Bilun í moksturstæki

Bilun í moksturstæki

Vegna bilunar í snjómoksturstæki hjá Þjónustumiðstöð hefur ekki verið unnt að moka gangstéttir og gangstíga eins og kostur er. Beðið er eftir varahlutum að utan og verður tækið sett í gagnið um leið og mögulegt er.
 
 
Vestmannaeyjabær biðst velvirðingar á þessari bilun sem var ófyrirséð og biður vegfarendur að fara varlega í umferðinni, bæði gangandi og akandi.
 

Trausti gefur áfram kost á sér

Öskuský lagðist yfir Vestmannaeyjar þennan dag. Fyrsti heimaleikur Íslandsmótsins átti að vera daginn eftir á Hásteinsvelli, ljóst var að enginn leikur yrði spilaður í Eyjum næstu daga. Til að gera langa sögu stutta þá gekk nánast allt upp þetta tímabil eftir þetta. Eyjamenn þjöppuðu sér allir saman og studdu liðið sitt enn betur en áður. Liðinu sem hafði verið spáð falli var næstum því búið að vinna íslandsmeistaratiltilinn sem rann úr greipum í síðasta leik. Eyjamenn höfðu fjölmennt sjóleiðina suður til Keflavíkur þar sem sannkallað rússíbanatímabil endaði með dramatísku tapi.   Töfrar samfélagsins   Eftir leikinn sat ég einn í varamannaskýlinu með tárin í augunum, gegnblatur og veðurbarinn á þessum kalda haustdegi. Úti á vellinum sá ég að erlenda leikmanninn sem hafði komið í upphafi tímabils var orðinn einn af ,,okkur,, hann hágrét yfir úrslitunum, fyrstu dagana vissi hann ekki einu sinni hvar Heimaklettur var. Tilfinningin var góð, að sjá alla þessa stráka gefa sig 100% í verkefnið fyrir samfélagið af svona mikilli innlifun og sjá Eyjamenn í stúkunni klappa fyrir liðinu sínu og frábærum árangri þess á tímabilinu. Það eru einhverjir töfrar í þessu samfélagi sem ég varð oft vitni að við starf mitt sem framkvæmdastjóri kanttspyrnudeildar tímabilin 2010 og 2011. Nýir leikmenn og aðkomulið voru oft agndofa yfir fegurðinni í Eyjum og kraftinum í samfélaginu.   Spenna, sigrar og töp   Þarna varð mér ljóst að ég vildi starfa fyrir þetta samfélag og reyna að gera því gagn og berjast fyrir enn betri framtíð þess. Ég ætla því að gefa kost á mér í 2-3. sætið í röðun við val frambjóðenda á lista Sjálfstæðisflokksins. Það eru forréttindi að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í baráttunni á þessu kjörtímabili bæði í sigrum og töpum. Sigrarnir eru oft hvetjandi en töpin eru til þess að læra af og ögra mann til að gera betur. Það eru virkilega spennandi tímar framundan í Eyjum og væri það mér heiður að vera áfram þátttakandi sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins á lista fyrir bæjarstjórnarkosningarnar.   Trausti Hjaltason.  

