Þrír þjófnaðir voru tilkynntir í liðinni viku

Það var í ýmsu að snúast hjá lögreglu í liðinni viku vegna hinna ýmsu mála sem upp komu. Skemmtanahald helgarinnar fór fram með ágætum og lítið um útköll á öldurhúsin.   Þrír þjófnaðir voru tilkynntir til lögreglu í liðinni viku en um er að ræða þjófnað á GSM síma í einu tilvikinu en í hinum er um að ræða þjófnað á peningum úr tveimur bifreiðum. Er talið að þjófnaðurinn úr annarri bifreiðinni hafi verið að kvöldi 16. nóvember sl. eða aðfaranótt 17. nóvember sl. þar sem bifreiðin stóð í innkeyrslu neðarlega á Heiðarvegi.   Í hinu tilvikinu stóð bifreiðin við veitingastaðinn Vöruhúsið að kvöldi 22. nóvember sl. Í báðum tilvikunum voru bifreiðarnar ólæstar og eru ökumenn og eigendur bifreiða hvattir til að læsa bifreiðum sínum en nokkuð er búið að vera um það að undanförnu að farið sé inn í bifreiðar og rótað í þeim og stolið verðmætum úr þeim.   Ekki er vitað hver þarna var að verki og eru þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um það beðnir um að hafa samband við lögreglu.   Eitt mál vegna brota á vopnalögum kom til kasta lögreglu í liðinni viku en eftir ábendingu hafði lögreglan afskipti af manni inni á einum af öldurhúsum bæjarins sem var með hníf í fórum sínum. Má viðkomandi búast við sekt fyrir ólöglegan vopnaburð.   Einn ökumaður var stöðvaður vegna gruns um ölvun við akstur og hafa þá alls 8 ökumenn verið stöðvaðir vegna gruns um ölvun við akstur það sem af er árinu en á sama tíma í fyrra voru þeir orðnir 10. Í ár hafa hins vegar 14 ökumenn verið stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna en á sama tíma í fyrra voru þeir 9.   Tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt lögreglu í liðinni viku en í öðru tilvikinu blindaðist ökumaður af sólinni, sem var lágt á lofti, með þeim afleiðingum að bifreiðinn sem hann ók lenti á kyrrstæðri bifreið. Í hinu tilvikinu missti ökumaður stjórn á ökutæki sínu í hálku með þeim afleiðingum að bifreið hans lenti á ljósastaur. Ekki var um slys á fólki að ræða í þessum óhöppum ein tjón varð bæði á bifreiðum sem og ljósastaurnum.   Laust eftir hádegi þann 18. nóvember sl. var lögreglu tilkynnt um slys í fjárhúsi suður á Eyju en þarna hafði maður fallið eina fimm metra niður af þaki, en hann hafði misst meðvitund við fallið. Maðurinn skaddaðist m.a. á hrygg við fallið og var fluttur á sjúkrahús með sjúkrabifreið.          

Ólíkar þríburasystur úr Eyjum

Þríburasystur fæddust á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja fyrir sextíu árum. Þær eru einu þríburarnir sem vitað er til að hafi fæðst í Vestmannaeyjum. Systurnar ætla að halda saman upp á afmælið í dag. Fæðing systranna vakti talsverða athygli og var m.a. greint frá henni í bæjarblaðinu Fylki og í landsblöðum. Foreldrar þeirra voru Sigríður Sigurðardóttir og Kolbeinn Sigurjónsson á Hvoli í Vestmannaeyjum. Þau áttu fyrir Kolbrúnu Hörpu, sem fæddist í febrúar 1954, og var á öðru ári þegar hún eignaðist systurnar þrjár, þær Önnu Ísfold, Marý Ólöfu og Guðrúnu Fjólu. Það má nærri geta hvort það hefur ekki verið nóg að gera með fjögur bleiubörn og að þurfa að þvo taubleiurnar í kolakyntum þvottapotti fyrir daga sjálfvirku þvottavélanna. Hjónin eignuðust svo þrjú börn til viðbótar, Ingibjörgu Sigríði 1957, Elvu Sigurjónu 1963 og Kolbein Frey 1973.   Margfaldur hjartsláttur Einu sinni þegar Anna ljósa var að hlusta mömmu í mæðraskoðun sá mamma að hún eldroðnaði í framan. Svo sagðist Anna ljósa heyra meira en einn hjartslátt,« sagði Marý um aðdragandann að fæðingu þeirra. Sigríður var send í röntgenmyndatöku því þá var ekki búið að finna upp ómskoðun. »Þá sáust tvö fóstur og svo var eitthvað miklu minna á bak við þau. Það var jafnvel haldið að það væri æxli en það hlýtur að hafa verið Anna því hún var minni en við Guðrún þegar við fæddumst.« Marý sagði að á þessum árum hefði ekki tíðkast að feður væru viðstaddir fæðingar barna sinna. Kolbeinn var því heima á Hvoli, en þau voru ekki með síma. Það var hins vegar sími á efri hæðinni. Hann fékk að hringja þar á spítalann.   Fyrst þegar hann hringdi sagði kona sem svaraði: Það er komið eitt og eitthvað eftir enn,« sagði Marý. »Anna fæddist fyrst og það voru fimm mínútur á milli mín og hennar. Næst þegar pabbi hringdi var sagt: Það eru komin tvö og eitthvað eftir. Pabbi skrönglaðist niður stigann. Tuttugu mínútum síðar fór hann aftur upp og hringdi. Þá var sagt: Það eru komin þrjú og það er eitthvað eftir enn. Þá hætti pabbi að hringja! Fylgjan var svo stór að þau héldu að fjórða barnið væri á leiðinni.« Vógu saman eins og stórt barn Anna Ísfold var fjórar merkur og 40 sentimetra löng, næst kom Marý Ólöf og Guðrún Fjóla síðust. Þær voru níu merkur hvor og 46 sentimetra langar, að því er sagði í Fylki. Marý hafði hins vegar heyrt að þær Guðrún hefðu verið átta merkur en Guðrún hafði heyrt að þær hefðu verið sex merkur hvor. Ljósmóðir var Anna Pálsdóttir og læknir Einar Guttormsson. Anna var nefnd eftir Önnu ljósmóður en Ísfoldarnafnið kom úr móðurættinni frá Vatnsdal í Eyjum. Marý var nefnd eftir Marie ömmusystur sinni og manni hennar Ólafi Kristjánssyni, sem var bæjarstjóri í Vestmannaeyjum og bróðir Oddgeirs Kristjánssonar tónlistarmanns. Guðrún var nefnd eftir hjúkrunarkonu á spítalanum en Fjólunafnið var út í loftið. Eins klæddar í æsku Marý sagði að þær systurnar hefðu yfirleitt verið eins klæddar á yngri árum. »Ef það var saumað á okkur þá var saumað þrennt alveg eins,« sagði Marý. »Við Anna erum dökkhærðar og brúneygar en Guðrún ljóshærð og græneyg eins og mamma var.« Systrunum ber saman um að þær séu mjög ólíkir persónuleikar og ekki eins í sér. Fylgjunni var hent á spítalanum áður en gengið var úr skugga um hvort þær Anna og Marý hefðu í raun verið eineggja tvíburar. Þegar þær komust á unglingsár fóru þær að velja sjálfar á sig föt og hættu að ganga eins klæddar. Marý sagði að þær Anna hefðu átt sama vinahóp en Guðrún átt aðra vini.   Okkur Önnu þótti voðalega erfitt þegar fólk spurði hvort við værum ekki alveg eins og hugsuðum eins því við vorum líkar í útliti,« sagði Marý. Hún sagði að það hefði farið svolítið í taugarnar á þeim að vera alltaf spyrtar saman sem »þríburarnir« og talað um þær sem eina heild en ekki sjálfstæða einstaklinga. Marý og Anna búa nú skammt hvor frá annarri í Vestmannaeyjum en Guðrún býr í Vogunum. Engin þeirra systra hefur eignast fleirbura. Anna eignaðist tvö börn, Marý fimm og Guðrún tvö. Marý sagði að þær systur hittust sjaldan allar þrjár núorðið. Þær ætla ekki að halda stóra veislu í tilefni afmælisins en fara saman í dekur og svo út að borða í Vestmannaeyjum á afmælisdaginn.   Viðtalið birtist í Morgunblaðinu í dag.

