Elliði Vignisson - Afmæliskveðja til Vestmannaeyjadeildar Rauða Krossins

Elliði Vignisson - Afmæliskveðja til Vestmannaeyjadeildar Rauða Krossins

Ef dimmir í lífi mínu um hríð Eru bros þín og hlýja svo blíð Og hvert sem þú ferð Og hvar sem ég verð Þarf fólk eins og þig fyrir fólk eins og mig.   Hugtakið mannúð er ekki léttvægt. Í því felst að við mennirnir eigum okkur sérstakan eiginleika sem ekkert annað af dýrum merkurinnar deilir með okkur. Við getum fundið fyrir samlíðan, elsku og brennandi þörf fyrir að hjálpa. Við viljum öðrum vel og erum til í að fórna og gefa með það fyrir augum að styðja við bakið á þeim sem eiga um sárt að binda. Við viljum fyrirbyggja raunir og vinna gegn öllu sem stríðir gegn velferð. Rauði krossinn er elsti og virtasti farvegur þessarar sérstöku sammannlegu gæsku. Í ár fagnar Vestmannaeyjadeild Rauða krossins sínu 75 aldursári en deildin var stofnunuð 23. mars 1941. Fyrir samfélag sem okkar hér á einangraðri eyju hefur starfsemi Rauða krossins reynst ómetanleg. Svo víðfemt er starf þeirra að nánast ógjörningur er að fjalla um það á tæmandi máta í stuttum skrifum. Það spannar þætti eins og starf heimsókna vina sem rjúfa einangrun fólks, veita félagsskap og sýna vináttum heimsóknum – yfir í neyðavarnir sem eru einn af hornsteinum Rauða krossins. Þeir einstaklingar hér í Eyjum sem eiga eða hafa átt velferð sína að þakka Rauða krossins eru ófáir. Á sama hátt hefur Rauði krossinn reynst öflugur farvegur fyrir fórnfýsi fjölmargra Eyjamanna sem í gegnum það hafa tekið þátt í margvíslegu stuðningsstarfi fyrir þá sem minna mega sín annarstaðar á Íslandi eða hvar sem er annarstaðar í heiminum. Það ber ekki ætíð mikið á starfsemi Rauða krossins hér í Eyjum en starfið þar er í senn öflugt og mikilvægt. Fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar óska ég Vestmannaeyjadeild Rauða krossins hjartanlega til hamingju með afmælið og færi þeim dýpstu þakkir fyrir óeigingjarnt starf fyrir bæði nær- og fjærsamfélagið. Staðreyndin er enda sú að eins og textabrot Rúnars Júlíussonar hér í upphafi segir þá þarf fólk eins þau fyrir samfélag eins og okkar.   Elliði Vignisson bæjarstjóri    

Dagskrá Safnahelgarinnar 3. – 6. nóvember nk.

Við leyfum okkur að þjófstarta Safnahelginni með því að sýna úr ótrúlegu myndasafni Gísla J. Johnsen sem nýverið var fært Safnahúsi að gjöf. Ljósmyndirnar verða sýnda á vikulegum Ljósmyndadegi á fimmtudaginn 3. nóv. kl. 13:30-15:30. Um kvöldið kemur Ármann Reynisson í heimsókn og kynnir nýjustu Vinjettuna sína, þá sextándu í röðinni. Ármann fær einvalda lið til að lesa úr bókinni og hefst dagskráin á fimmtudeginum 3. nóv. kl. 20:00. Á föstudaginn 4. nóv. kl. 18:00 verður dagskráin formleg sett í Stafkirkjunni. Jazz/funk tríóið Eldar flytja tónlist. Kl: 20:30 á föstudagskvöldinu les Árni Þórarinsson úr nýrri bók sinni - Arnór og Helga leika Peter, Paul & Mary í ELDHEIMUM. Á laugardeginum 5. nóv. kl. 13:00 koma í heimsókn í Safnahúsið skáldmennin Stefán Máni, Orri Harðarson og Bjartmar Guðlaugsson sem kynna og lesa úr nýrri bók sinni. Í Sæheimum opnar á sama tíma sýningin „Börn og pysjur“. Ljósmyndir af börnum sem komið hafa í Pysjueftirlitið síðustu árin. Kl. 15:00 á laugardeginum eru svo hinir árlegu tónleikar Lúðrasveitar Vestmannaeyja í Bethel. Á laugardagskvöldið 5. nóv. kl. 21:00 mun Bjartmar troða upp í Alþýðuhúsinu með nýja og gamla tónlist auk þess sem hann mun spjalla um bókina sína., Sunnudaginn 6. nóv. kl. 12-13. Saga og súpa í Sagnheimum. Illugi Jökulsson fjallar um vísindamanninn Charcot og síðustu sjóferð franska rannsóknarskipsins Pourquoi-pas? sem fórst við Álftanes á Mýrum árið 1936. Í slysinu fórust 39 manns en aðeins einn maður lifði af. Í andyri Safnahúss verða verk eftir Hugleik Dagsson.  

