Elliði Vignisson skrifar

Í dag sit ég minn seinsta bæjarstjórnarfund sem kjörinn bæjarfulltrúi

Elliði Vignisson skrifar

Í dag sit ég minn seinsta bæjarstjórnarfund sem kjörinn bæjarfulltrúi

Í dag lýkur ákveðnum kafla í mínu lífi. Ég mun sitja minn seinasta reglulega bæjarstjórnarfund sem kjörinn fulltrúi í bæjarstjórn Vestmannaeyja.
 
Ertu að grínast?
 
Ég sat minn fyrsta fund 5. september 2002. Vinsælasta bíómyndin var þá „Austin Powers“ og á forsíðu Morgunblaðsins stóð: „Bush lofar að leita samþykkis þingsins verði ráðist gegn Írak„. Fundurinn hófst kl. 18:00 og honum lauk kl. 00:45. Hart var tekist á og bókanir gengu á víxl. Mikið púður fór í deilur og átök. Þegar ég kom heim voru börnin mín sofnuð en Bertha konan mín sem hafði hlustað á fundinn í útvarpinu hafði þrjú orð við mig að segja um hann: „Ertu að grínast?“
 
Hef setið fundi í sem nemur 42 sólarhringum
 
Síðan þá hef ég setið 189 bæjarstjórnarfundi og 294 bæjarráðsfundi. Hver bæjarstjórnarfundur er að meðaltali um 3 tímar. Ég hef þá setið fundi bæjarstjórnar í 567 klukkustundir eða tæplega 24 sólarhringa samfleytt. Meðal bæjarráðsfundur er um 1,5 tími. Ég hef þá setið í 441 klukkustund eða rúmlega 18 sólarhringa samfleytt. Til samans gera þetta 42 sólarhringa. Rétt eins og ég myndi byrja fund í dag og hætta 25 júní nk. Reynslan er því orðin mikil.
 
Reynsla
 
Reynsla er kostur þegar kemur að þeim mikilvægu verkefnum sem samfélagið okkar hér í Vestmannaeyjum sinnir. Að sama skapi getur reynsluleysi orðið til þess að við förum að takast á við vandamál sem eru ekki til í Vestmannaeyjum í dag.
 
Tilraun til sátta
 
Ég ætlaði mér ekki að hætta sem bæjarfulltrúi þar sem ég lít á starfið sem þjónustu við íbúa bæjarins. Þegar upp kom deila í Sjálfstæðisflokknum hér í Eyjum (sem sögð var vera vegna hættu á lýðræðishalla þegar frambjóðandi í 1. sæti væri einnig bæjarstjóri) ákvað ég þó að mæta þeim sem harðast gengu fram og víkja sem bæjarfulltrúi. Í stað þess að þiggja fyrsta sæti á lista óskaði ég eftir því að fá 5. sæti og hætta þar með sem bæjarfulltrúi.
 
Slegið á sáttarhönd
 
Ég er einn af þeim sem trúi á mátt sáttarinnar og að tímanum sé betur varið í annað en átök um það sem skiptir bæjarbúa ekki stóru máli. Ég trúði því af einlægni að með því að víkja sem bæjarfulltrúi þá myndi óánægjan minnka. Ég hefði þannig ekki umboð sem kjörinn fulltrúi og ætti mína stöðu undir kjöri annarra. Allt kom fyrir ekki, þeir ósáttu voru alveg jafn ósáttir og klufu samt flokkinn án þess að tilgangurinn væri ljós. Í raun má segja að slegið hafi verið á útrétta sáttarhönd.
 
Kosningar snúst um traust
 
Ég er tilbúinn til að starfa áfram fyrir íbúa Vestmannaeyja sem bæjarstjóri. Ég hef ómetanlegan metnað fyrir þessum stað sem hefur fóstrað mig í hátt í hálfa öld og ætt mína mikið lengur en elstu menn muna. Ég veit að reynsla mín nýtist hvergi betur en í störfum fyrir íbúa Vestmannaeyja. Séu bæjarbúar ánægðir með stöðu Vestmannaeyja og treysti þeir mér til að vera áfram bæjarstjóri og þeim Hildi, Trausta, Helgu Kristínu og Eyþóri til að leiða störf bæjarstjórnar, þá veit ég að við getum gert lífið enn betra hér í Vestmannaeyjum.
 
Hverjum teystir þú best?
 
Komandi kosningar eru þær tvísýnustu sem farið hafa fram í Vestmannaeyjum í langan tíma. Það eru tveir valkostir í boði, áframhaldandi meirihluti okkar Sjálfstæðisfólks eða samstarf þeirra tveggja framboða sem nú bjóða fram gegn okkur. Það er því mikilvægt fólk mæti á kjörstöð og velji það fólk sem það treystir best til að stjórna Vestmanneyjum næstu 4 árin.
 
Elliði Vignisson
 
Bæjarstjóri
 

Gleðilegan kjördag

Kæru kjósendur í Vestmannaeyjum. Í dag leggja ég og félagar mínir í Sjálfstæðisflokknum verk okkar undanfarin ár í dóm kjósenda. Það sem fyrst og fremst greinir okkur frá öðrum framboðum er dýrmæt reynsla við styrka og án alls vafa farsæla stjórnun sveitarfélagsins svo eftir er tekið. Í öllum framboðum eru efnilegir einstaklingar að leggja hönd sína á plóginn við að gera gott samfélag enn betra. Framundan verða miklar breytingar á bæjarstjórn sem að öllum líkindum verður söguleg, að því leyti að hún verður í fyrsta skipti skipuð konum að meirihluta og óska ég Vestmannaeyingum innilega til hamingju með þann áfanga og framboðunum öllum til hamingju með að treysta konum jafnt sem körlum í framlínu sína. Þó breytingar og endurnýjun séu af hinu góða og nauðsynlegar þá tel ég ekki skynsamlegt að kollvarpa því sem vel hefur gengið. Að endingu óska ég öllum Vestmannaeyingum gleðilegs kjördags og hvet alla til að nýta sinn lýðræðislega rétt sem sannarlega er ekki öllum sjálfgefinn.   Nú kjördagur nálgast óðum og nóg er af peyjum og fljóðum sem öll þitt atkvæði vilja, en eitt þarft þú fyrst að skilja.   Bakarinn brauðið hann brenndi og íbúum lexíu kenndi að vera ekki í móinn að malda heldur kjósa einn flokk til valda.   Samfélag losuðu úr skuldaklafa, sveitarstjórnarreynslu þau hafa. Bæjarfulltrúa þurfa nú fjóra með framhaldsskóla- og útgerðarstjóra.   Sameinuð tryggt hafa samgöngur betri, sýnt hafa kjark sinn á nýliðnum vetri. Bættu vel þjónustu við foreldra og börn, boðuðu hvali en ekki ísbjörn.   Við Hamarsskóla hús vilja byggja, á hugmyndum sínum þau ekki liggja. Ef bæjarstjóri vilt að Elliði sé þá seturðu einfaldlega x við D (HSS)      

Að prófa eitthvað nýtt?

Fyrir ákaflega mörgum árum gegndi skrifari starfi æskulýðsfulltrúa Vestmannaeyja. Því fylgdi meðal annars að sjá um starfsemi Félagsheimilisins við Heiðarveg, sem nú heitir Kvika. Þetta var á margan hátt áhugavert og skemmtilegt starf. Skrifari kynntist á þeim árum mörgu áhugaverðu fólki sem m.a. kom til Eyja til að kynna hvers konar starfsemi og áhugamál, trúmál og fleira. Til að mynda voru Vottar Jehóva tíðir gestir í Félagsheimilinu sem og aðrir boðberar trúarlegra efna. Og oft húsfyllir í aðalsalnum.   Hvað minnisstæðastur er skrifara þó kaþólskur prestur frá Írlandi, sem hingað kom vetur einn til að kynna Eyjamönnum kaþólska trú og ágæti hennar. Fékk leigðan salinn í Félagsheimilinu og allnokkrir sem mættu ef skrifara minnir rétt. Í fartogi með honum var nunna ein og saman boðuðu þau fagnaðarerindi kaþólskunnar fyrir Eyjamönnum, með misjöfnum árangri ef skrifari rekur rétt minni til. Svo hið sama kvöld kom upp misskilningur varðandi gistingu þeirra, sem átti að vera frágengin á gistiheimili í Eyjum og þau stóðu uppi húsnæðislaus. Sá ágæti kaþólski prestur spurði skrifara hvort hann gæti skotið skjólshúsi yfir þau í Félagsheimilinu og skrifari tjáði honum að salurinn sunnanvert á 3. hæð væri laus þeim til íveru. Þá kom upp það vandamál að sakir trúarlegra hluta máttu þau tvö, presturinn og nunnan, ekki deila sömu vistarverum að næturlagi. Nú var reyndar annar salur á lausu, aðalsalurinn á 3. hæðinni en skrifari tjáði þeim írsku trúboðum að hann væri ekki reiðubúinn til að deila tveimur aðalsölum hússins til þeirra tveggja.   Þetta vandamál leystist þó á einfaldan hátt þegar kunningi skrifara, sem rak gistiheimili í Eyjum, hafði tvö herbergi laus fyrir þessa góðu boðbera kaþólskrar trúar.   Svo þegar þessi mál voru til lykta leidd, spurði sá ágæti kaþólski prestur skrifara hvort hann hefði nokkurn tíma hugleitt að snúast til kaþólskrar trúar. Skrifari kvað nei við því, sagðist uppalinn í ágætum mótmælendasið og hefði ekki hugsað sér að snúa af þeim vegi.   „Af hverju ekki að prófa eitthvað nýtt,“ spurði sá írski. „Hefurðu einhverju að tapa?“   „Minn góði vinuar,“ svaraði skrifari. „Í rúmlega tuttugu ár hef ég verið kvæntur sömu konunni. Vissulega kemur að mér sú hugsun, þegar ég er staddur úti á götu og fram hjá mé gengur falleg kona, að ég horfi um öxl og hugsa með mér: „Af hverju ekki að skipta um og prófa eitthvað nýtt?“ En ævinlega kemur upp hið sama í hugann: „Þú veist hvað þú átt en veist ekkert hvað kemur í staðinn.“   Þessi rök tók hinn írski vinur minn góð og gild og reyndi ekki frekar að turna mér til kaþólskrar trúar.   Ég veit ekki hvað kom mér til að rifja upp þessa gömlu endurminningu núna í aðdraganda kosninga. En eitthvað hlýtur það að vera.   Sigurgeir Jónsson  

Kjósum áframhaldandi sókn!

Það fer ekki á milli mála að það er komið að kosningum, greinaskrif frambjóðenda í staðarfjölmiðlum, umræðan á kaffistofum bæjarins og ,,kommenta” kerfi samfélagsmiðlanna ber þess glögglega merki. Kosningarnar nú eru töluvert brábrugðnar þeim kosningum sem ég hef tekið þátt í á mínum pólitíska ferli sem spanna nú tólf ár. Þær eru frábrugðnar að því leyti að gott fólk sem ég hef starfað með hefur ákveðið að yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn og bjóða fram gegn honum, að því er virðist ekki vegna málefnalegs ágreinings heldur í þeim tilgangi að koma ákveðnum einstaklingum í áhrifastöður og þykir mér það miður. Yfirskriftin var aukið lýðræði og bætt vinnubrögð en þrátt fyrir þau fyrirheit gaf þessi nýi flokkur sér ekki tíma til þess vinna eftir þessum gildum við val á framboðslista sinn.   Eins og áður sagði hef ég nú starfað í bæjarstjórn í tólf ár, og það er langur tími í pólitík, sumum finnst það of langur tími. Ég er ósammála þeirri alhæfingu. Ef þú hefur ánægju af því sem þú ert að gera, hefur þrek og vilja til að vinna þetta óeigingjarna starf og nærð árangri þá skiptir árafjöldinn í starfinu ekki máli.   Ég sé hinsvegar ekki eftir því að skella mér í aftursætið, ef svo má að orði komast. Á lista Sjálfstæðisflokksins eru frábærir einstaklingar sem ég treysti til að stýra bænum og að fenginni tólf ára reynslu þá veit ég að þeir munu gera það með hagsmuni íbúa sveitafélagsins að leiðarljósi, hagsmuni heildarinnar. Elliði Vignisson er bæjarstjórnar efni flokksins, hann er sterkur leiðtogi og lætur verkin tala, engum treysti ég betur til að leiða bæjarfélagið okkar næstu fjögur árin.   Það er aðeins einn Sjálfstæðisflokkur og ef við náum meirihluta á laugardaginn þá munum við halda áfram að byggja upp samfélagið með sömu gildin að leiðarljósi, sem er ábyrgur rekstur og þor og dugur til að takast á við ný og krefjandi verkefni. Hin sterka fjárhagsstaða bæjarins er grunnurinn að frekari sóknarfærum og ber stefnuskrá okkar Sjálfstæðismanna því glögg merki.   Kjósum áframhaldandi sókn, setjum X við D.   Páll Marvin Jónsson   Skipar 8. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins  

Hverju er verið á móti?

Á miðvikudagskvöld var haldinn borgarafundur með fulltrúum framboðana þriggja sem bjóða fram í kosningunum á morgun. Umræðan snerist að stórum hluta um samgöngumál og nýgerðan samning um rekstur Herjólfs. Athygli mína vakti að fulltrúar H framboðsins hafa ekki enn getað áttað sig á því hvort þeir séu hlynntir samningnum eða á móti honum. Í stað þess að kynna sér málin er talað í hringi. Samninginn segja þeir slæman, þrátt fyrir að þjónustuaukningin sé góð er áhættan sé mikil.   Þar sem ég sat minn fyrsta bæjarstjórnarfund þegar samþykkja átti samninginn vil ég koma á framfæri nokkrum atriðum sem ég tel mikil heillaspor fyrir samfélagið hér í Eyjum:   * Ferðum er fjölgað, farið fyrr af stað á morgnanna og siglt lengur fram eftir á kvöldin   * Íbúum í Vestmannaeyjum er tryggður helmings afsláttur af fargjöldum   * Bókunarkefið er tekið algerlega í gegn   * Í öllum ákvörðunum skipta hagsmunir heimamanna mestu máli   * Glórulaus kaup á inneignarkortum fyrir tugi þúsunda heyra sögunni til   * Núverandi Herjólfur verður til taks út samningstímann   * Öll fjárhagsleg áhætta bæjarins er takmörkuð eins og mögulegt er   Hvernig er hægt að vera á móti þessum samningi? Hverju er H- listinn á móti? Getum við ekki sameinast um það að fagna þessu framfaraskrefi fyrir bæinn okkar?   Í máli frambjóðanda H- listans á miðvikudagskvöld kom fram að ómögulegt sé að segja samningnum upp. Þeim sem kunna að trúa því vil ég benda á að lesa má samninginn í heild sinni á vef Vestmannaeyjabæjar. Ég leyfi mér að vitna beint í samninginn:   „9.4 Uppsagnarfrestur samnings þessa er 6 mánuðir. Óski annar hvor aðila eftir að segja samningnum upp skal það gert skriflega og sent gagnaðila með sannanlegum hætti“.   Með öðrum orðum: Einn tölvupóstur. Ekki ómögulegt, EINN TÖLVUPÓSTUR.   Látum ekki blekkjast. Hlustum ekki á úrtöluraddir þeirra sem vilja rífa niður heldur höldum áfram að byggja upp.   Guðjón Örn Sigtryggsson.  

Láttu ekki plata þig

Jæja þá er komið að því að kjósa. Laugardaginn 26. maí n.k. göngum við að kjörborðinu eins og það er kallað. Í boði eru þrír listar, tveir frá Sjálfstæðisflokki D og H, og einn myndaður af samstarfi félagshyggjufólks og óháðra, Eyjalistinn. Það er þessi H listi sem mig langar að vara fólk við, sérstaklega fólk sem skoðanalega séð er á miðjunni og vinstri vængnum. H-listinn er klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokki og er í engu frábrugðinn honum. Á listanum eru 8-10 harðkjarna Sjálfstæðismenn, fólk úr fulltrúaráði, formenn félaga innan flokksins og fyrrverandi bæjarfulltrúar flokksins. Svo sterk er heimtaugin í Sjálfstæðisflokkinn að það sem helst virtist standa forystusauðunum fyrir þrifum við stofnun framboðsins, var hvort þau héldu bitlingum sínum innan flokksins, þá sérstaklega á landsfundarpartíinu.   Meira að segja þingmenn flokksins eru með það á hreinu að heimtaugin hafi bara skroppið af keflinu um stundarsakir, sbr. orð Ásmundar Friðrikssonar í Eyjafréttum:   „Og þó að um stund sé slagsíða á bátnum þá er takmarkið að ná þeim aftur um borð sem hafa ákveðið að fá sér annað skipsrúm og nýtt föruneyti. Erfiðleikar eru til að sigrast á þeim en að lokum mun mótlætið styrkja okkur og við sameinast á ný undir merkjum Sjálfstæðisflokksins.“   Sei nó mor, sei nó mor, fyrir mig, en hvað um þig? Ætlar þú að láta plata þig á laugardaginn?   Til H listans er stofnað vegna óánægju innan sjálfstæðisflokksins, sem tilkomin er vegna þess að á lýðræðið hallaði, einræði var komið á.   Að lokum ætla ég að summa þetta upp svona:   D og H listar standa fyrir lýðræðishalla, sundrungu, einræði, óánægju og klofning.   E listi stendur fyrir samvinnu og lýðræði, það er allt sem þarf, til að öllum bæjarbúum líði vel.   Settu X við E á laugardaginn ef þú vilt raunverulegar breytingar.   Guðlaugur Friðþórsson

Eigum við ekki að vinna saman

Því er haldið fram, nú á síðustu dögum kosningabaráttunnar að Eyjalistinn sé of hliðhollur meirihlutanum og sé honum sammála í einu og öllu. Sumir ganga meira að segja svo langt að telja bæjarfulltrúum okkar þetta til ámælis, þeir séu í raun einungis leppir fyrir sjálfstæðismenn í bæjarstjórn. Í raun er ekkert óeðlilegt við að þurfa að takast á við slíka umræðu, sérstaklega þegar hún er runnin undan rifjum andstæðinga okkar sem berjast nú við að afla sér fylgis og fara stundum frjálslega með staðreyndir.   Við skulum halda því til haga, eins og ítrekað hefur verið bent á, að mörg mál sem samþykkt hafa verið í bæjarstjórn hafa komið að frumkvæði bæjarfulltrúa Eyjalistans. Þessi mál eru stór hagsmunamál fyrir bæjarbúa. Frístundakortið var lagt fram af bæjarfulltrúum Eyjalistans, dagvistunargjöld leikskólabarna voru lækkuð að frumkvæði bæjarfulltrúa Eyjalistans, uppbygging íbúða fyrir fatlaða í Ísfélagshúsinu og þjónustuíbúðir fyrir aldraða við Hraunbúðir eru allt mál sem Eyjalistinn hefur haft ofarlega á sinni stefnu og við ætlum að halda þeirri hagsmunagæslu áfram.   Maður veltir því fyrir sér hvað átt er við þegar Eyjalistinn er sagður hafa verið í of miklu slagtogi við meirihlutann. Að hlusta á það að 7-0 atkvæðagreiðslur bendi til þess að bæjarfulltrúar okkar séu veikburða í slagnum við meirihlutann er út í hött!   * Áttum við að berjast gegn því að ungmenni undir 16 ára fái ókeypis aðgang að sundlauginni?   * Hefðum við átt að leggjast gegn því að bærinn niðurgreiði skólamáltíðir í grunnskólanum?   * Hefðum við betur unnið gegn því að nemendum væru tryggð námsgögn án endurgjalds?   * Áttu bæjarfulltrúar okkar að standa í vegi fyrir stórkostlegum umbótum í samgöngumálum með samningi um rekstur Herjólfs í stað þess að vinna sameiginlega að hagsmunum bæjarbúa?   * Er það virkilega krafa á bæjarfulltrúa sem starfa í minnihluta að þeir verði ávallt á móti góðum og þörfum málum?   Ég frábið mér slíkan málflutning. Ef þetta er stemningin sem ríkir í herbúðum H-listans þá er ekki von á góðu frá þeirra fólki í bæjarstjórn. Við höfum viljað og við ætlum áfram að vinna að öllum góðum málum er til framfara horfa fyrir bæjarfélagið. Við munum ekki fara í keppni það hver kemur fyrstur með góðar hugmyndir. Sjálfsdýrkun okkar er ekki á því stigi að við getum ekki sameinast um góð mál.   Njáll Ragnarsson  

Er Vestmannaeyjabær vel rekið sveitarfélag?

