Landsbankinn sameinar starfsemi á á Höfn og Selfossi

 Útibú sem áður heyrðu undir Sparisjóð Vestmannaeyja á Höfn og Selfossi sameinuð útibúum Landsbankans. Áfram verða reknar afgreiðslur á Breiðdalsvík og Djúpavogi og  Landsbankinn endurnýjar útibú sitt í Vestmannaeyjum síðar á árinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum og verður sameiningin á mánudaginn,  27. apríl. Útibúin verða til að byrja með rekin í húsnæði Landsbankans á þessum stöðum, en að loknum lagfæringum á Höfn mun bankinn flytja starfsemi sína í húsnæði sparisjóðsins. Húsnæði Landsbankans á Höfn verður þá selt.   „Þá hefur verið ákveðið að reka áfram afgreiðslur á Breiðdalsvík og á Djúpavogi og hefur sveitastjórnum þessara staða verið tilkynnt um það. Við sameingu útibúa á Selfossi og Höfn láta 6 starfsmenn af störfum, en tveir þeirra óskuðu ekki eftir áframhaldandi starfi í sameinuðu útibúi. Þá flyst einn starfsmaður á höfuðborgarsvæðið að eigin ósk og fær starf hjá bankanum þar.   Fækkun starfsmanna á Höfn og Selfossi er óhjákvæmileg og endurspeglar þær miklu breytingar sem orðið hafa á bankaviðskiptum á síðustu árum, m.a. færri heimsóknir í bankaútibú og sívaxandi nýtingu á rafrænum lausnum s.s. netbönkum.   Landsbankinn og starfsmenn hans munu leitast við að tryggja að sameining Landsbankans og Sparisjóðs Vestmannaeyja valdi viðskiptavinum sem minnstri röskun. Strax á mánudag geta viðskiptavinir sjóðsins leitað með öll sín mál í sameinuð útibú á Höfn og Selfossi. Netbanki og greiðslukort viðskiptavina Sparisjóðs Vestmannaeyja munu áfram virka eins og þau hafa gert. Sameiningu mun svo ljúka að fullu síðar á árinu með opnun endurnýjaðs útibús Landsbankans í Vestamannaeyjum,“ segir í tilkynningunni og eftir þessar breytingar 35 útibú og afgreiðslur um land allt.    

Magnús Jónasson - Landeyjahöfn – hvað er í gangi ????

Það er orðin nokkuð langur tími síðan ég lét nokkuð frá mér fara varðandi Landeyjahöfn. En nú er mælirinn alveg að verða fullur, svo ég verð að rita nokkur orð varðandi hana. Landeyjahöfn er höfn á sandströnd suðurlands og má líkja henni við t.d. Þorlákshöfn eða Hornarfjarðarhöfn. Þær hafnir voru ekki byggðar á einum degi frekar en Landeyjahöfn. Við verðum að gefa þessari framkvæmd tíma til að verða að veruleika. Ef við skoðum t.d. Þorlákshöfn í kringum 1972 var þar enginn höfn, ekkert alvöruskip þorði þangað inn vegna þess að höfnin var svo vanbúin. Hvað er í dag ? Prýðishöfn ! Af hverju ? Vegna þess að menn höfðu vit á að vinna með náttúrinni, en ekki á móti henni, og gefa þessu tíma til að þróast. Í dag er Landeyjahöfn „lítið barn í vöggu“ sem þarf mikla nærgætni og umönnunar,en umfram allt tíma og umönnun.     T.d. þýðir ekkert að vera með einhverjar „trillur“ með „títiprjóna“ til að dýpka þarna ! Þarna þarf alvöru dýpkunarskip sem getur athafnað sig í venjulegum veðrum og þá á ég við venjulegum veðrum. Þessar „trillur“ sem nú eru notaðar geta ekki einu sinni athafnað sig í mígandi sléttum sjó – annaðhvort bila þær eða það brotna dælurörin, nú ef ekki það þá þurfa menn að fá sér frí til að hitta fjölskylduna, sem er ekki nema eðlilegt, en ekki við þessar aðstæður. er fulltrúi Björgunar hf eru með stór orð um að þessi höfn verði ALDREI HEILSÁRSHÖFN.   Bara þessi yfirlýsing segir allt sem segja þarf um þessa „títiprjóns-dælara“, sem nú þykjast vera að dýpka þarna – ef allir hugsa svona gerist ekki neitt og ef allir hefðu hugsað svona varðandi t.d. Þorlákshöfn og höfnina í Höfn á Hornafirði, þá hefði ekkert gerst og á þessum stöðum væri sennilega enn róið á sex- eða áttæringum með handfæri eða í mesta lagi línu. Allir hugsandi menn ættu nú að sameinast í að gera Landeyjahöfn að alvöruhöfn eins og þær hafnir sem ég hef nefnt hér að framan. Allt annað er bara afturhald og hálfkák.   Hættum að kenna hvorum öðrum um, þetta er ekki spurning um hvað Sigurður Áss eða þeir hjá Siglingamál vilja gera, þetta er spurningum að standa saman og hrinda í framkvæmd alvöru lausn á þessu máli. Fyrst og fremst að gera Landeyjahöfn að ALVÖRU HÖFN og síðan að fá hentugt skip til siglinga hér á milli. Góðir Eyjamenn !!!!!! Hættum þessum vælugangi og drífum í verkinu, þannig höfum við haft málin fram. Sjáið bara gömlu mennina sem flestir eru nú farnir frá okkur – framsýni þeirra að kaupa alvöru grafskip, á þeirra tíma mælikvarða, og gera höfnina í Eyjum að lífhöfn Suðurlands og einni bestu höfn landsins. EYJAMENN --- stöndum saman og hættum öllu niðurrifi í þessum málum – og ef ekki vill betur þá tökum bara málin í okkar hendur og klárum þau með stæl. Við höfum gert það áður – hví ekki núna ????   Með Eyjakveðju Maggi á Grundó.    

Kenneth Máni fór á kostum á Háaloftinu og endurtekur leikinn í kvöld

„Þetta var frábær salur og kom mér á óvart því maður veit aldrei á hverju maður getur átt von á. Þetta voru um helmingi færri gestir en á Litla sviðinu í Borgarleikhúsinu en það gerði ekkert til því stemmningin var frábær,“ sagði Björn Thors eftir að hafa troðið upp á Háaloftinu sem Kenneth Máni. Ekki var uppselt en þeir sem ekki mættu misstu af miklu en geta bætt sér það upp í kvöld því Björn ákvað að slá upp annarri sýningu klukkan níu.  Er hiklaust hægt að mæla með sýningunni. Það var mikið hlegið en á köflum var stutt í tárin en eins og Kenneth Máni segir, þá er hann heiðarlegur glæpamaður og það er kannski það sem er aðall sýningarinnar að hún er svo heiðarleg í einfaldleika sínum.  Og líka frábær skemmtun.     lSýningin Kenneth Máni var frumsýnd í Borgarleikhúsinu í haust og hefur verið sýnd um 70 sinnum við mikið lof 20.000 sýningargesta. Höfundar sýningarinnar eru Björn Thors sem fer með hlutverk Kenneths Mána, Jóhann Ævar Grímsson sem skrifaði, ásamt fleirum, Næturvaktina, Dagvaktina og Fangavaktina og Saga Garðarsdóttir uppistandari og meðhöfundur síðasta áramótaskaups. Björn og Ævar byrjuðu fyrir um tveimur árum að ræða hugmyndina um að gera eitthvað meira með persónu Kenneths Mána.     Þeir fundu fyrir smá pressu að vinna meira með þennan senuþjóf úr Fangavaktinni. Fyrir um ári hófst svo vinnan við handritið að sýningunni og kom þá Saga Garðarsdóttir inn í hópinn. Björn segir að flestir kannist við einstaklinga sem hafa sömu persónueinkenni og Kenneth Máni en hann glímir við lesblindu, athyglisbrest, ofvirkni og almennt hömluleysi. „Tveir leyndir draumar hjá mér sameinast í þessu verki, einleikur og uppistand, og var þetta verkefni því tilvalið fyrir mig“ segir Björn.     Hann segist vera svakalega spenntur að koma til Eyja og sýna verkið fyrir Eyjamenn. Sýningin er þann 22. apríl á Háaloftinu og hefst kl. 21:00. Forsala er hafin í Tvistinum og kostar miðinn 4.900 kr.  

Strákarnir okkar taka á móti HK

 Strákarnir okkar í 3. flokki karla í handbolta taka á móti HK-ingum á morgun. Um er að ræða undanúrslit Íslandsmótsins í 3. flokki karla. ÍBV hefur sigrað alla heimaleiki sína á leiktíðinni og á morgun verður vonandi engin breyting á því.    Leikurinn hefst klukkan 13:30 en við hvetjum alla sem hafa tök á, til þess að mæta á leikinn sem verður í gamla sal Íþróttamiðstöðvar Vestmannaeyja.    ÍBV endaði í 2. sæti 1. deildar í 3. flokki en HK í því 3. ÍBV vann báða leiki sína gegn HK-ingum, þann fyrri með fjórum mörkum og þann seinni með tólf mörkum. Sæti í úrslitaleiknum bíður sigurliðsins en sá leikur verður þann 1. maí í Kaplakrika.    Stuðningur á yngri flokka leikjum félagsins hefur verið frábær síðustu ár en á morgun er mikil þörf á stuðningi. Strákar fæddir 1997 og 1998 skipa flokkinn en í fyrra urðu strákarnir fæddir 1998 bikarmeistarar. Árið áður urðu þeir Íslandsmeistarar, þeir eru hungraðir í fleiri titla en sú von gæti verið úti að loknum leik á morgun.  Í hinum undanúrslitaleiknum eigast Valsarar og Haukamenn við í Vodafone-höllinni. Sá leikur fer fram næsta þriðjudag en það verður fróðlegt að sjá hvoru liðinu ÍBV mætir, fari þeir í úrslitaleikinn. Valsarar urðu bikarmeistarar fyrr á árinu eftir sigur á ÍBV.   Það verður boðið upp á skemmtiatriði í hálfleik en ekki hefur fengist staðfest hver þau verða. Við hvetjum fólk til að mæta tímanlega því stúkan á það til að fyllast á leikjum ÍBV.     

150 dagar frá því að Herjólfur fór síðast í Landeyjahöfn -Fagnað með kökugjöfum

Hópurinn sem stendur að Landeyjahöfn.is fagnar því að í dag eru 150 dagar frá því að Herjólfur komst síðast í Landeyjahöfn. Í tilefni hópurinn ákveðið að færa ráðamönnum hamingjuóskir og köku í tilefni dagsins.  Þeir benda á nokkrar staðreyndir:  -Samkvæmt upprunalegu uppleggi með Landeyjahöfn og með núverandi Herjólfi var gert ráð fyrir 5-10% lokun á höfninni á ársgrundvelli og miðað við núverandi ástand að þá er lokun orðin meira en 40%. Einnig var gert ráð fyrir að lokun yfir vetrarmánuðina (1.nóv - 31.mars) gæti alveg farið í 20% en raunveruleikinn núna er 87% lokun (frá 1.nóv til 31. mars 2015)   Eins og staðan er í dag að þá blæðir samfélaginu á öllum sviðum sama hvort litið er til fyrirtækja, ferðaþjónustuaðila eða hins venjulegs íbúa. Búsetuskilyrði fyrir alla þessa aðila eru brostin miðað við núverandi stöðu.   Við sem stöndum að Landeyjahofn.is viljum einfaldlega að við sameinumst um að allur fókus verði settur í að leysa og finna framtíðarlausn á siglingum og dýpkun í Landeyjahöfn. Til þess að slíkt verði gert þarf að hætta að tala um smíða skip sem siglir í Þorlákshöfn, hætta að tala um að byggja göng til Vestmannaeyja og setja alla okkur orku og fókus í að leysa þessi mál til frambúðar.   Við viljum einfaldlega að staðið verðið við gefin loforð um Landeyjahöfn sem heilsárshöfn. Við gerum okkur einnig fulla grein fyrir því að erfitt er að stjórna náttúrunni og að einhverjar frátafir verði almennt á siglingum í Landeyjahöfn og sættum við okkur við slíkt innan ákveðna skekkjumarka.   Þeir aðilar sem fá köku og hamingjuóskir frá okkur eru, Innanríkisráðuneytið kl. 14.00,  Alþingi  kl. 14.30 og og Samgöngustofa kl. 13.30. en nánari tímasetning á afhendingu verður send út í fyrramálið. Kveðja Landeyjahofn.is.    

Fæðingar hér og fæðingar þar

Fæðingarstöðum á Íslandi hefur fækkað hin síðari ár. Í svo fámennu og dreifbýlu landi sem Ísland er, er skiljanlegt að erfitt sé að halda úti fæðingarþjónustu á hverjum stað. Engu að síður verðum við að tryggja jöfnuð á milli þegna landsins og því verður kerfið að vera skipulagt á þann hátt, að komið sé til móts við fólk sem ekki á kost á fæðingarþjónustu í heimabyggð. Ein leið væri til dæmis sú að breyta núverandi löggjöf um fæðingarorlof, en ég lagði fram frumvarp þess efnis á yfirstandandi vorþingi.     Löng bið   Verðandi foreldrar á landsbyggðinni sem búa fjarri fæðingarþjónustu eða/og búa við þær landfræðilegu aðstæður að samgöngur eru ótryggar, þurfa yfirleitt að fara að heiman nokkru fyrir áætlaðan fæðingardag. Þetta á t.d. við um íbúa í Vestmannaeyjum og Höfn í Hornafirði. Yfirleitt er miðað við 38. viku meðgöngu nema um áhættumeðgöngu sé að ræða. Börnin koma þegar þeim hentar þannig að foreldrar geta lent í því að bíða fæðingar í allt að 4 vikur, fram að 42. viku en þá eru konur yfirleitt gangsettar.   Réttlætismál   Núverandi kerfi felur í sér óásættanlegan ójöfnuð á milli landshluta. Verðandi foreldrar á landsbyggðinni þurfa t.d. oft að hefja töku fæðingarorlofs fyrr, af ofangreindum ástæðum og þá dregst sá tími, þ.e. biðtíminn eftir barninu, frá orlofinu. Þannig að barn og foreldrar njóta styttri samveru þegar barnið kemur loksins í heiminn. Með því að breyta lögum um fæðingarorlof gætum við tryggt rétt barna til að njóta jafnlangs tíma með foreldrum sínum eftir fæðingu eins og þau börn sem eiga heima í nágrenni við fæðingarþjónustu.   Hár dvalarkostnaður   Annað atriði sem ég tel þurfa að huga betur að er dvalarkostnaður þeirra sem þurfa að fara að heiman vegna barnsfæðinga og eiga ekki ættingja eða vini sem geta hýst þá meðan á biðinni stendur. Ein leið væri að bæta við rýmum á sjúkrahótelum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá mér um fæðingarþjónustu (http://www.althingi.is/ altext/144/s/1073.html) kom m.a. fram að fyrirhuguð er bygging sjúkrahótels við Landspítalann nú á þessu ári og í undirbúningi er aðstaða fyrir fólk á sjúkrahóteli á Akureyri. Þannig að svo virðist sem hlutirnir séu að mjakast í rétta átt, sem er vel. Það er mín skoðun að á meðan hið opinbera getur ekki útvegað fólki dvalarstað á sjúkrahóteli, verði að koma til móts við fólk með fjárstyrk vegna dvalarkostnaðar í nágrenni við fæðingarstað. Fólk á ekki að gjalda þess að búa fjarri fæðingarstöðum. Frumvarp um breytingu á lögum um fæðingarorlof: http://www.althingi.is/ altext/144/s/1089.html  

Lögreglan - Níu fíkniefnamál á árinu

Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í vikunni sem leið m.a. vegna fíkniefnamála, þjófnaða og fl. Skemmtanahald helgarinnar fór fram með ágætum en eitthvað var þó um pústra án þess þó kærur hafi verið lagðar fram.  Tvö fíkniefnamál komu upp í vikunni og hefur þegar verið greint frá öðru málinu er varðaði sölu og dreifingu á fíkniefnum í Eyjum á undanförnum mánuðum. Um var að ræða hálft kíló af hassi. Í hinu tilvikinu var maður stöðvaður af lögreglu vegna gruns um að hafa fíkniefni í fórum sínum og reyndist sá grunur á rökum reistur en um þrjú grömm af maríjúana fundust við leit lögreglu. Maðurinn viðurkenndi að eiga efnin og telst máið að mestu upplýst. Alls hafa níu fíkniefnamál komið upp það sem af er árinu á móti fjórum í fyrra á sama tíma.   Tveir þjófnaðir voru tilkynntir til lögreglu í liðinni viku og var í öðru tilvikinu um að ræða þjófnað úr trillu sem var í slipp á Skipasandi. Tekin var fartölva en síðar kom í ljós að drengur á fjórtánda ári var þarna að verki og hefur tölvunni verið komið til eiganda. Í hinu tilvikinu var um að ræða þjófnaði á reiðhjóli sem var við Eimskipshöllina. Er þarna um að ræða fjólublátt kvenmannsreiðhjól og eru þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um hvar hjólið er beðnir um að hafa samband við lögreglu.     Eitt umferðaróhapp var tilkynnt lögreglu í vikunni sem leið en þarna hafði bifreið sem ekið var afturábak á Heiðarvegi lent á kyrrstæðri bifreið. Ekki var um mikið tjón að ræða og engin slys á fólki.   Alls liggja fyrir 6 kærur vegna brota á umferðarlögum eftir vikuna og er í fimm tilvikum um að ræða ólöglega lagningu ökutækis og í einu tilviki vanrækslu á að hafa öryggisbelti spennt í akstri.      

Landeyjahöfn er ekki heilsárshöfn - Mildi að ekki hafa orðið slys

„Mér finnst alvarlegt að það sé enn verið að telja Vestmannaeyingum trú um að það sé hægt að halda Landeyjahöfn opinni yfir veturinn,“ sagði Gunnlaugur Kristjánsson, forstjóri Björgunar ehf. í samtali við Morgunblaðið í dag.  Fyrirtækið annast  dýpkun hafnarinnar samkvæmt samningi við Vegagerðina. „Í fyrra opnuðum við höfnina í byrjun mars en þá var einmunatíð. Það er ekki til sú aðferð í heiminum sem hefði getað haldið höfninni opinni í vetur. Þá er ég ekki bara að tala um fyrir Herjólf. Ég er líka að tala um nýja ferju. Þarna var 5-6 metra ölduhæð viku eftir viku. Af hverju er ekki komið dæluskip eða aðferð til að halda þessu opnu? Það er vegna þess að það er ekki til. Ég verð manna fegnastur ef það finnst aðferð til að halda höfninni opinni.“   Tvö dæluskip biðu í gær færis að komast í Landeyjahöfn, annað í Vestmannaeyjum og hitt í Þorlákshöfn, en ölduhæð var of mikil. „Dýpið í hafnarmynninu er nú tveir metrar. Skip sem ristir 3,5 metra siglir ekki á tveggja metra dýpi, allra síst í tveggja metra öldu,“ sagði Gunnlaugur. Hann sagði að dæluskipinu Perlu hefði verið lætt inn í höfnina á flóði fyrir síðustu helgi og var reynt að dæla sandi út fyrir hafnargarð. Það er líklega fljótlegasta leiðin til að opna höfnina svo stærra sanddæluskip komist þar að. „Menn ætla að eyða einhverjum milljörðum í smíði á nýjum Herjólfi. Hann mun aldrei geta siglt alla daga í Landeyjahöfn nema með einhverri stórkostlegri breytingu á höfninni,“ sagði Gunnlaugur. Hann sagði menn hafa reynt að dæla sandi við Landeyjahöfn í miklum straumi og ölduhæð þar sem jafnvel brjóti á rifinu sem verið sé að dýpka. Áhafnirnar á sanddæluskipunum séu venjulegir íslenskir sjómenn en ekki hermenn. Það séu því takmörk fyrir því við hvaða aðstæður sé forsvaranlegt að láta þá vinna að dýpkun. „Í mínum huga er það bara mildi að ekki hefur orðið stórslys þarna við þessar aðfarir,“ sagði Gunnlaugur við Mogunblaðið.

Fulltrúar hans staddir í Eyjum í dag

 Í síðasta blaði Eyjafrétta birtist auglýsing frá Uppbyggingarsjóði Suðurlands þar sem auglýst er eftir umsóknum um verkefnastyrki á  sviði nýsköpunar, menningar og atvinnuþróunar á Suðurlandi. Í dag eru þau Dorothee Lubecki og Finnbogi Alfreðsson frá Uppbyggingarsjóðnum stödd í Eyjum til aðstoða væntanlega umsækjendur, veita þeim upplýsingar og alla þá aðstoð sem  þeir þurfa. Finnbogi og Dorothee verða á efstu hæð Þekkingingarsetursins í dag. Vilja þau hvetja alla sem áhuga hafa að hafa samband við þau.   Sjóðurinn hefur það hlutverk að veita verkefnastyrki á sviði nýsköpunar, menningar og atvinnuþróunar á Suðurlandi Umsóknarfrestur er til og með 12. maí nk. Uppbyggingarsjóður Suðurlands tekur við hlutverki Menningarráðs og Vaxtarsamnings Suðurlands. Uppbyggingarsjóðurinn er hluti af Sóknaráætlun Suðurlands og er á ábyrgð Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga. Markmið Uppbyggingarsjóðs Suðurlands: ·        Að styðja við verkefni sem efla fjölbreytileika atvinnulífs og jákvæða samfélagsþróun á Suðurlandi ·        Að efla menningarstarfsemi og listsköpun á Suðurlandi ·        Að styðja við atvinnuskapandi- og/eða framleiðniaukandi verkefni á Suðurlandi Stuðningur við styrkþega, frumkvöðla og einstök verkefni getur einnig falið í sér tímabundna vinnuaðstöðu í frumkvöðlasetri SASS og/eða beina aðstoð ráðgjafa við verkefnið. Umsækjendur eru hvattir til að hafa samband við ráðgjafa SASS og fá aðstoð og leiðbeiningar við gerð umsókna. Hægt er að hafa samband í síma 480-8200 eða með því að senda fyrirspurn á netfangið styrkir@sudurland.is. Allar umsóknir þurfa að berast rafrænt í gegnum vefinn www.sudurland.is. Upplýsingar um úthlutunarreglur, leiðbeiningar við gerð umsókna og viðmið við mat á umsóknum er að finna á vefnumwww.sudurland.is.

Meiri kvóta inn á strandveiðiflotann strax

Verkfall BHM fer að bíta - Afleiðingar fyrir útflutning sjávarafurða

Gleðilegt sumar 2015 - Lundinn sestur upp

Lundinn settist upp í gærkvöldi 18. apríl, sem er 5 dögum fyrr heldur en í fyrra, en þar með er komið sumar hjá mér. Reyndar hefur verið töluvert af lunda í kring um Eyjar undanfarna daga, en ég hef ekki séð hann setjast upp fyrr en í gær. Hvort það hafi einhverja þýðingu fyrir sumarið, að lundinn komi aðeins fyrr veit ég ekki, en það er mjög áhugavert að fylgjast með nýjustu spám um veðurfars breytingar á næstu árum og það að sjórinn sé töluvert kaldari sunnan við Eyjar en síðustu ár er vonandi ávísun á það að aðstæður fyrir lundann í Vestmannaeyjum fari nú að batna, en það verður tíminn einfaldlega að leiða í ljós.     Stærsta áhyggjuefnið varðandi lundann, sem og aðra fuglastofna við Eyjar þetta sumar, er sú ákvörðun Vestmannaeyjabæjar að semja við ríkið um að sett verði af stað svokölluð verndaráætlun fyrir fuglastofna í Vestmannaeyjum, en í því ráði eiga að vera 5 aðilar. Einn frá ríkinu, einn frá Náttúrustofu Íslands, einn frá Náttúrustofu Suðurlands, einn frá Vestmannaeyjabæ og einn frá hagsmunaaðilum. Ég reikna með því að Erpur verði þarna fyrir NS og því augljóst að mínu mati, að Eyjamenn verða þarna í minnihluta og að mínu mati, þá mun það ekkert þýða fyrir landeigandann, Vestmannaeyjabæ, sem að sjálfsögðu hefur alltaf lokaorðið að segja nei við tillögum meirihlutans í þessu ráði, vegna þess að fjármagnið á bak við þetta ráð kemur frá ríkinu, en mér segir svo hugur að allir þeir fjöl mörgu eyjamenn sem hafa í dag rétt á margs konar nytjum á fuglastofnunum við Eyjar muni nú ekki kyngja því þegjandi ef Erpur á að fara að stjórna því, hvað sé nýtt og hvað ekki. En vonandi verður sumarið gott fyrir bæði menn og fugla.    

Ómögulegt að lifa lengur á þessum launum

„Kosningin gengur vel og eru okkur farnar að berast tölur um kosningaþátttöku víða af landinu. Þetta fer ótrúlega vel af stað og víða um land fór þátttakan upp í rétt 30% fyrsta sólarhringinn,“ sagði Arnar Hjaltalín, formaður Drífanda stéttarfélags, þegar rætt var við hanni í vikunni. Kosning um heimild til verkfallsboðunar hófst á mánudaginn og lýkur þann 20. apríl. Drífandi er eitt 16 félaga í Starfsgreinasambandinu sem tekur þátt í kosningunni.     „Kjörgögnin bárust til félagsmanna Drífanda með póstinum fyrr í vikunni og hátt í 10% félagsmanna í Eyjum kusu á fyrstu fjórum tímunum. Við höfum undanfarin ár slegið öll met í kosningaþátttöku yfir landið og verðum við að standa undir nafni með það áfram. Kosningin mun standa fram til miðnættis nk. mánudag. Úrslit verða ljós strax daginn eftir, á þriðjudagsmorgun. Við sem stöndum í framlínunni fáum mikla hvatningu frá félagsmönnum ekki bara hérna í Eyjum heldur víða um land. Sömu sögu er að segja af hinum félögunum sem eru með okkur í atkvæðagreiðslunum, alls staðar samstaða um aðgerðir. Einnig er mikill meðbyr með okkur meðal almennings í landinu, enda veit fólk að barátta okkar skilar öllum betri kjörum.“      Arnar sagði félagsmenn vita að erfitt geti verið fjárhagslega að fara í verkfall, en algjörlega sé ómögulegt að lifa lengur á þessum launum og tími sé kominn til aðgerða. „Nú er bara að standa saman og sýna samstöðu. Sagan hefur kennt okkur að samstaða og úthald skilar okkur langt, og með þessar sanngjörnu og hógværu kröfur í farteskinu er ekki til neitt annað svar en JÁ,“ sagði Arnar.  

Sigrar í tveimur síðustu leikjum gefa góð fyrirheit

Nú þegar þrjár vikur eru í að Íslandsmótið hefst og langur vetur (vonandi) að baki er ekki úr vegi að fara aðeins yfir stöðuna. Við erum nýkomnir úr kærkominni æfingaferð frá Campoamor á Spáni þar sem við gátum æft og spilað fótbolta við toppaðstæður. Veðrið var svo sem ekkert að leika við okkur þar heldur, en rennisléttir grasvellir, góður matur og flott hótel bætti upp fyrir allt saman. Æfingaferð sem þessi er fótboltaliðum gríðarlega dýrmæt, ekki síst fyrir okkur Eyjamenn, og þar náum við að stilla saman strengina fyrir komandi átök. Það er engin spurning í mínum huga að ætlunarverk okkar um að koma tilbaka til Eyja sem betra lið hafi svo sannarlega tekist. Nokkrar breytingar hafa orðið á leikmannahópnum frá því í fyrra og þessi mikla samvera bæði utan vallar og innan hefur gert okkur mjög gott.     Frammistaðan og úrslitin í æfingaleikjum vetrarins hafa verið sveiflukennd. Við byrjuðum feykivel og spiluðum oft á tíðum frábæran fótbolta, skoruðum mikið ásamt því að skapa slatta af færum. En gengi okkar fór að dala eftir því sem veiddist meira á loðnumiðunum og það kom kafli þar sem við áttum erfitt uppdráttar. Daddi slúttaði hins vegar loðnuvertíðinni með balli í Höllinni 1. apríl og síðan þá hefur leiðin legið upp á við. Okkur hefur tekist að vinna í veikleikunum frá leikjunum í mars og sigrar í tveimur síðustu leikjum gefa góð fyrirheit. Markmið okkar um að bæta árangur liðsins verulega frá því í fyrra er alveg skýrt. Við höfum það líka sem markmið að spila skemmtilegan og árangursríkan fótbolta, viljum sækja sem oftast og getað stjórnað leiknum með boltann innan liðsins. Það allra mikilvægasta verður þó að ná upp sannkallaðri Eyjastemmningu innan liðsins og smita henni til stuðningsmanna ÍBV. Takist það þá fylgir árangurinn í kjölfarið. Hvað aðrir halda um okkur og spár „sérfræðinganna“ um hvernig gengi liðsins verður skiptir okkur engu. Við höfum bullandi trú á verkefninu og ætlum að koma ÍBV í fremstu röð áður en langt um líður.   Ástandið á leikmannahópnum er þokkalegt eins og staðan er nú. Fyrir utan Matt þá er enginn sem á við langvarandi meiðsli að stríða. Mees Siers er kominn á fullt aftur og það er stutt í að Jonathan verði orðin leikhæfur, ásamt Gauta, sem meiddist lítillega í æfingaferðinni. Við gerum því ráð fyrir að allir í leikmannahópnum verði klárir fyrir síðustu tvo æfingaleikina. Munið síðan að taka frá sunnudaginn 3. maí, þá ætlum við að vinna Fjölni í fyrsta leik Íslandsmótsins!     ÁFRAM ÍBV, alltaf og alls staðar Jói H. – þjálfari mfl. karla  

Skilar jákvæðum rekstarafgangi áttunda árið í röð

Ársreikningar Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2014 hafa nú verið birtir. Heildar rekstrartekjur samstæðu Vestmannaeyjabæjar námu 4.084 m.kr. og rekstrargjöld fyrir fjármagnsliði námu 3.999 m.kr. Rekstrarafkoma samstæðu fyrir fjármagnsliði var því jákvæð um 85 milljónir. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bæjarstjóra. Tekjur dragast nokkuð saman á milli ára og fara úr 4.126 milljónum í 4.084 milljónir. Mestu munar þar um að tekjur vegna útsvars lækka nokkuð. Slíkt þarf þó ekki að koma óvart enda laun í Vestmannaeyjum nánast bein afleiða af verðmæti lands afla. Verðmæti landaðs afla í Vestmannaeyjum fór úr 17 milljörðum árið 2013 í 14 milljarða árið 2014. Því miður á það við um allt land þar sem heildarverðmæti sjávarafla á landinu öllu var 136 milljarðar árið 2014 en 153 milljarðar árið 2013.   „Eftir sem áður bera ásreikningar 2014 það með sér að rekstur Vestmannaeyjabæjar gengur vel. Veltufé aðalsjóðs frá rekstri var 549 milljónir og veltufé frá rekstri samstæðu var 610 milljónir. Vestmannaeyjabær hefur á seinustu árum verið að greiða niður áratuga gamlar skuldir og er búinn að greiða niður skuldir og skuldbindingar fyrir u.þ.b. 5300 milljónir síðan 2006. Heildar vaxtaberandi skuldir pr. íbúa af samstæðu eru nú um130 þúsund. Með reglulegum afborgunum mun Vestmannaeyjabær nálgast það að verða skuldlaus við lánastofnanir innan fárra ára.   Á sama hátt hefur allt kapp verið lagt á að greiða upp skuldbindingar og var stærsta skrefið í því tekið árið 2013 þegar eignir Vestmannaeyjabæjar voru keyptar til baka af Fasteign hf. Skuldahlutfall sveitarfélagsins eins og það er skilgreint í 64 gr. sveitarstjórnarlaga er nú komið í 101% hjá A-hlutanum og 102% hjá samstæðunni. Í lok árs 2011 var þetta hlutfall 164% hjá A-hluta og 155% hjá samstæðunni. Hámarkshlutfall skv. sveitarstjórnarlögum er 150 %.   Heildareignir samstæðu Vestmannaeyjabæjar námu 9.996 m.kr. í árslok 2014, þar af var handbært fé upp á 2.076 m.kr.. Á árinu 2014 hækkaði handbært fé samstæðunar um 79 milljónir. Allar kennitölur í rekstri sýna sterka og góða fjárhagsstöðu Vestmannaeyjabæjar. Veltufjárhlutfall sveitarsjóðs er 9,47 og eiginfjárhlutfallið er 65,24%. Veltufjárhlutfall samstæðu er 5,08 og eiginfjárhlutfall þess 58,31%.  Þessi niðurstaða er bæjarstjórn fyrst og fremst hvatning til að gæta þess áfram að missa ekki tökin á skulda og útgjaldahliðinni. Vandaður rekstur er það sem helst tryggir öfluga og góða þjónustu,“ segir í frétt sem Elliði Vignisson, bæjarstjóri sendi frá sér.

Sparisjóðurinn fékk heilbrigðisvottorð frá Grant Thornton í ágúst

Sparisjóðurinn í Vestmannaeyjum, sem tekinn var yfir af Landsbanka Íslands á dögunum, fékk síðast heilbrigðisvottorð frá endurskoðunarfyrirtækinu Grant Thornton í lok ágúst. Málefni sparisjóðsins voru til umræðu á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis á miðvikudaginn, þar sem stjórn sjóðsins sat fyrir svörum nefndarmanna, sem vildu meðal annars fá svör við því af hverju bágborin staða sjóðsins hafi ekki legið fyrr fyrir. Frá þessu er greint í Kjarnanum.   Grafalvarleg staða Sparisjóðsins í Vestmannaeyjum kom ekki í ljós fyrr en eftir sérstaka útlánagreiningu Grant Thornton, sem stjórnin ákvað að fela endurskoðunarfyrirtækinu að ráðast í í október. Eftir greininguna kom í ljós að útlánasafn sjóðsins var gróflega ofmetið, og færa þyrfti niður safnið um allt að milljarð króna. Niðurstaða útlánagreiningarinnar og niðurfærsla útlánasafnsins í kjölfarið varð til þess að Fjármálaeftirlitið (FME) ákvað á fundi sunnudagskvöldið 22. mars síðastliðinn að veita sjóðnum fimm sólarhringa frest til að bæta eigið fé sjóðsins, en þá lá til að mynda ársreikningur sjóðsins ekki fyrir. Þá tilkynnti FME stjórn Sparisjóðsins í Vestmannaeyjum að sjóðurinn yrði settur í slitameðferð ef ekki yrði staðið við veittan frest. Þegar fréttir af aðkomu FME láku svo út gerðu innistæðueigendur áhlaup á sparisjóðinn, sem hafði svo mjög skaðleg áhrif á lausafjárstöðu hans.   Nánar á http://kjarninn.is/2015/04/sparisjodurinn-i-vestmannaeyjum-fekk-heilbrigdisvottord-fra-grant-thornton-i-agust/      

Landið er fullt af ferðamönnum en enginn kemur til Eyja

„Við þurfum betri lausn varðandi dýpkun Landeyjahafnar. Ég er ekki viss um að það þurfi að kosta mikið meira en þessi vitleysa sem er í gangi. Svo er ríkið búið að spara svo mikla peninga við að fækka störfum í Vestmannaeyjum, að það hlýtur að vera hægt að leysa það.“ Þetta segir Magnús Bragason, eigandi og hótelstjóri á Hótel Vestmannaeyjar, á facebook síðu sinni. Hann situr uppi, eins og aðrir í ferðamannaiðnaði í Vestmannaeyjum, með sárt ennið á meðan ekkier siglt í Landeyjahöfn og segir í fésbókarfærslu: „Ég ætti sand af seðlum ef samgöngur við Vestmannaeyjar væru í lagi.     Þetta kemur fram í úttekt Eyjafrétta á stöðu fólks í ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum í gær nú þegar Landeyjahöfn hefur verið lokuð frá því í nóvember. Hólmgeir Austfjörð, veitingamaður á 900 Grill, segir alla sammála um að staðan sé glórulaus. „Við þurfum að fá svör við því hvað á að gera. Það er verið að notast við löngu úrelt skip við dælingu, það sjá allir. Það hljóta að hafa orðið framfarir í þessu eins og öðru. Það vantar bara að þessir háu herrar uppi á landi sýni samgöngumálum Vestmannaeyja áhuga.“     Hann sagði veitingamenn hafa rætt þetta mikið og staðan hljóti að vera svipuð hjá þeim öllum. „Við höfum fjóra til fimm mánuði á ári til að rétta okkur af eftir veturinn en nú er ekkert að gerast hér í samgöngumálum. Það er lágmark að hægt sé að sigla í Landeyjahöfn þegar veður er gott en svo er ekki í dag. Landið er fullt af ferðamönnum en enginn kemur til Eyja. Maður er að verða langþreyttur á þessu.“

Tafarlaust verði fengið dæluskip erlendis frá

Í dag er 16. apríl og enn er Landeyjahöfn lokuð. Seinustu daga hefur veður verið með ágætasta móti en engu að síður hafa áhafnir dýpkunarskipa Björgunar ekki séð sér fært að ráðast í dýpkun í Landeyjahöfn. Á meðan verður atvinnulífið í Vestmannaeyjum og þá helst ferðaþjónustan fyrir miklum skaða enda ferðamannatíminn löngu hafinn.  Í dag er 16. apríl og enn er Landeyjahöfn lokuð.  Seinustu daga hefur veður verið með ágætasta móti en engu að síður hafa áhafnir dýpkunarskipa Björgunar ekki séð sér fært að ráðast í dýpkun í Landeyjahöfn.  Á meðan verður atvinnulífið í Vestmannaeyjum og þá helst ferðaþjónustan fyrir miklum skaða enda ferðamannatíminn löngu hafinn.  Bæjarstjórn hefur ítrekað fjallað um stöðu mála hvað samgöngur á sjó varðar.  Stefna hennar hefur verið sú að krefjast úrbóta og að staðið verði við þau fyrirheit sem heimamönnum voru gefin um samgöngur allt árið um Landeyjahöfn.    Bæjarstjórn telur að í senn þurfi nýja ferju í Landeyjahöfn, breytingar á höfninni og betri aðferðir við dýpkun.  Á þingi hefur Ásmundur Friðriksson hafið umræðu um jarðgöng en ólíklegt verður að telja að ráðist verði í þau á næstu dögum.  Hópur áhugamanna um bættar samgöngur hefur gert kröfu um að fengin verði til reynslu grísk ferja og reglulega skýtur upp kollinum umræða um skip sambærilegt við Smyril sem sigli allt árið í Þorlákshöfn.  Þrátt fyrir allt þetta –eða ef til vill vegna þess- er staðan nú í Landeyjahöfn nákvæmlega sú sama og hún hefur verið frá því að höfnin opnaði fyrir 5 árum.  Elliði Vignisson bæjarstjóri segir í samtali vð Eyjafréttir að hann eins og allir aðrir bæjarbúar hafi miklar áhyggjur af því hvernig dýpkunarmálum í Landeyjahöfn er fyrir komið.    „Nú hefur verið undir 2 metra ölduhæð í rúman sólarhring.  Í augnablikinu er ölduhæð 1,5 meter og ekki verið að dýpka.  Eftir því sem ég fæ best skilið þá treysta áhafnir á efnistökuskipunum sér ekki til að vinna við þær aðstæður sem nú eru í Landeyhöfn“ segir Elliði og bætir því að hann hafi fulla samúð með áhöfnum skipana og efast ekki um réttmæti ákvarðana þeirra enda séu aðstæður sannarlega erfiðar.  „Það er ekki hægt að ætlast til þess að menn vinni gott verk með röng tæki í höndunum.  Þrátt fyrri ríkan vilja og góða fagþekkingu þá getur smiður ekki slegið upp timburmótum ef hann fær bara til þess eggjasjóðara.“    Elliði segir að það megi þó ekki vera staðan í samgöngum við Vestmannaeyjar að Eyjamenn séu látnir búa við það að sigla á ferju sem er vonlaus til þessara siglinga í höfn sem er ekki eins og til stóð á forsendum dýpkunarskipa sem ekki ráða við verkefnið.  „Eitt er að fá til verksins nýja farþegaferju en það er ekki til neins nema sýnt sé fram á að hægt sé að tryggja henni nægt dýpi.  Við hljótum því að ætlast til þess að nú sé sett strik í sandinn.  Það er full reynt að viðhalda dýpi með þeim aðferðum sem hingað til hafa verið notaðar.“   Þegar Elliði er spurður hvað sé til ráða svara hann að Vestmannaeyjabæjar hafi þegar sett sig í samband við Vegagerðina og ítrekað þá óska okkar að tafarlaust verði fengið skip erlendis frá.  „Höfnin hefur nú verið lokuð vegna vandamála með dýpi í 144 daga.  Þetta gengur ekki svona.“ segir Elliði Vignisson bæjarstjóri.sem heimamönnum voru gefin um samgöngur allt árið um Landeyjahöfn.   Bæjarstjórn telur að í senn þurfi nýja ferju í Landeyjahöfn, breytingar á höfninni og betri aðferðir við dýpkun. Á þingi hefur Ásmundur Friðriksson hafið umræðu um jarðgöng en ólíklegt verður að telja að ráðist verði í þau á næstu dögum. Hópur áhugamanna um bættar samgöngur hefur gert kröfu um að fengin verði til reynslu grísk ferja og reglulega skýtur upp kollinum umræða um skip sambærilegt við Smyril sem sigli allt árið í Þorlákshöfn. Þrátt fyrir allt þetta –eða ef til vill vegna þess- er staðan nú í Landeyjahöfn nákvæmlega sú sama og hún hefur verið frá því að höfnin opnaði fyrir 5 árum. Elliði Vignisson bæjarstjóri segir í samtali vð Eyjafréttir að hann eins og allir aðrir bæjarbúar hafi miklar áhyggjur af því hvernig dýpkunarmálum í Landeyjahöfn er fyrir komið.   „Nú hefur verið undir 2 metra ölduhæð í rúman sólarhring. Í augnablikinu er ölduhæð 1,5 meter og ekki verið að dýpka. Eftir því sem ég fæ best skilið þá treysta áhafnir á efnistökuskipunum sér ekki til að vinna við þær aðstæður sem nú eru í Landeyhöfn“ segir Elliði og bætir því að hann hafi fulla samúð með áhöfnum skipana og efast ekki um réttmæti ákvarðana þeirra enda séu aðstæður sannarlega erfiðar.   „Það er ekki hægt að ætlast til þess að menn vinni gott verk með röng tæki í höndunum. Þrátt fyrri ríkan vilja og góða fagþekkingu þá getur smiður ekki slegið upp timburmótum ef hann fær bara til þess eggjasjóðara.“ Elliði segir að það megi þó ekki vera staðan í samgöngum við Vestmannaeyjar að Eyjamenn séu látnir búa við það að sigla á ferju sem er vonlaus til þessara siglinga í höfn sem er ekki eins og til stóð á forsendum dýpkunarskipa sem ekki ráða við verkefnið. „Eitt er að fá til verksins nýja farþegaferju en það er ekki til neins nema sýnt sé fram á að hægt sé að tryggja henni nægt dýpi. Við hljótum því að ætlast til þess að nú sé sett strik í sandinn. Það er full reynt að viðhalda dýpi með þeim aðferðum sem hingað til hafa verið notaðar.“   Þegar Elliði er spurður hvað sé til ráða svara hann að Vestmannaeyjabæjar hafi þegar sett sig í samband við Vegagerðina og ítrekað þá óska okkar að tafarlaust verði fengið skip erlendis frá. „Höfnin hefur nú verið lokuð vegna vandamála með dýpi í 144 daga. Þetta gengur ekki svona.“ segir Elliði Vignisson bæjarstjóri.    

Stjórnmál >>

Lýsa yfir þungum áhyggjum af málefnum Grímseyjar og annara eyjabyggða

Bæjarstjórn Vestmannaeyja lýsir yfir þungum áhyggjum af málefnum eyjabyggða á Íslandi og hvetur til þess að skynsamlegra leiða verði leitað til að tryggja íbúum Grímseyjar þann mikilvæga rétt sem fólgin er í frelsi til búsetu.  Þetta kemur fram í bókun bæjarstjórnar sem samþykkt var einróma á fundi hennar í dag.  Bókunina má lesa hér að neðan:   Bæjarstjórn Vestmannaeyja ítrekar það álit hennar, sem áður hefur komið fram ma. í ályktunum um frumvörp til laga um stjórn fiskveiða, sem felst í mikilvægi þess að auka atvinnuöryggi íbúa sjávarbyggða.   Bæjarstjórn Vestmannaeyja lýsir enn fremur yfir þungum áhyggjum af málefnum eyjabyggða á Íslandi og þá sérstaklega erfiðri stöðu Grímseyjar. Vegna landfræðilegrar sérstöðu þola eyjabyggðir verr hraðar breytingar en mörg önnur byggðalög. Erfitt tímabil getur í einum vettvangi gert út um eyjabyggð til langframa, jafnvel þótt að öðru jöfnu hefði hinn erfiði tími ekki orðið langvinnur. Breytingar á rekstrarumhverfi sjávarútvegs hafa verið hraðar á seinustu árum og óhófleg gjaldtaka hefur flýtt fyrir samþjöppun aflaheimilda. Fjármálastofnanir hafa orðið ráðandi vægi í rekstri margra útgerðarfyrirtækja og illu heilli virðist það oft vera nánast háð geðþótta þeirra hverjum sé gert kleift að gera út og hverjum ekki. Þar með ráða þessar fjármálastofnanir orðið byggðaþróun á Íslandi í gegnum lánsveð í aflaheimildum. Þau tengsl sem hingað til hafa verið milli útgerða og íbúa sjárvarbyggða eru þar með rofin. Í því fellst háski, bæði fyrir sjávarbyggðir og sjávarútveginn í landinu.   Bæjarstjórn Vestmannaeyja hvetur til þess að skynsamlegra leiða verði leitað til að tryggja íbúum Grímseyjar þann mikilvæga rétt sem fólgin er í frelsi til búsetu. Það frelsi er ekki síður mikilvægt en annað frelsi. Í Grímsey og öðrum sjávarþorpum við Íslandsstrendur býr fólk sem á sama rétt til að velja sér búsetu og íbúar annarra byggðalaga. Staða Grímseyjar er nú slík að Byggðastofnun, Íslandsbanki, alþingi, atvinnuþróunarfélag og fleiri verða að taka höndum saman ásamt íbúum Grímseyjar við að tryggja áframhald byggðar í Grímsey.

Greinar >>

Ferðaþjónustunni blæðir

Ferðaþjónustuaðilum í Vestmannaeyjum blæðir þegar samgöngurnar eru eins og staðan er nú. Veitingastaðir og hótel fá afbókanir daglega, stórir hópar sem hafa boðað komu sína finna sér nýja áfangastaði því enginn vill sigla í Þorlákshöfn í þrjá tíma í úreltu skipi og eins og við vitum þá er það ekki bara tap fyrir þá heldur alla, verslanir og aðra þjónustu. Bærinn lét gera stórglæsilegt safn uppá milljarð en það stendur tómt því það kemst enginn í heimsókn. Á meðan það er verið að notast við fornaldar búnað við að dæla úr Landeyjahöfn gerist ekkert og á meðan við sitjum uppi með þetta skip sem ristir svona djúpt fyrirt utan það að það er löngu úr sér gengið þá gerist ekkert. Við sem fjárfestum í þessum fyrirtækjum á þeim forsendum að Landeyjahöfn væri virk amk hálfa árið og höfum lagt blóð, svita og tár í að halda uppi þjónustu yfir veturinn á meðan ferðamannatíminn er í lægð GETUM EKKI sætt okkur við þetta ástand. Ekki nóg með það að ekkert gerist heldur vitum við ekki neitt. Það eru engar dagsetningar, það er ekkert sem við getum sagt viðskiptavinum okkar.   Við skorum á bæjarstjóra Vestmanneyja Elliði Vignisson, Vegagerðina, þingmennina okkar sem bera ábyrgð og alla þá aðila sem koma að þessu máli að upplýsa okkur um stöðuna og segja okkur að það sé verið að gera eitthvað.   Þegar eina máltíðin er tekin af svöngum manni þá er þetta orðið spurning um að fara eitthvað annað að éta!   Berglind og Siggi