Upplýst um mikið útlánatap 19. mars - Samruni inni í myndinni

Upplýst um mikið útlánatap 19. mars - Samruni inni í myndinni

Eyjamenn steinlágu gegn Aftureldingu

 Afturelding tryggði sér 2. sæti Olís-deildar karla með átta marka sigri á Eyjamönnum í Eyjum, í kvöld. Gestirnir voru sterkari allan leikinn en Pétur Júníusson átti frábæran leik og skoraði átta mörk.   Það var orðið ljóst strax fyrir leik að það yrði á brattan að sækja fyrir Eyjamenn. Tvo sterka leikmenn vantaði í liðið, þá Magnús Stefánsson og Sindra Haraldsson. Ungur Eyjamaður þurfti því að leika í mikilvægustu stöðunni í varnarleik Eyjamanna, hafsentinn.   Fjarvera þessara tveggja frábæru varnarmanna truflaði Eyjamenn og það gríðarlega. Hvað eftir annað opnuðust glufur í vörninni og það nýttu gestirnir sér. Pétur Júníusson átti eins og áður segir stórleik í sókninni hjá Aftureldingu, hann skoraði átta mörk úr níu skotum. Eyjamenn komust þó þrisvar sinnum yfir í upphafi leiks, eftir fimmtán mínútna leik var þó jafnt 6-6.   Á upphafsmínútunum lék Andri Heimir Friðriksson mjög vel í liði heimamanna og skoraði þrjú af fyrstu fimm mörkum ÍBV.   Á þessum tímapunkti hófst frábær kafli gestanna. Vörnin small og þá fylgja yfirleitt hraðaupphlaupin, Árni Bragi Eyjólfsson var einstaklega drjúgur á þessum kafla. Mörkin komu þó úr öllum áttum og staðan skyndilega orðin 6-12, gestunum í vil.   Þá skoruðu Eyjamenn loksins mark en það eingöngu vegna þess að Örn Ingi Bjarkason stóð í markinu. Hann hefur aldrei verið frægur fyrir mikla markmannstakta.   Mestur varð munurinn þó undir lok fyrri hálfleiks þegar að gestirnir komust sjö mörkum yfir í 10-17. Grétar Þór Eyþórsson sá þó til þess að Eyjamenn færu ekki grautfúlir inn í búningsklefa því honum tókst að minnka muninn í sex mörk úr vítakasti.   Í upphafi síðari hálfleiks tókst heimamönnum að minnka muninn jafnt og þétt en þeir fóru að spila mun betur. Þegar munurinn var kominn niður í fjögur mörk gáfu gestirnir aftur í. Flottur kafli þeirra sá til þess að staðan var orðin 18-25.   Gestirnir nýttu sér „vestið“ þegar að þeir léku manni færri. Þá skiptu markmenn þeirra við Örn Inga Bjarkason og leikmenn Aftureldingar því jafn margir í sókninni. Þetta gekk gríðarlega vel hjá þeim en þeir töpuðu varla kafla þegar þeir misstu mann útaf.   Lokakafli gestanna var einnig aðdáunarverður en þeir keyrðu grimmt í bakið á Eyjamönnum. Að lokum voru gestirnir komnir átta mörkum yfir og lokatölur voru því 23-31.   Með sigrinum tryggðu gestirnir sér það að þeir verða aldrei neðar en 2. sætið. Þeir eiga einnig möguleika á deildarmeistaratitlinum. Það er því ljóst að Afturelding á heimaleikjaréttinn í 8-liða úrslitunum og einnig í undanúrslitunum, komist þeir þangað.   ÍBV er þó enn í basli í 6. sæti deildarinnar og þurfa eitt stig til viðbótar til að tryggja sætið í úrslitakeppninni.

Innlán ekki í hættu og lausn í sjónmáli í málum Sparisjóðsins

„Stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja (SV) leitar nú allra leiða til að auka eigið fé sjóðsins um 1.200 milljónir króna en athugun á útlánasafni hans, sem ráðist var í undir lok árs 2014, leiddi í ljós að raunverulegt eiginfjárhlutfall sjóðsins er undir því lágmarki sem Fjármálaeftirlitið hefur sett. Sjóðurinn hefur frest til síðdegis á föstudaginn til að bæta úr stöðunni en að öðrum kosti mun FME grípa til aðgerða og skipa skilanefnd yfir sjóðinn,“segir í frétt Viðskiptablaðs Morgunblaðsins í morgun.   Vilhjálmur Egilsson, varaformaður stjórnar SV, segir að vandinn sé mikill en að stjórnin telji sig geta leyst úr honum innan þess frests sem gefinn var. „Auðvitað finnst okkur fresturinn styttri en æskilegt væri en við höfum fulla trú á því að lausn verði komin fyrir lok dags á föstudag, en málið er í góðum farvegi. Um leið og stjórnin gerði sér grein fyrir því að útlánasafnið var mun veikara en áður var talið var gripið til aðgerða og Fjármálaeftirlitinu gert viðvart.“   „Síðan þá hefur verið unnið með FME að úrlausn málsins. Útlánasafn Sparisjóðsins er bókfært í hálfsársuppgjöri hans fyrir árið 2014 á rétt rúma 8 milljarða króna. „Það er fyrst og fremst útlánasafnið frá Selfossi sem ekki hefur reynst jafn gott og áður var talið. Svo virðist vera sem safnið hafi verið ofmetið þegar sjóðurinn gekk í gegnum endurskipulagningu árið 2010,“ segir Vilhjálmur. Vilhjálmur segir stefnt að því að breyta víkjandi lánum að fjárhæð 400 milljónir í eigið fé, 600 milljónir komi með nýju eiginfjárframlagi og 200 milljónir verði sóttar með víkjandi lánum sem teljist með þegar eiginfjárgrunnur sjóðsins er metinn.   Þá segist hann geta fullyrt að engin innlán séu í hættu. Sparisjóður Vestmannaeyja er að stærstum hluta í eigu ríkisins en Bankasýsla ríkisins fer með eignarhlutinn fyrir þess hönd. Eignarhlutur þess er til kominn vegna stofnfjárframlags upp á 555 milljónir króna sem lagt var fram til bjargar sjóðnum í kjölfar þeirra erfiðleika sem mynduðust í árslok 2008. Aðrir stórir stofnfjáreigendur eru Lífeyrissjóður Vestmannaeyja með 14,3%, Vestmannaeyjabær með 10,2%, Vinnslustöðin 5% og Tryggingasjóður sparisjóða 2,8%. Þessir aðilar komu inn í rekstur sjóðsins á sama tíma og ríkissjóður en fram til ársins 2007 voru stofnfjáreigendur aðeins einstaklingar í Vestmannaeyjum. Frá þeim tíma tók stofnfjárskráin nokkuð að riðlast og hlutir að færast á færri hendur,“ segir í fréttinni.    

Atkvæðagreiðslan um verkfallsboðun hafin hjá SGS

Í gærmorgun klukkan átta hófst rafræn atkvæðagreiðsla 16 aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins um heimild til verkfallsboðunar vegna félagsmanna sem starfa eftir kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins. Atkvæðagreiðslan stendur til miðnættis mánudaginn 30.mars.Drífandi stéttarfélag í Vestmannaeyjum er eitt aðildarfélaga SGS. Rúmlega 10.000 manns eru á kjörskrá og fá þeir í dag eða á næstu dögum send kjörgögn vegna atkvæðagreiðslunnar. Fólk er hvatt til að skoða gögnin vel og vandlega og hafa samband við skrifstofu SGS eða sitt stéttarfélag ef einhverjar spurningar vakna. Þá er rétt að benda á vefsvæði SGS sem inniheldur mikið magn gagnlegra upplýsinga um verkfallsaðgerðirnar. Eins og áður sagði þá er um rafræna atkvæðagreiðslu að ræða. Lykilorðið sem fylgir með kjörgögnum veitir aðgang að kosningunni, sem fer fram hér. Hver og einn ber ábyrgð á sínu atkvæði. Atkvæðin eru ekki persónurekjanleg þannig að það er ekki hægt að óska eftir nýju lykilorði, ef það kynni að glatast. Þar af leiðandi er mikilvægt að passa vel upp á lykilorðið. Ef einhver telur sig eiga að vera á kjörskrá en fær ekki send kjörgögn þá getur viðkomandi kært sig inn á kjörskrá. Sá hinn sami þarf þá að hafa samband við stéttarfélagið sitt. Í framhaldinu er málið sent til kjörstjórnar sem mun taka afstöðu til þess. Að síðustu vill Starfsgreinasamband Ísland eindregið hvetja kosningabæra félagsmenn að taka þátt í atkvæðagreiðslunni og greiða atkvæði um verkfallsboðunina. Nú er reynir á að íslenskt verkafólk standi saman sem eitt, berjist fyrir réttlátum kröfum og sendi Samtökum atvinnulífsins skýr skilaboð!   Af Facebokksíðu Drífandi stéttarfélag.    

Fullyrðingar um að þetta bitni helst á fötluðu og ungu fólki ósannar

Meirihluti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn svaraði bókun minnihluta E-listans um sparnaðaráform í rekstri bæjarins eftirfarandi: „Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað bent fulltrúum E-lista á að gjaldtaka á heimili í Vestmannaeyjum er ekki keppikefli í rekstri sveitarfélagsins. Þvert á móti vilja bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins kappkosta að hagræða eins og kostur er og hlífa þannig heimilum í Vestmannaeyjum við gjaldtöku umfram það sem nauðsynlegt er. Á árinu 2014 skilaði lækkað útsvar um 70 milljónum sem verða eftir hjá heimilum. Það er búbót svo um munar.   Fullyrðingar um að hagræðingaaðgerðir falli að stórum hluta á málefni fatlaðra og ungs fólks eru hreinlega ósannar. Langstærstu hagræðingaraðgerðirnar eru í rekstri stjórnsýslu. Þær hagræðingar sem E-listi hefur fordæmt mest eru fólgnar í auknum tekjum verndaðs vinnustaðar og samningum við Endurvinnsluna þar að lútandi. Hvað varðar fulllyrðingar E-lista um áhrif lækkaðs útsvars á jöfnunarsjóð þá óska bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir því að E-listinn leggi fram útreikninga sem styðja þá fullyrðingu á næsta fundi bæjarráðs. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks geta ekki lofað því að útsvar verði áfram jafn lágt og nú er. Þeir geta heldur ekki lofað því að fasteignaskattar verði ekki hækkaðir. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins geta hins vegar lofað því að þeir munu áfram standa í vegi fyrir því að E-listinn seilist eins langt í vasa bæjarbúa og tillögur þeirra gera ráð fyrir.“Undir þetta riga Hildur S. Sigurðardóttir, Páll Marvin Jónsson, Elliði Vignisson, Trausti Hjaltason og Birna Þórsdóttir.

Óbreytt miðaverð til ÍBV-félagsmanna en hækkar hjá öðrum gestum á Þjóðhátíð 2015

Verð aðgöngumiða að Þjóðhátíð 2015 hækkar hjá öllum gestum nema félagsmönnum ÍBV. Hækkunin er minnst hjá þeim sem kaupa í fyrri forsölu en mest hjá þeim sem kaupa fullu verði seint í júlí, að lokinni síðari forsölu. Það borgar sig því að vera snemma á ferðinni til að tryggja sér aðgang. Miðaverð hefur haldist óbreytt í þrjú ár eða frá 2012. Verðlag í landinu hefur á sama tíma hækkað umtalsvert og þar með framkvæmdakostnaður Þjóðhátíðar.   Tekjulind barna- og unglingastarfs ÍBV   Þjóðhátíð í Eyjum er langmikilvægasta fjáröflun ÍBV og helsti drifkraftur samkomunnar er gríðarlega umfangsmikið sjálfboðaliðastarf félagsmanna.   Frábært barna- og unglingastarf ÍBV nýtur góðs af tekjum af Þjóðhátíð og kostnaður við það hefur að sjálfsögðu aukist líka. Óhjákvæmilegt er því að hækka miðaverð í ár.   • Félagsmenn ÍBV njóta bestu kjara og geta keypt miða á 13.900 kr. til 5. júní. • Unnt er að gerast félagsmaður ÍBV til 25. mars með því að senda tölvupóst á ibv@ibv.is og ganga frá greiðslu fyrir þann tíma.   Þjóðhátíðarnefnd hvetur væntanlega gesti til að notfæra sér afsláttarkjör í forsölu og huga líka að ferðum til að tryggja sér öruggt far.     Verðskrá og tímasetningar forsölu                                                    Verð 2015             Eldra verð                                   Sölutími Félagsmenn ÍBV                   13.900 kr.              Óbreytt                                        Til 5. júní Forsala 1 (fyrirtæki)              15.900 kr.              13.900 kr.                                   Til 22. maí Forsala 2                                18.900 kr.              16.900 kr.                                   Til 20. júlí Lokaverð                                22.900 kr.              18.900 kr.                                    Eftir 20. júlí Laugardagur                         13.900 kr.               11.900 kr.                                   Fer síðar í sölu Sunnudagur                          13.900 kr.               11.900 kr. Sunnudagur félagsmenn    11.900 kr.                9.900 kr.                                     Til 5. júní Laugardagur félagsmenn    11.900 kr.                 -                                                  Til 5. júní   Þjóðhátíðarnefnd ÍBV íþróttafélags    

