Danskir dagar á Fiskibarnum í desember

Þegar Fiskibarinn hóf starfsemi í sumar, hafði ekki verið fiskbúð í Vestmannaeyjum í yfir tuttugu ár, hversu mótsagnakennt og það má nú vera - hér í einum öflugasta útgerðarbæ landsins. - Eyjamenn, jafnt sem ferðamenn hafa tekið Fiskibarnum opnum örmum og greinilegt að þörfin fyrir alvöru fiskbúð var til staðar. Fiskibarinn leggur metnað í gæði og gott úrval af fiskafurðum og tilbúnum réttum á góðu verði. Fiskibarinn hefur bryddað uppá nýjungum allt frá byrjun og heldur því áfram með „Dönsku dögunum í desember”.   Aðdragandinn að þessum fyrirhuguðu Dönsku dögum á Fiskibarnum var að þann 20. nóvember s.l kynnti danski landbúnaðarráðuneytið þjóðarrétt Dana, sigurvegarinn reyndist; Stegt flæsk med kartofler og persillesovs – eða svínapurusteik með kartöflum og steinseljusósu, uppá íslensku.  Valið kom í sjálfu sér ekki á óvart, en nú var það byggt á viðamikilli könnun - þar sem vel var vandað til verks, enda kostaði framkvæmdin 1.2 milljónir dkr. Í kjölfarið fylgdi mikil umræða í dönskum fjölmiðlum. Sýndist sitt hverjum og málið varð fljótt að pólitísku þrætuepli og menn létu ýmislegt fjúka í mesta hitanum. Einhverjir héldu því beinlínis fram að valið væri “rasískt” – fordómafullt eða ósvífin ögrun við innflytjendur frá miðausturlöndumenda. Meðal almennings virtist hins vegar ríkja sátt um valið – enda daninn mikill matmaður.   Listinn yfir 8 vinsælustu dönsku réttina lítur svona út: Stegt flæsk med persillesauce Smørrebrød med gravad laks og kartofler Hakkebøf med bløde løg og stegte rodfrugter Karbonader med stuvede grønærter Brændende kærlighed Æbleflæsk Stegte sild med kartoffelkompot Stegt svinekotelet med stuvet hvidkål (Kilde: Fødevareministeriet, nationalret.dk)   Danskir dagar á Fiskibarnum Af þessu tilefni ætlar Fiskibarinn að halda danska daga út desembermánuð og bjóða Eyjamönnum uppá rétti af listanum, auk annara sígildra - að ógleymdu danska smørrebrødinu.   Jónas á Fiskibarnum er matreiðslumeistari og lærði sína iðn í Danmörku og starfaði þar um langt árabil. Hann þekkir því vel til danskrar mataðgerðar og finnst þetta kjörið tækifæri til að slá tvær flugur í einu höggi. Annars vegar að heiðra danska matargerð og þessa skemmtilegu kosningu - og hins vegar að brydda upp á þeirri nýjung að bjóða uppá heita kjötrétti - sem viðskiptavinurinn getur snætt á staðnum eða tekið með sér heim og sama verð er einnig á öllum aðalréttunum. Réttur dagsins kostar 1.400 krónur.   Hér er matseðill fyrstu vikunnar í desember:   1. desember - Mánudagur. Smørrebrød með gröfnum laxi og steinseljukartöflum. Hakkabuf & spælegg með rótargrænmeti, rauðrófum og sósu.   2. desember - Þriðjudagur. Smørrebrød með jólasíld, eggi, dilli og rauðlaukssultu. Smjörsteikt rauðspretta með kartöflum og remúlaði.   3. desember - Miðvikudagur. Smørrebrød með reyktum laxi, eggum og steinselju. Ofnsteikt skinka með rauðkáli og gratin kartöflum.   4. desember - Fimmtudagur. Smörrebröd með tvenns konar rauðsprettu, rækjum, aspars og dillkartöflum. Grisahryggur með hvítkálsjafningi og kartöflubátum.   5. desember - Föstudagur. Smørrebrød með steiktri síld, kartöflusalati og lauk. Purusteik með kartöflum, rauðkáli, grænum baunum og soðsósu.   Alla dagana fæst heimagerður Ris a la Mande og úrval af jólasíld að ógleymdri skötu fyrir Þorláksmessuna.    

Benda Heimdellingum á að hefja þátttöku í nútímastjórnmálum

Eyverjar, félag ungra sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum, benda félögum sínum í Heimdalli í Reykjavík á að nú þegar styttist í að árið 2015 renni upp er full ástæða fyrir unga Sjálfstæðismenn í Reykjavík að hefja þátttöku í nútímastjórnmálum. Sá tími þegar svo var litið á að konur af landsbyggðinni væru eftirbátar annarra er löngu liðinn. Nútímastjórnmál eru með þeim hætti að í dag er það tekið sem gefnu að hæfasti einstaklingurinn geti jú einmitt allt eins verið kona af landsbyggðinni.   Eyverjar taka því af heilum hug undir áskorun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum á Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins, um að Unnur Brá Konráðsdóttir þingmaður Suðurlands verði næsti ráðherra flokksins.   Eyverjar benda félögum sínum í Reykjavík góðfúslega á að í Vestmannaeyjum eru kynjahlutföllin meðal bæjarfulltrúa eins jöfn og þau geta orðið. Í öllum tilvikum er um hæfasta fólkið að ræða. Í Reykjavík eru borgarfulltrúar hinsvegar í 75% tilvika karlar. Eyverjum er það til efs að í Reykjavík séu karlar 75% þeirra sem eru hæfir til ábyrgðastarfa fyrir flokkinn. Þess má einnig geta að það að bjóða fram hæfasta fólkið af báðum kynjum skilaði Sjálfstæðismönnum í Vestmannaeyjum ásættanlegum árangri í seinustu kosningum til sveitarstjórnar.   Stjórn Eyverja, félag ungra Sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum    

Gríska ferjan ekki nægilega góður kostur

Vegagerðin ásamt ráðgjafa hefur skoðað kosti grísku ferjunnar Achaeos við siglingar milli lands og Vestmannaeyja.   Niðurstaðan er sú að ekki er ástæða að svo stöddu að skoða þann kost frekar en lauslegt mat er að endanlegur kostnaður við Achaeos með breytingum á skipi og höfnum verði 2,5 til 3,5 milljarðar króna. Rekstrarkostnaður á ári verði yfir hundrað milljónum króna meiri en á nýrri ferju og frátafir verða allt að 25% á móti 10% í nýrri ferju.   Ef ferjan væri á kaupleigu/leigu mætti ætla að ráðast þurfi í stofnkostnað fyrir á bilinu 700-1700 m.kr. og svo bættist við leiga sem væri um 200 milljónir á ári. Að mati Vegagerðarinnar er ekki ástæða að skoða þennan kost frekar að svo stöddu.    Áhugasamir Eyjamenn um bættar samgöngur hafa lagt til að kannað yrði með kaup á ferjunni og því var það skoðað.      Á minnisblaði sem Vegagerðin hefur tekið saman segir:   Nokkrir áhugasamir Eyjamenn um bættar samgöngur mill lands og Eyja hafa lagt til að könnuð verði kaup á grískri ferju, Achaeos. Ferjan er tvístefnungur (double-ended), með 4 Azimuth skrúfum, 4 aðalvélum 1230 kW, lengd ferju er 88 m, breidd 16m og djúprista 3,5m. Ferjan tekur 170 fólksbíla og 600 farþega. Ferjan flokkast sem C-skip skv. Evrópureglum. Ráðgjafi og starfsmenn Vegagerðarinnar hafa yfirfarið tiltæk gögn um ferjuna og eftirtalda kosti hefur ferjan: 1. Hún er með mikla stjórnhæfni. 2. Flutningsgetan er mikil, allt að 170 bílar og 600 farþegar. 3. Verðið virðist hagstætt, innan við 2 milljarðar króna. Helstu ókostir ferjunnar eru: 1. Endurbyggja þarf ekjubrú og landganga í höfnum. Kostnaður í hverri höfn mun hlaupa á tugum milljóna króna. Heildarkostnaður metinn allt að tvö hundrað milljónir króna. 2. Achaeos er 88m langt og því er erfitt að sigla því fyrir utan Landeyjahöfn sbr. rannsóknir sem gerðar voru í siglingahermi Force árið 2012. 3. Achaeos er ekki með stöðuleikabúnað, þannig að ferjan mun velta mikið á siglingu nema á hana verði settir uggar eða andveltitankur. Að auki er stefnið flatt og skipið mun því „berja ölduna“ í sjógangi og verða óþægilegt farþegum, sérstaklega á langri siglingu. Nánast útilokað er að breyta stefni og skutlagi Achaeos þannig að skipið kljúfi ölduna. 4. Djúprista Achaeos er 3,5m þannig að dýpka þarf mun meira en fyrir nýrri ferju með 2,8m djúpristu. Viðbótar kostnaðar við dýpkun er metinn allt að áttatíu milljónir króna á ári. 5. Frátafir vegna djúpristu og lengd ferju eru metnar um 25% í Landeyjahöfn miðað við 10% á nýrri ferju. 6. Achaeos er með skírteini til siglinga á C-siglingaleiðum, en siglingar frá Vestmannaeyjum flokkast sem B-siglingaleið sem taka mið af erfiðara sjólagi. Þótt seljandi Achaeos staðhæfi að hægt sé að afhenda skipið með skírteini til siglinga á B-siglingaleiðum, þá nægir slíkt ekki til siglinga við Ísland. Til siglinga við Íslandsstrendur þarf einnig að uppfylla ákvæði Stokkhólmssamþykktar, sem öll strandríki N.Evrópu eru aðilar að. Það er ljóst að Achaeos uppfyllir ekki ákvæði Stokkhólmssamþykktarinnar og gera þyrfti verulegar breytingar á ferjunni til að uppfylla það. Einnig er ferjan byggð skv. flokkunarfélagi sem ekki er viðurkennt af íslenskum yfirvöldum. Í ljósi þessa er óvíst um innflutning á Achaeos til Íslands. Lauslegt mat er að endanlegur kostnaður við Achaeos með breytingum á skipi og höfnum verði 2,5 til 3,5 milljarðar króna. Rekstrarkostnaður á ári verði yfir hundrað milljónum króna meiri en á nýrri ferju og frátafir verða allt að 25% á móti 10% í nýrri ferju. Ef ferjan væri á kaupleigu/leigu mætti ætla að ráðast þurfi í stofnkostnað fyrir á bilinu 700-1700 m.kr. og svo bættist við leiga sem væri um 200 milljónir á ári. Að mati Vegagerðarinnar er ekki ástæða að skoða þennan kost frekar að svo stöddu.  

Mér er illt í ÍBV hjartanu

Trausti Hjaltason, sem eitt sinn var framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar ÍBV, ritar áhugaverðan pistil á facebooksíðu sína. Hann skrifar: „Þar sem að mér er afskaplega illt í ÍBV hjartanu þessa dagana þá langar mig að deila með ykkur góðum ÍBV momentum sem ég rifja reglulega upp til að ilja huganum. Forsagan er sú að í mars 2010 þá er ég ráðinn framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar ÍBV og átti það starf eftir að vera mikil rússíbanareið. Næstu tvö sumur áttu eftir að verða hrikalega skemmtileg, viðburðarrík, dramatísk og spennandi. Áhorfendamet á Kópavogsvelli. Einn af eftirminnalegustu leikjunum tímabilið 2010 var útileikurinn gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli. Breiðablik og ÍBV voru bæði í toppbaráttu þetta tímabil og var leikurinn því í beinni útsendingu í sjónvarpinu. Fyrir leik var mikið drama í búningsklefa ÍBV. Albert Sævarsson markvörður var búinn að vera eitthvað tæpur í hnénu frá byrjun tímabils. Rétt áður en dómarinn flautar liðinn útá völl, kemur Albert inní klefa og biður Gústa sjúkranuddara að hjálpa sér með hnéið.. hnéið hafði farið úr lið.. og var því hnéskelin útá hlið..menn fá auðvitað nett sjokk og það verður uppi fótur og fit. Ég hleyp og næ í Abel Dhaira varamarkmann og segi að hann þurfi að spila, Jóhann Sveinn búningastjóri hleypur til dómarana og lætur þá vita að við verðum að breyta skýrslunni vegna þess að markmaðurinn okkar sé meiddur og geti ekki spilað. Albert stendur upp af sjúkrabekknum, hristir löppina aðeins og segir ahh.. jæja ég er í lagi, ég spila! Við það skellur flautann, og drengirnir labba útá völl.. Þar er öll gamla stúkan troðin af ÍBV stuðningsmönnum, Stalla-hú mætt og allt að verða vitlaust. Það er frábært veður og fólkið er enn að streyma á völlinn. Rúta með ÍBV stuðningsmönnum rennir í hlaðið beint úr Landeyjarhöfn og enn fleiri ÍBV stuðningsmenn mæta. 3180 áhorfendur mættu á þennan magnaða leik sem endaði 1-1 þar sem TG9 skoraði úr vítaspyrnu fyrir okkur og Alfreð Finnboga fyrir Breiðablik. Ég man að maður sat hálf dolfallinn á bekknum og fylgdist með áhorfendum öskra sig hása fyrir klúbbinn… og Albert hann kláraði leikinn, ótrúlegur stálkall.. var valinn leikmaður ársins hjá bandalaginu eftir þetta tímabil.  

