Kjötsúpuhátíð á Hvolsvelli

Árleg Kjötsúpuhátíð á Hvolsvelli verður haldin hátíðleg næstkomandi helgi. Um er að ræða þétta dagskrá þar sem allir ættu að finna sér eitthvað við hæfi.   Dagskrá föstudaginn 26. ágúst 19:00 Súpurölt Eins og löng hefð er fyrir verður boðið upp á hinar ýmsu gerðir af súpu á föstudagskvöldinu. Bæði er boðið upp á súpu í þéttbýlinu og dreifbýlinu. Í þeim götum á Hvolsvelli, þar sem súpa er í boði, verða settir niður staurar með auglýsingu í hvorn enda götunnar.   Dagskrá laugardaginn 27. ágúst Kynnir: Bjarni töframaður 13:00 Setning Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra setur hátíðina 13.10 Leikhópurinn Lotta Sýningar Lottu eru þekktar fyrir mikið stuð og góðan húmor fyrir alla aldurshópa. Á Kjötsúpuhátíð flytur leikhópurinn söngvasyrpu sem er brot af því besta gegnum árin og fara nokkrar vel valdar persónur með hátíðargesti í smá ævintýraferðalag. 13:40 Sveitalistarmaður Rangárþings eystra Sveitalistarmaður Rangárþings eystra er útnefndur í þriðja sinn en það er Menningarnefnd Rangárþings eystra sem stendur fyrir valinu. 13.45 Írena Víglundsdóttir Írena Víglundsdóttir syngur nokkur lög fyrir gesti. Írena hefur verið í söngnámi við Tónlistarskóla Rangæinga og m.a. sungið með sönghópnum Rangárdætur við góðan orðstýr. 14:00 Bjarni töframaður Ásamt því að vera kynnir þá mun Bjarni töframaður bjóða upp á nokkur stórskemmtileg töfrabrögð. Bjarni hefur verið í fremstu röð íslenskra töframanna um áraraðir og því eiga gestir von á góðri skemmtun. 14.20 Umhverfisverðlaun Rangárþings eystra Verðlaun verða afhent fyrir snyrtilegasta garðinn, snyrtilegasta býlið og snyrtilegasta fyrirtækið en það er Umhverfis- og náttúruverndarnefnd Rangárþings eystra sem stendur fyrir valinu. 14.30 Rjómatertukast Alþingiskosningar eru framundan og hver framboðsflokkur sendir keppendur í fjörugt rjómatertukast. Keppendur eru: Björt Framtíð – Páll Valur Björnsson, alþingismaður Framsóknarflokkur – Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Píratar – Oktavía Hrund Jónsdóttir, 2. sæti í Suðurkjördæmi Samfylking – Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi í Árborg Sjálfstæðisflokkur - Ragnheiður Elín Árnadóttir, Iðnaðar- og viðskiptaráðherra Vinstri græn – Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, stefnir á forystusæti flokksins í Suðurkjördæmi Viðreisn – Bjarni Halldór Janusson, stjórnarmaður í Viðreisn 15.00 Súpa í boði SS SS býður upp á sínar bragðgóðu súpur eins og fyrri ár. 15:30 Börn úr Hvolsskóla lesa upp ljóð eftir valinkunna heimamenn Börnin, sem hafa tekið þátt í Stóru upplestrarkeppninni sl. vetur flytja ljóð eftir tvo valinkunna heimamenn. 15:40 Barnakór Hvolsskóla Barnakór Hvolsskóla, undir dyggri stjórn Ingibjargar Erlingsdóttur, mun flytja nokkur lög en kórinn er í óða önn að undirbúa ferð sína til Klarup í Danmörku í haust. 16:00 N1 Vatnknattleikurinn Midgard og South Coast munu keppa í gríðarlega spennandi vatnknattleik, Sjón er sögu ríkari. 16:20 Sigurvegarar í skreytingakeppni tilkynntir Vegleg verðlaun eru í boði fyrir best skreytta garðinn, frumlegustu skreytinguna og best skreyttustu götuna á Kjötsúpuhátíð 2016 16:30 Pollapönk á hátíðarsviði með krakka- og fjölskyldufjör Hljómsveitin Pollapönk er landsþekkt fyrir skemmtilegan flutning og fjölbreytt lög. Hljómsveitin stígur á stokk í lok dagskrár og heldur uppi fjörinu á útidansleik. 21:00 Brenna og brekkusöngur 3. Kynslóðir Rangæinga stýra fjöldasöng á ,,Vallarsöng” Halldór Hrannar Hafsteinsson Árni Þór Guðjónsson Helgi Hermannsson Flugeldasýning í umsjón Björgunarsveitarinnar Dagrenningar 23: 30 Ball með Albatross í félagsheimilinu Hvolnum Hljómsveitin Albatross er ný af nálinni en skaust upp á vinsældarlista í sumar með þjóðhátíðarlaginu Ástin á sér stað. Hljómsveitina skipa þeir Sverrir Bergmann Magnússon, Halldór Gunnar Pálsson, Helgi Egilsson, Halldór Smárason og heimamaðurinn og trommarinn geðþekki Óskar Þormarsson.   Dagskrá sunnudagurinn 28. ágúst 10:30 Söguganga um Hvolsvöll Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri, leiðir gönguna sem hefst við Íþróttamiðstöðina.  

Kostar olía í eina ferð fram og til baka í Landeyjahöfn 70.000 krónur?

