Eyjamenn höfðu betur gegn Gróttu - myndir

Eyjamenn höfðu betur gegn Gróttu - myndir

 Eyjamenn höfðu betur gegn Gróttu þegar liðin mættust í 20. umferð Olís-deildar karla í kvöld. Leiknum lyktaði með tveggja marka sigri heimamanna þar sem Sigurbergur Sveinsson var atkvæðamestu með tíu mörk. 
 
Óskar Pétur Friðriksson, ljósmyndari Eyjafrétta, var að sjálfsögðu á staðnum til að taka myndir.

Vertíðin fór fram úr okkar björtustu vonum

„Það sem einkenndi þessa vertíð var góð veiði, gott síli og gott veður,“ segir Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar þegar hann gerir upp loðnuvertíðina. „Vertíðin fór fram úr okkar björtustu vonum þrátt fyrir að í upphafi árs hafi bjartsýnin ekki verið mikil. Þá stóð sjómannaverkfall og Hafró nýkomið úr rannsóknarleiðangri, sem uppsjávarútgerðirnar borguðu að hluta, með ráðgjöf upp á heildarkvóta í loðnu 57.000 tonn og af þeim áttu íslenskar útgerðir að fá 11.500 tonn. Restin fór til annarra þjóða og íslenska ríkisins. Á þeim tímapunkti var ríkið ekki tilbúið til að standa fyrir öðrum loðnuleiðangri sem átti að kosta ca. 40 milljónir. Loðnuútgerðirnar tóku sig því saman og tryggðu Hafró fjármuni og skip til að fara í annan leiðangur og skilaði sá leiðangur því að loðnukvótinn var rúmlega fimmfaldaður og varð 299.000 tonn og grundvöllur kominn fyrir þokkalegri vertíð.“ Vertíðin hófst svo um leið og verkfallið leystist og stóð samfellt í fjórar vikur. „Það sem situr helst í manni eftir vertíðina er hvað við vitum í raun lítið um loðnuna og hvað vantar mikið upp á að við sinnum almennilegum rannsóknum á þessum mikilvæga nytjastofni okkar. Það virðist líka ríkja mikið skilningsleysi innan stjórnkerfisins á mikilvægi þess að stunda öflugar rannsóknir og t.d. að ríkið hafi ekki verið tilbúið að leggja fram auka 40 milljónir til að leita að loðnu sem skilaði þjóðarbúinu á endanum einhverjum 15-20 milljörðum er mjög undarleg forgangsröðun,“ segir Sindri sem er nokkuð bjartsýnn á framhaldið. „Ég er nokkuð viss um að loðnustofninn er talsvert stærri en mælingar sögðu til um og vonandi skilar það sér þá í góðri hrygningu.“    

Óskar Ólafsson er matgæðingur vikunnar - Búri með pistasíusalsa með sojasmjörsósu og sætkartöflumús

Ég þakka Hörpu kærlega fyrir áskorunina og ætla bjóða ykkur upp á frábæran fiskrétt.   Sætkartöflumús • ca 5-600 gr sætar kartöflur, skrældar og skornar í bita • 1-2 kartöflur, skrældar og skornar í bita • 1/2 rautt chili, fræhreinsað • safi úr 1/2 límónu (lime) • ca 1 msk smjör • salt og pipar  Kartöflur og sætar kartöflur skrældar og skornar í svipað stóra bita. Þær eru svo settar í pott og vatn rétt látið fljóta yfir. Chili skorið í tvennt langsum, fræin hreinsuð úr og því svo bætt út í pottinn. Til að fá bragðsterkari kartöflumús er hægt að saxa chili smátt. Límónusafa bætt út í pottinn. Suðan látin koma upp og soðið í 15-20 mínútur eða þar til að kartöflurnar eru orðnar mjúkar. Vatninu helt af og chili (ef það er í heilu) fjarlægt. Kartöflurnar stappaðar fínt með smjöri og bragðbættar með salti, pipar og jafnvel meiri límónusafa. Til að skerpa á hitanum á sætkartöflumúsinni er hún sett í pott og hituð upp við meðalhita, hrært í á meðan.   Búri með pistasíusalsa • ca 600 gr Búri eða hvaða fiskur sem er • salt og pipar • 3-4 msk pistasíuhnetur, saxaðar (má líka nota furuhnetur) • 3 msk sítrónusafi og rifið hýði af 1/2 sítrónu • 1 msk olífuolía • ca 1 dl fersk steinselja, söxuð • 1/4 – 1/2 rautt chili, fræhreinsað og fínsaxað   Ofninn hitaður í 220 gráður. Búrinn skorinn í bita og þeim raðað í smurt eldfast form. Kryddað með salti og pipar. Því næst er blandað saman í skál: pistsíuhnetum, sítrónusafa, sítrónuhýði, steinselju, chili og ólífuolíu. Blöndunni er dreift yfir fiskinn. Bakað í miðjum ofni við 220 gráður í ca 12-15 mínútur eða þar til fiskurinn er fulleldaður. Gætið þess að ofelda hann ekki.   Sojasmjörsósa • 3 msk smjör • 1 skarlottulaukur (hægt að nota 1/2 rauðlauk), saxaður fínt • 1 hvítlauksrif, saxað fínt • 1 tsk rautt chili, saxað fínt • 2-3 msk sojasósa • 1 msk steinselja, söxuð smátt   Smjör brætt í potti og látið krauma við fremur vægan hita í ca 15 mínútur þannig að smjörið verði brúnt. Froðan veidd af smjörinu. Lauk, hvítlauk, sojasósu, chili og steinselju blandað saman í skál og blandað út í smjörið rétt áður en sósan er borin fram. Njótið gjarnan með góðu hvítvínsglasi!   Ávaxtaeftirréttur Skera niður 2 stk banana og 3 epli 100 gr súkkulaði 100 gr döðlur, sett í eldfastmót. 50gr sykur + 1 egg hrært saman og svo er bætt við 50gr kókos 40gr hveiti, 1tsk ger. Það er svo dreift yfir ávextina og smá púðursykur yfir allt samna. Sett í ofn á 150 í klst.   Ég ætla að skora á Jóhann Inga Óskarsson sem næsta matgæðing, ég veit að hann er snillingur í eldhúsinu.  

Eyjmaður vikunnar - Við byrjuðum í 30 lítra plastfötu og erum núna komnir með 500 lítra kerfi

 Kjartan Vídó Ólafsson, ásamt félögum sínum í The Brothers Brewery, hefur staðið í ströngu síðustu vikur og mánuði við að komu upp nýju brugghúsi og ölstofu í Vestmannaeyjum. Ævintýrið hófst með 30 lítra plastfötu sem í dag er orðið að 500 lítra kerfi sem á að geta framleitt um 70.000 lítra af bjór á ári. Kjartan er Eyjamaður vikunnar.   Nafn: Kjartan Vídó Ólafsson. Fæðingardagur: 17. febrúar 1979. Fæðingarstaður: Vestmannaeyjar. Fjölskylda: Kvæntur Erlu Björgu Káradóttur markþjálfa og söngkonu og eigum við þær Önnu Birnu 13 ára og Kristjönu Emmu 6 ára. Draumabíllinn: Bíll sem ekki þarf að þrífa og bóna. Uppáhaldsmatur: Pulsa með öllu nema remúlaði og mikið af tómatsósu og sinnepi. Versti matur: Pulsa með remúlaði. Uppáhalds vefsíða: Ég nota internetið voðalega lítið, kíki helst á veðrið á www.vedur.is. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Leonard Cohen er í uppáhaldi, góður jazz og svo klikkar ekki Svartur 2 frá Bigga Nielsen. Aðaláhugamál: Eldamennska, drekka og brugga bjór og svo hef ég að undanförnu snúið mér að hannyrðum og þá helst að hekla glasamottur. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Jesú Krist, hef lengi viljað spjalla við hann hvernig það var að alast upp hjá húsasmið á hans tíma. Við höfum pottþétt gengið í gegnum svipaða hluti í æsku ég og Jesú þegar við vorum að smíða með feðrum okkar. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Brandur ber af í fegurð, þar gaf Guð ekki afslátt í sköpun sinni! Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Íþróttafélagið Ægir er mitt félag og vinur minn Guðni Davíð er mitt uppáhald. Ertu hjátrúarfull/ur: Já mjög, ég t.d. syng alltaf franska þjóðsönginn áður en ég fer í Herjólf, Gulli skiptstjóri sagði að þetta hjálpaði og eftir þetta hef ég aldrei orðið sjóveikur. Stundar þú einhverja hreyfingu: Lyfti glösum af og til. Uppáhaldssjónvarpsefni: Það er kominn matur í sjónvarpi Símanns, verð einmitt í þeim þætti fimmtudaginn 23. mars næstkomandi að elda pulsur. Nú er loksins komið að því að ölstofan opni. Er þetta draumur að rætast: Draumur okkar var aldrei að opna ölstofu en hlutirnir þróuðust í þessa átt þegar við fórum að skoða stækkun á okkar búnaði. Við byrjuðum í 30 lítra plastfötu og erum núna komnir með 500 lítra kerfi, það er draumi líkast hvernig sá vöxtur hefur þróast. Hvernig hefur allt ferlið gengið: Við pöntuðum búnaðinn frá Kína í október á síðasta ári og eftir það fórum við að svipast um eftir hentugu húsnæði. Búnaðurinn fór svo í skip á gamlársdag og kom til okkar til Eyja fyrir tveimur vikum. Á meðan fundum við hentugt húsnæði og félagar mínir í Eyjum ásamt konum sínum og fjölskyldum hafa staðið sig gríðarlega vel við við endurbætur á því. Maður er stoltur að eiga svona flotta félaga og bakland þegar tekist er á við svona ævintýri! Hver er þinn uppáhalds bjór: Eldfell af bjórunum okkar, minn gamli nágranni Stiegl frá Salzburg og svo besti bjór í heimi Westvleteren 12. Fékk kassa af þeim bjór á síðasta ári og þarf nauðsynlega að eignast annan kassa sem fyrst aftur.

Heilbrigðis- og samgöngumál brenna helst á Eyjamönnum líkt og fyrri daginn

Í síðustu viku komu nokkrir þingmenn Suðurkjördæmis í heimsókn til Vestmannaeyja þar sem þeir m.a. funduðu með bæjarfulltrúum um mikilvæg málefni sem snerta hagsmuni bæjarbúa. Þingmennirnir sem um ræðir eru þeir Páll Magnússon Sjálfstæðisflokknum, Sigurður Ingi Jóhannsson Framsóknarflokknum, Ásmundur Friðriksson Sjálfstæðisflokknum, Vilhjálmur Árnason Sjálfstæðisflokknum, Ari Trausti Guðmundsson Vinstri grænum, Unnur Brá Konráðsdóttir Sjálfstæðisflokknum, Jóna Sólveig Elínardóttir Viðreisn og Oddný Harðardóttir Samfylkingunni. Blaðamaður sendi þingmönnunum öllum póst þar sem spurt var hvaða mál brenna helst á Vestmannaeyingum að mati þingmannanna eftir heimsóknina á dögunum. Þrír þeirra sáu sért fært um að svara að þessu sinni, þau Oddný G. Harðardóttir, Ásmundur Friðriksson og Ari Trausti Guðmundsson.   Oddný G. Harðardóttir:Bæjarfulltrúarnir lögðu helst áherslu á að það væri mögulegt og öruggt að fæða börn í Vestmannaeyjum og á að samgöngur væru greiðar og ódýrar fyrir Eyjamenn. Skólamálin brenna einnig á Vestmannaeyingum, heilbrigðisþjónustan og sjúkraflutningar.   Ásmundur Friðriksson:Mikilvægustu málin eru heilbrigðis- og samgöngumál eins og fyrr. Farið var yfir heilbrigðismálin af vandvikni og við ætlum áfram að leggjast öll á eitt að fá svör við þeim spurningum hvort efla eigi fæðingarþjónustu í Eyjum eins og krafan er um. Hugmyndin er að halda sameiginlegan fund bæjarfulltrúa, þingmanna, heilbrigðisráðherra og stjórnenda Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og fá bein og skýr svör um framhaldið. Rætt var ýtarlega um samgöngumál. Ferðatíðni og fargjaldastefnu nýrrar ferju. Ég lagði fram upplýsingar um afkomu útgerðar Herjólfs sem hvorki útgerðin eða Vegagerðin hefur mótmælt og þar er sýnt fram á mikinn hagnað af siglingum Herjólfs. Það er því mikilvægt að nýta hluta þess hagnaðar til að hafa eitt og sama fargjald í Þorlákshöfn og Landeyjarhöfn en svigrúm er til þess í rekstrinum og láta Landeyjarhafnarverðið vera grunninn á báðum leiðum. Þá er mikilvægt að halda áfram rannsóknum í og við Landeyjarhöfn til að tryggja betri nýtingu hafnarinnar þegar ný ferja kemur 2018. Þessi tvö mál sem að undan eru talin og síðan lögðu bæjarfulltrúar áherslu á framlög Vestmannaeyinga í sameiginlega sjóði landsmanna og góða stöðu Vestmannaeyjabæjar sem er afar ánægjulegt. Þá kynntu bæjarfulltrúar fyrir þingmönnum laka frammistöðu ríkisins í mörgum þjónustuliðum sem ríkið ber ábyrgð á gagnvart Vestmannaeyingum.   Ari Trausti Guðmundsson:Augljóslega málefni spítalans, og einkum þá fæðingarþjónustunnar, en líka samgöngurnar, bæði til sjós og í lofti. Þar kemur verð og ný ferja við sögu og enn fremur vandkvæði við Landeyjarhöfn.  Elliði Vigisson: Ekki freklegt að ætlast til þess að okkur sé tryggð viðunandi lágmarksþjónusta :Hvernig fannst þér heimsóknin hafa gengið heilt yfir? „Heimsóknin gekk vel. Við hófum umræðuna á því að ræða verkaskiptingu milli ríkisins og Vestmannaeyjabæjar auk þess sem við ræddum ítarlega þá staðreynd að af þeim 8,5 milljörðum sem Eyjamenn greiða í skatt þá eru eingöngu 3,5 þeirra notaðir hér í Vestmannaeyjum, og þá meira að segja þótt við teljum rekstur á Landeyjahöfn með. Séð í því ljósi sé það ekki freklegt að ætlast til þess að okkur sé tryggð viðunandi lágmarksþjónusta,“ segir Elliði Vignisson bæjarstjóri.„Við lögðum höfuðáherslu á heilbrigðismál og samgöngur. Krafa okkar er að tafarlaust verði staðið við niðurstöðu faghóps ráðherra sem einróma komst að þeirri niðurstöðu að hér eigi að reka svo kallaða C1 fæðingaþjónustu með fullu aðgengi að skurðstofu. Hvað samgöngur varðar þá ræddum ítarlega mikilvægi þess að lækka kostnað heimila af samgöngum, tryggja framtíð flugvallar, bæta allt sem snýr að Landeyjahöfn og margt fleira. Þingmennirnir sýndu máli okkar skilning og hétu stuðningi. Það gladdi mig sérstaklega þegar Páll Magnússon fyrsti þingmaður okkar lýsti því að hópurinn myndi sameiginlega koma sér upp skotlista yfir þau verkefni sem að okkur snúa og vinna þarf hratt að. Ekki þarf að efast um að samgöngur og heilbrigðisþjónusta okkar Eyjamanna eru það efst á blaði,“ segir Elliði.

Vestmannaeyjabær mælist til þess að lög um orlof húsmæðra verði lögð niður

Á mánudaginn sendi Vestmannaeyjabær umsögn sína á frumvarpi þar sem mælst er til að lög um orlof húsmæðra verði afnumin. Umsögnina í heild má sjá hér:   Umsögn um frumvarp til laga um orlof húsmæðra (afnám laganna) 119. mál   Með umsögn þessari mælist Vestmannaeyjabær til þess að frumvarpið verði samþykkt og lög um orlof húsmæðra því lögð niður.   Máli sínu til stuðnings bendir Vestmannaeyjabær á að upphafsorð 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hljóðar svo: Markmið laga þessara er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Í ákvæðinu eru taldar upp nokkrar leiðir til að ná fram markmiði laganna, m.a. að gæta jafnréttissjónarmiða og vinna að kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins auk þess að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Ein af þeim leiðum sem nefndar eru til að ná fram markmiði laganna er að bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu. Löggjafinn gerir því ráð fyrir að sum úrræði sem gripið er til nýtist konum fremur en körlum. Með hliðsjón af jafnréttissjónarmiðum og grundvallarreglum stjórnskipunarinnar er þó augljóst að slíkum úrræðum verður eingöngu beitt þegar nauðsyn krefur til og að rétta hlut kvenna þar sem á hefur hallað. Verður ekki séð að lög um orlof húsmæðra uppfylli þetta skilyrði enda fá húsfeður og eða ekklar ekki notið til jafns við konur þess orlofs sem lögin kveða á um. Ljóst má því telja að lög um orlof húsmæðra brjóta gegn lögum um jafna stöðu karla og kvenna og grundvallarreglum íslenskrar stjórnskipunar.   Vestmannaeyjabær bendir einnig á að í kjölfar fyrirspurnar Vestmannaeyjabæjar árið 2007 svaraði Jafnréttisstofa því til að hún teldi líkur á að lög um orlof húsmæðra teljist brot á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Stofan áréttaði þó jafnframt að það sé Alþingis að afnema hin umræddu lög.   Þá bendir Vestmannaeyjabær á að á fundi bæjarstjórnar kvenréttindadaginn 19. júní 2008 samþykkti bæjarstjórn ályktun þess efnis að skorað yrði á Alþingi að afnema lög um orlof húsmæðra og er það hér ítrekað. Í ályktun þess fundar, sem eingöngu var skipaður konum, sagði: Lög um að orlofsnefndir skipuleggi orlof húsmæðra hver í sínu umdæmi og sjái um rekstur orlofsheimila á kostnað bæjarins þykja tímaskekkja. Bæjarstjórn Vestmannaeyja taldi þá að gildandi lög um húsmæðraorlof ekki vera í anda jafnréttis enda taka þau einungis til kvenna.   Að lokum minnir Vestmannaeyjabær á að 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar mælir fyrir um sjálfstjórn sveitarfélaga án þess að tilgreina nánar í hverju sjálfstjórnin felst. Hér er því fyrst og fremst um að ræða stefnuyfirlýsingu stjórnarskrárgjafans um að sveitarfélög skuli njóta sjálfstjórnar. Séð í því ljósi verður að telja brýnt að löggjafinn stígi varlega fram í löggjöf sem bindur hendur sveitarfélaga og slíkt sé fyrst og fremst gert í málum sem skipta þjóðarheildina máli. Á sama hátt er mikilvægt að löggjafinn sé vakandi fyrir því að afnema útelt lög þegar sá tími kemur að málefni séu hætt að skipta þjóðarheild máli.   Bæjarráð Vestmannaeyja er eins og bæjarstjórn einbeitt í vilja sínum að hafa jafnrétti að leiðarljósi í öllu sínu starfi. Með það að leiðarljósi hvetur Vestmannaeyjabær til þess að lög um orlof húsmæðra verði afnumin.   Elliði Vignisson bæjarstjóri  

Fundur bæjarráðs 15.3.2017

 Bæjarráð Vestmannaeyja - 3046. fundur     haldinn í fundarsal Ráðhúss, 15. mars 2017 og hófst hann kl. 12.00       Fundinn sátu: Páll Marvin Jónsson formaður, Elliði Vignisson bæjarstjóri, Trausti Hjaltason aðalmaður og Stefán Óskar Jónasson aðalmaður.   Fundargerð ritaði: Elliði Vignisson, Bæjarstjóri         Dagskrá:   1. 201702149 - Boðun XXXI. landsþings sambandsins   Erindi frá sambandi íslenskra sveitarfélaga dags. 25. febrúar s.l. þar sem fram kemur að boðað er til XXXI. landsþings sambandsins sem verður haldið föstudaginn 24. mars n.k. á Grand hóteli í Reykjavík.     2. 201701030 - Umsókn um umsögn vegna rekstrarleyfis fyrir Brothers Brewery   Erindi frá Sýslumanninum í Vestmannaeyjum frá 9. janúar s.l. þar sem óskað er eftir umsögn vegna rekstrarleyfis til handa The Brothers brewery ehf. vegna rekstur og veitingarstaðar í flokki II með opnunartíma til kl. 23:00 alla daga þó til kl. 01:00 aðfaranótt laugardags og sunnudags eða almenns frídags.   Bæjarráð veitir jákvæða umsögn að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um.   Bæjarráð staðfestir jákvæða umsögn frá skipulags- og byggingarfulltrúa að starfssemin sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsskilmála og að lokaúttekt hafi farið fram á húsnæðinu. Staðfestir jákvæða umsögn heilbrigðisfulltrúa heilbrigðiseftirlits suðurlands að starfsemin sé í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, laga um matvæli og mat heilbrigðisnefndar á grenndaráhrifum starfseminnar, þ.m.t. hljóðvistar ef við á. Staðfestir jákvæða umsögn slökkviliðsstjóra að kröfum um brunavarnir sé fullnægt samkvæmt mati slökkviliðs miðað við 70 manns.   Umsögn þessi er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi samkomustaðarins á kostnað rekstraraðila ef þörf krefur.   Bæjarráð minnir á að umrædd veitingastarfsemi er í fjöleignahúsi og mikilvægi þess að starfsemin valdi ekki truflun á högum annarra íbúa. Í lögum um fjöleignahús nr. 26/1994. Er fjallað um að stjórn húsfélags skuli semja reglur og leggja fyrir húsfund þar sem meðal annars er lagt bann við röskun á svefnfriði í húsinu frá miðnætti til 07.00 að morgni. Undanþágu frá því banni, ef einhverjar eru, skal fara með skv. 74. gr. laganna.                 Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 12.30

Fundur Fjölskyldu- og tómstundaráðs 15.03.2017

Fjölskyldu- og tómstundaráð - 191. fundur     haldinn í fundarsal Ráðhúss, 15. mars 2017 og hófst hann kl. 16:30         Fundinn sátu:   Trausti Hjaltason formaður, Páll Marvin Jónsson aðalmaður, Sigurhanna Friðþórsdóttir aðalmaður, Guðjón Ragnar Rögnvaldsson 1. varamaður, Guðrún Jónsdóttir starfsmaður sviðs og Margrét Rós Ingólfsdóttir starfsmaður sviðs.   Fundargerð ritaði: Margrét Rós Ingólfsdóttir,     Sólrún Gunnarsdóttir deildarstjóri málefna aldraðra sat fundinn í 3. máli.       Dagskrá:       1. 201701017 - Sískráning barnaverndarmála 2017   Sískráning barnaverndarmála í febrúar 2017   Í febrúar bárust 20 tilkynningar vegna 17 barna. Mál 15 barna voru til frekari meðferðar.     2. 200704150 - Fundargerð barnaverndar fyrir fjölskyldu- og tómstundaráð   Undir þessum lið er fjallað um öll erindi sem falla undir barnavernd og eru trúnaðarmál.   Fundargerð barnaverndar er færð í sérstaka trúnaðarmálabók.     3. 200811057 - Hraunbúðir   Deildarstjóri málefna eldri borgara kynnir stöðu framkvæmda á Hraunbúðum o.fl.   Deildarstjóri málefna aldraðra kynnti stöðu framkvæmda á Hraunbúðum.   Framkvæmdir við nýja aðstöðu fyrir dagdvöl í vesturenda matsalar eru á lokametrunum. Verið er að koma upp sérinngangi og nú styttist í að hægt sé að flytja dagdvölina.   Framkvæmdir við byggingu á sérhæfðri deild í austurhluta Hraunbúða eru á áætlun. Deildarstjóri leggur til að deildin verði stækkuð úr fimm herbergja deild í átta, tvö lítil herbergi sameinuð í eitt stærra, brautum fyrir stólalyftur verði komið fyrir í nýjum herbergjum og setustofa/matstofa verði stækkuð með sólstofu í austur.   Ráðið þakkar kynninguna. Ráðið er jákvætt gagnvart tillögum deildarstjóra og óskar eftir að tillögurnar verði kostnaðarreiknaðar.         Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:20  

