Eitt fíkniefnamál í vikunni

Eitt fíkniefnamál í vikunni

Ekki óhróður heldur blákaldur veruleiki

Í gær hélt Sigurður G. Guðjónsson því fram að Reynir Traustason hefði fengið fé hjá útgerðarmanni gegn því að í staðinn fengi hann neikvæða umfjöllun um annan útgerðarmann. Það var óstaðfest frétt. Sú saga féll algerlega að þeirri sögu sem lengi hefur verið sögð hér í Vestmannaeyjum um að Guðmundur Kristjánsson í Brimi hefði látið Reyni Traustason hafa 15 milljónir gegn því að fá neikvæða umfjöllun um Vinnslustöð Vestmannaeyja og Sigurgeir Brynjar. Ég ákvað að fullkveða hina hálfkveðnu vísu Sigurðs G. Þar réði fyrst og fremst að mér þótti rétt að Eyjamenn vissu að þarna er verið að fjalla um burðarás í atvinnulífi Vestmannaeyja – Vinnslustöð Vestmannaeyja.     Nú hefur Reynir Traustason staðfest að hann tók við þessu fé frá Guðmundi. (http://eyjan.pressan.is/frettir/2014/08/31/reynir-stadfestir-ad-hafa-fengid-lan-fra-gudmundi-i-brimi-aldrei-reynt-ad-styra-umfjollun/). Það gerir hann um leið og hann sakar mig um „óhróður“. Já, Reynir Traustason ritstjóri DV sem lýst hefur hvernig hann og blaðið „pönkast á fólki“ og „tekur það niður“ (sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2008/12/15/stodum_andspaenis_thessum_hrodalegu_orlogum/) sakar mig um óhróður.     Minn meinti óhróður var sem sagt að setja nöfn á persónur og leikendur í hálfkveðinni vísu. Því fylgdi ég eftir með þeim orðum að ef satt reyndist að Guðmundur Kristjánsson hefði keypt ákveðna umfjöllun af DV þá væri það alvarlegt.     Sá nafngreindi í sögunni –Guðmundur Kristjánsson- hefur einnig brugðist við og hyggst nú draga þennan bæjarstjóraræfil fyrir dómstóla vegna rógburðs og tilraunar til að sverta mannorðs hans. Leitt þykir mér ef það hefur sært Guðmund að nafn hans skuli hafa verið nefnt. Honum hefur þá væntanlega sárnað enn meira þegar Reynir staðfesti að hafa tekið við 15 milljónum frá honum. (http://www.visir.is/reynir-vidurkennir-ad-hafa-fengid-lan-fra-gudmundi/article/2014140839921)     Fjölmiðlar hér á landi eru á krossgötum. Mogganum er legið á hálsi að vera í þjónkun við þá eigendur sína sem eru útgerðarmenn. 365 er legið á hálsi að vera undir hælnum á eigendum sínum (Jóni Ásgeiri og Ingibjörgu Pálmadóttur). RÚV er legið á hálsi að vera vinstrisinnað og ganga erinda VG og Samfó. Allt er þetta til að draga úr trúverðugleika fjölmiðla. Ólíkt þessum ávirðingum þá er til upptaka af samtali Reynis Traustasonar þar sem hann viðurkennir að láta undan þrýstingi eigenda (http://eyjan.pressan.is/frettir/2008/12/15/reynir-traustason-let-undan-thrystingi-thetta-er-thannig-ad-land-ad-hotad-var-ad-stodva-prentun-dv/). Ef til vill er það í eina skiptið sem Reynir hefur stýrt umfjöllun út frá slíku. Ef til vill taldi Guðmundur Krisjánsson að það væri góð fjárfesting að lána Reyni Traustasyni 15 milljónir. Ef til vill lét Guðmundur Reyni fá þetta fé án þess að ætlast til neins á móti. Ég veit það ekki.   Ég veit bara að sagan um að Guðmundur Kristjánsson útgerðarmaður í Brim lét Reyni Traustason hafa 15 milljónir er sönn. Það er ekki óhróður heldur blákaldur veruleiki.     Ég veit heldur ekki hvort að lánveiting Guðmundar hefur haft áhrif á skrif DV en ég veit að svona skrifaði Sandkorn um Guðmund:     „Baráttujaxlinn og útgerðarmaðurinn Guðmundur Kristjánsson, sem kenndur er við Brim, hefur smám saman verið að fóta sig sem helsti og magnaðasti talsmaður útgerðarmanna. Guðmundur hefur yfir sér blæ kímni og visku sem þykir tilbreyting frá hörkunni og áróðrinum sem þykir einkenna LÍÚ.“ (http://www.dv.is/sandkorn/2012/7/26/dna-gudmundar/)   Það er ekki óhróður heldur blákaldur veruleiki.   Greinin birtist á vefsíðu Elliða, Ellidi.is.