Það er mikið rætt um fleiri ferðir með Herjólfi og krafa Eyjamanna er að farnar verði sex ferðir í Landeyjahöfn alla daga allt sumarið. Núna fer Herjólfur sex ferðir á föstudögum og sunnudögum en aðra daga fimm. Ferðin sem Herjólfur fer föstudaga og sunnudaga klukkan 16.00 frá Vestmannaeyjum og til baka frá Landeyjahöfn klukkan 17.15 er ekki í boði aðra daga vikunnar. Þá liggur skipið við bryggju í Vestmannaeyjum engum til gagns. Í blaðinu í síðustu viku var niðurstaða þingmanna Suðurkjördæmis sem rætt var við að krafa Eyjamanna um sex ferðir alla daga sé réttmæt en það kalli á auknar fjárveitingar hins opinbera. Í þessi sambandi hefur verið bent á að þetta sé aðeins spurning olíukostnað, áhöfnin sé á kaupi og annar kostnaður breytist ekki. Ekki er hægt að fá aðgang að rekstrarreikningi Herjólfs hjá Eimskip sem sér um reksturinn. Eyjafréttir hafa leitað ýmissa leiða til að fá út hvað raunverulega kostar að sigla í fram og til baka í Landeyjahöfn. Samkvæmt því sem fyrrverandi vélstjórar segja gæti olíukosnaðurinn verið nálægt 70.000 krónur í hverri ferð eða 350 þúsund á viku ef þessum fimm ferðum verður bætt við. Samkvæmt upplýsingum vélstjóranna gæti hámarkseyðsla á hvora vél verið 600 lítrar á klukkustund. Standist það er hámarkseyðsla 1200 lítrar á klukkustund en þeir gera ekki ráð fyrir að þær séu ekki keyrðar á hámarksafli. Það væri því hægt að áætla að það fari innan við 1000 lítrar í ferðina fram og til baka frá Eyjum til Landeyjahafnar. Verðlistaverð á skipagasolíu er um 85 krónur líterinn en Eimskip fær örugglega eitthvað allt annað og lægra verð. Þannig að niðurstaðan er að heildarolíukostnaður sé um 70.000 krónur í ferð. Fólk í ferðaþjónustu segir sumarið í ár vera það stærsta í móttöku ferðamanna í Vestmannaeyjum frá upphafi. En það er hægt að taka á móti fleira fólki en þjóðvegurinn er lokaður hluta dags fimm sinnum í viku. Það bitnar ekki bara á ferðaþjónustu, það skapar ómæld vandræði fyrir fólk í Eyjum því skipið er alltaf fullt. Í dag er fullt fargjald báðar leiðir í Landeyjahöfn 2640 krónur sem flestir ferðamenn greiða. Það þarf því ekki nema um 25 fullborgandi farþega til að greiða olíu þessa einu ferð.    

Upp til hópa voru gestirnir til fyrirmyndar

 „Löggæsla á hátíðinni gekk vel, lögregla var vel mönnuð og skipulag gott. Mestur var fjöldi lögreglumanna að nóttu til en þá voru að jafnaði 15 lögreglumenn á vakt. Samvinna við gæsluna, er lýtur stjórn lögreglu, gekk vel og voru verkefni leyst í góðu samstarfi, fjarskipti voru bætt á milli lögreglu og gæslumanna og er það vel,“ segir Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum um gang mála hjá lögreglu yfir þjóðhátíðina. „Veðrið var með eindæmum gott sem auðveldar alla vinnu við hátíðina auk þess sem rólegra er þá yfir gestum. Upp til hópa voru gestirnir til fyrirmyndar þrátt fyrir að inn á milli leynist brotamenn og það er að sjálfsögðu miður. Við vorum ekki með hópa af þekktum gengjum á þessari hátíð og almennt var rólegt yfir fólki og má helst benda á umgengni um bæinn á daginn til marks um það.“ Ein bifreið var skemmd lítilsháttar og segir Páley það einu eignaspjöllin sem urðu í bænum þrátt fyrir gríðarlegan fjölda fólks sem fór þar um. „Almennt má því segja að hátíðin hafi gengið vel en eitt afbrot er einu afbroti of mikið. Það er alvarlegt að framin skulu vera ofbeldisbrot á hátíðinni en það verður verkefni okkar nú sem endranær að reyna að sporna við því. Enn fremur er áhyggjuefni að fólk skuli leggja í akstur um þjóðvegi landsins undir áhrifum áfengis sem stofnar öllum sem aka um þjóðvegina í mikla hættu, þar er verk að vinna og munum við leggja áherslu á það á næsta ári að vinna gegn því,“ sagði Páley.  

Landeyjasundið - Straumar óhagstæðir og vegalengdin 15 km

Sundkappinn Jón Kristinn Þórsson náði landi á Landeyjasandi á sjöunda tímanum í morgun en hann hóf sundið frá Eiðinu í Vestmannaeyjum klukkan ellefu í gærkvöldi. Sundið tók sjö og hálfan tíma en stefnt hafði verið á að ná til Landeyjahafnar á fjórum tímum. Straumar reyndust óhagstæðir en vegalengdin er um 15 kílómetrar í stað 11. Frá þessu er greint á visir.is en eyjafrettir.is fylgdust með Jóni Kristni frá því hann hóf sundið og þar til hann náði landi.   Í samtali við visir.is í morgun segir Jón Kristinn: „Þetta gekk brösulega en ég kláraði þetta. Þetta var erfiðara en ég bjóst við,“ segir Jón Kristinn. Straumarnir hafi verið miklu meiri en hann hafi órað fyrir. Jón hafði rætt við menn sem hafa synt þessa leið og eftir þau samtöl reiknaði hann með fjórum tímum í sjónum. Hann velti fyrir sér að hætta við.   „Það hvarflaði að mér strax í byrjun þegar ég sá hve úfinn sjórinn var og straumarnir miklir. Ég ákvað samt að halda smá áfram og þetta batnaði aðeins,“ segir Jón Kristinn sem starfar sem lögreglumaður og greinilega í góðu formi.   Ermasundið næst á dagskrá   Sjórinn var í kringum ellefu gráður að hans sögn en hann segist varla muna eftir augnablikinu þegar hann loks kom í land.   „Ég man að ég kom í land en skildi strákana ekki alveg þegar þeir voru að tala við mig. Mér fannst þeir vera að tala útlensku við mig. Svo eftir heita sturtu kom þetta til baka.“    

Er rétt að ná landi - Jón Kristinn syndir áleiðis í Landeyjasand

Nú þegar klukkan er fimm mínútur yfir sex á Jón Kristinn um það bil að ná landi á Landeyjasandi og er hann þá búinn að vera sjö klukkustundir að synda þessa 11 kílómetra sem átti að taka fjóra klukkutíma. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í Eyjum sem fylgst hefur með sundinu var straumur í Álnum erfiðari en gert var ráð fyrir. En ekki leit út fyrir annað en að hann næði að ljúka ætlunarverki sínu því stutt var í að hann skriði upp í sandinn og gekk allt vel. Klukkan 23.02 lagðist Jón Kristinn Þórsson, 44 ára lögreglumaður úr Reykjavík til sunds á Eiðinu í Vestmannaeyjum og tók stefnuna á Landeyjasand. Bein loftlína er um 11 kílómetrar og reiknar Jón Kristinn með því að sundið taki um fjórar klukkustundir. Sjávarhiti í Álnum milli lands og Eyja er rétt tæpar tólf gráður og er hann hæstur á þessum tíma sólarhringsins sem er einmitt ástæðan fyrir því að Jón Kristinn valdi þennan tíma.   Jón Kristinn hefur stundað sjósund lengi og synti Drangeyjarsund sumarið 2014. „Strax eftir það ákvað ég að reyna við Landeyjasund,“ sagði Jón Kristinn við blaðamann Eyjafrétta þar sem hann var að gera sig kláran fyrir sundið. Hann neitaði því ekki að vera kvíðinn. Nokkur vindbára var og braut aðeins á Eiðinu þegar Jón Kristinn lagði af stað en hann vonaðist eftir sléttari sjó eftir því sem hann nálgaðist land hinum megin. „Veðrið mætti vera betra en ég vona að það lagist. Ég kom til Eyja í kvöld og nú er komið að þessu,“ sagði Jón Kristinn hinn rólegasti rétt áður en lagði í hann.   Hann var smurður hátt og lágt með þykkri feiti, var í sundskýlu og með hettu en var að öðru leyti óvarinn. Honum fylgja tveir bátar með þrautreyndum lögreglumönnum þannig að alls öryggis er gætt. Þetta er engu að síður mikil þrekraun en þetta hefur verið gert áður. Eyjólfur Jónsson synti Landeyjasund árið 1959 og Axel Kvaran 1961. Samkvæmt síðustu fréttum, nú þegar klukkan er 04:40, er Jón Kristinn að nálgast Landeyjasnd Ljóst er að sundið tekur lengri tíma en hann áætlaði því núna eru einn til einn og hálfur tími eftir. Er það m.a. vegna óhagstæðari strauma en sundið átti að taka fjóra klukkutíma.  Samt gekk allt að óskum og líkur á að hann ljúki sundinu.   Myndir Óskar Pétur.

