Allir á völlinn - ÍBV fær Val í heimsókn kl. 13:30

Allir á völlinn - ÍBV fær Val í heimsókn kl. 13:30

Kvennalið ÍBV mætir Val í Olís-deildinni í dag kl. 13:30.

Einstakt verkefni og eðlilega hefur það tekið tíma að koma því í gegnum stjórnsýsluna

„Eins og fram hefur komið þá vinnum við hjá Vestmannaeyjabæ nú með stórfyrirtækinu Merlin Entertainment að því að kanna möguleika á því að koma upp hvalaathvarfi í Vestmannaeyjum og flytja hingað 3 Belugahvali eða mjaldra sem verið hafa í skemmtigarði í Kína seinustu ár. Verkefnið er í senn risa skref í ferðaþjónustu fyrir okkur hér í Eyjum og dýravelferðarverkefni sem ekki á sinn líkan,“ segir Elliði Vignisson um verkefnið sem kynnt var á fundi í Eldheimum síðdegis í gær. „Forsaga þessa máls er að fyrir nokkru keypti Merlin skemmtigarð í Shanghai í Kína þar sem fyrir voru mjaldrar. Merlin, sem á forsendum dýravelferðar er á móti því að hvalir og höfrungar séu teknir úr villtri náttúru sem sýningadýr, fór þá þegar að leita að heppilegri leið til að koma þessum sýningadýrum í ákjósanlegra umhverfi og höfðu fljótlega samaband við okkur hér í Eyjum. Á sama tíma vorum við hjá Vestmannaeyjabæ og Þekkingarsetrinu að leita að heppilegum alþjóðlegum samstarfsaðilum til að styðja við þá uppbyggingu sem hér er unnið að á vettvangi sjávarrannsókna, háskólastarfs og ferðaþjónustu.“   Einstakt tækifæri Elliði segir að þegar Merlin hafi komið fram með hugmyndina hafi bæjaryfirvöld snemma áttað sig á að hér væri um einstakt tækifæri að ræða. „Þarna er komið fyrirtæki sem er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki í heimi og býr því yfir tengingum og tækifærum sem við gætum vart látið okkur dreyma um. Í viðbót við það þá hafa þeir á snærum sínum stór teymi af vísindamönnum sem sérhæfa sig í rannsóknum og eftirliti með sjávardýrum og geta því stutt vel við bakið á þeirri stefnu sem við vinnum nú að hvað varðar þekkingarsetrið og nyjan þekkingarklasa í Fiskiðjuhúsinu. Þegar þeir höfðu fyrst samband við okkur fyrir rúmlega 2 árum og voru þá að skoða nokkra staði í heiminum, meðal annars í Kanda, Skotlandi og víðar. Það tókst snemma hjá okkur að skapa mjög traust tengsl við fulltrúa Merlin og þeir hrifust bæði af samfélaginu hér í Eyjum og því mikla aðgengi sem hér er að sterkri inngerð, uppbyggingu á þekkingarstarfi, sterkri ferðaþjónustu og margt fleira. Úr varð að við skrifuðum undir viljayfirlýsingu sem þó var bundin trúnaði. Síðan þá höfum við unnið hörðum höndum að stefnumótun fyrir þetta einstaka verkefni og ánægjulegt að sjá hversu langt við erum komin.“   Sýna eðlilegt atferli dýranna Elliði segir að einn hluti af þessu verkefni hafi verið að leita leiða til að segja sögu þessara einstöku dýra, þessarar hvalategundar í heild og annarra staðbundinna sjávardýra. „Öll nálgun að slíku hefur dýravelferð að leiðarljósi og sérstök áhersla lögð á að sýna eðlilegt atferli dýranna og búa þeim sem náttúrulegasta umhverfi. Þannig er saga þeirra sögð af virðingu fyrir dýrunum og þeirra stað í þeirri keðju sem náttúran er. Eitt af því sem er til skoðunar er að koma upp veglegri gestastofu með sædýrasafni á hafnarsvæðinu í Vestmannaeyjum þar sem bæði verða til sýnis lifandi fiskar, sögð saga mjaldranna og fl. Þá er einnig áhugaverður vinkill sem við höfum verið að skoða sem snýst um að koma einnig upp athvarfi fyrir lundapysjur sem ekki geta lifað í villtri náttúrunni og þeim þess í stað gefið líf sem sýningadýrum við sem náttúrulegastar aðstæður.“   Enn eru ljón í veginum Þá segir Elliði að tækifærin tengd þessu séu því gríðarlega fjölbreytt. „Fyrir það fyrsta þá verður þetta stór vinnustaður með 15 til 20 manns í vinnu og þar af þó nokkuð af sérfræðingum svo sem líffræðingum, dýralæknum og fl. Þá er einnig ljóst að sérstaða okkar í ferðaþjónustu verður einstök á heimsvísu. Hvar annarstaðar er á innan við klukkutíma að skoða hval við náttúrulegar aðstæður, halda á lunda og ganga á Eldfjall og kynna sér sögu þess? Allt þetta og langtum meira verður hægt að gera hér í Eyjum allt árið um kring ef áætlanir okkar ganga eftir. Þetta verkefni er algerlega einstakt og eðlilega hefur það tekið tíma að koma því í gegnum stjórnsýsluna. Á okkur er þó ekki nokkur bilbugur og í samstarfi við Merlin ætlum við ótrauð að halda áfram að skoða fýsileika hvað þetta varðar. Hingað til hefur verkefninu verið vel tekið af öllum þeim sem um það hafa fjallað en eftir sem áður er mikilvægt að hafa í huga að enn eru ljón í veginum og margt sem getur orðið til að hleypa keng í málið. Ekkert er því klappað í stein þótt sannarlega bindum við vonir við að vel gangi hér eftir sem hingað til. Auðvitað er þetta mikill heiður fyrir okkur Eyjamenn að vera valinn til samstarfs við alþjóðafyrirtæki sem þetta. Við hjá Vestmannaeyjabæ erum því afar stolt af því að þetta risafyrirtæki sem tók á móti 62 milljónum gesta í fyrra skuli velja okkur sem samstarfsaðila og lítum á þetta sem víðtækt tækifæri fyrir okkur bæði í þróun á þekkingarumhverfinu, háskólastarfinu, hafrannsókum og þá ekki síður sem enn eitt djásnið í þá kórunu sem ferðaþjónustan er hér í Eyjum,“ sagði Elliði.  

Um 50 stofnanir, samtök og fleiri aðilar fá tillöguna til umsagnar

„Aðalskipulagið er til næstu 20 ára og því mikilvægt að reyna að horfa fram í tímann og hugsa um þau tækifæri sem til staðar eru og ekki síður hugsa lausnamiðað varðandi þær hindranir sem við gætum staðið í frammi fyrir,“ segir Margrét Rós Ingólfsdóttir formaður skipulagsráðs. Hún er í vinnuhópi fyrir hönd bæjarins og með henni eru Stefán Óskar Jónasson aðalmaður í skipulagsráði, Páll Marvin Jónsson formaður bæjarráðs, Ólafur Þór Snorrason framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs og Sigurður Smári Benónýsson skipulagsfulltrúi. „Nú erum við stödd á þeim stað í ferlinu að það er verið að kynna tillögu á vinnslustigi. Það eru líklega um 50 stofnanir, samtök o.fl. sem fá tillöguna til umsagnar auk þess sem haldnir eru fundir með hagsmunaðilum og íbúafundir. Þá koma vonandi athugasemdir og ábendingar frá bæjarbúum. Stefnt er að því að nýtt aðalskipulag verði staðfest í lok árs 2017 gangi allt upp.“ Margrét Rós sagði að í tillögunni séu settar fram nokkur atriði til þess að skapa umræðu og fá viðbrögð frá bæjarbúum. Má þar nefna nýtt athafnasvæði við flugvöllinn og að grafa út hraunið. „Þá eru uppi tillögur um að þétta byggð, t.d á malarvellinum við Löngulág og við Safnahúsið, einnig ný íbúðasvæði við Hraunhamar og Suðurgerði. Tillaga er um nýtt landbúnaðarsvæði norðaustur af flugvellinum, þar sem áður var borað eftir heitu vatni og ný afmörkun efnistökusvæða er við Skansinn og í Viðlagafjöru.“ Sérstakur rammahluti um ferðaþjónustu er partur af skipulaginu. „Í þeim hluta er lögð áhersla á að greina sérstöðu, styrkleika og staðaranda. Reynum við að horfa til þess að fjölgun gesta feli í sér tækifæri þrátt fyrir álag á innviði og hvernig við verðum sem best í stakk búin til að takast á við aukinn fjölda. Þetta eru fá atriði sem ég tek hér út en skipulagið er ansi yfirgripsmikið og ég hlakka til að taka umræðu um einstök atriði þess við áhugasama,“ sagði Margrét Rós.    

Ekki hægt að komast með bíl til Eyja fyrr en síðdegis á föstudag

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Eyjum, segir að ekki sé hægt að komast með bíl til Eyja fyrr en síðdegis á föstudag. Ástæðan er sú að Herjólfur er fullbókaður allt til þess tíma. Visir.is greindir frá.   Þetta kemur fram á Facebook-síðu bæjarstjórans nú rétt í þessu en þar greinir hann frá því að hann hafi sent samgönguyfirvöldum og þingmönnum bréf þar sem hann krefst úrbóta; þess að ferðum Herjólfs sé fjölgað.   „Ég verð að trúa því að þeir sem eru ábyrgir bregðist nú við,“ segir Elliði sem er ánægður með það hversu margir vilja heimsækja Vestmannaeyjar. En, það verði einfaldlega að bæta við ferðum, jafnvel næturferðum ef þeirra er þörf, þegar álagið er sem mest. Það hljóti að vera hægt að bregðast við því erindi án þess að til komi „hávaði“ úr Eyjum.   Elliði hefur lengi barist fyrir bættum samgöngum til Eyja. Í erindi hans nú kemur fram að í Vestmannaeyjum búi 4300 manns og ýmislegt óvænt geti gerst sem kallar á að komast þurfi heiman og heim með litlum fyrirvara. Og óöryggið sem því fylgir að teppast heilu og hálfu dagana sé mikið. „Að komast ekkert í heila vinnuviku er algerlega óviðunandi,“ segir í bréfi Elliða sem meðal annars er sent til Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra.   „Í reynd vil ég trúa því að nú þegar sé búið að taka ákvörðun um að fjölga ferðum þannig að alla daga þessa viku sigli ferjan 7 til 8 ferðir á dag.“  

Hefðbundinn Þjóðhátíðardagur - Páll Marvin flutti ræðu

Hátíðarhöldin þjóðhátíðardagsins, 17. júní hófust með því að fjallkonan, Svanhildur Eiríksdóttir, flutti kvæði á Hraunbúðum og Jarl Sigurgeirsson tók lagið. Klukkan hálf tvö hófst skrúðganga frá Íþróttamiðstöð að Stakkagerðistúni þar sem hátíðardagskrá fór fram. Nokkuð góð þátttaka var í skrúðgöngunni þar sem Lúðrasveitin lék og skátar báru fána. Veður var gott og var nokkur hópur samankominn á Stakkagerðistúni þar sem félagar í Leikfélaginu skemmtu gestum og Ingó Veðurguð hélt uppi fjöri fyrir fólk á öllum aldri. Fjallkonan fékk sinn sess við hátíðarhöldin, hátíðarræðu hélt Páll Marvin Jónsson, formaður bæjarráðs og Kristmann Þór Sigurjónsson flutti ávarp nýstúdents. Að því loknu sýndu svo fimleikakrakkar í Rán listir sínar.   Páll Marvin Jónsson, formaður bæjarráðs flutti hátíðarræðu:  „Þann 17. júní 1944 var lýðveldi okkar Íslendinga stofnað við hátíðlega athöfn á Þingvöllum. Þetta voru í raun endalok frelsisbaráttu okkar Íslendinga. Það er engin tilviljun að dagsetningin er fæðingardagur Jóns Sigurðssonar en hann átti stóran þátt í endurreisn alþingis árið 1845 og margir telja að hin eiginlega frelsisbarátta hafi byrjaði með ritgerð Jóns „Hugvekja til Íslendinga“ sem birtist í Nýjum félagsritum árið 1848. Hugvekja til Íslendinga var einskonar stefnuskrá frelsisbaráttunnar þar sem Jón sýnir fram á hvernig Danakonungur hafði tekið sér völd á Íslandi og skammtað réttindum, frelsi og menntun til manna eftir hentugleika konungs,“ sagði Páll Marvin Jónsson, formaður bæjarráðs í hátíðarræðu sinni á Stakkagerðistúni á Þjóðhátíðardaginn 17. júní. „Þrátt fyrir að Jón Sigurðsson hafi líklega ekki séð fyrir lýðveldið Ísland þegar hann skrifaði Hugvekju til Íslendinga þá kom skýrt fram í skrifum hans að sjálfstæði Íslendinga var forsenda þess að þjóðin dafnaði. En hann skrifar „Vér elskum Ísland enn meira en Danmörk, vér séum ekki Danir og getum ekki verið það“. Þjóðfundurinn 1851 var síðan einn afdrifaríkasti atburður í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga en þar var gerð tilraun til að innlima Ísland að fullu í Danmörku. Menn hliðhollir konungi fundu fyrir mikilli andstöðu á fundinum og ákváðu þá að slíta honum í þeim tilgangi að verða ekki undir. Þá risu Íslendingarnir úr sætum og Jón Sigurðsson fór með hin fleygu orð, „Vér mótmælum allir“. Við fengum stjórnarskrána 1874 og fyrsta heimastjórnin var skipuð 1904. Þann 30. nóvember 1918 lýsti síðan Kristján 10. konungur Danmerkur því yfir að Danmörk og Ísland væru tvö frjáls og fullvalda ríki. Þann merkisdag urðu Íslendingar fullvalda ríki. Frelsisbaráttan snerist ekki bara um sjálfstæði frá Dönum heldur einnig um það að sætta ólík sjónarmið. Þrátt fyrir að íslenska þjóðin hafi verið vel afmörkuð, bæði menningarlega og landfræðilega, var hún ekki alltaf samstíga enda fóru hagsmunir hinna ólíku stétta ekki alltaf saman. Þrátt fyrir að vera fullvalda ríki var danski konungurinn enn þjóðhöfðingi okkar Íslendinga. Við áttum okkar stjórnarskrá og okkar heimastjórn en utanríkismál, landhelgismál og æðsta dómsvald var enn í höndum Dana.   Frelsi felst í frjálsum mönnum Líkt og Benjamin Franklin hafði á orði í frelsisbaráttu Bandaríkjanna, í lauslegri þýðingu: „Frelsi felst ekki í frjálsri stjórnarskrá heldur frjálsum mönnum.“ Ljóst er að Íslendingar gátu ekki orðið frjálsir fyrr en við stofnun lýðveldisins þann 17. júní 1944 eða þegar pólitískir valdastrengir Dana voru skornir og örlög íslensku þjóðarinnar voru að fullu í höndum frjálsra Íslendinga. Árið er 2017 og staða íslensku þjóðarinnar gjörbreytt frá því er við hófum frelsisbaráttuna. Í dag erum við rík þjóð sem hugsar vel um þegna sína og hefur margt fram að færa á alþjóðlegum vettvangi. Við erum ekki „hjálenda“ Danakonungs, við erum sannarlega þjóð á meðal þjóða.   Fögnum Við fögnum nú þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga en samtímis fögnum við því samfélagi sem forfeður okkar hafa skapað okkur. Metnaðarfullu samfélagi sem einkennist af dugnaði, kærleika og umhyggju fyrir náunganum og samfélagi án stríða og hryðjuverka. Ég held að okkur Íslendingum hætti til að gleyma hve langt við erum komin á stuttum tíma. Við erum jú eitt af yngri lýðveldunum í hinum vestræna heimi og frá árinu 1944 höfum við risið úr fátækt og fáfræði í vel menntað og auðugt þjóðfélag. Við megum þó ekki sofna á verðinum, við þurfum að halda áfram að leita leiða til að bæta lífsgæði okkar sem hér búum, gera góða heilbrigðisþjónustu betri og halda áfram að bæta menntun barna okkar. Búa í haginn fyrir komandi kynslóðir.   Viljum koma að ákvörðunartöku sem skipta okkur máli Samfélagið okkar, Vestmannaeyjar, er hér engin undantekning. Staða sjávarútvegsins hefur sjaldan verið sterkari, byggingarframkvæmdir hafa líklega aldrei verið fleiri og ferðaþjónustan hefur vaxið hratt á undanförnum árum. Verkefni sveitarfélagsins eru mörg, má þar nefna uppbyggingu á stoðþjónustu fyrir fatlaða, byggingu á nýju sambýli og byggingu á þjónustu-íbúðum fyrir aldraða. Segja má að við sveitarstjórnarmenn í Vestmannaeyjum séum að sumu leyti í ekki ólíkri stöðu og Jón Sigurðsson þegar hann barðist fyrir sjálfstjórnarrétti okkar Íslendinga. Við erum þó ekki að krefjast sjálfstæðis líkt og Jón en við erum í stöðugri hagsmunagæslu gagnvart íslenska ríkinu. Við viljum hafa áhrif á framtíð Eyjanna, við viljum koma að ákvörðunartöku varðandi samgöngur, heilbrigðisþjónustu, löggæslu og menntun. Við líkt og Þjóðfundurinn 1851 „mótmælum öll“ því að í Vestmannaeyjum sé ekki fæðingarþjónusta, að ferjuleiðin milli lands og eyja sé ekki skilgreind sem þjóðvegur og að veiðigjöld og önnur opinber skattlagning skuli að mjög svo takmörkuðu leyti nýtast til uppbyggingar á opinberri þjónustu hér í Eyjum. En forsenda þess að ná árangri er að okkur takist að sameina sjónarmið hér heima og að við rísum sameiginlega úr sætum til að mótmæla öllu óréttlæti gegn okkur,“ sagði Páll að endingu og óskaði öllum Eyjamönnum og öllum Íslendingum gleðilegrar hátíðar.  

