Samhent í einu fyrirtæki

Endurmerkja þarf um 100 bíla og tæki hjá Samskipum eftir ákvörðun um að færa alla starfsemi félagsins undir eitt merki. Undir eru jafnframt ótal breytingar aðrar, svo sem á húsnæði, pappírum og kynningarefni, en vinnufatnaði verður þó ekki skipt út fyrr en kemur að endurnýjun vegna slits.   „Við viljum einfalda skilaboð okkar til markaðarins um það flutninganet og þjónustu sem Samskip hafa upp á að bjóða,“ segir Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa. Hann bendir á að undanfarin þrjú ár hafa Samskip boðið upp á beinar áætlanasiglingar af ströndinni og sigla nú til átta viðkomuhafna vítt og breytt um landið. „Þessi áhersla á strandsiglingar ásamt þéttriðnu þjónustuneti okkar innanlands gerir okkur nú kleift að bjóða aukna þjónustu á landsbyggðinni.“   Breytingin átti sér stað 17. þessa mánaðar, en þá var öll starfsemi Samskipa á Íslandi sameinuð undir nafni Samskipa. Þar á meðal er öll starfsemi sem áður var undir nafni og merki Landflutninga.   „Með þessum breytingum viljum við endurspegla það heildstæða þjónustuframboð sem fyrirtækið hefur upp á að bjóða og þá liðsheild sem býr innan fyrirtækisins. Samskip eru samhentur hópur starfsmanna sem leggur sig fram um að veita viðskiptavinum fyrirtækisins persónulega og framúrskarandi þjónustu. Við erum samhent lið undir einu merki, merki Samskipa,“ segir Pálmar Óli.   Samskip bjóða heildstæðar flutningslausnir á landi og sjó. Með breytingunni leitast fyrirtækið við að skerpa áherslur á heildarflutningaþjónustu í einu fyrirtæki, viðmót er einfaldað og tryggt að viðskiptavinir mæti sama góða viðmótinu á öllum starfsstöðvum. Markmið Samskipa er að veita viðskiptavinum sínum bestu mögulegu þjónustu.   Samskip einsetja sér að vera í fararbroddi í flutningum og samhliða sameiningu starfseminnar undir einu nafni leitar fyrirtækið áfram leiða til að efla starfsemina og uppfylla enn betur væntingar viðskiptavina.     Nánari upplýsingar veitir Pálmar Óli Magnússon forstjóri í síma 858-8500.  

Kári Kristján Kristjánsson og Theodór Sigurbjörnsson í hóp Íslenska landsliðsins í handbolta

Geir Sveinsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, hefur valið hópinn sinn fyrir leiki á móti Tékklandi og Úkraínu í undankeppni EM 2018 en þeir fara fram í landsleikjahléinu í byrjun næsta mánaðar. www.mbl.is greindi frá.   Geir valdi 21 leikmann í hópinn en miklar breytingar eru á landsliðinu að þessu sinni. Snorri Steinn Guðjónsson og Alexander Petersson gefa ekki kost á sér í landsliðið og þá eru þeir Róbert Gunnarsson og Vignir Svavarsson ekki valdir í hópinn.   Geir velur þrjá nýliða í hópinn og þá eru í hópnum nokkrir leikmenn sem eiga aðeins örfáa landsleiki að baki eins og þeir Arnar Freyr Arnarsson, Theodór Sigurbjörnsson og Janus Daði Smárason.   Nýliðarnir eru Grétar Ari Guðjónsson, sem er í láni hjá Selfossi frá Haukum, Ómar Ingi Magnússon, fyrrum leikmaður Vals sem spilar nú með Aarhus Håndbold í Danmörku og Geir Guðmundsson sem spilar með Cesson Rennes í Frakklandi.   Herbergisfélagarnir Snorri Steinn Guðjónsson og Róbert Gunnarsson, sem hafa gengið undir gælunafninu Snobbi, eru hvorugur með en þeir hafa verið aðalleikstjórnandi og aðallínumaður íslenska liðsins í meira en áratug.   Íslenska liðið mætir Tékklandi í Laugardalshöllinni miðvikudaginn 2. nóvember og spilar síðan við Úkraínu úti í Úkraínu þremur dögum síðar. Íslenska liðið er einnig með Makedóníu í riðli en leikirnir við Makedóníumenn fara fram í maí á næsta mánuði.     Hópurinn er eftirfarandi:   Markmenn: Aron Rafn Eðvarðsson, SG BBM Bietigheim Björgvin Páll Gústavsson, Die Bergische Handball Club Grétar Ari Guðjónsson, Selfoss   Aðrir leikmenn: Arnar Freyr Arnarsson, IFK Kristianstad Arnór Atlason, Aalborg Handball Arnór Þór Gunnarsson, Die Bergische Handball Club Aron Pálmarsson, MKB Veszprém Ásgeir Örn Hallgrímsson, Nimes Bjarki Már Elísson, Fuchse Berlin Bjarki Már Gunnarsson, EHV Aue Geir Guðmundsson, Cesson Rennes Guðjón Valur Sigurðsson, Rhein-Necker Löwen Guðmundur Hólmar Helgason, Cesson Rennes Gunnar Steinn Jónsson, IFK Kristianstad Janus Daði Smárason, Haukar Kári Kristján Kristjánsson, ÍBV Ólafur Andrés Guðmundsson, IFK Kristianstad Ómar Ingi Magnússon, Aarhus Håndbold Rúnar Kárason, TSV Hannover-Burgdorf Stefán Rafn Sigurmannsson, Aalborg Handball Theodór Sigurbjörnsson, ÍBV  

