Óska eftir því að umferðarhópur Vestmannaeyjabæjar fjalli um ábendingu þína

Fyrr í dag kom ungur Eyjapeyi, Símon Þór Sigurðsson á ritstjórn Eyjafrétta og vildi koma á framfæri spurningu til Elliða Vignissonar, bæjarstjóra þess efnis hvort ekki væri hægt að koma upp umferðarljósum á gatnamótum Kirkjuvegs og Heiðarvegs.  Elliði hefur nú svarað fyrirspurn Símons og má sjá svarið hér að neðan.   Kæri Eyjapeyi, Símon Þór Í fyrstu langar mig að þakka þér hjartanlega fyrir góða ábendingu og hrósa þér fyrir að hafa kjark og dugnað til að láta að þér kveða. Þessi gatnamót sem þú nefnir eru sannarlega ein af þeim hættulegri hérna í Vestmannaeyjum. Mjög oft gerist það að aðkomufólk heldur að það eigi réttinn á leið sinni þarna um og áttar sig ekki á stöðvunarskyldunni. Þá er hraðinn eftir Kirkjuveginum stundum umfram það sem þessi gatnamót þola og það getur valdið slysum. Stundum hefur litlu mátt muna að illa færi (sjá td.: hér) Ég veit að Framkvæmda- og umferðasvið Vetmannaeyjabæjar hefur áður fjallað um þetta götuhorn og til athugunar hefur verið að setja annaðhvort umferðarljós eða hringtorg þarna. Flestir eru sammála um að hringtorg þarna væri góður kostur en plássið til að koma slíku fyrir hefur hópnum þótt of lítið. Aðalmálið í þessu -eins og öllu öðru- er að við Eyjamenn erum öll saman ábyrg fyrir Eyjunni okkar. Saman verðum við að finna lausnir á öllum þeim verkefnum sem upp koma. Þetta er eitt þeirra. Þess vegna er svo gott að þú skulir nú benda á þetta. Allt verður þetta samt að vera vandað og mikilvægt að það fólk sem best þekkir til komi með lausnir. Þess vegna hef ég þegar óskað eftir því að umferðarhópur Vestmannaeyjabæjar fjalli um ábendingu þína og ég á von á því að í framhaldi af því fáum við báðir svör sem við getum vonandi verið sáttir við. Takk fyrir áhugann og gangi þér vel Með kveðju frá bæjarstjóranum þínum Elliði Vignisson   Ps. Þú ert velkominn til mín í spjall hvenær sem er.   Sjá einnig: Vill umferðarljós á gatnamót Heiðarvegs og Kirkjuvegs

Nóg að gera í liðinni viku

Lögreglan hafði í nógu að snúast í liðinni viku vegna hinna ýmsu verkefna sem upp komu. Skemmtanahald helgarinnar fór hins vegar fram með ágætum og lítið um útköll á öldurhús bæjarins. Eitthvað var um, eins og svo oft áður, kvartanir vegna hávaða frá heimahúsum en eins og svo oft áður tókst ágætlega að fá fólk til að hafa lægra.   Skömmu fyrir hádegi sl. laugardag var óskað eftir aðstoð lögreglu að Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja vegna tveggja manna sem höfðu fundist meðvitundarlausir á botni sundlaugarinnar. Mennirnir komust fljótlega til meðvitundar, eftir að þeir voru komnir á sundlaugarbakkann og farið var að hefja lífgunartilraunir. Þeir voru í framhaldi af því fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús í Reykjavík.   Laust eftir hádegi sl. laugardag var lögreglu tilkynnt um að bifreið hafi verið stolið, en talið var að henni hafi verið stolið eftir kl. 01:00 aðfaranótt laugardags. Bifreiðin fannst síðdegis sama dag neðst á Brimhólabraut. Var bifreiðin óskemmd og engu hafði verið stolið úr henni en greinilegt að henni hafði verið ekið töluvert um nóttina þar sem grynnkað hafði á eldneytistanki hennar. Um er að ræða gráa Toyota Corolla og eru þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um hver eða hverjir voru á bifreiðinni þessa umræddu nótt, beðnir um að hafa samband við lögreglu.   Tvö fíkniefnamál komu upp í vikunni, og var í öðru tilvikinu var um að ræða lítisháttar af kannabisefnum sem fundust á farþega sem var að koma með Herjólfi til Vestmannaeyja þann 15. júlí sl. Í hinu tilvikinu var um að ræða haldlagningu á nokkrum grömmum af kannabisefnum eftir húsleit í íbúðarhúsi hér í bæ síðdegis á föstudaginn. Teljast máli að mestu upplýst en í báðum tilvikum kváðust þeir aðilar sem þarna komu að máli vera eigendur efnanna og ætluðu þau til eigin nota.   Einn ökumaður var stöðvaður í vikunni vegna gruns um akstur undir áhrifum áfana- og fíkniefna og þá var ökumaður stöðvaður um liðna helgi grunaður um akstur undir áhrifum áfengis.   Þá voru tveir ökumenn sektaðir vegna ólöglegrar lagninga ökutækja sinna.   Þrjú umferðaróhöpp voru tilkynnt lögreglu í liðinni viku og var í tveimur tilvikum um minniháttar óhöpp að ræða en í einu tilviki var um að ræða árekstur tveggja bifreiða á gatnamótum Heiðarvegar og Kirkjuvegar þannig að flytja þurfti aðra bifreiðina í burt með kranabifreið. Engin slys urðu á fólki í þessum óhöppum.    

Hundadagar og hundadagar

Það er gömul trú að veður að breytist  þegar hundadagar byrja og haldist nokkuð svipað yfir hundadagana alla eða til 23. ágúst. Hvort hundadagarnir byrji 13. júlí eða 23. júlí er hinsvegar breytilegt eða skiptar skoðanir um. Samkvæmt veðurspá hjá yr.no hættir að rigna 23. júlí og engin rigning næsta dagana, og helgin þar á eftir á að vera sólrík. Er þá ekki best að segja að hundadagarnir byrji 23. júlí. Í  því felst allavega von um betri tíð.   Á vefnum Wikipedia segir að hundadagar séu tiltekið skeið sumars um heitasta tímann, nú talið frá 13. júlí (Margrétarmessu) til 23. ágúst í íslenska almanakinu (6 vikur). Nafnið mun komið frá Rómverjum, er sóttu hugmyndina til Forn-Grikkja. Grikkir settu sumarhitana í samband við hundastjörnuna (Síríus), sem um þetta leyti árs fór að sjást á morgunhimninum. Bæði hérlendis og erlendis hefur nokkuð verið á reiki hvenær hundadagatímabilið teldist byrja og hve lengi það stæði.   Grikkir munu hafa tekið eftir því að Síríus birtist þegar sól gekk í ljónsmerki, og með hliðsjón af því eru hundadagar stundum reiknaðir frá 23. júlí til 23. ágúst. Var það t. d. gert í íslenska almanakinu fram til 1924 og sömu reglu er enn fylgt í danska almanakinu og því norska. Hjá Íslendingum er hundadaganafnið tengt minningunni um Jörund hundadagakonung sem tók sér völd á Íslandi 25. júní 1809, en var hrakinn frá völdum 22. ágúst sama ár.

