Ársreikningur Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2016

::Vestmannaeyjabær skilar jákvæðum rekstarafgangi tíunda árið í röð. ::Skuldir hafa lækkað um rúmlega 90% síðan 2006

Elliði Vignisson, bæjarstjóri, Vestmannaeyjar

Elliði Vignisson, bæjarstjóri, Vestmannaeyjar

Ársreikningur Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2016

:: ::Vestmannaeyjabær skilar jákvæðum rekstarafgangi tíunda árið í röð. ::Skuldir hafa lækkað um rúmlega 90% síðan 2006

Samkvæmt ársreikningi Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2016 voru heildar rekstrartekjur samstæðu Vestmannaeyjabæjar 4.661 m.kr. og rekstrargjöld fyrir afskriftir og fjármagnsliði námu 4.218 m.kr. Rekstrarafkoma samstæðu var jákvæð um tæpar 417 milljónir.
 
Ársreikningur Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2016 ber það með sér að rekstur Vestmannaeyjabæjar gengur vel. Hjá aðalsjóði var veltufé frá rekstri 815 milljónir og hjá samstæðu Vestmannabæjar var veltufé frá rekstri rúmar 1.065 milljónir.
 
Vestmannaeyjabær hefur á seinustu árum verið að greiða niður áratuga gamlar skuldir og er búinn að greiða niður skuldir og skuldbindingar fyrir u.þ.b. 5.353 milljónir síðan 2006 og hafa skuldir lækkað um rúmlega 90% á þessum tíma. Með reglulegum afborgunum mun Vestmannaeyjabær nálgast það að verða skuldlaus við lánastofnanir innan fárra ára. Lífeyrisskuldbinding Vestmannaeyjabæjar hefur hins vegar hækkað mikið undanfarin ár og var gjaldfærslan árið 2016 um 473 milljónir hjá samstæðu Vestmannaeyjabæjar og nam hún 10,1% af heildartekjum Vestmannaeyjabæjar.
 
Þrátt fyrir mikla hækkun lífeyrisskuldbindinga hefur skuldahlutfall sveitarfélagsins eins og það er skilgreint í 64 gr. sveitarstjórnarlaga lækkað á milli ára hjá samstæðunni en lítilega hækkað á milli ára hjá A-hlutanum. Í lok árs 2016 stóð skuldahlutfallið í 123,2% hjá A-hlutanum og skuldaviðmiðið var 14,4%. Hjá samstæðunni var skuldahlutfallið 106,4% og skuldaviðmiðið 11,7%. Hámarks skuldahlutfall skv. sveitarstjórnarlögum er 150 %.
 
Heildareignir samstæðu Vestmannaeyjabæjar námu 11.831 m.kr. í árslok 2016, þar af stóð handbært fé og skammtímafjárfesting í 3.248 milljónum og hækkaðu þessir liðir um 520 milljónir á milli ára. Allar kennitölur í rekstri sýna sterka og góða fjárhagsstöðu Vestmannaeyjabæjar. Veltufjárhlutfall sveitarsjóðs er 4,15 og eiginfjárhlutfallið er 53,9%. Veltufjárhlutfall samstæðu er 7,38 og eiginfjárhlutfall þess 58,1%.
 
Rekstur sveitarfélags er eins og rekstur fjölskyldu. Allri innkomu er varið til að bæta lífsgæði íbúa og tryggja þeim farsæld til lengri og skemmri tíma. Það skiptast sannarlega á skin og skúrir og svigrúmið til
 
að mæta ýtrustu kröfum bæjarbúa er breytilegt. Ætíð skiptir þó sköpum að kjörnir fulltrúar hafi kjark til að taka ákvarðanir sem um tíma kunna að vera umdeildar. Að hagræða til að mæta breyttum kröfum en þenja ekki stöðugt út reksturinn jafnvel þótt tíma bundið kunni að vera sigrúm til þess. Að eyða um efni fram án fyrirhyggju felur feigðina í sér. Hlutverk kjörinna fulltrúa er fyrst og fremst að tryggja langtíma velferð þess samfélags sem þeim er treyst til að gæta og það er best gert með því að koma í veg fyrir óhóflega skuldasöfnun og tryggja hámarks þjónustu á sem hagkvæmasta máta.
 
Niðurstaða ársreiknings Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2016 er til marks um þetta leiðarljós bæjarstjórnar og henni fyrst og fremst hvatning til að gæta þess áfram að missa ekki tökin á skulda og útgjaldahliðinni. Vandaður rekstur er það sem best tryggir öfluga og góða þjónustu.
 
-Elliði Vignisson,
bæjarstjóri í Vestmannaeyjum
 
 

Eigum að vera sjálfstæð og hafa metnað fyrir öllu sem við gerum

 Hvað ætla þessir menn sem stjórna öllu hér í Vestmannaeyjabæ að bjóða okkur sem búum hér og ætlum að vera hér áfram? Það hlýtur að vera forgangsverkefni að hafa hér lækna og sjúkrahús til þess að ekki þurfi að senda sjúklinga frá okkur og konur geti fætt börn sín hér. Við eigum að sinna öllum sem við mögulega getum hér í Vestmannaeyjum og reyna að leysa það. En það vantar alveg metnaðinn hér. Félög hér í Vestmannaeyjum og einstaklingar hafa verið duglegir að gefa tæki og ýmislegt sem vantar og gera það trúlega áfram. Það er að segja ef sjúkrahús verður starfandi hér. Þess vegna verðum við að vera dugleg að nota það og við þökkum fyrir allt hið góða. En þarf þá ekki að vera starfsfólk og sjúkrahús sem er starfrækt hér í Vestmannaeyjum. Það þarf skurðlækni, svæfingalækni ásamt skurðhjúkrunarkonu. Einnig röntgenfræðing og aðstoðarfólk. Við eigum að sinna helst öllu sem mögulegt er. Við eigum að vera sjálfstæð og hafa metnað fyrir öllum sem við gerum. Mér finnst bæjarstjórn hafa gert ýmislegt gott hér og bærinn er sjálfur mjög snyrtilegur. Vel hugsað um götur og þær hreinsaðar þegar snjóar. Að maður tali ekki um húsin sem voru í niðurníðslu og búið er að ryðja í burt. Svona á að gera og byggja í staðinn glæsileg hús. Svona eigum við að halda áfram og vera jákvæð. Einnig vil ég að bæjarstjórn flýti sér með Ráðhúsið, þetta merkilega hús sem hefur gert mikið fyrir okkur Vestmannaeyinga. Það má ekki drabbast niður. Það var einu sinni sjúkrahús þar sem gaman var að vinna. Allt á fullu og gerðar skurðaðgerðir og tekið á móti börnum. Undantekning ef einhver var sendur í burtu og við hugsuðum vel um sjúklingana. Þá var oftast einn læknir á vakt og við hjúkrunarfræðingarnir alltaf tilbúnar þó engin væri bakvaktin. Já, þetta hús á sér merka sögu sem þarf að skrá. Það skipti okkur miklu sem sjúkrahús auk þess sem það er sennilega eitt fallegasta hús landsins.Þóra Magnúsdóttirfyrrum skurðhjúkrunarfræðingur  

Sæþór vann keppnina í bilanagreiningu kælikerfa

Dagana 16. til 18. mars sl. fór fram Íslandsmeistaramót iðngreina í Laugardalshöll og jafnframt kynntu fjölmargir framhaldsskólar landsins starfsemi sína og námsframboð. Kynninguna sóttu 7000 til 8000 manns, aðallega nemendur efstu bekkja grunnskóla á Reykjavíkursvæðinu.   „FÍV átti að sjálfsögðu sína fulltrúa þarna. Vorum við með bás á kynningu skólanna og tveir nemendur, þeir Sæþór Orrason og Sigursteinn Marinósson tóku þátt í iðngreinakeppninni. Báðir stóðu sig með stakri prýði. Sæþór gerði sér lítið fyrir og vann keppnina í bilanagreiningu kælikerfa og varð í þriðja sæti í stýringum. Hlaut hann forláta verkfærakassa að launum,“ segir í frétt frá skólanum. „Í básnum okkar á kynningunni kynntu Frosti Gíslason og Hjördís Friðjónsdóttir starfsemi Fablab smiðjunnar sem starfandi er í skólanum á vegum Nýsköpunarstofu. Mesta athygli vakti þrívíddarprentari smiðjunnar sem gefur innsýn í þrívíddarhönnun til framleiðslu hluta með hjálp tölvustýringa. Þorbjörn Númason leyfði þátttakendum að prófa suðuhermi skólans sem gefinn var af málmiðnaðarfyrirtækjum í Vestmannaeyjum og nýtist vel í kennslu byrjenda í málmsuðu. Á sjónvarpsskjá rúllaði síðan kynningarmyndband um starfsemi FÍV og námsframboð. Að hönnun bássins komu tveir fyrrverandi nemendur skólans, þeir Sighvatur Jónsson og Sæþór Vídó Þorbjarnarson. Sighvatur sá um gerð myndbandsins og Sæþór um myndskreytingar og útlit. Var mál manna að básinn væri einn sá best heppnaði á svæðinu. Þeir eiga því þakkir skyldar fyrir frábært starf. Tilgangur okkar með þátttökunni var að gera skólann okkar sýnilegan á landsvísu og vekja athygli á þeirri fjölbreytni náms sem raunverulega er í boði í Vestmannaeyjum að loknum grunnskóla.“  

Ný deild rís við Kirkjugerði

Fyrir tæpum tveimur vikum fundaði Fræðsluráð Vestmannaeyjabæjar þar sem tíðrædd leikskólamál voru fyrsta mál á dagskrá. Þar var lögð fram tillaga um stækkun Kirkjugerðis til að sporna við mögulegum biðlistum síðar meir. Í fundargerðinni segir að „staða inntöku leikskólabarna nú er sú að 1. september 2017 verða 38 börn orðin 18 mánaða og verður að öllu óbreyttu hægt að bjóða þeim öllum pláss í leikskólum sveitarfélagsins. Í árslok verður hinsvegar komin upp sú staða að biðlistar myndast verði ekki gripið til einhverra ráða. Eins og komið hefur fram er markmið Vestmannaeyjabæjar að bjóða öllum börnum 18 mánaða og eldri leikskólapláss.“ Lagði fræðsluráð þá eftirfarandi til: • Byggð verði ný leikskóladeild við Kirkjugerði sem getur tekið um 20-25 börn í blandaðri deild. • Miðað verði áfram við sama fjölda barna á Kirkjugerði og er í dag þar til að ný leikskóladeild verður tilbúin. • Leitað verði samninga við Hjallastefnuna um að áfram verði miðað við aukinn fjölda á Sóla eða 1.103 dvalargildi, líkt og gert hefur verið upp á síðkastið.   Stækkun Kirkjugerðis felur m.a. í sér að byggja við norðurhluta leikskólans, nýja deild sambærilegri þeim í suðurhlutanum en með tilkomu slíkrar deildar á leikskólaplássum að fjölga enn frekar eins og gefur að skilja. Í fundargerðinni eru kostnaðartölur einnig gróflega áætlaðar þar sem þær liggja ekki fyrir að svo stöddu enda hönnunar- og teikningavinna enn eftir. Ekki er ólíklegt að kostnaður geti legið nærri 40 til 50 milljónum og rekstrarkostnaður á bilinu 15 til 20 milljónir á ári miðað við reksturinn í ár. „Á þessu kjörtímabili hefur mikil áhersla verið lögð á að bæta enn við í þjónustu við börn og barnafjölskyldur,“ segir Elliði Vignisson bæjarstjóri þegar blaðamaður ræddi við hann í enn eitt skiptið um leikskólamál Vestmannaeyja. „Þannig voru teknar upp heimagreiðslur til foreldra, þjónusta dagmæðra niðurgreidd frá níu mánaða aldri, inntöku barna á leikskóla var flýtt og inntökudögum fjölgað, frístundir barna niðurgreiddar um 25.000 krónur og ýmislegt fleira. Einn liður í þessu er að tryggja að við getum staðið við þá stefnu okkar að bjóða öllum börnum 18 mánaða og eldri leikskólapláss.“ Talað er um í fundargerðinni að biðlistar gætu myndast um næstu áramót ef ekkert verður gert. Hvenær má búast við því að framkvæmdir hefjist og að deildin verði tilbúin til notkunar? „Við vinnum þetta eins hratt og við getum. Það eru komnar aðalteikningar sem verið er að útfæra. Framkvæmdin er komin í grenndarkynningu og byggingaleyfi fæst ekki fyrr en að því loknu. Við vonumst til að geta boðið þetta út seinnipartinn í apríl og framkvæmd gæti þá hafist um mánaðamótin apríl og maí. Ef allt gengur eftir vonumst við til að geta tekið deildina í notkun snemma á næsta ári,“ segir Elliði. Ef sú staða kemur upp að ekki verður hægt að taka ný 18 mánaða börn inn um áramótin, er þá einhver önnur tímabundin lausn í stöðunni? „Við höfum möguleika á að fjölga eitthvað plássum í leikskólunum eins og þeir eru núna en vonandi reynir ekki á það,“ segir Elliði. Einnig er minnst á í fundargerðinni að leitað verði samninga við Hjallastefnuna um að áfram verði miðað við aukinn fjölda á Sóla eða 1.103 dvalargildi, líkt og gert hefur verið upp á síðkastið. Hvað er stefnt á að auka mikið við fjöldann á Sóla á næstu misserum? „Við erum þessa dagana í viðræðum við Hjalla og of snemmt að segja til um það. Við erum mjög ánægð með þjónustu beggja leikskóla og teljum jákvætt að hafa ákveðna fjölbreytni í rekstrarformi og faglegum áherslum. Það er hinsvegar of snemmt að segja til um hver lokafjöldi barna verður á Sóla á næstu misserum og hvernig skiptingin verður þarna á milli,“ segir Elliði að lokum.    

Hef alltaf haft mikinn áhuga á söng

Birta Birgis er 17 ára Vestmannaeyingur sem fluttist til Reykjavíkur fyrir um þremur árum síðan. Þrátt fyrir að vera ung að árum hefur Birta tekið þátt í hinum ýmsu verkefnum með Leikfélagi Vestmannaeyja, reynt fyrir sér í raunveruleikaþáttum á borð við The Voice og sungið á Þjóðhátíð. Í dag er hún í námi í Menntaskólanum við Sund og fer með aðalhlutverk í söngleiknum LEG sem var frumsýnt í Gaflaraleikhúsinu sl. þriðjudag. Um er að ræða alíslenskan grínsöngleik eftir Hugleik Dagsson í uppsetningu Thalíu, leikfélags skólans. Blaðamaður ræddi við Birtu um söngleikinn og lífið í MS.   „Ég var í Leikfélagi Vestmannaeyja og þar tók ég þátt í uppsetningu á Allt í plati, Jólaleikritinu, Grease og Galdrakarlinum í Oz. Svo hef ég tekið þátt í alls kyns öðruvísi sýningum, t.d. í Skrekk í 9. og 10. bekk, Jólagestum Björgvins í 8. bekk og núna í fyrra, svo var ég líka í kór þegar ég var yngri. Síðan hef ég sungið víða en ég var t.d. í The Voice, Ísland got talent, Söngkeppni Samfés, Reykjavík got talent, Jólastjörnunni og Söngvakeppni barna á Þjóðhátíð svo eitthvað sé nefnt,“ segir Birta um fyrri störf. Hefur þú alltaf haft áhuga á að leika og syngja? „Ég hef alltaf haft rosalegan áhuga á söng, bara alveg síðan ég man eftir mér, en leiklistin kom seinna inn hjá mér, svona í kringum 4. til 5. bekk.“   Leiklistin hafði áhrifum val á skóla Er mikil söngleikjahefð í Menntaskólanum við Sund og ef svo er hafði það áhrif á val þitt á skóla? „Já það hafa verið söngleikir í MS í fjöldamörg ár, alltaf einn söngleikur á hverju námsári. Krakkarnir í fyrra sýndu t.d. Rokk aldarinnar í Hörpu sem náði miklum vinsældum. Leiklistin hafði að sjálfsögðu einhver áhrif á val mitt á framhaldsskóla, ég setti MS í fyrsta sæti, aðallega því ég bý í göngufæri við hann og ég hafði heyrt svo rosalega góða hluti um félagslífið þar, einnig fannst mér námið og brautin sem ég valdi henta mér vel. Svo setti ég leiklistarbraut í FG í annað sæti. Ég var mjög mikið að pæla í Verzló líka en áttaði mig svo á því að það var ekki námsefni þar sem höfðaði til mín. MS er bara fullkominn skóli fyrir mig, algjörlega. Þetta nýja þriggja anna kerfi hentar mér rosalega vel og er ég einnig í stjórninni í MS sem er mjög skemmtileg viðbót við félagslífið,“ segir Birta. Í söngleiknum leikur Birta hina 19 ára gömlu Kötu sem uppgötvar á afmælisdaginn sinn að hún er ólétt. Hvernig undirbýr maður sig fyrir svona hlutverk? „Kata er alls ekki lík mér og þurfti ég að pæla mikið í þessu og æfa mig vel. Kata er dóttir ríkasta manns Íslands, Ara, sem er forstjóri Globofist á Íslandi. Globofist er semsagt stórfyrirtæki sem eiginlega bara stjórnar heiminum og er hinn illi Andrew Loyd forstjóri Globofist um allan heim. Kata er algjör dekurdrottning og er ofdekraðasti unglingur í heimi. Hún er bara hreint út sagt algjör tík og hugsar bara um sinn eigin hag og bestu vinkonu sinnar, Ingunnar, sem hún elskar útaf lífinu. En það er kannski ekkert skrýtið að hún sé þessi týpa, hún hefur alist upp við að fá allt upp í hendurnar og svo eru foreldrar hennar bara ömurlegir og þá sérstaklega mamma hennar, Vala, sem er að fara að keppa í The Bachelor sem er raunveruleikasjónvarpsþáttur,“ segir Birta.   Þakklát fyrir tækifærið Birta segist vera þakklát fyrir að fá þetta tækifæri sem er bæði skemmtilegt og erfitt. „Persónulega finnst mér ég bara rosalega heppin með hlutverk, leikritið er eftir Hugleik Dagsson/ Hulla sem flestir ættu að kannast við. Nafnið Hulli lýsir leikritinu bara nokkuð vel, það er stórfurðulegaskemmtilegaóvenjulegt. Það er margt sem ég sleppi við að gera sem lendir þá á öðrum í leikhópnum, þá er ég að tala um að stunda kynlíf með ristavél, kúka á sig á sviðinu, vera í smokkabúning og margt, margt fleira fyndið sem gæti samt verið óþægilegt að leika fyrir framan fullan sal af fólki. En hins vegar eru held ég bara sex senur af 48 sem ég er ekki í sem er rosalega mikið. Þetta hefur verið mjög mikil vinna leiklistarlega, sönglega og danslega séð. Ég syng í rúmlega sjö lögum og er hvert einasta lag er svaka show og eru lögin öll rosalega fjölbreytt, þetta er allt frá dauðarokki í línudans og eru flest lögin bara hreint út sagt mögnuð og eru metnaðarfullir dansar í hverju einasta lagi. Öll lögin eru eftir hljómsveitina Flís, danshöfundur er Cameron Corbett og er verkið í leikstjórn Stefáns Benedikts Vilhelmssonar.“   Óvenju stórt fyrir nýnema Þú ert nýnemi á þessu skólaári, er ekkert óvenjulegt að þeir fái aðalhlutverk í svona verkefnum? „Vanalega eru það eldri nemendur sem fá stóru hlutverkin, jú. Mamma Kötu, pabbi hennar og bróðir eru til dæmis öll leikin af eldri krökkum en ég, en ég meina, þetta er bara gaman og þetta kom mér bara á óvart að vera boðið þetta stóra, spennandi hlutverk,“ segir Birta. Er eitthvað fleira sem er á döfinni hjá þér? „Ég æfi handbolta og hef gert það síðan ég var sirka sjö ára, var í ÍBV en er núna með Fram. Upp á síðkastið hef ég verið í pásu í handboltanum frá því að strangar æfingar byrjuðu fyrir söngleikinn en ég stefni á að skella mér á æfingu beint eftir leikritið. Svo er ég að bjóða mig fram í Thalíu sem er leiklistarnefnd skólafélagsins í MS og vonast ég til að vinna þær kosningar og geta þannig haft enn meiri áhrif á söngleik komandi skólaárs. Svo koma bara allskyns verkefni, hvert á fætur öðru sem ég leysi með gleði og bros á vör,“ segir Birta að lokum.    

Flugslysaæfing á Vestmannaeyjaflugvelli um næstu helgi

Samkvæmt alþjóðasamningum og íslenskum lögum þá ber rekstraraðilum alþjóðaflugvalla að halda reglulega viðamiklar viðbragðsæfingar. Svokallaðar flugslysaæfingar hafa verið haldnar á öllum íslenskum áætlunarflugvöllum á fjögurra ára fresti undanfarin ár. Í ljósi íslenskra aðstæðna voru þessar æfingar frá upphafi reknar á almannavarnarstigi, það er allar þær einingar sem skráðar eru sem viðbragðsaðilar í almannavarnarskipulagi aðliggjandi bæjarfélags eru þátttakendur í þessum æfingum. Um næstu helgi eða þann 8. apríl verður haldin flugslysaæfing á Vestmannaeyjaflugvelli. Þetta er í fimmta skipti sem haldin er slík æfing á Vestmanneyjaflugvelli síðan þetta skipulag var tekið upp. Til þess að líkja eftir slysi er búinn til vettvangur þar sem bílflökum, gámum og ýmsu öðru er komið fyrir og síðan er um tuttugu „slösuðum“ komið fyrir á og nærri vettvangi. Þetta eru ungmenni sem hafa verið förðuð þannig að þau líti út sem slösuð. Einnig eru eldar kveiktir í dóti á svæðinu og í heild er verið að líkja eftir slysavettvangi. Flugturninn boðar síðan aðgerðir í gegnum Neyðarlínuna sem boðar alla vettvangsaðila í Eyjum til starfa auk hundruð manna á fastalandinu (sem eiga þó ekki að mæta). Viðbragðsaðilar mæta í kjölfarið, hlúa að slösuðum og síðan eru þeir fluttir í flugstöð til frekari skoðunar, aðhlynningar og flutnings áfram á sjúkrahús uppi á landi. Í framhaldi er æfingunni slitið. Þeir sem boðaðir eru í Eyjum er Björgunarfélagið, slökkvilið bæjarins, sjúkrahús- og heilsugæsla, lögreglan, Rauði krossinn, fólk frá Vestmannaeyjabæ, starfsfólk flugfélags og starfsmenn Isavia, alls vel á annað hundrað talsins. Það er því rétt að vara bæjarbúa við því að þótt mikið kunni að ganga á uppi á flugvelli á laugardeginum komandi og bílar sjáist með blikkandi ljósum og eldar logi þá er um æfingu að ræða og engin ástæða til ótta.   Með þökk fyrir samvinnuna. Bjarni Sighvatsson-Flugvalladeild Isavia.  

Fundur bæjarráðs 7. apríl

Bæjarráð Vestmannaeyja - 3047. Fundur haldinn í fundarsal að Bárustíg 15 efri hæð, 6. apríl 2017 og hófst hann kl. 12.00       Fundinn sátu: Páll Marvin Jónsson formaður, Elliði Vignisson bæjarstjóri, Trausti Hjaltason aðalmaður, Stefán Óskar Jónasson aðalmaður, Birna Þórsdóttir varamaður og Auður Ósk Vilhjálmsdóttir varamaður.   Fundargerð ritaði: Rut Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs   Endurskoðendur KPMG, Helgi Nielssen og Magnús Jónsson mættu á fundinn og kynntu ársreikninginn. Einnig sátu Jón Pétursson, Ólafur Snorrason og Magnús Þorsteinsson fundinn við umræðu um ársreikninginn. Að máli loknu véku gestir af fundi.     Dagskrá:   1. 201701083 - Ársreikningur Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2016   Á fundinn komu Helgi Níelsson og Magnús Jónsson endurskoðendur KPMG og fóru yfir ársreikningin og endurskoðunarskýrsluna.       Bæjarráð þakkar endurskoðendum fyrir yfirferðina og vel unnin störf við gerð ársreikningsins. Bæjarráð vísar ársreikningi Vestmannaeyjabæjar og stofnana vegna ársins 2016 til fyrri umræðu í bæjarstjórn síðar í dag.       2. 201704057 - Sala á Kap VE-41 í eigu Vinnslustöðvarinnar.   Erindi frá VSV 23. mars s.l. þar sem Vestmannaeyjabæ er boðið forkaupsréttur að Kap VE.41 í samræmi við ákvæði 12.gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða.   Erindi frá VSV dags. 23. mars s.l. þar sem Vestmannaeyjabæ er boðið forkaupsréttur að Kap VE. í samræmi við ákvæði 12.gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Í erindinu kemur fram að skipið sé selt ásamt öllu fylgifé, tækjum og búnaði sem skipinu fylgir og tilheyrir. Skipið hefur leyfi til veiða í atvinnuskyni en engin aflahlutdeild eða aflamark eða aðrar veiðiheimildir munu fylgja skipinu við söluna.   Bæjarráð þakkar VSV fyrir upplýsingarnar og tilboð um forkaupsrétt þann sem kveðið er á um í lögum um stjórn fiskveiða í þeim tilgangi að skapa sátt um sjávarútveg. Bæjarráð telur hinsvegar ekki forsendur fyrir því að nýta forkaupsréttinn í þessu tilviki og fellur því frá honum.     3. 201702092 - Bókagjöf Ágústar Einarssonar til Bókasafns Vestmannaeyja.   Erindi frá Arnari Sigurmundssyni, Kára Bjarnasyni og Helga Bernódussyni dags.25.mars s.l. varðandi hugmyndir/tillögur um Menningarsafn og hátíðarsal í Ráðhúsi Vestmannaeyja.   Í erindinu er lagt til að sérstaklega verði skoðað að nýta gamla sjúkrahúsið sem seinustu ár hefur verið nýtt undir bæjarskrifstofur sem nokkurskonar blöndu af viðhafnarsal sveitarfélagsins og fágætissafns. Í hugmyndinni er sérstaklega bent á að vel færi á að nýta húsið undir fágætissafn Ágústar Einarssonar, valin listaverk í eigu Vestmannaeyjabæjar svo Kjarvalssafnið, Sigmundssafnið, valið efni úr ljósmyndasafni Sigurgeirs Jónassonar og ljósmyndasafni Vestmannaeyja. Þá yrði þar komið fyrir virðulegum móttökusal fyrir Vestmannaeyjabæ og íbúa.   Bæjarráð er jákvætt fyrir þeim hugmyndum sem fram koma í erindinu og felur bæjarstjóra að skila minnisblaði til ráðsins þar sem hugmyndinni er stillt upp sem verklegri framkvæmd. Þá samþykkir ráðið að taka til sérstakrar umfjöllunar framtíðarstaðsetningu bæjarskrifstofa þegar minnisblað bæjarstjóra liggur fyrir.     4. 201704070 - Ósk um afnot af sal í Félagsheimilinu við Heiðarveg (Kviku) til tónleikahalds.   Erindi frá Mosfellskórnum í Mosfellsbæ dags. 13. mars s.l. þar sem óskað er eftir afnotum af sal í Félagsheimilinu við Heiðarveg til tónleikahalds laugardaginn 20. maí n.k. kl. 17.00   Bæjarráð er jákvætt fyrir erindinu og felur bæjarstjóra að svara bréfritara.     5. 200708078 - Trúnaðarmál lögð fyrir bæjarráð     Afgreiðsla trúnaðarmála er færð í sérstaka trúnaðar-og samningamálafundargerð.                 Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14.10  

Alþjóðlegur heilbrigðisdagur gegn þunglyndi

Í Fréttablaðinu í dag er eftirfarandi grein eftir Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra í tilefni alþjóðaheilbrigðisdagsins 7. apríl sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin helgar að þessu sinni þunglyndi. Stofnunin áætlar að yfir 300 milljónir manna eigi við þunglyndi að etja og efnir í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu til herferðar gegn þunglyndi sem á að standa í heilt ár.   „Þunglyndi! Tölum um það.“ Þetta eru skilaboð Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) á alþjóðaheilbrigðisdeginum 7. apríl sem að þessu sinni er helgaður þunglyndi og hvernig við getum spornað við þunglyndi og bætt aðstæður þeirra sem við það glíma.   Þunglyndi er ein af meginorsökum vanheilsu fólks og örorku um allan heim. WHO áætlar að yfir 300 milljónir manna eigi við þunglyndi að etja og að hlutfall þunglyndra hafi jafnframt hækkað um rúm 18% á árabilinu 2005 – 2015. Í ljósi þessarar alvarlegu stöðu hefur WHO ákveðið að efna til herferðar sem standa mun í heilt ár, undir yfirskriftinni: ,,Depression: let´s talk.“   Ég mæli með því að við gerum eins og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin leggur til. Tölum um þunglyndi, reynum að sporna við þunglyndi og styðjum þá sem þjást af því til að öðlast betra líf með viðeigandi úrræðum og þjónustu.   Hér á landi hefur margt verið gert til að opna umræðuna um þennan illvíga sjúkdóm sem svo lengi var þolendum og aðstendendum þeirra mikið feimnismál. Það hefur átt sér stað vitundarvakning, sem gerir það að verkum að fólk hefur opnað sig og ræðir nú opinskátt um veikindi sín. Slík umræða eyðir fordómum og opnar jafnframt augu almennings og ráðamanna fyrir því hve mikilvægt er fyrir samfélagið allt að þessi mál séu tekin alvarlega.   Eins og fram kemur í sáttmála ríkisstjórnarinnar og í nýrri fjármálaáætlun hennar er áhersla lögð á að bæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu, m.a. með fjölgun sálfræðinga í heilsugæslunni og með aðgerðum til að stytta bið eftir þjónustu göngudeildar Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans.   Við búum að því að eiga þingsályktun um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára sem samþykkt var á Alþingi á liðnu ári. Þar eru sett skýr markmið og áætlanir sem fylgja þarf fast eftir. Aukin vellíðan, betri geðheilsa landsmanna og virkari samfélagsþátttaka þeirra sem glíma við geðraskanir til skemmri eða lengri tíma, óháð búsetu er meginmarkmið þingsályktunarinnar. Að baki slíkri stefnu eigum við öll að geta staðið heilshugar.   Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra  

Fundur Framkvæmda- og hafnarráðs 5. apríl

Framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja - 202. fundur haldinn í fundarherbergi Umhverfis- og framkvæmdasviðs, 5. apríl 2017 og hófst hann kl. 16:30       Fundinn sátu: Sigursveinn Þórðarson formaður, Jarl Sigurgeirsson aðalmaður, Sæbjörg Snædal Logadóttir aðalmaður, Sindri Ólafsson aðalmaður, Stefán Óskar Jónasson aðalmaður og Ólafur Þór Snorrason framkvstj.sviðs.   Fundargerð ritaði: Ólafur Þór Snorrason, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs   Hafþór Halldórsson sat fundinn undir 1.máli     Dagskrá:   1. 201403012 - Framtíðarskipan sorpmála í Vestmannaeyjum   Hafþór Halldórsson kynnti fyrirhugaðar framkvæmdir við útisvæði og húsnæði endurvinnslustöðvarinnar við Eldfellsveg. Einnig kynnti hann athuganir á kaupum á hakkara og færiböndum sem miða að því að minnka rúmmál þess sorps sem flutt er frá Vestmannaeyjum. Hakkari af þeirri gerð sem hentar kostar um 45 milljónir með uppsetningu. Fram kom að fara þarf í hönnun og útboð á klæðningu á húsnæðinu og hönnun útisvæðis.   Ráðið samþykkir að festa kaup á hakkara og felur starfsmönnum sviðsins að fara í hönnun og útboð á klæðningu húsnæðis og útisvæði.     4. 200703124 - Blátindur VE 21   Fyrir liggur erindi frá Stefáni Ó Jónassyni þar sem óskað er upplýsinga um framgang Blátinds VE 21. "Hver er staða og framtíð Blátinds VE21? Fyrirspurn frá Stefáni Jónassyni, bæjarfulltrúa E-lista.   Elsta tréskip Vestmannaeyja Blátindur VE 21 er senn 70 ára, smíðaður her í Eyjum sem hluti af raðsmíði fiskiskipa fyrir tilstilli ríkisstjórnarinnar til endurnýjunar á fiskiskipaflota þjóðarinnar í stríðslok og var með stærstu og glæsilegurstu fiskiskipum í Vestmannaeyjum. Síðustu ár hefur báturinn verið í vörslu Vestmannaeyjabæjar, en því miður í algjörri vanhirðu. Öll veður, vatn og vindur eiga greiðan aðgang að bátnum, stýrishús, lestarlúga og lúkarkappi allt opið. Þrátt fyrir fjögurra ára gamalt verkplan og fjármögnun hefur ekkert gerst, því er spurt:   1. Hafa núverandi bæjarfulltrúar engan áhuga á athafnasögu Eyjanna? 2. Ef áhugi er á málinu, hvað tefur? 3. Er ekki staðsetning/"lægi" fyrir bátinn löngu samþykkt? 4. Er ekki 2 milljón króna fjármögnun löngu tryggð eða hefur henni verið varið í annað? 5. Ef bæjarfulltrúar eru ekki stoltir af athafnasögu staðarins vinsamlega gefið´þá Blátind VE 21 þangað sem menn kunna að meta verk forvera sinna, má þar til dæmis nefna Síldarminjasafniðá Siglufirði eða Byggðasafn Akraness.     Fulltrúar D-lista bóka: Málefni Blátinds hafa margoft komið til umræðu í framkvæmda- og hafnarráði undanfarin ár og fjármagn tryggt í þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru. Fulltrúa minnihlutans er fullkunnugt um þær umræður og þær ákvarðanir sem teknar hafa verið. Það hefur ekki staðið á meirihluta framkvæmda- og hafnarráðs að ýta þessu verkefni áfram en tafir vegna annríkis verktaka hafa verið meiri en hægt er að sætta sig við. Fyrir liggur að fjármagn í verkefnið er tryggt og búið er að ákveða staðsetningu á lægi Blátinds. Meirihluti framkvæmda- og hafnarráðs samþykkir að fela framkvæmdastjóra að ræða við verktakann og ef fyrir liggur að hann nái ekki að klára verkefnið fyrir maílok 2017 þá leiti framkvæmdastjóri til annarra verktaka með verkefnið. Sigursveinn Þórðarson (sign) Jarl Sigurgeirsson (sign) Sindri Ólafsson (sign) Sæbjörg Logadóttir (sign)     5. 201704004 - Skemmdir í leiklaug útisvæðis Íþróttamiðstöðvar   Farið yfir skemmdir sem hafa orðið á flísum á leiklaug. Fram kom í máli framkvæmdastjóra að sérpanta þarf flísarnar og 4-6 vikna afgreiðslufrestur.     6. 201704007 - Öryggissvæði við Hásteinsvöll   Framkvæmdastjóri kynnti viðræður við ÍBV vegna öryggissvæðis við Hásteinsvöll, sem skilyrt er í keppnisleyfi vallarins og leiðir til úrbóta.   Ráðið samþykkir að leggja mön vestan megin Hásteinsvallar og felur framkvæmdastjóra framgang málsins í samráði við ÍBV.     7. 201704006 - Gervigras á sparkvelli   Lagt fram tilboð frá Altis vegna útskiptingar á gervigrasi á sparkvöllum við Hamarsskóla og barnaskóla. Um er að ræða nýjustu kynslóð gervigrass án gúmmifyllingar. Kostnaður vegna útskiptingar er um 11 milljónir króna.   Ráðið samþykkir fyrirliggjandi tilboð og felur starfsmönnum framgang verksins.     8. 200706121 - Tjaldsvæði við Þórsheimili   Kynntar voru hugmyndir að áframhaldandi færslu tjaldsvæðis við Þórsheimili. Fyrirhugað er að stækka flöt í norður, vestan megin við fjölnota íþróttahúsið.   Ráðið samþykkir stækkun.     2. 201610062 - Fráveita frá Botni að útrás Eiði   Fyrir lá verkfundagerð nr.3 frá 30.mars 2017.   Ráðið samþykkir fyrirliggjandi verkfundagerð     3. 201606074 - Dalhraun 3 - Hraunbúðir viðbygging   Fyrir liggur verkfundagerð nr.8 frá 14.mars 2017   Ráðið samþykkir fyrirliggjandi verkfundagerð                 Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:50  

Kröftug barátta heldur áfram

 Að gefnu tilefni vill undirrituð svara grein Ragnars Óskarssonar sem birtist í síðustu Eyjafréttum. Þar segir: ,,Í mótmælunum bar mest á hetjulegri framgöngu margra forystumanna Sjálfstæðisflokksins í bænum og í máli sínu hlífðu þeir ekki ríkisstjórninni sem þá sat við völd.” Og ,,Þeir sem hæst töluðu í mótmælunum hafa einhverra hluta vegna hvorki haft hátt síðan né mótmælt framkomu stjórnvalda nú eins kröftuglega og sköruglega sem þá.” Þar er Ragnar væntanlega að vitna í ræður undirritaðrar og bæjarstjórans, Elliða Vignissonar. Ég þakka Ragnari hólið en vil vingjarnlega benda honum á eftirfarandi atriði: Fulltrúar bæjarins hafa ítrekað fundað með heilbrigðisyfirvöldum. Bæjarstjóri og bæjarfulltrúar hafa ítrekað fundað með starfsfólki heilbrigðisráðuneytis og nú síðast á þessu ári með nýjum heilbrigðisráðherra, Óttari Proppé til að reyna að koma embættismönnum í skilning um að þær aðstæður sem við búum við hvað þessi málefni varðar séu með öllu óásættanlegar og sérstaklega í ljósi niðurstöðu faghóps sem skipaður var af þáverandi heilbrigðisráðherra sem komst að þeirri samróma niðurstöðu að halda ætti úti sólahringsvakt í skurðþjónustu í Vestmannaeyjum.   Bæjarstjórn hefur mótmælt ástandinu kröftuglega Bæjarstjórn og bæjarráð Vestmannaeyja hafa barist hatrammlega gegn lokun skurðstofunnar og hafa ítrekað sent frá sér ályktanir um stöðu heilbrigðisþjónustu í sveitarfélaginu og þær hörmulega aðstæður að ekki sé tiltækur svæfingalæknir né skurðlæknir á sólahringsvakt líkt og í tugi ára áður. Þetta höfum við gert óháð því hvernig ríkisstjórn hefur verið skipuð enda berjumst við fyrir hagsmunum Eyjamanna fyrst og fremst.   Vestmannaeyjabær bauðst til að reka heilbrigðisþjónustuna Vestmannaeyjabær bauðst fyrir sameiningu Heilbrigðisstofnunarinnar í Vestmannaeyjum við HSU að taka yfir rekstur stofnunarinnar og tryggja hagræðingu og þannig rekstur skurðstofunnar. Þeirri viðleitni sveitarstjórnarinnar til að viðhalda ásættanlegu heilbrigðisþjónustustigi var því ver og miður hafnað af þáverandi heilbrigðisráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni.   Opinber gagnrýni bæjarfulltrúa óháð stjórnarflokkum Undirrituð hefur persónulega sent frá sér fjölda greina og fyrirspurnir á ýmsa fjölmiðla þar sem mótmælt hefur verið og gagnrýndar harðlega þær aðstæður sem okkur er boðið upp á og þar skiptir ekki og mun ekki skipta máli hvaða ríkisstjórn er við völd. Hagsmunir sveitarfélagsins og íbúa þess munu ávallt og eiga ávallt að vera bæjarfulltrúum, hverjir svo þeir eru hverju sinni, efst í huga en ekki flokkspólitískar taugar. Ekki rekur mig minni til þess að hafa heyrt Ragnar gagnrýna niðurskurð ríkistjórnar VG og Samfylkingarinnar en engin ríkisstjórn síðustu tíma hefur gengið harðar fram í niðurskurði í heilbrigðiskerfinu en sú ríkisstjórn. Því er sú staðhæfing Ragnars að bæjarfulltrúar hafi hvorki haft hátt né mótmælt framkomu stjórnvalda með öllu kolröng. Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur og mun halda áfram sínum hörðu mótmælum gegn þessu óviðunandi ástandi á hvaða vettvangi sem er. Það kann að koma Ragnari á óvart en í dag er það frekar algengt að fólk sinni sveitarstjórnarmálum fyrst og fremst til að bæta hag bæjarbúa frekar en að berjast fyrir hagsmunum síns flokks. Það á við bæði um meiri- og minnihluta núverandi bæjarstjórnar.   Ábyrgðin er ríkisvaldsins Bæjarstjórn ber illu heilli ekki ábyrgð á né hefur valdsvið yfir heilbrigðismálum sveitarfélagsins. Heilbrigðisþjónusta er alfarið á ábyrgð ríkisvaldsins. Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur hinsvegar boðið í rekstur bæði samgangna og heilbrigðismála sveitarfélagsins, sem eru vissulega þeir málaflokkar sem mest á hallar og eiga það sammerkt að vera á ábyrgð ríkisins, og þar með reynt að fara langt umfram sínar opinberar skyldur en ekki hlotið erindi sem erfiði. Það er sárgrætilegt að þeir aðilar sem bera ábyrgð á þessum málaflokkum hafa að mörgu leyti ekki haft skilning á þeirri þjónustu sem er sveitarfélaginu nauðsynleg. Bæjarstjórn Vestmannaeyja mun hvergi hvika frá þeim kröfum að skurðstofa verði aftur starfrækt í Vestmannaeyjum.   Vestmannaeyjabær mun halda áfram að mótmæla því þegar hið opinbera skerðir þjónustu við sveitarfélagið sem því er nauðsynleg, líkt og það gerði nýlega þegar ISAVIA ohf. sagði upp 2 stöðugildum á Vestmannaeyjaflugvelli, og skerti þar með þjónustu við bæjarbúa og enn einu sinni skal opinberum störfum fækkað á landsbyggðinni. Þessu mótmælti Ragnar Óskarsson einnig í grein á eyjar.net þó hann hafi reyndar látið vera að taka það fram að hann átti sæti í stjórn ISAVIA ohf. þegar ákvörðun um þessa aðgerð var tekin. Virðingarfyllst Hildur Sólveig Sigurðardóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum

Bertha Þorsteinsdóttir er Eyjamaður vikunnar: Tala skýrt og hátt, hafa trú á því sem er verið að flytja

Lyflækningadeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands Selfossi (HSU)

Lyflækningadeildin á Selfossi er 18 rúma sólahringsdeild. Á deildinni fer fram almenn lyflækningaþjónusta og bráðaþjónusta í lyflækningum. Flestir sjúklinganna sem leggjast inn koma vegna bráðara veikinda frá bráðamóttöku HSU eða Landspítala (LSH), hjúkrunarheimilum á Suðurlandi og Sólheimum í Grímsnesi. Sjúklingar leggjast einnig inn á deildina vegna endurhæfingar eða vegna legu í kjölfar aðgerðar frá bæklunardeild LSH, meðferðar vegna langvinnra sjúkdóma eða líknandi meðferðar. Flestir sjúklingar leggjast inn vegna bráðara veikinda. Um 40% sjúklinga sem leggjast inn á deildina koma frá LSH. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur mikið álag verið á LSH og hefur mikill þrýstingur verið á HSU að taka á móti öllu okkar fólki sem við ráðum við að sinna. Þetta kallar á að flæði deildarinnar sé mikið. Deildin er ekki með hvíldarrými eins og er. Þær innlagnir eiga að fara eftir ákveðnu ferli í gegnum Færni- og heilsumatsnefnd sem metur eftir ákveðnu kerfi þörf einstaklinga fyrir vistun í hvíldarrými á hjúkrunardeildum. Um leið og sjúklingur leggst inn er farið að huga að útskrift hans. Þá er skoðuð áætluð lengd dvalar hér og hvort sjúklingur komist yfirleitt heim, hvaða aðstoð hann þarf með heimahjúkrun ef þess er þörf og einnig aðstoðum við sjúklinga/aðstandendur við að sækja um mat hjá Færni- og heilsumatsnefnd ef þess er þörf. Við viljum koma að sem flestum sunnlenskum sjúklingum sem virkilega þurfa á sjúkrahúslegu að halda. Að við þurfum ekki að senda eldri sjúklinga okkar á LSH vegna þess að deildin er full. Það er því mikilvægt að halda flæði þannig að flestir sem þurfa á okkur að halda komist að.   f.h Heilbrigðisstofnunar Suðurlands Guðrún Kormáksdóttir hjúkrunardeildarstjóri lyflækningadeildar HSU á Selfossi  

Gerum Vestmannaeyjar að snyrtilegasta bæjarfélagi landsins

Á síðustu árum hefur umhverfis- og skipulagsráð skipulagt hreinsunardag sem alla jafna hefur verið haldinn í byrjun maí. Þátttaka hefur verið dræm, en nokkur félagasamtök hafa þó séð um svæði sem þeim er úthlutað og er þeim hér með þakkað fyrir ómetanlegt framlag sitt. Þetta kemur fram í fundargerð ráðsins í síðustu viku þar sem lögð er áhersla á að mikilvægt sé að auka umhverfisvitund hér í Vestmannaeyjum. „Í ár mun ráðið því ekki skipuleggja einn sérstakan hreinsunardag, heldur leggur til að við öll, einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök, förum í sameiginlegt átak um að gera Vestmannaeyjar að snyrtilegasta bæjarfélagi landsins með því að hreinsa til á lóðum okkar og nærumhverfi, í gönguferðum eða hvar sem þarf að láta hendur standa fram úr ermum. Félagasamtök sem vilja taka sín hefðbundnu svæði er að sjálfsögðu heimilt að halda því áfram,“ segir í þessu ákalli til bæjarbúa. Átakið hefst þegar í stað og stendur til 7. maí nk. Hægt verður að nálgast poka á opnunartíma Umhverfis -og framkvæmdasviðs að Skildingavegi 5 og starfsmenn bæjarins munu hirða upp alla poka og annað sem fellur til eftir ruslatínsluna. Hreinsun á garðúrgangi og rusli verður í austurbæ 27. til 30. apríl, vesturbæ 1. til 3. maí og miðbæjarsvæði 4. til 7. maí. Ráðið felur starfsmönnum tæknideildar að kynna átakið, en einnig verður hægt að fylgjast með framvindunni á facebook, undir viðburðinum „Einn poki af rusli“.  

Véla- og númerslausir bílar til trafala á Strandvegi

 Trillusjómennirnir Haukur Guðjónsson og Kjartan Már Ívarsson, eigendur Ugga VE og Þyts VE, hafa um árabil átt beitiskúr við Strandveg 65. Þannig er mál með vexti að þeir félagar hafa takmarkaðan aðgang að húsnæði sínu vegna véla- og númerslausra bíla sem beðið hafa viðgerða hjá Bílaverkstæði Muggs svo mánuðum skiptir, ýmist á götunni eða uppi á gangstétt. Samanlagt borga þeir um 300.000 kr. á ári í fasteignagjöld fyrir þetta atvinnuhúsnæði sitt. Að sögn Hauks geta lögregla og bæjaryfirvöld ekkert aðhafst í málinu því það sé undir starfsmanni Heilbrigðiseftirlits Suðurlands að setja merkimiða á bílinn sem gerir bæjaryfirvöldum kleift að fjarlægja hann. „Það eina sem okkur dettur í hug er að þessi aðili sé að fá einhverja þóknun frá verkstæðinu, manni dettur það bara í hug fyrst það er hægt að vera svona lengi með númerslausan bíl í alfaraleið,“ segir Haukur, eigandi Uggs til 60 ára. „Í fyrra skiptið var bíll í 14 mánuði með hléum en núna er bíll búinn að vera þarna í sjö mánuði.“ Í svari Áslaugar Rutar Áslaugsdóttur, heilbrigðisfulltrúa Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, segir að Heilbrigðiseftirlitið hafi verið beðið um að líma á númerslausar bifreiðar á þessu svæði og þann 9. febrúar sl. hafi verið límt á einn bíl í Skvísusundi en hinir númerslausu bílarnir hafi tilheyrt bifreiðaverkstæði Muggs og ætlaði eigandi verkstæðisins að fjarlægja umræddan jeppa í vikunni á eftir. Þar sem það hefur ekki gengið eftir mun embættið líma á alla númerslausa bíla á þessu svæði nú í dag (gær) með tíu daga fresti til að fjarlægja bílana. Vert er að minna á að síðustu ár hefur Vestmannaeyjabær staðið í átaki sem miðar að því að fjarlægja númerslausa bíla af götum bæjarins og vakna því eðlilega upp spurningar hjá fólki þegar sumir bílar fá að standa óhreyfðir en aðrir ekki.

Höfum róið lífróður til að halda skútunni á floti

Þrátt fyrir mokfiskirí í bolfiski er hljóðið þungt í fiskvinnslunni og dæmi eru um fyrirtæki hafi ekki farið af stað eftir að sjómannaverkfalli lauk 19. febrúar. Það hafði þá staðið í tíu vikur. Margt spilar inn í, m.a. hátt gengi krónunnar, verðlækkun á fiski og fyrirtækin hafa ekki náð fyrri sessi með vörur sínar á mörkuðum og í verslunum. „Við höfum síðustu mánuði róið lífróður til að halda skútunni á floti eins og væntanlega flestir bolfiskframleiðendur,“ segir Einar Bjarnason, fjármálastjóri Godthaab sem eingöngu rekur fiskvinnslu. „Endalaus styrking krónunnar, miklar launahækkanir og háir vextir eru þær aðstæður sem við höfum glímt við undanfarna mánuði og ekki hjálpaði til tíu vikna sjómannaverkfall um síðustu áramót,“ bætti Einar við. Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélagsins tekur í sama streng. „Staðan er erfið hjá okkur eins og öðrum í bolfiski,“ segir Stefán. Verkfallið, verðlækkun á afurðum, sterk króna og innlendar hækkanir hafa mikil áhrif. Á sama tíma tala sumir stjórnmálamenn um að auka enn frekar á óvissuna með breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu og sumir ganga jafnvel svo langt að mæla með hærri sköttum á greinina. Það er ekki öll vitleysan eins.“ Ekki náðist í Brynjar Sigurgeir Brynjarsson, framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar við vinnslu fréttarinnar. Í kjölfar umræðu um erfiða stöðu í bolfiski blossaði upp umræða um að fiskvinnslan væri á leið úr landi. Sagði Binni í viðtali við Morgunblaðið að slíkt væri ekki á döfinni hjá þeim. Það sama segir Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í samtali við sama blað. Bendir hann á í því sambandi á mikla fjárfestingu í sjávarútvegi um allt land. Það á einnig við í Vestmannaeyjum þar sem fyrirtækin hafa fjárfest fyrir tugi milljarða á undanförnum árum.  

Við vitum bara að fólkið þarf á aðstoð að halda

Undir lok árs 2016 ákváðu sjö hjúkrunarnemar á þriðja ári við Háskóla Ísland að láta gott af sér leiða og víkka sjóndeildarhringinn í gegnum hjálparstarf í Afríku á vegum African Impact. Þegar í stað fóru þær að plana förina og varð Zambía fyrir valinu en þar munu þær til að mynda sinna ungbarnavernd, fara á hjúkrunarheimili, ferðast til nærliggjandi þorpa til að sinna heilsueflingu og eftirliti. Þær Herdís Gunnarsdóttir og Arna Hlín Ástþórsdóttir eru á meðal þeirra sjö hjúkrunarnema sem ætla að ferðast til Zambíu en báðar eru þær Vestmannaeyingar í húð og hár. Blaðamaður ræddi við Herdísi á dögunum um hjálparstarfið og neyðina sem ríkir í Zambíu. Brottfarardagur frá Íslandi segir Herdís að verði aðfaranótt 14. júlí en þá taka þær fjögur flug á tveimur sólarhringum til þess að komast á áfangastað. Ísland – Svíþjóð – Dubai – Lusaka – Livingstone.   Kom enginn annar staður til greina? „Það komu nokkrir staðir til greina, meðal annars Kenya og Tanzania. Okkur langaði á sjúkrahús eða heilsugæslustöð þar sem við erum jú í hjúkrunarnámi. Við settum okkur í samband við stelpur sem fóru þessa sömu ferð árið 2014 og fengum upplýsingar frá þeim. Ferðin er á vegum fyrirtækis sem heitir African Impact en á heimasíðu þeirra kynntum við okkur samtökin og lásum okkur til um hjálparstarfið. Okkur leist svo vel á skipulagið að við ákváðum að Zambía væri málið,“ segir Herdís.   Fólkið þarf á aðstoð að halda Aðspurð út í almennt ástand á staðnum segist Herdís ekki gera sér almennilega grein fyrir því hversu mikil neyð ríkir. „Við vitum í rauninni ekki hversu mikil neyðin er á þessum stað. Við vitum bara að fólkið þarf á aðstoð að halda. Það eru hópar að fara á þennan stað í hjálparstarf yfir allt árið þannig að fólk á þessum slóðum er að fá ágætis aðstoð. Það er búið að biðja okkur um að koma með ýmsan varning til þeirra, til dæmis flísatangir, vítamín, sýklalyf, sólgleraugu, sápur, naglaklippur, sárabindi, sjúkratöskur og nóg af paracetamóli og íbúfeni.“   Hvað verðið þið lengi og hvað verðið þið helst að gera? „Hjálparstarfið er í tvær vikur og munum við sinna ýmsum fjölbreyttum störfum, til dæmis alls konar heilsueflandi störfum, svo sem ungbarnavernd, fara á hjúkrunarheimili og aðstoða fólkið þar, ferðast til nærliggjandi þorpa og sinna heilsueflingu og eftirliti þar. Einnig verðum við með fræðslu fyrir fólk varðandi HIV og almennt heilbrigði,“ segir Herdís og bætir við að þær vinkonur muni einnig ferðast að hjálparstarfinu loknu. „Við ætlum að ferðast um suðurhluta Afríku í tvær vikur, fyrst við erum nú komnar alla þessa leið. Þann 29. júlí leggjum við af stað í safari ferð. Við byrjum hjá Viktoríufossunum og ferðumst yfir til Windhoek. Ferðin er alls níu dagar og átta nætur, en við munum eyða þeim í tjaldi í miðri Afríku. Að lokinni safariferð þann 6. ágúst fljúgum við frá Windhoek til Cape Town þar sem við ætlum að eyða sjö dögum í að skoða okkur um, slaka á og njóta lífsins. Við lendum svo á Íslandi þann 14. ágúst.“   Erfitt en misjafnt eftir stöðum Nú hefur þú sjálf áður farið til Afríku í hjálparstarf. Það hlýtur að vera erfitt að koma inn í svona aðstæður eða hvað? „Já, vissulega er það erfitt. Það var þó misjafnt eftir stöðum hversu mikil fátæktin var, sumir bjuggu í moldarkofum á meðan aðrir bjuggu í illa byggðum húsum. Sumir höfðu efni á mat handa sér og sínum en aðrir þurftu að betla sér til matar. Þegar ég var í Nairobi í Kenya heimsótti ég mjög fátækt hverfi þar sem fólk bjó í mjög illa förnum moldarkofum, sváfu á gólfinu, áttu nánast ekkert að borða, voru í skítugum og rifnum fötum, ruslið flæddi eftir götunum ásamt skólpi. Mig langaði rosalega til þess að hjálpa öllum, finna húsnæði handa þeim og gefa þeim peninga til þess að lifa góðu lífi, en það er bara ekki hægt. Mig langaði sérstaklega til þess að taka litlu börnin með mér til Íslands og ættleiða þau bara öll, en það er víst heldur ekki hægt,“ segir Herdís og heldur áfram. „Ég man að fyrir ferðina voru margir búnir að vara mig við því að ég myndi mjög líklega verða fyrir menningarsjokki þegar ég kæmi út, en það var ekki fyrr en ég lenti í London eftir hjálparstarfið, þar sem ég og tvær vinkonur mínar úr ferðinni eyddum nokkrum dögum í að versla og hafa gaman, að ég fékk menningarsjokk. Ég man svo vel eftir því þegar ég lá uppi í risastóru mjúku rúmi á hótelherberginu, með flatskjá á veggnum fyrir framan mig, nýkomin úr heitri sturtu, að borða Dominos pítsu, að ég hugsaði hvað í fjandanum ég hafi verið að gera síðastliðnar átta vikur. Mér fannst ótrúlegt að sjá fólk lifa svona allt öðruvísi en við gerum á Íslandi. Á þessu augnabliki áttaði ég mig á því hvað ég hef það rosalega gott.“   Fjármagna ferðina sjálfar Hvernig hafið þið verið að fjármagna verkefnið og hvernig getur fólk lagt ykkur lið? „Við höfum verið að vinna í sjúkragæslu á framhaldsskólaböllum í Reykjavík núna í vetur sem hefur gengið ótrúlega vel. Það er bæði skemmtilegt en á sama tíma er það oft mjög krefjandi. Við vorum með eina netsöfnun í haust og svo höfum við einnig verið að selja sjúkratöskur. Næsta fjáröflun okkar er BINGÓ sem verður í kvöld í Eirbergi sem er húsnæði hjúkrunarfræðinema, það er staðsett við hlið Landspítalans við Hringbraut,“ segir Herdís. Ef fólk vill leggja Herdísi og stelpunum lið þá getur það lagt inn á þennan reikning: 0323-13-302664 kt: 300194-2659. „Reikningurinn er stílaður á Guðnýju Björg Sigurðardóttur sem er ein af þeim sem fer með okkur út. Svo hvet ég alla sem verða á höfuðborgarsvæðinu í dag að hita upp bingóvöðvana og kíkja til okkar í BINGÓ, vinningarnir eru hreint stórkostlegir. Meðal annars gjafabréf í Sölku og á Slippinn, það er sko eitthvað! Svo viljum við auðvitað þakka öllum þeim sem hafa stutt okkur kærlega fyrir stuðninginn. Það eru allir svo liðlegir og tilbúnir til þess að styðja við bakið á okkur, það er ómetanlegt að eiga svona gott fólk í kringum okkur.“ Þeir sem vilja fylgjast með ferðinni og undirbúningnum fyrir hana þá er snapchatið hjá stelpunum: hjalparstarf17. Einnig eru þær með like-síðu á Facebook: Hjúkrunarnemar í Zambíu.    

Af hverju siglir Herjólfur ekki í Landeyjahöfn?

ENGELBERT HUMPERDINCK á leiðinni - Í Hörpu 26. júní

Goðsögnin Engelbert Humperdinck, sem sló svo eftirminnilega í gegn með stórsmellunum, Release me, The Last Waltz, Quando, Quando, Quando og mörgum, mörgum fleirum, er á leið til landsins og heldur tónleika ásamt stórhljómsveit í Eldborgarsal Hörpu 26.júní.   Ótrúlegur ferill – ótrúlegar vinsældir   Ferill Engelbert Humperdinck spannar rétt tæp 50 ár og hefur hann selt 140 milljón hljómplötur, fengið 64 gullplötur og 35 platinum plötur, fjórar Grammy tilnefningar, tilnefningu til Golden Globe verðlaunanna og fengið nafnið sitt á stjörnu á „Hollywood walk of fame“, „ Las Vegas walk of fame“ og „Leicester walk of fame“. Hann hefur fjórum sinnum skemmt fyrir Elísabetu Englandsdrottningu, skemmt nokkrum forsetum og mörgum öðrum fyrirmennum og þjóðhöfðingjum. Hann hefur hljóðritað nánast allar tegundir tónlistar, allt frá rómantískum ballöðum til kvikmyndatónlistar, diskó, rokk og jafnvel gospel. Einstök rödd hans hefur dáleitt milljónir aðdáenda um allan heim. En það er ekki bara röddin, heldur persónan sjálf og hans einstaki húmor sem gerir hann að þeirri stórstjórnu sem hann hefur verið í marga áratugi.   Miðasala hefst fimmtudaginn 6.apríl klukkan 10 á hádegi. Allar nánari upplýsingar á harpa.is.     Meira um Engelbert Humperdinck     Engelbert Humperdinck ætlaði sér aldrei að verða söngvari. Vissulega hafði hann áhuga á tónlist og stefndi jafnvel á frama, en feimniin var honum fjötur um fót. Hann var yngstur tíu systkina og bjó ásamt fjölskyldu sinni í Leicester á Englandi, en ólst upp í Madras á Indlandi, þar sem faðir hans gegndi herþjónustu í seinni heimstyrjöldinni. Í æsku bjó hann við mikla ást foreldra sinna og systkina. Hann vissi alltaf að hann hefði ágætis söngrödd, en kraftur hennar kom honum og öðrum á óvart. „Hún er kraftmikil, en ég áttaði mig á því að ég gæti líka notað hana með mýkt á sama tíma“. Eins og allar goðsagnir er hann maður mikillar breiddar – karlmannlegur og ástríðufullur, feiminn að innan en með óhindraða sviðsframkomu, tilbúinn að vera kyntákn og á þessum tíma feril síns kemst hann alveg upp með það. „Ég erfði söngröddina frá móðurfjölskyldunni minni. Pabbi var hins vegar ímynd karlmennskunnar – sterkur, íþróttamannslegur og heillandi. Ég hef sjálfur mjög gaman af karlmannlegum hlutum. Ég elska íþróttir, golf, tennis, bardagaíþróttir, fótbolta, skíði, en á sama tíma kann ég vel að meta konur“   Engelbert var skírður Arnold George Dorsey. Þegar hann var 11 ára byrjaði hann að stúdera tónlist og lærði að spila á saxófón. Þegar hann var 17 ára byrjaði hann að skemmta á bar þar sem söngkeppnir voru haldnar reglulega. Vinir hann mönuðu hann til að taka þátt í einni slíkri, hann lagði saxófóninn til hliðar og sýndi í fyrsta sinn á sviði aðra leynda hæfni sem hann bjó yfir: eftirhermur. Arnold George Dorsey hermdi á ótrúlegan hátt eftir Jerry Lewis – og fékk strax viðurnefnið Gerry Dorsey af aðdáendum sínum, sem varð svo fyrsta sviðsnafnið hans. Gerry Dorsey varð mjög vinsæll í breska tónlistarheiminum og árið 1959 gaf hann út fyrstu smáskífu sína sem hét Crazybells / Mister Music Man“.   Fljótlega eftir það fékk hann þó berkla, missti röddina í hálft ár sem batt næstum enda á tónlistarferil hans. Þegar hann náði sér, vissi Gerry Dorsey að hann þyrfti að losa sig við fyrri ímynd sína til að ná endurkomu. Fyrrum umboðsmaður hans stakk upp á nýju nafni, Engelbert Humperdinck sem hann fékk að láni frá austurísku tónskáldi, sem samdi meðal annars óperuna Hansel and Gretel. Nafnið þótti nógu öfgafullt til að verða eftirminnilegt og þar með fæddist goðsögnin Engelbert Humperdinck. Engelbert kom með krafti inn í tónlistarheiminn á sjötta áratugnum samhliða Bítlunum og Rolling Stones. Þessi feimni strákur varð nánast strax alþjóða goðsögn. Hann varð mikill vinur Elvis Presley og sungu þeir oft lög hvors annars. Fyrsta smáskífa hans á vinsældarlista var Release Me, og komst hún í Heimsmetabók Guinness fyrir það að ná heilum 56 vikum á vinsældarlista. Lagið náði fyrsta sæti í alls 11 löndum. Næstu áratugi ferðaðist Engelbert um allan heim þar sem tónleikar hans seldust upp hver á fætur öðrum. Engelbert hefur dálæti af hverri einustu mínutu sem hann er á sviði, en sviðið er sá staður þar sem hann getur sleppt af sér beislinu og er ekki lengur feimni strákurinn sem hann upphaflega var.     Miðasala á tónleika Engelbert Humperdinck í Hörpu hefst fimmtudaginn 6. apríl klukkan 10. Allar nánari upplýsingar á harpa.is    

