Vestmannaeyjar vinna lestrarlandsleikinn

Lestrarlandsleiknum Allirlesa.is lauk um miðnætti í gær, sunnudaginn 16. nóvember á degi íslenskrar tungu. Keppnin hefur staðið yfir óslitið frá 17. október og fór þannig fram að þátttakendur sem skráðu sig fyrir upphaf keppninnar stofnuðu lið og kepptu innbyrðis í að lesa og skráðu sjálfir lesnar blaðsíður. Þá var jafnframt haldið utan um lesturinn eftir búsetu. Skemmst er frá því að segja að Vestmannaeyja urðu hlutskarpastir þéttbýliskjarna, Hveragerði varð í öðru sæti og Sveitarfélagið Ölfuss hlaut þriðja sætið. Vestmannaeyjar eru því réttnefndur bókabær Íslands. Þátttakendur skiptust í lið eftir því hvort um var að ræða vinnustað, skóla eða annað sem kallað var opinn flokkur. Eyjafréttir ræddu stuttlega við Kára Bjarnason, forstöðumann Safnahússins sem jafnframt er forstöðumaður bókasafnsins en lið hans, Vonarpeningur varð í öðru sæti í flokknum vinnustaður. „Vonarpeningur er sá hrjáði fénaður sem látinn er út á Guð og gaddinn“, sagði Kári. „En gegn líkum uxum við fram en koðnuðum ekki niður.“ Kári bætti því við að hann teldi að meginástæðan fyrir sigri Vestmanneyja í lestrarkeppninni hefði verið kapp Grunnskóla Vestmannaeyja. Á vegum Vestmannaeyjabæjar hefur verið unnið að því að móta stefnu um stóraukna áherslu á læsi og stærðfræði. „Við eigum í samstarfi við Grunnskólann hér á bókasafninu og af þeim sökum þekki ég það mjög vel hversu myndarlega skólinn hefur brugðist við áskorun bæjaryfirvalda að því er tekur til átaks um læsi. Þá þekki ég einnig til að Ráðhúsið hér var með fjölmenna og þaullæsa sveit og því hafa margir komið að sigrinum enda þótt krafturinn í Grunnskólanum hafi skilað okkur lengst enda þótt Safnahúsið hafi e.t.v. náð bestu árangri einstakra sveita.“ Þá bætti Kári við að lokum að sem forstöðumanni bókasafnsins hér þætti honum sérstaklega vænt um að sjá Vestmannaeyjar vinna lestrarkeppnina á landsvísu.  

Að gefnu tilefni: Um Landeyjahöfn og hugsanlega leigu á notaðri ferju

Mig langar að byrja á því að þakka Guðmundi Þ.B. fyrir skrif hans um samgöngumál okkar Eyjamanna, það er gríðarlega mikilvægt að sem flestir tjái sig og umræðan verði áfram opin, en snúist ekki um einhverja vafasama útreikninga hjá einhverjum meintum sérfræðingum. Ástæðan fyrir þessari grein minni núna eru fyrst og fremst fullyrðingar Sigurðar Áss um að staðsetning Landeyjahafnar, væri sú besta með allri suðurströndinni. Ég hef marg oft sagt það og skrifað, að miðað við þekkingu mína og reynslu eftir tæplega 30 ára sjómennsku hér við Eyjar, þá sé einmitt staðsetning Landeyjahafnar sennilega eitt stærsta klúðrið í öllu ferlinu, og í raun og veru tel ég að það sé hreinlega ekki til verri staðsetning en einmitt þar sem höfnin er. En hver er þessi munur á skoðunum mínum og Sigurðar Ás? Á kynningarfundinum um Landeyjahöfn á sínum tíma, kom alveg skírt fram hjá Gísla Viggóssyni að stærsta ástæðan fyrir staðsetningu Landeyjahafnar, væri sú staðreynd að í Vestmannaeyjum væri ríkjandi vindátt suðvestan átt. Ef þetta væri rétt hjá Gísla, þá væri þetta hárrétt staðsetning á höfninni, en flest allir Eyjamenn vita það, að svo er ekki. Ríkjandi bræluátt er austan átt, eins og við sjáum undanfarna daga, sem gerir það að verkum að staðsetning hafnarinnar er eitt allsherjar klúður. Ég hef bent fólki á það að skoða það t.d. inni á belging.is hvar rokið kemur undan Eyjafjöllum, en um leið hvar lognið er aðeins vestar og norður úr Eyjum. Einnig er hægt að skoða þetta mjög vel í austan brælum inni á marinetraffic.com, en þá sést vel að nokkrum mílum vestar eru bátar á veiðum inni í fjöru í logni. Að mínu mati hefði höfnin miklu frekar átt að vera á þeim slóðum og með innsiglinguna í beinni línu frá Vestmannaeyjum og þannig með fast land í beinni línu frá innsiglingunni, sem hefur einmitt skipt svo miklu máli varðandi höfnina í Vestmannaeyjum sem og höfnina í Þorlákshöfn sem er með stefnu á Stokkseyri. Ef hins vegar er tekin bein lína út úr innsiglingunni í Landeyjahöfn, þá er næsta fasta land sennilega einhver staðar í Bandaríkjunum. Þess vegna verður að verja innsiglinguna fyrir grunn brotsjó og úthafs öldu. Mér líst ágætlega á teikninguna sem Halldór B. Nellett er með inni á eyjamiðlunum, þó að sjálfsögðu megi útfæra þetta á margan hátt. Aðeins um þessa grísku ferju sem Simmi á Víking hefur verið að sýna okkur myndir af inni á eyjamiðlunum. Þarna erum við að tala um gríðarlega mikla aukningu á flutningsgetu, bæði á bifreiðum og fólki, og ef skipið gengur að jafnaði 16,5 mílur, þá er það að fara aðeins hraðari en Herjólfur og miklu hraðari en hin nýja ferja á að ganga. Eini mínusinn sem ég sé í fljótu bragði er stefnið á ferjunni, sem mér finnst vera full flatt og breitt, en ég hefði þurft að sjá þetta skip sigla í slæmu veðri til þess að geta úttalað mig alveg um það, en að öðru leyti held ég að þarna sé komið fram tækifæri sem við ættum virkilega að skoða í alvöru.  

