Herjólfur kemur tilbaka eftir viku

Verið að setja vélina aftur í

Herjólfur kemur tilbaka eftir viku

:: Verið að setja vélina aftur í

Samkvæmt heimildum Eyjafrétta er verið að setja vélina aftur í Herjólf en það mun taka 5-7 daga. Herjólfur verður því komin aftur fyrir 1. október. Röst fékk ekki undanþágu í að sigla á milli eftir 1. oktober þegar hafsvæðið milli Vestmanneyja og Landeyja breytist í B- svæði.

Sigurður Sigurðsson er matgæðingur vikunnar: Hafragrautur í morgunmat og slett í eina lettu í hádeginu

Ég vil byrja á að þakka Kidda mínum fyrir áskorunina, þetta er skemmtilegt og krefjandi verkefni. Þá er ekki eftir neinu að bíða en að hefja hversdagslegan og hollan veisluundirbúning. Eins og alþjóð veit þá er morgunmaturinn mikilvægasta máltíð dagsins og höfum við peyjarnir á Sigurði Ve 15, sem eru vaknaðir fyrir hádegi, stúderað hafragrautsgerð í fjöldamörg ár og höfum við þróað því sem næst hinn fullkomna hafragraut.   Fullkominn hafragrautur Sú uppskrif sem við höfum komist að er:   • Einn desilítri grófir hafrar. • Hálfur desilíter byggflögur. • Til að toppa hollustugildið þá er einnig sett út í þetta 2-3 matskeiðar af chia fræjum.   Hollast er að nota grófa hafra en má nota venjulega í neyð. Best er að leggja alla uppskriftina í bleyti kvöldið áður svo hafrarnir mýkist og chia fræin taki í sig vatn og verði auðmeltanlegri. Hita skal hafragrautinn í potti (alls ekki setja í örbylgjuofn, það eru bara amatörar sem gera slíkt) og hita upp að suðumörkum. Gott er svo að njóta með möndlu-mjólk og borða kanski líka nokkrar möndlur með.   Ommeletta með grænmeti og feta osti Til að halda áfram í hversdgslegum og hollum réttum, þá má nú alltaf sletta í eina lettu svona í amstri dagsins. Tilvalið til að hafa í hádegismat. Hráefni: • Eggplant (eða kúrbítur). • Egg. • Ostur (eftir smekk). • Tómatar, laukur, chili (eftir smekk), hvítlaukur, paprika (2-3 gerðir ), avókadó og spínat (einnig hægt að nota klettasalat). Eins er hægt að skipta einhverju út eða bæta öðru við eftir smekk. Aðferð: Hitið pönnu í hæfilegan hita. Skerið niður eggplant (eða kúrbít eftir smekk), nóg að nota hálfa, eða 3-4 sneiðar, skerið svo í litla bita og setjið á pönnuna. Hitið fyrst eitt og sér. Setjið 2-3 egg í skál, fer eftir stærð eggja og neytandans, hrærið eggin með písk eða gafli. Hellið eggjunum út á pönnuna með eggplöntunni. Hitið eggin fyrst á pönnunni með eggplöntunni í smá stund. Grænmetið skal skorið í hæfilega litla bita og sett í skál og hvítlaukur með. Þegar eggin eru byrjuð að taka sig skal bæta grænmetinu á jafn yfir alla pönnuna. Eins má setja rifinn ost út á, annað hvort áður en grænmetið er sett á eða eftir. Fer eftir smekk. Þegar eggin eru fullelduð skal taka lettuna af og renna henni mjúklega af pönnunni og setja á disk. Setja skal spínat (hægt að nota klettasalat í staðinn) yfir og jafnvel fetaost. Svo skal njóta : )   Við peyjarnir á Sigurði búum við þann munað að vera með tvo stórsnillinga sem kokka og ógerningur að gera upp á milli þeirra. En næst vil ég skora á stórsnillinginn hann Aðalstein Ingvarsson og veit ég að það verður frekar valkvíði fyrir hann en nokkuð annað að finna góða uppskrift.  

Einlæg og án fordóma

Ekki gleyma mér, bók Kristínar Jóhannsdóttur hefur vakið mikla athygli. Sögusvið bókarinnar er Leipzig þýska alþýðulýðveldisins þar sem Kristín kynnist nýjum veruleika og stóru ástinni í lífi sínu. Hann hvarf henni með falli járntjaldsins en leiðir þeirra lágu saman mörgum árum síðar en ná þau saman? Bók Kristínar gefur góða sýn inní daglegt líf í Austur-Þýskalandi sem var kannski ekki alslæmt. Hún er líka eldheit ástarsaga ungrar konu frá Vestmannaeyjum sem hélt á ókunnar slóðir og mætir þar örlögum sínum. Það sem einkennir bókina er einlægnin þar sem Kristín gengur nærri sér og svo hvað hún skoðar það sem fyrir augu ber án fordóma.   Einhverra hluta vegna átti ég erfitt með að einbeita mér, undir kvöldið var ég hálfeinmana og þó rigningin væri ekki hvatning til að fara út ákvað ég að heyra í Dirk, hinum nýja vini mínum. Því ekki að líta inn hjá honum í kaffi? Það var þriðjudagur og hann var ábyggilega heima. Það væri ágætis tilbreyting frá áfengissulli síðustu daga að fá kaffi eða tesopa og spjall. Fara svo snemma að sofa. Það tók smá tíma að komast að í eina símaklefanum í nágrenninu. Dirk svaraði strax, en hann ætlaði ekki að vera heima um kvöldið, heldur hitta nokkra félaga í Moritzbastei og stakk upp á því að ég kæmi þangað. Ég var lengi á báðum áttum en sorglega tómir veggirnir í herberginu mínu nánast ráku mig út. Á þessu augnabliki vissi ég ekki að framundan væri kvöldið sem myndi kollvarpa allri minni tilveru um ókomin ár.   Ævintýraheimur Eiginlega var ég spenntust fyrir því að sjá staðinn, Moritzbastei, þar sem Dirk ætlaði að verja kvöldinu með félögunum. Þangað hafði ég aldrei komið. Þetta er stúdentakjallari í rústum af gömlu borgarvirki, sem Moritz fursti lét reisa á árunum 1551–1553. Ég hafði oft gengið þarna framhjá, en aldrei hætt mér inn. Staðurinn lætur ekki mikið yfir sér við fyrstu sýn, en er þeim mun áhugaverðari þegar inn er komið. Virkið fór illa í síðari heimsstyrjöldinni og var árum saman rústir einar, engum til gagns eða gleði. Það voru svo námsmenn við háskólann í Leipzig, þeirra á meðal Dirk, sem grófu út jallarahvelfingarnar og innréttuðu þær fyrir menningarviðburði og samkomur námsmanna. Dirk var heiðursfélagi stúdentakjallarans. Hann gat farið þar inn hvenær sem hann vildi, alveg sama þótt staðurinn væri troðfullur af fólki og uppselt. Það vantaði bara að hann hefði lykil. Dirk sagði mér að vísa á sig ef það yrði eitthvert vesen með að komast inn. Það var dálítil röð og verið að vísa einhverjum frá þegar ég kom svo ég lét reyna á forréttindi Dirks. Hann hafði ekki verið að ýkja neitt um háa stöðu sína í klúbbnum, ég var varla búin að nefna nafnið hans þegar dyravörðurinn reif upp hurðina og bauð mig velkomna. Það var eins og að koma inn í ævintýraheim að ganga inn fyrir dyrnar á Moritzbastei. Þetta er örugglega flottasti stúdentakjallari í heimi. Hver hvelfingin rekur aðra, og veggirnir eru meira en metri á þykkt, hlaðnir, rústrauðir múrsteinsveggir frá árunum upp úr 1550. Ég var gjörsamlega hugfangin og horfði meira á veggina í kringum mig en á fólkið. Ég hrökk því við þegar Dirk kallaði: „Við erum hérna.“ Hann heilsaði glaðlega þar sem hann sat við borð með nokkrum ungum karlmönnum sem voru greinilega ekki á fyrsta bjórnum þetta kvöld. Suma hafði ég séð áður, aðra ekki.   Sebastian Einn þeirra var ég að hitta í fyrsta skipti, hann kynnti sig ogsagðist heita Sebastian Roth. Blaðamaður hjá einu af dagblöðunum á svæðinu. Hann sá til þess að glösin tæmdust ekki og einn karlanna bauð hann velkominn á markaðinn. Hann hafði fengið lögskilnað frá tékkneskri eiginkonu sinni fyrr um daginn. Þetta var þá rólega þriðjudagskvöldið. Þegar Moritzbastei var lokað rúmlega 23:00 stefndi hluti hópsins á næturklúbb sem kallaðist „Nacht Tanzbar“. Ég ætlaði að kveðja, sporvagninn minn myndi hætta að ganga fyrir miðnætti. En hver var eiginlega þessi Sebastian, sem ég var að hitta þarna í fyrsta skipti? Hann virkaði ósköp venjulegur: skolhærður, frekar fölur, en með lifandi og björt ljósbrún augu. Í fyrstu minnti hann mig svolítið á Mikael Baryshnikov, fræga sovéska ballettdansarann sem flúði til Bandaríkjanna. Það var eitthvað við hann sem heillaði mig strax. Hann var með einhverja óvenjulega og strákslega útgeislun og ólíkur þeim karlmönnum sem ég hafði kynnst til þessa; hann talaði öðruvísi og virtist ekki vera neitt upptekinn af því hvaðan ég kæmi. Hann hafði líka svo bjarta og fallega rödd. Ég var eiginlega á heimleið þegar Sebastian tók í höndina á mér og spurði: „Ert þú ekki örugglega að koma með?“ Ég heyrði sjálfa mig svara játandi og leiða þennan mann af stað. Hafði ég ekki ætlað að segja nei og fara heim? Það var löng röð fyrir utan næturklúbbinn. Dirk, sem alltaf hafði fullyrt að í Austur-Þýskalandi hefðu menn allt sem þeir þyrftu, hvíslaði að mér: „Ekki vill svo vel til að þú sért með eitthvað af þessu vestur-þýska klinki á þér?“ Jú, ég rétti honum vesturþýska fimm marka mynt og „bingó“ – við vorum komin fram fyrir röðina og inn á augabragði.   Sveitaball Þarna var gamaldags ball með danshljómsveit, skemmtileg blanda af sveitaballi heima á Íslandi og næturklúbbi á Mallorca, já, Tanzbar stóð alveg undir nafni. Karlmennirnir kepptust um að bjóða mér upp í dans, og merkilegast þótti mér að einn þeirra var skólastjóri tónlistarakademíunnar. Ég var á leið í sætið mitt eftir að hafa dansað þegar rifið var í handlegginn á mér. Þetta var Günter, dauðadrukkinn. „Af hverju sniðgengur þú mig?“ Ég vildi ekki kannast við það. Günter hélt áfram: „Þú ert komin í mjög vafasaman félagsskap, hér eru allir hræddir við Dirk. Ég ætla að vona að þú hafir ekki verið að segja honum eitthvað af því sem ég hef verið að segja þér.“ „Nei, hafðu engar áhyggjur, en hann hefur heldur ekki verið að spyrja neitt um þig.“ Ég vildi ekki vera leiðinleg við Günter. Ég gat ekki annað en vorkennt honum, en þegar hann var dauðadrukkinn að skipta sér af mér fór hann verulega í taugarnar á mér. Sebastian kom á réttu augnabliki og dró mig út á dansgólfið. „Við áttum alveg eftir að dansa, var það ekki?“   Bjórinn, ginið, dansinn Eftir gleðina á Tanzbar endaði ég ásamt fleirum heima hjá Dirk, sem bjó í nágrenni við næturklúbbinn. Það var ekkert nýtt að leigubílaskorturinn yrði til þess að menn færu heim með þeim sem bjó svo vel að hafa síma til að hringja á bíl, og ef það bar ekki árangur, þá gistu menn hver hjá öðrum. Dirk var með þennan ágæta sófa í stofunni, ég hafði notið góðs af honum áður. Sebastian var með okkur, hann ætlaði líka að freista þess að fá leigubíl þegar liði á nóttina. Með í för var einnig nokkuð ölvuð ung stúlka, sem Dirk hafði kynnst á Tanzbar. Stúlkan hvarf fljótlega með Dirk inn í svefnherbergið hans, enda ekki flötur á löngu eftirpartíi; Dirk átti ekkert að drekka nema te, ísskápurinn hans var næstum því tómur, rétt eins og hann væri að flytja eða að koma úr löngu ferðalagi. Hvorugt var þó raunin. Ég var orðin ein eftir í stofunni með þessum Sebastian, sem gerði enga tilraun til að ná í leigubíl. „Ég fæ að leggjast við hliðina á þér, er það ekki? Ég geri ekkert, því lofa ég.“ Ég hafði heyrt af því að Austur-Þjóðverjar þjöppuðu sér saman og að aðstæðurnar kölluðu stundum á að fólk þyrfti að deila rúmi eða sófa vegna þess að skortur væri á plássi eða að það fengi ekki leigubíl. Það var samt ekki af neinni skyldurækni sem ég samþykkti að hann legði sig hjá mér á sófann; ég fann að mig langaði alveg til þess. Hann tók fast utan um mig, en það var líka til þess að hann dytti ekki fram úr þessum mjóa sófa. Ekki það að mér fyndist það óþægilegt. Bjórinn, ginið, dansinn – allt tók þetta sinn toll og við sofnuðum bæði strax á mjóum sófanum.  

Skoðunarferðir sem veita innsýn inn í stórbrotna sögu Berlínar

Eyjakonan Margrét Rós Harðardóttir, dóttir Harðar Adolfssonar (Harðar á Skútanum) og Nönnu Maríu Guðmundsdóttur hefur um árabil búið í Berlín í Þýskalandi eftir að hafa kynnst manni sínum þar í landi á námsárunum. Margrét útskrifaðist úr Barnaskóla Vestmannaeyja árið 1995 en þaðan lá leiðin í Flensborg og síðan Fjölbraut í Breiðholti. Eftir það lagði Margrét stund á myndlist og er hún menntaður myndlistarmaður frá Listaháskóla Íslands og Hochschule der Künste í Bremen í Þýskalandi. Í leit að skemmtilegu og krefjandi verkefni á meðan börnin voru á leikskóla ákvað Margrét að stofna leiðsögufyrirtæki ásamt vinkonu sinni Katrínu Árnadóttur. Úr varð fyrirtækið Berlínur sem hefur vaxið og dafnað undanfarin ár en níu manns starfa hjá fyrirtækinu í dag. Blaðamaður ræddi við Margréti á dögunum.   Berlín mitt á milli fjölskyldna þeirra á Íslandi og í Suður-Þýskalandi Hvenær og af hverju ákvaðstu að flytja til Berlínar? „Ég þvældist mikið um Þýskaland meðan á námi mínu stóð og kynntist síðan manninum mínum í Bremen. Við fluttum saman til Íslands og vorum þar um tíma en fluttum síðan aftur til Þýskalands og varð þá Berlín fyrir valinu sem framtíðarheimili,” segir Margrét en ástæðan fyrir því var fyrst og fremst sú að hægt var að fljúga beint til borgarinnar sem er sömuleiðis mitt á milli fjölskyldna þeirra á Íslandi og í Suður-Þýskalandi. „Það er gott að búa í Berlín og við höfum meðvitað kosið okkur þann lífstíl sem við lifum nú. Við eigum ekki bíl, reynum að lifa umhverfisvænna lífi, búum í hverfi sem er einstaklega barnvænt, hjólum og löbbum eiginlega allt og reynum að „neyta“ minna og „njóta“ meira. Þess fyrir utan er Berlín borg sem hefur upp á svo ótalmargt að bjóða.“   Fannst liggja beint við að fara út í leiðsögn En hvernig kom það til að byrja með Berlínur? „Þegar ég flutti út var ég með hugmyndir um að stofna einhverskonar leiðsögufyrirtæki og þess vegna kynnti ég mér Berlín allt öðruvísi en ég hef kynnt mér aðrar borgir sem ég hef búið í hingað til. Það kom svo að því að ég kynntist Katrínu Árnadóttur, sem svo stofnaði Berlínur með mér, í kaffisamsæti íslenskra mæðra í Berlín. Þá komumst við að því að við vorum báðar að leita okkur að einhverju skemmtilegu og krefjandi að gera þegar börnin færu á leikskóla og vorum með svipaðar hugmyndir. Eins og flestir sem hafa búið í útlöndum höfðum við oft fengið vini og vandamenn í heimsókn og því alvanar að leiðsegja gestum um borgina og komnar með góða yfirsýn yfir borgina og sögu hennar. Okkur fannst því liggja beint við að setja ferðirnar á blað, bæta við upplýsingum og fara dýpra í söguna. Það er líka svo gaman að vera með fólki í fríi í borginni okkar og kynna því fyrir henni. Berlín hefur svo ótrúlega fjölbreytta og merkilega sögu að það er endalaust hægt að bæta við nýjum vinklum og sögum,“ segir Margrét.   Þrír Vestmannaeyingar starfað fyrir Berlínur Eigendur Berlína eru þrír talsins en auk þeirra eru sex starfsmenn sem vinna sem leiðsögumenn í skoðunarferðum. Það eru t.d. tvær Berlínur frá Vestmannaeyjum, ég og hún Hlín Ólafsdóttir. Við vorum þrjár en hún Vigdís Sigurðardóttir var að vinna fyrir okkur áður en að hún flutti aftur til Vestmannaeyja. Einnig höfum við verið að sinna túlka- og þýðingarþjónustu og þá höfum við ráðið fólk í þau störf sem hér býr og starfar.“   Fjölmargt í boði Upphaflega var fyrirtækið stofnað sem leiðsögufyrirtæki fyrir Íslendinga sem heimsækja Berlín. Í boði eru fjölmargar mismunandi ferðir sem hver hefur sína sérstöðu. „Við bjóðum upp á nokkrar skoðunarferðir eins og múrtúr, hjólreiðaferð, múltíkúltíferð og þriðjaríkisferð. Einnig bjóðum við uppá rútuferð og ratleik. Starfssvið okkar hefur síðan aldeilis vaxið því smám saman fórum við að fá óskir um ýmis önnur störf frá Íslendingum sem vantaði aðstoð frá einhverjum sem væri í Berlín og þekkti borgina. Við höfum til að mynda skipulagt kóraferðir, hótelskoðunarferðir fyrir hótelstjóra og dæmigerðar árshátíðarferðir. Síðasta árið höfum við einnig verið í samstarfi við fyrirtækið Leikur að læra sem stendur fyrir endurmenntunarferðum kennara til annarra landa. Við aðstoðum þau við að finna spennandi skóla- og leikskólaheimsóknir og annað sem svona ferðum tengist. Við erum alltaf að bæta við okkur verkefnum sem er virkilega skemmtilegt og gefandi því maður kynnist borginni Berlín frá svo ótrúlega mismunandi sjónarhornum í gegnum þessa vinnu.“   Sífellt að bæta við ferðum Aðspurð hvort það hafi verið mikil aukning í aðsókn milli ára svarar Margrét því játandi. „Það hefur verið mjög mikið að gera hjá okkur. Í upphafi vorum við bara tvær sem sinntum öllum störfum en erum í dag níu. Það fjölgar alltaf ferðum hjá okkur og síðan eru þessi nýju verkefni sem við erum farin að sinna. Svo virðist sem orðspor okkar hafi farið víða þó við höfum aldrei auglýst okkur. Það þýðir bara að ánægðir viðskiptavinir mæla með okkur við vini og vandamenn og þannig hefur snjóboltinn rúllað og hann virðist satt að segja enn vera á fleygiferð!“ Hvenær er vinsælasti tíminn hjá Íslendingum að heimsækja Berlín? „Það virðist eins og vorin og haustin séu tíminn sem flestir koma. Mér finnst samt eins og tímabilið sé að lengjast. Þannig að nú í lok nóvember erum við enn með margar ferðir í hverri viku. Hér í upphafi voru vetrarmánuðirnir mun rólegri. Nú er Icelandair nýbyrjað að fljúga til Berlínar og þá má búast við að mun fleiri Íslendingar en áður sæki Berlín heim og þar af leiðandi sæki þjónustu til okkar,“ segir Margrét.   Tilvalið að heimsækja Berlín í aðdraganda jólanna Nú þegar jólin eru að nálgast er ekki ótrúlegt að einhverjir séu að íhuga það að fara í stutta borgarferð, einhverjir til að versla og aðrir bara til að njóta og komast í jólaskapið. Myndir þú mæla með Berlín og jafnvel leiðangri með Berlínum fyrir þetta fólk? „Jólin í Berlín eru yndislegur tími. Berlín fer algjörlega í jólagírinn. Hér er mikið skreytt, þá á opinberum svæðum, minna í heimahúsum, og að vissu leyti algjört jólabrjálæði. Það sem er svo einkennandi við Berlín á aðventunni eru allir jólamarkaðirnir. Það eru tugir jólamarkaða út um alla borg þar sem hægt er að kaupa alls kyns matvæli til að borða á staðnum eða taka með, jólaskraut og ýmiss konar gjafir og síðast en ekki síst „Glühwein” sem er jólaglögg, drukkið heitt.“ „Á jólamörkuðunum eru líka oft sett upp tívolítæki fyrir börnin svo þetta er svona það sem berlínskar fjölskyldur gera saman á aðventunni. Eins eru oft þematengdir jólamarkaðir, þó þeir hefðbundnu þýsku séu auðvitað mest áberandi. En það eru hér t.d. danskir og sænskir jólamarkaðir, hönnunarmarkaðir og jafnvel japanskir jólamarkaðir. Það væri hægt að fara á nýjan jólamarkað á hverjum degi aðventunnar ef áhugi væri fyrir því. Einnig fara margar fjölskyldur og vinahópar á einhvern hefðbundinn þýskan veitingastað og gæða sér saman á jólamat. Þá eru öndin og gæsin vinsælust með öllu tilheyrandi og hiklaust hægt að mæla með svoleiðis máltíð,“ segir Margrét og heldur áfram. „Að sjálfsögðu mælum við með að allir Íslendingar sem heimsækja Berlín komi í skoðunarferð með Berlínum. Það er auðvitað ótrúlega gaman að vera í borginni og fara að versla og njóta góðra veitingahúsa og öldurhúsa en það er eiginlega synd að kynna sér ekki alla vega einhvern hluta af þeirri stórbrotnu sögu sem Berlín hefur upp á að bjóða. Það eru fáar borgir sem hafa gengið í gegnum jafn miklar öfgar og hremmingar í sögulegu samhengi og Berlín. Að fara í skoðunarferð með Berlínum mun gefa fólki aðeins betri innsýn í það af hverju Berlín er eins og hún er í dag, því auðvitað spilar sagan gríðarlegt hlutverk í því hvernig borgin hefur þróast.“ Að endingu bendir Margrét á heimasíðu Berlína en þar er ýmsan fróðleik að finna. „Annað sem við Berlínur höfum gert er að taka saman alls konar vitneskju triks og tips og setja þau á heimasíðuna okkar (Berlinur.de) í formi bloggs og undir liðnum gagnlegt. Þar erum við með veitingastaðalista sem gott er að styðjast við, það er fátt sorglegra en að fara út að borða í þessari borg og lenda í því að fá vondan mat. Þar eru líka hugmyndir hvað sé skemmtilegt að gera hverju sinni, hvort sem ferðin er um jól, sumar eða í rigningu.“  

Þakklátar öllum sem gerðu stundina frábæra

„Við höfum hitt gesti sem voru í útgáfuhófinu á laugardaginn. Margir voru kvíðnir og vissu ekki hvers vænta mætti. En umgjörðin öll varð til þess að fólki leið vel, myndir sem rúlluðu á skjávarpa, söngurinn hjá Unni og Simma, það sem lesið var úr bókinni og svo fallegar veitingar og gott samfélag,“ segja þær Oddný Garðarsdóttir, Vera Björk Einarsdóttir og Þóranna Sigurbergsdóttir sem á laugardaginn kynntu bók sína, Móðir Missir Máttur í Sagnheimum. Gestir voru á annað hundrað. Þær segjast þakklátar fyrir hlýhug frá Helgu Hallbergsdóttur í Sagnheimum, Kára Bjarnasyni á Bókasafninu og Erlu í Eymundsson sem og öllum gestum sem gerðu stundina frábæra. „Við höfum fengið viðbrögð frá fólki sem hefur fengið bókina í hendur. Sumir lesa smá kafla í einu en aðrir lesa hana frá upphafi til enda. Bókin er um sorglegt efni og er líklegt að efnið ýfi upp eigin sorgir hjá lesandanum. Það er gott að gefa því tíma og það er lækning í því að gráta. Lækningu er að finna bæði í einrúmi og með því að tala við aðra. Í Fjallræðunni stendur: Sælir eru syrgjendur því þeir munu huggaðir verða. Matt 5.4. Þessi orð hafa ekki alltaf verið auðskilin. En fyrir okkur sem höfum komið fram með sorgina þá höfum við fengið að finna huggun sem nær yfir alla okkar veru til anda, sálar og líkama.“ Þær segjast hafa verið spurðar að því hvort bókin komi út sem hljóðbók og hvort hún verði þýdd á önnur tungumál. „Guðrún Erlingsdóttir, vinkona okkar ræddi við okkur þrjár og mun viðtalið birtast í Morgunblaðinu á morgun, fimmtudag. En Guðrún er Aglowkona og blaðamannanemi. Útgáfuhóf verður síðan laugardaginn 9. desember kl. 13.00 í Kirkju- húsinu á vegum Skálholtsútgáfu.“  

Vestmannaey VE og Bergey VE verða endurnýjaðar

Undirritaður hefur verið samningur um smíði á tveimur nýjum togskipum fyrir útgerðarfélagið Berg-Hugin ehf. í Vestmannaeyjum en Bergur-Huginn er dótturfyrirtæki Síldarvinnslunnar hf. Skipunum er ætlað að leysa af hólmi Vestmannaey VE og Bergey VE og verður heimahöfn þeirra í Vestmannaeyjum. Áætlað er að smíði hvors skips taki 14 mánuði og er gert ráð fyrir að fyrra skipið verði afhent kaupanda í marsmánuði 2019 og hið síðara í maí 2019. Síldarvinnslan greindi frá þessu á faceobook síðu sinni. Alls undirrituðu fulltrúar fjögurra íslenskra útgerðarfyrirtækja samninga um smíði á sjö samskonar skipum. Auk skipanna sem smíðuð verða fyrir útgerðarfélagið Berg-Hugin verða tvö skip smíðuð fyrir Gjögur, tvö fyrir Skinney – Þinganes og eitt fyrir Útgerðarfélag Akureyringa. Nýju skipin eru smíðuð af VARD í Noregi og fyrirkomulag og val á búnaði er unnið í samstarfi við útgerðirnar. Skipin verða 28,95 m að lengd og 12 m að breidd. Í skipunum verða tvær aðalvélar með tveimur skrúfum. Ný kynslóð rafmagnsspila verða í skipunum frá Seaonics. Þessi nýju systurskip verða vel búin í alla staði og í þeim verður rými fyrir 13 manns. Þau munu taka 244 x 460 lítra kör í lest (um 80 tonn af ísuðum fiski). Við hönnun skipanna hefur verið vandlega hugað að allri nýtingu á orku. Við hönnun á vinnsludekki verður höfð að leiðarljósi vinnuaðstaða sjómanna, öflug kæling og góð meðhöndlun á fiski. Horft verður til þeirra gæða og reynslu sem íslenskir framleiðendur búa yfir á smíði vinnslubúnaðar. Það var Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar sem undirritaði samninginn fyrir hönd dótturfyrirtækisins en Eyvindur Sólnes lögmaður á Lex lögmannsstofu aðstoðaði útgerðirnar við gerð samninganna. Um samningana hafði Gunnþór eftirfarandi að segja: „Ástæða þess að ákveðið var að semja við VARD er sú að um er að ræða öflugt fyrirtæki, þar sem ferlið frá hönnun skips til afhendingar á fullbúnu skipi er á hendi sama aðila. Því er aðeins við einn aðila að semja.“ Síðastliðið sumar kynnti Síldarvinnslan þau áform sín að endurnýja allan ísfisktogaraflota fyrirtækisins og er þessi nýsmíðasamningur fyrsti áfangi þess viðamikla verkefnis.  

Ferjan verður mögulega lengd og seinkar því afhending

Eins og móðir huggar barn sitt, eins mun ég hugga yður

Það á enginn að lenda í að jarða börnin sín, er oft sagt og sem betur fer lenda fæstir í því. En það gerist og höggið er mikið fyrir foreldra, ættingja og vini. Það þekkja Oddný Þ. Garðarsdóttir, Vera Björk Einarsdóttir og Þóranna M. Sigurbergsdóttir sem allar hafa misst syni á voveiflegan hátt og Þóranna tvo. Reynslu sinni lýsa þær í bókinni Móðir Missir Máttur þar sem þær segja opinskátt frá því sem gerðist og áhrifunum sem þessi ógnarupplifun hafði á þær og fjölskyldur þeirra.   Leiðir þeirra lágu saman í gegnum trúna á Krist og í starfi innan kirkjunnar. Tilgangur með útgáfu bókarinnar er að deila reynslunni með öðrum og sýna fólki sem verður fyrir áföllum að til er leið til bata. Hún sé reyndar erfið og á þeirri vegferð séu torfær fjöll klifin og gengið um djúpa dali. En áfram skal haldið. Sjálfar leggja þær áherslu á mikilvægi trúarinnar og að leita styrks í fjölskyldu og vinum, tala opinskátt um missinn og að hika ekki við að leita sér sérfræðiaðstoðar. Vera Björk segir að prestar Landakirkju hafi skipt sig miklu. Fyrst Bjarni Karlsson og Jóna Hrönn Bolladóttir, síðan Þorvaldur Víðisson og Bára Friðriksdóttir. „Bára byrjaði með tólf spora starfið, Andlegt ferðalag í Landakirkju. Hún hvatti mig til að taka þátt og síðan þá hef ég ekki komist úr sporunum, segir Vera Björk. Það hjálpaði mér heilmikið, bæði í sorginni og að kynnast sjálfri mér. Ég held að Andlega ferðalagið sé gott fyrir alla sem hafa lent í einhverju og bara alla.“ „Við kynnumst í gegnum AGLOW. Ég var þá ófrísk af Ragnheiði Perlu. Það var Svanhildur Gísladóttir sem bauð mér með sér þangað. Þar kynntist ég fullt af góðum konum, m.a. Þórönnu. Ég var sú fyrsta af okkur að missa drenginn minn. Svo gerist það hjá Þórönnu fjórum árum seinna. Þá fór ég strax til hennar af því að ég tengdi svo við það sem hún var að ganga í gegnum. Sama gerðist þegar Elli hennar Oddnýjar dó. Við þekktumst ekkert mikið. Vorum nágrannar, buðum góðan daginn og Kári hennar Oddnýjar og Tryggvi minn voru vinir. Þegar þetta gerist hjá þeim fann ég hjá mér að ég yrði að fara yfir til þeirra og tala við þau.“   Félagsskapur sem umvefur og nærir Oddný og Vera Björk urðu góðar vinkonur og Oddný fór að fara með Veru Björk á AGLOW fundi. „Þetta leiddi okkur svo saman, AGLOW og tólf spora starfið,“ segir Vera Björk sem er þakklát kirkjunni og hennar fólki fyrir að hafa staðið með sér. „Ég leitaði í trúna eftir styrk, það kom aldrei neitt annað til greina. AGLOWstarfið er mjög mikilvægur þáttur í mínu trúarlífi,“ segir Oddný. „AGLOW er kærleiksnet kristinna kvenna úr öllum kristnum trúfélögum. AGLOW hefur verið starfandi í Eyjum í rúm tuttugu og fimm ár. Yndislegur félagskapur sem umvefur og nærir. Ég og Vera Björk höfum leitt tólf sporastarf í Landakirkju, nú á annan áratug. Það er góð leið til að vinna í sorginni og læra að þekkja sjálfan sig. Tólf sporastarfið er mikil mannrækt og lærdómsríkt að fara í gegnum það með öðrum.“ Þóranna og hennar fjölskylda er í Hvítasunnusöfnuðinum. „Það hugsuðu örugglega margir úti í bæ að við ættum svo gott að vera í Hvítasunnusöfnuðinum en við þurftum að leita eftir því. Það var ekkert sjálfvirkt sem fór af stað. Þegar Sigurjón dó var mjög vinalegt þegar séra Bjarni, sem er góður vinur okkar, kom og bauð Steingrími út að ganga. Þannig að þetta var fólk úr nágrenninu sem kom til okkar og Snorri og Hrefna Brynja voru til staðar.“   Var bannað að tala um þetta Og Þóranna heldur áfram: „Það var þessi vinanánd sem skipti máli en það var kannski ekki fyrr en seinna að maður áttaði sig á hvenær manni leið vel eða illa og hafa frelsi til að segja hvernig manni leið í það og það skiptið. Stundum þurfti maður að harka af sér en það er mjög gott að eiga góða fjölskyldu og vini og góða kirkju. En viðhorfið í Hvítasunnukirkjunni, var þetta landlæga fyrir tugum ára; nú er þetta búið og bara að halda áfram. Þegar við hittum fólk tveimur mánuðum eftir að Sigurjón fórst spurði það, eruð þið ekki búin að jafna ykkur? Það er bara ekki svoleiðis og það sem við vildum með bókinni er að opna umræðu í fjölskyldum ef einhver hafði dáið óvænt. Áður var bannað að tala um þetta. Við segjum frá því í bókinni að við vildum líka að börnin okkar og barnabörn vissu nákvæmlega hvað gerðist því öll eru þau hluti af þessu ferli,“ segir Þóranna.   Löng og ströng „Og það yrði rétta sagan. Ég hélt að mín börn vissu allt en komst að því svo var ekki þó við höfum ekkert verið að fela þetta. Alltaf talað um þetta en þegar við fórum að fara nánar í það sem gerðist voru börnin ekki með þetta á hreinu. Eitt þeirra hafði upplifað þetta svona og hitt hinsegin, því er mjög gott að fá heildarmyndina,“ segir Vera Björk og nefnir erfiðleika og dauða í sinni fjölskyldu sem ekki mátti ræða. „Var ekki rætt nema að fólk væri drukkið. Þá kom sorgin upp á yfirborðið.“ „Það var oft erfitt að einbeita sér að því að skrifa um þessa erfiðu lífsreynslu en þetta hefur verið góð úrvinnsla fyrir mig,“ segir Oddný. „Þessi vinna hjá okkur þremur hefur verið nokkuð löng og ströng. Við þrjár höfum átt margar samverustundir undanfarin ár við bókarskrif, Aglowstarf, Sporvinnu og annað kristilegt starf. Okkur þykir vænt hver um aðra, enda eigum við margt sameiginlegt. Það er sérstök tilfinning að vera búin að fá bókina í hendurnar eftir mikla vinnu. Ég vil þakka öllum sem hafa hvatt okkur við skrifin, lesið yfir og hjálpað, svo að þessi bók gæti orðið að veruleika. Það er von mín að lestur þessarar bókar, vekji huggun og von þeim sem eiga um sárt að binda.“   Fólk leiti sér aðstoðar Aðspurð sagðist Vera Björk hafa leitað sér aðstoðar tveimur árum eftir að Árni Garðar lést. „Ég var búin að vera í sjálfshjálparsamtökum sem Jóna Hrönn og Bjarni voru með en var of fljót á mér. Var orðin meira sem ráðgjafi, hjálpaði hinum en svo þarna tveimur árum seinna leið mér mjög illa og þá benti vinkona mín mér á sálfræðing í Reykjavík. Ég hitti hann tvisvar og sagði honum sögu mína og þegar ég kom út var eins og hundrað kíló hefðu farið af mér. Þarna gat ég talað við einhvern sem vissi ekkert um málið sem var mjög gott.“ Ég fór á nokkra fundi hjá Nýrri dögun sem eru sorgarsamtök og talaði við sáfræðing á þeirra vegum sem var mjög gott.“ „Prestarnir í Landakirkju voru með sjálfshjálparhóp í kirkjunni, það hjálpaði mér mikið að vera með öðrum sem höfðu misst, finna skilning og styrk hvers annars. Það er svo gott að tala við þá sem þekkja tilfinningarnar því að tilfinningasveiflurnar eru svo miklar,“ segir Oddný. „Við fórum ekki formlega til sálfræðings eftir að Sigurjón dó. Það var ekki fyrr en 11 árum seinna. Eftir að Steingrímur veiktist. Þá fórum við í Hveragerði í mánuð og fengum tíma hjá sálfræðingi. Ég hélt að hann ætlaði að tala um veikindin en þá kom þetta með Sigurjón upp á yfirborðið. Þegar Rikki dó leitaði ég til vina minna en Steingrímur talaði við sálfræðinginn sem við kynntumst í Hveragerði. Í bókinni hvetjum við fólk til að leita sér aðstoðar eins og hægt er, til sálfræðinga og annarra sérfræðinga. Tala við einhvern sem vill hlusta,“ segir Þóranna. Vera Björk bendir á að í dag sé þetta ekki svo mikið leyndarmál, það viðhorf hafi breyst svo mikið. „Þú varst talin klikkuð ef þú fórst til sálfræðings. Núna er þetta allt öðru vísi. Ég held líka að ef fólk gerir ekki upp andlega streitu geti það leitt af sér alvarlega sjúkdóma,“ segir Vera Björk.   Að læra að lifa með En jafnar maður sig einhvern tímann á þessu? „Það nýjasta í sorgarfræðum er að læra að lifa með þessu. Læra, að svona er þetta en á meðan vaxa börnin inni í manni. Það er rosalega erfitt og að hugsa til þess að Sigurjón hefði orðið 39 ára í gær. Það er gott að geta sagt upphátt; þetta er afmælisdagur, gleðidagur og maður hugsar, hvað hefði hann verið að gera í dag? Hjá okkur kom þetta í þrepum. Rúmum tveimur árum eftir að Sigurjón dó skipulögðum við gönguferð. Fórum Laugaveginn í góðum hóp og morguninn eftir föttuðum við Steingrímur að við höfðum sofnað og vaknað án þess að hugsa um það sem gerðist.“ Oddný fór að starfa sem meðhjálpari í Landakirkju, byrjaði 1. apríl 2006. „Verkefnin þar voru bæði erfið og auðveld. Það var gefandi að starfa í kirkjunni, starfsfólkið þar hvert öðru yndislegra. Það var mitt lán að starfa með þeim sr. Kristjáni Björnssyni, sr. Þorvaldi Víðissyni og lengst með sr. Guðmundi Erni Jónssyni. Það var gott að geta talað um hlutina við þá. Mér finnst starf prestanna mikilvægt fyrir fólk sem hefur misst ástvin og hvet fólk að leita til þeirra og annarra fagaðila. Það er nauðsynlegt að leita sér hjálpar. Það er vont að vinna ekki úr erfiðum tilfinningum.“ „Nú dóu Árni Garðar og Sigurjón báðir í bílslysum og sunnudaginn 19. nóvember var minningardagur þeirra sem farist hafa í bílslysum á Íslandi. Þú spyrð hvort maður jafni sig og ég hélt það en þegar ég heyrði þetta í fréttum og séra Guðmundur Örn minntist á þennan dag í messunni, kom þetta við mig. Maður jafnar sig kannski aldrei 100 prósent, lærir að lifa með því og líður vel. Get tekið þátt í lífinu og glaðst þegar tilefni er til en lífið breyttist. Þetta kom eins og högg og í bókinni er mynd af sorgarferlinu sem mér finnst lýsa því svo vel sem ég upplifði. Maður dettur niður á botn í einhverjum pytti. Byrjar smásaman að krafla sig upp, það tekur fólk mislangan tíma. Sumir ná sér svo aldrei,“ segir Vera Björk. „Ef að það er undirliggjandi þunglyndi hjá fólki getur það festst þar þegar eitthvað alvarlegt gerist,“ segir Þóranna. „Ef fólk fer að nota lyf og áfengi til að deyfa sársaukann er það komið í vond mál sem getur verið erfitt að komast út úr,“ bætir Vera Björk við. „Nánasta fjölskylda og vinir veittu okkur styrk, foreldrar og systkini okkar Yngva hjálpuðu okkur mikið. Margir komu til okkar með ýmsa hluti til að votta okkur samúð og við fundum að hugur bæjarbúa var hjá okkur, það var huggun í sorginni,“ segir Oddný.   Svo kom höggið Allar hafa þær unnið í sínum málum í gegnum trúna á Guð og þar segist Vera Björk hafa búið að sinni barnatrú. „Hún var góður grunnur sem ég byggði á,“ segir Vera Björk og Þóranna segir frá reynslu sinni þegar Rikki dó í apríl 2016. „Við reyndum að hafa sem mest að gera um sumarið og haustið, okkur gekk þokkalega en um miðjan desember kom höggið. Það voru að koma jól og ég hafði engan tíma til að undirbúa þau. Svo komu upp nokkur atriði hvert á fætur öðru. Símtal sem var erfitt og þá hugsaði ég; ef ég gæti talað um þetta við einhvern, væri það Rikki. Hann hefði hlustað og gefið mér ráð. Á þessum tíma var verið að jarða nágranna okkar á Hilmisgötu 3, Ragnar Engilbertsson sem var á tíræðisaldri, sem hreyfði við manni. Þegar ég kom heim eftir útförina fæ ég Fylki inn um dyralúguna með myndum af látnum Eyjamönnum. Þar var Rikki og þegar ég sá myndina, hugsaði ég, þetta er í alvörunni. Seinna um daginn hitti ég konu í Krónunni sem búið hafði erlendis. Hún faðmaði mig og sagðist hafa verið svo mikið að hugsa til okkar. Um kvöldið reyndi ég að harka af mér en morguninn eftir gat ég ekki komist fram úr. Bara grét og grét. Fyrst eftir að maður upplifir áfall lamast líkaminn. Maður er utan við sig, rúllar áfram og maður er hissa á að allir séu grátandi í kringum mann. En þarna, sjö mánuðum seinna er ég algjörlega berskjölduð. Vika til jóla og ég gat ekki hugsað mér að fara að undirbúa jólin en ég náði að fara í vinnu daginn eftir og tókst að skrapa saman jólagjöfum.“ Niðurstaðan var að þau Steingrímur eyddu jólunum uppi á landi hjá Daníel syni þeirra sem hjálpaði mikið, að komast í nýtt umhverfi.   Nýr kafli sem enginn óskaði eftir „Hún er algjör hetja,“ segir Vera Björk. „Þegar við erum að klára bókina 2016 gerist þetta með Rikka og þá hugsuðum við Oddný, nú verður ekkert úr bókinni. Þóranna er bara ónýt, að lenda í þessu aftur en hún sagði, nú bætist nýr kafli í bókina. Og hún gerði það. Uppleiðin getur tekið mörg ár og það koma dagar sem maður dettur niður. Þá kemur alltaf eitthvað sem hjálpar manni, einhver sem hringir eða maður hittir. Ég hef þá trú að það sé Guð sem er að hjálpa manni. En það koma dýfur og tónlist og sum lög hafa sterk áhrif á mig. Fyrst gat ég ekki grátið, kannski fyrir framan Hjalta og vinkonu mína en alls ekki fyrir framan ókunnuga. En þegar ég var ein í bílnum og það kom lag sem sló mig þá fengu tárin að streyma,“ segir Vera Björk. „Maður lærði að brynja sig gegn ákveðnum hlutum en svo er kannski eitthvað eitt atriði sem pikkar í mann. Eitthvað sem einhver segir eða gerir,“ segir Þóranna. „Já, eins og með daginn í dag þar sem kemur fram að 1549 manns hafi dáið í bílslysum á Íslandi,“ segir Vera Björk og Þóranna bætir við: „Svo fer maður að hugsa að allt þetta fólk átti foreldra, systkini, börn og maka þannig að þetta hefur haft áhrif á tugi þúsunda.“ „Trúin var algerlega mitt haldreipi í gegnum þetta allt. Ég efaðist stundum um nærveru Guðs þegar mér leið sem verst, en þegar ég lít til baka veit ég að Guð var alltaf með mér,“ segi Oddný.   Að deila reynslunni Og þar kemur tilgangur þeirra með bókinni, að deila reynslu sinni og uppleggið er að fólk er ekki tilbúið að lesa mikið þegar sorgin bankar upp á. Hver saga er ekki nema 30 síður og skipt niður í kafla. Þær eru mjög ánægðar með samvinnuna við Skálholtsútgáfuna, þar hafi allir verið boðnir og búnir að leggja þeim lið og leiðbeina en bókin er þeirra og líka nafnið, Móðir Missir Máttur. Og þær nálgast þetta frá mörgum sjónarhornum, ekki bara þeirra þriggja heldur upplifun fjölskyldna, skólans og samfélagsins. „Um tíma leit út fyrir að ekkert yrði úr þessu,“ segir Vera Björk. „En þá hugsuðum við, þetta er alla vega búið að hjálpa okkur og okkar nánustu. Vonandi verður þetta til að hjálpa öðrum.“ Algengustu hlutir eins og að borða gat verið stórmál og að sinna fjölskyldunni kostaði stórátak en þær höfðu ekkert val. Lífið varð að hafa sinn gang og margir tilbúnir að hjálpa þegar mest lá við. „En þó að við séum að segja okkar sögu og frá okkar börnum erum við ósköp venjulegar fjölskyldur sem lendum í þessum aðstæðum. Ég held að engin okkar hefði ein farið að skrifa þessa bók. En af því að við erum þrjár sem erum að vinna úr þessu og getum stutt hver aðra gátum við gert þetta,“ segir Þóranna.   Minningarnar lifa „Það segir í gömlum kennslubókum í læknis- og hjúkrunarfræðum að sorg vegna andláts eigi að ganga yfir á nokkrum mánuðum og vera búið eftir tvö ár. Ef þetta er eitthvað að trufla þig þá, áttu að fara til geðlæknis. Þetta er bara ekki svona en fólk er misjafnlega lengi að ná sér og sumir gera það aldrei,“ segir Vera Björk og Þóranna tekur undir það og það koma dýfur eins og Vera Björk nefndi. „Ég fór út til Dublin með leikskólanum í vor þegar akkúrat var eitt ár frá því Rikki dó. Ég var með hnút í maganum en á starfsmannafundi stuttu áður sagði ég að þetta yrðu mér erfiðir dagar en ég ætlaði að fara með. Bara það, að tala um þetta var svo mikill léttir og í ferðinni leið mér bara vel. Góð vinkona mín sem ég vinn með ákvað að vera við hliðina á mér sem hjálpaði mikið.“ „Í dag gleðst ég yfir yndislegum minningum um Ella minn, sem var svo kátur, fjörugur og uppátækjasamur. Ég tel mig vera búna að vinna eins mikið í áfallinu eins og hægt er og hef lært að lifa með sorginni,“ segir Oddný að endingu. Lokaorð sem þær geta allar tekið undir.  

Ómetanleg aðstoð sem Líknarkonur hafa veitt í gegnum tíðina

Það er komið að þeim tíma árs þar sem kvenfélagskonur baka, en á föstudaginn er árlegt 1. des. kaffið þeirra. Það er nefnilega algjör mýta að þessar fórnfúsu konur í kvenfélaginu séu alltaf bakandi, en það er einu sinni á ári sem þær baka í þágu félagsins og þær sem ekki hafa áhuga á að baka geta sennilega fengið einhver önnur verkefni. Saga Líknar kvenfélags á sér 108 ára sögu og þegar rýnt er í bækur og blöð sem segja sögu þessa félags, hafa margir kvenskörungarnir tekið þátt í starfinu og mörgu komið í verk. Aðstoðin sem kvenfélagið hefur veitt í gegnum árin er ekki hægt að koma niður á blað með orðum.   Starfsemi kvenfélagsins er fjölbreytt og skemmtileg Þegar félagið var stofnað var lífið annað og erfiðara. Upphafleg stefnumál þess voru að líkna og hlynna að bágstöddum sjúklingum, markmiðin hafa ekki mikið breyst en þróast. Starfsemin hefur farið um víðan völl í gegnum árin þó megin stefnumál félagsins séu alltaf að láta gott af sér leiða til stofnanna sem þurfa á að halda og eintaklinga sem eiga um sárt að binda. Líknarkonur hafa einnig verið virkar í menningarlífinu, héldu í mörg ár leiksýningar, tóku þátt í þjóðhátíð Vestmannaeyja stóðu fyrir karnivali og fleira. Basarinn þeirra og 1. des. kaffið er fyrir löngu orðið þekkt og hafa þær síðustu ár fyllt Höllina í árlega kaffinu, enda ekki furða, starf þeirra er góðmennskan út í eitt og þarna fá fleiri tækifæri til að láta gott af sér leiða. Árlega standa þær fyrir vorsöfnun og merkjasölu í maí, en þetta hvoru tveggja eru fjáraflanir til að geta rétt hjálparhönd. Þær hafa síðan séð síðustu ár um kaffi Vinnslustöðvarinnar á sumardaginn fyrsta og svo áður nefndan basar og 1. des. kaffi. Þær reyna líka að huga að innra starfinu og fóru í ár í dagsferð út á land og óvissuferð innanbæjar, en sögur segja að það sé alltaf gaman þegar kvenfélagskonur hittast.   Styrkir fyrir 107 milljónir frá 2006 Þetta fórnfúsa starf sem kvenfélagskonurnar vinna í þágu líknar og velferðarmála almennings er magnað. Þær hafa árokað miklu í gegnum árin og sagði núverandi formaður Edda Ólafsdóttir mér að frá árinu 2006 hafi félagið styrkt einstaklinga og stofnanir eins og HSU, Hraunbúðir, Sambýlið og fleiri um 107 milljónir, talan segir allt sem segja þarf!   Gæti varla gengið nema fyrir velunnara í bæjarfélaginu Anna Huld Sigurðardóttir hjúkrunardeildarstjóri hjá HSU í Vestmannaeyjum sagði að stofnunin væri sú sem hún er vegna velunnara í bænum. „Starfsemi stofnunarinnar gæti varla gengið nema fyrir tilstuðlan velunnara í bæjarfélaginu. Þær gjafir sem kvenfélagið Líkn hefur fært spítalanum í gegnum árin hafa verið ómetanlegar. Bara á þessu ári hafa Líknarkonur gefið mikilvæg tæki, fyrir bæði sjúkradeildina og rannsókn, fyrir meira en 10 milljónir. Og til samanburðar fær öll Heilbrigðisstofnun Suðurlands tæpar 8 milljónir til tækjakaupa frá ríkinu fyrir þetta ár,“ sagði Anna Huld. Starfsfólk og sjúklingar njóta því góðs af þeirri óeigingjörnu vinnu sem Líknarkonur leggja á sig til að bæta öryggi okkar Eyjamanna. Anna Huld gekk í félagið í vor og sagði aðalástæðuna vera málefnin sem þær taka fyrir. „Ég tel það forréttindi að fá að tilheyra svona flottum hópi kvenna sem vinnur af alúð og hlýju fyrir góð málefni, “sagði Anna Huld að lokum.   Eigum við að láta gott af okkur leiða? Ef konur vilja láta gott af sér leiða þá er alltaf opið fyrir umsóknir hjá kvenfélaginu Líkn. Það var miklu algengara hér á árum áður að konur gengu í kvenfélag, þá vildu flestar konur láta gott af sér leiða til bágstaddra og tækifæri til þess var í gegnum kvenfélag. Það er líklegast mjög góð tilfining að taka þátt í starfi sem er mannbætandi fyrir marga og hreinlega bjargar mannslífum. Að þessu sögðu mun ég að öllum líkindum senda inn umsókn í kvenfélagið, því ég vill láta gott af mér leiða. Það er allavega hægt að gera sér glaðan dag og mæta í kaffið eða kaupa af þeim jólakortin sem nú eru til sölu.  

Ekki gagnrýni á að Erlingur hafi tekið starfið að sér

Kennarafélag Vestmannaeyja sendi í síðustu viku frá sér ályktun um að gripið yrði inn í á einhvern hátt ef það sýndi sig að álag á stjórnendur og þar með annað starfsfólk og skólastarf almennt ykist þegar skólastjóri yrði í burtu. Margir tóku það svo að ósætti væri milli kennara og skólastjóra vegna þessa en þannig standa mál ekki. Sigurhanna Friðþórsdóttir formaður kennarafélags Vestmannaeyja sagði í samtali við Eyjafréttir að ályktunin hafi verið ætluð Fræðsluráði sem ábending um að gripið yrði inn í á einhvern hátt ef það sýndi sig að álag á stjórnendur og þar með annað starfsfólk og skólastarf almennt ykist þegar skólastjóri væri í burtu. „Kennarafélag Vestmannaeyja er fagfélag sem hefur m.a. það hlutverk að gæta að hag sinna félagsmanna. Álag á kennara hefur aukist á undanförnum misserum, hver svo sem skýringin kann að vera, og hefur Grunnskóli Vestmannaeyja ekki farið varhluta af því. Með núgildandi kjarasamningi FG og SNS var gerð bókun þar sem öllum skólum var gert að fara í vinnu ásamt fulltrúum síns sveitarfélags og reyna að finna leiðir til að draga úr álaginu,“ sagði Sigurhanna. Þessi vinna fór fram á vormánuðum 2017 og má finna niðurstöður hennar í samantekt á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þann 1. desember nk. munu taka gildi breytingar á úthlutunarreglum sjúkrasjóðs Kennarasambands Íslands en frá og með þeim tíma munu greiðslur til félagsmanna skerðast um 25% vegna mikillar ásóknar í sjúkrasjóðinn. Sigurhanna sagði það liggja í hlutarins eðli að kennurum er einnig annt um nemendur sína og því sjálfsagt að benda á hluti sem þessa. „Í ályktuninni kemur ekki fram nein gagnrýni á að Erlingur hafi tekið starfið að sér eða að hann hafi fengið leyfi bæjaryfirvalda til þess. Auðvelt hefði verið fyrir ráðið að þakka ábendinguna og taka undir hana á einn eða annan hátt, ef erindið hefði borist þangað en ekki verið vísað í bæjarráð. Atburðarásin sem síðan fór af stað skrifast á aðra en Kennarafélag Vestmannaeyja,“ sagði Sigurhanna.   Mórallinn í GRV er frábær og samskiptin góð Sigurhanna sagði móralinn í GRV vera frábæran og samskipti á milli stjórnenda og annarra starfsmanna í fínu lagi. „Almenn ánægja ríkir með störf Erlings og annarra stjórnenda.“ „Ég hef rætt málin við hlutaðeigandi og skýrt sjónarmið KV svo málið er úr sögunni af okkar hálfu. Það er einlæg ósk stjórnar Kennarafélags Vestmannaeyja að sátt ríki um skólastarf í GRV og að allir sem að málum koma á einn eða annan hátt hafi metnað til að gera skólastarfi hátt undir höfði og hag nemenda og starfsmanna sem bestan. Þar er samstaða mikilvæg og grundvallaratriði að hlustað sé á öll sjónarmið, ekki síst okkar fagfólksins,“ sagði Sigurhanna að lokum.  

Grunnskóli Vestmannaeyja yfir landsmeðaltali í samræmdum prófum

Það var ánægjuleg yfirferð skólastjóra á niðurstöðum 4. og 7. bekkjar GRV á síðasta fundi fræðsluráðs Vestmannaeyja þar sem var opinberað að árgangarnir væru yfir landsmeðaltali bæði í stærðfræði og íslensku.   Fyrstu skrefin tekin í leikskólum Slíkur árangur er ekki sjálfgefinn og liggur mikil vinna að baki bæði hjá kennurum, nemendum og forráðamönnum nemenda. Allt frá því að börn byrja á leikskólum sveitarfélagsins er unnið markvisst með læsi og stærðfræði. Á leikskólum fer fram markviss málörvun m.a. í gegnum bókalestur, söng og dagleg samskipti. Málskilningur og orðaforði eykst jafnt og þétt á leikskólaárunum ásamt því að fyrstu skrefin í talna- og rúmskilningi eru tekin.   Framtíðarsýn og áherslur í menntamálum Í janúar 2015 samþykkti fræðsluráð Vestmannaeyjabæjar Framtíðarsýn og áherslur í menntamálum þar sem megináherslur eru á læsi og stærðfræði í öllu skólastarfi sveitarfélagsins. Áhersla var m.a. lögð á framkvæmd skimunarprófa, snemmtæka íhlutun, gott samstarf heimilis og skóla o.m.fl. Vorið 2016 var svo veitt 2 milljóna króna viðbótarframlag við kennsluúthlutun ársins vegna framtíðarsýnar í menntamálum.   Metnaðarfull lestrarstefna GRV GRV fylgir öflugri og markvissri lestrarstefnu en þróunarhópur hóf formlegan undirbúning að henni í byrjun árs 2014. Lestrarstefnuna er hægt að nálgast á vefsíðu skólans en þar er m.a. að finna lestrarviðmið og góðar hugmyndir að lestrarefni fyrir foreldra. GRV hefur fylgt hugmyndarfræðunum leið til læsis og orð af orði ásamt því að yndislestur hefur verið tekinn upp við skólann. Kennarar GRV eru duglegir að sækja sér endurmenntun sem skilar sér gjarnan í fjölbreyttum og bættum kennsluaðferðum.   Foreldrar og forráðamenn lykilleikmenn í átt að bættum námsárangri Líkt og Ásdís Steinunn Tómasdóttir komst svo vel að orði í grein sinni ,,Tökum Íslandsmeistarann á þetta” þá á keppnisskapið ekki síður heima inni í skólastofunni og við skrifborðið heima líkt og í íþróttasölum bæjarins. Við höfum séð það í Landsleiknum í lestri að bæði GRV, fyrirtæki og stofnanir hafa brett upp ermarnar og látið til sín taka á landsvísu. Eins hefur Lestraraðstoð Bókasafns Vestmannaeyja við börn af erlendum uppruna án ef verið góður stuðningur við grunnskólann. Öflugt og gott samstarf heimilis og skóla ásamt þéttum stuðning foreldra/forráðamanna við heimanám getur skipt sköpum hvað námsárangur nemenda varðar. Samfélagið allt getur lagst á árarnar með skólunum og fræðsluyfirvöldum í að auka veg og virðingu skólastarfsins og mikilvægi menntunar, en menntun er og verður ávallt frumforsenda allra framfara.     Hildur Sólveig Sigurðardóttir Formaður fræðsluráðs Vestmannaeyja  

Engin loforð en hvergi slegið af kröfum

„Fundurinn tókst í alla staði vel. Hann sóttu um 80 manns og til viðbótar hafa um 1400 manns horft á fundinn á netinu en hann var sendur út í gegnum Facebooksíðu Vestmannaeyjabæjar. Við lögðum á það áherslu að eiga einlægt og opið samtal um forsendur sem við höfum unnið út frá, útskýra stöðuna og næstu skref. Við lögðum á borðið hverju við vinnum að og vonum að fólk sýni því skilning að við erum ekki að lofa neinu heldur bara að segja frá því hverjar okkar ítrustu kröfur eru,“ sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri eftir kynningarfundinn á laugardaginn í Eldheimum og lagði áherslu á að langt sé frá því að nokkuð sé klappað í stein. Fundinn sátu Lúðvík Bergvinsson, lögmaður, Páll Guðmundsson, útgerðarstjóri Hugins, Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri Analitca sem skipa stýrihóp sem unnið hefur að yfirtöku Vestmannaeyjabæjar á Herjólfi fyrir svörum. Fulltrúar bæjarins voru Elliði og Stefán Óskar Jónasson, oddviti minnihlutans í bæjarstjórn. Grímur Gíslason, framkvæmdastjóri Atlas, sem á sæti í stýrihópnum hafði ætlað að mæta en var fastur við störf úti í Póllandi. Lúðvík, sem hafði orð fyrir stýrihópnum sagði að fundurinn hefði fyrst og fremst verið hugsaður til að koma á framfæri upplýsingum og til að eiga gott samtal við bæjarbúa um framtíð ferjusiglinga, nú þegar von er á nýrri ferju um mitt næsta ár og samningaviðræður við ríkið eru að hefjast. „Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur um nokkurt skeið verið þeirrar skoðunar að endurmeta verði þær forsendur sem rekstrarstyrkur ríkisins vegna ferjusiglinga Herjólfs eru grundvallaðar á. Það er mat bæjarstjórnar að ferjusiglingar séu „lífæð“ Eyjanna, í þeim skilningi að íbúar og fyrirtæki eiga mikið undir því að þjónustustig Herjólfs sé hátt og verð fyrir þjónustu ferjunnar taki raunverulega mið af því að ferjusiglingar koma í stað stofn- eða tengivega sem öll samfélög njóta. Þá markast samkeppnishæfni Vestmannaeyja varðandi það að keppa um að fá til sín fólk og fyrirtæki að stórum hluta af því að samgöngur og verðlagning þeirra sé ásættanleg og samkeppnishæf. Því verður að líta á ferjusiglingar við Eyjar sem hluta af uppbyggingu innviða samfélagsins og þær séu reknar sem almannaþjónustu. Ferjusiglingarnar Herjólfs eru því hin raunverulega lífæð Eyjanna í því umhverfi sem sveitarfélög búa við í dag. Þetta er útgangspunktur bæjarstjórnar í málinu,“ sagði Lúðvík.  

Ekkert að því að héraðsfréttamiðlar taki pólitíska afstöðu

 Í gær birtu þau Hildur, Trausti og Birna Vídó, bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, góða grein sem við sem eldri erum tökum alvarlega. Þar benda bæjarfulltrúar sem allir eru á sínu fyrsta kjörtímabili á mikilvægi þess að nálgast störf í bæjarstjórn á uppbyggjandi og jákvæðan máta. Samhliða benda þau á að héraðsfréttamiðlar geta ekki beitt sér í pólitískri baráttu og ætlast síðan til að vera teknir sem hlutlausir miðlar á sama tíma.   Saman höfum við undirritaðir setið í bæjarstjórn í bráðum 12 ár. Við viljum, eins og þau sem yngri eru, nálgast verkefni okkar með bjartsýni og jákvæðni að leiðarljósi. Við höfum trú á samfélaginu og því magnaða fólki sem hér býr. Við teljum að í framtíðinni séu fólgin tækifæri sem við ætlum að nýta fyrir samfélagið. Við viljum vinna með fólki frekar en á móti því. Við höfum átt því láni að fagna að samstarfsfólk okkar í bæjarstjórn er sama sinnis sama hvar í flokki það stendur. Það er góður grunnur að árangri.   Með þessari grein vilja undirritaðir taka undir þá afstöðu sem fram kom í fyrrnefndri grein. Héraðsfréttamiðlar skipta afar miklu í hinni pólitísku umræðu og gildi þeirra er ótvírætt. Það er þó ólíkt eftir því hvort að miðillinn er hlutlaus eða hlutdrægur. Miðill sem ýjar að samanburði á milli bæjarstjórnar og þeirra mannréttindabrota sem eiga sér stað í Norður-Kóreu getur ekki lengur talist marktækur sem hlutlaus miðill. Sérstaklega ekki þegar slíkt bætist ofan á einhliða málflutning og stundum jafnvel áróður. Miðill sem beitir sér pólitískt getur ekki ætlast til þess að vera lesinn öðruvísi en sem pólitískt málgagn.   Nýjasta útspil Eyjar.net er fabúlering um niðurstöðu könnunar MMR. Með furðulegum kúnstum kemst ritstjórinn að þeirri niðurstöðu að fylgið sé að hrynja af E og D lista. Það er vægast sagt mjög undarleg túlkun á niðurstöðum því hið rétta er að 61% þeirra sem taka afstöðu velja D. Það þykir nú bara ansi góð útkoma fyrir einn flokk og yrði það niðurstaðan yrði hún næst stærsti kosningasigur Sjálfstæðismanna í sögunni í Vestmannaeyjum.   Rétt er að taka fram að rétt eins og þau Birna Vídó, Trausti og Hildur þá gerum við ekki nokkra athugasemd við það þótt ritstjóri og eigandi eyjar.net beiti sínum miðli á þennan máta. Það er hans skýri réttur og nákvæmlega ekkert athugavert við það. Slíkt kann jafnvel að verða til þess að enn fleiri sjónarmið heyrist og því fögnum við. Sjálf stjórnum við ásamt pólitískum samherjum okkar miðli sem við köllum Fylki og er ætlað að vinna pólitískum hugmyndum okkar brautargengi. Við getum hinsvegar ekki ætlast til þess að fólk lesi Fylki öðruvísi en með það í huga að hann er málgagn okkar Sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum. Blaðinu er hreinlega ætlað að gegna því hlutverki að koma okkar málstað á framfæri. Það sem meira er, blaðinu er ætlað að hafa áhrif á hvernig fólk kýs. Við viljum enda að sem flestir setji X við D og felum ekki þann tilgang.   Nú þegar rétt um hálft ár er eftir af kjörtímabilinu höfum við einsett okkur að ljúka því á þeim nótum sem bæjarstjórn hóf það. Á forsendum bjartsýni, leikgleði og trú á framtíðina. Hvað sem líður háðsglósum þá ætlum við áfram að reyna að sameina frekar en sundra. Við ætlum að benda á það sem vel er gert og gangast við því sem betur má fara. Við ætlum sem sagt hér eftir sem hingað til að gera það sem í okkar valdi stendur til að gæta hagsmuna Vestmannaeyja.   Elliði Vignisson, bæjarfulltrúi   Páll Marvin Jónsson, bæjarfulltrúi    

Í ályktuninni kemur ekki fram gagnrýni á að Erlingur hafi tekið starfið að sér

Kennarafélag Vestmannaeyja sendi í síðustu viku frá sér álykutn um að gripið yrði inn í á einhvern hátt ef það sýndi sig að álag á stjórnendur og þar með annað starfsfólk og skólastarf almennt ykist þegar skólastjóri yrði í burtu. Almennt tók fólk þá upp að halda að ósætti væri milli kennrar og skólastjóra vegna þessa en þannig standa mál ekki.   Sigurhanna Friðþórsdóttir formaður kennarafélags Vestmannaeyja sagði í samtali við Eyjafréttir að ályktunin hafi verið ætluð Fræðsluráði sem ábending um að gripið yrði inn í á einhvern hátt ef það sýndi sig að álag á stjórnendur og þar með annað starfsfólk og skólastarf almennt ykist þegar skólastjóri yrði í burtu. „Kennarafélag Vestmannaeyja er fagfélag sem hefur m.a. það hlutverk að gæta að hag sinna félagsmanna. Álag á kennara hefur aukist á undanförnum misserum, hver svo sem skýringin kann að vera, og hefur Grunnskóli Vestmannaeyja ekki farið varhluta af því. Með núgildandi kjarasamningi FG og SNS var gerð bókun þar sem öllum skólum var gert að fara í vinnu ásamt fulltrúum síns sveitarfélags og reyna að finna leiðir til að draga úr álaginu,“ sagði Sigurhanna. Þessi vinna fór fram á vormánuðum 2017 og má finna niðurstöður hennar í samantekt á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þann 1. desember nk. munu taka gildi breytingar á úthlutunarreglum sjúkrasjóðs Kennarasambands Íslands en frá og með þeim tíma munu greiðslur til félagsmanna skerðast um 25% vegna mikillar ásóknar í sjúkrasjóðinn. Sigurhanna sagði að það liggi í hlutarins eðli að kennurum er einnig annt um nemendur sína og því sjálfsagt að benda á hluti sem þessa. „Í ályktuninni kemur ekki fram nein gagnrýni á að Erlingur hafi tekið starfið að sér eða að hann hafi fengið leyfi bæjaryfirvalda til þess. Auðvelt hefði verið fyrir ráðið að þakka ábendinguna og taka undir hana á einn eða annan hátt, ef erindið hefði borist þangað en ekki verið vísað í Bæjarráð. Atburðarásin sem síðan fór af stað skrifast á aðra en Kennarafélag Vestmannaeyja,“ sagði Sigurhanna.   Mórallinn í GRV er frábær og samskiptin góð Sigurhanna sagði mórallinn í GRV vera frábæran og samskipti á milli stjórnenda og annarra starfsmanna í fínu lagi, „almenn ánægja ríkir með störf Erlings og annarra stjórnenda.“ „Ég hef rætt málin við hlutaðeigandi og skýrt sjónarmið KV svo málið er úr sögunni af okkar hálfu. Það er einlæg ósk stjórnar Kennarafélags Vestmannaeyja að sátt ríki um skólastarf í GRV og að allir sem að málunum koma á einn eða annan hátt hafi metnað til að gera skólastarfi hátt undir höfði og hag nemenda og starfsmanna sem bestan. Þar er samstaða mikilvæg og grundvallaratriði að hlustað sé á öll sjónarmið, ekki síst okkar fagfólksins,“ sagði Sigurhanna að lokum.    

Viljum nálgast verkefnið með uppbyggingu og sátt í huga

Fjölmiðlun er vandasöm enda þau störf meðal þeirra allra mikilvægustu í nútíma samfélögum. Við vinnu sína þurfa blaðamenn og rekstraraðilar fjölmiðla að gæta hlutleysis ef þeir ætlast til að vera teknir alvarlega. Þegar héraðsfréttamiðill fellur í þá gryfju að bera sveitarstjórn á hinu friðsæla Íslandi saman við þau hræðilegu mannréttindabrot sem eiga sér stað í Norður-Kóreu dæmir sá miðill sig þar með úr leik. Miðillinn er ekki að segja fréttir heldur að taka þátt í pólitík og það ansi ljótri.   Alvarleg mannréttindabrot framin í Norður-Kóreu   Á Íslandi ríkir velmegun. Við erum frjáls, fullvalda og mannréttindi tekin mjög alvarlega. Í Norður-Kóreu eru framin alvarleg mannréttindabrot á hverjum einasta degi, fólki er misþyrmt, það svelt, svipt mannvirðingu sinni og jafnvel tekið af lífi. Í Vestmannaeyjum starfar bæjarstjórn sem sækir umboð sitt beint til bæjarbúa.Bæjarfulltrúar sinna störfum sínum af kostgæfni, virðingu og auðmýkt fyrir sínu umboði. Í Norður-Kóreu er einvaldur sem myrðir, rænir og sviptir þegna sína grundvallarréttinum til frelsis.   Ekki lengur hlutlaus miðill   Með grein þar sem störf og ákvarðanir bæjarstjórnar eru bornar saman við Norður-Kóreu tekur steininn úr. Fáum dylst að eyjar.net er ekki lengur hlutlaus miðill heldur leggur miðillinn sig nokkuð hart fram við að róa á mið sundrungar og hikar ekki við að leggja sem flest út á neikvæðan máta fyrir núverandi meirihluta og jafnvel bæjarstjórn alla. Það er hins vegar skýr réttur miðilsins og eigenda hans að skrifa eins og honum dettur í hug.   Höfum trú á framtíð Vestmannaeyja   Við undirrituð höfum sterka trú á framtíð Vestmannaeyja og viljum leggja okkar af mörkum til að treysta hér byggð á jákvæðum forsendum. Við höfum valið Vestmannaeyjar sem framtíðarvettvang fjölskyldna okkar og viljum vinna með öllum þeim sem eru tilbúnir að nálgast verkefnin á málefnalegum forsendum með uppbyggingu og sátt í huga. Okkur þykir miður að eyjar.net sé í okkar huga hættur að vera almennur hlutlaus héraðsfréttamiðill. Í stað þess að segja hlutlausar fréttir og taka þátt í uppbyggingu Vestmannaeyja er hann orðinn tæki til að vinna að beittum pólitískum tilgangi. Þar til breyting verður á er okkur sem persónum nauðugur sá kostur að nálgast þennan miðil í því ljósi sem að ofan er greint.   Hildur Sólveig Sigurðardóttir   Trausti Hjaltason   Birna Vídó Þórsdóttir   Bæjarfulltrúar.  

Allt að átta ferðir á dag og sama verð í Landeyjahöfn og Þorlákshöfn

Fundurinn í Eldheimum á laugardaginn var mjög góður og málefnalegur. Fulltrúar stýrihópsins og bæjarfulltrúar komu hugmyndum sínum á framfæri og svöruðu spurningum úr sal sem voru málefnalegar. Stýrihópurinn starfar eftir viljayfirlýsingu sem Jón Gunnarsson samgönguráðherra og Elliði skrifuðu undir í lok október. Markmiðin eru allt að átta ferðir á dag þegar siglt í Landeyjahöfn, að núverandi Herjólfur verði til reiðu sem varaskip eftir að ný ferja kemur og sama gjaldskrá gildi í Landeyjahöfn og Þorlákshöfn. Að núverandi fjárveiting til reksturs Herjólfs, sem er um 760 milljónir verði lögð til grundvallar nýs samnings. Þannig verði möguleg hagræðing nýtt til að bæta samgöngur á milli lands og Eyja. Líka að fram fari þarfagreining sem taki mið af þörfum samfélagins en ekki eingöngu hámarksnýtingu. Þetta sé almannaþjónusta og ekki hagnaðardrifin. Lögð var áhersla á að bæjarsjóður verður ekki í ábyrgð fyrir rekstrinum. Er hugmyndin að stofna ohf-félag sem getur séð um allan rekstur og umsjón. Það gæti líka boðið rekstur skipsins út en haft stjórn að þjónustuþættinum.   Hugmyndir eru um íbúapassa fyrir Eyjafólk sem nyti þá sérstakra kjara. Líka að þreföld áhöfn yrði á skipinu en í dag er hún tvöföld. Þá er Háskólinn á Akureyri að vinna þarfagreiningu. En enn er ekkert fast í hendi og framhaldið ræðst af afstöðu nýrrar ríkisstjórnar. Líka sögðu þeir að samstaða meðal Eyjafólks skipti máli.   Eigum að upplýsa   „Ég var ánægður að fundurinn var haldinn og hvað margir mættu. Eitt af hlutverkum okkar bæjarfulltrúa er að upplýsa bæjarbúa sem mest og best um þetta mikilvæga verkefni. Verkefni sem skiptir okkur öll svo miklu máli,“ sagði Stefán Jónasson.   „Við sem bæjarfulltrúar þurfum að upplýsa bæjarbúa sem mest í þessu máli og ég held að það hafi tekist mjög vel. Það sem við höfum í höndunum er viljayfirlýsing en enn er ekkert frágengið. Krafan er fleiri ferðir og þessum hugmyndum er áætlað að skipið sigli 18 til 20 klukkutíma á sólarhring. Í viljayfirlýsingunni samþykkir ríkið það. Bæjarbúar hafa haft miklar skoðanir á því að sama verð eigi að vera í Landeyjahöfn og Þorlákshöfn. Það er líka í viljayfirlýsingunni. Einnig að núverandi Herjólfur verði til taks í tvö og hálft ár.“ Stefán lagði áherslu á að bæjarstjórn standi fast á því að bæjarsjóður verði í ekki ábyrgð á rekstrinum og að ekki verði gefið eftir af hafnargjöldum. Stofnað verður ohf. félag um reksturinn og eins og ég sagði á fundinum verða haldnir aðalfundir þar sem allt verður uppi á borðum.“   Stefán segir að spurningar úr sal vera almennar og á sömum nótum og þeir hafi unnið eftir. „Það var spurt um íbúakosningu og ég tel það ekki útilokað en fyrst verðum við að sjá samninginn en takmarkið er 2920 ferðir á ári án tillit til veðurs,“ sagði Stefán.   Hagsmunir samfélagsins ráði   „Það er óeðlilegt að mati bæjarstjórnar að slík þjónusta sem ferjusiglingar eru grundvallist af arðsemiskröfu fyrirtækis sem skráð er í kauphöll. Eðli málsins samkvæmt fara hagsmunir samfélagsins og slíks fyrirtækis ekki saman. Í því felst ekki gagnrýni á núverandi rekstraraðila aðeins ábending á það að arðsemisdrifinn fyrirtækjarekstur hentar ekki við rekstur verkefna þar sem almannaþjónustusjónarmið eiga að vera ráðandi,“ sagði Lúðvík Bergvinsson. Hann sagði að í viljayfirlýsingunni komi fram að markmiðið er að Vestmannaeyjabær taki rekstur Herjólfs yfir þegar ný ferja kemur. „Fellst ríkið í reynd á þessi sjónarmið bæjarstjórnar. Þar kemur fram að ferjusiglingar Herjólfs séu og eigi að skilgreina sem almannaþjónustu. Þar kemur einnig fram að stefnt skuli að því að ferjan sigli átta ferðir á dag milli lands og Eyja – en í því felst að gert er ráð fyrir að ferjan sigli u.þ.b. 16-20 klukkustundir á sólarhring, hvort sem hún siglir í Landeyjahöfn eða Þorlákshöfn. Það er eina leiðin til þess að mögulegt sé að koma til móts við það þjónustustig sem krafa er uppi um að verði til staðar, þ.e. að fólk geti komið og farið til og frá Eyjum sem mest þegar því hentar. Þetta er sú krafa sem bæjarstjórn er með varðandi þjónustustig ferjusiglinga Herjólfs.“ Lúðvík sagði að enn hefðu engir samningar verið kláraðir. „Þær viðræður eru að hefjast þessa dagana. Við gerum ekki ráð fyrir öðru en að ný ríkisstjórn fylgi þeirri sömu stefnu sem mörkuð var með undirritun viljayfirlýsingarinnar af núverandi ríkisstjórn. Það var því afar mikilvægt fyrir starfshópinn, og reyndar bæjarstjórn, að halda umræddan upplýsingafund og eiga þar hið góða samtal við bæjarbúa sem fór fram. Á fundinum komu fram margvísleg sjónarmið frá bæjarbúum sem taka verður tillit til í væntanlegum viðræðum við ríkið um framtíð ferjusiglinga Herjólfs og skipulag þeirra. Sjálfum þótti mér fundurinn afar góður. Það var sérstaklega ánægjulegt að heyra þann mikla samhljóm og ánægju sem fram kom í orðum fundargesta varðandi þær hugmyndir og þá hugmyndafræði sem bærinn hefur talað fyrir í viðræðum sínum við ríkið varðandi framtíð ferjusiglinga. Það er því óhætt að segja að fundurinn hafi gefið starfshópnum og bæjarstjórn þann styrk og kraft sem leitað var eftir og þarf til að takast á við komandi viðræður við ríkið um framtíð ferjusiglinga Herjólfs.“   Einbeittur vilji ráðherra   Elliði sagði að enn væri langt í land en í viljayfirlýsingunni komi fram einbeittur vilji hjá núverandi ráðherra til að af þessu verði og ástæða til að hrósa bæði honum og öðrum þingmönnum og ráðherrum sem að þessu hafa komið. „Án pólitískrar forystu hefði þetta mál aldrei byrjað og án hennar verður því ekki lokið. Við vinnum út frá því að ferðum verði fjölgað mikið og í stað þess að vera sífellt á öskrinu eftir einhverju sem kallað er „aukaferðir“ þá verði skipið einfaldlega látið ganga og þjóðveginum haldið opnum svo mikið sem mögulegt er. Það þarf að okkar mati nýja hugsun og nýja skilgreiningu á öllu sem snýr að samgöngum á sjó og í fyrsta skipti finnst okkur sem eitthvað sé að rofa til. Við höfum nú bæði eyru og athygli þeirra sem þessu ráða og það viljum við nýta okkur.“ Elliði sagði að á fundinum hefði komið fram hversu langþreytt fólk er orðið á stöðunni og þeir hefðu fullan skilning á því. Fyrst hafi verið beðið eftir Landeyjahöfn og síðan eftir bótum á stöðunni hvað hana varðar. „Ferðir eru of fáar, þjónustan of lítil, skipið er gamalt, bilað og óheppilegt, höfnin glímir við mikinn vanda, fargjöld eru of há og lengi má áfram telja. Oft fer það síðan svo að fólk fer að takast á um vandann innbyrðis þótt allir séu í raun sammála. Slíkt sundrar þegar þörf er á samstöðu og veldur ómældum skaða. Besta leiðin til að vinna málið áfram er að miðla upplýsingum og það tel ég að vel hafi tekist á þessum fundi.“ Elliði sagði að vel hefði tekist um val á mönnum í stýrihópinn. „Þegar kemur að málum sem þessum verðum við að reiða okkur á sérfróða aðila. Þannig höfum við ekki haft neinar persónulegar skoðanir því hvernig eigi að leysa vanda Landeyjahafnar. Við viljum bara að allt verði gert svo fljótt sem verða má. Sérfróðir aðilar verða síðan að finna hvernig vandinn verði leystur. Á sama hátt hafa bæjarfulltrúar ekki sérstaka persónulega skoðun á því hvernig staðið verði að yfirtöku á Herjólfi. Þeir vilja bara að þetta verði vel gert og hámarksþjónusta veitt án þess að það valdi kostnaði fyrir Vestmannaeyjabæ,“ sagði Elliði sem vonast til að málinu ljúki sem fyrst.       „Ég vil að lokum skora á íbúa að gefast ekki upp. Við erum öll orðin þreytt á ástandinu en einmitt þá reynir á dug okkar. Nú er staðan sú að það er koma nýtt skip auk þess sem miklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar í Landeyjahöfn svo sem með nýjum dælubúnaði, breytingu á núverandi ytrigörðum, breytingum á viðlegukannti, tilfærslu á inngarði og margt fl. Við vitum að það verkefni að laga Landeyjahöfn verður ekki leyst í eitt skipti fyrir öll núna en höfum samt kjark til að skrefa okkur áfram í átt að betri árangri í stað þess að standa kyrr og kvarta. Það hefur aldrei skilað árangri fyrir Vestmannaeyjar.“        

Kristinn Sigurðsson er matgæðingur vikunnar - Kjúklingur og döðlugott

Takk Óli minn fyrir áskorunina, þú klikkar ekki í eldamennskunni, sama hvort það er í Skýlinu eða hjá Lilju þinni. Ég ætla að koma með þriggja rétta matseðil með kjúklingaívafi sem ég hef æft mig með um borð í Álsey, en þar er mér ætlað að leysa af besta sjókokk landsins, Siglfirðinginn Jónas Loga!   Forréttur: Kjúklingavængir • 20 kjúklingavængir (alls ekki kaupa eitthvað foreldað drasl) • 3 msk. hveiti • salt og pipar • paprikukrydd / chilikrydd.   Byrjið á að setja vængina, hveitið og gott dass af kryddum í plastpoka og hristið vel saman. Hveitið og kryddin eiga að þekja vængina vel. Raðið vængjunum á pappírsklædda ofnplötu og bakið í ofni við 180°C í 55 mínútur. Ágætt að snúa vængjunum við á 10 mín. fresti. Eftir 55 mín eru vængirnir settir í skál og buffalo sósa (eða BBQ sósa) blandað vel saman við. Þeim skellt aftur inn í ofninn í 4 mín. og þá eru herlegheitin tilbúin. Berið fram með gráðostasósu, babycarrots, sellerí og einum (mega vera fleiri) ísköldum.   Aðalréttur: Mangó chutney kjúklingabringur • 800 gr. kjúklingabringur • 2 dl. mangó chutney sósa • 250 ml. rjómi • 2 msk. karrý • 1/2 kjúklingateningur • 1 tsk. sítrónupipar • salt og pipar.   Hitið olíu og smjör á pönnu, látið karrý á pönnuna og leyfið því að hitna vel. Steikið því næst bringurnar á pönnunni í 2 mín. á hvorri hlið þannig að þær verði fallega brúnar. Raðið bringunum í eldfast mót og græið því næst sósuna. Setjið rjómann og mangó chutneyið í pott og hitið við vægan hita. Allt kryddið sett út í og dass af salti og pipar. Hrærið vel í sósunni og þegar hún hefur náð suðu þá er henni hellt yfir kjúklinginn og sett inn í ofn við 180°C í 35 mínútur. Berið réttinn fram með hrísgrjónum, salati og hvítlauksbrauði og ekki verra að hafa milt og gott franskt rauðvín með þessu.   Eftirréttur: Súkkulaði döðlugott   Kóngurinn á Morgunblaðinu, Kristófer Helgi Helgason, kenndi mér að búa til þennan skothelda eftirrétt, súkkulaði döðlugott.   • 200 gr. smjör • 400 gr. döðlur (saxaðar smátt) • 120 gr. púðursykur • 150 gr. Rice Krispies • 200 gr. Síríus suðusúkkulaði • 3 msk. matarolía.   Bræðið smjörið í potti og bætið döðlunum og púðursykrinum saman við og hrærið vel saman þar til döðlurnar mýkjast vel. Hellið því næst Rice Krispies saman við og blandið öllu vel saman. Setjið bökunarpappír í stórt eldfast mót og hellið döðlublöndunni í mótið og sléttið þannig að það sé fallega jafnt. Mótið er sett í frysti í 10 mín og á meðan er súkkulaðið og matarolían brædd saman í potti yfir vatnsbaði. Hellið súkkulaðiblöndunni yfir döðlublönduna og frystið aftur í 30 mínútur. Skerið svo döðlugottið í bita og berið fram.   Ég ætla að skora næst á Sigurð Sigurðsson. Hann er því síðastur af okkur bræðrum til að hljóta þennan mikla heiður að vera matgæðingur vikunnar. Sigurður, sem var piparsveinn nr. 6 í samantekt sem birt var í Eyjafréttum, er snillingur í eldhúsinu og mun vafalaust koma með dúndur uppskrift. Takk fyrir mig og verði ykkur að góðu.  

Aríanna Ósk er Eyjamaður vikunnar: Markmiðið að komast í landsliðið

 Fimleikafélagið Rán fór í byrjun nóvember með 14 stelpur á stökkfimimót á Akranesi. Stelpurnar stóðu sig allar vel og komu heim með 13 verðlaun. Ein þeirra var Aríanna Ósk Åberg Ólafsdóttir en hún lenti í 1. sæti bæði á dýnu, trampólíni og í samanlögðum árangri. Aríanna Ósk er Eyjamaður vikunnar að þessu sinni.   Nafn: Aríanna Ósk Åberg Ólafsdóttir. Fæðingardagur: 28. maí 2003. Fæðingarstaður: Reykjavík. Fjölskylda: Mamma: Helga Henrietta Henrysdóttir Åberg. Pabbi: Ólafur Gunnarsson. Tvær systur: Þóra Fríða ’94 og Henrietta ‘97 og hálfbróðir Stefán Freyr ’90. Uppáhalds vefsíða: Youtube. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Playlistinn Smellir dagsins á spotify. Aðaláhugamál: Fimleikar. Uppáhalds app: Spotify. Hvað óttastu: Er lofthrædd. Mottó í lífinu: Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig. Apple eða Android: Bæði. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Ömmur og afar sem ég náði ekki að hitta. Hvaða bók lastu síðast: Þrettán ástæður. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Frændi minn hann Hörður Björgvin Magnússon í fótboltalandsliðinu. Fimleikafélagið Rán. Ertu hjátrúarfull: Nei. Stundar þú einhverja hreyfingu: Fimleika. Uppáhaldssjónvarpsefni: Riverdale. Hvað hefur þú stundað fimleika lengi: Frá því ég var þriggja ára. Þú lentir í fyrsta sæti bæði á dýnu og á trampólíni. Gekk bara allt upp hjá þér? Já. Hver eru þín markmið sem fimleikakona? Komast í landsliðið.  

Er bjargvættum sínum eilíflega þakklátur

Tuttugasta og fjórða Útkallsbók Óttars Sveinssonar sem nú er að koma út heitir Útkall – Reiðarslag í Eyjum og segir frá því þegar belgíski togarinn Pelagus strandaði við Eyjar 1982. Tveir úr áhöfninni fórust og tveir björgunarmenn, Kristján Víkingsson læknir og Hannes Óskarsson björgunarsveitarmaður. Það jákvæða var að sex úr áhöfninni björguðust en einn þeirra, Bart Gulpen, heimsótti Ísland á dögunum í tilefni útgáfu bókarinnar. Eftir hjartnæma endurfundi með bjargvætti sínum, Guðmundi Ólafssyni í Reykjavík, lá leið þeirra Gulpen og Óttars til Vestmannaeyja þar sem þeir heimsóttu fólkið á Sjúkrahúsinu sem veitti honum aðhlynningu og komu að björguninni.   Ánægjuleg en erfið heimsókn Gulpen, sem var einungis 17 ára þegar slysið átti sér stað, var eðlilega hrærður þegar blaðamaður ræddi við hann á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum. „Það er mjög ánægjulegt fyrir mig að koma aftur hingað og hitta fólkið sem stóð að björguninni. Á sama tíma hefur þetta verið mjög erfitt en ég hitti t.d. móður Kristjáns læknis sem lést, það tók mikið á. Það er samt gott að fá tækifæri til að tala um þetta þó það sé erfitt.“ Ræddi Gulpen einnig um óvænta endurfundi með Guðmundi Ólafssyni sem gerði sér ferð til Íslands frá Noregi í tilefni heimsóknarinnar. „Ég hafði ekki hugmynd um að hann myndi koma, þetta var mjög óvænt og tilfinningaþrungin stund fyrir mig.“ Þó svo Gulpen hafi náð að vinna vel úr áfallinu segir hann heimsóknina og bók Óttars hafa hjálpað honum að raða síðustu púslunum saman. „Það var góð ákvörðun að hjálpa Óttari við gerð bókarinnar, ég hef fengið tækifæri til að ræða við fólkið sem bjargaði mér, ef það hefði ekki verið fyrir það þá hefði ég án efa látið lífið í kuldanum. Ég er þeim eilíflega þakklátur.“  

Forréttindi að fá að æfa og spila fótbolta við bestu mögulegu aðstæður

Jón Ingason sem margir þekkja úr fótboltanum hér heima flutti til Bandaríkjana í ágúst á þessu ári til þess að mennta sig og spila fótbolta. Jón er sonur Inga Sigurðssonar og Fjólu Bjarkar Jónsdóttur. Hann á því fótboltahæfileikana og dugnaðinn ekki langt að sækja. Hann er að spila í sterkri deild í háskólaboltanum og segir gæðin mikil þegar kemur að leiknum og umgjörðinni.   Jón býr í Blacksburg sem er 45 þúsund manna bær í Virginíufylki. Lífið í bænum gengur mikið út á skólann og íþróttaliðin sem frá honum koma. „Þetta er lítill og rólegur bær og ekki ósvipaður og Vestmannaeyjar, týpískur háskólabær þar sem allt gengur út á skólalífið og íþróttaliðin. Stærstur hluti af þessum 45 þúsund manns sem búa hérna eru partur af háskólanum, annað hvort nemendur, kennarar eða aðrir sem tengjast skólanum á einn eða annan hátt. Skólasvæðið eða campus-inn er staðsettur í miðjum bænum og rúmar stóran hluta bæjarins, það er einnig frekar stutt í allt og maður er fljótur að koma sér á milli staða,“ sagði Jón. Jón segir að hingað til hafi allt gengið vel hjá honum. „Það er vissulega smá púsl að tvinna saman fótboltann og námið þar sem það er mikið að gera á báðum stöðum en það hefur gengið vel.“ Jón segir skólakerfið mjög ólíkt því sem við eigum að venjast og það hafi tekið sinn tíma að læra inná það. „Dagarnir ganga bara út á skólann og fótboltann. Maður fer í tíma á morgnana og alveg fram að æfingu. Æfingarnar eru vanalega í kringum þrjú og þær er í lengri kantinum hérna þannig að maður er að koma heim í kringum kvöldmatarleytið. Þá tekur oftast við heimavinna og lærdómur áður en maður fer að sofa,“ sagði Jón. Jón og félagar eru komnir áfram í úrslitakeppnina. „Það er gríðarlega sterkur og stór áfangi, vonandi förum við sem lengst þar.“   En hvað er ólíkt með fótboltanum heima og þarna úti? „Að mínu mati er fótboltinn hér úti gjörólíkur fótboltanum heima. Áður en ég kom hingað út þá bjóst ég ekki við því að háskólaboltinn væri eins góður og hann er í raun og veru. Ég er að spila í ACC conference sem er langsterkasta deildin hérna í háskólaboltanum, þannig ég er að spila á hæsta mögulega getustigi á móti bestu og sterkustu liðunum í öllu landinu. Öll liðin í ACC eru gríðarlega sterk þannig að hver einasti leikur er erfiður. Það sem er ólíkt með fótboltanum hér úti og heima er munurinn á leikmönnunum. Kaninn leggur mikið upp úr því að leikmenn séu í mjög góðu líkamlegu standi og hlaupaformi. Með fullri virðingu fyrir fótboltanum heima þá finnst mér gæðin hérna úti meiri heldur en heima að því leytinu til að það er valinn maður í hverju rúmi og næsta skref fyrir leikmenn hérna úr háskólaboltanum er atvinnumennska í MLS deildinni. Ég er ekki að segja að háskólaboltinn sé betri en fótboltinn heima en þeir eru ólíkir á sinn hátt. Ég hef náttúrulega spilað síðastliðin sjö árin í Pepsideildinni og deildin heima er klárlega mjög sterk samanborið við háskólaboltann. En ætli stærsti munurinn við fótboltann hérna úti og heima sé ekki leikstíllinn.“   Er eitthvað sem kom þér mest á óvart eða eitthvað sem þú áttir ekki von á? „Ætli það sé ekki umgjörðin í kringum háskólaliðin. Hún er í allt öðrum klassa og það er svakalegur peningur lagður í alla umgjörð og aðstæður fyrir háskólaíþróttirnar hérna úti. Maður fær allt sem maður þarf og biður um og þegar þú ert meiddur er hugsað um þig allan daginn út og inn. Það eru sjúkraþjálfarar og læknar í fullri vinnu hérna hjá skólanum þannig þú þarft ekki að bíða í röð eftir neinu sem er kannski eitthvað sem maður er ekki vanur.“   Hvað er það besta við dvölina þína úti? „ Það besta við dvölina hingað til er fyrst og fremst félagsskapurinn. Ég er búinn að kynnast mikið af nýju fólki og eignast mikið að nýjum vinum, þá sérstaklega í gegnum fótboltann. Svo er það einnig ferðalögin um öll Bandaríkin. Ég hef mjög gaman af því að ferðast og heimsækja nýja staði þannig að ég hef notið þess að ferðast í kringum alla útileikina. En það sem stendur upp úr eru þau forréttindi að fá að æfa og spila fótbolta við bestu mögulegu aðstæður sem kostur er á. Aðstaðan hérna úti er í algjörum sérflokki og umgjörðin í kringum háskólaliðin er í allt öðrum klassa og það er allt til alls. Maður lifir eins og atvinnumaður og dagarnir snúast allir um fótbolta. Svo er ég búinn að fara á nokkra leiki hjá ameríska fótboltaliðinu og það er svakaleg upplifun. Leikvangurinn hérna tekur rúmlega 70 þúsund manns og það er troðfullt í hverjum einasta leik. Andrúmsloftið á leikjum er gjörsamlega sturlað og stemningin er klikkuð. Það er ekki til feimni hjá Kananum og það er bókstaflega sungið og hoppað allan leikinn. Einnig er það svo svokölluð upphitun fyrir leikina sem kallast tailgate en þá kemur fólk saman út um allt og grillar og drekkur öl allan daginn fram að leik. Leikirnir eru vanalega um þrjú leytið og fólk er byrjað að hita upp eldsnemma um morguninn. Þetta er hefð hérna úti og það er algjörlega ólýsanlegt að taka þátt í þessari mögnuðu veislu.“   En alltaf saknar maður einhvers þegar maður er í burtu, hvers saknar þú mest við heimahagana fyrir utan fjölskyldu og vina? „Það er vissulega margt sem maður saknar við Ísland. Ef ég hugsa sérstaklega um Vestmannaeyjar þá er það umhverfið og náttúran. Við erum búnir að ferðast mikið um alla Ameríku fyrir útileikina og ég hef ekki ennþá séð neitt sem toppar það sem Heimaey og Vestmannaeyjar hafa upp á að bjóða. Svo eru líka aðrir hlutir sem maður saknar eins og íslenska vatnið. Maður áttar sig ekki á því hvað við Íslendingar erum heppnir með það að geta drukkið vatnið úr krananum. En ætli það sé ekki heimilismaturinn sem ég sakna hvað mest.“ Jón sagðist spenntur að komast heim um jólin. „Ég fæ mánaðarfrí og það kemur ekkert annað til greina en að koma heim og eyða jólunum og áramótum með mínu fólki,“ sagði Jón að lokum.  

Við sem heild erum sterkari og sýnilegri þegar við komum sameinuð undir EY

Markaðsátak Vestmannaeyjabæjar undir orðinu „Ey“ hefur vakið mikla eftirtekt og viðbrögð hjá Eyjamönnum. Átakið á að draga saman það sem vel er gert í bæjarfélaginu, styðja við jákvæðar hugmyndir og efla það góða starf sem víða er unnið. Við hjá Eyjafréttum vildum fá að vita aðeins meira um átakið og höfðum því samband við Raquel Díaz, verkefnastjóra markaðs- og ferðamála hjá Þekkingarsetri Vestmannaeyja og spurðum hana aðeins út í verkefnið.   Fyrir hvað á EY að standa? Ey er ímynd- og markaðasátak sem Vestmannaeyjabær stendur fyrir og er því ætlað að virkja frumkvæði bæjarbúa og fyrirtækja til góðra verka, efla samstöðu og skerpa á markaðsáherslum Vestmannaeyjabæjar og jákvæðum þáttum í mannlífi Eyjamanna. Átakinu var ýtt úr vör 11. nóvember sl. í gosminjasafninu Eldheimum þar sem vefur átaksins var settur í loftið til að sýna þær forsendur sem lagt er upp með og kynna markaðsherferðina. Vefnum er ætlað að styðja við það góða starf sem þegar er unnið á þeim vettvangi. Á næstu misserum mun Vestmannaeyjabær standa fyrir ýmsum viðburðum undir merkjum Ey. Má í því sambandi nefna nýjar bæjarhátíðir á borð við matarhátíðina Gúrmey og götumarkaðinn Gleymmérei ásamt ýmsum öðrum menningaviðburðum og skemmtilegheitum. Þá verða kynntar nýjar og skemmtilegar gönguleiðir, ætlaðar heimamönnum og gestum Vestmannaeyja, einnig sem hluti af átakinu Ey.   Af hverju var farið í átakið og af hverju var þessi tiltekna leið farin? „Það er svo ótrúlega margt gott í boði hér í Vestmannaeyjum, fjölbreyttir viðburðir, frábærir veintingastaðir, skemmtileg söfn, öflugt íþrottastarf, mögnuð náttúra, kröftugir íbúar og margt margt fleira en okkur fannst að þetta góða og mikla starf næði ekki nægilega vel til fólks. Að Vestmannaeyjabær væri dreifður og ómarkviss í markaðsáherslum sínum. Það vantaði að gera allt hið góða starf í Vestmannaeyjum aðgengilegra eða setja í „betri umbúðir“ þannig að við ákváðum að draga fram þessa góðu jákvæðu hluti sem eru í gangi í Eyjum og samtímis að gera eitthvað skemmtilegt til að efla samstöðu og jákvæðni meðal íbúa Vestmannaeyja. Þar sem þetta er nýlunda í starfi Vestmannaeyjabæjar var ákveðið að gera hlutina vel alveg frá byrjun þannig að við fórum fyrst í stefnumótunarvinnu til að átta okkur á því hverjar áherslurnar ættu að vera og hvaða leið væri best fyrir svona verkefni. Það er mjög mikilvægt að vera með sterkan grunn til að byggja á og að það sé alveg skýrt hver sérstaða okkar er og hvert við viljum stefna þegar ráðist er í verkefni sem þetta. Við fengum því mjög góðan hóp af Eyjafólki til að aðstoða okkur með þá vinnu. Það er nefnilega mjög mikilvægt að hlusta á fólkið sem þekkir Eyjarnar best. Eftir ítarlega greiningu og samtöl við ýmsa aðila í Vestmannaeyjum var tóninn settur. Svokallað „City branding“ hefur gefist vel á öðrum stöðum og því var valið að fara þá leið. Sem sagt að reyna að láta ákveðið útlit og ákveðna stefnu endurspegla allt hið góða og jákvæða sem bæjarfélagið stendur fyrir. Nokkuð var rætt um hvort ráðast ætti í birtingar í landsmiðlum en þess í stað var ákveðið að horfa til þeirra miðla sem eru í Eyjum með það í huga að vinna með þeim sem áhuga hefðu á og bæta þar við. Reyna að stuðla að stuðningi við lifandi miðil á netinu til þess að draga fram jákvæða og áhugaverða hluti sem verið er að gera í Eyjum. Þá er rík áhersla á að nýta samfélagsmiðla til að koma efninu á framfæri og reyna að virkja sem mest af heimafólki til að hjálpa okkur að dreifa boðskapnum. Þannig getur verkefnið lifað áfram og vaxið og dafnað. Til að sýna dæmi um hvernig málið er hugsað var gefið út lítið vefrit með 7 stuttum greinum og í framhaldinu stefnt að því að vinna þá hugmynd áfram með aðilum hér heima. Þannig er einlægur vilji til að vinna með þeim sem á því hafa áhuga og erum við þegar byrjuð að ræða hugmyndir um slíkt. Ég vil taka fram að tímaritið er þó bara bara einn lítill hluti af heildar markaðssátakinu sem er rétt að byrja.”   Hvert er markmiðið með átakinu? „Við vildum fyrst og fremst draga fram allt það góða og skemmtilega sem er í gangi í Eyjum og skerpa á markaðsáherslum Vestmannaeyjabæjar. Búa til jákvæða umgjörð um okkar frábæru íbúa og fyrirtæki þeirra. Í kjölfarið viljum við virkja bæjarbúa og fyrirtækin til góðra verka og efla samstöðu innan bæjarfélagsins. Við eigum öll Ey saman, og öllum er því frjálst að koma með hugmyndir að skemmtilegum umfjöllunum og viðburðum sem gætu hentað átakinu.“   Hvernig viltu sjá fyrirtæki og bæjarbúa nýta átakið Ey–ið? „Við vonumst til þess að átakið verði einskonar stökkpallur í sviðsljósið. Við sem heild erum sterkari og sýnilegri þegar við komum sameinuð undir EY markaðsherferðinni. Fyrirtæki geta nýtt sér viðburði, kynningar og annað það sem átakið bíður upp á. Einnig t.d. sjáum við fyrir okkur að búðir og söfnin geti framleitt og selt merktan varning og minjagripi. Það er svo margt sem við getum gert ef við stöndum saman. Okkar langar að miðla einhverju efni á vefnum í samstarfi við áhugasama hér heima og sömuleiðis að standa með þeim sem þegar eru í útgáfu á prentuðu efni. Þá teljum við mikilvægt að skapa jarðveg fyrir virkt viðburðadagatal þar sem á einum stað má nálgast upplýsingar um það sem helst er döfinni á hverjum tíma og við erum spennt að heyra af öllum viðburðum sem eiga sér stað í Eyjum og gætu átt erindi á viðburðadagatalið. Að sama skapi væri gaman að heyra af því hvað Vestmannaeyingar eru að gera. Við erum í stuttu máli sagt opin fyrir öllu og afskaplega spennt og bjartsýn að þróa verkefnið áfram með öllum Vestmannaeyingum.“   Hvað er framundan? „Á næstu misserum mun Vestmannaeyjabær standa fyrir ýmsum viðburðum undir merkjum Ey. Má í því sambandi nefna nýjar bæjarhátíðir á borð við matarhátíðina Gúrmey og götumarkaðinn Gleymmérei. Við ætlum líka að kanna möguleika á því að efla enn frekar margt af því sem þegar er verið að gera á þessum forsendum og horfum þar til að mynda til Þakkargjörðar 23. janúar, átak í tengslum við Meistaramánuð, menningardagskrár um páskana og margt fleira. Verið er að skoða leiðir til að merkja framkvæmdir og vekja athygli á þeim miklu tækifærum sem þeim tengjast og svo margt fleira. Þá verða einnig kynntar nýjar og skemmtilegar gönguleiðir, ætlaðar heimamönnum og gestum Vestmannaeyja, einnig sem hluti af átakinu Ey.“  

Rafrettur vinsæll kostur fyrir þá sem vilja hætta að reykja

Á horni Strandvegar og Skildingavegar, þar sem Eyjabúð var starfrækt í rúm 50 ár, stendur ný og óhefðbundin verslun að nafni Gryfjan en hún sérhæfir sig í sölu á rafrettum og öðru þeim tengdum. Í Gryfjunni, sem heyrir undir aðra slíka verslun sem staðsett er við Ingólfstorg í miðbæ Reykjavíkur, standa tveir Eyjamenn vaktina, þeir Ásmundur Ívar Óskarsson og Jóhann Birnir Sigurðsson. Það er óhætt að segja að þeir félagar þekki sitt fag enda lifa þeir bókstaflega og hrærast í þéttri gufunni sem umlykur hvern krók og kima Gryfjunnar. Báðir hafa þeir sagt skilið við sígaretturnar, eftir áralanga notkun, og fært sig alfarið yfir í rafrettur eða svokallaðar veipur sem hafa reynst vel, bæði peningalega og heilsulega séð. Blaðamaður gerði sér ferð í Gryfjuna og settist niður með Ásmundi og ræddi við hann nánar um Gryfjuna og rafrettur almennt.   Gryfjan í Reykjavík opnaði árið 2015 en ekki fyrr en um miðjan júní á þessu ári í Eyjum og segir Ásmundur viðbrögðin við búðinni framar vonum. „Við höfum fengið ótrúleg viðbrögð, það er búið að ganga mjög vel og í raun komið okkur sjálfum á óvart,“ segir Ásmundur. Rafrettur skiptast í grófum dráttum í tvo flokka, annars vegar sígarettulíki, svokallaðar „mouth to lung“ veipur, en það eru fyrirferðarlítil tæki sem herma eftir virkni sígarettna. Hins vegar er um að ræða „Lung hit“ þar sem gufan er tekin beint í lungun en þau tæki eru stærri í sniðum. Aðspurður hvað sé vinsælasta varan hjá þeim í Gryfjunni segir Ásmundur hana vera hefðbundið sígarettulíki. „Þetta eru svokallaðar „mouth to lung“ veipur og virka eins og þú sért að reykja sígarettu, þær eru aflminni og keyra á færri vöttum. Þetta er það sem fólk sækir í þegar það er að hætta að reykja.“ Markhópurinn einskorðast þó ekki bara við þá vilja hætta að reykja því veipur hafa einnig nýst öðrum tóbaksnotendum í baráttu sinni. „Þetta er mest bara fólk sem er að hætta tóbaksnotkun almennt, bæði munntóbaki og neftóbaki og svo náttúrulega sígarettum líka. Flestir geta skipt yfir í þetta mjög auðveldlega,“ segir Ásmundur og er hann gott dæmi um slíkt. „Ég reykti t.d. þrjá pakka á dag og ég fann einungis fyrir smá fráhvarfseinkennum fyrstu klukkutímana, annars voru þetta nokkuð sársaukalaus skipti.“   Ekki búið að sanna að skaðsemin sé nokkur yfir höfuð Það er oft talað um að það vanti langtímarannsóknir á rafrettum til að meta skaðsemi þeirra. Hvað hefur þú um það að segja? „Það er búið að birta fyrstu langtímarannsóknina um þetta og hún er mjög jákvæð fyrir veipið. Þegar fólk talar um að þetta sé skaðlegt þá er það aðallega vegna þess að sumir nota nikótín í veipið og tengja þetta þá við sígarettur. Nikótín sem slíkt er hins vegar alls ekki skaðlegt í sínu hreina formi og er álíka ávanabindandi og skaðlegt og koffín. Nýjustu rannsóknir sýna að veipið er um það bil 97% skaðlausara en sígarettur en með þeim fyrirvara að það sé í raun ekki búið að sanna að skaðsemin sé nokkur yfir höfuð. En það segir sig sjálft að allt annað sem þú andar að þér, annað en súrefni, er ekki æskilegt þó það sé ekki endilega slæmt fyrir þig. Helsti skaðinn sem hlýst af sígarettum verður vegna brunans sem myndast þegar kviknar í efninu í sígarettunni. „Þarna myndast öll þessi krabbameinsvaldandi efni ólíkt gufunni úr rafrettunni en hún er 99% vatnsgufa. Restin er pg og vg, sem eru grunnefnin í vökvanum, og nikótín,“ segir Ásmundur og bætir við að nikótín megi m.a. finna í ýmsum matvælum. „Það er t.d. nikótín í tómötum og kartöflum sem hægt er að vinna í t.d. svona vökva.“   Almenn kurteisi að vera ekki að veipa ofan í fólki Þó svo flest bendi til þess að gufan úr rafrettum sé skaðlaus þá segir Ásmundur ekkert tiltökumál að fara afsíðis til að veipa. „Ég veit svo sem ekki hvort það sé bannað að veipa á þeim stöðum þar sem bannað er að reykja en það er bara almenn kurteisi að vera ekki að veipa ofan í fólki eða inni í búðum. Ég veipa ekki þar sem ég reykti ekki áður, mig munar ekkert um að fara út að veipa. Í ljósi vinsælda rafrettunnar er ekki ólíklegt að flestir hafi oftar en einu sinni og oftar en tvisvar komist í návígi við einhvern sem veipar. Lyktin getur oft og tíðum verið sérstök enda ófáar tegundir sem hægt er að velja sér í dag. Þessu er yfirleitt skipt í þrjár sortir, mentol- og tóbaksbragð, ávaxta- og nammibragð og svo kökubragð en ávaxtabragðið er klárlega vinsælast, hjá öllum aldurshópum.“ Kostnaðurinn við rafrettur í samanburði við venjulegar sígarettur er sömuleiðis óverulegur eins og Ásmundur bendir á. „Það er í raun bara dýrt til að byrja með, kaupa græjuna og vökvann. Ef við gefum okkur það að maður detti ekki í einhverja græjudellu þá er maður kannski að eyða tíu þúsund á mánuði en ekki 99 þúsund eins og ég gerði þegar ég reykti. Þegar þú ert kominn með græjuna þá þarftu í raun bara að kaupa vökva og brennara. Maður hefur heyrt talað um það að vegna þess hve skaðlaus rafrettan á að vera þá sé fólk líklegra til að prófa hana og komast þannig í kynni við nikótín sem síðar gæti leitt viðkomandi út í sígarettur. Hver er þín skoðun á þessu? „Það er skemmtilegt að þú minnist á þetta því það var að koma út bresk rannsókn sem sýnir að það er ekkert „gateway“ í rafrettunni, þ.e. að engar sannanir eru fyrir því að ef þú byrjar að veipa þá ferðu út í það að reykja sígarettur,“ segir Ásmundur og heldur áfram. „Svo er líka talað um það að krakkar og unglingar séu að fikta með þetta en það er nú bara þannig að krakkar og unglingar munu alltaf sækjast að einhverju leyti í það sem ekki má og ef ég væri foreldri þá myndi ég heldur kjósa að barnið mitt væri að fikta með veip en sígarettur, allan daginn.“   Var sjálfur búinn að prófa allt án árangurs Sjálfur var Ásmundur búinn að prófa allt milli himins og jarðar til að hætta að reykja en án árangurs. Að lokum komst hann í kynni við veipu og þá loksins tókst honum ætlunarverk sitt. „Í veipunni eru fjögur efni, vg (Vegetable Glycerin) sem er sama efni og er notað í reykvélar í t.d. leikhúsum, pg (Propylene Glycol) sem er sama efni og er notað í astmapúst, síðan er bragðefni og svo í sumum tilfellum nikótín. Öll þessi nikótínlyf sem notuð eru til innöndunar, eins og munn- og nefsprey, innihalda pg og nikótín og ef það er í lagi þá hlýtur veipið að vera í lagi. Munurinn er bara sá að þetta er langbesta leiðin til hætta að reykja.“   Fagmenn í faginu Að lokum hvetur Ásmundur alla þá sem vilja hætta að reykja að kíkja við hjá þeim félögum í Gryfjunni. „Ég hvet alla sem vilja hætta að koma og tala við fagmenn í faginu. Við Jói erum báðir búnir að eyða fleiri klukkutímum í að lesa okkur til um þetta, hvernig á að setja þetta upp fyrir fólk, þannig við ættum að getað hjálpað hverjum sem er að hætta að reykja. Áður en Gryfjan byrjaði hér í Eyjum þá var mikill skortur á þjónustu, hvergi hægt að fá leiðbeiningar og tilsögn. Við hleypum engum út hjá okkur með nýja græju án þess að við kennum honum á hana, það er númer eitt, tvö og þrjú, þjónustan verður að vera tipp topp.“  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Stjórnmál >>

Elliði Vignisson: Enn er alltof snemmt að fullyrða að við náum saman með ríkinu

Í gær funduðum fulltrúar Vestmannaeyjabæjar með ríkinu, en yfir standa viðræður um að Vestmannaeyjabær taki yfir rekstri Herjólfs. Elliði Vignisson bæjarstjóri sagði í samtali við Eyjafréttir að að enn einn fundurinn hafi verið í gær til þess að nálgast enn frekar þau markmið að ná fram verulegri þjónustuaukningu með nýrri ferju og tryggja betur áhrif og sjónarmið heimamanna hvað rekstur hennar varðar.  „Þar kynntum við sjónarmið okkar sem fyrst og fremst felast í því að færast nær þvi markmiði að sjóleiðin milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar verði séð sem „þjóðvegur“ okkar Vestmannaeyinga og þeirra sem vilja sækja okkur heim. Þar með reynum við að nálgast þá sjálfsögðu kröfu okkar að þjónusta og verðlag verði nær því að þetta sé þjóðvegur en ekki valkvæð þjónusta. Þá leggjum við einnig þunga áherslu á að þjóðvegurinn verði „opinn“ eins og framast er unnt og taki mið af þörfu þjónustustigi hvað tíðni ferða varðar en ekki hámarksnýtingu á hverri ferð og mögulegri arðsemi rekstrarins. Í langan tíma hafa þessar samgöngur að okkar mati verið skammtaðar úr hnefa en það á ekki að vera lögmál. Með nýrri ferju og annarri nálgun á verkefnið eiga Vestmannaeyjar að verða samkeppnishæfari varðandi íbúaþróun, atvinnuuppbyggingu og atvinnurekstur fyrirtækja sem hér starfa,“ sagði Elliði   Það eru alltaf gagnrýnisraddir„Ég hef séð að á seinustu dögum hafa einhverjir gagnrýnt þessa tilraun Vestmannaeyjabæjar og það er svo sem fátt sem kemur á óvart hvað það varðar. Allt okrar tvímælis þá gert er og margir eru ætíð hræddir við breytingar. Þegar við seldum hlut okkar í Hitaveitu Suðurnesja voru margir sem sögðu að við ættum að eiga hlutinn og selja hann þegar hann væri orðinn verðmætari. Þegar við byggðum Eldheima gekk fólk um og uppnefndi húsið og sagði að það yrði aldrei annað en baggi á okkur og á því yrði aldri áhugi meðal feðramanna. Þegar við aldusskiptum grunnskólunum fullyrtu margir að þetta gæti aldei gengið. Þegar við buðum út reksturinn á Sóla og sömdum við Hjalla var það mikið gagnrýnt og mjög lengi má áfram telja. Þegar upp er staðið áttar fólk sig oft betur á forsendum og verður þá oftast nær mun ánægðara. Það sem þó hefur rekið mig í rogastans eru fullyrðingar um að þetta leiði til einhverrar mismununar þannig að bæjarfulltrúar gangi fyrir. Þeir sem slíkt fullyrða verða að skilja að bæjarfulltrúar njóta ekki neinna sér kjara á neinni þjónustu hjá Vestmannaeyjabæ. Þeir greiða fullt verð í sund, börn þeirra ganga ekki fyrir á leikskóla og götur við heimili þeirra eru ekki ruddar snjó fyrr en hjá öðrum. Á sama máta koma þeir til með að nota Herjólf og greiða fyrir sína þjónustu rétt eins og hver annar enda yrði Herjólfur almenningsþjónusta sem rekinn yrði eins og önnur þjónusta sveitarfélagsins með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi,“ sagði Elliði.   Elliði sagði að hans mati væri það í raun fullkomið og algert ábyrgðarleysi að heykjast á því að takast á við þessa ábyrgð að gefnum ákveðnum forsendum.  „Hvenær gerðist það að Eyjamenn hættu að þora og vilja axla ábyrgð á eigin málum? Þannig þekki ég ekki okkar góða samfélag og þannig mun núverandi bæjarstjórn ekki nálgast þetta mál. Við sannarlega þorum og treystum okkar fólki til að axala ábyrgð.“   Fagfólk við samningaborðið „Fullyrðingar um að þetta verði fjárhagslegur baggi á okkur er líka dáldið einkennilegur, sérstaklega þegar engin, ekki einu sinni við sem stöndum í þessu, vitum enn um hvaða fjárhæð verður samið. Við höfum unnið með færustu sérfæðingum í gerð rekstrarmódels og samningagerð er á hendi lögmanna sem þekkja málið vel. Okkur eru síðan til ráðgjafar menn eins og Grímur Gíslason, Páll Guðmundsson og Lúðvík Bergvinsson sem allir hafa mikla og haldgóða þekkingu hvað varðar eðlil þessarar útgerðar og rekstri almennt. Það er því hvergi verið að kasta til höndunum og hagsmunum Vestmannaeyjabæjar verður ekki fórnað,“ sagði Elliði.   Elliði sagði að enn væri alltof snemmt að fullyrða að þau nái saman með ríkinu. „Það má öllum ljóst vera að við erum ekki að fara í þetta verkefni til að taka við því á þeim fosendum sem verið hefur seinustu ár. Við teljum að það þurfi langtum meiri þjónustu og ef ríkið vill nálgast þetta á þann máta með okkur þá erum við til í samstarf. Ef ekki næst saman þá væntanlega verður þetta boðið út og við höfum þá að minnsta kosti náð að koma okkar sjónarmiðum á framfæri og það leiðir þá ef til vill til þjónustu aukningar. Það væri því fráleitt að láta ekki reyna á þetta, jafnvel þótt það kosti mikla vinnu. Slíkt hræðist hvorki ég né aðrir sem að þessu koma“ sagði Elliði að lokum Meðfylgjandi er mynd sem Elliði tók á fundinum í dag. Á henni eru þeir Lúðvík Bergvinsson og Yngvi Jónsson frá okkur heimamönnum auk síðan fulltrúum frá ríkinu. Þeir Grímur og Páll sóttu fundinn í gegnum fjarfundarbúnað.  

Greinar >>

Ómar Garðarsson: Skipta drengir engu máli?

Það er ekki einfalt mál að vera ungur maður í dag með það á herðunum að allt böl mannkynsins sé karlmönnum að kenna. Þeir hafi deilt og drottnað og geri enn, allt undir formerkjum feðraveldisins sem er þó nokkuð óljóst hugtak. Ekki ætla ég að mæla bót því ofbeldi gegn konum sem nú er að koma upp á yfirborðið og lýsir reynslu kvenna af misbeitingu karla í krafti valds og áhrifa. Og manni er að verða ljóst að það sem þótti fyndið fyrir ekki svo löngu síðan er bara ekkert fyndið. En heildarniðurstaðan er sú að konur eru fórnalömb þar sem karlar er í hlutverki hins vonda. Ekki ætla ég að hætta mér frekar inn á þessar flughálu brautir sem umræða um samskipti kynjanna er í dag en langar til að vekja athygli á stöðu ungra manna og drengja nú þegar krafan er algjört jafnrétti kynjanna. Hér eru nokkrar staðreyndir sem fær mann til að staldra við. Þriðjungur drengja sem kemur upp úr grunnskóla á Íslandi getur ekki lesið sér til gagns. Hefur einhver áhyggjur af því? Ungum mönnum er níu sinnum hættara en konum að taka eigið lífið. Er þetta eitthvað sem vert er að athuga? Einstæðir karlar eru meðal þeirra verst settu í þjóðfélaginu. Er einhver að vekja athygli á þessu? Páll Vilhjálmsson vekur athygli á eftirfarandi á bloggsíðu sinni: -Doktor er æðsta lærdómsgráða við háskóla. Á einu ári veitti Háskóli Íslands 53 doktorsgráður, 39 fóru til kvenna en 14 til karla. Konur taka sem sagt nær 3 doktorsgráður af hverjum fjórum frá HÍ en karlar 1. Þessi ójöfnu kynjahlutföll endurspegla að konur sækja fremur háskólanám en karlar. Hlutföllin eru um 35/65 konum í vil. Strax við útskrift úr menntaskóla eru stúlkur öflugri en drengir. Útskriftarhópurinn í MR í vor var 60 prósent stúlkur en 40 prósent drengir. Í grunn- og framhaldsskólum hafa stúlkur kvenfyrirmyndir en drengir mun síður. Um 80 prósent kennara eru konur, segir Páll og bendir á að engin umræða er um þessa þróun, hvaða ástæður liggja að baki og hvaða áhrif hún mun hafa. Veruleg skekkja í háskólamenntun kynjanna leiðir til kynskipts vinnumarkaðar og það telst varla jákvæð þróun.  

VefTíví >>

Elliði Vignisson - Fæðingaþjónusta er óviðunandi í landsbyggðunum

Fyrir mér eru Vestmannaeyjar paradís á jörðu. Náttúran, fólkið, menningin, sagan, krafturinn samstaðan og svo margt fleira jarðtengir mig og lætur mig fljúga í senn. Samt er það svo að tveir hornsteinanna eru ekki í lagi, samgöngur og heilbrigðisþjónusta. Ég er afar bjartsýnn á að á næsta ári tökum við stórt skref hvað samgöngur varðar sem síðan mun leiða af sér enn fleiri slík í átt að betra ástandi. Út af borðinu standa þá heilbrigðismálin og þá sérstaklega fæðingaþjónustan.   Tilflutningur á kostnaði Tilgangurinn á bak við breytingar á fæðingaþjónustu er ekki hvað síst að ná niður kostnaði hins opinbera. Það vill þá e.t.v. gleymast að í raun er bara um tilflutning á kostnaði að ræða frá ríki til verðandi foreldra. Kostnaður við ferðalög og biðina á fæðingarstaðnum er oft verulegur. Ekki er ólíklegt að kostnaður við fæðingu, ferðalög, vinnutap og fl. hlaupi á hundruðum þúsunda og þaðan af meira. Sér er nú hver gjöfin til verðandi foreldra. Þar við bætast áhyggjur af ferðalaginu aftur heim og aðlögun fjölskyldunnar, sérstaklega eldri barna að eðlilegu lífi eftir heimkomuna tekur á. Hvað sem líður öllum Excelskjölum og flæðiritum þá er ljóst að fæðing fjarri heimabyggð valdur kvíða og streitu hjá barnshafandi konum auk töluverðrar röskunar á lífi fjölskyldunnar og mikils kostnaðar.   Samfélagslegt mikilvægi Áhrifin eru þó víðtækari. Fram hefur komið að skortur á þjónustu við konur í barneignaferlinu hefur almenn áhrif á dreifbýli. Gildi þess að hafa fæðingarþjónustu eru sennilega meiri fyrir samfélagið sjálft en margir gera sér grein fyrir. Það skiptir að mati þeirra sem best þekkja til miklu fyrir samfélagið að fæðingar séu hluti af lífinu þar. Að samfélagið sé samfella frá vöggu til grafar.   Manneskjusýn Svo mikið er víst að það er ekki í samræmi við manneskjusýn Eyjamanna að þessi mikilvægi þáttur lífsins verði frá þeim tekinn og í staðinn sett á fót læknisfræðilegt kassalagað kerfi sem aðskilur verðandi foreldra frá fjölskyldum sínum. Við Eyjamenn verðum að berjast áfram fyrir þessum sjálfsögðu réttindum. Þar leika þingmennirnir okkar lykilhlutverk.