SFS - Viðræðuslit - Sjómenn víkjast undan ábyrgð

SFS - Viðræðuslit - Sjómenn víkjast undan ábyrgð

„Sjómannasamband Íslands, Sjómannafélag Íslands og VM Félag vélstjóra og málmtæknimanna tóku þá ákvörðun að slíta kjaraviðræðum við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) í dag. Vegna þeirra miklu hagsmuna sem samfélagið allt hefur af því að verkfall sjómanna taki enda, telur SFS ábyrgð verkalýðsfélaganna ríka. Sjómenn og sjávarútvegsfyrirtæki hafa falið samninganefndum að ná ásættanlegum kjarasamningi og undan því verkefni leysa aðilar sig ekki með því að ganga frá samningaborði,“ segir í fréttatilkynningu frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi sem nýlega barst.   „Í kjarasamningnum, líkt og samningum almennt, ber samningsaðilum að taka tillit til hvers annars og huga að hverju því málefnalega sjónarmiði sem gagnaðili setur fram. Í kjaraviðræðum SFS og samtaka sjómanna, hvort heldur viðræðum í aðdraganda samninganna tveggja sem sjómenn felldu á liðnu ári eða í þeirri samningalotu sem samtök sjómanna hafa nú gengið frá, hefur SFS unnið í samræmi við þessa grunnreglu. Verkalýðsfélögin þrjú hafa fengið ríka áheyrn um allar þær kröfur sem þau hafa sett fram og ríkur vilji hefur verið af hálfu SFS til að koma til móts við margar þeirra.   Tillitið hefur ekki verið gagnkvæmt og verkalýðsfélögin hafa því miður ekki ljáð máls á málefnalegum sjónarmiðum SFS. Það er miður að þau treysti sér ekki til að ræða allar hliðar kjaramála. Ljóst má vera að ógerlegt er að ganga að öllum kröfum þeirra,“ segir einnig í fréttatilkynningunni. Þannig að ekki sér fyrir endann á verkfalli sjómanna sem hófst 14. desember.    

Hann fyrsti formaður ÍBV íþróttafélags og hún fyrsta konan sem formaður Íþróttabandalagsins

Það var árið sem síðari heimsstyrjöldinni lauk að María Gísladóttir frá Norðfirði varð léttari og Þór Ísfeld Vilhjálmsson kom í heiminn nánar tiltekið 30. nóvember 1945. Var hann annað barn foreldra sinna. Og það má segja að hann hafi fæðst með blátt blóð, - allavega fjólublátt, þar sem faðir hans Vilhjálmur Árnason frá Burstafelli við Vestmannabraut var einn af hörðustu félagsmönnum Íþróttafélagsins Þórs á sínum tíma og blár var litur félagsins. Þótt drengurinn hafi ekki verið skírður eftir félaginu þá ber hann nafn þess og var skráður í það sem ungabarn. Sem ungur drengur og unglingur lék Þór Ísfeld knattspyrnu með félaginu sínu og Íþróttabandalagi Vestmannaeyja og þótti ágætur knattspyrnumaður. Eftir að skyldunáminu lauk við Gagnfræðaskólann fór Þór í Vélskólann og síðar Stýrimannaskólann í Eyjum og fór svo á sjóinn, var m.a. í eigin útgerð um tíma. Í land var stigið árið 1979 og þá tók hann að sér starfsmannastjórn hjá Vinnslustöðinni og á þeim vettvangi hefur hann starfað síðan.   Í pólitík og félagsmálum   Félagsmálastörf hafa alla tíð verið Þór afar hugleikin. Hann hefur sterkar skoðanir í pólitík og nokkuð látið að sér kveða á þeim vettvangi, var m.a. formaður Alþýðuflokksfélags Vestmannaeyja um skeið. Aðeins 17 ára gamall, árið 1962, var Þór fyrst kosinn í stjórn Íþróttafélagsins Þórs, það ár var Óli Árni eldri bróðir hans annálaritari félagsins og það ár var faðir hans Vilhjálmur, endurskoðandi félagsins, það má því segja að ræturnar séu sterkar. Eftir að sjómennsku Þórs lauk, hefur hann gefið sig allan að störfum fyrir íþróttahreyfinguna. Þór Ísfeld var formaður Íþróttafélagsins Þórs frá árinu 1985 til ársins 1994, eða í tæp 10 ár. Þetta voru mikil umbrotaár í íþróttahreyfingunni og bygging Þórsheimilisins reis á þessum árum. Starfið var margt og mikil hreyfing komin á einhverskonar samstarf eða sameiningu íþróttafélaganna, Þórs og Týs. Hann var í nefnd sem kom að stofnun ÍBV íþróttafélags. Þór Ísfeld var síðan fyrsti formaður þess félags árið 1996 og gegndi starfinu til ársins 2003. Það ár tók Þór að sér formennsku hjá Íþróttabandalagi Vestmannaeyja og gegndi því starfi þar til í apríl 2016. Þór hefur frá upphafi setið í stjórn Ferðajöfnunarsjóðs Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem fulltrúi Vestmannaeyja og Suðurlands og hann var 16 ár í stjórn Íþróttamiðstöðvar Vestmannaeyja. Hann var sæmdur heiðurskrossi Íþróttabandalags Vestmannaeyja í 70 ára afmælisveislu sinni.   Fann konuna ská á móti á Vestmannabrautinni   Þór leitaði ekki langt yfir skammt að eiginkonu. Ská á móti Bursta-felli sem stendur við Vestmannabraut stóð lágreist hús nr. 76, þar bjó Adólf Magnússon og Sigríður Jónsdóttir kona hans ásamt börnum sínum og meðal barna þeirra var Sólveig, - Dollý eins og hún er alltaf kölluð, - árinu yngri en Þór, fædd 1. október 1946. - Þótt í fyrstu hafi þau skötuhjú verið leikfélagar, varð samband þeirra nánara á unglingsárunum og stundum var laumupúkast hinumegin götunnar. Úr þessu varð farsælt hjónaband þeirra og þrjú myndarbörn.   Alla tíð verið mjög samstillt   Lengi vel vann Dollý utan heimilis, sem fiskverkakona í Vinnslustöðinni, hin síðari ár var hún starfsmaður Starfsmannafélags Vestmannaeyja. Þau hjón hafa alla tíð verið mjög samstillt og milli þeirra mikill samhljómur. Bæði verið samstíga þátttakendur í pólitísku starfi. En síðast en ekki síst á íþróttasviðinu. Dollý lék handbolta með Íþróttafélaginu Þór á sínum yngri árum, hlaut m.a. handknattleiksbikar félagsins árið 1962 og sat í stjórn þess um tíma. Dollý var einn af frumkvöðlum Pæjumótsins árið 1990, knattspyrnumóts í Eyjum fyrir stúlkur, sem enn er haldið. - Hún var formaður Íþróttabandalags Vestmannaeyja frá árinu 1992 til ársins 1997 og er eina konan sem gegnt hefur því starfi. Dollý hefur alla tíð verið mikill áhugamaður um íþróttir og missir varla af íþróttakappleik. Hún hefur verið einskonar málsvari kvennaíþrótta alla tíð. Má sjá í fundagerðum ÍBV íþróttafélags og Íþróttabandalagsins að Dollý hefur alla tíð borið hag kvennaíþrótta mjög fyrir brjósti og lét ósjaldan skoðanir sínar í ljósi á þeim vettvangi og hefur eflaust ekki veitt af. Saga íþróttahreyfingarinnar í Vestmannaeyjum hefur alla tíð verið samofin lífshlaupi þeirra hjóna og þau eru enn þátttakendur í leik og starfi hennar.  

Eyjamenn láta ekki hafa sig að fíflum aftur

„Hún var ísköld kveðjan sem nýr forsætisráðherra sendi Eyjamönnum og Suðurkjördæmi öllu þegar hann ákvað að enginn af lista Sjálfstæðismanna í kjördæminu ætti sæti í nýrri ríkisstjórn. Þetta gerði hann þrátt fyrir að flokkurinn næði hvergi betri árangri á landinu öllu í kosningunum í haust. Þetta er umhugsunarefni og þó ekki síður sú staða, að nú er við völd ríkisstjórn sem við með sanni getum kallað borgarstjórn,“ sagði Ómar Garðarsson, ritstjóri Eyjafrétta við afhendingu Fréttapýramídanna í gær. „Á síðasta kjörtímabili átti Suðurkjördæmi tvo ráðherra en samt var á brattann að sækja hjá Eyjamönnum í samgöngu- og heilbrigðismálum. Á þeirra vakt er staðan sú að það heyrir til undantekninga að Eyjakonur fæði börn sínu í Vestmannaeyjum. Á síðasta ári voru þau þrjú en 40 komu í heiminn uppi á landi,“ sagði Ómar einnig. Hann sagði þessa fáránlegu stöðu gera miklar kröfur til Eyjamanna á þingi sem eru Páll Magnússon, Ásmundur Friðriksson Sjálfstæðisflokki og Smári McCarthy Pírötum. „Við verðum líka að standa við bakið á þeim og koma því á framfæri að við erum ekki sátt.“ Ómar sagði mikla stemningu hafa verið í Vestmannaeyjum í kringum prófkjör Sjálfstæðismanna í haust sem skilaði Eyjapeyjunum Palla og Ása í fyrsta og annað sætið. „Náði þátttakan langt út fyrir raðir flokksins en sennilega finnst mörgum að til einskis hafi verið barist. Og sumir munu hugsa sem svo, ég læt ekki hafa mig að fífli aftur.“ „En af hverju þykir allt í lagi að ganga fram hjá okkur Eyjamönnum?,“ spurði Ómar og hélt áfram. „Líklega getum við þakkað það fjölmiðlum og ekki síst Ríkistútvarpinu sem ekki slær af þegar hægt er að segja slæmar fréttir frá Eyjum. Það væri svo sem allt í lagi ef einhvern tíma kæmu þar jákvæðar og huggulegar fréttir frá Vestmannaeyjum. Nú ætla ég að spyrja ykkur, man einhver hér inni eftir jákvæðri frétt eða umfjöllun um Vestmannaeyjar í RÚV okkar allra, á síðustu misserum? Það var reyndar eins og mildur blær úr suðri að heyra rödd Sighvats Jónssonar í umfjöllun um ráðstefnu um náttúruvá sem Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri stóð fyrir í síðustu viku. Þarna var rætt á faglegan hátt og upplýsandi um mál sem skiptir okkur sem hér búum miklu. Þetta er sami lögreglustjóri og fær stofnunina til að skjálfa fyrir hverja þjóðhátíð og ata okkur auri sem hér búum. Ég nenni ekki að hafa álit á öðrum fjölmiðlum en á meðan ég neyðist til að leggja í púkkið leyfi ég mér að hafa skoðun á því sem kemur frá RÚV.“ Ómar sagði Eyjamenn ekki þurfa að biðjast afsökunar á að vera til og þeir eigi víða hauka í horni þó RÚV verði seint talið í þeim hópi. „Hér er öflugt atvinnulíf, góðir skólar og menning stendur hér í meiri blóma en oft áður. Til dæmis eru bæði Sindri Freyr og Júníus Meyvant tilnefndir til hlustendaverðlauna FM-957. Við eigum fulltrúa, þau Alexander Jarl og Silju Elsabetu í bestu söngskólum í London og stutt er síðan Rúnar Kristinn útskrifaðist í London. Það má lengi halda áfram í þessari upptalningu og eru handhafar Fréttapýramídanna fyrr og nú verðugir fulltrúar okkar hvar sem er. Það má líka nefna Oddgeir, Ása í Bæ, Árna úr Eyjum, Binna í Gröf og marga fleiri sem skarað hafa fram úr. Við eigum líka fólk sem skarað hefur fram úr í íþróttum, Torfa Bryngeirs, Ásgeir Sigurvinsson, Hemma Hreiðars, Írisi Sæm, Andreu Atla, Margréti Láru og ÍBV-íþróttafélag sem hefur náð fleiri titlum á sínum 20 árum en nokkurt annað félag í handbolta og fótbolta. Svo megum við ekki gleyma honum Heimi Hallgríms, landsliðsþjálfara sem gerði Lars Lagerbeck að besta þjálfara Svíþjóðar á síðasta ári. Allt ólst þetta fólk upp hér og tók út sinn þroska. Auðvitað eru Vestmannaeyjar ekki 100% samfélag og verða seint og alltaf verða einhver verkefni sem þarf að leysa. Númer eitt er að hér sé ásættanleg sjúkraþjónusta sem unga fólkið sættir sig við og hitt eru samgöngurnar sem eru lykillinn að því að þetta samfélag nái að dafna og vaxa í framtíðinni,“ sagði Ómar og hvatti viðstadda að endingu til að standa vörð um Vestmannaeyjar.  

