Þjóðhátíð 2017: föstudagurinn - myndir

Þjóðhátíð 2017: föstudagurinn - myndir

Dagskráin í gær var með hefðbundnu sniði, skemmtikraftar sungu og léku fyrir gesti Þjóðhátíðar og fór þar Ragnhildur Gísladóttir fremst í flokki í frumflutningi sínum á Þjóðhátíðarlagi ársins 2017 ásamt því að skemmta fólki með góðri dagskrá. Þegar leið að miðnætti hélt hópur manna upp á fjöll, ofan við Dalinn, á Blátindi og sitthvoru megin við hann. Höfðu þeir meðferðis feikna stórar flugeldatertur sem þeir komu fyrir á fjallinu. Á miðnætti var síðan skotið úr tertunum og blys látin renna niður að brennunni til að kveikja í henni. 
Eftir brennu byrjuðu hljómsveitir að spila fyrir fólkið í Dalnum, bæði á tjarnar danspallinum og brekku danspallinum og var ekki annað að sjá en að Þjóðhátíðargestir hafi skemmst sér vel.
 
Hér má sjá myndir frá kvöldinu.
 
 

Væri synd ef Eyjamenn leggðu ekki sitt á vogaskálarnar

Erla Einarsdóttir ásamt fleiri góðum konum eru að fara af stað með verkefni sem allir geta verið þátttakendur í. Erla ætlar að fara í samstarf með matvöruverslunum bæjarins og taka skref í átt að minni plastnotkun. Hún ætlar að taka gömul efni sem annars væru á leiðinni í ruslið og sauma úr þeim fjölnota matvörupoka sem fólk getur fengið lánaða í matvöruversluninni ef það gleymir sínum heima, því flest eigum við fjölnotapoka og margir gleyma þeim heima. „Margrét Lilja Magnúsdóttir átti upphaflegu hugmyndina og kom fullt af efni á mig, ég fékk svo Ágústu Huldu Árnadóttur með mér í þetta,“ sagði Erla í samtali við Eyjafréttir. Dóttir Erlu, Anna Margrét býr á Blöndósi og þar hafa verið gerðir yfir 500 pokar og verkefnið gengið vel.   Einhverstaðar verðum við að byrja „Markmiðið er að margt smátt geri eitt stór, einhverstaðar verðum við að byrja,“ sagði Erla. En hún sagði að víða erlendis væru plastpokar ekki í boði og þetta væri góð byrjun. „Við þurfum að hugsa um börnin okkar og barnabörnin sem eru að taka við landinu fullu af rusli,“ sagði Erla.   Vantar aðstoð og efni Erla hefur fengið aðstöðu í kvenfélaghúsinu og ætlar hún að byrja verkefnið miðvikudaginn 4. apríl, frá klukkan 16-18 og svo annanhvern miðvikudag eftir það. Hún biðlar til fólks að koma með efni í verkefnið eða hjálpa til, „Hvort sem það eru gamlir dúkar, rúmföt eða gardínur, allt nýtist,“ sagði Erla. Einnig má fólk koma og hjálpa, „hvort sem það er að sauma, sníða eða strauja, ýmislegt sem er hægt að hjálpa við. Einnig er hægt að hafa samband við mig eða Ágústu og við komum og sækjum efnið, ef það hentar betur,“ sagði Erla Þetta getur verið okkar framtak í átt að minni plastnotkun. „Væri algjör synd ef Eyjamenn leggja ekki sitt á vogaskálarnar,“ sagði Erla að lokum.  

ÍBV hársbreidd frá deildarmeistartitlinum – þurfa að treysta á FH

Lokaumferð Olísdeildar karla fer fram í kvöld og leikur ÍBV gegn Fram í Safamýrinni. Fyrir lokaumferðina er þrjú lið efst og jöfn af stigum, ÍBV, Selfoss og FH og eru það því innbyrðis viðureignir liðanna sem ráða því hvernig þau raðast. Það er hins vegar ekki alveg rétt það sem áður hefur komið fram á Eyjafrettir.is og í blaði dagsins að úrslitin í leikjum FH og Selfoss skipti engu máli. ÍBV stendur þó best af vígi innbyrðis af þessum þremur liðum en þó naumlega. Ef við tökum engöngu þessi þrjú lið út fyrir sviga þá er staðan þeirra á milli svona. ÍBV með 6 stig og markatöluna +9, Selfoss er einnig með 6 stig en markatöluna +6 og loks er FH með ekkert stig og markatöluna -14. Þetta þýðir það að ef allir þrír leikirnir fara eins í kvöld, það er öll þrjú liðin sigra, gera jafntefli eða tapa, verður ÍBV deildarmeistari. Eins ef ÍBV sigrar og Selfoss tapar gegn Víking skipta úrslit FH – Stjarnan engu máli. En ef hins vegar ÍBV og Selfoss sigra sína leiki, eða gera bæði jafntefli, og FH tapar enda ÍBV og Selfoss jöfn að stigum. Þá verða Selfyssingar deildarmeistarar þar sem þeir hafa betri markatölu á heildartöflunni ( og liðin eru jöfn innbyrðis ). En ef ÍBV sigrar hins vegar með átta mörkum meira en Selfoss sigrar Víking verða ÍBV engu að síður deildarmeistarar. En það verður þó að teljast langsótt leið. ÍBV þarf því að treysta á að FH sigri sinn leik og að sjálfsögðu sigra Fram til að verða deildarmeistarar. Það er því æsispennandi handboltakvöld framundan. Leikirnir hefjast allir kl. 20.30.   Óljóst með Róbert og Theodór Stórskyttan Róbert Aron Hostert fór meiddur af velli í leik ÍBV og Stjörnunnar í síðusta leik en hann meiddist á öxl. Arnar Pétursson þjálfari karlaliðs ÍBV sagði í samtali við Eyjafréttir að staðan væri enn óljós. „Vitum ekkert ennþá. Nema að hann er óbrotinn og þurfti ekki að fara á nein lyf. Hann fer í segulómun í Reykjavík í dag og þá kemur þetta allt saman vonandi í ljós,“ sagði Arnar. Aðspurður um líðan Theodórs sagði Arnar að hann vera að koma til. „Hann er ferskari og allur að koma til, en við tökum bara einn dag í einu.“ Það er því enn óljóst hvort Róbert Aron og Theodór verði með í kvöld.  

Reynt að semja við Erling en fleiri nöfn í siktinu

Byggingarhraðinn er mikill án þess að slá af gæðum

Við sögðum frá hjónum í síðasta tölublaði sem voru að byggja sér einingahús úr timbri, rúmlega 90 fermetrar á einni hæð við Hásteinsveg. Húsið var keypt í gegnum Húsasmiðjuna. „Húsasmiðjan bíður einingahús í samstarfi við Seve sem er eitt af stærstu fyrirtækjum í einingahúsasmíði í Eistlandi. Húsin eru á mjög hagstæðu verði en í Noregi má sjá um það bil átta hundruð slík hús af öllum stærðum og gerðum. Þá hafa húsin verið seld til Svíþjóðar og Sviss,“ sagði Ingvar Skúlason, ráðgjafi á fagsölusviði Húsasmiðjunnar í samtali við Eyjafréttir.   „Húsasmiðjan hefur áratuga reynslu í framleiðslu og sölu á einingahúsum, en fyrsta húsið var reist í Melgerði árið 1957. Við byggjum því á gömlum grunni. Nýlega hófum við samstarf við Seve í Eistlandi en þeir hafa framleitt hús í marga áratugi. Þetta eru íbúðahús, parhús, smáhýsi og í rauninni einingahús af öllum stærðum og gerðum. Nefna má leikskóla, grunnskóla ásamt alls kyns húsum sem henta vel í ferðaþjónustu,“ segir Ingvar og bendir á að núna séu hús að rísa víðsvegar um landið. Það tekur um 12 vikur að fá hús afgreitt frá framleiðanda, „sem er vanalega sá tími sem tekur að fá byggingarleyfi og steypa grunn og plötu. Byggingarhraðinn er því mikill án þess að slá af gæðum en húsin eru vönduð og vel einangruð að norskum kröfum sem eru meiri en við höfum hér á landi. Norðmenn leggja til dæmis meira í hitaeinangrun. Við erum líka að bjóða margskonar lausnir fyrir ferðaþjónustuna, það eru smærri hús af stærðinni 22-30 fermetra. Þetta eru einingahús með gistirými, snyrtingu og eldunaraðstöðu,“ sagði Ingvar. Einingahúsin eru ódýr en vandaður byggingamáti. „Með því að velja þessa leið styttum við byggingartímann til muna og lækkum fjármagnskostnað. Ef fólk kaupir hús af Húsasmiðjunni þá getur kaupandinn keypt allt annað hjá okkur sem þarf til að klára húsið. En við bjóðum baðtæki, eldhúsinnréttingar, hurðar og fleira en húsin er hægt að kaupa á þremur byggingarstigum. Á fyrsta stigi er um að ræða allt byggingarefni sem þarf í húsið, einingarnar, út- og innveggir ásamt innihurðum. Á öðru stigi reisum við húsið og skilum því fullbúnu að utan. Á þriðja stigi er það afhent tilbúið til spörslunar og málunar að innan,“ sagði Ingvar og bætir við að þetta sé mjög ódýr og góður kostur. Afgreiðslutími er stuttur og húsin eru fljótleg í uppsetningu og einnig er hægt er að velja um margvíslegar utanhússklæðningar hjá Húsasmiðjunni. Sérfræðingar hjá Húsasmiðjunni ráðleggja kaupendum um hvernig hús hentar best, miðað við hönnun að innan, herbergjastærð, -fjölda og fleira. „Það er í raun allt frjálst með hönnun innanhúss en við breytum ekki burðarstruktúr hússins. Húsin henta vel íslenskum markaði og standast allar byggingarkröfur. Þetta er falleg hönnun, einföld og skemmtilegt,“ segir Ingvar. „Við höfum fundið fyrir feykimiklum áhuga á þessum einingahúsum. Við erum nú þegar með fjölmargar pantanir fyrir vorið sem eru í samþykktarferli hjá skipulagsyfirvöldum víðsvegar um landið. Sem staðfestir að þetta er ódýr og góður kostur til að eignast eigið húsnæði. Frábær hús sem gott er að búa í,“ segir Ingvar. Frekari upplýsingar um Seve einingahúsin, stálgrindarhús, krosslíms einingahús frá Húsasmiðjunni, svalalokanir og fleira tengt húsasmíði má fá hjá fagsviði í Kjalarvogi þar sem veitt er fagleg og persónuleg þjónusta. Einnig er hægt að skoða heimasíðuna www.husa.is.  

Verslunarstjóri Subway braut gróflega af sér

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að því að kona sem var verslunarstjóri hjá Subway í Vestmannaeyjum hafi ítrekað svikist undan í starfi og þannig brotið gróflega af sér. Þess vegna hafi henni verið sagt upp og hún eigi því ekki rétt á launum á uppsagnarfresti eða bótum. Henni var samt dæmdar 935 þúsund krónur sem Subway hélt eftir af launum hennar með ólöglegum hætti. Alls krafðist konan 11 milljóna króna frá fyrirtækinu. www.ruv.is greindi frá.   Konan var verslunarstjóri hjá Subway í Vestmannaeyjum. Í mars 2015 var henni sagt upp störfum þegar hún var grunuð um fjárdrátt úr peningakassa. Þetta var tilkynnt til lögreglu og jafnframt að konan hefði reglulega yfirgefið vinnustaðinn nokkrum klukkustundum áður en vinnudegi hennar lauk og fengið samstarfsmann sinn til að stimpla sig út.   Ákærð fyrir fjárdrátt og að fyrir að gefa eiginmanninum bát Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum ákærði konuna fyrir að draga sér á þrettánda þúsund krónur úr peningakassanum og fyrir að gefa eiginmanni sínum Subway-bát og gos fyrir 1.568 krónur. Hún var sýknuð af ákærunni 23. mars í fyrra. Héraðsdómur Suðurlands taldi ekki hafið yfir vafa að hún hefði dregið sér fé úr kassanum, auk þess sem vitni báru að maður hennar hefði innt af hendi ýmið viðvik á veitingastaðnum og báturinn hafi verið laun fyrir hann.   Taldi sig snuðaða um greiðslur og vegið að æru sinni Eftir sýknudóminn höfðaði konan mál á hendur Subway. Hún taldi að sér hefði verið sagt upp störfum með ólögmætum hætti – hún ætti inni greiðslur á uppsagnarfresti og auk þess laun og orlofsgreiðslur fyrir vinnu sem hún hafði þegar innt af hendi en var haldið eftir þegar hún hætti. Þá taldi hún að vegið hefði verið að æru hennar með svívirðilegum hætti þegar öðrum verslunarstjórum Subway var greint frá starfslokum hennar með tölvupósti. Auk þessa gerði hún kröfur um bakvaktargreiðslur – enda hafi hún verið með síma frá vinnustaðnum og stundum þurft að sinna starfsskyldum utan vinnutíma. Hún hafi því í rauninni oft verið á bakvöktum.   Fær peninginn sem haldið var eftir Héraðsdómur Reykjavíkur fellst á að konan eigi rétt að fá greiðslurnar sem haldið var eftir – samtals 935 þúsund krónur auk vaxta. Þá er Subway gert að greiða henni málskostnað upp á hálfa milljón króna.   Öðrum kröfum hennar er hins vegar hafnað. Ekki er fallist á að hún hafi verið á bakvakt þótt hún hafi verið með síma frá vinnunni og ekki heldur að það hafi verið ómálefnaleg og svívirðileg meingerð í hennar garð að tilkynna öðrum verslunarstjórum um uppsögnina.   Alvarlegt þar sem hún var yfirmaður Þvert á móti segir dómurinn að með þeirri háttsemi að yfirgefa reglulega vinnustaðinn um klukkan 13 á daginn og fá samstarfsmann sinn til að stimpla sig út hafi konan brotið ítrekað gegn viðveruskyldu sinni, „sem verður að telja eina af meginskuldbindingum stefnanda samkvæmt ráðningarsambandi hennar“, og hún hafi einnig ítrekað brotið fyrirmæli í starfsmannahandbók um skráningu á vinnustað með því að óska eftir að undirmenn stimpluðu hana út.   „Brot stefnanda var sérstaklega alvarlegt þar sem hún var yfirmaður á staðnum og bar ábyrgð á tímaskráningum starfsmanna á vinnustaðnum. Sem yfirmaður hafði hún það hlutverk að fara yfir umrædd fyrirmæli í starfsmannahandbókinni með þessum sömu starfsmönnum og brýna fyrir þeim að virða þau í störfum sínum. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður litið svo á að stefnandi hafi með umræddum ráðstöfunum sínum brotið gróflega af sér í starfi. Telst fyrirvaralaus uppsögn hennar úr starfi því réttmæt,“ segir í dómnum.  

ORA er til­nefnd­ur til verðlaunameð með vöru úr úr hágæða loðnu­hrogn­um frá Ísfé­laginu

Íslenski mat­væla­fram­leiðand­inn ORA er til­nefnd­ur til verðlauna á sjáv­ar­út­vegs­sýn­ing­unni í Bost­on. Var­an sem fyr­ir­tækið er til­nefnt fyr­ir nefn­ist „Crea­my masago bites“, sem út­lagst gæti á ís­lensku sem rjóma­kennd­ir loðnu­hrogna­bit­ar. Er var­an til­nefnd í flokki bestu smá­sölu­vara árs­ins. www.mbl.is greindi frá.   Eyjapeyjinn Jó­hann­es Eg­ils­son, út­flutn­ings­stjóri ORA sagði það er mik­il viður­kenn­ing að fá til­nefn­ingu sem þessa en það eru ein­ung­is tólf vör­ur sem til­nefnd­ar eru á sýn­ing­unni ár hver.„Crea­my Masago Bites“ er ljúf­feng­ur og girni­leg­ur for­rétt­ur sem tek­ur inn­an við 10 mínut­ur að út­búa. Rétt­ur­inn sam­an­stend­ur af þrem­ur vör­um, masago sem unnið er úr hágæða loðnu­hrogn­um frá Ísfé­lagi Vest­manna­eyja, laxamús sem unn­in er úr fersk­um ís­lensk­um eld­islaxi og ses­am-brauðkexi. Hrogn­un­um og laxamús­inni er blandað sam­an með smá dass af ís­lensku skyri þannig að úr verður rjóma­kennd masago-laxamús sem síðan er sett ofan á sea­sam-brauðkex og skreytt með fersku masagoi, dilli og ís­lensku sjáv­ar­salti.  Rétt­ur­inn er afar ein­fald­ur í und­ir­bún­ingi, lít­ur girni­lega út og er sér­lega bragðgóður, seg­ir Jó­hann­es, full­ur til­hlökk­un­ar að kynna Iceland's Finest-vöru­lín­una í Bost­on.  

Aron Örn Þrastarson er Eyjamaður vikunnar: Þarft að hafa smá þekkingu, annars er þetta bara heppni

Kristófer Helgason er matgæðingur vikunnar - Þorskhnakkar og eftir átta-, Oreo ostaterta Kristós

Eitthvað hefur það reynst okkur erfitt að fá uppskrift upp úr næsta matgæðingi Eyjafrétta og þykir það fullreynt. Við endurræsum því og leitum á náðir reynsluboltans og matráðs kollega okkar í Hádegis-móum, Kristófers Helgasonar og gefum honum orðið.   Þessi fiskréttur hefur fylgt mér lengi og tekið mörgum breytingum í gegnum tíðina, en hér má auðvitað leika sér og gera að sínu með því að bæta við td. chilli, ferskum jurtum eins og koríender eða basil og ferskum tómat. En byrjið samt á þessu:   Gratíneraðir létt saltaðir þorskhnakkar með tómat, ólífum og rjómaosti • Léttsaltaður þorskhnakki 500 gr. • 6 msk. hveiti • 1/2 tsk. pipar • 1 tsk. oregano • 1 tsk. basil • 3 vænar kartöflur, soðnar og skornar í þunnar sneiðar • 1 - 2 dl. ólífur (grænar og svartar) • 6 msk. rjómaostur • 200 gr. rifinn ostur • 2 msk. olía • 100-200 gr. smjör • jalapeno fyrir þá sem þora.   Sósa: • 1 laukur, saxaður • 1 hvítlaukur, saxaður • 1 dl. hvítvín (má sleppa ... eða ekki) • 2 dósir hakkaðir góðir tómatar • 1 msk. íalskt krydd • olía og smá smjör • 2 msk. grænmetiskraftur • 1 tsk. svartur pipar. Aðferð: Hitið ofninn í 220 gráður. Sjóðið kartöflurnar. Veltið fiskinum upp úr hveiti, pipar, óreganó og basil og setjið í olíu og smjörborið ofnfast mót og bakið inni í ofni í 7 mínútur. Skerið kartöflurnar í þunnar sneiðar og setjið út á fiskinn.   Sósa: Skerið allt saman niður. Steikið laukinn og hvítlaukinn fyrst upp úr olíu og smjöri, hvítvín útí og látið malla í fimm mín., setjið síðan afganginn saman við og látið malla í klukkustund við vægan hita. Hellið sósunni yfir og loks skreyta með ólífum og rifnum osti. Til hátíðarbrigða skal setja nokkrar dúllur af rjómaosti yfir. Og fyrir þá sem þora og eru lengra komnir er saxað jalapeno klárlega málið Lækkið hitann á ofninum og bakið í ofninum á 170 gráðum í 20 mínútur eða þar til osturinn er orðinn gullin-brúnn og fagur. Látið standa í svona 10 mín. Berið fram með hrísgrjónum, fersku salati og góðu, helst heimalöguðu hvítlauksbrauði.   Eins og með fiskinn þá hafa ostatertur fylgt mér lengi allt frá kaffihúsatímabilinu fyrir hundrað árum og hef ég gert margar útgáfur en þessa útgáfu fékk Davíð Oddsson í morgunkaffi á 7O ára afmælinu sínu í beinni á K100 í janúar. Einföld og góð.   Eftir átta og Oreo ostaterta Kristós Botn: 200 gr. Homblest súkkulaði Oreo 1 pakki 125 gr. brætt smjör ½ tesk. sjávarsalt.   Fylling: 400 gr. rjómaostur 220 gr. flórsykur ½ l. rjómi 2 tsk. vanilludropa 10 st. after eight plötur.   Súkkulaðihjúpur: 100 gr. suðusúkkulaði móti 100 gr. af uppáhalds Síríus rjómasúkku-laðinu þínu. 1 ds. sýrður rjómi 18% ½ dl. Baileys eða uppáhalds líkjörinn þinn (má sleppa). Þá nota vanilludropa 1 tsk. í staðinn.   Aðferð: Blandið saman muldu kexinu, bræddu smjöri og sjávarsalti. Setjið í botninn á lausbotnaformi, kælið. Hrærið rjómaostinn og flórsykurinn saman, bætið vanilludropum við. Þeytið rjómann og blandið varlega saman við rjómaostablönduna. Bætið við nokkrum smátt skornum after eight (gott að geyma þær í kæli rétt áður) í blönduna. Setjið ofan á kexbotninn og kælið aftur.   Súkkulaðitoppur Bræðið suðusúkkulaði og blandið saman við sýrða rjómann með líkjör. Annars nota vanilludropa. Smyrjið yfir kökuna. Sett í kæli yfir nótt. En má frysta í 2-3 tíma og bera svo fram eða frysta yfir nótt og taka út góðum einum tíma fyrir. Hér má ef þið fáið góð jarðaber skreyta með þeim og ef þið eruð í svaka stuði sprauta bræddu hvítusúkkulaði yfir listrænt. Annars mætti sáldra yfir áður en borið er fram mulið Oreo og nokkrum bitum af after eight ef þið eruð ekki þegar búin að borða rest.   Takk fyrir, þetta verður að duga á þessum tíma og ég ætla að skora á minn góða vin hann Dadda ( Bjarna Ólaf Guðmundsson) sem er auðvitað sælkeri fram í fingurgóma. Hefur hann borið á borð fyrir mig og fjölda fólks í gegnum tíðina margar veislur sem eru alltaf uppá tíu. Svo njótið. Að lokum þá verðum við vonandi handhafar af öllum bikurum karla og kvenna eftir næstu helgi, 2018 í handbolta og fótbolta sem væri auðvitað mjög einstakt . Svo áfram IBV ávallt og allstaðar. Sjáumst í Höllinni.  

Yngra fólk kallað til leiks ásamt einum fæddum 1950

Enn og aftur mun Eyjahjartað slá á sunnudaginn en þó með nýjum takti því kallað er til leiks fólk í yngri kantinum og er sá yngsti fæddur eftir gos. En eins og áður er kjarninn, æskuárin í Eyjum. Að venju verður Eyjahjartað í Safnahúsinu og hefst klukkan 13.00 á sunnudaginn.  „Þau sem verða hjá okkur núna eru Þórlindur Kjartansson sem kallar erindi sitt Bernskan bjarta, Guðrún Kristín Sigurgeirsdóttir kallar sitt, Flökkukind, Eiríkur Þór Einarsson rifjar upp árin af Landagötunni og má reikna með að hann mæti með sýnishorn af ómetanlegu ljósmyndasafni sínu og svo er það hún Jóhanna María Eyjólfsdóttir,“ sagði Einar Gylfi Jónsson sem hefur frá upphafi staðið að Eyjahjartanu ásamt Þuríði Bernódusdóttur, Atla Ásmundssyni og Kára Bjarnasyni. Þórlindur er fæddur 1976, Jóhanna 1967, Guðrún 1965 og Eiríkur 1950. „Þannig að Þórlindur er sá eini sem er fæddur eftir gosið 1973 en konurnar voru á barnsaldri. Þannig að þarna erum við að róa á ný mið því flestir sem komið hafa fram hjá okkur áður eru fæddir um og upp úr miðri síðustu öld. Verður gaman að sjá hvaða augum þau líta æskuárin í Eyjum,“ sagði Gylfi.  „Ég kalla erindið mitt, Bernskan bjarta og fæ línuna að láni frá Ása í Bæ. Ég fæddist í Eyjum og ólst upp til 15 ára aldurs, og átti því öll mín bernskuár þar. Þessi ár eru öll björt og falleg í minningunni og ég hef alltaf litið á það sem algjör forréttindi að hafa alist upp í Vestmannaeyjum og að geta kallað sjálfan mig Eyjamann,“ sagði Þórlindur Kjartansson þegar Eyjafréttir höfðu samband við hann. „Mér finnst gaman að hafa verið beðinn um að tala á þessum viðburði og nota tækifærið til þess að rifja hitt og þetta upp sem mér er kært og hjartfólgið. Ég ætla að taka pabba með mér í þessa ferð, og ég hlakka mikið til—eins og alltaf þegar ég á leið heim.“  Eins og alltaf áður má búast við góðri aðsókn og er yngra fólki sérstaklega bent á að mæta.  

Bæjarstjórn vill fund með samgönguráðherra

 Á fundi bæjarráðs í síðustu viku var fjallað um borgarafund um samgöngur á sjó milli lands og Eyja, sem haldinn var miðvikudaginn 21. febrúar síðastliðinn. Bæjarráð fagnar því að ráðherra skuli eiga bein og milliliðalaus samskipti við bæjarbúa um samgöngur á sjó. Jafnframt undirstrikar ráðið þann sterka vilja sem ríkir, bæði meðal bæjarfulltrúa og bæjarbúa, um að Vestmannaeyjabær taki yfir rekstur Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs. Fram kom að samgöngur á sjó milli lands og Eyja sé lífæð Vestmannaeyinga og ráði miklu um þróun samfélagsins til framtíðar. Það er því afstaða ráðsins að samfélagsleg sjónarmið eigi að ráða för þegar ákvarðanir eru teknar um stjórn og skipulag reksturs Herjólfs. Í því samhengi minnir bæjarráð á þann einhug sem þingmenn Suðurlands hafa sýnt hvað þetta mál varðar og dugar þar að vísa til blaðagreinar núverandi samgönguráðherra í Eyjafréttum þann 18. október sl., þar sem segir: „Ég er sammála að skynsamlegt er að taka hugmyndum fagnandi um að Vestmannaeyjabær sjái um rekstur ferjunnar. Enginn er betri til að meta þörfina en heimamenn sjálfir.“ Undir þessi orð ráðherra tekur bæjarráð heilshugar og telur skynsamlegt að ráðast í nauðsynlegar breytingar á skipulagi reksturs Herjólfs nú þegar ný ferja leysir eldra skip af hólmi á haustdögum 2018. Með þennan skýra og einbeitta vilja ráðherra að leiðarljósi óskar bæjarráð eftir því að samgönguráðherra eigi fund með bæjarstjórn Vestmannaeyja um þessi mál svo skjótt sem verða má. Óskað er eftir því að fundurinn fari fram eigi síðar en í annarri viku marsmánaðar 2018.

Auknum kostnaði í heilbrigðisþjónustu velt á sjúklinga

Þann 1. mars hækkuðu stjórnvöld greiðsluþátttökuþak fyrir heilbrigðisþjónustu um 2% og á sama tíma var komugjald á sjúkrahús hækkað um 2,3 til 3,2%. Einnig hefur einingarverð sjálfstætt starfandi sérfræðilækna hækkað um 5% frá því að nýja kerfið tók gildi 1. febrúar 2017. Þessar hækkanir koma í kjölfarið af fréttum um aukna greiðsluþátttöku lífeyrisþega sem nemur um 16% fyrir hópinn í heild og má m.a. rekja til kostnaðar við þjónustu sérfræðilækna.    Í nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar um „Sjúkratryggingar Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu“ er bent á að fullnægjandi greiningu vanti þegar stofnunin gerir samninga um kaup á heilbrigðisþjónustu. Sérstaklega er bent á rammasamning við sjúkraþjálfara og sjálfstætt starfandi lækna í þessu samhengi. Í úttekt Ríkisendurskoðunar er bent á að samningurinn við lækna sé „án skýrra takmarkana um magn“ og feli í sér „fjárhagslega hvata til mikilla afkasta óháð gæðum og árangri“.   Viðbrögð Sjúkratrygginga voru að boða uppsögn á rammasamningum við sjálfstætt starfandi sérfræðilækna og sjúkraþjálfara með sex mánaða fyrirvara. Enn hefur þó ekki komið til uppsagnar en í frétt frá stofnuninni segir að það verði ekki gert fyrr en velferðarráðuneytið hafi tekið afstöðu til nauðsynlegra aðhaldsaðgerða í samræmi við fjárlög 2018.   Í áðurnefndri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um skort á stefnumótun af hálfu stjórnvalda og veikleika í þarfagreiningu og gæðaviðmiðum við samningagerð Sjúkratrygginga. Viðbrögð stjórnvalda eru, enn á ný, að velta auknum kostnaði yfir á sjúklinga.   ASÍ hefur ítrekað mótmælt of háu greiðsluþaki sjúklinga og bent á að hlutfallslega fleiri fresti læknisheimsóknum hér á landi en á hinum Norðurlöndunum vegna kostnaðar. Hækkun á greiðsluþátttöku mun auka enn á þennan vanda. ASÍ skorar á stjórnvöld að hætta við þessa hækkun, sem bitnar verst á þeim tekjulægstu, og eykur ójöfnuð enn frekar.

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Mannlíf >>

FERMING 2018

Fyrstu fermingarnar í Vestmannaeyjum verða haldnar um helgina. Í síðustu viku kom út fermingarbað Eyjafrétta.      Fallegustu skreytingarnar eru oftast þær einföldustu Áhugamál fermingarbarnanna verða oftar en ekki þema fermingarveislunnar og í skreytingum, einnig velja flestir litaþema sem sjá má í servéttum, kertum og fleiru. Ekki þurfa skreytingarnar að vera flóknar, smá upphækun á matarborðið með blómum, fermingarkerti og persónulegan hlut sem tengist barninu, eins og t.d. fyrstu skóna eða eitthvað sem tengist áhugamáli barnsins, þá ertu kominn með grunn af góðri skreytingu. Ljósmyndir eru mjög fallegt og persónulegt skraut. Myndir af fermingarbarninu í uppvextinum og að gera hluti sem það finnst skemmtilegt. Hægt er að hengja myndirnar upp, leggja undir kúpul eða setja í glerkassa. Góð hugmynd er að endurnýta krukkur og glerflöskur sem vasa fyrir blóm eða kerti.     Fáðu hugmyndir Á Pinterest er hægt að fá innblástur og hugmyndir af allavega veislum og einnig er mikið af DIY(gerðu það sjálfur) skrauti sem hægt er að gera fyrir fermingardaginn. Ef þú vilt læra föndra eitthvað skraut, læra nýtt brot fyrir servétturnar eða fá hugmyndir af fermingargreiðslunni, allt þetta má finna í hafi af hugmyndum sem leynast á pinterest.   Blóm lífga upp á hvaða rými sem er og er mikilvægur partur af góðri skreytingu á fermingarborðið. Löber yfir dúkinn rammar borðið inn og smá skraut á hann skemmir ekki fyrir. Fermingarkerti eru flestir með og er hægt að hafa það í litaþemanu og skreyta það eða láta merkja það barninu og deginum. Öll blómin, löber og kertin á myndinni eru frá Blómaval.       Nátturulegt hár á fermingardaginn Svanhvít Una Yngvadóttir hárgreiðslukona hjá Crispus sem staðsett er í Heilsueyjunni, sagði að fermingarhárið í ár væri náttúrulegt og að hárið ætti að njóta sín. „Hárið er svo brotið upp með fléttu eða tekið upp í aðrahvora hliðina, ég nota alltaf lifandi blóm í fermingagreiðslurnar til að hafa þetta sem náttúrulegast. Annars vita stelpurnar alveg hvað þær vilja sem er frábært. Strákarnir eru flestir stuttklipptir og fallega greiddir. „ Þá erum við að tala um þessa týpisku herraklippingu og rakað í hliðunum, en þeir vita líka hvað þeir vilja og hafa fjölbreyttar óskir,“ sagði Svanhvít.       Fermingarfötin     Fermingartískan er skemmtileg í ár sagði Bertha Johansen eigandi Sölku. „Á stelpurnar hafa samfestingar sett skemmtilegan svip, blúndan er klassísk og kemur bæði inní kjólana og samfestingana og litirnir eru aðallega tveir, hvítur og bleikur. Það eru alltaf fleiri strákar sem kjósa að fara í þægilegar sparibuxur eða einfaldlega svartar gallabuxur, skyrturnar eru aðallega hvítar eða bláar en meiri fjölbreytni er í jökkunum og hálstauinu.“     Fallegar fermingargreiðslur hjá Ozio      Fermingargreiðslur síðustu ára hafa verið fyrst og fremst fallegar og einfaldar sagði Ása Svanhvít Jóhannesdóttir eigandi Ozio. En hún og Jóhanna Birgisdóttir gerðu tvær fallegar og ólíkar greiðslur í fermingarstúlkurnar Evu Sigurðardóttir og Berthu Þorsteinsdóttur.   „Það er mikið um liði og bylgjur þegar kemur að greiðslum. Það gerir hárið fínna og þar kemur breytingin frá slétta hárinu sem stelpur eru gjarnan með,“ sagði Ása. Við mælum samt með að gera eitthvað örlítið meira, „til dæmis að spenna hárið upp, aðra hliðina eða báðar. Einnig eru fléttur mjög vinsælar núna og svo verður greiðslan alltaf sérstakega glæsileg með smá látlausu skrauti sem passar við“ sagði Ása að lokum.         Hægt er að skoða fermingarblað Eyjafrétta hér að neðan eða með því að smella hér:   Fermingarblaðið / Eyjafréttir / Miðvikudagur 14. mars 2018

Stjórnmál >>

“Efndanna er vant þá heitið er gert”

„Nú hef ég efnt eitt af mínum kosningaloforðum, að leggja fram frumvarp sem skilgreinir siglingaleiðina til Eyja sem þjóðveg, eða eins og segir í frumvarpinu,“ sagði Karl Gauti Hjaltason alþingismaður í samtali við Eyjafréttir. Hann sagði einnig að hann hefði lofað þessu í kosningabaráttunni, „Efndanna er vant þá heitið er gert. Það er í raun furðulegt, að aldrei hafi neinn lagt svona frumvarp fram áður. Hér verður þetta skilgreint í vegalögum sem þjóðferjuleiðir og ná til byggðra eyja við landið og tryggir íbúum að ríkið þurfi að sinna samgöngum til þeirra samkvæmt skilgreindri þörf, bara svona eins og um vegi sé að ræða og eru mokaðir svo og svo oft eftir þörfinni,“ sagði Karl Gauti. „Þetta er stór dagur hjá okkur,“ sagði hann að endingu.   Frumvarpið hljóðar svona og mun gagnast líka Grímseyingum, Hríseyingum og Flateyingum       1. gr. Við 2. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr stafliður, e-liður, svohljóðandi: Þjóðferjuleiðir eru hluti af grunnkerfi samgangna eins og það er skilgreint í samgönguáætlun hverju sinni. Til þjóðferjuleiða teljast leiðir þar sem ferja kemur í stað vegasambands um stofnveg og tengir byggðir landsins sem luktar eru sjó við grunnkerfi samgangna á meginlandinu.   2. gr. 1. mgr. 22. gr. laganna orðast svo: Í samgönguáætlun skal ákveða fjárveitingu vegna kostnaðar við ferjur sem þjónusta þjóðferjuleiðir skv. e-lið 8. gr. til flutnings á fólki og bifreiðum. Einnig er heimilt að ákveða fjárveitingu til greiðslu hluta kostnaðar við ferjur sem eru mikilvægar fyrir ferðaþjónustu.   3. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.   Greinargerð. Árum saman hafa samgöngumál á leiðinni til Vestmannaeyja verið í umræðunni. Vestmannaeyjar hafa mikla sérstöðu í samgöngulegu tilliti og það er mat flutningsmanns að það sé hlutverk hins opinbera að tryggja þangað góðar og greiðar samgöngur, á sanngjörnu verði með nákvæmlega sama hætti og hið opinbera stendur straum af rekstri sameiginlegs vegakerfis, hafna og flugvalla.   Það þarf að leysa þann samgönguvanda sem snýr að Vestmannaeyjum og að auki einnig öðrum byggðum eyjum við landið. Þær eyjar, sem búseta er í, árið um kring eru um þessar mundir fjórar talsins, Heimaey í Vestmannaeyjum, Grímsey úti fyrir Eyjafirði, Flatey á Breiðafirði og Hrísey í Eyjafirði.   Markmið frumvarpsins er að ákveðnar ferjuleiðir falli undir skilgreiningu vegalaga á þjóðvegum vegna sérstöðu sinnar. Lagt er til að þjóðferjuleiðum verði bætt við skilgreiningu vegalaga á þjóðvegum. Undir þessa nýju skilgreiningu falla þá ferjuleiðir sem tengja byggðar eyjar við grunnvegakerfi landsins. Í máli 4904/2007 fjallaði umboðsmaður Alþingis um kvörtun yfir gjaldtöku vegna afnota af ferjunni m/s Herjólfi, sem sigldi á þeim tíma milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar, og hækkun Eimskipafélags Íslands ehf. á gjaldskrá ferjunnar í ársbyrjun 2007. Var því m.a. haldið fram að m/s Herjólfur teldist þjóðvegur í skilningi vegalaga. Umboðsmaður komst m.a. að þeirri niðurstöðu að ferjur yrðu ekki skilgreindar sem þjóðvegir, hvorki samkvæmt núgildandi vegalögum, nr. 80/2007, né eldri vegalögum. Umboðsmaður tók fram að m/s Herjólfur gegndi mikilvægu hlutverki í samgöngum milli Vestmannaeyja og annarra hluta landsins og hefði hlutverk sem væri að nokkru marki eðlislíkt því hlutverki sem vegir hefðu almennt í samgöngum hér á landi. Þrátt fyrir það var álit umboðsmanns að það atriði eitt og sér leiddi ekki til þess, að virtum ákvæðum vegalaga, að litið yrði á ferjuna sem „þjóðveg“ milli Vestmannaeyja og lands í skilningi vegalaga. Í ljósi þessarar niðurstöðu er það mat flutningsmanns frumvarps þessa að mikilvægt sé að gera nauðsynlegar breytingar á vegalögum til að taka af öll tvímæli um þann ásetning löggjafans að ákveðnar ferjuleiðir falli undir skilgreininguna á þjóðvegum samkvæmt vegalögum. Árið 2017 var unnin ítarleg þjónustugreining fyrir Vestmannaeyjabæ og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið af RHA, Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri. Þar kemur fram að krafa íbúa um hreyfanleika er að aukast og fólk vill geta komist á milli lands og Eyja með sem minnstum fyrirvara og að tíðni ferða sé sem mest. Töluvert er um að fólk fari upp á meginlandið til að sækja sér þjónustu, vinnu og afþreyingu. Auk þess eru fjölmörg fyrirtæki sem treysta á flutninga milli lands og Eyja, svo sem flutning á hráefni fyrir fiskvinnslu og fiskafurðir á markað o.s.frv. Fyrir þessa aðila er mikilvægt að engar tafir verði á flutningum. Einnig kemur fram að tryggar ferjusiglingar eru líka mikilvægar fyrir aðila í ferðaþjónustu. Gera má ráð fyrir að þessi sjónarmið gildi jafnt um íbúa annarra eyja í kringum landið. Í kafla 4.1 greiningarinnar er fjallað um „þjóðveg á milli lands og Eyja“ og þar er m.a. lagt til að Vegagerðin búi til sérstakan þjónustuflokk, eftir að ferjuleiðir verða skilgreindar sem þjóðvegur. Íbúar á eyjum við landið eiga sjálfsagða kröfu til þess að öruggar samgöngur til og frá heimili séu tryggðar af ríkisvaldinu með því að ríkið standi að rekstri á ferjum á skilgreindum þjóðferjuleiðum í vegalögum. Tíðni þeirra samgangna og þjónustustig verði skilgreint eins og ríkisvaldið gerir með aðrar samgöngur um vegi í þjóðvegakerfi landsins. Þannig verði lagðar þær skyldur á ríkisvaldið að halda opnum öllum skilgreindum þjóðferjuleiðum í landinu.    

Greinar >>

Georg Eiður: Stórskipahöfn í Vestmannaeyjum

Hefur verið draumur margra hér í Vestmannaeyjum árum og áratugum saman og reglulega setja framboð, sem bjóða fram hér í Eyjum, fram mjög vel útfærðar hugmyndir, en ekkert gerist.   Á 183. fundi framkvæmda og hafnarráðs þann 29.09.2015 var á dagskrá mál sem heitir bætt aðstaða fyrir móttöku skemmtiferðaskipa. Framkvæmdastjóri lagði fram uppfærða kostnaðaráætlun á flotbryggju norðan Eiðis. Hafnsögumaður fór yfir möguleika á móttöku skemmtiferðaskipa og sérstaklega ræddur möguleiki á aðstöðu norðan Eiðis og í Skansfjöru.   Mín afstaða á þessu hefur alltaf verið skýr. Stórskipa viðlegukantur við Eiðið er málið en hugmyndir um viðlögukant við Skansfjöru myndi fyrst og fremst aðeins nýtast skemmtiferðaskipum og þá aðeins þegar best og blíðast væri.   Vandamálið er kannski fyrst og fremst kostnaðar áætlunin, en Skans hugmyndin var áætlað að myndi kosta ca. 1300 milljónir en þá að sjálfsögðu fyrir utan allar framkvæmdir á landinu sjálfu, en stórskipa viðlögubryggja fyrir Eiðinu áætlað að kosti milli 6-7 milljarða.   Stærsti munurinn er hins vegar sá að slík bryggja myndi að sjálfsögðu auka verulega möguleika okkar á að taka allar stærðir af skipum, bæði skemmtiferðaskipum en líka gámaskipum. Einnig væri möguleiki þar að landa hugsanlega beint í gáma, enda er löndunar höfnin okkar nánast sprungin, eitthvað sem mun klárlega ekki lagast með komu tveggja nýrra togara núna í sumar, en að sjálfsögðu gerist þetta ekki af sjálfu sér.   Á 184. fundi framkvæmda og hafnarráðs þann 03.11.2015 óskaði ég eftir því að við tækjum aftur upp umræðuna um móttöku skemmtiferðaskipa og bókaði þar, að stefnt yrði að því að koma upp flotbryggju með landgangi við Eiðiðsfjöru, strax næsta sumar. framkvæmdastjóra falið að fylgja málinu eftir og ræða við hagsmunaaðila í ferðaþjónustunni, sem hafa áhuga á að nýta sér flotbryggjuna í suðlægum áttum, með það í huga að í staðinn komi þeir að, eða sjái um, uppbyggingu á aðstöðu á Eiðinu. Ekki er gert ráð fyrir að ferðamenn fari gangandi frá Eiðinu og framkvæmdastjóra því falið að ræða við ferðaþjónustaðila um það mál.   Hugmyndin á bak við þessa bókun var bæði til þess að reyna að ýta málinu af stað, en að sjálfsögðu líka til þess að reyna að beina meirihlutanum á rétta leið, því að að mínu mati er þessi Skansfjöru hugmynd að mestu leyti tóm þvæla, enda augljóst að mínu mati, að aðstæður þar bjóði ekki upp á skíka aðstöðu, fyrir utan það að það er náttúrlulega alveg galið að hægt verði að þjónusta gámaskip þar með tilheyrandi flutningum á gámum í gegn um miðbæinn.   Að sjálfsögðu var meirihlutinn algjörlega ósammála mér, en enn meiri vonbrigðum olli það mér að það voru bæjarfulltrúar minnihlutans líka og m.a. minnir mig að amk. annar bæjarfulltrúinn hafi greitt atkvæði gegn minni hugmynd.   Nú er til kynningar framtíðar skipulagsáætlun sem á að gilda til 2035. Þar er einnig talað um viðlögukant fyrir Eiðinu og/eða í Skansfjöru. Þetta er nú sennilega það mál sem ég hef mest rifist um í nefndum bæjarins, en það er mín skoðun að framboð sem setja fram þessa hugmynd og halda inni Skans hugmyndinni, geri það bara til þess að tefja málið. Eiðis hugmyndin er ágæt eins hún er kynnt í þessu framtíðar skipulagi, en það er þó einn stór galli á henni sem ég hefði viljað sjá breytt, en í útfærslunni er aðeins talað um að hægt væri að leggjast að viðlögukantinum að sunnan verðu.   Mín skoðun er hins vegar sú, að ef þetta verður einhvern tímann að veruleika þá eigi að gera þetta þannig að hægt sé að leggjast að kantinum, bæði norðan og sunnan megin og tvöfalda þannig nýtingar möguleikana og að sjálfsögðu þá líka tekjurnar.   Góður vinur minn úr starfinu með Eyjalistanum (en störfum mínum fyrir Eyjalistan lauk formlega í dag) spáði því í samtali okkar um síðustu helgi að stórskipa viðlögukanntur fyrir Eiðinu myndi aldrei verða að veruleika vegna kostnaðar.   Fyrir mig hins vegar snýst þetta ekki bara um að eyða fullt af peningum, heldur einmitt þver öfugt að auka verulega tekjurnar til lengri tíma litið, en kannski má segja að þetta mál sé einmitt svona mál sem að þeir sem byggðu upp Eyjuna okkar á sínum tíma, hefðu einfaldlega bara vaðið í, en í dag virðist vera ríkjandi einhvers konar kjarkleysi og það ekki bara hjá meirihlutanum, heldur minnihlutanum líka.  

VefTíví >>