Þegar kristnin fær að fara að eðli sínu verður mannlífið milt

Bjarni prestur Karlsson er Eyjamönnum af góðu kunnur. Hann þjónaði ásamt konu sinni Jónu Hrönn Bolladóttur í Landakirkju frá 1991 til 1998. Þau hjónin settu sannarlega svip sinn á safnaðarstarfið í Landakirkju meðan þau störfuðu þar sem prestar. Eftir sjö ára þjónustu söðlaði fjölskyldan um og flutti til Reykjavíkur þar sem Jóna Hrönn hóf störf sem Miðborgarprestur en Bjarni tók við starfi sóknarprests í Laugarneskirkju. Árið 2013 tóku þau hjónin sig til og seldu veraldlegar eigur sínar og fór í nám til Bandaríkjanna. Að loknu árs námi var Bjarni ekki búinn að fá nóg af breytingum. Hann baðst lausnar frá embætti sóknarprest í Laugarneskirkju, fór í doktorsnám við guðfræðideild Háskóla Íslands og opnaði ásamt syni sínum Andra Bjarnasyni sálgæslu- og sálfræðistofuna Haf.   Blaðamaður mælti sér mót við Bjarna á skrifstofunni í Ármúla 40. ,,Sæl vertu, hvernig eigum við að hafa þetta,“ spyr Bjarni brosandi. Bjarni hefur klukkutíma lausan á milli viðtala og tíminn líður hratt því honum liggur margt á hjarta. Hann er óhræddur við að gagnrýna menn og málefni og liggur ekki á skoðunum sínum.   Hver er Bjarni Karlsson? ,,Já, ég held að ég sé ekki fær um að svara þeirri spurningu. Ég held raunar að enginn manneskja þekki sjálfa sig,“ segir Bjarni og hugsar sig aðeins um ,,því lengi má manninn reyna. Ég held alltaf áfram að koma sjálfum mér á óvart og veit ekki enn hver ég er. Mitt mottó er hins vegar að vera frekar til bóta og hafa gaman af þessu.“ Það stendur ekki á svari þegar Bjarni er spurður að því hvað hafi mótað hann. ,,Mjög margt. Og eftir því sem líður á ævina sé ég betur það sem mótaði mig.“ Foreldrar Bjarna koma úr ólíkum áttum. ,,Móðir mín er Helga Steinunn Hróbjartsdóttir, dóttir iðnhöldurs í Reykjavík upp alin í stórum systkinahópi en faðir minn Karl Sævar Benediktsson lifði sem drengur við sára fátækt og almenna vanrækslu í sömu borg.“ Hjá þessum tveimur ólíku manneskjum ólst Bjarni upp ásamt þremur bræðrum en foreldar hans kynntust í starfi KFUM og K.   Kvennaskóli gerði Bjarna að femínista Foreldar Bjarna eru bæði menntaðir sérkennarar og ráku Heimavistarskóla fyrir stúlkur í Hlaðgerðarkoti. Skólinn var hluti af vistheimilamenningu sem ríkti á Íslandi uppúr miðri síðustu öld. ,,Ég sé eftir á hvað það mótaði mig að alast upp á heimavist þar sem að jafnaði voru 16 stúlkur í vistun. Það gerði mig að femínista.“ ,,Foreldar mínir voru fagmenn í kennslu og byggðu upp góða menntastofnun. Þau lögðu mikið upp úr kristnum kærleika. Í Hlaðgerðarkoti var farið með borðbænir og kvöldbænir Þetta hafði rík áhrif á mig, þarna fékk ég einfaldlega kristindóminn beint í æð og skildi að allt sem er sannlega mannlegt kemur sönnum kristnidómi við.“   Smyglaði tóbaki til Ítalíu ,,Þegar kristnin fær að fara að eðli sínu þá verður mannlífið milt og vaxtarskilyrði fyrir fólk verða góð. Það var það sem pabbi minn fékk að reyna.“ Faðir Bjarna lifði við mikið ólán sem barn. Það varð honum til happs að fyrsta bréfið sem hann fékk inn um lúguna á heimili sínu þá níu ára gamall var boð um að koma í starf KFUM. ,,Bréfið breytti lífi hans og trúarsamfélagið varð hans lífsakkeri.“ Föðuramma Bjarna var ein með tvo drengi sem hún átti í lausaleik eins og sagt var. ,,Faðir minn var eins árs þegar móðir hans flúði fátæktina á Íslandi. Bróðir pabba var skilinn eftir hjá langömmu minni en pabbi fór til vandalausra. Hann hafði ekkert af móður sinni að segja og vissi ekki af að hún væri til fyrr en hann komst að því 11 ára fyrir tilviljun að hann ætti móður í Danmörku. En hann átti eftir að kynnast henni síðar og hún varð stór hluti af okkar lífi.“ ,,Þetta er dramtísk saga,“ segir Bjarni. „Amma mín flýr sem sagt íslenska fátækt. Í Danmörku kynnist hún þýskum manni sem er á flótta undan nasistum. Þau flýja saman til Norður-Afríku þar sem fósturafi minn starfaði sem rafvirki við bandaríska útvarpsstöð en jók tekjur sínar með því að smygla tóbaki frá Afríku til Ítalíu á lítilli bátskænu. Í því sambandi lenti hann í fangelsi og allskonar klandri þar til þau héldu til Bandaríkjanna og lifðu þar heiðvirðu lífi. Lengst og best bjuggu þau í San Diego í Kaliforníu og ég átti eftir að vera þar sem drengur og upplifa í gegnum þau bandaríska drauminn.“   Vanrækt barn sem síðar fékk tækifæri Það kemur ekki á óvart að Bjarna sé hugleikin staða flóttamanna og fátækra og kristilegt starf. ,,Pabbi lifði við rottugang og frosna hlandkoppa í kjallaraholum og bröggum í þessu eymdarástandi sem ríkti hjá mörgu fólki hér í Reykjavík um og eftir stríð. KFUM starfið opnaði honum tækifæri til að kynnast öðrum lífsmöguleikum og það endar með því að hann kemst til mennta og verður kennari og skólastjóri.“ Bjarni verður hugsi en segir svo: ,,Ég átta mig á því að foreldrar mínir hafi í raun byggt upp menntastofnun saman þarna í Hlaðgerðarkoti ásamt fleira fólki og svona var þeirra starf áfram. Það sem mamma og pabbi gerðu var að þau tvinnuðu saman alvöru fagmennsku og kristin lífsgildi. Þegar kristin trú er lifuð í verki fær fólk tækfæri til að byggja upp líf sitt. Fagmennska og meðvituð lífsgildi styðja hvað við annað.“   Mannlífstorg og menningarmiðstöð Bjarni og Jóna Hrönn kynntust og urðu par í guðfræðinámi við Háskóla Íslands. ,,Við vorum áhugasöm og einbeitt en komum úr ólíkum áttum, hún prestsdóttir að norðan og ég sonur minna foreldra að sunnan og svona KFUM drengur“. Bjarni segir að það hafi verið þeim hjónum mikil áskorun að koma til Eyja og fá tækifæri til þess að koma hugmyndum sínum í framkvæmd. ,,Það var svo gott slagrými til þess að móta safnaðarstarfið. Það má eiginlega orða það þannig að við áttuðum okkur á því að Landakirkja er mannlífstorg og menningarmiðstöð, kjörlendi til þess að leyfa kristni að hafa sín mildandi og umvefjandi áhrif á samfélagið, vera vettvangur þar sem fólk talar saman, heldur hvert öðru ábyrgu og skapar fallegt mannlíf.“ Hvers vegna er þessi frjói farvegur fyrir trú í Eyjum? Bjarni er snöggur að svara því. ,,Það á sér sennilega félagssálrænar skýringar. Eyjan er byggð upp af fólki sem allt var meira og minna aðkomumenn mikið úr Landeyjunum eða undan fjöllunum. Allir komu til að bjarga sér. Karlar fóru á sjóinn, konurnar unnu í landi. Lífsháski var mikill og hörð lífsbarátta og sterkt nærsamfélag.“ ,,Í Vestmanneyjum vita allir allt um alla, það eru allir ofan í öllu, en það er bara um eitt að ræða að standa saman. Fólk vissi hvenær við fórum að sofa, hvenær við fórum á fætur og hvað var í innkaupakerrunni, þetta er svo mikil nálægð. Þess vegna verður það sem okkur finnst vera einka líka mjög opinbert í Eyjum.“   Hin nýja sjálfskipaða andlega yfirstétt Bjarni hefur skoðun á því hvers vegna landsbyggðin hefur lítið breyst gagnvart kristilegu starfi. ,,Það er félagslega innsæði að sjá gildi þess að geta sem samfélag lotið höfði fram fyrir æðri mætti og geta þegið sameiginlegan styrk í andlegri einingu þrátt fyrir allt og allt.“ Bjarna er heitt í hamsi þegar innt er eftir skoðun hans á breyttri afstöðu til kristilegs starfs á höfuborgarsvæðinu ,,Hin nýja sjálfskipaða andlega yfirstétt höfuðborgarinnar er samansett af fólki sem á kannski ekki þessa reynslu vegna þess að það hefur bara verið lánsamt í eigin lífi og skortir innsæi til þess að sjá gildi þess fyrir almenning að eiga aðgang að samtali og samveru, hafa opinbert mannlífstorg þar sem maður getur gengið inn í skjól. Fólk sem lifir vel, tengt í góðu skjóli veit ekki hvað það er að lifa sem berskjölduð manneskja í kunningjaþjóðfélaginu.“ Áfram heldur Bjarni með nokkrum þunga. ,,Við erum klíkuþjóðfélag og kunningjasamfélag og fólk sem hefur allt vegna tengsla sinna það rennir ekki grun í hvað það er að standan utan þessara tengsla. Það sér ekki þessa félagslegu funksjón í hverju hverfi, sér ekki fjölskyldurnar sem hafa ekki ríkt tengslanet, sér heldur ekki börnin sem ekki una sér í samkeppnisafþreyingunni sem tengist íþróttum og allri árangursmenningunni. Þetta er það sem ég kalla skort á félagslegu innsæi, að sjá ekki gildi þess að hafa andlega félagsmiðstöð í hverfum borgarinnar þar sem fólki býðst almennilegt og flott tilboð um að taka þátt og vera aðili að félagsstarfi þar sem er raunverulegt mannlegt skjól og allir eru sæmdir af því að vera þeir sjálfir.“   Hvorki meira né minna en manneskja ,,Í sóknarkirkjunni í hverfinu þar sem er gott safnaðarstarf, þar sameinast fólk þvert á stéttir hópa og samfélagsstöðu og hvað eina sem aðgreinir okkur. Þannig er kristið samfélag í eðli sínu. Það að koma til kirkju þegar safnaðarstarf er heilbrigt og kröftugt er að greiða atkvæði með fótunum og lýsa því yfir að maður er hvorki meira né minna en manneskja í samfélaginu og að maður vill taka þátt í að móta menningu þar sem reiknað er með öllum og allir eru bræður og systur. Þess vegna er kirkjustarf í eðli sínu félagspólitísk þátttaka og ekkert hlutleysi. Og einmitt mjög gildishlaðið.“ Bjarni er hvergi nærri hættur. ,,Það er nákvæmlega það sem hin nýja andlega yfirstétt skreytir sig með. Þetta að hafna öllu sem er gildishlaðið. Niðurstaðan er náttúrulega sú að stefnt er að þjóðfélagi þar sem allir eru fjálsir af því að vera einir. Frjáls til að vera ólík í einrúmi.“ ,,Kirkjustarfið á að vera þannig að það sé ekki menningarkimi og það þarf að vinna gegn slíkum tilhneigingum. Við höfum auðvitað vandamál í kirkjunni af því að kirkjan er ekkert öðruvísi en annað mannlegt samfélag. Það er alltaf tilhneiging til að gera kirkjuna að einhverjum menningarkima, - sér tónlist, sér málfar. En þannig er ekki eðli kristindómsins, kristin kirkja verður alltaf að brjótast út úr sjálfri sér og bylta sjálfri sér ef hún vill vera sér samkvæm.“   Varð að láta sér vaxa skegg Bjarni var æviráðinn sóknarprestur í Landakirkju 28 ár gamall, um það segir hann. ,,Ég var svo barnalegur í framan þegar ég byrjaði. Eitt sinn stóð einhver karl í andyrinu, horfði yfir þar sem ég stóð innan um hóp af fermingarstrákum og sagði: ,,Strákar mínir hvar er presturinn?" Þá ákvað ég að láta mér vaxa skegg til að það færi alltént ekki á milli mála að ég væri kynþroska,“ segir Bjarni í léttum tón. ,,Það gekk mikið á í samfélaginu og margt erfitt sem gerðist á þessum árum sem við vorum í Eyjum. Það var lærdómsríkt fyrir okkur Jónu Hrönn að sjá hvernig samfélagið í Vestmannaeyjum kunni að standa saman og veita huggun og von þegar áföll dundu yfir. Hvernig fólk kom saman í kirkjunni til þess að veita hvert öðru huggun og styrk og sýna samstöðu, þjappa sér saman á erfiðum stundum. Það býr með mér alla tíð. Svo voru líka öll gleðilegu tilefnin og hátíðarstundirnar og hversdaglífið með mikilli þátttöku í sunnudagaskóla, fermingarfræðslu og öllu hinu.“ ,,Þarna laukst upp fyrir manni hvað það er bætandi fyrir bæjarlífið að hafa líf í kirkjunni sinni og kunna að nýta hana. Meðal annars með því að leyfa börnunum að heyra allar stórkostlegu Biblíusögurnar. Biblíusögur eru hluti af langtímaminni mannkyns og hreint glapræði að glutra þeim niður. Þær eru langreyndir túlkunarrammar á lífið sem auka skilning okkar á því hvað það er að vera manneskja.“ Bjarni kveðst óendanlega þakklátur að hafa fengið að mótast sem prestur í Eyjum. „Þarna var maður tekinn á teppið og húðskammaður og svo fékk maður líka að vita þegar vel gekk. Ég áttaði mig á því að fólk er ekki heimskt. Íslenskur almenningur er viti borinn og þú platar ekki fólk. Fólk veit hvað að því snýr.“   ,,Komið með betri sögu, Þá skal ég hætta" Bjarni er með skilaboð til nýju andlegu yfirstéttarinnar. ,,Komið með betri sögur. Berið þið fram betri fyrirmynd en Jesús frá Nasaret og berið fram betri vettvang en gömlu kirkjuna. Mótið þið árangursríkari menningu eða árangursríkari aðferðir til þess að hugga fólk og styrkja. Þangað til það gerist ætla ég að halda áfram að segja Biblíusögur og tala um Jesú. Vegna þess að ég hef hingað til ekki séð neitt sem virkar betur, ekkert annað nafn sem vekur viðlíka von og kjark og Jesús Kristur.“ ,,Að rífa niður og hafa ekkert að bjóða annað enn niðurrifið og gildisleysið það finnst mér vera ábyrgðalaust og ámælisvert. Við lifum í menningu þar sem börn eru bombarderuð með grægði, yfirráða- og hernaðarhyggju. En þau mega ekki heyra söguna um góða hirðinn vegna þess að það er gildishlaðið! Fyrirgefið, gróðrahyggja, eru það ekki gildi? Yfirráða- og hernaðarhyggja, eru það ekki gildi?“   Eins og að vera heima með hassmola Bjarni heldur áfram að benda á breytt viðhorf: ,,Hættulegasta bókin, það er Nýja testamentið frá Gídeonmönnum. Það er bara eins og að vera heima með hassmola. Ég segi stundum að þessi kynslóð sem er svikinn um að fá Gídeontestamentið sitt, hún á eftir að berja allt að utan og spyrja: Hvar er testamentið sem við fengum ekki?“ Kirkjan sleppur ekki undan gagnrýni Bjarna. ,,Kirkjan þarf að taka gagnrýni, hún þarf að breytast í takt við líðandi stund. Hún þarf geta svarað sinni menningu og talað inn í hana. Það er alveg satt og það er margt sem hefur farið mjög úrskeiðis hjá íslensku þjóðkirkjunni. En við munum ekki leysa vandamál líðandi stundar með því að leggja frá okkur öll gildi og kasta á glæ menningararfi okkar. Við þurfum hins vegar í sífellu að leita nýrra leiða til að lifa gamlan sannleika með nýjum hætti.“ ,,Einmitt þegar hrunið gekk yfir og á þeim tíma þegar ýmsir innviðir samfélagsins voru að riðlast vegna fjárskorts og annara áfalla þá var á sama tíma verið að ráðast á og eyðileggja barna- og æskulýðsstarf kirkjunnar á höfuðborgarsvæðinu. Mér finnst þetta vera andlegur elítismi og hroki. Það er þetta sem ég kalla skort á félagslegu innsæi. Réttilega var margt að athuga með yfirstjórn kirkjunnar en það hafði aldrei borið skugga á æskulýðsstarf kirkjunnar. Þessu má líkja við að vilja leggja niður Landhelgisgæsluna vegna óánægju með ríkisstjórnina.“   Boraði sér inn í pólitík Þegar Bjarni byrjaði að starfa sem prestur í Reykjavík tók hann eftir því að staða fátækra var önnur þar en í Eyjum. ,,Í Eyjum er samstaðan undirliggjandi. Þar er einhvern vegin reiknað með fólki í samfélaginu. Ég varð svo oft vitni að því þegar einhver lenti í fátækragildru, eitthvað brást, fyrirvinna heimilisins féll frá, alvarlegir sjúkdómar eða önnur áföll, þá var fólk stutt úr ýmsum áttum. Ég veit ekki hversu oft ég fékk það hlutverk að fara með peninga eða matargjafir frá ónefndu fólki og fyrirtækjum til ónefnds fólks. Viðhorfið var; við horfum ekki upp á hvert annað svelta. Þannig gerum við ekki.“ ,,Fátæktin í Reykjavík hafði annað eðli, það varð ég var við sem sóknarprestur í Laugarneskirkju. Ég fór að átta mig á því að það þyrfti að horfa á málefni fátækra. Reyna að skilja hvernig stendur á því að fólk festist í fátækragildrum og að við unum því bara að hafa fólk lifandi í sárri fátækt á meðal okkar.“ Þessi uppgötvun leiddi Bjarna í pólitík hafandi í raun engan áhuga á henni. ,,Ég boraði mér inn í pólitík. Komst inn í Velferðarráð borgarinnar í framhaldi af hruninu fyrir hönd Samfykingarinnar, verandi ekki meiri Samfylkingarmaður en hvað annað. Ég fer bara þarna inn til þess að vinna með þessi málefni. Ég var þarna á þeim tíma sem verið var að tryggja öryggisnetið til að grípa þá sem verst stóðu og láta allt ekki bara fara norður og niður. Það var verið að tryggja hag þeirra sem verst stóðu og ég var að reyna að skilja þetta furðulega fyrirbæri sem er fátækt og sárafátækt í okkar ofsaríka þjóðfélagi.“   Með mörg járn í eldinum Það er nóg að gera hjá Bjarna Karlssyni sem sinnir prestverkum og rekur sálgæslustofuna Haf ásamt syni sínum. Skrifar Doktorsritgerð um fátækt og flóttamenn og ræktar líkama og sál með Trúarþreki í Worldclass. Trúarþrek er andleg og líkamleg þjálfun sem hann og Sigurbjörg Ágústsdóttir ættuð úr Eyjum komu á fót í saman. Þegar Bjarni á stund milli á stríða nýtur hann þessa að eiga samveru með fjölskyldunni.    

Kvikmyndin Víti í Vestmannaeyjum verður tekin upp í sumar

Víti í Vestmannaeyjum er fyrsta sagan í geysivinsælum bókaflokki Gunnars Helgasonar um Jón Jónsson og félaga hans í liðinu Þrótti sem mæta til Vestmannaeyja til að keppa um Eldfellsbikarinn á Shellmótinu. Um er að ræða skemmtilega og ekki síst spennandi frásögn sem gerist bæði innan sem utan vallar. Gunnar Helgason var önnum kafinn þegar blaðamaður sló á þráðinn til hans en eins og honum er von og vísa gaf hann sér tíma til að svara nokkrum spurningum að gefnu tilefni.  Nú er kynningarfundur á föstudaginn í Eyjum og allt að fara að bresta á. Hvernig leggst þetta í þig? „Veistu það, ég er bara í skýjunum, ég er ekki með sjálfum mér, þetta er svo langþráður draumur að rætast. Ég skrifaði bókina svo hún gæti orðið þáttaröð eða bíómynd þannig draumurinn er að rætast,“ segir Gunnar.  Nú hitti bókin í mark hjá ungu kynslóðinni, telur þú að kvikmyndin eigi eftir að njóta sömu vinsælda? „Ég held að hún verði miklu vinsælli. Ég hugsa t.d. að miklu fleiri hafa séð Harry Potter myndirnar en lesið bækurnar. Kvikmyndir eru líka bara svo sterkur miðill og ef myndin verður eins og við sjáum hana fyrir okkur þá eiga krakkar eftir að vilja að koma tvisvar eða þrisvar í bíó,“ segir Gunnar.  Ljóst er að mörg hlutverk verða í boði fyrir unga drengi og útilokar Gunnar ekki að allt liðið sem sagan snýst um verði skipað Vestmannaeyingum. Leikarastarfið er þó krefjandi og þurfa ungir sem aldnir að geta túlkað flóknar tilfinningar í hlutverkum sínum ef marka má orð Gunnars um karakterinn Ívar þegar talið barst að honum. „Blessaður drengurinn Ívar, svo mikið á hann lagt. Ívar þarf að vera sterkur andlega, geta verið viðkvæmur og hörkulegur og allt þar á milli. Svo eru við einnig að leita að öðrum strák, honum Palla og hann verður eiginlega að vera frá Eyjum, draumurinn er sá allavega. Hver veit, kannski við finnum bara allt liðið í Eyjum, það er aldrei að vita,“ segir Gunnar og nýtir tækifærið til að þakka Vestmannaeyingum. „Takk fyrir að taka alltaf svona vel á móti mér. Ég veit að það verður gaman í sumar, Vestmannaeyjar eru einstakur staður í heiminum og verið bara tilbúin fyrir tvöfalt fleiri túrista á næsta ári, hvort sem það er gott eða slæmt.“ >> Nánar er fjallað um kvikmyndina í tölublaði Eyjafrétta.  

Ísland með sinn 20% skatt á lögaðila getur talist lágskattasvæði

Á fróðleiksfundi sem KPMG hélt í Alþýðuhúsinu á föstudaginn var farið yfir breytingar sem orðið hafa á skattalögum síðastliðið ár og eldri breytingar sem tóku gildi í byrjun nýs árs. Einnig var farið yfir skattamál sem snúa að einstaklingum og þeim sem eru að leigja út hús eða íbúðir, bæði í skammtíma- og langtímaleigu. Þá var farið yfir mál sem verið hafa í brennidepli, Panama-skjöl, skattaskjól og aflandsfélög sem eru hugtök sem hafa mikið verið í umræðunni. Þá var rætt um skýrslu um aflandsfélög sem nýlega var birt. Var margt athyglisvert sem kom fram. Helgi Níelsson, forstöðumaður skrifstofu KPMG í Vestmannaeyjum stýrði fundinum. Byrjaði hann fundinn á að kynna nýja bókhaldslausn KPMG, Bókað.is. Guðrún Björg Bragadóttir sagði frá breytingum á skattalögum einstaklinga þar sem skattþrepin eru nú tvö í stað þriggja áður. Breytingum á útreikningi bifreiðahlunninda og frestun á skattlagningu við nýtingu kaupréttar. Vaxtabætur voru framlengdar um eitt ár með óbreyttum fjárhæðamörkum. Úttekt séreignarsparnaðar til greiðslu inn á höfuðstól lána til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota hefur verið framlengd til 30. júní 2019. Jafnframt var hámarksfjárhæð slíkrar skattfrjálsrar úttektar hækkuð. Hjá einstaklingi úr 1,5 milljónum í 2,25 milljónir og hjá samsköttuðu fólki úr 2,25 milljónum í 3,75 milljónir króna. Við ákvörðun bifreiðahlunninda skal nú miða við kaupverð bifreiðar og aldur.   Skammtíma- og langtímaleiga Sigrún Rósa Björnsdóttir fór yfir skattlagningu tekna vegna gistiþjónustu og útleigu íbúðarhúsnæðis. Hagnaður af skammtímaleiga íbúðarhúsnæðis til ferðamanna skattleggst sem atvinnurekstrartekjur í 36,94 eða 46,24% tekjuskatti en langtímaleiga skattleggst sem fjármagnstekjur í 10% skatti. Kynntar voru nýjar reglur um heimagistingu en heimagisting telst leiga á íbúðarhúsnæði í 90 daga eða skemur á ári og leigutekjur undir 2.000.000. Tölulegur samanburður á milli skammtíma- og langtímaleigu bendir til þess að langtímaleiga sé hagstæðari þegar tekið hefur verið tillit til allra þátta. Guðrún Björg fór yfir skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og fjallaði einnig um þær lagabreytingar sem gerðar hafa verið 2009 – 2016 til að sporna við eignarhaldi í aflandsfélögum. Fram kom í máli Guðrúnar Bjargar að svo virðist sem stofnun íslensku bankanna í Lúxemborg á aflandsfélögum fyrir viðskiptavini sína hafi verið talin einföld, ódýr og þægileg leið til að halda utan um eignasöfn þeirra. Margir viðskiptavinir íslensku bankanna í Lúxemborg virtust ekki gera sér grein fyrir að þeir væru eigendur félaga í aflandseyjum í Karabíska hafinu, héldu að þeir ættu einungis félög í Lúxemborg.   Allt opið Guðrún Björg sagði að í dag væri þetta allt opið, ekki einu sinni skjól í Sviss þar sem öll bankaleyndi væri í raun fyrir bí. Frá og með árinu 2017 munu skattyfirvöld tæplega 100 landa skiptast á upplýsingum um innstæður erlendra aðila á bankareikningum í viðkomandi landi. Ísland er eitt af þessum tæplega 100 löndum. Það er líka afstætt hvað er skattaskjól og sagði Guðrún Björg að Ísland með sinn 20% skatt á lögaðila geti talist lágskattasvæði í ýmsum löndum þar sem skattar eru hærri. „Niðurstaðan er að það er varla til neitt sem kalla má skattaskjól í dag, þetta er allt orðið opið,“ sagði Guðrún Björg. Að lokum var bent á það sem mögulega verður næsta áfall í skattamálum og skattasiðferði á Íslandi en það er óskráð leiga manna á íbúðum til ferðamanna. Leiddar voru líkur að því að opinberir aðilar verði af allt að 6 milljörðum króna vegna þess að tekjur af slíkri starfsemi eru ekki taldar fram hjá einstaklingum.  

Vestmannaeyjar í sjötta sæti en geta vel við unað

„Loks eru úrslitin í Allir lesa 2017 ljós og við þökkum fyrir frábæra þátttöku og skemmtilegan landsleik. Þátttakendur lásu í samtals 43.567 klukkustundir, eða sem samsvarar um fimm árum. Liðakeppnin var æsispennandi að vanda og hafa fjölbreytt lið víðsvegar að af landinu raðað sér í efstu sætin. Það sveitarfélag sem býr yfir kraftmestu lesendunum er Strandabyggð en Eyjamenn höfnuðu í 6. sæti með meðallestur upp á 31,1 klukkustund fyrir hvern þátttakenda. Það er frábær árangur, þó frægðarsól Vestmannaeyja hafi sigið svolítið síðan eyjamenn sigruðu fyrsta landsleikinn þegar horft var til búsetu,“ segir Bergrún Íris Sævarsdóttir sem stýrir verkefninu sem haldið var í þriðja sinn. Eyjamenn unnu í fyrsta skiptið en í fyrra var það Þorlákshöfn sem stóð uppi sem sigurvegari. Fjöldi vinnustaða keppti í landsleiknum og víða var bæði keppt í Allir lesa og Lífshlaupinu með því að fara út að ganga eða hlaupa með hljóðbók. „Starfsfólk á þessum vinnustöðum ætti því aldeilis að vera við góða andlega og líkamlega heilsu þessa dagana. Í flokki liða með þrjá til níu liðsmenn sigraði Stjórnsýsluhúsið í Búðardal. Starfsfólk Menntaskólans á Tröllaskaga bar sigur úr býtum í flokki liða með 10 til 29 liðsmenn og liðið STALST (Lyfjastofnun) sigraði í fjölmennasta flokknum, með 30 til 50 liðsmenn. Í opnum flokki kepptu önnur lið, til dæmis leshringir, saumaklúbbar, fjölskyldulið, skólalið og vinir. Liðið Við sigraði í flokki liða með þrjá til níu liðsmenn og var einnig heildarsigurvegari landsleiksins. Lestrarhestar í Hagaskóla sigruðu í flokki liða með 10-29 liðsmenn ogyngsta stig Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri sigraði í flokki liða með 30-50 liðsmenn,“ segir Bergrún.   Það er skemmtilegt að lesa! Allir lesa er landsleikur í lestri, með áherslu á orðið leikur. Tilgangurinn er fyrst og fremst að vekja athygli á því hversu skemmtilegt það er að lesa, hvort sem er einn eða með öðrum. „Allir lesa snýst þannig ekki um lestrarhraða eða fjölda blaðsíðna heldur er takmarkið fyrst og fremst að hvetja landsmenn til að verja tíma í yndislestur. „Með því að skrá inn að minnsta kosti 15 mínútur af lestri dag hvern vonumst við til þess að bóklestur komist inn í daglega rútínu og lesturinn verði að lífsstíl. Það er von okkar að með hvatningu og góðri lestrarbyrjun á árinu haldið þið, kæru lestrarhestar, áfram að njóta lestrar þrátt fyrir að landsleiknum sé lokið,“ segir Bergrún og þakkar fyrir skemmtilegan, fræðandi, gefandi og góðan landsleik fyrir hönd aðstandenda, Allir lesa.  

Pabbinn á leið með Herjólfi og ætlaði að taka á móti fjölskyldunni í Reykjavík

Það er ekki einfalt mál að ætla sér að eiga barn í Vestmannaeyjum. Því fengu Sindri Georgsson og Elín Sandra Þórisdóttir að kynnast þegar sonur þeirra kom heiminn á sunnudagsmorguninn síðasta. Í raun átti hann ekki að fæðast fyrr en 14. mars, næsta þriðjudag og miðuðust áætlanir fjölskyldunnar við það. Á sunnudagsmorguninn fór Sindri með fjölskyldubílinn í Þorlákshöfn og ætlaði að taka á móti verðandi móður og Söndru Dís, 16 mánaða dóttur þeirra á flugvellinum í Reykjavík. En margt fer öðru vísi en ætlað. Sonurinn bankaði að segja má upp á um leið og Sindri fór út dyrunum heima hjá sér fyrir klukkan átta á sunnudagsmorguninn. Elín Sandra fór að finna fyrir verkjum um átta leytið og hringdi strax í móður sína, Þórunni Sveinsdóttur sem dreif sig á staðinn og hringdi í ljósmóður. Sá stutti var ekki að hika og fæddist í sófanum heima í stofu þar sem amman og ljósmóðir tóku á móti honum. Þá var klukkan 8.42. Á meðan fylgdist litla systir með og leist ekki alveg á það sem var að gerast en forvitnin kviknaði þegar litli bróðir var kominn í heiminn. Allt gekk að óskum og móður og barni, sem er það fyrsta sem fæðist í Vestmannaeyjum á þessu ári, heilsast vel. Blaðmaður heimsótti fjölskylduna á Sjúkrahúsið síðdegis á mánudaginn þar sem sá stutti svaf eins og börn eiga að gera á meðan stóra systir skottaðist um allt. Ömmurnar, Þórunn og Guðný Björgvinsdóttir og Georg Skæringsson afi voru í heimsókn. „Þegar ég fór í Herjólf klukkan hálf átta ætlaði ég að taka á móti Elínu Söndru og Söndru Dís á flugvellinum í Reykjavík í hádeginu,“ segir Sindri. „Skipið er lagt af stað þegar skipstjóri og þerna banka upp á hjá mér og það fyrsta sem mér datt í hug var að Elín Sandra væri komin af stað og á leið til Reykjavíkur með sjúkraflugi. En þau voru komin til að tilkynna mér að það væri kominn lítill strákur. Þetta gerðist rétt um klukkutíma eftir að ég fór að heiman frá mér,“ segir Sindri og heldur áfram. „Þetta var ekki það sem ég átti von á en fékk að vita að fæðingin hefði gengið eins og í sögu og báðum heilsaðist vel. Ljósmóðirin rétt náði að mæta áður en drengurinn fæddist í stofunni heima.“ Sindri segir að Elín Sandra hafi fundið fyrir verkjum rétt upp úr klukkan átta og strax hringt í mömmu sína og þarna var sonurinn mættur og hann á leiðinni til Þorlákshafnar. „Þau buðu mér strax að koma með til Vestmannaeyja. Ég hringdi í Ernu systir sem fannst ómögulegt að ég færi til baka með Herjólfi og vildi finna aðrar leiðir. Kannaði með flug á Bakka en niðurstaðan varð að pabbi og Hallgrímur Njálsson sæktu mig á tuðru í Landeyjahöfn. Kom Erna með Hlyn bróður okkar og Emelía Rós dóttir hennar að sækja mig og skutla mér í Landeyjahöfn. Það var svo úr að þau komu öll með til Eyja til að heilsa upp á nýja frændann og Eyjapeyjann,“ segir Sindri. Sjálfur lýsir hann þessu skemmtilega á FB-síðu sinni. „Eftir að ég fékk fréttirnar var eins og einhver hafi stoppað klukkuna. Hún bara gekk ekki neitt. Ofan á það þá var símasambandið ekki uppá marga fiska þannig ég náði ekki í neinn fyrr um tíu leytið. Fékk þær fréttir að öllum heilsaðist vel og að allt hafi gengið vel.“ Og í lokin segir hann: „Þessi tími frá því að ég fékk fréttirnar og þangað til að ég hitti peyjann var eins og heil eilíf að líða en alveg ótrúlega gott að hitta hann og erum við Elín Sandra og Sandra Dís alveg í skýjunum með litla molann okkar. En það sem maður sá vel í dag að það er gott að eiga góða að. Þetta var algjört ævintýri." Sjálf sagðist Elín Sandra aldrei hafa orðið hrædd því mamman var fljót á staðinn og Drífa ljósmóðir mætt áður en fæðingin fór af stað. Þau eru búin að ákveða nafn á drenginn en það fékk ekki gefið upp.    

Hinsegin fræðsla á vegum Samtakanna 78 á mánudaginn

Framundan í Safnahúsinu verður samvinnuverkefni með Grunnskólanum og frístundaverinu um mikilvægi fjölbreytileikans í samfélaginu. Af því tilefni verður sett upp farandsýningin ,,Ég fæ ekki af mér að flýja af hólmi“ frá Þjóðminjasafninu sem segir frá réttindabaráttu hinsegin fólks hér á landi. Mánudaginn 13. mars kemur síðan fólk frá Samtökunum 78 sem mun fara í skólann og frístundaverið og vera með fræðslu fyrir nemendur. Einnig verður súpufundur og erindi sama dag í Sagnheimum og að því loknu verður farandsýningin síðan formlega opnuð í Einarsstofu. Blaðamaður hafið samband við Sólveigu Rós, fræðslufulltrúa Samtakanna 78, og ræddi nánar við hana um fræðsluna og stöðu hinsegin fólks á Íslandi.     Þið verðið í Vestmannaeyjum núna á mánudaginn með fræðslu. Hvað getur þú sagt mér um hana?   Við verðum með fræðslu bæði í unglingadeild grunnskólans og svo verðum við í félagsmiðstöðinni eftir hádegi. Þar að auki mun ég halda erindi í Safnahúsinu í hádeginu og þangað eru öll velkomin. Jafningjafræðsla Samtakanna ‘78 hefur verið til í áratugi. Í dag erum við með hóp af þjálfuðum sjálfboðaliðum sem að fara í grunnskóla, framhaldsskóla og félagsmiðstöðvar og tala um mismunandi kynhneigðir, kynvitundir og kyneinkenni, ásamt því að tala um mikilvægi þess að láta fordóma og staðalímyndir ekki hamla okkur.   Hafið þið farið víða með þessa fræðslu?   Við erum með samning við bæði Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbæ og þar förum við í langflesta grunnskóla með þessa fræðslu. Þar fyrir utan erum við pöntuð nánast hvert á land sem er - á síðastliðnu ári fórum við t.d. á Sauðárkrók, Ísafjörð, Suðureyri og Þingeyri, Reykjanesbæ og Fljótsdalshérað. Einnig sé ég sem fræðslustýra um að fara með námskeið til kennara, heilbrigðisstarfsfólks og annarra hópa sem vilja fræðast um málefnin. Svo erum við með fræðslu sem er sérsniðin fyrir þjálfara og forsvarsfólk íþróttafélaga sem er meðal annars kennd í þjálfaranámi ÍSÍ og KSÍ.   Hafa nemendur verið áhugasamir?   Flestir nemendur eru mjög áhugasamir og í langflestum fræðslum myndast mjög skemmtilegar og líflegar umræður um fjölbreytileika kynhneigðar, kynvitundar og kyneinkenna, og um þær væntingar sem samfélagið ber til okkar allra á grundvelli kyns okkar.   Hvernig finnst þér staða hinsegin fólks á Íslandi vera í dag?   Í heildina er staða hinsegin fólks á Íslandi ágæt og betri en á mörgum öðrum stöðum. Það er þó samt mismunandi eftir því hvaða hóp er verið um að ræða. Lagalegu jafnrétti samkynja para á við önnur hefur að miklu leyti verið náð en trans fólk glímir enn við sjúkdómsvæðingu og intersex fólk er hvergi til í löggjöf né eru réttindi þeirra til líkamlegrar friðhelgi virt. Í viðbót við það vantar á Íslandi heildstæða jafnréttislöggjöf. Við erum því í u.þ.b. 14. sæti samkvæmt Regnbogakorti ILGA-Europe sem mælir lagalega stöðu hinsegin fólks í Evrópu. Ef við skoðum félagslegu hliðina þá getur verið erfitt að koma út úr skápnum eða gera sér grein fyrir eigin hinseginleika og því miður glímir ungt hinsegin fólk við mun hærri tíðni af þunglyndi, kvíða og sjálfskaða heldur en aðrir jafnaldrar þeirra. Það er því mikil barátta eftir en þetta horfir þó allt í rétta átt og við erum þakklát fyrir öll tækifæri til að auka á umræðuna, eins og með þessari heimsókn til Vestmannaeyja.    

Eru viðskiptavinum sínum afar þakklát

Eins og fram hefur komið í Eyjafréttum var Köfun og öryggi ehf. meðal þeirra 11 fyrirtækja frá Vestmannaeyjum sem þóttu framúrskarandi á árinu 2016 að mati Creditinfo. Yfir landið voru það í heildina 628 fyrirtæki af rúmlega 35.000 fyrirtækjum sem skráð eru í hlutafélagaskrá sem stóðust styrkleikamat Creditinfo sem nánar er útlistar á vefsíðu þeirra. Umrætt fyrirtæki var stofnað í miðju Keikó ævintýrinu árið 1998 af þeim Smára Harðarsyni og eiginkonu hans, Sigurlínu Guðjónsdóttur. Á sínum tíma sá fyrirtækið um viðhald og alla köfun tengdri kvínni í Klettsvík. Síðar meir stofnuðu Smári og Sigurlína öryggisgæslu í kringum hvalinn og þannig varð nafnið Köfun og öryggi til. Í dag er starfsemi fyrirtækisins af allt öðrum toga en árið 2004 festi fyrirtækið kaup í Efnalauginni Straumi þar sem dagarnir snúast meira um að annast þarfir fólks en ekki hvals.   Köfun og öryggi upphafið Blaðamaður fór og hitti hjónin í húsakynnum Straums á flötum 22 og fékk að vita meira um sögu fyrirtækisins. „Það er í raun Köfun og öryggi sem kaupir Efnalaugina Straum í október 2004 og síðan þá höfum við verið hér og er þrettánda árið okkar í gangi núna,“ segir Smári aðspurður um upphafið og bætir við að hann sé afar stoltur af því að fyrirtækið þyki framúrskarandi að mati Creditinfo. „Þetta er skemmtileg viðurkenning og hugsa ég að við séum með minni fyrirtækjunum á listanum ef ekki það minnsta. Ég segi það alltaf að stærð fyrirtækis eða velta skiptir ekki öllu máli, heldur hvað verður eftir og þess vegna erum við náttúrulega sjálf að vinna í þessu ,“ segir Smári.   Samgöngur hafa áhrif Ekki segja þau mikla hreyfingu á kúnnahópi sínum en allt veltur það á bættum samgöngum. „Það er svo lítill markhópur hérna í Vestmannaeyjum, ef Landeyjahöfn væri stöðugri þá væri hægt að leita upp á land,“ segir Sigurlína og skýtur Smári því að að það hefði alltaf verið draumurinn. „Landeyjahöfn átti að virka í einhver 90% tilvika sem myndi gera allt suðurlandið að einu atvinnusvæði en eins og staðan er núna þá þorir maður ekki út í þetta, það þýðir ekkert en vonandi fara samgöngur að lagast.“ Það er því ljóst að Smári og Sigurlína binda miklar vonir við nýtt skip og úrbætur á höfninni í Landeyjum líkt og aðrir atvinnurekendur í Eyjum. „Ef nýja skipið gengur vel þá er það mjög spennandi en eins og er þá er reksturinn mjög jafn. Það hafa aðilar upp á landi leitað til okkar en við höfum ekki getað sinnt þeirri eftirspurn vegna samgangna, við getum ekki lofað neinu. Við erum með tæki og tól til að gera meira, ég hugsaði það alveg frá byrjun. Við gætum alveg bætt við starfsfólki og verið að vinna allan daginn tækjalega séð,“ segir Smári.   Fjölbreyttur kúnnahópur Hingað til hefur Straumur verið með stöðugan hóp viðskiptavina í Vestmannaeyjum sem gerir fyrirtækinu kleyft að vaxa og dafna. „Við erum með okkar fastakúnna hér í Eyjum, stofnanir og fyrirtæki á borð við Vinnslustöðina, Ísfélagið, elliheimilið, spítalann, Herjólf, Skipalyftuna, ýmis veitingahús , Hótel Hamar, gistheimilið Heimir og Eyjakot, svo eitthvað sé nefnt. Svo eru það náttúrulega Vestmannaeyingarnir sem koma með föt í hreinsun, það getur t.d. verið einkaþvottur, jakkaföt, kápur og skyrtur og svo tökum við að okkur líka að pressa rúmfatnað af heimilum, við tökum í rauninni við öllu nema rúskinni og leðri. Við værum náttúrulega ekki hérna nema fólkið kæmi til okkar og erum við þeim gríðarlega þakklát,“ segja Smári og Sigurlína sem eru ekki síður þakklát starfsfólki sínu en í heildina eru þau fjögur til fimm sem eru að vinna í Straumi að staðaldri en ásamt þeim Smára og Sigurlínu eru þær Ingunn Lísa Jóhannesdóttir og Salóme Ýr Rúnarsdóttir en sú fyrrnefnda hefur unnið í Straumi meira og minna síðan árið 1983.   Verkfallið hafði áhrif Aðspurð hvort sjómannaverkfallið hafi haft áhrif á reksturinn svara þau játandi en allt að þriðjungur af veltu fyrirtækisins fór á meðan því stóð. Reksturinn var þó aldrei hætt kominn enda kúnnarnir fjölmargir eins og getið hefur verið. „Upphaflega hugmyndin var sú að við tvö myndum alltaf hafa vinnu. Á þeim tímapunkti sem kvíin fór þá vantaði okkur náttúrulega vinnu þannig við ákváðum að veðja á þetta. Það var alltaf pottþétt að við tvö myndum hafa vinnu, svo erum við bara svo heppin að geta verið með tvær til þrjár manneskjur aukalega,“ segir Sigurlína.   Starfsfólk og kúnnar í miklum metum Ljóst er að starfsfólk Straums og kúnnar eru í miklum metum hjá þeim hjónum og ekki síður bókhaldari þeirra. Einnig hafa þau lagt mikla vinnu í húsnæðið, bæði utan og innan sem og endurnýjað tækjabúnað sinn. „Atli Aðalsteinsson hefur hjálpað okkur með bókhaldið og kennt okkur gríðarlega mikið. Við viljum endilega þakka honum fyrir allt saman,“ segir Sigurlína og tekur Smári í sama streng. „Svo er maður bara alltaf að læra nýja hluti og eftir því sem að maður kann meira því auðveldara verður þetta. Við erum búin að taka húsið algjörlega í gegn að utan, slípa upp og pússa. Það eru nýir gluggar og þak og við erum búin að skipta um allar vélar. Við erum búin að taka afgreiðsluna í gegn og núna síðast kaffistofuna. Við erum búin að leggja mikla vinnu í að gera þetta flott enda er það okkar metnaður,“ segir Smári.   Stukku í djúpu laugina Fólk hugsar kannski með sér að þau Smári og Sigurlína hafi einhverja tengingu í þvottahúsabransann þar sem þau festu kaup í efnalaug en svo er ekki. „Það voru nú ekki mörg fyrirtæki til sölu á þessum tíma. Fyrri eigandi kynnti okkur fyrir starfsemi Straums og við stukkum út í djúpu laugina sem þvottahúsakerling og þvottahúsakarl segja þau hjónin og skella uppúr en samkvæmt Smára var fyrsti morguninn í nýja starfinu hjá þeim hjónum afar athyglisverður. „Fyrsta morguninn lá við að við vissum ekkert hvað við áttum að gera og voru fyrstu árin á eftir afar lærdómsrík, aðal málið er að hafa áhuga og metnað og þá kemur þetta. Auðvitað getur maður orðið leiður á þessu eins og öllu öðru en þegar maður er búinn að klára t.d. húsið að utan og kaffistofuna, fá viðurkenningu frá Creditinfo, þá fær maður aukinn áhuga, það virkar sem vítamínsprauta.“   Staðfesting á góðri vinnu Hvað gerði gæfumuninn þetta árið til að skila fyrirtækinu á lista Creditinfo vita Smári og Sigurlína ekki með vissu enda höfðu þau ekki hugmynd um tilvist listans fyrr en þau sjálf fóru á hann. „Ég held það sé vegna þess að við höfum verið að borga niður skuldir og myndað eigineign og þess vegna höfum við náð þessu marki. Með því að eiga mikla eigineign fær maður betri lánskjör og held ég að það sé eina breytingin hjá okkur. Við höfum oft verið að velta því fyrir okkur hvernig staða fyrirtækisins okkar sé og þarna fengum við staðfestingu á því að vinnan okkar er að borga sig og að við séum að að gera hlutina vel og rétt,“ segir Smári. Það kom þeim Smára og Sigurlínu eilítið í opna skjöldu þegar blaðamaður benti þeim á að um 35.000 fyrirtæki væru skráð í hlutafélagaskrá og að fyrirtæki þeirra væri eitt af þeim 628 sem stóðust prófið hjá Creditinfo. „Vá, það er frábært, við höfðum ekki hugmynd um það.“   Horfa upp á fastalandið Núna í nánustu framtíð stefna þau Smári og Sigurlína á enn frekari framkvæmdir á húsinu, borga skuldir og bíða og sjá hvert samgöngurnar stefna. „Við viljum klára húsið alveg og klára að borga niður skuldir og svo er bara spennandi að sjá hvert samgöngurnar fara. Maður horfir náttúrulega alltaf á Suðurlandið, það er gríðarlegur uppgangur í gistiheimilum, hótelum og túrisma almennt,“ segir Smári og bætir Sigurlína við að þetta sé þó einungis framtíðarsýn. „Það væri voða gaman að geta farið að morgni og sótt þvott og skilað honum morguninn eftir en við erum ekkert farin að pæla neitt of mikið í því þar sem það er ekki hægt að reiða sig á samgöngurnar.“ Lykillinn að velgengi hefur alltaf snúist um hversu mikið maður er tilbúinn að leggja á sjálfan sig og er þar fyrirtækjarekstur enginn undantekning. „Við reynum að gera rosalega mikið sjálf, það er erfiðara en í því felst smá kauphækkun, maður sparar launakostnað. Það fækkaði starfsfólki þegar við tókum við og ég tók meiri vinnu á mig,“ segir Smári. „Svo er líka bara að vera vakandi yfir tryggingamálum og öllum kostnaði á aðföngum og er Smári ofboðslega duglegur við að pota í og fá betri samninga hér og þar, þetta safnast allt saman. Smári er bara vakandi og sofandi yfir þessu, frá a til ö,“ bendir Sigurlína á.   Fjölskylduvænn vinnustaður Vinnustaðnum lýsa þau sem afar fjölskylduvænum og hlýjum þar sem almenn ánægja ríkir meðal starfsmanna. „Börnin okkar og starfsfólksins geta komið hérna og verið eins og þau vilja, fengið sér að borða og lært heima, þetta er allt mjög heimilislegt. Stelpurnar sem eru að vinna hjá okkur núna eru ótrúlega duglegar og frábærar og bara allt starfsfólk sem við höfum verið með í gegnum tíðina, við höfum verið rosalega heppin með það og getum ekki kvartað yfir einum einasta þeirra. Það er líka gaman að geta sagt það að við höldum að þeim líði líka öllum vel hérna,“ segja Smári og Sigurlína sem að lokum vilja enn og aftur koma þakklæti sínu til skila. „Við viljum fá að þakka öllum þeim viðskiptavinum sem koma til okkar kærlega fyrir og án ykkar þá væri engin Straumur það er nokkuð ljóst. Með þvottakveðju Smári Kristinn og Sigurlína.“  

Oddgeir hljómaði vel með þeim Dvorák, Tsjajkovskíj og Beethoven

 Tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Vestmannaeyjum í síðustu viku voru endapunkturinn í tónleikaröðinni Landshorna á milli. Áður hafði sveitin spilað á Ísafirði, Akureyri og á Egilsstöðum og alls staðar verið vel tekið. Hér var vertíð á fullu og eftirvænting um mætingu var nokkur en Eyjamenn sýna að þeir kunna að meta góða gesti og fjölmenntu í Íþróttamiðstöðina. Ekki var verið að flækja hlutina, hljómsveitin sat á stólum á gólfi íþróttasalarins og um 300 gestir létu sér nægja pallana og var aðsóknin eins og á góðan handboltaleik. Ekki ætla ég að tuða út í tæknivæðingu síðustu ára og áratuga og allar þær gáttir sem opnast hafa fólki á alnetinu. En einn kost hafði það að alast upp við aðeins eina útvarpsstöð, Ríkisútvarpið þó að maður sæti uppi með tónlist af öllu tagi hvort sem manni líkaði betur eða ver. Ekki var það vinsælt hjá ungmennum þessarar þjóðar að þurfa að hlusta á sinfóníugargið, djassinn og að maður tali nú ekki um íslenska tónlist sem var það allra hallærislegasta. En einhvern veginn síaðist þetta inn og með árunum þekkti maður mörg verk gömlu snillinganna og líkaði bara ágætlega. Það fann maður strax í Slavenskum dansi Antonín Dvoráks sem var fyrsta verkið á efnisskrá sveitarinnar sem Bjarni Frímann Bjarnason, stjórnaði af röggsemi. Þarna var komið eitt af verkunum sem skilaði sér í gegnum lampatækin gömlu og góðu. Næst tók við syrpa, já hver man ekki syrpunum gömlu góðu í útvarpinu. Nú var það syrpa með lögum eftir Oddgeir Kristjánsson í bráðskemmtilegri útsetningu Magnúsar Ingimarssonar frá árinu 1970. Það var stórsveitarbragur á flutningnum sem gerði þetta enn skemmtilegra og viðtökur Eyjamanna létu ekki á sér standa. Fögnuðu sínum manni og frábærum flutningi með dynjandi lófaklappi og húrrahrópum. Sigrún Eðvaldsdóttir er ekki kona einhöm. Það sýndi hún í Fiðlukonsert Pjotr Tsjajkovskíjs þar sem fiðlan skal tekin til kostanna til að ná fram öllum þeim rússneska tilfinningabunka sem Tsjajkovskíj hefur sett í þennan fiðlukonsert sinn. Aldeilis frábært hjá bæði einleikara og hljómsveit og aftur hvað við mikið lófaklapp og húrrahróp. Eftir hlé var það sjálfur Ludwig van Beethoven sem var viðfangsefnið, fjórða sinfónían sem er meðal hans þekktustu verka. Nú ætla ég ekki að gefa mig út sem einhvern sérfræðing í Beethoven eða tónlist yfirleitt en tilfinning var góð og leikur sveitarinnar frábær. Og enn og aftur var mikið klappað og lengi og krafa um uppklappslag. Það var svo sannarlega til, Sprengisandur Kaldalóns í fjörugri og skemmtilegri útsetningu þar sem tónlistarfólkið brá á leik. Elliði Vignisson, bæjarstjóri talaði örugglega fyrir munn flestra sem þarna voru mættir þegar hann þakkaði hljómsveitinni heimsóknina og flutninginn og færði Kristínu Örnu Einarsdóttur ljósmynd sem þakklætisvott frá Eyjamönnum. Já, enn og aftur sannaðist að Vestmannaeyingar kunna að meta góðar heimsóknir og sýna þakklætið í verki. Stóri salur Íþróttamiðstöðvarinnar eru ekki hannaður til tónleikahalds og örugglega hljómar sveitin betur í Hörpunni en það verður ekki alltaf á allt kosið.  

Matgæðingur vikunnar - Svarbaunaborgari og súkkulaði múffur

Takk fyrir áskorunina Kristinn minn. Ég ætla að hafa smá svartbauna þema í mínum réttum, ótrúlegt hvað svartar baunir geta gert mikið! Ég hef verið vegan síðan í byrjun ársins 2017 en grænmetisæta í rúmt ár. Hér kemur svartbauna-borgari og svartbauna-súkkulaði múffur sem eru í miklu uppáhaldi hjá mér.   Svartbauna-borgari (2-3 borgarar) 1 dós svartar baunir (240 gr svartar baunir) ½ dl grófmalað haframjöl (gott að láta í blandara þar til haframjölin verður kornótt en ekki duft.) ½ tsk laukduft ½ tsk hvítlauksduft 2 msk tómatsósa 1 msk dion sinnep   Aðferð: 1. Skolið svartbaunirnar í sigti og blandið vel saman við haframjölið, tómatsósuna, sinnepið og kryddið. Notið gaffal eða matreiðsluvél. Baunirnar eiga að vera flestar brotnar en ekki allar. Smakkið til og kryddið meira ef þarf. 2. Búið til 2-3 kúlur og setjið á bökunarpappír í ofnskúffu. Pressið kúlurnar niður í borgara með fingrunum. 3. Bakið í miðjum ofni á 200 gráðum í 7 mínútur á hvorri hlið. Notið þunnan spaða til að snúa þeim varlega. 4. Raðið saman borgaranum.   Kokteilsósa Vegan majónes (ég nota frá “Follow your heart) Hunts tómatsósa 50/50 Blandað saman og þú ert komin með sósu   Ég nota hamborgarabrauð frá myllunni og læt violife ost(original), sóma-hummus, tómata, gúrkur, lambhaga salat, rauðlauk og kokteilsósuna á borgaran minn en það er hægt að láta hvaða sósu og grænmeti sem hentar hverjum og einum á sinn borgara.   Svartbauna-súkkulaði múffur 1 ½ bolli soðnar svartar baunir. Ég keypti lífrænar baunir í fernu, helti þeim í sigti og skolaði vel undir köldu vatni áður en ég maukaði þær ½ bolli glúteinlaust haframjöl. (Ef þið þolið glútein virkar venjulegt haframjöl að sjálfsögðu líka) ½ bolli hveiti (hægt að nota hvaða hveiti sem er) 1 tsk matarsódi ¼ tsk salt ½ bolli kakóduft 4 msk olía. (Ég notaði kókosolíu) 1 tsk eplaedik ½ bolli vatn ½ bolli agave- eða hlynsíróp 1 bolli brytjað suðusúkkulaði   Það er auðveldast að nota matvinnsluvél eða góðan blandara til að gera deigið en það er ekki nauðsynlegt. Ég notaði töfrasprota og það virkaði mjög vel. Eina sem þarf að passa er að mauka allar baunirnar vel því maður vill helst ekki bíta í heila baun.   Aðferð: 1. Byrjið á því að hita ofninn á 175°c með blæstri. 2. Hellið haframjölinu í skál og malið það niður með töfrasprotanum þar til áferðin verður svipuð hveiti. Leggið það svo til hliðar. 3. Sigtið baunirnar og skolið vel með köldu vatni. Hellið þeim í stóra skál, maukið þær vel og passið að engin baun sé heil. 4. Hellið vatni, sírópi, eplaediki og olíu saman við og maukið vel saman. 5. Bætið haframjölinu, hveitinu, kakóinu, saltinu og matarsódanum saman við og maukið þar til engir kekkir eru. 6. Hellið helmingnum af súkkulaðinu útí og blandið saman við deigið með sleif. 7. Pennslið muffins ofnskúffuform með olíu. Formið sem ég nota gerir 12 kökur og deigið passar nákvæmlega í það. Annars er líka hægt að láta í muffins form. 8. Stráið hinum helmingnum af súkkulaðinu yfir kökunar. Það er hægt að leika sér aðeins þarna og setja á kökurnar hnetur, þurrkaða ávexti, kókosmjöl eða bara það sem manni dettur í hug. 9. Bakið kökurnar í 20-30 mínútur. Það er stundum mismunandi eftir ofnum hversu langan tíma tekur að baka kökurnar en mínar tóku sirka 23 mínútur. Leyfið kökunum að kólna í 10 mínútur áður en þið takið þær úr muffins forminu.   Gott að bera fram múffurnar með rjóma (ég nota soja rjóma frá soyatoo)   Ég vona að sem flestir muni prófa og finnast þetta eins gómsætt og mér finnst. Ég ætla hins vegar að skora á hann Óskar Ólafsson bróðir mömmu að spreyta sig í eldamennskunni.  

Sigurfinnur Sigurfinnsson er Eyjamaður vikunnar: Gamla rokkið og ítalskar aríur

Sigurfinnur Sigurfinnsson, listamaður og fyrrum teiknikennari, málaði myndir sem nú prýða Sundhöllina. Allar tengjast myndirnar vatni eða sjó og þar má sjá skepnur og dýr, bæði raunveruleg og minna raunveruleg. Það er mikil litagleði í myndum Sigurfinns og líf og fjör og eiga þær eftir að gera ferð í sundlaugina í Vestmannaeyjum ánægjulegri. Sigurfinnur er Eyjamaður vikunnar.   Nafn: Sigurfinnur Sigurfinnsson Fæðingardagur: 18 júní 1944. Fæðingarstaður: Vestmannaeyjar. Fjölskylda: Giftur í 52 ár Þorbjörgu Júlíusdóttur, börnin eru 3, Gunnar Már, Nanna Dröfn og Sigurfinnur Viðar. Barnabörnin eru orðin 9 og eitt lang afa barn. Draumabíllinn: Sá sem ég á hverju sinni. Uppáhaldsmatur: Nautið heillar alltaf Versti matur: Hef einu sinni reynt við sigin fisk. Geri það ekki aftur. Uppáhalds vefsíða: Heimaklettur. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Gömlu rokklögin frá árunum ´63-´65 ásamt Ítölskum aríum. Aðaláhugamál: Við hjónin höfum gaman af að ferðast. Sér í lagi með vinum okkar. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Michelagelo. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Vestur hluti Heimaeyjar. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: IBV og Grétar Þór Eyþórsson. Ertu hjátrúarfull/ur: Nei. Stundar þú einhverja hreyfingu: Labba. Uppáhaldssjónvarpsefni: Fréttatengt efni. Hvenær byrjaðir þú að teikna og mála: Sem krakki en í alvöru frá 10 ára aldri. Ertu enn að: Já. Hvað hefurðu haldið margar sýningar: 12. Hvenær megum við eiga von á næstu sýningu: Eftir rúm 2 ár.  

Þýðir ekkert að hugsa um það heldur einbeita okkur að okkar spilamennsku

ÍBV og Valur mættust um helgina í Olís-deild kvenna þar sem lokatölur voru 24:20 Eyjakonum í vil. Mikið var undir í leiknum þar sem bæði lið eru í baráttunni um að komast í úrslitakeppnina. Eftir umferðina er ÍBV í fjórða sæti, með einu stigi meira en Valur. Markahæst í liði ÍBV í dag var Ester Óskarsdóttir en hún skoraði átta mörk. Næst á eftir kom Sandra Erlingsdóttir með sex mörk, þar af fjögur úr vítum. Erla Rós Sigmarsdóttir, markvörður ÍBV, átti einnig góðan leik og varði 16 skot. Blaðamaður hafði samband við Söndru Erlingsdóttur eftir leik og spurði hana út í leikinn.   Leikurinn var jafn allt að 43. mínútu en þá tekur við sjö mínútna kafla þar sem þið skorið sex mörk gegn einu marki frá þeim og gerið út um leikinn. Hvað gerist nákvæmlega þarna? „Við spiluðum hrikalega góða vörn frá fyrstu mínútu og vorum hrikalega fastar fyrir. Sóknarlega í fyrrihálfleik vorum við að fara með slatta af dauðafærum og vorum að taka óþarfa margar óskynsamlegar ákvarðanir. Í seinnihálfleik fórum við að finna lausnir og urðum skynsamari en ætli það hafi ekki verið varnaleikur okkar og markvarslan sem gerði út um leikinn. Á þessum kafla gjörsamlega lokuðum við vörninni og refsuðum þeim strax annað hvort með hraðaupphlaupi eða í uppstilltum sóknarleik,“ segir Sandra. Nú eru fjórir leikir eftir og þrír af þeim gegn þremur efstu liðinum. Hvernig líst þér á þetta prógramm? „Allir þessir fjórir leikir eru hrikalega mikilvægir og verðum við að hugsa um þá sem algjöra úrslitaleiki. Við eigum kannski ekki auðveldustu liðin eftir en það þýðir ekkert að hugsa um það við verðum bara að hugsa um okkur og okkar spilamennsku. Við vorum klárlega að spila okkar besta leik varnalega séð á móti Val og meðan við spilum svona vörn áfram þá hef ég ekki trú á að neitt lið geti unnið okkur,“ segir Sandra.  

Úrbætur í sjúkrahússþjónustu í Eyjum

Í fyrirspurn til heilbrigðisráðherra lagði ég fram nokkrar spurningar, einkum um heildarkostnað við sjúkraflug og þá sérlega um kostnaðinn í Vestmannaeyjum og m.a. um fæðingarþjónustuna þar. Fram kemur í skriflegu svari að yfir 390 milljónum króna er varið til alls sjúkraflugs Mýflugs (um 600 ferðir) á landinu árið 2016. Þar af kostuðu um 130 sjúkraflug til og frá Vestmannaeyjum fáeina tugi milljóna. Meðalkostnaður við hvert sjúkraflug í landinu er um 580 þúsund krónur. Kostnaðartölur ber að vega inn í umræður um fjármál, öryggi og ákvarðanir um hvers konar þjónusta er vistuð á heilbrigðisstofnunum utan Landspítala og sjúkrahússins á Akureyri.   Óþarfa byrðar Milli 40 og 50 fæðingar verða á ári meðal kvenna heimilisfastra í Eyjum og langflestar fara fram uppi á landi. Flestar voru þær á Landsspítala eða 24 en 14 á Akranesi 2016 og tvær þörfnuðust skyndilegs sjúkraflugs. Barnshafandi konur og oft heilu fjölskyldurnar flytjast upp á land í lengri eða skemmri tíma vegna barneigna. Hluti kostnaðarins fellur á Sjúkratryggingar Íslands en jafnan minnihluti hans og verða margar fjölskyldur, eða hjón og sambýlisfólk, fyrir verulegum kostnaði vegna tíðra ferða til lands, t.d. til meðgönguskoðana, og uppihalds vegna fæinga, jafnvel vikum saman fjarri heimilum sínum. Stundum þarf þyrlu Landhelgisgæslunnar í sjúkraflug í Vestmannaeyjum (9 sinnum árið 2016) og hækkar þá þjónustukostnaðurinn verulega eða upp í rúma 1,1 milljón króna hvert flug. Árið 2016 þurfti engin barnshafandi kona í Eyjum á þeirri þjónustu að halda. Ekki þarf að fjölyrða frekar um fyrirkomulag fæðingarþjónustunnar í þessu blaði og heldur ekki um erfiðar samgöngur úr Eyjum oft á tíðum. Enn fremur er augljóst að foreldrar vilja hafa val um sem öruggasta þjónustu úr því hana er ekki að finna heima fyrir. Aðeins 3 fæðingar eru skráðar í Eyjum 2016.   Sanngjörn krafa? Kostnaður við að manna sjúkrahúsið í Eyjum með sérfræðingum er hár. Krafa Eyjamanna er engu að síður sú að ásættanleg skurðlækna- og fæðingarþjónustua sé fyrir hendi á heimaslóð. Er það ekki sanngjörn krafa? Þar með væru búsetuskilyrði mun betri en nú í fjölmennri eyjabyggð og hvers kyns viðbragðsöryggi á mörgum sviðum meira. Til þess að halda uppi sérhæfðri skurðþjónustu væri ef til vill unnt nýta hana til sérhæfðra verkefna meðal sjúklinga sem koma til Eyja, t.d. af Suðurlandi, jafnt sem íbúanna í Eyjum. Allar ákvarðanir um umbætur í sjúkrahúsþjónustu, allt frá Suðurnesjum til Hafnar hljóta að krefjast nýs heildarskipulags á landsvísu og ákveðinna ívilnana og tímabilstilboða til lækna og hjúkrunarfólks, líkt og tíðkast í hérðuðum utan þéttbýlustu svæða í Skandinavíu. Hvað sem líður ólíkum skoðunum á málefnum sjúskrahússins í Eyjum verður að leiða til lykta umræður og ákvarðanir um þjónustustig þar, hvort sem varðar fæðingarþjónustu eða aðra sérhæfða þjónustu.  

Floating Harmonies eftir Júníus Meyvant poppplata ársins

 Íslensku tónlistarverðlaunin voru afhent í Hörpu á fimmtudaginn en þar voru veitt á þriðja tug verðlauna fyrir það sem þótti skara fram úr í íslenskri tónlistarsenu á árinu 2016 en þar fór mest fyrir rapparanum Emmsjé Gauta sem hlaut hvorki meira né minna en fimm viðurkenningar. Platan Floating Harmonies eftir Eyjamanninn Júníus Meyvant var valinn plata ársins í flokki popptónlistar en hún sló eftirminnilega í gegn á liðnu ári og fjölmörg laganna rötuðu ofarlega á lista hjá flestum útvarpsstöðvum landsins. Júníus lokaði síðan kvöldinu í Hörpu, ásamt hljómsveit sinni, með laginu Neon Experience og gerði það með glæsibrag. Unnar Gísli, eins og hans rétta nafn er, var að vonum ánægður með verðlaunin þó honum finnist undarlegt að veita verðlaun fyrir eins huglæg fyrirbæri og list er. Framundan hjá Unnari og hljómsveit hans eru síðan tónleikaferðalög erlendis og drög að nýrri plötu. „Mér líður frekar skringilega,“ segir Unnar aðspurður út í verðlaunin. „Ég verð alltaf frekar kjánalegur þegar ég fæ hrós og viðurkenningu. Verðlaun fyrir list er undarlegt fyrirbæri. Þetta er allt spurning um smekk. Þetta er eins og að spyrja hvort smakkast betur humar eða nautakjöt? Ég átti ekki von á að vinna neitt. Enn auðvitað var ég glaður. þetta voru allt mjög góðar plötur með frábærum listamönnum. En ég var kallaður upp. Reyndar mun allt svona verðlauna dót hjálpa manni í hæpinu.“ Eins og fyrr segir er á dagskránni að spila erlendis en það er alltaf flókið að ferðast með heila hljómsveit, hvað þá á milli heimsálfa. „Við ætlum að túra smá um Evrópu og vonandi til Bandaríkjanna í vor og sumar, allt er þetta spurning um vinnuvísa leyfi. Þar á milli er ég á fullu að vinna í nýrri plötu,“ segir Unnar sem segir von á nýju efni strax í upphafi næsta árs. „Ég stefni á byrjun næsta árs en reyndar koma tvö ný lög út frá mér á næstu tveimur mánuðum.“

Eyjahjartað í Einarsstofu á sunnudaginn: Palli Magg, Gísli Páls og Brynja Péturs mæta

Á sunnudaginn klukkan 13.00 verður enn og aftur slegið upp Eyjahjartanu í Einarsstofu sem svo sannarlega hefur slegið í gegn hjá Eyjamönnum. Þar koma fram konur og karlar og rifja upp uppvaxtarárin í Vestmannaeyjum. Hver nálgast viðfangsefnið með sínu lagi en öllum tekst að draga upp skemmtilega mynd af tíma sem var og kemur aldrei aftur. Ótrúlegur fjársjóður. Kveikjan er Goslokahátíðarnar 2012 og 2013, þar sem fólk sem bjó við götur sem fóru undir hraun í gosinu sagði frá lífinu þar. Að þessu stóðu Einar Gylfi Jónsson, Kjartan og Atli Ásmundssynir, Birna Ólafsdóttir, Gunnhildur Hrólfsdóttir, Kolbrún Harpa Kolbeinsdóttir o.fl. n. Móttökurnar voru svo góðar að Kári Bjarnason fékk Atla, Einar Gylfa og Þuríði Bernódusdóttur til að halda utan um dagskrárröð sem hefði það að markmiði að fá skemmtilegt fólk til að segja frá horfnum Eyjatíma. Úr varð Eyjahjartað sem enn slær af fullum krafti. „Þau sem mæta núna eru Páll Magnússoná símstöðinni, Gísli Pálsson á Bólstað og Brynja Pétursdóttir frá Kirkjubæ,“ sagði Einar Gylfi. „Palli kallar sitt erindi Miðbæjarvillingarnir, Gísli vísar á Bólstað þar sem hann ólst upp og Brynja nefnir sína frásögn Æskuárin á Kirkjubæ.. Bæði Kirkjubæirnir og Bólstaður fóru undir hraun 1973 sem sýnir hvað það skiptir miklu máli að fá fólk sem man þessa tíma til að segja frá.“ Þetta verður í fjórða skiptið sem boðað er til Eyjahjartans og ætla Þura og Gylfi að mæta. „Annað hvort okka rmun segja nokkur orð í lokin,“ sagði Gylfi sem hvetur fólk til að mæta á sunnudaginn.    

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Íþróttir >>

Stjórnmál >>

Greinar >>

Ragnar Óskarsson - Burt með lítilsvirðinguna

Fyrir nokkrum árum komu fjölmargir Vestmannaeyingar saman á Stakkó til að mótmæla ófremdarástandi því sem ríkti í heilbrigðismálum okkar Eyjamanna. Þessi mótmæli áttu fyllilega rétt á sér enda var margt í megnasta ólestri og full ástæða til þess að mótmæla ástandinu og setja fram kröfur um umbætur. Í mótmælunum bar mest á hetjulegri framgöngu margra forystumanna Sjálfstæðisflokksins í bænum og í máli sínu hlífðu þeir ekki ríkisstjórninni sem þá sat við völd. Stór orð fuku enda málið grafalvarlegt. En hvað hefur síðan gerst. Ég held að fullyrða megi að ekkert hafi gerst og enn búum við hér við allsendis ófullnægjandi heilbrigðisþjónustu. Hér þarf ekki að tíunda frekar þá ömurlegu stöðu sem heilbrigðismál okkar eru í, hún er okkur öllum kunn og er til háborinnar skammar. Frá því að boðað var til mótmælanna á Stakkó hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið ráðandi í tveimur ríkisstjórnum og m.a. sérstaklega farið með heilbrigðismálun í landinu. Þeir sem hæst töluðu í mótmælunum hafa einhverra hluta vegna hvorki haft hátt síðan né mótmælt framkomu stjórnvalda nú eins kröftuglega sköruglega sem þá. Þeim ætti hins vegar að vera auðveldara nú en fyrr að ná eyrum ráðamanna þar sem flokkssystkini þeirra fara nú með völdin í landinu. Nú er lag. Ég legg því til að það ágæta fólk sem fór með eldmóðinn að vopni á mótmælafundinn á Stakkó hér um árið sjái til þess að enn á ný verði haldinn fundur á Stakkó. Þar mætti endurtaka ummælin sem þá voru höfð uppi og jafnvel gefa í ef eitthvað er. Ég er meira en til í að mæta eins og þá og ég er viss um að fleiri eru til. Slagorðið á fundinum gæti verið: „Ríkisstjórn Íslands, burt með lítilsvirðingu ykkar gagnvart heilbrigðismálum Vestmannaeyinga.“