Þjóðhátíðarnefnd - Þjóðhátíðin í ár meðal þeirra stærstu

„Þjóðhátíðin í Eyjum 2016 tókst vel að mati Þjóðhátíðarnefndar og veðurguðirnir léku við hátíðargesti. Einmuna blíða var alla dagana og muna elstu menn ekki eftir jafn góðu veðri á Þjóðhátíð. Þetta er ein af stærstu þjóðhátíðum sem haldnar hafa verið í Eyjum en 142 ár eru síðan fyrsta hátíðin var haldin,“ segir í frétt sem þjóðhátíðarnefnd ÍBV-íþróttafélags hefur sent frá sér.    „Það var ekki bara gestum af fastalandinu sem fjölgaði í ár heldur bættust hátt í 30 hústjöld í tjaldborg heimamanna frá því í fyrra. Framkvæmd hátíðarinnar tókst vel og voru gestir hátíðarinnar nær allir til mikillar fyrirmyndar. Aldurssamsetning gesta var ákjósanleg því nú var meira en oft áður um að fjölskyldur kæmu saman á hátíðina og að unglingar og ungmenni skemmtu sér í fylgd foreldra eða forráðamanna. Eitthvað var um slys og tognanir sem gert var að í sjúkraskýli í Herjólfsdal en alvarlegri málum sem upp komu var vísað til lögreglu.   Þjóðhátíðanefnd hefur lagt sérstaka áherslu á forvarnir gegn öllu ofbeldi og að þessu sinni voru um 100 manns við öryggisgæslu í Herjólfsdal þegar flest var auk læknis og hjúkrunarfræðinga. Þá var starfandi áfallateymi í dalnum sem stýrt var af fagmenntuðu starfsfólki. Til að undirstrika áherslu á öryggismálin var athöfn á föstudagskvöld þar sem gestir, hljómsveitir og starfsfólk hátíðarinnar sýndu með táknrænum hætti að ofbeldi á Þjóðhátíð er ekki liðið.   Þrátt fyrir þann almenna og mikla samhug sem ríkti gegn hvers kyns ofbeldi á hátíðinni er Þjóðhátíðarnefnd kunnugt um að í gær höfðu 11 líkamsárásir og ein nauðgun verið kærð til lögreglu. Þessi fjöldi kærumála veldur vonbrigðum og er 12 málum of mikið. Í kjölfar hátíðarinnar verður sérstökum starfshópi falið að fara yfir framkvæmdina og gera tillögur um hvernig efla megi enn frekar öryggi á Þjóðhátíð og stuðla að hugarfarsbreytingu gagnvart kynferðisofbeldi og öðru ofbeldi.   Auk þeirra fjölmörgu tónlistarmanna sem fram komu á hátíðinni og um 100 öryggisvarða lögðu hátt í 200 sjálfboðaliðar Þjóðhátíðarnefd lið við framkvæmd hátíðarinnar. Þjóðhátíðarnefnd þakkar öllu þessu góða fólki fyrir vel unnin störf á Þjóðhátíð. Hreinsun Herjólfsdals gekk vel og var henni að mestu lokið á mánudagskvöld,“ segir í tilkynningunni.    

