Fundur umhverfis- og skipulagsráðs 28. mars

Fundur umhverfis- og skipulagsráðs 28. mars

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 265. fundur haldinn í fundarherbergi Umhverfis- og framkvæmdasviðs, 28. mars 2017 og hófst hann kl. 16:05
 
Fundinn sátu:
Margrét Rós Ingólfsdóttir formaður, Kristinn Bjarki Valgeirsson aðalmaður, Ingólfur Jóhannesson aðalmaður, Esther Bergsdóttir aðalmaður, Georg Eiður Arnarson aðalmaður, Sigurður Smári Benónýsson starfsmaður sviðs og Ólafur Þór Snorrason framkvstj.sviðs.
 
Fundargerð ritaði: Sigurður Smári Benónýsson, skipulags-og byggingarfulltrúi
 
Dagskrá:
 
1. 201702114 - Áshamar 32. Umsókn um byggingarleyfi
Tekið fyrir að nýju erindi lóðarhafa. Ólafur Tage Bjarnason hönnuður sækir um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi sbr. innsend gögn. Erindið var sent til grenndarkynningar sbr. ákvæði skipulagslaga, engar athugasemdir bárust ráðinu.
 
Ráðið samþykkir byggingaráform lóðarhafa og felur byggingarfulltrúa framgang erindis.
 
2. 201509061 - Kleifar 2.
Niðurstöður liggja fyrir í samkeppni Vinnslustöðvarinnar í samvinnu við Vestmannaeyjabæ um útlit á suðurgafli nýrrar frystigeymslu VSV við Kleifar 2.
1. Hafið kallar eftir Daníel Imsland.
2. Spegilgafl eftir Bjarka Zophoníasson.
3. Dægurlagatextar eftir Davíð Árnason og Ölduform 2 eftir Gunnar Júlíusson.
 
Umhverfis -og skipulagsráð vill þakka þeim sem tóku þátt í samkeppninni, sem og Vinnslustöðinni fyrir að velja þessa leið til þess að minnka neikvæð sjónræn áhrif hússins. Að því sögðu þá felur ráðið starfsmönnum sviðsins að kalla eftir upplýsingum frá VSV um það með hvaða hætti framhald málsins verði og minnir á að byggingarleyfið var veitt með fyrirvara um að gengið yrði að skilmálum Vestmannaeyjabæjar um umhverfissjónarmið svo sem ásýnd suðurveggjar.
 
 
3. 201703041 - Kleifar 6. Umsókn um byggingarleyfi
Jón Bryngeir Skarphéðinsson f.h. Hampiðjunar sækir um leyfi fyrir girðingum við lóðarmörk sbr. innsend gögn.
 
Ráðið samþykkir girðingar og bendir á að girðing til norðurs skal fylgja byggingarreit lóðar.
 
 
4. 201703040 - Vestmannabraut 63B. Umsókn um byggingarleyfi
Tekið fyrir erindi lóðarhafa. Valur Andersen sækir um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi sbr. innsend gögn.
 
Ráðið samþykkir byggingaráform lóðarhafa og felur byggingarfulltrúa framgang erindis.
 
 
5. 201703020 - Faxastígur 36. Umsókn um stöðuleyfi
Friðrik Egilsson f.h. húseigenda sækir um stöðuleyfi fyrir gámi við matshluta 0102 sbr. innsend gögn.
 
Erindi samþykkt.
 
 
6. 201610058 - Ofanbyggjaraland. Samningar.
Samningsform túnasamninga lagt fyrir ráðið.
 
Ráðið leggur til við bæjarstjórn að samningsform verði samþykkt.
 
 
7. 201703042 - Umhverfismál 2017
Umhverfisátak 2017, umræður.
Sl. ár hefur Umhverfis- og skipulagsráð skipulagt hreinsunardag sem alla jafna hefur verið haldinn í byrjun maí. Þátttaka hefur verið dræm, en nokkur félagasamtök hafa þó séð um svæði sem þeim er úthlutað og er þeim hér með þakkað fyrir ómetanlegt framlag sitt.
 
Umhverfis -og skipulagsráði þykir mikilvægt að auka umhverfisvitund hér í Vestmannaeyjum. Í ár mun ráðið því ekki skipuleggja einn sérstakan hreinsunardag, heldur leggur til að við öll, einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök, förum í sameiginlegt átak um að gera Vestmannaeyjar að snyrtilegasta bæjarfélagi landsins með því að hreinsa til á lóðum okkar og í okkar nærumhverfi, í gönguferðum eða hvar sem þarf að láta hendur standa fram úr ermum. Félagasamtök sem vilja taka sín hefðbundnu svæði er að sjálfsögðu heimilt að halda því áfram.
 
Átakið hefst þegar í stað og stendur til 7.maí nk. Hægt verður að nálgast poka á opnunartíma Umhverfis -og framkvæmdasviðs að Skildingavegi 5 og starfsmenn bæjarins munu hirða upp alla poka og annað sem fellur til eftir ruslatínsluna.
 
Hreinsun á garðúrgangi og rusli:
Austurbær: 27.-30.apríl
Vesturbær: 1.maí-3.maí
Miðbæjarsvæði: 4-7.maí
 
Ráðið felur starfsmönnum tæknideildar að kynna átakið, en einnig verður hægt að fylgjast með framvindunni á facebook, undir viðburðinum „Einn poki af rusli“.
 
 
 
8. 201703090 - Bréf til ráðsins.
Tekið inn með afbrigðum bréf frá íbúa að Vestmannabraut 63A. dags. 27.3.2017.
Bréfritari óskar eftir upplýsingum um byggingarmagn og lóðarmörk lóðar nr. 63B og spyr hvort lóðir nr. 61 og 63B hafi verið auglýstar á einhverjum samfélagsmiðli. Að auki óskar bréfritari eftir kynningu á teikningum lóðarhafa.
 
Umhverfis -og skipulagsráð þakkar bréfið. Ráðið bendir bréfritara á að öllum lóðum við Vestmannabraut er úthlutað skv. gildandi deiliskipulagi eins og fram kemur í bókun síðasta fundar ráðsins.
 
Það er álit Umhverfis -og skipulagsráðs að það deiliskipulag sem liggur fyrir, frá árinu 2015, sýni með afgerandi hætti hvernig byggja skuli á umræddum lóðum. Athugasemdir við skipulagið komu þegar það var lagt fram til kynningar, og var tekið tillit til þeirra athugasemda og sjónarmiða sem komu fram frá nágrönnum áður en til samþykktar kom. Hægt er að kynna sér deiliskipulagið á vef Vestmannaeyjabæjar en þar liggur deiliskipulagið fyrir.
 
Umhverfis -og skipulagsráð felur skipulags-og byggingarfulltrúa að ræða við bréfritara.
 
 
 
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:00
 

Baráttukveðjur frá ÍBV til Heimis og peyjana

Sumarlestur og málörvun

Nú er sumarfrí grunnskólabarna framundan og er það mörgum kærkomið. “Sumarið er tíminn” orti eitt okkar ástkærasta tónskáld og er sumarið einmitt tími betra veðurfars (alla vega í minningunni), meira frelsis og tími til að leika sér áhyggjulaus alla daga við vini og vinkonur.   Á Íslandi er sumarfrí grunnskólabarna að jafnaði 10-11 vikur og því er afskaplega mikilvægt að fara inn í sumarið með það í huga að lesturinn eigi aldrei að fara í frí. Rannsóknir hafa sýnt að þau grunnskólabörn sem ekkert lesa í sumarfríinu eiga erfiðara uppdráttar þegar skólinn byrjar aftur eftir svona langt frí.   Á vefsíðu Menntamálastofnunar (https://www.mms.is/sites/mms.is/files/sumarahrif_mms_vef_med_rettan_link.pdf) eru góðir punktar um sumaráhrif og lestur og hvernig afturför í lestrarfærni getur verið frá einum til þremur mánuðum á hverju sumri og hjá barni í 6. bekk sem aldrei hefur lesið bækur yfir sumartímann þá getur uppsöfnuð afturför verið allt að einu og hálfu skólaári. Það er því gríðalega mikilvægt að gefa lestrinum ekki frí, þó sumarfríið sé kærkomið, því allt nám byggist á lestrarfærni og mikilvægi þess að geta lesið sér til gagns. Yngri nemendur eru sérstaklega viðkvæmir fyrir sumaráhrifum og þau börn sem glíma við litla lestrarmenningu heima fyrir eða eiga annað móðurmál en íslensku eru einnig í áhættuhópi.   Lestur er því mikilvægur á sumrin og er það á ábyrgð okkar foreldra að sinna þessum efnum. Á vefsíðu Menntamálastofnunar er einnig hægt að nálgast sumarlestrarhest þar sem lestur er settur í skemmtilegar aðstæður sem gera lesturinn spennandi og skemmtilegan og eru foreldrar hvattir til að nýta sér hann. https://www.mms.is/sites/mms.is/files/dagatal_mms_sumarlestur2018_0.pdf   Einnig hefur Grunnskóli Vestmannaeyja sent sumarlestrarhest heim með nemendum sínum sem sniðugt er að nýta með börnunum okkar. Eins og áður segir skiptir lestur miklu máli en einnig er öll málörvun gríðarlega mikilvæg. Fyrst og fremst er þó mikilvægast af öllu að gefa börnunum okkar tíma!! Gefum þeim tíma til samveru, tíma til að lesa saman, tíma til að spila við þau, tíma til að syngja saman, tíma til að tala saman og tíma til að hlusta á þau. “Það læra börnin sem fyrir þeim er haft” er gott og gilt íslenskt máltæki og gott að tileinka sér það. Verum því börnunum okkar fyrst og fremst skýr málfyrirmynd! Hér á eftir eru hugmyndir að almennri málörvun barna og hvernig við sem foreldrar getum auðveldlega ýtt undir málþroska okkar barna:   Tölum (og tölum…) við barnið Öflug málörvun er alltaf góð. Mikilvægt er að gefa sér tíma til að spjalla við barnið hvort sem um er að ræða í leik eða daglegum störfum hversdagsins. Barnið verður þó líka að hafa svigrúm til að meðtaka það sem við segjum og við þurfum að gefa því tíma til að svara.   Notum sömu orðin – í mismunandi samhengi Börn læra stöðugt ný orð og til að hjálpa þeim að víkka orðaforðann þurfum við að vera þeim góð fyrirmynd. Dæmi: „Sjáðu boltann. Hann er sko aldeilis flottur þessi blái bolti. Þú átt næstum alveg eins bolta. Eigum við að setja litla bláa boltann ofan í kassann?“ „Er þér heitt? Já, ég veit, það er sjóðheitt hérna inni!“ „Ertu svöng? Ég er líka sársvöng, ég er alveg glorhungruð.“   Nefnum athafnir Tölum um það sem við gerum á hverjum degi, innan heimilis sem utan. Til dæmis þegar við erum að elda („nú set ég vatn í pottinn og svo fiskinn ofan í. Mmm… mér finnst fiskur svo góður.“), kaupum í matinn, þvoum bílinn, hengjum upp þvott o.s.frv. Verum dugleg að tala við barnið þegar við leikum við það, án þess að spyrja beinna spurninga sem krefjast einungis já/nei svars („Hvar ætli rauði kubburinn sé? Hérna er hann, nú set ég hann ofan á græna kubbinn.“). Í búðinni er hægt að spyrja barnið “hvaða ávexti og grænmeti eigum við að kaupa”? Eigum við að kaupa léttmjólk eða nýmjólk, gula mjólk eða bláa mjólk”? osfrv. Leyfum börnunum að vera þátttakendur í búðaferðinni.   Tölum um atburði í nútíð, þátíð og framtíð Ung börn lifa í núinu. Við þurfum því smám saman að byggja ofan á, tala um það sem hefur gerst og það sem á eftir að gerast. Þannig lærir barnið að skynja tímann og við leggjum grunn að skipulagningu frásagnar. Tölum um það sem ætlum að gera á eftir („fyrst ætlum við að fara í búðina, síðan ætlum við í sund og svo að heimsækja ömmu. Hún gefur okkur kannski ís.“). Síðan er hægt að rifja upp skemmtilega atburði („Manstu hvað við gerðum í gær? Fyrst fórum við í búðina, svo í sund og svo til ömmu. Manstu hvað amma gaf okkur góðan ís?“). Ekki er verra að hafa myndir til að styðjast við þegar skemmtilegir atburðir eru rifjaðir upp.   Verum barninu skýr málfyrirmynd Reynum að öðlast tilfinningu fyrir málskilningi barnsins, þ.e hvað barnið skilur af því sem sagt er við það. Notum setningar sem við vitum að barnið skilur en munum að bæta stöðugt við nýjum orðum og hugtökum. Notum bendingar til skýringar (t.d. benda á hluti eða myndir) og útskýrum orð eða notum samheiti („veistu að drengur þýðir það sama og strákur og stúlka þýðir það sama og stelpa?“). Gætum þess að tala ekki of hratt.   Kynnum ný orð og hugtök til sögunnar Í leik eða daglegum athöfnum er gott að nefna liti, tölur og bókstafi þegar slíkt á við. Tölum um afstöðuhugtök (t.d. undir, yfir, kringum, við hliðina o.s.frv.), lýsandi hugtök (t.d. þessi pollur er grunnur en þessi er djúpur, eða, þessi bolti er stærri en þessi og þessi er minnstur). Nefnum líkamshluta, t.d. þegar verið er að baða eða hátta. Tölum um mismunandi áferð t.d. fatnaðar (mjúkur, hrjúfur) o.s.frv. Allt sem okkur dettur í hug!   Bergmálun Oft er talað um að það skili ekki árangri að hafa beinar leiðréttingar á málfari, a.m.k. ekki þegar barnið er ungt að árum. Höfum „rétt“ mál fyrir barninu með því að endurtaka það sem þau segja á réttan hátt. Dæmi: Barnið segir, „Jói hlaupaði með mér út á fótboltavöll”. Við segjum við barnið, “hljóp Jói með þér alla leið út á fótboltavöll”? Ekki er æskilegt að segja við barnið “nei, þú átt ekki að segja hlaupaði heldur hljóp”. Endurtökum jafnvel orðin eða setninguna í öðru samhengi.   Lesum á hverjum degi Lestur fyrir börn felur í sér mikla og góða málörvun og er ein sú albesta málörvun sem hægt er að hugsa sér. Við lestur örvum við og aukum við orðaforða barna, þau kynnast annarskonar málfari en við notum venjulega og það er hollt og gott að lesa sömu bækurnar aftur og aftur. Börnin skynja uppbyggingu frásagnar, skipulag atburðarásar, orðaröð og setningagerð. Við upphaf lestrar ættum við að skoða bókarkápuna með barninu, spá í nafnið á bókinni og íhuga efni bókarinnar út frá titlinum. Þegar við lesum þurfum við að hafa orðaskil greinileg, ýkja örlítið blæbrigði, benda á myndir um leið og lesið er, útskýra orð og hugtök í stuttu máli ef þörf krefur eða nefna önnur orð til skýringar. Byrjum að lesa fyrir börn um leið og þau geta fylgst með stórum og einföldum myndum (vanalega upp úr þriggja mánaða aldri). Gott er að rifja upp með því að spyrja “hvað lásum við í gær” og spyrja “hvað hefði getað gerst”? “af hverju heldurðu að strákurinn hafi verið leiður”? osfrv. Það hvetur þau til að draga ályktanir og setja sig í spor annarra.   Hvetjum barnið til að segja frá. Það er mikilvægt fyrir barnið að læra að skipuleggja frásögn og segja frá atburðum. Við þurfum að vera góð fyrirmynd. Segjum frá okkar degi áður en við spyrjum hvað þau hafi verið að gera í leikskólanum. Rifjum sameiginlega upp skemmtilega atburði. Fyrir börn sem skynja illa atburðarás og eiga í erfiðleikum með að segja frá er gott að nota dagbækur sem ganga t.d. á milli heimilis og leikskóla. Gott er að styðjast við myndir til að hvetja barnið til frásagnar. Mikilvægt er að spyrja opinna spurninga og mismunandi spurninga til að fá barnið til að tjá sig með fleiri orðum.   Búum til sögur saman Segjum sögur upp úr okkur eða eftir myndum. Hvetjum barnið til þess sama. Skrifum niður sögur sem barnið segir. Hægt er að búa til litla bók með auðum blaðsíðum, skrá sögur og leyfa barninu að skreyta bókina. Einnig er sniðugt að klippa út teiknimyndasögur úr dagblöðum, raða í rétta röð og líma í bók. Barnið er þá hvatt til að „lesa“ söguna og rekja hana frá vinstri til hægri (líkt og texta í bókum).   Málörvun í bílnum Flestir eyða töluverðum tíma á degi hverjum í bíl. Notum þennan tíma til að örva mál barnsins, t.d. rifja upp atburði dagsins, nefna kennileiti, syngja eða fara með vísur, finna orð sem ríma, Frúin í Hamborg, “Ég sé” og finna eitthvað sem byrjar á bókstaf, segja orð sem byrja á síðasta bókstaf fyrra orðs eða bara hvað sem er. Þegar Landeyjarhöfn virkar er upplagt að nýta akstursleiðina til Reykjavíkur í málörvun með börnunum okkar.   Syngjum saman Syngjum fyrir eða með barninu alveg frá fæðingu þess. Gott er að kynna sér hvaða lög verið er að syngja í leikskólanum. Börnum finnst gaman að setja nýja (bulltexta) við gömul lög. Gott er að lesa fyrir barnið skemmtilegar rímaðar vísur eða kvæði með söguþræði, t.d. Tótu tætibusku, En hvað það var skrýtið!, o.s.frv. Leikum okkur með rím og hvetjum barnið til að „bullríma“. Sum börn hafa ekki gaman að söng vegna þess að þau ráða ekki við orðin eða taktinn. Með þessum börnum er hentugt að nota tákn (sbr. Tákn með tali) og syngja hægt og taktvisst . Flest börn hafa gaman af að syngja – fyrr eða síðar!   Þykjustuleikir Förum í þykjustuleiki með börnunum. Það geta verið dúkku-, búðar-, löggu- eða læknisleikir eða þykjast að tala í síma. Verum dugleg að nota þykjustuhluti til að virkja og efla ímyndunarafl barnsins.   Brandarar Börn fá fljótt tilfinningu fyrir kímni. Frá unga aldri er hægt að bulla með þeim og búa til skrýtin hljóð og orð. Seinna er hægt að leika sér með orð og setningar. Oft eru heimatilbúnir, einfaldir brandarar skemmtilegastir. Við matarborðið er upplagt að hafa “brandarahring” þar sem allir við borðið skiptast á að segja brandara, bæði heimatilbúna og ekki.   Gátur Leggjum fyrir börnin einfaldar gátur, t.d. Hvað er lítið og loðið og geltir voff, voff? Hvað er rautt og vex á trjám? Einnig er hægt að fara í leiki eins og Ég sé… (lýsa hlut og barnið reynir að geta upp á).   Teiknimyndir í sjónvarpi Horfum með barninu á leikna mynd eða teiknimynd í sjónvarpinu. Tölum um myndina og rifjum upp söguþráðinn. Veltum fyrir okkur með barninu hvernig sagan hefði getað endað á annan hátt. Spyrjum opinna spurninga (ekki spurninga sem krefjast þess að svarað er eingöngu með já eða nei). Hvetjum barnið til að sitja ekki lengi í einu fyrir framan sjónvarpsskjáinn.   Tölvuleikir og Spjaldtölvur Til eru á geisladiskum alls konar málörvandi leikir eins og t.d. A-Ö, Leikskólinn og Leikver, Stafakarlarnir og fleiri. Einnig eru til mörg málörvandi öpp sem gott er að nýta í málörvun. En þá er mikilvægt að sitja með barninu og fara með því í gegnum leikinn og tala við barnið um leikinn eða hvað það er að gera. Það er ekki nóg að rétta því ipadinn og ætlast til að hlutirnir komi af sjálfu sér. Til dæmis er hægt að spila einföld minnisspil á ipad með því að segja alltaf hvað það er sem kemur upp á myndina. Þannig er hægt að auka orðaforða barnsins og ræða um þau orð sem koma fyrir. Ekki gleyma því að við örvum barnið með því að vera í návist þess og tala við það – og umfram allt, leyfa því að tjá sig. Gleðilegt sumar!  

