Makrílvertíðin fer ágætlega af stað

Makrílvertíðin fer ágætlega af stað

Nú er makrílvertíðin að hefjast og voru Huginsmenn fyrstir til að hefja veiðar þetta árið. Að sögn Guðmundar Inga Guðmundsson, skipstjóra hefur veiðin verið ágæt til þessa en Huginn VE var staddur suðaustur af Eyjum þegar Eyjafréttir náði tali á honum í gær, þriðjudag. ,,Við erum bara að reyna að kortleggja þetta eins er og finna út hvar fiskurinn er. Veiðin hefur gengið ágætlega fram að þessu og í þessum töluðu orðum er fínn gangur á þessu. Við erum núna suðaustur af Eyjum sem eru nokkuð hefðbundnar slóðir í upphafi vertíðar. Það er mikið af síld hérna ef maður fer nær landi, sem er jákvætt, en við þurfum að fara lengra út til þess að finna makrílinn.” Huginn VE landaði í síðustu viku rúmlega 300 tonnum og stefna á löndun í dag, miðvikudag rúmum 600 tonnum af hausuðum makríl. Áður en við kvöddum Inga skipstjóra komst fótboltinn til tals, enda er það umræðuefni sem er á allra vörum þessa dagana. ,,Stemmningin hérna um borð er búin að vera virkilega góð meðan á leikjunum stendur. Maður er eiginlega bara orðlaus eftir leikinn í gær. Þetta er ótrúlegt. “   Minni makrílkvóti í ár Leyfilegur heildarafli íslenskra skipa í makríl á þessu ári er 147.824 lestir, samkvæmt regluger. .Til viðbótar er úthlutað 3.825 lestum sem ekki veiddust af óskiptum potti smábáta á síðasta ári. Auk þess sem sum skip geymdu talsvert af heimildum sínum milli ára og mega veiða nú, en geymsluheimild milli ára var aukin í 30% í kjölfar viðskiptabanns Rússa. Úthlutun síðasta árs nam rúmlega 170 þúsund tonnum. Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar hafa gert með sér samning um makrílveiðar og ákváðu þessi strandríki 896 þúsund tonna aflamark samkvæmt veiðireglu. Miðað við þann kvóta er leyfilegur afli íslenskra skipa 16,5% af heildinni, svipað og verið hefur síðustu ár. Samkvæmt ráðgjöf ICES ætti heildarafli árið 2016 að vera að hámarki 667 þúsund tonn. Ráðgjöf ICES fyrir árið 2015 var að hámarki 906 þúsund tonn og er því um verulegan samdrátt að ræða í ráðgjöfinni. Afli síðasta árs var hins vegar verulega umfram ráðgjöf og útlit fyrir að svo verði einnig í ár. Þannig eru 896 þúsund tonnin, sem ESB, Noregur og Færeyjar ákváðu sem heildaraflamark um 34% umfram ráðgjöf ársins. Að auki má ljóst vera að afli Íslendinga, Rússa og Grænlendinga verði verulega umfram þau 15,6% sem þeim eru ætluð samkvæmt áðurgreindum þriggja ríkja samningi. Ef litið er á hlut Íslands sem hlutfall af ráðgjöf ICES nemur hann um 22%.      

EM 2016 | Hversu vel stendur ríkið við bakið á afrksíþróttafólki?

Nú áðan varð ég ásamt heimsbyggðinni vitni að því þegar afreksmenn í knattspyrnu frá rétt rúmlega þrjúhundruðþúsundmanna þjóð lagði stórveldi sem telur 55 milljónir íbúa. Áhrifin eru gríðaleg. Þau eru efnahagsleg, ímyndaleg, félagsleg, sálfræðileg og svo margt fleira. Það leiddi hugann að því hvernig við sem þjóð stöndum að uppbyggingu og umhverfi afreksíþróttafólks.       Íþóttir sameina   Nú nýverið kusum við Íslendingar okkur forseta, ágætasta mann sem ég treysti vel í verkefnið. Við erum um 330.000 manna þjóð og í hugum mjög margra er einn helsti tilgangurinn með þessu embætti að þar sé um sameiningartákn að ræða. Embætti forseta kostar 259,7 milljónir á ári skv. gildandi fjárlögum. Öll þjóðin er nú sameinuð í nafni íþrótta og í þetta skipti er það karlalandslið okkar í knattspyrnu. Heildarframlög ríkisins til afreksíþróttafólks þjóðarinnar eru 100 milljónir skv. þessum sömu fjárlögum. (Að megninu til eru íþróttamál annars greidd af sveitarfélögum svo sem öll íþróttahúsin, sundlaugarnar, knattspyrnuvellirnir, fimleikahúsin og fl.)     Gummi Ben orðinn landkynning Björk er án efa fremsti tónlistamaður þjóðarinnar og sennilega fremsti listamaður hennar. Hún hefur borið hróður okkar víða og við erum rík að eiga hana. Á hálfu ári hafa um 650.000 manns horft á myndbandið við lag hennar Mouth mantra. Á 4 dögum hafa um 300 þúsund manns horft á Gumma Ben fagna sigri á Austurríkissmönnum.     Tugir milljóna horfðu á leikinn gegn Englandi Talið er að yfir 200.000 Íslendingar hafi horft á allan landsleik Íslands og Englands núna áðan. Þar við bætast tugir milljóna sem horfðu á hann í beinni útsendingu. Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur vaxið mjög fiskur um hrygg og gestum þar hefur fjölgað stórkostlega, enda hljómsveitin frábær. Heildar gestafjöldi á seinasta ári var um 77 þúsund. Heildarframlög ríkisins til allra íþróttamála á seinasta ári var 602,9 milljónir.   Allir eru að horfa til Íslands Íslandsstofa hefur verið að standa sig vel í kynningu á landinu. Hún fær úthlutuðum 597 milljónum á hverju ári. Fyrir það reynir hún –oft með góðum árangri- að ná athygli erlendra fjölmiðla. Íslenska knattspyrnuliðið okkar er núna fyrsta frétt á flestum erlendum netmiðlum. Umsögnin um liðið er undantekningalaust jákvæð og styrk þeirra er ekki hvað síst eignaður ótrúlegu landi og ótrúlegri þjóð.     Íþróttamenn eru fyrirmyndir Það sem mestu skiptir eru svo áhrif íþróttamanna á ungmenni þjóðarinnar og hvatinn sem þeir eru okkur öllum –sem einstaklingum og þjóð- til að leggja okkur fram og standa okkur. Það verður aldrei metið til fjár.     Ríkið taki meiri ábyrgð á afreksíþróttafólki Með þessum vangaveltum geri ég ekki lítið úr forsetaembættinu, Björk, Sinfó né Íslandsstofu. Ekki frekar en nokkrum öðrum lið sem er á fjárlögum þótt sannarlega vilji ég forgangsraða í þágu grunnþjónustu. Almennt vil ég líka fara varlega í að auka útgjöld ríkisins en mér þykir hinsvegar naumt skammtað af ríkinu þegar kemur að málefnum afreksíþrótta. Sveitarfélögin bera hitann og þungann af mannvirkjum, áhugafélög og styrktaraðilar kosta þungann af þjálfun og uppbyggingu og það er því ekki til of mikils mælt að ríkið standi betur við bak afreksíþróttafólks. Það er ekki hvað síst þau sem bera út hróður landsins, bæta ímynd okkar og efla okkur öllum dáð. Áfram Ísland   Tekið af heimasíðu Elliða Vignissonar, bæjarstjóra Vestmannaeyja.

EM 2016 | Miðasalan : Hvar og hvenær ?

Margir Eyjamenn hafa verið í Frakklandi síðustu daga eða huga að ferð til Frakklands núna til að sjá Íslands spila á móti Frakklandi í 8. liða úrslitunum. Miðasala á leik Íslands og Frakk­lands sem fram fer á sunnu­dag­inn hefst klukk­an 12 á há­degi í dag, en þar mun gilda fyrst­ur kem­ur, fyrst­ur fær, óháð þjóðerni. Það má því gera ráð fyr­ir gríðarleg­um áhuga þegar sal­an hefst, enda er Ísland að mæta gest­gjöf­un­um og mjög mik­ill áhugi er meðal heima­manna á leikn­um. Þótt leik­ur­inn fari fram á þjóðarleik­vangi Frakka, Stade de France, sem tek­ur rúm­lega 81 þúsund manns í sæti, eru all­ar lík­ur á því að upp­selt verði mjög fljótt á leik­inn. Þeir Íslend­ing­ar sem ætla sér að kaupa miða á leik­inn þurfa því að hafa hraðar hend­ur til að næla sér í miða og í fram­haldi af því að kaupa flug­miða og gist­ingu í Par­ís.   Miðasölu­vef­ur UEFA Form­leg miðasala fer fram á vef UEFA og hefst hún eins og fyrr seg­ir klukk­an 12.00 á há­degi. Aft­ur á móti er hægt að fara í röð í miðasöl­unni klukk­an 11:45 og má telja víst að það sé nauðsyn­legt ef fólk vill eiga mögu­leika á að fá miða. Fyr­ir þann tíma er ekki vit­laust að lík­leg­ir kaup­end­ur út­búi aðgang á síðu miðasöl­unn­ar. Þegar klukk­an er 11:45 er svo smellt á „Ticket portal“ boxið neðarlega fyr­ir miðju á síðunni og haldið áfram þaðan í miðakaups­ferl­inu.  

Opinn fundur í Alþýðuhúsinu um málefni hafsins

Haldinn verður opinn fundur um málefni hafsins í Alþýðuhúsinu þriðjudaginn 28. júní í tengslum við sumarfund sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs. Á fundinum verða meðal annars þingmennirnir Róbert Marshall og Elín Hirst, færeyingurinn Bogi Hansen, haffræðingur og handhafi umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs, Jóhann Sigurjónsson, fyrrum forstjóri Hafrannsóknarstofnunar og nú starfsmaður utanríkisráðuneytisins og Gunnar Haraldsson, hagfræðingur og félagi í norrænni hugveitu um málefni hafsins. Einnig verða á fundinum þingmenn frá Norðurlöndum sem sitja í sjálfbærninefnd Norðurlandaráðs.   Þema opna fundarins er hafið: loftslagsbreytingar, hafstraumar og súrnun sjávar og hvernig bæta má stjórnun á sameiginlegum fiskistofnun í Norður-Atlandshafi, svo sem makríl og síld.   Fundurinn hefst í Alþýðuhúsinu þriðjudagsmorguninn 28. júní kl. 9 og stendur til hádegis. Túlkun verður á fundinum þannig að þátttakendur geta fylgst með og tekið þátt í umræðum á skandinavísku, finnsku og íslensku.   Meðan á heimsókninni til Vestmannaeyja stendur mun nefndin einnig meðal annars skoða Vinnslustöðina og Eldheima.   Norðurlandaráð hefur frá 1952 verið helsti vettvangur til umræðu og aðgerða um samstarf Norðurlandanna. Ráðið skipa 87 þingmenn Norðurlanda, þar af 7 alþingismenn.   Norðurlandaráði er skipt upp í starfsnefndir sem sinna tilteknum sviðum samstarfsins. Það er ein þessara nefnda, nefndin um sjálfbæra þróun, sem heldur sumarfund sinn í Vestmannaeyjum dagana 27. og 28. júni. Nefndina skipa 18 þingmenn frá Norðurlöndunum fimm og Grænlandi.   Dagskrá opna fundarins er sem hér segir:   Kl. 09:00 -10:15 Opnunarorð, Hanna Kosonen, þingmaður í Finlandi, formaður sjálfbærninefndar Norðurlandaráðs.   Loftlagsbreytingar, hafstraumar og súrnun sjávar • Bogi Hansen, haffræðingur frá Færeyjum og handhafi umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs • Jón Ólafsson, heiðursprófessor, Háskóla Íslands   Kl. 10:30-12:00 Stjórnun sameiginlegra fiskistofna • Jóhann Sigurjónsson, fyrrum forstjóri Hafró og nú starfsmaður utanríkisráðuneytisins • Gunnar Haraldsson, hagfræðingur og félagi í norrænni hugveitum um málefni hafsins   Danska þingkonan Karin Gaardsted, varaformaður sjálfbærninefndarinnar, flytur lokaorð.    

Tilkynning frá Orkumótsnefnd Og ÍBV

Forsetakosningar 2016 | Vil hlusta á fólkið í landinu og leggja því lið

Ég vil vera málsvari þeirra sem minna mega sín og standa vörð um grundvallarréttindi allra. Kæru Eyjamenn! Ég vil byrja á að þakka ykkur kærlega fyrir þær yndislegu móttökur sem þið veittuð okkur Elísu í heimsókn okkar til Eyja dagana 7. til 8. júní. Síðustu vikur höfum við hjónin verið á fleygiferð um landið, sem hefur verið fjörleg og skemmtileg, en eitt af því sem helst stendur upp úr í hugum okkar beggja er heimsóknin til Eyja. Hún rennur okkur seint úr minni og verðum við ævinlega þakklát fyrir gestrisnina, þann hlýhug og þá góðvild sem okkur var hvarvetna sýnd. Vestmannaeyjar eru einstakur staður og það vitið þið heimamenn líklega manna best. En glöggt er gests augað; náttúrufegurðin er ótrúleg, sagan mögnuð og fólkið hugmyndaríkt og kraftmikið. Þetta birtist meðal annars í einkar öflugu atvinnulífi og verðmætasköpun, blómlegri menningarstarfsemi og svo auðvitað einu öflugasta íþróttafélagi heims miðað við höfðatölu. Dvöl okkar í Eyjum var viðburðarík og dagskráin þétt. Fyrst sóttum við fróðlega vinnustaðafundi þar sem okkur gafst færi á að kynnast starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja frá fyrstu hendi og þeirri mögnuðu blöndu hugvits og atorkusemi sem þar ræður ríkjum. Við áttum einnig gott spjall við starfsfólk á heilsugæslunni og heimilisfólk á Hraunbúðum sem tók afar vel á móti okkur. Þar fyrir utan áttum við líka fjölmörg skemmtilegt samtöl við heimamenn hér og þar, hvort sem það var niðri við höfn, á vappi um bæinn eða yfir kaffibolla í Skýlinu. Það var ánægjulegt hvað fólk var ófeimið að spjalla og spyrja. Fólk er þó misjafnlega málglatt eins og gengur og mér er minnisstæð konan sem vatt sér upp að mér í Skýlinu með útrétta hönd og sagði einfaldlega: „Sæll, ég ætla að kjósa þig!“ Síðan gekk hún rakleitt að afgreiðsluborðinu og hélt áfram að sinna sínu. Engar óþarfa málalengingar þar. Á milli funda og vinnustaðaheimsókna gafst okkur tími til að sprikla aðeins og frílysta okkur. Við skelltum okkur til dæmis í sund í glæsilegri sundhöll Eyjamanna auk þess sem við fórum í Sprönguna þar sem mér tókst að spranga nokkurn veginn klakklaust, þrátt fyrir að vera á lakkskóm. Einhverjum þótti frammistaðan „ágæt miðað við aldur“ en ég lagði nú ekki í að leika eftir þær listir sem Gunni Ella Pé sýndi viðstöddum við þetta tækifæri.   Fundurinn hápunkturinn Hápunktur ferðarinnar var opinn fundur í skemmtilegum húsakynnum Sagnheima. Starfsfólk Safnahúss hafði sett upp fróðlega sýningu í anddyrinu um sögu forsetaembættisins sem mér þótti afar áhugaverð. Fundurinn var vel sóttur og líflegur og fundargestir spurðu um allt milli himins jarðar. Fyrsta spurningin var spurning sem Þóra Arnórsdóttir fékk oft á sínum tíma: Hvernig ég gæti sinnt þessu mikla embætti með öll þessi börn! Ég var einnig spurður um afstöðu mína til helstu ágreiningsmála, til dæmis varðandi stjórnarskrárbreytingar og Evrópusambandið. (*) Að fundi loknum áttum við Elísa notalega stund á Slippnum áður en við héldum á gistiheimilið Hamar.    Hitta fólk og hlusta  Það sem mér hefur þótt skemmtilegast á ferðum mínum undanfarnar vikur er að hitta fólkið í landinu og hlusta á hvað það hefur að segja. Þar er auðvitað af ýmsu að taka en ef ég ætti að velja tvö orð til að lýsa því hugarfari sem ég skynjaði hjá ykkur Eyjamönnum þá tel ég að orðin bjartsýni og sóknarhugur fangi það vel. Þetta hugarfar er smitandi og veitti mér góðan innblástur fyrir kosningabaráttuna. En þrátt fyrir bjartsýnina og drifkraftinn þá heyrði ég líka áhyggjuraddir. Nú hafa til dæmis margir áhyggjur af því að ekki sé lengur hægt að fæða börn í Vestmannaeyjum. Þó ég hafi reynt að slá á létta strengi með því að leggja til að Eyjamenn samræmdu fæðingardaga barna sinna með einhverjum hætti þá er þetta auðvitað alls ekkert gamanmál. Áhyggjurnar eru réttmætar. Í mínum huga er algjört grundvallaratriði að við tryggjum að allir Íslendingar njóti ákveðinna lágmarksréttinda, óháð því hvar þeir kjósa að búa.   Ósýnilegt ræðupúlt Þó forseti geti ekki haft beint áhrifavald í málum sem þessu þá hefur hann óbeint áhrifavald sem getur skipt sköpum. Því hvar sem forseti fer hefur hann meðferðis „ósýnilegt ræðupúlt“, eins og ég orðaði það á fundinum í Sagnheimum, og þar af leiðandi getur hann leitt umræðu um mikilvæg mál er varða hagsmuni landsmanna. Það skellir enginn á þegar forsetinn hringir. Nái ég kjöri vil ég vera forseti allra Íslendinga. Ég vil hlusta á fólkið í landinu og leggja því lið. Ég vil vera málsvari þeirra sem minna mega sín og standa vörð um grundvallarréttindi allra. Ég hef lagt áherslu á að forseti standi utan og ofan við fylkingar í landinu og sé ekki með einum í liði á móti öðrum; að forseti dragi fólk ekki í dilka. Mér þykir mikilvægt að forseti virði alla Íslendinga jafnt og hefji sig þannig yfir dægurþras stjórnmálanna. Þá hef ég talað fyrir því að forseti sé bjartsýnn og hafi ekki allt á hornum sér, enda þekkjum við öll úr daglegu lífi að bjartsýni gerir öll viðfangsefni okkar auðveldari viðureignar. Við höfum ekkert að óttast. Ef við erum óhrædd við breytingar og óhrædd við að treysta lýðræðinu, ef við stöndum saman og látum mótlæti ekki sundra okkur, þá eru okkur allir vegir færir. Þá mun okkur farnast vel. Við Elísa hefðum gjarnan viljað staldra lengur við í Vestmannaeyjum en því miður var tíminn af skornum skammti í þetta skipti og sigldum við í land snemma morguns 8. júní til að halda áfram för okkar um Suðurland. Það er hinsvegar morgunljóst að hvernig sem kosningarnar fara þann 25. júní þá hlökkum við mjög til að sjá ykkur aftur. Takk fyrir okkur!    

Samfélagsleg sátt rofin

Á Íslandi er bara ein borg, hún heitir Reykjavík. Mikilvægi hennar fyrir þjóðina er mikið. Í gegnum styrk hennar vegum við upp aðdráttarafl erlendra borga. Þar höfum við byggt upp stjórnsýsluna, fjármálakerfið, dómskerfið, helstu menningarstofnanir, helstu háskólastofnanir, sérhæfða heilbrigðisþjónstu og annað það sem þjóðin þarf á að halda. Til grundvallar þessu liggur ákveðin samfélagssátt. Í grófum dráttum er sáttin fólgin í því að landsmenn sameinist um þessa uppbyggingu –þótt stundum sé það með semingi- og á móti gegni borgin ákveðinni höfuðborgarskyldu. Bregðist borgin þessari skyldu er hætt við að sáttin rofn     Aðgengið skiptir máli Meðal helstu skyldu borgarinnar er að auðvelda landsmönnum öllum aðgengi að þessum sameiginlegu stofnunum. Aðgengi landsmanna að þjónustunni í borginni er í lang flestum tilvikum háð flugi og/eða einkabílum. Núverandi borgaryfirvöld hafa hinsvegar með einbeittum hætti lagt risavaxnar hindranir í veg utanbæjarfólks með árásum á þetta aðgengi. Fyrst með fordómum gagnvart einkabílnum og svo með fordæmalausum árásum gegn þeirri lykilæð sem Reykjavíkurflugvöllur er.     Bregðast skyldum sínum Vafalaust þykir nú einhverjum sem ég seilist langt með kröfum gagnvart höfuðborginni. Ég er jú af landsbyggðinni og ætti sennilega í huga einhverra að halda mig til hlés þegar kemur að borgarmálum. Það er þó í mínum huga ekkert óeðlilegt að ég sem kjörinn fulltrúi á landsbyggðinni bendi á að núverandi borgaryfirvöld eru að bregðast skyldu sinni sem leiðtogar höfuðborgarinnar og þar með að vega að þeim samfélagssáttmála sem ríkt hefur.     Við leggjum öll til uppbyggingar í Reykjavík Við eigum nefnilega öll jafna heimtingu á þjónustu ríkisstofnana sem greiddar eru af okkar sköttum a.m.k. til jafns á við það sem gengur og gerist meðal borgarbúa. Íbúar í Vestmannaeyjum greiða 5527 milljónir á ári umfram það sem ríkið nýtir í nærþjónustu í Vestmannaeyjum. Þannig er sagan víða um land. Þetta fé nýtist að mestu leyti í uppbyggingu á þeirri miklu þjónustu sem er í höfuðborginni.     Sjálfsagður réttur að geta nýtt hina sameiginlegu þjónustu Við á landsbyggðinni hljótum að gera ráð fyrir því að það þyki sjálfsagður réttur okkar að geta á einfaldan og aðgengilegan máta nýtt okkur þá þjónustu sem við öll greiðum fyrir. Við viljum að hægt sé að fljúga sjúkum sem næst sérhæfðri hjúkrunarþjónustu. Við viljum geta á sem greiðastan máta ekið til Reykjavíkur og komist á okkar einkabíl að stofnunum og fengið þar bílastæði. Við þurfum að geta flogið með almenningsflugi í borgina, sinnt þar erindum og komist sem fyrst til okkar heima. Við viljum að borgin sinni þeirri skyldu sem nauðsynleg er og beri virðingu fyrir hlutverki sínu sem höfuðborg okkar allra.     Virða á sáttmálann Á sama máta viljum við að borginni sé vel stjórnað og að sómi sé af henni. Hún er höfuðborg allrar þjóðarinnar, andlit okkar og gróðurmold margra tækifæra allra landsmanna. Við viljum að borgin sé sterk og þar þrífist öflugt mannlíf. Þótt sannarlega teljum við mörg að fastar mætti stíga fram í að dreifa ákveðnum störfum um landið þá erum við algerlega tilbúin til að halda áfram þeim allra stærsta byggðastyrk í sögu þjóðarinnar sem fólgin er í því að þjappa saman stjórnsýslu og lykilstofnunum í Reykjavík. Okkur þykir á sama máta sjálfsagt að höfuðborgin okkar hafi ríkan rétt sem slík og þar á meðal að samráð sé haft við stjórnendur hennar og íbúa um þær ákvarðanir ríkisstjórnarinnar og þings sem snerta mikilvæga hagsmuni borgarbúa, svo sem atvinnutækifæri, skipulag og yfirbragð. Allt þetta er þó með fyrirvara um að borgaryfirvöld virði þann óskrifaða samfélagssáttmála sem í gildi hefur verið áratugum saman.     Fordæmalaus skref í átt að rofi á samfélgssáttmála Borgarstjórn Reykjavíkur undir stjórn Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata hafa stigið fordæmalaus skref í átt að rofi á samfélagssáttmála um hlutverk höfuðborgarinnar. Það er áhyggjuefni ef áfram skal halda í þá ógæfuátt. Staðreyndin er sú að þótt á stundum kunni okkur að greina á um áherslur þá þurfum við hvert á öðru að halda, íbúar í landsbyggðunum og íbúar í borginni. Við erum heilt yfir hvert öðru velviljug. Grunnurinn að áframhaldandi sátt er að borgaryfirvöld sinni hlutverki sínu og sjái sérstaklega sóma inn í því að hindra ekki íbúa landsbyggðarinnar í því að sækja þangað hina sameiginlegu þjónustu.   Elliði Vignisson birti þessa færslu fyrst á heimasíðu sinni.  

Forsetakosningar 2016 | Reynsla, dómgreind og þor

Við Íslendingar vitum hversu mikilvægt það er að forseti Íslands hafi burði og þor til að taka erfiðar ákvarðanir og verja hagsmuni lands og þjóðar. Á ögurstundu má dómgreind ekki bresta en treysta á reynslu og þekkingu á íslenskri stjórnsýslu, stjórnmálum, menningu og atvinnulífi. Það er ekki aðeins eðlilegt og sanngjarnt, heldur nauðsynlegt, að gerðar séu kröfur um að sá er gegnir embætti forseta geti mótað sér sjálfstæðar skoðanir í mikilvægum málum og tekið ákvarðanir af yfirvegun. Þá er ekki hægt að taka mið af dægurvinsældum, bogna undan þrýstingi áhrifaafla eða láta raddir hinna háværu en fámennu hafa áhrif. Sá sem gegnir embætti forseta hverju sinni mótar embættið með sínum hætti. Í aðdraganda kosninganna hef ég lagt áherslu á að breyta í nokkru inntaki forsetaembættisins. Ég vil færa forsetann að fólkinu og fólkið að forsetanum – bjóða öllum landsmönnum heim að Bessastö um – gera Bessastaði að sannkölluðu þjóðarheimili. Forseti sem þekkir þjóðarsál Íslendinga og er hreykinn af landi og þjóð, án hroka eða yfirlætis, getur stuðlað að meiri sátt í þjóðfélaginu. Á komandi misserum og árum er mikilvægt að við hugum sameiginlega að innviðum samfélagsins og þá ekki síst hinum andlegu innviðum, tökumst á við óróann og ósættið sem hefur náð að grafa um sig í samfélaginu. Þar getur forseti gegnt lykilhlutverki. Um leið og forseti plægir jarðveg sátta verður hann að hafa kjark til að stöðva þöggun og brjóta niður umræðubann um tiltekna þætti í samfélaginu. Forsetinn þarf því að vera tilbúinn til að knýja á um umræðu um mikilvæg þjóðfélagsmál, sem leiðir til jákvæðra athafna í þágu lands og þjóðar. Um leið getur forsetinn tryggt að raddir hinna hófsömu og þeirra sem standa höllum fæti fái að heyrast en verði ekki kaffærðar með hrópum hinna fáu sem hæst hafa. Forseta ber að gæta hófsemdar í málflutningi sínum og allri framkomu. Þær aðstæður kunna hins vegar að skapast að hann geti ekki og megi ekki víkjast undan því að taka opinberlega afstöðu í mikilvægum og erfiðum málum sem skipta land og þjóð miklu. Forsetinn á að blása fólki – ekki síst ungu fólki – bjartsýni í brjóst og stuðla með sínum hætti að því að við séum öll stolt af því að vera Íslendingar og höfum trú á framtíðinni, hreykin af menningu okkar og sögu. Hannes Hafstein hafði óbilandi trú á landi og þjóð. Um aldamótin 1900 bar hann þá von í brjósti að Íslendingar yrðu að nýju sjálfstæð þjóð sem gengi frjáls að arfi sínum. Í kvæðinu Aldamótin hvatti Hannes samlanda sína til samstöðu. Brýning Hannesar fellur aldrei úr gildi: Starfið er margt, en eitt er bræðrabandið, boðorðið, hvar sem þér í fylking standið, hvernig sem stríðið þá og þá er blandið, það er: Að elska, byggja og treysta landið. Þá mun sá guð, sem veitti frægð til forna, fósturjörð vora reisa endurborna. Þá munu bætast harmasár þess horfna, hugsjónir rætast. Þá mun aftur morgna. Reynslan og þekkingin gerir mér kleift að takast á við flestar þær aðstæður sem upp geta komið. Verði ég kallaður til þess verks að gegna embætti forseta Íslands, mun ég standa þá vakt af sanngirni og af þeirri yfirvegun sem reynslan hefur kennt mér.  

Tónleikar á Háaloftinu með Axel og Co. á fimmtudaginn

Sjóðandi heit kántrýsveit, Axel O & CO halda tónleika á Háaloftinu fimmtudagskvöldið 30. júní. Axel O & Co er hljómsveit sem hóf störf fyrir um ári síðan. Forsprakkinn og söngvari hljómsveitarinnar er Axel Ómarsson sem ólst upp á sínum yngri árum í vöggu Country tónlistarinnar í Texas og Oklahoma í Bandaríkjunum. Þar lærði Axel að meta Country tónlist og tók þann áhuga með sér þegar hann flutti aftur til Íslands. Axel kom með Texas hreiminn inn í íslenskt tónlistarlíf sem heillað hefur Country áhugafólk að undanförnu. Meðlimir Axel O & Co eru valinkunnir tónlistarmenn úr íslensku tónlistarlífi og hafa hver um sig gert garðinn frægan með fjölda hljómsveita og í raun má segja að Axel O & Co sé sannkölluð súpergrúppa. Hljómsveitina skipa þeir Magnús Kjartansson (Júdas, Trúbrot, Brimkló, Brunaliðið, HLH og Sléttuúlfarnir) , Sigurgeir Sigmundsson (Start, Gildran, Tyrkja Gudda), Jóhann Ásmundsson (Mezzoforte, Stjórnin, Heart2Heart), og Sigfús Óttarsson (Rikshaw, Jagúar, Mannakorn, Stjórnin og Strax, Dali). Fyrir utan að spila með öllum þessum vinsælu og flottu hljómsveitum, hafa þeir spilað inn á ótrúlegan fjölda hljómplatna í gegnum tíðina, enda hér á ferð hreint frábærir hljóðfæraleikarar.   Axel O & Co gáfu út sitt fyrsta lag, “Country Man” í ágúst 2015 og það lag rataði inn á ýmsa vinsældarlista á útvarpsstöðvum erlendis, í Bandaríkjunum og víðar. Lagið skipaði t.d. fyrsta sæti á Country Lista í London í tvær vikur. Nú hefur hljómsveitin gefið út sinn fyrsta disk sem inniheldur 10 frumsamin lög.   Við lofum frábærum tónleikum, kántrýtónleikum af dýrustu sort, á Háaloftinu fimmtudagskvöldið 30.júní.   Tónleikarnir hefjast klukkan 22.00 og húsið opnar klukkan 21.00.    

EM 2016 | Stemmninginn í Frakklandi er gríðaleg

Mikill fjöldi Eyjamanna hefur verið í Frakkalandi síðustu daga að fylgjast með íslenska karlalandsliðinu í fótbolta spreyta sig á EM. En liðið hefur spilað tvo leiki sem hafa skilað þeim tveim stigum og sitja þeir nú í öðru sæti í sínum riðli, sem verður að teljast glæsilegur árangur hjá litla Íslandi. Næsti leikur liðsins er á morgun klukkan 16.00 í París á móti Austurríki. Vinni Ísland leikinn eiga þeir stóran möguleika á að komast í 16. liða úrslit keppninnar. Við slógum á þráðinn á Eyjapeyjann Ólaf Björgvin Jóhannesson og spurðum út í stemmninguna í Frakkalandi. ,,Við erum hérna sex Eyjapeyjar á leiðinni til Parísar eftir að hafa verið í Nice í fimm daga. Erum búnir að lenda í fullt af skemmtilegum atvikum vegna tafa á samgöngum en höfum ekkert verið að láta það hafa áhrif á stemmninguna. Stemmninginn á leiknum í Marseille var geggjuð en við misstum samt af fyrstu mínútum leiksins vegna tafa í öryggisleytinni á völlinn, en það bras gleymdist um leið og maður var kominn inn á völlinn. Þvílík stemmning! Veðrið er búið að vera alveg frábært hérna og margir hafa stoppað okkur hérna úti og flestir sem eru hlutlausir í keppninni halda með okkar mönnum. Við tókum eitt kvöld með stuðningsmönnum Svíþjóðar og sungum saman söngva þjóðanna og hápunkturinn það kvöld var án efa þegar við sungum öll saman til heiðurs Lars. Erum núna á leiðinni út í vél á leið til Parísar í enþá meiri stemmningu þar sem við munum hitta fullt af Eyjafólki og halda áfram að skemmta okkur. ÁFRAM ÍSLAND."    

Bylgjufræðingur - Sannleikurinn um Landeyjahöfn

Frá þvi að ég sá fyrst hvernig átti að gera Landeyjahöfn var ég viss um að það væri röng aðferð. Einnig sá ég það að höfnin er nákvæm eftirlíking af höfninni í Hanstholm í Danmörku sem er ekki gott því þar eru aðstæður allt aðrar. Seinna kom í ljós að skýrslur sérfræðinga sem farið var eftir voru um Hanstholm en ekki Landeyjahöfn. Þetta segir Árni Björn Guðjónsson, bylgjufræðingur í aðsendri grein á Pressunni pressan.is/pressupennar/     Sandur kemur niður um ós Markarfljóts sem segir að þar þarf að gera garð sem nær það langt út að framburður fljótsins fari á um 10 metra dýpi og fleytist til vesturs. Garðurinn að sjálfsögðu vestan megin við ósinn. Eystrigarð Landeyjahafnar þarf að framlengja þannig að hann nái fyrir hafnarmynni Landeyjahafnar. Þannig er komið í veg fyrir að hafaldan eigi beina braut inn í höfnina og eys sandinum inn um hafnarmynnið. Þetta er eina leiðin til að koma í veg fyrir að höfnin verði ófær, nýtt skip hefur ekkert með þetta að gera. Það þarf að stytta vestari garðinn svo se meira ´rými fyrir skip að sigla inn.   Ef þetta tvennt hafði verið gert hefði Landeyjahöfn verið nothæf flesta óveðursdaga ársins og sandur ekki náð að komast inn í höfnina. Sagt hefur verið að ef þetta er gert þá leiti sandurinn í skjól vestan megin við garðinn. En það tæki langan tíma að fylla í höfnina. Því megin sandurinn fleytist framhjá með austan straumnum sem þarna er. Til samanburðar eru flestar hafnir sem ég hef skoðað með slíkan öldubrjót. Til dæmis Þorlákshöfn og Dalvíkurhöfn. Þetta þarf að gera strax svo höfnin verð fær allt árið.   Ég hef gert Facebooksíðu sem heitir Endurgerð Landeyjahöfn þar eru um 30 myndir sem sýna þetta á svart og hvítu.   Suðaustanáttin lendir beint inn um hafnarmynnið og eys sandinum í höfnina. Þetta er hægt að laga með því að gera öldubrjót svo aldan brotnar á honum það utarlega og kemur i veg fyrir að sandurinn lendi í höfninni. Þessi garður þarf að ná út á um 10 metra dýpi og ná vel fyrir hafnarmynnið. Þá verður einnig logn við hafnarmynndið og hafaldan nær ekki inn. Einnig myndast skjól vegna öldurnar sem brotnar og endurkastast á mótu öðrum öldum í nágrenninu.   Eftir að þetta hefur verið gert getur hvaða skip sem er siglt inn i höfnina i hvaða veðri sem er.   Árni Björn Guðjónsson, bylgjufræðingur  

Heimir: Enn eina ósigraða liðið í sögu EM

Heimir Hallgrímsson, segir að það hafi verið hljótt inni í búningsklefa íslenska landsliðsins eftir leikinn gegn Ungverjalandi í gær í samtali við vísi.is   Ísland og Ungverjaland gerðu 1-1 jafntefli en Ungverjar skoruðu jöfnunarmark sitt á lokamínútum leiksins er Birkir Már Sævarsson varð fyrir því óláni að skora sjálfsamark.   „Það var dapurt inn í búningsklefa inni í leik. Eins og hjá öllum liðum sem fá á sig mark í lok leikja. Það er svolítið sérstakt. Við fögnuðum einu stigi gegn Portúgal en grátum nú stig gegn Ungverjalandi, eins kjánalega og það hljómar,“ sagði Heimir.   Hann hrósaði Ungverjum fyrir frammistöðu sína í leiknum og sagði þá vera með virkilega gott lið. „Þeir sem munu vanmeta þá munu þjást. En við héldum boltanum illa og vorum ekki nógu þéttir í lokin. Þeir hlupu líka meira en við og settu svo tvo sóknarmenn inn á.“   „Við hefðum átt að refsa þeim fyrir að taka þá áhættu en hún borgaði sig á endanum fyrir þá. Stundum gerist það,“ sagði Heimir.   Héldum boltanum ekki nógu vel Hann játti því að spennustigið hafi líklega verið of hátt fyrir leikmenn íslenska liðsins. „Það var munur á okkur og ungverska liðinu. Kannski voru það stigin þrjú sem þeir höfðu fyrir leikinn. Við héldum boltanum ekki vel og þeir spiluðu vel úr pressunni okkur. Þetta leit þægilega út fyrir þá.“   „En við fengum betri færi í leiknum. Að vissu leyti gátum við nýtt okkur það að vera minna með boltann en það kostar mikla orku. En eftir færið hjá Jóa Berg og markið okkar fannst mér að það væri meira sjálfstraust í okkar liði.“   Soft víti en það var snerting Hann var einnig spurður um vítaspyrnudóminn. „Það var kannski „soft“ en það var snerting. Það er undir dómaranum komið að dæma það. Ég get tekið undir að þetta var „soft“.“   Heimir sagði enga ástæðu til að vera með óbragð í munni og sló meira að segja á létta strengi.   „Ég held að við séum eina liðið í Evrópu sem hefur ekki tapað í úrslitakeppni EM. Það er vissulega gott að hafa ekki enn tapað og við eigum enn möguleika. Við vorum nálægt því að tryggja þetta í dag og þess vegna eru vonbrigðin mikil. En við vorum að spila við virkilega gott lið.“   Gott að spila á síðasta deginum Heimir segir að það sé gott að Ísland sé í þeim riðli sem spilar síðustu leiki sína í riðlakeppninni.   „Þá munum við vita fyrir leikinn gegn Austurríki hvort að þrjú stig nægji eða hvort við þurfum að vinna leikinn. Það er gott að fara inn í leikinn og vita allar staðreyndir.“   „Við munum auðvitað fara inn í leikinn til að vinna hann en út frá áhættumati og öðru slíku getur verið gott að vita þessa hluti. Stig gæti dugað en mér þykir það ólíklegt.“  

Fjölbreytt dagskrá á Þjóðhátíðardaginn 17. júní

Dagskrá 17. júní  hefst í Vestmannaeyjum með því að fánar dregnir að húni í bænum klukkan 9.00. Klukkan 10.30 verða Fjallkonan – Dröfn Haraldsdóttir á Hraunbúðum og Sindri Freyr Guðjónsson og Thelma Lind Þórarinsdóttir með tónlistaratriði á Hraunbúðum. Að öðru leyti er dagskráin eftirfarandi:       Kl. 15.00 Lúðrasveit Vestmannaeyja leikur fyrir heimilisfólk og hátíðargesti.     Hásteinsvöllur Kl. 11.00-13.00 Leikmenn meistaraflokks ÍBV karla þakka fyrir veittan stuðning það sem af er sumri og bjóða börnum og ungmennum í æfinga- og þrautabraut á Hásteinsvelli. Að því loknu munu stuðningsaðilar ÍBV bjóða öllum til grillveislu.     Íþróttamiðstöð Kl. 13.30 Bæjarbúar og aðrir gestir safnast saman fyrir skrúðgöngu, lagt af stað 13.45. Gengið verður frá íþróttamiðstöðinni niður Illugagötu, inn Faxastíg og áfram Vestmannabraut að Stakkó í lögreglufylgd. Félagar úr Lúðrasveit Vestmanneyja leika fyrir göngunni. Fánaberar úr Skátafélaginu Faxa leiða gönguna ásamt Leikfélagi Vestmannaeyja og fleirum.     Stakkagerðistún Kl. 14.00 Lúðrasveit Vestmannaeyja spilar af alúð. Sigursveinn Þórðarson varabæjarfulltrúi setur hátíðina og flytur hátíðarræðu. Fjallkonan – Dröfn Haraldsdóttir flytur hátíðarljóð. Umhverfisverðlaun Vestmannaeyja 2016 afhent. Ávarp nýstúdents – Kristín Edda Valsdóttir. Fimleikasýning fimleikafélagsins Ránar. Tónlistaratriði frá Sindra Frey Guðjónssyni og Molunum.   Leikfélag Vestmannaeyja skemmtir hátíðargestum með ýmsu glensi. Hoppukastalar ef veður leyfir. Popp, kandýfloss og fleira til sölu á staðnum.      

Stjórnmál >>

Forsetakosningar 2016 | Forseti Íslands á ekki að taka þátt í pólitísku dægurþrasi

Vestmannaeyjar eru fyrir margt sérstakar og Eyjamenn einstakir. Svo ég noti orð Baltasars Kormáks þá eru Eyjamenn eins og tálgaðir íslendingar, bara það besta er eftir. Sérstaða Vestmannaeyja er mikil. Byggð þar á ekki endilega að þrífast í Vestmannaeyjum þrátt fyrir sérstöðuna heldur einmitt og sérstaklega vegna hennar. Ég hef aldrei migið í saltan sjó, hef bara unnið eitt sumar við að verka trjónukrabba úti á Granda en annars er ég kannski dæmigerður nútíma Íslendingur, alinn upp í úthverfi á tímum þegar sveitir landsins hættu að taka á móti börnum og unglingum og vélvæðing í fiskvinnslu gerði það að verkum að störfum fækkaði og pláss á skipum urðu enn sjaldgæfari. Ég hef hitt fleiri börn í Vestmannaeyjum heldur en fullorðna, sem rithöfundur hef ég stundum komið í heimsókn og lesið verkum mínum og leikfélagið setti einu sinni upp Bláa hnöttinn. Ég hef fengið að fylgjast með Eldheimaævintýrinu frá upphafi en ég var í dómnefndinni sem tók þátt í að velja aðalhönnuð verksins. Vestmannaeyjar hafa heillað mig frá því ég var barn. Ég er jafn gamall gosinu og afi sagði mér oft frá dvöl sinni í Eyjum við björgunarstörf. Ég sá lengi fyrir mér kvikmynd byggða á björgunarafreki Skaftfellings, þegar þeir björguðu áhöfninni á þýska kafbátnum. Páll Þorbjörnsson afabróðir minn var skipstjóri. Að mínu mati er þetta einn af atburðum seinni heimsstyrjaldar sem sýnir hvað mennskan ristir djúpt.   Þekking okkar dugir skammt Ísland er að mörgu leyti öfgafullt land og Eyjar eru eins og öfgafull útgáfa af Íslandi. Ég hélt fyrirlestur í Eyjum þegar Draumalandið kom út fyrir 10 árum. Þar sem ég stóð uppi á sviði til að ræða um hugmyndir og náttúruvernd horfði ég yfir salinn hugsaði. Hvað er ég að vilja upp á dekk? Óvíða í heiminum er önnur eins nálægð við ógnarkrafta náttúrunnar og oftar en ekki hefur náttúran haft yfirhöndina. Hvað hef ég að segja við fólk sem býr með Eldfell í bakgarðinum með útsýni yfir Eyjafjallajökul með svarrandi brimið allt í kring? Staðreyndin er samt sú að maðurinn í heild sinni er orðinn afl sem bræðir jökulinn og getur hækkað sjálft sjávarmálið. Hvarf lundastofnsins sýnir hversu hratt heimurinn er farinn að breytast og hvað þekking okkar dugir skammt. Við sem erum í beinni snertingu við þessar breytingar eigum að láta rödd okkar heyrast og hvetja heimsbyggðina til nýta hugvit sitt og tækni til að fara vel með þessa jörð. Það á að vera eitt mikilvægasta hlutverk forseta Íslands. Reynsla og bakgrunnur Ég býð mig fram í embætti forseta Íslands með reynslu mína og bakgrunn í farteskinu. Forseti Íslands á ekki að hafa staðið utan fylkinga, hann á að hafa reynslu af því að starfa með fylkingum sem hafa sett mikilvæg mál á dagskrá á síðustu árum. Hann á að greina tækifæri til að bæta samfélagið. Ég fer fram með reynslu mína af því að örva lestaráhuga barna, áhuga á eflingu lýðræðis, reynslu úr nýsköpun þar sem ég hef starfað í Toppstöðinni í Elliðaárdal og innsýn í mennta og menningarmál. Bækur mínar eru komnar út í 35 löndum og ég hef langa reynslu af því að vera fulltrúi Íslands um allan heim.   Byggðamál mikilvægustu málin Forseti Íslands kíkir ekki í heimsókn heldur dvelur meðal landsmanna og hlustar á það sem fólk hefur að segja. Hann er í þjónustuhlutverki og tekur hlutverk sitt alvarlega. Forseti Íslands á að fara á ,,Aldrei fór ég suður" en um leið og hann lofar Mugison fyrir framtakið þá spyr hann augljósrar spurningar: Ef einn strákur með gítar hringir í vini sína og skapar allt þetta, hvað gætu 200 stærstu fyrirtæki landsins gert fyrir Ísafjörð? Ef hópur af hugsjónafólki hefur breytt heilu hraðfrystihúsi í skapandi miðstöð á Stöðvarfirði - af hverju getur heill banki ekki haldið úti hraðbanka í bænum? Forseti Íslands á ekki að taka þátt í pólitísku dægurþrasi en hann má gjarnan ávarpa stóru myndina. Forseti Íslands á að hafa reynslu af því að fá ólíka hópa til að vinna saman. Byggðamál eru eitt af okkar mikilvægustu málum og við þurfum og viljum halda uppi byggð um allt land. Byggðamál eru mál sem er ekki aðeins á framfæri alþingis og ráðherra heldur mál sem snertir okkur öll og við verðum að bera ábyrgð á sem þjóð. Á ferð minni um landið hef ég kynnst þeim málum sem brenna hvað mest á þjóðinni, í Vestmannaeyjum eru það samgöngurnar og sjálfsagður réttur manneskju til að fæðast í Vestmannaeyjum. Forseti Íslands á að hafa reynslu af skapandi starfi vegna þess að framtíðin byggir í auknum mæli á skapandi greinum eða bættri nýtingu á hráefni sem fellur til hérlendis. Í einni af ferðum mínum til Vestmannaeyja sá ég lifandi steinbít í fyrsta sinn. Í kjölfarið kafaði ég ofan í fiskabækur og furðaði mig á því hversu fáar bækur eru til á Íslensku sem gæti örvað áhuga barna á fiskum. Það er ekki talin sjálfsögð þekking að þekkja nytjafiska okkar, hvað þá allar ófrenjunar og kjaftaglennurnar sem koma upp af djúpmiðum.   Hafið á að vera innblástur Í fyrirlestrum fyrir kennara spyr ég stundum hvort menntakerfið okkar sé miðað við umhverfi okkar og framtíðarmöguleika. Hafa börn okkar áhuga á fiskum? Hvernig eigum við að tengja börn við hafið, þegar þau alast upp í úthverfum með litla snertingu við sjóinn, sjómennsku eða sjávarútveg? Hafið ætti að vera börnum landsins innblástur, þau eiga að hafa æði fyrir fiskum, þau eiga að fyllast löngun til að verða kafarar, sjómenn og sjávarlíffræðingar. Það væri andlega örvandi og hvetjandi námslega en líka mikilvægt fyrir sjávarbyggðir, vegna þess að þær þurfa að laða til sín börnin sem nú alast upp í Kórahverfi. Þegar landhelgi Íslands var færð út þá varð Ísland miklu meira haf heldur en land. Landhelgin er nefnilega sjö sinnum stærri en sjálft Ísland. Þess vegna er spurningin ,,hefurðu migið í saltan sjó?" alveg gjaldgeng, börnin okkar munu nefnilega ekki aðeins erfa landið - heldur munu þau erfa hafið. Forsetinn er ekki bara forseti Íslands, hann er forseti hafsins. Við Íslendingar veiðum 1% af öllum fiski í heiminum og líklega höfum við aðeins nýtt 1% af öllum þeim tækifærum sem búa í hafinu kringum Ísland. Tækniframfarir leysa af hólmi vinnu-afl á sjó og landi en vöxturinn í framtíðinni verður að mestu leyti gegnum aukna verðmætasköpun með rannsóknum og markaðsvinnu.    Vestmannaeyjar í lykilstöðu  Börnin sem munu erfa hafið munu taka við fiskveiðistjórnun og veiðiflotanum en þau þurfa líka að berjast gegn mengun, plasti í höfum, súrnun sjávar og öðrum mikilvægum hagsmunamálum. Hvað kemur það forsetanum við? Jú forsetinn getur tengt saman fólk innanlands og utan og getur tekið þátt í að móta framtíðarsýn. Hann getur tengt saman fyrirtæki, stofnanir og skóla vegna þess að hann er þjóðkjörinn og hann má og á að tala við alla. Hann getur jafnvel farið með skólahópum í köfun eða á skak og vakið athygli á því að störfin sem börnin munu vinna í framtíðinni gætu verið gamalgróin eða falin í einhverju sem þau munu sjálf finna upp. Þau munu byggjast á því sem kveikir áhuga þeirra og hugmyndum þeirra í framtíðinni. Þorskastríðum er lokið en þroskastríðið felst í því að útvíkka landhelgina innra með okkur og skynja tækifærin sem uppgötvast einungis með því að beina hæfileikum framtíðarinnar í réttan farveg. Það væri metnaðarmál að sjá 50 - 100 manna alþjóðlega hafrannsóknarstofnun byggjast upp í Vestmannaeyjum á næstu árum. Vestmannaeyjar eru í lykilstöðu hvað þetta varðar, sérstakt samfélag og mikilvægt í menningarflóru Íslands sem má ekki verða einsleitni að bráð. Vestmannaeyjar eru útvörð- ur Íslands gagnvart hafinu sem er fullt af tækifærum til nýtingar, nýsköpunar vaxandi verðmætasköpunar. Vestmannaeyingar hljóta alltaf að vera í fararbroddi á landsvísu hvað þetta varðar, annars vegar við að verja hafið gegn mengun og ofnýtingu, hins vegar við að skapa ný tækifæri.  

