Mikið um að vera í Höllinni og á Háaloftinu um helgina

Hunang í Höllinni á laugardagskvöld. Það er svo sannarlega að færast aukið líf í Höllina okkar þessa dagana, eftir gott sumarfrí. Fyrsti dansleikurinn síðan í byrjun sumars er á laugardagskvöldið og þá koma í heimsókn strákarnir í hljómsveitinni Hunang, með Kalla Örvars úr Stuðkompaníinu í broddi fylkingar. Þetta eru algjörir stuðpinnar og hafa svo gaman af því að skemmta fólki að það er nánast lögreglumál. Húsið opnar á miðnætti. Frést hefur að stórir árgangshópar séu að hittast um helgina og er þeim boðinn sérstakur hópafsláttur í Höllina. Þeir sem hafa áhuga á að nýta sér það er bent á að hafa samband við Dadda í síma 896-6818 eða með skilaboðum á Facebook.     Enski boltinn rúllar af stað á Háaloftinu . Þegar hausta tekur fer fiðringur um margan manninn og jafnvel konuna. Ástæðan, jú, enski boltinn byrjar að rúlla. Nú eftir landsleikjahlé er rétt að setja alvöru kraft í verkefnið og því mun Háaloftið sýna fjóra leiki um helgina. Við byrjum á stórleik Arsenal og meistara Manchester City, kl. 11.45 á morgun laugardag, húsið opnar kl. 11.30. Þá sýnum við leik toppliðanna Chelsea og Swansea kl. 14.00, þar sem Gylfi Sigurðsson fer vonandi á kostum og endum daginn á leik Liverpool og Aston Villa, kl. 16.30. Á sunnudag sýnum við svo leik Manchester United og QPR, kl. 15.00. Húsið opnar kl. 14.45. Við ætlum að vera með kaldan á krana á aðeins 600,- kr. í vetur og koma þannig til móts við okkar dyggustu viðskiptavini í boltanum.   Svo er um að gera að fylgjast með bæði Höllinni og Háaloftinu á Facebook og endilega að vera dugleg að koma með tillögur og athugasemdir um allt sem við getum gert betur. Hlökkum til samstarfsins við Eyjamenn í vetur.     Eyjakveðja Starfsfólk Hallarinnar og Háaloftsins  

Styrkurinn liggur í reglulegri guðsþjónustu

Reglulegt helgihald er gott fyrir sálina. Gunnar Nelson segir að styrkurinn liggi í rútínunni. Við erum sammála því að það er styrkur okkar í trúnni að sækja reglulega helgihaldið í kirkjunni okkar. Sunnudagurinn 14. september er dæmi um reglulega góða guðsþjónustu. Barnaguðsþjónustan er kl. 11 og eftir hádegi er guðsþjónusta kl. 14. Það verður lögð áhersla á góðan söng og tónlistarflutning. Fagmenn í hverju hlutverki. Gítaristarnir eru Gísli Stefánsson og Jarl Sigurgeirsson og oft koma fleiri tónlistarmenn í barnaguðsþjónustuna og allt uppí fullskipað Sunday School Party Band. Kitty Kovács, organistinn í Landakirkju, og Kór Landakirkju leggja alúð við æfingarnar og syngja núna sálma úr nýjustu sálmabókinni sem kom út 2013. Þar eru mörg falleg ný lög og ætlum við að heyra hvernig þau gera messuna að innihaldsríkari en áður í bland við gamla góða sálma.   Það er einnig rétt að vekja athygli á því að fermingarbörnin eru heldur betur að setja mark sitt á helgihaldið í vetur með brúðuleikriti í barnaguðsþjónustunni og upplestri úr Heilagri Ritningu í reglulegu guðsþjónustunni. Það er að byrja einmitt núna á sunnudag.   Verum öll vakandi yfir því að mesta gleðin í guðsþjónustu hvers sunnudags er þegar fjölgar í kirkjunni. Og það eru gömul sannindi að hver og einn getur hæglega fjölgað um einn með því einu að mæta til leiks og vera kannski bara fulltrúi fyrir heimili sitt eða fjölskyldu eða vini og njóta þess sem hefur verið undirbúið vel og byggir sannarlega upp.    

Stefnir í metþátttöku og gott hlaupaveður

Fjórða Vestmannaeyjahlaupið fer fram á morgun og stefnir í metþátttöku og útlit er fyrir gott hlaupaveður. Að venju verður boðið upp á þrjár vegalengdir, fimm, tíu og 21 kílómeter eða hálfmaraþon. Ræst verður við Íþróttamiðstöðina klukkan 12.00.   „Það eru yfir 50 búnir að skrá sig núna sem er meira en á sama tíma í fyrra,“ sagði Magnús Bragason einn af forsprökkum Vestmannaeyjahlaupsins þegar rætt var við hann fyrir skömmu. „Við vonumst eftir að fá yfir 100 keppendur og gott væri ef fólk væri búið að skrá sig fyrir klukkan 18.00 í dag. Það léttir undir með okkur. Það verður að venju ræst klukkan 12.00 en upphitun hefst hálftíma fyrr. Fólk uppi á landi sem ætlar að taka þátt í hlaupinu getur haft samband í síma 897-1110 og þá útvegum við miða í Herjólf á 2000 krónur fram og til baka,“ sagði Magnús sem hvetur fólk til að mæta. Bendir hann líka að gaman er að fylgjast með hlaupurunum.   Kári Steinn með frá upphafi Vestmannaeyjahlaupið er að ná að festa sig í sessi þó það hafi aðeins farið fram þrisvar sinnum. Einn okkar mesti afreksmaður í langhlaupi, Kári Steinn Karlsson, hefur verið með frá upphafi og er búinn að skrá sig í hlaupið.   Kári Steinn er okkar skærasta stjarna í langhlaupum í dag, setti Íslandsmet í maraþoni í Berlín í september 2011 og varð 42. á Olympíuleikunum í London 2012 þar sem keppendur voru 105. Hann kemur svo má segja beint af EM í Vestmannaeyjahlaupið. „Ég hef ýmist hlaupið hálft maraþon eða tíu kílómetra í Vestmannaeyjahlaupinu sem mér finnst rosalega skemmtilegt. Þetta er þrælerfitt en það er gaman að hlaupa í svona fallegu landslagi og er eins og allur bærinn taki þátt í þessu með okkur,“ segir Kári Steinn við Eyjafréttir í sumar. Hann bendir þeim á sem ekki hafa áður tekið þátt í hlaupinu áður að fara rólega af stað. „Það eru erfiðar brekkur í byrjun og þá er hætta á að sprengja sig. Er betra að spara sig og taka meira á í lokin.“   Kári Steinn á ættir að rekja til Eyja, tengist Laufásættinni og og var hér á ættamóti í fyrra. „Það er alltaf jafngaman að koma til Eyja og ég hlakka til að mæta í hlaupið í september.“   Kári Steinn er fæddur 1986 og á því framtíðina fyrir sér og tekur hann undir það. „Langhlauparar eru að bæta sig alveg fram að fertugu, það er eins og þeir byggi upp styrkinn með aldrinum. Ég gæti því átt eitthvað inni, er ekki nema 28 ára,“ sagði Kári Steinn að endingu.

