Landeyjahöfn, staðan í dag

Landeyjahöfn, staðan í dag

Það er farið að hausta hressilega og um leið byrjar vandræðagangurinn í kring um Landeyjahöfn. Engar framkvæmdir eru hafnar við að lagfæra höfnina og í ný tilkomnu fjárlagafrumvarpi Ríkisstjórnarinnar er ekki gert ráð fyrir krónu í nýtt skip né lagfæringar á höfninni.   Nýjasta kjaftasagan sem ég heyrði fyrir nokkru síðan gengur út á það, að það sé amk. 6-8 ár í nýja ferju. Ástæðan sé sú, að nú sé verið að gera töluverðar breytingar á Herjólfi til þess að gera hann stefnu fastari í siglingum inn og út úr Landeyjahöfn og að þær breytingar séu ekki fjármagnaðar með það í huga að duga aðeins í ca. 2 ár. Ekki veit ég hvort þetta sé rétt, en óneytanlega hefur það vakið athygli mína, að allir þeir sem ég hef rætt þetta við telja að það séu amk. 4 ár í nýja ferju og merkilegt nokkuð, almennt virðast Eyjamenn vera nokkuð sáttir við það að ekki sé verið að setja fjármagn í nýja ferju og vilja miklu frekar að sett sé alvöru fjármagn í langfæringar á höfninni. Þessu er ég nokkuð sammála, en að mínu mati þarf þó fyrst að fá skýrari svör við þeirri spurningu sem óneytanlega vaknaði á borgarafundi Árna Johnsen í vor, en þar fullyrti Árni það að Sigurður Ás Grétarsson hjá Siglingamálastofnun hefði sagt við sig í samtali, að hann væri kominn á þá skoðun, að alveg sama hvað gert væri fyrir Landeyjahöfn þá yrði höfnin aldrei heilsárshöfn. Ég er reyndar sammála þessari skoðun, en er að sjálfsögðu ekki tilbúinn að gefast upp, en maður hlýtur samt að velta því fyrir sér hvort að þessi "skoðun" Sigurðar sé kannski ástæðan fyrir því að ekki sé gert ráð fyrir neinum fjárframlögum frá ríkinu í Landeyjahöfn?   Sumarið var annars nokkuð gott þó að hann lægi full mikið í suðlægum áttum, þá duttu ekki út nema 2-3 dagar í allt sumar, ef ég man rétt. Tíðin framundan er hins vegar, út frá trillusjónarmiðum, óspennandi og veturinn algjörlega óskrifað blað, en vonandi fáum við bara mildan vetur.

Ný ferja eigi síðar en 2016

„Það skiptir hvorki máli fyrir mig né aðra í meirihlutanum hverjir sitja í ríkisstjórn á hverjum tíma. Hagsmunir Vestmannaeyja ná langt út fyrir einhverja mögulega flokkshagsmuni. Krafa okkar er skýr. Hönnun á nýrri ferju, sem ræður við a.m.k. 3,5m ölduhæð við Landeyjahöfn, skal lokið í byrjun næsta árs. Þá þarf strax að hefja smíði. Ferjan skal síðan vera komin í þjónustu við Vestmannaeyjar eigi síðar en 2016. Við sættum okkur ekki við einhverjar hálfkveðnar vísur í þessu samhengi heldur viljum að málin séu á hreinu. Stór hluti af því er að fjármögnun sé tryggð í fjárlögum,“ sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri, þegar hann var spurður álits á því að í frumvarpi til fjárlaga næsta árs er ekki gert ráð fyrir fjármagni til nýrrar ferju fyrir Vestmannaeyjar.   Elliði vitnar í ályktun bæjarráðs sem lýsti á fundi sínum yfir undrun og vonbrigðum með að ekki sé tryggð fjármögnun á nýrri Vestmannaeyjaferju í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Bæjarráð vekur athygli á því að í frumvarpinu segir: „Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvernig háttað verður fjármögnun á nýrri Vestmannaeyjaferju en gert er ráð fyrir að það mál verði skoðað sérstaklega þegar fullnaðarhönnun liggur fyrir.“   Þetta segir bæjarráð orðhengilshátt, ekki boðlegan samfélagi sem beðið hefur milli vonar og ótta vegna ótryggra samgangna í fjögur ár. Krafa Vestmannaeyjabæjar sé að tafarlaust verði tryggð fjármögnun á nýrri Vestmannaeyjaferju í fjárlögum fyrir komandi ár.   Bæjarstjóra var falið að boða til fundar með þingmönnum Suðurkjördæmis næsta mánudag og krefst svara frá vegamálastjóra hvort að það fjármagn, sem ætlað er í rekstur Landeyjahafnar, dugi til að veita þá þjónustu sem þörf er á allan ársins hring. Til dýpkunar, reksturs mannvirkja og áframhaldandi þróunar og rannsókna til að vinna höfnina út úr þeim vanda sem glímt hefur verið við frá opnun hennar.   Bæjarráð vill líka skýr og tafarlaus svör frá samgönguyfirvöldum um það hvernig samgöngum við Vestmannaeyjar verður háttað þegar til þess kemur að Herjólfur tekur upp siglingar í Þorlákshöfn. Í því samhengi er minnt á þá kröfu að Landeyjahöfn verði áfram nýtt af öðrum sæförum með heimild til þjónustu á siglingaleiðinni milli lands og Eyja. „Ég hef þegar óskað eftir því að þingmenn komi hingað til fundar við okkur 22. september og á ekki von á öðru en það verði auðsótt,“ sagði Elliði. „Ég hef einnig sent vegamálastjóra fyrirspurn um hvað skert framlög merkja og hvort það leiði til þjónustuskerðingar. Bæjarstjórn mun fylgja þessu máli eftir eins og henni er frekast unnt. Við gerum einnig ráð fyrir því að þingmenn okkar geri slíkt hið sama.“   >> Nánar í Eyjafréttum

Mikið um að vera í Höllinni og á Háaloftinu um helgina

Hunang í Höllinni á laugardagskvöld. Það er svo sannarlega að færast aukið líf í Höllina okkar þessa dagana, eftir gott sumarfrí. Fyrsti dansleikurinn síðan í byrjun sumars er á laugardagskvöldið og þá koma í heimsókn strákarnir í hljómsveitinni Hunang, með Kalla Örvars úr Stuðkompaníinu í broddi fylkingar. Þetta eru algjörir stuðpinnar og hafa svo gaman af því að skemmta fólki að það er nánast lögreglumál. Húsið opnar á miðnætti. Frést hefur að stórir árgangshópar séu að hittast um helgina og er þeim boðinn sérstakur hópafsláttur í Höllina. Þeir sem hafa áhuga á að nýta sér það er bent á að hafa samband við Dadda í síma 896-6818 eða með skilaboðum á Facebook.     Enski boltinn rúllar af stað á Háaloftinu . Þegar hausta tekur fer fiðringur um margan manninn og jafnvel konuna. Ástæðan, jú, enski boltinn byrjar að rúlla. Nú eftir landsleikjahlé er rétt að setja alvöru kraft í verkefnið og því mun Háaloftið sýna fjóra leiki um helgina. Við byrjum á stórleik Arsenal og meistara Manchester City, kl. 11.45 á morgun laugardag, húsið opnar kl. 11.30. Þá sýnum við leik toppliðanna Chelsea og Swansea kl. 14.00, þar sem Gylfi Sigurðsson fer vonandi á kostum og endum daginn á leik Liverpool og Aston Villa, kl. 16.30. Á sunnudag sýnum við svo leik Manchester United og QPR, kl. 15.00. Húsið opnar kl. 14.45. Við ætlum að vera með kaldan á krana á aðeins 600,- kr. í vetur og koma þannig til móts við okkar dyggustu viðskiptavini í boltanum.   Svo er um að gera að fylgjast með bæði Höllinni og Háaloftinu á Facebook og endilega að vera dugleg að koma með tillögur og athugasemdir um allt sem við getum gert betur. Hlökkum til samstarfsins við Eyjamenn í vetur.     Eyjakveðja Starfsfólk Hallarinnar og Háaloftsins  

