Gerum betur

Gerum betur

Ari Trausti Guðmundsson þingmaður Suðurkjördæmis og Gunnar Marel Eggertsson skipasmiður verða í heimsókn hér í Eyjum fimmtudaginn 19. og föstudaginn 20. okt. Þeir eru báðir í framboði fyrir Vinstrihreyfinguna- grænt framboð í Suðurkjördæmi, Ari í fyrsta sæti en Gunnar í því sjötta.
Á fimmtudag munu þeir félagar hitta kjósendur og ræða við þá víðs vegar um bæinn en efna síðan til spjallfundar í Arnardrangi um kvöldið kl. 20 þar sem allir eru velkomnir í spjall um landsmálin og málefni þau sem helst hvíla á Vestmannaeyingum um þessar mundir.
Stefnu og frambjóðendum Vinstri grænna hefur verið vel tekið að undanförnu og ljóst er að stefna hreyfingarinnar á góðan hljómgrunn meðal þjóðarinnar þar sem sanngjörn krafa um traust, stöðugleika, heiðarleika, gagnsæi og jöfnuð gerist æ háværari og það ekki að ástæðulausu.
Vinstri græn eru eru reiðubúin til að leiða ríkisstjórn með megináherslu á þau mál sem hér að framan eru nefnd undir slagorðinu „Gerum betur“. Til þess að svo geti orðið er afar mikilvægt að sem víðtækast umboð fáist frá kjósendum um land allt í kosningunum 28. okt., ekki síst í Suðurkjördæmi.
VG í Vestmannaeyjum
 
 

Eigum við ekki að vinna saman

Því er haldið fram, nú á síðustu dögum kosningabaráttunnar að Eyjalistinn sé of hliðhollur meirihlutanum og sé honum sammála í einu og öllu. Sumir ganga meira að segja svo langt að telja bæjarfulltrúum okkar þetta til ámælis, þeir séu í raun einungis leppir fyrir sjálfstæðismenn í bæjarstjórn. Í raun er ekkert óeðlilegt við að þurfa að takast á við slíka umræðu, sérstaklega þegar hún er runnin undan rifjum andstæðinga okkar sem berjast nú við að afla sér fylgis og fara stundum frjálslega með staðreyndir.   Við skulum halda því til haga, eins og ítrekað hefur verið bent á, að mörg mál sem samþykkt hafa verið í bæjarstjórn hafa komið að frumkvæði bæjarfulltrúa Eyjalistans. Þessi mál eru stór hagsmunamál fyrir bæjarbúa. Frístundakortið var lagt fram af bæjarfulltrúum Eyjalistans, dagvistunargjöld leikskólabarna voru lækkuð að frumkvæði bæjarfulltrúa Eyjalistans, uppbygging íbúða fyrir fatlaða í Ísfélagshúsinu og þjónustuíbúðir fyrir aldraða við Hraunbúðir eru allt mál sem Eyjalistinn hefur haft ofarlega á sinni stefnu og við ætlum að halda þeirri hagsmunagæslu áfram.   Maður veltir því fyrir sér hvað átt er við þegar Eyjalistinn er sagður hafa verið í of miklu slagtogi við meirihlutann. Að hlusta á það að 7-0 atkvæðagreiðslur bendi til þess að bæjarfulltrúar okkar séu veikburða í slagnum við meirihlutann er út í hött!   * Áttum við að berjast gegn því að ungmenni undir 16 ára fái ókeypis aðgang að sundlauginni?   * Hefðum við átt að leggjast gegn því að bærinn niðurgreiði skólamáltíðir í grunnskólanum?   * Hefðum við betur unnið gegn því að nemendum væru tryggð námsgögn án endurgjalds?   * Áttu bæjarfulltrúar okkar að standa í vegi fyrir stórkostlegum umbótum í samgöngumálum með samningi um rekstur Herjólfs í stað þess að vinna sameiginlega að hagsmunum bæjarbúa?   * Er það virkilega krafa á bæjarfulltrúa sem starfa í minnihluta að þeir verði ávallt á móti góðum og þörfum málum?   Ég frábið mér slíkan málflutning. Ef þetta er stemningin sem ríkir í herbúðum H-listans þá er ekki von á góðu frá þeirra fólki í bæjarstjórn. Við höfum viljað og við ætlum áfram að vinna að öllum góðum málum er til framfara horfa fyrir bæjarfélagið. Við munum ekki fara í keppni það hver kemur fyrstur með góðar hugmyndir. Sjálfsdýrkun okkar er ekki á því stigi að við getum ekki sameinast um góð mál.   Njáll Ragnarsson  

Er Vestmannaeyjabær vel rekið sveitarfélag?

Okkur er reglulega sagt að Vestmannaeyjabær sé vel rekið sveitarfélag. En hvað þýðir vel rekið sveitarfélag? Er það sveitarfélagið sem á mestu peningana inn á banka, skuldar minnst, á mest eða veitir bestu þjónustuna? Það er sjálfsagt ekkert eitt rétt svar við því frekar en öðru, þetta þarf væntanlega að haldast í hendur og vera í jafnvægi, en getur verið að hægt sé að gera hlutina betur?   Ef skoðað er í Lykiltölur úr rekstri sveitarfélaga árið 2016 sem Samband Íslenskra Sveitarfélag gefur út þá sést að Vestmannaeyjabær setur 30% af sínu skatttekjum í grunnskólann sinn. Til að átta sig á því hvort að það sé mikið eða lítið skoða ég til samanburðar Kópavog 34%, Seltjarnanes 31%, Garðabæ 34%, Grindavík 41%, Akranes 30%, Ísafjörð 39%, Sveitarfélagið Skagafjörð 45%, Fjarðabyggð 44% og Árborg 40%.     Samkvæmt þjónustukönnun Gallup árið 2017 þá skorar Vestmannaeyjabær 4,0 í ánægju á skalanum 0-5 á meðan Garðabær skorar 4,2, Seltjarnanes 4,2 og Akranes 4,0. Vestmannaeyjar eru í 4. sæti af 12 stærstu sveitarfélögum landsins í ánægju með þjónustu leikskóla.   Ef leikskólarnir eru skoðaðir sjást svipaðar tölur, Vestmannaeyjabær setur 14% af skatttekjum sínum í leikskólana á meðan að Kópavogur setur 19%, Seltjarnanes 16%, Garðabæ 19%, Grindavík 17%, Akranes 16%, Ísafjörð 20%, Skagafjörður 17%, Fjarðabyggð 21% og Árborg 19%.   Samkvæmt þjónustukönnun Gallup árið 2017 þá skorar Vestmannaeyjabær 3,9 í ánægju á skalanum 0-5 á meðan Garðabær skora 4,3 og Seltjarnanes 4,2. Vestmannaeyjar eru í 8. sæti af 12 stærstu sveitarfélögum landsins í ánægju með þjónustu leikskóla.   Samtals fá fræðslu- og uppeldismál 44% af skatttekjum Vestmannaeyjabæjar á meðan Garðabær setur 53%, Seltjarnanes 54%, Kópavogur 58%, Fjarðabyggð 54%, Akranes 47%, Grindavík 55%, Ísafjörður 59%, Sveitafélagið Skagafjörður 63% og Árborg 60%.   Það er ákvörðun að veita góða þjónustu. Það er hægt að gera betur.       Guðmundur Ásgeirsson  4.sæti - Fyrir Heimaey  

Klárum seinni hálfleikinn með stæl

Samgöngumálin hafa fengið mestu umræðuna í kosningabaráttunni til þessa. Framboðin þrjú hafa öll fjallað um þessi mál en þó með misjöfnum áherslum.   Þegar ég skoða afstöðu framboðanna til samgangna dettur mér fyrst í hug handbolta- eða fótboltaleikur. Setjum okkur í þá stöðu að í mikilvægum leik sé hálfleikur og liðinu okkar hefur gengið þokkalega í fyrri hálfleik. Þó er staðan þannig að til þess að sigra þarf liðið á öllu sínu að halda til að sigra. Hvað gerir liðið þá?   Setjum nú framboðin þrjú í stöðu liðsins.   · Sjálfstæðisflokkurinn ( D listinn) er að springa af ánægju með gang mála í fyrri hálfleik, ber sér á brjóst og vill láta þar við sitja. Seinni hálfleikurinn reddast.   · Fyrir Heimaey (H listinn) gerir sér grein fyri því að fyrri hálfleik er lokið en hann vill samt halda áfram að spila fyrri hálfleikinn þótt fara eigi að flauta til leiks í seinni hálfleik.   · Eyjalistinn ( E listinn) er tiltölulega sáttur við stöðuna eftir fyrri hálfleik. Nú er honum lokið og nú þarf að einbeita sér að seinni hálfleik og nýta allt það sem í liðinu býr til að sigra leikinn.   Í þessari líkingu er það að fá nýtt skip viðfangsefni fyrri hálfleiks og það að klára Landeyjahöfn viðfangsefni seinni hálfleiks. Meginhagsmunir Vestmannaeyja felast í því að klára hvort tveggja viðfangsefnanna og ekki síst að taka seinni hálfleikinn með stæl!   P.S. Eyjalistinn hefur einnig skýra og framsækna stefnu í flugsamgöngumálum.   Ragnar Óskarsson  

Þar sem verkin tala

Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með þeim breytingum sem hafa orðið í Vestmannaeyjum á undanförnum árum undir styrkri stjórn sjálfstæðismanna.   Sterk málefnastaða Vestmannaeyjabær hefur farið úr því að vera eitt skuldsettasta sveitarfélag landsins í það að vera eitt þeirra minnst skuldsettustu. Það skiptir gríðarlegu máli fyrir möguleika sveitarstjórnar til bæta lífskjör íbúanna í dag og hefur ekki síst áhrif á tækifæri þeirra sem munu stjórna bæjarfélaginu í framtíðinni til að bæta lífskjörin enn frekar.   Eftir stórsigur Sjálfstæðisflokksins í síðustu sveitarstjórnarkosningum höfðu menn á orði að erfitt yrði að toppa þann glæsilega sigur. Engu að síður var ljóst eftir því sem leið á kjörtímabilið að ekkert virtist því til fyrirstöðu að árangurinn yrði einmitt toppaður. Þegar stjórnmálamenn láta verkin tala, gera það sem þeir segjast ætla að gera og meina það sem þeir segja, líkt og bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa sannarlega gert á kjörtímabilinu, þá hljóta kjósendur að vera ánægðir. Sveitarstjórnarmál snúast um málefni og málefnastaða sjálfstæðismanna í Eyjum er sterk.   Öflugur bæjarstjóri Elliði Vignisson er öflugur málsvari Vestmannaeyja. Við frændsystkinin settumst bæði í stól framkvæmdastjóra sveitarfélaga eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2006, hvort sínu megin við sundið. Samskiptin voru mikil, samstarfið gott þó auðvitað værum við ekki alltaf sammála um alla hluti. Málefni Landeyjahafnar voru þar í forgrunni bæði framkvæmdin sjálf en ekki síður tækifærin og möguleikarnir á auknu samstarfi Rangárþings eystra og Vestmannaeyja með tilkomu hafnarinnar. Í gegnum þessi samskipti fékk ég góða innsýn í þau stóru og alvarlegu verkefni sem blöstu við bæjarstjórn Vestmannaeyja varðandi reksturinn, fólksfækkun og baráttuna fyrir bættum samgöngum og heilbrigðisþjónustu. Sá viðsnúningur sem hefur orðið í Eyjum er ekki sjálfgefinn, hann næst aðeins með þrautseigu, áræðni og miklum viljastyrk. Þegar ég tók sæti á Alþingi hélst áfram gott samstarf og ég get leyft mér að segja að Elliði er óþreytandi baráttuhundur fyrir bættu samfélagi í Vestmannaeyjum, svo eftir er tekið á landsvísu.   Í hnotskurn Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa sýnt það með verkum sínum að þeir eru traustsins verðir. Það skiptir máli hverjir stjórna og sjálfstæðismenn geta verið stoltir af þeim mikla árangri sem náðst hefur við stjórnun bæjarfélagsins undanfarin kjörtímabil. Ég vona svo sannarlega að íbúar Vestmannaeyja velji áfram þá sem láta verkin tala og setji X við D á laugardaginn.   Unnur Brá Konráðsdóttir,   1. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi  

Hver er munurinn á framboðunum í samgöngumálum

Nú þegar tæp vika er til kosninga er rétt að skoða hvað E-listinn og D-listinn hafa áorkað í samgöngumálum, annað en að vera sammála í öllu er varðar samgöngur á sjó.   Bæði framboðin virðast hafa gleymt þeim forsendum sem þau tóku undir í minnisblaði með samantekt um stöðu mála í bæjarráði 4.12.2014 vegna tilkomu nýju ferjunnar: ,,Viðmið bæjarfulltrúa hafa verið að ekki sé ásættanlegt að fjöldi þeirra daga sem ferðir í Landeyjahöfn falli alveg niður séu fleiri en 10‘‘. Árangur af þessari 7-0 samþykkt er að nú stefnir í rúma 70 heila daga á ári í frátafir! Enn eru þau sammála og nú í því að viðhalda góðum samgöngum á sjó eins og segir hjá E-listanum og svo ætlar D-listinn að sýna áræði og þor og stíga þungt til jarðar í því að stórauka fjölda ferða á dag í Landeyjahöfn. Nú fyrir utan flugið og eru það nú ekki góð tíðindi fyrir okkur miðað við árangur síðastliðinna 12 ára.   Staðreyndin er sú að sá fjöldi ferða sem nýja ferjan getur farið frá 06:30 til 23:30 eða á 17 tímum eru aðeins 7 ferðir. En aftur að minnisblaðinu úr bæjarráði frá 4.12.2014 um ,,Flutningsgetu‘‘, þar segir: ,,Af þeim sökum er kapp lagt á að tryggja að nýja skipið geti siglt að minnsta kosti 8 ferðir á dag fyrir minni kostnað en Herjólfur siglir 5 ferðir á dag og innan sama tímaramma“. Hver er útkoman?   Herjólfur getur auðveldlega farið 5 ferðir á tæpum 11 tímum en nýja ferjan þarf um 12 ½ tíma til að ná 5 ferðum. Til að ná 8 ferðum þarf nýja ferjan hvorki meira né minna en um 20 tíma.   Er nema von að hvorugt framboðið minnist á aðkomu sína að nýju ferjunni í afrekaskrá síðastliðinna ára. Lítið fer fyrir því að kynna árangur sammálalistanna um endurbætur Landeyjahafnar. Víkjum aftur að minnisblaði bæjarráðs frá 4.12.2014 um ,,Höfnina‘‘: ,,Bæjarfulltrúar hafa ítrekað krafist þess að smíðatími nýs skips verði nýttur til að gera úrbætur á Landeyjahöfn með það að markmiði að þegar hið nýja skip kemur til þjónustu standist það væntingar‘‘. Sést það einhverstaðar?   Við hjá bæjarmálafélaginu Fyrir Heimaey X-H álítum ástandið í samgöngum á sjó óásættanlegt og viljum einnig stórbæta samkeppnishæfni í flugsamgöngum.   Það mun verða eitt af okkar fyrstu verkum í samgöngumálum að reyna að leysa flutningsþörfina á álagstímum sem eru frá kl. 8 til 13 og frá 17 til 22. Það munum við gera með því að leita eftir háhraðaferju sem gæti t.d siglt með nýju ferjunni yfir sumartímann á meðan unnið er að nauðsynlegum úrbótum á Landeyjahöfn. Samhliða þessu munum við leita til þeirra aðila sem eru að framleiða fullkomnustu og afkastamestu ferjurnar í dag til að koma og skoða hér aðstæður og koma með tillögur að ferju sem getur þjónað þörfum okkar Vestmanneyinga.   Einnig skorum við á ráðherra samgöngumála að láta tafarlaust fara fram óháða úttekt á því hvernig hægt sé að bæta aðkomuna að Landeyjahöfn eins og stefnt var að í upphafi.   Kæru Vestmannaeyingar það þarf „kjark til að breyta‘‘ og hann höfum við.   Kjósum með hjartanu – Fyrir Heimaey – Setjum X við H.   Sveinn Rúnar Valgeirsson.   Höfundur skipar 6. sæti á lista Fyrir Heimaey í komandi sveitarstjórnarkosningum.  

