Hvítur hrossagaukur?

Sigríður Högnadóttir, ljósmyndari og náttúruunnandi var útá Eyju í fyrrakvöld og rakst þá á þennan fugl, sem hún telur vera hvítur hrossagaukur. Sjálf er hún viss um tegundina. Kannski er einhver fuglaáhugamaður sem getur sagt til um það. Um hrossagaukinn segir að hann sé  mýrisnípa, er af strandfuglaætt. Fuglinn er þekktur fyrir söng og flug sem er afar heillandi og fagurt, þar er á ferð mikið undur því fuglinn hneggjar meðan á fluginu stendur. Það fer þannig fram að fuglinn lætur sig falla nokkra metra og tekur sig síðan upp aftur í sömu hæð á meðan hann hneggjar. Hann er 25-27 cm á lengd, rúmlega 120 g og með 44-47 cm vænghaf. Hrossagaukurinn er dökkbrúnn að ofan, á kollinum og á baki er hann með dökkar og ljósar rendur. Hann er ljós að neðan með stóran, sterkbyggðan gráan gogg og stutta mógula fætur.   Fuglinn kemur í apríl eftir vetrardvöl á Írlandi en þangað fer mest af fuglunum sem eiga sumardvöl hér á Íslandi. Hann lifir aðallega á skordýrum og ánamöðkum og aflar fæðu sinnar þannig að hann stingur nefinu á kaf í leðju og hreyfir það svo til og frá og étur allt sem hann finnur þar ofan í án þess að draga nefið upp úr leðjunni. Gaukurinn er mikið á ferðinni um nætur en hvílir sig á daginn. Fuglinn hefur gert mörgum manninum bylt við því hann kúrir sig niður þangað til maður er kominn alveg að honum, þá flýgur hann mjög snöggt í burtu með miklum skrækjum. Kjörlendi hans er mýrlendi, heiðar og kjarrlendi. Stuttu eftir komuna til landsins hefst hreiðurgerðin. Hann verpir svo í maí. Eggin eru yfirleitt 4 (1-6) þau eru fölgræn að lit eða ólífubrún að grunnlit með dekkri blettum. Útungun tekur 18-20 daga, ungarnir verða svo fleygir eftir 19-20 daga og kynþroska 1-2 ára.  

Ekkert þokast í samningsátt

Verkfall undirmanna á Herjólfi hófst 5. mars á þessu ári en verkfallið stóð frá 17 síðdegis til 8 að morgni daginn eftir og um helgar. 21. mars var föstudegi svo bætt við verkfallið sem þýddi að ekkert var siglt milli lands og Eyja frá föstudegi fram á mánu­dag og aðeins ein ferð á dag, hina fjóra dagana. Alþingi samþykkti svo lög á verkfall undirmanna Herjólfs og var verkfallinu frestað til 15. september, eða eftir mánuð. 29 þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, lagði fram, 13 voru á móti og 5 sátu hjá.   Lítið að gerast Eins og áður sagði er deilan í hnút og ekkert hefur hreyfst í samningaviðræðum frá því að lögin voru sett á verkfallið. „Nei, nei, það er ekkert að frétta,“ sagði Jónas Garðarsson hjá Sjómannafélagi Íslands. „Sáttasemjari flautaði þetta af fram í miðjan ágúst og málið var í raun og veru sett í geymslu strax eftir lagasetninguna. Það var greinilegt að þegar þú pantar svona lagasetningu, og færð hana, þá er hún gerð í þágu þeirra sem um hana biðja. Enda kom svo í ljós að með lagafrumvarpinu fylgdi greinargerð sem ég gat ekki betur séð en að væri komin frá bæjarstjóranum í Eyjum. Það voru einu skjölin sem fylgdu lagafrumvarpinu á sínum tíma.“   Jónas segist ekki búast við öðru en að verkfall skelli á að nýju með sama hætti 15. september, ekkert unnið milli kl. 17 og 8 og ekkert á föstudögum, laugardögum og sunnudögum. Hann segist jafnframt telja það verkfallsbrot ef annað skip verði í siglingum milli lands og Eyja á meðan verkfall stendur yfir. „Það er verkfallsbrot þegar annar aðili kemur og leysir af í stað þeirra sem eru í verkfalli. Það sama hlýtur að gilda með Baldur.“   Samkvæmt upplýsingum, sem fengust hjá Samtökum atvinnulífsins, er það ekki talið verkfallsbrot ef Baldur er í siglingum í stað Herjólfs enda séu bæði dómar og fordæmi sem styðji það.  

ÍBV sektað um 150 þúsund

ÍBV hefur verið sektað um 150 þúsund krónur vegna kynþáttaníðs í garð Farids Zato, leikmanns KR.  Þetta kemur fram á Vísi.is en þar staðfestir Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ að ÍBV hefði verið sektað.  Stuðningsmaður ÍBV á leiknum kallaði til Zato með þessum afleiðingum en fyrir vikið hafa stuðningsmenn ÍBV í heild sinni verið stimplaðir í sumum fjölmiðlum og í umræðu á facebook var skuldinni skellt á unga stuðningsmenn í Hvíta riddurunum.  Stuðningsmaðurinn sem um ræðir var hins vegar ekki í þeirra hópi, eftir því sem heimildir Eyjafrétta herma.   Yflýsing frá ÍBV Í ljósi úrskurðar aga og úrskurðarnefndar KSÍ vegna leiks ÍBV og KR í undanúrslitum Borgunarbikarsins þann 31. júlí sl. vill knattspyrnudeild ÍBV koma eftirfarandi á framfæri: ÍBV íþróttafélag fagnar því að KSÍ taki strangt á kynþáttaníði á knattspyrnuleikjum á vegum sambandsins. Leikmenn ÍBV hafa áður orðið fyrir slíkum árásum og síðast var knattspyrnudeild Keflavíkur sektað vegna framkomu stuðningsmanns liðsins í garð Tonny Mawejje fyrrverandi leikmanns ÍBV. Kynþáttafordómar eiga ekkert skylt við knattspyrnu og eða stuðning við knattspyrnulið. ÍBV íþróttafélag biður Abdel-Farid Zato-Arouna afsökunar á umræddum ummælum og vonast til að hann og aðrir leikmenn knattspyrnuliða þurfi ekki að líða slík ummæli, né önnur sambærileg í sinn garð í framtíðinni. Um var að ræða einn stuðningsmann ÍBV og ein vanhugsuð ummæli og ekki hægt að dæma alla stuðningsmenn ÍBV út frá þeim. ÍBV íþróttafélag unir úrskurði nefndarinnar og vill taka það fram að umræddur stuðningsmaður ÍBV hefur verið settur í ótímabundið heimaleikjabann.

Eyjar, við erum að koma....

Eyjar við erum að koma...Það var mokveiði af stórum og fallegum makríl í brælu útaf Hvalbakshalli hjá peyjunum á henni Álsey frá Eyjum í gærkvöldi og frameftir degi. Þeir eru í miklu stuði brúarpeyjarnir á Álsey þessa dagana sem og aðra daga í sumar. Núna voru það þeir Bjarki Kristjánsson. sem var skipstjóri og Ingi Grétarsson stýrimaður, voru þeir peyjar ekki lengi að skella í dallinn. Þrjú góð höl tekinn og við á leið í land með 530 m3.   En þetta tók skemmri tíma að fá þennan skammt á veiðum en fyrir mig að keyra frá Landeyjarhöfn til Þórshafnar á Langanesi;) komandi aftur um borð eftir gott frí,að vísu með viðkomu í höfðaborginni í smá snúninga fyrir okkur á Álsey og eitt stykki Liverpool Open golfmót sem var tekið í leiðinni áður en brunað var í einum nettum spretti norður fyrir land þetta hefur því gengið vel í sumar og höfum við verið að landa á Þórshöfn reglulega frá því um miðjan júlí og þar áður í Eyjum.   En núna erum við á leið til Eyja aftur og fögnum við því hér um borð. Í Eyjum ættum við að vera í fyrramálið um níuleitið eða svo. það er því óvænt ánægja að koma heim aftur svona stuttu eftir að hafa farið þaðan eftir fríið og þá getum maður knúsað sex ára afmæliskútinn minn Helga Marinó bara einum degi og seint, en það er eitthvað sem maður reiknaði bara ekki með svo líf og fjör og mikið af makríl á leið heim á ný frá Álsey, svo Svandís Geirsdóttir, Styrmir Gíslason og co gerið körin klár ...makrílinn er að koma ískaldur stór og stinnur ...eða svo segir Ingi  

3ja ára stúlka hætt komin í sundlauginni

Þriggja ára gömul stúlka var hætt komin í sundlaug Vestmannaeyja um eittleytið í dag. Stúlkan var eina og hálfa mínútu í kafi áður en henni var komið á sundlaugarbakkann og endurlífgunartilraunir hófust. Arnsteinn Ingi Jóhannesson, forstöðumaður laugarinnar, segir í samtali við Vísi að björgunarafrek hafi verið unnið.  Að sögn forstöðumannsins er verið að fara yfir málin í þessum töluðu orðum og öryggismyndavélar skoðaðar. Við fyrstu sýn virðist sem stúlkan, sem var með föður sínum í lauginni, hafi losað sig við kúta sína og farið ofan í vatnið í leiklaug á útisvæði.   Arnsteinn segir að sundlaugargestur hafi brugðist fyrst við og dregið stúlkuna upp úr vatninu. Á sama tíma hafi starfsmaður innanhúss verið búinn að átta sig á vandamálinu, látið sundlaugarvörð í búri utandyra vita sem hafi borið að á sama tíma. Endurlífgunartilraunir hófust um leið og var mikil hagur í því að sá sem þar fóru fremst í flokki menn sem vissu nákvæmlega hvað þeir voru að gera. Var meðal annars um að ræða lögreglumann á Selfossi sem ættaður er úr Vestmannaeyjum auk starfsmanna á Herjólfi sem vel kann til verka við endurlífgun.  Þá segir Arnsteinn að lögreglu og sjúkrabifreið hafi borið að innan fimm mínútna. Viðbrögð hafi verið til fyrirmyndar á alla kanta.  „Viðbrögð alls staðar eftir að þetta uppgötvast eru fumlaus.“    „Hún byrjaði mjög fljótlega að kasta upp vatni og gráta,“ segir Arnsteinn um hvernig endurlífungartilraunir hafi gengið. Ekki hafi verið sérstaklega margir í lauginni í dag enda sólarlaust á Heimaey. Fólki hafi samt eðlilega verið brugðið.   „Drukknun er auðvitað alltaf alvarlegt mál en fólk verður enn skelkaðra þegar um barn er að ræða,“ segir Arnsteinn.   Að sögn lögreglunnar í Vestmannaeyjum var stúlkan flutt á sjúkrahús bæjarins og í kjölfarið send til skoðunar í Reykjavík.   Arnsteinn Ingi er afar ánægður með hvernig til tókst og segir hafa sýnt sig að öryggiseftirlit í sundlauginni í Vestmannaeyjum virki. Hann segir gesti og starfsfólk sitt hafa unnið björgunarafrek við aðstæðurnar sem sköpuðust í lauginni í dag.     visir.is

Baldur leysir Herjólf af í september

Á fundi bæjarstjórnar í í síðustu viku var fjallað um samgöngumál.  Elliði Vignisson, bæjarstjóri lagði á fram minnisblað sem hann tók saman um samgöngumál en þar kemur m.a. fram að Herjólfur mun fara í slipp í Svíþjóð í byrjun september og verði þar til loka mánaðarins.  Áætlað er að Breiðafjarðarferjan Baldur muni leysa Herjólf af hólmi en unnið verður að endurbótum á Herjólfi til að bæta siglingagetu skipsins í Landeyjahöfn.   Þetta kemur fram í minnisblaði Elliða, sem hann birti á bloggsíðu sinni, ellidi.is:   Slipptaka Herjólfs Stefnt er að því að HERJÓLFUR sigli fulla áætlun sunnudaginn 7. sept. en fari síðan á miðnætti þess dags til viðhalds og breytinga hjá Öresundsvarvet AB í Landskrona í Svíþjóð, lægstbjóðanda í sameiginlegu útboði Vegagerðarinnar og Eimskipa á viðhaldi og breytingum á Herjólfi. Gert er ráð fyrir að skipið fari í slipp í Landskrona að morgni 11. sept. og skv. tilboði verktaka tekur verkið 12 almanaksdaga, þ.e. fram til 23. sept. Í kjölfar þess er reiknað með einum degi í hallaprófun og heimsiglingu að morgni 24. sept. og að HERJÓLFUR hefji áætlanasiglingar frá Vestmannaeyjum að morgni laugardagsins 27. sept.   Vegagerðin hefur þegar aflað undanþáguheimilda innanríkisráðuneytisins fyrir siglingar Baldurs frá Vestmannaeyjum í ofangreindri fjarveru Herjólfs í haust. Þess utan hefur Vegagerðin gengið frá samningum við Sæferðir ehf um leigu Baldurs til afleysingasiglinga fyrir Herjólf á umræddu tímabili. Baldur mun því hefja áætlanasiglingar frá Vestmannaeyjum að morgni 8. sept. og halda sömu áætlun og gilt hefði ella fyrir Herjólf á umræddum tíma.   Ofangreint er þó háð fyrirvörum um að boðnir verktímar í viðgerðum Herjólfs haldi og einnig að sjólag sé innan takmarkana þeirra sem getið er í fyrrnefndu undanþágubréfi innanríkisráðuneytisins. Samningar Vegagerðarinnar og Sæferða ehf. um Baldur heimila Vegagerðinni lengri leigu á Baldri, ef til seinkana kemur á viðgerðum Herjólfs eða af öðrum ástæðum.   Helstu breytingar á Herjólfi í viðgerðahléinu frá áætlanasiglingum verða i) að stefni skipsins verður rúnað, þar sem nú er flatjárn; ii) aftari veltikilir skipsins verða verulega lengdir og iii) sett verður upp opnanlegt vatnsþétt þverskips “flóðhlið” (floodgate) á bandi 31 á bíladekki skipsins. Tvær fyrrnefndar breytingar eru ætlaðar til að auka stefnufestu skipsins, en sú síðastnefnda er forsenda fyrir frekari óbreyttum siglingum Herjólfs frá Vestmannaeyjum eftir 1. okt., 2015, þ.e. til að skipið standist hertar lekastöðugleikakröfur sem þá taka gildi skv. Evrópureglum og svo nefndri Stokkhólmssamþykkt. Þar að auki verða framkvæmd fjöldi viðhalds- og viðgerðaverkefni á skipinu og búnaði þess.   Skv. upplýsingum frá Vegagerðinni munu ofangreindar breytingar, þ.e. flóðhlið að öllu öðru óbreyttu, rýra/þrengja amk. 5 einkabílarými á ekjudekki skipsins. Ýmsir hafa þó talið að skipið kunni að bera 7 til 10 bílum færra eftir breytingu en áður. Umræddu þili þarf ekki að beita fyrr en eftir 1 okt., 2015 og fram til þess tíma eru framangreindar skerðingar eina rýrnunin á núverandi farþega-, farm- og bílaflutningagetu Herjólfs. Vegagerðin hefur þegar farið í gegnum þessi atriði með rekstraraðila skipsins.  

Grétar Þór hættir við að hætta

Hornamaðurinn snjalli, Grétar Þór Eyþórsson hefur ákveðið að spila með ÍBV næsta vetur.  Grétar Þór hafði tilkynnt að hann myndi leggja skóna á hilluna eftir síðasta tímabil en Grétar spilaði stórt hlutverk með Íslandsmeisturunum síðasta vetur og hefði orðið mikil blóðtaka ef hann hefði hætt.  Grétar skrifaði undir eins árs framlengingu og mun því vera á sínum stað í vinstra horninu hjá ÍBV í vetur.  „Það er okkur mikið gleðiefni að Grétar Þór hefur ákveðið að halda skónum frá hillunni frægu.  Hann var lykilmaður í liði ÍBV síðasta vetur og gott að geta nýtt reynslu hans áfram,“ sagði Arnar Pétursson, fyrrum þjálfari ÍBV en Arnar sér um leikmannamál liðsins fyrir handknattleiksráð ÍBV.   Grétar lék 21 leik í deildarkeppninni og skoraði 59 en lét heldur betur til sín taka í úrslitakeppninni þar sem hann lék lykilhlutverk í liði ÍBV.  Undirskriftin fór fram um borð í Herjólfi nú fyrir stundu.   „Það var í raun bara uppgangurinn á síðasta ári var ekkert að eyðileggja fyrir með ákvörðunina,“ sagði Grétar eftir undirskriftina.  „Svo voru stuðningsmennirnir og annað sem gerði það að verkum að maður verður að taka annað ár og upplifa þetta aftur.“ Grétar segist líka eiga eftir að upplifa fleira en að lyfta Íslandsmeistaratitlinum.  „Það er margt annað sem maður á eftir að afreka.  Mér langar t.d. að komast í Höllina í bikarúrslit.  Svo er tilfinningin að lyfta bikarnum og tilfinningin eftir það, það er ekki hægt að lýsa því.  Manni langar að upplifa þetta aftur.“   Nánar er rætt við Grétar Þór í meðfylgjandi myndbandi.

Lognið fór heldur hratt yfir síðasta daginn

Þjóðhátíðin 2014 er að baki en hátíðin var sem fyrr í flesta staði afar vel heppnuð.  Aðsókn hefur sjaldan verið meiri en talið er að í brekkunni í gærkvöld hafi um 15 þúsund manns tekið undir með Ingó Veðurguði sem stýrði brekkusöngnum í annað sinn.  Á undan honum voru Fjallabræður og Lúðrasveit Vestmannaeyja með vel heppnaða tónleika þar sem kallaðir voru fram þrír söngarar, Sverrir Bergmann, Jónas Sig og Helgi Björns.  Það gustaði hins vegar hressilega í Herjólfsdal í gærkvöld, þannig að um miðnætti var ákveðið að opna Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja þannig að tjaldbúar gætu leitað skjóls þar enda voru tjöld farin að fjúka í Dalnum.  Fjölmargir nýttu sér það og lögðu sig í íþróttasölunum.  Tíu fíkniefnamál komu upp í nótt, allt neysluskammtar en lög- og öryggisgæsla var mjög öflug alla helgina.  Engin líkamsárás hefur verið kærð eftir gærkvöldið þótt eitthvað hafi verið um smápústra.   Þjóðhátíðargestir flykkjast nú niður á bryggju þar sem Herjólfur og Víkingur flytja flesta gestina til Landeyjahafnar.  Flugfélagið Ernir flytur einnig hundruði gesta til Reykjavíkur og heldur uppi loftbrú milli lands og Eyja þessa stundina.  Hreinsunarstarf í Herjólfsdal hófst strax í morgunsárið og Eyjamenn eru flestir búnir að taka niður hvítu tjöldin.  Eins og alltaf er talsvert rusl eftir þjóðhátíðina en alltaf hefur gengið bæði vel og hratt fyrir sig að hreinsa Dalinn.   Þegar upp er staðið er Þjóðhátíð 2014 með þeim betri sem haldnar hafa verið.  Þetta er reyndar hægt að segja ár eftir ár, enda er hátíðin einfaldlega sú lang besta.  Ástæðan er einföld, 140 ára reynsla að baki og Þjóðhátíð verður bara betri með árunum.   Fréttinni fylgir stutt myndband frá Tuborg TV.   Smelltu hér til að sjá fleiri myndir frá gærdeginum.

Vodafone gangsetti 4G í Eyjum

Á dögunum gangsetti Vodafone fyrstu 4G senda félagsins í Vestmannaeyjum. Bættust Eyjar þar með við ört stækkandi 4G kerfi Vodafone um land allt. Tímabundnum 2G og 3G sendum hefur einnig verið bætt við á svæðinu, til að tryggja viðskiptavinum sem best net- og símasamband yfir helgina. Það ætti því enginn að þurfa að vera í slæmu netsambandi í Herjólfsdal.   4G sendar Vodafone í Vestmannaeyjum eru tveir. Varanlegur sendir hefur verið settur upp í Hánni. Færanlegur 4Gsendir verður einnig í Herjólfsdal yfir þjóðhátíð og tryggir gestum háhraðasamband í dalnum. Auk þessa verða einnig tímabundnir viðbótar-sendar fyrir bæði 2G og 3G í Eyjum yfir þjóðhátíð, m.a. á sviðinu í Herjólfsdal, til að mæta álagi ef þörf krefur.   Sum kunnugt er jafnast flutningshraði 4G tengingar á við góða heimanettengingu. Þetta þýðir sem dæmi að greiðlega er hægt að streyma tónlist og myndböndum, spila tölvuleiki og fylgjast með fréttum á ferð um landið Allt sem þarf er 4G sími eða einfaldur netbúnaður sem getur tengt eitt eða fleiri tæki við 4G netið.   4G kerfi Vodafone er í örum vexti þessa dagana. Auk Vestmannaeyja nú er kerfi félagsins einnig orðið aðgengilegt á á Siglufirði, í Eyjafirði og Skagafirði, á Egilsstöðum, Húsavík, í helstu sumarhúsabyggðum á Suðurlandi og í Borgarfirði, auk höfuðborgarsvæðisins. Það ætti því að vera auðsótt mál að vera í háhraðasambandi í sumarfríinu.“    (frétt frá Vodafone)

ÍBV kaupir 2/3 hluta miða Herjólfs

Lesandi Eyjafrétta bar sig illa í síðustu viku. Sá hafði reynt að kaupa miða fyrir eiginkonu sína á fimmtudag fyrir þjóðhátíð og aftur heim daginn eftir. Þetta gerði hann í síðustu viku en fékk þau svör að hann þyrfti að hafa samband við ÍBV-íþróttafélag til að fá far með Herjólfi á föstudeginum. Hjá ÍBV var honum bent á að fara á Dalurinn.is og kanna hvað væri laust. Þar var hins vegar ekki hægt að fá miða í Herjólf nema kaupa miða á þjóðhátíð líka. Eftir að hafa rætt aftur við starfsmenn Herjólfs kom í ljós að laust var fyrir bílinn til Eyja klukkan 10 á laugardeginum en þá var ekki laust fyrir eiginkonuna, nema þá í gegnum ÍBV. „Þetta endaði svo með því að ég keypti far fyrir hana kl: 23:00 á föstudagskvöldið ásamt miða í Dalinn, samtals krónur 18.160 kr,“ skrifaði lesandinn í orðsendingu til ritstjórnar.     Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Herjólfs segir að eins og í fyrra, kaupi ÍBV-íþróttafélag 2/3 hluta allra miða í Herjólf dagana fyrir og eftir þjóðhátíð. „Restina af miðunum seljum við beint. Þetta fyrirkomulag hefur gengið mjög vel að okkar mati en svo koma upp tilfelli þar sem þetta hentar illa. Við því er því miður lítið hægt að segja annað en það að bæði við og Þjóðhátíðarnefnd reynum eins og hægt er að aðstoða fólk í svona tilfellum en þegar stutt er í hátíðina er þetta því miður orðið ansi erfitt.“     Persónuskilríki nauðsynleg Gunnlaugur vildi jafnframt benda þeim sem keyptu miða í gegnum Dalurinn.is og hjá Herjólfi að hafa meðferðis persónuskilríki þegar komið er í Herjólf. „Allir miðar sem eru keyptir á Dalurinn.is eru t.d. skráðir á nafn og kennitölu viðkomandi og því mikilvægt að hafa persónuskilríki meðferðis.“    

Stal fartölvu upp í skuld

Það var í ýmsu að snúast hjá lögreglu í vikunni vegna hinna ýmsu verkefna sem upp komu. Rólegt var hins vegar um helgina í kringum öldurhús bæjarins og spurning hvort fólk sé að safna kröftum fyrir komandi helgi.   Aðfaranótt 22. júlí sl. var lögreglu tilkynnt um rúðubrot hjá Aska Hostel en þarna hafði rúða við hliðina á aðalinngangi verið brotin, líklega með því að sparkað í hana. Leikur grunur á hver þarna var að verki en hann hefur neitað sök. Lögreglan hvetur þá sem einhverjar upplýsingar hafa varðandi þetta umrædda rúðubrot að hafa samband.   Að morgni 23. júlí sl. var lögreglu tilkynnt um að farið hafi verið inn í íbúð að Áshamri 26 og þaðan stolið fartölvu og lyfjum. Grunur beindist fljótlega að ákveðnum aðila og við húsleit hjá þessum aðila síðdegis daginn eftir fannst tölvan. Viðkomandi kvaðst hins vegar ekki hafa stolið tölvunni heldur hafi hann fengið hana upp í skuld hjá ónefndum manni. Eigandinn var mjög þakklátur lögreglu fyrir að hafa endurheimt tölvuna.   Einn ökumaður var stöðvaður í vikunni vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, auk þess sem hann hafði ekki réttindi til aksturs ökutækis. Þá var einn ökumaður sektaður fyrir ólöglega lagningu ökutækis síns.   Tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku en í báðum tilvikum var um minniháttar óhöpp að ræða og engin slys á fólki.   Lögreglan vill minna á að útivistareglurnar gilda jafnt á Þjóðhátíð sem aðra daga ársins og hvetur foreldra og forráðamenn barna að hafa í huga velferð og öryggi barna sinna.    

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Íþróttir >>

Hugsa ekki um einhver met

KFS sigraði Vængi Júpíters með fimm mörkum gegn þremur í miklum rokleik á laugardaginn. Gauti Þorvarðarson hélt uppteknum hætti og skoraði þrjú mörk, Guðjón Ólafsson gerði eitt en það gerði Tryggvi Guðmundsson líka. Tryggvi er nú orðinn næstmarkahæsti íslenski leikmaðurinn frá upphafi. Hann er því kominn með fleiri mörk en Valdimar K. Sigurðsson og vantar einungis fimm mörk í það að komast yfir Vilberg Jónasson sem er með 217 mörk. Þessi 213 mörk Tryggva dreifast vel út um Norðurlöndin en 151 þeirra hafa komið á Íslandi og 62 í Noregi og Svíþjóð.   Við heyrðum aðeins hljóðið í Tryggva og spurðum hann nokkurra spurninga.  Nú ert þú orðinn næst markahæsti íslenski leikmaðurinn frá upphafi. Stefnan hlýtur að vera sett á það að verða sá markahæsti eða hvað? „Það er alltaf gaman að svona extra gulrótum. Ég fer nú samt ekki í leiki hugsandi um einhver met. Ég veit að sem sóknarmiðjumaður þá mun ég líklega fá mín tvö til þrjú færi í hverjum leik og bara um að gera að vera kaldur og nýta þau. En mitt hlutverk er auðvitað líka að leggja upp og ég á nú einmitt stóran þátt í þessum 15 mörkum Gauta í sumar,“ sagði Tryggvi en hann og Gauti Þorvarðarson hafa náð einkar vel saman í sumar. Báðir hafa þeir skorað fimmtán mörk og eru því tveir markahæstu leikmenn landsins í öllum deildum á þessari leiktíð. Tryggvi segir það vera erfitt að velja eitt uppáhalds mark af þessum 213. Hann nefnir þó eitt mark sem var beint úr aukaspyrnu í Frostaskjólinu árið 2011 en þá lék Tryggvi með ÍBV gegn KR-ingum.   Viðtalið allt má finna í Eyjafréttum.

Stjórnmál >>

Fyrsti fundur bæjarstjórnar í dag

Bæjarstjórn Vestmannaeyja kemur saman í dag í fyrsta sinn á nýju kjörtímabili.  Niðurstaða bæjarstjórnarkosninganna í vor, voru á þann veg að Sjálfstæðisflokkur fékk fimm bæjarfulltrúa en Eyjalistinn tvo.  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn eru Elliði Vignisson, Páley Borgþórsdóttir, Páll Marvin Jónsson, Trausti Hjaltason og Birna Þórsdóttir en fulltrúar Eyjalistans eru Jórunn Einarsdóttir og Stefán Óskar Jónasson.  Elliði, Páley, Páll Marvin og Jórunn sátu öll í bæjarstjórn á síðasta kjörtímabili.  Stefán Óskar hefur áður verið í bæjarstjórn og var varamaður á síðasta kjörtímabili en þau Trausti og Birna eru ný.  Bæjarstjórnarfundurinn fer fram í Eldheimum og hefst klukkan 18:00.   „Þegar ég kom inn í bæjarstjórn 2002 voru útsvarstekjur á hvern íbúa á verðlagi þess árs rétt liðlega 200.000 krónur en á síðasta ári voru þær hátt í 475.000 krónur,“ sagði Stefán í samtali við Eyjafréttir, sem kom út í gær.   „Staðan í dag opnar á tækifæri að gera meira fyrir bæjarbúa og bæjarfélagið í heild. Ég er ekki að mæla með óráðsíu í fjármálum en það má gera betur á ýmsum sviðum. Auðvitað veltur þetta mikið á á sjávarútvegi og afkomu atvinnulífsins almennt. Á kjörtímabilinu 2002 og 2006 vorum við, ég og núverandi bæjarstjóri, Elliði Vignisson, að skoða þann möguleika á að rífa blokkina Áshamar 75 ef það gæti létt á skuldum bæjarins. Engum dettur það í hug í dag en sterkari innviðir bæjarfélagsins eru líka verðmæti,“ sagði Stefán.   Viðtalið má lesa í heild sinni í Eyjafréttum.  

Greinar >>

Þjóðmenning og bænir

Fólk á vinstri væng stjórnmálanna í höfuðborginni hóf fyrir nokkrum árum árásir á kristna trú og iðkun hennar í grunnskólum höfuðborgarinnar. Heimsóknir presta í skólana voru bannaðar og Gideonfélaginu var bannað að gefa skólabörnum Nýja testamentið eins og það hafði gert til margra ára. Þessi góður siður Gideonfélaga hefur treyst kristna trú í landinu og gefið börnum og unglingum tækifæri til að kynnast góðum kristnum gildum sem ekki er vanþörf á í samfélagi dagsins í dag. Trúarlegum þætti jólahalds var úthýst úr skólum í höfuðborginni en jólin eru þó haldin hátíðleg á nánast hverju heimili landsins. Þetta gerðist þrátt fyrir að 86% landsmanna tilheyrðu söfnuðum sem hafa kristna trú að leiðarljósi og því ljóst að allur þorri landsmanna tilheyrir þeim sem vilja standa vörð um okkar „þjóðartrú.“ Kristin gildi eru hluti af daglegu lífi fólksins í landinu og stjórnarskráin er grundvölluð á þeim og slær vörð um kristna trú. Þessar ömurlegu árásir á kristna trú og iðkun hennar voru gerðar á vakt vinstri manna, sem við á hægri vængnum mótmæltum, en hvað er að gerast á okkar vakt?   Ríkisútvarpið undir stjórn nýs útvarpsstjóra sem ráðinn var á „okkar vakt“ ríður nú sama hestinum og þeir sem áður úthýstu kristnidómnum úr skólunum og styður nýjan dagskrárstjóra Rásar 1 í því að taka af dagskránni morgunandakt, morgunbæn og Orð kvöldsins. Ekki er vitað til að þetta dagskrárefni hafi skaðað nokkurn sem hefur hlustað á það eða aðrar kristilegar andaktir sér til yndis frá árdögum útvarps á Íslandi. Er það virkilega svo að opinbert hlutafélag okkar allra, Ríkisútvarpið, ætli að hunsa 86% landsmanna, fjölmennan en þögulan hluta þjóðarinnar sem þykir vænt um bænirnar í útvarpinu og vill hafa þær áfram? Þær eru vissulega þáttur í þjóðmenningunni, hluti af lífi fjölmargra alla ævi og því langt í frá einkamál dagskrárstjórans á Rás 1 Ríkisútvarpsins. Ég er þess fullviss að þessi ákvörðun er gerð í óþökk mjög margra, þeirra hógværu og lítillátu þegna landsins sem bera harm sinn í hljóði vegna þessarar ákvörðunar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð staðið vörð um þjóðkirkjuna og í ályktun Landsfundar má m.a. lesa: „Sjálfstæðisflokkurinn telur að kristin gildi séu þjóðinni til góðs nú sem aldrei fyrr og að hlúa beri að kirkju og trúarlífi.“ Ég, sem er kristinnar trúar eins og þorri þjóðarinnar, tek undir þessa stefnu Sjálfstæðisflokksins af heilum hug. Nýr útvarpsstjóri hefur í mörgu farið vel af stað í starfi og ég óska honum góðs gengis. Þessi ákvörðun er hins vegar algjörlega úr takti við góða hefð, siði og hlutverk Ríkisútvarpsins frá upphafi. Þetta getur ekki gerst á okkar vakt. Ásmundur Friðriksson alþingismaður.