Eyjamenn komnir í sumarfrí

Eyjamenn komnir í sumarfrí

Karlalið ÍBV í handbolta er komið í sumarfrí eftir að hafa tapað fyrir Val á heimavelli í kvöld en þetta var þriðja viðureign liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins. Lokastaða var 26:27 eftir æsispennandi leik. 
 
Agnar Smári Jónsson - 
Elliði Snær Viðarsson - 
Theodór Sigurbjörnsson - 4 / 1 
Róbert Aron Hostert - 
Kári Kristján Kristjánsson - 
Dagur Arnarsson - 
Sigurbergur Sveinsson - 
Sindri Haraldsson - 
Grétar Þór Eyþórsson - 1
 
Kolbeinn Arnarsson - 5 / 1 
Stephen Nielsen - 
 
Myndir frá leiknum.
 

Samgöngur á sjó

Fjölmennur íbúafundur í Vestmannaeyjum í gærkvöldi var enn og aftur til marks um það að samgöngur til og frá Eyjum eru mál málanna. Samgöngur milli lands og Eyja eru langhlaup sem halda þarf áfram. Finna verður varanlega lausn sem allir geta sætt sig við.   Í mínum huga var mikilvægt að hitta og hlusta á íbúana sem eiga allt sitt undir að leiðin á milli lands og Eyja sé sem skilvirkust. Góðar og greiðar samgöngur eru undirstaða þess að samfélagið geti þrifist á eðlilegan hátt í atvinnumálum, menningarmálum, í öryggi og þróun byggðarlagsins. Samgöngur hafa gríðarlega mikil áhrif á íbúaþróun í Eyjum og hvort unga fólkið vill koma heim eftir nám og setjast þar að.   Á fundinum komu sjónarmið heimamanna skýrt fram, bæði hvað varðar nafnið á nýrri ferju og kröfur um að bæta þurfi þjónustu við íbúaana í samgöngum á sjó. Ýmsa þætti þarf að skoða með opnum huga til að koma til móts við þarfir íbúanna, fyrirtækja og ferðamanna.   Kostnaður getur verið hár, sérstaklega fyrir fjölskyldur, ef sigla þarf til og frá Þorlákshöfn. Þess vegna hef ég hug á því að tryggja sama fargjald, óháð því í hvora höfnina er siglt.   Markmiðið er að leiðin á milli lands og Eyja sé skilvirk og greið með þarfir íbúanna að leiðarljósi. Í því augnamiði erum við að skoða fjóra kosti á rekstrarformi.   Valkostirnir eru:   1. Vegagerðin reki ferjuna í upphafi til reynslu þar sem ýmsir óvissuþættir eru í rekstri.   2. Útboð til tveggja ára.   3. Útboð til fimm ára.   4. Samstarf við Vestmannaeyjabæ.   Leið eitt, að Vegagerðin reki ferjuna um skamma hríð færir okkur vitneskju um hvernig nýtt skip reynist og gefur færi á að þróa ýmsa þætti í samræmi við þarfir íbúanna.   Leið tvö er einnig vænleg en leið þrjú er síst. Almenna reglan hjá ríkinu er að bjóða út almenningssamgöngur og því skiptir máli á hvaða forsendum slíkir samningar eru byggðir. Ein mikil forsenda er til að mynda sama fargjald, óháð því hvaðan siglt er.   Að mínu mati gæti leið fjögur komið til greina þegar við erum búin að afla þekkingar á skipinu og Landeyjahöfn er komin í betra ástand en nú er.   Því er brýnt að Landeyjahöfn og nýja ferjan finni taktinn saman. Halda þarf áfram að hanna höfnina og þróa. Skynsamlegt gæti reynst að fá nýjan óháðan aðila til að taka út höfnina, eftir að reynsla er komin á nýja ferju.   Að lokum langar mig að þakka Vestmannaeyingum fyrir góða þátttöku og málefnalegan fund, sem og bæjaryfirvöldum fyrir gott samstarf.   Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra  

Frekar þunnt og tætingslegt en stór og falleg loðna

Veðrið hefur gert landsmönnum til sjávar og sveita lífið leitt allan febrúar og hefur það ekki létt sjómönnum lífið. Ekki síst loðnusjómönnum sem eiga allt sitt undir þokkalegu veðri til veiða og siglinga með aflann. Er mikið undir þegar loðnan er komin á grunnslóð og hver dagur skiptir máli. Álsey var að nálgast Skarðsfjöruna þegar slegið var á þráðinn til Jóns Axelssonar, skipstjóra fyrir hádegi í gær. „Þarna eru nokkrir bátar og við erum að nálgast þá,“ sagði Jón. „Þetta hafa verið stanslausar brælur og viðbjóður. Já, endalausar brælur og erfitt að eiga við þetta. Núna er stund milli stríða, styttist í næstu lægð og það eru einhver skip búin að kasta.“ Álsey byrjaði á loðnuveiðum í janúar en er nú í sínum öðrum túr með grunnnótina. „Við fórum þrjá túra með trollið í janúar og núna erum við búnir að landa einu sinni, 250 tonnum. Og þetta er búið að vera hundleiðinlegt en loðnan er stór og góð.“ Ekki var Jón farinn að heyra um árangur hjá skipunum sem voru búin að kasta en segir ekki mikla loðnu á ferðinni. „Þetta er frekar þunnt og tætingslegt. Eitthvað öðru vísi en í fyrra, miklu dreifðara og ekki þessi kökkur sem var á ferðinni í fyrra.“ Í túrnum á undan voru út af Vík og Portlandinu þannig að loðnu er að finna á stóru svæði. En lítið næði til leitar. „Hér erum við það innarlega í Bugtinni, í skjóli fyrir suðvestan áttinni og vonandi verður einhver árangur,“ sagði Jón. Á meðan eru norsku loðnuskipin að fá góðan afla fyrir norðan land, í grennd við Grímsey að því er kom fram í fréttum í gær.      

Veik­leiki í ein­angr­un or­sök bil­un­ar í raf­magns­streng

Bil­un í raf­magns­streng Landsnets sem ligg­ur til Vest­manna­eyja í apríl í fyrra or­sakaðist lík­leg­ast af veik­leika í ein­angr­un. Tók viðgerðin 14 daga, en sér­hæfða viðgerðar­skipið Isaac Newt­on var fengið til að aðstoða við viðgerðina. Var fjar­stýrður kaf­bát­ur notaður og klippti hann streng­inn í sund­ur, en bil­un­in var á 50 metra dýpi. www.mbl.is greindi frá   Var hluti strengs­ins þar sem bil­un­in var send­ur til rann­sókn­ar á Englandi. Bruna­á­verk­ar voru á bútn­um vegna skamm­hlaups­ins sem varð í bil­un­inni og því ekki hægt að segja ná­kvæm­lega til um or­sök­ina. Niður­stöður rann­sókn­ar­inn­ar sýndu hins veg­ar fram á ákveðið magn óæski­legra agna í ein­angr­un­inni næst brun­an­um og eru mest­ar lík­ur tald­ar á því að bil­un­ina megi rekja til þeirra.   Í til­kynn­ingu frá Landsneti kem­ur fram að streng­ur­inn hafi verið fram­leidd­ur vorið 2013 í verk­smiðju ABB í Svíþjóð. Streng­ur­inn var prófaður sam­kvæmt stíf­ustu kröf­um að fram­leiðslu lok­inni í verk­smiðju, m.a. með há­spennu­prófi.   Þá er tekið fram að rekst­ur strengs­ins hafi gengið vel eft­ir að viðgerð lauk og ekki hafi komið upp nein önn­ur frá­vik. Ekk­ert bend­ir til ann­ars en að um staðbund­inn veik­leika hafi verið að ræða og að streng­ur­inn sé eft­ir viðgerð í góðu ásig­komu­lagi. Um var að ræða dýr­ustu viðgerð í sögu Landsnets en viðgerðin kostaði um 630 millj­ón­ir króna.  

Trausti gefur áfram kost á sér

Öskuský lagðist yfir Vestmannaeyjar þennan dag. Fyrsti heimaleikur Íslandsmótsins átti að vera daginn eftir á Hásteinsvelli, ljóst var að enginn leikur yrði spilaður í Eyjum næstu daga. Til að gera langa sögu stutta þá gekk nánast allt upp þetta tímabil eftir þetta. Eyjamenn þjöppuðu sér allir saman og studdu liðið sitt enn betur en áður. Liðinu sem hafði verið spáð falli var næstum því búið að vinna íslandsmeistaratiltilinn sem rann úr greipum í síðasta leik. Eyjamenn höfðu fjölmennt sjóleiðina suður til Keflavíkur þar sem sannkallað rússíbanatímabil endaði með dramatísku tapi.   Töfrar samfélagsins   Eftir leikinn sat ég einn í varamannaskýlinu með tárin í augunum, gegnblatur og veðurbarinn á þessum kalda haustdegi. Úti á vellinum sá ég að erlenda leikmanninn sem hafði komið í upphafi tímabils var orðinn einn af ,,okkur,, hann hágrét yfir úrslitunum, fyrstu dagana vissi hann ekki einu sinni hvar Heimaklettur var. Tilfinningin var góð, að sjá alla þessa stráka gefa sig 100% í verkefnið fyrir samfélagið af svona mikilli innlifun og sjá Eyjamenn í stúkunni klappa fyrir liðinu sínu og frábærum árangri þess á tímabilinu. Það eru einhverjir töfrar í þessu samfélagi sem ég varð oft vitni að við starf mitt sem framkvæmdastjóri kanttspyrnudeildar tímabilin 2010 og 2011. Nýir leikmenn og aðkomulið voru oft agndofa yfir fegurðinni í Eyjum og kraftinum í samfélaginu.   Spenna, sigrar og töp   Þarna varð mér ljóst að ég vildi starfa fyrir þetta samfélag og reyna að gera því gagn og berjast fyrir enn betri framtíð þess. Ég ætla því að gefa kost á mér í 2-3. sætið í röðun við val frambjóðenda á lista Sjálfstæðisflokksins. Það eru forréttindi að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í baráttunni á þessu kjörtímabili bæði í sigrum og töpum. Sigrarnir eru oft hvetjandi en töpin eru til þess að læra af og ögra mann til að gera betur. Það eru virkilega spennandi tímar framundan í Eyjum og væri það mér heiður að vera áfram þátttakandi sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins á lista fyrir bæjarstjórnarkosningarnar.   Trausti Hjaltason.  

Stærstu verðlaunin

Aðalfundur Sjóve var haldinn í gær, 10. febrúar. Ég komst nú ekki á fundinn en það rifjaðist upp fyrir mér í dag lítil veiðisaga sem ég skrifaði í eitt af blöðum Sjóve fyrir nokkrum árum síðan. Eitthvað hafði skolast til hjá mér í sambandi við nöfn og afla, svo til gamans, hér kemur sagan aftur og vonandi núna rétt.   Það var laugardaginn 18. okt. 2008 að haldið var innanfélagsmót Sjóve í Vestmannaeyjum. Ella Bogga, þáverandi formaður, hafði að sjálfsögðu falast eftir mér og mínum bát í mótið, en ég hafði óskað eftir því að fá að sleppa við þetta mót, enda þegar lofað mér í stærri og merkilegri atburð síðar þennan sama dag. Ég féllst þó á það að vera vara bátur ef eitthvað kæmi upp á og viti menn, hálf tíu um morguninn hringir Ella Bogga. Bátur á leiðinni í land með bilaða vél og um borð 3 veiðimenn með engan afla og mótið því ónýtt fyrir þeim, nema ef ég fengist til að fara.   Ég sagði við Ellu Boggu að í þetta skiptið yrði hún að fá leyfi frá konunni, sem og hún fékk, enda bæði ég og báturinn svo sem alltaf tilbúnir og við komumst af stað um 11 leytið.   Um borð voru Sigtryggur Þrastarson, Magnús Ríkharðsson og Hrafn Sævaldsson. Veðrið var gott, svona aðeins norðan kaldi. Ég byrjaði að keyra fyrir austur Elliðaey til að prófa þar í skjólinu, en varð ekkert var og frekar dauft hljóðið í öðrum skipstjórum. Ég ákvað því að prófa, þar sem lítill tími var eftir, að fara á lítinn harðann blett rétt vestan við Bjarnarey og fengum strax fallega fiska þar, sem skiluðu öllum umborð verðlaunum á lokahófinu, en Siddi fékk stærstu keilu mótsins á þessum bletti, Magnús stærsta lýrinn en Hrafn gerði best og fékk bæði stærstu löngu mótsins og stærsta þorskinn og þorskurinn reyndist vera stærsti fiskurinn sem veiddist á þessu móti.   Allt gekk sem sé upp hjá okkur þennan síðasta klukkutíma í þessu móti og vorum við fyrstir í löndun, enda lá mikið á.   En ég komst ekki á lokahófið um kvöldið, en fékk hins vegar stærstu verðlaunin í kirkjunni seinna þennan sama dag, þegar frúin kom mér gjörsamlega á óvart með því að segja já fyrir framan prestinn okkar. Þetta var nefnilega giftingardagurinn okkar.   Mörgum hefur reyndar fundist þetta skrýtið að fara á sjó á giftingardaginn, en fyrir mig þá gerir þetta daginn bara enn þá eftirminnilegri.   Vill að lokum svo minna á, að áætlað er að halda innanfélagsmót Sjóve þann 31. mars nk. en nánar upplýsingar um það mót og aðra dagskrárliði hjá félaginu á árinu er að finna inni á heimasíðu þess og á fésbókinni Sjóve Vestmannaeyjum.  

Georg Skæringsson er Eyjamaður vikunnar: Smá hnökrar sem má alltaf gera ráð fyrir í svona stóru verki

Föstudaginn 26. janúar sl. flutti Þekkingarsetur Vestmannaeyja starfsemi sína í nýtt húsnæði að Ægisgötu 2 en áður hafði Þekkingarsetrið verið til húsa að Strandvegi 50. Georg Skæringsson er umsjónamaður og verkefnastjóri ÞSV og er Eyjamaður vikunnar að þessu sinni.   Nafn: Georg Skæringsson. Fæðingardagur: 23.03.1966. Fæðingarstaður: Gamli spítalinn í Vestmannaeyjum. Fjölskylda: Kvæntur Guðnýju Björgvinsdóttur og eigum við þrjú börn, fjögur barnabörn og eitt barnabarn á leiðinni. Uppáhalds vefsíða: Facebook. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Eighties tónlist og Dire strait. Aðaláhugamál: Ferðalög, köfun og vera með fjölskyldunni. Uppáhalds app: Snapchat. Hvað óttastu: Myrkrið. Mottó í lífinu: Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig. Apple eða Android: Android. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Jesús. Hvaða bók lastu síðast: Útkallsbókina um Pelagus slysið. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Börnin og barnabörnin mín eru auðvitað uppáhalds íþróttamennirnir mínir og að sjálfsögðu ÍBV íþróttafélagið. Ertu hjátrúarfullur: Já. Stundar þú einhverja hreyfingu: Ekki í augnablikinu en stendur alltaf til. Uppáhaldssjónvarpsefni: Góðar bíómyndir, helst spennumyndir. Hvernig líst fólki almennt á nýja húsnæðið: Mjög vel það sem ég hef heyrt. Gekk allt nokkurn veginn eftir áætlun: Ja, svona smá hnökrar sem má alltaf gera ráð fyrir í svona stóru verki. En ég er alla vega sáttur með þetta. Munuð þið hugsa til gamla húsnæðisins með söknuðu: Já, að sjálfsögðu. Við vorum búin að vera svo lengi þar. En við höfum bara góðar minningar þaðan. Við vorum náttúrulega í meiri nálægð þar við hvert annað.    

Auðmjúkur og stoltur

Gerum meðan við erum

Kraftur, félag ungs fólks, er stuðningsfélag fyrir ungt fólk á aldrinum 18 til 40 ára sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra. Á heimasíðu Krafts kemur fram að á hverju ári greinast um 70 einstaklingar á þessum aldri með krabbamein og þriðjungur Íslendinga fá krabbamein einhvern tíma á ævinni. Kraftur styður ungt fólk með krabbamein með ókeypis sálfræðiþjónustu, jafningjastuðningi, almennum stuðningi, Fítonskrafti endurhæfingu, styrk til lyfjakaupa og neyðarsjóði.   Kraftur stendur nú fyrir vitundarvakningunni, Krabbamein kemur öllum við – lífið er núna. Til þess að sýna fram á það fékk Kraftur 22 einstaklinga til þess að stíga fram og deila því hvernig krabbmein hefur snert líf þeirra. Ein af þeim er Guðrún Jóna Sæmundsdóttir sem gekk við hlið sonar síns, Sigurðar Jóns Sigurðssonar í baráttu sem hann háði við krabbamein í höfði. Tilgangur átaksins er að að vekja athygli á málefnum ungs fólks og aðstandenda þeirra og afla um leið fjár til þess að halda úti víðtækri þjónustu félagsins.   Sigurður gekk æðrulaus í verkefnið Við Sigurður vorum félagsmenn í Krafti og það hjálpaði honum mikið að finna að hann var ekki einn. Það voru og eru svo margir að berjast,“ segir Guðrún Jóna ,,Sigurður leit aldrei á sig sem sjúkling, hvorki í upphafi né undir lokin. Veikindin voru ekkert númer í hans huga. Hann gekk æðrulaus í það stóra verkefni sem honum var úthlutað. Enda hafði hann sérstaka lífsskoðun,“ segir Guðrún og það fer ekki á milli mála hversu stolt hún er af Sigurði syni sínum. Hún segir að Sigurði hafi aldrei fundist það óréttlátt að hann hafi fengið krabbamein. Af hverju ekki ég eins og einhver annar var hans hugsun. „Við vissum frá fyrsta degi að þetta væri ólæknandi krabbamein, lífslíkurnar ekki miklar og að hann ætti stutt eftir. Við tókum því þann pól í hæðina að njóta tímans saman og safna minningum. Við gerðum heilmikið saman þann stutta tíma, frá því hann fékk greiningu þann 6. desember 2013 og þar til hann dó 18. janúar 2016.“   Hægt er að nálgast viðtalið í heild sinni i nýjasta tölublaði Eyjafrétta og á vefútgáfu blaðsins    

Að lifa og njóta með Jóa Pé og Króla

Einn alvinsælasti dúett Íslands í fyrra, Jói Pé og Króli, koma til Eyja í dag og verða með tvenna tónleika.   Þeir spila tvisvar á Háaloftinu/Höllinni. Fyrst á barna- og unglingatónleikum kl. 17.00 (húsið opnar 16.30) Verð 1.900,- í forsölu en 2.500,- við hurð og frítt fyrir yngri en 5 ára...   Kvöldtónleikar kl. 22.00 (húsið opnar kl. 21.00) Verð 2.500,- í forsölu en 3.500,- við hurð.. Forsala á tónleikana er í gangi í Tvistinum. 18 ára aldurstakmark á kvöldtónleikana. 16-18 ára geta einnig komið á kvöldtónleikana í fylgd forráðamanns eða foreldris.   JóiPé og Króli slógu í gegn með laginu „B.O.B.A.“ sem var eitt vinsælasta lag landsins á síðasta ári. Þeir hafa sent frá sér tvær plötur á stuttum tíma og sú seinni, Gerviglingur fékk gríðarlega góðar viðtökur og um tíma sátu öll átta lög plötunnar á topp 20 yfir vinsælustu lögin á Spotify á Íslandi. Strákanir hafa verið duglegir að koma fram út um allt land og á næstu misserum er von á nýju efni sem spennandi verður að fylgjast með.     Við biðjum Eyjamenn að nýta sér forsöluna, því við viljum alls ekki lenda í því að þurfa að vísa börnum eða fullorðnum frá. Tónleikarnir verða á Háaloftinu, nema við hreinlega verðum að flytja þá í Höllina vegna aðsóknar.   Sýnum þessum peyjum í verki að við kunnum að meta það að þeir leggi á sig ferðalag til Eyja um miðjan vetur til að skemmta okkur. ;)  

Fjölgun í barnaverndarmálum undanfarin ár

Tilkynningum til barnaverndarnefnda á öllu landinu fjölgaði um 9,6% á fyrstu níu mánuðum ársins 2017 miðað við sama tímabil árið á undan. Fjöldi tilkynninga á fyrstu níu mánuðum ársins 2017 var 7.292 tilkynningar, en 6.652 á sama tímabili árið á undan. Tilkynningum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði á fyrstu níu mánuðum ársins 2017 um 11,2%, en á landsbyggðinni fjölgaði tilkynningum um 6,1% ef miðað er við sama tímabil árið á undan. Sískráning barnaverndarmála í nóvember og desember 2017 var til umfjöllunar hjá fjölskyldu- og tómstundarráði Vestmannaeyjabæjar á síðasta fundi ráðsins. Í nóvember bárust tíu tilkynningar vegna níu barna. Mál átta barna voru til frekari meðferðar. Í desember bárust sex tilkynningar vegna sex barna.   Meðalfjöldi tilkynninga á bilinu 15-20 á mánuði Guðrún Jónsdóttir yfirfélagsráðgjafi Vestmannaeyjabæjar sagði í samtali við Eyjafréttir að barnaverndarmálum hafi verið að fjölga undanfarin ár. „Það hefur verið fjölgun í barnaverndarmálum undanfarin ár hjá okkur en það er einnig fjölgun á landsvísu. Meðalfjöldi tilkynninga á mánuði hefur verið á bilinu 15-20 undanfarin ár hér í Vestmannaeyjum,“ sagði Guðrún.   Flestar tilkynningar koma frá lögreglu Guðrún sagði flestar tilkynningarnar koma frá lögreglunni. „Einnig koma margar tilkynningar frá skólunum, almenningi og foreldrum barnanna eða jafnvel barninu sjálfu.“ Ekki verða samt allar tilkynningar að barnaverndarmáli. „Ef tekin er ákvörðun um að kanna aðstæður barns er málið orðið barnaverndarmál. Könnun getur síðan leitt í ljós að þörf er fyrir frekari aðstoð eða að málinu sé lokað þar sem ekki er þörf á aðgerðum,“ sagði Guðrún.   Snúa sér til félagsþjónustunar ef fólk hefur áhyggjur Aðspurð um hvað fólk ætti að gera hefði það áhyggjur að barni sagði Guðrún að í Vestmannaeyjum ætti fólk að snúa sér til félagsþjónustunnar. „Það er gott að geta þess að sá sem hefur áhyggjur af aðstæðum barna, hvort sem það er vegna vanrækslu, gruns um ofbeldi eða vegna þess að barnið sé að sýna af sér einhverja áhættuhegðun, ber að tilkynna það til barnaverndar þar sem barnið er búsett. Í Vestmannaeyjum á fólk að snúa sér til félagsþjónustunnar til að koma tilkynningum á framfæri. Það eru síðan starfsmenn barnaverndar sem meta þessar tilkynningar og annast könnun mála og í framhaldinu leggja til stuðningsaðgerðir til aðstoðar barninu og fjölskyldunni ef þörf er á,“ sagði Guðrún að lokum.  

Framtíðarþróun ferðamála á Suðurlandi

Á fimmtudaginn fyrir viku síðan var opinn íbúafundur um framtíðarþróun ferðamála á Suðurlandi. Þar gafst íbúum og hagsmunaaðilum færi á að koma hugleiðingum sínum á framfæri og eiga samtal um ferðaþjónustuna og kynnast vinnu við stefnumótun og framtíðarsýn fyrir ferðaþjónustu á Suðurlandi sem hefur verið í gangi frá síðasta hausti.   Vestmannaeyjabær hefur verið þátttakandi í Áfangastaðaáætlun DMP (Destination Management Plan) í ferðaþjónustu. Hildur Sólveig Sigurðardóttir, fulltrúi í vinnuhóp um áfangastaðaáætlun DMP á Suðurlandi, sagði að Áfangastaðaáætlunin væri fyrst og fremst hugsuð til að ná fram heildstæðri stefnu í ferðaþjónustu fyrir svæðið. Þannig væri með starfinu tengdir saman hagsmunaaðilar ferðaþjónustu og raddir þeirra sem þjónustuna snerta fá að heyrast. „Með vinnunni er verið að skerpa á því hvar við erum að standa okkur vel, hvað þarf að bæta og hvaða leiðir er hægt að fara til að ná fram þeim markmiðum sem við setjum okkur. Með þessari vinnu er verið að tryggja að svæðin séu að róa í sömu átt. Þrátt fyrir að ógnanir og tækifæri svæðanna séu ólík þá verður til aukinn skilningur á sérstöðu svæðanna og með þessari vinnu fá yfirvöld svart á hvítu hvaða heildrænu stefnu svæðin vilja taka í sameiningu og hvaða þætti þarf að bæta og breyta til að við komumst á réttan kjöl.“ Niðurstöðurnar munu koma ríki, sveitarfélögum og rekstraraðilum í ferðaþjónustu vel. „Með þessari vinnu skapast grundvöllur og væntanlega nokkurs konar leiðarvísir til sóknar í ferðaþjónustu fyrir framtíðina,“ sagði Hildur Sólveig.  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Mannlíf >>

Eyjamenn kunna að hafa gaman

Sóli Hólm leggur nú land undir fót og mætir á Háaloftið í Vestmannaeyjum með splunkunýtt uppistand sem hlotið hefur frábærar viðtökur í kjallaranum á Hard Rock Cafe í Reykjavík. Sóli hefur verið einn vinsælasti skemmtikraftur þjóðarinnar síðustu ár ásamt því að hafa getið sér gott orð í sjónvarpi og útvarpi. Eftir að hafa þurft frá að hverfa um nokkurra mánaða skeið vegna veikinda snýr hann aftur með splunkunýtt uppistand, tilbúinn að draga sjálfan sig og aðra sundur og saman í háði. Sóli er maður margra radda og má búast við að þjóðþekktir einstaklingar fylgi honum í einhverri mynd upp á svið á Háaloftinu.   „Ég er ótrúlega spenntur að koma til Vestmannaeyja með uppistandið mitt. Ég hef skemmt nokkrum sinnum í Vestmannaeyjum og alltaf gengið frábærlega. Eyjamenn kunna að hafa gaman, hvort sem það er fyrstu helgina í ágúst eða síðustu helgina í febrúar,“ sagði Sóli í samtali við Eyjafréttir.  Lætur drauminn rætast Sóli sagðist hafa komið fram í Höllinni en aldrei á Háaloftinu áður, „kollegar mínir fyrir sunnan sem hafa gert það segja að það henti einkar vel fyrir uppistand svo ég hef bara góða tilfinningu fyrir þessu. Ég er búinn að vera með þessa uppistandssýningu á Hard Rock í Reykjavík og á Græna hattinum á Akureyri en þetta er eitthvað sem ég ákvað að gera þegar ég greindist með krabbamein síðasta sumar. Þá ákvað ég að um leið og mér yrði batnað myndi ég kýla á að láta þennan draum rætast, að vera með eigin sýningu, og blessunarlega hafa viðtökurnar verið frábærar og alltaf verið uppselt hingað til,“ sagði Sóli.  Afi hans var bæjarstjóri Sóli á rætur að rekja til Eyja, „ég á mínar tengingar til Vestmannaeyja. Afi minn, Hilmir Hinriksson, var af Gilsbakkakyni og faðir hans, Hinrik G. Jónsson var bæjarstjóri í Eyjum frá 1938-1946. Ég geri reyndar ekki ráð fyrir að margir mæti sem muni eftir langafa sem bæarstjóra, en það væri ánægjulegt,“ sagði Sóli Hólm að lokum.  

Stjórnmál >>

Uppstilling hjá Sjálfstæðisflokknum

Í gær rann út framboðsfrestur til röðunar fyrir Sjálfstæðisflokk Vestmannaeyja. Sjö gáfu gáfu kost á sér í Röðun, en frambjóðendur þurfta að vera tíu að lágmarki, skv. samþykkt aðalfundar Fullltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Vestamannaeyjum. Það verður því farið í uppstillingu. Ólafur Elíasson sagði í samtali við Eyjafrétta að, „Á fundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfél. í Vestm. var samþykkt sl. mánudag að röðun færi fram ef 10 eða fleirri gæfu kost á sér í framboð. Sá fjöldi barst ekki, en sjö framboð bárust og hefur Kjörnefnd því hafið vinnu við uppstillingu eins og samþykktin hvað á um.“ Fyrir þá sem ekki vita hvað uppstilling er, þá er það þegar Kjördæmisráð og fulltrúaráð geta ákveðið að kjósa uppstillingarnefnd sem hafi það hlutverk að gera tillögu um skipan framboðslista flokksins við alþingis- eða sveitarstjórnakosningar. Slík ákvörðun þarf að hljóta samþykki 2/3 hluta fundarmanna og gildir einungis fyrir einn framboðslista í senn. Tillaga uppstillingarnefndar um skipan framboðslista skal lögð fyrir til afgreiðslu á fundi kjördæmiseða fulltrúaráðs. Heimilt er að ákveða að bæði aðal- og varamenn taki þátt í atkvæðagreiðslu um tillöguna, en þá skal ákvörðun þar um tekin um leið og ákvörðun skv. 1. mgr. þessarar greinar er tekin og með sama hlutfalli atkvæða og gildistíma og þar greinir. Einfaldur meirihluti atkvæða nægir til að samþykkja listann. Miðstjórn setur samræmdar framkvæmdareglur um uppstillingu framboðslista á vegum flokksins.  Sú kjörnefnd sem kosin var til að annast framkvæmd röðunarinnar fær nú það hlutverk að stilla upp á lista Sjálfstæðisflokksins. Nefndina skipa samkvæmt samþykkt fulltrúaráðsfundar: Ólafur Elísson, formaður, Arnar Sigurmundsson, Bragi Magnússon, Elsa Valgeirsdóttir, Halla Svavarsdóttir, Ingólfur Jóhannesson og Silja Rós Guðjónsdóttir.    

Greinar >>

Er Vegagerðin að fokka í okkur?

Þetta var fínasti fundur í gær, íbúafundurinn sem haldinn var í Höllinni. Um 160 manns mættu, en ég er nokkuð viss að ég hafi verið með þeim yngstu í hópnum. Þegar ég labbaði inn á slaginu 20:00 leit yfir hópinn sem mættur var, þá sá ég fljótlega hver úrslitin yrðu í nafnavalinu á nýju ferjunni. En eins og flestir vita voru það ég og 25 aðrir sem kusu nafnið Vilborg. Mér fannst sjarmerandi að ný ferja fengi nýtt nafn. Tákn um nýja og betri tíma í samgöngumálum okkar Eyjamanna. Svo er spurningin, verða þetta nýir og betrir tímar í sjósamgöngum okkar Eyjamanna. Vonandi. Ef ekki, hvað þá?   Elliði bæjarstjóri fór yfir þær óskir og langanir Eyjamanna um hvað við viljum sjá gert í þessum málum sem eru engar fréttir. Það er búið að fara yfir þessa hluti mörgum sinnum. Sem dæmi, að gjaldskrá og þjónustustig taki mið af því að hér er um þjóðveg að ræða.   Ferjan var kynnt, ég skildi ekki helmingin af því enda hef ég ekki vit á þessum málum. Vil vera jákvæð og ætlast til að allir séu að vinna vinnuna sína. Ferjan á allavega vera í litum Þórs, Týrs og ÍBV. Kojunum er búið að koma fyrir á teikningum, en hvernig kojurnar verða… lýsingarnar voru allavega ekki sérstakar. Sem móðir tveggja ungra barna, hoppa ég ekki af spenningi og skora á hönnuði að skoða þetta vel. En kannski þarf ég ekki að hafa þessar áhyggjur, það verður bara siglt í Landeyjahöfn.   Fulltrúi Vegagerðarinnar kom í pontu. Fór yfir fullt af tölum og staðreyndum sem skiluðu sér mjög illa til fólks og ekki gat fólk reddað sér með að lesa þær á glærunum því þær sáust ekki. Meira að segja ræðumaður sá þær ekki og giskaði að ég held tvisvar á einhverjar staðreyndir, enda virtist hann hafa verið neyddur til að mæta og þokkalega áhugalaus ef þið spyrjið mig. Tölurnar sem hann átti að skila til okkur voru samt mikilvægar og þarfar fyrir okkur að vita. Smá gegnsæi gangvart rekstraraðila og fleira. En það hættu allir að pæla í því þegar fulltrúi Vegagerðarinnar varpaði því fram, hversu marga ferðamenn við viljum svo sem fá? Hakan á fundagestum datt niður í gólf og Páll Magnússon fundarstjóri tók fyrir andlitið. Var þetta með ráðum gert? Kynning sem skilaði sér ekki til fólksins og skrýtin athugasemd sem stendur upp úr frekar en staðreyndir talnanna?   Eimskipsmenn fengu svo sjálfsagt sting í hjartað þegar Lúðvík Bergvinsson ávarpaði fundinn og talaði um að rekstur ferju ætti nú ekki að vera það flókinn. Við skulum allavega orða það þannig það langar engan að missa viðskipti sem eru að gefa.   Einnig var rætt hvort ferjan ætti að vera til reynslu hjá Vegagerðinni. Í umsjá Eimskip væntanlega? Í ákveðinn tíma áður en einhver annar tekur við. Ég fékk á tilfinninguna að það væri jafnvel ákveðið nú þegar. Annars veit ég ekkert hver er heppilegasti rekstaraðili sjósamgangna okkar.   Stjarna kvöldins var svo Samgönguráðherra. Hann virðist allavega skilja okkur. Lofaði að vera í ríkisstjórn allt kjörtímabilið og sannfærði mig um að hann ætlaði að græja þetta. Verst að það eru ekki að koma kosningar. Allavega eru Páll og Sigurður Ingi á fullu að koma því í gegn að við munum borga sama verð í báðar hafnir. Jeij!   Sara Sjöfn Grettisdóttir  Ritstjóri Eyjafrétta