætur eða populisma varðandi þessi mál. Einbeitum okkur að því að berjast gegn ofbeldinu og það gerist best í sameiningu og af gagnkvæmri virðingu því ekkert okkar vill hafa þetta mein.      

Lúkas tekinn á þjóðhátíð - umræðunauðgun

Einu sinni var hundur sem týndist. Nokkrir á samfélagsmiðlum sögðu hundinn hafa mætt hræðilegum örlögum dýraníðings. Fjölmiðlar tóku þátt og sögðu frá kertafleytingum og mótmælum vegna hundsins. ,,Umræðan" tók meintan dýraníðing fyrir og tætti af honum mannorðið. Nokkru síðar kom Lúkas af fjalli ómeiddur.pallvil.blog.is/blog/pall_vilhjalmsson/entry/2176901/   „Síðustu daga hafa samfélagsmiðlar og fjölmiðlar tekið lúkas á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Aðalfréttatími RÚV í gærkvöldi var með þjóðhátíðarlúkasinn sem fyrstu frétt. Vitnað var í yfirlýsingu fimm hljómsveita sem vitnaði í ,,umræðuna", sem RÚV, aðrir fjölmiðlar og samfélagsmiðlar standa fyrir, þar sem krafan sé að bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum hengi út fyrsta fórnarlamb nauðgunar á þjóðhátíð til áminningar um nauðsyn ,,umræðunnar".   ,,Umræðan" telur að bæjaryfirvöld eigi að stilla fórnarlambi kynferðisofbeldis á opinberan stall til að réttlæta umræðu um nauðgun. Mannúðleg málsmeðferð réttarríkisins er algert aukaatriði: ,,umræðan" þarf sitt fórnarlamb.   Ef ,,umræðan" fær sínu fram verður særð, smánuð sál, sem vogar sér að kæra nauðgun, sett til sýnis á opinberum vettvangi strax eftir að glæpurinn er kærður. Þökk sé ,,umræðunni" fær misþyrmda manneskjan ekkert svigrúm til að komast heim í öruggt skjól, heldur verður hún að þola opinbera umræðunauðgun í lóðbeinu framhaldi af líkamlegri nauðgun.   Þjóðhátíðarlúkasinn verður til í andrúmslofti netvæddrar múgsefjunar. Er ekki mál að linni?,“ segir Páll.  

Ferðaþjónusta í Eyjum dettur niður um veturinn

Kristín Jóhannsdóttir, safnstjóri gosminjasafns í Vestmannaeyjum, segir útilokað að halda úti ferðaþjónustu allt árið um kring vegna stopulla siglinga. Tuttugu milljónir króna tapist vegna þessa og samfélagið verði af sex til átta heilsárs stöðugildum. Gosminjasafnið Eldheimar í Vestmannaeyjum var opnað fyrir rúmum tveimur árum. Þangað koma um þrjátíu þúsund manns á ári. Frá því að Landeyjahöfn opnaðist aftur í vor hefur verið mikill straumur ferðamanna til Eyja og rekstur sfnsins gengið vel, að sögn Kristínar.   Hins vegar segir hún að erfitt sé að halda úti ferðaþjónustu allt árið um kring: „Það gengur ekki vel þegar þjóðvegurinn er lokaður fimm til sex mánuði á ári. Reksturinn gengur engan veginn yfir vetrartímann.“ Hún áætlar að safnið verði af um það bil 20 milljónum króna þar sem gestir komist ekki yfir veturinn. Fjöldi gesta fyrstu fjóra mánuði ársins hafi til dæmis aðeins verið brot af því sem hann varð í maí þegar siglingar milli Landeyjahafnar og Eyja hófust á ný. „Mér finnst þetta náttúrlega ömurlegt, ekki bara fyrir safnið, heldur fyrir allt samfélagið,“ segir Kristín. „Hér gæti ég verið með sex til átta skemmtileg störf allt árið í staðinn fyrir að þurfa ekki starfsfólk hér yfir veturinn. Það er talað um Landeyjahöfn sem þjóðveginn til Eyja og hér er ekki þjóðvegur í fimm, sex mánuði ársins.“   Ruv.is greindi frá.

