ÍBV bætir við sig sóknarmanni frá Wales

ÍBV bætir við sig sóknarmanni frá Wales

Karlalið ÍBV í knattspyrnu nældi sér í hinn 28 ára gamla sóknarmann Jonathan Franks áður en félagsskiptaglugganum lokaði á miðnætti í gær en frá þessu greinir fótbolti.net.
 
Franks er Walesverji en hann ólst upp hjá Middlesbrough og lék einn leik með liðinu þegar það féll úr ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2008/2009. Hann kom þá inn á sem varamaður í leik gegn West Ham.
 
Tímabilið eftir skoraði Jonathan þrjú mörk í 21 leik í Championship deildinni með Middlesbrough.
 
Tímabilið 2011/2012 spilaði Jonathan í C-deildinni með Yeovil og síðan í C og D-deild með Hartlepool.
 
Franks spilaði með Ross County í skosku úrvalsdeildinni frá 2015 til 2017 en í vetur lék hann með Hartlepool United og Wrexham í ensku utandeildinni.
 
 
 
 

Í aðdraganda kosninga

Nú eru örfáir dagar til kosninga í sveitastjórnum landsins. Landsmenn allir eru eflaust komnir með nóg af upplýsingum og loforðum á öllu milli himins og jarðar. Við hjá Fyrir Heimaey einsettum okkur í byrjun að reyna eftir fremsta megni að fá umræðu um hvað mætti betur fara í okkar samfélagi. Við erum ungt bæjarmálafélag byggt á breiðum grunni fólks sem vill bæta samfélagið. Það hefur fallið í misjafnan jarðveg hjá þeim sem hafa setið við stjórnvölinn undanfarin ár og einnig þeim sem hafa unnið í minnihluta. Það sem við teljum að við höfum allavega náð fram í þessari kosningabaráttu er að færa umræðuna að mestu leyti yfir á málefnalegar nótur. Þó hafa einhverjar undantekningar verið á því og fólk frekar hjólað í persónur, reynt að koma með fýlugreinar og margt annað sem að okkar mati er til að slá ryki í augun á kjósendum. Við viljum opnar umræður um hagsmunamál bæjarbúa, við viljum að fólk fái að hafa skoðanir og sé ekki hrætt við að tjá þær skoðanir án þess að vera sakað um sundrungartal eða óþarfa neikvæðnisathugasemdir. Við sjáum það á stefnuskrám hinna framboðanna að við höfum allavega komið inn með ferska vinda í umræðuna. Það eru meira að segja framboð farin að tala um opnari stjórnsýslu og að framkoma fulltrúa bæjarins á öllum stigum sé framborin af auðmýkt og virðingu en samt formfestu og öruggrar hagsmunagæslu fyrir þessa gersemi sem bæjarfélagið okkar er. Fyrir það erum við stolt, því að við erum ungt afl og teljum okkur hafa margt fram að færa í umræðuna. Við höfum náð að breyta henni á jákvæðan hátt, án þess einu sinni að vera komin með kjörna fulltrúa í bæjarstjórn Vestmannaeyja. Við göngum full sjálfstrausts og full af bjartsýni inn í þessa síðustu daga kosningabaráttunnar. Við teljum fulla þörf á að fólk þurfi að hafa valkost eins og við erum. Valkost sem fólk virðist samsvara sig við og þessar jákvæðu undirtektir sem við höfum fundið fyrir hjá flestum, gefa okkur svo mikið. Við ætlum að standa undir því nafni og málefnum sem við stöndum fyrir. Það er líka ljúft á þessum degi að fagna nýjasta titlinum hjá ÍBV í handboltanum. Því að við stöndum einmitt fyrir það að styðja og styrkja þetta frábæra félag sem við eigum saman og sameinar okkur öll í þeirri gleði og sigurvilja sem við berum í brjósti okkar. Setjum X við H á kjördag. Fyrir HeimaeyStyrmir Sigurðarson 12.sæti 

Sverrir Gunnlaugsson er sjómaður ársins 2018

Síðastliðinn tvö ár hefur brugghúsið The Brothers Brewery í Vestmannaeyjum valið einn sjómann úr eyjaflotanum og tilnefnd hann sem sjómann ársins. 2016 var það Ragnar Þór Jóhannsson eða Raggi Togari eins og hann er jafnan kallaður og 2017 var það Ríkharður Zoëga Stefánsson sem valdur voru sem sjómenn ársins. Í framhaldinu hafa strákarnir í The Brothers Brewery bruggað bjór í samstarfi við sjómenn ársins og selt á valda veitingastaði.   Um milljón króna safnast til góðgerðarmála  Flaska af sjómannabjórnum ár hvert farið í uppboði á sjómannaballi Sjómannadagsráðs og hefur ágóði uppboðsins runnið til Krabbavarna í Vestmannaeyjum. Samtals hafa bjórarnir Togarinn og Zoëga safnað um milljón sem runnið hefur óskipt til Krabbavarna.   Sverrir Gunnlaugsson skipstjóri er sjómaður ársins 2018  Í ár er sjómaður ársins Sverrir Gunnlaugsson skipstjóri en Sverrir hefur ákveðið að setjast í helgan stein og mun hann hætta störfum á komandi mánuðum. Á sínum sjómannsferli hefur Sverrir m.a. verið á Vestmannaey VE, Bergey VE, Erlingi KE, Jóni Vídalín VE, Gullbergi VE, Sindra VE, Berg VE, Ófeigi VE, Dala Rafni VE, Huginn VE og Hamrabergi VE. Sverrir hefur verið gríðarlega fengsæll skipstjóri og stýrimaður og er það mál manna sem hafa unnið með honum til sjós að þægilegt og gott hafi verið að vinna með Sverri.   Sjómannabjórinn 2018 heitir Sverrir og er 8% stout. Sverrir mun fara í sölu á valda veitingastaði og bari einhverjum dögum fyrir sjómannadagshelgina.      

Séra Kristján nýr vígslubiskup í Skálholti

Fyrir skömmu lá fyrir niðurstaða í kosnngu um stöðu vísglubiskipps í Skálholti. Kosið var á milli tveggja og hafði séra Kristján Björnsson, prestur á Eyarbakka og fyrrum sóknarprestur í Vestmannaeyjum betur. Fékk hann 55% atkvæða.   Sr. Kristján er fæddur í Stórholti 39 í Reykjavík 6. des. 1958. Hann er skipaður sóknarprestur í Vestmannaeyjum frá 1. sept. 1998, vígður á Hólum í Hjaltadal 9. júlí 1989 og var sóknarprestur Breiðabólsstaðarprestakalls í Húnavatnsprófastsdæmi, frá 1989 til 1998. Hann stundaði fullt starfsnám í klínískri sálgæslu, CPE, á Tampa General Hospital í Tampa á Flórída 2003-4 og var þar sjúkrahúsprestur. Nokkur námskeið tengd þjónustunni, m.a. um áfallahjálp og sorgarferli, prédikun, fjölskylduráðgjöf, upplýsingamiðlun, trúarbragðafræði og sáttargjörð. Embættispróf í guðfræði frá Háskóla Íslands, stúdentspróf frá Menntaskólanum í Kópavogi og gagnfræðingur frá Víghólaskóla í Kópavogi.   Auk prestsþjónustunnar í Eyjum og safnaðarstarfsins er Kristján formaður Prestafélags Íslands, formaður Stafkirkjunnar á Heimaey, varaform. Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar og formaður NPS, sem er samstarfsvettvangur norrænna prestafélaga. Kristján er félagi í Frímúrarareglunni á Íslandi, Bjargveiðimannafélagi Vestmannaeyja og Björgunarfélagi Vestmannaeyja.   Kristján er kvæntur Guðrúnu Helgu Bjarnadóttur, leikskólakennara, leiðsögumanni og starfsmanni Blátt áfram í Reykjavík. Guðrún Helga er af Seltjarnarnesinu, dóttir Bjarna B. Ásgeirssonar, framkvæmdastjóra, sem er látinn, og Elínar G. Guðmundsdóttur, sjúkraliða. Börn: Ólöf, verkfræðingur í Reykjavík, Kristín Rut, doktorsnemi í sjálfbærni og ferðamálafræði í Lundi í Svíþjóð, Bjarni Benedikt, meistaranemi í verkfræði í Seattle í Bandaríkjunum, Sigurður Stefán, húsa- og húsgagnasmiður í Reykjavík, og Björn Ásgeir, skóladrengur. Foreldrar: Björn Sigurðsson, fv. lögregluvarðstjóri, frá Möðruvöllum í Hörgárdal, og Kristín Bögeskov, djákni, úr Reykjavík, en hún er látin.

3. flokkur kvenna Íslandsmeistarar

ÍBV1 undir stjórn Hilmars Ágústs Björnssonar og Magnúsar Stefánssonar varð á dögunum Íslandsmeistari í 3. flokki kvenna en liðið komst sömuleiðis í undanúrslit bikarkeppninnar. Gott tímabili að baki og margar efnilega handboltakonur þarna á ferð. Í samtali við Eyjafréttir sögðust þeir Hilmar og Magnús vera afar stoltir af stelpunum enda lagt mikið á sig í vetur. „Á þessu tímabili hafa tuttugu og fjórar stelpur verið að æfa í árgöngum 2002-2003. Magnús og Díana hófu tímabilið sem þjálfarar en eftir að Díana fór til Noregs vorum við Magnús saman eftir áramót,“ segir Hilmar og heldur áfram. „Við vorum með tvö lið á eldra ári, ÍBV2 var blandað lið af eldra og yngra ári, þær unnu sjö leiki og töpuðu átta í 2. deild og enduðu í 5. sæti. Síðan var ÍBV1 en þær enduðu í 3. sæti í deildinni með 12 sigra, eitt jafntefli og fimm töp. Þær féllu úr leik í undanúrslitum bikarsins og unnu svo Íslandsmeistaratitilinn á móti Fylki.“ Eins og fyrr segir voru þjálfararnir tveir stoltir af stelpunum. „Við eru gríðarlega stoltir af þessum stúlkum, þær hafa lagt gríðarlega hart að sér í vetur og mætt á allar æfingar. Bætingarnar og framfarirnar hafa verið mjög miklar og þá aðallega vegna þess hve áhugasamar þær eru. Hópurinn sem slíkur einkennist af mikilli samkennd og samstöðu. Þrátt fyrir minniháttar pústra dags daglega þá taka þær upp hanskann fyrir hvor aðra án þess að hika. Þær auðvitað þroskast með hverri vikunni sem líður, bæði andlega og handboltalega. Við höfum verið með fimm til sex stelpur á öllum landsliðsæfingum síðustu tvö árin og það er alveg ljóst að fleiri munu fá séns í framhaldinu.“ Flestar eiga stelpurnar það sameiginlegt að vera í akademíunni en hún er að sögn þeirra Magnúsar og Hilmars að skila þeim miklu. „Þessar stelpur eru nánast allar í handbolta akademíunni og eru að vakna á æfingar 6:30 og leggja sig 100% fram þar. Svo er ÍBV og GRV að fá frábæra fyrirlesara til að fjalla um mataræði, samstöðu, liðsheild, gleði, markmið, líkamann og allt sem tengist því að vera góður liðsmaður og íþróttamaður. Þessir þættir hjálpa þeim að vera íþróttamenn framtíðarinnar hjá bandalaginu.“    

Ekki verið að bíða eftir neinu

Nú standa yfir kosningar og er sá tími oft erfiður og viðkvæmur og því erfitt að meta hvar á að stíga niður og svara án þess að hallað sé á neinn. Hlutverk mitt sem framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs hjá bænum tek ég alvarlega og tel mikilvægt að fólk sé upplýst rétt um mál.   Kristín Ósk Óskarsdóttir skrifar um aðgengi fyrir alla og sinni upplifun af þeim málum. Ég vill taka strax fram að Kristín Ósk er frábær stúlka og fagmanneskja með metnað fyrir sínum hugðarefnum sem m.a. er hagsmunamál fatlaðs fólks. Fyrir Vestmannaeyjar eru slíkur einstaklingur mikilvægur.   Ástæða skrifa minna er að Kristín vitnar í fund sem átti sér stað fyrir 7 árum og ég sat ásamt henni, framkvæmdastjóra útbreiðslu- og fræðslusviðs hjá Íþróttabandalagi fatlaðra og bæjarstjóra. Virðist sem Kristín hafi upplifað þennan fund á annan máta en ég. Ég man óljóst umræður um aðgengismálin í Ráðhúsinu en ég man þó að allir voru sammála um að bæta þurfti aðgegnismálin í Vestmannaeyjum.   Viðbrögðin sem Kristín upplifði af þessum fundi virðist sitja í henni eins og um áhugaleysi hafi verið að ræða af hálfu bæjarins um þessi mál og að lítið hafi áunnist í kjölfarið. Þessu er ég ekki sammála. Eins og Kristín þá hef ég og fleiri fagaðilar innan sviðsins sem og hagsmunaaðilar fatlaðara í Eyjum sömu ástríðu fyrir þessum málum. Vestmannaeyjabær hefur lagt sig fram við að vinna að bættu aðgengi fyrir alla þ.m.t. fatlað fólk og komið meðal annars fyrir lyftum í stofnunum s.s. Kviku, Safnahúsinu, Eldheimum og Barnaskóla Vestmannaeyja auk þess sem aðgengi um gangbrautir bæjarins hafa verið bætt sem og innanhúss í stofnunum. Áhersla er lögð á aðgengismál í öllum nýjum byggingum á vegum bæjarins. Aðgengismálin þó ekki í lagi í öllum stofnunum okkar. Kirkjugerði og Tónlistarskólinn eru ekki í lagi og áfram verður unnið að þessum málum.   Eitt getur þó skýrt út mat Kristínar á að lítið hafi áunnist en það er að fleiri en Vestmannaeyjabær þarf að huga að aðgengismálum. Þar er eflaust eitthvað sem má bæta. Mjög mikilvægt er að allir þjónustuveitendur í Eyjum hugi að aðgengismálum fyrir hreyfihamlað fólk.   Mitt mat er þó að þessi mál hafi batnað. Aðgengismálin í matvörubúðum, hótelum, veitingarstöðum og búðum hafa batnað auk þess sem byggingarreglugerðir (sem og nýsmíði á farþegaskipi) setja auknar kröfur á þessa aðila. Erfiðara er að eiga við eldri húsnæði enda lög og reglugerðir misjafnar eftir aldri og notkun húsa. Einnig getur oft verið erfitt að breyta þessum húsum sbr. Ráðhúsinu. Vestmannaeyjabær hefur í samvinnu við fatlað fólk bent aðilum á þessi mál og reynt að aðstoða með lausnir varðandi aðgengismálin.   Sum hús voru byggð eftir gömlum reglugerðum s.s. Sólhlíð 19 sem breytt var fyrir um 30 árum. Ef ég man rétt þá var þetta líklega fyrsta húsnæði á vegum Vestmannaeyjabæjar í langan tíma sem í var sett lyfta. Sú lyfta fylgdi þeim byggingakröfum sem voru á þeim tíma en hjálpartækin breytast og kalla oft á frekari lausnir.   Ég vill þakka Kristínu fyrir hennar ábendingu um mikilvægi aðgengis fyrir alla en jafnframt benda á að hjá fjölskyldu- og fræðslusviði er engin að bíða eftir neinu heldur láta verkin tala. Betur má ef duga skal og mikilvægt að allir í okkar samfélagi taki sig saman og vinni í að bæta aðgengismál hreyfihamlaðra.   Jón Pétursson, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyja  

Vestmannaeyjabæ var tvisvar veittur frestur til að taka afstöðu til tilboðsins

Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti einróma á fundi sínum um mánaðarmótin að taka yfir rekstrinum á Herjólfi þegar nýja ferjan er tilbúin og byrjar að ganga á milli lands og Eyja. Á bæjarstjórnarfundinum kom oftar en einu sinni fram að menn hefðu viljað meiri tíma með samningnum og bókaði Eyjalistinn að ef tíminn hefði verið lengri hefðu þau viljað fara í íbúakosningu með hann, en aðeins fengust 48 klukkustundur til þess að svara tilboði ríksins. Haft var samband við Sigurð Inga Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og hans fólk vegna þessa.   Af hverju fékk bærinn svona stuttan tíma til að taka ákvörðun um yfirtöku á rekstrinum? „Eftir ítarlega skoðun á öllum forsendum málsins tók samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, ákvörðun um að ákjósanlegast væri að bjóða rekstur skipsins út. Lagði hann til að samningstíminn yrði tvö ár, m.a. með hliðsjón af þeirri óvissu sem fylgir því að taka í notkun nýja ferju í siglingum milli lands og Eyja. Var bæjarstjórn Vestmannaeyja tilkynnt um þá ákvörðun á fundi 15. mars sl. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu féllst ráðherra á að veita bæjarfélaginu tækifæri til að reka ferjuna. Ástæða þess var eindreginn vilji allrar bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar í þá veru. Á fundi 6. apríl sl. kom fram í máli ráðherra og vegamálastjóra að tilboðið stæði til dagsloka þann 10. apríl 2018. Tíminn væri naumur og þar sem útboð þyrfti að fara fram á næstu tveimur vikum ef til þess kæmi að samningar næðust ekki, m.a. til að tryggja að þjálfun starfsmanna gæti farið fram á vormánuðum. Þrátt fyrir þennan knappa tímafrest var bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar tvisvar veittur frekari frestur til að taka afstöðu til tilboðsins, auk þess sem fulltrúar þess hittu fulltrúa Vegagerðarinnar á fundum til að skýra einstaka ákvæði samningsins. Bæjarstjórnin ákvað svo að taka við rekstri ferjunnar þann 27. apríl sl., þremur vikum eftir að upprunalegt tilboð frá 6. apríl kom fram.“   Hefði sami samningur og bærinn hefur í höndunum farið í útboð? „Ljóst er að meginefni samningsins hefði farið í útboðsgögnin.“   Ekki einkafyrirtæki að bjóða í verkefni ríkisins Þegar Elliði Vignisson var spurður út í þennan frest sem bærinn fékk sagði hann að ríkið hafi haft á þeim mjög stífan tímaramma, „enda voru þau hreinlega að brenna inni hvað það varðar. Ef ekki hefðu náðst samningar við okkur hefði þurft að bjóða reksturinn út á Evrópska efnahagssvæðinu og það tekur að lágmarki þrjá mánuði.“ Elliði sagði að þau hefðu sýnt því fullan skilning en ætluðu ekki að fara skrifað undir samningsdrög sem að þeirra mati var á köflum óskýr og stundum jafnvel efnislega ólík þeirra áherslum. „Flest þessi ákvæði snéru að ábyrgðamálum auk þess sem við vildum að samningurinn bæri þess merki að þar væru stjórnvöldin tvö að semja um tilflutning á verkefni en ekki einkafyrirtæki að bjóða í verkefni ríkisins. Þá lögðum við einnig mikla áherslu á aukna þjónustu og fleira sem snýr beint að notendum skipsins. Við fengum umbeðna fresti sem varð til þess að hægt var að ná þessu saman, en vissulega mátti ekki seinna vænna,“ sagði Elliði.  

Ég lofa mikilli upplifun

Það er með mikilli tilhlökkun sem Íslenska óperan heldur í sýningarferð til Vestmannaeyja, en uppfærsla ÍÓ á Mannsröddinni eftir Poulenc í leikgerð og leikstjórn Brynhildar Guðjónsdóttur verður sýnd í Menningarhúsinu Kviku á morgun 10.maí . En Eyjakonan Elva Ósk Ólafsdóttir er ein af leikonunum.   Óperan Mannsröddin, La Voix Humaine, eftir franska tónskáldið Francis Poulenc var samin árið 1958 og er byggð á samnefndu leikriti eftir Jean Cocteau. Óperan er dramatískur einþáttungur sem lýsir síðasta símtali konu til elskhuga síns sem hefur slitið sambandinu eftir fimm ár. Um er að ræða nýja og ferska nálgun á verkið þar sem aðalpersónan, Elle, er túlkuð samtímis af þeim Auði Gunnarsdóttur sópransöngkonu og Elvu Ósk Ólafsdóttur leikkonu í sviðsetningu og leikstjórn Brynhildar Guðjónsdóttur. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem óperunni og leikritinu er fléttað saman á þennan hátt og hér er farið með áhorfandann í hrífandi óvissuferð um allan mannlega tilfinningaskalann.   Sýningin væri í sama húsi og hún steig fyrst á svið Elva Ósk sagði í samtali við Eyjafréttir að hún væri að sjálfögðu spennt að koma með sýninguna til Vestmannaeyja og hvað þá að sýningin væri í sama húsi og hún steig fyrst á svið tólf ára gömul í leikritinu Hans og Gréta. Aðspurð sagði hún sýninguna fyrir listunendur og sagan sem sögð er gætu margir tengt við. „Ég iða alveg í skinninu við að vera koma og tel þessa sýningu henta vel til sýninga í Vestmannaeyjum, það eru svo ótrúlega margir listunendur þar. Ég lofa allavega mikilli upplifun,“ sagði Elva Ósk að endingu.  

Fýlan

Einn af fylgifiskum sorps er bölvuð fýlan. Hún getur verið slæm, bæði í tunnunum heima, á svæðinu upp á hrauni eða í gámunum um borð í Herjólfi. Hvimleitur andskoti, þessi fýla!   Á kjörtímabilinu sem senn er á enda hafa verið stigin stór skref í átt að bættu umhverfi í sorpmálum okkar Eyjamanna. Settur var á fót vinnuhópur sem skoðaði alla hugsanlega möguleika í sorpmálum, meðal annars flutning á sorpi til meginlands Evrópu og áframhaldandi samstarf við sorpbrennslur á Íslandi. Niðurstaðan var sú að skynsamlegasta og hagkvæmasta leiðin fyrir samfélagið okkar hér í Eyjum væri að fjárfesta í nýjum brennsluofni sem uppfyllir öll þau ströngu skilyrði sem eru vegna brennslu. Eftir þessu hefur verið unnið síðustu ár og nú er svo komið að einungis umhverfismat stendur í vegi fyrir því að hægt verði að panta ofninn. Eru menn að gera sér vonir um að matið liggi fyrir í sumar og hægt verði að leggja inn pöntun fyrir sorpbrennslustöðinni seinni part sumars. Afgreiðslutími er 18 mánuðir.   Einnig var tekin ákvörðun um að færa móttökusvæðið austur fyrir núverandi svæði, niður fyrir húsið sem mun hýsa brennsluna. Svæðið verður útbúið þannig að mun meira pláss gefst vegna móttöku, útbúið verður sérstakt geymslusvæði sem hægt verður að leigja sér pláss á. Góð breyting fyrir okkur notendur verður þó sérstaklega skjólið sem fæst með tilfærslu niður fyrir húsið.   Þetta hefur verið unnið i góðu samstarfi við minnihlutann í bæjarstjórn og er það vel. Samstarf um helstu baráttumál okkar Eyjamanna hefur einkennt bæjarstjórn síðustu ár og í raun hefur ekki brotið á í mörgum málefnum. Því kemur nýtt framboð mörgum á óvart, enda virðist það sprottið upp úr fýlukasti einstaklinga út í bæjarstjórann okkar. Sagan kennir okkur það að framboð sprottin upp vegna persónulegs ágreinings fjara út á skömmum tíma. Við þurfum ekki slíkt við stjórn bæjarins, við þurfum kjölfestu og stöðugleika í þeim verkefnum sem framundan eru.   Ég vona svo sannarlega að fýlan minnki næstu misserin hér í Eyjum. Við stuðlum að því með því að setja X við D í komandi sveitarstjórnarkosningum.   Sigursveinn Þórðarson   Höfundur skipar sjöunda sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningum  

Tvær líkamsárásir og vinnuslys

Tvær líkamsárásir voru kærðar til lögreglu um liðna helgi. Í öðru tilvikinu lenti maður í átökum við annan mann sem endaði með því að sá fyrri sló hinn þannig að hann rotaðist, auk þess veittist hann að tveimur konum sem kvörtuðu yfir eymslum eftir samskipti við manninn. Árárarmaðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu. Málið er í rannsókn.   Í hinu tilvikinu urðu ósætti á milli manna sem í heimahúsi sem endaði með því annar sló hinn þannig að hann fékk áverka á eftir. Ekki var um alvarlega á verka að ræða en málið er í rannsókn.   Í liðinni viku var lögreglu tilkynnt um að bifreið hefði verði tekin ófrjálsri hendi fyrir utan heimahús. Ekki er vitað hver þarna var að verki en bifreiðin fannst skömmu síðar, óskemmd.   Eitt fíkniefnamál kom upp í vikunni en við húsleit í heimahúsi fannst smáræði af kannabisefnum og viðurkenndi húsráðandi að eiga efnin. Málið telst því að mestu upplýst. Við sömu húsleit var maður handtekinn sem ekki gaf ekki upp sitt rétta nafn og var hann því vistaður í fangageymslu þar til upplýst var um hver hann var í raun og veru.   Laust eftir hádegi þann 3. maí sl. var lögreglu tilkynnt um vinnuslys hjá Iðunn Seafoods ehf. v/Garðaveg en þarna hafði starfsmaður fest hendi í færibandi. Ekki var um alvarlega áverka að ræða en fingur mun hafa klemmst.   Tvær sektir liggja fyrir vegna brota á umferðarlögum og var í öðru tilvikinu um að ræða notkun á farsíma í akstri án handfrjáls búnaðar og þýðir það sekt upp á kr. 40.000,-. Í hinu tilvikinu var um að ræða ólöglega lagningu ökutækis sem þýðir sekt upp á kr. 20.000,-.   Lögreglan vill koma þeim tilmælum til foreldra og forráðamanna barna að þann 1. maí sl. breytist útivistatími barna og lengist þá heimildi þeirra til að vera á almannafæri um tvær klukkustundir, eins og fram kemur í 92. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002:   „Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20.00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22.00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir.“   Varðandi aldur þá er miðað við almannaksár.  

Þessar spár trufla mig ekki neitt

Aðspurður út í undirbúningstímabilið sagði Sindri Snær það hafa gengið þokkalega og ýmislegt jákvætt sem hægt væri að taka út úr því. „Það var sérstaklega gott fyrir strákana frá Eyjum sem hafa fengið fá tækifæri upp á síðkastið. Það verður gaman fyrir Eyjafólkið og stuðningsmenn ÍBV að sjá þá næstu vikurnar, hvernig þeir koma undan vetri. Það má segja að þeir hafi verið bjartasti punkturinn. Hvað úrslitin varðar þá vorum við ekkert allt of góðir en þetta hefur farið batnandi með hverjum mánuðinum sem líður eftir að liðið hefur komið betur saman,“ segir Sindri. En er það ekki oft þannig að ungur strákarnir fá séns á undirbúningstímabilinu en missa síðan sæti sitt til erlendra leikmanna sem eru keyptir á síðustu stundu? „Ég þekki náttúrulega ekki hvernig þetta var fyrir minn tíma en ég held ekki. Ef þú ert nógu góður þá spilar þú, þannig á það að vera. Nokkrir hafa gripið tækifærið og aðrir ekki eins vel eins og gengur og gerist. Ég sé fram á það að þeir leikmenn sem hafa nýtt tækifæri sín vel í vetur muni fá fullt af sénsum í sumar, það er mín tilfinning,“ segir Sindri.   Nýju mennirnir komið vel inn í liðið Miklar mannabreytingar hafa verið á ÍBV liðinu fyrir tímabilið líkt og fyrri ár en fyrirliðinn hefur ekki allt of miklar áhyggjur af því. „Þetta er bara hlutur sem við leikmennirnir höfum enga stjórn á. Ég held að sumar breytingarnar hafi verið nauðsynlegar og nýju mennirnir sem hafa komið inn hafa staðið sig mjög vel og komið vel inn í hópinn, hvort sem það eru Íslendingar eða útlendingar,“ segir Sindri og bætir við að æfingaferðin til Spánar hafi verið liðinu mikilvæg. „Þar small hópurinn saman og við urðum miklu nánari og hljóðið betra í klefanum. Menn fara að mæta fyrr og vilja meira hanga með liðsfélögunum og verja tíma saman. Þetta er að vissu leyti hópefli. Við erum að æfa einu sinni til tvisvar á dag í heila viku og erum saman nánast frá átta á morgnanna til tólf á kvöldin. Þetta er alveg nauðsynlegt, sérstaklega eftir miklar breytingar á hópnum.“   Ætla sér ekki í botnbaráttu Liðinu er spáð botnbaráttu í flestum miðlum. Hver er þín skoðun á þessum spádómum? „Þessar spár trufla mig ekki neitt. Okkar markmið eru svo miklu meiri en að vera í fallbaráttu. Ég held samt að fyrsta markmið okkar sé að koma ÍBV frá þessari fallbaráttu, svo eru við með önnur markmið sem eiga eftir að koma í ljós eftir því sem líður á. Við höldum þeim fyrir okkur eins og er,“ segir Sindri. Deildin sterkari en í fyrra Telur þú að deildin muni vera sterkari í ár en í fyrra? „Ég held það. Það eru margir komnir heim úr atvinnumennsku á fínum aldri, undir þrítugu. Svo eru komnir nýir og sterkir þjálfarar líka þannig ég held að deildin verði betri en hún hefur verið,“ segir Sindri en fyrsti heimaleikur liðsins í Pepsi-deildinni verður á sunnudaginn en þá fá Eyjamenn Fjölni í heimsókn.   Góður kjarni Hverjir eru ykkar helstu styrkleikar? „Við erum með góðan kjarna og erum að spila sama leikkerfið núna þriðja árið í röð og þekkjum það vel, það er klárlega einn af okkar styrkleikum. Menn ganga bara inn í sín hlutverk og þekkja þau vel. Svo erum við mestmegnis með sama þjálfarateymið og við vorum með síðasta sumar þannig hugmyndafræðin er komin langt á veg. Menn vita hvað þeir eru að fara út í þegar þeir mæta á æfingar og í leiki,“ segir Sindri. Í fyrsta skiptið í langan tíma er sami þjálfari með liðið tvö tímabil í röð og segir Sindri það klárlega hjálpa. „Þá veit maður svona nokkurn veginn hvað er að fara gerast á undirbúningstímabilinu en þegar það kemur nýr þjálfari þá fylgja alltaf nýjar áherslur bæði á æfingum og utanvallar. Það er klárlega kostur að hafa sama þjálfara.“   Of dýrt á völlinn Aðsókn á leiki á Íslandi hefur ekki verið góð undanfarin ár og hefur KSÍ meira að segja sett af stað starfshóp sem á að skoða hvernig eigi að fjölga áhorfendum. „Það sem við í liðinu getum gert til að laða að áhorfendur er að skila góðri frammistöðu á vellinum og gera betur en fyrri ár. Annars finnst mér bara of dýrt á völlinn, að mínu mati á bara að kosta þúsund krónur fyrir fullorðna og frítt fyrir börn og unglinga. Þetta á ekki að vera fimm til sex þúsund krónur fyrir fjölskylduna að fara á völlinn,“ segir Sindri.  

Myndi leggja aleiguna undir um að verkefnið verði að veruleika

Á þriðjudaginn fór fram kynning í Fiskiðjunni á hvalaverkefninu svokallaða en til stendur að flytja inn tvo hvíthvali úr skemmtigarði í Shanghai sem alþjóðlega skemmtifyrirtækið Merlin Entertainment festi kaup á fyrir nokkrum árum síðan. Á fundinum kynntu fulltrúar Merlin hver staða verkefnisins væri og hver næstu skref yrðu. Einnig var aðdragandinn rakinn líkt og á fyrri fundi Merlin sem fram fór í Eldheimum síðasta sumar og ættu því þeir sem sátu báðar kynningarnar að þekkja orðið söguna ansi vel. Upplýsingar sem segja má að hafi verið nýjar á fundinum eru þær að öll leyfi eru nú komin í hús, bæði útflutningsleyfi frá kínverskum stjórnvöldum og innflutningsleyfi frá íslenskum stjórnvöldum. Framkvæmdir eru sömuleiðis hafnar á reitnum en verið er að grafa fyrir gríðarstórri sundlaug sem mun hýsa hvalina tvo eftir þörfum í framtíðinni. Samkvæmt áætlun mun húsið vera að mestu tilbúið í mars á næsta ári og í kjölfarið munu hvalirnir fljúga til Íslands með millilendingu í Síberíu. Þaðan munu þeir ferðast til Landeyjahafnar og taka ferjuna yfir til Eyja.   Verður óviðjafnanlegur segull á ferðamenn Blaðamaður ræddi við Elliða Vignisson, bæjarstjóra, að loknum fundi en hann var, líkt og fulltrúar Merlin, afar bjartsýnn á framhaldið. Samkvæmt kynningunni í Fiskiðjunni eiga framkvæmdir að vera á lokastigum eftir ca. ár og hvalirnir á leið til Eyja. Er eitthvað sem á að geta komið í veg fyrir að það verði að veruleika? „Við erum komin afar langt með undirbúning þessa verkefnis. Byggingaframkvæmdir eru hafnar, búið að semja um flug, hanna grindur fyrir dýrin að vera í á meðan á flutningi stendur og fleira. Ég væri til í að leggja mína litlu aleigu undir um að þetta verði að veruleika,“ segir Elliði. Hvað telur þú að þetta verkefni muni gera fyrir bæjarfélagið í framtíðinni, sérstaklega með tilliti til ferðamanna en eins og fram kom í kynningunni mun Merlin auglýsa verkefnið víða seinna í sumar? „Tækifærin eru meiri en við fáum séð strax og það kemur til með að reyna fyrst og fremst á þrek og þor einstaklinga að nýta þau. Hvað bæjarfélagið varðar þá verða strax til ca. 15 vel launuð störf og áhugaverð, auk þess sem þetta verður óviðjafnanlegur segull á ferðamenn. Hvergi í heiminum getur þú haldið á lunda, komist í návígi við hvali og fundið varmann úr eldfjalli á sama klukkutímanum. Þá erum við þegar byrjuð að vinna með Merlin að aðkomu þeirra að Þekkingarsetrinu okkar og því fræðslu- og fræðastarfi sem þar er og munar um minna en að fá eitt stærsta fyrirtæki í heimi þar að borðinu. Að lokum ber að geta þess að samningurinn sem Vestmannaeyjabær gerir við Merlin um leigu á jarðhæð Fiskiðjunnar er þannig að Merlin kemur upp nýju og glæsilegu fiska- og náttúrugripsafni að verðmæti ca. hálfur milljarðarður og mun reka á eigin kostnað. Hætti fyrirtækið starfsemi mun Vestmannaeyjabær eignast safnið og allt tilheyrandi án kostnaðar fyrir bæjarfélagið,“ segir Elliði.      

Verklagi var breytt um borð í Herjólfi eftir atvikið

Minnstu mátti muna að illa færi en aðeins 148 metr­ar voru á milli flutn­inga­skips­ins Arn­ar­fells og farþega­ferj­unn­ar Herjólfs í ág­úst síðastliðnum. And­vara- og sam­skipta­leysi stjórn­enda Herjólfs er tal­in helsta ástæðan, sam­kvæmt rann­sókn­ar­nefnd sam­göngu­slysa. www.mbl.is   At­vikið átti sér stað 2. ág­úst í fyrra en þá lagði Herjólf­ur úr höfn í Vest­manna­eyj­um klukk­an 18.45 og var stefn­an sett á Land­eyja­höfn. Arn­ar­fell var statt milli á milli Vest­manna­eyja og lands á leið frá Fær­eyj­um til Reykja­vík­ur. Í niður­stöðu rann­sókn­ar­nefnd­ar sam­göngu­slysa seg­ir að vakt­haf­andi skip­stjórn­ar­menn hafi ekki vitað um hvorn ann­an fyrr en skip­in komu í aug­sýn und­an Elliðaey klukk­an 18.54.   „Herjólf­ur var með Arn­ar­fell á stjórn­borða og þurfti stjórn­andi þess að beygja til stjórn­borða til að forða árekstri þegar stutt var á milli skip­anna,“ seg­ir í niður­stöðunni. Minnsta fjar­lægðin á milli skip­anna var 0,08 sjó­míl­ur eða um 148 metr­ar.   Sam­kvæmt yf­ir­stýri­manni Arn­ar­fells var fjar­lægðin milli skip­anna þegar þau komu í aug­sýn hvort við annað 0,95 sjó­míl­ur. Þá sáu menn að við óbreytt­ar for­send­ur yrði árekst­ur. Herjólf­ur hefði dregið úr ferð en það hefði haft lít­il áhrif vegna þess að mjög stutt var á milli skip­anna. Eins og áður sagði þurfti stjórn­andi Arn­ar­fells síðan að beygja til stjórn­borða til að forða árekstri. Eft­ir at­vikið var verklagi breytt um borð í Herjólfi í þá veru að koma veg fyr­ir að svona gerðist aft­ur.  

Kristleifur Guðmundsson: Trufluð lund með gratíneruðum kartöflum

Ég vil byrja á að þakka hinum heimsklassa gourmet kokk honum mági mínum Bergsteini fyrir áskorunina. Ég ætla að hafa þetta einfalt og gott fyrir fjóra.   Forréttur Pönnusteiktur Turmerik þorskhnakki á couscous beði Einn frekar stór þorskhnakki helst frá Dala Rafn. Skerum í fjóra fallega bita, setjum í skál og hellum góðum slatta af extra virgin ólífuolíu yfir, sturtum turmeriki yfir fiskinn og miklu af því. Best er að vera í hönskum og gramsa aðeins í bitunum, steikja bitana í nokkrar mínútur á hvorri hlið á meðal hita og strá maldonsalti yfir í steikingu.   Couscous beð 1 bolli af vatni í pott ásamt ½ bolla af JP. Chenet hvítvíni, tening af grænmetiskrafti, slettu af extra virgin ólífuolíu og smá salti. Nú þarf að ná upp suðu Hendi 1 bolla af couscous út í og hræri í tvo hringi í pottinum set lokið á og læt standa í 5 mínútur og nú verður gaman, því hér má bæta hnefa af furuhnetum og svipuðu magni af feta osti út í og hrærum með gafli. Set sæmilega hrúgu af couscous á miðjan diskinn og skreyti með fínskornum strimlum af rauðri papriku og klettasalati, legg þorskinn í hliðina á hrúgunni og skreyti með steinselju. Gott að bera fram með sama ísköldu hvítvíni og við notuðum í réttinn.   Aðalréttur Trufluð lund með gratíneruðum kartöflum Kaupum stóra lund og skerum haus og hala af, þannig að nóg sé af kjöti minnst 1 kg því fólk á eftir borða vel og vonandi lengi. Kvöldinu áður er best að kaffæra lundinni í truffluolíu og leyfa henni að liggja í faðmlögum með trufluolíunni undir plasti, í ísskáp yfir nóttina og til að krydda aðeins tilhugalífið er gott að stríða lundinni með smá safran. Ég vef svo lundinni í filmuplast afturábak og áfram og hendi í ofninn á 53° í 2 tíma. Ef stafrænn ofn er ekki til staðar, er fínt að planta kjöthitamæli vil hliðina á lundinni og fylgjast með fyrst um sinn á meðan verið er að ná réttum hita. Næst er plastið rifið af og grillið hitað í spað. Nautið grillað allan hringinn á örskömmum tíma, einu skotglasi af einhverju ódýru Koníaki er skvett yfir lundina og um leið og bálið slokknar, rífum við hana af og leggjum á heitan stað í nokkrar mínútur.   Kartöflugratín Tek hálfan pakkann af forsoðnum kartöflur og sneiði þær í þykkar skífur, legg í smurt eldfast mót og krydda með kartöflukryddi og hvítlauk. Rjómaosti með hvítlauk er dreift yfir, því næst eru gouda ostsneiðar lagðar yfir, þrýst á þær til að dreifa hvítlauksostinum betur. Tek sæta kartöflu og ríf hana með sæmilega grófu rifjárni dreifi sæmilegu lagi ofan á ostinn og Maldonsalti stráð yfir, hendi inn í ofn á 180° í 35 mínútur.   Sósa 100 gr af smjöri í sósupott og 100 gr þurrkaðir villisveppir (til í krónunni í sama kæli og salatpokarnir eru). 2 dl Peter Lehmann cabernet og 1 teningur nautakraftur, svartur pipar, smá safran og salt. Læt þetta malla á vægum hita í 20 mínútur, bæti svo hálfum líter af rjóma út í og allt látið malla í smá stund, ef við viljum sæta sósuna er fínt að henda rifsberjahlaupi í hana annars má krydda þetta að vild. Vitanlega er sami Pétur frændi borinn fram með steikinni og sá sem fór í sósuna.   Eftirréttir Skyrsnittur Þá þarf pínu að huga að því hvernig við viljum að dótið lúkki . Gott er að hafa undirskál eða eitthvað með sæmilegum köntum, ég notaði einu sinni svona skálar undan litlum blómapottum en allavega tek hálfan pakka af LU bostogne og 80 gr af örbylgjubæddu smjöri og hendi því í matvinnsluvél, þrýsti vel í formin sem við fundum með góðum köntum og í frost skal það. Þeyti 1 pela af rjóma og hendi honum til hliðar. Tek eina litla vanilluskyr 170 gr og smelli henni í hrærivélina og bæti í 1 matskeið af flórsykri, teskeið að vanillusykri, bræði 100 gr af hvítu súkkulaði yfir vatnsbaði og bæti hægt í og því næst rjómanum út í. Kippi LU skálunum úr frysti og fylli þær með blöndunni góðu og kæli yfir nótt. Set kirsuberjasósu, söxuð jarðaber og bláber ofan á. Úbermaðurinn og systursonur minn hann Hjálmar Viðarsson er mesti matgæðingur og nautnabelgur sem ég hef hitt. Ég veit hann lumar á uppskriftum eins og sviknum héra og sjokkeraðri kanínu, en hann náttúrulega á sínar leiðir til að heilla bragðlaukana hjá fólki.  

Bæjarstjórn samþykkti yfirtökuna á rekstri Herjólfs

  Nú fyrir skömmu lauk fundi í bæjarstjórn Vestmannaeyja þar sem fjallað var um samning milli Vestmannaeyjabæjar og Vegagerðarinnar um rekstur Herjólfs sem lagður hefur verið fram af hálfu Ríkisins. Á fundinum samþykkti bæjarstjórn samninginn einróma og þar með að taka við rekstri Herjólfs eftir að nýtt skip hefur þjónustu eigi síðar en 8. okt. 2018   Samningurinn sem er til tveggja ára felur í sér:   * Rekstur Herjólfs verður í sjálfstæðu félagi í eigu Vestmannaeyjabæjar sem þýðir að hann verður algerlega og með öllu óháður öðrum rekstri sveitarfélagsins.   * Ferðum mun á samningstímanum fjölga um að lágmarki hátt í 600 á ári. Gert er ráð fyrir áætlunarferðum frá 06.30 á daginn fram til miðnættis.   * Skipið sigli alla daga ársins, þar með talið á stórhátíðum.   * Afsláttur fyrir heimamenn fer úr 40% í 50% og verður veittur án þess að slíkt reyni á inneignakerfi líkt og nú er. Gjaldskrá verður að öðru leyti nánast óbreytt frá því sem nú er. Þar með talið að sama gjaldskrá gildi í Landeyjahöfn og Þorlákshöfn.   * Störfum um borð mun fjölga nokkuð frá því sem nú er enda gert ráð fyrir að skipið verði mun meira í notkun. Gert er ráð fyrir þremur áhöfnum og tveimur vöktum hvern dag.   * Herjólfur verður til staðar sem varaskip og nýttur ef þörf verður á.   * Bókunarkerfi verður tekið til algerrar endurskoðunar. Þar með talið er gert ráð fyrir að notendur geti bókað ferðir, greitt þær, breytt bókunum og sinnt öllum öðrum þátttum í gegnum símaforrit og/eða tölvu.   * Upplýsingagjöf til notenda verður stóraukin og höfuðáhersla lögð á þjónustu við heimamenn og gesti þeirra.   * Verði hagnaður af rekstri hins opinbera hlutafélags verður honum varið til að auka þjónustu og/eða lækka gjaldskrá.     Bæjarstjórn fagnar þessu stóra skrefi í samgöngumálum Vestmannaeyinga, sem vart verður saman jafnað. Með því færist rekstur Herjólfs til muna nær því áratuga markmiði Eyjamanna að hann sé séður sem þjóðvegur og þjónusta og gjaldskrá taki fyrst og fremst mið af því.   Bæjarstjórn þakkar stýrihópi um yfirtökuna vel unnin störf. Þá færir bæjarstórn núverandi ráðherra Sigurði Inga Jóhannssyni og fyrrverandi ráðherra Jóni Gunnarssyni hjartans þakkir fyrir þann velvilja og eindregna stuðning sem störf þeirra voru við gerð þessa samnings.  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Stjórnmál >>

Því miður göngum við ekki samhent til þessara kosninga

Í síðustu viku sendum við fyrirspurn á tvo sitjandi þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi til að athuga hvar þeir standa varðandi klofningu flokksins hér í bæ. Páll Magnússon fyrsti þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi vildi ekki tjá sig um stöðuna. ''Ég hef ákveðið að tjá mig ekkert opinberlega um málefni okkar Sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum, að svo stöddu''.   Erfiðleikar eru til að sigrast á þeim Ásmundur Friðriksson sagði í samtali við Eyjafréttir að sem annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi styður hann auðvitað framboð flokksins í Vestmannaeyjum. „Ég hef fylgst með úr fjarlægð hvað var að gerast í framboðsmálum Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum og það tók mig sárt hver sú niðurstaða varð. Ég hef tekið þátt í fjölmörgum kosningabaráttum fyrir flokkinn í Eyjum og það hefur verið skemmtilegt að vinna í hópi samhentra sjálfstæðismanna og kvenna sem hafa frá því að ég man eftir mér unnið hvern stórsigurinn á fætur öðrum. Því miður göngum við ekki samhent til þessara kosninga eins og ég hafði vonað, en verkefnið verður að leiða ágreininginn í jörð og ná sátt í flokknum okkar. Það verður hlutverk okkar þingmanna og sjálfstæðismanna í Eyjum að loknum kosningum að horfa fram á veginn. Við erum umburðarlynd, víðsýn og þolum hvort öðru að við séum ekki sammála í öllum málum. Og þó að um stund sé slagsíða á bátnum þá er takmarkið að ná þeim aftur um borð sem hafa ákveðið að fá sér annað skipsrúm og nýtt föruneyti. Erfiðleikar eru til að sigrast á þeim en að lokum mun mótlætið styrkja okkur og við sameinast á ný undir merkjum Sjálfstæðisflokksins.“      

VefTíví >>

Japanskt fyrirtæki hefur keypt afurðir af VSV í um þrjátíu ár

“Íslensk sölufyrirtæki hafa staðið sig vel í gegnum tíðina . Þegar ákvörðunin var tekin á sínum tíma um að Vinnslustöðin sjái sjálf um markas- og sölumál þótti skynsamlegt að komast sem næst mörkuðum og öðlast þannig þekkingu og getu til að geta komið til móts við þarfir viðskiptavina fyrirtækisins. Það skiptir okkur afskalega mikiu máli að byggja upp traust viðskiptasambönd til lengri tíma litið. Sem dæmi, þá get ég sagt þér frá því að fyrirtæki í Japan hefur verið í umtalsverðum viðskptum við okkur í um þrjátíu ár. Í sjávarútvegi er nauðsynlegt að hugsa til langs tíma, rétt eins og í öðrum greinum,” segir Sigurgeir Brynjar Kristinsson framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Sölumálin mikilvægur liður í starfseminni Fyrirtækið sér sjáft um sölu sinna afurða og er með söluskrifstofur víða um heiminn. Vinnslustöðin var með bás á sjávarútvegssýningunni í Brussel í síðasta mánuði en sú sýning er sú stærsta í heiminum. Í Atvinnupúlsinum á sjónvarpsstöðinni N4 í gærkvöldi var bás VSV heimsóttur. “Veiðarnar skipta miklu máli og sömu sögu er að segja um vinnsluna. Það skiptir líka gríðarlega miklu máli að þjóna mörkuðunum vel. Hafa stöðugt og öruggt framboð, svo viðskiptavinirnir geti keypt með reglulegum hætti,” segir Sigurgeir Brynjar í þættinum á N4.