Páll Pálsson ÍS orðinn VSV-togarinn Sindri VE

Páll Pálsson ÍS orðinn VSV-togarinn Sindri VE

Páll Pálsson ÍS-102 hefur skipt um lit og nafn í dráttarbraut Stálsmiðjunnar í Reykjavík og heitir nú Sindri VE-60. Vinnslustöðin keypti togarann af HG í Hnífsdal. Sindra VE er ætlað að fylla skarð Gullbergs VE sem hefur verið selt og verður afhent nýjum eigendum um mánaðarmótin júlí/ágúst.
 
Vinnslustöðin er með nýjan ísfisktogara, Breka VE, í smíðum í Kína en dregist hefur að ljúka frágangi og afhenda skipið og systurskip þess, Pál Pálsson ÍS, sem HG í Hnífsdal á. Reiknað er nú með að Breki og Páll komi til heimahafna í haust og Sindri VE brúar líka bil sem myndast hjá VSV vegna tafa á heimkomu Breka.
 
Skipsnafnið Sindri á sér langa og farsæla sögu hjá Vinnslustöðinni og fyrirtækjum henni tengdri. Fiskiðjan gerði út bát með þessu nafni frá sjötta áratugnum til þess áttunda en frá 1977 átti Fiskimjölsverksmiðjan og síðar Vinnslustöðin togara sem Sindri hét og gerði út fram á tíunda áratug síðustu aldar.
 
Af vsv.is
 
 
 

Litið verði á Herjólf sem þjóðveg og þjónustan miðuð við það

Fyrir bæjarráði í síðustu viku lágu fyrir drög að verksamningi milli Háskólans á Akureyri og Vestmannaeyjabæjar um þjónustugreiningu fyrir Vestmannaeyjabæ og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið er varðar notkun á Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi meðal mismunandi hagsmunaaðila í samfélaginu í Vestmannaeyjum. Einnig lá fyrir erindi frá Elís Jónssyni þar sem fram kemur m.a. að óskað er eftir afstöðu bæjarstjórnar til þess að Vestmannaeyjabær hafi frumkvæði að sjá um að framkvæma íbúakosningu um rekstur á nýrri Herjólfsferju.   Fram kom að bæjarráð hefur yfirfarið drög að verksamningi við Háskólann á Akureyri og lýsir ánægju sinni með hann. Sérstaklega fagnar bæjarráð þeim áherslubreytingum sem nú eru vonandi að verða og felst í því að líta eigi á Herjólf sem þjóðveg og miða þjónustu hans við það. Þannig taki til að mynda ákvörðun um fjölda ferða á hverjum tíma mið af raunþörfum samfélagsins en ekki eingöngu hámarksnýtingu á hverri ferð.   Þá fagnar bæjarráð því einnig að nú skuli sérstök áhersla verða lögð á að þjónusta Herjólfs taki mið af því að bæta samkeppnisstöðu Vestmannaeyja. „Bæjarráð hefur í áratugi unnið að því að nálgast ofangreind markmið og mörg önnur sem fjallað er um í viljayfirlýsingu Vestmannaeyjabæjar og samgönguráðuneytisins. Athygli vekur að árangur þessarar vinnu skuli fyrst verða ljós þegar til þess er komið að Vestmannaeyjabær taki að sér rekstur Herjólfs. Meðal annars með það í huga felur bæjarráð bæjarstjóra að vinna áfram að málinu í samstarfi við þá aðila sem til þess voru valdir af ráðinu,“ segir í fundargerð.   Bæjarráð þakkaði Elís fyrir erindið og tekur undir margt af því sem þar kemur fram. Bent er á að bæjarstjórn hefur á öllum tímum nálgast samgöngumál af einhug og látið sér annt um að sátt sé um þau. Til marks um það þá hafa langflestir liðir sem þeim tengjast verið samþykktir samhljóða a.m.k. frá árinu 2006 óháð fólki og flokkum. Tilgangur með störfum í bæjarstjórn sé enda að sameina fólk um mikilvæg mál frekar en að sundra.   „Til að fyrirbyggja misskilning vill bæjarráð benda bréfritara á að samkvæmt viljayfirlýsingu sem kynnt hefur verið er eingöngu unnið út frá því að Vestmannaeyjabær reki Herjólf í 2,5 ár og að skýrt sé að framlög ríkisins standi undir kostnaði við reksturinn. Áhættan er því afar takmörkuð ef samningur verður yfirhöfuð gerður. Þá bendir bæjarráð á að enn er allt tal um atkvæðagreiðslu um samning ótímabær enda liggur ekki fyrir svo mikið sem drög að slíkum samningi. Enn hefur ekki svo mikið sem verið haldinn fundur um málið með Vegagerð og/eða samgönguráðuneyti eftir að viljayfirlýsing var undirrituð. Það liggur því í hlutarins eðli að ekki er hægt að boða til kosningar um mál sem enn er algerlega óvíst að komi nokkurri sinni til afgreiðslu bæjarstjórnar.   Í erindi bréfritara er óskað eftir afstöðu til þess að Vestmannaeyjabær hafi frumkvæði að því að fram fari íbúakosning um málið og vill bæjarráð taka skýrt fram að ráðið er ætíð opið fyrir samstarfi, samvinnu og upplýstri umræðu um allt sem tengist hagsmunum Vestmannaeyjabæjar. Með það í huga samþykkir bæjarráð að haldinn verði almennur og opinn fundur um stöðu málsins þar sem stýrihópnum sem farið hefur fyrir málinu ásamt þeim fagmönnum sem til verksins hafa valist, kynna stöðu þess, framvindu og væntingar. Þar verði sérstök áhersla lögð á að hlutlausir aðilar upplýsi um mögulega áhættu og ávinning ef til þess kemur að Vestmannaeyjabær taki að sér rekstur Herjólfs, segir í svari bæjarráðs við erindinu.  

Þorsteinn Ívar Þorsteinsson er matgæðingur vikunnar- Ofnbakaður þorskur með avacadósalsa, sætkartöflumús og hvítvínssósu

Ég þakka Karen Ösp fyrir áskorunina, en hér fáið þið uppskrift af uppáhalds fiskréttinum mínum.
Mæli svo með hvítvíni sem heitir Arthur Metz Pinot Gris.
Takk fyrir mig og verði ykkur að góðu.   Sætkartöflumús • ca. 5-600 gr. sætar kartöflur, skrældar og skornar í bita • 1-2 kartöflur, skrældar og skornar í bita • 1/2 rautt chili, fræhreinsað, safi úr 1/2 límónu (lime) • ca. 1 msk. smjör • salt og pipar.

   Kartöflur og sætar kartöflur skrældar og skornar í svipað stóra bita. Þær eru svo settar í pott og vatn rétt látið fljóta yfir. Chili skorið í tvennt langsum, fræin hreinsuð úr og því svo bætt út í pottinn. Til að fá bragðsterkari kartöflumús er hægt að saxa chili smátt. Límónusafa bætt út í pottinn. Suðan látin koma upp og soðið í 15-20 mínútur eða þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar. Vatninu helt af og chili (ef það er í heilu) fjarlægt. Kartöflurnar stappaðar fínt með smjöri og bragðbættar með salti, pipar og jafnvel meiri límónusafa. Til að skerpa á hitanum á sætkartöflumúsinni er hún sett í pott og hituð upp við meðalhita, hrært í á meðan.

   Þorskur með avakadósalsa: • ca. 600-800 gr. þorskhnakkar • salt og pipar • 2 avacadó, söxuð • 3 msk sítrónusafi og rifið hýðið af • 1/2 sítrónu • 1 msk. olífuolía • ca. 1 dl. fersk steinselja, söxuð • 1/4 – 1/2 rautt chili, fræhreinsað og fínsaxað.   Ofninn hitaður í 220 gráður. Þorskflökin skorin í bita og þeim raðað í smurt eldfast form. Kryddað með salti og pipar. Því næst er blandað saman í skál avacadó, sítrónusafa, sítrónuhýði, steinselju, chili og ólífuolíu. Blöndunni er dreift yfir fiskinn. Bakað í miðjum ofni við 220 gráður í ca. 12-15 mínútur eða þar til fiskurinn er fulleldaður. Gætið þess að ofelda hann ekki.     Hvítvínssósa • 150-200 ml. hvítvín • 3-4 schallot laukar (fín saxaðir) • 100 gr. smjör (skorið í litla bita) • smá klípa kjúklingakraftur • salt • pipar • rjómi • smá olífuolía.   Schallot laukur svitað í potti með ólífuolíu. Hvítvín sett útí og soðið aðeins niður og rjóma svo bætt við og látið sjóða áfram í 1 mín. Kjúklingakrafti bætt við. Smjör sett útí smátt og smátt og hrært saman við. Kryddað til með salt og pipar.   Ég ætla að halda þessu í 87´árgangnum og skora á Ólaf Björgvin Skýliskóng að koma með næstu uppskrift. Ég hef aldrei orðið fyrir vonbrigðum með matinn í matarboðunum hans.  

Ástþór Hafdísarson er Eyjamaður vikunnar - Nær allar myndirnar seldust

Hinn ungi myndlistarmaður Ástþór Hafdísarson hélt sýningu á Slippnum á nýafstaðinni Safnahelgi sem fram fór dagana 2.-5. nóvember. Var sýningin vel sótt og seldust nær allar myndirnar sem til sýnis voru. Ásþór er Eyjamaður vikunnar.   Nafn: Ástþór Hafdísarson. Fæðingardagur: 7. mars 2008. Fæðingastaður: Vestmannaeyjar. Fjölskylda: Vá, það er eitt flókið dæmi. Ég á fullt af mömmum og pöbbum. Hafdís er mamma mín og svo á ég tvær stjúpmömmur sem heita Erna og Guðrún, svo heitir pabbi minn Jónas Þórir, blóðpabbi minn Andri og bónuspabbi minn heitir Gísli Matthías svo á ég litla systur sem heitir Oddný Bára og svo er eitt systkini væntanlegt í desember. Uppáhalds vefsíða: Ég er mjög mikið á Google.com. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Imagine dragons og Twenty one pilots. Aðaláhugamál: Aðaláhugamálið mitt er að teikna en annars hef ég líka mikinn áhuga á landafræði og fánum. Uppáhalds app: Instagram. Hvað óttastu: Chucky. Mottó í lífinu: Nei, ég er ekki kominn svo langt. Apple eða Android: Bæði betra. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Ég væri til í að hitta Messi. Hvaða bók lastu síðast: Ég er núna að lesa Tomma Teits. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Uppáhalds íþróttamaður er Messi en uppáhalds íþróttafélag er Arsenal. Ertu hjátrúafullur: Hvað er það? Örugglega ekki. Stundar þú einhverja hreyfingu: Nei eða ég er í leikfimi og sundi í skólanum og labba heim úr skólanum og svona en ég er ekki að æfa neina íþrótt lengur. Uppáhalds sjónvarpsefni: Náttúrulífsþættirnir hans David Attenborough. Komu margir á sýninguna: Já, mjög margir eða um 130 manns! Fékkstu góð viðbrögð: Já, mjög góð viðbrögð og ég er rosalega ánægður með þessa sýningu. Seldust margar myndir: Já, það seldust næstum allar myndirnar.  

Skemmtileg og áhrifarík leið til starfsþróunar kennara

Fimmtudaginn 26. október sl. voru haldnar svokallaðar Menntabúðir Visku í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum. Boðið var upp á kynningar á nýtingu upplýsinga- og tölvutækni í skólastarfi, t.d. rafræna kennsluhætti og námsaðlögun nemenda með sérþarfir þar sem hentug forrit voru kynnt fyrir gestum. Menntabúðir, eða EduCamp, er skemmtileg og áhrifarík leið til starfsþróunar kennara og hafa verið í þróun hér á landi síðan 2012. Upprunalega módelið af EduCamp kemur frá Kólumbíu og er meginmarkmiðið óformleg jafningjafræðsla og efling tengslanets þátttakenda. Meðal þess sem var á dagskrá var kynning á Keywe, en það er rafræn stílabók sem fyrrum handboltastjarnan Ólafur Stefánsson hefur verið að þróa síðustu ár í samstarfi við kennara og nemendur. Hið margverðlaunaða kennsluleiktæki Osmo var einnig á staðnum og gafst þátttakendum kostur á að prófa það auk þess sem sýnt var hvernig íslensk verkefni eru gerð í Osmo Words. Auk þess var Flettispjaldaforritið Quizlet.com, glærugerðarforritið Nearpod og myndbandsforritið Clips einnig kynnt fyrir gestum. Menntabúðir hafa verið haldnar víðs vegar um landið undir heitunum #Eymennt, #Austmennt, #Vestmennt, og #Kopmennt og er nú lagt upp með að stofna #Eyjamennt sem ef til vill færir út kvíarnar á Suðurlandið þegar fram líða stundir. Öll þessi lærdómssamfélög eiga sér spjallþræði á Twitter þar sem kennarar miðla og kynna viðfangsefni og aðferðir og ræða málefni tækninnar í skólastarfi.   Ánægð með útkomuna og stefna á aðrar menntabúðir á næsta ári Í samtali við Eyjafréttir sagði Valgerður Guðjónsdóttir í Visku hugmyndina að því að fara af stað með menntabúðir í Eyjum hafa sprottið út frá samtali sem hún átti við Bergþóru Þórhallsdóttur, fyrrverandi forstöðukonu Visku og fyrrverandi kennara og skólastjórn-anda í Eyjum. „Ég hef verið að fylgjast með hvað hún hefur verið að gera fyrir norðan og nú í Kópavogi og fannst þetta það spennandi að ég spurði hvort við ættum ekki að prófa þetta hér í Eyjum líka. Eftir það fór boltinn að rúlla. Begga er gríðarlegur frumkvöðull og frábært að fá hana með í þessa innleiðingu,“ segir Valgerður. Í kjölfarið var boðað til fundar með forsvarsmönnum allra skólastiga og þar var ákveðið að láta á þetta reyna. „Við sáum fljótt að húsnæði Visku væri of lítið og þess vegna varð Framhaldsskólinn fyrir valinu að þessu sinni. Það var náttúrulega alveg frábært að þátttakendur skyldu vera yfir 80 manns og erum við að springa úr stolti yfir hve vel tókst til og stefnum á aðrar Menntabúðir í febrúar 2018,“ segir Valgerður að lokum.  

Helga og Arnór og Gylfi kynntu Peter, Paul og Mary

Það var vel til fundið hjá þeim tónlistarhjónum, Arnóri Hermannssyni og Helgu Jónsdóttur að kynna söngtríóið Peter, Paul og Mary í Eldheimum á laugardagskvöldið. Ekki skemmdi að fá Gylfa, Einar Gylfa Jónsson, bróður Helgu til að kynna lögin og segja frá þeim og höfundum þeirra. Söngtríóíð Peter, Paul and Mary varð til í New York árið 1961 og náði miklum vinsældum með lögum eftir Bob Dylan og fleiri höfunda. Líka lögum eins og If I Had a Hammer, Cruel War, Leaving on a Jet Plane, Where Have All the Flowers Gone, 500 Miles, Lemon Tree, In the Early Morning Rain, All My Trials og Puff (The Magic Dragon). Nutu þau öll mikilla vinsælda og voru starfandi með hléum til ársins 2009 þegar Mary lést. Arnór og Helga leggja alúð í allt sem þau gera í tónlistinni, gott tónlistarfólk sem alltaf er gaman að hlusta á. Þau stóðu undir væntingum og vel það og kunnu gestir, sem fylltu salinn í Eldheimum vel að meta það sem fram var borið. Peter, Paul og Mary létu vel í eyrum á sínum tíma og flest lögin frábær en að þau hefðu verið miklir örlagavaldar í tónlistarsögunni hafði sá sem þetta ritar ekki hugmynd um. Gylfi hafði víða leitað fanga og kom manni flest á óvart. Það var ekki bara að þau hefðu komið lögum listamanna eins og Bob Dylan á framfæri. Þau tóku mörg eldri lög og komu þeim á þann stall í tónlistarsögunni sem þau eiga skilið. Þetta var ánægjuleg kvöldstund og þau hjónakorn losnuðu ekki fyrr en eftir þrjú aukalög. Og punkturinn yfir I-ið var fróðleikurinn um feril Peter, Paul og Mary sem Gylfi deildi með gestum. Eru Peter, Paul og Mary með mikilvægasta tónlistarfólki síðustu aldar.  

Frábær stund í Einarsstofu: Þar sem mjög ólíkir rithöfundar kynntu mjög ólíkar bækur

Dagskráin á laugardaginn hófst kl. 13 á bókakynningu í Einarsstofu. Kári Bjarnason forstöðumaður safnsins sagði í upphafi að um síðustu Safnahelgi hefði verið bryddað upp á þeirri nýbreytni að bjóða bókaforlagi að koma í heimsókn og kynna útgáfuna og taka með sér valda rithöfunda úr sínum röðum. Sagði Kári að hugmyndin að baki væri sú að bjóða upp á sem fjölbreyttasta kynningu. Það má segja að sú hugmynd hafi gengið vel eftir, því bækurnar og kynningarnar voru skemmtilega ólíkar. Fyrst kom Dögg Hjaltalín annar eigandi bókaforlagsins Sölku og kynnti útgáfustefnu forlagsins og helstu bækur sem einnig voru til sýnis. Þá komu rithöfundarnar og kynntu afar ólíkar bækur. Fyrst kom Stefán Gíslason með bók sína Fjallvegahlaup en hann ákvað þegar hann var fimmtugur að hlaupa 50 fjallvegi víðs vegar um landið fyrir sextugt og skrifa bók um ævintýrið. Hvoru tveggja tókst og það verður að segja eins og er að kynning Stefáns var afar lífleg og skemmtilegt. Næstur kom Sölvi Björn Sigurðsson sem sá um heildarútgáfu á ljóðum Tómasar Guðmundssonar skálds. Texti Sölva var ljóðrænn og lestur hans á völdum ljóðum Tómasar dásamlega sefjandi og gefandi. Að lokum voru gestir dregnir út á blóði drifna slóð spennuskáldsögunnar þar sem Sólveig Pálsdóttir kynnti nýjustu sögu sína, Refurinn. Sólveig er lærð leikkona og það kom vel í ljós í flutningi hennar. Frábær stund í Einarsstofu þar sem mjög ólíkir rithöfundar kynntu mjög ólíkar bækur.  

Gísli á Bólstað sem á sér engin landamæri

Það var vel mætt á útgáfuteiti Gísla Pálssonar á Bólstað í Eldheimum á föstudaginn. Bók Gísla, Fjallið sem yppti öxlum: Maður og náttúra, hefur vakið mikla athygli þar sem höfundur fetar nýjar slóðir. Fjallið er Helgafell og Heimaeyjargosið er að nokkru leyti sögusviðið en Gísli fer með þetta miklu lengra og setur Bólstaðarnafnið í víðara samhengi sem staðinn okkar allra, staðinn þar sem við búum, húsið, bæinn, landið og heiminn allan. Gísli sagði frá þessum hugleiðingum sínum og las kafla úr bókinni. Athyglisverður er kaflinn sem segir frá upphafi gossins sem svo sannarlega sendi boð á undan sér. En þrátt fyrir Surtseyjargos tíu árum fyrr voru Eyjamenn alveg grandalausir. „Getur maður átt samleið með fjöllum og hraunbreiðum? Myndað náið samband við atburði í jarðsögunni?“ er spurt i bókarkynningu þar sem segir að bókin fjalli á nýstárlegan hátt um „jarðsambönd“ fólks sem ekki eru síður mikilvæg en tengsl þess við samborgara sína. Gísli segir frá bernsku sinni í nábýli við iðandi eldfjöll, mannlegu drama andspænis náttúruvá og þeim ógnum sem steðja að lífríki jarðar. Glíma manna við jarðelda, ekki síst í Heimaeyjargosinu árið 1973, opnar honum óvenjulega sýn inn í vanda jarðarbúa á svokallaðri mannöld sem einkennist af skaðlegum og oft óafturkræfum áhrifum manna á bólstaði sína og jörðina sjálfa.“ Þarna fara saman hönd í hönd rithöfundurinn og mannfræðingurinn og tilhlökkunarefni að lesa hvernig til tekst. Kynningin lofar góðu og Gísla vel tekið og ekki skemmdi að Hermann Ingi var mættur og tók nokkur lög.  

Atkvæðagreiðsla um rekstur á nýrri Herjólfsferju ótímabær að mati bæjarstjórnar

 Á fundi bæjarráðs í gær var m.a. tekið fyrir erindi frá Elís Jónssyni frá 30. október sl. þar sem hann óskar eftir afstöðu bæjarstjórnar til þess að Vestmannaeyjabær hafi frumkvæði að íbúakosningu um rekstur  á nýrri Herjólfsferju. Í svari bæjarráðs kemur fram að allt tal um atkvæðagreiðslu sé ótímabært í ljósi þess að einungis drög að samningum liggja fyrir eins og er.   Bókun bæjarráðs er svo hljóðandi:   Bæjarráð þakkar erindið og tekur undir margt af því sem þar kemur fram. Bent er á að bæjarstjórn hefur á öllum tímum nálgast samgöngumál af einhug og látið sér annt um að sátt sé um þau. Til marks um það þá hafa langflestir liðir sem þeim tengjast verið samþykktir samhljóða amk. frá árinu 2006 óháð fólki og flokkum. Tilgangur með störfum í bæjarstjórn er enda að sameina fólk um mikilvæg mál frekar en að sundra. Til að fyrirbyggja misskilning vill bæjarráð benda bréfritara á að samkvæmt viljayfirlýsingu sem kynnt hefur verið er eingöngu unnið út frá því að Vestmannaeyjabær reki Herjólf í 2,5 ár og að skýrt sé að framlög ríkisins standi undir kostnaði við reksturinn. Áhættan er því afar takmörkuð ef samningur verður yfirhöfuð gerður. Þá bendir bæjarráð á að enn er allt tal um atkvæðagreiðslu um samning ótímabær enda liggur ekki fyrir svo mikið sem drög að slíkum samningi. Enn hefur ekki svo mikið sem verið haldinn fundur um málið með Vegagerð og/eða Samgönguráðuneyti eftir að viljayfirlýsing var undirrituð. Það liggur því í hlutarins eðli að ekki er hægt að boða til kosninga um mál sem enn er algerlega óvíst að komi nokkuri sinni til afgreiðslu bæjarstjórnar. Í erindi bréfritara er óskað eftir afstöðu til þess að Vestmannaeyjabær hafi frumkvæði að því að fram fari íbúakosning um málið og vill bæjarrráð taka skýrt fram að ráðið er ætíð opið fyrir samstarfi, samvinnu og upplýstri umræðu um allt sem tengist hagsmunum Vestmannaeyjabæjar. Með það í huga samþykkir bæjarráð að haldinn verði almennur og opinn fundur um stöðu málsins þar sem stýrihópnum sem farið hefur fyrir málinu ásamt þeim fagmönnum sem til verksins hafa valist, kynna stöðu þess, framvindu og væntingar. Þar verði sérstök áhersla lögð á að hlutlausir aðilar upplýsi um mögulega áhættu og ávinning ef til þess kemur að Vestmannaeyjabær taki að sér rekstur Herjólfs.  

Lúðrasveitin með tónleika kl.14:00 laugardag

Lúðrasveit Vestmannaeyja heldur sína árlegu tónleika laugardaginn 11.nóvember kl.14.00 í Hvítasunnukirkjunni. Þessir tónleikar eru yfirleitt hápunktur starfsársins og bætast þá í hópinn gamlir félagar af meginlandinu og lagður er mikill metnaður í fluting og efnisskrá.   Að þessu sinni mætti segja að tónleikarnir verði “léttari” en oft áður. Má þar nefna að flutt verða verk frá Elvis, Bítlunum, Led Zeppelin, Coldplay, Muse og fleiri góðum. Einnig verður hefðbundnari lúðrasveitartónlist í einhverjum mæli á dagskránni og að sjálfsögðu verður líka boðið upp á tónlist Oddgeirs Kristjánssonar, en hann stofnaði Lúðrasveit Vestmannaeyja 22.mars 1939 og stjórnaði henni til dánadags. Stjórnandi sveitarinnar í dag er Jarl Sigurgeirsson.   Starf Lúðrasveitarinnar hefur gegnið í gegnum hæðir og lægðir eins og gengur og gerist, en stuðningur og velvild bæjarbúa hefur í gegn um tíðina verið okkur hvatning til að halda starfinu áfram. Svona félagsskapur er náttúrulega ekkert annað en félagarnir sjálfir sem að starfinu koma. Þessir árlegu tónleikar eru kenndir við styrktarfélaga sveitarinnar, en það er hópur fólks sem stendur að baki Lúðrasveitinni sinni með árlegum fjárstyrk. Það er okkur mikils virði fjárhagslega, en ekki síður félagslega að finna þann þá velvild sem í samfélagi okkar býr í garð sveitarinnar.   Oftast hafa þessir tónleikar verið um safnahelgi en viðburðir safnahelgar voru orðinr svo margir og árekstar við aðra dagskrárliði þannig að ákveðið var að færa tónleikana. Hefur það verið unnið í góðu samstafi við Vestmannaeyjabæ sem verður með kynningu í Eldheimum kl.16.00, Leikfélagið, sem verður með sína frumsýningu kl.17.00 og aðstandendur Samferða sem halda sína styrktartónleika í Höllinni á laugardagskvöldið. Það verður því nóg um að vera og er varla hægt að segja að menningarþurrð sé að angra okkur hér í Eyjum.   Lúðrasveit Vestmannaeyja lofar því að engin verði svikinn af því að mæta á hressilega lúðrasveitartónleika áður en haldið verður á aðra viðburði laugardagsins.  

Samferða góðgerðarsamtök með tónleika á laugardaginn

Samtökin Samferða voru stofnuð haustið 2016 og í stjórninni sitja Rútur Snorrason, Örvar Þór Guðmundsson, Hermann Hreiðarsson, Brynja Guðmundsóttir og Sigurlaug Ragnarsdóttir. „Allir sem koma að þessu gefa vinnu sína. Þeir sem fá peningagjöf er yfirleitt fólk sem hefur verið að glíma við lífsógnandi sjúkdóma en við í samtökunum höfum verið að vinna með góðu fólki sem hjálpar okkur; það er annars vegar Ragnheiður Davíðsdóttir hjá Krafti og Krabbameinsfélagið. Svo er séra Vigfús Bjarni Albertsson hjá Barnaspítala Hringsins en hann er verndari samtakanna. Við höfum verið að fá ábendingar frá þessu fólki og eins frá íslensku þjóðinni,“ segir Rútur. Frá árinu 2012 hafa hátt í annað hundrað fjölskyldur notið góðs af söfnuninni og hafa í allt safnast um 15 milljónir króna. Frá því samtökin voru stofnuð fyrir um ári síðan hafa safnast tæplega fimm milljónir og er búið að styrkja 36 fjölskyldur. „Þetta er fólk sem á lítinn sem engan pening og glímir einhver úr fjölskyldunni við krabbamein eða annan lífshættulegan sjúkdóm; fyrirvinnan er kannski dottin út af vinnumarkaðnum út af veikindunum. Tekjurnar hafa minnkað mikið og á móti er kominn hellings læknis- og lyfjakostnaður. Við björgum þessu fólki ekki en við gerum okkar besta til að létta aðeins undir.“   Tónleikar Fram undan eru tónleikar þar sem allir listamenn munu gefa vinnu sína og ágóðinn rennur til þeirra sem minna mega sín. „Haldnir verða tónleikar í Vestmannaeyjum 11. nóvember þar sem Eyjamenn stíga á stokk og aðrir tónleikar verða haldnir í Hafnarfirði 26. nóvember og þá munu hafnfirskir listamenn koma fram. Við ætlum að reyna að halda svona tónleika víða um land svo sem á Akureyri og á Egilsstöðum. Það hefur aldrei skipt máli hvar fólk á heima og höfum við afhent fólki út um allt land þann pening sem hefur safnast síðastliðið ár.“ Langtímamarkmið Samferða er að ávinna sér trú og traust fólksins í landinu og að geta glatt sem flesta. „Það er svo mikið af fólki þarna úti sem er að glíma við alls konar erfiðleika og veikindi. Við í stjórninni metum hverja umsókn fyrir sig á hverjum fundi en við komum saman í hverjum mánuði og styrkjum þá eina til fjórar fjölskyldur. Svo er allt sett á fullt í desember en þá verða þetta nokkrir tugir fjölskyldna sem við styrkjum. Við hringjum í fólk og sjáum síðan til þess að búið sé að millifæra pening inn á viðkomandi áður en samtalinu lýkur. Stjórnarmenn borga úr eigin vasa ef einhver kostnaður fellur til. „Svo endurskoðar Deloitte allt bókhaldið og gerir það ókeypis.“   Gefandi Rútur segir þetta mjög gefandi fyrir fólkið í stjórn Samferða. Og það sé alveg ljóst að samtökin eru komin til að vera hér á landi. „ Ég er stoltur af Samferða – okkar framtíðarsýn og fyrir það sem við stöndum fyrir og vonandi verður þetta eitthvað sem fleiri taka sér til fyrirmyndar í framtíðinni. Að lokum langar mig til að segja ykkur öllum að það er aðeins hægt að finna okkur inná Facebook síðu Samferða: https://www.facebook.com/samferdafoundation/. Stracta Hotel gaf okkar samtökum 200.000 króna gjafabréf sem einhver heppinn mun vinna seinna í nóvember sem líkar við síðuna okkar. Við viljum auðvitað hafa alla þjóðina með okkur í þessu því við erum öll í þessu fyrir hana.“ Rútur sagði líka gaman að segja frá því að þau hafa átt einstaklega gott samstarf við bæði Leikfélag Vestmannaeyja og Lúðrasveit Vestmannaeyja um tónleikana. „Eins og allir Eyjamenn vita, þá er 11. nóvember stór dagur í Eyjum. Leikfélagið frumsýnir á laugardaginn og Lúðrasveitin heldur sína árlegu tónleika, þennan sama dag. Ég vona því að sem flestir Eyjamenn nýti sér það sem í boði er,“ sagði Rútur að endingu.  

SLIPPURINN x Austur-Asía

Á föstudaginn nk. ætlar Gísli Matthías og fjölskylda að slá upp asískri veislu á Slippnum. Aðspurður sagði Gísli að fjölskyldunni langaði að hafa opið valdar helgar á veturna ef áhugi væri fyrir því í Eyjum. „Okkur langar að hafa kvöldin svolítið óhefbundin og aðeins öðruvísi á Slippnum á sumrin. Ef vel gengur er aldrei að vita nema við bætum við álíka kvöldum í vetur,“ sagði Gísli. Aðspurður um tilefnið sagði hann að það væri í raun ekkert svoleiðis: „Okkur langar bara að þjónusta heimafólk á þennan hátt, og í framtíðinni langar okkur að stækka tímabilið í báðar áttir. En eins og stendur er staðurinn í raun bara alltof stór til þess að hann myndi standa undir sér í rekstri yfir þessa mánuði.“ Í þetta skiptið ætla þau að vera með þema í austur asískum stíl í bland við þema Slippsins við íslenska matargerð. „Ég fór fyrr á árinu til Hong Kong að kynna íslenska matargerð og gjörsamlega varð ástfanginn að aðferðunum í matargerðinni þar, og fannst ótrúlegt hvað hún á í raun og veru skylt með norrænni matargerð að vissu leyti - þá sérstaklega sú japanska, einfaldleikinn í bragðsamsetningum spilar þar stóran þátt. Við munum bjóða uppá í raun og veru uppáhaldsréttina okkar frá Japan, Kína, Tælandi og Suður-Kóreu en nota samt norrænt hráefni í bland við það og skapa eitthvað sem ekki er hægt að fá neinsstaðar annarsstaðar,“ sagði Gísli. Gísli sagði að verðinu yrði stillt í algjört hóf og mun kosta 7990 kr í forsölu á mann fyrir hátt í tíu rétti. „Þemað á kvöldverðinum verður þannig að allir mæta klukkan 19.00 og úr verður algjör veisla. Ef vel verður selt í forsölu þá bætum við laugardeginum við. Þó svo að maturinn sé kannski svolítið óhefbundin og ólíkur því sem Slippurinn hefur boðið upp á fram að þessu þá er útgangspunkturinn alltaf sá að búa til bragðgóðan mat sem gengur ofan í alla en er samt framandi,“ sagði Gísli. Matseðillinn er vægt til orða tekið spennandi og má sjá hér að neðan:   JAPAN Sushi rúllur: LAX, gerjaður hvítlaukur & lárpera. Leturhumar, spicy majó & mangó. SMÁLÚÐA með basilrjómaosti & agúrku.   KÓREA KFC (korean fried chicken) með sesam, lime & söl vinagrette. STEAM bun með norrænu kimchi, grísakinnum & gúrkum.   TÆLAND GRÆNT karrí með seljurót & límónu laufum. Bok Choi & hvítlaukur.   KÍNA PEKING andalæri & fried rice. TÍGRISRÆKJU dumplings með rjómaostkremi. LAMB dumplings með engifer & kóríander.  

Skemmtileg og litrík sýning fyrir alla aldurshópa

Leikfélag Vestmannaeyja mun frumsýna leikritið Klaufar og kóngsdætur nk. laugardag en verkið er byggt á nokkrum af vinsælustu ævintýrum danska skáldsins H.C. Andersen. Árni Grétar Jóhannsson leikstýrir verkinu en hann er menntaður leikstjóri frá Rose Bruford College of Theatre and Drama í London. Árni Grétar leikstýrði einnig Benedikt búálfi fyrir LV í fyrra en þar fyrir utan hefur hann unnið hjá Frystiklefanum á Rifi, sem er lítið atvinnuleikhús, ásamt því að setja á svið leikrit fyrir hina ýmsu framhaldsskóla. Blaðamaður ræddi nánar við Árna Grétar og Unni Guðgeirsdóttur, formann LV.   Þekkt verk H.C. Andersen soðin saman í eina sýningu Eins og fyrr segir er stefnt á að frumsýna leikritið nk. laugardag, 11. nóvember, þ.e.a.s. ef allt gengur að óskum. „Klaufar og kóngsdætur var upphaflega samið fyrir Þjóðleikhúsið fyrir um tíu árum síðan, til heiðurs H.C. Andersen sem hefði þá orðið 200 ára. Þar voru tekin öll hans helstu og þekktustu ævintýri og soðin saman í eina sýningu sem nefnist Klaufar og kóngsdætur. Verkin sem um ræðir eru Eldfærin, Hans klaufi, Svínahirðirinn, Næturgalinn, Förunauturinn og Litla stúlkan með eldspýturnar. Það er óhætt að segja að það sé stiklað á stóru í nútímalegri útgáfu, mikið af húmor og hressleika. Svo er hellings tónlist í þessu þannig að þetta er hálfgerður söngleikur líka,“ segir Árni Grétar. Í mörgum hlutverkum eru ungir leikarar sem eru að taka sín fyrstu skref í sviði leiklistar og ef marka má orð þeirra Árna og Unnar þá er áhuginn á leiklist gríðarlegur meðal ungmenna í Vestmannaeyjum. „Í fyrra vorum við með ágætis hóp af krökkum í Benedikt búálfi og þar sem flestir svo spenntir að koma aftur ákváðum við að hafa lítið helgarnámskeið. Það spurðist fljótt og örugglega út í Grunnskólanum og fengum við þrefalt fleiri en við bjuggumst við að fá. Í framhaldinu ákváðum við að velja verk þar sem við gætum boðið öllum sem vildu taka þátt að komast á svið, þó svo hlutverkin yrðu náttúrulega misstór. Stefnan var s.s. að byggja upp enn þéttari grasrót í leikhúsinu og þetta verk var fyrir valinu en um 30 krakkar taka þátt í sýningunni og sumir með allt að fimm hlutverk,“ segir Árni Grétar.   Kúnst að finna jafnvægi milli aga og leiks Hvernig er að leikstýra krökkum? „Það er auðvitað ákveðin áskorun, ég tala náttúrulega ekki um þegar það eru þetta margir. Maður vill líka alltaf halda í gleðina og hafa þetta gaman og getur verið vandasamt að finna jafnvægið á milli aga og vinnu annars vegar og leiks hins vegar. En þetta hefur gengið vel, það er mikið af talentum í hópnum og áskorunin því bara ánægjuleg. Við höfum líka kallað eftir aðstoð foreldra og þeir hafa verið ótrúlega jákvæðir, duglegir og virkir. Þegar við báðum t.d. um hjálp við smíðar þá komu ótal hendur á loft. Sömu sögu má segja með smink- og búningsherbergin, foreldrarnir er boðnir og búnir og taka fullan þátt sem er ómetanlegt og ekki sjálfgefið,“ segir Árni Grétar. Hægt er að taka leikhúsið sem val í Grunnskólanum og hentar það afar vel fyrir þá einstaklinga sem finna sig t.d. ekki í hópíþróttum og segir Unnur marga krakka hafa hreinlega umbreyst eftir að hafa tekið þátt í starfinu. „Ég get eiginlega bara lýst því, krakkar sem voru mikið til baka eru farnir að láta mikið til sín taka.“ Árni tekur í sama streng og segir leikhúsið góðan vettvang fyrir óframfærna krakka. „Maður kemst ekki upp með neitt annað í leikhúsi en að starfa með öðrum og vinna í hóp. Leikhúsið krefst einnig mikils aga og kennir krökkunum að vinna, virða hvert annað og mynda samheldin hóp sem hefur eitt sameiginlegt markmið. Það er ótrúlega dýrmætt fyrir marga krakka. Það hefur orðið alveg ótrúleg breyting á krökkunum frá því þeir komu fyrst og hvað þá heldur þegar kemur að frumsýningunni. Þau neyðast til að láta rödd sína hljóma og það er eðli leikhússins að draga út styrkleika fólks, bæta framkomu og sjálfsöryggi sem fylgir því út í lífið. Að lokum lofa Árni Grétar og Unnur mjög skemmtilegri og litríkri sýningu. „Við erum með hátt í hundrað búninga sem gerir það að verkum að það verður mikið líf og fjör baksviðs þegar 30 manns verða að skipta um búninga og þess háttar. Þetta verður lifandi, skemmtileg og fyndin sýning. Þess má einnig geta að við lentum í smá basli með tónlistina í sýningunni en Gísli Stefánsson bjargaði okkur algjörlega og sömuleiðis Kolbrún Sjöfn Sigurbjörnsdóttir sem sá um að sauma erfiðustu búningana fyrir okkur. Við skorum bara á alla að mæta í leikhúsið því þetta er menning og ef fólk vill viðhalda menningunni þá verður það að mæta, við þurfum á því að halda. Og þó þetta sé í grunninn barnasýning þá mælum við með þessu fyrir alla því húmorinn er þannig að allir hafa gaman af.“    

Siðbótin 500 ára

 Þann 31. október árið 1517 negldi þýski munkurinn Marteinn Lúther 95 greinar á hurð Hallarkirkjunnar í Wittenberg í Þýskalandi þar sem hann starfaði. Í þeim gerði Lúther grein fyrir því sem honum fannst slæmt í boðun, stjórn og starfsháttum rómversk-kaþólsku kirkjunnar á þeim tíma og þá sérstaklega gagnvart hinum fátæku sem þurftu að kaupa dýrum dómum svokölluð aflátsbréf sem sönnuðu formlega fyrirgefningu synda þess sem keypti. Í greinunum lagði hann grunn að kenningu sinni um réttlætingu af trú en hann taldi að sérhver kristinn manneskja væri frelsuð og elskuð af Guði fyrir trú sína en ekki verk eða keypt aflátsbréf. Í því fólst mikill trúfræðilegur munur milli hans og rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Gjörðir Lúthers leiddu til áhrifaríkrar atburðarásar og á endanum varð hann bannfærður af rómversk-kaþólsku kirkjunni og m.a.s. gerður réttdræpur. En í framvindu tímans spruttu upp mótmælendakirkjur víða um heim sem ein af mörgum greinum kristindómsins. Ein af þessum kirkjum er Þjóðkirkjan okkar. Þessa viðburðar fyrir 500 árum síðan hefur verið minnst með margvíslegum hætti víða um heim, frá Japan í austri til Kanada í vestri og frá Namibíu í suðri til Íslands í norðri. Guðsþjónustur helgaðar minningu siðbótarinnar, leikrit og útgáfur bóka um ævi Lúthers, málþing og fyrirlestraraðir og m.a.s. Playmobil-fígúra af Lúther og bjórbrugg í anda siðbótartímans hafa verið liðir í að minnast siðbótarinnar hér á landi. En hvers vegna fögnum við og hvaða þýðingu hefur þessi atburður nú á dögum? „Sannleikurinn mun gjöra yður frjáls“ eru orð frelsara okkar og það er kannski ekki síst nú í nútímanum sem sannleikur svo margra hluta er okkur nálægur, jafnvel í tækjum lófans. En stundum dúkkar upp í mannlegri tilveru og samfélagi óvæntur, óþægilegur og jafnvel ógeðslegur sannleikur einhverra hluta vegna. Að ýmsum málum getur verið rangt staðið, illskan í ýmsum myndum smeygt sér í náungann eða að einstaklingar sem vandastörfum gegna í almannaþágu hafi sitthvað dularfullt í pokahorninu og standi því á ystu nöf Siðferðiskletts. Því skiptir miklu máli hvernig við meðhöndlum sannleikann og umberum hann og gerum grein fyrir því hver hann er hverju sinni. Það er kannski ekki hyggilegt að afhjúpa sannleikann til þess eins að afhjúpa sannleikann því friðhelgi einkalífsins hefur sannarlega sína landhelgi. En þegar sannleikurinn hefur áhrif á okkur og snertir almennan hag okkar og samfélagsins ber okkur að vera forstöðumenn sannleikans og réttlætisins. Sannleikurinn sem felst í því að þekkja sjálfan sig og hvar við stöndum í hinu stóra samhengi gagnvart okkur sjálfum, náunganum og almættinu er e.t.v. sannleikurinn mesti. Lúther stóð með því sem hann taldi satt og rétt og einmitt því fögnum við nú. Sannarlega má margt betur fara í samfélaginu hverju sinni, hver svo sem öldin er, og siðbótin sem nú fagnar 500 ára afmæli er áminning þess efnis en er jafnframt tækifæri og tilefni til að berjast fyrir því sem er satt og rétt og standa við okkar eigin sannfæringu. Þá verðum við ekki þrælar undirförulsháttar sem aldrei hefur lagst vel á sálarlífið. Og þess vegna gerir sannleikurinn okkur frjáls. Gleðilega siðbót!   Sr. Guðmundur Örn Jónsson og sr. Viðar Stefánsson.

Söfn og sýningar á Suðurlandi

Á dögunum var sett af stað eitt áhersluverkefni Sókaráætlunar Suðurlands á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS). Það eru samtals 14 söfn og/eða sýningar á Suðurlandi sem taka þátt í verkefninu. Um er að ræða verkefni þar sem söfnin/sýningarnar hanna og þróa fræðsluefni fyrir gesti á grunnskólaaldri. Afurðinni er ætlað að efla fræðsluþátt safnanna/sýninganna sem og að efla möguleika þeirra til vaxtar, þróunar og styðja við viðkomandi safn eða sýningu. Meginmarkmið með verkefninu er að laða að gesti á grunnskólaaldri, fjölskyldur og grunnskóla. Afurðin verður hönnuð með grunnskólaaldur í huga og getur fræðsluefnið verið fjölbreytt og með ólíkar áherslur í upplifun, miðlun og fróðleik þar sem gestir geta jafnvel unnið verkefni á staðnum eða tekið þátt í því meðan á heimsókn þeirra stendur. Verkefnið tengist flestum meginþáttum í Sóknaráætlun Suðurlands og þá sérstaklega markmiðunum um að menning og listir fái aukið vægi í uppeldi og kennslu barna, sem og að auka samstarf og verkefnaþróun sem leiði til eflingar og sýnileika menningarlífs á Suðurlandi. Vinnan við verkefnin er þegar hafin og ráðgert er að söfnin/sýningarnar kynni afurðir sínar í lok maí 2018 og í framhaldinu verður efnið aðgengilegt hjá öllum þeim sem tóku þátt.   Söfnin sem taka þátt eru: Byggðasafn Árnesinga Sagnheimar Vestmannaeyjar Sæheimar Vestmannaeyjar Skálholt Hveragarðurinn Hveragerði Skjálftinn 2008 Hveragerði Menningarmiðstöðin Höfn Listasafn Árnesinga Skógasafn Skaftfellingur Íslenski bærinn Þorbergssetur Hala í Suðursveit Njálurefill Vatnajökulsþjóðgarður     Meðfylgjandi mynd var tekin á fyrsta kynningarfundi verkefnisins en á myndinni eru auk aðstandenda verkefnisins, fulltrúar Byggðasafns Árnesinga, Sagnheima Vestmannaeyja, Sæheima Vestmannaeyja, Skálholts og Listasafns Árnesinga ásamt Þórði Frey Sigurðssyni sviðsstjóra Þróunarsviðs SASS. Auk þeirra eru á myndinni Eva Þengilsdóttir listakona og Heiða Linda Sigurðardóttir listgreina kennari sem voru með erindi á fundinum.    

Keppti í amerískum fótbolta á Mallorca

Eyjamaðurinn Heiðar Smári Ingimarsson var í liði Einherja sem sigraði spænska liðið Mallorca Voltors í amerískum fótbolta á dögunum en leikurinn fór fram ytra. Einherjar voru stofnaðir í núverandi mynd árið 2015 en þangað til hafði stór hluti liðsins æft saman um árabil.   Hafa unnið þrjá af fimm leikjum sínum Til að byrja með spiluðu leikmenn liðsins einungis innbyrðis en árið 2016 var ákveðið að taka næsta skref og spila leiki við erlend lið. „Við spiluðum á móti Asane Seahawks fyrst í mars 2016 og unnum þá 50:0 sigur. Síðan þá höfum við spilað í heildina fimm leiki og unnið þrjá af þeim,“ sagði Heiðar þegar blaðamaður náði tali af honum um helgina en þá var Heiðar einmitt staðsettur uppi á hótelherbergi á Mallorca, allur lurkum laminn, blár og marinn og með brunasár í þokkabót eftir sigur á heimamönnum. Aðspurður hvenær hann hafi fyrst farið að fylgjast með amerískum fótbolta segir Heiðar áhugann hafa sprottið upp fyrir um tíu árum síðan. „Fyrstu afskipti mín af alvöru amerískum fótbolta eru í Féló árið 2006 spilandi tölvuleikinn Madden með liðsfélaga mínum. Ég var fljótur að kaupa leikinn sjálfur og spilaði hann mikið heima. Hef verið mikill áhugamaður um NFL allar götur síðan.“   Nýtti hvert tækifæri til að mæta á æfingu í bænum En hvenær byrjaðir þú að stunda íþróttina sjálfa? „Ég kem fyrst á æfingar árið 2011 og þá bara þegar ég átti erindi í bæinn t.d. þegar ég var að spila með körfuboltaliðinu. Svo fór ég að geta mætt oftar og tók ég margar ferðir með það eina markmið að kíkja á æfingar þangað til að ég flutti loksins í bæinn í byrjun árs,“ segir Heiðar sem getur leyst fleiri en eina stöðu inni á vellinum. „Í gegnum allan þennan tíma hef ég spilað fullt af stöðum en þó aðallega í línu, bæði í vörn og sókn þó talsvert meira í vörninni.“ Hingað til hefur Einherji tekið á móti andstæðingum sínum á Íslandi en að þessu sinni fékk liðið boð um að fara út til að spila. „Venjulega höfum við þurft að leita uppi lið til að taka ferðina á klakann og spila við okkur en í þetta skipti höfðu Mallorca Voltors samband við okkur og vildu endilega fá okkur í heimsókn. Þeir munu leika í efstu deild á Spáni næsta tímabil og ákváðu því að setja af stað árlegt „pre-season“ mót, Trofeo Ciudad de Palma, og vilja þeir sérstaklega reyna að fá nýja öfluga erlenda leikmenn til að spila við. Leikurinn var svo spilaður í frábæra veðrinu í Mallorca og unnum við 21-14,“ segir Heiðar.   Hvetur áhugasama til að fylgjast með Næst á dagskrá hjá Einherjum er líklegast leikur gegn sænska liðinu Stockholm Mean Machines og hvetur Heiðar áhugasama um að fylgjast með. „Þeir eru mjög öflugir vitum við og hefur einn af okkar leikmönnum spilað með þeim áður. Sá leikur verður væntanlega í Kórnum og hvet ég forvitna til þess að fylgjast með.“  

Anna Kristjánsdóttir segir frá tilurð bókarinnar

„Á vormánuðum síðastliðið vor hafði Guðríður Haraldsdóttir samband við mig vegna bókarskrifa eftir að Guðjón Ingi Eiríksson bókaútgefandi hjá Hólum hafði haft samband við hana og farið fram á ritun bókar um ævi mína. Þetta var mér ekkert á móti skapi enda átti ég mikið efni í stafrænum skúffum heima sem ég hafði párað niður á löngum tíma,“ segir Anna Kristjánsdóttir sem ætlar að lesa upp úr og kynna bók sína, Anna, eins og ég er í Sagnheimum í hádeginu á sunnudaginn. „Fyrst var farið fram á að skrá sögu mína á meðan ég bjó enn í Svíþjóð, en blaðakona sem hafði ritað blaðagreinar um mig þar og starf mitt fyrir samtök transfólks í Svíþjóð vildi halda áfram með skrifin og skrá söguna alla. Ég var hinsvegar enganveginn tilbúin til þess á þeim tíma vegna ósættis fjölda fólks við mig auk þess sem slík skrif gætu komið sér illa fyrir mig síðar meir. Ég hafnaði því hugmyndinni sem og annarri ósk sama eðlis nokkrum árum síðar frá annarri sænskri vinkonu minni.“ Anna segir að eftir að hún hóf að blogga um miðjan síðasta áratug hafi hún skrifað eina og eina endurminningu, bloggað um sumt en annað hafnaði í skúffunni alræmdu og gleymdist þar. „Einhverjar tilraunir voru þó gerðar til bókarskrifa, en bæði var enginn útgefandi reiðubúinn og eins var ég fremur ósamvinnuþýð enda ekki allra. Þegar við Gurrí hófum samstarf okkar reyndi talsvert á samvinnuna, við vorum ósammála um flesta hluti í upphafi en náðum samt samkomulagi um flest. Eins var ljóst að ýmislegt sem ég hafði skráð mátti alveg missa sín og annað kom í staðinn og þá var ósk frá útgefanda um að hafa bókina fremur stutta og hnitmiðaða og sleppa óþarfa málalengingum,“ segir Anna sem þekkir vel til í Vestmannaeyjum. „Einhverjar ferðir fór ég í sumar á milli Reykjavíkur og Akraness á Akranesferjunni með félögum vorum af Herjólfi, þeim Steinari Magnússyni og Halldóri Waagfjord, fór á Skagann að morgni og kom heim aftur að kvöldi og stuttar ferðirnar urðu einnig til að hugmyndir komust á flug og bættu bókina við frágang textans. Að lokum má geta þess að svarthvíta myndin af mér með skegg á forsíðu bókarinnar var tekin í Esbjerg haustið 1977 er við vorum þar á henni Vestmannaey þegar við fengum flottromluna um borð og ég þurfti að endurnýja vegabréfið mitt sem hafði runnið út þá um haustið,“ segir Anna að lokum.  

Hvað varð um manninn sem hún elskaði?

„Hann hafði verið maðurinn í lífi mínu, með honum átti ég fallegustu og æðisgengnustu daga og nætur ævinnar á dögum undirliggjandi ótta og einræðisstjórnar þýska alþýðulýðveldisins. Af hverju hvarf hann fyrirvaralaust úr lífi mínu?
Af hverju heyrðist ekkert í honum eftir að múrinn féll? Hafði hann eitthvað að fela?“ segir Kristín Jóhannsdóttir um bók sína, Ekki gleyma mér sem hún kynnir í Sagnheimum klukkan hálf sex á morgun, fimmtudag. Kristín hélt til náms austur fyrir járntjald árið 1987. Sú vist átti eftir að marka hana fyrir lífstíð. Í tvo áratugi
 sat hún á sér en gat svo ekki meir. Hafði maðurinn sem hún elskaði bara verið ómerkilegur Stasí-njósnari? Hvað með aðra vini sem hún eignaðist á þessum sögulegu tímum? Kristín Jóhannsdóttir er forstöðumaður Eldheima 
í Vestmannaeyjum. Hún var um langt árabil fréttaritari Ríkisútvarpsins í Berlín. „Ekki gleyma mér
 er áhrifamikil minningasaga þar sem hún gerir upp heitar nætur í köldu stríði í einræðisríki á fallanda fæti. Þetta er hrífandi bók sem dregur upp áleitna mynd af veröld sem var og lætur engan ósnortinn,“ segir í bókarkynningu. Kristín Jóhannsdóttir er fædd 1960 og uppalin í Vestmannaeyjum. Eftir stúdentspróf frá MH lá leiðin til Noregs, en Kristín bjó í Osló og vann á skrifstofu Flugleiða í tvö ár. Eftir það fluttist hún til Þýskalands, en hún bjó bæði í austur- og vesturhlutanum þ.e. Freiburg, Berlín, Leipzig og Frankfurt í 20 ár. Kristín stundaði nám í Freiburg, Berlín og Leipzig og lauk magisterprófi í bókmenntum og sagnfræði árið 1991 frá Frei Universität í Berlín. Eftir nám varð Kristín fréttaritari RÚV í Berlín. Hún gegndi því starfi í 10 ár á sögulegu tímabili eftir fall múrsins 1989. Hún var kynningar- og markaðsstjóri Icelandair í Þýskalandi frá 2000 til 2004, en þá kölluðu heimahagarnir. Frá 2004 hefur hún búið í Vestmannaeyjum séð þar um ferða- og markaðsmál m.m. Frá opnun Eldheima, nýja eldgosasafnsins í Eyjum hefur hún verið forstöðumaður safsins. Kristín hefur unnið við fararstjórn víða um heim frá því á námsárunum.  

Veikindin ýttu mér aftur í listina

„Síðan ég man eftir mér hef ég stefnt á myndlistina og var síteiknandi og málandi öllum stundum, stundum urðu jafnvel veggirnir í herberginu mínu fyrir barðinu á mér ef pappír vantaði. Á yngri árum fór ég að finna fyrir óútskýranlegum verkjum í fótunum sem urðu það slæmir sumar nætur að ég grét fram á morgun. Læknar skildu ekki í neinu og ég fór að sjá sjálfa mig sem óhemju og dramadrottningu sem þyldi ekkert áreiti því þannig upplifði ég oft viðbrögð fólks þegar ég fann óeðlilega til eftir meiðsli eða eftir mikla áreynslu eða álag,“ segir Perla Kristinsdóttir sem verður með myndlistarsýningu í Safnahúsinu sem verður opnuð formlega á föstudaginn.   Perla heldur áfram að lýsa veikindum sínum sem markað hafa líf hennar. „Að lokum reyndi ég að hætta eftir bestu getu að kvarta undan verkjum og svefnleysi en snemma á tvítugsaldrinum fór ég að missa máttinn í höndunum líka og var ég svo loks greind með vefjagigt, reyndar tvisvar því ég fór í svo mikla afneitun í fyrri greiningunni að ég var greind aftur þegar ég sneri aftur til læknis rúmlega ári seinna og með árunum dreifðist gigtin í restina af líkamanum. Ég hef lært að lifa með þessum verkjum og haldið þeim niðri með hollu mataræði, hreyfingu og hvíld en það sem virkar einnig er að halda niðri stressinu.“   Gildir að vera vel gift Perla segist fljótt hafa áttað sig á því að ef hún ætlaði að eiga færi á að taka þátt í að veita fjölskyldu sinni fjárhagslegt öryggi yrði hún að mennta sig þar sem líkaminn gaf henni ekki kost á líkamlegri erfiðisvinnu. „Ég hef verið mjög lánsöm með maka því alla mína skólagöngu og með þau veikindi sem mér fylgja hefur hann staðið við bakið á mér 100% þessi 20 ár sem við höfum verið saman. Í blíðu og stríðu. Í dag, vel gift og tveim börnum ríkari hef ég náð að klára iðnpróf í listnámi úr Iðnskólanum í Reykjavík sem semidúx og stefndi á Listaháskólann en eftir seinni meðgönguna versnaði gigtin og ég vissi að ég myndi aldrei þola líkamlega álagið sem myndlistinni fylgir,“ segir Perla sem lét þó ekki staðar numið. „Ég varð alveg heilluð af kennurunum á Listnámsbrautinni í Iðnskólanum þannig að ég tók þá ákvörðun að feta þá braut og kláraði listfræðina í Háskóla Íslands.“   Aflaði sér víðtækrar reynslu Hún aflaði sér reynslu með rekstri á Artíma Gallery, í framkvæmdastjórn listagrúppunnar Festisvalls, starfaði hjá Nýlistasafninu og á rannsóknardeild Listasafns Íslands og loks hóf hún mastersnám í kennslufræðum á efstastigi í Háskólanum á Akureyri. „Í æfingakennslunni sneri ég loks aftur í gamla Iðnskólann sem í dag er Tækniskólinn og kenndi á listnámsbraut sem æfingakennari. Fyrsti dagurinn byrjaði reyndar þannig að kokkurinn rak mig út úr kennaramötuneytinu og benti mér á hvar nemendur ættu að vera en eftir að ég náði að sannfæra hann um að ég væri ekki nemandi tók við eitt af þeim skemmtilegustu störfum sem ég hef tekið að mér. Eftir að sonur okkar greindist með einhverfu vorum við hjónin oft að velta því fyrir okkur að flytja aftur á æskuslóðir í aukið öryggi og þéttara samfélag og þegar tími var kominn á að peyinn átti að hefja skólagöngu var stefnan tekin á að flytja heim og klára mastersritgerðina þar.“   Enn syrtir í álinn Fjölskyldan flutti til Eyja og við tók mikil vinna og ritgerðinni var slegið á frest í sífellu. Með meiri vinnu og auknu álagi versnaði gigtin þar til hún gat ekki stigið fram úr á morgnana. „Loks fór ég að finna fyrir verkjum sem ég kannaðist ekki við né virkuðu venjulegu rútínurnar á verkina. Loks var ég greind með iktsýki sem er afbrigði af liðagigt og í dag er ég hætt að vinna en stefni aftur á starf mitt hjá Safnahúsinu, helst í Listasafninu sem snýr meðal annars að skipulagi og skráningu verka og sýningastjórnun.“ Í veikindum hefur Perla notað teikningar til að komast í gegnum erfiðustu gigtarköstin en þau hafa versnað til muna eftir að hún greindist með seinni gigtina. „Líkami minn virðist heldur ekki taka vel við lyfjagjöf og því hefur það tekið langan tíma fyrir læknateymið að finna réttu lyfin sem henta báðum gigtunum. Ég get ekki lengur málað heilu málverkin en ég nýti mér punktatækni, eða dotwork, í skyggingum en ég hef þróað tækni við að halda á pennanum til að gera alla þessa punkta og allar teikningar mínar eru fríhendis en þessar teikningar taka meiri tíma en ég er vön og það er einnig ágætis æfing í núvitund. Með tímanum fór ég að leika mér með vatnsliti og teikningarnar urðu stærri og nákvæmari eftir því sem ég var lengur bundin við rúmið.“   Spurning um að eiga fyrir jólagjöfum Loks um jólin í fyrra stóðu þau frammi fyrir því að eiga ekki fyrir jólagjöfum. „Þá hvatti vinkona mín mig til að selja eitthvað af teikningum mínum. Það tók hana smá tíma að sannfæra mig og loks bjuggum við vinkonurnar til síðuna með því frumlega nafni, Perla Kristins með fjórum teikningum eftir mig og síðan var opnuð klukkan eitt á sunnudagsnótt. Við tókum myndir af verkunum á fallega heimili hennar og skelltum inn á síðuna ásamt stærðum og verði. Ég þorði ekki að líta á viðbrögð fólks við myndunum fyrr en um kvöldmatarleytið daginn eftir og brá mikið við frábærum viðbrögðum við myndunum mínum. Myndirnar kláruðust og við gátum keypt flottar jólagjafir og jólamaturinn var grand.“   Þarf að teipa saman puttana Perla lét þar við sitja í að koma sér á framfæri, enda stórt skref að hennar mati að líta aftur á sig sem listamann. „Ég hélt samt áfram að teikna, mála og leika mér með blandaða tækni. Hana lærði ég meðal annars í margmiðlun í listnáminu því suma daga var auðveldara að dunda sér í tölvunni en að teikna eða mála því líkaminn er ekkert voðalega samvinnuþýður í listsköpuninni. Til að nota tölvuna teipa ég fingurna saman til að koma í veg fyrir að þeir stífni upp og bólgni of mikið. Með þessari tækni er ég að útbúa myndir sem innihalda alls kyns teikningar, ljósmyndir sem ég hef tekið og vatnsmálningu. Oft er þetta mikið ferli því ég þarf stundum að margvinna einn lítinn hluta af verkinu aftur og aftur og þar sem ég er hægari en ég er vön þá er þetta einnig ágætis æfing í þolinmæði og að sættast við þá stöðu sem ég er í í dag. Ég þurfti að takast á við mikla reiði fyrst þegar ég fór í sjúkraleyfið og þá sérstaklega vegna þess að þurfa að hætta að vinna. Ég er einnig greind með athyglisbrest og mikla hreyfiþörf og þetta er ekki góð blanda til að vera mikið rúmföst en ég er vön að vera með mörg járn í eldinum og hafa ávallt nóg að gera.“   Með kvíðahnút í maga Það var svo Kári Bjarnason fyrrum yfirmaður Perlu í Safnahúsinu sem hringir í hana og tjáir henni að nú þurfi að finna listamann um Safnahelgina í nóvember. „Ég sagðist ætla að athuga nokkra listamenn sem gætu haft áhuga á að sýna og legg á. Þegar ég er að fara yfir skrána mína yfir tengiliði sem gætu sýnt hjá okkur átta ég mig á því að þarna sé tækifærið, nú tek ég þetta skref og fer hinum meginn við borðið og frumsýni mig sem listamann,“ segir Perla. Með kvíðahnút í maganum hringdi hún í Kára daginn eftir og spurði hvort hún mætti vera listamaðurinn. Tók hann vel í það og þau negldu síðar daginn, föstudaginn 3. nóvember klukkan 18:00. „Þá opna ég mína fyrstu einkasýningu í Safnahúsi Vestmannaeyja. Þarna verða ekki einungis verk unnin með blandaðri tækni heldur mun ég einnig sýna skissur og ferlið sem fer í þessar myndir en flest verkin eiga það sameiginlegt að innihalda hálfgerða þerapíu fyrir veikindi mín því ég teikna aðallega myndir sem minna mig á að lífið tekur enda og því verðum við að lifa því eins vel og við getum og þaðan kemur nafnið á sýningunni „Vita Brevis“ sem er tekið úr latínunni „Vita Brevis, Ars Longa“ eða „Lífið tekur Enda en Listin er Eilíf,“ segir Perla að endingu.    

Flytja lög Peter, Paul and Mary í Eldheimum á laugardaginn

„Tónleikarnir í Eldheimum nk. laugardag eru tileinkaðir Peter Paul og Mary og eru þeir fyrstu sem við Arnór stöndum fyrir þar sem bara við tvö erum flytjendur. Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi Peter Paul og Mary frá því ég var í skátunum, gleymi aldrei þeirri kvöldstund við varðeldinn í gamla skátastykkinu þegar ég heyrði í fyrsta sinn lagið „Whera have all the flowers gone“ þarna voru þau Halldór Ingi, Einar Hallgríms, Edda Ólafs, Mari, Óli Lár, Emma Vídó, Vigga, Rósanna og fleiri,“ segir Helga Jónsdóttir um tónleikana sem hún og maður hennar, Arnór Hermannsson, halda í Eldheimum á laugardagskvöldið.   „Í þessu dásamlega umhverfi umvafinn rómantíkinni sem fylgir syngjandi skátum urðu þáttaskil í mínu lífi, tónlistinn vitjaði mín með alvöru og dásemd hennar mér opinberuð. Í gegnum skátastarfið næstu ár kynntis ég fleiri lögum sem tríóið hafði gert fræg, eins og Blowing in the wind, Five hundred miles, svo eitthvað sé nefnt. Í gegnum árin bættust fleiri lög á uppáhalds listann og varð það svo fyrir 2 árum að við fengum þá hugmynd að halda tónleika tríóinu til heiðurs.   Ég ræddi þessa hugmynd við Einar Gylfa bróðir, þá kemur í ljós að hann var einlægur aðdáandi þeirra líka og gott betur því hann var hafsjór af fróðleik um lög þeirra, líf og lífsskoðun og deildum við þeirr skoðun með bróður mínum að Peter Paul og Mary væru besta þjóðlagatríó allra tíma, útsetningar þeirra og lagaval var einstakt en það sem gerði þau svo sérstök var að þau voru fyrst og frems miklir mannvinir, stóðu gegn hverskonar mismunun og kynþáttahatri og komu fram á mótmælafundum um víða veröld af því tilefni.   Á tónleikunum verða flutt alls 15 lög og þar sem við Arnór erum dúó að flytja lög snillinganna þriggja þá þurfti ég að útsetja aðrar raddsetningar með brot af því besta frá þeim öllum. Við munum a.m.k. hafa tvö fjöldasöngslög vonandi fjölmenna skátarnir frá varðeldinum forðum og taka lagið með okkur þegar þar að kemur. Einar Gylfi sögumaður mun án efa glæða kvöldstundina í Eldheimum sömu töfrum og skátarnir forðum við varðeldinn því þar voru oft sagðar sögur og þar sem bróðir er einnig gamall skátir þá kann hann alveg að gefa frásögninni líf og gefa okkur hlutdeild í lífi og tónlist Peter Paul og Mary.    

Stjórnmál >>

Elliði Vignisson: Enn er alltof snemmt að fullyrða að við náum saman með ríkinu

Í gær funduðum fulltrúar Vestmannaeyjabæjar með ríkinu, en yfir standa viðræður um að Vestmannaeyjabær taki yfir rekstri Herjólfs. Elliði Vignisson bæjarstjóri sagði í samtali við Eyjafréttir að að enn einn fundurinn hafi verið í gær til þess að nálgast enn frekar þau markmið að ná fram verulegri þjónustuaukningu með nýrri ferju og tryggja betur áhrif og sjónarmið heimamanna hvað rekstur hennar varðar.  „Þar kynntum við sjónarmið okkar sem fyrst og fremst felast í því að færast nær þvi markmiði að sjóleiðin milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar verði séð sem „þjóðvegur“ okkar Vestmannaeyinga og þeirra sem vilja sækja okkur heim. Þar með reynum við að nálgast þá sjálfsögðu kröfu okkar að þjónusta og verðlag verði nær því að þetta sé þjóðvegur en ekki valkvæð þjónusta. Þá leggjum við einnig þunga áherslu á að þjóðvegurinn verði „opinn“ eins og framast er unnt og taki mið af þörfu þjónustustigi hvað tíðni ferða varðar en ekki hámarksnýtingu á hverri ferð og mögulegri arðsemi rekstrarins. Í langan tíma hafa þessar samgöngur að okkar mati verið skammtaðar úr hnefa en það á ekki að vera lögmál. Með nýrri ferju og annarri nálgun á verkefnið eiga Vestmannaeyjar að verða samkeppnishæfari varðandi íbúaþróun, atvinnuuppbyggingu og atvinnurekstur fyrirtækja sem hér starfa,“ sagði Elliði   Það eru alltaf gagnrýnisraddir„Ég hef séð að á seinustu dögum hafa einhverjir gagnrýnt þessa tilraun Vestmannaeyjabæjar og það er svo sem fátt sem kemur á óvart hvað það varðar. Allt okrar tvímælis þá gert er og margir eru ætíð hræddir við breytingar. Þegar við seldum hlut okkar í Hitaveitu Suðurnesja voru margir sem sögðu að við ættum að eiga hlutinn og selja hann þegar hann væri orðinn verðmætari. Þegar við byggðum Eldheima gekk fólk um og uppnefndi húsið og sagði að það yrði aldrei annað en baggi á okkur og á því yrði aldri áhugi meðal feðramanna. Þegar við aldusskiptum grunnskólunum fullyrtu margir að þetta gæti aldei gengið. Þegar við buðum út reksturinn á Sóla og sömdum við Hjalla var það mikið gagnrýnt og mjög lengi má áfram telja. Þegar upp er staðið áttar fólk sig oft betur á forsendum og verður þá oftast nær mun ánægðara. Það sem þó hefur rekið mig í rogastans eru fullyrðingar um að þetta leiði til einhverrar mismununar þannig að bæjarfulltrúar gangi fyrir. Þeir sem slíkt fullyrða verða að skilja að bæjarfulltrúar njóta ekki neinna sér kjara á neinni þjónustu hjá Vestmannaeyjabæ. Þeir greiða fullt verð í sund, börn þeirra ganga ekki fyrir á leikskóla og götur við heimili þeirra eru ekki ruddar snjó fyrr en hjá öðrum. Á sama máta koma þeir til með að nota Herjólf og greiða fyrir sína þjónustu rétt eins og hver annar enda yrði Herjólfur almenningsþjónusta sem rekinn yrði eins og önnur þjónusta sveitarfélagsins með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi,“ sagði Elliði.   Elliði sagði að hans mati væri það í raun fullkomið og algert ábyrgðarleysi að heykjast á því að takast á við þessa ábyrgð að gefnum ákveðnum forsendum.  „Hvenær gerðist það að Eyjamenn hættu að þora og vilja axla ábyrgð á eigin málum? Þannig þekki ég ekki okkar góða samfélag og þannig mun núverandi bæjarstjórn ekki nálgast þetta mál. Við sannarlega þorum og treystum okkar fólki til að axala ábyrgð.“   Fagfólk við samningaborðið „Fullyrðingar um að þetta verði fjárhagslegur baggi á okkur er líka dáldið einkennilegur, sérstaklega þegar engin, ekki einu sinni við sem stöndum í þessu, vitum enn um hvaða fjárhæð verður samið. Við höfum unnið með færustu sérfæðingum í gerð rekstrarmódels og samningagerð er á hendi lögmanna sem þekkja málið vel. Okkur eru síðan til ráðgjafar menn eins og Grímur Gíslason, Páll Guðmundsson og Lúðvík Bergvinsson sem allir hafa mikla og haldgóða þekkingu hvað varðar eðlil þessarar útgerðar og rekstri almennt. Það er því hvergi verið að kasta til höndunum og hagsmunum Vestmannaeyjabæjar verður ekki fórnað,“ sagði Elliði.   Elliði sagði að enn væri alltof snemmt að fullyrða að þau nái saman með ríkinu. „Það má öllum ljóst vera að við erum ekki að fara í þetta verkefni til að taka við því á þeim fosendum sem verið hefur seinustu ár. Við teljum að það þurfi langtum meiri þjónustu og ef ríkið vill nálgast þetta á þann máta með okkur þá erum við til í samstarf. Ef ekki næst saman þá væntanlega verður þetta boðið út og við höfum þá að minnsta kosti náð að koma okkar sjónarmiðum á framfæri og það leiðir þá ef til vill til þjónustu aukningar. Það væri því fráleitt að láta ekki reyna á þetta, jafnvel þótt það kosti mikla vinnu. Slíkt hræðist hvorki ég né aðrir sem að þessu koma“ sagði Elliði að lokum Meðfylgjandi er mynd sem Elliði tók á fundinum í dag. Á henni eru þeir Lúðvík Bergvinsson og Yngvi Jónsson frá okkur heimamönnum auk síðan fulltrúum frá ríkinu. Þeir Grímur og Páll sóttu fundinn í gegnum fjarfundarbúnað.  

Greinar >>

Hildur Sólveig: Af hverju er bæjarstjórn að skoða yfirtöku á rekstri Herjólfs?

Umræðan sjálf hefur lengi verið almenn í langan tíma í sveitarfélaginu að heimamenn ættu að taka málin í sínar hendur til að komast nær ákvörðunartöku um samgöngumálin sem eru okkar stærsta hagsmunamál. Sveitarfélagið hefur áður reynt að bjóða í rekstur ferjunnar en ekki fengið erindi sem erfiði. Það var svo þann 29. september 2016 að bæjarstjórn Vestmannaeyja bókaði eftirfarandi á 1515. fundi sínum:   ,, Bæjarstjórn Vestmannaeyja fjallaði um niðurstöður útboðs á nýrri Vestmannaeyjaferju. Fyrir liggur að rétt eins og bæjarstjórn Vestmannaeyja benti á er hagkvæmast fyrir ríkið að láta smíða ferju og semja svo sérstaklega um rekstur hennar. Vestmannaeyjabær lítur á rekstur Herjólfs sem hornstein að innri gerð samfélagsins í Vestmannaeyjum. Í raun og veru er ekki nokkur munur á rekstri Herjólfs og rekstri annarra kafla vegakerfis Íslendinga. Bæjarstjórn telur því brýnt að rekstur Herjólfs verði ætíð séður sem hluti af þjóðvegakerfi Íslendinga og gjaldtöku og þjónustu verði hagað í samræmi við þá skilgreiningu. Þá bendir bæjarstjórn á að í fjölmörgum tilvikum hefur rekstur fjölbreyttra málaflokka í nærþjónustu svo sem málefni fatlaðra, rekstur grunnskóla og rekstur heilsugæslu verið fluttur frá ríki til sveitarfélags ýmist með almennum hætti eða sértækum samningum. Slíkt er gert til að tryggja hagsmuni nærsamfélagsins, bæta þjónustu og auka hagkvæmni. Með þetta í huga samþykkir bæjarstjórn Vestmannaeyja að fela bæjarstjóra að rita innanríkisráðherra bréf og óska þar eftir því að samið verði beint um rekstur ferjunnar við Vestmannaeyjabæ.”   Bæjarstjórn ítrekað krafist úrbóta í samgöngumálum Vestmannaeyja   Forsagan að ofangreindri ályktun var fyrst og fremst sú að ítrekað á undanförnum árum hefur bæjarstjórn ályktað, krafist og lagt mikinn þrýsting á ýmsar úrbætur í samgöngumálum á borð við:   nauðsyn frekari rannsókna og framkvæmda á Landeyjahöfn bættum aðferðum við sanddælingu og þjónustu sanddæluskipa kröfur um fjölgun ferða Herjólfs, aukins sveigjanleika í siglingaáætlun og að ekki sé dregið úr þjónustu skipsins á hátíðisdögum úrbætur á bókunarkerfi Herjólfur verði tiltækur amk. fyrst um sinn eftir að ný ferja hefur siglingar kröfur um hófstillingu fargjalda og samræmis sé gætt í gjaldtöku en ekki sé tekið margfalt gjald fyrir að fara til Þorlákshafnar og svo mætti mjög lengi áfram telja   Skilningsleysi samgönguyfirvalda á samgönguþörf samfélagsins   Þrátt fyrir þrýsting bæjaryfirvalda virðist skilningur á samgönguþörf Vestmannaeyja ekki vera fyrir að fara hjá samgönguyfirvöldum og tilmæli bæjarstjórnar gjarnan virt að vettugi og kemur upp í hugann lýsing Bjarna Sæmundssonar af ferð sinni með strandskipinu Sterling austur á firði árið 1920 sem kemur fram í bók Haraldar Guðnasonar við Ægisdyr:   ,,Það var heldur en ekki krökkt af farþegum, öll rúm full, reykingasalurinn og borðsalurinn sömuleiðis; hvar sem litið var og eitthvað var til að liggja á, var maður. Þar við bættust margir Vestmannaeyingar; þeir voru alls staðar, þar sem ekkert var til að liggja á nema gólfið. Ég man það, að ég var nærri dottin um eitthvað í göngunum fyrir utan klefadyrnar mínar um nóttina… Hélt ég, að það væri stór hundur, sem hefði hringað sig þarna saman, en við nánari aðgæslu sá ég, að þetta var sofandi maður. Vestmannaeyingar teljast annars ekki til farþega, og eru heldur ekki skoðaðir sem flutningur eða vörur, því að þeim er ekkert pláss ætlað; þeim er stungið hingað og þangað, þar sem þeir eru ekki fyrir neinum, bak við stiga, undir bekki og víðar, en í einu tilliti er þeim gert jafnt undir höfði og öðrum mönnum, og það af skárra taginu; þeir fá að borga fargjald eins og farþegar á fyrsta plássi. Svona er það á öllum stærri farþegaskipum, sem annars hafa getað fengið það af sér að koma við í Eyjum. En það hefur nú viljað bresta á það síðari árin."   Samgönguþörf samfélagsins mætir enn þann daginn í dag, hátt í 100 árum síðar, fullkomnu skilningsleysi samgönguyfirvalda, þrátt fyrir að Vestmannaeyingar greiði án ef hæstu vegtolla landsins fyrir samgönguleið sem enn er illu heilli ekki skilgreind sem þjóðvegur, á sama tíma og mjög rausnarleg framlög renna héðan beint inn í ríkissjóð.   Upplýsingagjöf mjög takmörkuð   Þeir atburðir sem áttu sér svo stað í vor þegar Baldur var fengin til afleysinga fyrir Herjólf sem hafði svo ekki haffærni til Þorlákshafnar voru gjörsamlega óskiljanlegir. Eitthvað sem bæjarfulltrúar heyrðu af sem orðrómi af götunni og trúðu til að byrja með ekki enda tilhugsunin fráleit en kom svo á daginn að var ekki orðrómur heldur raunveruleiki. Þarna kristallaðist sá upplýsingaskortur sem bæjarfulltrúar búa við. Það sama var svo uppi á teningnum við seinni slipptökuna þegar Röstin átti að leysa Herjólf af þrátt fyrir að bæjarstjórn hefði ályktað að á engum tímapunkti kæmi til greina að ferja sem hefði ekki haffærni til beggja hafna myndi leysa af við seinni slipptöku Herjólfs og ef ekki fyndist skip með haffærni í báðar hafnir yrði slipptöku seinkað vel á veturinn til að stór og öflug ferja sem réði vel við Þorlákshöfn gæti þá þjónustað til að samgöngur yrðu í það minnsta öruggar þangað. Bæjarfulltrúar fordæmdu opinberlega og í fjölmiðlum þær ráðstafanir sem gerðar voru vegna afleysingaferja Herjólfs og reyndust samfélaginu dýrkeyptar og enn og aftur voru kröfur bæjarstjórnar virtar að vettugi.   Fordæmin eru til í sögulegu samhengi   Sagan segir okkur að nokkrar af stærstu framförum í samgöngumálum Eyjamanna hafa orðið þegar Eyjamenn sjálfir eru komnir með upp í kok af afskiptaleysi ríkisins og taka málin í sínar eigin hendur, sbr. Herjólfur I, 1959 og stofnun félags um ferjurekstur Herjólfs II 1974     Ályktun fjölmennasta borgarafundar seinni ára um samgöngumál krafðist þess   Það var svo á stórgóðum og gríðarlega fjölmennum borgarafundi um samgöngumál í Vestmannaeyjum sem haldinn var í Höllinni þann 10 . maí þessa árs að frumkvæði Ásmundar Friðrikssonar þingmanns og héraðsfréttamiðlanna Eyjafrétta og Eyjar.net að samþykkt var samhljóða 6 liða ályktun sem bæjarstjórn Vestmannaeyja staðfesti og tók undir á fundi sínum næsta dag en sjötti og síðasti liður þeirrar ályktunar hljóðaði svo:   ,,Að rekstur ferjunnar verði í höndum heimamanna og hagnaður af rekstrinum verði nýttur til að lækka fargjöld, auka þjónustu og skili sér þannig beint til heimamanna.”  Þannig er allur vafi tekinn af því hver vilji bæjarbúa í þessum efnum er.   Vilji samgönguráðherra einlægur að koma Vestmannaeyjabæ nær rekstri Herjólfs   Bæjarstjórn átti svo óformlegan fund með Jóni Gunnarssyni iðnaðarráðherra í kjölfar fyrri borgarafundar þar sem farið var yfir áhyggjur og óánægju bæjarfulltrúa með samgöngumál og reifaðir möguleikar og rædd framtíðarsýn samfélagsins og virtist vilji innanríkisráðherra einlægur í því að Vestmannaeyjabær kæmi mun nær þessum rekstri en gengur og gerist í dag og ítrekaði ráðherra svo þessa afstöðu sína á seinni opna borgarafundinum um samgöngur í Höllinni. Mikil vinna hefur svo legið að baki alla daga síðan við að útbúa viljayfirlýsingu og vinna að mögulegum samningsdrögum en enn er ekkert fast í hendi hvað þetta varðar og engin ákvörðun um yfirtöku sveitarfélagsins á rekstri ferjunnar verið tekin af hálfu samgönguyfirvalda né Vestmannaeyjabæjar enn sem komið er.   Helstu ástæður fyrir áhuga sveitarfélagsins á yfirtöku rekstursins eru því eftirfarandi   Skilningur samgönguyfirvalda og rekstraraðila á þörfum samfélagsins er ekki sá sami og bæjaryfirvalda Tilmæli og óskir bæjaryfirvalda hvað þjónustu ferjunnar varðar hafa verið virtar ítrekað að vettugi Bæjarstjórn hefur gjarnan legið undir harðri gagnrýni hvað samgöngumál varðar þrátt fyrir að bera enga ábyrgð á málaflokknum og hafa því ver og miður ekki nokkurt einasta valdsvið yfir honum Mikill skortur á upplýsingagjöf af hálfu samgönguyfirvalda En fyrst og síðast, krafa bæjarbúa um aðgerðir þar að lútandi   Bæjarstjórn reynir allt hvað hún getur til að hafa áhrif á þetta langstærsta hagsmunamál okkar Eyjamanna og geta bæjarfulltrúar ekki látið sitt eftir liggja í þeim efnum. Bæjarfulltrúum er gjarnan gefið að sök að standa sig illa hvað samgöngumál varðar, en sá málaflokkur er því ver og miður einfaldlega ekki á okkar forræði. Með þessari viðleitni bæjarstjórnar er seilst langt umfram skyldur sveitarfélagsins til að tryggja með öllum mögulegum leiðum hagsmuni bæjarbúa og atvinnulífs í samfélaginu.   Hildur Sólveig Sigurðardóttir Forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja