Ekkert hefur heyrst nýlega af samningaviðræðum bæjarins og ríkisins um rekstur á nýrri Vestmannaeyjaferju. Haft var samband við Elliða Vignisson bæjarstjóra sem sagði að nú væri verið að bíða eftir ríkinu að boða til næsta fundar eða taka næsta skref. Elliði sagði að hann hafi reynt að halda vel utan um gang mála sem hann rakti fyrir okkur í sextán skrefum.
1. Haldinn var borgarfundur í Eyjum að frumkvæði héraðsfréttamiðla. Samþykkt að stefna beri að því að heimamenn sjálfir reki Herjólf.
2. Ríkið og Vestmannaeyjabær hófu formlegar viðræður um yfirtöku bæjarins á rekstri nýrrar farþegaferju, Herjólfi, í kjölfar sameiginlegrar viljayfirlýsingar aðila, dags. 26. október 2017.
3. Viðræður hófust. Báðir aðilar lögðu fram ítarleg samningsdrög sem báru með sér hvernig þeir sáu samning geta litið út, útreikningar vegna kostnaðar voru lagðir fram auk allra nauðsynlegra gagna svo viðræður geti haldið áfram og hægt væri að ljúka þeim - og fundir haldnir til að þoka málinu áfram. Eðlilegur farvegur formlegra viðræðna.
4. Skrifað undir viljayfirlýsingu milli Vestmannaeyjabæjar og Samgönguráðherra. Þar kom ma. fram að:
• Vestmannaeyjaferja verði nýtt til siglinga milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar lengur hvern sólarhring en nú er og gangi allt að 8 ferðir á dag í reglulegri áætlun þegar aðstæður krefjast.
• núverandi Herjólfur verði til reiðu sem varaskip fyrir ferjusiglingar í landinu eftir að ný ferja hefur siglingar.
• sama gjaldskrá gildi á báðum siglingaleiðum.
• núverandi fjárveiting til reksturs Herjólfs verði lögð til grundvallar nýs samnings. Þannig verði möguleg hagræðing vegna rekstrar nýrrar Vestmannaeyjaferju, nýtt til að bæta samgöngur á milli lands og Eyja.
• fram fari þarfagreining á þjónustuþörf skipsins. Þarfagreiningin taki mið af þörfum samfélagsins en ekki eingöngu hámarksnýtingu.
• rekstur ferjusiglinga milli lands og Eyja sé almannaþjónusta og ekki hagnaðardrifin.
• rekstrarhagræðis verði gætt til hins ítrasta. Telji aðilar líklegt að útboð á almennum markaði leiði til aukins hagræðis samhliða þjónustuaukningu, verði Vestmannaeyjabæ það heimilt.
5. Alþingiskosningar fara fram - ný ríkisstjórn tekur við. Nýr ráðherra tekur við Samgönguráðuneytinu
6. Þrátt fyrir að alþingiskosningar hafi farið fram og ný ríkisstjórn tekið við - fól það ekki í sér neinar eðlisbreytingar gagnvart því að lögaðilinn ríkið og lögaðilinn V-bær voru í formlegum viðræðum um yfirtöku bæjarins á rekstrinum. Þeim viðræðum yrði, eðli málsins samkvæmt, haldið áfram þar til þeim yrði formlega slitið. Engin slit viðræðna voru tilkynnt. Bæjarfulltrúar ræddu mikilvægi þess að viðræðuaðilar bæru virðingu gagnvart hvor öðrum.
7. Eftir að ný ríkisstjórn tók við lét ríkið ekkert frá sér heyra varðandi áframhald viðræðna við bæinn, annað en ráðherra/ráðuneyti sagðist vilja skoða málið frekar. Engin breyting var gerð á formlegri stöðu samningaviðræðnanna. Bærinn lagði reglulega fram fyrirspurnir til ráðherra/ráðuneytis um það hvenær ætti að taka upp þráðinn og funda um málið. Engin svör bárust.
8. Eftir eftirleitan Vestmannaeyjabæjar var loks haldinn fundur með ráðherra 31. janúar þar sem hann tjáði fundarmönnum að vildi skoða málið frekar, m.a. fór hann þess á leit að haldinn yrði borgarafundur í Eyjum svo hann gæti fengið beint í æð hver vilji bæjarbúa væri í málinu.
9. Haldinn var borgarafundur með ráðherra. Hann fékk vilja bæjarbúa beint í æð. Núverandi ástand fékk falleinkunn. Í skýrslu RHA koma fram að „Í stuttu máli má segja að enginn sem rætt var við hafi verið sérlega ánægður með núverandi fyrirkomulag eða þjónustustig. Sama er hvar borið var niður.”
10. Ráðherrann kynnti fjóra mögulega kosti varðandi rekstur skipsins. Ekkert var fjallað um stöðu hinna formlegu viðræðna aðila.
11. Bærinn fær ávinning um að ríkið hafi ákveðið að bjóða reksturinn út til tveggja ára - sem þýddi líklega óbreytt ástand frá því sem nú er þar sem erfitt er fyrir nýja aðila að bjóða í reksturinn til svo skamms tíma. Um það verður þó ekkert fullyrt að sinni.
12. Eftir ítrekaðar fyrirspurnir var haldinn fundur 15 mars. sl. með ráðherra. Hann sátu allir bæjarfulltrúar auk fulltrúa í stýrihóp um yfirtöku. Fundurinn fór fram beiðni bæjarstjórnar bæjarins, en ekkert hafði heyrst frá ráðherranum/ríkinu frá því á borgarafundinum í lok janúar um framhald viðræðna.
13. Á þeim fundi var bænum tilkynnt um að ekki yrði samið við hann um reksturinn, heldur yrði farin sú leið sem forsvarsmaður núverandi rekstraraðila hafði áður upplýst um, þ.e. að reksturinn yrði boðinn út til tveggja ára. Á þeim fundi sagði ráðherra að hann hefði viljað tilkynna V-bæ fyrst um þessa ákvörðun sína áður en hún yrði gerð opinber.
14. Mikil umræða fór fram á fundinum um ákvörðun ráðherra. Ákvörðunin var harðlega gagnrýnd af bæjarfulltrúum. Var í framhaldi af þeirri umræðu ákveðið að falla frá þeirri ákvörðun, sem ráðherra hafði áður kynnt, þ.e. að hætta viðræðum við bæinn og bjóða reksturinn út til tveggja ára. Á fundinum var því ákveðið að halda viðræðum við bæinn. Nákvæm útskýring á því hvað þetta þýddi fylgdi þó ekki sögunni – en framhald viðræðna voru ákveðnar.
15. Á fundinum var ákveðið að ráðherra skyldi boða til nýs fundar með aðilum, sem hann kvaðst ætla að gera annað tveggja að kveldi 15. mars eða strax þann 16. Síðar barst svo tölvupóstur frá ráðuneytisstjóra, þ.e. þann 16 mars, þar sem tilkynnt var um að boðað yrði til nýs samningafundar strax eftir helgina. Fimmtudaginn 22. barst tölvupóstur frá ráðuneytisstjóra þar sem tilkynnt var að enn væri verið að fara yfir málið og beðið eftir ákveðnum upplýsingum. Tilkynnt að haft yrði samband um leið og þær væru komnar.
16. Þriðjudaginn 3. apríl 2018 hefur enn ekkert heyrst frá ríkinu um fundi eða framhald málsins. Vestmannaeyjabær er í óvissu um framhaldið en treystir því að viðræður séu í gangi milli stjórnsýslustiganna þar til samningar nást eða þeim er formlega slitið.