Íslendingar og Kínverjar eru jafningjar samkvæmt stefnu okkar

Kínverski sendiherrann á Íslandi var hér á ferðinni með rúmlega 60 kollegum sínum víðsvegar að úr heiminum sem voru hér í heimsókn. Hann var strax tilbúinn í viðtal og hélt að þó blaðamaður væri ekki vanur að dansa eftir prótókolreglum yrði þetta viðtal varla til þess að varpa skugga á gott samband Kína og Ísland sem tóku upp stjórnmálasamband árið 1971 og gerðu með sér fríverslunarsamning árið 2014. „Ísland er annað landið mitt sem sendiherra,“ segir þessi viðkunnalegi maður, Zhang Weidong, þegar hann var beðinn um að segja frá sjálfum sér. „Á undan var ég sendiherra í Míkrónesíu, sambandi eyja í Kyrrahafinu,“ bætti hann við og segir að vissulega sé mikill munur á þessum tveimur löndum, Íslandi og Kyrrahafseyjum. Og á það ekki síst við um veðrið. Zhang Weidong er búinn að vera tvö og hálft ár á Íslandi og kann vel við sig. „Landið er fallegt og ég sá strax að Ísland er mjög frábrugðið öðum löndum, landslagið annað og það sama á við Íslendinga með sína sögu og menningu, sérstakir en á allan hátt mjög indælir. Þegar ég kom í fyrsta skipti til landsins tók siðameistari utanríkisráðuneytisins á móti mér í Keflavík. Við spjölluðum mikið á leiðinni um veðrið og lífið hér á Íslandi. Þetta var í september, myrkur og dálítil rigning. Þarna fékk ég fyrstu tilfinningu fyrir landinu, landslagi, veðrinu og fólkinu sem hér býr. Það var mjög dimmt en samt náði ég að sjá talsvert á leiðinni frá flugvellinum að sendiráðinu okkar í miðborg Reykjavíkur.   Stjórnmálasamband 1971 Zhang Weidong leggur áherslu á góð samskipti þjóðanna sem byggja á stjórnmálasambandi sem tekið var upp árið 1971. „Á síðasta ári fögnuðum við 45 ára afmæli þessara samskipta. Fljótlega sendi Kína sendiherra til Íslands og til að byrja með var sendiráðið okkar í leiguhúsnæði, á annarri hæð í stóru húsi. Þar hófst starfsemin en í dag erum við í eigin húsi sem sýnir að samskipti þjóðanna hafa vaxið og dafnað með árunum. Og verkefnin eru mörg.“ Ekki hafði blaðamaður reiknað út hvað mörgum sinnum Kínverjar eru fleiri en Íslendingar en þeir eru 1,4 milljarðar á meðan við teljum 340 þúsund eða þar um bil. Zhang segir að þessi mikli munur eigi ekki að hafa nokkur áhrif á samstarf þjóðanna eða samskipti. „Íslendingar og Kínverjar eru jafningjar samkvæmt stefnu okkar og sama á við um öll önnur lönd, stór og smá. Við erum aðilar að Sameinuðu þjóðunum sem byggja á jafnræði allra þjóða.“   Vaxandi viðskipti Árið sem Chang Weidong kom til Íslands, 2014 var fyrsta árið eftir að fríverslunarsamningur þjóðanna tók gildi og segir hann að samningurinn hafi þegar sannað gildi sitt. „Það var 1. júní 2014 og á þeim tíma sem liðinn er hafa viðskipti þjóðanna vaxið hratt og báðum til hagsbóta. Við kaupum fisk sem þið framleiðið og ég hef séð að hér í Vestmannaeyjum skiptir sjávarútvegur miklu máli.“ Sendiherrann bendir líka á að menningarsamskipti þjóðanna hafa verið mikil. Nefndi hann í því sambandi hóp nútímadansara sem heimsóttu Kína nýlega og náðu góðum árangri í alþjóðlegri danskeppni sem þar fór fram. „Árið 1985, vann ykkar kona, Hófý, í keppninni Miss World sem fór fram í Kína. Ég man eftir þessu vegna þess á þessum árum vann ég í Guandong og í menningargarði þar voru uppi myndir af alheimsdrottningunni sem kom frá Íslandi. Í dag eigið þið þrjár eða fjórar konur sem hafa náð þessum árangri og tvær þeirra, Hófý og Unnur Birna voru krýndar í Kína, með 20 ára millibili, 1985 og 2005,“ segir sendiherrann og brosir og nefndi þetta sem dæmi um virkt menningarsamband þjóðanna. Borgin Xiamen í Fujian fylki í Kína hefur mjög náin menningartengsl við Djúpavog þar sem árlega er haldin listaverkasýning þar sem íslenskir, kínverskir og listamenn frá fleiri löndum koma saman.   Kannast við hugmyndir um hvalagarð Ekki er sendiherra alveg ókunnur hugmyndum um að koma hér upp sjávardýragarði sem breska fyrirtækið Merlin vinnur að í samstarfi við Vestmannaeyinga. Merlin, sem er breskt fyrirtæki er næst á eftir Disney í rekstri skemmtigarða í heiminum. Ætlunin er að byggja yfir þá á landi og að þeir verði innan dyra á veturna og í Klettsvík á sumrin. Er ætlunin að flytja hingað þrjá mjaldra frá Shanghai í Kína til Eyja og að þeir verði hér. „Ég hef heyrt af þessu. Þetta er samstarf kínversks og ensks fyrirtækis og ætlunin er að koma upp einskonar sædýrasafni. Ég vona að farið verði í einu og öllu að lögum því Kína er aðili að alþjóðasamningi um verndun hvala. Verði svo vona ég að allar áætlanir gangi eftir. Sem sendiherra mun ég hjálpa til eins og ég get ef þess gerist þörf. Garðurinn í Shanghai hefur laðað að sér marga ferðamenn því það eru ekki síst börn sem vilja kynnast sjónum og lífinu þar. Ef þarf er ég tilbúinn að leggja þessu lið.“   Ánægður með heimsóknina Koman til Vestmannaeyja á sunnudaginn er fyrsta heimsókn sendiherrahjónanna til Eyja þar sem þau nutu góðs matar og skemmtunar, fóru í skoðunarferð um Heimaey og í siglingu. Þegar sendiherra var spurður um þessi fyrstu kynni sagðist hann vilja nefna þrjú atriði. „Í fyrsta lagi hvað hér er fallegt. Það sáum við ekki síst í siglingu sem við fórum í. Í öðru lagi er allt mjög hreint hérna, göturnar vel hreinsaðar og bærinn vel skipulagður. Í þriðja lagi er það ekki síst sagan sem hér er við hvert fótmál sem heillar. Henni fengum við að kynnast þegar við heimsóttum söfnin þar sem okkur var sagt að saga Vestmannaeyja nái aftur fyrir 874 sem er árið sem landnám á að hafa byrjað á Íslandi. Þessu er haldið fram í bókum um landnámið sem ég hef lesið en svo kemur maður á söfn í Vestmannaeyjum og leiðsögumaðurinn segir að þetta sé ekki rétt.   Risið upp úr öskunni Það er svo ekki síst sagan síðustu áratugi, eftir gosið hér 1973 sem fær mann til að staldra við. Eyjan stækkaði um einn fjórða þannig að nú hafið þið meira land. Það er svo baráttuandinn sem skín í gegnum söguna, barátta íbúanna gegn náttúruöflunum sem er svo heillandi. Það er með ykkur eins og fuglinn Fönix, þið risuð upp úr öskunni og það er mjög áhrifamikið að fá að sjá þessa baráttu nokkurra þúsunda og hafa sigur. Þið stóðuð saman í að hreinsa bæinn og byggja hann upp að nýju, fallegan bæ og nútímalegan sem heillar ferðamenn. Það er svo sannarlega hægt að óska ykkur til hamingju með þennan frábæra árangur. Við Kínverjar viljum eiga gott samstarf við ykkur og alla Íslendinga og kaupa sem mest af ykkar góða fiski,“ sagði sendiherrann að endingu.   Tengsl Kína og Vestmannaeyja ná langt aftur „Ætli Ólafur Ólafsson kristniboði hafi ekki orðið fyrstur manna til þess að kynna Vestmannaeyingum Kína, en hann kom í ófáar heimsóknir til Kína um miðja síðustu öld og flutti erindi og sýndi myndir í KFUM,“ segir Arnór Helgason, Eyjamaður og Vináttusendiherra Kínverja á Íslandi. Hann og Gísli og Páll bræður hans eru miklir áhugamenn um Kína og hafa komið þangað nokkrum sinnum. „Þegar gaus í Vestmannaeyjum urðu Kínverjar fyrstir erlendra þjóða utan Norðurlanda til þess að rétta Íslendingum hjálparhönd, en 7 milljónir króna voru afhentar f.h. kínverska Rauða krossins. Var það veruleg upphæð á þeim tíma.“ Vestmannaeyingum gafst tækifæri til að þakka fyrir þessa höfðinglegu gjöf þegar þeir Arnþór og Páll bróðir hans fóru til Kína árið 1975 í boði Kínversku vináttusamtakanna. Þá heimsóttu þeir Rauða krossinn og færðu þeim gjöf frá bæjarstjórn Vestmannaeyja. Þá flutti Arnþór stutt ávarp í kínverska alþjóðaútvarpið og þakkaði fyrir þessa höfðinglegu gjöf. Fyrsti ferðamannahópurinn, sem skipulagður var til Kína, kom þangað 9. september 1977. Þar af var helmingur frá Vestmannaeyjum. Hópurinn var einna fyrstur erlendra hópa til þess að heimsækja grafhýsi Maós, en hópurinn kom þangað 9. september á dánardægri hans.“ Þá má geta þess að Páll, sem var lengi með útsýnisferðir í Eyjum, lét prenta nafn Vestmannaeyja bæði á kínversku og íslensku til þess að minnast rausnar þeirra.  

Völd og áhrif kvenna enn takmörkuð

Mánudaginn 19. júní sl. var kvenréttindadeginum fagnað í Sagnheimum en þann sama dag árið 1915 fengu íslenskar konur 40 ára og eldri langþráðan kosningarétt og kjörgengi til Alþingis en baráttan hafði þá staðið yfir frá árinu 1885. Þess má einnig geta að sama ár fengu karlkyns vinnumenn 40 ára og eldri einnig kosningarrétt. Í kjölfarið átti að lækka aldurstakmarkið árlega um eitt ár þar til það væri komið niður í 25 ár, til jafns við þann rétt sem karlmenn sem voru fjár síns ráðandi höfðu. Frá þessu var fallið árið 1920 og fengu allir 25 ára og eldri kosningarétt, óháð kyni og atvinnu. Jafnrétti allra skilgreindra fullorðinna varðandi kosningarétt var þó ekki fyllilega náð fyrr en 1984 en þá var kosningaaldurinn lækkaður niður í 18 ár.   Ímyndir kvenleikans Íslandi Dagskráin í Sagnheimum hófst á laginu Jolene í glæsilegum flutningi frænknanna Hafdísar Víglundsdóttur, Söru Renee Griffin og Soffíu Marý Másdóttur en þær lokuðu einnig dagskránni með öðrum vel völdum baráttusöngvum kvenna. Guðný Gústafsdóttir, kynjafræðingur og verkefnastýra við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, hélt síðan fyrirlestur undir heitinu Jafnréttustu konur í heimi en hann fjallar um stöðu kvenna og ímyndir kvenleikans á Íslandi í gegnum árin en hún fjallaði um efnið í doktorsritgerð sinni. Samkvæmt Guðnýju hefur ímynd kvenna á Íslandi samtímans verið samofin kynjafnrétti. Ímyndin á rætur í sögunni og var á síðustu áratugum styrkt með félagslegum athöfnum, svo sem með kosningu Vigdísar Finnbogadóttur sem forseta árið 1980 og framboði Kvennalistans til Alþingis. Þegar ímyndin er hins vegar mátuð við stöðu kvenna kemur í ljós ákveðin mótsögn. Þrátt fyrir framgang kvenna, formlegt kynjajafnrétti, mikla menntun og atvinnuþátttöku, hafa völd og áhrif kvenna í hinu opinbera rými haldist takmörkuð. Að fyrirlestrinum loknum var opið fyrir spurningar og kaffi og konfekt í boði fyrir gesti. Ekki er annað hægt að segja en að fundargestir hafi skemmt sér vel enda fyrirlesturinn fróðlegur og málefnið brýnt. Til hamingju með kvenréttindadaginn!  

Allt skipulag og móttökur verið til fyrirmyndar

Á sunnudaginn kom til Eyja rúmlega 100 manna hópur á vegum utanríkisráðuneytisins. Stærsti hlutinn voru sendiherrar erlendra ríkja gagnvart Íslandi auk fleiri fulltrúa. Flestir þeirra eru búsettir í nágrannalöndum, einkum Osló, Kaupmannahöfn og sumir í Stokkhólmi og London og með sendiráð þar en eru jafnframt sendiherrar gagnvart Íslandi. Einnig voru með í för þeir sendiherrar erlendra ríkja sem eru með sín sendiráð í Reykjavík. Fyrir hópnum fóru Stefán Haukur Jóhannesson, ráðuneytisstjóri og Gunnar Pálsson, prótókollsstjóri ráðuneytisins. „Sendiherrarnir eru staddir hér á landi þessa dagana vegna 17. júní - en venjan er að fulltrúum erlendra ríkja, sendiherrum er boðið að taka þátt í hátíðarhöldunum á Austurvelli,“ sagði Stefán Haukur. „Utanríkisráðuneytið hefur um nokkurt skeið boðið þessum gestum í skoðunarferð daginn eftir, eitthvað út fyrir Reykjavík. Í þetta sinnið var farið til Eyja.“ Hópurinn kom um morguninn og fór í skoðunarferð um Heimaey í rútu, bátsferð og á söfn. Í hádeginu var snætt í Höllinni og um kvöldið var hátíðarkvöldverður í Eldheimum. Þar ávarpaði Hildur Sólveig Sigurðardóttir, forseti bæjarstjórnar gesti. Stefán Haukur sagði aðeins frá uppvextinum í Eyjum þar sem Surtseyjargosið 1963 og Heimaeyjargosið 1973 voru miklir áhrifavaldar. Sindri Freyr Guðjónsson, flutti lagið sitt, Way I‘m feeling, sem slegið hefur í gegn á Spotify og er komið með yfir milljón spilanir. Auk þess skipulagði hann móttöku gestanna. Svo var komið að þætti Jarls Sigurgeirssonar sem mætti með sína rödd, gítar og tölvu. Hann var fljótur að koma stuði í mannskapinn sem eitt og sér er nokkuð afrek eins blandaður og hópurinn var. Í lokin voru flestir komnir upp á stóla og Jarl rétt að hitna en þá varð að hætta leik því komið var að brottför. Þau sem Eyjafréttir ræddu við voru á einum rómi um að ferðin til Vestmannaeyja hefði heppnast vel, allt skipulag og móttökur verið til fyrirmyndar og matur og þjónusta hjá Einsa Kalda sló í gegn svo um munaði. Gestirnir voru m.a frá Bangladesh, Kýpur, Kína, Japan, Hollandi, Kýpur, ýmsum Afríkuríkjum, Suður Ameríku ofl. ofl. Alls voru þetta 47 lönd sem áttu fulltrúa í hópnum, erlendir þátttakendur um 77 manns.   Til að kynna land og þjóð „Tilgangurinn með svona ferðum er að kynna betur land og þjóð fyrir þessum erlendu sendierindrekum,“ sagði Stefán Haukur. „Við viljum að þeir fái tækifæri til að upplifa eitthvað annað en höfuðborgarsvæðið og hitta okkur á fundum. Með þessu fá þau allt aðra sýn á landið okkar og fólkið sem hér býr. Þannig skapast allt önnur tengsl og dýpri skilningur á landi og þjóð. Þessi ferð tókst einstaklega vel og voru okkar ágætu gestir himinlifandi með móttökurnar og fannst saga okkar og náttúra afar áhrifamikil. Og fyrir mig sem Eyjapeyja er það auðvitað einstaklega skemmtilegt að fá tækifæri til að kynna fyrir mínum erlendu kollegum þann stað sem mér er kærastur. “  

Þar óx blómið meðal hinna fegurstu rósa og sem vitjaði mín blómstrandi í hverjum draumi