Er þetta sæmandi gagnvart vinaþjóð okkar

Færeyska skipið Næraberg kom til hafnar í Reykjavík í morgun, vantaði skipinu olíu og einnig var vélin biluð. Skipið gat hinsvegar ekki fengið þessa þjónustu vegna ákvæði í lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands. - Færeyingar eru vinaþjóð Íslands, svona framkoma gagnvart vinaþjóð er ekki sæmandi.  Skipverji á Næraberginu skrifar grein á fréttavefinn jn.fo og vandar Íslendingum ekki kveðjurnar: Hann seg­ir Íslend­inga eiga að skamm­ast sín fyr­ir að vera treg­ir til að hleypa skip­inu, sem lenti í vand­ræðum eft­ir að vél­in bilaði, að ís­lenskri höfn og neita því næst að veita því þjón­ustu. Vís­ar hann meðal ann­ars í fjár­hags­lega aðstoð sem Fær­eyj­ar veittu Íslend­ing­um eft­ir banka­hrunið 2008. „Þetta eru þakk­irn­ar,“ seg­ir skip­verj­inn sem skrif­ar bréfið.    Um borð í Nærabergi: Skammið tykkum   Ísland Egil Petersen, sum siglir við Nærabergi hevur sent jn.fo eitt skriv. Hann er skuffaður av íslendingum, nú Næraberg ikki sleppur at leggja at í íslendskum havnum.   - Hetta er brøðurnir Ísland at nokta einum føroyskum fiskiskipi, sum hevur maskinskaða at koma inn at fáa umvælt skaðan, og verða tískil noyddir at seta kósina beint í móti einari ódn, sum sigst at koma ein av komandi døgunum   Víðari skrivar hann:   - Hetta er takkarlønin fyri tær milliónirnar vit veittu teimum í neyðhjálp, eftir at teir høvdu spælt kong gularót í fleiri ár. Av mær persónliga verður hettar aldrin gloymt teimum. Skammið tykkum Ísland! At gera slíkt við eitt skip, sum tørvar hjálp á opnum havi. Vit eru ikki beinleiðis í neyð, men blívur tað ringt veður, so eru vit 34 mans skótt í einari neyðstøðu.    

Stefna á stórframkvæmdir við Miðstræti

Fyrir nokkrum árum var byggingafyrirtækinu Steina og Olla úthlutað þremur lóðum við Miðstræti og var ætlunin að byggja þar fjölbýlishús. Ekki hefur enn orðið af því en fyrirtækið hefur tryggt sér tvær lóðir í viðbót með kaupum á tveimur húsum; annað stendur við Miðstræti, hitt við Strandveg en með aðgengi frá Miðstræti. Því er ljóst að verkefnið er orðið stærra en upphaflega var áætlað.  Mikið hefur verið að gera hjá Steina og Olla á undanförnum misserum og er fyrirtækið með lægsta tilboðið í 4.000 fermetra byggingu sem Ísfélagið ætlar að reisa. Um er að ræða byggingu frystiklefa og flokkunarstöðvar.   „Fyrir hafði fyrirtækið fengið úthlutað lóðunum númer 20, 22 og 24 við Miðstræti og fyrir stuttu festi fyrirtækið kaup á eigninni að Miðstræti 26 og í þessari viku er verið að ganga frá kaupum á eigninni að Strandvegi 55 sem er með aðgengi  frá Miðstrætinu,“ sagði Magnús Sigurðsson, framkvæmdastjóri Steina og Olla, í samtali við Eyjafréttir í gær. „Upphaflega áætlunin var að byggja fjölbýlishús á lóðunum þremur en nú lítur út fyrir að verkefnið taki breytingum og verði stærra. Þessi  kaup eru forsenda þess til að þær áætlanir geti gengið eftir og mögulegt verði að skipuleggja svæðið í heild sinni í samráði við bæjaryfirvöld.  Það er hins vegar  ekki tímabært að greina frá því nánar nema hvað þetta gæti orðið fjölbýlishús með verslunarplássi á neðstu hæðinni.“    Næstu skref segir hann vera að skipuleggja svæðið og sameina lóðir, en það er gert í góðu samstarfi við bæinn. „Við erum með þessum kaupum að tryggja okkur það að hægt verði að skipuleggja svæðið í heild sinni, til að ná sem bestri nýtingu út úr svæðinu.  Það getur svo tekið allt að tvo mánuði að vinna úr þessu, og síðan fer skipulagsbreytingin í hefðbundið ferli,“ sagði Magnús.     Nánar er rætt við Magnús Sigurðsson í blaði Eyjafrétta.

Stefnt að frekari uppsetningu ljósnets í haust

 Í lok janúar 2013 var greint frá því í Eyjafréttum að ljósnet verði komið um allan bæ fyrir mitt þetta ár, 2014. Fyrri áfanga lauk síðasta vetur og nær ljósnetið  til þeirra sem eru innan við kílómetra frá Símstöðinni við Vestmannabraut. Áætlað er að framkvæmdir við síðari hluta ljósnetsvæðingar hefjist í haust en ekki liggur fyrir hvenær þeim lýkur.  Með ljósnetinu ríflega fjórfaldast hraðinn á netinu til notanda og 25-faldast frá notanda.  Þjónustan við sjónvarp Símans verður einnig betri,  því viðskiptavinir geta verið með allt að fimm myndlykla, alla með möguleika  á háskerpu.   Ein ástæðan fyrir seinkuninni er að eignarhald á grunnnetinu færðist frá Símanum yfir til Mílu og var þar verið að bregðast við kröfu Samkeppnisstofnunar. En nú horfir fram á bjartari tíð hjá þeim sem enn eru úti í kuldanum. Míla stefnir á að halda áfram frekari uppsetningu ljósveitu í Vestmannaeyjum í haust og verður hafist handa við hönnun kerfisins strax í september,“ sagði Sigurrós Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi Mílu í gær.    „Ekki liggur þó fyrir nákvæmlega hversu stórt svæði verður klárað á þessu ári, en ætlunin er að tengja öll heimili í Vestmannaeyjum á ljósveitu.  Götuskápar verða settir upp í bænum, sem tengdir verða ljósleiðara og frá þeim er fyrirliggjandi heimtaug sem notuð er til að tengja hvert heimili.  Vegalengd heimtauga frá götuskáp er að meðaltali um 200  til  400 metrar sem tryggir gæði sambands til endanotanda,“ sagði Sigurrós.    Með tilkomu ljósveitu Mílu fá íbúar í Vestmannaeyjum möguleika á allt að 50 Mb/s internethraða til heimila og 25 Mb/s frá þeim auk þess sem auka 20 Mb/s eru frátekin fyrir sjónvarpsflutning. Ljósveita Mílu er opið aðgangsnet sem allir þjónustuaðilar í fjarskiptum geta haft aðgengi að og til að nálgast þjónustuna skal fólk hafa samband við sinn þjónustuaðila.

Fyrsta pysjan fundin

Fyrsta lundapysjan á þessu ári fannst í nótt við FES.  Það voru þau Andrea og Ólafur Már Gunnlaugsbörn sem komu með pysjuna í mælingu í Sæheimum við Heiðarveg en pysjan mældist 288 gr. sem þykir ágætt og óhætt að sleppa henni.  Það var einmitt næst á dagskrá hjá systkinunum, að fara út í Höfðavík og sleppa henni þar.  Á safninu er Tóti lundapysja, stálpaður ungi sem vekur jafnan mikla kátínu gesta safnsins enda einstaklega gæfur fugl.  Hann var hins vegar allur hinn rólegasti yfir nýjasta gesti safnsins.   Miðað við viðkomu lundans í ár, er ekki búist við mörgum pysjum eins og undanfarin ár.  Reyndar var haustið 2012 ágætt en þá voru 1.830 pysjur mældar pysjueftirliti Sæheima, á móti 10 árið 2010.  Starfsmenn Sæheima hvetja hins vegar alla þá sem finna pysjur, að koma með þær í mælingu í Sæheimum.     „Pysjueftirlitið Brúsi bjargfasti hefur verið starfrækt frá árinu 2003 og er þetta því ellefta árið þar sem fylgst er með fjölda pysja og ástandi þeirra.  Eftirlitið er fólgið í því að þeir sem finna pysjur í bænum koma með þær á safnið þar sem þær eru vigtaðar og vængmældar. Síðan er þeim sleppt til sjávar af bjargvættum sínum. Með þessu móti má fylgjast með breytingum milli ára í fjölda pysja, ástandi þeirra og hvenær þær eru að yfirgefa holuna,“ segir í tilkynningu frá Sæheimum.   Fyrsta pysja ársins kemur í leitirnar á afmælisdegi Hilmis Högnasonar, sem skrifaði bókina Litla lundapysjan.  Bókin er nú gefin út á átta tungumálum og fæst í öllum verslunum Eymundssonar og í Sæheimum.  

Lögregla hvetur ökumenn til að fara varlega

Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í vikunni sem leið og má þar helst telja nokkur slys sem urðu í umdæminu. Frekar rólegt var í kringum veitingastaði bæjarins um helgina og engin teljandi vandræði sem fylgdi skemmtanahaldinu.   Einn ökumaður var stöðvaður af lögreglu vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, auk þess sem hann ók sviptur ökuréttindum.   Ein eignaspjöll voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku en um var að ræða rúðubrot í Þórsheimilinu. Um er að ræða tvær rúður sem voru brotnar og er talið að rúðurnar hafi verið brotnar, annaðhvort að kvöldi 18. ágúst eða aðfaranótt 19. ágúst sl. Ekki er vitað hver eða hverjir voru þarna að verki en þeir sem hafa einhverjar upplýsingar um það hverjir þarna voru á ferð, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu.   Í vikunni var lögreglunni tilkynnt um vinnuslys í Vinnslustöðinni en þarna hafði verktaki sem var að vinna við viðgerð á þaki dottið niður. Er talið að fallið hafi verið á bilinu 4-6 metrar. Maðurinn slasaðist á mjöðm og var fluttur með sjúkraflugi á sjúkrahús í Reykjavík.   Þá var lögreglu tilkynnt um mann sem féll af þaki einbýlishúss en hann hafði verið að vinna við þak hússins. Maðurinn var fluttur á Heilbrigðisstofnunina í Vestmannaeyjum en hann kvartaði yfir eymslum í baki og höfði.   Í byrjun vikunnar var lögreglan kölluð að smábátahöfninni vegna áreksturs tveggja erlendra skútna en einhverjar skemmdir urðu á skútunum við áreksturinn. Hins vegar urðu engin slys á fólki við áreksturinn.   Í vikunni var lögreglan kölluð til vegna slyss við akstur svokallaðs „Segwey-hjóls“ en þarna hafði kona dottið af hjólinu og kvartaði yfir eymslum í baki. Hún var flutt á Heilbrigðisstofnunina í Vestmannaeyjum til aðhlynningar. Ekki var um alvarleg meiðsl að ræða.   Lögreglan vill minna ökumenn á að núna þegar skólar eru byrjaðir þá fjölgar gangandi vegfarendum í umferðinni og þá sérstaklega börnum sem eru á leið til og frá skóla. Eru ökumenn því hvattir til að fara varlega, sérstaklega í kringum skólana. Ökumenn eru jafnframt hvattir til að virða gangbrautaréttinn.    

Vill undirbúa fjölgun eldri borgara í Vestmannaeyjum

Á fundi fjölskyldu- og tómstundaráðs í vikunni, gerði framkvæmdastjóri ráðsins grein fyrir stöðu málaflokks eldri borgara. Samkvæmt Hagstofu Íslands munu þeim mun Íslendingum 67 ára og eldri fjölga úr 36 þúsund í 54 þúsund til ársins 2025. Ástæða er til að ætla að sama þróun verði í Eyjum. Það mun kalla á aukna þjónustu við þetta fólk og við því þarf að  bregðast. Framkvæmdastjóri ráðsins lagði til að staðan yrði kortlögð og undirbúin verði frekari stefnumótun varðandi framtíðarsýn í málefnum fatlaðra og að skipaður yrði 5 manna stýrihópur. Hópurinn skal sérstaklega kortleggja aldurssamsetningu í Eyjum og leggja mat á líklega þróun. Þá skal mat lagt á núverandi þjónustustig og núverandi þörf. Að lokum skal leggja grunn að frekari stefnumótun og þróun þjónustu við eldri borgara um leið og mat verður lagt á kostnað við slíkt. Ráðið samþykkti  að í hópnum sitji Páll Marvin Jónsson, Sigurhanna Friðþórsdóttir, Geir Jón Þórisson, Birna Þórsdóttir og Auður Ósk Vilhjálmsdóttir sem öll eiga einnig sæti í Fjölskyldu- og tómstundaráði. Með hópnum starfi Sólrún Gunnarsdóttir deildarstjóri öldrunarþjónustu bæjarins og Jón Pétursson framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs. Starfshópurinn mun eiga samstarf við aðra fagmenn á sviði öldrunarmála, þar með talið þjónustuhópi aldraðra. Hópurinn fundi reglulega í tengslum við fundi F&T og skili af sér niðurstöðum fyrir árslok.  

Hvítur hrossagaukur?

Sigríður Högnadóttir, ljósmyndari og náttúruunnandi var útá Eyju í fyrrakvöld og rakst þá á þennan fugl, sem hún telur vera hvítur hrossagaukur. Sjálf er hún viss um tegundina. Kannski er einhver fuglaáhugamaður sem getur sagt til um það. Um hrossagaukinn segir að hann sé  mýrisnípa, er af strandfuglaætt. Fuglinn er þekktur fyrir söng og flug sem er afar heillandi og fagurt, þar er á ferð mikið undur því fuglinn hneggjar meðan á fluginu stendur. Það fer þannig fram að fuglinn lætur sig falla nokkra metra og tekur sig síðan upp aftur í sömu hæð á meðan hann hneggjar. Hann er 25-27 cm á lengd, rúmlega 120 g og með 44-47 cm vænghaf. Hrossagaukurinn er dökkbrúnn að ofan, á kollinum og á baki er hann með dökkar og ljósar rendur. Hann er ljós að neðan með stóran, sterkbyggðan gráan gogg og stutta mógula fætur.   Fuglinn kemur í apríl eftir vetrardvöl á Írlandi en þangað fer mest af fuglunum sem eiga sumardvöl hér á Íslandi. Hann lifir aðallega á skordýrum og ánamöðkum og aflar fæðu sinnar þannig að hann stingur nefinu á kaf í leðju og hreyfir það svo til og frá og étur allt sem hann finnur þar ofan í án þess að draga nefið upp úr leðjunni. Gaukurinn er mikið á ferðinni um nætur en hvílir sig á daginn. Fuglinn hefur gert mörgum manninum bylt við því hann kúrir sig niður þangað til maður er kominn alveg að honum, þá flýgur hann mjög snöggt í burtu með miklum skrækjum. Kjörlendi hans er mýrlendi, heiðar og kjarrlendi. Stuttu eftir komuna til landsins hefst hreiðurgerðin. Hann verpir svo í maí. Eggin eru yfirleitt 4 (1-6) þau eru fölgræn að lit eða ólífubrún að grunnlit með dekkri blettum. Útungun tekur 18-20 daga, ungarnir verða svo fleygir eftir 19-20 daga og kynþroska 1-2 ára.  

Ekkert þokast í samningsátt

Verkfall undirmanna á Herjólfi hófst 5. mars á þessu ári en verkfallið stóð frá 17 síðdegis til 8 að morgni daginn eftir og um helgar. 21. mars var föstudegi svo bætt við verkfallið sem þýddi að ekkert var siglt milli lands og Eyja frá föstudegi fram á mánu­dag og aðeins ein ferð á dag, hina fjóra dagana. Alþingi samþykkti svo lög á verkfall undirmanna Herjólfs og var verkfallinu frestað til 15. september, eða eftir mánuð. 29 þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, lagði fram, 13 voru á móti og 5 sátu hjá.   Lítið að gerast Eins og áður sagði er deilan í hnút og ekkert hefur hreyfst í samningaviðræðum frá því að lögin voru sett á verkfallið. „Nei, nei, það er ekkert að frétta,“ sagði Jónas Garðarsson hjá Sjómannafélagi Íslands. „Sáttasemjari flautaði þetta af fram í miðjan ágúst og málið var í raun og veru sett í geymslu strax eftir lagasetninguna. Það var greinilegt að þegar þú pantar svona lagasetningu, og færð hana, þá er hún gerð í þágu þeirra sem um hana biðja. Enda kom svo í ljós að með lagafrumvarpinu fylgdi greinargerð sem ég gat ekki betur séð en að væri komin frá bæjarstjóranum í Eyjum. Það voru einu skjölin sem fylgdu lagafrumvarpinu á sínum tíma.“   Jónas segist ekki búast við öðru en að verkfall skelli á að nýju með sama hætti 15. september, ekkert unnið milli kl. 17 og 8 og ekkert á föstudögum, laugardögum og sunnudögum. Hann segist jafnframt telja það verkfallsbrot ef annað skip verði í siglingum milli lands og Eyja á meðan verkfall stendur yfir. „Það er verkfallsbrot þegar annar aðili kemur og leysir af í stað þeirra sem eru í verkfalli. Það sama hlýtur að gilda með Baldur.“   Samkvæmt upplýsingum, sem fengust hjá Samtökum atvinnulífsins, er það ekki talið verkfallsbrot ef Baldur er í siglingum í stað Herjólfs enda séu bæði dómar og fordæmi sem styðji það.  

ÍBV sektað um 150 þúsund

ÍBV hefur verið sektað um 150 þúsund krónur vegna kynþáttaníðs í garð Farids Zato, leikmanns KR.  Þetta kemur fram á Vísi.is en þar staðfestir Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ að ÍBV hefði verið sektað.  Stuðningsmaður ÍBV á leiknum kallaði til Zato með þessum afleiðingum en fyrir vikið hafa stuðningsmenn ÍBV í heild sinni verið stimplaðir í sumum fjölmiðlum og í umræðu á facebook var skuldinni skellt á unga stuðningsmenn í Hvíta riddurunum.  Stuðningsmaðurinn sem um ræðir var hins vegar ekki í þeirra hópi, eftir því sem heimildir Eyjafrétta herma.   Yflýsing frá ÍBV Í ljósi úrskurðar aga og úrskurðarnefndar KSÍ vegna leiks ÍBV og KR í undanúrslitum Borgunarbikarsins þann 31. júlí sl. vill knattspyrnudeild ÍBV koma eftirfarandi á framfæri: ÍBV íþróttafélag fagnar því að KSÍ taki strangt á kynþáttaníði á knattspyrnuleikjum á vegum sambandsins. Leikmenn ÍBV hafa áður orðið fyrir slíkum árásum og síðast var knattspyrnudeild Keflavíkur sektað vegna framkomu stuðningsmanns liðsins í garð Tonny Mawejje fyrrverandi leikmanns ÍBV. Kynþáttafordómar eiga ekkert skylt við knattspyrnu og eða stuðning við knattspyrnulið. ÍBV íþróttafélag biður Abdel-Farid Zato-Arouna afsökunar á umræddum ummælum og vonast til að hann og aðrir leikmenn knattspyrnuliða þurfi ekki að líða slík ummæli, né önnur sambærileg í sinn garð í framtíðinni. Um var að ræða einn stuðningsmann ÍBV og ein vanhugsuð ummæli og ekki hægt að dæma alla stuðningsmenn ÍBV út frá þeim. ÍBV íþróttafélag unir úrskurði nefndarinnar og vill taka það fram að umræddur stuðningsmaður ÍBV hefur verið settur í ótímabundið heimaleikjabann.

Stjórnmál >>

Fyrsti fundur bæjarstjórnar í dag

Bæjarstjórn Vestmannaeyja kemur saman í dag í fyrsta sinn á nýju kjörtímabili.  Niðurstaða bæjarstjórnarkosninganna í vor, voru á þann veg að Sjálfstæðisflokkur fékk fimm bæjarfulltrúa en Eyjalistinn tvo.  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn eru Elliði Vignisson, Páley Borgþórsdóttir, Páll Marvin Jónsson, Trausti Hjaltason og Birna Þórsdóttir en fulltrúar Eyjalistans eru Jórunn Einarsdóttir og Stefán Óskar Jónasson.  Elliði, Páley, Páll Marvin og Jórunn sátu öll í bæjarstjórn á síðasta kjörtímabili.  Stefán Óskar hefur áður verið í bæjarstjórn og var varamaður á síðasta kjörtímabili en þau Trausti og Birna eru ný.  Bæjarstjórnarfundurinn fer fram í Eldheimum og hefst klukkan 18:00.   „Þegar ég kom inn í bæjarstjórn 2002 voru útsvarstekjur á hvern íbúa á verðlagi þess árs rétt liðlega 200.000 krónur en á síðasta ári voru þær hátt í 475.000 krónur,“ sagði Stefán í samtali við Eyjafréttir, sem kom út í gær.   „Staðan í dag opnar á tækifæri að gera meira fyrir bæjarbúa og bæjarfélagið í heild. Ég er ekki að mæla með óráðsíu í fjármálum en það má gera betur á ýmsum sviðum. Auðvitað veltur þetta mikið á á sjávarútvegi og afkomu atvinnulífsins almennt. Á kjörtímabilinu 2002 og 2006 vorum við, ég og núverandi bæjarstjóri, Elliði Vignisson, að skoða þann möguleika á að rífa blokkina Áshamar 75 ef það gæti létt á skuldum bæjarins. Engum dettur það í hug í dag en sterkari innviðir bæjarfélagsins eru líka verðmæti,“ sagði Stefán.   Viðtalið má lesa í heild sinni í Eyjafréttum.  

Greinar >>

Elliða verður stefnt fyrir rógburð og tilraun til að sverta mannorð

Í tilefni frétta í fjölmiðlum síðustu daga vegna deilna hluthafa í DV er rétt að geta þess að undirritaður hefur stundað viðskipti í langa tíð. Ég hef í gegnum mín félög styrkt og lánað fjármuni til ýmissa verka, einstaklinga og félaga. Ég hef ekki verið að auglýsa það né tilkynna það opinberlega nema þar sem það á við. Hvort sem það er lán eða styrkir til einstaklinga (eins og lánið til Reynis Traustasonar), líknarfélaga, íþróttafélaga, íþróttamanna, námsmanna, vísindastarfs, listastarfs eða hvað sem er. En þar sem ég er borinn svo alvarlegum ásökunum af bæjarstjóra Vestmannaeyja þá ætla ég að svara þessu og taka til varnar. Þegar Reynir Traustason kom til mín á síðasta ári og spurði hvort ég vildi verða hluthafi í DV sagði ég strax nei. En þegar hann sagði að það væru komnir fleiri fjárfestar að blaðinu þá sagði ég við hann að ég gæti alveg lánað honum en ég vildi ekki fara í blaðarekstur og það væri ekki mitt fag og ég væri oft ekki sammála skrifum DV. Ég hef heldur ekki verið sammála stefnu og skrifum Morgunblaðsins síðustu áratugi og þegar leitað var til mín fyrir nokkrum árum um hlutafé í það blað sagði ég nei. Það má segja um mín viðskipti á síðustu árum að þau hafi bæði verið viturleg og óviturleg en að segja að ég hafi stjórnað ritstjórnarstefnu DV er rangt og fjarri öllum raunveruleika.   Elliða Vignissyni bæjarstjóra í Vestmannaeyjum verður stefnt fyrir rógburð og tilraun til að sverta mannorð. Sem hluthafi í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum hef ég verið í deilum við meirihluta hluthafa. Ég hef talið að stefna og gjörðir meirihluta hluthafa Vinnslustöðvarinnar (VSV) í Vestmannaeyjum hafi skaðað VSV og í dag sé félagið illa rekið sjávarútvegsfyrirtæki vegna stefnu meirihluta hluthafa og meirihluta stjórnar VSV. Þessa skoðun hef ég sagt á aðalfundum félagsins og í öllum samtölum þegar málefni VSV eru rædd. Ég er ekki í neinum persónulegum deilum við framkvæmdarstjóra VSV, starfsfólk VSV eða samfélagið í Vestmannaeyjum, heldur við meirihluta hluthafa VSV. Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum er að reyna að slá sig til riddara og nýta sér deilur annara til að vekja athygli á sjálfum sér.   Virðingarfyllst, Guðmundur Kristjánsson