Sameinuð stöndum við, sundruð föllum við

Það eiga allir að kjósa, það er lýðræðislegur réttur hvers borgara.   Hér í Vestmannaeyjum getur fólk valið um þrjú framboð sem kynnt hafa stefnuskrár sínar. Ég segi kannski ekki að allar stefnuskrárnar séu eins, en þær bera það hinsvegar allar með sér að vilja gera vel fyrir bæjarfélagið Vestmannaeyjar. Allt fólkið sem er í framboði er fólk að mínu skapi og ég treysti því öllu til að standa vörð um hagsmuni Vestmannaeyja.  - Ég á vini í öllum flokkum og ég á ættmenni í sumum þeirra, fólk sem ég ber mikla virðingu fyrir.   Mér finnst stjórnmál meira eiga heima á landsvísu, - í bæjarmálum er þessu öðruvísi farið, í flestum málum. - Sum þeirra mála sem hvað mest óánægjan er með í Eyjum eru einmitt mál er snúa að ríkisvaldinu; - samgöngumálin og heilbrigðismálin.   En er bæjarfélaginu Vestmannaeyjar vel stjórnað; er hugsað um velferð íbúa; leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla. Aðstoð við fólk sem lent hefur í erfiðleikum; fjárhagslega, félagslega. Er fjármálum vel eða illa stjórnað. Er mikið að gerast í Eyjum, - framkvæmdir, mannlíf. Og svo margt og svo margt.   Í sumum þessara málaflokka hef ég lítið vit og litla þekkingu, en ég fylgist með bæjarmálaumræðunni, hitti fólk og les fréttamiðlana.´   Ég er ánægður með margt í stjórnun Vestmannaeyjabæjar og síður með annað. Ég á barnabörn í grunnskólum bæjarins, sumum þeirra líður vel í skólanum, öðrum ekki, en ég finn að það er mikill metnaður í grunnskólunum að gera vel. Ég las það í Eyjafréttum að nú stæði til að gera stórátak á skólalóðum grunnskólanna, það er vel. En ég er ekki viss um að skóli án aðgreiningar sé rétta stefnan. - Ég á líka barnabörn í leikskólum bæjarins og líkar vel.   Og það er verið að stækka annan leikskólann og þar með vonandi að fjölga leikskólaplássum.   Mér virðist að vel sé haldið á fjármálum bæjarfélagsins, rekstrarhagnaður og sterkur fjárhagur. Það er glæsilegt að eiga nokkra milljarða sem varasjóð, og sem nýtast mun næstu kynslóð.   Ég er mjög hallur undir betri umgengni um Eyjuna. Mér finnst ansi víða drasl og slæm umgengni á okkar fallegu eyju. Mér finnst umhverfi Sorpu hræðilegt, reyni að forðast að horfa í geymslugryfjuna þegar ég heimsæki fjöllin fallegu í Eyjum. Ég vildi óska að við ættum fleiri „Jóa í Laufási“.   Nýlega var ég viðstaddur vígslu á stækkun Hraunbúða, það er reyndar málaflokkur sem ríkisvaldið á að sjá um, en hefur ekki staðið sig. Vestmannaeyjabær hefur því lagt út ansi marga milljónatugi í rekstur og framkvæmdir við Hraunbúðir, - sem ríkisvaldið hefði átt að greiða, – með það að markmiði að þjóna betur þeim sem á þeirri þjónustu þurfa að halda.   Ég er félagi í Félagi eldri borgara. Stuðningur og samskipti félagsins við Vestmannaeyjabæ eru með miklum ágætum og yfir engu að kvarta.   Ég hef heyrt það á fundum ÍBV íþróttafélags, að mörgum þar á bæ finnst bæjarfélagið leggja alltof lítið af mörkum til íþróttamála og þá í samanburði við sum önnur bæjarfélög. Það má vel vera að svo sé, það þekki ég ekki, en ansi margt er vel gert, - allavega er Vestmannaeyjabær íþróttabær og fá ef nokkurt bæjarfélag stendur Eyjunum að sporði nú um stundir. Til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn í handbolta og alla hina titlana; Arnar, Siggi, Kalli og þið öll, sem hafið fært okkur Eyjabúum þvílíka gleði og stolt. – Vestmannaeyjabær þarf að standa vörð um þetta flotta félag.   Ég er nokkuð viss um að framkvæmdir í Vestmannaeyjum þessi misserin eru meiri en nokkurn tímann, nema ef vera skildi árin eftir gos.   Ég er mjög spenntur fyrir nýja hvalasafninu og fiskasafninu í Fiskiðjuhúsinu. Þar hafa menn hugsað stórt og fram á veginn.   Ég á erfitt með að þola endalaust forræði „að sunnan“ og þakka þeim kærlega, sem stóðu fyrir andmælum gegn því að friðlýsingu á búsvæðum sjófugla við Vestmannaeyjar yrði stjórnað úr Reykjavík, - og höfðu sigur. Þar kom til vilji bæjarbúa sem sögðu: Nei takk.   Ég var líka mjög ánægður með að Vestmannaeyingar fái að hafa meira um rekstur Herjólfs að segja. Öll helstu framfaramál Vestmannaeyja í gegnum tíðina hafa orðið þegar Eyjafólk tekur málin í sínar hendur. – Forræði „að sunnan“. Nei takk.   En verkefnið að stjórna bæjafélagi tekur aldrei enda, og þótt margt sé gott og hafi verið vel gert, er margt eftir að gera og margt má gera betur. Enginn getur allt, en allir geta eitthvað. Heilu bæjarfélagi er ekki stjórnað af 7 manna bæjarstjórn, þar kemur til starfsfólk bæjarfélagsins og íbúar þess. „Sameinuð stöndum við, sundruð föllum við“.   Allir eiga sína erfiðu tíma, - ég er þar engin undantekning. Á erfiðum tíma kom sálfræðingurinn og bæjarstjórinn Elliði Vignisson til mín óumbeðinn, og veitti mér stuðning og hjálp, - sem ég mun aldrei gleyma. Þá gerði ég mér grein fyrir að hann er gull af manni.   Fyrir nokkrum dögum spurði hún Hanna mín, hvort ég væri búinn að ákveða hvað ég ætlaði að kjósa. Ég játti því. -  „Ég þarf líklega ekki að spyrja hvað flokk þú ætlar að kjósa?“ spurði hún. -  „Nei, maður á áttræðisaldri snýr úr því sem komið er, ekki svo glatt af þeirri leið, sem hann hefur arkað allt sitt líf - og verið sáttur við“.   Áfram Vestmannaeyjar   Gísli Valtýsson  

Fyrir Heimaey taktu skrefið með okkur

Undanfarna daga hafa borist til okkar stefnuskrár þriggja stjórnmálaafla hér í bæ. Eitt er það afl sem nú býður fram krafta sína er Fyrir Heimaey þar er á ferðinni einstaklingar sem gefa kost á sér til þeirrar samfélagsþjónustu sem framboð er í raun. Í stefnuskránni segir að það þufti kjark til að breyta og það er rétt. Við Vestmannaeyingar höfum haft kjark til að taka málin í okkar hendur og koma fram þeim breytingum sem við teljum að séu til hagsbóta fyrir okkar samfélag. Þarna er ekki verið að skreyta sig með stolnum fjöðrum. Eitt okkar stærsta hagsmunamál er að bæði höfn og skip sem eiga að sinna samgöngum á milli lands og eyja séu í stakk búin til þess. Gleymum ekki flugi hér á milli sem hefur verið sinnt af mikilli elju þeirra flugfélagsmanna hjá Örnum. Þar má leggjast á sveif með þeim að fjölga farþegum sem vilja fljúga hér á milli. Gera þeim farþegum sem vilja hafa hér lengri dvöl það mögulegt. Hér eru góðir gisti mögluleikar og ýmis dægrastytting í boði. Það er búið að lagfæra og gera fargjöldin hér á milli ódýrari fyrir okkur með Herjólfi . En er það nóg ? Nei undanfarið þá hefur ekki verið hægt að sigla á milli eyja og Landeyja nema á flóði þ.e. að sjávarstaða sé þannig að Herjólfur fljóti innan hafnar og komist á haf út aftur. Að þetta sé með þessum hætti í dag er að mínu viti algjölega óásættanlegt. Skip er í smíðum en höfnin látin vera og síðan á bara að grafa þegar hann lignir ! Það verður að koma málefnum Landeyjarhafnar á dagskrá ríksistjórnarinnar og að samgönguráðherra taki af skarið og láti fara fram úttekt á málum hafnarinnar og hverju þurfi að breyta til að Herjólfur og nýja skipið geti siglt þarna inn við sæmilegustu aðstæður. Ég tel að það þurfi miklu stærri aðgerðir en að setja upp einhverja dælur að hvorn garð eins og menn láta sig dreyma um. Atlantshafið lætur ekki að sér hæða það hefur lamið suðurströndina og fært til sand og strönduð fley um aldir og kemur til með að gera að áfram. Búseta hér til framtíðar byggir á góðum og öruggum samgöngum, rekkstur fyrirtækja byggir líka á því að hingað komist efni og afurðir fari til lands. Ungt fólk sem hér ætlar að byggja hér og búa gerir þá kröfu að samgöngur séu tryggar hér á milli og á skynsamlegu verði. Ég vona að frambjóðendur H listans fái góða kosningu og að kjarkur fylgi málum til breytinga. Sjálfstæður maður Ólafur Lárusson kennir hegurð við GRV.   Ólafur Lárusson  

Traust fjárhagsstaða Vestmannaeyja

Í kosningum er kosið um árangur og stefnu. Kjósendur vega og meta það sem gert hefur verið og spyrja sig hvort stefna framboða sé í samræmi við málflutninginn á kjötímabilinu og hvort betur verði gert á næsta kjörtímabili. Eðlileg skiptist fólk á skoðunum um þessar staðreyndir, en verkefni sveitarstjórnamanna breytist ekki að því leiti að alltaf er verið að leita leiða til að gera betur í dag en í gær.   Sterk staða. Þannig er það líka í Vestmannaeyjum að margir eru að gera upp hug sinn fyrir kosningarnar á laugardaginn. Ef litið er til baka og horft á stóru myndina þá hefur samfélagið í Vestmannaeyjum undir stjórn Sjálfstæðisflokksins skipað sér í hóp allra öflugustu sveitarfélaga landsins. Fjárhagsstaða sveitarfélagsins er með því allra besta sem gerist og íbúarnir hafa séð þess stað á mörgum sviðum. Þannig njóta eldri borgarar í Vestmannaeyjum betri kjara en á öðrum stöðum í landinu. Í mörg ár hafa sjálfstæðismenn staðið fyrir því að þeir greiða ekki fasteignargjöld af íbúðarhúsnæði sínu. Það er vel gert að nota sterka fjárhagslega stöðu til að búa öldrum áhyggjulaust ævikvöld.   Íbúðir fyrir fatlaða Þá er komið að því að okkar fólk með öðruvísi getu og hæfileika fái húsnæði við hæfi. Nú liggur fyrir að íbúðir fyrir það fólk verði reistara á Ísfélagsreitnum og er það sérstakt fagnaðarefni að það hillir undir að sá draumur er að verða að veruleika. Það lýsir góðu hjartalagi hvers samfélags hvernig hlúð er að öldruðum, sjúkum og fötluðum. Það er daglegt verkefni allra að ná betri árangri á þeim sviðum og þar skora Eyjamenn hátt.   Spennandi tímar Það er margt spennandi þegar litið er inn í framtíðina. Ég hef talað fyrir því í mörg ár að rekstur Herjólfs verði á höndum heimamanna. Nú er það mál komið í höfn og ég veit að það verður skref framávið að mikilvægasta samgönguæðin verði rekin á forsendum heimamanna og atvinnulífsins í Eyjum. Það er mikilvægt verkefni að treysta ferðaþjónustuna í Eyjum en margt spennandi er þar í farvatninu. Varmadælustöðin sem er í byggingu er einstakt verkefni sem bundnar eru miklar vonir við. Það er mikið að gerast í Eyjum og framtíðin byggir á traustri stöðu og afkomu sveitarfélagsins.   Kosið um traust Vestmannaeyjabær nýtur mikils og góðs trausts sem framtíð unga fólksins i Eyjum mun byggja á. Það verður kosið um stöðugleika, trausta fjármálastjórn og áframhaldandi sterka stöðu sveitarfélagsins í kosningunum á laugardaginn.   Setjið X við D á kjördag.   Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins.  

