Sló lögreglumann í andlitið

Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í liðinni viku þrátt fyrir að engin alvarleg mál hafi komið upp. Skemmtanahald helgarinnr fór fram með ágætum og engin teljandi útköll á öldurhúsin.   Um miðja síðustu viku hafði lögregla afskipti af manni í annarlegu ástandi inni á einum veitingastað bæjarins. Hann brást hins vegar illa við afskiptum lögreglu og sló einn af lögreglumönnunum í andlitið. Maðurinn var í framhaldi af því handtekinn og vistaður í fangageymslu þar til hann róaðist. Lögreglumanninum var ekki meint af en lögreglan lítur það alvarlegum augum þegar ráðist er að lögreglu enda menn að sinna skyldustörfum sínum og eiga sjálfsagðan rétt á að koma óskaddaðir frá vinnu sinni.   Í vikunni var lögreglu tilkynnt um að gaskút hafi verið stolið þar sem hann var við heimili hér í bæ. Ekki er vitað hver eða hverjir þarna voru að verki.   Aðfaranótt föstudags var lögreglu tilkynnt um að rúða hafi verið brotin í útidyrahurð að íbúð í fjölbýlishúsi hér í bæ. Þarna hafði kona, sem var gestkomandi í íbúðinni, verið ósátt við að vera vísað út og lét skap sitt bitna á rúðunni með því að sparka í hana þannig að rúðan brotnaði.   Laust fyrir hádegi þann 25. september sl. var lögreglu tilkynnt um vinnuslys um borð í Ársæli ÁR-66 þar sem þeir voru að veiðum í Háadýpi. Þarna hafði einn skipverjanna slasast þegar verið var að vinna við að laga niðurleggjarann. Skipið kom í land í Vestmannaeyjum um hádegisbil og var maðurinn fluttur á Sjúkrahús Vestmannaeyja til aðhlynningar en hann hafði skorist á neðrivör sem þurfti að sauma.   Einn ökumaður var stöðvaður fyrir of hraðan akstur í vikunni en hann mældist á 72 km./klst. á Dalvegi en þar er hámarkshraði 50 km/klst. Sektin nam kr. 15.000,-. Þá var einn ökumaður sektaður fyrir að leggja ökutæki sínu ólöglega.   Eitt umferðaróhapp var tilkynnt til lögreglu í liðinni viku en um var að ræða minniháttar óhapp og engin slys á fólki.  

Öruggir þrátt fyrir tap

ÍBV tapaði síðasta heimaleik sínum á þessu tímabili þegar liðið tapaði fyrir Keflavík í dag 0:2.  Fyrir leikinn gátu bæði lið fallið en þar sem Fram tapaði fyrir Stjörnunni, eru bæði lið nú örugg með sæti á meðal þeirra bestu að ári.  Staðan í hálfleik var 0:1 en því miður voru það ekki tilþrif inni á vellinum sem viðstaddir muna eftir.  Heldur munu allir minnast leiksins fyrst og fremst fyrir ljótt fótbrot varnarmannsins sterka Matt Garner í upphafi síðari hálfleiks. Matt var með boltann við eigin vítateig og var við það að fara spyrna langt fram völlinn.  Hörður Sveinsson, sóknarmaður Keflvíkinga náði hins vegar að pota í boltann í sömu andrá og Garner sparkaði en í stað þess að þruma í boltann, þrumaði Garner í Hörð og brotnaði sköflungurinn við höggið, rétt fyrir ofan ökkla á vinstri löpp.  Ekki var hægt að sjá annað en að báðar pípurnar í löpp Garners hafi farið í sundur.  Gera varð 25 mínútna hlé á leiknum, annars vegar meðan beðið var eftir sjúkrabíl og svo tók góðan tíma að undirbúa leikmanninn fyrir flutning, gefa honum verkjalyf og búa löppina þannig að hún hreyfðist sem minnst.  Leikmenn og aðstoðarmenn beggja liða brugðust skjótt við eftir brotið, læknir var á varamannabekk ÍBV og fékk Garner því eins góða aðhlynningu og hægt var að fá.  Atvikið hafði hins vegar mikil áhrif á þá sem fylgdust með, bæði leikmenn og áhorfendur enda var ekki mikill kraftur í leiknum það sem eftir lifði. Keflvíkingar voru sterkari í dag og vildu greinilega meira í þau þrjú stig sem í boði voru.  Eyjamönnum til bóta er rétt að benda á að þrjá lykilmenn vantaði í Eyjaliðið, þá Abel Dhaira, Þórarinn Inga Valdimarsson og Jonathan Glenn.  Þórarinn Ingi er fyrirliði liðsins og baráttumaður mikill og Glenn er markahæsti leikmaður deildarinnar þannig að það munaði mikið um þessa tvo.  Guðjón Orri Sigurjónsson leysti Abel af í markinu og verður seint sakaður um mörkin tvö sem Keflvíkingar skoruðu, sem voru bæði nokkuð smekkleg, langskot sem bæði voru óverjandi fyrir Guðjón Orra. Smelltu hér til að sjá fleiri myndir úr leiknum.

Vilja byggja 120 herbergja hótel

H-Eyjar ehf hefur ítrekað óskir sínar um byggingu 120 herbergja hótels á þeirri lóð sem varð ofan á í íbúakosningu vorið 2013.  Þetta kemur fram í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja en svæðið sem um er rætt, er svæðið ofan við Skanssvæðið.  „Ráðið vill árétta við bréfritara að það svæði sem varð ofaná í íbúakosningu er á hverfisverndarsvæði H-4 og heimilar ekki byggingar skv. ákvæðum svæðisverndar gildandi aðalskipulags. Breytt landnýting til samræmis við íbúakosningu kallar á breytingar á aðalskipulagi og nýtt deiliskipulag. Verði ráðist í slíka vinnu verða lóðir í kjölfarið auglýstar í samræmi við meginreglu sveitarfélagsins,“ segir í svari ráðsins.   Vandræðaleg íbúakosning H-Eyjar ehf tók á sínum tíma við undirbúningi vegna byggingu hótels í Hásteinsgryfju.  Ekkert varð að byggingu hótelsins eftir íbúakosningu um staðsetningu hótelsins.  Aftur stóð Vestmannaeyjabær fyrir íbúakosningu, eða íbúakönnun eins og fram kom í auglýsingu, en fyrir nákvæmlega einu ári voru fimm staðir auglýstir sem þóttu fýsilegir fyrir 120 herbergja hótel og ákvað Vestmannaeyjabær að íbúar myndu kjósa um hvaða staður þætti heppilegastur.  Málið var reyndar allt hið vandræðalegasta fyrir Vestmannaeyjabæ, því sá staður sem hlaut flest atkvæði eða 35,75% var svæðið sem H-Eyjar ehf. sækir um, fyrir ofan Skanssvæðið.  Eftir að niðurstöður könnunarinnar lágu fyrir var ekki lengur talað um könnun vegna hótelssvæðis, heldur könnun þar sem kannað var hvaða svæði þátttakendur töldu henta best til frekari uppbyggingu ferðaþjónustu, eins loðið og það er nú.  Næst flest atkvæði fékk Fiskiðjureiturinn, 33,52%, Löngulág fékk 18,99% atkvæða, Eldheimar 6,7% og 1,4% töldu engan af þessum kostum fýsilegan.

Rætt um að ríkið haldi Baldri áfram hér á landi

Ný flétta er að koma upp í ferjumálum landsmanna sem gengur út á að hið opinbera kaupi gamla Baldur, sem stendur til að selja úr landi og noti hann til að leysa af Breiðafjarðar- Vestmannaeyja- og Hríseyjarferjurnar þegar þær þurfa að fara í slipp eða bila. Söluverð Baldurs er umþaðbil hundrað milljónir króna, eða aðeins brot af þeirri upphæð sem það myndi kosta að leigja erlendar ferjur í þessu verkefni á ári, að mati þeirra, sem eru að skoða málið. Þá mun nýi Baldur, sem kemur til landsins eftir nokkra daga ekki geta siglt inn í Landeyjahöfn vegna djúpristu, þannig að hann mun ekki getað hlaupið í skarðið fyrir Herjólf eins og gamli Baldur hefur gert. Það þyrfti því að leigja erlenda ferju í það til að halda uppi siglingum til Landeyjahafnar sem nú þykir eini raunhæfi samgöngumátinn nema í undantekningum vegna óveðurs. Fréttastofunni er kunnugt um að farið sé að skoða þessa hugmynd óformlega á æðri stöðum í kerfinu, en þar vill engin tjá sig að svo stöddu. Annars er það að frétta af ferjumálum, að Herjjólfur var sjósettur úr sænskri skipasmíðastöð í gær þar sem meðal annars voru gerðar endurbætur á skrokknum til að gera skipið rásvissara í innsiglingunni til Landeyjahafnar. Skipið er væntanelgt til Eyja undir helgina. Þá er verfiðð að ferðbúa nýja Baldur í Noregi, efitr að innanríkisráðuneytið ógilti bann siglingastofnunar á innflutning á skipinu. Að óbreyttu á gamli Baldur þá að sigla til nýrra kaupenda á Grænhöfðaeyjum, nema að fyrrnefndri hugmynd verði hrint í framkvæmd.visir.is greindi frá  

Heilsuvernd og fróðlegar upplýsingar úr ársskýrslu Ískrár

Ískrá er tölvuskráningarkerfi fyrir skólahjúkrun sem nú er komið um allt land nema hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Margs konar upplýsingar eru skráðar í gagnagrunn sem gefur tækifæri til að bera saman þætti varðandi heilsu og líðan skólabarna víðs vegar á landinu. Þarna eru færðar inn upplýsingar um verk sem mælt er með að skjólahjúkrunarfræðingar famkvæmi á landsvísu. Þar má nefna bólusetningar, hæð og þyngd, lífstíll og líðan og margs konar fræðslu. 6H- heilsunnar er fróðlegt og skemmtilegt fræðsluefni sem skólahjúkrunarfræðingar nota. Því er skipt í Hollustu, Hreinlæti, Hamingju, Hvíld, Hugrekki og Hreyfingu (6H) og er fræðsla úr einum eða fleiri liðum í hverjum árgangi Grunnskólans. Nánar á 6h.is   Í haust kom út ársskýrsla Ískrár fyrir síðasta skólaár og er þar margt fróðlegt að finna.   Hvernig erum við að standa okkur? Skýrslur bárust frá 14 Heilbrigðisstofnunum. Til fróðleiks og gamans er gott að sjá hvernig við erum að standa okkur miðað við aðra. Sumt er mjög gott hjá okkur, annað þarf að bæta. Í þessari grein er Heilbrigðisstofnunin í Vestmannaeyjum skammstöfuð með HSV. Ekki er leyfilegt að nefna aðrar stofnanir með nafni sökum nafnleyndar en við teljum upp hvar í röðinni af þessum fjórtán við erum. Við fáum fullt hús stiga í Bólusetningum í 7. og 9. bekk , 98-100% barna fullbólusett sem er mjög gott. Í 1. stigs forvörnum, skyldufræðslu til nemenda (6H –efnið) erum við með mjög góða útkomu í öllum árgöngum. Það þýðir að allir árgangar fengu þá fræðslu sem ætlast er til. Í 1., 4., 7. og 9. bekk koma nemendur til skoðunar og viðtals. Þá er gert svokallað lífstílsmat, markmiðið með lífstílsmati er m.a. að styrkja vitund nemenda um eigin heilsu, lífstíl og líðan. Um 10.300 nemendur á landinu öllu mátu heilsu sína og var um helmingur nemenda sem mat hana mjög góða. Hjá okkur var HSV með 50% eins og landsmeðaltal.   Hreyfing barna: Hlutfall nemenda sem komu gangandi eða á hjóli í skólann er að meðaltali 60% á landinu en hjá HSV 50%. Hlutfall barna í 1. og 4. bekk sem æfa íþróttir eða leika sér oft úti er að meðaltali 88% á landinu en hjá okkur 85%. Hlutfall nemenda í 7. og 9. bekk sem æfa íþróttir 2-3 svar í viku eða oftar er að meðaltali 87% en hjá okkur 91% sem er mjög gott!   Morgunmatur: Hlutfall barna í 1., 4., 7. og 9. bekk sem borða morgunmat er landsmeðaltal 90% en hjá okkur er það 85%. Stúlkur sleppa morgunmat oftar en drengir og eldri nemendur sleppa frekar morgunmat.   Lýsi: Að meðaltali voru 46% barnanna sem tóku lýsi, hjá okkur 49%. Lýsistaka dvínar með hækkandi aldri en ekki var mikill munur á milli kynja. Sjálfsmynd barna: Hlutfall íslenskra skólabarna í 4. 7. og 9. bekk sem eru mjög sátt og sátt við sjálfan sig er um 85%: Hjá okkur eru 80% stúlkna í 9. bekk mjög sáttar eða sáttar við sjálfan sig en hjá drengjum í 9. bekk eru 95% drengja mjög sáttir eða sáttir við sjálfan sig sem setur okkur í þriðja besta sæti yfir landið. Við eigum drengi með sjálfstraust!   Líðan í skóla: Hlutfall nemenda í 1., 4., 7. og 9. bekk sem líður vel í skólanum: Hjá okkur eru um 94% sem tjá sig um að líða vel í skólanum, það setur okkur í þriðja efsta sæti yfir landið, sem er gott.   Tannvernd: Í 1. bekk er spurt, hver burstaði tennurnar þínar í gærkvöldi? Svarmöguleikar: Foreldri, barn eða burstaði ekki . Meðaltalið yfir landið var 65% sem burstaði og best er að foreldrar bursti og aðstoði börnin til 10 ára aldurs. Hér vorum við í neðsta sæti yfir landið með 38% þar sem foreldra aðstoðuðu. Árangursviðmið: Allir bursti 2x á dag og foreldrar aðstoði!   Hæð og þyngd: Mælt er í 1., 4., 7. og 9. bekk. Ofþyngd og offita: Hlutfall stúlkna yfir kjörþyngd er að meðaltali yfir landið 20%. Hjá okkur 34% og það setur okkur í efsta sæti yfir landið, við eigum þyngstu stúlkurnar. Hjá drengjum er meðaltalið líka 20% og þar erum við með 29% sem setur okkur í næst efsta sæti, við eigum næst þyngstu drengina á landinu. Þarna er verk að vinna!      

Landeyjahöfn, staðan í dag

Það er farið að hausta hressilega og um leið byrjar vandræðagangurinn í kring um Landeyjahöfn. Engar framkvæmdir eru hafnar við að lagfæra höfnina og í ný tilkomnu fjárlagafrumvarpi Ríkisstjórnarinnar er ekki gert ráð fyrir krónu í nýtt skip né lagfæringar á höfninni.   Nýjasta kjaftasagan sem ég heyrði fyrir nokkru síðan gengur út á það, að það sé amk. 6-8 ár í nýja ferju. Ástæðan sé sú, að nú sé verið að gera töluverðar breytingar á Herjólfi til þess að gera hann stefnu fastari í siglingum inn og út úr Landeyjahöfn og að þær breytingar séu ekki fjármagnaðar með það í huga að duga aðeins í ca. 2 ár. Ekki veit ég hvort þetta sé rétt, en óneytanlega hefur það vakið athygli mína, að allir þeir sem ég hef rætt þetta við telja að það séu amk. 4 ár í nýja ferju og merkilegt nokkuð, almennt virðast Eyjamenn vera nokkuð sáttir við það að ekki sé verið að setja fjármagn í nýja ferju og vilja miklu frekar að sett sé alvöru fjármagn í langfæringar á höfninni. Þessu er ég nokkuð sammála, en að mínu mati þarf þó fyrst að fá skýrari svör við þeirri spurningu sem óneytanlega vaknaði á borgarafundi Árna Johnsen í vor, en þar fullyrti Árni það að Sigurður Ás Grétarsson hjá Siglingamálastofnun hefði sagt við sig í samtali, að hann væri kominn á þá skoðun, að alveg sama hvað gert væri fyrir Landeyjahöfn þá yrði höfnin aldrei heilsárshöfn. Ég er reyndar sammála þessari skoðun, en er að sjálfsögðu ekki tilbúinn að gefast upp, en maður hlýtur samt að velta því fyrir sér hvort að þessi "skoðun" Sigurðar sé kannski ástæðan fyrir því að ekki sé gert ráð fyrir neinum fjárframlögum frá ríkinu í Landeyjahöfn?   Sumarið var annars nokkuð gott þó að hann lægi full mikið í suðlægum áttum, þá duttu ekki út nema 2-3 dagar í allt sumar, ef ég man rétt. Tíðin framundan er hins vegar, út frá trillusjónarmiðum, óspennandi og veturinn algjörlega óskrifað blað, en vonandi fáum við bara mildan vetur.

Ný ferja eigi síðar en 2016

„Það skiptir hvorki máli fyrir mig né aðra í meirihlutanum hverjir sitja í ríkisstjórn á hverjum tíma. Hagsmunir Vestmannaeyja ná langt út fyrir einhverja mögulega flokkshagsmuni. Krafa okkar er skýr. Hönnun á nýrri ferju, sem ræður við a.m.k. 3,5m ölduhæð við Landeyjahöfn, skal lokið í byrjun næsta árs. Þá þarf strax að hefja smíði. Ferjan skal síðan vera komin í þjónustu við Vestmannaeyjar eigi síðar en 2016. Við sættum okkur ekki við einhverjar hálfkveðnar vísur í þessu samhengi heldur viljum að málin séu á hreinu. Stór hluti af því er að fjármögnun sé tryggð í fjárlögum,“ sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri, þegar hann var spurður álits á því að í frumvarpi til fjárlaga næsta árs er ekki gert ráð fyrir fjármagni til nýrrar ferju fyrir Vestmannaeyjar.   Elliði vitnar í ályktun bæjarráðs sem lýsti á fundi sínum yfir undrun og vonbrigðum með að ekki sé tryggð fjármögnun á nýrri Vestmannaeyjaferju í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Bæjarráð vekur athygli á því að í frumvarpinu segir: „Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvernig háttað verður fjármögnun á nýrri Vestmannaeyjaferju en gert er ráð fyrir að það mál verði skoðað sérstaklega þegar fullnaðarhönnun liggur fyrir.“   Þetta segir bæjarráð orðhengilshátt, ekki boðlegan samfélagi sem beðið hefur milli vonar og ótta vegna ótryggra samgangna í fjögur ár. Krafa Vestmannaeyjabæjar sé að tafarlaust verði tryggð fjármögnun á nýrri Vestmannaeyjaferju í fjárlögum fyrir komandi ár.   Bæjarstjóra var falið að boða til fundar með þingmönnum Suðurkjördæmis næsta mánudag og krefst svara frá vegamálastjóra hvort að það fjármagn, sem ætlað er í rekstur Landeyjahafnar, dugi til að veita þá þjónustu sem þörf er á allan ársins hring. Til dýpkunar, reksturs mannvirkja og áframhaldandi þróunar og rannsókna til að vinna höfnina út úr þeim vanda sem glímt hefur verið við frá opnun hennar.   Bæjarráð vill líka skýr og tafarlaus svör frá samgönguyfirvöldum um það hvernig samgöngum við Vestmannaeyjar verður háttað þegar til þess kemur að Herjólfur tekur upp siglingar í Þorlákshöfn. Í því samhengi er minnt á þá kröfu að Landeyjahöfn verði áfram nýtt af öðrum sæförum með heimild til þjónustu á siglingaleiðinni milli lands og Eyja. „Ég hef þegar óskað eftir því að þingmenn komi hingað til fundar við okkur 22. september og á ekki von á öðru en það verði auðsótt,“ sagði Elliði. „Ég hef einnig sent vegamálastjóra fyrirspurn um hvað skert framlög merkja og hvort það leiði til þjónustuskerðingar. Bæjarstjórn mun fylgja þessu máli eftir eins og henni er frekast unnt. Við gerum einnig ráð fyrir því að þingmenn okkar geri slíkt hið sama.“   >> Nánar í Eyjafréttum

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Íþróttir >>

Ódýrast að æfa fimleika í Vestmannaeyjum

Verðlagseftirlit ASÍ tók saman hvað kostar að æfa fimleika fyrir börn á aldrinum 8 til 10 ára haustið 2014 en miðað er við fjóra klukkustundir á viku í fjóra mánuði. Mikill verðmunur er á hæsta og lægsta verðinu eða 113% en Fimleikafélagið Rán í Vestmannaeyjum er með lægstu æfingagjöld á landinu og býður jafnframt upp á fleiri klukkustundir en flest önnur félög.   Þannig kostar það 24.840 kr fyrir barn 8 til 10 ára að æfa í fimm klukkustundir í viku í fjóra mánuði hjá Rán. Æfingagjöldin hækka ekkert á milli ára og er Rán aðeins annað félagið af tveimur sem hækkar ekki æfingagjöldin á milli ára en alls voru æfingagjöld könnuð hjá 15 félögum. Næst lægstu æfingagjöldin er að finna hjá Íþróttafélaginu Hamri, 28.000 kr en Hamar hækkaði æfingagjöldin um heil 17% á milli ára, sem er mæsta hækkun félaganna fimmtán. Fyrir ári síðan var Hamar með lægstu æfingagjöldin. Eins og áður sagði er Rán bæði með lægstu æfingagjöldin og flesta klukkutímana. Aðeins eitt annað félag býður upp á jafn marga klukkutíma í viku, en það er Íþróttafélagið Grótta. Þar eru æfingagjöld hins vegar um helmingi hærri en hjá Rán eða 48.000 kr. Aðeins þrjú félög af fimmtán hækka ekki æfingagjöldin á milli ára, Rán, Afturelding og Keflavík.   Í umfjöllun ASÍ um könnunina er tekið fram að hér sé aðeins um verðsamanburð að ræða og sú þjónusta eða dagskrá sem í boði er á námskeiðum félaganna er ekki metin. Ekki er heldur tekið tillit til þess hvað afimleika er verið að æfa. „Verðlagseftirlitið tekur heldur ekki tillit til safnanna sem íþróttafélögin standa fyrir og eða styrkja frá sveitarfélögunum, hvorki æfingagallar né keppnisgjöld eru með í gjaldinu sem borið er saman.“   Samanburðartöflu ASÍ má sjá hér að neðan.  

Stjórnmál >>

Fyrsti fundur bæjarstjórnar í dag

Bæjarstjórn Vestmannaeyja kemur saman í dag í fyrsta sinn á nýju kjörtímabili.  Niðurstaða bæjarstjórnarkosninganna í vor, voru á þann veg að Sjálfstæðisflokkur fékk fimm bæjarfulltrúa en Eyjalistinn tvo.  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn eru Elliði Vignisson, Páley Borgþórsdóttir, Páll Marvin Jónsson, Trausti Hjaltason og Birna Þórsdóttir en fulltrúar Eyjalistans eru Jórunn Einarsdóttir og Stefán Óskar Jónasson.  Elliði, Páley, Páll Marvin og Jórunn sátu öll í bæjarstjórn á síðasta kjörtímabili.  Stefán Óskar hefur áður verið í bæjarstjórn og var varamaður á síðasta kjörtímabili en þau Trausti og Birna eru ný.  Bæjarstjórnarfundurinn fer fram í Eldheimum og hefst klukkan 18:00.   „Þegar ég kom inn í bæjarstjórn 2002 voru útsvarstekjur á hvern íbúa á verðlagi þess árs rétt liðlega 200.000 krónur en á síðasta ári voru þær hátt í 475.000 krónur,“ sagði Stefán í samtali við Eyjafréttir, sem kom út í gær.   „Staðan í dag opnar á tækifæri að gera meira fyrir bæjarbúa og bæjarfélagið í heild. Ég er ekki að mæla með óráðsíu í fjármálum en það má gera betur á ýmsum sviðum. Auðvitað veltur þetta mikið á á sjávarútvegi og afkomu atvinnulífsins almennt. Á kjörtímabilinu 2002 og 2006 vorum við, ég og núverandi bæjarstjóri, Elliði Vignisson, að skoða þann möguleika á að rífa blokkina Áshamar 75 ef það gæti létt á skuldum bæjarins. Engum dettur það í hug í dag en sterkari innviðir bæjarfélagsins eru líka verðmæti,“ sagði Stefán.   Viðtalið má lesa í heild sinni í Eyjafréttum.  

Greinar >>

„Komin með uppí kok af afskiptaleysi yfirvalda"

Ég er sjálfstæð móðir tveggja frábærra stúlkna. Eldri stúlkan mín er að verða 16 ára í desember. Hún elskar fótbolta, skólann sinn, fjölskylduna sína og vini sína. Hún er afar glöð, fyndin, skemmtileg og kát. Eins og aðra unglinga langar hana stundum að gera eitthvað sem kostar peninga , eins og að fara út að borða með vinum sínum, fara á stöku framhaldsskólaball og jafnvel vera flippuð og kaupa sér föt. En þar sem hún er svo ,,óheppin“ að eiga mig fyrir mömmu þá er þetta sjaldnast hægt þar sem launin mín eru búin 2 hvers mánaðar því allt í velferðarsamfélaginu okkar hefur hækkað svo mikið, það er að segja allt nema laun okkar ,,venjulega“ fólksins.     Yngri stúlkan mín varð 11 ára núna 8 september, reyndar er ekki enn búið að halda afmælisveislu henni til heilla þar sem ekki var til peningur til þess en ég ætla að sleppa því að borga eins og einn reikning(hann fer bara í hýtina með hinum ógreiddu reikningunum) núna 1.október og halda veislu fyrir litlu stúlkuna mína því eins og þið vonandi flest þekkið og vitið þá elska börn að halda upp á afmælið sitt. Litla konan er eins og systir sín hrikalega skemmtileg, félagslega ofvirk og elskar að vera með vinum sínum. Hún er líka fótboltastelpa eins og systir hennar og lítur mikið upp til hennar.   Æjá ég gleymdi að taka fram að ég er lærður leikskólakennari og vinn sem deildarstjóri á yndislegum leikskóla hér í Vestmannaeyjum og tel mig afar heppna að vinna við það skemmtilegasta í heimi, að mínu mati, mennta og hugsa um framtíðina okkar. Reyndar finnst mér framtíðin okkar ekki mikils metinn af ykkur ráðamönnum þar sem peningar til menntastofna eru af skornum skammti og launin mín eru skammarleg. Hef oft velt þvi fyrir mér að ef ég myndi passa peninga átta tíma á dag ætli ég fengi þá betri laun? Því miður er ég 100% viss um að svarið við þessari spurningu minni er já því peningar eru málið hér á landi, en samt ekki fyrir alla, bara fyrir þá sem eiga mest af þeim. Því meiri peninga sem þú átt, því meiri peninga færðu og því minna þarftu að borga af skuldunum þínum-Þær eru bara felldar niður, allavega blasir þetta svona við mér en endilega leiðréttið mig ef það er rangt hjá mér.    Hvenær ætla ráðamenn þessa lands að fara að girða sig í brók gagnvart okkur ,,venjulega“ fólkinu og sjá til þess að hægt sé að lifa mannsæmlega af laununum sínum. Ég er kannski svo barnaleg að finnast að með 100% menntun í 100% vinnu áttu að geta lifað 100% lífi, ekki bara 36,6% lífi eins og mér finnst ég lifa núna(og nei ég er ekki með reikniformúluna fyrir þessum útreikningi). Til að fyrirbyggja allan misskilning þá er ég ekki að meina að ég þurfi að fara til útlanda oft á ári, ég þarf ekki að borða humar og naut í hvert mál, ég þarf ekki að kaupa dýrar flíkur á börnin mín. Nei ég er að tala um að þegar ég fæ útborgað að þá viti ég að launin mín dugi út mánuðinn fyrir mat og öðrum nauðsynjum. Ég er að tala um að ef dóttir mín á afmæli þá get ég haldið upp á það. Ég er að tala um að ef dóttur mína vantar vettlinga þá get ég keypt þá án þess að þurfa að sleppa þvi að eiga morgunmat síðustu vikuna í mánuðinum. Ég er alls ekki að fara fram á að ég sleppi við að borga skuldir mínar, alls ekki en ég er að fara fram á að ég geti lifað af laununum mínum og ég geti boðið dætrum mínum sömu tækifæri í lífinu og þeir sem meira eiga.    Þið veltið eflaust fyrir ykkur hvar pabbi stelpnanna minna er í þessu dæmi en ég get sagt ykkur það að hann borgar sín meðlög(sem er efni í annan pistil), hann borgar æfingagjöldin þeirra svo þær geti stundað fótboltann sinn þannig það er ekki við hann að sakast. Hann gerði nefnilega sömu mistök og ég, hann menntaði sig til lítils metins starfs en samt svo mikilvægs, hann er lögreglumaður og við vitum nú öll við hvaða svelti sú starfstétt býr við.   Vil líka að þið vitið að ég er með Stöð 2 og ég pantaði mér pizzu með vinkonu minni í síðasta mánuði þannig það má kannski segja að ég lifi hinu ljúfa lífi, ekki það að mér finnst ekki að það eigi að vera munaður að hafa aðagang að sjónvarpsstöðvum en ég viðurkenni það, ég hefði getað sleppt því að panta þessa pizzu.       Það sem mér finnst kannski sorglegast í þessu er að ég veit að ég hef það sko alls ekki slæmt miðað við marga aðra og iðulega þegar ég er alveg að gefast upp(sem gerist æði oft) þá hugsa ég til þeirra sem eiga ekkert og engan að. Ég er nefnilega svo óskaplega heppin að ég á yndislega fjölskyldu sem passar upp á okkur mæðgur og sér til þess að við förum aldrei svangar að sofa. Foreldrar mínir sáu til þess að dætur mínar fengju frábæra skólabyrjun og að þær skorti ekki neitt sem þurfti í skólann. Systir mín passar upp á að föt sem hennar dætur eru hættar að nota rata alltaf til okkar og einnig hefur hún alltaf húsaskjól handa okkur í Reykjavík þegar við þurfum að leita þangað og má þá ekki heyra á annað minnst en að borga matinn ofan í okkur. Litli bróðir minn hefur oft hlaupið undir bagga með stóru systur sinni þegar ástandið er verulega slæmt.Einnig erum við svo heppnar að eiga tvær Frænkur sem passa vel upp á okkur, bjóða okkur í mat og gefa stelpunum mínum föt. Allt þetta yndislega fólk er svo alltaf til staðar þegar mamman ég er að gefast upp, bíður með opinn faðminn, öxl til að gráta smá á og alltaf tilbúið að hlusta og veita ráð og stuðning.       En það er afar lýjandi að eiga aldrei pening, þurfa að reiða sig á aðra til að lifa af og ég veit þið trúið því ekki hvað mér finnst ég lítil þegar ég þarf enn einn mánuðinn að biðja fólkið mitt um lán til að hafa það af út mánuðinn. Ég þarf ekki mikið, kaupi mér aldrei föt og þau föt sem ég er í núna þegar ég skrifa þetta bréf eru allt gjafir frá fólkinu mínu. Éf hef engan áhuga á ittala-vösum, marimekko-teppum, 66 gráður norður úlpum eða skóm sem kosta morð og milljón. Ég er elsku sátt í sófanum sem ég keypti úr dánarbúi á 5000 krónur, rúminu sem fyrrverandi maðurinn minn keypti notað fyrir 10 árum og með sófaborðið hennar ömmu sem ég var svo ,,heppin“ að fá þegar hún fór á elliheimilið.       Nei ég þarf ekki mikið til að vera hamingjusöm og met fólk, ást, vináttu og gleði alla daga fram yfir dauða hluti því trúið mér ég veit þeir færa mér ekki hamingju og ekki peningar heldur-En engu að síður finnst mér ég ekki frek þegar ég ætlast til þess að launin mín dugi fyrir mat og öðrum nauðsynjum.   En nú set ég punkt þó ég gæti eflaust skrifað margar blaðsíður um þetta-vonandi ná þessi orð mín augum einhverra sem finnst þetta skipta máli eða hafa eitthvað um þetta að segja en allavega þá líður mér pínku ponsu betur í hjartanu eftir að hafa komið þessu frá mér.   Hamingja og gleði   Lóa :-) .