Veitingastaðurinn Canton lokar vegna barneigna

„Það hlýtur að vera íhugunarefni að hátt í 50 fjölskyldur í Vestmannaeyjum þurfa að flytja búferlum á þessu ári,“ segir Hallgrímur Rögnvaldsson, eigandi Canton, um þá erfiðu stöðu sem barnafólk og fjölskyldur þeirra standa frammi fyrir í kringum barneignir. Þetta vandamál er mörgum Vestmanneyingum afar kunnuglegt og gerir fólk sér kannski ekki alveg grein fyrir alvarleika þess fyrr en það finnur sig sjálft í þeim sporum að þurfa að fara upp á land um óákveðinn tíma. Margir standa frammi fyrir því að missa daga eða vikur úr vinnu, þurfa að verða sér úti um gistiaðstöðu sem getur reynst dýrt svo ekki sé talað um blessað ferðalagið sem fólk þarf að leggja á sig. „Mér var sagt í sambandi við svæfingalækna að það kæmi ekki til greina að flytja inn útlendinga í þessi störf því Félag svæfingalækna á Íslandi hafi beitt sér gegn því að gefa þeim meðmæli. Það eru síðan við sem verðum fyrir barðinu á þessu. Auðvitað þarf að vera bæði skurðlæknir og svæfingalæknir hérna í Eyjum,“ heldur Hallgrímur áfram og bendir á að þjóðir á borð við England nýti mikið erlent vinnuafl í læknastörf þar í landi. Um næstu mánaðamót á sonur Hallgríms og unnusta hans, þau Mangmang Huang og Fei Fei, von á sínu fyrsta barni og í samráði við ljósmóður er stefnan sett á að fara upp á land 23. janúar. „Við þurfum að fara viku fyrir tímann og svo veit maður ekkert hvort þetta dregst eitthvað á langinn þannig óvissan er mikil,“ segir Hallgrímur sem er búinn að auglýsa lokun á Canton um óákveðinn tíma vegna þessa. „Í okkar tilfelli verðum við að taka okkur frí til að sinna þessu. Það er með ólíkindum að það sé verið að bjóða fólki upp á þetta og það er ekkert útlit fyrir að það verði einhver breyting á þessu,“ segir Hallgrímur og bendir á að gríðarlegur kostnaður fylgir þessu, „Það er bara fjölskyldan sem stendur að þessu,“ segir Hallgrímur um reksturinn á Canton en eins og fyrr segir þurfa þau að loka staðnum á meðan þessu stendur. „Við byrjum á því að vera í Ölfusborgum í eina viku og svo fáum við Drífanda íbúðina í Reykjavík frá og með 29. janúar í eina viku. Maður þakkar bara fyrir að þetta sé ekki um mitt sumar þegar það er brjálað að gera. Þá værum við í miklum vandræðum og gætum hreinlega ekki lokað,“ segir Hallgrímur að lokum.  

Afrek hans á Heimaslóð eru mikil og fyrir það ber að þakka

Víglundur Þór Þorsteinsson læknir fæddist að Brekku 24. júlí 1934 og ólst upp í Eyjum. Foreldrar hans voru Ingigerður Jóhannsdóttir húsfreyja og Þorsteinn Þ. Víglundsson skólastjóri og sparisjóðsstjóri m.m. Á unglings- og menntaskólaárum stundaði Víglundur Þór á sumrum verkamannavinnu, síldveiðar og landbúnaðarstörf. Lauk landsprófi við Gagnfræðaskólann vorið 1950, stúdentsprófi við Menntaskólann á Laugarvatni 1954. Íþróttakennaraprófi lauk hann við Íþróttakennaraskóla Íslands 1955. Hann var kennari við Gagnfræðaskólann 1955 til 1956 og síðan þjálfari og íþróttakennari á sumrum 1955 til 1958 og læknaprófi lauk hann í febrúar 1964, bandaríska útlendingaprófinu í læknisfræði í mars 1964. Kandídatsárið vann hann við Sjúkrahús Vestmannaeyja 1964, þar með staðgengill héraðslæknis, - og á sjúkrahúsum í Reykjavík. Var við sérfæðinám og störf í Bandaríkjunum. Bandaríska sérfræðingaprófinu lauk hann og mastersprófi (MSc) frá University of Minnesota. Almennt lækningaleyfi á Íslandi hlaut hann 24. september 1965 og sérfræðingaleyfi 8. mars 1971. Á efri árum hefur hann m.a. fengist við að innfæra á Heimaslóð.is ýmsan fróðleik um Eyjar og Eyjafólk, m.a. Blik, Sögu Vestmannaeyja, Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum, ritverk Árna Árnasonar símritara og hefur ritað allmargar æviskrár Eyjafólks á slóðina.   Heimaslóð   Heimaslóð, menningar- náttúru- og söguvefur Vestmannaeyja opnaði 12. nóvember árið 2005. Síðan þá hefur vefurinn vaxið gríðarlega og nú eru yfir 29 þúsund myndir og yfir 8 þúsund greinar sem allar tengjast Vestmannaeyjum og fólkinu sem þar býr og hefur búið. Þessi frábæri árangur hefur náðst ekki síst fyrir stórmerkilegt framlagt Víglundar Þórs Þorsteinssonar sem hefur í sjálfboðavinnu frá árinu 2006 unnið stórvirki í að safna saman, rita greinar og gera aðgengilegt efni um Vestmannaeyjar og Eyjabúa á veraldarvefnum á síðunni Heimaslóð og opna þannig aðgang fólks hvar sem það er statt að merkilegu gagnasafni sem áður var aðeins aðgengilegt á bókarformi, í skjölum eða einfaldlega ekki aðgengilegt almenningi. Afrek Víglundar Þórs á Heimaslóð eru mikil og fyrir það ber að þakka. Víglundur Þór hefur einnig verið sérlega öflugur við að fara yfir texta og myndir á Heimaslóð og tryggja að sem réttustu upplýsingar séu til staðar allt frá árinu 2006.   Blik   Árið 2007 var hafist handa við yfirfærslu Bliks yfir á stafrænt form í samstarfi við Safnahús Vestmannaeyja. Því verki lauk Víglundur Þór Þorsteinsson árið 2010 og kom þannig öllu safni Bliks á Heimaslóð. Greinar í Bliki eru um menningarmál af fjölbreyttum toga, og var ritstýrt af stofnanda þess Þorsteini Þór Víglundssyni, föður Víglundar Þórs. Greinarnar fjölluðu m.a. um einstaklinga, merka atburði, daglegt líf, atvinnumál, sögu, merk hús og minjar Eyjanna, safnamál, bindindismál og yfirlit yfir safnmuni Byggðarsafns.   Árið 2012 stýrði Víglundur og sá um innsetningu á Sögum og sögnum úr Vestmannaeyjum sem Jóhann Gunnar Ólafsson safnaði saman og voru gefnar út á árunum 1938-1939.   Skjöl og greinar úr fórum Árna Árnasonar Árið 2013 stýrði Víglundur og sá um innsetningu á öllu safni skjala úr fórum Árna Árnasonar símritara, en verkið var unnið í samstarfi við útgefendur verka Árna.   Æviskrár Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson Auk þess að vera virkur á öllum vígstöðum Heimaslóðar og bæta við upplýsingar sem þar eru hefur Víglundur Þór ritað frá grunni fjölda greina um Eyjafólk eða um 3000 greinar. Víglundur rekur þar gjarnan ættfræði fólksins og tengir það saman. Víglundur hefur lagt áherslu á að segja sögu alls Eyjafólks og skrifað um fjölda karla og kvenna sem ekki hafði verið ritað mikið um áður og jafnvel ekkert.  

Bjartmar Guðlaugsson er Eyjamaður vikunnar - Djúpt snortinn og stoltur

Hin síðari ár hefur Bjartmar Guðlaugsson verið einn ástsælasti listamaður Vestmannaeyja og í raun Íslands alls, en lag hans Þannig týnist tíminn var til að mynda valið besta lag Íslands frá upphafi. Í hinum árlega Fréttapíramýda Eyjafrétta sem fram fór í gær hlaut Bjartmar, fyrir ævistarf sitt, viðurkenningu fyrir framlag sitt til menningar og er því Eyjamaður vikunnar að þessu sinni.   Nafn: Bjartmar Anton Guðlaugsson. Fæðingardagur: 13. júní 1952. Fæðingarstaður: Fáskrúðsfjörður. Fjölskylda: Kvæntur Maríu Helenu Haraldsdóttur í 34 ár. Á þrjár dætur og átta barnabörn. Draumabíllinn: Góður húsbíll sem kemst allra sinna ferða. Uppáhaldsmatur: Íslenskur þorramatur, færeyskt skerpukjöt, siginn fiskur og yfirleitt allt sem er úldið. Versti matur: Skúmur sem við vinirnir matreiddum í tilraunaskyni, en rauðvínið var ágætt. Uppáhalds vefsíða: Allar frétta- og fjölmiðlasíður. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Gömlu góðu Eyjalögin, að maður tali nú ekki um ljóðin. Aðaláhugamál: Tónlist, ljóðlist og myndlist. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Picasso. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Það er ekkert sem toppar Vestmannaeyjar. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Ásgeir Sigurvinsson og ÍBV. Ertu hjátrúarfull/ur: Já. Stundar þú einhverja hreyfingu: Já, ég snýst í kringum sjálfan mig allan daginn. Uppáhaldssjónvarpsefni: Fréttir, fréttir, fréttir. Hvers virði er þessi viðurkenning fyrir þig: Ég er djúpt snortinn og stoltur að fá þessa viðurkenningu og sérstaklega á heimavelli. Hvaða verkefni eru á döfinni: Afmælistónleikar Ladda í Hörpunni um helgina, klára plötu sem kemur með vorinu og tónleikar um allt land. Einnig verð ég með myndlistasýningar á árinu. Eitthvað að lokum: Hugsa ávallt með hlýhug til æsku- og unglingsáranna í Vestmannaeyjum og þeirra fjölmörgu sem hvöttu mig áfram og beindu mér inná þá braut sem ég er á.  

Bjartmar Guðlaugsson á það svo sannarlega skilið að vera heiðraður af Eyjamönnum. Hann hefur fyrir löngu sannað að hann er fjölhæfur listamaður og sýndi á sér nýja hlið þegar hann

Bjartmar Guðlaugsson á það svo sannarlega skilið að vera heiðraður af Eyjamönnum. Hann hefur fyrir löngu sannað að hann er fjölhæfur listamaður og sýndi á sér nýja hlið þegar hann sendi frá sér bókina Þannig týnist tíminn á nýliðnu ári. Þar dregur hann upp skemmtilegar mannlífsmyndir og rifjar upp atvik frá æskudögum sínum austur á Fáskrúðsfirði og í Reykjavík en flestar sögurnar tengjast fjölskyldu, vinum og samferðarfólki hans í Vestmannaeyjum.   Byrjaði ungur að pára   Bjartmar er mikill húmoristi sem hefur einstakt lag á að sjá spaugilegar hliðar daglegs lífs. Hann er næmur á hið sérkennilega í fari sjálfs sín og annarra og á auðvelt með að draga upp ljóðrænar, litríkar og snarpar myndir af tilverunni. Hann sér líka hið einlæga, tilfinningaríka og viðkvæma í mannlífinu þó svo að hann sé fyrst og fremst þekktur fyrir kímni sína. Bjartmar hefur fengist við ljóðagerð og allskonar skrif frá unga aldri. Hann hefur alla tíð teiknað mikið og ætlaði sér að verða listmálari, en af praktískum ástæðum lærði hann húsamálun og tók meistarapróf í þeirri iðn. Bjartmar var orðinn fertugur þegar hann lét loksins verða af því að fullnuma sig í myndlist, en það gerði hann í Danmörku. Þegar hann tók það skref var hann fyrir löngu orðinn þekktur lagasmiður og söngvari og hafði selt fleiri þúsund hljómplötur.   Fyrstu lögin verða til   Kynni okkar hófust í nóvember 1982 þegar Bjartmar tók að sér að semja texta fyrir jólaplötuna Hurðaskellir og Stúfur staðnir að verki. Við hittumst í Hljóðrita þar sem hann sat inni í eldhúsi og skrifaði texta fyrir Þorgeir Ástvaldsson og Magnús Ólafsson. Þessir textar áttu sinn þátt í að platan seldist eins og heitar lummur og mörgum fannst þessi jólaplata vera nýstárleg vegna þess hvernig textarnir voru. Á þessum tíma vissu ekki margir hver Bjartmar var. Það vildi svo merkilega til að um þessar mundir söng hálf þjóðin Súrmjólk í hádeginu og Cheerios á kvöldin, texta sem Bjartmar samdi. Þetta var fyrsta lagið eftir Bjartmar sem varð vinsælt, en það var Guðmundur Rúnar Lúðvíksson sem hljóðritaði lagið og gaf það út á plötu vorið 1982. Þetta var sannarlega örlagaár í lífi Bjartmars. Um sumarið mætti hann, eins og svo margir aðrir, á gamla Melavöllinn og fylgdist með íslenskum nýbylgjusveitum flytja frumsamda tónlist á Melarokk hátíðinni. Hann varð svo heillaður af framtakssemi unga fólksins að hann ákvað að feta svipaða braut og leggja meiri áherslu á laga- og textagerð næstu árin. Hann samdi nokkur lög og leyfði Rúnari Júlíussyni að heyra þau. Rúnar skynjaði snilldina og gaf út plötuna Ef ég mætti ráða, fyrstu sólóplötu tBjartmars. Þrátt fyrir að hann kynni ekki marga hljóma og að lögin væru þar af leiðandi frekar einföld fékk platan fínar viðtökur. Lögin Sumarliði er fullur og Hippinn voru spiluð látlaust á Rás 2 sumarið 1984 og komust inn á vinsældarlista. Þar með hófst nýtt skeið hjá Bjartmari sem lagði tónlistina fyrir sig.   Sólóplötur   Bjartmar leit fyrst og fremst á sig sem textahöfund og varð mjög hissa á því hversu vel lögum hans var tekið. Móttökurnar gerðu það að verkum að hann hélt áfram á sömu braut og fór að leita fyrir sér að samstarfsfólki. Hann kynntist Pétri Kristjánssyni söngvara og 1986 gerður þeir plötuna Þá sjaldan maður lyftir sér upp. Þar er m.a. lagið Fimmtán ára á föstu, en síðar sama ár kom sólóplatan Venjulegur maður með lögunum Stúdentshúfan og Ungfrú Ísland. Samskipti okkar Bjartmars voru töluverð árið 1987 þegar hann gerði plötuna Í fylgd með fullorðnum. Á þessum tíma áttaði ég mig betur á því hversu auðvelt hann á með að setja hlutina í kómískt samhengi. Hann hefur glöggt auga fyrir ótrúlegustu hlutum og fer létt með að setja sögur af fólki og hverskonar atburðum í nýtt og áhugavert samhengi. Þessi plata heppnaðist afar vel og lögin á henni hittu svo rækilega í mark að þetta var mest selda plata ársins 1987. Það voru fyrst og fremst lögin Týnda kynslóðin, Sunnudagsmorgunn og Járnkarlinn sem fleyttu plötunni í hæstu hæðir. Bjartmar hefur gert níu plötur til viðbótar í gegnum tíðina: Með vottorð í leikfimi (1988), Það er puð að vera strákur (1989), Engisprettufaraldur, Haraldur (1992), Bjartmar (1994), Ljóð til vara (1998), Strik (1999), Vor (2002), Ekki barnanna bestur (2005) og Skrýtin veröld (2010). Síðastnefnda plata, sem hann gerði með hljómsvetinni Bergrisunum, færði honum íslensku tónlistarverðlaunin sem textasmiður ársins 2010.   Þannig týnist tíminn   Bjartmar er orðsins maður og sum hugtök og frasar sem hann hefur skeytt inn í texta sína hafa fest sig í sessi og orðið hluti af daglegu máli hjá mörgum. Bjartmar hefur ekki látið það stöðva sig að hann byrjaði seint að læra á gítar, en áður hafði hann spilað á trommur með unglingahljómsveit. Fyrstu textarnir eftir hann sem komu út á plötu samdi hann fyrir hljómsveitina Loga árið 1977 og nokkrum árum seinna fóru lögin hans að hljóma. Bjartmar lét Ragnar Bjarnason fá lagið Þannig týnist tíminn þegar hann vann að plötunni Dúettar árið 2012. Ragnar hljóðritaði lagið með söngkonunni Lovísu Elísabetu Sigrúnardóttur, eða Lay Low eins og hún kallar sig. Þetta rólega og fallega lag vakti ekki mikla athygli til að byrja með, enda var það lokalag plötunnar. Smám saman öðlaðist það vinsældir sem náðu hámarki þegar lagið var valið Óskalag þjóðarinnar í samnefndum sjónvarpsþætti í desember 2014. Þetta er sennilega þekktasta lag Bjartmars, þó svo lögin hans séu orðin býsna mörg. Það verður spennandi að fylgjast með Bjartmari á næstu árum því hann á eflaust nokkur tromp til viðbótar upp í erminni.  

