Um síðustu helgi héldu Fjallabræður og Lúðrasveit Vestmannaeyja tónleika í Háskólabíó í Reykjavík. Í blaðinu Eyjafréttum fjallar Sigurgeir Jónsson um tónleikana og notar hástemdar lýsingar. Hann segist hafa sótt marga tónleika um ævina en þessir séu hiklaust þeir áhrifamestu. „Gæsahúð hríslaðist um salinn og á stöku stað sáust tár blika á hvarmi. Varla hægt að hugsa sér það betra.“ Á síðustu þjóðhátíð fluttu Fjallabræður og Lúðró þjóðhátíðarlagið í ár. Er ekki rétt að rifja það upp, en það var meðal laga sem flutt var á tónleikunum í Háskólabíói.