Lögreglan hvetur ökumenn til að fara varlega í hálkunni

Lögreglan hvetur ökumenn til að fara varlega í hálkunni

 Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í liðinni viku vegna hinna ýmsu mála sem upp komu. Skemmtanahald helgarinnar fór fram með ágætum en eitthvað var hins vegar um pústra án þess þó að kærur liggi fyrir.   Að morgni föstudagsins 19. desember sl. var lögreglu tilkynnt um að farið hafi verið inn í hús við Bröttugötu og þaðan stolið úlpu sem í var eitthvað af verðmætum. Böndin bárust fljótlega að tveimur mönnum í kringum tvítugt og voru þeir handteknir skömmu síðar. Annar þessara manna var reyndar í úlpunni sem var stolið, þegar hann var handtekinn. Mennirnir, sem voru undir áhrifum áfengis, voru vistaðir í fangageymslu þar til víman rann af þeim. Við yfirheyrslu síðar sama dag viðurkenndu þeir að hafa farið inn í húsið en kváðust hafa farið húsavilt. Sá sem var í úlpunni kvaðst hafa tekið úlpuna í misgripum.   Ein kæra liggur fyrir vegna brota á áfengislögum en um var að ræða ungan mann sem hafði verið til vandræða á einum af skemmtistöðum bæjarins, sökum ölvunar. Honum var í komið til síns heima og varð ekki til frekari vandræða.   Síðdegis þann 19. desember sl. var lögreglu tilkynnt um vinnuslys um borð í Sighvati Bjarnasyni VE þar sem skipið lá við bryggju í Friðarhöfn. Þarna hafði starfsmaður Skipalyftunnar runnið þannig að hann datt aftur fyrir sig. Kvartaði hann yfir eymslum í fæti, en talið er að hann sé lærbrotinn.   Ein kæra liggur fyrir vegna brota á umferðarlögum en um er að ræða ólöglega lagningu ökutækis.   Lögreglan hvetur ökumenn til að fara varlega þar sem mjög hált er á götum bæjarins. Einnig eru gangandi vegfarendur hvattir til að fara varlega og minntir á að bera endurskinsmerki eftir að skyggja tekur.   Lögreglan í Vestmannaeyjum óskar Vestmannaeyjingum sem og landsmönnum öllum gleðilegra jóla.  

Búseta í vitavarðarhúsinu tilheyrir senn sögunni til

Þeir sem fylgjast með veðurlýsingum á Rás 1 hafa tekið eftir því að lítið er að frétta af veðri á Stórhöfða, þessari fyrrum einni af helstu veðurathugunarstöðvum landsins. Óskar Sigurðsson sem gegndi m.a. starfi veðurathugunarmanns lengst af sinni starfsævi er fluttur á Selfoss. Sonur  hans Pálmi Freyr tók við starfi hans,  honum hefur verið sagt upp störfum, en býr enn á Stórhöfða, en sú búseta er senn á enda. Eyjafréttir leituðu til Pálma Freys, til að fá fréttir af veðurlýsingunum á Stórhöfða eða ekki veðurlýsingunum þaðan. Pálmi Freyr sendi hinsvegar bréf þar sem hann segir skýrt og skorinort hvernig staðan er:    „Nú geta þeir ekki sagt veðrið frá Stórhöfða því vindáttamælir er bilaður (tók reyndar 18 daga fyrir þá að sjá að hann væri bilaður). Það á greinilega að jarða þessa meðal þeim elstu veðurathugunarstöðvum landsins. Stóra spurning mín er hvers vegna þessi skyndilega ákvörðun að setja Stórhöfða úr A-flokk í ruslflokk á svipstundu. Svo er ekki bara vindmælir sem er bilaður heldur er rakamælirinn búinn að vera bilaður næstum því allt árið. Svo enginn úrkoma er mæld lengur, þar sem því var hætt 1. nóv. Og Veðurstofan hefur EKKI ENN sett sjálfvirkan úrkomumælir. Vitavarðastarfið á vegum Siglingastofnurnar var lagt niður árið 2007. Veðurathugunarstarfið á vegum Veðurstofu Íslands var lagt niður 1. maí 2013. Mannaðar úrkomumælingar á vegum Veðurstofu Íslands voru lagðar niður 1. nóv. 2014. Erlendar mengunarmælingar með milligöngu Veðurstofu Íslands færðist yfir til Nátturustou Suðurlands líka 1. nóv 2014. Staðan hjá okkur Stórhöfðafeðgum. Faðir minn er fluttur til Selfoss fyrir nokkrum vikum, og ég er á leiðinni í Faxastig 12 á næstum dögum eða vikum. Þannig að Stórhöfðaviti verður senn eyðibýli." Kv. Pálmi Freyr  

Rosknir Eyjamenn vilja borga sinn skatt

Jólakveðjur frá Jónasi Gísla í Mexíkó - Leiðrétting

 Jónas Gíslason var einn ágætra Eyjamanna í útlandinu sem heilsaði upp á lesendur í jólablaði Eyjafrétta. Jónas Gíslason hefur búið í Mexíkó í yfir 33 ár og er nú búsettur í Mexíkóborg með fjölskyldu sinni. Eitthvað hafði skolast til um fjölskylduhagi Jónasar en hið rétta er að konan hans Erika Ruiz og eru synir þeirra Erik og Ari. Fyrir átti Jónas soninn Jónas Gísla Ricardo og heitir konan hans Mariana, börn þeirra eru Iker og Maite. Þess má geta að Erik hefur verið hér í Eyjum sl. tvö sumur og spilað með 2.flokki karla ÍBV í fótbolta og kemur aftur til Eyja um miðjan apríl nk.   Eftir að blaðið fór í prentun sendi hann eftirfarandi pistil:   Núna er ég búinn að búa í 33 ár í Mexikó. Búinn að búa á ýmsum stöðum í landinu þennan tíma, en eins og er í norður hluta Mexíkóborgar. Núna er ég helst að brasa í orkugeiranum. Geri mælingar á orkugæðum hjá stóriðnfyrirtækjum og býð þeim lausnir. Nú er verið að opna allan orkugeirann upp fyrir einkageirann, olíu, jarðvarma, vatnsafl, vind og sólaorku. Ég er kominn af stað í jarðvarmanum, en Mexikó er fjórði stærsti framleiðandinn í jarðvarmanum í heiminum í dag. Jólahald hérna er með mjög svipuðu móti eins og heima, fyrir utan það að stórhríðirnar hérna eru mun vægari á þessum tíma ársins!!! Fyrir utan það að fá hefðbundnar jólagjafir á aðfangadgskvöl koma vitringarnir 3 líka með leikföng til barnanna á þrettándanum, sem er stór dagur hérna. Svo borða þeir náttúrulega saltfisk og fá sér laufabrauð en sem betur fer eru þeir ekki komnir uppá bragðið með skötuna!!!!   Viðkomandi eru beðnir velvirðingar á þessum mistökum. Rirstjóri.    

Magnús Ríkarðsson ráðinn skipstjóri á nýjan ísfisktogara Vinnslustöðvarinnar

Eins og áður hefur verið kynnt þá hefur Vinnslustöðin skrifað undir samning um smíði á nýjum ísfisktogara fyrir Vinnslustöðina. Þegar er hafin vinna við smíði skipsins í Kína. Skipið verður 50,7 metra langt og 12,8 metra breitt. Hinu nýja skipi er ætlað að leysa togarann Jón Vídalín VE af hólmi. Með sérstakri hönnun skrokks og óvenju stórri skrúfu, miðað við stærð skipsins, verður skipið 60% aflmeira en Jón Vídalín VE án þess að olíunotkun aukist að sama skapi. Skipið verður búið þremur rafdrifnum togvindum og getur dregið tvær botnvörpur samtímis. Tæknibúnaður verður allur eins og best verður á kosið og aðbúnaður áhafnar í samræmi við nútímakröfur.   Skipstjóri á hinu nýja skipi, sem áætlað er að verði komið til heimahafnar um mitt ár 2016, verður Magnús Ríkarðsson. Magnús fæddist í Ólafsvík þann 20. ágúst 1964. Hann byrjaði til sjós í Ólafsvík með föður sínum 14 ára gamall á Gunnari Bjarnasyni. Árið 1982 hélt Magnús til Vestmannaeyja í stýrimannaskólann. Í kjölfarið fór hann sem 2. stýrimaður á Bylgju VE og var hann þar í 1 ár. Lá leið hans þá aftur vestur á Snæfellsnes þar sem hann fór sem stýrimaður á Hamar frá Rifi eina síldarvertíð. Magnús hélt að því loknu til Vestmannaeyja þar sem hann hefur verið allar götur síðan. Magnús var stýrimaður á Suðurey VE eftir að hann fluttist alfarið til Vestmannaeyja. Árið 1987 hófst skipstjórnarferill Magnúsar. Fyrst var hann með Sigurvík VE og þar á eftir Bergvík VE í eigu sömu útgerðar. Magnús hefur frá árinu 1993 verið skipstjóri á Drangavík VE sem er í eigu Vinnslustöðvarinnar þar sem Magnús hefur verið afburðar skipstjóri. Magnús er kvæntur Önnu Huldu Long og eiga þau 4 börn og eitt barnabarn.   Vinnslustöðin fagnar því að Magnús hafi verið tilbúinn að taka að sér það mikilvæga verkefni að stjórna hinu nýja skipi og óskar Magnúsi áframhaldandi velfarnaðar í starfi hjá Vinnslustöðinni.      

The hunger games

Ég horfði á bíómyndina The hunger games 2 um helgina. Myndir sem hafa fengið mikið lof og eru verðlaunaðar víða erlendis, en ég verð að viðurkenna alveg eins og er að mér fannst önnur myndin alveg jafn léleg og fyrsta myndin, og söguþráðurinn ansi þvælukenndur, en eitt greip þó athygli mína. Í myndunum kemur fram gríðarlega mikill munur á þeim ríku og þeim fátæku. Í síðustu viku hlustaði ég svo á umræður á RÚV um nýlega könnun, þar sem kannað var hvaða áhrif það hefði haft hjá þjóðum eins og t.d. á Íslandi, þar sem ráðamenn gera allt sem þeir geta til þess að styðja við þá sem hafa fjármagn til þess að reka fyrirtæki í von um að skapa þannig fleiri atvinnu tækifæri til þess að auka tekjur hjá öllum. Það sem vakti mesta athygli við þessa könnun er að niðurstaða könnunarinnar að þar sem stuðningur ráðamanna við þá ríku gerðu fyrst og fremst væri að auka bilið enn meira milli ríka og fátæka. Þeir ríku ruðu sem sé ríkari, og þeir fátæku fátækari. Sjálfstætt starfandi iðnaðarmaður í Vestmannaeyjum sagði við mig fyrir nokkru síðan, að hér í bæ væri til svo ríkt fólk að það gæti í raun og veru leyft sér hvað sem er og gerði það. Fyrir nokkru síðan var ég staddur í Lyf og heilsu, þar sem á undan mér var maður sem ég veit að er öryrki og það vakti athygli mína að þessi öryrki var að biðja lyfsalann um að lána sér lyfin sín því hann gæti ekki borgað þau fyrr en um mánaðarmótin. Það er því miður staðreynd að munurinn á milli þeirra ríku og fátæku hefur sennilega aldrei verið meiri á Íslandi heldur en í dag. Margir hafa sagt við mig í Eyjum að undanförnu á þessum tímum hagræðingar og fækkun starfa í sjávarútvegi, að það hefði viljað sjá miklu meira af hagnaði stóru fyrirtækjanna skila sér aftur til Eyja í frekari atvinnusköpun, enda hafa margir misst vinnuna í nafni hagræðingarinnar á undanförnum árum og klárlega vantar a.m.k. eitthvað uppá að hinir sterk efnuðu skynji betur samfélagslegu ábyrgð sína á bæjarfélaginu og nýti meira af hagnaði sínum hér í Eyjum frekar en til fjárfestingar annar staðar. Sem betur fer verða aldrei haldnir Hungur leikar á Íslandi og sem betur fer eru fjölmörg tækifæri til staðar fyrir þá, sem eru sterk efnaðir til þess að láta gott af sér leiða, og sem betur fer eru margir sem nýta sér það, en þörfin er gríðarleg. Það er afskaplega góð tilfinning að geta látið gott af sér leiða. Með von um kærleiksrík og ánægjuleg jól, óska ég öllum Eyjamönnum sem og landsmönnum gleðilegra jóla.    

Arnar Péturson ráðin þjálfari Handboltastjarnanna (Hvítir)

Nú rétt í þessu voru Handboltastjörnurnar (Hvítir) að staðfesta ráðningu á nýjum þjálfara. Eftir fréttir gærdagsins um að Daði Páls hefði tekið að sér þjálfun Rauða liðsins varð Hvíta liðið að bregðast hratt við. Það var fundað í alla nótt og náðu aðilar ekki saman fyrr en rúmlega átta í morgun.   Birgir Reimar talsmaður Hvíta liðsins sagði að liðið hafði lagt mikla áherslu á að fá Erling Richardsson sem þjálfara en hann hafi ekki treyst sér í verkefnið að svo stöddu. ,,Skrefið var of stórt og fannst öruggara að taka að mér miðlungslið í Bundesligunni þar sem pressan er minni á að liðið nái árangri‘‘, sagði Erlingur.   Þá lá beinast við að tala við sigursælasta þjálfara sem eyjarnar hafa alið af sér, sjálfan Arnar Péturson, sem gerði ÍBV að Íslandsmeisturum í vor. Arnar var gríðalega ánægður með það traust sem honum er sýnt með þessari ráðningu ,,Svona tækifæri býðst bara einu sinni á ævinni, auðvitað þýðir þetta fjarveru frá fjölskyldu en hún stendur eins og klettur við bakið á mér“ sagði Arnar klökkur, en þegar þarna var komið mátti greina tár leka niður karlmannlegu kinnbein hans.   En hversu langt getur liðið náð undir þinni stjórn? „Auðvitað vill ég vinna bikara, þess vegna er maður í þessu sporti. En það er bara gamla góða klisjan; Einn leikur í einu og sjáum hvert það skilar okkur“ sagði Arnar nokkuð hógvær áður en hann brotnaði alveg og rauk í fangið á Minnu sem var viðstödd fréttamannafundinn að beiðni Arnars. Núna verður gaman að sjá hvernig Arnar og Daði muni nálgast leikinn sem hefst klukkann 18 á föstudaginn. Eitt er þó víst, það má enginn missa af þessari VEISLU!!  

Lögreglunámið hefði breyst mikið gegnum árin

Föstudaginn 12. desember 2014 fór brautskráning nemenda Lögregluskóla ríkisins fram við hátíðlega athöfn í húsnæði skólans að Krókhálsi 5b. Brautskráðir voru 16 nemendur sem hófu grunnnám við skólann þann 14. janúar 2014. Í fyrsta sinn í sögu lögreglunáms á Íslandi voru konur í meirihluta brautskráðra en í hópnum voru 5 karlar og 11 konur, eða 68,75% brautskráðra nemenda. Við athöfnina fluttu ávörp Karl Gauti Hjaltason, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, Ólöf Nordal, innanríkisráðherra og Páley Borgþórsdóttir, sem tekur við starfi lögreglustjóra í Vestmannaeyjum um næstu áramót. Rut Herner Konráðsdóttir og Páll Fannar Helgason fluttu, fyrir hönd nemenda, annál ársins og hljómsveit, skipuð núverandi og fyrrverandi lögreglumönnum, flutti tvö lög við athöfnina.   Frá þessu er sagt á vef Lögregluskólans sem Karl Gauti, fyrrum sýslumaður í Vestmannaeyjum , tók við í sumar sem skólastjóri.   Hæstu meðaleinkunn á lokaprófum náði Erna Dís Gunnarsdóttir, 9,10 og með aðra hæstu einkunn voru Björk Jónsdóttir og Rósa Árnadóttir, 8,90. Þessir nemendur fengu viðurkenningu frá skólanum fyrir góðan námsárangur. Meðaleinkunn allra útskriftarnemendanna var 8,27, sem er frábær árangur.   Lögreglufulltrúarnir sem starfa við Lögregluskóla ríkisins völdu úr hópi nemenda „Lögreglumann skólans“ og varð Rósa Árnadóttir fyrir valinu.   Í ávarpi sínu nefndi Karl Gauti Hjaltason m.a. að lögreglunámið hefði breyst mikið gegnum árin og verið lagað að kröfum tímans. Það hafi lengi verið framtíðarsýn skólans að lengja lögreglunámið en fyrir margra hluta sakir hafi ekki tekist að koma náminu í það horf sem menn hafi talið skynsamlegast.   Karl Gauti sagði breytingar á náminu í farvatninu, í kjölfar vinnu starfshóps sem falið var það verkefni að endurskoða skipulag og starfsemi Lögregluskóla ríkisins og gera tillögu til ráðherra að framtíðarskipan lögreglumenntunar. Í þessu sambandi sagði Karl Gauti afar brýnt að gæta þess að námið verði áfram tengt lögreglustarfinu og að skólinn verði sú tenging við lögregluna sem nauðsynleg er talin. Þá sagði hann mikilvægt að lögreglan í landinu láti það ekki gerast að fjármunir verði sparaðir til menntunar lögreglu á sama tíma og kröfur séu gerðar um lengingu grunnnámsins og færslu þess upp á háskólastig.   Karl Gauti sagði eitt það mikilvægasta sem lögreglan í landinu ætti væri traust fólksins og að ítrekað hafi lögreglan mælst með eitt mesta traust allra stofnana landsins. Það fjöregg þyrfti að varðveita, það gerði lögreglan best með því að vanda öll vinnubrögð, nálgast verkefni sín af ákveðni og síðast en ekki síst að koma fram við borgarana af virðingu.   Ólöf Nordal sagði m.a., í ávarpi sínu, það ánægjulegt hversu margar konur væru í útskriftarhópnum. Sagði hún hópinn eiga í vændum vandasamt og mikilvægt starf sem væri líka þakklátt. Ólöf minntist á tillögur starfshóps um breytingu á grunnnámi lögreglumanna þar sem gert væri ráð fyrir að námið yrði þriggja ára nám á háskólastigi. Sagði hún það grundvallarbreytingu á menntun lögreglumanna, enda væri það stefna stjórnvalda að efla löggæsluna og að lögreglan væri ávallt sem hæfust til að takast á við fjölbreytt verkefni. Fram kom í máli Ólafar að hún myndi meta tillögur starfshópsins á næstunni.   ,,Við þurfum ávallt að eiga lögreglulið sem getur mætt nýjum verkefnum, lögreglulið sem er tilbúið að setja sig inn í nýjar aðstæður og lögreglulið á sterkum grunni sem getur lagt á sig stöðugt nýjar áskoranir. Liður í því er í fyrsta lagi grunnmenntunin, í öðru lagi reynslan og hæfnin og í þriðja lagi símenntun sem viðheldur þessum grunni,“ sagði Ólöf meðal annars.     Að ávarpi sínu loknu afhenti Ólöf Nordal þeim Rósu Árnadóttur og Sunnefu Burgess sérstaka viðurkenningu fyrir að ná glæstum árangri í íslensku en þær fengu báðar lokeinkunnina 9,5 í námsgreininni. Viðurkenningin er annars vegar farandbikar, sem gefinn var af dómsmálaráðherra á sínum tíma, og hins vegar bókarverðlaun sem gefin eru af Landssambandi lögreglumanna.   Í annál nemenda röktu Páll Fannar Helgason og Rut Herner Konráðsdóttir, á gamansaman hátt, það minnisstæðasta úr náminu á árinu, sem þeim þótti í heild sinni hafa verið stórskemmtilegt og fjölbreytt. Meðal þess sem þau nefndu var næturæfing, þjálfun í valdbeitingu og notkun táragass, notkun talstöðva, akstursþjálfun og þjálfun með Landhelgisgæslunni.     Páll Fannar og Rut sögðu að nemendur myndu hugsa til tímans í Lögregluskóla ríkisins með söknuði og að þeir hafi fengið góðan undirbúning fyrir lögreglustarfið í skólanum á þessu ári. Þau hrósuðu sérstaklega starfsfólki skólans, og öllum þeim sem nemendur kynntumst í náminu, fyrir fagmennsku. Að lokum sögðu Páll Fannar og Rut að nemendur mættu vera stoltir af því að hafa lokið námi við Lögregluskóla ríkisins og sögðust þess fullviss að þeir myndu allir vinna gott lögreglustarf í framtíðinni.   Páley Borgþórsdóttir beindi orðum sínum til nemenda og sagði m.a. að nú væri stór dagur í lífi þeirra, dagur sem markaði upphaf, upphaf að nýju starfi, nýjum áskorunum og nýjum tækifærum. Þeir ættu eflaust langan starfsferil fyrir höndum en meðalstarfsævi væri talin vera um 35 ár. Páley óskaði nemendum innilega til hamingju með að vera að hefja starfsævi sína, hún yrði viðburðarík og áhugaverð, ef þeir leyfðu það.   Páley sagðist vilja deila uppáhalds spakmæli sínu með nemendum og bjóða þeim að gera það að sínu eigin. Spakmælið er komið frá Dalai Lama, sem útskýrði mannlega hamingju með þeim orðum að hún sé ekki fólgin í því að gera það sem hver og einn hefur ánægju af, heldur að hafa ánægju af því sem hann gerir. Páley sagði þetta snúast um viðhorf, með hvaða viðhorfi tekist er á við verkefni hvers dags.   Páley sagði nemendunum að þeir væru þrautþjálfaðir í allskyns viðbrögðum við erfiðar aðstæður, þar sem þeim væri uppálagt að bregðast við af öryggi og fumleysi. Það væri hins vegar ekki síður mikilvægt að hafa stjórn á hugsuninni og huganum. Það ætti svo margt eftir að henda í kringum þá sem þeir hefðu enga stjórn á og þá væri gott að muna að hver og einn stjórni allajafna aðeins sínum viðbrögðum sem gætu svo aftur skipt sköpum.   Páley brýndi fyrir nemendum að hafa það viðhorf að öll verkefni skipti máli, að sjá tilganginn í smávægilegustu og erfiðustu verkefnum og halda í gleðina. Einnig hvatti hún nemendur til að vera jákvæða, bjartsýna og trúa á hið góða. Í spakmæli Dalai Lama væri fólgið að njóta hversdagslegra athafna, vera vakandi, lifa í augnablikinu og læra að njóta þess.     Í ávarpi sínu ræddi Páley um jafnréttismál og bað nemendur, sem nú væru að byrja starfsævina, um að vera vakandi og standa saman, jafnrétti snerist um jöfn tækifæri karla og kvenna og væri fyrir bæði kynin. Kynin væru ólík, bæði að líkamlegri getu og ýmsum eiginleikum, en vægu hvort annað svo sannarlega upp.   Að lokum sagði Páley við nemendur að þeir myndu eiga gæfuríka starfsævi ef þeir bæru virðingu hver fyrir öðrum og öllum manneskjum og hefðu ánægju af því sem þeir gerðu, jafnt í leik og starfi.       Myndirnar tóku þeir Jóhannes Tómasson, upplýsingafulltrúi innanríkisráðuneytisins og Guðmundur Ásgeirsson, lögreglufulltrúi við Lögregluskóla ríkisins.    

Tveir skiluðu inn tilboðum í líkamsræktarsalinn

Frestur til að skila inn tilboðum í leigu á líkamsræktarsal Íþróttamiðstöðvarinnar frá og með 1. janúar 2016. Tvö tilboð bárust, frá GYM-heilsu sem rekur salinn í dag og frá líkamsræktarstöðinni Hressó. Samkvæmt upplýsingum Jóns Péturssonar, framkvæmdastjóra hjá bænum bauð GYM-heilsa í leigu á sal og umsýslu. Tilboðið felst í því að að halda áfram samstarfi við bæinn samkvæmt núverandi samningi. Fyrirtækið á tækin sem eru í salnum og er leiga og þjónustugjald 145.000 krónur á mánuði og 1550 krónur í umsýslukostnað á hvern einstakling. Hækkar leiga og gjöld samkvæmt vísitölu. Hressó líkamsræktarstöð býður 150.000 krónur fyrir leigu á sal og 2000 krónur í umsýslukostnað. „Nú verður farið í að skoða betur tilboðin og fá upplýsingar um þætti s.s. verð á árskortum og fleira,“ sagði Jón.     Auglýsing Vestmannaeyjabæjar:  Vestmannaeyjabær sem leigusali óskar eftir tilboðum í leigu á húsnæðisaðstöðu heilsuræktarsals sem tengdur er við sundlaug Íþróttamiðstöðvar, frá og með 1. janúar 2016. Eftirfarandi skilyrði eru gerð til tilboðsgjafa: • þarf að hafa reynslu af rekstri líkamsræktar • þarf að vera með árskort á sanngjörnu verði • þarf að bjóða upp á tæki og tól frá viðurkenndum aðilum • þarf að hafa alla ábyrgð, eftirlit, umsjón og þrif á starfsaðstöðu • Þarf að geta sýnt fram á tryggan rekstur með framvísun viðurkenndra ársreikninga auk þess gerir leigusali áskilnað um tryggingar fyrir leigugreiðslum • leigusamningur gildi í 5 ár Innifalið í tilboði skal vera: • tilboð í leigu á sal (131,6 fm) • tilboð í umsýslukostnað vegna sölu árskorta • það er skilyrði að hver einstaklingur sem kaupir kort í líkamsrækt greiði aðgang að sundi skv. gjaldskrá Íþróttamiðstöðvar. Við úrvinnslu og mat tilboðsgagna verður hafður til hliðsjónar IV. kafli Innkaupareglna Vestmannaeyjabæjar sem nálgast má á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar. http://vestmannaeyjar.is/skrar/file/samthykktir/innkaupareglur_vestmannaeyjabaejar.pdf Rekstur líkamsræktar við sundlaug bæjarins, ábyrgð, eftirlit, umsjón og þrif er sjálfstæður rekstur og að öllu leiti aðskilinn rekstri Vestmannaeyjabæjar. Tilboðsfrestur er til kl. 12:00 þann 12. desember 2014. Tilboð verða opnuð í fundarsal Ráðhússins kl. 14:00 sama dag. Tilboðum skal skilað í afgreiðslu Ráðhússins merkt „Tilboð í leigu á húsnæðisaðstöðu Íþróttamiðstöðvar“. Nánari upplýsingar veitir Jón Pétursson, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar í síma 488 2000 eða jonp@vestmannaeyjar.is      

„Hún kallar mig teboðshræsnara“

Erum við "Teboðshræsnarar" sem ræðum góð gildi og kristna trú? spurði Ásmundur Friðriksson alþingismaður á Alþingi í dag. Hann ræddi í þinginu um tiltrú á þingið og framkomu þingmanna. Pressan.is birti þessa frétt af umræðunni. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er sár og svekktur út í Sigríði Ingibjörgu Ingadóttir og fleiri þingmenn fyrir framgöngu þeirra. Ásmundur kvaddi sér hljóðs í störfum þingsins í morgun til að gagnrýna framferði þingmanna á síðustu dögum og sagði þá hafa brugðist í því verki sýnu að bæta ásýnd þingsins. Sjálfur hafi hann á síðasta kjörtímabili hringt í samflokksmenn sína og skammað þá fyrir málþóf sem að hans mati er niðurlægjandi fyrir þingið. Hann fordæmdi það málþóf sem stjórnarandstaðan stóð fyrir í gær og sagði það til háborinnar skammar. Þá sagði hann virðingu þingmanna í garð hvers annars enga og vísaði þar meðal annars í ummæli Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur sem, líkt og fram kom í frétt Eyjunnar, um „teboðshræsni“. Ég, sem sjálfur hef rætt um góð gildi lífsins og kristna trú sem mér er hugleikin, fæ kaldar kveðjur frá góðum samstarfsmanni í velferðarnefnd, háttvirtum þingmanni Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, sem kallar mig teboðshræsnara. Hún kallar mig teboðshræsnara fyrir að tala um góð gildi lífsins. Er það þessi andi sem að við viljum að ríki í þessu húsi? [...]Þeir þingmenn sem að tala svona, þeir eru ekki að lítillækka sjálfa sig, þeir eru að lítillækka þennan vinnustað, þennan vinnustað sem fólkið í landinu er að líta til og vill að borin sé virðing fyrir. En við gerum það ekki með svona talsmáta. Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, svaraði Ásmundi og sagði það fráleitt að tala um málþóf. Þingstörf hafi gengið mjög greiðlega fyrir sig sem sjáist best á því að það stefni í að þeim ljúki í dag, 16. desember.  

Prófað eftir hádegi í FÍV

Nemendur Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum (FÍV) sem þreyttu jólaprófin að þessu sinni upplifðu líklega minni þreytu en áður, þar sem breyting var gerð á próftíma. Öll próf í FÍV hófust klukkan 13 að þessu sinni en áður hafa þau byrjað klukkan 9 á morgnana. Helga Kristín Kolbeins, skólameistari, segir að breytinguna megi rekja til Íslandsmeistaratitils ÍBV í handbolta síðastliðið vor. Daginn eftir úrslitaleikinn eftirminnilega við Hauka á Ásvöllum í Hafnarfirði var próf í FÍV. Fjölmargir nemendur fóru á úrslitaleikinn og komu heim til Eyja með Herjólfi seint um kvöldið að leik loknum. Stjórnendur skólans komu til móts við nemendur með því að færa prófið daginn eftir leik til klukkan 13.   Gefst vel að hefja próf eftir hádegiðKennurum í FÍV fannst þetta takast vel og höfðu á orði að nemendur væri tilbúnari en áður að þreyta próf. Í kjölfarið skapaðist umræðu um hvort breyta ætti tímasetningu prófa alfarið og einnig hafa verið gerðar breytingar á kennslutíma. „Í haust höfum við hafið kennslu klukkan 9 í stað 8 áður, tvo daga í viku. Okkur hefur fundist það gefast vel,“ segir Helga Kristín í samtali við Eyjafréttir.is. „Það á alveg eftir að skoða hvort árangurinn sé betri og ætlum við okkur þennan vetur til að meta það. Það eru kostir og gallar við allt og það eru alls ekki allir sammála um að byrja prófin klukkan 9,“ segir Helga Kristín. Hún segir að námsárangur á nýlokinni önn liggi ekki fyrir en það sé tilfinning kennara að nemendur skrifi meira og nýti próftímann betur en áður.   Próf breytastHelga Kristín bendir á að próf breytist með breyttu námsmati. Nú tíðkist varla lengur að hafa svokölluð 100% próf, þar sem einkunn prófanna gildir alfarið sem lokaeinkunn áfanga. Það færist þess í stað í aukana að nemendur hafi lokið hluta af námsmati áður en til lokaprófs kemur. „Þetta á eftir að leiða til þess að próftími styttist. Ég á von á að það verði tvö til þrjú próf á dag þegar breyting á námsmati verður að fullu gengin í gegn. Það skiptir mestu að nemendur nýti tímann sem best í skólanum,“ segir Helga Kristín.   Hefja skóladaginn seinna í skammdeginuHún segir að það sé allur gangur á því hver próftímí er í framhaldsskólum landsins. „En það er til skoðunar í skólum almennt hvenær best er að byrja skóladaginn. Það er óneitanlega mjög mikið myrkur í skammdeginu og það mætti skoða hvort það hefði jákvæð áhrif að byrja heldur seinna á morgnana. Það er líka ekkert sem segir að skólinn þurfi að byrja á sama tíma dagsins alla mánuði ársins,“ segir Helga Kristín Kolbeins, skólameistari Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum.  

Skipasmíðastöðin ber kostnað af viðgerð Sigurðar VE

Sigurður VE er á heimleið eftir þriggja mánaða viðgerð í Noregi. Siglingin hefur gengið hægt vegna veðurs eins og sjá má í myndbandi sem birt var á Eyjafréttum í gærkvöld. Skipið var smíðað í Tyrklandi og ber skipasmíðastöðin þar í landi kostnað af viðgerðinni. Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri Ísfélagsins, segir að bilun hafi komið upp í spilkerfi skipsins. Frágangur á lögnum var ekki fullnægjandi. „Þetta er alfarið ábyrgðarmál sem snýr að skipasmíðastöðinni,“ segir Eyþór í samtali við Eyjafréttir.is.   Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélagsins, segir í samtali við kvotinn.is að skipasmíðastöðin greiði fyrir úrbæturnar enda eigi hún að skila nýju skipi með allan búnað í lagi. „Það var hins vegar afar bagalegt að geta ekki beitt nýju skipi við veiðarnar í sumar og haust. Skipið fór utan áður en makrílvertíðinni lauk. Við náðum þó kvótanum í makrílnum, norsk-íslensku síldinni og íslensku sumargotssíldinni,“ segir Stefán.   Stefán segir að loðnan skipti félagið mestu máli og þar muni Sigurður VE koma að góðum notum. Því miður sé upphafskvótinn afskaplega lítill, ríflega 100.000 tonn og af því komi aðeins um 24.000 tonn í hlut Ísfélagsins. Hann segist vonast til þess að kvótinn verði aukinn, enda hafi náðst góð mæling á loðnuna í fyrra, þó svo það hafi ekki tekist í ár. Mælingin þá bendi til að loðnan standi nokkuð vel.

Áform um smíði nýs Herjólfs óbreytt

Það hefur vakið athygli að ekki er  gert ráð fyrir fjárframlögum til byggingar nýs Herjólfs eins fyrirheit eru um. Ekki er þó allt sem sýnist því í nefndaráliti fjárlaganefndar Alþingis segir:  „Þá er vakin athygli á því að áform um smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju eru óbreytt. Unnið verður að fjármögnunarleiðum samhliða undirbúningi útboðs sem fyrirhugað er á fyrri hluta komandi árs."  Eyjafréttir leituðu til Elliða Vignissonar bæjarstjóra hvernig þetta mál horfir við honum:    „Við gerð fjárlaga fundum við afar eindregin vilja ríkisstjórnar til að setja framtíðarsamgöngur til Vestmannaeyja á oddinn. Sjálfur hef ég átt tugi funda vegna þessa með ráðherrum, þingmönnum og embættismönnum. Róðurinn var af sjálfsögðu þungur enda fjárlögin í járnum. Það er því afar ánægjulegt að sjá að áform um smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju eru óbreytt. Ef allt fer að óskum verður smíði ferjunnar boðin út í febrúar og vonandi hægt að hefja smíði eigi síðar en í maí. Það gefur von um að ný ferja hefji siglingar við lok ársins 2016.   En hvað merkir að unnið verði að fjármögnunarleiðum samhliða undirbúningi útboðs? Það merkir að ríkið heldur því opnu að fara í samstarf við þriðja aðila um fjármögnun. Þannig hefur það til að mynda komið til álita að Vestmannaeyjabær taki þátt í verkefninu og eignarhaldi á ferjunni gegn leigusamningi við ríkið. Eftir atvikum verði þá skoðað samstarf við fagfjárfesta svo sem lífeyrissjóði og hverskonar innviðasjóði.   Hefur Vestmannaeyjabær hafið slíkan undirbúning? Já við höfum verið að skoða þessi mál af fullri alvöru án þess að nokkur ákvörðun liggi fyrir. Ég hef ma. rætt þetta við Ólöfu Nordal innanríkisráðherra og Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra. Þá hef ég átt fundi með innlendum og erlendum fagaðilum og fjárfestum. Á slíkt ber þó að líta sem algeran grunnundirbúning enda hefur enn engin ákvörðun verið tekin um hvaða leiðir verði farnar við þessa mikilvægu innviðafjárfestingu ríkisins. Vestmannaeyjabær er með þessum undirbúningi eingöngu að gera sig kláran í bátana til að vera tilbúin ef á aðkomu Vestmannaeyjabæjar reynir.   Hvað með ferjuna sjálfa. Teljið þið að hún komi til með að standa undir væntingum og verða sú lausn sem samfélagið hér þarf á að halda? Nú er það svo að við bæjarfulltrúar verðum að stóla á aðra þegar kemur að siglinga- og hafnartæknifræðilegum atriðum. Við höfum haft –og höfum enn- áhyggjur af frátöfum og burðargetu skipsins. Þetta tvennt er hinsvegar nátengt því eftir því skipið verður stærra þá þarf það einfaldlega að sigla oftar til Þorlákshafnar. Við höfum í því samhengi sett fram þau viðmið að ekki sé ásættanlegt að fjöldi þeirra daga sem ferðir í Landeyjahöfn falli alveg niður séu fleiri en 10. Þá höfum við ítrekað lýst áhyggjum af burðargetu hins nýja skips. Þótt hægt sé að fallast á þau rök sem fram hafa komið um að vegna þess hversu mikið ódýrara í rekstri hið nýja skip sé þá verði mögulegt að bregðast við takmarkaðri flutningsgetu með fleiri ferðum án viðbótarkostnaðar miðað við það sem nú er. Það reynir hinsvegar á traust á ákvörðunum pólitískra fulltrúa sem fara með forræði samgangna. Slíkt traust hefur því miður ekki verið til staðar hjá bæjarbúum í mörg ár. Sú vöntun á trausti útskýrist af því að samgöngur við Vestmannaeyjar hafa lengi verið langt frá því sem boðlegt er og viðbrögð opinberra aðila ekki í samræmi við þörfina. Þá hafa bæjarfulltrúar einnig margsinnis haldið því til haga að sé mið tekið af umferðarspá Vegagerðar í siglingum milli lands og Eyja sé þörf fyrir tvö skip eins og það sem nú er verið að smíða. Þannig að auðvitað höfum við bæjarfulltrúar allar sömu áhyggjur og bæjarbúar almennt.   En þá höfnin sjálf. Hvað þarf að gera með hana? Eins og ég segir þá munum við bæjarfulltrúar aldrei finna lausn á verkfræilegum þáttum. Landeyjahöfn er í eigu ríkisins og rekin á ábyrgð samgönguyfirvalda. Við höfum því ítrekað krafist þess að smíðatími nýs skips verði nýttur til að gera úrbætur á Landeyjahöfn með það að markmiði að þegar hið nýja skip kemur til þjónustu standist það væntingar.   Jafnvel þótt allt fari á besta veg hvað varðar nýsmíði þá eru enn amk. tvö ár í að hún komi til þjónustu. Hvað með tímann þangað til? Núverandi ástand er illþolanlegt en það er nú samt grá veruleikinn að sennilega þurfum við að lifa við þetta svona þar til ný ferja kemur. Vissulega höfum við bæjarfulltrúar ítrekað krafist þess að brugðist verði við þessari stöðu með því að leigja heppilegt skip til þjónustu í Landeyjahöfn. Öllum hefur lengi verið ljóst að Herjólfur ræður illa við aðstæður í siglingum til Landeyjahafnar. Ítrekað hefur hætta skapast og í raun er það þrekvirki að skipstjórum og áhöfn Herjólfs skuli hafa þó tekist að nýta höfnina jafn mikið og raun ber vitni. Við getum hinsvegar lítið gert annað en pressað og þrýst. Það höfum við gert og það gerum við áfram.    

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Íþróttir >>

Knattspyrnunámskeið með landsliðskonum á milli jóla og nýárs

Landsliðskonurnar Margrét Lára og Elísa Viðarsdætur ætla að halda knattspyrnunámskeið milli Jóla og nýárs fyrir eyjapæjur í 3, 4, 5 og 6. flokki kvenna dagana 29, 30 og 31 desember. Námskeiðið fer fram í Eimskipshöllinni. Æft verður tvisvar á dag klukkutíma í senn. Farið verður yfir helstu atriði knattspyrnunnar auk þess sem elstu hóparnir fara á fyrirlestur um næringu íþróttamanna.   Kostnaður: 5.000 kr   3. og 4 flokkur 5. og 6. flokkur mánudagurinn 29. des mánudagurinn 29. des Fyrri æfing: kl 11.00-12.00 Fyrri æfing: kl 10.00-11.00 Seinni æfing: 14.00-15.00 Seinni æfing: kl 13.00-14.00   þriðjudagurinn 30. des Þriðjudagurinn 30. des Fyrri æfing: kl 11.00-12.00 Fyrri æfing: kl 10.00-11.00 Seinni æfing: kl 14.00-15.00 Seinni æfing: kl 13.00-14.00   Miðvikudagurinn 31. Des Miðvikudagurinn 31. des Fyrri æfing: kl 10.00-11.00 æfing: kl 09.00-10.00 Fyrirlestur um næringu íþróttamanna: 11.15-12.00   Hlökkum til að sjá sem flestar  Skráning í gegnum vefpóst: mlv@simnet.is       Knattspyrnunámskeið með landsliðskonum á milli Jóla og nýárs. Landsliðskonurnar Margrét Lára og Elísa Viðarsdætur ætla að halda knattspyrnunámskeið milli Jóla og nýárs fyrir eyjapæjur í 3, 4, 5 og 6. flokki kvenna dagana 29, 30 og 31 desember. Námskeiðið fer fram í Eimskipshöllinni. Æft verður tvisvar á dag klukkutíma í senn. Farið verður yfir helstu atriði knattspyrnunnar auk þess sem elstu hóparnir fara á fyrirlestur um næringu íþróttamanna.   Kostnaður: 5.000 kr   3. og 4 flokkur 5. og 6. flokkur mánudagurinn 29. des mánudagurinn 29. des Fyrri æfing: kl 11.00-12.00 Fyrri æfing: kl 10.00-11.00 Seinni æfing: 14.00-15.00 Seinni æfing: kl 13.00-14.00   þriðjudagurinn 30. des Þriðjudagurinn 30. des Fyrri æfing: kl 11.00-12.00 Fyrri æfing: kl 10.00-11.00 Seinni æfing: kl 14.00-15.00 Seinni æfing: kl 13.00-14.00   Miðvikudagurinn 31. Des Miðvikudagurinn 31. des Fyrri æfing: kl 10.00-11.00 æfing: kl 09.00-10.00 Fyrirlestur um næringu íþróttamanna: 11.15-12.00   Hlökkum til að sjá sem flestar  Skráning í gegnum vefpóst: mlv@simnet.is    

Stjórnmál >>

Efast um að 0,4% rekstursins hafi verið aðal kosningamál

Í framhaldi þess að meirihluti bæjarstjórnar Vestmannaeyja hafnaði tillögu minnihlutans um að taka upp frístundakort til að niðurgreiða tómstundaiðkun barna um 25.000 krónur spurðu Eyjafréttir.is Elliða Vignisson, bæjarstjóra, hvort tillögunni hafi verið hafnað vegna þess að hún var eitt aðal kosningamál Eyjalistans. „Heildarrekstrarútgjöld Vestmannaeyjabæjar eru um 4 milljarðar. Tillaga Eyjalistans um frístundakort er mál upp á 16 milljónir eða sem sagt 0,4% af rekstrinum. Án þess að ég hafi sérstaklega sett mig inn í kosningabaráttu Eyjalistans þá efast ég um að 0,4% af rekstrinum hafi verið aðal kosningamál þess góða fólks sem stóð að E-listanum,“ segir Elliði.   Bæjarstjóri segir enn fremur að tillagan hafi verið felld vegna mikillar óvissu í tekjuáætlun Vestmannaeyjabæjar. „Okkur þótti einfaldlega ekki forsvarandi að auka útgjöld til íþrótta- og tómstundamál um 16 milljónir á meðan ráðist er í niðurskurð upp á 62 milljónir,“ segir Elliði.   Elliði segir að í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun sé stefnt að hagræðingu um 1,5% af heildarrekstri samstæðu eða rúmlega 62 milljónir, þetta sé minnihlutanum kunnugt um. „Slíkt er ekki gert af léttúð heldur illri nauðsyn. Að öðru óbreyttu myndi samþykkt á tillögu minnihlutans leiða til þess að fara þyrfti í niðurskurð upp á um 78 milljónir. Slíkt hefði að mati okkar í meirihlutanum í för með sér sársaukafullar aðgerðir fyrir þjónustuþega Vestmannaeyjabæjar. Minnihlutinn benti sannarlega á leiðir til að draga úr rekstri eins og með því að draga úr viðhaldi á húsnæði, draga úr viðhaldi gatna og sleppa uppbyggingu á skólalóðum. Því vorum við ekki sammála. Þá lagði oddviti E-lista fram tillögu um að þetta yrði fjármagnað með því að taka hærra hlutfall af launum bæjarbúa. Því vorum við heldur ekki sammála enda það trú okkar að launþegar eigi sjálfir að halda sem mestu af launum sínum frekar en að stjórnmálamenn séu að seilast í sem hæst hlutfall til að deila síðan til baka til fólksins. Með hliðsjón af þessari stöðu hafnaði meirihlutinn tillögunni, að minnsta kosti þar til sýnt verður fram á að rauntekjur komandi árs verði umfram það sem nú hefur verið áætlað,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.  

Greinar >>

Vinnum ekki eftir boðum og bönnum

Að gefnu tilefni, vegna síendurtekinna skrifa á samfélagsmiðlum, er rétt að geta þess að það er alfarið í höndum stjórnenda Þjónustumiðstöðvar hvernig snjóruðningi og hálkuvörnum á vegum bæjarins er háttað. Þar kemur enginn annar að með boðum og bönnum um yfirvinnu, eins og sumir hafa fullyrt. Skipulagning og framkvæmd er í höndum bæjarverkstjóra. Um helgina var færðin slæm, sérstaklega í asahlákunni, það fossaði niður götur, með þeim afleiðingum að halda varð niðurföllum í gatnakerfinu opnum, sem tókst og því ekki vitað um tjón vegna flóða. Annað sem gerði erfitt fyrir var að allt salt sem og sandur sem dreift var á gatnakerfið flaut jafnóðum í burtu. Tæki voru send út til að gera tilraun við að vinna á klakanum og verður að segjast eins og er að árangur af því var lítill. Starfsemi Þjónustumiðstöðvar var fullnýtt til hálku- og flóðavarna á sama tíma og menn sáu ástæðu til að hnýta í bæjaryfirvöld um að ekkert væri að gert. Hafi það farið framhjá einhverjum má upplýsa að hér var ekki um neitt sér vestmannaeyskt ástand að ræða, heilu hverfin í öðrum bæjarfélögum voru ófær og einangruð á sama tíma. Við erum ekkert fullkomnari en aðrir, þó sumir hafi mikla trú á að svo sé. Núna er verið að salta um allan bæ og veit ég að það kætir alla. Bið alla um að fara varlega bæði gangandi sem akandi. Óska ykkur gleðilegra jóla og friðar á komandi árum.