Jæja vinur, þá er þinni ferð lokið. Það er víst sama hversu mikil lífs­þrá okkar er, jarðvist okkar endar, sem betur fer. Ég veit ekki hvernig blessað lífið væri, ef hér í Eyjum væru margir íbúar ríflega þúsund ára gamlir. Við hefðum samt haft gaman af því að spekúlera í því og útfæra það í smásögu, elsku kallinn minn. Við skrifum víst ekki fleiri slíkar, í bili. Þú kvaddir daginn eftir fimmtugsafmælið þitt. Það þykir ekki löng vist í mannheimum, en í þínu tilfelli var það að mörgu leyti kraftaverk. Til hamingju með það vinur. Það sló í þér stórt og sterkt hjarta. Sem barðist, þó lífið hafi lamið þig.