Styrkurinn liggur í reglulegri guðsþjónustu

Reglulegt helgihald er gott fyrir sálina. Gunnar Nelson segir að styrkurinn liggi í rútínunni. Við erum sammála því að það er styrkur okkar í trúnni að sækja reglulega helgihaldið í kirkjunni okkar. Sunnudagurinn 14. september er dæmi um reglulega góða guðsþjónustu. Barnaguðsþjónustan er kl. 11 og eftir hádegi er guðsþjónusta kl. 14. Það verður lögð áhersla á góðan söng og tónlistarflutning. Fagmenn í hverju hlutverki. Gítaristarnir eru Gísli Stefánsson og Jarl Sigurgeirsson og oft koma fleiri tónlistarmenn í barnaguðsþjónustuna og allt uppí fullskipað Sunday School Party Band. Kitty Kovács, organistinn í Landakirkju, og Kór Landakirkju leggja alúð við æfingarnar og syngja núna sálma úr nýjustu sálmabókinni sem kom út 2013. Þar eru mörg falleg ný lög og ætlum við að heyra hvernig þau gera messuna að innihaldsríkari en áður í bland við gamla góða sálma.   Það er einnig rétt að vekja athygli á því að fermingarbörnin eru heldur betur að setja mark sitt á helgihaldið í vetur með brúðuleikriti í barnaguðsþjónustunni og upplestri úr Heilagri Ritningu í reglulegu guðsþjónustunni. Það er að byrja einmitt núna á sunnudag.   Verum öll vakandi yfir því að mesta gleðin í guðsþjónustu hvers sunnudags er þegar fjölgar í kirkjunni. Og það eru gömul sannindi að hver og einn getur hæglega fjölgað um einn með því einu að mæta til leiks og vera kannski bara fulltrúi fyrir heimili sitt eða fjölskyldu eða vini og njóta þess sem hefur verið undirbúið vel og byggir sannarlega upp.    

Stefnir í metþátttöku og gott hlaupaveður

Fjórða Vestmannaeyjahlaupið fer fram á morgun og stefnir í metþátttöku og útlit er fyrir gott hlaupaveður. Að venju verður boðið upp á þrjár vegalengdir, fimm, tíu og 21 kílómeter eða hálfmaraþon. Ræst verður við Íþróttamiðstöðina klukkan 12.00.   „Það eru yfir 50 búnir að skrá sig núna sem er meira en á sama tíma í fyrra,“ sagði Magnús Bragason einn af forsprökkum Vestmannaeyjahlaupsins þegar rætt var við hann fyrir skömmu. „Við vonumst eftir að fá yfir 100 keppendur og gott væri ef fólk væri búið að skrá sig fyrir klukkan 18.00 í dag. Það léttir undir með okkur. Það verður að venju ræst klukkan 12.00 en upphitun hefst hálftíma fyrr. Fólk uppi á landi sem ætlar að taka þátt í hlaupinu getur haft samband í síma 897-1110 og þá útvegum við miða í Herjólf á 2000 krónur fram og til baka,“ sagði Magnús sem hvetur fólk til að mæta. Bendir hann líka að gaman er að fylgjast með hlaupurunum.   Kári Steinn með frá upphafi Vestmannaeyjahlaupið er að ná að festa sig í sessi þó það hafi aðeins farið fram þrisvar sinnum. Einn okkar mesti afreksmaður í langhlaupi, Kári Steinn Karlsson, hefur verið með frá upphafi og er búinn að skrá sig í hlaupið.   Kári Steinn er okkar skærasta stjarna í langhlaupum í dag, setti Íslandsmet í maraþoni í Berlín í september 2011 og varð 42. á Olympíuleikunum í London 2012 þar sem keppendur voru 105. Hann kemur svo má segja beint af EM í Vestmannaeyjahlaupið. „Ég hef ýmist hlaupið hálft maraþon eða tíu kílómetra í Vestmannaeyjahlaupinu sem mér finnst rosalega skemmtilegt. Þetta er þrælerfitt en það er gaman að hlaupa í svona fallegu landslagi og er eins og allur bærinn taki þátt í þessu með okkur,“ segir Kári Steinn við Eyjafréttir í sumar. Hann bendir þeim á sem ekki hafa áður tekið þátt í hlaupinu áður að fara rólega af stað. „Það eru erfiðar brekkur í byrjun og þá er hætta á að sprengja sig. Er betra að spara sig og taka meira á í lokin.“   Kári Steinn á ættir að rekja til Eyja, tengist Laufásættinni og og var hér á ættamóti í fyrra. „Það er alltaf jafngaman að koma til Eyja og ég hlakka til að mæta í hlaupið í september.“   Kári Steinn er fæddur 1986 og á því framtíðina fyrir sér og tekur hann undir það. „Langhlauparar eru að bæta sig alveg fram að fertugu, það er eins og þeir byggi upp styrkinn með aldrinum. Ég gæti því átt eitthvað inni, er ekki nema 28 ára,“ sagði Kári Steinn að endingu.

