Sjómenn ánægðir í starfi

Um 90 prósent sjómanna eru ánægðir í starfi sínu en aðeins um 4 prósent eru óánægðir. Þetta kemur fram í nýbirtri könnun sem Gallup gerði fyrir Samgöngustofu.   Tilgangur könnunarinnar var að kanna líðan og öryggi sjómanna og að nýta niðurstöðurnar til úrbóta og hvata til aðgerða. Meðal annars var spurt um öryggi um borð, slys og áhættumat, ánægju í starfi, óhöpp og orsakir þeirra. Einnig vorum sjómenn spurðir um eigin heilsu og líðan um borð.   Þá kom einnig fram að tæplega 80 prósent sjómanna voru ánægðir með að hafa sjómennsku að atvinnu.   Niðurstöðurnar sýna að miklar framfarir hafa orðið frá fyrri könnunum í öryggismálum sjómanna og hefur slysum og óhöppum fækkað jafnt og þétt. Því má þakka bættum skipakosti, aukinni menntun sjómanna og viðhorfsbreytingu til öryggismála um borð í skipunum. Einnig hefur aðbúnaður um borð sífellt orðið betri.   Helstu niðurstöður   Niðurstöðurnar benda einnig til þess að sjómenn taki öryggismál alvarlega. Þannig vekur það athygli í þessari könnun að undirmenn á skipum telja að öryggismálum sé ábótavant og það skorti fræðslu og kynningu fyrir nýliða. Skipstjórar telja öryggismálin séu í góðu horfi og að það sé ekki skortur á öryggisráðstöfunum.   Í frétt á vef Samgöngustofu segir að sjómennirnir sem tóku þátt starfa á skuttogurum, fiskiskipum undir 15 brúttótonnum, fiskiskipum yfir 15 brúttótonn, vinnuskipum og farþegaskipum. Flestir sjómennirnir hafa starfað 11 – 20 ár á sjó.   Vefur samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi greindi frá 

Vetraráætlun Strætó á Suðurlandi

  Þann 13. september 2015 mun ný vetraráætlun taka gildi Suðurlandi Helstu breytingar eru eftirfarandi:     ► Leið 51      · Ekur einu sinni á dag til og frá Höfn í Hornafirði      · Ferð kl. 18:40 frá Hvolsvelli til Selfoss á þriðjudögum og fimmtudögum færist til kl. 15:45 á þriðjudögum og föstudögum.
      · Ferð kl. 17:50 frá FSU til Hvolsvallar á þriðjudögum og fimmtudögum færist til kl. 15:50 á þriðjudögum og föstudögum.
      · Fjölgar um eina ferð til og frá Selfossi á sunnudögum. ► Leið 52
      · Mun passa við áætlun Herjólfs í öllum ferðum alla daga. ► Leið 72
      · Ferð kl. 17:47 frá Selfoss – N1 á þriðjudögum og fimmtudögum færist til kl 14:50 á þriðjudögum og föstudögum.
      · Ferð kl. 16:02 frá Selfossi – N1 einungis ekin mánudaga, miðvikudaga og fimmtudaga. ► Leið 74      · Ferðir kl. 16:00 og 17:45 frá Selfossi – N1 til Þorlákshafnar einungis eknar mánudaga, miðvikudaga og fimmtudaga.      · Í staðinn bætast við ferðir kl. 14:50 og 16:20 frá Selfossi – N1 til Þorlákshafnar á þriðjudögum og föstudögum.      · Ferðir kl. 16:45 og 18:30 frá Þorlákshöfn til Selfoss einungis eknar mánudaga, miðvikudaga og fimmtudaga      · Í staðinn bætast við ferðir kl. 15:35 og 17:05 frá Þorlákshöfn á þriðjudögum og föstudögum. ► Leið 75      · Ferð kl. 16:45 frá Selfossi – N1 dettur út.      · Í ferðum kl. 14:00 og kl. 19:19 frá Selfossi – N1 verður ekið fyrst á Eyrarbakka, svo Stokkseyri í stað fyrst á Stokkseyri, svo Eyrarbakka.      · Biðstöðin við Litla-Hraun á leiðum 74 og 75 bætist við tímatöflu og leiðavísi.     Nánari upplýsingar á strætó.is og í síma 540 2700.

Virkilegur atvinnumannablær yfir þessu

Það er frítt lið Eyjamanna sem er íslenska landsliðinu í knattspyrnu til aðstoðar úti í Hollandi. Á forsíðu Eyjafrétta í gær er rætt við Heimi Hallgrímsson, þjálfara liðsins en auk hans eru úti í Hollandi þeir Jóhannes Ólafsson sem er í stjórn KSÍ, Ómar Smárason sem er fjölmiðlafulltrúi landsliðsins og svo Einar Björn Árnason, Einsi kaldi, sem hefur yfirumsjón með eldamennskunni fyrir landsliðið.   „Þetta kom upp á spjallborðið í vor,“ sagði Einar Björn þegar Eyjafréttir ræddu við hann á mánudag. „Heimir spurði mig hvort ég væri til í að koma með og stjórna matseldinni úti. Menn höfðu eitthvað verið að kvarta yfir fæðinu sem þótti frekar einhæft. Mér fannst þetta spennandi og sagði strax já. Við flugum út til Hollands á sunnudag en strákarnir hafa verið að tínast hingað í dag. Ég er með aðstöðu á Akura hótelinu þar sem eru fimm veitingastaðir og þetta er flott aðstaða. Reyndar er ég minnst í sjálfri eldamennskunni, það eru þrír strákar frá hótelinu sem sjá um hana að mestu leyti. Ég er aðallega í því að mæla kolvetni og prótein í matnum og huga að öllum smáatriðum. Svo vinn ég þetta náið með næringarsérfræðingi hér á staðnum. Það er virkilegur atvinnumannablær yfir þessu.“ Og auðvitað spurðum við Einar Björn hvað hann hygðist gefa landsliðinu að snæða í kvöld, daginn fyrir leik. „Það verður hollustufæða sem fer vel í maga. Kjúklingur með brúnum hrísgrjónum og fitulausri sósu og svo hrærð egg og pasta. Svo er náttúrlega staðgóður morgunverður á leikdag og vel útilátinn kvöldverður eftir leik. Þetta er ákaflega skemmtilegt og spennandi verkefni að takast á við og ég sé ekki eftir því að hafa tekið það að mér,“ sagði Einar Björn Árnason, matreiðslumaður íslenska landsliðsins.   Viðtalið birtist í nýjasta tölublaði Eyjafrétta sem kom út í gær.

