Fékk 11000 volta straum í gegnum sig

 Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í vikunni sem leið og sinnti hinum ýmsu verkefnu sem upp komu. Skemmtanahald helgarinnar fór ágætlega fram og engin teljandi útköll á öldurhús bæjarins.   Tvö þjófnaðarmál komu til kasta lögreglu í liðinni viku og var í báðum tilvikum um að ræða fjóra 14 ára drengi. Höfðu þeir stolið neftóbaki og áfengi á tveimur stöðum og sátu við drykkju þegar lögreglan hafði afskipti af þeim. Þeir viðurkenndu þjófnaðinn og er mál drengjanna í meðferð hjá barnaverndaryfirvöldum. Eitt mál er varðar brot á lyfjalögum kom inn á borð lögreglu í vikunni en um var að ræða sendingu í pósti sem í voru sterar. Viðurkenndi viðtakandi sendingarinnar að vera eigandi efnisins og telst málið upplýst.   Tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt lögreglu í liðinni viku og var í öðru tilvikinu um minniháttar árekstur að ræða og engin slys á fólki. Í hinu tilvikinu var um að ræða harðan árekstur á gatnamótum Höfðavegar og Ofanleitisvegar og þurfti að flytja bæði ökutækin í burtu með kranabifreið. Engin slys urðu á fólki.   Laust fyrir hádegi þann 2. október sl. var lögreglan kölluð að HS-veitum vegna vinnuslyss en þarna hafði starfsmaður HS-veitna fengið í gegnum sig 11000 volta straum og fór straumurinn í gegnum líkama mannsins frá hægri hendi og út um vinstra hné. Brenndist maðurinn nokkuð við það og var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum til aðhlynningar

Guðmundur Rúnar, Geir Ólafs og Kristján Guðmunds með tónleika í kvöld

 Það verður fjör á Háaloftinu í kvöld á tónleikum Guðmundar Rúnars Lúðvíkssonar, Geirs Ólafssonar og Kristján Jóhannssonar. Allir eiga þeir langan en ólíkan tónlistarferil að baki og verður gaman að sjá og heyra þá leiða saman hesta sína hér í Eyjum í kvöld. Þar með er dagskrá Háaloftsins þetta haustið hafin og ef þessir tónleikar eru vísir að því sem koma skal er ástæða til. Húsið opnar klukkan átta og tónleikarnir hefjast klukkan 21, enda löng dagskrá framundan.    Kristján Jóhannsson, stórtenór þarf ekki að kynna fyrir Eyjamönnum. Hann gerði m.a. garðinn frægan á Scala, Metropolitan og Landakirkju. Geir hefur vaxið sem söngvari með hverju árinu og enginn túlkar betur stórsveitartónlistina þar sem Sinatra var fremstur meðal jafningja. Óskiljanlegt að hafa hann ekki með þegar haldnir voru tónleikar um daginn þar sem þess var minnst að 100 ár eru frá fæðingu meistara Franks Sinatra. En þeirri skaði er okkar lán.    Þá er það Guðmundur Rúnar sem hefur víða hefur komið á ferli sínum sem myndlistarmaður og tónlistarmaður. ,,Við ætlum að vera með tónleika í Eyjum þann annan október, ég og Geir Ólafs með heiðursgestinn Kristján Jóhannsson," sagði Guðmundur Rúnar í spjalli við Eyjafréttir. ,,Við skiptum tónleikunum upp í þrjá parta. Ég mun vera einn á sviðinu í smá stund, spila nokkur vel valinn lög sem ég hef flutt í gegnum tíðina, segja söguna á bak við þau og rifja upp gamlar stundir sem ég átti í Eyjum þegar ég bjó þar. Sum hver urðu einmitt til á þeim tíma." Slor og skítur Margir þekkja Súrmjólk í hádeginu, lag sem Bjartmars sem Guðmundur gerði eftirminnileg skil en hann er líka afkastamikill tónlistarmaður. Hann átti lög í hinni sígildu mynd með Allt á hreinu og hver man til dæmis ekki eftir Slori og skít, einkennislag ÍBV strákanna í fótboltanum. Einnig má nefna Hvíta sokka, Gallabuxur, Vinna og ráðningar og Atvinnulaus. Nú gefst tækifæri til að hressa upp á gömul kynni og heyra söguna á bak við þau. 

Landeyjahöfn - Sigurður Áss og Andrés svara Sævari

Sigurður Áss Grétarsson og Andrés Þ. Sigurðsson, sem sæti eiga í vinnuhópi um hönnun og smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju, hafa sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu sem birtist í Morgunblaðinu í morgun:       „Í Morgunblaðinu í gær birtist viðtal við Sævar M. Birgisson en hann sat fyrir tveimur árum síðan í vinnuhópi um hönnun og smíði Vestmannaeyjaferju. Í viðtalinu lýsir hann því yfir að þetta hafi verið »vitlaus nálgun« og hanna hefði átt öflugt skip til að sigla til Þorlákshafnar. Í skipunarbréfi vinnuhópsins kom skýrt fram að verkefnið var að hanna ferju sem gæti siglt til Landeyjahafnar og því hefði það ekki átt að koma honum á óvart hvert verkefnið var.   Hvað varðar fullyrðingar Sævars um að þetta hefði allt verið niðurneglt þá getum við sem sátum með honum í smíðanefndinni ekki tekið undir það. Sævar lagði til málanna á fyrsta fundi en eftir það tók hann lítinn þátt í starfinu og hafði lítið til málanna að leggja. Engar athugasemdir komu frá honum ef frá er talið innlegg hans á fyrsta fundi. Það hefði verið betra að hann hefði bókað þær athugasemdir sem hann nú kemur fram með þegar hann sat í nefndinni og þáði laun fyrir.   Hönnun nýrrar ferju fer að ljúka og eins og fram hefur komið þurfti að endurbæta hönnun hennar vegna þess að rannsóknir leiddu í ljós að hún uppfyllti ekki kröfur til siglinga í Landeyjahöfn. Nú telja hæfustu skipaverkfræðingar, eftir að hafa endurhannað og endurreiknað, að ferjan geti siglt í Landeyjahöfn. Það yrði stórt skref afturábak að fresta málinu enn og aftur eins og lagt er til í Morgunblaðinu í gær.   Ástæða er til að taka skýrt fram að sú ferja sem nú er verið að leggja lokahönd á getur auðveldlega siglt til Þorlákshafnar með fleiri farþega og mun fleiri bíla. Rannsóknir sýna að nýja ferjan er betra sjóskip en Herjólfur. Erfiðleikar við Landeyjahöfn felast í tvennu, að útreikningar danskra sérfræðinga á sandburði voru vanáætlaðir og ekki hefur enn verið smíðuð ferja sem hentar Landeyjahöfn. Landeyjahöfn verður heilsárshöfn þegar ný, hentug ferja kemur. Að tryggja nægt dýpi fyrir nýrri ferju verður erfitt en viðráðanlegt.“    

Maður sem býr á Hásteinsvegi í Vestmannaeyjum yfirgefur tæplega sína menn fyrir annað lið hér heima.

 Theodór Sigurbjörnsson, hornamaður bikarmeistara ÍBV í Olís-deild karla í handbolta, er, að öðrum ólöstuðum, besti leikmaður deildarinnar í fyrstu umferðum hennar.   Hann hefur farið algjörlega á kostum með Eyjaliðinu og skorað 52 mörk í fyrstu fimm leikjum liðsins eða ríflega tíu mörk í leik. Hann hefur bætt skotnýtingu sína mikið sem skilar sér augljóslega í fleiri mörkum og þá er hann að skora fleiri mörk að meðaltali í leik en áður á sínum ferli.   „Ég æfði alveg gríðarlega vel í sumar og það er að skila sér,“ segir Theodór við Fréttablaðið aðspurður hvers vegna hann getur ekki hætt að skora við upphaf móts.   „Ég er að fá sama skotfjöldann og í fyrra en er núna að bæta nýtinguna og það skilar sér í fleiri mörkum. Skotnýtingin var ekkert sem pirraði mig í fyrra en hún var eitthvað sem ég mátti bæta,“ segir hann.   Tröllatrú á liðinu Eyjamenn komu upp í efstu deild á ný fyrir tveimur árum og hafa verið með læti síðan. Þeir urðu Íslandsmeistarar sem nýliðar í fyrra og bikarmeistarar fyrr á þessu ári.   Liðið styrkti sig vel fyrir tímabilið og var spáð Íslandsmeistaratitlinum. Það virtist vera að trufla ÍBV eitthvað í fyrstu leikjunum, en Eyjamenn töpuðu fyrir Reykjavíkurliðunum Val og Fram í byrjun móts.   „Spáin truflaði mig ekkert persónulega, en ég veit ekki með hina. Við töpuðum fyrsta leiknum bara á klaufaskap en sá síðari voru algjör vonbrigði,“ segir Theodór, en Eyjamenn eru síðan búnir að vinna þrjá leiki í röð.   „Síðan þá hafa tímasetningar á öllum okkar kerfum verið betri og varnarleikurinn alltaf sterkari. Hann skilar auðveldum hraðaupphlaupsmörkum. Ég hef gífurlega trú á þessu liði og við ættum að geta gert góða hluti. Hópurinn er ekki stór og við megum ekki við fleiri skakkaföllum, en liðið er mjög gott.“   Ekki út strax Theodór hefur bætt sinn leik jafnt og þétt undanfarin ár og aukið meðalfjölda marka sinn á hverju ár síðan hann var í 1. deildinni. Hann er búinn að sanna sig sem algjör stjarna í Olís-deildinni en ákvað samt ekki að fara út í atvinnumennsku í vetur.   „Það var alveg áhugi en ég var staðráðinn að vera heima. Mér fannst ég þurfa annað tímabil til að fá stöðugleika í minn leik. Ég tók þessa ákvörðun eiginlega strax eftir síðasta tímabil þannig það var ekkert inn í myndinni að fara út,“ segir Theodór, sem vill taka stærra skref en margir aðrir sem hafa farið út á undanförnum árum þegar hann loks tekur skrefið.   „Ég vil fara í almennilega deild þegar ég fer út og vil geta staðið mig þar. Það er klárlega mitt markmið að komast í atvinnumennskuna,“ segir hann.   Hann segir engin lið hér heima hafa reynt að lokka sig frá Eyjunni. Það hefði líklega verið óþarfa símtal hjá liðunum. Maður sem býr á Hásteinsvegi í Vestmannaeyjum yfirgefur tæplega sína menn fyrir annað lið hér heima.   „Ég er svo mikill Eyjamaður að ég myndi örugglega ekki spila með öðru liði hér heima,“ segir Theodór.       Hér má lesa viðtalið í heild   

Fór af stað með undirskriftasöfnun

Aðstæður hér eru á engan hátt öðruvísi en við höfum séð áður

Það var vel tekið á móti blaðamanni þegar hann kíkti um borð í belgíska dæluskipið Taccola sem lá í Vestmannaeyjahöfn á mánudaginn. Í brúnni sat skipstjórinn, Frans Geutjes með nokkrum úr áhöfninni. Ekki var hægt að dæla við Landeyjahöfn vegna veðurs og sjólags en þeir voru sallarólegir. Sögðu þetta vera eins og þeir reiknuðu með, að veður við Ísland geti tafið fyrir þegar komið er fram í september og október. Á þremur dögum hafa þeir náð að dæla um þriðjungi þess sem magns sem gert er ráð fyrir í þessari atrennu. Einbeita þeir sér að því að útbúa sandgildrur sitt hvoru megin við hafnargarðana sem eiga að taka við sandi sem berst að höfninni með straumum.   Eyjafréttir ræddu við Frans, sem er hollenskur en þýskur að uppruna og Yves Stanus sem er Belgi. Er hann yfirmaður verkefnisins. Þeir hafa komið að verkefnum víða um heim og er Taccola eitt af að minnsta kosti 100 dæluskipum í eigu Belgíska stórfyrirtækisins Jan de Nul sem hefur starfað í öllum heimsálfum nema Suður Afríku og Norður Ameríku.     Taccola er um 95 m langt og 20 m breitt og með mjög öflugan dælubúnað. Lestin er þrískipt og er dælt jafnt í öll hólf til að skipið hlaðist sem jafnast. Í áhöfn eru 22 og er vel búið að mannskapnum. Þegar veður hamlar ekki geta þeir tekið allt að sex vikna tarnir og eru þá staðnar tólf tíma vaktir allan sólarhringinn.   „Þegar ég vissi að við áttum að fara til Íslands, fannst mér það ágætis tækifæri því ég hef aldrei komið hingað áður,“ sagði Frans og það sama á við um Yves. „Það er mjög fallegt hérna og siglingin inn til Eyja er einstök,“ sagði Yves.   Þeir segja mikla vinnu hafa farið í að afla upplýsinga um Landeyjahöfn og aðstæður. Eru þeir með gögn sem ná átta ár aftur í tímann um strauma, veður og ölduhæð á svæðinu. „Auðvitað hefur hvert verkefni sína sérstöðu en aðstæður hér eru á engan hátt öðru vísi en við höfum séð áður. Við vissum hverjum við áttum von á og það ræðst af veðri hvað þetta tekur langan tíma,“ sagði Yves. „Já, það er rétt að það hefur ekkert komið okkur á óvart og veðrið er eins og við gerðum ráð fyrir. Við getum athafnað okkur í tæplega tveggja metra ölduhæð en það ræðst af vindi og öldulengd,“ sagði Frans.   Báðir láta vel af samskiptum við Íslendinga, Vegagerðina sem hefur yfirumsjón með verkinu, starfsmenn Vestmannaeyjahafnar og skipstjórana á Herjólfi. „Við erum að grafa holur eða sandgryfjur sitt hvoru megin við innsiglinguna sem eiga að taka við sandi sem berst að höfninni með straumum. Á þremur dögum sem við höfum haft næði dældum við um það bil einum þriðja af umsömdu magni. Okkur vantar því viku til tíu daga til að klára verkið,“ sagði Yves.   Samningurinn er til þriggja ára og næsta skref er að hreinsa höfnina í mars næstkomandi. „Við komumst inn í höfnina á Taccolu og getum athafnað okkur þar við bestu skilyrði en það verður notað aðeins minna skip og öflugra sem heitir Pinta. Núna munum við klára það sem fyrir okkur er sett. Þetta gengur vel þegar viðrar, það er lítil skipaumferð og þetta er bara áskorun eins og öll verkefni sem við fáum í hendurnar,“ sögðu Mark og Yves að endingu.   Klukkustund að fylla 4 mínútur að losa Taccola getur tekið allt að 4200 rúmmetra af sandi. Tekur klukkutíma að fylla skipið og aðeins um tíu mínútur að losa sig við farminn sem er gert með því að opna lúgur á botninum. Taccola er um 95 m langt og 20 m breitt. Björgun heldur áfram með sín skip því félagið er með samning við Vegagerðina til 29. febrúar á næsta ári. Til samanburðar má geta þess að Herjólfur er 71 m langur og 16 m breiður. Félagið er með samning til ársins 2017 við Vegagerðina. Jan de Nul átti lægsta tilboð í dýpkun Landeyjahafnar fyrir tímabilið 2015 til 2017, upp á tæplega 588 milljónir króna. Er miðað við að dæla 750 þúsund rúmmetrum af sandi á næstu þremur árum. Þrjú tilboð bárust í verkið, öll frá erlendum aðilum. Björgun ehf. sem hefur séð um sanddælingu í höfninni á undanförnum árum skilaði ekki inn tilboði. Þess má geta að Taccola er svipuð að stærð og gríska ferjan sem menn höfðu áhuga á að prófa til siglinga í Landeyjahöfn en mun öflugri. Viðtalið birtist í nýjasta tölublaði Eyjafrétta. 

Nýtt vaktsímanúmer HSU er 1700

Heilbrigðisyfirvöld hafa ákveðið að gera símsvörun fyrir læknavaktþjónustu miðlæga á landsvísu og unnið hefur verið að undirbúningi þess undanfarna mánuði. Verkefnið er í höndum Sjúkratrygginga Íslands sem hafa skrifað undir samninga við Heilbrigðisstofnun Norðurlands um að sjá um símsvörun í vaktsímanúmerið 1700 á dagvinnutíma og Læknavaktina í Kópavogi um símsvörun utan dagvinnutíma.   Á vaktsvæði heilsugæslunnar á Selfossi hefur slík símsvörun verið í höndum hjúkrunarfræðinga á bráðamóttöku en hún mun nú færast yfir í hendur hjúkrunarfræðinga hjá miðlægri símsvörun í gegnum símanúmerið 1700.   Í Vestmannaeyjum hafa allar innhringingar til vaktlæknis farið fram í gegnum neyðarnúmerið 112 en nú tekur 1700 númerið við sem símsvörun fyrir almenna vaktþjónustu. 112 er að sjálfsögðu áfram virkt fyrir bráða- og neyðartilvik.   Á öðrum vaktsvæðum innan HSU kemur 1700 númerið inn fyrir vaktsíma læknis en það eru hjúkrunarfræðingar sem svara þegar hringt er í þetta númer. Þeir veita ráðgjöf, leiðbeina fólki hvert skal leita í heilbrigðiskerfinu eða gefa símann áfram til vaktlæknis þegar tilefni er til. Gömlu vaktnúmerin verða áfram virk til 1. nóvember en frá og með 1. október flytjast þau sjálfkrafa í miðlæga símsvörun hjá 1700 sem verður aðalnúmer fyrir símsvörun fyrir HSU frá þeim tíma.   Fólki er áfram bent á að hafa samband við sína heilsugæslustöð á dagvinnutíma ef það ætlar að panta tíma hjá lækni eða fá lyfjaendurnýjun. Sjá má upplýsingar um starfsemi og opnunartíma heilsugæslustöðva HSU hér á heimasíðunni.   Ef um slys og alvarleg veikindi er að ræða þar sem bráðrar þjónustu er þörf – hringið í 112 !

Guðmundur Rúnar, Geir Ólafs og Kristján á Háaloftinu föstudag

Það verður fjör á Háaloftinu á föstuedaginn, ekki laugardaginn eins og segir í Eyjafréttum í dag,  á tónleikum Guðmundar Rúnars Lúðvíkssonar, Geirs Ólafssonar og Kristjáns Jóhannssonar. Allir eiga þeir langan en ólíkan tónlistarferil að baki og verður gaman að sjá og heyra þá leiða saman hesta sína hér í Eyjum um helgina. Þar með er dagskrá Háaloftsins þetta haustið hafin og ef þessir tónleikar eru vísir að því sem koma skal er ástæða til að hlakka til. Kristján Jóhannsson, stórtenór þarf ekki að kynna fyrir Eyjamönnum.     Hann gerði m.a. garðinn frægan á Scala, Metropolitan og Landakirkju. Geir hefur vaxið sem söngvari með hverju árinu og enginn túlkar betur stórsveitartónlistina þar sem Sinatra var fremstur meðal jafningja. Óskiljanlegt að hafa hann ekki með þegar haldnir voru tónleikar um daginn þar sem þess var minnst að 100 ár eru frá fæðingu meistara Franks Sinatra. En þeirra skaði er okkar lán. Þá er það Guðmundur Rúnar sem víða hefur komið á ferli sínum sem myndlistarmaður og tónlistarmaður. „Við ætlum að vera með tónleika í Eyjum þann þriðja október, ég og Geir Ólafs með heiðursgestinn Kristján Jóhannson,“ sagði Guðmundur Rúnar í spjalli við Eyjafréttir.   „Við skiptum tónleikunum upp í þrjá parta. Ég mun vera einn á sviðinu í smá stund, spila nokkur valin lög sem ég hef flutt í gegnum tíðina, segja söguna á bakvið þau og rifja upp gamlar stundir sem ég átti í Eyjum þegar ég bjó þar. Sum hver urðu einmitt til á þeim tíma.“ Slor og skítur Margir þekkja Súrmjólk í hádeginu, lag Bjartmars sem Guðmundur gerði eftirminnileg skil en hann er líka afkastamikill tónlistarmaður. Hann átti lög í hinni sígildu mynd, með Allt á hreinu og hver man til dæmis ekki eftir Slori og skít, einkennislag ÍBV strákanna í fótboltanum. Einnig má nefna Hvíta sokka, Gallabuxur, barnaplötuna Barnaspil, Vinna og ráðningar og Atvinnulaus. Nú gefst tækifæri til að hressa upp á gömul kynni og heyra söguna á bak við þau. „Nú síðan munum við fara í nokkur glæ ný lög eftir mig sem við erum að taka upp þessar vikurnar. Þar syngur Geir meðal annars nokkur laga minna. Í lokin mun Geir af sinni alkunnu snilld flytja velvalin Frank Sinatra lög ásamt öðrum dægur perlum í gegnum tíðina. Kristján kemur svo inn og tekur perlur eins og O sole mio.     Einnig munu þeir syngja dúett í nýju jólalagi eftir mig.“ Guðmundur lofar góðum tónleikum og segir hljómsveitina ekki af verri endanum en þar sé valin maður í hverju rúmi. „Á bassa er Bjarni Sveinbjörnsson, á gítara og fleira er Vilhjálmur Guðjónsson, á trommur er Birgir Nielsen, á píanó er Ástvaldur Traustason og Geir Ólafs sér um áslátt auk að syngja. Auðvitað er mikil tilhlökkun hjá okkur öllum að koma til Eyja með þessa tónleika og sögustund. Vonandi fáum við góða mætingu því það er ekki á hverjum degi sem Geir eða Kristján koma saman, eða hægt sé að rifja upp gamla daga og stundir,“ sagði Guðmundur Rúnar að lokum.    

SIGVA media í 10 ár - Afmælissýning Hvata í Einarsstofu

Það er vel þess virði að kíkja við í Einarsstofu þar sem Sighvatur Jónsson, fjölmiðlamaður fagnar tvöföldu afmæli með sýniningu á brotum af framleiðslu SIGVA media síðasta áratuginn, má þar nefna sjónvarpsfréttir, heimildamyndir og náttúrulífsmyndefni frá Vestmannaeyjum. Sýningin var opnuð á sunnidaginn  og verður opin alla daga til 7. október, virka daga kl. 10-18 og um helgar kl. 10-17.         Tilefni sýningarinnar er í raun tvöfalt því Sighvatur verður fertugur 1. október næstkomandi. Hann hóf störf í fjölmiðlum fyrir tæpum tveimur áratugum. Frá árinu 1996 hefur Sighvatur unnið við útvarp, sjónvarp og framleitt eigið efni undir merkjum SIGVA media frá stofnun félagsins 25. september 2005. Sighvatur hóf fjölmiðlaferilinn á útvarpsstöðinni FM957, þaðan sem leiðin lá á Bylgjuna og í framhaldi í sjónvarpsfréttamennsku á Stöð 2. Samhliða námi í Danmörku vann Sighvatur sem fréttaritari Stöðvar 2 í Danmörku á árunum 2004-2008. Sighvatur lagði stund á nám við margmiðlunarhönnun og tölvunarfræði í Danmörku.     Eftir nám fluttu Sighvatur og fjölskylda á heimaslóðir í Vestmannaeyjum sumarið 2008 þar sem hann hefur meðal annars framleitt sjónvarpsfréttir og annað efni fyrir RÚV. Síðustu árin hefur SIGVA media lagt frekari áherslu á gerð heimildamynda og sjálfstæða framleiðslu á sjónvarpsefni fyrir RÚV, 365 miðla og N4. Frá árinu 2010 hefur Sighvatur verið umsjónarmaður Vinsældalista Rásar 2 sem SIGVA media framleiðir fyrir RÚV. SIGVA media hefur einnig komið að hljóðvinnslu fyrir Rás 2 og fleiri útvarpsstöðvar á Íslandi í gegnum árin.    

Aðildarfélög BSRB samþykkja verkfall

Félagar í SFR og SFLÍ hafa samþykkt verkfallsaðgerðir. Niðurstaða kosningar um verkfallsboðun var gerð opinber rétt í þessu.   Félögin hafa átt sameiginlega í viðræðum við samninganefnd ríkisins ásamt Landssambandi lögreglumanna en þau eru fjölmennustu aðildarfélögin innan BSRB sem semja við ríkið.   Kosningaþátttaka hjá SFR var tæplega 64% og af þeim sem tóku þátt samþykktu um 85% verkfallsboðunina. Hjá SLFÍ var kosningaþátttakan um 69% og þar af samþykktu 91% verkfallsaðgerðir.   Það er því ljóst að takist samningar milli ríkisins og sameiginlegrar samninganefndar SFR, Sjúkraliðafélags Íslands og Landssambands lögreglumanna ekki fyrir miðjan október mun koma til verkfalla hjá tveimur fyrrnefndu félögunum.   Ráðgert er að vinnustöðvanir SFR og SLFÍ muni hefjast á miðnætti aðfaranótt fimmtudagsins 15.október og fyrst um sinn standa til miðnættis föstudagsins 16. október. Á nokkrum stofnunum mun vinnustöðvunin þó ekki aðeins vera tímabundnar.       Framkvæmd fyrirhugaðs verkfalls hjá SFR og SLFÍ:   Á eftirtöldum dögum skal vinnustöðvun ná til allra félagsmanna SFR og SLFÍ sem starfa hjá ríkinu.   Frá og með miðnætti aðfaranótt fimmtudagsins 15.október til miðnættis föstudagsins 16. október 2015 (2 sólarhringar).   Frá og með miðnætti aðfaranótt mánudagsins 19.október til miðnættis þriðjudaginn 20. október 2015 (2 sólarhringar).   Frá og með miðnætti aðfaranótt fimmtudagsins 29.október til miðnættis föstudagsins 30. október 2015 (2 sólarhringar).   Frá og með miðnætti aðfaranótt mánudagsins 2. nóvember til miðnættis þriðjudaginn 3. nóvember 2015 (2 sólarhringar).   Frá og með miðnætti aðfaranótt fimmtudagsins 12. nóvember til miðnættis föstudagsins 13. nóvember 2015 (2 sólarhringar).       Mánudaginn 16. nóvember 2015 hefst ótímabundin vinnustöðvun á öllum stofnunum ríkisins.   Sértækar aðgerðir SFR:   Frá og með miðnætti aðfaranótt fimmtudagsins 15. október 2015 hefst ótímabundin vinnustöðvun hjá eftirtöldum stofnunum:   Landspítalinn (LSH)   Ríkisskattstjóri   Sýslumaðurinn á Aursturlandi   Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu   Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra   Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra   Sýslumaðurinn á Suðurlandi   Sýslumaðurinn á Suðurnesjum   Sýslumaðurinn á Vestfjörðum   Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum   Sýslumaðurinn á Vesturlandi   Tollstjórinn  

Hreyfivika UMFÍ - Vestmannaeyjar í 25. og síðasta sæti

„Það heldur áfram að vera líf og fjör í sundkeppni sveitarfélaganna. Okkur hafa borist skemmtilegar frásagnir af duglegu fólki víðs vegar um landið," segir í tilkynningu sem Ungmennafélag Íslands sendi frá sér en nú fer fram Hreyfivika á vegum sambandsins og eru fjórir dagar liðnir. En þarna eru Eyjamenn ekki að standa sig.   ,,Það er greinilegt að þessi keppni er ákaflega jákvæð og hvetjandi fyrir fólk. Sundkeppnin stendur til sunnudagsins 27. september þannig að úrslit verða birt nk. mánudag. Höldum áfram að vera hvetjandi og breiða út boðskap um mikilvægi hreyfingar. Allir í sund!,“ segir einnig í fréttinni."   Staðan eftir fjóra daga er svona;      1. Rangárþing ytra (Hella) 219m á hvern íbúa 2. Rangárþing eystra (Hvolsvöllur) 160m á hvern íbúa 3. Þingeyri 138m á hvern íbúa 4. Hrísey 137m á hvern íbúa 5. Skútustaðarhreppur 105m á hvern íbúa 6. Húnaþing 96m á hvern íbúa 7. Dalvíkurbyggð 67m á hvern íbúa 8. Blönduós 62m á hvern íbúa 9. Stykkishólmur 38m á hvern íbúa 10. Fjallabyggð 37m á hvern íbúa 11. Snæfellsbær 35m á hvern íbúa 12. Seyðisfjörður 33m á hvern íbúa 13. Norðurþing (Húsavík) 31m á hvern íbúa 14. Bolungarvík 28m á hvern íbúa 15. Skagafjörður 27m á hvern íbúa 16. Fljótdalshérað 24m á hvern íbúa 17. Þorlákshöfn 22m á hvern íbúa 18. Hveragerði 21m á hvern íbúa 19. Hornafjörður 20m á hvern íbúa 20. Árborg 19m á hvern íbúa 21. Strandabyggð 17m á hvern íbúa 22. Akureyri 16m á hvern íbúa 22. Eskifjörður 16m á hvern íbúa 22. Garður 16m á hvern íbúa 22. Grímsey 16m á hvern íbúa 23. Akranes 12m á hvern íbúa 24. Grindavík 10m á hvern íbúa 23. Sandgerði 10m á hvern íbúa 24. Langanesbyggð 4m á hvern íbúa 25. Sundhöll Reykjavíkur 2m á hvern íbúa (póstnúmer 101 Rvk.) 25. Vestmannaeyjar 2m á hvern íbúa   *Miðað er við fjölda íbúa í hverjum í byggðarkjarna  frá Hagstofu Íslands og synta metra samtals.        

Niðurstöður mælinga á stærð úthafskarfastofna í Grænlandshafi og ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins

Í júlí síðastliðnum lauk sameiginlegum leiðangri Íslendinga og Þjóðverja sem farinn hefur verið annað hvert ár í Grænlandshaf og aðliggjandi hafsvæði síðan árið 1999. Megin tilgangur leiðangursins var að meta stofnstærðir tveggja stofna karfa í úthafinu. Til stóð að Rússar tækju líka þátt í leiðangrinum, en þeir drógu sig út mánuði áður en hann hófst. Var því einungis hægt að meta stofnstærð neðri stofn úthafskarfa þar sem ekki reyndist mögulegt að fara yfir útbreiðslusvæði efri stofns úthafskarfa á einungis tveimur skipum á þeim tíma sem þeim var ætlað til rannsóknanna.   Íslendingar hafa tekið þátt í mælingunum frá árinu 1994 og í ár var R/S Árni Friðriksson við rannsóknirnar frá 10.-30. júní. Leiðarlínur Árna Friðrikssonar ásamt Walther Herwig, skipi Þjóðverja eru sýndar á 1. mynd. Aðstæður til mælinga voru góðar, veður var yfirleitt gott og litlar hindranir voru vegna íss.   Sérfræðingar frá þátttökuþjóðunum hafa nú lokið samantekt á niðurstöðum úr leiðangrinum. Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur jafnframt veitt ráðgjöf um hámarksafla ársins 2016 úr neðri stofni úthafskarfa byggt á niðurstöðum mælinganna.   Neðri stofn úthafskarfa, sem er að finna á meira en 500 m dýpi, var metinn með trollaðferð þar sem ekki er hægt að mæla hann með bergmálsmælum. Ástæðan er sú að á um 250-600 m dýpi er þykkt lag lífvera, svokallað laxsíldarlag þar sem karfinn blandast öðrum fiskum og hryggleysingjum sem kemur í veg fyrir að hægt sé að greina hann og mæla með bergmálsaðferð. Samsvarandi mælingar voru gerðar árin 1999-2013. Mat á magni neðri stofns úthafskarfakarfa, byggt á þeirri aðferð, var áætlað um 200 þúsund tonn sem er rúmlega 80 þúsund tonnum minna en mældist árið 2013. Mælingin í ár er sú lægsta síðan mælingar hófust árið 1999 og hefur farið úr rúmri einni milljón tonna árið 2001 (2. mynd). Mest fékkst af neðri stofni úthafskarfa á norðausturhluta rannsóknasvæðisins við mörk íslensku efnahagslögsögunnar.   Alþjóðahafrannsóknaráðið telur að vegna mjög neikvæðrar þróunar í vísitölum stofnstærðar á undanförnum árum sé nauðsynlegt að draga úr sókn, þar sem hún hefur verið langt umfram afrakstursgetu stofnsins. Í ljósi þessa hefur Alþjóðahafrannsóknaráðið lagt til að heildarafli úr neðri stofni úthafskarfa verði minni en 10 þús. tonn árið 2016, sem er sama ráðgjöf og fyrir árið 2015.   Jafnframt leggur ráðið til að ekki skuli stunda beinar veiðar úr efri stofni úthafskarfa vegna mjög neikvæðrar þróunar á stofnstærð.   Sameiginleg skýrsla þeirra sem þátt tóku í leiðangrinum má nálgast á vef Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES): http://www.ices.dk/sites/pub/Publication%20Reports/Expert%20Group%20Report/SSGIEOM/2015/WGIDEEPS15-2.pdf  Ráðgjöf um neðri stofn úthafskarfa: http://www.ices.dk/sites/pub/Publication%20Reports/Advice/2015/2015/smn-dp.pdf  Ráðgjöf um efri stofn úthafskarfa: http://www.ices.dk/sites/pub/Publication%20Reports/Advice/2015/2015/smn-sp.pdf

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Greinar >>

Lundasumarið 2015

 Lundaballið er um helgina og því rétt að fara yfir sumarið. Staðan núna, 24. sept. er ótrúleg. Mikill lundi við Eyjar og mikið af sílisfugli að bera í holur ennþá og flug lundapysjunnar rétt að ná hámarki og svolítið erfitt að átta sig á því, hvað gerðist í sumar, en þó.   Ég var staddur austur á Rófu ca. 3 mílur austan við Elliðaey um miðjan júlí mánuð, þegar ég varð vitni að því að þar gaus upp mikið af æti og ég horfði á þúsundir lunda og svartfugl koma þar á ör stuttum tíma, og ekki bara setjast og byrja veiðar, heldur sá ég eitthvað sem ég hef aldrei séð áður, bæði svartfugl og lunda skutla sér ofan í sjóinn. Ég sá svo torfuna færast smátt og smátt til lands. Eftir að ég hafði klárað að draga línu sem ég var með þarna, prófaði ég að renna með stöng og fékk þá strax makríl á stöngina, svo hann var mættur líka í veisluna. Ekki veit ég hvers konar æti þetta var, en ef við horfum á þá staðreynd að lundinn er ennþá að bera æti í holurnar og hvernig staða lundapysjunnar er í dag, þá er nokkuð ljóst að meirihlutinn af lundanum hóf ekki varp fyrr en í byrjun júlí.   Veiðidagarnir voru 3 í sumar og miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið, þá má reikna með að milli 4-500 lundar hafi verið veiddir í sumar, en þar sem nú þegar eru komnar upp undir 600 pysjur á sædýrasafnið, þá er ljóst að veiðarnar voru sjálfbærar.   Sjálfur fór ég ekki í lunda í Eyjum, frekar en síðustu ár, en heimsótti hins vegar 3 eyjar norður í landi í sumar, sem klárlega voru toppurinn á árinu hjá mér.   Það er mikið af lundapysju á ferðinni og maður heyrir það að ansi mörg börn eigi svolítið erfitt í skólanum þessa morgnana og mig langar að velta því upp, hvort það væri ekki sniðugt að kennarar yngri bekkjanna gerðu úr þessu verkefni, þar sem bóknámið fengi kannski frí einn dag í bekk eða svo og haldið til pysjuveiðar að morgni til og jafnvel hugsanlegt að gera einhvers konar keppni milli bekkja um það hvaða bekkur fyndi flestar pysjur. Það eru ekki öll börn sem leggja í að fara á bryggju svæðið og sumir fá ekki leyfi til þess, en kannski væri sniðugt að gera þetta að verkefnum undir eftirliti og umsjá kennara. Enda hafa öll börn gott af því að kynnast svæðinu sem klárlega er lífæð Eyjamanna.   Sumir hafa sagt við mig að allur þessi fjöldi lunda s.l. mánuð væri hugsanlega lundi sem væri að koma að norðan á leiðinni suður, en ég er nú ekki sammála því. Þetta er bara lundinn okkar sem er að koma þegar æti er í boði í kring um Eyjar, en að öðrum kosti helgur hann sig það langt í burtu að hann kemur ekki. Varðandi það, hvort þetta sumar sé einhver vísbending um það að ástand stofnsins sé að fara að lagast, þá stór efast ég um það, því miður, þó að maður voni það nú alltaf.   Varðandi hvort það hafi einhver áhrif á afkomu pysjunnar að hún komi svona seint, þá tel ég svo ekki vera, en kannski má segja sem svo að þetta síðsumar varp lundans sé kannski svona ekki ósvipað því þegar við Eyjamenn þurfum sjálfir að takast á við erfiðleika og breyttar aðstæður, þá einfaldlega bítum við á jaxlinn og berjumst enn harðar fyrir tilveru okkar hér.   Bestu fréttirnar eru þó þær, lundinn kom til Vestmannaeyja í milljóna tali í sumar og skilaði af sér ágætis árgangi í nýliðun, miðað við þær fréttir sem berast úr sumum eyjunum, og mun koma í milljóna tali næsta sumar.