Kjaradeila á Herjólfi á ekki að hafa áhrif

Herjólfur fer í slipp í Svíþjóð í næstu viku og gæti orðið frá allt fram að mánaðamótum. Ýmsar breytingar verða gerðar á skipinu sem eiga að bæta getu þess til siglinga í Landeyjahöfn auk ýmissa lag­færinga og venjulegs viðhalds. Breiðafjarðarferjan Baldur leysir Herjólf af.     Herjólfur siglir samkvæmt áætlun á sunnudaginn en á mánudagsmorguninn tekur Baldur við. „Já, það er rétt að Baldur leysir Herjólf af á meðan hann er í slipp,“ sagði Pétur Ágústsson, framkvæmdastjóri Sæferða í Stykkishólmi sem eiga og reka Baldur. „Við erum með samning til næstu mánaðamóta eða þann tíma sem áætlað er að slippurinn taki.“   Þann 15. september falla úr gildi lög sem sett voru á deilu undirmanna á Herjólfi og Eimskips. Pétur á ekki von á að það hafi áhrif á siglingar Baldurs. „Ég hef ekkert hugsað út í það og sé ekki ástæðu til að svo verði. Þetta er annað skip og önnur útgerð þannig að ég á ekki von á þessar deilur hafi nokkur áhrif á okkur,“ sagði Pétur en staðan hjá þeim er snúin.   „Það eru ekki allir kátir hérna fyrir vestan því skipið, sem átti að leysa Baldur af og átti að koma í júlí, er enn fast út í Noregi. Við teljum það uppfylla allar kröfur um siglingar á þessu svæði en þeir sem túlka reglugerðir á Íslandi eru á öðru máli. Á meðan er allt fast.“ Baldur hefur áður hlaupið í skarðið fyrir Herjólf og þjónað Eyjamönnum vel.

Fjölga á Akureyri en fækka í Eyjum

Vinnumálastofnun hefur ákveðið að loka útibúum sínum í Vestmannaeyjum, Sauðárkróki og á Húsavík. Starfsmönnum í Vestmannaeyjum og Húsavík hefur verið sagt upp frá 1. september og verður skrifstofunum lokað 1. desember næstkomandi. Enginn starfsmaður hefur verið á Sauðárkróki á þessu ári. Þetta er enn eitt opinbera starfið sem hverfur frá Vestmannaeyjum.   „Ég er auðvitað mjög ósáttur við þessa ákvörðun og hef þegar rætt þetta við nokkra af þingmönnum kjördæmisins,“ sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri. „Þjónusta Vinnumálastofnunar er auðvitað afar mikilvæg hér í Eyjum eins og víðar. Þessi þjónustustofnun heldur m.a. utan um skráð atvinnuleysi hér í Eyjum og vinnur að úrræðum fyrir atvinnulausa. Ég er líka mjög undrandi á því að á sama tíma og stjórnvöld slá sér á brjóst vegna flutnings Fiskistofu til Akureyrar til að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni, þá skuli sömu stjórnvöld vinna markvisst að því að leggja niður opinber störf og þjónustu hér í Eyjum. Ætli þetta merki ekki að í þessari viku verði tvö opinber störf flutt frá Eyjum því nú styttist í að ráðinn verði nýr framkvæmdastjóri yfir Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja. Þetta er skrýtin stjórnsýsla svo ekki sé meira sagt og kallar á harða gagnrýni og svör. Mín næstu skref í þessu máli er að vísa þessu til um-fjöllunar í bæjarráði og vinna síðan eftir ákvörðunum þess.“  

Gleðilegt nýtt ár...