Okkur er reglulega sagt að Vestmannaeyjabær sé vel rekið sveitarfélag. En hvað þýðir vel rekið sveitarfélag? Er það sveitarfélagið sem á mestu peningana inn á banka, skuldar minnst, á mest eða veitir bestu þjónustuna? Það er sjálfsagt ekkert eitt rétt svar við því frekar en öðru, þetta þarf væntanlega að haldast í hendur og vera í jafnvægi, en getur verið að hægt sé að gera hlutina betur?   Ef skoðað er í Lykiltölur úr rekstri sveitarfélaga árið 2016 sem Samband Íslenskra Sveitarfélag gefur út þá sést að Vestmannaeyjabær setur 30% af sínu skatttekjum í grunnskólann sinn. Til að átta sig á því hvort að það sé mikið eða lítið skoða ég til samanburðar Kópavog 34%, Seltjarnanes 31%, Garðabæ 34%, Grindavík 41%, Akranes 30%, Ísafjörð 39%, Sveitarfélagið Skagafjörð 45%, Fjarðabyggð 44% og Árborg 40%.     Samkvæmt þjónustukönnun Gallup árið 2017 þá skorar Vestmannaeyjabær 4,0 í ánægju á skalanum 0-5 á meðan Garðabær skorar 4,2, Seltjarnanes 4,2 og Akranes 4,0. Vestmannaeyjar eru í 4. sæti af 12 stærstu sveitarfélögum landsins í ánægju með þjónustu leikskóla.   Ef leikskólarnir eru skoðaðir sjást svipaðar tölur, Vestmannaeyjabær setur 14% af skatttekjum sínum í leikskólana á meðan að Kópavogur setur 19%, Seltjarnanes 16%, Garðabæ 19%, Grindavík 17%, Akranes 16%, Ísafjörð 20%, Skagafjörður 17%, Fjarðabyggð 21% og Árborg 19%.   Samkvæmt þjónustukönnun Gallup árið 2017 þá skorar Vestmannaeyjabær 3,9 í ánægju á skalanum 0-5 á meðan Garðabær skora 4,3 og Seltjarnanes 4,2. Vestmannaeyjar eru í 8. sæti af 12 stærstu sveitarfélögum landsins í ánægju með þjónustu leikskóla.   Samtals fá fræðslu- og uppeldismál 44% af skatttekjum Vestmannaeyjabæjar á meðan Garðabær setur 53%, Seltjarnanes 54%, Kópavogur 58%, Fjarðabyggð 54%, Akranes 47%, Grindavík 55%, Ísafjörður 59%, Sveitafélagið Skagafjörður 63% og Árborg 60%.   Það er ákvörðun að veita góða þjónustu. Það er hægt að gera betur.       Guðmundur Ásgeirsson  4.sæti - Fyrir Heimaey  

Klárum seinni hálfleikinn með stæl

Samgöngumálin hafa fengið mestu umræðuna í kosningabaráttunni til þessa. Framboðin þrjú hafa öll fjallað um þessi mál en þó með misjöfnum áherslum.   Þegar ég skoða afstöðu framboðanna til samgangna dettur mér fyrst í hug handbolta- eða fótboltaleikur. Setjum okkur í þá stöðu að í mikilvægum leik sé hálfleikur og liðinu okkar hefur gengið þokkalega í fyrri hálfleik. Þó er staðan þannig að til þess að sigra þarf liðið á öllu sínu að halda til að sigra. Hvað gerir liðið þá?   Setjum nú framboðin þrjú í stöðu liðsins.   · Sjálfstæðisflokkurinn ( D listinn) er að springa af ánægju með gang mála í fyrri hálfleik, ber sér á brjóst og vill láta þar við sitja. Seinni hálfleikurinn reddast.   · Fyrir Heimaey (H listinn) gerir sér grein fyri því að fyrri hálfleik er lokið en hann vill samt halda áfram að spila fyrri hálfleikinn þótt fara eigi að flauta til leiks í seinni hálfleik.   · Eyjalistinn ( E listinn) er tiltölulega sáttur við stöðuna eftir fyrri hálfleik. Nú er honum lokið og nú þarf að einbeita sér að seinni hálfleik og nýta allt það sem í liðinu býr til að sigra leikinn.   Í þessari líkingu er það að fá nýtt skip viðfangsefni fyrri hálfleiks og það að klára Landeyjahöfn viðfangsefni seinni hálfleiks. Meginhagsmunir Vestmannaeyja felast í því að klára hvort tveggja viðfangsefnanna og ekki síst að taka seinni hálfleikinn með stæl!   P.S. Eyjalistinn hefur einnig skýra og framsækna stefnu í flugsamgöngumálum.   Ragnar Óskarsson  

Þar sem verkin tala

Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með þeim breytingum sem hafa orðið í Vestmannaeyjum á undanförnum árum undir styrkri stjórn sjálfstæðismanna.   Sterk málefnastaða Vestmannaeyjabær hefur farið úr því að vera eitt skuldsettasta sveitarfélag landsins í það að vera eitt þeirra minnst skuldsettustu. Það skiptir gríðarlegu máli fyrir möguleika sveitarstjórnar til bæta lífskjör íbúanna í dag og hefur ekki síst áhrif á tækifæri þeirra sem munu stjórna bæjarfélaginu í framtíðinni til að bæta lífskjörin enn frekar.   Eftir stórsigur Sjálfstæðisflokksins í síðustu sveitarstjórnarkosningum höfðu menn á orði að erfitt yrði að toppa þann glæsilega sigur. Engu að síður var ljóst eftir því sem leið á kjörtímabilið að ekkert virtist því til fyrirstöðu að árangurinn yrði einmitt toppaður. Þegar stjórnmálamenn láta verkin tala, gera það sem þeir segjast ætla að gera og meina það sem þeir segja, líkt og bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa sannarlega gert á kjörtímabilinu, þá hljóta kjósendur að vera ánægðir. Sveitarstjórnarmál snúast um málefni og málefnastaða sjálfstæðismanna í Eyjum er sterk.   Öflugur bæjarstjóri Elliði Vignisson er öflugur málsvari Vestmannaeyja. Við frændsystkinin settumst bæði í stól framkvæmdastjóra sveitarfélaga eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2006, hvort sínu megin við sundið. Samskiptin voru mikil, samstarfið gott þó auðvitað værum við ekki alltaf sammála um alla hluti. Málefni Landeyjahafnar voru þar í forgrunni bæði framkvæmdin sjálf en ekki síður tækifærin og möguleikarnir á auknu samstarfi Rangárþings eystra og Vestmannaeyja með tilkomu hafnarinnar. Í gegnum þessi samskipti fékk ég góða innsýn í þau stóru og alvarlegu verkefni sem blöstu við bæjarstjórn Vestmannaeyja varðandi reksturinn, fólksfækkun og baráttuna fyrir bættum samgöngum og heilbrigðisþjónustu. Sá viðsnúningur sem hefur orðið í Eyjum er ekki sjálfgefinn, hann næst aðeins með þrautseigu, áræðni og miklum viljastyrk. Þegar ég tók sæti á Alþingi hélst áfram gott samstarf og ég get leyft mér að segja að Elliði er óþreytandi baráttuhundur fyrir bættu samfélagi í Vestmannaeyjum, svo eftir er tekið á landsvísu.   Í hnotskurn Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa sýnt það með verkum sínum að þeir eru traustsins verðir. Það skiptir máli hverjir stjórna og sjálfstæðismenn geta verið stoltir af þeim mikla árangri sem náðst hefur við stjórnun bæjarfélagsins undanfarin kjörtímabil. Ég vona svo sannarlega að íbúar Vestmannaeyja velji áfram þá sem láta verkin tala og setji X við D á laugardaginn.   Unnur Brá Konráðsdóttir,   1. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi  