Kostnaður við hönnun á nýjum Herjólfi orðinn 147 milljónir

 Kostnaður við hönnun á nýjum Herjólfi, sem siglir milli lands og Eyja, var orðinn rúmar 147 milljónir króna í september síðastliðinn.   Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.   Í svarinu kemur fram að kostn­aður við ráðgjöf og sérfræðiaðstoð vegna hönnunar hafi numið 136,8 milljónir króna, og kostnaður vegna vatnslíkanprófana erlendis numið 139.200 evrum og var greitt fyrir þá vinnu um 21,5 milljónir króna.   Í svari við fyrirspurn Ásmundar um hver sé viðbótarkostn­aður vegna lengingar ferjunnar um 4,2 metra og tankprófana á stærri ferju segir að mat ráðgjafa Vegagerðarinnar sé að hann sé óverulegur - innan við tvö til fjögur prósent - þar sem fyrst og fremst sé um aukið stálmagn að ræða. Tilboð norska fyrirtækisins Polarkonsult í viðbótartankprófanir nemi 64.900 evrum, eða um 9,4 milljónir króna.   Ásmundur spurði jafnframt hversu hár hönnunarkostn­aður nýrrar ferju hafi upphaflega verið áætlaður.   „Algengt er að smíði og hönnun sé boðin út saman. Miðað er við að hönnunarkostn­aður ferju af þessari stærðargráðu geti numið allt að 15% af heildarkostnaði. Ákveðið var að skipta verkefninu upp og bjóða út fyrsta hluta hönnunar sérstaklega. Áætlaður hönnunarkostn­aður var 800.000 evrur (um 116 millj. kr.), þar af voru áætlaðar 300.000 evrur (44 millj. kr.) í prófanir og hermanir. Undanskilið í hönnunarkostnaði var eftirlit með hönnun, ráðgjöf við vinnuhóp, þátttaka í hermun, frekari prófanir o.fl.,“ segir í svari innanríkisráðherra.     vísir.is greindi frá. 

Hættum að fæða rotturnar

Það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir því að með því að láta matarafganga fara í holræsakerfið sé verið að fæða rotturnar sem þar dvelja, misjafnlega margar hverju sinni, fer eftir fæðuframboði og árangri í meindýraeyðingu. Spikfeitar rottur hafa á stundum litið dagsins ljós þegar þær hafa skriðið upp um opin niðurföll og þá verður fjandinn laus, sem skiljanlegt er.   Mjög mikil aukning hefur verið á að heimili, fyrirtæki og stofnanir hafi sett kvarnir við niðurföll á eldhúsvöskum og í framhaldinu látið matarafganga sem ekki eru nýttir og annað lífrænt efni í vaskinn, kvörnin sett í gang og þá um leið skellt hressilegu fæðuframboði í kerfið fyrir rotturnar. Í reynd eru þessar kvarnir algjörlega óþarfar og reyndar til óþurftar, matarafgangar sem fólk nýtir ekki eiga að fara í lífrænu tunnuna og ekkert annað. Fleiri vandamál fylgja þessu aukna magni inn í holræsakerfi bæjarins svo sem aukinn og erfiðari rekstur á dælustöðvum kerfisins, en öllu öðru en regnvatni, þar sem það fer í sérstakar ferskvatnslagnir, er dælt út fyrir Eiðið með ærnum kostnaði.     Blautklútar til vandræða Annað er það sem alls ekki má setja í horræsakerfið eru blautklútar, sem og aðrir klútar, dömubindi og hverju nafni sem það nefnist annað er klósettpappír. Sem dæmi þá eru blautklútarnir mjög teygjanlegir og reglulega þarf að taka dælur í dælustöðvunum í sundur þar sem þær hreinlega stöðvast, eftir að nokkuð magn af þessu klútum hefur vafist utan um dæluverkið. Þá stífla m.a. dömubindi lagnir. Það á varla að þurfa að nefna þessi dæmi, en reynslan sýnir að ekki er vanþörf á því, því miður.   Það er kannski einkennilegt að vera að minnast á þessi atriði í dag, á Alþjóðadegi klósettsins, sem haldinn er til vitnis um að það eru ekki allir sem búa við þau sjálfsögðu mannréttindi að hafa aðgang að klósetti og dagurinn merktur sérstaklega vegna stöðu þeirra.   En það er samt þörf á ofangreindri áminningu.

Vantar ákvæði um hefndarklám

 Það er ekki knýjandi þörf á því að breyta lagaumhverfi í kynferðisbrotum en það þarf að bæta verklag og eyða fordómum þeirra sem koma að meðferð slíkra mála. Þetta kom meðal annars fram á málþingi laganema í dag um þessi mál.   Mikil reiðialda gekk nýlega yfir samfélagið vegna þess að lögreglan fór ekki fram á gæsluvarðhald yfir tveimur mönnum sem voru kærðir fyrir nauðganir íbúð í Hlíðarhverfi í Reykjavík. Þá er mjög algengt að kærur í kynferðisbrotamálum séu felldar niður. Orator, félag laganema við Háskóla Íslands, efndi í dag til málþings þar sem spurt var hvort þörf væri á breyttu lagaumhverfi í kynferðisbrotamálum?   Þörf á ákvæði um hefndarklám Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, segir að vel hafi verið haldið utan um breytingar á kynferðisbrotakaflanum í almennum hegningarlögum. „Hann hefur fylgt tiltölulega réttri þróun á því sem þarf að vera í samfélaginu. Hann hefur svarað kalli breyttra aðstæðna, tæknivæðingar og slíks. Þannig að stóra svarið er eiginlega nei, en auðvitað þurfum við alltaf að endurskoða einhverja hluti og nú tel ég tímabært að setja inn ákvæði um hefndarklám. Það er eitthvað sem þarf að smíða og setja inn, því í dag þarf að beita að beita meðákvæði sem er inni í kafla um friðhelgi og ærumeiðingarbrot. Þetta þarf að heita kynferðisbrot og á að eiga heima undir kynferðisbrotakaflanum,“ segir Páley.   Gríðarlega mikilvægt að þolendur leiti strax til lögreglu Páley bendir á að lög um meðferð sakamála séu tiltölulega nýleg og að hegningarlögin hafi verið í sífelldri þróun. Margt megi þó bæta. „Við getum gert margt til þess að breyta og bæta aðstöðu þolenda og tilkynnenda þessara brota með breyttu verklagi. Við þurfum að koma til móts við þau og tryggja þeim verndandi umhverfi þegar þau koma á lögreglustöð og tilkynna. Það liggur fyrir og við vitum það með niðurstöðum rannsókna að það eru fleiri ákærur gefnar út í málum eftir því hversu fljótt þau berast lögreglu. Því fyrr sem tilkynningar koma til lögreglu, því meiri líkur eru á því að ákæra verði gefin út hjá ríkissaksóknara,“ segir Páley. Hún bendir á að oft sé sönnunarbyrði í slíkum málum erfið þar sem þau eru milli tveggja einstaklinga. „Þannig að við þurfum að fá fólk til þess að skilja að það er gríðarlega mikilvægt að þolendur þessara brota tilkynni þau strax til lögreglu.“   Fjölmiðlaumfjöllun þungbær þolendum Talsvert var fjallað um ákvörðun lögreglustjórans í Vestmannaeyjum að veita ekki upplýsingar um kærur vegna kynferðisbrota á síðustu Þjóðhátíð. Lögreglan hafði árum saman gefið fjölmiðlum upplýsingar um hvort og þá hversu margar kærur vegna kynferðisbrota hefðu borist á Þjóðhátíð. Slíkar upplýsingar eru ekki persónugreinanlegar, hvorki eru gefin upp nöfn brotaþolum né þeim sem liggja undir grun. Páley segir að þrátt fyrir það séu slíkar fréttir þolendum þungbærar. „Við erum bara í það litlu samfélagi að fólk er svo fljótt að finna út úr því hver er hvað. Á Þjóðhátíð er það til mynda þannig að strax og tjald einhvers er horfið, einhver stúlka er týnd og enginn veit hvar hún er og hún finnst ekki. Á sama tíma kemur tilkynning í fjölmiðlum um að það hafi verið tilkynnt um brot, þá er bara búið að finna út úr því hver það er. Þetta hefur reynst brotaþolum gríðarlega þungbært. Þess vegna tel ég algjörlega ástæðulaust að það sé verið að tilkynna um þessi brot jafnóðum og þau berast lögreglu. Það má gera það seinna. Þolandanum er líka alltaf í sjálfsvald sett að ræða þessi mál við fjölmiðla hvenær sem hann vill, en að mínu mati þá er ekki eðlilegt að þessar upplýsingar fari í fjölmiðla um leið og tilkynningarnar koma inn. Það er bara svoleiðis og það er mitt mat og ég stend við það,“ segir Páley.   Ekki þörf á að breyta nauðgunarákvæði í hegningarlögum Ragnheiður Bragadóttir lagaprófessor og héraðsdómari flutti einnig erindi á málþingi laganema í dag. Þar fjallaði hún um hvort ástæða væri til að breyta nauðgunarákvæði í hegningarlögum. Ragnheiður telur að ekki sé þörf á að breyta nauðgunarákvæðinu. Hún bendir á að ákvæði um nauðgun hafi staðið óbreytt í fimmtíu ár í hegningarlögum frá árinu 1940. „Eftir það hefur þessi kafli í lögunum verið endurskoðaður tvisvar. Fyrst árið 1992 og síðan árið 2007 með löggjöf sem tók gildi þessi ár. Þannig að við höfum löggjöf núna sem byggir á fræðilegum rannsóknum og dómaframkvæmd árin á undan,“ segir Ragnheiður. Hún bendir einnig á að sótt hafi verið í fyrirmyndir frá Norðurlöndum, Þýskalandi og fleiri stöðum sem séu með framsækna löggjöf á þessu sviði. „Við sjáum líka að þegar við lítum á dómana að þeim hefur heldur fjölgað og refsingar heldur þyngst. Ég tel að þessi ákvæði, sem við höfum nú þegar, að þau virki nokkuð vel og þar er ég að tala um nauðgunarákvæði í hegningarlögum.“         RÚV.is greindi frá

Mikil þekking og reynsla til staðar og áhuginn mikill

Til stendur að hefja háskólanám í Vestmannaeyjum haustið 2016. Námið verður staðarnám í samstarfi Háskólans í Reykjavík við Háskólann á Akureyri. Námið er þrjár annir sem hægt er að taka á einu ári, haust, vor og sumar og gefur það 84 ECTS einingar. Takmarkið er að ná inn a.m.k. fimmtán nemum fyrsta árið og að þeim fjölgi árlega eftir það. Námið verður fjölbreytt og gefur diploma gráðu í haftengdri nýsköpun auk þess að gilda sem eitt ár í grunnnámi í viðskiptafræði og sjávarútvegsfræði og að einhverju leyti í tækni- og verkfræði og tölvunarfræði.     Þetta kom fram á fundi í Visku á mánudaginn þar sem Árdís Ármannsdóttir framkvæmdastjóri stýrihóps um háskólanám í Eyjum greindi frá undirbúningi sem hófst fyrr á þessu ári. Fundinn sat fólk frá fyrirtækjum, stofnunum og Vestmannaeyjabæ. Að verkefninu standa Vestmannaeyjabær, Samtök atvinnulífsins, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri, mennta- og menningarmálaráðuneyti, iðnaðarráðuneyti, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, MATÍS og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Hugmyndin varð til í Eyjum og í framhaldi af því var stýrihópurinn skipaður í apríl sl. og Árdís ráðin sem framkvæmdastjóri til sex mánaða. Áslaug Ármannsdóttir, verkefnastjóri við Háskólann í Reykjavík hefur nú gengið til liðs við hópinn og kemur hún til með að leiða vinnuna áfram næstu mánuði.     Árdís lagði áherslu á að hugmyndin byggði á mikilvægi þess að hér verði háskólanám og beinast hafi legið við að tengja það sjávarútvegi í sem víðustum skilningi. „Við erum að undirbúa að opna háskóladeild í haftengdri nýsköpun í Vestmannaeyjum þar sem staðarnámið verður hér en ekki á Akureyri eða Reykjavík. Hér er mikil þekking og reynsla á þessu sviði og áhugi atvinnulífs og samfélags mikill sem er sterkur og nauðsynlegur grunnur að uppbyggingu og starfi deildarinnar,“ sagði Árdís.   Hún benti á að með þessu sé verið að styrkja byggð í Vestmannaeyjum. „Háskólar geta spilað stórt hlutverk í byggðaþróun og með staðarnámi sem byggir á sérstöðu svæðisins skapast mikil tækifæri til uppbyggingar í nýsköpun og rannsóknum,“ sagði Árdís og bætti við að stigvaxandi þörf sé á fólki með fjölbreytta þekkingu og menntun í Eyjum. „Bara hér í Eyjum er án efa stór markhópur fyrir námið. Nemendur sem eru að útskrifast úr framhaldsskólanum, frumkvöðlar á öllum aldri, millistjórnendur og aðrir einstaklingar sem vilja bæta við sig menntun á háskólastigi. Þetta verður góður stökkpallur fyrir framtíðarstjórnendur og tækifæri fyrir þá að sýna sig og sanna í menntun og starfi. Þetta á ekki bara við um einstaklinga hér í Eyjum heldur af landinu öllu. Fyrir einstaklinga frá öðrum landshornum þá getur þessi viðvera í eitt ár í Eyjum verið eitt stórt atvinnu- og menntaævintýri á nýjum og spennandi stað. Eftir árið er síðan hægt að færa fengna menntun og þekkingu til heimabyggðar.“     Kostirnir er margir, m.a. sá að fólk bæti við einu ári hér heima eftir framhaldsskóla. „Þetta verður hagnýtt og praktískt fullgilt háskólanám með áherslu á sjávarútveg sem vekur áhuga og opnar nýjar leiðir. Það er lánshæft, bæði sem diplomanám og fyrir þá sem vilja halda áfram námi. Hentar ekki síst þeim sem vilja auka við þekkingu sína og rekstrargrunn og jafnvel stofna eigið fyrirtæki. Möguleikar tengdir sjávarútvegi eru miklir eins og þróun síðustu ára sýnir,“ sagði Árdís að lokum.    

