Rithöfundurinn þekkti lét ekki fálæti Eyjamanna slá sig út af laginu:

Vestmannaeyjar verða vettvangurinn í næstu bók hennar

Söguhetjurnar ferðast í tíma til Heimaeyjargossins og Tyrkjaránsins

Rithöfundurinn þekkti lét ekki fálæti Eyjamanna slá sig út af laginu:

Vestmannaeyjar verða vettvangurinn í næstu bók hennar

:: Söguhetjurnar ferðast í tíma til Heimaeyjargossins og Tyrkjaránsins

 Enginn Eyjamaður hafði áhuga á að hitta sænska unglingabókahöfund-inn Kim M. Kimselius í Eymundsson á föstudaginn þar sem hún var tilbúin til að spjalla við fólk og lesa upp úr bókum sínum sem eru orðnar samtals 45 á 20 ára ritferli. Fimm bækur hennar hafa komið út á íslensku og sú sjötta, Svarti dauði kom út í síðustu viku. Með henni voru Elín Guðmundsdóttir, þýðandi og Jón Þ. Þór útgefandi.
Þó enginn hafi heilsað upp á Kim var hún ánægð með heimsóknina og hefur heillast af Vestmannaeyjum sem verða vettvangur næstu bókar hennar þar sem hún ætlar að tvinna saman Tyrkjaránið og Heimaeyjargosið 1973. Söguhetjurnar eru alltaf þær sömu, Ramóna og Theó sem flakka um í tíma og rúmi og hafa komið við þar sem stærstu atburðir mannkynssögunnar hafa orðið, t.d. í Pompey áður en borgin lagðist í eyði í eldgosi 69 e.K.
Kim var á vikuferð um Ísland og heimsótti fjölmarga skóla á Suðurlandi og hún varð strax hrifin þegar hún vissi að ferðinni yrði heitið til Vestmannaeyja. „Ég vissi að sjálfsögðu af gosinu 1973 en þegar ég var á leiðinni hingað heyrði ég af sjóræningjunum sem rændu og drápu fólk í Vestmannaeyjum sumarið 1627,“ sagði Kim í samtali við Eyjafréttir. „Nú hef ég aflað mér meiri upplýsinga og þegar ég sá þau áhrif sem gosið hafði sá ég að þarna var komið efni í bók. Og ég veit nákvæmlega hvernig ég ætla að hafa hana. Ég er nánast tilbúin með hana í kollinum á mér, alla söguna.“
Er það svona sem þú vinnur bækur þínar? „Já, það má segja það en mikil vinna fer í að afla upplýsinga og svo byrja ég að skrifa og nú er bækurnar orðnar 45. Á þessu ári fagna ég svo 20 ára afmæli sem rithöfundur. Vestmannaeyjabókin verður tilbúin 2019 en ég veit ekki hvenær hún kemur út á íslensku. Það gæti þó orðið sama ár og hún kemur út í Svíþjóð eða á 100 ára afmæli Vestmannaeyjabæjar,“ sagði Kim.
Kim bætti því við að alls staðar þar sem hún færi gerði hún allt sem í hennar valdi stæði til að koma á góðu samstarfi við skóla á viðkomandi stöðum. Hún sagði að þau Kári Bjarnason á Bókasafninu myndu bjóða Grunnskóla Vestmannaeyja upp á samstarf þar sem nemendur myndu lesa bækur hennar og gætu síðan skrifað henni á ensku og spurt útí efni bókanna eða hvað annað sem þeim lægi á hjarta. „Svona samstarf rithöfundar og lesenda er ég með við þónokkra skóla í Svíþjóð og þar sem næsta bók mín mun hafa Vestmannaeyjar að söguefni ætla ég að reyna að komast í samstarf við Grunnskólann hér.“
Bækur Kim hafa verið gefnar út á dönsku, finnsku, íslensku, norsku, þýsku auk ensku og njóta þær mikilla vinsælda víða um heim. „Ég held að ég geti sagt að bækur mínar passi fyrir fólk á aldrinum frá tólf og alveg upp í 97,“ sagði hin geðþekka Kim M. Kimselius að endingu.

Illa gekk að rýma Herjólf vegna sjóveiki

Illa gekk að rýma Herjólf, þegar brunaviðvörunarkerfi ferjunnar fór í gang í lok desember. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa. Reykurinn varð mestur í svokölluðum almenningi sem er salur undir undir bílaþilfari en hann var fullnýttur vegna slæms veðurs, ekki síst vegna sjóveiki hjá farþegum um borð. Í skýrslunni kemur fram að of fáir skipverjar hafi verið til að takast á við þessar aðstæður og að fleiri voru um borð en fyrst var tilkynnt um. Landhelgisgæslan setti af stað mikinn viðbúnað eftir að brunaboði í Herjólfi fór í gang þann 29. desember. Áhafnir beggja björgunarþyrlanna voru kallaðar út sem og björgunarskipið Þór og lóðsinn. Ruv.is greinir frá.   Fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar að brunaviðvörunarkerfið hafi farið í gang um klukkan fjögur en að beiðni um aðstoð hafi verið afturkölluð tæpum hálftíma seinna. Þá hafði komið í ljós að reimar höfðu slitnað í loftræstiblásara fram á skipinu og við það myndast reykur og gúmmílykt.   Í skýrslunni kemur fram að illa hafi gengið að rýma skipið vegna sjóveiki um borð en slæmt veður var á þessum tíma og almenningur, þar sem mestur reykurinn var, því fullnýttur af farþegum. Aðstoða þurfti marga farþega til að komast á mótstað og tók rýming skipsins 10 til 15 mínútur.   Fram kom hjá skipstjóra Herjólfs að of fáir skipverjar hefðu verið um borð til að takast á við þessar aðstæður. Það hafi því komið sér vel að tveir úr áhöfn Herjólfs, sem voru í fríi, voru meðal farþega. Þeir hafi aðstoðað skipverja við rýmingu. Þá voru fjarskipti milli stjórnpalls og skipverja slæm, sérstaklega frá stjórnpalli niður í almenning þar sem mestur reykurinn var.   Þá segir í skýrslunni að samkvæmt fyrstu upplýsingum frá Herjólfi til Vaktstöðvar siglinga hafi verið tilkynnt að 132 manns væru um borð. Seinna hafi komið í ljós að í áhöfn voru tólf og farþegar 137 eða samtals 149. „Í ljós kom að engin skráning var á farþegum sem voru með skipinu í þessari ferð.“ Nefndin leggur því til að fjöldi í áhöfn verði endurskoðaður að teknu tilliti til öryggi skips, áhafnar og farþega.  

Væri heiður að fá að spila fyrir Ísland

Aðalmarkmið okkar fyrir tímabilið var að vinna að minnsta kosti einn bikar þannig ég er ánægð með útkomuna,“ segir Cloé aðspurð út í árangur liðsins á liðnu tímabili. „Fyrir mig persónulega þá er ég ánægð að ég skoraði meira á þessu tímabili en árið áður, en ég vildi óska þess að ég hefði getað klárað síðustu þrjá leikina líka.“ Þegar talið barst að íslenskum ríkisborgararétti og íslenska landsliðinu sagðist Cloé vera spennt fyrir þeim kosti. „Ég mun reyna að fá íslenskan ríkisborgararétt, vonandi mun ferlið byrja núna í nóvember. Ef KSÍ telur sig síðan hafa not fyrir mig í landsliðinu og væri tilbúið til að gefa mér tækifæri þá væri það mikill heiður fyrir mig.“ Eftir að Cloé flutti frá Kanada hafa tækifærin með landsliðinu þar í landi verið af skornum skammti en samkeppnin mikil hjá eins sterku liði og Kanada. „Ég hafði tekið þátt í mörgum úrtökum fyrir landsliðið ásamt því að hafa verið partur af yngri landsliðunum. En eftir að ég yfirgaf Kanada og fór að spila í Bandaríkjunum og síðan Íslandi, hef ég ekki fengið mikla athygli frá knattspyrnusambandinu,“ segir Cloé. Eins og staðan er núna á Cloé eitt á eftir af samningi sínum við ÍBV og segir hún það hentugt fyrirkomulag að framlengja ekki lengur en í eitt ár í senn. „Ég er mjög ánægð í Vestmannaeyjum eins og staðan er í dag, samfélagið, starfsfólk ÍBV og liðið hefur alltaf komið afskaplega vel fram við mig. Ég mun samt sem áður bara taka eitt ár í einu, sérstaklega í ljósi þess að ég er að vinna að meistaragráðu samhliða fótboltanum,“ segir Cloé að endingu.  

Seldi allar myndirnar á fyrstu sýningunni

Hinn níu ára gamli Ástþór Hafdísarson er einn af mest spennandi upprennandi listamönnum Vestmannaeyja um þessar mundir en hann hefur getið sér gott orð fyrir geometrískar teikningar sínar af öllu milli himins og jarðar. Ástþór kíkti við hjá Eyjafréttum á dögunum, ásamt móður sinni Hafdísi Ástþórsdóttur, eiganda Dízó hársnyrtistofu, og ræddi við blaðamann um þessa nýuppgötvuðu listgáfu sína. Ásamt því að verkin séu geometrísk segir Ástþór teikningar sínar oft og tíðum bera þess merki að vera abstrakt. „Ég sá bara eitthvað svona á netinu og ákvað bara að prófa en ég er samt ekki að herma eftir öðrum. Ég hafði eitthvað aðeins teiknað áður, snáka og svona, og alltaf haft gaman að því,“ segir Ástþór sem á sér þó ekki sérstaka fyrirmynd í bransanum. „Hann hefur alltaf verið listrænn og haft gott auga fyrir hinu og þessu en í vor byrjað hann fyrst að gera stök verk,“ bætir Hafdís við.   Hélt sýningu á Þjóðhátíð Fyrsta sýningin var haldin á Þjóðhátíðinni og seldust allar 11 myndirnar sem voru til sýnis. „Við vorum bara með sýninguna inni í tjaldinu okkar, bæði á föstudeginum og sunnudeginum. Við keyptum ramma í Ikea og hengdum upp og það kom alveg hellingur af fólki að skoða og allar myndirnar seldust. Flestir sem keyptu voru skyldfólk okkar og norskir vinir systur minnar sem voru gestir á Þjóðhátíð,“ segir Hafdís. Í fyrstu teiknaði Ástþór einungis með blýanti en eftir fyrstu sýninguna fór hann að nota penna og færa sig meira yfir í geometrískar myndir. Nú hefur þú m.a. gert bjarndýr að viðfangsefni þínu, ertu aðallega að einblína á dýr eða teiknar þú bara hvað sem er? „Ég hef teiknað tvö dýr en annars teikna ég bara hvað sem er. Fyrst teiknaði ég oft fjaðrir en hef síðan verið að teikna luktir sem var eiginlega óvart því ég var að reyna að gera lampa,“ segir Ástþór.   Heldur úti Instagram síðu Nú er Ástþór kominn með Instagram síðu, ÁstArt08, þar sem m.a. er hægt að sjá ýmis verk og fylgjast með honum teikna. En hafa krakkarnir í bekknum þínum áhuga á þessu? „Nei, ekkert sérstaklega,“ segir Ástþór sem þó heldur utan um fámennt en góðmennt teiknifélag sem saman stendur af þremur meðlimum. „Mig langar ekki að hafa of marga í teiknifélaginu,“ bætir formaðurinn við án þess að útiloka neitt. Samkvæmt mæðginunum er töluvert af nýju efni tilbúið og er stefnan sett á sýningu fyrir áramót ef hentugt húsnæði finnst. „Við höfum verið að pæla í því en það er ekkert planað, en okkur langar að halda sýningu fyrir áramót,“ segir Hafdís að endingu.  

Sigurvin Marínó Sigursteinsson er Eyjamaður vikunnar: Þörf fyrir að láta gott af sér leiða

5. október sl. fagnaði skátafélagið Faxi þeim tímamótum að 50 ár eru síðan félagið hóf að gefa út sérstakt félagsblað undir heitinu Skátablaðið Faxi. Í öll þau ár hefur Marinó Sigursteinsson verið ábyrgðarmaður blaðsins, auk þess að vera ritstjóri þess hin fyrstu árin. Marinó er Eyjamaður vikunnar að þessu sinni.   Nafn: Sigurvin Marinó Sigursteinsson. Fæðingardagur: 7. desember 1952. Fæðingarstaður: Vestmannaeyjar. Fjölskylda: Giftur Marý Ó. Kolbeinsdóttur. 5 börn: Heiða Björk, Bjarni Ólafur, Ingibjörg, Ingibjörg Ósk og Sigursteinn. 8 barnabörn og það 9. á leiðinni. Uppáhalds vefsíða: heimaslod.is. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Öll eyjalög sungin af Blítt og létt og fjöldasöngur. Aðaláhugamál: Fuglar, fuglaskoðun og fuglamerkingar. Uppáhalds app: Ég veit ekki einu sinni hvað það er. Hvað óttastu: Ekkert, tek öllu af auðmýkt. Mottó í lífinu: Vera heiðarlegur og trúr skátahugsjóninni, sjálfum mér og öðrum. Apple eða Android: Hvað er það? Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Baden Powell. Hvaða bók lastu síðast: Er alltaf að lesa bækur eftir Eyjamenn eða sem tengjast Eyjunum. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Ole Gunnar Solskjær, Manchester United og ÍBV. Ertu hjátrúarfull/ur: Nei. Stundar þú einhverja hreyfingu: Göngu þegar ég mögulega get. Uppáhaldssjónvarpsefni: Náttúrulífsþættir. Held mikið upp á Pál Steingríms. Skipar skátahreyfingin stóran sess í hjarta þínu: Já, ég hef alltaf verið stoltur af því að vera skáti og er viss um að það hefur gert mig að betri manni. Ég hef einnig eignast vini á öllum aldri. Hvernig kom það til að gefa út skátablaðið fyrir 50 árum síðan: Einhver þörf á því að láta gott af sér leiða og gera gagn. Nú hefur þú verið ábyrgðarmaður blaðsins í 50 ár, ætlar þú að halda áfram eða segja þetta gott: Ég held að það viti það allir að ég kann ekki að segja nei.    

Eins og að opna pakka að koma í nýtt og framandi land

Eyjamærin Kolbrún Inga Stefánsdóttir er sannkallaður heimsborgari, hún hefur ferðast mikið síðustu ár og sló ekki slöku við þegar hún eignaðist son sinn Atlas Neo í apríl 2016 með kærasta sínum Carli sem er norskur. Þau fjölskyldan eru búin að ferðast til 15 landa síðan Atlas Neo fæddist og eru hvergi nærri hætt.   Kolbrún Inga Stefánsdóttir er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum. Hún er dóttir Stefáns Birgisson og Svövu Gunnarsdóttur. Fyrir nokkrum árum fluttist Kolbrún til Kína og má segja að síðan þá hefur hún verið á flakki milli landa að láta drauma sína rætast. Þegar blaðamaður heyrði í Kolbrúnu var hún stödd á eyju í Filipseyjum þar sem netsamband var lélegt en þetta hafðist allt. Daginn eftir var fjölskyldan á leiðinni á aðra eyju sem heitir El Nido og ætlar eyða þar næstu tveimur vikum. „ Þaðan förum við til Hong Kong í tvær vikur, svo til Kína að hitta Bigga bróður og fjölskyldu hans. Eftir Kína förum við til Thailands og erum ekki búin að ákveða hvað við verðum lengi þar. Við erum ótrúlega spennt fyrir komandi tímum“ sagði Kolbrún. Fjölskyldan hefur ferðast til 15 landa á síðustu 18 mánuðum en Kolbrún sagði það ekkert mál að bæta við ferðafélaga þegar Atlas Neo fæddist. „Ég og Carl höfum alltaf elskað að ferðast. Þegar ég varð ólétt þá urðum við bæði mjög hrædd um að þyrftum að leggja þessi ferðalög á hilluna og fara að sinna nýjum verkefnum. En svo áttuðum við okkur á því að sjálfsögðu er hægt að bæta einum ferðafélaga í hópinn og vorum strax byrjuð að plana ferðalög áður en Atlas kom í heiminn. Carl vinnur við online marketing sem þýðir að hann getur unnið hvar sem er í heiminum og vildum við nýta þetta frábæra tækifæri að skoða heiminn áður en Atlas byrjar í skóla“ sagði Kolbrún.   Þakklát fyrir að hafa fæðst á Íslandi En hvað er það sem heillar þig mest við að ferðast? „ Þetta er eins og að opna pakka að ferðast til nýrra landa, þú veit ekki hverju þú átt að búast við. Við höfum alveg lent í því að fara á staði og litið á hvort annað, ,,hvað erum við að gera hérna“. Við fórum til dæmis til Kúbu í 5 daga og ég er viss um að það sé yndislegt að fara þangað með vinum eða maka og sitja á bar og dansa salsa. En að koma þangað með lítið barn er ekkert sem ég myndi mæla með. Við vorum stoppuð á hverju horni af fólki með lítil börn, bæði búin að kúka og pissa á sig, að biðja okkur um bleyjur, mat og pening. Að sjálfsögðu vill maður geta hjálpað öllum en það er því miður ekki hægt. Það tók mikið á mömmuhjartað að vera þarna og vorum við þakklát fyrir að þetta voru bara 5 dagar en á sama tíma kenndi þetta manni að vera þakklátur fyrir litlu hlutina í lífinu. Staðurinn sem hefur komið okkur mest á óvart er Playa del Carmen í Mexico. Við vorum þar í tvo mánuði og gætum alveg hugsað okkur að búa þar. Maður þarf að sjálfsögðu að finna öruggt og gott hverfi til að búa í, maður stekkur ekki bara á það ódýrasta þegar kemur að löndum eins og Mexíkó. Okkur leið mjög vel þarna, gullfallegar staður og auðvelt að fara í dagsferðir á eyjarnar í kring, góður matur og fólk var mjög vinalegt. Vorum svo ótrúlega heppin að fá mömmu og pabba í heimsókn til okkar og vorum við öll sammála að þetta væri staður sem maður væri mikið til í að fara aftur á. Mæli með fyrir alla að fara þangað. Annars hef ég lært svo ótrúlega mikið á því að ferðast. Maður kynnist nýju fólki á hverjum einasta degi. Þótt það sé mjög gaman að skoða öll þessu lönd þá verður maður er alltaf meira og meira þakklátur fyrir að hafa fæðst á Íslandi.“   Það er full vinna að hugsa um barn, heima og í útlöndum Hvernig er að búa í ferðatösku með lítið barn? „Að búa með lítið barn í ferðatösku getur verið krefjandi, sérstaklega þegar við erum að koma okkur á milli staða. Á sumum stöðum eru t.d. engir bílar og þá getur verið pínu púsluspil að koma okkur á áfangastað en sem betur fer er fólk virkilega almennilegt og hjálpar manni alltaf en aldrei hefði mig grunað hversu mikill farangur myndi fylgja litlu barni. Annars er þetta ótrúlega mikið ævintýri og við njótum þess í botn. Eitthvað sem ég mæli með fyrir alla að upplifa.   Það sem mér finnst búið að vera ómissandi þegar þú ferðast með barn er jetkids, það er flugferðataska sem er með geymsluhólf fyrir dót og er flugferðarúm. Við tökum alltaf barnapeltór með í flug og látum á hann þegar/ef hann sofnar svo hann vakni ekki við nein aukahljóð. Góða kerru og burðarpoka. Mæli mikið með að taka töfrasprota til að mauka ef barnið er ekki byrjað að borða mat, man séstaklega eftir þvi í Víetnam, þá voru þau hvergi með barnamat og það bjargaði okkur að hafa sprota. Við vorum með Atlas í moskító tjaldi þegar hann var yngri og létum hann taka lúrana sína þar á daginn svo hann yrði ekki stunginn. En svo er gott að hafa bak við eyrað að þótt maður sé í fríi frá vinnu þá er full vinna að hugsa um barn hvort sem það sé heima hjá sér eða í útlöndum.“   Thailand er eitthvað sem allir verða heimsækja Ef þú ætti að mæla með einum stað í Asíu sem fólk ætti að ferðast til, hver væri það og af hverju? Ef ég ætti að mæla með einum stað til að heimsækja þá verð ég að segja Tæland. Held að enginn hafi farið þangað og verði vonsvikinn, fólk er einstaklega vinalegt þar, ótrúlega fallegt, æðislegur matur og virkilega ódýrt að lifa góðu lífi. Ég bjó þar áður en ég átti Atlas og elskaði það og varð pínu hrædd um að ég myndi ekki njóta þess eins mikið að vera þarna með lítið barn en mér skjátlaðist ef eitthvað er þá varð ég bara meira heilluð að landinu. Fólk miklar oft fyrir sér að fara til Tælands og heldur að það sé mjög dýrt en það er það alls ekki. Bara að panta flugið tímalega og ekkert að drífa sig að panta hótel, því þau lækka bara í verði því sem nær dregur. Mér finnst best að taka 2-3 daga í Bangkok og taka svo flug til Phuket og þræða svo eyjarnar þaðan. Eitthvað sem ég mæli með fyrir alla að gera á lífsleiðinni.      

Merk heimild um sögu skátastarfs í Eyjum

Það var skemmtileg nýbreytni að vera boðið á fund hjá Skátafélaginu Faxa sem haldinn var í Einarsstofu í síðustu viku. Tilefnið var 50 ára afmæli Faxa, félagsblaðs sem komið hefur út að minnsta kosti einu sinni á ári frá upphafi. Einnig verður félagið 80 ára á næsta ári. Mætin var góð þar sem saman voru komnir nýir og eldri skátar, fjölskyldur þeirra og gestir. Faxi fagnaði því þann fimmta október að 50 ár voru síðan félagið hóf að gefa út sérstakt félagsblað undir heitinu Skátablaðið Faxi. Í öll þau ár hefur Marinó Sigursteinsson verið ábyrgðarmaður blaðsins, auk þess að vera ritstjóri þess hin fyrstu árin. „Skátablaðið Faxi er mikilvæg samtímaheimild um skátastarfið hjá Skátafélaginu Faxa á hverjum tíma. Skátafélagið Faxi fagnar 80 ára afmæli á næsta ári, þann 22. febrúar og markar afmælisfagnaðurinn upphafið á afmælisárinu,“ segir á Fésbókarsíðu félagsins um samkomuna.   Það var Frosti Gíslason, félagsforingi Faxa sem stjórnaði samkomunni sem í raun var bara hefðbundinn félagsfundur þar sem nýir skátar voru teknir inn og eldri færðir upp um flokka. Skemmtilegt var að hlusta á Kristinn R. Ólafsson lesa upp sögu úr skátastarfinu sem hann skrifaði í afmælisblað Faxa fyrir 20 árum. Þar komu margir við sögu en efni sögunnar var mest um skátaferð inn á Eiði. Páll Zóphóníasson, fyrrum félagsforingi sagði útgáfu Faxa merka heimild um félagið í hálfa öld og er blaðið um leið aldarspegill um gang mála í Vestmannaeyjum. Vigdís Rafnsdóttir, stóð fyrir fjöldasöng þar sem gömlu góðu skátalögin voru sungin. Á skjá voru svo myndir úr sögu félagsins og á veggjum flest tölublöð Faxa sem segja sögu prentlistar, frá sprittprentun til ofsettprentunar. Og í byrjun varð að taka viljann fyrir verkið þegar kom að umbroti. Frosti vígði unga skáta inn í skátahreyfinguna og gaman að fylgjast með þegar krakkarnir fóru með skátaheitin. Þá voru birtar myndir úr skátastarfinu í gegnum tíðina sem ekki höfðu sést opinberlega áður. Einnig var kynnt söfnunarátak mynda úr skátastarfi Vestmannaeyja í 80 ár í samstarfi við Ljósmyndasafn Vestmannaeyja. Margt er framundan hjá Faxa. Stórslysaæfing með Björgunarfélaginu verður um helgina. Útilega með Mosverjum í nóvember, Desemberkvöldvaka, 80 ára afmæli 22. febrúar 2018, Skátamót 2018 og alheimsmót skáta 2019. Og eins og aðrir skátar verða félagar í Faxa, ávallt viðbúnir.   Skátaheit Skátaheitið er loforð sem skátinn gefur sjálfum sér, eins konar persónuleg áskorun um að gera sitt besta. Þegar skátinn vinnur skátaheitið er hann að taka fyrsta meðvitaða skrefið á sjálfsnámsbrautinni til að verða sjálfstæður, virkur og ábyrgur samfélagsþegn. Hægt er að velja tvær útgáfur af skátaheitinu: Ég lofa að gera það sem í mínu valdi stendur til þess að gera skyldu mína við (guð/samvisku) og (ættjörðina/samfélag) , að hjálpa öðrum og að halda skátalögin.  