Bæjarstjóri og söngvari áttu fund um Þjóðhátíð

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, átti fund í Reykjavík í gær með Unnsteini Manúel Stefánssyni söngvara í Retro Stefson um Þjóðhátíð og viðbúnað gegn kynferðisbrotum á hátíðinni. Retro Stefson er ein af sjö hljómsveitum sem hafa lýst því yfir að þær komi ekki fram á Þjóðhátíð nema stefnubreyting verði á upplýsingagjöf lögreglu um kynferðisbrotamál á hátíðinni. Elliði vildi lítið ræða um efni fundarins og taldi sig ekki hafa heimild til að ræða hvað fram hefði komið í þeirra samtali.   Elliði segir að Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, sem er í Reykjavík í sumarleyfi, hafi einnig komið á fundinn. Elliði leggur áherslu á að bæjaryfirvöld hafi ekki aðkomu að Þjóðhátíð að öðru leyti en að leggja til aðstöðu. Hann telji að mæta þurfi því sem þessar hljómsveitir benda á en það sé milli þjóðhátíðarnefndar og listamannanna. Þá verði lögreglan aldrei þvinguð í eitt né neitt og hún myndi aldrei taka ákvarðanir sem kunni að gagnast einungis hagsmunum þjóðhátíðar. Elliði segir að þeir Unnsteinn Manúel ætli að tala saman aftur seinna í dag. Elliði segir að það sé sameiginlegt hagsmunamál þeirra Unnsteins hvernig draga megi úr kynferðisbrotum og líkum á því að brotið sé á fólki. Elliði segir að það sé ekki markmið hans að tryggja að hljómsveitirnar komi fram þótt hann vonist til þess að þær geri það. Listamennirnir hafi fullt frelsi til að velja hvar þeir spila. Hægt verði að leysa þetta mál eins og hver önnur. Málið hófst með yfirlýsingu sem hljómsveitirnar og listamennirnir Retro Stefson, Úlfur Úlfur, Agent Fresco, Emmsjé Gauti og Sturla Atlas sendu frá sér í gær. Hljómsveitin Dikta og rapparinn GKR bættust í hópinn síðar um daginn og hljómsveitin Quarashi lýsti stuðningi við ákvörðun listamannanna.   Ruv.is greindi frá.      

Fínasta makrílveiði í kringum Eyjar

Eitthvað hefur glæðst yfir makrílvertíðinni en hún fór rólega af stað til að byrja með. Að sögn Eyþórs Harðarsonar, útgerðarstjóra Ísfélagsins eru ísfélagsskipin Heimaey, Álsey og Sigurður búin að veiða um 5000 tonnn af makríl þessa vertíðina. ,,Það hefur verið betri veiði síðustu daga hér suður af Eyjum. Skipin eru að koma með 3-400 tonn í veiðiferð og miðast veiðin við vinnslugetuna í landi. Í næstu viku færist veiði skipanna væntanlega eitthvað austar þar sem við byrjum vinnslu á makríl á Þórshöfn þegar frystihúsið í Eyjum lokar vegna þjóðhátðarinnar.” Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdarstjóri Vinnslustöðvarinnar tekur í sama streng og segir veiðina hafa byrjað rólega hjá þeim. ,,Eins og staðan er núna höfum við fiskað tæp 4000 tonn af 14.000 tonna kvóta sem við eigum. Ísleifur og Kap hafa verið á veiðum síðan í byrjun júlí og veiðin hefur gengið þokkalega. Vertíðin byrjaði frekar rólega en hefur glæðst mikið undanfarna daga. Skipin hafa verið á veiðum hérna rétt sunnan við Eyjar. Í næstu viku stoppa skipin í nokkra daga fram yfir verslunarmannahelgi og því vonum við að það verði líf á miðunum næstu daga.”   320 skip og bátar með makrílkvóta Alls hafa um 320 skip og bátar fengið úthlutað makrílveiðiheimildum á þessari vertíð. Alls var úthlutað 152.000 tonnum og þar við bætist 14.000 tonna kvóti frá fyrra ári, þannig að í heild má veiða rúmlega 166.000 tonn. Úthlutaður kvóti skiptist þannig milli skipaflokka að aflareynsluskip fá 105.000 tonn, vinnsluskip fá 28.000 tonn, skip án vinnslu (ísfiskskip) 8.000 tonn og handfærabátar 6.100 tonn. Í grein í Fiskifréttum kemur fram að af þeim 80 ísfiskskipum sem fengu kvóta hefur helmingurinn nú þegar látið frá sér aflaheimildir til annarra. Þá ríkir óvissa um áhuga handfærabáta á veiðunum en rúmur fjórðungur þeirra, náægt 200 smábátar sem fengu kvóta í fyrra fóru á veiðar.    

Yfirlýsing frá þjóðhátíðarnefnd

ÍBV Íþróttafélag skipuleggur og heldur Þjóðhátíð Vestmannaeyja og gerir allt sem stendur í valdi félagsins til að tryggja öryggi hátíðargesta. Félagið hefur hins vegar ekkert ákvörðunarvald um það hvenær eða með hvaða hætti lögregluyfirvöld kjósa að segja frá hugsanlegum lögbrotum sem framin eru á hátíðarsvæðinu. Meðal þess sem gert hefur verið á undanförnum árum til að auka öryggi er eftirfarandi:   Fjölgað öryggismyndavélum á hverju ári frá 2012 Fjölgað í gæsluliðinu á Þjóðhátíð Kynjaskipt salernum Bleiki fílinn var stofnaður fyrir 5 árum en hann er forvarnarhópur vegna kynferðisbrota Félagið er með áfallateymi á hátíðarsvæðinu, skipað fagfólki, sem vinnur með lögreglu og heilsugæslu Við Þjóðhátíðarhaldið er í algjörum forgangi að tryggja öryggi gesta, einkum og sér í lagi gagnvart kynferðisbrotum og öðru ofbeldi. Það á aldrei að fela þessi brot; alltaf að ræða þau og alltaf að snúa sökinni og skömminni að gerandanum. Kynferðisofbeldi er aldrei þolandanum eða umhvefinu að kenna; alltaf gerandanum einum. Við treystum því að vinnubrögð lögreglu í hverju tilviki ráðist af því meginmarkmiði að hlífa þolandanum og koma höndum yfir gerandann. ÍBV Íþróttafélag og Þjóðhátíðarnefnd vill vinna með öllum til að tryggja ofangreind markmið, þar með talið þeim góðu listamönnum sem nú hafa stigið fram og vilja leggja hönd á plóginn. Einnig hefur verið ákveðið að bjóða Stígamótum og Neyðarmóttöku Landsspítalans að koma og taka út forvarnastarfið, gæsluna og viðbragðsteymið á hátíðinni. Vonandi verður það til þess að gera góða gæslu og gott viðbragð enn betra. Þjóðhátíðarnefnd, Auðbjörg Halla Jóhannsdóttir Birgir Guðjónsson Dóra Björk Gunnarsdóttir Elías Árni Jónsson Hörður Orri Grettisson Jónas Guðbjörn Jónsson  

Fimm hljómsveitir hóta að mæta ekki á þjóðhátíð

Fimm hljómsveitir, sem eiga að spila á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, segja í sameiginlegri yfirlýsingu, að í ljósi orðræðu og verklags lögreglustjórans í Vestmannaeyjum undanfarna daga sjái þeir ekki annan kost í stöðunni en að draga sig út úr dagskrá Þjóðhátíðar í ár nema skýr stefnubreyting komi frá bæjaryfirvöldum.     Þetta kemur fram á RÚV þar sem segir einnig:    „Kynferðisbrot eigi aldrei að þagga niður. Retro Stefson, Úlfur Úlfur, Agent Fresco, Emmsjé Gauti og Sturla Atlas áttu allir að koma fram á Þjóðhátíð. Þeir segjast ekki geta gert það, sem flytjendur og listamenn, vitandi það að einhverjir úr áhorfendaskaranum verði fyrir kynferðisofbeldi ef að bæjaryfirvöld og lögreglustjórinn í Vestmanneyjum hafi ekki gert allt sem í þeirra valdi stóð til að koma í veg fyrir það.     Yfirlýsing þeirra félaga er svohljóðandi:  Okkur blöskra viðbrögð yfirvalda í Vestmanneyjum við háværum kröfum samfélagsins undanfarna daga. Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum er frábær hátíð en kynferðisbrot á aldrei að þagga niður.  Þjóðhátið, Vestmanneyingar og við öll eigum að úthýsa kynferðisofbeldi með öllum tiltækum ráðum.  Í ljósi orðræðu og verklags lögreglustjórans í Vestmanneyjum undanfarna daga sem gengur þvert á þöggunarumræðuna sem hefur átt sér stað undanfarin ár í íslensku samfélagi, sjáum við okkur ekki annan kost í stöðunni en að draga okkur úr dagskrá Þjóðhátíðar í ár nema skýr stefnubreyting komi frá bæjaryfirvöldum og lögreglustjóra og það strax.     Við getum ekki, sem flytjendur og listamenn á þessari hátið, komið fram vitandi það að einhverjir úr áhorfendaskaranum verði fyrir kynferðisofbeldi ef að bæjaryfirvöld og lögreglustjórinn í Vestmanneyjum hafa ekki gert allt sem í þeirra valdi stóð til að koma í veg fyrir það.  Okkar krafa er sú að lögregluyfirvöld í Vestmanneyjum temji sér þau vinnubrögð sem Landsspítalinn og Stígamót telji vera æskilegust.  Og þá tala ég fyrir hönd eftirfarandi hljómsveita: Retro Stefson, Úlfur Úlfur, Agent Fresco, Emmsjé Gauti og Sturla Atlas.     Kær kveðja Strákarnir.   www.ruv.is/frett/hota-ad-haetta-vid-ad-spila-a-thjodhatid

Vestmannaeyjabær | Arnsteinn Ingi ráðinn starfsmannastjóri

Arnsteinn Ingi Jóhannesson, forstöðumaður ÍÞróttamiðstöðvar og íþróttafulltrúi Vestmannaeyjabæjar hefur verið ráðinn starfsmannastjóri Vestmannaeyjabæjar. Það sóttu sjö um starfið, tveir karlar og fimm konur. Umsækjendur voru:  Eydís Ósk Sigurðardóttir, Sara Jóhannsdóttir, Thelma Sigurðardóttir, Eva María Jónsdóttir, Einar Kristinn Helgason, Arnsteinn Ingi Jóhannesson og Kristbjörg Jónsdóttir.   Rut Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri hjá bænum segir að starfið sé að hluta til nýtt starf. „Það er viðbótarstöðugildi við starf sem fyrir var á skólaskrifstofunni og var um 50% starfshlutfall. Það starf fól í sér allt utanumhald um starfsmenn á fræðslusviðinu og innleiðingu og eftirfylgni á tímaskráningarkerfinu Vinnustund,“ sagði Rut.   Ákveðið var að ráða starfsmannastjóra í fullt starf sem sæi þá um allt starfsmannahald sveitarfélagsins. „Í stuttu máli hefur Starfsmannastjóri umsjón með launa- og mannauðsmálum Vestmannaeyjabæjar í samvinnu við framkvæmdastjóra sviðanna. Starfsmannastjóri sinnir alhliða ráðgjöf um mannauðsmál til stjórnenda og starfsfólks. Hann stýrir stefnumótandi verkefnum eins og gerð og eftirfylgni við mannauðsstefnu, velferðastefnu og starfsmannahandbókar. Hann hefur einnig umsjón með framkvæmd ýmissa mannauðstengdra mála svo sem ráðningum, starfsþróunaramtölum, símenntunaráætlunum og vinnuumhverfismálum. Hefur einnig umsjón og eftirfylgni með kjarasamningum, launakeyrslum mannauðsupplýsingakerfum.“    

„Mjög há ábúð sem er góðs viti“

Elliði: Tek skilaboðin alvarlega – Ákvörðun líkleg á Þjóðhátíð

„Fyrir það fyrsta þykir mér vænt um að eiga hóp sem kallar sig stuðningsmenn mína. Það er ánægjulegt að það er einhver sem styður mann eftir að hafa verið lengi í stjórnmálum. En þar fyrir utan þykir mér vænt um þessa niðurstöðu og ég tek hana alvarlega.“ Þetta segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, en könnun sem stuðningsmenn hans létu gera í Suðurkjördæmi bendir til þess að hann eigi víðtækan stuðning í oddvitasætið. Þar fyrir situr Ragnheiður Elín Árnadóttir sem gegnt hefur embætti iðnaðarráðherra á kjörtímabilinu.   Elliði segist í samtali við Eyjuna ekki vera búinn að gera upp hug sinn og minnir á að ekki er langt síðan að hann fékk annars konar traustmælingu, það er í kosningum til bæjarstjórnar þar sem Sjálfstæðisflokkurinn vann mikinn sigur. Því hlutverki taki hann sömuleiðis alvarlega. Við erum í stórum og miklum verkefnum sem spanna allt frá nýsmíði Vestmannaeyjaferju yfir í þjónustuíbúðir fyrir aldraða og fatlaða. Ég þarf að sjá fram úr þessum verkefnum áður en ég huga að örðum verkefnum. Pólitík má aldrei ganga út á persónulegan metnað.   Aðspurður hvort honum langi á þing, svarar Elliði: Nú þegar ég að setjast yfir með mínum stuðningsmönnum og fjölskyldu hvað sé rétt að gera. Mér líður vel í því sem ég er að gera en um leið eru þingstörf á meðal ábyrgðarmestu starfa í landinu. Nú er ég ekki kominn svo langt í ferlinu [að taka ákvörðun] en það er alveg á hreinu að ég hreyfi mig ekki frá því umboði sem ég hef í Vestmannaeyjum nema að sjá út úr þeim verkefnum sem þarf að sinna. Mér ber lagaleg skylda til að gegna þeim störfum sem ég var kjörinn til þar. Það verður að hafa forgang. Elliði segist hafa fengið meldingu frá sínum stuðningsmönnum að það stæði til að gera umrædda könnun. Aðspurður hvort þetta sé stór hópur svarar hann því til að það hafi komið notalega á óvart hversu stór og öflugur þessi hópur er. Segist hann jafnframt hafa fengið fjölda símtala úr kjördæminu þar sem skorað er á hann í framboð, en svör hans hafi alltaf verið á sömu leið. Það er að hann sé nú þegar í ábyrgðastöðu sem verði að hafa forgang. En dregur það úr honum að bjóða sig fram gegn sitjandi ráðherra og oddvita? Ég lít ekki svo á að í stjórnmálum eigi einhver eitthvað. Ef ég býð mig fram væri ég ekki að fara fram gegn Ragnheiði Elínu eða nokkrum öðrum heldur einfaldlega að falast eftir stuðningi íbúa í Suðurkjördæmi.   Elliði segist væntanlega gera upp hug sinn innan nokkurra vikna. Brekkan á Þjóðhátíð er ákjósanlegur vettvangur til að taka svona ákvörðun. Ég er mikill Eyjamaður og þar slær hjartað, segir hann í léttum dúr. Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður, hefur einnig verið orðuð við oddvitaembættið. Hún hefur þegar gefið út að hún ætli sér að bjóða sig fram að nýju, en hefur ekki tekið ákvörðun um á hvaða sæti hún stefnir á. Hún vildi ekkert gefa uppi þegar Eyjan náði tali af henni, en sagði að það styttist í ákvörðun hennar.   Eyjan greindi frá.  

