Huginn VE og VSV í tímabundnu innflutningsbanni vegna athugasemda frá rússneskum heilbrigðisyfirvöldum

Huginn VE og VSV í tímabundnu innflutningsbanni vegna athugasemda frá rússneskum heilbrigðisyfirvöldum

Nokkrir íslenskir framleiðendur sjávarafurða hafa fengið tímabundið bann við innflutningi á fiskafurðum til Rússlands. Í þeirra hópi eru meðal annars stór fyrirtæki og skip í vinnslu á uppsjávarfiski, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum. Fyrirtækin sem hér um ræðir eru Frostfiskur, verksmiðja HB Granda á Vopnafirði, Huginn VE, Ísfiskur, Skinney-Þinganes og Vinnslustöðin. Tveir aðilar eru auk þess í sérstöku athugunarferli, þ.e. Gnúpur GK og Loðnuvinnslan.   Í Fiskifréttum segir að á sínum tíma framseldi Tollabandalag Rússlands og fleiri ríkja heimild til Matvælalstofnunar Íslands til að skoða og taka út vörur hjá íslenskum fyrirtækjum sem mega flytja afurðir sínar til Rússlands. Þannig hefur þetta verið í nokkur ár. Fulltrúar Tollabandalagsins komu síðan til landsins í haust og gerðu þá sérstaka úttekt á nokkrum íslenskum fyrirtækjum og kemur innflutningsbannið í kjölfar þess.   Fiskifréttir hafa heimild fyrir því að grunsemdir séu uppi um að tímabundnar lokanir á innflutningsleyfi verði ekki eingöngu skýrðar með þeim athugasemdum sem fram hafa komið frá rússneskum heilbrigðisyfirvöldum. Heldur búi aðrar hvatir að baki og hugsanlega viðskiptalegar.   Hér eru gríðarlegir hagsmunir í húfi því samkvæmt viðtölum Fiskifrétta við menn í greininni má ætla að 15 til 20% af tekjum uppsjávarfyrirtækja verði til með sölu á afurðum til Rússlands.  

Málefni fatlaðra áfram í höndum Vestmannaeyjabæjar

"Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur að tillögu samráðsnefndar um málefni fatlaðs fólks veitt sveitarfélögunum Hornafirði, Vestmannaeyjabæ, Norðurþingi og Þjónustusvæði Vestfjarða framlengingu á undanþágu frá íbúafjöldamörkum þjónustusvæða." segir í tilkynningu á vef Velferðarráðuneytisins. "Við yfirfærslu á þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga sem tók gildi 1. janúar 2011 veitti velferðarráðherra umræddum fjórum sveitarfélögum/þjónustusvæðum undanþágu frá lágmarksíbúafjölda þjónustusvæða. Var undanþágan veitt með vísan til heimildar í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 59/1992 og var í gildi til 31. desember 2014.Samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks bárust, á síðari hluta nýliðins árs, umsóknir frá sveitarfélögunum/þjónustusvæðunum um framlengingu á undanþágunni. Fulltrúar nefndar um endurmat á yfirfærslunni áttu fund með öllum umsækjendum, einnig var óskað eftir umsögn réttindagæslumanna fatlaðs fólk um umsóknirnar. Umsagnir réttindagæslumanna voru jákvæðar. Samráðsnefndin ákvað í kjölfarið að mæla með því við félags- og húsnæðismálaráðherra að undanþágan yrði veitt. Ráðherra tók síðan ákvörðun um framlengingu undanþága til 31. desember 2017 með vísan í 4. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Ráðherra minnti jafnframt á að markmið laganna er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og að taka skuli mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks við framkvæmd þjónustunnar. Ákvörðunin kemur til endurskoðunar þegar ný lög um málefni fatlaðs fólks taka gildi en starfshópur félags- og húsnæðismálaráðherra vinnur nú að heildarendurskoðun löggjafarinnar. Eru ákvæði um lágmarksíbúafjölda og skilyrði fyrir undanþágum meðal þess sem starfshópurinn mun skoða." 

Páll Marvin skipaður varaformaður ferðamálaráðs

 Ragn­heiður Elín Árna­dótt­ir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hef­ur skipað nýtt ferðamálaráð til fjög­urra ára.   Formaður ráðsins er Þórey Vil­hjálms­dótt­ir og vara­formaður Páll Mar­vin Jóns­son. Þau eru skipuð án til­nefn­ing­ar, seg­ir í til­kynn­ingu á vef ráðun­ey­is­ins.   Þórey er fyrr­ver­andi aðstoðarmaður inn­an­rík­is­ráðherra, Hönnu Birnu Kristjáns­dótt­ur. „Hún hef­ur ára­langa reynslu af fyr­ir­tækja­rekstri, stjórn­un og stefnu­mót­un. Þórey er með BS gráðu í viðskipta­fræði frá Há­skóla Íslands með áherslu á alþjóðaviðskipti og MBA frá Há­skól­an­um í Reykja­vík. Þá stundaði hún auk þess nám við markaðs- og út­flutn­ings­fræði við End­ur­mennt­un­ar­deild Há­skóla Íslands.   Páll Mar­vin er formaður Ferðamála­sam­taka Vest­manna­eyja og fram­kvæmda­stjóri Þekk­ing­ar­set­urs Vest­manna­eyja,“ seg­ir í til­kynn­ingu frá iðnaðar- og viðskiptaráðherra.   Aðrir í ferðamálaráði eru: Hall­dór Benja­mín Þor­bergs­son, Ingi­björg Guðjóns­dótt­ir og Þórir Garðars­son, til­nefnd af Sam­tök­um ferðaþjón­ust­unn­ar. Al­dís Haf­steins­dótt­ir og Hjálm­ar Sveins­son, til­nefnd af Sam­bandi ís­lenskra sveit­ar­fé­laga. Ásbjörn Björg­vins­son og Dí­ana Mjöll Sveins­dótt­ir, til­nefnd af Ferðamála­sam­tök­um Íslands og Jón Ásbergs­son, til­nefnd­ur af Íslands­stofu.   Mbl.is greindi frá.

Væntingar voru miklar og talað um heilsárshöfn

Samgöngumál eru sígilt umræðuefni í Eyjum. Sú umræða er ekki ný af nálinni. Samgöngur við Vestmannaeyjar hafa alltaf verið brösóttar. Þar hefir veðrið spilað stórt hlutverk. Gísli Johnsen VE, 30 tonna bátur, sigldi milli Vestmannaeyja og Stokkseyrar á sínum tíma og gat tekið einn bíl á lestarlúguna. Vonarstjarnan VE, sem sumir kölluðu Mjólkurstjörnuna af því að hún flutti mjólkina til Eyja, tók við af Gísla Johnsen VE. Strandferðaskipin Esja og Herðubreið sigldu milli Eyja og Reykjavíkur sitt hvora vikuna. Svo kom elsti Herjólfur og sigldi annan hvern dag milli Eyja og Reykjavíkur og hálfsmánaðarlega til Hornafjarðar.   Þetta kemur fram í samantekt Gísla Valtýssonar um sögu um samgöngur á sjó milli lands og Eyja í síðasta blaði Eyjafrétta.  Og Gísli heldur áfram : Sá Herjólfur fór svo að sigla til Þorlákshafnar yfir sumartímann. Þá voru allir bílar, sem skipið flutti, hafðir á lestarlúgum skipsins og á dekkinu, og voru því oft í sjóbaði á leiðinni, ef eitthvað var að veðri. Herjólfur númer tvö kom árið 1976 og og núverandi Herjólfur 1992. Flugfélag Íslands flaug milli Eyja og Reykjavíkur, einnig flaug Flugfélagið af og til á Hellu og Skógasand. Íslandsflug fór í samkeppni við Flugfélag Íslands í Vestmannaeyjafluginu og sinnti því um nokkurra ára skeið.   Flugfélag Vestmannaeyja flaug á Bakkaflugvöll til margra ára, eða þangað til að Landeyjahöfn var tekin í notkun. Og nú flýgur Flugfélagið Ernir milli Eyja og Reykjavíkur. Alltaf hefur sitt sýnst hverjum um þær samgöngur sem í boði eru hverju sinni, en sennilega er umræðan hin síðari ár meiri en áður. Væntingar til Landeyjahafnar voru miklar, það var talað um heilsárshöfn með nokkurra daga frátöfum á ári, vegna veðurs.   Það átti líka í kjölfarið á byggingu hafnarinnar, að koma nýtt skip sem hentaði henni betur en núverandi Herjólfur. Í síðasta blaði Eyjafrétta var farið yfir fréttir og viðtöl, sem birst hafa í blaðinu um Bakkafjöru/ Landeyjahöfn allt frá árinu 2000, þegar fyrsta opinbera umræða um hugsanlega hafnargerð þar hófst. Í sumar verða liðin 5 ár frá því Landeyjahöfn var tekin í notkun og umræðan sem þá hófst um nýtt skip, fastan dælubúnað, minnkandi sandburð og annað það sem átti að vera til bóta, er óbreytt.   Eyjafréttir tóku púlsinn á nokkrum aðilum; stjórnmálafólki, ferðaþjónustuaðilum og hinum almenna Vestmannaeyingi. Hvernig horfa málin við þeim. Viðtölin voru í síðasta blaði og halda áfram í næsta blaði.  

Minnihlutinn vill Fiskiðjupeningana í stækkun Hraunbúða

Í umræðu um ályktun aðalfundar Félags eldri borgara um stækkun Hraunbúða í bæjarstjórn í gær lagði Eyjalistinn fram tillögum um að í stað áætlaðra framkvæmda við endurgerð Fiskiðjunnar að upphæð 120 milljónir króna sem er á fjárhagsáætlun ársins 2015 verði gert ráð fyrir hönnun og stækkun Hraunbúða, með breytingum á fjárhagsáætlun úr 2 milljónum króna í 122 milljón króna. Tillagan var felld með 5 atkvæðum D-listans gegn 2 atkvæðum E-listans.   Sjálfstæðismenn létu bóka að beðið er eftir svörum frá Framkvæmdasjóði aldraðra um það hvort styrkur fáist frá sjóðnum til að ráðast í framkvæmdir. „Þá er einnig unnið að samningum við HSU varðandi nýtingu á sjö hjúkrunarrýmum sem eru staðsett á HSU. Mikilvægt er að klára þá vinnu áður en ráðist er í tilviljanakenndar breytingar á verkferlum,“ segir í bókuninni. Vilja bæjarfulltrúar D-lista einnig ítreka það sem áður hefur komið fram, að stefnumótun í málefnum aldraða hafi hingað til verið unnin á faglegum forsendum en ekki flokkpólitískum. „Seinast í gær fundaði stýrihópur um málefni aldraða og þar eins og í öll önnur skipti samþykkti fulltrúi E-lista allt sem fram kom án nokkura vísbendinga um ósætti eða ábendinga um að E-listi teldi fjármagns vant. Að lokum skal ítrekað að framvinda í málefnum aldraðra strandar ekki á fjármagni og tillaga E-lista er því til þess eins að taka málefni úr farvegi sátta og setja í farveg átaka. Í því mun D-listi ekki taka þátt,“ segir í lokaorðum bókunarinnar.       E-listinn svaraði með eftirfarandi bókun: „Ef þetta er ekki spurning um að þetta strandi á fjármagni af hverju er verið bíða eftir svari frá Framkvæmdasjóði aldraðra? Þetta verkefni er bara orðið svo brýnt í Vestmannaeyjum í dag að við teljum mikilvægt að leggja meiri kraft í þetta. Góð samvinna í stýrihópi hefur ekkert með þessa tillögu að gera. Þau eru að vinna að lausnum til framkvæmda og hefur sá hópur unnið gott starf. Öll peningavöld liggja aftur á móti hjá bæjarstjórn. Því má ekki draga heilindi fulltrúa E-lista í stýrihópi í efa.“   D-listinn svaraði með bókun: „Meirihlutinn ítrekar það sem áður hefur komið fram um að í málefnum sveitarfélagsins er vönduð stjórnsýsla tekin alvarlega. Það verður að teljast með öllu óábyrgt að leggja til að ráðist verði í framkvæmdir við hjúkrunarheimili án þess að fyrir liggi samningur um rekstur við ríkið sem er ábyrgt fyrir slíku. Sérstaka undrun vekur að tillaga um slíkt komi fram þegar fyrir liggja áætlanir um að ráðast í síkar samningaviðræður. Þrátt fyrir þetta upphlaup E-lista mun meirihluti D-lista áfram leggja áherslu á samstarf við hagsmunaaðila með það að markmiði að nýta árið 2015 til undirbúnings í málefnum aldraðra til að verklegar framkvæmdir geti hafist árið 2016.       Liðurinn var svo samþykktur með fimm atkvæðum D-lista, bæjarfulltrúar E-listans sátu hjá.   Ályktun Félags eldri borgara:   Aðalfundur Félags eldri borgara sem haldinn var þann 6. febrúar skorar á bæjarstjórn Vestmannaeyja og bæjarráð að hlutast til um að strax verði ráðist í framkvæmdir við stækkun Hraunbúða. Þörfin aukist með hverjum degi fyrir heimilisrými og nú séu 29 íbúar í Vestmannaeyjum sem fengið hafa vistunarmat á biðlista eftir plássi á Hraunbúðum.   Þar fyrir utan sé fólk sem enn býr í heimahúsum og þyrfti heilsu sinnar vegna að komast á Hraunbúðir. „Svo við tölum ekki um þá sem eru með heilabilun á misjafnlega háu stigi en búa enn heima hjá sér. Það er því deginum ljósara að þörfin er mikil í þessum málaflokki og væntum við mikils af skjótum viðbrögðum ráðamanna bæjarins í þessu sambandi,“ segir í ályktuninni.    

Færist líf í kringum landið og miðin

Loðnulyktin góða mun umleika helstu hafnir víða um landið næstu daga því það lítur út fyrir að þessi vertíð hafi loks verði flautuð á með formlegum hætti í dag;-) Sem sagt fyrsti alvöru dagurinn á þessari vertíð með almennri veiði á öllum flotanum sem saman var kominn á mun eðlilegri slóðir miðað við árstíma eða suðaustur af landinu nánar tiltekið út af Stokksnesi austur af Hornafirði. Voru margir að fá góð köst í dag, við þar á meðal þegar við fengum um 800 tonn í einu kasti í morgun. Þá lentum við í því að rífa illa líka.. En við urðum varir við mikið af loðnu á þessu slóðum í brælunni um daginn, biðum þess vegna inni á Djúpavogi, en flotin byrjaði svo að kasta fljótlega eftir hádegi í gær þegar loks tók að lægja. Við náðum þó bara einu kasti í gær sem gaf 200 tonn og annað þar sem nótin gaf sig því miður.   En dagurinn í dag markar svo upphafið af þessu viljum við meina og eigum við þá ósk að veður og veiði haldist í hendur, þetta fari í góðan farveg, verði farsæl og gjöful loðnuvertíð . Við leggjum svo fljótlega af stað til Þórshafnar með fullt skip af loðnu eða um leið og við höfum lokið við að dæla restinni úr nótin yfir til vinar vors og blóma Bjarki Kristjánsson OKKAR og hans menn á Júpíter þar sem hann er skipstjóri þessa stundina. Ætli siglingin til Þórshafnar taki okkur ekki svo um 14 tíma eða svo ef allt gengur að óskum.   Svo það er að færast líf í kringum landið og miðin. sem gleður margan.   Yfir og út með kveðju frá Álsey við Stokksnes, Kristó 

Staðan nú er illu heilli nákvæmlega sú sama

Á fundi bæjarráðs í vikunni, komu samgöngumál mikið við sögu. Í bókun ráðsins segir  að óvenju miklar frátafir í siglingum Herjólfs til Þorlákshafnar  hafi verið það sem af er ári. Tilfinning margra þjónustuþega Herjólfs er sú að frátafir í siglingum Herjólfs til Þorlákshafnar hafi aukist á seinustu árum. Vegna umræðunnar vill bæjarráð lýsa yfir fullum stuðningi við ákvarðanir skipstjóra Herjólfs hverju sinni og hvetja til þess að áfram verði haft að leiðarljósi að ferð sé eingöngu felld niður með öryggi farþega, áhafnar, farms og skips að leiðarljósi. Öllum má enda ljóst vera að í hvert skipti sem ferð er felld niður veldur það umtalsverðu tjóni fyrir íbúa og atvinnulíf. Bæjarráð felur bæjarstjóra enn fremur að kalla eftir upplýsingum um fjölda þeirra ferða sem fallið hafa niður í siglingum Herjólfs í Þorlákshöfn seinustu áratugina.   Bæjarráð ræddi enn og aftur um þá stöðu sem nú er uppi í samgöngum. Staðan nú er illu heilli nákvæmlega sú sama og hún var fyrsta veturinn sem Herjólfur sigldi í Landeyjahöfn. Dýpi er of lítið og skipið sem ætlað er að sigla þangað bæði of djúprist og það óheppilegt til siglinga í Landeyjahöfn. Eðlilega þyngist umræðan með hverju árinu og vonleysi grípur um sig. Komið hafa fram á opinberum vettvangi alvarlegar ávirðingar á hendur samgönguyfirvalda. Nú seinast fullyrti skipstjóri á Lóðsbát Vestmannaeyjahafnar að straumur við hafnarstæði Landeyjahafnar hafi ekki verið rannsakaður né heldur hafi verið gerðar rannsóknir á öldufari þar. Sérstaklega kveður hann fast að með ávirðingar um að áhrif suðvestan og suðaustanöldu hafi ekki verið rannsökuð. Bæjarráð telur slíkar ávirðingar mjög alvarlegar og krefst þess að það fái tafarlaust svar við því hvort það geti virkilega staðist að áhrif straums við Landeyjahöfn hafi ekki verið rannsakaður og að engar rannsóknir hafi verið gerðar á öldufari, eins og fullyrt í grein skipstjóra á Lóðsbát Vestmannaeyjahafnar.   Þá fól bæjarráð bæjarstjóra að láta þegar vinna vandaða skoðanakönnun meðal bæjarbúa þar sem m.a. verður kallað eftir áliti þeirra á samgöngum á sjó og framtíðarmöguleikum.  

Herjólfur - niðurfelldar ferðir

Eins og Eyjafólk og landsmenn flestir hafa orðið varir við hefur veturinn í vetur verið einkar erfiður og hver lægðin rekið aðra.   Það sem af er ári hafa nokkrar ferðir Herjólfs verið felldar niður til Þorlákshafnar. Ljóst er að ein niðurfelld ferð er einni ferð of mikið fyrir þann sem hafði fyrirhugað að ferðast með þeirri ákveðnu ferð og á því er fullur skilningur. Umræðan er eðlileg en getur því miður stundum verið óvægin.   Þegar skoðaður er fyrsti einn og hálfur mánuður ársins og hann borinn saman við sama tímabil sl. fjögur ár kemur í ljós að fjöldi niðurfelldra ferða var svona, árið 2011 níu ferðir, 2012 níu ferðir, 2013 ein ferð, 2014 ein ferð og í ár tíu ferðir þar af fjórar á síðustu viku en sigldar ferðir á sama tíma í ár alls áttatíu og tvær. Aðrir ferðaþjónustuaðilar hafa einnig þurft að fella niður fleiri ferðir en oft áður s.s. Flugfélag Íslands eins og fram kom í viðtali við Árna Gunnarsson forstjóra flugfélagsins í síðustu viku.   Hjá Herjólfi er þetta allt háð sjólagi og veðri sem erfitt er að eiga við. Þegar ákvörðun er tekin um að fella niður ferð er það eingöngu gert með öryggi farþega, áhafnar, farms og skips að leiðarljósi og allt tal um niðurfellda ferð vegna mögulegrar sjóveiki farþega á ekki við rök að styðjast. Eðli málsins samkvæmt getur fólk haft misjafna skoðun á þeirri ákvörðun og í einhverjum tilfellum getur sjólag batnað fyrr en spá og/eða raunstaða gaf fyrirheit um og í þeim tilfellum getur verið gott að vera vitur eftir á.   Eimskip stendur þétt að baki skipstjórum Herjólfs og treystir þeim fullkomlega til að taka þessar stundum erfiðu ákvörðun en minnir á að misjöfn reynsla getur kallað á misjafna ákvörðun en eins og áður segir er öryggi haft að leiðarljósi á öllum stundum.   Virðingarfyllst EIMSKIPAFÉLAG ÍSLANDS HF.    

Af lögreglumálum

Lögreglan hafði í nógu að snúast í liðinni viku m.a. vegna fíkniefnamála, líkamsárása og annara verkefna sem komu inn á borð lögreglu. Helgin var frekar annasöm vegna hinna ýmsu mála sem upp komu og þurfti lögregla að aðstoða nokkra gesti öldurhúsanna sökum ölvunarástands þeirra.   Sl. föstudagskvöld haldlagði lögregla um 100 gr. af maríhúana, 50 gr. af amfetamíni og um 2 gr. af kókaíni sem fundust í fórum manns sem var að koma til Vestmannaeyja með Herjólfi. Þegar hefur verið send út fréttatilkynning vegna málsins og er vísað til hennar varðandi nánari upplýsingar.   Tvær líkamsárásir voru kærðar til lögreglu eftir skemmtanahald helgarinnar og var í báðum tilvikum um að ræða sama árásaraðila. Fyrri árásin átti sér stað að morgni 14. febrúar sl. þar sem tveir menn réðust á þann þriðja. Seinni árásin átti sér stað að morgni 15. febrúar sl. þar sem maður var skallaður í andlitið. Ekki er um alvarlega áverka að ræða í þessum tveimur tilvikum. Árásirnar áttu báðar sér stað á sama skemmtistaðnum. Málin eru í rannsókn.   Einn ökumaður var stöðvaður í vikunni grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Sjö aðrar kærur liggja fyrir vegna brota á umferðarlöguma en þar eru flestar kærur vegna ólöglegrar lagninga ökutækja auk þess sem kærur liggja fyrir vanrækslu á að nota öryggisbelti við akstur.   Ein eignaspjöll voru tilkynnt til lögreglu en um var að ræða rúðubrot í bifreið sem stóð við Faxastíg aðfaranótt 15. febrúar sl. Ekki er vitað hver þarna var að verki en þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um hver þarna var að verki eru beðnir um að hafa samband við lögreglu.   Eitt umferðaróhapp var tilkynnt lögreglu í liðinni viku en þarna hafði bifreið runnið aftan á aðra án þess þó að um mikið tjón hafi verði að ræða. Engin slys urðu á fólki í óhappinu.    

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Mannlíf >>

Ásdís Loftsdóttir nýr formaður

Aðalfundur Kvenfélagsins Líknar var haldinn 2. febrúar sl. Ágústa Hulda Árnadóttir lét af störfum og tók Ásdís Loftsdóttir við sæti hennar. Í nýrri stjórn eru Ásdís Loftsdóttir, formaður; Birgitta Karen Guðjónsdóttir, varaformaður; Edda Ólafsdóttir, gjaldkeri; Kristín Gunnarsdóttir, vara gjaldkeri; Hrefna Valdís Guðmundsdóttir, ritari; Helga Björg Garðarsdóttir, vararitari og Guðný Bogadóttir meðstjórnandi.   Í kvenfélaginu Líkn eru skráðar 117 félagskonur. Allar þessar konur vinna saman að hinum ýmsu störfum félagsins, eftir bestu getu og hentugleikum hverrar fyrir sig. Á fundum fáum við til okkar fyrirlesara eða kynningar á ýmsum störfum, og stundum höldum við námskeið til að efla okkar konur. Einnig gerum við okkur glaðan dag þar má nefna óvissuferðir og skemmtikvöld fyrir félagskonurnar. Það gefur mikið að vera í félagi eins og Kvenfélaginu Líkn, verkefnin eru margbreytileg og flestar konur geta fundið eitthvað við sitt hæfi, einnig myndast góður vinskapur milli félagskvenna. Viljum við hvetja konur til að ganga til liðs við okkur í Líkn, allar konur eru velkomnar og tökum við vel á móti ykkur. Á síðasta starfsári ákvað félagið að stofna til söfnunar á tölvusneiðmyndatæki til Heilbrigðisstofnunarinnar okkar. Standa málin þannig í dag að tækið er væntanlegt til okkar á næstu vikum. Hefur þetta gengið vonum framar. Má þar þakka frábærum stuðningi frá fyrirtækjum, félagasamtökum og okkar frábæru bæjarbúum. Viljum við nota þetta tækifæri og þakka bæjarbúum frábæran stuðning og velvild við félagið í gegnum árin, því án ykkar værum við lítils megnugar.   Bestu þakkir Ágætu bæjarbúar, okkar bestu þakkir fyrir samvinnuna sl. ár. Óskum ykkur alls góðs og guðs blessunar í framtíðinni.   Kvenfélagið Líkn var stofnað 14. febrúar 1909. Félagið er til húsa að Faxastíg 35.

Stjórnmál >>

Lýsa yfir þungum áhyggjum af málefnum Grímseyjar og annara eyjabyggða

Bæjarstjórn Vestmannaeyja lýsir yfir þungum áhyggjum af málefnum eyjabyggða á Íslandi og hvetur til þess að skynsamlegra leiða verði leitað til að tryggja íbúum Grímseyjar þann mikilvæga rétt sem fólgin er í frelsi til búsetu.  Þetta kemur fram í bókun bæjarstjórnar sem samþykkt var einróma á fundi hennar í dag.  Bókunina má lesa hér að neðan:   Bæjarstjórn Vestmannaeyja ítrekar það álit hennar, sem áður hefur komið fram ma. í ályktunum um frumvörp til laga um stjórn fiskveiða, sem felst í mikilvægi þess að auka atvinnuöryggi íbúa sjávarbyggða.   Bæjarstjórn Vestmannaeyja lýsir enn fremur yfir þungum áhyggjum af málefnum eyjabyggða á Íslandi og þá sérstaklega erfiðri stöðu Grímseyjar. Vegna landfræðilegrar sérstöðu þola eyjabyggðir verr hraðar breytingar en mörg önnur byggðalög. Erfitt tímabil getur í einum vettvangi gert út um eyjabyggð til langframa, jafnvel þótt að öðru jöfnu hefði hinn erfiði tími ekki orðið langvinnur. Breytingar á rekstrarumhverfi sjávarútvegs hafa verið hraðar á seinustu árum og óhófleg gjaldtaka hefur flýtt fyrir samþjöppun aflaheimilda. Fjármálastofnanir hafa orðið ráðandi vægi í rekstri margra útgerðarfyrirtækja og illu heilli virðist það oft vera nánast háð geðþótta þeirra hverjum sé gert kleift að gera út og hverjum ekki. Þar með ráða þessar fjármálastofnanir orðið byggðaþróun á Íslandi í gegnum lánsveð í aflaheimildum. Þau tengsl sem hingað til hafa verið milli útgerða og íbúa sjárvarbyggða eru þar með rofin. Í því fellst háski, bæði fyrir sjávarbyggðir og sjávarútveginn í landinu.   Bæjarstjórn Vestmannaeyja hvetur til þess að skynsamlegra leiða verði leitað til að tryggja íbúum Grímseyjar þann mikilvæga rétt sem fólgin er í frelsi til búsetu. Það frelsi er ekki síður mikilvægt en annað frelsi. Í Grímsey og öðrum sjávarþorpum við Íslandsstrendur býr fólk sem á sama rétt til að velja sér búsetu og íbúar annarra byggðalaga. Staða Grímseyjar er nú slík að Byggðastofnun, Íslandsbanki, alþingi, atvinnuþróunarfélag og fleiri verða að taka höndum saman ásamt íbúum Grímseyjar við að tryggja áframhald byggðar í Grímsey.

Greinar >>

Fagur fiskur í sjó

Allmikil umræða hefur að undanförnu verið í fjölmiðlum, á Alþingi og í samfélaginu öllu um sjávarútvegsmál og stjórn fiskveiða og ekki síst um það hver á fiskinn í sjónum þegar allt kemur til alls. Sitt sýnist hverjum um það allt.   Rannsóknir og ábyrg nýting En um eitt ættum við þó öll að geta verið sammála. Við hljótum öll að vilja vita sem mest um hvað við erum að gera þegar við tökum mikilvægar ákvarðanir um nýtingu þeirrar mikilvægu auðlindar sem fiskistofnarnir okkar eru. Ég segi þetta nú vegna þess að komið hefur fram í fjölmiðlum að vegna fjárskorts geti Hafrannsóknastofnunin illa sinnt nauðsynlegum rannsóknum á loðnustofninum. Einnig hefur komið fram að verðmæti upp á tugi milljarða króna geta gengið okkur úr greipum ef rangar ákvarðanir eru teknar um aflamagn og aðra stjórn loðnuveiðanna.   Er þetta ásættanlegt? Grundvöllur þeirrar ábyrgu nýtingar fiskistofna og hagkvæmni sem íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu er ætlað að tryggja er að fyrir liggi vandaðar rannsóknir á ástandi fiskistofna. Það hlýtur því að vera mjög knýjandi umhugsunarefni að á sama tíma og sjávarútvegurinn okkar skilar metafkomu ár eftir ár getum við vegna fjárskorts ekki haldið úti hafrannsóknaskipunum okkar.   Er ekki eitthvað í þeirri jöfnu sem ekki gengur upp? Hlýtur það ekki að vera lágmarkskrafa, sem við sem í þessu landi búum og erum að eigin áliti og annarra ein fremsta fiskveiðiþjóð heims, hljótum að gera til stjórnvalda að þau búi svo um hnúta að vel sé á spilunum haldið þegar um rannsóknir á helstu nytjastofnum okkar er að ræða? Ef við erum ekki menn til að tryggja það spörum við eyrinn en köstum krónunni.   Eigum fiskistofnana saman Ég held að meginmarkmiðið við stjórn fiskveiða og brýnasta verkefnið þar nú hljóti að vera að taka af allan minnsta vafa um að fiskistofnarnir eru eign almennings í landinu. Til þess að tryggja það þannig að ekki verði um villst eða meira um deilt þarf að gera stjórnarskrárbreytingu og setja inn ákvæði þar að lútandi og það strax! Í því sambandi er óhjákvæmilegt að benda á 34. gr. í tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá sem samin var eftir ítalega umræðu og skoðun á síðasta kjörtímabili en hún kveður á um náttúruauðlindir, eignarhald á þeim, vernd og nýtingu. Þá hlýtur að vera annað mjög mikilvægt markmið að tryggja að fiskistofnanir skili almenningi öllum góðum arði. Til að það megi vel takast þurfa útgerðir og sjómenn að búa við öruggt starfsumhverfi og nægilegt svigrúm til skipulagningar reksturs og framþróunar og að geta boðið starfsfólki góð kjör. Aðalatriðið og forgangsverkefni er að tryggja að eigandi auðlindarinnar, þjóðin öll, fái sanngjarnan hluta fiskveiðiarðsins og að hann verði nýttur til samfélagslegrar uppbyggingar og bættra lífskjara.   Byggðakvóti – Nýjar leiðir? Að sjálfsögðu er það réttlætismál að fólk sem býr í hefðbundnum sjávarbyggðum, sem standa illa, fái stuðning til að skjóta nýjum og sjálfbærum stoðum undir atvinnulífið. Það er sanngjarnt að hluti þess arðs sem verður til í hagkvæmum sjávarútvegi renni til slíkra verkefna. En þurfum við ekki að finna aðrar og skilvirkari leiðir en að úthluta byggðakvótum til útgerða ár eftir ár? Mér finnst við hjakka þar í sama farinu. Má ekki t.a.m. breyta svonefndum byggðakvóta í peninga með því að bjóða hann upp og láta það fé renna til hlutaðeigandi samfélaga? Eykur það ekki möguleika íbúanna til fjölbreyttari uppbyggingar í samræmi við þarfir þeirra og óskir? Væri það ekki líka lýðræðislegri og gagnsærri aðferð við ráðstöfun stjórnvalda á takmörkuðum gæðum?   Færri hendur skili almenningi meiri arði Við verðum einnig að líta til þess að þegar hefur orðið mikil tæknivæðing í veiðum og vinnslu sjávarafla. Það þarf nú mun færri hendur til þeirra verka en áður. Sú þróun mun halda áfram. Í því felast tækifæri til að minnka tilkostnað við veiðar og vinnslu og þar með til auka arð sem má og á að nýta til að bæta lífksjör alls almennings í landinu og til sköpunar fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæra um land allt.   Páll Valur Björnsson þingmaður Bjartrar framtíðar