Loðnuvertíðin hætt að koma á óvart

Jæja enn ein brælan mætt á svæðið með öllum sínum þunga. Ágætis dagur í gær á miðunum, enduðum með um 1.000 tonn eftir að hafa fengið um 100 tonn hjá Tasilaq (gamla Guðmundi VE29) en í morgun náðum við aðeins að kasta einu sinni áður en brælan skall á og uppskárum við um 100 tonn.   En þessi vertíð er hætt að koma manni á á óvart því það er ekkert eðlilegt við hana þessa frá upphafi til nú. Um tíma var lítið að sjá og svo birtist aftur loðna vestan við Eyjar og margir gerðu mjög fína hluti þar í gær í blíðskaparveðri (auðvitað við Eyjar).  Þetta var á miðri siglingarleið Herjólfs milli Eyja og Stokkseyrar, - þurfti vinur minn Gulli Guðlaugur Ólafsson að sæta lagi og tók stórsvig milli þéttskipaðs  loðnuflota,  sem saman var kominn á þessa línu á litlu svæði. Var ekki annað að sjá að kappinn sem fyrr hafi staðið sig vel í því.    En talandi um Herjólf þá er hann hér rétt á eftir okkur á sömu siglingarleið og við með ströndinni og á leið heim ætli við endum ekki þar líka. En ég vona að Herjólfur fari vel með hana Möggu mína Margrét Elísa Gylfadóttir, sem er þar um borð, við því bæði á sömu leið en ekki í sömu ferð. En eins og ais sýndi áðan þá er ekki farið hratt yfir hjá okkur eða þeim, Herjólfur á 6,7 mílum en ef allt væri eðlilegt þá væru þeir á um 15 mílna ferð. Þá vitið þið það;) við á þessum tima á um 6,1 Mílu.. En gott og vel, við sem fyrr vonum að þessari langtíma brælu fari nú að linna og fari í langa pásu ( þó kortið segi annað:( ) og það takist að klára þessa vertíð með stæl, ekki veitir af enda nægur kvóti eftir að veiða ennþá.   En yfir og út í þessum bræluskít númer ^^^}%^+#}{]}#%***+ og átta. Góðar stundir  Kristó