Í ýmsu að snúast hjá lögreglunni

Það var í ýmsu að snúast hjá lögreglu í liðinni viku miðað við undanfarnar vikur sem hafa verið með endæmum rólegar. Skemmtanahald helgarinnar fór ágætlega fram fyrir utan eina líkamsárásarkæru.   Ein líkamsárás var kærð eftir skemmtanahald helgarinnar en um var að ræða árás á einu af öldurhúsum bæjarins. Þarna áttu tveir ungir menn í einhverri deilu sem endaði með því að annar sló hinn með þeim afleiðingum að sá er fyrir árásinni varð fékk blóðnasir. Málið er í rannsókn.   Eitt fíkniefnamál kom upp í vikunni en við húsleit lögreglu í húsi hér í bæ fannst rúmlega 80 gr. af maríhúana. Í framhaldi af því voru tveir menn handteknir og vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. Við yfirheyrslu viðurkenndu þeir að eiga hluta efnanna en gátu ekki gefið neinar skýringar á þeim hluta efnanna sem þeir könnuðust ekki við.   Tveir ökumenn voru sektaðir í vikunni vegna brota á umferðarlögum, annar vegna vanrækslu á að nota öryggisbelti í akstri og hinn vegna ólöglegrar lagningar ökutækis síns.   Eitt umferðaróhapp var tilkynnt lögreglu í liðinni viku en um var að ræða óhapp á bifreiðastæði við Vínbúðina, eftir hádegi þann 18. nóvember sl., þar sem rúða í bifreið brotnaði, líklega við það að ekið var utan í bifreiðina. Sá sem þarna var á ferð hefur annað hvort ekki orðið var við óhappið eða farið í burtu án þess að tilkynna um það.      

Eftirsótt að verða framkvæmdastjóri SASS

Alls barst 41 umsókn um stöðu framkvæmdastjóra Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga sem auglýst var fyrir skömmu. Þorvarður Hjaltason, núverandi framkvæmdastjóri, hættir störfum þann 1. desember næstkomandi.   Umsækjendurnir eru:   Aníta Óðinsdóttir, lögfræðingur Auðunn Bjarni Ólafsson, framkvæmdastjóri Ágúst Loftsson, grafískur hönnuður Berglind Björk Hreinsdóttir, verkefnisstjórnun Bjarni Guðmundsson, viðskiptafræðingur Bjarni Hlynur Ásbjörnsson, viðskiptafræðingur Bjarni Jónsson, húsasmíðameistari Björg Erlingsdóttir, stjórnsýslufræðingur Brynjar Þór Elvarsson, stjórnmálafræðingur Drífa Jóna Sigfúsdóttir, viðskiptafræðingur Drífa Kristjánsdóttir, fyrrverandi oddviti Einar Örn Davíðsson, lögfræðingur Eirný Vals, verkefnisstjórnun Elín Björg Ragnarsdóttir, lögfræðingur Garðar Lárusson, viðskiptafræðingur Guðbjörg Jónsdóttir, iðnrekstrarfræðingur Gunnar Alexander Ólafsson, hagfræðingur Inga Ósk Jónsdóttir, viðskiptafræðingur Ingunn Guðmundsdóttir, viðskiptafræðingur Ívar Ragnarsson, viðskiptafræðingur Jón Pálsson, viðskiptafræðingur Jónas Egilsson, alþjóðasamskipti Katla Þorsteinsdóttir, lögfræðingur Katrín María Andrésdóttir, stjórnsýslufræðingur Kári Jónsson, líf og læknavísindi Kristín Hreinsdóttir, stjórnsýslufræðingur Lúðvík Magnús Ólafsson, tölvunarfræðingur Margrét Sigurðardóttir, viðskiptafræðingur Ólafur Hallgrímsson, lögfræðingur Páll Línberg Sigurðsson, ferðamálafræðingur Sigmundur G. Sigurgeirsson, viðskiptafræðingur Sigurður Torfi Sigurðsson, búvísindi Stefán Haraldsson, véltæknifræðingur Telma Sveinsdóttir, viðskiptafræðingur, Valdimar O. Hermannsson, rekstrarstjóri og forstöðumaður Þorsteinn Þorsteinsson, rekstrarhagfræðingur Þórarinn Egill Sveinsson, iðnaðarverkfræðingur Þórður Freyr Sigurðsson, viðskiptafræðingur Þórey S. Þórisdóttir, viðskiptafræðingur Þórunn Jóna Hauksdóttir, stjórnsýslufræðingur Örn Þórðarson, viðskiptafræðingur    

Vestmannaeyjar vinna lestrarlandsleikinn

Lestrarlandsleiknum Allirlesa.is lauk um miðnætti í gær, sunnudaginn 16. nóvember á degi íslenskrar tungu. Keppnin hefur staðið yfir óslitið frá 17. október og fór þannig fram að þátttakendur sem skráðu sig fyrir upphaf keppninnar stofnuðu lið og kepptu innbyrðis í að lesa og skráðu sjálfir lesnar blaðsíður. Þá var jafnframt haldið utan um lesturinn eftir búsetu. Skemmst er frá því að segja að Vestmannaeyja urðu hlutskarpastir þéttbýliskjarna, Hveragerði varð í öðru sæti og Sveitarfélagið Ölfuss hlaut þriðja sætið. Vestmannaeyjar eru því réttnefndur bókabær Íslands. Þátttakendur skiptust í lið eftir því hvort um var að ræða vinnustað, skóla eða annað sem kallað var opinn flokkur. Eyjafréttir ræddu stuttlega við Kára Bjarnason, forstöðumann Safnahússins sem jafnframt er forstöðumaður bókasafnsins en lið hans, Vonarpeningur varð í öðru sæti í flokknum vinnustaður. „Vonarpeningur er sá hrjáði fénaður sem látinn er út á Guð og gaddinn“, sagði Kári. „En gegn líkum uxum við fram en koðnuðum ekki niður.“ Kári bætti því við að hann teldi að meginástæðan fyrir sigri Vestmanneyja í lestrarkeppninni hefði verið kapp Grunnskóla Vestmannaeyja. Á vegum Vestmannaeyjabæjar hefur verið unnið að því að móta stefnu um stóraukna áherslu á læsi og stærðfræði. „Við eigum í samstarfi við Grunnskólann hér á bókasafninu og af þeim sökum þekki ég það mjög vel hversu myndarlega skólinn hefur brugðist við áskorun bæjaryfirvalda að því er tekur til átaks um læsi. Þá þekki ég einnig til að Ráðhúsið hér var með fjölmenna og þaullæsa sveit og því hafa margir komið að sigrinum enda þótt krafturinn í Grunnskólanum hafi skilað okkur lengst enda þótt Safnahúsið hafi e.t.v. náð bestu árangri einstakra sveita.“ Þá bætti Kári við að lokum að sem forstöðumanni bókasafnsins hér þætti honum sérstaklega vænt um að sjá Vestmannaeyjar vinna lestrarkeppnina á landsvísu.  

Að gefnu tilefni: Um Landeyjahöfn og hugsanlega leigu á notaðri ferju

Mig langar að byrja á því að þakka Guðmundi Þ.B. fyrir skrif hans um samgöngumál okkar Eyjamanna, það er gríðarlega mikilvægt að sem flestir tjái sig og umræðan verði áfram opin, en snúist ekki um einhverja vafasama útreikninga hjá einhverjum meintum sérfræðingum. Ástæðan fyrir þessari grein minni núna eru fyrst og fremst fullyrðingar Sigurðar Áss um að staðsetning Landeyjahafnar, væri sú besta með allri suðurströndinni. Ég hef marg oft sagt það og skrifað, að miðað við þekkingu mína og reynslu eftir tæplega 30 ára sjómennsku hér við Eyjar, þá sé einmitt staðsetning Landeyjahafnar sennilega eitt stærsta klúðrið í öllu ferlinu, og í raun og veru tel ég að það sé hreinlega ekki til verri staðsetning en einmitt þar sem höfnin er. En hver er þessi munur á skoðunum mínum og Sigurðar Ás? Á kynningarfundinum um Landeyjahöfn á sínum tíma, kom alveg skírt fram hjá Gísla Viggóssyni að stærsta ástæðan fyrir staðsetningu Landeyjahafnar, væri sú staðreynd að í Vestmannaeyjum væri ríkjandi vindátt suðvestan átt. Ef þetta væri rétt hjá Gísla, þá væri þetta hárrétt staðsetning á höfninni, en flest allir Eyjamenn vita það, að svo er ekki. Ríkjandi bræluátt er austan átt, eins og við sjáum undanfarna daga, sem gerir það að verkum að staðsetning hafnarinnar er eitt allsherjar klúður. Ég hef bent fólki á það að skoða það t.d. inni á belging.is hvar rokið kemur undan Eyjafjöllum, en um leið hvar lognið er aðeins vestar og norður úr Eyjum. Einnig er hægt að skoða þetta mjög vel í austan brælum inni á marinetraffic.com, en þá sést vel að nokkrum mílum vestar eru bátar á veiðum inni í fjöru í logni. Að mínu mati hefði höfnin miklu frekar átt að vera á þeim slóðum og með innsiglinguna í beinni línu frá Vestmannaeyjum og þannig með fast land í beinni línu frá innsiglingunni, sem hefur einmitt skipt svo miklu máli varðandi höfnina í Vestmannaeyjum sem og höfnina í Þorlákshöfn sem er með stefnu á Stokkseyri. Ef hins vegar er tekin bein lína út úr innsiglingunni í Landeyjahöfn, þá er næsta fasta land sennilega einhver staðar í Bandaríkjunum. Þess vegna verður að verja innsiglinguna fyrir grunn brotsjó og úthafs öldu. Mér líst ágætlega á teikninguna sem Halldór B. Nellett er með inni á eyjamiðlunum, þó að sjálfsögðu megi útfæra þetta á margan hátt. Aðeins um þessa grísku ferju sem Simmi á Víking hefur verið að sýna okkur myndir af inni á eyjamiðlunum. Þarna erum við að tala um gríðarlega mikla aukningu á flutningsgetu, bæði á bifreiðum og fólki, og ef skipið gengur að jafnaði 16,5 mílur, þá er það að fara aðeins hraðari en Herjólfur og miklu hraðari en hin nýja ferja á að ganga. Eini mínusinn sem ég sé í fljótu bragði er stefnið á ferjunni, sem mér finnst vera full flatt og breitt, en ég hefði þurft að sjá þetta skip sigla í slæmu veðri til þess að geta úttalað mig alveg um það, en að öðru leyti held ég að þarna sé komið fram tækifæri sem við ættum virkilega að skoða í alvöru.  

Ný framtíðarsýn í fræðslumálum

Fræðsluráð Vestmannaeyjabæjar samþykkti á fundi sínum í dag nýja framtíðarsýn í fræðslumálum.  „Í ljósi þess að árangur grunnskólabarna í GRV á samræmdum prófum hefur í mörg ár verið óásættanlegur er nauðsynlegt að bregðast við. Ráðið telur að miklir möguleikar liggi í núverandi skólaumhverfi og að leik- og grunnskólar Vestmannaeyja geti vel verið í flokki fremstu skóla á landinu hvað varðar kennslu og námsárangur í læsi og stærðfræði. Til þess að slíkt markmið náist þurfa áherslur skóla að vera betur skilgreindar með tilliti til markmiðssetningar og mælanleika og efla þarf aðkomu skólaskrifstofu í þeirri vinnu,“ segir í bókun ráðsins.   Þar er lagt til að farin verði sama leið og skólayfirvöld á Reykjanesi hafi farið.  Í þeirri framtíðarsýn er áhersla lögð á læsi og stærðfræði.  Markmiðið sé að skólar sveitarfélagsins verði í fremsta flokki.  „Hlutverk framtíðarsýnarinnar verður að skerpa á áherslum, stuðningi og aðhaldi í daglegu skólastarfi. Skerpt er á verklagi sem hefur áhrif á daglegt skólastarf.“   Árslurnar eru meðal annars þessar:   1) Áherslu á læsi og stærðfræði í leik- og grunnskólum. 2) Notkun skimunarprófa í lestri og stærðfræði. 3) Frammistöðumat. 4) Góða samvinnu heimilis og skóla. 5) Áherslu á að byggja á áreiðanlegum og gagnlegum aðferðum og mælitækjum í skólastarfi.   „Fræðsluráð telur skóla sveitarfélagsins hafa yfir að ráða hæfu og dugmiklu fagfólki, aðstöðu og búnaði til að ná settu markmiði. Ráðið telur mikilvægt að efla aðkomu skólaskrifstofu að þessari vinnu. Skólaskrifstofan hefur yfir að ráða sérfræðiþekkingu m.a. í formi kennsluráðgjafar, sérkennslu og námsráðgjafar. Mikilvægt er að samhæfa verklag og fylgja eftir sameiginlegri markmiðsetningu og mælanleika. Með hliðsjón af reynslu Reykjanesbæjar af innleiðingu á gæðastarfi telur ráðið mikilvægt að skólaskrifstofu verði falið aukið vægi í innleiðingu á gæðastarfi og samstarfi við skólana. Þess vegna samþykkir ráðið að fjármagn sem nemur 50% stöðu faglærðs ráðgjafa verði flutt af GRV yfir á skólaskrifstofu sem þar með mun einnig taka ábyrgð á aukinni stoðþjónustu svo sem innleiðingu á gæðastarfi sem og náms- og starfsráðgjöf,“ segir í fundargerð ráðsins.   Að lokum kemur fram að vinna sé þegar hafin við innleiðingu þessarar framtíðarsýnar í formi skimunar og námskeiðarhalds starfsmanna.

Bæjarstjóri vill opna Surtsey fyrir ferðamönnum

Í dag var ný sýning um Surtsey opnuð við hátíðlega athöfn í Eldheimum en sýningin er þar á efri hæð hússins.  Þar með hafa Eldheimar svo gott sem fengið endanlegt útlit með sögu gossins í Surtsey og Heimaeyjargossins tíu árum síðar en íbúum Vestmannaeyja og gestum þeirra býðst að skoða Eldheima endurgjaldslaust á morgun, laugardag og sunnudag.  Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra opnaði sýninguna með formlegum hætti en auk hans tóku til máls Elliði Vignisson, bæjarstjóri, Borgþór Magnússon, varaformaður Surtseyjarfélagsins og Kristín Linda Árnadóttir.  Elliði viðraði við þetta tækifæri þá hugmynd hvort ekki væri rétt að opna Surtsey fyrir litlum ferðamannahópum en Eyjan hefur verið lokuð almennri umferð síðustu 50 árin.   Sigurður Ingi sagði í ræðu sinni m.a. að sýningarnar í Eldheimum undirstriki tengslin milli eldsumbrotanna sem mynduðu Surtsey og í Heimaey.  „Í hugum okkar Íslendinga er Surtsey einstök, ekki síst þeirra sem fylgdust með Surtseyjargosinu, myndun eyjarinnar og þróun. Eftir gosið var Surtsey gerð að lokuðu nátturverndarsvæði, sem gerði vísindaheiminum mögulegt að fylgjast með hvernig nýtt líf og vistkerfi verður til.“ Hann bætti því einnig við að Surtsey væri nú á Heimsminjalista samnings Sameinuðu þjóðanna um verndun menningar og náttúruminja heimsins og forsenda þessa að eyjan verði áfram á listanum, væri m.a. að hún yrði áfram lokuð.  „Takmörkun á aðgangi skuldbindur okkur um leið til þess að gefa almenningi og ferðamönnum sem til Eyja koma greinagóðar upplýsingar og kynningu á þróun Surtseyjar og hvernig lífverur nema land og breiðast út um eyjuna. Vísindamenn hafa sett upp líkan um það hvernig eyjan og lífríkið muni þróast og það verður spennandi fyrir vísindamenn framtíðarinnar að fylgjast með þróuninni og sannreyna hvort þessar spár standist eða hvort þróunin verður með öðrum hætti.“   Auk ræðuhalda var boðið upp á nokkur tónlistaratriði, áður en Surtseyjarsýningin var formlega opnuð.   Stutt myndband frá Surtseyjarsýningunni fylgir fréttinni.

Hefur enginn annar rétt fyrir sér ef hann er annarrar skoðunar?

Samgöngustofa og Vegagerðin hafa svarað opnu bréfi mínu, á vefsíðu Eyjafrétta, varðandi Landeyjarhöfn, fyrirhugaða smíði á minna skipi og breytingar á Herjólfi, það er því sem þau svara. Kemur Samgöngustofu málið ekki við? Svar Samgöngustofu er að beina eigi því sem fram kemur í bréfi mínu, til Vegagerðarinnar þar sem Samgöngustofa fari með eftirlit með því að skip fullnægi öryggiskröfum. Satt best að segja hélt ég í mínum barnaskap að tillögur að breytingum á Herjólfi hafi miðað að því að auka öryggi skipsins og því Samgöngustofu að hafa skoðun á tillögum sérfræðinganna, um breytingar til að auka stjórnhæfni skipsins, við Landeyjarhöfn og ekki síst ef einhverjum af tillögum sérfræðinganna væru ekki framkvæmdar.   Vil ég ekki bæta samgöngur!!! Sigurður Áss Grétarsson sem svarar bréfinu fyrir hönd Vegagerðarinnar byrjar svarið á eftirfarandi hátt: „Í bréfi Guðmundar Þ.B. Ólafssonar sem birtist á vefsíðu Eyjafrétta sl. fimmtudag er því haldið fram að forgangsatriði sé að bæta Landeyjahöfn en ekki að bæta samgöngur til Vestmannaeyja.“ Það er ekkert annað. Mér eru gefnar upp skoðanir að með því að vilja klára Landeyjarhöfn vilji ég ekki bæta samgöngur við Vestmannaeyjar. Orðrétt sagði ég í bréfi mínu: „Margoft hef ég viðrað þá skoðun mína að forgangsatriðið væri að klára hafnargerð í Landeyjarhöfn. Í kjölfarið eigi að smíða nýtt skip sem tæki mið af flutningsþörf og þjónustu við okkar samfélag en ekki sníða skip að höfn sem ekki er flullkláður.“ Þetta er sem sagt túlkað að ég vilji ekki bæta samgöngur við Vestmannaeyjar. Ja! veikur er málstaðurinn.   Mestu samgöngubæturnar eru að klára höfnina Í mínum huga eru mestu samgöngubætur við Vestmannaeyjar fólgnar í því að klára þessa blessuðu Landeyjarhöfn, höfn sem Sigurður Áss telur að geti ekki orðið betri, hugmyndir um stærri höfn andvana fæddar og staðsetningin sé sú besta sem völ er á við suðurströnd Íslands. Ekki ætla ég að dæma neitt um staðsetninguna, en ég leyfi mér stórlega að efast um að hugmyndir um stærri höfn séu andvana fæddar. Ég hef fylgst mjög vel með þessum hafnarframkvæmdum, allt frá kynningu Sigurðar Áss og félaga í upphafi þegar var verið að „markaðssetja höfnina“ og fram til dagsins í dag. Á kynningarfundum var því haldið fram að með staðsetningu Landeyjarhafnar, nákvæmlega á þeim stað sem höfnin er nú, væru möguleikarnir fyrir þessa höfn nánast ótakmarkaðir og ef menn myndu vilja að þetta yrði stórskipahöfn þá væri ekkert því til fyrirstöðu að lengja hafnargarða eins og mönnum listi. Því miður virðast sömu aðilar hafa snúið við blaðinu, telja breytingum á höfninni allt til foráttu og hugmyndir um slíkt andvana fæddar. Þeir hafa gefist upp. Hefur enginn annar rétt fyrir sér ef hann er annarrar skoðunar? Ég er enginn sérfræðingur í hafnargerð og kemur það örugglega engum á óvart, en ég hlusta á hvað fólk hefur að segja og það þarf ekki að segja mér að allir aðrir, en Sigurður Áss Grétarsson og skoðanabræður hans, hafi vitlaust fyrir sér, sama hverjir þeir eru. Sem betur fer eru fjölmargir á annarri skoðun og því enn von um að höfnin verði kláruð. Spurningu ósvarað Ég spurði nokkurra spurninga í bréfi mínu varðandi tillögur sem sérfræðingar lögðu til að breytingum á Herjólfi svo hann ætti auðveldara með að sigla í Landeyjarhöfn, hverjar þær tillögur hefðu verið, hverjar framkvæmdar og hver hafi tekið ákvörðum um að sleppa breytingum hafi þeim verið sleppt. Fram kemur meðal annars í svari Sigurðar að tillögu um að setja skutskegg á Herjólf hafi verið látin bíða. Enn vantar svar við því hver tók þá ákvörðun og hver voru rökin? Þá væri einnig fróðlegt að upplýst verði: bíða með annað, þar til hvenær? Er enn ein frátöfin í vændum vegna verka sem ákveðið var að láta bíða?   Allt er hægt ef vilji er fyrir hendi Þó það tengist þessu máli ekki má hér í lokin geta þess til gamans að ýmislegt er nú hægt sem er þó flóknara en hafnargerð og menn gefast ekki upp. Rétt í þessu var verið að lenda fyrirbæri á við þvottavél á halastjörnu, en það er nú annað mál. Með vinsemd og kveðju. Guðmundur Þ. B. Ólafsson íbúi í Vestmannaeyjum.    

Til styrktar Kristni Frey Þórssyni og dætrum hans eftir missi eiginkonu og móður

Kristinn Freyr Þórsson var grunlaus um að konan hans væri við dauðans dyr þegar hún var lögð inn á Landspítalann í ágúst en nokkrum dögum síðar var hún öll og tvær dætur þeirra móðurlausar. Styrktartónleikar haldnir á sunnudaginn.   „Ég er sjómaður en hef verið frá vinnu utan heimilis síðan í febrúar. Dæturnar hafa þurft á mér að halda," segir Kristinn Freyr Þórsson sjómaður sem missti konu sína, Ólöfu Birnu Kristínardóttur, í byrjun september. Dæturnar, Kristín Helga og Ólöf Erla, eru þriggja og eins árs.   Ólöf Birna hafði hormónatengdan sjúkdóm sem fyrst varð vart þegar hún fór á pilluna, að sögn Kristin Freys. „Hún fór seint til læknis og var þá komin með æxli í brjósti og nára en með réttum lyfjum var hún nær laus við þau árið 2010," lýsir hann og heldur áfram: „Þegar hún varð ólétt fyrst varð hún að hætta á lyfjunum og æxlin komu aftur, læknarnir lögðu ekki í að taka þau, enda voru þau til friðs. Á meðgöngu yngri dótturinnar seig á ógæfuhliðina, æxlin stækkuðu og fjölguðu sér og áformað var að nema þau burtu, barnið var tekið sjö vikum fyrir tímann en læknar töldu skurðaðgerð of áhættusama. Þá fóru að myndast sár í húðinni með sýkingum og blæðingum. Samt var Ólöf ótrúlega kraftmikil og jákvæð. Það bjóst enginn við að þetta færi svona."   Bjartsýnin jókst í ágúst er læknarnir náðu að loka sárinu, að sögn Kristins Freys.  „Við skruppum þá á æskuslóðir Ólafar Birnu í Hrútafirðinum. 27. ágúst, daginn sem við komum til baka, hélt hún að hún væri með ælupest en konu frá Heimahlynningu leist ekki á blikuna og fór með hana upp á Kvennadeild. Daginn eftir var hún komin í öndunarvél og stuttu seinna var hún dáin. Það var rosalegt áfall."   Fram undan eru flutningar til Eyja hjá Kristni Frey og dætrum því þar er öll fjölskyldan hans. „Ég reikna með að fara á sjóinn aftur," segir hann. „Ef það gengur ekki upp fer ég að læra eitthvað annað."   Á sunnudaginn verða styrktartónleikar vegna þessarar litlu fjölskyldu í Guðríðarkirkju í Grafarholti, á vegum Kirkjukórs Lágafellssóknar. Þeir nefnast Jólaljós. Fjöldi mætra tónlistarmanna kemur þar fram og má nefna Ragga Bjarna, Bjarna Ara, Birgi Haraldsson rokkara og Kristínu R. Sigurðardóttur sópransöngkonu.  (Fréttablaðið greindi frá)