Ísfélagið framleiðir Royalmjöl sem notað er í laxafóður

 Ný­verið hófu Ísfé­lag Vest­manna­eyja, skoska lax­eld­is­fyr­ir­tækið Loch Duart og alþjóðlega laxa­fóður­fyr­ir­tækið Ewos sam­starf um fram­leiðslu á hágæðafiski­mjöli.  For­saga máls­ins er sú að Loch Duart, sem kaup­ir fóður í sitt lax­eldi frá Ewos, vildi fóður með háu hlut­falli af fiski­mjöli til að há­marka gæði og nær­ing­ar­inni­hald til síns lax­eld­is.  Frá þessu segir á 200 mílur á mbl.is.      Þar segir að hjá Ísfé­lag­inu er nú fram­leitt kónga­fæði, eða svo gott sem. Eitt af þeim skil­yrðum sem Loch Duart taldi mik­il­vægt var að í fóðrinu væri mjöl úr fiski sem áður hefði verið flokkaður og nýtt­ur til mann­eld­is, eins og til dæm­is hrat út loðnu­hrogna­vinnslu.  Laxa­fóður­fyr­ir­tækið Ewos, sem sé leitaði þá til Ísfé­lags­ins í Vest­manna­eyj­um. Fé­lög­in tvö hafa átt í viðskipta­sam­bandi und­an­far­in ár og taldi Ewos Ísfé­lagið upp­fylla all­ar þær kröf­ur sem Loch Duart hafði sett í leit sinni að hágæðafóðri í sitt lax­eldi. Auk þess að fram­leiða loðnu­hrogn og nýta hratið sem til fell­ur til fiski­mjöls­fram­leiðslu er Ísfé­lagið með 20% loðnu­kvót­ans hér­lend­is.   Eft­ir að fyr­ir­svars­menn fé­lag­anna þriggja höfðu hand­salað heiðurs­manna­sam­komu­lag um sam­vinnu að þessu verk­efni var ákveðið að mjölið yrði nefnt Royalmjöl (e: Royal Fis­h­meal). Kom það til af þeim sök­um að í brúðkaupi Vil­hjálms Bretaprins og Kate Middlet­on vorið 2011 var lax frá Loch Duart á boðstól­um fyr­ir brúðkaups­gesti.       Fjölþjóðafyr­ir­tækið Carg­ill, sem á meðal ann­ars fóður­fram­leiðand­ann Ewos, veitti svo Ewos verðlaun­in Bus­iness of the Year, eða svo­kölluð BOY-verðlaun inn­an sam­steyp­unn­ar, fyr­ir að hafa komið þessu sam­starfi á. Voru verðlaun­in veitt á ráðstefnu helstu stjórn­enda Carg­ill og tengdra fé­laga í Minn­ea­pol­is ný­verið. Var það mat yf­ir­stjórn­ar Carg­ill-sam­steyp­unn­ar að sam­starfið og fram­kvæmd­in öll væri til fyr­ir­mynd­ar og var sér­stak­lega vísað til hlut­ar Ísfé­lags Vest­manna­eyja við af­hend­ing­una.  Haft er eft­ir fram­kvæmda­stjóra Loch Duart, Al­b­an Dent­on, að með þessu „hafi draum­ur Loch Duart um sjálf­bært laxa­fóður í hæsta mögu­lega gæðaflokki loks­ins ræst.     „Mjölið úr Eyj­um orðið kónga­fæði“   Páll Scheving, fram­leiðslu­stjóri ÍV, sagði í sam­tali við 200 míl­ur: „Það sem gleður okk­ur hjá Ísfé­lag­inu sér­stak­lega varðandi þetta til­tekna verk­efni er að vera kom­in nær hinum eig­in­legu neyt­end­um í þess­ari virðiskeðju og nær lax­eld­inu. Þar er nú hreint ekki verra að fram­leiðsluaðil­inn skuli vera Loch Duart, sem fram­leiðir hágæðalax og ein­hvern sá besta í ver­öld­inni allri. Þeir telja okk­ur geta upp­fyllt all­ar þeirra ýtr­ustu gæðakröf­ur og við erum stolt af því að standa und­ir slík­um kröf­um þar sem þær eru rík­ast­ar. Menn hafa það á orði að núorðið er mjölið héðan úr verk­smiðjunni í Vest­manna­eyj­um orðið kónga­fæði,“ seg­ir Páll Scheving að lok­um og hlær.   Nánar á 200 mílur    

