Elliði Vignisson - Fæðingaþjónusta er óviðunandi í landsbyggðunum

Loading the player ...

Elliði Vignisson - Fæðingaþjónusta er óviðunandi í landsbyggðunum

Fyrir mér eru Vestmannaeyjar paradís á jörðu. Náttúran, fólkið, menningin, sagan, krafturinn samstaðan og svo margt fleira jarðtengir mig og lætur mig fljúga í senn. Samt er það svo að tveir hornsteinanna eru ekki í lagi, samgöngur og heilbrigðisþjónusta. Ég er afar bjartsýnn á að á næsta ári tökum við stórt skref hvað samgöngur varðar sem síðan mun leiða af sér enn fleiri slík í átt að betra ástandi. Út af borðinu standa þá heilbrigðismálin og þá sérstaklega fæðingaþjónustan.
 
Tilflutningur á kostnaði
Tilgangurinn á bak við breytingar á fæðingaþjónustu er ekki hvað síst að ná niður kostnaði hins opinbera. Það vill þá e.t.v. gleymast að í raun er bara um tilflutning á kostnaði að ræða frá ríki til verðandi foreldra. Kostnaður við ferðalög og biðina á fæðingarstaðnum er oft verulegur. Ekki er ólíklegt að kostnaður við fæðingu, ferðalög, vinnutap og fl. hlaupi á hundruðum þúsunda og þaðan af meira. Sér er nú hver gjöfin til verðandi foreldra. Þar við bætast áhyggjur af ferðalaginu aftur heim og aðlögun fjölskyldunnar, sérstaklega eldri barna að eðlilegu lífi eftir heimkomuna tekur á. Hvað sem líður öllum Excelskjölum og flæðiritum þá er ljóst að fæðing fjarri heimabyggð valdur kvíða og streitu hjá barnshafandi konum auk töluverðrar röskunar á lífi fjölskyldunnar og mikils kostnaðar.
 
Samfélagslegt mikilvægi
Áhrifin eru þó víðtækari. Fram hefur komið að skortur á þjónustu við konur í barneignaferlinu hefur almenn áhrif á dreifbýli. Gildi þess að hafa fæðingarþjónustu eru sennilega meiri fyrir samfélagið sjálft en margir gera sér grein fyrir. Það skiptir að mati þeirra sem best þekkja til miklu fyrir samfélagið að fæðingar séu hluti af lífinu þar. Að samfélagið sé samfella frá vöggu til grafar.
 
Manneskjusýn
Svo mikið er víst að það er ekki í samræmi við manneskjusýn Eyjamanna að þessi mikilvægi þáttur lífsins verði frá þeim tekinn og í staðinn sett á fót læknisfræðilegt kassalagað kerfi sem aðskilur verðandi foreldra frá fjölskyldum sínum.
Við Eyjamenn verðum að berjast áfram fyrir þessum sjálfsögðu réttindum. Þar leika þingmennirnir okkar lykilhlutverk.
 

„Í stað þess að axla ábyrgð á eigin mistökum er nú reynt að finna sök hjá öðrum“

Allt hefur sinn tíma

Eftir tæp tvö ár í starfi sem blaðamaður Eyjafrétta hef ég lært ýmislegt. Ég hef fengið tækifæri til að skyggnast inn í heim fjölmiðlanna og öðlast dýrmæta reynslu sem mun nýtast mér hvarvetna í lífinu. Suma daganna getur starfið verið bæði gefandi og skemmtilegt en aðra erfitt og stundum alveg hundleiðinlegt. Þó svo blaðamennska myndi líklegast flokkast sem „þægileg innivinna“ þá er hún engu að síður púl eins og Ómar Garðarsson, fyrrum ritstjóri Eyjafrétta og lærifaðir minn, orðar það stundum. Í tilviki Eyjafrétta stendur ritstjóri nefnilega frammi fyrir því á hverjum miðvikudegi að þurfa að fylla nýtt 16 síðna blað. Sumar vikurnar getur það reynst þrautinni þyngri, lítið um að vera og viðfangsefnin af skornum skammti, en einhvern veginn hefur blaðið ávallt skilað sér frá því útgáfa hófst árið 1974.   Í heimi þar sem internetið er alls ráðandi á blaðaútgáfa eins og við þekkjum hana undir högg að sækja. Stöðugur samdráttur hefur verið á auglýsingamarkaði sl. áratug þar sem samfélagsmiðlar og aðrar tækninýungar virðast hafa leyst hið gamla form af hólmi. Samhliða þessari þróun fækkar áskrifendum einnig markvisst þar sem lítil sem engin endurnýjun á sér stað í þeim hópi. Sem dæmi er meðalaldur áskrifenda Eyjafrétta í kringum 55 ár og hefur þeim líklega fækkað um 100 á ári síðastliðinn ár.   Með þessu áframhaldi mun blaðaútgáfa leggjast út af, fyrst litlu áskriftarblöðin og síðan fríblöð á borð við Fréttablaðið. Þetta er blákaldur veruleikinn og nákvæmlega það sem Eyjafréttir eru að ganga í gegnum þessa stundina. Það er líklega allt of seint að tala um að blikur séu á lofti því óveðrið er löngu skollið á.   Eftir tæp tvö ár í starfi var mér sagt upp um síðustu mánaðarmót vegna skipulagsbreytinga, nauðsynlegrar hagræðingar. Það er vissulega súrt að fá uppsagnarbréf og sannarlega erfiður biti að kyngja. En í ljósi kringumstæðna sýni ég ákvörðuninni fullan skilning. Ég mun skilja við Eyjafréttir reynslunni ríkari og í fullri sátt og í þeirri von um að blaðið standi af sér óveðrið sem nú geisar en það verður þó að teljast ólíklegt. Eftir að hafa skráð sögu samfélagsins í Eyjum og sagt fréttir af íbúm þess í 44 ár gæti tími Eyjafrétta (áður Frétta) loks verið á enda. Allt hefur sinn tíma og kannski er tími Eyjafrétta runninn upp hvort sem fólki líkar það betur eða verr.  