Árni Johnsen gefur kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins

 Þoli ekki að sjá tæki­færi Suður­kjör­dæm­is fara for­görðum „Það er búið að fara illa með þig, Árni,“ sagði einn af elstu og reynd­ustu menn­ing­ar­frömuðum Suður­lands við mig fyr­ir skömmu. „Hvað áttu við“ spurði ég. „Þér var vikið til hliðar í stjórn­mál­um að ástæðulausu.“   Því miður er þetta dap­ur­leg staðreynd, því það er ekk­ert grín að vera sparkaður niður á seinni hluta ævi­starfs­ins. Ef ég hefði tapað á eðli­leg­an hátt í síðasta próf­kjöri Sjálf­stæðis­flokks­ins fyr­ir þrem­ur árum hefði ég ekki tekið því illa, því eðli lífs­ins er tap og sigr­ar. Þá hefði ég þakkað fyr­ir mig með von um að ég hefði gert gagn.   Staðreynd­in er hins veg­ar sú að þrír meðfram­bjóðend­ur mín­ir, sem all­ir lentu í þrem­ur efstu sæt­um próf­kjörs­ins unnu skipu­lega að því að fæla fólk frá því að kjósa mig. Þannig rottuðu þau sig sam­an, Ragn­heiður Elín, Unn­ur Brá og Ásmund­ur, og höfðu er­indi sem erfiði en þessi vinnu­brögð þeirra eru hins veg­ar eins­dæmi í sögu próf­kosn­inga Sjálf­stæðis­flokks­ins. Meg­in­mark­miðið í próf­kjöri er að al­menn­ir kjós­end­ur velji á lista en ekki fram­bjóðend­urn­ir sjálf­ir. Þessi vinnu­brögð eru ekki ólög­leg en þau eru al­gjör­lega siðlaus og ódrengi­leg á versta máta.   Að loknu próf­kjör­inu kallaði odd­vit­inn fimm efstu í próf­kjör­inu til fund­ar og byrjaði fund­inn svo smekk­lega að lýsa því yfir að nú væru spenn­andi tím­ar framund­an í Suður­kjör­dæmi „því við erum laus við Árna Johnsen og nú er ým­is­legt hægt að gera“. Blessuð kon­an vissi ekki og veit ekki að ég var með af­kasta­mestu þing­mönn­um bæði í flutn­ingi mála og því að ná mál­um í heila höfn, hvað svo sem um mig má segja.   Hafa ekk­ert gert í þrjú ár En hvað hef­ur þetta blessað fólk gert síðastliðin þrjú ár í skjóli rík­is­stjórn­ar­meiri­hluta? Ekki neitt, hrein­lega ekki neitt sem hef­ur komið Suður­kjör­dæmi til góða. Þau hafa lagt fram þrjú mál, ráðherr­ann mál um staðgöngu­mæðrun, sem lík­lega verður aldrei hægt að samþykkja vegna þess að það er ekki hægt að tryggja rétt barns­ins, mál um nátt­úrpassa sem all­ir vita hvernig fór og þing­manna­mál um sölu áfeng­is í búðum, dap­ur­legt mál. Þetta er allt og sumt, en tríóið leyfði sér að bregða fyr­ir mig fæti og fella mig á hlaupa­braut­inni með 40 mál í fartesk­inu, stór og smá varðandi Suður­kjör­dæmi og landið allt, meðal ann­ars mál upp á einn millj­arð króna upp­gjör rík­is­ins við Reykja­nes­bæ vegna Helgu­vík­ur­hafn­ar, mál sem ég var bú­inn að vinna með í þrjú ár og fá samþykkt með til­lögu­upp­áskrift í sam­göngu­nefnd með meiri­hluta þing­manna Alþing­is en Vinstri græn­ir (lýðræðis­elsk­andi flokk­ur­inn) náðu að stöðva það í nefnd með rík­is­stjórn­ar­valdi þannig að það fór ekki til at­kvæðagreiðslu í þing­inu. Þing­menn sjálf­stæðis­flokks­ins höfðu ekki einu sinni rænu á að fylgja þessu eft­ir við síðustu stjórn­ar­mynd­un sem þau áttu sjálf aðild að.   Ég er ekki taps­ár, maður lær­ir slíkt við eðli­leg­ar aðstæður í íþrótt­un­um, ég er ekki að leita að samúð, hent­ar mér ekki, en kannski svo­lítið af sann­girni og rétt­læti. Ég þarf að vinna, vil vinna og get unnið. Ég kann vel til verka á vett­vangi stjórn­mál­anna, er hug­sjónamaður og þoli ekki að sjá tæki­fær­in fara for­görðum vegna sinnu­leys­is og klúðurs fólks sem hef­ur að því er virðist ein­göngu áhuga á sam­kvæm­is­leikj­um. Að standa vakt fyr­ir lands­byggðar­kjör­dæmi er þrot­laus vinna og það vinnst ekk­ert með enda­lausri söfn­un sjálfs­mynda á net­miðlana. Það áþreif­an­lega ræður úr­slit­um, ár­ang­ur. Ég sakna fólks­ins í Suður­kjör­dæmi, sakna þess að vera ekki með hvers­dags í starfi og leik, leggja á ráðin, leysa úr mál­um.   Mörg spenn­andi stór­mál Fyr­ir utan fjölda mála sem ég hef unnið að en lentu í þagn­ar­gildi eru mörg stór­mál sem væri spenn­andi að vinna að. Staða efna­hags­mála er stærsta málið og geng­ur vel und­ir for­ystu Bjarna Bene­dikts­son­ar fjár­málaráðherra, brýnt er að fylgja eft­ir öfl­ugri styrk­ingu heil­brigðis­kerf­is­ins. Styrkja þarf mark­visst vega­kerfi lands­ins og aðrar sam­göng­ur og ekki síst sam­göng­ur við Vest­manna­eyj­ar þar sem þarf að hefja nú þegar und­ir­bún­ing jarðganga­gerðar sam­kvæmt ein­róma skýrslu sem hef­ur verið í vinnslu sér­fræðinga, því það er al­veg ljóst að sú ferja sem hef­ur verið lofað að smíða mun ekki leysa sam­göngu­mál við Vest­manna­eyj­ar á árs­grund­velli, a.m.k. 500 þúsund manna ferðaleið. Þá þarf að tryggja sjúkra­flug milli lands og Eyja með staðsetn­ingu vél­ar í Eyj­um. Spenn­andi er að berj­ast fyr­ir stór­átaki í verk­mennt­un ungs fólks og eldri. Þar liggja mik­il sókn­ar­færi. Brýnt er að tryggja skatt­fríðindi sjó­manna vegna vinnu fjarri heim­ili, en sjó­menn eru eina stétt­in í land­inu sem ekki nýt­ur slíkra fríðinda. Hækka lægstu laun. Tryggja ný­sköp­un um allt land. Setja þarf bönk­un­um stól­inn fyr­ir dyrn­ar varðandi ei­líft aukið plokk af viðskipta­vin­um og græðgi um­fram allt eðli­legt. Stöðva þarf okur sveit­ar­fé­laga á lóðum und­ir ný hús. Hvaða glóra er í því að lóðir sveit­ar­fé­laga utan höfuðborg­ar­inn­ar kosta plús mín­us tvær millj­ón­ir en á höfuðborg­ar­svæðinu 15 millj­ón­ir plús mín­us. Slíkt er hreinn stuld­ur. Það er margt sem bíður úr­lausn­ar.   Ég gef kost á mér Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í kom­andi próf­kjöri Sjálf­stæðis­flokks­ins á Suður­landi fyr­ir kom­andi alþing­is­kosn­ing­ar. Ég er rétt liðlega sjö­tug­ur, nán­ast tán­ing­ur miðað við ald­ur í alþjóðastjórn mál­um og hef reynslu, vilja og metnað til þess að ná ár­angri með hug­sjóna­eldi. Ef fólkið í Suður­kjör­dæmi vill að ég vinni fyr­ir það eins og ég hef gert um langt ára­bil, þá þarf að stefna á eitt­hvert efstu sæt­anna, svo­kallað ör­uggt sæti, en við eðli­leg­ar aðstæður gætu það verið þrjú þing­sæti.   Ég hvet Suður­kjör­dæm­inga til þess að taka þátt í próf­kjör­inu, það á að skipta máli. Árni Johnsen