Hlegið, borðað, drukkið og leyst lífsgátuna

Eins og Ósk minntist á tók hún á móti hópi Eyjakvenna um miðjan september, eða nokkrum dögum áður en hæsta viðbúnaðarstigi var lýst yfir á eyjunni vegna hættu á eldgosi. Blaðamaður ræddi við Helgu Tryggvadóttir um Balíferðina en hún var ein þeirra átta kvenna sem hópurinn samanstendur af. Ásamt henni voru þær Áróra Karlsdóttir, Bryndís Kjartansdóttir, Heiðrún Scheving Ingvarsdóttir, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Kolbrún Kristjánsdóttir, Svanhvít Friðþjófsdóttir, Valgerður Helga Ingadóttir.   Vildu gera eitthvað skemmtilegt í tilefni fimmtugsafmælis „Það hafði verið lengi í umræðunni hjá nokkrum í hópnum að gera eitthvað skemmtilegt þegar við yrðum fimmtugar,“ segir Helga aðspurð út í tilefni ferðarinnar. „Svo skilst mér að Ósk hafi farið af stað með herferðina „Bryndís til Balí“ og það varð úr. Þessi hugmynd var viðruð við okkur í september árinu áður og ég held að við höfum fæstar þurft að hugsa okkur um. Ósk var svo mjög dugleg að senda okkur hugmyndir að gististöðum og varð niðurstaðan sú að við gistum fjórar nætur á hóteli nálægt ströndinni og vorum svo restina af ferðinni með dásamlegt hús út af fyrir okkur í Ubud næstum við hliðina á húsinu hennar Óskar. En Ósk var algjör snilld, gerði og græjaði og á hún stóran þátt í því að ferðin var algjör snilld.“   Langt og strangt ferðalag Eyjan Balí er í um 12.000 km. fjarlægð frá Íslandi og ferðalagið því langt og strangt. „Fyrsti leggur var til Kaupmannahafnar. Þegar við lentum þar kom í ljós að ríkisstjórnin var fallin. Það var lítið mál að tengja við það að við hefðum farið af landinu. Fullt af kaffi og hlátrasköll héldu okkur vakandi meðan beðið var eftir næsta legg. Þá tók við 12 klst. flug til Singapore með þarlendu flugfélagi. Kallað var inn í vél eftir hópum og sætaröðum. Það var first class, business class og allskonar class og clubs. Svo var kallað low class og þá loks máttum við stíga fæti í dýrðina. Eða svona næstum því. Þetta fannst okkur fyndið og veltum fyrir okkur hvort við yrðum settar í uppvaskið. Þegar komið var inn í vélina sáum við þessi líka flottu sæti, eða bása þar sem greinilega var hægt að hafa það huggulegt. Nú ætluðum við að hafa það eins og prinsessum sæmir. Það tók smá tíma að komast í okkar sæti og þau voru bara svona venjuleg flugvélasæti. Við höfðum það þó mjög gott á leiðinni, fínt afþreyingarkerfi, stöðugt verið að troða í okkur mat og rétta okkur alls kyns dót. Sumar steinsváfu, aðrar dottuðu og þá kom sér vel að vera með dýrari týpuna af flugvélakoddum.   Þegar komið var til Singapore var stoppið stutt, rétt til þess að rölta í rólegheitum milli hliða. „Flugið til Balí tók svo tæpa þrjár klst. sem liðu hratt. Það var þó frekar svekkjandi að töskur þriggja voru skildar eftir í Singapore, en þær skiluðu sér í bítið morguninn eftir. Heimleiðin var aðeins skrautlegri. Fluginu frá Balí seinkaði aðeins og þar sem við höfðum aðeins 50 mínútur á milli flugferða í Singapore vorum við farnar að sjá fyrir okkur aukanótt á lúxushóteli kostaðri af Singapore Airlines. En nei, við vorum látnar hlaupa flugvöllinn á enda og settum örugglega alls konar met í flugvallarhlaupi í flokki kvenna á miðjum aldri. En þetta hafðist og gisting í Singapore verður að bíða betri tíma.“   Framundan var síðan 13 klst. flug til London. „Þegar við lentum í London leið okkur eins og við værum komnar heim, það var svo lítið eftir. Nokkrar okkar búa rétt við Leifsstöð og var ljúft að komast heim. Þrjár flugferðir á 30 klst. er alveg slatti. Þó er rétt að geta þess að bæði Kolla og Svanhvít fóru í eina flugferð í viðbót. Bakki – Vestmannaeyjar, ferðalagið þeirra náði líklega 34 klst. Ótrúlegt en satt þá var þetta ferðalag minna mál en við bjuggumst við, en ég neita því ekki að ég var ansi syfjuð í vinnunni daginn eftir að við komum heim,“ segir Helga.   Hverjar eru líkurnar á að þurfa að flýja eldgos tvisvar á ævinni? Einhverjar hræringar hafa verið í fjallinu Agung síðustu vikurnar og var hæsta viðbúnaðarstigi síðan lýst yfir á meðan þið voruð úti. Höfðuð þið einhverjar áhyggjur af þessu? „Því er ekki að neita að við höfðum smá áhyggjur af Agung, enda ekki alveg ljóst í upphafi hvað hæsta viðbúnaðarstig þýddi eða hvað væri nákvæmlega í gangi. Þegar í ljós kom að við værum öruggar þarna í Ubud þá var það helst að heimferðin yrði vesen ef flug lægi niðri. En hverjar eru líkurnar á að fólk þurfi að flýja eyju vegna eldgoss tvisvar á ævinni? Líklega frekar litlar,“ segir Helga.   Að sögn Helgu höfðu innfæddir ekki miklar áhyggjur. „Þeir tóku þessu með jafnaðargeði og báðu okkur að senda góðar hugsanir til fjallsins. Eitthvað var um jarðskjálfta, en vanar konur á ferð og kipptum okkur ekkert sérstaklega upp við smá hristing. Ástandið setti þó strik í áætlanir í ferðinni. Daginn sem viðbúnaðarstigið var sett á hæsta stig stóð mikið til. Nokkrar ætluðu að ganga pílagrímagöngu sem innfæddir ganga á tíu ára fresti og aðrar að fara að snorkla. En þetta var allt aðeins of nálægt Agung og svæðin lokuð. Pínu svekkjandi og eina ráðið var að fá sér hvítvín, slaka á og fara í nudd. Sem var gert nokkuð oft í ferðinni. Pílagrímaferðin er ganga upp 1700 tröppur, þið lásuð rétt, 1700 tröppur. Eða voru þær kannski 17? Það er nefnilega þannig á Balí að við tökum tvö núll af peningaseðlunum til að fá nokkurn veginn út íslenskar krónur, það sama gat alveg eins átt við tröppurnar. Þetta mátti svo útvíkka á kaloríur, kíló og bara það sem hentaði í hvert sinn. Við Heiðrún ætluðum að snorkla, en komumst að því að betra er að vera fersk heima en djúpsteikt í hafi.“   Allir vinalegir og hjartahlýjan áþreifanleg Líkt og Ósk þá ber Helga Balí og íbúum eyjunnar söguna vel. „Margir hafa spurt mig hvernig var, hvernig er Balí? Stutta svarið er að Balí er allt öðru vísi. Mér fannst fólkið og samfélagið sérlega áhugavert. Allir vinalegir, hjartahlýjan áþreifanleg og það litla sem ég kynnti mér uppbyggingu samfélagsins er ávísun á að ég vil fá að vita meira. Mér sýnist nefnilega að hugtökin samfélag, samhjálp og fleiri slík séu skilgreind á allt annan hátt en við eigum að venjast. Balíbúar eru ekkert að stressa sig, umferðin er t.d. kapítuli út af fyrir sig. Merkingar á götum og umferðaljós virðast vera tillögur en ekki endilega reglur sem verður að fara eftir. Menn nota flautuna óspart, en það er til að láta vita af sér, en ekki til að skamma næstu ökumenn. Umferðin lítur sem sagt út eins og skipulagt kaos og það merkilega er að það eru allir slakir yfir því. Ég gæti haldið lengi áfram um það sem mér fannst áhugavert við Balí, en meira að segja frárennslismálin eru spennandi,“ segir Helga.   Njótum að muna En þegar öllu er á botninn hvolft er það samvera hópsins sem stendur uppúr. „Við hlógum, borðuðum, spjölluðum, borðuðum aðeins meira og fengum okkur hvítt eða balískan bjór, löbbuðum, fórum í spa og leystum lífsgátuna. Eða svona næstum því. Að endingu er hér eitt af mottóunum sem urðu til í ferðinni: Njótum að muna,“ segir Helga að lokum.    

Kviknaði á ferðabakteríunni í gosinu

Eyjakonan Guðbjörg Ósk Friðriksdóttir hefur undanfarin þrjú ár verið búsett á Balí þar sem hún m.a. starfar sem ráðgjafi í gegnum netið og tekur á móti ferðahópum sem hafa áhuga á að upplifa staðinn á einstakan hátt. Ósk, eins og hún er jafnan kölluð, er fædd árið 1964 og er dóttir Friðriks Ólafs Guðjónssonar á Landamótum og Sigrúnar Birgit Sigurðardóttur. Blaðamaður setti sig í samband við Ósk á dögunum og ræddi við hana um lífið á Balí en þess má geta að hæsta viðbúnaðarstigi hefur verið lýst yfir á Balí vegna hættu á eldgosi í fjallinu Agung. Hefur allt svæði í 12 kílómetra radíus í kringum fjallið verið rýmt og um 75.000 manns gert að yfirgefa svæðið og dvelja í neyðarskýlum. Agung gaus síðast árið 1963 en þá létust 1.100 manns.   „Ég er fædd á Gamla spítalanum og alinn upp á Heimagötu 25 rétt hjá Pétó þar sem við krakkarnir fengum að leika okkur frjáls alla daga,“ segir Ósk þegar hún rifjar upp æsku sína í Vestmannaeyjum. „Lífið í Eyjum var yndislegast í heiminum og mér datt ekki í hug að það væri til eitthvað meira en Vestmannaeyjar. Eftir gos bjó ég svo í Hrauntúni 47 þar sem Óli og Halla búa núna, og flutti svo suður með foreldrum mínum þegar ég byrjaði í framhaldsskóla en þá var hann ekki komin til Eyja.“ Aðspurð segist Ósk snemma hafa fengið áhuga á því að ferðast og að Balí hafi ávallt verið henni hugleikin. „Kannski kviknaði á ferðabakteríunni í gosinu en mér fannst svo gaman að þvælast um Reykjavík með strætó og sjá þessa risastóru borg með mínum barnsaugum. Fyrir um 25 árum sá ég ljósmynd hjá Öllu Siggu frænku sem var tekin á Balí, hún heillaði mig svakalega og ég ákvað þá að ég yrði að fara á þennan stað. Ég fluttist síðan til Balí fyrst árið 2008 og varð þá staðráðin í að koma aftur og vera lengur eftir að sú dvöl styttist skyndilega. Það endaði nú með að verða heil sex ár þar til ég kom aftur snemma ársins 2014 og svo skemmtilega vill nú til að Alla Sigga dóttir Jóns Mílu sem hafði sýnt mér myndina tveimur áratugum áður flutti hingað með mér og við brölluðum mörg ævintýri saman,“ segir Ósk.   Kom aftur árið 2014 og er ekki enn farin heim Þó svo draumurinn hafi verið að heimsækja Balí þá sá Ósk aldrei fyrir sér að flytja alfarið eins og raun bar vitni. „Það var aldrei ætlunin að flytja hingað, minn draumur var að geta komið hingað tvisvar á ári með hópa í einstök rítrít. Ég kom til Ubud með fyrsta hópinn í mars 2014 og er ekki enn farin heim, það er bara búið að vera svo gaman. En þegar ég er spurð hvort ég sé sest að þá segi ég oft að ef ég færi heim aftur þá myndu Vestmannaeyjar líklega verða fyrir valinu,“ segir Ósk og bætir við að eitthvað alveg sérstakt einkenni indónesísku eyjuna. „Það er eitthvað við Balí sem snertir mann á ólýsanlega fallegan hátt, fólkið hérna er svo einstakt og andrúmsloftið svo heilagt og tært, sérstaklega hér í Ubud en það er bær inní miðri eyju og ég bý á þessum heilaga stað.“ Eins og fyrr segir starfar Ósk í gegnum netið en það gerir henni kleift að búa hvar sem er. „Ég starfa sem þerapisti / ráðgjafi á netinu og nota Skype til að hitta mína skjólstæðinga sem eru staðsettir útum allan heim en flestir á Íslandi. Það er því tækninni að þakka að ég get verið hvar sem er og er því mikið á flakki.“   Balíbúar einlægt fólk sem lifir í núinu Hvernig myndir þú lýsa samfélaginu á Balí? „Á morgnana er nánast hver einasta manneskja klædd í Sarong (klæði sem vafið er um mittið þannig að það hylur læri og hné) og tilheyrandi og gengur um hýbýli og garðinn með fórnir og fer með bænir á fjölmörgum stöðum auk þess að fara í hofið sem er alltaf í norðaustur horninu á landareigninni. Dagurinn getur ekki byrjað fyrr en einhver í fjölskyldunni er búinn að óska eftir blessun og vernd fyrir daginn. Ég trúi að þetta hafi áhrif á orkuna hér enda finn ég gríðarlegan mun á andrúmsloftinu hér í Ubud og til dæmis niðri á strandstöðunum þar sem fólk er aðeins farið að týna hefðinni,“ segir Ósk og heldur áfram. „Þú sérð yfirleitt ekki Balíbúa flýta sér og þeir eru ekki að kippa sér upp við pirring eða leiðindi í túristunum. Með bros á vör gera þau allt sem þau geta til að gera dvölina þína sem ánægjulegasta og það virðist vera algjörlega einlæg hugsun hjá þeim en ekki tilbúin þjónustulund. Þau kunna ekki að geyma eða hugsa til framtíðar, lífið er bara núna á þessu augnabliki og best að njóta þess enda er alltaf nóg til af mat, hrísgrjón, ávextir og grænmeti vex eins og gorkúlur, hraðar ef eitthvað. Lífsvenjur þeirra eru því gjörólíkar okkar, þau eru hægari, glaðari meira gefandi og lifa í algjöru trausti. Balíbúar eru að færast úr því að vera hrísgrjónabændur yfir í að starfa meira og minna við ferðamannabransann. Með tilkomu ferðamanna breytist lífið hér á eyjunni. Fyrir nokkrum árum gengu allir berfættir og konur gjarnan berar að ofan. Þau notuðu eingöngu hluti sem voru unnir úr náttúrunni, matardiskar á venjulegum heimilum voru úr Bananablöðum og mikið af mat eldaður í blöðum eða kókóshnetu. Börnin léku sér berrössuð útum allt, eltu fiðrildi og hundana en núna sitja þau með ipad á tröppunum heima.“   Hættustig hækkað sama dag og hópur Eyjakvenna mætti á svæðið Fyrir nokkrum vikum bárust fréttir af því að allt benti til þess að fjallið Agung á Balí væri að fara að gjósa, en það gaus einmitt síðast árið 1963 með alvarlegum afleiðingum. Hvernig er staðan á fjallinu núna og er fólk í grennd við fjallið í einhverri hættu? „Fjallið Agung er eitt af táknum náttúrufegurðarinnar hér á Balí. Það gaus sprengigosi sem innihélt eitrað gas og stóð það yfir í heilt ár frá byrjun árs 1963 og olli manntjóni. Í dag er viðbúnaður meiri og hefur fólk verið flutt af heimilum sínum í tjaldbúðir til að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur. Það eru búnar að vera hræringar í Agung í meira en mánuð núna og það vill svo til að daginn sem fríður hópur af Eyjapæjum lenti hér um miðjan september, hækkuðu almannavarnir hættustig og viðbúnað. Það bólar hins vegar ekkert á gosinu og hér í Ubud verðum við eingöngu vör við að það er mikið verið að biðja um aðstoð í tjaldbúðirnar enda líður hver vikan á fætur annarri og fólki ekki óhætt að fara heim til sín. Norðaustur hluti eyjarinnar er eins og eyðibýli en áður iðaði allt af köfurum og fólki sem kemur hingað til að snorkla og klífa þetta tignarlega fjall. Nú er ekki sála á ferð,“ segir Ósk að lokum.  

Netagerðarmenn áttu sinn þátt í velgengni Eyjanna sem við þekkjum í dag

Það var vel til fundið hjá Sagnheimum að standa fyrir opnu málþingi um þróun veiða, veiðarfæra og rekstur netaverkstæða í Eyjum frá upphafi síðustu aldar til dagsins í dag. Þingið var haldið á bryggjunni í Sagnheimum sem skapaði því skemmtilega umgjörð með söguna allt um kring. Mæting var góð og allir fyrirlesarar brugðu upp bæði fróðlegri og athyglisverðri sýn á hvað veiðar og gerð veiðarfæra er samofin sögu Vestmannaeyja. Með mótorbátunum á fyrstu árum 20. aldarinnar hófst uppgangur Eyjanna sem enn sér ekki fyrir endann á. Helga Hallbergsdóttir, forstöðukona Sagnheima á heiður skilinn fyrir framtakið sem hún vann með Arnari Sigurmundssyni, Haraldi Þorsteini Gunnarssyni, Birgi Guðjónssyni, Hallgrími Júlíussyni, Guðlaugi Jóhannssyni og Sigþóri Ingvarssyni. Menningarsjóður Suðurlands (SASS) styrkti verkefnið, en vöxtur og viðgangur í sjávarútvegi hefur ráðið mestu um þróun byggðar, atvinnu- og menningarlífs frá upphafi byggðar í Eyjum.   Vélbátar í 120 ár Á þessu ári eru liðin 120 ár frá því áraskip frá Eyjum hófu veiðar með línu, en áður voru handfæri eina veiðarfærið. Vélbátaöldin gekk í garð 1906 í Eyjum og nokkrum árum síðar komu þorskanetin til sögunnar og allt atvinnulíf í Eyjum tók miklum breytingum og íbúafjöldinn margfaldaðist á fáum árum. Á málþinginu var farið yfir söguna með aðstoð fjölmargra ljósmynda og tekin fyrir þróun veiðarfæra hjá Eyjabátum og stiklað á stóru með rekstur veiðarfæragerða og netaverkstæða í Eyjum frá 1936. Er sú saga umfangsmeiri og merkilegri en flesta grunar og fyrirtækin mörg. Má þar nefna Netagerð Vestmannaeyja sem framleiddi þorskanet í mörg ár og var stór vinnustaður. Þá voru nefnd til sögunnar Kaðlagerð Þórðar, Dodda, Stefánssonar sem framleiddi fastsetningartóg úr nælonnetum, Veiðarfæragerð Vestmannaeyja, Netagerðina Ingólf, Netagerð Reykdals, Net, Netagerð Njáls og Sigurðar Inga, Ísfell, Nethamar og Hampiðjan.   Fjölbreytt fyrirtæki Haraldur Þorsteinn rakti sögu veiðafæra og fiskveiða í Eyjum frá lokum nítjándu aldar til dagsins í dag. Arnar sagði sögu Netagerðarinnar sem hóf framleiðslu á þorskanetum, fyrst úr hampi og síðar úr næloni. Arnar talaði einnig um Kaðlagerðina sem Þórður stofnaði eftir að hann missti sjónina. Guðlaugur Jóhannsson sagði sögu Netagerðar Reykdals þar sem aldrei var unnið á laugardögum af trúarástæðum. Hallgrímur Júlíusson fór yfir sögu Nets og Helga Hallbergs sagði frá Netagerð Ísfélagsins og Netagerð Ingólfs. Birgir Guðjónsson upplýsti viðstadda um Veiðarfæragerðina og merka sögu hennar. Sigurður Óskarsson frá Hvassafelli sagði frá afskurðarvélinni sem notuð var til að skera af netum og fellingavélina sem felldi net á teina. Afskurðarvélina hannaði Sigurður en Leó Jónsson hannaði fellingavélina sem enn er í notkun. Að lokum flutti Guðmundur Gunnarsson í Hampiðjunni í Reykjavik erindi um þróun botnvörpunnar í meira en heila öld. Þar hefur þróunin verið mikil frá hampi yfir í nælon og ofurtóg sem hefur sama styrkleika og vír. Sem dæmi um þróunina sagði Guðmundur að í fyrstu hefði eðlileg notkun verið 25 troll á togara á ári en næði varla tveimur í dag þrátt fyrir öflugri skip og stærri veiðarfæri.   Skiptu máli Það var fróðlegt að fá að kynnast sögu veiðarfæra og veiðafæragerðar í Vestmannaeyjum sem var með miklum blóma og skapaði mikla vinnu á síðustu öld. Það vita það sennilega ekki margir að hér voru framleidd þorskanet. Netagerð Vestmannaeyja hf. starfaði á árunum 1936 til 1960 og framleiddi net, fyrst úr hampi og síðar úr næloni sem varð ofan á. Þar unnu á milli 15 og 20 manns þegar best lét, mest konur. Fyrirtæki eins og Netagerð Ingólfs, Net ehf. og Veiðarfæragerðin, svo nokkur fyrirtæki séu nefnd settu öll svip á bæjarlífið og skiptu miklu. Mikil vinna fór í að skera af netum og fella netin á teina. Til að létta fólki störfin fundu menn hér upp afskurðar- og fellingarvél sem reyndust vel.   Afhent á Sjúkrahúsinu Hönnuður afskurðarvélarinnar, Sigurður Óskarsson, sagði skemmtilega sögu af því þegar hann afhenti Ingólfi T. fyrstu vélina. Hún skildi afhent þennan tiltekna dag klukkan þetta að kröfu Ingólfs. Þá vildi ekki betur til en að Ingólfur var á spítalnum en Sigurður lét það ekki stoppa sig. Fór með vélina upp á spítala og flutti hana milli hæða með lyftu og Ingólfur fékk vélina sína afhenta á tilsettum tíma. Málin voru krufin á netaverkstæðunum og þar var fylgst með fiskiríi. Já, það var mikið spjallað og menn slógu upp veislum þar sem viðskiptavinum og velunnurum var boðið. Fræg var sviðaveislan í Net og ekki var hún síðri veislan í Veiðarfæragerðinni. Um hana sagði Birgir Guðjónsson: - Oft var glatt á hjalla í Veiðafæragerðinni og skapaðist sú hefð að halda þar svokallað ,,Desemberfest“. Þá komu saman starfsmenn Veiðafæragerðarinnar og sjómenn af þeim bátum sem voru í viðskiptum hjá fyrirtækinu og áttu saman skemmtilega stund. Húsnæðið var þá skreytt á margvíslegan hátt, snæddur var kvöldverður og síðan sungið og spjallað fram eftir nóttu.   Línuveiðarnar stóra stökkið Það var ekki síður athyglisvert að heyra Harald Þorstein rekja þróun fiskveiða og um leið þróun byggðar í Vestmannaeyjum. Stóra stökkið var upphaf línuveiða og mótorbátanna rétt eftir aldamótin 1900. Seinna komu þorskanetin, herpinótin sem enn er í fullu gildi á síldar- og loðnuveiðum. Trollið og dragnótin skiptu líka miklu máli og trollið hefur tekið miklum breytingum frá því fyrsta trollinu var dýpt í sjó. Flottrollið var fyrst reynt á þorskveiðum en er í dag undirstöðuveiðarfæri á veiðum á síld, makríl og kolmunna sem stóru uppsjávarskipin stunda. Flest fyrirtækin sem nefnd voru til sögunnar á þinginu heyra nú sögunni til en í dag eru bæði Hampiðjan og Ísfell með öflugar starfsstöðvar í Vestmannaeyjum þar sem í boði er öll veiðarfæraþjónusta sem öflugur floti Eyjamanna þarf á að halda. Auk þess er Vinnslustöðin með eigin netagerð undir nafni Hafnareyrar. Allar byggja þær á reynslu frábærra netagerðarmanna sem tóku út sinn þroska í greininni hjá forverum þessara þriggja netagerða. Þetta var bæði fróðleg og skemmtileg stund í Sagnheimum og öllum sem að henni komu til mikils sóma. Netagerðarmenn er harðdugleg stétt sem á stóran þátt í að skapa þá velferð í Vestmannaeyjum sem við þekkjum í dag. Með þinghaldinu er þeim sá sómi sýndur sem þeir eiga skilinn. En eitthvað hefði þetta orðið fátæklegra ef ekki hefði notið ljósmynda Sigurgeirs Jónassonar í Skuld. Þær voru þarna eins og svo oft áður, punkturinn yfir I-ið.   Að lokum er hér skemmtileg samantekt Haraldar af breytingum á flota Eyjamanna frá 1890 til dagsins í dag og hvernig íbúum fjölgaði með aukinni útgerð. Árið 1890 voru íbúar í Eyjum 565 og lifðu flestir við mjög kröpp kjör. 1890 voru gerð út 13 stórskip flest áttróin. Árið 1900 bjuggu 607 íbúar í Eyjum og voru gerð út 16 skip og fór þeim ört fjölgandi, þar til vélbátanir ruddu þeim úr vegi. 1910 bjuggu 1319 íbúar í Eyjum og voru gerðir út 46 vélbatar. 1920 bjuggu 2426 íbúar í Eyjum og voru gerðir út 68 vélbátar. 1930 bjuggu 3573 íbúar í Eyjum og voru gerðir út 95 vélbátar. 1940 voru 84 skip gerð út frá Eyjum meðalstærð 21,6 tonn. 1950 voru 71 skip gerð út frá Eyjum meðalstærð 59,6 tonn, en þá var byrjuð útgerð á síðutogurum frá Eyjum. 1960 var 91 skip gert út frá Eyjum meðalstærð 46,1 tonn, en þá var útgerð síðutogara hætt. 1970 voru 73 skip gerð út frá Eyjum meðalstærð 70,1 tonn. 1980 voru 63 skip gerð út frá Eyjum meðalstærð 127,8 tonn. 1990 voru 63 skip gerð út frá Eyjum meðalstærð 148,2 tonn og hafði ekki fjölgað síðan 1979. Í dag 2017 eru gerð út 36 skip sem eru með aflaheimildir, 16 smábátar flestir á handfærum, eitt á dragnót, níu botnvörpu, sjö uppsjávarskip og þrjú netaskip.  

Þetta er fín síld, um 400 grömm stykkið

Ávinningur fyrir viðkomandi og samfélagið í heild

Erlingur Richardsson, skólastjóri Grunnskóla Vestmannaeyja, hefur samþykkt þriggja ára samningstilboð hollenska handknattleikasambandsins um að taka við karlalandsliðinu þar í landi. Erlingur, sem áður þjálfaði Füchse Berlin í þýsku úrvalsdeildinni og tók við sem skólastjóri nú á nýju skólaári mun áfram starfa sem skólastjóri samhliða handboltanum. Sú ákvörðun var tekin í samráði við Vestmannaeyjabæ. Erlingur er ráðinn til eins árs í afleysingu fyrir Sigurlás á meðan sá síðarnefndi er í námsleyfi.   Haft var samband við Vestmannaeyjabæ, en spurningar vöknuðu hvernig skipulagið yrði í kringum tvö mikilvæg störf í sitthvoru landinu. Elliði Vignisson bæjarstjóri sagði að þeir hafi vel vitað að Erlingur væri eftirsóttur kostur sem íþróttaþjálfari þegar gengið var frá ráðningu við Erling. „Núna fyrir skömmu kemur síðan upp sú staða að Erlingi er boðin staða sem landsliðsþjálfari hjá hollenska karlaliðinu. Hann leitaði álits hjá okkur og auðvitað fylltumst við stolti af því að Eyjamaður og starfsmaður okkar kæmi til álita í stöðu sem þessa. Við settumst því niður og lögðum þetta niður fyrir okkur. Staða landsliðsþjálfara er ekki full vinna heldur eingöngu lotuvinna og sem betur fer verður ekki mikil fjarvera hjá skólastjóranum okkar vegna þessa en ég held að það láti nærri að það sé ein vika núna fyrir áramót og tæplega tvær eftir áramót. Þessu mætum við með launalausu leyfi og Erlingur og aðstoðarskólastjórarnir hafa þegar lagt drög að því hvernig málið verður unnið og auðvitað er slíkt í fullri sátt og samstarfi þeirra á milli,“ sagði Elliði.   Hluti af afreksstefnu okkar að reyna að hliðra til fyrir starfsmönnum Við Eyjamenn erum ótrúlega rík að eiga svo mikið af öflugu íþróttafólki og þjálfurum. „Það er hluti af afreksstefnu okkar að reyna að hliðra til fyrir starfsmönnum okkar þegar kemur að verkefnum sem þessum enda styrkir það bæði viðkomandi starfsmenn og samfélag okkar í heild. Við sjáum það til að mynda hvað afrek Heimis með landsliðið hafur aukið hróður okkar Eyjamanna og í mínum huga er ekki vafi á að slíkt hið sama verður fyrir að fara hjá Erlingi,“ sagði Elliði að lokum.    

Hvernig á manni eiginlega að líða þegar markmiðin nást og draumar manns rætast?

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu, undir stjórn Heimis Hallgrímssonar, tryggði sér í fyrsta skiptið þátttökurétt á HM þegar liðið lagði Kósóvó að velli á mánudaginn. Þar sem íslenska liðið hafði sigrað Tyrkland með þremur mörkum gegn engu á föstudaginn þá voru örlög þeirra íslensku algjörlega í þeirra höndum í lokaumferðinni því Króatar gerðu einungis jafntefli gegn Finnlandi á sama tíma. Þó svo þeir íslensku hafi ekki náð að sýna sínar bestu hliðar líkt og í leiknum úti í Tyrklandi, kom það ekki að sök því mörk frá Gylfa Þór Sigurðssyni og Jóhanni Berg Guðmundssyni tryggðu farseðilinn á HM sem fram fer í Rússlands á næsta ári. Ósvikinn fögnuður leikmanna, þjálfara og ekki síst áhorfenda þegar flautan gall eftir rúmar 90 mínútur bar þess merki að eitthvað sérstakt hafði átt sér stað. Hinu fámenna eyríki lengst norður í Atlantshafi hafði tekist hið ómögulega og fylgt eftir ótrúlegum árangri á EM árið áður, árangri sem margir efuðust um að yrði komist nálægt í náinni framtíð. Með elju, skipulagi og liðsheild, sem á sér fáar hliðstæður, tókst Heimi Hallgrímssyni að láta íslenska landsliðið taka enn eitt skrefið fram á við og koma liðinu á stall með fremstu knattspyrnuþjóðum heims. Jafnframt er Ísland nú fámennasta þjóð í sögu HM til að tryggja sér þátttökurétt en áður var það Trínidad og Tóbagó en þar búa um 1.3 milljónir manna. Á blaðamannafundi eftir leik var Heimir að vonum sáttur og hrósaði hann samheldni þjóðarinnar og starfsliðinu í hástert. „Þetta er hópvinna, allt starfsliðið á svo stóran þátt í þessu. Það er ekki neinn einn þó ég eigi lokaorðið þegar við höfum rifist í klukkutíma. Þetta er ofboðslega mikil samvinna, þannig held ég að Ísland geti unnið. Við vinnum þetta saman,“ sagði Heimir og hélt áfram á svipuðum nótum. „Ég efast um að nokkur landsliðsþjálfari eigi í jafn góðu sambandi við fjölmiðla, hreinskilið samband. Svo efast ég um að annað landslið eigi jafn góða stuðningsmenn.“   Með nýju móti koma ný markmið Þrátt fyrir léttvægan hausverk eftir fögnuðinn eftir leik var Heimir enn í skýjunum þegar blaðamaður Eyjafrétta sló á þráðinn til hans daginn eftir. „Fyrir utan hausverkinn eftir gærkvöldið þá held ég að það sé ekki hægt að líða betur. Hvernig á manni eiginlega að líða þegar markmiðin nást og draumar manns rætast? Þetta er náttúrulega fyrst og fremst stórkostlegt.“ Hvernig fannst þér leikurinn spilast? „Það voru allir hræddir við að gera mistök, það vildi enginn vera sá gæi, bæði sóknarlega og varnarlega. En við gerðum allavega eitthvað rétt og kláruðum leikinn nokkuð solid,“ segir Heimir. Aðspurður hvenær væri tímabært að setja sér ný markmið, í ljósi þess að fyrri markmiðum hafði verið náð, sagðist Heimir ætla að gefa sér smá tíma til að jafna sig. „Það verður bara þegar maður er búinn að jafna sig. Það er svo sem auðvelt fyrir íþróttmenn að setja sér markmið, nú kemur bara nýtt mót og þá koma ný markmið.“  