Einsi Kaldi er listakokkur og listagóður gæi

Vestmannaeyjar eru eins og hvert annað sveitarfélag á landsbyggðinni með öllum þeim kostum og göllum sem einkenna hið svokallaða sjávarpláss. Þegar orðið sjávarpláss ber á góma hefur það á undanförnum árum haft frekar neikvæða merkingu, þó svo orðið „Krummaskuð“ sé gjarnan notað þegar menn vilja undirstrika á mjög augljósan hátt ókosti þessara samfélaga. Í þessari stuttu grein ætla ég að fullyrða að sjávarplásin á landsbyggðinni, þrátt fyrir einhverja ókosti, eru krefjandi og skemmtileg samfélög sem ýta undir ýmsar jákvæðar dygðir í fari okkar mannfólksins. Þessar dyggðir eru m.a. samheldni, áræðni, dugnaður, sköpunargáfa, lífsgleði og umhyggja fyrir náunganum. Til þess að færa rök fyrir máli mínu ætla ég ekki að skrifa langan og fræðilegan texta heldur að taka sem dæmi dreng fæddan og uppalinn í Vestmannaeyjum og sem nýlega fyllti 40 árin. Drengurinn heitir fullu nafni Einar Björn Árnason en gengur í daglegu tali undir viðurnefninu Einsi Kaldi. Þess má geta að þrátt fyrir háan lífaldur þá hafa menn nýverið ruglast á honum og einum úr byrjunarliði Íslands sem vann eftirminnilega sigra á EM í fótbolta í sumar, svo unglegur og sprækur er drengurinn. Í sjávarplássi á landsbyggðinni, eins og í Vestmannaeyjum, snýst lífið um sjómennsku og fiskvinnslu, hingað til og líklega enn í dag eru aðrar atvinnugreinar byggðar upp í kringum sjávarútveginn og þjónustu við hann. Það er því ekki auðvelt að koma sér fyrir á atvinnumarkaði með þjónustu sem reiðir sig ekki beint á sjávarútveginn. Markaðurinn er lítill og samkeppnin getur verið mikil. Einar Björn var einn af þeim Eyjamönnum sem ákváðu að spreyta sig á einhverju öðru en sjómennskunni og fór snemma að vinna sem lærlingur hjá Arnóri bakara. Síðan fór hann í matreiðslu-nám og gerðist matreiðslunemi hjá listakokkinum og matreiðslumeistaranum Grími Gíslasyni, eða Grími kokki. Hann útskrifaðist sem matreiðslumaður árið 2007 og í framhaldinu sem meistari árið 2012.   Fjölbreyttur rekstur Að námi loknu flutti Einar heim til Eyja með fjölskyldu sína. Einar hefur síðan, með dugnaði og útsjónarsemi, byggt upp öflugt fyrirtæki sem framleiðir fyrsta flokks skólamáltíðir fyrir Grunnskóla Vestmannaeyja, heldur úti veisluþjónustu í tengslum við veislu- og ráðstefnuhúsið Höllina og rekur veitingastað sem staðsettur er á Hótel Vestmannaeyja. Veitingahúsið og veisluþjónustan rekur hann undir vörumerkinu Einsi Kaldi og hefur honum tekist að skapa vörumerkinu jákvæða ímynd með góðri þjónustu og vönduðum og spennandi matseðli þar sem lögð er áhersla á staðbundið fyrsta flokks hráefni. Einsi Kaldi ber með sér öll einkenni Eyjapeyjans, hann er duglegur, áræðinn og það er alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast í kringum hann. Einsi Kaldi hefur skapað sér gott orð innan ferðaþjónustunnar með því að taka þátt í uppbyggingu hennar af fullum krafti í erfiðri samkeppni við fyrsta flokks veitingastaði hér í Eyjum og á meginlandinu. Ferðaþjónustan hefur verið fyrirferðamikil í Vestmannaeyjum undanfarin ár og hefur verið gaman að sjá hvað veitingastaðirnir hér með Einsa Kalda í fararbroddi hafa verið að gera góða hluti. Á síðunni Trip Advisor eru veitingastaðirnir að skora mjög hátt og í raun skiptast þeir á að vera með hæstu einkunnagjöfina á Suðurlandi.   Hver er Einsi Kaldi Einar Björn Árnason er mikill Eyjapeyi. Fæddist 9. desember 1976 í Vestmannaeyjum. Einar Björn er giftur Bryndísi Einarsdóttur og eiga þau þrjú börn, Margrét Írisi, Dag og Sunnu. Einar Björn hefur búið nær allt sitt líf í Vestmannaeyjum og er sonur hjónana Mjallar í Klöpp og Sigurjóns. Hann á sjö hálfsystkini og tvö sem hann ólst upp með, þau Birgi Þór og Þóru. Tengdaforeldrar eru Einar Hallgríms og Margrét í Vegg. Hann hóf matreiðsluferil um borð í Valdimar Sveins VE árin 1996 til 1998 hjá Steindóri og Báru, þar sem Óskar Örn Ólafsson var þá með bátinn: „Hann fékk mig á óskiljanlegan hátt til þess að fara í eldhúsið,“ segir Einar Björn en þaðan lá leiðin til Arnórs bakara. Þá fékk Grímur Þór Gíslason, Grímur kokkur hann til þess að koma til sín í prufu og eftir það, var í raun og veru ekki aftur snúið. Þegar eggið var farið að kenna hænunni var hann sendur í skóla árið 2006 til Reykjavíkur. Hann útskrifaðist frá Hótel- og veitingaskólanum vorið 2007 og var Siggi Hall skráður meistari hans og vann Einar hjá honum með skólanum. Árið 2011 kláraði hann meistaranámið og hann vill hvergi vera nema í Eyjum þrátt fyrir gylliboð af fastalandinu. Að loknu námi stofnaði hann Veisluþjónustu Einsa Kalda í Höllinni 1. maí 2008. Hann sér líka krökkunum í Grunskólanum fyrir mat og í dag er hann með flest börnin í mat. Aðal áherslan er ferskur hollur heimilismatur sem krakkarnir njóta. Þann 1. apríl 2011 opnuðu hann og Bryndís Einsa Kalda veitingastaðinn, á Hótel Vestmannaeyjum sem fengið hefur framúrskarandi dóma og mikla eftirtekt. Starfsemin er því þríþætt, veisluþjónustan, skólamaturinn fyrir grunn- og leiksskóla og veitingastaðurinn. Nýjasta þjónustan er viðburðaþjónustan sem er stýrt af Sigurjóni Aðalsteinssyni se, þar sem gestum er boðið upp á afþreyingu eins og míni þjóðhátíð, víkingaveislu, úteyjaferðir og nánast allt sem hægt er að láta gesti Eyjanna njóta. Á síðasta ári tók Einar Björn þátt í skemmtilegu verkefni með Brothers Brewery. Hann sá þeim fyrir aðstöðu og var þeim innanhandar við að koma því skemmtilega fyrirtæki á koppinn. Nú eru þeir orðnir sjálfstæðir og verður gaman fyrir okkur að fylgjast með þeim í framtíðinni. Ekki má gleyma EM í Frakklandi síðasta sumar en Einar Björn var yfir öllum mat fyrir landsliðið. Síðasta sumar voru u.þ.b. 25 manns á launaskrá hjá fyrirtækinu, og á veturna eru um 14 til 16 á launaskrá. „Ég legg mikið upp úr því að ég og starfsfólkið séum í nálægð við kúnnana hverju sinni og láti þá finna fyrir öryggi og léttu andrúmslofti. „Það er ekkert skemmtilegra eftir vel heppnaðar veislur, að koma heim í faðm fjölskyldunar,“ segir Einar Björn og er þakklátur öllum sem hafa starfað með honum og stutt hann í rekstrinum.  

Alls voru sjúkraflugin eitthundrað og átta

Samkvæmt tölum frá ISAVIA voru sjúkraflug frá Vestmannaeyjum 108 á síðasta ári. Auk þess voru sjúklingar sóttir nokkrum sinnum með þyrlu Landhelgisgæslunnar þegar ekki var hægt að lenda í Vestmannaeyjum vegna veðurs. Mýflug er staðsett á Akureyri og náði 108 sinnum í sjúklinga sem fluttir voru á sjúkrahús í Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni var fyrsta flug þyrlu eftir sjúklingi til Vestmannaeyja á síðasta ári 22. janúar og er engin skilgreind ástæða. Næst var það 28. mars en þá voru veðuraðstæður slæmar. Þann 11. október komst Mýflug ekki vegna skyggnis í Eyjum. Þann 15. nóvember var óskað eftir þyrlu en ekki var farið vegna óveðurs og að líðan sjúklingsins batnaði. Þann 26. nóvember flutti þyrla hitakassa vegna nýbura og heilbrigðisstarfsmenn til Eyja. Flugvél Mýflugs gat því flogið beint til Eyja frá Akureyri. Nýburinn og heilbrigðisstarfsmenn fóru til Reykjavíkur með sjúkraflugvél Mýflugs en foreldrarnir með þyrlunni. Síðasta útkall ársins var svo 27. desember, að þyrla LHG sótti sjúkling til Eyja en mikið hvassviðri þýddi að flugvél Mýflugs gat ekki lent hér. Styrmir Sigurðsson sem er yfirmaður sjúkraflutninga á Suðurlandi hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur í mörg horn að líta því sjúkraflutningum fjölgaði umtalsvert milli áranna 2015 og 2016. Það á líka við Vestmannaeyjar þar sem sjúkraflutningum fjölgaði úr 420 árið 2015 í 476 á síðasta ári og er fjölgunin 13% milli ára en sé litið aftur til ársins 2011 hefur sjúkraflutningum fjölgað um 72% í Eyjum. Á Suðurlandi öllu voru 3707 sjúkraflutningar á síðasta ári og 3308 á árinu 2015 og er fjölgunin 12% á milli ára en 66,3% frá árinu 2011.  

Íslensk og finnsk börn borða mest af sykurríkum fæðutegundum

Embætti landlæknis hefur staðið fyrir norrænni könnun á mataræði, hreyfingu og holdafari hér á landi í samstarfi við rannsakendur frá Danmörku, Noregi, Finnlandi og Svíþjóð. Önnur umferð fór fram haustið 2014 og er hér birt skýrsla með niðurstöðum hennar en fyrri umferð fór fram haustið 2011. Norræna ráðherranefndin fjármagnaði kannanirnar sem gera það mögulegt að sjá hvernig heilsuhegðun á Norðurlöndunum hefur þróast milli 2011 og 2014. Embætti landlæknis greindi frá.   Meira borðað af sykurríkum vörum hér en á hinum Norðurlöndunum   Fleiri fullorðnir á Norðurlöndunum borða óhollan mat samkvæmt könnuninni 2014 miðað við 2011. Til að meta hvort fólk á Norðurlöndunum borðar hollan eða óhollan mat var reiknaður svokallaður hollustustuðull (e. dietary index). Hann byggir á tíðni neyslu sem þátttakendur hafa gefið upp fyrir valdar fæðutegundir eins og ávexti og grænmeti, fisk, heilkornabrauð og matvörur sem innihalda mikið af mettaðri fitu eða viðbættum sykri. Hlutfall Norðurlandabúa sem borða óhollan mat hefur aukist úr 18% árið 2011 í 22% árið 2014. Ef eingöngu eru skoðaðar tölur fyrir Ísland þá er aukningin meiri hér á landi, fer úr 19% í 25%.   Á Íslandi er meira borðað af sykurríkum matvörum (súkkulaði/sælgæti, kökum og gosdrykkjum) en á hinum Norðurlöndunum og hefur neyslan ekki minnkað frá árinu 2011 líkt og gerst hefur á hinum Norðurlöndunum að Svíþjóð undanskilinni þar sem neyslan hefur staðið í stað. Íslendingar borða minnst af grænmeti og ávöxtum miðað við hin Norðurlöndin og hefur neyslan hér ekki breyst á tímabilinu. Sömuleiðis borða Íslendingar minnst af heilkornabrauði og hefur neyslan minnkað milli ára. Fiskneysla er aftur á móti mest á Íslandi og er óbreytt milli kannana.   Aukinn félagslegur ójöfnuður þrátt fyrir jákvæða þróun í mataræði barna   Niðurstöður varðandi mataræði barna á Norðurlöndunum eru jákvæðari en hjá fullorðnum. Tæplega 15% norrænna barna flokkast með mataræði sem telst óhollt og hefur það ekki breyst frá 2011. Hlutfallið á Íslandi er sambærilegt við hin Norðurlöndin. Félagslegur ójöfnuður í mataræði hefur þó aukist meðal barna á Norðurlöndum. Þannig teljast tvöfalt fleiri börn foreldra með minnstu menntun borða óhollt 2014 en 2011 (25% en var 12%) og færri börn foreldra með mestu menntun teljast borða óhollt 2014 en 2011 (11% en var 14%).   Íslensk og finnsk börn borða mest af sykurríkum fæðutegundum. Íslensk og norsk börn borða aftur á móti minnst af grænmeti og ávöxtum miðað við hin Norðurlöndin og íslensk og sænsk börn borða minnst af heilkornabrauði og minnkaði neysla á heilkornabrauði hér á landi á tímabilinu. Íslensk börn borða aftur á móti mest af fiski og jókst fiskneyslan hér á milli ára.   Fleiri fullorðnir hreyfa sig ekkert og fleiri verja miklum frítíma í kyrrsetu við skjá   Að meðaltali hreyfa um einn af hverjum þremur fullorðnum Norðurlandabúum sig ekki í samræmi við ráðleggingar um lágmarkshreyfingu (e. inactive) árið 2014 líkt og 2011 og á það einnig við um Ísland. Fleiri hreyfa sig ekkert (e. highly inactive, 12% 2014) en á sama tíma stunda fleiri ákjósanlega hreyfingu (e. highly active, 14% 2014). Hlutfall þeirra sem hreyfa sig ekkert er hæst í Noregi og á Íslandi árið 2014 og hefur aukist hér á landi úr 14% í 17% á tímabilinu. Athygli vekur að hlutfall 18–24 ára Norðurlandabúa sem hreyfa sig ekkert hefur nær tvöfaldast og er nú sambærilegt og í eldri aldurshópum eða um 12% 2014.   Hvað kyrrsetu varðar verja 30% Norðurlandabúa fjórum klukkustundum eða meira við skjá (sjónvarp eða tölvu) í frítíma 2014 og hefur það aukist lítillega frá 2011. Þetta hlutfall er lægst meðal Svía og Íslendinga, á við um einn af hverjum fjórum árið 2014. Félagslegur ójöfnuður er enn mikill bæði með tilliti til skjásetu og hreyfingar.   Meirihluti norrænna barna hreyfir sig of lítið   Sex af hverjum tíu norrænum börnum hreyfa sig ekki í samræmi við ráðleggingar um hreyfingu árið 2014 líkt og 2011. Finnsk og íslensk börn hreyfa sig helst í samræmi við ráðleggingarnar 2014. Norrænar stúlkur uppfylla síður ráðleggingarnar en drengir (64% á móti 54%). Að meðaltali hreyfa rúm 2% norrænna barna sig ekkert árið 2014. Hlutfall norrænna stúlkna sem hreyfa sig ekkert hefur minnkað.   Norræn börn verja að meðaltali þremur klukkustundum af daglegum frítíma sínum í kyrrsetu við skjá árið 2014. Tæp 16% barna verja miklum frítíma við skjá (≥4 klst./dag). Samanborið við hin löndin er þetta hlutfall lægst á meðal íslenskra barna (tæp 6%) en hæst á meðal danskra barna (rúm 20%). Þróunin er sú, jafnt hjá börnum og fullorðnum, að minni frítíma er varið í kyrrsetu við sjónvarpskjá en að sama skapi lengri tíma við tölvuskjá. Líkt og árið 2011 er lítilll félagslegur ójöfnuður meðal norrænna barna bæði hvað snertir kyrrsetu við skjá og hreyfingu.   Holdafar   Fleiri fullorðnir flokkast of feitir á Norðurlöndunum 2014 en 2011. Á Íslandi er hærra hlutfall fullorðinna sem teljast of feitir en á hinum Norðurlöndunum. Hlutfall offitu meðal barna á Norðurlöndunum hefur ekki breyst milli ára og ekki er munur á milli landanna.   Áfengis- og tóbaksnotkun   Í vöktuninni 2014 var í fyrsta sinn spurt um áfengis- og tóbaksnotkun. Það er því ekki unnt að bera saman þróun milli ára heldur einungis neysluna milli Norðurlanda. Að meðaltali neyta Norðurlandabúar áfengis 1,7 sinnum í viku og um 45% aðspurðra hafa drukkið sig ölvaða á síðastliðnum 30 dögum. Lægst tíðni áfengisneyslu og ölvunardrykkju er á Íslandi meðan Danir drekka oftast og Norðmenn drekka sig oftast ölvaða.   Að meðaltali reykja einn af hverjum fimm Norðurlandabúum daglega eða öðru hvoru. Reykingar mælast lægstar í Svíþjóð en hæstar í Danmörku. Samkvæmt þessari könnun reynast álíka margir reykja á Íslandi og í Noregi. Mikill munur mælist milli þjóðfélagshópa á öllum Norðurlöndunum þar sem hópurinn með minnstu menntunina reynist tvöfalt líklegri til að reykja en þeir með mestu menntunina.   Staðreyndir um könnunina   Norræna vöktunin á mataræði, hreyfingu og holdafari var framkvæmd árin 2011 og 2014 í Noregi, Svíþjóð, Íslandi, Finnlandi og Danmörku. Í þessum tveimur könnunum var safnað gögnum fyrir samtals 4.949 börn á aldrinum 7–12 ára og 17.775 fullorðna á aldrinum 18–65 ára á Norðurlöndunum.   Könnunin byggir á tilviljunarkenndu úrtaki úr þjóðskrá og var gögnum safnað með viðtölum í gegnum síma. Foreldrar svöruðu könnuninni fyrir börn sín. Þátttakendur voru spurðir um hve oft þeir borði ákveðnar fæðutegundir, hversu miklum tíma þeir verja í miðlungserfiða og erfiða hreyfingu og í kyrrsetu við skjá. Einnig var spurt um menntunarstig ásamt hæð og þyngd. Fullorðnir voru einnig spurðir um hve oft þeir reykja og drekka áfengi. Fyrirtækið Maskína sá um gagnasöfnun hér á landi.   Kannanirnar sýna hvernig heilsuhegðun á Norðurlöndunum hefur þróast milli 2011 og 2014 og gera það mögulegt að bera saman mataræði, hreyfingu og holdafar í löndunum fimm yfir tíma. Niðurstöðurnar eru metnar með tilliti til markmiða fyrir 2011 og framtíðarsýn fyrir 2021 í Norrænu aðgerðaáætluninni frá Norrænu ráðherranefndinni um næringu og hreyfingu. Einnig fengust samanburðarhæfar upplýsingar um áfengis- og tóbaksnotkun árið 2014.   Norræna vöktunin á mataræði, hreyfingu og holdafari er eina norræna könnunin þar sem safnað er umfangsmiklum, samanburðarhæfum norrænum gögnum meðal bæði barna og fullorðinna um heilsuhegðun yfir tíma.   Niðurstöður vöktunarinnar 2014 eru nú birtar í skýrslu, sjá skýrslu (PDF).   Hluti niðurstaðna hefur verið kynntur á norrænum ráðstefnum árið 2016 en í skýrslunni eru í fyrsta sinn kynntar heildarniðurstöður könnunarinnar.       Hólmfríður Þorgeirsdóttir verkefnisstjóri næringar   Gígja Gunnarsdóttir verkefnisstjóri hreyfingar  

Sterkast að heyra í barnafólki og hlusta á þeirra hugmyndir um lausn mála

Kveikjan að því að taka aftur upp þráðinn í leikskólamálum er stutt viðtal við tvíburamóður sem birtist í fyrsta tölublaði Eyjafrétta á árinu. Þar nefndi hún, aðspurð út í væntingar sínar til ársins 2017, að hún vonaðist innilega til þess að synir hennar tveir kæmust inn á leikskóla á árinu. Það er alls ekki víst því núna flyst hlutfallslega lítill árgangur yfir á fimm ára deild sem gerir það að verkum að lítið rými skapast fyrir ný börn. Eyjafréttir skoðuðu málin nánar og höfðu samband við nokkra aðila sem kunnu að hafa svör.   Á fundi fræðsluráðs Vestmannaeyjabæjar 28. nóvember síðastliðinn var m.a. til umræðu fjölgun leikskólarýma og breytingar varðandi inntöku leikskólabarna yfir árið. Í fundargerð segir að: „Markmið Vestmannaeyjabæjar hefur verið að öllum börnum 18 mánaða og eldri standi til boða leikskólapláss frá og með 1. september ár hvert. Það markmið hefur náðst og jafnvel lengra því börn sem urðu 18 mánaða eftir 1. september hafa komist inn í leikskóla eftir þennan tíma. Til að ganga enn lengra samþykkir fræðsluráð að gerður verði samningur við Sóla um kaup á auka leikskólarýmum til að hægt sé að taka inn fleiri börn í leikskóla. Með þessari ákvörðun er hægt að taka inn fleiri börn í leikskóla og bæta við nýju inntökutímabili eftir áramótin við hið hefðbundna inntökutímabil. Ákvörðunin leiðir einnig til að ekki verður í bili þörf á að opna nýja leikskóladeild. Skólaskrifstofan fær heimild til að bæta við hámark dvalarrýma í Sóla og gert verður ráð fyrir þeim kostnaði í fjárhagsáætlun ársins 2017. Kostnaður vegna þessarar ákvörðunar er um 20,5 milljón.“   Í samtali við vefmiðilinn Eyjar.net í lok nóvember 2016 sagði Elliði Vignisson bæjarstjóri að fyrirséð væri að skortur yrði á leikskólaplássum haustið 2017, þar sem hlutfallslega fá börn færast yfir á Víkina á fimm ára deild. Ennfremur sagði hann að „líklega náum við að tryggja öllum 18 mánaða börnum leikskólapláss 1. september 2017 en ekki meira en það. Verkefnið verður því að koma öllum börnum í þjónustu í kringum áramót 2017 og 2018.“ Að auki velti hann upp möguleikanum á að nýta Víkina betur, auka við rými á Kirkjugerði eða jafnvel opna nýja deild á Rauðagerði en félagsþjónustan hefur þurft að nýta plássið eftir að skyndilega þurfti að rýma Ráðhúsið.   Viljum gera betur   Líkt og fyrri daginn var Elliði reiðubúinn til þess að skýra út stefnu bæjaryfirvalda þegar Eyjafréttir höfðu samband við hann um málið. „Þjónusta við börn og barnafjölskyldur eru meðal forgangsverkefna hjá Vestmanna-eyjabæ. Við höfum þá stefnu og takmark að öll börn sem eru 18 mánaða og eldri 1. september hvert ár komist inn á leikskóla. Það markmið hefur náðst á undanförnum árum en við viljum gera betur. Seinustu ár höfum við jafnvel getað tekið börnin inn 18 mánaða alveg fram í febrúar, þ.e. að þau hafa fengið leikskólapláss um leið og þau verða 18 mánaða fram í febrúar. Eftir það hefur verið stopp í inntöku alveg fram í ágúst eða september vegna þess að öll leikskólaplássin eru orðin full,“ segir Elliði.   Í janúar myndast þörf   „Í haust (1. september) tókst að bjóða öllum börnum 18 mánaða og eldri pláss á leikskóla,“ heldur Elliði áfram. „Við gátum jafnvel tekið inn börn fram í nóvember og desember. Í janúar fer hinsvegar að myndast þörf og í lok mánaðar gætu milli fimm og tíu börn verið orðin 18 mánaða og ekki hægt að taka þau inn nema bæta við plássum. Við þessu bregðumst við með því að kaupa af Sóla viðbótar leikskólarými og hliðra til á Kirkjugerði. Þar með verður hægt að bjóða þessum börnum leikskólapláss nú í janúar. Stefnan er að fjölga tímabilum sem börnum er boðin pláss á leikskóla. Tímabilin eru þá vorið fram á haust og svo aftur um áramótin,“ segir Elliði.     Kostnaðarfrek og mikilvæg   Leikskólapláss eru í senn kostnaðarfrek og mikilvæg en engu að síður mikilvæg fjárfesting segir bæjarstjórinn um annars flókna stöðu. „Á meðan svigrúm er til sér engin eftir fjármagni í þessa mikilvægu þjónustu. Við höfum því verið að fjölga leikskólarýmum mikið. Lengi vel vorum við með á Sóla og Kirkjugerði um 175 leikskólapláss. Með tilkomu Víkurinnar bættust við um 50 til 60 pláss þannig að leikskólarýmin eru um 225 til 235. Árgangar eru á milli 50 og 60 börn. Samhliða höfum við verið að auka mikið þjónustu við börn sem eru yngri en 18 mánaða. Dagforeldra kerfið hefur verið eflt og niðurgreiðsla á þeirri þjónustu aukin. Illu heilli hefur ríkið ekki staðið við fyrirheit um að lengja fæðingarorlof úr níu mánuðum í 12. Við ákváðum því að mæta þörfinni og tókum upp svokallaðar heimagreiðslur frá sveitarfélaginu frá níu mánaða aldri. Í því er fólgin ákvörðun um að greiða foreldrum bein framlög kjósi þeir að vera heima hjá börnum sínum frekar en að setja þau í gæslu,“ segir Elliði.   Misstórir árgangar   Misstórir árgangar gera bæjaryfirvöldum oft erfitt fyrir en Elliði kýs að líta á vandamálið með jákvæðum augum. „Daggæslan og leikskólamálin er málaflokkur sem er í sífelldri þróun og sveiflur eru miklar. Ekki bara breytast áherslur foreldra og eftirspurn þeirra heldur gerir misjafn fjöldi í árgangi okkur stundum erfitt fyrir. Hann kallar í raun á sveigjanleika og leggur á okkur þá kröfu að nálgast þessi mál sem jákvæð verkefni en ekki vandamál. Í Eyjum erum við svo heppin að eiga mikið af öflugu fagfólki sem vinnur af einurð að velferð barna og þar var Hjalli til að mynda afar jákvæð viðbót við þann frábæra hóp sem vinnur í dag hjá Vestmannaeyjabæ,“ segir Elliði.   Vilji til að mæta þörfum foreldra   Að lokum ítrekar Elliði að vilji sé fyrir hendi að gera enn betur í málaflokknum sem þegar er lögð mikil áhersla á. „Það er mikill vilji hjá Vestmannaeyjabæ að mæta þörfum foreldra með daggæsluúrræði og skóla fyrir börn þeirra. Það hefur tekist hingað til. Sífellt eru gerðar meiri kröfur og þjónustu þarf að yfirfara og meta hverju sinni. Það má ætíð gera betur og á öllum tíma er vilji til að bæta þjónustuna. Heilt yfir erum við afar stolt af árangrinum og þeirri þjónustu sem okkar frábæra fagfólk veitir foreldrum og börnum þeirra,“ segir Elliði að lokum.   Leikskólinn Sóli: Samningur við Hjalla-stefnuna rennur út í ár   Blaðamaður gerði sér ferð niður á Sóla og ræddi þar við skólastjórann, yfir einum kaffibolla, um meintan skort á plássi næstu misseri og annað efninu tengt. „Það er misjafn hvað fæðast mörg börn á hverju ári. Núna er árgangur 2012, sem er elsti árgangurinn okkar, ekki nema 18 börn. Í heildina verða börnin á Víkinni 39 næsta haust. Á móti kemur stór árgangur inn og það er eitthvað sem við verðum að bregðast við, þess vegna hafa þau hjá bænum verið að skoða viðbótar deild eða kjarna. Við munum setjast niður á næstu dögum til að fara yfir skólaárið 2017 til 2018,“ segir Helga Björk Ólafsdóttir, skólastjóri Sóla í Vestmannaeyjum. Samningur Sóla við Vestmanna-eyjabæ hefur ákvarðast af því sem nefnist dvalargildi, því barn er ekki það sama og barn. „Tveggja ára barn telst sem 2 barngildi og ef það er í 8 klukkustundir í skólanum á dag telst það sem 16 dvalargildi. Í heildina höfum við mátt vera með 990 dvalargildi hér í húsi, en það er misjafnt hvað það eru mörg börn eða á bilinu 94-98“ segir Helga Björk. Umræður um stækkun leikskólans hafa ekki farið langt en samningurinn milli Hjallastefnunnar og Vestmannaeyjabæjar rennur út í ágúst 2017 og munu aðilar að honum setjast niður fljótlega til að fara yfir framhaldið. Eins og fyrr segir lagði bærinn fram 20,5 milljónir til að taka inn fleiri börn á Sóla eftir áramótin til að annast eftirspurn eftir leikskólaplássum. „Nú erum við komin upp í einhver 1105 dvalargildi og skólinn er eiginlega að verða fullur, með 96 börn í heildina,“ segir Helga Björk.   Stór árgangur að koma inn   Aftur verða svo tekin inn ný börn þegar 2012 árgangurinn fer út á Vík en gera má ráð fyrir því að hægt verði að bæta við einhverjum plássum því árgangur 2013 er stór og fer úr 1,3 barngildum í eitt. „Við gætum þá verið með um 100 börn í sama dvalargildi,“ segir Helga Björk. Aðspurð segir Helga Björk að rými sé til staðar til að bæta við kjarna en þá þurfi að gera breytingar á húsnæðinu og skipulagi en hvort það sé rétta lausnin er annað mál. Jafnframt segir Helga Björk ekki skorta vilja fyrir því að taka inn yngri börn en þegar upp er staðið sé það bærinn sem tekur ákvarðanir um slíkt. „Það er vel gert hjá bænum að bjóða leikskóla fyrir öll 18 mánaða börn þó foreldrum finnist það eðlilega ekki alltaf vera nóg. En það er alveg vilji hjá Hjallastefnunni að taka yngri börn inn,“ segir Helga Björk.   Yngstu börnin kosta 253.582 kr. á mánuði   Hjallastefnan rekur ungbarnaskóla í Garðabæ fyrir börn á aldrinum 9 til 18 mánaða en það er kostnaðarsamt eins og gefur að skilja. „Samkvæmt útreikningum Sambands íslenskra sveitarfélaga kostar fyrir yngstu börnin 253.582 kr. á mánuði miðað við átta klukkustunda vistun á dag. Framlag til foreldra ræðst síðan af aldri barnsins og svo reglum í lögheimilissveitarfélagi fjölskyldunnar. Ég held að foreldrar geri sér kannski ekki alveg grein fyrir því hvað leikskólapláss kostar því þeir greiða sjálfir aðeins að meðaltali um 15% af því sem það kostar í raun og veru hér í Eyjum. Vestmannaeyjabær er að greiða langstærstan hluta af leikskólagjaldinu fyrir foreldra og því yngri börn því meiri kostnaður. Ég hef oft sagt að mér finnst að þetta ætti að vera eins og þegar maður kaupir lyf í gegnum apótekið, þá sérðu skýrt hvað Tryggingastofnun borgar og hvað þú borgar. Þetta ætti að vera jafn skýrt á greiðsluseðlinum til foreldra,“ segir Helga Björk.   Dagurinner langur hjá börnum   Það er þó annar vinkill á þessu máli sem áhugavert er að velta fyrir sér en það er hvort skóladagur leikskólabarna séu ekki almennt of langur en þau vinna að meðaltali átta klukkustunda vinnudag. „Dagurinn hjá börnum okkar er langur og spurning hvort þetta þurfi að vera svona. Í Svíþjóð færðu lágmarks pláss fyrir barnið þitt ef þú sýnir ekki fram á að þú sért úti á vinnumarkið eða sért að sinna skóla,“ segir Helga Björk. Til þess að hafa smá sveigjanleika, borga foreldrar stundum fyrir rúma átta tíma á dag en nýta kannski ekki nema sjö, koma þá annaðhvort seinna á morgnanna eða sækja börnin fyrr. Fyrir suma er þetta nauðsynlegt en þar sem það eru dvalargildin sem ráða því hversu mörg börn eru á Sóla getur tími hvers barns skipt máli í heildarmyndinni. Helst þetta þá ekki í hendur við styttri vinnuviku? Erum við ekki enn allt of föst í því að hampa hvort öðru á því að vinna mikið? „Að sjálfsögðu, Íslendingar vinna mjög mikið og langa vinnudaga. Þetta er viðmiðið sem maður elst upp við en engu að síður ættum við að staldra við og ræða þessa hluti. “ segir Helga Björk. Skólaárið í leikskólunum í Vestmannaeyjum miðast nokkurn veginn við 15. ágúst til 15. júlí ár hvert. Í lok ágúst og byrjun september eru síðan ný börn inn í leikskólana. „Yngstu börnin sem tekin eru inn eru þá nýorðin 18 mánaða, fædd í febrúar en önnur eru orðin nokkrum mánuðum eldri. Þá getur verið súrt að eiga afmælisdag í mars og þurfa jafnvel að bíða í eitt ár. Við þessu er verið að reyna að bregðast með því að leikskólarnir taki líka inn börn um áramótin,“ segir Helga Björk að lokum.   Leikskólinn Kirkjugerði: Upplifum ekki skort á plássum   Eyjafréttir höfðu einnig samband við Emmu Vídó leikskólastjóra og Lóu Baldvinsdóttur Andersen aðstoðarskólastjóra á Kirkjugerði við vinnslu fréttarinnar til að sjá hvað þær höfðu um málið að segja. Hvernig lítur framtíðin út í leikskólamálum frá ykkar bæjardyrum séð núna þegar talað er um að skortur verði á plássum á næstu misserum? „Við upplifum engan veginn að það sé skortur á plássum. Það hefur allavega ekki borist okkur til eyrna. Vestmannaeyjabær segir að öll börn sem orðin eru 18 mánaða komist inn á leikskóla og sýnist okkur að í flestum tilfellum sé orðið við því,“ segja þær Emma og Lóa. Aðspurðar út í hvort öll dvalargildi væru fullnýtt í dag, svöruðu þær því játandi. „Já, hjá okkur eru öll dvalargildi fullnýtt. Við erum með 84 börn á leikskólanum og þau verða 85 eftir miðjan janúar þannig að við nýtum svo sannarlega öll dvalargildi hér á Kirkjugerði.“   Margt í boði fyrir foreldra   Finnst ykkur þau úrræði sem bærinn bíður uppá vera nægilega góð fyrir alla aðila? „Nú rekur bærinn Kirkjugerði og Víkina ásamt því að vera með rekstrarsamning við Hjalla um rekstur Sóla. Hjá bænum eru starfandi þrjár dagmæður og einnig er Strönd opin og þar eru börn sem ekki hafa komist til dagforeldra eða inná leikskóla. Þá eru heimagreiðslur í boði til þeirra foreldra sem ekki hafa sett börnin sín til dagforeldra eða koma þeim ekki að. Þannig að okkar svar er já, okkur finnst bærinn vera að koma vel til móts við foreldra er varðar daggæsluúrræði,“ segja Emma og Lóa en bæta við að alltaf megi gera betur. „Auðvitað má alltaf gera betur og auðvitað eru ekki alltaf allir sáttir. Draumastaðan væri að fá ungbarnadeild eða ungbarnaleikskóla til að svara þeirra þörf að yngri börn komist í daggæslu.“   Reyna að fjölga dagforeldrum   Hvað er hægt að gera til að koma meira til móts við ungt fólk með börn sem sjá kannski ekki fram á það að fá pláss við 18 mánaða aldur? „Nú erum við bara ekki alveg með á hreinu hve hátt hlutfall 18 mánaða barna og eldri eru ekki komin inn á leikskóla. Það er bagalegt ef það eru mörg börn sem ekki eru komin inn á leikskóla við þennan aldur en það er kannski það helsta í stöðunni að reyna að fjölga dagforeldrum eða eins og við höfum bent á, að opna ungbarnadeild/ungbarnaleikskóla,“ segja Emma og Lóa. „Það væri líklega sterkasti leikurinn í stöðunni að heyra í barnafólki og hlusta á þeirra hugmyndir um hvernig hægt sé að leysa þessi mál á sem bestan hátt. Foreldrar hafa miklar og góðar skoðanir á því hvernig best sé að þjónusta börnin þeirra og því væri afar heillavænlegt fyrir þá sem öllu ráða að heyra hvað foreldrar leggja til málanna.“     Með þessum orðum fer boltinn vonandi að rúlla enn frekar í þessum mikilvæga málaflokki, sem virðist, þegar allt er skoðað, vera í nokkuð góðum farvegi. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því, hvort sem fólk á börn eða ekki, að góð leikskólaþjónusta er ein mikilvægasta undirstaða samfélagsins og forsenda þess að bæjarfélag eins og Vestmannaeyjar geti haldið áfram að vaxa og dafna. Einnig hvet ég þá foreldra sem vilja láta rödd sína heyrast um leikskólamál að hafa samband við Eyjafréttir, því breytinga er ekki að vænta ef enginn segir neitt.    

Hversdagsheimur og stórviðburðir Vestmannaeyja í sjötíu ár

Sumarið 1947 fór Sigurgeir Jónasson í Skuld út í Álsey. Meðferðis hafði hann myndavél er systir hans, Sjöfn, hafði fengið skömmu áður í fermingargjöf. Skyldi nokkurn tíma hafa hvarflað að þessum 12 ára dreng að þar með væri ævibrautin ráðin, með myndavél um hálsinn næstu 70 árin? Myndaalbúm eru enn varðveitt í Álsey frá þessari fyrstu ljósmyndaferð og sumrunum næstu á eftir. Þau bera með sér sannindi hins forna málsháttar að snemma beygist krókurinn til þess sem verða vill. Fyrsta ljósmynd Sigurgeirs í landsmálablöðum birtist á prenti í Tímanum í ágúst 1958. Um var að ræða ljósmyndasyrpu af viðburðinum er stór hvalavaða var rekin inn í Botn. Ári síðar eða árið 1959 réðst Sigurgeir til starfa á Morgunblaðinu og var fréttaljósmyndari þar samfellt í 60 ár. Samhliða starfaði Sigurgeir hjá Bæjarútgerð Vestmannaeyja, á Flugfélagi Íslands, sem hafnarvörður og víðar. Þá var Sigurgeir jafnframt fréttaljósmyndari hér á Fréttum, síðar Eyjafréttum, í um áratug eða frá 1975-1985. Auk þess var hann mjög virkur í Þór, bæði í íþróttum og stjórnunarstörfum.   Heimsfrægar eldingamyndir  Sigurgeir varð heimsfrægur er svonefndar eldingamyndir hans í Surtseyjargosinu birtust í öllum helstu blöðum heimsins undir lok árs 1963 og fyrrihluta árs 1964. Þar má nefna Time og Life Magazine, National Geographic, Paris Match og miklu fleiri þekkt stórblöð. Myndirnar af eldingunum tók Sigurgeir út á Breiðabakka þann 1. desember 1963 og segir í gögnum hans að þekktasta myndin hafi verið tekin á tíma frá kl. 19:25 til kl. 19:2650 eða í eina og hálfa mínútu. Þessi nákvæmni í vinnubrögðum segist Sigurgeir hafa lært af Sigurði Þórarinssyni jarðfræðingi sem Sigurgeir kynntist vel í Surtseyjargosinu. Margir sem þekkja Sigurgeir telja að þar hafi Sigurður fundið óvenju næman nemanda.   Vinsamlega ruglið ekki  Ég hygg að Sigurgeir hafi ekki verið vinsæll maður á Mogganum. Til þess eru fyrirmæli hans til þeirra starfsmanna sem þurftu að handfjatla myndirnar áður en þær fóru í blaðið einfaldlega of nákvæm. Framan á filmurnar eða útprentið er ævinlega kveðja: ,,Vinsamlega ruglið ekki“... ,,Umfram allt látið ekki ruglast“ ... eða ,,Varðveitið filmurnar sérstaklega og látið þær alls ekki liggja í ryki eða óhirðu!“ Og alltaf er sama lokakveðjan: ,,Sendið filmuna svo strax til baka.“ Þessi nákvæmni einkennir allt æviverk Sigurgeirs. Aftan á nánast hverri einustu svart/hvítu ljósmynd er ítarleg skráning með dagsetningum, nafnalista, jafnvel hugleiðingum um tilefni myndatökunnar og kassanúmer. Jafnvel slidesmyndirnar, með sín fáu og smáu auðu svæði, eru útfyllt af sömu natni. Víða er ansi smátt skrifað. Líklega er þó flokkunin á ljósmyndum Sigurgeirs hans mikilvægasta framlag til aukins aðgengis að efninu. Vinnan að baki endalausri efnisflokkun er margfalt meiri en hægt er að ímynda sér að nokkur endist til. Þegar þar við bætist að safnið er hugsanlega stærsta ljósmyndasafn úr fórum nokkurs einstaklings hér á landi eru afköst Sigurgeirs og endalaus hugkvæmni við að skrá, draga saman, halda öllum heimildum til haga, bæta við hugleiðingum um tilurð einstakra ljósmynda og skrifa allt niður og varðveita líklega það sem mætti helst kallast ómennskt.   Enginn lagt í að telja  Enginn hefur enn lagt í að telja safn Sigurgeirs. Líklegustu tölurnar eru að allt að ein milljón mynda séu til sem útprentaðar svart/hvítar myndir, um ein til tvær milljónir sem slidesmyndir og að aðrar ein til tvær milljónir mynda séu enn varðveittar á filmum sem ekki hafa verið framkallaðar. Um 4-5 milljónir ljósmynda er því ævistarf Sigurgeirs Jónassonar. Það er merkilegt til þess að hugsa að þessi ótrúlegi fjöldi ljósmynda með öllum sínum nákvæmu skráningum, upplýsingum og heimildum fjallar að langmestu leyti um eitt viðfangsefni – Vestmannaeyjar. Afrakstur þessa eina manns – Sigurgeirs – gerir það að verkum að ekkert byggðarlag hefur jafngóðan aðgang að eigin sögu sem Vestmannaeyjar. Atvinnusagan, mannlífsflóran, breyttir hættir hins daglega lífs, umhverfi sem var, hús sem eru horfin, í senn hversdagsheimur og stórviðburðir Eyjanna – allt þetta og svo miklu meira hefur Sigurgeir myndað, skráð, flokkað og tínt í sundur og saman í 70 ára samfelldri vinnu. Hann er ekki einusinni hættur þrátt fyrir að vera kominn á níræðisaldur. Á hverjum degi – utan knattspyrnutíma og sunnudaga – mætir hann í Safnahúsið sem hýsir ljósmyndasafnið hans og heldur áfram að vinna við að velja efni og ljósmyndir fyrir sýningar sem haldnar eru reglulega í húsi Visku, símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja, í samstarfi þeirra Arnars Sigurmundssonar, Kára Bjarnasonar og Sigurgeirs. Þá vinnur Sigurgeir löngum stundum að því að velja ljósmyndir sem birtast eiga á vefnum, enda verður safnið aldrei í heild aðgengilegt á veraldarvefnum. Hitt er verra að inn á sigurgeir.is og vestmannaeyjar.is er aðeins að finna ríflega 20.000 ljósmyndir eða vart meira en hálft prósent af safninu. Í ómetanlegu starfi Sigurgeirs undanfarin tvö ár í Safnahúsinu hefur hann þess vegna smám saman farið í gegnum ljósmyndasafnið og valið úr hundruð þúsunda ljósmynda sem þá eru tilbúnar til að fara á vefinn. Markmiðið er að nýta næstu fimm árin til að koma öllum þeim ljósmyndum sem Sigurgeir hefur dregið saman og er að draga saman úr sínu ógnarstóra ljósmyndasafni og gera þær aðgengilegar á vefnum. Það mun gerbreyta aðgangi að ljósmyndasafni hans og um leið gerbreyta aðgengi að sögu og þróun Vestmannaeyja undanfarin heil 70 ár. Megi það rætast.  

PopArt sýning í Einarsstofu í Safnahúsi

Listamennirnir Ingvar Björn Þorsteinsson og Oddur Eysteinn Friðriksson sýna um þessar mundir það sem kallað er PopArt í Einarsstofu í Safnahúsi. Sýningin sem stendur fram yfir mánaðamót hefur notið mikilla vinsælda og ekki hvað síst hafa ungir sem aldnir haft gaman af því að nota þrívíddargleraugun sem liggja frammi á sýningunni. Með því að setja gleraugun upp breytast myndirnar á sýningunni og öðlast annað líf eða nýja dýpt. Báðir eru listamennirnir þekktir fyrir list sína hérlendis sem erlendis. Oddur Eyteinn sem kallar sig listamannsnafninu Odee býr á Eskifirði en lætur vinna allar myndir sínar í New York á álplötur sem gefur verkum hans sérstakan svip. Ingvar Björn átti þess kost að vera við opnun sýningarinnar, enda þótt hann búi að mestu í Berlín þar sem hann hefur haslað sér völl. Ingvar Björn tók með sér 11 ára dóttur sína og sagðist hafa notið þrettándahátíðarinnar jafnmikið og barnið enda teldi hann þrettándann í Eyjum vera einhverja mestu fjölskyldugleði sem hann hefði upplifað. Odee hefur oft verið kallaður ,,hinn stafræni Erró“ en listaverk hans þykja minna á meistarann. Sjálfur segist Odee vinna mest með svokallaða digital fusion eða visual mashup art sem hann kallar samrunalist. Þar blandar hann saman efni úr vinsælli menningu til þess að skapa ný sjálfstæð listaverk. Þá hefur Odee látið mjög til sín taka hvað varðar rétt listamannsins til tjáningar ofar öllu öðru – jafnvel höfundarrétti. Ingvar Björn hefur verið búsettur í Berlín undanfarin ár þar sem hann hefur verið að vinna með ýmsum virtum listamönnum. Á sýningunni er t.a.m. að finna verk af David Bowie sem er samstarfsverkefni hans með Gavin Evans stjörnuljósmyndara. Ingvar Björn vinnur með PopArt en sér sig sem sögumann sem vill breyta heiminum með list sinni. Hann leggur mikið upp úr því að laða á sýningar sínar fólk sem ekki fer venjulega á listsýningar. Til þess fer hann oft og tíðum óhefðbundnar leiðir, t.a.m. fékk hann 78.000 einstaklinga frá 104 löndum til að virkja fésbókina til að skapa það sem hann kallaði Digital Artwork Abstract. Þá hefur Ingvar Björn verið brautryðjandi í þeirri listsköpun að færa sýningarnar út úr húsunum eða öllu heldur utan á húsin. Þannig hefur hann staðið fyrir því að klæða hús og láta fólk fá þrívíddargleraugu til að nota útivið til að sjá listsköpunina með nýjum hætti og einnig nýtt líkama einstaklinga sem lifandi listaverk. Til gamans má geta að ein slíkra mynda á sýningunni hér er í eigu Íslandsvinarins og leikarans Ben Stiller. Rétt er að vekja athygli á því að eftirprentanir á verkunum á sýningunni eru til sölu í Safnhúsinu á sérstöku tilboðsverði eða frá kr. 4.000. Vinsamlegast hafið samband við starfsmenn safnsins eða Perlu Kristinsdóttur í síma 868 2903 varðandi allar nánari upplýsingar.  

Stórkostlegur dagur fyrir Vestmannaeyjar

 Þetta er stórkostlegur dagur sem Eyjamenn hafa lengi beðið eftir, sagði forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja, að lokinni undirritun smíðasamnings um nýjan Herjólf. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 en sýndar voru myndir frá undirritunni, sem fram fór í höfuðstöðvum Vegagerðarinnar í dag. Vísir.is greindi frá.   Þessi athöfn átti raunar að fara fram fyrir átta árum. „Svo kom hrun. Það var meira að segja, skilst mér, búið að draga pennana á loft,“ sagði Hildur Sólveig Sigurðardóttir, forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja.   Og nú var loksins komið að því. Vegamálastjóri undirritaði samning við pólsku skipasmíðastöðina Crist um að smíða nýja Vestmannaeyjaferju fyrir 3,2 milljarða króna. „Þetta er bara stórkostlegur dagur, - dagur sem við höfum beðið mjög lengi eftir. Við bindum að sjálfsögðu miklar vonir við þessa nýju ferju,“ sagði Hildur.   Gamli Herjólfur er orðinn 25 ára gamall en ferjan sem leysir hann af verður álíka stór en grunnristari. Hún verður jafnframt með skrúfubúnaði sem á að auðvelda skipstjórum að stýra inn í Landeyjahöfn. Vegagerðin vonast til að nýting hafnarinnar aukist um 40 prósent.   „Hún fer vonandi frá 60 til 65 prósent, eins og hún er í dag, upp í það að vera 80 til 90 prósent,“ sagði Sigurður Áss Grétarsson, framkvæmdastjóri siglingasviðs Vegagerðarinnar. „Þetta hefur auðvitað gríðarlega þýðingu fyrir okkur. Þetta hefur mikla þýðingu ekki síst fyrir hina almennu íbúa, sem hafa þá aukið ferðafrelsi.   Þetta hefur mikla þýðingu fyrir atvinnulífið. Eins og á Íslandi almennt hefur ferðaþjónustan vaxið mikið í Vestmannaeyjum þannig að við sjáum fram á að ferðaþjónustunni muni vaxa enn frekar fiskur um hrygg,“ sagði Hildur Sólveig.   Ef áætlanir ganga eftir vonast menn til að geta boðið upp á nýja ferju á þjóðhátíð 2018.

Breki VE prófaður á Kínamiðum

  Breki VE, nýr ís­fisk­tog­ari Vinnslu­stöðvar­inn­ar (VSV), held­ur fljót­lega „til veiða“ á miðin úti fyr­ir stönd­um Kína en til­gang­ur sjó­ferðar­inn­ar er að álags­prófa skipið og láta reyna á það við sem eðli­leg­ast­ar aðstæður. Veiðarfæri voru send frá Evr­ópu til Kína af þessu til­efni. Mbl.is greindi frá.    Troll voru sett upp á neta­verk­stæði VSV fyr­ir próf­un­ina og send í aust­ur­veg. Frá Bretlandi fóru Bridon-tog­vír­ar til Kína og frá Dan­mörku fóru Thyr­oron-hler­ar og millilóð.   Stærsta skrúfa ís­lenska flot­ans „Aðal­atriðið er að kanna afl tog­skips með stærstu skrúfu ís­lenska fiski­skipa­flot­ans. Auðvitað kost­ar veru­lega fjár­muni og fyr­ir­höfn að senda veiðarfæri alla þessa leið en við vilj­um ganga úr skugga um að all­ur búnaður virki eins og til er ætl­ast áður en skipið verður af­hent,“ seg­ir Rún­ar Helgi Boga­son vélsmiður.   Rún­ar hef­ur verið í borg­inni Shi­dao í Kína í hálft annað ár og litið fyr­ir hönd út­gerðanna eft­ir smíði Breka VE og Páls Páls­son­ar ÍS ásamt Finni Krist­ins­syni vél­fræðingi. Síðar­nefnda skipið er í eigu Hraðfrysti­húss­ins Gunn­var­ar í Hnífs­dal. Rún­ar Helgi starfar með Finni Krist­ins­syni vél­fræðingi og yfir­eft­ir­lits­manni með smíðum skip­anna tveggja.   Þetta eru syst­ur­skip, smíðuð eft­ir sömu teikn­ingu en samt ekki eineggja tví­bur­ar því fisk­mót­taka í Breka er stærri en í Páli og á tog­dekki Breka er viðbót­ar­lúga. Hvoru tveggja staf­ar af því að Breka er ætlað að stunda karfa­veiðar í meira mæli en Páli. Að öðru leyti eru skip­in eins og þau verða af­hent sam­tím­is, lík­ast til núna í mars­mánuði. Gert er ráð fyr­ir að sigl­ing­in heim taki 58 sól­ar­hringa og leiðin liggi um Pana­maskurð.   Togað í kín­verskri lög­sögu Vél­ar­rúm Breka er frá­gengið, búið að prófa ljósa­vél­ar og ann­an búnað og aðal­vél­in var ræst í fyrsta sinn núna í byrj­un vik­unn­ar. Inn­rétt­ing­um í skip­inu er lokið að miklu leyti líka.   Fyr­ir ligg­ur að láta reyna á ýmis tæki og tól í höfn í Kína, meðal ann­ars átaks­mæla aðal­vél­ina með því að festa stál­víra úr skip­inu í landi og láta skipið síðan toga.   Mik­il­væg­asta þolraun­in verður samt úti á sjó og Rún­ar Helgi veit ekki til þess að svona nokkuð hafi verið gert áður með ís­lenskt fiski­skip hjá er­lendri skipa­smíðastöð fyr­ir af­hend­ingu.   „Sjór­inn er grunn­ur þarna úti fyr­ir. Við vilj­um gjarn­an kom­ast á 100 til 150 metra dýpi en það kost­ar allt að tveggja sól­ar­hringa sigl­ingu hvora leið og ekki víst að kín­versk stjórn­völd leyfi slíka lang­ferð. Mein­ing­in er svo að færa trollið yfir í Pál Páls­son og prófa hann á sama hátt líka en ekki fyrr en séð er að allt sé með felldu í Breka. Ef eitt­hvað kem­ur upp á þar verður brugðist við í báðum skip­un­um áður en Páll fer í sína próf­un­ar­veiðiferð.“   Eðli­leg skrúfu­stærð Stærð skrúfu Breka VE og Páls Páls­son­ar ÍS sæt­ir mest­um tíðind­um við þessa vænt­an­legu nýliða í ís­lenska flot­an­um. Skrúfu­hönnuður er Sæv­ar Birg­is­son eig­andi Skipa­sýn­ar.   Rakel Sæv­ars­dótt­ir, markaðsstjóri Skipa­sýn­ar, fjallaði um skrúf­ur Breka og Páls á Sjáv­ar­út­vegs­ráðstefn­unni í Hörpu í nóv­em­ber 2016.   Hún líkti skips­skrúfu við væng á flug­vél eða vind­myllu­hjól. Lang­ur og mjór flug­vél­ar­væng­ur nýti orku bet­ur en stutt­ur og breiður. Með því að stækka skrúfu og hægja á henni sé mögu­legt að fá meira afl með minni orku, jafn­vel svo muni allt að 40%, allt eft­ir því hvernig skrúfa er fyr­ir á skip­inu.   Orku­sparnaður jafn­gild­ir að sjálf­sögðu eldsneyt­is­sparnaði og þar með minni kostnaði við út­gerðina.   Rakel sagði að ráðamenn Hraðfrysti­húss­ins Gunn­var­ar og Vinnslu­stöðvar­inn­ar hefðu kannað vel og ræki­lega hvernig þeir vildu að tog­ar­ar fyr­ir­tækj­anna yrðu út­bún­ir og und­ir­búið verk­efn­in afar vel. Hún brá í lok­in upp sam­an­b­urðarmynd af venju­legri skrúfu tog­ara ann­ars veg­ar og skrúfu af Breka eða Páli Páls­syni hins veg­ar. Á milli stend­ur 180 cm hár karl­maður.   Rakel spurði ráðstefnu­gesti í Hörpu: „Stærð er af­stæð! Skrúfa Skipa­sýn­ar er vissu­lega stór en er ekki frek­ar hægt að segja að okk­ar skrúfa sé af eðli­legri stærð en hinar skrúf­urn­ar litl­ar?“    

Þokkalegt gengi hjá kaupmönnum yfir jólin

Í óformlegri könnun Eyjafrétta á gengi verslana í Vestmannaeyjum yfir jólin virðist sem það hafi verið nokkuð misjafnt. Töluverður fjöldi fólks hélt af landi brott yfir hátíðarnar og ferðaðist suður á bóginn til Tenerife og annarra ákjósanlegra áfangastaða til að kasta mæðinni og er óhætt að segja að það kunni að hafa einhver áhrif á heildarmyndina. Að sama skapi sigldi Herjólfur í Landeyjahöfn lengur en undanfarin ár og því ekki ósennilegt að einhverjir hafi gert jólainnkaupin í Reykjavík.   Slæmt veður setti síðan strik í reikninginn á Þorláksmessu sem almennt er talinn vinsælasti dagurinn til að versla jólagjafir, hvort sem það skrifast á seinagang eða eitthvað annað. Samkvæmt upplýsingum frá markaðsdeild Póstsins var aukning skráðra sendinga í Vestmannaeyjum heil 22% miðað við árið á undan sem þýðir að fólk var að nýta sér vefverslanir í auknum mæli.   Ekki sú besta   Aðspurð sagði Bertha Johansen eigandi Sölku að salan hjá henni um jólin hafi ekki verið sú besta síðan hún opnaði en alls ekki sú versta heldur. Hjá nágrönnum hennar hinum megin við götuna í Póley var glatt á hjalla, gott „rennerí“ yfir daginn á Þorláksmessu, sagði Sigrún Arna, þó kvöldið hafi ekki gengið sem skyldi vegna veðurs. Sömu sögu er að segja af þeim í Flamingo, Þorláksmessan ekki sérlega góð samkvæmt Gunnhildi en heilt yfir var hún mjög sátt. Gréta í Eyjavík tók í svipaðan streng og Bertha og segir það hafa verið rólegra hjá sér en árið áður. Hjónin Bergey og Magnús í AxelÓ kvörtuðu ekki yfir sinni jólatörn og sögðu litla breytingu vera milli ára. Það sama var uppi á teningnum hjá Útgerðinni þó salan hafi verið eilítið dræmari en árið áður. Litla skvísubúðin átti góðu gengi að fagna og sagðist Sigrún Alda vera með vaxandi fyrirtæki í höndunum. Linda í Smart var jafnframt mjög ánægð, ekki bara með jólin heldur árið í heild sinni.   Gott í matvörunni   Hljóðið var gott í bæði Krónunni og Bónus þegar Eyjafréttir ræddu við innanbúðarmenn beggja verslana. Báðir voru þeir sammála um að kalkúnabringan, heill kalkúnn, hangikjöt og hamborgarhryggur hafi verið vinsælasti maturinn yfir jólin en Kristinn Elí, verslunarstjóri Bónuss sagði mikla eftirspurn eftir nautalund hafa komið sér á óvart. Til samanburðar við árið 2015 sagði Eyjólfur Heiðar Heiðmundsson að svipuð sala og hlutfall hafi verið milli vörutegunda í Krónunni. Á báðum stöðum nutu svo óhefðbundnir kostir á borð við hnetusteik lítillar hylli meðal Vestmannaeyinga yfir jólin að þessu sinni.   Eftir að hafa þrætt flestar búðir í bænum, settist blaðamaður niður með aðilum frá tveimur ólíkum stöðum, annars vegar Erlu Halldórsdóttur, verslunarstjóra Eymundsson, og hins vegar Sif Sigtryggsdóttur og Vilborgu Stefánsdóttur, starfsmönnum Geisla.     Eymundsson   „Heilt yfir var desember ekki sá besti hjá mér og Þorláksmessan frekar slöpp enda brjálað veður og fólk treysti sér ekki út. Kvöldopnunin 22. desember kom mjög vel út hjá mér og bjargaði heilmiklu,“ segir Erla um jólavertíðna hjá sér. Samkvæmt Erlu var jólaverslunin þegar byrjuð í nóvember enda fyrsti í aðventu snemma á ferðinni. Jafnframt segir hún svartan föstudag að bandarískri fyrirmynd hafa verið skemmtilega nýung. „Það var þvílík stemning í bænum og verður vonandi fastur liður hér eftir,“ segir Erla sem þegar er byrjuð að huga að næstu jólum. „Núna er ég farin að hugsa hvað ég get gert betur fyrir næstu jólavertíð til að sem flestir kíki við hjá mér og skoði allavega úrvalið og tilboðin sem eru í desember.“ Nú er Bónus einnig að selja bækur í beinni samkeppni við Eymundsson. Hafði það einhver áhrif á ykkur? „Ég var samkeppnishæf á mörgum titlum. Mínir dyggu viðskiptavinir komu og versluðu hjá mér, því að versla bók í bókabúð og í matvöruverslun er bara ekki það sama, það eru margir sem eru með þá tilfinningu,“ segir Erla og bætir við hún sé þakklát fyrir þann stuðning sem hún fékk. „Ég er þakklát fyrir alla þá sem versla við mig og sérstaklega þeim sem standa við bakið á mér á ársgrundvelli en ég hefði glöð viljað sjá fleiri heimamenn koma fyrir jól.“   Geisli   „Mér fannst jólin eiginlega byrja í október“ segir Sif Sigtryggsdóttir aðspurð út í jólavertíðina. Jafnframt sagði Vilborg að traffíkin hafi dreifst vel í aðdraganda jólanna. „Tíminn líður hratt þegar mikið er að gera og stemningin var mjög góð. Ég hef í rauninni aldrei fengið svona mikla jólatilfinningu svona snemma áður,“ bætir Sif við. Báðar þakka þær góðu veðri fyrir gott gengi en flestir geta verið sammála um að veturinn hafi verið óvenju mildur fram að jólum. „Veturinn kom í raun ekki fyrr en á jólunum og við nutum góðs af því, fólk var almennt í betra skapi,“ segja þær Sif og Vilborg. Einhverjir hafa áhyggjur af því að með tilkomu Landeyjahafnar eigi fólk eftir að klára jólainnkaupin uppi á landi í stað þess að versla við heimabyggð. Hver er ykkar tilfinning fyrir því? „Það hefur áhrif, það gerir það. En ef allir ætla að fara og versla uppi á landi þá endar það náttúrulega þannig að það verður engin verslun hérna og ég held að engin vilji það,“ segir Sif. „Mér finnst margir sem komu til okkar hafa talað um það að þó þeir ættu erindi til Reykjavíkur þá vildu þeir klára sem mest hérna og sleppa við þessa brjáluðu traffík í Reykjavík,“ bætir Vilborg við og bendir á að viðskiptavinir þeirra sé oft að fá vörur á betri kjörum en gengur og gerist annars staðar. „Við erum mjög samkeppnishæf og það auðveldar fólki bara að versla hér.“ Aðspurðar hvað hafi verið vinsælasta varan yfir jólin segja þær að nýtt hjálpartæki í eldhúsinu hafi verið afar vinsælt. „Þetta er vacumsuðutæki sem hægeldar kjöt, fisk og grænmeti. Þú pakkar því sem elda á inn, setur það í ílát fullt af vatni og setur tækið ofan í og stillir á kjörhita. Eftir ákveðinn tíma er kjötið orðið lungnamjúkt eins og á Michelin veitingastað. Þetta var svakalega vinsælt og toppaði allt,“ segir Sif um undratækið Sous Vide.  

Flóðbylgja gæti skollið á Eyjum í Kötlugosi

Flóðbylgja gæti skollið á Vestmannaeyjum og haft töluverð áhrif þegar Katla gýs. Þetta kom fram á fundi með sérfræðingum frá Veðurstofu Íslands og Háskóla Íslands með viðbragðsaðilum í Vestmannaeyjum í fyrrakvöld. Á fundinum var einnig rætt um mikilvægi þess að fjölga jarðskjálftamælum í Eyjum. Það var Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, sem boðaði til fundarins. Fundurinn var ekki opinn almenningi en hann sátu meðal annars viðbragðsaðilar í Eyjum, fulltrúar fyrirtækja við höfnina og sjúkrahússins. Þá voru á fundinum þau Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur og Sigrún Karlsdóttir náttúruvárstjóri Veðurstofunnar. Ruv.is greinir frá.   Á fundinum ræddi Ármann meðal annars um hættuna af flóðbylgju í Vestmannaeyjum í kjölfar eldgoss í Kötlu.   „Sú vísa er aldrei of oft kveðin. Við erum búin að vita það nokkuð lengi að einn af fylgikvillum Kötlugosa eru flóðbylgjur með suðurströndinni. Uppruni þeirra er ekki alveg ljós en við komumst örugglega að því í næsta gosi, hvað þessu veldur. En ljóst er að þær verða. Og stundum eru þær stórar og í verstu tilfellum urðu skemmdir allt til Grindavíkur. 1918 var mikill buslugangur og sjór gekk á land hér í Eyjum. Þannig að þá varð bylgja. Hversu stórar þær verða er svolítið erfitt að segja en þær verða líklega einn til tveir metrar og þá skiptir máli hver afstaðan er, hvort við erum í stórstreymi eða háfjöru. En það er mikilvægt fyrir svona stóran og merkilegan sjávarútvegsbæ eins og Vestmannaeyjar að menn séu klárir. Eitt stærsta iðnaðarsvæði bæjarins er niðri við höfn og það er auðvitað það svæði sem verður fyrir áhrifum af flóðbylgju. Vonandi litlum en það geta líka orðið alvarleg áhrif,“ segir Ármann.   Til hvaða ráða þyrfti fólk þá að grípa?   „Það er bara að rýma svæðið. Og það sem við vitum um Kötlu er að iðulega er gosmökkurinn kominn upp úr jökli áður en flóðin leggja af stað niður eftir. Og af lýsingum að dæma koma flóðbylgjurnar eftir að flóðið fer út í sjó og það þýðir að við erum með svolítið góðan fyrirvara í Eyjum. Og ljóst að þegar menn sjá gosmökk er betra að menn fari að færa sig aðeins hærra upp, allavega næstu klukkutímana á meðan menn bíða eftir því að sjá hvort það verður af bylgjunni eða ekki. Og líka að koma skipum út úr höfn.“   Fjallað var um málið í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í gær og rætt við þau Ármann og Sigrúnu.  

Frumherjar fallnir frá

Vorið 1969 var samið um að koma á fót lífeyrissjóðum fyrir launafólk á almennum vinnumarkaði í samningum atvinnurekenda, stéttarfélaga og stjórnvalda. Lífeyrissjóður Vestmannaeyja var stofnaður 19. nóvember 1969 og hóf starfsemi 1. janúar 1970. Á þeim 47 árum árum sem liðin eru frá stofnun sjóðsins hafa orðið víðtækar breytingar í öllu þjóðfélaginu og þau stóru skref sem þá voru stigin eru sjálfsagður hluti af almennum réttindum á vinnumarkaði. Í desember sl. féllu frá með mjög stuttu millibili tveir af fyrrverandi forystumönnum í stéttarfélögum í Eyjum, en báðir komu þeir að Lífeyrissjóði Vestmannaeyja þegar á fyrstu starfsárum sjóðsins. Jón Kjartansson lést 13. desember sl., 86 ára að aldri og Elías Björnsson lést 26. des. sl., 79 ára að aldri.   Jón Kjartansson var kjörinn formaður Verkalýðsfélags Vestmannaeyja vorið 1972 og skömmu síðar gjörbreyttist allt umhverfið hjá öllum Eyjamönnum með eldgosinu á Heimaey 1973 og þeim breytingum sem fylgdu í kjölfarið. Jón var formaður Verkalýðsfélags Vm. til 1999, en árið eftir sameinaðist félagið Verkakvennafélaginu Snót undir nafninu Drífandi stéttarfélag. Jón Kjartansson var fyrst kjörinn í stjórn Lífeyrissjóðs Vm. í ársbyrjun 1974 og sat í stjórn til ársloka 1976. Jón var síðan kjörinn á ný í stjórn sjóðsins af stéttarfélögum í Eyjum haustið 1981 og sat óslitið til vorsins 2002. Jón Kjartansson sat samtals 24 ár í stjórn sjóðsins, þar af í fjögur ár sem formaður stjórnar.   Elías Björnsson var kjörinn formaður í Sjómannafélaginu Jötni árið 1975 og gegndi embættinu í 32 ár, samhliða því að annast rekstur Alþýðuhússins. Elías var kjörinn í stjórn Lífeyrissjóðs Vm. vorið 1977 af stéttarfélögum sjómanna og átti sæti í stjórn sjóðsins til vorsins 2010. Elías sat samtals í stjórn sjóðsins í 33 ár, þar af fimm ár sem formaður stjórnar.   Það er margs að minnast í löngu samstarfi við þá félaga Jón Kjartansson og Elías Björnsson í stjórn Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja. Á þessum langa tíma urðu gríðarlegar breytingar í öllu fjármálaumhverfinu og allt regluverkið í starfsemi sjóðanna varð flóknara. Það var ekki lognmolla í kringum þá félaga og stundum var tekist á um starfsemi lífeyrissjóðanna. En markmiðið var og er enn það sama, að tryggja örugga og góða ávöxtun á fjármunum sjóðsins og réttindum sjóðfélaga. Auðvitað skiptust á skin og skúrir í ávöxtum á löngu tímabili, en góð samstaða stjórnar og stjórnenda ásamt áralangri gætni í fjárfestingum sjóðsins átti stóran þátt í því að Lífeyrissjóður Vestmannaeyja þurfti ekki, einn fárra lífeyrissjóða að skerða réttindi sjóðfélaga í kjölfar banka- og efnahagshrunsins 2008.   Úför Elíasar Björnssonar fór fram frá Landakirkju laugardaginn 7. janúar að viðstöddu fjölmenni. Útför Jóns Kjartanssonar fer fram frá Landakirkju næstkomandi laugardag, 14. janúar kl. 13.00.   Stjórn og starfsfólk Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja senda fjölskyldum og aðstandendum Jóns Kjartanssonar og Elíasar Björnssonar innilegar samúðarkveðjur með þökk fyrir góð samskipti á liðnum árum. Arnar Sigurmundsson form. stjórnar Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja.    

