Lífsnauðsynlegt fyrir hana að fá viðeigandi lyf sem allra allra fyrst

Fyrr á þessu ári birtist saga Fanneyjar Bjarkar Ásbjörnsdóttur og dóttur hennar Tönju Tómasdóttur í Ísland í dag. Saga þeirra vakti mikla athygli en báðar fengu lifrarbólgu C. Fanney smitaðist árið 1983 við blóðgjöf sem hún fékk eftir barnsburð. Árið 2010 vissi Fanney fyrst að hún bæri veiruna í sér og dóttir hennar Tanja hafði smitast annað hvort í móðurkviði eða við fæðingu. Saman fóru þær í meðferð hér á landi þar sem Tanja náði sér að fullu en Fanney ekki. Veikindin lýsa sér meðal annars í þróttleysi, liðverkjum, höfuðverk, slæmu munnangri auk þess sem Fanney fær mjög oft hita.   Börn Fanneyjar hrintu af stað söfnun um miðjan maí og er markmiðið að safna tíu milljónum til að Fanney geti fengið lyf sem ekki eru í boði hér á landi. Blaðamaður Eyjafrétta hafði samband við Tinnu Tómasdóttur, elstu dóttur Fanneyjar og sagði hún að nú þegar hafi safnast rétt rúm milljón og því sé enn langt í land.   „Söfnunin hefur farið að mestu leyti fram á facebook og gengið manna á milli en núna á laugardaginn síðasta var haldið Jónsmessuhlaup Hressó sem skipulagsnefnd Jónsmessuhátíðarinnar hélt í samstarfi við Hressó. Ákveðið var að tengja hlaupið söfnuninni og safna áheitum hvort sem fólk vildi styrkja með því að hlaupa eða bara leggja söfnuninni lið og voru frjáls framlög. Í tengslum við það safnaðist í kringum 50.000kr,“ sagði Tinna.    Aðspurð sagði Tinna að mömmu sinni liði ekki nógu vel. „Það voru gríðarleg vonbrigði að fá að vita að lyfin sem mamma þarf eru til en hún fær þau ekki vegna þess að ríkið ætlar ekki að veita fjármagn til þess. Þess vegna erum við að vekja athygli á þessu og berjast fyrir þessu óréttlæti. Okkur finnst skammarlegt að ríkið skuli ekki veita sjúklingum sínum þau lyf sem eru þeim lífsnauðsynlegt og því miður er mamma ekki sú eina sem er í þessari stöðu. Við erum því að reyna að gera það sem við getum til að hjálpa mömmu okkar að fá þessi lyf og um leið vekja athygli á þessum málstað. Vekja fólk til umhugsunar, fá viðbrögð og reyna að þrýsta á stjórnvöld að taka sig taki og bæta úr þessu. Þegar mamma fékk blóðgjöfina á sínum tíma sem orsakaði þessa lifrarbólgu voru gerð mistök og hún gekk á milli lækna í 26 ár en enginn gerði neitt og ríkið ætlar ekki einu sinni að bæta fyrir þessi mistök. Nú er mamma búin að vera með veiruna í um 35 ár og það er bara allt of langt. Fólk ber þessa veiru ekki í sér í svona mörg ár án þess að hún fari að skemma meira út frá sér. Því er það henni lífsnauðsynlegt að fá þessi lyf sem allra allra fyrst.“    Tinna vildi að lokum koma á framfæri þökkum til allra sem hafa reynst fjölskyldunni vel „Við viljum þakka innilega veittan hlýhug í öllu þessu ferli. Það er ómetanlegt að finna allan þennan meðbyr sem við fáum og alla samkenndina og stuðninginn. Innilegar þakkir frá okkar dýpstu hjartarótum til allra sem hafa lagt söfnuninni lið. Margt smátt gerir eitt stórt og við erum sannfærð um að þetta muni takast á endanum. Með allt þetta góða fólk úti í samfélaginu og í kringum okkur höfum við trú á að mamma fái þessi lyf, fyrst ekki er hægt að treysta á ríkið að standa við sitt, þá stöndum við saman og munum sigra þetta að lokum. “    Hægt er að leggja söfnun Fanneyjar lið, reikningsnúmerið er 0582-14-300735 kt.061079-5219   Viðtalið birtist í nýjasta tölublaði Eyjafrétta

Lögreglan þurfti að hafa afskipti af nokkrum ökumönnum í síðustu viku

 Lögreglan hafði í ýmis horn að líta í liðinni viku enda mikill fjöldi fólks í bænum í tenglsum við Orkumótið í knattspyrnu. Nokkuð var um að lögregaln þurfti að hafa afskipti af ökumönnum vegna aksturslags þeirra og voru nokkrir þeirra sektaðir sökum þessa. Skemmtanahald helgarinnar fór ágætlega fram en þó var eitthvað um að lögreglan þurfti að hafa afskipt af fólki vegna ástands þess.   Tvö fíkniefnamál komu upp í vikunni en lögreglan fór í tvær húsleitir og fundust í báðum þeirra smáræði af kannabisefnum. Málin teljast að mestu upplýst.   Þrjú umferðaróhöpp urðu í liðinni viku en engin alvarleg slys urðu á fólki í þessum óhöppum, en ökutækin sem þarna áttu hlut að máli skemmdust þó nokkuð.   Tvö slys urðu í liðinni viku og var í báðum tilvikum um að ræða gestkomandi drengi á Orkumótinu en annar þeirra slasaðist í Spröngunni en þó ekki alvarlega. Í hinu tilvikinu féll drengur ofan af vegg við Barnaskólann og er talið að hann hafi haldleggsbrotnað.   Alls liggja fyrir 16 kærur vegna brota á umferðarlögum þar sem alls 9 ökumenn voru kærðir vegna ólöglegrar lagningu ökutækja sinna, tveir fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu, einn fyrir að aka gegn einstefnu, einn fyrir akstur án ökuréttinda og fjórir fyrir að vanrækja notkun öryggisbelta í akstir.   Lögreglan vill í tilefni af Goslokahátíðar um komandi helgi minna foreldra og forráðamenn barna á útivistareglurnar og bendir á að börn og ungmenni eiga ekkert erindi á skemmtanir þar sem áfengi er haft um hönd.

Lögreglan biður fólk að fara varlega

Á facebook síðu Lögreglunnar í Vestmannaeyjum biður lögreglan fólk að fara varlega vegna mikils fjölda í bænum þar sem börn eru í miklum meirihluta. Tilkynninguna má lesa hér:    Viljum við koma með smá ábendingu til allra sem eru í umferðinni í Vestmannaeyjum núna og næstu daga. Þar sem Orkumótið stendur yfir núna og bærinn er fullur af fólki og börnum biðjum við ökumenn að fara varlega og sýna ítrekastu varúð í umferðinni. Fylgjast vel með umferðarmerkjum og reyna að draga úr hraðanum og að vera góðar fyrirmyndir og nota öryggisbelti. Förum varlega í umferðinni og sýnum tillitssemi. Það var eitt umferðaróhapp í dag þar sem Stöðvunarskylda var ekki virt, það er einum of mikið. Eigið góða helgi öll sömul.   STOP - Stöðvunarskylda Þetta er ansi merkilegt merki og bregður fyrir á gatnamótum. Það er 15.000 króna sekt fyrir að fara ekki eftir því og 2 punktar á ökuferlisskrá. Stöðvunarskylda þýðir einfaldlega að þú eigir að stöðva bifreiðina alveg áður en þú heldur áfram. Samt freistast margir til að hægja á sér og halda áfram ef þeir telja það öruggt. Lögreglan ætlar að deila með ykkur smá ráði þegar þið komið að slíku merki sem kemur í veg fyrir að þið fáið slíka sekt. Hugsið merkið sem rautt ljós og stöðvið alveg. Ekki fyrr en þið eruð stopp skuluð þið horfa á umferðina um gatnamótin áður en þið akið áfram. Þannig er það hugsað og það er rétt aðferð. Stöðvunarskylda er notuð á gatnamótum ef biðskylda er ekki talin nægilega örugg. Fyrir því geta verið nokkrar ástæður. Tíð slys eða skert útsýni eru þær helstu.

Tekist á um úthlutun á kvóta þar sem veiðireynsla var sniðgengin

Mál Ísfé­lagsins og Hug­ins ehf. gegn ís­lenska rík­inu, til viður­kenn­ing­ar á bóta­skyldu rík­is­ins vegna ákvörðunar Jóns Bjarnasonar, þáverandi sjáv­ar­út­vegs­ráðherra um út­hlut­un mak­ríl­kvóta árið 2011, voru tek­in fyr­ir í Héraðsdómi Reykja­vík­ur á mánudag.   Mál­un­um var báðum frestað til hausts að beiðni lög­manna út­gerðanna. Mál­in voru höfðuð í maí síðastliðnum til viður­kenn­ing­ar á bóta­skyldu rík­is­ins vegna ákvörðunar sjáv­ar­út­vegs­ráðherra um að ráðstafa aðeins hluta heild­armakrílafl­ans til skipa sem höfðu sam­fellda veiðireynslu á ár­un­um 2008 til 2011.   Frá þessu er sagt í Morgunblaðinu en útgerðirn­ar telja skip sín hafa upp­fyllt laga­skil­yrði um sam­fellda veiðireynslu og því hafi ráðstöf­un ráðherra verið ólög­leg. Hon­um hafi borið að taka til­lit til veiðireynslu skip­anna og deila út kvóta í sam­ræmi við laga­ákvæði um tak­mörk­un veiða á deili­stofn­um að því er fram kem­ur í um­fjöll­un Morgunblaðsins.   Umboðsmaður Alþingis staðfesti í áliti sínu frá árinu 2012 að ákvörðun ráðherra um að hlutdeildarsetja ekki makrílinn frá árinu 2011 hefði ekki verið í samræmi við lög, skip sem stunduðu veiðar á makríl á árunum 2008 til 2011 hefðu samfellda veiðireynslu í skilningi laga.   Um mikla hagsmuni er að ræða bæði í tekjum og atvinnu og var það skaði fyrir fyrirtæki Vestmanneyjum, sem eru frumkvöðlar í makrílveiðum og vinnslu þegar ráðherra ákvað að úthluta makríl til skipa og báta sem enga veiðireynslu höfðu.      