Hver er munurinn á framboðunum í samgöngumálum

Nú þegar tæp vika er til kosninga er rétt að skoða hvað E-listinn og D-listinn hafa áorkað í samgöngumálum, annað en að vera sammála í öllu er varðar samgöngur á sjó.   Bæði framboðin virðast hafa gleymt þeim forsendum sem þau tóku undir í minnisblaði með samantekt um stöðu mála í bæjarráði 4.12.2014 vegna tilkomu nýju ferjunnar: ,,Viðmið bæjarfulltrúa hafa verið að ekki sé ásættanlegt að fjöldi þeirra daga sem ferðir í Landeyjahöfn falli alveg niður séu fleiri en 10‘‘. Árangur af þessari 7-0 samþykkt er að nú stefnir í rúma 70 heila daga á ári í frátafir! Enn eru þau sammála og nú í því að viðhalda góðum samgöngum á sjó eins og segir hjá E-listanum og svo ætlar D-listinn að sýna áræði og þor og stíga þungt til jarðar í því að stórauka fjölda ferða á dag í Landeyjahöfn. Nú fyrir utan flugið og eru það nú ekki góð tíðindi fyrir okkur miðað við árangur síðastliðinna 12 ára.   Staðreyndin er sú að sá fjöldi ferða sem nýja ferjan getur farið frá 06:30 til 23:30 eða á 17 tímum eru aðeins 7 ferðir. En aftur að minnisblaðinu úr bæjarráði frá 4.12.2014 um ,,Flutningsgetu‘‘, þar segir: ,,Af þeim sökum er kapp lagt á að tryggja að nýja skipið geti siglt að minnsta kosti 8 ferðir á dag fyrir minni kostnað en Herjólfur siglir 5 ferðir á dag og innan sama tímaramma“. Hver er útkoman?   Herjólfur getur auðveldlega farið 5 ferðir á tæpum 11 tímum en nýja ferjan þarf um 12 ½ tíma til að ná 5 ferðum. Til að ná 8 ferðum þarf nýja ferjan hvorki meira né minna en um 20 tíma.   Er nema von að hvorugt framboðið minnist á aðkomu sína að nýju ferjunni í afrekaskrá síðastliðinna ára. Lítið fer fyrir því að kynna árangur sammálalistanna um endurbætur Landeyjahafnar. Víkjum aftur að minnisblaði bæjarráðs frá 4.12.2014 um ,,Höfnina‘‘: ,,Bæjarfulltrúar hafa ítrekað krafist þess að smíðatími nýs skips verði nýttur til að gera úrbætur á Landeyjahöfn með það að markmiði að þegar hið nýja skip kemur til þjónustu standist það væntingar‘‘. Sést það einhverstaðar?   Við hjá bæjarmálafélaginu Fyrir Heimaey X-H álítum ástandið í samgöngum á sjó óásættanlegt og viljum einnig stórbæta samkeppnishæfni í flugsamgöngum.   Það mun verða eitt af okkar fyrstu verkum í samgöngumálum að reyna að leysa flutningsþörfina á álagstímum sem eru frá kl. 8 til 13 og frá 17 til 22. Það munum við gera með því að leita eftir háhraðaferju sem gæti t.d siglt með nýju ferjunni yfir sumartímann á meðan unnið er að nauðsynlegum úrbótum á Landeyjahöfn. Samhliða þessu munum við leita til þeirra aðila sem eru að framleiða fullkomnustu og afkastamestu ferjurnar í dag til að koma og skoða hér aðstæður og koma með tillögur að ferju sem getur þjónað þörfum okkar Vestmanneyinga.   Einnig skorum við á ráðherra samgöngumála að láta tafarlaust fara fram óháða úttekt á því hvernig hægt sé að bæta aðkomuna að Landeyjahöfn eins og stefnt var að í upphafi.   Kæru Vestmannaeyingar það þarf „kjark til að breyta‘‘ og hann höfum við.   Kjósum með hjartanu – Fyrir Heimaey – Setjum X við H.   Sveinn Rúnar Valgeirsson.   Höfundur skipar 6. sæti á lista Fyrir Heimaey í komandi sveitarstjórnarkosningum.  

Sameinuð stöndum við, sundruð föllum við

Það eiga allir að kjósa, það er lýðræðislegur réttur hvers borgara.   Hér í Vestmannaeyjum getur fólk valið um þrjú framboð sem kynnt hafa stefnuskrár sínar. Ég segi kannski ekki að allar stefnuskrárnar séu eins, en þær bera það hinsvegar allar með sér að vilja gera vel fyrir bæjarfélagið Vestmannaeyjar. Allt fólkið sem er í framboði er fólk að mínu skapi og ég treysti því öllu til að standa vörð um hagsmuni Vestmannaeyja.  - Ég á vini í öllum flokkum og ég á ættmenni í sumum þeirra, fólk sem ég ber mikla virðingu fyrir.   Mér finnst stjórnmál meira eiga heima á landsvísu, - í bæjarmálum er þessu öðruvísi farið, í flestum málum. - Sum þeirra mála sem hvað mest óánægjan er með í Eyjum eru einmitt mál er snúa að ríkisvaldinu; - samgöngumálin og heilbrigðismálin.   En er bæjarfélaginu Vestmannaeyjar vel stjórnað; er hugsað um velferð íbúa; leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla. Aðstoð við fólk sem lent hefur í erfiðleikum; fjárhagslega, félagslega. Er fjármálum vel eða illa stjórnað. Er mikið að gerast í Eyjum, - framkvæmdir, mannlíf. Og svo margt og svo margt.   Í sumum þessara málaflokka hef ég lítið vit og litla þekkingu, en ég fylgist með bæjarmálaumræðunni, hitti fólk og les fréttamiðlana.´   Ég er ánægður með margt í stjórnun Vestmannaeyjabæjar og síður með annað. Ég á barnabörn í grunnskólum bæjarins, sumum þeirra líður vel í skólanum, öðrum ekki, en ég finn að það er mikill metnaður í grunnskólunum að gera vel. Ég las það í Eyjafréttum að nú stæði til að gera stórátak á skólalóðum grunnskólanna, það er vel. En ég er ekki viss um að skóli án aðgreiningar sé rétta stefnan. - Ég á líka barnabörn í leikskólum bæjarins og líkar vel.   Og það er verið að stækka annan leikskólann og þar með vonandi að fjölga leikskólaplássum.   Mér virðist að vel sé haldið á fjármálum bæjarfélagsins, rekstrarhagnaður og sterkur fjárhagur. Það er glæsilegt að eiga nokkra milljarða sem varasjóð, og sem nýtast mun næstu kynslóð.   Ég er mjög hallur undir betri umgengni um Eyjuna. Mér finnst ansi víða drasl og slæm umgengni á okkar fallegu eyju. Mér finnst umhverfi Sorpu hræðilegt, reyni að forðast að horfa í geymslugryfjuna þegar ég heimsæki fjöllin fallegu í Eyjum. Ég vildi óska að við ættum fleiri „Jóa í Laufási“.   Nýlega var ég viðstaddur vígslu á stækkun Hraunbúða, það er reyndar málaflokkur sem ríkisvaldið á að sjá um, en hefur ekki staðið sig. Vestmannaeyjabær hefur því lagt út ansi marga milljónatugi í rekstur og framkvæmdir við Hraunbúðir, - sem ríkisvaldið hefði átt að greiða, – með það að markmiði að þjóna betur þeim sem á þeirri þjónustu þurfa að halda.   Ég er félagi í Félagi eldri borgara. Stuðningur og samskipti félagsins við Vestmannaeyjabæ eru með miklum ágætum og yfir engu að kvarta.   Ég hef heyrt það á fundum ÍBV íþróttafélags, að mörgum þar á bæ finnst bæjarfélagið leggja alltof lítið af mörkum til íþróttamála og þá í samanburði við sum önnur bæjarfélög. Það má vel vera að svo sé, það þekki ég ekki, en ansi margt er vel gert, - allavega er Vestmannaeyjabær íþróttabær og fá ef nokkurt bæjarfélag stendur Eyjunum að sporði nú um stundir. Til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn í handbolta og alla hina titlana; Arnar, Siggi, Kalli og þið öll, sem hafið fært okkur Eyjabúum þvílíka gleði og stolt. – Vestmannaeyjabær þarf að standa vörð um þetta flotta félag.   Ég er nokkuð viss um að framkvæmdir í Vestmannaeyjum þessi misserin eru meiri en nokkurn tímann, nema ef vera skildi árin eftir gos.   Ég er mjög spenntur fyrir nýja hvalasafninu og fiskasafninu í Fiskiðjuhúsinu. Þar hafa menn hugsað stórt og fram á veginn.   Ég á erfitt með að þola endalaust forræði „að sunnan“ og þakka þeim kærlega, sem stóðu fyrir andmælum gegn því að friðlýsingu á búsvæðum sjófugla við Vestmannaeyjar yrði stjórnað úr Reykjavík, - og höfðu sigur. Þar kom til vilji bæjarbúa sem sögðu: Nei takk.   Ég var líka mjög ánægður með að Vestmannaeyingar fái að hafa meira um rekstur Herjólfs að segja. Öll helstu framfaramál Vestmannaeyja í gegnum tíðina hafa orðið þegar Eyjafólk tekur málin í sínar hendur. – Forræði „að sunnan“. Nei takk.   En verkefnið að stjórna bæjafélagi tekur aldrei enda, og þótt margt sé gott og hafi verið vel gert, er margt eftir að gera og margt má gera betur. Enginn getur allt, en allir geta eitthvað. Heilu bæjarfélagi er ekki stjórnað af 7 manna bæjarstjórn, þar kemur til starfsfólk bæjarfélagsins og íbúar þess. „Sameinuð stöndum við, sundruð föllum við“.   Allir eiga sína erfiðu tíma, - ég er þar engin undantekning. Á erfiðum tíma kom sálfræðingurinn og bæjarstjórinn Elliði Vignisson til mín óumbeðinn, og veitti mér stuðning og hjálp, - sem ég mun aldrei gleyma. Þá gerði ég mér grein fyrir að hann er gull af manni.   Fyrir nokkrum dögum spurði hún Hanna mín, hvort ég væri búinn að ákveða hvað ég ætlaði að kjósa. Ég játti því. -  „Ég þarf líklega ekki að spyrja hvað flokk þú ætlar að kjósa?“ spurði hún. -  „Nei, maður á áttræðisaldri snýr úr því sem komið er, ekki svo glatt af þeirri leið, sem hann hefur arkað allt sitt líf - og verið sáttur við“.   Áfram Vestmannaeyjar   Gísli Valtýsson  

