Ungir Eyjapeyjar tóku þátt í N1 mótinu síðustu helgi

Ungir Eyjapeyjar tóku þátt í N1 mótinu síðustu helgi

Árlegt N1 mót fór fram um helgina en það er ætlað drengjum í 5. flokki í knattspyrnu. Að þessu sinni mætti ÍBV með sex lið til leiks. Árangur liðanna var misjafn eins og við mátti búast en reynslan sem leikmenn taka frá mótinu jafn dýrmæt. Fyrirkomulagið á mótinu er þannig að spilað er í riðlum í deildum sem nefnast eftir eftirfarandi löndum: Argentína, Brasilía, Chile, Danmörk, England, Frakkland og Grikkland. Blaðamaður ræddi við Guðmund Tómas Sigfússon, þjálfara ÍBV á mótinu, en hann var heilt yfir ánægður með ferðina norður.
 
  „Þetta gekk nokkuð ágætlega, fyrir utan það að ÍBV 5 náði ekki að sigra leik, en þeir hefðu hæglega getað unnið Fram 6, sem unnu einmitt ensku deildina. Þeir voru virkilega óheppnir í sínum leikjum,“ sagði Guðmundur Tómas og hélt áfram á svipuðum nótum. „ÍBV 2 var á leiðinni í undanúrslit í brasilísku deildinni en KA 2 jafnaði þegar það voru 15 sekúndur eftir og þá fór leikurinn í vító þar sem við töpuðum í þreföldum bráðabana. ÍBV 3 tapaði síðustu tveimur leikjum sínum í vítakeppni og hefðu því getað verið ofar í töflunni. Þeir unnu til að mynda Dalvík 1 sem enduðu í 9. sætinu.“
 
Gáfu sterkum liðum ekkert eftir
ÍBV 1 spilaði mjög vel að sögn Guðmundar og gáfu sterkum liðum á mótinu ekkert eftir. „Þeir spiluðu betur og betur þegar á leið á mótið og voru óheppnir að tapa næst síðasta leiknum í vítakeppni. Margir strákar þar tóku miklum framförum þegar leið á mótið. ÍBV 4 átti mjög erfitt uppdráttar til að byrja með en þeim óx ásmegin þegar leið á mótið. Þeir fóru að spila aðeins harðar og fengu trú á eigin hæfileikum sem skilaði þeim tveimur sterkum sigrum og t.a.m. sigri í lokaleiknum sínum. ÍBV 6 kom skemmtilega á óvart og sigraði tvo leiki og gerði eitt jafntefli. Þeir voru óheppnir að tapa fyrir KR 8, 1:0 í fyrsta leiknum, sem unnu síðan riðilinn og enduðu í 6. sæti mótsins. Þeir unnu Hauka í næst síðasta leik sínum og spiluðu virkilega vel allt mótið.“
 
  „Heilt yfir var mjög skemmtilegt að vera með strákunum og mótinu og alltaf gaman að fylgjast með þeim í leikjunum. Leikskilningur leikmanna eykst alltaf gríðarlega á mótum eins og þessu. Nú vona ég að allir þeir leikmenn sem komu með á mótið leggi hart að sér út sumarið til þess að vaxa enn meira í knattspyrnunni. Þá vil ég nota tækifærið og þakka öllum þeim foreldrum sem fylgdu sínum strákum á mótið og einnig frábærum fararstjórum,“ sagði Guðmundur Tómas að lokum.
 
 

Sigurbjörn Daði Dagbjartsson er Eyjamaður vikunnar

Grindvíkingurinn Sigurbjörn Daði Dagbjartsson, vakti mikla athygli á bikarúrslitaleiknum um síðustu helgi fyrir vaska framkomu sína sem stuðningsmaður ÍBV þar sem hann hélt uppi stemningunni með gítarspili og söng. Jafnframt útilokar Sigurbjörn ekki að mæta á úrslitaleik kvennaliðsins þann 8. september nk. ef til hans verður leitað. Sigurbjörn er Eyjamaður vikunnar að þessu sinni.   Nafn: Sigurbjörn Daði Dagbjartsson. Fæðingardagur: 8. des 1975. Fæðingarstaður: Fæðingarstaðurinn skiptir engu máli, alinn upp í Grindavík. Fjölskylda: Einhleypur, á 3 dætur og eignaðist mitt fyrsta afabarn 8. ágúst sl. kl. 08:08. Draumabíllinn: Skoda Octavia, árgerð 2012 en kom á götuna 2013. Jú, víst er það draumabíllinn minn. Uppáhaldsmatur: Fer eftir tilefninu. Nautalund ef farið er flott út að borða. Soðin ýsa er oft frábær á sjónum. Versti matur: Hamborgari í sjoppu á leikvelli í Englandi. Þrátt fyrir mikið hungur og ítrekaðar tilraunir við að koma viðbjóðnum niður þá var það ekki séns. En yfir höfuð borða ég allan mat. Uppáhalds vefsíða: Íþróttatengdar síður eins og Soccernet, ESPN/NBA, fotbolti.net og karfan.is. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: T.d. lög sem ég er að fara spila á balli. Aðaláhugamál: Íþróttir og tónlist. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Sharon Stone um það leyti sem hún lék í Basic Instinct. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Botnstjörn í Ásbyrgi. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Þorleifur Ólafsson, körfuknattleiksmaður úr Grindavík og Gunnar Þorsteinsson, knattspyrnumaður úr Grindavík. Gefur ekki augaleið hvert uppáhalds íþróttaliðið er? Ertu hjátrúarfull/ur: Eftir tvö stelpubörn reyndi ég við strákinn með því að vera í ullarsokk á vinstri. Þar sem þriðja skvísan mætti í allri sinni dýrð þá gafst ég upp á hjátrú. Stundar þú einhverja hreyfingu: Golf. Uppáhaldssjónvarpsefni: Íþróttir. Þú sem Grindvíkingur, af hverju ertu að standa í þessu: Standa í hverju? Ef spurningin snýst um gítarspilið á Laugardagsvellinum þá datt mér í hug hvort ekki væri hægt að brjóta hinn týpíska stuðning aðeins upp. Leiðinlegt til lengdar að kalla bara „ÍBV „búmm, búmm, búmm....“ Datt þessi hugmynd í hug, bar hana undir Sunnu framkvæmdastjóra og Kristján þjálfara „and the rest is history“. Þínar konur í Grindavík féllu úr leik gegn ÍBV í undanúrslitunum um helgina. Á að mæta aftur í ÍBV treyju á Laugardalsvöllinn 8. september: Ég var ekki í ÍBV treyju á karlaleiknum;) Ef leitað verður til mín þá er aldrei að vita nema við Bjarki GUÐNASON, verðandi Grindvíkingur mætum galvaskir.    

Hæstiréttur vísar máli Brims gegn Vinnslustöðinni frá dómi

 Hæstiréttur staðfesti í dag þá niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands að vísa frá dómi máli sem Brim hf. höfðaði gegn Vinnslustöðinni til ómerkingar stjórnarkjöri á aðalfundi og hluthafafundi VSV á árinu 2016. Brim er dæmt til að greiða 350.000 í málskostnað. Vsv.is greinir frá.   Héraðsdómur Suðurlands kvað upp úrskurð sinn 12. júní 2017 og lét málskostnað niður falla. Hæstiréttur staðfesti nú úrskurðinn en dæmdi Brim hins vegar til að greiða málskostnað.   Brim, sem á tæplega 33% hlut í Vinnslustöðinni, krafðist þess í fyrsta lagi að ómerkt yrði kjör Einars Þórs Sverrissonar; Guðmundar Arnar Gunnarssonar, Ingvars Eyfjörð; Írisar Róbertsdóttur og Rutar Haraldsdóttur í stjórn og kjör Eyjólfs Guðjónssonar og Guðmundu Bjarnadóttur í varastjórn, sem fram fór á hluthafafundi VSV 31. ágúst 2016.   Í öðru lagi að ómerkt kjör Einars Þórs Sverrissonar; Guðmundar Arnar Gunnarssonar; Ingvars Eyfjörð; Írisar Róbertsdóttur og Rutar Haraldsdóttur í stjórn og kjör Eyjólfs Guðjónssonar og Guðmundu Bjarnadóttur í varastjórn, sem fram fór á aðalfundi stefnda þann 6. júlí 2016.   Í þriðja lagi að staðfest yrði með dómi að eftirtalin hefðu verið verið réttkjörin í stjórn og varastjórn félagsins á aðalfundi félagsins þann 6. júlí 2016.   Í stjórn:   Guðmundur Kristjánsson Ingvar Eyfjörð Íris Róbertsdóttir Rut Haraldsdóttir. Í varastjórn:   Hjálmar Kristjánsson Guðmunda Bjarnadóttir. Þá var og þess krafist að viðurkennt yrði með dómi að VSV bæri skylda til að boða til framhaldsfundar til að varpa hlutkesti um það hvort Einar Þór Sverrisson eða Guðmundur Örn Gunnarsson taki sæti í stjórn félagsins ásamt áðurnefndum aðilum.   Í hinum staðfesta úrskurði Héraðsdóms eru málsatvik rakin á eftirfarandi hátt og niðurstaðan síðan birt í framhaldinu   Mál þetta á rætur sínar að rekja til aðalfundar stefnda (VSV), er haldinn var 6. júlí 2016, en félagið er fyrirtæki í sjávarútvegi er gerir út skip og starfrækir ýmiskonar vinnslustöðvar. Stefnandi (Brim) er næst stærsti hlutahafi félagsins og fer með 32,88% eignarhlut í því, en hlutir hans voru á framangreindum tíma í eigu félaganna Stillu útgerðar ehf., KG fiskverkunar ehf., Eyjavina ehf., og einstaklinganna Guðmundar Kristjánssonar og Hjálmars Kristjánssonar, sem allir munu vera tengdir stefnanda.   Líkt og að framan greinir á mál þetta rætur að rekja til aðalfunar stefnda sem haldinn var þann 6. júlí 2016. Ekki er deilt um boðun til fundarins og ber aðilum saman um að þangað hafi verið mættir fulltrúar hluthafa sem réðu yfir samtals 99,35% hlutafjár í félaginu. Þá er og óumdeilt að við stjórnarkjör það er fram fór á fundinum hafi verið beitt margfeldiskosningu í samræmi við framkomnar kröfur þar um.   Samkvæmt reglum félagsins skyldi kjósa í stjórn stefnda fimm manns og tvo til vara. Þá hafi endurskoðandi félagsins, Þorvarður Gunnarsson og lögfræðingur félagsins Lilja Björg Arngrímsdóttir séð um talninguna auk Runólfs Guðmundssonar fulltrúa minnihluta hluthafa. Við talningu atkvæða munu tveir menn, þeir Ingvar Eyfjörð og Guðmundur Kristjánsson, hafa verið hæstir með sama fjölda atkvæða. Þá hafi fjórir aðrir einstaklingar, þau Íris Róbertsdóttir, Rut Haraldsdóttir, Einar Þór Sverrisson og Guðmundur Örn Gunnarsson fengið jafn mörg atkvæði um þau þrjú sæti er eftir stóðu. Loks kveður stefnandi Hjálmar Kristjánsson og Guðmundu Bjarnadóttur hafa verið kjörin í varastjórn.   Ekki ber aðilum að fullu saman um framhaldið, en ljóst er að atkvæðaseðill eins hluthafa skilaði sér ekki í kjörkassa og ljóst að það atkvæði hefði ráðið úrslitum um stjórnarkjörið. Kveður stefndi þetta hafa komið í ljós áður en talningu var lokið, en stefnandi tekur sérstaklega fram að þetta hafi fyrst komið í ljós eftir að kosningu og talningu atkvæða var lokið.   Óumdeilt er að fundarstjóri ákvað að endurtaka skyldi stjórnarkjörið og bókuð var ákvörðun fundarstjóra um að ógilda kosningu og endurtaka hana, sem var mótmælt af fulltrúa minnihluta hlutahafa, framangreindum Runólfi Guðmundssyni. Er stjórnarkjörið var endurtekið náðu fulltrúar stefnanda, Guðmundur Kristjánsson og Hjálmar Kristjánsson, ekki kjöri í stjórn og varastjórn.   Í kjölfar aðalfundarins sendi stefnandi Fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra erindi þar sem fram komu mótmæli hans við framkvæmd stjórnarkjörsins og fór hann þess þar jafnframt á leit að stofnunin myndi virða niðurstöðu hins fyrra stjórnarkjörs. Í stefnu er sérstaklega tekið fram að breytingar á stjórn félagsins hafi ekki verið skráðar í Fyrirtækjaskrá. Kveður stefndi þetta koma til af því að einn hinna nýkjörnu stjórnarmanna hafi neitað að undirrita tilkynningu um nýja stjórn og því hafi slík tilkynning ekki verið send stofnuninni.   Þá mun Seil ehf., sem fer með 39,2% af hlutafé stefnda, hafa krafist þess með bréfi dags. 15. júlí 2016, að boðað yrði til hluthafafundar í félaginu, þar sem umboð nýkjörinnar stjórnar yrði fellt niður og kosið til stjórnar félagsins á ný. Stefnandi hafi mótmæli kröfunni og vísaði til þess að Fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra hefði málið til skoðunar.   Samkvæmt gögnum málsins fundaði skráð stjórn félagsins um málið þann 11. ágúst 2016 og ákvað að boða til hluthafafundar. Sætti þessi afgreiðsla mótmælum af hálfu Guðmundar Kristjánssonar og Ingvars Eyfjörð, sem töldu fráfarna stjórn ekki hafa umboð til að taka ákvarðanir fyrir félagið. Þá mótmælti stefnandi boðun hluthafafundar með bréfi til Fyrirtækjaskrár Ríkisskattstjóra auk þess sem stefnandi fór fram á það við sýslumann að lögbann yrði lagt við hluthafafundinum en kröfunni var synjað og fór hluthafafundur fram 31. ágúst 2016. Var þar mætt fyrir 99,39% hlutafjár.   Á fundinum var stjórn félagsins sjálfkjörin, en fulltrúar stefnanda drógu framboð sitt til baka rétt fyrir fundinn. Á fundinum voru enn bókuð mótmæli stefnanda við lögmæti hluthafafundarins og stjórnarkjörsins. Kom þar fram að stefnandi taldi ekki hafa verið boðað til fundarins með lögmætum hætti m.a. á þeim grundvelli að sú stjórn sem boðaði til hans hafi ekki haft umboð til þess auk þess sem bent var á að málið væri enn til skoðunar hjá Fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra.   Við munnlegan málflutning í aðalmeðferð málsins þann 31. mars sl. var upplýst að boðað hefði verið til aðalfundar í hinu stefnda félaginu er fara skyldi fram þann 6. apríl 2017, þar sem meðal annars skyldi kjósa nýja stjórn í samræmi við samþykktir félagsins. Við endurupptöku málsins 15. maí 2017 var lögð fram fundargerð aðalfundar stefnda sem fram fór 6. apríl 2017, en í henni kemur fram að á þeim fundi hafi verið kjörin ný aðalstjórn og varastjórn í stefnda. Kemur jafnframt fram að stefnandi hafi á fundinum gert fyrirvara um lögmæti fundarins.   Niðurstaða   Ágreiningur aðila snýr að því hvort stjórnarkjör það er fram fór á aðalfundi stefnda þann 6. júlí 2016, sem og stjórnarkjör hluthafafundar þann 31. ágúst 2016, sem fór á sama veg, hafi verið gilt.   Í stefnu gerir stefnandi grein fyrir þeim lögvörðu hagsmunum sem hann kveðst hafa í málinu.   Kveðst stefnandi hafa lögmæta hagsmuni af því að krefjast þess að fyrra stjórnarkjörið á aðalfundinum gildi enda sé ljóst að úrslit síðari kosninganna hafi ekki verið stefnanda eins hagstæð og úrslit fyrri kosninganna. Í fyrra stjórnarkjörinu hafi tveir frambjóðendur sem stefnandi hafi stutt til stjórnarkjörs hlotið kjör í aðalstjórn félagsins og einn frambjóðandi kjör í varastjórn félagsins. Í síðara stjórnarkjörinu hafi aðeins einn frambjóðandi sem stefnandi hafði stutt til stjórnarkjörs hlotið kjör í aðalstjórn félagsins. Enginn fulltrúi stefnanda hafi hlotið kjör í varastjórn í síðara stjórnarkjörinu. Að mati stefnanda hafi samskipti fulltrúa meirihlutans við tiltekinn hluthafa sem ekki skilaði atkvæði í fyrra stjórnarkjörinu haft úrslitaáhrif á hina breyttu niðurstöðu.   Stefnandi bendir á að það skipti verulega máli fyrir hans hagsmuni hvort hann hafi tvo fulltrúa í stjórninni og einn í varastjórn eða aðeins einn fulltrúa í stjórn félagsins. Fyrir liggi að stærsti hluthafi félagsins, sem eigi um 39% af heildarhlutafé félagsins, geti kosið tvo fulltrúa í stjórnina. Aðrir minni hluthafar sem fari með um 28% af heildarhlutafé félagsins geti kosið einn fulltrúa í stjórn. Verði fallist á kröfur stefnanda sé ljóst að fulltrúi minnihlutans sé í oddastöðu vegna ákvörðunartöku í stjórninni. Sá fulltrúi gæti því tekið undir sjónarmið fulltrúa stefnanda eða fulltrúa stærsta hluthafans, eftir því sem við eigi, við töku ákvarðana um rekstur félagsins. Stefnandi gæti því hæglega haft meiri áhrif á stjórnun félagsins, einkum í þeim tilvikum þar sem fulltrúi annarra hluthafa í stjórninni sé sammála áherslum stefnanda um það hvernig hagsmunum félagsins sé best borgið.   Kveðst stefnandi því hafa verulega hagsmuni af því að fallist verði á að fyrra stjórnarkjörið á aðalfundinum hafi verið lögmætt og að það sé staðfest með dómi að aðgerðir meirihlutans hafi brotið á rétti hans sem hluthafi í félaginu.   Ekki er gerð frekari grein fyrir því í stefnu að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfur sínar í málinu.   Fyrir liggur að ný stjórn og varastjórn hefur verið kjörin í stefnda, en skv. samþykktum stefnda ber að halda aðalfund og kjósa nýja stjórn og varastjórn árlega.   Stefnandi hefur ekki gert neina grein fyrir tilteknum ákvörðunum sem hin umdeilda stjórn hafi tekið, sem hafi gengið gegn eða varðað hagsmuni stefnanda sérstaklega. Hefur hann ekki byggt á því að neitt í rekstri stefnda eða ákvörðunum stjórnar stefnda hefði verið á annan veg ef stjórnarkjöri hefði verið hagað á þann veg sem hann telur að hefði verið rétt.   Enn síður hefur stefnandi gert grein fyrir því á hvaða hátt hann geti haft af því lögvarða hagsmuni að fá úrlausn um kröfur sínar nú eftir að ný stjórn var kjörin í stefnda á aðalfundi 6. apríl 2017.   Af þessum sökum, og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í málinu nr. 360/2003, þykir óhjákvæmilegt að vísa málinu frá dómi án kröfu þar sem stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um kröfur sínar sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.   Eins og mál þetta er vaxið þykir rétt að málskostnaður falli niður.   Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.   Úrskurðarorð   Máli þessu er vísað frá dómi.   Þannig hljóðaði úrskurður Héraðsdóms Suðurlands sem Hæstiréttur hefur nú staðfest en Hæstiréttur dæmdi Brim til að greiða 350.000 í málskostnað.