Ný framtíðarsýn í fræðslumálum

Fræðsluráð Vestmannaeyjabæjar samþykkti á fundi sínum í dag nýja framtíðarsýn í fræðslumálum.  „Í ljósi þess að árangur grunnskólabarna í GRV á samræmdum prófum hefur í mörg ár verið óásættanlegur er nauðsynlegt að bregðast við. Ráðið telur að miklir möguleikar liggi í núverandi skólaumhverfi og að leik- og grunnskólar Vestmannaeyja geti vel verið í flokki fremstu skóla á landinu hvað varðar kennslu og námsárangur í læsi og stærðfræði. Til þess að slíkt markmið náist þurfa áherslur skóla að vera betur skilgreindar með tilliti til markmiðssetningar og mælanleika og efla þarf aðkomu skólaskrifstofu í þeirri vinnu,“ segir í bókun ráðsins.   Þar er lagt til að farin verði sama leið og skólayfirvöld á Reykjanesi hafi farið.  Í þeirri framtíðarsýn er áhersla lögð á læsi og stærðfræði.  Markmiðið sé að skólar sveitarfélagsins verði í fremsta flokki.  „Hlutverk framtíðarsýnarinnar verður að skerpa á áherslum, stuðningi og aðhaldi í daglegu skólastarfi. Skerpt er á verklagi sem hefur áhrif á daglegt skólastarf.“   Árslurnar eru meðal annars þessar:   1) Áherslu á læsi og stærðfræði í leik- og grunnskólum. 2) Notkun skimunarprófa í lestri og stærðfræði. 3) Frammistöðumat. 4) Góða samvinnu heimilis og skóla. 5) Áherslu á að byggja á áreiðanlegum og gagnlegum aðferðum og mælitækjum í skólastarfi.   „Fræðsluráð telur skóla sveitarfélagsins hafa yfir að ráða hæfu og dugmiklu fagfólki, aðstöðu og búnaði til að ná settu markmiði. Ráðið telur mikilvægt að efla aðkomu skólaskrifstofu að þessari vinnu. Skólaskrifstofan hefur yfir að ráða sérfræðiþekkingu m.a. í formi kennsluráðgjafar, sérkennslu og námsráðgjafar. Mikilvægt er að samhæfa verklag og fylgja eftir sameiginlegri markmiðsetningu og mælanleika. Með hliðsjón af reynslu Reykjanesbæjar af innleiðingu á gæðastarfi telur ráðið mikilvægt að skólaskrifstofu verði falið aukið vægi í innleiðingu á gæðastarfi og samstarfi við skólana. Þess vegna samþykkir ráðið að fjármagn sem nemur 50% stöðu faglærðs ráðgjafa verði flutt af GRV yfir á skólaskrifstofu sem þar með mun einnig taka ábyrgð á aukinni stoðþjónustu svo sem innleiðingu á gæðastarfi sem og náms- og starfsráðgjöf,“ segir í fundargerð ráðsins.   Að lokum kemur fram að vinna sé þegar hafin við innleiðingu þessarar framtíðarsýnar í formi skimunar og námskeiðarhalds starfsmanna.

Bæjarstjóri vill opna Surtsey fyrir ferðamönnum

Í dag var ný sýning um Surtsey opnuð við hátíðlega athöfn í Eldheimum en sýningin er þar á efri hæð hússins.  Þar með hafa Eldheimar svo gott sem fengið endanlegt útlit með sögu gossins í Surtsey og Heimaeyjargossins tíu árum síðar en íbúum Vestmannaeyja og gestum þeirra býðst að skoða Eldheima endurgjaldslaust á morgun, laugardag og sunnudag.  Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra opnaði sýninguna með formlegum hætti en auk hans tóku til máls Elliði Vignisson, bæjarstjóri, Borgþór Magnússon, varaformaður Surtseyjarfélagsins og Kristín Linda Árnadóttir.  Elliði viðraði við þetta tækifæri þá hugmynd hvort ekki væri rétt að opna Surtsey fyrir litlum ferðamannahópum en Eyjan hefur verið lokuð almennri umferð síðustu 50 árin.   Sigurður Ingi sagði í ræðu sinni m.a. að sýningarnar í Eldheimum undirstriki tengslin milli eldsumbrotanna sem mynduðu Surtsey og í Heimaey.  „Í hugum okkar Íslendinga er Surtsey einstök, ekki síst þeirra sem fylgdust með Surtseyjargosinu, myndun eyjarinnar og þróun. Eftir gosið var Surtsey gerð að lokuðu nátturverndarsvæði, sem gerði vísindaheiminum mögulegt að fylgjast með hvernig nýtt líf og vistkerfi verður til.“ Hann bætti því einnig við að Surtsey væri nú á Heimsminjalista samnings Sameinuðu þjóðanna um verndun menningar og náttúruminja heimsins og forsenda þessa að eyjan verði áfram á listanum, væri m.a. að hún yrði áfram lokuð.  „Takmörkun á aðgangi skuldbindur okkur um leið til þess að gefa almenningi og ferðamönnum sem til Eyja koma greinagóðar upplýsingar og kynningu á þróun Surtseyjar og hvernig lífverur nema land og breiðast út um eyjuna. Vísindamenn hafa sett upp líkan um það hvernig eyjan og lífríkið muni þróast og það verður spennandi fyrir vísindamenn framtíðarinnar að fylgjast með þróuninni og sannreyna hvort þessar spár standist eða hvort þróunin verður með öðrum hætti.“   Auk ræðuhalda var boðið upp á nokkur tónlistaratriði, áður en Surtseyjarsýningin var formlega opnuð.   Stutt myndband frá Surtseyjarsýningunni fylgir fréttinni.

Hefur enginn annar rétt fyrir sér ef hann er annarrar skoðunar?

Samgöngustofa og Vegagerðin hafa svarað opnu bréfi mínu, á vefsíðu Eyjafrétta, varðandi Landeyjarhöfn, fyrirhugaða smíði á minna skipi og breytingar á Herjólfi, það er því sem þau svara. Kemur Samgöngustofu málið ekki við? Svar Samgöngustofu er að beina eigi því sem fram kemur í bréfi mínu, til Vegagerðarinnar þar sem Samgöngustofa fari með eftirlit með því að skip fullnægi öryggiskröfum. Satt best að segja hélt ég í mínum barnaskap að tillögur að breytingum á Herjólfi hafi miðað að því að auka öryggi skipsins og því Samgöngustofu að hafa skoðun á tillögum sérfræðinganna, um breytingar til að auka stjórnhæfni skipsins, við Landeyjarhöfn og ekki síst ef einhverjum af tillögum sérfræðinganna væru ekki framkvæmdar.   Vil ég ekki bæta samgöngur!!! Sigurður Áss Grétarsson sem svarar bréfinu fyrir hönd Vegagerðarinnar byrjar svarið á eftirfarandi hátt: „Í bréfi Guðmundar Þ.B. Ólafssonar sem birtist á vefsíðu Eyjafrétta sl. fimmtudag er því haldið fram að forgangsatriði sé að bæta Landeyjahöfn en ekki að bæta samgöngur til Vestmannaeyja.“ Það er ekkert annað. Mér eru gefnar upp skoðanir að með því að vilja klára Landeyjarhöfn vilji ég ekki bæta samgöngur við Vestmannaeyjar. Orðrétt sagði ég í bréfi mínu: „Margoft hef ég viðrað þá skoðun mína að forgangsatriðið væri að klára hafnargerð í Landeyjarhöfn. Í kjölfarið eigi að smíða nýtt skip sem tæki mið af flutningsþörf og þjónustu við okkar samfélag en ekki sníða skip að höfn sem ekki er flullkláður.“ Þetta er sem sagt túlkað að ég vilji ekki bæta samgöngur við Vestmannaeyjar. Ja! veikur er málstaðurinn.   Mestu samgöngubæturnar eru að klára höfnina Í mínum huga eru mestu samgöngubætur við Vestmannaeyjar fólgnar í því að klára þessa blessuðu Landeyjarhöfn, höfn sem Sigurður Áss telur að geti ekki orðið betri, hugmyndir um stærri höfn andvana fæddar og staðsetningin sé sú besta sem völ er á við suðurströnd Íslands. Ekki ætla ég að dæma neitt um staðsetninguna, en ég leyfi mér stórlega að efast um að hugmyndir um stærri höfn séu andvana fæddar. Ég hef fylgst mjög vel með þessum hafnarframkvæmdum, allt frá kynningu Sigurðar Áss og félaga í upphafi þegar var verið að „markaðssetja höfnina“ og fram til dagsins í dag. Á kynningarfundum var því haldið fram að með staðsetningu Landeyjarhafnar, nákvæmlega á þeim stað sem höfnin er nú, væru möguleikarnir fyrir þessa höfn nánast ótakmarkaðir og ef menn myndu vilja að þetta yrði stórskipahöfn þá væri ekkert því til fyrirstöðu að lengja hafnargarða eins og mönnum listi. Því miður virðast sömu aðilar hafa snúið við blaðinu, telja breytingum á höfninni allt til foráttu og hugmyndir um slíkt andvana fæddar. Þeir hafa gefist upp. Hefur enginn annar rétt fyrir sér ef hann er annarrar skoðunar? Ég er enginn sérfræðingur í hafnargerð og kemur það örugglega engum á óvart, en ég hlusta á hvað fólk hefur að segja og það þarf ekki að segja mér að allir aðrir, en Sigurður Áss Grétarsson og skoðanabræður hans, hafi vitlaust fyrir sér, sama hverjir þeir eru. Sem betur fer eru fjölmargir á annarri skoðun og því enn von um að höfnin verði kláruð. Spurningu ósvarað Ég spurði nokkurra spurninga í bréfi mínu varðandi tillögur sem sérfræðingar lögðu til að breytingum á Herjólfi svo hann ætti auðveldara með að sigla í Landeyjarhöfn, hverjar þær tillögur hefðu verið, hverjar framkvæmdar og hver hafi tekið ákvörðum um að sleppa breytingum hafi þeim verið sleppt. Fram kemur meðal annars í svari Sigurðar að tillögu um að setja skutskegg á Herjólf hafi verið látin bíða. Enn vantar svar við því hver tók þá ákvörðun og hver voru rökin? Þá væri einnig fróðlegt að upplýst verði: bíða með annað, þar til hvenær? Er enn ein frátöfin í vændum vegna verka sem ákveðið var að láta bíða?   Allt er hægt ef vilji er fyrir hendi Þó það tengist þessu máli ekki má hér í lokin geta þess til gamans að ýmislegt er nú hægt sem er þó flóknara en hafnargerð og menn gefast ekki upp. Rétt í þessu var verið að lenda fyrirbæri á við þvottavél á halastjörnu, en það er nú annað mál. Með vinsemd og kveðju. Guðmundur Þ. B. Ólafsson íbúi í Vestmannaeyjum.    

Til styrktar Kristni Frey Þórssyni og dætrum hans eftir missi eiginkonu og móður

Kristinn Freyr Þórsson var grunlaus um að konan hans væri við dauðans dyr þegar hún var lögð inn á Landspítalann í ágúst en nokkrum dögum síðar var hún öll og tvær dætur þeirra móðurlausar. Styrktartónleikar haldnir á sunnudaginn.   „Ég er sjómaður en hef verið frá vinnu utan heimilis síðan í febrúar. Dæturnar hafa þurft á mér að halda," segir Kristinn Freyr Þórsson sjómaður sem missti konu sína, Ólöfu Birnu Kristínardóttur, í byrjun september. Dæturnar, Kristín Helga og Ólöf Erla, eru þriggja og eins árs.   Ólöf Birna hafði hormónatengdan sjúkdóm sem fyrst varð vart þegar hún fór á pilluna, að sögn Kristin Freys. „Hún fór seint til læknis og var þá komin með æxli í brjósti og nára en með réttum lyfjum var hún nær laus við þau árið 2010," lýsir hann og heldur áfram: „Þegar hún varð ólétt fyrst varð hún að hætta á lyfjunum og æxlin komu aftur, læknarnir lögðu ekki í að taka þau, enda voru þau til friðs. Á meðgöngu yngri dótturinnar seig á ógæfuhliðina, æxlin stækkuðu og fjölguðu sér og áformað var að nema þau burtu, barnið var tekið sjö vikum fyrir tímann en læknar töldu skurðaðgerð of áhættusama. Þá fóru að myndast sár í húðinni með sýkingum og blæðingum. Samt var Ólöf ótrúlega kraftmikil og jákvæð. Það bjóst enginn við að þetta færi svona."   Bjartsýnin jókst í ágúst er læknarnir náðu að loka sárinu, að sögn Kristins Freys.  „Við skruppum þá á æskuslóðir Ólafar Birnu í Hrútafirðinum. 27. ágúst, daginn sem við komum til baka, hélt hún að hún væri með ælupest en konu frá Heimahlynningu leist ekki á blikuna og fór með hana upp á Kvennadeild. Daginn eftir var hún komin í öndunarvél og stuttu seinna var hún dáin. Það var rosalegt áfall."   Fram undan eru flutningar til Eyja hjá Kristni Frey og dætrum því þar er öll fjölskyldan hans. „Ég reikna með að fara á sjóinn aftur," segir hann. „Ef það gengur ekki upp fer ég að læra eitthvað annað."   Á sunnudaginn verða styrktartónleikar vegna þessarar litlu fjölskyldu í Guðríðarkirkju í Grafarholti, á vegum Kirkjukórs Lágafellssóknar. Þeir nefnast Jólaljós. Fjöldi mætra tónlistarmanna kemur þar fram og má nefna Ragga Bjarna, Bjarna Ara, Birgi Haraldsson rokkara og Kristínu R. Sigurðardóttur sópransöngkonu.  (Fréttablaðið greindi frá)

Svona lítur gríska ferjan út í dag

„Við vorum nokkrir Eyjamenn á ferðalagi í Grikklandi um daginn og datt í hug á að kíkja á ferjuna Achaeos sem siglir á milli grísku Eyjanna. Það var niðurstaða okkar að hún komi vel til greina fyrir Vestmannaeyjar. Tekur mun fleiri bíla og farþega en Herjólfur og komi í ljós hún að henti til siglinga í Landeyjahöfn yrðum við laus við þann tappa sem ég held að við sitjum uppi með ef ferjan sem nú er á teikniborðinu verður fyrir valinu,“ sagði Sigurmundur Gísli Einarsson, framkvæmdastjóri Viking Tours, ferðafrömuður í Vestmannaeyjum og áhugamaður um bættar samgöngur um Landeyjahöfn. „Ég hef verið að skoða þessa ferju í nokkurn tíma og kostar hún innan við tvo milljarða króna. Einnig er möguleiki á kaupleigu til tveggja ára sem gæti verið sá tími sem við þurfum til að kanna hvort hún hentar eða ekki. Hún er í virtu flokkunarfélagi og smíðuð samkvæmt Evrópustöðlum þannig að hún er klár til siglinga hér á milli.“ Achaeos tekur 170 bíla á tveimur þilförum og 1000 farþega og var smíðuð 2006. Ferjan er í heild 87 metra löng, 77 metrar við sjólínu, 16 metra breið og ristir 3,5 metra fullhlaðin. „Hún er nokkru lengri en Herjólfur sem er 70 metrar. Á móti kemur að hún er tvístefnungur og þarf ekki að snúa í höfn. Með fjórar skrúfur, tvær á hvorum enda sem snúa má 360 gráður. Það er því full stjórn á skipinu þó það fái á sig hliðarstraum eins og gerst hefur við Landeyjahöfn.“   Ferjan gæti verið komin í gagnið í vor Sigurmundur hefur kynnt ferjuna fyrir fjármála- og innanríkisráðuneyti sem bæði hafa beðið um frekari gögn. „Ég talaði við ráðuneytin í ágúst og það nýjasta er að allir þingmenn Suðurkjördæmis hafa beðið um fund með vegamálstjóra til að ræða við hann hvort Achaeos komi til greina sem nýr Herjólfur.“ Sigurmundur sagði að vissulega þurfi að gera breytingar á aðstöðu fyrir ferjuna bæði í Vestmannaeyjum og í Landeyjahöfn. „Það þarf að gera hvort sem er því samkvæmt spám er gert ráð fyrir á milli 700.000 og 800.000 farþegum milli lands og Eyja árið 2017,“ sagði Sigurmundur sem segir ekki til setunnar boðið. „Það þarf að vinna hratt og fá stjórnvöld í lið með okkur. Gangi allt eftir gæti ferjan verið komin í gagnið í vor. Í henni er fyrsta flokks aðstaða fyrir farþega og fljótlegt að lesta og losa. Verði hún leigð til tveggja ára er það ekki mikill kostnaður í heildardæminu. Heppnist tilraunin erum við komin með skip sem getur þjónað okkur næstu árin og mætt auknum ferðamannastraumi til Eyja. Þvert á það sem ég held að verði raunin með ferjuna sem nú er ætlunin að smíða.“ Í febrúar og mars sl. flutti Víkingur, farþegabátur Vikingtours, 2500 farþega í Landeyjahöfn. „Við erum að semja við ráðuneytið um að hefja siglingar á ný og byrjum við fljótlega,“ sagði Sigurmundur að endingu.   Smelltu hér til að sjá fleiri myndir.   Með fréttinni fylgir svo stutt myndband af ferjunni í siglingu.  

Margrét Eir og Páll Rósinkranz með tónleika á Háalofti:

Margrét Eir og Páll Rósinkranz munu koma fram á tónleikum á Háaloftinu á morgun, föstudag. Á tónleikunum taka þau lög af nýjum disk þeirra, If I needed you en á disknum eru þekkt amerísk þjóðlög sem þau, ásamt hljómsveitinni Thin Jim, hafa sett í nýjan búning.   Tónlistarunnendur þekkja vel til þeirra Margrétar Eirar og Páls Rósinkranz en bæði eiga þau að baki langan og farsælan feril í íslensku tónlistarlífi. Hljómsveitina Thin Jim skipa þeir Jökull Jörgensen, Andrés Þór Gunnlaugsson, Kjartan Guðnason og Davíð Sigurgeirsson. „Við hlökkum mikið til að koma til Eyja. Það er orðið nokkuð síðan ég kom að skemmta en ég kom reyndar til Eyja í sumar,“ sagði Margrét í samtali við Eyjafréttir. „Diskurinn okkar er að koma til landsins á fimmtudag og við munum taka hann með okkur til Eyja. Við munum auðvitað kynna hann, taka lögin sem á honum eru en laumum einnig öðrum lögum með.“ Hvernig tónlist er þetta? „Þetta eru amerísk þjóðlög og lög sem eru í þeim klassa, svona bluegrass country fílingur, svo ég sletti nú almennilega. Það eru tólf lög á diskinum en eitt lagið kemur tvisvar fyrir, annars vegar á ensku og svo íslensku. Jökull bassaleikari semur mikið af textum og hann hristi þetta fram úr erminni.“ Margrét segir að hún og Páll hafi reglulega komið fram en ekki unnið eins mikið saman og nú. „Við höfum gengið með þessa hugmynd bæði í nokkur ár en það var ekki fyrr en í sumar sem við létum verða að því að koma saman og taka upp. Við höfum verið að kynna nýja diskinn, erum búin að halda þrenna tónleika en alls munum við halda sex tónleika. Svo hlakka ég líka mikið til að kynnast nýja staðnum, Háaloftinu því þangað hef ég ekki komið áður,“ sagði Margrét Eir að lokum.    

Engum starfsmanni verið sagt upp en breytingar munu verða hjá einhverjum starfsmönnum

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands ritar grein á vef Vestmannaeyjaútibúsins, þar sem hún kynnir þau verkefni sem yfirstjórnin vinnur nú að í sameiginlegri stofnun. Hún segir m.a. að Smári skurðlæknir verði framvegis í 25% starfi á sjúkrahúsinu, vinni fjórðu hverja viku. Þá segir hún að á nýju ári muni skýrast hvaða þjónusta verði veitt í hverju útibúa Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.Grein hennar er svohljóðandi:   Framkvæmdastjórn og starfsmannamál  Vegna sameiningar stofnanna verður ekki hjá því komist að leggja niður starf framkvæmdastjóra hjúkrunar og lækninga hjá fyrrverandi stofnunum og voru störf framkvæmdastjóra hjúkrunar og lækninga hinnar nýju sameinuðu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands auglýst nú um síðustu helgi laus til umsóknar. Engum starfsmanni og þar með talið stjórnendum hefur verið sagt upp störfum en ljóst er að breytingar munu verða á störfum og hlutverki einhverra starfsmanna. Verið er að vinna í nýju skipuriti fyrir stofnunina og fyrstu drög að skipuriti munu liggja fyrir í næstu viku. Kynnt verður nýtt skipurit fyrir starfsfólki í desember. Jafnframt styttist í að nýtt logo verði valið fyrir Heilbrigðisstofnun Suðurlands.   Eins og áður hefur komið fram á opinberum vettvangi þá hefur sólarhringsvakt og bráðavakt skurðlæknis, svæfingalæknis og skurðhjúkrunarfræðings ekki verðið starfrækt í Vestmanneyjum í rúmt ár vegna fjárskorts. Skurðlæknir og skurðhjúkrunarfræðingur hafa starfað við stofnunina í dagvinnu og sinnt speglunum og minni aðgerðum sem ekki krefjast svæfinga. Skurðlæknir í Vestmannaeyjum hefur verið í 100% stöðugildi en hann hefur nú óskað eftir að fara niður í 25% starfshlutfall og mun því á næstu mánuðum vera við störf fjórðu hverja viku. Hefur verið ákveðið að verða við þessari ósk án þess að það feli í sér að ákvörðun hafi verið tekin um að minnka stöðugildi skurðlæknis sem slíkt. Starfsmannamál og mönnunarþörf á stofnuninni í heild sinni er í endurskoðun og mun taka hliðsjón af þeirri þjónustustýringu sem ný framkvæmdastjórn mun leggja áherslu fyrir nýja stofnun.     Hvað verður um þjónustuna?  Nú fram til áramóta verður aðaláhersla lögð á að ljúka þeim verkefnum sem snúa að sameiningu á rekstri og stjórnskipulagi stofnunarinnar. Á nýju ári mun skýrast hvaða þjónusta verður veitt á hvaða starfstöð og mun ekkert breytast í þeim efnum nú fyrst um sinn. Markmiðið er að efla þjónustuna og auka samhæfingu og samfellu í þjónustu til lengri tíma. Á nýrri stofnun munu skapast fjölmörg tækifæri við að efla þjónustu fyrir stærstu sjúklingahópana á Suðurlandi. Sú nýjung verður í þjónustunni á Selfossi að opnuð verður í byrjun desember göngudeild á Selfossi með áherslu á þjónustu og meðferð fyrir nýrna- og krabbameinssjúklinga. Áfram verður lögð áhersla á að sinna grunnheilbrigðisþjónustu ásamt sérhæfðri þjónustu eins og viðeigandi er á hverjum stað. Meðal þeirra möguleika sem verið er að skoða er hvort hægt sé fá aðra skurðlækna og með önnur sérsvið, s.s. kvensjúkdómalækningar, geðlækningar, sérhæfðar lyflækningar og barnalækningar til að sinna reglulegri þjónustu á starfstöðvum stofnunarinnar, t.d. í Vestmannaeyjum. Áætlanir um slíka þjónustu verða kynntar á fyrri hluta árs 2015. Forstjóri leggur áherslu á að koma öllum upplýsingum um þjónustu jafnóðum til íbúa á öllu svæðinu og óskar eftir öflugu samstarfi við alla hagsmunaaðila.    

