Óður til gleðinnar

Óður til gleðinnar

Eitt það besta sem fyrir mann getur komið er að geta glaðst. Stundum gleðst maður ákaflega, stundum lítið og stundum allt þar á milli eins og gengur. Gleðin er í sjálfri sér sannarlega jákvæð og því ætti maður að reyna að gleðjast sem oftast ef nokkur kostur er.
 
Nú á dögunum hafði ég sannarlega ástæðu til að gleðjast og það hreint ekki svo lítið. Nýr samgönguráðherra ákvað sem sé að sömu fargjöld giltu milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar og Vestmannaeyja og Þorlákshafnar. Hann ákvað jafnframt að breytingin tæki gildi ekki seinna en strax. Nógu löngu væru fyrrverandi samgönguráðherrar búnir að velta þessu brýna hagsmunamáli okkar Eyjamanna fyrir sér, segjast sýna því skilning og lofa að kippa málum í liðinn án þess að standa við orð sín.
 
Í gleði minni yfir þessu framfaraspori sem stigið var með svo skjótum hætti var þó einn skuggi. Úr forystusveit sjálfstæðismanna í Eyjum bárust raddir sem greinilega glöddust ekki. Þeim fannst ákvörðun ráðherrans ekki vera neitt annað en sýndarmennska, Sjálfstæðisflokkurinn hefði hvort eð er ætlað að samræma þessi fargjöld einhvern tíma í framtíðinni. Þessi rök eru svo innantóm og marklaus að furðu sætir að nokkurri forystusveit stjórnmálaflokks skuli koma til hugar að setja þau fram. En þannig brást forystusveitin við engu að síður.
 
Forystusveitin hefði að mínu mati átt að gleðjast með bæjarbúum yfir samræmingu fargjalda. Í stað þess „spældist“ sveitin og varð að aðhlátursefni.
 
En auðvitað geta sjálfstæðismenn í Vestmannaeyjum girt upp um sig í þessu máli. Það geta þeir m.a. gert með því að leggja fram ályktun á næsta bæjarráðsfundi þar sem samgönguráðherra eru þökkuð skjót og góð viðbrögð í þessu mikla hagsmunamáli okkar Vestmannaeyinga. Í kjölfarið gætum við öll sem einn sannarlega glaðst og þá líður okkur betur.
 
Ragnar Óskarsson
 
 

Þóranna M. Sigurbergsdóttir: Sumardagurinn fyrsti

Frídagur á fimmtudegi, sem er fyrsti fimmtudagur eftir 18. april, 19. – 25 . apríl. Sumardagurinn fyrsti var gerður að frídegi árið 1971. Dagurinn markar byrjun á Hörpumánuði. Áður fyrr var árinu skipt í tvennt; sumar og vetur. Við höfum bætt við vori og hausti. Í apríl fögnum við vorkomu. Íslensk þjóðtrú segir að ef sumar og vetur frjósi saman boði það gott sumar, en með því er átt við að hiti fari niður fyrir frostmark aðfararnótt sumardagsins fyrsta.   Sums staðar er ekki sama skilgreining á sumri og vetri, eins og þar sem sama sólstaða er allt árið. Eitt vorið var ég á Kýpur og horfði þar á fólk við vinnu dökkklætt og mikið klætt. Mér var sagt að sumardagurinn fyrsti væri í lok maí og þá klæddust þau léttari og ljósari fötum.   Fyrir rúmum tveimur árum dvaldi ég í Nakuru í Kenía. Þar er alltaf jafndægur og um 25 stiga hiti, dimmt fyrir kl. sjö á kvöldin og birtir upp úr kl. sex á morgnana. Þar þekkti fólkið ekki hugtökin vetur og sumar. Ef eitthvað er þá er heitasti tíminn í janúar til febrúar. Nakuru er í tvö þúsund metra hæð og þrjátíu km sunnan miðbaugs. Reglulega hefur verið rætt um hér á landi að færa sumardaginn fyrsta. Það væri hagnýtara að hafa hann á mánu- eða föstudegi, fá langa helgi. Í Englandi er bara frídagur – löng helgi – fólk er búið að gleyma hvers vegna það er frídagur. Fáar þjóðir halda upp á sumardaginn fyrsta á viðlíka hátt og Íslendingar. Í seinni tíð hefur skátahreyfingin haldið uppi hátíð á þessum degi með skátamessum og skrúðgöngum. Það er eitthvað svo sérstakt að hugsa til baka, skrúðganga með lúðrasveit og útiskemmtun. Ég fór í spariföt í tilefni dagsins og einhvern tíma seldi ég merki og bók.   Bókin Tuttugasti og þriðji apríl eru ellefu sögur eftir ellefu höfunda, sem gerast allar þennan dag 1904 til 2004. Bókin kom út á hundraðasta afmælisdegi Halldórs Laxness, en hann var fæddur 23. apríl 1904. Elsti sonur minn fæddist 23. apríl, fæddist hann rétt eftir miðnætti sumardaginn fyrsta. Fimm ára afmæli hans bar upp á sumardaginn fyrsta og tók hann það til sín, skrúðgöngu, lúðrablástur og skemmtun á Stakkagerðistúni, allt var það gert í tilefni afmælis hans.   Það væri menningarlegt slys að færa daginn.     Gleðilegt sumar!      