Kjaradeila á Herjólfi á ekki að hafa áhrif

Herjólfur fer í slipp í Svíþjóð í næstu viku og gæti orðið frá allt fram að mánaðamótum. Ýmsar breytingar verða gerðar á skipinu sem eiga að bæta getu þess til siglinga í Landeyjahöfn auk ýmissa lag­færinga og venjulegs viðhalds. Breiðafjarðarferjan Baldur leysir Herjólf af.     Herjólfur siglir samkvæmt áætlun á sunnudaginn en á mánudagsmorguninn tekur Baldur við. „Já, það er rétt að Baldur leysir Herjólf af á meðan hann er í slipp,“ sagði Pétur Ágústsson, framkvæmdastjóri Sæferða í Stykkishólmi sem eiga og reka Baldur. „Við erum með samning til næstu mánaðamóta eða þann tíma sem áætlað er að slippurinn taki.“   Þann 15. september falla úr gildi lög sem sett voru á deilu undirmanna á Herjólfi og Eimskips. Pétur á ekki von á að það hafi áhrif á siglingar Baldurs. „Ég hef ekkert hugsað út í það og sé ekki ástæðu til að svo verði. Þetta er annað skip og önnur útgerð þannig að ég á ekki von á þessar deilur hafi nokkur áhrif á okkur,“ sagði Pétur en staðan hjá þeim er snúin.   „Það eru ekki allir kátir hérna fyrir vestan því skipið, sem átti að leysa Baldur af og átti að koma í júlí, er enn fast út í Noregi. Við teljum það uppfylla allar kröfur um siglingar á þessu svæði en þeir sem túlka reglugerðir á Íslandi eru á öðru máli. Á meðan er allt fast.“ Baldur hefur áður hlaupið í skarðið fyrir Herjólf og þjónað Eyjamönnum vel.

Fjölga á Akureyri en fækka í Eyjum

Vinnumálastofnun hefur ákveðið að loka útibúum sínum í Vestmannaeyjum, Sauðárkróki og á Húsavík. Starfsmönnum í Vestmannaeyjum og Húsavík hefur verið sagt upp frá 1. september og verður skrifstofunum lokað 1. desember næstkomandi. Enginn starfsmaður hefur verið á Sauðárkróki á þessu ári. Þetta er enn eitt opinbera starfið sem hverfur frá Vestmannaeyjum.   „Ég er auðvitað mjög ósáttur við þessa ákvörðun og hef þegar rætt þetta við nokkra af þingmönnum kjördæmisins,“ sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri. „Þjónusta Vinnumálastofnunar er auðvitað afar mikilvæg hér í Eyjum eins og víðar. Þessi þjónustustofnun heldur m.a. utan um skráð atvinnuleysi hér í Eyjum og vinnur að úrræðum fyrir atvinnulausa. Ég er líka mjög undrandi á því að á sama tíma og stjórnvöld slá sér á brjóst vegna flutnings Fiskistofu til Akureyrar til að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni, þá skuli sömu stjórnvöld vinna markvisst að því að leggja niður opinber störf og þjónustu hér í Eyjum. Ætli þetta merki ekki að í þessari viku verði tvö opinber störf flutt frá Eyjum því nú styttist í að ráðinn verði nýr framkvæmdastjóri yfir Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja. Þetta er skrýtin stjórnsýsla svo ekki sé meira sagt og kallar á harða gagnrýni og svör. Mín næstu skref í þessu máli er að vísa þessu til um-fjöllunar í bæjarráði og vinna síðan eftir ákvörðunum þess.“  

Gleðilegt nýtt ár...

...eða réttara sagt, fiskveiðiár, sem hófst 1. sept. og margt og mikið búið að gerast á þessu fiskveiðiári hjá mér, en mér hefði ekki órað fyrir því fyrir ári síðan, að ég yrði kominn með nýjan og stærri bát. Árið er hins vegar búið að vera ágætt, en mér sýnist að á báðum bátunum hafi ég náð ca. 245 tonn upp úr sjó, sem gerir ný afstaðið fiskveiðaár næst besta ár hjá mér, en metið er 260 tonn, en seinna í haust byrja ég 28. árið mitt í trilluútgerð. Það er flestum trillukörlum nokkuð ljóst að þetta fiskveiðiár verður mjög erfitt. Loforð Hafró um auknar aflaheimildir í þorski gengu ekki eftir. Það, ásamt gríðarlegum niðurskurði í tegundum eins og ýsu og keilu og öðrum breytingum eins og t.d. sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leyfa smærri útgerðum sem sterkari eru í ufsa, að skipta ufsa út fyrir ýsu úr aflamarkskerfinu, gerir að mínu mati augljóslega það að verkum, að handfæraveiðar smábáta á sumrin verða að mestu úr sögunni, nema þá hjá þeim sem eru í þessum svokölluðu strandveiðum. Að mínu mati voru engin rök fyrir því að skerða hvorki ýsu né keilu, eina breytingin sem orðið hefur á síðustu árum,er að þessar tegundir hafa fært sig meira upp á grunninn og mælast því ekki í togararalli Hafró, en það má þó segja með keiluna að vandamálið þar sé flóknara, enda var úthlutun keilukvótans á sínum tíma byggð á röngum forsendum, og að mínu mati hefði þessi tegund aldrei átt að fara í kvóta. Nýja fiskveiði árið verður því erfitt, en eins og venjulega mun ég að sjálfsögðu halda mínu striki. Varðandi kvótakerfið sjálft, þá er afstaða mín til þess óbreytt, ég tel einfaldlega að það sé hreinlega ekki til verra kvótakerfi heldur en þetta sem við búum við í dag, en á móti kemur að ef því yrði einhvertímann breytt, þá er það að sjálfsögðu ekki sama hvernig því yrði breytt, en það er sorgleg staðreynd að á Alþingi Íslendinga er í dag enginn starfandi stjórnmálaflokkur sem hefur áhuga á að breyta þessu kerfi, heldur aðeins áhuga á því hversu mikið er hægt að skattleggja kerfið. Ég hitti að máli um daginn fyrrum stór útgerðarmann sem er búinn að selja allan kvótann og fá allt borgað, mann sem hefur í gegnum árin varið kvótakerfið með kjafti og klóm, en ég spurði hann hvað honum þætti nú um kvótakerfið og svarið kom mér ekki á óvart: "Ég hef aldrei verið hrifinn af þessu kvótakerfi." Sorglegast er þó þær fréttir að þeir stærstu séu orðnir það stórir í dag, að sjómenn sem kannski eru komnir af besta aldri og í sumum tilvikum kannski farnir að þurfa að vera frá vinnu vegna veikinda í lengri eða skemmri tíma, eru farnir að fá uppsagnarbréf án nokkurra skýringa og því er orðið fleygt meðal sjómanna að það að koma umborð í sum af nýjustu skipunum, sé eins og að koma á ættarmót hjá sumum toppunum og jafnvel þaulvanir sjómenn látnir víkja fyrir óreyndum sjómönnum vegna ættartengsla. Afskaplega dapurt allt saman, en samt um leið skýrir þetta að minnsta kosti að hluta til ástæðuna fyrir því, að ég hef valið að róa á eigin bát sem leiguliði, sem er nú ekkert grín, en þessi þróun er eitthvað sem ég hef alltaf séð fyrir, eða eins og ég hef sagt svo oft í greinum mínum um sjávarútveginn: Lengi getur vont versnað. Óska öllum sjómönnum og útgerðarmönnum gleðilegt nýtt fiskveiðiár.  

Eitt fíkniefnamál í vikunni

Ekki óhróður heldur blákaldur veruleiki

Í gær hélt Sigurður G. Guðjónsson því fram að Reynir Traustason hefði fengið fé hjá útgerðarmanni gegn því að í staðinn fengi hann neikvæða umfjöllun um annan útgerðarmann. Það var óstaðfest frétt. Sú saga féll algerlega að þeirri sögu sem lengi hefur verið sögð hér í Vestmannaeyjum um að Guðmundur Kristjánsson í Brimi hefði látið Reyni Traustason hafa 15 milljónir gegn því að fá neikvæða umfjöllun um Vinnslustöð Vestmannaeyja og Sigurgeir Brynjar. Ég ákvað að fullkveða hina hálfkveðnu vísu Sigurðs G. Þar réði fyrst og fremst að mér þótti rétt að Eyjamenn vissu að þarna er verið að fjalla um burðarás í atvinnulífi Vestmannaeyja – Vinnslustöð Vestmannaeyja.     Nú hefur Reynir Traustason staðfest að hann tók við þessu fé frá Guðmundi. (http://eyjan.pressan.is/frettir/2014/08/31/reynir-stadfestir-ad-hafa-fengid-lan-fra-gudmundi-i-brimi-aldrei-reynt-ad-styra-umfjollun/). Það gerir hann um leið og hann sakar mig um „óhróður“. Já, Reynir Traustason ritstjóri DV sem lýst hefur hvernig hann og blaðið „pönkast á fólki“ og „tekur það niður“ (sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2008/12/15/stodum_andspaenis_thessum_hrodalegu_orlogum/) sakar mig um óhróður.     Minn meinti óhróður var sem sagt að setja nöfn á persónur og leikendur í hálfkveðinni vísu. Því fylgdi ég eftir með þeim orðum að ef satt reyndist að Guðmundur Kristjánsson hefði keypt ákveðna umfjöllun af DV þá væri það alvarlegt.     Sá nafngreindi í sögunni –Guðmundur Kristjánsson- hefur einnig brugðist við og hyggst nú draga þennan bæjarstjóraræfil fyrir dómstóla vegna rógburðs og tilraunar til að sverta mannorðs hans. Leitt þykir mér ef það hefur sært Guðmund að nafn hans skuli hafa verið nefnt. Honum hefur þá væntanlega sárnað enn meira þegar Reynir staðfesti að hafa tekið við 15 milljónum frá honum. (http://www.visir.is/reynir-vidurkennir-ad-hafa-fengid-lan-fra-gudmundi/article/2014140839921)     Fjölmiðlar hér á landi eru á krossgötum. Mogganum er legið á hálsi að vera í þjónkun við þá eigendur sína sem eru útgerðarmenn. 365 er legið á hálsi að vera undir hælnum á eigendum sínum (Jóni Ásgeiri og Ingibjörgu Pálmadóttur). RÚV er legið á hálsi að vera vinstrisinnað og ganga erinda VG og Samfó. Allt er þetta til að draga úr trúverðugleika fjölmiðla. Ólíkt þessum ávirðingum þá er til upptaka af samtali Reynis Traustasonar þar sem hann viðurkennir að láta undan þrýstingi eigenda (http://eyjan.pressan.is/frettir/2008/12/15/reynir-traustason-let-undan-thrystingi-thetta-er-thannig-ad-land-ad-hotad-var-ad-stodva-prentun-dv/). Ef til vill er það í eina skiptið sem Reynir hefur stýrt umfjöllun út frá slíku. Ef til vill taldi Guðmundur Krisjánsson að það væri góð fjárfesting að lána Reyni Traustasyni 15 milljónir. Ef til vill lét Guðmundur Reyni fá þetta fé án þess að ætlast til neins á móti. Ég veit það ekki.   Ég veit bara að sagan um að Guðmundur Kristjánsson útgerðarmaður í Brim lét Reyni Traustason hafa 15 milljónir er sönn. Það er ekki óhróður heldur blákaldur veruleiki.     Ég veit heldur ekki hvort að lánveiting Guðmundar hefur haft áhrif á skrif DV en ég veit að svona skrifaði Sandkorn um Guðmund:     „Baráttujaxlinn og útgerðarmaðurinn Guðmundur Kristjánsson, sem kenndur er við Brim, hefur smám saman verið að fóta sig sem helsti og magnaðasti talsmaður útgerðarmanna. Guðmundur hefur yfir sér blæ kímni og visku sem þykir tilbreyting frá hörkunni og áróðrinum sem þykir einkenna LÍÚ.“ (http://www.dv.is/sandkorn/2012/7/26/dna-gudmundar/)   Það er ekki óhróður heldur blákaldur veruleiki.   Greinin birtist á vefsíðu Elliða, Ellidi.is.

Er þetta sæmandi gagnvart vinaþjóð okkar

Færeyska skipið Næraberg kom til hafnar í Reykjavík í morgun, vantaði skipinu olíu og einnig var vélin biluð. Skipið gat hinsvegar ekki fengið þessa þjónustu vegna ákvæði í lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands. - Færeyingar eru vinaþjóð Íslands, svona framkoma gagnvart vinaþjóð er ekki sæmandi.  Skipverji á Næraberginu skrifar grein á fréttavefinn jn.fo og vandar Íslendingum ekki kveðjurnar: Hann seg­ir Íslend­inga eiga að skamm­ast sín fyr­ir að vera treg­ir til að hleypa skip­inu, sem lenti í vand­ræðum eft­ir að vél­in bilaði, að ís­lenskri höfn og neita því næst að veita því þjón­ustu. Vís­ar hann meðal ann­ars í fjár­hags­lega aðstoð sem Fær­eyj­ar veittu Íslend­ing­um eft­ir banka­hrunið 2008. „Þetta eru þakk­irn­ar,“ seg­ir skip­verj­inn sem skrif­ar bréfið.    Um borð í Nærabergi: Skammið tykkum   Ísland Egil Petersen, sum siglir við Nærabergi hevur sent jn.fo eitt skriv. Hann er skuffaður av íslendingum, nú Næraberg ikki sleppur at leggja at í íslendskum havnum.   - Hetta er brøðurnir Ísland at nokta einum føroyskum fiskiskipi, sum hevur maskinskaða at koma inn at fáa umvælt skaðan, og verða tískil noyddir at seta kósina beint í móti einari ódn, sum sigst at koma ein av komandi døgunum   Víðari skrivar hann:   - Hetta er takkarlønin fyri tær milliónirnar vit veittu teimum í neyðhjálp, eftir at teir høvdu spælt kong gularót í fleiri ár. Av mær persónliga verður hettar aldrin gloymt teimum. Skammið tykkum Ísland! At gera slíkt við eitt skip, sum tørvar hjálp á opnum havi. Vit eru ikki beinleiðis í neyð, men blívur tað ringt veður, so eru vit 34 mans skótt í einari neyðstøðu.    

Stefna á stórframkvæmdir við Miðstræti

Fyrir nokkrum árum var byggingafyrirtækinu Steina og Olla úthlutað þremur lóðum við Miðstræti og var ætlunin að byggja þar fjölbýlishús. Ekki hefur enn orðið af því en fyrirtækið hefur tryggt sér tvær lóðir í viðbót með kaupum á tveimur húsum; annað stendur við Miðstræti, hitt við Strandveg en með aðgengi frá Miðstræti. Því er ljóst að verkefnið er orðið stærra en upphaflega var áætlað.  Mikið hefur verið að gera hjá Steina og Olla á undanförnum misserum og er fyrirtækið með lægsta tilboðið í 4.000 fermetra byggingu sem Ísfélagið ætlar að reisa. Um er að ræða byggingu frystiklefa og flokkunarstöðvar.   „Fyrir hafði fyrirtækið fengið úthlutað lóðunum númer 20, 22 og 24 við Miðstræti og fyrir stuttu festi fyrirtækið kaup á eigninni að Miðstræti 26 og í þessari viku er verið að ganga frá kaupum á eigninni að Strandvegi 55 sem er með aðgengi  frá Miðstrætinu,“ sagði Magnús Sigurðsson, framkvæmdastjóri Steina og Olla, í samtali við Eyjafréttir í gær. „Upphaflega áætlunin var að byggja fjölbýlishús á lóðunum þremur en nú lítur út fyrir að verkefnið taki breytingum og verði stærra. Þessi  kaup eru forsenda þess til að þær áætlanir geti gengið eftir og mögulegt verði að skipuleggja svæðið í heild sinni í samráði við bæjaryfirvöld.  Það er hins vegar  ekki tímabært að greina frá því nánar nema hvað þetta gæti orðið fjölbýlishús með verslunarplássi á neðstu hæðinni.“    Næstu skref segir hann vera að skipuleggja svæðið og sameina lóðir, en það er gert í góðu samstarfi við bæinn. „Við erum með þessum kaupum að tryggja okkur það að hægt verði að skipuleggja svæðið í heild sinni, til að ná sem bestri nýtingu út úr svæðinu.  Það getur svo tekið allt að tvo mánuði að vinna úr þessu, og síðan fer skipulagsbreytingin í hefðbundið ferli,“ sagði Magnús.     Nánar er rætt við Magnús Sigurðsson í blaði Eyjafrétta.

Stefnt að frekari uppsetningu ljósnets í haust

 Í lok janúar 2013 var greint frá því í Eyjafréttum að ljósnet verði komið um allan bæ fyrir mitt þetta ár, 2014. Fyrri áfanga lauk síðasta vetur og nær ljósnetið  til þeirra sem eru innan við kílómetra frá Símstöðinni við Vestmannabraut. Áætlað er að framkvæmdir við síðari hluta ljósnetsvæðingar hefjist í haust en ekki liggur fyrir hvenær þeim lýkur.  Með ljósnetinu ríflega fjórfaldast hraðinn á netinu til notanda og 25-faldast frá notanda.  Þjónustan við sjónvarp Símans verður einnig betri,  því viðskiptavinir geta verið með allt að fimm myndlykla, alla með möguleika  á háskerpu.   Ein ástæðan fyrir seinkuninni er að eignarhald á grunnnetinu færðist frá Símanum yfir til Mílu og var þar verið að bregðast við kröfu Samkeppnisstofnunar. En nú horfir fram á bjartari tíð hjá þeim sem enn eru úti í kuldanum. Míla stefnir á að halda áfram frekari uppsetningu ljósveitu í Vestmannaeyjum í haust og verður hafist handa við hönnun kerfisins strax í september,“ sagði Sigurrós Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi Mílu í gær.    „Ekki liggur þó fyrir nákvæmlega hversu stórt svæði verður klárað á þessu ári, en ætlunin er að tengja öll heimili í Vestmannaeyjum á ljósveitu.  Götuskápar verða settir upp í bænum, sem tengdir verða ljósleiðara og frá þeim er fyrirliggjandi heimtaug sem notuð er til að tengja hvert heimili.  Vegalengd heimtauga frá götuskáp er að meðaltali um 200  til  400 metrar sem tryggir gæði sambands til endanotanda,“ sagði Sigurrós.    Með tilkomu ljósveitu Mílu fá íbúar í Vestmannaeyjum möguleika á allt að 50 Mb/s internethraða til heimila og 25 Mb/s frá þeim auk þess sem auka 20 Mb/s eru frátekin fyrir sjónvarpsflutning. Ljósveita Mílu er opið aðgangsnet sem allir þjónustuaðilar í fjarskiptum geta haft aðgengi að og til að nálgast þjónustuna skal fólk hafa samband við sinn þjónustuaðila.

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Stjórnmál >>

Fyrsti fundur bæjarstjórnar í dag

Bæjarstjórn Vestmannaeyja kemur saman í dag í fyrsta sinn á nýju kjörtímabili.  Niðurstaða bæjarstjórnarkosninganna í vor, voru á þann veg að Sjálfstæðisflokkur fékk fimm bæjarfulltrúa en Eyjalistinn tvo.  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn eru Elliði Vignisson, Páley Borgþórsdóttir, Páll Marvin Jónsson, Trausti Hjaltason og Birna Þórsdóttir en fulltrúar Eyjalistans eru Jórunn Einarsdóttir og Stefán Óskar Jónasson.  Elliði, Páley, Páll Marvin og Jórunn sátu öll í bæjarstjórn á síðasta kjörtímabili.  Stefán Óskar hefur áður verið í bæjarstjórn og var varamaður á síðasta kjörtímabili en þau Trausti og Birna eru ný.  Bæjarstjórnarfundurinn fer fram í Eldheimum og hefst klukkan 18:00.   „Þegar ég kom inn í bæjarstjórn 2002 voru útsvarstekjur á hvern íbúa á verðlagi þess árs rétt liðlega 200.000 krónur en á síðasta ári voru þær hátt í 475.000 krónur,“ sagði Stefán í samtali við Eyjafréttir, sem kom út í gær.   „Staðan í dag opnar á tækifæri að gera meira fyrir bæjarbúa og bæjarfélagið í heild. Ég er ekki að mæla með óráðsíu í fjármálum en það má gera betur á ýmsum sviðum. Auðvitað veltur þetta mikið á á sjávarútvegi og afkomu atvinnulífsins almennt. Á kjörtímabilinu 2002 og 2006 vorum við, ég og núverandi bæjarstjóri, Elliði Vignisson, að skoða þann möguleika á að rífa blokkina Áshamar 75 ef það gæti létt á skuldum bæjarins. Engum dettur það í hug í dag en sterkari innviðir bæjarfélagsins eru líka verðmæti,“ sagði Stefán.   Viðtalið má lesa í heild sinni í Eyjafréttum.