Metnaðarleysi í byggðamálum er sláandi

 Aðalfundur kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi haldinn 8. nóvember 2014 í Sveitarfélaginu Garði mótmælir harðlega forgangsröðun í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar hægri flokkanna þar sem gengið er harkalega á hlut hinna efnaminni og forgangsraðað í þágu þeirra efnameiri.Metnaðarleysi í byggðamálum er sláandi og niðurskurður í mikilvægum málaflokkum veikir byggðir í Suðurkjördæmi eins og annars staðar á landinu.Kjördæmisráðið fordæmir þá aðför sem nú stendur yfir gegn framhaldsskólum landsins með því að meina fólki 25 ára og eldri aðgangi að bóknámi. Þær hugmyndir eru forkastanlegar og munu hafa uppsagnir starfsfólks í för með sér en einnig fátæklegra námsframboð víða um land. Verst verða smærri skólar á landsbyggðinni úti og þau byggðalög sem treyst hafa á framhaldsskólana til að mæta menntunarþörf íbúa. Fullorðnum nemendum er bent á mun dýrara námsframboð símenntunarstöðva og einkaskóla en þær námsleiðir fá hins vegar ekki fjármagn til að taka við fleiri nemendum.Kjördæmisráð skorar á stjórnvöld að lækka beina greiðsluþátttöku einstaklinga í heilbrigðiskerfinu sem hækkað hefur mikið á árinu. Sá kostnaður eykur misskiptingu í landinu og hefur áhrif á hvort fólk leiti sér lækninga, kaupi nauðsynleg lyf eða hjálpartæki. Heilbrigðiskerfið á að fjármagna úr sameiginlegum sjóðum og tryggja þarf að allir hafi jafnan aðgang að bestu fáanlegri heilbrigðisþjónustu. Til þess þarf m.a. að hefjast nú þegar handa við byggingu á nýjum Landspítala.Einnig er skorað á stjórnvöld að undirbúa átak í byggingu hjúkrunarrýma aldraðra, til að mæta brýnni og vaxandi þörf fyrir fleiri rými á komandi árum.Með styttingu þess tíma sem heimilar greiðslu atvinnuleysisbóta, niðurskurðar á fjármagni til starfsendurhæfingar og framlags til að jafna örorkubyrði lífeyrissjóða er ráðist að kjörum þeirra sem einna veikast standa. Fólk sem glímt hefur við langtímaatvinnuleysi eða býr við örorku verður verst úti. Sveitarfélög bera mikinn kostnað vegna þessara aðgerða stjórnvalda og lífeyrissjóðir knúnir til að skerða réttindi. Við slíkt verður ekki unað.Til að bíta höfuðið af skömminni ætlar ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðismanna að hækka verð á nauðsynjavörum með hækkun virðisaukaskatts á matvæli og orku sem rýra enn kjör þeirra sem minnst hafa handa á milli. Svokallaðar mótvægisaðgerðir duga alls ekki til að vega upp á móti kjaraskerðingu matarskattsins.Kjördæmisráðið skorar á stjórnarflokkana að ljúka viðræðum við aðild að Evrópusambandinu og leggja fullgerðan samning í dóm þjóðarinnar. Möguleg aðild að sambandinu með upptöku evru í fyllingu tímans er án efa mesta hagsmunamál þjóðarinnar um áratugaskeið og vítavert að loka greiðustu leiðinni út úr vítahring hárra vaxta og verðtryggingar án þess að ljúka viðræðunum og gefa þjóðinni kost á að kjósa um hann.Til að undirstrika getuleysi stjórnarflokkanna gagnvart verkefninu má benda á sögulegar vanefndir þeirra í skuldamálum og þeirri staðreynd að rúmu ári eftir að hægri flokkarnir tóku við völdum hefur Íbúðalánasjóður hætt við að bjóða upp á óverðtryggð lán. Lýðskrum Framsóknarflokksins um afnám verðtryggingar og lækkun skulda upp á hundruð milljarða stendur eftir sem vanefndir án fordæma.Kjördæmisráð telur afar mikilvægt að jafnaðarmenn leiði tiltektina í Reykjanesbæ eftir áratuga óstjórn Sjálfstæðismanna og heitir þeim stuðningi við það krefjandi verkefni. Stjórn Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ hefur einkennst af óráðsíu, óraunhæfum áætlunum og stöðugri eignasölu. Staða Reykjanesbæjar er alvarleg og miklu máli skiptir að áherslur jafnaðarmanna móti uppbyggingarstarfið. Með því verði bænum loks stýrt eftir raunhæfri og skýrri sýn sem grundvölluð er á ábyrgri fjármálastjórn og vörn grunnþjónustu sem er íbúum öllum til heilla.      

Gert ráð fyrir verulegri lækkun útsvarstekna

Elliði Vignisson bæjarstjóri, sendi Eyjafréttum fréttatilkynningu þar sem hann gerir grein fyrir helstu tölum í fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2015, en hún var lögð fram á fundi bæjarstjórnar í gær.    Áætlunin gerir ráð fyrir að útsvarstekjur lækki verulega milli ára og fari úr 1.928 milljónum í 1.720 milljónir. Þar ræður mestu sú gríðarlega tekjuskerðing sem orðið hefur í kjölfar þess að útgerðum hefur fækkað og þar með störfum tengdum sjávarútvegi. Í því samhengi má nefna að allar líkur eru fyrir því að tekjuáætlun fyrir árið 2014 (1.928 milljónir) náist ekki. Í lok október vantaði enn útsvar upp á 448 milljónir til að ná áætlun og vandséð að það náist.   Áætlunin gerir þó ráð fyrir að rekstrarafgangur á árinu verði 140 milljónir í A-hluta og 176 í samstæðu. Má því ljóst vera að Vestmanneyjabær nýtur nú góðs af því að hafa greitt upp megnið af vaxtaberandi skuldum í góðærinu og hagrætt verulega í rekstri. Reiknað er með því að veltufé sveitarsjóðs frá rekstri verði jákvætt um rúmar 366 milljónir en það var áætlað 436 milljónir kr. fyrir árið 2014 og hafði þá lækkað frá 2009 þegar það var 487 milljónir   Skuldahlutfall sveitarsjóðs er 99% og eiginfjárhlutfall 67%. Skuldahlutfall að frádregnu handbæru fé er hinsvegar 18% fyrir sveitarsjóð og 41% fyrir samstæðu.   Af öllu framansögðu má ljóst vera að rekstur Vestmannaeyjabæjar er að þyngjast og blikur á lofti. Hafi einhverjum dottið í huga að það hefði ekki áhrif á viðkomu sveitarfélagsins að leggja sérstakan skatt á grundvallar atvinnuveginn sem nemur rúmlega 1,7 milljarði (rúmlega 400 þúsund á hvern íbúa) þá sýna rekstrartölur Vestmannaeyjabæjar annan veruleika. Álögur á sjávarútveg hafa fækkað útgerðum, þjappað aflaheimildum saman á færri hendur og fækkað störfum. Þá hafa opinber störf verið að flytjast í talsverðu mæli til Reykjavíkur og má sem dæmi nefna að í stað búsettra lækna er þjónusta nú í vaxandi mæli veitt af farandlæknum sem ekki greiða útsvar til Vestmannaeyja né heldur taka annan þátt í viðhaldi samfélagsins í Eyjum.   Áætlunin verður tekin til seinni umræðu í bæjarstjórn þann 27. nóvember næstkomandi.    

Tækifæri og áskoranir sameinaðar stofnunar

Forstjóri HSU: „Ég hef átt fundi með fulltrúum Velferðarráðuneytis og farið yfir fjárlög og rekstrarstöðu nýrrar Heilbrigðisstofunnar Suðurlands og mun í næstu viku eiga í áframhaldandi samstarfi við ráðuneytið um lausn mála er snúa að sameiningu og rekstri á stofnuninni. Í morgun átti ég, ásamt forstjórum annarra heilbrigðisstofnanna af landsbyggðinni, fund með fjárlaganefnd Alþingis og alþingismönnum og áttum við afar góðan fund þar sem rædd voru málefni stofnanna sem nú eru að sameinast í þremur heilbrigðisumdæmum, þar á meðal á Suðurlandi og hvaða tækifæri og áskoranir blasa nú við í þjónustu við sjúklingi og rekstri stofnanna. Í framhaldi af þeim fundi verður unnið markvisst að halda til haga þeim kostnaði sem hlýst að sameiningunni.   „Ég tel það skyldu mína og hlutverk að upplýsa íbúa Suðurlands um stöðu mála hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og hvaða breytingar og verkefni eru nú eru nú í gangi hjá stofnuninni í tengslum við sameiningarferlið og þróun þjónustunnar“.   Tæki, búnaður og tölvukerfi  Til að stofnunin geti sinnt sínu lögbundna hlutverki þarf að endurnýja þau rannsóknartæki sem hafa verið biluð á starfstöðvum stofnunarinnar undanfarin misseri. Í samvinnu við Velferðarráðuneytið er verið er að skoða möguleika á að nýta fé sem er eyrnamerkt stofnuninni til að eiga upp í kostnað við að fjárfesta annars vegar í nýju röntgentæki á Selfossi og hins vegar í nýju CT tæki í Vestmannaeyjum. Bæði á Selfossi og eins í Vestmannaeyjum hefur verið söfnun í gangi í samfélaginu fyrir nýjum tækjum en einnig mun leitað allra leiða við að losa fé sem stofnunin hefur á sínum fjárlagalið til að leysa úr þessar brýnu þörf. Það mun stórbæta þjónustuna og auka gæði og öryggi og minnka annan kostnað t.d. samhliða sjúkraflutningum.   Forstjóri hefur einnig átt fundi með verkefnastjórum um upplýsingatækni hjá Embætti Landlæknis og staðfesti að fljótlega verður hafist handa við að sameina þrjá gagnagrunna Sögukerfisins í umdæminu í einn sameiginlegan gagnagrunn fyrir sjúkraskrána á stofnuninni. Það mun stórbæta aðgengi að heilsufarsupplýsingum sjúklinga og tryggja samfellu í þjónustu við sjúklinga. Einnig blasa við ný tækifæri fyrir þjónustuþega Heilbrigðisstofnunar Suðurlands þegar aðgangur opnast að heilsuvefnum Veru sem gerir almenningi kleift að sjá gögn úr eigin sjúkraskrá, s.s. bólusetningar, óútleysta lyfseðla og lyfseðla sem leystir hafa verið út síðustu þrjú ár ásamt skráðum ofnæmisupplýsingum. Íbúar geta þá átt í öruggum samskiptum við heilbrigðisstarfsmenn í gegnum Veru. Í Veru mun verða hægt að bóka tíma á heilsugæslu og einstaklingur getur óskað eftir endurnýjum á ákveðnum lyfjum í gegnum Veru. Vera er aðgengileg með rafrænum skilríkjum   Framkvæmdastjórn og starfsmannamál Vegna sameiningar stofnanna verður ekki hjá því komist að leggja niður starf framkvæmdastjóra hjúkrunar og lækninga hjá fyrrverandi stofnunum og voru störf framkvæmdastjóra hjúkrunar og lækninga hinnar nýju sameinuðu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands auglýst nú um síðustu helgi laus til umsóknar. Engum starfsmanni og þar með talið stjórnendum hefur verið sagt upp störfum en ljóst er að breytingar munu verða á störfum og hlutverki einhverra starfsmanna. Verið er að vinna í nýju skipuriti fyrir stofnunina og fyrstu drög að skipuriti munu liggja fyrir í næstu viku. Kynnt verður nýtt skipurit fyrir starfsfólki í desember. Jafnframt styttist í að nýtt logo verði valið fyrir Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Eins og áður hefur komið fram á opinberum vettvangi þá hefur sólarhringsvakt og bráðavakt skurðlæknis, svæfingalæknis og skurðhjúkrunarfræðings ekki verðið starfrækt í Vestmanneyjum í rúmt ár vegna fjárskorts. Skurðlæknir og skurðhjúkrunarfræðingur hafa starfað við stofnunina í dagvinnu og sinnt speglunum og minni aðgerðum sem ekki krefjast svæfinga. Skurðlæknir í Vestmannaeyjum hefur verið í 100% stöðugildi en hann hefur nú óskað eftir að fara niður í 25% starfshlutfall og mun því á næstu mánuðum vera við störf fjórðu hverja viku. Hefur verið ákveðið að verða við þessari ósk án þess að það feli í sér að ákvörðun hafi verið tekin um að minnka stöðugildi skurðlæknis sem slíkt.Starfsmannamál og mönnunarþörf á stofnuninni í heild sinni er í endurskoðun og mun taka hliðsjón af þeirri þjónustustýringu sem ný framkvæmdastjórn mun leggja áherslu fyrir nýja stofnun. Hvað verður um þjónustuna? Nú fram til áramóta verður aðaláhersla lögð á að ljúka þeim verkefnum sem snúa að sameiningu á rekstri og stjórnskipulagi stofnunarinnar. Á nýju ári mun skýrast hvaða þjónusta verður veitt á hvaða starfstöð og mun ekkert breytast í þeim efnum nú fyrst um sinn. Markmiðið er að efla þjónustna og auka samhæfingu og samfellu í þjónustu til lengri tíma. Á nýrri stofnun munu skapast fjölmörg tækifæri við að efla þjónustu fyrir stærstu sjúklingahópana á Suðurlandi. Áfram verður lögð áhersla á að sinna grunnheilbrigðisþjónustu ásamt sérhæfðri þjónustu eins og viðeigandi er á hverjum stað. Meðal þeirra möguleika sem verið er að skoða er hvort hægt sé fá aðra skurðlækna og með önnur sérsvið, s.s. kvensjúkdómalækningar, geðlækningar, sérhæfðar lyflækningar og barnalækningar til að sinna reglulegri þjónustu á starfstöðvum stofnunarinnar, t.d. í Vestmannaeyjum. Áætlanir um slíka þjónustu verða kynntar á fyrri hluta árs 2015. Forstjóri leggur áherslu á að koma öllum upplýsingum um þjónustu jafnóðum til íbúa á öllu svæðinu og óskar eftir öflugu samstarfi við alla hagsmunaaðila.  

Baldur á leið til Grænhöfðaeyja

Ljóst er að Baldur mun að öllum líkindum ekki sigla oftar í Landeyjahöfn. Hann hefur verið seldur til Grænhöfðaeyja og leggur í hann í lok vikunnar. Viðræður voru í gangi um kaup ríkisins á Baldri með það fyrir augum að hann sigldi í Landeyjahöfn þegar ekki gefur fyrir Herjólf. Baldur getur siglt í allt að þriggja metra ölduhæð en viðmið Herjólfs eru um tveir metrar. Bæjarstjóri segir þetta mjög slæmar fréttir. Reynslan hafi sýnt að þrátt fyrir að vera minni, eldri og aflminni en Herjólfur, sé Baldur heppilegri til siglinga í Landeyjahöfn. Samkvæmt upplýsingum Eyjafrétta voru samningaviðræður í gangi um að ríkið keypti Baldur og var búið að uppfylla öll skilyrði nema eitt til að skipið fengi leyfi til siglinga í Landeyjahöfn. Það sem stóð út af var brunavarnakerfið sem þarf að endurnýja.   Heimildir Eyjafrétta herma að krafan um nýtt brunavarnakerfi hafi þýtt kostnaðarmat, útfærslu á því og vottun Samgöngustofu sem ekki hefði legið fyrir fyrr en í lok mánaðarins. Það hefði ekki gengið því þá væri of langt liðið á veturinn til að leyfi fengist til að sigla Baldri alla leið til Grænhöfðaeyja sem eru út af vesturströnd Afríku. Greiðsla hafi verið komin og því ekki verjandi að halda áfram viðræðum við ríkið því óvíst var um niðurstöðu.   „Við höfum haft fregnir af því að Samgöngustofa hafi ekki getað gefið út vilyrði fyrir því að Baldur fengi haffæri til siglinga í Landeyjahöfn þótt verulegar breytingar yrðu gerðar,“ sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri. „Þar með var grunnurinn fyrir áætlun ríkisins um að nýta Baldur til vetrarsiglinga í Landeyjahöfn að litlu orðinn.“   Elliði sagði þetta auðvitað mjög slæmar fréttir fyrir Eyjamenn enda hefur reynslan sýnt að þrátt fyrir að vera minni, eldri og aflminni en Herjólfur, sé Baldur heppilegri til siglinga í Landeyjahöfn. „Nú horfir þannig til að eina skipið, sem heppilegt hefur þótt til siglinga í Landeyjahöfn, er á leið úr landi. Ég hef komið þeirri kröfu til innanríkisráðherra og vegamálastjóra að tafarlaust verði ráðist í að teikna upp plan B sem verður hrint í framkvæmd þegar til þess kemur að Herjólfur ræður ekki við að halda uppi áætlun í Landeyjahöfn,“ sagði Elliði sem vill hrósa Eimskip og áhöfninni á Herjólfi fyrir hvernig þeim hefur tekist að nýta höfnina með því að sigla eftir sjávarföllum.   „Þá höfum við hvatt mjög eindregið til þess að ferjan Víkingur verði nýtt til hliðar við Herjólf. Við höfum einnig kallað eftir upplýsingum um það til hvaða ráða verði brugðið ef Herjólfur bilar og finna þarf afleysingaskip. Ég tel einnig að þetta setji aukinn þrýsting á stjórnvöld að tryggja að ekkert hik og engar tafir verði á nýsmíði Herjólfs,“ sagði Elliði og ítrekaði að málið þyldi enga bið.  

Fjallar um leiðir til að auka verðmæti humars

 Á vef Vinnslustöðvarinnar kemur fram að ung skosk kona hafi nýlega varið doktorsritgerð sem fjallar um leiðir til að auka verðmæti humars úr sjó með líffræðilegum aðferðum.  Og að upphaf doktorsverkefnis hennar megi rekja til frumkvæðis Vinnslustöðvarinnar árið 2006. Í fréttinni á vef Vinnslustöðvarinnar segir:     „Skoski líffræðingurinn Heather Rosemary Philp varði doktorsritgerð sína í líffræði við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands á miðvikudaginn var, 29. október.  Upphaf doktorsverkefnis hennar, sem varðar aukna arðsemi veiða og vinnslu humars, má rekja til frumkvæðis Vinnslustöðvarinnar árið 2006 til rannsókna á því hvernig unnt sé að auka arðsemi humarveiða.  Ritgerð Heather Philp nefnist Leiðir til að auka verðmæti humars (Nephrops norvegicus) úr sjó með líffræðilegum aðferðum (e. Using biology to improve the value of the Icelandic lobster (Nephrops norvegicus) fishery).  Andmælendur voru dr. Elena Mente prófessor við Háskólann í Þessalóníku í Grikklandi og dr. Sigurjón Arason prófessor við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.  Leiðbeinandi doktorsefnisins var dr. Guðrún Marteinsdóttir prófessor við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.   Unnt að auka arðsemina  Heather Philp fjallar í ritgerðinni um hvernig auka megi verðmæti humars á Íslandsmiðum á vistvænan hátt án þess að auka veiðiálag.  Í fyrsta hluta er reynt að auka skilning á grunnatriðum lífsferlis krabbadýra, þ.e. sjálfu hamskiptaferlinu. Því næst er reynt að meta tilkomu skemmda sem myndast á ytri stoðgrind og tap á útlimum frá því að humarinn var veiddur og þar til honum var pakkað í frystiöskjur. Í þriðja hluta verkefnisins eru kannaðar leiðir til að flytja lifandi humar á markað. Það skiptir miklu máli, enda er lifandi humar allt að þrefalt dýrari vara en frystur. Að lokum er fjallað um leiðir til að auka tekjur með því að nýta aukaafurðir sem áður var fargað. Meginniðurstöður nýbakaðs doktors benda til þess að unnt sé að auka verðmæti humars úr sjó með tilteknum breytingum varðandi meðferð á afla, löndun og flutningi á markað.   Fjölskyldan í humarvinnslu  Heather Philp er fædd árið1976 á eynni Skye í Skotlandi. Hún útskrifaðist með meistaragráðu í líffræði frá University of Aberdeen 2006 en var jafnframt einnig skráður stjórnandi í humarvinnslufyrirtæki fjölskyldu sinnar.   Haustið 2006 ýttu Háskóli Íslands og Vinnslustöðin úr vör humarrannsóknaverkefni. Vinnslustöðin fékk Guðrúnu Marteinsdóttur prófessor til liðs við sig sem umsjónarmann og auglýsti síðan eftir umsækjendum til doktorsnáms í fiskifræði þar sem gert var ráð fyrir humarrannsóknum með styrk úr AVS-sjóðnum í samstarfi við HÍ, fræðasetrið í Eyjum og Rutgers University í New Jersey í Bandaríkjunum.   Alls bárust 34 umsóknir, þar af aðeins ein íslensk! Doktorsefnið, sem fyrir valinu varð, var Heather Philp. Hún átti eftir að dvelja langdvölum í Eyjum og í Reykjavík vegna þessa verkefnis og hóf doktorsnám við Háskóla Íslands 2007.  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Stjórnmál >>

Fyrsti fundur bæjarstjórnar í dag

Bæjarstjórn Vestmannaeyja kemur saman í dag í fyrsta sinn á nýju kjörtímabili.  Niðurstaða bæjarstjórnarkosninganna í vor, voru á þann veg að Sjálfstæðisflokkur fékk fimm bæjarfulltrúa en Eyjalistinn tvo.  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn eru Elliði Vignisson, Páley Borgþórsdóttir, Páll Marvin Jónsson, Trausti Hjaltason og Birna Þórsdóttir en fulltrúar Eyjalistans eru Jórunn Einarsdóttir og Stefán Óskar Jónasson.  Elliði, Páley, Páll Marvin og Jórunn sátu öll í bæjarstjórn á síðasta kjörtímabili.  Stefán Óskar hefur áður verið í bæjarstjórn og var varamaður á síðasta kjörtímabili en þau Trausti og Birna eru ný.  Bæjarstjórnarfundurinn fer fram í Eldheimum og hefst klukkan 18:00.   „Þegar ég kom inn í bæjarstjórn 2002 voru útsvarstekjur á hvern íbúa á verðlagi þess árs rétt liðlega 200.000 krónur en á síðasta ári voru þær hátt í 475.000 krónur,“ sagði Stefán í samtali við Eyjafréttir, sem kom út í gær.   „Staðan í dag opnar á tækifæri að gera meira fyrir bæjarbúa og bæjarfélagið í heild. Ég er ekki að mæla með óráðsíu í fjármálum en það má gera betur á ýmsum sviðum. Auðvitað veltur þetta mikið á á sjávarútvegi og afkomu atvinnulífsins almennt. Á kjörtímabilinu 2002 og 2006 vorum við, ég og núverandi bæjarstjóri, Elliði Vignisson, að skoða þann möguleika á að rífa blokkina Áshamar 75 ef það gæti létt á skuldum bæjarins. Engum dettur það í hug í dag en sterkari innviðir bæjarfélagsins eru líka verðmæti,“ sagði Stefán.   Viðtalið má lesa í heild sinni í Eyjafréttum.  

Greinar >>

Á flótta undan ýsu

Það er undarleg staða á fiskimiðunum við Eyjar eins og reyndar allt í kringum landið. Allt vaðandi í ýsu sem Hafró segir að sé ekki til og enginn hefur aflaheimildir til þess að veiða og ástandið farið að minna ískyggilega mikið á stöðuna fyrir liðlega áratug síðan, en þá var það þáverandi sjávarútvegsráðherra sem greip inn í og tók fram fyrir hendurnar á Hafró og jók ýsukvótann. Í framhaldi af því rumskaði Hafró úr værum svefni og á árunum á eftir fylgdi gríðarleg aukning á aflaheimildum á ýsu.  Þegar mest var, fór ýsukvótinn yfir 100 þúsund tonn með tilheyrandi verðfalli á afurðum, en er aðeins 30 þúsund tonn í dag og mörg dæmi um það að útgerðarmenn línubáta sendi báta sína austur á land, eða þar sem mestur möguleiki er á að fá blóðsíld í beitu, sem ýsan er ekki hrifin af og heyrði ég nýlega af dæmi um útgerðarmann, sem hreinlega bannaði sinni áhöfn að róa nema með blóðsíld.   Ég hef gert út hér í Vestmannaeyjum í tæp 30 ár og ég er á þeirri skoðun að togararall Hafró nái alls ekki að fylgjast nægilega vel með því hvernig sumir fiskistofnar þróast, og veit að sumar aðferðir við að stofnmæla sumar tegundir, eru ansi vafasamar eins og t.d. varðandi keiluna.   Á sama tíma og allt logar í verkföllum og ríkiskassinn er tómur, þá finnst mér frekar furðulegt að ekki sé gripið til þeirra leiða sem alltaf hafa bjargað okkur, eða amk. síðustu 100 árin úr hinum ýmsu kreppum, þeas. vinna meira, eða í þessu tilviki að veiða meira.  Það er að mínu mati óhætt að auka töluvert við í flest öllum bolfisktegundum sem við Íslendingar veiðum, en til þess þarf kjark og inngrip frá ríkisstjórninni.   Það er ljóst að núverandi sjávarútvegsráðherra ætlar ekki að „rugga bátnum“ með því að fara gegn tillögum Hafró og ég beini þessu því til annarra þingmanna, hvort sem er í meiri- eða minnihluta. Ég tel augljóst að varðandi ýsuna sérstaklega, þá muni Hafró reyna að hanga á sínum útreikningum í einhver ár í víðbót, síðan mun verða sprenging og ýsukvótinn aftur ná sömu hæðum og í síðustu uppsveiflu með tilheyrandi verðfalli á afurðum.  Ótrúlegt að þessi stofnun skyldi leggja blessun sína yfir það að öll fjaran við suðurströndina varð opnuð fyrir snurvoð, bara til þess að einhverjir örfáir bátar gætu náð ýsukvótanum sínum á meðan kvótinn var í 100 þús tonnum en gríðarlegt magn af smáýsu var drepin hérna eftir að fjaran var opnuð 2007, en merkilegt nokkuð, ýsukvótinn er kominn niður í 30 þús tonn, en enn er fjaran opin.   Ég skora hér með á alla þingmenn að gefa nú okkur sjómönnum og þjóðinni betra tækifæri til að takast á við þau fjárhagslegu vandamál sem þjóðin á í í dag og auka við aflaheimildir. Ekki bara í ýsu, heldur einnig í öðrum tegundum. Það er óhætt.