Sýning á verkum Þórðar Ben

Í dag, fimmtudag, kl. 17.00 verður opnuð sýning í Einarsstofu, Safnahúsi í tilefni af sjötugsafmæli listamannsins Þórðar Ben Sveinssonar. Þórður er ættaður úr Eyjum, fæddist í Nýjabæ 3. desember 1945 og ólst hér upp til sex ára aldurs en þá flutti fjölskyldan til Reykjavíkur. Hann hélt sambandi við skyldfólk sitt í Vestmannaeyjum og vann á unglingsárunum tvö sumur í Fiskiðjunni.   Þórður lagði stund á myndlistarnám bæði hér heima og erlendis og árið 1969, þegar hann var 23 ára, var hann ráðinn hingað af Páli Steingrímssyni sem kennari við Myndlistarskólann. Sá vetur var einkar eftirminnilegur, það sópaði að Þórði sem bar með sér ferskan andblæ nýrra tíma bæði í myndlist og viðhorfum til þjóðfélagsins. Líklega náði dvöl hans hér hámarki með gjörningi sem hann setti upp í Akógeshúsinu vorið 1969 og vakti mikið umtal. Voru ekki allir á eitt sáttir með ágæti þeirrar uppákomu.    Á sýningunni verða nokkur verk eftir Þórð auk ýmislegs efnis sem tengist honum og dvöl hans í Eyjum, allt verk frá fyrri tíð. Við opnunina mun frændi Þórðar, Sigurður Ólafsson frá Nýjabæ, flytja kveðju frá Þórði og þeir Andrés Sigmundsson, Jóhann Jónsson, listó, og Sigurgeir Jónsson segja í stuttu spjalli frá kynnum sínum af þessum sérstæða listamanni og rifja upp ýmislegt af því sem gerðist veturinn 1969, m.a. gjörninginn í Akóges. Þeir segjast ætla að reyna að kveða niður ýmsar gamlar kviksögur og firrur sem hafa gengið frá þessum tíma og um leið bregða upp mynd af listamanninum Þórði Ben Sveinssyni sem hafi verið langt á undan sinni samtíð í svo mörgu, víðlesinn og skarpgreindur en umfram allt mikill listamaður.  Sýningin verður opin út nóvember og lýkur á afmælisdegi Þórðar, þann 3. desember. Þann dag milli kl. 12.00 og 13.00 mun Aðalsteinn Ingólfsson, listfræðingur, fjalla í hádegiserindi um verk Þórðar og Andrés Sigmundsson segja frá gjörningnum fræga í Akóges.  

Stærra og betra Kótelettukvöld

Ákveðið hefur verið að flytja Kótelettukvöldið í stóra salinn í Höllinni og þess vegna eru nokkrir miðar til sölu. Veislan verður annað kvöld, fimmtudagskvöld klukkan 19.30 þegar borðhald hefst. „Þetta verðum við að gera vegna mikillar eftirspurnar og alltaf leiðinlegt að skilja út undan. Munið að skrá ykkur og borga staðfestingargjaldið fyrir kvöldið, miðvikudagskvöld og þá eru þið inni,“ segir kótelettukóngurinn Pétur Steingrímsson.       Hann átti hugmyndina að Kótelettukvöldinu á Háaloftinu á síðasta ári sem heppnaðist frábærlega og nú er lagt upp með að gera enn betur. „Kótelettukvöldin eru að ryðja sér til rúms um allt land og eru mjög vinsæl. Ástæðan fyrir því að ég fór af stað með þetta er að mér finnst kótelettur góðar, með kartöflum, Oragrænum, rauðkáli og rabbabarasultu. Snorri Jónsson verður veislustjóri. Mun hann nú eins og þá segja eina sögu á móti hverri sem kemur úr sal,“ segir Pétur og lofar skemmtilegu kvöldi.         Aðgangseyrir er 4500 krónur sem er sama verð og í fyrra. „Fólk er beðið um að tilkynna komu sína á Fésbókarsíðu Kótelettuklúbbsins og borga miðana fyrir 15. nóvember með því að leggja inn á reikninginn okkar til að hægt verði að panta hráefni miðað við fjölda. Þúsund krónur af hverjum miða fara í styrktarsjóð Lions í Vestmannaeyjum,“ sagði Pétur og hvetur hann fólk til að fjölmenna.    

Bergvin Oddsson gefur kost á sér sem formaður Blindrafélagsins

Á síðustu vikum hef ég fengið eindregna hvatningu og stuðning frá fjölmörgum félagsmönnum Blindrafélagsins á öllum aldri, bæði á höfuðborgarsvæðinu sem og á landsbyggðinni, til þess að gefa aftur kost á mér í formannsembættið á næsta aðalfundi Blindrafélagsins sem haldin verður í upphafi næsta árs. Ég hef ákveðið að taka þeirri áskorun félagsmanna að halda áfram að vera í forystu Blindrafélagsins á næstu tveimur árum og mun því bjóða fram krafta mína til þess að leiða Blindrafélagið áfram til góðra verka.   Eftir að ég var kjörinn formaður félagsins þann 17. maí 2014 hafa tekjur vegna fjáraflana Blindrafélagsins aukist jafnt og þétt, stofnaðar hafa verið Vesturlandsdeild, Leiðsöguhundadeild, Suðurnesjadeild og AMD deild Blindrafélagsins. Allt til þess gert að efla grasrótarstarf Blindrafélagsins og færa félagsmenn á landsbyggðinni nær Blindrafélaginu og þeirri fjölbreyttu starfsemi og þjónustu sem fer fram í Hamrahlíð 17. Einnig hafa stór skref verið stigin í auknu aðgengi félagsmanna að ferðaþjónustu Blindrafélagsins og kastljósinu verið beint að málefnum barna og unga fólksins okkar. Blindrafélagið ýtti úr vör stóru ímyndarátaki Blindir sjá á vormánuðum til að varpa ljósi á ólíkar birtingamyndir sjónskerðinga og sömuleiðis að vekja athygli almennings á að blindir og sjónskertir einstaklingar eru virkir þátttakendur í samfélaginu og lifa innihaldsríku og ábyrgu lífi. Þau eru ófá verkefnin sem Blindrafélagið hefur ýtt úr vör á sl. áratugum ásamt því að ryðja úr vegi ýmsum hindrunum og fordómum í garð blindra og sjónskertra um land allt. Þótt mikið vatn hafi runnið til sjávar á síðustu áratugum eru fjölmörg óunnin verkefni til þess að auka aðgengi blindra og sjónskertra að rafrænum upplýsingum, atvinnu, samgöngum, menningu og menntun svo fátt eitt sé nefnt hér. Til þess að svo megi vera áfram þarf kraftmikla forystu Blindrafélagsins sem er tilbúin að berjast fyrir réttindum félagsmanna sinna til sjávar og sveita og vera sömuleiðis bæði vakin og sofin yfir þeim hindrunum sem félagsmenn verða fyrir á degi hverjum. Ég hóf framboðshringferð mína um landið fyrir nokkrum vikum síðan og mun á næstu vikum og mánuðum halda áfram framboðshringferð minni um landið til þess að kynna mig fyrir félagsmönnum og fjalla um þær áheyrslur sem ég hef staðið fyrir í formannstíð minni ásamt því að fjalla um það sem ég vil beita mér fyrir á næsta kjörtímabili og sömuleiðis hlusta eftir því sem félagsmönnum finnst skipta mestu máli.   Af hverju býð ég mig fram sem formaður Blindrafélagsins Ég hef brennandi áhuga á félagsmálum og ýmsum samfélagsmálum. Ég vil láta gott af mér leiða á vettvangi Blindrafélagsins og halda áfram þeirri vinnu sem formaður Blindrafélagsins að afla félaginu tekna, ryðja úr vegi ýmsum fordómum í garð blindra og sjónskertra og síðast enn ekki síst að gefa enn fleiri blindum og sjónskertum einstaklingum tækifæri á að vera virkir þátttakendur í samfélaginu og lifa innihaldsríku og ábyrgu lífi. Ég hef haft unun að því að starfa sem formaður Blindrafélagsins á þessu og síðasta ári og ég hef verið til þjónustu reiðubúinn á nóttu sem og degi til að vekja athygli á málefnum og réttindum okkar félaga og ryðja úr vegi ýmsum hindrunum sem félagsmenn verða fyrir á degi hverjum. Ég tel að sú reynsla sem ég hef öðlast í gegnum tíðina og sem formaður ykkar geti áfram nýst blindrafélaginu og þeim rúmlega 700 félagsmönnum sem lifa og starfa vítt og breitt um landið og eru á öllum aldri.   Hverju vil ég koma til leiða á næsta kjörtímabili Það er mér mikilvægt að halda áfram að hlúa að því fjölbreytta og blómlega félagsstarfi innan Blindrafélagsins og stuðla áfram að því að félagsmenn okkar á landsbyggðinni færist nær Blindrafélaginu og þeirri fjölbreyttu þjónustu sem fer fram í Hamrahlíð 17. Ég tel afar brýnt að allir félagsmenn Blindrafélagsins hvar sem þeir búa njóti þeirra mannréttinda að eiga kost á nútímasamtíma ferðaþjónustu þar sem krafan er að geta tekið leigubifreið þegar félagsmönnum hentar og án þess að þurfa að koma við á nokkrum stöðum í millitíðinni til þess að aka eða sækja aðra farþega.   Það þarf að hefja rannsóknir á félagslegri stöðu blindra og sjónskertra ungmenna á Íslandi, en engar slíkar rannsóknir eru til hér á landi. Niðurstöður rannsókna á mörgum hinna Norðurlandanna eru vægast sagt sláandi þegar horft er til félagslegra aðstæðna í þessum aldurshópi. Tækifæri til menntunar og atvinnu eru fátækleg og af skornum skammti. Þessi aldurshópur er oft á tíðum félagslega einangraður og hefur lítið sjálfstraust. Ég tel afar brýnt að Blindrafélagið stuðli strax að því að koma slíkri rannsókn af stað. Einnig mun ég beita mér fyrir því að segja upp ráðningasamningi við núverandi framkvæmdarstjóra og auglýsa starf framkvæmdastjóra laust til umsóknar, þar sem allir geta sótt um starfið. Ég tel að það hafi verið óheppilegt af stjórn félagsins starfsárið 2013/14 að hafa ráðið þáverandi formann félagsins sem framkvæmdastjóra félagsins án þess að auglýsa starfið laust til umsóknar og gefa ekki þar með öllum kost á að sækja um starfið. Ég er sömuleiðis hugsi yfir því hvort það sé heppilegt að framkvæmdarstjóri félagsins eigi að vera líka félagsmaður.   Blindrafélagið þarf að beita sér af fullum krafti að auka atvinnuþátttöku blindra og sjónskertra kvenna ásamt því að efla og styrkja þær til þess að fara út á vinnumarkaðinn. En íslensk rannsókn sínir að helmingi færri konur en karlar í hópi blindra og sjónskertra eru á atvinnumarkaðnum. Ég mun leggja fram lagabreytingatillögu á næsta aðalfundi að formaður þurfi að hljóta minnst 50% atkvæða til þess að vera kjörinn formaður Blindrafélagsins, nái enginn formannsframbjóðenda yfir helmingi atkvæða verði kosið á milli tveggja efstu í annarri umferð í allsherjar atkvæðagreiðslu.   Einnig mun ég leggja fram á næsta aðalfundi lagabreytingatillögu að starfsmenn Blindrafélagsins verði ekki kjörgengir í stjórn Blindrafélagsins.   Hver er Bergvin Oddsson Ég er fæddur þann 16. apríl árið 1986 í Vestmannaeyjum. Þar sleit ég barnskónum og byrjaði ungur að skipta mér af samfélagsmálum og skrifaði reglulega greinar strax á grunnskólaaldri í Fréttir sem er héraðsfréttablað Vestmannaeyinga. Ég er fæddur alsjáandi og meðan ég sá iðkaði ég bæði knattspyrnu og handknattleik af miklum móð. Árið 2001 þegar ég var 15 ára gamall fékk ég Herpes frunsuvírus í í hægra augað og á einni viku var ég orðin lögblindur, því tveimur árum fyrr fékk ég sama sjúkdóm í vinstra augað. Þrátt fyrir að hafa misst sjónina ungur sá ég aldrei ástæðu til þess að gefast upp og leggja árar í bát. Því ég ákvað mjög fljótt að láta mína fötlun há mér eins mögulega lítið og hægt væri og sömuleiðis vildi ég vera virkur þátttakandi í samfélaginu og lifa innihaldsríku lífi.   Þegar ég lauk skyldunáminu í Vestmannaeyjum var stefnan tekin í Menntaskólann við Hamrahlíð þar sem ég stundaði nám á félagsfræðibraut og lauk þar stúdentsprófi vorið 2008. Á meðan bjó ég í húsi Blindrafélagsins og kynntist þar öflugu félagsstarfi Blindrafélagsins og var fljótlega farinn að taka þátt í tómstundanefnd og Ung Blind, þar sem ég var formaður í nokkur ár, ásamt öðrum nefndum á vegum félagsins og sótti ýmsar ráðstefnur fyrir hönd félagsins bæði hér heima og erlendis. Haustið 2011 hóf ég svo nám við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og lauk þar B.A. prófi vorið 2014. Ég hef einnig lokið 30 einingum í Mannauðsstjórnun sem ég tel að nýtist mér mjög vel í starfi sem formaður einna öflugustu hagsmunasamtaka fatlaðra á Íslandi.   Ég hef komið víða við í atvinnulífinu og öðlast fjölbreytta reynslu þar. Allt frá því að vera símasölumaður og starfsmaður í leikskóla í að starfa á Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar og verið í bókaútgáfu og í eigin rekstri ásamt því að hafa skrifað nokkrar bækur. Frá árinu 2003 hef ég komið fram sem fyrirlesarinn og skemmtikrafturinn Beggi Blindi og skemmt landsmönnum um allar sveitir landsins. Ég hef heimsótt vel á annað hundrað skóla og æskulýðssamkomustaði til þess að fræða ungmenni um málefni blindra og sjónskertra og þannig gefið ungu fólki tækifæri á að skyggnast inn í daglegt líf blindra og sjónskertra. Ég sat í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar árið 2009 til 2013 og var kjörinn formaður Hverfisráðs Grafarvogs í fyrrasumar.Ég hef komið að stofnun nokkurra félagasamtaka ásamt því að vera í stjórn ráðs um málefni fatlaðs fólks við Háskóla Íslands sem fulltrúi stúdenta. Sömuleiðis sit ég í stjórn Brynju hússjóðs ÖBÍ sem fulltrúi Velferðarráðuneytisins. Ég hef mikinn áhuga á félagsmálum og mannréttindamálum fatlaðra ásamt því að hafa áhuga á íþróttum og íslenskri tónlist. Ég er kvæntur Fanný Rósu Bjarnadóttur, hjúkrunarfræðing, og saman eigum við tvo syni, þá Odd Bjarna 6 ára og Heiki Orra sem verður tveggja ára í upphafi næsta árs   Ég hef staðið vaktina sem formaður ykkar og býð aftur fram krafta mína fyrir alla félagsmenn til þess að leiða Blindrafélagið áfram til góðra verka á næstu tveimur árum. Ég hvet ykkur til þess að hafa samband við mig ef ég get orðið ykkur að liði og ef eitthvað er sem ykkur liggur á hjarta.   Með Baráttukveðjum Bergvin Oddsson Netfang bergvino@simnet.is og gsm 895 8582    

Veittist að lögreglu

Lögreglan hafði í nógu að snúast í vikunni vegna hinna ýmsu verkefna sem upp komu. Skemmtanahald helgarinnar fór þokkalega fram en eitthvað var um útköll á öldurhúsin vegna hinna ýmsu mála sem upp komu.   Ein líkamsárás var tilkynnt til lögreglu um helgina en þarna var um að ræða árás á dyravörð Lundans, árásarmaðurinn var handtekinn og fékk gistingu í fangageymslu. Dyravörðurinn fékk ekki alvarlega áverka eftir árásina. Er lögreglan var að vinna í því máli þá veittist einn af gestum staðarins á lögreglu og var viðkomandi handtekinn og færður í fangageymslu. Báðum þessum mönnum var sleppt lausum eftir að víman rann af þeim og skýrsla hafði verið tekin af þeim.   Tveir þjófnaðir voru tilkynntir lögreglu í vikunni en í öðru tilvikinu var um að ræða þjófnað úr bifreið, þarna hafði verið stolið íþróttatösku og fannst hún skömmu síðar og reyndist allt vera í henni sem átti þar að vera. Í hinu tilvikinu var um þjófnað á reiðhjóli að ræða sem stóð við veitingastaðinn Lundann að kvöldi sl. föstudags.   Sl. sunnudag var tilkynnt um skemmdir á bifreið sem stóð við Strandveg 43a, en þarna hafði verið búið að brjóta afturrúðu bifreiðarinnar, framljós vinstra megin og dælda bifreiðina víða. Talið er að skemmdarverkið hafi verið framið aðfaranótt 15. nóvember sl. Ekki er vitað hver þarna var að verki og eru þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um atvikið eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444 2090.   Lögreglan hafði afskipti af manni um helgina vegna gruns um fíkniefnamisferlis en við leit fundust nokkrar töflur af sterum. Má hann búast við sektum vegna málsins auk þess gæti orðið efrirmál þar sem hann var á reynslulausn.    

Dagur íslenskrar tungu í dag

 Degi íslenskrar tungu, fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, verður nú fagnað í tuttugasta sinn. Efnt er til ýmissa viðburða undir merkjum hátíðisdagsins á mánudeginum 16. nóvember og dagana þar í kring. Hæst ber afhendingu Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar sem mennta- og menningarmálaráðherra afhendir á hátíðardagskrá í Bókasafni Mosfellsbæjar mánudaginn 16. nóvember kl. 16.00-17.00. Dagur íslenskrar tungu er opinber fánadagur.   Stóra og Litla upplestrarkeppnin í grunnskólum   Stóra upplestrarkeppnin fer nú af stað í tuttugasta sinn og hefst formlega á degi íslenskrar tungu. Í flestum skólum landsins er dagsins minnst með viðhöfn og víða koma eldri nemendur inn í bekki yngri barna og lesa upp sögur og ljóð, verðlaunahafar úr upplestrarkeppni síðasta árs lesa upp, ljóða- og smásagnasamkeppni, ljóð Jónasar Hallgrímssonar kynnt, íslenskir málshættir sérstaklega athugaðir og fleira mætti nefna.   Annað verkefni sem er sprotaverkefni frá þeirri Stóru er svo Litla upplestrarkeppnin í 4. bekk sem byggist á sömu hugmyndafræði en er sniðin að yngri nemendum. Þetta verkefni er að fara af stað í sjötta sinn hér í Hafnarfirði en var sl. vetur mjög víða á landinu eða í 60 skólum. Skýrslur varðandi þetta skemmtilega verkefni er að finna inni á heimasíðu Stóru upplestrarkeppninnar http://upplestur.hafnarfjordur.is og þar er að finna flest það sem tengist Litlu og Stóru upplestrarkeppninni.   Í tilefni af degi íslenskrar tungu 16. nóvember efnir Menntamálastofnun til vísnasamkeppni grunnskólanema, Vísubotn 2015, en þetta er fimmta árið í röð sem keppnin er haldin. Kveðskaparlist er merkilegur þjóðararfur sem vert er að halda á lofti og hvetja nemendur til að stunda. Í keppninni spreyta nemendur sig á því að botna fyrriparta sem að þessu sinni eru eftir Helga Zimsen. Um er að ræða tvo fyrriparta fyrir hvern aldursflokk á yngsta-, mið- og unglingastigi. Fyrir besta vísubotninn á hverju stigi verða veitt bókaverðlaun og viðurkenningarskjöl. Vonast er til að sem flestir skólar taki þátt í þessu verkefni. Hér má lesa um úrslit keppninar í fyrra.              

Býr Gróa á Leiti í Eyjum?

Allavega á hún oft erindi þangað. Hver er þessi laumuljósmyndari í Vestmannaeyjum?  Laumuljósmyndarar leynast víða. Hægt er að sjá í öllum dagblöðum á Íslandi mannlífsmyndir og götumyndir alls staðar að. Myndir af fólki í amstri dagsins og við dagleg störf.  Fá þessir laumuljósmyndarar alltaf leyfi frá fólki til að taka myndir?        Sjaldnast. Það er stöðugt verið að taka myndir af þér án þíns leyfis.  Farðu bara í bankann þinn eða búðina.  Fólk er með gemsa um allar trissur að taka myndir, túristar og hvað eina.  Það eru myndavélar alls staðar.  Engin viðvörun.  Öfugt við myndavélarnar í bankanum og búðinni þá er augljóst að  bak við linsu laumuljósmyndarans leynist snillingur.  Þessar umræddu myndir eru hreinasta snilld.  Hér er greinilega listamaður á ferð að taka myndir í listrænum tilgangi.  Hvert bæjarfélag ætti að vera stolt af að eiga slíkan snilling.  Þá vaknar sú spurning hvort þessi maður sé nokkur laumuljósmyndari.  Þekkja hann ekki allir í Eyjum sem myndlistarmann?    Er ekki augljóst að maður með myndavél á lofti er að taka myndir?  Það hefur verið spurt í hvaða tilgangi eru þessar myndir teknar?  Það er ofur augljóst, þær eru teknar í listrænum tilgangi.  Hér er listamaður að vinna að sinni list.  Það er bara þannig í Vestmannaeyjum að enginn er talinn listamaður nema hann sé stöðugt að mála myndir af Heimakletti eða Helgafelli.  Ef einhver fer út fyrir þann ramma er hann krossfestur.     Það hefur einnig verið sagt að hann nafngreini suma á myndunum.  Þess þó heldur er greinilegt að hann er ekki að fela neitt, hann birtir mynd irnar á sinni heimasíðu fyrir alla sem sjá vilja, hann er ekki að pukrast með eitt né neitt.  Það vekur furðu að að þeir sem kærðu þennan mann gáfu sjálfir leyfi fyrir birtingu á þessum myndum í öllum opinberum fjölmiðlum á Íslandi.  Leyndardómur þessara mynda, sem ekki mega sjást, er ekki meiri en svo.    Viðfangsefni frægustu listamanna heimsins gegnum aldirnar hefur verið kvenlíkaminn.  Hefur það farið framhjá Vestmannaeyingum?  Sér virkilega einhver eitthvað sorugt við þessar myndir?  Aðrir listamenn hafa skrifað um þennan mann að hann sé listamaður á heimsmælikvarða.  Þvílík sóun, þvílík skömm fyrir bæjarfélagið að hafna slíkum snillingi.  Hér sannast það fornkveðna:  „Enginn er spámaður í sínu föðurlandi.“  Ég hvet alla bæjarbúa til að sýna honum samstöðu.  Sendið honum blóm.  Blessuð sé hún Gróa gamla á Leiti.

Bæjarstjóri - Áhersla á þætti sem lúta að öldruðum og fötluðum

„Óneitanlega lítur fjárhagsáætlun vel út við fyrri umræðu þetta árið eins og oftast á seinustu árum. Ég vil þó benda á að í samræmi við áratuga vinnuhefðir bæjarstjórnar þá gerir áætlun í fyrriumræðu í raun eingöngu ráð fyrir föstum kjarnarekstri Vestmannaeyjabæjar. Í þessari áætlun er sem sagt búið að fara mjög náið í saumana á rekstrinum eins og hann er á yfirstandandi ári og gera ráð fyrir fyrirsjáanlegum breytingum svo sem vegna launaþátta, verðlagsþróunar, samninga og fl. Lögum samkvæmt eiga svo að liða tvær vikur á milli fyrri og seinni umræðu og er hann nýttur til að setja inn allar sérsamþykktir, verklegarframkvæmdir, nýja rekstrarþætti, viðhald og fl. Það er því alveg ljóst að bæði sjóðstreymistölur og aðrar niðurstöðutölur lækka mikið á milli umræðna þegar stóru útgjöldin koma inn. Það er sem sagt í seinniumræðu sem tíðindin gerast,“ sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri um fjárhagsáætlun sem lögð var fram til fyrri umræðu í síðustu viku.       Hver verða þau tíðindi? „Ég held að það sé alveg ljóst að það sé að myndast framkvæmdargeta hjá Vestmannaeyjabæ. Framkvæmdum við Eldheima er að ljúka og þvert gegn hrakspám þá gengur reksturinn alveg ótrúlega vel. Þannig stendur innkoma ekki bara undir öllum rekstri og fjárbindingu heldur er gert ráð fyrir að tekjur safnsins umfram gjöld verði nálægt 40 milljónum. Sú framkvæmt þyngir því ekki reksturinn okkar heldur skilar okkur tekjum. Það er klárt að núna er að komast aftur verulegur framkvæmdahugur í bæjarstjórn Vestmannaeyja enda ætlunin á öllum tímum að veita sem allra besta þjónustu. Þó þannig okkar sameiginlegi sjóður sé réttumeginn við núllið. Það er nefnielga þannig að góður rekstur er mikilvægasta velferðarmálið.“     Getur þú upplýst um hvaða framkvæmda þið eruð helst að horfa til? „Við bæjarfulltrúar höfum rætt það okkar á milli að þörfin núna sé mest í þeim þáttum sem snúa að öldruðum og fötluðum. Meirihlutinn gekk til kosninga með þau loforð að bæta stöðu þessara málaflokka og innan bæjarstórnar er einhugur hvað það varðar. Ég á því frekar vona á að fjárhagsáætlun ársins 2016 beri það með sér. Þannig erum við að skoða fjölgun á heppilegum íbúðum fyrir fatlaða, byggingu nýrrar álmu á Hraunbúðum fyrir fólk með heilabilun svo sem Alzheimer, betrumbætur á aðstöðu fyrir dagþjónustu aldraðra og fjölgun þjónustuíbúða fyrir aldraða. Allt þetta kemur til með að ráðst á næstu vikum og því mikilvægt að taka þessu með þeim fyrirvara.“     Hvað með verkefnið „Viltu hafa áhrif“? „Því sama er fyrir að fara hvað það varðar. Þær tillögur koma núna til skoðunar. Við fengum alveg ótrúlega mikin fjölda af frábærum hugmyndum og vonandi verður hægt að raungera sem flestar þeirra. Við eigum jú öll Vestmannaeyjar og viljum ætíð gera góðan bæ betri. Hjálpin sem við fáum í gegnum verkefni sem þetta er ómetanleg,“ sagði Elliði.   Góð staða   Í fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar og stofnana hans fyrir árið 2016. Um leið gerði hann grein fyrir helstu útgjaldaliðum í áætluninni. Samkvæmt fjárhagsáætlun samstæðu Vestmannaeyja 2016 verða tekjur alls kr. 4.183.056.000, gjöld kr. 4.047.116.000 og rekstrarniðurstaðan er jákvæð um kr. 205.205.000. Veltufé frá rekstri kr. 765.633.000, afborganir langtímalána kr. 55.007.000 og handbært fé í árslok, samkvæmt áætluninni, kr. 3.179.512.000. Samþykkt var með sjö samhljóða atkvæðum að vísa fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar og stofnana hans vegna ársins 2016 til síðari umræðu í bæjarstjórn.   Samkvæmt fjárhagsáætlun bæjarsjóðs verða tekjurnar 2016 alls kr. 3.279.416.000, gjöld alls fyrir fjármagnsliði kr. 3.200.752.000 og rekstrarniðurstaða er jákvæð um kr. 164.436.000. Veltufé frá rekstri verður kr. 603.697.000, afborganir langtímalána kr. 26.321.000 og handbært fé verður í árslok kr. 3.179.512.000.   Fjárhagsáætlun B-hluta Gangi áætlunin eftir verður rekstrarniðurstaða Hafnarsjóðs jákvæð um kr. 46.458.000, Fráveita stendur á núlli, tapið á félagslega íbúðakerfinu verður kr. 46.809.000, Náttúrustofa Suðurlands er gerð upp á núlli, tap á Hraunbúðum hjúkrunarheimili verður kr. 14.130.000 og Heimaey – kertaverksmiðja stendur á núlli. Veltufé frá rekstri verður kr. 16.193.600 og afborganir langtímalána kr. 28.686.000. Fjárhagsáætlun var samþykkt til seinni umræðu.  

Ásmundur - Saga Hrekkjalómafélagsins í Vetmannaeyjum í 20 ár

Bókaútgáfan Hólar gefur út bókina HREKKJALÓMAFÉLAGIÐ, Prakkarastrik og púðurkerlingar en bókin er skrifuð af Ásmundi Friðrikssyni alþingismanni og kemur í verslanir 20 nóvember nk.. Í bókinni er fjallað um þann jarðveg sem glettni og skemmtilegur andi Eyjamanna er sprottin úr. Þá er saga Hrekkjalómafélagsins í 20 rakin í máli og myndum. Reynt er að varpa fram þeirri gleði og stemningu sem ríkti í félaginu og þeim anda sem var í samfélaginu á þessum tíma. Þá eru sögur af orginal hrekkjalómum meins og Jóni Berg Halldórssyni og Sigurði Sigurðssyni, Didda í Svanhól og fleiri góðum mönnum. Einnig er kafli um ýkjusögur frá Eyjum sem eru mjög skemmtilegar og lýsa því hvernig sögur „lagast“ í meðförum annarra.     Á bókakápu segir; Hrekkjalómafélagið í Vestmannaeyjum var landsfrægt fyrir prakkaraskap og frumleg uppátæki. Sjálfur bæjarstjórinn, forstjórar og ýmsir frammámenn í Eyjum voru fundvísir á frumlega hrekki og létu ekkert tækifæri ónotað til að stríða samferðamönnum og gera tilveruna aðeins léttbærari. Blaðurfulltrúi félagsins Ásmundur Friðriksson leysir loksins frá skjóðunni. Hrekkjalómur lagðist undir rúm brúhjóna á brúðkaupsnóttinni. Halli í Turninum fræ ís í tonnatali. Bæjarstjórahjónum er gert rúmrusk. Maggi Kristins útgerðarmaður „býður“ öllum Eyjabúum í afmæli sitt.   Geir Jón Þórisson lögregluþjónn handtekur formann Hrekkjalómafélagsins. Sjálfvirkur sleppibúnaður er kynntur til sögunnar með kjaftshöggi. Össur Skarphéðinsson skartar skófari á rassinum. Bæjarstjórinn prófar sjónvarpssíma. Aflaskipstjóri leikur á fakír og gengur berfættur yfir flöskubrot. Sýslumaðurinn er flengdur með svipu á Skötukvöldi. Frómakærir sómamenn eru kjörnir „Klámkóngar Eyjanna.“ Þá fá lesendur að kynnast nokkrum hrekkjalómum utan félags og fræknum ýkjumeisturum. Höfundur bókarinnar verður með kynningu á bókinni í Safnahúsinu í Eyjum sunnudaginn 22. Nóvember kl. 15.30 og þar verður lesið úr bókinni, flutt tónlist og ýmsilegt annað óvænt sem kemur í ljós síðar þegar dagskráin verður formlega auglýst.    

Íþróttir >>

Fimmtán marka sigur á Fjölni

 ÍBV tók á móti Fjölni þegar þrettánda og síðasta umferðin á þessu ári fór fram þar sem ÍBV burstaði Fjölni 38-23.   ÍBV byrjaði leikinn betur og skoruðu stelpurnar fyrstu tvö mörkin. Stelpurnar náðu strax ágætis forskoti og eftir tíu mínútna leik var staðan 7-3. Fjölnir tók leikhlé í stöðunni 8-4 en það leikhlé skilaði ekki miklu fyrir gestina og á næstu þrem mínútum fengu þær fjögur mörk á sig en skoruðu aðeins eitt. Varnarleikur ÍBV var virkilega góður á þessum kafla og Sara Dís Davíðsdóttir var að verja vel þar fyrir aftan en það skilaði auðveldum hraðaupphlaupsmörkum.  Eftir tuttugu mínútna leik voru stelpurnar komnar með tíu marka forskot, 15-5 en þessi kafli var virkilega slæmur fyrir gestina en þær skoruðu ekki mark í tíu mínútur. Stelpurnar gengu inn til hálfleiks með ellefu marka forskot 21-10.    Lið ÍBV gaf ekkert eftir í síðari hálfleik þó forskotið hafi verið stórt og skoruðu þær fyrstu tvö mörkin og náði þrettán marka forskoti. Eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik var staðan 27-13. Mest náði ÍBV sextán marka forskoti,33-17 en lokatölur urðu 38-23.   Mörk ÍBV skoruðu þær; Vera Lopes 10, Ester Óskarsdóttir 7, Greta Kavaliuskaite 7, Díana Dögg Magnúsdóttir 4, Sandra Dís Sigurðardóttir 4, Telma Amado 2, Kristrún Ósk Hlynsdóttir 2, Sandra Gísladóttir 1 og Bergey Alexandersdóttir 1.         Sara Dís Davíðsdóttir varði fimmtán skot í marki ÍBV og Erla Rós Sigmarsdóttir varði fimm skot og þar af eitt víti.   

Mannlíf >>

Greinar >>

Almenningssamgöngur ::Hagsmunir þúsunda íbúa hljóta að vega þyngst.

Engum stjórnmálamanni dettur í hug að leggja það til að strætókerfi höfuðborgarsvæðisins verði tætt í sundur og þær leiðir sem skila hagnaði verði dregnar út úr kerfinu og gerðar að samkeppnisleiðum þar sem rútu- og ferðaþjónustufyrirtækin í landinu geta keyrt á þeim leiðum en láti sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu eftir að aka leiðarnar sem standa ekki undir kostnaði. Þó eru margar leiðir í strætókefi höfuðborgarinnar sem skila góðum hagnaði sem eðlilega standa undir kostnaði við þær leiðir sem ekki bera sig. En þegar kemur að almenningssamgöngum á landsbyggðinni gilda önnur lögmál. Þar sem fáar en sterkar leiðir bera upp net áætlana til fámennari byggða eru teknar út úr kerfinu og gerðar að samkeppnisleiðum og sveitafélögin sitja því eftir með þær leiðir sem ekki standa undir kostnaði. Mikilvægt kerfi almenningssamgangna sem sveitarfélögin hafa byggt upp, mun dragast saman og bitna mest á námsfólki og eldri borgurum. Fólksins á landsbyggðinni sem við eigum að standa vörð um. En rútufyrirækin sem koma á háannatíma fleyta rjómann af fjölda farþega yfir sumarið en hverf jafn harðan þegar umferðin minnkar á haustin og eftirláta sveitarfélögunum að þreyja Þorrann og Góuna með taprekstri.   Sveitarfélögin byggðu upp öflugar almenningssamgöngur. Með eflingu almenningssamgangna í landinu á síðustu árum hefur þjónustan skipt sköpum fyrir íbúa í dreifðari byggðum landsins og farþegum í kerfinu hefur fjölgað um tugi, jafnvel hundruð þúsunda farþega á ári, mismundandi eftir svæðum. Fjölgun farþega hefur gert sveitarfélögunum kleift að bætta þjónustuna sem hefur gjörbreytt stöðu unga fólksins í dreifðari byggðum landsins og opnað þeim nýja leið til að stunda framhalds- og háskólanám í höfuðborginni. Unga fólkið sem á heima í nálægð við stærri byggðakjarna getur nú sótt framhaldsnám á hverjum degi með þéttriðnu neti almenningssamgangna gegn hóflegu gjaldi og búið áfram í foreldrahúsum.   Þannig geta námsmenn á Suðurnesjum, Vesturlandi og Suðurlandi sótt háskólanám til höfuðborgarinnar á hverjum degi en búið áfram í Sandgerði, Selfossi, eða Borgarnesi. Dýrt leiguhúsnæði sem er af skornum skammti er því ekki þröskuldur fyrir háskólanámi í höfuðborginni vegna góðra almenningssamgangna. Þessu til viðbótar nota eldriborgarar í hinum dreifðu byggðum strætó til að sækja sér ýmsa þjónustu til höfuðborgarinnar, eins og læknis og sérfræðiþjónustu hverskonar. Margir treysta sér ekki að aka í höfuðborginni eða ferðast um langan veg, jafnvel báðar leiðir sama daginn. En þétt áætlun strætó hefur opnað nýja ódýra og þægilega leið fyrir eldra fólkið sem nýtir þjónustuna í auknu mæli.   Nú er gengið að þessari þjónustu sveitarfélaganna með því að einkavæða þær leiðir sem skila hagnaði á landsbyggðinni. Þannig ók eitt rútufyrirtækið á Suðurlandi í allt sumar og var með áætlun nokkrum mínútum á undan strætó og hirti þannig megnið af öllum farþegunum frá Reykjavík að Höfn. Nú hefur dregið úr straumi ferðamanna á svæðinu og rútufyrirtækið því hætt akstri á leiðinni en sveitarfélögin sitja uppi með áætlun fram á vor sem ekki stendur undir kostnaði á jafn góðu kerfi og byggt hefur verið upp. Í vor með komu fleiri ferðamanna mæta þeir sem fleyta rjómann af ferðamönnum og hirða kúfinn frá sveitarfélögunum. Þetta hefur aðeins eitt í för með sér að tapið sem verður á almenningssamgöngum sveitarfélaganna mun draga úr þjónustu við fólkið á landsbyggðinni. Ég trúi því ekki að vilji meirihluta þingsins standi til þess.   Mismunun er óþolandi og ég trú því ekki að þingmenn láti það gerast fyrir fram nefið á sér að fólki í landinu sem mismunað á þennan hátt, nægur er ójöfnuðurinn þegar kemur að heilbrigðis og menntakerfinu í landinu sem flestir verða að sækja til höfuðborgarinnar. Sveitafélögin vilja stuðningi við almenningssamgöngur. Í heimsókn þingmanna Suðurkjördæmis til sveitarfélaganna í kjördæmaviku fyrir skömmu, bað hver einasta sveitar- og bæjarstjórn þingmenn að hjálpa til við að tryggja áfram öflugt net almenningssamgangna sem eitt helsta hagsmunamál námsmanna og íbúa í kjördæminu. Ég hef miklar áhyggjur af því að ekki sé nægur vilji fyrir hendi hjá of mörgum þingmönnum til að uppfylla þessa ósk. Með þeim afleiðingum að lífæðar strætókerfisins á landsbyggðinni verði gerðar að samkeppnisleiðum þar sem hagmunir þúsunda íbúa á landsbyggðinni verði látnir víkja fyrir hagsmunum fárra. Þetta heitir á mannamáli, að einkavæða hagnaðinn og ríkisvæða tapið.   Ef þingmenn standa ekki vörð um almenningssamgöngur í landinu verður dregið verulega úr þjónustu fyrir viðkvæma hópa á landsbyggðinni allt árið. Unga fólkið sem getur búið í foreldrahúsum verður að finna sér aðrar leiðir til að búa og þá í dýru leiguhúsnæði sem jafnvel er ekki á lausu. Ég vil ekki búa þannig að námsfólkinu á landsbyggðinni. Sveitarfélögin munu ekki standa undir tugmilljóna taprekstri þar sem einkaaðilar fá að fleyta rjómann af farþegunum í stuttan tíma á ári og láta síðan ekki sjá sig þess á milli. Er það réttlætið sem á að ráða ferðinni. Ég sem sjálfstæðismaður hef haft að leiðarljósi að við stöndum saman stétt með stétt og stöndum vörð um hagsmuni fólksins, líka á landsbyggðinni.   Ásmundur Friðriksson alþingismaður.