Lengi vel var húsið Kuði sem stóð á mótum Strandvegar og Formannasunds bara stórt hús í mínum huga sem hýsti bókasafn og afgreiðslu Olíufélagsins Skeljungs. Þar bar líka stundum fyrir augu menn sem settu svip sinn á bæjarlífið, einkum þá Braga í Höfn og og Jón Snara sem elduðu stundum grátt silfur saman bæði í gamni og alvöru og sem kemur eftirfarandi frásögn ekkert við. Svo bar við eitt kvöld í september árið 1958 að húsið varð á svipstundu tilvera minna skemmtilegustu stunda. Ég hafði áður séð auglýsingu í einu bæjarblaðanna sem var undirrituð af Páli Steingrímssyni kennara með meiru að myndlistarskólinn tæki til starfa síðar í mánuðinum og kennsla yrði á neðri hæð í Kuða. Páll hafði fáum árum áður stofnað Myndlistarskólann og fengið til sín þekkta listamenn á borð við Bjarna Jónsson og Hafstein Austmann. Lítið hafði ég sinnt þeirri listgrein og ekki látið það litla sem ég hafði hnoðað saman koma fyrir augu almennings.   Hús sem aðeins eru til í minningunni En ég hafði kynnst Ragnari Lárussyni, miklum listamanni sem bjó hér í Eyjum í fáein ár og hann hvatti mig til að ganga til liðs við listagyðjuna. Þetta kvöld sem skólinn var settur gekk ég fram hjá húsum sem ekki eru lengur til nema í minningunni. Má þar nefna gömlu rafstöðina og verslunina Framtíðin, Þingvelli og Verslunarfélagið. Þar austan við stóð lítið hús sem kallað var Boston. Norðan við Verslunarfélagið stóðu gamlir ryðgaðir skúrar með tómum gluggatóftum. Á dimmum vindasömum kvöldum söng í rjáfrum þessara skúra. En eftir hina fyrstu kennslustund í listaakademíunni sem við nemendur kölluðum svo, voru gömlu ryðguðu skúrarnir orðnir svo myndrænir að þeir urðu ósjálfrátt augnayndi. Þessa fyrstu kvöldstund í Kuða, virki listarinnar, varð mér ljóst að þar ætti ég eftir að njóta mín og flestra minna tómstunda. Páll skólastjóri var hugmyndaríkur og vandaði vel til verka þegar hann valdi til liðs við sig kennara sem voru þekktir í heimi málaralistarinnar. Við vorum margir nemendurnir sem mættu þennan fyrsta vetur, sum þekkt nöfn í hinum ýmsu geirum bæjarlífsins og má þar nefna Braga Straum skáld og kennara, Braga Einarsson málara Lárussonar frá Þorvaldseyri, Jón Karlsson húsamálara,Valgeir Jónasson smið, Jóhann á Grundabrekku, Hörð í Varmadal, Guðlaugu á Hvanneyri, Hrefnu sem síðar varð eiginkona mín og Magga Magg sem flestir þekkja sem Magga skalla, mikinn grínista sem sætti sig vel við viðurnefnið.   Sumir áttu eftir að skapa sér nafn Sumir nemendur skólans fóru síðar meir í framhaldsnám og skópu sér nafn í heimi myndlistarinnar og má þar nefna Sigurfinn í Fagradal, Sönnu Sigurðar, Gerði Gunnars og Grétu Korts. Gréta er frábær og mjög sannfærandi listamaður. Hún á ekki langt að sækja sína listrænu sköpunargáfu, þau gen sækir hún eflaust til móður sinnar sem var hæfileikarík handverkskona og hafði djúpt fegurðarskyn á öllu sem hún snerti. Þennan fyrsta vetur var með okkur Benedikt Gunnarsson listmálari úr Reykjavík sem sýndi námsfúsum nemendum undirstöðuatriði teikningarinnar, hvernig við ættum að draga hinar fyrstu línur á blað hvort sem um væri að ræða módel eða aðra uppstillingu. Hann var bróðir Veturliða Gunnarssonar listmálara sem síðar átti eftir að auðga okkar sýn á hina ýmsu leyndardóma listarinnar. Hver kennslustund stóð yfir í tvær klukkustundir, frá því klukkan átta að kvöldi til klukkan tíu. Stundvísi var mjög góð þessa fyrstu námsönn, þó kom það fyrir að einhverjir gleymdu sér við viðtækið þegar útvarpsleikrið Hver var Gregory? var á kvölddagskránni.   Söngur og sögur Í lok hverrar kennslustundar var boðið uppá tvíbökur og tedrykkju. Kvöldstundirnar lengdust þegar farið var í hina ýmsu leiki. Oft kom það fyrir að Páll skólastjóri settist með gítarinn sinn og spilaði fyrir okkur einhverjar melódíur eða sagði okkur hinar ævintýralegustu sögur. Hann var óþreytandi að finna til eitthvað okkur til skemmtunar. Svo var það einnig í einu leikritinu sem þeir sömdu hann og Maggi Magg. Bragi málari var þá færður í presthempu og þannig stóð hann fyrir altari í ímyndaðri kirkju og átti sérann að skíra barn. Ég fékk það hlutverk að halda því undir skírn. Sveinbarnið sem ég hélt á í fanginu var valið úr hópi nemenda og var í stærra lagi en það var sjálfur Matti Sveins. Og þegar séra Bragi steig fram og spurði með prestlegum hreim sem minnti mig á séra Jón Auðuns heitinn: ,,Og hvað á svo barnið að heita?“ Eitt augnablik stóð ég hugsandi. Óviðbúinn spurningunni og reyndi í örvæntingu að fiska upp eitthvað nafn sem ætti við hið stóra barn sem ég hélt á í fanginu. Loks flaut upp nafnið Járnkall en þegar ég bar það fram í öllu flaustrinu varð það að nafninu Jórunn Viðar. -Ha, sagði þá Bragi og glotti við, meinarðu það? Við það sprakk allur salurinn af dynjandi hlátri.   Stjörnubros Í einni gleðistundinni stakk Páll uppá því að hver nemandi reyndi með sér í einleik. Standa einn á sviði og segja sögu, syngja eða spila á hljóðfæri. Og þótt flæktur væri í fjötrum hlédrægninnar fékk ég það hlutverk að spila eitt lag á munnhörpu. Og auðvitað valdi ég Sæsavalsinn og fyrir það fékk ég að launum stjörnubros frá einum nemendana. Sú átti eftir að verða mín gullna gyðja þegar hlýjar tilfinningar byrjuðu að hreiðra um sig í mínum helgustu hugarviðjum. Einhverju sinni á aðventunni að lokinni kennslustund bar Páll upp þá hugmynd að við keyrðum norður á Eiði og skelltum okkur í sjóbað. Þetta sama kvöld var kyrrlátt veður, tunglsljós og sléttur sjór. Með okkur í bílnum voru nokkrir nemendanna. Við létum bílljósin skína á ströndina. Og farþegar bílsins hafa eflaust fengið hina bestu skemmtun eftir að við höfðum afklætt okkur í skjóli kletta og síðan séð okkur dansa stríðsdans í fjörunni áður en við hlupum naktir út í svalt hafið.   Dýrðarstundir í Klaufinni Eftirminnilegar eru líka þær dýrðarstundir sem við nemendur áttum suður í Klauf á yndislegu og tunglskinsbjörtu kvöldi þegar lognværðin hvíldi yfir stund og stað og litlar bárur hvísluðu sig upp í sandinn. Auðvitað var það Páll hinn hugmyndaríki skólastjóri okkar sem átti hugmyndina af þeirri ferð. Hann útvegaði farartæki til ferðarinnar. Vörubíl með háum skjólborðum sem við fórum á suður að Breiðabakka þar sem Trausti bóndi bjó og þaðan stormaði fylkingin niður í fjöru. Þar voru á víð og dreif sverir rekaviðardrumbar sem höfðu velkst um víðan sjá en voru nú komnir á leiðarenda. Við veltum þeim nú saman svo myndaði hálfhring og notuðum fyrir sæti. Veturliði kennarinn okkar settist fyrir miðju í hópnum. Og þar sem hann sat og horfði heillaður út á dimmbláa víkina sem glitraði í tunglsljósinu líkt og blikandi stjörnur flytu sem perlur þar á lognöldunni í húmsvölu kvöldinu. Þá sagði hann slíka stund verða ógleymanlega í minningunni. Í miðjum hálfhring var tendraður varðeldur og í glæðum hans voru grillaðar pylsur og síðan sögur sagðar.   Á skeljuðum sjóreknum sætum Með okkur í nemendahópnum var hin ærslafulla Sanna, dóttir Sigga Þórðar útgerðarmanns með meiru. Sú hafði beðið bílstjórann að koma við heima hjá sér á Hólagötuna og sótt þangað gítarinn sinn. Og þar á skeljuðum sjóreknum sætum stilltu þau saman hljóðfærin sín og struku strengi, hún og Páll skólastjóri. Brátt hljómuðu síglaðir söngvar um kyrrlátt nágrennið. Sannarlega hefur lífsgleðin verið í hæstu hæðum þegar hlátrar vöktu litla kópa á skerjum. Í minningunni finnst mér að einhver töfraljómi hafi sveipað sig um þessa skemmtilegu kvöldstund. Og enn dragast fram hinar fegurstu myndir sveipaðar minningum daganna. Páll, vinur okkar, skólastjórinn síkáti lét okkur eitt kvöldið klæðast grímubúningum og hverjum nemanda var afhent ljósker. Þannig klædd stormuðum við gamla rúntinn í gegnum bæinn sveiflandi hænsnaluktum og létum í okkur heyra. Fyrir utan Hressingarskálann stoppaði hersingin og fluttum við þar einhverja óskiljanlega þulu sem Páll hafði samið. Allt í anda listarinnar var mottóið. Kennarar skólans hvöttu okkur til að nýta hverja stund sem gæfist þegar vel viðraði og fara út um eyjuna með skyssublokkir og draga á blað hin fjölskrúðugu mótíf úr náttúrunni hvort sem væri til stranda eða upp til fjalla. Hin náttúrulegu sköpunarverk er víða að finna hér í Eyjum.   Sár var þá silfurstjarnan Meðal nemenda skólans hina fyrstu önn var miðaldra kona. Í eina kennslustundina hafði hún með sér hávaxið blóm sem hún sýndi mikla væntumþykju sem um barn væri að ræða. Og hafði hún það sem uppstillingu. Hún sat fyrir framan það með trönurnar sínar alla kvöldstundina ein og sér og svei mér ef hún talaði ekki við það öðru hvoru. Að lokinni kennslu skildi hún blómið eftir. Sennilega búist við að það væri öruggt þar sem það hvíldi í kennslustofunni. Ég var síðbúinn til brottfarar þetta kvöld og sat lengur við mitt verk. En svo henti mig það óhapp þegar ég var að taka saman eftir mig áður en ég hélt útí næturloftið að ég rakst utan í blómið sem féll til jarðar og lá þar sundurbrotið. Sár var þá silfurstjarnan. -Hvað er nú til ráða? hugsaði ég og fann til andlegrar auðnar. En þá var sem réttu orðin streymdu fram, -það eru til töfralausnir. Svo vildi til að í kraganum í jakka mínum geymdi ég langan prjón sem nú kom í góðar þarfir. Honum var stungið í báða stilki blómsins og þrýsti ég þeim saman. Þegar þeirri læknisaðgerð var lokið virtist mér blómið halda sínum styrk. Án þess ég tæki eftir að blikandi tár rynni úr sárinu. En næsta kvöld þegar ég mætti í skólann var blómið horfið.   Í dyrunum stóð Sigga mey Því hafði verið haldið fram að í Kuða væri reimt, eitthvað væri þar á sveimi sem ekki væri hægt að útskýra. Sumir starfsmenn hússins staðhæfðu að stundum heyrðist þeim vera þrusk uppi á efstu hæð hússins líkt og eitthvað væri dregið þar eftir gólfum. Nema hvað kvöld eitt áliðið þegar við Sigurfinnur, kenndur við Fagradal, vorum þar tveir einir að störfum við trönurnar okkar heyrðum við skrölt að ofan. Í fyrstu héldum við að eitthvað slægist til á hjörum því vindur voru á sveimi. Þegar við höfðum athugað að slíkt gæti ekki átt sér stað þar sem okkur sýndist allir gluggar á efri hæðinni vera í fölsum. En þegar skröltið ágerðist lögðum við heldur betur við hlustir og okkur stóð ekki á sama þegar það nálgaðist vinnustofuna með glamri og þéttum strokum. Skyndilega var hurð opnuð og í dyrunum stóð Sigga mey, hin aldna skúringarkona með fötu og kúst í hendi. Það var þá gamla konan sem þar var að störfum og fangaði athyglina okkar í það sinn. En okkur hafði ekki verið sagt að hún skúraði seint á kvöldin eða þegar kyrrð væri komin á húsið.   Góðir gestir Þau ár sem skólinn var starfræktur undir stjórn Páls Steingrímssonar fengum við oft gesti í boði skólastjórans. Ég minnist þess að Björn Th. Björnsson listfræðingur heiðraði okkur með komu sinni og upplýsti okkur um hin ýmsu afbrigði málaralistarinnar. Honum þótti alltaf vænt um Eyjarnar sínar enda hér uppalinn fram á unglingsár. Kvöld eitt sátu í vinnustofunni okkar þeir Ási í Bæ, Sverrir tannlæknir og Bjarni skurður. Miklir lífskúnstnerar og listunnendur sem hver um sig setti mark sitt á bæjarlífið. Þá var Bragi Straumur í essinu sínu eins og svo oft áður þegar hann las upp ljóð sín og sögur. Og ljóð sitt um þjóðhátíðina er mér eftirminnilegt. Þar lék hann sig svo vel inní frásögnina að maður sá hátíðina fyrir sér þegar hann mælti fram: Stórhátíð fengitímans hófst í dag með því að prúðbúnir íþróttamenn drógu þúsund fána til himins. Tjöldum hafði verið slegið upp og æskan lék sér á sokkabuxum um hátíðarsvæðið. Og þegar prófessor Beck hafði lagt blessun sína yfir hátíðarsvæðið þá bauluðu kýrnar í Dölum og kirkjukórinn lék við mikinn fögnuð sólarinnar.   Sjaldan launar köttur ofeldið Einn veturinn fengum við til okkar nýjan kennara. Sá hét Magnús Á. Árnason myndhöggvari með meiru. Hann ásamt konu sinni, Barböru kenndi við skólann einn vetur. Og lærðum við nemendur margt af þeim hjónum. Mér er minnistæð saga ein sem frú Barbara sagði okkur en hún var þekkt veflistarkona. Hún hafði nýlokið við stórt teppi sem átti að setja upp á sýningu daginn eftir. Kvöldið áður hafði hún strengt það á ramma og lét svo vera yfir nótt. En köttur sem hún átti hafði komist inn í vinnustofuna hennar um nóttina, gert þar þarfir sínar og lét svo teppið finna fyrir klóm sínum. Og það var óglæsileg sjón sem blasti við höfundi þess um morguninn. Þegar hún hafði lokið sögunni fannst mér sem hún hugsaði, sjaldan launar köttur ofeldið.   Skildi eftir tómarúm Okkur Páli var vel til vina þau ár sem hann starfaði við skólann og það var mikil eftirsjá þegar hann flutti héðan til Reykjavíkur. Við það myndaðist tómarúm í myndmenntaþörf Eyjabúa sem seint grær yfir. En spor hans áttu þó eftir að liggja víða um heimsbyggðina og skapa honum nafn. Svo kom að því að ég vildi leggja land undir fót og heimsækja breska stórveldið. Þar í Ramsgate Regency hafði ég fengið skólavist. Og hugðist ég freista þess að gera mig betur bjargálna í máli þeirra innfæddu. Kvöldið fyrir brottför frá Eyjum bauð Páll mér heim til sín á Sóleyjargötu og þar var mér tekið sem sönnum vini. Og átti ég þar ógleymanlegar stundir fram eftir kvöldi. Og mér fannst það fullkomna heimboðið þegar þeir bræður Páll og Gísli Steingrímssynir sungu til mín með gítarundirleik It´s a long way to Tipperary. Það hljómuðu svo ljúft til mín slíkar móttökur sem og annarra gesta að ég hreifst af. En ég átti líka eftir að kveðja blómið sem óx meðal hinna fegurstu rósa og sem vitjaði mín blómstrandi í hverjum draumi. Við Páll áttum oft eftir að hittast síðar og rifjuðum þá upp liðnar stundir. Hæst ber þó minning frá vetrinum 1973 þegar eldar brunnu á Heimaey og fólk kepptist við að bjarga eigum sínum undan eyðileggingu að völdum hamfaranna. Við vorum að bera út úr húsi einu kassa með viðkvæmri glervöru, hluta af stofuprýði heimilis Brynju systur minnar og Heiðars mágs. Og þar sem við Páll bogruðum með kassann út frá húsi og að flutningavagninum sem stóð norðanvegin vegarins kom hnefastór steinn utan úr eldregninu og skall í miðjan kassann og braut þar allt mélinu smærra. Í það sinn skall hurð nærri hælum.  

Enn bætist í flóruna - Eyjabíó fer vel af stað

„Eftir langt hlé er nú aftur hafinn rekstur kvikmyndahúss í Vestmannaeyjum. Fyrstu skrefin lofa góðu og á þeim stutta tíma sem er liðinn frá því að Eyjabíó opnaði hafa á annað þúsund gestir sótt það heim,“ skrifar Elliði Vignisson, bæjarstjóri á heimasíðu seinni.   Þöglu myndirnar fengu líf „Saga kvikmyndasýninga í Vestmannaeyjum er nokkuð merkileg. Hún spannar allt aftur til ársins 1917 þegar þeir Sigurjón Högnason frá Baldurshaga og Arnbjörn Ólafsson á Reyni keyptu húsið Borg og komu þar á fót kvikmyndarekstri. Hvergi skyldi þar gefið eftir í heimsborgarabragnum og létu þeir félagar skrifa stórum stöfum „„Biograph Theatre — Moving Pictures“ á vestur gafl hússins. Við tjaldið var komið upp forláta píanói til að ljá þöglu myndunum líf.     „Jón, Jón, passaðu börnin.“ Síðan þá hafa kvikmyndasýningar verið á nokkrum stöðum í bænum svo sem í Alþýðuhúsinu, Nýja-Bíó (þar sem nú er Hótel Vestmannaeyjar), Samkomuhúsinu/Höllinni (Þar sem nú er kirkja Hvítasunnusafnaðarins) og í Félagsheimilinu við Heiðaveg (Þar sem nú er menningarhúsið Kvika). Fyrsta myndin sem sýnd var í Eyjum hét „Zirli“ sem var skv. Vísi „Ástarsjónleikur í 3 þáttum.“ Hrifningin var mikil og fólk lifði sig sannarlega inn í myndirnar. Fræg er sagan þegar lest kom æðandi til móts við myndavélina eins og þær ætluðu út úr tjaldinu og kona ein kallaði upp yfir sig: „Jón, Jón, passaðu börnin!“. Í kvöld verður sýnd kvikmyndin Transformers í Eyjabíóinu. Þótt tæknin sé margföld er nú samt ekki víst að innlifunin verði jafn sterk.     Eitt flottasta bíó á landinu. Hið nýja bíó sem hlotið hefur nafnið „Eyjabíó er í alla staði hið glæsilegasta. Eigandi þess, Axel Ingi Viðarsson, tók í upphafi þá ákvörðun að ekki myndi þýða að bjóða upp á neitt annað en aðstöðu sem jafnast á við það besta hér á landi. Á sama hátt þyrfti ætíð að vera með nýjar myndir á sama tíma og þær eru fyrst sýndar í Reykjavík. Bíóið er búið fullkomnum digital sýningarbúnaði frá Christie og hljóðbúnaðurinn er frá Dolby Digital.     Kvika, glæsileg aðstaða. Vestmannaeyjabær á hins vegar alla aðstöðu og hefur nú með öllu endurnýjað húsið sjálft sem hlotið hefur nafnið Kvika. Meðal þess sem gert hefur verið er að setja lyftu í húsið, nýtt loftræstikerfi, ný gólfefni á allt húsið, nýjan neyðarútgang, nýja félagsaðstöðu fyrir félag eldri borgara á 3. hæðina, hækka pall í sýningasal, ný sæti í sýningasal, endurbætta hljóðvist og margt fl.     Eyjamenn kunna vel að meta. Það er ánægjulegt fyrir Vestmannaeyjabæ að geta hlúð samtímis að menningu og afþreyingu eins og gert var með framkvæmdum við Kviku. Í gegnum tíðina hafa Eyjamenn og þá ekki síst börn og unglingar kvartað sáran undan því að ekki sé hér bíó. Það kemur því ekki sérstakleg á óvart hversu vel Eyjamenn á öllum aldri hafa tekið hinu nýja bíói.     Sterk staða Vestmannaeyjar standa sterkt um þessar mundir. Á sama tíma og mikill hugur er í atvinnulífinu og gríðarlegar fjárfestingar í framtíðaratvinnutækifærum hefur verið að byggjast upp öflug þjónusta bæði á vegum bæjarfélagsins og annara aðila. Afþreying á borð við bíó er kærkomin viðbót í okkar góðu flóru.     Að lokum er rétt að minna á vefsíðu bíósins „eyjabio.is“ en þar er hægt að finna allar upplýsingar um sýningatíma, kvikmyndaframboð og margt fl.“   :  http://ellidi.is/is/frett/2017/06/23/eyjabio_fer_vel_af_stad  

