Fyrsta pysjan fundin

Fyrsta pysjan fundin

Fyrsta lundapysjan á þessu ári fannst í nótt við FES.  Það voru þau Andrea og Ólafur Már Gunnlaugsbörn sem komu með pysjuna í mælingu í Sæheimum við Heiðarveg en pysjan mældist 288 gr. sem þykir ágætt og óhætt að sleppa henni.  Það var einmitt næst á dagskrá hjá systkinunum, að fara út í Höfðavík og sleppa henni þar.  Á safninu er Tóti lundapysja, stálpaður ungi sem vekur jafnan mikla kátínu gesta safnsins enda einstaklega gæfur fugl.  Hann var hins vegar allur hinn rólegasti yfir nýjasta gesti safnsins.   Miðað við viðkomu lundans í ár, er ekki búist við mörgum pysjum eins og undanfarin ár.  Reyndar var haustið 2012 ágætt en þá voru 1.830 pysjur mældar pysjueftirliti Sæheima, á móti 10 árið 2010.  Starfsmenn Sæheima hvetja hins vegar alla þá sem finna pysjur, að koma með þær í mælingu í Sæheimum.     „Pysjueftirlitið Brúsi bjargfasti hefur verið starfrækt frá árinu 2003 og er þetta því ellefta árið þar sem fylgst er með fjölda pysja og ástandi þeirra.  Eftirlitið er fólgið í því að þeir sem finna pysjur í bænum koma með þær á safnið þar sem þær eru vigtaðar og vængmældar. Síðan er þeim sleppt til sjávar af bjargvættum sínum. Með þessu móti má fylgjast með breytingum milli ára í fjölda pysja, ástandi þeirra og hvenær þær eru að yfirgefa holuna,“ segir í tilkynningu frá Sæheimum.   Fyrsta pysja ársins kemur í leitirnar á afmælisdegi Hilmis Högnasonar, sem skrifaði bókina Litla lundapysjan.  Bókin er nú gefin út á átta tungumálum og fæst í öllum verslunum Eymundssonar og í Sæheimum.  

Lögregla hvetur ökumenn til að fara varlega

Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í vikunni sem leið og má þar helst telja nokkur slys sem urðu í umdæminu. Frekar rólegt var í kringum veitingastaði bæjarins um helgina og engin teljandi vandræði sem fylgdi skemmtanahaldinu.   Einn ökumaður var stöðvaður af lögreglu vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, auk þess sem hann ók sviptur ökuréttindum.   Ein eignaspjöll voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku en um var að ræða rúðubrot í Þórsheimilinu. Um er að ræða tvær rúður sem voru brotnar og er talið að rúðurnar hafi verið brotnar, annaðhvort að kvöldi 18. ágúst eða aðfaranótt 19. ágúst sl. Ekki er vitað hver eða hverjir voru þarna að verki en þeir sem hafa einhverjar upplýsingar um það hverjir þarna voru á ferð, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu.   Í vikunni var lögreglunni tilkynnt um vinnuslys í Vinnslustöðinni en þarna hafði verktaki sem var að vinna við viðgerð á þaki dottið niður. Er talið að fallið hafi verið á bilinu 4-6 metrar. Maðurinn slasaðist á mjöðm og var fluttur með sjúkraflugi á sjúkrahús í Reykjavík.   Þá var lögreglu tilkynnt um mann sem féll af þaki einbýlishúss en hann hafði verið að vinna við þak hússins. Maðurinn var fluttur á Heilbrigðisstofnunina í Vestmannaeyjum en hann kvartaði yfir eymslum í baki og höfði.   Í byrjun vikunnar var lögreglan kölluð að smábátahöfninni vegna áreksturs tveggja erlendra skútna en einhverjar skemmdir urðu á skútunum við áreksturinn. Hins vegar urðu engin slys á fólki við áreksturinn.   Í vikunni var lögreglan kölluð til vegna slyss við akstur svokallaðs „Segwey-hjóls“ en þarna hafði kona dottið af hjólinu og kvartaði yfir eymslum í baki. Hún var flutt á Heilbrigðisstofnunina í Vestmannaeyjum til aðhlynningar. Ekki var um alvarleg meiðsl að ræða.   Lögreglan vill minna ökumenn á að núna þegar skólar eru byrjaðir þá fjölgar gangandi vegfarendum í umferðinni og þá sérstaklega börnum sem eru á leið til og frá skóla. Eru ökumenn því hvattir til að fara varlega, sérstaklega í kringum skólana. Ökumenn eru jafnframt hvattir til að virða gangbrautaréttinn.    