Fjárhagslegt tap og missa viðskipti þegar ekki er hægt að standa við samninga

  „Flutningar milli lands og Eyja eru alls ekki í góðum málum og það hefur komið við okkur. Við höfum t.d. verið að veiða grálúðu fyrir austan land og reynt að vinna hluta hennar hér í Eyjum. Þá þurfum við að flytja hana í gámum frá Eskifirði og svo yfir með Herjólfi,“ segir Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri bolfiskssviðs hjá Vinnslustöðinni. Taka aðrir forráðamenn sjávarútvegsfyrirtækja í sama streng, flöskuhálsinn í rekstrinum séu flutningar milli lands og Eyja. „Það hefur verið mikill skortur á flutningsplássi með skipinu og við höfum lent í því að fiskurinn hefur tafist um sólarhring sem veldur því að við erum með starfsfólk tilbúið til að taka á móti fiski sem ekki kemur þann dag. Þar að auki rýrna gæði hráefnisins við að eldast og verðmæti afurða skerðist. Þetta á líka við um aðra möguleika á að ná til okkar hráefni,“ bætir Sverrir við. „Menn hafa lent í miklum vandræðum bæði með að koma fiski burt sem og búnaði til Eyja. Eina leiðin er að fjölga ferðum þegar Herjólfur annar ekki flutningsþörfinni,“ segir Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélagsins um stöðu mála í flutningum. „Auk þess finnst mér sjálfum það glatað þegar hætt var að keyra bíla um borð eða frá borði fyrir okkur sem hér búum því það gat komið sér mjög vel. Skýringin á því hvers vegna það er ekki hægt, þ.e. að þá fari áætlunin úr skorðum, stenst ekki skoðun,“ sagði Stefán einnig.   Ekki ásættanlegt „Það er ekki hægt að segja að samgöngur milli lands og Eyja séu ásættanlegar, það er langur vegur frá því. Álagið í fólksflutningum hefur aukist til muna sem er auðvitað frábært en það bitnar svo sannarlega á flutningum afurða sem og ferðum heimamanna til og frá Eyjum,“ segir Magnús Stefánsson, framleiðslustjóri Idunn Seafoods sem framleiðir niðursoðna lifur. „Þjóðvegur Eyjamanna þarf að vera öruggari fyrir heimamenn með fleiri ferðum í boði sem kæmi þá til með að létta álagið í alla staði. Það er óhætt að segja að flutningur, öllu heldur „ekki“ flutningur sé að bitna all harkalega á mínu fyrirtæki. Afurðir skila sér seint og illa sem auk þessa hefur oftar en ekki orðið ónothæf sökum þess.“ Magnús segir tjónið ekki einungis tap á peningum og í framlegð fyrirtækisins heldur missa þeir frá sér kúnna sem ekki fá afgreitt þá vöru sem þeir hafa lagt inn pöntun fyrir. „Þar tapast viðskipti til frambúðar og við fáum á okkur slæmt orð fyrir að geta ekki staðið við gerðar pantanir. Við töpuðum nýlega stórum birgja frá okkur sökum þess að hann gat ekki skilað af sér hráefni sínu til okkar á tilsettum tíma. Eðlilegt?“ Magnús segir þetta mjög alvarlega stöðu. „Það er ekki hægt að horfa framhjá því að þörf er á breytingum og það strax. Ég hef rætt við marga aðila út af þessum málum, margir hverjir sem staðið hafa í þessu töluvert lengur en ég og sú sorglega staða blasir við að þeir eru við það að gefast upp enda skiljanlegt þegar ekki er hlustað á þá af embættismönnum í ráðandi stöðu.“   Flutt 1800 tonn á sex mánuðum Arnar Richardsson, rekstrarstjóri Bergs-Hugins tekur í sama streng. „Við höfum verið að senda töluvert magn frá okkur með Herjólfi, um það bil 1800 tonn á síðustu sex mánuðum og í raun er það plássleysið sem hefur skammtað það magn sem við höfum sent frá okkur. Við hefðum oftar kosið að senda meira frá okkur en raun ber vitni.“ Arnar segir að þegar verið er að versla með ferskar fiskafurðir þá þurfi hlutirnir að ganga nokkuð hratt og því er oft stuttur fyrirvari á þegar flytja þarf fiskinn. „Því miður getur verið mjög erfitt að fá flutning með mjög stuttum fyrirvara þegar pláss er af skornum skammti. En eins og hraðinn í þjóðfélaginu er orðinn í dag þá gerist ansi mikið í núinu og samgöngur Herjólfs þurfa að þróast í takt við þennan hraða. Ljóst er að við getum ekki flutt þetta magn með Herjólfi í Þorlákshöfn miðað við tvær ferðir á dag,“ sagði Arnar. Einar Bjarnason, fjármálastjóri Godthaab, sem er fiskvinnslufyrirtæki, segir stöðuna mjög bagalega. „Þau skipti sem þjónusta Herjólfs er að hafa áhrif á okkar rekstur er annarsvegar þegar ferðir falla niður og við komum ekki frá okkur afurðum eða náum ekki að fá hráefni sem keypt er uppá landi. Hinsvegar á mestu álagstímunum eins og t.d. í þjóðhátíðarvikunni, þá annar skipið ekki flutningaþörfinni. Við lentum t.d. í því núna í vikunni fyrir Þjóðhátíð að kaupa hráefni uppi á landi á mánudegi en fengum það ekki yfir fyrr en á fimmtudeginum,“ segir Einar. Vil þó taka fram að ekki er við starfsfólk Herjólfs, eða Eimskips að sakast, það leggur sig fram við að leysa úr vandamálum sem upp koma,“ sagði Einar.

Minnihlutinn vill að bærinn borgi ritfangakostnað barna á fyrsta ári

 Mikið hefur verið rætt um þá kröfu foreldra að sveitarfélög borgi skólagögn fyrir grunnskólabörn. Hafa stöðugt fleiri sveitarfélög orðið við þessari kröfu og samkvæmt fréttum hafa um 30% þeirra ákveðið að greiða námsgögn fyrir grunnskólabörn. Reykjavík er ekki meðal þeirra. Á fundi í fræðsluráði Vestmannaeyja í nóvember 2016 var rætt um bóka- og ritfangakostnað vegna yngstu barna í Grunnskóla Vestmannaeyja. Þar kom fram að mikilvægt væri að halda kostnaði í lágmarki og bent á að hjá GRV eru námsgögn keypt inn fyrir alla nemendur í 1. til 6. bekk með þeim tilgangi að lágmarka kostnað foreldra og hefur verið mikil ánægja með það fyrirkomulag. Stefnt er að því að umrætt fyrirkomulag verði fyrir alla bekki GRV. Sonja Andrésdóttir fulltrúi E-listans var á annarri skoðun og lét bóka að sá bóka- og ritfangakostnaður sem fallið hefur á foreldra barna á fyrsta ári í GRV verði þeim að kostnaðarlausu. Meirihluti sjálfstæðismanna í ráðinu lýsti sig hlynntan óbreyttu fyrirkomulagi. Þegar málið kom inn á borð bæjarstjórnar í desember 2016 vildu fulltrúar E-listans fá tillögu Sonju samþykkta en sjálfstæðismenn sögðu nei og felldu hana með fimm atkvæðum gegn tveimur. Stefán Jónasson, oddviti Eyjalistans í bæjarstjórn segir að afstaða meirihlutans hafi komið á óvart. „Þarna vorum við bara að tala um fyrsta bekk, á milli 50 og 60 börn. Kostnaður við hvert barn er á bilinu 6000 til 6500 krónur, þannig að í heildina erum við að tala um 300.000 til 500.000 krónur sem bærinn hefði þurft að borga fyrir börn á fyrsta skólaári,“ segir Stefán. „Hugmyndin var aldrei að borga fyrir öll börn í grunnskóla heldur bara fyrir fyrsta bekkinn. En benda má á að sum sveitarfélög borga allan kostnað í grunnskóla en í öðrum er lögð fram ákveðin upphæð með hverju barni.“ Stefán vonast til þess að meirihlutinn sjái ljósið og breyti afstöðu sinni. „Vonandi verður þetta svipað og með frístundakortin, sem voru eitt af kosningamálum okkar, að sjálfstæðismenn komi sjálfir með tillögu um kaup á skólagögnum. Þá verður hún örugglega samþykkt.“

Einfaldlega að rifna af stolti og þakklæti fyrir að hafa fæðst og alist hér upp

„Þjóðhátíðin í ár toppaði sig enn og aftur með frábærri dagskrá og þvílíkri veðurblíðu. Brekkan hefur held ég aldrei verið eins þétt og flott, ljósadýrðin mögnuð og þjóðhátíðarlögin sem allir kunna orðið sungin hástöfum í magnaða Herjólfsdalnum,“ segir Eyjakonan brottflutta, Laufey Jörgensdóttir sem mætti með með fjölskylduna í Dalinn um helgina. „Maður er einfaldlega að rifna af stolti og þakklæti fyrir að hafa fæðst og alist hér upp - þvílík fegurð, þvílík hátíð og þvílíkt eðalfólk. Vinir okkar ofan af landi eru farin að fylgja okkur til Eyja á Þjóðhátíð og við vorum saman með tjald. Það var alltaf hátíðlegt hjá okkur á daginn en jafnframt mikið stuð á kvöldin enda með mann eins og Sveppa Krull innanborðs sem fagnaði 40 ára afmælisdeginum sínum í tjaldinu í góðum gír. Krakkarnir okkar Óskar Dagur og Auður Erla elska þetta og vilja alltaf fara á Þjóðhátíð. Ég hef sjálf aðeins sleppt þremur þjóðhátíðum svo þetta fer að slaga í 40 ár í Dalnum hjá manni. Það er held ég eitthvað eldheitt Þjóðhátíðarblóð sem rennur í manni, mamma heitin Erla Sigmars var nú alltaf til í fjörið. En mér finnst mikilvægt að mæta helst alltaf til að styrkja tengslin við Eyjarnar í ljósi þess að við búum nú í Reyjavík. Annars voru allir farnir að ræða bara flutninga í bíltúr um Eyjuna áðan og krakkarnir að leita að húsi, það er aldrei að vita nema maður komi aftur syngjandi; "Ég er komin heim". Til hamingju ÍBV með frábæra þjóðhátíð og takk innilega fyrir okkur,duglegu og elskulegu Eyjamenn, verið ávallt þakklát fyrir dýrmætu samkenndina sem ríkir á Eyjunni grænu...Þjóðhátíð 2018 bíður, við sjáumst þar,“ sagði Laufey himinsæl.  

Yri og Stian frá Noregi kolféllu fyrir þjóðhátíð

Wasabi Indíánar settu skemmtilegan svip á annars fjölbreytta flóru í Dalnum

Þeir Árni Þorleifsson, Jóhann Helgi Gíslason, Ólafur Freyr Ólafsson og Ævar Örn Kristinsson hafa undanfarnar þrjár Þjóðhátíðir lagt mikið kapp á búningakeppnina en hópurinn hefur einmitt staðið uppi sem sigurvegari öll árin þrjú. Fyrst sem Jókerinn árið 2015, ári seinna sem Jesú Kristur og í ár sem Wasabi Indíánar. Blaðamaður ræddi við Ólaf Frey eftir Þjóðhátíð og fékk að fræðast aðeins um áhuga hópsins á búningakeppninni.   Hvernig kom það til að vera Wasabi Indíánar? „Við fengum semsagt skilaboð frá sendiboða í kríu-líki. Sem var á þá leið að of lengi hefði hinn hvíti maður nýtt þennan fallega dal undir þjóðhátíð án þess að frumbyggjarnir fengju rönd við reist. Eftir að krían hafði ljáð okkur þessi orð í eyra féll hún í trans. Þannig lá hún allt sumarið þangað til á laugardaginn síðast liðinn þegar sigurinn var í höfn. Þá rankaði hún við sér og flaug upp í himinhvolfin til forfeðra sinna,“ segir Ólafur Freyr þessa upplifun hópsins. Aðspurður út í kostnað og annað slíkt segir Ólafur hann ekki skipta máli í stóra samhenginu. Kostnaðurinn er óverulegur ef miðað er við ábatann og stemminguna sem hlýst af búningunum, en skemmst er frá því að segja að mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Jókerinn steig á stokk, við erum t.a.m. allir í sambandi í dag. Hvort það sé tilkomið vegna búninganna eður ei verða aðrir að segja til um en ég.“ Búningagyðjan er farin að láta á sér kræla Voru Þjóðhátíðargestir í ár áhugasamir um búningana? „Þjóðhátíðargestir voru langflestir áhugasamir um búningana. Ef frá er talinn ein stúlkukind. Blygðunarkennd hennar, að hennar sögn, er særð um ókomin ár vegna okkar fjórmenningana og Kínverjans knáa sem birtist á sunnudaginn með heimaræktuð hrísgrjón og seið lífsins,“ segir Ólafur og bætir við að ekki sé búið að ákveða búningana fyrir næstu Þjóðhátíð. „Við erum með þetta á bakvið eyrað allt árið og erum vanalega klárir hvað þarf að gera og græja í byrjun sumars. Búningagyðjan á enn eftir að heimsækja okkur, þó hún sé örlítið farin að láta á sér kræla.“ Nú hafið þið unnið þrisvar í röð. Er ekki bara réttast að skora á fólk til að veita ykkur samkeppni á næsta ári? „Það þarf engan Milton Friedman til að sjá að samkeppni er alltaf góð, þannig að sjálfsögðu hvetjum við fólk til að rífa sig í gang. Annars vildi ég henda í shout out á nokkrar ósungnar hetjur sem munu að öllum líkindum aldrei lesa þetta. En það eru fjórir utanbæjarpeyjar sem mæta ár eftir ár í kraftgalla með heiðarlegt möllet og glæða brekkuna lífi,“ segir Ólafur Freyr að endingu.  

Sanngjarn og eðlilegur fréttaflutningur sem ber að þakka

Morgunblaðið, mbl.is og K-100 sem heyra undir Árvakur og 365 miðlar, vísir.is, Bylgjan og Stöð 2 fylgdust vel með undirbúningi þjóðhátíðar og hátíðinni sjálfri án þess að vera með fyrirfram ákveðnar meiningar um þessa stærstu útihátíð landsins.  Þeir greindu frá því sem miður fór, kynferðisbrotum, fíkniefnamálum og öðrum málum sem komu til kasta lögreglu. Það var gert af fagmennsku og án fordæmingar en þessir miðlar sáu líka ljósu hliðina á Þjóðhátíð Vestmannaeyja og misstu ekki áhugann þegar í ljós kom að lögreglumál náðu ekki pari við venjulega helgi í Reykjavík. Sighvatur Jónsson, Eyjamaður á K-100 hefur í mörg ár verið með kvikmyndavélina á lofti á þjóðhátíð og er örugglega vel nestaður í þáttinn sinn út vikuna eftir að hafa fylgst með því sem fram fór í Herjólfsdal um helgina.  Eyjamaðurinn og ljósmyndarinn Ófeigur Lýðsson var stöðugt á vaktinni fyrir Moggann og Bylgjan var með beina útsendingu alla dagana þar sem Ásgeir Páll fór á kostum. Þá má ekki gleyma beinni útsendingu Stöðvar 2 frá Brekkusöngnum sem gaman var að skoða eftir að heim var komið. Hafið þökk fyrir.  Síðast en ekki síst er það svo okkar maður á Eyjafréttum, Óskar Pétur, sem alltaf er með myndavélina á lofti og sá líka vísir.is fyrir myndum alla helgina. Já okkar menn stóðu sig vel. Það er svo lítið skrýtið að telja þetta þakkarvert en svona er veruleikinn okkar. Það þýðir ekkert að bera sig illa yfir fréttum um það sem miður fer en hér er líka margt jákvætt að gerast og því hafa Morgunblaðið og Stöð 2 komið myndarlega til skila án þess þó að telja sig allrar þjóðarinnar. Og nú endurtekur sagan sig í bikarnum þar sem sumir standa sig betur en aðrir.    

Fór fram í frábæru veðri og stóð undir nafni sem fjölskylduhátíð

Að hlusta á 16.000 manna kór syngja einum rómi og það af lífi og sál gerist hvergi nema í Brekkusöng á Þjóðhátíð Vestmannaeyja sem að margra mati er hápunktur hátíðarinnar. Ingólfur Þórarinsson, Selfyssingur og Eyjamaður er verðugur arftaki Árna Johnsen sem trúlega hefur ekki gert sér grein fyrir hvað var að verða til þegar hann sló fyrstu tónana í Brekkusöng í Herjólfsdal árið 1977. Það fræ sem þar var sáð hefur vaxið og dafnað og náði enn nýjum hæðum á sunnudaginn þar sem Ingó fór fyrir fjölmennasta Brekkukór frá upphafi.   Hátíðin var sett í frábæru veðri og að viðstöddu fjölmenni. Þar var blásið í lúðra, kórsöngur fyllti Dalinn, séra Viðar Stefánsson flutti hugvekju og ræður voru fluttar. Hátíðarræðuna flutti Arndís María Kjartansdóttir og setti hátíðina í skemmtilegt samhengi við eigið líf og reynslu. Stefán Jónsson, varaformaður ÍBV-íþróttafélags setti hátíðina. Þá var komið að bjargsigi ofurhugans Bjarts Týs Ólafssonar sem aftur er orðið hluti af setningunni. Fjölbreytt dagskrá var í boði fyrir börnin eins og áður þar sem Brúðubíllinn var í stóru hlutverkin eins og venjulega. Einnig komu fram Emmsjé Gauti og BMX-Brós. Á kvöldvökunni komu fram okkar kona, Sara Renee, Hildur, Ragga Gísla sem frumflutti þjóðhátíðarlagið sitt, Sjáumst þar, Riggið hans Friðriks Ómars, Regína Ósk, Eyþór Ingi, Selma Björns, Jógvan og Matti Matt og Emmsjé Gauti. Á miðnæturtónleikum eftir brennu komu fram Emmsjé Gauti, Aron Can og Herra Hnetusmjör. Á Stóra sviðinu um nóttina voru það Eurobandið, Dj Bjarni og Basic House Effect sem léku fyrir dansi. Á Tjarnarsviðinu voru það Eyjadrengirnir í hljómsveitinni Brimnes sem trylltu lýðinn. Á laugardagskvöldið komu fram okkar maður, Sindri Freyr, Áttan, Friðrik Dór og FM95BLÖ. Þá var komið að einni glæsilegustu flugeldasýningu allra tíma en þar á eftir spilaði Dimma og Páll Óskar og Stuðlabandið fóru mikinn í dansinum um nóttina. Á kvölddagskránni á sunnudagskvöldið komu fram sigurvegarar í Söngvakeppninni, Daði Freyr, Halldór Gunnar og Albatross ásamt gestum, Sverri Bergman, Birgittu Haukdal, Bjartmari og Jóni Jónssyni. Ingó og Árni kláruðu Brekkusönginn og eftir blysin voru Albatross og Skítamórall á Stóra sviðinu og Brimnes á Tjarnarsviðinu sem ekki hætti fyrr en slökkt var á þeim klukkan sjö á mánudagsmorguninn. Margt frábærra listamanna kom fram á þjóðhátíðinni og náðu að heilla gesti með list sinni og krafti. Ekki verða þeir allir taldir upp hér en reynsluboltar eins og Ragga Gísla og Páll Óskar sýndu af hverju þau hafa haldið vinsældum í öll þessi ár. Ragga hefur náð því að vera hluti af hátíðinni frá því myndin Með allt á hreinu var að hluta tekin upp á þjóðhátíðinni 1982. Einn af hápunktum myndarinnar var Einsi kaldi þar sem Ragga og Egill Ólafsson fóru fyrir Stuðmönnum í mígandi rigningu sem engin áhrif hafði á stemninguna. Frammistaða annarra ræðst af mati hvers og eins, smekk og aldri en þeir sem rætt var við eru í heild ánægðir með dagskránna og sammála um að listafólkið hafi allt lagt sig fram um að skemmta gestum. Birgitta Haukdal kom skemmtilega á óvart og hljómsveitirnar Brimnes, Albatros og Stuðlabandið kunna tökin á að koma fólki í gírinn í dansinum. Já, það var mikil gleði á Þjóðhátíð þetta árið og samhugurinn í Brekkusöngnum var það sem einkenndi alla helgina sem skartaði frábæru veðri, sólskini, nánast logni allan tímann og droparnir sem féllu hefði mátt telja á fingrum annarrar handar. Gott veður er ávísun á velheppnaða þjóðhátíð og það sannaðist í ár. Eins og alltaf er það fólk sem hingað kemur til mikillar fyrirmyndar, vel útbúið og er hingað komið til að skemmta sér með heimafólki og njóta þess sem í boði er. Kíkja í hvítu tjöldin, dansa fram á rauða morgun og skríða í rúmið eða pokann þegar sól var komin vel á loft. Það hefur margt breyst frá 1986 en þjóðhátíð er alltaf þjóðhátíð með sínum hápunktum, brennunni á Fjósakletti á föstudeginum, flugeldasýningunni á laugardeginum og Brekkusöngnum og blysunum 143 sem eru glæsilegur lokahnykkur á frábærri dagskrá hátíðarinnar. Og ekki má gleyma Þjóðsöngnum sem Árni Johnsen gerði að hátíðarsöng þjóðarinnar allrar. Hann kom nú fram í síðasta sinn og var stórkostlegt að vera á besta stað í Dalnum þar sem kórinn hljómar sterkast og kallar fram gæshúð trekk í trekk. Hvítu tjöldin eru líka á sínum stað þar sem fjölskyldur koma saman yfir kaffi og spjalli á daginn og söng og gleði þegar skyggja tekur.  