Atvinnumál í Eyjum á krossgötum

Á fundi bæjarráðs Vestmannaeyja í vikunni, fjallaði Elliði Vignisson, bæjarstjóri um stöðu og þróun atvinnumála í Vestmannaeyjum. Sagði hann að þann 11. febrúar 2015 hefði  búafjöldi í Vestmannaeyjum verið 4.270 manns. Karlmenn eru 2.220 (52%) og konur eru 2.050 (48%). Vestmannaeyjabær er 12. fjölmennasta sveitarfélagið á Íslandi en næststærsti byggðakjarni utan áhrifasvæðis höfuðborgarinnar. Í Vestmannaeyjabæ búa 1,2% Íslendinga. Íbúum Vestmannaeyja hefur fjölgað stöðugt frá árinu 2007 þegar þeir voru 4.040, en þá var ákveðnum botni náð í íbúafjölda í Vestmannaeyjum. Þá höfðu íbúar ekki verið færri síðan árið 1953/1954. Íbúaþróun hafði því hoppað aftur um rúm 50 ár, þegar botninum var náð. Á þessum umrædda tíma var frjálsu framsali með aflaheimildir komið á sem leiddi til mikillar hagræðingarkröfu í sjávarútvegi. Þrátt fyrir að aflaheimildir útgerða í Vestmannaeyjum myndu aukast verulega á þessum tíma fækkaði íbúum. Þróunin í Vestmannaeyjum varð því eins og víðast í sjávarbyggðum. Þessar byggðir greiddu einfaldlega fyrir hagræðinguna með íbúafjölda. Í Vestmannaeyjum varð kostnaðurinn um 20%. Síðan 2007 hefur íbúum fjölgað um 230 manns eða um 5,7% á 8 árum.   Aldurssamsetning eyjamanna er að breytast hratt. Íbúafjöldi og samsetning 11. janúar 2015 var þannig að börn og fólk á aldrinum 0 - 16 ára (fædd á árabilinu 1999 - 2015), kornabörn, börn á leikskóla og grunnskóla eru samtals 867 einstaklingar eða 20,3% íbúa. Fullorðnir - fólk á aldrinum 17 - 67 ára (fædd á árabilinu 1948 - 1998), fólk á á vinnualdri, eru samtals 2.847 einstaklingar eða 66,7% íbúa Eldri borgarar - fólk á aldrinum 68 til 100 ára (fædd á árabilinu 1915 - 1947), eru samtals 556 einstaklingar eða 13% íbúa. Töluverður fjöldi fólks á þessum aldri er enn starfandi. Eftir 10 ár verður fjöldi eldri borgara kominn nálægt 1000.   Meðal þess sem fram kom í framsögu bæjarstjóra var að atvinnumál væru nú á algerum krossgötum. Störfum fyrir sjómenn hefur fækkað gríðarlega á seinustu tveimur og hálfu ári eða um 124. Sérstök áhersla var lögð á samanburð á árunum 2007 og 2014. Á þeim tíma hefur störfum fyrir fiskverkafólk fjölgað nokkuð eða um 145. Hinsvegar fækkar stöðugildum iðnaðarmanna úr 111 niður í 90 en stöðugildum í veitinga- og hótel starfsemi fjölgar úr 31 í 89. Sérstaka athygli vekur að stöðugildum í opinberri stjórnsýslu fækkar úr 129 í 78 á árunum 2007 til 2014 og starfsmönnum í heilbrigðisþjónustu úr 108 í 98.   Í yfirferð bæjarstjóra var einnig fjallað um þróun í fjölda fyrirtækja. Fram kom að fyrirtækjum hefur fækkað mikið síðan 2007. Þannig hefur fjöldi útgerða fækkað úr 27 niður í 16. Fyrirækjum í iðnaði fækkar úr 21 í 10 og fyrirtækjum í fiskvinnslu úr 10 í 7.   Þá kom fram að í Vestmannaeyjum búi nú 233 einstaklingar með erlent ríkisfang eða um 5,5% allra íbúa. Hlutfall erlendra ríkisborgara á Íslandi er hinsvegar 7 til 7,4%. Fólk með erlent ríkisfang, búsett í Vestmannaeyjum kemur frá 32 erlendum ríkjum.   Frá síðasta ársfjórðungi 2009 til síðasta ársfjórðungs 2014 hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað jafnt og þétt um 90 manns, úr 140 í 230. Það gerir aukningu um 64%. Á sama tíma hefur íbúafjöldi í Vestmannaeyjum hækkað úr 4.140 í 4.270, eða um 130 manns eða 3%. Erlendir ríkisborgarar stóðu því undir 69% af aukningu á íbúafjölda í Vestmannaeyjum á þessu tímabili. Slíkt þarf ekki að koma á óvart í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur á atvinnumarkaði.   Bæjarráð lýsir yfir miklum áhyggjum af þróun mála í atvinnulífi Vestmannaeyja. Ljóst er að störfum beint við veiðar er að fækka en afleiddum störfum í sjávarútvegi er að fjölga. Þessi störf verða hins vegar illu heilli ekki nema að mjög litlu leyti til í sjávarbyggðunum. Þess vegna fækkar þar störfum og þau verða enn einsleitari en áður. Landsbyggðirnar verða því fyrst og fremst hráefnisframleiðendur með störfum í grunnvinnslu.   Bæjarráð gerir alvarlegar athugasemdir við þá staðreynd að ríkisstjórn Íslands er ekki að standa við þau yfirlýstu markmið sín að færa störf af höfuðborgarsvæðinu yfir á landsbyggðina.   Bæjarráð telur afar brýnt að áður en þessi þróun sem hér að ofan er lýst hefur þau áhrif að samfélagið í Vestmannaeyjum hnignar verði ekki gripið til rótækra aðgerða. Nærtækast er þar að horfa til atvinnuþróunar og nýsköpunar á sviði sjávarútvegstengdra greina.  