Hagnaður Ísfélgsins 1500 milljónir á síðasta ári - Sterk staða

Ísfélag Vestmannaeyja hagnaðist um 11,4 milljónir dollara, jafnvirði 1.300 milljóna íslenskra króna, á árinu 2015. Hagnaðurinn dróst saman um 13 milljónir dollara, 1.500 milljónir króna, milli ára. Þetta kemur fram á visir.is     Þar segir að EBITDA-framlegð hafið verið  27,6 prósent árið 2015, samanborið við 24,7 prósent árið áður. Í árslok námu eignir félagsins 288,9 milljónum dollara, jafnvirði 33 milljarða íslenskra króna, samanborið við 271 milljón dollara í árslok 2014. Bókfært eigið fé í árslok var tæplega 130 milljónir dollara, jafnvirði 14,9 milljarða króna og eiginfjárhlutfall félagsins 45 prósent.   Í árslok 2015 voru hluthafar 135 en voru 137 í ársbyrjun. ÍV fjárfestingarfélag á um 89 prósent útistandandi hlutafjár og er eini hluthafi félagsins sem á yfir 10 prósent hlut. ÍV er að mestu í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur.   Rekstrartekjur móðurfélagsins námu samtals 115,6 milljónum dollara, 13,2 milljörðum íslenskra króna, árið 2015, samanborið við 105,9 milljónir dollara árið áður.   Ísfélagið er með starfsstöðvar í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn og eru helstu starfsþættir frysting sjávarafurða, fiskimjöls- og lýsisframleiðsla og útgerð fiskiskipa. Félagið á 50 prósenta hlut í Iceland Pelagic ehf.   Meðalfjöldi starfa hjá móðurfélaginu var 249 á árinu 2015, samanborið við 270 árið áður. Heildarlaun og þóknanir til stjórnenda samstæðunnar á árinu 2015 námu 1,3 milljónum dollara, tæplega 149 milljónum króna.   Á myndinni er Sigurður VE, nýjasta skip Ísfélagsins.    

HSU – Blóðprufur í eðlilegt horf á næstu einni til tveimur vikum

„Við höfum þurft að takmarka blóðprufufjölda tímabundið vegna mannabreytinga á rannsókn. Það hefur tekið lengri tíma að þjálfa starfskrafta en til stóð og því gengur „færibandið“ hægar en vanalega,“ segir Hjörtur Kristjánsson, Hjörtur Kristjánsson, framkvæmdastjóri lækninga á Heilbrigðisstofnun Suðurlands um stöðu sem komin er upp í Vestmannaeyjum þar sem takmarka þarf þann fjölda sem tekinn er í blóðprufu á degi hverjum. „Bráðarannsóknir og rannsóknir á inniliggjandi sjúklingum eiga ekki að hafa orðið fyrir barðinu á þessu en takmarka hefur þurft fjölda þeirra sem við getum kallað, ekki-bráðra rannsókna og hafa þær því verið háðar tímabókanaferli.   Venjulega hefur fólk getað komið inn af götunni í blóðprufu án þess að panta tíma í rannsókn. Þegar það á við er það læknis að meta hvort rannsókn er bráð eða getur beðið í fáeina daga. Hægt er að hafa samband við hjúkrunarfræðing á flýti- og samdægursmóttöku á heilsugæslu ef fólk hefur ekki komist að og telur að rannsókn hjá sér sé brýn.“   Hjörtur segir að fjöldi þeirra rannsókna sem hægt hefur verið að sinna fari vaxandi. „Ég held að núna sé hægt að taka um 10 einstaklinga, með ekki-bráðar rannsóknir að öllu jöfnu til viðbótar bráðum rannsóknum og rannsóknum á inniliggjandi.   Við erum komin í um þrjá fjórðu af meðalfjölda rannsókna á dag og vonandi verður þetta komið í eðlilegt horf eftir 1 til 2 vikur. Til að flækja málin þá hafa komið upp endurteknar bilanir í nýju rannsóknatæki sem við fengum í sumar og það hefur ekki bætt úr skák. Þetta hefur óhjákvæmilega haft óþægindi í för með sér fyrir suma einstaklinga og það ber að harma. Vonandi kemst „færibandið“ á eðlilegan snúning á næstu 1 til 2 vikum,“ sagði Hjörtur að endingu.      