Náttúrulega bara Eyjapeyi

Páll Magnússon er fyrrverandi fjölmiðlamaður og útvarpsstjóri. Páll eða Palli Magg eins og hann er kallaður er uppalinn í Eyjum en segist því miður hafa fæðst í Reykjavík. Faðir Páls var Magnús H. Magnússon bæjarstjóri í Vestmannaeyjum og síðar þingmaður og ráðherra Alþýðuflokksins. Það kom því mörgum í opna skjöldu þegar Páll bauð sig fram til Alþingis fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Páll náði góðum árangri og er nú fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis. Eins og maður hafi aldrei farið   Hver er Páll Magnússon? ,,Ja, stutta svarið er náttúrulega bara Eyjapeyi. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að heimili manns sé þar sem hjartað er en ekki þar sem hatturinn er eins og segir í dægurlaginu. Ég hef alltaf sótt mikið til Eyja. Kom heim að vinna öll sumrin eftir að ég fór í nám í Reykjavík og þar til ég fór í þriggja ára útlegð til Svíðþjóðar. Þar lærði ég stjórnmálasögu og stjórnmálafræði. Árin sem ég var í Svíþjóð kom ég ekkert heim, hafði ekki efni á því, en vann bara þar úti á sumrin.“ ,,Æskuslóðirnar heima í Eyjum og uppeldið mótuðu mig,“ segir Páll og bætir við að hann komi nú æ oftar til Eyja og stoppi þar lengur. ,,Það er sérkennileg og skemmtileg upplifun að finnast eins og maður hafi aldrei farið neitt, maður tekur bara þráðinn upp aftur. Í Eyjum eru ræturnar,“ segir Páll með dreymandi augu. Áður en Páll flutti til Svíþjóðar 1975 eignaðist hann dótturina Eir með fyrri konu sinni og síðar eignuðust þau aðra dóttur, Hlín. Með núverandi eiginkonu sinni, Hildi Hilmarsdóttur, á Páll dótturina Eddu Sif og soninn Pál Magnús. Barnabörnin eru fimm talsins. Að loknu námi í Svíþjóð kenndi Páll einn vetur í Þinghólsskóla í Kópavog og annan í Fjölbraut í Breiðholti og réði sig svo sem blaðamann á Vísi.   Lét bara vaða og bauð sig fram ,,Ég hef verið alla mína hundstíð í fjölmiðlum fyrir utan tvö ár eða svo þegar ég vann hjá Íslenskri erfðagreiningu sem framkvæmdastjóri upplýsinga- og samskiptasviðs. Ætlaði þá að kveðja fjölmiðlabransann sem ég hafði starfað í frá því er skóla lauk, en hann togaði í mig aftur. Það er mín reynsla og margra annarra að eftir langvarandi hark í fjölmiðlum þá virka önnur störf fremur daufleg og tilbreytingalítil. Ég sogaðist inn í þetta aftur og hef verið í fjölmiðlatengdum störfum þar til ég sneri við blaðinu núna,“ segir Páll. Páll var hvattur til þess að bjóða sig fram til Alþingis og hlutirnir gerðust hratt í framhaldinu. ,,Ég held því fram að allar mikilvægustu ákvarðanirnar í lífinu taki maður eftir tilfinningu en ekki eftir útpældri rökhyggju eða útreikningum. Ég var með í höndunum mjög álitlegt tilboð um spennandi og skemmtilegt fjölmiðlastarf, en ákvað að ögra sjálfum mér einu sinni enn. Klukkutíma áður en framboðsfrestur í prófkjörinu rann út ákvað ég að láta vaða og bauð mig fram.“   Samfylkingin langt frá Alþýðuflokki föður míns Hvers vegna bauð Páll sig fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn alinn upp á krataheimili? ,,Það eru eiginlega tvö svör við þessu. Í fyrsta lagi hefur Sjálfstæðisflokkurinn um áratuga skeið staðið næst mínum stjórnmálaskoðunum. Ég hef að vísu alltaf verið í þannig störfum að ég hef þurft að halda mínum stjórnmálaskoðunum nánast leyndum, eða bara fyrir sjálfan mig og mína nánustu. Og hafi það komið einhverjum á óvart að ég bauð mig fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn bendir það til að mér hafi bara tekist það bærilega!“ Páll heldur áfram: ,,Í öðru lagi gerðu sumir ráð fyrir því að ég hefði sömu stjórnmálaskoðun og pabbi minn. Ég hef ég haldið því fram, mörgum Samfylkingarmönnum til óyndis nokkurs, að ef karl faðir minn hefði verið að velja sér flokk í dag þá hefði hann ekki valið flokk á borð við þann sem Samfylkingin er núna. Það er nefnilega skoðun mín að Alþýðuflokkurinn sem faðir minn tilheyrði sé býsna langt frá þeirri Samfylkingu sem nú segist vera flokkur íslenskra jafnaðarmanna. Það á auðvitað ekki að gera látnu fólki upp skoðanir en ég tel líklegt að faðir minn hefði arkað sömu leið og ég við núverandi aðstæður í íslenskri flokkapólitík.“   Skotlistinn á teikniborðinu Þingmenn Suðurkjördæmis reyndu í tvígang að heimsækja Eyjar í síðustu kjördæmaviku en það tókst ekki vegna samgangna. Páll sem fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis segist hafa lagt mikla áherslu á að fara til Eyja þrátt fyrir að kjördæmaviku væri lokið. ,,Full sátt var meðal þingmanna Suðurkjördæmis um að fara til Eyja sem við og gerðum 10 dögum seinna. Ég legg á það áherslu að við, þessir 10 þingmenn Suðurkjördæmis, tökum þau mál sem þverpólitísk samstaða ríkir um og vinnum þau saman. Hvert í sínum þingflokki og hvert í sinni þingnefnd. Við eigum að geta unnið sameiginlega að mörgum úrlausnarefnum fyrir kjördæmið og þannig sett meiri þyngd á bak við þau en ef við værum að potast hvert í sínu horni“. Páll segir að næst á döfinni sé að kalla saman þingmenn Suðurkjördæmis. ,,Þar förum við yfir niðurstöðurnar úr þessum heimsóknum okkar og samræðum við heimamenn og búum okkur til skotlista yfir helstu úrlausnarefni á þeim grundvelli. Síðan reynum við sameiginlega að þoka þessum málum til viðunandi niðurstöðu á kjörtímabilinu.“ Spurður hvort þetta sé ný nálgun, svarar Páll. ,,Ég hef ekki samanburð en eftir því sem ég best veit var þetta ekki unnið svona á síðasta kjörtímabili.“   Skóla- og löggæslumál í lagi, heilbrigðisþjónusta og samgöngur ekki ,,Í Eyjum eru fyrst og fremst fjórir snertipunktar á milli bæjarins og ríkisins. Skólamál sem snúa að framhaldsskólastiginu, löggæslumál, samgöngumál og heilbrigðisþjónusta. Ég held að í öllum meginatriðum séu löggæslu- og skólamál í lagi.“ Áfram heldur Páll alvarlegur: ,,Heilbrigðisþjónustan er hins vegar fjarri því að vera í lagi. Hún hefur snarversnað á síðustu árum og sameiningin í Heilbrigðisstofnun Suðurlands 2014 hefur ekkert hjálpað í þeim efnum; raunar síður en svo.“ ,,Við þekkjum öll umræðuna um fæðingarþjónustuna. Það liggur fyrir það álit sérfræðinga að með tilliti til allra aðstæðna og öryggissjónarmiða beri að halda hér úti fæðingarþjónustu á svokölluðu ,,C1'“ stigi samkvæmt flokkun Landlæknis og haga mönnun skurðstofu samkvæmt því. Þetta er ekki gert og því miður virðist vera takmarkaður vilji hjá yfirstjórn-endum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands til að ráða bót á þessu. Þetta mál verður þá að takast upp á hinum pólitíska vettvangi því það er auðvitað óboðlegt að bæjarfélag á borð við Vestmannaeyjar skuli búa við miklu lakari heilbrigðisþjónustu en raunin var bara fyrir nokkrum árum - og það öryggisleysi sem því fylgir.“   Úrbætur þangað til nýja ferjan kemur ,,Nú hafa menn ýmsar skoðanir á Landeyjahöfn og hvort bíða hefði átt með smíði ferjunnar þar til búið væri að leysa vandamálin með höfnina og þar fram eftir götunum. En við verðum alltaf að reyna að spila sem best úr þeirri stöðu sem við erum í á hverjum tíma - og hér erum við; nýja ferjan kemur á næsta ári, sem betur fer tókst að tryggja það í gildandi fjárlögum, og við sjáum svo hvernig hún spilar með höfninni,“ segir Páll og bætir við: ,,Það verður hins vegar að halda áfram að bæta höfnina til þess að upphafleg markmið um samgöngubætur standist. “ ,,Það eru hins vegar nokkrir hlutir í samgöngumálum sem þola enga bið og þarfnast lagfæringar strax. Það verður að auka ferðatíðnina - sérstaklega yfir sumartímann og þegar Landaeyjahöfn er opin. Það er ekki hægt að láta skipið liggja lungann úr deginum við bryggju þegar fullt af fólki er að bíða eftir ferðum. Það þarf að auka ferðatíðnina strax í sumar og þoka málum í þá átt að jafna fargjöld. Eins og þetta er núna þá margfaldast kostnaður þeirra sem þurfa að koma og fara frá Eyjum við það að Landeyjahöfn verði ófær og siglt er í Þorlákshöfn.“ Páll heldur áfram með þunga í röddinni: ,,Það kostar langleiðina í 30 þúsund kall fyrir fólk að fara með tvö börn og bíl, það er algjörlega fáránlegt. Það er hægt að fljúga til London fyrir sama pening. Það er verið að refsa fólki tvöfalt þegar ekki er hægt að sigla í Landeyjahöfn, gera ferðalagið erfiðara og margfalt dýrara.“   Öryggi Eyjamanna minnst á landinu Páll er hugsi smá stund en segir svo ,,Þegar þú leggur saman þessa samgöngulegu og veðurfarslegu þætti við stöðuna á spítalanum í Vestmanneyjum - og staðsetningu sjúkraflugvélar á Akureyri - þá er ég alveg klár á því að þegar upp koma slys og bráðaveikindi er öryggi íbúa minnst í Vestmannaeyjum á öllu landinu. Það verður að bæta úr þessu,“ segir fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis alvarlegur í bragði.   Samfélagssátt um afgjald af auðlindum Hvaða skoðun hefur fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis á auðlindagjaldi í sjávarútvegi? ,,Um sjávarútveginn vil ég segja að núgildandi aflamarkskerfi er í öllum aðalatriðum mjög gott. Það tryggir sjálfbæra nýtingu á auðlindinni og hámarkar arðsemina af henni fyrir þjóðina í heild. Við þurfum hins vegar að ná sem mestri samfélagslegri sátt um það hvernig afgjaldi fyrir afnot af auðlindinni skuli háttað. Núverandi veiðileyfagjald er ekki heilagt í mínum huga; við verðum bara að gæta þess að gjaldtakan minnki ekki heildararðsemina í greininni. Við erum að mörgu leyti með besta og arðsamasta sjávarútveg í heimi og þurfum að tryggja að svo verði áfram.“   Órjótandi möguleikar, að því gefnu að samgöngur séu í lagi Nú er Páll komin á flug. ,,Af því að við erum að tala um Eyjar í samhengi við gjaldeyrisöflun þá held ég fáir staðir á Íslandi séu betur settir í því samhengi. Við erum sennilega sterkasta sjávarútvegspláss á landinu, miðað við margumtalaða höfðatölu, og við erum með sum af glæsilegustu fyrirtækjum landsins í þeim geira staðsett í Vestmannaeyjum. Og möguleikar okkar í ferðaþjónustu eru nánast óþrjótandi að því gefnu að samgöngur séu í lagi”. Áfram heldur Páll og er heitt í hamsi: ,,Stór hluti af þeim tveimur milljónum ferðamanna sem koma til landsins árlega aka framhjá afleggjaranum niður í Landeyjahöfn. Stóran hluta af árinu er enginn valkostur fyrir ferðamenn að taka hægri beygjuna niður í Herjólf og búa sér til dagsferð eða lengri til Eyja. Þorlákshöfn er ekki valkostur í þessu samhengi. Þegar Landeyjahöfn er opin þarf að auka tíðni ferða. Skipið þarf að ganga stöðugt fram og til baka eins og ferjur gera víðast hvar. Þær standa ekki bundnar við bryggju lungann úr deginum eins og gerist meira að segja yfir hábjargræðistímann á sumrin flesta daga í Eyjum.“ ,,Með þeim samgöngubótum sem fyrirhugaðar eru verður hægt að margfalda umfangið við móttöku ferðamanna. Þegar við horfum fram á veginn þá felast vaxtarmöguleikar Vestmannaeyja í móttöku ferðamanna annars vegar og vaxandi þróunarstarfi og nýsköpun í sjávarútvegi hins vegar. Þetta tvennt kemur til með að bera Vestmannaeyjar uppi tekjulega og atvinnulega næstu áratugina, að því gefnu að samgöngur verði í lagi,“ segir Páll Magnússon.   Langt frá hugmynd að framkvæmd Páll var kosinn á þing í lok október á síðasta ári. Það tók nokkurn tíma að ná saman ríkisstjórn og því hefur Páll í rauninni ekki setið við eiginleg þingstörf nema í þrjá mánuði eða svo. ,,Þingstörfin leggjast að flestu leyti vel í mig. Það er skemmtileg ögrun svona seint á starfsævinni að fara úr einhverju sem maður er búinn að gera alla starfsævina og vinda sér yfir í allt annað. Það má kannski segja að ég hafi að sumu leyti verið óbeinn þátttakandi í íslenskri póltík sem fjölmiðlajaxl. En þetta er spennandi og öðruvísi en ég hef átt að venjast“. ,,Lengst af hef ég verið í stjórnunarhlutverki í fjölmiðlaheiminum þar sem ofboðslega stuttur tími líður frá hugmynd að ákvörðun. Það er öðruvísi í pólitíkinni, þar er langt á milli hugmyndar og þess að eitthvað verði úr henni. Og það er ástæða fyrir því. Lýðræðislegur ákvörðunarferill tekur langan tíma. Hugsunin er auðvitað sú að þannig sé vandað til verka. Menn geta svo haft alls konar skoðanir á því hvort sú sé raunin! Ég er í lærdómsferli og er að stilla mig inn á þessi vinnubrögð,“ segir nýi þingmaðurinn. ,,Þetta er allt talsverð opinberun fyrir mann eins og mig sem hélt að ég þekkti þetta. Búinn að vera meðal annars þingfréttamaður, þótt það hafi verið fyrir tæplega 100 árum, þá taldi ég mig hafa talsverða nasasjón af því hvernig þetta færi allt saman fram“ segir Páll og hlær. ,,Það er margt eins og ég hafði séð en annað kom mér talsvert á óvart. Til dæmis hversu umfangsmikið starfið er í nefndunum. Ég var gerður að formanni í atvinnuveganefnd og sit auk þess í fjárlaganefnd og má hafa mig allan við!“   Engin fýla né seyra Páll var ósáttur við ráðherraskipan Bjarna Benediktsonar. Er gróið um heilt milli hans og formannsins? ,,Já, já, þetta er fullrætt milli mín og formannsins og það situr ekki í mér nein fýla eða seyra, enda snerist þetta ekki um mína persónu. Ég tók upp þykkjuna fyrir Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi sem er höfuðvígi Sjálfstæðisflokksins. Það lýðræðislega umboð sem skapaðist fyrst með óvenju afgerandi niðurstöðu úr prófkjöri og síðan með úrslitunum í kosningunum sjálfum, þar sem flokkurinn jók verulega fylgi sitt og bætti við sig fjórða kjördæmakjörna þingmanninum, var með þeim hætti að oddviti flokksins í kjördæminu átti að sitja í ríkistjórn.Formaðurinn hefur síðan útskýrt sín sjónarmið sem ég tel mun léttvægari en mín. Við það situr og áfram veginn!“   Duglegasti maðurinn í Eyjum Sem þingmaður þarf Páll Magnússon að þekkja sitt heimafólk, hann stóðst prófið þegar blaðamaður spurði hann hver væri duglegasti maðurinn í Vestmannaeyjum; spurning sem hann hafði verið beðinn sérstaklega fyrir. Eftir góða hláturroku svarar Páll,, Hverjum gæti dottið í hug svona spurning? Það eru margir duglegir í Eyjum en ef ég á að velja einn þá er það hann Hanni harði,“ segir Páll og hlær dátt þegar blaðamaður upplýsir hann um að spurningin væri einmitt frá Hanna harða sjálfum eins og hann kýs að kalla sig, kominn.  

Vatnsútflutningur til viskígerðar hjá Ísfélaginu - aprílgabb

Ísfélag Vestmannaeyja hefur síðustu misseri framleitt fiskimjöl undir nafninu Royal Meal fyrir skoska laxaframleiðandann Loch-Duart, en þessi laxaframleiðandi er í hávegum hafður hjá kokkum um allan heim.   Besta mögulega hráefnið „Eitt leiðir af öðru“ segir Stefán Friðriksson um samkomulagið sem handsalað var í byrjun árs. „Loch Duart menn framleiða besta lax í heimi og kaupa því besta mögulega hráefni sem til er. Þeir fjárfestu nýlega í þekktum skoskum viskíframleiðanda sem óskar eftir besta mögulega vatni í sína framleiðslu“. Aðspurður segir Stefán að áhætta Ísfélagsins sé ekki mikil enda ekki þörf á neinni fjárfestingu og húsið og lóðin nýtist rekstri félagsins vel gangi áformin ekki upp.   Í markaðssetningu er nauðsynlegt að hafa góða sögu til að segja viðskiptavinunum. Eyjafjallagosið, Vestmannaeyjar og hreinleikinn er efnisviður í slíka sögu.   Fyrstu gámarnir út í júlí „Skoski framleiðandinn hefur staðfest að vatnið undan Eyjafjöllum er fullkomið til viskígerðar“ segir Sigurbergur sem er spenntur fyrir nýjum starfsvettvangi. Ekki er um að ræða mikinn útflutning en 5 gámar verða fluttir út í júlí og um 100 á ársgrundvelli. „Þetta er fyrst og fremst ákveðin fótfesta fyrir frekari landvinninga“ segir Sigurbergur en verkefni hans munu snúast að mestu um það.   Opið hús í dag Opið hús verður í dag milli kl. 10-13 og gefst þar tækifæri að kynnast vatninu okkar enn betur, smakka viskí og skoða húsakynnin.  Uppfært:Eins og glöggir lesendur hafa getið sér til var hér á ferðinni aprílgabb á vegum Eyjafrétta og Ísfélagsins.  

Frábært tækifæri fyrir einstaklinga sem vilja styrkja stöðu sína á vinnumarkaði

Síðustu ár hefur Viska sömuleiðis verið með raunfærnimat í skipstjórn þar sem árlega hafa um 25 – 26 einstaklingar lokið mati í greininni. Raunfærnimat er spennandi tækifæri fyrir alla sem vilja styrkja stöðu sína á vinnumarkaði og fá færni sína metna að verðleikum.   Miðvikudaginn 15. mars voru 11 einstaklingar útskrifaðir úr raunfærnimati Visku, fræðslu- og símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja, níu í leikskólaliðanum og tveir í stuðningsfulltrúanum. Fyrir þá sem ekki þekkja þá er raunfærnimat frábært tækifæri fyrir einstaklinga sem vilja styrkja stöðu sína á vinnumarkaði en það gengur út á að kortleggja færni einstaklinga og auka möguleika þeirra til að bæta við sig í námi eða annarri uppbyggingu. Margir einstaklingar á vinnumarkaðnum hafa í gegnum áralanga reynslu byggt upp umtalsverða færni, en ekki lokið námi af einhverjum ástæðum. Þessir einstaklingar búa yfir raunfærni sem vert er að skoða og meta. Raunfærni er samanlögð færni sem einstaklingur hefur náð með ýmsum hætti, s.s. starfsreynslu, starfsnámi, frístundanámi, skólanámi, félagsstörfum og fjölskyldulífi.   Tveir þriðju hlutar karlmenn Til þess að geta orðið þátttakandi í raunfærnimati þarf viðkomandi að vera orðin 23 ára og hafa að lágmarki þriggja ára starfsreynslu á viðkomandi sviði. Á vefsíðunni naestaskref.is er hægt að skoða hvernig færni viðkomandi passar við hæfniþætti hinna ýmsu starfa með því að gera gróft yfirlitsmat á færni í tilteknum fögum. Í dag er á sjötta tug faga í boði, allt frá bakaraiðn til blikksmíði og allt þar á milli. Árið 2016 luku alls 516 einstaklingar raunfærnimati og er það nokkur fjölgun frá árinu áður þegar 450 manns luku mati. Tveir þriðju hlutar þeirra sem kláruðu voru karlmenn (66%) og einn þriðji hluti konur (34%) og var meðalaldurinn rétt tæp 40 ár. Alls hafa 3.952 einstaklingar lokið raunfærnimati frá árinu 2004 og er það 7.2% af heildarmarkhópi framhaldsfræðslunnar (þeir sem ekki hafa lokið námi úr framhaldsskóla) en sá hópur telur um 55.000 manns og er 28% fólks á vinnumarkaði. Undanfarin ár hefur verið algengara að fólk ljúki raunfærnimati á brautum sem ekki teljast til iðngreina og rímar það ágætlega við vinsældir bóknámsins á kostnað hins fyrr nefnda. Eins og fyrr segir var þetta tiltekna raunfærnimat ætlað ófaglærðum leiðbeinendum í leik- og grunnskólum og einnig ófaglærðu starfsfólki við aðhlynningu. Í framhaldi raunfærnimatsins er síðan í boði að ljúka náminu í leikskólaliðanum og stuðningsfulltrúanum í gegnum Fræðslunet Suðurlands á Selfossi. Þessar námsleiðir eru í boði núna í fjarkennslu og munu nemendur hafa aðstöðu í Visku. Meirihluti þeirra sem nú hafa útskrifast úr raunfærnimatinu stefna á að fara í námið sem hefst í haust. Raunfærnimatið í þessum greinum er enn í boði hjá Visku og er verið að safna í nýjan hóp. Áhugasamir geta sent Sólrúnu Bergþórsdóttur, náms- og starfsráðgjafa, tölvupóst á netfangið solrunb@eyjar.is.   Matsviðtöl gegnum Skype Viska hefur síðustu ár þróað raunfærnimat í skipstjórn en það hefur verið í gangi frá árinu 2013. Árlega hafa að meðaltali 25 – 26 einstaklingar lokið raunfærnimati í þessari grein og koma þeir víða að af landinu en það stendur til boða að fara í svokölluð matsviðtöl í gegnum skype í sinni heimabyggð.Viska hefur einnig verið með raunfærnimat í verslunarfagnámi, vélstjórn, fisktækni og nú síðast í leikskólaliðanum og stuðningsfulltrúanum. Að auki er Viska í samstarfi við Iðuna fræðslusetur sem sér um raunfærnimat í iðngreinum og er hægt er að fara í gegnum slíkt mat í gegnum Visku og heldur Sólrún Bergþórsdóttir utan um það ferli. Í slíku samstarfi hafa einstaklingar úr Eyjum farið í gegnum raunfærnimat í matartækni, netagerð, vélstjórn, vélvirkjun, stálsmíði, rennismíði, húsasmíði og sjókokkinn, svo eitthvað sé nefnt.   Smári Björn Þorvaldsson: Fékk metnar 50 vikur af samningi og 11 áfanga   Í framhaldi af raunfærnimati býður náms- og starfsráðgjafi Visku upp á ráðgjöf varðandi mögulegt nám í framhaldi. Smári Björn Þorvaldsson er einn þeirra sem hefur reynslu af því að fara í nám eftir raunfærnimat en í matinu fékk hann m.a. heila 11 áfanga metna í húsasmíðanámi sem hann klárar núna í vor. Hafðir þú starfað lengi við smíðar áður en þú fórst í raunfærnimat? „Ég hafði starfað í rúm fimm ár en ég byrjaði að vinna hjá Steina og Olla ehf. í ágúst 2010,“ segir Smári Björn en eins og fyrr segir styttist námið töluvert eftir raunfærnimat. „Námið styttist frekar mikið. Ég fékk metið 50 vikur af smíðasamningnum og 11 áfanga metna.“ Smári segir stöðuna á sér í dag vera góða en hann hefur verið að sækja nám á Sauðarkrók og stefnir á að klára í maí. „Ég var að klára síðustu helgina mína í Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra. Þó um langa leið sé fyrir mig að sækja nám á Sauðárkróki þá var það skásti kosturinn vegna þess að þar er í boði helgarlotunám fyrir húsasmíði og húsgagnasmíði. Þar er líka frábært smíðaverkstæði og mjög góðir og liðlegir kennarar. Svo fer ég 18. maí næstkomandi í mína 13. ferð á Krókinn og tek sveinsprófið,“ segir Smári sem útilokar ekki að halda áfram í meistaranám í framtíðinni. „Já kannski síðar en ekki í bráð.“   Georg Skæringsson: Brillíant leið fyrir þá sem hafa t.d. verið á sjó   Svipaða sögu er að segja af Georg Skæringssyni en hann hefur lokið námi í skipstjórn eftir að hafa farið í raunfærnimat í greininni. Georg kláraði námið í lok árs 2015 en áður hafði hann verið í vélstjóranámi og klárað réttindi á 1500 kW skip. Hvað fékkstu mikið metið í náminu? „Af þeim fögum sem var í boði fékk ég allt metið nema eitt en ég hafði þá áður tekið réttindi á 1500 kW í Eyjum. Eftir það tók ég ársfrí og fór í raunfærnimat þar sem ég fékk eins og ég segi allt metið nema eitt fag,“ segir Georg. Hvaða starfsreynslu hafðir þú áður en þú fórst í raunfærnimatið? „Ég var áður fyrr á sjó, á netum, loðnu og síld, svo eitthvað sé nefnt. Svo hef ég verið á Friðriki Jessyni, fyrst fyrir Hafró frá 1998 til 2000 og síðan aftur frá 2009 til dagsins í dag en báturinn er nú í eigu Þekkingarsetursins,“ segir Georg og játar því að raunfærnimatið hafi verið þess valdandi að hann hafi farið alla leið og klárað námið. „Ég var ekkert á leiðinni í neitt skipstjórnarnám en fyrst ég átti ekki það mörg fög eftir þá ákvað ég bara að klára þetta.“ Þannig þú myndir mæla með þessari leið fyrir aðra? „Þetta er alveg brillíant leið fyrir þá sem hafa t.d. verið á sjó. Námið er svokallað dreifnám sem er ekki ósvipað fjarnámi, en þar fer kennslan mikið fram á netinu, verkefni og annað slíkt. Svo er þetta bara ein og ein helgi suður þar sem maður þarf að vera á staðnum,“ segir Georg.      

Aprílsöfnun tileinkuð nýjum tækjum fyrir rannsóknarstofu

Nýlega færði Kvenfélagið Líkn Sjúkradeild HSU-Vestmannaeyjum veglega gjöf til endurnýjunar á eftirlitstækjum á sjúkradeild. Með þessum eftirlitsbúnaði er hægt að fylgjast með hjartslætti, blóðþrýstingi og súrefnismettun hjá sjúklingum, bæði rúmliggjandi en einnig fólki sem er á fótaferð. Mælingar birtast á skjá sem staðsettur er inni á vaktherbergi hjúkrunarfólks á sjúkradeild. Búnaðurinn sendir einnig viðvörun í vaktsíma hjúkrunarfræðings komi eitthvað óeðlilegt fram. Með þessum búnaði er hægt að fylgjast með fleiri sjúklingum, á stærra svæði og hjúkrunarfræðingur fær samstundis viðvörun komi eitthvað athugunarvert fram í mælingum. Verðmæti þessarar gjafar er 8.084.067 krónur. Það er mikilvægt fyrir íbúa í Vestmannaeyjum að viðeigandi tæki og búnaður sé til staðar þannig að hægt sé að veita sem besta og öruggasta heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Árlega stendur félagið fyrir svonefndri Aprílsöfnun þar sem leitað er til fyrirtækja til fjáröflunar og er þá verið að safna fyrir ákveðnu tæki eða búnaði. Að auki hefur ágóði úr 1. des kaffisölu félagsins, sölu jólakorta og minningarkorta farið til viðbótar til tækjakaupa. Hefur Kvenfélagið notið mikillar velvildar og stuðnings fyrirtækja, og einstaklinga í Vestmannaeyjum sem hefur gert því kleift að sinna hlutverki sínu. Aprílsöfnun 2016 var tileinkuð kaupum á eftirlitstækjum á sjúkradeild HSU- Vestmannaeyjum og er áætlað að sá búnaður verði tilbúinn til notkunar á næstu vikum. Árið 2017 verður Aprílsöfnun Kvenfélagsins Líknar tileinkuð nýjum tækjum fyrir rannsóknarstofu HSU-Vestmannaeyjum. Um er að ræða rannsóknartæki sem mæla hjartaensím og önnur efni sem myndast ef einstaklingur fær hjartaáfall eða blóðtappa. Eru þetta nauðsynlegar mælingar þegar um bráðaveikindi eru að ræða og mikilvæg til greiningar og til að ákveða meðferð sjúklinga. Að auki mælir tækið til dæmis skjaldkirtilshormón, B-12, Ferritin og blöðruhálskirtilshormón. Það tæki sem til var er ónýtt. Komi til bráðaveikindi þar sem grunur er um hjartasjúkdóm eða blóðtappa er í dag notast við tæki þar sem hægt er að mæla grunngildi en er mjög dýrt í rekstri og óhentugt. Aðrar mælingar þarf að senda til Reykjavíkur. Verðmæti þessa tækis er um 4.000.000 krónur. Að venju mun kvenfélagið Líkn senda út bréf til fyrirtækja hér í bæ varðandi Aprílsöfnunina. Stuðningur bæjarbúa og félagsamtaka við Heilbrigðisstofnunina er ómetanlegur og óskar stofnunin eftir að koma fram þakklæti vegna þess. Kvenfélagið Líkn var stofnað 14. febrúar 1909 og hefur markmið félagsins frá upphafi verið að styðja við sjúkrahús og heilsugæslu í Vestmannaeyjum og aðrar stofnanir með gjöfum og tækjakaupum og einnig félagasamtök, einstaklinga og fjölskyldur sem á þurfa að halda.    

Fundur umhverfis- og skipulagsráðs 28. mars

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 265. fundur haldinn í fundarherbergi Umhverfis- og framkvæmdasviðs, 28. mars 2017 og hófst hann kl. 16:05   Fundinn sátu: Margrét Rós Ingólfsdóttir formaður, Kristinn Bjarki Valgeirsson aðalmaður, Ingólfur Jóhannesson aðalmaður, Esther Bergsdóttir aðalmaður, Georg Eiður Arnarson aðalmaður, Sigurður Smári Benónýsson starfsmaður sviðs og Ólafur Þór Snorrason framkvstj.sviðs.   Fundargerð ritaði: Sigurður Smári Benónýsson, skipulags-og byggingarfulltrúi   Dagskrá:   1. 201702114 - Áshamar 32. Umsókn um byggingarleyfi Tekið fyrir að nýju erindi lóðarhafa. Ólafur Tage Bjarnason hönnuður sækir um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi sbr. innsend gögn. Erindið var sent til grenndarkynningar sbr. ákvæði skipulagslaga, engar athugasemdir bárust ráðinu.   Ráðið samþykkir byggingaráform lóðarhafa og felur byggingarfulltrúa framgang erindis.   2. 201509061 - Kleifar 2. Niðurstöður liggja fyrir í samkeppni Vinnslustöðvarinnar í samvinnu við Vestmannaeyjabæ um útlit á suðurgafli nýrrar frystigeymslu VSV við Kleifar 2. 1. Hafið kallar eftir Daníel Imsland. 2. Spegilgafl eftir Bjarka Zophoníasson. 3. Dægurlagatextar eftir Davíð Árnason og Ölduform 2 eftir Gunnar Júlíusson.   Umhverfis -og skipulagsráð vill þakka þeim sem tóku þátt í samkeppninni, sem og Vinnslustöðinni fyrir að velja þessa leið til þess að minnka neikvæð sjónræn áhrif hússins. Að því sögðu þá felur ráðið starfsmönnum sviðsins að kalla eftir upplýsingum frá VSV um það með hvaða hætti framhald málsins verði og minnir á að byggingarleyfið var veitt með fyrirvara um að gengið yrði að skilmálum Vestmannaeyjabæjar um umhverfissjónarmið svo sem ásýnd suðurveggjar.     3. 201703041 - Kleifar 6. Umsókn um byggingarleyfi Jón Bryngeir Skarphéðinsson f.h. Hampiðjunar sækir um leyfi fyrir girðingum við lóðarmörk sbr. innsend gögn.   Ráðið samþykkir girðingar og bendir á að girðing til norðurs skal fylgja byggingarreit lóðar.     4. 201703040 - Vestmannabraut 63B. Umsókn um byggingarleyfi Tekið fyrir erindi lóðarhafa. Valur Andersen sækir um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi sbr. innsend gögn.   Ráðið samþykkir byggingaráform lóðarhafa og felur byggingarfulltrúa framgang erindis.     5. 201703020 - Faxastígur 36. Umsókn um stöðuleyfi Friðrik Egilsson f.h. húseigenda sækir um stöðuleyfi fyrir gámi við matshluta 0102 sbr. innsend gögn.   Erindi samþykkt.     6. 201610058 - Ofanbyggjaraland. Samningar. Samningsform túnasamninga lagt fyrir ráðið.   Ráðið leggur til við bæjarstjórn að samningsform verði samþykkt.     7. 201703042 - Umhverfismál 2017 Umhverfisátak 2017, umræður. Sl. ár hefur Umhverfis- og skipulagsráð skipulagt hreinsunardag sem alla jafna hefur verið haldinn í byrjun maí. Þátttaka hefur verið dræm, en nokkur félagasamtök hafa þó séð um svæði sem þeim er úthlutað og er þeim hér með þakkað fyrir ómetanlegt framlag sitt.   Umhverfis -og skipulagsráði þykir mikilvægt að auka umhverfisvitund hér í Vestmannaeyjum. Í ár mun ráðið því ekki skipuleggja einn sérstakan hreinsunardag, heldur leggur til að við öll, einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök, förum í sameiginlegt átak um að gera Vestmannaeyjar að snyrtilegasta bæjarfélagi landsins með því að hreinsa til á lóðum okkar og í okkar nærumhverfi, í gönguferðum eða hvar sem þarf að láta hendur standa fram úr ermum. Félagasamtök sem vilja taka sín hefðbundnu svæði er að sjálfsögðu heimilt að halda því áfram.   Átakið hefst þegar í stað og stendur til 7.maí nk. Hægt verður að nálgast poka á opnunartíma Umhverfis -og framkvæmdasviðs að Skildingavegi 5 og starfsmenn bæjarins munu hirða upp alla poka og annað sem fellur til eftir ruslatínsluna.   Hreinsun á garðúrgangi og rusli: Austurbær: 27.-30.apríl Vesturbær: 1.maí-3.maí Miðbæjarsvæði: 4-7.maí   Ráðið felur starfsmönnum tæknideildar að kynna átakið, en einnig verður hægt að fylgjast með framvindunni á facebook, undir viðburðinum „Einn poki af rusli“.       8. 201703090 - Bréf til ráðsins. Tekið inn með afbrigðum bréf frá íbúa að Vestmannabraut 63A. dags. 27.3.2017. Bréfritari óskar eftir upplýsingum um byggingarmagn og lóðarmörk lóðar nr. 63B og spyr hvort lóðir nr. 61 og 63B hafi verið auglýstar á einhverjum samfélagsmiðli. Að auki óskar bréfritari eftir kynningu á teikningum lóðarhafa.   Umhverfis -og skipulagsráð þakkar bréfið. Ráðið bendir bréfritara á að öllum lóðum við Vestmannabraut er úthlutað skv. gildandi deiliskipulagi eins og fram kemur í bókun síðasta fundar ráðsins.   Það er álit Umhverfis -og skipulagsráðs að það deiliskipulag sem liggur fyrir, frá árinu 2015, sýni með afgerandi hætti hvernig byggja skuli á umræddum lóðum. Athugasemdir við skipulagið komu þegar það var lagt fram til kynningar, og var tekið tillit til þeirra athugasemda og sjónarmiða sem komu fram frá nágrönnum áður en til samþykktar kom. Hægt er að kynna sér deiliskipulagið á vef Vestmannaeyjabæjar en þar liggur deiliskipulagið fyrir.   Umhverfis -og skipulagsráð felur skipulags-og byggingarfulltrúa að ræða við bréfritara.       Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:00  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Mannlíf >>

Eyjahjartað - Guðmundur Andri, Egill Helga, Bubbi og Ómar Vald

Á morgun kl. 13.00 mæta þeir Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur, Egill Helgason fjölmiðlamaður, Bubbi Mortens tónlistarmaður og Ómar Valdimarsson blaðamaður með meiru í Sagnheima og ætla að segja frá þeim löngu liðnu dögum þegar þeir ungir og óábyrgir menn dvöldu í Vestmannaeyjum.   Það er Eyjahjartað sem stendur fyrir komu þeirra fjórmenninganna. Guðmundur Andri, Egill og Bubbi höfðu boðað komu sína síðasta haust en af því gat ekki orðið en nú eru þeir ákveðnir í að mæta og hefur Ómar Valdimarsson bæst í hópinn. Hingað til hafa brottfluttir Eyjamenn rifjað upp árin í Eyjum og hafa vinsældirnar farið sívaxandi. Í byrjun mars mættu hátt í 200 manns í Einarsstofu til að hlýða á Pál Magnússon á Símstöðinni, Gísla Pálsson á Bólstað og Brynju Pétursdóttir frá Kirkjubæ. Það verður örugglega fróðlegt að fá hina hliðina, heyra hvað þjóðþekktum einstaklingum finnst um þann tíma sem þeir voru í Eyjum. Er ekki að efa að þeir Guðmundur Andri, Egill, Bubbi og Ómar eiga eftir að koma með nýjan og skemmtilegan vinkil á lífið í Vestmannaeyjum á síðustu öld.   Þau sem standa að Eyjahjartanu eru Kári Bjarnason, Atli Ásmundsson, Þuríður Bernódusdóttir og Einar Gylfi Jónsson sem lofar góðri skemmtun á sunnudaginn. Í viðtali síðasta haust sagði Einar Gylfi um spjall sem hann, Atli og Þuríður áttu við Guðmund Andra, og Bubba: „Egill vann í Ísfélaginu eina vertíð og bjó hjá Óla í Suðurgarði sem segir allt sem segja þarf. Guðmundur Andri var í móttökunni í Ísfélaginu sumarið 1974 og bjó á verbúðinni þannig að þeir voru þar sem hjartað sló örast í Eyjum á þessum tíma.“ Bubbi var miklu lengur viðloðandi Eyjarnar. Allt frá árinu 1974 til 1980 að fyrsta platan hans, Ísbjarnarblús kom út. „Hann vann í Ísfélaginu, Fiskiðjunni og Vinnslustöðinni og bjó á verbúðunum, í Landlyst og Líkhúsinu. Hann kynntist mönnum eins og Einari klink og fleirum sem settu svip á mannlífið í Eyjum á þessum árum.“   „Ég og Þura stefnum á að koma og hlökkum mikið til. Það segir sitt um frásagnagleði þeirra félaga að málglatt fólk eins og við, Gylfi í Húsavík, Atli greifi og Þura í Borgarhól komu varla að orði þegar við hittum þá. Það var mikið hlegið og það verður ekkert öðruvísi í Sagnheimum á sunnudaginn,“ sagði Einar Gylfi að endingu.   Guðmundur Andri kallar erindi sitt Núll í tombólukassa. Minningar sumarstráks. Egill kallar sitt erindi Á vörubílspallinum hjá Stebba Ungverja en Bubbi er ekki með orðalengingar og kallar sína frásögn einfaldlega Hreistur. Ómar kallar sitt erindi, Fólkið mitt í Eyjum. Einar Gylfi flytur svo lokaorð fyrir hönd undirbúningsnefndar. Dagskráin hefst stundvíslega kl. 13.00 í Sagnheimum á annarri hæð í Safnahúsinu. Kári vildi koma að þökkum til forvígismanna Eyjahjartans fyrir þeirra vinnu við að koma saman hverri dagskránni eftir aðra og hvetur sem flesta til að koma, hlusta á skemmtilega upprifjun einstaklinga sem dvöldu hér á mótunarárum og einfaldlega gleðjast með glöðum.    

Stjórnmál >>

Greinar >>

Georg Eiður - Gleðilegt sumar - Lundinn sestur upp

Að venju hefst sumarið hjá mér þegar lundinn sest upp og hann settist upp í gærkvöldi 16. apríl, sem er á þessum hefðbundna tíma. Kannski ekki beint sumarlegt veður í dag, en svona er nú einu sinni vorið okkar.   Ég ætla að vera nokkuð bjartsýnn með lunda sumarið í ár og finnst ég hafa ástæðu til, því eftir að hafa fengið nokkur þúsund bæjarpysjur bæði 2015 og 16, samfara miklu æti í sjónum allt í kring um landið og þá sérstaklega loðnu. Vonandi gengur það eftir.   Þann 28. febrúar sl. mætti ég á ágætan kynningarfund um þessa svokölluðu friðun fuglastofna í Vestmannaeyjum. Eins og við var að búast, þá eru eyjamenn almennt á móti þessu friðunar hjali, enda ekki góð reynsla af því þegar ríkið ræður yfir einhverju, samanber heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja og niðurskurðum þar, en svona blasir þetta við mér.   Umhverfisráðherra getur að sjálfsögðu hvenær sem er sett á friðun, en að öllu eðlilegu, þá gerir ráðherrann það ekki nema beðið sé um. Verði friðunin hins vegar sett á, þá verður ráðherrann að taka ákvörðun og á þeim nótum bar ég upp eina spurningu í lok fundar, sem var þannig að ef við gefum okkur það að búið sé að setja þessa friðun á og ráðherra fái inn á sitt borð ósk Vestmannaeyjabæjar um að leyfa áfram nokkra veiðidaga, en líka inn á sitt borð yfirlýsingar frá Dr. Erpi og Dr. Ingvari, að veiðar í nokkurri mynd væru ekki sjálfbærar á nokkrun hátt. Svar fulltrúa ríkisins var eins og við var að búast, að auðvitað myndi ráðherrann fyrst og fremst horfa á niðurstöðu rannsóknaraðila, Dr. Erps og Dr. Ingvars.   Þess vegna er mikilvægr að þessi friðun verði aldrei sett á og mér er eiginlega alveg sama um, hvaða fármunir þekkingarsetur Vestmannaeyja telur sig geta haft út úr þessu. Ég verð einfaldlega alltaf á móti því að færa yfirráðarréttinn á nokkru hér í Eyjum til ríkisins, sporin hræða.   Það skiptir engu máli þó að ég sé hættur að veiða og ætli mér ekki að veiða lunda oftar í Eyjum að öllum líkindum, sem er ekki bara ákvörðun sem ég hef tekið, heldur fjöl margir aðrir veiðimenn og þar með sýnt og sannað að okkur er treystandi til þess að fylgjast með og vernda okkar eigin fuglastofna.   Lundinn mun koma til Eyja í milljónatali löngu eftir að við erum farin héðan.   Georg Eiður Arnarson.