Elliði stendur með ákvörðun Páleyjar

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segist standa með ákvörðun Páleyjar Borgþórsdóttur lögreglustjóra um að greina ekki opinberlega frá tilkynntum kynferðisbrotum á þjóðhátíð í ár. Ákvörðunin sé tekin með hagsmuni þolenda að leiðarljósi. „Þessum brotum, sem og öllum öðrum, þarf að sinna af mikilli nærgætni og gæta að því að verkferlar séu skýrir. Ég veit ekki betur en til þess að þessir verkferlar séu þeir sömu og lögregla notar um allt land, alla daga ársins, og að þetta sé það besta sem hægt er að gera bæði fyrir sóknarhagsmuni og vellíðan þolenda," segir Elliði í samtali við Vísi. Lögregla greinir alla jafna ekki frá meintum kynferðisbrotum, en svarar hins vegar fyrirspurnum þegar eftir því er óskað, sem Páley ætlar ekki að gera. Greint var frá því í dag að Páley hyggist viðhalda sama verklagi og í fyrra, að upplýsa ekki um tilkynnt kynferðisbrot. Hefur hún farið þess á leit við Landspítalann að fjölmiðlar verði ekki upplýstir um meint brot, en Landspítalinn hyggst ekki verða við beiðni Páleyjar.   Ýmsir fagaðilar hafa gagnrýnt þessa ákvörðun, en Elliði segir ekki tilefni til að endurskoða hana, þrátt fyrir það. „Fagaðilar hafa líka lýst því yfir að þetta sé besta leiðin. Nú er ég sjálfur með mastersgráðu í sálfræði og hef komið að úrvinnslu á málum sem þessum. Ég geri ekki athugasemdir við þá verkferla sem þarna verða viðhafðir og tel þá vera til þess að gæta að hagsmunum fórnarlamba fyrst og fremst og lögreglan segir að þetta gæti að rannsóknarhagsmunum, sé í takt við það sem best er hægt að gera. Þannig að ég geri ekki athugasemdir við það," segir Elliði. Hann vísar orðrómi um þöggunartilburði á bug. „Er einhver þannig innrættur að hann haldi að hagsmunum kynferðisfórnarlamba sé fórnað fyrir hagsmuni Þjóðhátíðar sem haldin er af íþróttafélagi í Vestmannaeyjum? Ég einfaldlega trúi því ekki að nokkur beri slíkt á borð. Það er allt gert sem hægt er og allir verkferlar eru unnir með hagsmuni fórnarlamba og rannsóknarhagsmuni að leiðarljósi."   Visir.is greindi frá.

Gunnar Karl fer Reykja­vík­ur­m­araþonið í hjóla­stól

Eyjamaður­inn Gunn­ar Karl Har­alds­son ætl­ar að rúlla sér 10 kíló­metra á hjóla­stóln­um sín­um í Reykja­vík­ur­m­araþon­inu í ág­úst. Gunn­ar er 22 ára en þegar hann var 18 þurfti að fjar­lægja vinstri fót hans. Frá barnæsku hafði hann glímt við erfiðan tauga­sjúk­dóm en hann hef­ur not­ast við hjóla­stól síðan fót­ur­inn var tek­inn af við hné. Gunn­ar safn­ar styrkj­um fyr­ir Reykja­dal, sum­ar­búðir fyr­ir fatlaða. „Það er í raun­inni bara ekki hægt að lýsa því,“ seg­ir Gunn­ar, spurður hvaða þýðingu Reykja­dal­ur hef­ur fyr­ir hann. Þetta er fyrsta sum­arið síðan 2004 sem Gunn­ar er ekki að fara í Reykja­dal og vill hann því gefa til baka til að þakka fyr­ir sig. Þetta er í fyrsta sinn sem hann tek­ur þátt í keppni sem þess­ari á hjóla­stóln­um og hef­ur hann aldrei áður farið þessa vega­lengd í ein­um rykk á stóln­um. „Ég er ekki með nein hand­föng á hjóla­stóln­um eða neitt þannig að ein­hver geti ýtt mér,“ seg­ir Gunn­ar sem fer 10 kíló­metr­ana á handafl­inu einu. „Ég er byrjaður að æfa núna, ég fór 5 km í gær á hálf­tíma, þetta er að koma,“ seg­ir Gunn­ar en hann æfir sig gjarn­an inni í Herjólfs­dal þar sem hann ýtir sér hring­inn.   Í ág­úst flyt­ur Gunn­ar til Reykja­vík­ur þar sem hann hef­ur nám í tóm­stunda- og fé­lags­mála­fræði við Há­skóla Íslands. „Ég hef bara sjald­an verið betri,“ seg­ir Gunn­ar sem er vel stemmd­ur fyr­ir Reykja­vík­ur­m­araþon­inu en hann stefn­ir á að safna 300.000 krón­um fyr­ir Reykja­dal og kveðst nokkuð bjart­sýnn á að ná mark­miðinu.   Reykja­vík­ur­m­araþon Íslands­banka fer fram 20. ág­úst næst­kom­andi. Hægt er að heita á Gunn­ar Karl í gegn­um heimasíðu Hlaupa­styrks.   mbl.is greindi frá.  

Dagskrá Þjóðhátíðar er klár

Dagskrá Þjóðhátíðar 2016 er tilbúin og kennir þar ýmissa grasa. Þar ber helst að nefna hljómsveitirnar Dikta, Agent Fresco, Júníus Meyvant, Úlfur Úlfur, Emmsjé Gauti, Stop Wait Go, viðburður frá Rigg, Retro Stefson, Jón Jónsson, FM95blö, Sverrir Bergmann, Friðrik Dór, Helgi Björns, Ragg Gísla og fleiri og fleiri. Dagskrána má lesa í heild sinni hér að neðan.   Föstudagur 14:30 Setning Þjóðhátíðar             Þjóðhátíð sett: Íris Róbertsdóttir             Hátíðarræða: Andrés Sigurvinsson             Hugvekja             Kór Landakirkju             Lúðrasveit Vestmannaeyja             Bjargsig: Bjartur Týr Ólafsson 15:30 Barnadagskrá             Brúðubílinn             Friðrik Dór             BMX-Brós 21:00 Kvöldvaka             Silvía             Frumflutningur á Þjóðhátíðarlagi 2016, Albatross             Dikta             RIGG viðburður 00:00 BRENNA Á FJÓSAKLETTI 00:15 Miðnæturtónleikar             Agent Fresco 01:15 Dansleikur Brekkusvið             Úlfur Úlfur og Emmsjé Gauti             Stop Wait Go 00:15 Dansleikur Tjarnarsvið             Dans á rósum             Hljómsveitin Allt í Einu   Laugardagur 10:00 Létt lög í dalnum 15:00 Barnadagskrá             Brúðubílinn             Sirkus Ísland             Kassabílarall   21:00 Kvöldvaka             Sindri Freyr             Sigurv. kassabílaralli             Sigurv. búningakeppni             Júníus Meyvant             Jón Jónsson             FM95BLÖ 00:00 FLUGELDASÝNING 00:15 Miðnæturtónleikar             Quarashi 01:45 Dansleikur Brekkusvið             Retro Stefson             DJ MuscleBoy 00:15 Dansleikur Tjarnarsvið             Brimnes    Sunnudagur 10:00 Létt lög í dalnum 15:00 Barnadagskrá             Sirkus Ísland             Stuðlabandið, barnadansleikur             Söngvakeppni barna             BMX-Brós 20:30 Kvöldvaka             Dans á Rósum             Sigurv. Söngvakeppni             Albatross ásamt gestum             Sverrir Bergmann             Friðrik Dór             Helgi Björnsson             Ragnhildur Gísladóttir 23:15 BREKKUSÖNGUR, INGÓ VEÐURGUÐ 00:00 BLYS 00:10 Sverrir Bergmann og Halldór Gunnar Fjallabróðir 00:15 Dansleikur Brekkusvið             Albatross             Stuðlabandið 00:15 Dansleikur Tjarnarsvið             Dans á Rósum             Brimnes   Kynnir hátíðarinnar: Bjarni Ólafur Guðmundsson Dagskrá Þjóðhátíðar 2016 er birt með fyrirvara um breytingar  

Varmadælur lækka húshitunarkostnað í Eyjum um 10%

Í morgun skrifuðu Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra og Júlíus Jónsson, forstjóri HS Veitna, undir viljayfirlýsingu vegna uppsetningu varmadælu í Vestmannaeyjum. Verkefnið snýst um að tengja varmadælu við veitukerfi fjarvarmaveitu HS Veitna í Vestmannaeyjum og nota sjó sem varmagjafa. Gerð hefur verið úttekt á verkefninu og er ávinningur af því talinn vera margvíslegur; má nefna áætlaða a.m.k. 10% lækkun á orkuverði til íbúa á næstu fimm árum.   Samkvæmt yfirlýsingunni er gert ráð fyrir aðkomu ríkisins með stofnstyrk til verkefnisins að fjárhæð 300 milljón krónur, eða sem nemur áætluðum mismun á niðurgreiðslum kyntrar veitu og beinnar rafhitunar í fjögur ár. Styrkurinn er með fyrirvara um samþykki Alþingis á fjárlögum og verður hann greiddur í tveimur jöfnum greiðslum á árunum 2017 og 2018. Markmið verkefnisins er enn fremur að allir notendur í Vestmannaeyjum verði tengdir inn á kerfið.   Í skýrslu starfshóps sem skilaði tillögum til ráðherra í mars 2016 kemur fram að varmadælur geti dregið verulega úr raforkuþörf kyntra veitna og þar með lækkað rekstarkostnað umtalsvert. Jafnframt er í skýrslunni lagt til að skoðaðir verði möguleikar á því að ríkið veiti fjárfestingastyrki til slíkra verkefna og tryggi þar með rekstrarumhverfi veitnanna, leggi þær út í slíkar fjárfestingar. Viljayfirlýsingin sem undirrituð var í dag er í samræmi við tillögur skýrslunnar og í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar á sviði orku- og umhverfismála. Markmið verkefnisins eru að tryggja orkuöryggi fjarvarmaveitunnar í Vestmanneyjum, gera hana hagkvæmari í rekstri, tryggja reksturinn til lengri tíma án þess að um rafhitun sé að ræða og að draga úr raforkuþörf veitunnar um allt að 67%.   Með uppsetningu varmadælu er farið af skerðanlegri orku yfir á forgangsorku og felur það bæði í sér aukið orkuöryggi (minni skerðingar) og kemur í veg fyrir olíunotkun, losun gróðurhúsalofttegunda og umhverfismengun sem ella kæmi til þegar raforka er skert. Árlegur raforkusparnaður við varmadælu í Vestmannaeyjum er áætlaður um 45 GWh sem þýðir að um 7 MW losna í raforkukerfinu við tilkomu varmadælunnar.   Um leið skrifuðu Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar og  Friðrik Friðriksson framkvæmdastjóri hjá HS Orku undir samning á sölu Landsvirkjunar á tryggu rafmagni til HS Veitna vegna verkefnisins en sparnaðurinn nemur einni 7 MW virkjun.   Einnig skrifuðu Friðrik og Júlíus undir samning á kaupum HS Veitna á raforku frá HS Orku sem þarf til að knýja varmadælurnar.      

Íþróttir >>

ÍBV sló FH úr út bikarnum - Bæði karlar og konur í Bikarúrslit

Sex ár í röð hafði karlalið ÍBV tapað sínum síðasta leik fyrir þjóðhátíð en þeirri þrautargöngu lauk í kvöld á Hásteinsvelli þegar ÍBV lagði FH að velli í Borgunarbika karla með einu marki gegn engu. Þar með eru karlarnir komnir í bikarúrslitaleikinn sem verður 13. ágúst. Feta þeir í fótspor kvennanna því meistaraflokkur kvenna hafði áður tryggt sér sæti í bikarúrslitunum eftir sigur á Þór/AK á Akueyri. Karlarnir mæta Val og konurnar Breiðabliki á Laugardalsvelli föstudaginn 12. ágúst.   Aðstæður á Hásteinsvelli voru eins góðar og hugsast getur og var í hugum Eyjamann góð upphitun fyrir þjóðhátíð sem hefst á morgun. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og sótt á báða bóga. Lítið var samt um færi fyrr en á 40. mínútu þegar Simon Smidt náði að skora fyrir Eyjamenn eftir aukaspyrnu. Hann átti svo aftur dauðafæri undir lok hálfleiksins en markmaður gestanna gerði vel að verja.   Gestirnir sóttu meira í seinni hálfleik án þess að skapa sér mörg færi. Heimamenn voru nær því að skora í þrígang og markvörður ÍBV náði að verja þrumuskot af stuttu færi í lokin. Talsverð harka var í leiknum og uppskar hvort lið þrjú gul spjöld og einn FH-ingur fór að velli undir lok leiks eftir tvö gul spjöld.     Það var sannkölluð þjóðhátíðarstemmning þegar flautað var til leiksloka og vonandi veit þetta á góða helgi.  

Stjórnmál >>

Yfirlýsing frá Elliða - Gef ekki kost á mér í prófkjöri

Á undanförnum vikum og mánuðum hefur mér hlotnast sá heiður að fjöldi kjósenda í Suðurkjördæmi hafa komið að máli við mig og hvatt mig mjög eindregið til að gefa kost á mér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna komandi alþingiskosninga. Sérstaklega varð ég var við hvatningu þegar stuðningsmenn mínir létu Maskínu gera skoðunarkönnun þar sem niðurstöður voru meðal annars þær að 67,5% svarenda sögðust vera líklegri til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í kjördæminu ef ég myndi leiða lista flokksins. Í framhaldi af þessum eindregna stuðningi hef ég íhugað stöðuna vandlega.   Það er í senn mannbætandi, þroskandi og gefandi að hafa fundið fyrir því trausti sem mér hefur verið sýnt til þess að gegna þeirri stöðu sem ég geri í dag. Í rúmlega 10 ár hef ég lagt mig allan fram um að vinna Vestmannaeyjum gagn og ég tek alvarlega því umboði sem mér hefur verið fengið og er stoltur af árangrinum.   Flestum er ljóst að ákvörðun um flýta þingkosningum takmarkar verulega möguleika sveitarstjórnarmanna, sem annars hefðu ef til vill haft fullan hug, á framboði til þingkosninga. Í dag er kjörtímabil sveitastjórna rétt liðlega hálfnað og verkefnastaðan þétt. Meðal stærstu verkefna okkar í bæjarstjórn Vestmannaeyja er stækkun á hjúkrunarheimilinu Hraunbúðum, þróun þjónustuíbúða fyrir aldraða, bygging íbúða fyrir fatlaða, fasteignaþróun í miðbæ Vestmannaeyja, þróun háskólanáms, efling þekkingarstarfs, nýsmíði Vestmannaeyjaferju, innleiðing á nýju þjónustuneti fyrir barnafjölskyldur og margt fleira. Þessi verkefni skipta svo marga svo miklu og því mikilvægt að vel takist til.   Eftir að hafa vegið og metið stöðuna með mínu nánasta samstarfsfólki, fjölskyldu og stuðningsmönnum hef ég því tekið ákvörðun um að gefa ekki kost á mér til forystu í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í suðurkjördæmi nú síðsumars heldur einbeita mér áfram að því að ljúka þeim verkefnum sem ég er ábyrgur fyrir í Vestmannaeyjum, þar sem hjartað slær. Ég ítreka að ég er afar þakklátur fyrir þann mikla stuðning og velvilja sem ég hef fundið fyrir.   Ég óska frambjóðendum alls hins besta og hvet Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi til að sameina krafta sína í þeim tilgangi að tryggja gott gengi í komandi kosningum.   Með vinarþeli Elliði Vignisson Bæjarstjóri í Vestmanneyjum    

Greinar >>

Jóna Hrönn - Einstakir gestgjafar

Ég er á akstri nálægt hafnarsvæðinu í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgi. Fyrir framan mig á götunni er glæsilegur Pajero jeppi sem skyndilega hemlar. Út kemur Guðni Ólafsson skipstjóri og gengur rakleitt að ungum manni sem liggur sofandi upp við húsvegg búinn að fá sér einum of mikið.   Ég sé höfðingjann strjúka vanga piltsins og tala til hans áður en hann reisir hann upp og hjálpar honum upp í bílinn. Síðar um daginn hitti ég Guðna inni í Herjólfsdal, segi honum að ég hafi séð til hans og spyr hvort þarna hafi verið einhver honum tengdur. Nei, Jóna mín, ég veit nú raunar ekki hvað pilturinn heitir, en hann var illa staddur og ég fór með hann heim á Brimhólabraut.   Gerða mín skellti í hann kjötsúpu og svo lagði hann sig örlitla stund áður en ég keyrði hann aftur inn í Dal. Þá var hann aftur orðinn býsna glaður blessaður. Þetta gerðist fyrir 21 ári. Þá var ég prestur í Eyjum og tók m.a. þátt í neyðarvakt gagnvart ofbeldi á þjóðhátíð hverja verslunarmannahelgi.   Á svona hátíð birtist allt litróf mannlífsins í sinni sterkustu mynd. Fjölskyldur sameinast, ástin blómstrar, vináttubönd styrkjast. En svo eru líka hinar dökku hliðar stjórnleysis. Í Eyjum hafa menn alla tíð lagt sig fram í öryggismálum þjóðhátíðargesta.   Ég er afar stolt af forvarnaverkefninu Bleika fílnum þar sem allir geta verið aðilar að þeim skilaboðum að við líðum ekki kynferðisofbeldi í íslensku samfélagi. En besta gæsluliðið í Dalnum eru síðan Eyjamenn sjálfir í hvítu tjöldunum með sinni einstöku gestrisni og ástúð. Þeim fylgir gleði, skemmtilegar hefðir og vökul augu, eins og augun hans Guðna Ólafssonar.   Guð blessi minningu hans. Gleðilega Þjóðhátíð.   Þessi grein séra Jónu Hrannar Bolladóttur, fyrrum prests í Eyjum birtist á visir.is.    

VefTíví >>