Sex tónlistarkennurum sagt upp

Sex kennurum við Tónlistarskólann í Vestmannaeyjum hefur verið sagt upp. Ástæðan er fækkun nemenda í skólanum en nemendum fækkaði um 20 frá því á vorönn og þar af leiðandi hefur verkefnum kennara fækkað.  Rætt er við Stefán Sigurjónsson, skólastjóra Tónlistarskóla í Eyjafréttum en í máli hans kemur fram að nemendum hafi fækkað og að samkeppnin við íþróttafélögin sé erfið.   „Það er rétt að nokkrir tónlistarkennarar fengu uppsögn á núverandi ráðningarsamningum og boð um nýjan ráðningarsamning með lægra starfshlutfalli,“ sagði Jón Pétursson, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar.  „Þróun tónlistarnáms í Eyjum er í þá átt að hrun hefur orðið í fjölda nemenda skólans. Í gegnum tíðina hafa verið um 180 til 190 nemendur við skólann en í dag er nemendafjöldinn um 120. Breytingin hefur átt sér stað á innan við tveimur árum. Við þessa fækkun er ekki nægileg verkefni fyrir alla kennara skólans. Fækkun nemenda þýðir einnig minni tekjur fyrir skólann og ýmislegt bendir til þess að nemendur sæki frekar í ódýrara tónlistarnám. Þessi þróun er ekki einsdæmi fyrir Vestmannaeyjar heldur er hún að gerast á öllu landinu. Fækkun barna í árgangi er hugsanlega ein skýringin en einnig mikið framboð af ýmisskonar afþreyingu fyrir börn. Hugsanlega hafa aðrir þættir eins og gott aðgengi á netinu í hvers konar tónlistarnám áhrif og svo efnahagur fólks. Stjórnendum skólans og starfsmenn hafa verið hvattir til að leita allra leiða til að efla tónlistarnámið. Einnig hefur verið farið í tilraunarverkefni þar sem samstarf GRV og tónlistarskólans er aukið. Starfsmenn tónlistarskólans sinna tónlistarkennslu í GRV og við það er hægt að tryggja þeim kennurum fullt starf.“   Hafa einhverjir kennarar afþakkað nýjan ráðningasamning? „Ég veit um eitt tilvik þar sem kennari afþakkar nýjan ráðningarsamning en í því tilviki er viðkomandi að flytja frá Eyjum. Aðrir eru að íhuga málið.  Þetta er döpur þróun en vonandi verður hægt að snúa henni við. Ef tónlistarnám eflist þá mun Vestmannaeyjabær endurskoða stöðuna,“ sagði Jón.   Það er kannski kaldhæðni örlaganna að uppsagnir tónlistarkennaranna sex og boð um nýjan ráðningasamning á lægri kjörum, skuli koma upp á sama tíma og tónlistarkennarar eru í miðri kjarabaráttu, að berjast fyrir bættum kjörum.      

