Íslandsmeistar iðngreina :: Vel heppnuð kynning FÍV í Laugardalshöll:

Sæþór vann keppnina í bilanagreiningu kælikerfa

Varð í þriðja sæti í stýringum :: Hlaut forláta verkfærakassa að launum

Íslandsmeistar iðngreina :: Vel heppnuð kynning FÍV í Laugardalshöll:

Sæþór vann keppnina í bilanagreiningu kælikerfa

:: Varð í þriðja sæti í stýringum :: Hlaut forláta verkfærakassa að launum

Dagana 16. til 18. mars sl. fór fram Íslandsmeistaramót iðngreina í Laugardalshöll og jafnframt kynntu fjölmargir framhaldsskólar landsins starfsemi sína og námsframboð. Kynninguna sóttu 7000 til 8000 manns, aðallega nemendur efstu bekkja grunnskóla á Reykjavíkursvæðinu.
 
„FÍV átti að sjálfsögðu sína fulltrúa þarna. Vorum við með bás á kynningu skólanna og tveir nemendur, þeir Sæþór Orrason og Sigursteinn Marinósson tóku þátt í iðngreinakeppninni. Báðir stóðu sig með stakri prýði. Sæþór gerði sér lítið fyrir og vann keppnina í bilanagreiningu kælikerfa og varð í þriðja sæti í stýringum. Hlaut hann forláta verkfærakassa að launum,“ segir í frétt frá skólanum.
„Í básnum okkar á kynningunni kynntu Frosti Gíslason og Hjördís Friðjónsdóttir starfsemi Fablab smiðjunnar sem starfandi er í skólanum á vegum Nýsköpunarstofu. Mesta athygli vakti þrívíddarprentari smiðjunnar sem gefur innsýn í þrívíddarhönnun til framleiðslu hluta með hjálp tölvustýringa.
Þorbjörn Númason leyfði þátttakendum að prófa suðuhermi skólans sem gefinn var af málmiðnaðarfyrirtækjum í Vestmannaeyjum og nýtist vel í kennslu byrjenda í málmsuðu. Á sjónvarpsskjá rúllaði síðan kynningarmyndband um starfsemi FÍV og námsframboð.
Að hönnun bássins komu tveir fyrrverandi nemendur skólans, þeir Sighvatur Jónsson og Sæþór Vídó Þorbjarnarson. Sighvatur sá um gerð myndbandsins og Sæþór um myndskreytingar og útlit. Var mál manna að básinn væri einn sá best heppnaði á svæðinu. Þeir eiga því þakkir skyldar fyrir frábært starf.
Tilgangur okkar með þátttökunni var að gera skólann okkar sýnilegan á landsvísu og vekja athygli á þeirri fjölbreytni náms sem raunverulega er í boði í Vestmannaeyjum að loknum grunnskóla.“
 

Héldu kyrru fyrir á meðan fellibylurinn reið yfir

Eyjakonan Ingibjörg Guðmundsdóttir hefur verið búsett í Flórída síðan árið 2011 en þar er hún ásamt manni sínum Karli Ólafi Finnbogasyni og þriggja ára dóttur, Kamillu Björgu Karlsdóttur. Úti í Flórída starfar Ingibjörg sem kerfisfræðingur, ásamt því að vera í meistaranámi í viðskiptastjórnun, en Karl Ólafur starfar sem internet markaðsfræðingur. Það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum lifandi manni að undanfarnar vikur hafa fellibyljir riðið yfir Karíbahaf og inn á meginland Bandaríkjanna með tilheyrandi eyðileggingu og manntjóni en á fjórða tug manns hafa látið lífið sökum þess. Blaðamaður hafði samband við Ingibjörgu í síðustu viku og ræddi við hana um hamfarirnar.   „Við búum núna í bæ á austurströnd Flórída sem heitir Melbourne, en hann er í ca. klukkustundar akstur austur af Orlando,“ segir Ingibjörg aðspurð út í nákvæma staðsetningu en þess má geta að 13 milljónir manna í Flórída misstu rafmagn á meðan á hamförunum stóð og þar á meðal 85% fólks í sýslunni sem fjölskyldan býr í. Hvenær áttuðuð þið ykkur á því sem í vændum var? „Ca. 10 dögum áður en Irma kom á land byrjuðum við að sjá mikið um þetta í sjónvarpinu og fólk mikið að tala um þetta. Mánudaginn 4. september var svo frídagur hér, svo að margir nýttu tækifærið og fóru að gera allt tilbúið. Ég held að þá hafi maður áttað sig á að þetta væri örugglega á leiðinni hingað, s.s viku áður en Irma skall á,“ segir Ingibjörg.   Höfðu upplifað fellibyl áður Fyrstu viðbrögð þeirra var að halda ró sinni enda margt sem getur breyst þegar veðurspár eru annars vegar. „Við vorum frekar róleg í byrjun því svona veðurspár geta breyst svo hratt. Við ákváðum samt að byrja að græja allt snemma til að vera örugg. Við vorum líka aðeins rólegri í ár því að á síðasta ári var búist við að fellibylurinn Matthew myndi ganga á land með þvílíkum styrk hér í bænum okkar. Hann breytti um stefnu á síðustu stundu svo það urðu sem betur fer ekki miklar skemmdir hér. Matthew var fyrsti fellibylurinn okkar, svo við vorum frekar stressuð þá. Við vorum líka nýbúin að kaupa hús svo við vissum eiginlega ekkert hvernig það myndi standa svona óveður. Með Irmu vissum við betur hvernig við áttum að undirbúa okkur og treystum húsinu okkar betur.“   Betra að halda kyrru fyrir en að vera föst í bíl Um sex milljónum manna var skipað að yfirgefa heimili sín á meðan versta veðrið gekk yfir en þrátt fyrir það segir Ingibjörg þau aldrei hafa óttast um líf sitt. „Við ákváðum að vera heima. Við vorum búin að bóka nokkur hótel til öryggis, ef allt færi á versta veg, en ca. tveimur til þremur dögum áður en Irma gekk á land breytti hún aðeins um stefnu og fór meira yfir vesturströndina en austurströndina eins og búist var við í fyrstu. Bærinn okkar var því eiginlega öruggasti staðurinn til að vera á í Flórída. Það var líka ótrúlega erfitt að komast út úr Flórída út af umferð og bensínskorti. Við tókum þess vegna ákvörðum um að það væri betra að vera heima í húsinu okkar, heldur en föst í bílnum á einhverri hraðbraut.“ Þegar ákvörðun hafði verið tekin um að halda kyrru fyrir var næst á dagskrá að undirbúa sig fyrir átökin. „Fólk kaupir mat og drykk sem á að geta dugað í þrjá daga án rafmagns. Vinsælast er að kaupa mikið brauð, bollasúpur, snakk, hnetusmjör, og ótrúlegt magn af vatni. Við fylltum bæði baðkörin okkar af vatni, svo hægt væri að sturta niður og þvo sér ef vatnið færi, sem gerðist. Við tókum allt inn sem var úti í garði, garðhúsgögn, trampólín o.fl., og settum stálplötur (e. hurricane shutters) fyrir alla gluggana á húsinu okkar,“ segir Ingibjörg sem greinilega var ekki að gera þetta í fyrsta skiptið.   Eiga góða að úti í Flórída Hvernig var upplifunin að ganga í gegnum svona hamfarir? „Auðvitað var þetta mjög stressandi, en ég held að við höfum tekið allar réttu ákvarðanirnar. Við erum líka með ótrúlega gott tengslanet hér, góða vini og nágranna sem grípa inn í þegar manni vantar hjálp. Margir þeirra sem við þekkjum hér hafa gengið í gegnum svona oft áður, svo þeir gátu gefið okkur góð ráð,“ segir Ingibjörg. Til allrar hamingju slapp fjölskyldan við tjón af einhverju tagi, að ótöldum trjám í garðinum sem féllu í valinn á meðan Irma gekk yfir. „Sem betur fer sluppum við, en það voru einungis nokkur tré sem féllu í garðinum okkar. Við vorum líka ótrúlega heppin og misstum bara rafmagn, vatn, og símasamband í tíu tíma. Enn í dag megum við samt sem áður ekki drekka eða elda uppúr kranavatninu í bænum okkar því að vatnsleiðslan fór í sundur einhvers staðar og það er enn þá verið að laga hana. Einnig hefur bærinn sent út tilkynningu um að maður eigi að nota eins lítið vatn og hægt er á meðan, t.d alveg stranglega bannað að vökva grasið, setja í uppvöskunarvél, eða þvo bílinn,“ segir Ingibjörg.   Rafmagn og vatn enn af skornum skammti Hvernig er ástandið í ykkar nærumhverfi? „Það er svolítið um skemmdir á húsum, aðallega þar sem stór tré hafa fallið á þök. Á nokkrum stöðum skolaði veginum í burtu og flest öll skilti af búðum og veitingastöðum í bænum eru fokin. Það var svoldið um flóð á mörgum stöðum en það er mest allt farið núna. Mjög margir af samstarfsfélögum okkar eru enn án vatns og rafmagns, svo margir nýta sér það að geta farið í sturtu á skrifstofunum okkar. Ekkert rafmagn þýðir líka engin loftkæling í yfir 30 stiga hita. Flest umferðarljós í bænum eru enn biluð og svo er lítið til af bensíni og búðir nánast tómar. Skólar og fyrirtæki hafa einnig verið lokuð alla vikuna vegna rafmagnsleysis,“ segir Ingibjörg að endingu.  

Eldheimar standa vel

Kristín Jóhannsdóttir hjá Eldheimum skilur sátt við sumarið. Hún segir þó að lausa traffíkin hafi verið heldur minni en í fyrra. „Við höfum fundið fyrir því að laustraffík er minni heldur en í fyrra en hópabókanir og önnur fyrirfram sala í gegnum innlendar og erlendar ferðaskrifstofur er svipuð og á síðasta ári. Við höfum reyndar ekki endanlegar tölur, en þegar á heildina er litið þá er búið að ganga vel.“ Aðspurð um samkeppnina við safnið á Hvolsvelli segir Kristín ekki líta á Lava safnið sem samkeppni: „Ég get ekki séð að Lava center hafi nokkur áhrif á rekstur Eldheima,“ sagði Kristín.   Starfsemi safnsins stendur og fellur með samgöngunum Haustinu fylgir öllum aðilum ferðaþjónustu óvissu og þar eru Eldheimar enginn undantekning „það fylgir mikil óvissa haustinu og vetrinum. Við erum með mikið af bókunin langt fram í nóvember, en ef veðrið verður eins og í fyrra þá missum við allar þessar bókanir. Starfsemi safnsins rétt eins og önnur ferðaþjónusta í Eyjum stendur og fellur með samgöngunum, þegar Landeyjahöfn er lokuð er starfsemin sem gefur að skilja í lágmarki.“ Aðspurð um ferðaþjónustuna í Vestmannaeyjum í heild sinni telur Kristín að hún sé á góðu róli,: „Eldheimar eru það allavega, en sem áður segir, við erum mjög vel stödd með það sem við fáum ráðið við. Samgönguerfiðleikarnir á veturna setja Eldheimum og allri annarri ferðaþjóustu í Eyjum strik í reikninginn. Ég er bjartsýn á að nýja ferjan eigi eftir að breyta miklu til hins betra.“  

Ætla að koma, sjá og sigra í kvöld

Karlakór Vestmannnaeyja, verður í fyrsta þættinum í Kóra Ædol þættinum, Kórar Íslands á Stöð tvö á sunnudagskvöldið ásamt þremur öðrum kórum. Það er mikill spenna í hópnum sem ætlar sér ekkert annað en sigur í keppninni. Þar geta Eyjamenn lagt kórnum lið í símakosningu sem ræður úrslitum ásamt þriggja manna dómnefnd. Það eru kórar alls staðar af á landinu sem taka þátt í keppninni sem vafalaust verður mjög spennandi.   Þátturinn verður sýndur á Stöð 2, sunnudaginn 24. september nk. „Í þáttunum munu tuttugu kórar keppa í beinni útsendingu um titilinn Kór Íslands 2017 og hlýtur sigurvegarinn vegleg verðlaun. Til að geta tekið þátt í keppninni þurfa kórarnir að vera með tíu eða fleiri meðlimi sem allir þurfa að vera 16 ára eða eldri. Kórarnir eru hvaðanæva af landinu og af öllu gerðum. Kosið verður um besta kórinn og eru það áhorfendur sem sjá um það í símakosningu. Þriggja manna dómnefnd verður að auki til staðar en hún er skipuð söngkonunum Kristjönu Stefánsdóttur og Bryndísi Jakobsdóttur og Ara Braga Kárasyni trompetspretthlaupara. Kynnir í þáttunum verður Friðrik Dór Jónsson,“ segir í tilkynningu frá Stöð 2. Eyjafréttir ræddu við tvo úr kórnum, Ingólf Jóhannesson og Guðjón Sigtryggsson sem báðir eru spenntir fyrir kvöldinu. „Það var auglýst og við sóttum um eftir að hafa rætt þetta í okkar hóp. Við komumst inn og verðum í fyrsta þættinum á sunnudaginn,“ sagði Guðjón. „Það er lagt upp með að hafa fjör og gaman og þar erum við á heimavelli með okkar brásnjalla stjórnanda, Þórhall Barðason.“ Komist kórinn alla leið í úrslit koma þeir fram í þremur þáttum. „Annar þátturinn er 29. október, þriðji 5. nóvember og lokaþátturinn 12. nóvember,“ sagði Ingólfur. „Kórarnir sem við keppum við eru Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps, Kalmannskórinn Akranesi og Gospelkór Jóns Vídalíns. Tveir karlakórar og tveir samkórar.   Treystum á stuðning Eyjamanna Þeir segjast enn ekki hafa lagst í rannsóknir á keppinautunum, hver sé þeirra styrkur og veikleikar en það verði gert. „Við fengum að vita þetta um síðustu mánaðamót og um síðustu helgi kom hingað fólk frá Saga Film til að búa til innslag sem notað verður í þættinum á sunnudaginn. Það verður sýnt frá æfingu og fleiru. Og nú er það alvaran þar sem við ætlum okkur ekkert nema sigur. Þar verðum við að stóla á Eyjamenn, að vera duglegir í símakosningunni. Það skiptir öllu því aðeins einn kór fer áfram í hverjum þætti,“ sagði Guðjón. „Við hlökkum mikið til enda eru allar okkar ferðir skemmtilegar. Í samræmi við það syngjum við Út í Eyjum þar sem Einsi Kaldi er aðalhlutverki í mjög skemmtlegri útsetningu. Já, við erum ákveðnir í að hafa þetta létt og skemmtilegt,“ sögðu þeir félagar sem segja má að séu á leið í þriðju bikarkeppni Eyjafólks þetta árið. Karlakór Vestmannaeyja hefur átt ótrúlegu gengi að fagna frá því hann var stofnaður á vordögum 2015. Þar hefur Þórhallur haldið á sprotanum af mikilli list og kryddað tónleika með skemmtilegum sögum. Þeir áttu snilldarinnkomu á Sjómannadaginn 2015 eftir aðeins þrjár æfingar og síðan hefur leiðin legið upp á við. Hafa komið fram í útvarpi og sjónvarpi, sungið á þjóðhátíð, komið fram á Eyjatónleikunum í Hörpunni og nú er það keppni um besta kór landsins þar sem þeir eiga alla möguleika á að ná langt.  Óhætt er að segja að verkefnið hafi kveikt hjá mönnum áhuga en töluvert hefur bæst í hópinn. Um leið er vert að benda á að æfingar kórsins eru á sunnudögum frá kl. 16:00 til 18:00 í sal Tónlistarskóla Vestmannaeyja og eru allir karlar velkomnir að koma og prófa. Orðið á götunni segir að margan söngfuglinn kýtli að taka þátt en láti ekki verða af því. Nú er tækifærið. 

Undantekning ef fólk fer ekki ánægt frá borði

Fyrirtækið Ribsafari hefur verið starfrækt í Eyjum undanfarin sjö ár en það sérhæfir sig í bátsferðum í hraðskreiðum slöngubátum þar sem gestir fá bæði að kynnast sögu Vestmannaeyja og upplifa helstu náttúruperlur eyjanna á hafi úti. Í samtali við Eyjafréttir sagði Laila Sæunn Pétursdóttir, hjá Ribsafari, sumarið hafa verið einkar gott og að kúnnarnir hafi almennt verið hæstánægðir með bátsferðirnar.   Aðspurð út í starfsemi Ribsafari sagði Laila hana einskorðast við sumrin þó svo einhverjar bókanir komi yfir vetratímann í gegnum bókunarkerfið. „Yfir háannatímann eru við með tvo skipstjóra og leiðsögumenn sem eru með um borð í bátunum. Svo er alltaf manneskja í sölubásnum til að taka á móti pöntunum og farþegunum sjálfum.“ Sjálf sér Laila aðallega um markaðsmál en bætir við að þau hjá Ribsafari vilji lítið notast við ákveðna titla. „Við sleppum öllu svona titlatogi, við erum bara öll hluti af Ribsafari.“   Stefna á að leggja bátunum í lok mánaðar Nú þegar komið er á seinni hluta septembermánaðar er ekki langt í að bátunum verði lagt fyrir veturinn. „Við siglum út september en svo er spurning hvernig samgöngur verða nú þegar Röst er komin hingað til að leysa Herjólf af. Leyfið á þessa báta er reyndar frá 15. apríl til 31. október en reynslan hefur hins vegar sýnt að færri ferðamenn komi til Eyja í október og því hættum við að sigla í lok september, auk þess er veður oft slæmt á þessum tíma,“ segir Laila.   Fjölbreytt skemmtun Eins og fyrr segir hefur gengið í ár verið býsna gott hjá þeim í Ribsafari en í dag gerir fyrirtækið út tvo báta, þ.e. Stóra Örn og Öldu Ljón. Báðir eru þeir af gerðinni Techno Marine 12 IB og eru 12 metra langir harðbotna slöngubátar með tvær 400 ha Volvo penta innanborðsvélar. Sá fyrrnefndi var smíðaður í Póllandi árið 2012 en sá síðarnefndi árið 2016 á sama stað. „Þetta hefur gengið mjög vel, við erum að keyra á tveimur bátum og þeir mjög oft báðir fullir. Við erum með tvær ferðir í boði, Smáeyjaferðina sem er ein klukkustund og svo tveggja tíma ferð sem getur verið breytileg. Í þeirri ferð reynum við að fara út í Súlnasker ef veður leyfir en annars förum við t.d. út í Brand eða tökum hringinn í kringum Heimaey eða annað skemmtilegt.“ Hefur markhópurinn breyst milli ára? „Þetta er bara mjög svipað, blanda af Íslendingum og útlendingum. Svo stjórnast þetta svolítið af því hvaða ferðamenn eru í meirihluta hverju sinni. Ameríkanarnir eru alltaf stór hluti en þeir eru alltaf kurteisir og skemmtilegir, hlæja jafnvel að þér þó þeim finnist þú ekki fyndin. En þetta er annars rosalega breytilegt, í maí höfum við mikið verið að taka á móti skólakrökkum, svo er þjóðhátíðin alltaf stór hjá okkur þar sem meginparturinn er náttúrulega Íslendingar og mig langar að segja að svo til allir eru einstaklega kurteisir og hreinlega til fyrirmyndar,“ segir Laila og svarar því játandi aðspurð hvort upplifun flestra sé góð. „Það eru allir rosalega ánægðir og það sést best á Tripadvisor. Það er það sem við viljum, þetta á fyrst og fremst að vera gaman, ekki bara fræðsla þar sem þú situr og hlustar á leiðsögumanninn.“   Margir sem koma til Eyja einungis vegna Ribsafari Vitið þið til þess að fólk komi sérstaklega til Eyja til að prófa Ribsafari? „Já, það er mjög algengt að fólk komi bara til að prófa Ribsafari, taki kannski skipið kl. 11:00 og fari síðan til baka í næstu ferð. Manni finnst þetta náttúrulega mikil synd því það er fullt af skemmtilegum hlutum í gangi hérna en fólk veit bara ekkert hvað er hægt að gera hérna,“ segir Laila.   Með öryggi farþega að leiðarljósi Einhverjar hugmyndir hafa verið á lofti hjá Siglingastofnun um að breyta þurfi Ribbátunum en nokkur slys hafa orðið undanfarin ár þar sem fólk hefur slasast á baki og orðið fyrir varanlegum skaða. „Það eru einhverjar pælingar með fjaðursæti en ekkert komið á borð til okkar. Þegar og ef það verður að því þá tökum við náttúrulega mið af því. Eftir að slys varð hjá okkur yfirfórum við öll öryggisatriði hjá okkur og m.a. tókum út fremstu átta sætin og notumst bara við öftustu tólf sætin,“ segir Laila sem líkir hreyfingunni við það að fara á hestbak. „Þegar maður fer á hestbak þá getur maður ekki setið alveg stífur, maður verður að fylgja dýrinu. Sama á við um ribbátaferð en fólk á að standa í fæturna á meðan við siglum og dúa í hnjánum. Árið í ár hefur verið algjörlega slysalaust sem er mjög ánægjulegt. Við fórum t.d. með 75 ára gamla konu í sumar og hún var hæstánægð með ferðina. Við viljum að sjálfsögðu ekki að neinn meiðist og það er hræðilegt þegar það gerist. Þess vegna höfum við tekið öryggismálin alveg í gegn og förum vel yfir allt með fólki áður en haldið er af stað.“  

Nökkvi Snær og Daníel Ingi eru Eyjamenn vikunnar: Fengu leyfi frá Einsa til að taka þátt með því skilyrði að vinna

Kylfingarnir ungu Nökkvi Snær Óðinsson og Daníel Ingi Sigurjónsson gerðu sér lítið fyrir og unnu fyrirtækjamót GV sem haldið var á dögunum en þeir kepptu fyrir hönd Einsa Kalda. Nökkvi Snær og Daníel Ingi eru Eyjamenn vikunnar.   Nafn: Nökkvi Snær Óðinsson. Fæðingardagur: 9. apríl 1999. Fæðingarstaður: Vestmannaeyjar. Fjölskylda: Foreldrar eru Hjördís Elsa og Óðinn Sæbjörnsson. Svo á ég þrjú yngri systkini þau Thelmu, Glódísi og Ísak. Uppáhalds vefsíða: Fotbolti.net og Facebook. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Íslensk, Sálin, Bubbi og Skímó eru ofarlega. Aðaláhugamál: Handbolti og golf. Uppáhalds app: Ætli maður noti ekki snappið mest. Hvað óttastu: Kakkalakka t.d., þeir eru eitt stykki viðbjóður. Samsung eða Apple: Apple allan tímann. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Væri alveg til í að taka einn golfhring með Sergio Garcia. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Nenni ekki að segja Vestmannaeyjar svo ég segi Fimmvörðuháls. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Messi og því miður Arsenal eins og staðan er núna. Ertu hjátrúarfullur: Já, svolítið. Stundar þú einhverja hreyfingu: Spila bæði handbolta og golf. Uppáhaldssjónvarpsefni: Horfi lítið sem ekkert á sjónvarp en ætli það sé ekki bara eitthvað spennu- eða íþróttatengt. Af hverju tókuð þið þátt fyrir hönd Einsa Kalda: Ég vinn hjá Einsa Kalda og fengum við því að taka þátt fyrir það fyrirtæki með því skilyrði frá Einari að vinna. Hefur þú áður tekið þátt í þessu móti: Já, þetta var í annað skipti sem ég tek þátt. Tók þátt fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar ásamt Jörgeni Frey fyrir einhverju síðan. Var samkeppnin hörð: Já, í mótum eins og þessu eiga allir jafn mikinn séns á að vinna þar sem þetta var punktafyrirkomulag og vannst mótið að ég held á 1-2 punktum. Hvert var skor þitt í mótinu: 74 högg.   .........................................................   Nafn: Daníel Ingi Sigurjónsson. Fæðingardagur: 7. sept. 1998. Fæðingarstaður: Vestmannaeyjar. Fjölskylda: Mamma mín heitir Gunnhildur, pabbi minn heitir Sigurjón og svo á ég fimm systkini sem heita Andri, Jonni, Tanja, Erna og Hjördís. Uppáhalds vefsíða: Ætli ég verði ekki að segja Facebook, en kylfingur.vf.is er líka í miklu uppáhaldi. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Ég hlusta á flest allt. Aðaláhugamál: Golf hefur verið mitt aðaláhugamál síðustu ár. Uppáhalds app: Snapchat. Hvað óttastu: Mýs og köngulær eru ekki í miklu uppáhaldi. Samsung eða Apple: Ég er team Samsung. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Hefði viljað fá að hitta langafa minn, en hann var kallaður Jonni. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Vestmannaeyjar. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Rory Mcilroy er minn uppáhalds golfari og svo held ég með Manchester United. Ertu hjátrúarfullur: Já, ég myndi segja það, en ég teikna alltaf þrjá bláa punkta á fjórum stöðum á golfboltann minn fyrir mót og vil helst hafa boltann annað hvort númer 1 eða 2. Stundar þú einhverja hreyfingu: Já, ég æfi golf allt árið. Uppáhaldssjónvarpsefni: Prison break og Dexter eru góðir þættir. Af hverju tókuð þið þátt fyrir hönd Einsa Kalda: Nökkvi Snær vinnur hjá Einsa Kalda og fengum því að taka þátt fyrir þá. Hefur þú áður tekið þátt í þessu móti: Nei, þetta var fyrsta skipti. Var samkeppnin hörð: Já, í svona móti geta allir unnið, það var keppt með punktafyrirkomulagi sem gefur öllum sama sénsinn til að vinna. Hvert var skor þitt í mótinu: Ég spilaði á 65 höggum eða 5 höggum undir pari vallarins.  

Þjónusta við börn eru fjárfesting til framtíðar

Þjónusta við börn eru fjárfesting til framtíðar. Vestmannaeyjabær hefur á seinustu árum lagt þunga áherslu á að bæta þjónustu við börn og barnafjölskyldur eftir því sem við verður komið. Þannig er núna þjónusta dagforeldra niðurgreidd frá 9 mánaða aldri auk þess sem í boði eru heimagreiðslur til foreldra sem nýta sér ekki þjónustu dagforeldra. En þetta kemur fram á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar.     Fyrsta skólastigið Leikskólar eru fyrsta skólastigið og mikilvægt að því sé sinnt af kostgæfni. Inntaka í leikskóla sveitarfélagsins hefur í gegnum árin verið að vori og fram á haustið. Markmið sveitarfélagsins er að öll börn sem orðin eru 18 mánuða gömul 1. september ár hvert komist í leikskólapláss. Þetta markmið hefur náðst til dagsins í dag og jafnvel hefur tekist að bjóða þeim börnum sem verða 18 mánaða pláss fram yfir áramótin ef laus pláss eru til staðar.     Staðan í leikskólum Í dag eru 87 börn í Kirkjugerði og 94 börn á Sóla. Að auki eru 39 börn í Víkinni. Samtals eru því 220 börn í leikskólum sveitarfélagsins. Ekkert barn 18 mánaða eða eldra er á biðlista eftir leikskólaplássi í dag en í janúarlok verða þau orðin fimm og þrjú bætast við í febrúar, samtals 8 börn í febrúarlok.     Inntökutímabilum fjölgað Kröfur og væntingar foreldra til daggæslu eru í sífeldri þróun og mikilvægt fyrir Vestmannaeyjabæ að vera ætíð vakandi hvað það varðar. Meðal annars á þeim forsendum hefur Vestmannaeyjabær nú til skoðunar að fjölga inntökutímabilum barna til að freista þess að sem minnst frávik séu frá því að 18 mánaða börn komist inn á leikskóla.     Dagforeldrar og frekari inntaka á leikskóla Í Vestmannaeyjum eru þrír dagforeldrar með alls 15 börn. Ein umsókn liggur fyrir um að gerast dagforeldri og getur viðkomandi tekið til sín fjögur börn til að byrja með. Leikskólinn Kirkjugerði er þegar orðin fullnýttur en stefnt er að því að taka inn eins mörg börn á Sóla í janúar og mögulegt er. Til að mæta umfram þörf fyrir daggæslu verður dagforeldraúrræði á vegum Vestmannaeyjabæjar einnig opnað á Strönd þegar önnur dagforeldraúrræði eru fullnýtt.     Byggt við Kirkjugerði Vestmannaeyjabær hefur fyrir nokkru hafið undirbúning að framkvæmdum við stækkun Kirkjugerðis um eina deild á næstu vikum og eiga þær framkvæmdir að vera lokið í vor. Með tilkomu nýrrar deildar verður auðveldara að taka börn inn í leikskóla oftar yfir árið en nú er og fækka þar með frávikum frá 18 mánaða viðmiðinu. Með því verður biðtími foreldra eftir leikskólaplássi enn styttur frá því sem nú er.     Leikskólagjöld lækkuð Að lokum ber þess að geta að vegna verðtryggingar gjaldskrá Vestmannaeyjabæjar hafa gjaldskrár leikskóla hækkað umfram stefnu sveitarfélagsins. Í samræmi við fordæmi og orð ráðfólks má fastlega búast við að tekin verði ákvörðun um lækkun þessara gjalda á næsta fundi fræðsluráðs.  

Skilja sátt við sumarið og spennandi haust framundan

Hjónin Berglind Sigmarsdóttir og Sigurður Gíslason sem eiga veitingarstaðinn Gott skilja sátt við sumarið og segja það svipað og í fyrra. Íslenskir ferðamenn eru aðal gestir þeirra á sumrin og þau mæla með að allir ættu að gefa örlítið extra af sér til ferðamanna, það gæti skilað sér margfalt. Þau horfa björtum augum til framtíðar með stórar hugmyndir í kortunum.   Siggi eins og hann er alltaf kallaður sagði að sumarið á Gott hafi gengið mjög vel og hafi verið sambærilegt og frá árinu áður. „Það fór reyndar aðeins seinna af stað, það voru samgönguerfiðleikar í maí sem hefur að sjálfsögðu bein áhrif á okkar fyrirtæki“ sagði Berglind. Nú erum við komin vel inní september og þá væntanlega farið að róast? „Já það er aðeins farið að róast. Ég hef heyrt frá söluaðilum og fleirum í bænum að það sé eins og Vestmannaeyjar loki í september. Þetta er eitthvað sem við þurfum að vinna okkur út úr og það á eftir að taka einhvern tíma. Þó svo að allt verði í toppstandi hérna hjá okkur þá er þetta ímyndin sem við höfum. Það vill enginn ferðasöluaðili skipuleggja ferð sem gæti ekki gengið upp útaf samgöngum, þá er bara auðveldara að skipuleggja hana einhvert annað,“ sagði Siggi. „ Það kann kannski að hljóma leiðinlega fyrir Eyjamenn að alltaf sé talað um ferðamennina en okkar staður mundi aldrei ganga ef við hefðum þá ekki, þó við glöð mundum alveg vilja hafa stað bara fyrir heimafólk. En ef við höfum ferðamennina þá er kominn grundvöllur fyrir starfseminni en við leggjum líka mikið uppúr því að gera vel við Eyjamenn, en við lifum á sumrinu yfir veturinn,“ sagði Berglind.   Íslenskir ferðamenn koma til Vestmannaeyja til að borða góðan mat Hjónin segja að íslenskir ferðamenn séu þeirra stærsti kúnnahópur á sumrin. „Við erum að fá til okkar rosalega mikið af íslenskum ferðamönnum, það má segja að það sé aðal uppistaðan hjá okkur, fólk sem þekkir bækurnar eða merkið Gott, þetta er þá fólk sem er að koma á fótboltamótin, golfmót, þjóðhátíð og Goslok,“ sagði Berglind. „En það er líka eitt og alveg ótrúlegt að segja það, en það er líka fólk sem kemur bara til Vestmannaeyja til þess að koma að borða, nýtir að sjálfsögðu ferðina í fleiri hluti, en er fyrst og fremst að koma til að fá góðan mat. Þetta er nýr vinkill á þessu, við erum komin með marga góða matsölustaði hérna og fólk er að koma eingöngu til að borða, sem er mjög jákvætt. Ég sagði það áður en við opnuðum Gott fyrir fjórum árum, því fleiri góðir staðir sem opna hérna, því fleira fólk kemur hingað, en það þarf að passa að allir hafi sína sérstöðu,“ sagði Siggi. „Ástæðan fyrir því að Gott varð til var vegna þess að svona matsölustaður var ekki til staðar hérna. Gott er mjög ólíkt því sem var þegar til staðar, þó reynsla Sigga sé aðalega við fína veitingastaði en það var ekki það sem vantaði, “ sagði Berglind.   Sjónarmið Gott laðar að fólk Aðspurður segir Siggi að það sé mjög misjafnt hvort gestir Gott hafi kynnt sér staðinn áður en það kemur í mat eða komið óvænt inn. „Heimamenn eru dugleg að benda á okkur, sérstaklega ef fólki langar í fisk eða heilnæman disk sem við erum mjög þakklát fyrir,“ sögðu hjónin. Margir ferðamenn afla sér upplýsinga á tripadvisor og svo fellur Gott líka að lífstíl margra ferðamanna. „Margir ferðamenn sem koma til Ísland eru náttúruunendur, þeir eru oft umhverfissinnaðir og vilja velja holla fæðu og þar stendur Gott, við föllum í þá línu,“ sagði Berglind. Það má því segja að staðurinn hafi tvo mjög ólíka markhópa, umhverfissinnuðu ferðamennina sem vilja borða heilnæman disk og fisk, svo litla sjávarþorpið sem vill ekkert endi­- lega fisk því það er alið upp á fisk.   Af hverju markaðsetjum við ekki Stórhöfða sem vindsamasta stað á Íslandi Spjallið berst að ferðamannastraumnum til Vestmannaeyja sem er nær eingöngu yfir sumarið, er það eitthvað sem mætti jafnvel bæta? „Vestmannaeyingar eiga að leggjast á eitt og taka virkilega vel á móti fólki sem kemur hingað, ekki að við séum ekki að gera það, en hafa það sem sérstöðu hérna hvað allt er persóunlegt, maður þekkir það sjálfur ef maður er ferðamaður, ef einhver gefur sig á tal við mann, aðstoðar mann eða sýnir á annaðborð áhuga, maður verður strax miklu sáttari. Það á að vera auðveldur leikur í svona litlu samfélagi að setja svona frekar auðveld markmið um hvernig við viljum taka á móti fólki hérna.“ Siggi reddaði einni ferð hjá spánskri fjölskyldu í sumar sem vildi ólm sjá lunda. „Ég gaf mig á tal við spænska fjölskyldu sem kom til okkar að borða, veðrið var ekkert sérstakt og ég ákvað aðeins að heyra hver plönin þeirra væru. Pabbinn í hópum var frekar niðurlútur því hann hafði lofað þeim að þau mundu sjá lunda, en engan lunda var að sjá. Ég ákvað að segja þeim að staldra aðeins við og fer og athuga þetta, hleyp út í bíl, skil veitingastaðinn eftir, keyri út í Stórhöfða og þar er fullt af lunda. Ég kem til baka, læt þau vita að ég sé búinn að redda þessu, segi þeim að klára að borða og keyri þau svo uppá Stórhöfða og þau sjá lunda. Þar með var ég búinn að redda ferðinni og þau voru yfir sig glöð, “ sagði Siggi. Hjónin voru sammála um að þeim finnst að stór hluti erlendra ferðamanna sem hingað koma séu hérna til að sjá lunda og finnst þeim að við ættum því að nýta okkur pysjuveiðar betur og mögulega lengja aðeins ferðasumarið með því. Berglind sagði að við þurfum að passa okkar eigin fordóma „eins og gagnvart rokinu, fyrir marga er þetta algjör upplifun. Af hverju markaðsetjum við ekki Stórhöfða sem vindsamasta stað á Íslandi eða jafnvel heims. Það höfðu ekki margir trú á því að það væri hægt að ,,selja“ norðurljósin áður en það var gert. Það snýst allt um upplifun og hún getur verið á svo margan máta. Eitthvað sem okkur finnst sjálfsagt og jafnvel ómerkilegt og pirrandi getur öðrum þótt áhugavert,“ segir Berglind.   Ef bæjarfélagið tekur sig saman sem ein heild, þá virkar þetta. Núna eru svona stopover ferðir mjög vinsælar, ferðamenn koma hingað í þrjá daga og gera eitthvað ákveðið og þarna sé ég tækifæri fyrir Vestmannaeyjar sagði Siggi. „Ég sá það þegar ég var alltaf að elda fyrir kvikmyndir á sínum tíma. Í þessum ferðum er verið að keyra á Vík til að sjá alvöru fjöru, á annan stað til að sjá hraun o.s.fv., ferðamenn í þessum ferðum eru þar með ekki að skila sér út á landsbyggðina en í Vestmannaeyjum höfum við allan pakkann á einum punkt, nema kannske foss. Okkur vantar bara sterkari markaðssetningu um allt það sem er í boði í Vestmannaeyjum,“ sagði Siggi. Hjónin voru einnig sammála um að allir eigi að vinna saman, bærinn, fyrirtæki og einstaklingar sem ein heild. Ef bæjarfélagið tekur sig saman sem ein heild, þá virkar þetta.   Stærra og betra Gott Aðspurð um þær sögusagnir að þau ætli að ráðast í stækkun á húsnæðinu var svarið já. „ Það er planið, okkur vantar stærra eldhús. Með svona lítið eldhús eigum við erfitt með að stækka matseðilinn og það takmarkar líka hvað við getum gert,“ sagði Siggi. „Einnig finnst okkur leiðinlegt að vísa frá öllum þeim hópum sem koma hingað og langar að koma til okkar, það væri gaman að geta tekið á móti þeim, “ bætti Berglind við.   Besta vín Ítalíu á Gott En hvað er framundan með haustinu? „Við ætlum að hrista vel uppí matseðlinum og vera reglulega með þemavikur, þ.e. ítalska viku, helgar-sushi og eitthvað í þeim dúr, hreinlega bara hafa gaman,“ sagði Siggi. Hjónin eru búin að fara nokkrum sinnum til Toscana á Ítalíu og þar kynntust þau vínbónda sem gerir lífræn vín. Hann notar aldagamlar aðferðir án þess að nota öll þessi aukaefni, skordýraeitur o.s.fvr. af mikilli átríðu. Enda fékk hann verðlaun frá forsetanum og vínið hans var kosið besta vín Ítalíu. Vínið er uppselt hjá honum en við náðum að tryggja okkur smá lager og vínið verður á matseðli í haust.   Gott opnar mögulega í Reykjavík Það má segja að það sé ekki lognmolla í kringum hjónin, framtakssemin er mögnuð. En mögulega stendur til að opna Gott í Reykjavík. „ Það eru ansi margir sem vilja sjá Gott í Reykjavík og er það hugmynd sem við erum að skoða,“ segir Siggi. Að lokum, eitthvað sem stóð uppúr í sumar? „Þjóðhátíðin, það var allt full, við hefðum getað verið með helmingi fleiri borð og stemningin var frábær.“    

Draumurinn að stækka tímabilið í báðar áttir

Í ár eru fimm ár frá því veitingastaðurinn Slippurinn opnaði í Vestmannaeyjum en frá opnun hefur staðurinn verið eitt helsta aðdráttarafl Vestmannaeyja fyrir ferðamenn, íslenska sem erlenda. Slippurinn er staðsettur í Magnahúsinu að Strandvegi 76 þar sem áður var Vélsmiðjan Magni sem þjónaði gamla bátaslippnum. Eins og fram kemur á vefsíðu Slippsins ber húsið sterkan vott um atvinnusögu Vestmannaeyja. Þrátt fyrir breytta starfsemi þá hefur fyrra hlutverk hússins verið haft að leiðarljósi við hönnun Slippsins en marga af upprunalegum munum vélsmiðjunar má enn finna inni á staðnum. Slippurinn er fjölskyldurekinn veitingastaður og skiptist eignarhaldið jafnt á milli systkinanna Gísla Matthíasar og Indíönu og foreldra þeirra, Katrínar og Auðuns. Á dögunum settist blaðamaður niður með þeim Gísla Matthíasi, Indíönu og Katrínu og ræddi m.a. við þau um nýliðið sumar, upphafið og þá hugmyndafræði sem á bakvið Slippinn er.   „Við héldum s.s. upp á fimm ára afmælið okkar núna í júlí en þetta er í raun sjötta sumarið sem við höfum verið starfandi,“ segir landsliðskokkurinn og matarfrumkvöðullinn Gísli Matthías og bætir við að Slippurinn hafi þróast mikið á milli ára. „Við byrjuðum með svakalega lítinn mat- og vínseðil en á hverju ári höfum við reynt að bæta við nýjum hlutum eins og kokteilum og stækka matseðilinn.“   Aldrei farið auðveldu leiðina Upphaflega hugmyndin að því að opna veitingastað í Eyjum kom frá Katrínu en hún fluttist aftur til Eyja árið 2011. „Mér þótti þetta hús alltaf svo fallegt og stakk upp á því við krakkana á ættarmóti fyrir norðan hvort við ættum ekki bara að opna veitingastað, það væri ekki mikið um þá í Eyjum,“ segir Katrín en þá var Gísli Matthías á lokametrunum í kokkanámi. „Síðan er það í ágúst sama ár sem ég tala við Matta um hvort ég megi fá húsið og mér til mikillar undrunar sagði hann hugmyndina vera frábæra og við mættum fá húsið.“ Þegar fjölskyldan tók við húsinu var það afar illa farið en það hafði verið notað sem veiðafærageymsla í hátt í 30 ár. „Við vorum eiginlega bara föst hérna inni í sex mánuði að standsetja og við fórum eiginlega aldrei auðveldu leiðina í neinu. Í stað þess að kaupa tilbúið gólf þá rifum við upp annað gamalt gólf og lögðum hjá okkur og smíðuðum borð úr efni sem til var í húsinu. Allt sem við gerðum í upphafi endurspeglar vissa hugmyndafræði sem við höfum tileinkað okkur, nota staðbundið og vera með vissa nýtni. Við matargerðina notum við t.d. villtar jurtir sem eru lítið notaðar, þorskhausa og kjöt sem ekki er algengt að nota,“ segir Indíana.   Oft flókið að gera hlutina einfalda Gísli Matthías tekur í sama streng og segir vinnuna á bak við vera rosalega mikla. „Margir halda að það sé kannski einfalt að reka veitingastað í nokkra mánuði á ári en í rauninni er það miklu flóknara að því leitinu til að á hverju sumri erum við nánast að opna nýjan veitingastað. Það hefur einnig orðið til þess að við erum í stöðugri naflaskoðun og þurfum að passa okkur á að fylgja okkar gildum. Við erum alltaf að reyna að vera enn meira árstíðabundin, staðbundin og sjálfbær, kafa dýpra og móta konseptið okkar. Það er oft flókið að gera hlutina einfalda.“   Vinna langa vinnudaga Rekstur Slippsins er ekki alltaf auðveldur og yfir sumartímann mæðir mikið á fjölskyldunni sem vinnur langa vinnudaga en hjá þeim er ástríðan erfiðinu yfirsterkari. „Það hefði verið allt annað að reka veitingastað í Reykjavík og meira að segja bara hérna hinum megin við sjóinn. En við erum rosalega ánægð hvað við fáum mikið af heimafólki, það er alveg yndislegt,“ segir Gísli áður en Indíana grípur orðið. „Það var rík hefð fyrir því í Eyjum að fara upp á land til að fara fínt út að borða en núna er fólk að fara fínt út að borða hérna sem er skemmtileg þróun.“ Slippurinn hefur fengið mikla og verðskuldaða athygli hjá bæði innlendum og erlendum fjölmiðlum og segir fjölskyldan marga ferðamenn koma til Eyja aðeins til að borða á Slippnum. „Það eru margir sem koma bara í matarferð og það er mesta hrós sem hægt er að fá,“ segir Katrín.   Reksturinn verið góður Hvernig var árið í ár í samanburði við fyrri ár? „Sumarið var mjög gott, við finnum samt að erlendum ferðamönnum hefur fækkað og það eru ýmsar ástæður fyrir því og þá ekki síst gengi krónunnar, það er bara orðið miklu dýrara fyrir útlendinga að fara út að borða,“ segir Indíana og bendir á að orsökin liggi ekki síður hjá ferðaþjónustufyrirtækjum. „Í byrjun og lok tímabils er eins og ferðaþjónustan haldi að sér höndunum hvað það varðar að senda hópa til Eyja. Það hefur verið mikið um afbókanir vegna ferjunnar og margar ferðaskrifstofurnar búnar að gefast upp á því að taka sénsinn.“   Miklar vonir bundnar við nýja ferju „Auðvitað vonar maður að hún gangi,“ segir Gísli Matthías þegar talið barst að nýrri ferju sem á að koma í gagnið næsta sumar. „Ég er engin sérfræðingur í skipamálum en maður verður bara að vona og það á eftir að koma í ljós. Okkar langar að stækka tímabilið í báðar áttir en ég held það sé langt þangað til við getum haft opið allt árið. Strax í september erum við nánast farin að borga með okkur, þetta er svo stór staður og við þurfum mikið af starfsfólki til að halda gæðum í þjónustu og matreiðslu.“   Húsið að springa utan af starfseminni Síðasta vetur fjárfestu eigendur Slippsins í húsinu þar sem Heildsala Henna var en það er staðsett beint á móti veitingastaðnum. „Við fengum það afhent í mars og erum með stóra drauma varðandi það, þetta er ótrúlega skemmtilegt og reisulegt hús. Þó gamla húsið okkar sé stórt þá höfum við undanfarið verið að sprengja það utan af okkur,“ segir Indíana en húsið verður m.a. notað sem undirbúningseldhús og aðstöðu fyrir starfsfólk. „Indíana og pabbi hafa verið að standsetja starfsmannaíbúð fyrir kokka og þjóna en það hefur verið sífellt erfiðara og meira umstang að fá leiguhúsnæði fyrir allt þetta fólk, flytja húsgögn inn í maí og út í september. Þetta hús á líka eftir að hjálpa okkur að stækka enn meira og gera okkur kleift að gera enn betur. Fyrir mína parta langar mig að kafa enn dýpra, finna og varðveita brögð Eyjanna, nota meira af villtum jurtum og sjávarfangi,“ segir Gísli Matthías en stefnan er að leigja herbergin út yfir vetramánuðina. En finnur yfirkokkurinn fyrir pressu til að sjokkera bragðlauka fólks? „Nei, í raun og veru ekki en mér finnst langskemmtilegast að gera eitthvað nýtt en ég vil ekki breyta bara til þess að breyta. Ef við breytum þá verður það vera til hins betra. Það eru tilteknir hlutir sem hafa verið á matseðlinum frá degi eitt en við höfum kannski þróað þá örlítið á hverju ári til að gera heildarupplifunina enn betri. Það er alltaf hægt að verða aðeins betri,“ segir Gísli Matthías.   SKÁL! er nýjasta verkefni Gísla Matthíasar Í fyrra sagði Gísli Matthías skilið við veitingastaðinn Mat og Drykk sem hann, ásamt öðrum, opnaði í ársbyrjun 2015. Föstudaginn 1. september sl. opnaði Gísli hins vegar nýjan stað í Hlemmi Mathöll sem ber nafnið SKÁL! en þar verður áherslan lögð á íslenska bjóra og kokteila, ásamt smáréttum. „Ég er s.s. að opna þennan stað ásamt öðrum Eyjamanni, honum Gísla Grímssyni, og vini mínum Birni Steinari, stofnanda Saltverks. Þetta verður meira bar heldur en veitingastaður og verðum við með íslenska bjóra á boðstólnum, þar á meðal bjóra frá The Brothers Brewery, og svo kokteila. Við verðum líka með mat, sem svipar til þess sem við erum að gera hérna en á aðeins óformlegri hátt, maður er ekki alveg að fara í þriggja rétta máltíð þarna,“ segir Gísli og bætir við að viðtökurnar hafa verið afar góðar. „Það er búið að vera troðið frá því við opnuðum. Þetta er öðruvísi og mjög skemmtilegt.“   Slippurinn okkar flaggskip Þrátt fyrir þennan nýja stað segir Gísli Slippinn alltaf vera í forgangi hjá sér. „Slippurinn er alltaf númer eitt, tvö og þrjú. Það var líka þannig þegar ég var með Mat og Drykk, þá var það alltaf á hreinu að ég væri í Eyjum á sumrin. Slippurinn mun alltaf vera flaggskip okkar sama hvað við tökum okkur fyrir hendur. Hann er stoltið og við viljum að Vestmannaeyjar verði þekktar fyrir mat, að hér sé matarperla. Þetta er minn draumur og mér finnst frábært hvað aðrir staðir eru að gera, The Brothers Brewery, Einsi kaldi, Gott og fleiri. Við lítum ekki á þessa aðila sem samkeppni heldur styrkir þetta hvert annað. Við viljum vera ein eining og í sameiningu fá fleira fólk til Vestmannaeyja heldur en að berjast um kúnnana,“ segir Gísli Matthías að endingu.  

Þátttaka í bólusetningu 12 mánaða barna lægst í Vestmannaeyjum

Fram kom í tíufréttum RÚV í gær að þátttaka 12 mánaða og fjögurra ára barna í bólusetningum hér á landi sé óviðunandi. Ætlar Landlæknisembættið að ráðast í sérstakt átaksverkefni til að fá fleiri foreldra til að mæta með börnin sín í bólusetningar til að sporna við þessari þróun og þar með reyna að koma í veg fyrir að hættulegir sjúkdómar blossi upp. Athygli vakti að þátttaka 12 mánaða barna í Vestmannaeyjum er langminnst og töluvert undir meðaltali.   Í skýrslu embættisins sem kom út fyrir skemmstu kemur fram að þátttaka í bólusetningum hér á landi sé svipuð og á árinu 2015 nema við 12 mánaða og fjögurra ára aldurinn þar sem hún var til muna lakari árið 2016. Segir jafnframt að niðurstaðan sé ekki ásættanleg og ef fram heldur sem horfir, þá geta blossað upp bólusetningasjúkdómar sem ekki hafa sést um árabil. Þess má einnig geta að nú geisar mislingafaraldur í Evrópu og gætu stök tilfelli sést hér á landi ef þátttöku hrakar enn frekar. Ástæðurnar fyrir dræmri þátttöku eru ekki með öllu ljósar en líklegt er að innköllunarkerfi heilsugæslunnar sé ófullnægjandi fyrir börn á þessum aldri frekar en að fólk sé að neita að láta bólusetja börnin.   Einungis 75% barna bólusett við 12 mánaða aldur Töluverður munur er milli landssvæða hvað þátttökuna varðar en í Vestmannaeyjum er hún áberandi minni hjá 12 mánaða börnum en gengur og gerist annars staðar á landinu eða 75% á móti 86-90%. Þátttakan í Vestmannaeyjum við fjögurra ára aldur er ívið betri, eða 84%, en þó of lág líkt og annars staðar á landinu að frátöldum Vestfjörðum sem skera sig úr með 97% þátttöku.   Á vef embættisins segir að bólusetningar hafi verið almennar hér á landi í marga áratugi og þátttaka í þeim sé mikil, einkum þegar börn eiga í hlut. Með því að þorri fólks láti bólusetja sig er unnt að mynda svonefnt hjarðónæmi gegn skæðum smitsjúkdómum, sem þýðir að ónæmi gegn þeim verður nægilega algengt í landinu til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómanna, jafnvel þótt vart verði við einstök tilfelli. Vegna almennrar þátttöku landsmanna í bólusetningum hefur ekki verið talin þörf á að gera bólusetningu að skyldu en þess má geta að öll börn með lögheimili á Íslandi geta fengið bólusetningu að kostnaðarlausu.    

Færri krónur en fleiri gestir

Á dögunum heimsótti blaðamaður Magnús Bragason og Öddu Jóhönnu Sigurðardóttur, eigendur Hótels Vestmannaeyja, og ræddi stuttlega við þau um gengi hótelsins í sumarið og hótelrekstur almennt. Svokölluðum Airbnb íbúðum hefur fjölgað gríðarlega síðustu ár með þeim afleiðingum að samkeppnis-umhverfið hefur skekkst. Í kjölfarið hafa „leikreglur“ ef svo má segja orðið sífellt ósanngjarnari fyrir hótel- og gistihúsaeigendur sem þurfa að borga ýmis gjöld sem Airbnb gistingin sleppur við.   Herbergjafjöldinn Airbnb meiri en á hótelunum „Það kom skýrt fram á fundinum hvað mikið af gistingu í Vestmannaeyjum er selt í gegnum Airbnb, það er sláandi,“ segir Maggi er hann vísar í fulltrúaráðsfund í Ásgarði sl. miðvikudag þar sem ferðaþjónustan í Vestmannaeyjum var í forgrunni. „Nú er herbergjafjöldinn á Airbnb gistingu orðin meiri en herbergjafjöldinn á hótelunum og gistiheimilum í Vestmannaeyjum til samans. Þessir aðilar borga hvorki virðisaukaskatt eða gistináttaskatt. Þetta skekkir samkeppnisumhverfið og á sama tíma er ríkisstjórnin að auka skatta og álögur á þá sem stunda ábyrgan og heiðarlegan atvinnurekstur. Til dæmis þrefaldaðist gistináttaskattur um síðustu mánaðamót og hafði fráfarandi ríkisstjórn uppi áform um að hækka VSK á ferðaþjónustuna um 118%.“ Aðspurð hvort þau finni fyrir þessu svara Maggi því játandi. „Þeir sem eru að leita að gistingu fara oft annað því þeir fá hana ódýrari á Airbnb. Við erum að keppa við ólöglega gistingu sem fer ekki eftir neinum leikreglum – það er ósanngjarnt. Þarna þurfa yfirvöld að gera betur hvað varðar eftirlit og eftirfylgni.“   Færri krónur en fleiri gestir í ár Árið 2016 var met í gestafjölda hjá þeim Magga og Öddu síðan þau opnuðu hótelið en þrátt fyrir marga gesti í ár var afkoman svipuð og í fyrra. „Á flestum bókunarsíðum seljum við í evrum og hún veiktist gagnvart krónunni í sumar. Við fengum því færri krónur per. herbergi, en meira af gestum. Það er því ekki línulegt samband á milli fleiri ferðamanna og betri afkomu í greininni. Að því sögðu er árið í ár jafn gott og í fyrra og erum við ánægð með sumarið,“ segir Maggi. Ferðaskrifstofur sem áður komu til Eyja með hópa í dagsferðir hafa upp á síðkastið verið að dvelja eina nótt en þróunin hefur verið á þá leið að fólk verji lengri tíma í Eyjum en áður. „Við erum t.d. komin með hópaseríu sem dvelur alltaf eina nótt í Vestmannaeyjum í vikuferð um Suðurlandið og þeir hópar sem hafa verið að gista eru að bæta við annarri nótt. Svo er okkar stærsti kúnnahópur jafnvel að spá í að bæta við þriðju nóttinni og það finnst okkur afar ánægjulegt,“ segir Maggi og bætir við að gestir séu ánægðir með afþreyinguna sem í boði er í Eyjum. „Þeir eru sérstaklega ánægðir með söfnin þrjú. Þau eru vel rekin, af ástúð, af fólki sem hefur áhuga á því sem það er að gera og það skilar sér í ánægju gestanna. Það sama má segja um veitingastaðina, þar er allt gert með hjartanu og svo vel. Gestir sem koma til Eyja ná ekki að gera allt sem hægt er að gera hér á einum eða tveimur dögum. Þeir sem gista nýta þjónustuna meira en þeir sem koma í dagsferð. Við græðum mest á því að vinna saman.“   Vetrarferðamennska spennandi kostur Til þess að byggja upp vetrarferðamennsku í Vestmannaeyjum verða allir aðilar í ferðamannabransanum að standa sig betur. „Við verðum að hafa opið alla daga allt árið þ.e. hótelin, veitingastaðirnir og söfnin. Ég veit að það eru ekki margir gestir að koma en þeir sem koma segja frá og það hafa komið hópar til okkar sem hafa ætlað að fara á söfnin og góðu veitingastaðina en það var allt lokað. Menn fengu ekki að upplifa það sem þeir voru búnir að lesa um, í þessu þurfum við að bæta okkur,“ segir Maggi. Í vetur eru tíu hópar bókaðir hjá hótelinu og binda þau Adda og Maggi miklar vonir við þessa nýjung. „Í fyrsta skiptið eru amerískir hópar að koma að vetri til, en hingað til hafa þeir bara verið á sumrin. Þeir munu koma í nóvember til febrúar og koma með flugi fram og til baka. Þetta eru fimm til tíu manns í senn sem dvelja í tvær nætur og fara í svipað prógramm og á sumrin fyrir utan bátsferð. Þessir hópar eru stærstir hjá okkur á sumrin og hafa verið frá því við opnuðum. Við vorum því mjög glöð þegar þeir vildu prófa vetrarferðir. Ef þetta gengur vel og fólk er ánægt að koma á þessum tíma þá mun það spyrjast fljótt út og fleiri ferðaskrifstofur munu fara að þeirra fordæmi og nota flugið,“ segir Adda. Þá ætlar stór hópur Bandaríkjamanna að dvelja á hótelinu yfir áramót.   Vandamál að ekki sé hægt að bóka í Herjólf með árs fyrirvara „Stórt vandamál í ferðaþjónustunni er að það er ekki hægt að bóka í Herjólf með árs fyrirvara og yfir þessu hef ég röflað ár eftir ár en það hefur lítið þokast. Útlendingar skipuleggja ferðir sínar með árs fyrirvara og þeir hafa fengið þau svör að engin ferð sé í boði þegar þeir reyna að panta og það er auðvitað ómögulegt, því þá hætta þeir við að koma og fara eitthvað annað,“ segir Maggi. „Þjónustan á skrifstofu Herjólfs er hins vegar góð og starfsfólkið þar er að vinna frábært starf við oft erfiðar aðstæður.“ Það þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi Landeyjahafnar fyrir ferðamannastrauminn en hann hreinlega stöðvast um leið og hætt er að sigla þangað. „Maður skilur það alveg en þeir sem láta sig hafa það og koma með Herjólfi úr Þorlákshöfn fara stundum grátandi upp í herbergi með kvíða fyrir heimferðinni, þetta er bara ekki valkostur,“ segir Maggi og tekur Adda í sama streng. „Við höfum liggur við þurft að bera fólk upp í herbergi þegar það kemur og það er ekki góð auglýsing fyrir okkur sem áfangastað.“   Áhugi á Vestmannaeyjum aldrei verið meiri Mikil bjartsýni ríkir meðal Magga og Öddu en ásókn ferðaskrifstofa hefur aukist gríðarlega en aldrei áður hefur verið eins mikið bókað og fyrir árið 2018 á hótelinu. „Vestmannaeyingar hafa verið jákvæðir gagnvart ferðamönnum og við finnum það á gestunum, þeir tala um hvað fólkið hér er kurteist og gott heim að sækja. Það er eins og engum sé sama og allir vilja vinna með okkur og passa upp á að allt sé í lagi.“  

Aukin þekking, nýsköpun og þróun

Um helgina fór fram Íslenska sjávarútvegssýningin, IceFish í tólfta skipti. En fyrsta sýningin fór fram árið 1984. Sýningin er þríæringur, þ.e. haldin á þriggja ára fresti að ósk sýnenda. Íslenska sjávarútvegssýningin hefur alltaf notið mikilla vinsælda meðal almennings, eins og aðsóknin á síðustu sýningu ber með sér, en þá mættu yfir 15 þúsund gestir.   Í ár komu fram nærri 500 ný fyrirtæki, vörur og vörumerki á Íslensku sjávarútvegssýningunni og aðilar frá samtals 22 nýjum löndum taka þátt. En ekkert fyrirtæki frá Vestmannaeyjum var með á sýningunni. En margir Eyjamenn kíktu samt sem áður á sýninguna um helgina. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, setti Íslensku sjávarútvegssýninguna og talaði um að þegar samkeppni um markaði fer harðnandi er svarið aukin þekking, nýsköpun og þróun. „ Líkt og við Íslendingar höfum gert, en jafnframt er brýnt að við miðlum farsælli sögu íslensks sjávarútvegs á umliðnum árum. Þar spilar Íslenska sjávarútvegssýningin stórt hlutverk sem vettvangur fyrir tengslamyndun og miðlun upplýsinga.“ „Fyrirtækin sem hér eru samankomin eru í fremstu röð á sviði vinnslu, veiði og nýsköpunar. Aðrir gestir koma úr ólíkum áttum en öll eigum við sameiginlegt að vilja sækja lengra og skapa meiri verðmæti. Mín reynsla af þessum sýningum er að að þeim loknum er maður betur upplýstur um hvar við stöndum en ekki síður hvert við stefnum og hvernig við munum komast þangað.“   - Myndir

Markmið Velferðar er að veita þverfaglega þjónusu og ráðgjöf

 Nú í september hóf Velferð, fræðslu- og velferðarmiðstöð og lögfræðiþjónusta starfsemi sína í Vestmannaeyjum. Velferð er hugsjón tveggja félagsráðgjafa og lögmanns sem fundu fyrir gríðarlegri vöntun á þjónustu á sviði velferðar á landsbyggðinni. Úr varð að Velferð var stofnað á vormánuðum 2016 og síðan þá hefur fyrirtækið vaxið bæði hratt og vel. Hjá Velferð starfa tveir félagsráðgjafar með löggilt starfsleyfi og héraðsdómslögmaður. Markmið Velferðar er að veita þverfaglega þjónustu þar sem einstaklingar, fjölskyldur, fyrirtæki og stofnanir geta sótt ráðgjöf og þjónustu. Starfsmenn Velferðar hafa löggild starfsréttindi á sviði félagsráðgjafar og lögmennsku. Auk margþættrar reynslu hafa þeir sérhæft sig í ýmsum málefnum er snerta fjölskylduna, má þar nefna fjölskyldumeðferð, stjúptengsl, erfðamál, sáttarmeðferð og sjálfstyrkingu svo fátt eitt sé nefnt. Félagsráðgjafar Velferðar hafa lagt áherslu á vinnu með einstaklingum með kvíðaeinkenni, depurð/þunglyndi og/eða félagsfælni. Auk fjölskylduvinnu hefur Velferð boðið uppá para-og hjónameðferð, viðtöl við krabbameinsgreinda og fjölskyldur þeirra. Lögmaður Velferðar hefur víðtæka reynslu og sinnir allri almennri lögmannsþjónustu. Hefur hann einkar mikla reynslu af umgengis-, forsjár- og skilnaðarmálum, faðernismálum, dánarbúum, sakamálum, barnaverndarmálum, slysamálum sem og stjórnsýslu- og sveitarstjórnamálum. Velferð hefur hingað til veitt þjónustu sína víðsvegar um Ísland og lítur ekki á landfræðilega stöðu verkefna sem hindrun. Starfsmenn Velferðar horfa fram til sóknartækifæra, til aukinnar reynslu og starfsþroska að bjóða uppá þjónustu sína í Vestmannaeyjum. Skrifstofa Velferðar í Vestmannaeyjum er að Strandvegi 54 og er áætlað að viðvera Velferðar verði tvo til þrjá daga í mánuði. Velferð má finna á Facebook og þar er hægt að fylgjast með væntanlegum komum til Vestmannaeyja, finna frekari upplýsingar um þjónustu og senda fyrirspurnir. Hlökkum til að vinna með Vestmannaeyingum.

Stöðugleiki lykilatriðið

Í september og október munu Samtök atvinnulífsins efna til opinna funda víðs vegar um land en fyrsti fundurinn í röðinni fór einmitt fram í Akóges í Vestmannaeyjum í gær. Súpa og kaffi var í boði fyrir gesti sem voru vel á þriðja tug. Til að rýna í stöðuna á vinnumarkaðnum voru mætt til Eyja þau Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA, Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, og Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs. Blaðamaður náði tali af þeim Eyjólfi Árna og Ásdísi eftir fundinn og var ekki annað að heyra en að þau hefðu verið ánægð með fundinn og spennt fyrir komandi ferðalagi.   Komin til að hlusta „Við erum bara komin til að hlusta, það er grunntónninn. Við viljum fá ábendingar um hvað er að ganga vel og hvað ekki og hvort það séu einhverjir áhyggjupunktar framundan í íslensku atvinnulífi. Það hefur gengið vel undanfarin sjö ár, það hefur verið mikið hagvaxtaskeið en við verðum að horfa fram á veginn til að viðhalda því og tapa ekki þeim ávinningi sem liggur á borðinu,“ segir Eyjólfur Árni. Lykilatriði til þess að viðhalda því sem áunnist hefur segir Eyjólfur Árni felast í stöðugleika. „Við notum bara eitt orð yfir það og það er stöðugleiki. Það er líka ljóst að við verðum að sýna ákveðna skynsemi í launaþróun, það er alveg ljóst. Það er ekki innistæða fyrir miklum hækkunum, hvort sem það er í opinbera- eða einkageiranum.“ Telur þú fólk eigi eftir að sýna því skilning að ekki sé innistæða fyrir miklum hækkunum? „Já, ég held það. Þegar þetta snýst um það að við erum með mikinn kaupmátt sem má m.a. rekja til þess að krónan hefur styrkst á undanförnum árum. Þegar við segjum að við viljum viðhalda þeim kaupmætti með því að gera hitt og þetta, ekki tapa því sem hefur áunnist, þá ætla ég að trúa því að á okkur verði hlustað,“ segir Eyjólfur Árni.   Útflutningsgreinarnar eiga að knýja áfram hagvöxt Aðspurð hvernig hljóðið hafi verið í fundargestum sagði Ásdís það hafa verið mjög gott. „Það var gott að fá þessar umræður, við erum annars vegar að fara yfir komandi kjarasamninga, þessa óvissu sem er framundan og bara stöðuna í hagkerfinu almennt. Mér fannst vel tekið á móti okkur hérna og gaman að sjá að það er áhugi fyrir því sem við höfum fram á að færa.“ Á fundinum var einnig farið yfir mikilvægi útflutningsgreinanna og þeirra tækifæra sem í þeim felast. „Undirliggjandi staða í efnahagslífinu hefur aldrei verið jafn sterk og við bendum á það að ef við ætlum að viðhalda núverandi stöðu og byggja upp hagvöxt til framtíðar, með útflutningsgreinar í fremstu röð eins og verið hefur í þessari uppsveiflu, þá þurfum við að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Að öðru jöfnu munum við því miður lenda í enn einni sveiflunni sem mun ýta undir ójafnvægi í hagkerfinu okkar og vaxandi erlendri skuldasöfnun sem að lokum leiðir til gengisfellingar krónunnar. Að okkar mati eru það útflutningsgreinarnar sem eiga að knýja áfram hagvöxt á komandi árum og við eigum að horfa til samkeppnisstöðu þeirra í komandi kjarasamningum,“ segir Ásdís að lokum.  

Airbnb leiguhús með flest gistirými bæjarins

Á tímabilinu maí til ágúst má segja að vertíð sé í ferðaþjónustu Vestmannaeyja. Þróunin hefur verið mjög jákvæð síðustu ár og var sumarið 2016 hápunktur og lítur út fyrir að sumarið í ár standi svipað. Páll Marvin Jónsson er formaður ferðamannasamtaka Vestmannaeyja og var hann með erindi á opnum fundi Sjálfstæðisfélagsins í síðustu viku þar sem hann varpaði ljósi á ýmsar staðreyndir. Hlutfall erlendra ferðamanna hefur aukist svo um munar síðustu ár og er það í takt við það sem er að gerast á landinu. En til Vestmannaeyja eru það íslenskir ferðamenn sem eru flestir þeirra ferðamanna sem koma hingað og á eftir þeim eru það Bandaríkjamenn, svo þýskir ferðamenn og því næst franskir. Ferðamennirnir eru samt sem áður ekki að stoppa nógu lengi hjá okkur því langflestir eru bara í eina eða tvær nætur. Gistirými í Vestmannaeyjum eru alls 428 rúm. Þar af eru hótelin með 131 rúm, gistiheimili 77 rúm, farfuglaheimili 20 rúm, smáhýsi 20 rúm, klefar 7 rúm og airbnb 140 rúm. En airbnb er nýr og ört stækkandi flokkur. Páll Marvin sagði að þessar tölur sýni að yfir háannatíma á sumrin er vöntun á hótelgistingu, sem sagt dýrari og vandaðri gistingu. Í samtali við Gunnlaug Grettisson rekstarstjóri Sæferða sagði hann að með Herjólfi frá maí til ágúst ferðuðust alls 238.650 farþegar. Farnar voru 6 ferðir alla vikuna frá 15. maí. Að jafnaði fóru 175 farþegar og 30 bílar í hverri ferð sem er fækkun um 15 farþega og 4 bíla í hverri ferð miðað við árið á undan. Með flugfélaginu Erni flugu frá maí til ágúst 8330 farþegar en það eru aðeins fleiri en flugu í fyrra sumar. Óskar Elías Sigurðsson starfsmaður hjá Erni sagði einnig að yfir sumarmánuðina fljúgi talsvert færri heldur en yfir vetramánuðina. En vandamál ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum eru veturnir og spila þar inní samgöngur. En vonin er sú að á næstu árum breytist það.  

Vestmannaeyjar verða vettvangurinn í næstu bók hennar

 Enginn Eyjamaður hafði áhuga á að hitta sænska unglingabókahöfund-inn Kim M. Kimselius í Eymundsson á föstudaginn þar sem hún var tilbúin til að spjalla við fólk og lesa upp úr bókum sínum sem eru orðnar samtals 45 á 20 ára ritferli. Fimm bækur hennar hafa komið út á íslensku og sú sjötta, Svarti dauði kom út í síðustu viku. Með henni voru Elín Guðmundsdóttir, þýðandi og Jón Þ. Þór útgefandi. Þó enginn hafi heilsað upp á Kim var hún ánægð með heimsóknina og hefur heillast af Vestmannaeyjum sem verða vettvangur næstu bókar hennar þar sem hún ætlar að tvinna saman Tyrkjaránið og Heimaeyjargosið 1973. Söguhetjurnar eru alltaf þær sömu, Ramóna og Theó sem flakka um í tíma og rúmi og hafa komið við þar sem stærstu atburðir mannkynssögunnar hafa orðið, t.d. í Pompey áður en borgin lagðist í eyði í eldgosi 69 e.K. Kim var á vikuferð um Ísland og heimsótti fjölmarga skóla á Suðurlandi og hún varð strax hrifin þegar hún vissi að ferðinni yrði heitið til Vestmannaeyja. „Ég vissi að sjálfsögðu af gosinu 1973 en þegar ég var á leiðinni hingað heyrði ég af sjóræningjunum sem rændu og drápu fólk í Vestmannaeyjum sumarið 1627,“ sagði Kim í samtali við Eyjafréttir. „Nú hef ég aflað mér meiri upplýsinga og þegar ég sá þau áhrif sem gosið hafði sá ég að þarna var komið efni í bók. Og ég veit nákvæmlega hvernig ég ætla að hafa hana. Ég er nánast tilbúin með hana í kollinum á mér, alla söguna.“ Er það svona sem þú vinnur bækur þínar? „Já, það má segja það en mikil vinna fer í að afla upplýsinga og svo byrja ég að skrifa og nú er bækurnar orðnar 45. Á þessu ári fagna ég svo 20 ára afmæli sem rithöfundur. Vestmannaeyjabókin verður tilbúin 2019 en ég veit ekki hvenær hún kemur út á íslensku. Það gæti þó orðið sama ár og hún kemur út í Svíþjóð eða á 100 ára afmæli Vestmannaeyjabæjar,“ sagði Kim. Kim bætti því við að alls staðar þar sem hún færi gerði hún allt sem í hennar valdi stæði til að koma á góðu samstarfi við skóla á viðkomandi stöðum. Hún sagði að þau Kári Bjarnason á Bókasafninu myndu bjóða Grunnskóla Vestmannaeyja upp á samstarf þar sem nemendur myndu lesa bækur hennar og gætu síðan skrifað henni á ensku og spurt útí efni bókanna eða hvað annað sem þeim lægi á hjarta. „Svona samstarf rithöfundar og lesenda er ég með við þónokkra skóla í Svíþjóð og þar sem næsta bók mín mun hafa Vestmannaeyjar að söguefni ætla ég að reyna að komast í samstarf við Grunnskólann hér.“ Bækur Kim hafa verið gefnar út á dönsku, finnsku, íslensku, norsku, þýsku auk ensku og njóta þær mikilla vinsælda víða um heim. „Ég held að ég geti sagt að bækur mínar passi fyrir fólk á aldrinum frá tólf og alveg upp í 97,“ sagði hin geðþekka Kim M. Kimselius að endingu.

Liðið á pappírnum segir ekkert þegar komið er inn á völlinn

 Aðspurður út í stemninguna í liðinu um þessar mundir sagði Magnús Stefánsson, fyrirliði karlaliðs ÍBV, hana vera virkilega góða og að heilt yfir væri hún alltaf góð. „Auðvitað er það alltaf svekkjandi að detta út úr keppni hvort sem það er í úrslitakeppninni eða bikarnum en stemningin og mórallinn hefur alltaf verið á góðum stað,“ segir Magnús og bætir við að menn hafi alltaf sumarið til að melta hlutina eftir tímabilið. „Jú, jú, maður tók einhverjar vikur að melta þetta allt saman og menn fara sínar leiðir í því en svo er það bara búið og það þýðir ekkert að dvelja of lengi við það sem er búið, alveg sama hvort það sé sigur eða tap, það kemur alltaf eitthvað nýtt sem tekur við. Nú er bara nýtt tímabil framundan og eins og hjá öllum liðum, þá eru allir vegir færir.“   Menn þurfa að líta í eigin barm Er hægt að draga einhvern lærdóm af rimmunni við Val í úrslitakeppninni eða voru þeir einfaldlega bara sterkari en menn gerðu ráð fyrir? „Ég ætla ekki að taka neitt af Valsmönnum, þeir voru gríðarlega sterkir og voru að toppa á hárréttum tíma og vel að þessum titlum komnir. Á sama tíma verðum við líka að líta aðeins í eigin barm og skoða hvað hefði mátt betur fara. Ég held við séum allir búnir að því og ætli hver og einn hafi það ekki bara fyrir sjálfa sig. Menn hafa það svo bakvið eyrað þegar kemur að næstu rimmu, hvað hafi farið úrskeiðis og hvað hafi klikkað hjá hverjum og einum. Þannig draga menn kannski lærdóm af því sem miður fer og ætli það sé ekki bara þannig í lífinu,“ segir Magnús.   Landsliðsmarkmaður og norðlenskt gæðablóð Mannabreytingar hafa orðið á liðinu í sumar og kveðst Magnús ánægður með hópinn í dag. „Mér lýst bara frábærlega á hópinn, það er náttúrulega alltaf frábært að fá Norðlendinga inni í hópinn, mikið gæðablóð og eðalmenn,“ segir Magnús kíminn er hann vísar í félagsskipti varnarmannsins Róberts Sigurðssonar sem kom til ÍBV á láni frá Akureyri fyrr í sumar. Sömuleiðis samdi ÍBV við landsliðsmarkmanninn Aron Rafn Eðvarðsson sem hefur undanfarin ár verið erlendis í atvinnumennsku. „Báðir þessir leikmenn eru algjörir toppmenn sem falla mjög vel inn í hópinn. Þeir munu einnig smellpassa hérna inni í samfélagið, þeir eru bara þannig týpur, opnir og hressir. Fyrir utan það þá eru þetta bara öflugir leikmenn, landsliðsmarkmaður og upprennandi landsliðsmaður, vil ég meina. Róbert er kominn hingað til að sækja sér reynslu til okkar eldri leikmannanna og hjá þjálfaranum en Arnar var náttúrulega frábær varnarmaður þegar hann var að spila og á eftir að kenna honum helling. Við erum einnig búnir að missa góða leikmenn og það er alltaf leiðinlegt að sjá eftir góðum mönnum, en það er bara eins og það er, þeir koma einn góðan veðurdag til baka og halda áfram að vera jafn flottir og þeir voru.“   Segir ekkert inni á vellinum að vera með besta liðið á pappírunum Ekki vill Magnús meina að einhverjar teljandi breytingar verði á leik liðsins en þó telur hann að menn fari inn í mótið með meiri auðmýkt. „Ætli áherslubreytingin sé ekki aðallega fólgin í því að hver og einn líti inn á við og átti sig á því að þó maður sé með frábært lið, langbesta liðið á pappírunum, þá hefur það nákvæmlega ekkert að segja inni á vellinum. Ég veit að menn eru búnir að átta sig á því að það þarf að fórna sér og vinna fyrir hverju einasta stigi, alveg sama hvað þú heitir eða hvað þú hefur afrekað, þú þarft alltaf að hafa fyrir hlutunum í þessu sporti. Það eru alltaf einhverjir yngri leikmenn í hinum liðunum sem eru hungraðir í að sanna sig. Ætli þetta sé ekki aðal áherslubreytingin án þess að það sé búið að ræða það eitthvað sérstaklega, ég held að menn skynji það.“   Mikilvægt að toppa á réttum tíma Oft hefur verið talað um að síðustu vikur tímabilsins skipti langmestu máli í handboltanum og tekur Magnús undir það. „Þetta verður bara sér mót fyrir áramót, síðan tökum við stöðuna og förum svo inn í annað mót eftir áramót. Ég held að flest lið skipti þessu upp þannig. Leikirnir eru oft þýðingarmeiri þegar líða tekur á mótið og þú vilt að liðið sé að toppa um og rétt fyrir úrslitakeppni og að þá séu allir besta útgáfan af sjálfum sér. Menn hafa tímann fram að áramótum í að finna þá útgáfu,“ segir Magnús sem tekur undir með blaðamanni að mikilvægt sé að halda leikmönnum heilum yfir allt tímabilið. „Algjörlega, það er mikilvægur faktor í þessu. Það þarf ekki mikið meira en ein eða tvö meiðsli hjá lykilmönnum þá breytist formúlan í liðinu alveg um leið.“ Ásamt því að vera með sterkt byrjunarlið, þá er ÍBV einnig með unga og efnilega leikmenn sem eiga eftir að koma til með að axla aukna ábyrgð í framtíðinni. „Við erum með góða unga stráka þarna inn á milli en þá vantar kannski reynsluna. Það má heldur ekki setja of mikla ábyrgð á þeirra herðar þó þeir séu góðir leikmenn, þeir þurfa að ná sér í reynslu áður en það er ætlast til að þeir dragi vagninn   Frábær æfingaferð í Frakklandi Nú voru þið að klára æfingaferð í Frakklandi, var hún gagnleg handboltalega séð eða var hún meira upp á gamanið? „Nei, þetta var eiginlega bara virkilega góð ferð, við vorum að æfa tvisvar á dag við toppaðstæður hjá úrvalsdeildarfélaginu AIX. Það var virkilega gaman að sjá þetta, sérstaklega fyrir ungu strákana sem kannski stefna á atvinnumennskuna. Að átta sig á því hvað litlir hlutir skipta gríðarlegu máli, eins og að fara ekki of seint að sofa, hvað þú borðar og hvenær, hvernig þú æfir og hvernig þú hagar þér almennt. Eins og hjá þessum körlum þarna úti þá er þetta bara vinnan þeirra og þeir bera virðingu fyrir henni,“ segir Magnús. Bendir fyrirliðinn jafnframt á að þarna hafi menn einnig gert sér grein fyrir hversu góð aðstaðan í Vestmannaeyjum sé til handboltaiðkunar. „Við erum með betri aðstöðu hérna í Eyjum en þeir þarna úti. Við erum með betra húsnæði, við erum með betra gólf, þ.e. í gamla salnum, betri líkamsrækt, við erum með sjúkraþjálfara á staðnum, sundlaug og heita potta og það allt í sama kjarnanum. Þeir eru ekki með sundlaug og heita potta, ekki sjúkraþjálfara á staðnum og svo pínulitla rækt. Menn eru kannski oft að sækja vatnið yfir lækinn og halda að það sé alltaf betra að drífa sig út. Aðstaðan í Vestmannaeyjum er með þeim betri sem þær gerast til að verða betri leikmaður. Það voru nokkrir sem áttuðu sig á þessu þarna úti og þeir sem ekki gerðu það lét maður vita af því. Þessir karlar í AIX væru himinlifandi að æfa þar sem við æfum, á fjaðrandi parketi, með sjúkraþjálfara í næsta herbergi og fara í heitan pott beint eftir æfingu, hvað viltu meira? Þannig að þetta var bara virkilega góð ferð sem þjappaði hópnum enn betur saman.“   Markmiðið að vinna titla Ef við tölum um markmið, er ÍBV ekki lið sem vill alltaf vinna titil eða titla? „Jú, er það ekki, það hlýtur að vera markmiðið hjá þessum stóru liðum hérna á Íslandi að vinna titla, Valur, Haukar, Afturelding, FH og við að sjálfsögðu líka. En eins og ég hef komið inn á þá þarf virkilega að hafa fyrir því, hin liðin hafa styrkt sig líka og ungu leikmennirnir þeirra eru árinu eldri og reynslunni ríkari. Ég held að deildin ár hafi ekki verið sterkari í mörg ár, margir frábærir leikmenn að koma heim,“ segir Magnús. Fyrsti leikur ÍBV verður gegn Aftureldingu á útivelli á morgun og segir Magnús það skemmtilegan prófstein. „Það verður virkilega gaman að máta sig við þá, þeir eru ef til vill komnir aðeins lengra í sínum undirbúningi en við, þeir eru náttúrulega að taka þátt í Evrópukeppni fyrir mót. Þetta verður bara spennandi, þeir eru með frábært lið. En hvort sem leikurinn tapast eða vinnst þá þýðir ekkert að fara að örvænta. Við eigum eftir að tapa leikjum í vetur en á meðan liðið er að bæta sig þá verðum við bara helvíti flottir þegar kemur að úrslitakeppninni.“

Þær voru drottningarnar og það vissu allir - myndir

Það var mikið um dýrðir þegar ÍBV-konur komu með bikarinn sem var þeirra eftir að þær lögðu Stjörnuna að velli á Laugardalsvelli. Mikil flugeldasýning var þegar Herjólfur sigldi inn höfnina og á Básaskersbryggju biðu þúsundir til að fagna með stelpunum. Veður var gott en nokkur rigning sem fólk lét ekki á sig fá og var alls ekki færra á bryggjunni núna en þegar karlarnir komu með sinn bikar í síðasta mánuði. Og gleðin var ekki síðri þar sem ungar konur höfðu sig mikið í frammi, þetta var þeirra dagur. Þetta er í fjórða skiptið síðan 2014 að Eyjafólk fær tækifæri til að fagna góðum árangri ÍBV, fyrst var það handboltinn sem skilaði titlum og svo komu karlarnir með bikarinn fyrr í sumar og nú voru það stelpurnar. Viðtökurnar voru með svipuðum hætti, flugeldar, tónlist og ræðuhöld en þetta verður aldrei hversdagslegt svo mikil er gleði leikmanna og stuðningsmanna þegar fagnað er bikar- eða Íslandsmeistaratitlum. Það hlýtur líka vera leikmönnum ÍBV hvatning þegar á hólminn er komið að góður árangur skilar einni allsherjar veislu þegar komið er heim til Eyja. Og ÍBV-konur vissu hvað beið þeirra og geisluðu af gleði og tóku af fullum krafti þátt í gleðinni, þær voru drottningarnar og það vissu allir. Íris Róbertsdóttir, formaður ÍBV sagði í stuttu ávarpi að hún væri svo óendanlega stolt af því að starfa í jafn öflugu félagi og ÍBV er. Trausti Hjaltason, bæjarfulltrúi óskaði konum til hamingju og sagði þær frábæra fulltrúa Vestmannaeyja. Leó Snær sá um tónlistina sem náði hæstum hæðum í Þar sem hjartað slær og vel var tekið undir í fótboltalaginu, Sjáðu jökulinn loga. Já, það var mikil gleði þennan dag og við Eyjafólk getum verið stolt af okkar fólki í íþróttum, keppendum, stuðningsfólki og þeim fjölda sjálfboðaliða sem sjá um að halda öllu gangandi.  

Eyjakonur bikarmeistarar eftir dramatískan leik

 Á laugardaginn mættust ÍBV og Stjarnan í úrslitaleik Borgunarbikars kvenna á Laugardalsvelli þar sem Eyjakonur stóðu uppi sem sigurvegarar eftir mikla dramatík, lokastaða 3:2. ÍBV er því tvöfaldur bikarmeistari í ár þar sem karlaliðið hafði þegar hampað titlinum eftir viðureign gegn FH í ágúst. ÍBV fékk sannkallaða draumabyrjun í leiknum þegar Cloé Lacasse nýtti sér mistök í vörn Stjörnunnar og skilaði boltanum í netið eftir einungis fimm mínútna leik. Lítið markvert gerðist næstu mínútur og skiptust liðin á að sækja án þess þó að skapa neina hættu. Það dró hins vegar til tíðinda á 41. mínútu en þá jafnaði Agla María Albertsdóttir metin fyrir Stjörnuna eftir laglegan undirbúning Hörpu Þorsteinsdóttur. Stjörnukonur létu kné fylgja kviði og bættu við öðru marki einungis tveimur mínútum síðar en þar var Harpa komin í hlutverk markaskorara. Draumur ÍBV skyndilega orðinn að martröð.Í seinni hálfleik virtust liðsmenn ÍBV aðeins hressast við eftir að hafa gefið óþarflega mikið eftir í seinni hluta fyrri hálfleiks. Allt virtist þó stefna í 2:1 sigur Stjörnunnar þegar Kristín Erna Sigurlásdóttir jafnaði metin á lokamínútu leiksins, skot af stuttu færi eftir undirbúning Clóe Lacasse. 2:2 var lokastaðan eftir venjulegan leiktíma og þurfti því að grípa til framlengingar.Þreyta leikmanna var vel sýnileg eftir venjulegan leiktíma og því einungis tímaspursmál hvenær einhver myndi ná að nýta sér það. Sem betur fer var það Cloé Lacasse sem gerði það þegar hún tók stefnuna inn í vítateig Stjörnunnar á 112. mínútu leiksins með þeim afleiðingum að hún féll við eftir samskipti sín við varnarmann. Niðurstaðan var umdeild vítaspyrna. Það kom í hlut Sigríðar Láru Garðarsdóttur að framkvæma vítið en það gerði hún af miklu öryggi og kom ÍBV aftur í forystu. Liðsmenn ÍBV vörðust vel og gáfu lítil færi á sér það sem eftir lifði leiks og voru fagnaðarlætin ósvikin þegar flautan gall eftir 120 mínútna leik.Segja má að seigla leikmanna og óþreytandi stuðningur Eyjamanna, sem voru í miklum meirihluta í stúkunni, hafi skilað sér á endanum því þótt útlitið hafi ekki verið bjart á köflum þá gáfust Eyjakonur ekki upp og uppskáru eftir því. Stjörnukonur sitja hins vegar eftir með sárt ennið en þegar öllu er á botninn hvolft þá vann liðið sem vildi sigurinn meira. Með sigrinum er 13 ára bið eftir öðrum bikarmeistaratitli kvennaliðs ÍBV loks á enda en vonandi verður biðin eftir þeim þriðja ekki eins löng. 

Vestmannaeyjar eru að fá eina bestu kynningu sem hugsast getur

Í síðustu viku fóru um Eyjuna hópur af fólki á vegum CBS Sunday News. Þau voru komin til þess að upplifa og mynda pysjuævintýrið. Þau hefðu ekki getað valið sér betri tíma, því hápunktur pysjuveiðanna var í síðustu viku og veðrið frábært.   Um fimm milljónir manns horfa á þáttinn á hverjum sunnudegi, þannig að Vestmannaeyjar, lundinn og Ísland eru að fara fá eina bestu kynningu sem hugsast getur, allavega í Bandaríkjunum. Blaðamaður leitaði hópinn uppi í von um viðtal og fann þau uppá Stórhöfða þar sem var verið að reyna að ná lundanum í sínu eðlilega umhverfi.   Vinnuferðirnar hafa verið margar en þessi er sú besta Lee Cowan er andlit hópsins og innslagsins sem sýnt verður á næstunni í sunnudags fréttaþætti CBS. En þau voru að vonast eftir að innslagið yrði um átta mínútur og yrði sýnt í lok september. Margra daga vinna við upptökur eru nefnilega ekki nema nokkrar mínútur í sjónvarpi. Lee var að koma til Íslands í fyrsta skipti og staldraði hann ekki lengi við á meginlandinu þar sem ferðinni var heitið beint til Vestmannaeyja. Lee sem á farsælan fjölmiðlaferil að baki í sjónvarpi sagði að þetta væri sú allra besta ferð sem hann hafi farið í á vegum vinnunnar eða eins og hann orðaði það „best trip ever“ en hann ferðast mikið vegna vinnunar. „Ég er með lítið barn heima og því erfitt að fara svona langt í burtu, en þetta er þess virði. Ég hef allavega virkilega góða sögu að segja syni mínum seinna.“   Vestmannaeyjar eru magnaðar Það var bara eitt orð sem Lee hafði um Vestmannaeyjar að segja, „Amazing“, náttúran, fólkið, maturinn og var hópurinn reyndar allur yfir sig hrifinn af þeirri upplifun sem þau höfðu fengið af Eyjunni og það sem hún hefur að geyma. Eggert Skúlason fyrrverandi fjölmiðlamaður var hópnum til halds og traust og fóru þau fögrum orðum um hann. Eggert var kallaður fixerinn af hópnum því hann var boðinn og búinn að verða fyrir öllum þeirra óskum, hversu flóknar sem þær voru. Eggert vill meina að þetta sé stærsta auglýsing sem Vestmannaeyjar gætu fengið að fá þau í heimsókn.   Ótrúlega skemmtileg upplifun að fá að fylgjast með þessu Lee hafði aldrei upplifað annað eins og var mjög uppveðraður af þessari upplifun. „Ég er nokkuð viss um að þetta sé alveg einstakt í heiminum. Ég hef allavega aldrei kynnst neinu þessu líkt. Það er alveg ótrúlegt að fylgjast með börnunum og foreldrum þeirra eltast við pysjurnar. Gleðin og spennan í augum barnanna er mögnuð.“ Til að upplifa pysjustemninguna fyrir alvöru fékk hópurinn til liðs við sig fjölskyldu úr Vestmannaeyjum til að fylgja eftir í pysjuleitinni. En það voru þau Sindri Ólafsson, Hildur Sólveig Sigurðardóttir og börnin þeirra tvö, Aron og Sara Rós. Aron fór samt sem áður með aðalhlutverkið og sýndi þeim hvernig alvöru Eyjapeyjar gera þetta. Sindri sagði í samtali við Eyjafréttir að þessi upplifun hafi verið mjög skemmtileg fyrir fjölskylduna og þá sérstaklega Aron. „Þau fóru með okkur tvisvar sinnum að leita að pysjum og í annað skiptið þá var bílinn allur græjaður með myndavélum og við með míkrafóna. Einnig fóru þeir með okkur í Sæheima að vigta pysjurnar og svo að sleppa þeim.“ Sindri sagði að þau hefðu séð strax að um mikla fagmenn væri að ræða „Þau lögðu mikið upp úr því að hafa þetta allt sem eðlilegast, engar uppstillingar eða leikur.“ Á einum pysjurúntinum náði fjölskyldan átta pysjum sem hefur ekki verið algengt síðustu ár og sagði Sindri að þessi löngu planaða ferð hjá þeim hefði ekki geta verið tímasett betur því allt hefði gengið upp.  

Eyjamaður vikunnar: Tvennir Íslandsmeistarar í ólympískum lyftingum

Um helgina urðu þau Guðjón Alex Flosason og Vigdís Hind Gísladóttir úr Crossfit Eyjar Íslandsmeistarar í ólympískum lyftingum í sínum þyngdar- og aldurflokkum. Guðjón Alex keppti í - 69 kg. í undir 20 ára flokki og lyfti þar 83 kg. í snörun og 101 kg. í jafnhendingu. Vigdís Hind keppti í – 75 kg í undir 20 ára flokki og lyfti 46 kg. í snörun og 56 kg. í jafnhendingu. Guðjón Alex og Vigdís Hind eru Eyjamenn vikunnar.   Nafn: Vigdís Hind Gísladóttir. Fæðingardagur: 27. desember. Fæðingarstaður: Fæddist í Reykjavík en kom beint til Eyja. Fjölskylda: Mamma mín er Ingibjörg Heiðdal, bróðir minn er Víðir Heiðdal. Síðan bý ég hjá pabba sem er Gísli „Foster“ Hjartarson og eiginkonu hans Jóhönnu Jóhannsdóttur. Draumabíllinn: Hvítur Land Rover Defender er alltaf í uppáhaldi. Uppáhaldsmatur: Held gríðarlega mikið uppá ananas. En á toppnum er það fiskur af Fiskibarnum, allt sem amma Rannveig gerir og hafragrauturinn á morgnana. Versti matur: Bjúgu. Uppáhalds vefsíða: Ég nota youtube örugglega langmest. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Úff, ætli það sé ekki flest rapp þar á meðal Future, Asap Rocky, Kendrick lamar. Svo er íslenska rappið að koma sterkt inn en U2, Arcade Fire og Arctic monkeys eru alltaf í uppáhaldi. Aðaláhugamál: Ætli það séu ekki lyftingarnar, almenn hreyfing og að ferðast. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Hitler og Ted Bundy. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Berlín og Seyðisfjörður. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir, Rakel Hlynsdóttir og Freyja Mist Ólafsdóttir. Uppáhalds íþróttafélag er auðvitað Brighton And Hove Albion, og ÍBV. Ertu hjátrúarfull: Já, á það til, eins og þegar ég er að keppa verða skórnir að vera rétt reimaðir. Stundar þú einhverja hreyfingu: Já, ég æfi og keppi í ólympískum lyftingum, svo kenni ég spinning og á það til að stunda crossfit af og til. Uppáhaldssjónvarpsefni: Shameless og American Horror Story. Hefur þú lengi stundað ólympískar lyftingar: Ég hugsa að það séu eitthvað í kringum 3 og hálft ár síðan ég byrjaði, og þar inní var ég frá í hálft ár þannig í heildina 3 ár. Áttir þú von á því að verða Íslandsmeistari: Nei, ég áttti ekki von á því. Er þetta skemmtileg hreyfing: Já, mér finnst hún gríðarlega skemmtileg. Eru einhverjar draumaþyngdir sem þig langar að ná: 80 kg. í snörun og 100 kg. í jafnhendingu.       Nafn: Guðjón Alex Flosason. Fæðingardagur: 8. desember 1999. Fæðingarstaður: Landspítalinn, Reykjavík. Fjölskylda: Móðir – Lára Huld Guðjónsdóttir, sýslumaður í Vestmannaeyjum. Faðir – Flosi Arnórsson, skipstjóri. Ömmur – Salóme Guðmundsdóttir og Þuríður Hulda Kristjánsdóttir. Draumabíllinn: Tesla. Uppáhaldsmatur: Pizza með kjötbotni (Meatza/Mítsa). Versti matur: Tómatur. Uppáhalds vefsíða: reddit.com. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Finnst mjög gaman af tónlist úr bíómyndum, þáttum eða leikjum, en fyrir æfingu hlusta ég aðallega á rapp til að koma mér í gírinn. Aðaláhugamál: Crossfit, lyftingar, tónlist. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Theodore Roosevelt. Sjarmerandi gæi sem gat leitt þjóð sína og flutt góðar ræður. Væri örugglega hægt að læra margt af honum. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Fyrr á árinu labbaði ég Fimmvörðuháls og þar var aldrei slæmt útsýni sama hvert var litið. Það er efst á listanum, án efa. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Ég er mikill Manchester United maður og verð að segja Ryan Giggs. Ertu hjátrúarfullur: Ég trúi að ef þú gerir góða hluti þá gerast góðir hlutir við þig, svona Karma-legt. Ég hef enga trú á að brotnir speglar valdi ólukku eða neitt slíkt. Stundar þú einhverja hreyfingu: Ég æfi aðallega Crossfit, en fór að einbeita mér meira að ólympískum lyftingum fyrir nokkrum mánuðum og er aðeins búinn að æfa síðan. Uppáhaldssjónvarpsefni: Eins klisjulegt og það er, Game of Thrones. Hefur þú lengi stundað ólympískar lyftingar: Ég hef stundað Crossfit í tvö ár og eru ólympískar lyftingar grunnurinn í því, en ég er búinn að vera í ólympískum lyftingum stökum núna í um þrjá mánuði. Áttir þú von á því að verða Íslandsmeistari: Þegar ég byrjaði að æfa fyrir mót þá gáði ég hver núverandi met væru í mínum aldurs- og þyngdarflokki og stefndi á þær þyngdir. Rétt fyrir mót var ég farinn að ná þeim þyngdum reglulega, svo ég var mjög vongóður á leiðinni inn í þetta mót. Er þetta skemmtileg hreyfing: Já, ég verð að segja að þetta sé skemmtilegasta hreyfing eðalíkamsrækt sem að ég hef fundið. Ég var lengi í fótbolta sem krakki og fór svo yfir í líkamsrækt í kringum 14 ára og fann mig svo loksins í Crossfit/ólympískum lyftingum. Eru einhverjar draumaþyngdir sem þig langar að ná: Það væri draumur að komast í tvöfalda líkamsþyngd í snörun sem er 140 kg. Núverandi met mitt er 83 kg., þannig að ég hef eitthvað til að halda mér við efnið í langan tíma.  

Komið að tímabærri lækkun þessara gjalda

Meðal mála sem hafa verið rædd Eyjamanna á milli um þessar mundir eru gjaldskrá leikskóla hér í bæ. Það var fréttamaður á dv.is sem kom umræðunni af stað, en Freyr Arnaldsson tók svo saman gjöldin sem borguð eru fyrir leikskóla í Vestmannaeyjum og bar saman. Það leiddi í ljós að dýrustu leikskólagjöldin eru meðal annars hér í Vestmannaeyjum. En pistill hans má lesa hérna.   Elliði Vignisson bæjastjóri sagði í samtali við Eyjafréttir að Vestmannaeyjabær hefði einsett sér að leita allra leiða til að halda Vestmannaeyjum sem góðum stað fyrir alla. „Á seinustu árum höfum við sérstaklega horft til barnafólks auk fatlaðra og aldraðra. Merki um þetta má víða sjá og má td. nefna verulega aukna þjónustu frístundavers, upptöku frístundastyrkja, fjölgun inntökutímabila, heimagreiðslum til foreldra, fjölgun leikskólaplássa og svo mætti lengi telja. Það má alveg ljóst vera að gjaldskrá leikskóla er meðal þess sem við viljum halda sanngjörnum og það liggur því í hlutarins eðli að nú kann að vera orðin tímabær lækkun þessara gjalda.“  Að gjaldskráin falli betur að þeirri stefnu að Vestmannaeyjabær sé fjölskyldu- og barnvænn staður að búa á. Gjaldskrár Vestmannaeyjabæjar eru tengdar vísitölu og uppreiknaðar ársfjórðungslega. Elliði sagði að reglulega fari fagráðin síðan yfir stöðuna og gera leiðréttingar ef staða gjaldskráa eru ekki í samræmi við stefnu þeirra. „Ég hef rætt stöðu gjaldskrár leikskóla við formann ráðsins og nefndarmenn og meðal þeirra er einhugur hvað varðar að láta þá gjaldskrá falla að þeirri stefnu okkar að Vestmannaeyjabær sé fjölskyldu- og barnvænn staður að búa á.“   Sveitafélög á Íslandi að taka á sig stærra og stærra hlutfall af þessum rekstri „Leikskólar eru í senn mikilvæg og dýr úrræði. Þeir eru fyrsta skólastigið og þar starfar fjöldinn allur af fagfólki sem veitir fjölbreytta og góða þjónustu. Sú þróun hefur verið að eiga sér stað að sveitarfélög hér á landi eru alltaf að taka á sig stærra og stærra hlutfall af þessum rekstri. Fyrir ekki nema um 10 árum var hlutfalls skiptingin þannig að Vestmannaeyjabær var að greiða um 55% af kostnaði við hvert leikskólapláss og foreldri þá um 45%. Núna í dag er þessi skipting orðin þannig að Vestmannaeyjabær greiðir rúmlega 80% af kostnaðnum og foreldrar tæplega 20%.“ sagði Elliði. En hann bætir við að þessi þróun komi til með að halda áfram. „Hvað sem slíku líður þá er brýnt fyrir fræðsluráðið okkar að taka þessa gjaldskrá leikskóla til endurskoðunar og tryggja að hún falli að stefnu okkar um fjölskylduvænt samfélag,“ sagði Elliði að lokum.    

Skip úr Eyjum ráða fyrir 9,9% úthlutunarinnar eins og í fyrra

Alls er úthlutað 375.589 tonnum í þorskígildum talið á nýju fiskveiðiári sem hófst fyrsta september samanborið við um 365.075 tonn í fyrra. Aukning á milli ára er um 10.500 þorskígildistonn. Úthlutun í þorski er um 203 þúsund tonn og hækkar um tæp 9.000 tonn. Ýsukvótinn er 31.732 tonn og hækkar um 4.200 tonn og er sama aukning í ufsakvótanum. Tæplega 1.700 tonna samdráttur er úthlutun á gullkarfa og tæplega 1.100 tonna samdráttur í djúpkarfa. Þá er úthlutun í íslenskri sumargotssíld 29.000 tonnum lægri en í fyrra. Úthlutað aflamark er alls 422.786 tonn sem er tæplega 6600 tonnum minna en á fyrra ári. Þetta kemur fram á vef Fiskistofu. Skip frá Vestmannaeyjum ráða fyrir 9,9% úthlutunarinnar eins og í fyrra og eru í þriðja sæti yfir stærstu hafnirnar á eftir Reykjavík sem er með 12,3% og Grindavíkur með 10,8% af heildinni. Í allt eru þetta 36.999 þorskígildi sem gera 47.021 tonn. Sex fyrirtæki í Vestmannaeyjum er meðal 50 kvótahæstu fyrirtækjanna. Er Vinnslustöðin í 9. sæti með 15.079 þorskígildi eða 4,01% af heild eða 19.020 tonn. Ísfélagið er í 14. sæti með 8255 þorskígildi sem eru 2,20% af heild og gera 12.288 tonn. Bergur-Huginn ehf. sem gerir út Bergey VE og Vestmannaey VE er í 18. sæti með 5713 þorskígildi, eða 1,52% sem eru 6211 tonn. Ós ehf. sem gerir út Þórunni Sveinsdóttur VE hefur yfir að ráða 5713 þorskígildum sem eru 1,52% af heild og 6211 tonn. Bergur VE er með 1550 þorskígildi, 0,41% sem gera 1720 tonn og Bylgja VE er sæti á eftir með 1514 þorskígildi, 0,41% sem gera 1616 tonn. Þetta segir þó ekki alla söguna um stöðu Vestmannaeyja því síðar á árinu verður úthlutað aflamarki í deilistofnum og ekki er óalgengt að aukið sé við aflamark í uppsjávarfiski. Bent er sérstaklega á að engri loðnu var úthlutað að þessu sinni. Þess vegna á heildaraflamark einstakra skipa og hafna og innbyrðishlutfall þeirra eftir að breytast í kjölfar slíkra úthlutana þegar líður á fiskveiðiárið. Þar er staða Eyjamanna mjög sterk. Alls fá 489 skip úthlutað aflamarki að þessu sinni samanborið við 499 á fyrra fiskveiðiári. Það skip sem fær úthlutað mestu aflamarki er Sólberg ÓF 1, en það fær 9.716 þorskígildistonn eða 2,6% af úthlutuðum þorskígildum.    

Bæjarráð mótmælir skertu samgönguöryggi

Í fundargerð bæjarráðs frá því í hádeginu í dag kemur fram að ráðið mótmælir skertu samgögnuöryggi þegar farþegaskipið Röst kemur til Eyja að leysa af á meðan Herjólfur fer í slipp síðar í mánuðinum en Röst hefur ekki leyfi til að sigla til Þorlákshafnar ef ófært verður til Landeyjahafnar.   "Bæjarráð mótmælir því að bjóða eigi upp á mjög svo skert samgönguöryggi þegar Herjólfur fer til viðgerða nú síðar í mánuðinum en fyrir liggur að afleysingaskipið „Röst“ hefur ekki fullt haffæri til siglinga á hafsvæðinu í kringum Vestmannaeyjar. Bæjarráð felur bæjarstjóra að kalla eftir upplýsingum frá Vegagerðinni um það hvernig standa skal að flutningum á fólki, vörum og öðrum aðföngum ef til þess kemur að ölduhæð verði þannig að ekki verði hægt að sigla í Landeyjahöfn þennan tíma.   Bæjarráð telur að mál sem þessi sýni enn og aftur hversu mikilvægt það sé að heimamenn komist úr því að vera áhorfendur að ákvörðunum um samgöngur og taki þess í staða fulla ábyrgð á rekstri þeirra og fái þannig beinan aðgang að þessu stærsta hagsmunamáli samfélagsins í Eyjum. Til marks um stöðu Vestmannaeyjabæjar þegar að samgöngum kemur þá þurfa fulltrúar Vestmannaeyjabæjar að lesa um það í fjölmiðlum að afleysingarskipið hafi ekki haffæri til siglinga í Þorlákshöfn.   Bæjarráð bendir einnig á að afleysingaskipið hefur minni flutningsgetu bæði hvað varðar bíla og farþega og því er þess krafist að ferðum verði fjölgað umfram það sem annars væri og því eðlilegt að sumaráætlun verði látin gilda a.m.k. þar til Herjólfur kemur úr viðgerð.   Að lokum ítrekar bæjarráð mikilvægi þess að þingmenn kjördæmisins láti til sín taka hvað ofangreint varðar."  

Afleysingaskip fyrir Herjólf staðfest

Vegagerðin skrifaði undir leigusamning við ferju fyrirtækið Torghatten Nord AS í Norður-Noregi, föstudaginn 8. september, um leigu á ferjunni Röst til að leysa af siglingar Herjólfs í Landeyjahöfn meðan Herjólfur er í viðgerð. Röst hefur leyfi til siglinga á siglingaleið C en ekki á siglingaleið B. Því kemur ekki til þess að Röst hafi heimild til siglinga í Þorlákshöfn. Þess vegna er lög áhersla á að stytta tímann sem Herjólfur verður í viðgerð svo sem kostur er.   Ekki reynir á siglingar til Þorlákshafnar nema eitthvað óvænt komi upp á veðurfarslega séð. Dýpi er þokkalegt og Röst ristir auk þess heldur minna en Herjólfur. Því má reikna með að siglingar í Landeyjahöfn gangi greiðlega þennan tíma.   Skipið er með tveimur vélum, bógskrúfu og andvelti uggum.   Í upphafi samninga um skipið, var skipið með öryggisskírteini til siglinga á hafsvæði B. Síðar kom í ljós að um mistök höfðu átt sér stað, þ.e.a.s. að gefa út þetta skírteini þar sem skipið fullnægði ekki reglugerð sem kom til framkvæmda 2015. Norska siglingarmálastofnunin dró þá til baka umrætt skírteini og hefur skipið nú haffæri til siglinga á C svæði.   Þetta skip reyndist eina skipið sem hægt var að fá á þessum tíma og var því gengið frá samningum.   Vonir standa til að skipið geti lagt af stað frá Noregi um miðja vikuna, en verið er að koma fyrir fjarskiptabúnaði til siglingar til Íslands.   Í framhaldi af þessu er unnið að því að stytta viðgerðatíma Herjólfs eins og hægt er og stefnt að því að ljúka þeirri viðgerð fyrir næstu mánaðarmót.    

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Mannlíf >>

Stjórnmál >>

Eygló Harðardóttir hætti á Alþingi

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, gefur ekki kost á sér í næstu Alþingiskosningum. Þetta kemur fram í tilkynningu sem hún sendi frá sér í morgun. Eygló kveðst lengi hafa verið sannfærð um að þingmennskan eigi ekki að vera ævistarf og hefur talað fyrir stjórnarskrárbreytingum um að þingmaður skuli ekki sitja lengur en átta ár samfellt á Alþingi. Í nóvember næstkomandi verða komin níu ár hjá henni. „Því tel ég rétt á þessum tímapunkti að láta staðar numið og leita nýrra og skemmtilegra ævintýra á öðrum vettvangi,“ segir í tilkynningunni.   Eygló tók sæti á Alþingi árið 2008. Hún var félags- og húsnæðismálaráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda frá 2013 til 2017. Þá hefur hún verið ritari Framsóknarflokksins síðan 2009.   Eftirfarandi er tilkynning Eyglóar:   Í nóvember 2008 tók ég sæti á Alþingi fyrir hönd Framsóknarflokksins við erfiðar aðstæður í miðju bankahruni. Árin síðan hafa verið einstaklega viðburðarrík og árangurinn af vinnu við efnahagslega endurreisn íslensks samfélags hefur verið mikill.   Þar hef ég verið stolt af baráttu okkar framsóknarmanna gegn skuldum, hvort sem það eru skuldir heimilanna eða sá skuldaklafi sem erlendir kröfuhafar vildu hengja á þjóðarbúið. Ég er jafnframt einkar stolt af að hafa sem félags- og húsnæðismálaráðherra komið á nýju húsnæðiskerfi, bætt hag lífeyrisþega og unnið gegn ofbeldi í íslensku samfélagi.   Ég hef lengi verið sannfærð um að þingmennska á ekki að vera ævistarf og talað fyrir stjórnarskrárbreytingum um að hver þingmaður sæti ekki lengur en átta ár samfellt á Alþingi. Í nóvember 2017 verða þau ár orðin níu hjá mér. Því tel ég rétt á þessum tímapunkti að láta staðar numið og leita nýrra og skemmtilegra ævintýra á öðrum vettvangi.   Því mun ég ekki gefa kost á mér til þingstarfa fyrir Alþingiskosningarnar þann 28. október næstkomandi.   Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem hafa stutt mig í mínum störfum í gegnum árin, kjósendum fyrir það traust og trúnað sem þeir hafa veitt mér til að starfa í þeirra þágu, góðum félögum út um allt land fyrir gott samstarf og síðast en ekki síst fjölskyldu minni.   Það er von mín að komandi kosningabarátta verði jákvæð og heiðarleg og að samvinnuhugsjón Framsóknarflokksins muni þar ná góðum hljómgrunni.   www.ruv.is greindi frá.  

Greinar >>

Geir Jón - Eyjamenn standa með þeim sem minna mega sín

 Ég vil fyrir hönd okkar Rauða krossfólks í Vestmannaeyjum þakka ykkur kæru bæjarbúar fyrir allan þann fatnað sem þið hafið komið með til okkar undanfarin ár. Mjög mikil aukning á fatnaði hefur borist til okkar undanfarna mánuði og hefur það glatt okkur óumræðilega. Þið hafið svo sannarlega sýnt það í verki að koma með allan þennan fatnað til okkar sem hefur gert okkur kleift að styðja enn betur alþjóðastarf Rauða krossins. Í sumar hefur verið lokað hjá okkur í Arnardrangi og því hafið þið verið dugleg að koma fatnaðnum í gáminn við Eimskip og þegar hann var orðinn fullur á sólarhring ákváðum við að bæta við öðrum gámi og var hann einnig vel nýttur. Ég vil þakka ykkur enn og aftur innilega fyrir hugulsemina og rausnarskapinn, þetta er okkur ómetanlegt. Nú höfum við opið í Arnardrangi á mánudögum og miðvikudögum frá kl. 16:00 til 18:00 og utan þess opnunartíma getið þið haft samband við mig í síma 779-0140 eða Þórunni í síma 899-2515 ef þið þurfið að losna við fatapoka. Mig langar til þess að biðja ykkur, ef þið eruð með föt á ungabörn 0-1 árs, handklæði, teppi, garn og efni að koma með það til okkar í Arnardrang. Úr því vinnum við og setjum í fatapakka til ungabarna í Hvíta-Rússlandi. Við höfum ásamt öðrum Rauða kross deildum getað sent mikið magn af fatnaði til þessara þurfandi barna og þar hafið þið kæru vinir verið okkur stoð og stytta ásamt fjölda af prjónakonum sem láta sitt ekki eftir liggja. Þakklæti okkar til ykkar kæru bæjarbúar er óendanlegt fyrir að hugsa svona hlýtt til okkar. Við væntum áframhaldandi samstarfs við ykkur og verið ávallt velkomin til okkar í Arnardrang.