Gunnar Karl Guðmundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri hjá Herjólfi

Gunnar Karl Guðmundsson hefur verið ráðinn í stöðu verkefnastjóra/framkvæmdastjóra hjá Herjólfi ohf. Gunnar býr yfir mikilli reynslu úr íslensku atvinnulífi. Stjórnin lýsir yfir mikilli ánægju með að hafa fengið Gunnar til starfans, en Capacent hafði milligöngu um ráðninguna. Um er að ræða tímabundna ráðningu sem gildir til 31. október nk. Gunnari er fyrst og fremst ætlað að leiða það starf að undirbúa komu nýju ferjunnar og yfirtöku félagsins á rekstri ferjusiglinga milli lands og Eyja. Áætlað er að nýja ferjan hefji siglingar um miðjan október, þ.e. ef allt gengur að óskum.    Stjórn Herjólfs ohf. hefur ákveðið að auglýsa opinberlega starf framkvæmdastjóra félagsins í júlí nk., með það að leiðarljósi að sá og/eða sú sem yrði ráðinn/n geti losað sig tímanlega úr sínu fyrra starfi eftir atvikum og tekið við starfi framkvæmdastjóra félagsins eigi síðar en 1. nóvember nk. Stjórn Herjólfs ohf. hefur þegar auglýst eftir skipstjóra og yfirvélstjóra á hið nýja skip. Er það gert svo þeir sem ráðnir verða geti fengið undirbúningsþjálfun og verið til taks við móttöku skipsins. Umsóknarfrestur um störfin er liðinn. Þar sem fjölmiðlar hafa óskað eftir því að fá uppgefin nöfn þeirra sem sótt hafa um störfin, vill stjórn Herjólfs ohf. taka fram að almennt er sú regla við lýði að birta ekki nöfn einstakra umsækjenda í störf. Er það ekki síst gert af tillitssemi við umsækjendur sem oft eru í öðru starfi þegar að þeir sækja um. Það að trúnaður gildi um starfsumsóknir er ein af grunnforsendum þess að fá marga einstaklinga til að sækjaum.   Stjórn Herjólfs ohf. hefur í þessu ljósi tekið ákvörðun um að verða ekki við beiðni fjölmiðla um nafnbirtingu umsækjenda í störf yfirvélstjóra og skipstjóra á Herjólfi. Þar sem væntanlegir starfsmenn félagsins eru ekki opinberir starfsmenn í skilningi laga nr. 70/1996, á nafnabirting umsækjenda ekki við í þessu tilfelli. Af þeirri ástæðu hefur félagið ákveðið að fylgja þeirri meginreglu sem gildir um að birta ekki nöfn umsækjenda og halda þannig trúnaði við umsækjendur um umrædd störf, enda hafa þeir sent inn sínar umsóknir í þeirri trú að um þær myndi ríkja trúnaður. Capacent mun svo hafa umsjón með því að vinna frekar úr þeim umsóknum sem hafa borist um umrædd störf.   Virðingarfyllst, f.h. stjórnar Herjólfs ohf., Grímur Gíslason stjórn.form  

Rúbiks-kubbamót verður haldið í Eyjum á morgun

Nefbrotinn eftir líkamsárás

Ein líkamsárás var tilkynnt lögreglu í vikunni sem leið en árásin átti sér stað aðfaranótt sl. föstudags á einu af öldurhúsum bæjarins. Þarna hafði orðið ósætti milli tveggja manna sem endaði með því að annar sló hinn og er grunur um að sá sem fyrir árásinni varð sé nefbrotinn. Málið er í rannsókn.   Síðdegis þann 2. júni sl. var lögreglu tilkynnt um skemmdir á bifreið sem stóð við Kirkjuveg 26. Skemmdir voru á vélarloki og framenda bifreiðarinnar,en talið er að skemmdirnar hafi átt sér stað að kvöldi 1. júní eða aðfaranótt 2. júní. Ekki er vitað hver þarna var að verki og óskar lögregla eftir upplýsingum um hugsanlegan geranda.   Þrjú umferðaróhapp var tilkynnt lögreglu í vikunni sem leið. Tjón varð bæði á bifreið og grindverki í Áshamri þegar mannlaus bifreið rann á grindverkið.   Í lok síðustu viku var lögreglu tilkynnt um árekstur og brottför en tjón varð á bifreið sem lagt var við Foldahraun 41 en talið er að ekið hafi verið utan í bifreiðina að kvöldi 27. maí sl.   Sl. sunnudag var lögreglu tilkynnt um að ekið hafi verið utan í bifreið sem stóð við Smáragötu 13 en ekki er ljóst hvenær atvikið átt sér stað en talið að það hafi verið um liðna helgi.   Einn ökumaður var stöðvaður í vikunni, grunaður um akstur undir áhrifum ávana og fíkniefna. Þá voru tveir ökumenn stöðvaðir fyrir of hraðan akstur, mældust báðir þeirra á 68 km/klst. á Hamarsvegi en hámarkshraði á Hamarsvegi er 50 km/klst.   Einn ökumaður var sektaður fyrir ólöglega lagningu ökutækis.  

Sjómannadagurinn - Fjölbreytt dagskrá alla helgina

Dagskrá Sjómannadagsins hófst í gær með tónleikum Emmsé Gauta í Alþýðuhúsinu. Ölstofa The Brothers Brewery kynnti Sjómannabjórinn 2018 Sverri en Sverrir Gunnlaugs skipstjóri er sjómaður ársins 2018 og er Sjómannabjórinn tileinkaður honum.   Dagskránni var framhaldið í morgun um með Opna Sjómannamóti Ísfélags Vestmannaeyja í golfi þar sem vegleg verðlaun voru í boði. Breki VE61, nýtt skip Vinnslustöðvarinn var nefndur við hátíðlega athöfn á bryggjunni við frystigeymslu VSV. Strax á eftir voru nýjum frystigeymslum gefið nafn. VSV gaf börnum gjafir og veitngar voru í boði.   Í kvöld verður rokkað feitt á Skonrokki í Höllinni til heiðurs sjómönnum og fjölskyldum þeirra. Pétur Örn, Stefán Jacobs, Dagur Sigurðs, Eyþór Ingi og Jóhanna Guðrún mæta og húsið opnar kl. 21.00.   Á morgun verður dagskránni framhaldið með dorgveiðikeppni Sjóve og Jötuns á Nausthamarsbryggju. Vegleg verðlaun í boði. Á hádegi þeytir Eyjaflotinn skipsflauturnar Eftir hádegi er dagskrá á Vigtartorgi. Séra Viðar Stefánsson blessar daginn. Kappróður, koddaslagur, Lokahlaup, Sjómannaþraut. Listflug, Foosball völlur á staðnum, þurrkoddaslagur fyrir krakkana. Kjörís verður á bryggjunni að gefa ís og kynna nýjungar. SS mætir og grillar í fólkið. Ribsafari býður ódýrar ferðir. Hoppukastalar og flossala. Drullusokkar mótorhjólaklúbbur verða með opið á Skipasandi og sýna fáka sína. Um kvöldið er Hátíðarsamkoma Sjómannadagsráðs í Höllinni þar sem Einsi Kaldi býður upp á hátíðarkvöldverð. Veislustjóri er Sóli Hólm og Stefanía Svavars, Stebbi Jak og Jarl Sigurgeirsson skemmta. Albatros skemmtir og spilar á balli Háaloftið verður opið með allskonar tilboð og kósýheit.   Á sunnudaginn er hefðbundin dagskrá, Sjómannamessa í Landakirkju. Séra Viðar Stefánsson predikar og þjónar fyrir altari. Eftir messu er minningarathöfn við minnisvarða hrapaðra og drukknaðra. Lúðrasveit Vestmannaeyja leikur nokkur lög. Blómsveigur lagður að minnisvarðanum. Snorri Óskarsson stjórnar athöfninni. Sjómannadagskaffi Eykyndilskvenna opnar í Alþýðuhúsinu verður á sínum stað. Hátíðardagskrá á Stakkó verður með hefðbundnum hætti. Lúðrasveit Vestmannaeyja leikur, aldnir sægarpar verða heiðraðir. Karlakór Vestmannaeyja flytur nokkur lög undir stjórn Þórhalls Barðasonar. Ræðumaður Sjómannadagsins er Andrés Þ Sigurðsson. Verðlaunaafhending fyrir kappróður, koddaslag, lokahlaup, sjómannaþraut, dorgveiðimót og Sjómannamótið í Golfi. Leikfélagið, Fimleikafélagið Rán, hoppukastalar, popp og flos.   Klukkan 16:00 ÍBV-KR á Hásteinsvelli. Allir á Völlinn. 900 Grillhús verður með grillvagnin á svæðinu   Sýningar og Söfn   Sagnheimar, byggðasafn. Opið kl. 10-17 alla helgina. Einarsstofa. 10-17 með samstarfssýninguna Fólk á flótta. “Don´t look back – just carry on – luggage”. Sýningin er samstarfsverkefni Grunnskóla Vestmannaeyja (GRV) og þriggja annarra skóla frá Rúmeníu, Svíþjóð og Póllandi í samstarfi við Sagnheima. Vesrkenið er styrkt af SASS. Sæheimar, Opið 10-17 alla helgina. Ókeypis aðgangur á sunnudeginum. Eldheimar: 11-18     TILKYNNINGAR FRÁ SJÓMANNADAGSRÁÐI    Þeir sem ætla að taka þátt í kappróðrinum og öðrum dagskráratriðum vinsamlegast hafið samband í síma 869-4449, eða á facebook síðu sjómannadagsráðs. Ein rúta á lið fyrir þáttöku í kappróðri    Miðasala á dansleikinn verður í Höllinni á laugardag frá kl. 13-17. Einnig verður hægt að kaupa miða við innganginn. Borðapantanir í síma 846-4086    Sjómannadagsráð Vestmannaeyja, s: 869-4449, 697-9695 og 8987567   SJÓMANNADAGSBLAÐ VESTMANNAEYJA Karate-félagið mun ganga í hús Vikuna fyrir sjómannadag og selja Sjómannadagsblaðið og Sjómannadagsmerkin      

Róbert Aron Hostert á förum frá ÍBV - búinn að semja við Val

Róbert Aron Hostert, leikstjórnandi ÍBV í handbolta, er á förum frá félaginu en hann greindi frá tíðindunum á facebook fyrr í dag. Róbert Aron, sem er uppalinn hjá Fram, mun leika með Val á næstu leiktíð en þar mun hann hitta fyrrum samherja sinn hjá ÍBV, Agnar Smára Jónsson.   Í yfirlýsingu sinni segir Róbert Aron að ákvörðunin hafi verið tekið af persónulegum ástæðum og að hún hafi verið honum erfið. Hér má sjá tilkynningu Róberts Arons í heild sinni:   Jæja elsku vinir í Vestmannaeyjum! Nú er komið að tímamótum hjá mér og tilkynni ég hér að ég mun ekki spila fyrir ÍBV á næstu leiktíð. Þetta er mér gríðarlega erfið ákvörðun sem er tekin af persónulegum ástæðum. Með því að fara frá ÍBV er ég ekki aðeins að kveðja vini mína í ÍBV heldur heilt samfélag af æðislegu fólki. Allir í Eyjum hafa sýnt mér stuðning, ást og vinskap og það er heiður að hafa verið hluti af þessu batteríi. Ég er svo fáranlega stoltur af því að hafa spilað fyrir bandalagið ÍBV. Það spurðu mig margir hvað ég væri að pæla með að þvælast út í Eyjar á sínum tíma. Fer ekkert nánar útí það en ég held að allir séu búnir að fá svarið við þvi í dag! Í Eyjum hef ég fengið að spila handbolta í hæsta gæðaflokki með geggjuðum leikmönnum, undir topp þjálfurum og bestu stuðningsmönnum landsins. Vegna þessa höfum við unnið 4 stóra titla. Ég eignaðist risa stóra fjölskyldu sem ÍBV er og ég elska hana útaf lífinu og mun alltaf gera. Að auki hef ég kynnst mörgum af mínum bestu vinum. Að hafa upplifað þetta allt saman með ykkur er ógleymanlegt. Ég vil þakka öllu starfsfólki og stjórnarmönnum ÍBV fyrir frábært samstarf. Takk stuðningsmenn! Þið eruð einstakir og ég elska ykkur! Það er svo mikið af fólki sem ég vill þakka persónulega með knúsi og einlægni og það mun ég gera við fyrsta tækifæri. Áfram Vestmannaeyjar!! Hostert Out!!!!    

Sverrir fer á dælu í dag kl. 18:00

Síðastliðinn tvö ár hefur brugghúsið The Brothers Brewery í Vestmannaeyjum valið einn sjómann úr Eyjaflotanum og tilnefnt hann sem sjómann ársins. 2016 var það Ragnar Þór Jóhannsson eða Raggi Togari eins og hann er jafnan kallaður og 2017 var það Ríkharður Zoëga Stefánsson sem valdir voru sem sjómenn ársins. Í framhaldinu hafa strákarnir í The Brothers Brewery bruggað bjór í samstarfi við sjómenn ársins og selt á valda veitingastaði.   Í ár er sjómaður ársins Sverrir Gunnlaugsson skipstjóri en Sverrir hefur ákveðið að setjast í helgan stein og mun hann hætta störfum á komandi mánuðum. Á sínum sjómannsferli hefur Sverrir m.a. verið á Vestmannaey VE, Bergey VE, Erlingi KE, Jóni Vídalín VE, Gullbergi VE, Sindra VE, Berg VE, Ófeigi VE, Dala Rafni VE, Huginn VE og Hamrabergi VE.     Í samtali við Eyjafréttir sagði Jóhann Guðmundsson, yfirbruggari The Brothers Brewery, Sverri hafa tekið vel í hugmyndina að fá bjór nefndan eftir sér. Jafnframt segir Jóhann bjórinn Sverri vera þægilegan og léttan miðað við prósentu. „Sverrir tók mjög vel í þá hugmynd og þakkaði fyrir þann heiður að fá þessa nafnbót. Það var ekki hægt að horfa fram hjá Sverrir þar sem hann er að hætta sjómennsku eftir 50 ár á sjónum. Hann hefur verið farsæll sem skipstjóri og stýrimaður og gríðarlega vel liðinn af samstarfs fólki sínu. Við erum þakklátir Sverri að taka þátt í þessu með okkur.“   Hvað getur þú sagt mér um bjórinn Sverri? „Sverrir er 8% Stout sem er svo blandaður með sér ristuðu kaffi frá Te og Kaffi. Ristað kaffi og súkkulaði er einkennandi fyrir bjórinn en þrátt fyrir þetta er hann samt léttur og þæginlegur þrátt fyrir 8%,“ segir Jóhann. Togarinn og Zoëga hafa samanlagt safnað um einni milljón króna til styrktar Krabbavarnar og er stefnan að sjálfsögðu að gera enn betur í ár. „Auðvitað er það alltaf markmiðið að gera betur en það er ekki í okkar höndum. Við sjáum um að framleiða bjórinn og í samstarfi við Sjómannadagsráðið í Vestmannaeyjum er bjórinn boðinn upp til góðgerðarmála á sjómannaballinu. Þar eru það sjómenn og útgerðir sem hafa tekið sprotanum og lagt Krabbavörnum lið. Þarna standa allir saman fyrir gott málefni.“   Hvar verður hægt að nálgast bjórinn? „Við munum byrja að selja hann á ölstofunni okkar á fimmtudaginn klukkan 18:00. Einnig verður hægt að nálgast hann á Micro bar í Reykjavík og nýjum vínbar Te og kaffi úti á Granda,“ segir Jóhann að lokum.      

Besti árangur allra lífeyrissjóða á Íslandi árið 2017

Lífeyrissjóður Vestmannaeyja hefur það eina hlutverk að varðveita sjóði eigenda hans og ávaxta þá til að greiða þeim sömu eigendum lífeyri. Sá lífeyrir er margvíslegur og til allrar lukku er það aðallega ellilífeyrir, því lífslíkur okkar eru orðnar það miklar. Einnig er stór þáttur örorkulífeyrir og aðrar lífeyrisgreiðslur eins og t.d. maka- og barnalífeyrir.   Á árinu 2017 greiddu 2.205 sjóðfélagar iðgjöld til sjóðsins alls kr. 1.397.000.000 eða um 1,4 milljarða króna. En á sama tíma voru útgreiðslur lífeyris kr. 1,548.000.000 og hækkuðu um 5,8% frá fyrra ári. Lífeyrisþegar voru alls 1.679, mest ellilífeyrisþegar. Sem þýðir að sjóðurinn er orðinn fullþroskaður og farinn að greiða meira út í lífeyri en sem nemur iðgjöldum. Og allur útgreiddur lífeyrir er sem betur fer tryggður með verðtryggingu.   Undanfarin misseri hefur stórt skref verið stigið í átt að jöfnun lífeyrisréttinda milli almenna vinnumarkaðarins og þess opinbera. Í kjarasamningi aðila almenna vinnumarkaðarins hækkaði iðgjald atvinnurekenda í lífeyrissjóði fyrst um 0,5% 1. júlí 2016 og um 1,5% 1. júlí 2017. 1. júlí n.k. hækkar mótframlag atvinnurekenda um 1,5% og verður þá samanlagt 11,5% að viðbættu 4% framlagi launþega sem verður áfram óbreytt eða alls 15,5%. Hækkunin á þó ekki við um alla kjarasamninga, sem dæmi er mótframlagið óbreytt hjá sjómönnum eða 8%.   Mikið og strangt eftirlit er með starfsemi og fjárfestingum sjóðsins. Þar standa daglega vaktina framkvæmdastjóri og tveir starfsmenn. Eitt endurskoðunarfyrirtæki sér um ytri endurskoðun, endurskoðar sjóðinn og gerir ársreikning ásamt því að skoða reglulega ýmsa þætti er snúa að rekstrinum. Annað endurskoðunarfyrirtæki sér um innri endurskoðun og fer yfir verkferla og öryggismál eins og persónuvernd og ýmsa aðra þætti.   Endurskoðunarnefnd er starfandi í sjóðnum og fer yfir starfsemi og verklag það sem er viðhaft innan sjóðsins. Greiningarfyrirtæki fer nokkrum sinnum á ári yfir áhættuþætti í innra og ytra umhverfi sjóðsins og skilar skýrslu þar um. Seðlabanki Íslands og sérstaklega Fjármálaeftirlitið fylgist náið með starfseminni, fer reglulega yfir svo dæmi sé tekið fjárfestingar miðað við fjárfestingarstefnu, störf og fundargerðir stjórnar og láta sér ekkert er snýr að rekstri sjóðsins vera sér óviðkomandi. Þar að auki fer tryggingastærðfræðingur yfir skuldbindingar sjóðsins og hvort sjóðurinn geti staðið við þær greiðslur sem hann er að lofa.   En fyrst og fremst er það stjórn sjóðsins sem ber ábyrgð á rekstri hans, að allar fjárfestingar og rekstur uppfylli lög, reglur og samþykktir. Auk siðferðislegrar ábyrgðar þá bera stjórnarmenn persónulega fjárhagslega ábyrgð misfarist eitthvað, og ef ekki hafi verið farið eftir lögum og reglum í ákvörðunum hennar varðandi sjóðinn. Þannig er hægt að fullyrða að rekstur og eftirlit með sjóðnum er eins og best gerist hér á landi.   Lífeyrissjóður Vestmannaeyja er langtímafjárfestir og horfir til þess við stýringu á fjárfestingum sínum. Horft er til þeirra kjara sem eru í boði hverju sinni að teknu tilliti til áhættu. Sjóðurinn hefur sérstaka áhættustefnu samkvæmt lögum, sem er varfærin og hefur skilað sjóðnum árangri til lengri tíma litið. Á þann máta eru hagsmunir sjóðfélaga Lífeyrissjóðsins best tryggðir. Sjóðurinn er einn örfárra lífeyrissjóða sem ekki skerti réttindi lífeyrisþega eftir hrun og erum við stjórnin og starfsmenn stolt af því. Rekstur sjóðsins gekk vel á síðasta ári, árangur mældur í raunávöxtun er um 6,3%, nafnávöxtun um 8,2%. Jákvæð afkoma var af öllum flokkum verðbréfa þó mest í erlendum framtaks- og hlutabréfasjóðum og það þrátt fyrir umtalsverða styrkingu íslensku krónunnar. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu 5 ára er 4,84% og síðustu 10 ára 2,3%, þar vega hrunárið og árin á eftir þungt.   Hrein eign sjóðsins til greiðslu lífeyris nam alls kr. 49.400.000.000 eða 49,4 milljörðum í árslok. Á árinu hækkaði eignin um rúmar kr. 3.600.000.000 eða 3,6 milljarða sem gerir 8% hækkun.   Af fjárfestingum sjóðsins voru 63% í íslenskum krónum og 37% í erlendum gjaldmiðlum. Gengi íslensku krónunnar styrktist árið 2017 um 0,73% gagnvart erlendum gjaldmiðlum en um 7,45% gagnvart bandarískum dollar og hafa erlendar eignir reynst sjóðnum hvað best til lengri tíma litið.   Sem betur fer eru ævilíkur þjóðarinnar að aukast og heilsufar almennt að batna, sem er mjög jákvæð þróun. Á móti kemur krefjandi verkefni að tryggja viðunandi lífsafkomu fólks á efri árum þar sem fólk lifir lengur en heildarlífeyrisréttur eykst ekki að sama skapi að óbreyttu.   Lífeyrissjóður Vestmanneyja, stjórn hans og starfsfólk horfir til þessa krefjandi verkefnis í framtíðinni, bæði hækkun á lífeyrisaldri sem og hækkunar iðgjalda. Góður árangur er aldrei sjálfgefinn og á sér ekki stað nema fyrir góða frammistöðu stjórnenda og starfsmanna.   Þrátt fyrir að Lífeyrissjóðurinn sé í hópi minni lífeyrissjóða á Íslandi þá stendur hann framar flestum öðrum sjóðum í lágri hlutdeild rekstrarkostnaðar og það sem athyglisvert er, að sjóðurinn var með bestu ávöxtun allra lífeyrissjóða á Íslandi á síðasta ári.   Arnar Hjaltalín Formaður stjórnar Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja 2017 -2018    

Ákærður fyrir að bera út hatur í nafni konu sinnar

Grunnforsendur nýrrar ferju brostnar

Í ný undirskrifuðum samningi milli Vestmannaeyjabæjar og Vegagerðarinnar er fallið frá grunnforsendum við hönnun nýrrar ferju fyrir Vestmanneyinga.   Orðrétt segir í samningnum:“ Viðmiðunarmörkin eru ákveðin 3,5 m hæð kenniöldu miðað við stórstraumsfjöru og sveiflutíma vatnsdýpi á rifi 6,5 m og í hafnarmynni 6 m í stuttri öldulengd“.   Svipað viðmið og er í dag Í forsendum fyrir nýju ferjunni stendur að hún geti örugglega siglt þegar kennialda á dufli við Landeyjahöfn er 3,5 m og dýpi á rifi 5 m og dýpi í hafnarmynni 4,5 m. Í samningnum góða er sem sagt gert ráð fyrir að til að uppfylla skilyrði fyrir því að sigla í 3,5 m ölduhæð þurfi dýpið að vera 1,5 m meira á rifi og í hafnarmynni.   Með öðrum orðum, til að nýja ferjan geti uppfyllt hönnunarkröfur þá má kennialdan ekki vera meiri en 2,0 metrar á dufli, eða svipað og í dag.   Sparnaðurinn virðist gufaður upp Þetta þýðir að það verður í raun lítill sem engin munur á getu nýju ferjunnar og núverandi Herjólfs í siglingum til Landeyjahafnar, en mikill munur þegar siglt er til Þorlákshafnar, en gert er ráð fyrir 71 degi þangað á ári. Í minnisblaði unnið fyrir bæjarráð 4.12.2014 kemur fram að árlegur sparnaður við dýpkun fyrir nýja ferju sé 140 milljónir á ári. Sá sparnaður virðist gufaður upp.   Samgöngur á sjó eru ekki gamanmál. Er ekki kominn tími til að breyta um lið til að gæta okkar hagsmuna?   „Það þarf kjark til að breyta“   Kjósum með hjartanu Fyrir Heimaey. X-H á kjördag.   Sveinn Rúnar Valgeirsson   Höfundur skipar 6. sæti á lista Fyrir Heimaey í komandi bæjarstjórnarkosningum.  

Í aðdraganda kosninga

Nú eru örfáir dagar til kosninga í sveitastjórnum landsins. Landsmenn allir eru eflaust komnir með nóg af upplýsingum og loforðum á öllu milli himins og jarðar. Við hjá Fyrir Heimaey einsettum okkur í byrjun að reyna eftir fremsta megni að fá umræðu um hvað mætti betur fara í okkar samfélagi. Við erum ungt bæjarmálafélag byggt á breiðum grunni fólks sem vill bæta samfélagið. Það hefur fallið í misjafnan jarðveg hjá þeim sem hafa setið við stjórnvölinn undanfarin ár og einnig þeim sem hafa unnið í minnihluta. Það sem við teljum að við höfum allavega náð fram í þessari kosningabaráttu er að færa umræðuna að mestu leyti yfir á málefnalegar nótur. Þó hafa einhverjar undantekningar verið á því og fólk frekar hjólað í persónur, reynt að koma með fýlugreinar og margt annað sem að okkar mati er til að slá ryki í augun á kjósendum. Við viljum opnar umræður um hagsmunamál bæjarbúa, við viljum að fólk fái að hafa skoðanir og sé ekki hrætt við að tjá þær skoðanir án þess að vera sakað um sundrungartal eða óþarfa neikvæðnisathugasemdir. Við sjáum það á stefnuskrám hinna framboðanna að við höfum allavega komið inn með ferska vinda í umræðuna. Það eru meira að segja framboð farin að tala um opnari stjórnsýslu og að framkoma fulltrúa bæjarins á öllum stigum sé framborin af auðmýkt og virðingu en samt formfestu og öruggrar hagsmunagæslu fyrir þessa gersemi sem bæjarfélagið okkar er. Fyrir það erum við stolt, því að við erum ungt afl og teljum okkur hafa margt fram að færa í umræðuna. Við höfum náð að breyta henni á jákvæðan hátt, án þess einu sinni að vera komin með kjörna fulltrúa í bæjarstjórn Vestmannaeyja. Við göngum full sjálfstrausts og full af bjartsýni inn í þessa síðustu daga kosningabaráttunnar. Við teljum fulla þörf á að fólk þurfi að hafa valkost eins og við erum. Valkost sem fólk virðist samsvara sig við og þessar jákvæðu undirtektir sem við höfum fundið fyrir hjá flestum, gefa okkur svo mikið. Við ætlum að standa undir því nafni og málefnum sem við stöndum fyrir. Það er líka ljúft á þessum degi að fagna nýjasta titlinum hjá ÍBV í handboltanum. Því að við stöndum einmitt fyrir það að styðja og styrkja þetta frábæra félag sem við eigum saman og sameinar okkur öll í þeirri gleði og sigurvilja sem við berum í brjósti okkar. Setjum X við H á kjördag. Fyrir HeimaeyStyrmir Sigurðarson 12.sæti 

Sverrir Gunnlaugsson er sjómaður ársins 2018

Síðastliðinn tvö ár hefur brugghúsið The Brothers Brewery í Vestmannaeyjum valið einn sjómann úr eyjaflotanum og tilnefnd hann sem sjómann ársins. 2016 var það Ragnar Þór Jóhannsson eða Raggi Togari eins og hann er jafnan kallaður og 2017 var það Ríkharður Zoëga Stefánsson sem valdur voru sem sjómenn ársins. Í framhaldinu hafa strákarnir í The Brothers Brewery bruggað bjór í samstarfi við sjómenn ársins og selt á valda veitingastaði.   Um milljón króna safnast til góðgerðarmála  Flaska af sjómannabjórnum ár hvert farið í uppboði á sjómannaballi Sjómannadagsráðs og hefur ágóði uppboðsins runnið til Krabbavarna í Vestmannaeyjum. Samtals hafa bjórarnir Togarinn og Zoëga safnað um milljón sem runnið hefur óskipt til Krabbavarna.   Sverrir Gunnlaugsson skipstjóri er sjómaður ársins 2018  Í ár er sjómaður ársins Sverrir Gunnlaugsson skipstjóri en Sverrir hefur ákveðið að setjast í helgan stein og mun hann hætta störfum á komandi mánuðum. Á sínum sjómannsferli hefur Sverrir m.a. verið á Vestmannaey VE, Bergey VE, Erlingi KE, Jóni Vídalín VE, Gullbergi VE, Sindra VE, Berg VE, Ófeigi VE, Dala Rafni VE, Huginn VE og Hamrabergi VE. Sverrir hefur verið gríðarlega fengsæll skipstjóri og stýrimaður og er það mál manna sem hafa unnið með honum til sjós að þægilegt og gott hafi verið að vinna með Sverri.   Sjómannabjórinn 2018 heitir Sverrir og er 8% stout. Sverrir mun fara í sölu á valda veitingastaði og bari einhverjum dögum fyrir sjómannadagshelgina.      

Séra Kristján nýr vígslubiskup í Skálholti

Fyrir skömmu lá fyrir niðurstaða í kosnngu um stöðu vísglubiskipps í Skálholti. Kosið var á milli tveggja og hafði séra Kristján Björnsson, prestur á Eyarbakka og fyrrum sóknarprestur í Vestmannaeyjum betur. Fékk hann 55% atkvæða.   Sr. Kristján er fæddur í Stórholti 39 í Reykjavík 6. des. 1958. Hann er skipaður sóknarprestur í Vestmannaeyjum frá 1. sept. 1998, vígður á Hólum í Hjaltadal 9. júlí 1989 og var sóknarprestur Breiðabólsstaðarprestakalls í Húnavatnsprófastsdæmi, frá 1989 til 1998. Hann stundaði fullt starfsnám í klínískri sálgæslu, CPE, á Tampa General Hospital í Tampa á Flórída 2003-4 og var þar sjúkrahúsprestur. Nokkur námskeið tengd þjónustunni, m.a. um áfallahjálp og sorgarferli, prédikun, fjölskylduráðgjöf, upplýsingamiðlun, trúarbragðafræði og sáttargjörð. Embættispróf í guðfræði frá Háskóla Íslands, stúdentspróf frá Menntaskólanum í Kópavogi og gagnfræðingur frá Víghólaskóla í Kópavogi.   Auk prestsþjónustunnar í Eyjum og safnaðarstarfsins er Kristján formaður Prestafélags Íslands, formaður Stafkirkjunnar á Heimaey, varaform. Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar og formaður NPS, sem er samstarfsvettvangur norrænna prestafélaga. Kristján er félagi í Frímúrarareglunni á Íslandi, Bjargveiðimannafélagi Vestmannaeyja og Björgunarfélagi Vestmannaeyja.   Kristján er kvæntur Guðrúnu Helgu Bjarnadóttur, leikskólakennara, leiðsögumanni og starfsmanni Blátt áfram í Reykjavík. Guðrún Helga er af Seltjarnarnesinu, dóttir Bjarna B. Ásgeirssonar, framkvæmdastjóra, sem er látinn, og Elínar G. Guðmundsdóttur, sjúkraliða. Börn: Ólöf, verkfræðingur í Reykjavík, Kristín Rut, doktorsnemi í sjálfbærni og ferðamálafræði í Lundi í Svíþjóð, Bjarni Benedikt, meistaranemi í verkfræði í Seattle í Bandaríkjunum, Sigurður Stefán, húsa- og húsgagnasmiður í Reykjavík, og Björn Ásgeir, skóladrengur. Foreldrar: Björn Sigurðsson, fv. lögregluvarðstjóri, frá Möðruvöllum í Hörgárdal, og Kristín Bögeskov, djákni, úr Reykjavík, en hún er látin.

3. flokkur kvenna Íslandsmeistarar

ÍBV1 undir stjórn Hilmars Ágústs Björnssonar og Magnúsar Stefánssonar varð á dögunum Íslandsmeistari í 3. flokki kvenna en liðið komst sömuleiðis í undanúrslit bikarkeppninnar. Gott tímabili að baki og margar efnilega handboltakonur þarna á ferð. Í samtali við Eyjafréttir sögðust þeir Hilmar og Magnús vera afar stoltir af stelpunum enda lagt mikið á sig í vetur. „Á þessu tímabili hafa tuttugu og fjórar stelpur verið að æfa í árgöngum 2002-2003. Magnús og Díana hófu tímabilið sem þjálfarar en eftir að Díana fór til Noregs vorum við Magnús saman eftir áramót,“ segir Hilmar og heldur áfram. „Við vorum með tvö lið á eldra ári, ÍBV2 var blandað lið af eldra og yngra ári, þær unnu sjö leiki og töpuðu átta í 2. deild og enduðu í 5. sæti. Síðan var ÍBV1 en þær enduðu í 3. sæti í deildinni með 12 sigra, eitt jafntefli og fimm töp. Þær féllu úr leik í undanúrslitum bikarsins og unnu svo Íslandsmeistaratitilinn á móti Fylki.“ Eins og fyrr segir voru þjálfararnir tveir stoltir af stelpunum. „Við eru gríðarlega stoltir af þessum stúlkum, þær hafa lagt gríðarlega hart að sér í vetur og mætt á allar æfingar. Bætingarnar og framfarirnar hafa verið mjög miklar og þá aðallega vegna þess hve áhugasamar þær eru. Hópurinn sem slíkur einkennist af mikilli samkennd og samstöðu. Þrátt fyrir minniháttar pústra dags daglega þá taka þær upp hanskann fyrir hvor aðra án þess að hika. Þær auðvitað þroskast með hverri vikunni sem líður, bæði andlega og handboltalega. Við höfum verið með fimm til sex stelpur á öllum landsliðsæfingum síðustu tvö árin og það er alveg ljóst að fleiri munu fá séns í framhaldinu.“ Flestar eiga stelpurnar það sameiginlegt að vera í akademíunni en hún er að sögn þeirra Magnúsar og Hilmars að skila þeim miklu. „Þessar stelpur eru nánast allar í handbolta akademíunni og eru að vakna á æfingar 6:30 og leggja sig 100% fram þar. Svo er ÍBV og GRV að fá frábæra fyrirlesara til að fjalla um mataræði, samstöðu, liðsheild, gleði, markmið, líkamann og allt sem tengist því að vera góður liðsmaður og íþróttamaður. Þessir þættir hjálpa þeim að vera íþróttamenn framtíðarinnar hjá bandalaginu.“    

Ekki verið að bíða eftir neinu

Nú standa yfir kosningar og er sá tími oft erfiður og viðkvæmur og því erfitt að meta hvar á að stíga niður og svara án þess að hallað sé á neinn. Hlutverk mitt sem framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs hjá bænum tek ég alvarlega og tel mikilvægt að fólk sé upplýst rétt um mál.   Kristín Ósk Óskarsdóttir skrifar um aðgengi fyrir alla og sinni upplifun af þeim málum. Ég vill taka strax fram að Kristín Ósk er frábær stúlka og fagmanneskja með metnað fyrir sínum hugðarefnum sem m.a. er hagsmunamál fatlaðs fólks. Fyrir Vestmannaeyjar eru slíkur einstaklingur mikilvægur.   Ástæða skrifa minna er að Kristín vitnar í fund sem átti sér stað fyrir 7 árum og ég sat ásamt henni, framkvæmdastjóra útbreiðslu- og fræðslusviðs hjá Íþróttabandalagi fatlaðra og bæjarstjóra. Virðist sem Kristín hafi upplifað þennan fund á annan máta en ég. Ég man óljóst umræður um aðgengismálin í Ráðhúsinu en ég man þó að allir voru sammála um að bæta þurfti aðgegnismálin í Vestmannaeyjum.   Viðbrögðin sem Kristín upplifði af þessum fundi virðist sitja í henni eins og um áhugaleysi hafi verið að ræða af hálfu bæjarins um þessi mál og að lítið hafi áunnist í kjölfarið. Þessu er ég ekki sammála. Eins og Kristín þá hef ég og fleiri fagaðilar innan sviðsins sem og hagsmunaaðilar fatlaðara í Eyjum sömu ástríðu fyrir þessum málum. Vestmannaeyjabær hefur lagt sig fram við að vinna að bættu aðgengi fyrir alla þ.m.t. fatlað fólk og komið meðal annars fyrir lyftum í stofnunum s.s. Kviku, Safnahúsinu, Eldheimum og Barnaskóla Vestmannaeyja auk þess sem aðgengi um gangbrautir bæjarins hafa verið bætt sem og innanhúss í stofnunum. Áhersla er lögð á aðgengismál í öllum nýjum byggingum á vegum bæjarins. Aðgengismálin þó ekki í lagi í öllum stofnunum okkar. Kirkjugerði og Tónlistarskólinn eru ekki í lagi og áfram verður unnið að þessum málum.   Eitt getur þó skýrt út mat Kristínar á að lítið hafi áunnist en það er að fleiri en Vestmannaeyjabær þarf að huga að aðgengismálum. Þar er eflaust eitthvað sem má bæta. Mjög mikilvægt er að allir þjónustuveitendur í Eyjum hugi að aðgengismálum fyrir hreyfihamlað fólk.   Mitt mat er þó að þessi mál hafi batnað. Aðgengismálin í matvörubúðum, hótelum, veitingarstöðum og búðum hafa batnað auk þess sem byggingarreglugerðir (sem og nýsmíði á farþegaskipi) setja auknar kröfur á þessa aðila. Erfiðara er að eiga við eldri húsnæði enda lög og reglugerðir misjafnar eftir aldri og notkun húsa. Einnig getur oft verið erfitt að breyta þessum húsum sbr. Ráðhúsinu. Vestmannaeyjabær hefur í samvinnu við fatlað fólk bent aðilum á þessi mál og reynt að aðstoða með lausnir varðandi aðgengismálin.   Sum hús voru byggð eftir gömlum reglugerðum s.s. Sólhlíð 19 sem breytt var fyrir um 30 árum. Ef ég man rétt þá var þetta líklega fyrsta húsnæði á vegum Vestmannaeyjabæjar í langan tíma sem í var sett lyfta. Sú lyfta fylgdi þeim byggingakröfum sem voru á þeim tíma en hjálpartækin breytast og kalla oft á frekari lausnir.   Ég vill þakka Kristínu fyrir hennar ábendingu um mikilvægi aðgengis fyrir alla en jafnframt benda á að hjá fjölskyldu- og fræðslusviði er engin að bíða eftir neinu heldur láta verkin tala. Betur má ef duga skal og mikilvægt að allir í okkar samfélagi taki sig saman og vinni í að bæta aðgengismál hreyfihamlaðra.   Jón Pétursson, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyja  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Greinar >>

„Í stað þess að axla ábyrgð á eigin mistökum er nú reynt að finna sök hjá öðrum“

Í gær sendi fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins í Vestmananeyjum frá sér ályktun þess efnis að ráðið gæti ekki litið á Pál Magnússon sem trúnaðarmann flokksins og lýstu yfir fullu vantrausti. Eyjafréttir höfðu samband við Pál og spurðu hann um hver hans viðbrögð væru við þessum fregnum. „Ástæðan fyrir því að ég hélt mig til hlés í kosningabaráttunni í Vestmannaeyjum var sú að þannig taldi ég mig best gæta heildarhagsmuna Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi öllu. Þetta gerði ég að mjög vel yfirveguðu ráði og eftir ráðfærslu við bestu og reyndustu menn. Eftir að flokkurinn klofnaði í Eyjum var ljóst að mjög stór hluti hans myndi fylgja hinu nýja framboði að málum. Reyndin varð sú að líklega gengu 30-40% af fylgjendum Sjálfstæðisflokksins til liðs við Heimaeyjarlistann. Ég leit og lít enn á það sem skyldu mína sem oddvita flokksins í kjördæminu að laða þetta fólk aftur til fylgis við Sjálfstæðisflokkinn. Ég geri svo sem ekki mikið með þessi fremur vanstilltu viðbrögð í Ásgarði í gærkvöldi. Flokkurinn klofnaði í herðar niður hér í Eyjum og tapaði öruggum meirihluta . Í stað þess að axla ábyrgð á eigin mistökum er nú reynt að finna sök hjá öðrum. Það er út af fyrir sig mannlegt en aðalatriðið er að finna leiðir til sátta þegar sjatnar í örvæntingunni og reiðinni,“ sagði Páll  

VefTíví >>

Baráttukveðjur frá ÍBV til Heimis og peyjana

Ungir sem aldnir ÍBV-arar söfnuðust saman á Hásteinsvelli á fimmtudaginn sl. og tóku upp skemmtilega kveðju. „Við fengum þá frábæru hugmynd að reyna að fá ÍBV-ara til að mæta í stúkuna og senda kveðju úr okkar fallega umhverfi á Heimi og peyjana hans í Rússlandi,“ sagði Dóra Björk Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags. „Ég veit ekki hvort fólk hér í Eyjum geri sér grein fyrir allri þeirra umfjöllun sem samfélagið okkar og félagið fær út á Heimi og árangur hans, saman ber t.d. umfjöllun CNN í gær.“  „Þeir sem þekkja Heimi vita að Ystiklettur er staðurinn hans hér sem og öll okkar fallega náttúra og ákváðum við að setja saman myndband þar sem að náttúran sem hann sækir sína orku í er aðalatriðið.   ÍBV á Heimi mikið að þakka en hann hefur þjálfað marga af okkur bestu leikmönnum í fótboltanum á einn eða annan hátt. Það eru aðeins 10 ár síðan hann var með 5. flokk ÍBV á N1 mótinu á Akureyri en núna er hann með bestu fótboltamenn Íslands á HM í fótbolta,“ sagði Dóra Björk sem sendir ásamt ÍBV og Eyjamönnum öllum Heimi baráttukveðjur, „Kæru ÍBV-arar Heimir, Íris, Hallgrímur og Kristófer við erum stolt af ykkur og hlökkum til að fá ykkur aftur heim.“   Myndbandskveðjuna sem unnin er í samvinnu við Off to Iceland má sjá í spilaranum hér að ofan.