Fyrir Heimaey taktu skrefið með okkur

Undanfarna daga hafa borist til okkar stefnuskrár þriggja stjórnmálaafla hér í bæ. Eitt er það afl sem nú býður fram krafta sína er Fyrir Heimaey þar er á ferðinni einstaklingar sem gefa kost á sér til þeirrar samfélagsþjónustu sem framboð er í raun. Í stefnuskránni segir að það þufti kjark til að breyta og það er rétt. Við Vestmannaeyingar höfum haft kjark til að taka málin í okkar hendur og koma fram þeim breytingum sem við teljum að séu til hagsbóta fyrir okkar samfélag. Þarna er ekki verið að skreyta sig með stolnum fjöðrum. Eitt okkar stærsta hagsmunamál er að bæði höfn og skip sem eiga að sinna samgöngum á milli lands og eyja séu í stakk búin til þess. Gleymum ekki flugi hér á milli sem hefur verið sinnt af mikilli elju þeirra flugfélagsmanna hjá Örnum. Þar má leggjast á sveif með þeim að fjölga farþegum sem vilja fljúga hér á milli. Gera þeim farþegum sem vilja hafa hér lengri dvöl það mögulegt. Hér eru góðir gisti mögluleikar og ýmis dægrastytting í boði. Það er búið að lagfæra og gera fargjöldin hér á milli ódýrari fyrir okkur með Herjólfi . En er það nóg ? Nei undanfarið þá hefur ekki verið hægt að sigla á milli eyja og Landeyja nema á flóði þ.e. að sjávarstaða sé þannig að Herjólfur fljóti innan hafnar og komist á haf út aftur. Að þetta sé með þessum hætti í dag er að mínu viti algjölega óásættanlegt. Skip er í smíðum en höfnin látin vera og síðan á bara að grafa þegar hann lignir ! Það verður að koma málefnum Landeyjarhafnar á dagskrá ríksistjórnarinnar og að samgönguráðherra taki af skarið og láti fara fram úttekt á málum hafnarinnar og hverju þurfi að breyta til að Herjólfur og nýja skipið geti siglt þarna inn við sæmilegustu aðstæður. Ég tel að það þurfi miklu stærri aðgerðir en að setja upp einhverja dælur að hvorn garð eins og menn láta sig dreyma um. Atlantshafið lætur ekki að sér hæða það hefur lamið suðurströndina og fært til sand og strönduð fley um aldir og kemur til með að gera að áfram. Búseta hér til framtíðar byggir á góðum og öruggum samgöngum, rekkstur fyrirtækja byggir líka á því að hingað komist efni og afurðir fari til lands. Ungt fólk sem hér ætlar að byggja hér og búa gerir þá kröfu að samgöngur séu tryggar hér á milli og á skynsamlegu verði. Ég vona að frambjóðendur H listans fái góða kosningu og að kjarkur fylgi málum til breytinga. Sjálfstæður maður Ólafur Lárusson kennir hegurð við GRV.   Ólafur Lárusson  

Traust fjárhagsstaða Vestmannaeyja

Í kosningum er kosið um árangur og stefnu. Kjósendur vega og meta það sem gert hefur verið og spyrja sig hvort stefna framboða sé í samræmi við málflutninginn á kjötímabilinu og hvort betur verði gert á næsta kjörtímabili. Eðlileg skiptist fólk á skoðunum um þessar staðreyndir, en verkefni sveitarstjórnamanna breytist ekki að því leiti að alltaf er verið að leita leiða til að gera betur í dag en í gær.   Sterk staða. Þannig er það líka í Vestmannaeyjum að margir eru að gera upp hug sinn fyrir kosningarnar á laugardaginn. Ef litið er til baka og horft á stóru myndina þá hefur samfélagið í Vestmannaeyjum undir stjórn Sjálfstæðisflokksins skipað sér í hóp allra öflugustu sveitarfélaga landsins. Fjárhagsstaða sveitarfélagsins er með því allra besta sem gerist og íbúarnir hafa séð þess stað á mörgum sviðum. Þannig njóta eldri borgarar í Vestmannaeyjum betri kjara en á öðrum stöðum í landinu. Í mörg ár hafa sjálfstæðismenn staðið fyrir því að þeir greiða ekki fasteignargjöld af íbúðarhúsnæði sínu. Það er vel gert að nota sterka fjárhagslega stöðu til að búa öldrum áhyggjulaust ævikvöld.   Íbúðir fyrir fatlaða Þá er komið að því að okkar fólk með öðruvísi getu og hæfileika fái húsnæði við hæfi. Nú liggur fyrir að íbúðir fyrir það fólk verði reistara á Ísfélagsreitnum og er það sérstakt fagnaðarefni að það hillir undir að sá draumur er að verða að veruleika. Það lýsir góðu hjartalagi hvers samfélags hvernig hlúð er að öldruðum, sjúkum og fötluðum. Það er daglegt verkefni allra að ná betri árangri á þeim sviðum og þar skora Eyjamenn hátt.   Spennandi tímar Það er margt spennandi þegar litið er inn í framtíðina. Ég hef talað fyrir því í mörg ár að rekstur Herjólfs verði á höndum heimamanna. Nú er það mál komið í höfn og ég veit að það verður skref framávið að mikilvægasta samgönguæðin verði rekin á forsendum heimamanna og atvinnulífsins í Eyjum. Það er mikilvægt verkefni að treysta ferðaþjónustuna í Eyjum en margt spennandi er þar í farvatninu. Varmadælustöðin sem er í byggingu er einstakt verkefni sem bundnar eru miklar vonir við. Það er mikið að gerast í Eyjum og framtíðin byggir á traustri stöðu og afkomu sveitarfélagsins.   Kosið um traust Vestmannaeyjabær nýtur mikils og góðs trausts sem framtíð unga fólksins i Eyjum mun byggja á. Það verður kosið um stöðugleika, trausta fjármálastjórn og áframhaldandi sterka stöðu sveitarfélagsins í kosningunum á laugardaginn.   Setjið X við D á kjördag.   Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins.  

TVÍBURARNIR FRÁ ZÍAM

Greinin hans Ragga Ég las grein eftir Ragnar Óskarsson áðan, nýt þess reyndar alltaf að lesa greinarnar hans því þær eru vel skrifaðar og oftar en ekki hittir hann naglann á höfðið. Því miður fataðist mínum gamla samflokksmanni flugið í þessari grein þegar hann heldur því fram að Sjálfstæðisflokkur og Fyrir Heimaey sé einn og sami flokkurinn. Hvernig er hægt að halda slíku fram þegar forystumenn E og D lista síðasta kjörtímabils hafa sýnt slíka tilburði að samvöxnu tvíburarnir frá Síam hefðu fylltst öfund ef þeir væru ofanjarðar í dag. Þeir hafa stigið dansinn svo taktfast síðustu fjögur ár að unun er að. Tangó aldarinnar. Jafnvel á ögurstundu þegar ákall kom frá samfélaginu um að fá allar staðreyndir varðandi samninginn um Herjólf upp á borðið var E listinn, rekkjunauturinn góði svínbeygður til undirgefni og allt samþykkt mótþróalaust. Og hver er framtíðarspáin varðandi tvíburana góðu? Samflokksmaður Stebba Jónasar, Georg Eiður Arnarson spáir því að hann skelli sér í bólið hjá Elliða strax að kosningum loknum. Og af hverju ekki þegar Stebbi hefur haft svona fiman bólförunaut?   Hvalrekar Já það hefur margt afrekið verið unnið á kjörtímabilinu og það skyldi ekki lastað. Eins hafa verkefni rekið á fjörur þeirra félaga sem þeir stæra sig ótæpilega af, eins og hingað koma tveggja hvala frá heimalandi tvíburanna frá Zíam, Kína. Í vikunnu er von á kaupsýslumanni frá Reykjavík sem ætlar að opna sundskála í nýjahrauninu þar sem þeir ætla að leigja út sólskinið og selja tæran sjó, allt svona rétt fyrir kosningar svo þeir réttlátu geti gortað af enn einum hvalrekanum.   Örugg fjármálastjórn Tvíburarnir berja hvor öðrum á brjóst og tala um fjárhagsleg afrek sín. Þvílík afrek. Þróunarfélagið var flutt frá Strandvegi í Fiskiðjuna. Líklega hefur þurft að finna lendingarstað fyrir það á leiðinni, en félagarnir keyptu húsnæði á annari hæð Miðstöðvarinnar fyrir tugi milljóna og eyddu 25 milljónum í að hanna húsnæðið fyrir setrið. Já, leiðin frá Strandveginum í Fiskiðjuna er löng og einhversstaðar þurfti Setrið að hvílast á leiðinni. Er einhver búinn að gleyma EY? Eyi ég. 14 milljónir fóru til fyrirtækis í Reykjavík til að kynna Vestmannaeyjar fyrir Vestmannaeyingum. Hefur einhver farið á ey nýlega? Ég er stoltur af Eldheimum sem áttu að kosta 450 milljónir. Kostnaðurinn er núna kominn yfir milljarð og verkinu er ekki enn lokið. Fiskiðjuævintýrið er komið hundruði milljóna fram úr áætlun. Er það þetta sem tvíburarnir frá Zíam eiga við með góðri fjármálastjórn?   Ferjan og höfnin Enn rekur á fjörur tvíburanna frá Zíam. Það kemur ný ferja í haust sem er auðvitað gott og enginn á sér heitari óskir um velfarnað nýs Herjólfs en sá sem þetta skrifar. En Herjólfur þarf höfn til að sigla í. Hún opnaði fyrir 8 árum síðan. Eruð þið búin að gleyma því að tíu dögum frá opnun hafnarinnar strandaði Herjólfur í fyrsta sinn? Síðustu átta ár hefur komið þungt ákall frá samfélaginu okkar um að höfnin verði lagfærð þannig að hún þjóni þeim tilgangi sem henni var ætlað, að vera heilsárshöfn okkar en ekkert, akkurat ekkert gerst nema þá svikin loforð. Hvar hafið þið alið manninn tvíburar frá Zíam í þessu máli? Þið hafið hlustað á guð ykkar hjá Vegagerðinni sem þið hafið ákallað allt síðustu kjörtímabil. Mér líkar vel málflutningur Fyrir Heimaey þegar Landeyjarhöfn er annars vegar, það er auðséð að þeir ætla ekki að gefa ríkisvaldinu neitt eftir vegna hafnarinnar. Það þarf að taka hana út af óháðum sérfræðingum þannig að hægt verði að lagafæra hana til frambúðar. Tvíburarnir hafa haft 4 ár til að guða á gluggann hjá Vegagerðinni, en ekkert hefur gerst. Sandurinn glottir. Það sama gera Belgarnir sem belgja út sjóði sína vegna heimsku okkar.   Raggi minn. Hættu að hnýta í þá hjá Fyrir Heimaey að þeir séu Sjálfstæðismenn. Taktu frekar fram skurðarhnífinn og reyndu að aðskilja tvíburana knáu, annars færðu önnur fjögur ár með Sjálfstæðisflokknum þínum.   Kristján Yngvi Karlsson  

Vísitölutenging leikskólagjalda

Vísitölutenging leikskólagjalda   Þrátt fyrir fögur orð og einlægjan vilja fræðsluráðs um börn og barnafjölskyldur þá hefur ekki tekist að afnema vísitölutengingu leikskólagjalda í Vestmannaeyjum. Fyrir Heimaey er með á stefnuskrá sinni að afnema vísitölutenginu leikskólagjalda. Leikskólagjöld miðað við 8 tíma með fæði í janúar 2017 voru orðin dýrust í Vestmannaeyjum af 14 öðrum sveitarfélögum sem borin eru árlega saman. Eftir greinarskrif var í framhaldi brugðist við háum leikskólagjöldum þó ekki vandræðalaust. Orðrétt var bókað í fræðsluráði 26. september 2017 ,,Fræðsluráð samþykkir því að lækka dagvistunargjöld leikskóla um 12,9% eða úr 3.616 kr./klst. niður í 3.150 kr./klst.‘‘. Þar með varð upplýst að fræðsluráð vissi ekki hver rétt gjaldskrá var því 1. ágúst 2017 var hún 3.898 kr. Undirbúningsvinna þeirra sem sitja í ráðinu var einfaldlega ekki nógu góð.   Í febrúar bókaði ráðið: ,,Til að tryggja að tenging við vísitölu verði ekki til að hækka gjaldskrár umfram það sem almennt gerist hefur ráðið reglulega tekið saman gögn um gjaldskrár annarra sveitarfélaga og leiðrétt sínar gjaldskrár í samræmi við það.‘‘   Áfram fögur orð og rétt að skoða þróun gjalda í Vestmannaeyjum í samanburði við Hafnarfjörð sem hefur verið ofan við miðju er kemur að leikskólagjöldum.     Dæmi hver fyrir sig um reglulega samantekt á gögnum og leiðréttingar. Eitt er víst að það þarf kjark til að breyta og áfram hækkar vísitalan leikskólagjöldin í Vestmannaeyjum. Bæjarmálafélagið Fyrir Heimaey hefur á stefnuskrá sinni að binda endi á vísitölutengingu leikskólagjalda í Vestmannaeyjum.   Kjósum með hjartanu – Fyrir Heimaey – Setjum X við H.     Elís Jónsson Höfundur skipar 3. sæti á lista Fyrir Heimaey 

Er búið að semja um meirihluta?

Á ferðum mínum um bæinn í aðdraganda kosninganna á laugardaginn hefur orðið mikið spjall um ýmis málefni. Eftir að málefnaskrá Eyjalistans var gefin út í síðustu viku hafa bæjarbúar almennt tekið vel í það sem við viljum ná fram á komandi kjörtímabili. Við heitum því að styðja við öll góð mál er til framfara horfa fyrir bæjarfélagið og skiptir þá ekki máli hver kom fyrst fram með hugmyndina því allar góðar hugmyndir þarf að ræða og koma í framkvæmd.   Strax í upphafi kosningabaráttunnar lögðum við áherslu á samráð og samtal við íbúa í bænum. Við settum fram þá kröfu að fulltrúar bæjarins komi fram af virðingu og kurteisi hver gagnvart öðrum svo og öllum bæjarbúum. Það hlýtur að vera helsta krafan sem bæjarbúar gera til kjörinna fulltrúa, til þeirra sem starfa í þágu bæjarbúa. Við urðum vör við í þessari umræðu að margir hér í bæ upplifa að stjórn bæjarins sé ekki í þágu allra bæjarbúa heldur einungis hluta þeirra. Og það er þróun sem þarf að snúa við. Eins ótrúlega og það kann að hljóma var krafan um gegnsærra stjórnkerfi og aukna áherslu á virka þátttöku íbúa í stjórnun bæjarfélagsins ekki fundin upp fyrir þessar kosningar af einu framboði frekar en öðru. Þessi hugsun í raun jafngömul lýðræðinu sjálfu.   Önnur spurning sem oft hefur komið fram í spjalli mínu á kaffistofum bæjarins er með hvorum arminum úr sjálfstæðisflokknum okkur hugnist betur að fara með í meirihlutasamstarfi. Í fulli hreinskilni og kinnroðalaust get ég fullyrt hér að við erum ekki farin svo mikið sem að íhuga nokkuð meirihlutasamstarf. Hvorki með D- né H- lista. Hins vegar óttast ég, og ég hef áður lýst áhyggjum mínum af því áður, að hið nýja bæjarmálafélag verði fljótlega eftir kosningar sameinað sjálfstæðisflokknum aftur. Ég leyfi mér að vitna í orð Ásmundar Friðrikssonar sem birtust á eyjafréttum.is þann 16. maí sl. máli mínu til stuðnings. Þar segir þingmaðurinn:   „Því miður göngum við ekki samhent til þessara kosninga eins og ég hafði vonað, en verkefnið verður að leiða ágreininginn í jörð og ná sátt í flokknum okkar. […] Og þó að um stund sé slagsíða á bátnum þá er takmarkið að ná þeim aftur um borð sem hafa ákveðið að fá sér annað skipsrúm og nýtt föruneyti. Erfiðleikar eru til að sigrast á þeim en að lokum mun mótlætið styrkja okkur og við sameinast á ný undir merkjum Sjálfstæðisflokksins“.   Svo mörg voru þau orð.   Njáll Ragnarsson  

Ráðningamálin hjá Vestmannaeyjabæ eru ekki háð geðþótta

Í rúm tíu ár hef ég gengt stöðu framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs og komið að ráðningu nokkuð margra starfsmanna þ.m.t. stjórnenda. Það er vont að lesa það að vinna manns við ráðningar hjá sveitarfélaginu sé hulin ráðgáta, ekki fagleg og jafnvel talin háð geðþóttarákvörðunum. Svo er bara alls ekki.   Vegna þessa tel ég mig knúinn til að skrifa hér og um leið að gera tilraun til að útskýra hvernig staðið er að ráðningum hjá Vestmannaeyjabæ.   Það er skylda hvers stjórnenda, sem hefur með ráðningarmál að gera, að velja til starfa hæfasta umsækjandann sem sækir um starf hjá Vestmannaeyjabæ. Valið fer ekki eftir geðþóttarákvörðunum heldur eftir mjög skýrum og stífum reglum. Í rauninni eru meiri kröfur gerðar til ráðningar hjá opinberum aðilum en á almenna markaði. Fara þarf eftir Stjórnsýslulögum, óskráðum meginreglum sjórnsýluréttarins, Lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, Lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, Upplýsingalögum og kjarasamningum.   Ég og forstöðumenn stofnana vorum ráðin m.a. til að sinna ráðningarmálum. Bæjarstjóri kemur eingöngu að ráðningu á framkvæmdastjórunum sviða. Pólitískir fulltrúar koma hvergi nálægt þessum málum. Gagnrýni á ráðningar eru því ekki gangnrýni á neina aðra en okkur emættismenn Vestmannaeyjabæjar.   Eftir áratuga reynslu tel ég mig hafa bæði ágætis þekkingu og reynslu af þessum málum og get í raun kallað mig fagmann á þessu sviði.   Öll störf hjá Vestmannaeyjabæ eru auglýst en þó eru heimilaðar undantekningar varðandi afleysingastörf. Almenna reglan er að auglýsa öll störf. Þegar starf er auglýst liggur nokkuð skýrt fyrir um hæfniskröfur til starfsins. T.d. í tilfelli skólastjórnenda og í raun fleiri starfsmanna þá liggur slíkt tilgreint í lögum og/eða kjarasamningum.   Val á hæfasta umsækjandandanum er einungis einn þáttur af mörgu við ráðningu. Sjónarmiðin við val á umsækjanda þurfa að vera málefnaleg. Sjónarmið um menntun og reynslu sem gera má ráð fyrir að nýtast í starfi eru augsýnilega málefnaleg en það eru einnig fleiri atriði. Ákvörðun um val á umsækjanda þarf að vera hægt að rökstyðja og standast allar kröfur áður nefndra laga og reglna.   Oftast liggja val á hæfasta umsækjanda skýrt fyrir t.d. vegna menntunar hans, reynslu og þekkingar eða að viðkomandi er eini umsækjandinn um starfið og uppfyllir hæfni til þess.   Í sumum tilfellum getur hæfni umsækjenda verið nokkuð jöfn og mat á hæfni þeirra erfiðara. Þá koma ráðningarskrifstofur til aðstoðar þar sem þær kafa dýpra í umsækjendurna. En ráðningarskrifstofur leysa ekki allt. Þær taka aldrei lokaákvörðunina af stjórnanda stofnunar eða sveitarfélags um val á hæfasta umsækjandum. Sú ábyrgð verður allaf í höndum stjórnandans.   Starfsmanna- og ráðningarmál er viðkvæmur málaflokkur og alls ekki hafinn yfir gagnrýni eða endurskoðun á verkferlum. Þetta eru þau mál sem fá meiri athygli en margt annað. Verum málefnaleg í umræðu um ráðningar- og starfsmannamál og sáum ekki fræi óþarfa tortryggni. Á bak við hvert starf hjá Vestmannaeyjabæ er hæfur starfsmaður sem valin hefur verið sérstaklega til starfa sem hann er að sinna af sinni bestu getu og dugnaði.   Jón Pétursson    

Þegar mennirnir í brúnni eru að standa sig

Þegar ég flutti aftur heim til Eyja eftir áralanga fjarveru með konu og tvo drengi 1 árs og 3ja ára var gott að koma heim. Hér hefur okkur liðið vel og það hjálpaði sannarlega að geta strax komið drengjunum í dagvistun og á leikskóla. Við fundum fljótt hversu vel er gert hér við barnafólk auk þess sem umhverfið hér allt, með stuttum vegalengdum og fallegri náttúru, gerir það eftirsóknarvert að ala hér upp börn.   Kannski er það sem við höfum verið mest ósátt við eru heilbrigðismálin, en Vestmannaeyjar hafa lent undir niðurskurðarhníf ríkisins eins og fleiri sveitarfélög hafa lent í þegar kemur að heilbrigðismálunum. VIð höfum þurft að nota sjúkraflug hér einu sinni með yngri strákinn okkar þar sem nærþjónustan hefur ekki verið til staðar. Þó er vert að hrósa bæjaryfirvöldum sem hafa haldið málinu á lofti og krafist úrbóta.   Kosningarnar í ár virðast að miklu leyti snúast um persónu bæjarstjórans Elliða Vignissonar sem hefur náð eftirtektarverðum árangri ásamt sínu liði í rekstri bæjarins. Þannig hefur rekstrinum á síðustu 12 árum algerlega verið snúið við, frá því að vera eitt verst stadda bæjarfélag landsins upp í að vera eitt best stadda bæjarfélagið. Má það ljóst vera að önnur sveitarfélög öfunda okkur að þeim mikla árangri sem hér hefur náðst. Samhliða þessum góða rekstri er öll þjónusta sveitarfélagsins til mikillar fyrirmyndar. Hér er gott að búa og hér líður fólki vel. Væri það ekki furðulegt og hreint galin niðurstaða að ætla að henda út því fólki sem hefur staðið í brúnni og náð þessum árangri, viljum við það virkilega?   Því miður virðist undiraldan í þeirri meintu óánægju sem kallað hefur fram annað framboð vera drifin áfram af hvötum sem snúa ekki endilega að óánægju með gang mála í bæjarfélaginu. Ættu kosningarnar ekki einmitt að snúast um málefnin og hæfni þeirra sem í framboði eru til að fylgja þeim eftir. Spurningin er sú hvort skipstjórinn í brúnni sé að standa sig. Erum við með gott og vel rekið bæjarfélag? Tekur hann á erfiðum málum af festu, er hann fylginn sjálfum sér og skilar hann okkur góðu búi, eru spurningar sem við getum haft í huga við val á framboðum.   Nú er ég búinn að lesa stefnuskrá þeirra framboða sem bjóða sig fram fyrir næsta kjörtímabil og eru þær allar nokkuð Það sama , hljóta samt að vakna upp spurningar um það hvers vegna við ættum að fá einhverja aðra til að sinna því sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að gera mjög vel og náð þessum mikla árangri.   Ég var á sjó í nokkur ár hér í Eyjum og var með þeim nokkrum skipstjórunum. Upp í hugann koma Biggi á Vestmannaey, Sævar Sveins, Steindór á Valdimari Sveins og þá sérstaklega einnig hann pabbi minn Eyjólfur á Vestmannaey. Um þessa menn eins og aðra skipstjóra voru skiptar skoðanir og margt um þá sagt í lúkarspjallinu. Engum hefði hins vegar dottið til hugar að skipta út skipstjóra sem skilaði útgerð og áhöfn öruggum rekstri og afkomu, hvað þá að skipstjórinn yrði verri við það að hafa verið lengi í brúnni, þvert á móti var litið á mikla reynslu þessara manna sem einn þeirra stærsta kost.   Miðað við útkomu í skoðanakönnun Fréttablaðsins fyrir nokkru síðan er ljóst að meirihluti Sjálfstæðismanna verður liðin tíð og það fólk sem mun fara með stjórn bæjarins mun hefja tímabilið án mikillar reynslu auk þess sem Elliði Vignisson og Rut Haraldsdóttir og fleira reynslu mikið fólk myndu hverfa frá sínum störfum. Væri slíkt virkilega sorgleg niðurstaða að mínu mati.   Ég hvet kjósendur til að láta ekki sögur ráða för í kosningunum. Horfum á staðreyndirnar og kjósum fólk sem hefur náð áragangri og hefur metnað til að halda áfram að gera góðan bæ betri.     Gísli Ingi Gunnarsson

Hulin ráðgáta

Ráðningamál hjá Vestmannaeyjabæ hafa verð mér hulin ráðgáta í gegnum tíðina.   Í starfsmannastefnu Vestmannaeyjabæjar er eitt af markmiðum “að ráða hæft, áhugasamt og traust starfsfólk og efla það í starfi.” Ég efast ekki um ágæti starfsmanna Vestmannaeyjabæjar heldur hvernig er staðið að ráðningu þeirra starfsmanna sem hafa mikla ábyrgð í stjórnunarstörfum.   Samkvæmt heimasíðu Vestmannaeyjabæjar er m.a. auglýst eftir skólastjóra, leikskólastjóra og deildarstjóra. Hvers vegna fara þessar ráðningar ekki í gegnum fagaðila s.s. ráðningaskrifstofu? Og hvers vegna eru ekki sömu menntunarkröfur í sömu störf frá ári til árs? Við ráðningu skólastjóra árið 2013 og við ráðningu hjúkrunarforstjóra Hraunbúða síðasta vor var notast við ráðingaskrifstofu sem var til mikillar fyrirmyndar. En hvað hefur breyst? Hvað veldur þessum ólíku vinnubrögðum?   Á bæjarstjórnarfundi 15. maí sl. var samþykkt að stofna opinbert hlutafélag, Herjólfur ohf., ásamt því að samþykkt var tilnefnd stjórn. Ég velti fyrir mér hvernig ráðningar á framkvæmdastjóra nýs félags muni vera háttað miðað við þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð í öðrum ábygðarstörfum hjá Vestmannaeyjabæ. Mikilvægt er að við ráðningu framkvæmdastjóra Herjólfs ohf. verði notast við ráðningaskrifstofu í ljósi þess hversu ábyrgðafullt starfið mun vera miðað við þá mörgu óvissuþætti sem til staðar eru.   Til þess að markmið um ráðningamál í starfsmannastefnu Vestmannaeyjabæjar náist þarf að tryggja að unnið sé faglega. Samræma þarf vinnubrögð við ráðningu starfsmanna og hætta að vera með geðþóttaákvarðanir um öll störf. Verum fagleg og látum fagaðila sjá um ráðningaferli í stjórnunarstöður hjá Vestmannaeyjabæ. Gefum okkur þann tíma sem til þarf.   Virkjum lýðræðið fyrir alla.   Jóna Sigríður Guðmundsdóttir   Höfundur skipar 2. sæti á lista Fyrir Heimaey í komandi sveitastjórnarkosningum.  

Er ástæða til að breyta?

Hér í gamla daga var skrifari eilítið viðloðandi Sjálfstæðisflokkinn. Var í fulltrúaráðinu og ritstjóri Fylkis um nokkurt skeið og svo í ritstjórn Fylkis enn lengur. Skrifari man enn að þá voru ráðandi ákveðnar línur um útlit og framkomu þeirra sem voru í svonefndum ábyrgðarstöðum innan flokksins. Til að mynda máttu karlmenn helst ekki vera með skegg, það var talið rýra álit flokksins þar sem vinstri menn skörtuðu í þann tíð oft skeggi. Svo tók skrifari upp á því, einhvern tíma fyrir gos að láta sér vaxa skegg og þar með var hans frami úti innan flokksins. Um allnokkurn tíma lágu leiðir skrifara og flokksins ekki saman (hvort sem það var nú út af skegginu eða öðru) og um allnokkurn tíma kaus skrifari eitthvað annað en bláa litinn. Svo er sagt að menn verði íhaldssamir með aldrinum og líklega á það við um skrifara eins og aðra. Alla vega kaus hann frænda sinn (þennan af Oddsstaðaættinni) og hans lið í síðustu kosningum og skammast sín ekkert fyrir það. Honum þótti þau hafa staðið vel fyrir sínu fyrir hans hönd og annarra, ekki hvað síst fyrir að fella niður fasteignagjöld gamals fólks (og þar með að útbúa grundvöll fyrir golfferðir á framandi slóðir fyrir forfallna golfleikara). En skrifari man líka að á sínum fyrri árum í flokknum, var hann ekki alltaf á eitt sáttur með þær ákvarðanir sem þar voru teknar. Þar fannst honum á stundum heldur gamaldags viðnorf ráða ríkjum. Aldrei varð þó af því að hann léti þau viðhorf leiða til þess að kljúfa sig út úr flokknum og boða til nýs framboðs. Það gerðu vinstri menn reyndar í óspörum mæli á sínum tíma á landsvísu með heldur misjöfnum árangri. Nú hefur það reyndar gerst að óánægðir bláir menn í Vestmannaeyjum hafa ákveðið að efna til nýs framboðs. Ekki sáttir við það sem flokkurinn hefur verið að gera. Skrifari hefur ekkert við það að athuga. Sé fólk óánægt, þá lætur það auðvitað slíkt í ljós. Hins vegar vekur það skrifara nokkra furðu að honum virðist ekki vera um málefnalegan ágreining að ræða heldur persónulegan ágreining. Og reynslan af slíkum framboðum hefur ekki verið árangursrík á Íslandi fram til þessa. Þau hafa stundum náð nokkrum frama í upphafi en síðan hefur fjarað undan eins og áður er sagt. Bæjarfélaginu í Vestmannaeyjum hefur verið vel stýrt á undanförnum árum. Um það eru flestir sammála (meira að segja minnihluti E-listans). Er einhver ástæða til að fara að breyta því?     Sigurgeir Jónsson

Pizzubakstur í stað netaafskurðar

Þegar ég var peyi hafði ég stundum aukapening út úr því að hjálpa mömmu að skera af netum. Bílskúrinn upp á Illó var oft yfirfullur af þessum litríku nælon flækjum og vinnudagurinn stundum langur. Það var þó bætt upp með nægu framboði af kremkexi og appelsíni.   Fjölskylduútgerðir Við skárum af netum fyrir hina og þessa útgerðamenn. Þeir áttu það allir sameiginlegt að vera frumkvöðlar. Byrjuðu snemma á sjó. Fóru svo í stýrimannaskólann. Tóku sennilega lán og keyptu svo bát. Þannig urðu til þessi fjölskyldufyrirtæki sem við unnum svo hjá við netaafskurð.   Frumkvöðlar Þessi tími er farinn og hann kemur ekki aftur. Frumkvöðlakraftur Eyjamanna er hins vegar sá sami. Auðvitað sjáum við hann víða enn í sjávarútvegi en fjölskylduútgerðir dagsins í dag eru oftar en ekki ferðaþjónustufyrirtæki.   Tækifæri Nú kaupa frumkvöðlarnir gamalt hús og breyta því gistiheimili. Þeir breyta stálsmiðju í veitingahús og sjoppu í pizzugerð. Kaupa reiðhjól og leigja út. Verða sér út um rútukálf og bjóða upp skoðunarferðir. Listinn yfir tækifærin er endalaus.   Jarðvegurinn Vestmannaeyjabær getur víða lagt þessum frumkvöðlum lið. Mestu skiptir samt að sjá til þess að innviðirnir styðji við vöxtinn. Samgöngurnar skipta þar að sjálfsögðu mestu en fleira þarf til. Vestmannaeyjabær hefur lagt sérstaklega ríka áherslu á að skapa hér sterka segla til að draga að ferðamenn og fá þá til að stoppa lengur en annars væri. Tilkoma Eldheima er gott dæmi um velheppnaða aðkomu Vestmannaeyjabæjar.   Fiskasafn Á sama hátt mun starfsemi alþjóðlega stórfyrirtækisins Merlin hafa hér víðtæk áhrif. Ekki einungis munu þeir verða hér með athvarf fyrir hvali í Klettsvíkinni, sem er einstakt í heiminum, heldur munu þeir einnig verða hér með fiska- og náttúrugripasafn á jarðhæð Fiskiðjunnar þar sem til sýnis verða lifandi fiskar. Auk þess verður sérstök áhersla lögð á að sýna lunda, og pysjur sem ekki geta lifað í villtri náttúru þannig gefið líf.   Baðlón Það er einnig ánægjulegt að segja frá því að Vestmannaeyjabær hefur þegar hafið samtal við sterka fjárfesta um aðkomu að baðlóni í nýja hrauninu. Meira um það síðar.   Hin stoðin Þótt sjávarútvegurinn sé okkar lang mikilvægasta atvinnugrein er ferðaþjónustan hér vaxandi og þegar orðin hin stoðin í hagkerfi okkar. Þótt liðin sé sú tíð að börn skeri af netum með foreldrum sínum þá hafa þau, eins og þeir sem eldri eru, þess í stað aðra –og ekkert síðri- aðkomu að atvinnulífinu. Í stað netaafskurðar baka þau pizzur, þjóna til borðs, afgreiða á hótelum og margt fl.   Ég er til Með samstilltu átaki og bættum samgöngum getum við stigið stór skref til frekari eflingar ferðaþjónustunnar. Þar þarf hinsvegar þrek, þor og jákvætt viðhorf. Fái ég til þess umboð er ég áfram til í að leggja mitt af mörkum.​     Elliði Vignisson bæjarstjóri  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Stjórnmál >>

Því miður göngum við ekki samhent til þessara kosninga

Í síðustu viku sendum við fyrirspurn á tvo sitjandi þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi til að athuga hvar þeir standa varðandi klofningu flokksins hér í bæ. Páll Magnússon fyrsti þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi vildi ekki tjá sig um stöðuna. ''Ég hef ákveðið að tjá mig ekkert opinberlega um málefni okkar Sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum, að svo stöddu''.   Erfiðleikar eru til að sigrast á þeim Ásmundur Friðriksson sagði í samtali við Eyjafréttir að sem annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi styður hann auðvitað framboð flokksins í Vestmannaeyjum. „Ég hef fylgst með úr fjarlægð hvað var að gerast í framboðsmálum Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum og það tók mig sárt hver sú niðurstaða varð. Ég hef tekið þátt í fjölmörgum kosningabaráttum fyrir flokkinn í Eyjum og það hefur verið skemmtilegt að vinna í hópi samhentra sjálfstæðismanna og kvenna sem hafa frá því að ég man eftir mér unnið hvern stórsigurinn á fætur öðrum. Því miður göngum við ekki samhent til þessara kosninga eins og ég hafði vonað, en verkefnið verður að leiða ágreininginn í jörð og ná sátt í flokknum okkar. Það verður hlutverk okkar þingmanna og sjálfstæðismanna í Eyjum að loknum kosningum að horfa fram á veginn. Við erum umburðarlynd, víðsýn og þolum hvort öðru að við séum ekki sammála í öllum málum. Og þó að um stund sé slagsíða á bátnum þá er takmarkið að ná þeim aftur um borð sem hafa ákveðið að fá sér annað skipsrúm og nýtt föruneyti. Erfiðleikar eru til að sigrast á þeim en að lokum mun mótlætið styrkja okkur og við sameinast á ný undir merkjum Sjálfstæðisflokksins.“      

VefTíví >>

Pizzubakstur í stað netaafskurðar

Þegar ég var peyi hafði ég stundum aukapening út úr því að hjálpa mömmu að skera af netum. Bílskúrinn upp á Illó var oft yfirfullur af þessum litríku nælon flækjum og vinnudagurinn stundum langur. Það var þó bætt upp með nægu framboði af kremkexi og appelsíni.   Fjölskylduútgerðir Við skárum af netum fyrir hina og þessa útgerðamenn. Þeir áttu það allir sameiginlegt að vera frumkvöðlar. Byrjuðu snemma á sjó. Fóru svo í stýrimannaskólann. Tóku sennilega lán og keyptu svo bát. Þannig urðu til þessi fjölskyldufyrirtæki sem við unnum svo hjá við netaafskurð.   Frumkvöðlar Þessi tími er farinn og hann kemur ekki aftur. Frumkvöðlakraftur Eyjamanna er hins vegar sá sami. Auðvitað sjáum við hann víða enn í sjávarútvegi en fjölskylduútgerðir dagsins í dag eru oftar en ekki ferðaþjónustufyrirtæki.   Tækifæri Nú kaupa frumkvöðlarnir gamalt hús og breyta því gistiheimili. Þeir breyta stálsmiðju í veitingahús og sjoppu í pizzugerð. Kaupa reiðhjól og leigja út. Verða sér út um rútukálf og bjóða upp skoðunarferðir. Listinn yfir tækifærin er endalaus.   Jarðvegurinn Vestmannaeyjabær getur víða lagt þessum frumkvöðlum lið. Mestu skiptir samt að sjá til þess að innviðirnir styðji við vöxtinn. Samgöngurnar skipta þar að sjálfsögðu mestu en fleira þarf til. Vestmannaeyjabær hefur lagt sérstaklega ríka áherslu á að skapa hér sterka segla til að draga að ferðamenn og fá þá til að stoppa lengur en annars væri. Tilkoma Eldheima er gott dæmi um velheppnaða aðkomu Vestmannaeyjabæjar.   Fiskasafn Á sama hátt mun starfsemi alþjóðlega stórfyrirtækisins Merlin hafa hér víðtæk áhrif. Ekki einungis munu þeir verða hér með athvarf fyrir hvali í Klettsvíkinni, sem er einstakt í heiminum, heldur munu þeir einnig verða hér með fiska- og náttúrugripasafn á jarðhæð Fiskiðjunnar þar sem til sýnis verða lifandi fiskar. Auk þess verður sérstök áhersla lögð á að sýna lunda, og pysjur sem ekki geta lifað í villtri náttúru þannig gefið líf.   Baðlón Það er einnig ánægjulegt að segja frá því að Vestmannaeyjabær hefur þegar hafið samtal við sterka fjárfesta um aðkomu að baðlóni í nýja hrauninu. Meira um það síðar.   Hin stoðin Þótt sjávarútvegurinn sé okkar lang mikilvægasta atvinnugrein er ferðaþjónustan hér vaxandi og þegar orðin hin stoðin í hagkerfi okkar. Þótt liðin sé sú tíð að börn skeri af netum með foreldrum sínum þá hafa þau, eins og þeir sem eldri eru, þess í stað aðra –og ekkert síðri- aðkomu að atvinnulífinu. Í stað netaafskurðar baka þau pizzur, þjóna til borðs, afgreiða á hótelum og margt fl.   Ég er til Með samstilltu átaki og bættum samgöngum getum við stigið stór skref til frekari eflingar ferðaþjónustunnar. Þar þarf hinsvegar þrek, þor og jákvætt viðhorf. Fái ég til þess umboð er ég áfram til í að leggja mitt af mörkum.​     Elliði Vignisson bæjarstjóri