Lögreglan gerir upp Þjóðhátíðina

Fram kom á facebook síðu Lögreglunar fyrr í dag. Lögregla telur 15.000 manns hafa sótt þjóðhátíð Vestmannaeyja 2016 og er hátíðin með þeim allra stærstu sem haldin hefur verið. 27 lögreglumenn sinntu löggæslu á þremur lögreglubifreiðum auk 100 gæslumanna sem lúta stjórn lögreglu. Sex óeinkennisklæddir lögreglumenn sinntu fíkniefnaeftirliti og höfðu sér til aðstoðar fíkniefnaleitarhunda sem eru í eigu embættis Lögreglustjórans í Vestmannaeyjum og Fangelsismálastofnunar. Starfandi læknir var í dalnum auk heilbrigðisstarfsfólks, áfallateymis, barnaverndar og sjúkraflutningamanna og gengu allir sólarhingsvaktir.   Umferð gekk vel þessa helgi og akstur farþegaflutningabifreiða einnig. Hringtorg í dalnum kom vel út og nokkuð vel gekk að aðgreina gangandi vegfarendur frá akandi. Á mánudag voru 18 teknir fyrir ölvunarakstur á Landeyjahafnarvegi í umferðareftirliti lögreglunnar á Suðurlandi. Það er alvarlegt mál og nauðsynlegt að sporna frekar við því. Brotin urðu þrátt fyrir að lögreglumenn hafi verið staðsettir í Landeyjahöfn að bjóða fólki að blása í áfengismæli áður en það hélt af stað.   Stærsta fíkniefnamál í sögu þjóðhátíðar kom upp kl. 20.30 á föstudag þegar lögregla fann mikið magn fíkniefna við leit hjá aðilum við gististað í bænum. Um var að ræða 180 e-töflur, tæp 100 gr. af kókaíni og tæp 100 gr. af amfetamíni. Sakborningar voru handteknir og gistu fangageymslur og var sleppt þegar rannsókn málsins var vel á veg komin. Heildarfjöldi fíkniefnamála voru 30 að þessu sinni sem er svipað og undanfarin ár að árinu 2015 undanskildu þegar upp komu 72 mál. Grunur er um sölu- og dreifingu í um fimm þessara mála. Lögregla er ánægð með árangurinn og hefur það sýnt sig að öflugt fíkniefnaeftirlit skilar árangri.   Tíu líkamsárásir komu inn á borð lögreglu og þar af fimm alvarlegar þar sem um beinbrot í andliti er að ræða. Tvö heimilisofbeldismál komu upp og eitt brot gegn valdstjórn þar sem slegið var til lögreglumanna. Málin eru öll í rannsókn. Eitt mál kom upp er varðar eignaspjöll á bifreið og fjögur þjófnaðarbrot er tengdust þjófnuðum á gsm símum.   Eitt kynferðisbrot er til rannsóknar hjá lögreglu eftir helgina. Það var kært aðfaranótt mánudags og átti sér stað skömmu eftir miðnætti. Um tengda aðila er að ræða og fékk þolandi viðeigandi aðstoð. Sakborningur var handtekinn skömmu eftir að tilkynning barst lögreglu. Málið telst upplýst og rannsókn vel á veg komin. Í tilefni af fréttaumfjöllun um kynferðisbrot á hátíðinni upplýsist að ekki var um kynferðisbrot að ræða í því tilviki þar sem maður var sleginn illa í andlit og höfuð heldur ótta við mögulegt brot.   Lögregla sinnti fjölmörgum verkefnum yfir hátíðina og leysti vel úr öllum verkefnum sem komu inn á borð hennar. Að mati lögreglu gekk löggæsla vel. Viðbragð í sjúkraskýli, hjá áfallateymi og barnavernd var gott og var fjölmörgum sinnt vegna mismunandi erfiðleika. Það er miður að upp hafi komið afbrot en áhersla var á vönduð og fagleg vinnubrögð vegna þeirra þar sem rannsóknarhagsmunir og hagsmunir brotaþola voru settir í forgang.  

Með stærstu hátíðum til þessa og mikill erill hjá lögreglunni

Ánægð að hafa komið í veg fyrir að efnin færu í dreifingu inni á hátíðarsvæðinu

Lögreglan í Vestmannaeyjum lagði hald á mikið magn fíkniefna á föstudagskvöld, og er þetta stærsta fíkniefnamál sem komið hefur upp í sögu Þjóðhátíðar. Að öðru leiti hafa hátíðarhöld um verslunarmannahelgina gengið vel. En þetta kom fram á visi.is í gær.   Söluverðmæti efnanna sem lögreglan lagði hald á er um 3 milljónir króna en um var að ræða hundrað grömm af ætluðu kókaíni, 100 grömm af ætluðu amfetamíni og 180 e-töflur og telur lögreglan að ætlunin hafi verið að selja efnin á hátíðinni. Tveir menn voru handteknir og sitja þeir í fangageymslum.   „Þetta er mesta magn sem hefur fundist á Þjóðhátíð og í tengslum við Þjóðhátíð frá upphafi. Þetta er tekið og haldlagt um hálf níu í gærkvöldi. Þetta átti að fara í dreifingu væntanlega inni á hátíðarsvæðinu, þannig að við erum gríðarlega ánægð með það að hafa náð því að haldleggja þetta og koma þannig í veg fyrir að þetta hafi komist í umferð,“ segir Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.   Það voru fjórir menn sem gistu fangageymslur í nótt.  „Það var eitt ölvunarbrot, síðan var heimilisofbeldi og svo voru þarna tveir vegna þessa fíkniefnamáls. Það er búið að kæra þrjár líkamsárásir til okkar og auðvitað var mikil erill hjá lögreglu og talsvert um pústra og einhver slagsmál og svona en hérna að meginstefnunni til þá fór þetta bara vel fram,“ segir Páley.   Ekki fengust upplýsingar um hvort kynferðisbrot hefðu verið tilkynnt á hátíðinni. Mikil fjöldi er í Vestmannaeyjum og veðurblíðan með eindæmum.  

Fullur dalur af fólki og veðrið gæti ekki verið betra

Veru­leg­ur fjöldi fólks er nú sam­an­kom­inn í Vest­manna­eyj­um til að taka þátt í þjóðhátíð. „Hér er sann­kallað Maj­orka­veður ef þannig má að orði kom­ast. Hér hef­ur verið 20 stiga hiti og heiðskírt í all­an dag,“ seg­ir Hörður Orri Grett­is­son, talsmaður þjóðhátíðar við mbl.is í dag.   „Það er mikið af fólki komið og Herjólf­ur er bú­inn að vera smekk­full­ur í all­an dag.“ Herjólf­ur hef­ur farið átta ferðir úr Land­eyja­höfn til Vest­manna­eyja í dag og sami fjöldi ferða var far­inn í gær. Þá fóru sex flug­vél­ar frá Flug­fé­lag­inu Erni til Eyja í dag og gert er ráð fyr­ir fimm flug­ferðum á morg­un. Hörður Orri seg­ir ekki úr vegi að tala um loft­brú í þessu sam­hengi, en venju­lega eru farn­ar tvær flug­ferðir á dag.   Hann seg­ir mikið af tjöld­um komið upp í Herjólfs­dal og eins séu tjaldsvæði inni í bæ orðin þétt­set­in. „Það á eft­ir að halda áfram að fjölga því Herjólf­ur geng­ur sína síðustu ferð úr Land­eyja­höfn klukk­an ell­efu í kvöld og það er stöðugur straum­ur hingað alla helg­ina.“   Hörður Orri seg­ir húkk­ara­ballið hafa verið haldið venju sam­kvæmt í gær og það hafi verið ein­róma álit allra sem að því komu að það hafi farið vel fram. Form­leg setn­ing þjóðhátíðar var svo klukk­an hálfþrjú í dag og var hún hátíðleg að vanda. „Þar á eft­ir kom barnadag­skrá­in og síðan byrj­ar kvöld­dag­skrá­in á stóra sviðinu núna klukk­an níu.“   Hápunkt­ar kvölds­ins var svo brenn­an á Fjósakletti og tákn­rænn viðburður sem efnt var til um tíu­leytið í kvöld þegar tón­list­ar­menn, gest­ir þjóðhátíðar og gæslasameinuðust gegn kyn­ferðisof­beldi.  

Lögreglustjóri - Breytingar á umferð vegna þjóðhátíðar

Kæru Vestmanneyingar og gestir, eftirfarandi breytingar verða gerðar á umferð í Vestmannaeyjum á meðan á þjóðhátíð stendur. Hámarkshraði á Dalvegi er 15 km/klst og framúrakstur bannaður. Hámarkshraði á Hamarsvegi er 30 km/klst.   Biðskylda er Hamarsvegi við Dalveg vegna umferðar um dalinn frá kl. 13.00 á föstudag 29.07.16 til mánudagsins 01.08.16 kl. 13.00. ... Umferð um Dalveg er einungis leyfð til að skila fólki og sækja. Bifreiðastöður eru einungis heimilar á sérmerktum bifreiðastæðum, búast má við að bifreiðar sem er lagt andstætt banni þessu verði fjarlægðar og teknar í vörslu lögreglu á kostnað eiganda.   Fólki er bent á að nota göngustíginn inn í dal og upplýsta gangbraut frá göngustíg til að komast yfir Dalveg að bifreiðastæðum. Tangagata verður lokuð fyrir akstri ökutækja vegna Húkkaraballs frá Skildingavegi að vestan, að Skólavegi að austan. Þá verður lokað fyrir akstur á Básaskersbryggju frá bátaskýli Björgunarfélagsins upp að Tangagötu 28.-29. júlí frá kl. 23.30-06.00.   Á laugardag verður Vestmannabraut lokuð fyrir akstri ökutækja í austur frá Vestmannabraut 24 að Kirkjuvegi kl. 15.00-19.00. Laugardag og Sunnudag verður Bárustíg lokað fyrir bílaumferð frá Vestmannabraut niður að Vesturvegi kl. 11.00-20.00.     Lögreglan beinir því til ökumanna að aka varlega um helgina, mikið er af fólki í bænum, gangandi sem akandi. Lögregla mun sinna umferðareftirliti og er brýnt fyrir ökumönnum að virða umferðarreglur í hvívetna.     Með kveðju, Páley Borgþórsdóttir Lögreglustjóri í Vestmannaeyjum    

Íþróttir >>

Opið bréf til allra knattspyrnuáhugamanna

Góðan dag kæra knattspyrnufólk. Í ljósi mjög neikvæðra skrifa í garð félaga sem þurfa að styrkja lið sín með útlendingum til að halda velli á meðal þeirra bestu langar mig að gefa ykkur gott fólk smá innsýn í starfsemi kvennaliðs ÍBV.   Ég vil taka það skýrt fram að ég er ekki að skrifa í nafni ÍBV heldur algjörlega af minni eigin reynslu sem er afar mikil.   Það sem helst fær mig til að rita þetta bréf eru skrif sem ég hef séð á facebook í garð ÍBV vegna fjölda útlendinga í liðinu.   Ég ætla fyrst að tala um uppalda leikmenn. Eins og annars staðar hljóta sumir uppaldir leikmenn náð fyrir augum þjálfara en aðrir ekki. Það virðist stundum vera smá misskilningur meðal fólks þegar verið er að ræða þessa hluti að þótt lið samanstandi bara af íslendingum er ekki þar með sagt að þeir séu uppaldir, því fer fjarri því í flestum tilfellum er um aðsótta leikmenn frá öðrum félögum að ræða.   Í Vestmannaeyjum búa uþb 4.000 manns og því erfitt að halda úti öllum aldursflokkum í knattspyrnu en okkur hefur þó tekist það hingað til. Þegar kemur að meistaraflokki þá vandast málið því ljóst þykir að ekki getum við haldið úti úrvalsdeildarliði og ekki einu sinni 1.deildar liði byggðu eingöngu á heimamönnum. þeir sem stjórna hverju sinni hafa í raun um tvo kosti að velja.   Fyrri kosturinn er sá að leika eingöngu á uppöldum leikmönnum sem þýðir að liðið þyrfti að leika í næst efstu deild jafnvel í deildinni þar fyrir neðan. Þetta þýðir að bestu og metnaðarfyllstu leikmenn félagsins myndu leita á önnur mið því þessir leikmenn vilja leika á meðal þeirra bestu sem gefur þeim möguleika á landsliðssæti eða atvinnumennsku ásamt fleiru.   Að mínu mati þýðir þetta að metnaður félagsins dofnar og áhorfendum fækkar.   Hinn kosturinn er að styrkja liðið verulega og leika á meðal þeirra bestu. Með þessari ákvörðun þá áttu meiri möguleika á að halda heimamönnum og byggja síðan í kringum þá það sem til þarf.   Ókosturinn sem fylgir því að ætla byggja eingöngu á heimamönnum og eiga á hættu með að missa bestu leikmennina gerir sennilega það að verkum að það fólk sem stjórnar hverju sinni velur seinni kostinn og fær þá tækifæri til að vinna með bestu leikmönnunum sem eru uppaldir hverju sinni.   Það sem ÍBV stendur frammi fyrir er að styrkja þarf liðið um 5-8 leikmenn á hverju ári til að leika meðal þeirra bestu. ÍBV stendur líka frammi fyrir því að missa leikmenn í háskóla í Reykjavík og því þarf að fylla þeirra skarð. Eftir leiktímabilið 2015 missti ÍBV 4 uppalda leikmenn úr byrjunarliði sem er of stór biti að kyngja fyrir svona lítið byggðarlag og því ekki skrítið að ÍBV hafi þurft að bæta verulega við sig fyrir leiktímabilið 2016.   Hver er munurinn fyrir ÍBV að fá útlending eða íslending til lið við sig?   Að fá Íslending: Kostir þess að fá íslending eru í raun tveir þ.e leikmaðurinn talar okkar tungumál og við vitum nákvæmlega hvað leikmaðurinn getur. Ókosturinn við að fá íslending er sá að viðkomandi er í nánast öllum tilfellum í skóla sem þýðir að viðkomandi flytur til Eyja um miðjan mai og aftur frá Eyjum í byrjun ágúst sem þýðir að þjálfari ÍBV er að þjálfa viðkomandi leikmann í tvo og hálfan mánuð en í annan tíma þarf að koma viðkomandi leikmanni fyrir hjá öðru liði sem í flestum tilfellum eru andstæðingar okkar. Þá eru Íslendingar í flestum tilfellum dýrari kostur en útlendingar.   Að fá útlending: Kostir þess að fá útlending er að viðkomandi getur verið búsettur í Eyjum þann tíma sem ÍBV æskir og þjálfari ÍBV því með óheftan aðgang að leikmanninum.   Þeir útlendingar sem ÍBV hefur fengið í gegnum tíðina hafa nánast undantekningarlaust lagað sig vel að umhverfinu og líður vel í Eyjum. Útlendingar eru í flestum tilfellum ódýrari kostur en íslenskir leikmenn. Ókosturinn við að fá útlendinga er að viðkomandi talar ekki okkar tungumál og við erum aldrei 100% vissir um getu viðkomandi.   ÍBV hefur alltaf reynt að styrkja sig með því að bjóða íslenskum leikmönnum til Eyja en áhugi flestra liggur í því að leika á höfuðborgarsvæðinu.   Ef landsbyggðarlið eins og ÍBV, Þór/KA, Grindavík ofl myndu ekki leitast við að styrkja lið sín þá væri lítið varið í Íslandsmótið því það væri bara óopinbert Reykjavíkurmót.   Ég persónulega sé ekki hver munurinn er á því að fá aðfluttan Íslenskan leikmann eða aðfluttan erlendan leikmann. Öll eru þau með sama markmið þ.e að ná árangri í fótbolta. Hvort leikmaður tali íslensku eða ensku skiptir mig ekki neinu máli heldur skiptir mig og mitt félag öllu máli hversu heiðarleg persónan er og hvort viðkomandi sé tilbúin að berjast að eyjanna sið fyrir ÍBV.   Áfram að uppöldum leikmönnum. Í lok apríl, lékum við hjá ÍBV til úrslita í Lengjubikarkeppninni og fór leikurinn fram hér í Eyjum. Ég sat þá við hlið manns sem vinnur ötulega að framgangi íslenskrar knattspyrnu. Hann spurði mig hversu margar væru uppaldar í ÍBV. Ég tjáði honum það, en það voru þrír leikmenn fæddar í eyjum og tvær frá Rangárhverfi sem leikur undir merkjum ÍBV í yngri flokkum. Hann spurði mig þá um andstæðinga okkar og ég sagðist ekki vera viss heldur taldi ég að þar væri hámark ein fædd inní félagið en aðrar aðfengnar. Um varamannabekkinn tjáði ég honum að allir 7 varamenn ÍBV væru fæddar í Eyjum en af varamannabekk andstæðingana taldi ég að væru 4 af sjö varamönnum fæddar inní félagið. Þar sem við vorum að leika gegn einu af stærstu félögum á Íslandi tel ég þetta vel af sér vikið hvað okkar litla byggðarlag varðar og ekki gagnrýnivert.   Nú um síðustu helgi lékum við svo til úrslita í Borgunarbikarkeppninni. Þar mættu ég stoltur af okkar félagi þ.e að vera með í úrslialeik bæði kvenna og karlalið ÍBV.   Það sem ég sá svo ritað á facebook fékk mikið á mig. Þar er talað um að ÍBV samanstandi bara af útlendingum og félagið mikið gagnrýnt fyrir þessa stefnu. Ég hef farið vandlega yfir leikskýrslu leiksins. Mér sýnist að það sé engin fædd inní byrjunarlið félags andstæðinga okkar í kvennaleiknum.   Aftur á móti vorum við hjá ÍBV með fjóra leikmenn í okkar byrjunarliði fæddar í Vestmannaeyjum ásamt einni fæddri í Rangárhverfi og sex af sjö varamönnum fæddar hér í Eyjum. Varamannabekkur andstæðinga okkar sýnist mér innihalda 5 fæddar inní félagið af sjö. Á facebook var svo ritað eftir leik að um alíslenskan bikartitil sé að ræða. Ég spyr því, erlendi leikmaðurinn sem gerði fyrsta mark leiksins eftir aðeins 2 mínútu og átti mjög stóran þátt í sigri bikarmeistarana, er hún þá ekki bikarmeistari?   Ég hef líka tekið saman lista yfir leikmenn úr úrvalsdeildinni sem fæddar eru í Vestmannaeyjum. - Margrét Lára Viðarsdóttir- Besti leikmaður Íslands frá upphafi. Leikur með Val. - Fanndís Friðriksdóttir- Fluttist til Eyja 3 ára. landsliðskona. Leikur með Breiðabliki. - Elísa Viðarsdóttir- Landsliðskona. Leikur með Val. - Berglind Björg Þorvaldsdóttir- Landsliðskona. Leikur með Breiðablik. - Kristín Erna Sigurlásdóttir- Hefur leikið 188 leiki í meistaraflokki og gert í þeim 88 mörk. Leikur með Fylki.   Já, ég held að ÍBV þyrfti ekki að fá mikið af leikmönnum til sín ef við byggjum við þann lúxus að missa ekki frá okkur slíka leikmenn vegna náms, atvinnumennsku eða annara óviðráðanlegra aðstæðna.   Ég velti líka fyrir mér hver staða liða eins og Vals og Breiðabliks væri ef ekki væri fyrir þessa leikmenn sem fæddar eru í Eyjum.   Eftir þessi skrif stend ég stoltur úr sæti yfir því að vera hluti af ÍBV.   Með virðingu fyrir leiknum, Jón Ólafur Daníelsson framkvæmdarstjóri ÍBV, knattspyrnu kvenna.   Frétt frá Fótbolta.net.  