Vill undirbúa fjölgun eldri borgara í Vestmannaeyjum

Á fundi fjölskyldu- og tómstundaráðs í vikunni, gerði framkvæmdastjóri ráðsins grein fyrir stöðu málaflokks eldri borgara. Samkvæmt Hagstofu Íslands munu þeim mun Íslendingum 67 ára og eldri fjölga úr 36 þúsund í 54 þúsund til ársins 2025. Ástæða er til að ætla að sama þróun verði í Eyjum. Það mun kalla á aukna þjónustu við þetta fólk og við því þarf að  bregðast. Framkvæmdastjóri ráðsins lagði til að staðan yrði kortlögð og undirbúin verði frekari stefnumótun varðandi framtíðarsýn í málefnum fatlaðra og að skipaður yrði 5 manna stýrihópur. Hópurinn skal sérstaklega kortleggja aldurssamsetningu í Eyjum og leggja mat á líklega þróun. Þá skal mat lagt á núverandi þjónustustig og núverandi þörf. Að lokum skal leggja grunn að frekari stefnumótun og þróun þjónustu við eldri borgara um leið og mat verður lagt á kostnað við slíkt. Ráðið samþykkti  að í hópnum sitji Páll Marvin Jónsson, Sigurhanna Friðþórsdóttir, Geir Jón Þórisson, Birna Þórsdóttir og Auður Ósk Vilhjálmsdóttir sem öll eiga einnig sæti í Fjölskyldu- og tómstundaráði. Með hópnum starfi Sólrún Gunnarsdóttir deildarstjóri öldrunarþjónustu bæjarins og Jón Pétursson framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs. Starfshópurinn mun eiga samstarf við aðra fagmenn á sviði öldrunarmála, þar með talið þjónustuhópi aldraðra. Hópurinn fundi reglulega í tengslum við fundi F&T og skili af sér niðurstöðum fyrir árslok.  

Hvítur hrossagaukur?

Sigríður Högnadóttir, ljósmyndari og náttúruunnandi var útá Eyju í fyrrakvöld og rakst þá á þennan fugl, sem hún telur vera hvítur hrossagaukur. Sjálf er hún viss um tegundina. Kannski er einhver fuglaáhugamaður sem getur sagt til um það. Um hrossagaukinn segir að hann sé  mýrisnípa, er af strandfuglaætt. Fuglinn er þekktur fyrir söng og flug sem er afar heillandi og fagurt, þar er á ferð mikið undur því fuglinn hneggjar meðan á fluginu stendur. Það fer þannig fram að fuglinn lætur sig falla nokkra metra og tekur sig síðan upp aftur í sömu hæð á meðan hann hneggjar. Hann er 25-27 cm á lengd, rúmlega 120 g og með 44-47 cm vænghaf. Hrossagaukurinn er dökkbrúnn að ofan, á kollinum og á baki er hann með dökkar og ljósar rendur. Hann er ljós að neðan með stóran, sterkbyggðan gráan gogg og stutta mógula fætur.   Fuglinn kemur í apríl eftir vetrardvöl á Írlandi en þangað fer mest af fuglunum sem eiga sumardvöl hér á Íslandi. Hann lifir aðallega á skordýrum og ánamöðkum og aflar fæðu sinnar þannig að hann stingur nefinu á kaf í leðju og hreyfir það svo til og frá og étur allt sem hann finnur þar ofan í án þess að draga nefið upp úr leðjunni. Gaukurinn er mikið á ferðinni um nætur en hvílir sig á daginn. Fuglinn hefur gert mörgum manninum bylt við því hann kúrir sig niður þangað til maður er kominn alveg að honum, þá flýgur hann mjög snöggt í burtu með miklum skrækjum. Kjörlendi hans er mýrlendi, heiðar og kjarrlendi. Stuttu eftir komuna til landsins hefst hreiðurgerðin. Hann verpir svo í maí. Eggin eru yfirleitt 4 (1-6) þau eru fölgræn að lit eða ólífubrún að grunnlit með dekkri blettum. Útungun tekur 18-20 daga, ungarnir verða svo fleygir eftir 19-20 daga og kynþroska 1-2 ára.  

Ekkert þokast í samningsátt

Verkfall undirmanna á Herjólfi hófst 5. mars á þessu ári en verkfallið stóð frá 17 síðdegis til 8 að morgni daginn eftir og um helgar. 21. mars var föstudegi svo bætt við verkfallið sem þýddi að ekkert var siglt milli lands og Eyja frá föstudegi fram á mánu­dag og aðeins ein ferð á dag, hina fjóra dagana. Alþingi samþykkti svo lög á verkfall undirmanna Herjólfs og var verkfallinu frestað til 15. september, eða eftir mánuð. 29 þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, lagði fram, 13 voru á móti og 5 sátu hjá.   Lítið að gerast Eins og áður sagði er deilan í hnút og ekkert hefur hreyfst í samningaviðræðum frá því að lögin voru sett á verkfallið. „Nei, nei, það er ekkert að frétta,“ sagði Jónas Garðarsson hjá Sjómannafélagi Íslands. „Sáttasemjari flautaði þetta af fram í miðjan ágúst og málið var í raun og veru sett í geymslu strax eftir lagasetninguna. Það var greinilegt að þegar þú pantar svona lagasetningu, og færð hana, þá er hún gerð í þágu þeirra sem um hana biðja. Enda kom svo í ljós að með lagafrumvarpinu fylgdi greinargerð sem ég gat ekki betur séð en að væri komin frá bæjarstjóranum í Eyjum. Það voru einu skjölin sem fylgdu lagafrumvarpinu á sínum tíma.“   Jónas segist ekki búast við öðru en að verkfall skelli á að nýju með sama hætti 15. september, ekkert unnið milli kl. 17 og 8 og ekkert á föstudögum, laugardögum og sunnudögum. Hann segist jafnframt telja það verkfallsbrot ef annað skip verði í siglingum milli lands og Eyja á meðan verkfall stendur yfir. „Það er verkfallsbrot þegar annar aðili kemur og leysir af í stað þeirra sem eru í verkfalli. Það sama hlýtur að gilda með Baldur.“   Samkvæmt upplýsingum, sem fengust hjá Samtökum atvinnulífsins, er það ekki talið verkfallsbrot ef Baldur er í siglingum í stað Herjólfs enda séu bæði dómar og fordæmi sem styðji það.  

ÍBV sektað um 150 þúsund

ÍBV hefur verið sektað um 150 þúsund krónur vegna kynþáttaníðs í garð Farids Zato, leikmanns KR.  Þetta kemur fram á Vísi.is en þar staðfestir Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ að ÍBV hefði verið sektað.  Stuðningsmaður ÍBV á leiknum kallaði til Zato með þessum afleiðingum en fyrir vikið hafa stuðningsmenn ÍBV í heild sinni verið stimplaðir í sumum fjölmiðlum og í umræðu á facebook var skuldinni skellt á unga stuðningsmenn í Hvíta riddurunum.  Stuðningsmaðurinn sem um ræðir var hins vegar ekki í þeirra hópi, eftir því sem heimildir Eyjafrétta herma.   Yflýsing frá ÍBV Í ljósi úrskurðar aga og úrskurðarnefndar KSÍ vegna leiks ÍBV og KR í undanúrslitum Borgunarbikarsins þann 31. júlí sl. vill knattspyrnudeild ÍBV koma eftirfarandi á framfæri: ÍBV íþróttafélag fagnar því að KSÍ taki strangt á kynþáttaníði á knattspyrnuleikjum á vegum sambandsins. Leikmenn ÍBV hafa áður orðið fyrir slíkum árásum og síðast var knattspyrnudeild Keflavíkur sektað vegna framkomu stuðningsmanns liðsins í garð Tonny Mawejje fyrrverandi leikmanns ÍBV. Kynþáttafordómar eiga ekkert skylt við knattspyrnu og eða stuðning við knattspyrnulið. ÍBV íþróttafélag biður Abdel-Farid Zato-Arouna afsökunar á umræddum ummælum og vonast til að hann og aðrir leikmenn knattspyrnuliða þurfi ekki að líða slík ummæli, né önnur sambærileg í sinn garð í framtíðinni. Um var að ræða einn stuðningsmann ÍBV og ein vanhugsuð ummæli og ekki hægt að dæma alla stuðningsmenn ÍBV út frá þeim. ÍBV íþróttafélag unir úrskurði nefndarinnar og vill taka það fram að umræddur stuðningsmaður ÍBV hefur verið settur í ótímabundið heimaleikjabann.

Eyjar, við erum að koma....

Eyjar við erum að koma...Það var mokveiði af stórum og fallegum makríl í brælu útaf Hvalbakshalli hjá peyjunum á henni Álsey frá Eyjum í gærkvöldi og frameftir degi. Þeir eru í miklu stuði brúarpeyjarnir á Álsey þessa dagana sem og aðra daga í sumar. Núna voru það þeir Bjarki Kristjánsson. sem var skipstjóri og Ingi Grétarsson stýrimaður, voru þeir peyjar ekki lengi að skella í dallinn. Þrjú góð höl tekinn og við á leið í land með 530 m3.   En þetta tók skemmri tíma að fá þennan skammt á veiðum en fyrir mig að keyra frá Landeyjarhöfn til Þórshafnar á Langanesi;) komandi aftur um borð eftir gott frí,að vísu með viðkomu í höfðaborginni í smá snúninga fyrir okkur á Álsey og eitt stykki Liverpool Open golfmót sem var tekið í leiðinni áður en brunað var í einum nettum spretti norður fyrir land þetta hefur því gengið vel í sumar og höfum við verið að landa á Þórshöfn reglulega frá því um miðjan júlí og þar áður í Eyjum.   En núna erum við á leið til Eyja aftur og fögnum við því hér um borð. Í Eyjum ættum við að vera í fyrramálið um níuleitið eða svo. það er því óvænt ánægja að koma heim aftur svona stuttu eftir að hafa farið þaðan eftir fríið og þá getum maður knúsað sex ára afmæliskútinn minn Helga Marinó bara einum degi og seint, en það er eitthvað sem maður reiknaði bara ekki með svo líf og fjör og mikið af makríl á leið heim á ný frá Álsey, svo Svandís Geirsdóttir, Styrmir Gíslason og co gerið körin klár ...makrílinn er að koma ískaldur stór og stinnur ...eða svo segir Ingi  

3ja ára stúlka hætt komin í sundlauginni

Þriggja ára gömul stúlka var hætt komin í sundlaug Vestmannaeyja um eittleytið í dag. Stúlkan var eina og hálfa mínútu í kafi áður en henni var komið á sundlaugarbakkann og endurlífgunartilraunir hófust. Arnsteinn Ingi Jóhannesson, forstöðumaður laugarinnar, segir í samtali við Vísi að björgunarafrek hafi verið unnið.  Að sögn forstöðumannsins er verið að fara yfir málin í þessum töluðu orðum og öryggismyndavélar skoðaðar. Við fyrstu sýn virðist sem stúlkan, sem var með föður sínum í lauginni, hafi losað sig við kúta sína og farið ofan í vatnið í leiklaug á útisvæði.   Arnsteinn segir að sundlaugargestur hafi brugðist fyrst við og dregið stúlkuna upp úr vatninu. Á sama tíma hafi starfsmaður innanhúss verið búinn að átta sig á vandamálinu, látið sundlaugarvörð í búri utandyra vita sem hafi borið að á sama tíma. Endurlífgunartilraunir hófust um leið og var mikil hagur í því að sá sem þar fóru fremst í flokki menn sem vissu nákvæmlega hvað þeir voru að gera. Var meðal annars um að ræða lögreglumann á Selfossi sem ættaður er úr Vestmannaeyjum auk starfsmanna á Herjólfi sem vel kann til verka við endurlífgun.  Þá segir Arnsteinn að lögreglu og sjúkrabifreið hafi borið að innan fimm mínútna. Viðbrögð hafi verið til fyrirmyndar á alla kanta.  „Viðbrögð alls staðar eftir að þetta uppgötvast eru fumlaus.“    „Hún byrjaði mjög fljótlega að kasta upp vatni og gráta,“ segir Arnsteinn um hvernig endurlífungartilraunir hafi gengið. Ekki hafi verið sérstaklega margir í lauginni í dag enda sólarlaust á Heimaey. Fólki hafi samt eðlilega verið brugðið.   „Drukknun er auðvitað alltaf alvarlegt mál en fólk verður enn skelkaðra þegar um barn er að ræða,“ segir Arnsteinn.   Að sögn lögreglunnar í Vestmannaeyjum var stúlkan flutt á sjúkrahús bæjarins og í kjölfarið send til skoðunar í Reykjavík.   Arnsteinn Ingi er afar ánægður með hvernig til tókst og segir hafa sýnt sig að öryggiseftirlit í sundlauginni í Vestmannaeyjum virki. Hann segir gesti og starfsfólk sitt hafa unnið björgunarafrek við aðstæðurnar sem sköpuðust í lauginni í dag.     visir.is

Baldur leysir Herjólf af í september

Á fundi bæjarstjórnar í í síðustu viku var fjallað um samgöngumál.  Elliði Vignisson, bæjarstjóri lagði á fram minnisblað sem hann tók saman um samgöngumál en þar kemur m.a. fram að Herjólfur mun fara í slipp í Svíþjóð í byrjun september og verði þar til loka mánaðarins.  Áætlað er að Breiðafjarðarferjan Baldur muni leysa Herjólf af hólmi en unnið verður að endurbótum á Herjólfi til að bæta siglingagetu skipsins í Landeyjahöfn.   Þetta kemur fram í minnisblaði Elliða, sem hann birti á bloggsíðu sinni, ellidi.is:   Slipptaka Herjólfs Stefnt er að því að HERJÓLFUR sigli fulla áætlun sunnudaginn 7. sept. en fari síðan á miðnætti þess dags til viðhalds og breytinga hjá Öresundsvarvet AB í Landskrona í Svíþjóð, lægstbjóðanda í sameiginlegu útboði Vegagerðarinnar og Eimskipa á viðhaldi og breytingum á Herjólfi. Gert er ráð fyrir að skipið fari í slipp í Landskrona að morgni 11. sept. og skv. tilboði verktaka tekur verkið 12 almanaksdaga, þ.e. fram til 23. sept. Í kjölfar þess er reiknað með einum degi í hallaprófun og heimsiglingu að morgni 24. sept. og að HERJÓLFUR hefji áætlanasiglingar frá Vestmannaeyjum að morgni laugardagsins 27. sept.   Vegagerðin hefur þegar aflað undanþáguheimilda innanríkisráðuneytisins fyrir siglingar Baldurs frá Vestmannaeyjum í ofangreindri fjarveru Herjólfs í haust. Þess utan hefur Vegagerðin gengið frá samningum við Sæferðir ehf um leigu Baldurs til afleysingasiglinga fyrir Herjólf á umræddu tímabili. Baldur mun því hefja áætlanasiglingar frá Vestmannaeyjum að morgni 8. sept. og halda sömu áætlun og gilt hefði ella fyrir Herjólf á umræddum tíma.   Ofangreint er þó háð fyrirvörum um að boðnir verktímar í viðgerðum Herjólfs haldi og einnig að sjólag sé innan takmarkana þeirra sem getið er í fyrrnefndu undanþágubréfi innanríkisráðuneytisins. Samningar Vegagerðarinnar og Sæferða ehf. um Baldur heimila Vegagerðinni lengri leigu á Baldri, ef til seinkana kemur á viðgerðum Herjólfs eða af öðrum ástæðum.   Helstu breytingar á Herjólfi í viðgerðahléinu frá áætlanasiglingum verða i) að stefni skipsins verður rúnað, þar sem nú er flatjárn; ii) aftari veltikilir skipsins verða verulega lengdir og iii) sett verður upp opnanlegt vatnsþétt þverskips “flóðhlið” (floodgate) á bandi 31 á bíladekki skipsins. Tvær fyrrnefndar breytingar eru ætlaðar til að auka stefnufestu skipsins, en sú síðastnefnda er forsenda fyrir frekari óbreyttum siglingum Herjólfs frá Vestmannaeyjum eftir 1. okt., 2015, þ.e. til að skipið standist hertar lekastöðugleikakröfur sem þá taka gildi skv. Evrópureglum og svo nefndri Stokkhólmssamþykkt. Þar að auki verða framkvæmd fjöldi viðhalds- og viðgerðaverkefni á skipinu og búnaði þess.   Skv. upplýsingum frá Vegagerðinni munu ofangreindar breytingar, þ.e. flóðhlið að öllu öðru óbreyttu, rýra/þrengja amk. 5 einkabílarými á ekjudekki skipsins. Ýmsir hafa þó talið að skipið kunni að bera 7 til 10 bílum færra eftir breytingu en áður. Umræddu þili þarf ekki að beita fyrr en eftir 1 okt., 2015 og fram til þess tíma eru framangreindar skerðingar eina rýrnunin á núverandi farþega-, farm- og bílaflutningagetu Herjólfs. Vegagerðin hefur þegar farið í gegnum þessi atriði með rekstraraðila skipsins.  

Grétar Þór hættir við að hætta

Hornamaðurinn snjalli, Grétar Þór Eyþórsson hefur ákveðið að spila með ÍBV næsta vetur.  Grétar Þór hafði tilkynnt að hann myndi leggja skóna á hilluna eftir síðasta tímabil en Grétar spilaði stórt hlutverk með Íslandsmeisturunum síðasta vetur og hefði orðið mikil blóðtaka ef hann hefði hætt.  Grétar skrifaði undir eins árs framlengingu og mun því vera á sínum stað í vinstra horninu hjá ÍBV í vetur.  „Það er okkur mikið gleðiefni að Grétar Þór hefur ákveðið að halda skónum frá hillunni frægu.  Hann var lykilmaður í liði ÍBV síðasta vetur og gott að geta nýtt reynslu hans áfram,“ sagði Arnar Pétursson, fyrrum þjálfari ÍBV en Arnar sér um leikmannamál liðsins fyrir handknattleiksráð ÍBV.   Grétar lék 21 leik í deildarkeppninni og skoraði 59 en lét heldur betur til sín taka í úrslitakeppninni þar sem hann lék lykilhlutverk í liði ÍBV.  Undirskriftin fór fram um borð í Herjólfi nú fyrir stundu.   „Það var í raun bara uppgangurinn á síðasta ári var ekkert að eyðileggja fyrir með ákvörðunina,“ sagði Grétar eftir undirskriftina.  „Svo voru stuðningsmennirnir og annað sem gerði það að verkum að maður verður að taka annað ár og upplifa þetta aftur.“ Grétar segist líka eiga eftir að upplifa fleira en að lyfta Íslandsmeistaratitlinum.  „Það er margt annað sem maður á eftir að afreka.  Mér langar t.d. að komast í Höllina í bikarúrslit.  Svo er tilfinningin að lyfta bikarnum og tilfinningin eftir það, það er ekki hægt að lýsa því.  Manni langar að upplifa þetta aftur.“   Nánar er rætt við Grétar Þór í meðfylgjandi myndbandi.

Stjórnmál >>

Fyrsti fundur bæjarstjórnar í dag

Bæjarstjórn Vestmannaeyja kemur saman í dag í fyrsta sinn á nýju kjörtímabili.  Niðurstaða bæjarstjórnarkosninganna í vor, voru á þann veg að Sjálfstæðisflokkur fékk fimm bæjarfulltrúa en Eyjalistinn tvo.  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn eru Elliði Vignisson, Páley Borgþórsdóttir, Páll Marvin Jónsson, Trausti Hjaltason og Birna Þórsdóttir en fulltrúar Eyjalistans eru Jórunn Einarsdóttir og Stefán Óskar Jónasson.  Elliði, Páley, Páll Marvin og Jórunn sátu öll í bæjarstjórn á síðasta kjörtímabili.  Stefán Óskar hefur áður verið í bæjarstjórn og var varamaður á síðasta kjörtímabili en þau Trausti og Birna eru ný.  Bæjarstjórnarfundurinn fer fram í Eldheimum og hefst klukkan 18:00.   „Þegar ég kom inn í bæjarstjórn 2002 voru útsvarstekjur á hvern íbúa á verðlagi þess árs rétt liðlega 200.000 krónur en á síðasta ári voru þær hátt í 475.000 krónur,“ sagði Stefán í samtali við Eyjafréttir, sem kom út í gær.   „Staðan í dag opnar á tækifæri að gera meira fyrir bæjarbúa og bæjarfélagið í heild. Ég er ekki að mæla með óráðsíu í fjármálum en það má gera betur á ýmsum sviðum. Auðvitað veltur þetta mikið á á sjávarútvegi og afkomu atvinnulífsins almennt. Á kjörtímabilinu 2002 og 2006 vorum við, ég og núverandi bæjarstjóri, Elliði Vignisson, að skoða þann möguleika á að rífa blokkina Áshamar 75 ef það gæti létt á skuldum bæjarins. Engum dettur það í hug í dag en sterkari innviðir bæjarfélagsins eru líka verðmæti,“ sagði Stefán.   Viðtalið má lesa í heild sinni í Eyjafréttum.  

Greinar >>

Félag stjúpfjölskyldna í Vestmannaeyjum með námskeið og ókeypis símaráðgjöf

Skilnaðir og sambúðarslit eru algeng í okkar samfélagi, auk þess sem töluverður hópur barna fæðist utan sambúðar eða hjónabands. Mikill meirihluti einhleypra foreldra fer í sambúð og stofna stjúpfjölskyldur þ.e. fjölskyldur þar sem annar aðilinn eða báðir sem til hennar stofna eiga börn úr öðrum samböndum. Bæði stofnanir samfélagsins og fjölskyldurnar sjálfar eru misvel í stakk búnar til að takast á við þær breytingar sem fylgja. Þrátt fyrir margbreytileiki stjúpfjölskyldna benda rannsóknir til að þær eigi ýmislegt sameignlegt. Algengt er að hlutverk stjúpforeldra vefjist fyrir fólki en í nýrri könnun á vegum Félags stjúpfjölskyldna kom í ljós að 45,7% fólks var mjög/sammála fullyrðingunni „Ég er ekki viss um hvert er hlutverk stjúpforeldris í stjúpfjölskyldunni“ Algengt er að fólk átti sig ekki á þeim verkefnum sem fylgja stjúpfjölskyldunni en í sömu könnun kom fram að 75,6% fólks var mjög/sammála fullyrðingunni „Það er flóknara að vera í stjúpfjölskyldu en ég átti von á“ enda kom í ljós í eldri könnun hér á landi að 94% svarenda töldu þörf á fræðslu og sértækri ráðgjöf fyrir stjúpfjölskyldur. Þekking fagfólks sem vinnur í nánum tengslum við fjölskyldur í starfi sínu er mikilvæg og að það auki ekki óvart á streitu í fjölskyldum með þekkingarleysi í stað þess að draga úr henni. Stjúpfjölskyldur, rétt eins og aðrar fjölskyldur, hafa alla burði til að vera góðar og gefandi fjölskyldur. Með því að vita hvað er eðlilegt fyrir stjúpfjölskyldur í aðlögunarferlinu hjálpar það þeim að takast á við algengar uppákomur með uppbyggilegum viðbrögðum. Félag stjúpfjölskyldna býður upp á „Sterkari stjúpfjölskyldur“ námskeið fyrir félagsmenn í Félagi stjúpfjölskyldna fimmtudaginn 28. ágúst kl. 17-19.00 í Þekkingarsetri Vestmannaeyja. Námskeiðið hentar fólki í stjúpfjölskyldum, einhleypum foreldrum – ættingjum og vinum sem áhuga hafa á viðfangsefninu. Félagið hlaut styrk frá Velferðarráðuneytinu til að halda námskeið fyrir almenning víða um land og símaráðgjöf sem hefur verið vel nýtt. Ókeypis símaráðgjöfin er í síma 5880850. Allar frekari upplýsingar er að finna á www.stjuptengsl.is Skráning er á stjuptengsl@stjuptengsl.is . Leiðbeinandi er Valgerður Halldórsdóttur félagsráðgjafi, MA og aðjúnkt við HÍ. Hafi fólk áhuga á að bóka einstaklings-, para – eða fjölskylduviðtöl hjá henni er það í síma 6929101.