Elísa Guðjónsdóttir hefur verið vegan frá árinu 2013:

Vegan Wellington sló í gegn hjá fjölskyldunni í fyrra

Segir fólkið í kringum sig misjafnlega opið fyrir nýjungum :: Lætur sig dýravelferð varða

Elísa Guðjónsdóttir hefur verið vegan frá árinu 2013:

Vegan Wellington sló í gegn hjá fjölskyldunni í fyrra

:: Segir fólkið í kringum sig misjafnlega opið fyrir nýjungum :: Lætur sig dýravelferð varða

Elísa Guðjónsdóttir er 28 ára gömul Eyjakona sem búsett er í Reykjavík ásamt manni sínum Sigurbergi Rúrikssyni og 15 mánaða gömlum syni þeirra, Rúrik Sigurbergssyni. Elísa er dóttir þeirra Önnu Svölu Johnsen og Guðjóns Jónssonar, Gauja á Látrum og starfar sem flugfreyja samhliða BS námi í sálfræði við HÍ. Elísa, sem hefur verið grænmetisæta síðan árið 2009 og vegan frá árinu 2013, féllst á að svara nokkrum spurningum blaðamanns varðandi ákvörðun sína um að sneiða alfarið fram hjá dýraafurðum og hvað hún hyggst hafa í matinn hjá sér yfir hátíðarnar.
 
Rökrétt skref fyrir mig að taka út allar dýraafurðir
Upphaflega tók Elísa ákvörðun um að gerast grænmetisæta eftir að hafa horft á heimildarmyndina Earthlings en myndin er afar átakanleg og sýnir svart á hvítu grimmdina og ofbeldið sem dýr verða fyrir af hálfu manna. Fjórum árum síðar ákvað Elísa síðan að taka dýravelferðarsjónarmið sín skrefinu lengra og gerast vegan. „Ég hafði verið grænmetisæta síðan í lok árs 2009 en varð svo vegan sumarið 2013. Þegar ég var grænmetisæta þá borðaði ég ekki kjöt, fisk eða kjúkling en neytti mjólkurvara og eggja. Það var að mínu mati næsta rökrétta skrefið fyrir mig að taka út allar dýraafurðir og sú ákvörðun hefur hentað mér mjög vel.“
 
Tekur gjarnan með sér nesti
Eðli málsins samkvæmt getur verið flókið að vera vegan þegar maður starfar sem flugfreyja þar sem ferðalögin geta verið löng og matarúrvalið oft af skornum skammti. „Það getur verið erfitt en ég er dugleg að taka með mér nesti í flug. Annars er mjög misjafnt eftir áfangastöðum hversu aðgengilegur vegan matur er en ég reiði mig mikið á google þegar ég er að fara til nýrra áfangastaða,“ segir Elísa.
Nú á dögum er hægt að fá staðgengla fyrir nánast allar þær matvörur sem innihalda dýraafurðir sbr. mjólk, rjómaost, ost o.fl. En er eitthvað sem þú saknar frá fyrri tíð? „Í sannleika sagt er mjög fátt sem ég sakna, ég hugsa almennt öðruvísi um dýraafurðir heldur en ég gerði áður fyrr. Það eru þá kannski helst matarhefðirnar úr æsku sem ég sakna, til dæmis var svartfuglsegg það besta sem ég fékk og ég á margar fallegar minningar þar sem pabbi fór í eggjatínslu, kenndi mér svo hvernig best væri að sjóða eggin og við sátum saman öll fjölskyldan að borða svartfuglsegg og réttum pabba þau alltaf ef þau voru stropuð,“ segir Elísa.
 
Gaman að breyta til og gera eitthvað nýtt
Yfir hátíðarnar er fólk mjög gjarnan íhaldsamt þegar það kemur að mat og nánast undantekningalaust kjöt á boðstólnum. Hvað hefur verið á boðstólnum hjá þér síðan þú ákvaðst að verða vegan? „Mér finnst gaman að breyta til og gera eitthvað nýtt en ég hef verið með hnetusteik, vegan Wellington og svokallaða Tofurky-steik,“ segir Elísa og bætir við að fólkið í kringum sig sé misjafnlega opið fyrir nýjungum þegar það kemur að mat. „Það er mjög misjafnt, en flestir eru opnir fyrir vegan mat og sýna þessu mikinn áhuga. Til að mynda hefur mikið af fólki í kringum okkur í kjölfarið tekið þátt í Veganúar, þ.e. að vera vegan allan janúar.“
 
Tofurky-steik með kókosrjómalagaðri sveppasósu verður jólamaturinn í ár
Hvað ætlar þú að hafa í matinn yfir hátíðarnar í ár og hvaðan færðu helst innblástur? „Í ár ætla ég að hafa Tofurky-steik með kókosrjómalagaðri sveppasósu. En í fyrra var ég með vegan Wellington steik og hún sló ræki-
lega í gegn. Ég fæ helst innblástur á „Vegan Ísland“ sem er grúppa á Facebook en þar eru rétt rúmlega 19 þúsund meðlimir sem deila oft góðum hugmyndum og alls konar nýjungum í verslunum hérna heima,“ segir Elísa.
 
Uppskrift  - Vegan Wellington:
 
1 pakki af smjördeigi (flestar útgáfur eru vegan, ég kaupi frá Findus).
1 dós af grænum linsubaunum (eða jafnt magn af elduðum þurrum baunum)
2 gulrætur
3 sveppir
3 hvítlauksgeira
2 msk. hörfræ
1 poki af pulled Oumph! (fæst í Krónunni)
100 gr. af pekan hnetum
örlítið af vegan mjólk
1 dl. hafrar
1/2 dl. hveiti
Cayenne pipar
salt
pipar
Timían
ólívuolía.
 
1. Byrja á að sjá til þess að bæði Oumphið og smjördegið sé komið tímanlega úr frosti svo það sé þiðið þegar ég byrja (nokkrum klst fyrir notkun).
 
2. Ofninn hitaður í 200°C.
 
3. Legg 2 msk. af hörfræjum í bleyti
í 3 msk. af vatni og legg til hliðar svo þær þenjist út á meðan hitt
er græjað.
 
4. Helli vatninu af linsubaununum, skola þær, set í plastskál og mauka með töfrasprota eða í matvinnsluvél.
 
5. Brytja smátt niður 3 sveppi,
2 gulrætur og 3 hvítlauksgeira og steiki á pönnu með ólívuolíu.
 
6. Bæti við 2 klípum af salti, dass af pipar, Cayenne pipar og vel af Timían.
 
7. Brytja Oumphið niður í minni bita og bæti því út í grænmetið á pönnunni og leyfi að steikjast á meðal háum hita í nokkrar mínútur.
 
8. Sker gróflega niður 100 gr. af pekanhnetum.
 
9. Bæti pekanhnetunum, Oumphinu og grænmetinu saman við maukuðu linsubaunirnar.
 
10. Bætt við 1/2 dl. af hveiti, 1 dl. af höfrum og hörfræjunum og allt saman hrært vel saman.
 
11. Næst legg ég smjördegið á smjörpappír, en frá Findus eru þetta margir litlir ferhyrningar svo ég legg þrjá saman.
 
12. Rúlla aðeins yfir með kökukefli til að stækka flötinn og klessa samskeytunum á deigunum 3 saman.
 
13. Dreifið úr Oumph blöndunni á smjördeigið en ég mæli bara með að nota hendurnar og þrýsta á blönduna svo hún verði ekki laus í sér.
 
14. Blandan er komin á deigið og þá sker ég út flipa á hvorum enda og svo ræmur meðfram öllu.
 
15. Ég byrja á að teygja endaflipann yfir endann, en svo þarf bara að leggja ræmurnar í sikk – sakk yfir. Loks geri ég svo það sama við hinn endann.
 
16. Svo penslaði ég allt saman með vegan mjólk.
 
17. Hleifurinn settur í ofn í u.þ.b. 30 mínútur eða þar til deigið verður gullin brúnt. Gott að fylgjast vel með þar sem deigið getur verið misþykkt og því verið lengur eða fljótara að brúnast.
 
 
 

Eyjamenn senda höfuðborgarbúum drykkjarföng

Í ljósi frétta af fjölgun jarðvegsgerla í kalda vatni höfuðborgarsvæðissins hefur brugghúsið The Brothers Brewery ákveðið að bregðast við og senda drykkjarföng á höfuðborgarsvæðið. Telja eigendur The Brothers Brewery að með þessu séu þeir að létta undir með höfuðborgarbúum enda með öllu ótækt að sjóða þurfi drykkjarvöru þeirra á meðan þetta ástand gengur yfir.   Á bóndadaginn sem er næstkomandi föstudag hefst sala á þorrabjórum í Vínbúðunum og er 23.01.73 fyrsti bjór The Brothers Brewery sem kemur í sölu í Vínbúðunum. The Brothers Brewery hefur haft framleiðsluleyfi í um tvö ár og hingað til eingöngu þjónað eyjamönnum og örfáum veitingastöðum á höfuðborgarsvæðinu hingað til. The Brothers Brewery vann á sínu fyrsta starfsári til verðlauna með bjór ársins á bjórhátíðinni á Hólum með sjómannabjórinn Togarann og á síðasti ári fékk brugghúsið 2.verðlaun fyrir tunnuþroskaðann Surtsey á sömu hátíð.   Nafnið á bjórnum kemur til af upphafi eldgossins á Heimey 23.janúar 1973 en í næstu viku eru 45 ár liðin frá upphafi eldgossins. Með þessu nafni vilja eigendur The Brothers Brewery tileinka bjórnum öllum þeim eyjamönnum sem fluttu til eyja aftur eftir gos og byggðu upp það samfélag sem Vestmannaeyjar er í dag. 23.01.73 er dökkur bjór með skírskotun í öskuna sem fyllti bæinn á meðan á eldgosinu stóð.   Höfuðborgarbúar geta verslað 23.01.73 í Vínbúðunum í Skútuvogi, Heiðrúnu, Kringlunni, Skeifunni, Dalvegi, Hafnarfirði og einnig eiga Akureyringar og Vestmannaeyingar möguleika að versla bjórinn í sínum Vínbúðunum.    

Jóhanna Magnúsdóttir er matgæðingur vikunnar - Kjúklingur í hnetusósu

Nói Bjarnason er Eyjamaður vikunnar - Sigraði búningakeppnina sem maður í búri

Ár hvert halda Eyverjar búningaball fyrir yngri kynslóðina á Þrettándanum þar sem keppt er um hver er í besta búningnum. Að þessu sinni stóð Nói Bjarnason uppi sem sigurvegari en hann var maður í búri og er hugmyndin komin frá smáforritinu Minecraft. Nói er Eyjamaður vikunnar að þessu sinni   Nafn: Nói Bjarnason. Fæðingardagur: 18. október 2008. Fæðingarstaður: Odense, Danmörku. Fjölskylda: Mamma mín heitir Tinna Tómasdóttir, pabbi minn heitir Bjarni Ólafur Marinósson, systur mínar tvær heita Emelía Ögn og Sara Björk. Uppáhalds vefsíða: www.youtube.com. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Þegar það er sungið afmælissönginn. Aðaláhugamál: Byggja úr Lego með mínum hugmyndum. Uppáhalds app: Minecraft. Hvað óttastu: Hvirfilbyl. Mottó í lífinu: Að vera hjálpsamur og góður. Apple eða Android: Apple. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Leonardo da Vinci. Hvaða bók lastu síðast: Jólasyrpa. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Messi, Dagur Arnarsson frændi minn og ÍBV. Ertu hjátrúarfullur: Nei. Stundar þú einhverja hreyfingu: Ég labba eiginlega alltaf heim úr skólanum. Uppáhaldssjónvarpsefni: Ævintýramyndir. Hvað finnst þér skemmtilegast við Þrettándann: Að fara á grímuballið, hitta Tröllin í göngunni og vera púki. Í hvaða búningi varstu á ballinu og hvers vegna: Ég var maður í búri sem Steve úr Minecraft hélt á út af því að mér finnst Minecraft skemmtileg og pabbi fann þessa hugmynd. Bjóstu við því að sigra búningakeppnina: Ég bjóst alveg við því út af búningnum og vonaðist mikið til þess.  

Útkallstími í báðum tilvikum eðlilegur

Staðarvöktuð þyrla mundir auka gæði bráðaþjónustu við fólk svo um munar

Sjúkraflug er mikilvægur hlekkur í bráðaþjónustu. Þá helst þegar alvarlega veikir eða slasaðir þurfa fá sérhæfða læknishjálp. Oft skiptir þar mestu að viðbragðstími og flutningstími sé sem stystur. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út tvisvar til Vestmannaeyja í desember vegna alvarlegra veikinda sem komið höfðu upp. Um var að ræða F1 útkall, sem þýðir að líf er í hættu. Vegna þoku var ekki talið öruggt að senda sjúkraflugvél Mýflugs og var þyrlan því kölluð til. Þyrlan LHG er á bakvakt og tekur það um 45-60 mínútur að gera hana klára í útkall.     Netið rosalega viðkvæmt Styrmir Sigurðarson, yfirmaður sjúkraflutninga hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, sagði í samtali við Eyjafréttir að þetta kæmi oft upp eins og við vitum flest. „Viðbragði Gæslunnar var seinkað einhverra hluta vegna. Það getur verið út af hvíldartíma áhafnar. Eftir því sem mér skildist hafði áhöfnin verið í flugi um nóttina þannig að þeir þurfa hvíldartíma. Þeir þurfa að fylgja öryggisreglum. En það segir okkur það jafnframt að netið sem við erum með í dag er rosa viðkvæmt og veikt.“     Staðarvöktuð þyrla lausnin Styrmir kallar eftir heildstæðari lausnum, meðal annars með staðarvaktaðri sjúkraþyrlu. „Við erum að reyna að benda fólki á straumlínulaga ákvarðanatökuna þannig að hún verði sem fæstar mínútur. Þannig að þá sé hægt að kalla út þyrlu Gæslunnar ef veður leyfir ekki lendingu flugvélar. Þannig tryggjum öruggari þjónustu fyrir okkur.“ Stymir sagði að með staðarvaktaðri þyrlu sem væri annaðhvort í Vestmannaeyjum eða Rangárþingi styttum við viðbragðið til sjúklings. „Þá erum við að tala um að sjúklingur er komin með sérhæft fólk og þyrlu á innan við hálftíma. Ef þyrlan er staðsett í Vestmanneyjum í skýli og til viðbragðs þá getur sjúklingur verið komið í loftið á fimm til tíu mínútum. Þetta mundi auka öryggistilfininguna svo um munar,“ sagði Styrmir. Skoða þyrfti samt hvar best væri að hafa þessa þyrlu staðsetta til að þjóna öllu umdæmi HSU á Suðurlandi.     Um hundarð sjúkraflug til Vestmannaeyja 2017 Mýflug fór að sögn Styrmis um hundrað sjúkraflug til Vestmannaeyja á síðasta ári. Að sökum landfræðilegrar staðsetningar eiga þeir oft erfitt með að standa við viðbragðstíma sem talað er um í samningum. „Þeir eru til dæmis ekki alltaf með lækni um borð í vélinni sinni og þurfa þá jafnvel að koma við og sækja hann á Akureyri eða í Reykjavík sem lengir viðbragðstímann“ sagði Styrmir.   Bæjaryfirvöld taki málið Stymir vill sjá bæjarstjórn Vestmannaeyja taka þetta mál á lofti og þrýsti á „ ég hef séð þau þrýsta á málefni og rífa kjaft út af öðrum hagsmunamálum Eyjamanna” Ég vill sjá þau gera það fyrir þetta líka. Þetta getur aukið öryggi fólks til muna. “ sagi Stymir að lokum.   Þyrlupallur byggður í samráði við LHG Stymir sagði að mikilvægt væri að fagaðilar komi að gerð þyrlupalls ef það verður að veruleika. En bæjarráð hefur samþykkt til­lögu Stef­áns Óskars Jónas­son­ar, bæj­ar­full­trúa E-list­ans, að fara þess á leit við sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra að byggður verði þyrlupall­ur á lág­lendi Heima­eyj­ar. „Það er mjög mikilvægt ef bæjarráð er í pælingum um þyrlupall þarf það að gerast í mjög góðu samráði við flugrekstaraðila eins og LHG,“ sagði Styrmir.  

Mikil óánægja með sorphirðu

Í vikunni fjallaði Framkvæmda- og hafnaráð um þann hluta árlegarar þjónustukönnunar Gallup sem snýr að ráðinu. Könnun þessi er gerð til að kanna ánægju með þjónustu stærstu sveitarfélaga landsins og gera samanburð þar á ásamt því að skoða breytingar frá fyrri mælingum og fór hún fram frá 3. nóvember til 17. desember. Eingöngu var spurt út í einn lið er snýr að þjónustu ráðsins og sneri hann að sorphirðu. Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu í tengslum við sorphirðu í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu (84%) voru eingöngu 55% ánægð en 45% óánægð. Meðaleinkunn sveitarfélaga á þessari spurningu á skalanum 1 til 5 var 3,6 en einkunn Vestmannaeyjabæjar einungis 3 og því langt undir meðaltali.   Þessi niðurstaða er í samræmi við það sem ráðið hefur áður rætt og full ástæða til að taka hana alvarlega. Því fól ráðið framkvæmdastjóra þegar að boða forsvarsmenn Kubbs sem annast sorphirðu og –meðhöndlun til fundar við ráðið svo fljótt sem verða má.   Eins og þekkt er var sorpbrennslu bæjarins lokað árið 2011 að kröfu Umhverfisstofnunar. Síðan þá hefur bæjarfélagið glímt við mikinn vanda innan málaflokksins og orðið að flytja stóran hluta þess til förgunar um langan veg. Á árinu 2018 er áætlað að tekin verði stór skref í átt að varanlegri lausnum og er þar sérstaklega horft til þess að taka upp brennslu á ný í fullkomnum ofni.  

