Eyjahjartað slær sem aldrei fyrr

Eyjahjartað slær sem aldrei fyrr

Eyjahjartað bauð upp á fjórðu dagskrá sína í Einarsstofu sunnudaginn 12. mars er Brynja Pétursdóttir, Gísli Pálsson og Páll Magnússon buðu upp á sannkallaða gleðiveislu. Kári Bjarnason var fundarstjóri og byrjaði á því að rifja upp að tilurð Eyjahjartans mætti rekja til hinna velheppnuðu Goslokahátíða árin 2012 og 2013 er einstaklingar sem misstu æskuslóðir sínar undir hraun komu saman og minntust liðinna daga. Kári sagðist í framhaldinu hafa sett sig í samband við einn forsprakkarann, Atla Ásmundsson og velt upp þeirri spurningu hvort ekki mætti halda áfram með sambærilegar dagskrár í Einarsstofu. Atli benti á Einar Gylfa Jónsson og Þuríði Bernódusdóttur og þau fjögur hafa síðan í sameiningu haldið utan um Eyjahjartað með Einar Gylfa sem formann hópsins. Kári bætti því við að þau hefðu búið til einfalda formúlu: Að fá skemmtilegt fólk til að segja á skemmtilegan hátt frá sínum skemmtilegu uppvaxtarárum í Vestmannaeyjum. Það var greinilegt á þeim þremur einstaklingum sem héldu erindi á sunnudaginn að þau fylgdu vandlega formúlunni. Brynja fór á kostum með mynd af öllum Kirkjubæjunum í forgrunni síns spjalls. Hún talaði frá hjartanu um sinn horfna heim og lýsingarnar hennar voru oft og tíðum hreint stórkostlegar, í senn glettnar og ljúfar. Í lok ræðu sinnar sagðist hún hafa skrifað niður töluvert af punktum til að tala útfrá en að hún hafi hreinlega gleymt að horfa á þá. Gísli kynnti nýja bók sína, Fjallið sem yppti öxlum, þar sem hann setur sjálfan sig og sitt horfna umhverfi í brennidepil sem hann fellir síðan í almennt samhengi. Greinilegt að bók hans verður fengur fyrir Eyjamenn enda Gísli einn þekktasti fræðimaður landsins. Lokaerindið átti Páll og var hann ekki að hlífa sjálfum sér enda fjallaði hann um miðbæjarvillingana, þar sem hann var sjálfur einn af hópnum sem ekki fylgdi alltaf hinni hárfínu línu laganna. Að lokum kynnti Kári átthagadeild Bókasafnsins, bækur sem fjalla um Vestmannaeyjar eða eru eftir Vestmannaeyinga og bað Sigrúnu Ingu Sigurgeirsdóttur, sem hefur umsjón með þeim bókum að segja aðeins frá þeim. Sigrún kom í pontu og er greinilega á réttum stað í starfi enda skein ástríðan á verkefninu úr hverju orði. Þessi stund leið undrafljótt og það er virkilega gaman að sjá hversu vel Eyjahjartað hefur slegið í gegn. Eina vandamálið er plássið því ljóst er að Einarsstofa er einfaldlega sprungin og mun ekki geta tekið með góðu móti við næstu dagskrá Eyjahjartans. Blaðamaður er þegar farinn að hlakka til, því það virðist vera endalaust framboð af skemmtilegu fólki að segja skemmtilega frá sínum skemmtilega tíma í Vestmannaeyjum. Það var ekki laust við að blaðamaður hugleiddi með sjálfum sér á leiðinni heim: Hversu ríkar eru Eyjarnar okkar að það eina sem öllum sem koma og ræða um æsku sína dettur í hug er gleði – endalaus gleði yfir því að hafa fengið að alast hér upp.    

Fatlaðir eiga að búa við jafnrétti og sambærileg lífskjör og aðrir íbúar

„Það sem af er þessu kjörtímabili hefur Vestmannaeyjabær lagt áherslu á að nýta rekstrarhagræðingu seinustu ára til að auka þjónustu við bæjarbúa,“ segir Elliði Vignisson bæjarstjóri í samtali við Eyjafréttir. „Skiljanlega er alltaf viðkvæmt þegar ráðist er í hagræðingu og það ekki oft vinsælt. Við sem tímabundið gegnum embættum sem eru ábyrg fyrir almannafé megum samt ekki hræðast slíkt enda eru þær aðgerðir grunnur að því að efla þjónustuna heilt yfir. Sú leið að hagræða þar sem mögulegt er hefur nú gert okkur mögulegt að efla samfélagið með nýjum þjónustuþáttum. Þannig var á seinasta ári höfuðáhersla lögð á hlut barna og barnafjölskyldna sem meðal annars skilaði mikilli fjölgun á leikskólaplássum, frekari niðurgreiðslu til dagmæðra, heimagreiðslum til foreldra, tómstundastyrkjum til barna undir 16 ára auk þess sem ákveðið var að viðhalda þjónustuþáttum á borð við að veita öllum börnum gjaldfrjálst aðgengi að sundlaug o.fl.“ Á meðan innleiðing á þessum þjónustuþáttum gagnvart börnum og barnafólki stóð yfir var hafinn undirbúningur að stóreflingu þjónustu við aðra þjónustuhópa, þar með talið við fatlaða en mat bæjaryfirvalda var að löngu tímabært væri að þeir þjónustuþegar fengju aukna athygli. „Á aðalfundi Þroskahjálpar sem fram fór í seinustu viku voru ný þjónustuúrræði kynnt. Fundurinn sjálfur var haldinn í nýrri hæfingastöð sem starfrækt er í því húsnæði sem áður hýsti Kertaverksmiðjuna Heimaey sem nú hefur verið endurgert og aðlagað þörfum samtímans og breyttum áherslum. Hin nýja hæfingamiðstöð varð til þegar Hæfingastöðin Hamar og Kertaverksmiðjan Heimaey sameinuðust og er þar í dag veitt alhliða hæfing með áherslu á að mæta á heildstæðan máta þörfum fatlaðs fólks á hverskonar dagþjónustu, vinnu, hæfingu og þjálfun í margvíslegri hæfni,“ segir Elliði og bætir við að á fundinum hafi hann einnig farið yfir hvernig Vestmannaeyjabær hyggst halda áfram að bæta hag fatlaðra í Vestmannaeyjum. „Markmið Vestmannaeyjabæjar er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra íbúa Vestmannaeyja og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi.“ Stór þáttur í því að ná þessu markmiði er m.a. að tryggja að fatlaðir geti komist ferða sinna og aðgengismál því aðkallandi. „Með það fyrir augum hefur Vestmannaeyjabær ráðist í mikið átak við að bæta aðgengismál. Auk þess sem lyftur hafa verið settar í nánast allar stofnanir Vestmannaeyja sem eru með starfsemi á fleiri en einni hæð (td. Eldheima, Kviku, Barnaskólann, Safnahúsið o.fl.). Þá hafa gangstéttir verið hannaðar og lagðar með þessi sömu markmið í hug,“ segir Elliði.   Löngu tímabær bragabót Þegar kemur að húsnæðismálum fatlaðra segir Elliði Vestmanna-eyjabæ einfaldlega ekki hafa staðið sig jafn vel og því löngu tímabært að gera þar bragabót á. „Upphaflega stefndum við að því að byggja fjórar til sex íbúðir í sem mestu nábýli við núverandi sambýli við Vestmannabraut. Það reyndist þó þrautinni þyngri enda lóðakostur í nágrenninu þröngur. Í þeirri stöðu var ákveðið að horfa til annarra lóða í miðbænum. Þegar upp kom sú staða að fella ætti gömul og úrsérgengin fiskvinnsluhús í hjarta miðbæjarins kviknaði áhugi á því að skoða fasteignaþróun á þeim reit með íbúðir fyrir fatlaða í huga. Í kjölfar auglýsingar þar sem leitað var eftir samstarfi við áhugasama um slíka fasteignaþróun var ákveðið að vinna með Steina og Olla að slíku meðal annars með húnsæðisþarfir fatlaðra í huga,“ segir Elliði. „Þar var skoðað að koma fjórum til sex íbúðum fyrir í nýju húsnæði þar sem Ísfélagið hefur hingað til verið. Frekari fasteignaþróun og rýnivinna með hagsmunaðilum fatlaðra kveikti síðan þá hugmynd að flytja starfsemi Sambýlisins í þetta sama húsnæði. Til grundvallar þeirrar ákvörðunar lá annars vegar að koma Sambýlinu í nýtt og heppilegra húsnæði enda núverandi húsnæði barn síns tíma enda hátt í 30 ára gamalt. Þá var það sterk skoðun okkar sem að þessu komu að mikilvægt væri að gefa fötluðum kost á að njóta góðs aðgengis að stuðningi hvort sem þeir væru í sjálfstæðri búsetu eða á Sambýli auk þess sem í þeirra hópi, eins og annarra, er maður manns gaman og mikilvægt að stilla hlutum þannig upp að unnið sé gegn félagslegri einangrun og þvert í móti hvatt til samgangs og samneytis,“ segir Elliði. Hugmyndin er því að bæði nýtt sambýli og allt að sex íbúðir fyrir fatlaða verði í einu og sama húsinu. Tekur Elliði þó skýrt fram að fasteignaþróun sé ekki lokið og ekkert hafi verið klappað í stein þótt mótaðar hugmyndir liggi nú fyrir. „Þessar hugmyndir fela sem sagt í sér að nýtt sambýli verði staðsett á annarri hæð nýbyggingar við Strandveg 26 þar sem Ísfélagið hefur hingað til haft höfuðstöðvar sínar og á þriðju hæð verði fjórar til sex íbúðir fyrir sjálfstæða búsetu fatlaðra sem þannig geta sótt þjónustu í sambýlið og notið samneytis við aðra íbúa þar. Hugmyndin felur það einnig í sér að hluti af burðarvirki þess húss sem þarna hefur staðið verði nýtt og þannig verði bæði sparað í tíma og hvað varðar fjármagn án þess að á nokkurn máta verði gefið eftir af kröfum um gæði byggingar. Í því felst að þótt húsið verði að mestu fjarlægt og þar með talið botnplötur, allt byggingarefni annað en steypa o.fl. þá nýtist burðavirkið áfram og þannig er einnig vernduð sú ásýnd sem Eyjamenn og gestir þekkja svo vel.“   Fyrstu íbúðirnar klárar 2018 Miðað við fyrstu tillögur er gert ráð fyrir að megnið af fyrstu hæðinni og öll fjórða hæðin verði í eigu einkaaðila en Vestmannaeyjabær mun þó stefna að því að eiga sjálfan bogann og nýta hann til að efla menningu og mannlíf í Vestmannaeyjum. „Öll önnur hæðin verður hinsvegar nýtt undir Sambýli fatlaðra. Þar verður veitt sólarhringsþjónusta og aðstoð við athafnir daglegs lífs. Frumhönnun gerir ráð fyrir fimm íbúðum líkt og í dag eru á Sambýlinu en gert er ráð fyrir möguleika á því að nýta rúmlega 100 fermetra í viðbót þegar þörf verður á. Á þriðju hæðinni er svo stefnt að því að vera með allt að sex íbúðir sem verða sérhannaðar fyrir fatlaða. Miðað við frumhönnun er um að ræða rúmlega 50 fermetra íbúðir með sérinngangi auk sér svala fyrir hverja íbúð. Þar til viðbótar verða sennilega tvær stærri íbúðir á þeirri hæð í einkaeigu. Sem fyrr segir er svo gert ráð fyrir því að öll fjórða hæðin verði í einkaeigu,“ segir Elliði. Að sögn Elliða hefur öll undirbúningsvinna gengið nokkuð vel og vonir standa til að hönnun ljúki núna í vor og verklegar framkvæmdir hefjist í beinu framhaldi af því. „Auðvitað eru enn margir óvissuþættir en við stefnum að því að árið 2018 verði hægt að flytja inn í fyrstu íbúðirnar. Reynslan er þó sú að ekki er ólíklegt að óvissuþættir kunni að valda einhverjum drætti.“ Eins og fyrr segir er stefna bæjaryfirvalda að Vestmannaeyjar séu góður staður fyrir alla. „Við erum stöðugt að leggja okkur fram um að bæta samfélagið og í þetta skiptið eru það mýkri málaflokkarnir sem eiga hug okkar því í viðbót við það sem hér getur um og þá miklu þjónustuaukningu sem orðið hefur í því sem snýr að börnum og barnafjölskyldum þá erum við einnig í miklum framkvæmdum við málaflokk aldraðra, viðbyggingu við leikskóla og ýmislegt fleira. Við göngum fram undir kjörorðunum „Þar sem hjartað slær“ og það er okkar sem samfélags að tryggja að hjartað slái fyrir alla Eyjamenn og þá ekki síst börn og þá sem af einhverjum ástæðum þurfa sérstaka aðstoð,“ segir Elliði.    

Úr listinni í sjávarútveginn

Freyja Önundardóttir myndlistarmaður er Eyjamönnum að góðu kunn. Hún er fædd og uppalin í Eyjum og drakk í sig náttúru og kraft Eyjanna með móðurmjólkinni. Hún hefur haldið þó nokkrar sýningar á verkum sínum í Eyjum, aðallega í tengslum við goslokahátíðir. Freyja hefur lagt pensilinn á hilluna í bili og nýtir nú krafta sína í þágu sjávarútvegsins. Hún stýrir útgerð Önundar sem gerir út Þorstein ÞH 115 frá Raufarhöfn sem nú er gerður út frá Njarðvík, auk þess að vera formaður stjórnar ört stækkandi félags kvenna í sjávarútvegi, KIS.     Skemmtilegasta fólkið og fallegast ,,Ég er bara Vestmannaeyingur og er stolt af því. Ég er uppalin í Eyjum, flutti með foreldrum mínum í gosinu til Raufarhafnar. Á Raufarhöfn er gott fólk sem tók okkur vel. Mér leið alls ekki illa þar en það var meira líf og fjör og meira um að vera í Eyjum. Ég vildi aldrei fara þaðan, það voru þung spor að flytja alla leið norður í land“ segir Freyja þegar hún er spurð að því hver hún sé. ,,Ég flutti um 15 ára aldur aftur til Eyja til ömmu og afa, Ella og Evu í Varmadal og bjó þar fram yfir tvítugt. Þar bjó ég þegar ég eignaðist dóttur mína og amma passaði á meðan ég kláraði verslunarpróf í Framhaldsskólanum“. ,,Ég var alltaf með þessa heimþrá í Eyjarnar. Hún fer ekkert þó maður eldist. Eyjar eru heim í mínum huga. Þar er skemmtilegasta fólkið, þar er fallegast og mér líður vel þar. Ég finn að það er ákveðin virðing fyrir Vestmannaeyjum og Vestmannaeyingum og það myndu margir vilja vera tengdir Eyjum“. ,,Fyrst eftir að ég flutti hér í bæinn og amma var á lífi þá hoppaði ég um helgar, fór mjög oft til Eyja þau árin. Eftir að amma seldi Varmadal þá breytist munstrið og eftir að hún dó fór ég sjaldnar til Eyja. En svo datt ég í golfið, datt í það í orðsins fyllstu merkingu og styrkti tenginguna við Öldu vinkonu mína sem er golfari af Guðs náð og Hrönn og fleira fólk í Eyjum og fór að fara meira til Eyja“. Eyjarnar hafa alltaf togað í Freyju. ,,Þegar ég flutti frá Eyjum þá var þessi ókyrrð í mér. Þegar ég flutti sem fullorðin manneskja með mitt barn til Þórshafnar, þá fór ég til ömmu og afa í þrjár vikur, tvisvar til þrisvar á ári, bara til þess að lifa af. ,,En næringin, andlega næringin og líðanin, komandi til Eyja verandi þar, það er sérstök tilfinning. Ég er búin að fara út um allan heim og upplifi þessa tilfinningu hvergi annars staðar. Það eru alveg sérstaklega góðar og jákvæðar tilfiningar hjá mér tengdar Vestmannaeyjum. Ég man ekki eftir neinum leiðindum þar, þau eru þá gleymd hafi þau einhvern tíma verið“.     Eljusemi og dugnaður mótaði mig Freyja telur að umhverfið og fólkið í kringum hana á árunum í Eyjum hafi mótað hana mest. ,,Í mínum huga eru mótunarárin þessi ár í Vestmannaeyjum, auðvitað tekur maður alltaf eitthvað inn hvar sem maður er en þetta er sterkast held ég. Vinnuumhverfið, þetta at og þessi eljusemi og dugnaður fólks. Ég held að það hafi verið stór þáttur í að móta mig. Mér fannst alltaf alveg hrikalega skemmtilegt að vinna. Það voru náttúrulega allir að vinna“. ,Stór áhrifavaldur í að móta mann eru náttúruöflin og það situr í okkur að eilífu sem upplifðum gosið. Ég var heppin því að í mínum huga var þetta líkt ævintýri. Ofboðslega flott og magnað á meðan fólk sem er nálægt mér tók því allt öðruvísi“. Í Eyjum vann Freyja í frystihúsi og gekk oft í störf sem höfðu tilheyrt strákunum. Hún var þerna á Herjólfi, ,,svo var ég á sjó og fannst það frábært, vann við hina frægu uppgræðslu í Eldfellinu. Með skólanum var ég að beita hjá Stjána á Emmunni. Með skóla var alltaf unnið líka, þetta var rosalega skemmtilegur tími, æskan og unglingsárin í Eyjum.“   Skapandi vinna Af hverju myndlist? ,, Þetta blundaði alltaf í mér, var það skemmtilegasta sem ég gerði öll mín skólaár. Skapandi vinna átti alltaf vel við mig og það er ágætis saga á bak við það. Amma í Varmó hélt þessu svolítið að mér. Hún bað mig þegar ég átti stelpuna að setjast nú niður og gera myndir af henni fyrir sig. Og það eiginlega kom mér af stað. Þetta var draumur en ég hélt að ég ætti ekki erindi, fannst þetta eitthvað svo flókið að ætla í myndlistarnám með lítið barn“. Freyja setti sjálfa sig í biðstöðu gagnvart myndlistinni eins og hún orðar það. En löngunin var til staðar. ,,Ég fór að leita að því sem mig langaði virkilega að gera og þá kom myndlistin aftur upp. Ég fór í myndlistarskóla á Akureyri, fannst þetta dásamlegur tími og skemmtilegt nám sem ýtti hressilega við mér. Vann svo á Þórshöfn við myndlist og myndlistarkennslu, þvældist í rauninni um og bjó til námskeið í skólum sem höfðu ekki faglærða myndlistarkennara. Ég fór svo í fjarnám í Uppeldis- og kennslufræðum við Háskólann á Akureyri, þá búsett á Þórshöfn.“ Freyja rak gallerý með fleiri myndlistarkonum í Reykjavík, það var meðal annars ástæða þess að fjölskyldan flutti til Reykjavíkur. ,,Ég rak gallerí og vinnustofu, var með sýningar hérlendis og erlendis, nóg að gera og gekk bara vel. Sýndi nokkrum sinnum í Eyjum, mér fannst það tilheyra og stóru einkasýningarnar voru eiginlega í Eyjum. Ég fékk mikið út úr því og fann fyrir stuðningi og áhuga fólks á því sem ég var að gera. Fólk stendur með sínum þegar vel gengur og líka þegar eitthvað bjátar á. Ég held að við sem upplifðum gosið, stöndum saman fram í rauðan dauðann. Það er rosalega sterk samstaða í Eyjum þó að menn takist á“.   ,,Ég er nú ennþá á floti” Freyja var farin að skoða framhaldsnám og var mastersnám í myndlist ofarlega á blaði. ,,Ég þarf að ögra og takast á við það sem er nánast óhugsandi. Ég hef þúsund sinum upplifað það og hugsað: Jæja, nú ætlar þú að drekkja þér. Nú ertu komin út í dýpstu laugina af öllum djúpum en ég er nú ennþá á floti,“ segir Freyja og hlær. Freyja fór í meistaranám í verkefnastjórnun, MPM nám. ,,Það höfðaði sterkt til mín því stór partur námsins var skapandi hugsun, gagnrýnin hugsun og mannlegi þátturinn sem heillaði mig. Hann er mjög stór í þessu námi auk þess hef ég allt mitt líf verið í alls konar skipulagninu. Í myndlistinni gerði ég allt sjálf og lífið það er verkefnaskipt. Myndlistin getur verið einmanaleg ,,auðvitað eru samskipti við fólk og samvinna á sýningum en vinnan sjálf, maður verður hálf einrænn. Þess vegna valdi ég verkefnastjórn því í henni er fullt af fólki, samvinna og samskipti“. Að loknu mastersnámi fór Freyja í þriggja mánaða starfsnám hjá viðburðarfyriræki á Möltu. ,,Ég var meira og minna á kafi úti, fór að læra köfun, sjórinn hann togar alltaf í mig. Í málverkinu var það sjórinn og náttúran. Þetta er allt tengt maðurinn og náttúran og svo náttúran og sjórinn. Þetta er einhvern veginn í blóðinu eða mjög sterklega innprentað í mig“.   Sá málverkin neðansjávar Freyja er með köfunarréttindi á 30 metra dýpi. ,,Ég hef reyndar ekkert kafað á Íslandi en ég fór aftur út að kafa. Það er mjög skemmtilegt, þarna var nýr heimur sem opnaðist, þetta var dásamlegt. Það var skrýtin og sterk upplifun þegar ég byrjaði að kafa og fara á fallega neðansjávarstaði. Þá sá ég oft málverkin mín. Þau voru bara þarna og ég var búin að sjá þetta áður í málverkunum mínum. Ég elska að upplifa nýja heima og neðansjávar er nýr heimur og allt annar en ofansjávar. Þegar heim var komið fór ég að hjálpa foreldrum mínum í útgerð Önundar ehf. með einstaka verkefni. Fljótlega var alveg ljóst að það var ekki hægt að gera þetta í hjáverkum og nú rek ég útgerðina. Það varð því ekki úr að ég færi í stórt fyrirtæki innan um fullt af fólki sem var tilgangurinn með verkefnastjórnuninni“. Áfram heldur Freyja: ,,Mér finnst þetta æðislegt, þetta er svo gott og gefandi. Mér finnst ég eiga heima í þessum geira. Ég hef grunnþekkingu og reynslu sem ég hef safnað frá barnæsku. Ég finn mig vel í sjávarútvegi og verkefnin eru skemmtileg. Þegar maður hefur bakgrunnskilning þá eru hlutirnir oft einfaldari. Ég er mjög ánægð með þann stað sem ég er á núna, það er ekki spurning“. Freyja leigir skrifborð í Sjávarklasanum, það gerði hún til þess ,,að vera innan um fólk, hafa tengingu og vinnuaðstöðu annars staðar en heima. Ég kynntist starfsemi Sjávarklasans í gegnum félag kvenna í sjávarútvegi. Þegar félag kvenna í sjávarútvegi var stofnað fyrir þremur árum þá mætti ég á kynningarfund. Fullkomin óvissa var um hversu margar konur myndu mæta en við vorum hundrað konur sem skráðum okkur í félagið á þessum fundi og það var langt umfram væntingar. ,Glæsilegt framtak, ég var kosin í fyrstu stjórnina og er nú orðin formaður stjórnar. Þetta er frábær félagsskapur.“   Aldrei gaman hjá Jóakim aðalönd Konur hafa hvorki verið sýnilegar né áberandi í þessum geira, þær hafa oftast verið bak við tjöldin. Félag kvenna í sjávarútvegi er félagskapur fyrir allar konur sem eru í sjávarútvegi eða tengja starfið sjávarútveginum og afleiddum greinum.“ Freyja heldur áfram: ,,Þetta eru ekki bara sjóarakonur eða þær sem eru í grunnsjávarútvegi. Þetta eru konur í þjónustu við útgerðina til dæmis konur í bönkum. í Vestmannaeyjum eru konur sem eiga fullt erindi í félagið og hafa sérþekkingu á sjávarútvegi frá fjármálahliðinni. Endurskoðandi ársreikninga hjá útgerð hefur sérþekkingu, konur í sölumálum og allskonar framleiðslu. Konur í nýsköpun í sjávarútvegi sem nýta t.d. þörunga eða kollagen úr þorski og fyrirtæki sem þjónusta sjávarútveginn eins og t.d. Marel.“ Freyju er umhugað um að fjölga konum í félaginu sem eru nú 200. ,,Ef kona hefur tilfinningu fyrir því sjálf að vinnan hennar snúist að einhverju leyti um sjávarútveginn þá á hún heima í félagi kvenna í sjávarútvegi. Við erum búnar að sjá mýmörg dæmi þess að félagið er að skila faglegri þekkingu og samböndum, fyrir utan það hvað er gaman að tilheyra svona hópi.“ Sjávarútvegurinn stendur ekki einn og sér, það er enginn eyland og virðiskeðjan þarf öll að ganga upp, það gerist ekkert ef þú ert bara einn einhvers staðar. Fyrir utan hvað það er lítið gefandi. Ég held að það hafi aldrei verið gaman hjá Jóakim aðalönd.“ Freyja segir stolt frá því mikla og góða starfi sem hún telur KIS hafa afrekað. ,,Fyrir ekki löngu síðan var sagt á opinberum fundi að félagið væri það flottasta í sjávarútveginum í dag. Félagið skiptir máli og breytingarnar koma smá saman. Það mjög mikilvægt að fá konur inn í geirann. Við vitum það og rannsóknir sýna að fyrirtæki, stofnanir og samfélög sem rekin eru bæði af konum og körlum eru best reknu fyrirtækin og þar ríkir jafnvægi“.   Karlarnir nenna ekki að leita að konum Freyja heldur áfram með nokkurri áherslu: ,,Það eru rannsóknir á bak við þetta. Þekktar rannsóknir sem allir sem vilja vita eitthvað, vita. Metnaður okkar liggur í því að fá konur til að stíga fram. Fá þær til þess að þora, til þess að gera kröfur og njóta sannmælis. Það er jafn mikilvæg vinna bak við útgerðina eins og að vera á sjónum, fyrir utan það að konur eru fullfærar að vera á sjó“. ,,Eitt af því sem félagið hefur verið að gera undanfarið er að standa að rannsókn á stöðu kvenna í sjávarútvegi. Fyrstu niðurstöður verða kynntar fljótlega. Það er margt sem kemur á óvart en það er líka margt sem sýnir að við höfum haft að ákveðnu marki rétt fyrir okkur. Ég held að flestir sjái það að þetta sé svolítið karllæg stétt. Nú höfum við greiningu á því, í hvaða störfum og hlutverkum konur eru og hvers vegna.“ Konur í sjávarútvegi eiga rannsóknina en Gallup og Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri unnu skýrsluna. ,,Þetta er fyrsti áfanginn, framhaldið verður að kanna viðhorf kvennanna sjálfra. Rannsóknin er gerð þannig að nú höfum við grunn að byggja á, til þess að breyta stöðunni. Til þess að gera sjávarútveginn að freistandi vettvangi fyrir ungt fók og ungar konur,“ segir Freyja. ,,Við erum að vinna markvisst að því að byggja konur upp. Við héldum fjölmiðlanámskeið til að styrkja þær í að koma fram og tjá sig. Við vitum jafn mikið og aðrir um sjávarútveginn. Það er stundum sagt að það sé erfitt að fá konur í viðtal. Við blásum á það, höldum að þetta sé gömul mýta því karlarnir nenna ekki að leita að konum til að tala við. Konur hafa fullt til málanna að leggja þó þær hafi ekki alltaf sömu skoðanir og karlar. Okkar skoðanir eru jafn góðar, gildar og mikilvægar“.     Hugsandi menn vilja fá konur Freyja er hvergi nærri hætt. ,,Fjölbreytni skiptir máli, einsleitni er ekki góð. Við erum að fara í fyrirtæki í heimsóknir þar sem okkur er alls staðar vel tekið. Við fáum að komast inn í innsta hring til að sjá, kynnast og læra að þekkja það sem er í gangi. Karlarnir taka okkur mjög vel. Ég held að hugsandi menn sjái mikilvægi kynjajafnvægis og vilji fá konur inn í geirann“. Tvisvar í mánuði að meðaltali eru viðburðir í Reykjavík. Fræðsla eða heimsóknir í fyrirtæki og samhristingur. ,,Við erum með fræðslu þar sem við bjóðum ekki bara konum heldur líka körlum. Menn sækja fast að komast í félagið, sjá að þetta er skemmtilegur félagsskapur, það er bara þannig. Þeir sjá að við erum að gera hluti sem að þeir gera ekki, við beitum öðrum aðferðum. Það er eftirsóknarvert, ekki bara í félagslegu samhengi heldur líka í atvinnulegu samhengi. Rúsínan í pylsuendanum að sögn Freyju er árleg ferð út á land. Fyrst voru þetta dagsferðir en eru nú orðnar þriggja daga ferðir. ,,Við erum ekki borgarfélag þó svo að meirihluti félagsmanna búi þar, þetta er félag alls landsins,“ segir Freyja og bætir við að ,,konunar okkar hvar sem þær búa eiga að hafa jafna möguleika á að sækja viðburði eins og við sem búum í borginni. Við reynum að að halda viðburði í Reykjavík um helgar.“ ,,Við höfum farið út á land bæði til þess að kynnast, kynna félagið og fá konur sem búa út á landi til að vera með okkur. Við eigum að þekkja hvernig atvinnulífið er annars staðar en rétt við naflann á okkur.“ Fyrsta ferð kvenna í sjávarútvegi var til Vestmannaeyja. Andrea Atladóttir í Vinnslustöðinni og Ingibjörg Bryngeirsdóttir stýrimaður á Herjólfi sátu þá í fyrstu stjórn félagsins. Ferðin var dagsferð til Eyja. ,,Ævintýraleg eins og alltaf þegar maður kemur til Eyja og forréttindi að vera Vestmanneyingur og sjá ókunnunga upplifa fegurðina og sérstakt mannlíf, það eru ekki bara við sem upplifum þessa sérstöðu. Ég hef aldrei upplifað annað en að fólk sé heillað yfir Eyjunum og samfélaginu. Konurnar fóru meðal annars í heimsókn til Gríms kokks. Stelpurnar hjá honum þær sem vilja ættu að vera í félaginu. Grímur kokkur er sannarlga að vinna úr sjávarafurðum.“   Vinnið að jafnrétti – þá komist þið í félagið ,,Í framhaldi af ferðinni norður er á döfinni að stofna deild á Akureyri svo norðankonur geti verið með atburði fyrir sig. Við heimsóttum forsetann í haust og erum á leið í heimsókn til sjávarútvegsráðherra. Við erum líka að skoða samstarf við erlend félög kvenna í sjávarútvegi. Það er margt spennandi framundan,“ segir formaður félags kvenna í sjávarútvegi. Í fyrra voru fyrirtæki á Tröllaskaga og við Eyjafjörð heimsótt og í maí verður farið á austurlandið. Langtíma markmið kvenna í sjávarútvegi er að félagsskapurinn sem slíkur verði óþarfur. ,,Þegar við erum farnar að upplifa fullkomið jafnrétti þá verður þetta félag fólks í sjávarútvegi. Vinnið þið bara að jafnrétti karlar og þá komist þið inn í félagið,“ eru skilaboð formannsins til karla í sjávarútvegi. Freyja var tilnefnd til Stjórnunarverðlauna hjá Stjórnvísi sem formaður KIS. ,,Er bara svolítið stolt af því, það er eitthvað gott að gerast í þessu félagi. Tilnefningin snýst ekki um mig, það er félagið í heild sem á þennan heiður“.   Hjartað stækkar um helming Hvað gerir útgerðarstjórinn og formaður kvenna í sjávarútvegi utan vinnutíma? ,,Ég pakkaði málverkinu niður fyrir nokkrum árum og það er þarna og bíður betri tíma. Menntunin og reynslan fara ekkert frá mér. Ég hef ekki áhyggjur af því, núna er bara tími fyrir annað. Ég syng í 120 kvenna kór, Léttsveit Reykjavíkur. Við komum til Eyja og þær gleyma því aldrei. Við vorum að labba í kórkjólunum frá Heimi og upp í Höll og fólk bara stoppaði, á ég að skutla ykkur? Þær voru alveg heillaðar af þessu öllu saman.“ Nú færist sérstakt bros yfir andlit Freyju. ,,Ég á náttúrulega yndin mín, ég á tvö barnabörn. Það gjörbreytir lífi manns að verða amma. Það er stærsta breytingin í lífinu alla vega eins langt aftur og ég man og það er yndislegt. Hjartað stækkar um helming og helst þannig og áhuginn fyrir samskiptum við litlu manneskjurnar eru mjög ofarlega á listanum. “ Nýjasta DELLAN er golfið. Ég er í Golfkúbbi Reykjavíkur. Þetta er hreyfingin mín og útvist, ég er búin að taka allan pakkann. Ég var í vetrarfjallamennsku og alls konar ævintýrum en þetta er það sem stendur upp úr núna. Ég spila eins mikið og ég get og fer eins oft til Eyja að spila og hægt er. Hamingjan mín núna er að Vestmannaeyjar er vinavöllur Golfklúbbs Reykjavíkur þetta árið. Það er æðislegt.“   Konur í Eyjum takið þátt Freyja er með skilaboð til kvenna í Eyjum. ,,Stelpur, allar konur í Eyjum sem tengjast á einn eða annan hátt sjávarútvegi, hafa starfað eða starfa í sjávarútvegi. Komið í félagið og verið með. Það er hagur okkar allra. Það er hagur samélagsins og barna okkar að opna þennan geira með heildarmyndina í huga. Skráið ykkur í félagið á heimsíðunni kis.is, opnið þennan möguleika og takið þátt í því sem þið getið. Félagsgjaldið er ekki hátt og ávinningurinn er mikill,“ segir Eyjakonan Freyja Önundardóttir í lokin.  

Eyjamenn vikunnar: Stefna sett á fleiri crossfit mót

Hressómeistarinn fór fram í 11. skiptið á dögunum og voru þar Erna Dögg Sigurjónsdóttir og maki hennar Hörður Orri Grettisson afar sigursæl en bæði stóðu þau uppi sem sigurvegarar í einstaklingskeppnum, liðakeppnum og parakeppni þar sem þau kepptu saman. Hörður Orri og Erna Dögg eru því bæði Eyjamenn vikunnar að þessu sinni.   Nafn: Hörður Orri Grettisson. Fæðingardagur: 10.09.1983. Fæðingarstaður: Vestmannaeyjar. Fjölskylda: Sambúð með Ernu Dögg og við eigum saman 3 börn, Emblu, Tönju og Gauta. Draumabíllinn: Hvítur Range Rover. Uppáhaldsmatur: Kjöt í karrý. Versti matur: Súrmatur. Uppáhalds vefsíða: Eyði of miklum tíma á facebook. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Emmsjé Gauti og Aron Can til dæmis. Aðaláhugamál: CrossFit, Karlakórinn og Liverpool. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Jurgen Klopp. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Börnin mín og ÍBV eru að sjálfsögðu númer eitt. Liverpool er mitt lið í enska boltanum og svo held ég mikið uppá Ragnheiði Söru í Crossfittinu, hún er frábær íþróttamaður. Ertu hjátrúarfullur: Nei. Stundar þú einhverja hreyfingu: Ég stunda Crossfit sem er mjög fjölbreytt hreyfing, frá ólympískum lyftingum yfir í fimleika. Uppáhaldssjónvarpsefni: Enski boltinn, missi helst ekki af leik með mínum mönnum. Hvenær byrjaðir þú að æfa Crossfit: Fyrir um það bil 4 árum. Hefur hreyfingin alltaf verið sameiginlegt áhugamál hjá ykkur: Crossfitið hefur verið sameiginlegt áhugamál. Er stefnan að taka þátt í fleiri mótum: Já það er stefnan, það er gaman að skora á sjálfan sig og taka þátt í mótum.   Nafn: Erna Dögg Sigurjónsdóttir. Fæðingardagur: 13. mars 1984. Fæðingarstaður: Reykjavík. Fjölskylda: Í sambúð með Herði Orra og eigum við saman 3 börn, Emblu Tönju og Gauta. Draumabíllinn: Hvítur Range Rover. Uppáhaldsmatur: Finnst lambalæri alltaf gott. Versti matur: Er ekki mikið fyrir þorramat. Uppáhalds vefsíða: Þær er margar. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Ég er alæta á tónlist, þannig að flest öll tónlist. Aðaláhugamál: Fjölskyldan, líkamsrækt og vera með vinum. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Vestmannaeyjar. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: ÍBV og finnst mjög gaman að fylgjast með börnunum mínum. Ertu hjátrúarfull: Nei, myndi ekki segja það. Stundar þú einhverja hreyfingu: Já, Crossfit og svo fer ég stundum út að hlaupa. Uppáhaldssjónvarpsefni: Finnst gaman að Chicago Med og Chicago Fire. Hvenær byrjaðir þú að æfa Crossfit: Fyrir ca. 4 árum. Hefur hreyfingin alltaf verið sameiginlegt áhugamál hjá ykkur: Eftir að við byrjuðum í Crossfit þá hefur þetta orðið að sameiginlegu áhugamáli. Er stefnan að taka þátt í fleiri mótum: Já, er búin að skrá mig í Crossfitleikana sem fara fram í Digranesi í byrjun apríl.    

Uppköst og niðurgangur barna

Niðurgangur á fyrstu þremur árum ævinnar er mjög algengur kvilli. Þyngist barnið eðlilega og þrífst, eru lausar hægðir í sjálfu sér ekki áhyggjuefni. Stundum hafa börn þó langvarandi niðurgang vegna ónógrar fitu í fæðunni, slíkur niðurgangur læknast jafnskjótt og barnið fær næga fitu í matnum. Skyndileg uppköst og niðurgangur hjá börnum orsakast oftast af veirusýkingu og ganga yfir á 3-13 dögum án lyfjameðferðar. Barn hefur niðurgang þegar það hefur vatnsþunnar hægðir oftar en þrisvar sinnum á dag. Við niðurgang og uppköst tapar líkaminn vökva og mikilvægum söltum sem getur orsakað þurrk. Eftir því sem vökvatapið er meira eykst slappleikinn. Mikilvægt er að grípa strax inn í til að koma í veg fyrir ofþornun. Einkenni þurrks geta t.d. verið: minnkuð þvaglát, munnþurrkur, lítil tár við grát, þreyta, slappleiki eða pirringur.   Vægur niðurgangur með eða án uppkasta. Börn með vægan niðurgang og einstaka uppköst hafa yfirleitt matarlyst. Ef niðurgangurinn er mjög vægur og barnið drekkur og hefur matarlyst er yfirleitt ekki þörf fyrir sérstakar aðgerðir. Ávallt er mikilvægt að huga að því að barnið drekki vel.   Töluverður niðurgangur með eða án uppkasta. Börn, sem hafa oft niðurgang og einstaka uppköst en eru með matarlyst og vilja drekka, þurfa að drekka ríkulega af vökva og borða eins og þau hafa lyst til. Vökvinn, sem þeim er boðinn ætti að vera við stofuhita og jafnvel sérstök sykursaltvatnslausn sem fæst í apótekum. Ef barnið þambar vökvann og ælir strax í kjölfarið þá skal gefa sopa og sopa í einu en oft þannig að nægri vökvainntöku sé náð. Samhliða sykursaltvatnsblöndu á alltaf að halda áfram með brjósta- og/eða þurrmjólkurgjöf.Gefið barninu að borða sitt venjulega fæði og það sem barnið hefur lyst á. Ef barnið virðist fá ónot af því að drekka mjólk þarf að draga úr mjólkurgjöfinni. Forðast skal gosdrykki og sæta safa nema þá hreina safa. Lyf til að stöðva niðurgang eru ekki ætluð börnum. Alltaf skal hafa samband við heilsugæsluna, lækni eða hjúkrunarfræðing ef: • ofangreindar aðferðir duga ekki til að koma nægjanlegum vökva í barnið. • barnið fær einkenni þurrks þrátt fyrir ofangreindar ráðleggingar. • barnið fær háan hita. • blóð er í hægðum. • barnið er óeðlilega syfjað, slappt, eða ergilegt. • foreldrar eru áhyggjufullir og vantar ráðgjöf.   Mikilvægt er að gæta fyllsta hreinlætis til að forðast smit. Þvo hendur eftir bleyjuskipti, salernisferðir og fyrir matargerð! Ávallt er mikilvægt að huga að því að barnið drekki vel.   f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir Ljósmóðir og hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar á Klaustri  

Hinsegin fræðsla fyrir unga sem aldna

Mánudaginn 13. mars sóttu fulltrúar Samtakanna ´78 Vestmannaeyjar heim og fræddu bæjarbúa um mikilvægi fjölbreytileikans í samfélaginu. Um morguninn hlýddu nemendur Grunnskóla Vestmannaeyja á fyrirlestur samtakanna um fjölbreytileika kynhneigðra og kynvitund og var ekki annað að heyra en að krakkarnir hafi verið til fyrirmyndar. Í hádeginu var síðan boðið upp á súpu í Sagnheimum þar sem fræðslufulltrúi var með erindi fyrir eldri kynslóðina þar sem áherslan var á hinsegin hugtök, staðalmyndir og fordóma í samfélaginu. Að erindinu loknu opnaði Sólveig Rós, fræðslufulltrúi samtakanna, farandsýninguna Ég fæ ekki af mér að flýja af hólmi frá Þjóðminjasafninu í Einarsstofu en hún segir frá réttindabaráttu hinsegin fólks hér á landi. Blaðamaður hafði samband við Sólveigu Rós og ræddi nánar við hana um fræðsluna og stöðu hinsegin fólks á Íslandi. „Jafningjafræðsla Samtakanna ´78 hefur verið til í áratugi. Í dag erum við með hóp af þjálfuðum sjálfboðaliðum sem að fara í grunnskóla, framhaldsskóla og félagsmiðstöðvar og tala um mismunandi kynhneigðir, kynvitundir og kyneinkenni, ásamt því að tala um mikilvægi þess að láta fordóma og staðalímyndir ekki hamla okkur,“ segir Sólveig Rós. Eins og Sólveig segir hefur jafningjafræðslan verið við lýði um árabil og í dag fara samtökin nánast hvert á land sem er og kynna fjölbreytileikann fyrir fólki á öllum aldri og á hvaða vettvangi sem er. „Við erum með samning við bæði Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbæ og þar förum við í langflesta grunnskóla með þessa fræðslu. Þar fyrir utan erum við pöntuð nánast hvert á land sem er, á síðastliðnu ári fórum við t.d. á Sauðárkrók, Ísafjörð, Suðureyri og Þingeyri, Reykjanesbæ og Fljótsdalshérað. Einnig sé ég, sem fræðslustýra, um að fara með námskeið til kennara, heilbrigðisstarfsfólks og annarra hópa sem vilja fræðast um málefnin. Svo erum við með fræðslu sem er sérsniðin fyrir þjálfara og forsvarsfólk íþróttafélaga sem er meðal annars kennd í þjálfaranámi ÍSÍ og KSÍ.“ Hvernig tóku krakkarnir í Grunnskóla Vestmannaeyja þessari fræðslu? „Krakkarnir tóku mjög vel í fræðsluna. Það komu góðar umræður og góðar nafnlausar spurningar svo við erum mjög ánægð með fræðsluna. Það er alltaf gaman að ræða þessa hluti við unglinga og líka mjög gaman að heyra hvað þau vita mikið nú þegar um hinsegin málefni,“ segir Sólveig. Aðspurð hvað hafi vakið mesta athyglina hjá krökkunum segir Sólveig að best væri að spyrja krakkana sjálfa en bætir þó við að myndir af frægu hinsegin fólki hafi vakið viðbrögð. „Við fengum mestu viðbrögðin þegar við sýndum þeim glæru með myndum af allskonar hinsegin fólki, allt frá Páli Óskari til Miley Cyrus, Jóhönnu Sigurðardóttur til Ian McKellan. Bæði var þar fólk sem þau þekktu en vissu örugglega ekki að væru hinsegin, sem og hinsegin fyrirmyndir sem þau þekktu vel. Markmiðið með þeirri glæru er að opna á umræðuna um að hinsegin fólk er allskonar og að staðalmyndir um hinsegin fólk ná oftast ekki að lýsa raunveruleikanum.“ Ertu ánægð með hádegisfundinn í Sagnheimum? „Ég er mjög ánægð með hádegisfundinn. Við vorum ekki viss um hversu margir myndu mæta en salurinn var nánast fullur. Það sköpuðust góðar umræður og súpan var bragðgóð. Svo var mér sannur heiður að opna sýninguna Ég fæ ekki af mér að flýja af hólmi sem verður staðsett í Einarsstofu næstu vikurnar en þar segja hinsegin einstaklingar af ólíkum kynslóðum hluta af sinni sögu og hvet ég öll til þess að mæta og kynna sér sýninguna,“ segir Sólveig Rós. Hvernig finnst þér staða hinsegin fólks á Íslandi vera í dag? „Í heildina er staða hinsegin fólks á Íslandi ágæt og betri en á mörgum öðrum stöðum. Það er þó samt mismunandi eftir því um hvaða hóp er verið um að ræða. Lagalegu jafnrétti samkynja para á við önnur hefur að miklu leyti verið náð en trans fólk glímir enn við sjúkdómsvæðingu og intersex fólk er hvergi til í löggjöf né eru réttindi þeirra til líkamlegrar friðhelgi virt. Í viðbót við það vantar á Íslandi heildstæða jafnréttislöggjöf. Við erum því í u.þ.b. 14. sæti samkvæmt Regnbogakorti ILGA-Europe sem mælir lagalega stöðu hinsegin fólks í Evrópu. Ef við skoðum félagslegu hliðina þá getur verið erfitt að koma út úr skápnum eða gera sér grein fyrir eigin hinseginleika og því miður glímir ungt hinsegin fólk við mun hærri tíðni af þunglyndi, kvíða og sjálfskaða heldur en aðrir jafnaldrar þeirra. Það er því mikil barátta eftir en þetta horfir þó allt í rétta átt og við erum þakklát fyrir öll tækifæri til að auka á umræðuna, eins og með þessari heimsókn til Vestmannaeyja,“ segir Sólveig.  

Fjórir syntu heilt sund

Föstudaginn 10. mars var hið árlega Guðlaugssund haldið í sundhöll Vestmannaeyja. Sundið er haldið til minningar um sundafrek Guðlaugs Friðþórssonar þegar Hellisey VE fórst árið 1984 og hóf það göngu sína strax árið 1985. Alls voru það fjórir sem fóru heilt sund en það er hvorki meira né minna en sex kílómetrar. Magnús Kristinsson var tvær klukkustundir og 55 mínútur með kílómetrana sex en hann var að synda Guðlaugssundið í 15. skipti. Helgi Einarsson, sem var að synda í tíunda skiptið, var á tímanum ein klukkustund og 40 mínútur. Sonja Andrésdóttir fór heilt sund í annað skiptið á tímanum 2 klst. og 55 mín. Sigmar Þröstur Óskarsson fór einnig heilt sund og það í fyrsta skiptið og var hann á tímanum tvær klukkustundir og 42 mínútur. Upphaflega ætlaði Sigmar einungis að taka þrjá kílómetra en keppnisskapið og dagsformið gerði honum kleift að klára alla sex. Bjarni Jónasson og Páll Zóphaníasson syntu saman sex kílómetra líkt og í fyrra, Páll með fjóra og Bjarni tvo, og voru þeir á tímanum þremur klukkustundum og 25 mínútum. Frá sundfélaginu syntu Svanhildur Eiríksdóttir og Auðbjörg Helga Óskarsdóttir saman sex kílómetra á tímanum tvær klukkustundir og 20 mínútur, Svanhildur með fjóra kílómetra og Auðbjörg tvo. Súsanna Sif Sigfúsdóttir og Hinrik Ingi Ásgrímsson fóru einnig sex kílómetra saman, Súsanna með þrjá og hálfan kílómetra og Hinrik tvo og hálfan og voru þau á tímanum tvær klukkustundir og 49 mínútur.  

Skuldir félagsins lækkað um 130 milljónir á fjórum árum

Okkur fannst kjörið að heyra í formanni ÍBV íþróttafélags þar sem nú stendur fyrir dyrum aðalfundur félagsins fyrir rekstrarárið 2016. Staða félagsins hefur gjörbreyst til batnaðar á undanförnum fjórum árum. Umfang félagsins hefur aukist og fjárhagsstaðan stórbatnað. Íris Róbertsdóttir hefur verið í stjórn ÍBV Íþróttafélags í fjögur ár og sem formaður síðustu tvö árin. Auk hennar eru í aðalstjórn Aníta Óðinsdóttir, Guðmundur Ásgeirsson, Páll Magnússon, Stefán Jónsson, Unnur Sigmarsdóttir, Unnar Hólm Ólafsson og svo fulltrúar deilda þeir Karl Haraldsson og Haraldur Bergvinsson. Þegar Íris lítur yfir þessi fjögur ár í stjórn og tvö ár sem formaður segist hún vera nokkuð sátt. „Það er í mörg horn að líta hjá jafn kröftugu félagi og ÍBV þar sem sumt ratar í fjölmiðla og annað ekki. Fyrir utan allt hefðbundna íþróttastarfið þá stendur félagið fyrir fjórum af fimm stærstu viðburðum sem haldnir eru hér í Eyjum á hverju ári. Starfsmenn og sjálfboðaliðar félagsins búa yfir mikilli reynslu og þekkingu hvað varðar stjórnun og utanumhald á þessum viðburðum því ekkert af þessu gerist af sjálfu sér, enda eru starfsmenn og sjálfboðaliðar félagsins ómetanlegur fjársjóður.''   Fjárhagsleg endurskipulagning Fjárhagsstaða félagsins hefur oft verið vinsælt umræðuefni í bænum, hvernig er staðan á félaginu í dag? „Þegar ég ásamt fleirum komum inn í stjórnina fyrir 4 árum var fjárhagsstaða félagsins mjög erfið; skuldirnar voru tæpar 170 milljónir króna og félagið ekki rekstrarhæft. Í dag er staðan allt önnur enda var markvisst farið í endurskoðun á öllum þáttum í rekstri félagsins. Nú er starfandi sérstök fjárhagsnefnd hjá félaginu sem var hluti af þeirri fjárhagslegu endurskipulagningu sem ráðist var í 2014. Við þá endurskipulagningu var leitað til Vestmannaeyjabæjar, Vinnslustöðvarinnar og Ísfélagsins og Íslandsbanka sem kom inn á seinni stigum. Samkomulag við þessa aðila gerði félaginu kleift að semja við lánardrottna og endurskipuleggja fjárhaginn. Skrifað var undir þriggja ára samning við þessa aðila í mars 2014 sem er núna að renna út. Það er gaman að segja frá því að nú er verið að funda með þessum aðilum og staðfesta árangurinn. Stjórn félagsins hefur ákveðið að fjárhagsnefndin verði áfram hluti af skipulagi félagins enda hefur þetta fyrirkomulag sannað gildi sitt. Farið var ofan í allan rekstur félagsins á þessum árum með því að taka upp samninga við styrktaraðila og endurskoða alla útgjaldaliði með það í huga hvar væri hægt að hagræða. Ein af forsendum þess að þetta gekk upp hjá okkur hefur verið mjög góð afkoma af síðustu Þjóðhátíðum, en hún hefur skilað félaginu því rekstrarfé sem það þarf.“   Gjörbreytt staða Hver er staða félagsins þá í dag? „Staðan er allt önnur í dag en þrátt fyrir það þarf alltaf að vera vakandi yfir rekstrinum. Félagið veltir yfir 500 miljónum á ári og velta félagsins hefur tvöfaldast frá árinu 2009. Skuldir félagsins í dag eru um 40 milljónir og hafa því lækkað um 130 milljónir á síðustu fjórum árum. Rekstur íþróttafélags verður alltaf erfiður og eru okkar góðu styrktaraðilar forsenda þess að þetta gengur upp ásamt því að þjóðhátíðin haldi áfram að skila sínu. Við erum með að jafnaði 43 stöðugildi hjá félaginu og um 60 á launaskrá í hverjum mánuði. Það er því óhætt að segja að þetta sé eitt af stærstu fyrirtækjunum í Vestmannaeyjum.“   Viðkvæm umræða Stundum kemur upp neikvæð umræða í tengslum við félagið. Er erfitt að fást við það? „Það er óhjákvæmilegt að stundum komi eitthvað uppá í jafn umfangsmikilli starfsemi og ÍBV stendur fyrir. Segja má að svo gott sem allir bæjarbúar séu í nánast daglegri snertingu við félagið með einhverjum hætti; ef ekki beint sjálfir þá í gegnum börn eða barnabörn eða vini og ættingja. Starfsemin spannar líka knattspyrnumót með þúsundum gesta, þrettándann og síðan okkar einstöku þjóðhátíð. Félagið hefur lagt gríðarlega áherslu á það síðustu árin að vanda vel til verka; bregðast hratt og faglega við vandamálum sem koma upp. Kalla til færustu utanaðkomandi fagaðila og sérfræðinga þegar svo ber undir; leggja eyrun við rökstuddri gagnrýni og bregðast við henni. Okkur er fullljóst að það má alltaf gera betur á öllum sviðum og það kappkostum við að gera á hverjum degi.''   Bíómynd tekin á Orkumóti! ''Félagið er fyrst og fremst íþróttafélag og verkefnin eru fjölbreytt. ÍBV gegnir auðvitað stóru hlutverki í samfélaginu þar sem hjá okkur æfa t.d. um 50% nemenda í Grunnskóla Vestmannaeyja. Bæjarbúar hafa alltaf haft ákveðnar skoðanir á félaginu sínu og er það eðlilegt þar sem félagið er okkar allra. Við sem erum í forsvari fyrir félagið vitum að það er alltaf hægt að gera betur þó svo að við teljum að við séum á réttri leið með félagið okkar. Það hafa allir skoðun á ÍBV og við viljum hafa það þannig, félagið er okkar stolt og eitt sterkasta og þekktasta vörumerki Vestmannaeyja. Starfsmenn félagsins eru um þessar mundir að leggja lokahönd á undirbúning fyrir sumarið og t.d. hófst undirbúningur Þjóðhátíðar í október og undirbúningur fótboltamótanna í lok síðast árs. Nú í sumar á að fara að gera bíómynd um Orkumótið hjá okkur eftir bókinni Víti í Vestmannaeyjum og gert er ráð fyrir að hún verði frumsýnd vorið 2018. Það er því óhætt að segja að það sé alltaf nóg að gerast hjá félaginu.''  

Full þörf á því í dag að huga vel að vátryggingarmálum

Fulltrúar Viðlagatryggingar Íslands hafa frá 10. nóvember í fyrra ferðast um land allt og haldið fundi með sveitarfélögum og lauk þeirri yfirferð þegar þau heimsóttu Vestmannaeyjar á mánudag. Það er viðeigandi að yfirferðinni ljúki í Vestmannaeyjum þar sem svokölluðum Viðlagasjóði, forvera VTÍ, var komið á fót í framhaldi af eldgosinu í Vestmannaeyjum 1973. Í september 2015 var virði eigna sem VTÍ vátryggði ríflega 10.200 milljarðar króna, þar af voru fasteignir um 7.300 milljarðar (71%), innbú og lausafé um 2.200 milljarðar (22%) og veitur og önnur mannvirki um 750 milljarðar (7%). Tilgangur heimsóknanna er að efla tengslin milli VTÍ og sveitarfélaganna í landinu en Viðlagatrygging Íslands vátryggir allar fasteignir á Íslandi gegn náttúruhamförum. Auk þess vátryggir stofnunin mannvirki, s.s. veitukerfi og hafnarmannvirki í eigu ríkis og sveitarfélaga. Veitukerfin eru hluti af grunnþjónustu samfélagsins og því mikilvægt að sveitarfélögin séu tryggð og hafi bolmagn til að endurreisa þau ef til tjóns kemur. Til að VTÍ geti sinnt hlutverki sínu þurfa þessi mannvirki að vera vátryggð og rétt skráð og á fundunum hefur verið farið yfir réttindi sveitarfélaganna til að sækja bætur til Viðlagatryggingar, þannig að öruggt sé að tilkynnt sé um þau tjón sem falla undir bótaskylduna. Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Viðlagatrygginga Íslands, sagði í samtali við blaðamann eftir fundinn að það væri mikilvægt fyrir öll sveitafélög á Íslandi að hafa náttúruhamfaratryggingarnar sínar í lagi og að það væri mikill misskilningur að einhver geti talið sig utan áhættu. „Skilningur þeirra sem eru í forsvari fyrir Vestmannaeyjabæ er kannski meiri en þeirra sem ekki hafa reynslu af náttúruhamförum. Náttúruhamfaratryggingin sem Viðlagatrygging Íslands annast var náttúrulega lögleidd m.a. vegna reynslunnar sem varð í Vestmannaeyjagosinu 1973. Þá kom í ljós hversu mikilvægt væri að safna upp sjóðum til að standa straum af svona ófyrirsjáanlegum tjónsatburðum eins og urðu þá. En það er regin misskilningur að náttúruhamfarir geti bara átt sér stað þar sem þær hafa áður orðið. Margir telja að þeir séu „öruggir“ af því að þeir búi ekki á skilgreindu hættusvæði. Við höfum einmitt haldið á lofti þeim sjónarmiðum að eldgosið í Vestmannaeyjum hafi komið fólki í opna skjöldu þegar það varð, vegna þess að þeir sem eru á svæðum sem sloppið hafa vel frá náttúruhamförum hafa tilhneigingu til að upplifa sig „utan áhættu“.“ Viðlagatrygging Íslands annast líka skylduvátryggingar gegn náttúruhamförum á fasteignum og brunatryggðu innbúi og lausafé. „Almennu vátryggingafélögin annast innheimtu iðgjalda samhliða innheimtu á brunatryggingaiðgjöldum og skila til okkar. Það er mikilvægt að koma á framfæri til fólksins í landinu að innbúin þeirra eru ekki vátryggð gegn náttúruhamförum nema þau séu brunatryggð hjá almennu vátryggingafélagi,“ segir Hulda Ragnheiður. Elliði Vignisson bæjarstjóri sagði í samtali við Eyjafréttir að á fundinum hafi Vestmannaeyjabæjar rætt við Viðlagatryggingar um aukið samstarf. „Vestmannaeyjabær er í dag með um átta milljarða sérstaklega vátryggða hjá VTÍ auk þess sem allar fasteignir okkar og innbú njóta trygginga hjá þeim í gegnum skyldu- og innbústryggingar í gegnum almenn tryggingafélög. Það er því afar mikilvægt að við séum sífellt á tánum með að vátryggingafjárhæðin endurspegli raunverðmæti eigna. Þannig er til að mynda bara hafnarmannvirkin okkar vátryggð hjá VTÍ fyrir rúmlega fimm milljarða. Við Eyjamenn þekkjum jú að hamfarir og náttúruvá getur á augabragði svipt samfélagið ótrúlegum eignum.“    

Um 60 krakkar úr Eyjum mættu í prufurnar

Eins og greint var frá í Eyjafréttum í síðustu viku munu tökur kvikmyndarinnar Víti í Vestmannaeyjum fara fram í sumar en það er Sagafilm sem framleiðir myndina. Fyrir þá sem ekki þekkja er Víti í Vestmannaeyjum fyrsta bókin í vinsælum bókaflokki Gunnars Helgasonar. Á föstudaginn fór fram kynningarfundur á verkefninu í Týsheimilinu þar sem Gunnar Helgason, Bragi Þór Hinriksson, leikstjóri myndarinnar og Þórhallur Gunnarsson, aðalframleiðandi Sagafilm, fóru yfir málin með áhugasömum. Sýnt var kynningarmyndband um kvikmyndina þar sem Orkumótið, eldgos og óviðjafnanleg náttúrufegurð Vestmanneyja var í forgrunni. Það kom skýrt fram hjá aðstandendum myndarinnar að tökurnar í sumar eigi ekki að hafa mikil áhrif á Orkumótið sjálft og munu þau frekar laga sig að þörfum mótsins en öfugt. Aðspurð á fundinum hvort tökuliðið og aðrir starfsmenn myndu nýta sér alla þjónustu í Eyjum eins og völ er á, svöruðu þau því játandi. Einnig tóku þau fram að þörf væri á gistirými fyrir nokkurn fjölda fólks meðan á tökum stendur en gera má ráð fyrir að einhverjir tugir starfsfólks frá Sagafilm verði í Eyjum hverju sinni. Í kjölfar fundarins fóru fram prufur þar sem fjöldi ungmenna fengu að spreyta sig fyrir framan myndavélina. Þegar blaðamaður heyrði í Þórhalli Gunnarssyni á föstudaginn voru prufur enn í fullum gangi en gera má ráð fyrir að um 60 krakkar úr Eyjum hafi mætt í prufurnar. „Þetta eru mjög gagnlegar prufur og margir efnilegir leikarar og leikkonur á ferðinni, þetta verður erfitt en skemmtilegt val. Svo verðum við með prufur í Reykjavík 2. apríl og eftir það fer allt að skýrast,“ sagði Þórhallur.    

Vertíðin fór fram úr okkar björtustu vonum

„Það sem einkenndi þessa vertíð var góð veiði, gott síli og gott veður,“ segir Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar þegar hann gerir upp loðnuvertíðina. „Vertíðin fór fram úr okkar björtustu vonum þrátt fyrir að í upphafi árs hafi bjartsýnin ekki verið mikil. Þá stóð sjómannaverkfall og Hafró nýkomið úr rannsóknarleiðangri, sem uppsjávarútgerðirnar borguðu að hluta, með ráðgjöf upp á heildarkvóta í loðnu 57.000 tonn og af þeim áttu íslenskar útgerðir að fá 11.500 tonn. Restin fór til annarra þjóða og íslenska ríkisins. Á þeim tímapunkti var ríkið ekki tilbúið til að standa fyrir öðrum loðnuleiðangri sem átti að kosta ca. 40 milljónir. Loðnuútgerðirnar tóku sig því saman og tryggðu Hafró fjármuni og skip til að fara í annan leiðangur og skilaði sá leiðangur því að loðnukvótinn var rúmlega fimmfaldaður og varð 299.000 tonn og grundvöllur kominn fyrir þokkalegri vertíð.“ Vertíðin hófst svo um leið og verkfallið leystist og stóð samfellt í fjórar vikur. „Það sem situr helst í manni eftir vertíðina er hvað við vitum í raun lítið um loðnuna og hvað vantar mikið upp á að við sinnum almennilegum rannsóknum á þessum mikilvæga nytjastofni okkar. Það virðist líka ríkja mikið skilningsleysi innan stjórnkerfisins á mikilvægi þess að stunda öflugar rannsóknir og t.d. að ríkið hafi ekki verið tilbúið að leggja fram auka 40 milljónir til að leita að loðnu sem skilaði þjóðarbúinu á endanum einhverjum 15-20 milljörðum er mjög undarleg forgangsröðun,“ segir Sindri sem er nokkuð bjartsýnn á framhaldið. „Ég er nokkuð viss um að loðnustofninn er talsvert stærri en mælingar sögðu til um og vonandi skilar það sér þá í góðri hrygningu.“    

Óskar Ólafsson er matgæðingur vikunnar - Búri með pistasíusalsa með sojasmjörsósu og sætkartöflumús

Ég þakka Hörpu kærlega fyrir áskorunina og ætla bjóða ykkur upp á frábæran fiskrétt.   Sætkartöflumús • ca 5-600 gr sætar kartöflur, skrældar og skornar í bita • 1-2 kartöflur, skrældar og skornar í bita • 1/2 rautt chili, fræhreinsað • safi úr 1/2 límónu (lime) • ca 1 msk smjör • salt og pipar  Kartöflur og sætar kartöflur skrældar og skornar í svipað stóra bita. Þær eru svo settar í pott og vatn rétt látið fljóta yfir. Chili skorið í tvennt langsum, fræin hreinsuð úr og því svo bætt út í pottinn. Til að fá bragðsterkari kartöflumús er hægt að saxa chili smátt. Límónusafa bætt út í pottinn. Suðan látin koma upp og soðið í 15-20 mínútur eða þar til að kartöflurnar eru orðnar mjúkar. Vatninu helt af og chili (ef það er í heilu) fjarlægt. Kartöflurnar stappaðar fínt með smjöri og bragðbættar með salti, pipar og jafnvel meiri límónusafa. Til að skerpa á hitanum á sætkartöflumúsinni er hún sett í pott og hituð upp við meðalhita, hrært í á meðan.   Búri með pistasíusalsa • ca 600 gr Búri eða hvaða fiskur sem er • salt og pipar • 3-4 msk pistasíuhnetur, saxaðar (má líka nota furuhnetur) • 3 msk sítrónusafi og rifið hýði af 1/2 sítrónu • 1 msk olífuolía • ca 1 dl fersk steinselja, söxuð • 1/4 – 1/2 rautt chili, fræhreinsað og fínsaxað   Ofninn hitaður í 220 gráður. Búrinn skorinn í bita og þeim raðað í smurt eldfast form. Kryddað með salti og pipar. Því næst er blandað saman í skál: pistsíuhnetum, sítrónusafa, sítrónuhýði, steinselju, chili og ólífuolíu. Blöndunni er dreift yfir fiskinn. Bakað í miðjum ofni við 220 gráður í ca 12-15 mínútur eða þar til fiskurinn er fulleldaður. Gætið þess að ofelda hann ekki.   Sojasmjörsósa • 3 msk smjör • 1 skarlottulaukur (hægt að nota 1/2 rauðlauk), saxaður fínt • 1 hvítlauksrif, saxað fínt • 1 tsk rautt chili, saxað fínt • 2-3 msk sojasósa • 1 msk steinselja, söxuð smátt   Smjör brætt í potti og látið krauma við fremur vægan hita í ca 15 mínútur þannig að smjörið verði brúnt. Froðan veidd af smjörinu. Lauk, hvítlauk, sojasósu, chili og steinselju blandað saman í skál og blandað út í smjörið rétt áður en sósan er borin fram. Njótið gjarnan með góðu hvítvínsglasi!   Ávaxtaeftirréttur Skera niður 2 stk banana og 3 epli 100 gr súkkulaði 100 gr döðlur, sett í eldfastmót. 50gr sykur + 1 egg hrært saman og svo er bætt við 50gr kókos 40gr hveiti, 1tsk ger. Það er svo dreift yfir ávextina og smá púðursykur yfir allt samna. Sett í ofn á 150 í klst.   Ég ætla að skora á Jóhann Inga Óskarsson sem næsta matgæðing, ég veit að hann er snillingur í eldhúsinu.  

Eyjmaður vikunnar - Við byrjuðum í 30 lítra plastfötu og erum núna komnir með 500 lítra kerfi

 Kjartan Vídó Ólafsson, ásamt félögum sínum í The Brothers Brewery, hefur staðið í ströngu síðustu vikur og mánuði við að komu upp nýju brugghúsi og ölstofu í Vestmannaeyjum. Ævintýrið hófst með 30 lítra plastfötu sem í dag er orðið að 500 lítra kerfi sem á að geta framleitt um 70.000 lítra af bjór á ári. Kjartan er Eyjamaður vikunnar.   Nafn: Kjartan Vídó Ólafsson. Fæðingardagur: 17. febrúar 1979. Fæðingarstaður: Vestmannaeyjar. Fjölskylda: Kvæntur Erlu Björgu Káradóttur markþjálfa og söngkonu og eigum við þær Önnu Birnu 13 ára og Kristjönu Emmu 6 ára. Draumabíllinn: Bíll sem ekki þarf að þrífa og bóna. Uppáhaldsmatur: Pulsa með öllu nema remúlaði og mikið af tómatsósu og sinnepi. Versti matur: Pulsa með remúlaði. Uppáhalds vefsíða: Ég nota internetið voðalega lítið, kíki helst á veðrið á www.vedur.is. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Leonard Cohen er í uppáhaldi, góður jazz og svo klikkar ekki Svartur 2 frá Bigga Nielsen. Aðaláhugamál: Eldamennska, drekka og brugga bjór og svo hef ég að undanförnu snúið mér að hannyrðum og þá helst að hekla glasamottur. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Jesú Krist, hef lengi viljað spjalla við hann hvernig það var að alast upp hjá húsasmið á hans tíma. Við höfum pottþétt gengið í gegnum svipaða hluti í æsku ég og Jesú þegar við vorum að smíða með feðrum okkar. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Brandur ber af í fegurð, þar gaf Guð ekki afslátt í sköpun sinni! Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Íþróttafélagið Ægir er mitt félag og vinur minn Guðni Davíð er mitt uppáhald. Ertu hjátrúarfull/ur: Já mjög, ég t.d. syng alltaf franska þjóðsönginn áður en ég fer í Herjólf, Gulli skiptstjóri sagði að þetta hjálpaði og eftir þetta hef ég aldrei orðið sjóveikur. Stundar þú einhverja hreyfingu: Lyfti glösum af og til. Uppáhaldssjónvarpsefni: Það er kominn matur í sjónvarpi Símanns, verð einmitt í þeim þætti fimmtudaginn 23. mars næstkomandi að elda pulsur. Nú er loksins komið að því að ölstofan opni. Er þetta draumur að rætast: Draumur okkar var aldrei að opna ölstofu en hlutirnir þróuðust í þessa átt þegar við fórum að skoða stækkun á okkar búnaði. Við byrjuðum í 30 lítra plastfötu og erum núna komnir með 500 lítra kerfi, það er draumi líkast hvernig sá vöxtur hefur þróast. Hvernig hefur allt ferlið gengið: Við pöntuðum búnaðinn frá Kína í október á síðasta ári og eftir það fórum við að svipast um eftir hentugu húsnæði. Búnaðurinn fór svo í skip á gamlársdag og kom til okkar til Eyja fyrir tveimur vikum. Á meðan fundum við hentugt húsnæði og félagar mínir í Eyjum ásamt konum sínum og fjölskyldum hafa staðið sig gríðarlega vel við við endurbætur á því. Maður er stoltur að eiga svona flotta félaga og bakland þegar tekist er á við svona ævintýri! Hver er þinn uppáhalds bjór: Eldfell af bjórunum okkar, minn gamli nágranni Stiegl frá Salzburg og svo besti bjór í heimi Westvleteren 12. Fékk kassa af þeim bjór á síðasta ári og þarf nauðsynlega að eignast annan kassa sem fyrst aftur.

Heilbrigðis- og samgöngumál brenna helst á Eyjamönnum líkt og fyrri daginn

Í síðustu viku komu nokkrir þingmenn Suðurkjördæmis í heimsókn til Vestmannaeyja þar sem þeir m.a. funduðu með bæjarfulltrúum um mikilvæg málefni sem snerta hagsmuni bæjarbúa. Þingmennirnir sem um ræðir eru þeir Páll Magnússon Sjálfstæðisflokknum, Sigurður Ingi Jóhannsson Framsóknarflokknum, Ásmundur Friðriksson Sjálfstæðisflokknum, Vilhjálmur Árnason Sjálfstæðisflokknum, Ari Trausti Guðmundsson Vinstri grænum, Unnur Brá Konráðsdóttir Sjálfstæðisflokknum, Jóna Sólveig Elínardóttir Viðreisn og Oddný Harðardóttir Samfylkingunni. Blaðamaður sendi þingmönnunum öllum póst þar sem spurt var hvaða mál brenna helst á Vestmannaeyingum að mati þingmannanna eftir heimsóknina á dögunum. Þrír þeirra sáu sért fært um að svara að þessu sinni, þau Oddný G. Harðardóttir, Ásmundur Friðriksson og Ari Trausti Guðmundsson.   Oddný G. Harðardóttir:Bæjarfulltrúarnir lögðu helst áherslu á að það væri mögulegt og öruggt að fæða börn í Vestmannaeyjum og á að samgöngur væru greiðar og ódýrar fyrir Eyjamenn. Skólamálin brenna einnig á Vestmannaeyingum, heilbrigðisþjónustan og sjúkraflutningar.   Ásmundur Friðriksson:Mikilvægustu málin eru heilbrigðis- og samgöngumál eins og fyrr. Farið var yfir heilbrigðismálin af vandvikni og við ætlum áfram að leggjast öll á eitt að fá svör við þeim spurningum hvort efla eigi fæðingarþjónustu í Eyjum eins og krafan er um. Hugmyndin er að halda sameiginlegan fund bæjarfulltrúa, þingmanna, heilbrigðisráðherra og stjórnenda Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og fá bein og skýr svör um framhaldið. Rætt var ýtarlega um samgöngumál. Ferðatíðni og fargjaldastefnu nýrrar ferju. Ég lagði fram upplýsingar um afkomu útgerðar Herjólfs sem hvorki útgerðin eða Vegagerðin hefur mótmælt og þar er sýnt fram á mikinn hagnað af siglingum Herjólfs. Það er því mikilvægt að nýta hluta þess hagnaðar til að hafa eitt og sama fargjald í Þorlákshöfn og Landeyjarhöfn en svigrúm er til þess í rekstrinum og láta Landeyjarhafnarverðið vera grunninn á báðum leiðum. Þá er mikilvægt að halda áfram rannsóknum í og við Landeyjarhöfn til að tryggja betri nýtingu hafnarinnar þegar ný ferja kemur 2018. Þessi tvö mál sem að undan eru talin og síðan lögðu bæjarfulltrúar áherslu á framlög Vestmannaeyinga í sameiginlega sjóði landsmanna og góða stöðu Vestmannaeyjabæjar sem er afar ánægjulegt. Þá kynntu bæjarfulltrúar fyrir þingmönnum laka frammistöðu ríkisins í mörgum þjónustuliðum sem ríkið ber ábyrgð á gagnvart Vestmannaeyingum.   Ari Trausti Guðmundsson:Augljóslega málefni spítalans, og einkum þá fæðingarþjónustunnar, en líka samgöngurnar, bæði til sjós og í lofti. Þar kemur verð og ný ferja við sögu og enn fremur vandkvæði við Landeyjarhöfn.  Elliði Vigisson: Ekki freklegt að ætlast til þess að okkur sé tryggð viðunandi lágmarksþjónusta :Hvernig fannst þér heimsóknin hafa gengið heilt yfir? „Heimsóknin gekk vel. Við hófum umræðuna á því að ræða verkaskiptingu milli ríkisins og Vestmannaeyjabæjar auk þess sem við ræddum ítarlega þá staðreynd að af þeim 8,5 milljörðum sem Eyjamenn greiða í skatt þá eru eingöngu 3,5 þeirra notaðir hér í Vestmannaeyjum, og þá meira að segja þótt við teljum rekstur á Landeyjahöfn með. Séð í því ljósi sé það ekki freklegt að ætlast til þess að okkur sé tryggð viðunandi lágmarksþjónusta,“ segir Elliði Vignisson bæjarstjóri.„Við lögðum höfuðáherslu á heilbrigðismál og samgöngur. Krafa okkar er að tafarlaust verði staðið við niðurstöðu faghóps ráðherra sem einróma komst að þeirri niðurstöðu að hér eigi að reka svo kallaða C1 fæðingaþjónustu með fullu aðgengi að skurðstofu. Hvað samgöngur varðar þá ræddum ítarlega mikilvægi þess að lækka kostnað heimila af samgöngum, tryggja framtíð flugvallar, bæta allt sem snýr að Landeyjahöfn og margt fleira. Þingmennirnir sýndu máli okkar skilning og hétu stuðningi. Það gladdi mig sérstaklega þegar Páll Magnússon fyrsti þingmaður okkar lýsti því að hópurinn myndi sameiginlega koma sér upp skotlista yfir þau verkefni sem að okkur snúa og vinna þarf hratt að. Ekki þarf að efast um að samgöngur og heilbrigðisþjónusta okkar Eyjamanna eru það efst á blaði,“ segir Elliði.

Vestmannaeyjabær mælist til þess að lög um orlof húsmæðra verði lögð niður

Á mánudaginn sendi Vestmannaeyjabær umsögn sína á frumvarpi þar sem mælst er til að lög um orlof húsmæðra verði afnumin. Umsögnina í heild má sjá hér:   Umsögn um frumvarp til laga um orlof húsmæðra (afnám laganna) 119. mál   Með umsögn þessari mælist Vestmannaeyjabær til þess að frumvarpið verði samþykkt og lög um orlof húsmæðra því lögð niður.   Máli sínu til stuðnings bendir Vestmannaeyjabær á að upphafsorð 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hljóðar svo: Markmið laga þessara er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Í ákvæðinu eru taldar upp nokkrar leiðir til að ná fram markmiði laganna, m.a. að gæta jafnréttissjónarmiða og vinna að kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins auk þess að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Ein af þeim leiðum sem nefndar eru til að ná fram markmiði laganna er að bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu. Löggjafinn gerir því ráð fyrir að sum úrræði sem gripið er til nýtist konum fremur en körlum. Með hliðsjón af jafnréttissjónarmiðum og grundvallarreglum stjórnskipunarinnar er þó augljóst að slíkum úrræðum verður eingöngu beitt þegar nauðsyn krefur til og að rétta hlut kvenna þar sem á hefur hallað. Verður ekki séð að lög um orlof húsmæðra uppfylli þetta skilyrði enda fá húsfeður og eða ekklar ekki notið til jafns við konur þess orlofs sem lögin kveða á um. Ljóst má því telja að lög um orlof húsmæðra brjóta gegn lögum um jafna stöðu karla og kvenna og grundvallarreglum íslenskrar stjórnskipunar.   Vestmannaeyjabær bendir einnig á að í kjölfar fyrirspurnar Vestmannaeyjabæjar árið 2007 svaraði Jafnréttisstofa því til að hún teldi líkur á að lög um orlof húsmæðra teljist brot á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Stofan áréttaði þó jafnframt að það sé Alþingis að afnema hin umræddu lög.   Þá bendir Vestmannaeyjabær á að á fundi bæjarstjórnar kvenréttindadaginn 19. júní 2008 samþykkti bæjarstjórn ályktun þess efnis að skorað yrði á Alþingi að afnema lög um orlof húsmæðra og er það hér ítrekað. Í ályktun þess fundar, sem eingöngu var skipaður konum, sagði: Lög um að orlofsnefndir skipuleggi orlof húsmæðra hver í sínu umdæmi og sjái um rekstur orlofsheimila á kostnað bæjarins þykja tímaskekkja. Bæjarstjórn Vestmannaeyja taldi þá að gildandi lög um húsmæðraorlof ekki vera í anda jafnréttis enda taka þau einungis til kvenna.   Að lokum minnir Vestmannaeyjabær á að 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar mælir fyrir um sjálfstjórn sveitarfélaga án þess að tilgreina nánar í hverju sjálfstjórnin felst. Hér er því fyrst og fremst um að ræða stefnuyfirlýsingu stjórnarskrárgjafans um að sveitarfélög skuli njóta sjálfstjórnar. Séð í því ljósi verður að telja brýnt að löggjafinn stígi varlega fram í löggjöf sem bindur hendur sveitarfélaga og slíkt sé fyrst og fremst gert í málum sem skipta þjóðarheildina máli. Á sama hátt er mikilvægt að löggjafinn sé vakandi fyrir því að afnema útelt lög þegar sá tími kemur að málefni séu hætt að skipta þjóðarheild máli.   Bæjarráð Vestmannaeyja er eins og bæjarstjórn einbeitt í vilja sínum að hafa jafnrétti að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Með það að leiðarljósi hvetur Vestmannaeyjabær til þess að lög um orlof húsmæðra verði afnumin.   Elliði Vignisson bæjarstjóri  

Fundur bæjarráðs 15.3.2017

 Bæjarráð Vestmannaeyja - 3046. fundur     haldinn í fundarsal Ráðhúss, 15. mars 2017 og hófst hann kl. 12.00       Fundinn sátu: Páll Marvin Jónsson formaður, Elliði Vignisson bæjarstjóri, Trausti Hjaltason aðalmaður og Stefán Óskar Jónasson aðalmaður.   Fundargerð ritaði: Elliði Vignisson, Bæjarstjóri         Dagskrá:   1. 201702149 - Boðun XXXI. landsþings sambandsins   Erindi frá sambandi íslenskra sveitarfélaga dags. 25. febrúar s.l. þar sem fram kemur að boðað er til XXXI. landsþings sambandsins sem verður haldið föstudaginn 24. mars n.k. á Grand hóteli í Reykjavík.     2. 201701030 - Umsókn um umsögn vegna rekstrarleyfis fyrir Brothers Brewery   Erindi frá Sýslumanninum í Vestmannaeyjum frá 9. janúar s.l. þar sem óskað er eftir umsögn vegna rekstrarleyfis til handa The Brothers brewery ehf. vegna rekstur og veitingarstaðar í flokki II með opnunartíma til kl. 23:00 alla daga þó til kl. 01:00 aðfaranótt laugardags og sunnudags eða almenns frídags.   Bæjarráð veitir jákvæða umsögn að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um.   Bæjarráð staðfestir jákvæða umsögn frá skipulags- og byggingarfulltrúa að starfssemin sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsskilmála og að lokaúttekt hafi farið fram á húsnæðinu. Staðfestir jákvæða umsögn heilbrigðisfulltrúa heilbrigðiseftirlits suðurlands að starfsemin sé í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, laga um matvæli og mat heilbrigðisnefndar á grenndaráhrifum starfseminnar, þ.m.t. hljóðvistar ef við á. Staðfestir jákvæða umsögn slökkviliðsstjóra að kröfum um brunavarnir sé fullnægt samkvæmt mati slökkviliðs miðað við 70 manns.   Umsögn þessi er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi samkomustaðarins á kostnað rekstraraðila ef þörf krefur.   Bæjarráð minnir á að umrædd veitingastarfsemi er í fjöleignahúsi og mikilvægi þess að starfsemin valdi ekki truflun á högum annarra íbúa. Í lögum um fjöleignahús nr. 26/1994. Er fjallað um að stjórn húsfélags skuli semja reglur og leggja fyrir húsfund þar sem meðal annars er lagt bann við röskun á svefnfriði í húsinu frá miðnætti til 07.00 að morgni. Undanþágu frá því banni, ef einhverjar eru, skal fara með skv. 74. gr. laganna.                 Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 12.30

Fundur Fjölskyldu- og tómstundaráðs 15.03.2017

Fjölskyldu- og tómstundaráð - 191. fundur     haldinn í fundarsal Ráðhúss, 15. mars 2017 og hófst hann kl. 16:30         Fundinn sátu:   Trausti Hjaltason formaður, Páll Marvin Jónsson aðalmaður, Sigurhanna Friðþórsdóttir aðalmaður, Guðjón Ragnar Rögnvaldsson 1. varamaður, Guðrún Jónsdóttir starfsmaður sviðs og Margrét Rós Ingólfsdóttir starfsmaður sviðs.   Fundargerð ritaði: Margrét Rós Ingólfsdóttir,     Sólrún Gunnarsdóttir deildarstjóri málefna aldraðra sat fundinn í 3. máli.       Dagskrá:       1. 201701017 - Sískráning barnaverndarmála 2017   Sískráning barnaverndarmála í febrúar 2017   Í febrúar bárust 20 tilkynningar vegna 17 barna. Mál 15 barna voru til frekari meðferðar.     2. 200704150 - Fundargerð barnaverndar fyrir fjölskyldu- og tómstundaráð   Undir þessum lið er fjallað um öll erindi sem falla undir barnavernd og eru trúnaðarmál.   Fundargerð barnaverndar er færð í sérstaka trúnaðarmálabók.     3. 200811057 - Hraunbúðir   Deildarstjóri málefna eldri borgara kynnir stöðu framkvæmda á Hraunbúðum o.fl.   Deildarstjóri málefna aldraðra kynnti stöðu framkvæmda á Hraunbúðum.   Framkvæmdir við nýja aðstöðu fyrir dagdvöl í vesturenda matsalar eru á lokametrunum. Verið er að koma upp sérinngangi og nú styttist í að hægt sé að flytja dagdvölina.   Framkvæmdir við byggingu á sérhæfðri deild í austurhluta Hraunbúða eru á áætlun. Deildarstjóri leggur til að deildin verði stækkuð úr fimm herbergja deild í átta, tvö lítil herbergi sameinuð í eitt stærra, brautum fyrir stólalyftur verði komið fyrir í nýjum herbergjum og setustofa/matstofa verði stækkuð með sólstofu í austur.   Ráðið þakkar kynninguna. Ráðið er jákvætt gagnvart tillögum deildarstjóra og óskar eftir að tillögurnar verði kostnaðarreiknaðar.         Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:20  

Þegar kristnin fær að fara að eðli sínu verður mannlífið milt

Bjarni prestur Karlsson er Eyjamönnum af góðu kunnur. Hann þjónaði ásamt konu sinni Jónu Hrönn Bolladóttur í Landakirkju frá 1991 til 1998. Þau hjónin settu sannarlega svip sinn á safnaðarstarfið í Landakirkju meðan þau störfuðu þar sem prestar. Eftir sjö ára þjónustu söðlaði fjölskyldan um og flutti til Reykjavíkur þar sem Jóna Hrönn hóf störf sem Miðborgarprestur en Bjarni tók við starfi sóknarprests í Laugarneskirkju. Árið 2013 tóku þau hjónin sig til og seldu veraldlegar eigur sínar og fór í nám til Bandaríkjanna. Að loknu árs námi var Bjarni ekki búinn að fá nóg af breytingum. Hann baðst lausnar frá embætti sóknarprest í Laugarneskirkju, fór í doktorsnám við guðfræðideild Háskóla Íslands og opnaði ásamt syni sínum Andra Bjarnasyni sálgæslu- og sálfræðistofuna Haf.   Blaðamaður mælti sér mót við Bjarna á skrifstofunni í Ármúla 40. ,,Sæl vertu, hvernig eigum við að hafa þetta,“ spyr Bjarni brosandi. Bjarni hefur klukkutíma lausan á milli viðtala og tíminn líður hratt því honum liggur margt á hjarta. Hann er óhræddur við að gagnrýna menn og málefni og liggur ekki á skoðunum sínum.   Hver er Bjarni Karlsson? ,,Já, ég held að ég sé ekki fær um að svara þeirri spurningu. Ég held raunar að enginn manneskja þekki sjálfa sig,“ segir Bjarni og hugsar sig aðeins um ,,því lengi má manninn reyna. Ég held alltaf áfram að koma sjálfum mér á óvart og veit ekki enn hver ég er. Mitt mottó er hins vegar að vera frekar til bóta og hafa gaman af þessu.“ Það stendur ekki á svari þegar Bjarni er spurður að því hvað hafi mótað hann. ,,Mjög margt. Og eftir því sem líður á ævina sé ég betur það sem mótaði mig.“ Foreldrar Bjarna koma úr ólíkum áttum. ,,Móðir mín er Helga Steinunn Hróbjartsdóttir, dóttir iðnhöldurs í Reykjavík upp alin í stórum systkinahópi en faðir minn Karl Sævar Benediktsson lifði sem drengur við sára fátækt og almenna vanrækslu í sömu borg.“ Hjá þessum tveimur ólíku manneskjum ólst Bjarni upp ásamt þremur bræðrum en foreldar hans kynntust í starfi KFUM og K.   Kvennaskóli gerði Bjarna að femínista Foreldar Bjarna eru bæði menntaðir sérkennarar og ráku Heimavistarskóla fyrir stúlkur í Hlaðgerðarkoti. Skólinn var hluti af vistheimilamenningu sem ríkti á Íslandi uppúr miðri síðustu öld. ,,Ég sé eftir á hvað það mótaði mig að alast upp á heimavist þar sem að jafnaði voru 16 stúlkur í vistun. Það gerði mig að femínista.“ ,,Foreldar mínir voru fagmenn í kennslu og byggðu upp góða menntastofnun. Þau lögðu mikið upp úr kristnum kærleika. Í Hlaðgerðarkoti var farið með borðbænir og kvöldbænir Þetta hafði rík áhrif á mig, þarna fékk ég einfaldlega kristindóminn beint í æð og skildi að allt sem er sannlega mannlegt kemur sönnum kristnidómi við.“   Smyglaði tóbaki til Ítalíu ,,Þegar kristnin fær að fara að eðli sínu þá verður mannlífið milt og vaxtarskilyrði fyrir fólk verða góð. Það var það sem pabbi minn fékk að reyna.“ Faðir Bjarna lifði við mikið ólán sem barn. Það varð honum til happs að fyrsta bréfið sem hann fékk inn um lúguna á heimili sínu þá níu ára gamall var boð um að koma í starf KFUM. ,,Bréfið breytti lífi hans og trúarsamfélagið varð hans lífsakkeri.“ Föðuramma Bjarna var ein með tvo drengi sem hún átti í lausaleik eins og sagt var. ,,Faðir minn var eins árs þegar móðir hans flúði fátæktina á Íslandi. Bróðir pabba var skilinn eftir hjá langömmu minni en pabbi fór til vandalausra. Hann hafði ekkert af móður sinni að segja og vissi ekki af að hún væri til fyrr en hann komst að því 11 ára fyrir tilviljun að hann ætti móður í Danmörku. En hann átti eftir að kynnast henni síðar og hún varð stór hluti af okkar lífi.“ ,,Þetta er dramtísk saga,“ segir Bjarni. „Amma mín flýr sem sagt íslenska fátækt. Í Danmörku kynnist hún þýskum manni sem er á flótta undan nasistum. Þau flýja saman til Norður-Afríku þar sem fósturafi minn starfaði sem rafvirki við bandaríska útvarpsstöð en jók tekjur sínar með því að smygla tóbaki frá Afríku til Ítalíu á lítilli bátskænu. Í því sambandi lenti hann í fangelsi og allskonar klandri þar til þau héldu til Bandaríkjanna og lifðu þar heiðvirðu lífi. Lengst og best bjuggu þau í San Diego í Kaliforníu og ég átti eftir að vera þar sem drengur og upplifa í gegnum þau bandaríska drauminn.“   Vanrækt barn sem síðar fékk tækifæri Það kemur ekki á óvart að Bjarna sé hugleikin staða flóttamanna og fátækra og kristilegt starf. ,,Pabbi lifði við rottugang og frosna hlandkoppa í kjallaraholum og bröggum í þessu eymdarástandi sem ríkti hjá mörgu fólki hér í Reykjavík um og eftir stríð. KFUM starfið opnaði honum tækifæri til að kynnast öðrum lífsmöguleikum og það endar með því að hann kemst til mennta og verður kennari og skólastjóri.“ Bjarni verður hugsi en segir svo: ,,Ég átta mig á því að foreldrar mínir hafi í raun byggt upp menntastofnun saman þarna í Hlaðgerðarkoti ásamt fleira fólki og svona var þeirra starf áfram. Það sem mamma og pabbi gerðu var að þau tvinnuðu saman alvöru fagmennsku og kristin lífsgildi. Þegar kristin trú er lifuð í verki fær fólk tækfæri til að byggja upp líf sitt. Fagmennska og meðvituð lífsgildi styðja hvað við annað.“   Mannlífstorg og menningarmiðstöð Bjarni og Jóna Hrönn kynntust og urðu par í guðfræðinámi við Háskóla Íslands. ,,Við vorum áhugasöm og einbeitt en komum úr ólíkum áttum, hún prestsdóttir að norðan og ég sonur minna foreldra að sunnan og svona KFUM drengur“. Bjarni segir að það hafi verið þeim hjónum mikil áskorun að koma til Eyja og fá tækifæri til þess að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. ,,Það var svo gott slagrými til þess að móta safnaðarstarfið. Það má eiginlega orða það þannig að við áttuðum okkur á því að Landakirkja er mannlífstorg og menningarmiðstöð, kjörlendi til þess að leyfa kristni að hafa sín mildandi og umvefjandi áhrif á samfélagið, vera vettvangur þar sem fólk talar saman, heldur hvert öðru ábyrgu og skapar fallegt mannlíf.“ Hvers vegna er þessi frjói farvegur fyrir trú í Eyjum? Bjarni er snöggur að svara því. ,,Það á sér sennilega félagssálrænar skýringar. Eyjan er byggð upp af fólki sem allt var meira og minna aðkomumenn mikið úr Landeyjunum eða undan fjöllunum. Allir komu til að bjarga sér. Karlar fóru á sjóinn, konurnar unnu í landi. Lífsháski var mikill og hörð lífsbarátta og sterkt nærsamfélag.“ ,,Í Vestmanneyjum vita allir allt um alla, það eru allir ofan í öllu, en það er bara um eitt að ræða að standa saman. Fólk vissi hvenær við fórum að sofa, hvenær við fórum á fætur og hvað var í innkaupakerrunni, þetta er svo mikil nálægð. Þess vegna verður það sem okkur finnst vera einka líka mjög opinbert í Eyjum.“   Hin nýja sjálfskipaða andlega yfirstétt Bjarni hefur skoðun á því hvers vegna landsbyggðin hefur lítið breyst gagnvart kristilegu starfi. ,,Það er félagslega innsæði að sjá gildi þess að geta sem samfélag lotið höfði fram fyrir æðri mætti og geta þegið sameiginlegan styrk í andlegri einingu þrátt fyrir allt og allt.“ Bjarna er heitt í hamsi þegar innt er eftir skoðun hans á breyttri afstöðu til kristilegs starfs á höfuborgarsvæðinu ,,Hin nýja sjálfskipaða andlega yfirstétt höfuðborgarinnar er samansett af fólki sem á kannski ekki þessa reynslu vegna þess að það hefur bara verið lánsamt í eigin lífi og skortir innsæi til þess að sjá gildi þess fyrir almenning að eiga aðgang að samtali og samveru, hafa opinbert mannlífstorg þar sem maður getur gengið inn í skjól. Fólk sem lifir vel, tengt í góðu skjóli veit ekki hvað það er að lifa sem berskjölduð manneskja í kunningjaþjóðfélaginu.“ Áfram heldur Bjarni með nokkrum þunga. ,,Við erum klíkuþjóðfélag og kunningjasamfélag og fólk sem hefur allt vegna tengsla sinna það rennir ekki grun í hvað það er að standan utan þessara tengsla. Það sér ekki þessa félagslegu funksjón í hverju hverfi, sér ekki fjölskyldurnar sem hafa ekki ríkt tengslanet, sér heldur ekki börnin sem ekki una sér í samkeppnisafþreyingunni sem tengist íþróttum og allri árangursmenningunni. Þetta er það sem ég kalla skort á félagslegu innsæi, að sjá ekki gildi þess að hafa andlega félagsmiðstöð í hverfum borgarinnar þar sem fólki býðst almennilegt og flott tilboð um að taka þátt og vera aðili að félagsstarfi þar sem er raunverulegt mannlegt skjól og allir eru sæmdir af því að vera þeir sjálfir.“   Hvorki meira né minna en manneskja ,,Í sóknarkirkjunni í hverfinu þar sem er gott safnaðarstarf, þar sameinast fólk þvert á stéttir hópa og samfélagsstöðu og hvað eina sem aðgreinir okkur. Þannig er kristið samfélag í eðli sínu. Það að koma til kirkju þegar safnaðarstarf er heilbrigt og kröftugt er að greiða atkvæði með fótunum og lýsa því yfir að maður er hvorki meira né minna en manneskja í samfélaginu og að maður vill taka þátt í að móta menningu þar sem reiknað er með öllum og allir eru bræður og systur. Þess vegna er kirkjustarf í eðli sínu félagspólitísk þátttaka og ekkert hlutleysi. Og einmitt mjög gildishlaðið.“ Bjarni er hvergi nærri hættur. ,,Það er nákvæmlega það sem hin nýja andlega yfirstétt skreytir sig með. Þetta að hafna öllu sem er gildishlaðið. Niðurstaðan er náttúrulega sú að stefnt er að þjóðfélagi þar sem allir eru fjálsir af því að vera einir. Frjáls til að vera ólík í einrúmi.“ ,,Kirkjustarfið á að vera þannig að það sé ekki menningarkimi og það þarf að vinna gegn slíkum tilhneigingum. Við höfum auðvitað vandamál í kirkjunni af því að kirkjan er ekkert öðruvísi en annað mannlegt samfélag. Það er alltaf tilhneiging til að gera kirkjuna að einhverjum menningarkima, - sér tónlist, sér málfar. En þannig er ekki eðli kristindómsins, kristin kirkja verður alltaf að brjótast út úr sjálfri sér og bylta sjálfri sér ef hún vill vera sér samkvæm.“   Varð að láta sér vaxa skegg Bjarni var æviráðinn sóknarprestur í Landakirkju 28 ár gamall, um það segir hann. ,,Ég var svo barnalegur í framan þegar ég byrjaði. Eitt sinn stóð einhver karl í andyrinu, horfði yfir þar sem ég stóð innan um hóp af fermingarstrákum og sagði: ,,Strákar mínir hvar er presturinn?" Þá ákvað ég að láta mér vaxa skegg til að það færi alltént ekki á milli mála að ég væri kynþroska,“ segir Bjarni í léttum tón. ,,Það gekk mikið á í samfélaginu og margt erfitt sem gerðist á þessum árum sem við vorum í Eyjum. Það var lærdómsríkt fyrir okkur Jónu Hrönn að sjá hvernig samfélagið í Vestmannaeyjum kunni að standa saman og veita huggun og von þegar áföll dundu yfir. Hvernig fólk kom saman í kirkjunni til þess að veita hvert öðru huggun og styrk og sýna samstöðu, þjappa sér saman á erfiðum stundum. Það býr með mér alla tíð. Svo voru líka öll gleðilegu tilefnin og hátíðarstundirnar og hversdaglífið með mikilli þátttöku í sunnudagaskóla, fermingarfræðslu og öllu hinu.“ ,,Þarna laukst upp fyrir manni hvað það er bætandi fyrir bæjarlífið að hafa líf í kirkjunni sinni og kunna að nýta hana. Meðal annars með því að leyfa börnunum að heyra allar stórkostlegu Biblíusögurnar. Biblíusögur eru hluti af langtímaminni mannkyns og hreint glapræði að glutra þeim niður. Þær eru langreyndir túlkunarrammar á lífið sem auka skilning okkar á því hvað það er að vera manneskja.“ Bjarni kveðst óendanlega þakklátur að hafa fengið að mótast sem prestur í Eyjum. „Þarna var maður tekinn á teppið og húðskammaður og svo fékk maður líka að vita þegar vel gekk. Ég áttaði mig á því að fólk er ekki heimskt. Íslenskur almenningur er viti borinn og þú platar ekki fólk. Fólk veit hvað að því snýr.“   ,,Komið með betri sögu, Þá skal ég hætta" Bjarni er með skilaboð til nýju andlegu yfirstéttarinnar. ,,Komið með betri sögur. Berið þið fram betri fyrirmynd en Jesús frá Nasaret og berið fram betri vettvang en gömlu kirkjuna. Mótið þið árangursríkari menningu eða árangursríkari aðferðir til þess að hugga fólk og styrkja. Þangað til það gerist ætla ég að halda áfram að segja Biblíusögur og tala um Jesú. Vegna þess að ég hef hingað til ekki séð neitt sem virkar betur, ekkert annað nafn sem vekur viðlíka von og kjark og Jesús Kristur.“ ,,Að rífa niður og hafa ekkert að bjóða annað enn niðurrifið og gildisleysið það finnst mér vera ábyrgðalaust og ámælisvert. Við lifum í menningu þar sem börn eru bombarderuð með grægði, yfirráða- og hernaðarhyggju. En þau mega ekki heyra söguna um góða hirðinn vegna þess að það er gildishlaðið! Fyrirgefið, gróðrahyggja, eru það ekki gildi? Yfirráða- og hernaðarhyggja, eru það ekki gildi?“   Eins og að vera heima með hassmola Bjarni heldur áfram að benda á breytt viðhorf: ,,Hættulegasta bókin, það er Nýja testamentið frá Gídeonmönnum. Það er bara eins og að vera heima með hassmola. Ég segi stundum að þessi kynslóð sem er svikinn um að fá Gídeontestamentið sitt, hún á eftir að berja allt að utan og spyrja: Hvar er testamentið sem við fengum ekki?“ Kirkjan sleppur ekki undan gagnrýni Bjarna. ,,Kirkjan þarf að taka gagnrýni, hún þarf að breytast í takt við líðandi stund. Hún þarf geta svarað sinni menningu og talað inn í hana. Það er alveg satt og það er margt sem hefur farið mjög úrskeiðis hjá íslensku þjóðkirkjunni. En við munum ekki leysa vandamál líðandi stundar með því að leggja frá okkur öll gildi og kasta á glæ menningararfi okkar. Við þurfum hins vegar í sífellu að leita nýrra leiða til að lifa gamlan sannleika með nýjum hætti.“ ,,Einmitt þegar hrunið gekk yfir og á þeim tíma þegar ýmsir innviðir samfélagsins voru að riðlast vegna fjárskorts og annara áfalla þá var á sama tíma verið að ráðast á og eyðileggja barna- og æskulýðsstarf kirkjunnar á höfuðborgarsvæðinu. Mér finnst þetta vera andlegur elítismi og hroki. Það er þetta sem ég kalla skort á félagslegu innsæi. Réttilega var margt að athuga með yfirstjórn kirkjunnar en það hafði aldrei borið skugga á æskulýðsstarf kirkjunnar. Þessu má líkja við að vilja leggja niður Landhelgisgæsluna vegna óánægju með ríkisstjórnina.“   Boraði sér inn í pólitík Þegar Bjarni byrjaði að starfa sem prestur í Reykjavík tók hann eftir því að staða fátækra var önnur þar en í Eyjum. ,,Í Eyjum er samstaðan undirliggjandi. Þar er einhvern vegin reiknað með fólki í samfélaginu. Ég varð svo oft vitni að því þegar einhver lenti í fátækragildru, eitthvað brást, fyrirvinna heimilisins féll frá, alvarlegir sjúkdómar eða önnur áföll, þá var fólk stutt úr ýmsum áttum. Ég veit ekki hversu oft ég fékk það hlutverk að fara með peninga eða matargjafir frá ónefndu fólki og fyrirtækjum til ónefnds fólks. Viðhorfið var; við horfum ekki upp á hvert annað svelta. Þannig gerum við ekki.“ ,,Fátæktin í Reykjavík hafði annað eðli, það varð ég var við sem sóknarprestur í Laugarneskirkju. Ég fór að átta mig á því að það þyrfti að horfa á málefni fátækra. Reyna að skilja hvernig stendur á því að fólk festist í fátækragildrum og að við unum því bara að hafa fólk lifandi í sárri fátækt á meðal okkar.“ Þessi uppgötvun leiddi Bjarna í pólitík hafandi í raun engan áhuga á henni. ,,Ég boraði mér inn í pólitík. Komst inn í Velferðarráð borgarinnar í framhaldi af hruninu fyrir hönd Samfykingarinnar, verandi ekki meiri Samfylkingarmaður en hvað annað. Ég fer bara þarna inn til þess að vinna með þessi málefni. Ég var þarna á þeim tíma sem verið var að tryggja öryggisnetið til að grípa þá sem verst stóðu og láta allt ekki bara fara norður og niður. Það var verið að tryggja hag þeirra sem verst stóðu og ég var að reyna að skilja þetta furðulega fyrirbæri sem er fátækt og sárafátækt í okkar ofsaríka þjóðfélagi.“   Með mörg járn í eldinum Það er nóg að gera hjá Bjarna Karlssyni sem sinnir prestverkum og rekur sálgæslustofuna Haf ásamt syni sínum. Skrifar Doktorsritgerð um fátækt og flóttamenn og ræktar líkama og sál með Trúarþreki í Worldclass. Trúarþrek er andleg og líkamleg þjálfun sem hann og Sigurbjörg Ágústsdóttir ættuð úr Eyjum komu á fót í saman. Þegar Bjarni á stund milli á stríða nýtur hann þessa að eiga samveru með fjölskyldunni.    

Kvikmyndin Víti í Vestmannaeyjum verður tekin upp í sumar

Víti í Vestmannaeyjum er fyrsta sagan í geysivinsælum bókaflokki Gunnars Helgasonar um Jón Jónsson og félaga hans í liðinu Þrótti sem mæta til Vestmannaeyja til að keppa um Eldfellsbikarinn á Shellmótinu. Um er að ræða skemmtilega og ekki síst spennandi frásögn sem gerist bæði innan sem utan vallar. Gunnar Helgason var önnum kafinn þegar blaðamaður sló á þráðinn til hans en eins og honum er von og vísa gaf hann sér tíma til að svara nokkrum spurningum að gefnu tilefni.  Nú er kynningarfundur á föstudaginn í Eyjum og allt að fara að bresta á. Hvernig leggst þetta í þig? „Veistu það, ég er bara í skýjunum, ég er ekki með sjálfum mér, þetta er svo langþráður draumur að rætast. Ég skrifaði bókina svo hún gæti orðið þáttaröð eða bíómynd þannig draumurinn er að rætast,“ segir Gunnar.  Nú hitti bókin í mark hjá ungu kynslóðinni, telur þú að kvikmyndin eigi eftir að njóta sömu vinsælda? „Ég held að hún verði miklu vinsælli. Ég hugsa t.d. að miklu fleiri hafa séð Harry Potter myndirnar en lesið bækurnar. Kvikmyndir eru líka bara svo sterkur miðill og ef myndin verður eins og við sjáum hana fyrir okkur þá eiga krakkar eftir að vilja að koma tvisvar eða þrisvar í bíó,“ segir Gunnar.  Ljóst er að mörg hlutverk verða í boði fyrir unga drengi og útilokar Gunnar ekki að allt liðið sem sagan snýst um verði skipað Vestmannaeyingum. Leikarastarfið er þó krefjandi og þurfa ungir sem aldnir að geta túlkað flóknar tilfinningar í hlutverkum sínum ef marka má orð Gunnars um karakterinn Ívar þegar talið barst að honum. „Blessaður drengurinn Ívar, svo mikið á hann lagt. Ívar þarf að vera sterkur andlega, geta verið viðkvæmur og hörkulegur og allt þar á milli. Svo eru við einnig að leita að öðrum strák, honum Palla og hann verður eiginlega að vera frá Eyjum, draumurinn er sá allavega. Hver veit, kannski við finnum bara allt liðið í Eyjum, það er aldrei að vita,“ segir Gunnar og nýtir tækifærið til að þakka Vestmannaeyingum. „Takk fyrir að taka alltaf svona vel á móti mér. Ég veit að það verður gaman í sumar, Vestmannaeyjar eru einstakur staður í heiminum og verið bara tilbúin fyrir tvöfalt fleiri túrista á næsta ári, hvort sem það er gott eða slæmt.“ >> Nánar er fjallað um kvikmyndina í tölublaði Eyjafrétta.  

Ísland með sinn 20% skatt á lögaðila getur talist lágskattasvæði

Á fróðleiksfundi sem KPMG hélt í Alþýðuhúsinu á föstudaginn var farið yfir breytingar sem orðið hafa á skattalögum síðastliðið ár og eldri breytingar sem tóku gildi í byrjun nýs árs. Einnig var farið yfir skattamál sem snúa að einstaklingum og þeim sem eru að leigja út hús eða íbúðir, bæði í skammtíma- og langtímaleigu. Þá var farið yfir mál sem verið hafa í brennidepli, Panama-skjöl, skattaskjól og aflandsfélög sem eru hugtök sem hafa mikið verið í umræðunni. Þá var rætt um skýrslu um aflandsfélög sem nýlega var birt. Var margt athyglisvert sem kom fram. Helgi Níelsson, forstöðumaður skrifstofu KPMG í Vestmannaeyjum stýrði fundinum. Byrjaði hann fundinn á að kynna nýja bókhaldslausn KPMG, Bókað.is. Guðrún Björg Bragadóttir sagði frá breytingum á skattalögum einstaklinga þar sem skattþrepin eru nú tvö í stað þriggja áður. Breytingum á útreikningi bifreiðahlunninda og frestun á skattlagningu við nýtingu kaupréttar. Vaxtabætur voru framlengdar um eitt ár með óbreyttum fjárhæðamörkum. Úttekt séreignarsparnaðar til greiðslu inn á höfuðstól lána til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota hefur verið framlengd til 30. júní 2019. Jafnframt var hámarksfjárhæð slíkrar skattfrjálsrar úttektar hækkuð. Hjá einstaklingi úr 1,5 milljónum í 2,25 milljónir og hjá samsköttuðu fólki úr 2,25 milljónum í 3,75 milljónir króna. Við ákvörðun bifreiðahlunninda skal nú miða við kaupverð bifreiðar og aldur.   Skammtíma- og langtímaleiga Sigrún Rósa Björnsdóttir fór yfir skattlagningu tekna vegna gistiþjónustu og útleigu íbúðarhúsnæðis. Hagnaður af skammtímaleiga íbúðarhúsnæðis til ferðamanna skattleggst sem atvinnurekstrartekjur í 36,94 eða 46,24% tekjuskatti en langtímaleiga skattleggst sem fjármagnstekjur í 10% skatti. Kynntar voru nýjar reglur um heimagistingu en heimagisting telst leiga á íbúðarhúsnæði í 90 daga eða skemur á ári og leigutekjur undir 2.000.000. Tölulegur samanburður á milli skammtíma- og langtímaleigu bendir til þess að langtímaleiga sé hagstæðari þegar tekið hefur verið tillit til allra þátta. Guðrún Björg fór yfir skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og fjallaði einnig um þær lagabreytingar sem gerðar hafa verið 2009 – 2016 til að sporna við eignarhaldi í aflandsfélögum. Fram kom í máli Guðrúnar Bjargar að svo virðist sem stofnun íslensku bankanna í Lúxemborg á aflandsfélögum fyrir viðskiptavini sína hafi verið talin einföld, ódýr og þægileg leið til að halda utan um eignasöfn þeirra. Margir viðskiptavinir íslensku bankanna í Lúxemborg virtust ekki gera sér grein fyrir að þeir væru eigendur félaga í aflandseyjum í Karabíska hafinu, héldu að þeir ættu einungis félög í Lúxemborg.   Allt opið Guðrún Björg sagði að í dag væri þetta allt opið, ekki einu sinni skjól í Sviss þar sem öll bankaleyndi væri í raun fyrir bí. Frá og með árinu 2017 munu skattyfirvöld tæplega 100 landa skiptast á upplýsingum um innstæður erlendra aðila á bankareikningum í viðkomandi landi. Ísland er eitt af þessum tæplega 100 löndum. Það er líka afstætt hvað er skattaskjól og sagði Guðrún Björg að Ísland með sinn 20% skatt á lögaðila geti talist lágskattasvæði í ýmsum löndum þar sem skattar eru hærri. „Niðurstaðan er að það er varla til neitt sem kalla má skattaskjól í dag, þetta er allt orðið opið,“ sagði Guðrún Björg. Að lokum var bent á það sem mögulega verður næsta áfall í skattamálum og skattasiðferði á Íslandi en það er óskráð leiga manna á íbúðum til ferðamanna. Leiddar voru líkur að því að opinberir aðilar verði af allt að 6 milljörðum króna vegna þess að tekjur af slíkri starfsemi eru ekki taldar fram hjá einstaklingum.  

Vestmannaeyjar í sjötta sæti en geta vel við unað

„Loks eru úrslitin í Allir lesa 2017 ljós og við þökkum fyrir frábæra þátttöku og skemmtilegan landsleik. Þátttakendur lásu í samtals 43.567 klukkustundir, eða sem samsvarar um fimm árum. Liðakeppnin var æsispennandi að vanda og hafa fjölbreytt lið víðsvegar að af landinu raðað sér í efstu sætin. Það sveitarfélag sem býr yfir kraftmestu lesendunum er Strandabyggð en Eyjamenn höfnuðu í 6. sæti með meðallestur upp á 31,1 klukkustund fyrir hvern þátttakenda. Það er frábær árangur, þó frægðarsól Vestmannaeyja hafi sigið svolítið síðan eyjamenn sigruðu fyrsta landsleikinn þegar horft var til búsetu,“ segir Bergrún Íris Sævarsdóttir sem stýrir verkefninu sem haldið var í þriðja sinn. Eyjamenn unnu í fyrsta skiptið en í fyrra var það Þorlákshöfn sem stóð uppi sem sigurvegari. Fjöldi vinnustaða keppti í landsleiknum og víða var bæði keppt í Allir lesa og Lífshlaupinu með því að fara út að ganga eða hlaupa með hljóðbók. „Starfsfólk á þessum vinnustöðum ætti því aldeilis að vera við góða andlega og líkamlega heilsu þessa dagana. Í flokki liða með þrjá til níu liðsmenn sigraði Stjórnsýsluhúsið í Búðardal. Starfsfólk Menntaskólans á Tröllaskaga bar sigur úr býtum í flokki liða með 10 til 29 liðsmenn og liðið STALST (Lyfjastofnun) sigraði í fjölmennasta flokknum, með 30 til 50 liðsmenn. Í opnum flokki kepptu önnur lið, til dæmis leshringir, saumaklúbbar, fjölskyldulið, skólalið og vinir. Liðið Við sigraði í flokki liða með þrjá til níu liðsmenn og var einnig heildarsigurvegari landsleiksins. Lestrarhestar í Hagaskóla sigruðu í flokki liða með 10-29 liðsmenn ogyngsta stig Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri sigraði í flokki liða með 30-50 liðsmenn,“ segir Bergrún.   Það er skemmtilegt að lesa! Allir lesa er landsleikur í lestri, með áherslu á orðið leikur. Tilgangurinn er fyrst og fremst að vekja athygli á því hversu skemmtilegt það er að lesa, hvort sem er einn eða með öðrum. „Allir lesa snýst þannig ekki um lestrarhraða eða fjölda blaðsíðna heldur er takmarkið fyrst og fremst að hvetja landsmenn til að verja tíma í yndislestur. „Með því að skrá inn að minnsta kosti 15 mínútur af lestri dag hvern vonumst við til þess að bóklestur komist inn í daglega rútínu og lesturinn verði að lífsstíl. Það er von okkar að með hvatningu og góðri lestrarbyrjun á árinu haldið þið, kæru lestrarhestar, áfram að njóta lestrar þrátt fyrir að landsleiknum sé lokið,“ segir Bergrún og þakkar fyrir skemmtilegan, fræðandi, gefandi og góðan landsleik fyrir hönd aðstandenda, Allir lesa.  

Pabbinn á leið með Herjólfi og ætlaði að taka á móti fjölskyldunni í Reykjavík

Það er ekki einfalt mál að ætla sér að eiga barn í Vestmannaeyjum. Því fengu Sindri Georgsson og Elín Sandra Þórisdóttir að kynnast þegar sonur þeirra kom heiminn á sunnudagsmorguninn síðasta. Í raun átti hann ekki að fæðast fyrr en 14. mars, næsta þriðjudag og miðuðust áætlanir fjölskyldunnar við það. Á sunnudagsmorguninn fór Sindri með fjölskyldubílinn í Þorlákshöfn og ætlaði að taka á móti verðandi móður og Söndru Dís, 16 mánaða dóttur þeirra á flugvellinum í Reykjavík. En margt fer öðru vísi en ætlað. Sonurinn bankaði að segja má upp á um leið og Sindri fór út dyrunum heima hjá sér fyrir klukkan átta á sunnudagsmorguninn. Elín Sandra fór að finna fyrir verkjum um átta leytið og hringdi strax í móður sína, Þórunni Sveinsdóttur sem dreif sig á staðinn og hringdi í ljósmóður. Sá stutti var ekki að hika og fæddist í sófanum heima í stofu þar sem amman og ljósmóðir tóku á móti honum. Þá var klukkan 8.42. Á meðan fylgdist litla systir með og leist ekki alveg á það sem var að gerast en forvitnin kviknaði þegar litli bróðir var kominn í heiminn. Allt gekk að óskum og móður og barni, sem er það fyrsta sem fæðist í Vestmannaeyjum á þessu ári, heilsast vel. Blaðmaður heimsótti fjölskylduna á Sjúkrahúsið síðdegis á mánudaginn þar sem sá stutti svaf eins og börn eiga að gera á meðan stóra systir skottaðist um allt. Ömmurnar, Þórunn og Guðný Björgvinsdóttir og Georg Skæringsson afi voru í heimsókn. „Þegar ég fór í Herjólf klukkan hálf átta ætlaði ég að taka á móti Elínu Söndru og Söndru Dís á flugvellinum í Reykjavík í hádeginu,“ segir Sindri. „Skipið er lagt af stað þegar skipstjóri og þerna banka upp á hjá mér og það fyrsta sem mér datt í hug var að Elín Sandra væri komin af stað og á leið til Reykjavíkur með sjúkraflugi. En þau voru komin til að tilkynna mér að það væri kominn lítill strákur. Þetta gerðist rétt um klukkutíma eftir að ég fór að heiman frá mér,“ segir Sindri og heldur áfram. „Þetta var ekki það sem ég átti von á en fékk að vita að fæðingin hefði gengið eins og í sögu og báðum heilsaðist vel. Ljósmóðirin rétt náði að mæta áður en drengurinn fæddist í stofunni heima.“ Sindri segir að Elín Sandra hafi fundið fyrir verkjum rétt upp úr klukkan átta og strax hringt í mömmu sína og þarna var sonurinn mættur og hann á leiðinni til Þorlákshafnar. „Þau buðu mér strax að koma með til Vestmannaeyja. Ég hringdi í Ernu systir sem fannst ómögulegt að ég færi til baka með Herjólfi og vildi finna aðrar leiðir. Kannaði með flug á Bakka en niðurstaðan varð að pabbi og Hallgrímur Njálsson sæktu mig á tuðru í Landeyjahöfn. Kom Erna með Hlyn bróður okkar og Emelía Rós dóttir hennar að sækja mig og skutla mér í Landeyjahöfn. Það var svo úr að þau komu öll með til Eyja til að heilsa upp á nýja frændann og Eyjapeyjann,“ segir Sindri. Sjálfur lýsir hann þessu skemmtilega á FB-síðu sinni. „Eftir að ég fékk fréttirnar var eins og einhver hafi stoppað klukkuna. Hún bara gekk ekki neitt. Ofan á það þá var símasambandið ekki uppá marga fiska þannig ég náði ekki í neinn fyrr um tíu leytið. Fékk þær fréttir að öllum heilsaðist vel og að allt hafi gengið vel.“ Og í lokin segir hann: „Þessi tími frá því að ég fékk fréttirnar og þangað til að ég hitti peyjann var eins og heil eilíf að líða en alveg ótrúlega gott að hitta hann og erum við Elín Sandra og Sandra Dís alveg í skýjunum með litla molann okkar. En það sem maður sá vel í dag að það er gott að eiga góða að. Þetta var algjört ævintýri." Sjálf sagðist Elín Sandra aldrei hafa orðið hrædd því mamman var fljót á staðinn og Drífa ljósmóðir mætt áður en fæðingin fór af stað. Þau eru búin að ákveða nafn á drenginn en það fékk ekki gefið upp.    

Hinsegin fræðsla á vegum Samtakanna 78 á mánudaginn

Framundan í Safnahúsinu verður samvinnuverkefni með Grunnskólanum og frístundaverinu um mikilvægi fjölbreytileikans í samfélaginu. Af því tilefni verður sett upp farandsýningin ,,Ég fæ ekki af mér að flýja af hólmi“ frá Þjóðminjasafninu sem segir frá réttindabaráttu hinsegin fólks hér á landi. Mánudaginn 13. mars kemur síðan fólk frá Samtökunum 78 sem mun fara í skólann og frístundaverið og vera með fræðslu fyrir nemendur. Einnig verður súpufundur og erindi sama dag í Sagnheimum og að því loknu verður farandsýningin síðan formlega opnuð í Einarsstofu. Blaðamaður hafið samband við Sólveigu Rós, fræðslufulltrúa Samtakanna 78, og ræddi nánar við hana um fræðsluna og stöðu hinsegin fólks á Íslandi.     Þið verðið í Vestmannaeyjum núna á mánudaginn með fræðslu. Hvað getur þú sagt mér um hana?   Við verðum með fræðslu bæði í unglingadeild grunnskólans og svo verðum við í félagsmiðstöðinni eftir hádegi. Þar að auki mun ég halda erindi í Safnahúsinu í hádeginu og þangað eru öll velkomin. Jafningjafræðsla Samtakanna ‘78 hefur verið til í áratugi. Í dag erum við með hóp af þjálfuðum sjálfboðaliðum sem að fara í grunnskóla, framhaldsskóla og félagsmiðstöðvar og tala um mismunandi kynhneigðir, kynvitundir og kyneinkenni, ásamt því að tala um mikilvægi þess að láta fordóma og staðalímyndir ekki hamla okkur.   Hafið þið farið víða með þessa fræðslu?   Við erum með samning við bæði Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbæ og þar förum við í langflesta grunnskóla með þessa fræðslu. Þar fyrir utan erum við pöntuð nánast hvert á land sem er - á síðastliðnu ári fórum við t.d. á Sauðárkrók, Ísafjörð, Suðureyri og Þingeyri, Reykjanesbæ og Fljótsdalshérað. Einnig sé ég sem fræðslustýra um að fara með námskeið til kennara, heilbrigðisstarfsfólks og annarra hópa sem vilja fræðast um málefnin. Svo erum við með fræðslu sem er sérsniðin fyrir þjálfara og forsvarsfólk íþróttafélaga sem er meðal annars kennd í þjálfaranámi ÍSÍ og KSÍ.   Hafa nemendur verið áhugasamir?   Flestir nemendur eru mjög áhugasamir og í langflestum fræðslum myndast mjög skemmtilegar og líflegar umræður um fjölbreytileika kynhneigðar, kynvitundar og kyneinkenna, og um þær væntingar sem samfélagið ber til okkar allra á grundvelli kyns okkar.   Hvernig finnst þér staða hinsegin fólks á Íslandi vera í dag?   Í heildina er staða hinsegin fólks á Íslandi ágæt og betri en á mörgum öðrum stöðum. Það er þó samt mismunandi eftir því hvaða hóp er verið um að ræða. Lagalegu jafnrétti samkynja para á við önnur hefur að miklu leyti verið náð en trans fólk glímir enn við sjúkdómsvæðingu og intersex fólk er hvergi til í löggjöf né eru réttindi þeirra til líkamlegrar friðhelgi virt. Í viðbót við það vantar á Íslandi heildstæða jafnréttislöggjöf. Við erum því í u.þ.b. 14. sæti samkvæmt Regnbogakorti ILGA-Europe sem mælir lagalega stöðu hinsegin fólks í Evrópu. Ef við skoðum félagslegu hliðina þá getur verið erfitt að koma út úr skápnum eða gera sér grein fyrir eigin hinseginleika og því miður glímir ungt hinsegin fólk við mun hærri tíðni af þunglyndi, kvíða og sjálfskaða heldur en aðrir jafnaldrar þeirra. Það er því mikil barátta eftir en þetta horfir þó allt í rétta átt og við erum þakklát fyrir öll tækifæri til að auka á umræðuna, eins og með þessari heimsókn til Vestmannaeyja.    

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Stjórnmál >>

Greinar >>

Menningarverðmæti Eyjamanna lokuð ofan í kössum

Ég er hugsi yfir menningarverðmætum okkar Eyjamanna og hvernig við eigum að halda sögu okkar á lofti. Eftir því sem ég kemst næst er töluvert af menningarmunum okkar geymdir í kjallara Safnahússins og á lofti Miðstöðvarinnar við Strandveg. Ég leiddi hugann að þessu þegar ég sá gamlar ljósmyndir af heimili hér í Eyjum. Á einni myndinni voru stórkostlegir munir sem aðstandendur gáfu byggðasafninu á sínum tíma. Nú eru þessir munir geymdir ofan í kössum í stað þess að þeim sé sómi sýndur með því að hafa þá til sýnis á safni, fyrir almenningssjónum. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt. Allir munir sem geymdir eru í kjallara Safnahússins og á lofti Miðstöðvarinnar eru menningarverðmæti þeirra sem byggðu upp samfélagið okkar, Vestmannaeyjar. Við eigum að virða söguna og halda henni á lofti. Eitthvað er um að þessir munir séu dregnir fram í dagsljósið úr geymslunum annað slagið. En að mínu viti er það ekki nóg. Það þarf að koma þeim öllum á einn stað þar sem safnið og þar af leiðandi sagan er sýnd gestum og gangandi. Safnahúsið hefur fyrir löngu sprengt starfsemina utan af sér en Helga Hallbergsdóttir og Kári Bjarnason ásamt öðru starfsfólki safnsins vinna þar mjög gott starf miðað við aðstæður. Nýtt og/eða stærra Safnahús eða Byggðasafn, sem sýndi okkur og gestum og gangandi alla þessa muni sem tengjast sögu Eyjanna væri sannarlega rós í hnappagat bæjaryfirvalda. Við skulum ekki gleyma forfeðrum okkar sem byggðu upp Eyjarnar með mikilli vinnu og eljusemi og lögðu grunninn að samfélagi okkar í dag. Sýnum þeim virðingu okkar þannig að við getum verið stolt af. Sýnum munina frá heimilum forfeðra okkar sem draga upp söguna og svipmyndir forfeðra okkar, sorgir og sigra. Eldheimar risu á mettíma og ekkert var til sparað enda verið að segja stórbrotna sögu. Það ætti því ekkert að vera því til fyrirstöðu að koma upp nýju Safnahúsi sem við getum öll verið stolt af. Saga Vestmannaeyja er ótrúlega viðburðarík og kraftmikil og við þurfum að gera henni góð skil.