Kári Bjarnason: Dýrðartöfrar knattspyrnunnar

 Á laugardaginn fékk ég staðfest að knattspyrnan er sönnun um tilvist Guðs. Það er útilokað að í heimi dauðlegra manna verði til sú fegurð og undursamleiki tilfinningaróts án þess að það vísi til æðri veruleika. Að sitja eða standa hálfboginn, þreyttur og lífvana aðra stundina en öskrandi af óhaminni sælu í annan tíma gefur lífsfyllingu annarrar ættar. Þeir sviptivindar sem þyrluðust upp hjá hverjum þeim sem horfði á leik erkióvinanna frá Manchester, City og United, færa mann úr tötrum hversdagsins. Að sjá hversu staðir og andlausir United-menn voru í fyrri hálfleik, ekki eitt skot á markið og þurfa að horfa uppá sóknirnar bylja á vörn þeirra eins og óhamin kúlnahríð. Níu skot á markið hjá City á móti engu einasta er tölfræði sem fyrir leik var óhugsandi. Staðan í hálfleik átti að vera sex núll. En eins og í lífinu, sá sem ekki nýtir færin þegar þau gefast getur átt eftir að iðrast beisklega. Franska hetjan Paul Pogba fékk loksins að komast fram yfir miðju í seinni hálfleik. Á fimm mínútum breytti maður leiksins gleðinni á áhorfendapöllunum í sorg. Allt í einu var City ekki lengur með þau þrjú stig sem þurfti til að tryggja sér Englandsmeistaratitilinn heldur aðeins eitt. En jafnvel það var af þeim tekið. Sakir réttvísinnar skoraði Chris Smalling sigurmarkið, sá sem bar ábyrgð á fyrra marki City. Að dómi óvilhallra manna er United besta liðið í ensku knattspyrnunni. Að liðið skyldi vinna á útivelli með þessum dramatíska hætti er gleði sem eignast sjálfstætt líf í vitundinni. Ég hvet alla sem eiga eftir að upplifa töfra knattspyrnunnar að kveikja á sjónvarpinu tímanlega fyrir leik. Spennan sem smám saman hellist yfir er víma sérstakrar tegundar, gleðin og sorgin sem togast á um sálarheillina meðan á leik stendur er hið hvikula líf og yfirvegunin sem færist yfir við að horfa á umræðurnar í kjölfar leiksins er eins og að draga að sér ferskt sjávarloftið. Það er ekki nauðsynlegt að halda með United til að finna lífið titra að nýju í glöðu brjósti. Það er einnig unnt að fara á heimavöllinn og sækja sér spennu, gleði eða örvinglan í eina lífsstund. ÍBV knattspyrnusumarið er að hefjast og 4. maí er fyrsti heimaleikurinn hjá stelpunum og tveimur dögum seinna hjá strákunum. Um leið og ég þakka opinberlega fyrir að slík hamingja sé til í þessum heimi sem heitir knattspyrna hvet ég alla til að mæta á heimaleikina í sumar – jafnt hjá strákunum og stelpunum því hjá báðum liðum er nóg til af hinum dýrlegu töfrum sem knattspyrnan ein býr yfir.

