Starfsorka lögð niður

Starfsemi Starfsorku, starfsendurhæfingar Vestmannaeyja, verður lögð niður í óbreyttri mynd á næstu vikum og starfsfólki sagt upp. VIRK-starfsendurhæfingarsjóður hyggst ekki endurnýja rekstrarsamning við Starfsorku sem rennur út í apríl. Þetta kemur fram á vef RUV. Þá segir að Starfsorka í Vestmannaeyjum hafi sinnt starfsendurhæfingu þar undanfarin sex ár í samstarfi við VIRK-starfsendurhæfingarsjóð, velferðarráðuneytið og Vinnumálastofnun. Þá hefur VIRK greitt hluta af rekstrarkostnaði Starfsorku samkvæmt föstum samningi, laun forstöðumanns, húsnæði og fleira.   Nú hefur VIRK tilkynnt að þessi fasti samningur verði ekki endurnýjaður. Haukur Jónsson, stjórnarformaður Starfsorku, segir það þýða að óbreyttu að rekstrargrundvöllur Starfsorku sé farinn. „Við verðum einfaldlega að endurskipuleggja reksturinn og sjá til hvað við gerum. Við þurfum að segja upp tveimur starfsmönnum og endurhugsa framhaldi, hvaða þjónustu við bjóðum upp á og hverjir geta notið hennar.“   Hrefna Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri Starfsorku, segir að verkefnum hafi farið fækkandi síðustu mánuði. VIRK hafi markvisst vísað verkefnum í aðrar áttir og það hafi bitnað á Starfsorku. Og Haukur segir erfitt að sjá fyrir sér í augnablikinu hvort og þá hvernig hægt verði að halda rekstrinum áfram. „Þetta er það sem stjórnin þarf að leggjast yfir og finna hvað við getum gert,“ segir hann.   ruv.is greindi frá  

Samþykkt að auka daggæsluúrræði með því að opna Strönd fram á vor

Nýtt tölvusneiðmyndatæki keypt

Ákveðið hefur verið að ganga til kaupa á nýju tölvusneiðmyndatæki fyrir Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum.  Þetta kemur fram í tilkynningu frá Herdísi Gunnarsdóttur, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) sem birtist á vefsvæði stofnunarinnar.  „Kaupin á nýja tækinu eru unnin í samvinnu við konur í kvenfélaginu Líkn í Vestmannaeyjum sem hafa af miklum myndarskap og þrautseigju safnað fé til kaupa á tækinu,“ segir í tilkynningunni.   Þar kemur jafnframt fram að eldra tölvusneiðmyndatækið hafi verið ónothæft síðastliðið ár og því hafi ekki verið kostur á því að greina ýmis einkenni og sjúkdóma á staðnum.  „Af því hefur hlotist viðbótarkostnaður við sjúkraflug í einhverjum tilfellum. Vegna rekstrarvanda hjá fyrrum Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja hefur ekki verið mögulegt að festa kaup á slíku tæki og því ber að þakka Líknarkonum framlag þeirra til samfélagsins í Vestmannaeyjum. Nýtt og fullkomnara myndgreiningartæki mun því að einhverju leyti spara þjónustuþegum HSU á svæðinu ferðir til rannsókna annars staðar. Með nýja tækinu verður jafnframt hægt að veita nánari greiningu á ýmsum vandamálum og tryggja öruggari meðferð við einkennum og bráðum veikindum,“ segir jafnframt í tilkynningunni en í niðurlagi hennar kemur fram að vonir standi til að hægt verði að taka nýtt tæki í notkun eigi síðar en í maí á þessu ári.

Vonir bundnar við dælingu úr landi

Vegagerðin hyggst gera tilraunir með sanddælingu frá landi í Landeyjahöfn í mars. Búið er að leigja dælu til verksins. Hingað til hefur dælingin verið gerð á skipum. „Vonir standa til að með dælu frá landi verði hægt að dýpka við mun hærri öldu en nú er gert,“ segir Sigurður Áss Grétarsson, framkvæmdastjóri siglingasviðs Vegagerðarinnar.   Gangi tilraunirnar að óskum hyggst Vegagerðin bjóða út dælu sem yrði á landi. Það verður þó ekki gert fyrr en ákvörðun hefur verið tekin um smíði nýs Herjólfs að sögn Sigurðar. Sú ákvörðun hefur ekki enn verið tekin þótt stefnt sé að því að smíði skipsins verði boðin út í vor samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni sem send var út í gær.   Telur nýja dæla ekki svara kostnaði með núverandi Herjólf Með nýrri dælu og nýjum Herjólfi telur Sigurður að hægt verði að nota Landeyjahöfn 90 prósent af árinu. Höfnin muni helst lokast yfir háveturinn.   Sigurður telur það ekki svara kostnaði að fara út í nýjar dýpkunaraðferðir fyrr en ákvörðun hefur verið tekin um ferjukaupin. „Það er lítið gagn í því að hafa nægt dýpi í höfninni fyrir Herjólf yfir háveturinn. Dæla þarf upp margfalt meiri sandi fyrir Herjólf miðað við nýju ferjuna og svo getur Herjólfur lítið siglt til Landeyjahafnar vegna ölduhæðar á þessum árstíma,“ segir Sigurður.   Vísir.is greindi frá   Myndbandið hér að ofan tók Guðmundur Alfreðsson í flugi yfir höfnina síðastliðinn miðvikudag 21. janúar 2015.

Það siglir ekkert skip í höfn fulla af sandi

 „Virðulegi forseti. Ég hef áhyggjur af samgöngumálum Vestmannaeyja. Landeyjahöfn hefur verið lokuð frá því í lok nóvember og Herjólfur hefur fellt niður margar ferðir til Þorlákshafnar. Þetta hefur gríðarleg áhrif á atvinnulífið í Vestmannaeyjum, svo ekki sé talað um íbúana, að Herjólfur sigli jafnvel ekki dag eftir dag. Framleiðslufyrirtækin sem stóla á að koma vöru sinni á markað á fastalandinu á hverjum degi sitja uppi með harðan skell. Þetta er alvarlegt mál. Það var samþykkt að Víkingur sem er lítill ferjubátur mundi sigla í Landeyjahöfn en hann hefur enga ferð farið vegna ástandsins í höfninni. Höfnin í Landeyjum er full af sandi.“ sagði Ásmundur í ræði sinni á Alþingi í gær.   Meiri sandur en reiknað var með „Í upphaflegri áætlun við höfnina var gert ráð fyrir því að það þyrfti að dæla um það bil 30 þús. rúmmetrum af sandi úr höfninni á ári til að halda henni opinni. Í dag telja þeir sem þekkja til við höfnina að til að opna hana núna þurfi að dæla 60 þús. rúmmetrum, þ.e. tvöföldu því magni sem menn gerðu ráð fyrir að ætti að dæla á ári. Á rifinu fyrir utan höfnina sem hefur aldrei farið niður fyrir 5 metra er 4 metra dýpi núna og til að dýpka höfnina þarf að byrja á því að dýpka rifið. Það hefur aldrei þurft áður. Í hafnarmynninu er dýpið 1,9–2,6 metrar. Þarna á milli er nánast hægt að ganga þurrum fótum. Það skiptir ekki máli hvort við leigjum skip eða byggjum nýja ferju, það siglir ekkert skip í höfn fulla af sandi. Verkefni okkar er að láta laga þessa höfn til að koma henni í lag til að hún nýtist Vestmannaeyingum og þeim sem þangað vilja sækja, friðarhöfn allt árið sem er örugg og traust. En til þess þarf að skoða alla hönnun hafnarinnar upp á nýtt og hlusta á það sem reynslan hefur talað í þeim efnum.“ sagði Ási.   Myndina hér að ofan sýnir grafskipið Dísu og er tekin í Þorlákshön kl. 11 í morgun. En lítið færi hefur gefist á dýpkun í Landeyjarhöfn. Í dag kl. 14.00 var ölduhæðin 2,3 m   Opinn fundur í hádeginu á morgun föstudag Ásmundur verður ásamt Geir Jóni Þórissyni varaþingmanni á opnum almennum stjórnmálafundi á Kaffi Kró í hádeginu á morgun föstudag milli klukkan 12 og 13. Þar munu þeir ræða stjórnmálaviðhorfin, samgöngu- og heilbrigðismál svo fátt eitt sé nefnt. „Stuttar framsögur og fyrirspurnum úr sal svarað. Stefnt er á snaggaralegum og lifandi fundi þar sem allir fundarmenn verða þátttakendur.“ segir í tilkynningu um fundinn.   Að loknum fundi verður áfram spjallað við þá sem hafa rýmri tíma og þá verður rætt það sem mönnum liggur helst á brjósti.   Fundargestum er boðið upp á súpu og kaffi.  

ÍBV er það sem við eigum öll

Kæru stjórnarmenn, íþróttafólk og aðrir gestir. Mig langar að byrja á því að óska héraðssambandinu til hamingju með þessa flottu samkundu. Árið 2014 var viðburðaríkt hjá ÍBV íþróttafélagi og standa Íslands- og bikarmeistaratitlarnir okkar upp úr sem og frábær Þjóðhátíð. Iðkendur okkar í yngri flokkum skiluðu til félagsins 3 íslandsmeistaratitlum og 2 bikarmeistaratitlum, Noðurálsmeistara og Símamótsmeistara og er þetta frábær árangur hjá þeim og þjálfurum þeirra. Meistaraflokkur karla í handbolta náðu að tryggja sér titilinn í æsispennandi úrslitaleik við Hauka og er þetta í fyrsta skipti sem meistaraflokkur ÍBV í handbolta karla nær í þennan titil en til gamans má geta að Þór og Týr náðu aldrei að verða Íslandsmeistarar í karla handbolta. Stelpurnar okkar í handboltanum duttu út í 4 liða úrslitum um íslandsmeistaratitilinn og 8 liða úrslitum um bikarmeistaratitilinn.   Fótboltasumarið hjá meistaraflokkunum okkar var ágætt en þar ber fyrst að nefna að stelpurnar í meistaraflokki áttu möguleika fram í síðustu umferð að krækja í 3. sætið og strákarnir okkar voru í erfiðri baráttu í neðri hluta deildarinnar en náðu að halda sér uppi. Á árinu 2014 voru spilaðir rúmlega 1200 leikir í Vestmannaeyjum. Við ferðuðumst töluvert mikið og vorum nú sem oft áður stærsti viðskiptavinur Eimskipa í farþegaflutningi.   Við áttum 20 íþróttamenn sem spiluðu fyrir Íslands hönd á árinu og áttum við þrjá þjálfara sem stýrðu landsliðum Íslands en einnig eigum við mikið í Erlingi sem nú í lok árs gerði samning við stórlið í þýska boltanum.   En þessi árangur næst ekki nema með óeigingjarnri vinnu sjálfboðaliða félagsins sem á ári hverju vinna fleiri þúsund klukkustundir fyrir félagið. Þetta frábæra fólk fær ekki oft klapp á bakið en langar mig að biðja ykkur um að klappa fyrir þessu frábæru Eyjamönnum sem gera samfélagið okkar að því sem það er í dag.    Í næstu viku eru tvö ár síðan ég hóf störf hjá ÍBV íþróttafélagi og hefur þessi tími verið lærdómsríkur og oftast mjög skemmtilegur. Ég hef kynnst mikið af góðu fólki sem hefur kennt mér mjög margt.   Ég fékk mikið af heilræðum frá bæjarbúum mína fyrstu mánuði í starfi um það hvað félagið þyrfti að leggja í mikla vinnu til að vinnu upp traust samfélagsins. Ég tel okkur sem störfum í félaginu hafa náð góðum árangri með íbúa bæjarins og flesta okkar styrktaraðila en því miður gengur ekki jafn vel með bæinn. • Við teljum okkur skila töluvert miklu til samfélagsins • Við versluðum við fyrirtæki og stofnanir í Eyjum fyrir á annað hundruð milljónir á árinu 2014. • Við kaupum m.a. fargjöld fyrir á þriðja tug milljóna á ári. • Við erum með að jafnaði 43 á launaskrá á mánuði • Við erum með um 50% grunnskólabarna í höndunum 2-10 tíma á viku • Við erum með 10 uppeldismenntaðar manneskjur á launaskrá til að kenna ynstu iðkendum félagsins • Við erum með rúmlega 80 iðkendur í akademíunum okkar.   Þrátt fyrir allt þetta þá finn ég fyrir ákveðnu skilningsleysi frá Vestmanneyjabæ. Það er alltaf eins og félagið sé baggi á bæjarsjóði þegar ég vil ræða við þá um það sem betur má fara varðandi umgjörð og stuðning við okkur og heimilin. • Að þeir hafi ekki séð sér fært að setja 14-16 milljónir í frístundakort til að létta undir með foreldrum í bænum varðandi tómstundir á sama tíma og ÍBV íþróttafélag greiðir barna og unglingastarf niður um 20 milljónir á ári.   • Að þeir skuli ekki getað stutt okkur í þeim framkvæmdun sem félagið þarf að fara í á vallarsvæði bæjarins. • Að rekstrarstyrkur bæjarins fyrir 2014 sé nitjánhundruð og sex þúsund en sú upphæð stendur tæplega undir Þátttöku og dómarakostnaði í yngri flokkum félagsins á árinu 2014. • Að bærinn skuli rukka félagið um gatnagerðagjöld vegna stúku fyrir rúmar tvær og hálfa milljón og fasteignagjöld á ári fyrir tæpar áttahundruð þúsund. Ég get ekki lengur orða bundist og sett upp sparibrosið þegar samstarf ÍBV og bæjarins kemur til umræðu. Ekki misskilja mig en ég met mikils þann fjárhaslega stuðning sem við fengum frá bænum á árinu til að reisa félagið við.   ÍBV er það sem við eigum öll hvar sem við stöndum í politík eða hvort sem við vinnum í VSV eða Ísfélaginu. ÍBV er þar sem hjartað slær. Stemmingin á Herjólfsbryggjunni þann 15. maí segir mér allt sem segja þarf um hug bæjarbúa til félagsins.   ÍBV er ekki venjulegt fyrirtæki og verður aldrei hægt að reka félagið þannig því að samfélagsleg ábyrgð okkar er mikil í t.d. í vímuefnavörnum, heilsueflingu og almennum gildum.   Ekki mörg íþróttafélög á landinu verða sér út um 50% tekna með vinnu sjálfboðaliða en það gerum við á Þjóðhátíð, Þrettándanum, Shellmóti, Pæjumóti og handboltamótum okkar.   Vestmannaeyjabær komið í þessa vegferð með okkur og vinnum saman í það að leysa þau verkefni sem þarf að leysa til að íþróttastarfið í bænum sé þar sem við viljum hafa það og til að foreldrar í Eyjum geti haft börn sín í íþróttum áháð stétt eða stöðu.    

Microsoft mjög hrifnir af því sem við erum að gera

 Í lok október síðasta árs sögðu Eyjafréttir frá fyrirtækinu Medilync sem Eyjapeyjarnir Sigurjón Lýðsson og Jóhann Sigurður Þórarinsson ásamt Skagfirðingnum Guðmundi Jóni Halldórssyni stofnuðu og tækinu sem þeir eru að þróa og hanna, Insulync. Þá greindu þeir félagar frá því að Microsoft bauð þeim til sín til að vinna að tækinu og hugbúnaðinum sem því fylgir. Í síðustu viku héldu þeir kumpánar út í höfuðstöðvar tölvurisans að vinna að verkefninu. Við heyrðum í Sigurjóni Lýðssyni og tókum stöðuna.   „Við flugum út til Seattle föstudaginn 9. janúar og mættum svo til vinnu í höfuðstöðvar Microsoft á mánudeginum. Fram að ferðinni vorum við búnir að vera undirbúa ferðina fyrir jól og áramót og svo unnum við heila 5 vinnudaga, mánudag til föstudags hjá Microsoft með sérfræðingum þeirra. Sú vinna heldur svo áfram þegar heim er komið í samstarfi við sama hóp hjá Microsoft.“ sagði Sigurjón sem var í skýjunum með ferðina. „Aðkoma Microsoft felst fyrst og fremst í ráðgjöf, þ.e. að aðstoða okkur við arkitektúr skýjahluta verkefnisins sem er gríðarlega mikilvægur.“ Tækið, sem unnið er að gengur undir nafninu Insulync, er í raun ný tegund af innsúlínsprautu og kemur til með að mæla blóðsykur og gefa insúlín. Tækið geymir þá upplýsingar um insúlíngjafir og blóðsykursmælingar og sendir þær síðan í miðlæga gagnageymslu í skýinu Cloudlync. Notandinn getur svo nálgast sín gögn í gegnum vafra eða þar til gert app. Eins getur notandinn veitt öðrum aðgang að sínum gögnum, svo sem aðstandanda eða lækni. Þannig geta til dæmis foreldrar fylgst með insúlíninntöku barna sinna eða afkomendur hjá öldruðum foreldrum sínum.   „Þá voru þeir einnig að forrita stóran hluta að „frameworki“ sem við notum en þeir eiga. Annað sem er mikilvægt er að þeir nýttu sitt tenginet vel fyrir okkur og fengu sérfræðinga úr öðrum teymum Microsoft til að koma að hitta okkur og þeim var bara flogið inn. Eins fengum við að hitta sérfræðinga frá öðrum fyrirtækjum sem vinna náið með Microsoft að „Big data“ tækni sem er mjög vinsæl í dag.“ Með „Big data“ er í stuttu máli átt við þegar unnið er með slíkt gagnamagn að hefðbundnar lausnir og hugbúnaður ræður ekki við það.   „Það sem kom okkur mest á óvart var kannski hversu góð viðbrögð við fengum við verkefninu. Mönnum fannst nálgunin á lausninni okkar virkilega áhugaverð. Þannig vorum við alltaf kynntir allstaðar sem fyrirtæki á Íslandi sem væri að vinna að áhugaverðri lausn fyrir sykursjúka. Meira að segja Scott Guthrie [ aðstoðarforstjóri skýja- og fyrirtækjahluta Microsoft ] var mjög hrifinn af þessu verkefni og hann er þegar farinn að tengja okkur við aðila sem geta hjálpað." sagði Sigurjón.   Nánar í blaði nýjasta tölublaði Eyjafrétta

Sjúkraflug frá Eyjum aukist um 70 prósent

Sjúkraflug frá Vestmannaeyjum hefur aukist um sjötíu prósent og kostnaður vegna flutnings sjúklinga milli eyja og lands árið 2014 er ekki undir 75 milljónum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í harðorðri bókun bæjarráðs Vestmannaeyja um stöðu heilbrigðismála í Vestmannaeyjum. Greint er frá þessu á fréttavef RÚV. Í bókun bæjarráðs er lýst yfir miklum áhyggjum af versnandi stöðu heilbrigðismála í Vestmannaeyum og vaxandi kostnaðar vegna sjúkraflugs til og frá Eyjum. „Það þarf ekki að koma á óvart að eftir því sem þjónusta á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja hefur verið skert þá hefur kostnaður vegna sjúkraflugs aukist.“ Bæjarráð segir að sú þjónusta sem áður var veitt á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja sé nú veitt í Reykjavík. „Skerðing á bráðaþjónustu og viðbragðsgetu Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja hefur því orðið til þess að frá 2013 til 2014 er um 70% fjölgun í sjúkraflugi að ræða.“ Bæjarráð bendir heilbrigðisyfirvöldum á að kostnaður við sjúkraflug sé verulegur eða um 600 þúsund krónur. „Kostnaður vegna flutnings sjúklinga frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur á árinu 2014 er því vart undir 75 milljónum. Þar við bætist kostnaður vegna læknisþjónustunnar sjálfrar sem sjúklingum frá Vestmannaeyjum er veitt í Reykjavík sem og sá viðbótarkostnaður sem Tryggingastofnun ríkisins verður fyrir vegna hreppaflutninga sjúklinga.“ Bæjarráð ítrekar því kröfu sína að tafarlaust verði brugðist við bráðavanda heilbrigðisstofnunar í Vestmannaeyjum og að fjármagn verði heldur nýtt til að auka heilbrigðisþjónustu frekar en að flytja hana.

Fólk veikist og slasast alveg jafnt þótt heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni sé skert.

Það dylst engum sem til þekkja að staða heilbrigðismála í Eyjum er  ekki ásættanleg. Sjúkrahúsið í Eyjum hefur verið sameinað öðrum sjúkrahúsum á Suðurlandi með hagræðingu og bætta þjónustu að leiðarljósi.  Hvort sú ákvörðun á eftir  að bæta stöðuna verður að koma í ljós. Allavega er ekkert enn að gerast. Á fundi bæjarráðs í vikunni var fjallað um stöðuna í heilbrigðssmálunum. Eftirfarandi bókun var gerð:    Bæjarráð lýsir yfir miklum áhyggjum af versnandi stöðu heilbrigðismála í Vestmannaeyjum og vaxandi kostnaðar vegna sjúkraflugs til og frá Eyjum. Það þarf ekki að koma á óvart að eftir því sem þjónustu á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja hefur verið skert þá hefur kostnaður vegna sjúkraflugs aukist. Staðreyndin er enda sú að fólk veikist og slasast alveg jafnt þótt heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni sé skert. Breytingin er því eingöngu sú að þjónusta sem áður var veitt td. á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja er nú veitt í Reykjavík. Skerðing á bráðaþjónustu og viðbragðsgetu Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja hefur því orðið til þess að frá 2013 til 2014 er um 70% fjölgun í sjúkraflugi að ræða.  Bæjarráð bendir heilbrigðisyfirvöldum enn og aftur á að kostnaður við sjúkraflug er verulegur eða um 600 þúsund krónur pr. hvert flug. Kostnaður vegna flutnings sjúklinga frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur á árinu 2014 er því vart undir 75 milljónum. Þar við bætist kostnaður vegna læknisþjónustunnar sjálfrar sem sjúklingum frá Vestmannaeyjum er veitt í Reykjavík sem og sá viðbótarkostnaður sem Tryggingastofnun ríkisins verður fyrir vegna hreppaflutninga sjúklinga. Enn er þá ótalinn sá gríðarlegi kostnaður sem sjúklingar og aðrir þjónustuþegar heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum þurfa sjálfir að bera. Bæjarráð ítrekar því þá kröfu sína að tafarlaust verði brugðist við bráðavanda heilbrigðisstofnunar í Vestmannaeyjum og fjármagn heldur nýtt til að auka heilbrigðisþjónustu frekar en að flytja hana til. Þó óskar bæjarráð eftir því að nýráðin framkvæmdastjóri komi til næsta fundar bæjarráðs til að ræða þá erfiðu stöðu sem uppi er vegna þeirrar gríðarlegu þjónustuskerðingar sem orðið hefur í Vestmannaeyjum á seinustu misserum.  

Fyrsti leikurinn á móti Svíum er gríðarlega mikilvægur

Undirbúningur hefur gengið þokkalega og standið á strákunum er bara nokkuð gott. Við erum með alla lykilmenna heila fyrir mótið og það hefur ekki gerst hjá okkur síðan á Ólympíuleikunum í London 2012. Mótið leggst bara vel í mig. Riðillinn er mjög erfiður og ekki mikið um auðvelda leiki eins og stundum á HM. Fyrsti leikurinn á móti Svíum er að mínum mati gríðarlega mikilvægur því það er mikilvægt að byrja mótið að krafti,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari ÍBV karla í handboltanum og er í þjálfarateymi Íslenska landsliðsins sem kom til Katar í gær þar sem Heimsmeistaramótið í handbolta fer fram. Leikurinn gegn Svíum er á föstudaginn, 16. Janúar og hefst kl. 18.00.   Hverja metur þú möguleika Íslands í keppninni? „Það getur allt gerst í þessu móti. Við getum auðveldlega farið heim að lokinni riðlakeppninni og við getum spilað til verðlauna. Eftir riðlakeppnina taka við úrslitaleikir þar sem allt getur gerst. Það er ljóst að við fáum sterkan andstæðing í 16 liða úrslitum. Annars tel ég að við eigum ágætis möguleika á að enda í topp 7 sem tryggir okkur sæti í umspili fyrir Ólympíuleikana 2016.“   Leikirnir gegn Þjóðverjum, Svíum, Dönum og Slóvenum. Hvað getum við tekið með okkur úr þeim leikjum? „Það var mjög gott að fá þessa leiki til að sjá hvað við þurfum að laga fyrir fyrsta leik gegn Svíum. Við þurfum að fá stöðugri varnarleik og markvörslu og svo þurfum við að halda aganum í sókninni.“   Hverjir eru okkar helstu styrkleikar og hvern telur þú vera lykilinn að góðu gengi? „Við erum með mikla reynslu í liðinu og einnig held ég að íslenska hjartað sé okkar styrkleiki. Lykillinn að góðu gengi er sá að við séum að bæta okkur á milli leikja og okkar lykilmenn haldist heilir.“   6. Hefur þú trú á að Ísland geti farið alla leið? „Að sjálfsögðu hef ég trú á mínum mönnum og ég hef fulla trú á að við getum endað í topp sjö og tryggt okkur þar með sæti í undankeppni fyrir Ólympíuleikana í Ríó í Brasilíu,“ sagði Gunnar að endingu. Jón Ingason.    

Vínbúðin á nýjum stað

Komust áfram í gettu betur

  Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum komst áfram í surningakeppni framhaldsskólana, Gettu betur í gærkvöldi. Atti hann kappi við Menntaskólann á Egilsstöðum með 20 stigum gegn sextán í æsispennandi keppni. Frá þessu er sagt á Eyjar.net. Lið FÍV er skipað þeim Svanhildi Eiríksdóttur, Ólafi Frey Ólafssyni og Þórði Erni Stefánssyni. Vestmannaeyingar eru því komnir áfram aðra umferð keppninnar.   Fjórtán sigurlið fyrri umferðar fara áfram í aðra umferð ásamt sigurliðinu frá í fyrra, MH, sem situr hjá í fyrri umferð. Þá fer stigahæsta tapliðið einnig áfram í aðra umferð. Nú eru átta lið örugg áfram í aðra umferð keppninnar en það eru lið Borgarholtsskóla, Kvennaskólans í Reykjavík, Fjölbrautaskóla Suðurlands, Framhaldsskólans í Mosfellsbæ, Fjölbrautaskóla Garðabæjar, Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum, Verzlunarskóla Íslands og Menntaskólans á Akureyri. Sem stendur eru þrjú lið jöfn að stigum sem stigahæsta tapliðið en það eru lið Menntaskóla Borgarfjarðar, lið Menntaskólans á Ísafirði og lið Menntaskólans á Egilsstöðum, öll með 16 stig.   Í síðustu viku tóku 16 nemendur í Framhaldsskólanum þátt í keppninni Oilsim og komst einn hópurinn áfram og keppir í Englandi um aðra helgi. Það var liðið Exxon Valdez sem í eru Elliði Ívarsson, Ólafur Freyr Ólafsson, Valur Marvin Pálsson og Þórður Örn Stefánsson sem halda áleiðis til London. Í haust varð lið skólans í öðru sæti í  Boxinu, keppni á vegum iðnaðarfyrirtækja þar sem MR vann naumlega.  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Íþróttir >>

Þriðji tapleikurinn eftir hlé

ÍBV tók á móti Fylki í kvöld, en ÍBV þurfti á sigrinum að halda til að hellast ekki úr lestinni í efstu sætum deildarinnar. Leikurinn var nokkuð jafn framan af, ÍBV gerðu sig seka um marga tæknifeila þar sem sendingar þeirra voru ónákvæmar. Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var staðan 8-8 en þá fór að skilja aðeins með liðunum og Fylkir gekk á lagið og náði fjöggura marka forskoti 12-16 þegar 26. mínútur voru liðnar af leiknum.Staðan í hálfleik var 14-17 Fylki í vil.   Eyjastelpur mættu ákveðnari til seinni hálfleiks en andleysi hafði einkennt fyrri hálfleik liðsins. Stelpurnar náðu að vinna upp forskot Fylkis hægt og rólega og varð leikurinn jafn og spennandi undir lokin. ÍBV komst í fyrsta skipti yfir í leiknum þegar rúmlega sjö mínútur voru eftir af leiknum. Lokamínúturnar voru spennandi þar sem Fylkir skoraði dýrmætt mark þegar hendin var komin upp hjá dómurunum og náðu tveggja marka forskoti þegar tæpar tvær mínútur voru eftir að leiknum. ÍBV brunaði þá í sókn og minnkaði muninn í eitt mark. Fykir náði að hanga á boltanum síðustu mínútuna en þær áttu skot þegar 20. sekúndur voru eftir sem nýr markvörður ÍBV, Ólöf Kolbrún Ragnarsdóttir varði í stöng og í innkast. Fylkir fékk því boltann og náði að spila út leikinn, lokatölur voru 33-34 Fylki í vil.    Þetta var þriðji leikurinn í deildinni sem ÍBV tapar eftir áramót. Eini sigurleikurinn kom gegn botnliði ÍR, ljóst er að stelpurnar þurfa að bæta sinn leik til að halda sér í topp fjórum í deildinni.    Mörk ÍBV skoruðu þær; Ester Óskarsdóttir 10, Jóna Sigríður Halldórsdóttir 7, Díana Dögg Magnúsdóttir 5, Telma Amado 4, Drífa Þorvaldsdóttir 3, Vera Lopez 3 og Elín Anna Baldursdóttir 1. 

Mannlíf >>

Golf Digest notaðist við myndir af golfvellinum í Eyjum

Golfvöllurinn í Vestmannaeyjum hefur lengi verið talinn einn af allra fallegustu golfvöllum landsins og þótt víðar væri leitað.  Nálægðin við náttúruöflin, hafið, klettana og sú staðreynd að völlurinn er að hluta til í gömlum gíg, er næg ástæða fyrir margan kylfinginn til að vilja skoða völlinn nánar.  Eyjamaðurinn Þorsteinn Hallgrímsson, fyrrum Íslandsmeistari í golfi var staddur á stærstu golfsýningu sem haldin er árlega en þar var golftímaritið þekkta Golf Digest með bás og sitt fólk á staðnum.  Tímaritið notaðist m.a. við mynd af golfvellinum í Eyjum í sinni uppstillingu á sýningunni, sem undirstrikar líklega best sérstöðu golfvallarins í Vestmannaeyjum.     „Stundum er í lagi að vera aðeins ánægður með sitt. Á stærstu golfsýningu sem haldin er árlega og var að ljúka í dag var hið mjög svo þekkta golfblað Golf Digest með sitt starfsfólk að skrifa um allt það nýjasta í golfheiminum. Á básnum þeirra var mynd af einum golfvelli í heiminum og var það stór mynd af golfvellinum heima í eyjum. Þó að við teljum oft á tíðum að vellirnir okkar séu ekki eins og úti í hinum stóra heimi þá greinilega þurfa "útlendingarnir" að benda okkur stundum á hvað stendur okkur nær og við eigum marga flotta golfvelli sem við eigum að njóta,“ skrifaði Þorsteinn á facebook síðu sína og birti myndina sem fylgir fréttinni.  

Stjórnmál >>

Lýsa yfir þungum áhyggjum af málefnum Grímseyjar og annara eyjabyggða

Bæjarstjórn Vestmannaeyja lýsir yfir þungum áhyggjum af málefnum eyjabyggða á Íslandi og hvetur til þess að skynsamlegra leiða verði leitað til að tryggja íbúum Grímseyjar þann mikilvæga rétt sem fólgin er í frelsi til búsetu.  Þetta kemur fram í bókun bæjarstjórnar sem samþykkt var einróma á fundi hennar í dag.  Bókunina má lesa hér að neðan:   Bæjarstjórn Vestmannaeyja ítrekar það álit hennar, sem áður hefur komið fram ma. í ályktunum um frumvörp til laga um stjórn fiskveiða, sem felst í mikilvægi þess að auka atvinnuöryggi íbúa sjávarbyggða.   Bæjarstjórn Vestmannaeyja lýsir enn fremur yfir þungum áhyggjum af málefnum eyjabyggða á Íslandi og þá sérstaklega erfiðri stöðu Grímseyjar. Vegna landfræðilegrar sérstöðu þola eyjabyggðir verr hraðar breytingar en mörg önnur byggðalög. Erfitt tímabil getur í einum vettvangi gert út um eyjabyggð til langframa, jafnvel þótt að öðru jöfnu hefði hinn erfiði tími ekki orðið langvinnur. Breytingar á rekstrarumhverfi sjávarútvegs hafa verið hraðar á seinustu árum og óhófleg gjaldtaka hefur flýtt fyrir samþjöppun aflaheimilda. Fjármálastofnanir hafa orðið ráðandi vægi í rekstri margra útgerðarfyrirtækja og illu heilli virðist það oft vera nánast háð geðþótta þeirra hverjum sé gert kleift að gera út og hverjum ekki. Þar með ráða þessar fjármálastofnanir orðið byggðaþróun á Íslandi í gegnum lánsveð í aflaheimildum. Þau tengsl sem hingað til hafa verið milli útgerða og íbúa sjárvarbyggða eru þar með rofin. Í því fellst háski, bæði fyrir sjávarbyggðir og sjávarútveginn í landinu.   Bæjarstjórn Vestmannaeyja hvetur til þess að skynsamlegra leiða verði leitað til að tryggja íbúum Grímseyjar þann mikilvæga rétt sem fólgin er í frelsi til búsetu. Það frelsi er ekki síður mikilvægt en annað frelsi. Í Grímsey og öðrum sjávarþorpum við Íslandsstrendur býr fólk sem á sama rétt til að velja sér búsetu og íbúar annarra byggðalaga. Staða Grímseyjar er nú slík að Byggðastofnun, Íslandsbanki, alþingi, atvinnuþróunarfélag og fleiri verða að taka höndum saman ásamt íbúum Grímseyjar við að tryggja áframhald byggðar í Grímsey.

Greinar >>

Loðnan skilar miklum tekjum

Góð tíðindi bárust fyrir helgi þegar Hafrannsóknarstofnun ákvað að auka loðnukvóta úr 260 þúsund tonnum í 360 þúsund tonn. En hvað þýðir aukning um 100 þúsund tonn eiginlega í krónum talið, hvað er eiginlega loðna og hvað kemur hún manni við? Að þessu spyrja margir sig þegar fréttir sem þessar heyrast? Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi ákváðu því að koma með stutta greiningu á þessum dularfulla fiski og er eftirfarandi birt á heimasíðu þeirra. Loðnuhrogn þykja herramanns matur en einnig fer mikið í bræðslu. Aukinn loðnukvóti hefur mikil áhrif á efnahag Íslands en Daði Már Kristrófersson prófessor í hagfræði sagði í fréttum RÚV í gær að hagvöxtur muni aukast um 0,2-0,3% og að útflutningsverðmæti um 8 milljarðar. Til að setja þá tölu í samhengi má nefna að 8 milljarðar samsvara rekstrarkostnaði Háskóla Íslands í eitt ár. Þó svo að loðnan sé ekki á hefðbundnum matseðli Íslendinga og fáir hafa gætt sér á henni þá er hún áberandi í veskjum landsmanna. Loðnan leikur nefnilega aðalhlutverk á 10 krónu myntinni og þykir sumum sem það sæti furðu því Íslendingar hafi ekki farið að nýta hana að ráði fyrr en á 7. áratug síðustu aldar. Fulltrúi SFS, hafði samband við teiknarann Þröst Magnússon og spurði hvers vegna loðnan hafi lent á 10 króna peningnum frekar en annar fiskur sem ætti hugsanlega stærri sess í hugum Íslendinga. Þröstur segir að útlit loðnunnar hafi ráðið þar mestu um en loðnan þyki sérlega falleg. „Einnig þótti hentugt að hafa hana á myntinni þar sem hún er lítil og komust fjórar loðnur á sama á peninginn,“ segir Þröstur og fulltrúi SFS, dregur álit hans ekki í efa þar sem Þröstur á að baki einstakan feril sem teiknara og er einn fyrsti Íslendingurinn til að nema grafíska hönnun. En þó svo að loðnan sé smámynt í veskjum landsmanna þá hefur hún gríðarlega þýðingu í gjaldeyrisöflum og hagvexti á Íslandi. Árið 2013 voru útflutningsverðmæti loðnunnar tæplega 34 milljarðar og flutt út til 26 landa. Fræðimenn í Háskólanum á Akureyri hafa viljað gera loðnunni hærra undir höfði og héldu síðastliðið haust ráðstefnu sem bar yfirskriftina „Nýting loðnu við Ísland í hálfa öld.“ Í viðtali sem var tekið við Hörð Sævaldsson aðjúnkt við HA vegna málsins sagði Hörður þekkingarleysi ríkja um þau verðmæti sem veiðar á loðnu hafa fært íslensku samfélagi. „Hún hefur samt orðið svolítið útundan og henni fylgir engin rómantík, þjóðsögur eða söngvar eins og til dæmis síldinni,“ segir Hörður. Markmiðið með ráðstefnunni væri því meðal annars að fara yfir efnahagslegt mikilvægi tegundarinnar. Undanfarin ár hafi tekjur af loðnu til dæmis numið tæplega 10 prósentum af heildarútflutningsverðmætum sjávarútvegsins. Hörður segir að sérstök áhersla verður lögð á tækniþróun í veiðum og vinnslu, bætta meðferð afla og aukna umhverfisvitund. Nýting loðnustofnsins í þá hálfu öld sem hann hefur verið verið nýttur ætti að gefa fiskveiðistjórn Íslendinga góð meðmæli þar sem stofninn er enn sjálfbær þrátt fyrir að búið sé að veiða 32 milljónir tonna á þessu tímabili. Árið 2013 námu tekjurnar tæplega 34 milljörðum króna en til að setja þá tölu í samhengi við aðra mikilvæga atvinnugrein má nefna að árið 2012 urðu 35 prósent af útflutningstekjum Alcoa Fjarðaáls eftir í landinu, eða um 33 milljarðar króna. Sérfræðingar í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri hafa komist að því að enginn hefur ort um loðnuna á meðan síldin hefur lengi verið sveipuð rómantík og um hana hafa verið sungnir fjöldamargir söngvar. Stofnvistfræðingur sem vel þekkir til loðnunnar telur að skýringuna á því að loðnan hefur ekki orðið yrkisefni megi hugsanlega rekja til þess að lengi þótti orðið loðna hafa kynferðislega og fremur grófa skírskotun. Breyttir tískustraumar kynnu að hafa breytt skilningi almennings til loðnunnar.   Mjög fáar afurðir eru framleiddar úr loðnu aðrar en mjöl og lýsi. Þó eru framleiddar, auk heilfrystrar loðnu, nokkrar gerðir kavíars úr loðnuhrognum. En það er sú gerð kavíars sem hentar t.d. fyrir Gyðinga þar sem þeir mega ekki borða afurðir úr fiskum sem ekki eru með hreistur eins og til dæmis grásleppu og styrju. Loðnuhrognin fara að langmestu leyti til Japans þar sem þau kallast masago. Undanfarin ár hafi tekjur af loðnu til dæmis numið tæplega 10 prósentum af heildarútflutningsverðmætum sjávarútvegsins. Hrygning loðnunnar er stórmerkileg þar sem að loðnan leggur allt í hrygninguna og flestir fiskarnir deyja að henni lokinni því má segja að loðnan sé full af kynorku.   Heimild: http://www.alltummat.is/fiskur/fiskitegundir/lodna/   kvotinn.is greindi frá