Svona lítur gríska ferjan út í dag

„Við vorum nokkrir Eyjamenn á ferðalagi í Grikklandi um daginn og datt í hug á að kíkja á ferjuna Achaeos sem siglir á milli grísku Eyjanna. Það var niðurstaða okkar að hún komi vel til greina fyrir Vestmannaeyjar. Tekur mun fleiri bíla og farþega en Herjólfur og komi í ljós hún að henti til siglinga í Landeyjahöfn yrðum við laus við þann tappa sem ég held að við sitjum uppi með ef ferjan sem nú er á teikniborðinu verður fyrir valinu,“ sagði Sigurmundur Gísli Einarsson, framkvæmdastjóri Viking Tours, ferðafrömuður í Vestmannaeyjum og áhugamaður um bættar samgöngur um Landeyjahöfn. „Ég hef verið að skoða þessa ferju í nokkurn tíma og kostar hún innan við tvo milljarða króna. Einnig er möguleiki á kaupleigu til tveggja ára sem gæti verið sá tími sem við þurfum til að kanna hvort hún hentar eða ekki. Hún er í virtu flokkunarfélagi og smíðuð samkvæmt Evrópustöðlum þannig að hún er klár til siglinga hér á milli.“ Achaeos tekur 170 bíla á tveimur þilförum og 1000 farþega og var smíðuð 2006. Ferjan er í heild 87 metra löng, 77 metrar við sjólínu, 16 metra breið og ristir 3,5 metra fullhlaðin. „Hún er nokkru lengri en Herjólfur sem er 70 metrar. Á móti kemur að hún er tvístefnungur og þarf ekki að snúa í höfn. Með fjórar skrúfur, tvær á hvorum enda sem snúa má 360 gráður. Það er því full stjórn á skipinu þó það fái á sig hliðarstraum eins og gerst hefur við Landeyjahöfn.“   Ferjan gæti verið komin í gagnið í vor Sigurmundur hefur kynnt ferjuna fyrir fjármála- og innanríkisráðuneyti sem bæði hafa beðið um frekari gögn. „Ég talaði við ráðuneytin í ágúst og það nýjasta er að allir þingmenn Suðurkjördæmis hafa beðið um fund með vegamálstjóra til að ræða við hann hvort Achaeos komi til greina sem nýr Herjólfur.“ Sigurmundur sagði að vissulega þurfi að gera breytingar á aðstöðu fyrir ferjuna bæði í Vestmannaeyjum og í Landeyjahöfn. „Það þarf að gera hvort sem er því samkvæmt spám er gert ráð fyrir á milli 700.000 og 800.000 farþegum milli lands og Eyja árið 2017,“ sagði Sigurmundur sem segir ekki til setunnar boðið. „Það þarf að vinna hratt og fá stjórnvöld í lið með okkur. Gangi allt eftir gæti ferjan verið komin í gagnið í vor. Í henni er fyrsta flokks aðstaða fyrir farþega og fljótlegt að lesta og losa. Verði hún leigð til tveggja ára er það ekki mikill kostnaður í heildardæminu. Heppnist tilraunin erum við komin með skip sem getur þjónað okkur næstu árin og mætt auknum ferðamannastraumi til Eyja. Þvert á það sem ég held að verði raunin með ferjuna sem nú er ætlunin að smíða.“ Í febrúar og mars sl. flutti Víkingur, farþegabátur Vikingtours, 2500 farþega í Landeyjahöfn. „Við erum að semja við ráðuneytið um að hefja siglingar á ný og byrjum við fljótlega,“ sagði Sigurmundur að endingu.   Smelltu hér til að sjá fleiri myndir.   Með fréttinni fylgir svo stutt myndband af ferjunni í siglingu.  

Margrét Eir og Páll Rósinkranz með tónleika á Háalofti:

Margrét Eir og Páll Rósinkranz munu koma fram á tónleikum á Háaloftinu á morgun, föstudag. Á tónleikunum taka þau lög af nýjum disk þeirra, If I needed you en á disknum eru þekkt amerísk þjóðlög sem þau, ásamt hljómsveitinni Thin Jim, hafa sett í nýjan búning.   Tónlistarunnendur þekkja vel til þeirra Margrétar Eirar og Páls Rósinkranz en bæði eiga þau að baki langan og farsælan feril í íslensku tónlistarlífi. Hljómsveitina Thin Jim skipa þeir Jökull Jörgensen, Andrés Þór Gunnlaugsson, Kjartan Guðnason og Davíð Sigurgeirsson. „Við hlökkum mikið til að koma til Eyja. Það er orðið nokkuð síðan ég kom að skemmta en ég kom reyndar til Eyja í sumar,“ sagði Margrét í samtali við Eyjafréttir. „Diskurinn okkar er að koma til landsins á fimmtudag og við munum taka hann með okkur til Eyja. Við munum auðvitað kynna hann, taka lögin sem á honum eru en laumum einnig öðrum lögum með.“ Hvernig tónlist er þetta? „Þetta eru amerísk þjóðlög og lög sem eru í þeim klassa, svona bluegrass country fílingur, svo ég sletti nú almennilega. Það eru tólf lög á diskinum en eitt lagið kemur tvisvar fyrir, annars vegar á ensku og svo íslensku. Jökull bassaleikari semur mikið af textum og hann hristi þetta fram úr erminni.“ Margrét segir að hún og Páll hafi reglulega komið fram en ekki unnið eins mikið saman og nú. „Við höfum gengið með þessa hugmynd bæði í nokkur ár en það var ekki fyrr en í sumar sem við létum verða að því að koma saman og taka upp. Við höfum verið að kynna nýja diskinn, erum búin að halda þrenna tónleika en alls munum við halda sex tónleika. Svo hlakka ég líka mikið til að kynnast nýja staðnum, Háaloftinu því þangað hef ég ekki komið áður,“ sagði Margrét Eir að lokum.    

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Íþróttir >>

Tryggvi Guðmundsson nýr aðstoðarþjálfari ÍBV

Tryggvi Guðmundsson fyrrum leikmaður skirfaði nú rétt í þessu undir samning við ÍBV. Hann verður aðstoðarþjálfari Jóhannesar Harðarsonar. Tryggvi sagði í samtali við Eyjafréttir vera virkilega ánægður með að vera komin heim. ,,Ég er ángæður og stoltur að vera komin heim. Hér vil ég vera og ætla láta til skara skríða." Tryggvi vildi hefja þjálfaraferilinn með ÍBV ,,Ég vildi byrja ferilinn hér heima, það er gott að vera komin heim, þetta var alltaf stefnan að byrja þjálfa þegar maður var hættur að spila,"sagði Tryggvi   Fréttatilkynning fra Knattspyrnuráði Knattspyrnuráð ÍBV hefur gengið frá ráðningu Tryggva Guðmundssonar sem aðstoðarþjálfara mfl. karla ÍBV í knattspyrnu.  Samningur aðila er til þriggja ára og mun Tryggvi sjá um þann hóp leikmanna ÍBV sem verða búsettir í Reykjavík á undirbúningstímabilinu. Tryggvi mun starfa með nýráðnum þjálfara liðsins, Jóhannesi Þór Harðarsyni í því þriggja ára verkefni sem miðar að því að koma ÍBV í fremstu röð, og byggja upp lið sem hefur það markmið að ná betri árangri en undanfarin ár.  Einnig mun Tryggvi koma að mótun leikmanna annarra flokka félagsins ásamt aðalþjálfara, í góðu samstarfi við þá þjálfara sem starfa hjá félaginu.  Markmið beggja, félagsins og Tryggva, er að byggja upp lið sem leikur skemmtilega knattspyrnu, byggir á þeirri Eyjastemmingu sem lið ÍBV á að byggja á, og síðast en ekki síst að efla yngri leikmenn liðsins.Tryggvi er vel þekktur sem einn besti knattspyrnumaður sem Eyjarnar hafa alið af sér.  Tryggvi lék í mörg ár hérlendis með Eyjaliðinu og varð fljótt einn af lykilleikmönnum þess liðs.  Tryggvi lék með Eyjaliðinu árin 1992-1993, 1995-1997 og 2010-2012.  Hann varð fljótt alræmdur inni í teig andstæðingana og varð markakóngur efstu deildar árin 1997 og 2005. Einnig varð hann Íslandsmeistari með ÍBV árið 1997 og fór eftir það tímabil í atvinnumennsku í Noregi.  Þar lék Tryggvi árin 1998-2003 með liðum Tromsö og Stabæk með góðum árangri.  Árið 2005 lék Tryggvi með liði Örgryte í Svíþjóð og kom aftur heim árið 2005 og lék með liði FH á miklu velgengistímabili þar sem margir titlar komu í hús. Árið 2010 kom Tryggvi svo aftur heim til ÍBV og tók þátt í að búa til öflugt Eyjalið sem barðist um Íslandsmeistaratitilinn árin 2010-2012.Tryggvi á að baki leiki með öllum landsliðum Íslands og þar af 42 A-landsleiki, Tryggvi Guðmundsson hefur stórt Eyjahjarta, og hefur mikinn metnað fyrir því að ÍBV byggi upp öflugt lið. Nú mun Tryggvi verða hluti af þeim hópi leikmanna, þjálfara og knattspyrnuráðsmanna sem munu sameiginlega í góðu samstarfi efla ÍBV, búa til öflugt lið og hlúa vel að yngri leikmönnum liðsins.Knattspyrnuráð ÍBV býður Tryggva velkominn til starfa. ÁFRAM ÍBV, alltaf og alls staðar.

Stjórnmál >>

Fyrsti fundur bæjarstjórnar í dag

Bæjarstjórn Vestmannaeyja kemur saman í dag í fyrsta sinn á nýju kjörtímabili.  Niðurstaða bæjarstjórnarkosninganna í vor, voru á þann veg að Sjálfstæðisflokkur fékk fimm bæjarfulltrúa en Eyjalistinn tvo.  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn eru Elliði Vignisson, Páley Borgþórsdóttir, Páll Marvin Jónsson, Trausti Hjaltason og Birna Þórsdóttir en fulltrúar Eyjalistans eru Jórunn Einarsdóttir og Stefán Óskar Jónasson.  Elliði, Páley, Páll Marvin og Jórunn sátu öll í bæjarstjórn á síðasta kjörtímabili.  Stefán Óskar hefur áður verið í bæjarstjórn og var varamaður á síðasta kjörtímabili en þau Trausti og Birna eru ný.  Bæjarstjórnarfundurinn fer fram í Eldheimum og hefst klukkan 18:00.   „Þegar ég kom inn í bæjarstjórn 2002 voru útsvarstekjur á hvern íbúa á verðlagi þess árs rétt liðlega 200.000 krónur en á síðasta ári voru þær hátt í 475.000 krónur,“ sagði Stefán í samtali við Eyjafréttir, sem kom út í gær.   „Staðan í dag opnar á tækifæri að gera meira fyrir bæjarbúa og bæjarfélagið í heild. Ég er ekki að mæla með óráðsíu í fjármálum en það má gera betur á ýmsum sviðum. Auðvitað veltur þetta mikið á á sjávarútvegi og afkomu atvinnulífsins almennt. Á kjörtímabilinu 2002 og 2006 vorum við, ég og núverandi bæjarstjóri, Elliði Vignisson, að skoða þann möguleika á að rífa blokkina Áshamar 75 ef það gæti létt á skuldum bæjarins. Engum dettur það í hug í dag en sterkari innviðir bæjarfélagsins eru líka verðmæti,“ sagði Stefán.   Viðtalið má lesa í heild sinni í Eyjafréttum.  

Greinar >>

Aðgát skal höfð.................

Einn af kostum þess að búa í litlum byggðarlögum er nálægðin við allt og alla. Stutt að fara og yfirleitt mikil samkennd meðal fólks. Ef einhver lendir í áföllum eru bæjarbúar gjarnir að leggja þeim lið, bæði með knúsi, fallegum orðum og fjárstyrkjum ef svo ber undir. Þeir sem búa í stórum byggðarlögum horfa oft öfundaraugum til þessara kosta lítilla byggðarlaga. Andstæða þessa er eineltið, kjaftasögurnar og dómharkan. Samheldnin er oft ofmetin, því hún hefur eins og krónupeningurinn, sínar tvær hliðar. Hversu oft hefur maður ekki heyrt af fólki sem ekki vill koma t.d. á árgangsmót, vegna þess að það á slæmar minningar af einelti eða útskúfun af því það féll ekki að samfélaginu. Maður á móti manni geta rætt málin, en ef milliliðurinn er t.d. samskiptamiðill, facebook, kommentakerfi blaða o.þ.h. þá er oft meira sagt en hægt er að standa við og orðfærið eftir því. Það er ekki auðvelt fyrir þann sem stígur út af sporinu að ætla sér að vera þátttakandi áfram í litlu samfélagi, hversu ágæt sem sú persóna annars er. Miskunnarleysið getur verið algert og dómharkan mikil. Þetta er andstæða samkenndarinnar sem t.d. Vestmannaeyingar eru þekktir fyrir, því þá er uppi hin hliðin á krónupeningnum. Það segir gamalt þekkt spakmæli að aðgátar skuli höfð í nærveru sálar. Sú sál er ekki endilega sú sem miskunnarleysið og dómharkan er að beinast að, heldur kannski frekar sál barnanna, eiginkonu, foreldra og systkina. Hugsum til þeirra áður en við beitum þessu miskunnarleysi og dómhörku, - hinni hliðinni á samkenndinni sem við Vestmannaeyingar höfum lengi verið þekktir fyrir.