Eyjapeyjar með verkefni til Microsoft

Eyjapeyjar með verkefni til Microsoft

Eyjapeyjarnir Sigurjón Lýðsson og Jóhann Sigurður Þórarinsson, ásamt Skagfirðingnum Guðmundi Jóni Halldórssyni, hafa undanfarin misseri unnið að hönnun tækis, Insulync sem er ætlað að halda upplýsingum um lyfjagjöf sykursjúkra, sem verður haldið saman á miðlægu safni, Cloudlync. Fyrirtæki þeirra, Medilync fékk á dögunum næst hæsta styrk sem Samtök Sunnlenskra sveitarfélaga veitti en rósin í hnappagatið kom á dögunum þegar tölvurisinn Microsoft bauð þeim að koma til þeirra til að vinna að Insulync og Cloudlync.   Sigurjón segir í samtali við Eyja­fréttir að þetta sé mikil og góð viðurkenning fyrir verkefnið. „Ég veit ekki til þess að nokkurt annað íslenskt fyrirtæki hafi fengið svona boð áður, hvað þá fyrirtæki úr Eyjum. Tækið er í smíðum og svo verður ferðin notuð til að tryggja ákveðin gæði þegar kemur að hugbúnaðarhlutanum. Tækið er fyrir sykursjúka, þannig að það mælir blóðsykur og gefur insúlín. Tækið geymir svo upplýsingar um inngjöf insulíns og blóðsykurmælingar sem síðan eru sendar í miðlæga gagnageymslu í skýinu (e. Cloud storage). Notandinn getur svo nálgast sín gögn í gegnum vafra eða þar til gert app. Einnig getur notandinn gefið öðrum aðgang að sínum gögnum s.s aðstandanda eða lækni.“ Hugmyndin kviknaði fyrir þremur árum en faðir Sigurjóns, Lýður Ægisson er sykursjúkur. Auk þess var hann í krabbameinsmeðferð og átti í erfiðleikum með að fylgjast með insúlín notkuninni í meðferðinni. Í kjölfarið fór Sigurjón að leita að hentugu tæki sem gæti hentað föður hans en hann fann ekkert. Sigurjón ákvað því að búa til svona tæki sjálfur. Síðan eru liðin þrjú ár og árangurinn í raun ótrúlegur. „Mestur tími hefur farið í rannsóknarvinnu en þetta er fyrsta árið núna sem við vinnum markvisst að tæknilegri útfærslu, þannig að í lok árs 2015 verðum við komnir langt með virka frumgerð af tæki og hugbúnaði.“   >> Nánar í blaði Eyjafrétta

Nýr Herjólfur kominn í hönnunarferli

Í gær stóð stýrihópur um byggingu nýs Herjólfs fyrir kynningarfundi í Höllinni. Var fundurinn vel sóttur, sennilega vel á þriðja hundrað manns. Í upphafi fundar kynnti Friðfinnur Skaftason, formaður stýrihópsins verkefni hópsins sem væri að átta sig þörfunum fyrir skipið; að setja af stað hönnun og síðan smíði skips sem sigla myndi milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar. Stýrihópinn skipa Andrés Sigurðsson frá Vestmannaeyjabæ, Friðfinnur Skaftason frá Innanríkisráðuneytinu, Hjörtur Emilsson, skipaverkfræðingur hjá Navis og Sigurður Áss Grétarsson starfsmaður Vegagerðarinnar. Auk þess hefur starfað með nefndinni Eiríkur Bjarnason, verkfræðingur, sem komið hefur að þessu verkefni á fyrri stigum. Þá fékk stýrihópurinn sér til ráðgjafar Jóhannes Jóhannessen, skipaverkfræðing, sem lengi hefur búið í Danmörku og unnið þar að hönnun á ferjum af margvíslegum toga. Friðfinnur sagði það markmið hópsins að láta smíða skip sem gæti haldið uppi áreiðanlegum heilsárs samgöngum milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar, sem þýði að hanna verði skip sem geti ráðið við sem verstar aðstæður á þessari siglingaleið og að stjórnhæfni og rásfesta skipsins verði mikil. Jóhannes Jóhannesson, skipaverkfræðingur fór yfir þá hönnun sem unnið er að. Kom fram hjá honum að skipið eigi að verða tæplega 66 metra langt eða um 5 metrum styttra Herjólfur og breidd þess verði rúmir 15 metrar sem er 1 metra mjórra skip en núverandi Herjólfur. Flutningsgeta þess eigi engu að síður að vera meiri. Stærð skipsins tæki mið af prófunum í hermi, þar sem prófaðar voru nokkrar stærðir og gerðir skipa við aðstæður í Landeyjahöfn. Þá kom fram hjá honum að lestun og losun verði fljótlegri en í núverandi Herjólfi og því eigi það möguleika á fleiri ferðum. Við hönnunina er lagt upp með að skipið geti siglt til Landeyjahafnar í 3,5 metra ölduhæð. Miðað við öldumælingar sem fyrir liggja, þýði það að 10 dagar á ári detta alveg út og í 30 daga á ári verði einhver truflun á áætlun innan dagsins. Margt fleira kom fram á fundinum sem gerð verða betri skil í blaði Eyjafrétta á miðvikudaginn.        

Stórskipakantur við Eiði kostar 3,5 milljarða

Stórskipakantur norðan við Eiði kostar 3,5 milljarða. Þetta kom fram á fundi framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyja en ráðið lýsir yfir áhyggjum af aðstöðuleysi og fyrirsjáanlegum vandkvæðum við móttöku flutningaskipa í Vestmannaeyjahöfn. Í bókun ráðsins kemur fram að núverandi athafnasvæði Vestmannaeyjahafnar sé fullnýtt og ekki sé möguleiki á stækkun þess innan þess ramma sem nú er. „M.a. hefur komið fram að færist flutningar til og frá Íslandi í stærri skip en nú eru notuð muni þau ekki geta athafnað sig í núverandi aðstöðu í Vestmannaeyjum. Brýnt er að huga að þeim möguleikum sem eru fyrir hendi og meðal annars hafa verið skoðaðir kostir þess að setja stórskipakant norðan Eiðis. Sú vinna leiddi í ljós að slíkur kantur myndi kosta um 3,5 milljarða króna en myndi þjóna næstu kynslóð flutningaskipa og stærri skemmtiferðaskipum. Einnig hafa verið reifaðir aðrir kostir án þess þó að skoða þá ofan í kjölinn. Þá bendir ráðið einnig á að stærðarmörk núverandi gámaskipa Eimskips og Samskipa, miðast við snúningssvæði innan hafnar í Vestmannaeyjum og að stærri skip geti ekki athafnað sig þar. „U.þ.b. 10% af útflutningstekjum sjávarafurða frá Íslandi fer í gegnum Vestmannaeyjahöfn og því mjög mikilvægt að flutningsleiðir á sjó til og frá Vestmannaeyjum séu greiðar og ekki íþyngjandi fyrir sjávarútveg og samfélagið í Vestmannaeyjum. Miðað við umfang byggingar stórskipakants utan Eiðis er ljóst að Vestmannaeyjahöfn hefur ekki bolmagn ein og sér til að ráðast í slíka framkvæmd. Því skorar ráðið á stjórnvöld að vinna að framtíðarsýn í hafnarmálum á Íslandi þar sem hafnir eru mikilvægur hluti af samgöngukerfi landsins, ekki síst í eyjasamfélagi eins og Vestmannaeyjum.“ Á fundinum lá einnig fyrir bréf frá Vegagerðinni þar sem óskað er eftir umsóknum um styrki til hafnarframkvæmda á samgönguáætlun 2015-2018. „Ráðið samþykkir að fela framkvæmdastjóra að óska eftir því að viðhaldsdýpkun og lagfæring á grjótgarði Eiði verði áfram inni í samgönguáætlun og jafnframt að huga að gerð stórskipakants í Vestmannaeyjum.“ 

Skjárinn hefur opnað allar sínar rásir í Eyjum

Skjárinn ehf. hefur opnað fyrir allt sitt sjónvarpsframboð til allra Eyjamanna til og með 20. október n.k. Um kynningaropnun er að ræða og vill stöðin með þessari allsherjar opnun vekja athygli á því fjölbreytta úrvali sem Skjárinn hefur uppá að bjóða. Opnunin er að kostnaðarlausu og án allra skuldbindinga. Hinsvegar er verðar sjónvarpsrásir stöðvarinnar opnar áfram á Dvalar – og hjúkrunarheimilinu Hraunbúðum og einnig á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja. Í frétt frá Skjánum segir að dagskráin á SkjáEinum hafi aldrei verið glæsilegri. Sleggjurnar verða án efa innlendur þáttaraðirnar Minute to Win It – Ísland og Biggest Loser Ísland 2 og þá hefur erlend dagskrá aldrei verið fjölbreyttari, með fjöldann allan af glænýjum þáttaröðum stútfullum af spennu, drama, gríni og fjöri.   Hægt er að horfa á heilar þáttaraðir á SkjáFrelsi, sem fylgir með SkjáEinum, og er aðgengilegt á myndlyklum sjónvarpsins og á netinu www.skjarinn.is. Í SkjáHeimi eru yfir 70 rásir stútfullar af fræðslu, skemmtun, íþróttum og tónlist. Það ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi með aðgengi að svo fjölbreyttu úrvali vandaðra sjónvarpsefnis. SkjárKrakkar er áskriftar-VOD þjónusta sem veitir áskrifendum aðgang inná mikið úrval af íslenskt talsettu barnaefni sem er aðgengilegt á myndlyklum sjónvarpsins (Síminn eða Vodafone lyklar). Þar er hægt að finna teiknimyndir fyrir yngstu börnin sem og vandaðar kvikmyndir fyrir alla fjölskylduna.   Í fréttartilkynnigu Skjásins segir að með einu mánaðargjaldi sé aðgangur ótakmarkaður. „SkjárSport er áskriftarpakki sem enginn íþróttaáhugamaður ætti að láta framhjá sér fara! Frá og með áramótum færðu Eurosport 1 og 2 einungis í SkjáSport en þar er að finna beinar útsendingar og umfjöllum meira en 100 íþróttagreinar! Fótbolti, vetraríþróttir, hjólar.“    

Töframaðurinn Einar Mikael á leið til Eyja

Einar Mikael töframaður ásamt Viktoríu töfrakonu, eru  að undirbúa ferð um Suðurlandi með fjölskyldusýningu. Verða þau í Höllinni í Eyjum 31. október. Eyjafréttir töfruðu fram símtal við Einar og leituðu frétta af högum töframannsins:   Eru að vinna að nýjum sjónvarpsþáttum? „Já, ég er búinn að vera taka upp þætti sem heita Töfrahetjurnar sem verða sýndir á Stöð 2 í haust. Þetta eru frábærir fjölskylduþættir sem fjalla um töfrabrögð og sjónhverfingar. Í þáttunum fáum við að kynnast hæfileikaríkum töfradýrum sem geta gert ótrúlega hluti og fáum einnig að fylgjumst við með tveimur ungum töfrahetjum.   Er það rétt að þú náðir að þjálfa upp hrafn fyrir þættina? „Það passar. Hrafninn heitir Þór og það er alveg ótrúlegt en satt þá náði ég að kenna honum nokkur töfrabrögð. Hann kann að draga spil, sveifla töfrasprota og finna faldna hluti.Þetta eru alveg ótrúlega gáfuð dýr og hann var mjög snöggur að læra. Maður þarf samt að passa sig á þeim því þeir eru mjög glysgjarnir og rosalega stríðnir..´´ Hvað geturðu sagt okkur um sýninguna? „Sýningin er troðfull af flottum sjónhverfingum og nýjum atriðum sem hafa aldrei sést áður á Íslandi. Viktoría töfrakona verður með mér en hún er fyrsta töfrakonan á Íslandi og er alveg rammgöldrótt. Það er mikið búið verið að spurja mig hvenær ég kæmi aftur austur og mig hlakkar rosalega til að koma og leyfa öllum að upplifa ógleymanlega kvöldstund´´   Hver er þessi Viktoría? „Viktoría er fyrsta töfrakona Íslands. Hún kann margt fyrir sér í töfrabrögðum og er búinn að taka þátt í mörgum sýningum með mér um allt land. Töfrabrögð eru ekki bara fyrir stráka og finnst mér mikilvægt að allar íslenskar stelpur geti átt frábæra fyrirmynd í töfrum, því okkur langar öllum að geta gert ótrúlega hluti.“   Þá sagði Einar Mikael að hægt sé að fylgjast með þeim á facebooksíðu Töfrahetjanna. https://www.facebook.com/tofrabrogd      

Minnir á útivistartíma barna

Vikan sem leið var mjög róleg hjá lögreglunni og afar fá útköll. Skemmtanahald helgarinnar tókst mjög vel og þurfti lögreglan ekki að hafa nein afskipti af því fólki sem var úti á lífinu. Tvö mál komu upp í vikunni þar sem lögreglan var kölluð til vegna ölvunar. Annað var í heimahús þar sem upp kom ósætti á milli fólks og hitt vegna manns sem sem sagður var svo ölvaður að hann kæmist ekki sjálfur á fætur. Í fyrra málinu kom lögregla á sáttum og í því síðara var maðurinn aðstoðaður til síns heima. Í vikunni var svo lögregla kölluð í heimahús þar sem maður var grunaður um að hafa fíkniefni í fórum sínum, við leit hjá honum fannst poki með kannabis. Eitt brot gagnvart umferðarlögum er skráð í dagbók lögreglunnar og var það ökumaður sem var sektaður fyrir að leggja ökutæki sínu ólöglega. Enn vil lögreglan minna ökumenn á að kanna ljósbúnað bifreiða sinna nú þegar skammdegið grúfir yfir en lögreglan hefur orðið vör við að ljósabúnaður ökutækja sé ábótavant.   Einnig vill lögreglan skerpa á reglum um útivistartími barna og unglinga en hann breyttist frá og með 1. september s.l. Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20.00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22.00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir. Aldursmörk þessa ákvæðis miðast við fæðingarár en ekki fæðingardag.   Á vef umboðsmanns barna stendur eftirfarandi: Sömu opinberu reglur gilda því um öll börn í sama árgangi. Ýmsar ástæður eru fyrir því að takmarka útivist barna og unglinga á kvöldin. Helstar eru: • Nægur svefn er mikilvæg forsenda góðrar heilsu, vellíðunar og árangurs í skólanum. Það að vera komin heim á skikkanlegum tíma og eiga smástund heima fyrir háttinn hjálpar vaxandi fólki að fara fyrr að sofa. • Þreytt og illa sofið fólk er líklegra til að lenda í slysum og óhöppum, sérstaklega þegar skyggja tekur. • Börn og unglingar sem eru úti langt fram á kvöldin eru líklegri til að fara fyrr að fikta við tóbak, áfengi og fíkniefni. • Alvarlegar líkamsárásir og óæskileg kynlífsreynsla eiga sér oft stað seint á kvöldin. Reglur um útivistartíma segja til um hvað börn mega vera lengi úti en ekki hvað þau eiga að vera lengi úti. Foreldrar geta að sjálfsögðu sett sínar eigin reglur innan ramma útivistarreglna. Reglur barnaverndarlaga um útivistartímann gilda ekki fyrir þá unglinga, sem verða 16 ára á árinu. Lög kveða því ekki á um útivistartíma 16 ára unglinga. Börn öðlast stigvaxandi rétt til að taka ákvarðanir um eigin málefni sjálf með hækkandi aldri og auknum þroska, þar á meðal varðandi útvistartíma. Þar sem foreldrar fara með forsjá barna og bera ábyrgð á þeim til 18 ára aldurs er það þó í höndum foreldra að ákveða útivistartíma barna á aldrinum 16 til 18 ára. Foreldrum ber þó að veita börnum tækifæri til að hafa áhrif á slíkar reglur, eins og meðal annars kemur fram í 28. gr. barnalaga. Eðlilegt er að foreldrar setji reglur um útivist 16 ára barns í samráði við barnið og þurfa reglurnar að vera sveigjanlegar, sanngjarnar og skiljanlegar barninu.    

Vill færa málefni aldraðra til sveitarfélaganna

Félags- og húsnæðismálaráðherra, segir sína skoðun að flytja eigi ábyrgð á þjónustu við aldraða til sveitarfélaga, rétt eins og málefni fatlaðra og menntun á grunnskólastigi. Samþætting heimaþjónustu er viðfangsefni norrænnar ráðstefnu sem nú stendur yfir í Reykjavík.   Ráðstefnan hófst í morgun með ávarpi Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra. Hún ræddi í upphafi um fjölgun aldraðra en lagði áherslu á að það ætti ekki að skoða sem vandamál, heldur staðreynd. „Við þurfum að snúa opinberri umræðu um málefni aldraðra frá vandamálum að lausnum. Samhliða þurfum við að sinna stefnumótun sem tekur mið af staðreyndum og raunhæfum tækifærum. Við þurfum stefnu sem setur í forgang þarfir fólksins sem þarf á þjónustu að halda, sama hver veitir hana“ sagði ráðherra meðal annars.   Hér á landi bera sveitarfélögin ábyrgð á félagslegri þjónustu og þar með er talin ýmis þjónusta í heimahúsum, en ríkið er ábyrgð fyrir heilbrigðisþjónustu og þar með telst heimahjúkrun og hjúkrunarheimili. Ráðherra ræddi um margra ára vinnu við samþættingu heimahjúkrunar og heimaþjónustu í Reykjavík og jákvæð áhrif þess þegar skrefið var stigið til fulls og borgin tók að sér rekstur heimahjúkrunar. Hún sagði það tæpast hafa komið nokkrum á óvart, því allir þekki ókostina við tvískipta ábyrgð á svo nátengdum þjónustuþáttum eins og heimahjúkrun og heimaþjónustu þar sem iðulega sé togstreita um verkefni og kostnað: „Afleiðingarnar eru í versta falli ómarkviss þjónusta, þjónusta sem ekki er í samræmi við þarfir notenda og oft þjónusta sem er mun dýrari en ástæða er til“ sagði ráðherra meðal annars.   Ráðherra segist þeirrar skoðunar að flytja eigi ábyrgð á þjónustu við aldraða til sveitarfélaganna sem þegar hafi sýnt hvers þau eru megnug við yfirtöku ábyrgðar á þjónustu við fatlað fólk og á grunnskólanum. Nærþjónustan eigi að vera hjá sveitarfélögunum og besta samþættingin á sviði öldrunarþjónustu felist í því að reka þjónustuna á einni hendi. Þannig séu mestar líkur á því að veitt séu úrræði á viðeigandi þjónustustigi og þannig skapist samlegðaráhrif sem efla sveitarstjórnarstigið til góðs fyrir íbúana    

Palli Helga kom færandi hendi í Sagnheima

Í síðustu viku kom Páll Helgason ferðafrömuður með merka hluti tengda Hótel Berg til varðveislu í Sagnheimum, byggðasafni. Um er að ræða ljósmynd af Hóteli Berg frá um 1915 og forláta postulínskanna merkt Hótel Berg. Hlutir þessir berast safninu frá Sigurði Karlssyni hönnuði og Hanný Ingu Karlsdóttur til minningar um móður þeirra Sigurbjörgu Ingimundardóttur ekkju Karls Sigurðssonar skipstjóra á Litla Landi Vestmannaeyjum en hún var síðasti eigandi Hótels Bergs. Sendum Páli og þeim systkinum bestu þakkir og kærar kveðjur.   Húsið Tunga (hótel Berg) var reist árið 1913. Húsið var stórt og myndarlegt steinhús, kjallari með rúmgóðri hæð og risi við Heimagötu 4. Gengið var upp á hæðina um ábúðarmiklar steintröppur. Húsið byggði danskur maður, Jóhann Sörensen, en hann tók síðar upp íslenskt ættarnafn og kallaði sig Reyndal. Hann setti upp brauðgerðarhús á hæðinni til hægri en ekkert brauðgerðarhús var þá til í Eyjum. Magnús Bergsson, kunnur athafnamaður í Eyjum kvæntist Dóru Reyndal kjördóttur Jóhanns og keypti Tungu árið 1924. Bjuggu þau í rishæð hússins en leigðu hæðina Íslandsbanka og var bankinn  þar til 1930 í norðurenda. Bankastjórinn Haraldur Viggó Björnsson bjó í suðurenda ásamt konu sinni Rannveigu Vilhjálmsdóttur. Landsbanki Íslands starfrækti útibú í Tungu veturinn 1930. Eftir að bankinn flutti starfsemi sína úr Tungu tók Magnús Bergsson allt húsið til eigin nota og flutti með fjölskyldu sína á neðri hæð og setti á stofn hótel.  Hótelherbergi voru á rishæð en veitingasala á hæðinni og matstofa. Þar var stundum dansað. Magnús rak síðan veitinga- og gistihús að Tungu og nefndi það Hótel Berg.  Jóna Jónsdóttir keypti innanstokksmuni hótelsins um 1942 og leigði aðstöðuna fyrir gistihús og er hún öðrum fremur tengd nafni og sögu Hótel Berg. Eftir að Jóna hætti hótelrekstri, keypti Sigurbjörg Ingimundardóttir hótelið og húsið af Sigmundi Andréssyni bakarameistara sem áður hafði eignast allt húsið og búið þar ásamt konu sinni Dóru Hönnu dóttur Magnúsar Bergssonar.  Hönnuðurinn Sigurður Karlsson, sonur Sigurbjargar og Karls Sigurðssonar skipstjóra frá Litlalandi breytti húsinu mikið og færði í nútímastíl en upphaflegri umgerð og anda hússins var haldið.  Nokkrir ungir Vestmannaeyingar tóku hótelið á leigu um tíma og nefndu Hótel Hamar. Sigurbjörg tók síðan aftur við húsinu og rak Sigurður sonur hennar hótelið ásamt konu sinni Ragnhildi Steingrímsdóttur er gosið hófst.  Hótelið nefndu þeir aftur sínu gamla nafni Hótel Berg.  sagnheimar.is 

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Mannlíf >>

Reisusaga Gunnars og Óskars - I og II hluti

Knattspyrnumennirnir og félagarnir Gunnar Þorsteinsson og Óskar Elías Zoega Óskarsson héldu á dögunum í mikla ævintýraferð til Indlands.  Strákarnir ætluðu að stunda þar jóga og læra á brimbretti en Gunnar skrifar pistla á facebooksíðu sína þar sem sagt er frá ferðinni.  Eyjafréttir hafa fengið leyfi Gunnars til að birta pistlana, sem nú eru orðnir tveir og birtum við því fyrstu tvo saman hér.    Reisusaga Gunnars og Óskars,hluti I Ég ætla að setja inn smá pistil af svaðilförum okkar vinanna hérna í Indlandi, aðallega til að halda mæðrum okkar rólegum! Pistillinn er í lengra lagi, ég verð seint þekktur fyrir að vera stuttorður. Það voru tveir rokspenntir Eyjapeyjar sem héldu til Indlands á þriðjudaginn. Við þurftum að bíða yfir nótt á Heathrow eftir tengiflugi til Abu Dhabi. Nískupúkarnir sem við erum tókum ekki í mál að borga fyrir fokdýra hótelgistingu og komum okkur vel fyrir á dúðuðum bekkjum. Believe it or not, á Heathrow var flygill sem á stóð bókstaflega 'PLAY ME' og þar sem ekkert var framundan nema 10 tíma bið ákvað ég að leika nokkra (ekki svo) ljúfa tóna. Ég held að aðrir gestir flugvallarins hafi verið orðnir ansi pirraðir að heyra bjagaða útsetningu mína af Für Elise. Beethoven hefði snúið sér í gröfinni hefði hann heyrt misþyrmingu mína á þessu meistarastykki hans. Hann var reyndar heyrnarlaus í lifanda lífi þannig hann slapp blessunarlega við það. Áfram héldum við til Abu Dhabi þar sem Óskar átti stórskemmtilegt trademark móment. Í öryggisleitinni tókum við eftir athyglisverðum búningi lögreglumannanna, en þeir gengu í hvítum kuflum með rauða klúta á höfðinu. Myndasmiðnum Óskari fannst þetta vera algjört Kodak móment og smellti nokkrum af á símann sinn. Við stóðum nógu mikið út úr röðinni, tveir ljósir yfirlitum meðal 200 Indverja, og smellirnir í myndavélinni drógu athyglina enn frekar að okkur. Það skipti engum togum, löggurnar tjúlluðust og hrifsuðu símann af honum. Sem betur fer eyddu þeir bara myndunum og skiluðu símanum svo aftur. Skipulagsleysi Indverja kom strax í ljós þegar hleypt var inn í flugvélina. Einn gæi sá um að skanna ALLA flugmiðana þannig röðin gekk ansi hægt. Á flugvellinum í Thiravaraputam (!) var ennfremur bara eitt öryggisleitarhlið þannig það tók enn lengri tíma að komast út af flugvellinum. Við þurftum ekki að bíða lengi eftir menningarsjokkinu. Á leiðinni út í leigubíl reyndi vasaþjófur að hnupla úr vasanum hjá Óskari. Rósa Baldurs, sérlegur fatahönnuður ferðalanganna, hafði hugsað fyrir því í hönnun sinni á jógabuxunum sem hún sérsaumaði á okkur peyjana. Engir vasar eru á buxunum þannig eina sem þjófurinn greip í var stellið á Óskari. Leigubílsferðin til jógasetursins var svakalegasta þeysireið lífs okkar. Engin voru beltin og ökuþórinn þeystist fram úr hverjum bílnum, mótorhjólinu og vegfarandanum á fætur öðrum. Helst þegar blindbeygja var framundan. Ég þakka æðri mætti fyrir að við skyldum komast í heilu lagi á leiðarenda. Sumir (Óskar) voru orðnir svo stressaðir að hann tók myndband þar sem hann tíundaði ást sína á fjölskyldu og eiginkonu, "bara ef við skyldum deyja". Það vakti athygli mína að þótt klukkan væri fimm að nóttu til voru margir á ferli. Sofa Indverjar ekki? Loksins kom að því að þessum pistli mínum lauk. Nei djók. Loksins kom að því að við komum til jógasetursins, 33 klukkustundum eftir að við héldum frá Leifsstöð og þremur klukkustundum seinna en gert var ráð fyrir. Eðli málsins samkvæmt vorum við því afar ferðaþreyttir eftir lítinn svefn á leiðinni. Enginn tími var til að leggja sig því prógram dagsins var hafið. Ansi skrautlegt atvik sér stað í fyrsta jógatímanum. Þrátt fyrir að eiga að heita íþróttamaður er ég með ansi gilda þjóhnappa sem rúmuðust greinilega illa í jógabuxunum fínu sem mamma saumaði. Í allra fyrstu sólarhyllingunni teygði ég fæturna í sundur og viti menn, buxurnar rifnuðu með látum allt frá rassi upp fyrir lífbein. Í jógasetri þar sem stranglega bannað er að ganga í aðsniðnum fötum hékk ég með nærbuxurnar úti restina af tímanum. Við vorum búnir að lofa fjölskyldunum (lesist: áhyggjufullum mæðrum) að láta vita af okkur þegar á leiðarenda var komið. Netsambandið er víst ekkert á setrinu og símasambandi náðum við ekki fyrr en seinna um daginn þannig sms-ið náðum við ekki að senda fyrr en seinnipartinn, 9 klukkustundum en seinna en við sögðumst ætla að gera. Í stuttu máli sagt var jógasetrið ekki það sem við bjuggumst við, og því ákváðum við að yfirgefa svæðið og halda til Kovalam strandlengjunnar. Það reyndist góð ákvörðun. Þó að ávallt sé logn hér brimið samt mikið, segja má því að aðstæður séu fullkomnar til brimbrettaiðkunnarVið tókum daginn í að koma okkur fyrir á hótelinu og skoða umhverfið, þar á meðal nokkrar af afviknari ströndunum. Þar voru nokkrir unglingspiltar að sparka bolta á milli sín, og auðvitað þurftum við að sýna "listir" okkar. Fljótlega drifu fleiri peyjar að þegar þeir sáu tvo ljóshærða útlendinga gera sig að fiflum. Að sjálfsögðu var stillt upp í leik, með trjágreinum og flöskum fyrir mörk. Við spiluðum alveg þangað til sólin hné til viðar. Mitt lið vann (að sjálfsögðu). Vá hvað þetta var gaman! Svona móment er einmitt ástæðan fyrir að maður heldur í svona ævintýri. Enginn af þeim talaði ensku en það skipti engu máli, einn bolti er nóg. "Fótbolti er tungumál" segja Tjallarnir alltaf. Á morgun hefst surf'ið. Það verður nú einhver gleðin með honum Zoega. Við sitjum í þessum töluðu (skrifuðu?) orðum og fylgjumst með mannlífinu við ströndina og drekkum nýpressaðan ananassafa. La dolce vita.   Reisusaga Gunnars og Óskar s - Hluti II Komið sæl aftur, ég ætla að stikla á smáu (því ekki stikla ég á stóru miðað við lengdina á þessum pistlum) yfir það sem við Óskar höfum haft fyrir stafni síðastliðna daga í þessu næst fjölmennasta ríki heims. Sturluð staðreynd dagsins: 35% Indverja eru taldir lifa undir fátæktarmörkum. Inni í verri hverfum borgarinnar sem við höfum bæði skoðað á tveimur jafn fljótum og sk. rickshaw, yfirbyggðu þríhjóla mótorhjóli, flæðir rusl um allar götur og ólyktin fyllir öll vit. Vannærð börn hlaupu upp að okkur í hrönnum og kölluðu stórum augum 'please monní'. Þegar maður upplifir örbirgðina svona á eigin skinni hugsar maður hversu agalega gott við höfum það á Íslandi. Hvernig nennum við að væla yfir smávegis roki, rigningu og dýrtíð þegar stór hluti heimsins hefur varla í sig og á? Svo verður það pottþétt þannig að korteri eftir að við komum heim verðum við byrjaðir að væla yfir snjónum og kuldanum... Innfæddir gera ýmislegt til að afla sér lifsviðurværis. Hér við ströndina, bækistöð okkar, eru skransalar áberandi. Þeir eru svo ágengir að á köflum minna þeir mann á ónefndan leikmann ÍBV (þú veist hver þú ert) sem alræmdur er fyrir örvæntingafulla leit að fórnarlambi korteri fyrir lokum á Lundanum. Fyrst um sinn hunsuðum við sölumennina algjörlega eins og kennt er, en svo komumst við að því að það er miklu skemmtilegra að hafa húmor fyrir þeim og reyna að prútta, án þess endilega að hafa í hyggju að kaupa nokkuð. Enskukunnátta sölufólksins takmarkast við 'very special price for you my friend' þannig samningaviðræður fara fram á táknmáli með miklu handapati, höfuðhristingum og svipbrigðum. Gömlu konurnar sem selja framandi ávexti eru skemmtilegastar. Þegar við bjóðum fáránlega lágt verð setja þær upp svip sem dramadrottningin Rachel McAdams út The Notebook og Mean Girls væri stolt af, stara á okkur í dágóða stund og labba svo hægt í burtu í þeirri von að við sjáum ljósið og komum hlaupandi til þeirra. Svo þegar þær ganga næst fram hjá horfa þær illilega á mann en þegar ég gretti mig á móti er brosið ekki langt undan. Ég geri meir grein fyrir við skrifin að framkoman gæti virkað dálítið hrokafull en við kaupum reglulega ávexti af þeim, hálft í hvoru til að réttlæta sjálfa okkur og svo eru ávextirnir líka fantagóðir, nýtíndir af trjánum í grenndinni. Þrátt fyrir að vera búnir að dvelja hér í viku er líkamsklukkan ennþá alveg snarringluð. Ég sofna og vakna á óreglulegustu tímum og sef ýmist í fimm tíma eða fimmtán á sólarhring. En eins og með allt annað er hægt að finna ljósið í myrkrinu, bókstaflega. Þegar maður situr úti á svölum að nóttu til er unaðslegt að fylgjast með eldingunum leiftra um næturhimininn og hlusta á ölduniðinn og monsoon-rigninguna dynja á húsþökunum. Þegar maður horfir á brimbrettakappa leika sér í öldunum hugsar maður með að þetta geti nú varla verið erfitt, þetta er bara spurning um að vippa sér upp á brettið og sameinast öldunni. Með það hugarfar allavega hófum við Zoega brimbrettaiðkun okkar. Að sjálfsögðu reyndist málið ekki svo einfalt. Við erum báðir búnir með á fjórðu klukkustund í kennslu og erum ennþá að basla við að standa upp án hjálpar og 'ná öldunum', þ.e. hitta á öldurnar til að geta riðið þeim (bein þýðing á 'ride the wave', er hún ekki skemmtileg? Fimmaurabrandaraaðdáandanum mér finnst hún sniðug). Óskar er nú skömminni skárri en ég. En eins og með allt annað hljótum við að ná tökum á tækninni með áframhaldandi æfingum. Á meðan njótum við ferlisins allavega í botn. Allir sem þekkja mig vita að ég er hrakfallabálkur mikill. Það hefur heldur betur sýnt sig í sörfinu (afsakið slettuna íslenskuunnendur). Á nokkrum dögum hefur mér tekist að skrapa magann og bæði hnén til blóðs, týnt GoPro vélinni minni, fengið annars stigs sólbruna í rúmlega 30 gráðu hitanum, fengið stórt sár á ilina eftir að hafa lent á steini og svo fengið brettið tvisvar af alefli í andlitið, sem olli því að ég get ekki tuggið eðlilega og er með króníska skúffu eins og Johnny Bravo. Nennir einhver að hringja á vælubílinn? Djók, það segir sitt um skemmtanagildi íþróttarinnar að allar hrakfarirnar eru margfalt þess virði. Dagurinn í dag er toppurinn hingað til. Við héldum af stað í birtingu til vatnakerfisins í Kerala þar sem við rérum á kanó. Þaðan fórum við til verndarsvæðis. Við komuna gerði svoleiðis úrhellisrigningu að leiðsögumaðurinn okkar gerði sér lítið fyrir og hljóp í næsta skjól þaðan sem hann kallaði einfaldlega 'walk straight guys!' Við fylgdum fyrirmælumum galvaskir og gengum eftir slóðanum í gegnum frumskóginn, með hinum ýmsu útúrdúrum. Þar vorum við Zoega sko í essinu okkar, fundumst við vera algjörir Bear Grylls-naglar. En eftir tæpan hálftíma fóru að renna á okkur tvær grímur, það gat nú varla verið að við áttum að ganga svona langt? Við snérum við og jújú, innan við 5 mínútum frá staðnum þar sem við skildum við leiðsögumanninn var stærðarinnar fíll svona 20 m frá veginum... Talandi um að sjá ekki skóginn fyrir trjánum. Við vorum greinilega að bíða eftir skilti sem á stæði: 'ELEPHANT HERE ->'. En gott og blessað, við komum á heppilegum tíma því fengum eitthvað aðeins að taka þátt í böðun fílskálfanna þar sem við fengum að upplifa kraftinn í þeim þegar einn kálfanna fældist og tók á sprett. Og þegar fíll kemst á ferðina stoppar hann ekkert. Hápunkturinn var svo þegar við settumst á bak fullvaxins tarfs. Og þar var sko ekki verið að stressa sig mikið á öryggismálum, við sátum einir á baki í frumstæðum söðli og fíllinn var ekki einu sinni bundinn! En hann reyndist alveg spakur þannig áhyggjur okkar hurfu fljótt og reiðtúrinn var stórskemmtilegur. Þvílíka upplifunin sem þetta var, klárlega eitt 'check' á bucket-listanum. Við lentum á spjalli við breska konu sem benti okkur á jógakennara í grenndinni. Nú stundum við jóga á hverju kvöldi uppi á þaki og fylgjumst með sólinni hníga til viðar. Er þetta ekki ein leið til að lifa lífinu til fulls?

Stjórnmál >>

Fyrsti fundur bæjarstjórnar í dag

Bæjarstjórn Vestmannaeyja kemur saman í dag í fyrsta sinn á nýju kjörtímabili.  Niðurstaða bæjarstjórnarkosninganna í vor, voru á þann veg að Sjálfstæðisflokkur fékk fimm bæjarfulltrúa en Eyjalistinn tvo.  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn eru Elliði Vignisson, Páley Borgþórsdóttir, Páll Marvin Jónsson, Trausti Hjaltason og Birna Þórsdóttir en fulltrúar Eyjalistans eru Jórunn Einarsdóttir og Stefán Óskar Jónasson.  Elliði, Páley, Páll Marvin og Jórunn sátu öll í bæjarstjórn á síðasta kjörtímabili.  Stefán Óskar hefur áður verið í bæjarstjórn og var varamaður á síðasta kjörtímabili en þau Trausti og Birna eru ný.  Bæjarstjórnarfundurinn fer fram í Eldheimum og hefst klukkan 18:00.   „Þegar ég kom inn í bæjarstjórn 2002 voru útsvarstekjur á hvern íbúa á verðlagi þess árs rétt liðlega 200.000 krónur en á síðasta ári voru þær hátt í 475.000 krónur,“ sagði Stefán í samtali við Eyjafréttir, sem kom út í gær.   „Staðan í dag opnar á tækifæri að gera meira fyrir bæjarbúa og bæjarfélagið í heild. Ég er ekki að mæla með óráðsíu í fjármálum en það má gera betur á ýmsum sviðum. Auðvitað veltur þetta mikið á á sjávarútvegi og afkomu atvinnulífsins almennt. Á kjörtímabilinu 2002 og 2006 vorum við, ég og núverandi bæjarstjóri, Elliði Vignisson, að skoða þann möguleika á að rífa blokkina Áshamar 75 ef það gæti létt á skuldum bæjarins. Engum dettur það í hug í dag en sterkari innviðir bæjarfélagsins eru líka verðmæti,“ sagði Stefán.   Viðtalið má lesa í heild sinni í Eyjafréttum.  

Greinar >>

Svar til Elliða Vignissonar við opnu bréfi til þingmanna

Þakka þér fyrir opið bréf til okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins og ekki síður ástríða þín að halda uppi vörnum fyrir sjávarútveginn og sjávarbyggðir.   Ég get tekið undir að samráð varðandi frumvörp um veiðigjöld hafa í síðustu tvö skipti ekki verið eins og við sjálf ræddum um. Í mínum huga er það forsenda árangurs að hafa gott samráð við útveginn og samtök sjómanna varðandi lagasetningu og breytingar á rekstrarumhverfi greinarinnar. Þá þarf samráð við okkur þingmenn að vera meira og markvissara um verkefnin, vinnuna, uppleggið og niðurstöðuna sem við viljum sjá og stefnum að með pólitískri niðurstöðu okkar.   Varðandi bætt umhverfi fyrir atvinnulífið þá er það markviss stefna okkar að lækka álögur á atvinnulífið. Tryggingagjaldið er á hægri niðurleið, veiðigjöldin eru að mínu mati ósanngjörn þar sem hagnaður af vinnslunni er inn í veiðigjöldunum og það er auðvitað ófært. Ég vil að vinnslan hafi tækifæri til að greiða hærri laun og verði því ekki sérstaklega skattlögð vegna veiðigjald, sem útgerðin síðan greiðir. Ég kýs sjálfur einfalt veiðigjald og þess vegna mætti hækka almenna gjaldið lítillega og láta þar við sitja og engar undanþágur né afslættir vegna skulda verði í gjaldinu. Allir greiði sama gjald miðað við þá stuðla sem við höfum unnið með. Veiðigjöldin eru um 8 milljarðar á þessu ári en með óbreyttri stefnu fyrri ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur væri þau yfir 20 milljarðar svo við höldum því til haga. Í þessu sambandi ítreka ég vilja okkar til að lækka álögur á heimilin og einstaklingana í landinu. Það verkefni er líka og leið til aukins kaupmáttar.   Samkvæmt ifs-greiningu yfir afurðaverð útfluttra sjávarafurða heldur afurðaverð áfram að hækka. Afurðavísitalan hækkaði þannig um 2,4% í ágúst frá fyrri mánuði og 10% sl. 6 mánuði í íslenskum krónum. Í erlendum gjaldeyri hefur hækkunin verið aðeins minni eða um 2,2% í ágústmánuði og um 9,9% á sl. 6. mánuðum. Til samanburðar hafa laun sem hlutfall af rekstrarkostnaði í vinnslunni lækka um 30-50% sl. 7 ár.   Loðnuaflinn var vonbrigði á þessu ári eða um 130 þú. tonn á móti 450 þús. tonnum árið 2012. Spá Hafró fyrir næsta ár er 4-500 þús tonn. Það kemur til móts við minnkandi ársafla 2013, en loðnan er brellin og erfitt að reiða sig á hana.   Ég geri ekki lítið úr áhyggjum um minnkandi afla en við búum við breytileika í náttúrunni og ráðum ekki við aflabrest frekar en sumarheimsókn makríls sem hefur gjörbreytt afkomu uppsjávarveiða og aukið verðmæti og minnkað atvinnuleysi í sjávarplássum.   Varðandi það að gengið hafi verið fram af hörku og ósanngirni í álagningu veiðigjalda er rétt að þrátt fyrir að beygt hafi verið af leið fyrri ríkisstjórnar um veiðigjöldin þá eru gjöldin há. Unnið er að frumvarpi um breytinga á veiðigjöldum, en gjöldin eiga að taka mið af getu greinarinnar til að greiða fyrir aðgang að auðlindinni. Það gleðilega er að framlegð eftir útgerðaflokkum sjávarútvegsfélaga á árinu 2013 gefur sterka mynd af góðri afkomu greinarinnar þó mismunandi sé og greinilegt að útgerðaflokkar missterkir til að takast á við veiðigjöld.   Blönduð uppsjávar- og botnfiskfélög skila árið 2013 28% EBIDU, (32% 2012) Botnfiskútgerð og vinnsla 19% (23% 2012) og botnfiskútgerð 20% (22% 2012) Greiddur tekjuskattur sjávarútvegsfélaga var um 21,5% á árinu 2013 samkvæmt upplýsingum Deloitte sem fram komu á Sjávarútvegsdeginum í Hörpu í dag 8. okt.   Þrátt fyrir lækkun framlegðar jókst hagnaður greinarinnar milli áranna 2012 og 2013 úr 46 milljörðum í 53 milljarða árið 2013. Skuldir lækkuðu frá 2009 úr 494 ma í 341 ma eða um 153 milljarða 2013. Á árinu 2013 voru arðgreiðslur útvegsins til hluthafa 12 milljarðar en vor 6.3 ma árið 2012 þrátt fyrir lækkun framlegð milli áranna. Afurðaverð fer hækkandi og skuldir lækka. Það er góðæri í útveginum og framleiðni greinarinnar eykst.   Samkvæmt þessum upplýsingum er staða útvegsins góð og mikilvægt að sú staða endurspegli samfélagslega ábyrgð fyrirtækjanna, bætt launakjör starfsfólks og í hagsæld sjávarbyggðanna.   Með vinsemd Ásmundur Friðriksson alþingismaður.