Útgerðarfyrirtækið Bergur-Huginn í Vestmannaeyjum ætlar að leggja einu af þremur skipum fyrirtækisins vegna kvótaskerðingar undanfarin ár. Áhöfninni hefur verið tilkynnt um uppsagnir. Bergur-Huginn gerir út þrjú 29 metra togskip sem eru eingöngu á bolfiskveiðum. Skipin veiða mest af ýsu en fyrirtækið hefur undanfarin ár haft um fjögur prósent af úthlutuðum ýsukvóta. Undanfarin þrjú ár hefur minna verið úthlutað af ýsu, kvótinn hefur farið úr 74.000 tonnum í 39.000 tonn á þessu fiskveiðiári.