...eða réttara sagt, fiskveiðiár, sem hófst 1. sept. og margt og mikið búið að gerast á þessu fiskveiðiári hjá mér, en mér hefði ekki órað fyrir því fyrir ári síðan, að ég yrði kominn með nýjan og stærri bát. Árið er hins vegar búið að vera ágætt, en mér sýnist að á báðum bátunum hafi ég náð ca. 245 tonn upp úr sjó, sem gerir ný afstaðið fiskveiðaár næst besta ár hjá mér, en metið er 260 tonn, en seinna í haust byrja ég 28. árið mitt í trilluútgerð. Það er flestum trillukörlum nokkuð ljóst að þetta fiskveiðiár verður mjög erfitt. Loforð Hafró um auknar aflaheimildir í þorski gengu ekki eftir. Það, ásamt gríðarlegum niðurskurði í tegundum eins og ýsu og keilu og öðrum breytingum eins og t.d. sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leyfa smærri útgerðum sem sterkari eru í ufsa, að skipta ufsa út fyrir ýsu úr aflamarkskerfinu, gerir að mínu mati augljóslega það að verkum, að handfæraveiðar smábáta á sumrin verða að mestu úr sögunni, nema þá hjá þeim sem eru í þessum svokölluðu strandveiðum. Að mínu mati voru engin rök fyrir því að skerða hvorki ýsu né keilu, eina breytingin sem orðið hefur á síðustu árum,er að þessar tegundir hafa fært sig meira upp á grunninn og mælast því ekki í togararalli Hafró, en það má þó segja með keiluna að vandamálið þar sé flóknara, enda var úthlutun keilukvótans á sínum tíma byggð á röngum forsendum, og að mínu mati hefði þessi tegund aldrei átt að fara í kvóta. Nýja fiskveiði árið verður því erfitt, en eins og venjulega mun ég að sjálfsögðu halda mínu striki. Varðandi kvótakerfið sjálft, þá er afstaða mín til þess óbreytt, ég tel einfaldlega að það sé hreinlega ekki til verra kvótakerfi heldur en þetta sem við búum við í dag, en á móti kemur að ef því yrði einhvertímann breytt, þá er það að sjálfsögðu ekki sama hvernig því yrði breytt, en það er sorgleg staðreynd að á Alþingi Íslendinga er í dag enginn starfandi stjórnmálaflokkur sem hefur áhuga á að breyta þessu kerfi, heldur aðeins áhuga á því hversu mikið er hægt að skattleggja kerfið. Ég hitti að máli um daginn fyrrum stór útgerðarmann sem er búinn að selja allan kvótann og fá allt borgað, mann sem hefur í gegnum árin varið kvótakerfið með kjafti og klóm, en ég spurði hann hvað honum þætti nú um kvótakerfið og svarið kom mér ekki á óvart: "Ég hef aldrei verið hrifinn af þessu kvótakerfi." Sorglegast er þó þær fréttir að þeir stærstu séu orðnir það stórir í dag, að sjómenn sem kannski eru komnir af besta aldri og í sumum tilvikum kannski farnir að þurfa að vera frá vinnu vegna veikinda í lengri eða skemmri tíma, eru farnir að fá uppsagnarbréf án nokkurra skýringa og því er orðið fleygt meðal sjómanna að það að koma umborð í sum af nýjustu skipunum, sé eins og að koma á ættarmót hjá sumum toppunum og jafnvel þaulvanir sjómenn látnir víkja fyrir óreyndum sjómönnum vegna ættartengsla. Afskaplega dapurt allt saman, en samt um leið skýrir þetta að minnsta kosti að hluta til ástæðuna fyrir því, að ég hef valið að róa á eigin bát sem leiguliði, sem er nú ekkert grín, en þessi þróun er eitthvað sem ég hef alltaf séð fyrir, eða eins og ég hef sagt svo oft í greinum mínum um sjávarútveginn: Lengi getur vont versnað. Óska öllum sjómönnum og útgerðarmönnum gleðilegt nýtt fiskveiðiár.  

Íþróttir >>

Misstu aftur niður tveggja marka forskot gegn KR

Í annað sinn í sumar missti ÍBV niður tveggja marka forskot gegn KR.  Fyrr í sumar, þegar liðin áttust við í Eyjum komst ÍBV í 2:0 en tapaði svo 2:3.  Nú tókst þó betur til því Eyjamenn byrjuðu mjög vel í leiknum, komust í 0:1 en KR jafnaði undir lok fyrri hálfleiks. Jonathan Glenn skoraði annað mark sitt í leiknum þegar hann kom ÍBV aftur yfir en markið var eitt af glæsilegustu mörkum sumarsins, bakfallsspyrna sem þandi netmöskvana.  Gunnar Þorsteinsson kom ÍBV svo í 1:3 en KR-ingar pressuðu Eyjamenn stíft síðasta stundarfjórðung leiksins.  Þeir uppskáru laun erfiðisins með tveimur mörkum og lokatölur því 3:3.   Þetta þýðir að ÍBV er enn í fallhættu en liðið er fjórum stigum á undan Fram, sem er í fallsæti þegar tvær umferðir eru eftir.  Sigur í dag hefði svo gott sem tryggt sæti ÍBV.  Staða neðstu liða er þannig að Þór er í neðsta sæti og er fallið.  Þór er með 9 stig, Fram í næstneðsta sæti með 18, Keflavík og Fjölnir eru næst með 19 stig, ÍBV 22 stig og Breiðablik með 24.  Blikar eru svo gott sem búnir að tryggja sæti sitt í deildinni en Fram getur aðeins jafnað þá að stigum.  Þess má geta að Fjölnir á leik inni gegn Stjörnunni en leik liðanna var frestað í dag.   Næsti leikur ÍBV er gegn Keflavík og ljóst að allt verður lagt í sölurnar til að ná í þrjú stig í þeim leik.  Bæði lið þurfa á þeim að halda til að gulltryggja úrvalsdeildarsætið en leikurinn fer fram á Hásteinsvelli sunnudaginn 28. september og er það jafnframt síðasti heimaleikur ÍBV á þessu tímabili.

Stjórnmál >>

Fyrsti fundur bæjarstjórnar í dag

Bæjarstjórn Vestmannaeyja kemur saman í dag í fyrsta sinn á nýju kjörtímabili.  Niðurstaða bæjarstjórnarkosninganna í vor, voru á þann veg að Sjálfstæðisflokkur fékk fimm bæjarfulltrúa en Eyjalistinn tvo.  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn eru Elliði Vignisson, Páley Borgþórsdóttir, Páll Marvin Jónsson, Trausti Hjaltason og Birna Þórsdóttir en fulltrúar Eyjalistans eru Jórunn Einarsdóttir og Stefán Óskar Jónasson.  Elliði, Páley, Páll Marvin og Jórunn sátu öll í bæjarstjórn á síðasta kjörtímabili.  Stefán Óskar hefur áður verið í bæjarstjórn og var varamaður á síðasta kjörtímabili en þau Trausti og Birna eru ný.  Bæjarstjórnarfundurinn fer fram í Eldheimum og hefst klukkan 18:00.   „Þegar ég kom inn í bæjarstjórn 2002 voru útsvarstekjur á hvern íbúa á verðlagi þess árs rétt liðlega 200.000 krónur en á síðasta ári voru þær hátt í 475.000 krónur,“ sagði Stefán í samtali við Eyjafréttir, sem kom út í gær.   „Staðan í dag opnar á tækifæri að gera meira fyrir bæjarbúa og bæjarfélagið í heild. Ég er ekki að mæla með óráðsíu í fjármálum en það má gera betur á ýmsum sviðum. Auðvitað veltur þetta mikið á á sjávarútvegi og afkomu atvinnulífsins almennt. Á kjörtímabilinu 2002 og 2006 vorum við, ég og núverandi bæjarstjóri, Elliði Vignisson, að skoða þann möguleika á að rífa blokkina Áshamar 75 ef það gæti létt á skuldum bæjarins. Engum dettur það í hug í dag en sterkari innviðir bæjarfélagsins eru líka verðmæti,“ sagði Stefán.   Viðtalið má lesa í heild sinni í Eyjafréttum.  

Greinar >>

Gerum okkar besta!

Nú er komið að því, lestrarátak er í öllum árgöngum GRV. Á skólasetningunni nú í haust minnti Sigurlás Þorleifsson skólastjóri GRV á mikilvægi lesturs og sagði hann að mikil áhersla yrði lögð á lestur í GRV. Allir nemendur skólans eiga að lesa heima daglega í 15-20 mínútur. Yngstu nemendurnir eiga að lesa upphátt en aðrir eiga að lesa hluta upphátt og hluta í hljóði. Nemendur á unglingastigi eiga auk heimalesturs í 15 mínútur að lesa eina blaðsíðu, eina frétt eða eina veffrétt upphátt fyrir einhvern fullorðinn sem á að kvitta fyrir. Í skólanum er einnig stundaður yndislestur í byrjun skóladags, þá lesa nemendur í 15-20 mínútur. Þetta er allt liður í því að gera börnin okkar hæfari í lífinu og námi almennt því eins og við vitum öll þá er lestur undirstaða alls náms.   Sumum kanna að finnast það hallærislegt að láta stálpaða krakka lesa upphátt, einhverjum kann að finnast það vandræðalegt og enn öðrum finnst það óþarfi þegar krakkinn er þegar orðinn læs. En það að vera vel læs krefst þjálfunar. Nemandi sem telst læs í t.d. 3. eða 5. bekk missir lestarhæfileika sína niður sé þeim ekki haldið við. Lesefnið þyngist, námsefnið þyngist og þeir sem ekki viðhalda og þjálfa lestrarhæfileika sína heltast úr lestinni, finna vanmátt sinn og gefast stundum upp. Hversu hallærislegt er það að vera orðinn „læs“ í t.d. 5. bekk en geta svo ekki lesið námsefnið svo vel sé í framhaldsskóla?   Því miður er það svo að við eigum það til að slaka á þegar börnin okkar eru orðin „læs“ en einmitt þá eigum við að gefa í. Benda á áhugaverðar greinar, áhugaverðar bækur, uppskriftir og blöð svo eitthvað sé nefnt. Hvetja til lesturs eins oft og við getum. Sýna áhuga með því að spyrja hvað sé verið að lesa t.d. hver sé aðalpersónan, hvað sé spennandi við bókina eða hvað sé gott við hana o.s.frv. og fá krakkana til að lesa upphátt fyrir okkur.   Í grein minni „Tökum Íslandsmeistarann á þetta“ í vor spurði ég hvort að við, samfélagið Vestmannaeyjar, ættum að taka Íslandsmeistarann á samræmdu prófin, hafa umgjörðina þannig að við gætum öll fundið í hjarta okkar að við gerðum okkar besta. Setja upp gott leikskipulag og sjá til þess að allir mæti vel undirbúnir til leiks. Sýna stuðning og hvetja nemendur áfram, fylla þá eldmóð og hjálpa þeim að vera sáttir við sjálfa sig og samfélag sitt og finni í hjarta sínu að leik loknum að þeir hafi gert sitt besta. Það erum við samfélagið Vestmannaeyjar sannarlega að gera. Við í GRV finnum vel fyrir meðbyrnum í samfélaginu frá foreldrum, nemendum og í raun allstaðar frá. Skilaboðin eru skýr, okkur er alvara, við ætlum að gera okkar besta.   Takk fyrir stuðninginn, Ásdís Steinunn