Safnahelgin hefst í dag

Safnahelgin verður haldin um helgina. Dagskrá Safnahelgarinnar er fjölbreytt eins og svo oft áður. Þessa daga verður boðið upp tónlist, myndlist, upplestur, sem og barna- og unglingadagskrá. Þá verða stórtónleikar í Eldheimum með þeim Jóhanni Sigurðarsyni leikara og söngvara ásamt Pálma Sigurhjartarsyni píanóleikara í kvöld. Bæjarlistamaðurinn Gíslína Dögg Bjarkadóttir mun opna myndlistasýningu í Safnahúsi, skyggnst verður undir svörðinn í Herjólfsdal, boðið upp á bókalestur, sögustund, ratleik fyrir börn í Sagnheimum og margt fleira.   Á Safnahelginni í ár er lögð sérstök áherslu á dagskrá fyrir og með börnum og unglingum. Dagskráin hefst í dag kl. 17.00 með opnun myndlistarsýningar Myndlistarfélags Vestmannaeyja í Alþýðuhúsinu. Sýningin er tileinkuð minningu Ása í Bæ. Í Safnahúsinu verða á sama tíma ljósmyndir Gísla Friðriks Johnsen sýndar í samstarfi við börn Gísla sem nýlega gáfu ljósmyndasafnið hingað til Eyja. Tónskemmtun í Eldheimum   Í kvöld er svo dagskrá í Eldheimum. Jóhann Sigurðarson syngur lög úr söngleikjum við undirleik Pálma Sigurhjartarsonar píanóleikara. Jóhann og Pálmi hafa spilað saman um langt skeið, komið víða fram bæði í leikhúsi og við ýmiskonar skemmtanir. Dagskráin sem þeir flytja að þessu sinni kalla þeir Lögin úr leikhúsinu, blanda af íslenskum og erlendum leikhúslögum við texta eftir íslenska höfunda. Meðal annars verða flutt lög úr Fiðlaranum á þakinu, Vesalingunum, Carusell, úr revíum, og skemmtidagskrám, gamanmál, og eftirhermur fylgja með. Dagskráin hefst á tónleikum gítarsveitar Tónlistarskóla Vestmannaeyja undir stjórn Eyvindar Inga Steinarssonar. Formleg opnun Safnahelgarinnar verður að vanda í Stafkirkjunni á föstudeginum.   Fjölbreytt dagskrá verður á laugardeginum í Safnahúsinu. Illugi Jökulsson spjallar um og les úr knattspyrnubókum sínum. Gísli Pálsson og Kristín Marja Baldursdóttir lesa út nýjum verkum sínum. Bæjarlistamaður Vestmannaeyja 2014, Gíslína Dögg Bjarkadóttir, sýnir í framhaldinu skyssur sínar sem eru kynning á stærri sýningu tileinkaðri bók Kristínar Marju „Karítas án titils.“ Í Sagnheimum verða kynntar niðurstöður jarðsjárrannsókna í Herjólfsdal. Um kvöldið leikur hið eina sanna húsband á Vinaminni. Í Sæheimum verður sýningin „Blóm á Heimaey“ opin laugardag og sunnudag.   Dagskránni lýkur á sunnudeginum í Sagnheimum með sögustund, ratleikjum og teiknimyndasamkeppni.   Dagskránna má sjá í heild sinni hér að neðan:   Fimmtudagur 30. okt Ingólfsstofa, Safnahúsi Vestmannaeyja. Ljósmyndasýning Gísla Friðriks Johnsen (1906-2000). Börn Gísla Friðriks afhentu spjalla við gesti ásamt starfsmönnum Ljósmyndasafns Vestmannaeyja.   Alþýðuhúsið kl. 17.00 Opnun á sýningu Myndlistarfélags Vestmannaeyja „Ási í Bæ 100 ára“. Einnig opið föstud., laugard. og sunnud., frá 14 til 18   kl. 20.00 ELDHEIMAR Sögur og lög í leikhúsi Jóhann Sigurðarson söngvari og leikari syngur lög úr söngleikjum og segir valdar sögur úr leikhúsinu. Pálmi Sigurhjartarson leikur á píanó. Aðgangseyrir kr. 2.000.- Tónleikarnir hefjast með leik gítarsveitar Tónlistarskóla Vestmannaeyja stjórnandi Eyvindur Ingi Steinarsson.     Föstudagur 31. okt.   kl. 17.00 í Stafkirkjunni. Setning Safnahelgarinnar 2014. Sr. Guðmundur Örn Jónsson og Kristín Jóhannsdóttir. Jarl Sigurgeirsson og nokkrir félagar úr Lúðrasveit Vestmannaeyja leika.   kl. 21.00 í Vinaminni . HÚSBANDIÐ - Arnór, Helga, m.m.- leikur og syngur. Eldhúsið opið til kl. 21.00   Laugardagur 1. nóv. kl. 11.00 Einarsstofa, Safnahúsi Vestmannaeyja. Illugi Jökulsson rithöfundur kynnir og les upp úr sínum frábæru knattspyrnubókum. Fyrir börn á öllum aldri.   kl. 13. Einarsstofu, Safnahúsi Vestmannaeyja. Lestur úr nýjum bókum. Gísli Pálsson les úr bók sinni „Hans Jónatan, maðurinn sem stal sjálfum sér“ og Illugi Jökulsson les úr framhaldi sínu af bókinni „Háskí í hafi“ sem nú er að koma út.   Í beinu framhaldi: Sýningin „Konur í þátíð“. Gíslína Dögg Bjarkadóttir bæjarlistamaður Vestmannaeyja 2014. Um er að ræða skissusýningu sem ætlað er að kynna stærri sýningu sem haldin verður í vor. Efnið er sótt til skáldverksins Karítas án titils eftir Kristínu Marju Baldursdóttur.   kl. 15. Sagnheimum, byggðasafni. Bjarni Einarsson fornleifafræðingur kynnir niðurstöður sínar og dr. Ármanns Höskuldssonar eldfjallafræðings á jarðsjárs-könnun í Herjólfsdal sem gerð var nýlega að frumkvæði Þekkingarseturs, Söguseturs 1627 og Sögufélags Vestmannaeyja. Þjóðminjasafnið sýnir valda gripi úr uppgreftri Margrétar Hermanns- Auðardóttur frá 1971-1980.   Sunnudagur 2. nóv.   kl. 14. Sagnheimum, byggðasafni. Vilborg og hrafninn í Herjólfsdal. Sögustund í Sagnheimum og ratleikur. Teiknimyndasamkeppni úr sögunni kynnt.   Opið Laugardag og sunnudag kl. 13.00-16.00 í Sæheimum, fiskasafni. Sýningin „Blóm á Heimaey“ Ljósmyndasýning á helstu blómaplöntum sem finnast á Heimaey.   Opið í Eldheimum alla helgina frá 13.00 – 17.00