Sólmyrkvinn hefst kl. 8.37 í fyrramálið

Á morgun, nánar til tekið klukkan 8.37 að morgni, hefst mesti sólmyrkvi sem sést hefur frá Íslandi í 61 ár. Ef veður leyfir verður hann vel sýnilegur úr Vestmannaeyjum sem og á landinu öllu.   Sólmyrkvinn 20. mars 2015 er almyrkvi. Ferill almyrkvans liggur aðeins um 70 km austur af suðausturhluta Íslands. Í Færeyjum og á Svalbarða sést almyrkvi en á Íslandi sést verulegur deildarmyrkvi. Í Vestmannaeyjum hylur tunglið 98,1% af skífu sólar. Þetta er seinasti almyrkvi á sólu sem sést frá Evrópu til 12. ágúst 2026, en ferill þess sólmyrkva liggur í gegnum Reykjavík.   Hvenær hefst myrkvinn í Eyjum? Í Eyjum hefst deildarmyrkvinn klukkan 8.37 með því að tunglið snertir skífu sólar hægra megin (kl. 3 ef sólin er klukka). Með sólina í 7 gráðu hæð yfir sjóndeildarhring í austri.  Hann nær hámarki klukkustund seinna eða klukkan 9.37. Myrkvanum lýkur svo klukkan 10.40 þegar tunglið færist út fyrir skífu sólar sem verður þá komin í 19 gráðu hæð yfir sjóndeildarhring í austri. Til að fylgjast með myrkvanum er nauðsynlegt að nota viðeigandi hlífðarbúnað, svo sem sólmyrkvagleraugu. Vonandi hafa sem flestir náð sér í slík en 1000 eintök komu til Eyja og eru þau uppseld. Það er því um að gera að deila gleraugunum með náunganum svo allir fái að upplifa þennan einstaka atburð. Sólin verður lágt á lofti svo gæta þarf þess að hvorki fjöll né byggingar skyggi á hana þegar myrkvinn stendur yfir. Helgafell og Eldfell skyggja því á útsýni stórs hluta bæjarins og sést hann því best austan fellanna eða suður á Eyju. „Á Haugasvæðinu verður gott útsýni, en þar ætla einmitt félagar í Stjörnufræðifélagi Vestmannaeyja að hittast til að skoða þetta fyrirbæri.  Félagið stendur í stórræðum og áætlar að reisa aðstöðu á Haugasvæðinu, til stjörnu- og norðurljósaskoðunar,“ sagði Davíð Guðmundsson aðspurður um besta staðinn til að fylgjast með. Þegar myrkvinn er í hámarki rökkvar lítillega (mest á Austurlandi) og er þá mögulegt að koma auga á reikistjörnuna Venus austan við sólina (vinstra megin sólar).   Sólmyrkvagleraugu Eins og fyrr sagði er nauðsynlegt að bera þar til gerð hlífðargleraugu þegar fylgjast á með sólmyrkvanum. Flestir kannast við að hægt er að valda bruna með því að beina sólargeislum í gegnum stækkunargler. Hið sama getur gerst í auganu þegar augasteinninn brýtur sólargeislana og beinir þeim í brennipunkt á sjónhimnu augans. Ef augað horfir beint í sólina getur því myndast brunagat á versta stað, það er í miðgróf sjónhimnunnar og veldur það blindum bletti í miðju sjónsviðsins, misstórum, með tilheyrandi sjónskerðingu sem oft er varanleg. Það er því mjög brýnt að bera gleraugun allan tímann sem horft er á sólmyrkvann. Sólmyrkvagleraugun eru úr hágæða silfurhúðaðri sólarfilmu sem síar burt skaðlega innrauða geisla og útfjólubátt ljós. Þau hleypa aðeins hundrað þúsundasta hluta af sýnilega sólarljósinu í gegn svo öruggt er að skoða sólina með berum augum. Venjuleg sólgleraugu duga ekki til því þau hleypa of miklu ljósi í gegn (sólin er alltof björt) og einnig skaðlegum geislum.   Alls ekki nota 3D gleraugu eða venjuleg sólgleraugu!! Gleraugun eru framleidd í Þýskalandi samkvæmt ströngustu öryggisstöðlum. Filmurnar í gleraugunum eru fjölhúðaðar og því rispuþolnar en mikilvægt er að fara vel með þær. Gleraugun má alls ekki nota með öðrum sjóntækjum, hvorki handsjónaukum né stjörnusjónaukum.   Hvað ef það verður skýjað? Myrkvinn stendur yfir í tvær klukkustundir. Til að eitthvað sjáist þarf ekki fullkomlega heiðskírt veður. Eina sem þarf er að sólin láti sjá sig eitthvað, jafnvel í gegnum skýin. Því er mikilvægt að reyna að fylgjast vel með frá upphafi til enda. Ekki gefast upp! Ef svo illa fer að einhvers staðar sjáist alls ekki neitt er unnið að því að myrkvinn verði í beinni vefútsendingu á Stjörnufræðivefnum. Nánar má lesa um sólmyrkvann í nýjasta tölublaði Eyjafrétta.  