TVÍBURARNIR FRÁ ZÍAM

Greinin hans Ragga Ég las grein eftir Ragnar Óskarsson áðan, nýt þess reyndar alltaf að lesa greinarnar hans því þær eru vel skrifaðar og oftar en ekki hittir hann naglann á höfðið. Því miður fataðist mínum gamla samflokksmanni flugið í þessari grein þegar hann heldur því fram að Sjálfstæðisflokkur og Fyrir Heimaey sé einn og sami flokkurinn. Hvernig er hægt að halda slíku fram þegar forystumenn E og D lista síðasta kjörtímabils hafa sýnt slíka tilburði að samvöxnu tvíburarnir frá Síam hefðu fylltst öfund ef þeir væru ofanjarðar í dag. Þeir hafa stigið dansinn svo taktfast síðustu fjögur ár að unun er að. Tangó aldarinnar. Jafnvel á ögurstundu þegar ákall kom frá samfélaginu um að fá allar staðreyndir varðandi samninginn um Herjólf upp á borðið var E listinn, rekkjunauturinn góði svínbeygður til undirgefni og allt samþykkt mótþróalaust. Og hver er framtíðarspáin varðandi tvíburana góðu? Samflokksmaður Stebba Jónasar, Georg Eiður Arnarson spáir því að hann skelli sér í bólið hjá Elliða strax að kosningum loknum. Og af hverju ekki þegar Stebbi hefur haft svona fiman bólförunaut?   Hvalrekar Já það hefur margt afrekið verið unnið á kjörtímabilinu og það skyldi ekki lastað. Eins hafa verkefni rekið á fjörur þeirra félaga sem þeir stæra sig ótæpilega af, eins og hingað koma tveggja hvala frá heimalandi tvíburanna frá Zíam, Kína. Í vikunnu er von á kaupsýslumanni frá Reykjavík sem ætlar að opna sundskála í nýjahrauninu þar sem þeir ætla að leigja út sólskinið og selja tæran sjó, allt svona rétt fyrir kosningar svo þeir réttlátu geti gortað af enn einum hvalrekanum.   Örugg fjármálastjórn Tvíburarnir berja hvor öðrum á brjóst og tala um fjárhagsleg afrek sín. Þvílík afrek. Þróunarfélagið var flutt frá Strandvegi í Fiskiðjuna. Líklega hefur þurft að finna lendingarstað fyrir það á leiðinni, en félagarnir keyptu húsnæði á annari hæð Miðstöðvarinnar fyrir tugi milljóna og eyddu 25 milljónum í að hanna húsnæðið fyrir setrið. Já, leiðin frá Strandveginum í Fiskiðjuna er löng og einhversstaðar þurfti Setrið að hvílast á leiðinni. Er einhver búinn að gleyma EY? Eyi ég. 14 milljónir fóru til fyrirtækis í Reykjavík til að kynna Vestmannaeyjar fyrir Vestmannaeyingum. Hefur einhver farið á ey nýlega? Ég er stoltur af Eldheimum sem áttu að kosta 450 milljónir. Kostnaðurinn er núna kominn yfir milljarð og verkinu er ekki enn lokið. Fiskiðjuævintýrið er komið hundruði milljóna fram úr áætlun. Er það þetta sem tvíburarnir frá Zíam eiga við með góðri fjármálastjórn?   Ferjan og höfnin Enn rekur á fjörur tvíburanna frá Zíam. Það kemur ný ferja í haust sem er auðvitað gott og enginn á sér heitari óskir um velfarnað nýs Herjólfs en sá sem þetta skrifar. En Herjólfur þarf höfn til að sigla í. Hún opnaði fyrir 8 árum síðan. Eruð þið búin að gleyma því að tíu dögum frá opnun hafnarinnar strandaði Herjólfur í fyrsta sinn? Síðustu átta ár hefur komið þungt ákall frá samfélaginu okkar um að höfnin verði lagfærð þannig að hún þjóni þeim tilgangi sem henni var ætlað, að vera heilsárshöfn okkar en ekkert, akkurat ekkert gerst nema þá svikin loforð. Hvar hafið þið alið manninn tvíburar frá Zíam í þessu máli? Þið hafið hlustað á guð ykkar hjá Vegagerðinni sem þið hafið ákallað allt síðustu kjörtímabil. Mér líkar vel málflutningur Fyrir Heimaey þegar Landeyjarhöfn er annars vegar, það er auðséð að þeir ætla ekki að gefa ríkisvaldinu neitt eftir vegna hafnarinnar. Það þarf að taka hana út af óháðum sérfræðingum þannig að hægt verði að lagafæra hana til frambúðar. Tvíburarnir hafa haft 4 ár til að guða á gluggann hjá Vegagerðinni, en ekkert hefur gerst. Sandurinn glottir. Það sama gera Belgarnir sem belgja út sjóði sína vegna heimsku okkar.   Raggi minn. Hættu að hnýta í þá hjá Fyrir Heimaey að þeir séu Sjálfstæðismenn. Taktu frekar fram skurðarhnífinn og reyndu að aðskilja tvíburana knáu, annars færðu önnur fjögur ár með Sjálfstæðisflokknum þínum.   Kristján Yngvi Karlsson  

Vísitölutenging leikskólagjalda

Vísitölutenging leikskólagjalda   Þrátt fyrir fögur orð og einlægjan vilja fræðsluráðs um börn og barnafjölskyldur þá hefur ekki tekist að afnema vísitölutengingu leikskólagjalda í Vestmannaeyjum. Fyrir Heimaey er með á stefnuskrá sinni að afnema vísitölutenginu leikskólagjalda. Leikskólagjöld miðað við 8 tíma með fæði í janúar 2017 voru orðin dýrust í Vestmannaeyjum af 14 öðrum sveitarfélögum sem borin eru árlega saman. Eftir greinarskrif var í framhaldi brugðist við háum leikskólagjöldum þó ekki vandræðalaust. Orðrétt var bókað í fræðsluráði 26. september 2017 ,,Fræðsluráð samþykkir því að lækka dagvistunargjöld leikskóla um 12,9% eða úr 3.616 kr./klst. niður í 3.150 kr./klst.‘‘. Þar með varð upplýst að fræðsluráð vissi ekki hver rétt gjaldskrá var því 1. ágúst 2017 var hún 3.898 kr. Undirbúningsvinna þeirra sem sitja í ráðinu var einfaldlega ekki nógu góð.   Í febrúar bókaði ráðið: ,,Til að tryggja að tenging við vísitölu verði ekki til að hækka gjaldskrár umfram það sem almennt gerist hefur ráðið reglulega tekið saman gögn um gjaldskrár annarra sveitarfélaga og leiðrétt sínar gjaldskrár í samræmi við það.‘‘   Áfram fögur orð og rétt að skoða þróun gjalda í Vestmannaeyjum í samanburði við Hafnarfjörð sem hefur verið ofan við miðju er kemur að leikskólagjöldum.     Dæmi hver fyrir sig um reglulega samantekt á gögnum og leiðréttingar. Eitt er víst að það þarf kjark til að breyta og áfram hækkar vísitalan leikskólagjöldin í Vestmannaeyjum. Bæjarmálafélagið Fyrir Heimaey hefur á stefnuskrá sinni að binda endi á vísitölutengingu leikskólagjalda í Vestmannaeyjum.   Kjósum með hjartanu – Fyrir Heimaey – Setjum X við H.     Elís Jónsson Höfundur skipar 3. sæti á lista Fyrir Heimaey 

Er búið að semja um meirihluta?

Á ferðum mínum um bæinn í aðdraganda kosninganna á laugardaginn hefur orðið mikið spjall um ýmis málefni. Eftir að málefnaskrá Eyjalistans var gefin út í síðustu viku hafa bæjarbúar almennt tekið vel í það sem við viljum ná fram á komandi kjörtímabili. Við heitum því að styðja við öll góð mál er til framfara horfa fyrir bæjarfélagið og skiptir þá ekki máli hver kom fyrst fram með hugmyndina því allar góðar hugmyndir þarf að ræða og koma í framkvæmd.   Strax í upphafi kosningabaráttunnar lögðum við áherslu á samráð og samtal við íbúa í bænum. Við settum fram þá kröfu að fulltrúar bæjarins komi fram af virðingu og kurteisi hver gagnvart öðrum svo og öllum bæjarbúum. Það hlýtur að vera helsta krafan sem bæjarbúar gera til kjörinna fulltrúa, til þeirra sem starfa í þágu bæjarbúa. Við urðum vör við í þessari umræðu að margir hér í bæ upplifa að stjórn bæjarins sé ekki í þágu allra bæjarbúa heldur einungis hluta þeirra. Og það er þróun sem þarf að snúa við. Eins ótrúlega og það kann að hljóma var krafan um gegnsærra stjórnkerfi og aukna áherslu á virka þátttöku íbúa í stjórnun bæjarfélagsins ekki fundin upp fyrir þessar kosningar af einu framboði frekar en öðru. Þessi hugsun í raun jafngömul lýðræðinu sjálfu.   Önnur spurning sem oft hefur komið fram í spjalli mínu á kaffistofum bæjarins er með hvorum arminum úr sjálfstæðisflokknum okkur hugnist betur að fara með í meirihlutasamstarfi. Í fulli hreinskilni og kinnroðalaust get ég fullyrt hér að við erum ekki farin svo mikið sem að íhuga nokkuð meirihlutasamstarf. Hvorki með D- né H- lista. Hins vegar óttast ég, og ég hef áður lýst áhyggjum mínum af því áður, að hið nýja bæjarmálafélag verði fljótlega eftir kosningar sameinað sjálfstæðisflokknum aftur. Ég leyfi mér að vitna í orð Ásmundar Friðrikssonar sem birtust á eyjafréttum.is þann 16. maí sl. máli mínu til stuðnings. Þar segir þingmaðurinn:   „Því miður göngum við ekki samhent til þessara kosninga eins og ég hafði vonað, en verkefnið verður að leiða ágreininginn í jörð og ná sátt í flokknum okkar. […] Og þó að um stund sé slagsíða á bátnum þá er takmarkið að ná þeim aftur um borð sem hafa ákveðið að fá sér annað skipsrúm og nýtt föruneyti. Erfiðleikar eru til að sigrast á þeim en að lokum mun mótlætið styrkja okkur og við sameinast á ný undir merkjum Sjálfstæðisflokksins“.   Svo mörg voru þau orð.   Njáll Ragnarsson  

Ráðningamálin hjá Vestmannaeyjabæ eru ekki háð geðþótta

Í rúm tíu ár hef ég gengt stöðu framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs og komið að ráðningu nokkuð margra starfsmanna þ.m.t. stjórnenda. Það er vont að lesa það að vinna manns við ráðningar hjá sveitarfélaginu sé hulin ráðgáta, ekki fagleg og jafnvel talin háð geðþóttarákvörðunum. Svo er bara alls ekki.   Vegna þessa tel ég mig knúinn til að skrifa hér og um leið að gera tilraun til að útskýra hvernig staðið er að ráðningum hjá Vestmannaeyjabæ.   Það er skylda hvers stjórnenda, sem hefur með ráðningarmál að gera, að velja til starfa hæfasta umsækjandann sem sækir um starf hjá Vestmannaeyjabæ. Valið fer ekki eftir geðþóttarákvörðunum heldur eftir mjög skýrum og stífum reglum. Í rauninni eru meiri kröfur gerðar til ráðningar hjá opinberum aðilum en á almenna markaði. Fara þarf eftir Stjórnsýslulögum, óskráðum meginreglum sjórnsýluréttarins, Lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, Lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, Upplýsingalögum og kjarasamningum.   Ég og forstöðumenn stofnana vorum ráðin m.a. til að sinna ráðningarmálum. Bæjarstjóri kemur eingöngu að ráðningu á framkvæmdastjórunum sviða. Pólitískir fulltrúar koma hvergi nálægt þessum málum. Gagnrýni á ráðningar eru því ekki gangnrýni á neina aðra en okkur emættismenn Vestmannaeyjabæjar.   Eftir áratuga reynslu tel ég mig hafa bæði ágætis þekkingu og reynslu af þessum málum og get í raun kallað mig fagmann á þessu sviði.   Öll störf hjá Vestmannaeyjabæ eru auglýst en þó eru heimilaðar undantekningar varðandi afleysingastörf. Almenna reglan er að auglýsa öll störf. Þegar starf er auglýst liggur nokkuð skýrt fyrir um hæfniskröfur til starfsins. T.d. í tilfelli skólastjórnenda og í raun fleiri starfsmanna þá liggur slíkt tilgreint í lögum og/eða kjarasamningum.   Val á hæfasta umsækjandandanum er einungis einn þáttur af mörgu við ráðningu. Sjónarmiðin við val á umsækjanda þurfa að vera málefnaleg. Sjónarmið um menntun og reynslu sem gera má ráð fyrir að nýtast í starfi eru augsýnilega málefnaleg en það eru einnig fleiri atriði. Ákvörðun um val á umsækjanda þarf að vera hægt að rökstyðja og standast allar kröfur áður nefndra laga og reglna.   Oftast liggja val á hæfasta umsækjanda skýrt fyrir t.d. vegna menntunar hans, reynslu og þekkingar eða að viðkomandi er eini umsækjandinn um starfið og uppfyllir hæfni til þess.   Í sumum tilfellum getur hæfni umsækjenda verið nokkuð jöfn og mat á hæfni þeirra erfiðara. Þá koma ráðningarskrifstofur til aðstoðar þar sem þær kafa dýpra í umsækjendurna. En ráðningarskrifstofur leysa ekki allt. Þær taka aldrei lokaákvörðunina af stjórnanda stofnunar eða sveitarfélags um val á hæfasta umsækjandum. Sú ábyrgð verður allaf í höndum stjórnandans.   Starfsmanna- og ráðningarmál er viðkvæmur málaflokkur og alls ekki hafinn yfir gagnrýni eða endurskoðun á verkferlum. Þetta eru þau mál sem fá meiri athygli en margt annað. Verum málefnaleg í umræðu um ráðningar- og starfsmannamál og sáum ekki fræi óþarfa tortryggni. Á bak við hvert starf hjá Vestmannaeyjabæ er hæfur starfsmaður sem valin hefur verið sérstaklega til starfa sem hann er að sinna af sinni bestu getu og dugnaði.   Jón Pétursson    