Er í hálfgerðu sjokki

Neyðarástand ríkir nú í Noregi vegna mikilla rigninga undanfarið. Ástandið í bænum Odda er slæmt en áin Opo rennur í gegnum bæinn og hefur hrifið nokkur hús með sér í vatnavöxtunum. Enginn hefur þó farist í hamförunum og enginn slasast heldur. Eyjakonan Ásta Steinunn Ástþórsdóttir er búsett í Odda, sem er fimm þúsund manna bær en þar hefur hún búið síðustu tvö ár.   „Áin er búin að taka fimm íbúðarhús og fleiri hús eru í hættu. Áin grefur undan húsunum sem gefa svo eftir og tætast eiginlega bara í tannstöngla. Um það bil 75 manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín,“ sagði Ásta Steinunn í samtali við Eyjafréttir. „Maður er í hálfgerðu sjokki hérna. Við erum ekki í hættu, húsið okkar er langt uppi í fjallshlíðinni, fjarri ánni og mér skilst að ekki sé hætta á aurskriðu hérna. En auðvitað getur maður aldrei verið 100% öruggur. Það hafa fallið tvær litlar aurskriður ofarlega í bænum en menn hafa meiri áhyggjur af ánni. Það hefur rignt mjög mikið undanfarna daga og það hefur aldrei mælst svona mikið vatn í ánni. Það leit út fyrir í morgun að það væri að stytta upp en því miður er komin grenjandi rigning aftur,“ sagði Ásta Steinunn í viðtali við Eyjafréttir í morgun. Hún segir jafnframt að Norðmenn séu ótrúlega rólegir yfir hamförunum. „Norðmenn eru svo krúttlegir, taka öllu með stóískri ró en eru að sama skapi ótrúlega skynsamir og fljótir að taka mikilvægar ákvarðanir eins og að rýma hús. En hér halda allir áfram, fara í vinnu og börnin í skóla.“  

Gengur sáttur frá borði eftir 15 ára starf

Ólafur Elísson, sparisjóðsstjóri, hefur sagt starfi sínu lausu. Þetta staðfesti hann í samtali við Eyjafréttir. Ólafur hefur starfað sem sparisjóðsstjóri í 15 ár, verið stofnfjáreigandi síðan 1982 og hefur því verið viðloðandi Sparisjóðinn í rúm 30 ár. Ólafur lagði fram uppsögn til stjórnar í lok síðustu viku og tilkynnti starfsmönnum sjóðsins þetta í tölvupósti og á fundi í byrjun vikunnar en ekki liggur endanlega fyrir hvenær starfslok verða.   „Að starfa sem sparisjóðsstjóri hefur verið viðburðaríkur og að mestu ánægjulegur tími. Nú er komið að kaflaskilum en það sem eftir stendur er ánægjulegt samstarf við gott fólk sem hefur starfað og starfar enn í Sparisjóði Vestmannaeyja,“ sagði Ólafur í stuttu samtali við Eyjafréttir en hann segist ganga sáttur frá borði.   Eins og alkunna er, hefur töluvert gefið á bátinn síðustu ár í rekstri sparisjóðanna og hefur þeim fækkað jafnt og þétt. Ekki eru svo mörg ár síðan sparisjóðirnir voru á annan tug hringinn í kringum landið. Af þeim sjö sem nú eru starfandi, eru tveir í meirihlutaeigu ríkisins, Sparisjóður Norðurlands og Sparisjóður Vestmannaeyja auk þess sem Bankasýslan stýrir tæplega 50% hlut í Sparisjóði Norðfjarðar og einn er í eigu eins af stóru bönkunum. Unnið hefur verið að endurskipulagningu í Sparisjóðnum en rekstrarleg staða sparisjóðanna hefur verið erfið eftir bankahrun. Hugmyndir um frekari sameiningar sparisjóðanna hafa verið í umræðunni.  

Bókaðir tímar falla niður í verkfalli lækna

Aðfaranótt mánudagsins 27. október hefst verkfall lækna ef ekki verður samið fyrir þann tíma.  Verkfallið stendur í tvo sólarhringa og lýkur því á miðnætti þriðjudagsins 28. október.  Læknar við Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum munu leggja niður vinnu eins og annarsstaðar en í tilkynningu á heimasíðu heilbrigðisstofnunarinnar er ítrekað að á verkfallsdögum sé skylt samkvæmt lögum að veita nauðsynlegustu heilbrigðisþjónustu, sem að mati Læknafélags Íslands er sambærileg læknisþjónustu sem veitt er um helgar og á hátíðisdögum.  Það þýðir að tímabókanir hjá lækni á heilsugæslu og göngudeildum fellur niður á meðan verkfalli stendur.  Þó er tekið við bókunum á verkfallsdögunum, ef samið verður en ef ekki, falla tímarnir niður.     „Íbúum er bent á að fylgjast með því að morgni verkfallsdaga hvort verkfall sé skollið á og munu þá bókuð viðtöl falla niður. Ítrekað er að nauðsynleg bráðaþjónusta lækna er til staða á HSU komi til verkfalls lækna.  Íbúar í heilbrigðisumdæmi Suðurlands eru beðnir um að fylgjast með tilkynningum á heimasíðu stofnunar HSU um hver áhrif yfirvofandi verkfalls munu verða á þjónustu lækna á starfstöðvum stofnunarinnar,“ segir í tilkynningu á heimasíðu heilbrigiðisstofnunarinnar sem Herdís Gunnarsdóttir, nýr forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands skrifar undir.   Læknar hafa svo aftur boðað verkfallsaðgerðir frá aðfaranótt mánudagsins 17. nóvember til miðnættis þriðjudaginn 18. nóvember og frá aðfaranótt mánudagsins 8. desember til miðnættist þriðjudaginn 9. desember.  

Eyjapeyjar með verkefni til Microsoft

Eyjapeyjarnir Sigurjón Lýðsson og Jóhann Sigurður Þórarinsson, ásamt Skagfirðingnum Guðmundi Jóni Halldórssyni, hafa undanfarin misseri unnið að hönnun tækis, Insulync sem er ætlað að halda upplýsingum um lyfjagjöf sykursjúkra, sem verður haldið saman á miðlægu safni, Cloudlync. Fyrirtæki þeirra, Medilync fékk á dögunum næst hæsta styrk sem Samtök Sunnlenskra sveitarfélaga veitti en rósin í hnappagatið kom á dögunum þegar tölvurisinn Microsoft bauð þeim að koma til þeirra til að vinna að Insulync og Cloudlync.   Sigurjón segir í samtali við Eyja­fréttir að þetta sé mikil og góð viðurkenning fyrir verkefnið. „Ég veit ekki til þess að nokkurt annað íslenskt fyrirtæki hafi fengið svona boð áður, hvað þá fyrirtæki úr Eyjum. Tækið er í smíðum og svo verður ferðin notuð til að tryggja ákveðin gæði þegar kemur að hugbúnaðarhlutanum. Tækið er fyrir sykursjúka, þannig að það mælir blóðsykur og gefur insúlín. Tækið geymir svo upplýsingar um inngjöf insulíns og blóðsykurmælingar sem síðan eru sendar í miðlæga gagnageymslu í skýinu (e. Cloud storage). Notandinn getur svo nálgast sín gögn í gegnum vafra eða þar til gert app. Einnig getur notandinn gefið öðrum aðgang að sínum gögnum s.s aðstandanda eða lækni.“ Hugmyndin kviknaði fyrir þremur árum en faðir Sigurjóns, Lýður Ægisson er sykursjúkur. Auk þess var hann í krabbameinsmeðferð og átti í erfiðleikum með að fylgjast með insúlín notkuninni í meðferðinni. Í kjölfarið fór Sigurjón að leita að hentugu tæki sem gæti hentað föður hans en hann fann ekkert. Sigurjón ákvað því að búa til svona tæki sjálfur. Síðan eru liðin þrjú ár og árangurinn í raun ótrúlegur. „Mestur tími hefur farið í rannsóknarvinnu en þetta er fyrsta árið núna sem við vinnum markvisst að tæknilegri útfærslu, þannig að í lok árs 2015 verðum við komnir langt með virka frumgerð af tæki og hugbúnaði.“   >> Nánar í blaði Eyjafrétta

Nýr Herjólfur kominn í hönnunarferli

Í gær stóð stýrihópur um byggingu nýs Herjólfs fyrir kynningarfundi í Höllinni. Var fundurinn vel sóttur, sennilega vel á þriðja hundrað manns. Í upphafi fundar kynnti Friðfinnur Skaftason, formaður stýrihópsins verkefni hópsins sem væri að átta sig þörfunum fyrir skipið; að setja af stað hönnun og síðan smíði skips sem sigla myndi milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar. Stýrihópinn skipa Andrés Sigurðsson frá Vestmannaeyjabæ, Friðfinnur Skaftason frá Innanríkisráðuneytinu, Hjörtur Emilsson, skipaverkfræðingur hjá Navis og Sigurður Áss Grétarsson starfsmaður Vegagerðarinnar. Auk þess hefur starfað með nefndinni Eiríkur Bjarnason, verkfræðingur, sem komið hefur að þessu verkefni á fyrri stigum. Þá fékk stýrihópurinn sér til ráðgjafar Jóhannes Jóhannessen, skipaverkfræðing, sem lengi hefur búið í Danmörku og unnið þar að hönnun á ferjum af margvíslegum toga. Friðfinnur sagði það markmið hópsins að láta smíða skip sem gæti haldið uppi áreiðanlegum heilsárs samgöngum milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar, sem þýði að hanna verði skip sem geti ráðið við sem verstar aðstæður á þessari siglingaleið og að stjórnhæfni og rásfesta skipsins verði mikil. Jóhannes Jóhannesson, skipaverkfræðingur fór yfir þá hönnun sem unnið er að. Kom fram hjá honum að skipið eigi að verða tæplega 66 metra langt eða um 5 metrum styttra Herjólfur og breidd þess verði rúmir 15 metrar sem er 1 metra mjórra skip en núverandi Herjólfur. Flutningsgeta þess eigi engu að síður að vera meiri. Stærð skipsins tæki mið af prófunum í hermi, þar sem prófaðar voru nokkrar stærðir og gerðir skipa við aðstæður í Landeyjahöfn. Þá kom fram hjá honum að lestun og losun verði fljótlegri en í núverandi Herjólfi og því eigi það möguleika á fleiri ferðum. Við hönnunina er lagt upp með að skipið geti siglt til Landeyjahafnar í 3,5 metra ölduhæð. Miðað við öldumælingar sem fyrir liggja, þýði það að 10 dagar á ári detta alveg út og í 30 daga á ári verði einhver truflun á áætlun innan dagsins. Margt fleira kom fram á fundinum sem gerð verða betri skil í blaði Eyjafrétta á miðvikudaginn.        

Stórskipakantur við Eiði kostar 3,5 milljarða

Stórskipakantur norðan við Eiði kostar 3,5 milljarða. Þetta kom fram á fundi framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyja en ráðið lýsir yfir áhyggjum af aðstöðuleysi og fyrirsjáanlegum vandkvæðum við móttöku flutningaskipa í Vestmannaeyjahöfn. Í bókun ráðsins kemur fram að núverandi athafnasvæði Vestmannaeyjahafnar sé fullnýtt og ekki sé möguleiki á stækkun þess innan þess ramma sem nú er. „M.a. hefur komið fram að færist flutningar til og frá Íslandi í stærri skip en nú eru notuð muni þau ekki geta athafnað sig í núverandi aðstöðu í Vestmannaeyjum. Brýnt er að huga að þeim möguleikum sem eru fyrir hendi og meðal annars hafa verið skoðaðir kostir þess að setja stórskipakant norðan Eiðis. Sú vinna leiddi í ljós að slíkur kantur myndi kosta um 3,5 milljarða króna en myndi þjóna næstu kynslóð flutningaskipa og stærri skemmtiferðaskipum. Einnig hafa verið reifaðir aðrir kostir án þess þó að skoða þá ofan í kjölinn. Þá bendir ráðið einnig á að stærðarmörk núverandi gámaskipa Eimskips og Samskipa, miðast við snúningssvæði innan hafnar í Vestmannaeyjum og að stærri skip geti ekki athafnað sig þar. „U.þ.b. 10% af útflutningstekjum sjávarafurða frá Íslandi fer í gegnum Vestmannaeyjahöfn og því mjög mikilvægt að flutningsleiðir á sjó til og frá Vestmannaeyjum séu greiðar og ekki íþyngjandi fyrir sjávarútveg og samfélagið í Vestmannaeyjum. Miðað við umfang byggingar stórskipakants utan Eiðis er ljóst að Vestmannaeyjahöfn hefur ekki bolmagn ein og sér til að ráðast í slíka framkvæmd. Því skorar ráðið á stjórnvöld að vinna að framtíðarsýn í hafnarmálum á Íslandi þar sem hafnir eru mikilvægur hluti af samgöngukerfi landsins, ekki síst í eyjasamfélagi eins og Vestmannaeyjum.“ Á fundinum lá einnig fyrir bréf frá Vegagerðinni þar sem óskað er eftir umsóknum um styrki til hafnarframkvæmda á samgönguáætlun 2015-2018. „Ráðið samþykkir að fela framkvæmdastjóra að óska eftir því að viðhaldsdýpkun og lagfæring á grjótgarði Eiði verði áfram inni í samgönguáætlun og jafnframt að huga að gerð stórskipakants í Vestmannaeyjum.“ 

Skjárinn hefur opnað allar sínar rásir í Eyjum

Skjárinn ehf. hefur opnað fyrir allt sitt sjónvarpsframboð til allra Eyjamanna til og með 20. október n.k. Um kynningaropnun er að ræða og vill stöðin með þessari allsherjar opnun vekja athygli á því fjölbreytta úrvali sem Skjárinn hefur uppá að bjóða. Opnunin er að kostnaðarlausu og án allra skuldbindinga. Hinsvegar er verðar sjónvarpsrásir stöðvarinnar opnar áfram á Dvalar – og hjúkrunarheimilinu Hraunbúðum og einnig á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja. Í frétt frá Skjánum segir að dagskráin á SkjáEinum hafi aldrei verið glæsilegri. Sleggjurnar verða án efa innlendur þáttaraðirnar Minute to Win It – Ísland og Biggest Loser Ísland 2 og þá hefur erlend dagskrá aldrei verið fjölbreyttari, með fjöldann allan af glænýjum þáttaröðum stútfullum af spennu, drama, gríni og fjöri.   Hægt er að horfa á heilar þáttaraðir á SkjáFrelsi, sem fylgir með SkjáEinum, og er aðgengilegt á myndlyklum sjónvarpsins og á netinu www.skjarinn.is. Í SkjáHeimi eru yfir 70 rásir stútfullar af fræðslu, skemmtun, íþróttum og tónlist. Það ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi með aðgengi að svo fjölbreyttu úrvali vandaðra sjónvarpsefnis. SkjárKrakkar er áskriftar-VOD þjónusta sem veitir áskrifendum aðgang inná mikið úrval af íslenskt talsettu barnaefni sem er aðgengilegt á myndlyklum sjónvarpsins (Síminn eða Vodafone lyklar). Þar er hægt að finna teiknimyndir fyrir yngstu börnin sem og vandaðar kvikmyndir fyrir alla fjölskylduna.   Í fréttartilkynnigu Skjásins segir að með einu mánaðargjaldi sé aðgangur ótakmarkaður. „SkjárSport er áskriftarpakki sem enginn íþróttaáhugamaður ætti að láta framhjá sér fara! Frá og með áramótum færðu Eurosport 1 og 2 einungis í SkjáSport en þar er að finna beinar útsendingar og umfjöllum meira en 100 íþróttagreinar! Fótbolti, vetraríþróttir, hjólar.“    

Töframaðurinn Einar Mikael á leið til Eyja

Einar Mikael töframaður ásamt Viktoríu töfrakonu, eru  að undirbúa ferð um Suðurlandi með fjölskyldusýningu. Verða þau í Höllinni í Eyjum 31. október. Eyjafréttir töfruðu fram símtal við Einar og leituðu frétta af högum töframannsins:   Eru að vinna að nýjum sjónvarpsþáttum? „Já, ég er búinn að vera taka upp þætti sem heita Töfrahetjurnar sem verða sýndir á Stöð 2 í haust. Þetta eru frábærir fjölskylduþættir sem fjalla um töfrabrögð og sjónhverfingar. Í þáttunum fáum við að kynnast hæfileikaríkum töfradýrum sem geta gert ótrúlega hluti og fáum einnig að fylgjumst við með tveimur ungum töfrahetjum.   Er það rétt að þú náðir að þjálfa upp hrafn fyrir þættina? „Það passar. Hrafninn heitir Þór og það er alveg ótrúlegt en satt þá náði ég að kenna honum nokkur töfrabrögð. Hann kann að draga spil, sveifla töfrasprota og finna faldna hluti.Þetta eru alveg ótrúlega gáfuð dýr og hann var mjög snöggur að læra. Maður þarf samt að passa sig á þeim því þeir eru mjög glysgjarnir og rosalega stríðnir..´´ Hvað geturðu sagt okkur um sýninguna? „Sýningin er troðfull af flottum sjónhverfingum og nýjum atriðum sem hafa aldrei sést áður á Íslandi. Viktoría töfrakona verður með mér en hún er fyrsta töfrakonan á Íslandi og er alveg rammgöldrótt. Það er mikið búið verið að spurja mig hvenær ég kæmi aftur austur og mig hlakkar rosalega til að koma og leyfa öllum að upplifa ógleymanlega kvöldstund´´   Hver er þessi Viktoría? „Viktoría er fyrsta töfrakona Íslands. Hún kann margt fyrir sér í töfrabrögðum og er búinn að taka þátt í mörgum sýningum með mér um allt land. Töfrabrögð eru ekki bara fyrir stráka og finnst mér mikilvægt að allar íslenskar stelpur geti átt frábæra fyrirmynd í töfrum, því okkur langar öllum að geta gert ótrúlega hluti.“   Þá sagði Einar Mikael að hægt sé að fylgjast með þeim á facebooksíðu Töfrahetjanna. https://www.facebook.com/tofrabrogd      

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Mannlíf >>

Forsala til Eyjamanna hófst í dag klukkan 16:00

Undanfarin ár höfum við Eyjamenn og okkar hollustu vinir, komið saman í Eldborgarsal Hörpu í sannkallaðri tónlistarveislu og að auki notið þess að hitta gamla ættingja og vini, fólk sem við höfum jafnvel ekki séð í áraraðir. Í hvert sinn hefur verið uppselt og gestir farið alsælir heim.   Enn er Eyjmönnum boðið til veislu í Hörpu.   Laugardagskvöldið 24. janúar næstkomandi bjóðum við til enn einnar veislunnar. Í þetta skiptið er reyndar ekkert eitt þema, við einfaldlega bjóðum gestum upp á allar bestu dægurlagaperlurnar sem við kennum við Eyjar.   Flytjendurnir eru heldur ekki af verri endanum; Björgvin Halldórsson, Páll Óskar, Sigríður Beinteinstóttir, Bjartmar Guðlaugsson, Sverrir Bergmann, Hreimur Örn, Kristján Gísla, Silja Elsabet, Sunna Guðlaugs, Alexander Jarl og Óskar Einarsson ásamt meðlimum úr Gospelkór Reykjavíkur og söngkonunum Ölmu Rut og Ernu Hrönn.   Hljómsveitina, sem Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson stýrir, skipa þeir Eiður Arnarsson á bassa, Birgir Nielsen á trommur, Jón Elfar Hafsteinsson á gítar, Kjartan Valdemarsson á hljómborð og harmonikku, Sigurður Flosason á saxafón, flautur og slagverk og Kjartan Hákonarson á trompet og Þorvaldur Bjarni sjálfur á gítar.   Ekki má heldur gleyma tveimur rúsínum í pylsuendanum, þ.e. Lúðrasveit Vestmannaeyja undir stjórn Jarls Sigurgeirssonar og hljómsveitinni Logum, sem mun án efa ylja mörgum gömlum Eyjamönnum um hjartaræturnar.   Það er því óhætt að lofa ríkulegri Eyjastemningu í Eldborgarsal Hörpu meðan á tónleikunum stendur, en ekki síður áður en þeir hefjast, í löngu hléi og á eftir, þegar þeir sem enn hafa úthald halda á veitingastaðinn SPOT og skemmta sér þar í Þjóðhátíðargírnum fram á rauða nótt.   Líklega er þetta eitt stærsta árganga- og ættarmót landsins og hefur verið mikil uppspretta dýrmætra upprifjana á minningarbrotum tengdum Eyjunum. Vonandi verður svo áfram því það er svo mikilvægt að halda vel utan um söguna okkar. Samfélagssagan er ekki síst fólgin í fallegum sögubrotum úr lífi fólksins sem annaðhvort býr eða bjó í Eyjum og á þaðan dýrmætar minningar.   Miðasala hefst föstudaginn 31.október á midi.is, harpa.is og í miðasölu Hörpu í síma 528-5050.   Eyjamönnum er boðið að nýta sér sérstaka forsölu, sem hófst i dag kl. 16 á harpa.is og midi.is.   Allar frekari upplýsingar veitir Bjarni Ólafur í síma 896-6818 eða daddi@hollin.is.   Einnig finnur þú viðburðinn á Facebook, Lífið er yndislegt - Ég veit þú kemur.  

Stjórnmál >>

Fyrsti fundur bæjarstjórnar í dag

Bæjarstjórn Vestmannaeyja kemur saman í dag í fyrsta sinn á nýju kjörtímabili.  Niðurstaða bæjarstjórnarkosninganna í vor, voru á þann veg að Sjálfstæðisflokkur fékk fimm bæjarfulltrúa en Eyjalistinn tvo.  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn eru Elliði Vignisson, Páley Borgþórsdóttir, Páll Marvin Jónsson, Trausti Hjaltason og Birna Þórsdóttir en fulltrúar Eyjalistans eru Jórunn Einarsdóttir og Stefán Óskar Jónasson.  Elliði, Páley, Páll Marvin og Jórunn sátu öll í bæjarstjórn á síðasta kjörtímabili.  Stefán Óskar hefur áður verið í bæjarstjórn og var varamaður á síðasta kjörtímabili en þau Trausti og Birna eru ný.  Bæjarstjórnarfundurinn fer fram í Eldheimum og hefst klukkan 18:00.   „Þegar ég kom inn í bæjarstjórn 2002 voru útsvarstekjur á hvern íbúa á verðlagi þess árs rétt liðlega 200.000 krónur en á síðasta ári voru þær hátt í 475.000 krónur,“ sagði Stefán í samtali við Eyjafréttir, sem kom út í gær.   „Staðan í dag opnar á tækifæri að gera meira fyrir bæjarbúa og bæjarfélagið í heild. Ég er ekki að mæla með óráðsíu í fjármálum en það má gera betur á ýmsum sviðum. Auðvitað veltur þetta mikið á á sjávarútvegi og afkomu atvinnulífsins almennt. Á kjörtímabilinu 2002 og 2006 vorum við, ég og núverandi bæjarstjóri, Elliði Vignisson, að skoða þann möguleika á að rífa blokkina Áshamar 75 ef það gæti létt á skuldum bæjarins. Engum dettur það í hug í dag en sterkari innviðir bæjarfélagsins eru líka verðmæti,“ sagði Stefán.   Viðtalið má lesa í heild sinni í Eyjafréttum.  

Greinar >>

Ferðasaga Gunnars og Óskars - Þriðji og síðasti hluti

Jæja þá yfirgaf hann Óskar minn svæðið í fyrradag. Hann þurfti því miður frá að hverfa vegna veikinda sem orsökuðust af hitabeltisloftslaginu. Víkingar eins og hann þrífast einfaldlega best í 5 metra ölduhæð við Landeyjahöfn og 30 metrum á Stórhöfða. Ég verð því einn næstu 10 dagana eða svo. Ég reikna nú ekki með að það verði neitt tiltökumál. Mér finnst mikilvægt að kunna að vera einn, því ef ég nenni ekki að vera með sjálfum mér, hver annar ætti þá að nenna því?   En allavega, ég ætlaði ekki að þreyta ykkur með heimspekilegum pælingum um lífið og tilveruna. Ég ætla skauta yfir það sem drifið hefur á daga okkar piltanna undanfarið. Eins og ég hef áður komið inn á kunnum við Óskar best við okkur í baráttu við náttúruöflin (Óskar hindúi vill meina að hann sé Bear Grylls endurholdgaður, sel það ekki dýrara en ég keypti það), hvort sem það er á kajak, í helli eða uppi á fjallstindi í alíslenskum stinningskalda. Til að svala þessari könnunarþörf ókum við töluvert inn í landið þar sem við hituðum upp með útsýnisrúnti um ægifögur skógi vaxin fjöll Kerala héraðsins. Þaðan yfirgáfum við sjálfrennireiðina og héldum á fæti í gegnum frumskóginn. Gengið var eftir mjóum slóða fram hjá risavöxnum trjám og öðrum framandi gróðri (og köngulóm, af hverju þurfa alltaf að vera köngulær), meðfram kristaltærri lindá sem við þurftum að vaða til að komast á endanum að einum fallegasta fossi sem ég hef á ævinni séð. Hann er staðsettur innst í snarbröttum dal þar sem hann fellur af þremur stöllum niður í lygnan hyl, og allt heila klabbið umlukið þykkum og hávöxnum trjágróðri allt niður að bökkum. Hvílík fegurð! Upp í hugann kemur pæling úr The Fault in Our Stars eftir John Green þar sem segir að það sem skilji okkur frá dýrunum sé að við getum dáðst að tilvist alheimsins. Okei kannski dálítið háfleygt, en á augnablikum sem þessum er lífið samt ansi yndislegt.   Okkur til armæðu var okkur harðbannað af leiðsögumanninum að synda í hylnum af því er virtist af öryggisástæðum. Enskan hans var ekki nógu góð til að skilja að við værum íslenskir víkingar sem hefðu sko synt í stærri og straumharðari pollum en þessum. Leiðir skildu sem betur fer við leiðsögumanninn þegar leiðin til baka var u.þ.b. hálfnuð. Við vorum þá ekki lengi að finna lygnan hluta árinnar til að synda í sem við og gerðum, eiginlega bara til að geta sagt að við hefðum gert það. OMG við erum svo miklir rebels.   Ýmislegt fleira hefur átt sér stað sem ég ætla ekki að fara djúpt í, en ég ætla að stikla á stóru: Kýr eru háheilagar hér í landi, tengist hindúismanum sem 80% þjóðarinnar aðhyllast. Sökum þess mega kýr gera það sem þeim sýnist, t.a.m. bíta gras í vegkantinum með allan skrokkinn inni í á akbrautinni svo að bílar þurfa að taka stóran sveig yfir á gangstæðan vegarhelming (!) til að forðast árekstur. Umferðarmenningin hér er ekki fyrir hjartveika. Við fórum í sundkeppni sem fólst í því hvor okkar þyrði að synda lengra út á sjó. Í stuttu máli sagt choke'uðum við algjörlega eins og sagt er á slæmri íslensku og sömdum um jafntefli eftir skitna 100-200 metra. Eitthvað sat víst í okkur að sörfkennarinn okkar sagði að tveir hefðu drukknað úti fyrir ströndinni í fyrra...   Flækingshundar eru hér á hverju strái, flóabitnir, grindhoraðir og mannfælnir eftir barsmíðar. Óskar dýravinur átti í miklum erfiðleikum með að horfa upp á dýrin í svo slæmu ástandi. Hann þurfti að hafa sig allan við að taka þá ekki alla með tölu heim til hennar Hildar Zoega.   Þeir sem þekkja Óskar vita að hann lætur gæðin en ekki magnið ráða þegar hann talar (eitthvað sem sum okkar mættu tileinka sér). Oftar en ekki þegar hann tjáir sig eru ummælin algjörir gullmolar (t.d. þvottavélarsagan). Ég var s.s. eitt kvöldið að blaðra um að þó maður hafi lesið um og séð myndir af fátækrahverfum og frumskógum þá sé allt annað að upplifa það með eigin skilningarvitum. Alltaf miklar og misgáfulegar spökuleringar hér á bæ í anda Heimis Snitzels ("Harrý ég var að spökulera"). Þá lét Óskar þessi fleygu orð falla: "Indiana Jones sagði: 'If you want to explore, then don't do it in books, do it yourself.'" MIND BLOWN. Er hægt að hugsa sér betri ferðafélaga? Þar sem ég er í meiri rólegheitum svona einn og færra frásagnarvert drífur á daga mína reikna ég með að þetta verði síðasti pistillinn. Ég vil þakka þér fyrir lesturinn. Namaste