Elliði Vignisson - Afmæliskveðja til Vestmannaeyjadeildar Rauða Krossins

Ef dimmir í lífi mínu um hríð Eru bros þín og hlýja svo blíð Og hvert sem þú ferð Og hvar sem ég verð Þarf fólk eins og þig fyrir fólk eins og mig.   Hugtakið mannúð er ekki léttvægt. Í því felst að við mennirnir eigum okkur sérstakan eiginleika sem ekkert annað af dýrum merkurinnar deilir með okkur. Við getum fundið fyrir samlíðan, elsku og brennandi þörf fyrir að hjálpa. Við viljum öðrum vel og erum til í að fórna og gefa með það fyrir augum að styðja við bakið á þeim sem eiga um sárt að binda. Við viljum fyrirbyggja raunir og vinna gegn öllu sem stríðir gegn velferð. Rauði krossinn er elsti og virtasti farvegur þessarar sérstöku sammannlegu gæsku. Í ár fagnar Vestmannaeyjadeild Rauða krossins sínu 75 aldursári en deildin var stofnunuð 23. mars 1941. Fyrir samfélag sem okkar hér á einangraðri eyju hefur starfsemi Rauða krossins reynst ómetanleg. Svo víðfemt er starf þeirra að nánast ógjörningur er að fjalla um það á tæmandi máta í stuttum skrifum. Það spannar þætti eins og starf heimsókna vina sem rjúfa einangrun fólks, veita félagsskap og sýna vináttum heimsóknum – yfir í neyðavarnir sem eru einn af hornsteinum Rauða krossins. Þeir einstaklingar hér í Eyjum sem eiga eða hafa átt velferð sína að þakka Rauða krossins eru ófáir. Á sama hátt hefur Rauði krossinn reynst öflugur farvegur fyrir fórnfýsi fjölmargra Eyjamanna sem í gegnum það hafa tekið þátt í margvíslegu stuðningsstarfi fyrir þá sem minna mega sín annarstaðar á Íslandi eða hvar sem er annarstaðar í heiminum. Það ber ekki ætíð mikið á starfsemi Rauða krossins hér í Eyjum en starfið þar er í senn öflugt og mikilvægt. Fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar óska ég Vestmannaeyjadeild Rauða krossins hjartanlega til hamingju með afmælið og færi þeim dýpstu þakkir fyrir óeigingjarnt starf fyrir bæði nær- og fjærsamfélagið. Staðreyndin er enda sú að eins og textabrot Rúnars Júlíussonar hér í upphafi segir þá þarf fólk eins þau fyrir samfélag eins og okkar.   Elliði Vignisson bæjarstjóri    

Dagskrá Safnahelgarinnar 3. – 6. nóvember nk.