Þegar mennirnir í brúnni eru að standa sig

Þegar ég flutti aftur heim til Eyja eftir áralanga fjarveru með konu og tvo drengi 1 árs og 3ja ára var gott að koma heim. Hér hefur okkur liðið vel og það hjálpaði sannarlega að geta strax komið drengjunum í dagvistun og á leikskóla. Við fundum fljótt hversu vel er gert hér við barnafólk auk þess sem umhverfið hér allt, með stuttum vegalengdum og fallegri náttúru, gerir það eftirsóknarvert að ala hér upp börn.   Kannski er það sem við höfum verið mest ósátt við eru heilbrigðismálin, en Vestmannaeyjar hafa lent undir niðurskurðarhníf ríkisins eins og fleiri sveitarfélög hafa lent í þegar kemur að heilbrigðismálunum. VIð höfum þurft að nota sjúkraflug hér einu sinni með yngri strákinn okkar þar sem nærþjónustan hefur ekki verið til staðar. Þó er vert að hrósa bæjaryfirvöldum sem hafa haldið málinu á lofti og krafist úrbóta.   Kosningarnar í ár virðast að miklu leyti snúast um persónu bæjarstjórans Elliða Vignissonar sem hefur náð eftirtektarverðum árangri ásamt sínu liði í rekstri bæjarins. Þannig hefur rekstrinum á síðustu 12 árum algerlega verið snúið við, frá því að vera eitt verst stadda bæjarfélag landsins upp í að vera eitt best stadda bæjarfélagið. Má það ljóst vera að önnur sveitarfélög öfunda okkur að þeim mikla árangri sem hér hefur náðst. Samhliða þessum góða rekstri er öll þjónusta sveitarfélagsins til mikillar fyrirmyndar. Hér er gott að búa og hér líður fólki vel. Væri það ekki furðulegt og hreint galin niðurstaða að ætla að henda út því fólki sem hefur staðið í brúnni og náð þessum árangri, viljum við það virkilega?   Því miður virðist undiraldan í þeirri meintu óánægju sem kallað hefur fram annað framboð vera drifin áfram af hvötum sem snúa ekki endilega að óánægju með gang mála í bæjarfélaginu. Ættu kosningarnar ekki einmitt að snúast um málefnin og hæfni þeirra sem í framboði eru til að fylgja þeim eftir. Spurningin er sú hvort skipstjórinn í brúnni sé að standa sig. Erum við með gott og vel rekið bæjarfélag? Tekur hann á erfiðum málum af festu, er hann fylginn sjálfum sér og skilar hann okkur góðu búi, eru spurningar sem við getum haft í huga við val á framboðum.   Nú er ég búinn að lesa stefnuskrá þeirra framboða sem bjóða sig fram fyrir næsta kjörtímabil og eru þær allar nokkuð Það sama , hljóta samt að vakna upp spurningar um það hvers vegna við ættum að fá einhverja aðra til að sinna því sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að gera mjög vel og náð þessum mikla árangri.   Ég var á sjó í nokkur ár hér í Eyjum og var með þeim nokkrum skipstjórunum. Upp í hugann koma Biggi á Vestmannaey, Sævar Sveins, Steindór á Valdimari Sveins og þá sérstaklega einnig hann pabbi minn Eyjólfur á Vestmannaey. Um þessa menn eins og aðra skipstjóra voru skiptar skoðanir og margt um þá sagt í lúkarspjallinu. Engum hefði hins vegar dottið til hugar að skipta út skipstjóra sem skilaði útgerð og áhöfn öruggum rekstri og afkomu, hvað þá að skipstjórinn yrði verri við það að hafa verið lengi í brúnni, þvert á móti var litið á mikla reynslu þessara manna sem einn þeirra stærsta kost.   Miðað við útkomu í skoðanakönnun Fréttablaðsins fyrir nokkru síðan er ljóst að meirihluti Sjálfstæðismanna verður liðin tíð og það fólk sem mun fara með stjórn bæjarins mun hefja tímabilið án mikillar reynslu auk þess sem Elliði Vignisson og Rut Haraldsdóttir og fleira reynslu mikið fólk myndu hverfa frá sínum störfum. Væri slíkt virkilega sorgleg niðurstaða að mínu mati.   Ég hvet kjósendur til að láta ekki sögur ráða för í kosningunum. Horfum á staðreyndirnar og kjósum fólk sem hefur náð áragangri og hefur metnað til að halda áfram að gera góðan bæ betri.     Gísli Ingi Gunnarsson

Hulin ráðgáta

Ráðningamál hjá Vestmannaeyjabæ hafa verð mér hulin ráðgáta í gegnum tíðina.   Í starfsmannastefnu Vestmannaeyjabæjar er eitt af markmiðum “að ráða hæft, áhugasamt og traust starfsfólk og efla það í starfi.” Ég efast ekki um ágæti starfsmanna Vestmannaeyjabæjar heldur hvernig er staðið að ráðningu þeirra starfsmanna sem hafa mikla ábyrgð í stjórnunarstörfum.   Samkvæmt heimasíðu Vestmannaeyjabæjar er m.a. auglýst eftir skólastjóra, leikskólastjóra og deildarstjóra. Hvers vegna fara þessar ráðningar ekki í gegnum fagaðila s.s. ráðningaskrifstofu? Og hvers vegna eru ekki sömu menntunarkröfur í sömu störf frá ári til árs? Við ráðningu skólastjóra árið 2013 og við ráðningu hjúkrunarforstjóra Hraunbúða síðasta vor var notast við ráðingaskrifstofu sem var til mikillar fyrirmyndar. En hvað hefur breyst? Hvað veldur þessum ólíku vinnubrögðum?   Á bæjarstjórnarfundi 15. maí sl. var samþykkt að stofna opinbert hlutafélag, Herjólfur ohf., ásamt því að samþykkt var tilnefnd stjórn. Ég velti fyrir mér hvernig ráðningar á framkvæmdastjóra nýs félags muni vera háttað miðað við þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð í öðrum ábygðarstörfum hjá Vestmannaeyjabæ. Mikilvægt er að við ráðningu framkvæmdastjóra Herjólfs ohf. verði notast við ráðningaskrifstofu í ljósi þess hversu ábyrgðafullt starfið mun vera miðað við þá mörgu óvissuþætti sem til staðar eru.   Til þess að markmið um ráðningamál í starfsmannastefnu Vestmannaeyjabæjar náist þarf að tryggja að unnið sé faglega. Samræma þarf vinnubrögð við ráðningu starfsmanna og hætta að vera með geðþóttaákvarðanir um öll störf. Verum fagleg og látum fagaðila sjá um ráðningaferli í stjórnunarstöður hjá Vestmannaeyjabæ. Gefum okkur þann tíma sem til þarf.   Virkjum lýðræðið fyrir alla.   Jóna Sigríður Guðmundsdóttir   Höfundur skipar 2. sæti á lista Fyrir Heimaey í komandi sveitastjórnarkosningum.  

Er ástæða til að breyta?

Hér í gamla daga var skrifari eilítið viðloðandi Sjálfstæðisflokkinn. Var í fulltrúaráðinu og ritstjóri Fylkis um nokkurt skeið og svo í ritstjórn Fylkis enn lengur. Skrifari man enn að þá voru ráðandi ákveðnar línur um útlit og framkomu þeirra sem voru í svonefndum ábyrgðarstöðum innan flokksins. Til að mynda máttu karlmenn helst ekki vera með skegg, það var talið rýra álit flokksins þar sem vinstri menn skörtuðu í þann tíð oft skeggi. Svo tók skrifari upp á því, einhvern tíma fyrir gos að láta sér vaxa skegg og þar með var hans frami úti innan flokksins. Um allnokkurn tíma lágu leiðir skrifara og flokksins ekki saman (hvort sem það var nú út af skegginu eða öðru) og um allnokkurn tíma kaus skrifari eitthvað annað en bláa litinn. Svo er sagt að menn verði íhaldssamir með aldrinum og líklega á það við um skrifara eins og aðra. Alla vega kaus hann frænda sinn (þennan af Oddsstaðaættinni) og hans lið í síðustu kosningum og skammast sín ekkert fyrir það. Honum þótti þau hafa staðið vel fyrir sínu fyrir hans hönd og annarra, ekki hvað síst fyrir að fella niður fasteignagjöld gamals fólks (og þar með að útbúa grundvöll fyrir golfferðir á framandi slóðir fyrir forfallna golfleikara). En skrifari man líka að á sínum fyrri árum í flokknum, var hann ekki alltaf á eitt sáttur með þær ákvarðanir sem þar voru teknar. Þar fannst honum á stundum heldur gamaldags viðnorf ráða ríkjum. Aldrei varð þó af því að hann léti þau viðhorf leiða til þess að kljúfa sig út úr flokknum og boða til nýs framboðs. Það gerðu vinstri menn reyndar í óspörum mæli á sínum tíma á landsvísu með heldur misjöfnum árangri. Nú hefur það reyndar gerst að óánægðir bláir menn í Vestmannaeyjum hafa ákveðið að efna til nýs framboðs. Ekki sáttir við það sem flokkurinn hefur verið að gera. Skrifari hefur ekkert við það að athuga. Sé fólk óánægt, þá lætur það auðvitað slíkt í ljós. Hins vegar vekur það skrifara nokkra furðu að honum virðist ekki vera um málefnalegan ágreining að ræða heldur persónulegan ágreining. Og reynslan af slíkum framboðum hefur ekki verið árangursrík á Íslandi fram til þessa. Þau hafa stundum náð nokkrum frama í upphafi en síðan hefur fjarað undan eins og áður er sagt. Bæjarfélaginu í Vestmannaeyjum hefur verið vel stýrt á undanförnum árum. Um það eru flestir sammála (meira að segja minnihluti E-listans). Er einhver ástæða til að fara að breyta því?     Sigurgeir Jónsson

Pizzubakstur í stað netaafskurðar

Þegar ég var peyi hafði ég stundum aukapening út úr því að hjálpa mömmu að skera af netum. Bílskúrinn upp á Illó var oft yfirfullur af þessum litríku nælon flækjum og vinnudagurinn stundum langur. Það var þó bætt upp með nægu framboði af kremkexi og appelsíni.   Fjölskylduútgerðir Við skárum af netum fyrir hina og þessa útgerðamenn. Þeir áttu það allir sameiginlegt að vera frumkvöðlar. Byrjuðu snemma á sjó. Fóru svo í stýrimannaskólann. Tóku sennilega lán og keyptu svo bát. Þannig urðu til þessi fjölskyldufyrirtæki sem við unnum svo hjá við netaafskurð.   Frumkvöðlar Þessi tími er farinn og hann kemur ekki aftur. Frumkvöðlakraftur Eyjamanna er hins vegar sá sami. Auðvitað sjáum við hann víða enn í sjávarútvegi en fjölskylduútgerðir dagsins í dag eru oftar en ekki ferðaþjónustufyrirtæki.   Tækifæri Nú kaupa frumkvöðlarnir gamalt hús og breyta því gistiheimili. Þeir breyta stálsmiðju í veitingahús og sjoppu í pizzugerð. Kaupa reiðhjól og leigja út. Verða sér út um rútukálf og bjóða upp skoðunarferðir. Listinn yfir tækifærin er endalaus.   Jarðvegurinn Vestmannaeyjabær getur víða lagt þessum frumkvöðlum lið. Mestu skiptir samt að sjá til þess að innviðirnir styðji við vöxtinn. Samgöngurnar skipta þar að sjálfsögðu mestu en fleira þarf til. Vestmannaeyjabær hefur lagt sérstaklega ríka áherslu á að skapa hér sterka segla til að draga að ferðamenn og fá þá til að stoppa lengur en annars væri. Tilkoma Eldheima er gott dæmi um velheppnaða aðkomu Vestmannaeyjabæjar.   Fiskasafn Á sama hátt mun starfsemi alþjóðlega stórfyrirtækisins Merlin hafa hér víðtæk áhrif. Ekki einungis munu þeir verða hér með athvarf fyrir hvali í Klettsvíkinni, sem er einstakt í heiminum, heldur munu þeir einnig verða hér með fiska- og náttúrugripasafn á jarðhæð Fiskiðjunnar þar sem til sýnis verða lifandi fiskar. Auk þess verður sérstök áhersla lögð á að sýna lunda, og pysjur sem ekki geta lifað í villtri náttúru þannig gefið líf.   Baðlón Það er einnig ánægjulegt að segja frá því að Vestmannaeyjabær hefur þegar hafið samtal við sterka fjárfesta um aðkomu að baðlóni í nýja hrauninu. Meira um það síðar.   Hin stoðin Þótt sjávarútvegurinn sé okkar lang mikilvægasta atvinnugrein er ferðaþjónustan hér vaxandi og þegar orðin hin stoðin í hagkerfi okkar. Þótt liðin sé sú tíð að börn skeri af netum með foreldrum sínum þá hafa þau, eins og þeir sem eldri eru, þess í stað aðra –og ekkert síðri- aðkomu að atvinnulífinu. Í stað netaafskurðar baka þau pizzur, þjóna til borðs, afgreiða á hótelum og margt fl.   Ég er til Með samstilltu átaki og bættum samgöngum getum við stigið stór skref til frekari eflingar ferðaþjónustunnar. Þar þarf hinsvegar þrek, þor og jákvætt viðhorf. Fái ég til þess umboð er ég áfram til í að leggja mitt af mörkum.​     Elliði Vignisson bæjarstjóri  

Einræði, hroki, yfirgangur?

