ÍBV mætir Val í kvöld í síðustu umferð Olís-deildar karla

ÍBV mætir Val í kvöld í síðustu umferð Olís-deildar karla

 Í kvöld fer fram síðasta umferð Olís-deildar karla þetta tímabilið og hefjast allir leikirnir á sama tíma kl. 19:30. Eyjamenn mæta Val á útivelli og þurfa á sigri að halda til þess að eiga möguleika á titlinum. Hins vega þurfa þeir að treysta á að FH misstígi sig gegn Selfyssingum en einu stigi munar á ÍBV og FH í fyrstu tveimur sætunum. Jafntefli hjá FH og sigur hjá ÍBV myndi ekki nægja vegna innbyrðisviðureigna liðanna, en þær eru Eyjamönnum óhagstæðar.

Fundur Fjölskyldu- og tómstundaráðs 26. apríl

Fjölskyldu- og tómstundaráð - 193. fundur   haldinn í fundarsal Ráðhúss, 26. apríl 2017 og hófst hann kl. 16:15     Fundinn sátu: Trausti Hjaltason formaður, Páll Marvin Jónsson aðalmaður, Geir Jón Þórisson aðalmaður, Auður Ósk Vilhjálmsdóttir aðalmaður, Guðjón Ragnar Rögnvaldsson 1. varamaður, Jón Pétursson framkvstj.sviðs, Guðrún Jónsdóttir starfsmaður sviðs og Margrét Rós Ingólfsdóttir starfsmaður sviðs.   Fundargerð ritaði: Margrét Rós Ingólfsdóttir,   Auður Ósk Vilhjálmsdóttir yfirgaf fundinn eftir 2.mál.   Dagskrá:   1. 201704165 - Skýrsla til Barnaverndarstofu fyrir árið 2016   Samantekt úr ársskýrslu til Barnaverndarstofu fyrir árið 2016.   Guðrún Jónsdóttir yfirfélagsráðgjafi kynnti samantekt úr ársskýrslu til Barnaverndarstofu fyrir árið 2016.   Ráðið þakkar kynninguna og ítrekar að af fjölda mála má sjá að barnaverndarkerfi sveitarfélagsins nýtur trausts og er öflugt.     2. 200704150 - Fundargerð barnaverndar fyrir fjölskyldu- og tómstundaráð   Undir þessum lið er fjallað um öll erindi sem falla undir barnavernd og eru trúnaðarmál.   Fundargerð barnaverndar er færð í sérstaka trúnaðarmálabók.     3. 200704148 - Fundargerð trúnaðarmála fyrir fjölskyldu- og tómstundaráð.   Undir þennan lið falla trúnaðarmál sem lögð eru fyrir ráðið og eru færð í sérstaka trúnaðarmálabók.   Fundargerð trúnaðarmála er færð í sérstaka trúnaðarmálabók.     4. 201704145 - Breyting á opnunartíma sundlaugar   Tilkynning um breyttan opnunartíma í sundlaug sumarið 2017   Forstöðumaður Íþróttamiðstöðvar leggur til að opnunartími sundlaugar verði breytt í sumar frá kl. 09 - 18 í staðinn fyrir kl. 10 - 19 eins og nú er. Breytingin tekur gildi í byrjun júní og út ágúst.   Ráðið samþykkir breytinguna, en um er að ræða sama opnunartíma og undir lok síðasta sumars.     5. 200804058 - Vinnuskóli Vestmannaeyjabæjar   Kynning á fyrirkomulagi Vinnuskóla 2017   Ráðinu kynnt tillaga að fyrirkomulagi vinnuskólans sumarsins 2017. Ráðið samþykkir laun, sem og vinnutíma og vinnutímabil. Foreldrum barna í árgöngum 2001-2003 verður sent kynningarbréf á næstu dögum.         Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:45  

Fundur Umhverfis- og skipulagsráðs 25. apríl

 Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 267. fundur haldinn í fundarherbergi Umhverfis- og framkvæmdasviðs, 25. apríl 2017 og hófst hann kl. 16:05     Fundinn sátu: Margrét Rós Ingólfsdóttir formaður, Ingólfur Jóhannesson aðalmaður, Esther Bergsdóttir aðalmaður, Georg Eiður Arnarson aðalmaður, Sigurður Smári Benónýsson starfsmaður sviðs og Ólafur Þór Snorrason framkvstj.sviðs.   Fundargerð ritaði: Sigurður Smári Benónýsson, skipulags-og byggingarfulltrúi       Dagskrá:   1. 201503032 - Endurskoðun Aðalskipulags Vestmannaeyja. Umræður um næstu skref í kynningar- og samráðsfeli á drögum aðalskipulags.   Ráðið felur vinnuhópi um gerð aðalskipulags að kynna fyrirliggjandi drög fyrir umsagnaraðilum og á almennum íbúafundi.       2. 201703025 - Dalhraun 1. Umsókn um byggingarleyfi Tekið fyrir að nýju erindi um byggingarleyfi fyrir stækkun á Kirkjugerði sbr. innsend gögn. Erindið var sent til grenndarkynnignar skv. 44. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010, engar athugasemdir bárust ráðinu.   Ráðið samþykkir fyrirliggjandi byggingaráform og felur byggingarfulltrúa framgang erindis.       3. 201703018 - Heiðarvegur 5. Umsókn um byggingarleyfi Tekið fyrir að nýju erindi lóðarhafa. Sævar Þór Hallgrímsson sækir um leyfi fyrir stækkun á jarðhæð til austurs sbr. innsend gögn. Erindið var sent til grenndarkynnignar skv. 2. mgr. 43. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010, engar athugasemdir bárust ráðinu.   Ráðið samþykkir fyrirliggjandi byggingaráform og felur byggingarfulltrúa framgang erindis.       4. 201703022 - Hlíðarvegur 4. Umsókn um byggingarleyfi Tekið fyrir erindi lóðarhafa. Garðar Guðnason f.h. HS-Veitna hf. sækir um byggingarleyfi fyrir varmadælustöð sbr. innsend gögn. Húsið sem verður steinsteypt er á tveimur hæðum að hluta, einangrað að utan og klætt flísum og álklæðningu.   Ráðið samþykkir fyrirliggjandi byggingaráform og felur byggingarfulltrúa framgang erindis.       5. 201704107 - Flatir 19. Girðingar. Tekið fyrir að nýju erindi lóðarhafa. Ingi Sigðursson f.h. Steina og Olla ehf. sækir um leyfi fyrir girðingum við lóðarmörk til vesturs og norðurs sbr. innsend gögn dags. 20 apríl 2017.   Erindi samþykkt.       6. 201704120 - Torfmýrarvegur. Umsókn um byggingarleyfi. Ólafur Þór Snorrason f.h. Vestmannaeyjabæjar sækir um byggingarleyfi fyrir þjónustubyggingu við tjaldsvæðið í Herjólfsdal sbr. innsend gögn.   Erindi samþykkt.       7. 201702027 - Endurskoðun miðbæjarskipulags. Tekið fyrir að nýju drög að breytingum á deiliskipulagi Miðbæjar. Skipulagshönnuður leggur fyrir ráðið tillöguteikningar af bílastæðum og fl. Lagt fram             Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:55

Stoppað í götin á einstöku safni

Ef það er eitthvað sem dregur að Eyjamenn sem komnir eru yfir miðjan aldur er það tækifæri til að líta til baka þegar fólk var að alast upp og jafnvel lengra aftur í tímann. Til þess voru tvö tækifæri með stuttu millibili, Sigurgeir Jónasson ljósmyndari frá Skuld sýndi hluta af safni sínu á sumardaginn fyrsta í Viskusalnum og Eyjahjartað var í Sagnheimum á sunnudaginn. Var húsfyllir á báðum stöðum. Eftir að safn Sigurgeirs var afhent Vestmannaeyjabæ hafa Sigurgeir og Kári Bjarnason lagt mikla vinnu í að vinna úr og kynna safnið með margvíslegu móti. Sigurgeir sjálfur passaði raunar ótrúlega vel upp á safn sitt, flokkaði og merkti inn á dagsetningu og viðburð. En alltaf má gera betur enda safnið mikið að vöxtum, telur milljónir mynda. Þetta á sérstaklega við þegar um er að ræða myndir af ungum börnum eða hópmyndir og ljósmyndasýningarnar eru kjörinn vettvangur til að stoppa upp í götin. Þetta er fjórða sýningin í Viskusalnum og nú voru það myndir af börnum og unglingum í Eyjum sem teknar voru á árunum 1960 til 1980. Þeim til halds og trausts hefur frá upphafi verið Arnar Sigurmundsson. Tókst þeim að rúlla í gegn 200 myndum og voru gestir vel með á nótunum og tókst oftast að finna út hverjir eru í myndunum, þar sem það vantaði. Það er greinilegt að fólk kann að meta sýningarnar og framtak þremenninganna er gott og skiptir ekki minnstu máli þær upplýsingar sem þar koma fram og hvað fólk skemmtir sér vel.  

Kristín Erna er Eyjamaður vikunnar: Á meðan ég hjálpa liðinu þá er ég sátt

Kristín Erna Sigurlásdóttir verður í eldlínunni þegar kvennalið ÍBV í knattspyrnu tekur á móti KR á föstudaginn í fyrsta leik liðsins í Pepsi-deildinni. Kristín Erna, sem sneri aftur til ÍBV fyrir tímabilið eftir að hafa verið eitt tímabil með Fylki, er markahæsti leikmaður ÍBV frá upphafi með 84 mörk og því ljóst að hún á eftir að hjálpa liðinu gríðarlega mikið á komandi leiktíð. Kristín Erna er Eyjamaður vikunnar að þessu sinni.   Nafn: Kristín Erna Sigurlásdóttir. Fæðingardagur: 19 ágúst 1991. Fæðingarstaður: Reykjavík. Fjölskylda: Foreldrar mínir heita Sigurlás og Karen, svo á ég 4 systkini sem heita Kolbrún, Jóna Heiða, Sara og Þorleifur. Draumabíllinn: Range Rover. Uppáhaldsmatur: Ég er mikið fyrir sjávarrétti. Versti matur: Sveppa tacos sem ég fékk einu sinni. Uppáhalds vefsíða: fotbolti.net. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: R&b. Aðaláhugamál: Fótbolti. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Zlatan. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Ísrael. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Man Utd & Arjen Robben. Ertu hjátrúarfull/ur: Nei. Stundar þú einhverja hreyfingu: Já, líklega of mikið. Uppáhaldssjónvarpsefni: Seinfeld. Fyrsti leikur í Pepsi-deildinni er núna á föstudaginn gegn KR, hvernig leggst það í þig: Mikil tillhlökkun að byrja loksins eftir langt undirbúningstímabil. ÍBV hefur verið um miðja deild síðustu ár, telur þú liðið hafa burði í að gera atlögu að efstu sætunum í ár: Já, ég held að við getum unnið öll liðin í deildinni ef við höldum okkar skipulagi. Síðast þegar þú spilaðir með ÍBV í Pepsi-deildinni skoraðir þú átta mörk í 17 leikjum. Hvað stefnir þú á að skora mörg á þessu tímabili: Á meðan ég hjálpa liðinu þá er ég sátt.  

Viðtökurnar með besta móti og ánægja mikil

Bílasýningar eru einn af vorboðunum í Eyjum og fyrstir til að ríða á vaðið þetta árið voru Lexus og Toyota sem sýndu 16 bíla hjá Nethamri um síðustu helgi. Voru menn ánægðir með viðtökurnar. „Það er alltaf frábært að koma til Eyja og kynna fyrir heimamönnum það nýjasta í vörulínu Toyota og Lexus,“ sagði Kristinn J. Einarsson sölutjóri Toyota. „Viðtökurnar voru með besta móti og ánægja skein úr augum gesta sem nýttu sér tækifærið og skoðuðu og reynsluóku spennandi nýjungum. Helst ber að nefna nýjan glæsilega valkost í Toyota vörulínunni sem er með yfirbragð jepplings, aksturseiginleika fólksbíls en með veghæð margra smærri jepplinga. Hönnunin er svo undir áhrifum frá lögun demantsins á öllum sviðum sem skarar svo sannarlega fram úr. Mikill áhugi var því fyrir C-HR, Rav4 og Hilux sem nú skartar „Invincible 33 tommu“ breytingarpakka sem fylgir með seldum bílum um þessar mundir og fjölmörg sölumál eru í gangi,“ sagði Kristinn einnig. „Það var sérstaklega skemmtilegt að koma til Vestmannaeyja og sýna framúrskarandi Lexus sport jeppann RX 450h og einnig jepplinginn NX 300h,“ sagði Hreggviður Steinar Magnússon, sölustjóri Lexus. „Báðir lúxusjeppar í hybrid útfærslu sem sameinar kraft en jafnframt hagkvæmni í rekstri. Margir reynsluóku Lexus NX og RX við góðar viðtökur enda sannarlega lúxus kerrur þar á ferðinni.“ Hreggviður nefndi að Lexus RX fékk árið 2016 verðlaun fyrir vel hannaða innréttingu. „Hafa þeir báðir fengið gríðarlega góða umfjöllum um hönnun bílsins sem er innblásin af Samurai vígamanninum í fullum herklæðum. En Samurai klæðist innan herklæða silki og því er innra byrði vandað og fágað. Mikill áhugi var fyrir báðum Lexus jeppum,“ sagði Hreggviður.  

Kristgeir Orri er matgæðingur vikunnar: Ekta Lestarslys

 Ég vil þakka Höllu Björk frænku fyrir áskorunina. Þar sem ég elda yfirleitt fyrir mig einan þá reyni ég nú yfirleitt að hafa matinn fljótlegan og þæginlegan (hollustan skiptir ekki alltaf öllu). Vinsælustu réttirnir hjá mér eru nú yfirleitt brauð með bökuðum baunum eða pulsur. En þegar maður fær fólk í mat þá reynir maður nú yfirleitt að grafa djúpt í uppskriftarbókina og í dag var heppnin með ykkur því ég fann það sem kallast lestarslys.   0,550 kg hakk. Byrja á því að steikja hakk í meðal djúpri pönnu, og af sjálfsögðu er sett ein dós af bökuðum baunum út í hakkið til að fá rétta bragðið.   Svo skal búa til góða kartöflumús, fyrir byrjendur skil ég vel að fólk noti pakkamús en kýs ég frekar að nota heimatilbúna frá mömmu.   Á meðan kartöflumúsin er að hitna þá er fínt að fara að snúa sér að spaghettíinu, sjóða skal hálfan pakka af spaghettí. Þegar hakkið, kartöflumúsin og spaghettíið er orðið reddy þá þarf að finna eldfastmót í þokkalegri stærð.   Byrja skal á að setja hakkið neðst í eldfasta mótið, svo skal dreifa kartöflumúsinni yfir hakkið jafnt og þétt. Þá er komið að spaghettíinu sem ég kýs að hafa alltaf í 3 laginu ofaná músina því í 4 laginu set ég alltaf ost, osturinn er bestur þegar hann er kominn yfir spaghettíið. Hita skal slysið í 250° í ofni þangað til osturinn er bráðnaður. Gott er að hafa ristað brauð með smjöri með þessu.     Ég vil skora á Ólaf Vigni Magnússon frænda og góðan vin að koma okkur Eyjamönnum á óvart því hann er jú góður í flestu sem hann tekur sér fyrir hendur.

Áttan skemmti sundlaugagestum í Eyjum - myndir

 Það voru á bilinu 260 manns sem mættu á sunddiskó í Sundhöll Vestmannaeyja síðastliðinn föstudag en þetta er í annað skiptið sem slíkt diskó er haldið en stefnan er að halda slíkt í hverjum mánuði. Þar sem von var á fjölmenni var ákveðið að tvískipta kvöldinu og fengu því 12 ára og yngri fyrri part kvölds útaf fyrir sig. Mun fleiri voru hjá yngri hópnum eða um 160-170 krakkar ásamt foreldrum. Að þessu sinni var það hin geysivinsæla hljómsveit Áttan sem hélt uppi stuðinu ásamt heimamanninum DJ Bloody en sá síðarnefndi þeytir ekki einungis skífum heldur hefur hann einnig getið sér gott orð fyrir skemmtileg og fjölbreytt ljósasjó á milli þess sem hann fírar upp í eldvörpum sínum. Í samtali við Eyjafréttir sagði Grétar Þór Eyþórsson forstöðumaður Íþróttamiðstöðvarinnar stemninguna hafa verið magnaða eins og við mátti búast. „Þetta var magnað og vorum við starfsfólkið sammála um að allt hefði farið vel fram. Við erum alltaf að læra í þessu enda ekki algengt að nota sundlaugar sem tónleikasal en ég held að bæjarbúar séu sammála um að þetta sé algjör snilld. Maður vill þó alltaf gera betur og hefði ég viljað sjá 50 - 100 manns í viðbót og þá sérstaklega á aldrinum 13-16 ára.“ Er verið að vinna í því að fá skemmtikraft af sambærilegu kalíberi og Áttunni fyrir næsta sundlaugapartý? „Maður vill ekki gefa of mikið upp en næsta stóra partý sem við erum að vinna í verður líklegast í lok júní. Þá er hugmyndin að fara allt aðra leið og vinna svolítið með Eyjastemninguna sem og að fá efnilega krakka úr tónlistarskólanum og tónlistarfólk úr Eyjum til að mynda kósý stemningu á heitum sumardegi. En að sjálfsögðu er alltaf góð stemning hjá okkur í sundlauginni á föstudagskvöldum þar sem við kveikjum á kertum og spilum góða músík,“ segir Grétar og nýtir tækifærið til að lofa sundaðstöðuna sem Eyjamenn búa yfir. „Við Eyjamenn erum með frábæra sundlaug í höndunum sem við eigum að nýta okkur betur. Það er ekkert betra en að fara með börnin í sund og kíkja í spjallið í pottunum. Það er hægt að koma á öllum tímum dagsins og hitta á gott fólk, morgunhanarnir Viggi, Bjarni Jónasar og co. eru í pottinum um sjö og svo koma Geir Jón og frú um tvöleytið eftir blaðburð. Þetta góða fólk, ásamt fleirum eru partur af því að gera hverja sundferð eftirminnilega,“ segir forstöðumaðurinn að lokum.   Hér má sjá myndir Óskars Péturs Friðrikssonar, ljósmyndara Eyjafrétta, frá kvöldinu

Náttúran, Ási í Bæ, Ingólfur afi og Oddgeir meðal áhrifavalda

Myndlistarkonan Sigurdís Harpa Arnardóttir er Bæjarlistamaður Vestmannaeyja 2017. Það var tilkynnt í Einarsstofu á sumardaginn fyrsta. Sjálf var hún ekki viðstödd en faðir hennar, Arnar Ingólfsson tók við viðurkenningunni úr hendi Trausta Hjaltasonar, formanns fjölskyldu- og tómstundaráðs. Hann sagði að fjölmargar umsóknir hefðu borist frá hæfileikaríku fólki sem sýndi hvað menningarlíf í Vestmannaeyjum er öflugt.   Sigurdís Harpa fæddist í Vestmannaeyjum árið 1964 og ólst hér upp. Hún hélt til Akureyrar í nám árið 1989 og lauk prófi frá Myndlistarskóla Akureyrar árið 1994. „Ég hef starfað sem myndlistarmaður síðan ég lauk námi,“ segir Sigurdís. „Einnig hef ég kennt myndlist við grunnskóla og framhaldsskóla. Flestir atburðir lífs míns hafa áhrif á mig sem myndlistarmann og þá ekki síst uppvaxtarár mín í Vestmannaeyjum. Ég hef verið búsett í Reykjavík um árabil og unnið þar að myndlist minni.“ Sigurdís Harpa er mjög afkastamikill listamaður og eru verk hennar víða að finna í Vestmannaeyjum. Hún hefur haldið fjölda sýninga víða um land og þar af einar 15 í Eyjum. Síðast í apríl 2015 í Einarsstofu. „Ég vil þakka fyrir heiðurinn og allar kveðjur, blóm og hlý orð í minn garð,“ sagði Sigurdís Harpa í spjalli við Eyjafréttir. „Ég ætlaði að koma með sýningu um Goslok en því miður voru Eldheimar þegar bókaðir í annað. Ég stefni á að sýna þar þegar nánar liggur fyrir um hvenær þar er ekki fullbókað.“ Sigurdís Harpa segir að sýningin sé langt komin. „Um er að ræða olíverk og verk unnin með blandaðri tækni og einnig verk unnin á kínverskan pappír. Verkin eru mjög Eyjatengd og má þar minna á tengingar við náttúruna, Ása í Bæ, Ingólf afa minn og Oddgeir meðal annarra. Einnig stefni ég að því að sýna á menningarnótt í Reykjavík. Allir eru velkomnir að kíkja til mín á vinnustofuna að Súðarvogi 20 í Reykjavík, vinsamlegast hafið samband áður,“ sagði Sigurdís Harpa, Bæjarlistamaður Vestmannaeyja 2017 að endingu.    

Eigum að vera sjálfstæð og hafa metnað fyrir öllu sem við gerum

 Hvað ætla þessir menn sem stjórna öllu hér í Vestmannaeyjabæ að bjóða okkur sem búum hér og ætlum að vera hér áfram? Það hlýtur að vera forgangsverkefni að hafa hér lækna og sjúkrahús til þess að ekki þurfi að senda sjúklinga frá okkur og konur geti fætt börn sín hér. Við eigum að sinna öllum sem við mögulega getum hér í Vestmannaeyjum og reyna að leysa það. En það vantar alveg metnaðinn hér. Félög hér í Vestmannaeyjum og einstaklingar hafa verið duglegir að gefa tæki og ýmislegt sem vantar og gera það trúlega áfram. Það er að segja ef sjúkrahús verður starfandi hér. Þess vegna verðum við að vera dugleg að nota það og við þökkum fyrir allt hið góða. En þarf þá ekki að vera starfsfólk og sjúkrahús sem er starfrækt hér í Vestmannaeyjum. Það þarf skurðlækni, svæfingalækni ásamt skurðhjúkrunarkonu. Einnig röntgenfræðing og aðstoðarfólk. Við eigum að sinna helst öllu sem mögulegt er. Við eigum að vera sjálfstæð og hafa metnað fyrir öllum sem við gerum. Mér finnst bæjarstjórn hafa gert ýmislegt gott hér og bærinn er sjálfur mjög snyrtilegur. Vel hugsað um götur og þær hreinsaðar þegar snjóar. Að maður tali ekki um húsin sem voru í niðurníðslu og búið er að ryðja í burt. Svona á að gera og byggja í staðinn glæsileg hús. Svona eigum við að halda áfram og vera jákvæð. Einnig vil ég að bæjarstjórn flýti sér með Ráðhúsið, þetta merkilega hús sem hefur gert mikið fyrir okkur Vestmannaeyinga. Það má ekki drabbast niður. Það var einu sinni sjúkrahús þar sem gaman var að vinna. Allt á fullu og gerðar skurðaðgerðir og tekið á móti börnum. Undantekning ef einhver var sendur í burtu og við hugsuðum vel um sjúklingana. Þá var oftast einn læknir á vakt og við hjúkrunarfræðingarnir alltaf tilbúnar þó engin væri bakvaktin. Já, þetta hús á sér merka sögu sem þarf að skrá. Það skipti okkur miklu sem sjúkrahús auk þess sem það er sennilega eitt fallegasta hús landsins.Þóra Magnúsdóttirfyrrum skurðhjúkrunarfræðingur  

Sæþór vann keppnina í bilanagreiningu kælikerfa

Dagana 16. til 18. mars sl. fór fram Íslandsmeistaramót iðngreina í Laugardalshöll og jafnframt kynntu fjölmargir framhaldsskólar landsins starfsemi sína og námsframboð. Kynninguna sóttu 7000 til 8000 manns, aðallega nemendur efstu bekkja grunnskóla á Reykjavíkursvæðinu.   „FÍV átti að sjálfsögðu sína fulltrúa þarna. Vorum við með bás á kynningu skólanna og tveir nemendur, þeir Sæþór Orrason og Sigursteinn Marinósson tóku þátt í iðngreinakeppninni. Báðir stóðu sig með stakri prýði. Sæþór gerði sér lítið fyrir og vann keppnina í bilanagreiningu kælikerfa og varð í þriðja sæti í stýringum. Hlaut hann forláta verkfærakassa að launum,“ segir í frétt frá skólanum. „Í básnum okkar á kynningunni kynntu Frosti Gíslason og Hjördís Friðjónsdóttir starfsemi Fablab smiðjunnar sem starfandi er í skólanum á vegum Nýsköpunarstofu. Mesta athygli vakti þrívíddarprentari smiðjunnar sem gefur innsýn í þrívíddarhönnun til framleiðslu hluta með hjálp tölvustýringa. Þorbjörn Númason leyfði þátttakendum að prófa suðuhermi skólans sem gefinn var af málmiðnaðarfyrirtækjum í Vestmannaeyjum og nýtist vel í kennslu byrjenda í málmsuðu. Á sjónvarpsskjá rúllaði síðan kynningarmyndband um starfsemi FÍV og námsframboð. Að hönnun bássins komu tveir fyrrverandi nemendur skólans, þeir Sighvatur Jónsson og Sæþór Vídó Þorbjarnarson. Sighvatur sá um gerð myndbandsins og Sæþór um myndskreytingar og útlit. Var mál manna að básinn væri einn sá best heppnaði á svæðinu. Þeir eiga því þakkir skyldar fyrir frábært starf. Tilgangur okkar með þátttökunni var að gera skólann okkar sýnilegan á landsvísu og vekja athygli á þeirri fjölbreytni náms sem raunverulega er í boði í Vestmannaeyjum að loknum grunnskóla.“  

Ný deild rís við Kirkjugerði

Fyrir tæpum tveimur vikum fundaði Fræðsluráð Vestmannaeyjabæjar þar sem tíðrædd leikskólamál voru fyrsta mál á dagskrá. Þar var lögð fram tillaga um stækkun Kirkjugerðis til að sporna við mögulegum biðlistum síðar meir. Í fundargerðinni segir að „staða inntöku leikskólabarna nú er sú að 1. september 2017 verða 38 börn orðin 18 mánaða og verður að öllu óbreyttu hægt að bjóða þeim öllum pláss í leikskólum sveitarfélagsins. Í árslok verður hinsvegar komin upp sú staða að biðlistar myndast verði ekki gripið til einhverra ráða. Eins og komið hefur fram er markmið Vestmannaeyjabæjar að bjóða öllum börnum 18 mánaða og eldri leikskólapláss.“ Lagði fræðsluráð þá eftirfarandi til: • Byggð verði ný leikskóladeild við Kirkjugerði sem getur tekið um 20-25 börn í blandaðri deild. • Miðað verði áfram við sama fjölda barna á Kirkjugerði og er í dag þar til að ný leikskóladeild verður tilbúin. • Leitað verði samninga við Hjallastefnuna um að áfram verði miðað við aukinn fjölda á Sóla eða 1.103 dvalargildi, líkt og gert hefur verið upp á síðkastið.   Stækkun Kirkjugerðis felur m.a. í sér að byggja við norðurhluta leikskólans, nýja deild sambærilegri þeim í suðurhlutanum en með tilkomu slíkrar deildar á leikskólaplássum að fjölga enn frekar eins og gefur að skilja. Í fundargerðinni eru kostnaðartölur einnig gróflega áætlaðar þar sem þær liggja ekki fyrir að svo stöddu enda hönnunar- og teikningavinna enn eftir. Ekki er ólíklegt að kostnaður geti legið nærri 40 til 50 milljónum og rekstrarkostnaður á bilinu 15 til 20 milljónir á ári miðað við reksturinn í ár. „Á þessu kjörtímabili hefur mikil áhersla verið lögð á að bæta enn við í þjónustu við börn og barnafjölskyldur,“ segir Elliði Vignisson bæjarstjóri þegar blaðamaður ræddi við hann í enn eitt skiptið um leikskólamál Vestmannaeyja. „Þannig voru teknar upp heimagreiðslur til foreldra, þjónusta dagmæðra niðurgreidd frá níu mánaða aldri, inntöku barna á leikskóla var flýtt og inntökudögum fjölgað, frístundir barna niðurgreiddar um 25.000 krónur og ýmislegt fleira. Einn liður í þessu er að tryggja að við getum staðið við þá stefnu okkar að bjóða öllum börnum 18 mánaða og eldri leikskólapláss.“ Talað er um í fundargerðinni að biðlistar gætu myndast um næstu áramót ef ekkert verður gert. Hvenær má búast við því að framkvæmdir hefjist og að deildin verði tilbúin til notkunar? „Við vinnum þetta eins hratt og við getum. Það eru komnar aðalteikningar sem verið er að útfæra. Framkvæmdin er komin í grenndarkynningu og byggingaleyfi fæst ekki fyrr en að því loknu. Við vonumst til að geta boðið þetta út seinnipartinn í apríl og framkvæmd gæti þá hafist um mánaðamótin apríl og maí. Ef allt gengur eftir vonumst við til að geta tekið deildina í notkun snemma á næsta ári,“ segir Elliði. Ef sú staða kemur upp að ekki verður hægt að taka ný 18 mánaða börn inn um áramótin, er þá einhver önnur tímabundin lausn í stöðunni? „Við höfum möguleika á að fjölga eitthvað plássum í leikskólunum eins og þeir eru núna en vonandi reynir ekki á það,“ segir Elliði. Einnig er minnst á í fundargerðinni að leitað verði samninga við Hjallastefnuna um að áfram verði miðað við aukinn fjölda á Sóla eða 1.103 dvalargildi, líkt og gert hefur verið upp á síðkastið. Hvað er stefnt á að auka mikið við fjöldann á Sóla á næstu misserum? „Við erum þessa dagana í viðræðum við Hjalla og of snemmt að segja til um það. Við erum mjög ánægð með þjónustu beggja leikskóla og teljum jákvætt að hafa ákveðna fjölbreytni í rekstrarformi og faglegum áherslum. Það er hinsvegar of snemmt að segja til um hver lokafjöldi barna verður á Sóla á næstu misserum og hvernig skiptingin verður þarna á milli,“ segir Elliði að lokum.    

Ársreikningur Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2016

Samkvæmt ársreikningi Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2016 voru heildar rekstrartekjur samstæðu Vestmannaeyjabæjar 4.661 m.kr. og rekstrargjöld fyrir afskriftir og fjármagnsliði námu 4.218 m.kr. Rekstrarafkoma samstæðu var jákvæð um tæpar 417 milljónir. Ársreikningur Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2016 ber það með sér að rekstur Vestmannaeyjabæjar gengur vel. Hjá aðalsjóði var veltufé frá rekstri 815 milljónir og hjá samstæðu Vestmannabæjar var veltufé frá rekstri rúmar 1.065 milljónir. Vestmannaeyjabær hefur á seinustu árum verið að greiða niður áratuga gamlar skuldir og er búinn að greiða niður skuldir og skuldbindingar fyrir u.þ.b. 5.353 milljónir síðan 2006 og hafa skuldir lækkað um rúmlega 90% á þessum tíma. Með reglulegum afborgunum mun Vestmannaeyjabær nálgast það að verða skuldlaus við lánastofnanir innan fárra ára. Lífeyrisskuldbinding Vestmannaeyjabæjar hefur hins vegar hækkað mikið undanfarin ár og var gjaldfærslan árið 2016 um 473 milljónir hjá samstæðu Vestmannaeyjabæjar og nam hún 10,1% af heildartekjum Vestmannaeyjabæjar.  Þrátt fyrir mikla hækkun lífeyrisskuldbindinga hefur skuldahlutfall sveitarfélagsins eins og það er skilgreint í 64 gr. sveitarstjórnarlaga lækkað á milli ára hjá samstæðunni en lítilega hækkað á milli ára hjá A-hlutanum. Í lok árs 2016 stóð skuldahlutfallið í 123,2% hjá A-hlutanum og skuldaviðmiðið var 14,4%. Hjá samstæðunni var skuldahlutfallið 106,4% og skuldaviðmiðið 11,7%. Hámarks skuldahlutfall skv. sveitarstjórnarlögum er 150 %. Heildareignir samstæðu Vestmannaeyjabæjar námu 11.831 m.kr. í árslok 2016, þar af stóð handbært fé og skammtímafjárfesting í 3.248 milljónum og hækkaðu þessir liðir um 520 milljónir á milli ára. Allar kennitölur í rekstri sýna sterka og góða fjárhagsstöðu Vestmannaeyjabæjar. Veltufjárhlutfall sveitarsjóðs er 4,15 og eiginfjárhlutfallið er 53,9%. Veltufjárhlutfall samstæðu er 7,38 og eiginfjárhlutfall þess 58,1%. Rekstur sveitarfélags er eins og rekstur fjölskyldu. Allri innkomu er varið til að bæta lífsgæði íbúa og tryggja þeim farsæld til lengri og skemmri tíma. Það skiptast sannarlega á skin og skúrir og svigrúmið til  að mæta ýtrustu kröfum bæjarbúa er breytilegt. Ætíð skiptir þó sköpum að kjörnir fulltrúar hafi kjark til að taka ákvarðanir sem um tíma kunna að vera umdeildar. Að hagræða til að mæta breyttum kröfum en þenja ekki stöðugt út reksturinn jafnvel þótt tíma bundið kunni að vera sigrúm til þess. Að eyða um efni fram án fyrirhyggju felur feigðina í sér. Hlutverk kjörinna fulltrúa er fyrst og fremst að tryggja langtíma velferð þess samfélags sem þeim er treyst til að gæta og það er best gert með því að koma í veg fyrir óhóflega skuldasöfnun og tryggja hámarks þjónustu á sem hagkvæmasta máta. Niðurstaða ársreiknings Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2016 er til marks um þetta leiðarljós bæjarstjórnar og henni fyrst og fremst hvatning til að gæta þess áfram að missa ekki tökin á skulda og útgjaldahliðinni. Vandaður rekstur er það sem best tryggir öfluga og góða þjónustu.   -Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum    

Hef alltaf haft mikinn áhuga á söng

Birta Birgis er 17 ára Vestmannaeyingur sem fluttist til Reykjavíkur fyrir um þremur árum síðan. Þrátt fyrir að vera ung að árum hefur Birta tekið þátt í hinum ýmsu verkefnum með Leikfélagi Vestmannaeyja, reynt fyrir sér í raunveruleikaþáttum á borð við The Voice og sungið á Þjóðhátíð. Í dag er hún í námi í Menntaskólanum við Sund og fer með aðalhlutverk í söngleiknum LEG sem var frumsýnt í Gaflaraleikhúsinu sl. þriðjudag. Um er að ræða alíslenskan grínsöngleik eftir Hugleik Dagsson í uppsetningu Thalíu, leikfélags skólans. Blaðamaður ræddi við Birtu um söngleikinn og lífið í MS.   „Ég var í Leikfélagi Vestmannaeyja og þar tók ég þátt í uppsetningu á Allt í plati, Jólaleikritinu, Grease og Galdrakarlinum í Oz. Svo hef ég tekið þátt í alls kyns öðruvísi sýningum, t.d. í Skrekk í 9. og 10. bekk, Jólagestum Björgvins í 8. bekk og núna í fyrra, svo var ég líka í kór þegar ég var yngri. Síðan hef ég sungið víða en ég var t.d. í The Voice, Ísland got talent, Söngkeppni Samfés, Reykjavík got talent, Jólastjörnunni og Söngvakeppni barna á Þjóðhátíð svo eitthvað sé nefnt,“ segir Birta um fyrri störf. Hefur þú alltaf haft áhuga á að leika og syngja? „Ég hef alltaf haft rosalegan áhuga á söng, bara alveg síðan ég man eftir mér, en leiklistin kom seinna inn hjá mér, svona í kringum 4. til 5. bekk.“   Leiklistin hafði áhrifum val á skóla Er mikil söngleikjahefð í Menntaskólanum við Sund og ef svo er hafði það áhrif á val þitt á skóla? „Já það hafa verið söngleikir í MS í fjöldamörg ár, alltaf einn söngleikur á hverju námsári. Krakkarnir í fyrra sýndu t.d. Rokk aldarinnar í Hörpu sem náði miklum vinsældum. Leiklistin hafði að sjálfsögðu einhver áhrif á val mitt á framhaldsskóla, ég setti MS í fyrsta sæti, aðallega því ég bý í göngufæri við hann og ég hafði heyrt svo rosalega góða hluti um félagslífið þar, einnig fannst mér námið og brautin sem ég valdi henta mér vel. Svo setti ég leiklistarbraut í FG í annað sæti. Ég var mjög mikið að pæla í Verzló líka en áttaði mig svo á því að það var ekki námsefni þar sem höfðaði til mín. MS er bara fullkominn skóli fyrir mig, algjörlega. Þetta nýja þriggja anna kerfi hentar mér rosalega vel og er ég einnig í stjórninni í MS sem er mjög skemmtileg viðbót við félagslífið,“ segir Birta. Í söngleiknum leikur Birta hina 19 ára gömlu Kötu sem uppgötvar á afmælisdaginn sinn að hún er ólétt. Hvernig undirbýr maður sig fyrir svona hlutverk? „Kata er alls ekki lík mér og þurfti ég að pæla mikið í þessu og æfa mig vel. Kata er dóttir ríkasta manns Íslands, Ara, sem er forstjóri Globofist á Íslandi. Globofist er semsagt stórfyrirtæki sem eiginlega bara stjórnar heiminum og er hinn illi Andrew Loyd forstjóri Globofist um allan heim. Kata er algjör dekurdrottning og er ofdekraðasti unglingur í heimi. Hún er bara hreint út sagt algjör tík og hugsar bara um sinn eigin hag og bestu vinkonu sinnar, Ingunnar, sem hún elskar útaf lífinu. En það er kannski ekkert skrýtið að hún sé þessi týpa, hún hefur alist upp við að fá allt upp í hendurnar og svo eru foreldrar hennar bara ömurlegir og þá sérstaklega mamma hennar, Vala, sem er að fara að keppa í The Bachelor sem er raunveruleikasjónvarpsþáttur,“ segir Birta.   Þakklát fyrir tækifærið Birta segist vera þakklát fyrir að fá þetta tækifæri sem er bæði skemmtilegt og erfitt. „Persónulega finnst mér ég bara rosalega heppin með hlutverk, leikritið er eftir Hugleik Dagsson/ Hulla sem flestir ættu að kannast við. Nafnið Hulli lýsir leikritinu bara nokkuð vel, það er stórfurðulegaskemmtilegaóvenjulegt. Það er margt sem ég sleppi við að gera sem lendir þá á öðrum í leikhópnum, þá er ég að tala um að stunda kynlíf með ristavél, kúka á sig á sviðinu, vera í smokkabúning og margt, margt fleira fyndið sem gæti samt verið óþægilegt að leika fyrir framan fullan sal af fólki. En hins vegar eru held ég bara sex senur af 48 sem ég er ekki í sem er rosalega mikið. Þetta hefur verið mjög mikil vinna leiklistarlega, sönglega og danslega séð. Ég syng í rúmlega sjö lögum og er hvert einasta lag er svaka show og eru lögin öll rosalega fjölbreytt, þetta er allt frá dauðarokki í línudans og eru flest lögin bara hreint út sagt mögnuð og eru metnaðarfullir dansar í hverju einasta lagi. Öll lögin eru eftir hljómsveitina Flís, danshöfundur er Cameron Corbett og er verkið í leikstjórn Stefáns Benedikts Vilhelmssonar.“   Óvenju stórt fyrir nýnema Þú ert nýnemi á þessu skólaári, er ekkert óvenjulegt að þeir fái aðalhlutverk í svona verkefnum? „Vanalega eru það eldri nemendur sem fá stóru hlutverkin, jú. Mamma Kötu, pabbi hennar og bróðir eru til dæmis öll leikin af eldri krökkum en ég, en ég meina, þetta er bara gaman og þetta kom mér bara á óvart að vera boðið þetta stóra, spennandi hlutverk,“ segir Birta. Er eitthvað fleira sem er á döfinni hjá þér? „Ég æfi handbolta og hef gert það síðan ég var sirka sjö ára, var í ÍBV en er núna með Fram. Upp á síðkastið hef ég verið í pásu í handboltanum frá því að strangar æfingar byrjuðu fyrir söngleikinn en ég stefni á að skella mér á æfingu beint eftir leikritið. Svo er ég að bjóða mig fram í Thalíu sem er leiklistarnefnd skólafélagsins í MS og vonast ég til að vinna þær kosningar og geta þannig haft enn meiri áhrif á söngleik komandi skólaárs. Svo koma bara allskyns verkefni, hvert á fætur öðru sem ég leysi með gleði og bros á vör,“ segir Birta að lokum.    

Flugslysaæfing á Vestmannaeyjaflugvelli um næstu helgi

Samkvæmt alþjóðasamningum og íslenskum lögum þá ber rekstraraðilum alþjóðaflugvalla að halda reglulega viðamiklar viðbragðsæfingar. Svokallaðar flugslysaæfingar hafa verið haldnar á öllum íslenskum áætlunarflugvöllum á fjögurra ára fresti undanfarin ár. Í ljósi íslenskra aðstæðna voru þessar æfingar frá upphafi reknar á almannavarnarstigi, það er allar þær einingar sem skráðar eru sem viðbragðsaðilar í almannavarnarskipulagi aðliggjandi bæjarfélags eru þátttakendur í þessum æfingum. Um næstu helgi eða þann 8. apríl verður haldin flugslysaæfing á Vestmannaeyjaflugvelli. Þetta er í fimmta skipti sem haldin er slík æfing á Vestmanneyjaflugvelli síðan þetta skipulag var tekið upp. Til þess að líkja eftir slysi er búinn til vettvangur þar sem bílflökum, gámum og ýmsu öðru er komið fyrir og síðan er um tuttugu „slösuðum“ komið fyrir á og nærri vettvangi. Þetta eru ungmenni sem hafa verið förðuð þannig að þau líti út sem slösuð. Einnig eru eldar kveiktir í dóti á svæðinu og í heild er verið að líkja eftir slysavettvangi. Flugturninn boðar síðan aðgerðir í gegnum Neyðarlínuna sem boðar alla vettvangsaðila í Eyjum til starfa auk hundruð manna á fastalandinu (sem eiga þó ekki að mæta). Viðbragðsaðilar mæta í kjölfarið, hlúa að slösuðum og síðan eru þeir fluttir í flugstöð til frekari skoðunar, aðhlynningar og flutnings áfram á sjúkrahús uppi á landi. Í framhaldi er æfingunni slitið. Þeir sem boðaðir eru í Eyjum er Björgunarfélagið, slökkvilið bæjarins, sjúkrahús- og heilsugæsla, lögreglan, Rauði krossinn, fólk frá Vestmannaeyjabæ, starfsfólk flugfélags og starfsmenn Isavia, alls vel á annað hundrað talsins. Það er því rétt að vara bæjarbúa við því að þótt mikið kunni að ganga á uppi á flugvelli á laugardeginum komandi og bílar sjáist með blikkandi ljósum og eldar logi þá er um æfingu að ræða og engin ástæða til ótta.   Með þökk fyrir samvinnuna. Bjarni Sighvatsson-Flugvalladeild Isavia.  

Fundur bæjarráðs 7. apríl

Bæjarráð Vestmannaeyja - 3047. Fundur haldinn í fundarsal að Bárustíg 15 efri hæð, 6. apríl 2017 og hófst hann kl. 12.00       Fundinn sátu: Páll Marvin Jónsson formaður, Elliði Vignisson bæjarstjóri, Trausti Hjaltason aðalmaður, Stefán Óskar Jónasson aðalmaður, Birna Þórsdóttir varamaður og Auður Ósk Vilhjálmsdóttir varamaður.   Fundargerð ritaði: Rut Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs   Endurskoðendur KPMG, Helgi Nielssen og Magnús Jónsson mættu á fundinn og kynntu ársreikninginn. Einnig sátu Jón Pétursson, Ólafur Snorrason og Magnús Þorsteinsson fundinn við umræðu um ársreikninginn. Að máli loknu véku gestir af fundi.     Dagskrá:   1. 201701083 - Ársreikningur Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2016   Á fundinn komu Helgi Níelsson og Magnús Jónsson endurskoðendur KPMG og fóru yfir ársreikningin og endurskoðunarskýrsluna.       Bæjarráð þakkar endurskoðendum fyrir yfirferðina og vel unnin störf við gerð ársreikningsins. Bæjarráð vísar ársreikningi Vestmannaeyjabæjar og stofnana vegna ársins 2016 til fyrri umræðu í bæjarstjórn síðar í dag.       2. 201704057 - Sala á Kap VE-41 í eigu Vinnslustöðvarinnar.   Erindi frá VSV 23. mars s.l. þar sem Vestmannaeyjabæ er boðið forkaupsréttur að Kap VE.41 í samræmi við ákvæði 12.gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða.   Erindi frá VSV dags. 23. mars s.l. þar sem Vestmannaeyjabæ er boðið forkaupsréttur að Kap VE. í samræmi við ákvæði 12.gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Í erindinu kemur fram að skipið sé selt ásamt öllu fylgifé, tækjum og búnaði sem skipinu fylgir og tilheyrir. Skipið hefur leyfi til veiða í atvinnuskyni en engin aflahlutdeild eða aflamark eða aðrar veiðiheimildir munu fylgja skipinu við söluna.   Bæjarráð þakkar VSV fyrir upplýsingarnar og tilboð um forkaupsrétt þann sem kveðið er á um í lögum um stjórn fiskveiða í þeim tilgangi að skapa sátt um sjávarútveg. Bæjarráð telur hinsvegar ekki forsendur fyrir því að nýta forkaupsréttinn í þessu tilviki og fellur því frá honum.     3. 201702092 - Bókagjöf Ágústar Einarssonar til Bókasafns Vestmannaeyja.   Erindi frá Arnari Sigurmundssyni, Kára Bjarnasyni og Helga Bernódussyni dags.25.mars s.l. varðandi hugmyndir/tillögur um Menningarsafn og hátíðarsal í Ráðhúsi Vestmannaeyja.   Í erindinu er lagt til að sérstaklega verði skoðað að nýta gamla sjúkrahúsið sem seinustu ár hefur verið nýtt undir bæjarskrifstofur sem nokkurskonar blöndu af viðhafnarsal sveitarfélagsins og fágætissafns. Í hugmyndinni er sérstaklega bent á að vel færi á að nýta húsið undir fágætissafn Ágústar Einarssonar, valin listaverk í eigu Vestmannaeyjabæjar svo Kjarvalssafnið, Sigmundssafnið, valið efni úr ljósmyndasafni Sigurgeirs Jónassonar og ljósmyndasafni Vestmannaeyja. Þá yrði þar komið fyrir virðulegum móttökusal fyrir Vestmannaeyjabæ og íbúa.   Bæjarráð er jákvætt fyrir þeim hugmyndum sem fram koma í erindinu og felur bæjarstjóra að skila minnisblaði til ráðsins þar sem hugmyndinni er stillt upp sem verklegri framkvæmd. Þá samþykkir ráðið að taka til sérstakrar umfjöllunar framtíðarstaðsetningu bæjarskrifstofa þegar minnisblað bæjarstjóra liggur fyrir.     4. 201704070 - Ósk um afnot af sal í Félagsheimilinu við Heiðarveg (Kviku) til tónleikahalds.   Erindi frá Mosfellskórnum í Mosfellsbæ dags. 13. mars s.l. þar sem óskað er eftir afnotum af sal í Félagsheimilinu við Heiðarveg til tónleikahalds laugardaginn 20. maí n.k. kl. 17.00   Bæjarráð er jákvætt fyrir erindinu og felur bæjarstjóra að svara bréfritara.     5. 200708078 - Trúnaðarmál lögð fyrir bæjarráð     Afgreiðsla trúnaðarmála er færð í sérstaka trúnaðar-og samningamálafundargerð.                 Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14.10  

Alþjóðlegur heilbrigðisdagur gegn þunglyndi

Í Fréttablaðinu í dag er eftirfarandi grein eftir Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra í tilefni alþjóðaheilbrigðisdagsins 7. apríl sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin helgar að þessu sinni þunglyndi. Stofnunin áætlar að yfir 300 milljónir manna eigi við þunglyndi að etja og efnir í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu til herferðar gegn þunglyndi sem á að standa í heilt ár.   „Þunglyndi! Tölum um það.“ Þetta eru skilaboð Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) á alþjóðaheilbrigðisdeginum 7. apríl sem að þessu sinni er helgaður þunglyndi og hvernig við getum spornað við þunglyndi og bætt aðstæður þeirra sem við það glíma.   Þunglyndi er ein af meginorsökum vanheilsu fólks og örorku um allan heim. WHO áætlar að yfir 300 milljónir manna eigi við þunglyndi að etja og að hlutfall þunglyndra hafi jafnframt hækkað um rúm 18% á árabilinu 2005 – 2015. Í ljósi þessarar alvarlegu stöðu hefur WHO ákveðið að efna til herferðar sem standa mun í heilt ár, undir yfirskriftinni: ,,Depression: let´s talk.“   Ég mæli með því að við gerum eins og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin leggur til. Tölum um þunglyndi, reynum að sporna við þunglyndi og styðjum þá sem þjást af því til að öðlast betra líf með viðeigandi úrræðum og þjónustu.   Hér á landi hefur margt verið gert til að opna umræðuna um þennan illvíga sjúkdóm sem svo lengi var þolendum og aðstendendum þeirra mikið feimnismál. Það hefur átt sér stað vitundarvakning, sem gerir það að verkum að fólk hefur opnað sig og ræðir nú opinskátt um veikindi sín. Slík umræða eyðir fordómum og opnar jafnframt augu almennings og ráðamanna fyrir því hve mikilvægt er fyrir samfélagið allt að þessi mál séu tekin alvarlega.   Eins og fram kemur í sáttmála ríkisstjórnarinnar og í nýrri fjármálaáætlun hennar er áhersla lögð á að bæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu, m.a. með fjölgun sálfræðinga í heilsugæslunni og með aðgerðum til að stytta bið eftir þjónustu göngudeildar Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans.   Við búum að því að eiga þingsályktun um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára sem samþykkt var á Alþingi á liðnu ári. Þar eru sett skýr markmið og áætlanir sem fylgja þarf fast eftir. Aukin vellíðan, betri geðheilsa landsmanna og virkari samfélagsþátttaka þeirra sem glíma við geðraskanir til skemmri eða lengri tíma, óháð búsetu er meginmarkmið þingsályktunarinnar. Að baki slíkri stefnu eigum við öll að geta staðið heilshugar.   Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra  

Fundur Framkvæmda- og hafnarráðs 5. apríl

Framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja - 202. fundur haldinn í fundarherbergi Umhverfis- og framkvæmdasviðs, 5. apríl 2017 og hófst hann kl. 16:30       Fundinn sátu: Sigursveinn Þórðarson formaður, Jarl Sigurgeirsson aðalmaður, Sæbjörg Snædal Logadóttir aðalmaður, Sindri Ólafsson aðalmaður, Stefán Óskar Jónasson aðalmaður og Ólafur Þór Snorrason framkvstj.sviðs.   Fundargerð ritaði: Ólafur Þór Snorrason, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs   Hafþór Halldórsson sat fundinn undir 1.máli     Dagskrá:   1. 201403012 - Framtíðarskipan sorpmála í Vestmannaeyjum   Hafþór Halldórsson kynnti fyrirhugaðar framkvæmdir við útisvæði og húsnæði endurvinnslustöðvarinnar við Eldfellsveg. Einnig kynnti hann athuganir á kaupum á hakkara og færiböndum sem miða að því að minnka rúmmál þess sorps sem flutt er frá Vestmannaeyjum. Hakkari af þeirri gerð sem hentar kostar um 45 milljónir með uppsetningu. Fram kom að fara þarf í hönnun og útboð á klæðningu á húsnæðinu og hönnun útisvæðis.   Ráðið samþykkir að festa kaup á hakkara og felur starfsmönnum sviðsins að fara í hönnun og útboð á klæðningu húsnæðis og útisvæði.     4. 200703124 - Blátindur VE 21   Fyrir liggur erindi frá Stefáni Ó Jónassyni þar sem óskað er upplýsinga um framgang Blátinds VE 21. "Hver er staða og framtíð Blátinds VE21? Fyrirspurn frá Stefáni Jónassyni, bæjarfulltrúa E-lista.   Elsta tréskip Vestmannaeyja Blátindur VE 21 er senn 70 ára, smíðaður her í Eyjum sem hluti af raðsmíði fiskiskipa fyrir tilstilli ríkisstjórnarinnar til endurnýjunar á fiskiskipaflota þjóðarinnar í stríðslok og var með stærstu og glæsilegurstu fiskiskipum í Vestmannaeyjum. Síðustu ár hefur báturinn verið í vörslu Vestmannaeyjabæjar, en því miður í algjörri vanhirðu. Öll veður, vatn og vindur eiga greiðan aðgang að bátnum, stýrishús, lestarlúga og lúkarkappi allt opið. Þrátt fyrir fjögurra ára gamalt verkplan og fjármögnun hefur ekkert gerst, því er spurt:   1. Hafa núverandi bæjarfulltrúar engan áhuga á athafnasögu Eyjanna? 2. Ef áhugi er á málinu, hvað tefur? 3. Er ekki staðsetning/"lægi" fyrir bátinn löngu samþykkt? 4. Er ekki 2 milljón króna fjármögnun löngu tryggð eða hefur henni verið varið í annað? 5. Ef bæjarfulltrúar eru ekki stoltir af athafnasögu staðarins vinsamlega gefið´þá Blátind VE 21 þangað sem menn kunna að meta verk forvera sinna, má þar til dæmis nefna Síldarminjasafniðá Siglufirði eða Byggðasafn Akraness.     Fulltrúar D-lista bóka: Málefni Blátinds hafa margoft komið til umræðu í framkvæmda- og hafnarráði undanfarin ár og fjármagn tryggt í þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru. Fulltrúa minnihlutans er fullkunnugt um þær umræður og þær ákvarðanir sem teknar hafa verið. Það hefur ekki staðið á meirihluta framkvæmda- og hafnarráðs að ýta þessu verkefni áfram en tafir vegna annríkis verktaka hafa verið meiri en hægt er að sætta sig við. Fyrir liggur að fjármagn í verkefnið er tryggt og búið er að ákveða staðsetningu á lægi Blátinds. Meirihluti framkvæmda- og hafnarráðs samþykkir að fela framkvæmdastjóra að ræða við verktakann og ef fyrir liggur að hann nái ekki að klára verkefnið fyrir maílok 2017 þá leiti framkvæmdastjóri til annarra verktaka með verkefnið. Sigursveinn Þórðarson (sign) Jarl Sigurgeirsson (sign) Sindri Ólafsson (sign) Sæbjörg Logadóttir (sign)     5. 201704004 - Skemmdir í leiklaug útisvæðis Íþróttamiðstöðvar   Farið yfir skemmdir sem hafa orðið á flísum á leiklaug. Fram kom í máli framkvæmdastjóra að sérpanta þarf flísarnar og 4-6 vikna afgreiðslufrestur.     6. 201704007 - Öryggissvæði við Hásteinsvöll   Framkvæmdastjóri kynnti viðræður við ÍBV vegna öryggissvæðis við Hásteinsvöll, sem skilyrt er í keppnisleyfi vallarins og leiðir til úrbóta.   Ráðið samþykkir að leggja mön vestan megin Hásteinsvallar og felur framkvæmdastjóra framgang málsins í samráði við ÍBV.     7. 201704006 - Gervigras á sparkvelli   Lagt fram tilboð frá Altis vegna útskiptingar á gervigrasi á sparkvöllum við Hamarsskóla og barnaskóla. Um er að ræða nýjustu kynslóð gervigrass án gúmmifyllingar. Kostnaður vegna útskiptingar er um 11 milljónir króna.   Ráðið samþykkir fyrirliggjandi tilboð og felur starfsmönnum framgang verksins.     8. 200706121 - Tjaldsvæði við Þórsheimili   Kynntar voru hugmyndir að áframhaldandi færslu tjaldsvæðis við Þórsheimili. Fyrirhugað er að stækka flöt í norður, vestan megin við fjölnota íþróttahúsið.   Ráðið samþykkir stækkun.     2. 201610062 - Fráveita frá Botni að útrás Eiði   Fyrir lá verkfundagerð nr.3 frá 30.mars 2017.   Ráðið samþykkir fyrirliggjandi verkfundagerð     3. 201606074 - Dalhraun 3 - Hraunbúðir viðbygging   Fyrir liggur verkfundagerð nr.8 frá 14.mars 2017   Ráðið samþykkir fyrirliggjandi verkfundagerð                 Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:50  

Kröftug barátta heldur áfram

 Að gefnu tilefni vill undirrituð svara grein Ragnars Óskarssonar sem birtist í síðustu Eyjafréttum. Þar segir: ,,Í mótmælunum bar mest á hetjulegri framgöngu margra forystumanna Sjálfstæðisflokksins í bænum og í máli sínu hlífðu þeir ekki ríkisstjórninni sem þá sat við völd.” Og ,,Þeir sem hæst töluðu í mótmælunum hafa einhverra hluta vegna hvorki haft hátt síðan né mótmælt framkomu stjórnvalda nú eins kröftuglega og sköruglega sem þá.” Þar er Ragnar væntanlega að vitna í ræður undirritaðrar og bæjarstjórans, Elliða Vignissonar. Ég þakka Ragnari hólið en vil vingjarnlega benda honum á eftirfarandi atriði: Fulltrúar bæjarins hafa ítrekað fundað með heilbrigðisyfirvöldum. Bæjarstjóri og bæjarfulltrúar hafa ítrekað fundað með starfsfólki heilbrigðisráðuneytis og nú síðast á þessu ári með nýjum heilbrigðisráðherra, Óttari Proppé til að reyna að koma embættismönnum í skilning um að þær aðstæður sem við búum við hvað þessi málefni varðar séu með öllu óásættanlegar og sérstaklega í ljósi niðurstöðu faghóps sem skipaður var af þáverandi heilbrigðisráðherra sem komst að þeirri samróma niðurstöðu að halda ætti úti sólahringsvakt í skurðþjónustu í Vestmannaeyjum.   Bæjarstjórn hefur mótmælt ástandinu kröftuglega Bæjarstjórn og bæjarráð Vestmannaeyja hafa barist hatrammlega gegn lokun skurðstofunnar og hafa ítrekað sent frá sér ályktanir um stöðu heilbrigðisþjónustu í sveitarfélaginu og þær hörmulega aðstæður að ekki sé tiltækur svæfingalæknir né skurðlæknir á sólahringsvakt líkt og í tugi ára áður. Þetta höfum við gert óháð því hvernig ríkisstjórn hefur verið skipuð enda berjumst við fyrir hagsmunum Eyjamanna fyrst og fremst.   Vestmannaeyjabær bauðst til að reka heilbrigðisþjónustuna Vestmannaeyjabær bauðst fyrir sameiningu Heilbrigðisstofnunarinnar í Vestmannaeyjum við HSU að taka yfir rekstur stofnunarinnar og tryggja hagræðingu og þannig rekstur skurðstofunnar. Þeirri viðleitni sveitarstjórnarinnar til að viðhalda ásættanlegu heilbrigðisþjónustustigi var því ver og miður hafnað af þáverandi heilbrigðisráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni.   Opinber gagnrýni bæjarfulltrúa óháð stjórnarflokkum Undirrituð hefur persónulega sent frá sér fjölda greina og fyrirspurnir á ýmsa fjölmiðla þar sem mótmælt hefur verið og gagnrýndar harðlega þær aðstæður sem okkur er boðið upp á og þar skiptir ekki og mun ekki skipta máli hvaða ríkisstjórn er við völd. Hagsmunir sveitarfélagsins og íbúa þess munu ávallt og eiga ávallt að vera bæjarfulltrúum, hverjir svo þeir eru hverju sinni, efst í huga en ekki flokkspólitískar taugar. Ekki rekur mig minni til þess að hafa heyrt Ragnar gagnrýna niðurskurð ríkistjórnar VG og Samfylkingarinnar en engin ríkisstjórn síðustu tíma hefur gengið harðar fram í niðurskurði í heilbrigðiskerfinu en sú ríkisstjórn. Því er sú staðhæfing Ragnars að bæjarfulltrúar hafi hvorki haft hátt né mótmælt framkomu stjórnvalda með öllu kolröng. Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur og mun halda áfram sínum hörðu mótmælum gegn þessu óviðunandi ástandi á hvaða vettvangi sem er. Það kann að koma Ragnari á óvart en í dag er það frekar algengt að fólk sinni sveitarstjórnarmálum fyrst og fremst til að bæta hag bæjarbúa frekar en að berjast fyrir hagsmunum síns flokks. Það á við bæði um meiri- og minnihluta núverandi bæjarstjórnar.   Ábyrgðin er ríkisvaldsins Bæjarstjórn ber illu heilli ekki ábyrgð á né hefur valdsvið yfir heilbrigðismálum sveitarfélagsins. Heilbrigðisþjónusta er alfarið á ábyrgð ríkisvaldsins. Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur hinsvegar boðið í rekstur bæði samgangna og heilbrigðismála sveitarfélagsins, sem eru vissulega þeir málaflokkar sem mest á hallar og eiga það sammerkt að vera á ábyrgð ríkisins, og þar með reynt að fara langt umfram sínar opinberar skyldur en ekki hlotið erindi sem erfiði. Það er sárgrætilegt að þeir aðilar sem bera ábyrgð á þessum málaflokkum hafa að mörgu leyti ekki haft skilning á þeirri þjónustu sem er sveitarfélaginu nauðsynleg. Bæjarstjórn Vestmannaeyja mun hvergi hvika frá þeim kröfum að skurðstofa verði aftur starfrækt í Vestmannaeyjum.   Vestmannaeyjabær mun halda áfram að mótmæla því þegar hið opinbera skerðir þjónustu við sveitarfélagið sem því er nauðsynleg, líkt og það gerði nýlega þegar ISAVIA ohf. sagði upp 2 stöðugildum á Vestmannaeyjaflugvelli, og skerti þar með þjónustu við bæjarbúa og enn einu sinni skal opinberum störfum fækkað á landsbyggðinni. Þessu mótmælti Ragnar Óskarsson einnig í grein á eyjar.net þó hann hafi reyndar látið vera að taka það fram að hann átti sæti í stjórn ISAVIA ohf. þegar ákvörðun um þessa aðgerð var tekin. Virðingarfyllst Hildur Sólveig Sigurðardóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum

Bertha Þorsteinsdóttir er Eyjamaður vikunnar: Tala skýrt og hátt, hafa trú á því sem er verið að flytja

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Stjórnmál >>

Greinar >>

Kári Bjarnason, forstöðumaður Safnahúss skrifar: Knattspyrnuveislan að hefjast

Um helgina hefst sjálft knattspyrnuárið í efstu deild. Föstudaginn 28. apríl kl. 18:00 er komið að fyrsta leiknum er kvennaliðið okkar fær erkifjendurna KR í heimsókn en karlarnir, sem einnig eiga sinn fyrsta leik heima, mæta Fjölni sunnudaginn 30. apríl kl. 17:00. Ég hvet lesendur blaðsins til að fjölmenna á leiki ÍBV í sumar og njóta þeirra töfra sem búa í knattspyrnunni. Einfaldast er að kaupa árskort á kvennaleikina sem kosta aðeins 10.000 og ganga í stuðningsmannaklúbb karlanna fyrir 2.500 á mánuði. Undanfarin sumur hef ég mætt á flesta heimaleiki karla og kvenna og ég viðurkenni að ég sakna fleiri áhorfenda á kvennaleikina. Að mínu mati hafa leikirnir í kvennaknattspyrnunni almennt verið skemmtilegri en karlaleikirnir síðustu sumur. Fyrir einstakling sem spilar ekki nema með hjartanu er stórkostlegt að upplifa leik eftir leik þar sem heilt lið er sameinað í að gefast aldrei upp, elta alla bolta, fara í öll návígi, gleðjast þegar vel gengur, þjappa sér saman þegar á móti blæs og berjast og berjast. Ef þessi baráttuandi verður einnig til staðar hjá körlunum í sumar geta þeir komist ansi langt. En mér hefur fundist sem karlaknattspyrnan hafi verið kaflaskiptari. Stundum hefur að vísu verið hrein unun að horfa á karlaleikina, eins og dáleiddur stendur maður handan við girðingu og sér sóknirnar bylja á andstæðingnum eins og fárviðri standi yfir. Aðra stundina ólgar reiðin innra þegar leikmenn virðast veigra sér við að fara í sókn og dóla í þess stað endalaust á miðjunni. Óafmáanleg er minningin frá 93. mínútu í leik við Val fyrir fáeinum árum, við erum undir 0:1 og eigum innkast á vallarhelmingi andstæðingsins. En ónefndur leikmaður ÍBV lullar á eftir boltanum til að taka innkastið í stað þess að hlaupa. Á þjálfarabekk heyrist mjóróma væl sem engu breytir og tíminn rennur út. Stundir sem þessar líða illu heilli seint úr minni.   Fegurð þessa stórfenglega leiks Miklar tilfinningar eru þannig fylgifiskur knattspyrnuáhorfs. Að sjá Cloe þjóta upp völlinn með boltann límdan við lappirnar eða Sigríði Láru standa sem klettur á miðjunni eða Kristínu Ernu skyndilega komna á auða svæðið fyrir framan markið gefur gleði sem er líklega samstofna þeirri sem vímuefnaneytendur leita uppi alla tíð. Það stórkostlega við knattspyrnuna er að það þarf aldrei að renna af manni, alltaf einhvers staðar er verið að spila og með nútímatækni má vel una sér við að horfa á leiki í beinni útsendingu hvar og hvenær sem andinn grípur mann. Ég fór og fékk box á stærð við hálfan fótbolta. Með því undratæki er ég kominn með á annað hundrað knattspyrnustöðva hvaðanæva að úr veröldinni og þó þulir gargi á arabísku, grísku eða kínversku haggar það ekki við fegurð þessa stórfenglega leiks.   Mætum snemma Knattspyrnusýki er sem betur fer ólæknandi sjúkdómur. Ég hvet lesendur til að mæta snemma á völlinn, talsvert fyrir leik. Það er einfaldlega ekkert sem toppar að standa handan girðingar og sjá byrjunarliðið þitt vera að hita upp, taka eftir eða þykjast taka eftir hverjir ætla að nýta tækifærið, hvernig stemningin er í hópnum, sjá ný andlit og verða allt í einu snortinn af einhverju sem þú hefur ekki tekið eftir áður. Þannig leið mér þegar ég sá Gústa hið fyrst sinnið og svo get ég aldrei gleymt samlanda hans sem ég hlakkaði svo ósegjanlega til að sjá spila meira og meira. Í dag man ég ekki lengur nafnið hans. Aðeins stendur eftir minning af dásamlegri leikni í undirbúningnum og leiftrandi hraðabreytingum í örfáum sóknum sem ég sá hann leika.   Abel var engin hugarsýn Stundum hvarflar að mér að hann hafi verið hugarsýn fremur en raunverulegur einstaklingur, draumur á borð við brasilíska landsliðið sem handan við vökulífið er ennþá með Vava, Didi, Pele og hinn óviðjafnanlega Garincha innanborðs – þar til þú vaknar. En svo man ég aðra sem klárlega voru staðreynd og eru því miður horfnir á brautu. Abel var t.d. engin hugarsýn. Hann gat bæði heillað með sínum stóru höndum og kramið hjarta manns með á stundum óþarflega djörfum úthlaupum. Ég mun heldur aldrei gleyma því þegar ég horfði á hann eitt sinn taka snúning fyrir leik með nokkrum samherjum. Hvílík boltatækni, ætli hann hafi verið útileikmaður einhvern tíma? Svona renna saman myndir af gleði og sorg leiksins, ógleymanlegum einstaklingum sem heilla og ungum strákum sem maður sér að eru farnir að berja á dyrnar að byrjunarliðinu. Knattspyrnan er í senn andartakið þar sem einstaklingsframtakið blossar og eilífð þar sem herfræðileg list þvingar alla í liðinu til að vinna saman sem þar færi aðeins einn maður, ein sál og tíminn leysist upp. Sá sem leitar gleðinnar á að arka út á Hásteinsvöll. Mætið á kvennaleikina algjörlega til jafns við karla- leikina. Mætið helst vel fyrir leik. Njótið og hvetjið. ÍBV á vonandi eftir að eiga gott sumar bæði í karla- og kvennaknattspyrnunni.   Gleðilegt knattspyrnusumar.