12 kærur vegna brot á umferðarlögum

Fyrsti Eyjabjórinn í sölu: Framleiðsla og sala eingöngu í Vestmannaeyjum til að byrja með

Það var seint árið 2012 sem Jóhann Guðmundsson og Kjartan Vídó voru að vinna saman þegar sú hugmynd kviknaði hjá þeim félögum að skoða bruggun á bjór. ,,Við báðir fórum þá strax að safna að okkur upplýsingum og bókum um allt sem tengdist bruggun á bjór. Ætli það liggi ekki einhverjar tæplega 20 bækur í valnum núna, allt frá sögu bjórbruggunar til hreinsunar á tækjum. Ásamt öðrum eins haug af greinum og upplýsingum sem maður er búinn að sanka að sér og lesa frá þessum tíma,“ sagði Jónann í spjalli við Eyjafréttir.   Hann sagði á einhverjum tímapunkti við Kjartan, að þetta væri nú orðið helvíti slæmt því þeir voru farnir að sofna út frá lestri um þrif á bruggtækjum og tólum. Í byrjun ræddu þeir við nokkra félaga um að koma að þessu með þeim sem endaði með því að þeir urðu fjórir Jóhann, Davíð bróðir hans, Kjartan Vídó og Hlynur Vídó, þannig kom nafnið The brothers Brewery. ,,Þegar Hannes fór svo að troða sér í fjölskylduna mína þá tók bruggfélagið vel á móti honum þar sem hann átti bílskúr sem hentaði vel sem aðstaða.“   Átti fyrst að vera áhugamál „Þetta átti bara að vera skemmtilegt áhugamál og fyrstu bjórarnir gáfu kannski ekkert tilefni til annars,“ sagði Jóhann. ,,Við byrjuðum á að kaupa malað korn frá Brew þar sem það var búið að fyrirfram ákveða uppskriftir og brugga heima yfir nokkrum bjórum.“  Þeir höfðu það strax að markmiði að reyna að komast yfir besta mögulega hráefnið til bruggunar og frá byrjun hafa þeir keypt malt, ger og humla frá Brew.is sem er aðili sem flytur inn hráefni sem er sambærilegt að gæðum og stóru brugghúsin eru að kaupa. „Ferlið í einföldustu mynd er bara að meskja malað korn við ákveðið hitastig í ákveðnu magni af vatni sem er svo skolað í raun til að safna sykri úr korninu til að koma í suðu. Eftir suðu er svo virturinn kældur niður til þess að bæta við hann geri sem byrjar þá að breyta sykrinum í alkóhól. Þegar gerjun er lokið er komið að því að koma bjórnum á umbúðir, flöskur eða kúta.“  Það eru til ákveðnar grunngerðir af bjór sem eru í raun grunnurinn fyrir alla bjóra í heiminum. „Þannig ákveðum við t.d. að brugga í dag, Red Ale, Porter eða IPA sem dæmi. Þá förum við eftir ákveðnum leiðbeiningum fyrir þá tilteknu gerð, veljum tilheyrandi ger og malt og svo bara það sem okkur dettur í hug.“   Fyrsta tilraun ekki alltaf góð tilraun Jóhann nefndi einhvern tímann við strákana að þeir yrðu að gera bjór sem væri flottur sem Vestmannaeyja bjór. ,,Ég hafði þá nýlega verið að sjá bjór sem James og Martin hjá Brewdog blönduðu með þara og fannst tilvalið að velja söl úr Eyjum til að setja í bjór,“ sagði Jóhann.  Þeir fóru þá að leita að grunni sem passaði og Red Ale varð fyrir valinu. ,,Næsta skref var að finna humlana sem við vildum hafa með sölinni. Til þess að vinna svo á móti saltinu í sölinni ákváðum við að bæta við chilimauki sem Einar Björn á Einsa kalda reddaði okkur. Í fyrstu tilraun héldum við að við værum búnir að eyðileggja 40 l af einhverju sem hefði getað orðið góður bjór með því að bæta sölinni út í og angaði bílskúrinn hjá Hannesi eins og söl.“   Ferlið er erfitt og langt „Ferlið tók langan tíma og ekki auðvelt að fá öll leyfi upp í hendurnar,“ sagði Jóhann. ,,Við ætluðum að reyna að stytta ferlið með því að Einsi Kaldi myndi sækja um leyfi fyrir starfsemina. Einar Björn þurfti eftir sem áður að fá nýtt starfsleyfi, nýtt iðnaðarleyfi ofan á öll önnur leyfi sem hann er með. Breyta tilgangi félagsins og fá svo áfengisframleiðsluleyfi sem er svo háð reglum um áfengisgjöld. Við erum því með öll leyfi í dag til að framleiða áfengi undir Einsi Kaldi þó svo að við tölum alltaf um vöruna okkar sem The Brothers Brewery.“   Þeirra stíll sem er bragðmiklir bjórar Aðspurður út í fyrirmyndir í þessum bransa sagði Jóhann „Það eru mörg frábær brugghús hér heima og erlendis sem eflaust væri hægt að nefna. Við hinsvegar erum kannski frekar að reyna að gera okkar stíl frekar en að reyna að elta einhverjar fyrirmyndir. Það sem við viljum fyrst og fremst reyna að gera er að framleiða bjór hér í Eyjum sem gæti hentað vel með mat til að leika við bragðlaukana. Við erum meðal annars að þróa Saison bjór sem við munum kalla Sædísi sem á að henta mjög vel með sjávarréttum. Við munum því væntanlega alltaf framleiða það sem flestir tala um sem bragðmikinn bjór þó að okkur finnst við vera að tóna suma niður.“       Viðtalið í heild má sjá í nýjasta tölublaði Eyjafrétta. 

Árni vill 70 metra löng göng í Heimakletti

Mun að óbreyttu segja sig frá rekstrinum svo fljótt sem verða má

Í árslok 2015 var skuld Hraunbúða við aðalsjóð Vestmannaeyjabæjar orðin um 372 milljónir og að til þess að geta veitt þá nauðsynlegu heilbrigðisþjónustu sem ríkið er ábyrgt fyrir þarf Vestmannaeyjabær að greiða um 35 milljónir króna á ári með rekstrinum. Þar er því í raun um að ræða niðurgreiðslu sveitarfélagsins á lögbundinni þjónustu ríkisins. Að óbreyttu mun sveitarfélagið neyðast til að segja sig frá rekstrinum svo fljótt sem verða má. Þetta kom fram á síðasta fundi fjölskyldu- og tómstundaráðs þar sem lá fyrir minnisblað frá bæjarstjóra um rekstur hjúkrunarheimilisins að Hraunbúðum. Í því er athygli vakin á því að stofnunin glímir við alvarlegan rekstrarvanda sem skýrist eingöngu af því að framlög ríkisins duga ekki fyrir lögbundinni þjónustu. Þá er einnig minnt á að rekstur hjúkrunarheimilis er ekki lögbundið hlutverk sveitarfélagsins heldur beri ríkið alla ábyrgð á þeirri mikilvægu þjónustu samkvæmt lögum um málefni eldri borgara. Ríkið hefur enn ekki kynnt fyrir Vestmannaeyjabæ nýjan þjónustusamning sem gera átti árið 2015. Því er ekki í gildi neinn samningur um þennan rekstur í Vestmannaeyjum heldur sinnir Vestmannaeyjabær honum á forsendum hefðar.     Fram kemur að í árslok 2015 er skuld Hraunbúða við aðalsjóð Vestmannaeyjabæjar orðin um 372 milljónir og að til þess að geta veitt þá nauðsynlegu heilbrigðisþjónustu sem ríkið er ábyrgt fyrir þarf Vestmannaeyjabær að greiða um 35 milljónir króna á ári með rekstrinum. Þar er því í raun um að ræða niðurgreiðslu sveitarfélagsins á lögbundinni þjónustu ríkisins. Ráðið þakkaði minnisblaðið og segir stöðuna mjög alvarlega. „Áður hefur komið fram einbeittur vilji ráðsins til að ráðast í miklar aðgerðir í málefnum eldri borgara á komandi misserum. Umtalsverðar byggingaframkvæmdir á undanförnum árum hafa fjölgað mjög búsetuúrræðum fyrir aldraða og ber þar hæst svokallaðar 60+ íbúðir að Kleifarhrauni. Félagsstarf eldri borgara hefur einnig fengið mikinn og góðan byr í seglin með nýrri og glæsilegri félagsaðstöðu í Kviku. Á döfinni eru miklar framkvæmdir í öldrunarmálum þar sem meðal annars eru lögð drög að fjölgun þjónustuíbúða, bættri aðstöðu til dagdvalar, byggingu nýrrar álmu fyrir fólk með heilabilun við Hraunbúðir, fjölgun rýma á dvalarheimili og fl. Rétt er að ítreka að þessi alvarlegi halli á þjónustu ríkisins mun ekki hafa áhrif á þann vilja né fyrirhugaðar aðgerðir sveitarfélagsins hvað málaflokkinn varðar,“ segir í bókun ráðsins. Hins vegar geti bærinn með engu móti haldið áfram rekstri Hraunbúða með núverandi hætti þegar fyrir liggur að rekstrarframlög ríkisins duga hvergi nærri. „Að öllu óbreyttu mun hallarekstur á þjónustu ríkisins halda áfram að kalla á framlög frá sveitarfélaginu og hindra þar með aðra þjónustu. Ráðið minnir enn fremur á að nýlega lét Vestmannaeyjabær vinna vandaða rekstrarlega úttekt á heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum þar sem sýnt var fram á þá gríðarlegu hagræðingu sem fylgir því að sameina alla þá þjónustu undir einn hatt. Hagræðingin af þeirri aðgerð var umfram rekstrarhalla Hraunbúða og færi einnig langt með að greiða til að mynda fyrir aukna fæðingarþjónustu. Þeirri úttekt mætti ríkið með þögninni.“ Ráðið telur mikilvægt að heilbrigðisráðherra verði upplýstur um þessa alvarlegu stöðu og að ráðuneytið geri grein fyrir því hvernig ríkið hyggst axla ábyrgð á rekstrinum. Að óbreyttu mun sveitarfélagið neyðast til að segja sig frá rekstrinum svo fljótt sem verða má.

Væntanlegt útboð nýrrar Vestmannaeyjaferju og rekstur hennar

 Bæjarstjórn Vestmannaeyja fundaði í gærkvöld þar sem samþykkt var samhljóða ályktun í þrettán liðum um væntanlegt útboð nýrrar Vestmannaeyjaferju og rekstur hennar. Á fundinum kom fram að í gær hafi bæjarstjóri og formaður bæjarráðs átt fund með samgönguyfirvöldum vegna væntanlegs útboðs á nýrri Vestmannaeyjaferju og reksturs hennar. Þar gerðu fulltrúar Vestmannaeyjabæjar grein fyrir eftirfarandi áhersluatriðum bæjarstjórnar:   1. Bæjarráð hefur þegar lagst eindregið gegn því að ferjan verði í einkaeigu og er það hér með ítrekað. Siglingar í Landeyjahöfn eru þjóðvegurinn til Eyja. Einkaframkvæmdir í vegakerfinu hafa eingöngu verið farnar þegar val er um aðra leið svo sem hvað varðar jarðgöngin undir Hvalfjörðinn. Eðlileg og sanngjörn krafa er að þjóðvegurinn til Eyja gegni sömu lögmálum.   2. Bæjarráð hefur þegar lagst eindregið gegn því að samið verði um rekstur ferjunnar til lengri tíma en 3 til 5 ára í senn og þá með skýrum og virkum uppsagnarákvæðum Siglingar í Landeyjahöfn eru þjóðvegurinn til Eyja. Mikilvægt er að slík grunnþjónusta sé ætíð kvik og hægt sé að skipta um rekstraraðila hratt og örugglega ef þörf er á. Í skemmri samningum er einnig aukinn hvati til árangurs í þjónustu.   3. Gjaldtaka fyrir afnot af þjóðvegi Gerð er krafa um að gjaldtaka í Herjólf taki mið af því að um er að ræða þjóðveginn til Eyja. Þannig ætti eingöngu að greiða fyrir bíl sambærilegt verð og kosta myndi að aka þessa leið. Ekki ætti að rukka sérstaklega fyrir farþega í bílunum og hófstillt verð fyrir aðra farþega.   4. Fargjald í Þorlákshöfn Bæjarstjórn Vestmannaeyja hafnar með öllu áformum um að hærra verð sé tekið fyrir siglingar í Þorlákshöfn en í Landeyjahöfn. Eðlilegt og sanngjarnt er að eitt verð gildi fyrir báðar leiðir og fráleitt að rukka sérstaklega þegar siglt er um lengri og erfiðari leið vegna náttúrulegra aðstæðna svo sem veðurs og sandburðar.   5. Frátafir og siglingar í Þorlákshöfn Vonir hafa staðið til að frátafir siglinga í Landeyjahöfn verði ekki meiri en 10%. Ákvarðanir um að breyta hönnun þannig að ferjan verði stærri og afkastameiri mun ma. verða til þess að frátafir í siglingum í Landeyjahöfn verði meiri en fyrra mat gerði ráð fyrir. Bæjarstjórn vill frá upphafi að samgönguyfirvöld séu meðvituð um að frátafir í siglingum í Landeyjahöfn geta því orðið verulega umfram fyrri áætlanir þegar veður eru verst. Þannig kæmi það bæjarstórn ekki á óvart þótt að í 20 til 30 daga þurfi ferjan að sigla í Þorlákshöfn. Eðlileg krafa er því að að strax frá upphafi verði gert ráð fyrir þeim veruleika. Með þetta í huga fer bæjarstórn fram á eftirfarandi:   - Skipið sé frá upphafi hannað með tilliti til þess að í allt að 20-30 daga á ári þurfi það að sigla í Þorlákshöfn og sjóhæfni þess sé í samræmi við þann veruleika. - Svefnaðstaða (kojur) verði fyrir að lágmarki 40 manns - Gjaldskrá á báða siglingastaði sé eins, ekki sé tekið aukagjald fyrir siglingu í Þorlákshöfn (sjá lið 4). - Þjónusta um borð sé í samræmi við að sigling geti tekið allt að 3 tímum.   6. Ferðafjöldi Ítrekað í kynningu á verkefninu hefur bæjarstjórn og Eyjamönnum öllum verið kynnt að takmörkun á stærð skipsins verði mætt með stórauknum fjölda ferða. Farið er fram á að ferðir í vetraráætlun verði að lágmarki 5 ferðir á dag og 7 ferðir á dag yfir sumartímann. Til vara er farið fram á að ferðir í vetraráætlun verði að lágmarki 4. Þá leggur bæjarstjórn það til að inn í útboðsgögn verði byggð sjálfvirk fjölgun ferða þegar biðlistar valda orðið óþægindum fyrir notendur.   7. Árstíðarbundin áætlun Bæjarstjórn Vestmannaeyja leggur áherslu á að áætlun skipsins taki mið af þeim breytta veruleika sem fylgt hefur auknu flæði fólks og vaxandi ferðaþjónustu. Sumartími í ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum spannar í það minnsta 1. maí til 30. sept. Þannig kemur til að mynda mikill fjöldi ferðamanna á haustin til að njóta pysjutímans (a.m.k. út sept. og fram í okt) og á sama hátt er tíminn þegar lundinn er að setjast upp og farfuglar að koma til sumardvalar (apríl og maí) mjög eftirsóknarverður fyrir ferðamenn. Því er farið fram á að árstíðaráætlun skiptist svo: Vetraráætlun frá 1. okt til 30. apríl. - Sumaráætlun frá 1. maí til 30. sept.   8. Flutningsgeta Þekkt er að hámarksflutningsgeta skipsins er mismunandi á sumrin og veturna. Farið er fram á að þegar sumaráætlun er í gildi (1. maí til 30. sept) sé flutningsgeta skipsins 550 farþegar.     9. Aukaferðir Samfélagið í Vestmannaeyjum er með öllu háð samgöngum á sjó. Með siglingum Herjólfs stjórna samgönguyfirvöld lífsgæðum bæjarbúa. Ítrekað gerist það að aukinn sveigjanleika þarf til að mæta sérstökum þörfum. Þannig getur það komið til að sigla þurfi aukaferð vegna stórs viðburðar á sviði íþrótta eða að bæta við ferð seint um kvöld til að koma gestum á bæjarhátíðum (goslok, Þrettándi og fl.) til síns heima. Því er eindregið óskað eftir því að í útboði verði boðið fast verð í aukaferðir, annars vegar þegar verið er að bæta ferð inn í áætlun (milli ákveðinna ferða) og hinsvegar þegar ferð er bætt inn í utan áætlunar.   Þá er einnig óskað eftir því að boðin verði út ákveðinn pakki af ferðum (t.d. 30 til 50 ferðir) sem bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum geta í samráði við Vegagerðina fundið stað í viðbót við áætlun.   10. Bókunarkerfið Það bókunarkerfi sem nú er unnið er eftir er afleitt og ekki boðlegt að áfram verði unnið á forsendum þess. Þá leggur bæjarstjórn Vestmannaeyja þunga áherslu á að hægt verði að bóka a.m.k. 2 ferðir á dag 12 mánuði fram í tímann innan vetraráætlunar og í allar ferðir í sumaráætlun. Slíkt er gríðarlega mikilvægt fyrir t.d. ferðaþjónustu enda skipuleggja ferðaskrifstofur sig a.m.k. ár fram í tímann.   11. Helgidagar Enn og aftur er minnt á að þjónustustig Herjólfs stjórnar lífsgæðum í Vestmannaeyjum. Í samræmi við nútíma kröfur er gerð krafa um að ferjan sigli alla daga ársins og að lágmarki 3 ferðir á stórhátíðum. Að rjúfa samgöngur við Vestmannaeyjar á stórhátíðardögum er eins og að loka Grindavíkurvegi eða Vesturlandsvegi þessa daga. Slíkt er ekki boðlegt.   12. Þjónusta í landi Bæjarstjórn hvetur til þess að í útboði sé tryggt að þjónusta í landi sé í samræmi við mikilvægi hennar. Gera þarf ríka kröfu um rúman opnunatími, öfluga símaþjónustu og skilvirkar upplýsingaveitur. Þá þarf aðstaða í landi að taka mið af þeim mikla fjölda sem fer þar um.   13. Þjónusta um borð Bæjarstjórn Vestmannaeyja hvetur til þess að þjónusta um borð í ferjunni verði í samræmi við að um er að ræða fólksflutninga og ferðaþjónustu. Þannig sé til að mynda gerð krafa um nettengingu, góða leikaðstöðu fyrir börn, veitingaþjónustu og ýmislegt fl.   Bæjarstjórn tekur heilshugar undir þessi áhersluatriði og minnir að lokum á einróma samþykkt bæjarstórnar þess efnis að tafarlaust verði ráðist í smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju og smíðatími hennar nýttur til að gera nauðsynlegar breytingar á Landeyjahöfn. Einnig er minnt á að skv. nýrri könnun Gallup eru 86% bæjarbúa fylgjandi þessari stefnu bæjarstjórnar.      

Forsætisráðherrahjónin slökuðu á og sóttu kraft í Eyjaheimsókn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra er í stóru viðtali í Eyjafréttum sem komu út í gær. Þar kemur hann víða við. Hann var hér ásamt konu sinni, Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur sem á ættir að rekja til Vestmannaeyja. Afhending á Sigmundssafninu var ein af meginástæðum þess að hann heimsótti Vestmannaeyjar en lengi hafi staðið til að hann kæmi.   „Það var á dagskránni að hitta fólk og halda nokkra fundi en svo kom þarna kjörið tilefni, að klára þetta með Sigmundssafnið. Mér finnst alltaf mjög gott að koma hingað. Það hefur þau áhrif að maður slakar á og fær kraft á sama tíma. Það er ekki alltaf svoleiðis, það er svolítið sérstakt, að hér fer þetta saman þannig að ég nýt þess að koma,“ segir Sigmundur og nefnir sérstaklega hvað sunnudagurinn hafi verið stórkostlegur.   „Við fórum um allt og sáum mjög margt, hittum margt fólk og allt var þetta merkileg og skemmtileg upplifun. Ég vil nefna söfnin sem eru stórkostleg en ég er mikill áhugamaður um sögu og menningarminjar og það er til fyrirmyndar hvað tekist hefur að gera þetta ljóslifandi hér. Sagnheimar eru með bestu söfnum sem ég hef komið á. Milli þess sem maður hefur skoðað þessar menningarminnjar sest maður niður með góðu fólki, keyrir um og skoðar byggðina og náttúruna. Það er varla hægt að velja sér betri dag og þetta er búið að vera einstaklega skemmtilegt.“   Nánar í Eyjafréttum.    

Mannlíf >>

Útgáfutónleikar á laugardaginn

Á síðasta ári gaf Snorri Jónsson, út diskinn Nornanótt með lögum við texta sem hann hefur samið að undanförnu. Fékk hann úrvalslið listamanna, flesta úr Eyjum til liðs við sig. Öll lögin nema eitt eru frumsamin og komu þar margir að verki. Nornanóttin hefur fengið góðar viðtökur og þann sjötta febrúar nk. verða útgáfutónleikar á Háloftinu þar sem mætir vösk sveit tónlistarmanna með söngvarana Sunnu Guðlaugsdóttur og Sæþór Vídó í broddi fylkingar.   Þau eins og aðrir sem koma fram á tónleikunum komu að gerð disksins. Þau eru auk Sunnu og Sæþórs, Birgir Nielsen á trommur, Kristinn Jónsson á bassa, Gísli Stefánsson á gítar, Þórir Ólafsson á hljómborð og á trompet er Einar Hallgrímur Jakobsson, básúnu Heimir Ingi Guðmundsson og saxafón Matthías Harðarson. Um bakraddir sjá Jarl Sigurgeirsson, Gísli Stefánsson, Þórir Ólafsson og Sæþór Vídó. Snorri sagðist vera mjög spenntur fyrir tónleikunum og það hefði verið mjög gaman að vinna með þessu fólki. „Það sem er kannski mest gaman er að þetta eru allt utan einn, listafólk héðan úr Vestmannaeyjum en það er sá ágæti maður Heimir Ingi sem spilar á sleðabásúnu sem við fengum lánaðan af fasta landinu. Já, við erum með alvöru brass- og bakraddir.“ Hann sagðist vera mjög ánægður með viðtökurnar sem Nornanóttin hefur fengið og þar skipti miklu fagmannleg vinnubrögð. Lagahöfundar eru Sigurjón Ingólfsson, Geir Reynisson, Sigurður Óskarsson, Leó Ólason og Sæþór. „Gísli Stefánsson stjórnaði upptökum og hann ásamt Sæþóri útsetti lögin en textarnir eru eftir mig,“ segir Snorri sem er enginn nýgræðingur á þessu sviði. Nánar í nýjasta tölublaði Eyjafrétta.

Greinar >>

Það er barátta framundan

 Ísland siglir nú hraðbyri inn í nýtt góðæri, munurinn nú og áður er sá að nú erum við meðvituð um það. Við vitum hverjar hætturnar eru og höfum reynslu af því að takast á við ástandið. Eins og í seinasta góðæri þá eru fólksflutningar með mikilli fólsksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu ein af fyrstu vísbendingum um breytt ástand, því fylgir fækkun íbúa víða annarstaðar. Þensla á húsnæðismarkaði og vöxtur í innflutningi á neysluvörum fylgja með rétt eins og sala á nýjum bílum. Gengið styrkist, fjármálageirinn vex, bankarnir stofna viðburðadeildir og áfram má telja. VIð þekkjum þetta. Áhrifin eru margþætt.   Fjölgun á höfuðborgarsvæðinu Þegar gögn hagstofunnar eru skoðuð kemur í ljós að umtalsverð fjölgun er nú að eiga sér stað á höfuðborgarsvæðinu (frá Reykjanesbæ, út í Árborg og upp á Akranes). Í Fréttablaðinu í dag bendir Þóroddur Bjarnson, prófessor við HA á að byggðalög í allt að 50 km. fjarlægð frá Reykjavík eru nú að vaxa með eindæmum hratt, jafnvel tvöfalt hraðar en í borginni sjálfri. Þar ræður margt. Auðvitað eru þetta gæðasamfélög og líklegt að margir vilji með því að flytja þangað sameina kosti borgarsamfélagsins (svo sem fjölbreyttari atvinnutækifæri) og smærri samfélaga (svo sem aukin öryggistilfinning, nánd og fl.).   Fækkun í landsbyggðum Eins og gefur að skilja hefur vöxtur á einu svæði umfram heildarfjölgun þjóðarinnar áhirf á öðru svæði. Eins og í fyrra góðæri byrja þessi áhrif fjærst borginni. Þannig varð á seinasta ári fækkun bæði á Austurlandi sem og á Vestfjörðum.   Enn fjölgar lítillega í Eyjum Í Vestmannaeyjum hefur íbúum fjölgað á seinustu árum. 1.des. 2013 voru íbúar 4248. Ári seinna, 1. des. 2014 voru íbúar 4276. Á seinasta ári varð einnig fjölgun því 1. des. 2015 voru búsettir Eyjamenn orðnir 4286. Sem sagt fjölgun um 38 á 2 árum. Flestir uðru íbúar í Vestmannaeyjum um mitt seinasta ár þegar þeir urðu 4308 og er það í takt við hrynjanda seinustu áratuga. Það fjölgar á fyrrihluta árs en fækkar á seinnihluta þess.   Varnarbarátta Í mínum huga er ljóst að það er mikil varnarbarátta framundan í landsbyggðunum. Þar sem ekki tekst að bregðast við sogkrafti höfuðborgarsvæðisins þar mun íbúum fækka. Fyrir þessum veruleika fundum við Eyjamenn glögglega síðast. Fyrsta skrefið í þessu verkefni er því að átta sig á stöðunni, skilja hana og viðurkenna. Næsta skref er að falla ekki í innribaráttu í samfélaginu (það fundum við Eyjamenn einnig síðast) heldur snúa vörn í sókn.   Sóknarbarátta Hér í Eyjum er öllum ljóst hvað til þarf. Það þarf að bæta samgöngur og heilbrigðisþjónustu (ég ætla að skrifa meira um það á næstu dögum). Í viðbót við það þá verður Vestmannaeyjabær að vera meira en samkeppnishæfur hvað varðar þjónustu við íbúa. Hér í Eyjum getum við ekki boðið upp á jafn fjölbreytt atvinnulíf og á höfuðborgarsvæðinu, við höfum ekki framboð bíóhúsa, leikhúsa, leizertag og keilu. Við verðum aldrei samkeppnishæf hvað það varðar. Við getum því bara keppt í því að veita þjónustu sem er með því sem best gerist á landinu. Við erum með góða þjónustu en til að hún verði með því sem best gerist þá þarf að ráðast í aðgerðir og þá sérstaklega í því sem snýr að barnafjölskyldum.   Atvinnu- og menntatækifæri Hér í Vestmannaeyjum er enn frekar einhæf atvinnu- og menntatækifæri þótt vaxandi ferðaþjónusta hafi fjölgað eggjunum í körfunni. Það er okkur því mikilvægt að vel takist til með stofnun háskóladeildar þeirrar sem nú er unnið að. Ekki eingöngu fjölgar þar menntatækifærum í Eyjum heldur getur námið orðið uppeldisstöð fyrir frumkvöðla, lífafl framþróunar. Efling iðnmenntunar í Vestmannaeyjum er einnig sóknarfæri sem þarf að nýta betur. Hér eins og víða um land er vaxandi þörf fyrir iðnmenntað fólk. Að þessu þarf að hyggja. Þá eru fyrirtækin í Vestmannaeyjum mörg hver mjög sterk. Þegar samkeppnin frá höfuðborgarsvæðinu eykst þá þurfum við á því að halda að þau hugi að nærumhverfi sínu og geri jafnvel enn betur en nú er.   Þar grær sem girt er um Það þarf marg til ef við ætlum að halda sjó í þeim brimskafli sem er framundan. Ef við förum eins að nú og áður með innri átökum og niðurrifi þó fer illa. Ef við stöndum saman, vinnum okkar heimavinnu og krefjumst nauðsynlegra aðgerða hjá ríkinu þá óttast ég ekki þessa stöðu.   Þetta byggi ég á þeirri einföldu speki sem öllum sem átt hafa kálgarð er ljóst og felst í þessum orðum: „Þar grær sem girt er um“.