Upplifun mín af samstarfi við Elliða Vignisson í bæjarstjórn er allt önnur en þessi sem fyrirsögnin segir. Þegar ég bauð mig fram til bæjarstjórnar árið 2006 þekkti ég Elliða ekkert. Í dag erum við góðir vinir. Frá upphafi var ég staðráðin í að hagsmunir samfélagsins réðu ávallt við ákvarðanatöku. Ég var varkár og gaf mér tíma til að kynnast Elliða og hans vinnubrögðum sem bæjarstjóra. Á níu árum í bæjarstjórn kynntist ég öllum hans hliðum og oft tókumst við á. Oft kom það fyrir að Elliði var í minnihluta í meirihlutanum. Það bar hins vegar ekki á því þegar komið var á bæjarstjórnarfund. Þar gekk hann jafnvel harðast fram í rökstuðningi ákvarðana sem hann sjálfur hafði verið á móti í upphafi. Hann virti niðurstöðu meirihlutans.   Vinnusemi   Allt hefst með vinnuframlagi og þekki ég engan vinnusamari en Elliða. Hann skilar löngum vinnudögum og er alltaf til viðtals. Íbúar, samstarfsfólk, ráðamenn og fjölmiðlar eiga greiðan aðgang að honum. Þá er alveg sama á hvaða tíma sólarhrings það er, hvort það er hátíð eða sumarfrí. Alltaf er hann tilbúinn að taka slaginn fyrir samfélagið og ég hef aldrei séð hann gera mannamun. Þegar umræðan er ósanngjörn varðandi Eyjarnar, fyrirtæki, félagasamtök eða hvað sem er, þá er hann mættur til að leiðrétta umræðuna, tala kjark í samfélagið og gefa rétta mynd. Hans einkunnarorð hafa verið allt fyrir Vestmannaeyjar og það skal engan undra að stundum hafi fólki fundist hann vera full djarfur í framgöngu sinni. Að hafa mann eins og Elliða í okkar liði er ómetanlegt.   Heilindi   Af öllum kostum kann ég mest að meta heilindi. Ákvarðanir hafa verið teknar með hagsmuni íbúa að leiðarljósi og geðþóttaákvarðanir ekki liðnar. Þrátt fyrir mikinn þrýsting á stjórnendur oft á tíðum, þá skiptir það engu máli hver á í hlut þegar kemur að úthlutun lóða, íbúða, þjónustukaupum, leikskólaplássum eða starfsumsóknum. Lög og reglur gilda jafnt um alla.   Samskipti   Samskiptafærni er mikilvægur kostur bæjarstjóra. Margoft hefur Elliði leitt erfið deilumál til lykta sem í upphafi gátu virst óleysanleg. Hann er óþreytandi að ganga á milli manna því hann veit að sameinuð erum við sterkari. Þessi mál varða allt frá skipulagsmálum við höfnina okkar til komu hljómsveita á þjóðhátíð.Við eigum okkur aðra óvini Vestmannaeyingar en hvort annað. Þeir sem fylgdust með síðasta bæjarstjórnarfundi þessa kjörtímabils sáu glöggt hve fulltrúar voru þakklátir fyrir sátt og gott samstarf á kjörtímabilinu. Um slíkan einhug var ekki að ræða árið 2006. Elliði lagði frá upphafi áherslu á gott samstarf. Hann hefur jafnframt lagt sig fram um að berjast fyrir hagsmunum okkar við ríkisvaldið og ég fullyrði að það gerir enginn betur. Líkt og hjá öðrum sveitarfélögum fer mikill tími bæjarstjóra í málaflokka ríkisins. Oft gríðarleg varnarbarátta en líka sigrar eins og fjölgun rýma á Hraunbúðum, háskólanám í Eyjum og nýr samningur um rekstur Herjólfs. Svona árangur dettur ekki af himnum ofan.   Kjarkur   Það þarf framsýni, sjálfstraust og kjark til að gera breytingar og taka umdeildar ákvarðanir. Því ætti ekki að rugla við hroka. Það er eðlilegt að ákvarðanir eins og sameining grunnskóla, einkarekstur leikskóla, stofnun 5 ára deildar, einföldun á stjórnkerfi bæjarins og sala hlutabréfa í Hitaveitu Suðurnesja séu umdeildar. Stuðningur bæjarstjórnar við ákvörðun ríkis um byggingu Landeyjahafnar   og nýlegur samningur um rekstur Herjólfs eru einnig dæmi um mikilvæg verkefni sem þurfti kjark til að leiða.   Ástæða þess að ég skrifa þessa grein er að mér finnst umræðan ósanngjörn og mér finnst hún ekki sönn. Ég fullyrði að við Eyjamenn gætum ekki átt betri málsvara en Elliða. Hann er ekki gallalaus og eflaust vilja ekki allir vera með honum í tjaldi, en þannig er lífið. Mig langar til að biðja ykkur um að íhuga vandlega hvort þið eruð tilbúin til að missa einn mesta baráttumann Eyjanna frá stjórnun bæjarins og missa þá framtíðarsýn sem við okkur blasir með hann við stjórnvölinn.   Páley Borgþórsdóttir, fyrrverandi bæjarfulltrúi.  

Horfum til framtíðar með hagsmuni íbúa á Heimaey að leiðarljósi

Ekki ætlaði ég mér að stinga niður penna fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar, og því síður geri ég það nú í pólitískum tilgangi, en ég get vart orða bundist lengur vegna umræðunnar um yfirtöku Vestmannaeyjabæjar á rekstri Herjólfs. Mér finnst reyndar mjög leitt að umræðan skuli vera á þann hátt sem að hún er, því að sannarlega hélt ég að Eyjamenn gætu sameinast um þetta mikla hagsmunamál.   Eyjamenn hafa í gegnum tíðina vera framsýnir baráttumenn og komið ýmsu í gegn með samstöðu og einhug og ég held að sá áfangi sem náðist með samningi Vestmannaeyjabæjar við ríkið um rekstur Herjólfs hafi náðst vegna breiðrar samstöðu og samhugs í bæjarstjórn og reyndar samstöðu hjá íbúum á Heimaey, lengst af. Þegar samningur nálgaðist og ég tali nú ekki um þegar að hann var í höfn var síðan eins og einhverskonar innflúensa gripi um sig hjá hópi fólks og farið var að finna þessu allt til foráttu og farið var að halda því fram að ná hefði mátt amk. jafn góðum árangri, ef ekki betri, með því að semja við einhverja aðra en heimamenn um verkið.   Gróa gamla í stuði! Sumir þeirra sem að talað hafa harðast á móti því, undanfarið ár, að heimamenn fái forræðið yfir siglingum milli lands og Eyja virðast hafa leitað leiðsinnis Gróu gömlu á Leiti í baráttu sinni, en sú kerling virðist enn lifa góði lífi og er ótrúlega lífsseig. Hún hefur farið af stað með margar sögur um rekstur Herjólfs hf. á sínum tíma, sem flestar eru í hennar stíl. Það er rétt að minna á að Herjólfur hf. var ekki bæjarútgerð og ekki rekið af Vestmannaeyjabæ heldur hlutafélag í eigu Ríkisins, Vestmannaeyjabæjar og almennra hluthafa. Það er einnig rétt að minna á að þegar að Herjólfur hf. var stofnaður á sínum tíma var það að frumkvæði heimamanna í Eyjum til þess að byggja nýja ferju til siglinga milli lands og Eyja. Það var að frumkvæði stjórnar Herjólfs hf og heimamanna að sú ferja var endurnýjuð og núverandi Herjólfur byggður. Frumkvæði að öllum bótum á þessu sviði hefur því komið frá heimamönnum og svo á einnig við um þann samning sem nú um ræðir.   Fyrir þá sem kannski muna ekki söguna, en gleypa við sögum Gróu gömlu, er rétt að minna á að Herjólfur hf. var í ágætum rekstri, auðvitað með framlagi frá ríkinu, eins og enn er í dag með rekstur á ferjuleiðinni, þó svo að hann sé í höndum almenns hlutafélags. Herjólfur hf. var ekki á leið í þrot né fór í þrot á sínum tíma heldur tók ríkið einhliða ákvörðun um að bjóða út rekstur á þjóðveginum til Eyja við litla hrifningu heimamanna, ef að ég man rétt, og bar fyrir sig evrópskum reglum í því sambandi. Núvirt framlag ríkisins til rekstrar Herjólfs á þeim tíma, miðað við framlagið í dag, að teknu tilliti til fjölgunar ferða og ferjuvísitölu var mun lægra en það er í dag svo að vart er hægt að telja að ríkið hafi hagnast mikið á þeim gjörningi. Sögur Gróu gömlu trufla mig reyndar ekki mikið og eru ekki aðal málið eða hvati þess að ég set þetta á blað en úr því að ég fór að stinga niður penna þá finnst mér rétt að reyna að draga athygli Gróu að þessum sannleikskornum, þó svo að hún hafi víst aldrei verið sérlega spennt fyrir slíkum kornum.   Horfum til framtíðar og breytum því sem að við getum breytt Eftir að hafa fylgst með umræðu um þetta mál undanfarið þá finnst mér vegið að okkur sem tókum það að okkur, f.h. Vestmannaeyjabæjar, að reyna að gera samning við ríkið um að Vestmannaeyjabær tæki að sér rekstur á þjóðveginum milli lands og Eyja. Eins og flestir vita sem fylgst hafa með umræðu um samgöngur milli lands og Eyja á undanförunum árum og jafnvel áratugum þá hef ég haft mig nokkuð í frammi í þeirri umræðu og hef haft ákveðnar skoðanir. Á það t.d. við um málefni Landeyjahafnar, smíði nýrrar ferju ofl. Þær skoðanir hafa ekki alltaf farið saman með skoðunum meirihluta bæjarstjórnar en í þessu máli hafa mínar skoðanir verið samhljóma allri bæjarstjórn og reyndar flestum íbúum á Heimaey, þar til allt í einu varð til einhver andspyrna á Heimaey gagnvart þessu góða máli, þegar að það var í höfn.   Við verðum að vinna út frá stöðunni eins og hún er og við breytum ekki fortíðinni en getum horft til framtíðar með það að markmiði að gera betur. Landeyjahöfn er komin, því verður ekki breytt, og hún er gríðarleg samgöngubót þegar að hún virkar, en því miður hefur hún ekki nýst eins og vonir og áætlanir stóðu til. Því þurfum við öll að leggjast á árar til þess að þrýsta á að gerðar verði endurbætur á henni þannig að hún virki betur. Nýsmíði ferju er á lokaspretti og við breytum ekki hönnun hennar eða smíði héðan af og verðum að vona að hún standi undir þeim væntingum sem gerðar eru til hennar. Ef svo verður ekki er það mál sem að taka verður á þegar að því kemur.   Samningur bæjarstjórnar um rekstur nýju ferjunnar til tvegga ára er frágengin og við eigum að sameinast um að nýta þann samning til að ná fram þeim breytingum og þjónustuaukningu sem að Eyjamenn hafa beðið eftir of lengi í stað þess að eyða orkunni neikvæða umræðu um samninginn og strá fræjum efasemda um hann.   Með hagsmuni íbúa á Heimaey að leiðarljósi Ég varð við beiðni bæjarstjórnar Vestmannaeyja sl. haust um að taka sæti í hópi sem hafði það verkefni að reyna að ná samningum við ríkisvaldið um að Vestmannaeyingar tækju við rekstri Herjólfs. Ég tók það að mér sem áhugamaður um bættar samgöngur milli lands og Eyja og sem íbúi í Vestmannaeyjum, sem notar þjóðveginn talsvert mikið. Fyrir mér var þetta hugsjónastarf, unnið fyrir Heimaey og íbúa Heimaeyjar. Einu hagsmunir mínir af þessu starfi voru og eru að bæta samgöngur milli lands og Eyja. Frá því að þetta starf hófst sl. haust hef ég eytt í það tíma sem trúlega er talin í vinnuvikum, frekar en vinnustundum, og er ég þá bara að tala um þann tíma sem að ég hef eytt í þetta verkefni á venjulegum vinnutíma en auk þess hefur ómælt magn frítíma einnig farið í verkið. Ég hef ekki þegið neina þóknun fyrir mitt starf í þessu aðra en gleði af því að geta lagt mitt af mörkum í því að bæta samgöngur milli lands og Eyja. Þetta hefur verið klárt hugsjónastarf. Þess vegna finnst mér enn verra að sjá og heyra þær rangtúlkanir og rangfærslur sem verið að að reyna að bera á borð í einhverjum tilgangi sem að ég, sem einlægur stuðningsmaður bættra samgangna, skil ekki.   Þó að flestir hafi fagnað þeim samgöngubótum sem í samningnum felast þá hefur ákveðinn hópur reynt að draga upp þá mynd að slíkum árangri hefði mátt ná þó að verkið hefði verið boðið út. Allt hefði fengist í útboði sem í samningnum er, nema áhætta Vestmannaeyjabæjar. Hún sé óþörf og mjög mikil. Ef að maður gleypti málflutninginn alveg hráan þá væri jafnvel hægt að ímynda sér að rekstur Vestmannaeyjabæjar stæði og félli með þessum samningi og hvernig til tækist.   Er þetta stór áhætta fyrir Vestmannaeyjabæ? Við sem að þessu höfum unnið höfum reynt að gera það vel og faglega. Við höfum notið ráðgjafar færustu sérfræðinga á sviði áætlanagerða, til að reyna að lágmarka áhættuna, því að það er auðvitað áhætta fólgin í öllu sem að við gerum. Ég held þó að áhættan sem í þessum samningi felst sé svo lítil að vart sé vert að tala um hana.   Vestmannaeyjabær hefur stofnað opinbert hlutafélag um þennan rekstur og leggur til 150 milljónir í hlutafé sem gert er ráð fyrir í áætlunum að skili sér ríflega til baka til bæjarins að 2 árum liðnum. 150 milljónir eru innan við 1% af eigin fé Vestmannaeyjabæjar, þannig að hver maður getur séð hversu stór áhættan er. Rétt er að benda á í þessu samhengi að bærinn hefur lagt ríkinu til að meðaltali rúmlega 30 milljónir á ári vegna reksturs Hraunbúða sl ár og nemur heildar uppsöfnuð „skuld“ ríkisins vegna þessa nærri 260 milljónum og mun án efa hækka á komandi árum og Vestmannaeyjabær mun trúlega seint fá það greitt til baka frá ríkinu. Ég hef samt ekki séð nokkurn mann hafa haft sérstakar áhyggjur af þessu farmlagi bæjarins eða talað um áhættu vegna þess, þó svo að það framlag sé orðið rúmlega 100 milljónum hærra en „áhættufjármagnið“ sem leggja á í að koma þjónustu á samgönguleiðinni milli lands og Eyja í nútímalegt horf. „Áhættufé“ bæjarins eru þessar 150 milljónir en ekkert umfram það, það kemur skýrt fram í stofnskjölum Herjólfs ohf.   Minnisblöð og svör sem ekki gefa raunhæfa mynd af stöðunni Þær tilvitnanir í minnisblöð og pappíra sem notaðar hafa verið í umfjöllun um þetta mál segja ekkert um það hvernig þessar samningaviðræður fóru fram og þróuðust. Það er mikil einföldun og reyndar einfeldni að halda að það gefi einverja mynd af því hvernig mál þróuðust og fóru fram.   Svör samgönguráðuneytis við spurningum blaðamanna Eyjafrétta sem gefa til kynna að núverandi samningur hafi óbreyttur legið fyrir um miðjan mars eru hreinlega rangfærslur. Ég hefði aldrei samþykkt þau drög eins og þau voru lögð fram þá. Samræður í farmhaldi af framlagningu þeirra samningsdraga leiddu af sér skilgreiningar og bókaðar túlkanir sem gera samninginn að því sem hann er í dag og það gerðist ekki á einni viku eða tveim og allt það sem að við sögðum um tímarammann sem að okkur var gefinn er rétt og satt og það er óþolandi að heyra dylgjað um annað. Okkur var oftar en einu sinni settur mjög þröngur tímarammi til að bregðast við því sem kom frá viðsemjendum okkar.   Ábyrgðarlaus rangfærsla um samninginn og Landeyjahöfn Það korn sem endanlega fyllti þolinmæðimæli minn og varð þess valdandi að ég ákveð að tjá mig nú um þetta mál eru þær dylgjur sem settar voru fram um að með samningnum sem gerður var um yfirtöku á rekstrinum taki Vestmannaeyjabær á sig ábyrgð á rekstri Landeyjahafnar. Þetta er hrein og klár della enda ekkert í samningnum sem segir til um þetta.   Auðvitað gerir samningurinn ráð fyrir að siglt sé til Landeyjahafnar, en þó er gert ráð fyrir í honum að siglt sé um 70 daga á ári til Þorlákshafnar og í samningnum er ákvæði um að ef að þær forsendur standast ekki og sigla þurfi oftar til Þorlákshafnar þá komi til frekari greiðslur frá ríkinu. Ég, sem einn af þeim sem stóðu að gerð þessa samnings og mælti með honum við bæjarstjórn, get hreinlega ekki setið hljóður undir svona rangfærslu, sem hlýtur að vera sett fram í þeim eina tilgangi að sá fræjum tortryggni vegna samningsins. Mér finnst lágmarkskrafa að þeir sem að virðast hafa tekið þann pól í hæðina að vera á neikvæðum nótum vegna þessa samnings haldi sig þá við staðreyndir í gagnrýninni en ekki klárar rangfærslur. Fullyrðingar um að Vestmannaeyjabær sé að taka á sig ábyrgð á Landeyjahöfn eru ábyrgðarlausar rangfærslur.   Rangtúlkanir eyjar.net á samningnum Það síðasta sem komið hefur fyrir sjónir almennings, í andófi við gerðan samning, er „rýning“ eyjar.net í samninginn. Þar er gripið ofan í nokkur atriði samningsins og þau túlkuð af miðlinum, að mér sýnist frekar neikvætt fyrir Vestmannaeyjabæ. Flest þau atriði sem að eyjar.net fer ofan í og leggur út frá eru atriði sem að við, sem að samningaviðræðunum stóðu, stöldruðum við og ræddum frekar við viðsemjendur okkar. Niðurstaða þeirra viðræðna leiddi til skýringa og túlkana sem staðfestar voru formlega og eru þær skilgreiningar talsvert öðruvísi en þær skilgreiningar sem að eyjar.net túlka í sinni umfjöllun. Það er því eiginlega hægt að segja að flestar þær skilgreingar sem að eyjar.net hefur á samningnum séu aðrar en þær í rauninni eru hjá þeim sem samninginn gerðu.   Þær samningaviðræður sem fram fóru voru frekar snúnar og þegar upp var staðið voru það viðaukar, túlkanir, skilgreiningar og yfirlýsingar sem að skiptu sköpum um niðurstöðuna. Það er því afar erfitt fyrir þá sem ekki þekkja til málsins í heild að túlka niðurstöðuna, án þess að kynna sér alla þætti málsins. Við sem sátum í samninganefndinni þekkjum þetta nokkuð vel og erum vissir í okkar sök.   Ég var eiginlega hálf hissa á að sjá þann neikvæða tón sem að mér finnast vera í „rýningu“ eyjar.net á samningnum, því að ég man ekki betur en að það hafi verið ritstjóri þess miðils sem flutti tillögu að ályktun á fjölmennum borgarafundi þar sem þess var m.a. krafist að forræði á rekstri Herjólfs yrði komið til heimamanna. Ég hélt í einfeldni minni að ritstjórinn myndi hoppa hæð sína af gleði yfir samningnum, þar sem með gerð hans er búið að koma í verk flestum þeim atriðum sem krafist var í ályktuninni sem hann flutti á umræddum borgarafundi.   Samningurinn svar við ákalli almennings Ég var af ræðumönnum á íbúafundi í Eyjum um samgöngumál mál í fyrra þar sem mjög fjölmennur fundur samþykkti samhljóða ályktun um kröfur til ríkisins varðandi samgöngur milli lands og Eyja. Í þeirri ályktun var m.a. krafa um að færa ætti rekstur Herjólfs til Heimamanna. Ég hef hlustað á raddir Eyjamann í mörg undanfarin ár um að færa þyrfti reksturinn heim til að koma honum í það horf að hann miðaðist við þjónustu við Eyjamenn en ekki hagnað hlutafélags. Ég hef fylgst með vinnu bæjarstjórnar allrar og setið fundi með þeim í samgönguráðuneytinu þar sem að m.a. fulltrúar minnihlutans, Eyjalistans, fylgdu mjög fast eftir skoðunum sínum um þessi mál og höfðu án efa mikil áhrif á hver niðurstaðan var. Samstaða meiri- og minnihluta í þessu máli skilaði því að samningur náðist við ríkið. Ef sú samstaða hefði ekki verið fyrir hendi hefði ekkert orðið af þessum samningi.   Ég hef sjálfur fylgst með hvernig þjónustu á þjóðveginum milli lands og Eyja hefur verið háttað undanfarin ár og allt það sem að ég hef nefnt hér að framan hefur fullvissað mig um að rétt væri að rekstur á þjóðveginum til Eyja kæmis á forræði heimamanna. Þess vegna var ég virkilega glaður í hjarta mínu með að þessi stóri áfangi í samgöngumálum hafi náðst með samkomulagi milli ríkisins og Vestmannaeyjabæjar um rekstur Herjólfs. Ég neita því ekki að ég hrökk aðeins við og ekki er laust við að ég hafi fengið smá sting í Eyjahjartað að finna fyrir því að til væri orðin einhverskonar andspyrnuhreyfing sem andæfði gegn þessu góða framfaramáli fyrir okkur Eyjamenn. Ég verð að viðurkenna að ég bara skil ekki undirrót þeirrar andspyrnu og þann hræðsluáróður sem notaður hefur verið   Verum jákvæð - fyrir íbúa á Heimaey Með samstöðu, jákvæðni, áræðni, vilja og dug hafa okkur Eyjamönnum yfirleitt verið flestir vegir færir. Það sýnir sagan. Þannig þurfum við að halda áfram að vinna. Það er margt sem að við getum tekist á um og verið ósammála um en eitt stærsta og jákvæðasta skref sem stigið hefur verið í samgöngusögu okkar um árabil á ekki að þurfa að vera deilumál hjá okkur á Heimaey. Mér finnst það bara ekki í okkar stíl.   Með bjartsýni og samstöðu að vopni munum við vinna enn frekari sigra í þessum málum á komandi árum. Hættum þessu rugli, horfum til framtíðar og stöndum saman um þetta góða mál, samfélaginu hér til heilla. Það er örugglega það besta fyrir Heimaey og íbúa hennar til langrar framtíðar.   Grímur Gíslason    

