Teddi skrifar undir nýjan samning

Teddi skrifar undir nýjan samning

 Hornamaðurinn öflugi í liði ÍBV, Theodór Sigurbjörnsson, skrifaði í gærkvöldi undir nýjan tveggja ára samning við ÍBV. Theodór hefur allan sinn feril spilað með ÍBV en hann varð Íslandsmeistari með liðinu 2014 og bikarmeistari 2015. Frammistaða Theodórs á tímabilinu hefur verið framúrskarandi en í þeim 25 leikjum sem hann hefur spilað hefur hann gert 222 mörk, en það gerir 8,9 mörk að meðaltali í leik.

Nauðsynlegt að fá dýpkunarskip og tryggja sex ferðir á dag

„Það er afar bagalegt að það skuli þurfa að fella niður ferðir núna þegar við erum á háannartíma," sagði Elliði Vignisson í pósti til Vegamálastjóra núna morgun en eins og fram hefur komið á vef Eyjafrétta er byrjað að gæta grynnsla við austurgarðinn í Landeyjahöfn með þeim afleiðingum að fella þarf niður ferðir.   Áfram heldur Elliði og segir það skipta mestu máli að fá dýpkunarskip í höfnina sem allra fyrst og tryggja sex ferðir á dag til Landeyjahafnar með öllum tiltækum ráðum. "Auðvitað vitum við að núverandi Herjólfur er of djúpristur og ekki heppilegur í Landeyjahöfn og þess vegna hefði þurft að fylgjast betur með stöðu mála hvað dýpi varðar. Það má hinsvegar ekki leggjast í eitthvað volæði yfir þessu heldur þarf að bregðast við og tryggja hagsmuni íbúa og fyrirtækja hér í Eyjum og almennt á þjónustusvæði Herjólfs. Mestu skiptir að fá dýpkunarskip sem fyrst en þar að auki hef ég óskað eftir því að þær ferðir sem fella þarf niður verði farnar í annan tíma og þannig tryggt að heildarfjöldi ferða verði áfam 6 eins samgönguyfirvöld hafa sjálf metið að lágmarks þörf sé á. Þá óskaði ég einnig eftir því að tryggt yrði að hámarksfjöldi farþega verði 520 eins og nú er heimilt eftir að skilgreiningu á hafsvæðinu hér var breytt í kjölfarið á áralöngu baráttumáli okkar en í flestum ferðum í sumar hefur verið miðað við tæplega 400 farþega."

Anna frá Stakkagerði náði langt og var kölluð drottningin í Algeirsborg

Sögusetur 1627 stóð fyrir dagskrá í Sagnheimum og Safnahúsi á sunnudaginn og minntist þess að 390 ár eru frá því að sjóræningjar réðust á land í Vestmannaeyjum, dagana 16. til 19. júlí 1627. Ræningjarnir tóku 242 íbúa til fanga og fluttu til Alsír en talið er að um 200 manns hafi komist undan og 34 verið drepnir á Heimaey. Góð mæting var í Sagnheimum þar sem félagar úr Leikfélagi Vestmannaeyja lásu leikgerð eftir Sigfús Blöndal í bundnu máli sem hann nefndi Drottninguna í Algeirsborg sem byggir á sögu Önnu Jasparsdóttur sem var rænt en komst til mikilla metorða á hinum nýjum stað. Á eftir var gjörningur Ragnars Sigurjónssonar og Bréfdúfnafélags Íslands til minningar um þá sem voru drepnir í árásinni. Anna Jasparsdóttur bjó í Stakkagerði þegar ránið átti sér stað en þar var tvíbýli. „Hún var hernumin en hennar biðu önnur örlög en flestra þeirra sem voru herteknir. Efnaður maður fékk hana í sinn hlut á þrælatorginu og tók sér sem eiginkonu. Hún fékk mann sinn til þess að leysa föður sinn úr þrældómi og hann komst til Íslands. Anna var fríð sýnum og var kölluð drottningin í Algeirsborg vegna stöðu sinnar og fegurðar. Hún sneri aldrei aftur heim. Á örlögum hennar er ljóðið eða leikgerðin sem hér er frumflutt í Sagnheimum byggð,“ sagði Guðbjörg Sigurgeirsdóttir sem kynnti dagskrána fyrir hönd Söguseturs 1627 en að því standa auk hennar þau Helga Hallbergsdóttir, Kári Bjarnason, Ragnar Óskarsson, Sigurgeir Jónsson og Þórður Svansson.   Fóru á kostum Sögusetur 1627 fékk Zindra Frey Ragnarsson í samstarfi við Leikfélag Vestmannaeyja til að sjá um að flytja okkur þennan texta. Zindri Freyr á lof skilið fyrir leikstjórnina og mikill metnaður var lagður í verkið. Leikaranir Telma Þórarinsdóttir og Albert Snær Tórshamar fóru á kostum í sínum hlutverkum. Mikið mæddi á Thelmu sem var á sviðinu allan tímann en hún stóðst raunina og kom textanum mjög vel til skila. Helga Jónsdóttir og Arnór Hermannsson sem hafa oft komið fram á vegum Söguseturs áttu sinn þátt í gera þetta eftirminnilegt með lögum eftir þau sjálf og aðra sem þau fluttu á milli atriða við texta Jóns Þorsteinssonar píslavotts. „Textar Jóns hafa aldrei verið gefnir út, en Kári Bjarnason skrifaði þá upp úr íslenskum handritum og njótum við þess nú,“ sagði Guðbjörg. Til að undirstrika söguna sem þarna var sögð voru skúlptúrar á sviðinu og víðar um húsið sem Þórður Svansson gerði.   Hafið þökk fyrir Að því loknu fór fram gjörningur Bréfdúfnafélags Íslands fyrir framan Safnahús en gjörningurinn var til minningar um þá 34 sem voru drepnir í árás sjóræningjanna í Eyjum. Fékk Ragnar 34 krakka í lið með sér sem gerði þetta enn skemmtilegra. Slepptu þau dúfunum einni og einni í einu og áttu þær að skila sér heim til hans að Brandshúsum 4 í Flóa á 50-60 mínútum. Sögusetur 1627 hefur unnið mikið verk í að minnast Tyrkjaránsins og koma á framfæri sögu fólksins sem í því lenti. Það ásamt Zindra Frey, Thelmu, Alberti Snæ og Ragnari á skilið miklar þakkir fyrir framtakið.      

Nafn á hvern hól, hverja lægð, hvert gil og hverja þúfu

„Kæru vinir. Ég býð ykkur hjartanlega velkomin á sýninguna „Örnefni í Vestmannaeyjum“  ég er bæði ánægður og glaður að sjá ykkur  því  það segir mér að það eru fleiri en við sem stöndum að sýningunni sem hafa áhuga á örnefnasöfnun og varðveislu þeirra.  Ég tek það skýrt fram að ég er ekki sérfræðingur í örnefnum þó svo að ég hafi haft frumkvæði að því að safna þeim saman á myndirnar. Ég er með hóp sérfræðinga á mínum snærum, sérfræðinga sem eru svo flottir hver á sínu sviði,“ sagði Pétur Steingrímsson við opnun sýningarinnar, í Einarsstofu í Safnahúsinu á Goslokahátíðinni.    Pétur er upphafsmaðurinn en hann fékk marga til liðs við sig í þessu merka og tímabæra verkefni því þarna er verið að safna saman upplýsingum sem annars væru á leið í glatkistuna.   Svavar kveikti neistann   „Og hvernig byrjaði þetta?“ spyr Pétur. „Allt byrjaði þetta fyrir nokkrum árum með gönguferðum á Heimaklett.  Í fyrstu voru þessar gönguferðir keppni við tímann, hvað ég var fljótur að heiman og upp á Heimaklett og svo aftur heim og það meira að segja án þess að sjá nokkurn skapaðan hlut í þessu fallega umhverfi.    Í þessum ferðum mínum sá ég samt að það voru fleiri en ég sem voru þarna reglulega á ferð og þ.á.m. Svavar Steingrímsson sem er sérstaklega fróður um sögu Eyjanna. Þegar ég fór svo að ganga með honum á Heimaklett fór ég að upplifa ferðirnar allt öðruvísi en ég gerði og sá allt umhverfið í nýju ljósi. Nú var komið nafn á nánast hvern hól, hverja lægð, hvert gil og hverja þúfu og sumum nöfnunum fylgdi skemmtileg saga. Síðar kom sú hugmynd upp að gaman væri að setja örnefnin í Heimakletti á mynd öðru göngufólki til ánægju og fróðleiks.“   Góður hópur Pétur segir að þeir hafi ekkert verið að gapa með þá hugmynd lengi heldur hrint henni í framkvæmd og fengu nokkra góða menn með sér til að velja örnefnin og setja þau rétt niður. „Í þeim hópi voru auk okkar þeir, Hávarður Sigurðsson, Már Jónsson, Ólafur Týr Guðjónsson, Friðbjörn Valtýsson og Óskar Ólafsson prentari sem vann  tölvuvinnuna í myndinni fyrir okkur en það er mikil og vandasöm vinna. Síðar kom inn í hópinn Gunnlaugur Grettisson sem þá var formaður Umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar. Gulli var eins og við fullur af áhuga um þetta, sá um að við fengjum fjármagn til að framkvæma þetta áhugamál okkar með styrk úr sjóðum.    Fyrstu myndina með örnefnum í Heimakletti má svo sjá á Eiðinu, á Nausthamarsbryggju og á bílastæðinu á Nýjahrauni vestan við Sorpu.  Vonandi eigum við svo eftir að sjá fleiri örnefnamyndir uppi víðsvegar um Heimaey, heimamönnum og ferðafólki til fróðleiks og upplýsinga.“   Hávarður reyndist vel Og áfram var haldið. „Síðar í spjalli okkar Svavars hvatti hann mig til að halda áfram með þessa örnefnasöfnun og setja á myndir. Benti hann mér á að það væri nánast ómögulegt að staðsetja mörg örnefnin á Heimaey eftir þeim örnefnaskrám sem til væru og í dag væru ekki margir sem þekktu staðsetningu þeirra.    Ég talaði við Hávarð Sigurðsson sem er mikil fræðimaður um sögu Vestmannaeyja og þekkir hér nánast hvern hól og hverja þúfu. Væi var til í slaginn og við fundum okkur tíma, já marga tíma sátum við saman við borðstofuborðið heima hjá honum yfir myndum og ég setti örnefnin inn á þær eftir hans ábendingum.“    Hávarður vildi hafa bakhjarla í þessum hópi, bakhjarla sem færu yfir verkið og kæmu með ábendingar og leiðréttingar ef með þyrfti. „Í þann hóp fengum við eftir góðar ábendingar þá Má Jónsson fyrrum kennara, Gylfa Sigurjónsson,  og Svavar Steingrímsson. Jens heitinn Kristinsson frá Miðhúsum kom að fyrstu tveimur myndunum, af Klifi og Herjólfsdal. Ég man svo vel eftir því þegar ég sat með þeim feðgum Jens og Ella við eldhúsborðið á Höfðaveginum og sá gamli var að fara yfir myndirnar og hann segir þessi fleygu orð: „Þegar við vorum krakkar á Miðhúsum þá var okkur sagt að ef við lærðum ekki örnefnin sem sæjust heiman frá Miðhúsatúninu fyrir fermingu þá fengjum við ekki að fermast.  Auðvitað lærðum við öll örnefnin og kunnum þau utanað.“ Ég setti eitt örnefni  inn á myndina  sem er ekki í örnefnaskrám en það er örnefnið Langabergshellir vestast í Langabergi undir Köldukinn. Jens sagði að hellirinn héti það og það mun standa,“ sagði Pétur.   Örnefnin á mynd Árið 2012 kom út bókin Eyjar og úteyjalíf, úrval verka Árna Árnasonar símritara frá Grund sem nokkrir Eyjamenn stóðu að.  Í bókinni eru stuttur kafli sem heitir Örnefni í Skiphellum,  þar telur Árni upp þau örnefni sem krakkarnir sem voru að spranga upp úr þar síðustu aldamótum notuðu.   „Már Jónsson kom með þá hugmynd til mín að setja þessi örnefni inn á mynd og fór ég með þeim Má og Svavari inn í Spröngu og settu þeir eldri örnefnin inn á myndina eftir sinni bestu vitund. Síðar setti ég myndina inn á facebooksíðuna Heimaklett og óskaði eftir leiðréttingum á staðarvalinu ef vitlaus væru.    Mikil umræða spannst um Sprönguna og spröngustaðina og það er gaman að segja frá því að engar leiðréttingar komu en það fór eftir kynslóðum hvernig nöfnin á örnefnunum breyttust. Þess vegna setti ég nokkur ný nöfn með og þá innan sviga þ.e.a.s seinni kynslóða-nöfn sem börn og unglingar í dag  nota þegar þau leika sér í Spröngunni. Í tímanna rás þá hafa nöfnin Neðstibekkur, Miðbekkur og Efstibekkur, breyst í Barnastein, Almenning og Syllu. Ferðaauga breyttist í Kýrauga og svo eru þarna önnur ný nöfn eins og Stígvél, Kerling, Hetta; Hebbutá og fleiri nöfn innan um þau eldri.    Gaman væri ef það gæti orðið að veruleika að mynd með örnefnunum yrði sett upp við spröngusvæðið í náinni framtíð og þá með góðum ráðleggingum og leiðbeiningum fyrir börn og unglinga sem vilja sveifla sér í kaðlinum undir Skiphellum.“   Sífellt færri þekkja örnefni Pétur sagði mikilvægt að safna örnefnum á Heimaey og staðsetja á myndum þar sem sífellt færri og færri þekkja örnefni hér og geta rakið sögur og viðburði sem þeim tengjast. „Örnefni eru hluti af sögu Vestmannaeyja og því finnst okkur nauðsynlegt að safna þeim saman eins og við höfum gert svo þau varðveitist og glatist ekki með komandi kynslóðum og haldi áfram að vera lifandi veruleiki fyrir sem flesta.    Tilgangurinn með sýningunni er að gera enn betur og sýna fólki hvar örnefnin eru í landslaginu og þar sem ekkert verk er hafið yfir gagnrýni, hvetjum við sýningargesti að koma athugasemdum, leiðréttingum eða viðbótum til okkar sem að sýningunni standa. Því verður sérstök bók í sýningarsalnum sem gestir geta skráð athugasemdir sínar í og þá undir nafni, heimilisfangi og símanúmeri.   Örnefnin í Ystakletti hjálpuðu þeir Halldór Hallgríms og Óli á Hvoli mér með og gerðu mjög vel.“   Takk strákar Ljósmyndirnar fékk Pétur frá þeim Halldóri Halldórssyni, Heiðari Egilssyni, Guðmundi Alfreðssyni og Tóta Vídó  og  þakkaði  hann þeim sérstaklega fyrir þeirra þátt en sjálfur á hann tvær myndir á sýningunni.   „Strákarnir í hópnum sem komu að öllum myndunum eru þeir Hávarður, Svavar, Már og Gylfi. Hávarður staðsetti og hinir fóru  yfir örnefnin.  Óskar prentari vann alla stafrænu vinnuna á myndunum og gerði það listavel. Þeir fá allar mína bestu þakkir fyrir hjálpina og alla hvatninguna. Einnig takk til ykkar Kári og Jói Listó. Takk strákar.   Að lokum þakka ég eigendum Skipalyftunnar fyrir þeirra framlag til sýningarinnar, án þess hefði hún ekki orðið að veruleika. Takk kærlega,“ sagði Pétur að endingu.    Sýningin verður opin í Einarsstofu fram í september. 

Hvetja fólk til að leggja ÍBV lið við undirbúninginn og á hátíðinni

Það er í mörg horn að líta hjá Dóru Björk Gunnarsdóttur framkvæmdastjóra ÍBV-íþróttafélags og formanni þjóðhátíðarnefndar og Jónasi Guðbirni Jónssyni, talsmanni þjóðhátíðarnefndar. Allur undirbúningur gengur vel og sala á miðum í Dalinn er á pari miðað við síðustu ár. Það er því gott hljóð í þeim Dóru Björk og Jónasi en þau vilja koma nokkrum atriðum á framfæri við bæði bæjarbúa og gesti sem heimsækja Eyjarnar um Þjóðhátíðina.   „Sala miða hefur gengið mjög vel og er á pari við síðustu ár,“ segir Dóra Björk þegar hún er spurð hvernig þau sjái fyrir sér aðsókn á Þjóðhátíðina 2017. „Það er uppselt í Herjólf bæði á föstudeginum á Þjóðhátíð og svo á mánudeginum sem segir sitt um aðsóknina,“ segir Jónas. Þau segja líka að undirbúningur hafi gengið vel en þjóðhátíðarnefnd hefur fundað með lögreglustjóra og yfirmönnum Heilbrigðisstofnunar HSU. „Nýjasta tækjaæðið okkar Íslendinga eru drónarnir sem voru tíu eða tólf svífandi yfir Dalnum þegar mest var í fyrra. Almenna reglan er sú að drónar verða ekki leyfðir á hátíðarsvæðinu nema með sérstöku leyfi sem sækja þarf um til Samgöngustofu. Biðjum við fólk að virða það vegna slysahættu sem af þeim getur skapast,“ segir Dóra Björk.   Skoða strætóferðir frá Íþróttamiðstöð Bekkjabílarnir heyra sögunni til. „En síðustu tvær hátíðir höfum við nýtt strætó fyrir samgöngur í bænum og nú eins og þá verður boðið upp á strætó og minni rútur. Við hvetjum gesti til að nota strætó því öll bílastæði í og við Dalinn eru fljót að fyllast. Við erum að skoða það að vera með strætóferðir frá Íþróttamiðstöðinni og alveg inn í Dal þegar mesta umferðin er. Þá getur fólk farið á bílunum sínum eða labbað upp í Íþróttamiðstöð og fengið far þaðan í Dalinn en þessi þjónusta verður eingöngu í boði á daginn. Þetta auðveldar fólki vonandi að komast með tertur og annað matarkyns í tjaldið. Þetta gæti verið snúið í framkvæmd en við erum að leita leiða til að þetta geti gengið upp hjá okkur,“ segir Jónas.   Snyrtimennska í fyrirrúmi Dóra Björk segir að rusl og sorpmál séu alltaf ofarlega á baugi og þar vill hún að allir leggist á eitt. „Fyrir það fyrsta þurfa allir að ganga snyrtilega um og fólkið í hvítu tjöldunum á að sjá til þess að allt sé snyrtilegt í kringum hvert tjald. Það á við langflesta en alltaf má gera betur. Við viljum biðla til heimamanna að hreinsa allt rusl undir og í kringum sitt tjald á mánudeginum eftir hátíð sem og að taka til eftir sig í brekkunni.“ Til að forðast troðning við innrukkunina í Dalinn hvetja þau gesti til að nálgast armbönd í tíma. „Það gerir allt léttara og framkvæmdin verður auðveldari. Strax um hádegi á fimmtudeginum getur fólk nálgast armböndin í innrukkunarskúrunum inni í Dal eða niður á bryggju við komu Herjólfs, þannig að það á ekki að vera mikið mál að nálgast armböndin,“ segir Jónas. Dóra segist hafa orðið vör við spurninguna, hvers vegna ÍBV noti slagorðið, Dalurinn okkar. „Við viljum leggja áherslu á að þetta er Dalurinn okkar allra. Ganga vel um og sýna öllum virðingu. Okkar á öllum að geta liðið vel og þurfum við að vera dugleg við að passa upp á hvert annað í Dalnum sem og annars staðar. Ekki vera fáviti í Dalnum okkar. Eins og allir vita höfum við lagt áherslu á forvarnir gegn öllu ofbeldi sem hefur skilað árangri en alltaf má gera betur. Við höfum verið að bæta við eftirlitsmyndavélum og gæsla er sú mesta og besta sem þekkist á útihátíðum á Íslandi,“ segir Dóra Björk.   Öflug gæsla eins og alltaf Verður sérsveit lögreglunnar með alvæpni á svæðinu? „Hér hafa sérsveitarmenn verið að störfum ásamt öðrum lögreglumönnum til margra ára. Þetta er alfarið mál Ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra en við fögnum góðri gæslu, fíkniefnareftirliti og því fleiri fíkni- efnahundar því betra,“ segir Jónas. „Tjöldun verður leyfð á miðvikudeginum eins og undanfarin ár og munum við leyfa starfsfólki hátíðarinnar að byrja á undan og viljum við að aðrir Þjóðhátíðargestir virði það. En við viljum vekja athygli á því að við þurfum að loka Dalnum á milli klukkan 14.00 og 16.00 á fimmtudeginum á meðan við setjum upp hliðið. Að lokum viljum við hvetja fólk til að leggja okkur lið við undirbúninginn og á hátíðinni því margar hendur vinna létt verk. Þetta er mikið átak fyrir lítið félag og því þurfum við á allri aðstoð að halda,“ sagði Dóra Björk.  

Sé ekki annað en að framtíð fyrirtækisins verði í Eyjum

Arnar Richardsson tók við stöðu rekstrarstjóra útgerðarfélagsins Bergur-Huginn ehf (BH) þann fyrsta júní sl. Áður var hann framkvæmdastjóri Hafnareyrar sem er í eigu Vinnslustöðvarinnar. Hann er ekki með öllu ókunnur hjá BH því þar vann hann í átta ár áður en hann tók við Hafnareyri. Arnar er rekstrarfræðingur að mennt. Arnar tekur við starfinu af Magnúsi Kristinssyni, sem átti fyrirtækið lengst af og hefur verið við stjórnvölinn í 45 ár. „Það má segja að í júní hafi ég verið á tveimur vinnustöðum, hér og hjá Hafnareyri,“ segir Arnar við blaðamenn þar sem við sitjum á skrifstofu Bergs- Hugins við Básaskersbryggju. Njótum um leið útsýnisins þar sem blasir við stærsti hluti hafnarinnar þar sem alltaf er eitthvað að gerast. „Ég var í rúm tvö ár hjá Hafnareyri sem er mun umfangsmeira fyrirtæki en flestir gera sér grein fyrir, með í allt um 34 starfsmenn í vinnu, þar af 27 á vélaverkstæði,“ segir Arnar um sinn gamla vinnustað. „Hér hafði ég svo unnið í átta ár. Byrjaði á netaverkstæðinu en fór svo á skrifstofuna. Ég held ég sé búinn að koma að öllu í rekstri fyrirtækisins í landi. Á m.a.s. að baki einn frystitúr á gömlu Vestmannney VE-54.“ Bergur-Huginn er í eigu Síldarvinnslunnar á Norðfirði og skipin Vestmannaey VE og Bergey VE sem hvort um sig fiskaði um 4000 tonn á síðasta ári. „Núna eru þau samanlagt komin í 4400 tonn sem er nánast það sama og á sama tíma í fyrra þrátt fyrir sjómannaverkfall í sex vikur í upphafi árs. Þannig að þetta lítur mjög vel út.“ Þetta sýnir að það hefur verið mokveiði í trollið frá því sjómannaverkfallið leystist í febrúar. „Þau hafa landað tvisvar í viku frá verkfalli. Vestmannaey hefur farið 44 veiðiferðir á árinu og Bergey, sem fór í slipp í vor 39 og nú erum við í 28. viku ársins. Þannig að þetta er góður gangur.“ Tólf eru í áhöfn á hvoru skipi en Arnar segir að í allt séu 16 sem teljast megi fastráðna á hvort skip. Auk þessara 32 sjómanna vinna sex í landi, Guðmundur Alfreðsson og Guðjón Pálsson á vélaverkstæði, Guðni Hjörleifsson og Rúnar Birgisson á netaverkstæði og hann og Ágústa Elfa Magnúsdóttir á skrifstofunni. „Starfið leggst vel í mig. Ég vissi að hverju ég gekk og það er margt spennandi framundan. Það stendur til að endurnýja flota Síldarvinnslunnar og við erum inni í þeim pakka. Okkar skip eru reyndar ekki gömul, komu 2007 en tíminn er fljótur að líða. Það er verið að horfa á sömu stærð af skipum en nú fer fram frumhönnun og verið er að skoða teikningar.“ Arnar segir samstarfið við Síldavinnsluna gott. „Ég er að ná að komast betur inn í reksturinn og starfið sem er bæði fjölbreytt og skemmtilegt. Við erum að senda fisk héðan frá Eyjum til Samherja á Dalvík/Akureyri og Síldarvinnslunnar fyrir austan. Við löndum einnig til Godthaab í Nöf og lifur í Idunn seafood, einnig sendum við fisk á markaði í Englandi og Þýskalandi. Arnar segist ekki sjá annað en að framtíð fyrirtækisins verði í Vestmannaeyjum. „Kvóti okkar er rúm 6200 tonn en eins og áður sagði erum við að veiða yfir 4000 þúsund tonn á hvort skip. Til samanburðar þá vorum við að veiða 6800 tonn árið 2011 á þremur skipum, Vestmannaey, Bergey og Smáey.“ Ljónin sem Arnar sér á veginum eru hækkanir á veiðigjöldum og samgöngur. „Við verðum að geta reitt okkur á stöðugar samgöngur til að geta komið frá okkur fiski. Það sem af er ári erum við búin að senda um 1250 tonn af fiski með Herjólfi. Allt stefnir í að þessir flutningar komi til með að aukast hjá okkur með haustinu. Annars þurfum við að landa annarstaðar t.d. í Þorlákshöfn með tilheyrandi tapi fyrir Vestmannaeyjahöfn og samfélagið hér í Eyjum,“. Gífurleg hækkun veiðigjalda kemur illa niður á rekstri BH. Hækkun á þorsk um 107% og ýsu um 127% en þess má geta að við erum með rúm 4% af heildarkvóta ýsu.  

Fólk er mjög þakklátt fyrir þessa þjónustu og það er þörf á henni

Hvað gera konur sem ekki fá inni fyrir börnin sín á leikskóla? Einn möguleikinn er að sitja heima og bíða, hinn er að gerast dagmamma og bæta við sig nokkrum börnum til að passa. Það er einmitt það sem þær Kristín Halldórsdóttir, sem eignaðist sinn þriðja strák síðasta sumar, Elías Orra og Sandra Gísladóttir, sem átti sitt fyrsta barn síðasta sumar, Lilju Rut gerðu. Þær hafa komið sér upp mjög góðri aðstöðu að Hrauntúni 10, um 100 fermetrar í tvískiptu plássi með góðri snyrtiaðstöðu. Þar er hátt til lofts og úti er afgirtur pallur þannig að aðstaðan er eins og best verður á kosið. Í dag eru þær með sex börn en hafa leyfi fyrir tíu. „Við erum nýbyrjaðar og það er fínt að byrja með sex börn en svo reiknum við með að fjölga upp í tíu í ágúst,“ segja þær í spjalli þar sem börnin réðu svolítið ferðinni, vildu fá sinn skammt af athyglinni. Þau segja að mikil vinna hafi farið í að útbúa húsnæðið og gera það þannig úr garði að það henti starfseminni. „Þetta var geðveik vinna og hjálpuðust fjölskyldur okkar beggja að við að gera þetta klárt. Það er gerð krafa um að brunavarnir séu í lagi, tryggar útgönguleiðir og gert er ráð fyrir þremur fermetrum á hvert barn sem við stöndumst og vel það,“ segir Sandra. „Við erum með börn frá níu til fjórtán mánaða. Það er enginn biðlisti en við höfum heldur ekki þurft að auglýsa. Við bjóðum upp á heilsdagsvistun með öllu tilheyrandi,“ segir Kristín. Þær opna klukkan 7.45 og eru með opið til klukkan 15.30. Börnin fá morgunmat og hádegismat og eftir hvíld er ávaxtastund. Þess á milli er bara leikur. Bærinn kemur að rekstrinum með styrkjum, 75 þúsund króna framkvæmdastyrk fyrstu tvö árin og 50 þúsunda leikfangastyrk á ári. Þá er greitt með hverju barni frá níu mánaða aldri. „Þetta er mjög spennandi, ennþá að minnsta kosti,“ segja þær hlæjandi. „Fólk er mjög þakklátt fyrir þessa þjónustu og það er þörf á henni. Við getum tekið niður í sex mánaða en niðurgreiðsla hefst ekki fyrr en börnin verða níu mánaða. Stundum hefur fólk ekkert val, verður að byrja að vinna án þess að fá niðurgreiðslu,“ segir Kristín. Þær segjast sjálfar vera að aðlagast starfseminni og það sama gildi um börnin. „Þau eru að venjast okkur en þetta hefur gengið vel en það á svo eftir að koma í ljós hvað við endumst lengi því þetta er mikið starf og mikil ábyrgð,“ sagði Sandra að endingu.  

Einkennist af góðri blöndu þjónustu- og íbúðarbyggðar

 Í tillögum Alta um miðsvæði Vestmannaeyjabæjar segir að gert sé ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjóni bæjarfélaginu, svo sem verslunum, skrifstofum, þjónustustofnunum, hótelum, veitinga- og gistihúsum, menningarstofnunum og annarri hreinlegri atvinnustarfsemi sem talin er samræmast yfirbragði og eðli starfsemi miðsvæðis. Bent er á að í Vestmannaeyjum er blómleg miðbæjarstarfsemi með fjölbreyttu atvinnulífi. Miðbærinn hafi þróast með jákvæðum hætti, ekki síst eftir að siglingar til og frá Landeyjahöfn hófust. „Í gegnum tíðina hafa Eyjamenn þurft að vera sjálfum sér nógir um flest vegna erfiðra samgangna sem hefur skilað sér í öflugri verslun og þjónustu í miðbænum sem þjónar íbúum, ferðafólki og jafnvel íbúum af fastalandinu sem búa skammt frá Landeyjahöfn,“ segir í tillögunum. Miðbær Vestmannaeyja einkennist að mati Alta af góðri blöndu þjónustu- og íbúðarbyggðar. Aukin ásókn sé í að búa í miðbænum, ekki síst meðal ungs fólks og eldra fólks. Miðbærinn sé vel nýttur og fáar lausar lóðir. Áhugi sé á endurgerð eldri bygginga og uppbyggingu sem styrkir ásýnd og starfsemi í miðbænum. „Endurgerð þeirra hefur gjarnan verið þannig að á jarðhæð er fjölbreytt starfsemi en íbúðir eða skrifstofur á efri hæðum. Þá hefur verið lögð áhersla á að halda í gamlar byggingar en gefa þeim nýtt hlutverk. Dæmi um það má sjá víða, svo sem í Skvísusundi þar sem áður voru krær og í Fiskiðjunni sem áður hýsti fiskvinnslu en gengur nú í endurnýjun lífdaga.“   Halda í þessa góðu þróun Hlutverk stefnu fyrir miðbæ snýst um að halda í þessa góðu þróun og styrkja hana enn frekar að mati Alta. Á heildina litið sé ekki vandamál með bílastæði og yfirleitt stutt að fara. Undanfarin ár hefur verið aukin ásókn í að breyta atvinnuhúsnæði á jarðhæðum í miðbænum í íbúðir, hótel eða aðra starfsemi. Í deiliskipulagi hluta miðbæjarins er lagt til að ákveðnum húsum við ákveðnar götur skuli starfsemi á jarðhæð vera með það sem er kallað virkar framhliðar. Hægt verði að ganga inn af götunni í verslanir og aðra þjónustu og á framhliðinni séu gluggar sem er hægt að sjá inn um. „Með þessu er stutt við þjónustu á svæðinu og lögð áhersla á að viðhalda miðbæjarbrag. Því er talið óæskilegt að atvinnuhúsnæði á jarðhæðum í miðbænum sé breytt í íbúðir og gistingu eða íbúðargistingu.“ Sérkenni miðbæjarins er að hann er við aðalatvinnusvæði Vestmannaeyja, höfnina og nærliggjandi athafnasvæði. Þegar íbúðum fjölgar í miðbænum þarf núverandi íbúum, væntanlegum íbúum og öðrum hagsmunaaðilum að vera ljóst að starfsemi á hafnarsvæðinu fylgja umsvif s.s. vegna umferðar, hávaða og lyktar, sem eðlilegt er að fylgi slíkri starfsemi.   Markviss aukning í miðbæjarstarfsemi Í Vestmannaeyjum eru helst tvö svæði sem gegna hlutverki dvalar- og eða samkomusvæða. Annars vegar Stakkagerðistún og hins vegar Vigtartorg. Þessi tvö svæði anna eftirspurn eftir opnum grænum svæðum innan bæjarins. Þau eru vel sótt og eru vel staðsett í nánum tengslum við miðbæinn. Styðja þarf þessi tvö svæði og styrkja. Í miðbænum hefur orðið markviss aukning í miðbæjarstarfsemi. Frá síðasta aðalskipulagi, 2005 hafa verið byggðir um 4000 fermetrar í miðbænum og meira er í undirbúningi. Veitingaþjónusta hefur sprungið út og veitingastöðum í miðbænum fjölgað úr um það bil tveimur til þremur í tíu til fimmtán. Gistirýmum í Vestmannaeyjum hefur fjölgað talsvert og líklega um nærri 50% í miðbænum á undanförnum árum. Land í miðbænum er af skornum skammti og lítið svigrúm til uppbyggingar. Í aðalskipulagsvinnunni hafa komið fram hugmyndir um að stækka miðbæinn í austur inn í nýja hraunið á mótum Kirkjuvegar og Skansvegar, og endurheimta hluta af því svæði þar sem byggð fór undir Eldfellshraun. Í tillögu að nýju aðalskipulagi hefur verið afmarkað miðbæjarsvæði á þessum reit en svæðið er jafnframt þróunarsvæði.   Það sem vinnst Tvöfaldur ávinningur er af því að taka þetta svæði undir miðbæjaruppbyggingu: • Tækifæri skapast til uppbyggingar á svæði við miðbæinn, en í dag er mikil eftirspurn eftir húsnæði fyrir íbúðir og atvinnustarfsemi í miðbænum. • Opnar möguleika fyrir efnisnám, t.d. fyrir landfyllingu fyrir nýja höfn við Eiðið. Á skipulagstímabilinu verða hugmyndir um landnotkun á svæðinu þróaðar frekar t.a.m. um mögulega uppbyggingu, yfirbragð svæðis, landmótun, efnistöku, tengsl við núverandi byggð og tengsl við söguna. Svæðið er í dag undir samningi við Skógræktarfélag Vestmannaeyja og á svæðinu eru gönguleiðir og minningarskilti um þá byggð sem er undir hrauninu.   Markmið og verkefni • Miðbær Vestmannaeyja er miðstöð verslunar og þjónustu. • Gera skal ráð fyrir miðbæjarstarfsemi á jarðhæðum bygginga. Aðalinngangar skulu snúa að götum og stefnt að því að framhliðar séu virkar til að stuðla að lifandi og áhugaverðu göturými. Íbúðir eða miðbæjarstarfsemi er heimil á efri hæðum. • Á afmörkuðu svæði í miðbænum, þar sem atvinnuhúsnæði er á jarðhæðum í dag, er ekki heimilt að breyta notkun á jarðhæð í íbúðir eða gistingu/íbúðargistingu. Þessi svæði eru sýnd á meðfylgjandi mynd. • Móta skal skýrt afmarkaðan miðbæjarkjarna þar sem þjónustu, verslunum og íbúðum er beint og rík áhersla lögð á umhverfisfrágang, með vönduðum yfirborðs-efnum, gróðri og lýsingu. • Varðveita skal útsýni milli sjávar og fella eins og kostur er. • Gert er ráð fyrir samkomu- og dvalarsvæðum á Stakkagerðistúni og á Vigtartorgi. Bárustígur myndi skýra tengingu milli þessara tveggja áningarstaða. • Miðbæjarsvæðið tengi hafnarsvæði, miðbæ og íbúðarhverfi. • Núverandi íbúum, væntanlegum íbúum og öðrum hagsmunaaðilum skal vera ljóst að starfsemi á nálægu athafnasvæði og hafnarsvæði fylgja umsvif s.s. vegna umferðar, hávaða og lyktar, sem eðlilegt er að fylgi slíkri starfsemi innan þeirra marka sem starfsleyfi geta um. • Til framtíðar er áformað að stækka miðbæinn inn í nýja hraunið og er svæðið afmarkað sem þróunarsvæði.   Útfærsla • Stefnan er útfærð með afmörkun miðbæjarsvæðis á uppdrætti og skilmálum, og afmörkun svæða í miðbænum, sem sýnd er á meðfylgjandi mynd, þar sem ekki er heimilt að breyta atvinnuhúsnæði á jarðhæð í íbúðir eða gistingu og íbúðargistingu.   Tenging við höfnina Svæðið gegnir mikilvægu hlutverki sem tenging miðbæjarins við höfnina. Viðhalda skal því byggðamynstri sem er innan svæðisins með því að virða byggingarstíl eldri húsa og tryggja að nýbyggingar og breytingar á eldri húsum falli vel að umhverfinu og stuðli að bættri götumynd. Æskilegt er að byggja í þær eyður sem eru í byggðinni og fjölga íbúðum, sérstaklega á efri hæðum. Í deiliskipulagi eru sett skilyrði, þegar við á, um að á jarðhæðum verði lifandi starfsemi opin fyrir almenning. Áhersla er á uppbyggingu ferðaþjónustu, einkum á svæðinu milli Strandvegar og hafnar, frá Skansi að Skólavegi. Náttúrugripasafnið Sæheimar er á miðvæði og til stendur að stækka safnið til muna. Stakkagerðistún og Vigtartorg gegna hlutverki dvalar og eða samkomusvæða. Þar eru eingöngu heimil mannvirki sem styðja við hlutverk svæðanna. Heimilt er að þétta byggð á svæði við Safnahúsið með allt að 15 nýjum íbúðum í 2 til 3 hæða húsum.     Nýja hraun Miðsvæði þar sem áformað er að byggja aftur upp á svæði sem fór undir hraun í gosinu 1973. Svæðið er merkt sem þróunarsvæði og verður unnið að því á skipulagstímabilinu að móta uppbyggingar-áform frekar. Möguleikar til landmótunar eru opnir en í þeim getur falist að landið verði stallað á einhvern hátt og að eitthvað af efni yrði nýtt til efnistöku. Áður en uppbygging fer af stað þarf að liggja fyrir deiliskipulag fyrir allt svæðið og samhliða vinnu við deiliskipulag verði unnin rammahluti aðalskipulags fyrir þennan hluta miðbæjarins þar sem sett verða skilyrði um uppbyggingaráform á reitnum. Meginhluti verslunar og þjónustu í Vestmanneyjum er á skilgreindu miðbæjarsvæði. Á íbúðarsvæðum utan miðbæjarsvæðisins er heimilt að starfrækja minniháttar atvinnustarfsemi sem samrýmist staðsetningu í íbúðarbyggð, svo sem söluturna og minni verslanir. Eitt svæði utan miðbæjar er afmarkað fyrir verslun og þjónustu en það er ofan við Löngulág. Þar er í dag samkomuhús þar sem heimilt er að vera með veitingar og skemmtanir. Húsið er byggt ofan á vatnstank sem geymir varabirgðir af köldu vatni fyrir eyjuna. Áhugi hefur verið á því að byggja tengda atvinnustarfsemi á reitnum.   Markmið og verkefni • Við Löngulág er svæði fyrir samkomuhús og tengda starfsemi svo sem hótel, aðra verslunarstarfsemi eða þjónustu. • Gæta skal að því að starfsemi á svæðinu eigi vel við í nágrenni við íbúðarsvæði.

EM 2017 :: Landsliðkonur sátu fyrir svörum - Fanndís Friðriksdóttir

 Það hefur væntanlega ekki farið framhjá mörgum að EM kvenna í knattspyrnu er komið á fullt en í gær spilaði íslenska liðið sinn fyrsta leik á mótinu, þá gegn Frakklandi. Í riðlakeppninni á Ísland næst leik gegn Sviss á laugardaginn og síðan Austurríki á miðvikudaginn í næstu viku. Eftir það skýrist svo hvort liðið mun komast upp úr riðlinum í 16 liða úrslit. Í hópnum að þessu sinni eru þó nokkrar Eyjastelpur en af þeim leikur aðeins ein með ÍBV en það er Sigríður Lára Garðarsdóttir. Þær Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Fanndís Friðriksdóttir, leikmenn Breiðabliks, eiga báðar rætur að rekja til Vestmanneyja sem og systurnar Elísa og Margrét Lára Viðarsdætur en þær eru báðar frá vegna meiðsla og taka ekki beinan þátt í mótinu. Blaðamaður hafði samband við landsliðskonurnar fimm, sem þrátt fyrir annir, gáfu sér tíma til að svara nokkrum spurningum fyrir Eyjafréttir. Hér eru svör Fanndísar.     Aldur: 27 ára. Gælunafn: Fanndís. Helsta áhugamál fyrir utan fótbolta: Útivera og njóta í góðra vina hópi. Eftirlætis matur: indverskur og mexíkóskur matur. Versti matur: Ég er ekki hrifin af gúllas. Uppáhalds drykkur fyrir utan vatn: Aquaruis. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Auðvitað er það Vestmannaeyjar en svo er Ásbyrgi líka mjög fallegt. Uppáhalds tónlistarmaður/hljómsveit: Justin Bieber og Celine Dion. Gætir þú verið án snjallsíma í heila viku: Nei, ég held ekki. Fyrsti leikur í meistaraflokki: 13 ára með ÍBV. Rútína á leikdegi: Góður morgunmatur, göngutúr, hádegismatur, lögn, borða, mæting. Grófasti leikmaður í landsliðinu: Sísí Lára. Besti samherji í landsliði og félagsliði: Hallbera í landsliðinu og Sandra Sif í Breiðablik. Hver er fyndnust í landsliðinu: Hallbera. Erfiðasti mótherji sem þú hefur mætt á ferlinum: Þær þýsku eru svakalegar. Besta minning frá yngri flokkum: Pæjumótið í Eyjum og þegar ég fékk Lárusarbikarinn fræga. Besta minning á ferlinum: Íslandsmeistarar 2015. Mestu vonbrigði á ferlinum: Öll þau ár sem enginn titill hefur unnist. Draumalið til að spila með: Arsenal. Hefur þú fengið spjald fyrir dýfu: Nei. Fylgist þú mikið með fótbolta? Ef svo er hvert er þitt uppáhaldslið: já, Arsenal og Barcelona eru mín uppáhalds. Fyrir utan fótbolta, fylgist þú með öðrum íþróttum: Já, íslenska landsliðinu í handbolta. Besti íþróttalýsandinn: Gummi Ben. Uppáhalds íþróttamaður í sögunni: Messi. Ef þú mættir breyta einhverju við fótbolta, hvað væri það: Allt þetta óþarfa vesen, undirbuxur og fleira. Hver mun skora fyrsta mark íslenska landsliðsins á EM í Hollandi: Ég.  

KFUM og KFUK góð leið til að kynnast nýju fólki

Nú er norrænu móti KFUM og KFUK sem haldið var í Vestmannaeyjum dagana 13. -18. júlí lokið. Tæplega 140 unglingar og leiðtogar frá Ísland, Færeyjum, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi hafa að sögn Gísla Stefánssonar, æskulýðsfulltrúa Landakirkju og starfsmanns KFUM og KFUK á Íslandi, skemmt sér konunglega síðustu daga og fengið að njóta ríkulegrar náttúru Eyjanna og gestrisni heimamanna. „Dagskrá mótsdagana hefur verið yfirgripsmikil og samanstaðið af morgunstundum þar sem fræðsla um ýmis málefni hefur verið á boðstólnum í gegnum leiki, skemmtun og vinnuhópa þar sem krakkarnir hafa lært ýmsa hagnýta hluti. Einnig hafa verið kvöldstundir þar sem þjóðirnar hafa skipst á að skemmta hver annarri, hver með sínum hætti. Hópurinn hefur svo sótt Eldheima heim og farið í bátsferð með Viking Tours. Í lok dagskrár hvers dags hefur svo verið helgistund í Landakirkju,“ sagði Gísli. Á sunnudeginum fyllti svo hópurinn Landakirkju í guðþjónustu sem Danir, Færeyingar og Íslendingar sáu sameiginlega um, en lestrar voru lesnir á ensku, færeysku og dönsku ásamt því að Gísli prédikaði. Þar talaði hann um það sameiningartákn sem KFUM og KFUK er á Norðurlöndum. Nefndi hann þar sérstaklega þá ákvörðun sænsku hreyfingarinnar að opna starf sitt fyrir fleiri trúarhópum en þeim kristnu og svara þannig kalli fjölmenningarsamfélagsins. Til merkis um það voru átta múslímskir þátttakendur á mótinu og var ekki annað að heyra en að þeir hafi skemmt sér konunglega. „Að lokinni helgistund var hópnum skipt niður í tíu hópa sem kepptu í leiknum Experience Vestmannaeyjar en þar gengu krakkarnir vítt og breitt um Heimaey, fengu nýbakað rúgbrauð á Eldfelli, dorguðu við höfnina, fóru í leiki í Herjólfsdal, golf og málmleit á malarvellinum. Mánudagskvöldið var síðan ball á Háaloftinu þar sem Brimnes spiluðu fjölbreytt prógramm fyrir hópinn,“ sagði Gísli að endingu. Blaðamaður Eyjafrétta, ásamt ljósmyndara, skellti sér á síðustu kvöldvökuna á Háaloftinu og tók nokkra unglinga og leiðtoga tali.   Rósa Friðriksdóttir frá Vestmannaeyjum   Aldur: 14 ára. Af hverju ákvaðst þú að fara í KFUM og KFUK: Fyrir félagsskapinn. Hver var hápunktur helgarinnar að þínu mati: Kynnast nýju fólki.   Veigar Sævarsson frá Vestmannaeyjum   Aldur: 14 ára. Af hverju ákvaðst þú að fara í KFUM og KFUK: Bara fyrir félagsskapinn. Hver var hápunktur helgarinnar að þínu mati: Kynnast útlendingunum. Hvaða þjóð er skemmtilegust: Færeyjar.     Hreiðar Garðarsson frá Akureyri   Aldur: 14 ára. Af hverju ákvaðst þú að fara í KFUM og KFUK: Til þess að kynnast nýjum krökkum. Hver var hápunktur helgarinnar að þínu mati: Bara að vera í Vestmannaeyjum.     Ammar Al Azawi frá Svíþjóð   Aldur: 27 ára. Hvernig líkar þér Vestmannaeyjar: Mjög vel, allt verið til fyrirmyndar. Af hverju ákvaðst þú að fara í KFUM og KFUK: Ég fékk bara tækifæri til þess að prófa og ákvað að slá til og sé ekki eftir því. Hver var hápunktur helgarinnar að þínu mati: Það hefur allt verið frábært.     Enni Riukulehto frá Finnlandi   Aldur: 25 ára. Hvernig líkar þér Vestmannaeyjar: Mjög vel, líflegri en ég bjóst við. Af hverju ákvaðst þú að fara í KFUM og KFUK: Starfið er skemmtilegt og flott. Hver var hápunktur helgarinnar að þínu mati: Í gær fengum við túr á fjöllin sem var mjög skemmtilegur, en náttúran hér er bara æðisleg.     Rune Hoff Lauridsen frá Danmörku   Aldur: 38 ára. Hvernig líkar þér Vestmannaeyjar: Mjög vel, sérstakur og fallegur staður. Af hverju ákvaðst þú að fara í KFUM og KFUK: Því hér getur fólk verið hluti af samfélagi og fengið trú á Guð, sjálft sig og öðru fólki. Hver var hápunktur helgarinnar að þínu mati: Okkar krökkum fannst túrinn á Eldfell og kvöldvökurnar vera hápunktur.   Beinta Tummasardóttir Klein frá Færeyjum   Aldur: 39 ára. Hvernig líkar þér Vestmannaeyjar: Þær eru svo fallegar, hér eru svo margir staðir sem eru sérstakir, eins og Heimaklettur og Eldfell og allt í göngufæri. Tengsl Færeyja við Vestmannaeyja eru líka skemmtileg. Af hverju ákvaðst þú að fara í KFUM og KFUK: Okkar starf er örlítið frábrugðið og erum við í raun ekki á vegum KFUM og KFUK heldur kirkjunnar en starfið er svipað. Hver var hápunktur helgarinnar að þínu mati: Túrinn á Eldfell og bara öll Eyjan og náttúran sem henni tilheyrir.  

Ragnar Sigurjónsson er Eyjamaður vikunnar: Allar dúfurnar skiluðu sér aftur í Brandshús

Bæjarstjórn - Tryggð verði fullnægjandi dýpkun sem allra fyrst

Á fundi sínum í gær ræddi bæjarstjórn samgöngur á sjó og dýpkun í Landeyjahöfn þar sem farið er að grynnka, sérstaklega við eystri hafnargarðinn. Samþykktar voru eftirfarandi ályktanir:   Bæjarstjórn lýsir yfir miklum áhyggjum af stöðu mála í Landeyjahöfn vegna grynninga milli garða og gerir þá sjálfsögðu kröfu að allt verði gert til að tryggja fullnægjandi dýpkun sem allra fyrst. Þá óskar bæjarstjórn eindregið eftir því að þær ferðir sem fella þarf niður á fjöru eða vegna ölduhæðar verði farnar á öðrum tíma sólarhringsins.   2. Stoppdagar Herjólfs vegna viðgerðar haust 2017   Fyrir liggur að innan skamms mun Herjólfur þurfa að fara til viðgerða vegna bilana sem ekki tókst að lagfæra við seinustu slipptöku. Vegna þessa ítrekar bæjarstjórn það sem áður hefur komið fram um að ekki komi á neinum tíma til greina að skip leysi Herjólf af sem ekki hafi fulla haffærni á siglingaleiðinni milli lands og Eyja (B-skip). Ef ekki finnst skip sem getur bæði þjónustað í Landeyjahöfn og Þorlákshöfn þá beinir bæjarstjórn því til Vegagerðarinnar að athugað verði hagkvæmi þess að seinka slipptöku vel fram á vetur og fá þá til þjónustu stórt og öflugt skip sem haldið getur háu þjónustustigi í siglingum í Þorlákshafnar.   Elliði Vignisson Páll Marvin Jónsson Hildur Sólveig Sigurðardóttir Birna Þórsdóttir Trausti Hjaltason Stefán Jónasson Auður Ósk Vilhjálmsdóttir      

Ný flokkunarstöð hjá VSV og öll löndun vestur frá hjá Ísfélagi

 Kraftur fer að komast í makrílveiðarnar og eru bæði Ísfélag og Vinnslustöð að verða tilbúin til að taka á móti makríl til vinnslu. Miklar framkvæmdir hafa verið hjá báðum fyrirtækjum í tengslum við uppsjávarvinnsluna og þeim að ljúka. Hjá Ísfélaginu er öll löndun komin inn í Friðarhöfn og Vinnslustöðin er að taka í notkun nýja flokkunarstöð. Skip þeirra eru farin til veiða og má búast við að vinnslan hefjist fljótlega. „Breytingin hjá okkur er sú að nú er öllum makríl landað inni í Friðarhöfn þar sem hann er flokkaður fyrir vinnsluna. Heimaey VE er að landa, Sigurður VE er farinn út og Álsey VE fer út á eftir,“ sagði Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélagsins þegar rætt var við hann á þriðjudaginn. Áður var uppsjávarfiski landað austur á Nausthamarsbryggju og dælt inn í frystihúsið við Friðarhöfn. „Þetta er lokaskrefið hjá okkur í að færa löndunina inn eftir. Loðna í hrognavinnslu verður áfram kúttuð austur frá í FES og hrognunum dælt inn eftir eins og undanfarin ár. Öllum afskurði og því sem flokkast frá verður dælt austur í FES sem þýðir að við losnum við allan flutning á bílum í gegnum bæinn sem er stór og ánægjulegur áfangi fyrir alla.“ Hjá Vinnslustöðinni fór Kap út eftir helgina og tók stuttan túr. „Hún kom með um 70 tonn sem við keyrðum í gegnum nýju flokkunarstöðina okkar,“ sagði Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri bolfisks hjá Vinnslustöðinni. „Það gekk ágætlega, það snerist allt en við sáum hvað þarf að laga. Við byrjuðum með nýtt frystihús fyrir uppsjávarfisk á síðasta ári og síðan í vor höfum við verið að byggja upp flokkunarstöð sem er sambyggð frystihúsinu. Fiskinum er landað beint inn í flokkunarstöðina þar sem hann fer í fleytirennum inn í vinnsluna. Er það gert til að fara betur með hráefnið og auka gæðin. Nú er verið að fínstilla þetta og ætti allt að komast á fullt á næstu dögum,“ sagði Sverrir.

Úlfur Úlfur á Háaloftinu á föstudag

Þeir Arnar Freyr Frostason og Helgi Sæmundur Guðmundsson í rapp tvíeykinu Úlfi Úlfi hafa síðustu misseri verið að ferðast um landið og spila á tónleikum í tilefni nýrrar plötu sveitarinnar, HEFNIÐ OKKAR, sem kom út á árinu. Næsta stopp Úlfs Úlfs í túrnum verður í Vestmannaeyjum en þar munu þeir troða upp á Háaloftinu nk. föstudag. Blaðamaður sló á þráðinn til Arnars Freys í gær en þá var hann staddur á Akureyri í faðmi fjölskyldu sinnar eftir að hafa spilað á tónleikum á Græna hattinum á föstudaginn. Þið félagar hafið verið að ferðast mikið síðustu daga og vikur. Er lífið á veginum erfitt eða bara gott tækifæri til að sjá landið? „Þetta er alls ekki erfitt heldur bara geðveikt gaman og hefur það verið draumur okkar að heimsækja staði eins og Flatey sem við höfum aldrei komið á áður. Að fá að sjá land og þjóð er draumur í dós,“ sagði Arnar Freyr. Hvernig leggjast tónleikarnir í Vestmannaeyjum í ykkur? „Vel, bara mjög vel. Það er ekki oft sem við höfum spilað í Eyjum en það er alltaf gaman. Við spiluðum held ég tvisvar í Eyjum í fyrra og svo einu sinni 2012 þannig ég vona að fólk sé bara peppað fyrir þessu,“ sagði Arnar en eins og fyrr segir er tilefni túrsins ný plata sveitarinnar, HEFNIÐ OKKAR, en hún er sú þriðja í röðinni. Hefur platan fengið góðar viðtökur? „Já, mér heyrist það en fólk er gjarnara á að segja jákvæða hluti við mann en neikvæða. Platan hefur einnig selst vel og við erum heilt yfir mjög ánægðir. Þetta er algjör þriðja plata og erum við bara tveir að sjá um þetta og leyfum okkur þar af leiðandi að vera svolítið skrítnir á henni.“ Á fólk von á gömlu efni í bland við það nýja á tónleikunum? „Já, það er nákvæmlega svoleiðis, við munum spila held ég allt af nýju plötunni og svo gömlu slagarana líka. Við erum að spila nánast stanslaust í tvo tíma og á þeim tíma viljum við ná að spila sem mest, það er skemmtilegast,“ sagði Arnar Freyr að lokum.  

Áætluð veiðigjöld fyrirtækja í Eyjum 1,4 milljarðar

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra birti í síðustu viku reglugerð um veiðigjald fyrir komandi fiskveiðiár. Miðað við áætlað aflamark verður gjaldið um það bil 10,5 til 11,0 milljarðar króna, sem væri hækkun um 6 milljarða frá yfirstandandi fiskveiðiári, eða ríflega tvöföldun. Hækkun veiðigjalds vegna þorsks nemur 107%, ýsu 127% og makríls 18%. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Samkvæmt útreikningum Harðar Orra Grettissonar hjá Ísfélaginu eru áætluð veiðigjöld í heildina 11,3 milljarðar og þar af greiða sjávarútvegsfyrirtæki í Vestmannaeyjum 1,4 milljarða. Reikniregla veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2017 til 2018 byggist á gögnum Hagstofu Íslands frá árinu 2015. „Það gerir það að verkum að gjaldið endurspeglar ekki rekstrarskilyrði greinarinnar á hverjum tíma. Því getur hagnaður verið að minnka á sama tíma og veiðigjald er að hækka, og öfugt. Þannig háttar til núna að álagning veiðigjalds miðast við gott rekstrarár en gjaldið kemur til greiðslu þegar mun verr árar. Rekstrarskilyrði í sjávarútvegi hafa versnað og ekki er útilokað að álagning veiðigjalds fyrir næsta fiskveiðiár muni reynast einhverjum smærri og meðalstórum útgerðum ofviða. Slíkt gæti aukið samþjöppun í sjávarútvegi,“ segir í fréttatilkynningu frá SFS. „Þetta er mikil hækkun sem mun koma hart niður á fjölmörgum útgerðum og þær eru misjafnlega í stakk búnar til að standa undir gjaldinu. Hjá sumum útgerðum getur hækkunin verið allt að fjórföld. Álagningin byggist á gömlum afkomutölum, eins og undanfarin ár, en aðstæður hafa breyst mjög til hins verra á liðnum misserum; gengi krónunnar hefur styrkst og tekjur gjaldeyrisskapandi fyrirtækja dregist verulega saman. Á sama tíma hefur kostnaður í íslenskum krónum, eins og vegna aðfanga og launa, hækkað mikið,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS. Samkvæmt lögum greiða lögaðilar fiskiskipa veiðigjald, en þeir eru nú hátt í eitt þúsund. Beint samband er á milli hagnaðar fyrirtækja og veiðigjalds. Greiðslurnar fyrir næsta fiskveiðiár nema þannig um þriðjungi af heildarhagnaði útgerða árið 2015. Þá er hagnaður í fiskvinnslu einnig reiknaður inn í veiðigjald. Það leiðir til þess að hluti þeirra sem greiðir veiðigjald, greiðir það vegna hagnaðar sem myndast í óskyldum fyrirtækjarekstri. Við bætast svo aðrar opinberar greiðslur, eins og tekjuskattur, tryggingagjald, olíugjald og aflagjöld.   Kemur sér illa fyrir mörg fyrirtæki Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélagsins, segir aðferðina ekki gallalausa en eins og fram hefur komið er miðað við afkomu sjávarútvegs eins og hún var 2015. „Nú er staðan allt önnur og hækkunin kemur sér illa fyrir mörg fyrirtæki. Það er líka óeðlilegt að reikna afkomu fiskvinnslu inn í veiðigjaldið hjá fyrirtækjum í útgerð auk þess sem skoða þarf fleiri forsendur útreikningsins“ sagði Stefán. Hann sagði að þessi skattur væri of hár og legðist ofan á öll önnur gjöld sem sjávarútvegur greiðir til hins opinbera fyrir utan hefðbundna skatta. „Það er einnig hætt að taka tillit til skulda fyrirtækja sem getur orðið til þess að veiðigjaldið fjórfaldast í sumum tilfellum frá síðasta ári. Ég vil þó taka fram að samanborið við hugmyndir um fyrningu aflaheimilda eru veiðigjöldin illskárri kostur en eins og þetta lítur út núna eru þau einfaldlega of há,“ sagði Stefán.   Útreikningur þeirra er og verður alltaf vitlaus „Hugmyndin um veiðigjöld er og hefur alltaf verið ranghugmynd, rétt eins og hugmynd manna um að jörðin væri flöt var ranghugmynd. Veiðigjöld og útreikningur þeirra verður ekki réttari við það að nefnd í Reykjavík basli við að reikna þau út og komist alltaf að vitlausri niðurstöðu rétt eins og nú,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar. „Í fyrsta lagi byggja hugmyndir manna um veiðigjöld á því að í sjávarútvegi verði til svokölluð auðlindarenta sem sumir kalla umframhagnað. Þennan umframhagnað þurfi ríkið að skattleggja. Vandinn er bara sá að það hefur enginn getið sýnt fram á umframhagnað í sjávarútvegi. Þess vegna er útreikningur þeirra og verður alltaf vitlaus. Í öðru lagi verður auðlindarenta til við nýtingu auðlinda, ekki áframvinnslu. Í Noregi er olíuvinnsla, þ.e.a.s. borun eftir olíu, skattlögð í olíusjóð en ekki áframvinnslan, þ.e.a.s. olíuhreinsunin, verslun með olíu eða sala til neytenda. Hér á Íslandi er öllu ruglað saman. Útgerðir eru rukkaðar um veiðigjald í vinnslu, jafnvel þótt þær séu án fiskvinnslu!!! Hvernig verður veiðigjaldið reiknað eftir tvö ár þegar inn kemur að botnfiskvinnsla er rekin með tapi? Mun ríkið þá endurgreiða vegna þess? Í þriðja lagi er allur kostnaður tekinn með í Noregi áður en auðlindaskattur er lagður á, þar með talinn kostnaður við fjárfestingar, vexti og eðlilega ávöxtun eigin fjár og rannsóknir og þróun. Allt umfram það er skattlagt að hluta en ekki öllu leyti. Hér á landi er ekki tekið tillit til þessa enda væri þá ekkert eftir til að skattleggja. Í fjórða lagi leggja Norðmenn ekki auðlindaskatt á fiskveiðar, því þeir vita að þar verður ekki til auðlindarenta sem er grunnur veiðigjaldsins. Að lokum vil ég skora á sjávarútvegsráðherra og sáttanefnd hans að byrja á að sýna fram á auðlindarentu, eða umframhagnað, áður en þeir fara að velta fyrir sér hvernig skuli skattleggja sjávarútveg sérstaklega,“ sagði Binni.  

Óhjákvæmilega mun staða atvinnulífs í Eyjum versna

„Þetta eru ótrúlegar hækkanir á veiðigjöldum, og þá sérstaklega á helstu bolfisktegundum. Þannig hækkar þorskur um 107% og ýsa um 127%. Fyrr má nú rota en dauðrota. Við og mörg önnur sveitarfélög höfum varað mjög við því að svona sé gengið fram. Áhrif þessa eru þekkt og niðurstöðurnar koma ekki til með að koma á óvart. Það sem gerist ef þetta nær fram að ganga er að samkeppnishæfni greinarinnar á alþjóðamörkuðum verður skert verulega auk þess sem enn lengra en áður verður gengið í átt að samþjöppun í íslenskum sjávarútvegi og þar með versnar mjög atvinnukúltúr sjávarbyggða,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri um þá ákvörðun sjávarútvegsráðherra að tvöfalda veiðigjöldin í ár sem fara þá yfir 11 milljarða króna. „Í kjölfarið á fyrri hækkunum á veiðigjöldum og öðrum þrengingum höfum við séð mikla fækkun einyrkja og heyrir nú til undantekninga að útgerð sé rekin sem fjölskyldufyrirtæki hér í Vestmannaeyjum eins og víðar. Þá er einnig kristalskýrt að með þessu er dregið úr getu sjávarútvegs til fjárfestinga í tækninýjungum, sinna nýsköpun og þróa atvinnulíf sjávarbyggða. Niðurstaðan verður því óhjákvæmlega að staða atvinnulífs hér í Eyjum og meðfram strandlengjunni mun versna, starfsöryggi sjómanna og landverkafólks ógnað og byggðafesta enn og aftur sett í uppnám.“ Elliði segir að þetta útspil komi honum nokkuð á óvart núna, þegar það kemur í kjölfarið á yfirlýstum vilja til að ná sáttum um sjávarútveg og til að byggja upp atvinnulíf á landsbyggðinni. „Það er ástæða til að hafa í huga að 1. júní sl. boðaði sjávarútvegsráðherra úttekt á rekstrarstöðu fyrirtækja í sjávarútvegi, sem á að vera lokið núna innan skamms eða í byrjun september. Hugmyndin var sú að þá yrði skoðað hvort staðan núna kalli á sérstakar ráðstafanir. Í kynningu á þessu starfi kom sérstaklega fram að styrking krónunnar, verkfall sjómanna og ýmsir aðrir utanaðkomandi blikur síðasta vetur kallaði á slíka úttekt. Ég fæ ekki séð annað en að þetta útspil höggvi á ný í þennan knérunn,“ sagði Elliði að endingu.

Byrjað að gæta grynnsla við austurgarðinn í Landeyjahöfn

"Ég fékk í gær afrit af töluvpósti sent á farþega Herjólfs þar sem fram kom að vandi væri með dýpi milli garða og hafði því samband við Vegagerðina," sagði Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, um stöðuna í Landaeyjahöfn í dag. "Þeir staðfestu að því miður hafi komið í ljós í lok síðustu viku að byrjað var að gæta grynnsla við austurgarðinn í Landeyjahöfn. Það kom þeim á öðrum nokkuð á óvart enda hefur þetta ekki verið vandamál síðan 2011 eða 2012. Að sögn fulltrúa Siglingastofnunar var smátunga austan við höfnina í lok maí en hún var ekki stór og hefur oft verið stærri án þess að valda vandræðum."   Erfitt er að segja með vissu hversu miklum truflunum þetta mun koma til með að valda en það verður ætíð háð mati og ákvörðunum skipstjóra á Herjólfi.  "Ef til vill verður nauðsynlegt að fella niður ferðir á blússandi fjöru á meðan það er stórstreymt og ef veður verður ekki gott. Ég held ég fari rétt með að það verði stórsteymt frá og með næsta laugardegi þar til á fimmtudaginn í næstu viku og því vonandi að við fáum brakandi blíðu þann tíma. Ef alda verður há verða truflanir enn meiri. Eins og ég segi þá er það skipstjóra Herjólfs að meta aðstöðu hverju sinni og við treystum þeirra mati nú sem fyrr. Vonandi veldur þetta sem minnstri truflun á samgöngum," segir Elliði og heldur áfram.   "Í samtölum mínum við Siglingastofnun hefur komið fram að þeir óskuðu þegar í stað eftir því að við að Björgun að þeir dýpki sem allra fyrst. Um leið var tekin staðan á getu JDN til að bregðast við en skip þeirra eru erlendis núna. Því miður er staðan sú að Dísa er í slipp í augnablikinu en það mun skýrast í dag eða á morgun hvenær þeir komast."   Ástandið segir Elliði vera bagalegt og sýnir hversu lítið má út af bregða til að valda miklum vanda. "Skipið er ekki eingöngu gamalt og þar með bilanagjarnt heldur er það einnig of djúprist og hönnun þess ekki heppileg fyrir Landeyjahöfn. Þá er öllum löngu ljóst að gera þarf verulegar breytingar á höfninni og þá ekki síst því sem snýr að dýpisvandanum.   Staðan núna hlýtur að koma sem gula spjaldið á samgönguyfirvöld hvað stöðuna varðar og brýna þau í að klára þær aðgerðir sem tryggja eiga dýpi á þessu svæði."  

Blátindur VE á sinn stað í haust

Á fundi framkvæmda- og hafnarráðs í gær er vitnað í bókun ráðsins frá 30.maí þar sem var lögð áhersla á að Blátindi VE yrði komið fyrir á sínum stað 27. júní. Í ljósi þess að ekki er ráðlegt að raska Skanssvæðinu yfir mesta ferðamannatímann var ákveðið að fresta framkvæmdum fram á haustið.   Reiknað er með að framkvæmdir hefjist seinni partinn í ágúst. Ráðið lýsir yfir vonbrigðum með að ekki hafi tekist að koma Blátindi fyrir á tilætluðum tíma en tekur undir að ekki sé ráðlegt að raska Skanssvæðinu yfir sumarið. Ráðið ítrekar að verkinu verði haldið áfram seinnipart ágústmánaðar. Ráðið mun taka málið upp á fundi í september.   Vélbáturinn Blátindur VE 21 var byggður í Dráttarbraut Vestmannaeyja h. f. og lauk smíði hans í júlí 1947. Skipasmíðameistari var Gunnar Marel Jónsson, en hann var þjóðkunnur fyrir vélbáta sína. Smíði bátsins var hluti af raðsmíði fiskiskipa fyrir tilstilli ríkisstjórnarinnar til endurnýjunar á fiskiskipaflota þjóðarinnar í stríðslok.   Þegar Blátindur hljóp af stokkunum var hann með stærstu og glæsilegustu fiskiskipum í Vestmannaeyjum. Báturinn var gerður út frá Eyjum til ársins 1958, en þá var hann seldur burt og gerður út frá ýmsum verstöðvum vestan og norðan lands. Þá var Blátindur notaður sem varðskip í Faxaflóa sumrin 1950 og 1951 og var þá búinn fallbyssu.   Í Vestmannaeyjum voru byggðir 28 opnir bátar og 76 þilfarsvélbátar úr eik og furu,allt upp í 188 smálestir á árunum 1907 til 2000. Blátindur er síðasti vélbáturinn, sem eftir er af þessum flota.   Hann er dæmigerður fyrir þá vélbáta, sem smíðaðir voru í Vestmannaeyjum á fyrri hluta aldarinnar og voru notaðir til sjósóknar á vetrarvertíðum og sumarsíld fyrstu sex til sjö áratugi aldarinnar.  Af heimaslod.is      

Gerði fyrstu tilraunina með hraunkælingu í Surtsey

Þó nokkrir Eyjamenn útskrifuðust úr Tækniskólanum - Sigurður Sigurðsson

  Sigurður Sigurðsson   Aldur: 38 ára.   Búseta: Landsbyggðin, Seltjarnarnes.   Í hverju varstu að útskrifast: Stýrimannaskólanum. D-Stig. Veitir ótakmörkuð réttindi á öll skip (nema varðskip).   Hvað tók námið langan tíma: Mig minnir að ég hafi byrjað 2013 svo námið tók fjögur ár í heildina. Ég var í fjarnámi því var námið ekki tekið á fullum hraða og misjafnt eftir önnum hve mörg fög ég tók eftir því hvað hentaði. T.d var ég á loðnuvertíð alltaf á vorönn og því var betra að taka færri áfanga þá en síðan fleiri á haustönn.   Af hverju valdir þú þetta nám, hafðir þú alltaf áhuga á því: Þar sem ég var hvort eð er á sjó fannst mér ég alveg eins geta tekið stýrimannaskólann í fjarnámi, þá hafði ég líka eitthvað að sýsla á stímum. Fyrst maður var að vinna við þetta þá hafði ég auðvitað áhuga á að læra þetta til fulls og hef enn áhuga á að bæta við mig eins mikilli kunnáttu og ég kemst yfir.   Myndir þú mæla með Tækniskólanum: Það er margt mjög gott við Tækniskólann og þá sérstaklega fjarnámið. Kennararnir eru frábærir, sem og yfirstjórn deildarinnar og öll samskipti við starfsfólk skólans til fyrirmyndar. Hins vegar mætti setja spurningarmerki við reksturinn og hvernig fjármunum er varið, en það væri flóknari pólitík að fara í þá sálma.   Hvað tekur nú við: Þar sem ég hef verið á sjó allan námsferilinn verður svo áfram. Ég er 2. stýrimaður á Sigurði VE 15 og mun halda því áfram.  

Þó nokkrir Eyjamenn útskrifuðust úr Tækniskólanum - Elías Fannar Stefnisson

 Þann 24. maí sl. brautskráðust á fimmta hundrað nemendur úr Tækniskólanum við hátíðlega athöfn í Eldborgarsal Hörpu. 61 útskrifaðist úr Byggingatækniskólinn, 29 úr Handverksskólanum, 47 úr Raftækniskólanum, 66 úr Skipstjórnar- og Véltækniskólinn, 53 úr Upplýsingatækniskólanum, 54 úr Tæknimenntaskólanum, 58 úr Flugskólanum, 24 úr Margmiðlunarskólanum, 54 úr Meistaraskólanum og 18 úr Vefskólanum. Þó nokkrir Eyjamenn voru meðal útskriftarnema og hlutu fjórir þeirra viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Blaðamaður setti sig í samband við nokkra útskriftarnema og ræddi við þá um námið og framtíðina.   Elías Fannar Stefnisson   Aldur: Ég er víst rétt að verða 27 ára þó ótrúlegt megi virðast.  Búseta: Ég bý í Reykjavík.   Í hverju varstu að útskrifast: Ég útskrifaðist frá pípulagningadeild Tækniskóla Reykjavíkur.   Hvað tók námið langan tíma: Námið tók ca. tvö og hálft ár frá því ég byrjaði í Tækniskólanum.   Af hverju valdir þú þetta nám, hafðir þú alltaf áhuga á því: Nei, svo sem kannski ekkert sérstaklega, mér hefur alltaf fundist fagið áhugavert sem slíkt en ég held að áhuginn hafi kviknað bara við að fikta aðeins í þessu. Mér fannst fyrst og fremst vinnan skemmtileg og fjölbreytt og mér fannst kominn tími til að mennta mig og þessi grein lá ágætlega fyrir mér.   Myndir þú mæla með Tækniskólanum: Já alveg klárlega. Í fyrsta lagi eru námsmöguleikarnir margir og aðstaðan til fyrirmyndar. Miðað við stærðina á skólanum þá er líka allt rosa persónulegt og til að mynda pípulagningadeildin alveg frábær með það að gera. Kennararnir þekkja þig nánast alveg frá fyrsta degi og eru fyrstu mennirnir til að aðstoða ef þörf er á.   Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig að hljóta viðurkenningu fyrir góðan námsárangur: Hefur í sjálfu sér enga gríðarlega þýðingu ef ég á að vera hreinskilinn. Ég hef aldrei fundið mig almennilega í námi né skóla og stóð mig frekar illa bæði í grunnskóla og fyrst um sinn í framhaldsskóla. Þetta verður kannski til þess að minna mig og vonandi aðra á að um leið og maður fær áhuga á því sem maður er að læra þá einhvern vegin kemur árangurinn sjálfkrafa með. Þannig að það er engin þörf á að örvænta þó að maður finni sig ekki alveg strax í þessu hefðbundna námi.   Hvað tekur nú við: Ég fer bara á fullt núna að halda áfram að vinna hjá fyrirtæki hérna í Reykjavík sem heitir Kraftlagnir. Er búinn að vinna þar í tæp þrjú ár og líkar það alveg rosalega vel. Ég stefni á meistaraskólann innan nokkurra ára og svo er aldrei að vita hvað tekur við. Hef einnig mikinn áhuga á að mennta mig í tónlist eða a.m.k. rækta það aðeins meira en ég hef gert síðan ég byrjaði að læra píparann.    

Þó nokkrir Eyjamenn útskrifuðust úr Tækniskólanum - Hallgrímur Júlíusson

 Þann 24. maí sl. brautskráðust á fimmta hundrað nemendur úr Tækniskólanum við hátíðlega athöfn í Eldborgarsal Hörpu. 61 útskrifaðist úr Byggingatækniskólinn, 29 úr Handverksskólanum, 47 úr Raftækniskólanum, 66 úr Skipstjórnar- og Véltækniskólinn, 53 úr Upplýsingatækniskólanum, 54 úr Tæknimenntaskólanum, 58 úr Flugskólanum, 24 úr Margmiðlunarskólanum, 54 úr Meistaraskólanum og 18 úr Vefskólanum. Þó nokkrir Eyjamenn voru meðal útskriftarnema og hlutu fjórir þeirra viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Blaðamaður setti sig í samband við nokkra útskriftarnema og ræddi við þá um námið og framtíðina.   Hallgrímur Júlíusson   Aldur: 22.   Búseta: Búdapest – Ungverjalandi.   Í hverju varstu að útskrifast: Ég lauk á dögunum bóklega hluta atvinnuflugmannsnámsins.   Hvað tók námið langan tíma: Það er hægt að fara nokkrar leiðir í að klára þetta. Ég tók einkaflugmanninn fyrst sem var 4 mánuðir í heildina, safnaði svo flugtímum allt síðasta sumar og fór svo í bóklega atvinnuflugið síðastliðið haust. Það eru tvær annir eða átta mánuðir og í síðustu viku var ég að byrja á verklega partinum til að fá atvinnuflugmannsskírteinið í hendurnar að því loknu. Í heildina hjá mér er þetta að taka tæplega tvö ár frá fyrsta tíma og að fá atvinnuflugmannsskírteinið í hendurnar.   Af hverju valdir þú þetta nám, hafðir þú alltaf áhuga á því: Ég get ekki sagt að það hafi verið bernskudraumur að verða flugmaður, áhuginn kviknaði ekki fyrr en að framhaldsskólanámi loknu. Ég var að pæla í allt öðrum greinum heldur en fluginu, meðal annars kírópraktík og tölvunarfræði. Þegar kom svo að því að ákveða hvað skyldi læra ákvað ég af rælni að fara í prufutíma hjá Flugskóla Íslands. Ég fann þar strax að þetta væri eitthvað sem ætti vel við mig.   Myndir þú mæla með Tækniskólanum: Ég mæli klárlega með flugnáminu sem skólinn býður upp á í samstarfi við Flugskóla Íslands. Flugmannsnámið hefur verið kennt þar um árabil og skólinn er virtur á sínu sviði. Einnig eru kennararnir mjög reynslumiklir flugmenn sem bætir gæðin í kennslunni heilmikið.   Hvað tekur nú við: Ég flutti nýverið til Búdapest í þeim tilgangi að taka verklega hluta námsins. Ég stefni á að ljúka náminu á haustdögum ef allt gengur upp og geta strax í framhaldi af því farið að sækja um störf hjá stóru flugfélögunum.    

Fjögurra daga veisla í listum og sjálfsprottinni gleði - myndir

Sjaldan eða aldrei hafa fleiri mætt á Goslokahátíð en í ár og má segja að bærinn hafi verið fullur af fólki. Dagskráin var mjög fjölbreytt og lætur nærri að um 50 viðburðir hafi verið í boði, myndlistarsýningar, tónleikar og uppákomur fyrir börn á öllum aldri og svo skemmtanir á kvöldin. Góð mæting var á alla viðburði og ekki annað að heyra en að fólk væri ánægt enda veður gott og fólk mætti til að eiga góða stund, skemmta sér og öðrum og sýna sig og sjá aðra. Er Goslokahátíðin í Vestmannaeyjum búin að vinna sér sess sem ein allsherjar menningarhátíð og sem ættarmót af stærri gerðinni. Goslokanefnd lagði áherslu á að bæjarbragurinn yrði í anda hátíðarinnar og voru margir sem svöruðu því kalli.    Ekki var möguleiki að komast yfir alla viðburði en blaðamenn Eyjafrétta fóru víða og hér má sjá afraksturinn.   Hér má sjá nokkrar myndir frá helginni.   Spákona Spákonan Sunna Árnadóttir spáði í bolla og spil fyrir gesti og gangandi í Pennanum og komust færri að en vildu.    Myndefnið sótt í Surtsey Þórunn Bára Björnsdóttir bauð upp á athyglisverða myndlistarsýningu í Eldheimum þar sem gróður í Surtsey og framþróun hans var viðfangsefnið. Skemmtileg sýn á þessa náttúruperlu sem fengið hefur að þróast án afskipta mannsins frá 1963. Þórunn Bára hefur aldrei stigið fæti á Surtsey en nýtir Netið við vinnslu verka sinna.   Sýndi og sagði sögur Andrés Sigmundsson sýndi og sannaðí á sýningu sinni í Gallery Papacross, við Heiðarveg að hann kann að mála og hefur auga fyrir litum og formum. Flott sýning og skemmtileg.    Hann bætti um betur þegar hann fór göngu um miðbæinn og sagði sögu húsa og annars sem fyrir augu bar. Þátttaka var góð og gerður góður rómur að þessu framtaki Andrésar.   Frumraun sem lofar góðu Myndlistarsýning Magna Freys Ingasonar í Húsi Taflfélagsins við Heiðarveg kom á óvart. Hann tók sig til fyrir tveimur árum að mála myndir og notar mest akrýlliti. Þetta er hans fyrsta sýning og lofar hún góðu um framhaldið.    Magni er ófeiminn að nota sterka liti og hefur gott vald á viðfangsefninu. Hlakka til að sjá næstu sýningu því hann segist hvergi nærri hættur.   Með auga fyrir smáatriðum Ísleifur Arnar Vignisson, Addi í London, er yfirleitt með myndavél á lofti ef eitthvað er að gerast í Vestmannaeyjum. Þetta hefur hann gert í áratugi og mátti sjá örlítið sýnishorn úr safni hans á sýningu í Akóges um helgina.    Viðfangsefnið eru Vestmannaeyjar og það sem hér gerist. Hann hefur mikið dálæti á Smáeyjum sem blasa við honum út um stofugluggann sem mátti sjá á sýningunni sem er góður vitnisburður um ljósmyndarann Adda í London sem hefur auga fyrir smáatriðunum og veit hverju hann vill koma til skila þegar mynd er tekin.    Um 1000 manns sóttu sýninguna og er Addi mjög þakklátur fyrir það.   Haldið ótrauð áfram  Alltaf koma félagar í Myndlistarfélagi Vestmannaeyja manni á óvart. Um helgina sýndu þau í sal Listaskólans. Verkin eru eins fjölbreytt og þau eru mörg sem þarna sýndu. Og enn og aftur segi ég, það má sjá framfarir með hverri sýningu og á meðan svo er á félagið rétt á sér og miklu meira en það. Haldið ótrauð áfram.   Þarft og tímabært framtak Sýningin „Örnefni í Vestmannaeyjum“ er þarft framtak hóps undir forystu Péturs Steingrímssonar. Afraksturinn er á ljósmyndum af Heimaey þar sem örnefni eru skráð inn á. Með Pétri voru Hávarður Sigurðsson, Már Jónsson, Ólafur Týr Guðjónsson, Friðbjörn Valtýsson og Óskar Ólafsson prentari sem vann tölvuvinnuna á myndunum sem er mikil og vandasöm vinna. Síðar kom inn í hópinn Gunnlaugur Grettisson. Gestir geta aðstoðað og bætt á listann.   Það sem aldrei hefur  verið rætt Guðrún Erlingsdóttir blaðamaður með meiru var í Eldheimum með það sem hún kallaði Spjallstund - samtal kynslóða. Fékk hún til sín mæðginin Sjöfn Kolbrúnu Benónýsdóttur, Bobbu og Grím Gíslason og mæðgurnar Ester Kristjánsdóttur og Hafdísi Sigurðardóttur til að segja frá upplifun sinni af gosinu. Bobbu og Ester sem mömmurnar sem þurftu að flytja heimili og börn og aðlagast nýjum aðstæðum og Hafdís og Grímur sögðu frá sinni lífsreynslu.    Kom þar margt á óvart eins og það að Grímur, þá átta ára grét sig í svefn á hverju kvöldi þar sem hann dvaldi hjá frænku sinni í Fljótshlíðinni veturinn 1973. Horfandi á Vestmannaeyjar út um gluggann. Eitthvað sem mamma hans vissi ekki áður.   Ester og Hafdís fluttu nokkru sinnum í gosinu og skipti Hafdís jafn oft um skóla. Þar þurfti hún að standa á sínu því krakkar réðust á hana vegna þess að hún kom frá Vestmannaeyjum.   Mæting var góð og var athyglisvert að heyra hvernig þau upplifðu gosið og það sem á eftir fór. Niðurstaðan var að enn er mikið óuppgert og að þetta var enginn dans á rósum.    Hrafnarnir sungu sinn söng Hrafnarnir brugðust ekki á tónleikunum í Eldheimum á föstudagskvöldið. Ein reyndasta hljómsveit landsins í árum talið og drengirnir njóta þess að koma fram og skemmta fólki, bæði í tónum og tali.   Troðfullt var og mikil stemning í anda Eyjamanna. Sindri Freyr hitaði upp og sýndi og sannaði að þar er rísandi stjarna á ferðinni.   Enn eitt púslið í sögunni  Það var vel mætt á frumsýningu heimildarmyndar Gísla Pálssonar, Valdimars Leifssonar og Bryndísar Kristjánsdóttur, Hans Jónatan: Maðurinn sem stal sjálfum sér.      Hún er byggð á samnemdri bók Gísla sem rekur sögu Hans Jónatans sem var sonur ambáttar á St. Croix í Karíbahafi en fluttist með dönskum húsbónda sínum til Kaupmannahafnar áður en hann kom sér til Íslands. Hann settist að á Djúpavogi árið 1802 og giftist Katrínu Antoníusdóttur. Afkomendur þeirra í dag eru um 1000 talsins.       Allt svo leikandi létt Það var upplifun að vera viðstaddur tónleika Silju Elsabetar Brynjarsdóttr og Alexanders Jarls Þorsteinssonar í Eldheimum á laugardaginn.  Þetta unga fólk sem nú stundar söngnám við virta tónlistarskóla í London tók sín fyrstu skref á söngbrautinni í Vestmannaeyjum þar sem þau ólust upp. Og framfarirnar eru miklar og létu þau sig ekki muna um að hjóla í vinsælustu aríur og sönglög óperubókmentanna. Allt svo leikandi létt og skemmtilegt og þau náðu að krydda tónlistina með léttum leik og kynningum milli laga.    Þó tónlistarviskan sé ekki mikil hjá þeim sem þetta skrifar er það hans sannfæring að Silja og Alexander eigi eftir að ná langt á listabrautinni. Og það voru örugglega fleiri en mömmur og ömmur þeirra sem fengu tár í auga þessa stund.   Þau sungu nokkrar íslenskar söngperlur og Eyjalögin öðluðust nýja vídd í meðförum þeirra.   „Við erum hrærð og snortin yfir stórkostlegum móttökum og frábærri aðsókn á tónleikum okkar. Við viljum þakka þeim sem komu og hlýddu á okkur og ekki síður þeim styrktaraðilum sem gerðu tónleikana að veruleika,“ sögðu Silja Elsabet og Alexander Jarl eftir tónleikana og vildu koma á framfæri þakklæti til Vinnslustöðvarinnar, Ísfélagsins,  Frás, Geisla, Skipalyftunnar, Atlantic fresh, Eimskips, Samskipa, Íslandsbanka, Deloitte, Glófaxa og Vestmannaeyjabæjar.   Tólf ára myndlistarkona Rúsínan í pylsuendanum var svo sýningin hennar Sunnu Einarsdóttur í anddyri Hótels Vestmannaeyja. Sunna sem er tólf ára Eyjapæja var þarna með sína aðra myndlistarsýningu. Myndirnar eru vel gerðar og skemmtlegar og fullar af græskulausum húmor.    Tónleikar Jónasar Sigurðssonar og Ritvéla framtíðarinnar Það var mikið fjör á tónleikum Jónasar Sigurðssonar og Ritvéla framtíðarinnar sl. fimmtudagskvöld. Gera má ráð fyrir að allt að 120 manns hafi lagt leið sína á tónleikana en það var ekki mikið eftir af stólum þegar hljómsveitin steig á stokk þegar klukkan var rétt skriðin yfir tíu.   Tók Jónas öll sín helstu lög ásamt því að segja sögur inn á milli laga og fá fólk til þess að hlægja. Jónas, sem er uppalinn í Þorlákshöfn, ræddi m.a. sína fyrstu ferð til Vestmannaeyja, þá tvítugur að aldri að spila með Sólstrandagæjunum. Að hans sögn var þessi ferð hreint ævintýri og minningin þaðan ein af þessum ógleymanlegu minningum sem fólk tekur með sér yfir móðuna miklu. Fyrir þann tíma hafði Vestmannaeyjar í hans huga verið einhver dularfullur heimur handan við hafið og þegar Herjólfur kom að bryggju kölluðu krakkarnir „HERJÓLFUR, HERJÓLFUR, HERJÓLFUR.“ Líkti hann upplifuninni við geimskutlur í Flórída, svo merkilegt var hvíta ferlíkið.   Opin æfing hjá ÍBV í boði Bónuss var opin æfing á Hásteinsvelli hjá liðsmönnum meistaraflokks karla og kvenna ÍBV fyrir alla krakka í 5.-7. flokk. Þarna gátu krakkarnir komist í návígi við knattspyrnuhetjur Vestmannaeyja ásamt því að fá ýmsa glaðninga sem í boði voru í lok æfingar.    Barnagleði í boði Ísfélags Vestmannaeyja Það var mikið stuð á barnagleði Ísfélags Vestmannaeyja á Stakkagerðistúni þar sem íbúar Latabæjar komu og skemmtu gestum og gangandi með söngvum og skemmtilegum uppákomum. Söngvarinn Aron Brink, sem skaust fram á sjónarsviðið í undankeppni Eurovision í ár, kom einnig fram og  tók smellinn sinn ásamt öðrum vel völdum lögum. Að lokum fengu allir sem vildu að gæða sér á sérframleiddum Goslokaís í boði Ísfélagsins.   The Brothers Brewery  kynnti MLV9 Það var glatt á hjalla þegar bruggbræðurnir í The Brothers Brewery kynntu bjórinn MLV9 í húsakynnum sínum á föstudaginn en fyrir þá sem ekki vita er bjórinn bruggaður til heiðurs knattspyrnugoðsins Margrétar Láru Viðarsdóttur. Ekki var annað að sjá en að MLV9, sem er DIPA 9.5% humlasprengja, hafi fallið í kramið hjá bjórunnendum.   Tónleikar og myndlistasýning  Júníusar Meyvants Eyjamaðurinn og listamaðurinn Unnar Gísli Sigurmundsson, betur þekktur sem Júníus Meyvant, sló upp myndlistarsýningu og miðnæturtónleikum í gamla Ísfélagshúsinu þar sem aðgangur var ókeypis. Mætingin á tónleikana var vægast sagt góð og var fullt út dyrum og rúmlega það.    Daði Freyr  Daði Freyr úr Daði og Gagnamagnið, sem óvænt sló í gegn í undankeppni Eurovision fyrr á þessu ári, kom fram fyrir framan Eymundsson og skemmti fjölmörgum aðdáendum sínum, allt frá nokkurra ára gömlum krökkum upp í fullorðið fólk. Voru tónleikarnir vel sóttir enda blíðskaparveður og Daði hress að vanda.   Skipasandur Dagskráin á útisviðinu á Skipasandi hófst með reynsluboltunum Matta Matt og Eyþóri Inga sem héldu uppi stuðinu þar til röðin var komin að Daða Frey sem tók m.a. smellinn „Hvað með það“ ásamt ýmsum ábreiðum sem hann hefur gert vinsælar síðustu misserin. Það voru síðan Brimnesingar sem stigu síðastir á stokk á útisviðinu og skemmtu fram eftir nóttu eins og þeim einum er lagið. Einnig var mikið að gerast í krónum á svæðinu eins og hefð er fyrir, Gulli skipper og co., Hrafnar, Leó Snær, Jógvan, KK bandið, Siggi Hlö og fleiri.

Þó nokkrir Eyjamenn útskrifuðust úr Tækniskólanum - Indíana Auðunsdóttir

 Þann 24. maí sl. brautskráðust á fimmta hundrað nemendur úr Tækniskólanum við hátíðlega athöfn í Eldborgarsal Hörpu. 61 útskrifaðist úr Byggingatækniskólinn, 29 úr Handverksskólanum, 47 úr Raftækniskólanum, 66 úr Skipstjórnar- og Véltækniskólinn, 53 úr Upplýsingatækniskólanum, 54 úr Tæknimenntaskólanum, 58 úr Flugskólanum, 24 úr Margmiðlunarskólanum, 54 úr Meistaraskólanum og 18 úr Vefskólanum. Þó nokkrir Eyjamenn voru meðal útskriftarnema og hlutu fjórir þeirra viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Blaðamaður setti sig í samband við nokkra útskriftarnema og ræddi við þá um námið og framtíðina.   Indíana Auðunsdóttir   Aldur: 37 ára.   Búseta: Vestmannaeyjar á sumrin og Reykjavík á veturna. Í hverju varstu að útskrifast: Húsasmíði (maí 2017) og húsgagnasmíði (des. 2016).   Hvað tók námið langan tíma: Ég tók þessar tvær námsbrautir saman og fékk eitthvað bóklegt metið, raðaði frekar mörgum áföngum á önn svo ég náði að klára báðar brautirnar á fimm önnum, náði einnig að henda inn auka áföngum í tækniteiknun og málmsuðu.   Af hverju valdir þú þetta nám, hafðir þú alltaf áhuga á því: Ekki alltaf, ég kom heim til Íslands eftir meistaranám í myndlist 2008 og byrjaði að smíða og standsetja með pabba. Það vatt svo upp á sig og ég hef starfað við allskonar þannig verkefni síðastliðin átta ár. Mér finnst mjög gaman að smíða, sérstaklega ef það hefur einhvern skapandi þátt. Eftir að hafa bögglast með grófvinnu verkfæri um allar trissur þá dreymdi mig um að læra fíngerðari vinnubrögð á góðum verkstæðisvélum. Það meikaði líka alveg sens að læra þetta bara almennilega fyrst maður var farinn að stússast í þessu. Húsgagnanámið fyrir mér sameinaði svolítið þjálfunina úr myndlistarnáminu og reynsluna af smíðavinnu, það að vanda sig við að smíða eigin hluti er svo góð tilfinning.   Myndir þú mæla með Tækniskólanum: Já, það er bara mjög fínn skóli. Námið er auðvitað þannig uppbyggt að það henti líka ungu fólki með litla starfsreynslu svo ég varð alveg stundum frekar frústreruð hvað sumt var létt. En það þýddi bara að maður gat vandað verklegu verkefnin og gert þau meira krefjandi fyrir sig. Það er einnig frábært að hafa aðgang að svona flottum verkstæðum, góðum kennurum og þeim aukaáföngum sem maður hefur áhuga á.   Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig að hljóta viðurkenningu fyrir góðan námsárangur: Ég lagði á mig mikla vinnu við námið og vandaði mig og það er alveg pínu næs að sjá það metið. Ég náði besta námsárangri úr báðum greinunum auk viðurkenningar fyrir fagteikningu og heildar námsárangur úr Byggingatækniskólanum. Þetta hjálpar kannski við að koma sér á framfæri en ég hef ekkert rosa mikla trú á svona viðurkenningum, mér hefur þótt slitrótt samhengi á milli námsárangurs og hvernig fólki raunverulega vegnar í sínu fagi. Maður getur náð nákvæmlega þangað sem maður ætlar sér og þaða ð fá eða fá ekki viðurkenningu á ekki að breyta neinu.   Hvað tekur nú við: Við fjölskyldan á Slippnum keyptum húseignina á móti Slippnum í mars og byrjuðum strax að standsetja hana og sú vinna mun endast í dágóðan tíma í viðbót. Það er líka allt komið á milljón á Slippnum svo ég hef ekki náð að horfa fram í tímann og festa neitt hvað framtíðarplön varðar. Best að segja sem minnst!  

Það vill enginn hætta nauðbeygður

Systurnar og landsliðskonurnar Margrét Lára Viðarsdóttir og Elísa Viðarsdóttir urðu báðar fyrir því óláni að slíta krossbönd fyrr á þessu ári, Elísa í landsleik gegn Hollandi í apríl og Margrét Lára í leik gegn Haukum fyrr í sumar. Ljóst er að systurnar munu báðar missa af EM í Hollandi í sumar enda margra mánaða endurhæfing fyrir höndum. Í sjónvarpsþættinum Leiðin á EM, í umsjá Eddu Sifjar Pálsdóttur, sem sýndur var á RÚV á dögunum ræddu þær Margrét Lára og Elísa opinskátt um meiðslin og þau áhrif sem þeim fylgja. Kom þar m.a. fram að Margrét Lára, sem af mörgum er talin besta íslenska knattspyrnukonan fyrr og síðar, óttaðist að ferill sinn kynni að vera á enda. Blaðamaður ákvað að setjast niður með þeim Guðmundu Bjarnadóttur og Viðari Elíassyni, foreldrum Margrétar Láru og Elísu, og ræða við þau um fótboltann, lífið og þá hápunkta og lágpunkta sem óhjákvæmilega fylgja.   Á heimasíðu knattspyrnusambandsins segir að Margrét Lára hafi tekið sín fyrstu skref með meistaraflokki árið 2000, þá aðeins 14 ára gömul. „Það getur alveg passað,“ segir Viðar áður en Guðmunda grípur orðið. „Heimir var þá að þjálfa stelpurnar og það lá mikið á að fá hana í fyrsta meistaraflokksleikinn því þá yrði hún yngsti leikmaður í sögu Íslands til að spila í meistaraflokki.“ „Við reyndum eitthvað að draga lappirnar þar sem okkur fannst þetta fullsnemmt, hún væri kannski ekki alveg komin með þroskann til spila á móti meistaraflokks leikmönnum en þetta þróaðist bara þannig að hún var fengin til að koma á æfingar og svo náði þjálfarinn að sannfæra okkur um að það væri í lagi að hún myndi spila eitthvað. Þetta sumar spilaði hún svo sem ekki mikið en fékk smjörþefinn af þessu,“ bætir Viðar við en á sama tíma var Margrét Lára þegar farin að spila upp fyrir sig með öðrum flokki.   Áhuginn var óstjórnlegur Aðspurð hvenær þau hafi áttað sig á því að Margrét Lára væri ef til vill efnilegri en gengur og gerist í boltanum segir Guðmunda það hafa strax komið í ljós á sjötta aldursári en þá var Margrét farin að spila með fimmta flokki. „Hún var ekkert venjuleg með boltann og þegar hún byrjaði var ekki einu sinni til flokkur fyrir þær, hana og Karítas Þórarinsdóttur sem var einnig ofboðslega góð.“ „Hún var alltaf svo áhugasöm,“ segir Viðar og tekur upp þráðinn. „Hún var náttúrulega búin að alast upp með bræðrum sínum sem voru aðeins búnir að tuska hana til og með þeim, ásamt öðrum krökkum, fór hún á malarvöllinn að spila og leika sér með bolta. Svo auðvitað þegar hún fer að spila með yngri flokkum og á þessum mótum þá sá maður að hún hafði ákveðna hæfileika og vilja, áhuginn var alveg óstjórnlegur. Þótt maður segi sjálfur frá þá vann hún oft leikina upp á eigin spýtur, dró vagninn fyrir liðið. Við vorum svo sem aldrei að velta okkur beint upp úr því hvernig þetta myndi þróast hjá henni, það gat allt eins verið að hún myndi hætta eftir eitt ár en hún hafði alla burði til að gera góða hluti.“ „Þær voru man ég að spila með jafnöldrum hans Sindra, krökkum fæddum 82´og 83´ og fóru með þeim á mót. Manni fannst þetta svolítið skrítið því þetta var svo svakalegt bil en hún varð bara hörð upp úr þessu. Hún var þrumuð niður alveg hægri vinstri en það var bara áhuginn og viljinn sem rak hana áfram, því ekki var hún há í loftinu,“ bætir Guðmunda við. Síðan þá hefur þessi mikli markaskorari leikið 149 leiki með meistaraflokki Vals og ÍBV og skorað í þeim 216 mörk, leikið 117 landsleiki fyrir Íslands og skorað í þeim 77 mörk, ásamt því að hafa leikið í fjölda ára í atvinnumennsku bæði í Þýskalandi og Svíþjóð. „Hún er ótrúlegur markaskorari. Hún skoraði t.d. mikið af mörkum með Val á tímabili en svo hefur hún auðvitað alltaf skorað mikið hvar sem hún spilar, hvort sem það er með landsliðinu eða félagsliði. T.d. þegar hún kom inn á í sínum fyrsta leik með landsliðinu þá var hennar fyrsta snerting mark,“ segja þau Viðar og Guðmunda um ótrúlega tölfræði Margrétar Láru. En vitið þið til þess að hún hafi átt sér einhverja sterka kvenfyrirmynd í boltanum? „Ég þori nú ekki alveg að fara með það hvernig það var en ég held að hún hafi bara litið upp til þessa stelpna sem voru í meistaraflokki á þessum tíma, Olgu Færseth og Ásthildar Helgadóttur,“ segir Viðar. „Svo hélt hún alltaf upp á Manchester United og áttu þær sér alltaf fyrirmyndir þar líka,“ bætir Guðmunda við.   Meiðsli settu strik í reikninginn Árið 2006 heldur Margrét Lára út til Þýskalands í atvinnumennsku þar sem hún var á mála hjá MSV Duisburg. „Við sáum það alveg að hún ætti heima í þessum atvinnubolta, hún hafði alla getu til þess. Við sáum það alveg þegar við fylgdumst með henni þarna úti að hún stóðst alveg samanburð við stelpurnar í þessum liðum, það var ekki spurning,“ segir Viðar en fljótlega varð Margrét fyrir því óláni að meiðast og segir Guðmunda það hafa sett strik í reikninginn. „Þarna var svo rosaleg grimmd og harka og hún varð bara að mæta á æfingu þótt hún væri meidd. Þetta var fullmikið álag fyrir hana á tímabili og hún réði ekki við það.“ Margrét kom því aftur heim til Íslands og samdi við Val þangað til hún hélt aftur út í atvinnumennskuna árið 2009. „Hún fer þá til Linköping í Svíþjóð sem þá var eitt af tveimur til þremur bestu liðunum í Svíþjóð. Þar er hún líka að kljást við ákveðin meiðsli sem gerðu henni erfitt fyrir, hún var raunverulega ein þarna og þetta var erfiður tími fyrir hana. Þetta hefði sennilega ekki verið neitt vandamál hefði hún gengið heil til skógar en hún gat hreinlega ekki verið í 100% álagi,“ segir Viðar. Frá Linköping lá leiðin í Kristianstads þar sem Margréti vegnaði vel en hún varð m.a. markahæst í sænsku deildinni tímabilið 2011. Aftur reyndi Margrét fyrir sér í Þýskalandi, þá með Turbine Potsdam sem endaði sem Þýskalandsmeistari það árið, en náði sér þó aldrei á strik með félaginu vegna tíðra meiðsla. „Þarna var þjálfari frá gamla Austur-Þýskalandi og hann var alveg geysilega grimmur og harður. Það var mikið álag í Duisburg en þarna var það enn þá meira, við horfðum upp á það sjálf. Maður var aldrei bjartsýnn á það að hún myndi standast það álag. Hún stoppaði þar stutt og fór aftur til Svíþjóðar í Kristianstad,“ segir Viðar en að hans mati hentaði Svíþjóð alltaf betur en Þýskaland. „Þarna var bara allt annar kúltúr, meiri grimmd og krafan rosalega frá þjálfaranum enda liðin á háum standard.“ Síðan árið 2015 hefur Margrét Lára verið á mála hjá Val í efstu deild á Íslandi eftir þriggja ára dvöl í Svíþjóð en ástæðuna fyrir heimkomunni má fyrst og fremst rekja til breyttra fjölskylduaðstæðna. „Hún verður auðvitað ófrísk og hún og maðurinn hennar vildu bara fara að koma sér fyrir hérna heima, sinna námi og öðru,“ segir Guðmunda en Margrét hefur klárað BA gráðu í bæði íþróttafræði og sálfræði og er um þessar mundir í meistaranámi í sálfræði. „Þetta hefur hún allt gert með boltanum sem er magnað,“ bætir Guðmunda við.   Ekki fyrirséð að Elísa myndi velja fótbolta fram yfir handbolta Árið 2014 gekk Elísa til liðs við Kristianstad og þar leika þær systur saman eitt tímabil. Þangað til hafði Elísa leikið með ÍBV í gegnum alla yngri flokkana, sem og í meistaraflokki. „Margrét fer síðan heim til Íslands vegna meðgöngu og fæðingar en Elísa verður eftir. Henni leið mjög vel þarna úti og stóð hún sig mjög vel með liðinu. Svo var hún einnig í fjarnámi frá Íslandi í næringarfræði meðfram fótboltanum sem hún kláraði síðan þegar hún kom aftur heim,“ segir Guðmunda og tekur Viðar undir. „Hún var að æfa á hærra plani en hérna heima og hún var mjög ánægð með það.“ Elísa var á sínum tíma afar efnilegur handboltamaður og að sögn Guðmundu var hún í raun búin að velja handboltann fram yfir fótboltann áður en hún varð fyrir meiðslum. „Hún fór í öxlinni og þurfti að glíma við þau meiðsli lengi þannig hún svissaði bara yfir í fótboltann,“ segir Guðmunda og brosir en það má með sanni segja að orðtakið þegar einar dyr lokast opnast aðrar eigi vel við í þessu tilviki.   Íþróttamaður ársins árið 2007 Þó að Margrét Lára sé ekki nema 31 árs í dag þá má segja að hún hafi verið á hátindi ferilsins fyrir um tíu árum síðan en þá var hún einmitt kosinn íþróttamaður ársins. „Við vorum auðvitað ekkert smá stolt af henni. Hún var búin að standa sig frábærlega með landsliðinu og félagsliðinu og ekki byrjuð að finna fyrir meiðslunum,“ segja þau Viðar og Guðmunda en síðan þá hefur Margrét farið í tvær aðgerðir vegna tíðra meiðsla í læri. „Hún hefur farið í aðgerð á báðum lærum og skilst mér að slíðrið utan um vöðvana þrengi að þeim sem gerir það að verkum að það berst ekki nægilega mikið súrefni til vöðvanna. Hún fór í svakalega aðgerð úti í Noregi fyrir einhverjum árum síðan og það gerði henni gott, hún hefur eiginlega ekki fundið fyrir sársauka í þeim fæti eftir það. Síðan fór hún í aðgerð á hinu lærinu síðasta haust, svipaða aðgerð en ekki eins stóra og eins og hún segir í viðtalinu á RÚV þá hafði hún verið búin að æfa á fullu síðustu átta vikurnar áður en krossbandið slitnar.“   Umgjörðin í kringum kvennaknattspyrnu mikið breyst á undanförnum árum Nú fer EM að bresta á, hafa ykkar plön varðandi mótið eitthvað breyst? „Nei, nei, við förum bara á EM og ætlum að njóta þess að fylgjast með liðinu. Það hefur í sjálfu sér ekkert annað breyst en það að þær verða ekki með inni á vellinum en það verður bara að harka það af sér, setja sér ný markmið, um það snýst þetta,“ segir Viðar. Keppnin í Hollandi verður þriðja keppnin sem Guðmunda og Viðar ferðast með liðinu á en fyrsta mótið fór fram í Finnlandi árið 2009 og annað mótið í Svíþjóð árið 2013. „Við höfum farið í öll þau skipti sem stelpurnar hafa farið á EM. Við vorum mjög fá í Finnlandi og það var nánast hægt að telja fólkið sem kom með liðinu á annarri hendi,“ segir Viðar. Finnst ykkur umgjörðin í kringum kvennaboltann hafa breyst mikið á síðustu árum? „Já, geysilega mikið þótt okkur finnist það mætti vera meiri umræða um kvennaboltann. En maður sér að umgjörðin er að batna, KSÍ er farið að sinna þessu betur, þeir sinntu þessu ekkert til að byrja með en maður sér breytingu á því og það er af hinu góða,“ segir Viðar og bætir Guðmunda við að hlutirnir hafi ekki farið að gerast fyrr en karlaliðinu fór að ganga vel. „Þegar strákunum fór að ganga vel þá fór KSÍ aðeins meira að líta við stelpunum, það var ekki fyrr og alveg sama hversu vel gekk hjá þeim. Þær fóru t.d. í átta liða úrslit á EM í Svíþjóð og maður sá ekki marga fulltrúa þar frá sambandinu. Stelpurnar finna þetta og allir í kringum liðið finna þetta. En þetta er allt að koma og er ég viss um að þetta verður allt miklu betra núna í Hollandi heldur en í Svíþjóð þó ekki sé talað um Finnland sem var ekki boðlegt.“ Brottför hjá fjölskyldunni verður mánudaginn 17. júlí en það er dagurinn fyrir fyrsta leik. „Við erum með miða fyrir þrjá leiki svo er bara spurning hvort það verði eitthvað meira fjör í þessu, tíminn leiðir það bara í ljós,“ segir Viðar og heldur áfram. „Við erum náttúrulega í rosalega erfiðum riðli en við verðum að hafa trú á að stelpurnar standi sig. Andstæðingarnir eru sterkir, sérstaklega Frakkar og svo er Svisslendingarnir líka góðir. En ef við náum að þjappa liðinu saman og búa til eina góða liðsheild þá getur ýmislegt gerst. Þjálfarinn er á réttri leið með liðið og svo eigum við fullt af góðum stelpum þó liðið hafi lent í skakkaföllum. Við getum aldrei verið með alla okkar bestu leikmenn heila, það verða alltaf einhver óhöpp. Verkefnið er krefjandi og þetta er brekka en við verðum að hafa trú.“   Verða vonandi báðar komnar á völlinn fyrir næsta sumar Aðspurð hvenær þau búast við að sjá stelpurnar aftur á vellinum segja þau að stefnan sé sett á næsta tímabil. „Þetta er bara 8-12 mánaða endurhæfing. Þær vinna þetta mjög náið, fara saman í ræktina á hverjum morgni og eru komnar á fullt báðar tvær.“ segir Guðmunda. Margrét sagði í viðtalinu á RÚV að hún væri ekki 100% viss hvort ferillinn væri á enda eða ekki. Hvernig horfir þetta við ykkur? „Ég efast um að hún geti svarað því á þessum tímapunkti, ég held að tíminn verði bara að leiða það í ljós. Það er ekkert sjálfgefið að hún nái 100% bata en öll meðferð við svona meiðslum er miklu betri en hún var fyrir tíu eða 20 árum síðan. Hún fær góðar leiðbeiningar frá sjúkraþjálfurum og þessum aðilum sem aðstoða hana. Svo er þetta líka undir manni sjálfum komið, hvort maður sé grimmur við sjálfan sig. Elísa er auðvitað yngri og held ég að það sé ekkert spurningamerki með hana,“ segir Viðar og tekur Guðmunda undir þau orð. „Það vill enginn hætta nauðbeygður, maður vill ráða því sjálfur. En allt sem drepur mann ekki herðir mann.“  

Ráðherra sýnir klærnar - Tvöfaldar veiðigjaldið á næsta ári

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra birti í dag reglugerð um veiðigjald fyrir komandi fiskveiðiár. Miðað við áætlað aflamark, verður gjaldið um það bil 10,5 til 11,0 milljarðar króna, sem væri hækkun um 6 milljarða frá yfirstandandi fiskveiðiári, eða ríflega tvöföldun. Hækkun veiðigjalds vegna þorsks nemur 107%, ýsu 127% og makríls 18%. Þetta kemur fram á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í fiskiðnaði og lítil hrifning þar á bæ með þessa ákvörðun ráðherrans sem þarna sýnir klærnar.   „Reikniregla veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 byggist á gögnum Hagstofu Íslands frá árinu 2015. Það gerir það að verkum að gjaldið endurspeglar ekki rekstrarskilyrði greinarinnar á hverjum tíma. Því getur hagnaður verið að minnka á sama tíma og veiðigjald er að hækka, og öfugt. Þannig háttar til núna; álagning veiðigjalds miðast við gott rekstrarár, en gjaldið kemur til greiðslu þegar mun verr árar. Rekstrarskilyrði í sjávarútvegi hafa versnað og ekki er útilokað að álagning veiðigjalds fyrir næsta fiskveiðiár muni reynast einhverjum smærri og meðalstórum útgerðum ofviða. Slíkt gæti aukið samþjöppun í sjávarútvegi,“ segir á heimasíðunni.    „Þetta er mikil hækkun sem mun koma hart niður á fjölmörgum útgerðum og þær eru misjafnlega í stakk búnar til að standa undir gjaldinu. Hjá sumum útgerðum getur hækkunin verið allt að fjórföld. Álagningin byggist á gömlum afkomutölum, eins og undanfarin ár, en aðstæður hafa breyst mjög til hins verra á liðnum misserum; gengi krónunnar hefur styrkst og tekjur gjaldeyrisskapandi fyrirtækja dregist verulega saman. Á sama tíma hefur kostnaður í íslenskum krónum, eins og vegna aðfanga og launa, hækkað mikið,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS.   Samkvæmt lögum greiða lögaðilar fiskiskipa veiðigjald, en þeir eru nú hátt í eitt þúsund. Beint samband er á milli hagnaðar fyrirtækja og veiðigjalds. Greiðslurnar fyrir næsta fiskveiðiár nema þannig um þriðjungi af heildarhagnaði útgerða árið 2015. Þá er hagnaður í fiskvinnslu einnig reiknaður inn í veiðigjald. Það leiðir til þess að hluti þeirra sem greiðir veiðigjald, greiðir það vegna hagnaðar sem myndast í óskyldum fyrirtækjarekstri. Við bætast svo aðrar opinberar greiðslur, eins og tekjuskattur, tryggingagjald, olíugjald og aflagjöld.  

Þó nokkrir Eyjamenn útskrifuðust úr Tækniskólanum - Guðný Charlotta Harðardóttir

 Þann 24. maí sl. brautskráðust á fimmta hundrað nemendur úr Tækniskólanum við hátíðlega athöfn í Eldborgarsal Hörpu. 61 útskrifaðist úr Byggingatækniskólinn, 29 úr Handverksskólanum, 47 úr Raftækniskólanum, 66 úr Skipstjórnar- og Véltækniskólinn, 53 úr Upplýsingatækniskólanum, 54 úr Tæknimenntaskólanum, 58 úr Flugskólanum, 24 úr Margmiðlunarskólanum, 54 úr Meistaraskólanum og 18 úr Vefskólanum. Þó nokkrir Eyjamenn voru meðal útskriftarnema og hlutu fjórir þeirra viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Blaðamaður setti sig í samband við nokkra útskriftarnema og ræddi við þá um námið og framtíðina.   Guðný Charlotta Harðardóttir   Aldur: 20 ára.   Búseta: Er í skóla í Reykjavík yfir veturinn en kem svo til Vestmannaeyja yfir jól-, páska- og sumarfrí!   Í hverju varstu að útskrifast: Ég var að útskrifast af Hönnunar- og nýsköpunarbraut frá Tækniskólanum.   Hvað tók námið langan tíma: Námið var eins árs undirbúningsnám fyrir háskóla.   Af hverju valdir þú þetta nám, hafðir þú alltaf áhuga á því: Ég valdi þetta nám af því ég var búin að ætla mér að sækja um nám í arkitektúr við Listaháskólann en vantaði allan grunn og þess vegna valdi ég Tækniskólann því hann bauð upp á stutt og hnitmiðað nám. Ég hef alltaf haft áhuga á fallegum húsum og hef alltaf verið pínu forvitin að sjá hvernig fólk raðaði upp heima hjá sér en áhuginn fyrir að vilja starfa sem innanhúss arkitekt er tiltölulega nýtilkominn. Síðan þegar lengra leið á námið þá fór að vera smá ,,samkeppni” innan bekkjarins þegar nær dró möppuskilum inn í LHÍ sem dreif mann alveg áfram því það eru svo fáir sem komast inn. Þá var maður farin að drekka alveg í sig alla hönnunarsöguna, allar aðferðirnar sem manni var kennt til að skapa eitthvað og kannski það mikilvægasta, uppröðun og samsetningu.   Myndir þú mæla með Tækniskólanum: Já, ég myndi mæla með honum. Hann býður líka upp á svo fjölbreytt nám sem allir ættu að kynna sér. Mín reynsla er sú að kennslan sem ég fékk var ótrúlega persónuleg og manni leið stundum eins og maður væri að skapa og teikna eitthvað með jafningjum sínum. Kennslan var ekki þannig að kennarinn talaði allan tímann og við nemendurnir þurftum að þegja og skrifa niður glósur af því sem kennarinn sagði. Heldur vorum við sett í vinnustofur með mjög góðri vinnuaðstöðu og þar gat hver og einn hugsað um sitt verkefni en síðan gátum við líka verið öll saman og myndað góðar umræður tengt verkefninu.   Hvað tekur nú við: Ég sótti um í arkitektúrinn í LHÍ eins og ég hafði ákveðið eftir að hafa uppgötvað þetta nám á Háskóladeginum, var ein af fimmtán sem komst inn og var ég mjög ánægð með það að vita að ég hefði þann möguleika að geta stundað þetta nám, því það eru svo ótrúlega margir sem sækja um en svo fáir sem komast inn. En þar sem ég sótti líka um á hljóðfærakennslubraut í LHÍ og komst inn þar líka, þá ákvað ég að velja það nám frekar.    

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Mannlíf >>

Stjórnmál >>

Greinar >>

Sjómannadagurinn í Vestmannaeyjum

Sjómannadagurinn hefur alltaf verið hátíðisdagur í mínum huga frá því ég man eftir mér. Á Siglufirði var Sjómannadagurinn stór hátíð þar sem sjómenn tókust á í hinum ýmsu keppnisgreinum skunduðu svo á ball á Hótel Höfn og tóku það stundum óklárt. Knattspyrnu á malarvellinum í sjóstökkum og bússum man ég eftir. Stakkasund í höfninni og reiptog. Keppni í netabætingu, kappróður og margt fleira. Í minningunni skipti þetta miklu máli fyrir unga drengi. Þeir urðu margir ákveðnir að verða kaldir kallar eins og sjóararnir, með uppbrettar ermar á köflóttu vinnuskyrtunum. Ég var einn þeirra sem fetaði þann veg að verða sjómaður og sé ekki eftir því. Ekki var maður burðugur fyrstu túrana en þetta hafðist allt með aðstoð og kennslu góðra sjómanna. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að lenda með góðum skipstjórum og áhöfnum. Nú er Sjómannadagurinn nánast aflagður á Siglufirði en þeir í austurbænum, Ólafsfirði hafa tekið upp merkið og halda veglega uppá daginn.   Dansað á þremur stöðum Ég og mín fjölskylda fluttum til Eyja 1989. Þá voru dansleikir og skemmtanir í þremur húsum. Höllinni, Alþýðuhúsinu og Kiwanishúsinu. Líklega um sex- til sjö hundruð manns þegar allt er talið. Og enn fleiri á dansleikjunum eftir skemmtanirnar. Þetta voru góðir og skemmtilegir tímar. Minn fyrsti Sjómannadagur í Eyjum var 1989. Þá fórum við áhöfnin á Frigginni sem Magni Jó var með, í Höllina til Pálma Lór og vorum niðri á Mylluhól. Einn bar var á hæðinni og sú sem sá um barinn þurfti að bregða sér í eldhúsið til að uppvarta. Komin var löng röð við barinn. Þá brá ég mér innfyrir barborðið og afgreiddi brennivín ofan í þyrsta sjómenn, tvöfaldan, þrefaldan og black russian. Þangað til ég sá bardömuna koma til baka. Enginn þurfti að borga á barnum hjá mér. Fyrirgefðu Pálmi minn.   Í Sjómannadagsráði Eftir nokkur ár í Eyjum var ég kominn í Sjómannadagsráð fyrir Jötunn og ekki varð aftur snúið. Afskaplega skemmtilegur tími að skipuleggja og vinna við Sjómannadaginn. Margir sjómenn sem maður hefur unnið með gegnum árin við skipulagningu og vinnu við daginn. Við þá segi ég takk fyrir samstarfið drengir þetta var stundum erfitt en á endanum alltaf gaman og gefandi. Að standa með sinn félagsfána við minnisvarða hrapaðra og drukknaðra við Landakirkju á Sjómannadegi og hlusta á Snorra Óskarsson minnast okkar föllnu félaga er í raun einstakt og ómetanlegt í minningunni. Þar drjúpum við sjómenn höfði fyrir Guði og mönnum. Við finnum fyrir smæð okkar fyrir Almættinu og náttúruöflunum. Sjómannadagurinn hefur alltaf verið hátíðisdagur í Eyjum og er enn. Sjómennirnir sjálfir hafa borið merkið, skipulagt og unnið vinnuna kringum hátíðina. Þannig viljum við hafa það. Við peyjana í Sjómannadagsráði segi ég, þið eruð dugnaðarforkar og sjómannastéttinni til sóma.   Sjómenn, fjölskyldur og allir Vestmannaeyingar til hamingju með Sjómannadaginn og mætum öll á viðburði helgarinnar.   Með Sjómannadagskveðju Valmundur Valmundsson