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Mannlíf >>

Þrettándinn hluti af menningu Eyjamanna

Frá því fyrir miðja síðustu öld hafa Vestmannaeyingar fagnað þrettándanum með glæsibrag þar sem saman koma jólasveinar, álfar, púkar og tröll að ógleymdum Grýlu og Leppalúða sem eru í heiðurssæti á hátíðinni. Það er mikið lagt í búninga og mikið kapp lagt á að tröllin séu sem svakalegust. Þetta er mikið sjónarspil sem hefst með flugeldasýningu af Hánni þaðan sem jólasveinarnir ganga niður með kyndlana á lofti. Síðan tekur við ganga um bæinn sem endar á malarvellinum við Löngulág þar sem dansað er í kringum mikinn bálköst. Mannfjöldi fylgist með og hafa þeir sjaldan verið fleiri sem fylgdust með en á þrettándanum í ár enda veður einstaklega gott.   Birgir Guðjónsson, Biggi Gauja eins og hann er venjulega kallaður, hefur aðstoðað Grýlu frá árinu 1967 og var hann með henni í 51. skiptið á þrettándanum í ár. „Að hugsa sér, það er fullyrt að ég hafi byrjað 1967 og hef verið með í þessu síðan. Þau voru því orðin 50 skiptin í fyrra samkvæmt myndum sem til eru,“ segir Biggi í spjallið við blaðamann í síðustu viku. Þá lá hann í flensu sem hafði verið að hrjá hann um áramótin en það aftraði honum ekki að mæta á þrettándann. „Þetta er búið að vera rosalega gaman annars hefði maður ekki staðið í þessu í öll þessi ár. Það var pabbi sem ýtti mér út í þetta. Hann var Leppalúði í nokkur ár og Unnur Guðjóns Grýlan og komum við Þórður Hallgríms inn fyrir þau árið 1967. Pabbi hafði engan tíma í þetta því hann hafði svo mikið að gera í tröllunum. Hafa ýmsir staðið mér við hlið í þessum slag.“ Þrátt fyrir hálfrar aldar feril í Grýluhlutverkinu segir Biggi að þetta sé alltaf jafn gaman. „Svo megum við ekki gleyma öllu fólkinu, sem telur um 200 manns, sem vinna þetta allt í sjálfboðaliðsvinnu. Það er enginn yfir þessu starfi en samt gengur þetta allt eins og smurð vél.“ Biggi segir þrettándann hluta af menningu Eyjamanna og viljinn til að halda þessu gangandi sé það sem haldi fólki við efnið. „Það er þessi gleði í kringum undirbúninginn og hátíðina sjálfa sem ýtir manni í gang. Ef maður kemst ekki í gott skap í öllum þessum hamagangi er eins gott að koma sér heim. Já, það er svo margt sem gerir þessa hátíð okkar Eyjamanna alveg einstaka. Við höfum yfirleitt verið ofsalega heppin með veður. Stundum hefur dúrað rétt á meðan á hátíðinni stendur og skollið á vitlaust veður strax eftir að henni lýkur. Í þetta skiptið var blíða allan daginn sem gerir þetta svo miklu skemmtilegra og léttara,“ sagði Biggi að endingu.  

Greinar >>

2016 gert upp

Loksins búinn að finna tíma til þess að gera árið 2016 upp, en það hefur verið ótrúlega annasamt hjá mér í kring um áramótin. 2016 er hjá mér ár mikilla öfga og stórra ákvarðana. Sú stærsta var að sjálfsögðu mjaðmakúliskipti sem ég fór í 23. maí. Ég hafði að sjálfsögðu vitað þetta með árs fyrirvara en ekki fengið nákvæma dagsetningu fyrr en ca. 2 mánuðum fyrir aðgerð.   Síðasti vetur var erfiðasti veturinn minn í útgerð hér í Eyjum og sem dæmi um það, að þrátt fyrir að ég hafði fiskað 140 tonn sl. vetur, þá þurfti ég samt að fara niður í banka og biðja um fyrirgreiðslu í sömu viku og ég fór í aðgerðina. Þar hafði mest áhrif aðgerðir fráfarandi ríkisstjórnar, sem ég hef áður fjallað um. Það var mjög sérstakt að ganga frá öllu tengdu útgerðinni í maí og undirbúa fyrir lengsta sumarfríið, sem ég hef tekið eftir að ég fór að vinna og þá fyrst sem strákur í bæjarvinnu á vegum Vestmannaeyjabæjar.   Aðgerðin tókst mjög vel, en hún fór fram á borgarspítalanum, en margt samt rosalega skrítið eins og t.d. hvernig mér leið eftir mænudeyfinguna, þar sem líkaminn dofnaði allur upp, en heilinn mundi samt eftir því, í hvaða stellingu ég var þegar ég fór í mænudeyfinguna, sem var svolítið óþægilegt. Það að liggja síðan reyrður á hlið og hlusta á borvélar og hamarslátt, þar sem maður hristist allur og skalf meðan hamarshögginn dundu á mjöðminni, án þess þó að ég fyndi nokkuð fyrir því. Ég var svo heppinn að fá einkaherbergi og fékk líka leyfi til þess að liggja þar í 3 nætur, enda erfitt ferðalag að fara í fólksbíl austur í Landeyjahöfn og sigla svo yfir. Allt tókst þetta nú vel og í framhaldinu hófust síðan þrotlausar æfingar. Það leið reyndar ekki nema mánuður þangað til ég var farinn að dunda aðeins í bátnum og kom honum m.a. á flot aftur fyrir goslokahelgina, svo hann væri ekki fyrir á planinu. Fór svo út með sjóstöng að ná mér í soðið 6 vikum eftir aðgerð og prufuróður á sjó 2 mánuðum eftir aðgerð.   Allt gekk þetta bara nokkuð vel, þó að maður væri að sjálfsögðu svolítið aumur, en þetta m.a. varð til þess að ég ákvað að breyta út af 40 ára hefð og sleppa því að mæta á Þjóðhátíð og nota tímann í staðinn til þjálfunar, enda hafði ég þá þegar tekið ákvörðun ásamt félögum mínum að kíkja aftur til Grímseyjar helgina eftir Þjóðhátíð. Náðum við þar m.a. í lundann fyrir lundaballið. Því hafði nú verið spáð af nánum ættingjum að ég næði að snúa af mér löppina í þeirri ferð, en ég leit hins vegar á þessa ferð sem ákveðna prófraun, en ég hafði þá þegar gengið 2svar á Heimaklett. Allt gekk þetta vel og því kom það mér ekki á óvart að skurðlæknirinn minn úrskurðaði mig seinni partinn í ágúst tilbúinn í hvaða vinnu sem er.   Eitt af því sem ég hafði ákveðið þá þegar um vorið, og í raun og veru fyrir aðgerð, var að hætta í útgerð enda hefur meiningin með minni útgerð aldrei verið sú að starfa í þessu í einhverri sjálfboða vinnu. Reyndar hefur gengið ansi rólega að selja útgerðina og m.a. er ég þegar búinn að taka prufuróður eftir vinnu núna í janúar 2017, sem hefur ákveðna merkingu fyrri mig vegna þess að ég keypti fyrsta bátinn 1987 og hef því gert út nákvæmlega í 30 ár, þó að þessir róðrar að undanförnu séu nú meira svona til gamans.   Fljótlega eftir að ég var kominn af stað í sumar fór ég að leita mé að atvinnu í landi og sótti um hjá höfninni í lok júli og fékk vinnu og hóf störf þann 1. sept. Mér líkar bara nokkuð vel hjá höfninni, enda starfað við höfnina alla mína ævi. Breytingin er þó ofboðslega mikil, en svona ef ég skoða síðasta ár í heild sinni, þá verð ég bara að viðurkenna eins og er að þessir síðustu 4 mánuðir ársins eru einu mánuðurnir á árinu sem maður fékk eitthvað útborgað.   Pólitíkin var að sjálfsögðu til staðar hjá mér á árinu. Fyrst aðeins að Alþingiskosningunum. Mér voru boðin sæti á 3 listum en ég hafnaði því öllu. Fyrir því voru margar ástæður, kannski fyrst og fremst það að maður hafði bara hreinlega ekki tíma í þetta og kannski takmarkaðan áhuga. Kosningaúrslitin í sjálfu sér komu mér ekkert á óvart, nema kannski árangur Viðreisnar en mér þótti mjög skrítið að hitta fólk sem kaus Viðreisn og trúði því í alvöru að Viðreisn myndi aldrei fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.   Í bæjarpólitíkinni var þetta svolítið átaka ár hjá mér og hófst með flugelda sýningu á fundi framkvæmda og hafnarráðs þann 6. janúar í fyrra. Meirihlutinn var afar ósáttur með grein sem ég skrifaði fyrir þar síðustu áramót. Nú er það þannig að ég hef skrifað margar greinar í gegn um árin. Nokkrum sinnum áður hef ég reynt að skrifa mjög vandaðar greinar, þar sem ég fer yfir aftur og aftur, laga og leiðrétti. Þær greinar hafa nánast alltaf endað í ruslinu hjá mér, svo ég hef valið frekar að skrifa greinar um það sem ég hef verið að hugsa að undanförnu á þeim tíma og/eða fjalla um það sem fólk er að segja mér. Að sjálfsögðu er öllum velkomið að gagnrýna mínar greinar, en túlkun meirihlutans á grein minni fyrir rúmu ári síðan, hefur ekkert með það að gera hvað ég var að hugsa þegar ég skrifaði greinina og viðbrögð meirihlutans í framkvæmda og hafnarráði voru alls ekki við hæfi.   Í ágætu viðtali sem ég fór í í bæjarblaðinu Fréttum í byrjun febrúar sagði ég frá þessu og þeirri skoðun minni að meirihlutinn bæri að biðjast afsökunar á framkomu sinni í minn garð. Viðbrögð meirihlutans voru þau að senda erindi til bæjarstjórnar strax þarna í febrúar, þar sem þeir óskuðu eftir því að fundir ráðsins yrðu teknir upp hér eftir, vegna þess að fulltrúi minnihlutans væri með einhverjar dylgjur í þeirra garð. Að sjálfsögðu var þetta fellt í bæjarstjórn, og bara svo það sé alveg á hreinu, enginn í þessu ráði hefur beðið mig afsökunar. En ég hef í bili að minnsta kosti ákveðið að afgreiða þetta allt saman með orðum móður minnar sem hún kenndi mér strax á unga aldri: Sá á vægið sem vitið hefur.   Fundir í framhaldi af þessu voru nokkuð venjulegir, en margt af því sem gerðist á næstu vikum og mánuðum eftir þennan fund olli mér miklu meiri vonbrigðum, heldur en þessi fundur frá því í janúar. Og í lok sumars, eftir að mér bauðst starf hjá höfninni, var strax ljóst að ég gæti ekki líka starfað í hafnarráði. Ég bauð þá félaga mínum og oddvita Eyjalistans, Stefáni Jónassyni, að ég myndi draga mig út úr þessu og hleypa yngri manni að, en Stefán bauð mér að skipta við sig um ráð og gerði ég það og hóf ég störf í umhverfis og skipulagsráði í haust. Það er töluvert öðruvísi fólk í því ráði en því fyrra og störfin að mörgu leyti allt öðruvísi en mjög mikilvæg, enda held ég að það dyljist engum sem fer á rúntinn um bæinn okkar, allar þær miklu breytingar sem eru að verða, bæði varðandi lagnir í allar áttir sem og uppbygging á hafnarsvæðinu í kring um Fiskiðjuna og að þessu leytinu til má segja að framundan séu mjög spennandi tímar.   Margir sem gera upp árið reyna að spá fyrir um nýja árið og yfirleitt á frekar jákvæðan hátt, sem er nú bara eðlilegt. Mér finnst hins vegar vera mikil óvissa um þetta nýja ár. Jújú, það er búið að mynda ríkisstjórn, en hún hefur bara einn mann í meirihluta. Klárlega ríkisstjórn sem ég myndi aldrei kjósa, en hún verður dæmd af störfum sínum, hvort sem hún endist eða ekki. Nýbúið að skrifa undir smíði á nýrri ferju sem sumir telja mjög jákvætt. Afstaða mín er hins vegar óbreytt. Ef ekki verða settir alvöru fjármunir í nauðsynlegar breytingar í Landeyjahöfn, þá held ég að þessi ferja verði klárlega afturför.   Það var í fréttunum í gær, að lánshæfnismat Íslands hefði verið hækkað. Ekki ósvipað því sem gerðist reglulega rétt fyrir hrun. Fyrir nokkru síðan heyrði ég í hátt settum bankamanni, að að óbreyttu væri ekki nema ca. 2 ár í næsta hrun. Og hana nú!   Höfum þó í huga að sólin er farin að hækka og dagurinn að lengjast. Lundinn kemur í vor í milljónatali og hver veit, kannski leysist sjómannaverkfallið í vikunni. Óska öllum Eyjamönnum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir það gamla.