Þannig sigling er alltaf talin vond sigling

Nú liggur ljóst fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn í Vestmannaeyjum býður fram tvo lista í bæjarstjórnarkosningunum á laugardag. Þar sem flokkurinn gat ekki komið sér saman um einstaklinga í forystuhlutverkið varð niðurstaðan sem sé sú að deildaskipta flokknum í D deild og H deild. Báðar deildirnar láta reyndar eins og ekki sé um sama flokkinn að ræða en með hverjum deginum sem líður verður æ ljósara að deildaskiptur Sjálfstæðisflokkur er það sem okkur Eyjamönnum er boðið upp á að þessu sinni.   H listafólkið er reyndar tregara við að viðurkenna þessa staðreynd en þegar því ágæta fólki er bent á staðreyndir verður fátt um svör. Hér væri of langt mál að leggja fram allar þær staðreyndir sem sýna svart á hvítu að H listinn er deild innan Sjálfstæðisflokksins. Ég læt því nægja þá staðreynd að forystumaður H listans og helstu forystumenn aðrir á listanum eru enn í fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum og ætla sér að vera þar áfram. Hvernig getur fólk í þeirri stöðu haldið því fram að það sé ekki í neinum tengslum við Sjálfstæðisflokkinn. Þarf frekari vitnanna við?   H listinn getur ekki með neinum haldbærum rökum neitað þessum staðreyndum og siglir því undir fölsku flaggi. Þannig sigling er alltaf talin vond sigling.   Því blasir við að eini raunhæfi möguleikinn á að minnka völd Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum er að veita Eyjalistanum brautargengi í kosningunum á laugardaginn. Sá listi er eini andstæðingur Sjálfstæðisflokksins, bæði D deildar og H deildar.   Þeir sem vilja heiðarleg stjórnmál í samvinnu við alla bæjarbúa kjósa því Eyjalistann. Setjum X við E.   Ragnar Óskarsson  

Léleg eftiráskýring

Góður vinur minn, gítarbróðir og kórfélagi Leó Snær er með grein í bæjarmiðlunum í dag þar sem hann með rökum reynir að réttlæta ákvörðun Írisar Róbertsdóttur um að sitja ekki sem bæjarfulltrúi verði hún bæjarstóri. Greinin er vel skrifuð en engu að síður rökleysa.   Í grein sinni segir Leó að ekkert sé því til fyrirstöðu að kjörinn fulltrúi víki til hliðar vegna anna í annari vinnu. Vitnar hann í 30.gr sveitarstjórnarlaga þar sem segir ,,Telji sveitarstjórnarmaður sig ekki geta gegnt skyldum í sveitarstjórn án óhæfilegs álags, svo sem vegna veikinda eða annarrar vinnu, getur sveitarstjórn létt af honum störfum eða veitt honum lausn úr sveitarstjórn, að hans ósk, um tiltekinn fyrir fram ákveðinn tíma eða til loka kjörtímabils.‘‘   Er þessi klausa talin sem rök fyrir því að fulltrúi geti horfið frá skyldum sínum sem á um er kveðið í sama lagabálki en þar segir í 22.gr ,, Sveitarstjórnarmanni ber skylda til að taka þátt í öllum sveitarstjórnarfundum og fundum í nefndum og ráðum sem hann hefur verið kjörinn til nema lögmæt forföll hamli, sbr. 31. gr.“ Og í 23.gr. ,, Aðal- og varamönnum í sveitarstjórn er skylt að taka kjöri í nefnd, ráð eða stjórn á vegum sveitarfélagsins, sem og til annarra trúnaðarstarfa á vegum sveitarfélagsins.“   Rök H-listans eru því að álagið á Írisi af því að verða bæjarstjóri verði svo mikið að hún -ólíkt bæjarstjórum um allt land- þurfi að hætta sem bæjarfulltrúi. Annaðhvort snýst þetta þá um viðhorfið H-listans til starfsgetu Írisar eða viðhorf þeirra til starfa almennt. Vart er viðhorfið ekki að Íris þoli minna álag en aðrir.   Það má því velta fyrir sér, hvaða störf það eru sem eru svo léttvæg við hlið starfs bæjarstjóra að hægt sé að sitja sem bæjarfulltrúi með fram þeim? Væntanlega mun sá aðili sem sest í stól fulltrúa í stað Írisar gegna mun veigaminna starfi en starfi bæjarstjóra, sem að áliti H-listans skapar óhæfilegt álag á viðkomandi aðila. Þá má einnig velta fyrir sér því álagi sem Elliði hefur mátt þola þessi 12 ár, sem eru þá samkvæmt starfagreiningu H-listans óhæfilegt álag og það í 12 ár.   Það væri þá fróðlegt að fá útlistun frá H-listanum á því hvaða störf séu það léttvæg að þau skapi ekki óhæfilegt álag á bæjarfulltrúa þannig að hægt sé að velja á lista framboða fólk í léttvægari störfum sem geta þá sinnt störfum bæjarfulltrúa.   Fólkið sem situr þá í sætunum fyrir neðan Írisi hlýtur þá, miðað við röksemdarfærsluna, að sinna mun léttvægari störfum en starfi bæjarstjóra að mati starfagreiningardeildar H-listans.   Mér finnst með þessu eru liðsmenn H-listans að gera ansi lítið úr fólki sem sinnir öðrum störfum en starfi bæjarstjóra, sem vissulega er mikilvægt og stórt starf, en þó alls ekki þannig að það skapi óhæfilegt álag umfram önnur störf.   Líklegast er þó hér um að ræða lélega eftiráskýringu frá hendi H-listans sem reynir hér að fara á svig við lýðræðið.   Jarl Sigurgeirsson  

Dylgjur um lögmæti og heiðarleika

Nú styttist í kjördag og má segja að kosningabaráttan sé í hámarki. Framboðin þrjú sem bjóða fram beita mismunandi aðferðum við að koma stefnumálum sínum á framfæri og er það vel. Það virðist þó vera sem að sumir telji það farsælast fyrir málefni sín að reyna að valda úlfúð meðal kjósenda gagnvart öðrum flokkum.   Líkt og undirritaður benti á í grein á vefmiðlunum eyjar.net og eyjafrettir.is er full samstaða innan Bæjarmálafélagsins Fyrir Heimaey um að oddviti okkar Íris Róbertsdóttir sé bæjarstjóraefni okkar. Einnig kom fram að full samstaða væri um að ef félagið verður í þeirri stöðu að loknum kosningum að ráða yfir bæjarstjórastöðu Vestmannaeyjabæjar þá myndi Íris víkja til hliðar sem sveitarstjórnarmaður á meðan hún sinnir stöðu bæjarstjóra.   Þessi tilhögun okkar virðist vera þyrnir í augum sumra og eru efasemdaraddir sem vilja líta svo á að okkur sé óheimilt að leggja þessa tillögu fram.   Til þess að taka af allan vafa þá er ekkert því til fyrirstöðu að kjörinn fulltrúi víki til hliðar vegna anna í annarri vinnu. Bæjarstjóri er samkvæmt sveitastjórnarlögum ráðin með ráðningarsamningi, en ekki kjörinn til starfans sem framkvæmdarstjóri sveitarfélagsins. Það er beinlínis gert ráð fyrir því í sveitarstjórnarlögum að kjörinn fulltrúi stígi til hliðar og hleypi að næsta manni á lista á eftir þeim sem ná kjöri eins og áður sagði.Við teljum að slíkt dreifi álagi aðkomu að bæjarmálum sem hlýtur að teljast jákvætt þar sem fleiri koma að málum. Starf bæjarstjóra er veiga mikið og við teljum það jákvætt að oddviti okkar sé tilbúinn að stíga til hliðar til þess að sinna hlutverki bæjarstjóra ef til kemur að sú staða standi honum til boða. Þetta snýr einmitt að sýn þeirra sem koma að bæjarmálafélaginu Fyrir Heimaey, til þess að kjörin fulltrúi geti tekið að sér starf bæjarstjóra að alúð og samviskusemi verði að nýta 30. gr. í sveitarstjórnarlögum en yfirskrift hennar er ,,Lausn frá störfum‘‘. Þar segir:   ,,Telji sveitarstjórnarmaður sig ekki geta gegnt skyldum í sveitarstjórn án óhæfilegs álags, svo sem vegna veikinda eða annarrar vinnu, getur sveitarstjórn létt af honum störfum eða veitt honum lausn úr sveitarstjórn, að hans ósk, um tiltekinn fyrir fram ákveðinn tíma eða til loka kjörtímabils.‘‘   Að svo komnu máli ítrekum við hjá bæjarmálafélaginu Fyrir Heimaey að vilji okkar er að dreifa valdi og verkefnum innan bæjarins og vonumst til þess að eiga gott samstarf við alla sem hafa hag bæjarfélagsins okkar að leiðarljósi.   Leó Snær Sveinsson   Formaður bæjarmálafélagsins Fyrir Heimaey  

Vönduð stjórnsýsla?

Loforð um vandaða stjórnsýslu hljóma vel í eyrum kjósenda í aðdraganda kosninga.   Kjósendur vilja að lýðræðislega kosnir fulltrúar þeirra vandi til verka og fari eftir lögum og reglum við framkvæmd og ákvörðunartöku innan stjórnsýslunnar með hagsmuni samfélagsins í heild að leiðarljósi sem er auðvitað lykillinn að hinni vönduðu stjórnsýslu.   Loforð um vandaða stjórnsýslu missa hins vegar marks þegar þau eru andstæð lögum og reglum.   Hið nýja framboð H-listans hefur nú lofað, fái það til þess umboð bæjarbúa, að oddviti þeirra muni segja sig frá því umboðinu sínu sem hún sækist nú eftir sem bæjarfulltrúi og taka að sér launað starf sem bæjarstjóri. Sem lögfræðingur og áhugamanneskja um vandaða stjórnsýslu þykir mér skjóta hér skökku við enda sveitarstjórnarlögin skýr hvað þetta varðar, en þar kemur fram að:   „Sveitarstjórnarmanni ber skylda til að taka þátt í öllum sveitarstjórnarfundum og fundum í nefndum og ráðum sem hann hefur verið kjörinn til nema lögmæt forföll hamli.“   Í frumvarpi því sem síðar varð að lögunum segir einnig um þetta að:   „Þessi starfsskylda er grundvöllur að tilvist og skipulagi sveitarstjórnarstigsins. Þegar einstaklingur hefur verið kjörinn til að gegna stöðu sveitarstjórnarmanns er það hans borgaralega skylda að gegna því starfi af alúð og samviskusemi. Frá þeirri skyldu getur hann ekki vikist nema á grundvelli eðlilegra og réttmætra ástæðna.“   Telji einhver að fara megi frjálslega með það hvað teljist „lögmæt forföll“ í skilningi laganna er það á misskilingi byggt en um það segir í frumvarpinu:   „Mikilvægt er af tilliti til festu í störfum sveitarfélaganna að þeir sem kjörnir eru í sveitarstjórn geti ekki vikið úr þeim af geðþóttaástæðum einum.“   Segja má að sveitarstjórnarlögin leggi grunninn að vandaðri stjórnsýslu sveitarfélaganna og kosningaloforð sem eru andstæð lögunum geta ekki boðað vandaða stjórnsýsluhætti út kjörtímabilið. Lögin eru skýr hvað þetta varðar hvort sem litið er til bókstafs laganna sjálfra, frumvarpsins sem síðar varð að lögunum eða anda þeirra almennt. Lýðræðislega kosnir fulltrúar til setu í sveitarstjórn geta ekki vikið úr sæti sínu að ástæðulausu eða eftir atvikum til að taka að sér starf bæjarstjóra.   Umboð kjörinna fulltrúa er sótt til okkar bæjarbúa. Það er ekki persónuleg eign fulltrúanna sem þeir geta ráðstafað að vild með pólitískum gerningum innan framboða sem koma og fara.   Vönduð stjórnsýsla er ekki bara fögur orð og göfugt loforð í kosningabaráttu. Vönduð stjórnsýsla er fyrst og fremst að fara eftir lögum og reglum og sætta sig við að eðli málsins samkvæmt ber öllum sem starfa fyrir sveitarfélagið, hvort sem þeir eru kjörnir til þess eða ekki, að fara eftir og framfylgja lögunum. Það býður því H-listans að breyta kosningaloforði sínu eða halda sig við gefið loforð og sína það í verki að vönduð stjórnsýsla er bara eitthvað sem öðrum stjórnmálaöflum ber að fara eftir.   Arndís Bára Ingimarsdóttir, lögfræðingur.  

Er Sölvi hér?

Þegar ég var ungur maður var mér kennt að ávallt kæmi maður í manns stað. Það væri enginn svo mikilvægur eða ómissandi að annar gæti ekki tekið við af honum þegar þar að kæmi. Þá var mér einnig kennt að hroki væri allra lasta verstur og kæmi þeim hrokafulla alltaf í koll að lokum.   Nú þegar bæjarstjórnarkosningar eru á næsta leiti er margt sagt og margt skrifað, sumt merkilegt en annað ekki. Flestir frambjóðendur nota tímann til að koma baráttumálum sínum á framfæri við kjósendur og er það vel því það er einn grunnþáttur lýðræðisins sem okkur öllum er svo mikilvægt.   Einn frambjóðandi og stuðningsmenn hans taka annan pól í hæðina. Hann keppist við að lofa sjálfan sig í hástert og gengur jafnvel svo langt að reyna að telja fólki trú um að hann sé gersamlega ómissandi. Nái hann eða haldi hann ekki völdum í bæjarfélaginu sé voðinn vís því hann einn kann að stjórna. Í kjölfarið fylgja svo blákaldar hótanir um að bæjarbúar skuli hafa verr af kjósi þeir hann ekki, því hann er jú hvorki meira né minna en ómissandi. Hér er sko talað af miklu lítillæti og auðmýkt.   Nú síðast gerðist það að einn starfsmaður bæjarins lýsti því yfir að hann hygðist segja upp starfi sínu verði núverandi bæjarstjóri ekki áfram bæjarstjóri. Þetta á að vera hótun. Ég er hins vegar ekki viss um hversu beitt hún er því að maður kemur alltaf í manns stað. Hótunin sýnir þó hvernig Sjálfstæðismenn í Vestmannaeyjum líta á sig, þeir láta sem þeir eigi hér allt og við hin eigum að taka þegjandi því sem að okkur er rétt.   Sölvi Helgason eða Sólón Íslandus eins og hann kallaði sig taldi sig vera ómissandi. Hann orti eitt sinn:   Ég er gull og gersemi gimsteinn elskuríkur. Ég er djásn og dýrmæti Drottni sjálfum líkur.   Sölvi gerði það reyndar ekki gott þegar upp var staðið.   P.S. Það hringdi í mig verkamaður hjá Vestmannaeyjabæ og sagði mér í óspurðum fréttum að hann ætlaði að vinna áfram hjá Vestmannaeyjabæ eftir kosningar þótt núverandi bæjarstjóri héldi ekki áfram starfi sínu hjá bænum.   Ragnar Óskarsson  

Skólinn okkar skiptir máli

 Skólamálin hafa alltaf verið mér hugleikin. Ég menntaði mig sem grunnskólakennara og hef kennt á öllum stigum gunnskólans. Kennslan er að mínu mati mest gefandi starf sem hægt er að vinna við - en jafnframt það mest krefjandi. Engir tveir dagar eru eins í kennslu - enda einstaklingarnir með eins ólkar þarfir og þeir eru margir. Við erum svo lánsöm að í Vestmannaeyjum eru öll börn í sama grunnskóla - sem er vel mannaður og mikill kraftur býr í öllu starfsfólki skólans. Tækifærin okkar liggja í því að ýta undir og styðja við þann metnað og fagmennsku sem er í skólanum. Til að hægt sé að ná fram því besta hjá öllum einstaklingum þurfum við gott stoðkerfi sem styður við það góða starf sem unnið er. Þetta stoðkerfi þarf að bæta og það á að gera eftir tillögum fagfólks innan skólans sem er best til þess fallið að meta þörfina hverju sinni. Á skólaskrifstofunni er líka mikil fagþekking og samspilið á milli skólans og skólaskrifstofu á að vera þróttmikð og skapa frjóan jarðveg til að efla og styrkja leik- og grunnskólana okkar. En bæjaryfirvöld þurfa líka að koma þar að með áhuga, metnaði og frumkvæði að auknu samstarfi og samráði skólastarfinu til heilla. Stjórnsýslan þarf að treysta stjórnendum til að reka skólana og veita þeim frelsi til þess, innan þess ramma sem þeim er skapaður í fjárhagsáætlun. Gleði, öryggi og vinnátta eru gildi Grunnskóla Vestmannaeyja og er okkur öllum gott leiðarljós. Tökum höndum saman, eflum og styrkjum okkar góða grunnskóla, það skiptir okkur öll máli. Höfundur skipar í 1. Sæti á H-lista 

Að vera bara á móti

Málefnastaða okkar Sjálfstæðismanna fyrir þessar kosningar er góð. Hún versnar ekki með nýjum samningi um rekstur Herjólfs. Mér finnst að umræða um áhættu, frá frambjóðanda H listans, tengda Landeyjahöfn, vera dæmigerð umræða sem að fellst einfaldlega í því að vera á móti. Engin góð efnisleg rök, bara reynt að vera á móti. Ef ég fæ stuðning kjósenda þá skal ég lofa því að ég verð ekki á móti málefnum bara til að vera á móti. Ég ætla að styðja góð málefni hvaðan sem þau koma. Það er hins vegar hægt að vera á móti og styrkja gott málefni í leiðinni. Þannig var 2016 þegar að hugmyndir komu að friðlýsingu búsvæða sjófugla í Vestmannaeyjum. Ég er náttúruunnandi og vil Eyjunum og íbúum þeirra, þ.m.t. sjófuglum, allt það besta, en hugmyndirnar fólu það hins vegar í sér að forræði yfir búsvæði sjófugla hér á Heimaey og úteyjunum færi frá okkur Eyjamönnum til ríkisins. Þessu var ég alfarið á móti enda tel ég að við Eyjamenn höfum gengið um náttúru Eyjanna af mikilli virðingu og tillitssemi á undanförnum árum, og engin betri en við sjálf að vernda náttúruna í Eyjum. Ég kom með rök opinberlega fyrir þeirri afstöðu. Það var hlustað, og niðurstaðan varð sú að við Eyjamenn ráðum áfram yfir okkar úteyjum og heimalandinu. Samningurinn um rekstur Herjólfs, eins og hann hefur verið kynntur opinberlega, er að mínu mati mjög góður samningur sem styrkir grunnþjónustu Eyjamanna. Eigum við ekki að samgleðjast með svona samning í stað þess að tala hann niður ? Ekki bara vera á móti til að vera á móti.     Eyþór Harðarson 4. sæti D-lista  

Eflum íþrótta- og æskulýðsstarf í Vestmannaeyjum

 Í Vestmanneyjum hefur mikið verið lagt upp úr íþrótta-, lýðheilsu- og æskulýðsmálum í gegnum tíðina og reynt að stuðla að aukinni þátttöku barna og unglinga í skipulögðu tómstundastarfi. Vestmannaeyjabær hóf loksins á árinu 2017 að styrkja ungt fólk til íþrótta- og tómstundaiðkunar með frístundastyrk að upphæð 25.000 krónur á ári. Því ber að fagna sem vel er gert og ánægjulegt að sjá að núverandi meirihluti hafi fallist á eitt af aðalkosningamálum E - listans frá síðustu kosningum. Eyjalistinn vill nú gera enn betur og tvöfalda þessa upphæð. Viljum við með því að borguð sé svipuð upphæð og önnur sveitarfélög eru að borga enda engin ástæða að standa þeim að baki. Það er kannski tvennt sem veldur því að við viljum hækka frístundastyrkinn. Annars vegar er það að brotfall úr íþróttum hefur aukist og hins vegar hafa æfingagjöld hækkað. Við viljum með þessu móti koma á móts við fjölskyldufólk í bænum og gefa öllum færi á því að stunda íþróttir eða aðrar frístundir. Einnig viljum við lækka aldurstakmörk og gera umsóknarferlið einfaldara og notendavænna. Frístundastyrkurinn hefur nýst börnum og unglingum vel og þess vegna viljum við gera enn betur á þessu sviði. Þetta framlag stuðlar vafalaust að aukinni íþróttaþátttöku í bæjarfélaginu og spilar þar af leiðandi mikilvægt hlutverk í lýðheilsu og forvörnum. En frístundarkortið er ekki bara ætlað þeim krökkum sem að eru í íþróttum, heldur líka þeim sem vilja stunda tónlistarnám, skátana eða aðrar skipulagðar tómstundir. Það er gert svo að öll börn og unglingar finni eitthvað við sitt hæfi og fái tækifæri til að rækta sína hæfileika. Við viljum að bærinn taki þátt í að efla lýðheilsu bæjarbúa og viljum að því marki auka sókn bæjarbúa í sundlaugina með því að stilla gjaldskrá hennar í hóf. Við viljum með sanni geta sagt að Vestmannaeyjabær sé íþróttabær. Áhrif þessa mun fela í sér aukna þátttöku barna í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi, létta róðurinn hjá barnafjölskyldum, gefa iðkendum meira val og styrkja starf íþróttafélaganna í bænum. Öflugt íþróttastarf blómstrar ekki sjálfkrafa. Fyrst og fremst eru það jú fólkið sem kemur að starfi félaganna sjálfra, sú aðstaða sem þeim er búin og möguleikar íbúa að notfæra sér það góða starf sem íþróttahreyfingin í Vestmannaeyjum stendur fyrir.   Harald Bergvinsson 8. sæti E-lista  

Hvítasunna

Löng helgi, ferðalög, fermingar alls konar mót og samkomur. Hvítasunnan er ein þriggja stórhátíða kristinnar kirkju, ásamt jólum og páskum. Það hefur verið minna tilstand í kringum hvítasunnu en hinar hátíðirnar. Við minnumst þess að Jesús fæddist í þennan heim og síðan að hann dó og reis upp frá dauðum. Mesta gleðin er fólgin í því að hann sendi Heilagan anda til að vera með okkur alla daga. Mánudagurinn eftir hvítasunnudag, annar í hvítasunnu, er almennur frídagur á Íslandi. Fram til ársins 1770 var þriðji í hvítasunnu einnig almennur frídagur. Konungi fannst íslensk alþýða hafa of marga frídaga og afnám það ár frídag á þrettándanum og þriðja í jólum, páskum og hvítasunnu. Hvítasunnan er fímmtíu dögum eftir páska. Forngrískt heiti hans er pentekost og merkir fimmtugasti. Fjörutíu dögum eftir páska sté Jesú til himins á uppstigningardegi og tíu dögum seinna var Heilögum anda úthellt og kirkjan stofnuð. Frá þessu er sagt í fyrstu köflum Postulasögunnar. Þar er sagt frá því að fólk talaði öðrum tungum þeim sjálfum óskiljanlegar, en móðurmál einstaklinga á staðnum. Margir töldu að um væri að ræða einstakan atburð þegar Heilögum anda var úthellt. Fyrir rúmum hundrað árum eða í byrjun tuttugustu aldar var mikil vakning í anda frumkirkjunnar þar sem m.a. tungutali var úthellt. Í kjölfarið varð hvítasunnuhreyfingin til. Eitt vorið var ég stödd í Jerúsalem. Að morgni hvítasunnudags safnaðist fólk saman við Grátmúrinn. Allir voru hvítklæddir. Það var sérstakt að vakna snemma og vera mætt við sólarupprás (um kl. sex) ásamt þúsundum annarra. Fólk skrifaði bænaefni á blaðsnepla og stakk í rifur í Grátmúrnum, lofsöngur ómaði og hringdansar voru stignir. Eftir morgunstundina var farið til salar sem sagður er svipa til salarins hvar lærisveinarnir og Jesús komu saman á skírdagskvöldi. Margir voru þar samankomnir, fólk af mörgu þjóðerni. Þar vorum við vitni að því að maður einn söng fagran söng og var á eftir þakkað af öðrum sem ávarpaði hann á söngmálinu. Söngvarinn bar sig undan, sagðist ekki skilja þakkirnar. Í ljós kom að hann hafði sungið, sér óafvitandi, hina fegurstu lofgjörð til Drottins á máli sem hann ekki skildi en aðrir fengu blessun og uppörfun af. Margar slíkar frásagnir eru til. Í Jóhannesarguðspjalli 14.26 segir Jesús: En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt það sem ég hef sagt yður. Ég hef fengið að reyna það sjálf hvering nærvera Heilags anda hefur verið til staðar í lífi mínu, andi friðar, kærleika og stillingar.   Gleðilega hvítasunnu.  

Hinir raunverulegu valmöguleikar

Ekki verður annað talið en að skjálfti sé hlaupinn í sjálfstæðismenn fyrir kosningarnar 26. maí næstkomandi. Úr þeirra röðum ryðst nú fram á ritvöllinn leiðtogi D listans, fullur auðmýktar og stolts af afrekum undanfarinna ára, en tekur þó jafnframt fram að hér fari allt á versta veg fái þeir ekki endurnýjað umboð kjósenda og hreinan meirihluta. Sú goðsögn virðist enn á lífi, að minnsta kosti hjá þeim sjálfum, að enginn geti farið með stjórn nokkurs sveitarfélags nema þeir sjálfir. Auðmýkt og stolti er blandað við hótanir og heimsendaspár. Ekkert er nýtt undir sólinni hvað þetta varðar.   Sjálfstæðismenn ganga jafnvel svo langt í málflutningi sínum að margt af því sem þeir nú hrósa sér fyrir hafa verið hagsmunamál Eyjalistans á undanförnum árum og í sumum tilvikum er staðreyndin sú að meirihlutinn lagðist beinlínis gegn þeim málum sem nú eru dregin fram honum til tekna. Fyrr í vor sagði einn frambjóðandi sjálfstæðismanna samgönguráðherrann skreyta sig með stolnum fjöðrum, eins og frægt varð. Um það hvaða fjaðrir nú eru notaðar skal hver dæma fyrir sig.   En það skrýtnasta í málflutningi sjálfstæðismanna nú er að leiðtogi þeirra virðist fyrir fram útiloka allt samstarf við aðra flokka. Sjálfstæðisflokkurinn fari ekki í neitt samstarf. Ein ráðlegging úr stjórnmálafræðinni, frá manni sem er að taka þátt í sínum fyrstu kosningum til manns sem hefur mikla reynslu væri á þessa leið: við skulum ekki útiloka neitt fyrir fram. Við skulum leyfa bæjarbúum að kjósa og segja hug sinn, og svo skulum við meta stöðuna. Fyrir mitt leyti, og okkar hjá Eyjalistanum, er ekkert einu sinni farið ræða mögulegt meirihlutasamstarf. Það er einfaldlega ekki á dagskrá.   Hins vegar er ég sammála bæjarstjóranum um eitt: þó valmöguleikarnir séu þrír, eru þeir í raun aðeins tveir. Það er einn Eyjalisti, sem stendur fyrir ákveðnar breytingar og svo eru það tveir sjálfstæðisflokkar. Og ef við horfum til baka og skoðum söguna, ekki bara hér í Vestmannaeyjum heldur um allt land, þá er það þannig að yfirleitt líður ekki á löngu þar til jafnvel dýptsti klofningur er barinn til hlýðni. Þá skiptir ekki máli hvort það er hinn hefðbundni sjálfstæðisflokkur eða hinn nýstofnaði byltingararmur hans. Valið stendur því á milli þessa tveggja kosta.   Njáll Ragnarsson    

Aðgengi fyrir alla

Árið 2001 fékk ég vinnu í Mosfellsbæ á Skálatúnsheimilinu. Ég myndi segja að þarna hafi orðið ákveðin straumhvörf í lífi mínu og kynntist ég einni af mínum fyrstu ástríðum, þ.e að starfa með einstaklingum með fatlanir. Árið 2005 útskrifaðist ég svo sem þroskaþjálfi og sýn mín á ansi marga hluti hafði breyst.   Spólum aðeins fram í tímann, það er komið árið 2011 og ég búin að vera starfandi sem formaður Ægis, íþróttafélags fatlaðra hér í Eyjum, í 5 ár. Við vorum að fara að halda okkar fyrsta bocciamót og lagðist ég í mikla rannsóknavinnu út frá aðgengi. Ég er oftast þekkt fyrir að taka hlutina dálítið alla leið og það gerði ég að sjálfsögðu í þessu tilfelli. Anna Karólína Vilhjálmsdóttir sem er framkvæmdarstjóri útbreiðslu- og fræðslusviðs hjá Íþróttasambandi fatlaðra kom hingað og fundaði með mér ásamt bæjarstjóra og framkvæmdarstjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs. Á þeim tíma voru bæjarskrifstofurnar staðsettar í Ráðhúsinu. Hún vildi vita hver stefna bæjarins væri í þessum málum og varpaði fram spurningu sem mun alltaf sitja í mér. “Eftir hverju eruð þið að bíða?” Þið gætuð lent í slysi á morgun og þá kæmust þið ekki í vinnuna ykkar aðgengislega séð”. Það varð fátt um svör en þó sagt að sjálfsögðu yrði manneskjan borin upp ef þess þyrfti eða fundnar aðrar leiðir o.s.frv. “Heyrið” þið örugglega ekki öll hvað þetta hljómar illa? Áfram voru málin rædd og var fullmikið um kannski/ef að mínu mati. Að fundi loknum stóðum við upp og Anna Lína klikkti út með eftirfarandi setningu: “Hvorn ykkar viljið þið svo að við berum hérna niður tröppurnar?” Ég ætla ekkert að tíunda viðbrögðin við þessari spurningu frekar.   Einhverju síðar fór ég svo með góðvin minn hann Jón Heiðar, sem er bundin við hjólastól, hér um bæinn. Hann tók út helstu veitingastaði og gistiheimili ásamt öðrum stöðum sem vitað var til að við myndum notast við meðan á mótinu stæði. Ég get ekki sagt að bærinn minn hafi skorað hátt í þessari úttekt. Það sem situr ennþá mér er þessi eini í hjólastól sem treysti sér ekki til eyja út frá aðgengi (notabene þá hefur hann ferðast mikið í sínum þunga og stóra hjólastól). Að hans mati var of mikið af óvissuþáttum í aðgengismálum til þess að hann teldi sig geta komist hingað með góðu móti, þá sérstaklega út frá Herjólfi. Mikið vona ég að það hafi verið hugsað fyrir þessu í nýsmíðinni! Að móti loknu skilaði ég svo úttekt til Vestmannaeyjabæjar þar sem ég tiltók alla þá staði sem voru ekki viðunandi með myndum og öllu tilheyrandi.   Það sem angrar mig samt hvað mest er hvað lítið virðist hafa áunnist! Aðgengi takmarkast nefnilega ekki bara við fatlaða einstaklinga, aðgengi á að vera fyrir alla. Hvað með mömmur okkar og pabba, ömmur og afa sem þurfa að notast við hjólastóla eða önnur hjálpartæki? Það er verið að setja upp lyftur og byggja jafnvel ný húsnæði þar sem fyllstu reglna er ekki gætt. T.d bláu húsin í Sólhlíðinni fyrir 60 ára og eldri, þar komast sjúkraflutningamenn ekki með börurnar inn í lyftuna. Af hverju ekki að gera þetta almennilega frá upphafi og með smá fyrirhyggju? Betur má ef duga skal! Ég spyr eins og Anna Lína vinkona mín: Eftir hverju erum við að bíða?  Kristín Ósk Óskarsdóttir

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Stjórnmál >>

Því miður göngum við ekki samhent til þessara kosninga

Í síðustu viku sendum við fyrirspurn á tvo sitjandi þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi til að athuga hvar þeir standa varðandi klofningu flokksins hér í bæ. Páll Magnússon fyrsti þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi vildi ekki tjá sig um stöðuna. ''Ég hef ákveðið að tjá mig ekkert opinberlega um málefni okkar Sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum, að svo stöddu''.   Erfiðleikar eru til að sigrast á þeim Ásmundur Friðriksson sagði í samtali við Eyjafréttir að sem annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi styður hann auðvitað framboð flokksins í Vestmannaeyjum. „Ég hef fylgst með úr fjarlægð hvað var að gerast í framboðsmálum Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum og það tók mig sárt hver sú niðurstaða varð. Ég hef tekið þátt í fjölmörgum kosningabaráttum fyrir flokkinn í Eyjum og það hefur verið skemmtilegt að vinna í hópi samhentra sjálfstæðismanna og kvenna sem hafa frá því að ég man eftir mér unnið hvern stórsigurinn á fætur öðrum. Því miður göngum við ekki samhent til þessara kosninga eins og ég hafði vonað, en verkefnið verður að leiða ágreininginn í jörð og ná sátt í flokknum okkar. Það verður hlutverk okkar þingmanna og sjálfstæðismanna í Eyjum að loknum kosningum að horfa fram á veginn. Við erum umburðarlynd, víðsýn og þolum hvort öðru að við séum ekki sammála í öllum málum. Og þó að um stund sé slagsíða á bátnum þá er takmarkið að ná þeim aftur um borð sem hafa ákveðið að fá sér annað skipsrúm og nýtt föruneyti. Erfiðleikar eru til að sigrast á þeim en að lokum mun mótlætið styrkja okkur og við sameinast á ný undir merkjum Sjálfstæðisflokksins.“      

VefTíví >>

Pizzubakstur í stað netaafskurðar

Þegar ég var peyi hafði ég stundum aukapening út úr því að hjálpa mömmu að skera af netum. Bílskúrinn upp á Illó var oft yfirfullur af þessum litríku nælon flækjum og vinnudagurinn stundum langur. Það var þó bætt upp með nægu framboði af kremkexi og appelsíni.   Fjölskylduútgerðir Við skárum af netum fyrir hina og þessa útgerðamenn. Þeir áttu það allir sameiginlegt að vera frumkvöðlar. Byrjuðu snemma á sjó. Fóru svo í stýrimannaskólann. Tóku sennilega lán og keyptu svo bát. Þannig urðu til þessi fjölskyldufyrirtæki sem við unnum svo hjá við netaafskurð.   Frumkvöðlar Þessi tími er farinn og hann kemur ekki aftur. Frumkvöðlakraftur Eyjamanna er hins vegar sá sami. Auðvitað sjáum við hann víða enn í sjávarútvegi en fjölskylduútgerðir dagsins í dag eru oftar en ekki ferðaþjónustufyrirtæki.   Tækifæri Nú kaupa frumkvöðlarnir gamalt hús og breyta því gistiheimili. Þeir breyta stálsmiðju í veitingahús og sjoppu í pizzugerð. Kaupa reiðhjól og leigja út. Verða sér út um rútukálf og bjóða upp skoðunarferðir. Listinn yfir tækifærin er endalaus.   Jarðvegurinn Vestmannaeyjabær getur víða lagt þessum frumkvöðlum lið. Mestu skiptir samt að sjá til þess að innviðirnir styðji við vöxtinn. Samgöngurnar skipta þar að sjálfsögðu mestu en fleira þarf til. Vestmannaeyjabær hefur lagt sérstaklega ríka áherslu á að skapa hér sterka segla til að draga að ferðamenn og fá þá til að stoppa lengur en annars væri. Tilkoma Eldheima er gott dæmi um velheppnaða aðkomu Vestmannaeyjabæjar.   Fiskasafn Á sama hátt mun starfsemi alþjóðlega stórfyrirtækisins Merlin hafa hér víðtæk áhrif. Ekki einungis munu þeir verða hér með athvarf fyrir hvali í Klettsvíkinni, sem er einstakt í heiminum, heldur munu þeir einnig verða hér með fiska- og náttúrugripasafn á jarðhæð Fiskiðjunnar þar sem til sýnis verða lifandi fiskar. Auk þess verður sérstök áhersla lögð á að sýna lunda, og pysjur sem ekki geta lifað í villtri náttúru þannig gefið líf.   Baðlón Það er einnig ánægjulegt að segja frá því að Vestmannaeyjabær hefur þegar hafið samtal við sterka fjárfesta um aðkomu að baðlóni í nýja hrauninu. Meira um það síðar.   Hin stoðin Þótt sjávarútvegurinn sé okkar lang mikilvægasta atvinnugrein er ferðaþjónustan hér vaxandi og þegar orðin hin stoðin í hagkerfi okkar. Þótt liðin sé sú tíð að börn skeri af netum með foreldrum sínum þá hafa þau, eins og þeir sem eldri eru, þess í stað aðra –og ekkert síðri- aðkomu að atvinnulífinu. Í stað netaafskurðar baka þau pizzur, þjóna til borðs, afgreiða á hótelum og margt fl.   Ég er til Með samstilltu átaki og bættum samgöngum getum við stigið stór skref til frekari eflingar ferðaþjónustunnar. Þar þarf hinsvegar þrek, þor og jákvætt viðhorf. Fái ég til þess umboð er ég áfram til í að leggja mitt af mörkum.​     Elliði Vignisson bæjarstjóri