Greinar >>

Háplöntum fækkar og ný smádýr finnast í Surtsey

Árlegur leiðangur vísindamanna í Surtsey leiddi í ljós færri háplöntutegundir en undanfarin ár en hins vegar uppgötvuðust nýjar tegundir smádýra. Varpárangur máfa var með besta móti.   Árlegur leiðangur til líffræðirannsókna á Surtsey var farinn á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands dagana 18.–22. júlí. Áhersla var lögð á að framfylgja hefðbundnum rútínuverkum við vöktun á stöðu og framvindu lífríkisins. Einnig var markmiðið að losa eyna við ýmsa óæskilega aðskotahluti sem rekið hafði á fjörur í gegnum tíðina og fjarlægja restar af byggingarefni sem til féll við lagfæringar á Pálsbæ, húsi Surtseyjarfélagsins, síðastliðið haust. Leiðangurinn var skipulagður í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands og Surtseyjarfélagið að fengnu dvalarleyfi á eynni frá Umhverfisstofnun.   Tíðarfarið þetta sumar hafði verið einstaklega gott og var því fróðlegt að sjá hverju fram vatt á eynni. Hins vegar var veðrið óhagstætt til margra verka meðan á leiðangrinum stóð. Mikið hafði mætt á eynni í veðrahami undanfarins veturs og voru ummerki þess augljós á tanganum. Sjór hafði gengið yfir hann með látum, grjótgarðurinn rofnað á tanganum vestanverðum og sjór gengið inn á tangaflötina, sökkt var í sand leiru sem þar var og myndað nýja rofbakka. Austan megin hafði grjótgarðurinn breikkað mjög og færst langt inn á flötina. Mikill er máttur náttúruaflanna sem á eynni mæða.   Gróður   Háplöntutegundum sem fundust á lífi hafði fækkað um fjórar frá síðasta ári. Gleym-mér-ei, beringspuntur, maríustakkur, lækjagrýta og heiðadúnurt skiluðu sér ekki að þessu sinni, en friggjargras hins vegar en það finnst af og til, ekki á hverju ári. Alls fannst 61 tegund háplantna á lífi að þessu sinni en 65 í fyrra. Frá upphafi hafa alls fundist 73 tegundir háplantna á Surtsey. Nokkrar ætihvannir hafa vaxið á afviknum stað á undanförnum árum. Tvær hvannir fundust nú á nýjum stað í rofbakka á tanganum. Þar var annar gróður einnig í miklum blóma, eins og hrímblaðka og fjörukál, eftir að sjór hafði flætt þar yfir síðastliðinn vetur.   Gróska í máfabyggðinni var með fádæmum þrátt fyrir þurrviðrasama tíð framan af sumrinu, en hlýindi höfðu verið einstök og áburðargjöf mikil frá máfavarpi í miklum blóma. Þurrt tíðarfarið mátti greina á því að haugarfi var ekki eins öflugur og verða vill í úrkomusamri tíð, en grasvöxtur var með fádæmum. Þrátt fyrir þurrkana hafði gróður haldið velli á þurrum klöppunum ofan við hraunbjörgin. Undanfarin ár hefur melablóm aukist mjög á sandorpnum hraunum en nú mátti merkja bakslag í þeirri þróun.   Úttekt var gerð á föstum mælireitum, gróðurþekja mæld og tíðni tegunda skráð. Frekari úrvinnsla mæligagna fer fram síðar. Dýralíf   Árangur varps stóru máfanna var með albesta móti. Ekki einvörðungu mátti greina fjölgun varppara hjá öllum stóru máfunum þrem, svartbaki, sílamáfi og silfurmáfi, heldur var afkoma unga þeirra betri en nokkru sinni. Þeir voru hvarvetna, jafnt fleygir sem ófleygir, og ungadauði hafði verið lítill. Fæðuframboð í hafinu hefur því verið gott. Svartbakur hafði eflst hvað mest og hafði hrakið sílamáfana til landnáms á nýjum lendum og þannig verið lagður grunnur að aukinni gróðurframvindu á minna grónu landi. Fjölgunar svartbaka gætti einnig á tanganum. Þar hafa að jafnaði orpið um þrjú pör en nú allt að 30 pör. Hins vegar sáust engin ummerki þess að ritur hefðu mætt til varps á þessu vori. Engir lundar sáust heldur á hefðbundnum varpstað þeirra. Fýlar og teistur voru með hefðbundnu móti en fýlarnir höfðu augljóslega þurft að greiða krumma sinn toll. Hrafnspar eyjarinnar hafði nefnilega orpið að vanda og komið upp tveim ungum. Snjótittlingar voru samir við sig, nokkur pör með fleyga unga, þúfutittlingspar á óðali í máfavarpinu og tvær maríuerlur sáust, ein fullorðin og einn ungfugl en óvíst hvort maríuerlan hafi orpið að þessu sinni. Ef til vill voru þær aðkomnar eins og ungur steindepill sem sást á tanganum. Í fyrra fannst æðarkolla með nýklakta unga, nú sást æðarpar á sjónum. Annars var erfitt að meta varp fugla og árangur að þessu sinni. Snemma voraði í ár og leiðangurinn var farinn í seinna lagi.   Ástand smádýralífs var erfitt að meta vegna ríkjandi veðurs á rannsóknatíma, vinda og regns. Smádýrin létu löngum sem minnst á sér kræla. Árangur söfnunar með háfum var því mun lélegri en oftast áður. Þarf því að treysta á að fallgildrur í gróðurmælireitum og tjaldgildra í máfavarpi gefi betri upplýsingar þegar tími gefst til að vinna úr afla þeirra. Þrátt fyrir óhagstætt veðrið uppgötvuðust fjórar bjöllutegundir sem ekki höfðu áður fundist á eynni. Var það afar óvenjulegt því sjaldgæft er að nýjar bjöllur skjóti upp kolli. Þær voru fjallasmiður (Patrobus septentrionis), steinvarta (Byrrhus fasciatus) og tvær tegundir jötunuxa sem þarf að staðfesta betur, báðar fágætar og önnur svo að líkast til er hún auk þess ný fyrir Ísland. Ef rétt reynist teldust tíðindin stór í þessum fræðum. Athygli vakti að kálmölur (Plutella xylostella) var áberandi á flögri og mikið var af lirfum hans á fjörukáli og melablómi, jafnvel svo að ummerki sæjust. Annars er kálmölur útlensk tegund en algengur flækingur. Stundum nær hann að fjölga sér hér á landi á plöntum krossblómaættar sem eru ættingjar kálplantna.   Leiðangursfólk   Fræðimenn frá Náttúrufræðistofnun Íslands að þessu sinni voru Borgþór Magnússon (leiðangursstjóri), Erling Ólafsson, Matthías S. Alfreðsson og Pawel Wasowicz. Frá Landbúnaðarháskóla Íslands voru Bjarni Diðrik Sigurðsson og Hafdís Hanna Ægisdóttir (sjálfboðaliði í hreinsunarátaki). Håkan Wallander frá Háskólanum í Lundi og Alf Ekblad frá Háskólanum í Örebro (rannsökuðu ákveðna þætti jarðvegsmyndunar). Þórdís Vilhelmína Bragadóttir, fulltrúi Umhverfisstofnunar. Vilhjálmur Þorvaldsson og Jón Bjarni Friðriksson frá Veðurstofu Íslands, mættu í lok tímans til að viðhalda sjálfvirku veðurstöðinni.   Náttúrfræðistofnun Íslands greindi frá.