Huginn VE og VSV í tímabundnu innflutningsbanni vegna athugasemda frá rússneskum heilbrigðisyfirvöldum

Nokkrir íslenskir framleiðendur sjávarafurða hafa fengið tímabundið bann við innflutningi á fiskafurðum til Rússlands. Í þeirra hópi eru meðal annars stór fyrirtæki og skip í vinnslu á uppsjávarfiski, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum. Fyrirtækin sem hér um ræðir eru Frostfiskur, verksmiðja HB Granda á Vopnafirði, Huginn VE, Ísfiskur, Skinney-Þinganes og Vinnslustöðin. Tveir aðilar eru auk þess í sérstöku athugunarferli, þ.e. Gnúpur GK og Loðnuvinnslan.   Í Fiskifréttum segir að á sínum tíma framseldi Tollabandalag Rússlands og fleiri ríkja heimild til Matvælalstofnunar Íslands til að skoða og taka út vörur hjá íslenskum fyrirtækjum sem mega flytja afurðir sínar til Rússlands. Þannig hefur þetta verið í nokkur ár. Fulltrúar Tollabandalagsins komu síðan til landsins í haust og gerðu þá sérstaka úttekt á nokkrum íslenskum fyrirtækjum og kemur innflutningsbannið í kjölfar þess.   Fiskifréttir hafa heimild fyrir því að grunsemdir séu uppi um að tímabundnar lokanir á innflutningsleyfi verði ekki eingöngu skýrðar með þeim athugasemdum sem fram hafa komið frá rússneskum heilbrigðisyfirvöldum. Heldur búi aðrar hvatir að baki og hugsanlega viðskiptalegar.   Hér eru gríðarlegir hagsmunir í húfi því samkvæmt viðtölum Fiskifrétta við menn í greininni má ætla að 15 til 20% af tekjum uppsjávarfyrirtækja verði til með sölu á afurðum til Rússlands.  

Málefni fatlaðra áfram í höndum Vestmannaeyjabæjar

"Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur að tillögu samráðsnefndar um málefni fatlaðs fólks veitt sveitarfélögunum Hornafirði, Vestmannaeyjabæ, Norðurþingi og Þjónustusvæði Vestfjarða framlengingu á undanþágu frá íbúafjöldamörkum þjónustusvæða." segir í tilkynningu á vef Velferðarráðuneytisins. "Við yfirfærslu á þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga sem tók gildi 1. janúar 2011 veitti velferðarráðherra umræddum fjórum sveitarfélögum/þjónustusvæðum undanþágu frá lágmarksíbúafjölda þjónustusvæða. Var undanþágan veitt með vísan til heimildar í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 59/1992 og var í gildi til 31. desember 2014.Samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks bárust, á síðari hluta nýliðins árs, umsóknir frá sveitarfélögunum/þjónustusvæðunum um framlengingu á undanþágunni. Fulltrúar nefndar um endurmat á yfirfærslunni áttu fund með öllum umsækjendum, einnig var óskað eftir umsögn réttindagæslumanna fatlaðs fólk um umsóknirnar. Umsagnir réttindagæslumanna voru jákvæðar. Samráðsnefndin ákvað í kjölfarið að mæla með því við félags- og húsnæðismálaráðherra að undanþágan yrði veitt. Ráðherra tók síðan ákvörðun um framlengingu undanþága til 31. desember 2017 með vísan í 4. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Ráðherra minnti jafnframt á að markmið laganna er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og að taka skuli mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks við framkvæmd þjónustunnar. Ákvörðunin kemur til endurskoðunar þegar ný lög um málefni fatlaðs fólks taka gildi en starfshópur félags- og húsnæðismálaráðherra vinnur nú að heildarendurskoðun löggjafarinnar. Eru ákvæði um lágmarksíbúafjölda og skilyrði fyrir undanþágum meðal þess sem starfshópurinn mun skoða." 

Páll Marvin skipaður varaformaður ferðamálaráðs

 Ragn­heiður Elín Árna­dótt­ir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hef­ur skipað nýtt ferðamálaráð til fjög­urra ára.   Formaður ráðsins er Þórey Vil­hjálms­dótt­ir og vara­formaður Páll Mar­vin Jóns­son. Þau eru skipuð án til­nefn­ing­ar, seg­ir í til­kynn­ingu á vef ráðun­ey­is­ins.   Þórey er fyrr­ver­andi aðstoðarmaður inn­an­rík­is­ráðherra, Hönnu Birnu Kristjáns­dótt­ur. „Hún hef­ur ára­langa reynslu af fyr­ir­tækja­rekstri, stjórn­un og stefnu­mót­un. Þórey er með BS gráðu í viðskipta­fræði frá Há­skóla Íslands með áherslu á alþjóðaviðskipti og MBA frá Há­skól­an­um í Reykja­vík. Þá stundaði hún auk þess nám við markaðs- og út­flutn­ings­fræði við End­ur­mennt­un­ar­deild Há­skóla Íslands.   Páll Mar­vin er formaður Ferðamála­sam­taka Vest­manna­eyja og fram­kvæmda­stjóri Þekk­ing­ar­set­urs Vest­manna­eyja,“ seg­ir í til­kynn­ingu frá iðnaðar- og viðskiptaráðherra.   Aðrir í ferðamálaráði eru: Hall­dór Benja­mín Þor­bergs­son, Ingi­björg Guðjóns­dótt­ir og Þórir Garðars­son, til­nefnd af Sam­tök­um ferðaþjón­ust­unn­ar. Al­dís Haf­steins­dótt­ir og Hjálm­ar Sveins­son, til­nefnd af Sam­bandi ís­lenskra sveit­ar­fé­laga. Ásbjörn Björg­vins­son og Dí­ana Mjöll Sveins­dótt­ir, til­nefnd af Ferðamála­sam­tök­um Íslands og Jón Ásbergs­son, til­nefnd­ur af Íslands­stofu.   Mbl.is greindi frá.

Væntingar voru miklar og talað um heilsárshöfn

Samgöngumál eru sígilt umræðuefni í Eyjum. Sú umræða er ekki ný af nálinni. Samgöngur við Vestmannaeyjar hafa alltaf verið brösóttar. Þar hefir veðrið spilað stórt hlutverk. Gísli Johnsen VE, 30 tonna bátur, sigldi milli Vestmannaeyja og Stokkseyrar á sínum tíma og gat tekið einn bíl á lestarlúguna. Vonarstjarnan VE, sem sumir kölluðu Mjólkurstjörnuna af því að hún flutti mjólkina til Eyja, tók við af Gísla Johnsen VE. Strandferðaskipin Esja og Herðubreið sigldu milli Eyja og Reykjavíkur sitt hvora vikuna. Svo kom elsti Herjólfur og sigldi annan hvern dag milli Eyja og Reykjavíkur og hálfsmánaðarlega til Hornafjarðar.   Þetta kemur fram í samantekt Gísla Valtýssonar um sögu um samgöngur á sjó milli lands og Eyja í síðasta blaði Eyjafrétta.  Og Gísli heldur áfram : Sá Herjólfur fór svo að sigla til Þorlákshafnar yfir sumartímann. Þá voru allir bílar, sem skipið flutti, hafðir á lestarlúgum skipsins og á dekkinu, og voru því oft í sjóbaði á leiðinni, ef eitthvað var að veðri. Herjólfur númer tvö kom árið 1976 og og núverandi Herjólfur 1992. Flugfélag Íslands flaug milli Eyja og Reykjavíkur, einnig flaug Flugfélagið af og til á Hellu og Skógasand. Íslandsflug fór í samkeppni við Flugfélag Íslands í Vestmannaeyjafluginu og sinnti því um nokkurra ára skeið.   Flugfélag Vestmannaeyja flaug á Bakkaflugvöll til margra ára, eða þangað til að Landeyjahöfn var tekin í notkun. Og nú flýgur Flugfélagið Ernir milli Eyja og Reykjavíkur. Alltaf hefur sitt sýnst hverjum um þær samgöngur sem í boði eru hverju sinni, en sennilega er umræðan hin síðari ár meiri en áður. Væntingar til Landeyjahafnar voru miklar, það var talað um heilsárshöfn með nokkurra daga frátöfum á ári, vegna veðurs.   Það átti líka í kjölfarið á byggingu hafnarinnar, að koma nýtt skip sem hentaði henni betur en núverandi Herjólfur. Í síðasta blaði Eyjafrétta var farið yfir fréttir og viðtöl, sem birst hafa í blaðinu um Bakkafjöru/ Landeyjahöfn allt frá árinu 2000, þegar fyrsta opinbera umræða um hugsanlega hafnargerð þar hófst. Í sumar verða liðin 5 ár frá því Landeyjahöfn var tekin í notkun og umræðan sem þá hófst um nýtt skip, fastan dælubúnað, minnkandi sandburð og annað það sem átti að vera til bóta, er óbreytt.   Eyjafréttir tóku púlsinn á nokkrum aðilum; stjórnmálafólki, ferðaþjónustuaðilum og hinum almenna Vestmannaeyingi. Hvernig horfa málin við þeim. Viðtölin voru í síðasta blaði og halda áfram í næsta blaði.  

Minnihlutinn vill Fiskiðjupeningana í stækkun Hraunbúða

Í umræðu um ályktun aðalfundar Félags eldri borgara um stækkun Hraunbúða í bæjarstjórn í gær lagði Eyjalistinn fram tillögum um að í stað áætlaðra framkvæmda við endurgerð Fiskiðjunnar að upphæð 120 milljónir króna sem er á fjárhagsáætlun ársins 2015 verði gert ráð fyrir hönnun og stækkun Hraunbúða, með breytingum á fjárhagsáætlun úr 2 milljónum króna í 122 milljón króna. Tillagan var felld með 5 atkvæðum D-listans gegn 2 atkvæðum E-listans.   Sjálfstæðismenn létu bóka að beðið er eftir svörum frá Framkvæmdasjóði aldraðra um það hvort styrkur fáist frá sjóðnum til að ráðast í framkvæmdir. „Þá er einnig unnið að samningum við HSU varðandi nýtingu á sjö hjúkrunarrýmum sem eru staðsett á HSU. Mikilvægt er að klára þá vinnu áður en ráðist er í tilviljanakenndar breytingar á verkferlum,“ segir í bókuninni. Vilja bæjarfulltrúar D-lista einnig ítreka það sem áður hefur komið fram, að stefnumótun í málefnum aldraða hafi hingað til verið unnin á faglegum forsendum en ekki flokkpólitískum. „Seinast í gær fundaði stýrihópur um málefni aldraða og þar eins og í öll önnur skipti samþykkti fulltrúi E-lista allt sem fram kom án nokkura vísbendinga um ósætti eða ábendinga um að E-listi teldi fjármagns vant. Að lokum skal ítrekað að framvinda í málefnum aldraðra strandar ekki á fjármagni og tillaga E-lista er því til þess eins að taka málefni úr farvegi sátta og setja í farveg átaka. Í því mun D-listi ekki taka þátt,“ segir í lokaorðum bókunarinnar.       E-listinn svaraði með eftirfarandi bókun: „Ef þetta er ekki spurning um að þetta strandi á fjármagni af hverju er verið bíða eftir svari frá Framkvæmdasjóði aldraðra? Þetta verkefni er bara orðið svo brýnt í Vestmannaeyjum í dag að við teljum mikilvægt að leggja meiri kraft í þetta. Góð samvinna í stýrihópi hefur ekkert með þessa tillögu að gera. Þau eru að vinna að lausnum til framkvæmda og hefur sá hópur unnið gott starf. Öll peningavöld liggja aftur á móti hjá bæjarstjórn. Því má ekki draga heilindi fulltrúa E-lista í stýrihópi í efa.“   D-listinn svaraði með bókun: „Meirihlutinn ítrekar það sem áður hefur komið fram um að í málefnum sveitarfélagsins er vönduð stjórnsýsla tekin alvarlega. Það verður að teljast með öllu óábyrgt að leggja til að ráðist verði í framkvæmdir við hjúkrunarheimili án þess að fyrir liggi samningur um rekstur við ríkið sem er ábyrgt fyrir slíku. Sérstaka undrun vekur að tillaga um slíkt komi fram þegar fyrir liggja áætlanir um að ráðast í síkar samningaviðræður. Þrátt fyrir þetta upphlaup E-lista mun meirihluti D-lista áfram leggja áherslu á samstarf við hagsmunaaðila með það að markmiði að nýta árið 2015 til undirbúnings í málefnum aldraðra til að verklegar framkvæmdir geti hafist árið 2016.       Liðurinn var svo samþykktur með fimm atkvæðum D-lista, bæjarfulltrúar E-listans sátu hjá.   Ályktun Félags eldri borgara:   Aðalfundur Félags eldri borgara sem haldinn var þann 6. febrúar skorar á bæjarstjórn Vestmannaeyja og bæjarráð að hlutast til um að strax verði ráðist í framkvæmdir við stækkun Hraunbúða. Þörfin aukist með hverjum degi fyrir heimilisrými og nú séu 29 íbúar í Vestmannaeyjum sem fengið hafa vistunarmat á biðlista eftir plássi á Hraunbúðum.   Þar fyrir utan sé fólk sem enn býr í heimahúsum og þyrfti heilsu sinnar vegna að komast á Hraunbúðir. „Svo við tölum ekki um þá sem eru með heilabilun á misjafnlega háu stigi en búa enn heima hjá sér. Það er því deginum ljósara að þörfin er mikil í þessum málaflokki og væntum við mikils af skjótum viðbrögðum ráðamanna bæjarins í þessu sambandi,“ segir í ályktuninni.    

Færist líf í kringum landið og miðin

Loðnulyktin góða mun umleika helstu hafnir víða um landið næstu daga því það lítur út fyrir að þessi vertíð hafi loks verði flautuð á með formlegum hætti í dag;-) Sem sagt fyrsti alvöru dagurinn á þessari vertíð með almennri veiði á öllum flotanum sem saman var kominn á mun eðlilegri slóðir miðað við árstíma eða suðaustur af landinu nánar tiltekið út af Stokksnesi austur af Hornafirði. Voru margir að fá góð köst í dag, við þar á meðal þegar við fengum um 800 tonn í einu kasti í morgun. Þá lentum við í því að rífa illa líka.. En við urðum varir við mikið af loðnu á þessu slóðum í brælunni um daginn, biðum þess vegna inni á Djúpavogi, en flotin byrjaði svo að kasta fljótlega eftir hádegi í gær þegar loks tók að lægja. Við náðum þó bara einu kasti í gær sem gaf 200 tonn og annað þar sem nótin gaf sig því miður.   En dagurinn í dag markar svo upphafið af þessu viljum við meina og eigum við þá ósk að veður og veiði haldist í hendur, þetta fari í góðan farveg, verði farsæl og gjöful loðnuvertíð . Við leggjum svo fljótlega af stað til Þórshafnar með fullt skip af loðnu eða um leið og við höfum lokið við að dæla restinni úr nótin yfir til vinar vors og blóma Bjarki Kristjánsson OKKAR og hans menn á Júpíter þar sem hann er skipstjóri þessa stundina. Ætli siglingin til Þórshafnar taki okkur ekki svo um 14 tíma eða svo ef allt gengur að óskum.   Svo það er að færast líf í kringum landið og miðin. sem gleður margan.   Yfir og út með kveðju frá Álsey við Stokksnes, Kristó 

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Íþróttir >>

Tom Even Skogsrud til ÍBV

Knattspyrnuráð ÍBV hefur gengið frá tveggja ára samningi við norska leikmanninn Tom Even Skogsrud. Hann er 21 árs og á leiki með yngri landsliðum Noregs. Hann kom til reynslu hjá ÍBV í lok janúar og lék þá tvo leiki með liðinu. Félagið og leikmaðurinn voru bæði ánægð með það sem aðilar höfðu fram að færa og hafa gengið frá samningi í kjölfarið. Tom fór ungur að árum eða 16 ára til Manchester City og var á mála þar til 18 ára aldurs er hann gekk til liðs við Glasgow Rangers. Þaðan fór hann til heimalandsins og hefur leikið þar með Sandefjord og Kongsvinger. Hann lék árin 2012-2013 með Sandefjord og á sl. keppnistímabili með Kongsvinger. Tom er fjölhæfur leikmaður sem getur leyst stöðu miðvarðar, bakvarðar og á miðjunni. Hann mun hefja strax æfingar með liðinu og leika sinn fyrsta leik með ÍBV sem allra fyrst.Tom verður mikilvægur hlekkur í því þriggja ára verkefni sem miðar að því að byggja upp öflugt lið ÍBV, sem hefur það markmið að ná betri árangri en undanfarin ár. Markmið félagsins og Jóhannesar Harðarsonar þjálfara liðsins, er að byggja upp lið sem leikur skemmtilega knattspyrnu, byggir á þeirri Eyjastemmingu sem lið ÍBV á að byggja á, og síðast en ekki síst að efla yngri leikmenn liðsins. Við vonumst einnig til að stuðningsmenn ÍBV, nær og fjær, taki vel á móti Tom og hann muni upplifa sanna Eyjastemmingu á leikjum ÍBV.Knattspyrnuráð ÍBV býður Tom velkominn á Eyjuna fögru og væntir mikils af honum.ÁFRAM ÍBV, alltaf og alls staðar.  

Stjórnmál >>

Lýsa yfir þungum áhyggjum af málefnum Grímseyjar og annara eyjabyggða

Bæjarstjórn Vestmannaeyja lýsir yfir þungum áhyggjum af málefnum eyjabyggða á Íslandi og hvetur til þess að skynsamlegra leiða verði leitað til að tryggja íbúum Grímseyjar þann mikilvæga rétt sem fólgin er í frelsi til búsetu.  Þetta kemur fram í bókun bæjarstjórnar sem samþykkt var einróma á fundi hennar í dag.  Bókunina má lesa hér að neðan:   Bæjarstjórn Vestmannaeyja ítrekar það álit hennar, sem áður hefur komið fram ma. í ályktunum um frumvörp til laga um stjórn fiskveiða, sem felst í mikilvægi þess að auka atvinnuöryggi íbúa sjávarbyggða.   Bæjarstjórn Vestmannaeyja lýsir enn fremur yfir þungum áhyggjum af málefnum eyjabyggða á Íslandi og þá sérstaklega erfiðri stöðu Grímseyjar. Vegna landfræðilegrar sérstöðu þola eyjabyggðir verr hraðar breytingar en mörg önnur byggðalög. Erfitt tímabil getur í einum vettvangi gert út um eyjabyggð til langframa, jafnvel þótt að öðru jöfnu hefði hinn erfiði tími ekki orðið langvinnur. Breytingar á rekstrarumhverfi sjávarútvegs hafa verið hraðar á seinustu árum og óhófleg gjaldtaka hefur flýtt fyrir samþjöppun aflaheimilda. Fjármálastofnanir hafa orðið ráðandi vægi í rekstri margra útgerðarfyrirtækja og illu heilli virðist það oft vera nánast háð geðþótta þeirra hverjum sé gert kleift að gera út og hverjum ekki. Þar með ráða þessar fjármálastofnanir orðið byggðaþróun á Íslandi í gegnum lánsveð í aflaheimildum. Þau tengsl sem hingað til hafa verið milli útgerða og íbúa sjárvarbyggða eru þar með rofin. Í því fellst háski, bæði fyrir sjávarbyggðir og sjávarútveginn í landinu.   Bæjarstjórn Vestmannaeyja hvetur til þess að skynsamlegra leiða verði leitað til að tryggja íbúum Grímseyjar þann mikilvæga rétt sem fólgin er í frelsi til búsetu. Það frelsi er ekki síður mikilvægt en annað frelsi. Í Grímsey og öðrum sjávarþorpum við Íslandsstrendur býr fólk sem á sama rétt til að velja sér búsetu og íbúar annarra byggðalaga. Staða Grímseyjar er nú slík að Byggðastofnun, Íslandsbanki, alþingi, atvinnuþróunarfélag og fleiri verða að taka höndum saman ásamt íbúum Grímseyjar við að tryggja áframhald byggðar í Grímsey.