At­huga­semdir við frétta­skrif Frétta­blaðsins

Blaðamaður Fréttablaðsins Aðalheiður Ámundadóttir skrifar í gær 7. júní frétt um ástand mála í Sjálfstæðisflokknum í Vestmannaeyjum. Eyjafréttir birtu þessa frétt Fréttablaðsins.  Þengill Björns­son gerði at­huga­semdir við frétta­flutning Frétta­blaðsins á facebooksíðu sinni í gær, en þar er hann sagður hafa beytt sér óformlega fyrir framboðið Fyrir Heimaey í Sveitastjórnakosningunum í Vestmannaeyjum. Lesa má athugasemd Þengils hér að neðan í heild sinni.   1. Ég og minn góði félagi Páll erum samherjar í Sjálfstæðisflokknum: ÞETTA ER RÉTT   2. Ég hafi unnið fyrir Pál í prófkjöri hans: ÞETTA ER RANGT. Það gerðu hinsvegar nokkrir vinir mínir og gerðu bara virkilega vel.   3. Ég mun skv. greininni hafa “beitt mér óformlega” fyrir framboðið Fyrir Heimaey: ÞETTA ER RANGT. Ég kom þar hvergi nærri, ég beitti mér hvorki beint né óbeint í kosningunum í Eyjum og hef því miður ekki komið til Eyja um alllangt skeið. Lofa þó að mæta á næstu Þjóðhátíð, svo fremi sem allir séu í stuði. Reyndar tel ég að Elliði Vignisson hafi ætið staðið sig vel sem ötull talsmaður Vestmannaeyinga og sjálfstæðisstefnunnar.   4. Samkvæmt greininni eru til þeir í forystu Sjálfstæðisflokksins sem vilja losna við mig þaðan: ÞETTA ER LÍKLEGA RÉTT, ÞEIR AÐILAR ERU VÆNTANLEGA TIL. Þannig er það í pólitík að menn takast á, og til eru þeir sem vilja fremur flæma fólk í burtu en að sameina í einum öflugum hópi. Ég er ekki einn þeirra því ég vil sjá sem flesta í flokknum okkar, þar með talda Írisi Róbertsdóttur bæjarstjóra í Vestmannaeyjum og alla hennar góðu stuðningsmenn.   5. Ég ku samkvæmt heimildum Aðalheiðar þrífast á innanflokksátökum: ÞETTA ER RANGT. Ég þrífst á því að vinna með skemmtilegu, áhugaverðu og duglegu fólki, innan sem utan flokks. Að segja að ég þrífist á átökum er eiginlega ekki svaravert, dylgjur, illa sagt, særandi og engum til sóma.   6. Þá herma heimildir blaðsins að ég hafi orðið “sjóðillur” yfir því að Páll Magnússon hafi ekki orðið ráðherra við myndun síðustu ríkisstjórnar: ÞETTA ER RANGT. Ég hefði gjarnan viljað sjá Pál verða ráðherra en skil vel þá erfiðu stöðu sem formaður flokksins var í og virði hans niðurstöðu. Ég er bara flokksmaður líkt og tugþúsundir annarra og hef voða lítið um ráðherraskipan að segja.   7. Samkvæmt niðurlagi greinarinnar er ég í pólitík til til að verða mér út um vel launaða aðstoðarmannsstöðu: ÞETTA ER RANGT. Ég hef aldrei sóst eftir slíku starfi en hefði gaman af því að hitta heimildarmanninn sem er svona fróður um mín framtíðaráform.   Þegar svona fréttir eru unnar er mikilvægt að blaðamaður kanni til hlítar þær fullyrðingar sem fram eru settar og leyfi mismunandi sjónarmiðum aðila að koma fram. Ekki síst þegar um er að ræða ærumeiðandi fullyrðingar eins og þær sem fram voru settar um mig og mín störf í Sjálfstæðisflokknum. Aldrei var haft samband við mig við vinnslu greinarinnar. Ég hefði með mikilli ánægju leiðrétt þær rangfærslur sem ég rakti hér að ofan. Ég nota gmail, snapchat, facebook, wechat, hina rússnesku fésbók Vkontakte, gsm, sms og hendi einstaka sinnum í mms og því hefði ekki verið flókið að ná í mig. Ég veit líka að aldrei var haft samband við vin minn Janus Arn Guðmundsson sem fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar vann dag og nótt að því að tryggja flokknum okkar sigur í Reykjavík og kom líkt og ég hvergi nærri kosningabaráttu Fyrir Heimaey. Mín ráðlegging til blaðamanns Fréttablaðsins er einföld: Vanda sig betur.          

Sjálfstæðismenn í Eyjum ósáttir við framgöngu Páls í sveitarstjórnarkosningunum

Það er engin launung á því að við Sjálfstæðismenn í Eyjum erum mjög ósátt við framgöngu Páls í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna,“ segir Jarl Sigurgeirsson, formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum um oddvita flokksins í Suðurkjördæmi, Pál Magnússon. Sagði Jarl í samali við Fréttablaðið og bætti við að Páll launi illa þá vinnu sem hann sjálfur og margir Sjálfstæðismenn lögðu á sig fyrir Pál og flokkinn í aðdraganda síðustu þingkosninga   Vináttusamband er milli Páls og Írisar Róbertsdóttur, oddvita klofningsframboðsins og nýs bæjarstjóra í Vestmannaeyjum. Þau hafa verið samherjar í pólitík um árabil og hafa til dæmis lengi setið saman í stjórn ÍBV. Íris studdi Pál dyggilega í prófkjöri Sjálfstæðismanna fyrir síðustu þingkosningar og þótt Páll hafi ekki stutt klofningsframboð Írisar opinberlega eru viðmælendur Fréttablaðsins í flokknum á einu máli um að hann stóð með Írisi og félögum hennar í baráttunni og veitti framboði Sjálfstæðisflokksins í Eyjum engan stuðning.   Einn viðmælandi blaðsins bendir á hve mjótt hafi verið á munum milli flokksins og klofningsframboðsins og því hafi atkvæði Páls sjálfs og hans nánustu í raun gert útslagið og meirihluti flokksins fallið á atkvæðum þeirra.   Annar viðmælandi blaðsins telur einsýnt að Páll muni aldrei aftur sigra í prófkjöri fyrir flokkinn í kjördæminu. Þessi afstaða tilheyrir ekki eingöngu Eyjamönnum heldur hafi sveitarstjórnarmenn flokksins um allt kjördæmið snúið baki við Páli.   Samherjar Páls í Sjálfstæðisflokknum, þeir Janus Arn Guðmundsson og Þengill Björnsson, munu einnig hafa beitt sér óformlega fyrir klofningsframboðið. Þeir unnu báðir með Páli í aðdraganda síðustu alþingiskosninga og Janus í framhaldinu sem kosningastjóri flokksins í kjördæminu.   Nokkurs titrings gætir í Valhöll vegna málsins en Janus og Þengill sitja báðir í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins og Janus er nýráðinn framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Til eru þeir í forystu flokksins sem vilja helst losna við þá Janus og Þengil úr flokknum enda þrífist þeir á innanflokksátökum og margir telja fráleitt að þeir geti setið í trúnaðarstöðum fyrir flokkinn og um leið beitt sér gegn flokknum í kosningum. Hins vegar eru þeir sem vilja ekki þann óvinafögnuð að taka hart á þeim sem beita sér gegn flokknum.     Fréttablaðið greindi frá

Til hamingju með daginn sjómenn 2018

Ótrúlega skrýtin sjómannadagshelgi hjá mér í ár, enda loksins búinn að ná að selja Blíðuna og ekki bara það, heldur Blíðukróna líka.   Ég hef sagt þetta við nokkrar manneskjur að undanförnu og sum viðbrögð vöktu sérstaka athygli mína og þá sérstaklega þessi:   Til hamingju, og í hverju á svo að fjárfesta fyrir hagnaðinn?   Mér fannst þetta svo skrítin viðbrögð að ég varð eiginlega orðlaus, en vonandi samt, ef allt gengur upp, þá vonandi dugar það sem fæst fyrir útgerðina fyrir öllum skuldum, en það skýrist eiginlega ekki endanlega fyrr en í lok næsta árs (nokkurn veginn í anda þess sem fram kemur í grein sem ég skrifaði um árið um draum trillukarlsins).   Það vakti þó sérstaka athygli mína í dag, að í álagningum fyrir síðasta ár, þar sem ég hafði greitt skatt af meintum hagnaði útgerðarinnar, að þá fékk frúin reikning upp á á þriðju milljón vegna ofgreiddra örorku, sem er eiginlega stór furðulegt í sjálfu sér, en ef rétt er, sýnir í raun hversu fáránlegt Íslenska skattakerfið er, enda allar fréttaveitur fullar af fréttum af mönnum sem hafa í raun og veru hærri laun á mánuði heldur en ég og frúin samtals fyrir allt s.l. ár. En nóg um það.   Kvótaárið hér í Eyjum hefur verið nokkuð gott og við sáum t.d. nýlega í fréttum að eyjarnar hafa enn og aftur sett nýtt met í afla, sem er bara frábært og svolítið skrýtið að hugsa til þess að fyrir 4 árum síðan höfðaði Vestmannaeyjabær mál vegna sölu á eyjunum til Síldarvinnslunnar. Mál sem tapaðist þannig að forkaupsréttarákvæðið virkar ekki, en að mati sumra á þessum bátum, sem betur fer, enda fylgir því að renna inn í hin stærstu fyrirtæki í flestum tilvikum, veruleg launa lækkun.   Ég hef aðeins fylgst með umræðum að undanförnu um veiðigjöldin á Alþingi Íslendinga, þar sem nú liggur fyrir frumvarp frá meirihlutanum um lækkun veiðigjalda. Umræðan er að mínu mati á miklum villigötum, en að sjálfsögðu er ég alfarið á móti öllum veiðigjöldum, en finnst eðlilegt að þeir sem fái úthlutað aflaheimildum greiði sanngjarnt gjald til ríkisins, en merkilegt nokkuð, enginn hefur talað fyrir því sem gert var fyrir c.a. 4 árum síðan, þar sem veiðigjöldin voru færð yfir á landaðan afla, sem aftur gerði það að verkum að ég skrifaði greinar sem héti Braskara ríkisstjórnir, en þar var gerð sú breyting að þeir sem leigja frá sér aflaheimildir borga engin aflagjöld af þeim aflaheimildum, heldur lendir reikningurinn á leiguliðunum sem borga okur leiguna og þurfa síðan líka að borga veiðigjöldin til ríkisins.   Ágætur vinur minn úr liði VG sagði reyndar við mig að málið væri flókið, þar sem leiguliðar ættu engan talsmann í Ríkisstjórninni, svolítið skrýtið að það sé einmitt VG sem eru að fara fram á lækkun veiðigjalda yfir línuna.   Framundan er sumarið, vonandi verður mikið af makríl, vonandi finna menn aftur humarinn, sem virðist vera algjörlega horfinn (vinnubrögð Hafró) og vonandi munu þeir sem erfa skulu landið fá eitthvað meira í arf heldur en skuldir.   Gleðilegan sjómannadag allir sjómenn.  

Þarf einhvern meirihluta og minnihluta í bæjarstjórn?

Kosningarnar fóru eins og þær fóru. - Það sem maður óttast að verði helstu afleiðingar þeirra er að myndast hafi vík milli vina; sárindi; kannski illindi. - Ef svo er þá er það einmitt það sem Vestmannaeyingar þurfa síst á að halda.   Þarf annars nokkuð að mynda meirihluta og þá minnihluta. Getur fólk ekki unnið saman sem ein heild í bæjarstjórn að málefnum Vestmannaeyja. - Nú eru flestallir bæjarfulltrúarnir úr Sjálfstæðisflokknum þannig að varla er mikill pólitískur ágreiningur milli þeirra. Og eftir því sem ég hef lesið og heyrt í Njáli Ragnarssyni þá er hann bara heilsteyptur flottur strákur sem ég held að allir geti unnið með. Og svo er Elliði hættur, sem var nú kannski ástæðan fyrir H-lista framboðinu.   Hvað er þá í veginum fyrir því að nú verði myndaður 7 manna  meirihluti/bæjarstjórn í Vestmannaeyjum sem fari með stjórnun bæjarins og ef einhver bæjarfulltrúi er ekki sammála einhverjum málum þá greiðir viðkomandi bara atkvæði samkvæmt því. Er það ekki allt í lagi? - Og þetta, - að mér finnst, úrelta fyrirkomulag - að það þurfi meiri- og minnihluta í litlum bæjarfélögum, sem meira en allt annað þurfa á samstöðu að halda, ættum við Vestmannaeyingar að hafa sem liðna tíð.   Í síðustu bæjarstjórn voru mál oftast afgreidd 7-0 og það meira að segja í stórum málum, eru það ekki sterk rök fyrir þessum sjónarmiðum mínum.   Áfram Vestmannaeyjar   Gísli Valtýsson  

Gleðilegan kjördag

Kæru kjósendur í Vestmannaeyjum. Í dag leggja ég og félagar mínir í Sjálfstæðisflokknum verk okkar undanfarin ár í dóm kjósenda. Það sem fyrst og fremst greinir okkur frá öðrum framboðum er dýrmæt reynsla við styrka og án alls vafa farsæla stjórnun sveitarfélagsins svo eftir er tekið. Í öllum framboðum eru efnilegir einstaklingar að leggja hönd sína á plóginn við að gera gott samfélag enn betra. Framundan verða miklar breytingar á bæjarstjórn sem að öllum líkindum verður söguleg, að því leyti að hún verður í fyrsta skipti skipuð konum að meirihluta og óska ég Vestmannaeyingum innilega til hamingju með þann áfanga og framboðunum öllum til hamingju með að treysta konum jafnt sem körlum í framlínu sína. Þó breytingar og endurnýjun séu af hinu góða og nauðsynlegar þá tel ég ekki skynsamlegt að kollvarpa því sem vel hefur gengið. Að endingu óska ég öllum Vestmannaeyingum gleðilegs kjördags og hvet alla til að nýta sinn lýðræðislega rétt sem sannarlega er ekki öllum sjálfgefinn.   Nú kjördagur nálgast óðum og nóg er af peyjum og fljóðum sem öll þitt atkvæði vilja, en eitt þarft þú fyrst að skilja.   Bakarinn brauðið hann brenndi og íbúum lexíu kenndi að vera ekki í móinn að malda heldur kjósa einn flokk til valda.   Samfélag losuðu úr skuldaklafa, sveitarstjórnarreynslu þau hafa. Bæjarfulltrúa þurfa nú fjóra með framhaldsskóla- og útgerðarstjóra.   Sameinuð tryggt hafa samgöngur betri, sýnt hafa kjark sinn á nýliðnum vetri. Bættu vel þjónustu við foreldra og börn, boðuðu hvali en ekki ísbjörn.   Við Hamarsskóla hús vilja byggja, á hugmyndum sínum þau ekki liggja. Ef bæjarstjóri vilt að Elliði sé þá seturðu einfaldlega x við D (HSS)      

Að prófa eitthvað nýtt?

Fyrir ákaflega mörgum árum gegndi skrifari starfi æskulýðsfulltrúa Vestmannaeyja. Því fylgdi meðal annars að sjá um starfsemi Félagsheimilisins við Heiðarveg, sem nú heitir Kvika. Þetta var á margan hátt áhugavert og skemmtilegt starf. Skrifari kynntist á þeim árum mörgu áhugaverðu fólki sem m.a. kom til Eyja til að kynna hvers konar starfsemi og áhugamál, trúmál og fleira. Til að mynda voru Vottar Jehóva tíðir gestir í Félagsheimilinu sem og aðrir boðberar trúarlegra efna. Og oft húsfyllir í aðalsalnum.   Hvað minnisstæðastur er skrifara þó kaþólskur prestur frá Írlandi, sem hingað kom vetur einn til að kynna Eyjamönnum kaþólska trú og ágæti hennar. Fékk leigðan salinn í Félagsheimilinu og allnokkrir sem mættu ef skrifara minnir rétt. Í fartogi með honum var nunna ein og saman boðuðu þau fagnaðarerindi kaþólskunnar fyrir Eyjamönnum, með misjöfnum árangri ef skrifari rekur rétt minni til. Svo hið sama kvöld kom upp misskilningur varðandi gistingu þeirra, sem átti að vera frágengin á gistiheimili í Eyjum og þau stóðu uppi húsnæðislaus. Sá ágæti kaþólski prestur spurði skrifara hvort hann gæti skotið skjólshúsi yfir þau í Félagsheimilinu og skrifari tjáði honum að salurinn sunnanvert á 3. hæð væri laus þeim til íveru. Þá kom upp það vandamál að sakir trúarlegra hluta máttu þau tvö, presturinn og nunnan, ekki deila sömu vistarverum að næturlagi. Nú var reyndar annar salur á lausu, aðalsalurinn á 3. hæðinni en skrifari tjáði þeim írsku trúboðum að hann væri ekki reiðubúinn til að deila tveimur aðalsölum hússins til þeirra tveggja.   Þetta vandamál leystist þó á einfaldan hátt þegar kunningi skrifara, sem rak gistiheimili í Eyjum, hafði tvö herbergi laus fyrir þessa góðu boðbera kaþólskrar trúar.   Svo þegar þessi mál voru til lykta leidd, spurði sá ágæti kaþólski prestur skrifara hvort hann hefði nokkurn tíma hugleitt að snúast til kaþólskrar trúar. Skrifari kvað nei við því, sagðist uppalinn í ágætum mótmælendasið og hefði ekki hugsað sér að snúa af þeim vegi.   „Af hverju ekki að prófa eitthvað nýtt,“ spurði sá írski. „Hefurðu einhverju að tapa?“   „Minn góði vinuar,“ svaraði skrifari. „Í rúmlega tuttugu ár hef ég verið kvæntur sömu konunni. Vissulega kemur að mér sú hugsun, þegar ég er staddur úti á götu og fram hjá mé gengur falleg kona, að ég horfi um öxl og hugsa með mér: „Af hverju ekki að skipta um og prófa eitthvað nýtt?“ En ævinlega kemur upp hið sama í hugann: „Þú veist hvað þú átt en veist ekkert hvað kemur í staðinn.“   Þessi rök tók hinn írski vinur minn góð og gild og reyndi ekki frekar að turna mér til kaþólskrar trúar.   Ég veit ekki hvað kom mér til að rifja upp þessa gömlu endurminningu núna í aðdraganda kosninga. En eitthvað hlýtur það að vera.   Sigurgeir Jónsson  

Kjósum áframhaldandi sókn!

Það fer ekki á milli mála að það er komið að kosningum, greinaskrif frambjóðenda í staðarfjölmiðlum, umræðan á kaffistofum bæjarins og ,,kommenta” kerfi samfélagsmiðlanna ber þess glögglega merki. Kosningarnar nú eru töluvert brábrugðnar þeim kosningum sem ég hef tekið þátt í á mínum pólitíska ferli sem spanna nú tólf ár. Þær eru frábrugðnar að því leyti að gott fólk sem ég hef starfað með hefur ákveðið að yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn og bjóða fram gegn honum, að því er virðist ekki vegna málefnalegs ágreinings heldur í þeim tilgangi að koma ákveðnum einstaklingum í áhrifastöður og þykir mér það miður. Yfirskriftin var aukið lýðræði og bætt vinnubrögð en þrátt fyrir þau fyrirheit gaf þessi nýi flokkur sér ekki tíma til þess vinna eftir þessum gildum við val á framboðslista sinn.   Eins og áður sagði hef ég nú starfað í bæjarstjórn í tólf ár, og það er langur tími í pólitík, sumum finnst það of langur tími. Ég er ósammála þeirri alhæfingu. Ef þú hefur ánægju af því sem þú ert að gera, hefur þrek og vilja til að vinna þetta óeigingjarna starf og nærð árangri þá skiptir árafjöldinn í starfinu ekki máli.   Ég sé hinsvegar ekki eftir því að skella mér í aftursætið, ef svo má að orði komast. Á lista Sjálfstæðisflokksins eru frábærir einstaklingar sem ég treysti til að stýra bænum og að fenginni tólf ára reynslu þá veit ég að þeir munu gera það með hagsmuni íbúa sveitafélagsins að leiðarljósi, hagsmuni heildarinnar. Elliði Vignisson er bæjarstjórnar efni flokksins, hann er sterkur leiðtogi og lætur verkin tala, engum treysti ég betur til að leiða bæjarfélagið okkar næstu fjögur árin.   Það er aðeins einn Sjálfstæðisflokkur og ef við náum meirihluta á laugardaginn þá munum við halda áfram að byggja upp samfélagið með sömu gildin að leiðarljósi, sem er ábyrgur rekstur og þor og dugur til að takast á við ný og krefjandi verkefni. Hin sterka fjárhagsstaða bæjarins er grunnurinn að frekari sóknarfærum og ber stefnuskrá okkar Sjálfstæðismanna því glögg merki.   Kjósum áframhaldandi sókn, setjum X við D.   Páll Marvin Jónsson   Skipar 8. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins  

Hverju er verið á móti?

Á miðvikudagskvöld var haldinn borgarafundur með fulltrúum framboðana þriggja sem bjóða fram í kosningunum á morgun. Umræðan snerist að stórum hluta um samgöngumál og nýgerðan samning um rekstur Herjólfs. Athygli mína vakti að fulltrúar H framboðsins hafa ekki enn getað áttað sig á því hvort þeir séu hlynntir samningnum eða á móti honum. Í stað þess að kynna sér málin er talað í hringi. Samninginn segja þeir slæman, þrátt fyrir að þjónustuaukningin sé góð er áhættan sé mikil.   Þar sem ég sat minn fyrsta bæjarstjórnarfund þegar samþykkja átti samninginn vil ég koma á framfæri nokkrum atriðum sem ég tel mikil heillaspor fyrir samfélagið hér í Eyjum:   * Ferðum er fjölgað, farið fyrr af stað á morgnanna og siglt lengur fram eftir á kvöldin   * Íbúum í Vestmannaeyjum er tryggður helmings afsláttur af fargjöldum   * Bókunarkefið er tekið algerlega í gegn   * Í öllum ákvörðunum skipta hagsmunir heimamanna mestu máli   * Glórulaus kaup á inneignarkortum fyrir tugi þúsunda heyra sögunni til   * Núverandi Herjólfur verður til taks út samningstímann   * Öll fjárhagsleg áhætta bæjarins er takmörkuð eins og mögulegt er   Hvernig er hægt að vera á móti þessum samningi? Hverju er H- listinn á móti? Getum við ekki sameinast um það að fagna þessu framfaraskrefi fyrir bæinn okkar?   Í máli frambjóðanda H- listans á miðvikudagskvöld kom fram að ómögulegt sé að segja samningnum upp. Þeim sem kunna að trúa því vil ég benda á að lesa má samninginn í heild sinni á vef Vestmannaeyjabæjar. Ég leyfi mér að vitna beint í samninginn:   „9.4 Uppsagnarfrestur samnings þessa er 6 mánuðir. Óski annar hvor aðila eftir að segja samningnum upp skal það gert skriflega og sent gagnaðila með sannanlegum hætti“.   Með öðrum orðum: Einn tölvupóstur. Ekki ómögulegt, EINN TÖLVUPÓSTUR.   Látum ekki blekkjast. Hlustum ekki á úrtöluraddir þeirra sem vilja rífa niður heldur höldum áfram að byggja upp.   Guðjón Örn Sigtryggsson.  

Láttu ekki plata þig

Jæja þá er komið að því að kjósa. Laugardaginn 26. maí n.k. göngum við að kjörborðinu eins og það er kallað. Í boði eru þrír listar, tveir frá Sjálfstæðisflokki D og H, og einn myndaður af samstarfi félagshyggjufólks og óháðra, Eyjalistinn. Það er þessi H listi sem mig langar að vara fólk við, sérstaklega fólk sem skoðanalega séð er á miðjunni og vinstri vængnum. H-listinn er klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokki og er í engu frábrugðinn honum. Á listanum eru 8-10 harðkjarna Sjálfstæðismenn, fólk úr fulltrúaráði, formenn félaga innan flokksins og fyrrverandi bæjarfulltrúar flokksins. Svo sterk er heimtaugin í Sjálfstæðisflokkinn að það sem helst virtist standa forystusauðunum fyrir þrifum við stofnun framboðsins, var hvort þau héldu bitlingum sínum innan flokksins, þá sérstaklega á landsfundarpartíinu.   Meira að segja þingmenn flokksins eru með það á hreinu að heimtaugin hafi bara skroppið af keflinu um stundarsakir, sbr. orð Ásmundar Friðrikssonar í Eyjafréttum:   „Og þó að um stund sé slagsíða á bátnum þá er takmarkið að ná þeim aftur um borð sem hafa ákveðið að fá sér annað skipsrúm og nýtt föruneyti. Erfiðleikar eru til að sigrast á þeim en að lokum mun mótlætið styrkja okkur og við sameinast á ný undir merkjum Sjálfstæðisflokksins.“   Sei nó mor, sei nó mor, fyrir mig, en hvað um þig? Ætlar þú að láta plata þig á laugardaginn?   Til H listans er stofnað vegna óánægju innan sjálfstæðisflokksins, sem tilkomin er vegna þess að á lýðræðið hallaði, einræði var komið á.   Að lokum ætla ég að summa þetta upp svona:   D og H listar standa fyrir lýðræðishalla, sundrungu, einræði, óánægju og klofning.   E listi stendur fyrir samvinnu og lýðræði, það er allt sem þarf, til að öllum bæjarbúum líði vel.   Settu X við E á laugardaginn ef þú vilt raunverulegar breytingar.   Guðlaugur Friðþórsson

Eigum við ekki að vinna saman

Því er haldið fram, nú á síðustu dögum kosningabaráttunnar að Eyjalistinn sé of hliðhollur meirihlutanum og sé honum sammála í einu og öllu. Sumir ganga meira að segja svo langt að telja bæjarfulltrúum okkar þetta til ámælis, þeir séu í raun einungis leppir fyrir sjálfstæðismenn í bæjarstjórn. Í raun er ekkert óeðlilegt við að þurfa að takast á við slíka umræðu, sérstaklega þegar hún er runnin undan rifjum andstæðinga okkar sem berjast nú við að afla sér fylgis og fara stundum frjálslega með staðreyndir.   Við skulum halda því til haga, eins og ítrekað hefur verið bent á, að mörg mál sem samþykkt hafa verið í bæjarstjórn hafa komið að frumkvæði bæjarfulltrúa Eyjalistans. Þessi mál eru stór hagsmunamál fyrir bæjarbúa. Frístundakortið var lagt fram af bæjarfulltrúum Eyjalistans, dagvistunargjöld leikskólabarna voru lækkuð að frumkvæði bæjarfulltrúa Eyjalistans, uppbygging íbúða fyrir fatlaða í Ísfélagshúsinu og þjónustuíbúðir fyrir aldraða við Hraunbúðir eru allt mál sem Eyjalistinn hefur haft ofarlega á sinni stefnu og við ætlum að halda þeirri hagsmunagæslu áfram.   Maður veltir því fyrir sér hvað átt er við þegar Eyjalistinn er sagður hafa verið í of miklu slagtogi við meirihlutann. Að hlusta á það að 7-0 atkvæðagreiðslur bendi til þess að bæjarfulltrúar okkar séu veikburða í slagnum við meirihlutann er út í hött!   * Áttum við að berjast gegn því að ungmenni undir 16 ára fái ókeypis aðgang að sundlauginni?   * Hefðum við átt að leggjast gegn því að bærinn niðurgreiði skólamáltíðir í grunnskólanum?   * Hefðum við betur unnið gegn því að nemendum væru tryggð námsgögn án endurgjalds?   * Áttu bæjarfulltrúar okkar að standa í vegi fyrir stórkostlegum umbótum í samgöngumálum með samningi um rekstur Herjólfs í stað þess að vinna sameiginlega að hagsmunum bæjarbúa?   * Er það virkilega krafa á bæjarfulltrúa sem starfa í minnihluta að þeir verði ávallt á móti góðum og þörfum málum?   Ég frábið mér slíkan málflutning. Ef þetta er stemningin sem ríkir í herbúðum H-listans þá er ekki von á góðu frá þeirra fólki í bæjarstjórn. Við höfum viljað og við ætlum áfram að vinna að öllum góðum málum er til framfara horfa fyrir bæjarfélagið. Við munum ekki fara í keppni það hver kemur fyrstur með góðar hugmyndir. Sjálfsdýrkun okkar er ekki á því stigi að við getum ekki sameinast um góð mál.   Njáll Ragnarsson  

Er Vestmannaeyjabær vel rekið sveitarfélag?

Okkur er reglulega sagt að Vestmannaeyjabær sé vel rekið sveitarfélag. En hvað þýðir vel rekið sveitarfélag? Er það sveitarfélagið sem á mestu peningana inn á banka, skuldar minnst, á mest eða veitir bestu þjónustuna? Það er sjálfsagt ekkert eitt rétt svar við því frekar en öðru, þetta þarf væntanlega að haldast í hendur og vera í jafnvægi, en getur verið að hægt sé að gera hlutina betur?   Ef skoðað er í Lykiltölur úr rekstri sveitarfélaga árið 2016 sem Samband Íslenskra Sveitarfélag gefur út þá sést að Vestmannaeyjabær setur 30% af sínu skatttekjum í grunnskólann sinn. Til að átta sig á því hvort að það sé mikið eða lítið skoða ég til samanburðar Kópavog 34%, Seltjarnanes 31%, Garðabæ 34%, Grindavík 41%, Akranes 30%, Ísafjörð 39%, Sveitarfélagið Skagafjörð 45%, Fjarðabyggð 44% og Árborg 40%.     Samkvæmt þjónustukönnun Gallup árið 2017 þá skorar Vestmannaeyjabær 4,0 í ánægju á skalanum 0-5 á meðan Garðabær skorar 4,2, Seltjarnanes 4,2 og Akranes 4,0. Vestmannaeyjar eru í 4. sæti af 12 stærstu sveitarfélögum landsins í ánægju með þjónustu leikskóla.   Ef leikskólarnir eru skoðaðir sjást svipaðar tölur, Vestmannaeyjabær setur 14% af skatttekjum sínum í leikskólana á meðan að Kópavogur setur 19%, Seltjarnanes 16%, Garðabæ 19%, Grindavík 17%, Akranes 16%, Ísafjörð 20%, Skagafjörður 17%, Fjarðabyggð 21% og Árborg 19%.   Samkvæmt þjónustukönnun Gallup árið 2017 þá skorar Vestmannaeyjabær 3,9 í ánægju á skalanum 0-5 á meðan Garðabær skora 4,3 og Seltjarnanes 4,2. Vestmannaeyjar eru í 8. sæti af 12 stærstu sveitarfélögum landsins í ánægju með þjónustu leikskóla.   Samtals fá fræðslu- og uppeldismál 44% af skatttekjum Vestmannaeyjabæjar á meðan Garðabær setur 53%, Seltjarnanes 54%, Kópavogur 58%, Fjarðabyggð 54%, Akranes 47%, Grindavík 55%, Ísafjörður 59%, Sveitafélagið Skagafjörður 63% og Árborg 60%.   Það er ákvörðun að veita góða þjónustu. Það er hægt að gera betur.       Guðmundur Ásgeirsson  4.sæti - Fyrir Heimaey  

Klárum seinni hálfleikinn með stæl

Samgöngumálin hafa fengið mestu umræðuna í kosningabaráttunni til þessa. Framboðin þrjú hafa öll fjallað um þessi mál en þó með misjöfnum áherslum.   Þegar ég skoða afstöðu framboðanna til samgangna dettur mér fyrst í hug handbolta- eða fótboltaleikur. Setjum okkur í þá stöðu að í mikilvægum leik sé hálfleikur og liðinu okkar hefur gengið þokkalega í fyrri hálfleik. Þó er staðan þannig að til þess að sigra þarf liðið á öllu sínu að halda til að sigra. Hvað gerir liðið þá?   Setjum nú framboðin þrjú í stöðu liðsins.   · Sjálfstæðisflokkurinn ( D listinn) er að springa af ánægju með gang mála í fyrri hálfleik, ber sér á brjóst og vill láta þar við sitja. Seinni hálfleikurinn reddast.   · Fyrir Heimaey (H listinn) gerir sér grein fyri því að fyrri hálfleik er lokið en hann vill samt halda áfram að spila fyrri hálfleikinn þótt fara eigi að flauta til leiks í seinni hálfleik.   · Eyjalistinn ( E listinn) er tiltölulega sáttur við stöðuna eftir fyrri hálfleik. Nú er honum lokið og nú þarf að einbeita sér að seinni hálfleik og nýta allt það sem í liðinu býr til að sigra leikinn.   Í þessari líkingu er það að fá nýtt skip viðfangsefni fyrri hálfleiks og það að klára Landeyjahöfn viðfangsefni seinni hálfleiks. Meginhagsmunir Vestmannaeyja felast í því að klára hvort tveggja viðfangsefnanna og ekki síst að taka seinni hálfleikinn með stæl!   P.S. Eyjalistinn hefur einnig skýra og framsækna stefnu í flugsamgöngumálum.   Ragnar Óskarsson  

Þar sem verkin tala

Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með þeim breytingum sem hafa orðið í Vestmannaeyjum á undanförnum árum undir styrkri stjórn sjálfstæðismanna.   Sterk málefnastaða Vestmannaeyjabær hefur farið úr því að vera eitt skuldsettasta sveitarfélag landsins í það að vera eitt þeirra minnst skuldsettustu. Það skiptir gríðarlegu máli fyrir möguleika sveitarstjórnar til bæta lífskjör íbúanna í dag og hefur ekki síst áhrif á tækifæri þeirra sem munu stjórna bæjarfélaginu í framtíðinni til að bæta lífskjörin enn frekar.   Eftir stórsigur Sjálfstæðisflokksins í síðustu sveitarstjórnarkosningum höfðu menn á orði að erfitt yrði að toppa þann glæsilega sigur. Engu að síður var ljóst eftir því sem leið á kjörtímabilið að ekkert virtist því til fyrirstöðu að árangurinn yrði einmitt toppaður. Þegar stjórnmálamenn láta verkin tala, gera það sem þeir segjast ætla að gera og meina það sem þeir segja, líkt og bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa sannarlega gert á kjörtímabilinu, þá hljóta kjósendur að vera ánægðir. Sveitarstjórnarmál snúast um málefni og málefnastaða sjálfstæðismanna í Eyjum er sterk.   Öflugur bæjarstjóri Elliði Vignisson er öflugur málsvari Vestmannaeyja. Við frændsystkinin settumst bæði í stól framkvæmdastjóra sveitarfélaga eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2006, hvort sínu megin við sundið. Samskiptin voru mikil, samstarfið gott þó auðvitað værum við ekki alltaf sammála um alla hluti. Málefni Landeyjahafnar voru þar í forgrunni bæði framkvæmdin sjálf en ekki síður tækifærin og möguleikarnir á auknu samstarfi Rangárþings eystra og Vestmannaeyja með tilkomu hafnarinnar. Í gegnum þessi samskipti fékk ég góða innsýn í þau stóru og alvarlegu verkefni sem blöstu við bæjarstjórn Vestmannaeyja varðandi reksturinn, fólksfækkun og baráttuna fyrir bættum samgöngum og heilbrigðisþjónustu. Sá viðsnúningur sem hefur orðið í Eyjum er ekki sjálfgefinn, hann næst aðeins með þrautseigu, áræðni og miklum viljastyrk. Þegar ég tók sæti á Alþingi hélst áfram gott samstarf og ég get leyft mér að segja að Elliði er óþreytandi baráttuhundur fyrir bættu samfélagi í Vestmannaeyjum, svo eftir er tekið á landsvísu.   Í hnotskurn Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa sýnt það með verkum sínum að þeir eru traustsins verðir. Það skiptir máli hverjir stjórna og sjálfstæðismenn geta verið stoltir af þeim mikla árangri sem náðst hefur við stjórnun bæjarfélagsins undanfarin kjörtímabil. Ég vona svo sannarlega að íbúar Vestmannaeyja velji áfram þá sem láta verkin tala og setji X við D á laugardaginn.   Unnur Brá Konráðsdóttir,   1. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi  

Hver er munurinn á framboðunum í samgöngumálum

Nú þegar tæp vika er til kosninga er rétt að skoða hvað E-listinn og D-listinn hafa áorkað í samgöngumálum, annað en að vera sammála í öllu er varðar samgöngur á sjó.   Bæði framboðin virðast hafa gleymt þeim forsendum sem þau tóku undir í minnisblaði með samantekt um stöðu mála í bæjarráði 4.12.2014 vegna tilkomu nýju ferjunnar: ,,Viðmið bæjarfulltrúa hafa verið að ekki sé ásættanlegt að fjöldi þeirra daga sem ferðir í Landeyjahöfn falli alveg niður séu fleiri en 10‘‘. Árangur af þessari 7-0 samþykkt er að nú stefnir í rúma 70 heila daga á ári í frátafir! Enn eru þau sammála og nú í því að viðhalda góðum samgöngum á sjó eins og segir hjá E-listanum og svo ætlar D-listinn að sýna áræði og þor og stíga þungt til jarðar í því að stórauka fjölda ferða á dag í Landeyjahöfn. Nú fyrir utan flugið og eru það nú ekki góð tíðindi fyrir okkur miðað við árangur síðastliðinna 12 ára.   Staðreyndin er sú að sá fjöldi ferða sem nýja ferjan getur farið frá 06:30 til 23:30 eða á 17 tímum eru aðeins 7 ferðir. En aftur að minnisblaðinu úr bæjarráði frá 4.12.2014 um ,,Flutningsgetu‘‘, þar segir: ,,Af þeim sökum er kapp lagt á að tryggja að nýja skipið geti siglt að minnsta kosti 8 ferðir á dag fyrir minni kostnað en Herjólfur siglir 5 ferðir á dag og innan sama tímaramma“. Hver er útkoman?   Herjólfur getur auðveldlega farið 5 ferðir á tæpum 11 tímum en nýja ferjan þarf um 12 ½ tíma til að ná 5 ferðum. Til að ná 8 ferðum þarf nýja ferjan hvorki meira né minna en um 20 tíma.   Er nema von að hvorugt framboðið minnist á aðkomu sína að nýju ferjunni í afrekaskrá síðastliðinna ára. Lítið fer fyrir því að kynna árangur sammálalistanna um endurbætur Landeyjahafnar. Víkjum aftur að minnisblaði bæjarráðs frá 4.12.2014 um ,,Höfnina‘‘: ,,Bæjarfulltrúar hafa ítrekað krafist þess að smíðatími nýs skips verði nýttur til að gera úrbætur á Landeyjahöfn með það að markmiði að þegar hið nýja skip kemur til þjónustu standist það væntingar‘‘. Sést það einhverstaðar?   Við hjá bæjarmálafélaginu Fyrir Heimaey X-H álítum ástandið í samgöngum á sjó óásættanlegt og viljum einnig stórbæta samkeppnishæfni í flugsamgöngum.   Það mun verða eitt af okkar fyrstu verkum í samgöngumálum að reyna að leysa flutningsþörfina á álagstímum sem eru frá kl. 8 til 13 og frá 17 til 22. Það munum við gera með því að leita eftir háhraðaferju sem gæti t.d siglt með nýju ferjunni yfir sumartímann á meðan unnið er að nauðsynlegum úrbótum á Landeyjahöfn. Samhliða þessu munum við leita til þeirra aðila sem eru að framleiða fullkomnustu og afkastamestu ferjurnar í dag til að koma og skoða hér aðstæður og koma með tillögur að ferju sem getur þjónað þörfum okkar Vestmanneyinga.   Einnig skorum við á ráðherra samgöngumála að láta tafarlaust fara fram óháða úttekt á því hvernig hægt sé að bæta aðkomuna að Landeyjahöfn eins og stefnt var að í upphafi.   Kæru Vestmannaeyingar það þarf „kjark til að breyta‘‘ og hann höfum við.   Kjósum með hjartanu – Fyrir Heimaey – Setjum X við H.   Sveinn Rúnar Valgeirsson.   Höfundur skipar 6. sæti á lista Fyrir Heimaey í komandi sveitarstjórnarkosningum.  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

VefTíví >>

Baráttukveðjur frá ÍBV til Heimis og peyjana

Ungir sem aldnir ÍBV-arar söfnuðust saman á Hásteinsvelli á fimmtudaginn sl. og tóku upp skemmtilega kveðju. „Við fengum þá frábæru hugmynd að reyna að fá ÍBV-ara til að mæta í stúkuna og senda kveðju úr okkar fallega umhverfi á Heimi og peyjana hans í Rússlandi,“ sagði Dóra Björk Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags. „Ég veit ekki hvort fólk hér í Eyjum geri sér grein fyrir allri þeirra umfjöllun sem samfélagið okkar og félagið fær út á Heimi og árangur hans, saman ber t.d. umfjöllun CNN í gær.“  „Þeir sem þekkja Heimi vita að Ystiklettur er staðurinn hans hér sem og öll okkar fallega náttúra og ákváðum við að setja saman myndband þar sem að náttúran sem hann sækir sína orku í er aðalatriðið.   ÍBV á Heimi mikið að þakka en hann hefur þjálfað marga af okkur bestu leikmönnum í fótboltanum á einn eða annan hátt. Það eru aðeins 10 ár síðan hann var með 5. flokk ÍBV á N1 mótinu á Akureyri en núna er hann með bestu fótboltamenn Íslands á HM í fótbolta,“ sagði Dóra Björk sem sendir ásamt ÍBV og Eyjamönnum öllum Heimi baráttukveðjur, „Kæru ÍBV-arar Heimir, Íris, Hallgrímur og Kristófer við erum stolt af ykkur og hlökkum til að fá ykkur aftur heim.“   Myndbandskveðjuna sem unnin er í samvinnu við Off to Iceland má sjá í spilaranum hér að ofan.