Landsbankinn vinnur að samruna bankans og Sparisjóðs Norðurlands

Steinar skipstjóri á Herjólfi sigldi í gær, þrjúþúsundustu ferðina milli lands og Eyja

Stein­ar Magnús­son, skip­stjóri á Herjólfi, náði þeim áfanga í gær­kvöldi að hafa siglt 3.000 ferðir á skip­inu milli lands og Eyja. Stein­ar hóf störf á Herjólfi í byrj­un árs 2007 og áætl­ar að síðan þá hafi hann siglt með um 700 þúsund farþega. „Ég tel eina ferð sem sigl­ingu fram og til baka. Ég er því bú­inn að fara 3.000 ferðir, sem ger­ir 12.000 skipti til og frá bryggju,“ seg­ir Stein­ar.   Eft­ir­minni­leg­asta dag­inn í starfi á Herjólfi seg­ir hann vera fyrstu ferðina í Land­eyja­höfn þegar vígslu­at­höfn­in fór fram. „Ferðin var al­veg meiri­hátt­ar. Glamp­andi sól, flott veður og fjöl­margt fólk á bryggj­unni. Það var ef­laust skemmti­leg­asta ferðin. Svo hef­ur inn­sigl­ing­in þar hins veg­ar oft verið erfið líka,“ seg­ir Stein­ar, sem seg­ist skynja mikla ánægju farþega eft­ir að höfn­in var tek­in í gagnið.   „Það stend­ur auðvitað einnig upp úr hvað fólk er ánægt að geta siglt hérna á milli á 35 mín­út­um í stað þriggja klukku­stunda. Maður sér ánægj­una á fólk­inu.“  „Þreytt lið“ heim af þjóðhátíð Þá seg­ir hann sigl­ing­ar um versl­un­ar­manna­helg­ar alltaf skera sig úr. „Þetta er oft þreytt lið að koma til baka. Ef veðrið er gott eru all­ir glaðir og ánægðir, en það verður vont er sjó­veik­in fljót að segja til sín,“ seg­ir Stein­ar, sem kveðst þó sjálf­ur bless­un­ar­lega ekki hafa orðið sjó­veik­ur um ára­bil.   Stein­ar, sem er 68 ára gam­all, býst við að láta af störf­um í nóv­em­ber eft­ir ríf­lega 52 ára fer­il hjá Eim­skip­um. „Ég hef verið skip­stjóri á Foss­un­um mest­alla tíð, en síðast var ég á Brú­ar­fossi.“   Hann ger­ir því ekki ráð fyr­ir að ná 3.000 ferðum í viðbót. „Ég býst nú ekki við því, þá yrði ég orðinn ansi gam­all.“    mbl.is greindi frá

Ráðningar yfirmanna á ný uppsjávarskip Vinnslustöðvarinnar

Eins og áður hefur verið greint frá hefur Vinnslustöðin hf. nýlega fest kaup á uppsjávarskipunum Ingunni AK og Faxa RE. Ákveðið hefur verið að Ingunn fái nafnið Ísleifur VE og Faxi verður Kap VE.   Vinnslustöðin hefur nú gengið frá ráðningu yfirmanna á skipin en um er að ræða menn með áratuga reynslu af sjó og farsælan starfsferil hjá Vinnslustöðinni.   Skipstjórar á Ísleifi VE verða Helgi Geir Valdimarsson og Eyjólfur Guðjónsson. Yfirvélstjóri verður Guðjón Gunnsteinsson. Helgi Geir er fæddur árið 1948 og hefur verið til sjós í 51 ár og þar af skipstjóri í 34 ár. Helgi hefur verið skipstjóri á skipum Vinnslustöðvarinnar hf. frá árinu 2000 og lengst hefur hann verið skipstjóri á Sighvati Bjarnasyni VE. Helgi er kvæntur Guðríði Kristjánsdóttur.   Eyjólfur er fæddur árið 1960 og hefur verið skipstjóri í 28 ár. Fyrst var hann skipstjóri á Gullberg VE sem hann ásamt fjölskyldu sinni gerði út en söðlaði svo um árið 2004 og kom yfir til Vinnslustöðvarinnar þegar félagið keypti Gullberg VE og fékk þá skipið nafnið Kap VE. Eyjólfur er kvæntur Sigríði Árný Bragadóttur.   Guðjón er fæddur árið 1965 og útskrifaðist úr Vélskóla Íslands árið 1988. Guðjón hefur verið á sjó í 27 ár og allan þann tíma sem vélstjóri. Guðjón hefur verið vélstjóri á skipum Vinnslustöðvarinnar frá árinu 1992. Guðjón er kvæntur Ágústu Kjartansdóttur.   Skipstjórar á Kap VE verða þeir Gísli Þór Garðarsson og Jón Atli Gunnarsson. Yfirvélstjóri verður Örn Friðriksson. Gísli er fæddur árið 1956 og hefur verið til sjós í 43 ár og var fyrst skipstjóri 19 ára á Dala Rafn VE. Gísli hefur verið skipstjóri á Kap VE, skipi Vinnslustöðvarinnar, frá árinu 2004. Gísli er kvæntur Elvu Ragnarsdóttur.   Jón Atli er fæddur árið 1968 og hefur verið stýrimaður og skipstjóri hjá Vinnslustöðinni frá árinu 2003. Jón Atli byrjaði á sjó árið 1986 hjá föður sínum, Gunnari Jónssyni, sem gerði út skipið Ísleif VE. Jón Atli er kvæntur Sigurhönnu Friðþórsdóttur.   Örn er fæddur árið 1959 og útskrifaðist úr Vélskóla Íslands árið 1978. Örn hefur verið á sjó í 29 ár og þar af sem vélstjóri í 29 ár. Örn hefur verið vélstjóri á Sighvati Bjarnasyni VE frá árinu 2005. Örn er kvæntur Hólmfríði Rögnvaldsdóttur.   Sighvatur Bjarnason VE verður áfram gerður út frá Vinnslustöðinni. Verður hann gerður út á svokallaðar partrollsveiðar og á loðnuvertíðum eins og þurfa þykir og skipstjóri verður Jón Atli Gunnarsson. Vinnslustöðin fagnar því að hafa á skipum sínum menn með þessa reynslu og óskar þeim áframhaldandi velfarnaðar í starfi hjá fyrirtækinu.   VSV.is greindi frá

Ráðherra fylgir tillögum Hafró

 Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur tekið ákvörðun um heildarafla fyrir tiltekna nytjastofna fiskveiðiárið 2015-2016. Þetta er þriðja árið í röð sem ráðherra fylgir tillögum Hafrannsóknarstofnunnar. Þá hefur ráðherra einnig gefið út reglugerð um stjórn makrílveiða fyrir komandi vertíð. Margir nytjastofna á Íslandsmiðum eru í ágætu jafnvægi og nýting á þeim hófleg, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar.   · Aflamark þorsks verður 239 þúsund tonn sem er hækkun um 21 þúsund tonn frá ráðgjöf fyrir yfirstandandi fiskveiðiár · Aflamark ýsu verður 36,4 þúsund tonn sem er 6 þúsund tonna aukning frá yfirstandandi fiskveiðiári · Heildarafli í makríl verður 173 þúsund tonn og hlutfallsleg skipting hans á milli flokka er með sama hætti og í fyrra · Enn á eftir að ákveða aflamark í stórum uppsjávartegundum · Versnandi horfur eru í keilu, löngu, blálöngu,skötusel, langlúru, humri og fleiri tegundum sem að mestu halda sig í hlýjum sjó við suður- og vesturströndina · Alls gæti verðmætaaukning vegna aukins heildarútflutnings sjávarafurða vegna aflaaukningar numið 7-8 milljörðum króna, haldist afurðaverð svipað því sem af er ári · Formleg mótun nýtingarstefnu og setning aflareglu til nokkurra ára við ákvörðun aflamarks eru lykilþættir við stjórn fiskveiða og gerð er krafa um það á alþjóðavettvangi · Veiðum úr mörgum mikilvægustu nytjastofnum á Íslandsmiðum er stýrt á grundvelli aflareglna sem standast alþjóðleg varúðarsjónarmið og hafa verið prófaðar af Alþjóða hafrannsóknaráðinu (ICES) Tegund Tonn Blálanga 2.600 Djúpkarfi 10.000 Grálúða 12.400 Gullkarfi 48.500 Gulllax 8.000 Humar 1.500 Íslensk sumargotssíld 70.200 Keila 3.000 Langa 15.000 Langlúra 1.100 Litli karfi 1.500 Sandkoli 500 Skarkoli 6.500 Skrápflúra 0 Skötuselur 1.000 Steinbítur 8.200 Ufsi 55.000 Úthafsrækja 4.000 Ýsa 36.400 Þorskur 239.000 Þykkvalúra/Sólkoli 1.300     Vísir.is greindi frá

Um 11,5 milljarðar í skip og höfn

Kostnaður við Landeyjahöfn var um síðustu áramót kominn í ríflega 5,5 milljarða króna. Þetta kemur fram í svari Sigurðar Áss Grétarssonar, framkvæmdastjóra siglingasviðs hjá Vegagerðinni, við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.    Frá árinu 2005 til ársloka 2014 nam framkvæmdakostnaðurinn tæpum 4,3 milljörðum. Frá 2011 til ársloka 2014 nam kostnaður vegna viðhaldsdýpkunar tæpum 1,3 milljarði. Inni í þeirri tölu er reyndar rannsóknarkostnaður upp á 105 milljónir. Allar tölur eru uppreiknaðar á verðlag þessa árs miðað við byggingarvísitölu.   Í svari Sigurðar Áss kemur fram að árið 2007 hafi heildarkostnaður við gerð ferjuhafnarinnar verið áætlaður um 3,5 milljarðar króna, sem er um 5,9 milljarðar á verðlagi þessa árs, uppreiknað miðað við byggingarvísitölu. Með viðhaldsdýpkunum hafi áætlaður heildarkostnaður verið um 6,5 milljarðar "þannig við kostnaður er enn vel undir því sem lagt var af stað með."   Samkvæmt samgönguáætlun áranna 2015 til 2018 er gert ráð fyrir 1,3 milljarði til framkvæmda við Landeyjahöfn. Þeir fjármunir eiga að fara í rannsóknir og framkvæmdir, sem eiga að draga úr sandburði til frambúðar en einnig til árlegrar dýpkunar og uppgræðslu við hafnarsvæðið. Ef enginn viðbótarkostnaður fellur til vegna hafnarinnar verður heildarkostnaðurinn því kominn í ríflega 6,8 milljarða eftir þrjú ár.   Hönnun nýrrar Vestmannaeyjarferju er lokið og er verkið tilbúið í útboð. Samkvæmt upplýsingum frá vegagerðinni nam hönnunarkostnaðurinn 130 milljónum króna en áætlaður kostnaður við smíði ferjunnar er um 4,5 milljarðar.   Ef ný ferja verður tilbúin árið 2018, sem er ekki ólíklegt, og kostnaðaráætlanir standa þá verður samanlagður kostnaður við smíði ferjunnar og hafnargerðarinnar kominn í tæpa 11,5 milljarða króna. Til að setja þá tölu í eitthvað samhengi þá nam heildarkostnaður við gerð Hvalfjarðarganga ríflega 4,6 milljörðum króna árið 1996. Uppreiknað miðað við vísitölu byggingarkostnaðar er heildarkostnaðurinn 13,7 milljarðar.     vb.is greindi frá en nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. 

Forstöðumaður búsetuþjónustu Vestmannaeyjabæjar

Vestmannaeyjabær auglýsir laust til umsóknar starf forstöðumanns búsetaþjónustu fatlaðs fólks. Starfshlutfall er 100% og mikilvægt er að viðkomandi geti hafið störf í síðasta lagi 1. september n.k.   Verkefni og ábyrgðarsvið • Forstaða búsetukjarna fyrir fatlað fólk við Vestmannabraut 58b • Yfirumsjón með daglegri búsetuþjónustu fatlaðs fólks í Vestmannaeyjum • Þátttaka í mótun og uppbyggingu á skipulagi búsetuþjónustu faltaðs fólks í Vestmannaeyjum • Þátttaka í þverfaglegri teymisvinnu   Hæfniskröfur • Háskólamenntun á sviði heilbrigðis-, mennta- eða félagsvísinda sem nýtis í vinnu með fötluðu fólki • Reynsla af starfi með fötluðum og aðstandendum þeirra • Menntun og/eða reynsla af stjórnunarstörfum er æskileg • Jákvæðni, sveigjanleiki og lipurð í mannlegum samskiptum • Skipulagshæfileikar, frumkvæði, áhugi og metnaður í starfi   Laun eru skv. kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga við viðkomandi stéttarfélag. Upplýsingar veitir Jón Pétursson, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar (jonp@vestmannaeyjar.is) í síma 488 2000.   Umsóknarfrestur er til og með 15. júlí 2015. Umsækjendur eru beðnir um að skila inn umsóknum á netfangið jonp@vestmannaeyjar.is. Með umsókn þarf að fylgja starfsferilsskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningu fyrir hæfni í starfið.  

172 sinnum meira til ríkis

Í Morgunblaðinu í dag birtist viðtal við Páll Guðmundsson, framkvæmdarstjóra Hugins. Þar sem fram kemur að ríkið fær 172 sinnum meira en hluthafar félagsins í sinn vasa.     Samkvæmt útreikningum KPMG á skattaspori sjávarútvegsfyrirtækisins Hugins ehf. í Vestmannaeyjum, sem gerir út uppsjávarskipið Hugin VE, fengu hið opinbera og lífeyrissjóðir samtals 172 sinnum meira en hluthafar félagsins í sinn vasa.   Sjálfstæðum útgerðum fækkar Skattaspor Hugins nam samtals 688 milljónum króna á árinu, þar af voru gjaldfærðir skattar 373 milljónir króna og innheimtir skattar 315 milljónir kr. en hagnaður félagsins nam fjórum milljónum króna, 0,4 prósentum af verðmætasköpun fyrirtækisins eftir almennan rekstrarkostnað. Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Hugins, segir að á síðustu árum hafi sjálfstæðum útgerðarmönnum fækkað mikið sökum skatts sem lagður er á fyrirtækin. „Það er eðlilegt að við borgum skatta af okkar hagnaði eins og allir aðrir sem eru að reka fyrirtæki. Það telst eðlilegt í öllum vestrænum þjóðfélögum,“ segir Páll. Verðmætasköpun fyrirtækisins árið 2014 nam 2.123 milljónum króna en 1.086 milljónir stóðu eftir þegar almennur rekstrarkostnaður hafði verið greiddur. Af þeim runnu rúmlega 36 prósent í vasa launþega, 52 prósent í vasa hins opinbera og 11 prósent til lífeyrissjóða. „Þetta snýst bara um að vera vondur við vondu karlana sem eru búnir að vera að standa í því að veiða fisk,“ segir Páll og bætir við að það sé val stjórnmálamanna hvernig fari fyrir sjávarútveginum. »Ef þeir vilja sjá þetta fjölbreytt áfram kalla ég eftir því að þessari skattheimtu verði breytt. En ef menn vilja sjá 10 til 15 fyrirtæki í þessum bransa þá fara menn bara þessa leið.“   Fleiri reikna út skattaspor Í síðustu viku greindi Morgunblaðið frá útreikningum KPMG á skattaspori Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum og nam skattaspor VSV árið 2014 tæpum þremur milljörðum króna. Við útreikninga er stuðst við aðferðafræði sem KPMG þróaði með dönskum viðskiptavinum til að leggja mat á það hvernig verðmætasköpun skiptist.   Nánar í Morgunblaðinu í dag

Erill hjá lögreglu í vikunni

Nokkur erill var hjá lögreglu í vikunni og þá sérstaklega um helgina enda Sjómannadagshelgin haldin hátíðleg. Nokkuð var um útköll í tengslum við skemmtanahaldið og þurftu nokkrir villuráfandi aðstoð lögreglu til að komast til síns heima sökum ölvunarástands. Þá var eitthvað um stympingar, en einungis ein kæra liggur fyrir eftir vikuna.   Ein líkamsárás var kærð til lögreglu en um var að ræða átök á milli tveggja manna á einum af öldurhúsum bæjarins um liðna helgi. Þurfti annar mannanna að leita til læknis vegna áverka sem hann fékk, sem þó voru ekki alvarlegir.   Í vikunni var tilkynnt um vinnuslys í Vinnslustöðinn en þarna hafði lyftara verið ekið yfir fót manns sem þarna var að störfum. Ekki reyndist vera um alvarlega áverka að ræða.   Eitt umferðaróhapp var tilkynnt lögreglu í vikunni en þarna var um að ræða árekstur tveggja bifreiða á bifreiðastæðinu við verslunina Tvistinn. Ekki var um mikið tjón að ræða og engin slys á fólki.   Fjórar kærur liggja fyrir vegna brota á umferðarlögum eftir vikuna. Einn ökumaður var sektaður vegna hraðaksturs en hann mældist á 78 km/klst. á Kirkjuvegi, sami ökumaður var jafnframt sektaður þar sem hann virti ekki stöðvunarskyldu. Þá var einn ökumaður sektaður fyrir notkun farsíma í akstri án handfrjáls búnaðar og einn var sektaður fyrir að flytja farþega á þann hátt að það olli farþeganum hættu.   Lögreglan vill minna á að frá miðvikudegi til laugardags verður TM-mótið haldið hér í Eyjum og eru ökumenn hvattir til að aka varlega og þá sérstaklega í kringum knattspyrnuvelli bæjarins enda fjölgar mikið gangandi vegfarendum.  

Gestabók á ferð og flugi

Á toppi Heimakletts hefur verið staðsett gestabók um nokkura ára skeið þar sem göngugarpar rita nafn sitt í. Sindri Ólafsson setti í gærkvöldi inn stöðuuppfærslu á facebook síðu sína þar sem hann segir frá ferðalagi bókar sem týndist í vetur.    Fyrir þá sem ekki vita þá hefur verið staðsett gestabók uppi á Heimakletti um nokkura ára skeið. Svavar Steingrímsson sem hefur vanið komur sínar á Heimaklett í mörg ár hefur verið einskonar verndari þessara bóka sem eru nú orðnar nokkrar frá því þessi skemmtilegi siður var tekinn upp. Hann hefur séð um að útvega nýjar bækur, séð til þess að þær hafi verið merktar og komið þeim sem hafa fyllst á skjalasafnið. Bækurnar hafa lent í ýmsu í gegnum árin, orðið fyrir slæmri meðferð og eina sótti Svavar meira að segja niður í Dufþekju, allar hafa þær þó komist fyrir rest á skjalasafnið í Vestmannaeyjum. Svo gerðist það 22. febrúar síðastliðinn að velunnarar klettsins komu að hólfinu opnu og enga bók að finna. Upphófst nú margra daga skipulögð leit að bókinni góðu um allt fjall og víðar. Eftir nokkra daga í slæmri vetrartíð gáfust leitarmenn upp og var víst að bókin væri glötuð. Svavar fór þá í það með trega að útvega nýja bók og var henni komið vel fyrir í mars byrjun. Það gerðist svo í síðustu viku að Gústi á N1 hefur samband og biður Svavar um að koma til sín, hann eigi sendingu hjá sér. Svavar kannaðist ekki við að hafa pantað eitt eða neitt hjá Gústa. Svavar dreif sig niður eftir, þar tekur á móti honum Addi í London með bókina í fanginu. Þeir feðgar höfðu fundið hana á göngu undir Löngu, nokkuð veðraða en í ótrúlega góðu ástandi miðað við tæplega þrjá og hálfan vetrarmánuð í Vestmanneyskri fjöru.    

Stjórnmál >>

Breyttur opnunartími leikskólanna

  Á fundi sem fræðsluráð hélt í gær var tekið fyrir bréf frá foreldrum barna vegna ákvörðunar Vestmannaeyjabæjar að stytta vistunartíma barna frá klukkan 17:00 í 16:15. Á fundinum var ákveðið að breyta þessum tíma aftur og er tímin nú til 16:30 til að koma til móts við þá foreldra sem þurfa lengri tíma en fræðsluráð leggur miklar áherslu á gott samtal milli foreldra og ráðsins og telur að með erindinu séu rök bæði skólastjórnenda og foreldra komin fram segir í bókun ráðsins.   Hér má sjá bókun ráðsins í heild.   Bréf frá foreldrum vegna ákvörðunar um breytingar á lokunartímum leikskóla í Vestmannaeyjabæ lagt fram.   Fræðsluráð hefur móttekið erindi frá foreldrum leikskólabarna þar sem gerð er athugasemd við ákvörðun ráðsins frá 275. fundi 11. maí sl. um breytingu á lokunartíma leikskóla sveitarfélagsins. Ráðið tekur fram að erindi um breytingu á lokunartíma leikskóla kom frá leikskólastjórnendum. Tillaga leikskólastjórnenda fyrir breytingu á opnun leikskóla var byggð á eftirfarandi rökum; a) lítil nýting dvalartímans eftir kl. 16:15 b) hagræðing í rekstri c) stuðlar að fjölskylduvænna samfélagi. Í erindinu er gerð athugasemd við að ákvörðun hafi verið tekin án aðkomu fulltrúa foreldra leikskólabarna. Ráðið bendir á að foreldrar leikskólabarna hafa áheyrnarfulltrúa á fundum ráðsins og eru boðaðir sem slíkir með fundarboði í gegnum tölvupóst og er það ekki á ábyrgð ráðsins að þeir mæti á fundi. Í erindinu er fjallað um opnunartíma leikskóla í ákveðnum sveitarfélögum. Fræðslufulltrúi Vestmannaeyjabæjar tók saman lista yfir opnunartíma 18 sveitarfélaga og kom í ljós að af þeim 18 sveitarfélögum sem skoðuð voru var algengasti opnunartími leikskóla frá 7:45-16:15.   Fræðsluráð leggur mikla áherslu á gott samtal milli foreldra og ráðsins og telur að með erindinu séu rök bæði skólastjórnenda og foreldra komin fram. Ráðið þakkar því erindið og samþykkir að breyta ákvörðun ráðsins frá 11. maí 2015 á þann veg að opnunartíminn verði frá 07:30-16:30 í stað 07.30-16:15 frá og með 17. ágúst 2015 líkt og samþykkt var á fundi nr. 275. Fræðsluráð beinir því til skólaskrifstofu og skólastjórnenda leikskólanna að kynna fyrirhugaða breytingu vel.

Greinar >>

Út af með aðkomumenn!

Ég hætti seint að undrast stórkarlalegar yfirlýsingar bæjarstjórans í Vestmannaeyjum í tilefni af því að nauð rak mig til að selja eignarhlut minn í útgerðarfélaginu Bergur-Huginn ehf. Ég hef starfað við þessa útgerð í yfir 40 ár. Það var því ekki með glöðu geði að ég seldi hlut minn í félaginu þegar gamli Landsbankinn knúði mig til greiða fyrir ónýt hlutabréf í þessum sama banka. Það var búið að reyna allt til að fá bankann til að hægja á sér.   Kvóti til Eyja Bergur-Huginn ehf. er öflugt félag hér í Vestmannaeyjum meðal annars vegna þess að á árunum 1996-2009 keypti félagið 4.740 tonna aflaheimildir í botnfiski. Keyptur kvóti var þannig í reynd um eða yfir 80% af aflaheimildum félagsins. Þessar aflaheimildir voru keyptar í 21 viðskiptum og að langmestu leyti af útgerðaraðilum í öðrum byggðarlögum.   Ég man ekki til þess að bæjarstjórinn hafi gert athugasemdir við þau viðskipti. Bæjarstjórinn hefur nú í á þriðja ár haldið því fram að ég hafi selt kvótann frá Vestmannaeyjum. Þetta er auðvitað rangt því ég seldi félagið árið 2012 og það gerir enn út frá Vestmannaeyjum eins og ekkert hafi í skorist. Ekki er það fyrir orð bæjarstjórans heldur af því að Vestmannaeyjar eru frábær útgerðarstöð með afbragðs sjómenn, fiskverkendur og þjónustufyrirtæki. Það er því undrunarefni að bæjarstjórinn og aðrir bæjarfulltrúar skuli ekki bjóða nýja og öfluga eigendur velkomna til starfa í Vestmannaeyjum og leggja frekar grunninn að góðu samstarfi í stað þess að ala á tortryggni og óvild.   Tvískinnungur bæjarstjóransÞað er ótrúleg einangrunarhyggja og ámælisverð varðstaða um þrönga sérhagsmuni að bæjarstjórinn fari hamförum gegn því að utanbæjarmenn fái fjárfest og starfað hér í bænum. Krafa hans er sú að eingöngu útgerðarfélög í Vestmannaeyjum megi kaupa ráðandi hluti í öðrum útgerðarfélögum í bænum. Á endanum kynnu þóknanlegir kaupendur því aðeins að vera einn eða tveir! Engar athugasemdir heyrast frá bæjarstjóranum þegar þessir aðilar kaupa félög í öðrum bæjarfélögum. Viðskiptabannið er víst aðeins á aðra hliðina. Tvískinnungurinn sem birtist í þessum málflutningi er bæjarstjóranum ekki til framdráttar.   Afstaða hans þjónar í ofanálag alls ekki hagsmunum Eyjamanna til langs tíma. Skipulag í kringum veiðar og vinnslu sjávarfangs hefur verið forsenda þess að viðhalda hér samkeppnishæfu atvinnulífi. Að ýta undir óánægju og tortryggni í garð sjávarútvegsins eykur óvissu í rekstri og setur framtíðaruppbyggingu í uppnám. Það er ekki í þágu sjávarbyggða í kringum landið að ýta enn frekar undir pólitíska óvissu um fyrirkomulag fiskveiða. Bæjarstjórinn er frekar að hugsa um sína pólitísku stundarhagsmuni en hagsmuni bæjarfélaga eins og Vestmannaeyja til langs tíma. Bjóðum fólk velkomiðEr ekki kominn tími til að velviljaðir menn sýni bæjarstjóranum fram á að hann gæti hagsmuna bæjarins best með því að bjóða fólk með mikla reynslu af rekstri sjávarútvegsfyrirtækja ofan af landi velkomið til starfa í Vestmannaeyjum? Auðvitað er samkeppni milli bæjarfélaga um fjárfestingar og staðsetningu atvinnurekstrar. Sjálfur hefði ég getað flutt starfsemi Bergur-Huginn ehf. hvert á land sem var meðan félagið var í minni eigu og minnar fjölskyldu. Það kom hins vegar aldrei til greina því hér er ákjósanlegur staður til að gera út. Það er mikilvægt að tryggja að svo verði áfram og við treystum áframhaldandi festu í starfsemi fyrirtækja í sjávarútvegi. Það hlýtur að vera mikilvægur mælikvarði á frammistöðu eins bæjarstjóra hvort honum tekst að láta aðkomumönnum líða eins og heimamenn væru. Ég trúi að það skipti máli.