Safnahús: Guðbjörg með erindi í hádeginu og Ásdís opnar sýningu kl. 5

100 ára kosningaafmæli kvenna á Íslandi í Safnahúsi:   kosningaafmælisins á margvíslegan hátt á árinu. Listasafnið reið á vaðið í ársbyrjun með sýningarröðinni Konur í listum sem hefur skipulagt sýningar í Einarsstofu fyrstu níu mánuði ársins. Sýningarnar falla undir mismunandi listform en koma allar úr smiðju kvenna. Heilmikill undirbúningur er í Sagnheimum vegna afmælisins. Nýverið barst tilkynning um að afmælisnefnd kosningaafmælisins muni styrkja sýninguna Eyjakonur í íþróttum í 100 ár og er það mikið ánægjuefni. Undirbúningur er löngu hafinn og stefnt að opnun sýningarinnar 17. maí.   Einnig vinnur safnið að annarri sýningu í júní í samstarfi við Gunnhildi Hrólfsdóttur, sagnfræðing og rithöfund. Í september verður síðan farandsýning Kvenréttindafélagsins, Veggir úr sögu kvenna, í Einarsstofu. Á sýningunni eru svipmyndir kvennabaráttunnar síðustu 100 ár. Spennandi málþing er í undirbúningi í Safnahúsi á sama tíma. Næsta vika verður mjög viðburðarík í Safnahúsi.   Í dag ,fimmtudaginn 19. mars, kl. 12 var Saga og súpa í Sagnheimum. Guðbjörg Matthíasdóttir athafnakona flutti erindið Konur í atvinnulífi fyrir fullu húsi. Guðbjörgu þarf vart að kynna, flestir Eyjamenn kenna hana við Ísfélagið og hlaut hún nýverið viðurkenningu Félags kvenna í atvinnulífinu.   Ásdís Loftsdóttir, hönnuður opnar líka í dag sýningu sína, Náttúran á efni, í Einarsstofu í sýningaröðinni Konur í listum. Ásdís leggur áherslu á náttúruleg efni og umhverfisvæna framleiðslu og sýnir vörur úr hönnunarlínu sinni Black Sand, kvenfatnað, fylgihluti og heimilisvörur. Sýningin stendur til 31. mars.   Laugardaginn 21. mars kl. 13 er síðan samstarfsverkefni Sagnheima, Safnahúss og Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum: Konur og bókmenntir í 100 ár. Nemendur, sem stunda nám í íslensku við Framhaldsskólann og fást við bókmenntasögu 20. aldar, hafa unnið að verkefni þar sem konur í bókmenntum fá sérstaka athygli. Á þessari önn hafa nemendurnir lesið bókmenntaverk, ljóð og sögur frá 1900 til okkar daga. Straumar og stefnur í bókmenntum birtast í verkum höfundanna en helstu stefnur tímabilsins eru nýrómantík, félagslegt raunsæi, módernismi, nýraunsæi og póstmódernismi.   Nemendur leitast við að varpa ljósi á verk kvenna og ekki síður hvernig konur birtast í verkum karla á hverju tímaskeiði fyrir sig. Það er því bæði áhugavert að sjá og heyra hvernig unga fólkið nálgast viðfangsefnið og hvaða aðferðir það notar til að koma efninu á framfæri.   Enginn sem hefur áhuga á bókmenntum eða því sem ungt fólk er að fást við ætti að láta þetta tækifæri framhjá sér fara. Nemendurnir flytja verkefnið næsta laugardag kl. 13:00 og eru bæjarbúar hvattir til að mæta. Allir eru hjartanlega velkomnir á þessa viðburði í Safnahúsi, sjá nánar í auglýsingum í Eyjafréttum.  

Styrmir Sigurðarson ráðinn í stöðu yfirmanns sjúkraflutninga HSU

Tjaldurinn kominn til Vestmannaeyja

Hinn árlegi vorboði Eyjafrétta, Jóhann Guðjónsson, lét sjá sig á ritstjórn nú rétt í þessu og tilkynnti að tjaldurinn væri kominn. En hann sá til einna fimm á suðurhafnargarðinum í morgun. Einnig sagðist Jóhann hafa séð til Álfta sem þýðir að vorið er í nánd. Við bjóðum þessa fyrirboðum betri tíðar og blóma í haga svo sannarlega velkomna til Vestmannaeyja. "Tjöldum hefur fjölgað á Íslandi það sem af er þessari öld. Í byrjun aldarinn voru þeir langalgengastir við Faxaflóa og Breiðafjörð en sjaldséðari með ströndum á landinu norðvestan- og norðanverðu. Nú halda þeir sig einnig mun meira inni í landi en áður. Þessi umskipti eru að einhverju leyti talin tengja hlýnandi veðurfari framan af öldinni en aukin ræktun kann einnig að hafa haft sín áhrif þar sem tjaldar leita talsvert á tún til þess að afla sér fæðu.   Flestir íslenskir tjaldar eru farfuglar en slæðingur, 2.000 - 3.000 fuglar, halda til við suður- og vesturströndina á veturna en þeim fer þó fækkandi sem og fleiri vaðfuglum sem hafa haft vetursetu hér á landi.[3] Farfuglar fara að sjást á ströndum í seinni hluta mars en heldur seinna inn til landsins eftir vetrardvöl erlendis. Frá varpstöðvunum hverfa fuglarnir í lok ágúst og byrjun september. Tjaldar verpa hvarvetna með ströndinni. Álitið er að á Íslandi kunni vera um 10.000 - 20.000[2] varppör sem er tiltölulega lítill hluti af heildarstofni tegundarinnar í heiminum. " Heimild: Wikipedia. "Íslenskar álftir dvelja flestar á Bretlandseyjum yfir vetrarmánuðina en kringum tíundi hluti hefur vetursetu á Íslandi aðallega á Suður-og Suðvesturlandi og Mývatni. Á Reykjavíkurtjörn eru einnig venjulega nokkrir tugir fugla. Álftin er með fyrstu farfuglum, þær fyrstu sjást yfirleitt á Suðausturlandi í byrjun mars. Talning álfta fer fram á Bretlandseyjum og stofnmat árið 2005 sýndi að stofninn hafði stækkað úr um 12.000 fuglar árið 1980 í um 25.000 fugla 2005. Mest eru þetta geldfuglar en talið er að um 2.000 pör, eða 4.000 fuglar verpi hér á landi á hverju ári." Heimild: Wikipedia.    

Vekja athygli á mjög slæmri veðurspá

Lögreglan í Vestmannaeyjum og Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra vilja vekja athygli á mjög slæmri veðurspá en tvær mjög krappar lægðir ganga yfir landið í dag og á morgun. Veðurspáin verður uppfærð reglulega og vill lögreglan beina því til fólks að fylgjast vel með veðurspám og fréttum í fjölmiðlum. Vatnsveður og stormur Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra vill vekja athygli á að búist er við tveimur kröppum lægðum upp að landinu frá föstudagsmorgni fram á laugardagskvöld samkvæmt spá Veðurstofunnar. Spáð er suðaustan stormi eða roki á morgun (SA 20-25 m/s) en sunnan roki eða ofsaveðri á laugardag (S 25-30 m/s). Mikið vatnsveður fylgir þessum lægðum og hefur verið gefin út sérstök viðvörun þess efnis. Miðað við þessa veðurspá verður lítið ferðaveður á landinu S- og V-verðu á morgun, bæði vegna veðurhæðar og úrkomu. Á laugardag er ekkert ferðaveður um allt land fram á kvöld. Viðvörun Búist er við stormi eða roki, meðalvindhraða 20-25 m/s, víða á landinu á morgun, föstudag. Útlit er fyrir ofsaveður um vestanvert landið á laugardag, en stormi eða roki austantil. Varað er við mikilli úrkomu og leysingum á Suðaustur- og Suðurlandi á morgun, en um allt land á laugardag. Þar sem mikill nýlega fallinn snjór er víða um land má búast við vatnsflóðum, krapaflóðum og aurflóðum í þessum aðstæðum sem geta skapast á nokkurra ára fresti. Einnig ber að hafa í huga hættuna á votum snjóflóðum. Veðurspáin fyrir morgundaginn, 13. mars er svohljóðandi: Vaxandi suðaustanátt með morgninum, 18-25 m/s S- og V-til síðdegis, en 15-23 A-lands annað kvöld. Slydda og síðar rigning, þar af talsverð eða mikil um landið S-vert. Dregur úr vindi og úrkomu annað kvöld, fyrst fyrir vestan. Hlýnar seinni partinn, hiti 3 til 8 stig annað kvöld. Athugasemdir veðurfræðings: Í kvöld er búist við stormi (meðalvindur yfir 20 m/s) syðst, en víða um land á morgun. Búist er við mikilli úrkomu S- og SA-lands næstu tvo daga. Á laugardaginn er von á enn verra veðri á öllu landinu, frá laugardagsmorgni þar til síðdegis. Ferðalög á milli landshluta geta því verið varasöm. Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Veðurstofunnar www.vedur.is  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Mannlíf >>