Greinar >>

Halla Tómasdóttir - Samstaða og kraftur

Kæru Vestmanneyringar Við Björn maðurinn minn áttum ánægjulega daga í Eyjum í lok apríl. Eyjurnar, sem eiga sérstakan stað í hjarta mér, skörtuðu sínu fegursta, fólkið var bjartsýnt og ekki spillti fyrir að sjá Eyjastelpur spila á Hásteinsvelli. Á síðustu dögum hef ég fundið aukinn meðbyr úr öllum áttum og sérlega skemmtilegt að fá fjölmargar kveðjur og stuðningsyfirlýsingar frá Eyjamönnum. Ég hef ekki farið leynt með að ég mun láta til mín taka á Bessastöðum, vinna fyrir fólkið í landinu, hvetja og opna tækifæri. Ég trúi á mátt áhrifavaldsins. Þó forseti fari ekki með framkvæmdavald getur hann sannarlega haft áhrif. Talað fyrir jafnrétti og heiðarleika, lagt áherslu á að efla frumkvöðlastarf og nýsköpun, lagt áherslu á að hlustað sé á fólkið í landinu. Ég mun sem forseti leggja mig fram um að hafa jákvæð áhrif á samfélag, atvinnulíf, mannlíf og náttúru.     Framganga íslensku landsliðana í knattspyrnu síðustu daga og vikur hefur sýnt mér hversu auðvelt við Íslendingar eigum með að sýna samstöðu þegar við sameinumst um ákveðið markmið. Ég var afskaplega stolt af því að sjá stelpurnar okkar sigra 8-0 á Laugardalsvelli nú í byrjun júní. Það var einstök upplifun að vera viðstödd eftirminnilegan opnunarleik strákanna okkar á EM í Frakklandi og að komast í úrslit er ævintýri líkast. Jákvæðni og samstaða íslenska stuðningsmannahópsins hefur vakið heimsathygli. Þetta getum við þegar við stöndum saman. Ég býð mig fram sem fyrirliða í því verkefni að sameina Íslendinga um uppbyggilega framtíðarsýn og leiða samtal byggt á jákvæðni og bjartsýni.     Ég hef menntun, reynslu og manngerð í starf forseta og er reiðubúin að bretta upp ermar og gera gagn. Ég hef mikla reynslu af því að leiða saman fólk og sætta sjónarmið og hef beitt mér fyrir samfélags og jafnréttismálum á alþjóðavettvangi með góðum árangri. Ég trúi á samtal og sættir til að leysa úr málum. Ég veit af reynslunni að átök og ágreiningur skila ekki árangri, en ég er með bein í nefinu og get tekið erfiðar ákvarðanir ef á þarf að halda.   Eyjamenn eru miklir keppnismenn, ég veit að þið viljið keppniskonu sem hefur sterkar taugar til Eyja á Bessastaði. Ég hvet ykkur kæru Eyjamenn til að kynna ykkur vel það sem frambjóðendur hafa fram að færa, mæta á kjörstað, nýta atkvæðisréttin og nota bæði hugvit og hjarta til að velja ykkar frambjóðanda.     HALLA TÓMASDÓTTIR – FORSETAFRAMBJÓÐANDI.