Við leyfum okkur að þjófstarta Safnahelginni með því að sýna úr ótrúlegu myndasafni Gísla J. Johnsen sem nýverið var fært Safnahúsi að gjöf. Ljósmyndirnar verða sýnda á vikulegum Ljósmyndadegi á fimmtudaginn 3. nóv. kl. 13:30-15:30. Um kvöldið kemur Ármann Reynisson í heimsókn og kynnir nýjustu Vinjettuna sína, þá sextándu í röðinni. Ármann fær einvalda lið til að lesa úr bókinni og hefst dagskráin á fimmtudeginum 3. nóv. kl. 20:00. Á föstudaginn 4. nóv. kl. 18:00 verður dagskráin formleg sett í Stafkirkjunni. Jazz/funk tríóið Eldar flytja tónlist. Kl: 20:30 á föstudagskvöldinu les Árni Þórarinsson úr nýrri bók sinni - Arnór og Helga leika Peter, Paul & Mary í ELDHEIMUM. Á laugardeginum 5. nóv. kl. 13:00 koma í heimsókn í Safnahúsið skáldmennin Stefán Máni, Orri Harðarson og Bjartmar Guðlaugsson sem kynna og lesa úr nýrri bók sinni. Í Sæheimum opnar á sama tíma sýningin „Börn og pysjur“. Ljósmyndir af börnum sem komið hafa í Pysjueftirlitið síðustu árin. Kl. 15:00 á laugardeginum eru svo hinir árlegu tónleikar Lúðrasveitar Vestmannaeyja í Bethel. Á laugardagskvöldið 5. nóv. kl. 21:00 mun Bjartmar troða upp í Alþýðuhúsinu með nýja og gamla tónlist auk þess sem hann mun spjalla um bókina sína., Sunnudaginn 6. nóv. kl. 12-13. Saga og súpa í Sagnheimum. Illugi Jökulsson fjallar um vísindamanninn Charcot og síðustu sjóferð franska rannsóknarskipsins Pourquoi-pas? sem fórst við Álftanes á Mýrum árið 1936. Í slysinu fórust 39 manns en aðeins einn maður lifði af. Í andyri Safnahúss verða verk eftir Hugleik Dagsson.  

Ísfélagið framleiðir Royalmjöl sem notað er í laxafóður

 Ný­verið hófu Ísfé­lag Vest­manna­eyja, skoska lax­eld­is­fyr­ir­tækið Loch Duart og alþjóðlega laxa­fóður­fyr­ir­tækið Ewos sam­starf um fram­leiðslu á hágæðafiski­mjöli.  For­saga máls­ins er sú að Loch Duart, sem kaup­ir fóður í sitt lax­eldi frá Ewos, vildi fóður með háu hlut­falli af fiski­mjöli til að há­marka gæði og nær­ing­ar­inni­hald til síns lax­eld­is.  Frá þessu segir á 200 mílur á mbl.is.      Þar segir að hjá Ísfé­lag­inu er nú fram­leitt kónga­fæði, eða svo gott sem. Eitt af þeim skil­yrðum sem Loch Duart taldi mik­il­vægt var að í fóðrinu væri mjöl úr fiski sem áður hefði verið flokkaður og nýtt­ur til mann­eld­is, eins og til dæm­is hrat út loðnu­hrogna­vinnslu.  Laxa­fóður­fyr­ir­tækið Ewos, sem sé leitaði þá til Ísfé­lags­ins í Vest­manna­eyj­um. Fé­lög­in tvö hafa átt í viðskipta­sam­bandi und­an­far­in ár og taldi Ewos Ísfé­lagið upp­fylla all­ar þær kröf­ur sem Loch Duart hafði sett í leit sinni að hágæðafóðri í sitt lax­eldi. Auk þess að fram­leiða loðnu­hrogn og nýta hratið sem til fell­ur til fiski­mjöls­fram­leiðslu er Ísfé­lagið með 20% loðnu­kvót­ans hér­lend­is.   Eft­ir að fyr­ir­svars­menn fé­lag­anna þriggja höfðu hand­salað heiðurs­manna­sam­komu­lag um sam­vinnu að þessu verk­efni var ákveðið að mjölið yrði nefnt Royalmjöl (e: Royal Fis­h­meal). Kom það til af þeim sök­um að í brúðkaupi Vil­hjálms Bretaprins og Kate Middlet­on vorið 2011 var lax frá Loch Duart á boðstól­um fyr­ir brúðkaups­gesti.       Fjölþjóðafyr­ir­tækið Carg­ill, sem á meðal ann­ars fóður­fram­leiðand­ann Ewos, veitti svo Ewos verðlaun­in Bus­iness of the Year, eða svo­kölluð BOY-verðlaun inn­an sam­steyp­unn­ar, fyr­ir að hafa komið þessu sam­starfi á. Voru verðlaun­in veitt á ráðstefnu helstu stjórn­enda Carg­ill og tengdra fé­laga í Minn­ea­pol­is ný­verið. Var það mat yf­ir­stjórn­ar Carg­ill-sam­steyp­unn­ar að sam­starfið og fram­kvæmd­in öll væri til fyr­ir­mynd­ar og var sér­stak­lega vísað til hlut­ar Ísfé­lags Vest­manna­eyja við af­hend­ing­una.  Haft er eft­ir fram­kvæmda­stjóra Loch Duart, Al­b­an Dent­on, að með þessu „hafi draum­ur Loch Duart um sjálf­bært laxa­fóður í hæsta mögu­lega gæðaflokki loks­ins ræst.     „Mjölið úr Eyj­um orðið kónga­fæði“   Páll Scheving, fram­leiðslu­stjóri ÍV, sagði í sam­tali við 200 míl­ur: „Það sem gleður okk­ur hjá Ísfé­lag­inu sér­stak­lega varðandi þetta til­tekna verk­efni er að vera kom­in nær hinum eig­in­legu neyt­end­um í þess­ari virðiskeðju og nær lax­eld­inu. Þar er nú hreint ekki verra að fram­leiðsluaðil­inn skuli vera Loch Duart, sem fram­leiðir hágæðalax og ein­hvern sá besta í ver­öld­inni allri. Þeir telja okk­ur geta upp­fyllt all­ar þeirra ýtr­ustu gæðakröf­ur og við erum stolt af því að standa und­ir slík­um kröf­um þar sem þær eru rík­ast­ar. Menn hafa það á orði að núorðið er mjölið héðan úr verk­smiðjunni í Vest­manna­eyj­um orðið kónga­fæði,“ seg­ir Páll Scheving að lok­um og hlær.   Nánar á 200 mílur    

Hagnaður Ísfélgsins 1500 milljónir á síðasta ári - Sterk staða

Ísfélag Vestmannaeyja hagnaðist um 11,4 milljónir dollara, jafnvirði 1.300 milljóna íslenskra króna, á árinu 2015. Hagnaðurinn dróst saman um 13 milljónir dollara, 1.500 milljónir króna, milli ára. Þetta kemur fram á visir.is     Þar segir að EBITDA-framlegð hafið verið  27,6 prósent árið 2015, samanborið við 24,7 prósent árið áður. Í árslok námu eignir félagsins 288,9 milljónum dollara, jafnvirði 33 milljarða íslenskra króna, samanborið við 271 milljón dollara í árslok 2014. Bókfært eigið fé í árslok var tæplega 130 milljónir dollara, jafnvirði 14,9 milljarða króna og eiginfjárhlutfall félagsins 45 prósent.   Í árslok 2015 voru hluthafar 135 en voru 137 í ársbyrjun. ÍV fjárfestingarfélag á um 89 prósent útistandandi hlutafjár og er eini hluthafi félagsins sem á yfir 10 prósent hlut. ÍV er að mestu í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur.   Rekstrartekjur móðurfélagsins námu samtals 115,6 milljónum dollara, 13,2 milljörðum íslenskra króna, árið 2015, samanborið við 105,9 milljónir dollara árið áður.   Ísfélagið er með starfsstöðvar í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn og eru helstu starfsþættir frysting sjávarafurða, fiskimjöls- og lýsisframleiðsla og útgerð fiskiskipa. Félagið á 50 prósenta hlut í Iceland Pelagic ehf.   Meðalfjöldi starfa hjá móðurfélaginu var 249 á árinu 2015, samanborið við 270 árið áður. Heildarlaun og þóknanir til stjórnenda samstæðunnar á árinu 2015 námu 1,3 milljónum dollara, tæplega 149 milljónum króna.   Á myndinni er Sigurður VE, nýjasta skip Ísfélagsins.    

HSU – Blóðprufur í eðlilegt horf á næstu einni til tveimur vikum

„Við höfum þurft að takmarka blóðprufufjölda tímabundið vegna mannabreytinga á rannsókn. Það hefur tekið lengri tíma að þjálfa starfskrafta en til stóð og því gengur „færibandið“ hægar en vanalega,“ segir Hjörtur Kristjánsson, Hjörtur Kristjánsson, framkvæmdastjóri lækninga á Heilbrigðisstofnun Suðurlands um stöðu sem komin er upp í Vestmannaeyjum þar sem takmarka þarf þann fjölda sem tekinn er í blóðprufu á degi hverjum. „Bráðarannsóknir og rannsóknir á inniliggjandi sjúklingum eiga ekki að hafa orðið fyrir barðinu á þessu en takmarka hefur þurft fjölda þeirra sem við getum kallað, ekki-bráðra rannsókna og hafa þær því verið háðar tímabókanaferli.   Venjulega hefur fólk getað komið inn af götunni í blóðprufu án þess að panta tíma í rannsókn. Þegar það á við er það læknis að meta hvort rannsókn er bráð eða getur beðið í fáeina daga. Hægt er að hafa samband við hjúkrunarfræðing á flýti- og samdægursmóttöku á heilsugæslu ef fólk hefur ekki komist að og telur að rannsókn hjá sér sé brýn.“   Hjörtur segir að fjöldi þeirra rannsókna sem hægt hefur verið að sinna fari vaxandi. „Ég held að núna sé hægt að taka um 10 einstaklinga, með ekki-bráðar rannsóknir að öllu jöfnu til viðbótar bráðum rannsóknum og rannsóknum á inniliggjandi.   Við erum komin í um þrjá fjórðu af meðalfjölda rannsókna á dag og vonandi verður þetta komið í eðlilegt horf eftir 1 til 2 vikur. Til að flækja málin þá hafa komið upp endurteknar bilanir í nýju rannsóknatæki sem við fengum í sumar og það hefur ekki bætt úr skák. Þetta hefur óhjákvæmilega haft óþægindi í för með sér fyrir suma einstaklinga og það ber að harma. Vonandi kemst „færibandið“ á eðlilegan snúning á næstu 1 til 2 vikum,“ sagði Hjörtur að endingu.      