Síldarvinnslan áfrýjar til Hæstaréttar

Nú fyrir skömmu barst Vestmannaeyjabæ áfrýjunarstefna Síldarvinnslunnar í máli því sem Vestmannaeyjabær höfðaði gegn félaginu til efnda á forkaupsrétti sveitarfélagsins þegar bátar og aflaheimildir voru seldar frá Vestmannaeyjum 30. ágúst 2012.   Eins og komið hefur fram vann Vestmannaeyjabær fullnaðarsigur í héraðsdómi og voru dómsorðin afdráttarlaus. Í dómsniðurstöðu komst dómarinn m.a. að þeirri niðurstöðu að kaupsamningur aðila hafi verið sérsniðinn viðskiptagerningur, sem miðaði að því að sniðganga ákvæði settra laga [um forkaupsrétt sveitarfélagsins], sértækum hagsmunum til framdráttar.   Í dómsorðum sagði.: Ógiltur er samningur um kaup stefnda, Síldarvinnslunnar hf., á öllum eignarhlutum í Bergi-Huginn ehf. af stefnda, Q44., dagsettur í ágúst 2012. Þar með var staðfestur sá réttur íbúa sjávarbyggða sem þeim er ætlaður í lögum um stjórn fiskveiða og þar með dregið úr líkum þess að hægt væri með lagatæknilegum gjörningum að sniðganga þann rétt.   Vestmannaeyjabær fagnar því að látið verði reyna enn frekar á rétt sveitarfélaga og almennra íbúa sjávarbyggða með áfrýjun til hæstaréttar. Illu heilli hafa íbúar sjávarbyggða mátt þola það í áratugi að sá réttur sem löggjafinn byggði inn í lög um um stjórn fiskveiða væri markvisst sniðgenginn.   Vestmannaeyjabær lýsir yfir fullum skilningi á því að Síldarvinnslan skuli nú hafa ákveðið að áfrýja dómi héraðsdóms enda brýnt fyrir alla aðila að leikreglur í sjávarútvegi séu skýrar og þar með að öllum sé ljóst hvort að sá réttur íbúa sem Vestmannaeyjabær berst fyrir og löggjafinn ætlaði þeim eigi að vera virtur.   Að lokum hvetur Vestmannaeyjabær þingmenn og íbúa sjávarbyggða til að veita þessu máli ríka athygli. Niðurstaða Hæstaréttar mun ráða miklu um framtíð sjávarbyggða og atvinnuöryggi íbúa í sjávarbyggðum.   Fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar, Elliði Vignisson, bæjarstjóri      

140 afmælisblys í hlíðum Dalfjallsins

Þjóðhátíðarnefnd  hefur undanfarna mánuði unnið hörðum höndum að mótun dagskrár Þjóðhátíðarinnar í ár. Markmiðið hefur verið að bjóða gestum uppá það besta sem völ er á, enda tilefnið 140 ára afmæli Þjóðhátíðarinnar.  Sá mæti sendiherra og „bjargvættur", Martin Eyjólfsson, verður með hátíðarræðuna þetta árið, en setningarathöfnin hefur undanfarin ár verið afar hátíðleg og vel heppnuð.   Barnadagskráin hefur verið uppfærð og á örugglega eftir að mælast vel fyrir. Þá hefur sú skemmtilega hefð, bjargsigið verið endurvakið og er eitthvað sem eldri Vestmannaeyingum finnst tilheyra Þjóðhátíð. Tónlistardagskráin afar vönduð, boðið uppá helstu hljómsveitir og tónlistarfólk landsins og vel til fundið að minnast 100 ára ártíðar Ása í Bæ. Fyrir mörgum eru blysin á sunnudagskvöldinu toppurinn á hátíðinni, í ár verður kveikt á 140 rauðum blysum í hlíðum Dalfjalls. Svo er bara að vona að regnguðinn fari að taka sér sumarfrí.     FÖSTUDAGUR   14:30 Setning þjóðhátíðar   Þjóðhátíð sett: Sigursveinn Þórðarson Hátíðarræða: Martin Eyjólfsson Hugvekja: Séra Guðmundur Örn Jónsson Kór Landakirkju Lúðrasveit Vestmannaeyja Bjargsig: Bjartur Týr Ólafsson     15:00 Barnadagskrá á Tjarnarsviði Frjálsar íþróttir, Ungmennafélagið Óðinn Fimleikafélagið Rán Brúðubíllinn Barnaball með Páli Óskari Gefur eiginhandaáritanir eftir ball       Kvöldvaka   20:30 Frumflutningur þjóðhátíðarlags, Jón Jónsson 21:15 100 ára afmæli Ása í Bæ 21:45 Kaleo 22:30 Baggalútur 23:15 Páll Óskar     00:00 Brenna á Fjósakletti   00:15 Skálmöld   Dansleikir á báðum pöllum   Brekkusvið: Friðrik Dór – MC Gauti – Páll Óskar   Tjarnarsvið: Dans á rósum og The Backstabbing Beatles        LAUGARDAGUR   10:00 Létt lög í dalnum   15.00 Barnadagskrá á Brekku- og Tjarnarsviði Brúðubíllinn Latibær The Mighty Gareth 15:30 Hoppukastalar 15:30 Alltaf Gaman – Leikjaland með ýmsum leikjum fyrir alla fjölskylduna 16:30 Söngvakeppni barna, Dans á rósum   Kassabílarall – hefst eftir að söngvakeppni barna líkur     Kvöldvaka   20:30 Skonrokk 21:05 Skítamórall 21:40 Mammút 22:20 Jónas Sigurðsson og ritvélar framtíðarinnar 23:00 The Mighty Gareth 23:15 John Grant     00.00 Flugeldasýning   00.15 Quarashi   Dansleikir á báðum pöllum   Brekkusvið: Skonrokk - Skítamórall   Tjarnarsvið: Brimnes        SUNNUDAGUR   10:00 Létt lög í dalnum   14:30 Barnadagskrá á Brekku- og Tjarnarsviði Latibær The Mighty Gareth Söngvakeppni barna, Dans á rósum 15:30 Hoppukastalar 15:30 Alltaf Gaman – Leikjaland með ýmsum leikjum fyrir alla fjölskylduna     20.30 Kvöldvaka   20:30 Dans á Rósum 21:00 Sigurvegarar úr sönvakeppni barna 21:15 Fjallabræður ásamt Lúðrasveit Vestmannaeyja og gestum Jónas Sig Sverrir Bergmann Helgi Björns   23:15 Brekkusöngur     00:00 Blys     Dansleikir á báðum pöllum   Brekkusvið: Retro Stefson – Sálin   Tjarnarsvið: Dans á rósum, Brimnes     Kynnir hátíðarinnar : Bjarni Ólafur Guðmundsson (s:896-6818)   *Dagskrá Þjóðhátíðar 2014 er birt með fyrirvara um breytingar    

Ólögmæt úthlutun á makrílkvóta hefur kostað samfélagið í Vestmannaeyjum um 5 til 6 milljarða

Umboðsmaður alþingis hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að eins og við Eyjamenn bentum þá hafi ólöglega verið staðið að úthlutun á markrílkvóta. Áætlað er að samfélagið í Vestmannaeyjum hafi orðið af samtals 5 til 6 milljörðum króna frá árinu 2011 til dagsins í dag vegna þessa . Fyrir það væri hægt að veita fæðingaþjónustu í Vestmannaeyjum að minnsta kosti næstu...     ...120 árin.   Í viðtali við morgunblaðið í dag bendi ég á að sveitarfélagið hefur vegna þessara ólögmætu aðgerða sem fyrst var ráðist í af fyrrverandi ríkisstjórn orðið af hundruðum milljóna í mynd aflagjalda og útsvars. Vegna þess erum við að láta reikna þetta út og kanna lagalega stöðu okkar. Tjón fyrirtækjanna og ekki síst starfsmanna þeirra er verulegt. Við áætluðum að árið 2011 hefðu tpast 1.250 milljónir út úr samfélaginu. Þar af voru tapaðar launatekjur sjómanna 133 miljónirog tapaðar tekjur landverkafólks 71 miljón- bara það árið. Síðan þá hefur skaðinn undið upp á sig og vaxið.   Bæjarráð Vestmannaeyja hefur nú falið mér að gæta áfram hagsmuna bæjarins varðandi þettta stórfellda tekjutap vegna ráðstafana fyrrveradi sjávarútvegsráðherrra við úthlutun makríl kvóta. Umfjöllun bæjarráðs má finna hér (Bæjarráð).   Það er ömurlegt og ekki til sóma að ríkið skuli í þessu efni hafa skellt skollaeyrum við viðvörunum okkar en strax í aðdraganda þessrar stjórnvaldsaðgerðar varði bæjarstórn nánast einróma (Jórunn Einarsdóttir sat hjá) við því að úthlutunin væri bæði ólögmæt og skaðleg fyrir Vestmannaeyjar. Ályktun bæjarrstjórnar frá 2011 má finna hér (Bæjarstjórn).   Eftir stendur að þessar ákvarðanir þáverandi ríkisstjornar hafa stórskaðað fyrirtæki í Vestmannaeyjum og samfélagið í heild. Vestmanneyjabæ er því nauðugur sá kostur að íhuga alvarlega hver lagaleg staða okkar er. Eftir atvikum verður að krefjast leiðréttingar fyrir dómstólum.   Við teljum ennfremur einboðið að ríkisstjórn geri sjávarútvegsráðherra að byrja strax að vinda ofan af þeim ólögmætu vinnubrögðum sem hafa verið viðhöfð við úthlutun á makríl síðan 2011.   Víðtækasti skaðinn vegna þess alls er þó sennilega sú mikla óvissa sem skapast í sjávarútvegi þegar stöðugt er verið að hræra í viðskiptaumhverfinu. Nú er staðan sú að sjávarútvegsráðherra þarf að vinda ofan af þessari ólögmætu úthlutun. Hver er þá til dæmis staða þeirra fyrirtæja sem hafa aflað sér lögmæta veiðireynslu síðan 2011 á forsendum þessarar ólögmætu úthlutunar?   Sjávarbyggðir hafa frá örófi alda búið við óvissu vegna aflabrest og breytinga í náttúrunni. Við hefur bæst fiskveiðistjórnunarkerfi sem sannarlega hefur hámarkað arð þjóðarinnar af grunnatvinnuveginum en sá herkostnaður var greiddur af sjávarbyggðunum með stórkostlegri íbúafækkun. Það er lágmarks kurteisi gagnvart sjávarbyggðum og landsmönnum almennt að lög séu virt og en þau ekki markvisst sniðgengin. Það á við um útgerðir og það á sannarlega við um löggjafan sjálfan.    

Stjórnmál >>

Fyrsti fundur bæjarstjórnar í dag

Bæjarstjórn Vestmannaeyja kemur saman í dag í fyrsta sinn á nýju kjörtímabili.  Niðurstaða bæjarstjórnarkosninganna í vor, voru á þann veg að Sjálfstæðisflokkur fékk fimm bæjarfulltrúa en Eyjalistinn tvo.  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn eru Elliði Vignisson, Páley Borgþórsdóttir, Páll Marvin Jónsson, Trausti Hjaltason og Birna Þórsdóttir en fulltrúar Eyjalistans eru Jórunn Einarsdóttir og Stefán Óskar Jónasson.  Elliði, Páley, Páll Marvin og Jórunn sátu öll í bæjarstjórn á síðasta kjörtímabili.  Stefán Óskar hefur áður verið í bæjarstjórn og var varamaður á síðasta kjörtímabili en þau Trausti og Birna eru ný.  Bæjarstjórnarfundurinn fer fram í Eldheimum og hefst klukkan 18:00.   „Þegar ég kom inn í bæjarstjórn 2002 voru útsvarstekjur á hvern íbúa á verðlagi þess árs rétt liðlega 200.000 krónur en á síðasta ári voru þær hátt í 475.000 krónur,“ sagði Stefán í samtali við Eyjafréttir, sem kom út í gær.   „Staðan í dag opnar á tækifæri að gera meira fyrir bæjarbúa og bæjarfélagið í heild. Ég er ekki að mæla með óráðsíu í fjármálum en það má gera betur á ýmsum sviðum. Auðvitað veltur þetta mikið á á sjávarútvegi og afkomu atvinnulífsins almennt. Á kjörtímabilinu 2002 og 2006 vorum við, ég og núverandi bæjarstjóri, Elliði Vignisson, að skoða þann möguleika á að rífa blokkina Áshamar 75 ef það gæti létt á skuldum bæjarins. Engum dettur það í hug í dag en sterkari innviðir bæjarfélagsins eru líka verðmæti,“ sagði Stefán.   Viðtalið má lesa í heild sinni í Eyjafréttum.  

Greinar >>

Fjöldauppsagnir

  Svolítið merkilegt að fylgjast með umræðunni vegna fjöldauppsagna starfsfólks Fiskistofu sem og starfsfólks fiskvinnslu fyrirtækisins Vísis á norðurlandi, og umræðan að mestu tæmd, en þó ekki. Þegar ég heyrði fyrst af uppsögnum fiskvinnslu fyrirtækisins í Grindavík á starfsfólki sínu fyrir norðan, þá fór ég strax að reyna að komast að því, hver hin raunverulega ástæða væri.  Eftir því sem að mér er sagt, þá er Vísir orðið enn eitt af þeim fiskvinnslu fyrirtækjum með mikið af aflaheimildum til þess að veðsetja komið í útrás.  Þá hafi fyrirtækið tapað gríðarlegum fjármunum í einhvers konar braski vestur í Kanada og það hafi verið að kröfu viðskiptabanka fyrirtækisins, sem fyrirtækið fór að leita leiða til þess að hagræða og þá m.a. með því að loka starfsstöðvum sínum norður í landi.   Því miður er þetta enn eitt dæmið um fyrirtæki, sem í krafti mikilla aflaheimilda og frjálsa framsalsins á aflaheimildum, sem freistast til þess að leggja störf starfsfólks síns í hættu vegna græðgi.   Varðandi hins vegar starfsfólks Fiskistofu og umræðurnar um störf á vegum ríkissins, þá get ég vel tekið undir það sjónarmið okkar á landsbyggðinni að svo sannarlega mætti færa fleiri störf út á land.  En gallinn við þessa ákvörðun um flutning Fiskistofu er ekki sú ákvörðun, heldur hvernig staðið er að henni. Að mínu mati hefði átt að gefa það strax út, að þessi störf yrðu flutt, en þá t.d. á kjörtímabilinu. Fá starfsfólk Fiskistofu til þess að taka þátt í verkefninu, hvort sem það ætlar að fylgja með eða ekki, en gefa um leið út þá tilkynningu að það starfsfólk Fiskistofu, sem ekki gæti eða vildi flytja sig norður í land, myndi hafa forgang á höfuðborgarsvæðinu í önnur störf á vegum ríkisins. Mér finnst í umræðunni alveg hafa gleymst að horfa á hinn mannlega þátt málsins, því öll höfum við að sjálfsögðu fjölskyldu, heimili og fjárskuldbindingar sem ekki er alltaf hægt, í sumum tilvikum, að færa milli landshorna.   Ég verð að segja alveg eins og er, að ég þarf að hafa samband við Fiskistofa að jafnaði einu sinni í mánuði út af hinum ýmsu málum og fengið undantekningalaust frábæra þjónustu og afgreiðslu á mínum málum. Besta leiðin til þess að sú góða þjónusta haldi áfram, er að flutningurinn verður unninn í góðu samræði við þá sem starfa núna á Fiskistofu.   Varðandi þá ákvörun bæjarstjórnar Vestmannaeyja að fagna því, að störf á vegum ríkisins séu flutt út á land, þá get ég vissulega tekið undir það, en ég hefði þó frekar viljað sjá meiri kraft lagðan í það að verja þau störf á vegum ríkisins sem enn eru hér í Vestmannaeyjum og þá sérstaklega á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja. Margt fleira mætti nefna, eins og t.d. yfirstjórn sjúkrahússins, löggæslunnar, niðurlagning á starfi vitavarðar í Vestmannaeyjum, listinn er í raun endalaus þegar maður horfir til baka, en ég verð þó að segja það að lokum að ég hef mestar áhyggjur á því að niðurskurður á sjúkrahúsinu haldi áfram og svolítð galið að hugsa til þess, að ef fólk í Vestmannaeyjum vogar sér að vilja fjölga sér, þá þarf það að flytja á höfuðborgarsvæðið til að geta fætt börnin sín.