Stærstu verðlaunin

Aðalfundur Sjóve var haldinn í gær, 10. febrúar. Ég komst nú ekki á fundinn en það rifjaðist upp fyrir mér í dag lítil veiðisaga sem ég skrifaði í eitt af blöðum Sjóve fyrir nokkrum árum síðan. Eitthvað hafði skolast til hjá mér í sambandi við nöfn og afla, svo til gamans, hér kemur sagan aftur og vonandi núna rétt.   Það var laugardaginn 18. okt. 2008 að haldið var innanfélagsmót Sjóve í Vestmannaeyjum. Ella Bogga, þáverandi formaður, hafði að sjálfsögðu falast eftir mér og mínum bát í mótið, en ég hafði óskað eftir því að fá að sleppa við þetta mót, enda þegar lofað mér í stærri og merkilegri atburð síðar þennan sama dag. Ég féllst þó á það að vera vara bátur ef eitthvað kæmi upp á og viti menn, hálf tíu um morguninn hringir Ella Bogga. Bátur á leiðinni í land með bilaða vél og um borð 3 veiðimenn með engan afla og mótið því ónýtt fyrir þeim, nema ef ég fengist til að fara.   Ég sagði við Ellu Boggu að í þetta skiptið yrði hún að fá leyfi frá konunni, sem og hún fékk, enda bæði ég og báturinn svo sem alltaf tilbúnir og við komumst af stað um 11 leytið.   Um borð voru Sigtryggur Þrastarson, Magnús Ríkharðsson og Hrafn Sævaldsson. Veðrið var gott, svona aðeins norðan kaldi. Ég byrjaði að keyra fyrir austur Elliðaey til að prófa þar í skjólinu, en varð ekkert var og frekar dauft hljóðið í öðrum skipstjórum. Ég ákvað því að prófa, þar sem lítill tími var eftir, að fara á lítinn harðann blett rétt vestan við Bjarnarey og fengum strax fallega fiska þar, sem skiluðu öllum umborð verðlaunum á lokahófinu, en Siddi fékk stærstu keilu mótsins á þessum bletti, Magnús stærsta lýrinn en Hrafn gerði best og fékk bæði stærstu löngu mótsins og stærsta þorskinn og þorskurinn reyndist vera stærsti fiskurinn sem veiddist á þessu móti.   Allt gekk sem sé upp hjá okkur þennan síðasta klukkutíma í þessu móti og vorum við fyrstir í löndun, enda lá mikið á.   En ég komst ekki á lokahófið um kvöldið, en fékk hins vegar stærstu verðlaunin í kirkjunni seinna þennan sama dag, þegar frúin kom mér gjörsamlega á óvart með því að segja já fyrir framan prestinn okkar. Þetta var nefnilega giftingardagurinn okkar.   Mörgum hefur reyndar fundist þetta skrýtið að fara á sjó á giftingardaginn, en fyrir mig þá gerir þetta daginn bara enn þá eftirminnilegri.   Vill að lokum svo minna á, að áætlað er að halda innanfélagsmót Sjóve þann 31. mars nk. en nánar upplýsingar um það mót og aðra dagskrárliði hjá félaginu á árinu er að finna inni á heimasíðu þess og á fésbókinni Sjóve Vestmannaeyjum.  

Georg Skæringsson er Eyjamaður vikunnar: Smá hnökrar sem má alltaf gera ráð fyrir í svona stóru verki

Föstudaginn 26. janúar sl. flutti Þekkingarsetur Vestmannaeyja starfsemi sína í nýtt húsnæði að Ægisgötu 2 en áður hafði Þekkingarsetrið verið til húsa að Strandvegi 50. Georg Skæringsson er umsjónamaður og verkefnastjóri ÞSV og er Eyjamaður vikunnar að þessu sinni.   Nafn: Georg Skæringsson. Fæðingardagur: 23.03.1966. Fæðingarstaður: Gamli spítalinn í Vestmannaeyjum. Fjölskylda: Kvæntur Guðnýju Björgvinsdóttur og eigum við þrjú börn, fjögur barnabörn og eitt barnabarn á leiðinni. Uppáhalds vefsíða: Facebook. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Eighties tónlist og Dire strait. Aðaláhugamál: Ferðalög, köfun og vera með fjölskyldunni. Uppáhalds app: Snapchat. Hvað óttastu: Myrkrið. Mottó í lífinu: Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig. Apple eða Android: Android. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Jesús. Hvaða bók lastu síðast: Útkallsbókina um Pelagus slysið. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Börnin og barnabörnin mín eru auðvitað uppáhalds íþróttamennirnir mínir og að sjálfsögðu ÍBV íþróttafélagið. Ertu hjátrúarfullur: Já. Stundar þú einhverja hreyfingu: Ekki í augnablikinu en stendur alltaf til. Uppáhaldssjónvarpsefni: Góðar bíómyndir, helst spennumyndir. Hvernig líst fólki almennt á nýja húsnæðið: Mjög vel það sem ég hef heyrt. Gekk allt nokkurn veginn eftir áætlun: Ja, svona smá hnökrar sem má alltaf gera ráð fyrir í svona stóru verki. En ég er alla vega sáttur með þetta. Munuð þið hugsa til gamla húsnæðisins með söknuðu: Já, að sjálfsögðu. Við vorum búin að vera svo lengi þar. En við höfum bara góðar minningar þaðan. Við vorum náttúrulega í meiri nálægð þar við hvert annað.    