Stjórnmál >>

Lýsa yfir þungum áhyggjum af málefnum Grímseyjar og annara eyjabyggða

Bæjarstjórn Vestmannaeyja lýsir yfir þungum áhyggjum af málefnum eyjabyggða á Íslandi og hvetur til þess að skynsamlegra leiða verði leitað til að tryggja íbúum Grímseyjar þann mikilvæga rétt sem fólgin er í frelsi til búsetu.  Þetta kemur fram í bókun bæjarstjórnar sem samþykkt var einróma á fundi hennar í dag.  Bókunina má lesa hér að neðan:   Bæjarstjórn Vestmannaeyja ítrekar það álit hennar, sem áður hefur komið fram ma. í ályktunum um frumvörp til laga um stjórn fiskveiða, sem felst í mikilvægi þess að auka atvinnuöryggi íbúa sjávarbyggða.   Bæjarstjórn Vestmannaeyja lýsir enn fremur yfir þungum áhyggjum af málefnum eyjabyggða á Íslandi og þá sérstaklega erfiðri stöðu Grímseyjar. Vegna landfræðilegrar sérstöðu þola eyjabyggðir verr hraðar breytingar en mörg önnur byggðalög. Erfitt tímabil getur í einum vettvangi gert út um eyjabyggð til langframa, jafnvel þótt að öðru jöfnu hefði hinn erfiði tími ekki orðið langvinnur. Breytingar á rekstrarumhverfi sjávarútvegs hafa verið hraðar á seinustu árum og óhófleg gjaldtaka hefur flýtt fyrir samþjöppun aflaheimilda. Fjármálastofnanir hafa orðið ráðandi vægi í rekstri margra útgerðarfyrirtækja og illu heilli virðist það oft vera nánast háð geðþótta þeirra hverjum sé gert kleift að gera út og hverjum ekki. Þar með ráða þessar fjármálastofnanir orðið byggðaþróun á Íslandi í gegnum lánsveð í aflaheimildum. Þau tengsl sem hingað til hafa verið milli útgerða og íbúa sjárvarbyggða eru þar með rofin. Í því fellst háski, bæði fyrir sjávarbyggðir og sjávarútveginn í landinu.   Bæjarstjórn Vestmannaeyja hvetur til þess að skynsamlegra leiða verði leitað til að tryggja íbúum Grímseyjar þann mikilvæga rétt sem fólgin er í frelsi til búsetu. Það frelsi er ekki síður mikilvægt en annað frelsi. Í Grímsey og öðrum sjávarþorpum við Íslandsstrendur býr fólk sem á sama rétt til að velja sér búsetu og íbúar annarra byggðalaga. Staða Grímseyjar er nú slík að Byggðastofnun, Íslandsbanki, alþingi, atvinnuþróunarfélag og fleiri verða að taka höndum saman ásamt íbúum Grímseyjar við að tryggja áframhald byggðar í Grímsey.

Greinar >>

Veðrið og gæludýrin okkar

Veðrið núna í mars hefur versnað heldur betur frá því sem var í febrúar en eins og ég sagði í síðustu grein minni, þá er oft séns á sjóveðri hér í Eyjum þegar lægðirnar enda í norðanáttum. Þegar hins vegar hann liggur í suðlægum áttum, er alveg vonlaust að komast á sjó og soldið merkilegt að þessi vonda tíð núna byrjaði 4. mars, en 5. mars í fyrra hrundi vélin í gamla bátnum mínum og hvessti seinni partinn þann dag og gaf ekki á sjó hjá smábátum í hálfan mánuð eftir það og ef eitthvað er að marka veðurspána fyrir næstu vikuna, þá virðist stefna í að mars verði mjög svipaður og í fyrra. Þetta er hins vegar ekki alslæmt, enda daginn farið að lengja og maður sér að fýllinn er farinn að máta hreiðrin sín og svartfuglinn allur sestur upp, en svona er nú einu sinni vorið. Baráttan á milli heita og kalda loftsins mun eitthvað halda áfram.   Sem gæludýraeigandi ákvað ég að skoða aðeins þær reglur sem nýlega voru samþykktar hjá Vestmanna-eyjabæ, eða réttara sagt ítrekaðar, vegna þess að reglur um gæludýra- hald hafa að sjálfsögðu verið í gildi í mörg ár, en ekki kannski verið tekið á því áður hér í Vestmannaeyjum. Það er hægt að lesa, að mestu leyti, um reglurnar sjálfar inni á vef Vestmannaeyjabæjar en til þess að fá það sem upp á vantar, ræddi ég við meindýraeyði og gæludýraeftirlitsmanns Vestmannaeyjabæjar og úr þessu öllu kemur þetta: Það er öllum skylt að láta örmerkja dýr sín, en það fæst aðeins gert hjá dýralækni. Einnig þarf að ormahreinsa þau og það er skylt að tryggja alla hunda. Einnig er stranglega bannað að láta hunda ganga lausa. Eftir að dýrið hefur verið örmerkt þarf að fara til eftirlitsmanns og skrá og borga fyrir við fyrstu skráningu 7000 kr. en síðan 5000 kr. á ári. Þetta gjald er notað af bænum til þess að standa undir kostnaði við geymslusvæði fyrir dýr sem annaðhvort sleppa eða týnast, en nýlega var keyptur gámur, innréttaður með bælum og búrum og afgirtu útisvæði, en þessu hefur öllu verið fundinn staður inni á svæði Áhaldahússins.   Varðandi dýr sem tekin eru og eru ekki með neina örmerkingu eða aðra merkingu, þá ber eftirlitsmanni að geyma þau í hámark í 7 daga; ber honum að lóga þeim. Ef þau hins vegar eru merkt, en ekki örmerkt og óskráð, þá verður að sjálfsögðu haft samband við eigendur, en sé dýrið ekki örmerkt liggja við því sektir, og sé sama dýrið tekið oftar en einu sinni, verða sektir fljótlega mun hærri heldur en skráningargjaldið.   Einnig vildi eftirlitsmaður taka það fram, að Haugasvæðið, þar sem fólk hefur farið með hundana sína og leyft þeim að hlaupa um, er EKKI einhvers konar útikamar, að sjálfsögðu á fólk að taka upp eftir dýrin sín þar eins og annars staðar. Einhverjir gæludýraeigendur hafa verið að tala um að það þurfi að fara að opna annað útisvæði vegna þess hversu slæm umhirðan er orðin þarna, en þarna þyrfti hreinlega að þrífa allt svæðið og búa betur um þannig að fólk eigi betra með að losa sig við það sem dýrin skilja eftir.   Ég hlýt að velta því upp sem gæludýraeigandi, hvort gæludýra- eigendur í Vestmannaeyjum þurfi ekki hreinlega að stofna lítið félag, það er reyndar ágæt gæludýrasíða inni á FB, en spurning hvort ekki þurfi að standa betur að þessu hér í Eyjum, enda gæludýraeigendum fjölgað alveg gríðarlega á síðustu árum.   Ég er einn af þeim sem fer stundum út með hundinn minn að labba, og á sumrin kemur því miður allt of oft fyrir að maður rekur augun í afurðir einhvers hundsins á göngunni, sem einhver eigandinn hefur ekki nennt að taka upp. Því miður er allt of mikið um þetta, og ekki þarf nema einn til að koma slæmu orði á okkur hin, en þetta er rosalega slæmt, því öll viljum við búa í hreinum og fallegum bæ, og Vestmannaeyjabær verður alltaf fallegur bær, en Vestmannaeyjabær er líka túnið okkar allra og mér finnst að við ættum að hugsa svolítið betur um túnið okkar. Frekar leiðinlegt að horfa upp á þúsundir ferðamanna þramma frá hafnarsvæðinu upp í bæ og þurfa að segja frá einhverri hundaskítsklessu á miðri gangstéttinni. En þetta getum við lagað.   Óska öllum Eyjamönnum gleðilegs vors. Georg Eiður Arnarson

VefTíví >>

Eyjar, fallega eyjan mín........

Í tilefni þess að nú dúrar aðeins milli lægða, er tilefni til að létta lund. Hér er skemmtilegt lag sem þær mæðgur Harpa Kolbeinsdóttir og Helena Pálsdóttir gerðu fyrir nokkru íslenskan texta  við. Þetta er ,,nýja" lagið hans Michael Jackson og Paul Anka. (Textinn er hér neðar)  og fékk nafnið Eyjar. Á facebooksíðu Hörpu segir að engin af þeim sem mæmuðu textann í myndbandinu hafi fengið að heyra textann áður en upptökur hófust - heldur var þeim bara réttur textinn og ýtt á ,,record" ;)  „Þau eiga því heiður skilinn fyrir að ÞORA að vera með :) Ekki síst þar sem sumt af fólkinu þekkti okkur mæðgurnar ekki einu sinni……hahahahaha :) Danshöfundarnir fengu þó aaaaaðeins lengri tíma til að undirbúa sig enda stóðu þær sig rosalega vel….og geggjaður dansinn hjá þeim :) Bráðskemmtilegur tíminn sem fór í upptökurnar með þeim :)" Þá segir Harpa á facebooksíðunni. „Mínar dýpstu þakklætiskveðjur til ykkar allra sem tókuð þátt í að gera þetta jafn skemmtilegt og raun bar vitni. Þátttaka ykkar gaf textanum enn meira líf enda Eyjamenn með afbrigðum skemmtilegir og tilíallt :)"   Eyjar…fallega eyjan mín á þér ást mín aldrei dvín ég ber þig í hjarta….hjarta Eyjar…fallega eyjan mín umkringd tignri fjallasýn eyjan mín bjarta…bjarta   Hér um allt liggja sporin mín inn í Dal, uppá Há, Heimaklett Helgafell   Eyjar ætíð á mig kalla bergmál þinna fjalla…ómar enn Eyjar..hérna vil ég dvelja enga aðra velja…kem ég senn Eyjar…fallega Heimaey   Eyjar…fallega eyjan mín á þér ást mín aldrei dvín ég ber þig í hjarta….hjarta Eyjar…fallega eyjan mín umkringd tignri fjallasýn eyjan mín bjarta…bjarta   Hér um allt liggja sporin mín inn í Dal uppá Há Heimaklett Helgafell   Eyjar... ætíð á mig kalla bergmál þinna fjalla ómar enn Eyjar...hérna vil ég dvelja enga aðra velja kem ég senn Eyjar…fallega Heimaey   Eyjar... ætíð á mig kalla bergmál þinna fjalla ómar enn Eyjar..hérna vil ég dvelja enga aðra velja kem ég senn Eyjar…fallega Heimaey