Sigrún Halldórsdóttir er matgæðingur vikunnar: Glutenlaust lasagna

Ég hef verið á glutenlausu fæði í um 4 ár vegna óþols. Í fyrstu virtist þetta vera heimsins stærsta vanda- mál en í dag finn ég varla fyrir þessu. Oft þarf mjög litlu að breyta til þess að maturinn verði glutenlaus. Ég elska pasta og pizzur og því ætla ég að deila með ykkur uppá- halds glutenlausa lasagnainu mínu.   Hráefni: - 500 gr. nautahakk. - Kjötsósa. - 9 plötur af Semper Gluten-free lasagna plötum. - Stór dós kotasæla. - 1/4 piparostur. - 1/3 dós af sveppasmurosti. - 1/2 dós konfekttómatar. - 1/2 poki rifinn ostur. - Smá fetaostur. - Um 30 gr. Parmigiano. Reggiano ostur. Fersk basilíka.   Ég byrja á að steikja hakkið og búa til kjötsósu. Ég nota yfirleitt Bolognese sósuna frá Dolmio, en einnig eru til margar góðar frá Hunts til dæmis. Læt þetta malla á pönnunni og smakka til með salti og pipar.   Sjóða þarf lasagna plöturnar í 5-6 mínútur og á meðan bý ég til hvítu sósuna. Mér finnst geggjað að blanda saman kotasælu, piparosti og smurosti, setja allt saman í blandara þangað til sósan hefur mjúka áferð, laus við alla kekki. Því næst finn ég til eldfast mót og set smá kjötsósu í botninn, svo lasagna plötur, kotasælusósuna, aftur kjötsósu og svo koll af kolli þangað til lasagnað hefur náð þremur hæðum.   Til að toppa lasagnað sker ég niður konfekttómata í sneiðar og dreifi þeim ofan á. Reggiano ostinn (rifinn) set ég ofan á það, því næst nokkra fetaostsbita og að lokum rifinn ost. Þetta er sett inn í ofn í um 30 mínútur.   Það er mjög gott að skera basilíku smátt og dreifa yfir lasagnað þegar það kemur út úr ofninum. Fyrirtaks meðlæti með þessu er ferskt Romaine salat með niðurskornum tómat og gúrku.   Ég ætla að skora á Betsý frænku sem næsta matgæðing vikunnar því hún kann að gera allskonar gúmmelaði.  

Stefnir að því að verða leikkona í framtíðinni

Eyjastúlkan Ísey Heiðarsdóttir fékk á dögunum eitt af aðalhlutverkunum í kvikmyndinni Víti í Vestmannaeyjum sem er væntanleg á hvíta tjaldið um páskana 2018. Ísey, sem er 11 ára gömul, var valin úr u.þ.b. 600 manna hópi og fær það hlutverk í kvikmyndinni að túlka karakterinn Rósu. Ekki nóg með að fá hlutverk í Víti í Vestmannaeyjum þá mun Ísey einnig taka þátt í öðru og ekki síður spennandi verkefni að því loknu. Blaðamaður tók Ísey tali og spurði hana nánar út í hlutverkið og prufurnar í aðdragandanum. Aðspurð út í leikprufurnar sagði Ísey þær hafa gengið mjög vel en fyrstu prufur voru föstudaginn 17. mars eftir kynningarfund Sagafilm á Víti í Vestmannaeyjum í Týsheimilinu. „Ég var aðallega bara að leika í prufunum og ekki mikið með bolta. Það var meira að segja stelpa í lokaprufunum sem æfði ekki fótbolta,“ sagði Ísey en alls þurfti hún að fara í þrjár prufur. „Önnur og þriðja prufan fóru fram í Reykjavík en í þeirri þriðju fórum við eiginlega bara í fótbolta, þá var skipt í lið og spilað einskonar æfingamót. Þegar það var búið þurftum við að bíða í í tvær til þrjár vikur eftir því að fá að vita hverjir fengu hlutverkin.“   Langar að verða leikkona í framtíðinni Eins og fyrr segir þá fer Ísey með eitt af aðalhlutverkunum í myndinni. „Rósa er samt ekki í Fálkaliðinu en er engu að síður góð persóna og er eina kvenhlutverkið í myndinni fyrir utan fullorðnar konur,“ sagði Ísey sem hefur lítið sem ekkert leikið til þessa. „Eiginlega ekki, en eitt af því skemmtilegasta sem ég geri er að leika í leikritum sem við gerum sjálf í afmælum. Annars hef ég aldrei leikið neitt í skólanum eða í Leikfélaginu eða neinu svoleiðis.“ En telur Ísey líklegt að að hún eigi eftir að gera meira af þessu í framtíðinni? „Já, ég stefni allavega að því að verða leikkona og hef gert það síðan í 2. bekk.“ Er ekkert leiðinlegt að vera nýbúin í skólanum og fara síðan beint í að lesa handrit á fullu í sumarfríinu? „Jú reyndar, en þetta er samt meira bara skemmtilegt,“ sagði Ísey sem hefur varið miklum tíma í lestur til að undirbúa sig fyrir hlutverkið. „Eftir að ég fékk handritið hef ég mikið verið að lesa. Við krakkarnir í myndinni höfum síðan verið að hittast til að lesa upp saman og leika. Við höfum líka verið á fótboltaæfingum og að æfa hvernig tökurnar munu ganga fyrir sig þar sem drónar voru að mynda okkur. Við fengum síðan að sjá á eftir hvernig allt kom út og var þetta mjög flott.“ Er ekki erfitt að þurfa að muna svona margar langar setningar? „Jú, ég er með nokkrar langar setningar og það getur verið erfitt að muna þær en oftast tekst það. Svo getur líka verið erfitt að túlka karakterinn á sama tíma og maður á að muna setningar,“ sagði Ísey sem er í óðaönn að klára síðustu bókina í bókaflokknum um Jón Jónsson og félaga. „Ég er ekki alveg búin að lesa allar bækurnar en ég fer alveg að klára, ég á bara eftir Gula spjaldið í Gautaborg.“ Ísey á samtals 20 tökudaga í sumar sem verða eins og fullir vinnudagar. Ýmist verður tekið upp í Vestmannaeyjum eða Reykjavík og er því mikilvægt að eiga góða að á meðan hún er að heiman í tökum. „Það verður allt í lagi, ég er ættuð frá Reykjavík og á þar ömmur og afa sem ég get verið hjá á meðan við verðum að taka upp í Reykjavík.“   Sjónvarpsþættir um Rósu Samhliða kvikmyndinni mun Sagafilm einnig framleiða sex sjónvarpsþætti sem sýndir verða á RÚV á næsta ári. Þar mun Rósa vera í veigamiklu hlutverki í baráttu sinni fyrir því að fá leyfi til að keppa á mótinu en eins og allir vita er Orkumótið fyrst og fremst ætlað strákum. „Ég er mjög spennt fyrir því verkefni líka. Þættirnir munu fjalla um okkur systkinin, Rósu og Rabba, en við erum tvíburar í sögunni,“ sagði þessi upprennandi leikkona að lokum.  

Bjartsýn á framtíð ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum

Hótel Vestmannaeyjar hlaut á dögunum gæðavottun frá Vakanum en Vakinn er nýtt samræmt gæðakerfi fyrir íslenska ferðaþjónustu sem stýrt er af Ferðamálastofu Íslands. Þátttakendur í Vakanum er hátt í hundrað og er annar eins fjöldi enn í úttektarferli. Starfsemi þátttakenda hjá Vakanum er afar fjölbreytt og í raun allt frá hótelum og gistiheimilum yfir í kaffi- og veitingahús. Hótel Vestmannaeyjar er samkvæmt Vakanum flokkað sem þriggja stjörnu hótel með svokallaða „superior“ merkingu sem þýðir að hótelið sé gjaldgengt sem fjögurra stjörnu hótel en kjósi þrjár stjörnur vegna þeirra skilyrða sem fjögurra stjörnu hótelum eru sett. Þau skilyrði snúa að miklu leyti að lúxusþjónustu á borð við herbergisþjónustu allan sólarhringinn og þar fram eftir götunum.   Snýst um að efla gæði, öryggi og umhverfisvitund í ferðaþjónustu Vakinn er byggður á nýsjálensku gæðakerfi fyrir ferðaþjónustu sem kallast Qualmark og er markmið hans fyrst og fremst að efla gæði, öryggi og umhverfisvitund í ferðaþjónustu á Íslandi með handleiðslu og stuðningi, ásamt því að byggja upp samfélagslega ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja. Vakinn er verkfæri þátttakenda til að auka gæði og öryggi, veitir þeim leiðsögn og leggur til margvísleg hjálpargögn og gátlista sem má nýta til að bæta rekstur og starfshætti í fyrirtækinu. Gæðakerfi Vakans er tvíþætt, annars vegar skiptist það í stjörnuflokkun fyrir gististaði og hinsvegar í flokkun á annarri ferðaþjónustu en gistingu. Vakinn býður einnig upp á umhverfiskerfi og er tilgangurinn að fá sem flesta innlenda ferðaþjónustuaðila til að taka þátt í umhverf-isstarfi og hljóta viðurkenningu. Hótel Vestmannaeyjar byrjar í svokölluðum bronsflokki en til þess að fá þá vottun þarf hótelið að sinna sorpflokkun og öðru slíku samviskusamlega. Allir gististaðir þurfa að uppfylla lágmarks viðmið sem telja þó til mismunandi stiga. Heildarfjöldi stiga í lokin segir svo til um það í hvaða stjörnuflokk viðkomandi gististaður raðast, sem getur verið allt frá einni stjörnu og upp í fimm stjörnur, með „superior“ möguleika fyrir hótel. Ef fyrirtækið hefur ekki náð tilsettum lágmörkum, hafa forsvarsmenn þess þrjá mánuði til að bæta þau atriði sem ekki uppfylltu tiltekin viðmið. Ávinningurinn af því að geta flaggað merkjum Vakans felst m.a. í því að geta kynnt fyrir viðskiptavinum að fyrirtækið hafi verið tekið út af óháðum aðila og það hafi staðist viðurkenndar gæðakröfur. Að sama skapi er viðurkenning fyrir þátttöku í umhverfiskerfinu rós í hnappagat fyrirtækisins því vitundarvakning á sviði umhverfismála er vaxandi og viðskiptavinir beina í auknum mæli viðskiptum sínum til fyrirtækja sem sýna fram á ábyrgð í umhverfismálum.   Strangar siðareglur Gæðavottun frá Vakanum þýðir einnig að fyrirtæki þurfa að lúta ströngum siðareglum í þjónustu sinni, svo sem veita viðskiptavinum sínum kurteislega og áreiðanlega þjónustu, virða og viðhalda trúnaði og þagmælsku gagnvart viðskiptavinum, hafa heiðarleika og sanngirni að leiðarljósi í öllum samskiptum og viðskiptum, sýna öllum viðskiptavinum sömu virðingu og tillitsemi óháð t.d. kyni, uppruna, kynhneigð og trú og tryggja að allar upplýsingar til viðskiptavina séu réttar og sannar svo eitthvað sé nefnt.   Gestirnir ánægðari Í samtali við Eyjafréttir sagði Magnús Bragason, eigandi Hótels Vestmannaeyja, viðurkenninguna hafa mikla þýðingu fyrir sig. „Þessi vottun hefur mikið að segja fyrir erlendar ferðaskrifstofur sem vilja versla við okkur, fá með þessu traust á því sem þau eru að kaupa. Við höfum metnað til að veita gestum okkar góða þjónustu. Með innleiðingu á gæðaeftirliti Vakans höfum við fengið ráðleggingar fagfólks um hvað við getum gert betur. Við höfum fylgt þessum ráðleggingum og finnum hverju það skilar. Gestir okkar eru ánægðari og við öruggari þar sem við vinnum undir handleiðslu Vakans,“ sagði Magnús en ferlið hefur tekið langan tíma. „Við byrjuðum þetta ferli fyrir tveimur árum. Má segja eftir að við opnuðum nýju álmu hótelsins.“ Hver verða næstu skref hjá ykkur? „Við ætlum að halda áfram að byggja upp fyrirtækið og veita góða þjónustu. Það var rétt ákvörðun á sínum tíma að stækka hótelið. Það hefur komið sér vel fyrir okkur sem og aðra ferðaþjónustuaðila í Eyjum. Við erum nú að vinna að framtíðarsýn og erum bjartsýn á framtíð ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum,“ sagði Magnús að lokum.  

Sunna Daðadóttir er Eyjamaður vikunnar: Skemmtilegast að vinna leiki, skora mörk og vera með stelpunum

Eins og flestir vita fór Pæjumótið fram um helgina en þar endaði ÍBV 1 í fjórða sæti eftir tap gegn Stjörnunni í leik um þriðja sætið. Eyjastúlkan Sunna Daðadóttir átti gott mót en hún var fulltrúi ÍBV í leik Landsliðs og Pressuliðs, ásamt því að vera valin í úrvalslið mótsins. Sunna er Eyjamaður vikunnar að þessu sinni.   Nafn: Sunna Daðadóttir. Fæðingardagur: 31.maí 2005. Fæðingarstaður: Vestmanneyjar. Fjölskylda: Mamma mín heitir Þóra Hrönn og pabbi minn Daði og bróðir minn Óliver. Draumabíllinn: Bíllinn hennar mömmu. Uppáhaldsmatur: Ítölsk vefja á Gott. Versti matur: Lifur í dós. Uppáhalds vefsíða: Fimmeinn.is. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Bara allt sem er hresst og skemmtilegt. Aðaláhugamál: Handbolti og fótbolti. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Ronaldo og Messi. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Vestmannaeyjar. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Sandra Erlings, Þóra Guðný og Óliver Daðason og auðvitað ÍBV. Ertu hjátrúarfull/ur: Já, smá. Stundar þú einhverja hreyfingu: Já, á veturna er ég í handbolta og fótbolta og á sumrin er ég í fótbolta. Uppáhaldssjónvarpsefni: Hawaii Five-O, Chicago Fire og Friends. Hvað var skemmtilegast við TM mótið:Vinna leikina, skora öll þessi mörk og vera með stelpunum. Var ekki mikill heiður að vera valin í úrvalslið mótsins: Jú, geggjað. Áttu þér einhvern uppáhalds fótboltamann: Hermann Hreiðarsson. Hvert stefnir þú sem fótboltamaður í framtíðinni: Ég er ekki farin að hugsa svona langt.  

Ákvörðun um að leika 13 holur er umdeild

 Íslandsmótið í holukeppni verður haldið í Vestmannaeyjum um helgina, byrjar á föstudag og lýkur á sunnudaginn. Riðlakeppnin fer öll fram á föstudaginn þar sem leiknar verða þrjár umferðir og hver leikur er 13 holur í holukeppni. Ákvörðun um að leika 13 holur í stað 18 er umdeild en hana má rekja til þess að fyrir fjórum vikum kom í ljós að nokkrar holur á golfvellinum í Eyjum eru ekki í nógu góðu standi að mati Golfssambands Íslands. „Ákvörðun um að halda Íslandsmótið í holukeppni í Vestmannaeyjum var tekin í nóvember á síðasta ári. Svo kemur í ljós fyrir um fjórum vikum síðan að flatir á nokkrum holum eru ekki nógu góðar. Þá stóðu menn frammi fyrir erfiðri ákvörðun þar sem enginn kostur var góður. Niðurstaðan var að halda sig við fyrri ákvörðun,“ sagði Brynjar Eldon Geirsson, framkvæmdastjóri Golfsambandsins í samtali við Eyjafréttir. Hann sagði að í raun hafi ekki annað komið til greina. „Þetta var mikið rætt en það er ekki auðvelt að færa svona mót og fólk búið að gera ráðstafanir með gistingu og fleira. Það var því ákveðið að spila með þessu móti þetta árið hvað svo verður í framtíðinni. En skoðanir eru vissulega skiptar þar sem menn eru bæði jákvæðir og neikvæðir gagnvart þessu.“ Í riðlakeppninni á föstudaginn verða leiknar 13 holur. Átta manna úrslit fara fram fyrir hádegi á laugardaginn þar sem leiknar verða 13 holur í holukeppni. Undanúrslit eða fjögurra manna úrslit fara fram eftir hádegi þar sem leiknar verða 26 holur í holukeppni. Úrslitaleikirnir og leikirnir um þriðja sætið fara fram fyrir hádegi sunnudaginn 25. júní þar sem leiknar verða 26 holur í holukeppni. Samkvæmt reglugerð um mótið hafa 32 stigahæstu kylfingar í karlaflokki og 24 stigahæstu kylfingar í kvennaflokki rétt til þátttöku. Að auki hafa þátttökurétt Íslandsmeistarar í holukeppni 2016, þrír efstu Íslendingarnir á heimslista atvinnumanna og þrír efstu Íslendingarnir á heimslista áhugamanna 14 dögum áður en mótið hefst. Ef ekki er full skráning í öðrum hvorum flokknum, geta kylfingar skráð sig til þátttöku án stiga og raðast þeir inn í mótið eftir forgjöf í samræmi við reglugerð um stigamót.  

Týndi gleðinni í boltanum eftir að hafa misst tönn á Hásteinsvelli síðasta sumar

Miðjumaðurinn Rut Kristjánsdóttir hefur fundið sig vel í liði ÍBV það sem af er tímabils eftir að hafa gengið til liðs við félagið fyrir tímabilið en áður var hún á mála hjá Fylki. Þessi 24 ára gamli leikmaður segist alltaf hafa líkað vel við Vestmannaeyjar og fólkið sem þar býr og hefur dvöl hennar hingað til sem leikmaður ÍBV ekki verið annað en jákvæð að hennar sögn. Rut missti af stórum hluta síðasta tímabils eftir að hafa misst tönn í leik gegn ÍBV á Hásteinsvelli síðasta sumar en sem betur fer var landsliðsþjálfarinn og tannlæknirinn Heimir Hallgrímsson á vellinum og var hann fljótur að bregðast við. Af hverju ákvaðstu að semja við ÍBV? „Ég týndi aðeins gleðinni í boltanum síðasta sumar þegar tönnin flaug úr hér í Eyjum og þar með var hálft tímabilið alveg off hjá mér. Jeffsy var sá þjálfari sem var hvað þolinmóðastur við mig og gafst ekki upp á mér, sem ég er ótrúlega þakklát fyrir í dag. Svo leist mér vel á umgjörðina og fannst spennandi tækifæri að spila með svona öflugu liði,“ segir Rut.   Spilar fótbolta með ÍBV í Eyjum og starfar fyrir Deloitte í Kópavogi Ásamt því að spila fótbolta með ÍBV í Vestmannaeyjum í sumar þá starfar Rut einnig fyrir Deloitte í Kópavogi. Hvernig hefur gengið að tvinna þetta saman? „Ég er hrikalega heppin með yfirmenn í Deloitte sem sýna mér mikinn skilning og hleypa mér til Eyja þegar þarf. Á sama tíma er ég ekki síður heppin með þjálfarateymið hér sem sýnir vinnunni einnig skilning, svo með allt þetta frábæra fólk í kringum mig þá hefur gengið vel að tvinna þetta saman. Það hafa vissulega verið margar báta- og bílferðir þetta sumarið en ég hef svo ótrúlega gaman af hvoru tveggja að mér finnst þetta ekkert mál,“ segir Rut. Næsti leikur hjá ÍBV er á föstudaginn gegn þínum gömlu félögum í Fylki, hvernig metur þú möguleikana þar? „Við höfum verið að spila virkilega flottan fótbolta í sumar, verið þéttar og skorað góð mörk. Ef við höldum áfram að vinna á okkar styrkleikum þá tel ég möguleika okkar góða fyrir leikinn. Við stefnum að sjálfsögðu að því að taka þrjú stig en Fylkisstelpurnar hafa verið að stilla sig saman í sumar og þurfa að safna fleiri stigum svo ég býst bara við hörku leik. Mér persónulega líður alltaf vel í Lautinni svo ég er gríðarlega spennt fyrir því að mæta þangað,“ sagði miðjumaðurinn öflugi að endingu.  

Magasínið - kraftmikill og líflegur síðdegisþáttur

Hulda Bjarnadóttir og Sighvatur „Hvati“ Jónsson hafa gengið til liðs við K100 - FM100,5 - þar sem þau stýra dægurmála- og lífstílsþættinum Magasínið, á hverjum virkum degi á milli kl. 16 og 18. Þátturinn verður líflegur og upplýsandi, í takt við þá skemmtilegu stemningu sem ríkir á K100, og er hluti af nýjungum á K100 sem er ætlað að efla starfsemi stöðvarinnar enn frekar.     Nýr þáttur sniðinn að nýjum tímum „Við Hulda höfum þó nokkra reynslu af morgun- og síðdegisþáttum frá fyrri útvarpsstörfum sem sannarlega nýtist okkur vel í dag,” segir Hvati. „Þátturinn er sniðinn að nýjum tímum, nýjum samskiptaleiðum og nýrri tækni. Útvarpsstöðin K100 gengur í gegnum spennandi umbreytingu þessa dagana. Við tökum þátt í þeirri umbreytingu af krafti með því að leiða líflega dægurmála- og lífstílsumræðu fyrir Íslendinga á leið heim úr vinnu á hverjum degi. Síðdegisþátturinn verður svo sannarlega ekki hefðbundinn fréttatengdur dægurmálaþáttur. Við ætlum að nálgast allt efni á nýjan hátt, meðal annars með nýrri tækni sem mun skapa K100 sérstöðu meðal íslenskra útvarpsstöðva,” segir Hvati og bætir við að það sé frábært að fá tækifæri til að starfa með Huldu á ný, en þau unnu fyrst saman í morgunþættinum Hvati og félagar á FM957 árin 1998-2001. „Okkur Huldu þykir mjög vænt um að ein af okkar góðu fyrirmyndum í útvarpi, Jón Axel Ólafsson, hafi leitað til okkar og leitt okkur saman vegna þessa spennandi verkefnis, en hann er starfsfólki á K100 innan handar við þær breytingar sem nú standa yfir. Það er gaman að vera hluti af útvarpslandsliðinu á K100 á spennandi tímum,” segir Hvati.   Taka þátt í lífi fólks „Þátturinn er fyrir fólk sem hefur skoðanir og vill fylgjast með upp að vissu marki en ekki síður fyrir fólk sem þorir að vera áfram ungt í anda og taka sig ekki of alvarlega. Það er létt yfir stöðinni og þannig verður þátturinn einnig uppbyggður,” segir Hulda. „Við ætlum að vera á meðal fólks, taka þátt í lífi þess, líkt og við gerum á hverjum degi á samfélagsmiðlum. Líklega er þetta upphafið á kynslóðarbreytingu í íslensku útvarpi. Það er spennandi að koma að uppbyggingunni hjá Árvakri enda metnaðarfullt og hæfileikaríkt fólk fyrir hjá fyrirtækinu. Ég hlakka til að starfa með þessu landsliði í útvarpi sem er mætt til leiks á K100 - FM100,5 - og því fagfólki sem fyrir er á miðlum Árvakurs,“ segir Hulda.   Spennandi tímar hjá Árvakri Samhliða störfum á K100 er Hulda forstöðumaður þróunarmála Árvakurs, sem m.a. gefur út Morgunblaðið, rekur fréttavefinn mbl.is og Eddu Útgáfu. „Árvakur er eins og önnur fjölmiðlafyrirtæki að takast á við breytt umhverfi og er rekstur útvarps áhugaverð viðbót við aðra starfsemi félagsins í ljósi þeirra tækifæra sem skapast við samspil ólíkra miðla, “ segir Hulda. Hún er með BSc í Viðskiptafræði og MBA frá HR og hefur síðastliðið ár leitt alþjóðasvið Viðskiptaráðs Íslands. Hún hefur verið í forsvari fyrir félagasamtökin KRAFT, stuðningsfélag fyrir ungt fólk með krabbamein og einnig fyrir Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA). Hún var dagskrárstjóri á útvarpssviði Norðurljósa, fyrirrennara 365. Þá hefur hún sinnt dagskrárgerð á Bylgjunni og FM957 og í sjónvarpi og starfað við útsendingarstjórn.   Margmiðlandi útvarp Sighvatur Jónsson, Hvati, er menntaður margmiðlunarhönnuður og tölvunarfræðingur frá Danmörku. Hann segir að útvarpsstöðin K100 verði meira en útvarp. „Það er draumi líkast að fá tækifæri til að taka þátt í þeim breytingum sem eiga sér stað í miðlun þessi misserin. Meðal tækninýjunga á K100 er myndavélakerfi sem gerir útvarpsstöðina í raun að sjónvarpsstöð. Með einföldum hætti getum við því miðlað efni úr þáttum stöðvarinnar hratt á vef og deilt því um samfélagsmiðla. Útvarpshlustun er með ýmsum hætti í dag, fólk getur hlustað á gamla góða útvarpið, í gegnum net og sjónvarp. Þá er sífellt meira um að fólk sæki sér sjálft það efni sem það vill hlusta og horfa á þegar því hentar. Með áherslu á nýjar samskiptaleiðir og tækni er K100 leiðandi á þessu sviði á Íslandi, miðill sem byggir að grunni til á umgjörð útvarpsins, en er um leið margmiðlandi efnisveita,“ segir Hvati. Hvati hefur ríflega 20 ára reynslu í íslenskum fjölmiðlum. Hann byrjaði í útvarpi á FM957 árið 1996; flutti sig yfir á Bylgjuna árið 2001 og á fréttastofu Stöðvar 2 árið 2003. Hann hefur einnig unnið sem fréttamaður hjá RÚV um árabil. Undanfarin 12 ár hefur Hvati rekið eigið framleiðslufyrirtæki, SIGVA media, þar sem hann hefur framleitt útvarps- og sjónvarpsefni fyrir RÚV, 365 miðla og N4 ásamt framleiðslu eigin heimildarmynda. Síðustu 7 ár hefur Hvati verið um- sjónarmaður Vinsældalista Rásar 2.     Lifandi Magasín Undanfarna daga hafa Hulda og Hvati unnið hörðum höndum að undirbúningi nýja þáttarins, Magasínið, sem fer í loftið í dag, miðvikudag, klukkan 16. „Frá því að tilkynnt var um þáttinn okkar Hvata höfum við mikið verið spurð um tvennt, annars vegar um hvernig þáttur þetta verður og hins vegar um hvað hann á að heita. Við veltum vöngum yfir þessu í nokkra daga og ræddum við samstarfsfélaga okkar á K100 um ýmsar hugmyndir,“ segir Hulda. „Nafn þáttarins var eiginlega fyrir framan okkur allan tímann,“ bætir Hvati við. „Þegar við vorum spurð um þáttinn sögðum við alltaf að þetta yrði magasínþáttur, sem er mikið notað orð í fjölmiðlabransanum um þætti eins og þennan þar sem fjölbreyttu efni er raðað saman eins og við vinnslu tímarits. Okkur þykir líka skemmtileg myndlíkingin að þátturinn er eins og magasín þar sem er mikið af áhugaverðum hlutum og fólki,“ segir Hulda. „Vinnan við undirbúning þáttarins hefur verið mikil en mjög skemmtileg,“ segir Hvati og bætir við að hann og Hulda séu mjög spennt að opna Magasínið.     Sjómannslíf „Algengasta spurningin sem ég hef fengið frá Eyjamönnum að undanförnu er hvort ég sé fluttur frá Eyjum,“ segir Sighvatur aðspurður um viðbrögð við nýja starfinu. „Við fjölskyldan verðum með annað heimili á höfuðborgarsvæðinu en elsti sonur okkar hjóna er einmitt að hefja þar nám í háskóla. Tímasetning þessa starfstilboðs hefði vart getað verið betri hvað þetta varðar. Við feðgarnir verðum saman í leiguíbúð og svo kem ég heim til Eyja um helgar, þetta verður sjómannslífið hjá mér á næstunni. Svona verður þetta hjá okkur í fyrstu og svo sjáum við til hvernig málin þróast,“ segir Sighvatur sem mun áfram reka fyrirtæki sitt SIGVA media samhliða störfum sínum fyrir K100, en útvarpsstöðin er rekin af Árvakri hf. sem einnig gefur út Morgunblaðið og rekur fréttavefinn mbl.is.  

Öllum kom hann til nokkurs þroska

Ágætu hátíðargestir, til hamingju með daginn. Í dag ætla ég ekki að ræða kaup og kjör íslenskra sjómanna. Ég ætla að helga mál mitt umfjöllun um einn ákveðinn mann sem líklega átti sinn stóra þátt í því að bæta kjör íslenskra sjómanna. Það er góð ákvörðun hjá Sjómannadagsráði Vestmannaeyja að helga þennan sjómannadag minningu Friðriks Ásmundssonar sem féll frá á síðasta ári. Friðrik vann í þágu sjómannastéttarinnar lungann af sínu lífi og á það fyllilega skilið að minningu hans sé þessi sómi sýndur. Við Friðrik vorum samstarfsmenn, vinir og félagar stóran hluta af lífsleiðinni. Kynni okkar hófust árið 1960, um haustið. Ég hafði þá um sumarið verið á síld fyrir norðan, var að vinna í Ísfélaginu og ekkert allt of sáttur við það starf. Þá kom Friðrik Ásmundsson, skipstjóri á Öðlingi VE 202, til mín og tjáði mér að sig vantaði 2. vélstjóra um borð í Öðling. Ég var fljótur að gjalda jáyrði við því og þar með hófst áralangur kunningsskapur okkar Friðriks og hans ágætu konu, Erlu. Ég var nánast heimagangur á heimili þeirra í Stakkholti þetta ár og gamlárskvöldinu eyddi ég með þeim. Ég var á Öðlingi í eitt ár, fyrst á síldartrolli, svo á vertíð, á humartrolli um sumarið og svo lauk samskiptum okkar Friðriks það sinnið með því að við fiskuðum í Öðling seinnipart sumars og sigldum með aflann til Aberdeen þar sem m.a. var keyptur radar í skipið en þau tæki voru þá mjög að ryðja sér rúms í fiskiskipaflotanum. Ég man enn hver aflinn var sem landað var úr Öðlingi þarna úti. Það voru tólf tonn; já ég segi og skrifa tólf tonn sem ekki þætti mikið í dag. En þessi ferð situr enn í minningunni, hún var skemmtileg, góðir skipsfélagar, og eiginkonur skipstjórans og stýrimannsins ákváðu að skella sér með, ásamt systur Erlu. Aberdeen þótti mér líka skemmtilegur bær og kannski rétt að geta þess að ég er búinn að panta vikuferð þangað í sumar svona rétt til að athuga hvort eitthvað hefur breyst þar á þessum 56 árum sem liðin eru frá þessari siglingu. En þarna um haustið 1961 lauk samstarfi okkar Friðriks í bili, hann hélt áfram í sínu starfi en ég hélt til Reykjavíkur í fjögurra ára kennaranám. Allmörg ár áttu eftir að líða áður en fundum okkar bar saman á ný en ávallt héldum við þó kunningsskap okkar.   Réttur maður á réttum stað Svo var það árið 1975, eftir einhverja mestu umbrotatíma sem yfir hafa gengið í Vestmannaeyjum að Friðrik var beðinn um að taka að sér skólastjórn Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum. Sá skóli var stofnaður árið 1964 og hafði Guðjón Ármann Eyjólfsson verið þar skólastjóri frá upphafi og fram að gosi, um tíu ára skeið, en bæði 1973 og 1974 var skólinn starfræktur sem deild við Stýrimannaskólann í Reykjavík. En 1975 var ákveðið að hefja á ný skólastarf úti í Vestmannaeyjum. Og þar sem skólastjórinn, Guðjón Ármann, hafði ákveðið að snúa ekki aftur til Eyja, fór skólanefnd þess á leit við Friðrik að hann tæki starfið að sér. Eftir nokkra umhugsun ákvað Friðrik að verða við þeirri bón. Hann hafði þá um margra ára skeið verið farsæll skipstjóri í Vestmannaeyjum bæði hjá Fiskiðjunni sem og með eigin útgerð. En hann hafði líka komið nálægt kennslu, því að um nokkurra ára skeið stjórnaði hann svokölluðum 120 tonna námskeiðum sem Fiskifélag Íslands stóð fyrir í Vestmannaeyjum fyrir væntanlega skipstjórnendur. Ég ætla ekkert að lýsa nánar þeirri skoðun minni að ég tel það eitthvert mesta happ sem samfélaginu hér hefur hlotnast þegar Friðrik Ásmundsson ákvað að taka að sér skólastjórn Stýrimannaskólans. Þar var virkilega réttur maður á réttum stað og alla tíð skipaði skólinn í huga hans jafnstóran sess og sjálf fjölskyldan; mig grunar reyndar að á stundum hafi skólinn haft vinninginn. Stýrimannaskólinn var líka fljótur að ná aftur því sem hann hafði verið fyrir gos, framsækin og góð menntastofnun fyrir sjávarútveginn. Ekki einungis fyrir heimamenn sem vildu sækja sér skipstjórnarmenntun heldur og unga og áhugasama menn af landsbyggðinni sem hingað sóttu tugum saman og margir sem ákváðu að þeirri dvöl lokinni að setjast hér að, bæjarfélaginu okkar og okkur öllum til heilla.     Kennarinn var með lægstu einkunnina Á níunda áratug síðustu aldar ákvað ég að setjast á skólabekk í Stýrimannaskólanum í Eyjum. Ég hafði þá um rúmlega 20 ára skeið sótt sjó á sumrum, samhliða kennslu og hafði í nokkur ár séð um kennslu í sjómennsku og siglingafræðum fyrir efsta bekk GrunnskólaVestmannaeyja. Nú langaði mig til að afla mér frekari þekkingar í þeim fræðum og auðvitað var engin stofnun betri til þess en Stýrimannaskólinn í Eyjum. Þar með lágu leiðir okkar Friðriks saman á ný, 20 árum eftir að við sigldum til Aberdeen. Og ég komst að því að Friðrik hafði ekkert breyst á þessum 20 árum, reyndar hafði hann aðeins gránað í vöngum en viðmótið var enn hið sama. Hann hafði alla tíð hugað vel að velferð skipverja sinna og hið sama var uppi á teningnum núna með nemendur hans. Aðbúnaður þeirra og velferð skipti hann höfuðmáli auk þess sem hann fylgdist vel með því að þeir stunduðu nám sitt af kappi. Ég lauk mínu námi og útskrifaðist úr 2. stigi skólans vorið 1984. En ég var alls ekki laus við þá stofnun. Síðla vetrar það ár kom Friðrik nefnilega að máli við mig og spurði hvort ég væri ekki til í að verða fastráðinn kennari við skólann. Ég þurfti ekki langan tíma til að svara því, þetta var draumastarfið. Reyndar hafði ég þá um veturinn tekið að mér kennslu hjá samnemendum mínum í 2. stigi í einni grein. Svo vildi til að erfiðlega gekk að fá kennara til að kenna vélfræði í 2. stigi og þar sem Friðrik vissi að ég var með vélstjórnarréttindi, fór hann þess á leit að ég tæki að mér þá kennslu. Og skólafélagar mínir höfðu lúmskt gaman af því á föstudögum þegar félagi þeirra allt í einu hoppaði frá borðinu sínu upp í kennarapúltið og fór að kenna þeim vélfræði. Svo endaði ég að sjálfsögðu á því að semja handa þeim lokapróf. En hængurinn var sá að kennarinn varð, samkvæmt reglum skólans, líka að taka próf í greininni. Prófskírteinið mitt frá 1959 var ekki tekið gilt. Og auðvitað gat ég ekki tekið sama próf og ég hafði samið handa nemendum mínum. Það mál var leyst með því að fá deildarstjórann í vélfræði við Framhaldsskólann til að semja próf handa mér. Svo settust allir nemendur niður sama dag yfir próf í vélfræði, skólafélagar mínir með próf sem ég hafði samið en ég með próf sem Kristján Jóhannesson hafði samið. Og allir stóðust prófið. Nemendur mínir voru með einkunnir á bilinu 8 og upp í 10, en ég, sjálfur kennarinn, fékk 7,5. Sem sagt, kennarinn var lægstur á prófinu. Þetta þótti flestum svona frekar skemmtileg uppákoma og sjálfur hafði ég lúmskt gaman af þessu. Og ég man að Friðrik Ásmundsson hló dátt yfir þessari útkomu og sagði síðan að líklega væri þetta bara sönnun á ótvíræðum hæfileikum mínum sem kennara, það væri ábyggilega einsdæmi að kennari gæti útdeilt meiri þekkingu en hann hefði sjálfur yfir að ráða.     Góður vinnufélagi Þarna hófst sem sagt samstarf okkar Friðriks á nýjan leik, ég byrjaði að kenna í skólanum þá um haustið. Og það samstarf stóð alla tíð þar til skólinn var fyrst sameinaður Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum og síðan lagður af þegar allt skipstjórnarnám var flutt til Reykjavíkur um síðustu aldamót. Friðrik Ásmundsson er einhver þægilegasti vinnufélagi sem ég hef starfað með. Á þeim tæplega tveimur áratugum sem við unnum saman í Stýrimannaskólanum minnist ég þess ekki að okkur hafi nokkurn tíma orðið sundurorða. Auðvitað vorum við ekki alltaf sammála en ævinlega var það leyst í fullri sátt. Friðrik gat vissulega verið fastur fyrir og í sumum hlutum lét hann aldrei undan, sérstaklega þeim sem sneru að velferð skólans og þar vorum við líka oftast alveg sammála. En hann var líka ófeiminn við að skipta um skoðun ef hann sá að aðrar tillögur voru til bóta. Slíkt er kostur hjá hverjum manni og þann kost hafði Friðrik Ásmundsson. Áreiðanlega ein ástæða þess hversu vel honum farnaðist í starfi. Eins og áður hefur verið minnst á, bar Friðrik velferð nemenda sinna mjög fyrir brjósti. Slugs og leti var honum ekki að skapi og hann átti til að lesa vel yfir hausamótunum á þeim sem ætluðu að temja sér slíka siði. Og oftast báru þær ræður árangur. Í Íslendingasögum standa þessi orð um Erling Skjálgsson: „Öllum kom hann til nokkurs þroska.“ Mér verður oft hugsað til Friðriks Ásmundssonar þegar ég rifja upp þau orð. Og mér hverfur líklega ekki úr minni þegar hann las einhverju sinni skammarpistil yfir nemendum sínum. Þetta var að morgni 2. apríl og ég man dagsetninguna vel vegna þess að kvöldið áður hafði Sjónvarpið verið með mjög gott aprílgabb. Þeir höfðu fundið íslenskan tvífara Paul Watson, foringja Greenpeace-samtakanna og inntakið í þessu aprílgabbi var að Paul Watson talaði allt í einu reiprennandi íslensku; sagðist hafa farið á þriggja mánaða námskeið hjá Sigrúnu Stefánsdóttur, fréttamanni og lært íslensku á þeim tíma. Flestir held ég að hafi fattað strax að hér var um aprílgabb að ræða. En ekki Friðrik Ásmundsson. Og þarna um morguninn þrumaði hann yfir nemendum sínum áður en tíminn hófst. „Sáuð þið hann Paul Watson í gærkvöldi? Hann lærði íslensku á þremur mánuðum. Svo sitjið þið hér í marga mánuði að læra ensku og dönsku og kunnið ekki neitt.“ Slíka virðingu báru menn fyrir skólastjóranum að enginn sagði neitt þó svo að allir hafi líklega vitað að þarna var um aprílgabb að ræða. En einhverjir glottu í kampinn. Svo komst Friðrik auðvitað að hinu sanna og líklega hafði enginn jafn gaman af þessari kúnstugu uppákomu og hann sjálfur. Hann rifjaði oft upp þessar ófarir sínar og hló dátt að þeim.     Skólinn nýttur sem tilraunastofa Samhliða áhuga Friðriks á því að útskrifa ábyrga og vel menntaða skipstjórnarmenn, hafði hann alla tíð brennandi áhuga á öllu því er sneri að öryggi til sjós. Hann var í nánu samstarfi við Sigmund heitinn Jóhannsson, uppfinningamann. Skólinn var líka notaður sem tilraunastofa í þeim málum og nemendurnir tóku virkan þátt í þeim tilraunum. Svo síðar kom í ljós að einn af nemendum skólans, Björgvin Sigurjónsson, var með hugmyndir að handhægu belti til að bjarga mönnum úr sjó. Þá var líka skólinn og nemendur virkjaðir og í samvinnu þeirra varð Björgvinsbeltið til. Slysatíðni til sjós hefur snarlækkað á undanförnum árum, sem og tölur um dauðaslys á sjó. Þar er mörgum að þakka, ekki síst ötulu starfi Slysavarnaskóla sjómanna en einnig mönnum eins og Friðriki Ásmundssyni, sem var í fararbroddi þessara mála í Vestmannaeyjum, ásamt öllum þeim sem lögðu honum lið í þeirri baráttu.   Ágætu gestir. Ég gæti lengi haldið áfram að segja ykkur sögur af Friðriki Ásmundssyni, sögur sem fyrst og fremst einkenndust af glaðværð og góðvild. Ég átti því láni að fagna að starfa með honum um langt árabil. Fyrir þann tíma er ég þakklátur, bæði sem skipverji hans, síðar nemandi og svo samstarfsmaður við Stýrimannaskólann. Hann er í hópi þeirra manna sem ég hef hvað mest lært af á lífsleiðinni og ég hef borið hvað mesta virðingu fyrir. Það er mér heiður að hafa í dag, á hátíðisdegi sjómanna, fengið hér að minnast þess manns sem með lífshlaupi sínu markaði dýpri spor en flestir aðrir í sögu sjómanna og sjávarútvegs í Vestmannaeyjum. Lifi minning Friðriks Ásmundssonar.  

Fjölbreytt og skemmtileg dagsskrá á sjómannadeginum í ár - myndir

Sjómannadagurinn skipar stóran sess í huga Eyjamanna og er þessi tiltekna helgi fyrir mörgum mesta hátíð ársins. Sjávarútvegur er og hefur ávallt verið mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar frá upphafi byggðar og er því viðeigandi að samfélag á borð við Vestmannaeyjar, sem í gegnum tíðina hefur átt allt sitt undir greininni, fagni þessu degi rækilega. Líkt og undanfarin ár var hátíðin hin glæsilegasta en hátíðarhöld hófust á fimmtudaginn og stóðu yfir fram á sunnudag eins og hefð er fyrir. Sigurgeir Jónasson frá Skuld og Gunnar Júlíusson riðu á vaðið með samsýninguna „Skuldarinn og Júllarinn – ljósmyndir og málverk“ í Einarsstofu en sýningin mun standa opin fram að Goslokum. Myndlistamaðurinn Viðar Breiðfjörð var sömuleiðis með sýningu á verkum sínum í Akóges sem stóð yfir alla helgina en um var að ræða mjög athyglisverðar sýningar á báðum stöðum.   Skonrokk stóð fyrir sínu líkt og fyrri daginn Dagskrá föstudagsins hófst snemma með opna Sjómannamóti Ísfélags Vestmannaeyja í golfi. Seinni partinn tóku bruggbræðurnir í The Brothers Brewery við keflinu þar sem sjómannabjórinn Zoëga var frumsýndur en bjórinn var gerður til heiðurs Ríkharði Zoëga Stefánssyni sem einmitt dældi fyrsta bjórnum. Biggi Nielsen og félagar í hinum geysivinsæla Skonrokkhópi spiluðu síðan fyrir fullri Höll um kvöldið og líkt og fyrri ár stóðust Skonrokkarar væntingar tónleikagesta með ábreiðum sínum á helstu slögurum rokksögunnar. Laugardagurinn hófst með árlegri dorgveiðikeppni Sjóve og Jötuns á Nausthamarsbryggju þar sem vegleg verðlaun voru í boði fyrir m.a. stærsta fisk og flesta veidda fiska. Alls voru 65 keppendur mættir til leiks sem veiddu samanlagt átta fiska og einn krabba. Stærstu marhnútana, 30 cm. langa, veiddu Aron Ingi Sindrason og Rúnar Freyr Gunnarsson en sá fyrrnefndi veiddi líka eina krabbann og var sá 10 cm. á stærð. Stærstu kolana veiddu Þorvaldur Freyr og Jenný María en þeir voru sömuleiðis 30 cm. langir. Aron Ingi hlaut einnig tegundaverðlaun og verðlaun fyrir flesta fiska en hann veiddi þrjá marhnúta og einn krabba. Eftir að Eyjaflotinn hafði þeytt skipsflautur sínar og séra Guðmundur Örn Jónsson blessað daginn hófst formleg dagskrá á Vigtartorginu þar sem margt var í boði. Kappróðurinn var á sínum stað en þar stóðu liðsmenn Hafnareyris öðrum framar í tímabikar og landkrabbabikar. Áhafnabikarinn hlaut Ísleifur VE63 en í stöðvabikurunum fór Vinnslustöðin með sigur að hólmi karlamegin en Ísfélagið kvennamegin. Að lokum hlaut Verðandi félagabikarinn eftir spennandi róður. Koddaslagur og karalokahlaup var einnig með hefðbundnu sniði og var keppnisskapið þar ekki síðra en í kappróðrinum. Raggi Togari stóð uppi sem sigurvegari í koddaslag en Ríkey Guðmundsdóttir í karalokahlaupinu. Finnur Freyr Harðarson var síðan hlutskarpastur í sjómannaþrautinni. Skip Landhelgisgæslunnar var við bryggju í Eyjum og var gestum og gangandi til sýnis sem og mótorhjól mótorhjólaklúbbsins Drullusokkanna en þeir sýndu gripi sína á Skipasandi. Fyrir krakkana voru einnig hoppukastalar, foosball völlur, candyflos og annað næringarlega vafasamt góðgæti.   Frábær skemmtun í Höllinni Einsi Kaldi sá svo um hátíðarkvöldverð í Höllinni um kvöldið þar sem allt milli himins og jarðar var á boðstólnum, kengúra, naut, lax, humar og saltkaramellu panna cotta svo eitthvað sé nefnt. Veislustjóri kvöldsins var hinn geðþekki Andri Freyr Viðarsson sem stýrði útvarpsþættinum Virkum morgnum um árabil og stóð hann fyrir sínu eins og honum er von og vísa. Skemmtiatriði kvöldsins voru ekki síðri og er það ekki ofsögum sagt að gestirnir hafi skemmt sér konunglega. Gamla brýnið Gylfi Ægisson tók lagið og stóð sig með prýði sem og Eyjastúlkurnar ungu, þær Sara Renee, Thelma Lind og Erna Scheving. Það kom síðan í hlut Leó Snæs að halda uppi fjörinu á meðan hljómsveitin Albatross gerði sig reiðubúna til að stíga á svið og spila á balli fram á nótt.   Sunnudagurinn var með hefðbundnu sniði Að vanda stjórnaði Snorri Óskarsson minningarathöfn eftir sjómannamessu í Landakirkju undir stjórn séra Guðmundar. Þar voru blómsveigur lagðar við minnisvarða hrapaðra og drukknaðra áður en Lúðrasveit Vestmannaeyja lék nokkur vel valin lög. Sjómannakaffi Eykyndilskvenna var á sínum stað enda rótgróin hefð á sjómannadeginum. Hátíðarhöld á Stakkó voru síðan með hefðbundnu sniði, Karlakór Vestmannaeyja skemmti gestum sem og Lúðrasveitin. Að lokinni ræðu Sigurgeirs Jónssonar sem var ræðumaður sjómannadagsins 2017 voru verðlaun veitt fyrir hin ýmsu afrek helgarinnar og einstaklingar verðlaunaðir fyrir vel unnin störf. Heiðraðir voru þeir Einar Sigurðsson af Sjómannafélaginu Jötni, Sverrir Gunnlaugsson af Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Verðandi og Ólafur Már Sigmundsson af Vélstjórafélagi Vestmannaeyja. Fimleikafélagið Rán setti einnig svip sinn á skemmtanahöld með sýningu og líkt og fyrri daginn var hoppukastali á staðnum og önnur afþreying fyrir yngri kynslóðina. Veður var með eindæmum gott og setti punktinn yfir i-ið á annars vel heppnuðum sjómannadegi. Okkar maður Óskar Pétur myndaði að sjálfsögðu allt sem fram fór og má sjá nokkrar myndir hér til hliðar og enn fleiri á eyjafrettir.is.   Hér má sjá myndir frá helginni  

Sýningarsvæði fyrir sjódýr í kvíum í Klettsvík í stað sjókvíaeldis

Tillaga að nýju aðalskipulagi fyrir Vestmannaeyjar, sem enn er í vinnslu, var kynnt fyrir skömmu. Þar kemur fram stefna bæjarins um samfélagið, atvinnulíf, náttúruna og grunnkerfi bæjarins. Í allt er tillagan upp á 80 síður þar sem greint er frá fyrirliggjandi hugmyndum og uppdráttum af viðkomandi svæðum. Það er Alta, alhliða ráðgjafafyrirtæki við skipulagsgerð, byggðarþróun, greiningu lands og búsetu, stefnumótun og verkefnastjórnun sem vann tillöguna en í vinnuhóp Vestmannaeyjabæjar sátu Páll Marvin Jónsson, Stefán Óskar Jónasson og Margrét Rós Ingólfsdóttir. Fyrra aðalskipulag, sem unnið var af Páli Zóphóníassyni, tæknifræðingi og hans fólki, gilti frá árinu 2002 til 2014 og byggir nýja tillagna meðal annars á því. Tillöguna í heild má finna á vef Vestmannaeyjabæjar, vestmannaeyjar.is. Þar er hægt að sjá greinagerðir og uppdrætti sem sýna hvaða landnotkun er á hvaða svæði. Hver landnotkunarreitur er með númeri og í greinargerðinni er hægt að fletta upp á hver stefnan er um hvert einstakt svæði. Í aðalskipulaginu er líka sett fram rammaskipulag um ferðaþjónustu. Tilgangur með kynningunni er að gefa upplýsingar um tillöguna og gefa íbúum og öðrum hagsmunaaðilum tækifæri á að koma á framfæri athugasemdum og ábendingum. „Markmiðið er að íbúar og aðrir hagsmunaaðilar fái tækifæri til að kynna sér efni tillögunnar og geti komið ábendingum sínum á framfæri á meðan tillagan er ennþá á vinnslustigi. Þegar tillagan verður auglýst formlega þá gefst aftur tækifæri til að koma með ábendingar,“ segir í greinargerð með tillögunni og er fólk hvatt til að koma með ábendingar. Meðal hugmynda í tillögunni er þétting byggðar við Safnahúsið og á malarvellinum við Löngulág. Líka að stækka miðbæinn með því að grafa út hluta af nýja hrauninu við Kirkjuveg. Stækkun íbúðarsvæða sunnan við Hraunhamar og sunnan við Suðurgerði. Gerðar eru tillögur um stórskipahafnir fyrir flutningaskip og skemmtiferðaskip við Eiðið og í Skansfjöru og að brimvarnargarður verði út frá nýja hrauninu. Nýtt athafnasvæði verður skipulagt á leiðinni út á flugvöll. Svæði fyrir stjörnuskoðun verði austan við Eldfell. Annað sem má nefna er skilgreining á grunneti með aðalleiðum fyrir gangandi, hjólandi, ríðandi og akandi, ný afmörkun fyrir efnistökusvæði í Viðlagafjöru og nýtt sýningarsvæði fyrir sjódýr í kvíum í Klettsvík í stað sjókvíaeldis. Líka rammaskipulag um ferðaþjónustu þar sem þessi stefna er m.a. mörkuð: Vinna í þemaleiðum fyrir gangandi og hjólandi t.d. söguleið, hraunleið, safnaleið, fjölskylduleið, hringleið og fuglaleið. Skilyrði fyrir heimagistingu í íbúabyggð sé að ekki séu gistirými í fleiri en fjórum herbergjum, ferðafólk hafi aðgang að upplýsingum um almenningssalerni. Allar merkingar þjónustuaðila skulu í það minnsta vera á íslensku. Byggðir upp sérstakir áfangastaðir sem henta fyrir rútur. Skilgreina viðburði, ferðaleiðir og áfangastaði og markaðsetja þannig að lengri dvöl verði spennandi. Settar verði reglur um hámarksfjölda gesta úr farþegaskipum sem geta komið í land á einum degi.    

Margt sem við getum lært af samfélagi eins og Vestmannaeyjum

Cyrus Nayeri er doktorsnemi í landfræði við Oxford háskóla í Englandi en hann hefur síðustu misseri dvalið í Vestmannaeyjum þar sem hann vinnur að doktorsverkefni sínu um viðbragðsáætlanir vegna eldgosa og öðru því tengdu. Cyrus kom fyrst til Íslands árið 2011 og varð strax ástfanginn af landinu og eftir þá heimsókn var hann staðráðinn í því að vinna lokaverkefni sín hér á landi. Blaðamaður ræddi nánar við Cyrus um þetta áhugaverða verkefni.   Landfræði er yfirgripsmikil fræðigrein en alþjóðlega heiti greinarinnar „geografía“ er komið úr grísku og þýðir einfaldlega að skrifa um jörðina. Landfræði er þverfagleg að því leyti að áhersla greinarinnar er að samhæfa þekkingu úr ýmsum áttum til að fá sem mesta yfirsýn yfir tiltekin viðfangsefni sem oftar en ekki snúa að sambúð manns og náttúru. Sem doktorsnemi í landfræði segist Cyrus vera mjög spenntur fyrir því að dvelja hér í Vestmannaeyjum vegna atburðanna sem áttu sér stað í kringum eldgosið 1973. „Eldgosið er mjög áhugavert en ég er ekki síður áhugasamur fyrir því að skoða hvað mætti betur fara með tilliti til brottflutningsáætlana ef annað eldgos myndi eiga sér stað og hvernig upplýsingaflæði til fólksins yrði, þ.e. hvernig því yrði haldið upplýstu um gang mála. Það má því segja að ég hafi komið hingað með fleiri spurningar en svör,“ segir Cyrus og bætir því við að það sé ekki í hans verkahring að segja fólki hvað það eigi að gera. „Það sem skiptir mig máli er að komast að því hvernig við getum gert hlutina betur með því að vinna með Almannavarnanefnd og bæjarbúum og hafa það samstarf að leiðarljósi þegar litið er til framtíðar.“   Tilgangurinn að komast að því hvað má betur fara Annar vinkill sem Cyrus hefur verið að einblína á eru mannlegu þættirnir sem fylgdu eldgosinu. „Það er áhugavert að skoða áhrifin sem gosið hafði á fólkið í bænum, annars vegar áfallið sem það varð fyrir og hins vegar náungakærleikann sem gerir oft vart við sig þegar á reynir. Þetta tvennt hef ég áhuga á að skoða nánar og þá bæði í gegnum einstaklingssögur og sögur sem ná yfir stærra samhengi. Tilgangurinn er alltaf að komast að því hvað má betur fara í framtíðinni ef til hamfara kemur,“ segir Cyrus sem þegar hefur hitt þó nokkra einstaklinga sem upplifðu gosið. „Ég hef hitt helling af fólki sem hefur verið viljugt að tala við mig um sína upplifun og er ég því mjög þakklátur. Ég hef aðallega verið að spyrja viðmælendur mína út í áfallið sem gosið hafði á þá og hvernig þeir hafi unnið úr því ef það hefur á annað borð tekist.“ „Ég hef líka eytt töluverðu púðri í að ræða við aðila úr Almannavarnarnefndinni og þá helst Páleyju Borgþórsdóttur, Ólaf Þór Snorrason og Friðrik Pál Arnfinnsson,“ segir Cyrus þegar hann heldur áfram að útskýra verkefni sitt fyrir blaðamanni. „Við erum öll áhugasöm um hvað sé hægt að bæta með því að fá álit bæjarbúa á málefninu, fá að vita hvað þeir vilja vita. Þetta snýst ekki um að við ætlum að segja þeim hvernig allt á að vera.“ En hvað er það að þínu mati sem þarf að huga sérstaklega að? „Að mínu mati er þetta spurning um hvernig við getum minnkað streitu og kvíða ef eitthvað kemur fyrir og þá hvernig fólkið vill lágmarka þetta tvennt. Þá erum við ekki að tala um hluti eins og hver fær besta sætið í bátnum heldur frekar hvernig fólk getur komið saman og tekist á við áfallið þannig að það verði í það minnsta minna en var í fortíðinni, minni hræðsla og minna uppnám,“ segir Cyrus og bendir á að það sé magnað að ekki hafi farið verr en raun ber vitni árið 1973. „Fólk gerði sitt besta og það er algjörlega magnað að ekki hafi farið verr. Hérna var greinilega mikið af hugrökku fólki sem lagði mikið á sig á þessum erfiðu tímum. Það er ekki mitt að dæma hvort rétt hafi verið staðið að öllu en fólk lifði af augljóslega og það er út af fyrir sig magnað. Á hinn bóginn er mikið um það að fólk hafi ekki skilað sér aftur til Vestmannaeyja og að fólk hafi ekki tekist að vinna úr áfallinu nægilega vel. Að því leytinu til eru hlutir sem hægt væri að gera öðruvísi og til hins betra. Hvað svo sem á að gera öðruvísi veit ég ekki en það er það sem ég er að reyna að komast að með því að spyrja fólk hvað því finnst. Eitt dæmi er skólakerfið því margir krakkar frá Eyjum upplifðu erfiða tíma í skóla eftir að hafa flust yfir á meginlandið, þannig það er kannski eitthvað þarna sem hægt væri að útfæra betur,“ segir Cyrus.   Hvetur fólk til að stíga fram Ástæðan fyrir því að Cyrus vildi koma og ræða við blaðamann var ekki einungis til að kynna verkefni sitt heldur einnig til að hvetja fólk til að stíga fram með sínar spurningar og vangaveltur um efnið. „Mig langar að heyra allar þessar spurningar sem brenna á fólki, það sem vekur áhuga þeirra og það sem það vill tala um. Mig langar að heyra sögu fólksins og hvaða spurningar það hefur fyrir Almannavarnarnefndina. Svo ég minnist aftur á það þá er ekki vilji minn að segja fólki hvað það á að hugsa og gera heldur gefa því tækifæri til að tjá sig.“ Er eitthvað undirliggjandi stef í frásögnum fólksins sem þú hefur rætt við? „Allir hafa sínar eigin sögur og eru stoltir af þeim. Það sem sögurnar eiga kannski sameiginlegt er hversu tilfinningaríkar þær eru og hversu erfiðar þær eru í frásögn. Þessar sögur einkennast líka af hugrekki og erfiðleikum en á sama tíma á svo marga mismunandi vegu.“ Hver var kveikjan að þessu verkefni? „Ég hef alltaf haft gríðarlegan áhuga á eldgosum og Íslandi sömuleiðis eftir að hafa komið hingað í fríi,“ segir Cyrus sem upphaflega ætlaði að fjalla um sögur af gömlum eldgosum í verkefni sínu. „Ég ætlaði að verja miklum tíma á skjalasöfnum til að skoða hinar ýmsu sögur af eldgosum en þegar ég var á Skógum var mér bent á Eldheima og eftir að hafa skoðað safnið þar var ekki aftur snúið. Ég hugsaði strax með mér að hérna ætti ég að gera verkefni mitt. Við gerð meistararitgerðar minnar á síðasta ári eyddi ég þannig miklum tíma á safninu og stúderaði fólkið sem kom þangað, fjölskyldur sem voru að velta fyrir sér minningum frá gosinu. Núna er verkefnið mitt örlítið stærra í sniðum og snýst ekki eingöngu um minningar og þessar litlu sögur heldur frekar hvernig við getum fengið sérfræðingana og bæjarbúa til að koma saman. Þetta samtal gæti veitt okkur frekari innsýn og orðið til þess að nýjar spurningar vakni upp.“   Margt sem við getum lært af samfélagi eins og Vestmannaeyjum Í augnablikinu er verkefni Cyrus nokkuð víðtækt en með tímanum telur hann það geta nýst fólki í framtíðinni og ekki einungis Vestmannaeyingum. „Áherslan er meiri á jákvæðu sögurnar, að þetta fólk sem býr hérna er magnað og hvernig við getum lært af því og notað þann lærdóm jafnvel annars staðar í heiminum. Víðsvegar um heim eru vandamál sem við höfum ekki mikla stjórn á, t.d. hnattræn hlýnun, og það er margt sem við getum lært af samfélagi eins og Vestmannaeyjum í sambandi við hvernig lifa skal með slíkum vandamálum.“ Dvöl Cyrus í Vestmannaeyjum tekur enda í lok ágúst en eftir það mun hann vera um hríð í Reykjavík þangað til annað kemur í ljós. „Það gæti verið að ég komi aftur á næsta ári til að spyrja frekari spurninga en það er ekki víst og veltur á ýmsu varðandi framvindu verkefnisins. Ég væri þess vegna áhugasamur um að fólk sem hefði áhuga á því að segja sína sögu myndi hafa samband við mig, sem og fólk sem langar að spyrja spurninga út í viðbragðsáætlun og annað slíkt.“ Áhugasamir geta haft samband við Cyrus í gegnum netfangið cyrus.nayeri@bnc.ox.ac.uk.  

Lifðum af lúsina, svínaflensuna, eldgosin upp á norðureyju og tvíburana og því ber að fagna

„Þessi tíu námsár í grunnskóla gengu eins hratt fyrir sig og Lína er orðin í að afhenda okkur matarmiðana. Við 10. bekkjargærurnar höfum brallað margt og mikið saman. Allar danssýningarnar upp í Íþróttamiðstöð og á Bárugötu, litlu jólin, Tarzan-leikirnir, sem voru heldur betur taugatrekkjandi er við sveifluðum okkur um sal eitt, öll bekkjar- og kökukvöldin og lengi mætti telja,“ sagði Salka Sól Örvarsdóttir sem ávarpaði gesti á skólaslitunum fyrir hönd nemenda. „Þetta skólaár hefur verið verulega viðburðarríkt hjá okkur samnemendum og byrjuðum við sterk og til í tuskið. Við fórum í tvær starfskynningar. Í haust kynntum við okkur ýmsan rekstur hér á Eyjunni og í apríl fengum við þann valkost að fara upp á land, sem margir nýttu sér. Við skelltum okkur í þriggja daga skólaferðalag í byrjun apríl sem gekk með glæsibrag. Sýndir voru misgóðir danstaktar á skautasvellinu í Egilshöll, farið í keilu, sem reyndi heldur betur á einbeitinguna, og svo á skíði sem var … skrautlegt. Lokaverkefnið, sem við kynntum fyrr í vikunni, gekk með sóma og getum við verið stolt af þessari tveggja vikna vinnu okkar. Tekin voru fyrir mörg áhugaverð og spennandi viðfangsefni, svo sem andaglas, stjórnmál, klassískt rokk og hvaðeina. Samræmdu prófin og allur lærdómurinn tók sinn toll á okkur, en hér erum við í dag, ásamt fjölskyldu, vinum og kennurum skólans sem hafa gert sitt allra besta í að gera okkur að betri námsmönnum og að betra fólki. Sérstakar þakkir fara til þeirra Hildar, Ásdísar og Rósu fyrir að hafa ,,nennt” okkur. En allt tekur enda, síðasti dagur sumarins, bókin sem þú tókst á bókasafninu og kveðjustundir. Laufin falla, þú lokar bókinni, þú segir bless. Við lifðum af lúsina, svínaflensuna, eldgosin upp á norðureyju og tvíburana, og því ber að fagna,“ sagði Salka Sól.    

Viljum við einsleitt þramm í átt að bóknámi eða fjölbreytta möguleika? - myndir

Höllin var þéttsetin þegar foreldrar, ömmur og afar, ættingjar og vinir voru mættir til að samfagna nemendum tíunda bekkjar Grunnsólans sem útskrifuðust í upphafi mánaðarins. Alls útskrifuðust 58 nemendur úr tíunda bekk og einn úr níunda bekk að þessu sinni og sagði Sigurlás Þorleifsson að þetta væri fyrsti hópurinn sem hann hefði fylgt öllu tíu árin sem skólastjóri. Viðurkenningar voru veittar fyrir góðan árangur og stóð Daníel Hreggviðsson upp úr en hann fékk viðurkenningu í átta fögum af ellefu.   „Í dag erum við hér saman komin til að kveðja nemendahóp og um leið að þakka þeim fyrir samveruna á liðnum árum og óska þeim alls hins besta í framtíðinni. En þessi dagur er ekki endalok einhvers – heldur miklu fremur tákn um nýja byrjun, nýtt tímabil þessara efnilegu nemenda þar sem tækifæri gefast til að takast á við ný og verðug verkefni sem eiga vonandi eftir að færa ykkur gæfu í framtíðinni,“ sagði Sigurlás í ávarpi sínu til nemendanna.   Hæfileikaríki krakkar „Útskriftarhópurinn telur 58 nemendur úr 10. bekk og einn úr 9. bekk. Einn nemandi lauk námi hjá okkur í janúar en við útskrifum hana formlega núna. „Í þessum árgangi er mikið af hæfileikaríku fólki á mörgum sviðum og við fáum sýnishorn af því í kvöld bæði í tali og tónum,“ sagði Sigurlás en Hulda Helgadóttir söng og lék sjálf undir og Salka Sól Örvarsdóttir flutti ávarp fyrir hönd nemenda. „Mig langar líka að þakka tónlistarmönnunum fyrir sinn hlut í dagskránni. Það skapar fallega umgjörð um þessa útskrift að þið skylduð vera tilbúin til að gefa ykkur tíma til að kveðja skólann ykkar á þennan hátt. Við erum stolt af ykkur, við erum stolt af hópnum sem hér stóð uppi áðan og tók við viðurkenningum fyrir ýmis afrek og við erum auðvitað einnig stolt af ykkur öllum hinum sem einnig hafið lagt ykkur fram í vetur og skilað eins góðu verki og ykkur var mögulegt,“ sagði Sigurlás.   Nú ráðið þið för „Það hlýtur að vera stór stund fyrir ykkur kæru nemendur að standa í þessum sporum í dag og hafa lokið þessum áfanga að klára Grunnskólann sem er vonandi bara eitt lítið skref á ykkar skólagöngu, skólagöngu sem þið hafið kannski lítið haft um að segja en nú eru breytingar framundan. Starfsmenn skólans og foreldrar ykkar hafa ráðið för hingað til en nú er komið að tímamótum þar sem þið sjálf þurfið að taka ykkar eigin ákvarðanir um hvert þið viljið stefna og fara að hafa áhyggjur af framtíðinni og óttinn við fullorðinsárin fer að kræla á sér.“ Sigurlás sagði að næsta skref hjá þorra nemenda væri að ákveða í hvaða skóla þeir ætla að sækja um. „Flest ykkar fara í Framhaldsskólann hér í Eyjum en aðrir sækja um skóla á fastalandinu. En skiptir það máli hvaða skóla við veljum? Ég rakst á vangaveltur grunnskólakennara og ég held að við sem störfum í skólanum séum mörg hver sammála.   Hvað er góður skóli? Hún kennir unglingum samfélagsfræði og reynir eftir bestu getu að sinna því starfi af metnaði, áhuga og einlægni. Hún er nú í fimmta skipti á sínum tíu ára kennaraferli að útskrifa umsjónarnemendur sína úr 10. bekk og að sjálfsögðu ræða þau um næsta vetur, framtíðina. Hvað ætla nemendur að gera að loknu grunnskólanámi? „Komast inn í góðan skóla,“ er voða algengt svar. Gjarnan fylgir upptalning á einhverjum skólum. En hvað er þá góður skóli? Og svarið hlýtur að vera. Góður skóli er sá skóli sem er góður fyrir þig, sá skóli sem hentar þér best. Það er ekki flóknara. Ekki horfa á það hvað skólarnir heita. Byrjið á að hugsa hvort þið viljið fara í bóknám eða verknám. Ef bóknám, hvort þá í bekkjarkerfi eða áfangakerfi? Ef verknám þá hvaða verknám? Farðu í þann skóla sem er á þínu áhugasviði. Ef þú vilt verða viðskiptafræðingur liggur vel við að fara í Verslunarskólann en fyrir þann sem vill verða bifvélavirki væri Verslunarskólinn afar slakur kostur,“ hafði Sigurlás eftir kennaranum sem benti á að nafn skólans skiptir ekki máli heldur að hann mæti þörfum og áhugasviði nemandans.   Enginn er góður í öllu Sigurlás sagði að áhugi á bóknámi sé örugglega ekki bundinn við Ísland og fyrir vikið sé skortur á iðnaðarmönnum. „Þessi hugmyndafræði virðist vera ríkjandi, að stúdentspróf og háskólapróf sé eina rétta leiðin. Það virðist líka einhvern veginn vera orðræðan að þeir sem eru klárari fari í bóknám, hinir fari í verknám. Hvað höfum oft heyrt þetta. Það er talað um einstaklingsmiðað nám, mismunandi styrkleika, „enginn er góður í öllu, allir eru góðir í einhverju“ en raunin er svo önnur. Nemendur veigra sér við að sækja um verknám þar sem þeir vilja ekki fá á sig einhvern stimpil, klárir krakkar sem fara bóknámsbrautina vegna utanaðkomandi pressu. Foreldrar tala um að auðvitað sé mikilvægt að hafa iðnaðarmenn, einhverjir þurfa að sinna þessum störfum en ekki mitt barn. Ég tek það fram að sú sem segir frá gekk ekki illa í skóla heldur þvert á móti þá gekk henni mjög vel í skóla, og er stúdent frá einum af „vinsælu skólunum“ og er með þrjár háskólagráður, allt voða bóklegt og innrammað í normið. Við höfum ólíka hæfileika og ólík áhugasvið. Þetta snýst nefnilega um það, hvar hæfileikar manns og áhugasvið liggja, ekki hvaða stimpill er heppilegastur. Þó að þessi stutti pistill muni líklega ekki breyta hugarfari heillar þjóðar vona ég samt sem áður að hann veki einhverja, nemendur, foreldra, kennara, alla til umhugsunar. Hvernig menntasamfélag viljum við hér á Íslandi? Viljum við einsleitt þramm í átt að bóknámi eða fjölbreytta möguleika þar sem við metum fólk jafnt að verðleikum hvort sem það er klárt á bókina eða hagt í höndunum eða jafnvel hvort tveggja? Því það getur bara líka alveg verið þannig.“   Hugurinn magnað fyrirbæri „Þetta eru hugleiðingar fyrir framtíðina og ég veit að margir hafa áhyggjur af henni. Samfélagið virðist innræta okkur frá blautu barnsbeini að við eigum að vita nákvæmlega hvað við viljum. Okkur er sagt að elta ástríðu okkar, láta drauma okkar rætast, gera það sem við elskum og sjálfsagt mál sé að þetta liggi allt saman fyrir. Þegar við svo uppgötvum að líf okkar, draumar og hugsanir eru ekki í samræmi, heldur ólikar dag frá degi, læsir skelfingin sig um í hugarheim okkar. Hugurinn er nefilega ótrúlega magnað fyrirbæri og máttur hans er mun meiri en margir átta sig á. Hvað ef að með breyttri hugsun og jákvæðara viðmóti gagnvart sjálfum okkur og umhverfinu gætum við upplifað meiri hamingju, velgengni og vellíðan í daglegu lífi. Flest ykkar ef ekki öll eigið eftir að upplifa erfiðleika einhvern tíma á lífsleiðinni þar sem stöðugar áskoranir dynja á okkur og allt getur stundum gengið á afturfótunum. Einhverjir kannast líklega við að hugsa „ooh! ég er svo óheppinn“ eða „týpískt, alltaf lendi ég í svona aðstæðum“.   Notum hugsanir hvert einasta augnablik Allar hugsanir okkar um okkur sjálf og umhverfi okkar eru staðfestingar. Með hugsunum okkar staðfestum við okkar eigin tilveru. Þá er átt við að allar hugsanir eða innra tal um okkur sjálf eða nærumhverfi séu stöðugt flæði staðfestinga. Við notum hugsanir hvert einasta augnablik hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað. Við erum í raun að staðfesta og skapa okkar eigin lífsreynslu og tilveru með hverri hugsun og orði. Ef allar hugsanir okkar og innra tal byggist á neikvæðni verður viðhorf okkar gagnvart okkur sjálfum og nærumhverfi ósjálfrátt neikvætt. Þú ert það sem þú hugsar! Þannig mætti segja að orð séu álög. Þess vegna er mikilvægt að temja okkur jákvætt hugarfar. En hvernig náum við stjórn á hugsunum okkar, hvernig breytum við neikvæðri hugsun yfir í jákvæða? Að fylla líf sitt af jákvæðum staðhæfingum getur gert kraftaverk í daglegu lífi. Þær geta með smá æfingu breytt neikvæðum hugsunum í jákvæðar. Með því að einbeita sér að því að leiðrétta daglegar hugsanir geta hin erfiðustu verkefni orðið mun viðráðanlegri. Smám saman upplifum við meiri hamingju, meiri velgengni og vellíðan.   Njótið þess að vera til Þannig á svona tímamótum, sem útskrift úr Grunnskóla er og sem markar nýtt upphaf skuluð þið kæru nemendur njóta þess að vera til og njóta stundarinnar. Hlutverk okkar í GRV hefur verið að búa ykkur nemendur undir líf og starf í síbreytilegu þjóðfélagi, og þá í samvinnu við heimilin – og nú er komið að því að láta reyna á hvernig sá undirbúningur nýtist ykkur krakkar. Þið eruð prófsteinninn á hvernig til hefur tekist, og þið sýnduð það svo sannarlega síðastu dagana í skólanum að við höfum gefið ykkur nokkuð gott veganesti – nú er undir ykkur komið hvernig þið spilið úr því og hvernig þið byggið ofan á þann grunn sem þið hafið byggt upp á undanförnum árum. Okkur finnst líka mikilvægt að minna ykkur kæru nemendur á þá ábyrgð sem þið berið á eigin velferð í stað þess að vera pínu stikkfrí -- eins og margir eru -- halda að mamma og pabbi leysi allt og bjargi öllu og að það sé öllum öðrum að kenna ef eitthvað fer úrskeiðis. Það er í lagi að gera mistök, það er í lagi að vera mannlegur og viti ekki hvað maður vill í lífinu - en mikilvægast er að hlusta á hjartað - innsæið - því ef maður gerir það er maður í betra jafnvægi til að taka réttari ákvarðanir,“ sagði Sigurlás. Á eftir var boðið upp á veisluborð.   Hér má sjá myndir frá útskriftinni.  

Síldarvinnslan áformar að endurnýja ísfisktogaraflotann

Á aðalfundi Síldarvinnslunnar sem haldinn var sl. föstudag kom fram að áformað er að endurnýja allan ísfisktogaraflota fyrirtækisins á næstu árum. Skipin sem hér um ræðir eru Barði NK, Gullver NS, Vestmannaey VE og Bergey VE. Togararnir Barði og Gullver eru gerðir út af Síldarvinnslunni en Vestmannaey og Bergey eru gerðir út af dótturfélaginu Bergur-Huginn.   Þetta kemur fram á vef fyrirtækisins sildarvinnslan.is. Þar segir að Barði NK var smíðaður árið 1989, Gullver árið 1983, en Vestmannaey og Bergey árið 2007. Þegar er hafinn undirbúningur að þessu umfangsmikla verkefni og reyndar hófst hann á síðasta ári að sögn Gunnþórs B. Ingvasonar framkvæmdastjóra. „Sem liður í þessari endurnýjun var Bjartur NK seldur á síðasta ári til Íran og um þessar mundir er unnið að sölu á Barða NK til Rússlands. Blængur NK, áður Freri RE, hefur verið endurbyggður sem öflugur frystitogari og var hann tekinn í notkun fyrr á þessu ári.   Hvað varðar söluna á Barða þá mun myndast eitthvað tómarúm frá sölunni og þar til nýtt skip kemur og verður leitast við að bjóða sjómönnunum sem lenda í slíku millibilsástandi störf á öðrum skipum félagsins eða í landi auk þess sem aðrar lausnir verða skoðaðar. Endurnýjun skipa eins og hér um ræðir er stór ákvörðun en stefnan er skýr; fyrirtækið vill vera í fremstu röð hvað varðar hagkvæmni í rekstri, meðhöndlun afla og starfsumhverfi sjómanna. Þetta er metnaðarfullt og ögrandi verkefni sem felur í sér stórt framfaraskref,“ sagði Gunnþór.   Af vef Síldarvinnslunnar, sildarvinnslan.is

Það þarf amk. tvær ferjur til að þjónusta Vestmannaeyjar

„Ég var svo lukkulegur að vera boðið í ferð í Landeyjahöfn með tvíbytnunni „Akranes“ sem Eimskip hefur leigt í 6 mánuði til siglinga milli Reykjavíkur og Akraness. Ferðin gekk í alla staði vel og ljóst að þessi farþegaferja er öflug og með góða stjórnhæfni. Ég hef alla trú á því að ekki líði um langt þar til bátur sem þessi hefji siglingar með farþega milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar í viðbótar við hinn ríksrekna Herjólf,“ segir Elliði   Það þarf tvær ferjur Ég hef í langan tíma verið þeirrar skoðunar að það þurfi í raun tvær ferjur til að sinna samgöngum við Vestmannaeyjar. Í því samhengi hef ég fyrst og fremst verið að gæla við það að hér væru tvær bílaferjur sem pendúluðu á milli yfir háannartímann. Hvað sem slíku líður þá er ég algerlega sannfærður um að fyrr en seinna verði einnig komin ferja á borð við þá sem Eimskip hefur nú leigt. Lítil háhraðafarþegaferja sem getur skotist hér á milli á um 15 mínútum við bestu aðstæðu gæti nýst nánast eins og strætisvagn svo fremi sem þjónusta og verð væru þannig. Þar til viðbótar eru þessar ferjur afar heppilegar til útsýnissiglinga, hvalaskoðunar og margt fl. Tækifærin eru fjölþætt.   Gæti orðið byrjunin á einhverju stærra Fyrst verið er að stinga niður penna, eða öllu heldur að hamra á lykla, er ástæða til að hrósa Eimskip fyrir þessa tilraun sem þeir standa nú að hvað ferjuleiðina milli Akraness og Reykjavíkur varðar. Með þessu er Eimskip að leggja sitt að mörkum til að þróa áfram samgöngukerfi okkar landsmanna og ekki kæmi það mér á óvart þótt að innan ekki langs tíma verði svona „sjóstrætóar“ farnir að sigla víða í kringum höfuðborgarsvæðið svo sem frá Reykjanesbæ, Akranesi, Hafnafirði og víðar. Í allri slíkri þróun og fjölgun heppilegra sæfra við Ísland eru fólgin tækifæri fyrir okkur Eyjamenn.   Tvíbyttnur eru viðkvæmari fyrir öldu Hvað þennan tiltekna bát varðar þá er hann líkur þeim sem maður hefur áður siglt með víða um heim. Stutt og öflug ferja ætluð til að sigla í lágum sjó um styttri vegalengd. Sá galli fylgir gjöf Njarðar hvað ferjur sem þessa varðar að þær eru frekar viðkvæmar fyrir háum öldum. Það vakti athygli mína að í brúnni á þessari ferju var að finna töflu yfir þann hraða sem óhætt er að sigla á miðað við öldufar.       Eins og myndi sýnir þá kemur þar fram að í sléttum sjó (eins og var í þeirri ferð sem við fórum) getur hún siglt á allt að 34 mílna hraða. Sé aldan milli 1,5 og 2 meter fellur hraðinn niður í 18 mílur og fari ölduhæð yfir 2,5 metra á ferjan einfaldlega að leita neyðarhafnar á lágum hraða (Sök nödhavn med lav hastighet).   Við þurfum aukinn áreiðaleika Það hversu viðkvæmar tvíbytnur eru fyrir hárri öldu er eitt af því sem gert hefur það að verkum að ferjur sem þessar hafa verið teknar úr siglingum og í staðinn stuðst við hefðbundnari „monohull“ ferjur. Það breytir því ekki að farþegaferja –lík þeirri sem við sigldum með núna í vikunni- gæti gert mikið fyrir samgöngur við Vestmannaeyjar til hliðar við áreiðalegri ferju sem siglt getur í Landeyjahöfn í allt að 3,5 metra ölduhæð. Við Eyjamenn þekkjum það of vel hversu slæmt það er þegar hefðbundnar samgöngur leggjast af við 2,5m. ölduhæð. Það er ástand sem við verðum að komast út úr.     Ég er ekki sérfræðingur í siglingum en sannarlega er ég –eins og allir aðrir Eyjamenn- áhugamaður um ferjur og samgöngur. Ég hef reynt að afla mér uppýsinga um ferjur og þar með talið hvernig rekstur á tvíbytnum hefur gengið. Því miður er ekki um auðgan garð að gresja þegar reynt er að kafa þar ofan í. Áhugasömum er þó bent á þessa grein hér „The Failure of Fast Ferry Catamaran Operations in New Zealand and Hawaii„ sem birtist í blaðinu „Journal of Transportation Technologies árið 2012“:  

Daníel Hreggviðsson er Eyjamaður vikunnar: Hvetur mann til að halda áfram að leggja metnað í námið

Daníel Hreggviðsson fékk á dögunum viðurkenningu í sex greinum á útskrift 10. bekkjar Grunnskóla Vestmannaeyja í stærðfræði, náttúrugreinum, samfélagsfræði, ensku, dönsku og íslensku, ásamt því að fá viðurkenningu fyrir bestu rannsókn í lokaverkefni og viðurkenningu fyrir ástundun. Daníel er Eyjamaður vikunnar að þessu sinni.   Nafn: Daníel Hreggviðsson. Fæðingardagur: 19. júní 2001. Fæðingarstaður: Vestmannaeyjar. Fjölskylda: Foreldrar eru Guðrún Jónsdóttir og Hreggviður Ágústsson og bróðir minn heitir Ágúst Sölvi Hreggviðsson. Draumabíllinn: Venjulegur bíll sem þægilegt er að keyra. Uppáhaldsmatur: Lundi. Versti matur: Aspassúpa. Uppáhalds vefsíða: Youtube og Facebook. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Popptónlist og klassískt rokk. Aðaláhugamál: Kvikmyndir, tónlist, vísindi og samfélagsmál. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Isaac Newton. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Vestmannaeyjar og Mývatn. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: ÍBV og ég á engan sérstakan íþróttamann í uppáhaldi. Ertu hjátrúarfullur: Nei, í rauninni ekki. Stundar þú einhverja hreyfingu: Ég geng í tæplega klukkutíma á dag og fer af og til í ræktina. Uppáhaldssjónvarpsefni: Game of Thrones. Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig að vinna þessi verðlaun: Veitir manni hvatningu til að halda áfram að leggja metnað í námið. Áttu þér uppáhalds fag: Ég myndi segja að það væri stærðfræði. Hvað ætlar þú að leggja fyrir þig í framtíðinni: Ég fer á náttúru-fræðilínu í Framhaldsskólanum og svo stefni ég á að læra eitthvað í raunvísindum í háskóla.    

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Íþróttir >>

Cloé Lacasse tryggði ÍBV sigur á KR

 ÍBV og KR mættust í tíundu umferð Pepsi-deildar kvenna í gær þar sem Eyjakonur unnu góðan 0:2 sigur á heimakonum.   Fyrir leikinn voru KR-ingar í sjöunda sæti deildarinnar með sex stig en ÍBV í fjórða sæti með 19 stig. Eins og kannski flestir vita voru Eyjakonur að spila á föstudaginn í Borgunarbikarnum og því hvíldin af skornum skammti miðað við lið KR-inga sem fékk viku til að skríða saman eftir fimm marka tap gegn Valskonur í umferðinni á undan.   Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 25. mínútu leiksins en þar var að verki hin kanadíska Cloé Lacasse eftir sendingu frá Katie Kraeutner. Fram að þessu að hafði verið mikið jafnræði með liðunum. Fimm mínútum áður en flautað var til hálfleiks komst Kristín Erna Sigurásdóttir í upplagt marktækifæri en skot hennar geigaði. Staðan var því 0:1 þegar gengi var til búningsherbergja í hálfleik.   Strax á 53. opnuðu liðsmenn ÍBV vörn KR-inga upp á gátt en tilraun Kristínar Ernu rataði framhjá markinu. Nokkrum mínútum síðar þurfti Adelaide Gay að taka á honum stóra sínum í marki ÍBV en þá slapp Sigríður María Sigurðardóttir ein í gegn. Undir lok leiks voru heimamenn í KR komnir framarlega á völlinn til að freista þess að ná jöfnunarmarki en í staðinn  tvöfaldaði Cloé forystuna fyrir ÍBV og úrslitin ráðin og fjórði deildarsigur ÍBV í röð staðreynd.   Næsti leikur liðsins er á sunnudaginn en þá koma Valskonur í heimsókn.

Stjórnmál >>

Greinar >>

Sjómannadagurinn í Vestmannaeyjum

Sjómannadagurinn hefur alltaf verið hátíðisdagur í mínum huga frá því ég man eftir mér. Á Siglufirði var Sjómannadagurinn stór hátíð þar sem sjómenn tókust á í hinum ýmsu keppnisgreinum skunduðu svo á ball á Hótel Höfn og tóku það stundum óklárt. Knattspyrnu á malarvellinum í sjóstökkum og bússum man ég eftir. Stakkasund í höfninni og reiptog. Keppni í netabætingu, kappróður og margt fleira. Í minningunni skipti þetta miklu máli fyrir unga drengi. Þeir urðu margir ákveðnir að verða kaldir kallar eins og sjóararnir, með uppbrettar ermar á köflóttu vinnuskyrtunum. Ég var einn þeirra sem fetaði þann veg að verða sjómaður og sé ekki eftir því. Ekki var maður burðugur fyrstu túrana en þetta hafðist allt með aðstoð og kennslu góðra sjómanna. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að lenda með góðum skipstjórum og áhöfnum. Nú er Sjómannadagurinn nánast aflagður á Siglufirði en þeir í austurbænum, Ólafsfirði hafa tekið upp merkið og halda veglega uppá daginn.   Dansað á þremur stöðum Ég og mín fjölskylda fluttum til Eyja 1989. Þá voru dansleikir og skemmtanir í þremur húsum. Höllinni, Alþýðuhúsinu og Kiwanishúsinu. Líklega um sex- til sjö hundruð manns þegar allt er talið. Og enn fleiri á dansleikjunum eftir skemmtanirnar. Þetta voru góðir og skemmtilegir tímar. Minn fyrsti Sjómannadagur í Eyjum var 1989. Þá fórum við áhöfnin á Frigginni sem Magni Jó var með, í Höllina til Pálma Lór og vorum niðri á Mylluhól. Einn bar var á hæðinni og sú sem sá um barinn þurfti að bregða sér í eldhúsið til að uppvarta. Komin var löng röð við barinn. Þá brá ég mér innfyrir barborðið og afgreiddi brennivín ofan í þyrsta sjómenn, tvöfaldan, þrefaldan og black russian. Þangað til ég sá bardömuna koma til baka. Enginn þurfti að borga á barnum hjá mér. Fyrirgefðu Pálmi minn.   Í Sjómannadagsráði Eftir nokkur ár í Eyjum var ég kominn í Sjómannadagsráð fyrir Jötunn og ekki varð aftur snúið. Afskaplega skemmtilegur tími að skipuleggja og vinna við Sjómannadaginn. Margir sjómenn sem maður hefur unnið með gegnum árin við skipulagningu og vinnu við daginn. Við þá segi ég takk fyrir samstarfið drengir þetta var stundum erfitt en á endanum alltaf gaman og gefandi. Að standa með sinn félagsfána við minnisvarða hrapaðra og drukknaðra við Landakirkju á Sjómannadegi og hlusta á Snorra Óskarsson minnast okkar föllnu félaga er í raun einstakt og ómetanlegt í minningunni. Þar drjúpum við sjómenn höfði fyrir Guði og mönnum. Við finnum fyrir smæð okkar fyrir Almættinu og náttúruöflunum. Sjómannadagurinn hefur alltaf verið hátíðisdagur í Eyjum og er enn. Sjómennirnir sjálfir hafa borið merkið, skipulagt og unnið vinnuna kringum hátíðina. Þannig viljum við hafa það. Við peyjana í Sjómannadagsráði segi ég, þið eruð dugnaðarforkar og sjómannastéttinni til sóma.   Sjómenn, fjölskyldur og allir Vestmannaeyingar til hamingju með Sjómannadaginn og mætum öll á viðburði helgarinnar.   Með Sjómannadagskveðju Valmundur Valmundsson