Auðmjúkur og stoltur

Gerum meðan við erum

Kraftur, félag ungs fólks, er stuðningsfélag fyrir ungt fólk á aldrinum 18 til 40 ára sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra. Á heimasíðu Krafts kemur fram að á hverju ári greinast um 70 einstaklingar á þessum aldri með krabbamein og þriðjungur Íslendinga fá krabbamein einhvern tíma á ævinni. Kraftur styður ungt fólk með krabbamein með ókeypis sálfræðiþjónustu, jafningjastuðningi, almennum stuðningi, Fítonskrafti endurhæfingu, styrk til lyfjakaupa og neyðarsjóði.   Kraftur stendur nú fyrir vitundarvakningunni, Krabbamein kemur öllum við – lífið er núna. Til þess að sýna fram á það fékk Kraftur 22 einstaklinga til þess að stíga fram og deila því hvernig krabbmein hefur snert líf þeirra. Ein af þeim er Guðrún Jóna Sæmundsdóttir sem gekk við hlið sonar síns, Sigurðar Jóns Sigurðssonar í baráttu sem hann háði við krabbamein í höfði. Tilgangur átaksins er að að vekja athygli á málefnum ungs fólks og aðstandenda þeirra og afla um leið fjár til þess að halda úti víðtækri þjónustu félagsins.   Sigurður gekk æðrulaus í verkefnið Við Sigurður vorum félagsmenn í Krafti og það hjálpaði honum mikið að finna að hann var ekki einn. Það voru og eru svo margir að berjast,“ segir Guðrún Jóna ,,Sigurður leit aldrei á sig sem sjúkling, hvorki í upphafi né undir lokin. Veikindin voru ekkert númer í hans huga. Hann gekk æðrulaus í það stóra verkefni sem honum var úthlutað. Enda hafði hann sérstaka lífsskoðun,“ segir Guðrún og það fer ekki á milli mála hversu stolt hún er af Sigurði syni sínum. Hún segir að Sigurði hafi aldrei fundist það óréttlátt að hann hafi fengið krabbamein. Af hverju ekki ég eins og einhver annar var hans hugsun. „Við vissum frá fyrsta degi að þetta væri ólæknandi krabbamein, lífslíkurnar ekki miklar og að hann ætti stutt eftir. Við tókum því þann pól í hæðina að njóta tímans saman og safna minningum. Við gerðum heilmikið saman þann stutta tíma, frá því hann fékk greiningu þann 6. desember 2013 og þar til hann dó 18. janúar 2016.“   Hægt er að nálgast viðtalið í heild sinni i nýjasta tölublaði Eyjafrétta og á vefútgáfu blaðsins    

Að lifa og njóta með Jóa Pé og Króla

Einn alvinsælasti dúett Íslands í fyrra, Jói Pé og Króli, koma til Eyja í dag og verða með tvenna tónleika.   Þeir spila tvisvar á Háaloftinu/Höllinni. Fyrst á barna- og unglingatónleikum kl. 17.00 (húsið opnar 16.30) Verð 1.900,- í forsölu en 2.500,- við hurð og frítt fyrir yngri en 5 ára...   Kvöldtónleikar kl. 22.00 (húsið opnar kl. 21.00) Verð 2.500,- í forsölu en 3.500,- við hurð.. Forsala á tónleikana er í gangi í Tvistinum. 18 ára aldurstakmark á kvöldtónleikana. 16-18 ára geta einnig komið á kvöldtónleikana í fylgd forráðamanns eða foreldris.   JóiPé og Króli slógu í gegn með laginu „B.O.B.A.“ sem var eitt vinsælasta lag landsins á síðasta ári. Þeir hafa sent frá sér tvær plötur á stuttum tíma og sú seinni, Gerviglingur fékk gríðarlega góðar viðtökur og um tíma sátu öll átta lög plötunnar á topp 20 yfir vinsælustu lögin á Spotify á Íslandi. Strákanir hafa verið duglegir að koma fram út um allt land og á næstu misserum er von á nýju efni sem spennandi verður að fylgjast með.     Við biðjum Eyjamenn að nýta sér forsöluna, því við viljum alls ekki lenda í því að þurfa að vísa börnum eða fullorðnum frá. Tónleikarnir verða á Háaloftinu, nema við hreinlega verðum að flytja þá í Höllina vegna aðsóknar.   Sýnum þessum peyjum í verki að við kunnum að meta það að þeir leggi á sig ferðalag til Eyja um miðjan vetur til að skemmta okkur. ;)  

Fjölgun í barnaverndarmálum undanfarin ár

Tilkynningum til barnaverndarnefnda á öllu landinu fjölgaði um 9,6% á fyrstu níu mánuðum ársins 2017 miðað við sama tímabil árið á undan. Fjöldi tilkynninga á fyrstu níu mánuðum ársins 2017 var 7.292 tilkynningar, en 6.652 á sama tímabili árið á undan. Tilkynningum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði á fyrstu níu mánuðum ársins 2017 um 11,2%, en á landsbyggðinni fjölgaði tilkynningum um 6,1% ef miðað er við sama tímabil árið á undan. Sískráning barnaverndarmála í nóvember og desember 2017 var til umfjöllunar hjá fjölskyldu- og tómstundarráði Vestmannaeyjabæjar á síðasta fundi ráðsins. Í nóvember bárust tíu tilkynningar vegna níu barna. Mál átta barna voru til frekari meðferðar. Í desember bárust sex tilkynningar vegna sex barna.   Meðalfjöldi tilkynninga á bilinu 15-20 á mánuði Guðrún Jónsdóttir yfirfélagsráðgjafi Vestmannaeyjabæjar sagði í samtali við Eyjafréttir að barnaverndarmálum hafi verið að fjölga undanfarin ár. „Það hefur verið fjölgun í barnaverndarmálum undanfarin ár hjá okkur en það er einnig fjölgun á landsvísu. Meðalfjöldi tilkynninga á mánuði hefur verið á bilinu 15-20 undanfarin ár hér í Vestmannaeyjum,“ sagði Guðrún.   Flestar tilkynningar koma frá lögreglu Guðrún sagði flestar tilkynningarnar koma frá lögreglunni. „Einnig koma margar tilkynningar frá skólunum, almenningi og foreldrum barnanna eða jafnvel barninu sjálfu.“ Ekki verða samt allar tilkynningar að barnaverndarmáli. „Ef tekin er ákvörðun um að kanna aðstæður barns er málið orðið barnaverndarmál. Könnun getur síðan leitt í ljós að þörf er fyrir frekari aðstoð eða að málinu sé lokað þar sem ekki er þörf á aðgerðum,“ sagði Guðrún.   Snúa sér til félagsþjónustunar ef fólk hefur áhyggjur Aðspurð um hvað fólk ætti að gera hefði það áhyggjur að barni sagði Guðrún að í Vestmannaeyjum ætti fólk að snúa sér til félagsþjónustunnar. „Það er gott að geta þess að sá sem hefur áhyggjur af aðstæðum barna, hvort sem það er vegna vanrækslu, gruns um ofbeldi eða vegna þess að barnið sé að sýna af sér einhverja áhættuhegðun, ber að tilkynna það til barnaverndar þar sem barnið er búsett. Í Vestmannaeyjum á fólk að snúa sér til félagsþjónustunnar til að koma tilkynningum á framfæri. Það eru síðan starfsmenn barnaverndar sem meta þessar tilkynningar og annast könnun mála og í framhaldinu leggja til stuðningsaðgerðir til aðstoðar barninu og fjölskyldunni ef þörf er á,“ sagði Guðrún að lokum.  

Framtíðarþróun ferðamála á Suðurlandi

Á fimmtudaginn fyrir viku síðan var opinn íbúafundur um framtíðarþróun ferðamála á Suðurlandi. Þar gafst íbúum og hagsmunaaðilum færi á að koma hugleiðingum sínum á framfæri og eiga samtal um ferðaþjónustuna og kynnast vinnu við stefnumótun og framtíðarsýn fyrir ferðaþjónustu á Suðurlandi sem hefur verið í gangi frá síðasta hausti.   Vestmannaeyjabær hefur verið þátttakandi í Áfangastaðaáætlun DMP (Destination Management Plan) í ferðaþjónustu. Hildur Sólveig Sigurðardóttir, fulltrúi í vinnuhóp um áfangastaðaáætlun DMP á Suðurlandi, sagði að Áfangastaðaáætlunin væri fyrst og fremst hugsuð til að ná fram heildstæðri stefnu í ferðaþjónustu fyrir svæðið. Þannig væri með starfinu tengdir saman hagsmunaaðilar ferðaþjónustu og raddir þeirra sem þjónustuna snerta fá að heyrast. „Með vinnunni er verið að skerpa á því hvar við erum að standa okkur vel, hvað þarf að bæta og hvaða leiðir er hægt að fara til að ná fram þeim markmiðum sem við setjum okkur. Með þessari vinnu er verið að tryggja að svæðin séu að róa í sömu átt. Þrátt fyrir að ógnanir og tækifæri svæðanna séu ólík þá verður til aukinn skilningur á sérstöðu svæðanna og með þessari vinnu fá yfirvöld svart á hvítu hvaða heildrænu stefnu svæðin vilja taka í sameiningu og hvaða þætti þarf að bæta og breyta til að við komumst á réttan kjöl.“ Niðurstöðurnar munu koma ríki, sveitarfélögum og rekstraraðilum í ferðaþjónustu vel. „Með þessari vinnu skapast grundvöllur og væntanlega nokkurs konar leiðarvísir til sóknar í ferðaþjónustu fyrir framtíðina,“ sagði Hildur Sólveig.  

Stefnt á opinn fund um rekstur Herjólfs

Vonir og niðurstaða fara ekki alltaf saman

Hafrannsóknastofnun leggur til að loðnuafli á yfirstandandi fiskveiðiári verði ekki meiri en 285 þúsund tonn. Þetta kom fram í tilkynningu frá stofnuninni um helgina, en beðið var eftir þessum upplýsingum með óþreyju síðustu daga. Eyþór Harðason hjá Ísfélaginu og Sindri Viðarson hjá Vinnslustöðinni voru sammála um að niðurstöðurnar kæmu ekki á óvart en væru vissulega vonbrigði. Í september til október 2017 fóru fram mælingar hjá Hafrannsóknarstofnun á stærð loðnustofnsins. Þá fannst kynþroska loðna aðallega á og við landgrunnið við Austur-Grænland. Í þeim leiðangri mældust samtals 945 þúsund tonn af kynþroska loðnu. Í framhaldi þeirra mælinga var, í samræmi við gildandi aflareglu, úthlutað 208 þúsund tonnum en jafnframt kom fram að ráðgjöfin yrði endurskoðuð í ljósi niðurstaðna veturinn 2018. Þær mælingar hófust um miðjan janúar og er nú lokið. Rannsóknasvæðið í janúar var landgrunnið og landgrunnsbrúnin frá Grænlandssundi, austur með Norðurlandi og út af Austfjörðum. Gerðar voru 2 mælingar á veiðistofninum. Um 849 þúsund tonn af kynþroska loðnu mældust í fyrri yfirferðinni. Í síðari yfirferðinni mældust um 759 þúsund tonn. Þar sem ekki er marktækur munur á niðurstöðum allra þessara mælinga voru þær notaðar saman til framreikninga og ákvörðunar aflamarks samkvæmt aflareglu. „Gildandi aflaregla byggir á því að skilja eftir 150 þúsund tonn til hrygningar með 95% líkum. Tekur aflareglan tillit til óvissumats í mælingunum, vaxtar og náttúrulegrar dánartölu loðnu, auk þess sem afrán þorsks, ýsu og ufsa á loðnu er metið. Samkvæmt samantekt endurtekinna bergmálsmælinga er metið að hrygningarstofn loðnu hafi verið 849 þúsund tonn hinn 15. janúar. Þá er tekið tillit til þess afla sem hafði veiðst þegar mælingar voru gerðar. Í samræmi við ofangreinda aflareglu verður heildaraflamark á vertíðinni 2017/2018 því 285 þúsund tonn, eða 77 þúsund tonnum hærra en ákvarðað var í október síðastliðnum,“ segir í tilkynningu frá Hafrannsóknarstofnun. Um er að ræða lækkun frá síðasta ári, en þá hljóðaði lokatillaga Hafrannsóknastofnunnar upp á 299 þúsund tonn. Samtals veiddust þá um 300.000 tonn af loðnu.   Loðnuskipin þurftu að hafa töluvert fyrir veiðunum nú í janúar Eyþór Harðason hjá Ísfélaginu, sagði að það hafi verið ákveðnar væntingar til vertíðarinnar í ljósi ágætra mælinga í haust. „Vonir og niðurstaða fara nú ekki alltaf saman og í þessu tilviki fór þetta á verri veginn,“ sagði Eyþór Fréttirnar komu honum ekkert sérstaklega á óvart. „Í raun kemur þetta ekkert stórkostlega á óvart, þar sem okkar loðnuskip þurftu að hafa töluvert fyrir veiðunum nú í janúar og verður það að teljast viðmið sem við verðum einnig að horfa til. Í ljósi þessarar niðurstöðu, þá bíðum við með frekari loðnuveiðar þangað til loðnan er komin á það þroskastig að vinna hana til frystingar og hrognatöku,“ sagði Eyþór. Eyþór vonar að Hafrannsóknarstofnun haldi rannsóknum áfram á næstu dögum. „Það færir okkur mögulega meiri kvóta, það verður svo bara að koma í ljós, sagði Eyþór að lokum.   Vonandi fáum við bara góða vertíð með góðri veiði og góðu veðri Sindri Viðarsson hjá Vinnslustöðinni sagði að menn hefðu verið bjartsýnir í haust. „Eftir þokkalega stofnmælingu í haust þá leit maður nokkuð björtum augum komandi vertíð. Niðurstaðan með þessi 285 þúsund tonn er því nokkur vonbrigði og sérstaklega í ljósi þess að nú er búið að mæla loðnustofninn þrisvar sinnum síðan í haust og var niðurstaðan sú að ekki væri marktækur munur á þessum þremur mælingum. Það ætti að segja okkur að vel hefði náðst utan um stofninn og stofnmatið væri ekki háð mikilli óvissu. Þrátt fyrir það er okkur sagt að talsverð óvissa sé í mælingunum og því sé ekki ástæða til að mæla með hærra aflamarki,“ sagði Sindri Sindri sagði að þetta breyti svo sem engu fyrir þá. „Við vorum ekki farnir af stað. Við vorum búnir að stilla upp ákveðnum plönum sem tóku mið af mismunandi úthlutunum og núna vitum við bara eftir hvaða plani við vinnum og vonandi fáum við bara góða vertíð með góðri veiði og góðu veðri,“ sagði Sindri.  

