Allar upplýsingar um líkamsárásarmálið vel þegnar

Í ýmsu var að snúast hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum sl. viku vegna mála sem komu á hennar borð. Tilkynnt var um slagsmál á skemmtistað í bænum og þurfti lögreglan að skakka leikinn og í framhaldi fékk aðili af málinu að gista fangageymslu lögreglunnar. Ekki liggja fyrir kærur vegna málsins.   Brotist var inní tvö fyrirtæki í bænum og stolið það léttbifhjóli í einu fyrirtækinu og áfengi í öðru. Viðkomandi aðili sem braust þar inn hefur ítrekað verið tekinn við að brjótast inní fyrirtæki og heimili og stela þar verðmætum.   Í vikunni var tilkynnt að drengur hafi dottið af hjólabretti þar sem hann var við leik á lóð barnaskólans. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á sjúkrahúsið til skoðunar en ekki er talið um alvarleg meiðsli að ræða. Af umferðarmálum er það að frétta að 6 kærur liggja fyrir eftir vikuna, 4 vegna stöðubrota og 2 þar sem ekki voru notuð öryggisbelti.   Grunaður um stórfellda líkamsárás, hættubrot og kynferðisbrot   Aðfaranótt laugardagsins 17. september var lögreglu tilkynnt af íbúa við Fífilgötu að á götunni væri kona sem væri með mikla áverka eftir líkamsmeiðingar. Lögreglumenn og sjúkraflutningamenn fóru á staðinn og var konan flutt sjúkrahús. Eftir aðhlynningu á sjúkrahúsi Vestmannaeyja var hún flutt með sjúkraflugi til Reykjavíkur til frekari rannsókna og læknismeðferðar.   Karlmaður var handtekinn skömmu síðar á heimili sínu grunaður um stórfellda líkamsárás, hættubrot og kynferðisbrot gagnvart konunni. Lögreglustjóri krafðist gæsluvarðhalds yfir manninum á grundvelli rannsóknarhagsmuna en Héraðsdómur Suðurlands hafnaði kröfunni þann 18. september. Úrskurður héraðsdóms var kærður til Hæstaréttar sem féllst á kröfu lögreglustjóra í dag um að hinn grunaði verði úrskurðaður í gæsluvarðhald til laugardagsins 24. september næstkomandi.   Lögreglan biður þá sem einhverjar upplýsingar geta veitt um málið að hafa samband í síma 444 2091.  

Kona fannst nakin utandyra með alvarlega áverka á laugardaginn

Kona á fimmtugsaldri var flutt í skyndi með sjúkraflugi frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur á laugardagsmorgun. Samkvæmt heimildum Stundarinnar, sem greindi frá þessari frétt, fannst konan meðvitundarlaus í húsgarði rétt hjá öldurhúsi í bæjarfélaginu. Konan er sögð hafa fundist nakin og með mikla áverka, meðal annars á höfði. Töldu heimildarmenn Stundarinnar að konan hafi höfuðkúpubrotnað.   Lögreglan í Vestmannaeyjum verst allra fregna af málinu. Einu upplýsingarnar sem fengust frá embættinu voru þær að lögreglan væri að rannsaka mál sem hafi komið upp um helgina. Hvort um væri að ræða þjófnað, líkamsárás, íkveikju eða kynferðisbrot sagðist yfirlögregluþjónn embættisins ekki geta tjáð sig um það.   „Þetta er mjög óhugnarlegt mál og fólki hér er brugðið,“ segir íbúi í Vestmannaeyjum sem Stundin ræddi við. Mikið af fólki hafi verið samankomið á eyjunni um helgina til þess að skemmta sér, bæði íbúar og aðkomufólk. Rætt sé um þetta alvarlega atvik nú eftir helgina en að litlar upplýsingar sé að fá um hvað hafi í raun og veru gerst.   Stundin hafði samband við starfsmann neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis á Landspítalanum sem staðfesti að einn einstaklingur hafi leitað til þeirra um helgina. Þá hefur einnig verið staðfest að flogið var slaðasan einstakling frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur þennan laugardag, 17. október.   Eins og áður segir veitir lögreglan í Vestmannaeyjum engar upplýsingar um málið. Það er í takt við stefnu embættisins undir forystu lögreglustjórans Páleyjar Borgþórsdóttur.   Uppfært 18:30   Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, staðfesti nú undir kvöld frétt Stundarinnar í samtali við DV. Hún segir að grunur leikur á að konan sem fannst nakin utandyra hafi verið beitt kynferðisofbeldi aðfaranótt laugardags. Þá hafi lögreglan handtekið mann á heimili sínu sömu nótt sem hún grunar að hafi veitt konunni áverkana. Farið var fram á gæsluvarhald yfir manninum en þeirri beiðni var hafnað af héraðsdómi. Sá úrskurður var kærður til hæstaréttar og er niðurstöðu að vænta á morgun.   Þá segir Páley að rannsókn málsins sé á viðkvæmu stigi en ekki hefur tekist að ljúka skýrslutöku fórnarlambsins nema að hluta til.  

Innri hluti hafnar rannsakaður

 Rannsóknir á innri hluta Landeyjahafnar standa nú yfir í líkanhúsi Vegagerðarinnar í Kópavogi. Herjólfur hreyfist heldur mikið á stundum þegar hann liggur við bryggju í höfninni og leitað er leiða til að draga úr ölduhreyfingum inn í höfninni. Skipstjórar Herjólfs skoðuðu líkanið og rannsóknina í dag til að gefa álit sitt á hugsanlegum breytingum og hvað mætti rannsaka betur. Vegagerdin.is greinir frá.   Með líkaninu er líkt eftir aðstæðum í höfninni svo sem kostur er. Smíðað hefur verið líkan af nýjum Herjólfi sem notað er til viðmiðunar. Vél útbýr öldur í óskaðri stærð og með þeirri öldutíðni sem rannsökuð er hverju sinni. Nú hafa verið skoðaðar breytingar á höfninni varðandi að lengja innri hafnargarð og setja á báða enda hans svo kallaða tunnu (sem sjá má á myndinni á austari garðinum), skoðaðar hafa verið breytingar sem skapast við að bryggjan verði lokuð þannig að aldan fari ekki inn undir bryggjuna og einnig að stækka innri höfnina til austurs sem myndi draga úr ölduóróa innan hafnar.   Fyrstu niðurstöður benda til þess að þessar breytingar myndu hafa þó nokkuð mikil áhrif á öldufar innan hafnar til hins betra.   Eftir yfirferð með skipstjórum Herjólfs verðu nú einnig rannsakaðar tilfærslur á eystri hafnargarðinum innan hafnar til að finna út bestu mögulegu útkomu þannig að þrengja þurfi innri hafnarkjaftinn sem minnst, þannig að svigrúm Herjólfs verði sem mest hverju sinni.   Stækkun hafnarinnar mun einnig leiða til þess að Herjólfur mun eiga mun auðveldara með að snúa við og almennt athafna sig innan hafnar sem er mikilvægt þegar veður eru að öðru leyti óhagstæð siglingum í Landeyjahöfn.

Moskenesstraumen AS með lægsta boð í smíði og rekstur Vestmannaeyjaferju

Norska fyrirtækið Moskenesstraumen AS átti lægsta tilboð í smíði og rekstur nýrrar Vestmannaeyjaferju. Tilboð voru opnuð hjá Ríkiskaupum í dag. Lægsta boð eingöngu í smíði ferjunnar átti Nantong Rainbow Offshore and Egineering frá Kína en litlu munaði á því tilboði og boði frá Fiskerstrand Verft AS frá Noregi. Vegagerdin.is greinir frá.   Útboðið var tvíþætt en bjóða mátti í annarsvegar nýsmíði ferjunnar og hinsvegar í einkaframkvæmd þar sem boðið var í smíði ferjunnar og rekstur í 12 ár.   Í smíði ferjunnar bárust alls 12 tilboð en kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 27,5 milljónir evra eða ríflega 3,5 milljarða íslenskra króna. Lægst boð kom frá Nantong Rainbow Offshore and Egineering frá Kína upp á 21.420.000 evrur, næstlægsta boð átti Fiskerstrand Verft AS frá Noregi upp á 21.850.000 evrur.   Lægsta boð í smíði og rekstur ferjunnar átti norska fyrirtækið Moskenesstraumen AS og hljóðaði það upp á 7,14 milljarða íslenskra króna en kostnaðaráætlun nam rúmum 13,22 milljörðum króna. Næstlægst bauð Eimskip Ísland ehf., og Sæferðir ehf. en það boð hljóðaði upp á rúmar 8,12 milljarða íslenskra króna.   Sjá nánar á vef Ríkiskaupa, aðra bjóðendur og tilboðsupphæðir.   Farið verður yfir tilboðin og borið saman eftir ákveðnum reglum hvort sé hagstæðara að smíða ferjuna eingöngu eða taka tilboði í einkaframkvæmd þ.e.a.s. smíði og rekstur ferjunnar. Farið verður yfir hvort tilboðin eru gild sem og mat á skipasmíðastöðinni. Einnig þarf að taka með í reikninginn fjarlægðarálag vegna nýsmíðinnar sem gert verður í samræmi við útboðsskilmála.  

Galin umræða um niðurstöðu prófkjörs í Suðurkjördæmi

Galin umræða um niðurstöðu prófkjörs í Suðurkjördæmi Það er merkilegt að fylgjast með umræðunni sem sprottið hefur upp í kjölfar prófkjara Sjálfstæðismanna um helgina. Fjölmargir hafa verið með allskyns yfirlýsingar um að niðurstöðum verði að breyta. Fyrirsagnir og upphrópanir um að konum hafi verið hafnað. Niðurstaðan sé áfall fyrir stjórnmálin. Niðurstaðan sé óréttlát. Sjálfstæðisflokkurinn sé karllægur og konur hljóti þar ekki brautargengi og að nauðsynlegt sé að breyta niðurröðuninni til að gæta að jafnræði kynjanna við frágang framboðslistanna. Þessi umræða, hvað varðar niðurstöðuna í Suðurkjördæmi er ekki bara ómálefnaleg heldur er hún á algjörum villigötum. Samhljóða ákvörðun um prófkjör Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmis ákvað á fjölmennum fundi að haldið skyldi prófkjör til að velja frambjóðendur á lista flokksins í Suðurkjördæmi, með öllum þeim kostum og göllum sem prófkjörum fylgja. Á þeim fundi fór ég vandlega yfir þá valkosti sem í boði væru, samkvæmt skipulagsreglum Sjálfstæðisflokksins, til að stilla upp á lista og fór ítarlega yfir svokallaða röðun á lista og hvatti til þess að umræða yrði tekin um þá leið. Benti ég sérstaklega á að með þeirri leið væri meiri möguleiki á að hægt væri að horfa til þátta eins og jafnrar dreyfingingar milli kynja, aldurs og mismunandi svæða kjördæmisins, við röðun í sæti en í prófkjöri væri aldrei hægt að tryggja slíka niðurstöðu. Ég benti á að prófkjörum fylgdu ýmsir gallar sem að allir þyrftu að vera meðvitaðir um og sætta sig við ef að sú leið væri farin. Flestallir sem til máls tóku töluðu gegn leið röðunar, sem að ég opnaði umræðu um. Bæði karlar og konur, ungir sem eldri, stuðningsmenn sitjandi þingmanna og fylgjendur nýrra frambjóðenda. Nær allir sögðu að besti kosturinn væri prófkjör, það væri lýðræðilegasta leiðin og þá leið skyldi nota til að stilla upp á lista. Á þeim fundi hreyfði enginn þeirra fjögurra sitjandi þingmanna kjördæmisins sem voru á fundinum mótmælum við því að efnt yrði til prófkjörs. Samþykkt var þvi einróma að efna til prófkjörs, með öllum þeim kostum og göllum sem prófkjöri fylgja, og auðvitað hljóta allir sem studdu þá leið að hafa um leið gefið samþykki sitt fyrir því að una glaðir þeirri niðurstöðu sem úr prófkjörinu kæmi, hver sem hún yrði. Eftir fjölmennt prófkjör, það fjölmennasta sem haldið verður fyrir komandi kosningar þó að horft sé til allra stjórnmálahreyfinga á landinu, liggur niðurstaða fyrir. Þá upphefst mikill söngur af því að niðurstaðan er ekki rétt að mati einhverra og þá á bara að breyta henni!! Á að breyta niðurstöðu lýðræðislegra kosninga af því að hún er ekki „rétt“ að mati einhverra? Það er undarlegt lýðræði ef að niðurstaða kosninga er ekki rétt nema að hún sé á einhvern ákveðin veg. Í prófkjörinu höfðu þátttökurétt allir þeir sem voru flokksbundnir eða gerðust flokksbundnir áður en þeir tóku þátt. Yfir 4000 manns frá 15 ára aldri og uppúr, bæði konur og karlar tóku þátt og greiddu atkvæði og niðurstöður kosninganna voru algjörlega afgerandi. Samt er nú hrópað á að niðurstöðunni þurfi helst að breyta af því að hún er ekki rétt. Karlmenn hlutu kosningu í þrú efstu sætin og það er, að mati þeirra sem hæst hafa, algjörlega óviðunandi niðurstaða. Talað er um karlaveldi og að konum hafi verið hafnað og jafnvel kallað eftir því að þessum óréttlátu kvenfjandsamlegu niðurstöðum verði breytt. Konum í Suðurkjördæmi hefur verið veitt umboð og sýnt traust í prófkjörum Það er vert að staldra við og skoða hver staða kvenna hefur verið í Suðurkjördæmi undanfarin ár og hvort réttlátt er, vegna niðurstöðu prófkjörs nú, að kyngera niðurstöðuna og láta að því liggja að niðurstaðan hafi einungis orðið til vegna kynferðis framjóðenda og að konum hafi verið hafnað vegna kynferðis. Þrjár konur í fjórum efstu sætunum 2009 Fyrir alþingiskosningar 2009 var stillt upp á lista með prófkjöri í Suðurkjördæmi. Niðurstaða þess prófkjörs var sú að konur skipuðu 3 af fjórum efstu sætum listans. Ragnheiður Elín í fyrsta sæti, Árni Johnsen í öðru sæti, Unnur Brá í þriðja sæti og Íris Róberts í fjórða sæti. Engin átök eða umræður urðu í kjölfar þessarar niðurstöðu og ekkert var talað um að körlum hafi verið hafnað eða að á þá hallaði. Í ljósi umræðunnar nú þá er einnig rétt að rifja upp að engum datt í hug að þessar ágætu konur hafi verið kjörnar vegna þess að þær voru konur. Þær voru kjörnar vegna þess að kjósendur treystu þeim og vildu veita þeim umboð sitt til starfa á alþingi. Þetta var einfaldlega vilji fólksins. Niðurstaða lýðræðislegs prófkjörs. Konur í tveimur efstu sætunum 2014 Fyrir kosningarnar árið 2014 var einnig efnt til prófkjörs til að stilla upp á lista í Suðurkjördæmi og niðurstaðan varð sú að konur skipuðu tvö efstu sætin og karlar þau næstu tvö þar á eftir. Ragnheiður Elín í fyrsta sæti, Unnur Brá í öðru sæti, Ásmundur Friðriks í þriðja sæti og Vilhjálmur Árna í því fjórða. Ekki kallaði þessi niðurstaða á neina neikvæða umræðu þó að konur skipuðu tvö efstu sætin og karlar kæmu þar á eftir. Ekki dettur mér til hugar að þessar ágætu konur hafi verið kjörnar á ný vegna þess að þær voru konur. Þær hljóta einfaldlega að hafa verið endurkjörnar vegna þess að kjósendur voru ánægðir með þær og þeirra störf og vildu veita þeim umboð sitt á ný til starfa á alþingi. Þetta var einfaldlega vilji fólksins. Niðurstaða lýðræðislegs prófkjörs. Hvers vegna náðu sömu konur ekki sama árangri nú? Er líklegt að það hafi verið vegna kynferðis þeirra? Í prófkjörinu um liðna helgi varð niðurstaða lýðræðislegs prófkjörs sú að karlar hlutu þrjú efstu sætin og konur tvö þau næstu. Páll Magg í fyrsta sæti, Ásmundur Friðriks í öðru sæti, Vilhjálmur Árna í þriðja sæti, Ragnheiður Elín í fjórða sæti og Unnur Brá í fimmta sæti. Niðurstaðan nú er augljóslega mikill viðsnúningur frá því sem verið hefur í tveimur áðurnefndum prófkjörum og sömu konur og voru á toppnum í þeim hljóta ekki sama fylgi nú og fyrr. Þær fá einfaldlega ekki endurnýjað umboð kjósenda að þessu sinni og það hvarflar ekki einu sinni að mér að ástæða þess sé að þær eru konur. Það er því eðlilegt að spyrja hvort einhver sanngirni í þeirri umræðu sem nú á sér stað um prófkjörið og snýst öll um að konum sé hafnað vegna þess að þær eru konur og kosið sé eftir kynferði. Það er sérstök ástæða að velta þessu fyrir sér í okkar kjördæmi og líta til þess hvernig raðast hefur á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í undanförnum kosningum. Það er sami þverskurður kjósenda sem tekur þátt í prófkjörinu nú og gerði það árin 2009 og 2014. Þessir sömu kjósendur veittu Ragnheiði Elínu og Unni Brá brautargengi 2009 og 2014. Af hverju ættu þeir snúa baki við þeim nú vegna kynferðis þeirra. Er ekki líklegra, í ljósi niðurstöðu undangenginna prófkjara, að þátttakendur í prófkjörinu nú hafi litið til annarra þátta en kynferðis og það hafi ráðið afstöðu þeirra við val á frambjóendum, eins og það örugglega gerði bæði 2009 og 2014. Er líklegt að 2009 og 2014 hafi kjósendur í Suðurkjördæmi valið konur í efstu sætin af því að þær voru konur og hafni þessum sömu konum nú vegna þess að þær eru konur? Mér finnst þetta algjörlega galin umræða og ég held að það væri gott fyrir formann Landssambands Sjálfstæðiskvenna og aðra þá sem hafa hvað hæst í þessum konsert, við mikinn fögnuð fréttamanna, að líta á staðreyndir um prófkjör Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi undanfarnar kosningar. Það er falskur tónn í þessari umræðu vegna þess að staðreyndin er sú að kjósendur í prófkjörum Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi hafa ekki síður gefið konum en körlum tækifæri á undanförnum árum. Staðreyndirnar tala sínu máli. Eitthvað annað en kynferði frambjóðenda hlýtur að hafa ráðið afstöðu meirihluta kjósenda nú líkt og áður þó svo að í þetta sinn hafi karlar náð betri árangri en þær konur sem sömu kjósendur sýndu traust undanfarin 8 ár. Mér finnst það lítilsvirðing við þá rúmlega 4000 kjósendur sem tóku þátt í prófkjörinu að halda því fram að val þeirra hafi fyrst og fremst mótast af afstöðu til kyns frambjóðenda. Slík umræða er áfall fyrir pólitíkina. Grímur Gíslason (Greinarhöfundur er formaður stjórnar kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi)    

Annasöm vika hjá lögreglunni

Lögreglan hafði í nógu að snúast í liðinni viku án þess þó að alvarleg mál hafi komið upp. Skemmtanahald helgarinnar gekk með ágætum þrátt fyrir að fjöldi fólks hafi verið að skemmta sér enda fjöldi árgangsmóta á dagskrá. Eitthvað var um stympingar í kringum öldurhúsin en engin kæra hefur verið lögð fram.   Síðdegis þann 1. september sl. var lögreglu tilkynnt um nytjastuld á léttu bifhjóli en sá sem stal hjólinu hafði skilað því aftur þar sem hann tók það eftir að hafa ekið á því um bæinn. Kvaðst sá sem tók hjólið hafa fundið það og ákveðið að taka það. Hjólið er óskemmt.   Undir kvöld þann 3. september sl. var lögreglu tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir við hús á Hásteinsvegi. Þegar kannað var með málið kom í ljós að farið hafði verið inn og þaðan stolið áfengi. Sá sem þarna var á ferð fannst skömmu síðar ásamt þremur öðrum á svipuðu reki og viðurkenndi hann að hafa brotist inn í húsið. Var þarna um þann sama að ræða og tók léttbifhjólið nokkrum dögum áður.   Alls liggja fyrir fjórar kærur vegna brota á umferðarlögum eftir vikuna og er í tveimur tilvikum um að ræða vanrækslu á að nota öryggisbeldi í akstri, einu tilviki akstur án ökuréttinda og í einu tilvik var sektað fyrir ólöglega lagningu ökutækis.   Um hádegi þann 3. september sl. urðu bæjarbúar varir við að skotið var upp skoteldum í skriðunni sunnan í Hánni en þarna var um að ræða ræsingu Vestmannaeyjahlaupsins. Aðstandendum hlaupsins hafði láðst að fá leyfi fyrir að skjóta skoteldunum og er málið til rannsóknar hjá lögreglu.   Eitt vinnuslys var tilkynnt lögreglu í vikunni sem leið en þarna hafði starfsmaður í Vinnslustöðinni slasast við vinnu sína við færiband. Ekki er vitað hversu alvarleg meiðsl starfsmannsins eru.    

VSV - Telja hluthafafundinn ólöglegan - Rétt fram sáttarhönd

„Á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar hf. í Vestmannaeyjum þann 6. júlí sl. voru undirritaðir kosnir í stjórn og varastjórn félagsins. Þegar talningu var lokið líkaði meirihluta hluthafa félagsins ekki niðurstaða kosninganna. Arnar Sigurmundsson fundarstjóri, sem er stjórnarmaður í Landssamtökum lífeyrissjóða og tengist hópi meirihluta hluthafa Vinnslustöðvarinnar sem Haraldur Gíslason fer fyrir, ákvað í samráði við þessa örfáu hluthafa að kosning til stjórnar væri ógild og kosið skyldi aftur,“ segir í fréttatilkynningu sem bræðurnir Guðmundur Kristjánsson í Brimi og Hjálmar Kristjánsson sendu frá sér eftir hluthafafund Vinnslustöðvarinnar þar sem ný stjórn var sjálfkjörin.   Einnig segir í fréttatilkynningunni: „Þessum vinnubrögðum var mótmælt tafarlaust á aðalfundinum. Þrátt fyrir mótmæli og bókanir fundarmanna ákvað fundarstjóri að kjósa aftur. Sú stjórn sem var kosin hefur ekki tekið til starfa. Málið er nú hjá hlutafélagaskrá RSK sem hefur ekki enn kveðið upp úrskurð sinn. Við höfum rétt fram sáttarhönd til meirihlutans, svo friður gæti skapast um félagið, en því hefur verið hafnað.   Þrátt fyrir allt þetta hefur verið boðað til nýs hluthafafundar í Vinnslustöðinni hf. síðar í dag þar sem á að kjósa þriðju stjórnina á þessu ári. Við teljum þetta vera ólöglega og grófa valdníðslu af hálfu meirihluta hluthafa og gróft brot á reglum hlutafélagalaga. Þykir okkur einnig miður að sjá Lífeyrissjóð Vestmannaeyja, sem lengst af var hlutlaus um málefni Vinnslustöðvarinnar, taka þátt í aðför meirihlutans að okkur, ásamt stjórnarmanni í Landssamtökum lífeyrissjóða. Vakna þá spurningar um hvort lítið sé að marka baráttu lífeyrissjóðanna fyrir bættum stjórnarháttum í hlutafélögum. Við tilkynnum hér með að við höfum ákveðið að draga framboð okkar til stjórnarsetu í Vinnslustöðinni hf. til baka þar sem við teljum boðaðan hluthafafund sem fara á fram í dag ólöglegan,“ segir í fréttatilkynningunni sem þeir Guðmundur og Hjálmar sendu frá sér eftir fundinn.   Á myndinni er Sigurður Ágústson, lögmaður Brims að lesa upp yfirlýsingu bræðranna.   

Samkeppni um hönnun á húsgafli á frystiklefa VSV inni á Eiði

Í framhaldi afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs í júlí, varðandi útlit á suðurgafli frystiklefa VSV inni á Eiði hefur VSV óskað eftir samstarfi við Vestmannaeyjabæ um hönnunarsamkeppni um útlit gaflsins. Óskað er eftir tveimur fulltrúum Vestmannaeyjabæjar í dómnefnd.   Umhverfis -og skipulagsráð hrósar Vinnslustöðinni fyrir þann vilja og viðleitni til þess að vanda til verka varðandi útlit á suðurgafli frystigeymslu við Kleifar 2. Fulltrúar Vestmannaeyjabæjar í dómnefndinni eru formaður ráðsins, Margrét Rós Ingólfsdóttir og Hafþór Halldórsson verkefnastjóri á tæknideild. Fulltrúar Vinnslustöðvarinnar eru Pétur Jónsson og Þorsteinn Óli Sigurðsson. Ráðið veitti lóðarhafa heimild til þess að hefja framkvæmdir í samráði við samþykkt gögn.     Stefán Ó. Jónasson, fulltrúi E-listans í ráðinu lét bóka að honum finndist óeðlilegt að E-listinn eigi ekki fulltrúa í dómnefnd.   D-listinn bókaði: -Fulltrúar meirihlutans telja ekkert óeðlilegt við að fulltrúi E-lista sitji ekki í ofangreindri dómnefnd og bera fullt traust til þeirra aðila sem hana skipa í þessu máli. Tillögur, afstaða og niðurstaða ofangreindrar dómnefndar mun verða kynnt fyrir umhverfis -og skipulagsráði þegar að slíkt liggur fyrir, bæði til umræðna og afgreiðslu. Þar hefur fulltrúi E-listans, eins og í öllum öðrum málum sem tekin eru fyrir á fundi ráðsins, fulla heimild til þess að koma með athugasemdir við þá tillögu. Undir þetta rita Margrét Rós Ingólfsdóttir, formaður, Esther Bergsdóttir, Ingólfur Jóhannesson og Kristinn Bjarki Valgeirsson.   Myndin sýnir hugmyndir Vinnslustöðvarinnar að framkvæmdum inni á Eiði.    

Úrsúla leit­ar rétt­ar síns á ný

Sr. Úrsúla Árna­dótt­ir ætl­ar að leita rétt­ar síns vegna skip­un­ar Viðars Stef­áns­son­ar í embætti prests í Landa­kirkju, Vest­manna­eyja­prestakalli. Hún tel­ur að með skip­un­inni hafi Agnes M. Sig­urðardótt­ir bisk­up brotið jafn­rétt­is­lög. Mbl.is greinir frá.   Fjór­ir sótt­ust eft­ir embætt­inu. Það voru þau Anna Þóra Pauls­dótt­ir, María Rut Bald­urs­dótt­ir, Viðar og sr. Úrsúla. Sú síðast­nefnda er sú eina sem hef­ur hlotið prest­vígslu en hin eru með embætt­is­próf í guðfræði.   Sr. Úrsúla hef­ur leyst af sem prest­ur í Landa­kirkju und­an­farna ell­efu mánuði. Hún seg­ir í sam­tali við mbl.is að það hafi komið henni veru­lega á óvart að hún hafi ekki hlotið embættið. Síðustu mánuðir hafi verið far­sæl­ir, henni hafi verið hrósað fyr­ir vel unn­in störf og aldrei fengið kvört­un.   Kær­u­nefnd jafn­rétt­is­mála komst í októ­ber á síðasta ári að þeirri niður­stöðu að bisk­up hefði brotið jafn­rétt­is­lög þegar sr. Þrá­inn Har­alds­son var skipaður í embætti prests í Garðaprestakalli. Sr. Úrsúla kærði ráðning­una en í úr­sk­urði nefnd­ar­inn­ar sagði að sr. Úrsúla hefði verið að minnsta kosti jafn­hæf og sr. Þrá­inn til að gegn embætt­inu. Bisk­up bauð sr. Úrsúlu þrenn mánaðarlaun í sátta­bæt­ur vegna máls­ins og fór svo að hún þáði skaðabæt­ur vegna máls­ins.   Eft­ir því sem mbl.is kemst næst hef­ur sr. Úrsúla sótt um tíu embætti hið minnsta á þessu ári og síðasta ári. Sótti hún um embætti prests í Nes­kirkju, Árbæj­ar­kirkju, Grafar­vogs­kirkju, Sel­foss­kirkju, Nes­kirkju og Landa­kirkju og embætti sókn­ar­prests í Sel­foss­kirkju, Odda­prestakalli, á Eyr­ar­bakka og á Reyni­völl­um.   Í frétt Eyja­f­rétta seg­ir að Viðar, sem er 26 ára gam­all, hafi starfað sem leiðtogi í barn­a­starfi, meðal ann­ars í Skál­holti og í Áskirkju í Reykja­vík. Þá hef­ur hann starfað sem áfeng­is- og vímu­efnaráðgjafi hjá SÁA und­an­farna mánuði. Hann legg­ur stund á sál­gæslu­fræði á fram­halds­stigi hjá End­ur­mennt­un Há­skóla Íslands.  

Kjötsúpuhátíð á Hvolsvelli

Árleg Kjötsúpuhátíð á Hvolsvelli verður haldin hátíðleg næstkomandi helgi. Um er að ræða þétta dagskrá þar sem allir ættu að finna sér eitthvað við hæfi.   Dagskrá föstudaginn 26. ágúst 19:00 Súpurölt Eins og löng hefð er fyrir verður boðið upp á hinar ýmsu gerðir af súpu á föstudagskvöldinu. Bæði er boðið upp á súpu í þéttbýlinu og dreifbýlinu. Í þeim götum á Hvolsvelli, þar sem súpa er í boði, verða settir niður staurar með auglýsingu í hvorn enda götunnar.   Dagskrá laugardaginn 27. ágúst Kynnir: Bjarni töframaður 13:00 Setning Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra setur hátíðina 13.10 Leikhópurinn Lotta Sýningar Lottu eru þekktar fyrir mikið stuð og góðan húmor fyrir alla aldurshópa. Á Kjötsúpuhátíð flytur leikhópurinn söngvasyrpu sem er brot af því besta gegnum árin og fara nokkrar vel valdar persónur með hátíðargesti í smá ævintýraferðalag. 13:40 Sveitalistarmaður Rangárþings eystra Sveitalistarmaður Rangárþings eystra er útnefndur í þriðja sinn en það er Menningarnefnd Rangárþings eystra sem stendur fyrir valinu. 13.45 Írena Víglundsdóttir Írena Víglundsdóttir syngur nokkur lög fyrir gesti. Írena hefur verið í söngnámi við Tónlistarskóla Rangæinga og m.a. sungið með sönghópnum Rangárdætur við góðan orðstýr. 14:00 Bjarni töframaður Ásamt því að vera kynnir þá mun Bjarni töframaður bjóða upp á nokkur stórskemmtileg töfrabrögð. Bjarni hefur verið í fremstu röð íslenskra töframanna um áraraðir og því eiga gestir von á góðri skemmtun. 14.20 Umhverfisverðlaun Rangárþings eystra Verðlaun verða afhent fyrir snyrtilegasta garðinn, snyrtilegasta býlið og snyrtilegasta fyrirtækið en það er Umhverfis- og náttúruverndarnefnd Rangárþings eystra sem stendur fyrir valinu. 14.30 Rjómatertukast Alþingiskosningar eru framundan og hver framboðsflokkur sendir keppendur í fjörugt rjómatertukast. Keppendur eru: Björt Framtíð – Páll Valur Björnsson, alþingismaður Framsóknarflokkur – Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Píratar – Oktavía Hrund Jónsdóttir, 2. sæti í Suðurkjördæmi Samfylking – Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi í Árborg Sjálfstæðisflokkur - Ragnheiður Elín Árnadóttir, Iðnaðar- og viðskiptaráðherra Vinstri græn – Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, stefnir á forystusæti flokksins í Suðurkjördæmi Viðreisn – Bjarni Halldór Janusson, stjórnarmaður í Viðreisn 15.00 Súpa í boði SS SS býður upp á sínar bragðgóðu súpur eins og fyrri ár. 15:30 Börn úr Hvolsskóla lesa upp ljóð eftir valinkunna heimamenn Börnin, sem hafa tekið þátt í Stóru upplestrarkeppninni sl. vetur flytja ljóð eftir tvo valinkunna heimamenn. 15:40 Barnakór Hvolsskóla Barnakór Hvolsskóla, undir dyggri stjórn Ingibjargar Erlingsdóttur, mun flytja nokkur lög en kórinn er í óða önn að undirbúa ferð sína til Klarup í Danmörku í haust. 16:00 N1 Vatnknattleikurinn Midgard og South Coast munu keppa í gríðarlega spennandi vatnknattleik, Sjón er sögu ríkari. 16:20 Sigurvegarar í skreytingakeppni tilkynntir Vegleg verðlaun eru í boði fyrir best skreytta garðinn, frumlegustu skreytinguna og best skreyttustu götuna á Kjötsúpuhátíð 2016 16:30 Pollapönk á hátíðarsviði með krakka- og fjölskyldufjör Hljómsveitin Pollapönk er landsþekkt fyrir skemmtilegan flutning og fjölbreytt lög. Hljómsveitin stígur á stokk í lok dagskrár og heldur uppi fjörinu á útidansleik. 21:00 Brenna og brekkusöngur 3. Kynslóðir Rangæinga stýra fjöldasöng á ,,Vallarsöng” Halldór Hrannar Hafsteinsson Árni Þór Guðjónsson Helgi Hermannsson Flugeldasýning í umsjón Björgunarsveitarinnar Dagrenningar 23: 30 Ball með Albatross í félagsheimilinu Hvolnum Hljómsveitin Albatross er ný af nálinni en skaust upp á vinsældarlista í sumar með þjóðhátíðarlaginu Ástin á sér stað. Hljómsveitina skipa þeir Sverrir Bergmann Magnússon, Halldór Gunnar Pálsson, Helgi Egilsson, Halldór Smárason og heimamaðurinn og trommarinn geðþekki Óskar Þormarsson.   Dagskrá sunnudagurinn 28. ágúst 10:30 Söguganga um Hvolsvöll Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri, leiðir gönguna sem hefst við Íþróttamiðstöðina.  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Stjórnmál >>

Greinar >>

Háplöntum fækkar og ný smádýr finnast í Surtsey

Árlegur leiðangur vísindamanna í Surtsey leiddi í ljós færri háplöntutegundir en undanfarin ár en hins vegar uppgötvuðust nýjar tegundir smádýra. Varpárangur máfa var með besta móti.   Árlegur leiðangur til líffræðirannsókna á Surtsey var farinn á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands dagana 18.–22. júlí. Áhersla var lögð á að framfylgja hefðbundnum rútínuverkum við vöktun á stöðu og framvindu lífríkisins. Einnig var markmiðið að losa eyna við ýmsa óæskilega aðskotahluti sem rekið hafði á fjörur í gegnum tíðina og fjarlægja restar af byggingarefni sem til féll við lagfæringar á Pálsbæ, húsi Surtseyjarfélagsins, síðastliðið haust. Leiðangurinn var skipulagður í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands og Surtseyjarfélagið að fengnu dvalarleyfi á eynni frá Umhverfisstofnun.   Tíðarfarið þetta sumar hafði verið einstaklega gott og var því fróðlegt að sjá hverju fram vatt á eynni. Hins vegar var veðrið óhagstætt til margra verka meðan á leiðangrinum stóð. Mikið hafði mætt á eynni í veðrahami undanfarins veturs og voru ummerki þess augljós á tanganum. Sjór hafði gengið yfir hann með látum, grjótgarðurinn rofnað á tanganum vestanverðum og sjór gengið inn á tangaflötina, sökkt var í sand leiru sem þar var og myndað nýja rofbakka. Austan megin hafði grjótgarðurinn breikkað mjög og færst langt inn á flötina. Mikill er máttur náttúruaflanna sem á eynni mæða.   Gróður   Háplöntutegundum sem fundust á lífi hafði fækkað um fjórar frá síðasta ári. Gleym-mér-ei, beringspuntur, maríustakkur, lækjagrýta og heiðadúnurt skiluðu sér ekki að þessu sinni, en friggjargras hins vegar en það finnst af og til, ekki á hverju ári. Alls fannst 61 tegund háplantna á lífi að þessu sinni en 65 í fyrra. Frá upphafi hafa alls fundist 73 tegundir háplantna á Surtsey. Nokkrar ætihvannir hafa vaxið á afviknum stað á undanförnum árum. Tvær hvannir fundust nú á nýjum stað í rofbakka á tanganum. Þar var annar gróður einnig í miklum blóma, eins og hrímblaðka og fjörukál, eftir að sjór hafði flætt þar yfir síðastliðinn vetur.   Gróska í máfabyggðinni var með fádæmum þrátt fyrir þurrviðrasama tíð framan af sumrinu, en hlýindi höfðu verið einstök og áburðargjöf mikil frá máfavarpi í miklum blóma. Þurrt tíðarfarið mátti greina á því að haugarfi var ekki eins öflugur og verða vill í úrkomusamri tíð, en grasvöxtur var með fádæmum. Þrátt fyrir þurrkana hafði gróður haldið velli á þurrum klöppunum ofan við hraunbjörgin. Undanfarin ár hefur melablóm aukist mjög á sandorpnum hraunum en nú mátti merkja bakslag í þeirri þróun.   Úttekt var gerð á föstum mælireitum, gróðurþekja mæld og tíðni tegunda skráð. Frekari úrvinnsla mæligagna fer fram síðar. Dýralíf   Árangur varps stóru máfanna var með albesta móti. Ekki einvörðungu mátti greina fjölgun varppara hjá öllum stóru máfunum þrem, svartbaki, sílamáfi og silfurmáfi, heldur var afkoma unga þeirra betri en nokkru sinni. Þeir voru hvarvetna, jafnt fleygir sem ófleygir, og ungadauði hafði verið lítill. Fæðuframboð í hafinu hefur því verið gott. Svartbakur hafði eflst hvað mest og hafði hrakið sílamáfana til landnáms á nýjum lendum og þannig verið lagður grunnur að aukinni gróðurframvindu á minna grónu landi. Fjölgunar svartbaka gætti einnig á tanganum. Þar hafa að jafnaði orpið um þrjú pör en nú allt að 30 pör. Hins vegar sáust engin ummerki þess að ritur hefðu mætt til varps á þessu vori. Engir lundar sáust heldur á hefðbundnum varpstað þeirra. Fýlar og teistur voru með hefðbundnu móti en fýlarnir höfðu augljóslega þurft að greiða krumma sinn toll. Hrafnspar eyjarinnar hafði nefnilega orpið að vanda og komið upp tveim ungum. Snjótittlingar voru samir við sig, nokkur pör með fleyga unga, þúfutittlingspar á óðali í máfavarpinu og tvær maríuerlur sáust, ein fullorðin og einn ungfugl en óvíst hvort maríuerlan hafi orpið að þessu sinni. Ef til vill voru þær aðkomnar eins og ungur steindepill sem sást á tanganum. Í fyrra fannst æðarkolla með nýklakta unga, nú sást æðarpar á sjónum. Annars var erfitt að meta varp fugla og árangur að þessu sinni. Snemma voraði í ár og leiðangurinn var farinn í seinna lagi.   Ástand smádýralífs var erfitt að meta vegna ríkjandi veðurs á rannsóknatíma, vinda og regns. Smádýrin létu löngum sem minnst á sér kræla. Árangur söfnunar með háfum var því mun lélegri en oftast áður. Þarf því að treysta á að fallgildrur í gróðurmælireitum og tjaldgildra í máfavarpi gefi betri upplýsingar þegar tími gefst til að vinna úr afla þeirra. Þrátt fyrir óhagstætt veðrið uppgötvuðust fjórar bjöllutegundir sem ekki höfðu áður fundist á eynni. Var það afar óvenjulegt því sjaldgæft er að nýjar bjöllur skjóti upp kolli. Þær voru fjallasmiður (Patrobus septentrionis), steinvarta (Byrrhus fasciatus) og tvær tegundir jötunuxa sem þarf að staðfesta betur, báðar fágætar og önnur svo að líkast til er hún auk þess ný fyrir Ísland. Ef rétt reynist teldust tíðindin stór í þessum fræðum. Athygli vakti að kálmölur (Plutella xylostella) var áberandi á flögri og mikið var af lirfum hans á fjörukáli og melablómi, jafnvel svo að ummerki sæjust. Annars er kálmölur útlensk tegund en algengur flækingur. Stundum nær hann að fjölga sér hér á landi á plöntum krossblómaættar sem eru ættingjar kálplantna.   Leiðangursfólk   Fræðimenn frá Náttúrufræðistofnun Íslands að þessu sinni voru Borgþór Magnússon (leiðangursstjóri), Erling Ólafsson, Matthías S. Alfreðsson og Pawel Wasowicz. Frá Landbúnaðarháskóla Íslands voru Bjarni Diðrik Sigurðsson og Hafdís Hanna Ægisdóttir (sjálfboðaliði í hreinsunarátaki). Håkan Wallander frá Háskólanum í Lundi og Alf Ekblad frá Háskólanum í Örebro (rannsökuðu ákveðna þætti jarðvegsmyndunar). Þórdís Vilhelmína Bragadóttir, fulltrúi Umhverfisstofnunar. Vilhjálmur Þorvaldsson og Jón Bjarni Friðriksson frá Veðurstofu Íslands, mættu í lok tímans til að viðhalda sjálfvirku veðurstöðinni.   Náttúrfræðistofnun Íslands greindi frá.