Bæjarráð ítrekar beiðni um hluthafafund

Fyrir bæjarráði lá svar Landsbankans þar sem beiðni Vestmannaeyjabæjar um hluthafafund er hafnað. Áður hafði Vestmannaeyjabær óskað eftir slíkum fundi með það fyrir augum að ræða sérstaklega áform um byggingu nýrra höfuðstöðva á verðmætustu lóð í landinu og móta eigendastefnu þar að lútandi.   Bæjarráð gerir alvarlegar athugasemdir við fyrirliggjandi bréf og bendir stjórnendum bankans á að almennt sé gert ráð fyrir jafnræði hluthafa varðandi upplýsingar og helsti vettvangur til þess séu hluthafafundir. Fáheyrt verður að telja að neita beiðni eigenda um að ræða stefnumótun og fá aðgengi að upplýsingum sem ekki lúta bankaleynd. Bæjarráð vísar meðal annars til leiðbeiningarregla um góða stjórnhætti, sem bankinn segist fylgja (sjá hér).   Þar segir í grein 2.10 um samskipti við hluthafa: 2.10 Samskipti við hluthafa Samskipti stjórnar við hluthafa eiga að einkennast af hreinskilni og vera skýr og samræmd. 2.10.1 Allir hluthafar skulu hafa sama aðgengi að upplýsingum um hagi félagsins. Upplýsingagjöf til hluthafa á þannig að takmarkast við hluthafafundi eða miðlun samræmdra skilaboða til allra hluthafa á sama tíma. 2.10.2 Stjórn skal koma á skilvirku og aðgengilegu fyrirkomulagi samskipta hluthafa við stjórn félagsins þannig að þeir hafi jöfn tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við hana. Hluthafar skulu þannig eiga þess kost að gera stjórn félagsins grein fyrir viðhorfum sínum tengdum rekstri þess og leggja spurningar fyrir stjórnina.   Í ljósi viðbragða Landsbankans telur bæjarráð sig tilneitt til að óska eftir því við bankasýslu ríkisins að svo fljótt sem verða má verði boðað til hluthafafundar. Í viðbót við þau almennu sanngirnissjónarmið að eigendur bankans komi að mótun stefnu bankans vísar bæjarráð til eigendastefnu ríkisins: http://www.fjarmalaraduneyti.is/media/Utgefin_rit/Eigandastefna_rikisins_01092009.pdf þar sem mikil áhersla er lögð á gagnsæi.   Til stuðnings beiðni sinnar vísar bæjarráð sérstaklega til eftirfarandi kafla eignendstefnunar: "Samskipti ríkis og fjármálafyrirtækja sem það á eignarhluti í  − Þeir sem fara með eigandahlutverk ríkisins í fjármálafyrirtækjum eiga að sinna því í samræmi við félagsform hvers fyrirtækis. Algengast er að slík fyrirtæki séu hlutafélög og skal þá fara eftir lögum og reglum sem um slíka starfsemi gilda. − Aðkoma ríkisins sem eigandi byggist á almennum viðurkenndum viðmiðum um góða stjórnarhætti fyrirtækja. Auk þeirra viðmiða sem sett eru fram í eigandastefnu ríkisins eiga fjármálafyrirtæki að fara að lögum og reglum sem um starfsemina gilda og fylgja leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja, sem m.a. byggjast á leiðbeiningum frá OECD. Árlega skal birta yfirlýsingu um stjórnarhætti fyrirtækjanna í ársskýrslum þeirra. − Bankasýsla ríkisins fer með eignarhluti í fjármálafyrirtækjum og kemur fram fyrir hönd ríkisins á aðal- og hluthafafundum. Stjórn og starfsfólk Bankasýslu ríkisins eiga hvorki að taka þátt í daglegum rekstri fyrirtækjanna né hafa áhrif á ákvarðanir þeirra utan hefðbundinna samskiptaleiða sem tengjast félagsformi hvers fyrirtækis eða um er samið í samningum milli Bankasýslunnar og fjármálafyrirtækja. Bankasýslan skal kappkosta að efla og styrkja samkeppni á fjármálamarkaði og hafa skýrt skipulag í samskiptum sínum við fyrirtækin þannig að staða hennar sé trúverðug. − Hluthafafundur (á líka við um stofnfjárfund eða samsvarandi vettvang annarra félagsforma) hefur æðsta vald í öllum málefnum fjármálafyrirtækja. Ríkið líkt og aðrir hluthafar beri upp mál sín á hluthafafundi".   Bæjarráð felur bæjarstjóra að óska eftir því við Bankasýslu ríkisins að svo fljótt sem verða má verði boðað til hluthafafundar þar sem sérstaklega verði fjallað um byggingu nýrra höfuðstöðva á verðmætustu lóð í landinu og móta eigendastefnu þar að lútandi.  

Guðrún Bergmann með kynningu á húðvöru- og bætiefnilínu í dag

 Rithöfundurinn og heilsuráðgjafinn Guðrún Bergmann er stödd í Eyjum í dag í boði Eyjapeyjans Elíasar Inga Björgvinssonar og einkonu hans Sunnu Kristrúnar Gunnlaugsdóttur. Þau eru dreifingaraðili á húðvöru- og bætiefnilínunni frá Jeunesse, en þetta eru einhverjar framúrstefnulegustu og virkustu vörur á heilsumarkaðnum í dag. Guðrún kynnir vörulínuna í Eldey við Goðahraun á tveimur kynningum, annarri kl. 17:30 og hinni kl. 20:00. Allir sem hafa áhuga á betri og sléttari húð, hámarks líkamsorku og auknum lífsgæðum eru boðnir velkomnir, en hvað er það sem gerir vörurnar svona sérstakar?   “Ég er búin að pæla í vítamínum og bætiefnum og prófa mig áfram með lífrænar snyrtivörur í meira en 25 ár og þetta eru flottustu vörur sem ég hef kynnst,” segir Guðrún. “Þegar ég var að vinna bókina mína UNG Á ÖLLUM ALDRI árið 2012, fann ég við heimildarvinnu umfjöllun um þrjá lækna sem unnið höfðu Nóbelsverðlaun fyrir það sem þá var kallað “stærsta erfðafræðilega uppgötvun síðustu 50 ára”, en þeir uppgötvuðu að við eldumst þegar litningaendarnir á frumum okkar styttast og eyðast upp, frumurnar deyja og þeim fækkar sem geta endurnýjað líkamann. Eitt af bætiefnunum í línunni hjá Jeunesse lengir þessa litningaenda og gefur frumunum okkar þar með lengra líf – og yngir okkur innanfrá.”   En hvað með húðvörulínuna? “Hún er öll byggð á stofnfrumutækni og í henni eru boðefni sem tala sama tungumál og frumurnar í líkama okkar, þannig að þær fá boð um að gera við og endurnýja sig þegar kremin eru borin á húðina. Þetta eru EINSTAKAR vörur, byggðar á einkaleyfisvörðum formúlum, svo enginn önnur húðvörulína í heiminum í dag hefur sömu eiginleika. Vörurnar eru þróaðar af húð- og lýtalækninum Dr. Nathan Newman, sem er leiðandi á sínu sviði í heiminum. Fyrir utan að þétta og djúphreinsa húðina og grynnka hrukkur, virkar húðvörulínan vel á ýmsa húðkvilla eins og rósroða, exem, psorisasis og bólur, m.a. svokallaðar unglingabólur. Einnig vinna þær á og laga sólarskemmdir á húð, sem geta orðið þegar við erum ung, en koma svo fram síðar sem slæmir húðblettir.”   Elías Ingi og Sunna Kristrún bjóða öllu áhugasömu Eyjafólki að koma á kynningar Guðrúnar. Mætingu fylgir engin skuldbinding önnur en að fræðast. Allir gestir eru leystir út með prufu af Instantly Ageless kreminu, sem gerir fólk 10 árum yngri í útliti á 2 mínútum.  

Varmadæla kann að leysa vandann

Á vefnum mbl.is á máudag kom fram að HS-veitur hafa boðið út kaup og uppsetningu á varmadælu fyrir hitaveituna í Vest- mannaeyjum. Er þetta framkvæmd upp á einn milljarð króna og yrði fyrsta varmadælan fyrir heilt byggðarlag á Íslandi.   Ívar Atlason, tæknifræðingur hjá HS-veitum, sagði í samtali við Eyjafréttir á mánudag að ákveðið hefði verið að kanna þennan möguleika. Varmadælur vinna varma úr umhverfinu og algengast að sá varmi sé tekinn úr lofti eða sjó. „Við stefnum að því að vinna hann úr sjó enda eigum við nóg af honum í Vestmannaeyjum, hann er okkar auðlind í fleiru en fiski,“ sagði Ívar.   Hitastig sjávar við Vestmannaeyjar er 5 til 6 gráður yfir veturinn og 11 til 12 gráður að sumrinu og ætlunin er að virkja þann hita. „Þetta er ekkert sem er nýtt af nálinni, í raun er þetta gömul aðferð sem lengi hefur verið notuð, t.d. í kælitækni; þarna virkar hún bara með öfugum formerkjum miðað við ísskápinn, framleiðir varma í stað kulda.“ Ívar segir að aðalástæðan fyrir þessu sé ótryggt ástand í raforkumálum okkar. „Raforkuverð er á uppleið og ýmsir þættir hafa að undanförnu verið óhagstæðir svo sem lítil bráðnun jökla. Við höfum keyrt hitaveituna á svonefndri ótryggri orku og í því er ákveðið öryggisleysi eins og við höfum raunar fengið að kynnast á síðustu vikum. Því er þessi hugmynd upp komin, að setja upp varmadælu þannig að við verðum ekki jafnháðir rafmagni til upphitunar. En auðvitað þurfum við rafmagn áfram, a.m.k. þriðjungurinn af orkuþörfinni verður rafmagn, þetta er aðallega hugsað fyrir hitaveituna.“   Varmadælur eru víða í notkun og hafa yfirleitt komið vel út. Þær eru t.d. notaðar í sumarbústöðum og vinna þá varma úr loftinu. Ívar segir að í Vestmannaeyjum sé ein stór vamadæla í notkun inni í fiskverkun- inni Löngu. „Næsta skref í þessu máli verður tekið þegar tilboðin verða opnuð, þann 1. október nk. Ef þetta kemur út á hagstæðum nótum þá förum við í áframhaldandi vinnu, svo sem að finna húsnæði og fleira. Ef í ljós kemur að þetta er okkur ekki hagstætt þá verðum við að hugsa okkar mál upp á nýtt. En ég er bjartsýnn á að þetta komi vel út, reynslan hefur sýnt það víðast hvar að notkun á varmadælum er hagstæður kostur og vonandi verður þetta hluti af því að leysa orkuvandamál okkar Eyjamanna,“ sagði Ívar Atlason.    Fréttin birtist í nýjasta tölublaði Eyjafrétta.

Framtíðarsýn og áherslur á læsi og stærðfræði í skólastarfi Vestmannaeyjabæjar

Þann 25. ágúst sl. undirrituðu stjórnendur  leik- og grunnskólanna, bæjarstjóri og formaður fræðsluráðs sameiginlega  framtíðarsýn í menntamálum  sem felur í sér  að leggja beri áherslu  á að efla  læsi og stærðfræði í skólastarfi Vestmannaeyjabæjar.  Áhersla er m.a. lögð á  að styrkja og efla samstarf  starfsmanna skólanna og  forráðamanna því  þar býr aflið sem  getur skapað  nemendum öruggt og styðjandi umhverfi til náms og  stuðlað að árangri  þeirra og vellíðan.         Markmiðið er  að skólarnir í sveitarfélaginu verði meðal þeirra fremstu á landinu hvað varðar vellíðan nemenda, faglegt starf, kennslu og námsárangur. Nemendur  skólanna munu fá  skjal afhent,  þar sem  helstu áhersluatriði  framtíðarsýnarinnar eru tíunduð.  Þeir,  ásamt forráðamönnum, eru beðnir að skrifa undir skjalið og hengja það upp á heimilum sínum til  að staðfesta að þeir styðji framtíðarsýnina og vilji leggja sitt af mörkum til að  hún gangi eftir.   Bæjarbúar allir eru hvattir til að styðja við skólana með ráðum og dáð með jákvæðri og hvetjandi umfjöllun.       Allir þeir, sem komu að gerð framtíðarsýnarinnar og lögðu til málanna, fá miklar þakkir fyrir áhugann sem þeir sýndu og  vinnuna sem þeir lögðu fram.   Óskin er sú að  þessi vinna  skili  börnum og ungmennum í Vestmannaeyjum  auknum  árangri, metnaði, og færni til framtíðar.   Pistil Ernu Jóhannesardóttur birtist inni á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar. 

Íslandsbanki hagnaðist um 10,7 milljarða króna

Íslandsbanki gaf út í dag tilkynningu um afkomu fyrri árshelmings bankans árið 2015. Bankinn hagnaðist um tæpa 11 miljarða en á sama tíma í fyrra var hagnaðurinn 14,7 milljarðar króna   Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka: Afkoma bankans á fyrri helmingi ársins var góð. Grunnreksturinn styrktist á tímabilinu sem endurspeglast í heilbrigðum vexti útlána og innlána, sem og í þóknanatekjum sem jukust um 13% milli ára. Útlán jukust um 3% frá áramótum og er það í samræmi við áætlaðan hagvöxt á tímabilinu. Ánægjulegt var fyrir bankann að hljóta hærri einkunn í fjárfestingarflokki hjá bæði Fitch og S&P.   Launakostnaður stendur í stað og mun bankinn halda áfram að vinna að hagræðingaraðgerðum til kostnaðarlækkunar. Eiginfjárhlutfall bankans helst áfram sterkt sem og lausafjárstaða bankans. Það er afar mikilvægt nú þegar við horfum fram á losun fjármagnshafta. Íslandsbanki gegnir þar mikilvægu hlutverki og vinnur að þeirri áætlun með eigendum sínum og stjórnvöldum. Stefnt er að töluverðri breytingu á efnahagsreikningi bankans með rammasamkomulagi sem gert var við Glitni.   Viðskiptavinir okkar kalla í auknum mæli eftir að geta stundað bankaviðskipti hvar og hvenær sem er og við leggjum áherslu á að koma til móts við þær óskir. Íslandsbanka Appið er í dag sú dreifileið sem er í mestum vexti og er í stöðugri þróun. Það sem af er ári höfum við séð 43% aukningu virkra notenda og 37% notenda heimsækja appið að meðaltali einu sinni eða oftar á dag. Við höfum lagt áherslu á að bæta virkni Netbankans og kannanir sýna að viðskiptavinir okkar eru hvað ánægðastir meðal netbankanotenda.   Ný samfélagsskýrsla Íslandsbanka var birt í gær en skýrslan uppfyllir að fullu viðmið GRI. Í skýrslunni er farið yfir níu metnaðarfullar áherslur bankans í samfélagslegri ábyrgð. Þær snúa að ábyrgum lánveitingum, ábyrgum fjárfestingum, ábyrgum innkaupum, samgöngum, jafnrétti, fræðslu, styrkjum bankans, öryggi viðskiptavina og að lokum góðum málefnum. Bankinn er stoltur samstarfsaðili Reykjavíkurmaraþonsins sem haldið var á dögunum þar sem 15.000 manns tóku þátt og söfnuðust 78 milljónir til góðra málefna.

Gott að lesa

Átakið um Þjóðarsáttmála um læsi verður hrint af stað í dag klukkan  9.30 þegar undirritaður verður sáttmáli í Borgarbókasafni með borgarstjóra Degi B. Eggertssyni.    Á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins er hægt að finna allskyns upplýsingar um átakið og  myndband með laginu "Gott að lesa" sem Ingó veðurguð flytur en það má sjá í spilaranum með fréttinni. Inni á heimasíðunni segir að haustið 2015 mun mennta- og menningarmálaráðuneyti í samvinnu við sveitarfélög og skóla vinna að Þjóðarsáttmála um læsi með það að markmiði að öll börn geti við lok grunnskóla lesið sér til gagns. Verkefnið er hluti af aðgerðaáætlun í kjölfar Hvítbókar um umbætur í menntun. Framlag ráðuneytisins verður í formi ráðgjafar, stuðnings, lesskimunar og aukins samstarfs við foreldra.   Lestrarfærni er forsenda virkrar þátttöku í lýðræðis- samfélagi en bágur lesskilningur getur haft neikvæð áhrif á námsframvindu og þar með atvinnutækifæri síðar meir. Margt er vel gert í skólastarfi hér á landi og sýna alþjóðlegar kannanir að Íslendingar búa við gott menntakerfi, þar sem helstu styrkleikar eru jafn námsárangur milli skóla, vellíðan nemenda og sveigjanlegt skólakerfi með lítilli miðstýringu. Það veldur þó miklum áhyggjum að lesskilningur hefur versnað og að við lok grunnskóla getur of stór hluti barna ekki lesið sér til gagns. Ástæðan er ekki augljós en vafalaust er um að ræða flókið samspil margra þátta og því mikilvægt að snúa vörn í sókn   Á næstu fimm árum verður gert margþætt átak sem mun skila okkur enn betra menntakerfi til framtíðar.   Sáttmálin verður undirritaður í Vestmannaeyjum þann 21. september klukkan 14:00.     

Landsbankinn hagnast um 12,4 milljarða króna á fyrri helmingi ársins 2015

Landsbankinn hagnaðist um 12,4 milljarða króna eftir skatta á fyrri helmingi árins 2015 samanborið við 14,9 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2014 en það kemur fram í tilkynningu sem Landsbankinn sendi frá sér í gær.    Steinþór Pálsson, bankastjóri segir: „Afkoma Landsbankans fyrstu sex mánuði ársins er með ágætum, tekjusamsetningin betri en áður og fjárhagsstaðan er traust. Bankinn hefur notið góðs af hagstæðri þróun í efnahagslífinu og á fjármálamörkuðum og viðskipti hafa verið að aukast umtalsvert. Markaðshlutdeild bankans í útlána- og innlánastarfsemi og í markaðsviðskiptum heldur áfram að aukast. Samkvæmt mælingum Gallup í júní mælist Landsbankinn með mestu markaðshlutdeildina á einstaklingsmarkaði, eða 35,1% og hefur aldrei mælst hærri. Þetta sýnir að viðskiptavinir kunna að meta það sem Landsbankinn er að gera.   Í lok mars sameinaðist Sparisjóður Vestmannaeyja við Landsbankann. Samþætting starfseminnar hefur gengið vel og leggur bankinn áherslu á að veita öfluga fjármálaþjónustu á starfssvæðum sparisjóðsins til hagsbóta fyrir íbúa og atvinnulíf.   Í júlí hækkaði alþjóðlega matsfyrirtækið Standard & Poor's (S&P) lánshæfiseinkunn bankans í BBB- með jákvæðum horfum. Landsbankinn er nú kominn í fjárfestingarflokk og það eykur traust til bankans á mörkuðum og styður við fjármögnun hans í nánustu framtíð, bæði á innlendum og erlendum mörkuðum.   Áætlanir stjórnvalda um losun fjármagnshafta munu að öllum líkindum hafa töluverð áhrif á ýmsar stærðir í efnahagsreikningi bankans. Landsbankinn er vel undir það búinn að mæta útflæði innlána í eigu slitabúanna sem óhjákvæmilega mun leiða af losun fjármagnshaftana.   Það sem af er árinu hefur Landsbankinn unnið að innleiðingu nýrrar stefnu sem nær til ársins 2020 og felur hún í sér umfangsmiklar breytingar sem ætlað er að skila árangri bæði til skemmri og lengri tíma. Stefnan felur í sér enn frekari hagræðingu í rekstri, m.a. með því að koma miðlægri starfsemi bankans undir eitt þak en Landsbankinn hefur tekið sér frest til að vega og meta þau sjónarmið sem fram hafa komið um fyrirhugaða nýbyggingu. Í stefnunni er lögð áhersla á að veita viðskiptavinum fyrirmyndarþjónustu, þróa rafræna þjónustu, auka skilvirkni stoðeininga, móta nútímalegra tækniumhverfi og hagkvæman efnahagsreikning um leið og áhættu er haldið innan marka. Þá er sérstök áhersla lögð á árangursmiðaða menningu innan bankans. Saman eiga þessir þættir sem brotnir hafa verið niður í 7 verkstrauma, að skila ánægðum og tryggum viðskiptavinum og starfsmönnum, hagkvæmum rekstri og ásættanlegri arðsemi eigin fjár til framtíðar." Skýrsluna í heild sinni og önnur gögn má sjá inni á heimasíðu Landsbankans. 

Viðskiptabann á Rússa kemur verst niður á sjávarbyggðum

 Nú hefur það gerst sem vofði yfir þeim þjóðum sem skrifuðu upp á viðskiptabann Evrópusambandsins og Bandaríkjanna á Rússland að Rússar hafa sett viðskiptabann á innflutning matvæla frá þeim þjóðum sem undanþegnar voru frá banninu fyrsta árið. Ísland er eitt þeirra ríkja.   Í þessu máli er ekki aðeins verið að setja í stórhættu afkomu þess hluta sjávarútvegsins sem mestum hagnaði hefur skilað undanfarin ár. Heldur er hér verið að setja afkomu margra sjávarplássa og íbúa þeirra í algjört uppnám og skaða hagsmuni þjóðarinnar til lengri tíma. Og hvaða þjóðum erum við svo að fylgja? Við erum að fylgja þjóðunum sem ætluð að láta okkur hanga í sama gálganum og Grikkir hanga nú, með Icesave snöruna um hálsinn.   Og til að þakka þessari leiðitömu þjóð leggur Evrópusambandið 18% refsitolla á makrílinnflutning frá Íslandi. Þetta er gert vegna þess að ekki hefur verið samið um hlutdeild Íslendinga í veiði úr sameiginlegum makrílstofninum, þar sem Íslendingar hafa verið beittir ofríki og ósanngirni. Svo því sé haldið til haga þá beita þessar þjóðir Íslendinga diplómatískum þvingunum vegna hvalveiða okkar þó bæði Normenn og Bandaríkjamenn veiði fleiri hvali en við á hverju ári.   Þessar þjóðir eru ekki mjög uppteknar af okkar hagsmunum og láta nægja að sparka í sinn minnsta bróður sem samt gengur áfram hnípinn aftastur í röðinni og hefur enga aðkomu að ákvörðunum viðskiptabannsins. Evrópuþjóðirnar settu viðskiptabann á hergögn, bankaviðskipti við tiltekna banka og frystingu eigna rússneskra auðmanna en ekkert af þessu eru viðkomandi Íslandi. Á sama tíma flæðir bæði gas og olía til Evrópu sem aldrei fyrr frá Rússlandi og svo bílar og tískufatnaður svo fátt eitt sé talið frá Evrópulöndunum til Rússlands.   En Íslendingar leggja undir eina af þremur mikilvægustu stoðum atvinnulífsins í landinu, sjávarútveginn sem mun stórskaðast. Engin Evrópuþjóð eða Bandaríkin myndu ganga svo nærri eigin hagsmunum í viðskiptabanni á Rússa eða nokkur önnur þjóð eins og Íslendingar gera sjálfum sér með þátttöku í viðskiptabanninu. Svo hvers vegna ættum við að gera það? Við, sem erum rétt að stíga upp úr mestu efnahagskreppu sem riðið hefur yfir þessa þjóð og erum að rétta úr kútnum en setjum sjálfviljug þann árangur í uppnám.   Tvískinnungur Íslendinga.  Sú afstaða einstaka Íslendinga eins og forseta ASI, að viðskiptabannið á Rússland sé ásættanlegt til skamms tíma vegna manréttindabrota Rússa á sér ekki stoð. Ég vil taka fram að ég mun aldrei skrifa upp á mannréttindabrot þeirra né nokkurra annarra þjóða. Viðskiptabannið mun engu breyta fyrir kúgaða þegna Rússlands eða annarra landa eins og hefur sýnt sig þegar litið er til reynslunnar. Ef við ætlum að beita aðrar þjóðir viðskiptaþvingunum vegan mannréttindabrota eins og við gerum við Rússa hvarnast fljótt úr hópi viðskiptalanda okkar. Hvernig haga Kínverjar sér, en nýlega var samþykktur á Alþingi viðskiptasamningur við þá voldugu þjóð sem hefur fótumtroðið mannréttindi íbúa í Tíbet og hinsegin fólk í Kína býr við lítil eða engin mannréttindi. Bandaríkjamenn voru okkar tryggasta bandalagsþjóð til langs tíma og þar eiga Íslendingar mikla viðskiptahagsmuni. Er sú mikla þjóð alltaf ríðandi á hvítum hesti yfir akur mannréttinda víða um heim? Nígería sem er mikilvægur markaður í Afríku er ekki þekkt fyrir höfðinglega framkomu hers og lögreglu við þegna sína og ég spyr er það öðruvísi mannréttindabrot en hjá Rússum? Er engin tvískinnungur Íslendinga í þessu máli?   Hundruð starfa í húfi.  Það eru fleiri hliðar á þessu mái. Við setningu laga um veiðigjöld á síðast þingi fannst vinstri blokkinni á Alþingi veiðigjöld á sjávarútveginn allt of lág og sérstaklega á uppsjávarveiðiflotann. Þrátt fyrir að gengið var mun nær þeim hluta útgerðarinnar með álagningu gjaldsins en öðrum. Ef marka má sameiginlega niðurstöðu Utanríkismálanefndar þá er þverpólitíkur stuðningur við það að kippa mikilvægasta markaði uppsjávarvinnslunnar úr sambandi með tekjumissi upp á tæplega 40 milljarða króna á sama tíma og þungbær veiðigjöld eru á uppsjávarveiðum. Ég velti fyrir mér hvort sá einbeitti vilji sé enn til staðar að hækka beri veiðigjöld á uppsjávarflotann þegar þing kemur saman aftur. Það væri þá í takt við þann tvískinnung að á sama tíma ræddi Utanríkismálanefnd um það hvernig ríkissjóður gæti komið að og styrkt útgerð uppsjávarskipa í þeim mikla tekjumissi sem útgerðin verður fyrir vegna viðskiptannsins. Ákvörðun sem við Íslendingar tókum sjálfir og ógnar atvinnulífi í sjávarplássum eins og á Höfn, Vestmannaeyjum, Þorlákshöfn, Vopnafirði og víðar um land. Er það svo að það sé meirihluti fyrir því á Alþingi Íslendinga að setja hundruði starfa í uppsjávarveiðum og vinnslu í hættu með því að standa að viðskiptabanni á Rússland sem eingöngu hefur þær afleiðingar að það hittur okkur sjálf sem þjóð beint í bakið og stórskaðar hagsmuni veiða og vinnslu, sveitarfélaga og íbúa þeirra sérstaklega.   Það er mín skoðun að haldið hafi verið illa á þessu máli en lausn málsins er í okkar höndum. Hún fellst ekki í því að kasta frá okkur mörkuðum og hundruðum starfa og láta sér svo detta í hug að ríkið beri það tap. Hverslag eiginlega ráðdeild er þetta? Ef það er ekki verkefni þingmanna og Alþingis að vernda störfin í landinu og hagsmuni atvinnulífsins þá er starfið ekki beisið. Miðað við opinbera umræðu er ég eini þingmaðurinn á Alþingi Íslendinga sem hefur mótmælt opinberlega stuðningi okkar við Evrópusambandið og Bandaríkin í þessu máli og ég mun ekki kvika frá þeirri afstöðu Á þeim báti sem ég ræ í þessu máli er lang stærsti hluti þjóðarinnar í áhöfninni.        

Sailesh til Vestmannaeyja

 Sailesh elskar að dáleiða Íslendinga og hann er væntanlegur með sýningu í Kiwanishúsið í Vestmannaeyjum þiðjudaginn 15. september.   Sailesh kom til Vestmannaeyja fyrir um 8 árum og fyllti þá húsið með ótrúlegri sýningu sem engin gleymir sem voru þar, nú heimsækir hann Eyjar aftur að eigin ósk en svo vel skemmti hann sér síðast þegar hann kom.   Dávaldurinn Sailesh mætir aftur til leiks í september og mun halda áfram að dáleiða Íslendinga, en dávaldurinn hélt tvær magnaðar, krassandi og bráðskemmtilegar sýningar fyrr á þessu ári hér á landi.   Dáleiðsluhæfileika Sailesh þarf vart að kynna en hann hefur skemmt Íslendingum síðustu ár og fengið þá til að gera ótrúlega hluti sem enginn áhugamaður um dáleiðslu, uppistand og skemmtun ætti að láta fram hjá sér fara.   Gestir tryllast af hlátri og eiga erfitt með að trúa eigin augum. Þeir huguðustu hafa tækifæri á að komast á svið með dáleiðaranum og áður en þeir vita af eru þeir jafnvel farnir að dansa, tala kínversku, stunda kynlíf með stólum og jafnvel upplifa hinn ótrúlegasta tilfinningarússíbana !   Allt að sjálfsögðu undir ströngum ramma dáleiðslunnar sem Sailesh kallar yfir þá sem þora.   Ekki missa af þessari mögnuðu skemmtun!   Ert þú klár?  Hægt er að kaupa miða hér     Umsagnir um sýningar hans.    "Hottest hypnotist in the world!" Inside E! "The best hypnotist we've ever seen!" MTV Europe "Ridiculously brilliant!" Pop TV

Varaspennir kominn í gagnið í Rimakoti

 Varaspennir sem leysir af hólmi spenni sem bilaði í tengivirki Landsnets í Rimakoti á Landeyjasandi í síðustu viku var tengdur við kerfið í gærkvöldi. Flutningsgeta hans er helmingi minni en spennisins sem bilaði og því eru skerðingar áfram í gildi til notenda í Vestmannaeyjum sem eru með samninga um skerðanlegan flutning.   Vegna gasmyndunar í olíu leysti spennirinn í Rimakoti út að kvöldi þriðjudagsins 11. ágúst og bentu mælingar þá til að tengingar í einum fasa á háspennuvafi væru bilaðar. Hann var settur aftur í rekstur um sólarhring eftir bilun og keyrður eingöngu fyrir forgangsálag á meðan unnið var að undirbúningi og flutningi varaspennis í Rimakot. Flutningurinn gekk vel í alla staði og var hafist handa við að skipta um spenni í Rimakotstengivirkinu í gærmorgun. Það reyndist töluverð vinna en gekk vel og komst varaspennirinn í rekstur um kl. 20 í gærkvöldi.   Varaspennirinn hefur aðeins helmingsflutningsgetu (15 MVA) á við spenninn sem var í Rimakoti en hann á að duga til að tryggja forgangsorkunotendum í Vestmannaeyjum nægt afl. Skerðingar verða því áfram í gildi til annarra notenda þar til viðgerð er lokið á spenninum sem bilaði. Dreifiveitan í Eyjum stýrir skerðingunni, í samstarfi við notendur á svæðinu, eins og verið hefur frá því á þriðjudagskvöld.   Bilaði spennirinn hefur nú verið fluttur frá Rimakoti til viðgerðar og er von er á erlendum sérfræðing til landsins til að annast hana. Ætla má að viðgerð taki að lágmarki eina viku en ekki er hægt að segja til um það með vissu fyrr en búið verður að opna spenninn og kanna betur alvarleika bilunarinnar.   Til lengri tíma litið eru breytingar fyrirhugaðar á raforkuflutningi til Vestmannaeyja. Næsta sumar verður flutningurinn færður af 33 kV spennu yfir á 66 kV spennu og þá mun spennirinn í Rimakoti aðeins þurfa að þjóna hluta Suðurlands, þ.e. svæðinu frá Landeyjum að Vík í Mýrdal.

Líf og fjör á Töðugjöldum á Hellu

 Dagskrá Töðugjalda á Hellu, sem hófust í gær halda áfram í dag og er margt á dagskrá. Hátíðin er haldin af íbúum sjálfum fyrir íbúa og gesti.  Allir íbúar sveitarfélagsins voru hvattir til að skreyta hjá sér hús og garða í sínum litum. Íbúar í dreifbýli voru hvattir til að vera með, gulir fyrir austan Hellu, grænir fyrir vestan Hellu og rauðir í Þykkvabæ.  Verðlaun veitt fyrir best skreytta húsið eða býlið.  Viðurkenning verður veitt  fyrir best skreytta hverfið.     Dagskrá í dag:     Kl. 11:00-13:00        Töðugjöld bjóða til morgunverðar í íþróttahúsinu í boði Kökuvals, Reykjagarðs, Fiskáss, Kjarvals, Flúðaeggja og SS. Lifandi tónlist og Kvennakórinn Ljósbrá aðstoðar við framreiðslu. Seldir happdrættismiðar kr. 500 sem dregið verður úr á kvöldvöku, veglegir vinningar frá fyrirtækjum í sýslunni. Legobyggingakeppni. Keppendur hanna og byggja módel heima. Móttaka módela er á milli kl. 11:00-12:00 og þau höfð til sýnis í anddyri íþróttahússins. Kosið verður um flottasta módelið, keppt í tveimur flokkum 6 ára og yngri og 7 ára og eldri. Kl. 11:00-17:00        Hoppukastalar og leiktæki. Verðandi  10. bekkur Grunnskólans á Hellu verður með sjoppu á svæðinu. Kl. 11:00-12:00        Postularnir mæta og bjóða upp á hjólatúr. Kl. 11:00-17:00        Skottsala á planinu fyrir austan íþróttavöllin (gegnt bakaríinu), sölubásar í tengibyggingu íþróttahúss og í tjaldi við skólann. Kíkið í geymslurnar og komið með skottið fullt af varningi. Kl. 13:00                 Vindmyllusmíði: spreyttu þig á hönnun vindmylluspaða með aðstoð starfsmanna Landsvirkjunar.  Verðlaun fyrir frumlegustu spaðahönnunina og mestu rafmagnsvinnsluna.  Klukkan 13:00 hefjast líka hestvagnaferðir Bettinu og standa fram eftir degi. Kl. 13:45                     Torfæruhlaup 6 km, ræsing á plani við sundlaug. Góð æfing fyrir þá sem hyggjast hlaupa Reykjavíkurmaraþon. Síðustu 300-400 m verða hlaupnir á íþróttavelli. Skráning á staðnum frá kl. 13:00. Kl. 13:45                     Reiðhjólakeppni fyrir 12-16 ára, ræsing á íþróttavelli. Skráning á staðnum frá kl. 13:00. Kl. 14:00                     Barna-og fjölskylduskemmtun á íþróttavelli og sviði, stjórnandi Ingó veðurguð. Kl. 14:15                     Fegurðasamkeppni gæludýra á svið. Dómari frá Dýralæknamiðstöðinni ehf. Kl. 14:30                    Kassabílarallý á íþróttavellinum. Hver á kraftmesta bílinn og hver á frumlegasta bílinn? Skráning við svið frá kl. 13:30-14:00. Kl. 15:00                     Hæfileikakeppni, keppt í tveimur flokkum 8 ára og yngri og 9 ára og eldri. Skráning við svið frá kl. 14:00-14:30. Kl. 15:30                  Traktors-ökuleikni á túninu við Kanslarann. Skráning á staðnum frá kl. 15:00. Kl. 16:15              Bæjarhellubandið Kl. 16:30                    Zumbapartý Kl. 17:00-20:00        Hlé á dagskrá, allir fara heim, næra sig og skeyta fyrir kvöldvökuna. Skrúðgöngur úr hverfum mæta svo stundvíslega kl. 20:00 á íþróttavöll. Kl. 20:00                     Kvöldvaka hefst á sviði við íþóttavöll. Ingó veðurguð sé um að halda uppi fjörinu og stjórnar hverfakeppni þar sem 2 pör úr hverju hverfi keppa ásamt skrúðgöngustjóra. Sigurvegarar úr hæfileikakeppni barna sýna atriði sín og sagt verður frá hinum ýmsu sigurvegurum dagsins. Dregið í happadrætti. Beggi blindi. Bæjarhellubandið. Verðlauna- og viðurkenningarafhending fyrir best skreytta húsið og hverfið. Brekkusöngur með Ingó verðurguð. Flugeldasýning Flugbjörgunarsveitarinnar Hellu. Hljómsveitin Made-in sveitin endar Töðugjöldin með dúndurstuði í Árhúsum. Eftirtaldir aðilar styrkja Töðugjöldin og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir:  Rangárþing ytra, Kartöfluverksmiðja Þykkvabæjar, Arion banki, Landsbankinn, Bakaríið Kökuval, Fiskás, Reykjagarður, Sláturfélag Suðurlands, Kjarval, Flúðaegg, Flugbjörgunarsveitin Hellu, Húsasmiðjan, Olís, Dýralæknamiðstöðin, Tannlæknaþjónustan, Mosfell, Vörumiðlun, Kanslarinn, Árhús, Fóðurblandan, Þjótandi, Gámaþjónustan, Sjúkraþjálfun Shou, Glerverksmiðjan Samverk, Hótel Rangá, Hótel Dyrhólaey, Hótel Lækur, Hótel Fljótshlíð, Kaffi Langbrók, Hellishólar, Hótel Hvolsvöllur, Veiðifélag Ytri-Rangár, Verkalýðsfélag Suðurlands, Hótel Leirubakki , Stracta og Sláturhúsið Hellu.     http://www.ry.is

Grænt ljós frá Orkustofnun á framkvæmdir Landsnets til að auka orkuöryggi í Vestmannaeyjum

 Orkustofnun hefur veitt Landsneti leyfi til að reisa nýtt 66 kV raforkuflutningsvirki í Vestmannaeyjum auk leyfis til breytinga í tengivirki Landsnets í Rimakoti og styrkingar á hluta Rimakotslínu 1 til að auka flutningsgetu hennar. Sótt var um leyfir fyrir framkvæmdinni til Orkustofnunar 20. mars 2015.   Leyfið, sem barst á sama tíma og alverleg bilun varð í spenni í tengivirkinu í Rimakoti, felur í sér að hægt er að hefjast handa við úrbætur og koma á betri tengingu við Vestmannaeyjar en nú er. Ráðgert er að framkvæmdunum ljúki næsta sumar en megintilgangur þeirra er að auka afhendingargetu og afhendingaröryggi raforku til Eyja til framtíðar, eins og fram kemur í leyfinu. Þar segir jafnframt að umhverfisáhrif framkvæmdarinnar séu jákvæð þar sem áætlunin geri ráð fyrir að fiskvinnslufyrirtæki, sem nú brenna olíu, munu í kjölfarið í meiri mæli tengjast raforkukerfinu.   Landsnet lagði nýjan sæstreng, VM3, til Vestmannaeyja árið 2013, sem rekinn er á 33 kV spennu og verður hægt að tvöfalda flutningsgetu hans með því að hækka rekstrarspennuna í 66 kV. Til að hækka flutningsspennuna er þörf á að reisa nýtt tengivirki í Vestmannaeyjum því engir stækkunarmöguleikar eru í núverandi tengivirki. Nýja tengivirkið er hugsað sem framtíðarafhendingarstaður til dreifiveitunnar þar, HS Veitna, og verður það reist í samstafi við dreifiveituna sem mun eiga stærstan hluta tengivirkisins. Fyrirhugaðar framkvæmdir eru á landi Vestmannaeyjabæjar sem þarf að veita framkvæmdaleyfi á grundvelli staðfests skipulags og álits Skipulagsstofnunar.   Frétt á heimasíðu Orkustofnunar

Varaspennirinn tengdur á sunnudag

Prófunum er lokið hjá Landsneti á varaspenni sem skipta á út fyrir þann sem bilaði í tengivirkinu í Rimakoti í fyrrakvöld. Þær gengu vel og verður spennirinn fluttur austur í Rimakot í dag. Í framhaldinu verða spennaskiptin undirbúin og er nú stefnt að því að tengja varaspenninn inn á kerfið á sunnudag. Með þessum aðgerðum á að vera hægt að tryggja forgangsorkunotendum í Vestmannaeyjum nægt afl en skerðingar til annarra notenda verða áfram í gildi þar til viðgerð er lokið á spenninum sem bilaði.   Allt kapp er lagt á að flýta flutningi á varaspenninum austur og er reiknað með að hann geti verið tilbúinn til innsetningar í Rimakoti á sunnudagsmorgun. Tengingartíminn var ákveðinn í samráði við HS Veitur og Rarik á Suðurlandi en sú aðgerð tekur allt að sólarhring.   Laskaði spennirinn í Rimakoti var spennusettur á ný í gærkvöldi á litlu afli og tókst það vel. Í morgun hefur álagið verið aukið smávegis og gengur það vel enn sem komið er og hefur Rarik m.a. fengið afl fyrir Víkurlínu 1. Strax og varaspennirinn hefur verið tengdur fer spennirinn sem bilaði í viðgerð. Ætla má að hún taki að lágmarki eina viku en það fer þó eftir alvarleika bilunarinnar.   Með þeim bráðbirgðaaðgerðum sem verið er að ráðast í af hálfu Landsnets ætti að vera hægt að tryggja forgangsnotendum nægt afl en skerðingar til annarra verða áfram í gildi. Dreifiveitan í Eyjum, HS Veitur, stýrir skerðingunni í samstarfi við notendur á svæðinu, eins og verið hefur frá því bilunin kom upp  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Íþróttir >>

Vestmannaeyjahlaupið á laugardaginn

Næstkomandi laugardag mun Vestmannaeyjahlaupið fara fram en hlaupið var kosið hlaup ársins árið 2014. Hægt er að velja um þrjár hlaupaleiðir, 5, 10 og 21 kílómetra, en nú eru fleiri búnir að skrá sig heldur en á sama tíma og í fyrra.  21 km hlaupið hefst við Íþróttamiðstöðina klukkan 11.30. 5 og 10 km hlaupin eru ræst saman kl.12. Enn hægt er að skrá sig í hlaupið inni á vefsíðunni hlaup.is.   Herjólfur býður hlaupurum upp á tilboð á laugardaginn. Ferðir fram og til baka ásamt þátttökugjaldi fyrir 3.000 kr. Farið er frá Landeyjahöfn kl.09:45 og frá Vestmannaeyjum kl.18:30 en skráning í pakkaferðina fer einnig fram á hlaup.is. Einnig verða í boði hlaup fyrir krakka í tveimur aldursflokkum 6 til 10 ára munu hlaupa frá sviðinu í Herjólfdal að marki á Brekkugötu kl. 11.00. Fimm ára og yngri býðst svo að hlaupa upp Brekkugötuna og hefst þeirra hlaup kl. 11.40. Ekki þarf að skrá þátttakendur í krakkahlaupin bara að mæta tímanlega.Dagskrá4. september föstudagurkl.18-20 Gögn afhend í íþróttamiðstöð.                Brautaverðir funda.5. september laugardagur10:00  Gögn afhend þeim sem eru nýkomnir.10:30  Tónlist við Íþróttamistöð.10:30  Brautaverðir og aðstoðarfólk mæta í Íþróttahús í morgunkaffi.11:00  Krakkahlaup 6-10 ára frá Herjólfdal (sviði) að marki á Brekkugötunni.11:15  Brautaverðir fara á sína staði.11:30  21 km hlaupið hefst.11:40  Krakkahlaup 5 ára og yngri upp Brekkugötuna.11:45  Upphitun og stemmning við ráspól.12:00  5 km og 10 km hlaup hefjast.12:00  Boðið upp á kaffi við mark fyrir áhorfendur.12:20  Fyrstu menn fara að koma í mark úr 5 km.12:35  Fyrstu menn fara að koma í mark úr 10 km.13:00  Fyrstu menn fara að koma í mark úr 21 km.Verlaunaafhending, sund og slit ;)

Mannlíf >>

Fyrsta sólóflugið er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma

Skólar landsins eru flestallir að byrja á fullu þessa vikuna, sama á hvaða skólastigi það er. Þeir sem eldri eru, eru margir hverjir að stíga sín fyrstu skref í nýju og framandi námi í áttina að markmiðum sínum. Í dag eru ungu fólki á Íslandi margir vegir færir og margt í boði. Björn Sigursteinsson er einn af þeim sem er að láta draum sinn rætast í flugnámi hjá Keili en með honum er einnig annar Eyjamaður, Gísli Valur Gíslason.   Útskrifast með atvinnuflugmannsréttindi eftir 18 mánuði Í flugnámi er hægt að fara tvær leiðir, önnur þeirra er modular- leiðin þar sem nemandinn byrjar á að taka einkaflugmanninn og eftir að hafa klárað það þá getur hann haldið áfram í atvinnuflugmannsnámið. Leiðin sem Björn valdi að fara kallast integrated eða samtvinnað atvinnuflugmannsnám. Nemendur í þessu námi geta hafið nám án nokkurs grunns í flugi og útskrifast með atvinnuflugmannsréttindi og MCC, sem eru áhafnarréttindi, á aðeins 18 mánuðum. Keilir er fyrstur skóla hér á Íslandi til að bjóða upp á slíka námsleið í fluginu og hefur tekist mjög vel til. Björn byrjaði, ásamt samnemendum sínum, í júlí í fyrra í fjarnámi þar sem þau tóku einkaflugmannshlutann, Björn var einnig svo lánsamur að geta farið í sinn fyrsta flugtíma í júlí. Fjarnámið stóð yfir ásamt innilotum með kennara út september en í byrjun október hófst bóklega atvinnuflugmannsnámið. Meðfram þessu náði Björn sér í sína fyrstu flugtíma, ásamt því að fljúga sitt fyrsta sólóflug en hann segir að það sé ,,eitthvað sem ég mun aldrei gleyma”. Seinasti vetur var langur og strangur hjá þeim. Fór mikil vinna í bóklega námið og sat verklega kennslan aðeins á hakanum sökum þess. Fyrsta önnin kláraðist svo í desember með prófum hjá Keili og Samgöngustofu. ,,Seinni önnin hófst svo rétt eftir áramót með tilheyrandi látum. En eins og alþjóð veit þá var síðasti vetur erfiður veðurfarslega séð og því fór minna fyrir verklegu kennslunni.“ Þann 5. júlí síðastliðinn var svo komið að útskrift hjá þeim og voru þau 31 sem útskrifuðust en það er stærsti hópur sem útskrifast hefur frá Flugakademíu Keilis frá upphafi. Verklegu kennslunni er svo skipt í fjóra hluta og fer kennslan fram á Diamond vélum skólans ásamt glænýjum Red-Bird flughermi. Í byrjun læra þau á almenna meðhöndlun á flugvélum ásamt því að taka sín fyrstu sólópróf. Í kjölfarið fara þau í sitt fyrsta cross-country flug ásamt því að taka svokallað cross-country solo progress check sem gefur þeim þá möguleika á að fljúga ein eitthvað út á land. Þriðji og fjórði hlutinn fer í tímasöfnun og blindflugsþjálfun bæði á eins hreyfils og tveggja hreyfla flugvél.   Skrifstofuútsýni úr 38.000 fetum er eitthvað sem heillar Ætlaðir þú alltaf að verða flugmaður? „Nei, ég get nú ekki sagt það, það var nú alltaf draumur að verða atvinnumaður í fótbolta, ásamt því að vinna sem tannlæknir, gott saman. En svo kom áhuginn á fluginu fyrir rétt rúmum fjórum árum og var lítið sem stöðvaði mig í því að gera það að framtíðaratvinnu.“ Hvað er það sem heillar við starfið? „Það er svo ótal margt sem heillar við starfið. Fjölbreytileikinn er auðvitað mikill, að fá að deila áhugamáli með atvinnu eru mikil forréttindi og auðvitað að hafa skrifstofuútsýni úr 38.000 fetum er eitthvað sem heillar mjög mikið.“   Hér birtist aðeins brot af viðtalinu við Björn, viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Eyjafrétta.

Stjórnmál >>

Breyttur opnunartími leikskólanna

  Á fundi sem fræðsluráð hélt í gær var tekið fyrir bréf frá foreldrum barna vegna ákvörðunar Vestmannaeyjabæjar að stytta vistunartíma barna frá klukkan 17:00 í 16:15. Á fundinum var ákveðið að breyta þessum tíma aftur og er tímin nú til 16:30 til að koma til móts við þá foreldra sem þurfa lengri tíma en fræðsluráð leggur miklar áherslu á gott samtal milli foreldra og ráðsins og telur að með erindinu séu rök bæði skólastjórnenda og foreldra komin fram segir í bókun ráðsins.   Hér má sjá bókun ráðsins í heild.   Bréf frá foreldrum vegna ákvörðunar um breytingar á lokunartímum leikskóla í Vestmannaeyjabæ lagt fram.   Fræðsluráð hefur móttekið erindi frá foreldrum leikskólabarna þar sem gerð er athugasemd við ákvörðun ráðsins frá 275. fundi 11. maí sl. um breytingu á lokunartíma leikskóla sveitarfélagsins. Ráðið tekur fram að erindi um breytingu á lokunartíma leikskóla kom frá leikskólastjórnendum. Tillaga leikskólastjórnenda fyrir breytingu á opnun leikskóla var byggð á eftirfarandi rökum; a) lítil nýting dvalartímans eftir kl. 16:15 b) hagræðing í rekstri c) stuðlar að fjölskylduvænna samfélagi. Í erindinu er gerð athugasemd við að ákvörðun hafi verið tekin án aðkomu fulltrúa foreldra leikskólabarna. Ráðið bendir á að foreldrar leikskólabarna hafa áheyrnarfulltrúa á fundum ráðsins og eru boðaðir sem slíkir með fundarboði í gegnum tölvupóst og er það ekki á ábyrgð ráðsins að þeir mæti á fundi. Í erindinu er fjallað um opnunartíma leikskóla í ákveðnum sveitarfélögum. Fræðslufulltrúi Vestmannaeyjabæjar tók saman lista yfir opnunartíma 18 sveitarfélaga og kom í ljós að af þeim 18 sveitarfélögum sem skoðuð voru var algengasti opnunartími leikskóla frá 7:45-16:15.   Fræðsluráð leggur mikla áherslu á gott samtal milli foreldra og ráðsins og telur að með erindinu séu rök bæði skólastjórnenda og foreldra komin fram. Ráðið þakkar því erindið og samþykkir að breyta ákvörðun ráðsins frá 11. maí 2015 á þann veg að opnunartíminn verði frá 07:30-16:30 í stað 07.30-16:15 frá og með 17. ágúst 2015 líkt og samþykkt var á fundi nr. 275. Fræðsluráð beinir því til skólaskrifstofu og skólastjórnenda leikskólanna að kynna fyrirhugaða breytingu vel.

Greinar >>

Óvild, arður og réttlæti.

 "En maður les líka á milli línanna hjá sumum að þar skín í gegn óvildin í garð sjávarútvegsins og þeirra fyrirtækja sem stunda útgerð á Íslandi.” Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins í viðtali sem birtist við hann í Morgunblaðinu 20. ágúst sl. þar sem hann ræðir um Rússadeiluna svonefndu.   Og í viðtalinu segir Bjarni einnig: “Að ná höggi á fiskveiðistjórnunarkerfið er orðið sjálfstætt markmið hjá þessu fólki. En fiskveiðar og arðbært stjórnkerfi er það sem hefur komið undir okkur fótunum, með þessu höfum við byggt upp það samfélag sem við búum í. Það er ótrúlega dapurlegt að lesa þetta." Það er því miður of mikið til í því hjá hæstvirtum fjármálaráðherra að óvild í garð sjávarútvegsfyrirtækja er allt of algeng og allt of mikil meðal fólks. Það er mjög skaðlegt hugarfar og engum til gagns. En það er kolrangt hjá ráðherra ef hann heldur að óvildin sé tilkomin vegna þess að stjórnkerfi fiskveiða er arðbært.   Ástæða þessarar óvildar er augljós og einföld og hún er sú að hann og aðrir stjórnmálamenn sem hafa ekki staðið sig í að tryggja að þjóðin geti treyst því að hún eigi fiskveiðiauðlindirnar og fái að njóta arðsins af þeim. Og fjármálaráðherra hefur raunar verið í liði með þeim sem hafa viljað tryggja að almenningur í landinu fái bara molana sem til falla þegar sérvaldir éta kökuna.Til að breyta þessu neikvæða hugarfari þarf að gera tvennt. Það þarf að setja skýrt ákvæði í stjórnarskrá um að þjóðin eigi fiskveiðiauðlindirnar. Og það þarf að bjóða réttinn til að nýta auðlindirnar upp á jafnræðisgrundvelli. Aðeins þannig verður réttur þjóðarinnar til þessara auðlinda og arðsins af þeim tryggður í orði og í verki. Verði þetta hvorugt gert mun fólkið í landinu aldrei verða sátt og sem betur fer ekki. Það á ekki og má ekki verða sátt um óréttlæti. Þetta verður fjármálaráðherra að fara að skilja og það er brýnt að það gerist sem fyrst því að óánægjan sem er um þessi mál hjá þjóðinni er ekki bara skaðleg fyrir sáttina í samfélaginu. Hún er mjög skaðleg fyrir sjávarútvegsfyrirtækin og alla þá sem hjá þeim starfa, fjárhagslega hagsmuni þeirra og allrar þjóðarinnar.   Það verður enn þá óásættanlegra hversu neikvæð umræðan um sjávarútveginn oft er þegar litið er til þess hversu margt í sambandi við hann ætti að vera okkur tilefni til að gleðjast og fyllast stolti. Framleiðsla á næringarríkum mat í heimi þar sem mikil þörf er fyrir holla fæðu. Og aðrar fiskveiðiþjóðir horfa mjög til okkar því að okkur hefur tekist mjög margt miklu betur en langflestum. Fiskistofnarnir okkar eru nýttir með ábyrgum hætti, sjávarútvegur skilar miklum arði og framleiðnin í honum er mjög góð miðað við það sem gerist í öðrum löndum. Hagfræðilegar rannsóknir sýna að sjómennirnir okkar eru einhverjir þeir hæfustu og duglegustu í heimi og fiskverkunarfólkið okkar skilar hágæða afurðum. Er ekki óþolandi að láta allt þetta dugmikla fólk þurfa að hlusta sí og æ á neikvæða umræðu um greinina sem það starfar í? Mér finnst það.   Íslenskur sjávarútvegur á auðvitað að vera og hefur verið mjög jákvæður þáttur í sjálfsmynd okkar. Þetta er atvinnugreinin sem kom okkur almennilega á lappirnar. Það er mjög skaðlegt fyrir okkur öll hvernig deilur um úthlutun aflaheimilda og skiptingu arðsins af nýtingu fiskveiðiauðlindanna hafa skaðað ímynd starfsstétta sem tengjast sjávarútvegi og byggða sem mikið byggja á útgerð. Og leitt til hugarfars og umræðna sem fjármálaráðherra kallar óvild í garð fyrirtækja í sjávarútvegi.   Þessu verður að breyta og eina leiðin til þess er að þjóðin geti treyst því að hún eigi fiskveiðiauðlindirnar og njóti þess arðs af þeirri eign sinni sem henni ber. Við þurfum að hafa það skýrt og skorinort í stjórnarskrá og það þarf að bjóða nýtingarréttinn upp.   Þegar við höfum komið þessu í verk munu fyrirtæki í sjávarútvegi njóta velvildar þjóðarinnar allrar.      

VefTíví >>

Gott að lesa

Átakið um Þjóðarsáttmála um læsi verður hrint af stað í dag klukkan  9.30 þegar undirritaður verður sáttmáli í Borgarbókasafni með borgarstjóra Degi B. Eggertssyni.    Á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins er hægt að finna allskyns upplýsingar um átakið og  myndband með laginu "Gott að lesa" sem Ingó veðurguð flytur en það má sjá í spilaranum með fréttinni. Inni á heimasíðunni segir að haustið 2015 mun mennta- og menningarmálaráðuneyti í samvinnu við sveitarfélög og skóla vinna að Þjóðarsáttmála um læsi með það að markmiði að öll börn geti við lok grunnskóla lesið sér til gagns. Verkefnið er hluti af aðgerðaáætlun í kjölfar Hvítbókar um umbætur í menntun. Framlag ráðuneytisins verður í formi ráðgjafar, stuðnings, lesskimunar og aukins samstarfs við foreldra.   Lestrarfærni er forsenda virkrar þátttöku í lýðræðis- samfélagi en bágur lesskilningur getur haft neikvæð áhrif á námsframvindu og þar með atvinnutækifæri síðar meir. Margt er vel gert í skólastarfi hér á landi og sýna alþjóðlegar kannanir að Íslendingar búa við gott menntakerfi, þar sem helstu styrkleikar eru jafn námsárangur milli skóla, vellíðan nemenda og sveigjanlegt skólakerfi með lítilli miðstýringu. Það veldur þó miklum áhyggjum að lesskilningur hefur versnað og að við lok grunnskóla getur of stór hluti barna ekki lesið sér til gagns. Ástæðan er ekki augljós en vafalaust er um að ræða flókið samspil margra þátta og því mikilvægt að snúa vörn í sókn   Á næstu fimm árum verður gert margþætt átak sem mun skila okkur enn betra menntakerfi til framtíðar.   Sáttmálin verður undirritaður í Vestmannaeyjum þann 21. september klukkan 14:00.