Sami aðili staðinn af þjófnuðum, húsbrotum, nytjastuldi vélknúinna ökutækja og eignaspjalla

Allar upplýsingar um líkamsárásarmálið vel þegnar

Í ýmsu var að snúast hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum sl. viku vegna mála sem komu á hennar borð. Tilkynnt var um slagsmál á skemmtistað í bænum og þurfti lögreglan að skakka leikinn og í framhaldi fékk aðili af málinu að gista fangageymslu lögreglunnar. Ekki liggja fyrir kærur vegna málsins.   Brotist var inní tvö fyrirtæki í bænum og stolið það léttbifhjóli í einu fyrirtækinu og áfengi í öðru. Viðkomandi aðili sem braust þar inn hefur ítrekað verið tekinn við að brjótast inní fyrirtæki og heimili og stela þar verðmætum.   Í vikunni var tilkynnt að drengur hafi dottið af hjólabretti þar sem hann var við leik á lóð barnaskólans. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á sjúkrahúsið til skoðunar en ekki er talið um alvarleg meiðsli að ræða. Af umferðarmálum er það að frétta að 6 kærur liggja fyrir eftir vikuna, 4 vegna stöðubrota og 2 þar sem ekki voru notuð öryggisbelti.   Grunaður um stórfellda líkamsárás, hættubrot og kynferðisbrot   Aðfaranótt laugardagsins 17. september var lögreglu tilkynnt af íbúa við Fífilgötu að á götunni væri kona sem væri með mikla áverka eftir líkamsmeiðingar. Lögreglumenn og sjúkraflutningamenn fóru á staðinn og var konan flutt sjúkrahús. Eftir aðhlynningu á sjúkrahúsi Vestmannaeyja var hún flutt með sjúkraflugi til Reykjavíkur til frekari rannsókna og læknismeðferðar.   Karlmaður var handtekinn skömmu síðar á heimili sínu grunaður um stórfellda líkamsárás, hættubrot og kynferðisbrot gagnvart konunni. Lögreglustjóri krafðist gæsluvarðhalds yfir manninum á grundvelli rannsóknarhagsmuna en Héraðsdómur Suðurlands hafnaði kröfunni þann 18. september. Úrskurður héraðsdóms var kærður til Hæstaréttar sem féllst á kröfu lögreglustjóra í dag um að hinn grunaði verði úrskurðaður í gæsluvarðhald til laugardagsins 24. september næstkomandi.   Lögreglan biður þá sem einhverjar upplýsingar geta veitt um málið að hafa samband í síma 444 2091.  

Kona fannst nakin utandyra með alvarlega áverka á laugardaginn

Kona á fimmtugsaldri var flutt í skyndi með sjúkraflugi frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur á laugardagsmorgun. Samkvæmt heimildum Stundarinnar, sem greindi frá þessari frétt, fannst konan meðvitundarlaus í húsgarði rétt hjá öldurhúsi í bæjarfélaginu. Konan er sögð hafa fundist nakin og með mikla áverka, meðal annars á höfði. Töldu heimildarmenn Stundarinnar að konan hafi höfuðkúpubrotnað.   Lögreglan í Vestmannaeyjum verst allra fregna af málinu. Einu upplýsingarnar sem fengust frá embættinu voru þær að lögreglan væri að rannsaka mál sem hafi komið upp um helgina. Hvort um væri að ræða þjófnað, líkamsárás, íkveikju eða kynferðisbrot sagðist yfirlögregluþjónn embættisins ekki geta tjáð sig um það.   „Þetta er mjög óhugnarlegt mál og fólki hér er brugðið,“ segir íbúi í Vestmannaeyjum sem Stundin ræddi við. Mikið af fólki hafi verið samankomið á eyjunni um helgina til þess að skemmta sér, bæði íbúar og aðkomufólk. Rætt sé um þetta alvarlega atvik nú eftir helgina en að litlar upplýsingar sé að fá um hvað hafi í raun og veru gerst.   Stundin hafði samband við starfsmann neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis á Landspítalanum sem staðfesti að einn einstaklingur hafi leitað til þeirra um helgina. Þá hefur einnig verið staðfest að flogið var slaðasan einstakling frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur þennan laugardag, 17. október.   Eins og áður segir veitir lögreglan í Vestmannaeyjum engar upplýsingar um málið. Það er í takt við stefnu embættisins undir forystu lögreglustjórans Páleyjar Borgþórsdóttur.   Uppfært 18:30   Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, staðfesti nú undir kvöld frétt Stundarinnar í samtali við DV. Hún segir að grunur leikur á að konan sem fannst nakin utandyra hafi verið beitt kynferðisofbeldi aðfaranótt laugardags. Þá hafi lögreglan handtekið mann á heimili sínu sömu nótt sem hún grunar að hafi veitt konunni áverkana. Farið var fram á gæsluvarhald yfir manninum en þeirri beiðni var hafnað af héraðsdómi. Sá úrskurður var kærður til hæstaréttar og er niðurstöðu að vænta á morgun.   Þá segir Páley að rannsókn málsins sé á viðkvæmu stigi en ekki hefur tekist að ljúka skýrslutöku fórnarlambsins nema að hluta til.  

Innri hluti hafnar rannsakaður

 Rannsóknir á innri hluta Landeyjahafnar standa nú yfir í líkanhúsi Vegagerðarinnar í Kópavogi. Herjólfur hreyfist heldur mikið á stundum þegar hann liggur við bryggju í höfninni og leitað er leiða til að draga úr ölduhreyfingum inn í höfninni. Skipstjórar Herjólfs skoðuðu líkanið og rannsóknina í dag til að gefa álit sitt á hugsanlegum breytingum og hvað mætti rannsaka betur. Vegagerdin.is greinir frá.   Með líkaninu er líkt eftir aðstæðum í höfninni svo sem kostur er. Smíðað hefur verið líkan af nýjum Herjólfi sem notað er til viðmiðunar. Vél útbýr öldur í óskaðri stærð og með þeirri öldutíðni sem rannsökuð er hverju sinni. Nú hafa verið skoðaðar breytingar á höfninni varðandi að lengja innri hafnargarð og setja á báða enda hans svo kallaða tunnu (sem sjá má á myndinni á austari garðinum), skoðaðar hafa verið breytingar sem skapast við að bryggjan verði lokuð þannig að aldan fari ekki inn undir bryggjuna og einnig að stækka innri höfnina til austurs sem myndi draga úr ölduóróa innan hafnar.   Fyrstu niðurstöður benda til þess að þessar breytingar myndu hafa þó nokkuð mikil áhrif á öldufar innan hafnar til hins betra.   Eftir yfirferð með skipstjórum Herjólfs verðu nú einnig rannsakaðar tilfærslur á eystri hafnargarðinum innan hafnar til að finna út bestu mögulegu útkomu þannig að þrengja þurfi innri hafnarkjaftinn sem minnst, þannig að svigrúm Herjólfs verði sem mest hverju sinni.   Stækkun hafnarinnar mun einnig leiða til þess að Herjólfur mun eiga mun auðveldara með að snúa við og almennt athafna sig innan hafnar sem er mikilvægt þegar veður eru að öðru leyti óhagstæð siglingum í Landeyjahöfn.

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Íþróttir >>

Sel­foss skoraði 38 mörk gegn ÍBV

Sel­fyss­ing­ar unnu hreint út ótrú­leg­an sig­ur á ÍBV í Olís-deild karla í hand­bolta í (gær)kvöld. Loka­töl­ur í Valla­skóla urðu 38:32. Mbl.is greindi frá.   Eyja­menn höfðu frum­kvæðið fram­an af leikn­um og leiddu 7:9 þegar þrett­án mín­út­ur voru liðnar. Þá kom gott áhlaup hjá heima­mönn­um sem skoruðu níu mörk gegn þrem­ur á tíu mín­útna kafla og breyttu stöðunni í 16:12. For­skot Sel­foss var fimm mörk í hálfleik, 20:15.   Sel­fyss­ing­ar slökuðu ekk­ert á klónni í upp­hafi seinni hálfleiks og náðu níu marka for­skoti þegar rúm­ar tíu mín­út­ur voru liðnar. Þá tók Theo­dór Sig­ur­björns­son til sinna ráða og raðaði inn mörk­un­um fyr­ir Eyja­menn. Ótrú­leg sveifla til baka og ÍBV jafnaði, 32:32, þegar rúm­ar fimm mín­út­ur voru eft­ir. Þá var kraft­ur Eyja­manna á þrot­um. Helgi Hlyns­son skellti í lás í Sel­foss­mark­inu og heima­menn skoruðu síðustu sex mörk leiks­ins.   Guðni Ingvars­son skoraði 13 mörk fyr­ir Sel­fyss­inga og Ein­ar Sverris­son 8, en hann átti ófá­ar stoðsend­ing­ar inn á Guðna á lín­unni. Helgi Hlyns­son varði 21 skot í marki Sel­foss.   Theo­dór Sig­ur­björns­son skoraði 13/​4 mörk fyr­ir ÍBV, þar af tíu í seinni hálfleik. Grét­ar Eyþórs­son kom næst­ur hon­um með 6 mörk. Andri Ísak Sig­fús­son varði 9 skot fyr­ir ÍBV.  

Stjórnmál >>

Framsókn - Góð heilsa er gulli betri

 …segir máltækið og annað sem segir: „Heilsan er fátækra manna fasteign.“ Já, heilsan er óumdeilanlega eitt það verðmætasta sem við eigum og að henni þarf að hlúa. Við berum ábyrgð á eigin heilsu en þegar slysin verða eða heilsan brestur, þá vill Framsóknarflokkurinn að á Íslandi sé góð heilbrigðisþjónusta sem allir hafi aðgang að, óháð efnahag. Til að það megi ganga eftir vill Framsóknarflokkurinn byggja nýjan Landspítala á nýjum stað, efla heilsugæsluna og heilbrigðisstofnanir um land allt. Aukin framlög til heilbrigðismála Ríkisstjórnin, undir forystu Framsóknarflokksins hefur aukið framlög til heilbrigðiskerfisins um tæpa 40 milljarða á kjörtímabilinu og útgjöld til tækjakaupa hafa sjöfaldast. Útgjöld til heilbrigðismála hafa verið stærsti liður ríkissjóðs á kjörtímabilinu, en á síðustu fjárlögum voru 162 milljarðar settir í heilbrigðiskerfið. Framsóknarflokkurinn vill efla heilbrigðiskerfið enn frekar en einnig að frekari greiningar og gæðamælingar verði gerðar á heilbrigðiskerfinu svo þeir fjármunir sem settir eru í málaflokkinn nýtist sem best. Eyðum biðlistum Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni eru margar hverjar vannýttar. Með því að nýta þessi sjúkrahús betur þá væri hægt að eyða biðlistum með einföldum aðgerðum og um leið að styrkja rekstur þessara stofnana, sem hafa margar hverjar verið fjársveltar um árabil. Um leið værum við að létta álaginu af Landspítalanum. Við þurfum að eiga gott hátæknisjúkrahús og Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að reisa nýjan Landspítala á nýjum stað. Múhammed til fjallsins Framsóknarflokkurinn vill bæta aðgengi fólks á landbyggðinni að sérfræðingum– fjallið á ekki að fara til Múhammeds. Við viljum líka efla fjarlækningaþjónustu en verkefnið á Kirjubæjarklaustri hefur gefist afar vel og því tilefni til að nýta þá reynslu til frekari uppbyggingar. Framsókn vill að komið sé til móts við þá sem þurfa að fara að heiman til að sækja sér heilbrigðisþjónustu, s.s. vegna fæðinga þar sem fæðingarstöðum hefur fækkað verulega hin síðari ár og vegna eftirlits eða eftirfylgni sem ekki er hægt að veita í heimabyggð. Réttlætismál Verðandi foreldrar á landsbyggðinni þurfa t.d. oft að hefja töku fæðingarorlofs fyrr, þar sem þeir þurfa að fara tímanlega á fæðingarstað. Þá dregst. biðtíminn eftir barninu, frá orlofinu. Barn og foreldrar njóta því styttri samveru þegar barnið kemur loksins í heiminn. Með því að breyta lögum um fæðingarorlof gætum við tryggt rétt barna til að njóta jafnlangs tíma með foreldrum sínum eftir fæðingu eins og þau börn sem eiga heima í nágrenni við fæðingarþjónustu, en annar greinarhöfunda lagði fram frumvarp þess efnis á Alþingi. Hár dvalarkostnaður Annað atriði sem þarf að huga betur að er dvalarkostnaður þeirra sem þurfa að fara að heima vegna barnsfæðinga og eiga ekki ættingja eða vini sem geta hýst þá á meðan á biðinni stendur. Ein leið væri að útvega fólki dvalarstað eða með fjárstyrk vegna dvalarkostnaðar í nágrenni við fæðingarstað. Verðandi foreldrar eiga ekki að gjalda þess að búa fjarri fæðingarstöðum og fjarri heilbrigðisþjónustu almennt.   Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og Ásgerður Kristín Gylfadóttir, hjúkrunarstjóri HSU og í 3. sæti lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.  

