Óskar Ólafsson er matgæðingur vikunnar - Búri með pistasíusalsa með sojasmjörsósu og sætkartöflumús

Óskar Ólafsson er matgæðingur vikunnar - Búri með pistasíusalsa með sojasmjörsósu og sætkartöflumús

Ég þakka Hörpu kærlega fyrir áskorunina og ætla bjóða ykkur upp á frábæran fiskrétt.
 
Sætkartöflumús
• ca 5-600 gr sætar kartöflur,
skrældar og skornar í bita
• 1-2 kartöflur, skrældar
og skornar í bita
• 1/2 rautt chili, fræhreinsað
• safi úr 1/2 límónu (lime)
• ca 1 msk smjör
• salt og pipar
Kartöflur og sætar kartöflur skrældar og skornar í svipað stóra bita. Þær eru svo settar í pott og vatn rétt látið fljóta yfir. Chili skorið í tvennt langsum, fræin hreinsuð úr og því svo bætt út í pottinn. Til að fá bragðsterkari kartöflumús er hægt að saxa chili smátt. Límónusafa bætt út í pottinn. Suðan látin koma upp og soðið í 15-20 mínútur eða þar til að kartöflurnar eru orðnar mjúkar. Vatninu helt af og chili (ef það er í heilu) fjarlægt. Kartöflurnar stappaðar fínt með smjöri og bragðbættar með salti, pipar og jafnvel meiri límónusafa. Til að skerpa á hitanum á sætkartöflumúsinni er hún sett í pott og hituð upp við meðalhita, hrært í á meðan.
 
Búri með pistasíusalsa
• ca 600 gr Búri eða hvaða
fiskur sem er
• salt og pipar
• 3-4 msk pistasíuhnetur, saxaðar
(má líka nota furuhnetur)
• 3 msk sítrónusafi og rifið hýði
af 1/2 sítrónu
• 1 msk olífuolía
• ca 1 dl fersk steinselja, söxuð
• 1/4 – 1/2 rautt chili, fræhreinsað og fínsaxað
 
Ofninn hitaður í 220 gráður. Búrinn skorinn í bita og þeim raðað í smurt eldfast form. Kryddað með salti og pipar. Því næst er blandað saman í skál: pistsíuhnetum, sítrónusafa, sítrónuhýði, steinselju, chili og ólífuolíu. Blöndunni er dreift yfir fiskinn. Bakað í miðjum ofni við 220 gráður í ca 12-15 mínútur eða þar til fiskurinn er fulleldaður. Gætið þess að ofelda hann ekki.
 
Sojasmjörsósa
• 3 msk smjör
• 1 skarlottulaukur (hægt að nota 1/2 rauðlauk), saxaður fínt
• 1 hvítlauksrif, saxað fínt
• 1 tsk rautt chili, saxað fínt
• 2-3 msk sojasósa
• 1 msk steinselja, söxuð smátt
 
Smjör brætt í potti og látið krauma við fremur vægan hita í ca 15 mínútur þannig að smjörið verði brúnt. Froðan veidd af smjörinu. Lauk, hvítlauk, sojasósu, chili og steinselju blandað saman í skál og blandað út í smjörið rétt áður en sósan er borin fram. Njótið gjarnan með góðu hvítvínsglasi!
 
Ávaxtaeftirréttur
Skera niður 2 stk banana og 3 epli 100 gr súkkulaði 100 gr döðlur, sett í eldfastmót. 50gr sykur + 1 egg hrært saman og svo er bætt við 50gr kókos 40gr hveiti, 1tsk ger. Það er svo dreift yfir ávextina og smá púðursykur yfir allt samna. Sett í ofn á 150 í klst.
 
Ég ætla að skora á Jóhann Inga Óskarsson sem næsta matgæðing, ég veit að hann er snillingur í
eldhúsinu.
 

65 störf verða kynnt á starfa-kynningu í Þekkingarsetrinu á morgun

Haldin verður Starfakynning í Þekkingarsetri Vestmannaeyja í næstu viku. Þar munu starfsmenn fyrirtækja og stofnana kynna sín störf og þá menntun sem þeir hafa. Flestir þátttakendur eru frá Vestmannaeyjum, en einnig munu nokkrir koma af meginlandi Suðurlands. Markmiðið með kynningunni er að auka þekkingu ungmenna og almennings á menntuðum störfum í heimabyggð, ásamt því að efla sambandið milli skóla og atvinnulífs. Þetta mun verða í annað skiptið sem kynningin er haldin og hefur Viska, fræðslu- og símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja leitt verkefnið frá upphafi. Í þetta sinn fékk Viska styrk frá SASS sem eitt af áhersluverkefnum á Suðurlandi 2018. Ráðin var Sigríður Diljá Magnúsdóttur sem hefur tekið að sér verkefnastjórn og skipulagningu kynningarinnar. Anna Rós Hallgrímsdóttir deildarstjóri eldra stigs GRV og Sólrún Bergþórsdóttir náms- og starfsráðgjafi hjá Visku eiga hugmyndina af starfakynningunni og hafa unnið ötullega að henni frá upphafi. „Ég sá starfakynningu í líkindum við þetta í Reykjanesbæ fyrir nokkrum árum og fannst mjög spennandi. Fór strax að spá í hvort við gætum ekki gert eitthvað svipað. Fengið skólana og foreldrafélögin, sem samstarfsvettvang okkar í skólastarfinu til að koma að þessu með okkur,“ sagði Anna Rós. „Við gerðum þetta í rauninni af hugsjón, okkur fannst þetta vera spennandi verkefni og góð hugmynd,“ sagði Sólrún.   Mörg fjölbreytt menntuð störf í Eyjum Fólk sér tækifæri í Starfakynningunni til að ná til unga fólksins og fá þau til að skoða þau fjölmörgu og fjölbreyttu störf sem standa til boða í Vestmannaeyjum. Það verða 65 störf kynnt á níu starfssviðum. Þær segja að áherslan sé að kynna störf í Eyjum sem krefjast menntunar af einhverju tagi. „Margir sem stefna á háskólanám hafa ekki gert sér grein fyrir þeim tækifærum sem er að finna í Vestmannaeyjum. Með þessari kynningu afsannast það orðspor að mikil fábreytni sé í störfum hér, sagði Sólrún.   Opið fyrir alla Kynningin er eins og áður segir í nýju húsnæði Þekkingarseturs Vestmannaeyja (gömlu Fiskiðjunni) og verður húsnæðið undirlagt í kynningarbásum, tækjum og tólum sem tengjast því. Níundi og tíundi bekkur mun fara í skipulagðar ferðir á Starfakynninguna ásamt framhaldsskólanemum en svo er þetta opið almenning líka. „Þetta gerir nemendur jákvæðari gagnvart atvinnulífinu og við finnum að það var gagnkvæmt. Allir koma að þessu með jákvæðum huga og starfakynningin gerir líka meira, hún tengir fyrirtækin og stofnanirnar saman á nýjan hátt,“ sögðu Sólrún og Anna Rós að endingu.  

Grískt kvöld í Eldheimum

Föstudagskvöldið 4. maí verður grískt þemakvöld í Eldheimum. Hugmyndin kom upp fyrir all mörgum árum hjá Kristínu Jóhannsdóttur framkvæmdastjóra Eldheima, en hún er mikill Grikklandsaðdáandi og hefur langað að halda svona “mini” Grikklandshátíð frá því hún flutti aftur til Eyja fyrir rúmlega 13 árum. Hún og kokkinn Einar Björn Árnason hafa marg rætt þetta og þegar fékkst styrkur uppí að flytja tónlistarmennina til landsins var komið að því að þessi draumur yrði að veruleika. Rotary og Uppbyggingarsjóður Suðurlands styrkja viðburðinn. Kári Egilsson píanaleikari mun hefja kvöldið á að leika nokkur lög í byrjum kvölds. Einsi Kaldi ætlar að bjóða uppá grískt og gómsætt grill. Egill Helgason Grikklandsáhugamaður og aðdáandi talar um hina einstöku Grikki og Grikkland. Hápunktur kvöldins verður svo þegar Grísku tónlistarmennirnir Marc Alexey og Damian Staringares flytja ástsæl grísk þjóðlög og dægurlög fyrir gesti. Kristín sagði í samtali við Eyjafréttir að markmiðið væri að bjóða uppá eitthvað aðeins öðruvísi og skemmtilegt. Það er ekki á hverjum degi sem boðiðp er uppá grískan mat og tónlist. Það er líka mjög skemmtilegt að fá þá feðga Egil Helgason og Kára Egilsson til að vera með. Egill er manna fróðastur um Grikkland og Kári er einn af okkar efnilegustu ungu píanóleikurum. Ég hvet Grikklandsáhugafólk og aðra áhugamenn um góðar skemmtanir til að mæta, lofa frábæru kvöldi og hlakka mikið til.”sagði Kristín að endingu.  

Vilja fá að selja beint úr brugghúsi

Fyrr á þessu ári voru sett á laggirnar Samtök íslenskra handverksbrugghúsa en tilgangur samtakanna er að standa vörð um hagsmuni handverksbrugghúsa með því að fylgja eftir nokkrum mikilvægum hagsmunamálum, svo sem að smærri áfengisframleiðendum verði veittur afsláttur af áfengisgjaldi og að framleiðendur fái að selja vörur sínar beint til almennings eins og tíðkast á öðrum Norðurlöndum. The Brothers Brewery er eitt brugghúsanna sem eru aðilar að samtökunum og er Jóhann Guðmundsson, bruggmeistari, meðstjórnandi í stjórn samtakanna. Hér að neðan má sjá fréttatilkynningu samtakanna sem send var út fyrr í dag:   Í febrúar síðastliðinum komu eigendur íslenskra handverksbrugghúsa saman og stofnuðu Samtök íslenskra handverksbrugghúsa, á ensku Independent Craft Brewers of Iceland. Samtök þessi eru hagsmunasamtök smærri áfengisframleiðanda á Íslandi, sem gerja og framleiða áfengi í eigin framleiðslutækjum. Í samtökunum eru nú 21 handverksbrugghús um land allt.   Skilgreiningin að handverksbrugghúsi er að bandarískri fyrirmynd. Þrjú atriði einkenna handverksbrugghús: áhersla á gæði, stærð og sjálfstæði. Handverksbrugghús fara ótroðnar slóðir er kemur að hráefnum, en hafa gæði framleiðslu sinnar ávallt að leiðarljósi. Handverksbrugghús eru í eðli sínu smá, með framleiðslu undir milljón lítrum á ári. Að auki má framleiðandi sem ekki telst handverksbrugghús skv skilgreiningu ekki eiga eða stýra meira en 25% í brugghúsi til að það uppfylla skilyrði samtakanna.   Aðilar í samtökunum mega setja merki samtakanna á afurðir sínar. Neytendur geta þannig séð á vörunni að brugghúsið hefur gæði í fyrirrúmi samkvæmt leiðarljósi samtakanna. Merkið auðveldar einnig neytendum að velja stuðning við smærri óháða framleiðendur á Íslandi.   Samtökin hyggjast standa vörð um hagsmuni handverksbrugghúsa með því að fylgja eftir nokkrum mikilvægum hagsmunamálum. Þar með talið; að hér á landi verði smærri áfengisframleiðendum veittur afsláttur af áfengisgjaldi í samræmi við venjur og heimildir úr Evrópusambandinu. Einnig að framleiðendur fái að selja framleiðslu sína beint til almennings út úr verksmiðju sinni, eins og tíðkast á öðrum Norðurlöndum þar sem ríkið hefur einkaleyfi á áfengissölu. Að síðustu vilja samtökin standa vörð um aðgengi handverksbrugghúsa með vörur sínar á bari og í verslanir ÁTVR.   Í vor munu samtökin gefa út landakort er sýnir staðsetningu handverksbrugghúsa umhverfis landið. Með því verður hægðarleikur fyrir fólk á ferðalagi að heimsækja handverksbrugghús og leita uppi afurðir þeirra í heimabyggð, en handverksbrugghús eru staðsett í öllum fjórðungum landsins; frá Ísafirði að Breiðdalsvík, Vestmannaeyjum að Húsavík, svo nokkrir staðir séu nefndir.   Stjórn samtakanna skipa Sigurður Snorrason formaður, Berglind Snæland ritari, Haraldur Þorkelsson gjaldkerfi, Elvar Ingimarsson og Jóhann Guðmundsson meðstjórnendur.   Aðilar að Samtökum íslenskra handverksbrugghúsa, 18. apríl 2018:   Austri brugghús Egilsstaðir Bastard / brewpub Reykjavík Beljandi brugghús Breiðdalsvík Bjórsetur Íslands Hólar í Hjaltadal The Brothers Brewery Vestmannaeyjum Brugghús Steðja Borgarnes dreifbýli Brugghúsið Draugr Hvalfirði Bruggsmiðjan / Kaldi Árskógssandi Bryggjan Brugghús Reykjavík Dokkan brugghús Ísafirði Eimverk distillery Garðabæ Gæðingur Skagafirði HúsavíkÖl Húsavík Jón Ríki brewery & restaurant Höfn í Hornafirði Malbygg Reykjavík RVK Brewing Co. Reykjavík Segull 67 brewery Siglufirði Smiðjan brugghús Vík í Mýrdal Ægir brugghús Reykjavík Ölverk Hveragerði Ölvisholt brugghús Selfoss dreifbýli    

Með traustum rekstri má létta álögum

 Ísland er land velmegunar og hluti af okkar lífsgæðum er að fólk nær nú hærri aldri en nokkuru sinni áður. Sú staðreynd leggur nýja ábyrgð á kjörna fulltrúa og hætt er við að þessi jákvæða þróun verði að risavöxnu vandamáli ef stjórnmálafólk skortir kjark til að leita nýrra leiða og hugsa út fyrir kassann. Meðal annars þess vegna höfum við Eyjamenn valið að fella niður fasteignaskatta á eldriborgara.   Með styrkum rekstri er hægt að létta álögum á íbúa Rekstur Vestmannaeyjabæjar hefur gengið vel seinustu ár. Um leið og tekjur hafa aukist hefur allra leiða verið leitað til að standa vel að rekstri og leita hagræðinga. Á rétt um áratug hafa yfir 90% af skuldum verið greiddar niður, eiginfjárstaða er sterk og þjónustustig fyrir alla aldurshópa hátt. Þegar þannig árar er bæði eðlilegt og æskilegt að horfa til þess að létta álögum á þá hópa sem helst þurfa stuðning sveitarfélagsins.   Fasteignaskattur felldur niður á 70 ára og eldri Með því að koma böndum á rekstur höfum við búið til aukið svigrúm til að lækka álögur á eldri borgara með það fyrir augum að gera þeim kleift að búa sem lengst í eigin húsnæði. Þannig veljum við að fella niður fasteignaskatt á íbúðarhúsnæði í eigu íbúa sem eru 70 ára á árinu og eldri og gildir afslátturinn þegar annað hjóna eða sambúðaraðili hefur náð þeim aldri.   Mikil uppbygging á þjónustu við eldri borgara Samhliða hefur Vestmannaeyjabær lagt sérstaka áherslu á að efla þjónustu tengdri dægrastyttingu, hreyfingu og tómstundum. Þá hefur einnig verið lögð áhersla á að sinna betur þeim sem veikastir eru með byggingu hjúkrunarálmu fyrir fólk með heilabilun. Ráðist hefur verið í byggingu á nýjum þjónustuíbúðum aldraðra, dagdvöl á dvalarheimili efld, heimaþjónusta bætt og áfram má telja.   Mannvirðing og rekstrarlegur ávinningur Þetta fyrirkomulag hefur reynst okkur vel. Í því sameinast sú mannvirðing sem fólgin er í því að auðvelda eldri borgurum að búa sem lengst í eigin húsnæði og sá rekstrarlegi ávinningur sem felst í því að seinka dýrustu úrræðunum sem ætíð eru stofnanaþjónusta svo sem dvalar- og hjúkrunarheimili.   Það á að vera keppikefli okkar allra að búa öldruðum mannsæmandi líf. Hér í Eyjum eins og víðar kreppir skóinn enn í því er snýr að hjúkrunarrými og ástæða til að skora á þingheim að stíga þar fastar fram. Aldraðir skópu það samfélag og þann jarðveg sem við nú nýtum til ríkulegrar uppskeru. Þeirra er rétturinn.   Elliði Vignisson   Bæjarstjóri í Vestmannaeyjum  

Fyrsta skrefið í átt að minni plastnotkun í Eyjum

Hrottalegt nauðgunarmál sent aftur í rannsókn

 Héraðssaksóknari sendi fyrr í vor gróft nauðgunar- og líkamsárásarmál úr Vestmannaeyjum aftur til lögreglu til framhaldsrannsóknar. Meira en eitt og hálft ár er liðið frá árásinni. Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari vill ekki greina frá því hvað nákvæmlega þurfti að láta rannsaka frekar – hún segir að leiða þurfi tiltekin atriði betur í ljós og um leið og því er lokið verði vonandi hægt að afgreiða málið frá Héraðssaksóknara. Ruv.is greinir frá.   Málið kom upp aðfaranótt 17. september 2016. Þá fannst kona á fimmtugsaldri meðvitundarlítil í húsgarði í Vestmannaeyjum. Maður á þrítugsaldri var handtekinn skömmu síðar grunaður um að hafa beitt konuna hrottalegu ofbeldi og nauðgað henni. Hann sat í gæsluvarðhaldi um skeið uns kröfu lögreglunnar í Vestmannaeyjum um framlengingu þess var hafnað af dómstólum.   Konan var flutt þungt haldin með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann í Fossvogi. Hún var svo bólgin í andliti að hún gat ekki opnað augun og líkamshitinn var 35,5 gráður þegar að henni var komið. Lögregla telur að hefði hún ekki fengið aðstoð hefði hún getað dáið.   Konan fór úr landi fljótlega eftir árásina og lögreglu reyndist lengi vel erfitt að ná tali af henni. Í fyrrasumar var hins vegar tekin skýrsla af henni þar sem hún hefur dvalið erlendis.   Rannsókn lögreglunnar í Vestmannaeyjum lauk í október síðastliðnum. Málið fór þá í ákæruferli hjá embættinu og þaðan til Héraðssaksóknara um áramót. Héraðssaksóknari skoðaði málsgögnin og ákvað 27. febrúar að vísa málinu aftur til lögreglu til framhaldsrannsóknar.

Hefur tekið á móti um þúsund börnum

„Ég hef tekið á móti um þúsund börnum frá því ég hóf störf sem ljósmóðir árið 1979,“ sagði Drífa Björnsdóttir ljósmóðir í Vestmannaeyjum í samtali við Eyjafréttir í vikunni. Blaðamaður ákvað að heyra í henni í ljósi umræðna um stöðu ljósmæðra á Íslandi og kjarabaráttu þeirra.   Drífa segir baráttu ljósmæðra fyrir bættum launakjörum hafa verið eins og langa meðgöngu og fæðingin enn ekki yfirstaðin. Ljósmæðrastéttin er kvennastétt sem, eins og fleiri slíkar, hefur þurft að berjast af alefli fyrir sanngjörnum launum, en kjarabarátta ljósmæðra snýst um að gunnlaunin hækki. Sýnt hefur verið fram á að hjúkrunarfræðingur sem leggur á sig tveggja ára viðbótarnám til þess að verða ljósmóðir lækkar í launum þegar hún fer og starfar sem slík. Aðspurð hvort og hvernig kjarabaráttan komi við ljósmæður eins og þær sem eru á landsbyggðinni eða t.d í Vestmannaeyjum segir hún að það sé hver og ein ljósmóðir sem taki ákvörðun um að segja upp, en ekki sé um hópuppsagnir að ræða. „Aðal þunginn leggst á Kvennadeild landspítalans þar sem flestar ljósmæður vinna, en auðvitað er félagið allt í baráttunni og hafa þær allan minn stuðning,“ segir Drífa. „Það er mjög mikill dugur í þessum ungu ljósmæðrum og þær eru bara búnar að fá nóg. Í dag vill fólk eiga meiri tíma með fjölskyldunni og ekki vinna endalausar vaktir til að fá sanngjörn laun.   Fæðingarþjónustan verður aldrei eins og hún var Á landspítalanum er staðan mjög slæm, mikil mannekla og gríðarlegt álag,“ og telur Drífa að aukið álag hafi að stórum hluta skapast vegna breyttrar stöðu fæðingarþjónustu á landsbyggðinni. Ráðamenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að of dýrt sé að reka heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni í þeirri mynd sem áður var og kveðst Drífa ekki reikna með að neinar breytingar verði þar á. „Ég tel að fæðingarþjónustan hjá okkur verði aldrei eins og hún var. Það er sorgleg staða sem komin er upp, að flestar konur af landsbyggðinni skuli eiga að fæða í Reykjavík eða á Akureyri vegna þess að hættulegt sé að fæða annarsstaðar,“ sagði Drífa. Kona sem hefur enga áhættuþætti á að hafa möguleika á að fæða í sinni heimabyggð, „með þeim fyrirvara að aðstæður séu alltaf metnar í hverju tilfelli þ.e. árstími og veðurfar sem geta að sjálfsögðu haft áhrif á ákvarðanatökur og langar mig til að hvetja konur til umhugsunar. En því miður er staðan svona í dag,“ sagði Drífa Björnsdóttir ljósmóðir.  

Framboðslisti Eyjalistans ákveðinn

Eyjalistinn, félag sem byggt er á félaghyggju, jafnarstefnu og samvinnu, býður fram lista við bæjarstjórnarkosningarnar í Vestmannaeyjum sem fram eiga að fara hinn 26. maí næst komandi undir listabókstafnum E.   Listinn er skipaður breiðum hópi frambjóðenda með margs konar reynslu og menntun. Frambjóðendurnir eiga það allir sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á hagsmunamálum Vestmannaeyja og að vinna ötullega að því að efla og styrkja bæjarfélagið. Eyjalistinn hefur nú á að skipa nýju fólki í forystusveitinni en um leið mun listinn njóta reynslu þeirra sem áður hafa unnið ötullega að bæjarmálum.   Eyjalistinn mun í öllu starfi sínu leggja áherslu á lýðræðislega stjórnarhætti þar sem hagsmunir heildarinnar verða hafðir að leiðarljósi. Frambjóðendur listans bjóða því fram krafta sína í þágu samfélagsins alls og leitar eftir góðri samvinnu við alla bæjarbúa.   Nú þegar er hafin öflug og opin málefnavinna Eyjalistans. Sú vinna heldur áfram fram að kosningum og verður stefnuskrá Eyjalistans birt þegar nær þeim dregur.   Þeir bæjarbúar sem áhuga hafa á þátttöku í málefnavinnu Eyjalistans og hafa með því bein áhrif á stefnumótun í málefnum Vestmannaeyja til framtíðar eru vinsamlegast beðnir að hafa samband við einhvern frambjóðenda.   Kosningamiðstöð Eyjalistans verður að Vestmannabraut 37 og verða opnunartímar hennar auglýstir innan tíðar.     Eyjalistinn er þannig skipaður:     1. Njáll Ragnarsson sérfræðingur á Fiskistofu   2. Helga Jóhanna Harðardóttir grunnskólakennari   3. Stefán Óskar Jónasson verkstjóri   4. Arna Huld Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur   5. Nataliya Ginzhul   6. Guðjón Örn Sigtryggsson bílstjóri   7. Lára Skæringsdóttir grunnskólakennari   8. Haraldur Bergvinsson   9. Anton Egertsson   10. Hafdís Ástþórsdóttir   11. Jónatan Guðni Jónsson grunnskólakennari   12. Drífa Þöll Arnardóttir bókavörður   13. Guðlaugur Friðþórsson   14. Sólveig Adólfsdóttir húsmóðir    

Þungvopnaðir hermenn með æfingu um borð í Breka VE

Togararnir Breki VE og Páll Pálsson ÍS fara um hættusvæði vegna sjórána eftir fimm sólarhringa á heimleið frá Kína. Þungvopnaðir hermenn gæta öryggis skipanna og voru með skotæfingu í dag í Breka. En eins og Eyjafréttir sögðu frá fyrir helgi þá stoppaði áhöfnin í Colombo fyrir helgi og um borð fóru vopnaðir hermenn.    „Þetta eru framandi aðstæður fyrir okkur. Við tókum þrjá hermenn um borð í Colombó, höfuðborg Sri Lanka og þeir verða með okkur til Rauðahafs, Rúmeni og tveir Indverjar. Þeir hafa með sér gríðarlegan vopnabúnað, það duga greinilega engar kindabyssur í þessum bransa!“ sagði Magnús Ríkarðsson, skipstjóri á Breka í kvöld. Skipið var þá á siglingu austan Indlands á leið til Miðjarðarhafs um Súesskurð. Miðnætti nálgaðist að staðartíma, lofthitinn var 32 gráður og sjávarhiti 30,2 gráður!   „Hitasvækjan er agaleg og eina vandamálið okkar hingað til. Staðan verður ekki þolanleg fyrr en við komum á Miðjarðarhaf, þá fer lofthitinn niður í „bara“ 20-25 gráður.“   Er skrekkur í mannskapnum vegna siglingar um sjóránssvæðið umtalaða í næstu viku? „Nei, nei. Ástandið er annað og betra en var fyrir nokkrum árum þegar skipum var rænt dag eftir dag á þessum slóðum, í sundinu á milli Sómalíu og Jemens. Nú eru gerðar alþjóðlegar ráðstafanir til að auka öryggi á siglingaleiðinni og skip fylgjast að. Ein skipalest siglir til dæmis á 10 mílna hraða, önnur á tólf mílna hraða. Við þurfum að stilla okkur af og slást í för með öðrum skipum sem halda sama hraða og megum ekki slá af, hvað þá stoppa.“   Til hvaða ráða grípa hermennirnir hjá þér ef óboðnir dólgar reyna að komast um borð? „Ja, þeir grípa ekki til skotvopna nema ég sem skipstjóri gefi slík fyrirmæli. Þeir voru með æfingu hér um borð í dag og skutu í sjóinn. Ætli yrði ekki byrjað með aðvörunarskotum en mér skilst að það hafi mikinn fælingarmátt í sjálfu sér að sjáist til vopnaðra manna um borð. Þremenningarnir eru gerðir út af öryggisfyrirtæki og vita hvað þeir eru að gera. Þetta er allt heldur óraunverulegt.“   Í þessum hita hjá ykkur, er ekki biðröð í kalda sturtu til að kæla sig niður? „Það væri nú lúxus að hafa raunverulega kalt vatn í sturtum, við stungum mæli í „kalda vatnið“ í dag og það reyndist 35 gráður, eiginlega of heitt til að baða sig í! Stálmassi skipsins hitnar og hitar allt vatnið í kerfinu. Okkur gengur ekki of vel að sofa í svækjunni, ég svaf til að mynda sjálfur úti í léttabátnum. Menn hafa sofið á togdekkinu og jafnvel í lestum skipsins. Við tókum olíu í Colombo og keyptum um leið viftur og kæligræjur til að reyna að koma hitanum um borð niður fyrir 30 gráður. Baráttan við hitann er ekkert grín. Breki reynist annars vel og ferðin er braslaus að öllu leyti. Við erum meira að segja heldur á undan áætlun. Hitinn er aðalvandamálið. Sól og blíða er í góðu lagi en fyrr má nú vera!"   www.vsv.is greindi frá.  

Stóra málið að tryggja samfélaginu ætíð sem bestu þjónustuna

Í gær var fundur hjá bæjarstjórn með samgönguráðherra og hans fólki. Á fundinum lagði ráðherra fram drög að rekstrarsamningi sem gerir ráð fyrir að Vestmannaeyjabær taki við rekstri Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs þegar nýtt skip kemur til þjónustu í haust. Samningurinn gerir ráð fyrir talverðri þjónustuaukningu svo sem fleiri ferðum og fleira, sagði Elliði Vignisson bæjarstjóri eftir fundinn.   Yfirlýsing frá bæjarstjórn eftir fundinn „Við erum afar þakklát fyrir þann hug sem þessi fundur bar með sér. Ráðherra leggur með þessu þunga áherslu á að mæta þeirri miklu óánægju sem er með stöðu samgangna hér í Eyjum og vill að þegar ný ferja hefur þjónustu verði strik dregið í sandinn og horft til nýrra tíma. Fari svo að við náum saman um rekstur munu bæjarbúar verða varir við umtalsverða breytingu. Markmið bæjarstjórnar er enda að nota þann stutta samningstíma sem um er að ræða til að tryggja að Herjólfur verði færður nær því að vera séður sem þjóðvegur og þjónusta og verð taki mið af því.   Við höfum þó lært að kálið er ekki sopið þótt í ausuna sé komið. Nú þegar þessi sameiginlegi vilji ráðherra og bæjarstórnar liggur fyrir, auk skilgreiningar á þjónustu langt umfram það sem við höfum áður séð, er ljóst að næst kemur málið til með að snúist um krónur og aura. Við gefum okkur helgina til að fara yfir málið, fundum með stýrihópnum á mánudaginn og væntanlega með ríkinu á þriðjudaginn. Jafnvel þótt svo illa fari að upp úr viðræðum slitni þá hefur hér með verið skilgreint nýtt gólf í þjónustu við Eyjamenn. Þótt vilji okkar til að ljúka þessu verki með ríkinu sé einlægur og einbeittur þá er stóra málið að tryggja samfélaginu í Vestmannaeyjum ætíð sem besta þjónustu. Það er markmiðið og ekkert annað“  

Slippurinn hlaut viðurkenninguna "Icelandic Lamb Award of Excellence"

Í dag veitti Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda 21 veitingastöðum viðurkenninguna „Icelandic Lamb Award of Excellence“. Viðurkenningu hlutu veitinga- og gististaðir fyrir framúrskarandi matreiðslu á íslensku lambakjöti og eftirtektarverð störf við kynningu á íslensku lambakjöti til ferðamanna. Þetta er í annað sinn sem viðurkenningar eru veittar samstarfaðilum Icelandic Lamb á sviði veitinga- og gististaða. Dómnefnd skipuð þeim Sigurbjörgu Jónasdóttur útvarpskonu hjá RÚV, Dominique Plédel Jónsson hjá SlowFood Reykjavík og Hafliða Halldórssyni verkefnastjóra hjá Icelandic Lamb valdi staðina sem hlutu viðurkenningar að þessu sinni. Yfir 90 íslenskir veitingastaðir eru samstarfsaðilar sauðfjárbænda í gegnum verkefnið Icelandic Lamb sem ætlað er að undirstrika sérstöðu íslenskra sauðfjárafurða með tilvísun til uppruna, hreinleika og gæða. Árangurinn hefur farið fram úr björtustu vönum og sala á lambakjöti aukist verulega hjá veitinga- og gististöðum sem taka þátt í verkefninu. Einn af veitingastöðunum sem fengu viðurkenninguna er Slippurinn í Vestmannaeyjum en það var Gísli Matthías Auðunsson, matreiðslumeistari og einn eiganda Slippsins, sem tók á móti verðlaununum eins og sést á meðfylgjandi mynd.   Staðirnir sem hlutu viðurkenningu að þessu sinni eru:   Bjarteyjarsandur Hvalfirði Eldhúsið Restaurant-Gistihúsið Egilsstöðum Fiskfélagið Fiskmarkaðurinn Fosshótel Jökulsárlón Restaurant Grillið- Hótel Sögu Haust Restaurant - Fosshótel Reykjavík Hótel Anna Hótel Smyrlabjörg Íslenski Barinn Kopar Lamb Inn Eyjafjarðarsveit Matarkjallarinn Múlaberg Bistro Narfeyrarstofa Rústík Salka Húsavík Slippurinn Vestmannaeyjum Sushi Social Von Mathús Hafnarfirði VOX    

Vestmannaeyjabær í óvissu um framhaldið

Ekkert hefur heyrst nýlega af samningaviðræðum bæjarins og ríkisins um rekstur á nýrri Vestmannaeyjaferju. Haft var samband við Elliða Vignisson bæjarstjóra sem sagði að nú væri verið að bíða eftir ríkinu að boða til næsta fundar eða taka næsta skref. Elliði sagði að hann hafi reynt að halda vel utan um gang mála sem hann rakti fyrir okkur í sextán skrefum.   1. Haldinn var borgarfundur í Eyjum að frumkvæði héraðsfréttamiðla. Samþykkt að stefna beri að því að heimamenn sjálfir reki Herjólf. 2. Ríkið og Vestmannaeyjabær hófu formlegar viðræður um yfirtöku bæjarins á rekstri nýrrar farþegaferju, Herjólfi, í kjölfar sameiginlegrar viljayfirlýsingar aðila, dags. 26. október 2017. 3. Viðræður hófust. Báðir aðilar lögðu fram ítarleg samningsdrög sem báru með sér hvernig þeir sáu samning geta litið út, útreikningar vegna kostnaðar voru lagðir fram auk allra nauðsynlegra gagna svo viðræður geti haldið áfram og hægt væri að ljúka þeim - og fundir haldnir til að þoka málinu áfram. Eðlilegur farvegur formlegra viðræðna. 4. Skrifað undir viljayfirlýsingu milli Vestmannaeyjabæjar og Samgönguráðherra. Þar kom ma. fram að: • Vestmannaeyjaferja verði nýtt til siglinga milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar lengur hvern sólarhring en nú er og gangi allt að 8 ferðir á dag í reglulegri áætlun þegar aðstæður krefjast. • núverandi Herjólfur verði til reiðu sem varaskip fyrir ferjusiglingar í landinu eftir að ný ferja hefur siglingar. • sama gjaldskrá gildi á báðum siglingaleiðum. • núverandi fjárveiting til reksturs Herjólfs verði lögð til grundvallar nýs samnings. Þannig verði möguleg hagræðing vegna rekstrar nýrrar Vestmannaeyjaferju, nýtt til að bæta samgöngur á milli lands og Eyja. • fram fari þarfagreining á þjónustuþörf skipsins. Þarfagreiningin taki mið af þörfum samfélagsins en ekki eingöngu hámarksnýtingu. • rekstur ferjusiglinga milli lands og Eyja sé almannaþjónusta og ekki hagnaðardrifin. • rekstrarhagræðis verði gætt til hins ítrasta. Telji aðilar líklegt að útboð á almennum markaði leiði til aukins hagræðis samhliða þjónustuaukningu, verði Vestmannaeyjabæ það heimilt. 5. Alþingiskosningar fara fram - ný ríkisstjórn tekur við. Nýr ráðherra tekur við Samgönguráðuneytinu 6. Þrátt fyrir að alþingiskosningar hafi farið fram og ný ríkisstjórn tekið við - fól það ekki í sér neinar eðlisbreytingar gagnvart því að lögaðilinn ríkið og lögaðilinn V-bær voru í formlegum viðræðum um yfirtöku bæjarins á rekstrinum. Þeim viðræðum yrði, eðli málsins samkvæmt, haldið áfram þar til þeim yrði formlega slitið. Engin slit viðræðna voru tilkynnt. Bæjarfulltrúar ræddu mikilvægi þess að viðræðuaðilar bæru virðingu gagnvart hvor öðrum. 7. Eftir að ný ríkisstjórn tók við lét ríkið ekkert frá sér heyra varðandi áframhald viðræðna við bæinn, annað en ráðherra/ráðuneyti sagðist vilja skoða málið frekar. Engin breyting var gerð á formlegri stöðu samningaviðræðnanna. Bærinn lagði reglulega fram fyrirspurnir til ráðherra/ráðuneytis um það hvenær ætti að taka upp þráðinn og funda um málið. Engin svör bárust. 8. Eftir eftirleitan Vestmannaeyjabæjar var loks haldinn fundur með ráðherra 31. janúar þar sem hann tjáði fundarmönnum að vildi skoða málið frekar, m.a. fór hann þess á leit að haldinn yrði borgarafundur í Eyjum svo hann gæti fengið beint í æð hver vilji bæjarbúa væri í málinu. 9. Haldinn var borgarafundur með ráðherra. Hann fékk vilja bæjarbúa beint í æð. Núverandi ástand fékk falleinkunn. Í skýrslu RHA koma fram að „Í stuttu máli má segja að enginn sem rætt var við hafi verið sérlega ánægður með núverandi fyrirkomulag eða þjónustustig. Sama er hvar borið var niður.” 10. Ráðherrann kynnti fjóra mögulega kosti varðandi rekstur skipsins. Ekkert var fjallað um stöðu hinna formlegu viðræðna aðila. 11. Bærinn fær ávinning um að ríkið hafi ákveðið að bjóða reksturinn út til tveggja ára - sem þýddi líklega óbreytt ástand frá því sem nú er þar sem erfitt er fyrir nýja aðila að bjóða í reksturinn til svo skamms tíma. Um það verður þó ekkert fullyrt að sinni. 12. Eftir ítrekaðar fyrirspurnir var haldinn fundur 15 mars. sl. með ráðherra. Hann sátu allir bæjarfulltrúar auk fulltrúa í stýrihóp um yfirtöku. Fundurinn fór fram beiðni bæjarstjórnar bæjarins, en ekkert hafði heyrst frá ráðherranum/ríkinu frá því á borgarafundinum í lok janúar um framhald viðræðna. 13. Á þeim fundi var bænum tilkynnt um að ekki yrði samið við hann um reksturinn, heldur yrði farin sú leið sem forsvarsmaður núverandi rekstraraðila hafði áður upplýst um, þ.e. að reksturinn yrði boðinn út til tveggja ára. Á þeim fundi sagði ráðherra að hann hefði viljað tilkynna V-bæ fyrst um þessa ákvörðun sína áður en hún yrði gerð opinber. 14. Mikil umræða fór fram á fundinum um ákvörðun ráðherra. Ákvörðunin var harðlega gagnrýnd af bæjarfulltrúum. Var í framhaldi af þeirri umræðu ákveðið að falla frá þeirri ákvörðun, sem ráðherra hafði áður kynnt, þ.e. að hætta viðræðum við bæinn og bjóða reksturinn út til tveggja ára. Á fundinum var því ákveðið að halda viðræðum við bæinn. Nákvæm útskýring á því hvað þetta þýddi fylgdi þó ekki sögunni – en framhald viðræðna voru ákveðnar. 15. Á fundinum var ákveðið að ráðherra skyldi boða til nýs fundar með aðilum, sem hann kvaðst ætla að gera annað tveggja að kveldi 15. mars eða strax þann 16. Síðar barst svo tölvupóstur frá ráðuneytisstjóra, þ.e. þann 16 mars, þar sem tilkynnt var um að boðað yrði til nýs samningafundar strax eftir helgina. Fimmtudaginn 22. barst tölvupóstur frá ráðuneytisstjóra þar sem tilkynnt var að enn væri verið að fara yfir málið og beðið eftir ákveðnum upplýsingum. Tilkynnt að haft yrði samband um leið og þær væru komnar. 16. Þriðjudaginn 3. apríl 2018 hefur enn ekkert heyrst frá ríkinu um fundi eða framhald málsins. Vestmannaeyjabær er í óvissu um framhaldið en treystir því að viðræður séu í gangi milli stjórnsýslustiganna þar til samningar nást eða þeim er formlega slitið.  

Bolfiskvinnslan komin á fullt

 Bolfiskvinnslan fór á fullt strax eftir páska  Uppsjávarskipin fara á kolmuna í færeysku lögsögunni upp úr 10.apríl,“ sagði Eyþór Harðarson útgerðarstjóri hjá Ísfélaginu í samtali við Eyjafréttir. “Bolfiskskipin Dala Rafn og Suðurey fóru á sjó á annan í páskum og er bæði búin að landa fullfermi eftir veiðar hér við Eyjar, þannig að bolfiskvinnslan hér í Eyjum og Þórshöfn voru komnar með hráefni strax eftir páskana.“ sagði Eyþór.     Fyrsti humartúr ársins Brynjólfur og Sleipnir eru enn á netum og fóru báðir út annan í páskum. Þeir hafa verið að fiska vel hér austan við Eyjar eins og fyrir páska og er aflinn að mestu leyti þorskur,“ sagði Sverrir Haraldsson sviðstjóri Bolfisks hjá Vinnslustöðinni. Drangavík er nú í fyrsta humartúr ársins. „Þeir byrjuðu austur á Breiðamerkurdýpi og voru komnir með 13 humarkör eftir fyrsta sólarhring á veiðum. Svo er líka talsvert af blönduðum meðafla,“ sagði Sverrir. Sindri hefur verið á veiðum sunnan við Eyjar „þeir eru í fyrsta túr eftir páska og eru komnir með ágætan afla af karfa, þorski og ufsa,“ sagði Sverrir.   Mjög góð veiði á heimaslóð Bergey og Vestmannaey fóru á sjó á miðnætti aðfaranótt annars í páskum og lönduðu einum og hálfum sólahring síðar fullfermi, mest Ýsa og þorskur,“ sagði Arnar Richardsson hjá Berg-Huginn. Ekki var dvalið lengi í landi og héldu báðar áhafnir strax á sjó að lokinni löndun. „Mjög góð veiði er á heimaslóð sem skilar tveimur fullfermis túrum á rúmum þremur sólarhringum á hvort skip. Stærsti hluti aflans fer í útflutning og til Goodthaab í Nöf,“ sagði Arnar.  

Vopnaðir verðir um borð í Breka VE

Togaratvíburarnir Breki VE og Páll Pálsson ÍS lögðu út frá Rongcheng í Kína áleiðis til Íslands þann 22. mars síðastliðinn. Gert er ráð fyrir að skipin komi til heimahafna í Eyjum og á Vestfjörðum um miðjan maí. Núna eru þeir staddir sunnan við Sri Lanka, en þeir munum fara í höfn í Colombo, höfuðborg Sri Lanka á morgun. Siglingarleiðin er 11.300 mílur og gert ráð fyrir að ferðin taki um 50 daga.   Sverrir Haraldsson hjá Vinnslustöðinni sagði í samtali við Eyjafréttir að næst á dagskrá væri að fara í höfn í Colombo og fylla á olíu og birgðir. „Í Colombo munu einnig fara um borð vopnaði öryggisverðir og er stefnan að fara úr höfn á laugardagskvöld.“ Næstu tvær vikurnar mun Breki VE sigla í áleiðis í Sues skurðinn, „á leiðinni þangað er siglt um Aden flóa sem er á milli Sómalíu og Jemen, þarna hafa sjórán verið stunduð,“ sagði Sverrir. Allar varúðarráðstafanir hafa verið gerðir, „við kynntum okkur þetta mjög fyrirfram, það hefur dregið úr þessu gríðalega síðustu ár og teljum við hættuna litla.“   Höfum ekki miklar áhyggjur en gerum allar varúðarráðstafnir Breki er vaktaður af vopnuðum öryggismönnum og eiga þeir að gæta alls sem gerist í kringum skipið. Þegar þeir nálgast þessi hættusvæði verður áhöfnin í sambandi við herskip á svæðinu sem eru þá til taks ef eitthvað gerist, einnig er Breki VE þannig undirbúin að ekki er auðveldur leikur að komast um borð ásamt því að vatnslöngur eru til taks. Búið er að loka uppgönguleiðum í skipið eins og stigum og skutrennu. „Þetta eru tveir til þrír sólahringir sem geta verið varasamir, við gerum allar mögulegar varúðarástæður, en teljum hættuna ekki mjög mikla og höfum ekki miklar áhyggjur,“ sagði Sverrir.  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Stjórnmál >>

Skýr valkostur

Nú eru rúmar fjórar vikur til kosninga. Frá því að listi Eyjalistans var birtur hafa móttökurnar verið vonum framar. Á listanum er töluverð endurnýjun frá því í síðustu kosningum og gaman er að sjá hve mikið af ungu fólki var nú til í að gefa kost á sér til að vinna að góðum málum fyrir bæjarfélagið. Sjálfur er ég stoltur af því að fá að leiða þennan hóp og hlakka kosninganna.Málefnavinna Eyjalistans er komin á fullt skrið. Við höfum fengið með okkur fólk sem hefur mismunandi reynslu úr samfélaginu og vill taka þátt í því að gera góðan bæ enn betri. Líflegar umræður hafa skapast, meðal annars um það hvernig við getum bætt gæði grunn- og leikskóla, hvernig hægt sé að festa í sessi virkt íbúalýðræði, hvernig auka megi tiltrú almennings á stjórnkerfinu í bænum og hvernig við getum tryggt fjölbreytt og blómlegt atvinnulíf í bænum.Ljóst er að tryggar samgöngur eru eitt brýnasta hagsmunamál íbúa í Vestmannaeyjum á næstu árum. Á fundi um ferðaþjónustu á Íslandi í Eldheimum á dögunum kom fram bjartsýni ferðaþjónustuaðila til framtíðar. Í mínum huga snúast samgöngumálin ekki um það hvaða aðili sé bestur til þess fallinn að reka Herjólf heldur að ferjan sé rekin með hagsmuni íbúa í Vestmannaeyjum að leiðarljósi. Umræðan á því ekki að snúast um hvern, heldur hvernig. Við þurfum að tryggja öflugar samgöngur sem henta íbúum og atvinnulífi þannig að lífið í bænum geti blómstrað. Þetta þarf að vera leiðarstefið í umræðunni um samgöngumál en ekki hagsmunir fárra aðila.Kosningabaráttan sem nú fer í hönd mun bera keim af innanflokksátökum í Sjálfstæðisflokknum sem kristallast í því að nú eru boðnir fram tveir listar sjálfstæðismanna. Jafnvel þó svo að fyrirheit séu gefin um að framboð teygi sig frá hægri til vinstri þarf ekki að fara djúpt ofan í atburði síðustu vikna til að sjá hvernig í pottinn er búið. Valkosturinn er því skýr, áframhaldandi valdatíð sjálfstæðismanna eða nýjar áherslur þar sem raddir allra bæjarbúa fá að njóta sín. 

Greinar >>

Fróðlegar kosningar

Sveitastjórnarkosningar verða haldnar laugardaginn 26. maí nk. Ljóst er að þrír listar munu bjóða fram Í Vestmannaeyjum og berjast um sætin sjö sem í boði eru í bæjarstjórn, þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn, Eyjalistinn og bæjarmálafélagið Fyrir Heimaey.   Það er öruggt að töluverð endurnýjun muni eiga sér stað í bæjarstjórn enda nýr listi sem býður fram og sömuleiðis mörg ný nöfn á bæði Eyjalistanum og lista Sjálfstæðisflokksins frá því fyrir fjórum árum. Það vekur einnig athygli að konur eru meira áberandi en áður en í samanlögðum efstu tveimur sætum flokkanna þriggja má finna fimm konur og aðeins einn karl.   Hingað til hafa augu flestra beinst að stigmagnandi átökum innan Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum. Segja má að átökin hafi náð hámarki þegar prófkjör flokksins var blásið af í byrjun árs en nokkru áður virtist sem flokkurinn væri á leið í sitt fyrsta prófkjör síðan árið 1990. Svo reyndist ekki vera því tillagan var felld á fundi fulltrúaráðs og í staðinn ákveðið að fara í röðun á lista eins og margoft hefur komið fram. Í kjölfarið var hið nýja bæjarmálafélag, undir forystu Írisar Róbertsdóttur sem áður hafði hafnað þriðja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins, sett á laggirnar. Ágreiningurinn virðist einnig ná niður í ungliðahreyfinguna því Hákon Jónsson, formaður Eyverja, sagði af sér á dögunum og skipar nú tíunda sætið á lista Fyrir Heimaey.   Það er því óhætt að segja að nokkurs kurrs gætir meðal Sjálfstæðismanna í Eyjum. En hvað með málefnin? Hvar ber helst á milli flokkanna þriggja? Það hefur minna farið fyrir því síðustu vikur og mánuði en á væntanlega eftir að skýrast fljótlega. Breytt vinnubrögð og lýðræðislegri hefur borið á góma en eitt stærsta málið verður væntanlega rekstur nýrrar ferju, hvort bærinn hyggst sjá um reksturinn eða bjóða hann út. Það verður væntanlega Borgarlínumál Eyjamanna.   Samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Fréttablaðið gerði á dögunum tapar Sjálfstæðisflokkurinn meirihlutanum í komandi kosningum en í könnuninni mældist flokkurinn með 41% fylgi, rúmum 32% minna en flokkurinn fékk í kosningunum 2014. Í sömu könnun fékk Fyrir Heimaey 32% og Eyjalistinn 25%. Til gamans gerðu Eyjafréttir sína eigin netkönnun sem opnaði í hádeginu á mánudaginn en rúmum sólarhring síðar höfðu 598 manns svarað. Þar fær Fyrir Heimaey 42%, Sjálfstæðisflokkurinn 31% og Eyjalistinn 16%. 10% voru óákveðnir. Hversu vel svona kannanir endurspegla veruleikann veit ég ekki en eitt er víst, það eru fróðlegir tímar framundan í pólitíkinni.