Fréttatilkynning:

ENGELBERT HUMPERDINCK á leiðinni - Í Hörpu 26. júní

Fréttatilkynning:

ENGELBERT HUMPERDINCK á leiðinni - Í Hörpu 26. júní

Goðsögnin Engelbert Humperdinck, sem sló svo eftirminnilega í gegn með stórsmellunum, Release me, The Last Waltz, Quando, Quando, Quando og mörgum, mörgum fleirum, er á leið til landsins og heldur tónleika ásamt stórhljómsveit í Eldborgarsal Hörpu 26.júní.
 
Ótrúlegur ferill – ótrúlegar vinsældir
 
Ferill Engelbert Humperdinck spannar rétt tæp 50 ár og hefur hann selt 140 milljón hljómplötur, fengið 64 gullplötur og 35 platinum plötur, fjórar Grammy tilnefningar, tilnefningu til Golden Globe verðlaunanna og fengið nafnið sitt á stjörnu á „Hollywood walk of fame“, „ Las Vegas walk of fame“ og „Leicester walk of fame“. Hann hefur fjórum sinnum skemmt fyrir Elísabetu Englandsdrottningu, skemmt nokkrum forsetum og mörgum öðrum fyrirmennum og þjóðhöfðingjum. Hann hefur hljóðritað nánast allar tegundir tónlistar, allt frá rómantískum ballöðum til kvikmyndatónlistar, diskó, rokk og jafnvel gospel. Einstök rödd hans hefur dáleitt milljónir aðdáenda um allan heim. En það er ekki bara röddin, heldur persónan sjálf og hans einstaki húmor sem gerir hann að þeirri stórstjórnu sem hann hefur verið í marga áratugi.
 
Miðasala hefst fimmtudaginn 6.apríl klukkan 10 á hádegi. Allar nánari upplýsingar á harpa.is.
 
 
Meira um Engelbert Humperdinck
 
 
Engelbert Humperdinck ætlaði sér aldrei að verða söngvari. Vissulega hafði hann áhuga á tónlist og stefndi jafnvel á frama, en feimniin var honum fjötur um fót. Hann var yngstur tíu systkina og bjó ásamt fjölskyldu sinni í Leicester á Englandi, en ólst upp í Madras á Indlandi, þar sem faðir hans gegndi herþjónustu í seinni heimstyrjöldinni. Í æsku bjó hann við mikla ást foreldra sinna og systkina. Hann vissi alltaf að hann hefði ágætis söngrödd, en kraftur hennar kom honum og öðrum á óvart. „Hún er kraftmikil, en ég áttaði mig á því að ég gæti líka notað hana með mýkt á sama tíma“. Eins og allar goðsagnir er hann maður mikillar breiddar – karlmannlegur og ástríðufullur, feiminn að innan en með óhindraða sviðsframkomu, tilbúinn að vera kyntákn og á þessum tíma feril síns kemst hann alveg upp með það. „Ég erfði söngröddina frá móðurfjölskyldunni minni. Pabbi var hins vegar ímynd karlmennskunnar – sterkur, íþróttamannslegur og heillandi. Ég hef sjálfur mjög gaman af karlmannlegum hlutum. Ég elska íþróttir, golf, tennis, bardagaíþróttir, fótbolta, skíði, en á sama tíma kann ég vel að meta konur“
 
Engelbert var skírður Arnold George Dorsey. Þegar hann var 11 ára byrjaði hann að stúdera tónlist og lærði að spila á saxófón. Þegar hann var 17 ára byrjaði hann að skemmta á bar þar sem söngkeppnir voru haldnar reglulega. Vinir hann mönuðu hann til að taka þátt í einni slíkri, hann lagði saxófóninn til hliðar og sýndi í fyrsta sinn á sviði aðra leynda hæfni sem hann bjó yfir: eftirhermur. Arnold George Dorsey hermdi á ótrúlegan hátt eftir Jerry Lewis – og fékk strax viðurnefnið Gerry Dorsey af aðdáendum sínum, sem varð svo fyrsta sviðsnafnið hans. Gerry Dorsey varð mjög vinsæll í breska tónlistarheiminum og árið 1959 gaf hann út fyrstu smáskífu sína sem hét Crazybells / Mister Music Man“.
 
Fljótlega eftir það fékk hann þó berkla, missti röddina í hálft ár sem batt næstum enda á tónlistarferil hans. Þegar hann náði sér, vissi Gerry Dorsey að hann þyrfti að losa sig við fyrri ímynd sína til að ná endurkomu. Fyrrum umboðsmaður hans stakk upp á nýju nafni, Engelbert Humperdinck sem hann fékk að láni frá austurísku tónskáldi, sem samdi meðal annars óperuna Hansel and Gretel. Nafnið þótti nógu öfgafullt til að verða eftirminnilegt og þar með fæddist goðsögnin Engelbert Humperdinck. Engelbert kom með krafti inn í tónlistarheiminn á sjötta áratugnum samhliða Bítlunum og Rolling Stones. Þessi feimni strákur varð nánast strax alþjóða goðsögn. Hann varð mikill vinur Elvis Presley og sungu þeir oft lög hvors annars. Fyrsta smáskífa hans á vinsældarlista var Release Me, og komst hún í Heimsmetabók Guinness fyrir það að ná heilum 56 vikum á vinsældarlista. Lagið náði fyrsta sæti í alls 11 löndum. Næstu áratugi ferðaðist Engelbert um allan heim þar sem tónleikar hans seldust upp hver á fætur öðrum. Engelbert hefur dálæti af hverri einustu mínutu sem hann er á sviði, en sviðið er sá staður þar sem hann getur sleppt af sér beislinu og er ekki lengur feimni strákurinn sem hann upphaflega var.
 
 
Miðasala á tónleika Engelbert Humperdinck í Hörpu hefst fimmtudaginn 6. apríl klukkan 10. Allar nánari upplýsingar á harpa.is
 
 

Nemendur skammta sér sjálfir

Matarsóun er gríðarlega alvarlegt nútímavandamál sem lýsir sér þannig að fullkomlega ætur matur ratar af einhverjum ástæðum í ruslatunnur fólks í stað á matardiska þess. Eins og flestir vita þykir það ekki sérlega góður siður að leifa mat, ekki nóg með að þá fari maturinn sjálfur til spillis og enginn fær að njóta hans, heldur er um leið verið að sóa fjármunum og auðlindum jarðar. Þar að auki tekur maturinn mikið pláss á urðunarstöðum heimsins en talið er að um 1,3 milljón tonna af mat sé hent árlega í heiminum.   Hvað er matarsóun? Síðustu ár hefur verið mikil vitundarvakning um fyrirbærið matarsóun, bæði vegna þess gríðarlega magns matvæla sem fara forgörðum og svo vegna umhverfisáhrifanna sem fylgja. Samkvæmt skilgreiningu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) er matarsóun tap á ætum mat. Óætur matur eins og eggjaskurn, bein, ávaxtahýði og þess konar matvæli sem er fleygt er því ekki talið sem matarsóun samkvæmt FAO. Á vefsíðunni matarsóun.is segir að þriðjungur þess matar sem keyptur er inn á heimili fari beint í ruslið eða um 1.3 milljón tonn á ár hvert í heiminum. Í stað þess að fara í ruslið gæti þetta magn af mat mögulega brauðfætt milljónir manna og minnkað hungursneyð í heiminum svo um munar. Eins og fyrr segir hefur framleiðsla matar oft talsverð neikvæð umhverfisáhrif og ef maturinn er ekki nýttur sem skildi eykst magn úrgangs sem þarf að urða allverulega. Fjárhagslega hefur þetta einnig mikil áhrif á heimilin í landinu sem kaupa alla jafna of mikinn mat, eða allt að þriðjungi of mikið ef marka má ofangreindar tölur. Talið er að á Vesturlöndum hendi hver einstaklingur nýtanlegum mat að andvirði 60.000 króna á ári. Í fjögurra manna fjölskyldu gerir það 240.000 krónur. Það er því alveg ljóst að töluverður samfélagslegur, umhverfislegur og fjárhagslegur ávinningur fæst af því að minnka matarsóun.   Aðgerðir gegn matarsóun Á vef Umhverfisstofnunnar eru nokkur einföld en gagnleg húsráð til að sporna við matarsóun, eitthvað sem allir mættu tileinka sér í meira mæli: 1. Skipuleggðu innkaupin: Gerðu mataráætlun og innkaupalista með matinn í ísskápnum og skápunum í huga. 2. Athugaðu dagsetningar: Lærðu muninn á „síðasti neysludagur“ og „best fyrir“ dagsetningum. [Síðasti neysludagur markar lok þess tímabils sem varan heldur gæðum sínum. Eftir dagsetningu síðasta neysludags er óheimilt er að dreifa vörunni. Þetta eru t.d kælivörur með minna en fimm daga geymsluþol. Ef vara er merkt með Best fyrir þá er oftar en ekki í lagi með vöruna ef varan er geymd rétt, þrátt fyrir að hún sé komin fram yfir Best fyrir dagsetninguna. Það sem sker úr um hvort varan sé í lagi má segja að sé skynsemi neytandans hverju sinni og metur hann vöruna með skynfærum sínum, tungu, nefi og augum og getur þar af leiðandi metið hvort hún sé neysluhæf]. 3. Hafðu fjármálin í huga: Mundu að mat sem er hent er í raun peningi kastað á glæ. 4. Stilltu ísskápinn rétt: Gakktu úr skugga um að hitastigið í ísskápnum sé rétt stillt. 5. Geymdu matinn á réttan hátt: Merktu hvenær þú opnar vörur svo þú áttir þig á hvað þær eru orðnar gamlar. 6. Skipulegðu ísskápinn: Raðaðu elstu vörunum fremst til að nota það elsta fyrst. 7. Eldaðu rétt magn: Notaðu minni diska og minnkaðu þar með bæði matarsóun og of stóra skammta. 8. Notaðu afgangana: Gakktu vel frá afgöngum og borðaðu daginn eftir. 9. Notaðu frystinn: Ýmisskonar afganga má frysta og nota síðar, t.d. umfram mat, ávexti, grænmeti, rjóma og kryddjurtir. 10. Búðu til moltu: Breyttu lífrænum úrgangi í moltu sem nýtist síðan sem jarðvegsbætir.   Til viðbótar má nefna að láta ekki lögun ávaxta og grænmetis skipta máli þegar verslað er, nýta afslætti á vörum sem eru að renna út ef kostur er, nýta matvæli sem eru að skemmast og að lokum gefa matvæli sem eru í góðu lagi ef viðkomandi ætlar ekki að nota þau.   Grunnskóli Vestmannaeyja sker upp stríðsör gegn sóun matar 23. janúar sl. voru gerðar áherslubreytingar í matartímum 1. – 5. bekkjar GRV. Í samstarfi við starfsfólk skólans var ákveðið að láta nemendur taka meiri ábyrgð á matarskömmtun og þar af leiðandi kenna þeim að fá sér mátulegt magn af mat á diskinn og klára af honum í stað þess að leifa og henda. Jafnframt voru afgangar nemenda vigtaðir á meðan verkefninu stóð. Á rúmum tveimur mánuðum kom í ljós að hver nemandi hendir að meðaltali 16,1 g. af mat á hverjum degi. Nemendum í 3. bekk tókst oftast að henda engum mat eða alls sex sinnum. Sá matur sem mest var hent af voru svokallaðar fiskisteikur en 65, 5 g. fóru í ruslið á hvern nemenda að meðaltali. Kjúklingalæri voru í öðru sæti á þessum lista með 58,5 g. en fast á hæla kjúklingalæranna kom ítölsk pastasúpa með 58, 4 g. á hvern nemenda. Leiða má líkum að því að nemendum líki best við grjónagraut samkvæmt niðurstöðunum en einungis 5,5 g. fór að meðaltali í ruslið af honum. Kjúklinganaggar komu þar í öðru sæti með 7,4 g. og svo steiktur fiskur þar á eftir með 8,7 g. að meðaltali. Ef skoðað er hvaða bekkur henti minnstum mat þá kemur í ljós að 3. bekkur bar af þar sem hver nemandi henti að meðaltali 11,5 g. á dag. Hinir bekkirnir voru allir nokkuð jafnir í matarsóun sinni á bilinu 21,5 g. til 25,4 g. að meðaltali á hvern nemanda á dag.   Krakkarnir sýndu verkefninu mikinn áhuga í byrjun Blaðamaður ræddi við Óskar Jósúason, deildarstjóra GRV í Hamarsskóla, um verkefnið sem að hans sögn hefur gengið nokkuð vel til þessa þó svo alltaf megi gera betur. Hver var kveikjan að þessu verkefni? „Það var í raun engin ein kveikja að þessu. Matsalurinn okkar í Hamarsskóla er ekki hannaður fyrir að vera matsalur og því erum við í stöðugri þróun með hann. Um áramótin var mikil umræða um matarsóun sem við tókum í umræðuna varðandi breytingar á matsalnum okkar. Við erum með virkilega gott starfsfólk innan GRV og þær stúlkur sem sjá um að eldhúsið og matsalinn sýndu mikinn vilja að prófa þetta. Það má þakka þeim sérstaklega fyrir þeirra aðild að málinu,“ segir Óskar. Hafa krakkarnir verið jákvæðir gagnvart þessu? „Krakkarnir hafa sýnt þessu mikinn áhuga, sérstaklega í byrjun, en mismikinn. Við fengum Einsa Kalda til að tala um matarsóun við krakkana og hvetja þá áfram. Í byrjun sáum við mikinn mun en við þurfum að vera duglegri að sýna þeim niðurstöðurnar og vinna með þessar tölur en það er kominn grundvöllur fyrir alls kyns verkefni bæði tengt stærðfræði, samfélagsfræði og heimilisfræði svo eitthvað sé nefnt,“ segir Óskar sem er ekki viss um hversu mikil vitundarvakningin meðal nemenda sé. „Ég get ekki sagt fyrir með fullvissu að það sé einhver vitundarvakning hjá nemendum vegna þess sem skólinn er að gera. En það er eflaust persónubundið hve mikið nemendur taka þetta verkefni alvarlega.“ Verður þetta fyrirkomulag til frambúðar? „Það er stefnan að við höldum áfram með þetta verkefni, en það er í stöðugri þróun eins og allt innan skólans. Við erum alltaf að reyna að gera betur,“ segir Óskar að lokum.  

Fróðleg kynning á lífsháttum Eyjamanna á 19. öldinni

Á fimmtudaginn í síðustu viku var alþjóðlegi Safnadagurinn en haldið hefur verið upp á daginn síðan árið 1977. Í ár var dagurinn undir yfirskriftinni: Söfn og umdeild saga: Að segja það sem ekki má segja í söfnum. Markmiðið var að kynna og efla faglegt safnastarf á Íslandi og opna fyrir umræðuna um hlutverk safna þegar kemur að umdeildum og erfiðum frásögnum. Í tilefni dagsins var sagnfræðiprófessorinn Már Jónsson með kynningu á nýútkominni bók sinni, Fyrirfundnir fémunir í Vestmannaeyjum á fjórða áratug 19. aldar. Í bók sinni nýtir Már áður óþekktar heimildir um brauðstrit fólks á örðugum tímum í Vestmannaeyjum og veitir þannig lesendum merkilega innsýn inn í líf Vestmannaeyinga um miðbik 19. aldar. Í kynningunni sýndi Már m.a. samanburð á skrám um eftirlátnar eigur látins fólks, allt frá niðursetningum yfir í kaupmenn, og var efnahagslegur munur oft og tíðum gríðarlega mikill. Einnig er fróðlegt að sjá áhrif ginklofans á samfélag Vestmannaeyinga en hann var einkar skæður á 19. öldinni og eru dæmi um að hjón hafi misst allt að 12 börn af 14 sökum hans. Fundurinn var vel sóttur eins og við mátti búast og var súpa og brauð á boðstólnum, ásamt kaffi á eftir. Að kynningunni lokinni gaf Már sér síðan tíma í að svara spurningum viðstaddra og árita bækur. Fyrirfundnir fémunir í Vestmannaeyjum á fjórða áratug 19. aldar er klárlega bók fyrir alla þá sem vilja fræðast og auka þekkingu sína á lífsháttum Vestmannaeyinga á 19. öldinni. Bókin er til sölu í Safnahúsinu og hjá Bóksölu stúdenta.    