HSU Vm – Kvenfélagið Líkn gaf tæki fyrir tíu milljónir

Í gær veitti framkvæmdastjórn HSU viðtöku höfðinglegri gjöf frá Kvenfélaginu Líkn í Vestamannaeyjum, alls að verðmæti um 10.000.000 kr. Um er að ræða vöktunartæki fyrir lífsmörk sjúklinga, ásamt varðstöð, sem er gjöf til sjúkradeildar Sjúkrahússins í Vestmannaeyjum. Tækin samanstanda af vöktunarstöðvum sem auðvelda fagfólki sjúkrahússins að fylgjast af betri nákvæmni og öryggi með ástandi sjúklinga.   Þetta kemur fram á vef Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, hsu.is sem Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU skrifar. Þar kemur fram að um sé að ræða svo kölluð monitor tæki sem eru öllu jöfnu eru föst við rúmstæði sjúklings en eru með minni ferða monitor fyrir flutning sjúklinga. Þessi tæki mæla blóðþrýsting, líkamshita, öndun, súrefnismettun, púls og hjartsláttarrit. Einng voru gefin svo kallaðar telemetriur með skjá sem sýna púls, hjartsláttarrit og súrefnismettun sjúklings. Öll þessi tæki tengjast svo varðstöð á vakt lyflækningadeildarinnar þar sem hægt er að fylgjast vel með sjúklingum. Auk þess senda tækin merki og viðvaranir í snjallsíma eða píptæki hjúkrunarfræðings eða læknis á vakt. Tækin eru nettengd og senda milli sín þráðlausar upplýsingar.     Kvenfélagið afhenti einnig framkvæmdastjórn HSU hormónarannsóknartæki til rannasóknastofunnar í Vestmannaeyjum. Tækið er nauðsynlegt til að framkvæma ákveðnar mælingar í blóði og eitt af grunntækjum í rekstri rannasóknarstofa.     „Því eru um að ræða nauðsynleg tæki til starfseminnar. Fyrir hönd Heilbrigðisstofnunar Suðurlands er félagskonum í Kvenfélaginu Líkn færðar hugheilar þakkir fyrir höfðinglegt framlag og mikilvæga gjöf til starfsemi HSU. Ómetanlegt er að finna þann hlýhug sem gjöfinni fylgir, sem er mikil hvatning og styrkur fyrir heilbrigðisstarfsmenn á HSU,“ segir Herdís í lokaorðum sínum.          

Stéttarfélögin í Suðurkjördæmi skora á verðandi þingmenn

Stéttarfélögin í Suðurkjördæmi skora á verðandi þingmenn að hafa að leiðarljósi kjör og velferð hins vinnandi manns á komandi kjörtímabili. Trúnaðarmenn og stjórnir verkalýðsfélaganna í Suðurkjördæmi hittust á Hótel Dyrhólaey dagana fjórða til sjötta október og fóru yfir stöðu kjaramála ásamt málefnum sem brenna á launafólki í kjördæminu og byggðunum við suðurströndina. Eftirfarandi ályktun var samþykkt:   Heilbrigðismál Aðgangur að heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn eru sjálfsögð mannréttindi. Barnshafandi konur þurfa í mörgum tilfellum að vera í burtu frá fjölskyldu sinni til lengri tíma. Þessu fylgir óöryggi og fjárhagsleg óvissa sem ekki verður við unað. Geðheilbrigðisþjónustu er verulega ábótavant og það er forgangsverkefni að sálfræðiþjónusta verði inn í sjúkratryggingakerfinu. Landsbyggðarfólk fer um langan veg til þess að sækja sérfræðiþjónustu og læknisaðgerðir sem hefur í för með sér gríðarlegan kostnað. Leiðréttum þennan aðstöðumun strax.   Samgöngumál Greiðar og öruggar samgöngur eru lífæðar hvers samfélags og undirstaða atvinnulífs og búsetu víða um land. Stórbæta þarf samgöngumál í kjördæminu. Mikil aukning ferðamann kallar á viðbrögð í samgöngumálum og hefur suðurkjördæmi þar sérstöðu vegna þessarar miklu aukingar í fjölda ferðamanna. Samgöngur falla stundum niður svo sólarhringum skiptir í hluta kjördæmisins með tilheyrandi óþægindum, tekjutapi og hættum bæði fyrir einstaklinga og atvinnulíf. Þar sem sífellt er verið að færa þjónustu á höfuðborgarsvæðið verður að tryggja sólarhringsþjónustu í samgöngum hvort sem er á láði eða legi á kjörum sem almenningur ræður við.   Húsnæðismál Staðan á húsnæðismarkaði er algjörlega í molum. Unga fólkið í landinu getur ekki keypt húsnæði og neyðist til þess að búa við okurleiguverð óöryggi og vanlíðan því samhliða. Vextir á Íslandi hafa í gegnum tíðina verið okurvextir og fer mestur hluti launa fólks í húsnæði og jafnvel dugar ekki til. Forsendur verðtryggingar eru mjög umdeildar hjá almenningi og þarf að endurskoða og ná sátt um þau mál. Húsnæðiskostnaður ætti ekki að vera inn í vísitölunni eða hafa áhrif á hana. Margir hafa misst heimili sín og sér ekki fyrir endann á þrengingum þessa fólks. Að búa í mannsæmandi húsnæði hljóta að vera sjálfsögð mannréttindi. Húsnæðisfélög án hagnaðarsjónarmiða er kostur sem stjórnvöld og sveitarfélög verða að taka höndum saman um að vinna að og skapa hér lífvænlegt samfélag handa öllum.   Mennta- og atvinnumál Á vinnumarkaðnum eru framundan einar mestu breytingar á atvinnuháttum sem við höfum séð í áratugi. Gervigreind, vélmenni og tækninýjungar munu leysa hluta hefðbundinna starfa af hólmi. Þessi þróun er þegar byrjuð. Víðast hvar í Evrópu er verið að breyta grunn- og iðnnámi, auka fullorðinsfræðslu og símenntun til að bregðast við þessu. Störf hverfa og önnur verða til sem krefjast mun meiri þekkingar á breiðari sviðum eins og tækniþekkingar og samskiptahæfni. Nú þegar þarf að hefjast handa að aðlaga skólakerfið að þessum breytingum, allt frá grunnnámi að fullorðinsfræðslu. Lykillinn að því er að efla nám þar sem fólkið býr víða um land. Iðnnám, tækninám og annað fjölbreytt nám þarf að vera til staðar til að aðlaga verkafólk að nýjum veruleika á vinnumarkaði.   Lífeyris- og skattamál Lífeyrissjóðir voru stofnaðir að frumkvæði verkalýðshreyfingarinnar fyrir um 50 árum síðan. Í dag eru lífeyrissjóðirnir helsta og stærsta stoð þeirra sem komnir eru á eftirlaun. Lífeyrissjóðirnir greiða milli 70-80 % af öllum ellilífeyrir sem greiddur er til landsmanna. Ríkið greiðir 20-30% á móti. Launafólk verður að standa vörð um sjóðina og því hlutverki sem þeir eiga að gegna. Sífelldar hækkanir í beina og óbeina skatta aldraðra, öryrkja og hjá öðrum lágtekju hópum verður ekki við unað lengur. Það er skylda okkar að leiðrétta kjör þessara hópa þannig að lífvænlegt verði.   Báran, stéttarfélag Selfossi Drífandi stéttarfélag Vestmannaeyjum Verkalýðsfélag Grindavíkur Verkalýðs og sjómannafélag Sandgerðis Verkalýðsfélag Suðurlands.      

Elliði Vignisson: Stór mál í hvert skipti sem röskun verður á ferðum Herjólfs

Í samtali við Eyjafréttir svaraði Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, því neitandi er hann var spurður hvort Vestmannaeyjabær hafi ekki sent beiðni um rannsókn á þeim ákvörðunum sem urðu til þess að Vestmannaeyjar urðu án samgangna á sjó í frátöfum Herjólfs sem síðan kom jafn bilaður til baka.   „Jú auðvitað er búið að senda slíkt erindi og það bæði á Samgöngurráðuneytið og nefndarsvið alþingis. Hjá okkur er verkferillinn þannig að þjónustuver tekur allar fundargerðir og sendir erindi á viðkomandi í kjölfar fundar. Þessi erindi eru síðan skráð í skjalakerfi okkar og því auðvelt að fylgjast með framvindu þeirra. Fyrsti póstur var sendur á Samgönguráðuneytið 29.09 kl. 09:25 og síðan var póstur sendur á ábyrðaraðila nefndarsviðs 4.10 kl. 08:22.   Eðli málsins samkvæmt veit ég hinsvegar ekki hvernig málin eru svo unnin áfram hjá nefndarsviði en ég reikna með því að það eigi að ganga hratt og örugglega fyrir sig og erindið komi til afgreiðslu þar velji nefndin á annað borð að vinna málið áfram í samræmi við vilja okkar.   Það er stór mál í hvert skipti sem röskun verður á ferðum Herjólfs. Um það þarf ekki að efast. Oft verður slíkt af óviðráðanlegum ástæðum svo sem vegna veðurs. Í seinasta tilviki þykir okkur hinsvegar felst benda til að röð mistaka og missklings hafi valdið miklum skaða fyrir okkur hér í Eyjum og valdið ríkinu umtalsverðu fjártjóni. Það viljum við að verði skoðað sérstaklega til að fyrirbyggja slíkt í framtíðnni. Við höfum hinsvegar ekki neitt forræði í þessu og verðum því fylgjast með því hverju framvindur hjá nefndinni en svo mikið er víst að erindið hefur verið sent til þeirra.“    

Heimi var ráðlagt að hætta eftir EM

Eins og þjóðin veit komst Íslenska karlalandsliðið inná HM í gær með sigri gegn Kosóvó í lokaum­ferð riðlakeppni HM tryggðu Íslend­ing­ar sér sæti í loka­keppni HM í fyrsta sinn í sög­unni en heims­meist­ara­mótið fer fram í Rússlandi næsta sum­ar.   Heim­ir Hall­gríms­son, landsliðsþjálf­ari, sagði á blaðamanna­fundi eftir leik í gær að honum hefðii verið ráðlagt í nokkr­um sam­töl­um að hætta sem landsliðsþjálf­ari eft­ir EM í Frakklandi. Árang­ur­inn yrði ekki betri en sá sem þar náðist þegar Ísland komst á stór­mót karla í fyrsta skipti og fór í 8-liða úr­slit. Mbl.is greindi frá,   „Liðið hef­ur verið að bæta sig og átti inni að mér fannst í fyrra. Sum­ir sögðu mér að hætta eft­ir EM í Frakklandi og njóta augna­bliks­ins. Hætta þegar góður ár­ang­ur hafði náðst. En ég trúði því að við gæt­um gert bet­ur. Við höf­um bætt allt hjá sam­band­inu. Það var mikið rúm fyr­ir bæt­ingu og það var ástæðan fyr­ir því að við trúðum þessu,“ sagði Heim­ir í upp­hafi fund­ar­ins.   Heim­ir sagði mik­il­vægt fyr­ir ís­lenska liðið að halda í sín sér­kenni. Okk­ar lið geti aldrei hermt eft­ir Spán­verj­um á fót­bolta­vell­in­um. Okk­ar lið yrði þá bara verri út­gáfa af spænska landsliðinu.   Heim­ir sagði að lengi hafi verið vitað að þessi helgi yrði mik­il­væg og hann bjóst við því að úr­slit­in í riðlin­um myndu ráðast í lokaum­ferðinni.   „Við viss­um alltaf að þessi leik­ur yrði úr­slita­leik­ur fyr­ir okk­ur. Við und­ir­bjugg­um þessa helgi vel. Ferðin til Tyrk­lands er lík­lega ein sú dýr­asta í sögu KSÍ. Það var dýrt en ég held að það hafi borgað sig. Við þurft­um að glíma við ýms­ar hindr­an­ir, til dæm­is þegar far­ang­ur okk­ar skilaði sér ekki fyrr en dag­inn fyr­ir leik. Ég segi að ekk­ert lið í heim­in­um hefði getað tek­ist eins vel á við slíka hindr­un eins og við gerðum en þess má geta að starfs­fólkið okk­ar svaf ekki í ferðinni.“   Heim­ir tók fram að um væri að ræða mikla sam­vinnu hjá öllu þjálf­arat­eym­inu.   „Þetta er svo mik­il hóp­vinna. Það er eng­inn einn sem á orðið held­ur er þetta mik­il sam­vinna. Þannig held ég að við get­um unnið stór­ar þjóðir. Með því að vinna hlut­ina sam­an. Þar má nefna fjöl­miðla. Ég ef­ast um að nokk­ur landsliðsþjálf­ari eigi jafn góð og hrein­skiln­is­leg sam­skipti við fjöl­miðla eins og við. Ég ef­ast einnig um að nokk­urs staðar í heim­in­um séu jafn góðir stuðnings­menn,“ sagði Heim­ir og bætti við. „Við vit­um al­veg hvað Lars (Lag­er­bäck) gaf okk­ur. Hann kom með ákveðna hugs­un inn í þetta hjá okk­ur. Hann kom hingað með 30-40 ára reynslu. Auðvitað á hann stór­an þátt í þessu. Á end­an­um verðum við all­ir dæmd­ir af sög­unni. Þannig er það í líf­inu.“   Heim­ir var sér­stak­lega spurður út í Gylfa Þór Sig­urðsson og Aron Ein­ar Gunn­ars­son sem hafa dregið vagn­inn á miðjunni í landsliðinu síðustu árin.   „Við erum með leik­menn sem eru af­burða á sínu sviði. Ef við tök­um Gylfa sem dæmi þá er hann einn af okk­ar allra þekkt­ustu leik­mönn­um. Skor­ar mikið og legg­ur mikið upp. Er oft í sviðsljós­inu. Slík­ir leik­menn eru stund­um lúx­us leik­menn. En Gylfi legg­ur sig lík­leg­ast mest fram af öll­um í landsliðinu. Hann end­ur­spegl­ar allt sem við vilj­um að leik­menn okk­ar hafi. Öll lið í heim­in­um vilja hafa leik­mann sem er til­bú­inn að fórna öllu til að liðið geti unnið. All­ir myndu því vilja hafa mann eins og Aron Ein­ar. Hann er til­bú­inn að setja and­litið í takk­ana ef það verður til þess að sam­herji skori eða kom­ist í fyr­ir­sagn­irn­ar. Við eig­um fullt af slík­um mönn­um sem leggja mikið á sig þótt þeir fái ekki at­hygl­ina. Menn eins og Jón Daði og Birk­ir Bjarna eru vinnu­dýr. Það sem ger­ir Aron Ein­ar að ein­stakri per­sónu er hversu mikið hann er til­bú­inn að leggja á sig fyr­ir aðra.“   Heim­ir kallaði ít­rekað eft­ir því í undan­keppn­inni að Íslend­ing­ar færu ekki fram úr sér þrátt fyr­ir vel­gengn­ina. Talaði þar til fjöl­miðla og hins al­menna stuðnings­manns.   „Ég held að úr­slit­in sýni að þetta virkaði. Við töluðum ekki niður til and­stæðing­anna. Ef maður ger­ir þá er maður far­inn að of­meta sjálf­an sig. Við erum ánægðir með hvernig við nálguðumst þessa hluti. Við unn­um mikla vinnu við að leik­greina and­stæðing­ana með mönn­um eins og Arn­ari Bill og Frey Al­ex­and­ers­syni. Hinn al­menni knatt­spyrnu­áhugamaður spil­ar kannski fót­bolta í Play Stati­on. Ef þú tap­ar fyr­ir Kósóvó í raun­veru­leik­an­um þá er ekki hægt að rest­arta og spila leik­inn aft­ur.“  