Elís Jónsson hyggst gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins

„Í bréfi til meðlima í fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins þann 4. janúar sl. gerði ég grein fyrir minni skoðun og skilning mínum á fundi fulltrúaráðsins 27. desember síðastliðinn. Í framhaldi kom tilkynning frá stjórn fulltrúaráðsins til meðlima sem staðfesti skilning minn enda brugðust fundarmenn við með lófaklappi og enginn hreyfði andmælum þegar fundarstjóri tilkynnti skilning sinn að þar með lægi fyrir ákvörðun um prófkjör. Ég vona að fyrirhugaður fundur fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum kl. 20 í kvöld taki af allan vafa enda náðist einróma samstaða í stjórn fulltrúaráðsins um prófkjör eftir að uppstilling var felld af fulltrúaráði á fyrrgreindum fundi. Ég tel að með þessari ákvörðun sé komið til móts við vilja kjósenda í Vestmannaeyjum um að þeir fái að velja þá fulltrúa sem þeir treysta best á lista fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar 26. maí næstkomandi. Ég vona að sú biðstaða sem myndaðist eftir að nýr fundur var boðaður leysist endanlega og nú opnist leið fyrir áhugasama einstaklinga til að gefa kost á sér í prófkjör. Að því sögðu vil ég koma á framfæri því sama og ég sendi í bréfi mínu til meðlima í fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum að ég mun ekki skorast undan þeim áskorunum og hvatningum sem mér hafa borist og mun að sjálfsögðu gefa kost á mér í fyrsta prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum síðan 1990.“   Með vinsemd og virðingu, Elís Jónsson.  

91% ánægð með Vestmannaeyjar sem stað til að búa á

Ómar Garðarsson er Eyjamaðu vikunnar - Byrjaði í blaðamennsku eftir að hafa sofið yfir sig

Það er vel við hæfi að Ómar Garðarsson sé fyrsti Eyjamaður vikunnar á árinu 2018 en hann hætti störfum hjá Eyjafréttum í lok árs 2017 eftir rúmlega 30 ára feril sem blaðamaður og ritstjóri. Ómar segir það hálfgerða tilviljun að hann hafi fetað þessa braut í lífinu og að gott samstarfsfólk sé m.a. það sem stendur upp úr á ferlinum. Ómar er Eyjamaður vikunnar að þessu sinni.   Nafn: Ómar Garðarsson. Fæðingardagur: Þann 17. september 1949. Fæðingarstaður: Reykjavík en ólst upp á Seyðisfirði frá tveggja ára aldri. Fjölskylda: Giftur Þorsteinu Grétarsdóttur og við eigum fjögur börn og barnabörnin eru átta. Uppáhalds vefsíða: Innlendar fréttasíður. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Öll góð tónlist, sama í hvaða flokki hún er. Aðaláhugamál: Fram að þessu hefur það verið vinnan. Líka íþróttir og íþróttastarf, líkamsrækt, bíómyndir, tónlist og bækur og margt fleira. Uppáhalds app: Veit ekki. Hvað óttastu: Að vera einn. Mottó í lífinu: Að vera skikkanleg manneskja. Apple eða Android: Er það ekki Android? Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Það væri gaman að sitja á spjalli við Brian Wilson, úr Beach Boys, sem er reyndar enn á lífi og John Lennon úr Bítlunum. Miklir meistarar báðir tveir. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Margrét Björk sem dansar svo flott, Ari Sigurgeirsson, Framari og Victoría Ísól hestakona. ÍBV og aftur ÍBV og svo smá Liverpool. Ertu hjátrúarfullur: Já, með stórum staf. Stundar þú einhverja hreyfingu: Sprikla reglulega í Hressó sem er ein af stoðum Vestmannaeyja. Uppáhaldssjónvarpsefni: Vandaðir þættir af öllum gerðum og svo fréttir. Hvenær byrjaðir þú í blaðamennsku og af hverju ákvaðstu að feta þá braut: Í júní 1986. Fyrir tilviljun og stutta svarið er að ég svaf yfir mig. Hvað stendur upp úr á yfir 30 ára ferli: Gott samstarfsfólk og það traust sem mér hefur verið sýnt í gegnum árin. Hvað tekur nú við: Ýmis verkefni tengd fjölmiðlun og svo bara að njóta lífsins á meðan heilsan leyfir.  

Ánægður með samskiptin við Eyjamenn sem hafa tekið okkur vel - myndir

Rétt fyrir jól hélt Hampiðjan fund á verkstæði sínu í Vestmannaeyjum um veiðar og veiðarfæri á nýju verkstæði sínu. Þangað mættu skipstjórnarmenn og forráðmenn sjávarútvegsfyrirtækja í Eyjum og kynntu sér þessa stórglæsilegu aðstöðu sem Hampiðjan býður upp á og helstu nýjungar í veiðarfærum og þróunarvinnu fyrirtækisins.   Jón Oddur Davíðsson, markaðs- og sölustjóri Hampiðjunnar á Íslandi rakti sögu félagsins sem stofnað var í miðri kreppu árið 1934. Fyrst eingöngu til að framleiða garn úr hampi, manillu og sísal til netahnýtingar. Lengst af var Hampiðjan til húsa í Stakkholtinu í Reykjavík og út um allan bæ voru konur og karlar að hnýta netastykki fyrir hana. Síðan hefur félagið eflst og dafnað og útrás hófst upp úr 1995. Einar Skaftason, veiðarfærahönnuður sagði frá tankferð Hampiðjunnar til Danmerkur 2016 og þróun trolla sem fyrirtækið framleiðir, eins Seastar, breiðtrollum og flottrollum. Kristinn Gestsson, sölumaður veiðarfæra lýsti kostum nýrra Thyborøn botn– og flottrollshlera. Guðmundur Gunnarsson sagði frá T90 trollpokunum og DynIce tógunum. Rekstur Hampiðjunnar er núna umfangsmikill á heimsvísu og spannar allt frá Dutch Harbor á vestasta odda Alaska til bæjarins Nelson á suðureyju Nýja Sjálands. Í Vestmannaeyjum eru þrír starfsmenn. Forstjóri Hampiðjunnar, sem er alfarið í eigu Íslendinga, er Hjörtur Erlendsson. Auk starfseminnar á Íslandi er Hampiðjan með starfsemi í Færeyjum, Noregi, Danmörku, Grænlandi, Írlandi og Litháen, þar sem öll framleiðsla á tógum og netum er. Líka í fjarlægum löndum eins og Rússlandi, Ástralíu og Nýja Sjálandi, Nýfundnalandi, Seattle í Bandaríkjunum og litla starfsstöð á austurströndinni nálægt Boston. Á Íslandi eru starfsstöðvar í Reykjavík, Vestmannaeyjum og svo á Hampiðjan meirihluta í Fjarðaneti sem starfar á Norðfirði, Akureyri og Ísafirði. „Í allt eru þetta 35 starfsstöðvar í tólf löndum. Starfsmenn eru í allt rúmlega 900 og þar af 70 á Íslandi.“ sagði Hjörtur forstjóri í samtali við Eyjafréttir eftir fundinn. „Félagið hafði vaxið hér innanlands en það var árið 1995 sem við fórum að horfa út fyrir landssteinana. Við byrjuðum í Nýja Sjálandi og Namibíu og stóra stökkið tókum við árið 2016 með kaupum á netagerðarfyrirtækinu Voninni í Færeyjum. Með því tvöfölduðum við veltu Hampiðjusamstæðunnar. Við gerum upp í evrum og var veltan 2016 rúmlega 117 milljónir evra eða 14,5 milljarðar á gengi dagsins í dag.“ sagði Hjörtur. „Ég er mjög ánægður með samskiptin við Eyjamenn enda hefur okkur verið tekið afskaplega vel og allt gert til að greiða götu okkar. Við viljum að Eyjamönnum gangi allt í haginn í leik og starfi og viljum bjóða uppá góða og vandaða þjónustu fyrir útgerðarfyrirtækin sem starfa í Eyjum enda eru Eyjarnar ein stærsta fiskveiðihöfnin á Íslandi.“   Hér bjóðum við upp á fyrsta flokks aðstöðu „Ég get fullyrt að hér bjóðum við upp á fyrsta flokks aðstöðu sem skilar sér í bættri vinnuaðstöðu og betri þjónustu við viðskiptavini,“ sagði Eiríkur Sigurgeirsson, Eyjamaður sem lengi hefur þjónað Hampiðjunni. „Lengd hússins var nær þrefölduð úr 21 metra í 60 metra sem gerir alla vinnu bæði auðveldari og léttari. Við erum með tvær brautir, nótabraut með fimm kraftblökkum auk hjálparspila. Við enda brautarinnar er gryfja fyrir næturnar þannig að þær taki ekki eins mikið pláss í húsinu. Verði ekki eins og mikið fjall á gólfinu. Flottrollsbrautin er með flottrollstromlur á báðum endum og í loftinu eru svo blakkir til að greiða trollin í sundur og færa þau til eftir þörfum. Ég held því fram að hér séum við með frábæra aðstöðu sem skilar sér í færri unnum tímum við hvert verk. Starfsmannaaðstaðan stenst líka allar kröfur sem gerðar eru í dag,“ sagði Eiríkur að endingu. Á fundinum var boðið upp á fyrsta flokks veitingar sem Sigurður Gíslason, stórkokkur á GOTTsá um.    

Fréttatilkynning - Mótmæla harðlega að leggja af losunar-og sjósetningarbúnað íslenskra skipa

 Á aðalfundi Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðanda sem haldinn var þann 29. des. sl. var mótmælt harðlega tilræði Samgöngustofu til að leggja af losunar-og sjósetningarbúnað íslenskra skipa.   Greinargerð Samgöngustofa er að vinna að drögum að reglugerð þar sem til skoðunar er að alþjóðlegar kröfur um björgunarbúnað gildi, þannig að núverandi íslenskar sérkröfur verði valkostur útgerðar. Það vita það allir sem vilja vita að það kostar pening að hafa alvöru björgunartæki um borð í skipum og viljum við benda Samgöngustofu á að kynna sér hversu mörgum mannslífum sleppibúnaðurinn hefur bjargað . Fundurinn hvetur Rannsóknarnefnd sjóslysa og Samgöngustofu til að meta hvaða sjósetningarbúnaður standist þær kröfur sem menn ætlast til og veiti ekki falskt öryggi. Við höfum séð alltof mörg dæmi um mismunandi tegundum af sjósetningarbúnaði á undanförnum árum sem hafa ekki virkað og sjómenn látist. Það eru engar reglur um að losunar-og sjósetningarbúnaður skili gúmmíbáti upp á yfirborðið óháð dýpi eða hvort skipið sé á hvolfi. Það er til búnaður sem er hannaður til að skila gúmmíbáti uppblásnum við hlið skips óháð dýpi, sama hvernig skip snýr. Fundurinn hvetur starfsfólk Samgöngustofu sem vinnur að öryggismálum að færa ekki öryggismál sjómanna 37 ár aftur í tímann og jafnframt að boða forystumenn sjómannasamtakanna og Rannsóknarnefndar sjóslysa til samstarfs við nýja reglugerð.   Bergur Kristinsson formaður Ss- Verðandi

Dagskrá þrettándagleði 2018

Föstudagur 5. janúar   Kl. 14.00-15.30 Höllin, diskógrímuball Eyverja   Jólasveininn mætir og aðrar fígúrur einnig. Verðlaun verða veitt fyrir búninga og öll börn fá nammipoka frá jólasveininum.   Kl. 19.00 Hin eina sanna Þrettándagleði ÍBV og Íslandsbanka   Flugeldasýning, blysför, álfabrenna, jólasveinar, tröll, tónlist og margt fleira. Gangan hefst við Hánna og gengið verður upp Illugagötu, niður Höfðaveg og að malarvellinum þar sem hinar ýmsu kynjaverur heilsa upp á gesti.   Kl.00.00 Höllin, dansleikur   Þrettándadansleikur með hljómsveitinni Buff. Forsala í Tvistinum.   Laugardagur 6.janúar   Kl. 12.00 - 15.00 Tröllagleði í Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja   Fjölskyldan getur komið saman og leikið sér í íþróttasölum undir stjórn Esterar Óskarsdóttur landsliðskonu í handbolta og íþróttafélaganna.   Kl. 12.00-17.00 Langur laugardagur í verslunum   Trölla tilboð og álfa afslættir í gangi hjá verslunum og veitingastöðum!   Kl. 13.00 Einarsstofa, úrval úr ljósmyndasafni Vestmannaeyjabæjar til sýningar.   Kl. 13.00-16.00 Sagnheimar, fjölskylduratleikur Jólakattarins! Frítt fyrir fullorðna í fylgd með börnum. Klukkan 16 verður dregið í jólagetraun Sagnheima.   Kl. 21.00 Háaloftið, tónleikar   Risatónleikar með Grafík. Húsið opnar kl. 21.00 og tónleikarnir hefjast kl. 22.00. Forsala í Tvistinum.   Sunnudagur 7.janúar   Kl. 13.00 Helgistund í Stafkirkjunni   Sr. Viðar Stefánsson fer með hugvekju.   Hefðbundinn opnunartími á söfnum bæjarins!   Eyjabíó verður með fjölbreyttar bíósýningar fyrir alla aldurshópa alla helgina!  

Páley : Sömu regl­ur gildi um stungusár og nauðgun

Páley Borgþórsdóttir lög­reglu­stjóri í Vest­manna­eyj­um mun flytja er­indi í dag und­ir yf­ir­skrift­inni: „Lög­gæsla í þágu þolenda“ á ráðstefn­unni Þögn­in, skömm­in og kerfið sem fer fram í Há­skól­an­um í Reykja­vík í dag. Á ráðstefn­unni verður fjallað um nauðgun og er hún hald­in á veg­um laga­deild­ar og sál­fræðisviðs Há­skól­ans í Reykja­vík í sam­starfi við Rann­sóknamiðstöð gegn of­beldi við HA, lög­reglu­stjór­ann í Vest­manna­eyj­um, lög­reglu­stjór­ann á höfuðborg­ar­svæðinu og Aflið - Sam­tök gegn kyn­ferðis- og heim­il­isof­beldi.     Þessi brot eru það alvarleg að sömu reglur ættu að gilda „Mér finnst þessi brot vera það al­var­leg að um þau eigi að gilda sömu regl­ur og um al­var­lega glæpi. Ef mann­eskja með stungusár kem­ur inn á spít­ala er það um­svifa­laust til­kynnt til lög­reglu, en ekki nauðgun. Hver er mun­ur­inn?“ spyr Páley. Hún seg­ir það áhyggju­efni hve lágt hlut­fall þeirra kyn­ferðis­brota­mála sem koma inn á neyðar­mót­töku eru til­kynnt til lög­reglu. „Þetta er rosa­lega lágt. Það er áhyggju­efni og hef­ur verið það lengi. Ég hef verið að velta því upp hvort það eigi ekki bara alltaf að til­kynna. Væri það ekki eðli­legt?“ spyr hún og viður­kenn­ir að hana langi að hrista aðeins upp í kerf­inu eins og það er í dag.   Hægt er að lesa meira um málið á mbl.is      

Gallup - 92% eru ánægðir með Grunnskóla Vestmannaeyja og 88% með leikskóla.

Í gær var haldinn fundur í fræðsluráði Vestmannaeyjabæjar en það ráð fer meðal annars með málefni allra skóla, daggæslu og fleirra. Til umfjöllunar var niðurstaða þjónustukönnunar Gallup sem gerð er árlega til að kanna ánægju með þjónustu stærstu sveitarfélaga landsins og gera samanburð þar á, ásamt því að skoða breytingar frá fyrri mælingum. Sú könnun sem nú var til umfjöllunar fór fram frá 3. nóvember til 17. desember. Allir þættir sem undir ráðið falla eru yfir landsmeðaltali og ánægja eykst á milli ára.  92% þeirra sem taka afstöðu eru ánægðir með þjónustu Grunnskóla Vestmannaeyja og 88% með leikskóla.   92% þeirra sem afstöðu tóku voru ánægðir með Grunnskóla Vestmannaeyja Grunnskóli Vestmannaeyja er í senn einn stærsti vinnustaður Eyjanna með um 520 nemendur og 133 starfsmenn og einn mikilvægasti þjónustuþáttur Vestmannaeyjabæjar. Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar voru með þjónustu grunnskóla sveitarfélagsins kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu (88%) voru 91% ánægð en einungis 9% óánægð og eykst ánægjan mikið á milli ára og er yfir landsmeðaltali.   88% þeirra sem afstöðu tóku sögðust ánægðir með þjónustu leikskóla. Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu leikskóla sveitarfélagsins kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu (87%) sögðust 88% ánægð og 12% óánægð og eykst ánægjan nokkuð á milli ára og er yfir landsmeðaltali.   Mikil ánægja með þjónustu við barnafjölskyldur í Vestmannaeyjum Þá vekur það sérstaka ánægju að þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu við barnafjölskyldur í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu (85%) sögðust 83% ánægð en 17% óánægð og eykst ánægjan milli ára og er yfir landsmeðaltali.   Elliði Vigisson greindi frá niðurstöðuum á heimasíðu sinni og sagði hann ástæðu til að fagna þessum niðurstöðum, „og þá ekki síst í ljósi þess að starfsmenn eru hér að uppskera árangur erfiðs síns enda mikil áhersla verið lögð á að efla og styrkja fræðslukerfið og þjónustu við börn almennt á seinustu árum. Eftir sem áður, vitum við öll að enn er hægt að gera gott betra. Í því samhengi má til að mynda benda á að þegar hefur til að mynda verið samþykkt að byggja nýja deild við leikskólann Kirkjugerði auk þess sem byggja á nýjan samkomusal við skólann, stækka starfmannaaðstöðu, bæta eldhúsaðstöðu og ýmislegt fl. Allir þessir liðir munu vafalaust bæta þjónustu þeirrar góðu stofnunar til muna. Þá hefur einnig verið samþykkt að byggja við Barnaskólann, stórbæta skólalóðir bæði Hamars- og Barnaskóla og ýmislegt fleira.“   Gjaldskrár leikskóla hafa lækkað um 20% og framlög með dagvistun í heimahúsum um 50% Á sama hátt er stöðugt unnið að því að lækka álögur á þjónustunotendur og vísast hvað það varðar til að mynda til nýlegrar lækkunar á leikskólagjöldum um 20% auk þess sem að upphæð niðurgreiðslu vegna dagvistunar í heimahúsum var aukin um 50% frá og með 1. Janúar sl. Áfram þarf að halda hvað það varðar.      

Kyn­ferðis­brot­um fjölg­ar um 75% á milli ára hjá lög­regl­unni í Vest­manna­eyj­um.

Í um­dæm­um lög­regl­unn­ar á Suður­landi og í Vest­manna­eyj­um hef­ur kyn­ferðis­brot­um fjölgað veru­lega á milli ára. Árið 2016 voru 25 brot á Suður­landi, en á nýliðnu ári voru þau 42, sam­kvæmt bráðabirgðatöl­um sem birt­ar voru í gær. Þar af voru níu nauðgan­ir. Í Vest­manna­eyj­um voru kyn­ferðis­brot­in átta árið 2016 en fjór­tán í fyrra, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá embætt­inu. Aukn­ing­in á milli ára er þannig 68% á Suður­landi og 75% í Vest­manna­eyj­um.   Páley Borgþórs­dótt­ir, lög­reglu­stjóri í Vest­manna­eyj­um, sagði sam­tali við mbl.is að þau gætu notað meiri mann­skap til að tak­ast á við auk­inn brota­fjölda í þess­um mála­flokki. „Það þarf að bæta í þenn­an mála­flokk fjár­magni til að halda í við þetta, svo að rann­sókn­irn­ar gangi vel og máls­hraðinn sé eðli­leg­ur. Ef þú lít­ur á máls­hraðann í heild, í kyn­ferðis­brot­um, þá er hann orðinn svo­lítið lang­ur, ef mál­in fara alla leið upp í dóm. Það er þung­bært fyr­ir fólk sem stend­ur í þess­um mál­um að máls­hraðinn skuli ekki vera betri hjá okk­ur. Eina leiðin til þess að bæta úr því er meiri mann­skap­ur,“ seg­ir Páley, en ein­ung­is einn rann­sókn­ar­lög­reglumaður er starf­andi hjá lög­regl­unni í Vest­manna­eyj­um.   Tölu­vert um að göm­ul brot séu til­kynnt Páley seg­ir sömu­leiðis að henni hafi fund­ist sem of fá kyn­ferðis­brota­mál hafi verið að koma inn á borð lög­reglu síðustu ár. „Þessi aukn­ing á sér von­andi þær skýr­ing­ar að fólk sé að leita til lög­reglu vegna þess­ara brota,“ seg­ir Páley. Já­kvætt sé að fólk leiti til lög­reglu. Ein­hver hluti þess­ar­ar aukn­ing­ar eru brot sem fólk er fyrst núna að til­kynna, en áttu sér mögu­lega stað fyr­ir mörg­um árum eða jafn­vel ára­tug­um síðan. „Ein­hver sem er full­orðinn í dag get­ur verið að til­kynna brot gegn sér þegar hann var barn,“ seg­ir Páley. Hún seg­ir ljóst að á litlu svæði eins og Vest­manna­eyj­um sé aukn­ing­in gríðarleg á milli ára og stór­auki álagið, sér­stak­lega þar sem rann­sókn­ar­deild­in sé bara einn maður. „Hér eru þung mál í vinnslu. Kyn­ferðis­brot­in taka tíma og eru þung,“ seg­ir Páley. - Hægt er að lesa meira um málið á mbl.is      

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Mannlíf >>

98% ánægð með íþróttaðstöðu í Vestmannaeyjum

Á miðvikudaginn fjallaði fjölskyldu- og tómstundaráð um þann hluta þjónustukönnunar Gallup sem að ráðinu snýr. Almenn og vaxandi ánægja mældist með alla þessa þjónustuþætti. Könnun þessi er gerð til að kanna ánægju með þjónustu stærstu sveitarfélaga landsins og gera samanburð þar á, ásamt því að skoða breytingar frá fyrri mælingum og fór hún fram frá 3. nóvember til 17. desember.    98% þeirra sem afstöðu tóku eru ánægð með íþróttaðstöðu í Vestmannaeyjum Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með aðstöðu til íþróttaiðkunar í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu (92%) voru 98% ánægð en einungis 2% óánægð. Ánægjan eykst mikið á milli ára og er einkunn Vestmannaeyjabæjar (á skalanum 1 til 5) 4,4 og því hátt yfir landsmeðaltali sem er 4,0.   83% ánægð með þjónustu við barnafjölskyldur Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu við barnafjölskyldur í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu (87%) sögðust 83% ánægð en 17% óánægð og eykst ánægjan á milli ára og er yfir landsmeðaltali.   78% ánægð með aðstöðu við fatlað fólk Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu við fatlað fólk í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem afstöðu tóku (72%) sögðust 78% vera ánægð en 22% óánægð og eykst ánægjan á milli ára og er yfir landsmeðaltali.   76% ánægð með þjónustu við eldri borgara Þá var spurt hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu við eldri borgara í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem afstöðu tóku (75%) sögðust 76% vera ánægð en 24% óánægð og eykst ánægjan verulega á milli ára og er nokkuð hátt yfir landsmeðaltali. Elliði Vignisson birti niðurstöðurnar á heimasíðu sinni.  

Stjórnmál >>

„Var það ekki fyrsta val hjá neinum en varð á endanum að sátt“

Elliði Vignisson gaf kost á sér í fromboði til sveitastjórnakosninga, sama hvaða leið yrði fyrir valinu. í gær var tillaga um prófkjör felld og samþykkt var að viðhöfð verði röðun, við val á framboðslista flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.   Lagði til að farið yrði í leiðtogaprófkjör Elliði sagði í samtali við Eyjafréttir að fundurinn hafi verið fjölmennur og góður. „Hann var boðaður til að hægt yrði að fjalla um hvaða leið væri best til að ákvarða framboðslista okkar Sjálfstæðismanna fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Þá þegar höfðum við greitt atkvæði um uppstillingu og þótt sú tillaga fengi um 57% atkvæða þá dugði það ekki þar sem skipulagsreglur okkar gera ráð fyrir að það þurfi aukinn meirihluta (66%) til þess. Fundurinn í gær hófst á því að flutt var tillaga um prófkjör en hún náði ekki einföldum meirihluta (50%). Þá fór staðan að þrengjast. Eftir nokkra umræðu var flutt tillaga um röðun og var hún samþykkt með rúmlega 75% atkvæða. Sjálfur hafði ég fyrir löngu sagt að ég myndi gefa kost á mér sama hvaða leið yrði fyrir valinu og ítrekaði það á þessum fundi. Ég er nú sá bæjarfulltrúi sem verið hef lengst í bæjarstjórn en af okkur 5 í meirihlutanum eru 3 á fyrsta kjörtímabili og eiga þau það öll sameiginlegt að vera á Eyverjaaldri og tvö þeirra eru konur. Það er staða sem Sjálfstæðisflokkurinn getur á fáum stöðum státað af. Með það í huga lagði ég til að farið yrði í leiðtogaprófkjör og ég myndi þá annaðhvort endurnýja umboðið eða Sjálfstæðismenn velja nýjan leiðtoga. Af öllum tillögum sem ræddar voru fékk þessi tillaga mín minnstan stuðning en af þeim rúmlega 50 sem sátu fundin var ég sá eini sem talaði fyrir slíku. Í félagsstarfi verður maður að unna því að stundum ákveður félagið eitthvað sem er öðruvísi en maður sjálfur myndi vilja.“     Er komin togstreita á milli fólks í flokknum í Eyjum? Á fundinum í gær var samþykkt tillaga um röðun sem er nokkurskonar blanda af prófkjöri og uppstillingu. Mér vitanlega var það ekki fyrsta val hjá neinum en varð á endanum að sátt og fékk rúmlega 75% atkvæða. Ég ætla ekki að vera í neinni fýlu þótt ég hafi ekki fengið fylgi við hugmynd mína um leiðtogaprófkjör. Á sama hátt sé ég ekki fyrir mér að ástæða sé til neinnar togstreitu og þvert á móti marg ítrekaði fólk með ólíkar skoðanir mikilvægi þess að allir færu sáttir af fundinum. Við Sjálfstæðismenn erum með gríðalega málefnalega sterka stöðu hér í Vestmannaeyjum. Frá því að við tókum við hafa nánast allar skuldir verið greiddar upp, allar fasteignir sveitarfélagsins verið keyptar til baka af Fasteign hf., þjónustustig verið aukið mikið, innragerð styrkt svo sem með byggingu á Eldheimum, knattspyrnhúsi, útivistarsvæði við sundlaugina og fl.. Þá sjá allir sem sjá vilja að okkur er full alvara með að halda áfram að gera gott betra. Á næstu dögum verður tekin í notkun stækkun á Hraunbúðum auk þess sem verið er að stækka Kirkjugerði, byggja þjónustuíbúðir fyrir aldraða, byggja nýtt sambýli og svo ótal margt í viðbót. Kosningar snúast jú á endanum um málefni en ekki skipulagsreglur flokka.  

Greinar >>

Einar Kristinn Helgason: Skynsemi eða skemmtun?

Nú þegar jólin eru að baki og nýtt ár gengið í garð er ekki annað hægt en að líta fram á veginn og halda ótrautt áfram. En áður en það verður gert vil ég líta örlítið til baka á áramótin og Þrettándann og ræða um flugelda. Flugeldar voru augljóslega mikið í umræðunni fyrir áramótin, enda sá tími sem almenningi gefst leyfi til að sýsla með þá. Umræðan beindist þó að miklu leyti að skaðsemi þeirra frekar en að einhverju öðru og má segja þetta hafi verið hálfgert hitamál. Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins lá t.a.m. ekki á sínum skoðunum og lagði til að banna ætti almenna notkun flugelda vegna reyk- og rykmengunar, sóðaskaps og hávaðamengunar. Lagði Sævar Helgi til að landsmenn myndu frekar styrkja Björgunarsveitir með beinum fjárframlögum í stað þess að kaupa flugelda en eins og flestir vita er flugeldasalan stærsta fjáröflun björgunarsveita landsins. Daginn eftir kom síðan svar á Vísindavefnum við spurningunni „Kemur ekki gífurleg mengun af öllum þessum flugeldum um áramótin?“ Stutta svarið var já þar sem í vetrarstillum getur ryk safnast saman í andrúmsloftinu en við slíkar aðstæður um áramót getur magnið orðið hundraðfalt hærra en æskilegt er. Í raun getur styrkur þess verið á stærðargráðu náttúruhamfara eins og þegar eldfjallaaska berst til Reykjavíkur. Segir jafnframt að vegna ýmissa samfélagsbreytinga hefur magn innfluttra flugelda fjórfaldast síðustu 20 árin og mengunin aukist í takt við það. Svifryk vegna flugelda inniheldur hættuleg efni eins og þungmálmana blý, kopar, sink og króm og er talið að flugeldar beri ábyrgð á allt að 10-30% losun þessara efna á ársgrundvelli. Ólíkt annarri mengun sem oft er staðbundin þá er flugeldamengunin alltumlykjandi og þess vegna erfitt fyrir fólk sem er sérstaklega viðkvæmt fyrir menguninni að forðast hana. Þungmálmarnir brotna í þokkabót ekki niður og verða því eftir í umhverfinu og geta borist langar leiðir með vindum og vatni. Það hefur skapast hefð fyrir flugeldum á Íslandi yfir áramót eins og víða annars staðar en er hægt að réttlæta hefðir sem við vitum að eru slæmar fyrir umhverfið, menn og aðrar lifandi verur? Ber okkur ekki að virða rétt hvers og eins til að þurfa ekki að anda að sér lofti sem er mengað af völdum annarra? Ég hef aðallega rætt um mengun í þessum pistli en eins og kom t.d. fram hjá Sævari Helga þá fylgja ýmsir aðrir ókostir líka. Ekki má heldur vanmeta slysahættuna eins og sást í kvöldfréttum á nýársdag en minnstu munaði að illa færi þegar skotterta sprakk fyrirvaralaust við jörðu í miðju íbúðarhverfi. Kannski verður brugðið á það ráð í framtíðinni að almenn notkun flugelda verði bönnuð og eingöngu fagmenn fái að skjóta upp flugeldum eins tíðkast erlendis. Það væri í það minnsta skynsamlegra en eins og við vitum þá fer ekki skynsemi og skemmtun ekki alltaf saman.