Ísold Sævarsdóttir og Sigurrós Ásta Þórisdóttir eru Eyjamenn vikunnar

Söngkeppni barna var að sjálfsögðu á sínum stað á dagskrá Þjóðhátíðarinnar síðustu helgi. Var keppt í flokki eldri og yngri og fengu krakkarnir að spreyta sig á Brekkusviðinu sjálfu eins og hefð er fyrir. Sigurvegararnir voru vel að sigrinum komnir, Ísold Sævarsdóttir í eldri flokknum og Sigurrós Ásta Þórisdóttir í flokki yngri. Ísold og Sigurrós Ásta eru Eyjamenn vikunnar.   Nafn: Ísold Sævarsdóttir. Fæðingardagur: Laugardagurinn 17. febrúar 2007. Fæðingarstaður: Landsspítalinn Reykjavík. Fjölskylda: Mamma (Hrönn Róbertsdóttir), Pabbi (Sævar Pétursson), Þórhallur 38 ára, Pétur 34 ára, Jonni 21 árs, Ísey 14 ára og ég 10 ára Draumabíllinn: Blár hermannabíll sem hægt er að taka toppinn af. Uppáhaldsmatur: Píta. Versti matur: Allar fiski og kjöt tegundir nema ýsa og svínakjöt. Uppáhalds vefsíða: youtube.com Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Hello með Lionel Richie. Aðaláhugamál: Hlusta á tónlist, smíða, læra, syngja, uppfinningar, fara á æfingar og keppa í íþróttum. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Beyonce. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Þeir eru margir Ísland, Vestmannaeyjar, Dubai, Monterosso á Ítalíu og sjórinn. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Michael Jordan og Stjarnan. Ertu hjátrúarfull: Já frekar. Stundar þú einhverja hreyfingu: Já ég stunda fimleika og körfubolta. Uppáhaldssjónvarpsefni: Undraveröld Gúnda. Hefur þú sungið lengi: Já alveg síðan ég var þriggja ára en þegar ég var fjögurra ára byrjaði ég að syngja með viti. Hvernig var tilfinningin að syngja á Brekkusviðinu: Í byrjun var það stressandi en þegar ég var byrjuð að syngja leið mér eins og enginn væri að hlusta. En þegar ég var búin kom mjög góð og gleðileg tilfinning. Er draumurinn að syngja á kvölddagskránni á Þjóðhátíð í framtíðinni: Já það er einmitt einn af draumunum mínum. .........................................................   Nafn: Sigurrós Ásta Þórisdóttir. Fæðingardagur: 3. mars 2010. Fæðingarstaður: Reykjavík. Fjölskylda: Foreldrar mínir heita Elena Einisdóttir og Þórir Aðalsteinsson og svo á ég tvo bræður sem heita Aðalsteinn Einir og Einir Ingi. Draumabíllinn: Skoda eins og mamma á. Uppáhaldsmatur: Hamborgari. Versti matur: Ostastangir. Uppáhalds vefsíða: friv.com. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Gleðipopp (t.d. Dönsum eins og hálfvitar með Friðrik Dór). Aðaláhugamál: Söngur, fimleikar, ballett og söngleikir hjá leikfélaginu Draumar. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Ömmu Jönu. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Vestmannaeyjar. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Mamma, Stjarnan og ÍBV. Ertu hjátrúarfull/ur: Nei. Stundar þú einhverja hreyfingu: Já er í fimleikum og ballett. Uppáhaldssjónvarpsefni: Svampur Sveinsson. Hefur þú sungið lengi: Ég lærði eiginlega að syngja áður en ég lærði að tala og ég hef verið í Söngskóla Maríu Bjarkar frá því ég var 3 ára. Hvernig var tilfinningin að syngja á Brekkusviðinu: Það var mjög gaman að sjá alla klappa og syngja með í brekkunni og mér leið rosalega vel. Er draumurinn að syngja á kvölddagskránni á Þjóðhátíð í framtíðinni: Já draumurinn er að verða söngkona og syngja á Þjóðhátíð.  

19 ár frá síðasta titli

 19 ár eru liðin frá því karlalið ÍBV í knattspyrnu hampaði síðast bikarmeistaratitli. Líkt og í ár komst liðið í úrslitaleikinn í fyrra en þar þurftu Eyjamenn að sætta sig við 2:0 tap gegn Valsmönnum sem fögnuðu titlunum annað árið í röð. Að þessu sinni mun mótherji ÍBV á Laugardalsvellinum vera Íslandsmeistarar FH. Hafnfirðingarnir hafa átt nokkuð erfitt uppdráttar í deildinni í ár og hafa ekki verið að blanda sér í toppbaráttuna hingað til. Samhliða íslenska boltanum hafa FH-ingar verið á fullu í Evrópuboltanum í sumar en í síðustu viku féllu þeir úr leik gegn slóvensku meisturunum Maribor í forkeppni meistaradeildarinnar. Í kjölfarið fór FH í pottinn fyrir dráttinn í umspil riðlakeppni Evrópudeildarinnar en þar drógust þeir á móti portúgalska liðinu Braga og fer fyrri leikurinn fram 17. ágúst.   Eyjamenn hafa alls hampað titlinum fjórum sinnum Eins og fyrr segir fóru Eyjamenn síðast alla leið og unnu bikarkeppnina 1998 en í heildina hefur ÍBV fjórum sinnum staðið uppi sem sigurvegari í þessari keppni, fyrst árið 1968. Þá mættu Eyjamenn 1. deildarliðinu KR b sem hafði slegið út „Evrópuliðið“ Val og aðallið KR, sem þá voru ríkjandi meistarar, áður en þeir mættu Eyjamönnum í sjálfum úrslitunum. Lokastaðan í úrslitaleiknum var 2:1 fyrir ÍBV og segir í blaðagreinum frá þessum tíma að sjaldan eða aldrei hafi gamla KR heppnin svikið liðið eins eftirminnilega. Segir jafnframt að „heppnin“ hafi gengið til liðs við ÍBV fyrir leikinn og tekið ástfóstri við Pál Pálmason, markvörð Eyjamanna, sem varði oft og tíðum frábærlega í leiknum. Næsti bikarmeistaratitill kom einungis fjórum árum seinna en þá léku Eyjamenn við FH og var niðurstaðan sanngjarn sigur eins og flestir höfðu spáð fyrir leik. Hinn marksækni leikmaður Eyjaliðsins, Haraldur Júlíusson, gerði bæði mörk liðsins og var öflugur líkt og aðrir leikmenn liðsins. Var liðið í feiknar formi þetta tímabilið, endaði í öðru sæti deildarinnar og hampaði bikarmeistaratitli í nóvember með markatöluna 13:1. Eftir níu ára bið leit næsti bikarmeistaratitill dagsins ljós árið 1981 en þá lögðu Eyjamenn sterkt lið Fram af velli sem þangað til hafði verið ósigrað í síðustu 13 leikjum í bikarkeppninni. Eftir að hafa verið 1:0 undir í hálfleik, sneru Eyjamenn taflinu við og skoruðu næstu þrjú mörk áður en Fram náði að klóra í bakkann. Bræðurnir Kári og Sigurlás Þorleifssyni voru atkvæðamiklir í leiknum en sá fyrrnefndi lagði upp bæði mörkin fyrir Sigurlás, sem áður hafði lagt upp mark fyrir Þórð Hallgrímsson sem skoraði með bylmingsskoti. Laugardaginn 3. október 1998, 17 árum frá síðasta bikarmeistaratitli, fór bikarinn loksins aftur til Eyja. Lögðu Eyjamenn þá Leiftur með tveimur mörkum gegn engu og kórónuðu gott tímabil en áður höfðu þeir orðið Íslandsmeistarar. ÍBV lenti undir í leiknum en með mörkum frá Ívari Bjarklind og hinum 18 ára gamla varamanni Bjarna Geir Viðarssyni tókst Eyjamönnum að sigla sætum sigrinum í höfn.   Leið ÍBV í úrslitin: 32 liða úrslit: ÍBV 4:1 KH 16 liða úrslit: ÍBV 5:0 Fjölnir 8 liða úrslit: Víkingur R. 1:2 ÍBV Undanúrslit: Stjarnan 1:2 ÍBV

Stærsti leikur ársins á Íslandi

Miðjumaðurinn knái í liði ÍBV, Sindri Snær Magnússon, gekk til liðs við ÍBV í janúar 2016 eftir að hafa verið á mála hjá Keflavík. Ásamt því að vera öflugur fótboltamaður þá er Sindri einnig mikill leiðtogi inni á vellinum og hefur, í fjarveru Andra Ólafssonar, borið fyrirliðabandið í flestum leikjum Eyjamanna á tímabilinu. Blaðamaður ræddi nánar við Sindra Snæ í aðdraganda bikarleiksins sem fram fer um helgina. „Ég var í ÍR þar til ég kláraði 2. flokk og spilaði á þeim tíma þrjú tímabil með meistaraflokknum. Eftir það fór ég í Breiðablik og tók eitt tímabil með þeim og var mestmegnis á bekknum. Þaðan fór ég að láni í Selfoss árið 2013 áður en ég fór í Keflavík 2013-2015. Eftir það kom ég síðan hingað þannig ég hef aðeins verið að flakka á milli,“ segir Sindri þegar blaðamaður biður hann að rekja ferill sinn inni á knattspyrnuvellinum. Eins og glöggir lesendur taka kannski eftir hefur Sindri komið víða við á ferlinum þrátt fyrir að vera einungis 25 ára gamall. „Þessi tíðu félagsskipti byrjuðu náttúrulega á því að ég vildi reyna fyrir mér í efstu deild eftir að hafa verið með ÍR í 1. deildinni. Ég náði að spila aðeins með Breiðabliki en þó minna en ég ætlaði mér þannig ég fór í Selfoss til að fá spiltíma. Ég vildi síðan fara aftur í efstu deild eftir að hafa gengið vel með Selfossi í 1. deildinni. Eftir tvö tímabil með Keflavík lá leiðin síðan til Eyja. Ætli ástæðan sé ekki bara að ég vil vera í efstu deild og reyna að bæta mig.“ Var það ekkert erfið ákvörðun að fara út í Eyjar? „Já og Nei. Þetta er örugglega svolítið öðruvísi hjá mér en mörgum öðrum sem hafa komið hingað að spila en ég hef bara verið hérna á sumrin. Ég hef s.s. verið í skóla og vinnu í Reykjavík og ekki komið til Eyja fyrr en um miðjan apríl en þegar hingað er komið kvarta ég ekki yfir neinu, hér er allt til alls,“ segir Sindri en hann kláraði BSc-nám í hátækniverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík í janúar 2016 og vinnur í dag hjá Advania. „Ég er s.s. í fjarvinnu héðan frá Eyjum, er staðsettur á þriðju hæðinni í Íslandsbankahúsinu, og er að forrita fyrir Advania. Við erum tveir starfsmenn Advania með skrifstofu þarna og hefur þetta gengið miklu betur en ég þorði að vona.“ Sindri segist stefna á frekara nám í framtíðinni en hvar og hvenær það verður er óráðið. „Ég er kannski ekki að fara strax eftir sumarið en einn daginn langar mig að fara út í nám, hvenær sem það nú verður. Ég hef bara svo gaman að fótbolta í augnablikinu að námið fær að bíða aðeins lengur.“ Aðspurður kvaðst Sindri eiga kærustu uppi á landi sem hefur heimsótt hann með reglulegu millibili á meðan hann er úti í Eyjum. „Hún var reyndar að flytja til Hong Kong í gær en fram að því kom hún stöku sinnum í heimsókn til mín en mestmegnis hef ég verið bara einn hérna sem er bara kósý.“ Þannig þú ert þá á leið til Hong Kong á næstunni? „Já, ætli ég kíki ekki í heimsókn þegar tímabilinu lýkur, láta aðeins sjá mig eins og hún lét sjá sig hérna. Þetta er svipað, bæði bara ferðalag,“ segir Sindri og hlær. Hann kann vel við sig í hlutverki leiðtogans Á þessu tímabili hefur Sindri verið í meira ábyrgðarhlutverki í liði ÍBV og borið fyrirliðabandið í fjarveru Andra Ólafssonar. „Andri er fyrirliðinn og ég varafyrirliði en hann hefur því miður verið meiddur og hef ég því tekið við þessu hlutverki. Þetta er svolítið öðruvísi en mjög skemmtilegt og ýtir mér lengra bæði innan sem utan vallar. Mér hefur bara litist vel á þetta hlutverk,“ segir Sindri sem hefur alltaf verið leiðtogi inni á vellinum. „Þegar ég var í yngri flokkunum var ég í þessu hlutverki í mínu liði en þetta er auðvitað aðeins meira en það.“ Þið eruð komnir alla leið í bikarúrslitaleik og hafið verið á góðri siglingu í þeirri keppni ólíkt deildarkeppninni, hvað veldur? „Þegar stórt er spurt. Satt að segja veit ég það ekki, við höfum verið misjafnir, verið upp og niður í deildinni og einhvern veginn alltaf hitt á góða leiki í bikarnum á móti. Við höfum ekki dottið á neitt „run“, unnið þrjá í röð og tapað einum. Við höfum verið að vinna, tapa og gera jafntefli leiki eftir leiki. Ég veit ekki hvort við höfum verið svona lengi að slípast saman eða annað slíkt. Við höfum ekki nýtt góðu kaflana í leikjum, ekki nýtt færin þegar þau gefast og á móti höfum við verið að leka inn mörkum á slæmu köflunum. Annars er ég ekki með neitt eitt svar við spurningunni, en ég held þó að þetta eigi eftir að breytast í seinni umferðinni, við ætlum að láta það breytast,“ segir Sindri. Töluverðar breytingar urðu á liði ÍBV í félagsskiptaglugganum en þá bætti liðið m.a. við sig miðvörðunum Brian Stuart McLean og David Atkinson. Hvernig líst þér á liðið eftir gluggann? „Bara mjög vel, nýju strákarnir hafa komið vel út og spilað tvo flotta leiki gegn Stjörnunni. Svo fóru einhverjir en það er bara eins og gengur og gerist í þessu. En ég held þetta sé bara góð viðbót við vörnina,“ segir Sindri.   Taka einn leik í einu Nú fer að styttast í bikarúrslitin. Hvernig undirbúa menn sig fyrir svona lagað, sérstaklega í ljósi þess að Þjóðhátíðin er helgina áður. „Það er einn deildarleikur á milli en við megum svo sem ekki við því að misstíga okkur þar heldur, við erum búnir að ströggla það mikið. En það sem ég hef heyrt og ég sjálfur kynnst í fyrra og núna í ár er að það ætla allir vinna fyrsta leik eftir Þjóðhátíð, sérstaklega til að sanna fyrir öllum að það sé ekkert rugl í gangi. En undirbúningurinn verður bara skemmtilegur, þetta er í sjálfu sér stærsti leikurinn á Íslandi nema eitthvað sérstakt gerist í deildinni, það komi upp úrslitaleikur í síðustu sem gerist ekki oft. Þannig þetta er stærsti leikurinn, flestir áhorfendur og ógeðslega gaman. Í fyrra var þetta allavega mjög spennandi en það er deildarleikur á móti Víkingi R. sem þarf að klára fyrst þannig það er ekki hægt að hugsa of langt. Þriðjudagskvöld, þá byrjar undirbúningur fyrir þennan stórkostlega leik,“ segir Sindri. Leikjaprógrammið hjá FH hefur verið þétt undanfarið þar sem liðið er einnig að berjast um sæti í Evrópudeildinni um þessar mundir. Sindri telur þó ólíklegt að Hafnfirðingarnir verði með hugann við eitthvað annað en bikarúrslitaleikinn þegar á hólminn er komið. „Þar sem þeir eru ekki öruggir með Evrópusæti eða neitt svoleiðis eins og staðan er í dag þá munu þeir gefa allt í þennan bikarleik alveg eins og við. Ég er ánægður að fá FH-ingana í úrslitum, þetta gerist ekki stærra. Við áttum að vinna þá hérna fyrr í sumar og við ætlum okkur að vinna þá núna.“ Stuðningurinn í sumar segir Sindri hafa verið fínn og töluvert betri en sumarið áður. „Við vorum einmitt að tala um það um daginn að við værum mjög ánægðir með hann. Við fengum góðan stuðning í Ólafsvík og á mörgum leikjum í höfuðborginni þannig það hefur oft verið góður hópur með okkur. Þetta skilar sér alltaf inn á völlinn og maður er alltaf var við það þegar við eigum hóp uppi í stúku. Við erum mjög ánægðir og hlökkum til að sjá sem flesta með okkur á Laugardalsvellinum næstu helgi.“    

Á góðum stað með hátíðina og gestir til fyrirmyndar

 Þjóðhátíðarnefnd hefur haft í mörg horn á líta undanfarna daga og vikur og þó aldrei meira en þá daga sem hátíðin stendur. Að þessu sinni gekk allt upp, gestir sjaldan eða aldrei verið fleiri, gott veður, frábær dagskrá og allir sem komu að framkvæmdinni með einum eða öðrum hætti unnu sín verk af fagmennsku. Allt byggir þetta á áratuga langri reynslu sem gerir kleift að taka á móti öllum þeim fjölda sem hingað stefnir alla jafna fyrstu helgina í ágúst. Þetta er mat Jónasar Guðbjörns Jónassonar, talsmanns þjóðhátíðarnefndar sem hafði í nógu að snúast alla helgina að sinna fjölmiðlum. „Heilt yfir fannst mér þeir jákvæðir þetta árið enda gekk þetta alveg eins og í sögu hjá okkur,“ segir Jónas. „Það kemur þó fyrir að maður verður hissa. Það var hringt í mig á mánudagsmorguninn þar sem við vorum að byrja að hreinsa Dalinn eftir nóttina. Ein spurningin var hvort það væri ekki mikið rusl og ég gat ekki neitað því. Ruslið var svo fyrirsögn á fréttinni en hvergi minnst á að Dalurinn var hreinsaður á hverjum morgni alla hátíðina eins og alltaf.“ Jónas segir að allt hafi gengið upp. „Veðrið spilaði með okkur þetta árið og hátíðin í ár er með þeim stærri og hún var alveg frábær í alla staði.“ Jónas er mjög ánægður með framlag allra sem komu að hátíðinni. „Listafólkið stóð sig mjög vel og þetta kom vel út á Stórasviðinu þar sem ljós, hljóð og tónlist sköpuðu eina stórkostlega heild og útkoman var einstök sýning tónlistar og lita.“ Jónas segir tónlistarfólk sækjast í að koma fram á þjóðhátíð og Ragga Gísla hafi talið það heiður að fá að semja þjóðhátíðarlagið í ár. „Við erum á góðum stað með hátíðina og fólkið sem hingað kemur er hresst og skemmtilegt. Vil ég koma á framfæri þökkum til allra gesta á þjóðhátíðinni fyrir þeirra þátt í frábærri hátíð.“ Jónas segir að lögreglan sé heilt yfir ánægð með hvernig til tókst. „Það sama má segja um aðra þætti. Flutningar á fólki með strætó gengu vel og eins er með gæsluna sem var mjög sýnileg og fljót til ef eitthvað kom upp á. Þetta fólks sækist eftir að koma hingað ár eftir ár sem er jákvætt vegna reynslunnar sem það hefur. Það sama má segja um fólkið sem starfar við hljóð og ljós, allt fagfólk á sínu sviði sem við leitum svo til um hvað má gera betur. Það er einn liðurinn í því að bæta okkur og vera á toppnum. Þá má ekki gleyma Bjarna Ólafi sem vex með hverju árinu sem þulur þjóðhátíðar og Ingó hefur aldrei verið betri í Brekkusöngnum en núna.“ Það eru margar hendur sem leggjast á árarnar í undirbúningi og framkvæmd þjóðhátíðar þar sem sama fólkið gengur í sömu störfin ár eftir ár. „Þar á ÍBV hauka í horni í tugi sjálfboðaliða, án þeirra væri þetta ekki hægt,“ segir Jónas að endingu.  

Hefur í þrígang komist í úrslit

 „Þetta er þriðji bikarúrslitaleikurinn minn, ég er búinn að vinna og tapa gegn KR. Fyrri leikinn vann ég 2:0 og seinni tapaðist 2:1,“ segir Kristján Guðmundsson sem kann sérstaklega vel við sig í bikarkeppnum. „Mér finnst þetta mjög gaman, mér finnst gaman að stilla upp liðinu fyrir bikarleiki. Númer eitt er að halda hreinu og svo að hafa skiptingarnar góðar og réttar.“ Maður þarf væntanlega að fara með allt annað hugarfar inn í svona leik eða hvað? „Í svona leikjum er bara sigur eða tap og ekkert þar á milli, það er öðruvísi en í þessum venjulegu leikjum. Ef þú lendir undir þá tekur þú öðruvísi áhættur en þú myndir gera í deildarleik þar sem þú ætlar kannski bara að jafna og láta það duga. Í bikarnum þarftu líka að komast yfir og þar er allt öðruvísi upplegg, það er alveg rétt. Í byrjun reynir maður jafnvel bara að setja strax mark og setja upp varnartaktík en það getur líka reynst hættulegt, að sitja bara og verjast frá upphafi, oftar en ekki gefur það ekki nógu góðan árangur.“ Í síðasta deildarleik, gegn Stjörnunni, féllu Eyjamenn einmitt svolítið langt aftur, með eins marks forystu og einum manni fleiri og endaði sá leikur með jafntefli. „Þarna kemur einhver hugsun í menn, röng hugsun, að menn þurfi ekki að hlaupa eins mikið og þá gerist þetta. Jú jú við fengum mjög góð færi með því að liggja til baka og beita skyndisóknum en við hittum bara ekki rammann. Hefði eitthvert skotið ratað í netið þá væri eflaust talað um að þetta væri brillíant leikur og vel útfærður. Ég meina við skorum alveg, Hafsteinn Briem skorar löglegt mark sem er dæmt af og svona lagað skiptir svo rosalega miklu máli. Hefðum við bara skorað í sókninni þar sem Stjörnumaðurinn er rekinn út af þá væri leikurinn búinn,“ segir Kristján og heldur áfram. „Sindri fær líka opið færi þar sem hann þurfti bara að hitta markið, Shahab fær líka færi undir lokin þar sem hann fær boltann á hægri fótinn en hann er örfættur. Við áttum mikla möguleika á því að klára leikinn. Við erum að æfa núna að spila fyrir framan vörnina og fara í gegnum hana. Við erum að skerpa á þessum hlutum því við þurfum að skora mörk til að koma okkur upp úr fallsæti og upp töfluna og náttúrulega til að vinna þennan bikarleik. Það er deildarleikur næst og við þurfum að skora í honum til að vinna stigin og það er það sem við erum fókuseraðir á núna.“ Aðspurður út í stöðuna á hópnum segir Kristján ekki alla leikmenn leikfæra. „Hafsteinn Briem meiddist í deildarleiknum gegn Stjörnunni og við vitum ekki hvernig verður með hann, það er tvísýnt. Jónas Næs fékk blóðeitrun í leiknum í Garðabænum og hefur ekki æft síðan þá. Með þessa tvo vitum við ekki en aðrir eru heilir.“   Andstæðingurinn erfiður Hvernig horfir þessi bikarleikur við þér, sérstaklega í ljósi leikjaprógrammsins hjá FH-ingum? „FH fer í gang þegar þeir spila þessa Evrópuleiki og spila tvo leiki í viku, þá komast þeir í sinn takt. Þeir fíla það í botn og mér finnst þeir hafa orðið betri eftir það, það var eins og þeir þurftu eitthvað smá adrenalín. Það er ábyggilega búið að setja mikla pressu á þá að standa sig vel þar og ná inn fjármunum. Svo bættu þeir við tveimur mönnum til að höndla þetta leikjaálag betur. Þeir eru erfiðir, það er erfitt að verjast þeim og sækja á þá, þú vilt helst pressa á þá en þú mátt ekki fara of hátt á þá því þá fara þeir í gegnum þig. Þannig að setja upp leik gegn þeim getur verið flókið,“ segir Kristján en FH spilar ekki næsta Evrópuleik fyrr en 17. ágúst og ættu því að vera álíka ferskir og Eyjamenn í leiknum á laugardaginn. Stuðningurinn mun væntanlega skipta sköpum í þessum leik þannig það hlýtur að vera markmið að fá eins margt fólk og hægt er á leikinn? „Já, ég heyri það að ráðið er að reyna að setja upp bátsferðir og rútuferðir og reyna að gera það eins auðvelt og hægt er fyrir Eyjamenn að komast á leikinn með sem minnstum kostnaði. Svo er bara endilega að þegar fólk er komið á völlinn og er að hvetja, að halda því svolítið lengur gangandi, þetta kemur stundum í kippum. Við þurfum á öllum stuðningi að halda, út allan leikinn. Þegar við vorum komnir yfir á móti Stjörnunni í Garðabænum þá vorum við að reyna að koma skilaboðum upp í stúku að reyna að detta ekki svona oft niður heldur halda áfram, það skiptir gríðarlegu máli.,“ segir Kristján. Nú kom fyrsti Bikartitillinn ´68, svo ´72, næst ´81 og núna síðast ´98. Bilið er augljóslega alltaf að lengjast, er ekki löngu kominn tími? „Það skiptir miklu máli fyrir starfið að taka inn titil, það er engin spurning með það. Liðið var nærri því í fyrra en við þurfum bara að taka eitt skref í viðbót og klára þennan úrslitaleik. Við eigum alveg möguleika en við þurfum að eiga góðan leik, við vitum það. Það hafa verið þessi topplið í deildinni sem hafa verið að vinna bikarinn undanfarin ár, það hefur verið minna um óvænt úrslit en eins og ég segi, það væri gríðarlega gott fyrir deildina og félagið að fá inn titil núna.“ Segir Kristján jafnframt að bikartitill gætir reynst liðinu dýrmætur fyrir seinni hluta deildarinnar. „Sigur myndi auka sjálfstraust okkar alveg gríðarlega, alveg margfalt og við myndum tvímælalaust koma margfalt öflugri inn í deildina og ekki veitir af, við megum ekki tapa mikið fleiri leikjum.“   Ánægður með nýju leikmennina En er Kristján ánægður með nýju varnarmennina sem komu í glugganum? „Já, þegar þeir spila þá er ekkert vesen, þeir eru yfirvegaðir og þekkja leikinn vel og hvernig á að spila hann. Svo tala þeir gríðarlega vel og öll skilaboð og færslur hafa gengið vel, eitthvað sem liðið hefur vantað og hefur þetta kveikt í öðrum leikmönnum eins og ég vonaðist eftir. Við erum búnir að spila tvo leiki eftir að þeir komu, einn sigur og eitt jafntefli og vonandi helst sá taktur áfram. Vonandi náum við líka inn spænska miðjumanninum sem er að æfa með okkur, það er eiginlega nauðsynlegt, hann er sóknarsinnaður og myndi auka gæðin í sókninni. Það var eitthvað vesen með pappíra úti á Spáni og er fast í kerfinu. En þetta er ekki búið, við sendum inn alla pappíra á réttum tíma þannig það er enn möguleiki,“ segir Kristján sem er sannfærður um að sá spænski muni bæta liðið. „Við reyndum að finna þannig leikmann að það yrði niðurstaðan að hann myndi bæta liðið en þú veist aldrei. Eins og einhver sagði, það skiptir ekki máli hvort þú fengið Messi hingað, það er ekki víst að það myndi virka.“

Alls 47 fíkniefnamál, átta líkamsárásir og þrjú kynferðisbrot

Lögregla telur 16.000 manns hafa sótt þjóðhátíð Vestmannaeyja 2017 og er hátíðin með þeim stærstu sem haldin hefur verið. Í allt sinntu 25 lögreglumenn löggæslu á þremur lögreglubifreiðum auk 150 gæslumanna sem lúta stjórn lögreglu. Tveir sérsveitarmenn Ríkislögreglustjóra stóðu einnig vaktina. Sex óeinkennisklæddir lögreglumenn sinntu fíkniefnaeftirliti og höfðu sér til aðstoðar fíkniefnaleitarhunda. Starfandi læknir var í Dalnum auk heilbrigðisstarfsfólks, áfallateymis, barnaverndar og sjúkraflutningamanna og gengu allir sólarhringsvaktir. Þetta kemur fram í samantekt lögreglu eftir þjóðhátíðina þar sem segir að umferð hafi gengið vel og hringtorg í Dalnum komið vel út og nokkuð vel gekk að aðgreina gangandi vegfarendur frá akandi. Á mánudag voru 17 teknir fyrir ölvunarakstur og akstur um 30 bíla stöðvaður á Landeyjarhafnarvegi í umferðareftirliti lögreglunnar á Suðurlandi. Heildarfjöldi fíkniefnamála var 47 að þessu sinni, árið 2016 voru málin 30 og árið 2015 72 talsins. Grunur er um sölu- og dreifingu í um tveimur þessara mála. Lögregla er ánægð með árangurinn og hefur það sýnt sig að öflugt fíkniefnaeftirlit skilar árangri. Mest var haldlagt af hvítum efnum og óvenju lítið af öðru. Fíkniefnaleitarhundar eru ávallt notaðir við leit á þjóðhátíð og það kann að hafa áhrif á það hvaða efni fólk hefur meðferðis. Átta líkamsárásir komu inn á borð lögreglu og þar af tvær alvarlegar þar sem um beinbrot í andliti er að ræða. Eitt heimilisofbeldismál kom upp og eitt brot gegn valdstjórn þar sem veist var að lögreglumanni. Tvö húsbrot, þrjú eignaspjöll, tveir þjófnaðir og sjö brot vegna ölvunar og óspekta. Þrjú kynferðisbrot eru til rannsóknar hjá lögreglu eftir helgina enn sem komið er. Tilkynnt var um kynferðisbrot skömmu eftir miðnætti aðfaranætur laugardags á tjaldsvæði í Herjólfsdal. Aðilar þekkjast og var sakborningur handtekinn skömmu eftir tilkynningu til lögreglu. Kæra liggur ekki fyrir í málinu. Eftir miðnætti aðfararnætur sunnudags var lögreglu tilkynnt um kynferðisbrot er á að hafa átt sér stað snemma morguns laugardag í heimahúsi. Aðilar þekkjast og var sakborningur handtekinn skömmu eftir tilkynningu til lögreglu. Kæra liggur fyrir í málinu. Aðfaranótt sunnudags var lögreglu tilkynnt um kynferðisbrot á tjaldsvæði í Herjólfsdal. Aðilar þekkjast og var sakborningur handtekinn skömmu eftir tilkynningu til lögreglu. Kæra liggur ekki fyrir í málinu. Lögregla sinnti fjölmörgum verkefnum yfir hátíðina og leysti vel úr öllum verkefnum sem komu inn á borð hennar. Að mati lögreglu gekk löggæsla vel. Viðbragð í sjúkraskýli, hjá áfallateymi og barnavernd var gott og var fjölmörgum sinnt vegna mismunandi erfiðleika. Það er miður að upp hafi komið afbrot en áhersla var á vönduð og fagleg vinnubrögð vegna þeirra þar sem rannsóknarhagsmunir og hagsmunir brotaþola voru settir í forgang.  

Grunaður um kynferðisbrot gagnvart yngri bróður

Í frétt sem birtist á vísi.is í gær segir að hæstiréttur hafi fellt úr gildi ákvörðun Lögreglustjórans í Vestmannaeyjum frá 26. júlí þess efnis að lögráða piltur á menntaskólaaldri skuli sæta nálgunarbanni í þrjá mánuði á meðan kynferðisbrot hans gegn yngri bróður eru til rannsóknar hjá yfirvöldum.   Enn fremur segir að "vorið 2016 óskaði barnaverndarnefnd Vestmannaeyja að lögregla tæki til rannsóknar langvarandi ætluð kynferðisbrot piltsins sem hafði greint sálfræðingi frá kynferðislegum hugsunum og löngunum sínum. Þá greindi hann frá kynferðislegum athöfnum með yngri bróður sínum.   Í þriðju skýrslutöku hjá lögreglu í september í fyrra greindi hann frá kynlífi þeirra sem hann hefði oftast átt upptökin að en þó með samþykki þeirra beggja. Í þeim tilfellum sem bróðirinn hefði neitað hefði hann suðað í honum til að fá sínu fram.   Drengirnir hafa síðan sótt sálfræðimeðferð, sá yngri í barnahúsi en eldri svokölluð SÓK meðferðarviðtöl hjá Barnaverndarstofu en um er að ræða meðferðarúrræði fyrir börn og ungmenni sem sýnt hafa óæskilega kynferðislega hegðun.   Eldri bróðirinn er metinn sakhæfur af geðlækni og hafi enga alvarlega geðsjúkdóma. Hann sé þó haldinn barnagirnd og hafi alvarlegar kynferðislegar hugsanir.   Rannsókn málsins hjá lögreglu er lokið og er það nú á borði héraðssaksóknara til ákvörðunar um hvort gefin verði út ákæra í málinu.   Lögreglustjóri byggði ákvörðun sína um nálgunarbann meðal annars á þeim rökstudda grun sem pilturinn liggur undir og þeirri staðreynd að bræðurnir hafi verið í samskiptum í sumar. Engar upplýsingar væru um það hvort pilturinn væri enn hjá sálfræðingi en hann flutti af landi brott tímabundið.   Í niðurstöðu Hæstaréttar kemur fram að ekkert benti til þess að eldri bróðirinn hefði brotið gegn þeim yngri síðan í apríl í fyrra. Þá voru foreldrarnir afar ósáttir um birtingu lögreglustjóra á nálgunarbanninu í júlí. Kváðu þau að verið væri að vinna í málinu og gengi það vel. Pilturinn mun vera á leiðinni í annan landshluta í ágúst og dvöl hans í Vestmannaeyjum í sumar slitrótt.   Verjandi piltsins lagði fram staðfestingu á sálfræðiviðtölum sem pilturinn fór í 29. júlí og svo um fjörutíu tíma á tímabilinu mars til desember 2016. Síðan hafi hann verið í eftirfylgd hjá sálfræðingnum og ekkert bendi til þess að hann hafi sýnt af sér óviðeigandi hegðun síðan síðasta vor. Sex Skype-viðtöl hafi verið á tímabilinu janúar til júní og pilturinn farið í viðtal við komu til landsins í júní. Sömuleiðis var lögð fram staðfesting um skólavist piltsins í öðrum landshluta frá og með ágúst þar sem móðirin mun búa á sama svæði.   Hæstiréttur felldi ákvörðunina úr gildi og vísaði til þess að nálgunarbann skuli aðeins beitt þegar ekki þyki sennilegt að friðhelgi verði vernduð með öðrum eða vægari hætti. Ekki eigi að fara strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Var sérstaklega litið til þess að ekkert benti til brots gegn brotaþola frá því í apríl í fyrra, árangur af meðferð hefði verið jákvæður og pilturinn að flytja frá Vestmannaeyjum. Ekkert liggi fyrir um að hann sé væntanlegur þangað. Miðað við það sé ekki þörf á nálgunarbanni að mati Hæstarétts þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að vægari úrræði gætu ekki dugað."  

Vonar að Þjóðhátíðin fari vel fram

„Allur undirbúningur fyrir komandi hátíð er með hefðbunum hætti. Það verða á þriðja tug lögreglumann sem verða við vinnu þessa hátíð og þrír fíkniefnahundar. Það verða 18 lögreglumenn á mesta álagstímanum, sem er á nóttinni. Við verðum með aðstoð frá Ríkislögreglustjóra þar sem tveir sérsveitarmenn munu starfa á hátíðinni,“ segir Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn um viðbúnað vegna hátíðarinnar. „Eins og áður verður lögð mikil áherlsa á eftirlit með neyslu og sölu fíkniefna á Þjóðhátíð. Það verða sex lögreglumenn með þrjá fíkniefnahunda sem verða í þessu eftirliti. Þessu til viðbótar verða um 100 gæsluaðilar á vegum þjóðhátíðarnefndar. Auk annarrar þjónustu, eins og sjúkragæslu, læknisþjónustu, sálrænni aðstoð og frá félagsþjónustu Vestmannaeyjabæjar.“ Þá segir Jóhannes að þjóðhátíðarnefnd hafi bætt enn frekar við eftirlitsmyndavélum í Dalnum og þar verður stöðugt eftirlit. „Það er von mín að þessi hátíð fari vel fram. Veðurspáin lítur vel út eins og staðan er núna og það verður allt auðveldar ef veður er gott. Ég hvet foreldra að fylgjast með bönum sínum og virða útivistartíma. Þá hvet ég sérstaklega heimamenn að vera með augun opin ef þeir verða vitni af afbroti og láta gæslu og lögreglu vita. Þetta er nú einu sinni hátíð heimamanna sem er annt um að hún fari vel fram,“ sagði Jóhannes.  

Bjargsigið var draumur sem rættist

 Bjartur Týr Ólafsson hefur undanfarin ár séð um bjargsigið á þjóðhátíð en bjargsigið hefur verið fastur liður í Herjólfsdal í hart nær 100 ár. Í samtali við Eyjafréttir segist Bjartur hafa fengið áhuga á klifri og slíku ungur að aldri en í dag hefur þessi áhugi leitt hann út í fjallaleiðsögn er hann hefur lifibrauð sitt af. „Ég er að vinna sem fjallaleiðsögumaður fyrir íslenska fjallaleiðsögumenn og er mest staðsettur í Skaftafelli,“ segir Bjartur en þarna hefur hann starfað í að verða fjögur ár. Hvenær byrjaðir þú að fá áhuga á sigi, klifri og öðru slíku? „Ég fékk áhuga á klifri í gegnum pabba en með honum fór ég ungur út í Suðurey í lundaveiði og eggjatínslu. Áhuginn þróaðist síðan yfir í Björgunarfélagið og síðar út í fjallaleiðsögn,“ segir Bjartur sem svarar því jafnframt játandi aðspurður hvort bjargsigið á þjóðhátíð hafi verið draumurinn. „Já, ætli það hafi ekki verið draumur. Ég man vel eftir bjargsiginu frá því að ég var krakki og mér fannst það alltaf bæði rosalega spennandi og fallegt.“ Er þetta ekkert óhuggulegt eða ertu bara orðinn vanur þessu? „Ég er alltaf frekar rólegur yfir siginu. Hef bara mjög gaman af því. Ég æfi sigið alltaf í vikunni fyrir þjóðhátíð til þess að síga á réttum hraða, ekki of hratt og ekki of hægt.“ Hvernig lýst þér á á Þjóðhátíðina í ár? „Ég er spenntur fyrir hátíðinni eins og alltaf. Einhvern veginn nær Þjóðhátíðin alltaf að toppa þá síðustu,“ segir Bjartur sem lætur sig ekki vanta. „Ég hef alltaf mætt og á ekki von á því að það breytist í bráð.“

Tíðindi af andláti mínu eru stórlega ýkt!

Hún Gróa vinkona mín á Leiti lifir góðu lífi og heimsækir Vestmannaeyjar reglulega. Hér þekkir hún hvern krók og kima og ekki er til sá Eyjamaður sem hún ekki þekkir með nafni að minnsta kosti. Hróður hennar berst víða og hún vandar vel til verka í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur, þá sérstaklega umtali og kjaftasögum af vinum sínum og kunningjum. Ein slík kjaftasaga, safarík og spennandi, barst á borð til hennar fyrr í mánuðinum. Sú ágæta saga hljóðar, hvorki meira né minna en upp á andlát mitt! Ég get fullvissað ykkur um að sú er ekki raunin, enda veit hún Gróa stundum ekki hvort hún er að koma eða fara. Ég lifi og þér munuð lifa. En uppruni sögunnar á sér þó augljósar skýringar. Þannig er nefnilega mál með vexti að á dögunum seldi bræðrafélag, er kennir sig við mitt nafn, næststærsta djásn félagsins, tjaldið. (Stærsta djásn félagsins er auðvitað – og verður um alla tíð – fallegasta mannvirkið í Dalnum, Vitinn. Svo fallegt er mannvirkið að bæjarstjóri Vestmannaeyja, Elliði Vignisson, taldi sig knúinn til að útnefna það með þeim titli við formlega athöfn fyrir fáeinum árum).   Hýsti einhver alræmdustu partýhöldin Satt að segja veit ég ekki hvað þeim kumpánum, Vinum mínum, stóð til með þessum viðskiptum. Blessað tjaldið, sem hýst hefur Vitavígsluna og einhver alræmdustu partýhöld þjóðhátíða síðustu 13 ára, er nú horfið á brott í hendur einhverra vanvita sem vita sjálfsagt ekki einu sinni hvað tjaldhæll er. Ég get vart orða bundist; er í sannleika sagt bara alveg brjálaður! Og heimilislaus í þokkabót! Og hvað verður það næst? Ætla þeir að selja Pálma í Stórhöfða Vitann? Þá fyrst fengi nú Tuborgtjaldið einhverja alvöru samkeppni. Nei, meðan ég dreg andann fer Vitinn ekki fet. Þetta tjald má til fjandans fara í ljósi þess sem orðið hefur en Vitinn skal halda áfram að lýsa okkur veginn í Dalinn og úr honum aftur undir merkjum VKB. Hann er nefnilega ekki bara fallegasta mannvirkið í Dalnum, heldur einnig það mikilvægasta. Það er meira en hefur nokkurn tímann verið hægt að segja um þetta andskotans tjaldskrípi! Tárvotur og geðhrærður bið ég ykkur vel að lifa, óska ykkur gleðilegrar Þjóðhátíðar og við sjáumst hress og kát á Vitavígslu VKB, fimmtudaginn 3. agúst kl. 22:35, við rætur fallegasta – og mikilvægasta – mannvirkis Dalsins.  

Rætt við skáta: Vestmannaeyjar falllegar en vindasamar

 Blaðamaður Eyjafrétta gerði sér ferð suður í Skátastykki sl. föstudag og ræddi við nokkra vaska skáta sem þar voru við ýmis störf. Það er óhætt að segja að hljóðið í þeim hafi verið gott þó greina mætti smá þreytu enda prógrammið síðustu daga búið að vera langt og strangt.       Nafn: Pedro Rasia Schiefferdecker. Aldur: 18. Þjóðerni: Brasilía. Hvað hefur þú verið lengi í skátunum: 12 ár. Af hverju ákvaðstu að byrja: Öll fjölskyldan er í skátunum, svo hef ég gaman að útilegum og náttúrunni. Andinn í skátunum er líka mjög góður. Hvernig hefur ferðin verið hingað til: Algjörlega frábær. Einhverjir hápunktar: Útsýnið af Heimakletti. Hvernig líkar þér Vestmannaeyjar: Allt mjög lítið í sniðum og ströndin minnir mig á strendurnar í Brasilíu.     Nafn: Chris. Aldur: 24 ára. Þjóðerni: Bretland. Hvað hefur þú verið lengi í skátunum: 19 ár. Af hverju ákvaðstu að byrja: Mamma mín er leiðtogi, þess vegna ákvað ég að prófa. Hvernig hefur ferðin verið hingað til: Frábær, síðan það fór að lægja. Einhverjir hápunktar: Útsýnið af Eldfellinu og hitinn sem er enn í fjallinu. Hvernig líkar þér Vestmannaeyjar: Mjög vel, allt mjög fallegt en það er mjög vindasamt.     Nafn: Lois Bosschaart. Aldur: 18. Þjóðerni: Holland. Hvað hefur þú verið lengi í skátunum: Ég hef verið í 13 ár. Af hverju ákvaðstu að byrja: Foreldrar mínir eru skátar svo ég ákvað bara líka að prófa. Hvernig hefur ferðin verið hingað til: Við komum til landsins á sunnudaginn en hingað til Vestmannaeyja á þriðjudaginn og skemmdist tjaldið okkar svo fljótlega í vindinum sem var þann daginn. Einhverjir hápunktar: Í gær fórum við á Heimaklett og það var mjög fallegt, útsýnið alveg frábært. Hvernig líkar þér Vestmannaeyjar: Falleg náttúra og öðruvísi en í Hollandi þar sem allt er flatt. Húsin eru líka mjög frábrugðin okkar, mörg hver hvít á lit, en okkar eru flest gerð úr múrsteinum. Svo er bara magnað að geta horft yfir alla Eyjuna uppi á Heimakletti.     Nafn: Luiza Helena Sommer. Aldur: 25. Þjóðerni: Brasilía. Hvað hefur þú verið lengi í skátunum: 19 ár. Af hverju ákvaðstu að byrja: Öll fjölskyldan var í hreyfingunni, svo hef ég gaman að útilegum, ferðalögum og náttúrunni. Ég bý í höfuðborginni þannig að það er gott að komast stundum í burtu og í leiðinni leggja mitt að mörkum fyrir samfélagið í gegnum skátana. Hvernig hefur ferðin verið hingað til: Ísland er algjör draumur, fallegt útsýni og góð tónlist. Einhverjir hápunktar: Ekki fjallgöngurnar þar sem ég er lofthrædd. Höfnin fannst mér mjög falleg þó svo lyktin þar geti verið mjög vond. Fíllinn í fjallinu hjá golfvellinum er líka mjög flottur. Svo má ekki gleyma hvað fólkið hér er indælt, það er ekki sjálfgefið. Hvernig líkar þér Vestmannaeyjar: Mjög vel, hér er hægt að komast allt fótgangandi og uppi á fjöllunum er 360 gráðu útsýni.     Nafn: Zoe Bosschart. Aldur: 20. Þjóðerni: Holland. Hvað hefur þú verið lengi í skátunum: 16 ár. Af hverju ákvaðstu að byrja: Það er eiginlega bara sama ástæða og hjá Lois, foreldrar okkar voru leiðtogar í skátunum og við ákváð- um bara að fylgja þeirra fordæmi án þess að þau þrýstu eitthvað á okkur. Hvernig hefur ferðin verið hingað til: Ferðin hefur verið fín þrátt fyrir smá skakkaföll með tjaldið eins og Lois lýsir. Einhverjir hápunktar: Hápunkturinn fyrir mig var Eldfell, fjarsjóðsleitin þar og sögurnar af Tyrkjunum. Svo má ekki gleyma lundanum Tóta. Hvernig líkar þér Vestmannaeyjar: Við höfum verið hér í fjóra daga og virðist samfélagið vera mjög náið, sem er mjög skemmtilegt.     Nafn: Becky Waterton. Aldur: 23 ára. Þjóðerni: Bretland. Hvað hefur þú verið lengi í skátunum: 19 ár. Af hverju ákvaðstu að byrja: Það kom kynning í skólann minn og allir vinir mínir prófuðu og mér líkaði það bara vel. Hvernig hefur ferðin verið hingað til: Mjög fín, ég hef komið áður til Íslands en það er gaman að koma alla leið til Vestmannaeyja og gott að vera skáti hér. Svo eru Vestmannaeyjar ekki eins túristavæddar eins og Ísland sem mér finnst gott. Einhverjir hápunktar: Að sjá lunda á Stórhöfða og fara í göngu upp Molda og enda í heitu pottunum. Hvernig líkar þér Vestmannaeyjar: Fallegar, sérstaklega í sólsetri. Þetta er góður staður fyrir skátabúðir.  

Dásamlegt mót sem sýnir okkur hvað skátarnir eru góð uppeldishreyfing - myndir

Vestmannaeyjar voru hluti af stærsta skátamóti Íslandssögunnar sem haldið var í síðustu viku. Alls tóku yfir 5000 skátar á aldrinum 18 til 25 ára frá 95 löndum þátt í mótinu, World Scout Moot. Þátttakendur dreifðust um allt land og komu 410 frá 50 löndum til Vestmannaeyja þar sem Skátafélagið Faxi tók á móti þeim. Margt var á dagskrá og var tíminn nýttur til góðra verka, hefbundinna skátastarfa og að sjálfsögðu var brugðið á leik. Fengu gestir að kynnast íslensku veðri í allri sinni fjölbreytni en allt gekk að óskum og allir héldu héðan glaðir.   „Þetta voru um 410 manns sem komu hingað, 360 þátttakendur og 50 manna starfslið,“ segir Frosti Gíslason, félagsforingi Faxa sem ásamt Ármanni Höskuldssyni mótstjóra í Eyjum, Sif Pálsdóttur, landslagsarkitekt, Friðriki Þór Steindórssyni umsjónarmanni framkvæmda, Marínó Sigursteinssyni, pípara, Flóvent Mána Theodórssyni, tæknistjóra, Páli Zóphóníassyni f.v. félagsforingja, Gísla M. Sigmarssyni framkvæmdamanni og Smára McCarthy alþingismanni að undirbúningi og framkvæmd mótsins. „Skátarnir komu á þriðjudagskvöldið og settu upp tjaldbúðir í Skátastykkinu en vegna veðurs var ákveðið að setja ekki upp stóru matartjöldin sem sýndi sig að vera rétt ákvörðun. Um nóttina rauk hann upp í eina 32 metra á sekúndu í kviðum og brotnuðu súlur í 12 tjöldum. Fleiri voru í vandræðum því farangur átta gesta hafði orðið eftir í Barcelóna.“ Segir Frosti að þarna hafi Eyjamenn sýnt hvaða mann þeir hafa að geyma þegar fólk lendir í vandræðum. „Ýmsir hlupu til og lánuðu hlý föt og lánuðum við skátarnir í Faxa þátttakendum nokkur tjöld sem þeir fóru svo með á Úlfljótsvatn þar sem hópurinn verður síðustu fjóra dagana.“   Kenndu ný skátatrix Eiginleg dagskrá hófst svo á miðvikudagsmorguninn og var full dagskrá alveg fram að brottför á laugardaginn. „Það var boðið upp á göngur á Heimaklett og Eldfell ásamt hinni rómuðu 7 tinda göngu, róið á kappróðrarbátum, synt í sjónum í flotgalla. Gestum var boðið í Sagnheima og Sæheima sem var vel þegið og svo fóru allir að sjálfsögðu í sund og var slegið upp sundlaugarpartý fyrir mannskapinn. Erlendu skátarnir hittu einnig skátakrakkana okkar héðan úr Eyjum og héldu með þeim skátafundi, fóru í leiki og kenndu þeim ný skátatrix“ Stóra skemmtunin var á fimmtudagskvöldið í Skátastykkinu. „Þá sáu gestirnir um að skemmta sér sjálfir og haldinn var varðeldur. Elliði bæjarstjóri kom og þakkaði fyrir frábæra samfélagsvinnu skátanna í Eldfelli og Klifi og víðar og endaði hann ræðu sína með því að fá skátana í einn fjöldasöng með sér og söng af stórkostlegri list. Sæþór Vídó tók nokkur lög sem allir gátu sungið og dansað með. Það var allt í boði þetta kvöld, söngur, gleði, skemmtun og dans og mikið fjör.   Útlögum sýnd virðing Ein eftirminnilegasta stundin var þegar við vígðum húsið okkar formlega. Það heitir nú Útlagar til heiðurs Skátaflokknum Útlögum sem brottfluttir skátar frá Vestmannaeyjum stofnuðu í Reykjavík fyrir 75 árum en við fengum sjálfan Óskar Þór Sigurðsson útlaga til að koma og afhjúpa skiltið á húsinu.“ „Á föstudagskvöldið var slegið upp sundlaugarpartíi með tónlist og á eftir bauð Grímur kokkur öllum upp á humarsúpu sem sló svo sannarlega í gegn. Á eftir var varðeldur og farið í að ganga frá matartjöldunum,“ segir Frosti en laugardagurinn fór svo í frágang og tiltekt áður en haldið var á brott.   1200 vinnustundir „Það var gaman að upplifa þetta samfélag þar sem allir voru tilbúnir að leggja sitt af mörkum. Við komum að ýmsum samfélagverkefnum, eins og sáningu í Eldfelli sem er sameiginlegt verkefni Vestmannaeyjabæjar og Vinnslustöðvarinnar. Við bárum á í Klifinu og sáðum fræi, gróðursettum tré í Skátastykkinu og komum þar fyrir leiktækjum. Í allt lagði þessi 400 manna hópur fram 1200 klukkustundir í vinnu á meðan á dvölinni stóð.“ Frosti segir að allir hafi farið héðan alsælir. „Fólk heillaðist af náttúru Eyjanna og ég veit að það er verið að skipuleggja skátaferðir til Vestmannaeyja. Það komu ekki upp nokkur vandamál og öll umgengni og tiltekt var til mikillar fyrirmyndar. Eftir blástur fyrstu nóttina brast á hann á með blíðu. Það var dásamlegt að vera þátttakandi í þessu móti sem sýnir okkur hvað skátarnir eru góð uppeldishreyfing.“ Frosti vill koma á framfæri þakklæti til þeirra sjálfboðaliða og fyrirtækja sem lögðu þeim lið við undirbúninginn og framkvæmd mótsins. „Þetta fólk hjálpaði okkur að halda frábært mót og skapa skemmtilegar minningar hjá öllum sem hér voru og munu vara ævina á enda,“ sagði Frosti að lokum.   Hér má sjá myndir frá mótinu.

Hvað er brekkusöngurinn í þínum huga?

  Einar Gylfi Jónsson: Sunnudagskvöldið orðið að hápunktinum   Ef ég man rétt var þjóðhátíðin eiginlega búin á sunnudeginum hér áður fyrr og sumir tóku saman þá. Þegar ég kom á Þjóðhátíðina 1979 eftir nokkurt hlé var aldeilis orðin breyting á, þökk sé brekkusöngnum. Það er óhætt að segja að Árni Johnsen eigi þessa frábæru hefð skuldlaust. Með ólíkindum hvernig honum tókst ár eftir ár að hrífa allan Dalinn með sér. Engin spurning að í hugum margra er sunnudagskvöldið orðið að hápunkti þjóðhátíðarinnar.     Stefán Sigurjónsson: Ein af snilldarhugmyndum Árna   Brekkusöngurinn á sunnudagskvöldi þjóðhátíðar er ein af þessum snilldarhugmyndum sem Árni Johnsen fær í kollinn sinn. Árni er þekktur fyrir að fá allskonar hugmyndir, en hann er bara þannig að hann framvæmir þær allar , eða næstum því allar. Sunnudagskvöld þjóðhátíðar var svolítið vandræðalegt, „svona afgangs“ eins og þingmaðurinn myndi kannski orða það, það vantaði einhvern lokahnykk á þjóðhátíðina. Þá var alveg tilvalið að kveikja varðeld og spila og syngja saman því það er alltaf svo gaman. Enda er orðið „brekkusöngur“ orðið þekkt fyrirbrigði víða um land, jafnvel þó öngvar séu brekkurnar. Hitt er svo annað mál að Árni hefði átt að hafa vit á því að stíga til hliðar miklu fyrr en hann gerði. Það komu oft upp pínlegar aðstæður því hann gerði sér ekki grein fyrir stöðu sinni. Það var bara sorglegt að vera vitni að því þar sem Árni á brekkusönginn, það verður aldrei frá honum tekið.     Guðrún Erlingsdóttir: Samhljómur þúsunda manna úti í náttúrunni   Brekkusöngur er einn af hápunktum þjóðhátíðar og er einhvern veginn svo samgróinn hátíðinni að það er eins og hann hafi alltaf verið hluti af henni. Ég verð að játa að mér fannst meiri sjarmi yfir brekkusöngnum þegar kveikt var á bál á stóra danspallinum. Eftirvæntingin hófst þegar byrjað var að hlaða upp bálsköstinn og slökkviliðsbílinn mæti. Svo mætti Árni Johnsen með gítarinn. Einn sláttur og svo byrjaði söngurinn. Samhljómur þúsunda manna úti í náttúrunni með það eitt að markmiði að dvelja í núinu, skemmta sér og syngja saman. Við megum ekki gleyma okkur þegar kemur að brekkusöngum og þynna hann út í það að verða eins og hver annar brekkusöngur á bæjarhátíðum og útiskemmtunum. Ég er ekki að gera lítið úr þeim söng enda væntanlega afsprengi brekkusöngsins sem Árni Johnsen skapaði og framkvæmdi á Þjóðhátíð 1977. Heldur er ég að benda á það að brekkusöngurinn hefur verið og á að vera áfram mikilvægt verkfæri til þess að viðhalda menningararfi okkar Eyjamanna. Það er því mikilvægt að mínu mati að undirstaða brekkusöngsins séu Eyjalögin. Að sjálfsögðu í bland við önnur lög, ný og gömul. Það má heldur ekki gleyma barnalögum í Brekkunni. Allt hefur sinn tíma og hlutirnir breytast í tímans rás. Þegar Árni Johnsen hætti að stjórna söngnum og Ingó veðurguð tók við fannst mér hann gera það vel. En ég vil hvetja Ingó og þjóðhátíðarnefndina til þess að gleyma ekki upprunanum á sama tíma og fjölbreytni þarf að vera til staðar þannig að allir geti notið þess að taka þátt í brekkusöngnum. Brekkusöng á þjóðhátíð á Árni Johnsen skuldlausan og hafi hann þökk fyrir allar góðar stundir sem ég hef átt í með fjölskyldu og vinum í samsöng í fallegum fjallasal. Hafi hann einnig þökk fyrir menningararfinn sem brekkusöngur í Dalnum skilur eftir sig.     Bergþóra Þórhallsdóttir: Þá skildi eiginmaðurinn hvað ég átti við með þjóðhátíð   Brekkusöngurinn er eitt af megineinkennum hátíðarinnar og mér finnst hann hápunkturinn. Það er eitthvað sérstakt við það þegar allur þessi fjöldi tekur þátt og þá finnst mér Eyjalögin alltaf standa upp úr. Nokkur þjóðhátíðarlög virka vel til fjöldasöngs og eru sungin ár eftir ár og lifa með hátíðinni og jafnvel utan hennar. Söngur sameinar líka fólkið sem kemur víða að og mér finnst mjög gaman að því þegar ég sé gesti taka undir í lögum sem fjalla um mannlífið og náttúruna í Eyjum. Þau eru alveg einstök, eins og Vestmannaeyjar eru. Punkturinn yfir i-ið eru svo blysin í brekkunni sem telja árin sem þjóðhátíðin hefur verið haldin og þjóðsöngurinn sunginn á sama tíma í Brekkunni með stolti og virðingu. Ég vísa í orð mannsins míns þegar hann upplifði stemninguna í brekkunni og blysin í fyrsta skipti "Já, nú skil ég hvað þú átt við með þjóðhátíð - VÁ".         Biggi Nielsen á Hálsi: Hefð sem þarf að ríghalda í   Í mínum huga er brekkusöngurinn og sú stemning sem skapast í kringum hann einn af hápunktunum á hverri þjóðhátíð. Ef það er hægt að tala um brekkusöng sem vörumerki þá á Árni Johnsen töluvert mikið í því, engin spurning. Þegar ég upplifði þetta fyrst 1994 þá fannst mér einkenni hvað lagavalið var skemmtilegt og hvernig hann raðaði þessu upp og byggði upp ósvikna gleði. Aðalmálið í þessu eru réttu lögin í ákveðinni röð og á réttu tempói, ath. rétt tempó, það er jú auðvitað söngurinn, fjöldasöngurinn sem heldur þessu saman. Þrátt fyrir að Árni væri ekki sá flinkasti í Dalnum á gítarinn þá hafði hann lag á þessu. Þetta er ein af þessu sterku hefðum sem þarf að ríghalda í. Mér finnst líka að þetta eigi ávallt að vera í höndum heimamanna, það er nóg til af þeim. Gleðilega þjóðhátíð.     Bjarni Ólafur Guðmundsson: Fyrir mér er þessi stund sú stærsta   Brekkusöngur er einn mikilvægasti þáttur þjóðhátíðar Vestmannaeyja og að mínu mati hefur vægi hans aukist enn meir eftir að dagskrá þjóðhátíðar hefur frekar færst niður í aldri og meira stílað inn á yngri markhóp. Árni Johnsen á auðvitað hugmyndina af þessu magnaða fyrirbæri en því má ekki gleyma að aðalleikendur brekkusöngsins eru gestir hátíðarinnar og því skiptir mjög miklu máli að þeir taki mjög vel undir í brekkunni. Fyrir mér er þessi stund sú stærsta á hverju ári, því það sem brekkusöngurinn gerir er að sameina kynslóðirnar í söng og sannri gleði og gestirnir sjá um að skemmta sér sjálfir. Árni var auðvitað ótrúlegur á sínum tíma í þessu og lagði línuna. Ingó vinur minn er að gera þetta mjög vel, enda Eyjamaður í aðra ættina;), en því má ekki gleyma að við eigum hér í Eyjum frábæra listamenn sem myndu einnig alveg geta nelgt þetta.     Hlöðver Guðnason: Það atriði sem ég myndi aldrei missa af   Í mínum huga er brekkusöngurinn á sunnudagskvöldinu hápunktur og lokahnykkurinn á þjóðhátíðinni. Það er það atriði í skemmtidagskránni sem ég myndi aldrei missa af. Þar hefur og ætti sérstaða Eyjamanna að koma fram og fá að njóta sín í Eyjalögunum. Þar koma Eyjamenn og gestir þeirra saman og syngja saman um ástir og ævintýr og hetjur Eyjanna. Þessi staður og stund er einstök upplifun og ekkert atriði í skemmtidagskránni slær þetta út. Þess vegna þarf að passa vel upp á að brekkusöngurinn glati ekki hefðinni fyrir Eyjalögunum á þjóðhátíð Vestmannaeyja. Mín skoðun er að stór hluti af brekkusöngnum verði Eyjalög í bland við önnur vel þekkt lög. Þarna er lokahnykkurinn á því sem hefur verið að gerjast í hvítu tjöldunum ásamt þeirri tónlistarhefð sem Eyjarnar búa yfir. Brekkusöngurinn er í raun framhald af þeirri hefð sem hafði skapast í hvítu tjöldunum og þeirri hefð sem hafði myndast löngu fyrir 1977 að stórir hópar og mikill fjöldi hittist uppi í Brekku snemma morguns undir gítarspili og allskonar álsætti og hljóðfæraleik. Oft mynduðust fjölmennir hópar og sátu langt fram eftir morgni uppi í brekku í góðu veðri og mikilli stemmingu. Þetta voru oft hljóðfæraleikarar sem höfðu verið að spila í hinum og þessum tjöldum inni í Dal. Þegar veður var gott var nóg að lítill hópur startaði brekkusöngnum eða brekkurispu eins og við köllum þetta, snemma morguns sem dró síðan mikinn fjölda að. Þeir sem gátu gutlað eitthvað á gítar eða önnur hljóðfæri æfðu öll þessi lög allt árið og voru tilbúnir í tjöldin og Brekkuna þegar kallið kom. Stundum var búið að semja lag og eða hanna nýja texta við skemmtileg lög. Árni Johnsen á síðan þessa framsetningu með varðeldinn og svo stóra brekkusönginn skuldlaust og á mikinn heiður fyrir að hafa komið þessu á. Á þessu augnabliki rís þjóðhátíðar- og Eyjasálin hæst og margir tárast svo þegar íslenski þjóðsöngurinn glymur í fjöllunum.    

Það þarf ekki annað en röddina, gítarinn og taktinn

Eitt merkilegasta atriði í íslenskum skemmtanaiðnaði er brekkusöngurinn á þjóðhátíð sem hefur verið eitt mesta aðdráttarafl hátíðarinnar seinni árin. Hann varð til fyrir 40 árum, sama árið og þjóðhátíðin flutti í Dalinn 1977. Árni Johnsen á brekkusönginn eins og hægt er að eiga eitthvað jafn huglægt og brekkusöngur á Þjóhátíð getur orðið. Stoðirnar voru lengi vel þrjár, brennan á föstudeginum, flugeldasýningin á laugardagskvöldinu og svo brekkusöngurinn á sunnudagskvöldinu sem fengið hefur enn eina skrautfjöðurina sem blysin eru sem tendruð eru í lok brekkusöngs. Mörgum finnst söngurinn hápunktur þjóðhátíðar og vissulega er það einstök upplifun að vera hluti af 15.000 mann kór þar sem hver syngur með sínu nefi. Í tilefni þessara tímamóta var Árni Johnsen tekinn tali. Sjálfur stóð hann vaktina í rétt tæp 40 ár en nú hefur hann sett kyndilinn í hendur annarra. En Árni kveikti neistann sem enn logar svo skært á þjóðhátíð og er orðinn samnefnari fyrir fjöldasöng um allt land.   „Það er rétt að ég á brekkusönginn og nafnið líka,“ segir Árni Johnsen þegar hann rifjar upp með blaðamanni hvernig brekkusöngurinn varð til fyrir 40 árum. „Það gerðist þannig að Stebbi pól sem í áratugi var þulur á þjóðhátíð féll frá. Það var tveimur eða þremur vikum fyrir Þjóðhátíðina 1977. Viku fyrir Þjóðhátíð kemur Biggi Gauja til mín og spyr hvort ég sé tilbúinn að taka við af Stebba sem þulur í Dalnum. Ég hef alltaf verið frekar bóngóður og sagði auðvitað já. Það fylgdi í kjölfarið að spá í ýmsa hluti og þá datt mér í hug að byggja upp brekkusönginn. Ég gerði þetta strax mjög skipulega og var með 100 laga prógramm. Allar tegundir tónlistar sem fólk kunni eða átti auðvelt með að læra. Erlend lög í algjörum undantekningum og þetta byggðist órtúlega hratt upp. Á þessum árum var sunnudagurinn algjör afgangsstærð og svona til að sópa og laga til í tjaldinu og Dalnum. Það leið þó ekki á löngu fyrr en sunnudagurinn fór fram úr öllu því brekkusöngurinn virkaði svo vel. Það var skemmtilegt að sjá hvernig þessu var tekið og alltaf var eitthvað verið að útfæra en svo komst þetta í mjög fasta skorður. Strákarnir voru mættir með brettin og bílana, skelltu varðeldinum upp. Það var fast lið sem sá um þetta, Gullbergskóngurinn, hann spilaði stórt hlutverk, Biggi Gauja, Jói í Laufási og lið með þeim. Þetta varð að ganga mjög smurt allt saman. Prinsippatriði hvenær átti að byrja og hætta alltaf um miðnætti.“   Þjóðsöngurinn Fljótlega tók Árni upp að flytja þjóðsönginn. „Já, ég skellti honum inn í prógramið. Það er skemmtilegt að Vestmannaeyingar kenndu Íslendingum að syngja þjóðsönginn. Ég pældi svolítið í þessu og það er þannig að þjóðsöngurinn hefur alla tíð verið sunginn í G-dúr. Þá sungu ekki þjóðsönginn aðrir en atvinnusöngvarar og kórar á meðan aðrir hlustuðu á. Það þurfti vant söngfólk því menn réðu ekki við G-dúrinn. Ég valdi annan dúr, C-dúr og hann svínvirkaði. Allir geta sungið þjóðsönginn í C-dúr. Upp úr því var farið að syngja hann almennt og það er skemmtilegt að hafa átt svolítinn þátt í því að kenna landsmönnum að syngja þjóðsönginn. Hefði þetta ekki verið gert væri ekki verið að syngja þjóðsönginn á landsleikjum í dag eins og gert er með pompi og pragt.“ Ekki voru þó allir sáttir. „Það kvörtuðu einhverjir eins og venjan er þegar ég geri eitthvað. Kvörtuðu til forsætisráðuneytisins, hvort ég væri ekki að eyðileggja þjóðsönginn? Eins og það skipti máli í hvaða dúr hann er sunginn. Það er aðeins annar hljómur en lagið er það sama. Þeir í ráðuneytinu sögðu að þetta væri í lagi og kæmi vel út. Þannig að það datt niður og maður hélt áfram.“   Uppáhaldslögin fleiri en eitt Árni minnist þess þegar Eyjamenn léku úrslitaleik gegn Skagamönnum þar sem íslenski þjóðsöngurinn var sunginn. „Þetta var úrslitaleikur í bikarnum á Laugardalsvellinum en það söng bara helmingurinn í stúkunni. Það voru Eyjamennirnir. Hinir sungu ekki neitt. Svo lærðist hann og þessi hugmynd um nýjan þjóðsöng hefur dottið upp fyrir. Bæði lag og texti er algjör perla. Það er svo mikill höfgi yfir því, glæsimennska, virðing og tign.“ Áttu þér eitthvað uppáhaldslag? „Það eru föst lög, Ég veit þú kemur, Kveikjum eld og ýmsar skyndivísur, Sigga litla systir mín og önnur lög í þeim dúr sem eru mér kær. En það var alltaf eitthvað fyrir alla. Ég hugsaði það þannig, að maður væri að tengja saman kynslóðir, yngstu krakkana og elstu þjóðhátíðargestina. Það held ég að hafi tekist og þetta var náttúrulega engu líkt þegar aðstæður voru bestar. Ég hef verið að vinna með mikið af þessum lögum í fimmtíu, jafnvel sextíu ár og hvert einasta þeirra stendur enn þá fyrir sínu. Svo eru sumir sem eru leiðir á svona, eru kannski þröngir í smekk og það er vandi að vinna úr því. En það er þessi lagapakki sem skóp stemninguna. Allt í einu þegar allir voru sestir og byrjuðu að syngja þessi lög í mismundandi rytmna, takti og áherslum límdist allt saman.“ „Einu sinni kom séra Karl Sigurbjörnsson, biskup og fyrrum prestur í Eyjum til mín en hann var þá á þjóðhátíð með sitt fólk. Hann hitti mig eftir brekkusönginn og sagði: -Það er ótrúlegt hvað þú hefur 100 prósent stjórn á kaósinu. Það sem ég veitti athygli, sagði hann, að á meðan brekkusöngurinn var sá ég flösku aldrei lyft á loft. Það var ekki tími fyrir það. Eftir einn brekkusönginn kom formaður Samtakanna 78 til mín, alveg klökkur og sagði að það væri ekki hægt annað en að elska mig. – I love you too, sagði ég.“   Á sjálfur texta við frábært lag „En uppáhaldslögin mín í brekku-söngnum eru lög eins og Sestu hérna hjá mér, Ólafía hvar er Vigga og Síðasti dans þar sem ég á textann sjálfur,“ segir Árni en Síðasti dans er að mati blaðamanns eitt af flottari þjóðhátíðarlögum síðustu ára. Þar mynda lag og texti eina órjúfandi heild. Síðasti dansinn sem er Þjóðhátíðarlagið 1987 er eftir Kristinn Svavarsson og það voru Björgvin Halldórsson og Erna Gunnarsdóttir sem sungu það inn á plötu af mikilli list. „Þetta er ofboðslega fallegt lag og ég hef aldrei verið eins lengi að semja texta eins og þennan. Kristinn er náfrændi Oddgeirs. Það var þannig að ég fékk tvö lög frá Kristni þar sem ég var staddur í fríi á Flórída með henni Dóru minni. Ég mixaði þau saman þó lagið væri hans. Dóra var flugfreyja og ég leyfði flugfreyjuhópnum að heyra lagið út við sundlaug. Spurði þær hvernig texta ég ætti að hafa og hvaða stemningu? Þá sagði ein flugfreyjan, -þetta á að vera svona síðasti dans og þar með var línan komin á textann.“ Fólk þakklátt Árni segir að fólk hafi yfirleitt verið mjög þakklátt eftir brekkusönginn en svo voru það auðvitað nokkrir sem höfðu skömm á þessu. Brekkusöngurinn er sérstakt fyrirbrigði og það er ekkert skrýtið að hann skuli hafa fest rætur um allt land. Ég hef sungið hann víða um land og verið með burðinn úr þjóðhátíðarefninu en bætt svo við lögum sem er þekkt og vinsæl á hverjum stað. Hnýtt þeim inn í. Það sem er svo sérstakt við þetta er að brekkusöngurinn er samstaða og stemning. Það þarf ákveðna hluti til að ná því saman. Ég hef sagt það á einfaldan hátt, að það er eitthvað sem hrífur og það skiptir svo miklu máli. Og fólk er að spekúlera í þessu. Einu sinni var ég fenginn til að syngja á árshátíð tónlistarskólakennara í Skíðaskálanum í Hverdölum. Það gekk ofsavel og mikið stuð. Þegar ég er að ganga fram á eftir standa þar fjórir skólastjórar og stoppa mig. Þeir spyrja mig; -Hefurðu verið að læra söng undanfarið? –Nei, segi ég. Af hverju haldið þið það? – Okkur finnst þú syngja miklu betur. – Já, segi ég, það er alveg rétt á hjá ykkur. Ég bara ákvað að syngja betur. Sem söngstjóri í brekkusöngnum er maður í nokkrum hlutverkum. Það þarf að halda liðinu saman, fá það til að koma inn í kórinn og virkja það. Til þess hefur maður röddina, gítarinn og taktinn. Það þarf ekki annað, það er svo einfalt. Þetta eru vopnin og tækin sem maður hefur og til að ná þessu þarf maður oft að fórna söngnum. Þegar ég er að syngja annars staðar syng ég öðru vísi. Ekki með þessum stjórntakti í blænum. Það skiptir máli að fólk þarf stundum aðhald.“     Syngja með fólkinu en ekki fyrir það „Einu sinni við pallinn finn ég allt í einu að það stendur kona við hliðina á mér og syngur með mér. Það var Nína hin eina sanna frá Sandfelli. Hún hljómaði vel og ég lét hana klára lagið. Þakkaði henni fyrir og bað hana um að taka sér aftur sæti í Brekkunni en við myndum svo syngja saman, tvö ein því við vorum góðir vinir. Það er nú þannig þegar maður er að syngja brekkusönginn að maður þarf að gæta þess að vera ekki atriði heldur einn af röddunum, syngja með fólkinu en ekki fyrir það. Þetta byggist á þeim karater sem er að stjórna brekkusöngnum. Það þarf svo hann gangi eitthvað karma eða sjarma eins og sumir segja og að syngja með öllum.“   Helgi Braga hafði heyrt þetta allt áður „Það er til ýmsar góðar sögur. Einu sinni þegar Helgi Braga var í námi í Vínarborg var einhver vinkona hans sem sagði að hann yrði að fara í Vínaróperuna. Hann gæti ekki verið þekktur fyrir annað. Það er þannig að stundum á kvöldin var hægt að fá lausa miða, alveg sama hvaða snillingar eru á ferð. Helgi, sem er góður drengur og tekur ábendingum var á labbi eitt kvöldið og sér að það er tíu manna röð við Óperuna og fer í röðina. Eftir smá stund eru komnir 50 en Helgi náði síðasta miðanum. Svo kemur hann inn og tónleikarnir byrja og þá er á sviðinu sjálfur Placido Domingo, einn af þremur bestu tenórunum í heimi. Það vildi þannig til að Domingo átti afmæli þetta kvöld og var afmælissöngurinn sunginn. Daginn eftir hittir Helgi vinkonu sína og segir henni frá þessu. –Var þetta ekki stórkostlegt, spyr hún og Helgi svarar: -Þetta var allt í lagi. Og hún segir: -Fannst þér ekki stórkostlegt að hlusta á Placido Domingo og syngja fjöldasöng með honum? – Jú, það var ágætt en ég er svo vanur að syngja með Adda Johnsen,“ segir Árni og hlær. „Þegar maður syngur brekkusönginn veit maður hvað maður ætlar að gera og svo er það mjög ákveðin einbeitning sem maður þarf til að keyra áfram til að hafa stjórnina. Hún er svolítið erfið þessi lína í hvað langt maður á að ganga en það þarf allt að rýma saman,“ segir Árni sem búinn er að selja húsið sitt í Reykjavík og alfluttur á Höfðabólið. „Ég er laus við húsið og fluttur hingað heim, kominn úr útlegðinni sem vill fylgja stjórnmálavastrinu. Hér er ég að stækka við mig og klára að vinna í smiðjunni og ýmislegt annað sem fellur til. Ég er að ná mér eftir mjög erfiða lungnabólgu en ég hef nóg að gera og nóg framundan. Er tilbúinn með tvær barnaplötur með á annað hundrað lögum sem koma út fljótlega. Svo er Sólarsvítan mín að koma út í þremur mynd- bandsútgáfum, með þjóðarsinfóníu Úkraínu, með búsúkkí, þjóðarhljóðfæri Grikklands og hana kalla ég Grísku sólarsvítuna sem er hálftímatímaverk. Loks er það Sólarsvítan í flutningi Karlakórsins Þrasta í Hafnarfirði undir stjórn Garðars Cortes þar sem þeir syngja lögin fimmtán. Ég hef því nóg að gera þó maður sé hættur öllu pólitísku vafstri, eða hvað? Kannski ekki alveg, það er alltaf verið að ræsa mann út.“ sagði Árni Johnsen, fyrrum alþingismaður og blaðamaður með meiru að lokum. Í haust verður frumsýnd heimildarmynd um Árna og eru afköst hans á Alþingi kveikjan að myndinni.    

Hvað er þjóðhátíð í þínum huga?

„Fyrsta Þjóðhátíðin var haldin sunnudaginn 2. ágúst árið 1874 í Herjólfsdal. Þá mættu í Dalinn um 400 manns um hádegisbilið, reistu tjöld við suðurhlið tjarnarinnar og hlóðu veisluborð úr torfi og grjóti vestan við tjaldbúðirnar. Það sjást enn leifar af því nálægt hringtorginu. Tjöldin og Herjólfsdys voru prýdd fánum og borðum.“ Þannig segir á Heimaslóð um fyrstu þjóðhátíð Vestmannaeyja en áður höfðu verið haldnar ýmsar hátíðir í Herjólfsdal. Þjóðhátíðin hefur breyst og þróast í samræmi við nýjar kröfur á nýjum tímum en grunnurinn er alltaf sá sami, að Eyjamenn og gestir á öllum aldri koma saman í Dalnum til að hafa gaman. Um þessa fyrstu þjóðhátíð segir á Heimaslóð: „Borðað var vel og kaffi drukkið, og upp frá því hófst dansleikur undir berum himni með söngi og tralli, sem stóð fram undir miðnæti. Ölvun var að sögn viðstaddra lítil, og allt fór vel fram.“ Þannig viljum við hafa þessa hátíð sem er okkur Eyjamönnum svo kær. Eyjafréttir fengu nokkra til segja hvað þjóðhátíðin stendur fyrir í þeirra huga. Brást fólk vel við.   Hildur Sólveig Sigurðardóttir: Undirbúningurinn og aðdragandinn stór þáttur    Þjóðhátíð er einn stærsti viðburðurinn á hverju ári í minni fjölskyldu. Mikill tími og undirbúningur fer í að gera helgina sem eftirminnilegasta og segi ég gjarnan að hefðbundin fjölskylda í Vestmannaeyjum sem tekur fullan þátt í gleðinni leggur meira á sig en hinn hefðbundni Íslendingur gerir fyrir hver jól. Baksturinn, skreytingar og innréttingar í tjaldið, rétti klæðnaðurinn í Dalinn fyrir öll möguleg veðurskilyrði, innkaup og annar undirbúningur svo fátt eitt sé nefnt. Í fyrra tók vinkonuhópurinn minn upp á því að söðla um á ljósvakamiðlum fyrir hátíðina og stöndum við fyrir útvarpsþættinum Snareðlunni á þjóðhátíðarútvarpinu. Gufunni sem er mjög skemmtilegt verkefni en sérstaklega var óskað eftir liðsinni kvenna í fyrra og ákváðum við að svara kallinu. Eiginmaðurinn og bræður hans taka einnig virkan þátt í undirbúningi og framkvæmd brennunnar á föstudeginum og eru fjölskyldumeðlimir að sjálfsögðu stoltir af því.   Hápunktarnir margir Þjóðhátíðin hefst auðvitað óformlega með tjaldamerkingu á miðvikudeginum sem er orðin ein ef eftirlætishefðunum mínum við þjóðhátíðina. Fimmtudagskvöldið er líka orðin árleg hefð hjá kvenfólkinu í fjölskyldunni, en eftir að tjaldið hefur verið sett upp, gjarnan á Lundaholum, og búið er að mæta á Vita- og mylluvígsluna hefur skreytingarnefnd tjaldsins störf og er önnur eins vandvirkni vandfundin og hjá þeim hópi. Veðrið skiptir auðvitað gífurlegu máli og segi ég oft að ef við fáum að setja hátíðina í sæmilegu veðri þá er ég nokkuð sátt enda setningin, prúðbúna fólkið og veisluborðið einn af stóru hápunktunum. Brennan er auðvitað annar hápunktur en svo slær auðvitað ekkert við augnablikinu eftir brekkusönginn þegar Dalurinn er lýstur upp af rauðum bjarma en það er eitthvað ofboðslega fallegt og rómantískt í því augnabliki og mæli ég með því við hvern sem er að prófa að standa í Brekkunni og halda á blysi.   Foreldrahlutverkið veitir nýja upplifun af þjóðhátíð Eftir að maður varð foreldri fór maður svo að njóta hátíðarinnar á nýjan máta með því að fylgjast með gleði barnanna við fjölbreytta barnadagskrá og ómældar kökur og sætindi sem jafnan eru ekki á boðstólunum. Sonurinn hefur tekið þátt í söngvakeppni barna og stefnir á það aftur í ár ásamt því að taka í fyrsta skipti þátt í kassabílarallinu og hefur mikill tími farið í það hjá feðgunum að útbúa eitt stykki kagga. Þannig fór maður að taka virkan þátt í mun stærri hluta hátíðarinnar enda þreytan eftir helgina eftir því, en vissulega vel þess virði.   Frágangurinn líka hluti af skemmtuninni Í lok hverrar þjóðhátíðar hefur skapast ákveðin hefð við frágang hennar í fjölskyldunni minni, hún byrjar á því að þeir sem eru enn ekki farnir heim úr tjaldinu snemma á mánudagsmorgni koma þar við, taka eins vel til og hægt er og gefa svöngum þjóðhátíðargestum gjarnan restarnar af bakkelsinu úr tjaldinu, en að því loknu er svo mætt á mjög svo formlega setningarathöfn næstu þjóðhátíðar. Óvæntasta gleðin við þjóðhátíðina verður þó gjarnan á heimgöngunni, sérstaklega á mánudagsmorgninum eftir vel heppnaða þjóðhátíð í blíðskaparveðri, þegar sólin er komin upp og allir með bros á vör en við slíkar aðstæður er vel hægt að leysa allar heimsins deilur.   Smári McCarthy: Árshátíð mannsandans   Útihátíðir eru tækifæri til að fagna tilverunni og gleðjast með gömlum vinum og nýjum. Þær næra sálina. Það er líklega fátt jafn mikilvægt fyrir samfélög og að fagna reglulega í öllum sínum fjölbreytileika. Í Vestmannaeyjum kunna menn heldur betur að fagna. Hver hátíð hefur sinn brag, en allir sem hafa þurft að útskýra þjóðhátíð fyrir útlendingi skilja hversu erfitt er að lýsa í stuttu máli um hvað þjóðhátíð snýst. „Er þetta tónlistarhátíð?“ Nei, ekki beint, en það eru tónleikar og fjölmargir mæta með gítar eða einhver önnur hljóðfæri. „Nú, allt í lagi. Er þetta þá, hvað, íþróttaviðburður?“ Nei, en það eru alveg íþróttir og leikir sko. „Er þetta þá einhverskonar fyllerí eins og októberfest?”“ Nei, nei, en margir fá sér örlítið í aðra litlu tánna. „Hvað er þetta þá?“ Eitt svarið er sögulegt: Þjóðhátíð er upprunalega hátíð til að fagna landnámi Íslands, og þeirri sögu og menningu sem við eigum hér sameiginlega. Að fagna því að þrátt fyrir að búa í hrjóstugu landi þar sem veðrátta er oft hörð og náttúran fyrirgefur fá afglöp, þá lifir mannsandinn góðu lífi og styrkist með hverju árinu. Það er merkilegt tilefni til hátíðar. En annað svarið er menningarlegt: Þjóðhátíð er sín eigin ástæða. Eyjamenn og aðrir koma saman árlega því að allt annað væri út í hött. Gömul lög og ný eru sungin, sögur sagðar; fólk borðar og sumblar og allt annað mannlegt gerist. Það er nefnilega þannig að þótt við búum til tylliástæður til að halda þjóðhátíð eins og gert var 1874 þegar Eyjamenn komust ekki í land til að taka þátt í hátíðarhöldunum á Þingvöllum sökum veðurs, þá er alltaf ástæða til að fagna. Arfleið þjóðhátíðar hófst nefnilega rúmlega tveimur áratugum fyrr, 1859, þegar Pétur Bryde fór með sitt starfsfólk í Herjólfsdal til að halda nokkurskonar árshátíð. Ekkert tilefni er nauðsynlegt, í raun, annað en til að fagna.   Ásmundur Friðriksson: Bekkjarbílar, sót og blautir kossar   Fyrir 6 ára peyja sem bjó í Stakkholti við ómalbikaða Vestmannabrautina var óravegur inn í Herjólfsdal árið 1962. Þá voru fáir bílar í Eyjum og það leið oft langur tími á milli þess sem ég kom inn í Herjólfsdal. Stundum vikur og mánuðir. Undirbúningur þjóðhátíðarinnar var því í nokkrum fjarska nema hvað við peyjarnir fréttum af strákum undir stjórn Sigga Reim vera að safna í þjóðhátíðarbrennuna í skjóli nætur og smíðavinna var í fullum gagni frá byrjun júní í Dalnum. Aðal vinnan var við smíði á stóra og litla sviðið og girðinguna í kringum pallana en í þá daga var ekki rukkað í Dalinn heldur greiddi fólk aðgangseyri að danspöllunum. Haukur á Reykjum var leigubílstjóri í Eyjum í gamla daga og seinna vörubílstjóri. Hann gerði út bekkjarbíl í áratugi og ég man þegar hann bakkaði vörubílnum inn í sundið á milli Reykja og Breiðholts og hófst handa við að byggja trégrind á vörubílspallinn sem hann klæddi með segli að þá var komið að því. Þetta var merkið okkar barnanna í miðbænum um að Þjóðhátíðin væri á næstu grösum og ég hlakkaði óskaplega til að komast í fyrstu ferðina í Dalinn með Hauki í bekkjarbílnum.   Beðið eftir flottasta bílnum Stoppustöðin okkar var við Samkomuhúsið, ég stóð þar í tröppunum og beið með öndina í hálsinum eftir því hvaða bíll kæmi en þeir voru misfínir en allir vildu í flottasta bílinn með flestar ljósaséríurnar og stærsta hátalarann sem úr glumdi tónlist eins og tómri tunnu. Loks þegar bekkjarbíll stöðvaði við Samkomuhúsið fór eitthvað af fólki af bílnum og við biðum á meðan spennt eftir því að komast að tröppunum upp í bílinn. Pústið frá díselvélinni lá undir pallinum og reykurinn fyllti umhverfið og stóð beint framaní andlitið á okkur meðan við stigum upp eina og eina tröppu. Okkur sortnaði fyrir augum og við hóstuðum svörtum reyknum út um munninn á leið upp tröppurnar sem gat tekið tíma þegar margir vildu um borð í einu en rukkarinn var ekki alltaf klár í plús og frádráttar reikningi og var því seinn að gefa til baka. Á þessum árum var engin krafa um að menn væru góðir í reikningi sem rukkuðu í bekkjarbíla og Evrópusambandið ekki til og ekki búið að finna upp að aðeins stærðfræðingar sem kunnu plús og mínus og margföldunartöfluna afturábak og áfram mættu rukka í bekkjarbíla. En allir lifðu þetta af og enginn setti það fyrir sig að þurfa að gleypa slatta af koltvísýringi ofan í lungun, því þá var enginn búinn að finna upp orð eins og mengaður útblástur eða kolefnisjöfnun og ekki hefur frést af neinum sem hafði látið þessi orð sér um munn fara á þessum árum. Það pældi enginn í því að það væri hættulegt að draga að sér andann og fylla lungun af koltvísýringi eða gúanóreyk. Þetta var ókeypis á þessum árum og þá lét það enginn fram hjá sér fara og svo reyktu allir sem vettlingi gátu valdið sígarettur eða pípu og púuðu ómenguðum reyknum yfir okkur og enginn var skilinn útundan sem betur fer.   Með Mikka mús skólatösku Innréttingin í bekkjarbílnum voru bekkir með báðum hliðum og eftir loftinu var rör sem hægt var að halda sér í þegar bekkirnir voru fullsetnir. Að aftan var girt með rörum og hliði sem lokað var með keðju, þá var stigi niður á götu sem tekinn var upp þegar bekkjarbíllinn var á ferð. Við hliðið sat rukkarinn með Mikka mús skólatösku um hálsinn fyrir peningana, hann bar ábyrgð á því að rukka farþegana og að bíllinn stoppaði þar sem farþegar vildu fara af bílnum á leið í bæinn. Rukkarinn notaði dyrabjöllu sem hringdi hjá bílstjóranum þegar hann átti að stöðva bílinn. Oft brást bílstjórinn hratt við og stoppaði bílinn snögglega með þeim afleiðingum að það brakaði og brast í grindinni og farþegarnir hentust í eina kös innst í á pallinum og við peyjarnir lágum í kremju með allt liðið ofaná okkur. Vodkablöndurnar helltust úr flöskunum og sígarettur-nar brotnuðu í túlanum á körlunum og glóðirnar duttu yfir okkur peyjana og brenndu gat á fötin okkar. Það var einkennilegt að vera lítill farþegi í bekkjarbíl. Oft sat ég með uppglennt augun og horfði á fólkið sem gat verið svo kátt að því héldu engin bönd, það söng hátt og sló um sig. Gaf okkur peyjunum pening eða nammi sem líka var af skornum skammti á þessum árum nema á þjóðhátíð og jólum. Bekkjarbíllinn var heill heimur út af fyrir sig og mörg leikritin hægt að skrifa um upplifunin á að sitja þar margar ferðir á dag og sjá lífið frá þeim vinkli sem gat verið skrautlegt. Merkilegt að banna og taka út slíkan menningarþátt sem hófst með því að fyrstu bílarnir sem komu til Eyja um 1920 fluttu fólk á palli inn í Herjólfsdal og aldrei hef ég heyrt af slysum tengdum flutningi fólks í bekkjarbíl.   Fram og til baka Ég man að við peyjarnir fórum stundum margar ferðir fram og til baka í Dalinn með bekkjarbílnum slíkur var spenningurinn enda bílferðir ekki algengar hjá flestum okkar á þeim árum. Mér fannst gaman að sitja aftast og sjá húsin líða hjá á leið bílsins um götur bæjarins inn með Hásteini og í Herjólfsdal. Þá var hægt að fylgjast með körlum sem voru svo niðursokknir í samræðum eða metingi um hvor væri sterkari eða hvor hefði fiskað meira. Þá fóru þeir fleiri en einn hring og kannski fleiri en tvo til að ná niðurstöðu í rifrildið og voru hvort eð er ekki klárir á því hvar þeir voru eða hvar í sólahringnum þeir voru staddir. Þeir héldu svo hvor í hönd hins niður stigann af pallinum til að lifa ferðina af og héldu síðan utanum hvorn annan þegar niður var komið og sungu ættjarðarsöngva af list. Og ekki skemmdi stemningin fyrir í bekkjarbílnum þegar farið var með okkur í háttinn eftir brennuna á föstudagskvöldinu.   Sungið hástöfum Oftar en ekki var sungið hástöfum gömul þjóðhátíðarlög af fólki sem sneisafyllti bekkjarbílinn á leið með börnin í svefninn og til að fylla á brúsana fyrir nóttina. Þeir sem héldu sér í rörið í loftinu á grindinni áttu oft fullt í fangi með að halda jafnvægi bæði vegna aksturslags bílstjórans sem ók eftir holóttum vegum í bænum en þá voru engar götur malbikaðar eða kannski vegna þess að þeir voru aðeins búnir að fá sér í forlestina og því jafnvægið lakara, en söngröddin þeim mun mýkri og hærri. Oft sáum við ungt fólki í faðmlögum og blautum kossum fremst í bílnum sem við skildum ekki hvað lægi á að komast heim. Það tróð sér framyfir alla þegar bíllinn stoppaði og hljóp í næsta hús með brækurnar á hælunum haldandi hönd í hönd. Það var ekki fyrr en mörgum árum seinna að hvolpavitið fór að gera vart við sig að við áttuðum okkar á hvað þessi innilegu faðmlög og flýtir á að komast í húsaskjól þýddi. Þjóðhátíðin er hátíð margra minninga og sem betur fer eru þær allar góðar í mínum huga. Við eigum að halda í gamla og góða siði við undirbúning þjóðhátíðar og á hátíðinni sjálfri. Þar eru bekkjarbílar órjúfanlegur hluti þeirrar stemningar.   Elliði Vignisson: Gleðistund okkar Eyjamanna                               Í mínum huga er þjóðhátíðin gleðistund okkar Eyjamanna þar sem öllum er boðið að taka þátt á okkar forsendum. Stund þar sem við minnumst þeirra róta sem við erum sprottin af í gegnum tónlist, mat og hverskonar hefð. Stund sem við verjum með fjölskyldum okkar og vinum í umhverfi sem heldur utan um okkur og hvetur. Þjóðhátíðin er einstök menningarhátíð og samfélagagslegt mikilvægi hennar er ótvírætt. Hún er að mörgu leyti andlit okkar út á við og við eigum að standa saman um að í hvert einasta skipti sé hún okkur öllum til sóma.   Stefán Jónasson: Hátíð í dásamlegu umhverfi                                     Fyrst og fremst er þetta hátíð fyrir okkur Eyjamenn og gesti okkar sem vilja taka þátt í þessu með okkur. Hátíðin er samvera fyrir fjölskyldur, ættingja og vini. Hátíðin þjappar líka saman íþróttastarfinu hér í Eyjum þar sem íþróttahreyfingin ber hitann og þungann af hátíðinni með sínum frábæru sjálfboðaliðum. Þetta er hátíð í dásamlegu umhverfi þar sem Herjólfsdalur skapar umgjörðina. Þú ert alltaf að eignast nýja og nýja nágranna í tjaldbúðunum, fólk sem maður hittir ekki annars. Kvölddagskráin er einsdæmi í heiminum með brennunni á Fjósakletti, flugeldasýningunni, brekkusöngnum og blysunum. Það eru forréttindi að fá að vera þarna og taka þátt í gleðinni. Allt er þetta mjög myndarlegt fólk sem við erum að fá hingað sem er tilbúið að taka þátt í gleðinni með okkur. Það eru samt vonbrigði að þurfa að horfa á eftir bekkjarbílunum sem voru hluti af sjarmanum. Allar breytingar á þjóðhátíð hafa verið til góðs nema þessi.    

Spjallað við skemmtikrafta: Ekki til betri gestgjafar en Eyjafólk

Það ættu flestir Þjóðhátíðargestir að finna sér eitthvað við hæfi á Stóra sviðinu í ár enda fjölbreytt blanda af skemmtikröftum sem stíga á stokk. Rapp/Hip-hop senan, sem hefur rutt sér síðustu árin, hefur sína fulltrúa á staðnum og er nokkuð fyrirferðamikil í ár. Einnig verða þessar hefðbundnu sveitaballahljómsveitir á sínum stað enda í augum margra ómissandi þáttur á Þjóðhátíð. Þungarokkarar og Popparar fá sömuleiðis eitthvað fyrir sinn snúð þannig enginn ætti að vera illa svikinn í Brekkunni í ár. Blaðamaður ræddi við nokkra af þeim fjölmörgu skemmtikröftum sem koma fram á Þjóðhátíð í ár.   Emmsjé Gauti       Þú ert allt í öllu á föstudeginum, á barnadagskránni, kvöldvökunni og á miðnæturtónleikunum. Er þetta ekki hörku púl? Þetta er alveg ruglað prógram en ég hef ekki miklar áhyggjur af þessu. Það verður vissulega einhver þreyta eftir þessi þrjú gigg en við munum komast í gegnum þetta í sameiningu.   Tónlist þín hefur átt góðu gengi að fagna síðustu árin á Íslandi og kannski óvænt meðal þeirra allra yngstu. Sástu einhvern tímann fyrir þér að leikskólabörn víðsvegar um land myndu syngja hástöfum „Reykjavík er okkar“? Það kemur mér ekki á óvart að það séu ungir aðdáendur að hlusta á tónlistina en það kom mér vissulega á óvart að Reykjavík hefur verið sungin á leikskólum borgarinnar í söngtímanum. Það er mikill heiður fyrir mig að ná að skemmta yngsta fólkinu líka. TAKK!   Þú komst einnig fram á Þjóðhátíð í fyrra, hvernig er tilfinningin að skemmta fyrir fullum Herjólfsdal af fólki? Tilfinningin er alveg sturluð. Það er rosaleg orka sem myndast þegar mörg þúsund manns koma saman til þess að syngja og skemmta sér og ég er óendanlega þakklátur að fá að upplifa fólkið syngja lögin mín.   Hvernig ætlar þú að verja tíma þínum í Vestmannaeyjum yfir Þjóðhátíð á milli þess sem þú ert að spila, á að kíkja eitthvað í hvítu tjöldin? Það er auðvitað hörkudagskrá framan af degi en eftir að síðasta klappið deyr út í Dalnum þá skelli ég mér örugglega í hvítu tjöldin að fá mér nokkra drykki með góðum vinum.   Á fólk von á mikilli skemmtun þegar þið félagar stígið á svið á miðnæturtónleikunum? Ég get lofað algjörri sturlun þegar við mætum á svæðið.   Auðunn Blöndal   Hvað hefur þú komið oft á Þjóðhátíð? Heyrðu það er góð spurning. Fyrsta var 2001 og held að þær séu allavega orðnar tíu núna. Verða einhverjar breytingar á FM95BLÖ hópnum í ár? Nei ekki þannig, en það verða vonandi tveir leynigestir. Stemningin í Dalnum í fyrra þegar þið vorum að spila mældist á jarðskjálftamælum. Á fólk von á einhverju svipuðu í ár? Vonandi, án þess að jinxa það, þá lofa ég betri stemningu í ár. Við tókum æfingu um daginn í fyrsta sinn og ætlum að vera með nokkur óvænt atriði. Verður prógrammið hefðbundið eða munu þið koma fólki á óvart? Bæði. Fyrir utan þann tíma sem þið eruð að skemmta, hverjir eru hápunktar Þjóðhátíðar frá þínum bæjardyrum séð? Það er heimamaðurinn! Það eru ekki til betri gestgjafar en Eyjafólk! Ég vona að ég nái að rölta í sem flest hvít tjöld og djamma með liðinu. Að fá drykk, smá möns og faðmlög í hvítu tjöldunum er yfirburða skemmtilegast við þjóðhátíð.   Gunnar Ólason     Hvað hafið þið í Skítamóral spilað oft á þjóðhátíð? Við eigum sex þjóðhátíðir að baki og þessi verður nr. sjö.   Hvenær komuð þið síðast? Við vorum síðast árið 2014.   Er mikil eftirvænting hjá ykkur í hljómsveitinni að stíga á svið? Við erum fullir eftirvæntingar að koma fram og spila fyrir þyrsta Þjóðhátíðargesti, þetta er alltaf jafn gaman. Hljómsveitin nær líklega mestum hæðum í kringum aldamótin en samt virðast lögin ykkar enn þann dag í dag ná að kveikja neista í þjóðhátíðargestum. Er hljómsveitin bara búin að skrifa sig inn í aldalanga sögu þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum? Við eigum tvö þjóðhátíðarlög sem lifa ennþá og svo er einhver rómantík í okkar lögum sem að þjóðhátíðargestir kunna að meta.   Þú hefur komið á ófáar þjóðhátíðir í gegnum árin, er einhver hátíð sem er sérstaklega eftirminnileg hjá þér? Þjóðhátíð 1997 er sú sem stendur upp úr hjá mér þar sem hljómsveitin fékk að deila stóra sviðinu með Sálinni, það tækifæri kom okkur endanlega á kortið hjá alþjóð.   Þjóðhátíð hefur væntanlega breyst mikið frá því þið spiluðuð fyrst, finnst þér hún vera að þróast í rétta átt? Hátíðin hefur breyst mikið síðan við vorum á hátindinum en þannig er það bara, nýjar kynslóðir með nýjar áherslur en samt er alltaf kjarni málsins sá sami, að skemmta fólki.   Við hverju má fólk búast frá Skítamóral á sunnudeginum kl. 00:30? Við lofum hátíðargestum góðri skemmtun og almennri gleði þegar við stígum á stokk, eins og alltaf.   Hildur     Hefur þú komið áður á þjóðhátíð? Nei þetta verður mín fyrsta þjóðhátíð þannig að ég er virkilega forvitin að upplifa stemninguna.   Þú kemur fram á kvöldvökunni á föstudeginum, ertu spennt fyrir kvöldinu? Já, mjög svo, ég er með sérsniðið prógramm fyrir þetta kvöld. Ég er að æfa upp lög sem ég vona að fólk sé til í að syngja hástöfum með mér!   Hver er að þínu mati hápunktur þjóðhátíðar? Mjög góð spurning, þar sem ég hef ekki komið áður þá er bara sú upplifun að mæta í Dalinn sennilega að fara að vera hápunkturinn fyrir mig.   Hvað ætlar þú að gera restina af þjóðhátíð? Ég stoppa því miður bara eitt kvöld í Eyjum því svo er ég að fara að spila á unglingalandsmótinu á Egilsstöðum. Þannig að ég valdi eiginlega þá tvo staði sem eru lengst í burtu til að spila á yfir helgina, það er bara stuð!   Daði Freyr     Hefur þú komið áður á þjóðhátíð? Ég hef einu sinni komið, en var bara á föstudagskvöldinu. Hljómsveitin mín RetRoBot spilaði á stóra sviðinu árið 2012. Þú ert að spila á kvöldvökunni á sunnudeginum. Ertu spenntur fyrir kvöldinu? Ég get ekki beðið. Ég hef heyrt að það verði nóg af fólki og mikil stemning, þetta verður líka síðasta giggið mitt á Íslandi í bili þar sem ég er að flytja aftur til Berlínar.   Ertu skemmta á fleiri stöðum yfir þjóðhátíð? Ég ætla aðeins að spila fyrir krakkana í Reykjadal á föstudeginum og svo verð ég á Innipúkanum í Reykjavík á laugardeginum.   Þú komst hingað einnig á Goslokahátíðinni. Kanntu svona vel við Vestmannaeyinga eða kunna Vestmannaeyingar svona vel við þig? Ætli þetta sé ekki bara einhversstaðar í miðjunni.   Hvernig ætlar þú að eyða restinni af sunnudagskvöldinu þegar þú ert búinn að spila, ætlar þú að kíkja í hvítu tjöldin? Kannski maður líti aðeins við og sníkir smá lunda, annars er ég að fara aftur með dallinum heim sama kvöld, og á eftir að taka stein, skæri, blað (eða skæri, blað, stein hvernig sem fólk vill hafa það) um hvor keyrir heim, ég eða Árný.  

Kíkt í tjöldin hjá Önnu Lilju, Sólrúnu og Emmu

 Hvítu tjöldin hafa fylgt þjóðhátíð frá fyrstu tíð þó þau hafi breyst í tímans rás. Allir vanda til undirbúningsins sem útheimtir mikla vinnu og ekki er í kot vísað þegar kíkt er í heimsókn. Þetta er sameiginlegt verkefni fjölskyldunnar sem margar hafa komið sér hefðum sem ganga frá einni kynslóð til annarrar. Eyjafréttur fengu í kíkja í tjöldin hjá Önnu Lilju Tómasdóttur, Sólborgu Gunnarsdóttur og Emmu Pálsdóttur sem allar standa undir nafni sem þjóðhátíðarhúsmæður.   Emma Pálsdóttir: Hlakka alltaf jafn mikið til þjóðhátíðar   Emma Pálsdóttir ásamt fjölskyldu sinni á sinn fasta samastað hjá Þingholtstjöldunum í Dalnum. Tjaldið er með þeim stærri með eldhúsi og stofu með sófasetti og öllu. Maður hlakkar alltaf jafn mikið til þjóðhátíðarinnar. Þegar hátíðin nálgast fer ég að huga að því hvað þarf að baka. Spjalla við stelpurnar og saman ákveðum við hvað skal gera. Og við sláum í tertur, muffins, pitsusnúða og fleira. Það þarf að fara í gegnum þjóðhátíðardótið, hvort nóg sé til af bollum, glösum, diskum, vaskafat, viskustykki, borðtuskur og þvottalögur. Þá má ekki gleyma kaffikönnunni og kaffipokunum. Finna til skrautið í tjaldið og myndir sem við hengjum upp. Það þarf mjólk og sykur í kaffið og pott fyrir pyslurnar. Fimmtudagurinn fer í smyrja, samlokur og flatkökur. Á föstudeginum hefst fjörið sem stendur fram á mánudagsmorgun og þá er bara eftir að taka niður og þrífa sem getur verið mikið verk.   Anna Lilja Tómasdóttir: Er að fara á mína fertugustu hátíð   Ég er mjög mikil þjóðhátíðamanneskja og elska að undirbúa þjóðhátíð. Er að fara á mína fertugustu, hef aðeins sleppt úr þremur. Við eignuðumst nýlega okkar fyrsta tjald fjölskyldan en fyrir það vorum við ásamt systkinum mömmu og þeirra afkomendum saman í tjaldi. Ég er soldil pjattrófa í mér og finnst mjög gaman að gera huggulegt í tjaldinu fyrir hátíðina, þar sem ýmisskonar húsgögnum er komið fyrir m.a. mjög stórum furuskáp sem pabbi gerði upp og bekkjum sem fylgdu okkur frá foreldrum mínum. Og auðvitað er alls konar punt, það verður allt að vera í stíl. Er nokkuð fastheldin á að vera með það sama á borðum í tjaldinu og það mikið að eina þjóðhátíðina vaknaði ég upp með fæðingarhríðir og ákvað að hendast strax í að gera salat sem öllum finnst ómissandi í tjaldinu, gat ekki hugsað mér að það vantaði á veisluborðið. Það fengu allir að njóta þess nema ég sem náði ekki í Dalinn heldur var í því hlutverki að koma barni í heiminn. Eftir það er salatið alltaf kallað hríðarsalat.   Rjómaterta og fleira gott   En annars er þetta yfirleitt þannig að á föstudeginum á setningunni komum við með rjómatertu, brúntertu, lagtertu, snúða, muffins, kleinur, sýrópsvínarbrauð, flatkökur, salat og kex og auðvitað gott kaffi og gos. Nú hefur verið lögð fram ósk frá frumburðinum að það verði humarrúllur á borðum og aldrei að vita nema þeim verði bætt við. Á laugardeginum er það bara alls konar sem prýðir veisluborðið, höfum verið með alls kyns brauð og álegg og kruðerí en erum búin að ákveða það að í ár verði ostaveisla í tjaldinu, smá tilbreyting. Þessi dagur hefur alltaf verið frjálslegastur og við komið bara með það sem okkur dettur í hug í það og það skiptið. Á sunnudeginum bökum við mamma alltaf sinnhvorn skammtinn af skonsum og bjóðum uppá nýbakaðar skonsur með kaffinu og það hefur alltaf verið mjög vinsælt. En það er alltaf eitthvað sætabrauð með. Kvöldin eru alltaf eins, þá eru það humarsamlokur, túnfisksamlokur, flatkökur og lufsur sem eru algjör snilld, upprúllaðar tortillapönnukökur með fyllingu sem vekja alltaf svaka lukku. Þó svo að mér finnist gaman að undirbúa og vera með nóg að borða í tjaldinu þá finnst mér það sem mestu máli skiptir að fá að hafa fólkið mitt hjá mér og njóta þessarar frábæru fjölskylduskemmtunar með öllu fólkinu mínu. Gítarspil hefur alltaf skipað stóran sess í tjaldinu okkar og í ár verða í fyrsta skipti í okkar tjaldi að spila saman 3 kynslóðir á gítar. Við búum til okkar eigin söngbók með gömlum og nýjum lögum sem er mjög sniðugt þegar fólk kíkir inn þá geta allir sungið með.   Sólrún Gunnarsdóttir: Þjóðhátíðin á Manhattan   Á Manhattan búa alls 13 manns yfir þjóðhátíðina svo það eru margar hendur, misstórar reyndar sem koma að undirbúningnum. Það hafa eins og gengur skapast fastar hefðir í kringum tjaldið og matarstússið. En það besta er að það er aldrei nein pressa og alltaf ákveðið fyrir þjóðhátíð að ef einhver nennir ekki að búa eitthvað til þá sé alltaf til snakk og ídýfa til að redda málunum. Við erum með margt af þessu hefðbundna eins og flatkökur með hangikjöti, lagtertur, kleinur, pizzusnúða, tortillavefjur og þess háttar. Það er alltaf fínna kaffi og hnallþóra á föstudeginum og einnig hefur verið lagður metnaður í þjóðhátíðartertugerð fyrir setninguna og hafa Sigrún Bryndís og Kiddi verið þar fremst í flokki. Læt ég fylgja hér með mynd af þjóðhátíðartertunni 2015 sem Sigrún gerði og þótti einkar vel heppnuð. Á laugardeginum er svo alltaf heitur Doritos réttur í kaffitímanum og fylgir uppskriftin hér, rétturinn er ómissandi til að ná sér í orku fyrir áframhaldandi skemmtun.   Þjóðhátíðarbrauðréttur • 4 stórar tortillakökur • 2 chiliostasósur • 1 salsasósa • 1 rauð paprika • 8 sneiðar skinka eða kjúklingabitar • Tæplega einn poki Doritos ostasnakk mulið. Öllu blandað saman og sett á milli laga af tortillakökunum og rifinn ostur yfir allt saman. Bakað í ofni þar til ostur er bráðinn.     Innflutningspartýið sem var haldið fyrst fyrir 17 árum síðan en er árvisst og eina nóttina er alltaf brölt með í Dalinn stóran kút af mohítói. Myntulaufum sem stolið er úr næsta garði, límónum og hrásykri er þá bara skellt í blandarann og sett saman við vökvann til að flýta fyrir drykkjargerðinni. Á síðustu árum hefur veiðimaður mikill verið gestur okkar á þjóðhátíð og hefur hann boðið upp á hluta af bráð sinni í ,,innflutningspartýinu”. M.a hefur hann gert gómsætar hreindýrabollur með tartarsósu og er uppskriftin hér:   Bollur a la Roberto • 500-700 gr hreindýrahakk • 1 bolli haframjöl • ½ laukur, saxaður smátt • 1 pk púrrulaukssúpa • salt, pipar, timian eftir smekk og 1 msk villibráðakraftur • ½ -1 dl mjólk, eftir því hvað hakkið er blautt. Öllu blandað saman og búnar til litlar bollur sem borðaðar eru með tartarsósu. Í brekkunni á kvöldin er svo stundum tekin með ,,Fyrsta hjálp Þingholtarans” eins og sjá má á mynd og búinn til Þingholtari eftir leyniuppskrift frá Stínu Páls. Það eru þó allnokkrir sem kunna þá uppskrift en flestir eru þeir laukatengdir. Á sunnudagskvöldinu borðum við svo alltaf kjúklingasúpu í Dalnum og fjöldi matargesta þar hefur verið frá 20 og upp í 60 manns. Það er orðinn órjúfanlegur partur af helg- inni. Svo hafa einstaklega sniðugir bræður sem eru tjaldbúar stöku sinnum tekið upp á því að hafa þemakvöld til dæmis Donald Trump þema og neonþema. Svo það er alltaf mjög skemmtilegt hjá okkur.      

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Stjórnmál >>

Greinar >>

Páll Magnússon: Stoltur!

 Fyrir viku ætlaði ég að skrifa stutta grein hér í Eyjafréttir um hvað ég væri stoltur af íþróttafélaginu mínu, ÍBV, fyrir stærstu og glæsilegustu Þjóðhátíð sem haldin hefur verið. Það fer a.m.k. ekkert á milli mála að Brekkan á sunnudagskvöldinu hefur aldrei verið stærri en nú; kíkið bara á myndirnar hans Óskar P. Friðrikssonar í síðustu Eyjafréttum. Það var líka fullyrt við mig að hvítu tjöldunum hefði fjölgað mikið á milli ára, sem eru enn betri fréttir ef réttar reynast. Um þetta átti sem sé greinin að fjalla, sem EKKI var skrifuð í síðustu viku. Síðan þá hefur ÍBV orðið bikarmeistari í meistaraflokki karla í fótbolta og meistaraflokkur kvenna komist í úrslit í bikarkeppninni annað árið í röð. Ekki minnkaði stoltið við þetta.   Glæsileg Þjóðhátíð Fyrst aðeins meira um Þjóðhátíð. Það er út af fyrir sig ekkert markmið að fjölga stöðugt gestum á Þjóðhátíð og það má leiða að því býsna sterk rök að af ýmsum ástæðum sé hátíðin nú þegar komin að einhverjum efri mörkum í fjölda - miðað við inntak og innviði. Og síst af öllu viljum láta fjöldann sliga þau stórmerkilegu menningarsögulegu verðmæti sem hátíðin felur í sér fyrir okkur bæjarbúa sjálfa. En þjóðhátíðarhaldið sjálft er alltaf að verða betra og betra í höndunum á ÍBV. Aðbúnaður gesta er alltaf að batna; öryggið er að aukast; þrif og hreinlæti er stöðugt að færast í betra horf; gæslan er að styrkjast og svona mætti áfram telja. Og síðan er mér skapi næst að halda að Þjóðhátíðin sé stöðugt að laða til sín prúðari og betri gesti! Sjálfur hef ég staðið sömu vaktina í hliðinu í Dalnum mörg undanfarin ár; 16 til 19 á föstudeginum. Á föstudeginum núna fóru sjálfsagt einhver þúsund manna fram og til baka um hliðið á þessum tíma. Ég sá áfengi á tveimur. Aðeins tveimur. Þannig háttar líka til að frá útidyrum heima hjá mér í Áshamrinum eru bara nokkrir metrar að tjaldstæði þar sem mikill fjöldi aðkomandi þjóðhátíðagesta heldur til. Þarna átti ég auðvitað leið um margoft meðan á hátíðinni stóð - á öllum tímum sólarhrings. Aldrei sá ég annað en glaðværa hópa af ungu fólki að skemmta sér vandræðalaust. Nú er ég ekki svo einfaldur að halda að ekki séu skuggahliðar þar sem 15.000 til 18.000 manns koma saman til að skemmta sér í þrjá til fjóra sólarhringa, en ég fullyrði að þeir skuggar eru á undanhaldi og bragurinn á hátíðinni nú er á margan hátt betri en hann var t.d. á meðan ég var á þeim aldri sem flestir aðkomandi gestir eru nú. Af þessu öllu er ég óskaplega stoltur af ÍBV, stjórn félagsins og starfsmönnum en síðast en ekki síst öllum þeim sjálfboðaliðum sem vinna þrekvirki fyrir félagið sitt á hverju einasta ári. Ekki bara við þjóðhátíðarhaldið heldur alla þessa stóru viðburði sem félagið stendur fyrir þar fyrir utan; pæju- og pollamót, Þrettándagleðina og fleira. Ætli megi ekki fullyrða að meirihluti allra innlendra gesta, sem sækja Eyjarnar heim á hverju ári, geri það í tengslum við viðburði á vegum ÍBV?   Ótrúlegt afrek Um helgina fengum við svo staðfesta sterka stöðu ÍBV á íþróttasviðinu þegar meistaraflokkur karla í fótbolta varð bikarmeistari með sigri á gríðarsterku liði Íslandsmeistara FH í úrslitaleik. Daginn eftir tryggði kvennaliðið sér svo sæti í bikarúrslitunum annað árið í röð. Þegar hér var komið sögu var ég um það bil að rifna af stolti! Meistaraflokkar karla og kvenna í handbolta líta síðan afar vel út nú í aðdraganda keppnistímabilsins. Í þessum afreksflokkum er síðan auðvitað að finna fyrirmyndirnar sem börnin og unglingarnir sækja sér í öflugu yngriflokkastarfi félagsins - og eru þeim hvati til þátttöku í íþróttum. Þessi staða - að íþróttafélag í rúmlega fjögur þúsund manna til þess að gera einangruðu bæjarfélagi eigi sér fjögur keppnislið í fótbolta og handbolta karla og kvenna í hópi þeirra bestu á Íslandi - er ekkert minna en ótrúlegt afrek! Að öllu samanlögðu fullyrði ég að ekkert íþróttafélag á Íslandi, og jafnvel þótt víðar væri leitað, er jafn mikilvægt sínu samfélagi og ÍBV er í Vestmannaeyjum. Langflestar fjölskyldur í Eyjum eiga sér einhvern snertiflöt við félagið nánast á hverjum einasta degi. ÍBV og allt sem félagið stendur fyrir er snar þáttur af sjálfsmynd Eyjamanna - og sennilega verðmætasta vörumerki þeirra, ef menn vilja leggja mat á slíkt. Að lokum þetta. Ég hvet alla forsvarsmenn þeirra góðu fyrirtækja og félaga í Eyjum sem leitað er til með að styrkja starfsemi ÍBV undir ýmsum formerkjum að taka eftirfarandi pól í hæðina: Það er ekki verið að sníkja af ykkur aur í einhvern óþarfa. Það er verið að hvetja ykkur til að styrkja íþrótta- og æskulýðsstarf og efla þannig þá samfélagslegu innviði sem þarf til að hæfileikaríkt og dugmikið fólk vilji búa og ala upp börnin sín í bænum; sem aftur er nauðsynleg forsenda fyrir ykkur til að fá gott fólk í vinnu! Með sama hætti vil ég segja við bæjaryfirvöld: Stuðningur við ÍBV er ekki bara stuðningur við íþróttastarf í þrengstu merkingu þess orðs heldur við miklu víðtækara og afar mikilvægt samfélagslegt hlutverk sem félagið hefur með höndum. Það hlutverk snýr t.d. að sjálfsmynd Eyjamanna í gegnum viðburði eins og Þjóðhátíð og íþróttaafrek á borð við bikarmeistaratitilinn um daginn - en einnig að hreinum hagrænum atriðum eins og að standa fyrir verulegum hluta af komum innlendra ferðamanna til Eyja. Og bæjaryfirvöld mega aldrei falla í þá gryfju að nota tekjur sem ÍBV hefur af Þjóðhátíð til réttlætingar fyrir minni stuðningi en tíðkast í öðrum bæjarfélögum. Þjóðhátíðartekjurnar gera nefnilega ekki meira en að vega upp þann umframkostnað sem hlýst af því að reka íþróttafélag í Vestmannaeyjum samanborið við höfuðborgarsvæðið. Ef þær þá ná því.   Áfram ÍBV! Páll Magnússon