Samgöngur eiga að vera á forsendum Eyjafólks

Það gat hent hér á öldum áður að Íslendingar lentu í að hylla konung sem var löngu dauður. Kóngur Danmerkur og Íslands gat hrokkið upp af rétt eftir að haustskipið hélt til Íslands og þá barst fréttin ekki hingað fyrir en langt var liðið á næsta ár. Þetta kom upp í hugann þegar farsinn í samgöngumálum Vestmannaeyja náði enn nýjum hæðum þegar í ljós kom að ekki var farið að framleiða varahluti í Herjólf þegar til átti að taka. Skipið komið í slipp, búið að rífa í sundur vélina, skip með tilheyrandi kostnaði var mætt frá Noregi en engir varahlutir! Vélinni tjaslað saman og Herjólfur byrjar að sigla á ný með takmörkunum þó. Hvernig getur það gerst að ekki var hægt að koma skilaboðum í tíma um að varahlutir yrðu ekki tilbúnir á tilsettum tíma? Nú er þetta ekki spurning um haust- eða vorskip því skilaboð berast heimshorna á milli á örskotsstundu. Hvað klikkaði og hver ber ábyrgðina? Og hvað kostaði þetta rugl í kringum Herjólf og hvert er tjón fyrirtækja og Eyjamanna almennt mikið í beinhörðum peningum? Hvað kostaði að leigja aðra ferju, hvað kostaði slipptakan og hvað kostaði að rífa vélina og setja hana saman á ný? Þær tölur hljóta að vera til. Fyrirtæki í sjávarútvegi og ferðaþjónustu urðu fyrir milljóna tjóni auk þess sem ímynd Vestmannaeyja skaddaðist. Fólk hefur lent í vandræðum og þurft að leggja út háar fjárhæðir til að komast til læknis eða þess eins að komast heim til sín. Dæmin eru mörg, já, allt of mörg. Þetta þarf að reikna út. En þá er það hin hliðin. Hvað lætur fólk bjóða sér þetta lengi? Hvenær fer fjölskyldan sína síðustu ferð með Herjólfi sem íbúi í Vestmannaeyjum? Hugsar sem svo, ég læt ekki hafa mig að fífli lengur. Ég er farin og kem kannski á næstu þjóðhátíð ef vel viðrar. Þetta er sá veruleiki sem við þurfum að horfast í augu við, vill fólk búa í Vestmannaeyjum eða ekki? Eins og áður segir hefur gengið á ýmsu í samgöngum svo vægt sé til orða tekið. Og það sem þarf, er að fá allt upp á borðið. Ef þarf að laga höfnina verður að vinna að því öllum árum. Komi í ljós að ný ferja stenst ekki væntingar um flutninga milli lands og Eyja verðum við að fá nýja. Flóknara er það ekki. Það má þá setja þá nýju upp í. Að lokum þetta: Samgöngur eiga að vera á forsendum Eyjafólks en ekki misviturra manna í kerfinu sem hafa sýnt að þeim er nokkuð sama hvað snýr upp eða niður þegar kemur að flutningum milli lands og Eyja.  

Sigurður Ingi leiðir lista Framsóknar í Suiðurkjördæmi

Sigurður Ingi leiðir lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og fyrrverandi forsætisráðherra, leiðir lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi í næstu Alþingiskosningum. Þetta var samþykkt á fjölmennu kjördæmisþingi Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi sem haldið var í félagsheimilinu Hvoli á Hvolsvelli í gær.   „Glæsilegur listi sem ég hef mikla trú á. Ég myndi segja að reynsla og þor væri það sem einkenndi okkar lista. Við erum tilbúin að takast á við verkefnin framundan og þær áskoranir sem bíða okkar. Verkefnin eru ærin.” sagði Sigurður Ingi Jóhannsson eftir að listinn var samþykktur.     Framboðslisti Framsóknar í Suðurkjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar 28. október 2017 1. Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður, Hrunamannahreppi 2. Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, Reykjanesbæ 3. Ásgerður K. Gylfadóttir, bæjarfulltrúi og hjúkrunarstjóri, Hornafirði 4. Jóhann Friðrik Friðriksson, lýðheilsufræðingur, Reykjanesbæ 5. Sæbjörg Erlingsdóttir, sálfræðinemi, Grindavík 6. Inga Jara Jónsdóttir, nemi, Árborg 7. Pálmi Sævar Þórðarson, bifvélavirki, Rangárþingi ytra 8. Sandra Rán Ásgrímsdóttir, verkfræðingur, Hornafirði 9. Lára Skæringsdóttir, grunnskólakennari, Vestmannaeyjum 10. Herdís Þórðardóttir, innkaupastjóri, Hveragerði 11. Stefán Geirsson, bóndi, Flóahreppi 12. Jón H. Sigurðsson, lögreglufulltrúi, Reykjanesbæ 13. Hrönn Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri, Ölfusi 14. Ármann Friðriksson, nemi, Hornafirði 15. Valgeir Ómar Jónsson, sagnfræðingur, Árborg 16. Sigrún Þórarinsdóttir, bóndi, Rangárþingi eystra 17. Jóhannes Gissurarson, bóndi, Skaftárhreppi 18. Jóngeir Hlinason, hagfræðingur og bæjarfulltrúi, Vogum 19. Haraldur Einarsson, fyrrv. alþingismaður, Flóahreppi 20. Páll Jóhann Pálsson, fyrrv. alþingismaður, Grindavík    

Cloe Lacasse og Gunnar Heiðar markahæst og leikmenn ársins 2017

Gunnar Heiðar Þorvaldsson og Cloe Lacasse voru valin leikmenn ársins í meistaraflokkum karla og kvenna ÍBV 2017. Þetta var tilkynnt á lokahófi fótboltans í Golfskálanum þar sem var mikið um dýrðir enda ástæða til fagna. Tveir bikarmeistaratitlar og trygg sæti í efstu deild er ekki lítið afrek hjá ekki stærra félagi. Konurnar enduðu í fjórða til fimmta sæti með Stjörnunni með 33 stig. Karlarnir sluppu fyrir horn í lokaumferðinni með öruggum sigri á KA og enduðu í níunda sæti með 25 stig. Fréttabikarana hlutu Felix Örn Friðriksson og Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir. „Uppskeran eftir sumarið er frábærir tveir bikarmeistartitlar og Evrópukeppni. Í sumar unnum við okkar fyrstu stóru titla síðan 2004 kvenna megin og frá 1998 karla megin. Tvöfaldir bikarmeistarar 2017. Geri aðrir betur og til hamingju öll,“ sagði Íris Róbertsdóttir, formaður ÍBV-íþróttafélags um árangur sumarsins. „Það að eiga bæði karla- og kvennalið sem bikarmeistara á sama tímabili er frábær árangur og aðeins ÍA, Val og KR hefur tekst það. Eftir að hafa farið yfir helstu punkta sumarsins sagði Íris framtíðina bjarta hjá ÍBV. „Gróska er í knattspyrnunni hjá yngri flokkum og erum við með marga góða og efnilega þjálfara en það eru blikur á lofti í ákveðnum flokkum þó sér í lagi hjá stúlkunum. Við þurfum að vera vakandi og vinna að því saman að bæta umgjörðina.“ Íris sagði það kosta mikla vinnu og skipulagningu hjá ráðunum að láta hlutina ganga og líka hjá öðrum sjálfboðaliðum sem koma að starfinu. „Fyrir hönd aðalstjórnar vil ég segja; Takk fyrir ykkar framlag; án ykkur væri þetta ekki hægt. Einnig vil ég þakka ykkur starfsmenn og þjálfarar fyrir ykkar vinnu á þessu tímabili. Félag eins og ÍBV íþróttafélag er stolt okkar bæjarfélags og þegar vel gengur erum við glöð og sem betur fer hefur þetta verið gleðisumar. Við erum þekkt fyrir gleðina, stemninguna og sigurviljann og eigum að nýta okkur það óspart. Stemningin sem var á Laugardalsvelli í báðum bikarleikjunum og móttökurnar þegar heim var komið með bikar er eitthvað sem ég veit að við öll viljum upplifa fljótt aftur. Því þegar við vinnum vinnuna og finnum gleðina stöndum við okkur ekki bara best á vellinum heldur líka í stemningunni og munum að sigurhefðin – sem er enn til staðar- er mikilvægur og nauðsynlegur partur í trúnni á verkefnið og framtíðina. Við eigum okkar styrkleika, nýtum þá og þá er framtíðin björt. Ég hlakka til næsta tímabils,“ sagði Íris að endingu.   Páll Hjarðar formaður knattspyrnuráðs karla og Sigþóra Guðmundsdóttir afhentu viðurkenningar sem komu í hlut leikmanna í meistaraflokkum og öðrum flokki.     Annar flokkur: Markahæsti leikmaðurinn: Breki Ómarsson. Mestu framfarir: Guðlaugur Gísli Guðmundsson. ÍBV-arinn Ásgeir Elíasson og Leikmaður ársins: Birkir Snær Alfreðsson. Í öðrum flokka sýndi Clara Sigurðardóttir mestu framfarirnar og leikmaður ársins varð Sigríður Sæland. Fréttabikarana, sem efnilegustu leikmenn sumarsins, fengu þau Felix Örn Friðriksson og Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir. Markahæsti leikmaður meistaraflokks var Gunnar Heiðar Þorvaldsson með tíu mörk. Mikilvægasti leikmaðurinn var valinn Atli Arnarson og Leikmaður ársins Gunnar Heiðar Þorvaldsson. Í meistaraflokki kvenna varð Cloe Lacasse markahæst með 13 mörk, mikilvægasti leikmaðurinn var valin Sigríður Lára Garðarsdóttir og Leikmaður ársins Cloe Lacasse.  

Jarðskjálftamælir í Bjarnarey að frumkvæði Vinnslustöðvarinnar

Veðurstofa Íslands hefur komið fyrir jarðskjálftamæli í Bjarnarey og þar með er unnt að staðsetja jarðhræringar undir Vestmannaeyjum með meiri nákvæmni en áður. Vinnslustöðin borgaði tækin og kostnað við uppsetningu. Veiðifélag Bjarnareyinga og Björgunarfélag Vestmannaeyja lögðu verkefninu sömuleiðis lið.   Þetta kemur fram á heimsíðu Vininnslustöðvarinnar vsv.is   Þar segir: - Upphafið má rekja til málstofu stjórnenda Vinnslustöðvarinnar í febrúar 2017 þar sem Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur og Ingibjörg Jónsdóttir landfræðingur á Jarðvísindastofnun kynntu flóðahættu í Eyjum og fleiri mögulegar afleiðingar eldgoss í Kötlu.   Eftirlit með jarðvá í Vestmannaeyjum bar þá líka á góma. Fram kom að einn jarðskjálftamælir væri á Heimaey en fleiri slíka þyrfti til að staðsetja jarðhræringar þar af meiri nákvæmni sem augljóslega skiptir miklu máli þegar horft er til almannavarna og viðbragðstíma ef hætta þykir á að óróinn kunni að boða eldsumbrot, segir Ármann Höskuldsson.   „Vinnslustöðin tók þarna af skarið og ákvað að greiða kostnað við að bæta við jarðskjálftamæli. Það er fagnaðarefni.   Með nýjum mæli í Bjarnarey getum við staðsett jarðhræringar nákvæmar en áður og enn frekar ef bætt væri við þriðja mælinum, til dæmis í Surtsey, Álsey eða jafnvel á hafsbotni. Augljóslega skiptir á allan hátt miklu máli að vita nákvæmlega hvort hræringar mælast í jarðskorpunni undir einhverjum skerjum eða úteyjum eða sjálfri Heimaey.   Það skal tekið fram að ekkert sérstakt er að gerast undir Vestmannaeyjaklasanum núna sem kallar á aukið eftirlit en þarna er virkt sprungukerfi sem oft hefur gosið á undanfarin tíu þúsund ár. Eyjarnar og skerin eru til vitnis um það og við höfum verið minnt rækilega á þessa staðreynd á undanförum fáeinum áratugum með Surtseyjargosinu 1963 og á Heimaey 1973.“   Í þágu öryggis íbúanna og byggðarlagsins   „Þegar við heyrðum af því að jarðskjálftamæla vantaði í Vestmannaeyjum, og að vísindamenn yrðu oftar en ekki að reiða sig á sjálfsaflafé til að fylla í slíkar eyður, var ákveðið að fyrirtækið borgaði nýjan mæli og uppsetningu tæknibúnaðar í Bjarnarey, alls um 2,2 milljónir króna.   Við viljum einfaldlega stuðla að meira öryggi byggðarinnar, það er í þágu byggðarlagsins, fyrirtækisins, allra sem í því starfa og fjölskyldna þeirra. Ég er þakklátur Veiðifélagi Bjarnareyinga og Björgunarfélagi Vestmannaeyja fyrir þeirra hlut,“ segir Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri VSV.   Dagsverk að koma mælinum fyrir   Stjórn Veiðifélags Bjarneyjareyinga tók strax vel í erindið þegar leitað var eftir heimild til að setja nýja jarðskjálftamælinn niður í Bjarnarey. Að morgni þriðjudags 26. september ferjaði þyrla Landhelgisgæslunnar tæki og mannskap frá flugvellinum í Eyjum út í Bjarnarey. Þangað fóru Sighvatur K. Pálsson og Þorgils Ingvarsson, sérfræðingar í mælarekstri Veðurstofunnar, og Haraldur Geir Hlöðversson – Halli Geir, formaður Veiðifélags Bjarnareyinga.   Grafin var hola skammt frá veiðihúsinu í eynni, steypt undirlag fyrir mælinn á móbergsklöpp og lagður jarðstrengur að húsinu þar sem komið var fyrir sólarsellu, rafgeymum og búnaði til 3G farsímatengingar.   „Við vorum að verki alveg fram í myrkur og þá kom Gunni Ella P (Gunnlaugur Erlendsson) á báti Björgunarfélags Vestmannaeyja til að ná í okkur. Við náðum að koma öllum búnaði fyrir en ég þarf að bregða mér út í ey til að ljúka smáræði sem út af stendur og þá verður hægt að taka mælinn í gagnið,“ segir Halli Geir.   Bjarnarey er mjög hálend og þverhníptir hamraveggir umlykja hana að miklu leyti. Hæsti punkturinn er um 160 metrum yfir sjávarmáli og veiðihúsið er sunnan undir Bunka, fjallhnúknum á eynni.   Jarðskjálftamælir færður til á Heimaey   „Veðurstofan rekur alls um 70 jarðskjálftamæla á landinu öllu, þar af einn ofan við gömlu malbikunarstöðina á Heimaey. Sú staðsetning er ekki heppileg. Við höfum sannreynt að hafnarframkvæmdir og fleira trufla mælingar og erum því að prófa mæli á öðrum stað á Heimaey,“ segir Sighvatur K. Pálsson á Veðurstofunni.   „Jarðhræringar undir Vestmannaeyjum eru flestar á 10-12 km dýpi en mestu skiptir að unnt sé að staðsetja þær með nægilegri nákvæmni. Það var ekki unnt með einum mæli en stendur nú til bóta þegar nýi mælirinn verður tekinn í gagnið.“  

Mjög áhugaverð og skemmtileg upplifun - myndir

Grunnskóli Vestmannaeyja hefur undanfarin tíu ár verið í sambandi við þýska skólann Gymnasium Michelstadt eftir að skólarnir störfuðu fyrst saman í Comeníusarverkefninu svokallaða. Hefur vináttan þróast mikið í gegnum árin en kennarar og starfsfólk GRV fóru fyrst í heimsókn til Michelstadt fyrir um sex árum síðan og var þá strax mikill áhugi fyrir því að gera skólana tvo að vinaskólum. Það þýðir að annað hvert ár kemur hópur af krökkum frá Gymnasium Michelstadt til Eyja að heimsækja GRV og öfugt. Í vor kom s.s. slíkur hópur frá Michelstadt í heimsókn til Eyja og nú fyrir stuttu fóru krakkar frá Eyjum, sem reyndar eru komnir í framhaldsskóla núna, til Þýskalands í sama tilgangi. Um er að ræða afar spennandi kost fyrir nemendur en þarna fá þeir tækifæri til að kynnast krökkum frá öðru landi og þeirra daglega lífi en fyrirkomulagið er með þeim hætti að nemendur gista inni á heimilum gestgjafa sinna. Blaðamaður ræddi við þrjá nemendur sem ferðuðust til Þýskalands fyrr í haust, Eriku Ýr, Urði Eir og Úlf. Voru þau öll sammála um að heimsóknin hafi verið vel heppnuð, skemmtileg og fræðandi.   Hér má sjá myndir frá ferðinni   Erika Ýr Ómarsdóttir: Hvernig var að búa inni á ókunnugu fólki? Þegar ég kom fyrst var það mjög stressandi en svo þegar leið á tímann þá var það orðið mjög skemmtilegt. Var erfitt að eiga í samskiptum við fjölskylduna, töluðu þau góða ensku? Það var alls ekki erfitt þau töluðu frábæra ensku sem var létt að skilja og létt að tala við þau. Hver var hápunktur ferðarinnar að þínu mati? Hápunkturinn var að sjálfsögðu þegar við fórum til Frankfurt að versla, fullt af flottum búðum, mæli mikið með. Hvernig líkar þér Þýskaland? Mér líkar mjög vel við Þýskaland, það er bæði mjög gaman að vera þarna og líka mjög fallegt. Er landið og fólkið ólíkt Íslandi og Íslendingum? Þýskaland er mjög ólíkt Íslandi, mikið af trjám þar og gömlum og flottum húsum og menningin er allt öðruvísi. Ég myndi ekki segja að það væri mikill munur á fólkinu nema að Íslendingar eru aðeins vinalegri. Myndir þú mæla með þessari ferð fyrir aðra nemendur? Ég myndi allan tímann mæla með því að fara í svona verkefni með skólanum, sjá hvernig fjölskyldur í Þýskalandi eru og ef krökkum langar að fara í skiptinám er þetta geðveikt tækifæri til að sjá hvort þér finnist þetta gaman. Mér fannst mér þetta geðveikt gaman og stefni á að fara út til þeirra aftur einhvern tímann.   Urður Eir Egilsdóttir: Hvernig var að búa inni á ókunnugu fólki? Að búa inni hjá ókunnugu fólki var mjög áhugavert og skemmtileg upplifun. Það sem mér fannst merkilegast var að fá að vita hvernig þýskar fjölskyldur lifa, hvaða hefðir þau hafa og hvernig mat þau borða. Var erfitt að eiga í samskiptum við fjölskylduna, töluðu þau góða ensku? Fjölskyldan sem ég gisti hjá talaði ekki mikla ensku en þýska vinkona mín var fín í að þýða þegar foreldrarnir komu með þýskar slettur inn í ensku setningarnar. Hver var hápunktur ferðarinnar að þínu mati? Hápunktur ferðarinnar var bara að labba um í litlu bæjunum. Mér fannst mjög gaman að sjá byggingalistina á húsunum því þau voru öll svo gömul og skökk. Hvernig líkar þér Þýskaland? Fyrir mér er Þýskaland mjög áhugavert út af sögunni og líka út af flottu byggingunum. Er landið og fólkið ólíkt Íslandi og Íslendingum? Landið er mjög ólíkt Íslandi. Þýskaland hefur mikla sögu sem við Íslendingar eru ekki jafn ríkir af. Einnig hefur Þýskaland mikið af ósnertum gömlum köstulum og húsum sem væri mjög gaman að skoða nánar. Þjóðverjar eru allt öðruvísi en Íslendingar eða allavegana þýsku krakkarnir. Þeim er alls ekki sama um hvað fólki finnst um þá og allir í skólanum eru í gallabuxum sem mér fannst mjög skrýtið því ef þú mættir ekki í gallabuxum í skólann þá horfðu krakkarnir mjög andstyggilega á þig, bara eins og þú værir eitthvað verri en þau en það er það eina sem ég tók virkilega eftir. Myndir þú mæla með þessari ferð fyrir aðra nemendur? Ég held að allir hafi gott af svona ferð, að prófa að búa hjá öðru fólki. Það á mögulega eftir að gerast fyrir flesta í framtíðinni að þurfa að gista heima hjá einhverjum sem þú þekkir ekkert endilega þannig að ég mæli með að fara í svona ferð, ekki bara fyrir nemendur heldur líka venjulegt fólk sem hefur gaman af því að ferðast.   Úlfur Hansen: Hvernig var að búa inni á ókunnugu fólki? Ég þekkti reyndar strákinn minn frekar vel áður en ég kom og hann var búin að lýsa mér svo að þau vissu ýmislegt um mig. Annars var það mjög skemmtilegt og þau komu ofboðslega vel fram við mig. Þau vildu borga allt, töluðu fullt við mig og voru mjög vinaleg. Var erfitt að eiga í samskiptum við fjölskylduna, töluðu þau góða ensku? Hann átti tvær systur og þau þrjú töluðu frekar góða ensku en foreldrar hans töluðu mjög lítið, hins vegar þýddu þau bara spurningar og svör og það var frekar auðvelt og þægilegt að eiga í samskiptum við þau. Hver var hápunktur ferðarinnar að þínu mati? Hápunktur ferðarinnar var annað hvort þegar við fórum til Frankfurt í verslunarferð eða til Heidelberg. Ég verð reyndar einnig að segja að kastalarnir/söfnin sem við fórum á voru mjög áhugaverð. Hvernig líkar þér Þýskaland? Ég elska Þýskaland. Er landið og fólkið ólíkt Íslandi og Íslendingum? Landið er allt öðruvísi, það eru tré eða akrar alls staðar. Fólkið er venjulega frekar strangt miðað við okkur hér á landi og hagar sér svolítið öðruvísi, persónulega finnst mér allir þarna minna vinalegir en hér á landi. Þá er ég ekki að tala um þá sem voru með okkur í hóp, þau voru eiginlega öll mjög fín. Myndir þú mæla með þessari ferð fyrir aðra nemendur? Ég myndi algerlega mæla með þessari ferð miðað við mína reynslu. Það er gaman að fara út, en skemmtilegra ef þú ert eða verður vinur nemandans sem þú ert með. Þú kynnist nýrri menningu og lærir fullt um Þýskaland og þjóðverjana sjálfa. Ef þú hefur einhvern áhuga á sögu er þetta enn betri ferð þar sem mikið er skoðað af sögu landsins.    

Helena Þorsteinsdóttir er matgæðingur vikunnar: Einfaldur og góður kjúklingaréttur

Ég vil byrja á því að þakka Anítu vinkonu minni fyrir þessa skemmtilegu áskorun. Okkur Anítu þykir rosalega gott og gaman að borða góðan mat og þess vegna tek ég ánægð við þessari áskorun.   Kjúklingaréttur 4 kjúklingabringur salt og pipar 1 krukka fetaostur 1 krukka rautt pestó salthnetur eða ritz kex rifinn ostur.   Fetaosturinn (ásamt olíunni) er settur í botninn á eldföstu móti. Kjúklingabringunum er svo raðað yfir fetaostinn og þær svo kryddaðar með salti og pipar. Pestóinu er smurt yfir bringurnar og rétturinn settur inní ofn í ca. 20-30 mín. Rétturinn er svo tekinn út og salthnetunum eða ritz kexinu er stráð yfir bringurnar. Svo er toppað með rifnum osti. Þetta er bakað í um 10 mín. til viðbótar eða þar til osturinn er bráðinn. Gott að bera fram með fersku salati og hrísgrjónum eða kúskús.   Svo bara verð ég að láta fylgja með uppskrift af einni bestu köku sem ég hef smakkað, en hún slær alltaf í gegn þegar ég baka hana.   Maríukaka 3 egg 3 dl sykur. Þeytt vel saman.   4 msk smjör 100gr suðusúkkulaði. Brætt saman og hellt saman við eggjahræruna.     1 tsk salt 1 tsk vanilla 1 & 1/2 dl hveiti. Blandað varlega saman við.   Þetta er svo bakað við 180°c í 17 mín.   Karmella 4 msk smjör 1 dl púðursykur 3 msk rjómi. Soðið í þunna karmellu á meðan kakan bakast.   1&1/2 pakki pecanhnetur brytjaður.   Kakan er tekin út og pecanhnetunum stráð yfir, karmellunni er svo hellt þar yfir. Kakan er svo sett aftur inní ofn og bökuð í 17 mín. til viðbótar.   1 plata af suðusúkkulaði brytjuð og stráð yfir kökuna um leið og hún er tekin úr ofninum.   Ég hef ákveðið að skora á góða vinkonu mína, en ég bara hreinlega elska að borða hjá henni. Allt sem hún útbýr er gott og ég get svarið að hún getur örugglega gert soðna ýsu spennandi en það er að mínu mati einn mest óspennandi matur sem ég borða. Silvía Björk, ég sendi boltann yfir til þín.  

Eyjamenn vikunnar: Felix Örn og Ingibjörg Lúcía hlutu Fréttabikarana

Um helgina fór fram lokahóf knattspyrnudeildar ÍBV en meðal verðlaunahafa voru þau Felix Örn Friðriksson og Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir. Hlutu þau Fréttabikarana fyrir að verða útnefnd efnilegustu leikmennirnir. Felix Örn og Ingibjörg Lúcía eru Eyjamenn vikunnar.   Nafn: Felix Örn Friðriksson. Fæðingardagur: 16. mars 1999. Fæðingarstaður: Vestmannaeyjar. Fjölskylda: Móðir mín heitir Þórey Svava og faðir minn Friðrik Örn, svo er einn lítill bróður sem heitir Alexander Örn. Uppáhalds vefsíða: Prodirect.com og Fotbolti.net. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Allt frá íslenskri klassík niður í einhverja rappara. Aðaláhugamál: Fótbolti. Uppáhalds app: Snapchat. Hvað óttastu: Köngulær eru ekki í uppáhaldi. Mottó í lífinu: Spila sem flesta fótboltaleiki. Apple eða Android: Apple. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Væri til í að taka létta krossa æfingu með Roberto Carlos. Hvaða bók lastu síðast: Dimma eftir Ragnar Jónasson. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Alexander Örn Friðriksson og ÍBV. Ertu hjátrúarfullur: Ekki mikið, kemur fyrir. Stundar þú einhverja hreyfingu: Fótbolta. Uppáhaldssjónvarpsefni: Eins og er eru það þættirnir Suits, annars er boltinn góður líka. Ertu ánægður með leiktíðina: Mest megnis var þetta fín leiktíð að mínu mati, sumt sem hefði þó mátt betur fara. Hvert er markmið þitt sem knattspyrnumaður: Það er að komast út að spila, og spila sem flesta landsleiki fyrir Ísland. Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig að hljóta þessi verðlaun: Það hefur gífulega þýðingu, merki um að maður sé á réttri braut, er að gera rétta hluti.   Nafn: Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir. Fæðingardagur: 20. maí 1998. Fæðingarstaður: Keflavík. Fjölskylda: Linda og Ragnar eru foreldrar mínir og svo á ég tvö yngri systkini, Hermann og Karitas. Uppáhalds vefsíða: Fotbolti.net. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Ég get hlustað á nánast alla tónlist. Aðaláhugamál: Knattspyrna. Uppáhalds app: Ætli það sé ekki instagram og kannski snapchat. Hvað óttastu: Er mjög hrædd við mýs. Mottó í lífinu: Að gefast ekki upp og halda alltaf áfram. Apple eða Android: Apple. Hvaða bók lastu síðast: Þessi er erfið. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Ronaldo og Alex Morgan, Manchester United. Ertu hjátrúarfull: Nei, ég get ekki sagt það. Stundar þú einhverja hreyfingu: Já, fótbolta og fer í ræktina. Uppáhaldssjónvarpsefni: Ég horfi lítið sem ekkert á sjónvarp, haha. Ertu ánægð með leiktíðina: Já, þetta er búið að vera mjög gott tímabil. Hvert er markmið þitt sem knattspyrnukona: Að gera betur og ná lengra. Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig að hljóta þessi verðlaun: þessi verðlaun eru mjög hvetjandi.  

Einstakt að heimsækja fólkið í Færeyjum

Við vorum 44 úr Eyjum sem flugum til Færeyja föstudaginn 28. maí sl. Það var Blítt og létt hópurinn ásamt mökum og svo voru nokkrir aðrir fylgifiskar sem fóru með. Ef ég man rétt var það árið 2003 sem bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum og í Götu gerðu með sér samkomulag um vinabæjartengsl. Þeir sem börðust harðast fyrir því að bæjarfélögin yrðu að vinabæjum voru þeir Martin Juul frá Færeyjum og Gísli Magnússon íþróttakennari, héðan úr Eyjum. Ég man að ég hugsaði með mér: - Jæja, eru bæjarfulltrúarnir að finna sér ástæðu til að fara í skemmtiferðir til Færeyja með vissu millibili. Ekki datt mér þá í hug að í stað bæjarfulltrúa ætti það eftir að vera ég og óbreyttir íbúar þessa byggðarlags sem ættum eftir að fara í ferðir til vinabæjarins Götu í Færeyjum.   Rúmlega 90 manna hópur ásamt Blítt og létt, fór í ferð til Götu vorið 2012 og svo aftur núna. Færeyingarnir endurguldu heimsókn okkar um haustið 2012 og fóru á Lundaballið.   Þannig lýsir Óskar Pétur Friðriksson, ljósmyndari með meiru heimsókn Eyjafólks til Færeyja í vor. Hér er ferðasagan rakin í stuttu máli en Færeyingar endurguldu heimsóknina um síðustu helgi og mætti 70 manna hópur á Lundaballið. Það þótti því rétt að rifja upp Færeyjaferðina frá í vor um leið og sagt er frá heimsókn frænda okkar í Færeyjum sem nú teljast með Vestmannaeyjaklasanum.   Mikil og náin kynni Mikil og náin kynni hafa myndast hjá fólkinu í Götu og hér í Eyjum. Það er frægt vinasambandið milli Gríms kokks og Martin Juul, reyndar er Martin orðinn vinur okkar allra og hann faðmar alla þegar við komum til Færeyja, yndislegur maður. Gestir gista í heimahúsum fólks í Götu og flestir fóru á sama stað og þeir voru á síðast. Ég veit um fólk sem ekki fór núna út og gestgjafarnir frá 2012 hringdu til Eyja og spurðu hvers vegna það hafi ekki komið til Götu núna. Fyrsta kvöldið var farið til Leirvíkur þar sem spilað var og sungið í menningarhúsinu. Salurinn sem við vorum í fylltist fljótlega þar sem allir sungu eins og þeir gátu. Blítt og létt hafði á efnisskrá sinni nokkur lög frá Færeyjum og heimamenn sungu vel með eins og í öllum hinum.   Mest fer í skerpukjöt Í blíðu veðri og sólskini var farin rútuferð á laugardeginum þar sem okkur var sýnt fjárhús, þar sem bóndinn útskýrði ræktunina og hvað kjötið væri notað í en það fer mest í skerpukjöt. Ferðalöngum var gefið að smakka skerpukjöt á staðnum og eitthvað til að skola því niður með. Síðar var ekið í prjóna- og fataverslun sem bóndinn átti þar sem hægt var að kaupa prjónavörur og prjónapeysur úr ull sem kom af fénu frá honum. Eystri kommunan bauð öllum hópnum og gestgjöfum þeirra til matarveislu á skemmtistað í Fuglafirði. Þar var boðið upp á fiskisúpu og grillað læri, ásamt því sem kaffi og terta var í eftirrétt ásamt koníaki, fyrir þá sem það vildu. Þar steig á svið Gísli Magnússon og afhenti styrki frá Kiwanis í Eyjum og dótturklúbbnum í Götu. Þetta voru styrkir til íþróttafólks í Götu, til íþróttafélaga og Björgunarfélagsins þar. Flott framtak hjá klúbbunum. Blítt og létt spiluðu og sungu fram á nótt.   Áfram Vojkingur Á sunnudeginum mættu hörðustu fótbolta áhangendurnir úr Eyjum á fótboltaleik sem fram fór í Götu. Þar voru heimamenn að spila á móti Skála, ekki er af því að spyrja að heimamenn Víkingur sigraði með fjórum mörkum gegn engu. Ekki veit ég hvort það er því að þakka að Eyjamenn kölluðu sem mest þeir máttu „áfram Vojkingur“, er þó helst á því að heimaliðið sé einfaldlegra svona gott lið. Eftir leik fór Blítt og létt á elliheimilið þar sem sungið var fyrir vistmenn sem tóku vel undir með hljómsveitinni. Martin Juul bauð öllu Eyjafólkinu og gestgjöfum þeirra heim til sín í kvöldmat. Grímur kokkur sá um að grilla ofaní mannskapinn, læri af bestu gerð, einnig var boðið upp á rastarsúpu en gestirnir frá Íslandi voru misáhugasamir að smakka hana.   Sungið fyrir hópinn á flugvellinum Þegar við vorum í heimsókn í Götu var Samkór Götu í kórferð til Bergen í Noregi, við hittum kórfélaga á flugvellinum í Vogum. Kórinn stillti sér upp og söng fyrir okkur þarna á flugvellinum, þar sem þau gátu ekki sungið fyrir okkur í Götu. Þetta segir allt um færeyinga, þeir eru einstaklega gestristnir og það er gott að heimsækja þá, betra fólki hef ég ekki kynnst um ævina. Ég hef komið nokkrum sinnum til Færeyja og kom þangað fyrst árið 1970, er ég fór með föður mínum í siglingu á Marsinum til Suðureyjar. Ég vil þakka gestgjöfum okkar fyrir höfðinglegar móttökur síðustu helgina í maí. Það var frábært að fá ykkur í heimsókn aftur um síðustu helgi.   Myndir og texti: Óskar P. Friðriksson.  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Mannlíf >>

Samgönguþingi unga fólksins um helgina

Samgönguþingi unga fólksins lauk í gær en á síðari hluta þingsins störfuðu umræðuhópar og síðan var samþykkt ályktun þingsins sem beint er til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Maríanna Jóhannsdóttir og Jón Gauti Úranusson voru meðal fulltrúa.   Fram kom í lokaorðum Jóns Gunnarssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að hann sæi fyrir sér að þing sem þetta yrði reglulegur viðburður hjá ráðuneytinu. Hann lýsti ánægju sinni með þátttökuna og afrakstur þingsins sem hann sagði nýtast vel.   Umræðuhóparnir fjölluðu um eftirtalin efni:   Sektir: Hækkun sekta við notkun snjalltækja og tekjutenging sekta. Akstur undir áhrifum: Áfengismörk við 0,5 prómill, 0,2 prómill eða 0,0 prómill. Bílprófsaldur og nám til bílprófs. Létt bifhjól og reiðhjól sem samgöngutæki. Hertar refsingar og lengri sviptingartími við ítrekuðum umferðarlagabrotum. Samgöngur í framtíðinni. Umræðustjórar beindu spurningum um málefnin til þátttakenda sem settu fram skoðanir sínar og vangaveltur um umræðuefnin. Hér á eftir eru nokkur atriði sem fram komu í hópunum:   Lengja nám til ökuprófs   Samfélagsþjónusta sem viðurlög við umferðarlagabroti Hækka sektir vegna notkunar snjallsíma í 40 þús. kr. Tekjutengja sektir – mánaðarlaun í sekt? Áróður betri en hækkun á sektum Herða refsingar við ítrekuð brot, senda á námskeið ef menn vilja halda bílprófi Áfengismörk verði óbreytt Fleiri hjólastíga – sérstaklega úti á landi og gera hjólreiðar meira spennandi – skylda hjálmanotkun fyrir alla Bæta strætóáætlanir Halda bílprófsaldri – skrá æfingaakstur Rafmagnsbílar – þarf að taka með í reikninginn umhverfisáhrif af framleiðslu rafgeyma og eyðingu þeirra Taka bílpróf í framhaldsskóla til að jafna aðgengi Samþykkt var eftirfarandi ályktun í lok þingsins:   Ályktun samgönguþings unga fólksins 2017   Horfa þarf til ólíkra samgöngumáta við framtíðarskipulag samgangna á Íslandi. Ungt fólk kýs í vaxandi mæli að búa smærra og nota vistvænar samgöngur. Stjórnvöld skulu þó tryggja einstaklingum svigrúm til að velja sér þann samgöngumáta sem það helst kýs, hvort sem það eru almenningssamgöngur, hjólreiðar, einkabíll eða aðrar tegundir samgangna. Fjölga þarf hleðslustöðvum á landinu til þess að flýta fyrir rafbílavæðingu. Styrkja þarf strætókerfið, meðal annars með því að fjölga ferðum á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni og bjóða upp á næturstrætó.   Öruggar samgöngur er undirstaða byggðar og atvinnulífs um land allt, meðal annars flug- og skipasamgöngur, og leggja þarf því áherslu á áframhaldandi uppbyggingu vega á landsbyggðinni, meðal annars með tilliti til hraðrar fjölgunar ferðamanna á undanförnum árum. Klára þarf að malbika hringveginn. Stjórnvöld þurfa að tryggja nýsköpunarfyrirtækjum á sviði samgangna samkeppnishæft umhverfi, svo sem fyrirtækjum sem bjóða upp á betri nýtingu farartækja og fjármagn í gegnum deilihagkerfið.   Tæknin tekur hröðum breytingum og þess vegna þarf að aðlaga regluverkið að aukinni snjalltækjanotkun í umferðinni. Hækka þarf sektir fyrir notkun þeirra undir stýri og skoða kosti og galla kerfis þar sem sektir eða refsingar komi jafnt við alla tekjuhópa í landinu. Lækka þarf áfengismörk við akstur til þess að draga úr akstri undir áhrifum. Einnig þarf að herða refsingar við ítrekuðum umferðarlagabrotum, til dæmis með stigvaxandi sektum eða samfélagsþjónustu.   Samgönguþing unga fólksins telur ekki ástæðu til að hækka bílprófsaldur upp í 18 ár í stað 17 ára, en vill skoða að samræma menntaskólaaldur og bílprófsaldur. Tryggja þarf að æfingaakstur sé nýttur við ökunámið til að undirbúa unga bílstjóra betur undir umferðina. Þingið telur ástæðu til að skoða réttindi og skyldur ungs fólks í víðara samhengi. Rannsóknir benda til þess að fólk sé lengur í áhættuhóp því seinna sem það öðlast ökuréttindi. Telur þingið það ekki vera aldur ökumanna sem auki slysatíðnina, heldur reynsluleysið sem er óhjákvæmilegt hjá nýjum ökumönnum óháð bílprófsaldri.   Ráðast þarf í gerð fleiri hjólreiðastíga til þess að styrkja frekar við hjólreiðar sem samgöngur og gæta þarf að því að fræða hjólreiðamenn um réttindi sín og skyldur í umferðinni samhliða ört vaxandi fjölda hjólreiðamanna á landinu. Skoða þarf lagningu hjólreiðastíga á landsbyggðinni til að hvetja íbúa landsbyggðarinnar til að nýta sér slíkan samgöngumáta.   Einnig þarf að skilgreina notkun léttra bifhjóla með ítarlegri hætti en nú er gert. Tengja þarf allt landið mun betur saman með því að innanlandsflug verði raunhæfur kostur fyrir alla landsmenn. Fjölga þarf stærri samgöngutengingum, t.d. með hraðlestum og bæta þarf tíðni strætókerfisins og almenningssamgangna um landið allt.  

Stjórnmál >>