Sami aðili staðinn af þjófnuðum, húsbrotum, nytjastuldi vélknúinna ökutækja og eignaspjalla

Allar upplýsingar um líkamsárásarmálið vel þegnar

Í ýmsu var að snúast hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum sl. viku vegna mála sem komu á hennar borð. Tilkynnt var um slagsmál á skemmtistað í bænum og þurfti lögreglan að skakka leikinn og í framhaldi fékk aðili af málinu að gista fangageymslu lögreglunnar. Ekki liggja fyrir kærur vegna málsins.   Brotist var inní tvö fyrirtæki í bænum og stolið það léttbifhjóli í einu fyrirtækinu og áfengi í öðru. Viðkomandi aðili sem braust þar inn hefur ítrekað verið tekinn við að brjótast inní fyrirtæki og heimili og stela þar verðmætum.   Í vikunni var tilkynnt að drengur hafi dottið af hjólabretti þar sem hann var við leik á lóð barnaskólans. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á sjúkrahúsið til skoðunar en ekki er talið um alvarleg meiðsli að ræða. Af umferðarmálum er það að frétta að 6 kærur liggja fyrir eftir vikuna, 4 vegna stöðubrota og 2 þar sem ekki voru notuð öryggisbelti.   Grunaður um stórfellda líkamsárás, hættubrot og kynferðisbrot   Aðfaranótt laugardagsins 17. september var lögreglu tilkynnt af íbúa við Fífilgötu að á götunni væri kona sem væri með mikla áverka eftir líkamsmeiðingar. Lögreglumenn og sjúkraflutningamenn fóru á staðinn og var konan flutt sjúkrahús. Eftir aðhlynningu á sjúkrahúsi Vestmannaeyja var hún flutt með sjúkraflugi til Reykjavíkur til frekari rannsókna og læknismeðferðar.   Karlmaður var handtekinn skömmu síðar á heimili sínu grunaður um stórfellda líkamsárás, hættubrot og kynferðisbrot gagnvart konunni. Lögreglustjóri krafðist gæsluvarðhalds yfir manninum á grundvelli rannsóknarhagsmuna en Héraðsdómur Suðurlands hafnaði kröfunni þann 18. september. Úrskurður héraðsdóms var kærður til Hæstaréttar sem féllst á kröfu lögreglustjóra í dag um að hinn grunaði verði úrskurðaður í gæsluvarðhald til laugardagsins 24. september næstkomandi.   Lögreglan biður þá sem einhverjar upplýsingar geta veitt um málið að hafa samband í síma 444 2091.  

Kona fannst nakin utandyra með alvarlega áverka á laugardaginn

Kona á fimmtugsaldri var flutt í skyndi með sjúkraflugi frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur á laugardagsmorgun. Samkvæmt heimildum Stundarinnar, sem greindi frá þessari frétt, fannst konan meðvitundarlaus í húsgarði rétt hjá öldurhúsi í bæjarfélaginu. Konan er sögð hafa fundist nakin og með mikla áverka, meðal annars á höfði. Töldu heimildarmenn Stundarinnar að konan hafi höfuðkúpubrotnað.   Lögreglan í Vestmannaeyjum verst allra fregna af málinu. Einu upplýsingarnar sem fengust frá embættinu voru þær að lögreglan væri að rannsaka mál sem hafi komið upp um helgina. Hvort um væri að ræða þjófnað, líkamsárás, íkveikju eða kynferðisbrot sagðist yfirlögregluþjónn embættisins ekki geta tjáð sig um það.   „Þetta er mjög óhugnarlegt mál og fólki hér er brugðið,“ segir íbúi í Vestmannaeyjum sem Stundin ræddi við. Mikið af fólki hafi verið samankomið á eyjunni um helgina til þess að skemmta sér, bæði íbúar og aðkomufólk. Rætt sé um þetta alvarlega atvik nú eftir helgina en að litlar upplýsingar sé að fá um hvað hafi í raun og veru gerst.   Stundin hafði samband við starfsmann neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis á Landspítalanum sem staðfesti að einn einstaklingur hafi leitað til þeirra um helgina. Þá hefur einnig verið staðfest að flogið var slaðasan einstakling frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur þennan laugardag, 17. október.   Eins og áður segir veitir lögreglan í Vestmannaeyjum engar upplýsingar um málið. Það er í takt við stefnu embættisins undir forystu lögreglustjórans Páleyjar Borgþórsdóttur.   Uppfært 18:30   Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, staðfesti nú undir kvöld frétt Stundarinnar í samtali við DV. Hún segir að grunur leikur á að konan sem fannst nakin utandyra hafi verið beitt kynferðisofbeldi aðfaranótt laugardags. Þá hafi lögreglan handtekið mann á heimili sínu sömu nótt sem hún grunar að hafi veitt konunni áverkana. Farið var fram á gæsluvarhald yfir manninum en þeirri beiðni var hafnað af héraðsdómi. Sá úrskurður var kærður til hæstaréttar og er niðurstöðu að vænta á morgun.   Þá segir Páley að rannsókn málsins sé á viðkvæmu stigi en ekki hefur tekist að ljúka skýrslutöku fórnarlambsins nema að hluta til.  

Innri hluti hafnar rannsakaður

 Rannsóknir á innri hluta Landeyjahafnar standa nú yfir í líkanhúsi Vegagerðarinnar í Kópavogi. Herjólfur hreyfist heldur mikið á stundum þegar hann liggur við bryggju í höfninni og leitað er leiða til að draga úr ölduhreyfingum inn í höfninni. Skipstjórar Herjólfs skoðuðu líkanið og rannsóknina í dag til að gefa álit sitt á hugsanlegum breytingum og hvað mætti rannsaka betur. Vegagerdin.is greinir frá.   Með líkaninu er líkt eftir aðstæðum í höfninni svo sem kostur er. Smíðað hefur verið líkan af nýjum Herjólfi sem notað er til viðmiðunar. Vél útbýr öldur í óskaðri stærð og með þeirri öldutíðni sem rannsökuð er hverju sinni. Nú hafa verið skoðaðar breytingar á höfninni varðandi að lengja innri hafnargarð og setja á báða enda hans svo kallaða tunnu (sem sjá má á myndinni á austari garðinum), skoðaðar hafa verið breytingar sem skapast við að bryggjan verði lokuð þannig að aldan fari ekki inn undir bryggjuna og einnig að stækka innri höfnina til austurs sem myndi draga úr ölduóróa innan hafnar.   Fyrstu niðurstöður benda til þess að þessar breytingar myndu hafa þó nokkuð mikil áhrif á öldufar innan hafnar til hins betra.   Eftir yfirferð með skipstjórum Herjólfs verðu nú einnig rannsakaðar tilfærslur á eystri hafnargarðinum innan hafnar til að finna út bestu mögulegu útkomu þannig að þrengja þurfi innri hafnarkjaftinn sem minnst, þannig að svigrúm Herjólfs verði sem mest hverju sinni.   Stækkun hafnarinnar mun einnig leiða til þess að Herjólfur mun eiga mun auðveldara með að snúa við og almennt athafna sig innan hafnar sem er mikilvægt þegar veður eru að öðru leyti óhagstæð siglingum í Landeyjahöfn.

Moskenesstraumen AS með lægsta boð í smíði og rekstur Vestmannaeyjaferju

Norska fyrirtækið Moskenesstraumen AS átti lægsta tilboð í smíði og rekstur nýrrar Vestmannaeyjaferju. Tilboð voru opnuð hjá Ríkiskaupum í dag. Lægsta boð eingöngu í smíði ferjunnar átti Nantong Rainbow Offshore and Egineering frá Kína en litlu munaði á því tilboði og boði frá Fiskerstrand Verft AS frá Noregi. Vegagerdin.is greinir frá.   Útboðið var tvíþætt en bjóða mátti í annarsvegar nýsmíði ferjunnar og hinsvegar í einkaframkvæmd þar sem boðið var í smíði ferjunnar og rekstur í 12 ár.   Í smíði ferjunnar bárust alls 12 tilboð en kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 27,5 milljónir evra eða ríflega 3,5 milljarða íslenskra króna. Lægst boð kom frá Nantong Rainbow Offshore and Egineering frá Kína upp á 21.420.000 evrur, næstlægsta boð átti Fiskerstrand Verft AS frá Noregi upp á 21.850.000 evrur.   Lægsta boð í smíði og rekstur ferjunnar átti norska fyrirtækið Moskenesstraumen AS og hljóðaði það upp á 7,14 milljarða íslenskra króna en kostnaðaráætlun nam rúmum 13,22 milljörðum króna. Næstlægst bauð Eimskip Ísland ehf., og Sæferðir ehf. en það boð hljóðaði upp á rúmar 8,12 milljarða íslenskra króna.   Sjá nánar á vef Ríkiskaupa, aðra bjóðendur og tilboðsupphæðir.   Farið verður yfir tilboðin og borið saman eftir ákveðnum reglum hvort sé hagstæðara að smíða ferjuna eingöngu eða taka tilboði í einkaframkvæmd þ.e.a.s. smíði og rekstur ferjunnar. Farið verður yfir hvort tilboðin eru gild sem og mat á skipasmíðastöðinni. Einnig þarf að taka með í reikninginn fjarlægðarálag vegna nýsmíðinnar sem gert verður í samræmi við útboðsskilmála.  

Galin umræða um niðurstöðu prófkjörs í Suðurkjördæmi

Galin umræða um niðurstöðu prófkjörs í Suðurkjördæmi Það er merkilegt að fylgjast með umræðunni sem sprottið hefur upp í kjölfar prófkjara Sjálfstæðismanna um helgina. Fjölmargir hafa verið með allskyns yfirlýsingar um að niðurstöðum verði að breyta. Fyrirsagnir og upphrópanir um að konum hafi verið hafnað. Niðurstaðan sé áfall fyrir stjórnmálin. Niðurstaðan sé óréttlát. Sjálfstæðisflokkurinn sé karllægur og konur hljóti þar ekki brautargengi og að nauðsynlegt sé að breyta niðurröðuninni til að gæta að jafnræði kynjanna við frágang framboðslistanna. Þessi umræða, hvað varðar niðurstöðuna í Suðurkjördæmi er ekki bara ómálefnaleg heldur er hún á algjörum villigötum. Samhljóða ákvörðun um prófkjör Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmis ákvað á fjölmennum fundi að haldið skyldi prófkjör til að velja frambjóðendur á lista flokksins í Suðurkjördæmi, með öllum þeim kostum og göllum sem prófkjörum fylgja. Á þeim fundi fór ég vandlega yfir þá valkosti sem í boði væru, samkvæmt skipulagsreglum Sjálfstæðisflokksins, til að stilla upp á lista og fór ítarlega yfir svokallaða röðun á lista og hvatti til þess að umræða yrði tekin um þá leið. Benti ég sérstaklega á að með þeirri leið væri meiri möguleiki á að hægt væri að horfa til þátta eins og jafnrar dreyfingingar milli kynja, aldurs og mismunandi svæða kjördæmisins, við röðun í sæti en í prófkjöri væri aldrei hægt að tryggja slíka niðurstöðu. Ég benti á að prófkjörum fylgdu ýmsir gallar sem að allir þyrftu að vera meðvitaðir um og sætta sig við ef að sú leið væri farin. Flestallir sem til máls tóku töluðu gegn leið röðunar, sem að ég opnaði umræðu um. Bæði karlar og konur, ungir sem eldri, stuðningsmenn sitjandi þingmanna og fylgjendur nýrra frambjóðenda. Nær allir sögðu að besti kosturinn væri prófkjör, það væri lýðræðilegasta leiðin og þá leið skyldi nota til að stilla upp á lista. Á þeim fundi hreyfði enginn þeirra fjögurra sitjandi þingmanna kjördæmisins sem voru á fundinum mótmælum við því að efnt yrði til prófkjörs. Samþykkt var þvi einróma að efna til prófkjörs, með öllum þeim kostum og göllum sem prófkjöri fylgja, og auðvitað hljóta allir sem studdu þá leið að hafa um leið gefið samþykki sitt fyrir því að una glaðir þeirri niðurstöðu sem úr prófkjörinu kæmi, hver sem hún yrði. Eftir fjölmennt prófkjör, það fjölmennasta sem haldið verður fyrir komandi kosningar þó að horft sé til allra stjórnmálahreyfinga á landinu, liggur niðurstaða fyrir. Þá upphefst mikill söngur af því að niðurstaðan er ekki rétt að mati einhverra og þá á bara að breyta henni!! Á að breyta niðurstöðu lýðræðislegra kosninga af því að hún er ekki „rétt“ að mati einhverra? Það er undarlegt lýðræði ef að niðurstaða kosninga er ekki rétt nema að hún sé á einhvern ákveðin veg. Í prófkjörinu höfðu þátttökurétt allir þeir sem voru flokksbundnir eða gerðust flokksbundnir áður en þeir tóku þátt. Yfir 4000 manns frá 15 ára aldri og uppúr, bæði konur og karlar tóku þátt og greiddu atkvæði og niðurstöður kosninganna voru algjörlega afgerandi. Samt er nú hrópað á að niðurstöðunni þurfi helst að breyta af því að hún er ekki rétt. Karlmenn hlutu kosningu í þrú efstu sætin og það er, að mati þeirra sem hæst hafa, algjörlega óviðunandi niðurstaða. Talað er um karlaveldi og að konum hafi verið hafnað og jafnvel kallað eftir því að þessum óréttlátu kvenfjandsamlegu niðurstöðum verði breytt. Konum í Suðurkjördæmi hefur verið veitt umboð og sýnt traust í prófkjörum Það er vert að staldra við og skoða hver staða kvenna hefur verið í Suðurkjördæmi undanfarin ár og hvort réttlátt er, vegna niðurstöðu prófkjörs nú, að kyngera niðurstöðuna og láta að því liggja að niðurstaðan hafi einungis orðið til vegna kynferðis framjóðenda og að konum hafi verið hafnað vegna kynferðis. Þrjár konur í fjórum efstu sætunum 2009 Fyrir alþingiskosningar 2009 var stillt upp á lista með prófkjöri í Suðurkjördæmi. Niðurstaða þess prófkjörs var sú að konur skipuðu 3 af fjórum efstu sætum listans. Ragnheiður Elín í fyrsta sæti, Árni Johnsen í öðru sæti, Unnur Brá í þriðja sæti og Íris Róberts í fjórða sæti. Engin átök eða umræður urðu í kjölfar þessarar niðurstöðu og ekkert var talað um að körlum hafi verið hafnað eða að á þá hallaði. Í ljósi umræðunnar nú þá er einnig rétt að rifja upp að engum datt í hug að þessar ágætu konur hafi verið kjörnar vegna þess að þær voru konur. Þær voru kjörnar vegna þess að kjósendur treystu þeim og vildu veita þeim umboð sitt til starfa á alþingi. Þetta var einfaldlega vilji fólksins. Niðurstaða lýðræðislegs prófkjörs. Konur í tveimur efstu sætunum 2014 Fyrir kosningarnar árið 2014 var einnig efnt til prófkjörs til að stilla upp á lista í Suðurkjördæmi og niðurstaðan varð sú að konur skipuðu tvö efstu sætin og karlar þau næstu tvö þar á eftir. Ragnheiður Elín í fyrsta sæti, Unnur Brá í öðru sæti, Ásmundur Friðriks í þriðja sæti og Vilhjálmur Árna í því fjórða. Ekki kallaði þessi niðurstaða á neina neikvæða umræðu þó að konur skipuðu tvö efstu sætin og karlar kæmu þar á eftir. Ekki dettur mér til hugar að þessar ágætu konur hafi verið kjörnar á ný vegna þess að þær voru konur. Þær hljóta einfaldlega að hafa verið endurkjörnar vegna þess að kjósendur voru ánægðir með þær og þeirra störf og vildu veita þeim umboð sitt á ný til starfa á alþingi. Þetta var einfaldlega vilji fólksins. Niðurstaða lýðræðislegs prófkjörs. Hvers vegna náðu sömu konur ekki sama árangri nú? Er líklegt að það hafi verið vegna kynferðis þeirra? Í prófkjörinu um liðna helgi varð niðurstaða lýðræðislegs prófkjörs sú að karlar hlutu þrjú efstu sætin og konur tvö þau næstu. Páll Magg í fyrsta sæti, Ásmundur Friðriks í öðru sæti, Vilhjálmur Árna í þriðja sæti, Ragnheiður Elín í fjórða sæti og Unnur Brá í fimmta sæti. Niðurstaðan nú er augljóslega mikill viðsnúningur frá því sem verið hefur í tveimur áðurnefndum prófkjörum og sömu konur og voru á toppnum í þeim hljóta ekki sama fylgi nú og fyrr. Þær fá einfaldlega ekki endurnýjað umboð kjósenda að þessu sinni og það hvarflar ekki einu sinni að mér að ástæða þess sé að þær eru konur. Það er því eðlilegt að spyrja hvort einhver sanngirni í þeirri umræðu sem nú á sér stað um prófkjörið og snýst öll um að konum sé hafnað vegna þess að þær eru konur og kosið sé eftir kynferði. Það er sérstök ástæða að velta þessu fyrir sér í okkar kjördæmi og líta til þess hvernig raðast hefur á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í undanförnum kosningum. Það er sami þverskurður kjósenda sem tekur þátt í prófkjörinu nú og gerði það árin 2009 og 2014. Þessir sömu kjósendur veittu Ragnheiði Elínu og Unni Brá brautargengi 2009 og 2014. Af hverju ættu þeir snúa baki við þeim nú vegna kynferðis þeirra. Er ekki líklegra, í ljósi niðurstöðu undangenginna prófkjara, að þátttakendur í prófkjörinu nú hafi litið til annarra þátta en kynferðis og það hafi ráðið afstöðu þeirra við val á frambjóendum, eins og það örugglega gerði bæði 2009 og 2014. Er líklegt að 2009 og 2014 hafi kjósendur í Suðurkjördæmi valið konur í efstu sætin af því að þær voru konur og hafni þessum sömu konum nú vegna þess að þær eru konur? Mér finnst þetta algjörlega galin umræða og ég held að það væri gott fyrir formann Landssambands Sjálfstæðiskvenna og aðra þá sem hafa hvað hæst í þessum konsert, við mikinn fögnuð fréttamanna, að líta á staðreyndir um prófkjör Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi undanfarnar kosningar. Það er falskur tónn í þessari umræðu vegna þess að staðreyndin er sú að kjósendur í prófkjörum Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi hafa ekki síður gefið konum en körlum tækifæri á undanförnum árum. Staðreyndirnar tala sínu máli. Eitthvað annað en kynferði frambjóðenda hlýtur að hafa ráðið afstöðu meirihluta kjósenda nú líkt og áður þó svo að í þetta sinn hafi karlar náð betri árangri en þær konur sem sömu kjósendur sýndu traust undanfarin 8 ár. Mér finnst það lítilsvirðing við þá rúmlega 4000 kjósendur sem tóku þátt í prófkjörinu að halda því fram að val þeirra hafi fyrst og fremst mótast af afstöðu til kyns frambjóðenda. Slík umræða er áfall fyrir pólitíkina. Grímur Gíslason (Greinarhöfundur er formaður stjórnar kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi)    

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Greinar >>

Ragnar Óskarsson - Málin eru ekki flóknari

  Ég held að ekki sé ofsagt þegar því er haldið fram að heilbrigðismál á Íslandi séu í megnasta ólestri um þessar mundir. Í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem enn hangir hefur ástandið versnað og það svo um munar. Starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar býr við hörmulegar aðstæður og svo má áfram telja. Nú er reyndar svo komið að heilbrigðiskerfið er komið út á ystu nöf og á sama tíma blasir við að ríkisstjórnin hefur enga framtíðarsýn í heilbrigðismálum.     Þetta er kannski ekki alveg rétt hjá mér því æ oftar heyrist rætt um framtíðaráform ríkisstjórnarflokkanna sem felast í því að koma heilbrigðisþjónustunni í einkarekstur því slíkur rekstur muni allt böl bæta í þessum efnum. Stundum læðist reyndar að hjá mér sá ljóti grunur að ríkisstjórnin sé bæði ljóst og leynt að vinna skemmdarverk á hinu samfélagslega heilbrigðiskerfi til þess að koma einkarekstrinum að.     Verði þessi framtíðaráform að veruleika blasir það eitt við að þjónustunni hrakar gagnvart almenningi en hinir efnameiri fá sennilega betri þjónustu ef þeir geta borgað fyrir hana. Þarna er sem sé komið enn eitt dæmið um hvernig núverandi ríkisstjórn vill bæta kjör þeirra sem betur standa í samfélaginu á kostnað hinna sem minna hafa.     Gegn þessum áformum standa Vinstri- græn. Við teljum félagslegan rekstur heilbrigðisþjónustunnar grundvallaratriði. Einkarekstur í ágóðaskyni á ekki heima í velferðarþjónustunni. Arðgreiðslur úr heilbrigðisþjónustu eru óásættanlegar, grunnþjónusta og rekstur sjúkrahúsa er ekki gróðavegur.     Vinstri græn stefna einnig að því að öll heilbrigðisþjónusta á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum verði gjaldfrjáls og að dregið verði markvisst úr kostnaðarþátttöku sjúklinga á næsta kjörtímabili. Byrjað verði á að lækka kostnað vegna barna, öryrkja og aldraðra og þjónustu göngudeilda sjúkrahúsanna.     Kosningarnar hinn 29. okt. snúast meðal annars um það hvers konar heilbrigðisþjónustu við viljum hafa í landinu. Núverandi stjórnarflokkar vilja sníða heilbrigðiskerfið að þörfum þeirra sem næg efni hafa. Vinstri- græn vilja félagslegt heilbrigðiskerfi sem allir geta notað á tillits til efnahags og þjóðfélagsstöðu.   Málin eru ekki flóknari.   Ragnar Óskarsson