Greinar >>

Við verðum líka gömul

Umræðan um aðbúnað aldraðra og uppbyggingu hjúkrunarrýma er ekki ný af nálinni og hún verðu háværari með tímanum þar sem öldruðum fjölgar hlutfallslega með ári hverju. Stefna stjórnvalda er sú að fólk geti búið eins lengi heima hjá sér og mögulegt er og áherslan hefur því verið lögð á aukna heimaþjónustu. Engu að síður verðum við jafnframt að fjölga hjúkrunarrýmum. Ríkisstjórnin bætti í hvað varðar úthlutun fjármagns til hjúkrunarheimila á fjárlögum 2015, en betur má ef duga skal.   Fleiri krónur Hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra er að byggja upp hjúkrunarrými en í þrengingum síðari ára hefur fjármagnið verið nýtt til reksturs hjúkrunarheimila og viðhalds. Við stöndum því frammi fyrir fjárskorti og það blasir við að við þurfum að fara að gera langtímaáætlanir varðandi uppbyggingu, til a.m.k. 20 ára. Ríkisstjórnin bætti í hvað varðar úthlutun fjármagns til hjúkrunarheimila á fjárlögum 2015. Þá verður 200 milljónum kr. veitt aukalega í hjúkrunarrými. Um er að ræða verulega fjölgun rýma í öllum heilbrigðisumdæmum sem kemur til móts við þá gríðarlegu þörf sem safnast hefur upp undanfarin ár. 50 milljónum kr verður varið til að bæta stöðu minni hjúkrunarheimila. Langflest þeirra eru á landsbyggðinni og mörg þeirra hafa átt í miklum rekstrarvanda. 50 milljónum kr. verður varið aukalega á árinu í heimahjúkrun fyrir fólk sem komið er með gilt færni- og heilsumat og bíður þess að komast á hjúkrunarheimili. Um er að ræða tilraunaverkefni með það að markmiði að fólk geti sem lengst búið heima.    Aukin samvinna við heimamenn Nú er  unnið að grófri framkvæmdaáætlun um byggingaframkvæmdir öldrunarstofnana til næstu fimm ára. Þeirri vinnu ætti að ljúka fljótlega. Hér er einungis um að ræða áætlun um brýnustu þörf til skamms tíma og vinnuhópurinn sem vinnur þá áætlun er skipaður starfsmönnum Velferðarráðuneytisins sem þekkja málaflokkinn og þörfina vel. Til grundvallar þeim tillögum sem fram verða bornar er faglegt mat á því hvar þörfin er mest.  Ljóst er að bæði er þörf á fjölgun hjúkrunarrýma og endurbótum á þeim rýmum sem fyrir eru til að mæta þeim viðviðum um aðbúnað sem þörf er talin á í dag. Þar sem mikilvægt er að ná sem mestri sátt og samstöðu um áætlun til lengri tíma mun sú vinna væntanlega kalla á aukna samvinnu við heimamenn í hverju heilbrigðisumdæmi.   Þó að menn greini á um ýmsa hluti þá getum við örugglega verið sammála um mikilvægi þess að bæta verulega þjónustu og aðbúnað aldraðra.    Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins