Ísfélagshúsið illa farið og verður rifið - Vilja halda boganum

Á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs var rætt um áætlanir eigenda Strandvegs 26, Ísfélagshússins að rífa húsið. Eigandi er Ísfélag Vestmannaeyja. Kom fram á fundinum að Vestmannaeyjabær hefur rætt við stjórnendur fyrirtækisins um hvort mögulegt sé að halda hluta af húsinu enda gegni það mikilvægu hlutverki í ásýnd miðbæjarins. Eigendur telja að húsið sé of illa farið til slíkt sé raunhæfur kostur.   Skipulagsfulltrúi fór yfir ákvæði byggingareits í deiliskipulagi, þar sem grunnhugmyndin er að viðhalda að mestu leyti núverandi útlínum byggingarinnar en nýta innsvæðið undir bílastæði. Ráðið taldi brýnt að byggingareiturinn verði nýttur sem allra fyrst og hvetur til þess að leitað verði eftir samstarfi við áhugasama aðila um að fara í sameiginlega þróun fasteignar á reitnum sem verður til þegar húsið víkur. Í því samhengi beri að skoða sérstaklega hvort að hluti af byggingareitnum geti nýst undir íbúðir sem nú er stefnt að því að byggja fyrir fatlaða og ráð er gert fyrir í fjárhagsáætlun fyrir yfirstandandi ár.   Ráðið beindi því til þeirra sem um málið koma til með að fjalla að áhersla verði lögð á að viðhalda þeim kennileitum sem hvað mest eru áberandi á byggingareitnum. Er þá sérstaklega vísað til bogans sem snýr að Strandvegi, auk þess sem leitast verði við að húsið nýtist til að efla enn frekar þann sterka miðbæ sem byggður hefur verið upp á undanförnum árum.    

Júníus Meyvant og Árni Johnsen saman dúett í lagi Simma í Betel

Föstudagskvöld á komandi goslokahelgi, 1. júlí nánar tiltekið verða haldnir útgáfutónleikar með yfirskrifinni „Í skugga meistara yrki ég ljóð“ til að fagna útgáfu plötu sem gefin er út af Bandalagi vestmanneyskra söngva- og tónskálda (BEST). Aðgangur verður að sjálfssögu ókeypis og platan seld á sanngjörnu verði. Í frétt frá aðstandendum segir að á plötunni verði lög eftir frábæra lagahöfunda í Vestmannaeyjum og hafa sum laganna aldrei heyrst áður. Tilurð verkefnisins má rekja til þess að nokkrir tónlistarmenn hér í Vestmannaeyjum fannst framþróun í okkar annar ágætu Eyjatónlist vera litla sem enga, vildu breyta því og hugsanlega stuðla að því að hún ætti sér framtíð hjá komandi kynslóðum. Fjöldi fólks hér í Vestmannaeyjum á ofan í skúffum sínum lög og texta sem án vettvangs fá ekki að heyrast og var það markmiðið að búa þann vettvang til. Gísli Stefánsson og Sæþór Vídó hafa í sameiningu útsett lög sem laga- og textahöfundarnir Hafdís Víglundsdóttir, Sigurður Óskarsson, Snorri Jónsson, Guðlaugur Ólafsson, Ágúst Óskar Gústafsson (læknir), Helgi Tórshamar, Sævar Helgi Geirsson, Helena Pálsdóttir, Kolbrún Harpa Vatnsdal, Gísli Stefánsson, Sæþór Vídó, Sigurmundur Gísli Einarsson, Sigurjón Ingólfsson og Guðjón Weihe hafa samið og útkoman er myndug tíu laga Eyjaplata í kántrí stíl. Söngvarar eru heldur ekki að verri endanum en svo dæmi sé tekið flytja þeir Júníus Meyvant og Árni Johnsen saman dúett í lagi Simma í Betel sem ber nafnið Surtsey. Lagið mun heyrast á öldum ljósvakans á næstu dögum.    

Ósáttur við bæinn - Sólbakkablóm neyðast til að hætta

,,Mikið hefur verið hringt og verið að panta garðaþjónustu hjá mér undanfarið, en eins og margir vita neyddist ég til að hætta rekstri og snúa mér að öðru eins skrítið og það er. Margt af þessu fólki sem er að hringja hef ég þjónustað í 6-10 ár og með mikilli sorg í hjarta langar mig aðeins að útskýra hvers vegna ég varð að hætta. Eins og svo oft eða alltaf kemur Vestmannaeyjabær þar við sögu þegar um garðyrkju er að ræða og mönnum bolað út,'' segir Jónas Þór Sigurbjörnsson, garðyrkjufræðingur og eigandi Sólbakkablóma sem hann hefur rekið í 15 ár í færslu á Facebooksíðu sinni.     Og hann heldur áfram:   ,,Staðan er, að eftir að ég gagnrýndi bæinn fyrir slæleg vinnubrögð við útboð tjaldsvæðanna (val á samstarfsaðila) hefur hann ekki leitað til mín og halda því fram að ég vilji ekki vinna fyrir sig. Því vísa ég alfarið á bug. Ég er búinn að vera betlandi vinnu síðast liðin ár og orðið lítt ágengt. Hef einnig séð um Gaujulund síðasliðin 7 ár í sjálfboðavinnu og bærinn ekkert komið þar nærri. Við árstíðabundinn rekstur þá þarf innkoma að standa undir öllu árinu og að vera einn og vera ekki með neitt fast í hendi heftir mannaráðningar alveg.     Um haustið 2014 sagði ég upp samningi mínum við Vestmannaeyjabæ sem hljóðaði upp á um 2,2 miljónir með vsk. vegna þess að hann var orðinn barns síns tíma. Forsendur voru breyttar þar sem Blómaræktinni yrði hætt þar sem hún stóð ekki undir sér og hefði verið hætt árinu fyrr ef við hefðum vitað að okkur var ekki ætlað að reka tjaldsvæðin. Þarna um vorið 2014 voru komnir garðyrkjumenn að planta trjám og blómum en ekkert talað við mig. Að sjálfsögðu verður maður sár og reiður þegar það er gengið framm hjá manni. Einnig er það sérstakt að bærinn keypti 25% meira af blómum sumarið eftir að við hættum ræktun. Og allt ofan af landi. Þetta kallar maður að styrkja sína heimabyggð eða hvað! Fyrir þá garðaþjónustu sem ég hef innt af hendi hef ég fengið mikið hrós fyrir þjónustuna hjá bæjarbúum.     Ég hef rætt við kollega mína upp á landi og eru þeir gapandi yfir því hvað ég hélt þessum rekstri lengi úti með ekki stærri samning við bæinn. Ég hef alltaf viljað vinna fyrir bæinn og það í miklu meira mæli eins og þeir vita allir en ekki haft erindi sem erfiði í gegnum árin. Ég plantaði eitt árið laukum hér um allann bæ á og tók ekki krónu fyrir. Keypti upp lagerinn hjá Blómaval og skreytti bæinn okkar, óbeðinn og kauplaus. Þess vegna er það sárt að því sé haldið fram að ég vilji ekki vinna fyrir bæinn. Og stunginn í bakið sama árið. 2015 fékk ég ekkert að gera hjá Vestmannaeyjabæ. Bæjaryfirvöld fengu alla þjónustu frá vinum sínum í Reykjavík. Ég sendi bænum tölvupóst í byrjun des 2015 og hljóðaði hann svona:     Sæl verið þið Þar sem verið er að skipuleggja fyrir næsta sumar langar mig að forvitnast um hvort Sólbakkablóm sé einhvað inn í myndinni hjá Vestmannaeyjabæ næsta sumar?   Með von um svar fljótlega. Kv Jónas Þór Garðyrkjufræðingur   Svar kom um hæl og hljóðar svona:     Sæll Jónas   Ef Sólbakkablóm hefur áhuga á að veita Vestmannaeyjabæ þjónustu sína þá er mjög gott að fá að vita af því. Síðustu skilaboð sem stjórnendur Vestmannaeyjabæjar fengu frá Sólbakkablómum voru þau að ekki væri hægt að þjónusta Vestmannaeyjabæ á neinn hátt. Því var farin sú leið að leita annað eftir þjónustu. Vestmannaeyjabær hefur alla tíð haft að markmiði að eiga góð samskipti við þjónustuaðila hér innanbæjar ef kostur er.   Viðhorf forsvarmanna Sólbakkablóma til stjórnenda Vestmannaeyjabæjar hefur því miður ekki verið gott og forsvarsmaður Sólbakkablóma hefur ekki legið á skoðunum sínum á því fólki sem stjórnar sveitarfélaginu. Fyrir því höfum við margar tilvitnanair.   Okkur stjórnendum Vestmannaeyjabæjar finnst ekki sanngjarnt þegar talað er á bak við okkur, sérstaklega þegar ekki er verið að fara með rétt mál. Má þar nefna útboðið á tjaldsvæðunum þar sem Sólbakkablóm skilaði ekki einu sinni inn tilboði. Þegar farið var að ræða saman varðandi áframhaldandi rekstur þá varð ljóst að hugmyndir myndu ekki ná saman varðandi reksturinn og því varð að leita annarra leiða. Slíkt er eðlilegt í viðskiptum og gerist daglega án þess að hlaupið sé með mis sannar „sögur“ á kaffistofur í bænum. Þeir fundir sem við höfum átt með þér varðandi viðskipti Vestmannaeyjabæjar og Sólbakkablóma hafa yfir leitt endað á þeim nótum að allir eru tiltölulega sáttir en einhvern veginn virðist það ekki skila sér til þín þegar upp er staðið.   Okkur finnst ekki gaman að vera kölluð fífl og hálvitar, meira að segja beint við náin skyldmenni okkar beggja.   Þegar Sólbakkablóm sögðu upp samningi við Vestmannaeyjabæ með þeim skilaboðum að ekki yrði um frekari viðskipti að ræða var eðlilega farið að leita annarra leiða. Nú er það svo komið, að búið er að gera ákveðnar skuldbindingar en sjálfsagt að skoða hvað Sólbakkablóm geta unnið fyrir sveitarfélagið. Því óskar Vestmannaeyjabær eftir því að fá upplýsingar um hvaða þjónusta það er sem Sólbakkablóm telur hugsanlegt að veita sveitarfélaginu og hvað kostar hún.   Kv. Ólafur Þór Snorrason Rut Haraldsdóttir     Þetta er svo uppsögnin sem er vitnað svo mikið í að ég vilji aldrei vinna fyrir bæinn:   Sólbakkablóm segir hér með upp samningi við Vestmannaeyjabæ frá og með 1 september 2014. Og gildir uppsögnin um samninginn í heild sinni. Sólbakkablóm þakkar samstarfið síðastliðin ár.   kv Jónas.     Ég er með tveggja ára nám og fullur metnaðar og áhuga að þjónusta fólk og vinna við það sem ég hef áhuga á og gera bæinn okkar fallegri. En því miður hefur ráðamönnum hér í bæ tekist að drepa það niður eins og svo oft áður. Núna eru komnir garðyrkjumenn í bæinn otil að klippa og hlaða veggi, ég hefði nú alveg verið til í að vera með í því en bæjaryfirvöld leita ekki til mín.   Ef að ráðamenn Vestmannaeyja halda að þeir séu hafnir yfir gagnrýni ættu þeir að hugsa sinn gang. Sannarlega gagnrýndi ég þessi slæmu vinnubrögð og geri enn. Ég hef alltaf komið hreint (kannski of hreint) fram við bæinn en þegar ég er stunginn í bakið læt ég í mér heyra. Ég hef sönnun þess í bréfinu hér að ofan að okkur var ekki ætluð tjaldsvæðin:   “Þegar farið var að ræða saman varðandi áframhaldandi rekstur þá varð ljóst að hugmyndir myndu ekki ná saman varðandi reksturinn og því varð að leita annarra leiða.“ Það var svo aldrei fundur um áframhaldandi rekstur tjaldsvæðanna. Ef bæjaryfirvöld vilja koma sínu fólki að er lágmarkskrafa að segja það hreint út og koma fram við fólk af fagmennsku.   Þegar ég hugsa aftur til þess tíma þegar ég leitaði til bæjarins fyrir um 8 árum með drög að samningi um klippingu, slátt, blóm ofl. var það von að farsælu samstarfi. Upphafi og eflingu á fegrun bæjarins en ekkert gerðist og þess vegna hef ég alla tíð þurft að vera með einhvern hliðarrekstur, m.a. Tjaldsvæðin. Í fyrra reyndi ég að vinna bara fyrir einstaklinga en það var ekki að ganga. Þess vegna kannaði ég hug bæjarins og svarið var skýrt, þú gagnrýnir ekki bæinn. Hef ég þess vegna tekið þá ákvörðun að hætta rekstri og snúa mér að öðru í bili að minnsta kosti. Ég geymi tæki og tól fram yfir kosningar og sé hvort næstu ráðamenn verði með einhvern metnað í umhverfismálum. Vil ég taka það fram að ég hef ekkert út á þessa fagmenn að setja sem eru að hlaða veggina niður við Bónus var meðal annars með sumum þeirra í Garðyrkjuskólanum.     Kveðja til ykkar allra Jónas Þór Sigurbjörnsson Garðyrkjufræðingur.    

Breyting á reglugerð um öryggi farþegaskipa til umsagnar

Innanríkisráðuneytið hefur birt til umsagnar drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um öryggi farþegaskipa í innanlandssiglingum. Unnt var að senda ráðuneytinu umsagnir þangað til í gær en þau eru samin að tillögu Vegagerðarinnar. Þau fela í sér breytingu á skilgreiningu siglingaleiðarinnar milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar á tímabilinu 1. maí til 30. september ár hvert. Samkvæmt gildandi reglum eru það einungis skip í flokki B sem mega sigla milli lands og Eyja. Vegagerðin leggur til að því verði breytt þannig að skip í flokki C megi sigla umrædda leið á tímabilinu 1. maí til 30. september ár hvert. Verði reglugerðin samþykkt mega minni skip en Herjólfur sigla með farþega í Landeyjahöfn og til Þorlákshafnar yfir sumartímann. Ákvörðun um skilgreiningu siglingaleiða miðast við ölduhæð og fjarlægð frá strönd og er siglingaleiðin milli lands og Eyja innan þeirra marka sem gilda um flokk C.   Flokkur C eru farþegaskip í innanlandssiglingum á hafsvæðum þar sem líkur á hærri kenniöldu en 2,5 m eru minni en 10% á ársgrundvelli miðað við rekstur allt árið eða þeim hluta ársins sem reksturinn er bundinn við (t.d. yfir sumartíma). Skal fjarlægð að vari aldrei vera meiri en 15 sjómílur og fjarlægð að strandlínu, þar sem skipreika fólk getur lent, aldrei meiri en fimm mílur miðað við meðalflóðhæð.   Fjarlægð milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar er 6,4 mílur og siglingar falla því innan flokks C. Samkvæmt öldukorti fyrir ferjuleiðina Vestmannaeyjar-Landeyjahöfn-Þorlákshöfn eru líkur á hærri kenniöldu en 2,5 m minni en 10% á ársgrundvelli. Leggur því Vegagerðin til að flokkun siglingaleiðarinnar verði breytt fyrir framangreint tímabil.    

Alþingiskosningar 2016 | Elliði undir feld

„Ég hef ekki verið að máta mig í slíka stöðu og lít ekki endilega á það sem skref upp á við að fara frá því að vera bæjarstjóri í Vestmannaeyjum yfir í þingsetu. Mér líkar afar vel í því sem ég er að gera og tek alvarlega því sterka umboði sem mér og félögum mínum á lista Sjálfstæðismanna var veitt í seinustu kosningum,“ sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri þegar hann var spurður hvort hann hefði hug á að sækjast eftir sæti á lista Sjálfstæðismanna komandi Alþingiskosningum. Hann segir verkefnin hér í Eyjum stór, mikilvæg og aðkallandi. „Við stöndum enn á ný frammi fyrir breytingum sem við verðum að laga okkur að ef ekki á illa að fara. Tæknivæðing í sjávarútvegi mun fækka störfum á þeim vettvangi um hundruði á næstu árum. Sveitarfélagið hvorki má né ætlar að skila auðu í þeirri umræðu og þeim verkefnum. Þá erum við að ráðast í miklar framkvæmdir á vettvangi bæði aldraðra og fatlaðra auk þess sem við erum að innleiða gríðarmikla þjónustu aukningu til handa börnum og barnafjölskyldum. Í pípunum er uppbygging á háskólanámi, uppbygging sjávar- og þekkingarklasa, framkvæmdir á vetvangi ferðaþjónustu og margt fleira.“ Elliði vill samt ekki útiloka neitt og bendir á að hann sé ekki ómissandi fyrir Vestmanneyjar þótt Vestmannaeyjar séu ómissandi fyrir hann. „Það veit enginn æfi sína fyrr en öll er og það er ekki í eðli mínu að útloka neitt. Sjálfstæðisflokkurinn mælist ekki sterkur í Suðurkjördæmi og nýlegar mælingar gefa jafnvel til kynna að hann tapi helmingi þingmanna sinna og fái eingöngu tvo í stað þeirra fjögurra sem við eigum núna. Það er staða sem ég hugsa til með ónotum,“ segir Elliði og bendir á kjördæmaþingið um helgina. „Þar komum við Sjálfstæðismenn saman og ráðum ráðum okkar. Eftir það fara línur að skýrast og ég efast ekki um að listi okkar verður sterkur hvaða leið sem við svo sem förum við að koma honum saman og hvaða einstaklingar veljast tímabundið til þeirra stóru starfa sem framboði fylgir.“    

Frátafir eru alltaf vondar

Fátt hefur meiri áhrif í Vestmannaeyjum en truflun á áætlun Herjólfs. Siglingar skipsins eru enda slagæð samfélagsins og mikilvægið því algert. Í dag er sú staða uppi að bilun í skipinu veldur frátöfum og þar með truflunum fyrir fjölmarga.     Hér fyrir neðan fara svör Vegagerðarinnar við spurningum Vestmannaeyjabæjar um það hvað veldur og hvernig brugðist verður við:   1. Í hverju er bilun fólgin? Bilun var í akkeri í rafal framleiðir afl á vél 1. Bilunin veldur því m.a. að ekki er hægt að nota hliðarskrúfur með því afli sem þarf amk ef eitthvað er að vindi sérstaklega í LAN vegna snúnings.     2. Hvenær uppgötvaðist að ráðast þyrfti í viðgerðir? Bilunnarinnar varð vart í fyrradag, þriðjudag. Kallað var á menn úr Eyjum um borð strax en ekki fannst hvað olli og því kom sérfræðingur frá Rvk. um borð í gær og bilanagreindi sbr. hér að ofan. Viðgerðin þolir ekki bið, sjá nánar neðar.     3. Var kannað hvort möguleiki væri að vinna að viðgerð utan áætlunar? Viðgerðin þolir ekki bið þar sem hún hefur áhrif á afl á hliðarskrúfum. Engin dagur góður í þetta þegar sigldar eru 5-6 ferðir á dag og nóttin ekki nægjanlegur tími en verður að sjálfsögðu notuð. Á morgun er föstudagur og svo helgina og því var það metið svo að minnsta röskun væri að fella niður tvær síðustu ferðir í dag fimmtudag og auðvitað vinna í nótt en sigla fulla áætlun á morgun. Menn eru þegar komnir af stað í þessa vinnu en eftir ferð nr. 3 í dag þarf að rífa „ofan af“ vélinni og ekki hægt að sigla þá. Möguleiki hefði verið að bíða fram á sjómannadag þar sem sigld er takmörkuð áætlun en það hefði mögulega/líklega kallað á frátafir vegna vinds á tímabilinu sem hefði þá haft enn verri afleiðingar.     Það er alltaf bagalegt þegar svona kemur upp. Í gegnum tíðina hefur skipinu verið vel sinnt af hæfri áhöfn og bilanir því ekki algengar. Við verðum samt að vera meðvituð um að samgöngum við Vestmannaeyjar er núna haldið uppi af einni elstu farþegaferju í norður Evrópu og auðvitað aukast líkurnar á bilunum eftir því sem ferjan verður eldri. Herjóflur er 24 ára gamalt skip.      

Bilun í rafal í akkeri sem framleiðir afl á vél eitt

Vegna bilunar um borð í Herjólfi þarf því miður að fella niður tvær síðustu ferðir Herjólfs í dag, fimmtudag á meðan unnið verður að viðgerð. Gunnlaugur Grettisson rekstrarstjóri Herjólf sagði bilun hafa orðið í akkeri í rafal sem framleiðir afl á vél eitt. ,,Bilunin veldur því m.a. að ekki er hægt að nota hliðarskrúfur með því afli sem þarf amk ef eitthvað er að vindi sérstaklega í Landeyjahöfn vegna snúnings.Bilunarinnar varð vart í fyrradag, þriðjudag. Kallað var á menn úr Eyjum um borð strax en ekki fannst hvað olli og því kom sérfræðingur frá Reykjavík um borð í gær og bilanagreindi. Viðgerðin þolir ekki bið Viðgerðin þolir ekki bið þar sem hún hefur áhrif á afl á hliðarskrúfum. Engin dagur góður í þetta þegar sigldar eru 5-6 ferðir á dag og nóttin ekki nægjanlegur tími en verður að sjálfsögðu notuð. Á morgun er föstudagur og svo helgina og því var það metið svo að minnsta röskun væri að fella niður tvær síðustu ferðir í dag fimmtudag og auðvitað vinna í nótt en sigla fulla áætlun á morgun. Menn eru þegar komnir af stað í þessa vinnu en eftir ferð þrjú í dag þarf að rífa "ofan af" vélinni og ekki hægt að sigla þá. Möguleiki hefði verið að bíða fram á Sjómannadag þar sem sigld er takmörkuð áætlun en það hefði mögulega/líklega kallað á frátafir vegna vinds á tímabilinu sem hefði þá haft enn verri afleiðingar. Þetta er mjög erfið staða sem við erum í. Markmiðið okkar var, þegar ljóst varð að fella yrði niður einhverjar ferðir að röskun yrði sem allra allra minnst.  Ég veit ekki alveg hvað hefði verið hægt að gera annað amk. höfum við hjá Eimskip ekki önnur ráð en að gera þetta eins og lagt hefur verið upp með og reyna eins og mögulegt er að lágmarka röskun á áætlun með hagsmuni farþega að leiðarljósi. Það er alltaf bagalegt þegar svona kemur upp en við erum með 24 ára gamalt skip, sem þó hefur fengið 1. flokks viðhald í höndunum. Svona getur komið fyrir en er afar sjaldgæft eins og reynslan sýnir. En til viðbótar rétt að minna á að ný skip bila líka þannig að svona rekstur er alltaf berskjaldaður fyrir svona atvikum en menn leggja mikið á sig til að fyrirbyggja bilanir og annað sem getur komið upp. Það er alltaf erfitt fyrir hvern þann sem á bókað til eða frá Eyjum eða hvert sem er og röskun verður á þeirra áætlun. Við skiljum það mæta vel og hörmum en ráðum ekki við svona aðstæður, því miður. Við gerum ráð fyrir því að sigla skv. áætlun á morgun.  

Elliði útilokar ekki að bjóða sig fram til Alþingis

Hreyfing komin á pólitíkina fyrir alþingiskosningar

Það er aðeins komin hreyfing á pólitíkina vegna alþingiskosninganna í haust. Aðalfundur Kjördæmisráðs Sjálfstæðisfélaganna í Suðurkjördæmi er nk. sunnudag og þar á að ákveða hvaða leið verður valin til að velja fólk á framboðslista flokksins í kosningunum. Um þrjá kosti er að velja, uppstillingarnefnd, tvöfalt kjördæmaráð eða prófkjör. „Ég geri ráð fyrir að þetta verði klárað á aðalfundinum,“ sagði Gunnlaugur Grettisson, formaður Fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Vestmannaeyjum um málið. „Eins og áður er eðlilega leiðin að viðhafa prófkjör, aðrar leiðir eru frávik frá þeirri leið. Meðal Sjálfstæðismanna í Eyjum eru ugglaust ýmsar skoðanir og verkefni fundarins að komast að niðurstöðu.“ Grímur Gíslason, formaður Kjördæmaráðs flokksins í Suðurkjördæmi tók undir með Gretti og sagði að samkvæmt skipulagsreglum sé prófkjör meginstefið ef annað er ekki ákveðið. „Einnig er hægt að fara í uppstillingu eða röðun ef að tveir þriðju hlutar kjördæmisfundar ákveða slíkt,“ sagði Grímur. „Mér heyrist að enginn sé að pæla í uppstillingu en það er nokkur áhugi fyrir svokallaðri röðun, sem er þá framkvæmd af kjördæmisráði eða tvöföldu kjördæmisráði. Seturétt á slíkri samkomu eiga um 600 fulltrúar og þá býður fólk sig fram í 1. sæti og er kosið um það. Síðan er boðið í 2. sætið og kosið svo koll af kolli niður eftir listanum. Ég held að valið standi milli prófkjörs og röðunar og veit hreinlega ekki hvor leiðin verður farin. Um það eru afar skiptar skoðanir en það skýrist endanlega á sunnudaginn,“ sagði Grímur. Í dag á Sjálfstæðisflokkurinn fjóra þingmenn í Suðurkjördæmi, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Ásmundur Friðriksson, Unnur Brá Konráðsdóttir og Vilhjálmur Árnason.          

Frum­varp um útboð á nýrri Vest­manna­eyja­ferju

Mbl.is greindi frá því í dag að frum­varp um heim­ild til útboðs vegna nýrr­ar Vest­manna­eyja­ferju sem á að leysa Herjólf að hólmi hef­ur verið lagt fram á Alþingi. Verði það óbreytt að lög­um má gera ráð fyr­ir að kostnaður rík­is­ins vegna kaupa á nýrri ferju nemi allt að 4,8 millj­örðum króna. Nýj­an ferj­an á að vera hag­kvæm­ari í rekstri og með hærra þjón­ustu­stig. Með frum­varpi fjár­málaráðherra er Vega­gerðinni veitt heim­ild til að láta fara fram útboð þar sem valið stend­ur á milli þess að gerður verði þjón­ustu­samn­ing­ur um smíði og rekst­ur skips til allt að tólf ára eða að samið verði um smíði skips fyr­ir allt að 4,8 millj­arða á verðlagi í árs­lok 2015. Vega­gerðin má ganga að hag­kvæm­asta til­boði í hvorn kost­inn sem er enda liggi fyr­ir full­nægj­andi fjár­heim­ild­ir til verks­ins eða tryggt sé að samn­ing­ur sé með skýr­um fyr­ir­vara um það.   Gert er ráð fyr­ir að við lok hins tólf ára frests eign­ist ríkið skipið á hra­kv­irði sem nem­ur um 36% af væntu kaup­verði. Með öðrum orðum er gert ráð fyr­ir að rík­is­sjóður kaupi skipið fyr­ir um 1,4 mia.kr. á verðlagi fjár­laga 2016 en til þess þyrfti þá sér­staka fjár­heim­ild þegar þar að kem­ur. Sú hönn­un sem fyr­ir liggi, m.a. djúprista og skrokklag, miðist við þær aðstæður sem eru í Land­eyja­höfn. Útboðsgögn geri ráð fyr­ir 69 metra langri ferju sem get­ur flutt 540 farþega. Ferj­an verði álíka stór og Herjólf­ur en taki fleiri bif­reiðar í hverri ferð eða 72 í stað tæp­lega 60 bif­reiða. Ferj­an risti hins veg­ar mun grynnra en Herjólf­ur, eða 2,8 metra í stað 4,3 metra. Ferj­an muni geta siglt til Þor­láks­hafn­ar við erfiðar aðstæður á aðeins 5–10 mín­útna lengri tíma en Herjólf­ur. Sam­kvæmt áætl­un­um Vega­gerðar­inn­ar sé gert ráð fyr­ir að ný ferja geti siglt til Land­eyja­hafn­ar í 76–89% til­vika á ári eða 84% sam­kvæmt miðspá. Verði frum­varpið að lög­um er gert ráð fyr­ir að hægt verði að aug­lýsa útboðið í sum­ar­byrj­un og að hægt verði að opna það síðsum­ars eða í haust. Reikna má með 2–3 mánuðum í að meta til­boð og und­ir­búa samn­ings­gerð. Miðað við það má gera ráð fyr­ir að hægt verði að samþykkja ásætt­an­legt til­boð og rita und­ir samn­ing á vetr­ar­mánuðum. Í útboðsgögn­um verður gert ráð fyr­ir að af­hend­ing ferj­unn­ar verði um mitt ár 2018 eða fyrr ef kost­ur er. Á móti út­gjöld­un­um er gert ráð fyr­ir að tekj­ur rík­is­ins af sölu á gamla Herjólfi geti numið um 500–700 m.kr.  

Hermann tók stjórnarmann ÍBV hálstaki eftir leik

Hermann Hreiðarsson, þjálfari Fylkis, var mjög illur eftir leik liðsins gegn ÍBV í Árbænum í dag en Fylkir tapaði leiknum og er enn án stiga eftir fjórar umferðir. Hermann réðst að Hannesi Gústafssyni, stjórnarmanni ÍBV sem var með Eyjamönnum á bekknum leiknum, og tók hann hálstaki þegar leikar æstust hvað mest. „Lýsa þessar myndir þessu ekki ágætlega?“ spurði Hannes blaðamann Vísis þegar hann leitaði eftir útskýringum á myndunum sem Anton Brink, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, náði af átökunum eftir leik. „Hermann tók mig hálstaki. Hann hefur átt það til að gera þetta við marga í gegnum tíðina og hann gerði það aftur núna. Ætli hann hafi ekki bara verið tapsár,“ sagði Hannes. Hannes var ekkert reiður út í Hermann heldur var allur hinn léttasti þegar Vísir náði í hann en þá voru Eyjamenn á heimleið eftir glæsilegan útisigur. „Þetta er hans stíll greinilega og bara fínasti stíll fyrir hann. Þetta atvik lýsir sér bara sjálft. Ég þekki kauða ágætlega þannig þetta kemur mér ekkert á óvart,“ sagði Hannes. „Mér þykir samt jafnvænt um hann og áður. Menn bregðast bara misvel við tapi. Ég vona bara að hann noti orkuna sína frekar í að halda Fylki gangandi. Ég óska honum velfarnaðar í því.“ Aðspurður hvort hann hafi ekki verið hræddur svaraði Hannes: „Nei, ég hræðist Hermann ekki neitt. Þetta lýsir honum bara vel.“     Vísir.is greindi frá

Stjórnmál >>

Árni Páll - Langaði til að takast á við stóru spurningarnar

Það hefur gustað um fleiri en Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fráfarandi forsætisráðherra, síðustu daga. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar stendur í formannsslag og blæs ekki byrlega  hjá honum eða flokknum sem ekki nær vopnum sínum í könnunum þrátt fyrir vandræðagang stjórnarflokkanna. Meðal annars sendir Sighvatur Björgvinsson, fyrrum þingmaður og ráðherra Alþýðuflokksins honum tóninn í Morgunblaðinu í gær. Árni Páll var á ferð í Eyjum í vetur og notaði Ómar Garðarsson, ritstjóri Eyjafrétta tækifærði og tók stórt viðtal við hann sem birtist í Eyjafréttum þann 24. febrúar sl. Hér birtist það í heild sinni.     Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar markaði spor í íslenska pólitík þegar hann steig fram og sagði að flokkurinn hefði gert mistök með því að ganga inn í gamalgróið valdakerfi þegar hann sat í ríkisstjórn allt frá 2007 og þess vegna ekki náð að koma í gegn veigamiklum málum á síðasta kjörtímabili þegar hann sat í ríkisstjórn með Vinstri grænum. Málin sem hann tiltók voru aðildarumsóknin að Evrópusambandinu, Icesave, stjórnarskrármálið og hugmyndir um breytingar á stjórn fiskveiða. Íslenskir stjórnmálamenn gera ekki mistök, það er staðreynd og því er þessi játning enn athyglisverðari. Þetta gerðist daginn eftir að hann heimsótti Vestmannaeyjar og blaðamaður Eyjafrétta settist niður með honum.   Ekki skal því haldið fram að Eyjaheimsóknin og spjallið hafi haft þessi áhrif á Árna Pál sem hefur átt á brattann að sækja sem formaður Samfylkingarinnar. Hélt sætinu á einu atkvæði og fylgið hefur hrapað en það var ekki bugaður maður sem hingað var mættur. Reyndar úfinn og tættur, fúlskeggjaður og hefði ekki sakað að hann liti við hjá rakara. En það geislaði af honum krafturinn og ekki annað að sjá en að hann væri til í hvaða slag sem er. Hver orrustan svo verður kemur í ljós en það er enginn í sjónmáli, hvorki karl né kona innan Samfylkingarinnar sem á roð í hann í þeim ham sem Árni Páll Árnason er í. Mótlætið hefur beygt hann en ekki brotið og með þessari framgöngu er hann kominn í hóp öflugra stjórnmálamanna. Ólíkt því þegar hann fyrst steig fram á svið stjórnmálanna, snyrtilegur á allan hátt og vel klæddur.   Það var seinni part dags sem blaðamaður ræddi við Árna Pál en hann kom um morguninn til Eyja ásamt Evu Bjarnadóttur, aðstoðarkonu sinni. „Við byrjuðum daginn á því að mæta í morgunkaffi hjá bæjarstjóranum og hittum starfsfólk Ráðhússins. Líka var litið við í Skipalyftunni og á Hraunbúðum. „Svo komum við í Kviku þar sem starf eldri borgara blómstrar. Já, við erum búin að fara vítt yfir og ræða við fólk og heyra hvað á því brennur,“ segir Árni Páll sem var sérstaklega hrifinn af því sem hann sá í Framhaldsskólanum.   Sköpunarkraftur í Framhaldsskólanum   Þar hittu þau Helgu Kristínu skólameistara og skoðuðu Fab lab smiðjuna sem Frosti Gíslason stýrir. „Var fróðlegt að tala við hann og krakkana og sjá hvað sköpunarkraftur skipar stóran sess í námi í dag miðað við það þegar maður var sjálfur í menntaskóla. Þá fannst manni námið ganga út á að berja úr manni alla skapandi hugsun. Nú er verið að hvetja krakkana til dáða á þessu sviði. Í lagadeildinni í Háskóla Íslands þurfti maður fyrst og fremst að muna það sem aðrir höfðu skrifað, en það var ekkert of vel séð ef maður var að draga eigin ályktanir. Það er því gaman að sjá hvað sköpunarkrafturinn fær mikið pláss í skólanum.“ Árni Páll sagði líka gaman að sjá hvernig verið er að flytja þekkinguna til venjulegs fólks. Í staðinn fyrir að forritun sé á færi fárra geti hún verið á færi almennings.     „Það verða sífellt fleiri sem geta breytt aðstæðum sínum með tækninni og frábært ef hugbúnaðurinn sem drífur áfram græjurnar sé okkur ekki alveg lokuð bók. Þetta er mjög mikilvægt og ég tek eftir því með nýja kynslóð að hún hugsar allt öðru vísi. Sjálfur verð ég fimmtugur í ár og maður sér þetta vera að gerast. Yngra fólk hugsar meira í myndum og almennri sýn en ekki eins línulega og fólk á mínum aldri gerir. Það skiptir því mjög miklu máli að það fái kennslu sem talar við þann veruleika. Atvinnulífið á líka mikið undir því að fólkið sem kemur út úr skól unum ráði við að taka þátt í tækniþróun og uppbyggingu í fyrirtækjunum. Hér í Vestmannaeyjum eru fyrirtæki sem nýta tæknina og vélvæðing og tækniframfarir hafa gert sjávarútveginn óþekkjanlegan miðað við það sem var fyrir nokkrum áratugum. Atvinnugreinarnar þurfa að geta tekið nýjungum opnum örmum og skólakerfið verður að skila frá sér fólki sem skilur þessa ferla og getur tekið þátt í þeim.“   Faðir 17 ára   Hver er Árni Páll Árnason og hverra manna er hann? Á Alþingis vefnum segir að hann sé fæddur í Reykjavík 23. maí 1966. Foreldrar eru Árni Pálsson, fv. sóknarprestur og Rósa Björk Þorbjarnardóttir fv. kennari og endurmenntunarstjóri KHÍ. Kona hans er Sigrún Eyjólfsdóttir, flugfreyja og saman eiga þau þrjú börn og barnabörnin eru orðin tvö. „Afadrengirnir Birkir og Freyr Tumi eru í sérstöku uppáhaldi. Ég varð ungur pabbi, eignaðist móður þeirra 17 ára gamall. Sjálfsmynd mín sem fullorðins manns er því tengd hlutverki pabbans. Þess vegna varð það sérstök upplifun að verða afi og frábært að upplifa muninn á tengslum við manns eigin börn og barnabörn. Ég var alltaf upptekinn af því að mín eigin börn þyrftu að standa sig og væru til sóma. Afadrengirnir njóta allt annars konar athygli og stöðugrar aðdáunar. Annars eru áhugamálin helst tengd útiveru. Ég hef gaman af því að hlaupa langt og hreyfa mig svona almennt séð. Við Sigrún höfum svo saman haldið hesta árum saman og það er frábær skemmtun og endurnæring sem felst í útreiðum.“     Hefur víða komið við   Árni Páll er stúdent frá MH 1985, lauk lögfræðiprófi frá HÍ árið 1991. Nam Evrópurétt í Belgíu 1991 til 1992. Hann kom víða við að loknum námi, var stundakennari við framhaldsskóla, ráðgjafi utanríkisráðherra í Evrópumálum og var svo embættismaður í utanríkisþjónustunni hér og í Brussel. Hann var lögmaður með eigin rekstur frá 1998 og fram til þess að hann var kosinn á þing og stundakennari í Evrópurétti við Háskólann í Reykjavík. Hann varð alþingismaður frá 2007, félags- og tryggingamálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra 2009 til 2011. Í pólitíkinni á hann rætur í Alþýðubandalaginu þaðan sem leiðin lá í Samfylkinguna. „Ég er búinn að vera átta ár á þingi og stundum finnst mér það heil eilífð en stundum óskaplega stutt. Í gær voru þrjú ár síðan ég tók við sem formaður Samfylkingarinnar þannig að tíminn líður ansi hratt.“   Séu metnir að verðleikum   Af hverju pólitík en ekki í einhverju þægilegu starfi þar sem áreitið er minna? „Ég var í þægilegum djobbum. Þegar ég hætti í utanríkisráðuneytinu var sagt að ég væri sá eini sem hefði hætt þar sjálfviljugur. Það var hlegið að mér þegar ég fór þarna á móti straumnum,“ segir Árni Páll brosandi.“ „Mig langaði að til að takast á við stóru spurningarnar. Hvernig tryggjum við jöfn tækifæri? Hvernig þarf þá menntakerfið að vera og hvernig á það að virka með öðru? Hvernig tryggjum við félagslegt öryggi og frelsi frá „kvíðanum fyrir komandi degi“ eins og Haraldur Guðmundsson lýsti einu sinni afkomuóttanum í ræðu. Hvernig tryggjum við að allir njóti tækifæra og séu metnir að verðleikum? Mér hefur alltaf fundist skrýtið að samfélagið sé tilbúið að borga fólki bætur fyrir að vinna ekki en er ekki til í að búa til pláss fyrir fólk þannig að það fái að taka þátt í því sem er að gerast. Sífellt færri störf eru í boði fyrir fólk með skerta starfsgetu eða er komið á aldur. Getum við ekki öll grætt á því að búa til betra og fjölbreyttara samfélag? Við gætum búið til fleiri störf og tækifæri fyrir þá sem hafa minni starfsgetu. Þetta eru grundvallarspurningar sem mig langar að takast á við,“ segir Árni Páll sem fékk tækifæri til að takast á við stóru vandamálin sem félagsmálaráðherra í hruninu.     Erfiður en gefandi tími   „Það var erfiður en um leið gefandi tími. Manni leið illa og var með kökk í hálsinum á hverju kvöldi þegar atvinnuleysið var að vaxa og maður sá að það varð að skera niður. Það gat enginn mannlegur máttur komið í veg fyrir það. Það voru líka tækifæri í því en hvernig átti að grípa þau þegar beinast lá við að skerða alla? Við fórum þá leið að hlífa þeim sem voru á lægstu bótum, búa til tækifæri fyrir ungt atvinnulaust fólk og tókst m.a.s. að draga úr atvinnuleysi hjá ungu fólki í miðju hruninu. Skapa ný tækifæri fyrir fólk sem hafði ekki verið að finna sig á vinnumarkaði árið á undan. Jafnvel verið lengi atvinnulaust. Það tókst að koma því til virkni og vinnu. Það er gefandi og gerir mann glaðan og kátan jafnvel þó að verkefnin séu erfið. Sem er kannski svarið við því af hverju maður er í pólitík en ekki einhverri notalegri innivinnu.“     Lít sáttur til baka   Það gustar um þig sem formann og það verður að segjast eins og er að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, þar sem þú varst úti og inni, fór í gegnum svínslega erfiðan tíma. Þegar þú lítur til baka yfir þessi átta ár í stjórnmálum, ertu sáttur? „Já,“ segir Árni Páll hugsandi og heldur áfram. „Ég hef nálgast öll mín verk í stjórnmálum þannig að ég geti litið sáttur til baka. Ég hafi gert mitt besta. Ég hef aldrei hugsað um endurkjör. Aldrei. Alltaf verið tilbúinn að tapa. Ef fólk sættir sig ekki við það sem ég er að gera er það mér að meinalausu að snúa mér að öðru. Ég held að ef menn hugsa bara um það sem er vinsælt sé það ekki vænlegt til árangurs. Þá hljóti þeir alltaf að gera vitlausa hluti. Þetta er sérstaklega mikilvægt á örlagatímum eins og þessi síðustu ára hafa verið. Vegna þess að vindurinn breytist svo ört og enginn veit hvaðan hann blæs á morgun. Enginn veit hvað verður vinsælt eða úthrópað á morgun. Við höfum séð svo endalaus dæmi um það að almenningsálitið kemur úr einni átt en svo bara snýst það. Hvar stendurðu þá, ef þú kaust að elta það? Þess vegna skiptir máli að þú takir réttar ákvarðanir og þú sért sáttur við þær. Þegar ég tók við sem félagsmálaráðherra gerði ég ráð fyrir því að ég næði aldrei endurkjöri, það væri óhugsandi. Þú verður bara að sætta þig að nálgast verkefnin þannig. Verkefnið snýst ekki um þig og hefur aldrei gert það, heldur um verkin sem þarf að vinna. Markmið mitt er að geta horft til baka og verið stoltur yfir því að allar ákvarðanir hafi verið teknar eftir bestu samvisku.“     Eiginlega eins vont og orðið gat   Eftir landsfund Samfylkingarinnar á síðasta ári hefur staða Árna Páls verið veik, að halda formannsstólnum með aðeins einu atkvæði og fylgi í lágmarki samkvæmt skoðanakönnunum. Þetta var alveg hörmuleg útkoma, hvarflaði að þér að hætta á þessum tímapunkti? „Já. Auðvitað,“ segir Árni Páll án þess að hika. „Mín fyrstu viðbrögð voru að þetta væri eiginlega eins vont og hægt var að hafa það. Það hefði verið miklu betra fyrir mig persónulega að tapa og aðrir þá þurft að axla ábyrgðina af því að líma flokkinn saman. Ég kannaði hvort hægt væri að fara í allsherjar atkvæðagreiðslu strax, til að fá skýrt umboð. Það fundust ekki leiðir til þess samkvæmt lögum flokksins. Þá hugleiddi ég mjög lengi að hætta en mér fannst tvennt mestu skipta. Annars vegar var að fólk sem ekki hafði kosið mig hvatti mig til að halda áfram og ekki líta á úrslitin sem persónulegt vantraust heldur viðvörun. Hitt sem skipti máli var, að ég taldi að ég hefði skyldur sem ég hafði tekist á hendur og gæti ekki hlaupist frá þeim. Þrátt fyrir að efnt hefði verið til formannskjörs mér að óvörum hafði ég unnið og gat ekki vikist undan því. Mér fannst líka skipta máli að Samfylkingin sé þannig flokkur að ekki sé hægt að hrekja formanninn í burt með undarlegum aðferðum. Formann á að kjósa í allsherjar kosningu sem allir flokksmenn geta tekið þátt í. Nú hefur verið tryggt að tækifæri til þess mun gefast í vor.“     Erum í veseni   Það er ekki hægt að segja að það blási byrlega hjá ykkur í skoðanakönnunum. „Það er rétt en fyrir rétt rúmu ári vorum við í 20% í könnunum og nú erum við komin niður fyrir helming af því fylgi.“ Árni Páll segir að fylgi Samfylkingarinnar hafi minnkað jafnt og þétt síðasta kjörtímabil, en hrunið síðan eftir Icesave dóminn í janúar 2013. Nokkrum dögum seinna var hann kjörinn formaður og fyrsta spurningin sem hann fékk í viðtali var, hvernig hann ætlaði sér að hífa upp fylgið sem þá var í rúmum 12%. Samfylkingin fékk 12,9% í kosningunum 2013. „Okkur tókst að vinna það upp upp í 20% í könnunum og héldum því mánuð eftir mánuð. Við gáfum aðeins eftir þegar Píratar fóru að bæta við sig og súnkuðum svo eftir landsfundinn. Við höfum ekkert reist okkur við síðan. Nú erum við eins og allir aðrir flokkar en Píratar, við náum ekki að reisa okkur við.“ Þið eruð í veseni? „Já, við erum í veseni og það er lítil huggun þó hinir flokkarnir séu það líka. Ég tek undir með Helga Hrafni Gunnarssyni, Pírata þegar hann segir að þetta sé annað og meira en bara stuðningur við þá. Þetta er ákall um breytingar í stjórnmálum og vantraust á grónu kerfi. Við þurfum að taka það til okkar og eina leiðin sem er í boði fyrir Samfylkinguna er að sýna að hún sé bjartsýn og frjálslynd og opin hreyfing. Tilbúin að taka við ólíku fólki og róa á mið sósíaldemókratískrar stefnu. Það eiga að vera okkar skilaboð til þjóðarinnar.“     Tisa, ástæða til að fara varlega   Tisasamningurinn sem nú er í vinnslu var mikið í fréttunum þegar Árni Páll var hér á ferðinni og því lá beinast við að spyrja um afstöðu hans til samningsins sem margir hafa áhyggjur af. „Miðað við upplýsingar sem við höfum fengið frá utanríkisráðuneytinu eru þessar áhyggjur orðum auknar. Ég hef samt áhyggjur af því sem oft flýgur fyrir að alþjóðleg stórfyrirtæki muni geta dregið ríkið fyrir bindandi gerðardóm. Það er varhugavert fyrir lítið ríki eins og Ísland sem byggir alla sína tilveru á alþjóðalögum. Við höfum nýlegt dæmi með Icesave þar sem við komumst undan greiðsluskyldu í því máli vegna þess að við gátum komið því fyrir alþjóðlegan dóm á grundvelli þjóðarréttar. Í hruninu tókum við ákvarðanir sem erlendum stórbönkum voru ekki að skapi en aðrar þjóðir hafa síðar samþykkt og talið réttar og skynsamlegar. Þess vegna er rétt fyrir okkur að spyrja, ef þeir hefðu getað dregið okkur fyrir bindandi gerðardóm. Hvað þá?“ spyr Árni Páll. „Þess vegna er ástæða til að fara varlega.“     Eindreginn stuðningsmaður kvótakerfisins   Ef við snúum okkur að þeim málum sem brenna helst á fólki á landsbyggðinni og okkur Eyjamönnum. Til dæmis sjávarútvegsmálin. Ykkar stefna náði ekki hljómgrunni fyrir síðustu kosningar, t.d. hér í Vestmannaeyjum. Ekkert er fullkomið, ekki einu sinni kvótakerfið en eruð þið ekkert hugsi yfir því að fólk sem lifir og hrærist í þeim veruleika sem sjávarútvegur býr við finnur lítinn hljómgrunn í því sem þið eruð að segja? „Það er mikilvægt að við getum útskýrt sjávarútvegsstefnu okkar fyrir því fólki sem lifir á sjávarútvegi. Það er líka þannig að þegar talað er um sjávarútvegsstefnu Samfylkingarinnar er menn oft ekki með á hreinu hvað þeir eru að tala um. Við tókum þátt í málamiðlunartillögum í síðustu ríkisstjórn sem var ekki okkar stefna, heldur málamiðlun með vinum okkar í Vinstri grænum,“ segir Árni Páll og fullyrðir að stefna Samfylingarinnar sé sú besta fyrir íslenskan sjávarútveg.   „Ég er eindreginn stuðningsmaður kvótakerfisins og það er nauðsynlegt að nýta kosti þess. Það sjáum við í því hvernig íslenskur sjávarútvegur hefur náð að þroskast og dafna. Það sem klikkaði var að koma afgjaldi til þjóðarinnar fyrir aðgang að auðlindinni. Að hluta til náðum við að breyta því í síðustu ríkisstjórn með veiðigjöldunum. Mér finnst að þau eigi að ráðast meira af viðskiptum á markaði en ekki með stjórnvaldsákvörðunum. Þar lentum við í ágreiningi við vini okkar í VG á síðasta kjörtímabili. Við vildum koma á kerfi þar sem markaðurinn réði afgjaldinu. Þegar vel gengur hækki gjaldið þannig að þjóðin raunverulega deildi kjörum með sjávarútveginum. Með því að rukka gjaldið eftir á er verið að virkja vatn sem löngu er runnið til sjávar. Núna er verið taka hlægilega lítið þegar greinin er að fara í gegnum sögulega velgengistíma. Árið 2012 til 2013 var aftur á móti verið að greiða óeðlilega há gjöld þegar greinin var í niðursveiflu.“     Fyrningarleiðin skynsamlegust   Fyrningarleið Samfylkingarinnar fékk ekki háa einkunn hjá útgerðarmönnum fyrir kosningarnar 2013 en Árni Páll er sannfærður um að hún sé hin eina rétta. „Hún er skynsamlegasta leiðin til að eyða ágreiningi um eignarhald á kvótanum. Með því að fyrna hóflegan hluta veiðiheimilda og að samningar eða nýtingarleyfi renni út er ávallt á markaði eitthvert lágmark veiðiheimilda. Þannig skapast verð á aflaheimildum sem ræðst af eftirspurn og framboði.“ Árni Páll tekur undir að það sé nauðsynlegt að skapa stöðugleika og fyrirsjáanleika í sjávarútvegi. Útgerðin viti til langs tíma úr hverju hún hefur að spila og hann telur að enginn ágreiningur sé um það lengur. „Það þarf engu að síður að tryggja að í stjórnarskrá sé ákvæði um þjóðareign. Það er mjög mikilvægt svo við búum ekki til nýtt lénskerfi. Vestmannaeyjar geta staðið frammi fyrir því eins og sveitarfélög vítt og breitt um landið að útgerðarmaðurinn fari með kvótann. Hvar er bæjarfélagið statt þá? Þess vegna viljum við að hluti veiðigjaldsins renni til sjávarbyggðanna þannig að þó að kvótinn fari, njóti fólks áfram afgjalds af auðlindinni og geti tekist á við nýja atvinnuþróun.“     Hluti veiðgjalda til sjávarbyggða   Í umræðunni um veiðgjöld finnst manni að það séu ákveðin öfl í Reykjavík, hvort sem það er rétt eða rangt mat hjá mér, sem vilja fá sem mest úr út sjávarútvegi til að setja í hítina í Reykjavík. „Það er sannarlega ekki stefna Samfylkingarinnar. Við settum fram þessa stefnu að hluti veiðigjaldsins ætti að renna til sjávarbyggða fyrir síðustu kosningar. Hugsunin er sú að sjávarbyggðirnar verði þá betur í stakk búnar til að takast á við áföll ef kvótinn fer í burtu. Sitji ekki uppi með allt eða ekkert. Við lögðum upp með það strax 2012 að mjög stór hluti veiðgjaldanna ættu að fara í uppbyggingu á innviðum samfélagsins og fyrst og fremst á landsbyggðinni. Gangagerð, hringtengingu ljósleiðarans, bætt raforkuöryggi og svo framvegis. Ég er líka þeirrar skoðunar að veiðigjöld eiga ekki að vera almennur tekjustofn í hefðbundinn rekstur hins opinbera heldur verði þau notuð til að styðja við samkeppnishæfni landsins vegna þess að veiðigjöld eru afrakstur af samkeppnishæfri atvinnugrein.“     Atvinnuöryggi í höndum fárra   Hann sagði Vestmannaeyinga búa vel með mörg öflug útgerðarfyrirtæki en samt hafi kvóti verið seldur héðan. „Það hefur verið sárt fyrir bæjarfélagið,“ segir Árni Páll og bendir á sjávarpláss á Austfjörðum sem hafa mátt sjá á eftir kvótanum en líka séu dæmi um hið gagnstæða. „Ísfélagið er til fyrirmyndar í rekstri sínum á Þórshöfn, það sá ég þegar ég fór þangað í heimsókn. Ég hef séð HB Granda á Vopnafirði sem er með glæsilega starfsemi og svo er Síldarvinnslan á Norðfirði auðvitað kjölfestufyrirtæki.“ Árni Páll bendir svo á hina hliðina, þar sem kvóti hefur farið úr bæjarfélaginu.   „Ég heimsótti Djúpavog fyrir nokkrum árum. Þá voru menn mjög ánægðir með Vísi frá Grindavík sem rak þar myndarlega útgerð og fiskvinnslu. Svo fer Vísir og hvar er Djúpavogur staddur þá? Það samrýmist ekki réttlætissjónarmiðum okkar á 21. öldinni að lífsafkoma og atvinnuöryggi heilu byggðarlaganna liggi í höndum eins eða fárra einstaklinga,“ segir Árni Páll og kemur aftur að fyrningarleið Samfylkingarinnar sem átti ekki upp á pallborðið hjá útgerðarmönnum fyrir síðustu kosningar. „Fyrningarleiðin er skynsamleg leið til þess að þetta verði ekki lénskerfi þannig að menn sitji ekki óáreittir að öllum kvótanum endalaust heldur skapist markaður. Nýliðun verði möguleg og byggðir sem missa frá sér kvóta fái hlutdeild í veiðigjöldunum og geti byggt upp aðra atvinnustarfsemi. Jafnvel geti komið að því að aðilar innanbæjar eða annars staðar frá geti keypt kvóta og byrjað að leggja upp á nýjan leik ef menn vilja.“     Óvægin umræða   Umræðan um stjórn fiskveiða og kvóta er hörð og stundum mjög óvægin. Við getum verið sammála um að kvótakerfið sé ekki fullkomið frekar en önnur mannanna verk. Pólitísk átök um sjávarútveg hafa skapað óvissu í greininni og ég þekki útgerðarmenn sem töldu skynsamlegast að hætta. Þar hefur umræðan haft sitt að segja líka. Að mínu mati hefur þetta orðið til þess að þeir stóru hafa stækkað á meðan einstaklingsútgerðum fækkar. Má því ekki segja að þið hafið með brölti ykkar ýtt undir þá stóru á meðan minni útgerðir hverfa af sjónarsviðinu? „Ég held að það sé innbyggt í kvótakerfið að aflaheimildir færast á færri hendur. Þegar ég ræði við evrópska jafnaðarmenn um fiskveiðistjórnarkerfi kemur þessu spurning alltaf upp: Hvernig getur þú mælt með kerfi sem þýðir að íbúar á einum stað geti misst vinnu vegna tilfærslu á kvóta. „Kvótakerfið leiðir óhjákvæmilega til tilfærslu. Hún eykur arðsemi, en leiðir líka til röskunar. Kúnstin er að finna jafnvægið þar á milli.“     Stærri einingar hafa kosti   „Gallinn við kvótakerfið er að það getur leitt til byggðaröskunar og því er hægt að bregðast við með að nota veiðigjöldin til að gera sjávarbyggðir betur í stakk búnar til að takast á við það þegar kvótinn fer eða minnkar,“ segir Árni Páll. „Samþjöppun hefur hins vegar þær jákvæðu afleiðingar að stærri einingar verða til sem hafa þá afl til þess að ráðast í frekari tækniþróun og fjárfestingar. Það skiptir líka máli að í dag viljum við ekki binda fólk í atvinnugrein þar sem unnið er með handafli. Þegar maður kemur inn í fullkomnustu vinnsluhúsin sér maður þrívíðar skurðarvélar sem taka mynd af fiskflaki, reikna út hámarksnýtingu og skera á sekúndubroti. Þetta viljum við,“ segir Árni Páll og tekur dæmi um hið gagnstæða úr landbúnaði. „Maður kemur inn í sláturhús og sér hausaverkun og tækin sem notuð eru við það eru uppþvottabursti og gulir hanskar. Munurinn á þekkingunni, vél- og tæknivæðingunni er hrikalegur. Önnur greinin hefur búið við markaðsaðhald, en hin ekki. Er hægt að hugsa sér grafískari mynd af þessum mikla mun en þessa? Ég vil ekki breyta sjávarútvegi í það umhverfi einangrunar og miðstýringar sem landbúnaðurinn býr við. Ég vil sjá landbúnað þróast meira í átt að þeim sjávarútvegi sem við þekkjum í dag með frjálsum viðskiptum, athafnafrelsi bænda og aðhaldi frá markaði.“     Ekki einu um að kenna   Árni Páll segir neikvæða umræðu um sjávarútveg ekki einhverju einu um að kenna. „Orðræðan í sjávarútveginum hefur verið drifin áfram af Landsambandi íslenskra útgerðarmanna sem rak mjög heiftúðuga óhróðursherferð um Samfylkinguna árum saman. Það er athyglisvert að orðhákarnir þar á bæ fóru þannig með orðspor sitt, að gera þurfti allsherjar hundahreinsun á samtökunum, með nýju nafni og kennitölu. Það urðu útgerðarmenn að gera til þess að einhver tæki mark á þeim. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi eru nú baki brotnu að reyna að vinda ofan af því hvað menn voru búnir að fara mikið offari í þessum málum.“   Árni Páll segir að auðvitað hafi orð fallið í hita leiksins á báða bóga, en það hafi þjónað hagsmunum Sjálfstæðisflokksins sérstaklega að útmála Samfylkinguna sem haturfólk sjávarútvegsins. „Það erum við svo sannarlega ekki. Við viljum sjávarútvegi vel og ég held að þjóðin sé meira að hallast að þessu grundvallarviðhorfi okkar, að þjóðin þurfi að fá eðlilegt afgjald fyrir aðgang að auðlindinni og að nýliðun sé möguleg í greininni. Við viljum ekki skaða sjávarútveginn eða draga úr samkeppnishæfni hans. Langt í frá.“     Eru að klúðra málum   Ef við stöldrum aðeins við þetta því auðlindirnar eru fleiri sem betur fer og ferðamannaiðnaður er að koma mjög sterkur inn. Þeir byggja á annarri auðlind sem er okkar allra. Finnst þér að þar ætti að huga að einhverri gjaldtöku? „Ég held að ríkisstjórnin sem núna situr sé algjörlega að klúðra gjaldtöku fyrir auðlindir. Raforkuskatturinn að renna út á stóriðjuna og nú erum við að upplifa stærstu ferðamannaár Íslandssögunnar og erum að klúðra því að taka gjöld af öllum þessum ferðamönnum. Og þegar menn eru að tala um gjöld af ferðamönnum er alltaf verið að tala um einhverja göngustíga eða aðstöðu við fjölfarna ferðamannastaði. Það dugar ekkert. Gjaldtakan þarf að standa undir vegum, löggæslu og heilbrigðisþjónustu. Við erum 330 þúsund manna þjóð í stóru landi og það er brýnt að taka gjöld af ferðamönnum til að byggja upp vegi og aðra innviði. Fólk er í lífshættu á þjóðvegum landsins. Banaslys hafa orðið í Silfru og á Sólheimajökli og fólk er í lífshættu í Reynisfjöru, eins og nýleg dæmi sanna. Við getum ekki tekið af almennu skattfé peninga til halda úti heilsugæslu, löggæslu og byggja upp vegi fyrir allan þennan fjölda.“   Aðkallandi verkefni   Þörfin er brýn að mati Árna Páls. „Það verður að tvöfalda vegi frá Markarfljóti í Borgarnes á næstu árum. Það þarf að aðskilja akstursstefnu allt í kringum landið með tveir plús einn vegum. Kostnaður heilbrigðisstofnana af þjónustu við ferðafólk sem ekki fæst bætt margfaldast. Og svona mætti lengi telja. Aðferð ríkisstjórnarinnar er að taka af almennu skattfé í að byggja upp fyrir ferðamenn. Þetta fé gæti verið að fara í spítalana okkar, heilbrigðisþjónustuna hér sem allir Eyjamenn hafa áhyggjur af. Gæti verið að fara í að tryggja hérna sólarhringsvakt á sjúkrahúsinu og halda úti skurðþjónustu. Þessa peninga er verið að taka í uppbyggingu á innviðum fyrir ferðamenn sem þeir ættu að greiða fyrir sjálfir.“     Óttast kvótamistök í ferðaiðnaði   Árni Páll segist óttast að með þessu sé verið að búa til ný kvótamistök þar sem ferðamannaiðnaður komist upp með að velta kostnaði sem greinin ætti að standa undir yfir á þjóðina. „Alveg eins og menn klúðruðu gjaldtöku í kvótakerfinu í upphafi er verið að klúðra gjaldtökunni núna. Þetta er sama prinsippið, mér finnst ekki að almenningur eigi að hafa kostnað af því að hér er öflug starfsemi í ferðaþjónustu. Þá hrynur almennur stuðningur við greinina. Við byggjum upp öflugar hafnir fyrir sjávarútveginn, en hann greiðir fyrir not þeirra. Sama á að vera uppi á teningnum í ferðaþjónustunni. Svo þarf að tryggja sveitarfélögum þátttöku í tekjum af ferðamönnum. Öll sveitarfélög, sama hvort það eru Vestmannaeyjar eða Reykjavík hafa mikinn kostnað af uppbyggingu fyrir ferðamenn en eru að fá óverulegar tekjur á móti. Einhver tekjustofn þarf að mæta þeirri aðstöðu og afþreyingarþjónustu sem sveitarfélögin standa undir.“     Heilbrigðismálin   Hafið þið skoðað stöðu heilbrigðismála á landsbyggðinni og hér í Vestmannaeyjum sem hafa landfræðilega sérstöðu? Okkar tilfinning er að allt sogist til Reykjavíkur og á Landspítalann og ekkert megi gera úti á landi. „Ég er mjög stoltur af því að hafa komið sem félagsmálaráðherra að byggingu hjúkrunarheimila vítt og breitt um landið. Þau skipta miklu máli. Mér sýnist að hér vanti viðbyggingu við Hraunbúðir til að mæta þörfinni, m.a. fyrir heilabilaða. Þótt öll herbergin á Hraunbúðum séu einbýli eru mörg þeirra mjög lítil. Hér má gera betur. Mér finnst athugunarefni þegar maður skoðar aðstæður hér af hverju ekki er búið að flytja heilsugæsluna og þjónustu við aldraða yfir til sveitarfélagsins. Hér eru kjöraðstæður vegna landfræðilegrar stöðu til að samþætta alla þessa þjónustu. Og alveg örugglega hægt að bæta og auka hana með því. Því miður hafa málefni aldraðra ekki verið flutt til sveitarfélaga. Það er engin ástæða til þess að gera eins og núverandi heilbrigðisráðherra hefur gert, að neita öllum samningum um að flytja þessa þjónustu til sveitarfélaganna.“     Breyttar aðstæður   Um heilbrigðisþjónustu almennt segir Árni Páll það ekki eingöngu á valdi stjórnmálamanna að sjá til þess að hún sé í lagi vítt og breitt um landið. „Víðast er erfiðara að manna stöður vegna þess að ný kynslóð lækna byggir á aukinni sérhæfingu og við krefjumst öll hæsta öryggisstigs. Þess vegna eru þeir gömlu tímar liðnir þar sem við höfðum héraðslækni sem var þúsundþjalasmiður og gat allt. Skorið menn upp án nokkurrar deyfingar og bjargað mannslífum. Svona menn eru ekki til í dag. Við sættum okkur heldur ekki við aðgerðir upp á von og óvon eins fólk gerði fyrir 70 árum síðan. Þá var engin lífsvon nema að aðgerð væri gerð, en það gat farið illa. Þess vegna er tæknin að þrýsta stærri og stærri hluta aðgerða á stóru sjúkrahúsin. Það getur enginn snúið þeirri þróun við.“ Árni Páll segir að sínu mati yrði að skoða fæðingaþjónustu í Vestmannaeyjum sérstaklega vegna landfræðilegrar sérstöðu. „Á meðan við sitjum hér inni er hundslappadrífa úti og hvasst að austan og óljóst hvort ég komist til Reykjavíkur með flugi í fyrramálið. Blessunarlega er ég ekki vanfær kona en þetta sýnir að þetta er hluti af þeim veruleika sem þið búið við. Óvissan um hvort þið komist á milli.“     Margar spurningar í samgöngumálum   Þá var komið að stóra málinu, samgöngumálum Vestmannaeyja. „Ég hef rætt þetta við alla sem ég hef hitt í dag og skil vel áhyggjur fólks. Fólk sætti sig við lengri siglingu til Þorlákshafnar á meðan annað var ekki í boði. Með tilkomu Landeyjahafnar hafa Eyjar ekki bara færst nær fastalandinu heldur hefur fastalandið færst nær Vestmannaeyjum. Þess vegna gerir fólk hér aðrar kröfur nú og ég skil það vel. Þegar fært er í Landeyjahöfn getur fólk skotist til læknis í Reykjavík og komið til baka samdægurs. Það eru lífsgæði fólgin í því og það er mikilvægt að hægt verði að sigla í Landeyjahöfn allt árið. Í því verður að vinna áfram. Dugar nýtt skip? Þarf að gera breytingar á höfninni? Þarf að byggja frekar við hana? Þarf að flytja Markarfljótið? Ég veit það ekki en mér finnst að við getum ekki hætt fyrr en lausn er fundin.“   Þegar Árni Páll var spurður um yfirreið sína um bæinn sagðist hann, þrátt fyrir gott atvinnuástand, skynja ugg hjá fólki sem m.a. horfi til þess að aðeins hefur fækkað hér síðasta árið. Og ekki sjái fyrir endann á þeirri þróun. „Það eru að koma upp minni árgangar í Framhaldsskólann svo dæmi sé tekið. Þess vegna skiptir miklu máli að þróa atvinnulífið þannig að fólk menntist ekki burt. Finna þekkingunni farveg í þessu kröftuga atvinnulífi og sjá til þess að aðstæður venjulegs vinnandi barnafólks séu með þeim hætti að það sjái sér hag í að eiga framtíð í Vestmannaeyjum. Líka á Íslandi sem er held ég stóra verkefnið sem við stöndum frammi fyrir. Að venjulegt vinnandi fólk beri nóg úr bítum, hafi nægilegan stuðning frá hinu opinbera og njóti sambærilegra kjara og geti eytt tímanum með börnunum sínum eins og fólk á að geta gert og getur gert í öðrum löndum. Svo eru Vestmannaeyjar líka fallegar að vetri til en ég hef hingað til bara komið hingað á sumrin,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.    

Greinar >>

Dugnaðarforkar og freyjur í Eyjum

Á dögunum kom ég í sérlega ánægjulega heimsókn til Vestmannaeyja. Mér hefur alla tíð fundist dugnaður og framtakssemi einkennandi fyrir Eyjamenn og er óhætt að segja að þessi heimsókn hafi sýnt það og sannað. Sú framtakssemi birtist ljóslifandi í heimsókn okkar til Gríms Kokks. Það var ekki annað hægt en að hrífast af þeirri ástríðu sem einkennir allt þeirra starf. Við borðuðum bestu löngu í heimi hjá Sigga á Gott og áttum sérlega skemmtilegt skátaspjall við Frosta. Þegar ég komst að því að þeir væru allir bræður mátti ég til með að spyrja Gísla föður þeirra í einlægni hvert leyndarmálið væri. Þá sagði hann mér af systur þeirra, en hún og hennar sonur stæðu að baki Slippnum og Mat og Drykk, en á báðum veitingastöðum höfum við notið sérlega góðs matar. Já Binni í Gröf má vera stoltur af sínum afkomendum.   Við heimsóttum Vinnslustöðina, en þar standa nú yfir miklar framkvæmdir. Auður tók á móti okkur hjá eldri borgurum á Hraunbúðum. Þar hittum við sérlega hressa Eyjapeyja og meyjar. Áttum m.a. ánægjulegt spjall við Möggu Karls, móður mesta sundkappa þjóðarinnar og við Sillu, en hún og systur hennar á aldrinum 91–95 voru allar búnar að ákveða að kjósa konu og tóku mér opnum örmum. Á rölti um bæinn kíktum við svo í verslanir og var vel tekið. Linda hjá Smart tískuverslun kannaðist í fyrstu ekki við forsetaframbjóðandann en eftir fjörugar umræður gerðist hún stuðningskona og skyrtan sem stóð til að kaupa varð framlag hennar til framboðsins og kann ég henni bestu þakkir fyrir.   Kvenkrafturinn var allsráðandi við lok ferðar þegar kvennalið ÍBV tók á móti kvennaliði Blika þar sem tekist var á um Lengjubikarinn. Bikarinn varð eftir í Eyjum að þessu sinni en bæði liðin sýndu snilldartakta og ég, Blikinn sjálfur, stóð mig að því að taka undir þegar lag Eyjamanna glumdi, svo skemmtilegt er það.   Ég býð mig fram til embættis forseta Íslands til að gera gagn og láta gott af mér leiða og vil vera duglegur fyrirliði heiðarleika, réttlætis, virðingar og jafnréttis. Ég fann fyrir miklum innblæstri þessa góðu daga í Eyjum og þakka Eyjamönnum einstaklega hlýjar og hressandi móttökur.