Greinar >>

Hildur Sólveig - Ég á mér draum

Alþingiskosningar nálgast óðfluga og spennan í kringum þær er áþreifanleg. Margir hverjir, sérstaklega þeir sem ekki hafa brennandi stjórnmálaáhuga, eru væntanlega þó orðnir þreyttir á umræðunni, líkt og ég var orðin þreytt á 50 ára afmælisdagskrá RÚV, og því spenntir eftir að kosningunum loks ljúki.   Persónukjör Í kringum kosningar heyrist oft það sjónarmið hversu gott það væri ef hægt væri að að kjósa fólk en ekki flokka. Ég skil vel þá hugsun og er sammála henni að mörgu leyti. Hins vegar myndi slíkt fyrirkomulag væntanlega verða einkar erfitt í framkvæmd. Ég sé fyrir mér 63 alþingismenn, hver með sínar áherslur, stefnur, hugsjónir og hugðarefni eyða vikum ef ekki mánuðum í skoðanaskipti, rökræður og almennt þras við að reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Myndun ríkisstjórnar yrði án efa erfið, tímafrek og flókin. Því þurfum við Íslendingar í krafti fjöldans, líkt og okkur einum er lagið, að sameinast um stefnur, málefni og forgangsröðun og fylkja okkur bakvið þær. Að sjálfsögðu eru aldrei allir stuðningsmenn allra flokka alltaf sammála öllum þeim málum sem unnið er eftir en stefna hvers stjórnmálaafls er samþykkt af landsfundi þar sem félagsmenn, eins og ég sjálf, geta vissulega haft áhrif.   Umræðuhefðin má breytast Óskandi væri að almenn umræða um stjórnmál og það mæta fólk sem starfar á þeim vettvangi, væri á hærra plani. Óskandi væri að umræðan væri jákvæðari, uppbyggilegri og laus við niðurrif, persónuárásir og jafnvel samsæriskenningar sem eiga sér oftar en ekki engar stoðir í raunveruleikanum. Hugsanlega er ég barnaleg en ég hef þá trú að þeir einstaklingar sem gefa kost á sér í slík störf vilji vinna af heilindum þjóðinni til hagsbóta, en við höfum einfaldlega mismunandi nálgun að því markmiði. Draumur minn er að í stað þess að draga í sífellu fram fortíðardrauga og finna öðrum allt til foráttu að þá gætum við nýtt orkuna í að einblína meira á hvað við sjálf höfum fram að færa, hvað við gerum vel og helst hvað við viljum gera betur. Það eru aukinheldur engir óyfirstíganlegir ósigrar fólgnir í viðurkenndum mistökum eða skoðanaskiptum, slíkt er mannlegt og stjórnmálamenn eru vissulega mannlegir. Slík umræðuhefð gæti bætt úthald og aukið áhuga almennings gagnvart stjórnmálum og hugsanlega aukið virðingu þingstarfa og gert þau eftirsóknarverðari.   Kosningarétturinn mikilvægur Ég er búin að gera upp minn hug og meira að segja búin að kjósa. Ég kaus Sjálfstæðisflokkinn. Ekki af því að Píratar eru ,,ómögulegir afstöðulausir anarkistar“, ekki af því að Vinstri Grænir eru ,,mótsagnakenndir umhverfissinnaðir sósíalistar“, ekki af því að Samfylkingin eru ,,afturhaldssamir kommúnistar í útrýmingarhættu“ og sérstaklega ekki af því að ,,Sjálfstæðisflokkurinn eru eiginhagsmunasinnaðir íhaldsmenn sem leika sér í spillta vestrinu“. Heldur vegna þeirrar einföldu ástæðu að ég er stolt af þeim fjölmörgu góðu verkefnum sem Sjálfstæðisflokkurinn og það góða fólk sem í honum starfar hefur náð í gegn á því stutta kjörtímabili sem nú er að klárast. Margt má hins vegar gera betur, ég er t.d. engan veginn sátt við að í Vestmannaeyjum sé ekki hægt að fæða börn með góðu móti og að samgöngurnar okkar séu enn þann daginn í dag eins og þær eru þó vissulega horfi til betri vegar. Ég hef trú á að þrátt fyrir að Ísland búi við einstaka velsæld á flestum alþjóðamælikvörðum að þá höfum við alltaf möguleika á að ná lengra. Ég trúi því sérstaklega í ljósi velgengni hagstjórnar landsins undanfarinna ára að Sjálfstæðisflokkurinn sé best til fallinn til að hjálpa Íslandi á þeirri vegferð. Umfram allt hvet ég þig kjósandi góður til að mæta á kjörstað og taka afstöðu. Lýðræði og kosningaréttur er ekki sjálfgefinn. Virðum lýðræðið, kjósum.     Hildur Sólveig Sigurðardóttir Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum