Fiskverkafólk mikilvægur hlekkur í þeirri keðju sem drífur áfram sjávarútveg

„Þetta er allt að verða eins og það var fyrir verkfall sjómanna. Ísfélagið tók hluta af sínu fólki inn á miðvikudag í síðustu viku, Vinnslustöðin á mánudaginn og Godthaab í dag. Ísfélagið fékk fisk frá Þórshöfn í síðustu viku og norskur loðnubátur landaði hjá Vinnslustöðinni um helgina og nú streyma bátarnir inn með loðnu og bolfisk þannig að hjólin fara að snúast á ný,“ segir Arnar Hjaltalín, formaður Drífanda stéttarfélags í samtali við Eyjafréttir í gær. Um 350 félagar í Drífanda voru á atvinnuleysisskrá í verkfallinu. „Við höfum ekki kynnst svona frá því fyrir sameiningu stóru frystihúsanna 1992, að ekki væri vinna í stöðvunum svo vikum skipti. Þetta kennir okkur í verkalýðshreyfingunni að það þarf að endurskoða kjarasamninga og breyta lögum um hráefnisskort. Lög sem voru sett árið 1958 við aðstæður í sjávarútvegi sem eru langt frá veruleikanum eins og hann er í dag og því löngu orðin úrelt. Því það verður að segjast eins og er að víða um land var reynt að teygja á túlkun þessara laga og við urðum einnig vör við það hér í Eyjum. Við bjuggum við það í áratugi að fiskverkafólk var sent heim þegar ekki var til fiskur. Þetta hefur ekki verið vandamál hér mjög lengi og það sem gerðist í verkfallinu má ekki gerast aftur.“ Arnar segir að sitt fólk hafi ekki borið sig illa í verkfallinu þó viðbrigðin hafi verið nokkur að fara úr fullri vinnu á atvinnuleysisbætur. „Fiskverkafólk á rétt á tekjutengdum bótum eftir fyrstu tvær vikurnar heima. Hluti fólksins í Ísfélaginu og Vinnslustöðinni náði fullum tekjutengdum bótum en mun minni hluti annarra og fólk varð fyrir þó nokkru tekjutapi vegna þessa. Sérstaklega hafnarverkamenn og og einnig má nefna gúanókarlana. Ég get þó ekki annað en dáðst að því hvað fólk bar sig vel. Það kom líka í ljós hvað þetta er harðduglegt fólk sem vill fá að vinna fyrir peningunum sem það fær,“ sagði Arnar og bætir við að atvinnuleysisbótakerfið hafi sannað gildi sitt. „Þetta sýnir okkur að það öryggisnet sem atvinnuleysisbótakerfið er skiptir miklu en yfir helmingur félagsmanna okkar var án atvinnu í verkfallinu. Hjá flestum öðrum verkalýðsfélögum voru þetta aðeins örfá prósent. Verkfall sjómanna hefur líka sýnt okkur hvað fiskverkafólk er mikilvægur hlekkur í þeirri keðju sem drífur áfram sjávarútveginn í landinu og að það verður að taka tillit til okkar. Við erum fjölmennur hagsmunahópur og mikilvægur hluti lífvænna samfélaga víða um land.“    

„Hressó líkamsræktarstöð er ekki bara líkamsræktarstöð“

Uppruni Hressó „Hressó líkamsræktarstöð var stofnuð árið 1994 eftir að við systur höfðum búið í Reykjavík. Þar höfðum við verið iðnar við að mæta í líkamræktarstöð sem þá hét Stúdíó Jónínu og Ágústu. Þar kviknaði hugmyndin því við vissum að enginn slíkur staður var í Eyjum – því ekki að flytja aftur heim og stofna fyrirtæki með vinnu sem við myndum hafa gaman að, auðga mannlífið á bernskuslóðunum og leggja okkar að mörkum,“ segir Anna Dóra um upphafið. „Það eru því tveir stofnendur að Hressó, við systurnar en sannarlega hefðum við ekki getað þetta án Vigga og fleiri.“ Bakgrunnur systranna er ólíkur, Anna Dóra var keppnismanneskja í handbolta og með góða bókhaldskunnáttu en Jóhanna var meira í jassballet og eróbik sem var líkamsrækt þess tíma. „Eftir að ákvörðun hafði verið tekin um að láta þetta verða að veruleika fór Jóhanna í Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni og hefur verið iðin við að mennta sig meira eftir það. Meðal annars lærði hún að vera jókennari, hefur fengið level 1 og 2 í Crossfit kennslu sem og mastersnám í lýðheilsu. Við höfum alltaf reynt að fylgjast með öllum nýungum í líkamsrækt og verið með puttann á púlsinum, enda hefur líkamsræktin breyst mjög mikið og það er misjafnt hvað er inn á hverjum tíma,“ segir Anna Dóra.   Tímarnir og aðstaðan á Strandveginum „Spinningtímarnir okkar núna eru gríðarlega vinsælir en um tíma datt spinning niður en það er algjörlega málið í dag enda rosalega góð brennsla í spinning. Við erum með ný hjól sem hafa mæla sem gaman er að nota í tímunum. Við erum með fjölbreytta stundarskrá og það er opið alla daga,“ segir Anna Dóra um úrvalið í Hressó. „Vinsælustu tímarnir eru kl. 06.00 á morgnana og í hádeginu. Seinni parts tímar hafa þó verið að sækja í sig veðrið, sérstaklega hjá yngri kynslóðinni.“ „Hér eru einnig vel búnir salir, góður tækjasalur með yfir 15 brennslutækjum auk hefðbundinna tækja. Einnig er hér hlýr teygjusalur og hrátt lyftingarsvæði sem hægt er að nota allan daginn þannig að hér er hægt að æfa fjölbreytt og hvenær sem er,“ segir Anna Dóra. Tímar sem í boði eru í Hressó núna eru fjölmargir, Crossfit, Yoga, Zúmba, Hádegispúl, Tabata, Spinning, Core tímar, líkamsrækt og fleira. „Það eru síðan alltaf einhver námskeið í gangi og ef ekki er fullt þá er alltaf hægt að koma inn í námskeiðin. Það sem er t.d. í gangi núna er Forresthópurinn, Crossfit og Crossfit light námskeið,“ bætir Anna Dóra við og minnir á að alltaf sé hægt að fara í fría prufutími í Stóra Hressó við Strandveg. Tvö ný námskeið fara í gang í Hressó í febrúar, annað er fyrir konur 35 ára og eldri, í hvernig formi sem er. Hitt er stílað inn á yngri kynslóðina, ætlað fólki á aldrinum 14 – 23 ára. Fyrir unglingana erum við að vinna með æfingaform sem er mjög vinsælt í dag og býður upp á mikla brennslu og tónun á vöðvum líkamans,“ segir Anna Dóra og bendir á að hægt sé að fá frístundarstyrk frá Vestmannaeyjabæ fyrir námskeiðið. „Hressó líkamsræktarstöð er ekki bara líkamsræktarstöð, þetta er ekki síður félagsmiðstöð. Hér er infrarauður klefi en hann er gríðarlega vanmetinn og hefur ótrúlega mikil og góð áhrif á einstaklinga. Hann hreinsar húðina, mýkir upp vöðva og liði og í einum tíma getur fólk eytt allt að 600 hitaeiningum,“ segir Anna Dóra um nýju klefana. Klefinn er ekki eina nýjungin hjá Hressó, nýr sólarbekkur er einnig kominn í gagnið. „Þetta er bekkur sem fer betur með húðina, hann er með vatnsúða og góðum viftum. Svo má ekki gleyma að hér er skemmtileg kaffistofa þar sem mikið er spjallað og hlegið.“   Litla Hressó „Ekki má gleyma því að við opnuðum Litla Hressó í íþróttamiðstöðinni núna í janúar og erum við þakklátar fyrir þær góðu viðtökur sem við höfum fengið þar,“ segir Anna Dóra. „Salurinn er auðvitað frekar lítill en við gerðum okkar besta til þess að koma tækjunum haganlega fyrir þannig að plássið nýttist sem best. Við höfum ekki heyrt annað en fólk sé almennt ánægt með aðstöðuna. Þess má geta að við höfum fengið frábæra manneskju, Söruh Hamilton ÍAK einkaþjálfara, til þess að vera yfir Litla Hressó. Hún hefur fasta viðveru á staðnum frá 12.30 – 13.30 á þriðjudögum og frá kl. 09.00 – 10.00 á fimmtudögum og er fólki velkomið að leita ráða hjá henni eða fá prógramm til þess að æfa eftir á staðnum,“ segir Anna Dóra hæstánægð með nýja staðinn. Að lokum vill Anna Dóra þakka öllum iðkendum Hressó fyrir samfylgdina í gegnum árin. „Litlu stelpurnar sem opnuðu Hressó á sínum tíma eru orðnar fullorðnar enda búnar að starfa í þessu í 22 ár! Við þökkum öllum sem hafa komið til okkar en þess má geta að sumir hafa verið okkur samferða allan þennan tíma. TAKK! Þið vitið hver þið eruð.“    

Í grunninn sá samningur sem var felldur í haust

„Samningurinn sem samþykktur var á sunnudaginn er í grunninn sá samningur sem var felldur í haust,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands. „Eftirfarandi viðbót kom þó inn. Greidd er kaupskráruppbót kr. 300.000 með orlofi til þeirra sem eru í starfi og voru lögskráðir 180 daga eða meira á árinu 2016. Hafi skipverjar verið lögskráðir færri daga en 180 daga greiðist uppbótin hlutfallslega. Er þetta eingreiðsla. Skiptaverð á á aflaverðmæti sem landað er til eigin fiskvinnslu útgerðar er 0,5%-stigum hærra en ef landað er hjá óskyldum aðila. Skiptaverð er sem sagt 70,5% ef landað er hjá eigin vinnslu útgerðar en 70% ef landað er hjá óskyldum aðila.“ Þá nefndi Valmundur að útgerðin lætur skipverjum í té nauðsynlegan hlífðar- og öryggisfatnað. Fatnaðurinn er eign útgerðarinnar en í umsjá skipverjans. Ákvæðið tekur gildi 1. maí 2017. „Skipverjar fá einnig frítt fæði. Inn kemur grein um fjarskipti og fjarskiptakostnað skipverja. Samningstími er til 1. desember 2019.“ Þá bendir Valmundur á bókanir sem hann segir dýrmætar fyrir sjómenn. „Þetta er bókun um að samningurinn verði tekinn upp í heild sinni og endurskoðaður með það að markmiði að einfalda hann og gera skiljanlegri. Einnig að gerð verði stór rannsókn á hvíldar- og vinnutíma sjómanna á Íslandi. Stefnt skal að að kostnaðarhlutdeild verði greind sérstaklega með það að markmiði að gert verði uppúr 100% aflaverðmætis. Þessi vinna verður undir verkstjórn Ríkissáttasemjara.“ Valmundur segir að nokkur gagnrýni hafi komið fram á stutta kosningu en kosningin stóð laugardag og sunnudag. „Því er til að svara að samninganefndir sjómanna, allar með tölu SSÍ, SVG, VerkVest og SÍ ákváðu að hafa kosninguna áður en flotanum væri hleypt á sjó. Kosningaþáttakan 54% er í raun nokkuð góð. Í fyrrasumar var kosningaþáttakan eftir mánaðarkosningu um 32% og í haust um 67% eftir mánaðar rafræna kosningu. Nánast engar kröfur útvegsmanna voru teknar til greina í samningsgerðinni sem er nokkur nýlunda miðað við samninga fyrri ára,“ sagði Valmundur að endingu.  

Deilan blessunarlega leyst en spurning um afleiðingarnar

„Skipin okkar fóru til veiða strax í gærkvöld og KAP er lagður af stað heim aftur með tæplega 500 tonn sem fékkst í einu kasti. Auðvitað léttist brúnin við að sjá hjólin snúast á nýjan leik og það hratt. Margar áleitnar spurningar hafa hins vegar vaknað í kjaradeilunni og þeim verður ekki ýtt til hliðar umræðulaust þrátt fyrir að samningar hafi blessunarlega tekist,“ segir Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar þegar rætt var við hann á mánudaginn. „Auðvitað er umhugsunarefni að sjómenn felldu í tvígang samninga sem forystumenn þeirra höfðu skrifað upp á og samþykktu svo í þriðja sinn með naumum meirihluta samning sem færir þeim verulegar kjarabætur. Ég neita mér um að hugsa til enda hvaða afleiðingar það hefði haft ef sjómenn hefðu fellt í þriðja sinn. Hjá því verður ekki komist að kanna ástæður óánægjunnar. Það er alltof ódýrt og yfirborðskennt að lýsa eftir meira trausti í samskiptum útgerðarmanna og sjómanna. Við sömdum jú aftur og aftur! Niðurstöður þriggja atkvæðagreiðslna í þessari kjaradeilu benda til þess að traust skorti ekki síður í samskiptum sjómanna og forystusveitar þeirra. Annað mál er svo það að ímynd íslensks sjávarútvegs hefur laskast verulega gagnvart erlendum kaupendum og neytendum. Viðskiptavinir okkar skilja bara alls ekki hvernig það getur gerst að höfuðatvinnuvegur Íslendinga lamist og sé lamaður vegna vinnudeilu samfleytt í tíu vikur! Skammtímaáhrifin geta orðið mikil og langtímaáhrifin veruleg líka. Neytendur sneru sér að öðrum fiski eða annarri matvöru og skila sér margir hverjir ekki aftur til okkar sem viðskiptavinir. Mikið framboð á fiski í einni dembu inn á markaði núna að verkfalli loknu þrýstir fiskverði niður. Við verðum að búa okkur undir verðfall á mörkuðum. Síðast en ekki síst hafa erlendir markaðir verið „sveltir“ vikum saman af íslenskum fiski. Afhendingaröryggi skapar traust í viðskiptum en þegar enginn fiskur berst héðan í hálfan þriðja mánuð finna viðskiptavinirnir á eigin skinni að okkur er ekki treystandi til að afhenda umsamda vöru á umsömdum tíma. ÞAÐ er alvarlegasta afleiðing hins langvarandi verkfalls og það munum við skynja lengi, því miður.“  

Eyjamaður vikunnar - "Viss léttir yfir manni eftir tvo fellda samninga"

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands hefur ásamt öðrum í forystusveit íslenskra sjómanna haft í mörg horn að líta undanfarna mánuði. Stór áfangi náðist aðfararnótt laugardagsins þegar sjómenn og útgerðarmenn skrifuðu undir samning sem samþykktur var naumlega. Áður höfðu tveir samningar verið felldir. Það var mikill léttir fyrir sjávarpláss eins og Vestmannaeyjar þegar deilan leystist og skipin byrjuðu að halda á miðin í sunnudagskvöldið. Valmundur er Eyjamaður vikunnar.   Nafn: Valmundur Valmundsson. Fæðingardagur: 10. maí 1961. Fæðingarstaður: Siglufjörður. Fjölskylda: Eiginkonan er Björg Baldvins. Börnin Anna Brynja í sambúð með Davíð Guðmundssyni og börn þeirra tvö Una Björg og Kjartan Leó. Valur Már í sambúð með Lindu Óskarsdóttur og eiga þau dótturina Sigrúnu Önnu og einn Eyjapeyja á leiðinni í maí. Draumabíllinn: Porche 911. Uppáhaldsmatur: Allur gömlukallamatur, hrossabjúgu, svið, slátur, súrmeti, hákall og auðvitað humar og góður lambahryggur svíkur aldrei. Og svartfuglinn hjá peyjanum. Versti matur: Hef aldrei getað borðað mysing. Meira að segja surströmming er betri. Uppáhalds vefsíða: Þær eru margar, allar síður tengdar Eyjum og Siglufirði og nota mikið síður stéttarfélaganna. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Jazz og létt þungarokk eins og Dimma. Aðaláhugamál: Fyrir utan vinnuna er það fluguveiði og fluguhnýtingar. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Nelson flotaforingja. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Ef ég á að nefna einn er það Hvanneyrarskál um vetur, allt á kafi í snjó og stökkmót innst í skálinni. Þar hefur verið stokkið lengst á skíðum á Íslandi. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: ÍBV og KS mitt gamla félag á Siglufirði. Svo á ég tvær afastelpur sem eru í fimleikum. Unu Björgu og Sigrúnu Önnu. Ertu hjátrúarfull/ur: Alveg hroðalega. Stundar þú einhverja hreyfingu: Hjóla á sumrin og göngur á veturna. Uppáhaldssjónvarpsefni: Fréttir, fréttatengt efni, góðir enskir og norrænir krimmar. Hvað hafa samningaviðræður staðið lengi: Þær hafa staðið með hléum frá 2012 þegar málinu var vísað til Sátta af útgerðarmönnum. Var ekki léttir þegar niðurstaða kosningarinnar lá fyrir: Það má segja það að viss léttir sé yfir manni núna eftir tvo fellda samninga. Hvað er það besta við samninginn: Það sem náðist að bæta við fellda samninginn frá í haust. Það var ekki sjálfgefið að eitthvað næðist í viðbót en með samstöðu sjómanna og þeirra samninganefnda hafðist þetta í gegn. Hvar hefðir þú viljað ná lengra: Hefði gjarnan viljað ná lengra í olíuverðsviðmiðinu. En nú fer í gang vinna við endurskoðun á þessu bixi sem heitir kostnaðarhlutdeild og hún greind lið fyrir lið og hverju og þá hvernig hægt er að breyta til einföldunar og gagnsæis. Verður haldið áfram að berjast fyrir sjómannaafslætti: Krafan um bætur fyrir sjómannaafsláttinn er enn lifandi á hendur útgerðinni. Getum ekki gert kröfu á ríkið um eitt eða neitt. Eitthvað að lokum: Vil að síðustu þakka öllum félögum mínum til sjávar og sveita fyrir stuðninginn og fjölskyldunni fyrir að standa þétt við bakið á kallinum í orrahríðinni undanfarnar vikur.  

Skref fram á við og þarf að undirbúa það næsta

Þorsteinn Ingi Guðmundsson, formaður Sjómannafélagsins Jötuns, hefur eins og aðrir forystumenn sjómanna og sjávarútvegsfyrirtækja haft í mörg horn að líta síðustu mánuði. Það hefur því verið ákveðinn léttir fyrir þá þegar samningarnir voru samþykktir á sunnudagskvöldið. Þurfti þrjár atrennur til að niðurstaða næðist og hafði verkfall sjómanna staðið í hátt í tíu vikur. Eitt stóra málið var skattafsláttur í einhverri mynd en stjórnvöld sinntu því ekki. Útgerðarmenn buðu þá frítt fæði um borð sem gerði sitt til að niðurstaða fengist. Það vill enginn hugsa þá hugsun til enda hefðu samningarnir ekki verið samþykktir og tæpt stóð það. Á kjörskrá á landinu voru 2114 og atkvæði greiddu 1189 eða 53,7%. Já sögðu 623 eða 52,4% og nei 558 eða 46,9% og munaði ekki nema 72 atkvæðum. Hjá Jötni áttu 160 atkvæðisrétt og atkvæði greiddu 104 eða tæp 70%. „Mér finnst sjómenn almennt ekki taka þetta nógu alvarlega en ég er þakklátur fyrir hvað margir nýttu atkvæðisréttinn hjá okkur,“ segir Þorsteinn sem er nokkuð sáttur við samninginn, segir hann skref fram á við. Hann er ekki hrifinn að aðkomu sjávarútvegsráðherra að deilunni og segir hana hafa ætlað að kljúfa samstöðu sjómanna með útspili sínu. „Hún bauð upp á að sjómenn sem eru lengur á sjó en 48 tíma fengju skattaafslátt sem hefði þýtt að áhafnir dagróðrabáta, net- og línuskipum og jafnvel á uppsjávarskipum stæðu eftir óbættir. Þannig hefðu um 40% sjómanna setið eftir með sárt ennið. Það var algjör samstaða um að þetta kæmi ekki til greina. Auk þess var hún með hótanir um lög á verkfallið sem hvorki við eða útgerðin vildu.“   Ekki lengra komist Þorsteinn segir að andinn milli samninganefndanna hafi orðið betri eftir því sem leið á og fólk kynntist betur. Ákveðinn skilningur hafi verið á milli þó ekki væri fólk sammála. „Sjálfum fannst mér að ekki yrði lengra komist en samningurinn er skref fram á við. Núna tekur við nýtt tímabil til að undirbúa næsta skref. Staðreyndin er að árangur í samningum hefur aldrei náðst í stórum stökkum. Auðvitað hefðum við viljað fá meira en það voru gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir loðnusjómenn, fólk í landi og fyrirtækin sem eiga allt sitt undir að loðnan náist. Eins og ég sagði áðan er ég þokkalega sáttur og get ekki verið annað því ég skrifaði undir samninginn og stór hluti af síðasta ári hefur farið í vinnu við hann.Þó er það sem er í miklum ólestri að traust vantar á milli sjómanna og útgerða. Það er útgerðamanna að lagfæra það, t.d. að menn geti verið sem afleysingarmenn mánuðum saman og taka þar með af mönnum veikindarétt,“ sagði Þorsteinn og hafði þetta að segja um samningana að lokum: „Ég veit að sjómenn eiga eftir að sjá kjarabætur og bókun um mönnun skipa og fjarskipti eiga eftir að hafa sitt að segja í að bæta hag sjómannastéttarinnar,“ sagði Þorsteinn að endingu.    

Dugnaður eru hópþrektímar fyrir alla sem vilja komast í frábært alhliða form

Um nokkurt skeið hafa þær Minna Björk Ágústsdóttir og Þórsteina Sigurbjörnsdóttir boðið Vestmannaeyingum upp á fjölbreytta og áhrifaríka líkamsrækt sem hefur það eitt að leiðarljósi að efla heilsu og stuðla að almennri vellíðan. Hingað til hafa tímarnir þeirra Minnu og Steinu gengið undir nafninu Metabolic en nú munu þeir einfaldlega heita Dugnaður. Blaðamaður hafði samband við þær Minnu og Steinu og spurði þær nánar út í Dugnað og hvað tímarnir hafa upp á að bjóða.   Er breytingin í Dugnaður bara að nafninu til eða eru einhverjar aðrar breytingar sem fylgja því? „Þegar við hófum starfsemi saman haustið 2015 stofnuðum við fyrirtækið okkar sem heitir Dugnaður ehf. Við gerðum þó ákveðnar áherslubreytingar nú í haust á tímunum sem voru einungis Metabolic tímar allan fyrra vetur. Við fórum til Berlínar vorið 2016 á námskeið sem heitir Training for warrirors og tókum inn kerfi sem við lærðum þar. Einnig fórum við á námskeið í haust þar sem við fengum kennararéttindi í ketilbjöllum og höfum því líka tekið inn ketilbjöllutíma sem við keyrum samhliða Metabolic. Við gerðum þetta til að auka fjölbreytnina hjá okkur,“ segja þær Minna og Steina. Eitt af því sem er í boði eru tímar sem kallast „Þrek“ sem að þeirra sögn eru markvissir, skemmtilegir og árangursríkir hópþrektímar fyrir alla sem vilja komast í frábært alhliða form í góðum félagsskap. „Unnið er með teygjur, kraftbolta, ketilbjöllur, kaðla, eigin líkamsþyngd og fleira spennandi og skemmtilegt. Þáttakendur stjórna álaginu sjálfir.“ Eru tímarnir fyrir konur jafnt sem karla og fólk á öllum aldri? „Já, þeir eru fyrir alla, iðkendur geta ráðið álaginu sjálfir og við finnum nýjar æfingar ef fólk treystir sér ekki í það sem sett er upp. Aldurshópurinn er mjög breiður og strákunum er alltaf að fjölga. Gaman að segja frá því að í einum tíma í vetur var yngsti þátttakandinn 14 ára og sá elsti 74 ára. Hjá okkur er einnig töluvert af hjónafólki, mæðgum, mæðginum og vinahópum sem hafa komið saman í þrektíma áskrift.“ Til viðbótar við „Þrek“ verða tímarnir „Stoð“ tvisvar í viku fyrir fólks sem á við stoðkerfisvandamál að stríða. „Þetta eru þrektímar sem henta þeim sem eru með stoðkerfisverki eða þurfa að fara sérstaklega varlega. Hentar einstaklingum sem kenna sér meins í stoðkerfi, hvort sem álag, sjúkdómar eða slys hafa valdið ójafnvægi. Markmiðið er að minnka verki, styrkjast og auka líkamsvitund. Þjálfunin er einstaklingsmiðuð þó svo hún fari fram í hópi. Hver og einn fer á sínum hraða og gerir eins þungt og hratt og hann treystir sér til, það er alltaf hægt að finna aðrar útfærslur af æfingunum. Tímarnir eru fyrir fólk á öllum aldri af báðum kynjum,“ segja Minna og Steina. „Nú er þetta annar veturinn okkar saman og hefur stór hluti verið með okkur frá upphafi,“ segja þær aðspurðar hvort það sé alltaf sami kjarninn hjá þeim. „Það eru alltaf einhverjir sem detta út og nýir koma inn. Við erum svo stoltar af fólkinu okkar sem mætir ótrúlega vel og hvað þau eru samheldin. Það er mikil samkennd og hvatning í hópnum. Einn iðkandi sagði í vetur að honum fyndist eins og hann væri kominn í lið.“ Hafa iðkendur hjá ykkur tekið miklum heilsufarslegum framförum? „Við leggjum mikla áherslu á vellíðan og heilbrigði og það er það sem við erum sannarlega að sjá hjá hópnum. Margir koma til okkar og segja okkur frá breytingum sem þeir finna á sér og það finnst okkur ánægjulegt,“ segja Minna og Steina. Hvaða skilaboð hafið þið til þeirra sem hafa áhuga á því að byrja í Dugnaði en einhverra hluta vegna láta ekki verða að því? „Við hvetjum ykkur til þess að koma og prufa nokkra tíma. Það er mikil fjölbreytni í tímum vikunnar og því ekki marktækt að koma bara einu sinni. Yfir vikuna eru þoltímar, styrktartímar og powertímar, auk Training for warriors og ketilbjöllutímar. Endilega sláist í okkar skemmtilega hóp, við tökum vel á móti nýjum iðkendum,“ segja þær að lokum og minna á þrektíma sem þær sjá um fyrir gólfklúbbinn. „Við vorum að byrja með þrektíma fyrir gólfklúbbinn einu sinni í viku og er það mjög ánægulegt og spennandi verkefni.“    

Fundur Umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja 20. febrúar 2017

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 262. fundur haldinn í fundarherbergi Umhverfis- og framkvæmdasviðs, 20. febrúar 2017 og hófst hann kl. 16:05     Fundinn sátu: Margrét Rós Ingólfsdóttir formaður, Kristinn Bjarki Valgeirsson aðalmaður, Ingólfur Jóhannesson aðalmaður, Esther Bergsdóttir aðalmaður, Georg Eiður Arnarson aðalmaður, Sigurður Smári Benónýsson starfsmaður sviðs og Ólafur Þór Snorrason framkvstj.sviðs.   Fundargerð ritaði: Sigurður Smári Benónýsson, skipulags-og byggingarfulltrúi       Dagskrá:   1. 201611092 - Deiliskipulag H-1. Skipulagsbreyting. Tekin fyrir að nýju breytingartillaga deiliskipulags á hafnarsvæði H-1. Tillagan gerir ráð fyrir skilmálabreytingum er varðar hámarkshæð og heildarbyggingarmagn Ægisgötu 2, Tangagötu 10 og norðurbyggingu Strandvegs 30, áður Tangagata 12. Tillagan var auglýst frá 28 des. 2016 til 8 feb. 2017. Þrjú bréf bárust ráðinu.   Bréf bárust frá slökkviliðsstjóra Vestmannaeyja, frá Magnúsi Sigurðssyni f.h. Steina og Olla ehf. og frá Þresti Bjarnhéðissyni Johnsen. Í bréfi slökkviliðsstjóra er bent á að Slökkvilið Vestmannaeyja hefur ekki yfir að ráða búnaði til að bjarga fólki eða berjast við eld í svona háum húsum og ítrekar mikilvægi þess að viðeigandi búnaður sé keyptur. Í athugasemdabréfi frá Þresti Bjarnhéðinssyni Johnsen er mótmælt auknu byggingarmagni á húsunum við Strandveg 30, Tangagötu 10 og Ægisgötu 2. Þá tekur bréfritari ekki nægileg bílastæði vera og að útsýni allra bæjarbúa sem búa fyrir neðan Barnaskóla muni skerðast. Í athugasemdabréfi frá Magnúsi Sigurðssyni f.h Steina og Olla ehf. er m.a bent á rangfærslur í orðalagi og rangar hlutfallstölur sem óskað er eftir að verði leiðrétt.   Umhverfis -og skipulagsráð þakkar bréfriturum fyrir innsend bréf og áhuga á málinu. Umhverfis -og skipulagsráð vill í hvarvetna að öryggi íbúa og gesta Eyjanna sé tryggt eins og kostur er og tekur því undir áhyggjur slökkviliðsstjóra. Ráðið bendir á að skv. brunavarnaráætlun Vestmannaeyja sem unnið er eftir er gert ráð fyrir að fjárfest verði í nauðsynlegum búnaði áður en að fólk mun hefja búsetu á umræddu svæði, og því er að mati ráðsins brugðist við athugasemdum slökkviliðsstjóra.   Umhverfis -og skipulagsráð felur skipulagsfulltrúa að leiðrétta byggingarskilmála Tangagötu 10 og bendir bréfritara á að svæðisskilmálar aðalskipulags heimila að húsið geti nýst sem hótel.   Umhverfis -og skipulagsráð mun ekki leggjast gegn auknu byggingarmagni húsanna sem um ræðir. Með útsjónarsemi og skipulagi hefur tekist að hafa bílastæðafjölda fullnægjandi fyrir íbúðir og þá starfsemi sem verður á svæðinu. Ekki er gert ráð fyrir að Vigtartorgið verði notað sem bílastæði.   Ráðið felur skipulags- og byggingarfulltrúa að svara bréfriturum en samþykkir skipulagið fyrir sitt leyti og vísar því til afgreiðslu bæjarstjórnar.       2. 201610058 - Ofanbyggjaraland. Samningar. Tekið fyrir að nýju erindi um endurnýjun samninga í Skátastykki, Suðurgarði, Eystra-Þorlaugargerði og Vestra-Þorlaugargerði. Lóðarblöð voru send út til kynningar og andmæla á tímabilinu 30 des. 2016 til 10. feb. 2017. Lóðarblöð og innsend bréf lóðarhafa eru lögð fyrir ráðið.   Ráðið hefur farið yfir innsend bréf lóðarhafa og metið misræmi milli útsendra lóðarblaða og innkominna gagna. Ráðið leggur til eftirfarandi breytingar á áðurútsendum lóðarblöðum   Vestra-Þorlaugargerði: samþykkt að land falli að flugvallalandi til norðurs. Kvöð verður sett á landið er varðar aðkomu að Nónhól landnúmer 161206.   Eystra-Þorlaugargerði: samþykkt að tún nr. 10. og 11. sunnan vegar verði bætt við landið. Landamörk við Skátastykki verður breytt með þeim hætti að vegslóði verður hluti af landi Skátastykkis.   Suðurgarður: samþykkt að land stækki sunnan vegar sbr. núv. girðing og land að norðan verði í samræmi við núv. girðingar.   Skátastykki: samþykkt að vegslóði við landamörk Eystra Þorlaugargerðis verði hluti af lóð Skátafélagsins.   Skipulags-og byggingarfulltrúa er falið að útbúa ný lóðarblöð.   Á næsta fundi ráðsins verða lögð fram drög að túnasamningum og gjaldskrá vegna nytjaréttar.       3. 201702113 - Brattagata 10. Umsókn um byggingarleyfi Tekið fyrir erindi lóðarhafa. Valur Andersen sækir um byggingarleyfi fyrir raðhúsi sbr. innsend gögn.   Ráðið óskar eftir skuggateikningum frá lóðarhafa og samþykkir með tilvísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að framlögð gögn verði í framhaldi grenndarkynnt fyrir lóðarhöfum að Bröttugötu 5, 7, 8, 9, 11, 12, 12a, 13, 15, 17, 19. Heiðartúni 4 og 6. Strembugötu 16, 18, 20, 22, 24, 26, 27, 29. Að grenndarkynningu lokinni mun erindið verða tekið til afgreiðslu.       4. 201702114 - Áshamar 32. Umsókn um byggingarleyfi Tekið fyrir erindi lóðarhafa. Ólafur Tage Bjarnason hönnuður sækir um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi sbr. innsend gögn.   Ráðið samþykkir með tilvísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að framlögð gögn verði grenndarkynnt fyrir lóðarhöfum að Áshamri 28, 30, 34, 36, 50 og Búhamri 13, 29, 35, 39. Að grenndarkynningu lokinni mun erindið verða tekið til afgreiðslu.             Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:10    

Vestmannaeyjar aldrei komist lengra í Útsvari

Lið Vestmannaeyja, skipað þeim Gunnari Geir Gunnarssyni, Gunnari K. Gunnarssyni og Sædísi Birtu Barkardóttur, hafði betur gegn liði Þingeyjarsveitar í Útsvari síðustu helgi en lokastaðan var 82 stig gegn 70. Nú er liðið búið að vinna tvær viðureignir og komið í átta liða úrslit keppninnar en í þeim sporum hefur Vestmannaeyjabær aldrei verið í áður. Sveitafélögin sem komin eru í átta lið úrslitin eru þá Kópavogur, Ölfuss, Hafnarfjörður, Fjarðabyggð, Grindavík, Akranes og Vestmannaeyjar. Um helgina keppast síðan Hornfirðingar og Mosfellingar um síðasta sætið í pottinum. Blaðamaður hafi samband við Sædísi Birtu, sem er í fyrsta skiptið að taka þátt í Útsvarinu, og spurði hana nánar út út í viðureignina gegn Þingeyjarsveit og framhaldið í keppninni. Hvernig er að vera komin áfram í þriðju umferð Útsvarsins? „Það er afskaplega skemmtilegt því þetta er víst í fyrsta sinn sem Vestmannaeyjabær kemst svona langt, gaman að vera partur af þeim árangri,“ segir Sædís. Þið voruð allan tímann sterkari aðilinn í viðureigninni en nokkur spenna færðist í leikinn í stóru spurningunum. Höfðuð þið einhverjar áhyggjur af sigrinum? „Já, ég var nú orðin pínu stressuð þegar þau svöruðu tveimur 15 stiga spurningum í röð og allt í einu var munurinn tvö stig en ekki 22. En þetta hafðist allt að lokum sem er auðvitað bara frábært,“ bætir Sædís við og segir að þau í liðinu nái vel saman. „Við þekkjumst náttúrulega mjög vel, ég og Gunnar Geir erum systkinabörn og þeir svo feðgar þannig ég hef þekkt þá alla ævi. Það er mikið spilað í minni fjölskyldu og mikið keppnisskap svo ég myndi segja að liðsheildin væri nokkuð góð hjá okkur.“ Skiptið þið niður á ykkur einhverjum áhersluatriðum við undirbúninginn? „Ekki beint en Gunnar Geir tók t.d. á sig að rifja upp höfuðborgir og staðreyndir um Bandaríkin en ég tók á mig norræna og gríska goðafræði, óheppni að sú 15 stiga spurning lenti hinum megin í þetta skipti en vonandi fáum við bara svoleiðis spurningu næst. Annars er mjög erfitt að lesa spurningahöfundinn, spurningarnar fara um víðan völl. Við lágum einnig öll yfir fréttunum í aðdraganda keppninnar og æfðum leikinn saman,“ segir Sædís. Eigið þið ykkur einhver draumamótherja í næstu umferð? „Nei, í rauninni ekki, það var ótrúlega gaman að mæta Þingeyjarsveit, þau eru öll svo hress þannig að okkur fannst öllum afar gaman að keppninni síðasta föstudag. Vonandi mætum við einhverjum sem við getum skemmt okkur með aftur og jú, vonandi unnið líka!,“ segir Sædís að lokum.    

Fyrsti loðnufarmurinn til Eyja kom í gærmorgun

Norska uppsjávarskipið Osterbris frá Björgvin kom í græmorgun  með 450 tonn af loðnu. Þetta er fyrsti loðnufarmurinn sem kemur til Eyja á vertíðinni og fór til vinnslu í nýju uppsjávarvinnsluhúsi VSV.   Vinnslustöðin hefur tekið á móti og unnið bæði makríl og síld í nýja uppsjávarhúsinu frá því það var tekið í gagnið snemmvetrar 2016. Nú er komið að loðnunni og ekki fer hjá því að spenna sé í mannskapnum að hefjast handa, þótt hjólin fari að snúast í skugga verkfalls sjómanna.   „Að sjálfsögðu er ánægulegt og spennandi að prufukeyra nýju uppsjávarvinnsluna við að frysta loðnuhrygnur og nú ætti að ríkja bjartsýni en ekki óvissan ein vegna loðnuveiða okkar,“ segir Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri VSV.   „Ástandið er óþolandi. Á sama tíma og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hefur margfaldað loðnukvótann er allur uppsjávarfloti Vinnslustöðvarinnar í höfn vegna þess að sami ráðherra þráast enn við að fallast á sjálfsagðar kröfur sjómanna um að farið verði skattalega með dagpeningagreiðslur þeirra á sama hátt og dagpeningagreiðslur opinberra starfsmanna og launafólks á almennum markaði.   Á þessu atriði strandar en samningar útvegsmanna og sjómanna liggja annars fyrir, eins og fram hefur komið. Furðulegast er að skattaleg meðferð dagpeninga heyrir undir fjármálaráðherra en ekki sjávarútvegsráðherra! Væri ekki ráð að forsætisráðherra tæki nú af skarið?“   Af vsv.is.

Fjórða iðnbyltingin hafin og þar eru tækifærin líka fyrir Vestmannaeyjar

„Ég er best gifti maður allra tíma,“ segir Eyjamaðurinn Tryggvi Hjaltason þegar hann fer yfir fjölskyldumál sín með blaðamanni Eyjafrétta en síðustu ár hefur Tryggvi verið að starfa fyrir tölvuleikjarisann CCP en að hans sögn tilheyrir fyrirtækið í dag efsta lagi afþreyingariðnaðarins á heimsvísu. „Ég er giftur ofurgyðjunni Guðnýju Sigurmundsdóttur, dóttur Simma og Unnar í Viking Tours,“ heldur Tryggvi áfram. „Saman eigum við tvö börn, Bjart fimm ára og Evu tveggja ára og eitt á leiðinni. Sjálfur er ég kominn af miklum molum, Hjalta Kristjánssyni lækni og Veru Björk Einarsdóttur skjólahjúkrunarfræðing og á ég tvö systkin Trausta og Ragnheiði Perlu.“ Tryggvi kláraði stúdentspróf frá FÍV og eftir það lá leiðin vestur um haf þar sem hann kláraði BS gráða frá Embry Riddle University í Bandaríkjunum í Global Security and Intelligence Studies. Þegar heim var komið aftur, skellti Tryggvi svo í eina Masters gráðu í fjármálum frá Háskóla Íslands en því má bæta við að hann hefur einnig lokið lögregluskóla ríkisins ásamt grunni í hagfræði frá HÍ.   Hefur víða komið við Aðspurður út í fyrri störf segist Tryggi hafa komið víða við. „Ég hef starfað víða, m.a. fyrir Vestmannaeyjabæ, UMFÓ, Ísfélagið, Löndunargengið, Lögregluna, Landhelgisgæsluna, Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, Innanríkisráðuneytið, Embætti sérstaks saksóknara og nú síðast CCP.“ Hvenær byrjaðir þú hjá CCP og hvað felst í starfi þínu? „Ég byrjaði í september 2015 og tók þá við starfinu „Senior analyst“ sem myndi líklega útleggjast „yfir greiningaraðili“ en starf mitt þá fól í sér í stuttu máli að greina hvort fyrirtækið væri reiðubúið að ráðast í ákveðnar breytingar á viðskiptamódeli sínu. Það leiddi til þess að ég fór að skoða ýmsa vinkla í uppbyggingu fyrirtækisins út frá þeirri þekkingu sem ég hef náð mér í t.a.m. hegðunarfræði, meðferð gagna og greining verðmæta- og hreyfipunkta. Í stuttu máli leiddi það til samræðna sem leiddu til þess að fyrirtækið bað mig að leiða metnaðarfullt verkefni sem sneri að því að smíða nýja byrjun á flaggskip fyrirtækisins, EVE Online. EVE Online er tölvuleikur sem nær öll Reykjavíkurskrifstofa fyrirtækisins er byggð utan um, enda hefur Hilmar framkvæmdastjóri bent á að yfir 500 milljón dollarar hafi komið inn í Íslenskt hagkerfi í gegnum leikinn,“ segir Tryggvi og heldur áfram.   Leiddi stórt teymi í breytingunum   „Ég tók því við starfi framleiðanda og leiddi stórt teymi í átt að þessum breytingum. Þann 15. nóvember sl. voru síðan gefnar út einar stærstu breytingar sem hafa verið gerðar á EVE Online í 14 ára sögu leiksins, þegar ákveðið var að breyta tekjumódelinu yfir í svokallaða fríspilun sem þýðir að í dag getur þú spilað leikinn án þess að borga fyrir hann. Á sama tíma var algjörlega breytt öllu ferlinu í kringum það hvernig nýir spilarar koma inn í leikinn en við ákváðum að notast við ýmis verkfæri sem leikurinn hefur ekki notast við áður eins og línulega frásögn, raddleikara, skipulagða virkjun tilfinninga og skipulagða uppbyggingu upplýsingaflæðis. Upplifunin sem við kölluðum Inception hefur fengið virkilega góðar viðtökur en fjöldi spilara í leiknum tvöfaldaðist, það hafa mörg hundruð þúsund manns nú þegar farið í gegnum lífsreynsluna sem við smíðuðum og það virðast bjartir tímar framundan. Ferlið í heild sinni var ný upplifun fyrir mig og var ótrúlega fróðlegt og þroskandi. Til að mynda þegar ég flaug til London til að stýra raddupptökuferlinu fyrir leikinn að þá fattaði ég að einn raddleikarinn lék stórt hlutverk í uppáhalds sjónvarpsþættinum mínum sem var auðmýkjandi lífsreynsla sem ásamt öðru fékk mann til að skilja að CCP er í efsta lagi afþreyingariðnaðarins.“   Grundvallarbreytingar framundan Þú hefur talað um að við séum að ganga í gegnum fjórðu iðnbyltinguna, hvað áttu við með því? „Tækniframfarir eins og gervigreind, þrívíddarprentun, sýndarveruleiki, róbótavæðing og breytt orkunýting eru byrjaðar að ýta af stað grundvallarbreytingu í virðis- og vinnumarkaðsmódelum. Ég er svo heppinn að fá að vinna við og upplifa á hverjum degi hluta af þessari byltingu, sem er sýndarveruleikinn, en CCP er einn af leiðandi efnisframleiðendum fyrir sýndarveruleika (VR) í heiminum. Þessi bylting er að fara að umturna hagkerfum okkar og hugsun um verðmætaframleiðslu en rannsóknir telja t.a.m. að 10 til 47% allra starfa muni hverfa á innan við næstu 20 árum út af þessari þróun. Það sem ég hef verið að benda á er að lærdómur sögunnar sýnir að það skiptir gríðarlega miklu máli hvar hagkerfi er statt tæknilega og hugmyndafræðilega þegar iðnbylting gengur yfir heiminn vegna þess að fyrstu hagkerfin til að tileinka sér breytingarnar hljóta gríðarlegt samkeppnisforskot sem önnur ríki eyða næstu áratugum í að reyna að jafna,“ segir Tryggvi sem vonast til að Ísland geti orðið leiðandi þjóð í þessari iðnbyltingu.   Getum brugðist fljótt við „Ísland, hér má líka setja inn Vestmannaeyjar, hefur það með sér að þjóðin er smá og dýnamísk og getum við þess vegna verið fljót að bregðast við. Við eigum því auðveldlega að geta staðsett okkur kröftuglega fyrir þessar yfirstandandi breytingar. Á móti kemur að hrunið virðist hafa tekið sjálfstraustið svolítið frá okkur og við höfum minni „sjóð“ af hæfileikum til að sækja í sökum fámennis þannig að við þurfum að vinna betur með það sem við höfum. En til að setja truflunar áhrifin af yfirvofandi tækni í smá samhengi, þá mun róbótavæðing t.a.m. hreyfa framleiðslueiningar hratt á milli hagkerfa, frá hagkerfum sem reiða sig á ódýrt ósérhæft vinnuafl til hagkerfa sem hafa fjármagn, tækniþekkingu og pólitískan vilja til að setja upp hátækniverksmiðjur. Þetta er t.d. talinn vera einn stærsti ás í ermi Bandaríska hagkerfisins á næstu árum,“ segir Tryggvi.   Tækifæri sýndarveruleika til menntunnar og orkunýtingar Sömu sögu hefur Tryggvi að segja af t.d. þrívíddarprentun og sýndarveruleika. „Auðvelt er að sjá fyrir sér í landi eins og Íslandi, þar sem öll verðlagning er svo háð innflutningi, hver truflunaráhrifin kynnu að vera ef við gætum flutt inn hráefni til ódýrrar framleiðslu í stað fullunnar vöru í öll mál. Sama má segja með tækifæri sýndarveruleika til menntunnar og orkunýtingar fyrir allt samfélagið, en þar er Ísland í algjörlega sér aðstöðu því við erum eina ríkið í heiminum sem höfum náttúruleg batterý af þeirri stærðargráðu sem við höfum í uppistöðulónum okkar. Fyrir utan það að nær öll raforkuframleiðsla okkar er sjálfbær.“ „Ein stærsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir í dag er menntakerfið sem þarf að undirbúa Íslendinga með þekkingu til að virkja þessar breytingar en ekki bara það heldur viðhorfið til þess að sköpun sé dyggð og virðingarverð notkun á tíma þínum. Við þurfum fleiri fyrirtæki eins og Össur, Marel og CCP og við þurfum fleiri staði í hagkerfinu þar sem fólk fær rými til að prófa nýja hluti og setja verkefni í gang sem geta þúsundfaldast, en ekki bara aukist um 10% á ári,“ segir Tryggvi.   Ætti að toga í Vestmannaeyinga Hver er þín framtíðarsýn fyrir Vestmannaeyjar með tilliti til uppgangs í tæknigeiranum? „Þetta ætti að toga sérstaklega í Vestmannaeyinga enda rekum við alltof einhæft hagkerfi og það eru í raun sömu lögmál með Vestmannaeyjar eins og Ísland, að það þarf ekki marga einhyrninga til að hafa töluverð áhrif á hagkerfið hérna. Sem betur fer er meðvitund um þetta hér, bæjaryfirvöld unnu t.a.m. að því að koma á námi í haftengdri nýsköpun. Vestmannaeyjar eru eðli málsins samkvæmt hraðall fyrir sköpun á sviði sjávarútvegs og ferðamála. Ég myndi vilja sjá okkur hugsa enn meira út fyrir kassann en verðmætasta útflutningsvaran á Íslandi í dag sem er byggð á sjávarfangi m.v. þyng er t.a.m. roð af fiskum sem er notað í plástra. Vestmannaeyingar sitja einfaldlega á risa hráefnamiðstöð þar sem safnast hefur saman fjármagn og mikið af grunnþekkingu sem hægt er að nýta í aukna áhættutöku til að búa til fjölbreyttari undirstöður í hagkerfið.“   „Það er ekkert sem segir að næsta stórfyrirtæki í sýndarveruleika, þrívíddarprentun, eða líftækni byggt á sjávarföngum geti ekki verið í Vestmannaeyjum, ekkert nema við sjálf að sjálfsögðu. Vestmannaeyingar eru alltaf að kvarta yfir því hvernig ríkið sinnir ekki heilbrigðis og samgöngumálum af dugnaði. Ég myndi vilja að við komum okkur í þá stöðu að við getum einfaldlega sjálf fjárfest í og rekið bestu þjónustu sem fyrirfinnst upp úr djúpum sjóðum sem hugvit Eyjamanna hefur fært okkur,“ segir Tryggvi.   Höfum aldrei haft það betra Þú hefur mikið talað fyrir því að heimurinn fari sífellt batnandi og lífskjör fólks í takt við það. Finnst þér fólk einblína óþarflega mikið á neikvæða hluti og gleyma því góða? „Það skiptir næstum ekki máli hvaða mælikvarði er notaður, frelsi, fátækt, ofbeldi, lýðræði, velmegun, við höfum aldrei haft það betra í mannkynssögunni. Fólk má ekki gleyma því að við erum einfaldlega fyrsta kynslóðin á þessari jörð þar sem það sem við köllum fátækt er ekki eðlilegt hlutskipti meirihluta fólks. Frjáls markaður og aflæsing hugvits einstaklingsins hefur fært okkur þessi stórkostlegu lífsgæði. Sú staðreynd að meðal manneskjan getur í dag notað öflugustu vél allra tíma, heilann í sér, til þess að skapa, finna lausnir og bæta lífsgæði og hefur efnahaglegan farveg til að koma þeim lausnum í framkvæmd er svo sannarlega ekki sjálfsagt. En það er raunveruleikin sem við búum við á Íslandi. Ég tel að við séum á mörkum margföldunaráhrifa í þessu tilliti. Sé t.d. litið til þróunar á gervigreind þá sýna flestar kúrvur að þegar ákveðin þekkingarmassi næst þá verður getan til að aflæsa vandamálum að sínum eigin skriðþunga í veldisvexti. En ég er t.d. að vinna í hliðarverkefnum með háskólasamfélaginu hérlendis að því að innleiða meira af rannsóknum á sviði gervigreindar, „machine learning“ og lífeðlisfræðilegrar þekkingar inn í skilning og framleiðsluferli hjá CCP. Ég fæ því að fylgjast með beggja megin borðs hversu mikill hraðinn á þessu er,“ segir Tryggvi.   Samfélag og náttúra skipta máli Enn fremur telur Tryggvi að þættir eins og samfélag og náttúra muni ráða því meira í framtíðinni hvar fólk velji að búa vegna þess að verðmætaeiningarnar verði sífellt hreyfanlegri og þá séu Vestmannaeyjar heldur betur í sóknarstöðu. „Ímyndum okkur allt unga fólkið sem býr í Reykjavík myndi flytja til Vestmannaeyja ef það gæti bara fengið starf sem það þætti áhugavert. Ég tel að við séum hratt á leiðinni í þessa átt og þá eru Vestmannaeyjar heldur betur komnar með lúxusvandamál því við vitum að það keppir ekkert bæjarfélag við okkur í fegurð eða gæðum samfélags. En að sama skapi munu fyrstu metrarnir markast mjög af því hver verður fyrstur af stað með undirstöður til að ná þekkingarmargfaldaranum af stað, því auðlindin verður í vaxandi mæli fólkið.“ Ef við förum aðeins út í stjórnmálin. Nú hefur loks verið mynduð ný ríkisstjórn, hvernig lýst þér á hana? „Mjög vel, þessi stjórn er mjög jákvæð gagnvart öllu því sem ég hef tíundað hér að framan. Eins og þetta lítur út frá mínum bæjardyrum þá hrökk Bjarni Ben í gang um mitt síðasta kjörtímabil og fór að setja áherslu á að stilla Íslandi upp á réttan stað fyrir þær breytingar sem við stöndum frammi fyrir. Fjármálaráðuneytið undir Bjarna samþykkti umfangsmiklar lagabreytingar er varða fjármögnun og skattlagningu þegar kemur að rannsóknum og þróun og uppsetningu nýsköpunarfyrirtækja. Þá var sérstaklega minnst á „hugvit“ í stjórnarsáttmála og ég tel að það sé ríkur skilningur gagnvart þessu öllu saman innan ríkisstjórnarinnar,“ segir Tryggvi. Hver munu vera brýnustu verkefni þessarar stjórnar? Menntakerfið tel ég vera númer eitt, tvö og þrjú vegna þess að menntakerfið er undirstaðan sem gerir það að verkum að landið verði byggilegt í framtíðinni. Ef við undirbúum börnin okkar ekki á samkeppnishæfan máta þá endar hagkerfið okkar einfaldlega í öðrum flokk og þá verða ekki til verðmæti sem þarf til að byggja allan annan lúxus í landinu eins og topp heilbrigðiskerfi eða góðar samgöngur. Íslendingar eru í miðjum tækifærisglugga núna varðandi menntakerfið og tel ég að við höfum þrjú til fimm ár til að gera ansi stórkostlegar breytingar. Þær miða að því að gefa kennurum og þeim sem standa lykil verðmætaeiningunni næst, þ.e. „barninu“, það frelsi sem þarf til að gefa því samkeppnishæfa menntun. Miðstýrð kennsluskrá er eitur í beinum mínum, vegna þess að hún mun aðeins geta fylgt hægasta samnefnara. Um leið og kennarar fá frelsi til að byggja á styrkleikum sínum í kennslu og umhyggju, þá færðu fyrst alvöru frumkvæði og þarfa nýsköpun,“ segir Tryggvi.   Nefndir hafa aukið vægi Telur þú að landsbyggðin eigi eftir að sitja á hakanum miðað við ráðherraskipan? „Nei, Suðurkjördæmi t.a.m. er með formennsku í tveim lykilnefndum og það gleymist að nefndir hafa aukið vægi sitt í íslenskri stjórnsýslu gríðarlega síðustu ár vegna þess að ábyrgðarfirring ráðherra hefur fært ákvörðunarvald í gríðarlegum fjölda tilfella beint til nefnda. Í stuttu máli: það eru fáar lykilákvarðanir teknar í dag í íslenskri stjórnsýslu án þess að vera settar í nefnd,“ segir Tryggvi og heldur áfram á sömu nótum. „Seinni punkturinn varðar það að þegar það er enginn „fulltrúi“ sem ráðherra, þá geta ráðherrarnir ekki leyft sér að hunsa málaflokk þess hóps. Þetta kemur inn á þekkt fyrirbæri í stjórnmálum sem ég kalla hræðsluna við að hegða sér samkvæmt stereótýpunni. Þetta er t.d. ástæðan fyrir því að mesta einkavæðing heilbrigðiskerfisins fór fram undir Vinstri Grænum, stærsta útþensla ríkisvaldsins fór fram undir Sjálfstæðisflokknum og harðasta stefnan gegn ólöglegum innflytjendum var framkvæmd undir Obama. Vestmannaeyingar þurfa að átta sig á hversu ótrúlega verðmætt fyrirkomulag þetta getur verið. Við vinnum með það sem við höfum og ég tel að við höfum ansi sterka hönd. Fyrstu metrarnir byrja a.m.k. vel, það er búið að fjármagna Herjólf og afhendingardagsetning kominn fyrr en menn þorðu að vona,“ segir Tryggvi sem að lokum biður Guð um að blessa Vestmannaeyjar.    

Ríkiseldar loga hreinlega um allt í okkar annars góða samfélagi

 „Það verður nú bara að segjast eins og er að ný ríkisstjórn og nýtt Alþingi fer ekki vel af stað hvað okkur Eyjamenn varðar. Ofan á sjómannaverkfall, sem fulltrúar ríkisins mæta með því sem í besta falli verður lýst sem afkiptaleysi, bætist við bein aðför að þjónustu og velferð í Vestmannaeyjum. Það er algerlega óþolandi að við bæjarfulltrúar skulum þurfa þeysast um bæinn í veikri viðleitni til að verjast árásum ríkisins,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri um viðbrögð ríkisstjórnar við verkfalli sjómanna og stöðugri fækkun opinberra starfa í Vestmannaeyjum. Nú síðast eru það fækkun starfa á Vestmannaeyjaflugvelli og ekki er ætlunin að ráða í starf tollara sem lét hér af störfum á síðasta ári. „Okkar hlutverk er að sinna rekstri bæjarfélgsins og byggja hér upp þéttriðið þjónustunet en nauðsyn kallar okkur ætíð að baráttu við ríkisvaldið. Engin er fæðingaþjónustan, allir þekkja óhóflega gjaldttöku Herjólfs og þörf okkar á aðgerðum í samgöngumálum og nú berst okkur til eyrna að verið sé að leggja niður tvö stöðugildi á flugvelli sem bætist við ákvörðun um að leggja niður eitt stöðugildi við embætti tollstjórans hér í Eyjum. Þetta gerist svo á sama tíma og við glímum við þá miklu ógnun sem fólgin er í einhæfu atvinnulífi. Ég er nú búinn að vera nokkuð lengi í þessu en ég man vart svona ástand. Það loga hreinlega ríkiseldar um allt í okkar annars góða samfélagi. Ég er líka búin að vera nægilega lengi í þessu til að vita að oftast eru árásirnar tilkomanar vegna ákvarðana embættismanna ríksins og þær endurspeggla sjaldnast vilja okkar öflugu þingmanna. Það sem við bæjarfulltrúar viljum sjá er sameignileg barátta gegn þessari vá,“ sagði Elliði.   „Hvað varða uppsagnir starfsmanna hjá ISVAVIA þá gerum við Eyjamenn náttúrulega mjög alvarlegar athugasemdir við þær uppsagnir sem kynntar hafa verið og fela í sér að starfsmönnum ISAVIA við flugvöllin í Eyjum verði fækkað úr fimm í þrjá. Það er enda einsýnt, að með ákvörðuninni er ríkið enn og aftur að ráðast að innviðum Vestmannaeyja og í raun landsbyggðarinnar allrar. Við á hér í Eyjum stöndum hreinlega frammi fyrir því að með annarri hendinni flytur ríkið alla þjónustu, jafnvel heilbrigðisþjónustu, til Reykjavíkur og með hinni dregur það úr samgöngum sem torveldar okkur að nota nauðsynlega innviði.“ Elliði segir þetta ekki ná nokkurri átt. Hvað sem líði fyrirheitum um að ekki verði um þjónustuskerðingu að ræða verði að telja nánast öruggt að þrír starfsmenn geta ekki haldið vellinum opnum 365 daga ársins 24 tíma sólarhrings. „Það getur ekki nokkur heilvita maður ætlast til þess að þrír starfsmenn séu til taks í 8760 tíma á ári. Jafnvel þótt bara væri verið með einn mann á vakt, sem ekki er hátturinn, þá myndi þetta merkja að hverjum starfsmanni væri ætlað að vera til taks í 2920 tíma á ári eða 56 tíma á viku. Völlurinn hér í Eyjum, eins og flugvellir almennt á landsbyggðinni, er okkur afar mikilvægur. Bæði hvað varðar öryggi og almennar samgöngur. Áætlunarflug frá Reykjavík um völlin eru tvisvar til þrisvar á dag, sex daga vikunnar. Þar að auki hefur Atlantsflug unnið hörðum höndum að því að endurvekja flug á Bakka.“ Elliði bendir á að efist Isavia um gildi Vestmannaeyjaflugvallar hvað samgöngur varðar þá sé nærtækt að benda á að til að mynda um nýliðna helgi fóru um 600 manns um völlinn. „Flughreyfingar voru hvorki fleiri né færri en 82, flugtök og lendingar. Þá skiptir ekki minna máli að flugvölllurinn í Vestmannaeyjum gegnir veigamiklu hlutverki í öryggis og heilbrigðistmálum bæjarbúa og gesta. Skerðing á þjónustu flugvallarins er því aðför að velferð og öyggi bæjarbúa. Við hljótum að benda á það sjálfsagða í þessu máli. ISAVIA er í fullri eigu og alfarið rekið á ábyrgð ríkisins og fer fjármálaráðherra með hlut ríkisins í félaginu og Innanríkisráðherra með fagleg málefni. Þetta gera þeir í umboði þingmanna. Ákvörðun sú hér sem hér um ræðir er mannana verk og við ætlumst nú til þess að þingmenn suðurkjördæmis með stuðningi annarra þingmanna vindi ofan af þeirri fyrirsjáanlegu ógn sem í henni er fólgin og snúi henni til betri vegar eigi síðar en strax,“sagði Elliði að endingu.    

Höfðingleg gjöf Ágústs og Kolbrúnar setur Bókasafn Vestmannaeyja í hóp merkustu safna landsins

Það var mikið um dýrðir í Einarsstofu í Safnahúsinu á laugardaginn þegar hjónin Ágúst Einarsson og Kolbrún Ingólfsdóttir, afhentu 1500 bækur til Bókasafns Vestmannaeyja. Er þar að finna nokkrar af merkustu bókum íslenskrar ritlistar, allar Biblíur sem gefnar hafa verið út á Íslandi frá Guðbrandsbiblíu. Þar með er Bókasafn Vestmannaeyja komið í hóp merkustu safna á landinu. Ágúst er sonur Einars Sigurðssonar og átti afhendingin að fara fram þriðjudaginn sjöunda febrúar en þá voru 111 ár liðin frá fæðingu Einars.   Þann tólfta desember sl. kallaði Ágúst Einarsson, fyrrum alþingismaður, athafnamaður, rektor og prófessor þá Kára Bjarnason, forstöðumann Bókasafns Vestmannaeyja, Arnar Sigurmundsson, framkvæmdastjóra og Helga Bernódusson, skrifstofustjóra Alþingis á sinn fund og kynnti fyrir þeim bókagjöf til Bókasafns Vestmannaeyja. Og bókagjöfin er ekki smá í sniðum og líklega ómetanleg í krónum talið. Í allt eru þetta um 1.500 bækur, og meðal þeirra eru margar af helstu perlum íslenskrar bóksögu. Sem dæmi má taka er að þarna eru allar útgáfur Biblíunnar að meðtalinni Guðbrandsbiblíu (1584), Þorláksbiblíu (1644) og Steinsbiblíu (1728). Höfuðverk íslenskrar menningar eru þarna miklu fleiri, t.a.m. Crymogea Arngríms lærða (1610), Kristni sagan (1688) og Íslendingabók Ara fróða (einnig 1688). Þá eru bækur sem annað hvort eru ekki til í neinu bókasafni eða aðeins á Landsbókasafni og má taka sem dæmi guðspjallabók frá 1725 (aðeins á Landsbókasafni), latínurit frá 1556 (hvergi til á safni hérlendis) og stafrófskver frá 1753 (aðeins til á Landsbókasafni). Á öðrum stað á opnunni er að finna yfirlit yfir örlítinn hluta af safninu og þótt blaðamaður sé ekki útlærður í fornum fræðum er alveg ljóst að Bókasafn Vestmannaeyja er komið í hóp með merkustu bókasöfnum landsins með þessari einstöku bókagjöf.   Eins og ganga inn í Landsbókasafnið   Af þessu tilefni settist blaðamaður niður með Kára Bjarnasyni forstöðumanni Bókasafnsins. „Við vissum fyrirfram ekkert hvert tilefnið var en þegar við komum var Ágúst búinn að leggja á fleiri, fleiri borð fyrir okkur eitt verðmætasta bókasafn í eigu einstaklings hér á landi en hann er einstakur bókasafnari. Hefur greinilega lagt metnað, alúð og mikla fjármuni í bókasafn sitt til lengri tíma. Ágúst var búinn að taka saman og prenta út fróðleik um hverja og eina bók sem hann sýndi okkur og búa til lista yfir bækur sem hann hafði ákveðið að gefa Bókasafni Vestmannaeyja. Fyrir mig var þetta eins og ganga inn í Landsbókasafnið þar sem ég vann áður en ég kom hingað,“ sagði Kári í samtali við Eyjafréttir. „Í safninu sem hann gefur Vestmannaeyingum eru t.d. allar útgáfur Biblíunnar sem komið hafa út á Íslandi frá árinu 1584 þegar Guðbrandsbiblía var gefin út. Við áttum ekki Guðbrandsbiblíu, ekki Þorláksbiblíu og ekki Steinsbiblíu. Það er að segja þær þrjár fyrstu sem eru nú í eigu Bókasafns Vestmannaeyja,“ sagði Kári og tók sem dæmi um gildi gjafarinnar að Guðbrandsbiblía og Þorláksbiblía væru aðeins til á þremur öðrum söfnum samkvæmt Gegni.   Fyrstu bækur höfuðskáldanna „Á Landsbókasafni, Skálholtsbókasafni, Árnastofnun og nú Bókasafni Vestmannaeyja sem er sannarlega komið í góðan félagsskap. Þarna eru líka fyrstu bækur höfuðskálda okkar í frumútgáfum sem við áttum ekki fyrir. Bækur eftir Benedikt Gröndal, Davíð Stefánsson, Gunnar Gunnarsson, Matthías Jochumsson og fleiri. Það væri hægt að þylja endalaust áfram um það fágæti sem hér er saman komið: Fjölnir og Ný félagsrit, Íslensk sagnablöð og Minnisverð tíðindi, allt í heild sinni og í frumútgáfum; kolfágætar bækur Vestmannaeyjaprestanna Jóns píslarvotts og Guðmundar Högnasonar eða Heimskringla Snorra Sturlusonar í 6 binda ritsafni 1777-1826, safn bóka Benedikts Gröndals (margar mjög fágætar), jafnvel handrit.   Sú elsta frá 1556 Ég hef verið að frá seinni hluta desember við að setja bækurnar inn í Gegni og ótrúlega oft eru þær til aðeins á einu, tveimur eða þremur öðrum söfnum á landinu, jafnvel engu öðru safni. Það er góð en sérkennileg tilfinning. Elsta bókin í safninu sem Ágúst er að gefa er frá 1556, fjölmargar bækur eru einnig frá 17. og 18. öld. Flestar eru bækurnar mikilvægar útgáfur í sögulegum skilningi og greinilegt að hann hefur lagt áherslu á að safna slíkum kjörgripum. Annað sem einkennir safnið er að það er þaulhugsað, tímaritin eru ævinlega í heild sinni, bækurnar eru oft og tíðum glæsilega innbundnar, hvergi vantar í safnritin, sérstök áhersla hefur verið lögð á að velja fyrsta bók viðkomandi höfundar í frumútgáfu og greinilega setið um eintök sem auka gildið eins og áritanir, skemmtileg eigandasaga o.s.frv.“   Taka við þessari gjöf af myndarskap Kári segir að næsta skref sé að sýna bækurnar og leyfa áhugasömum að njóta. „En við þurfum réttan búnað utan um þær,“ segir Kári og svarar því hvort Vestmannaeyingar séu þess umkomnir að taka við svo verðmætu safni og í raun ómetanlegu. „Við skulum umorða spurninguna og spyrja, erum við þess umkomin að taka ekki á móti þessari gjöf? Þeirri spurningu svara ég glaðlega neitandi þannig að nú er verkefnið að gera okkur þess umkomin að geta tekið við henni. Við Arnar Sigurmundsson, sem vinnum þetta hérna megin Álsins í samstarfi við Helga Bernódusson, höfum rætt við bæjaryfirvöld og þau hafa fullan skilning á því að það verður að taka á móti svona gjöf af myndarskap. Það er ekkert samfélag þess umkomið að taka ekki við þessu. Það er bara svo einfalt. Í safninu eru margar af perlum íslenskrar prentlistar. Margir hafa séð Fjölni ljósritaðan en hér erum við með upphaflega tímaritið. Þannig að frá og með tólfta desember sl. hefur eðli Bókasafns Vestmannaeyja breyst og við erum að átta okkur á því hvaða skyldur sú staða setur á okkur.“   Mikil ábyrgð Þannig að þetta er mikil ábyrgð? „Já, þetta er mikil ábyrgð en sú sem allir sækjast eftir vegna þess að það er í eðli þeirra sem stýra hvaða stofnun sem er að vilja veg viðkomandi stofnana sem mestan. Bókasafnið er öflugt almenningsbókasafn með yfir 100.000 eintök. Með þessari gjöf er það einnig merkilegt fágætissafn og það eykur verðmæti þess fyrir allt samfélagið. Ég hlakka til að geta sýnt bækurnar í safninu því fæstir hafa séð marga af þessum dýrgripum. Eitt af markmiðunum er því að efna til reglubundinna sýninga á völdum bókum úr safninu auk þess að hafa sem stærsta hlutann sýnilegan í glerskápum. En þó í öruggu rými,“ sagði Kári. Kári bætti því við að Ágúst hefði beðið hann, Arnar Sigurmundsson og Helga Bernódusson um að stýra móttöku bókagjafarinnar til Vestmannaeyja og finna leiðir til að bókagjöfin nýtist samfélaginu sem best.   Til minningar um föður sinn „Ágúst setur engar kvaðir um að bækurnar séu geymdar saman á sérstökum stað. Þær eru gefnar bæjarfélaginu til minningar um Einar Sigurðsson, föður Ágústar, og voru afhentar formlega í gær, þriðjudag á 111. afmælisdegi Einars.“ Kári sagði að bókagjöfin myndi bera heitið Ágústarsafn, og væri það í samræmi við sérsöfn margra annarra bókasafna. „Við getum nefnt sem dæmi Davíðssafn á Amtsbókasafninu sem eru bækur úr fórum Davíðs Stefánssonar skálds, Björnssafn og Haraldssafn á Bókasafni Akraness, söfn sr. Björns Jónssonar og Haralds Sigurðssonar bókavarðar og Þorsteinssafn á Árnastofnun með bókum Þorsteins M. Jónssonar skólastjóra. Sjálfur man ég eftir Haraldi enda var hann samstarfsmaður minn á Landsbókasafni um tíma og ég fékk eitt sinn að sjá hans stórkostlega kortasafn sem fór til Bókasafns Akraness. Öll þessi söfn mynda kjarnann í fágætissöfnum viðkomandi bókasafna og eru flaggskip safnanna. Nú eigum við eitt slíkt kjölfestubókasafn hvað varðar verðmætustu bækurnar í prentsögu landsins og erum þakklát fyrir það traust sem okkur er sýnt að geyma slíka kjörgripi,“ sagði Kári að lokum.   Vonar að Bókasafn Vestmannaeyja megi njóti bókanna sem lengst „Faðir minn er Einar Sigurðsson útgerðarmaður frá Vestmannaeyjum. Pabbi var mikill Eyjamaður, fæddist hér og ólst upp og hóf að reka verslun í Eyjum aðeins 18 ára. Hann haslaði sér síðar völl í sjávarútvegi, varð umsvifamesti útgerðarmaður og fiskverkandi landsins og ruddi víða braut á þeim mikla umbrotatíma sem 20. öldin var. Pabbi, afi og amma mín lifðu og störfuðu í Eyjum og Sigurður bróðir minn var lengstan hluta ævi sinnar búsettur í Eyjum,“ segir Ágúst Einarsson þegar hann er spurður um ætt, uppruna og tengsl við Eyjar. Hann kom svo sannarlega færandi hendi í gær til Bókasafns Vestmannaeyja. Gaf ekki færri en 1500 bækur, allt merkar bækur og sumar eru til í ekki fleiri eintökum en telja má á fingrum annarrar handar. Sú elsta frá 1556 og í safninu er að finna allar Biblíur sem gefnar hafa verið út á Íslandi frá Guðbrandbiblíu til dagsins í dag. Bækurnar eru í ótrúlega góðu ástandi og er stefnt að því að sýna þær á Bókasafninu. Er bókagjöfin ómetanleg og á eftir að hjálpa til við að efla orðspor Eyjanna.     Auglýsingar frá KR og ÍBV á sömu síðu Hvenær komst þú fyrst til Eyja með föður þínum? „Ég á margar minningar um Vestmanneyjar og var hér oft með pabba. Tvær elstu systur mínar eru fæddar í Eyjum en 1950 fluttu foreldrar mínir til Reykjavíkur þar sem við hin systkinin erum fædd. Við erum 11 systkinin og átta á lífi. Pabbi var með mikinn rekstur í Eyjum og fór ég oft með honum sem peyi. Mig minnir að við höfum gist á Þingvöllum eða í Godthaab, en bæði þau hús fóru undir hraun í gosinu. Ég man að eitt sinn fórum við með Herjólfi í land og þá var Binni í Gröf með. Var glatt á hjalla og margar sögur sagðar. Ég kom líka oft til Eyja að keppa í yngri flokkum í fótbolta við Eyjamenn. Eitt sinn fórum við eftir leik til baka með Herjólfi og þá sigldum fram hjá Surtsey í miðju Surtseyjargosinu. Það var ógleymanlegt en þá hef ég verið 12 ára. Löngu síðar þegar ÍBV og KR voru að leika bikarleik í efstu deild í Eyjum þá plötuðu Eyjafréttir út úr mér sem framkvæmdastjóri Hraðfrystistöðvarinnar í Reykjavík hálfsíðu auglýsingu í blaðinu til stuðnings KR. Svo fengu Eyjafréttir líka hálfsíðu auglýsingu frá Sigurði bróður frá Hraðfrystistöð Vestmannaeyja um stuðning við ÍBV og þeir birtu báðar auglýsingarnar á sömu blaðsíðu. Mig minnir reyndar að ÍBV hafi unnið þann leik.“   Safnað bókum alla ævi Hvenær byrjarðu að safna bókum? „Ég hef safnað bókum alla ævi og það hefur verið mitt helsta tómstundagaman. Það er gott að gleyma sér við lestur og að handleika bækur.“   Tókstu strax þá ákvörðun að safna einnig verðmætum bókum? „Nei, það má segja að síðustu 15 til 20 árin hef ég stundað bókasöfnun af meiri alvöru, kynnt mér fleiri bækur og leitað margar uppi hérlendis og erlendis. Það er gaman að þessu. Sumt næst, annað ekki.“ Hefurðu hugmynd um hversu stórt safnið er og hversu mikið þú átt af mjög fágætum bókum? „Ég veit ekki hversu margar bækur ég á en ég ætla að telja þær einhvern tímann. Það liggur hins vegar ekkert á því. Ég á töluvert af fágætum bókum og sumar þeirra eru ekki skráðar í opinber söfn hérlendis, Einhver rit og handrit í þessu safni eru hvergi til. Mér finnst mikilvægt að varðveita ritað mál, útgefið sem bækur eða smárit en einnig handskrifað.“   Leggur þú mikla áherslu á að eignast sem fallegust eintök og safnar þú t.d. tímaritum complett? „Ég er ekkert að leggja mig eftir fallegustu eintökunum eða árituðum, en á þó ótal fallegar og áritaðar bækur. Ég vil til dæmis að eldri trúarrit séu upprunaleg og beri miklum lestri vitni. Ýmsar bækur læt ég þó binda aftur inn. Ég vil helst ekki eignast bók nema ég hafi áhuga á efni hennar. Ég er þó aðeins að linast í þeirri afstöðu enda margar bækur merkilegar út frá fleiri þáttum en efni þeirra. Mér finnst gaman að safna tímaritum sem komu út í aðeins einu eða nokkrum tölublöðum. Það er oft mikil saga sem felst í slíkri útgáfu.   Mun safna fram í andlátið Ertu ennþá að safna? „Já, og ég mun gera það fram í andlátið.“ Hvenær og af hverju tókstu þá ákvörðun að gefa þessa stóru bókagjöf til Eyja? „Ástæða þess að þessi bókagjöf er í minningu pabba er ekki vegna umsvifa hans í atvinnurekstri heldur vegna þess skilnings sem hann hafði á gildi bóka. Honum þótti vænt um bækur, safnaði þeim, en gaf sér sjaldnast tíma til að huga betur að þessu áhugamáli. Vinnan átti hug hans allan. Fyrir miðja síðustu öld stofnaði hann bókasafn fyrir starfsmenn sína hér í Vestmannaeyjum og réð bókavörð sem sá um skráningu bókanna og útlán. Einnig stóð hann fyrir tungumálakennslu fyrir starfsfólk sitt. Þetta var og er einsdæmi hérlendis og ber ótrúlegri framsýni vitni. Þess vegna kýs ég að gefa þessa gjöf í minningu hans en ég hef ráðgert þetta í mörg ár.“   Heiðrar minningu afa síns og föður Af hverju Bókasafn Vestmannaeyja? „Afi minn, Sigurður Sigurfinnsson, útvegsbóndi og hreppstjóri, kom að mörgum framfaramálum í Eyjum í lok 19. aldar og í byrjun þeirrar 20. Ræturnar eru því djúpar og mér þykir vænt um Vestmannaeyjar og Vestmannaeyinga enda á ég mörg skyldmenni hér. Ég skrifaði bók fyrir nokkrum árum, Hagræn áhrif ritlistar, og þar skoðaði ég meðal annars áhrif bókasafna. Þau eru miklu meiri en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Þess vegna á að efla bókasöfn og styrkja. Bókasöfn og lestrarfélög skiptu miklu máli þegar Íslendingar stigu út úr miðöldum inn í nútímann á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar. Ég er mjög áhugasamur um varðveislu íslenskunnar enda gerði hún okkur að sjálfstæðri þjóð. Bókasöfn og lestur gegna þarna lykilhlutverki.   Af hverju valdirðu þennan dag, 7. febrúar? „Þetta er afmælisdagur pabba en hann hefði orðið 111 ára 7. febrúar. Þar sem gjöfin er í minningu hans fannst mér fara vel á því að gjöfin yrði afhent á afmælisdegi hans.“   Hvernig viltu að safnið sé sýnilegt á Bókasafninu?   „Mig langar til að bækurnar verði sem sýnilegastar og aðgengilegar eftir því sem hæfir aldri þeirra en ýmsar af bókunum eru um 400 ára gamlar. Það versta sem mér finnst um bækur er þegar þær eru í kössum í kjöllurum, engum til gagns eða gleði. Þess má geta að sárafáar bækur úr safni pabba eru í bókagjöfinni en þær bækur sem þaðan koma pössuðu vel við þema gjafarinnar að vera gamlar og fágætar og vera ekki til í Bókasafni Vestmannaeyja. Ef nefna ætti í þessari gjöf einhverjar bækur sérstaklega þá er hluti gjafarinnar allar 11 útgáfur Biblíunnar á íslensku, meðal annars Guðbrandsbiblía frá 1584 og Þorláksbiblía frá 1644. Auk þess má nefna Crymogaeu Arngríms lærða Jónssonar frá 1610 svo og Kristnissögu og Íslendingabók Ara fróða frá 1688. Ég vona að Bókasafn Vestmannaeyja megi njóti bókanna sem lengst og að safnið verði sem áður uppspretta ánægju og framfara í Vestmannaeyjum,“ sagði Ágúst að endingu.   Takk „Gamlt og gott orðatiltæki segir: -Hver er sínum gjöfum líkastur. Ekki er að efast um sannleik þesssara orða ber þessi magnaða gjöf gefandum sannarlega slíkt vitni. Sá hlýhugur sem í þessu er fólgin og velviljinn í garð heimabyggðarinnar er í það minnsta jafn stór og gjöfin sjálf,“ sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri þegar hjónin Ágúst Einarsson og Kolbrún Ingólfsdóttir, afhentu 1500 bækur til Bókasafns Vestmannaeyja. Er þar að finna nokkrar af merkustu bókum íslenskrar ritlistar, m.a. allar Biblíur sem gefnar hafa verið út á Íslandi frá Guðbrandsbiblíu. Þar með er Bókasafnið komið í fremstu röð safna á landinu. Elliði sagði það forréttindi að standa í þessum sporum. „Að vera bæjarstjóri í Vestmannaeyjum sem svo margir elska veitir manni endalaust innsýn í hlýhug og fórnfýsi íbúa og velunnara. Fátt er gleðilegra en að taka á móti hlýjum slíkum velgjörðum og finna þennan einbeitta velvilja til Vestmannaeyja. Stundum er hlýhugurinn slíkur að gleðin blandast erfiðleika að finna orð sem lýst getur hug okkar þiggjenda. Þannig er mín staða núna þegar ég stend hér og veiti viðtöku bókagjöf þeirra hjóna Ágústs og Kolbrúnar. Á íslensku má þá alltaf finna svar og rétta svarið núna er jafn stutt og þakklætið sem í því er fólgið er stórt. Þetta orð er TAKK,“ sagði Elliði. Hann sagðist ungur hafa lært að meta gildi bókmennta og að ákveðnar bækur væru merkastar mannana verka hér á landi. Nefndi hann bækur eins og Biblíu Guðbrands og Þorláks, Crymogæu Arngríms lærða og Kristnisögu og Íslendingabók Ara fróða sem eru að finna í safninu. „Á dauða mínum átti ég frekar von en að innan nokkurra ára myndi ég taka við gjöf sem innihéldi margar þessara bóka. Frá og með þessum degi eru sem sagt mörg af merkustu mannana verka á Íslandi staðsett hér í Eyjum, sem í mínum huga er sannarlega merkastur og bestur allra staða,“ sagði Elliði og fullyrti að Bókasafn Vestmannaeyja sem var stofnað fyrir 165 árum verði ekki sama bókasafnið eftir þennan dag. „Ég segi fyrir mig, ég er að sjá Guðbrandsbiblíu í fyrsta skipti á lífsleiðinni og ég er viss um að það eru fleiri í salnum sem geta sagt hið sama. Það er hreinlega magnað að geta sett upp sýningar hér í Einarsstofu eða á öðrum viðeigandi stað á bókasafninu á mörgum af helstu dýrgripum íslenskra bóka eins og hér er búið að setja upp og við fáum að njóta þegar dagskrá lýkur. Elliði sagðist gera sér grein fyrir ábyrgðinni, að taka á móti gjöf sem þessari. Það verði unnið í samráði við Kára, Helga og Arnar. „Við munum vinna að einlægni að því að finna bestu mögulegu leið til að bókagjöfinni sé sá sómi sýndur sem henni ber. Ég er með ýmsar hugmyndir sem ég þarf að taka upp innan stjórnkerfis bæjarins – enda alkunna að ég reyni sjaldan að ráða nokkrum hlut sjálfur.“ Hann sér fyrir sér að‘ bækurnar fái umgjörð sem sæma menningarsögulegu verðmæti þeirra. Þær verði sýnilegar eins og kostur er og að bæjarbúar og aðrir gestir fái notið þeirra með vönduðum sýningum og öðrum lifandi hætti. „Ég treysti Kára og öðrum starfsmönnum Bókasafns Vestmannaeyja til að finna þær leiðir og nýta Einarsstofu og önnur rými safnsins með skapandi móti til að færa bókagjöfina sem mest og best til samfélagsins.“ Að lokum færði Elliði þeim hjónum Ágústi og Kolbrúnu myndir úr safni Sigurgeirs Jónassonar. „Ég ber fram mínar dýpstu þakkir, fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar og bæjarbúa allra, fyrir þessa stórkostlegu gjöf. Myndir Sigurgeirs eru vitnisburður okkar um hversu við kunnum að meta gjöf ykkar, annars vegar sést Sigurður VE á heimleið fyrir Klettinn með fullfermi og hins vegar er myndin Morgunroði þar sem austurhiminn sést vekja höfnina okkar til lífsins,“ sagði Elliði að endingu.   Lýsir mikilli velvild í garð Eyjanna „Þegar ég fékk heimboð til Ágústar Einarssonar og Kolbrúnar Ingólfsdóttur eiginkonu hans 12. desember sl., ásamt Kára Bjarnasyni og Helga Bernódussyni, renndum við ekki grun í það hvað til stæði. Við vissum að Ágúst er mikill bókaunnandi og átti ekki langt að sækja þann áhuga. Eftir að inn var komið blasti við á nokkrum borðum í húsinu margar gamla og fágætar bækur auk þess sem í einu stóru herbergi var mikið safn bóka. Ágúst tilkynnti okkur að hann hygðist gefa Bókasafni Vestmannaeyja bóksafn, alls um 1500 bækur, til minningar um föður sinn, Einar Sigurðsson, útgerðar- og athafnamann frá Heiði í Vestmannaeyjum. Við urðum hálf orðlausir við þessi óvæntu tíðindi og átti það ekki síst við bókasafnsmennina Helga og Kára. Við fengum jafnframt það hlutverk að koma þeim skilaboðum til Elliða Vignissonar bæjarstjóra hvort Vestmannaeyjabær - Bókasafn Vestmannaeyja - væri tilbúinn að veita gjöfinni viðtöku. Að sjálfsögðu er þessi ótrúlega bókagjöf þegin með miklum þökkum og Vestmannaeyjabær og Bókasafnið mun sýna gjöfinni þann sóma sem henni ber. Búið er að flytja tölverðan hluta af bókagjöfinni til Eyja, þar á meðal þær bækur sem eru fágætastar og verðmætastar,“ segir Arnar Sigurmundsson.   „Ég kynntist Ágústi Einarssyni upp úr 1980, en þeir bræður Sigurður Einarsson og Ágúst voru mjög samrýndir og störfuðu báðir í sjávarútvegi og stóðu fyrir mikilvægum atvinnurekstri. Föður þeirra, Einari Sigurðssyni, sem var fæddur 1906, við upphaf vélbátaaldar í Eyjum, náði ég ekki að kynnast, en hann féll frá 1977. Minnist þó eins atviks er Einar kom við sögu nálægt goslokum sumarið 1973, en þá starfaði ég fyrir Viðlagasjóð í Eyjum. Skrifstofur Viðlagasjóðs og Vestmannaeyjabæjar voru þá tímabundið á 3. hæð í húsi Gagnfræðaskólans – nú Framhaldsskólans. Einar Sigurðsson kom einn daginn og spurði eftir byggingarfulltrúa bæjarins, en þá var hann að sækja um lóð fyrir nýtt fiskverkunarhús á auðu svæði sunnan Friðarhafnar þar sem í dag eru aðalstöðvar Ísfélags Vestmannaeyja. Einar var þarna kominn fullur bjartsýni að hefja sem fyrst byggingu á nýju húsi í stað húseigna Hraðfrystistöðvar Vestmannaeyja sem flestar fóru undir hraun eða stóðu eftir stórskemmdar af völdum gossins. Þetta gekk eftir og fljótlega fór fiskverkun af stað í nýja húsinu sem átti síðar eftir að stækka mikið. Einar Sigurðsson var sannarlega mikill framfara- og framkvæmdamaður og kom við í atvinnurekstri víða um land. Virk þátttaka Einars Sigurðssonar í menningarmálum og blaðaútgáfu er mjög merkilegur kafli, ekki síst með það í huga að Einar stóð á sama tíma í mjög umfangsmiklum atvinnurekstri sem kallaði á mikinn og langan vinnutíma. Engu að síður stóð hann í blaða- og tímaritaútgáfu í Eyjum um árabil og skrifaði mikið um sjávarúveg á landsvísu.   Ræktarsemi afkomenda Einars Sigurðssonar og Svövu Ágústsdóttur og fjölskyldna þeirra við Vestmannaeyjar er einstök. Tilkoma Einarsstofu í Safnahúsinu hefur gjörbreytt aðstöðu fyrir ýmiss konar menningarviðburði og fólk hefur sannarlega kunnað að meta það. Bókagjöf Ágústar Einarssonar sýnir mikla velvild í garð Eyjanna og ber okkur Eyjamönnum rík skylda til að hlúa vel að gjöfinni og því fjölþætta starfi sem fram fer í Safnahúsinu og um leið allri menningarstarfsemí í Eyjum,“ sagði Arnar.   Hver er gjöfum sínum líkastur Helgi Bernódusson, í ráðgjafarhópi Ágústs Einarssonar og fyrrverandi bókavörður Bókasafns Vestmannaeyja sagðist telja gjöfina vera eina hina merkustu í meira en 150 ára sögu Bókasafnsins. Í ávarpi sínu nefndi hann þrjú atriði. „Hið fyrsta er að þakka þá höfðingslund, stórhug og átthagatryggð sem lýsir sér í bókagjöfinni sem afhent er hér í dag. Hér berast í safnið og bætast í safnkostinn margar, ótrúlega margar, af mestu perlum íslenskrar bóksögu sem á upptök sín á 16. öld. Þessum kostagripum, sem varla verða metnir til fjár, hefur verið safnað saman á löngum tíma. Ágúst Einarsson er ekki sjálfsprottinn maður, þótt sjaldgæfur sé, heldur sonur þeirra merkishjóna Einars Sigurðssonar frá Heiði og Svövu Ágústsdóttur. „Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni“ er sagt. Hann hlaut í vöggugjöf, eins og þau systkini öll, drjúgan skerf af eðliseinkennum þeirra hjóna, stórt snið, dugnað, sparsemi og nægjusemi fyrir sjálfan sig, og ríka menningarvitund. Einar ríki var ekki aðeins stórhöggur í útgerð og fiskvinnslu, heldur jafnframt sískrifandi í blöð og tímarit, hér í Eyjum og á landsvísu, og menningarmaður á alla grein. Ég nefni til vitnis tímaritið „Gamalt og nýtt“ og margt, sem hann segir, og um hann er sagt, í bókum Þórbergs þremur. Einar hóf ungur að safna bókum, keypti safn Árna á Tanganum, 3000 bindi, og lánaði úr því starfsfólki sínu í Hraðfrystistöðinni og fleiri fyrirtækjum, verkamönnum, verkakonum og sjómönnum. Það hlýtur að vera einkennileg tilfinning að láta þessa dýru gripi frá sér, því að ég – og sjálfsagt margir aðrir hér – þekkja þá „einstæðu sælu¬kennd sem gagn-tekur hvern sannan bókasafnara þegar hann hefur höndlað lang¬þráðan kostagrip“ svo ég vitni í skrif góðs vinar míns og bókamanns. Já, „Bók er best vina.“   Ég vil – í öðru lagi – á þessari stundu minnast þess manns sem, ef vera mætti með okkur, væri allra manna glaðastur hér, Haraldar Guðnasonar bókavarðar. Ég er viss um að nú lyftir hann sínum miklu brúnum og titrar af fögnuði í gröf sinni. Hann hóf bókavarðarstarf sitt í safni Einars Sigurðssonar og minntist þess oft síðar hve skemmtilegt hefði verið þegar hann vann við flutning safnsins og uppsetningu á heimili Einars og Svövu í Reykjavík um 1950. Enginn einn maður átti meiri þátt í að gera Bókasafn Vestmannaeyja að því sem það er en Haraldur Guðnason. Og nú er aukið við það meira en nokkru sinni áður í sögu þess, ekki að magni heldur gæðum.   Í þriðja lagi vil ég minna á hve ríkar skyldur eru nú lagðar á Bókasafn Vestmannaeyja með þeirri óvenjulegu stórgjöf sem það hlýtur í dag. Safnið fær til varðveislu mikilvæga gripi úr bóksögu þjóðarinnar, sumt nauðatorgætt og nokkur höfuðdjásn íslenskra bóka, eins og elstu biblíurnar, jafnvel rit sem hvergi eru til annars staðar í söfnum hér á landi. Prentarfinn þarf að varðveita og til þess höfum við Landsbókasafn og lög um það. En það er ekki nóg, víða eru stórmerkir gripir í söfnum utan Landsbókasafns, og í einkaeigu. En eftir daginn í dag held ég að fá ef nokkurt almenningsbókasafn, hafi nú dýrari sjóð að varðveita en Bókasafn Vestmannaeyja. Það minnir á að gæsla þessa menningararfs, bókminja, er verkefni allra safna, svo miðlun hans og varðveisla. Og þar er nú hlutverk Bókasafns Vestmannaeyja orðið mikið.   Það fer vel á því að gera eitthvað stórt í minningu Einars Sigurðssonar á afmæli hans, sem var síðast liðinn þriðjudag. Slíkur var hann, og slík voru verk hans. Nú hefur Bókasafnið breyst í eitt mikilvægast og merkasta safn landsins. Og Ágúst Einarsson, Kolbrún, börn þeirra, barnabörn, systkini og fjölskyldan öll er stórum ríkari á þessum degi því að sérhver gjöf, færð af hreinu og glöðu hjarta, af örlæti, er gjafaranum jafnverðmæt í sinni og þiggjandanum. Og minnumst hins fornkveðna að „hver er gjöfum sínum líkastur“.   Ómetanleg gjöf með helstu perlum íslenskra bókmennta   Bókagjöf Ágústar Einarssonar, afhent Bókasafni Vestmannaeyja 7. febrúar 2017 til minningar um föður Ágústar, Einar Sigurðsson, útgerðar- og athafnamann. Um er að ræða um 1.500 bækur, margar þeirra einstakar perlur í bóksögu landsins. Hér eru tekin saman fáein dæmi sem sýnishorn en bókagjöfin verður til sýnis í heild sinni síðar:   Allar útgáfur Biblíunnar á íslensku: Guðbrandsbiblía, 1584. Þorláksbiblía, 1644. Steinsbiblía, 1728. Vajsenhússbiblía, 1747. Hendersonbiblía, 1813. Viðeyjarbiblía, 1841. Reykjavíkurbiblía, 1859. Lundúnarbiblía, 1866. Biblíufélagsútg., 1957. Viðhafnarútg., 2000. Núverandi biblíuútg., 2007.   Fyrstu bækur skálda og fræðimanna, allt frumeintök: Ari Þorgilsson, fróði: Íslendingabók, 1688. Árni Friðriksson: Áta íslenskrar síldar, 1930. Benedikt Gröndal: Örvar-Odds drápa, 1851. Bjørnson, Bjørnstjerne: Kátr piltr, skáldsaga, 1879. Davíð Stefánsson: Svartar fjaðrir, 1919. Gunnar Gunnarsson: Móður-minning, 1906. Jóhannes Sveinsson Kjarval: Grjót, 1930. Jón Sigurðsson: Lítil fiskibók, 1859. Matthías Jochumsson: Útilegumennirnir, 1864. Mill, John Stuart: Um frelsið, 1886.     Bækur sem ekki finnast í neinu bókasafni samkv. Gegni: Helmodi Historici, 1556. Þorleifur Jónsson: Skólameistaratal á Hólum, án ártals. Kvöldvaka Lúðrasveitar Vestmannaeyja, 1943. Starfskrá fyrir umsjónarmenn við síldarverkun, 1937. Torfi Bjarnason: Hallærisvarnamálið, 1914. Bækur sem eru aðeins á Landsbókasafni samkv. Gegni: A stafrófskver ásamt hinu minna kveri Lúthers, 1753. Andersen, Hans Christian: Maurerpigen, 1840 Dominicale eða guðspjallstextar, 1725. Gamanblaðið 1-8, 1917 (allt sem kom út). Ólafur Friðriksson (umsjón). Glettni 1, 1936. Jólablað skátafélagsins Fylkir, 1945. Sjómannablaðið, 1933 (allt sem kom út).     Fágætisbækur sem aðeins eru til örfáum söfnum samkv. Gegni: Arngrímur Jónsson, lærði: Crymogaea, 1610. Björn Halldórsson: Atli, 1780 Guðmundur Högnason, prestur í Vestmannaeyjum: Fjórar misseraskiptar predikanir, 1783. Guðmundur Högnason, prestur í Vestmannaeyjum: Sjö sendibréf Jesú Kristí, 1784. Hallgrímur Pétursson: Báðar bækur Samúels, 1747. Hallgrímur Pétursson: Diarium Christianum, 1712 og 1773. Hallgrímur Pétursson: Passíusálmarnir, 1712 og 1754. Hallgrímur Pétursson: Sjö guðrækilegar umþenkingar, 1773. Helmodi Historici, 1556. Jón Þorsteinsson, píslarvottur, prestur í Vestmannaeyjum: Davíðssálmar, 1746. Jón Þorsteinsson, píslarvottur, prestur í Vestmannaeyjum: Genesesarsálmar, 1753. Kristni saga, 1688. Magnús Stephensen: Margvíslegt Gaman og alvara 1-2, 1798 og 1818. Magnús Stephensen: Sjö nýjar föstupredikanir, 1798. Snorri Sturluson: Heimskringla í 6 bindum, 1777-1826. Sæmundar-Edda, 1787-1828.   Tímarit, allt heilt sem og frumútgáfur: Ameríka. Tímarit um Vesturheim og vesturferðir 1-5, 1873-1875. Fjölnir 1-9, 1835-1837. Gefn 1-5, 1870-1875. Íslensk sagnablöð, 1817-1826. Klausturpósturinn 1-8, 1818-1827. Landstíðindi 1-2, 1849-1851. Minnisverð tíðindi 1-3, 1807-1808. Ný félagsrit 1-30, 1841-1873. Ný tíðindi, 1851-1852. Smávegis 1-2, 1872. Jón Ólafsson (ritstjóri). Sunnanpósturinn 1-3, 1835-1838. Verðandi 1882.   Handrit: Eiginhandarrit Einars Ásmundssonar í Nesi um Siglingafræði. Handritað bréf Halldórs Laxness til Erik Sønderholm, þýðanda.    

Fullyrða að þjónusta og öryggi verði það sama

„Ástæður fækkunar starfsfólks á Vestmannaeyjaflugvelli eru að farþegum sem fara um völlinn hefur fækkað mikið síðan Landeyjahöfn opnaði og samgöngur sjóleiðina urðu betri. Nú verða starfsmenn þrír, eða jafnmargir og á flugvöllum með sambærilegan farþegafjölda, t.d. Húsavíkurflugvelli,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi ISAVIA um þá ákvörðun stofnunarinnar að fækka starfsfólki á flugvellinum. „Á síðasta ári fóru rúmlega 19 þúsund farþegar um völlinn en árið 2009 fóru rúmlega 55 þúsund farþegar um hann og voru þá fimm starfsmenn starfandi á vellinum. Þrátt fyrir fækkun starfsfólks mun sama öryggisstigi og þjónustustigi verða viðhaldið á vellinum,“ bætti hann við. Fram til þessa hafa fimm starfsmenn séð um björgunar- og slökkviþjónustu og staðið vaktir í flugturninum en nú verða þeir þrír. „Það var einn búinn að segja upp þannig að við erum að fækka stöðugildum um eitt á vakt,“ sagði Ingólfur Gissurarson, umdæmisstjóri og tekur í sama streng og Guðni um að þjónusta og öryggi verði það sama. Og hann segir líka að færri farþegar hafi sín áhrif. „Þrátt fyrir færri starfsmenn erum við ekki að draga úr þjónustu við bæjarbúa sem er það sem skiptir máli. Með tilkomu Landeyjahafnar fækkaði flugfarþegum til Vestmannaeyja en það er okkar ósk og von að þeim eigi eftir að fjölga aftur. Og vitum við að viðleitni til þess. Gangi það eftir verður mannahaldi breytt til samræmis við það,“ sagði Ingólfur.   Hvernig verða vaktir eftir breytinguna? „Vaktirnar verða þær sömu eftir breytingu þ.e. þjónustan og þjónustutími mun ekki hafa áhrif á farþega til og frá Vestmannaeyjum enda telur fyrirtækið þessar samgönguleið lífsnauðsynlega fyrir Eyjamenn.“    

„Þið eruð frábær“

„Ástæðan fyrir því að ég fór í framboð til nemendaráðs er sú að ég hef virkilegan áhuga á þessu en þetta er þetta jafnframt annað árið mitt í nemendaráði hér við FÍV. Ég tók einnig eitt ár í svipuðu starfi þegar ég var í skiptinámi í Bandaríkjunum,“ segir formaðurinn Friðrik Magnússon í samtali við Eyjafréttir. Friðrik á svo sem ekki langt að sækja áhugann því báðir bræður hans, faðir og föðurbróðir hafa allir fengið verðlaun fyrir afburðar starf í nemendaráði og segist Friðrik líta mikið upp til þeirra. Er þetta skemmtilegt? „Já, þetta er mjög skemmtileg, ég er virkilega ánægður með að hafa tekið þessa ákvörðun. Ég mæli með þessu fyrir alla, maður lærir mjög margt og fær tækifæri til að láta rödd sína heyrast ef maður hefur hugmyndir að breytingum til hins betra. Auk þess ertu umkringdur skemmtilegu fólki og lærir hluti sem munu nýtast þér í framtíðinni,“ segir Friðrik. Aðspurður hvaða viðburðir hafa verið fyrir nemendur á þessu skólaári þylur Friðrik upp langan lista af hinni ýmsu afþreyingu. „Við héldum tvö böll sem heppnuðust vonum framar. Íþróttaviðburðirnir voru einnig vel sóttir, þar má nefna FÍV Cup (fótboltamót), blakmót, ping pong mót og FIFA mót. Á þessum viðburðum komu krakkarnir saman og myndaðist mikil stemning. Við fengum sömuleiðis nokkra fyrirlesara í skólann og tóku krakkarnir vel í það. Svo má ekki gleyma kvikmyndakvöldi sem Óli Bjarki kvikmyndaséní setti upp. Í dag vinnum við svo hörðum höndum að því að skipuleggja árshátíðina sem verður um miðjan febrúar og að plana íþróttaviðburði sem Landsbankinn hefur stutt við bakið á okkur í og viljum við nýta tækifærið til að þakka þeim fyrir,“ segir formaðurinn.   Dugleg að taka þátt í því sem er í boði Hvernig finnst nemendum félagslífið í skólanum almennt vera? Eru þeir duglegir að taka þátt í því sem í boði er? „Krakkarnir hafa alltaf staðið við bakið á okkur og eru svakalega duglegir að mæta á viðburðina okkar sem gerir þetta svo skemmtilegt. Það er ekkert skemmtilegra en að heyra góð ummæli frá samnemendum sínum en ég hef ekkert slæmt heyrt frá þeim. Ég vona innilega við getum haldið þessu frábæra nemendaráði á sama stalli og það er komið á núna og bætt það enn frekar í samvinnu við nemendur,“ segir Friðrik. Hvernig er að vera formaður og á sama tíma útskrifaður úr skólanum? „Það er bara svakalega fínt þar sem ég hef mun meiri tíma til að skipuleggja viðburði og tala við artista og annað fólk. Ég var efins með þetta fyrst en eftir að hafa kannað málið hjá öðrum formönnum úr öðrum skólum kom í ljós að þetta er frekar algengt en það er mælt með því að maður sé að taka einn áfanga við skólann eins og ég er að gera. Kristinn Viðar sem er varaformaður hefur verið duglegur að sjá um atriði upp í skóla þegar ég er ekki á staðnum og verð ég að hrósa honum fyrir vel unnin störf,“ segir Friðrik sem að lokum vill þakka öllum sem hafa stutt við bakið á nemendafélaginu. „Ég vil bara þakka öllum þeim sem hafa stutt við bakið á okkur í þessu ferli, þetta er búið að vera svo rosalega gaman. Einnig vil ég hrósa nemendafélaginu og nefndunum fyrir frábært afrek að ná félagslífinu í svona gott stand og að sjálfsögðu nemendunum fyrir allt saman, við hefðum ekki getað þetta án ykkar, þið eruð alveg frábær.“    

Hlutur Vestmannaeyinga um 50 þúsund tonn

Á þriðjudaginn ákvað sjávarútvegsráðherra á grundvelli tillagna Hafró að auka heildarafla íslenskra skipa á loðnu í alls 196.075 tonn á vertíðinni. Áætlað heildarverðmæti loðnuaflans er um 17 milljarðar króna. Heildarhluti Eyjaflotans í kvótanum er um 50.000 tonn þannig að ljóst er að mikið er í húfi. Hlutur Ísfélagsins í loðnukvótanum er 21,5% eða um 38.000 tonn, Vinnslustöðin hefur yfir að ráða 11% sem losa 20.000 tonn og uppsjávarskipið Huginn VE er með um 1,5 eða tæp 3000 tonn. Það er því ljóst að hagsmunir Vestmannaeyja eru miklir að aflinn náist. Ef allt væri eðlilegt væru loðnuveiðar komnar í fullan gang en allt er strand vegna sjómannaverkfallsins sem staðið hefur í tvo mánuði. Sjómenn lögðu fram sáttatillögu á mánudaginn sem háð er aðkomu ríkisstjórnarinnar en þar er ekki að sjá að nokkur áhugi sé á að deila leysist á næstunni.  Það er ekki að sjá að sjávarútvegsráherra hafi minnsta áhuga á að verkfall sjómanna leysist á næstunni. Skilja má af fréttum að tilboð sjómanna um lausn á deilunni standi og falli með ákvæði um að sjómenn fái fæðiskostnað dregin frá skatti. Sambærilegt og aðrar starfstéttir hafa í formi dagpeninga þar sem sannanlegur kostnaður er undanþeginn skatti. Fríðinda sem ráðherrann eins og aðrir opinberir starfsmenn, nýtur á meðan hún „flytur“ skrifstofur sínar á Ísafjörð.   Á RÚV í gærmorgun sagðist Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir aðspurð ekki ætla að grípa inn í kjaradeilu sjómanna og útgerðarmanna með lagasetningu eða með breytingum á skattalöggjöf. Deiluaðilum hafi verið falin umsjá með auðlind þjóðarinnar og beri þá ábyrgð að semja. Og spurningin var í anda RÚV: „Finnst þér að ég eigi að koma með sértækar aðgerðir, og eins og sumir eru að leggja til, að niðurgreiða laun fyrir útgerðarmenn?“ „Ég er því mótfallin. Ég er mótfallin sértækum aðgerðum,“ segir ráðherrann og liggur ekki á þeirri skoðun sinni að bjóða eigi upp kvótann.    „Mín skoðun er eindregið sú að við eigum að leita leiða í gegnum uppboðið. Það er réttasta leiðin að því leyti að markaðurinn ræður þá því sem að útgerðin á að borga og ef að það gengur illa þá borgar hún minna og ef að það gengur betur þá tekur hún meiri þátt í að byggja upp innviði samfélagsins.“    Við RÚV sagðist hún reiðubúin til að koma að málinu með almennum hætti, til dæmis með því að styðja þær byggðir sem standa illa vegna verkfallsins og er þar að rugla saman eplum og appelsínum og bendir á það augljósa. „Þau sveitarfélög sem hafa byggt upp ábyrgt fiskeldi eru að koma betur út úr þessu sjómannaverkfalli heldur en önnur. Við erum að sjá erfiðleika hjá ákveðnum sveitarfélögum á Snæfellsnesi, fyrir norðan og fyrir austan, og mér finnst það vera að koma að hlutunum með almennum hætti, að styrkja þær byggðir,“ sagði ráðherrann.  Þetta er sami tónninn og kom fram hjá henni í Silfrinu á RÚV og hefur verið athyglisvert að fylgjast með henni og fjármálaráðherra í fjölmiðlum undanfarið. Ekki síst á RÚV sem eftir meira en mánaðarlangt verkfall sjómanna uppgötvaði að málið snýst ekki bara um markaði fyrir fisk.   Sjávarútvegsráðherra kynnti í síðustu viku könnun á afleiðingum verkfallsins út um land. Og það sem birtist í skýrslunni var það sem allir vissu, verkfallið bitnar á öllum íbúum sjávarbyggða, fyrirtækjum í þjónustu á þessum stöðum blæðir, sveitarsjóðir skaðast, markaðir eru í hættu og spurning hvort öll fyrirtæki í sjávarútvegi lifi af verkfallið.   Og ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar vill ekki lyfta litla fingri til lausnar deilunni þar sem krafan er að sjómenn sitji við sama borð og aðrar stéttir í landinu.   

Kaka ársins afhent á Bessastöðum

Ásmundur á mbl.is - Höfum daginn til að klára þetta

„Við höf­um bara dag­inn til þess að klára þetta að mínu mati,“ seg­ir Ásmund­ur Friðriks­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, í sam­tali við mbl.is spurður um stöðuna í kjara­deilu sjó­manna en verk­fall þeirra hef­ur staðið yfir frá því í des­em­ber. Vís­ar hann þar til loðnunn­ar og seg­ir að ef þau verðmæti eiga ekki að synda fram­hjá Íslend­ing­um þurfi að bregðast hratt við.   „Þetta er bara orðið alltof langt. Það þarf að koma flot­an­um af stað og það tek­ur tíma. Ef við ætl­um að ná þess­um loðnu­brönd­um þá er ekki eft­ir neinu að bíða. Ég held að aðkoma rík­is­ins sé al­ger­lega óumflýj­an­leg,“ seg­ir Ásmund­ur. Taka megi þann slag hvort ríkið eigi alltaf að koma inn í slík­ar kjara­deil­ur en í þeirri stöðu sem kom­in sé upp liggi lausn­in hjá rík­inu.   „Við verðum að rísa und­ir þeirri ábyrgð,“ seg­ir Ásmund­ur og vís­ar þar til þess að ríkið samþykki að fæðis­pen­ing­ar sjó­manna verði und­anþegn­ir skatti. „Ég er al­veg til­bú­inn að taka þann slag og tel að við verðum bara að sýna rögg­semi og klára þetta mál í dag. Það þarf svo vit­an­lega að fara í gegn­um þingið með breyt­ing­um á skatta­lög­um og þar fram eft­ir göt­un­um.“   Þetta er nauðsyn­legt að mati Ásmund­ar í ljósi þeirra miklu verðmæta sem séu í húfi. „Við meg­um ekki láta þau synda fram­hjá okk­ur. Síðan drepst loðnan og verður eng­um til gagns.“ Bend­ir hann á að 17% hrogna­fyll­ing muni vera kom­in í loðnuna og því stytt­ist óðfluga í það að hún nái 22-23% og telj­ist þar með vinnslu­hæf. Þetta séu mestu verðmæti upp­sjáv­ar­skip­anna.   Af mbl.is.  

Enn í hnút - Sjávarútvegsráðherra ekki tilbúin að liðka til

Vil­hjálm­ur Birg­is­son, formaður Verka­lýðsfé­lags Akra­ness og samn­inga­nefnd­armaður sjó­manna, seg­ir við mbl.is að fund­ur­inn hjá rík­is­sátta­semj­ara í gær hafi verið gríðarlega erfiður. Hann hafi  skilað þeirri niður­stöðu að drög að nýj­um kjara­samn­ingi hafi verið til­bú­in. Aðeins hafi staðið út af að fá vil­yrði frá sjáv­ar­út­vegs­ráðherra varðandi skatta­lega meðferð á dag­pen­ing­um en því hafi hann hafnað.   „Það er þyngra en tár­um taki að eft­ir rúm­lega tveggja mánaða verk­fall og eina af erfiðustu vinnu­deil­um Íslands­sög­unn­ar skuli sjáv­ar­út­vegs­ráðherra ekki hafa verið til­bú­inn að liðka fyr­ir þessu rétt­læt­is­máli fyr­ir ís­lenska sjó­menn. Ef ráðherr­ann hefði verið til­bú­inn til þess hefði verði hægt að leggja kjara­samn­ing­inn strax í dóm sjó­manna og ef sjó­menn samþykktu hann hefði flot­inn getað verið kom­inn til veiða inn­an nokk­urra daga!“ skrif­ar Vil­hjálm­ur á Face­book-síðu sína.   „Ég biðla, reynd­ar má segja að ég sendi neyðarkall til alþings­manna um að taka stöðu með ís­lensk­um sjó­mönn­um og koma þessu rétt­læt­is­máli í gegn þannig að sjó­menn sitji við sama borð og annað launa­fólk hvað frá­drátt á fæðis­kostnaði varðar þegar menn starfa víðsfjarri sínu heim­ili,“ skrif­ar hann.     Af mbl.is.

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Íþróttir >>

Lengjubikar kvenna: Spilaðist vel þrátt fyrir tap

Breiðablik tók á móti ÍBV í A-deild lengjubikars kvenna um síðustu helgi þar sem Eyjakonur þurftu að sætta sig við 3:0 tap. Hildur Antonsdóttir kom Blikum yfir eftir um hálftíma leik en Fanndís Friðriksdóttir og Rakel Hönnudóttir innsigluðu sigurinn fyrir þær grænklæddu með sitthvoru markinu þegar skammt var til leiksloka. Næsti leikur liðsins verður gegn Stjörnunni sunnudaginn 12. mars. „Leikurinn gegn Blikum spilaðist nokkuð vel þrátt fyrir 3:0 tap,“ segir Sóley Guðmundsdóttir fyrirliði ÍBV. „Við erum búnar að vera að æfa nýja vörn sem leit miklu betur út á móti Blikum heldur en á móti Val í vikunni á undan sem er mjög jákvæður punktur í okkar spilamennsku. Einnig vorum við að láta boltann ganga mun betur okkar á milli og við héldum honum vel. Mörkin sem við erum að fá á okkur koma mörg eftir mistök hjá okkur, við missum boltann klaufalega eða fylgjum okkar manni ekki alveg inn að marki, hlutir sem við eigum að gera betur og munum laga. Við erum einnig með nokkra leikmenn í meiðslum og markmaðurinn er ekki kominn með leikheimild.“ Nú hafið þið tapað fyrstu tveimur leikjunum í Lengjubikarnum, telur þú að liðið nái að knýja fram góð úrslit gegn Stjörnunni í næsta leik? „Á móti Stjörnunni ættu flestar að vera orðnar heilar og markmaðurinn kominn með leikheimild þannig ég er bjartsýn á að við munum ná góðum úrslitum á móti Stjörnunni. Ég vil samt koma því að hvað ég er rosalega ánægð með allar ungu stelpurnar sem eru búnar að vera að fá tækifæri með okkur í vetur, þær eru svo sannarlega að gefa okkur eldri stelpunum gott spark í rassinn og sýna að framtíðin er björt í kvennaboltanum,“ segir Sóley.  

Stjórnmál >>

VefTíví >>

Hrafnar fóru á kostum í Eldheimum - Myndband og myndir

Það var mikið stuð í Eldheimum á laugardagskvöldið þar sem Hrafnarnir fóru mikinn í tónlist og spjalli um allt og ekkert en þó aðallega um gosið og sjálfa sig. Hvert sæti var skipað í húsinu og var mikið hlegið milli þess sem fólk naut tónlistarinnar sem boðið er upp á.    Hljómsveitin Hrafnar samanstendur af tvennum bræðrum, Georg og Vigni Ólafssonum og Hermanni Inga og Helga Hermannssonum og Hlöðveri Guðnasyni, allt grónir Eyjamenn þó þeir búi á fastalandinu. Samanlögð reynsla þeirra í músík má frekar mæla í öldum en áratugum og þeir kunna ýmislegt fyrir sér á þeim vettvangi. Það var talið í klukkan níu og klukkan átti aðeins nokkrar mínútur í miðnætti þegar síðasti tónninn var sleginn. Sem sagt þriggja tíma prógram með stuttu hléi og hvergi slegið af.   Hljóðfæraskipan er svolítið sérstök, Georg leikur á kontrabassa, Vignir á banjó, Hlöðver á mandólín og Hermann Ingi og Helgi á gítara. Eldheimar buðu á tónleikana og tilefnið var að minnast þess að á mánudaginn, 23. janúar voru 44 ár frá upphafi Heimaeyjargossins. Lagaval og sögur tengdust gosinu á einhvern hátt. Allir voru þeir byrjaðir í tónlist áður en gaus og brugðu þeir upp skemmtilegum myndum af sjálfum sér í undarlegum aðstæðum. Hermann Ingi á harðahlaupum upp Skólaveginn þegar eldsúlurnar risu austur á Eyju og Hlöbbi sem stakk af til Eyja til að bjarga því dýrmætasta, plötusafninu. Já, þeir hittu svo sannarlega í mark og útkoman var ein besta skemmtun sem boðið hefur verið upp á í Eyjum síðasta árið eða svo. Bæði skemmtilegt og eftirminnilegt. „Tónleikarnir og aðsóknin fóru fram úr björtustu vonum. Gaman að geta boðið á þennan flotta viðburð. En tónleikarnir eru greiddir með styrk úr Framkvæmdarsjóði Suðurlands. Herjólfur gaf ferðirnar fyrir tónlistaarmennina og hljómflutningsgræjurnar. Það var setið á næstum því öllum stólum hússins. Þeir eru um 160,“ sagði Kristín Jóhannsdóttir, forstöðumaður Eldheima eftir tónleikana. Óskar Pétur Friðriksson ljósmyndari var að sjálfsögðu á staðnum og smellti þessum myndum af stemningunni.