Maður þarf ekkert endilega að keppa þótt maður sé í crossfit

Í tvö ár hefur Hressó starfrækt tvær líkamsræktarstöðvar í Vestmannaeyjum, annars vegar Hressó við Strandveg 65 og hins vegar Litla Hressó í Íþróttamiðstöðinni. Fyrir skemmstu var síðarnefnda stöðin stækkuð umtalsvert og er óhætt að segja að með þessu aukarými hafi verið unnin mikil bragarbót á aðstöðunni. Blaðamaður ræddi við Jóhönnu Jóhannsdóttur, þjálfara og einn eiganda Hressó, um stækkunina og hina sívinsælu íþrótt Crossfit sem hefur heldur betur slegið í gegn á Íslandi síðustu árin. Hvernig kom það til að stækka Litla Hressó? „Þessi eining var nánast ónýtt þarna upp frá og það hafði komið til tals að fá að bæta henni við ef þess væri nokkur kostur. Þegar menn opnuðu svo á að það væri lítið mál að græja þetta þá var ákveðið að taka því fegins hendi og við sjáum ekki eftir því,“ segir Jóhanna. Hvernig sjáið þið fyrir ykkur að stækkunin eigi eftir að nýtast? „Stækkunin gefur salnum alveg nýja vídd og ákveðinn hluti lyftinganna fer að mestu fram á nýja svæðinu og því skapast meira rými á „gamla“ svæðinu fyrir fjölbreyttari æfingar og teygjur án þess að þú sért sífellt að anda ofan í hálsmálið á næsta manni. Þetta virðist hafa verið mjög gott skref og við verðum vör við mikla ánægju hjá þeim sem hafa talað við okkur um þetta – hið besta mál.“   Hægt er að nálgast viðtalið í heild sinni í Heilsublaði Eyjafrétta     

Ný Vestmannaeyjaferja sigli nær alfarið fyrir rafmagni

Samgönguráðuneytið hefur falið Vegagerðinni að semja við pósku skipasmíðastöðina CRIST C.A. um að nýja Vestmannaeyjaferjan verði útbúinn með stærri rafgeymum og tengibúnaði þannig að unnt verði að hlaða skipið í landi og sigla þannig milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar fyrir rafmagni eingöngu.   Við upphaflega hönnun ferjunnar var gert ráð fyrir vélar um borð myndu hlaða rafgeymana með rafmagni til að knýja skrúfur skipsins. Þannig myndu hefðbundnar vélar framleiða rafmagnið en síðar mætti bæta við rafgeymum og þá hlaða skipið í landi. Það var því gert ráð fyrir tvinnskipi en nú verður hönnun breytt og skipið verður tengitvinnskip.   Samgönguráðuneytið vísar til stefnu ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Skipasmíðastöðin hefur lagt fram tilboð um þessa breytingu en í því felst að setja stærri rafgeyma í Herjólf en einnig þarf að koma upp tengibúnaði fyrir hleðslu úr landi hvorttveggja í Vestmannaeyjum og í Landeyjahöfn. Ráðuneytið reiknar með að fjárfestingin muni skila sér á 10 árum en nokkur kostnaður mun hljótast af breytingunni á skipinu og uppbyggingunni í landi. Ráðuneytið mun beita sér fyri sérstakri fjárveitingu vegna verkefnisins.   Þessi breyting mun einnig seinka afhendingu nýrrar Vestmannayjaferju nokkuð, að öllum líkindum um nokkrar vikur, en reynt verður að lágmarka þann tíma svo sem kostur er.   Smíði ferjunnar gengur annars vel sem sjá má á myndunum sem fylgja fréttinni og voru teknar í Póllandi seint í nýliðnum janúar.  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Mannlíf >>

Við leggjum metnað í að veita öldruðum sem bestu aðstöðu og þjónustu

Jón Pétursson framkvæmdarstjóri fjölskyldu og fræðslusvið sagði í viðtali í nýjasta tölublaði Eyjafrétta að það væri löngu vitað að þróun á hlutfalli eldra fólks í Vestmannaeyjum væri að hækka mikið. „Þessi þróun hefur gegnið hratt í gegn frá árinu 2006. Fyrir þennan tíma var hlutfall +67 ára í Eyjum nokkuð undir landsmeðaltali en í dag erum við um 2% yfir meðaltali.“ Jón tók við núverandi starfi 2006 „ég fór strax að skoða hvernig væntanleg íbúaþróun yrði hér í Eyjum. Þá sá ég að börnum muni fækka hratt sem hefur haft mikil áhrif á skólakerfið og einnig að fjöldi eldra fólks muni vaxa hratt. Fjölgun í aldurshópi +67 má skýra út frá afleiðingum gossins.“     Ýmislegt í vinnslu í málefnum aldraða Jón sagði að margt væri í vinnslu í átt að bættri þjónustu við eldri borgara „ Búið er að vinna mikið starf í uppbyggingu á innra starfi og gæðamálum. Á Hraunbúðum erum við búin að koma upp bættri aðstöðu dagvistunar og færa matsalinn, endurnýja bjöllukerfið á heimilinu, færa til og líkamsræktarsalinn, koma upp aðstandendaherbergi, fjölga herbergjum og byggja álmu með bættri aðstöðu fyrir fólk með sérhæfðan vanda. Áfram verður unnið í uppbyggingu á innra starfinu og gæðamálum. Útbúa á hvíldarherbergi fyrir fólk í dagdvöl. Klára á garð sem tengdur er nýrri álmu. Vinna þarf áfram að ýmsum endurbótum og lagfærðingum innanhúss. Verið er kaupa öflugan fjölþjálfa í líkamsræktaraðstöðina. Áfram verður reynt að fá heimild frá ríkinu fyrir fleiri hjúkrunarrýmum,“ sagði Jón.   Dvalarrými á Hraunbúðum breytt í hjúkrunarrými Jón sagði að vilyrði hefur verið fyrir því að dvalarrými á Hraunbúðum verði breytt í hjúkrunarrými. „Stefnt er að því að breyta hluta dvalarrýma á Hraunbúðum í hjúkrunarrými. Byrjað er að byggja við Eyjahraun 1 – 6 fimm viðbótar íbúðir auk tengibyggingu við Hraunbúðir. Allar íbúðir í Eyjahrauni 1 – 6 samtals 11 íbúðir verða skilgreindar sem þjónustuíbúðir og eru hugsaðar fyrir þá sem eru í bráðri þörf á meiri þjónustu, eða bíða eftir vistun á Hraunbúðum eða maki er komin með vistun þar en viðkomandi ekki. Þessar íbúðir munu því koma að hluta til í stað dvalarrýma og verður það alfarið í höndum bæjarins að ákveða úthlutun þeirra,“ sagði Jón.   Snjallforrit sem auðveldar heimaþjónustuna Á næstu dögum hefst innleiðing á svokölluðu CareOns kerfi sem auðveldar allt utanumhald um heimaþjónustu sveitarféalgsins. „Um er að ræða snjallforrit sem starfsmenn heimaþjónustu nýta til að auka öryggi, sveigjanleika, hagræðingu og gæði þjónustunnar. Aðstandendur munu með samþykki þjónustuþega og í gegnum sama kerfi nýtt það til að fylgjast með þjónustunni. Unnið er samtímis að því að efla heimaþjónustu með því að koma á kvöld og helgarþjónustu við þá sem þurfa á að halda,“ sagð Jón.   Sífellt farið yfir þjónustuþætti Jón sagði að sífellt væri verið að fara yfir þá þjónustuþætti sem nýtast eldra fólki sem best. „Unnið er út frá þeirri stefnu sem gildir að aldraðir borgarar geti með viðeigandi stuðningi og einstaklingsmiðaðri þjónustu dvalið sem lengst á eigin heimili og að réttur þeirra til ákvarðana um eigið líf sé virtur,“ sagði Jón. „Að lokum verð ég að nefna hversu hrærður ég er yfir þeim mikla velvilja og stuðningi sem einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki í okkar samfélagi sýnir eldra fólki. Ekki má heldur gleyma að nefna það öfluga starf sem aldraðir veita í gegnum félag eldri borgara í Vestmannaeyjum. Við búum í góðu samfélagi sem leggur metnað í veita öldruðum sem bestu aðstöðu og þjónustu sem þeir eiga svo sannarlega skilið,“ sagði Jón að lokum.   Í nýjasta tölublaði Eyjafrétta er umfjöllun um málefni aldraða. Allt um nýju álmuna á Hraunbúðum sem sérstakelga er fyrir fólk með heilabilun og þá sem þurfa sértæka aðstoð. Aðferðina sem farið verður í þar sem kallast amaste og svo miklu meira. Hægt er að nálgast viðtölin í heild sinni i nýjasta tölublaði Eyjafrétta og á vefútgáfu blaðsins    

Greinar >>

Fasta

Nú er páskafasta hafin, þó er það líklega flestum fjarlægt að fasta vikurnar fyrir páska. Lestur Passíusálma er hafinn á rás 1 í útvarpinu og minnir það okkur á komu pákanna og er hluti af okkar menningu.   Undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á mikilvægi föstu fyrir líkamann. Fasta einn eða tvo daga í viku er ráðlagt. Sumir sleppa kjöti og stórum máltíðum, aðrir sleppa sætindum og enn aðrir einbeita sér að einhverju því sem þeim finnst hefta líf sitt. Fasta þýðir að sleppa að borða, einungis drukkið vatn. Líkaminn hefur gott af föstu, nema vegna veikinda, meðgöngu og brjóstgjafar.   Bolludagur, sprengidagur og öskudagur marka upphaf föstunnar, eftir þá daga var tekinn frá tími til að hugsa um þjáningu og dauða Krists.   Fyrir nokkrum árum ákváðum við fjölskyldan að taka páskaföstuna alvarlega og sleppa kjöti og fiski. Þessi ákvörðun var meðal annars tekin út frá vangaveltum yngsta sonar okkar (tæplega tvítugur)um að sleppa kjötáti. Fyrstu dagarnir hjá mér fóru í að finna góðar uppskriftir sem innihéldu prótein og ýmis konar baunaréttir voru eldaðir. Ég bý að þessu enn og elda oft grænmetisrétti. En þegar vikurnar liðu varð matseldin auðveldari og svo var tilfinningaþrungið að elda lambalæri á páskadag.   Ég sjálf hef ekki fastað nema fáa daga í einu eða hluta úr degi. Fastan er áskorun um aga. Eitt árið fastaði maki minn í nokkrar vikur. Hann drakk einungis vatn og saltvatn. Það var áhugavert að fylgjast með honum. Eftir nokkra daga föstu var löngun i mat horfin, síðan lækkaði hitastig líkamans og hann varð allur hægari. Hann byrjaði rólega að borða mat og leið vel. Margir andans menn hafa haft föstu að venju. Í guðspjöllunum talar Jesús um að þeir sem fasta eigi ekki að auglýsa það og halda áfram eðlilegu lífi. En á þeim tíma klæddu menn sig í hærusekk og báru á sig ösku, en öskudagur ber nafn sitt af föstubyrjun.   Hin kristna sýn á föstu er að taka frá þann tíma sem við notum til að borða (og í matarundirbúning) til að biðja, lesa uppbyggilegt efni og hugleiða það. Okkar andlegi eða innri maður verður virkari þegar líkaminn er ekki nærður.   Í fimmtugasta og áttunda kafla í spádómsbók Jesaja segir Drottinn: „Nei, sú fasta sem mér líkar er að leysa fjötra rangsleitningar, láta rakna bönd oksins og gefa frjálsa hina hrjáðu.....“ Kraft og áskorun föstunnar skal nota til góðra verka, öðrum til blessunar.   Þóranna M Sigurbergsdóttir