Vonin að Landeyjahöfn læknist af þessari sandgræðgi og að öldurnar snúi sér annað

  Það sýnir hug íbúa í Vestmannaeyjum til stöðunnar í samgöngum að vel á fjórða hundruð manns mættu á fund í Höllinni í þar síðustu viku þar sem farið var yfir stöðuna. Ásmundur Friðriksson, alþingismaður stóð fyrir fundinum og ritstjórar Eyjar. Net og Eyjafrétta stýrðu fundinum en yfirskrift hans var; Rödd fólksins. Eftir framsöguræður gafst bæjarbúum tækifæri til að spyrja fulltrúa ríkis og bæjar út í samgöngumálin í nútíð og framtíð.   Auk Ásmundar voru frummælendur Sigþóra Guðmundsdóttir húsmóðir m.m., Elliði Vignisson bæjarstjóri, Jóhann Jónsson, Laufási. Fundarstjórar voru Ómar Garðarsson ritstjóri Eyjafrétta og Tryggvi Már Sæmundsson ritstjóri Eyjar.net. Ef hægt er að ramma inn niðurstöðu fundarins, er hún krafa um betri samgöngur, lægri fargjöld og bætta þjónustu. Úrbætur í þessum málum kölluðu á samstöðu Eyjamanna.     Milljón í gróða á dag Ásmundur hóf mál sitt á því að rekja söguna frá því fyrsti Herjólfur kom árið 1959 og tók við af Stokkseyjarbátnum. Með tilkomu nýs Herjólfs 1976 hófust daglegar siglingar til Þorlákshafnar og núverandi skip kom 1992. Nú er ný ferja í smíðum sem verður afhent í júní á næsta ári. Ásmundur sagði að á föstudaginn verði upplýst hvort hún verður alfarið knúin rafmagni, en það hefur ekki verið upplýst ennþá. Næst tók hann fyrir hvað Eimskip er að hafa út úr því að reka Herjólf fyrir Vegagerðina og niðurstaðan er að mati Ásmundar, ein milljón á dag allan ársins hring, eða hátt í 400 milljónir á ári. Sagðist Ásmundur hafa aflað sér öruggra heimilda í þessari rannsókn sinni. „Þar til annað kemur í ljós ætla ég að halda mig við þessa tölu,“ sagði Ásmundur. Sagði hann þetta ófært. „Samfélagið hér í Eyjum á að njóta þessa í lægri fargjöldum og betri þjónustu,“ bætti hann við og hélt áfram. „Það hefur lengi verið mín skoðun að rekstur Herjólfs eigi að vera í höndum heimamanna og hún hefur ekkert breyst.“   Ekki við bæjarstjórn að sakast Elliði Vignisson, bæjarstjóri sagði sýn bæjarstjórnar í samgöngum skýra en oft væri ómaklega vegið að bæjarstjórn. Vandinn sé að þetta er málaflokkur sem ekki er á höndum Vestmannaeyjabæjar. „Það á að þrýsta á Alþingi og alþingismenn því það eru þeir sem taka ákvarðanir í öllu sem lítur að samgöngum við Vestmannaeyjar,“ sagði Elliði. „En við berum ábyrgð með því að þrýsta á stjórnvöld og það höfum við gert. Alls hafa samgöngumál verið rædd 116 sinnum í bæjarstjórn og bæjarráði síðan í júlí 2006. Í nánast öllum tilvikum hafa allar ályktanir verið samþykktar einróma. Það segir meira en margt um afstöðu okkar sem störfum í bæjarstjórn.“ Næst spurði Elliði, hvert er hlutverk bæjarstjórnar hvað samgöngur varðar? „Bæjarstjórn hefur í dag enga formlega stöðu eða hlutverk hvað samgöngur varðar. Enga aðkomu að nefndum, ráðum eða nokkru öðru. Öll aðkoma er háð frumkvæði hennar og áhrifin eru með öllu bundin ákvörðun þingmanna og ráðherra.   Þrýst á úrbætur Það breytir því ekki að ábyrgð bæjarstjórnar er rík. Hún er fyrst og fremst að þrýsta á samgönguyfirvöld og vinna með þeim að úrbótum. Að halda lifandi umræðu um þetta mikla hagsmunmál og miðla upplýsingum til bæjarbúa sem og til yfirvalda eftir því sem tök eru á,“ sagði Elliði og brá upp nokkrum samþykktum bæjarstjórnar síðustu fimmtán árin. Strax 2006, þegar enn var siglt eingöngu í Þorlákshöfn kallar bæjarstjórn eftir fjölgun ferða Herjólfs úr tveimur í þrjár yfir sumartímann og ríkisstyrktu flugi. Einnig leigu á stærra skipi til siglinga í Þorlákshöfn enda Herjólfur þá orðinn „mjög gamall“, eins og tekið var fram. Sama ár ítrekar bæjarstjórn ríka áherslu á að rannsóknum vegna jarðganga verði lokið sem allra fyrst svo svara megi með óyggjandi hætti hver kostnaður vegna slíkra framkvæmda er. Seinna var ákvörðun tekin um Landeyjahöfn og allir Eyjamenn þekkja þá sögu en kröfur bæjarstjórnar eru þær sömu, bættar samgöngur og sanngjörn fargjöld. Árið 2008 var ákveðið að smíða nýja ferju en af því varð ekki vegna hrunsins og nú hyllir loks undir lausn í þeim málum.   Fer ekki nema nauðsyn kalli á Sigþóra Guðmundsdóttir kallaði sitt erindi, Samgöngur í augum húsmóður með börn í íþróttum og hún talaði tæpitungulaust. „Fyrir það fyrsta, þá fer ég ekki upp á land með fjölskylduna, nema brýna nauðsyn beri til yfir vetrartímann, hreinlega vegna kostnaðar. Tvö virk börn kalla á lokaðan klefa, þar sem ég hreinlega get ekki annað en legið í koju, til að halda heilsu og þau hafa engan skilning á veikindum móður sinnar þar til þau eru orðin veik sjálf,“ sagði Sigþóra. Hún sagði að í hvert einasta skipti sem hún fer upp á land fari allt á fullt í skipulagi og vangaveltum. „Fer Herjólfur? Hvert mun hann sigla? Hvenær þarf ég að vera komin á leiðarenda? Þarf ég þá að fara með fyrstu ferð, þar sem hún er í sögulegu samhengi, eina trygga ferðin? Hvað er ég að missa mikið úr vinnu fyrir 10 mínútna viðtal hjá lækni í borginni? Ég get svarað þessu. Prófaði sjálf í fyrra að skreppa til læknis. Tíminn var á þriðjudegi kl. 12.00. Brottför frá Vestmannaeyjum kl. 8.30 til Landeyjahafnar, keyra til Reykjavíkur, hitta lækni og svo var stefnan tekin heim um miðjan dag, en úps, þetta er þriðjudagur og engin ferð fyrr en 19.45, en þá var orðið ófært til Landeyjahafnar. Ég slapp þó heim í gegnum Þorlákshöfn og kom heim hálf ellefu að kvöldi til! Heppin! Er of flókið að Herjólfur sigli jafnt og þétt yfir daginn? Allt of langt er á milli ferða suma daga. Suma daga! Hvenær fer Herjólfur þennan daginn eða hinn? Getur áætlunin verið einfaldari? Ég þarf t.d. að kanna í hvert einasta skipti hvenær skipið siglir. Bara get ekki munað siglingartímana.“   Óvissan óþolandi Sigþóra sagði alla þessa óvissu gera hana óörugga, pirraða og leiða og verði til þess að hún tjái sig óvarlega, þegar krakkarnir heyra til. „Ég veit að ég þarf að vanda mig betur. Ég þarf þess,“ sagði Sigþóra og benti á að það ætti við um fleiri. „Krakkarnir mínir hafa ekki enn tekið það inn á sig en ef ég fer ekki að vanda mig í orðræðunni, kemur mögulega að því að þau neita að koma með, að þau fari að kvíða fyrir ferðalaginu, að þau hætti í íþróttum út af öllum ferðalögunum sem fylgja því að æfa keppnisíþrótt, að þau vilji fara héðan, fyrir fullt og allt. Og greinilega þurfum við öll að vanda okkur. Því þetta er vaxandi vandamál, sem kemur kannski aftan að okkur, sem ég áttaði mig engan veginn á, fyrr en eftir að hafa tekið að mér þjálfun hjá ÍBV.“ Hún sagði krakka tilkynna veikindi þegar kemur að keppnisferðum og þar gæti tal þeirra fullorðnu haft áhrif. „Við reiknuðum kannski bara alls ekki með því að Herjólfur yrði stærsta ástæða sumra að hætta í íþróttum. En það er raunveruleikinn, hjá sumum! Þetta er ekki bara af því börnin séu svona sjóveik heldur er orðræða okkar fullorðna fólksins ekki til að hjálpa. Öll þessi óvissa og pirringur smitast til þeirra. Við skulum vanda orðræðuna.“   Því næst ræddi hún biðlista og bókunarkerfið sem mætti vera betra. Og hún hefur efasemdir um nýja ferju. Óttast að hún sé engin töfralausn. „Auðvitað vona ég að það verði raunveruleikinn, að höfnin í Landeyjum læknist af þessari sandgræðgi og að öldurnar snúi sér eitthvert annað. Það væri auðvitað óskastaða, draumi líkust en það hræðir mig einhvern veginn. Ég er hræddust um að draumurinn breytist í martröð á miðri leið og þess vegna tel ég nauðsynlegt að hafa skipið sem hefur sinnt okkur hingað til, sem varaskeifu, siglandi til Þorlákshafnar, með fólk og gáma beint í framtíðar stórskipahöfnina þeirra.“   Byltingin sem ekki varð Grímur Gíslason, framkvæmdastjóri og fyrrum stjórnarmaður í Herjólfi hf. sem í mörg ár sá um rekstur ferjunnar auk þess að vera vélstjóri á skipinu í nokkur ár gat ekki mætt á fundinn en flutti erindi sitt í gegnum Skype. Ástæðan var óöryggi í samgöngum. Grímur byrjaði á að rekja sögu samgangna við Vestmannaeyjar á sjó og sagði að tilkoma Landeyjahafnar hafi átti að verða bylting sem hún hefur verið þegar hún virkar en því miður hefur virkni hennar ekki verið nálægt þeim væntingum sem gerðar voru til hennar sem heilsárshafnar. Hann eins og fleiri hafa efasemdir um nýtt skip og nú væri talað um að frátafir yrðu10%, 20% 30% eða meir. Það ætti bara að koma í ljós og væri eiginlega bara ekki hægt að segja til um það. „Mér fundust þessar yfirlýsingar ekki traustvekjandi því að ég ætlast til þess, miðað við það sem áður hefur verið sagt að nýting Landeyjahafnar nálgist, með nýju skipi, það sem lofað var í upphafi. Ef það gerist erum við að tala um mikla byltingu til framtíðar, þó svo að flutningsgeta skipsins hefði þurft að vera mun meiri,“ sagði Grímur. „Ef það gengur ekki eftir og þessi nýja ferja þarf að sigla til Þorlákshafnar 10% til 40% af siglingadögum þá er það mín skoðun að við séum að fara stórt skref afturábak í samgöngumálum.“   Dýpkun vandamálið Grímur nefndi að enn sé engin lausn í sjónmáli hvað varðar dýpkun í Landeyjahöfn, alla vega hafi hún ekki verið opinberuð. Hann sagði líka að alltof lítill hluti ferðamanna sem koma til landsins komi til Eyja. „Þó að ekki kæmu nema 20% ferðamanna til Eyja þá er það nærri hálf milljón. Það er því eftir miklu að slægjast, en því miður verður þetta aldrei möguleiki fyrr en öryggi er meira í ferðum. En öryggi í ferðum er ekki nóg, það þarf líka flutningsgetu og mikla ferðatíðni til að ná einhverju broti af þessum ferðamannastraumi og þar er við mikinn flöskuháls að eiga og gæti orðið áfram, því miður. Þar er ekki við náttúruöflin að eiga heldur nátttröll sem ekki virðast skilja mikilvægi samgangna fyrir Vestmannaeyjar.“   Þjóvegur sem á að vera opinn alla daga Grímur eins og Ásmundur taldi að hlutur Eimskips út úr rekstrinum væri á fjórða hundrað milljónir króna og þann hagnað ætti að nota til að lækka gjöld og fjölga ferðum. Þá tók hann fyrir ferðir á hátíðisdögum. „Þjóðvegurinn til Eyja á að vera opinn alla daga ársins, sama hvort um er að ræða nýársdag, jóladag, hvítasunnudag, sjómannadag, páskadag eða hvaða aðra daga. Tíðarandinn hefur breyst frá því fyrir 20 til 30 árum þegar eðlilegt þótti að allt væri lokað þessa dag. Það er bara ekki þannig í dag. Skipið á að sigla fulla áætlun alla daga. Þetta er grunnþjónusta samfélagsins. Ekki lokum við lögreglustöðvum eða sjúkrahúsum þessa daga. Ekki er Hvalfjarðargöngunum lokað þessa daga, jafnvel þó svo önnur leið sé í boði.“ Grímur sagði að framtíðin í samgöngumálum ráðist mikið af því hvernig nýrri ferju muni reiða af við siglingar í Landeyjahöfn. Gangi það vel muni verða tekið skref fram á við, ef ekki þá þurfi að hugsa hlutina upp á nýtt og fara með frjóum huga yfir sviðið. „Er lausnin fólgin í háhraða ferju? Þær eru gangmiklar, rista lítið, t.d. ein sem ristir rúma 2 metra og er rúmlega 16 metra breið og er sögð geta siglt í 4 metra ölduhæð. Eða þarf að hugsa enn stærra? Við þolum a.m.k. ekki stöðnun, svo mikið er víst,“ sagði Grímur.   Undir væntingum Jóhann Jónsson sagði að mikið vantaði upp á að Landeyjahöfn hefði staðist væntingar frá því hún var tekin í notkun árið 2010 og 50% til 60% nýting væri ekki ásættanleg. „Draumur um að hægt væri að nota höfnina í 4,5 til 5 metra ölduhæð er því miður ekki raunhæfur,“ sagði Jóhann og bætti við að höfnin og aðstaðan við hana sé of lítil og ferjan sem nú er í smíðum sé líka of lítil og henti illa til siglinga í Þorlákshöfn. Hann kallar eftir endurbótum á Landeyjahöfn sem hann sagði ekki í sjónmáli og hann hefur áhyggjur af því þegar nýja ferjan þarf að sigla í Landeyjahöfn. „Gjaldskráin er líka alltof há og þar er engin hemja að hver fjögurra manna fjölskylda þurfi að greiða 200.000 til 500.000 krónur á ári fyrir ferðalög milli lands og Eyja.“ Jóhann vill sjá breytingar á rekstri Herjólfs og að hagsmunir Eyjamanna verði hafðir að leiðarljósi. Farið verði fyrr á morgnana og ein ferð seinnipart dags verði aðeins fyrir gáma. „Eftir sjö ára siglingar í Landeyjahöfn er því miður að óbreyttu ekki hægt að hafa miklar væntingar, hvorki um nýtingu eða ódýrari samgöngur. Þeir sem ráða hvorki vilja né skilja við hvað þeir láta okkur Eyjamenn búa við. Ég held að við eigum betra skilið og þá er bara vonin um að úr rætist ein eftir,“ sagði Jóhann að endingu.   Gunnlaugur stóð í ströngu Á eftir var pallborð þar sem Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Herjólfs og Guðmundur Helgason frá Vegagerðinni bættust í hópinn. Guðmundur sagðist ekki vera mættur til að sitja fyrir svörum og því mæddi mikið á Gunnlaugi sem reyndi eftir mætti að svara því sem kom fram í máli frummælenda og sneri að Herjólfi og eins spurningum úr sal. Hann sagðist geta verið sammála mörgu en við margt væri ekki ráðið. Eimskip sæi um rekstur Herjólfs samkvæmt samningi við Vegagerðina og mjög margt að því sem verið væri að gagnrýna væri einfaldlega bundið í samningi s.s. gjaldskrá og hvernig hún breyttist með tilliti til Ferjuvísitölu“, fjöldi ferða, meðhöndlun afsláttakorta og fleira. Gunnlaugur minnti á að Eimskip hefði ekki sótt allar þær hækkanir sem vísitalan kvæði á um. Einnig að sl. tvö ár hefðu Vegagerðin og Eimskip bætt við um 40 ferðum í sumaráætlun og nú væri verið að bæta við rúmlega 100 til viðbótar við það. Hann sagði að tekist hefði ágætlega að vinda ofan af biðlistum en það væri verkefni sem þyrfti alltaf að vera í skoðun. Bókunarkerfið sem verið væri að nota sé í notkun um allan heim en vandamálið ef væri að það væri oft fullt fyrir bíla og þá staðreynd að ásókn væri mikill.   Best komið hjá einkaaðila Spurt var hver hefði ákveðið að fá Baldur í afleysingar fyrir Herjólfs og svaraði Gunnlaugur því að það væri Vegagerðarinnar að sjá um það að finna afleysingaskip. Leitað hefði verið til útgerðar Baldurs með þessa afleysingu núna í fjórða skiptið. Gunnlaugur sagði að ekki hefði fundist annað skip til að leysa Herjólf af hólmi á meðan Herjólfur er slipp og að margir hefðu á síðustu árum reynt að finna skip en án árangurs. Þá bað hann fólk að gæta allrar sanngirni í samskiptum við starfsfólk Herjólfs og Baldurs. „Þetta fólk er að gera sitt besta og vinnur sín störf af fullum heilindum og samviskusemi, oft við mjög erfiðar aðstæður,“ sagði Gunnlaugur og var mikið niðri fyrir um framkomu sumra viðskiptavina. Hann sagði líka að tölur um rekstrarafgang sem komið hefði fram hjá Ásmundi og Grími væru þættir sem hann vildi alls ekki ræða enda um að ræða rekstrarsamning í kjölfar útboðs þar hart hafi verið barist um verkið. „Núna er Herjólfur í slipp og það er rekstraraðilans að greiða slipptökuna. Þessu verðum við að gera ráð fyrir ásamt ýmsum öðrum kostnaði sem er á ábyrgð rekstraraðila,“ sagði Gunnlaugur. Að lokum sagði Gunnlaugur að það væri hans einlæga mat að rekstrinum væri best fyrir komið hjá einkaaðila og þar væri Eimskip fremst í flokki en auðvitað væri hann vanhæfur í að meta það.

Eyjamenn vikunnar: Vignir Stefánsson og Arna Þyrí Ólafsdóttir

 Þau Vignir Stefánsson og Arna Þyrí Ólafsdóttir héldu uppi merki Vestmannaeyja í úrslitakeppni karla og kvenna í handbolta þegar þau urðu á dögunum Íslandsmeistarar með liðum sínum, Vignir með Val og Arna Þyrí með Fram. Þessir öflugu handboltamenn eru því Eyjamenn vikunnar að þessu sinni.   Nafn: Arna Þyrí Ólafsdóttir. Fæðingardagur: 28. mars 1997. Fæðingarstaður: Vestmannaeyjar. Fjölskylda: Mamma mín heitir Þórunn Jörgens og pabbi minn heitir Ólafur Snorra, svo ,,litli“ bró Jörgen Freyr. Draumabíllinn: VW Golf 2017. Uppáhaldsmatur: Pestó-kjúlli. Versti matur: Þorramatur. Uppáhalds vefsíða: Pinterest.com. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Ég hlusta eiginlega á alla tónlist en gömul íslensk lög eru í miklu uppáhaldi. Aðaláhugamál: Handbolti. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Ég veit ekki alveg, haha. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Gautaborg í Svíþjóð. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Fram og ÍBV. Guðrún Ósk og Steinunn Björnsdóttir eru virkilega flottir íþróttamenn og ég held mikið upp á þær. Ertu hjátrúarfull: Nei og já. Ég reyni að hafa alltaf sömu rútínu fyrir leiki en annars ekkert meira. Stundar þú einhverja hreyfingu: Já, ég spila handbolta með Fram og er í Crossfit XY. Uppáhaldssjónvarpsefni: Despó og Greys eru í mjög miklu uppáhaldi. Hvernig er tilfinningin að vera Íslandsmeistari? Tilfinningin er mjög góð, þetta er alveg ógeðslega skemmtilegt og ég stefni klárlega á að gera þetta aftur einhvern tímann, helst sem fyrst! Stjarnan og Fram hafa verið yfirburðalið í vetur og í raun mjög lítið sem hefur skilið á milli liðanna. Stjarnan hafði betur í bikarúrslitunum 19:18 og vinna ykkur síðan í síðasta deildarleiknum og verða meistarar á markatölu. Það hlýtur að hafa verið sætt fyrir ykkur að ná loks að skáka þeim? Já, það var mjög gaman að vinna þær loksins í úrslitaleik af því við vorum búnar að tapa fyrir þeim tvisvar í úrslitum. Við ætluðum okkur að vinna þær í þetta skiptið og það tókst! Hvað tekur við á næsta tímabili? Heldur þú áfram í Fram? Ég er ekki búin að ákveða hvað ég ætla að gera á næsta tímabili. Ég er að skoða mig um og sjá hvað mér líkar við, svo tek ég líklegast bara ákvörðun í sumar um það hvað ég geri. .........................................................   Nafn: Vignir Stefánsson. Fæðingardagur: 21. júní 1990. Fæðingarstaður: Vestmannaeyjar. Fjölskylda: Esther og Stefán eru foreldrar mínir. Systkini, Birgir og Berglind. Kærasta mín Hlíf Hauksdóttir og sonur okkar Haukur Heiðar. Draumabíllinn: Væri til í flottan Benz eða Audi. Þýski bíllinn er heillandi. Uppáhaldsmatur: Góð steik og beranaise klikkar aldrei. Svo er auðvitað maturinn hjá mömmu hrikalega góður. Versti matur: Súr þorramatur. Uppáhalds vefsíða: Á ekki vefsíðu í sérstöku uppáhaldi. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Þarna verð ég að setja playlistann frá Bubba (Hlyn Morthens), fjölbreyttur og virkilega hressandi. Aðaláhugamál: Íþróttir af flestum gerðum. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Væri til í að taka einn golf-hring með Michael Jordan. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Vestmannaeyjar á fallegum sumardegi. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Valsliðið eins og það leggur sig 2016/2017 Ertu hjátrúarfullur: Nei get ekki sagt það. Stundar þú einhverja hreyfingu: Skottast stundum á handboltaæfingu. Uppáhaldssjónvarpsefni: Designated survivor, nýbúinn með þá þætti. Hvernig er tilfinningin að vera bikar- og Íslandsmeistari? Hún er hrikalega góð og sjá að erfiði vetrarins hefur skilað sér. Er þessi niðurstaða vonum framar eða höfðuð þið alltaf trú á því að geta hampað tveimur titlum í lok tímabils? Hún er vonum framar áður en við lögðum af stað, en þegar leið á tímabilið þá jókst trú okkar á því að við gætum tekið alla þá titla sem voru í boði. Mikið hefur verið rætt og ritað um leik ykkar gegn Potaissa Turda í Áskorendakeppni Evrópu þar sem þið voruð flautaðir úr leik eins og frægt er. Hvernig var að upplifa svona óréttlæti og spillingu frá fyrstu hendi? Það var í raun mjög skrítið og enginn okkar trúði því að þetta væri að gerast. En í hálfleiknum áttuðum við okkur á þessu og reyndum allt hvað við gátum til að reyna að berjast gegn þessu. Það var aldrei séns að okkar mati. Sérðu fyrir þér endurkomu í ÍBV á næstu árum? Ekki í augnablikinu en við útilokum aldrei neitt, þetta getur verið fljótt að breytast.     Vignir er til vinstri á myndinni en með honum er Ólafur Ægir Ólafsson sem á einnig ættir að rekja til Eyja en faðir hans er Ólafur Már Sigurðsson.

Fréttatilkynning frá Hollvinasamtökum Hraunbúða:

Hollvinasamtök Hraunbúða, nýstofnuð samtök, sem hafa það að markmiði að aðstoða heimilisfólk og aðstandendur Hraunbúða eru smátt og smátt að koma starfsemi samtakanna á fullt. Nú nýverið gekk stjórnin frá formlegri skráningu samtakanna og fékk við það kennitölu og í kjölfarið voru stofnaðir reikningar í bönkunum hér í Eyjum, Íslandsbanka og Landsbanka. Á báðum stöðum er sama númer, 200200 og kennitala samtakanna er 420317-0770. Styrktaraðilar eru í dag vel á annað hundrað og unnið er í því að safna fleirum. Þeir sem hafa þegar skráð sig í samtökin, geta því lagt inn á 0582-26-200200 í Íslandsbanka eða 0185-26-200200 í Landsbanka. Lágmarksgjald einstaklinga er kr. 2.500,- og fyrir fyrirtæki 25.000,-, að sjálfsögðu er öllum frjálst að greiða meira.   Markmiðið að vinna með öðrum Nú þegar hafa samtökin hitt starfsfólk og stjórnendur Hraunbúða, sem og fundað með aðstandendum heimilisfólks. Margt gagnlegt kom út úr þeirri þarfagreiningu og liggur þegar fyrir aðgerðarlisti sem unnið verður með og að næstu vikur og mánuði. Það fyrsta sem verður ráðist í eru kaup á þremur hjólastólum, en markmiðið er líka að vinna með öðrum aðilum sem hafa stutt vel við bakið á heimilisfólki í gegnum tíðina. Næsta verkefni eru kaup á nýjum blóðþrýstingsmæli, sem vonandi verður kynnt fljótlega. Þá hefur verið ákveðið að efna til Vorhátíðar þann 27. maí, milli klukkan 14 og 16. Hollvinasamtökin bjóða þar heimilisfólki og aðstandendum þeirra í sannkallaða sumarveislu og til viðbótar eru allir eldri borgarar í Eyjum boðnir hjartanlega velkomnir. Dagskrá vorhátíðar verður auglýst á næstu dögum.   Mikilvægt að hlúa vel að heimilisfólki Í spjalli okkar við aðstandendur og starfsfólk Hraunbúða kom margt fram sem hægt er að vinna að. Það er mikilvægt að hlúa vel að heimilisfólki og markmiðið hjá öllum sem að Hraunbúðum koma er að öllum líði sem allra best. Nú þegar erum við komin í samband við Rauða krossinn, sem hefur boðið upp á heimsóknarvini. Það göfuga starf er fjölbreytt og hægt er að kynna sér allt um það inn á www.raudikrossinn.is. Þá hefur nú þegar verið ein dýraheimsókn og fleiri á döfinni. Samtökin hafa einnig ákveðið að bjóða upp á helgarbíltúr Hollvinasamtakanna. Þar verður heimilisfólki boðið í stuttan bíltúr kl. 14 á laugardögum, en ef það viðrar ekki vel og spáin betri fyrir sunnudaginn, verður sunnudagsbíltúr um Eyjuna að sjálfsögðu frekar fyrir valinu. Aðstandendur og aðrir geta lagt okkur lið í þessu og boðið fleirum með í bíltúr um Eyjuna. Helgarbíltúrinn verður betur kynntur inn á Facebooksíðu samtakanna. Mjög góð hugmynd kom upp í spjalli samtakanna við aðstandendur, en það var að gera Þrettándaupplifun heimilisfólks sterkari og að gera Þrettándann að meiri fjölskyldu-og samverustund. Á næsta ári munu samtökin því standa fyrir Þrettándagleði á Hraunbúðum með kaffi og meðlæti. Jóla- og Þrettándalög spiluð og vonandi fleiri uppákomur, ásamt því að fá hefbundna heimsókna jólasveinanna, með tilheyrandi flugeldasýningu. Hollvinasamtökin munu taka að sér vinnu við nýtt aðstandendaherbergi Hraunbúða, en til stendur að útbúa það á næstunni. Samtökin auglýsa eftir aðila eða aðilum, sem geta tekið að sér upplestur úr bókum vikulega fyrir heimilisfólk. Tveir aðilar gætu líka skipt þessu á sig á tveggja vikna fresti. Sannarlega gefandi verkefni. Áhugasamir geta haft samband við Halldóru Kristínu í síma 861-1105 eða í tölvupósti, hallda78@hotmail.com.   Góðir gestir Þegar Guðni Ágústsson og Jóhannes Kristjánsson komu til að skemmta Eyjamönnum, fengu Hollvinasamtökin þá félaga til að koma og skemmta heimilisfólki Hraunbúða. Það gerðu þeir svo sannarlega og kom Guðni þar að auki færandi hendi með tvær bækur sem hann hefur skrifað. Virkilega skemmtileg stund á Hraunbúðum og þökkum við þeim félögum kærlega fyrir komuna. Eyjahjartað slær víða. Listamaðurinn Gunnar Júlíusson, sem býr á Álftanesi, gaf samtökunum merki samtakanna (lógó) og viljum við nota tækifærið og þakka Gunnari fyrir þessa höfðinglegu gjöf. Á þessari upptalningu sést að mörg spennandi verkefni bíða samtakanna. Við hvetjum sem flesta til að gerast hollvinir Hraunbúða með því að styrkja samtökin og þannig stuðla að enn betri þjónustu við heimilisfólkið. Við viljum líka bjóða alla hjartanlega velkomna sem vilja leggja samtökunum lið í þeim fjölmörgu og fjölbreyttu verkefnum sem framundan eru. Um leið þökkum við fyrir frábærar viðtökur og hlökkum til samstarfsins við bæjarbúa.   Stjórnin.  

Icewear hefur nú opnað glæsilega útivistarverslun í Vestmannaeyjum

Ný verslun Icewear er staðsett niður við Básaskersbryggju 2 og býður upp á vandaðan útivistarfatnað, skó og fylgihluti á góðu verði fyrir alla fjölskylduna. Einnig er úrval af Icewear fatnaði, teppum og ýmsum öðrum aukahlutum sem allt er unnið úr gæða ull. Í Icewear er einnig áhersla á smávörur og minjagripi fyrir gesti og gangandi sem sækja Vestmannaeyjar heim. Í versluninni verða góð opnunartilboð fyrir Eyjamenn á öllum Icewear fatnaði næstu dagana og bjóðum við alla velkomna að kíkja við og skoða fjölbreytt úrvalið. Sagan nær aftur til ársins 1972 þegar framleiðsla á fatnaði hófst á Hvammstanga með áherslu á ýmsar ullarvörur. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og Icewear vörumerkið kom til sögunnar árið 1984. Vörulínan spannar í dag eitt mesta úrval landsins af útivistarvörum fyrir dömur, herra og börn í bland við einstakt úrval af ullarfatnaði og aukahlutum. Vörur Icewear eru hannaðar á Íslandi og taka mið af þeim sér íslensku aðstæðum sem náttúran og veðurfarið bjóða upp á. Framleiðsla fer fram bæði hérlendis og erlendis þar sem áhersla er lögð á gæði og vellíðan við allar aðstæður og umfram allt sanngjörn verð. Í dag verslanir fyrirtækisins undir merkjum Icewear, Icewear Magasin og Ice-mart samtals ellefu talsins staðsettar í Reykjavík, Akureyri, Vestmannaeyjum og í Vík og að auki netverslunin www.icewear.is. Verið velkomin í verslun okkar við Bása við tökum vel á móti ykkur.   -Starfsfólk Icewear í Vestmannaeyjum    

Fást þar svör við spurningum sem brunnið hafa á Eyjamönnum undanfarin ár?

„Á stórgóðum borgarafundi um samgöngur sem haldinn var að frumkvæði Ásmundar Friðrikssonar þingmanns og héraðsfréttamiðlanna Eyjafrétta og Eyjar.net í þar síðustu viku kom upp sterk krafa um að halda þyrfti sem fyrst annan fund um samgöngur og horfa þar til framtíðar, ræða nýja ferju og þróun Landeyjahafnar. Einhverjir fundarmenn orðuðu það svo að fundurinn í þar síðustu viku hafi verið góður fyrri hálfleikur,“ segir Elliði Vignisson um fund um samgöngur í Höllinni kl. 18.30 í kvöld. „Þar verður gerð tilraun til að líta af baksýnisspeglinum og horfa fram á veginn. Höfuðáhersla verður lögð á að kynna hið nýja skip sem nú er byrjað að smíða og þróun Landeyjahafnar.“ Von er til að á fundinum fáist svör sem brunnið hafa á Eyjamönnum undanfarin ár. Mikið vantar upp á að Landeyjahöfn hafi staðist væntingar, varla náð því að vera hálfsárshöfn. Smíði á nýrri ferju hefur tafist og margir hafa efasemdir um að skipið sem nú er hafin smíði á uppfylli kröfur Vestmannaeyinga um bættar samgöngur. Á fundinn mæta menn sem eiga að geta svarað þessum spurningum að einhverju eða öllu leyti. Jóhannes Jóhannesson skipaverkfræðingur kynnir endanlega hönnun á nýrri Vestmannaeyjaferju og hvernig búast megi við að hún standist þær kröfur sem til hennar eru gerðar um siglingar við allt að 3,5 metra ölduhæð í Landeyjahöfn, siglingar í Þorlákshöfn og margt fleira. Þá mun Sigurður Áss Grétarsson frá Vegagerðinni kynna stöðu Landeyjahafnar og þróun hennar frá því að hún var opnuð árið 2010. Farið verður yfir rannsóknir þar að lútandi og væntanlegar framkvæmdir sem eiga að geta auðveldað nýtingu hafnarinnar á heilsársgrundvelli. Jón Gunnarsson innanríkisráðherra átti að ávarpa fundinn en samkvæmt aðstoðarmanni hans Ólafi Einari Jóhannssyni mun hann ekki mæta. Framsögumenn sitja síðan fyrir svörum ásamt Friðfinni Skaptasyni formanni stýrihóps um smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju og öðrum sem gegna ábyrgðahlutverki í samgöngum á sjó við Vestmannaeyjar.  

Þorleifur Gaukur & Ethan Jodziewicz á Háaloftinu í kvöld

Munnhörpuleikarinn margfrægi Þorleifur Gaukur er mættur á land eftir nám í Berklee College of Music. Í þetta skiptið tekur hann með sér Ethan Jodziewicz, einn fremsta Roots-bassaleikara heims. Ethan er á milli túra með Grammy-tilnefndu Sierra Hull og hefur hann spilað með öllum frá Bela Fleck til David Grisman.   Einstök blanda þeirra af Bluegrass og Djass er fersk og orkumikill spuni þeirra heldur áheyrendunum spenntum. Þeir ná að sýna að þessar tónlistarstefnur eru tengdari en margir halda. 16-24 maí taka þeir hringinn í kringum landið og ætla auðvitað að spila í Eyjum en tónleikarnir verða á Háaloftinu í kvöld frá kl. 21:15 til 23:00.   Þorleifur Gaukur Munnhörpuleikarinn Þorleifur Gaukur hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi frá ungum aldri. Hann hefur spilað með KK, Kaleo, Victor Wooten, Bob Margolin, Peter Rowan, Tómas R. Einarsson, og mörgum fleirum. Haustið 2015 hóf hann nám við Berklee College of Music á fullum skólastyrk og fékk Clark Terry verðlaunin fyrir framúrskarandi árangur í fyrra. Hann hefur verið áberandi í Bluegrass senuni í Bandaríkjunum og er draumurinn að kynna landann fyrir þeirri tónlist.   Ethan Jodziewicz Nashville bassleikarinn Ethan Jodziewicz þrífst í tónlist sem að blanda hefðum og framúrstefnu, tæknilegri færni með minimalisma og ástríðu. Sem rísandi stjarna í “new-acoustic” tónlistarsenunni kemur hann með ást sinni á spuna, kammer tónlist, djassi, Bandarískri folk tónlist, og fönk til kontrabassans. Takmarkalaus spilamennska hans vakið athygli um öll Bandaríkin og er hann spenntur að koma til Íslands í fyrsta sinn.    

Bæjarstjórn átti fund með samgönguráðherra

Núna um helgina átti bæjarstjórn fund með Jóni Gunnarssyni samgönguráðherra um stöðu samgangna og framtíðina hvað þær varðar. Á fundinum lýstum við bæjarfulltrúar skoðunum okkar og stefnu eins og hún hefur verið samþykkt á almennum borgarafundi og á fundum bæjarstjórnar. Ráðherra tók vel í þær hugmyndir og hjá honum kom fram vilji til að núverandi Herjólfur yrði áfram til staðar a.m.k. fyrst um sinn þegar ný ferja hefur siglingar 2018. Bæjarstjórn ítrekaði fyrri kröfu sína um að rekstur ferjunnar yrði í höndum heimamanna, ráðherra tók sömuleiðis jákvætt í þá kröfu. Bæjarstjórn ítrekaði einnig kröfu sína um að sama fargjald verði í báðar hafnir og að áfram verði haldið að vinna að úrbótum á Landeyjarhöfn. Það var gott að finna að ráðherrann var á sömu bylgjulengd í þessu máli og ræddi málin af skynsemi við bæjarstjórn.   Fjölgun ferða í sumaráætlun eru skref í rétta átt og verður það vonandi eitt skref af mörgum sem tekin verða á næstunni. Orð eru til alls fyrst og mikilvægt að við Eyjamenn fjölmennum á opinn fund um samgöngur sem haldin verður núna í vikunni. Þar mun Jón ávarpa fundinn. Aðrir framsögumenn og gestir verða: Jóhannes Jóhannesson skipaverkfræðingur, Sigurður Áss Grétarsson hafnarverkfræðingur, Friðfinnur Skaptason formaður stýrihóps um smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju og ýmsir fleiri sem gegna ábyrgðahlutverki í samgöngum á sjó við Vestmannaeyjar. Höfuðáhersla verður lögð á að kynna hið nýja skip sem nú er byrjað að smíða og þróun Landeyjahafnar.   Kjörið tækifæri fyrir okkur bæjarbúa til að fá svör við brennandi spurningum og koma óskum og ábendingum beint og milliliðalaust til þeirra sem með málið fara. Fundurinn er á miðvikudaginn 24. maí, kl. 18:30 í Höllinni og hvet ég alla til að mæta. Við Eyjamenn þekkjum að okkar stóru sigrar hafa ætíð verið unnir á forsendum bjartsýni, krafts og samstöðu. Það þekkjum við bæði úr íþróttalífinu rétt eins og í öllum helstu framfaramálum samfélagsins. Stöndum saman – framtíðin er núna.   Trausti Hjaltason bæjarfulltrúi.    

Fjárfestar kaupa eignir í Eyjum af miklum móð

Færst hefur í aukana síðustu vikur að stór fasteignafélög kaupi upp fasteignir í Vestmannaeyjum og veðji þannir á hækkandi fasteignaverð samfara bættum samgöngum til og frá Eyjum. Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir fjárfesta hafa mikla trú á áhrifum nýrrar Landeyjahafnar. Visir.is greinir frá. „Við á landsbyggðinni vitum sem er að í hvert skipti sem samgöngur lagast þá hækkar fasteignaverð,“ segir Elliði.   Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. „Við sjáum það hér í Eyjum mjög glöggt í tengslum við gerð Landeyjahafnar. Ég get staðfest að hafa orðið var við að stór félög séu að kaupa upp fasteignir í Eyjum. Þeir hafa þá líklega meiri trú á því að verðið muni hækka en heimamenn.“ Guðjón Hjörleifsson, fasteignasali í Vestmannaeyjum, hefur sömu sögu að segja og Elliði og staðfestir að á annan tug fasteigna hafi á stuttum tíma farið til fasteignafélaga. Stór fyrirtæki fái lánað hjá Íbúðalánasjóði á sömu vöxtum og almenningur til langs tíma. Eignamyndun félaganna sé hraðari á stöðum eins og Vestmannaeyjum en í Reykjavík til að mynda. „Jú, ég hef verið að selja íbúðir til fasteignafélaga í Eyjum sem ætla sér að leigja út eignirnar í einhvern tíma þar til fýsilegt verður að selja. Það er mjög áhugavert að sjá þennan viðsnúning því þetta er eitthvað sem við höfum ekki séð mikið af hér í Eyjum,“ segir Guðjón. „Menn fá hér eignir á góðu verði þar sem atvinnulíf er með ágætum og svo veðja menn líklega á að verðið hækki með bættum samgöngum.“ Elliði segir það mikilvægt að heimamenn sjái líka tækifærið í auknum samgöngum við Landeyjahöfn og haldi ekki að sér höndum. „Fjárfestar kaupa núna bæði íbúðir og hús sem þeir ætla að leigja og selja áfram. Því gæti verið sniðugt að fjárfesta nú áður en verð hækkar í Eyjum. það hefur margsýnt sig að verð fasteigna fer upp um leið og samgöngur batna,“ segir bæjarstjórinn.  

Líknarkonur höfðu betur í slagnum um húsmæðraorlofið

Fyrir bæjarráði í síðustu viku lá fyrir innheimtubréf um greiðslu orlofs húsmæðra sem miðast við 106,40 kr. á hvern íbúa í Vestmannaeyjum miðað við vísitölu neysluverðs í febrúar árið 2016 samkvæmt Hagstofu Íslands. Var þess óskað að Vestmannaeyjabær greiði Kvenfélaginu Líkn 602.674 kr. vegna orlofs húsmæðra. Í fundargerð segir að bæjarráð hafi áður lýst yfir fullum stuðningi við einróma ályktun kvennafundar bæjarstjórnar á kvenréttindadaginn 19. júní 2008 þess efnis að greiðsla húsmæðraorlofs væri ekki í anda jafnréttis. „Sá stuðningur er óbreyttur. Hins vegar hefur bæjarráð Vestmannaeyja og Vestmannaeyjabær átt afar farsælt samstarf við Kvenfélagið Líkn allt frá stofnun þess 14. febrúar 1909. Samstarfið hefur fyrst og fremst einkennst af gagnkvæmri virðingu og samstöðu í því sem snýr að líknarmálum og hefur það til að mynda skilað sér í framlögum til tækjakaupa Sjúkrahússins, uppbyggingu í málefnum aldraðra og mörgum fleiri góðum málum. Bæjarráð er afar annt um að hvergi beri skugga á það samstarf og samþykkir því að greiða Líkn 700.000 kr. og hvetur Líkn til að nýta upphæðina til góðgerðamála,“ segir í fundargerðinni Stefán Óskar Jónasson, fulltrúi E-listans lét bóka: -Ég fagna þessari niðurstöðu þar sem ég hef stutt málið frá upphafi. Málið á sér nokkra forsögu og nær aftur til ársins 2007 og aftur árið 2008. Árið 2015 segir í bæjarráði: „Verður ekki séð að lög um orlof húsmæðra uppfylli þetta skilyrði enda fá húsfeður og eða ekklar ekki notið til jafns við konur þess orlofs sem lögin kveða á um. Ljóst má því telja að lög um orlof húsmæðra brjóta gegn lögum um jafna stöðu karla og kvenna og grundvallarreglum íslenskrar stjórnskipunar,“ sem varð niðurstaðan sem nú hefur verið dregin til baka. Og enn og aftur stóð Stefán Óskar með konunum.    

Sandra Erlingsdóttir og Friðrik Hólm Jónsson eru Eyjamenn vikunnar

Sandra Erlingsdóttir og Friðrik Hólm Jónsson hlutu fréttabikarana um síðustu helgi og fyrir vikið eru þau Eyjamenn vikunnar að þessu sinni. Sandra var lykilmaður í meistaraflokki kvenna þar sem hún skoraði m.a. 97 mörk í 20 leikjum. Friðrik Hólm spilaði 16 leiki fyrir aðallið ÍBV ásamt 10 leikjum með U-liðinu áður en hann varð fyrir meiðslum.   Draumurinn að spila í meistaradeildinni   Nafn: Sandra Erlingsdóttir. Fæðingardagur: 27. júlí árið 1998. Fæðingarstaður: Reykjavík. Fjölskylda: Foreldrar mínir eru Vigdís Sigurðardóttir og Erlingur Birgir Richardsson, svo á ég tvo litla sæta bræður sem heita Elmar og Andri. Draumabíllinn: Hvítur Volkswagen Golf. Uppáhaldsmatur: Steiktur fiskur hjá afa. Versti matur: Bjúgu. Uppáhalds vefsíða: Facebook og hmagasin. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Róleg gömul lög. Aðaláhugamál: Handbolti og flest öll hreyfing. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Usain Bolt. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Bahamas. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Isabelle Gulldén og auðvitað ÍBV. Ertu hjátrúarfull/ur: Nei, ég get ekki sagt það. Stundar þú einhverja hreyfingu: Handbolta og allt sem fylgir því. Uppáhaldssjónvarpsefni: Ég og amma erum komnar á 4. seríu af Grey's anatomy en svo er Skam líka í miklu uppáhaldi. Ertu ánægð með tímabilið sem var að ljúka: Já, heilt yfir getum við verið sáttar en auðvitað eru fullt að af hlutum sem hefðu mátt fara betur sem við lærum af. Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig að hljóta fréttabikarinn: Þetta eru virkilega skemmtileg verðlaun og hvetja mann til þess að halda áfram að æfa vel og fylgja markmiðum sínum. Hver eru þín persónulegu markmið sem handboltamaður: Halda áfram að vera dugleg að æfa, komast fast inn í A-landsliðshópinn og nýta sumarið vel fyrir næsta tímabil eru mín skammtíma markmið en þegar lengra er litið þá er það að verða mikilvægur leikmaður í landsliðinu og spila í meistaradeildinni draumur síðan í æsku.   Svona verðlaun ýta bara á mann að gera enn betur   Nafn: Friðrik Hólm Jónsson. Fæðingardagur: 3. des.1998. Fæðingarstaður: Vestmannaeyjar. Fjölskylda: Foreldrar mínir eru Jón Steinar og Júlía Elsa, svo á ég eina eldri systir sem heitir Íris Eir og yngri bróðir sem heitir Kristján Logi. Draumabíllinn: Það mun vera Nissan GTR. Uppáhaldsmatur: Erfitt að velja en ætli maður segi ekki bara hamborgarahryggur á jólunum með eplasalati og brúnum kartöflum. Versti matur: Súrmatur er ekki í miklu uppáhaldi. Uppáhalds vefsíða: Ætli það sé ekki bara klassíska facebook og youtube, svo er alltaf gaman að skoða fimmeinn og fotbolta.net. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Bara allskonar tónlist, allt frá rappi upp í rokk en ungverska Eurovision lagið er í uppáhaldi eins og er. Aðaláhugamál: Handbolti. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Væri til í að hitta báða afa mína. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Vestmannaeyjar er alltaf fallegasti staðurinn. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Uwe Gensheimer leikmaður PSG og auðvitað er ÍBV uppáhalds íþróttafélagið. Ertu hjátrúarfull/ur: Kannski ekki mikið en ég fer alltaf í hægri sokkinn á undan þeim vinstri fyrir leik. Stundar þú einhverja hreyfingu: Spila handbolta með ÍBV. Uppáhaldssjónvarpsefni: Friends, Top Gear og The Grand Tour. Ertu ánægður með tímabilið sem var að ljúka: Það er alltaf skemmtilegra að vinna titil en við gerum bara betur á næsta tímabili. Líka leiðinlegt að missa af 10 vikum vegna meiðsla. Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig að hljóta fréttabikarinn: Ánægjulegt að hljóta þessi verðlaun og svona verðlaun ýta bara á mann að gera enn betur. Hver eru þín persónulegu markmið sem handboltamaður: Draumurinn er alltaf að gera þetta að atvinnu og það er bara markmiðið eins og staðan er núna.  

Gleðin skein úr andlitum barnanna sem tóku virkan þátt

Hún var ekki í mörgu frábrugðin fermingarmessan þeim sem við Íslendingar flestir eigum að venjast sem fram fór í Landakirkju eftir hádegið á sunnudaginn. Jú, reyndar, hún var katólsk, fór fram á pólsku og börnin tólf sem þarna fermdust voru á aldrinum átta til tíu ára. En ánægjan var ekki síðri og gleðin skein úr andlitum barnanna sem tóku virkan þátt í athöfninni. Á annað hundrað manns, foreldrar, systkini, afar og ömmur og vinir voru mætt til að samgleðjast þeim.   Presturinn, Mikolaj Kleicik stýrði athöfninni af röggsemi og varði miklum tíma í að tala til barnanna. Mariusz Wanecki og Barbara Zielenda voru þarna að láta ferma dóttur sína, Láru Barböru en fjölskyldan hefur búið í Vestmannaeyjum í 11 ár og talar Mariusz mjög góða íslensku. Katólska kirkjan í Póllandi hugsar um sitt fólk í Vestmannaeyjum en hér búa um 180 Pólverjar og kemur Mikolaj, sem búið hefur þrjú ár hér á landi annan sunnudag í hverjum mánuði og messar í Landakirkju. Segist hann eiga mjög gott samstarf við prestana í Eyjum, Guðmund Örn og Viðar. Og hann sýndi að hann kann til verka. Börnin voru klædd í fallega hvíta kirtla og stelpurnar voru með blóm í hárinu. Mariusz sagði að kirtlarnir væru saumaðir í Póllandi og eru algengari í dag en áður. Söfnuðurinn tók virkan þátt í messunni og blaðamaður hafði á tilfinningunni hvenær farið var með Faðirvorið og Trúarjátninguna og nokkrum sinnum bar nafn Jesú á góma. Að lokinni predikun talaði Mikolaj til barnanna og sumt var á léttu nótunum því mikið var hlegið. Tónlistin var í léttari kantinum og sáu fermingarbörnin um sönginn. Tóku þau m.a. Halelujalagið hans Leonards Coen þar sem strákur og stelpa skiptu á sig einsöngnum. Þau hlutu síðan blessun frammi við altarið og meðtóku heilagt sakramenti. Þá fékk hvert þeirra hvíta rós sem þau færðu foreldrunum. Ferming hjá Pólverjum er tvískipt. Seinni athöfnin er þegar börnin eru orðin 14 til 16 ára gömul og þá sér biskup um athöfnina. „Á eftir var hver fjölskylda með sína veislu og fermingarbörnin fengu gjafir eins og hjá ykkur. Hjá okkur voru pabbi og mamma, bróðir minn og kærastan hans og nokkrir vinir okkar ofan af landi. Í sumar förum við til Póllands og þá verður slegið upp veislu með fjölskyldum okkar og eru amman og langamman sem búa úti mjög spenntar,“ sagði Mariusz að endingu.    

Volcano Seafood valið besta fyrirtækið í nýsköpunaráfanga HR

Síðustu daga og vikur hafa fimm nemendur í haftengdri nýsköpun hér í Vestmannaeyjum verið að þróa vöru í þriggja vikna áfanga sem nefnist nýsköpun og stofnun fyrirtækja. Fyrir þá sem ekki vita þá er haftengd nýsköpun samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri sem sett var á laggirnar síðasta haust.   „Í þessum áfanga sem við erum í núna eigum við að stofna fyrirtæki á þremur vikum, koma því á framfæri og gera viðskiptaáætlun,“ segja háskólanemarnir Svanhildur Eiríksdóttir, Hallgrímur Þórðarson, Guðný Bernódusdóttir og Gunnar Heiðar Þorvaldsson í samtali við Eyjafréttir en fyrirtækið sem þau stofnuðu heitir Volcano Seafood. „Við byrjuðum í hugmyndavinnu, bara finna út hvað gæti verið sniðugt að gera,“ heldur Svanhildur áfram þegar hún lýsir ferlinu. „Fyrsta hugmyndin var í raun að koma íslensku bjórsnakki úr íslenskum afurðum inn á austur evrópskan markað, eitthvað nasl sem gæti hentað vel fyrir bjórstofur. Við fórum s.s. niður í Löngu til Ella og Halla og þeir sögðu okkur frá hugmynd sem einhverjir Eistar höfðu um bjórsnakk sem aldrei varð neitt úr.“ „Okkur fannst þetta strax voðalega sniðug hugmynd og tilvalið að sjá hvort það væri einhver grundvöllur fyrir þessu,“ bætir Gunnar Heiðar við. „Út frá því fengum við keilu frá þeim, sem er ódýrt en gott hráefni og fiskitegund sem ekki er mikið notuð. Keilan er skötuselur fátæka mannsins eins og Grímur kokkur segir og úr henni langaði okkur að skapa verðmæta afurð.“ Í upphafi voru þau fimm sem standa að verkefninu með á bilinu 40 til 50 hugmyndir sem hægt var að vinna með en að lokum voru þau nokkuð sammála um hver væri vænlegastir kosturinn í stöðunni. „Við völdum öll þrjár hugmyndir sem við töldum vera bestar og vorum við meira og minna með það sama. Við enduðum á því að velja bjórsnakkið þar sem það virkaði raunhæfasta hugmyndin með tilliti til þess þriggja vikna glugga sem við höfðum. Við vissum að Langa var klár með hráefnið og við vissum að Grímur kokkur væri meira en tilbúinn til að hjálpa til við þetta enda hefur þetta gengið eins og í sögu,“ segir Gunnar Heiðar. Hvernig fer framleiðsluferlið fram? „Við fáum keiluna frá Löngu, flökum hana, bein- og roðhreinsum og setjum í pækil og þar liggur hún í ca. 12 tíma. Eftir það skerum við hana niður í sneiðar, við viljum hafa þetta svona flögulaga svo þetta sé bara eins og snakk. Síðan er þetta kryddað á fimm mismunandi vegu,“ segir Gunnar Heiðar.   Smökkun á The Brothers Brewery Í síðustu viku fór fram smökkun á nýju vörunni á ölstofu The Brothers Brewery en þar kom saman hópur fólks og lagði sitt mat á afurðina. „Við vorum með þetta smakk til að fá smá „feedback“ á það sem við erum að gera, við værum síðan til í að fá eina til tvær smakkanir til viðbótar til þess að geta þróað vöruna enn frekar. En þetta tókst alveg ótrúlega vel miðað við fyrstu prufur og svona,“ segir Gunnar Heiðar. En hvaða bragðtegundir voru til smökkunar? „Það var saltað, svona svipað og harðfiskur og fengum við mjög góð viðbrögð við því. Við erum einnig með papriku bragð, chili bragð, bbq bragð og svo létt reykt. Án þess að fara út í einhver smáatriði um hvert og eitt þá kom þetta bara allt vel út, sem er bara frábært.“ Hvað verður síðan í framhaldinu? „Það er mjög góð spurning, við erum búin að fá mjög góð viðbrögð frá mörgum aðilum og ég bara veit ekki hvað verður. Við munum eflaust setjast niður á næstunni og fara yfir þessi mál, hvort við viljum halda áfram með þetta eða fara jafnvel í samstarf við annað fyrirtæki. Eins og hún sagði við okkur hún Hrefna sem er yfir okkur, þá koma frumkvöðlar oft með hugmynd, koma henni af stað og selja hana og snúa sér sér síðan að einhverju öðru,“ segir Gunnar Heiðar. „Eins og við segjum þá er varan ekki enn 100% fullmótuð þannig okkur langar svolítið að halda áfram að þróa hana þangað til hún verður „solid“ og alveg upp á tíu,“ bætir Svanhildur við og heldur áfram. „Eftir helgi líkur þessum áfanga og þá förum við í annan áfanga sem heitir nýsköpun í matvælum og er tengdur Háskólanum á Akureyri og þar höfum við hugsað okkur að halda áfram með þessa vöru, fá næringarinnihald og næringargildi og gera þetta að alvöru vöru.“ Síðasta föstudag kynnti hópurinn bjórsnakkið fyrir framan 400 manns í Háskóla Reykjavíkur en kynningin var liður í nýsköpunaráfanganum sem þau voru í. Þar gerði hópurinn sér lítið fyrir og vann til tvennra verðlauna af fimm í áfanganum en það er í fyrsta sinn í sögu skólans sem það gerist. Fyrirtækið Volcano Seafood þótti það besta í sjávarútvegi og einnig besta fyrirtækið í öllum áfanganum sem saman stóð af 350 nemendum eða um 67 hópum. Glæsilegur árangur hjá þeim. „Við komumst þessa einu ferð með Baldri á fimmtudeginum þannig að þetta átti greinilega að gerast,“ segir Gunnar Heiðar, en strax á eftir var bæði ófært með flugi og Baldri. „Við vorum til um þrjú um nóttina að klára allt sem þurfti að klára uppi í HR og vorum síðan aftur mætt upp í skóla kl. 07:30, þannig það var ekki mikið sofið en þetta tókst.“   Fóru í snittuboð í kanadíska sendiráðinu Verkefnin voru m.a. metin á grundvelli þess hve góð hugmyndin var, hvort hún væri framkvæmanleg, áhugverð og þar fram eftir götunum. Heilt yfir var ferlið allt stærra í sniðum en þau höfðu gert sér grein fyrir, en hópurinn kom m.a. við í kanadíska sendiráðinu eftir kynninguna. „Maður gerði sér ekkert grein fyrir því hvað maður var að fara út í, þetta var miklu, miklu stærra en maður hélt. Maður fékk smá högg í andlitið þegar maður var allt í einu kominn inn í kanadíska sendiráðið tveimur tímum eftir verðlaunaafhendingu, að spjalla við eitthvað fólk í snittuboði. Þetta kom bara virkilega á óvart og mjög gaman að þessu,“ segir Gunnar Heiðar. En hvað gerir þetta fyrir ykkur? „Heilmikið, við fáum að fara út til Danmerkur að keppa fyrir hönd Íslands í nýsköpunarkeppni,“ segir hópurinn. „Í júlí kemur fólk frá þessari keppni til að hitta okkur og undirbúa okkur fyrir þessa keppni þannig að þetta er mikið batterí. Þetta á eftir að hjálpa okkur heilmikið í markaðssetningu okkar. Það kom okkur sömuleiðis á óvart hversu vel HR-ingarnir tóku í þetta því þetta var markhópur sem við höfðum fyrirfram afskrifað en þau voru alveg að missa sig yfir þessu. Þetta segir okkur að það sé eitthvað varið í þessa vöru.“    

Þessi brenna hjá ykkur er ekkert grín

„Ég man þegar ég var krakki að skoða ljósmyndamöppuna hennar mömmu, þar var góður kafli um sumarið sem hún vann í Eyjum, sennilega 1973 eða 1974. Þessi kafli fannst mér mest spennandi. Hún var brosandi á öllum myndum, einhver með kassagítar og greinilega geggjað stuð,“ segir Örn Elías Guðmundsson, öðru nafn Mugison, þegar hann er spurður um það hvort hann hafi einhverja tengingu við Eyjarnar. „Þær fóru nokkrar saman að vinna í fiski eitt sumarið og skemmtu sér greinilega rosalega vel. Ég spurði mömmu oft út í þessar myndir.“ Mugison er Vestfirðingur eins og flestir vita og með sterka tengingu við aðal atvinnuveg þjóðarinnar í gegnum aldirnar, sjávarútveginn. „Þegar ég var unglingur fór ég á sjóinn með pabba og við stoppuðum til að ná í olíu á dallinn í Eyjum, ég var mjög sjóveikur og langaði að verða eftir, ótrúleg innsigling, klettarnir og fuglar, allt svo tignalegt.“   Bauð á tónleika 2011 Mugison hefur nokkrum sinnum komið fram í Eyjum og það var auðvitað eftirminnilegt þegar hann bauð okkur Eyjamönnum upp á fría tónleika síðla árs 2011. Um það og það sem eftir fylgdi segir hann: „Ég hef spilað alltof sjaldan í Eyjum, kom fyrst með rokkbandið 2007, svo kom ég aftur 2011 og þá var stappað í Höllinni, minnir að það hafi verið 850 manns, þvílíkar móttökur og í kjölfarið var mér boðið að spila á Þjóðhátíð 2012. Það var upplifun, þessi brenna hjá ykkur er ekkert grín. Vá!“ En Mugison og hans félagar hafa ýmislegt brallað og meðal annars fóru þeir hringferð um landið og það nokkuð óvenjulega og komu við í Eyjum. „Síðast kom ég með Áhöfninni á Húna þegar við fórum hring um landið sjóðleiðina til styrktar Björgunarsveitunum. Ég, Jónas Sig, Ómar og Lára Rúnars. Ég man að við vorum veðurteppt á Reyðarfirði, sem er ótrúlegt í júlí mánuði, og komum degi of seint til Vestmannaeyja. Það var geggjað að syngja Ljósvíkinginn á bryggjunni með Lúðrasveit Vestmannaeyja. Flott mæting þrátt fyrir rigningu og smá kulda.“   Ný plata En hvað skildi nú verða í boði í Höllinni á föstudagskvöldið? „Við spilum lög af nýju plötunni Enjoy og svo bara best off stöff sem við leikum okkur með. Rósa Sveinsdóttir er nýjasti og mest töff meðlimur hljómsveitarinnar, hún spilar á sjúklega stóran saxófón og raddar einsog ég veit ekki hvað, hún hefur ekki komið með okkur áður til Eyja. Hljómsveitin er í fantagóðu formi þessa dagana, allir búnir að ná sér eftir veturinn og komnir í sumarfíling,“ segir þessi einstaki og ljúfi listamaður að lokum. Það er óhætt að hvetja Eyjamenn til að fjölmenna og þakka honum þannig fyrir síðustu tónleika, sem hann bauð Eyjamönnum á og upplifa allt það frábæra efni sem hefur komið frá honum síðan síðast og að sjálfsögðu brot af því besta frá hans litríka ferli. Tónleikarnir í Höllinni í Eyjum verða föstudagskvöldið 19. maí. Miðasala er á tix.is. Einnig er forsala í Tvistinum hér í Eyjum. Það er óhætt að mæla með tónleikum þessa ljúfa og frábæra listamanns, sem er með valinn mann í hverju rúmi sem ásamt honum sjálfum, gefa allt í hverja tónleika og það borgar sig að kaupa miða í forsölu, því það er ódýrara. Höllin opnar klukkan 21.00 en tónleikarnir hefjast kl. 22.00. Einsi Kaldi ætlar að bjóða upp á sérstakan tónleikaborgara á 2.500 kall fyrir tónleikana og þá opnar húsið kl. 20.00 fyrir þá sem vilja nýta sér það. Borða- og matarpantanir hjá Tótu í síma 846-4086.  

Kvíði í íþróttum og stofnfrumurannsóknir meðal annars á dagskrá

Fimmtudaginn 4. maí kynntu væntanlegir útskriftarnemar Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum lokaverkefnin sín fyrir framan nemendur, kennara, fjölskyldumeðlimi og aðra áhugasama gesti. Kynningin sem um ræðir er liður í nýjum skylduáfanga á nýrri námsbraut til stúdentsprófs. Kynningarnar tengdust flestar námsgreinum sem kenndar eru við skólann og er ljóst að nemendur hafa lagt mikið á sig við gerð þeirra. Í áfangalýsingu námskeiðsins segir m.a. að nemendur vinni að einu stóru rannsóknarverkefni sem þeir sjálfir velja, þó í samráði við kennara. Í lok annar gera nemendur síðan verkefnum sínum ítarleg skil í formi kynningar eins og áður segir. Áfanganum er ætlað að skerpa undirbúning nemenda fyrir háskólanám, sérstaklega hvað varðar verklega leikni og hæfni til að afla áreiðanlegra gagna, vinna úr þeim og koma niðurstöðum sínum á framfæri. Í áfanganum fá nemendur tækifæri til að draga saman reynslu og fyrra nám í verkefnavinnu sinni. Nemendur þurfa að sýna sjálfstæði í vinnubrögðum, virkni, frumkvæði og þjálfa skipulagshæfileika sína, enda skipuleggja þeir vinnu sína undir almennri verkstjórn kennara. Gott tækifæri gefst til sérhæfðrar þekkingaröflunar og þjálfunar í aðferðafræði félagsvísindanna. Lokaverkefnið felur jafnframt í sér að nemandinn kynni afurðina á skýran og skapandi hátt og þjálfist í að útskýra og rökstyðja rannsóknarferlið, niðurstöður og að standa fyrir máli sínu og taka ábyrgð á eigin námi.   Fjölbreytt verkefni á dagskrá Að þessu sinni voru níu verkefni á dagskrá og voru þau einkar fjölbreytt eins og sjá má á eftirfarandi upptalningu: Tanja Rut Jónsdóttir: Hvað veldur tíðum krossbandaslitum knattspyrnukvenna? Friðrik Hólm Jónsson: Hver eru áhrif höfuðmeiðsla á íþróttamenn? Eva Maggý Einarsdóttir: Hvernig hafa samfélagsmiðlar áhrif á sjálfsímynd okkar? Margrét Björk Grétarsdóttir: Rafbílar: Hver er ávinningur Íslendinga við innleiðingu þeirra? Sandra Dís Sigurðardóttir og Erla Rós Sigmarsdóttir: Hefur kvíði áhrif á íþróttaiðkun? Kristmann Þór Sigurjónsson: Hvernig er hægt að nýta stofnfrumur í lækningaskyni?, Ólafur Ingi Sigurðsson: Hvaða áhrif hafa gróðurhúsaáhrifin á heiminn? Hersir Haraldsson: Hvað veldur auknum vinsældum hægri popúlisma í Evrópu? Margrét Júlía Ingimarsdóttir: Afleiðingar stafræns kynferðisofbeldis og rétturinn til að gleymast á leitarvélum á internetinu.   Sandra Dís Sigurðardóttir og Erla Rós Sigmarsdóttir: Hefur kvíði áhrif á íþróttaiðkun? „Kvíði er tilfinning sem einkennist af spennu, áhyggjufullum hugsunum og líkamlegum breytingum eins og hækkandi blóðþrýstingi. Það getur einnig haft líkamleg einkenni eins og aukinn svita, skjálfta, svima eða hraðan hjartslátt,“ segja þær Sandra Dís og Erla Rós þegar þær byrja að ræða tilgang verkefnisins. „Það málefni sem er fjallað um er kvíði. Skoðað verður hvað er kvíði og hvort kvíði hafi áhrif á íþróttaiðkun, hefur hann áhrif á félagslífið eða okkar daglega líf og hvernig er hægt að hjálpa fólki í gegnum kvíða. Með rannsókninni munum við reyna að öðlast skilning á kvíða og skoða upplifun og reynslu fólks sem hefur kvíða og hvernig það hefur áhrif á þau í daglegu lífi, einnig til þess að fá innsýn inn í líf og aðstæður þeirra. Markmið með þessari rannsókn er að vita hvernig er best að höndla kvíða og halda honum í skefjum.“ Til grundvallar þeirri spurningu er þremur öðrum undirspurningum svarað en þær eru svo hljóðandi: Hvað er kvíði? Hefur kvíði áhrif á félagslífið? Hvernig er hægt að hjálpa fólki í gengum kvíða? „Helstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að kvíði meðal íþróttamanna getur haft gríðarleg áhrif á frammistöðu þeirra,“ segja þær Sandra og Erla. „Viðmælendurnir voru allir hræddir um að gera mistök og bregðast sjálfum sér svo sem liðsfélögunum og einnig setja þær of miklar kröfur á sig og pæla í útlitinu. Kvíði er mjög falinn meðal fólks og er kvíði mun algengari hjá konum heldur en körlum en við teljum hinsvegar að karlmenn feli hann mun meira og vilja ekki ræða um hann. Einnig er talið að strákar séu mun hamingjusamari en stelpur samkvæmt niðurstöðum úr PISA- rannsókn Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD sem fór fram árið 2015. 64% stelpna en 47% stráka segjast kvíða fyrir prófum jafnvel þegar þau eru vel undirbúin. Kynjamunurinn er mjög áberandi á Norðurlöndunum. Margar leiðir eru til að koma í veg fyrir kvíðann og auðvelt er að fá hjálp ef þess þarf. Hægt er að fara í lyfjameðferðir og fá lyf ef einstaklingurinn þarf þess. Einnig er hægt að fá að tala við sálfræðing sem fer í gegnum allskonar aðferðir til að bæla eða stöðva kvíðann, aðallega er notuð hugræn atferlismeðferð. Misjafnt er hvernig einstaklingurinn upplifir kvíðann sem hrjáir hann. Einnig kom fram hjá einum viðmælanda okkar að hún talar um að hún finni ekki mikið fyrir andlegum einkennum en síðan nefnir hún nokkur einkenni eins og kökk í hálsinn og röddin byrjar að titra, hún fer alveg inn í sjálfa sig og lítið hægt að hafa samband við hana og helst vill hún ekki tala við neinn og við teljum að hún vilji ekki viðurkenna þessi andlegu einkenni eða einfaldlega átti sig ekki á því að hún er að glíma við kvíða. Kvíði getur orðið mjög alvarlegur ef ekkert er gert við kvíðanum. Það eru til þó nokkrar kvíðaraskanir eins og almenn kvíðaröskun, félagsfælni, einföld fælni, viðáttafælni og áfallastreita.“   Kristmann Þór Sigurjónsson: Hvernig er hægt að nýta stofnfrumur í lækningarskyni? Eins og titillinn ber með sér þá er Kristmann, í sínu verkefni, að skoða hvernig hægt er að nýta svokallaðar stofnfrumur í lækningaskyni. Til að varpa frekara ljósi á viðfangsefnið svarar Kristmann nokkrum mikilvægum undirspurningum við gerð verkefnisins: Hvað eru stofnfrumur? Hvernig fara stofnfrumurannsóknir fram? Hver eru vandamálin sem standa frammi fyrir rannsakendum stofnfrumna? Og loks hvernig hægt er að yfirstíga þau vandamál? Í niðurstöðum sínum segir Kristmann að „stofnfrumur eru frumur sem myndast í líkama mannsins og geta sérhæfst í mismunandi tegundir frumna þegar líkaminn þarf á þeim að halda. Fósturstofnfrumur finnast einungis í fóstrum og geta sérhæfst í nánast hvaða frumur sem er á meðan fullorðins stofnfrumur finnast á mismunandi stöðum í mannslíkamanum og sérhæfast einungis í þær frumur sem tilheyra þeim svæðum sem stofnfrumurnar eru frá. Rannsóknir á stofnfrumum fara fram annars vegar þegar fósturstofnfrumur eru teknar úr kímblöðrum og gerðar úr þeim stofnfrumulínur og hins vegar þegar ákveðnar tegundir fullorðins stofnfrumna eru teknar úr líkamanum og rannsakaðar. Stofnfrumur geta verið notaðar til að skapa nýja vefi sem koma í stað þeirra sem skemmst hafa og því hjálpað fólki að sigrast á ýmsum áverkum og kvillum eins og lömun og MS. Stofnfrumur eru notaðar við lyfjaprófanir þar sem hægt er að sérhæfa þær í mismunandi tegundir vefja og sjá hvernig áhrif lyfin hafa. Einnig er útlit fyrir að hægt verði að nýta stofnfrumur til þess að búa til ný líffæri úr frumum sjúklinga sem þurfa á ígræðslu að halda og mun það líkast til minnka biðlista og hættu á því að ónæmiskerfi sjúklingsins hafni líffærinu. Þegar talað er um uppgang rannsókna á fósturstofnfrumum og nýtingu þeirra til lækninga er spurning um siðferði þeirra. Þegar umræðan færist yfir á fullorðins stofnfrumur og nýtingu þeirra í meðferð á íþróttamönnum er hægt að velta því fyrir sér hvort stofnfrumurnar geri nokkuð þar sem sönnunargögn því til stuðnings eru af skornum skammti. Ekki má heldur gleyma því að ekki eru miklar reglur um nýtingu stofnfrumna til lækninga um allan heim og óprúttnir aðilar geta og hafa nýtt sér það til gróða. Fólk sem þarf nauðsynlega á hjálp að halda eyðir miklum fjármunum í þeirri von að læknast en möguleiki er á að í stað lækningar muni stofnfrumurnar fjölga sér óstjórnlega og mynda æxli. Hvað er hægt að gera í því? Þegar stórt er spurt er oft fátt um svör en mögulega væri hægt að herða reglugerðir um stofnfrumur, það myndi líklega gera óheiðarlegum aðilum erfiðara fyrir að svindla á fólki en þar sem ekki eru allir á eitt sáttir með rannsóknir á stofnfrumum yfir höfuð þá gæti það veitt þeim hljómgrunn sem vilja hefta vinnu vísindamanna. Önnur lausn gæti verið að fjölga rannsóknum og auka þekkingu fólks á stofnfrumum og áhættunni sem fylgir slíkum meðferðum. Aukin þekking getur einungis verið góður hlutur þegar kemur að vísindum og rannsóknum, eins og stofnfrumum og möguleikunum sem þær bjóða upp á, ættu að vera eins margar og auðið er. Stofnfrumur eru merkilegt fyrirbæri og geta sennilega lengt líftíma og aukið lífsgæði fjölda fólks. Þær hafa verið rannsakaðar af aragrúa vísindamanna í fjöldamörg ár og miklar framfarir orðið á því sviði. Þrátt fyrir það er mikið sem við vitum ekki og því er æskilegt að spyrja: Hvaða skref er eðlilegt næsta skref? Verður rannsóknum á þessu sviði einhvern tíma lokið? Og verðum við mannfólkið einhvern tíma sammála um málefnið?“        

Framtíðin: Samgöngur á sjó við Vestmannaeyjar, seinni hálfleikur - Opin fundur

Á stórgóðum borgarafundi um samgöngur sem haldinn var af frumkvæði Ásmundar Friðrikssonar þingmanns og héraðsfréttamiðlanna Eyjafréttum og Eyjar.net kom upp sterk krafa um að halda þyrfti sem fyrst annan fund um samgöngur og horfa þar til framtíðar, ræða nýja ferju og þróun Landeyjahafnar. Einhverjir fundarmenn orðuðu það svo að fundurinn í seinustu viku hafi verið góður fyrri hálfleikur.   Með þetta í huga hófst strax undirbúningur að seinni hálfleik og hefur það nú orðið að ákvörðun aðhalda slíkan fund á miðvikudaginn eftir viku, sem sagt 24. maí, kl. 17:30 í Höllinni. Sem fyrr segirverður þar gerð tilraun til að líta af baksýnisspeglinum og horfa fram á veginn. Höfuðáhersla verður lögð á að kynna hið nýja skip sem nú er byrjað að smíða og þróun Landeyjahafnar.   Þannig mun Jóhannes Jóhannesson skipaverkfræðingur kynna endanlega hönnun á nýrri Vestmannaeyjaferju og m.a. fara yfir hvernig búast megi við að hún standist þær kröfur sem til hennar eru gerðar um siglingar við allt að 3,5 metra ölduhæð í Landeyjahöfn, siglingar í Þorlákshöfn og margt fl. Þá mun fulltrúi Vegagerðarinnar kynna stöðu Landeyjahafnar og þróun hennar frá því að hún var opnuð árið 2010. Farið verður yfir rannsóknir þar að lútandi og væntanlegar framkvæmdir sem eiga að geta auðveldað nýtingu hafnarinnar á heilsársgrundvelli.   Meðal gesta verður Jón Gunnarsson innanríkisráðherra sem mun ávarpa gesti, Friðfinnur Skaptason formaður stýrihóps um smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju og ýmsir fleiri sem gegna ábyrgðahlutverki í samgöngum á sjó við Vestmannaeyjar.   Allir stærstu sigrar Vestmannaeyja hafa frá upphafi verið byggðir á bjartsýni og kjarki. Í ótal skipti hefur útlitið verið dökkt en það er ekki Eyjamanna siður að röfla og gefast upp. Andi Eyjamanna er að takast á innbyrðis en koma síðan sameinuð til baráttunnar út á við, Vestmannaeyjum til heilla. Nú er komið strik í sandinn hvað samgöngur varðar og Eyjamenn ætlast til að allt verði gert til þess að tilkoma nýrrar Vestmannaeyjaferju verði samfélaginu til góðs. Með það að veganesti er skorað á bæjarbúa að fjölmenna til seinni hálfleiks, fá svör við brennandi spurningum og koma óskum og ábendingum beint og milliliðalaust til þeirra sem með málið fara.  

Fyrirfundnir fémunir í Vestmannaeyjum á fjórða áratug 19. aldar

Alþjóðlegi safnadagurinn verður haldinn á morgun,18. maí undir yfirskriftinni: Söfn og umdeild saga: Að segja það sem ekki má segja í söfnum. Markmið dagsins er að kynna og efla faglegt safnastarf á Íslandi og opna fyrir umræðuna um hlutverk safna þegar kemur að umdeildum og erfiðum frásögnum. Sagnheimar, byggðasafn tekur þátt í safnadeginum með því að bjóða upp á sögu og súpu í hádeginu. Þar mun Már Jónsson prófessor í sagnfræði kynna nýútkomna bók sína: Fyrirfundnir fémunir í Vestmannaeyjum á fjórða áratug 19. aldar. Í bók sinni nýtir Már áður óþekktar heimildir um brauðstrit fólks á örðugum tímum í Vestmannaeyjum. Hér eru kaflar úr bók Más sem er lýsing á lífinu í Vestmannaeyjum um miðja nítjándu öldina þegar allt var öðru vísi en það er í dag.     Fyrirfundnir fémunir Í lok lýsingar á prestakalli sínu árið 1843 kvaðst séra Jón Austmann nú hafa talað út um sínar „fögru, skemmtilegu og arðsömu, en þó annmarkafullu Vestmannaeyjar“. Helstu kostir eyjanna, sagði hann, voru fiskveiðar, fuglaveiði og fjárbeit, sem þó var takmörkunum háð vegna uppblásturs og sandfoks. Aðrir ókostir voru ungbarnadauði og það að margir hröpuðu úr björgum eða drukknuðu við veiðar, en líka smjörskortur og hátt verð á skinni sem þurfti til sjóklæðagerðar og í vaði til bjargnytja. Torfskurður til húsagerðar var lélegur og skortur á eldivið olli því að tað var notað til upphitunar en ekki sem áburður á tún. Vatnsleysi var viðvarandi og uppsprettur lélegar eða fjarri byggð. Sjaldan var fært til fastalandsins og fyrir vikið voru eyjarskeggjar háðir tveimur kaupmönnum um alla hluti. Engu að síður var séra Jón ánægður með heimkynni sín til 17 ára og staðhæfði að eyjarnar væru „einhver lífvænlegasti kjálki landsins“. Þegar þetta var skrifað voru Vestmanneyjar í eigu konungs og höfðu verið síðan í byrjun 15. aldar, ef ekki fyrr. Í byrjun 19. aldar var reyndar farið að huga að því að selja jarðir í eigu konungs og var hugmyndin einkum sú að stuðla að sjálfsábúð bænda. Árin 1813 og 1817 var efnt til uppboðs á jarðagóssi konungs, öðru en verslunarlóðum og prestssetursjörðum, en ekki varð úr sölunni. Enn var reynt 24. júni 1834 og voru kaupmenn atkvæðamestir á uppboðinu, þá hreppstjórinn og séra Jón sjálfur, en aðeins tveir bændur buðu hæst í ábýlisjarðir sínar. Dönsk stjórnvöld voru ekki ánægð með tilboðin og samþykktu ekki söluna. Vestmannaeyjar voru því ríkiseign þar til bærinn keypti allt land vorið 1960.   Hollt að þekkja fortíð Það er hollt að þekkja fortíð sinnar heimabyggðar og þessari bók er ætlað að auk þekkingu okkar á lífsháttum og menningu íbúa í Eyjum áður en uppgangur atvinnulífs hófst fyrir alvöru um aldamótin 1900 og lauk með þeirri almennu velsæld sem nú blasir við í bænum. Gögnin sem hér eru gefin út liggja í Þjóðskjalasafni Íslands. Til eru skrár um eftirlátnar eigur mörg þúsund Íslendinga í öllum landshlutum frá lokum 18. aldar og út 19. öldina, þar á meðal frá Vestmannaeyjum; ungra sem aldinna, giftra og ógiftra, niðursetninga og vinnufólks, bænda, embættismanna og kaupmanna. Skrárnar voru gerðar fáeinum dögum eftir að fólk lést og ekki ástæða til annars en að rétt sé farið með, enda eru þarna ótrúlegustu smámunir sem fólk átti og erfingjarnir vildu fá. Þetta eru ómetanlegar heimildir um hversdagsleika fólks og harða lífsbaráttu Íslendinga fyrr á öldum. Í bókinni eru gefnar út slíkar skrár fjörutíu einstaklinga sem létust í Eyjum á fjórða áratug 19. aldar og var sú aðferð valin frekar en hin að velja sýnishorn á stangli frá allri öldinni. Aðstæður fólks voru fábreyttar á þessum árum og tækifærin fá, en hópurinn er samt býsna fjölbreyttur. Þarna er vinnumaður sem hafði áður verið dæmdur fyrir morð, einnig blindur og bláfátækur tólf barna faðir, þrotbjarga dóttir sýslumanns, brjóstveik fyrrverandi ljósmóðir, vinnukona sem lést eftir fæðingu óskilgetinnar dóttur, að ógleymdum mönnum sem drukknuðu, allmargir íslenskir en einn danskur og annar norskur. Í inngangi er farið nokkrum orðum um byggð og fólksfjölda á þessu árabili, en íbúar voru um 300 og flestir fátækir, en fór fjölgandi og lífskjör batnandi. Svonefnd Niðurgirðing lá utan um kaupstaðinn, þar sem voru tvær verslanir, en jafnframt fjögur býli, sem voru Kornhóll, Miðhús og Gjábakki. Í Uppgirðingu austur með sjónum voru bæirnir Vilborgarstaðir, Háigarður, Oddstaðir, Búastaðir, Ólafshús, Vesturhús, Nýibær, Presthús og Kirkjubær, en þar bjó annar presturinn af tveimur. Í Ofanbyggjaragirðingu, ofan hrauns, voru Norðurgarður, Brekkuhús, Gvendarhús, Steinsstaðir, Þorlaugargerði, Svaðkot og Ofanleiti, þar sem hinn presturinn bjó við átta kýrfóður. Prestakallið var reyndar sameinað árið 1837. Stakar jarðir voru Stakkagerði, Dalir og Stóragerði. Niðri við höfnina voru tómthús eða þurrabúðir, þar sem menn lifðu af fiskveiðum og fiskverkun en héldu ekki fé. Séra Jón Austmann orðaði þetta svo í sóknarlýsingu árið 1843: „Umhverfis vestari höndlunarstaðinn er réttnefnd þvaga af tómthúsum, fiskhjöllum og króm.“ Hann nefndi 24 tómthús á nafn, sem ætla má að hafi þá verið í ábúð. Þéttbýli var því meira í Vestmannaeyjum en víðast hvar á landinu, litlu minna en í Reykjavík og Hafnarfirði en meira heldur en á Ísafirði og Akureyri eða í Flatey á Breiðafirði. Fólksfjölgun í Eyjum var samt ekki náttúruleg í þeim skilningi að fleiri fæddust en létust, því ætla má að frá og með 1790 hafi tvö af hverjum þremur börnum sem fæddust þar látist úr ginklofa eða stífkrampa (tetanus neonatarum), margfalt fleiri en annars staðar á landinu. Áberandi fá börn voru af þessum sökum í Eyjum. Snemma árs 1835 voru þar aðeins 27 börn 10 ára og yngri eða 9% íbúa en 14702 á landinu öllu af 55794 íbúum eða 26%. Í æviágripum fólks í bókinni sést vel hvernig ginklofinn birtist með átakanlegum hætti í einstökum fjölskyldum; til dæmis eignaðist Helga Ólafsdóttir í Kirkjubæ 14 börn á árunum 1822 til 1838 og lifðu tvö aðeins tvö þeirra. Þetta mótaði mannlíf og hugarfar fólks, sem meðal annars birtist í gagnkvæmri erfðaskrá hjónanna Rakelar Bjarnhéðinsdóttur og Bjarna Stefánssonar Búastöðum 4. júní 1831, sem þá höfðu misst tvö börn og bjuggust ekki við að verða barna auðið „vegna þess svokallaða ginklofa sem geisar hér á eyjunni.“ Þau eignuðust tvö börn til viðbótar sem bæði dóu fárra daga gömul. Eyjarnar voru því háðar aðflutningi fólks úr nágrannasveitum, einkum úr Landeyjum og undan Eyjafjöllum. Þannig fluttust 26 manns til Eyja árin 1838 til 1840 og ellefu fóru þaðan. Ætla má að væntingar um viðunandi afkomu hafi ráðið ferðinni, miðað við það sem stóð til boða í nágrannasveitum, hvað sem leið ungbarnadauða og hættunni við að fara á sjó.    

Vinnur að nýrri aðferð gegn bakteríusýkingum

Saga Huld Helgadóttir fluttist út til Svíþjóðar haustið 2014 til að fara í meistaranám við háskólann Chalmers í Gautaborg eftir að hafa klárað BS- gráðu í eðlisfræði við Háskóla Íslands. Saga, sem er 26 ára í dag, bjó ásamt fjölskyldu sinni um stutt skeið í frumbernsku í bænum Uppsala í Svíþjóð og hafði því lengi blundað í henni að snúa þangað aftur í framhaldsnám. Að loknu meistaranámi stóð Saga frammi fyrir þeirri ákvörðun að flytja aftur til Íslands eða freista gæfunnar og sækja um í doktorsnámi í Gautaborg sem hún á endanum gerði. Það er skemmst frá því að segja að umsóknin bar árangur og mun Saga því verja næstu fjórum til fimm árum í að vinna að verkefni tengdum bakteríusýkingum ásamt teymi sínu í skólanum.   Ef við byrjum kannski á byrjuninni. Hvað hét meistaranámið og um hvað fjallaði lokaverkefnið þitt? „Prógrammið heitir „Applied Physics“ og er það „applied“ í þeim skilningi að maður notar eðlisfræðina á aðrar greinar, til dæmis líffræði eins og ég gerði. Meistaraverkefnið mitt fjallaði síðan um svo kallað kalt plasma og möguleika þess sem ný aðferð gegn bakteríu-sýkingum þar sem bakteríur eru farnar að þróa með sér viðnám (e. antibiotic resistance) gegn venjulegum sýklalyfjum,“ segir Saga. Hvað er kalt plasma? „Öll höfum við heyrt um þrenns konar ástand efnis, það er fast efni, vökvi og gas. En fjórða ástandið er í rauninni plasma, og er 99% alheimsins í því ástandi. Ástæðan fyrir því að við heyrum ekki mikið um plasma er af því að á jörðinni er efni ekki mikið í því ástandi, en dæmi um plasma eru norðurljósin og eldingar. Þegar orka (breytist í hita sem er mælieining á hreyfiorku agna) er sett í kerfi breytir efni um ástand. Við bræðslumark efnis verður fast efni vökvi og við suðumark efnis verður vökvinn að gasi. En ef ennþá meiri orka er sett í kerfið þá hitnar efnið enn meir og agnirnar hafa svo mikla hreyfiorku að þegar þær rekast saman þá losna rafeinir (- hlaðnar) frá ögnunum sem kallast þá jónir (+ hlaðnar). Og úr verður svokallað jónað gas, öðru nafni plasma. Plasma er oftast mörg hundruð eða þúsund gráðu heitt, en á undanförnum árum hefur verið þróuð tækni sem gerir því kleift að búa til plasma við stofuhita sem er þá kallað kalt plasma. Virkni plasma í læknisfræðilegum tilgangi hefur ekki verið staðfest til fulls en líklegast er það vegna svokallaðra hvarfgjarna súrefnis- og nitursameinda (e. reactive oxygen and nitrogen species; RONS) sem hafa áhrif á efnaskiptaferla fruma.“   Vandamál sem fer aðeins versnandi Uppgötvun sýklalyfja í upphafi 20. aldarinnar er án efa talið eitt mesta afrek vísindalegrar læknisfræði en þá kviknaði von um að hægt væri að lækna og jafnvel útrýma mörgum af skæðustu sjúkdómum heims. Það leið hins vegar ekki á löngu frá því notkun sýklalyfja hófst þar til ónæmar bakteríur komu fram á sjónarsviðið. Hvenær telja menn að viðnám baktería við hefðbundnum sýklalyfjum gætu byrjað að hafa veruleg áhrif? „Viðnám baktería og annarra örvera við sýklalyfjum hefur nú þegar byrjað að hafa áhrif og erfiðara hefur orðið að vinna bug á ýmsum sjúkdómum. Þetta er vandamál sem fer aðeins versnandi með hverju ári,“ segir Saga. Eins og fyrr segir er Saga nú í doktorsnámi og er það í raun skylt hennar fyrri vinnu úr meistaranáminu en þó ekki beint framhald. Saga hefur þó ekki sagt skilið við kalt plasma því meðfram náminu er hún í samstarfsverkefni með fyrirtækjum og nýsköpunarstofnunum í Gautaborg sem áætla að vinna með fyrirbærið í framtíðinni. En hvernig fer vinnan fram doktorsnámi, hvernig er hefðbundinn dagur? „Í doktorsnáminu er ég enn þá með hugann við bakteríusýkingar en með aðeins annarri nálgun. Til að byrja með mun ég fókusa á að búa til míkrósundmenn (e. microswimmers) með því að festa bakteríur á agnir sem eru á míkrómetra-skala þannig að bakteríurnar geti synt með agnirnar. Þessir sundmenn gætu svo til dæmis verið notaðir til að flytja lyf á ákveðinn stað í líkamanum. Næstu skref verkefnisins ráðast svo af niðurstöðunum sem ég fæ og hvaða áhugaverðan vettvang ég finn til samvinnu við. Hefðbundinn dagur er síðan bara blanda af lestri greina á sviðinu og vinnu á rannsóknar-stofunni. Mikið er um samvinnu innan og á milli ólíkra rannsóknarhópa sem er mjög gefandi þar sem háskólaumhverfið er fjölþjóðlegt og hef ég fengið að vinna með tugum mismunandi þjóðerna,“ segir Saga.   Fór á ráðstefnu í Kaliforníu Eflaust hryllir marga við tilhugsuninni um að sitja á skólabekk nánast sleitulaust til þrítugs, eins og raunin er hjá fólki sem fer alla leið í doktorsnám. En náminu fylgja þó ýmis fríðindi eins og að ferðast til annarra landa á ráðstefnur, kynnast nýju fólki og almennt víkka sjóndeildarhringinn líkt og Saga gerði fyrr á þessu ári er hún fór til Kaliforníu í Bandaríkjunum. „Ég flaug út 30. mars og kom heim 12. apríl, svo ég var úti í rétt tæpar tvær vikur,“ segir Saga en tilgangur ferðarinnar var einmitt að fara á ráðstefnu á vegum háskólans. Ásamt Sögu voru sex aðrir úr rannsóknarhópnum sem fóru í ferðina. „Svo fyrst að maður var kominn alla leið til Kaliforníu þá var ekki annað hægt en að nota tækifærið og ferðast aðeins en við vorum þrjú sem ákváðum að vera aðeins lengur. Við byrjuðum í San Diego og fórum þaðan upp til Los Angeles. Þar skoðuðum við Hollywood, Long Beach og Santa Monica áður en við héldum áfram upp ströndina með stuttum stoppum í Malibu og Santa Barbara. Þaðan lá leiðin til hafnarbæjanna Morro Bay og Monterey, með smá útúrdúr inn í landið til Carrizo Plain sem er margra kílómetra landsvæði sem blómstrar aðeins á margra ára fresti, þegar næg úrkoma hefur verið yfir vetrartímann. Það þótti okkur því heldur merkilegt að sjá áður en við enduðum í San Francisco.“ Í lok febrúar gaf Saga út, ásamt samstarfsmönnum sínum, ritrýnda grein í tímaritinu Frontiers in Cellular and Infection Microbiology þar sem viðfangsefnið var tilraun með það markmið að athuga hvort dræpi fleiri bakteríur, kalt plasma, C vítamín eða bæði saman. Fyrir þá sem ekki vita er ritrýni í grófum dráttum aðferðafræði innan vísindaheimsins þar sem rannsóknir eru skoðaðar af öðrum sérfræðingum á sama sviði og er tilgangurinn að viðhalda gæðastuðli og ákvarða hæfi greina til birtingar. Sástu alltaf fyrir þér að fara þessa leið í náminu eftir grunnnám í eðlisfræði frá HÍ? „Nei, þegar ég skráði mig í eðlisfræði við Háskóla Íslands, og langleiðina í gegnum námið, hafði ég ekki hugmynd um hvað ég vildi gera. En undir lok annars ársins byrjaði ég að hafa áhuga á að blanda saman eðlisfræði og líffræði, og í framhaldinu af því leitaði ég að meistaranámi á því sviði,“ segir Saga sem veit ekki hvað tekur við að loknu náminu. „Eftir doktorsnám er bæði möguleiki á að halda áfram í akademíunni eða fara á almennan atvinnumarkað. En það er í raun alltof langt í að ég klári námið til að fara að spá í framhaldið,“ segir Saga að lokum.  

Sigríður Inga Sigurðardóttir frá Skuld - Kemur til dyranna eins og hún er klædd

Sigríður Inga Sigurðardóttir eða Sigga frá Skuld eins og hún er alltaf kölluð er ein af mörgum litríkum Eyjamönnum. Sigga frá Skuld sem fagnaði 92 ára afmæli sínu þann 14. apríl unir sér vel í fallegri þjónustuíbúð í Grafarvogi. Hún hefur í augum blaðakonu alltaf verið ævintýraleg og mikill klassi yfir henni. Það var því með nokkurri tilhlökkun sem blaðakona tekur hús á Siggu.   Tíunda barn foreldra sinna ,,Viltu ekki koma klukkan 10.30 á morgun, það hentar mér ágætlega og ég hlakka til að sjá þig.“ Það eru engar málalengingar eða óþarfa vesen á Siggu þegar við mælum okkur mót. Það má segja að Sigga komi til dyranna eins og hún er klædd. Hún byrjar á því að afsaka sig að hún sé ómáluð, ógreidd, í leggings og hlýrabol. Við verðum fljótt sammála um að hún sé stórglæsileg, nákvæmlega eins og hún er, og ótrúlega hress miðað við aldur. Við hefjum spjallið og förum um víðan völl. Sigga frá Skuld er fædd 1925 og er tíunda barn foreldra sinna af ellefu sem öll komust á legg. ,,Foreldar mínir voru Sigurður Pétur Oddsson frá Krossi í Landeyjum og móðir mín Ingunn Jónasdóttir frá Helluvaði í Rangárvallasýslu. Ég var skírð eftir þeim Sigríður Inga. Mamma var mjög smávaxin, þrátt fyrir það gekk hún með ellefu börn,“ segir Sigga og virðing hennar fyrir foreldrum sínum leynir sér ekki. ,,Pabbi gerði út báta ásamt öðrum en ég man ekki nöfnin á þeim. Æ, minnið er farið gefa sig en það skiptir ekki öllu máli.“   Var ekki erfitt að alast upp í ellefu barna hópi? ,,Nei, foreldrar mínir voru öflugt fólk. Pabbi átti hlut í bátum og við höfðum allt af öllu. Ég hef alltaf verið mikill fagurkeri enda var æskuheimili mitt afskaplega fallegt. Skuld stóð við Vestmannabraut 40 beint á móti Vöruhúsinu. Í húsinu var falleg stásstofa með kringlóttu borði og flottum stólum. Heldra fólkinu var boðið þar inn og við systkinin vorum kölluð í stásstofuna ef það var eitthvað sem þurfti að ræða við okkur,“ segir Sigga og hverfur smá stund aftur í tímann.   Þurrkaður sundmagi, matarlím í Portúgal ,,Þegar ég var barn þá hjálpaði ég til við að breiða sundmaga til þurrkunnar uppi á bárujárn á Krónum. Sundmaginn var hvítur þegar hann fór á bárujárnið en glær þegar hann var orðinn þurr. Konunar hér í Eyjum voru ótrúlega forsjálar. Þær seldu svo glæran sundmaga til Portúgal þar sem hann var notaður í matarlím. Ég var heppin. Ég var tíunda í röðinni, yngst af sjö systrum og naut góðs af leiðsögn þeirra. Mér var kennt að bursta lakkskóna mína þegar ég var búin að nota þá á sunnudögum. Pabbi vann mikið og mamma sá um heimilið. Þar var alltaf mikil gestrisni. Allt heimabakað snúðar, vínarbrauð og búin til sulta. Allt var saumað heima,“ heldur Sigga dreymandi áfram.   Þakkar fyrir að vera á lífi ,,Sjáðu þarna erum við öll systkinin, ég er í bláu kápunni,“ segir Sigga og bendir á mynd sem hangir upp á vegg af systkinunum ellefu. Ég var hávaxin svo ég beygði mig í hnjánum þegar teknar voru myndir. Ég vildi ekki yfirgnæfa strákana eða vera eins og tröllskessa,“ segir Sigga og hlær sínum létta hlátri. ,,Ég er með glaðsinna skap. En nú er svo komið að öll mín systkini eru dáin, vinkonur mínar og frændfólk er líka farið. Ég hef farið í þvílík ósköp af jarðarförum, en ég má þakka fyrir að vera á lífi og orðin 92 ára.“ Allt í einu beygir Sigga sig niður og fer að gera léttar æfingar. ,,Sjáðu, finnst þér þetta ekki flott? Ég geri oft æfingar þegar ég man eftir því. Ég er ennþá fitt miðað við aldur. Það er ekki langt síðan ég hoppaði, sippaði, fór í kollhnís og krabbastöðu. Ég hef alltaf verið virk og kappsöm, hoppandi og skoppandi út um allt og keppti í handbolta hér áður fyrr. Ég gat haldið fimm boltum á lofti í langan tíma.“   Margir boltar á lofti Sigga stendur ákveðin upp og nær í tvo litla gula bolta. ,,Sjáðu, ég ætla að sýna þér. Ég get alveg haldið fjórum boltum á lofti í einu en ég á erfiðara með að beygja mig eftir þeim ef ég missi þá.“ Níutíu og tveggja ára gamla konan byrjar að henda tveimur boltum á loft. ,,Þú getur talið skiptin ef þú vilt,“ segir Sigga á meðan hún heldur boltunum ótrúlega lengi á lofti. ,,Ég gat líka dundað mér. Bjó til heilu bæina úr steinum, skeljum, kuðungum og því sem ég fann. Ég var kappsöm og dugleg með gott hugmyndaflug. Æskan var yndisleg í Vestmannaeyjum. Ég var alltaf í parís, bjó til allskonar gerðir af parísum,“ segir Sigga og teiknar fyrir blaðakonu með höndunum eina af parísunum frá því í æsku. Mig langaði að verða leikkona en það voru fáir sem fóru í leiklistina. Ég var líka dugleg í höndunum.“   Flinkur flakari Talið berst næst að vinnu. Ég vann í flökun hjá Einari Sigurðssyni og var flink, ég var flakari. Það voru þrjú handtök,“ segir Sigga og sýnir mér þau, þó enginn sé fiskurinn. Handtökin eru ekki gleymd. Sigga heldur áfram að lýsa vinnubrögðunum í frystihúsinu: ,,Við vorum þrjár að vinna saman, ég flakaði, önnur roðfletti og sú þriðja setti í kassa.“ Eplið fellur sjaldan langt frá eikinni, dóttir Siggu, Harpa Fold hefur sýnt góðan árangur í Íslandsmeistarakeppni í handflökun.   Falleg með brún augu Sextán ára kynntist Sigga verðandi eiginmanni sínum Ingólfi Theódórssyni á balli í Eyjum. ,,Hann var þrettán árum eldri en ég. Hugsaðu þér, ég var fjórða konan hans, trúir þú því? Hann var rosalega góður og fór aldrei frá mér. Hann var ofboðslega duglegur og gaf mér allt. Hann var brúneygur. Ég var alltaf svo ánægð með hann,“ segir Sigga með væntumþykju í röddinni. Ingólfur átti þrjú börn með fyrri eiginkonum sínum. Saman eignuðust Sigga og Ingólfur sex börn. ,,Elstur er Sigurður Ingi fæddur 1945, næst fæddist Elín Björg árið1946 en dó aðeins viku gömul, þar á eftir kom Hugrún Hlín fædd 1948, en hún lést árið 2003. Kristín Hrönn fæddist næst 1960 og í lokin tvíburarnir Elfa Dröfn og Harpa Fold fæddar1962. Ömmubörnin eru fjórtán, langömmubörnin tólf og langalangömmubörnin eru orðin þrjú. Mikið og gott samband var við tvær dætur Ingólfs, þær Jóhönnu fædda 1933 og Cornelíu fædda 1937 þær eru báðar látnar en skilja eftir sig fjölda afkomenda. ,,Ég lá sængurleguna þegar ég missti Elínu Björgu. Hún var voða falleg með brún augu. Maður er rosalega lengi að jafna sig og veistu það að maður hugsar, ef ég hefði gert hlutina svona og hinsegin,“ segir Sigga af mikilli einlægni.   Giftar konur spila ekki handbolta ,,Ég var svo ung þegar Ingólfur bað mín að við komum okkur saman um að hann myndi tala við mömmu og pabba og biðja um hönd mína. Finnst þér það ekki sætt?“ spyr Sigga og gott ef ekki örlar á sextán ára stelpunni í röddinni. ,,Foreldar mínir báðu hann um að fara mjúkum höndum um mig, ég væri sterkur persónuleiki sem ekki mætti bæla niður.“ ,,Ingólfur var frá Siglufirði og við fórum þangað á síldarvertíð, bjuggum í húsi sem kynnt var með kamínu. Hugrún mín kom með okkur til Siglufjarðar. Það var mikið dansað og mikil gleði. Ingólfur dansaði mikið, polka og ræl. Ég spilaði handbolta og við spiluðum stundum á Þjóðhátíð. Ingólfi fannst það ekki passa að gift kona væri að spila handbolta og sagði við mig. ,,Ef þú ferð út á völl að spila fyrir rónana þá sæki ég þig. Ég sagði við hann ef þú kemur og sækir mig þá gerir þú lítið úr þér. Hann kom ekki og við töpuðum með einu marki.“ ,,Þetta var bara tíðarandinn, þetta hefur breyst í dag. En Ingólfur studdi mig með þögninni. Við vorum ólík og aldursmunurinn hafði eitthvað að segja líka. Ég fékk alltaf að kaupa mér eitthvað fallegt, fara í permanent og þess háttar. Hann lét mig hafa heilmikla peninga sem ég geymdi í svefnherberginu. Ingólfur gaf mér húsið á Höfðaveginum og leyfði mér að mubblera það og hafa það eins og ég vildi. Hann sagði alltaf að ég færi vel með peninga,“ segir Sigga og virðist nokkuð sátt við lífshlaup þeirra Ingólfs sem lést árið 1988.   ,,Ægilega flott fólk í gistingu“ Í húsinu að Höfðavegi 16 rak Sigga síðar gistiheimilið Hvíld. Húsið var myndarlegt tveggja hæða hús með turni. ,,Það var flott í turninum og húsgögnin í asískum stíl,“ segir Sigga sem skreytt hefur núverandi heimili sitt með hlutum úr turninum. Þjónustuíbúð Siggu er glæsileg í alla staði og ógrynni að fallegum munum. ,,Ég þurfti að láta fullt af hlutum frá mér þegar ég flutti frá Eyjum. En það var ekkert erfitt að flytja því öll mín fjölskylda og vinir voru komnir til Reykjavíkur.“ Siggu var gestrisni í blóð borinn og vel gekk að sinna gestunum. ,,Þeir flottustu fengu að fara í turninn. Ég fékk oft ægilega flott fólk í gistingu.“ Sigga segist ekki hafa lent í neinum vandræðum nema í eitt skipti. ,,Þá fékk ég óreglupar þau voru með ólæti, ég þorði ekki niður ef þau myndu nú henda einhverju í mig. Tveimur dögum seinna kom viðskiptavinurinn að borga og færði mér þá hlut að gjöf. Hann sá eftir því að hvernig þau höfðu hagað sér. Í einstaka tilfellum gisti fólk lengi hjá mér og þá bauðst ég stundum til þess að þvo fyrir það.“   Ætlaði ekki að svara í símann Þegar Sigga er spurð um upplifunina af eldgosinu 1973 segir hún, ,,Þetta var sögulegur viðburður. Maður fór bara með krakkana þrjá og tösku upp á land. Ég kom þeim fyrir á Selfossi hjá Elínborgu systur minni og fór strax aftur til Eyja að reyna að pakka einhverju niður. Við fengum gott húsnæði í Hafnarfirði. Ingólfur vann mikið en sótti mikið í að vera nærri mér. Hann var með menn í vinnu í Reykjavík, Hafnarfirði, Grindavík, Þorlákshöfn og í Vestmannaeyjum, að þjónusta bátana þar.“ ,,Ég man kvöldið fyrir gosið. Klukkan var langt gengin í eitt aðfaranótt 23. janúar. Ég var að baka fyrir fund í Oddfellow húsinu sem vera átti næsta kvöld. Ég var búin að baka fullt af kökum og skreyta þær þegar ég loksins fór í rúmið að ganga tvö. Ingólfur hafði komið fram stuttu áður, ekki mjög glaður. ,,Ætlar þú að baka í alla nótt,“spurði hann mig. En hann gat ekki sofnað á meðan ég var að baka.“ Rétt fyrir tvö hringdi síminn. Ég var eitthvað súr yfir athugasemdunum Ingólfs um næturbaksturinn. þegar síminn hringdi ætlaði ég ekki fram að svara. Ég sagði við hann, „Ég ætla að láta þig vita það Ingólfur að það hringir enginn í mig klukkan tvö að nóttu.“ Hann fer í símann og ég heyri að það er eitthvað mikið að, þegar ég hann segir grafalvarlegur: „Austur á Eyju?“ Það var alveg svakaleg tilfinning að fara í bátinn með börnin fyrir framan sig.“   Komu fluglæsar til baka „Tvíburarnir mínir fóru gosveturinn til Ólafsvíkur til hjónanna Sigríðar Þóru Eggertsdóttur sem kölluð er Sigga Tóta og Bergmundar mannsins hennar. Sigga Tóta er bróðurdóttir Ingólfs. Bergmundur smíðaði dúkkuhús á lóðinni og þar gátu dætur þeirra og stelpurnar mínar leikið sér saman. Sigga Tóta var þvílíkt góð við þær og þegar þær komu til baka voru þær fluglæsar og skrifuðu alveg ljómandi vel.“ ,,Sumarið 1973 var íslenskum börnum boðið að fara í frí til Noregs. Ég leyfði tvíburunum að fara en gat ekki hugsað mér að Kristín Hrönn færi líka. Fólkið í Noregi var mjög gott það vissi ég og þess vegna leyfði ég öllum stelpunum mínum að fara.“   Lítil á henni löppin ,,Mér finnst Eyjarnar það yndislegasta sem ég hef kynnst í veröldinni,“segir Sigga og lyftist öll upp. Fólkið er svo yndislegt og gott. Til dæmis nágrannakona mín, hún Guðný hans Matta Boga hún hjálpaði mér að setja upp allar gardínur í húsinu hjá mér. Guðný var alltaf tilbúin að koma og hjálpa ef á þurfti að halda. Matti og Guðný eiga tvær yndislegar dætur, Rósu og Kolbrúnu.“ Sigga heldur áfram að rifja upp minningar frá Vestmannaeyjum: „Það var nóg að gera með Kristínu Hrönn tveggja ára og tvíburanna nýfædda. Ég man alltaf þegar ég var að gefa öðrum hvorum tvíburanum brjóst þá kom Kristín Hrönn til mín og segir. „mikið er lítil á henni löppin“. ,,Mér fannst það svo sætt,“ segir Sigga dreymin á svip.   Alltaf að rækta ,,Ég var með kartöflugarð úti í hrauni og út um allt. Ég ræktaði blómkál og hvítkál sem ég seldi apótekarafrúnni sem var dönsk og kunni vel að meta það. Ég ræktaði líka rófur, næpur, og gulrætur. Eftir gos var erfitt að finna stað sem var ekki of heitur, en ég lét setja nokkur vörubílshlöss af mold út á nýja hraun og ræktaði þar kartöflur, sem hægt var að taka upp allt árið. Í gamla daga sótti ég kúaskít sem ég þurrkaði og muldi niður. Notaði þetta svo með áburðinum í moldina. Það var dásamlegt líf að rækta kartöflur. Í dag rækta ég stundum graslauk. Ég átti líka fallegan garð við húsið mitt þar sem ég ræktaði blóm.“   Hattadömur í Eyjum Þegar Sigga er spurð um vinkonur úr Eyjum nefnir hún Ingibjörgu Johnsen. ,,Imba Johnsen var tveimur árum eldri en ég. Hún var svo flott og gekk um með hatt.“ Siggu dreymdi um að eignast hatt og það rættist þegar Sigrún í Skuldarabakaríinu gaf henni pening. ,,Það kom hattadama til Eyja. Ég fór og hitti hana á hótelinu og keypti af henni hatt. Þegar ég hélt heim á leið reyndi ég að ganga eins glæsilega með hattinn og Ingibjörg Johnsen.“ ,,Við vorum æskuvinkonur. Hún var mikil stúkumanneskja og ég var rosalega heppin að kynnast henni. Hún tók mig með í stúkuna og það var viss hjálp í því. Imba var fanatísk á vín og tóbak. Pabbi Imbu var flottur maður sem reykti vindla í húsinu áður en gestir komu til þess að gera góða lykt. Það þótti voða flott að setja sígarettur og vindla á borð í fermingarveislum. Chesterfield og Commander. Ég var stundum að kveikja í vindlastubbum sem ég fann í stofunni og reyna að reykja. En ég vildi aldrei byrja að reykja. Ég vildi ekki að lungun yrðu svört að innan.“   Bollaði Einar ríka Sigga heldur áfram að rifja upp minningar. ,,Ég lærði að synda í sjónum við sundskálann á Eiðinu undir Heimakletti þegar ég var sex til átta ára. Ég fór þangað oft ein eða með öðrum. Við Gúanóið var volg tjörn sem myndaðist úr affallsvatni sem notað var til kælingar. Þar var betra að synda því sjórinn var svo kaldur.“ Sigga heldur áfram. ,,Einar ríki bjó í Vöruhúsinu beint á móti Skuld. Þegar ég var átta eða níu ára gömul ákvað ég að bolla Einar rækilega á bolludaginn og hafði mikið fyrir því. Eldsnemma reisti ég stiga við húsið hans, skorðaði hann vel og klifraði upp á þak. Ég skreið inn um svefnherbergisgluggann hjá Einari og þáverandi eiginkonu hans og bollaði Einar rækilega. Ég laumaðist aftur yfir götuna heim að Skuld. Síðar um daginn kom Einar með fullan bakka af bollum, af öllum sortum. Foreldrar mínir voru ekki alveg sáttir með þetta uppátæki yngstu dótturinnar,“ segir Sigga og hefur gaman af.   Faðmlög og væntumþykja ,,Heldur þú að einhver nenni að lesa þetta sem ég er að segja?“ Blaðakona er ekki í nokkrum vafa og fullvissar Siggu um að svo sé. ,,Ég er trúlofuð. Sjáðu þennan fallega hring sem kærastinn minn, hann Sverrir Benediktsson gaf mér. Hann býr hjá dóttur sinni og ég bý hér. Þvílík happagjöf að hitta Sverri. Hann er svo góður við mig að það hálfa væri nóg. Hann ráðlagði mér að selja bílinn minn og sagði við mig, „nefndu það og ég keyri þig.“ Það hefur hann staðið við, finnst þér það ekki flott?“ Sverrir er ættaður úr Eyjum. Það er gott að fá faðmlög og finna væntumþykju,“ segir hamingjusöm Sigga. ,,Ég geri allt sem ég þarf að gera. Baka lummur og bý til matinn minn. Ég bý til uppbakaðar rjómalagaðar sósur en samt er ég ekki mjög feit,“ segir Sigga sem alltaf hefur hugsað um útlitið. ,,Ég er bara svona eins og þú sérð mig en ég ætla að greiða mér og setja á mig varalit áður en þú tekur mynd.“ Það gerir Sigga og bætir svo um betur þegar líður að myndatöku og fer í fallega blússu.   Foreldarnir leiðarljós ,,Ég hef aldrei getað verið í ófriði. Það var mikið lagt upp úr því að við blótuðum ekki. Ef við gerðum það þá vorum við að kalla á ljóta kallinn og þá yrðum við aldrei ánægð. Ég er gæfusöm. Foreldrar mínir voru mitt leiðarljós í lífinu. Þau kenndu okkur bænir. Pabbi var alltaf að vinna en ef hann var heima þá kom hann og kenndi okkur bænir. Við áttum að læra þær utanbókar og kunna þegar hann færi yfir þær með okkur.“ Sigga setur sig í stellingar og fer með eina af bænunum sem foreldar hennar kenndu henni ,,Nú er ég klædd og komin á ról, Kristur Jesús veri mitt skjól. Í guðsóttanum gef þú mér að ganga í dag svo líki þér. Finnst þér þetta ekki fallegt?“ spyr Sigga með sínu fallega brosi.   Allir svo góðir við mig Þegar blaðakona fer að klæða sig í úlpu og skó tekur Sigga nokkrar teygjuæfingar. ,,Finnst þér ekki ótrúlegt hvað ég get? En nú þarf ég að fara í morgunsturtuna mína.“ Viðtalinu er lokið þegar Sigga segir skyndilega: Ég er rosalega heppin með fjölskylduna mína og tengdabörnin eru öll góð við mig. Það er enginn biturleiki í mér. Það má ekki láta það eftir sér. Ég væri ekki lifandi ef ég færi í sorgardýfu,“ segir Sigga af mikilli sannfæringu. ,,Ég ætla að fylgja þér út,“ segir Sigga. Blaðakona spyr hvort það sé til þess að hún fari ekki með vitið úr húsinu. ,,Nei ég ætla að fylgjast með þér fara, þú ert alveg stórkostleg kona,“ eru lokaorð Siggu. Það er ekki laust við að blaðakona gangi hnarreistari út eftir skemmtilegt og uppbyggjandi samtal við hina lífsglöðu hefðarfrú Siggu frá Skuld.  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Stjórnmál >>

Greinar >>

Silja Dögg Gunnarsdóttir - Bjartar vonir veikjast

Bjartar vonir vöknuðu hjá Eyjamönnum og öðrum fyrir nokkrum árum síðan þegar ákvörðun var tekin um að byggja nýja höfn í Landeyjum og smíða nýja ferju. Í áratugi höfðu Eyjamenn búið við brotakenndar samgöngur. Fréttin af höfninni og ferjunni breiddist út og fólk sem hafði flutt frá Vestmannaeyjum, m.a. vegna slæmra samgangna, flutti nú heim aftur. Aðrir stofnuðu fyrirtæki til að geta tekið á móti ferðamönnum og fóru í því skyni út í umtalsverðar fjárfestingar.   Ferðaþjónustan í uppnámi Nú, mörgum árum síðar, er staðan enn slæm og ekki fyrirséð að hún batni í bráð af fjölmörgum ástæðum. Íbúar í Vestmannaeyjum, sem hafa haldið í vonina um úrbætur, eru sumir við það að gefast upp á biðinni eftir bættum samgöngum. Ferðaþjónustan er í uppnámi en nú þegar hefur einn aðalmánuðinn af vertíðinni, af fjórum, nánast fallið niður. Skaði samfélagsins er gríðarlegur en hann er þó ekki eingöngu mældur í krónum og aurum, því miður.   Svarleysi Nýlega var haldinn fjölsóttur fundur í Höllinni þar sem íbúar komu saman og ræddu samgöngumál, fóru yfir stöðuna og hver yrðu næstu skref. Þar kom fram að smíði nýrrar ferju er hafin en óvíst er með hvað eigi að gera til að gera varðandi nauðsynlegar úrbætur á Landeyjahöfn. Hvar er t.d. sanddælubúnaðurinn fyrir höfnina sem lofað var? Verður gamli Herjólfur látinn sigla áfram til Þorlákshafnar þegar nýja ferjan kemur til að tryggja flutninga á milli lands og Eyja? Hvers vegna þurfa Eyjamenn t.d. að borga háa vegatolla af sínum þjóðvegi þegar aðrir landsmenn þurfa ekki að gera það? Engin svör fengust við þessum spurningum á fundinum.   Óánægja með verð og tímatöflu Rekstraraðili Eimskips í Eyjum fékk fjölmargar fyrirspurnir og ábendingar varðandi bætta þjónustu og aðbúnað um borð. Fólk gagnrýndi tímatöfluna, bókunarkerfið og vildi fá nánari upplýsingar um samning Eimskips í þeim tilgangi að átta sig betur á verðlagningu farmiða. Fátt var um svör en ljóst að útboð verður á rekstrinum í haust og Eimskip hyggst sækjast eftir að fá umboðið. Sumir töldu að rekstrinum verði betur fyrirkomið hjá sveitarfélaginu og þá hugmynd ber að skoða vandlega. Að fundi loknum hafði undirrituð orðið örlítið vísari um sögu Herjólfs en vissi litlu meir en áður um næstu skref málsins. Ljós er að íbúar eru langþreyttir og hundóánægðir með ástandið.   Ferðin með Baldri Heimferðin frá Vestmannaeyjum var svo sér kapítuli út af fyrir sig. Þar sem flugið féll niður vegna veðurs stökk undirrituð um borð í Baldur. Eftir þá viðbjóðslegu sjóferð spyr maður sig óhjákvæmilega að því, hvaða snillingi datt í hug að taka bátinn af Vestfirðingum og skerða þeirra samgöngur enn frekar niður og senda hann suður til siglinga á milli lands og Eyja? Báturinn er alls ekki gerður fyrir úthafssiglingar og skoppaði um í umtalsverðri ölduhæð eins og korktappi. Eftir klukkustund náðum við til lands og martröðinni var lokið. Ég mun jafna mig á sjóveikinni og hef heitið því að stíga ekki um borð í dallinn aftur. Íbúar í Vestmannaeyjum hafa hins vegar ekkert val þar sem kerfið okkar er þannig að ákveðin grunnþjónusta er staðsett uppá landi, svo sem fæðingarþjónusta en sú umræða er efni í aðra grein.   Planið Þingmenn kjördæmisins munu án efa halda áfram að beita sér fyrir bættum samgöngum til Vestmannaeyja enda er ekki um flokkspólitískt mál að ræða heldur samfélagslegt réttlætismál. Opinn fundur bæjaryfirvalda með ráðherra samgöngumála og yfirmönnum Vegagerðarinnar sem halda á í kvöld er löngu tímabær. Þar á að krefjast svara um verkáætlun og tímalínu. Við þingmenn getum spurt og talað en samband við framkvæmdavaldið er nauðsynlegt ef árangur á að nást. Ég mæti, ef það verður fært…