Eyþór Harðarson: Kæru Eyjamenn

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í sveitarstjórnarmálin fyrir næsta kjörtímabil. Það kom bæði mér og öðrum á óvart að ég skildi hella mér út í þetta að þessu sinni. Flestir sem gefa kost á sér í slík verkefni upplýsa að ástæðan sé oftar en ekki sú að eftir fjölda símhringinga og hvatninga vina og vandamanna þá hafa viðkomandi ákveðið að gefa kost á sér. Ég fékk eitt símtal og engin var að hvetja mig í sveitarstjórnarmálin fram að því, enda ekki sýnt neina tilburði til að vinna á þeim vettvangi. Umrætt samtal gekk út á að mér var boðið sæti á lista sjálfstæðismanna á tímum nokkurra væringa og óvissu um fjölda framboða fyrir þessar kosningar. Niðurstaðan varð sú að ég ákvað að stökkva í verkefnið eftir að hafa sofið illa eina nótt og spjall við mína nánustu vini og vandamenn.   Ég hef fylgst með bæjarpólitíkinni eins og hver annar Eyjamaður undanfarin ár og ég get ekki séð annað en að fólkið sem hefur verið í bæjarstjórn síðustu 10-15 árin hafi almennt verið hæfileika fólk og bænum stjórnað ágætlega eins og rekstrarniðurstöður sína. Þarna eiga bæði meiri og minnihluti bæjarstjórnar heiður skilið fyrir góð störf, auk starfsmanna bæjarins.   Ég er keppnismaður að eðlisfari og það freistaði, að vera boðið sæti á lista sjálfstæðismanna og byrja á því ögrandi verkefni með fleirum, að koma framboðinu í þá stöðu að halda meirihlutanum í bæjarstjórn. Ef það tekst, þá er ég tilbúin í að vinna að heilindum fyrir bæjarfélagið á næsta kjörtímabili.   Eyþór Harðarson

Þóranna M. Sigurbergsdóttir: Páskar

 Þegar við hugsum um páska hugsum við um frí, súkkulaðiegg, kökur og mat, páskaskraut og ferðalög. Páskaegg minnir á nýtt líf, vorkomu og hafa egg í gegnum tíðina verið tákn um frjósemi og endurfæðingu. Í gegnum aldirnar voru páskaegg máluð hænuegg. Súkkulaðiegg hafa verið alsráðandi í seinni tíð. Á Íslandi tíðkast súkkulaðiegg fyllt sælgæti og málshátturinn þykir ómissandi. Í kristni tákna páskaegg tóma steindys (gröf) Jesú. Páskar eru á mismunandi tíma svo munað getur fjórum vikum. Í vestrænni kristni geta páskar allra fyrst verið 22. mars og seinast 25. apríl. Þeir eru haldnir fyrstu helgi eftir fullt tungl eftir vorjafndægur, sem nú er 21. mars. Orðið páskar er ættað úr hebresku (pesah) og merkir framhjáganga. Páskarnir voru haldnir til minningar um frelsun Ísraelsmanna frá Egyptalandi. Í seinustu köflum guðspjallanna fjögurra má lesa um innihald daganna; pálmasunnudags, skírdags, föstudagsins langa og páskadags. Mér finnst gaman að lesa textana og bera saman sjónarhorn höfundanna, margt sameiginlegt en einnig nokkur atriði sem eru ólík. Fyrir rúmum fjörutíu árum vorum við hjónin stödd á Péturstorgi í Róm að hlusta á páskadagsboðskap páfa ásamt tugum þúsunda annarra. Þar var gleðistemning, fólk með blöðrur og sölubásar opnir. Okkur varð hugsað til Íslands þar sem allt var lokað og meiri alvarleiki. En á þeim tíma var allt lokað á föstudeginum langa og páskadegi. Bernskuminningar mínar eru um að fara í messu á páskadagsmorgni og síðan í bíltúr og borða nesti utan við bæinn, ég minnist ferskra og fallegra vormorgna. Það að fara í kirkju á páskadagsmorgni er sérstakt, vakna og minnast morgunsins þar sem konurnar komu að vitja grafarinnar og Jesús var horfinn, þrátt fyrir gæslu hermanna. Konurnar voru mjög hissa – Hann er upprisinn og þegar upprisan er íhuguð er hún eitt mesta undur og kraftverk sögunnar og hornsteinn boðskapar kristinnar trúar. Í flestum kristnum kirkjudeildum eru páskar mesta hátíð kirkjuársins enda nefndu kirkjufeðurnir páskana Festum festorum eða hátíð hátíðanna. Ég hef verið um páska í Englandi og farið með vinum mínum í kirkju á páskadegi. Þar heilsaði fólk hvert öðru með kveðjunni He is risen / Hann er upprisinn. Það var svo fallegt og persónulegt að fá þessa kveðju, sérstaklega frá fólki sem ég þekkti ekki.   Hann er upprisinn. Gleðilega páska!

Guðrún Jónsdóttir: Kosningaréttur ungmenna

Umræðan um hvort færa eigi kosningaaldur í sveitarstjórnarkosningum niður í 16 ár er búin að vera nokkuð fyrirferðarmikil undanfarna daga en svo virðist sem þeim íhaldssömustu á þinginu hafi tekist að svæfa málið að sinni. Ég hef verið mjög hugsi yfir mörgu því sem hefur komið fram í þessari umræðu. Ég tek fram að ég er í sjálfu sér ekki að leggja mat á hvort þetta sé framkvæmanlegt fyrir kosningarnar í vor en bendi þó á að ég er örugglega ekki eini opinberi starfsmaðurinn sem þarf stundum að vinna hratt og örugglega að óvæntum verkefnum. Hvort það að uppfæra kjörskrá á nokkrum vikum sé óyfirstíganlegt á tölvuöld er eitthvað sem hlýtur að vera auðvelt að svara. Röksemdir þeirra sem voru málinu mótfallnir voru oftast þær að þetta skapi ósamræmi í lagasetningu, það sé ófært að fólk geti kosið án þess að geta boðið sig fram eða stofnað til fjárskuldbindinga, jafnvel var nefnt að það sé ófært að fólk geti kosið án þess að mega drekka áfengi, hversu rökrétt sem sú samlíking er. Kannski rökréttari en liggur í augum uppi í fyrstu?   Sjálfri hefur mér stundum þótt vera ákveðið ósamræmi í ýmis konar lagasetningu sem snýr að börnum og að e.t.v. væri betra að miða bara allt við 18 ára aldurinn. Með aukinni eigin reynslu og þekkingu, m.a. á þroskaferli barna og ungmenna hallast ég hins vegar æ meir að því að börn og ungmenni eigi að fá stigvaxandi aukin réttindi og skyldur en að þeim sé ekki öllum dembt á þau í einu. Við getum ekki búist við því að ungmennin okkar vakni upp á 18 ára afmælisdaginn sinn með fullmótuð viðhorf, skoðanir og siðferði, reiðubúin að takast á við þátttöku í lýðræðissamfélagi, án þess að hafa fengið þjálfun, fræðslu og eftir því sem þau eru tilbúin til, sífellt aukin tækifæri og réttindi. Ósamræmið er sannanlega til staðar nú þegar og án þess að ég ætli að leggja mat á réttmæti hvers fyrir sig ætla ég að tína hér til nokkur atriði sem sýna fram á það (alls ekki tæmandi upptalning).   1. Meginreglan er að börn sem orðin eru 12 ára má ekki ættleiða án þeirra samþykkis. Almennt hefur 12 ára viðmiðið verið mjög algengt í íslenskum lögum þegar kemur að því að leita álits og samþykkis barna þó vissulega eigi að leita eftir samráði við öll börn þegar kemur að þeirra málefnum, eins og fram kemur m.a. í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. 2. Börn sem eru á 14. aldursári taka ákvörðun um hvort þau vilji fermast. Með þessari ákvörðun eru þau að gefa út yfirlýsingu um eigin trúar- og lífsskoðanir, nokkuð sem telst almennt vera mjög persónulegar upplýsingar. Hér í Eyjum a.m.k. er það mjög ljóst hvaða börn trúa á Guð og hver velja að láta ferma sig borgaralega eða alls ekki – því hér eru bornir í hús nafnalistar fyrir fermingarnar. Sem sagt, við ætlumst til þess af 13-14 ára börnum að þau gefi opinbera yfirlýsingu um trúar- og lífsskoðanir sínar en þau mega ekki kjósa í fullkominni nafnleynd og trúnaði um þá fulltrúa sem eiga að stýra bæjarfélaginu – ekki fyrr en 4 árum síðar. 3. Það má stunda kynlíf með ungmennum sem orðin eru 15 ára (með þeirra samþykki og ákveðnum öðrum siðferðilegum og lagalegum skilyrðum uppfylltum!). 15 ára ungmenni þurfa því að taka yfirvegaða afstöðu í þeim málefnum ef ”tækifæri” gefst – hvort, hvenær, hvernig, með hverjum, notkun getnaðarvarna osfrv. 4. Einstaklingar hafa sjálfsákvörðunarrétt um eigin læknismeðferð frá 16 ára aldri. T.d. geta 16 ára stúlkur fengið fóstureyðingu án samþykkis eða vitneskju foreldra. En þeim er auðvitað ekki treystandi til að kjósa í sveitarstjórnarkosningum? 5. Ungmenni eru sakhæf 15 ára. Þau geta fengið dóm fyrir refsivert athæfi. Sem þýðir að þau eiga að hafa þroska og þekkingu til að gera greinarmun á réttu og röngu. Sem hlýtur að teljast góður kostur þegar kemur að því að kjósa fulltrúa sem eiga að stjórna sveitarfélaginu. 6. Börn eru sjálfstæðir aðilar eigin barnaverndarmáls frá 15 ára aldri. Sem þýðir m.a. að þau eru þátttakendur og skrifa undir barnaverndaráætlun í máli þeirra og það má t.d. ekki vista þau utan heimilis án þeirra samþykkis nema með úrskurði barnaverndarnefndar og eftir atvikum dómsúrskurði. 7. 16 ára ungmenni geta byrjað að læra á bíl. Við treystum þeim fyrir vélknúnu ökutæki ári síðar (og í æfingaakstri allt 17. árið), tæki sem er stórhættulegt bæði lífi þeirra og annarra vegfaranda. En það er auðvitað hættulegra að leyfa þeim að kjósa? 8. Unglingar borga tekjuskatt á við fullorðna frá 16 ára aldri. Og allt frá því þau byrja að vinna eiga þau rétt á að eyða sínu sjálfsaflafé eins og þeim sýnist þó þau geti ekki gert fjárskuldbindingar. 9. Ungmenni sem eru á 16. ári útskrifast úr grunnskóla og þurfa að taka meiriháttar ákvarðanir um líf sitt – náms- og starfsval - á þeim tímapunkti. Þau þurfa að velja sér framhaldsnám – eða taka ákvörðun um að fara á vinnumarkað. Þetta er náttúrulega voða lítilvægt miðað við það hvort þeim sé treystandi inn í kjörklefann? 10. Hverjum þeim sem er orðinn 15 ára er skylt að koma fyrir dóm sem vitni ef þess er krafist. Enn og aftur, þú gætir þurft að bera vitni í sakamáli en þú mátt ekki fara inn í klefann með gardínunni og setja kross á kjörseðil? 11. 15 ára börn mega skrá sig í stjórnmálaflokka og taka þátt í pólitísku starfi. Ef sögusagnir eru réttar þá reynist sumum þeirra jafnvel erfitt að skrá sig úr sumum stjórnmálaflokkum síðar meir. Þau mega sem sagt gerast flokksbundnir stuðningsmenn og jafnvel hálfgerðir starfsmenn einhverra flokka – en mega samt ekki kjósa þann flokk – nú eða eftir atvikum einhvern annan flokk. Ég held að óttinn við það að kenna ungmennum á lýðræðið og treysta þeim fyrir því hljóti m.a. að stjórnast af lífsseigum fordómum fullorðinna gagnvart unglingum. Ég hef kynnst mjög mörgum unglingum í gegnum tíðina, bæði persónulega og í gengum starf mitt og ég leyfi mér að fullyrða að unglingar séu upp til hópa mjög flottir, klárir og upplýstir einstaklingar. Þau virðast að minnsta kosti mun klárari, kurteisari og víðsýnni en obbinn af þeim (fullorðnu) einstaklingum sem hafa undanfarna daga verið að tjá sig á net- og samskiptamiðlum um þetta mál. Og þau vita miklu meira en ég vissi á þeirra aldri.   Fáránlegustu röksemdirnar í málinu held ég hafi verið eftirfarandi: Unglingar hafa ekki áhuga Þeim er ekki treystandi Þau vita ekki nógu mikið um þetta Þau eru ekki nógu þroskuð Þau eru of viðkvæm fyrir þennan ljóta heim stjórnmálanna Þau myndu kjósa með tilfinningunum en ekki rökhugsun Og jafnvel: Þau myndu bara kjósa eins og foreldrarnir Það þarf nefnilega ekki mjög ítarlega heimildavinnu til að sjá að fyrir rúmum hundrað árum voru nákvæmlega sömu rök notuð um annan hóp sem vildi fá kosningarétt – með þeirri undantekningu að í stað orðins ”foreldrarnir” var orðið ”eiginmennirnir” og í stað orðsins ”unglingar” var orðið ”konur”.    

Örvar Guðni Arnarson: Lögin um það sem er bannað

„Það má ekki skoða lítinn kall,“ segir í þekktu barnalagi. Nútímalegri útgáfa væri: „Þú átt á hættu að vera dröslað í gegnum allt réttarkerfið í 2 ár og sektaður fyrir að segja eitthvað almennt um litla kalla sem væri móðgandi í þeirra garð.“ Vissulega er þetta slæmt textasmíði og fellur engan vegin að laglínunni. En svona er Ísland í dag. „Hlutlausa kynfræðslu á að veita í skólum en ALDREI réttlæta ónáttúrulega kynhegðan fyrir saklausum börnum og kalla það sem er óeðlileg eðlilegt!!!“ Sá sem skrifaði þessi orð var kærður af ákæruvaldinu en sýknaður í héraðsdómi og hæstarétti rúmlega 2 árum eftir skrifin. Þau voru í tengslum við tillögu bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um hinseginfræðslu í grunnskólum bæjarins. „Á nú að fara að eyðileggja sakleysi barnanna að foreldrum forspurðum? Ég myndi flokka þetta undir barnaníð að vera að troða kynvillu í saklaus börn. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar vinsamlegast haldið saurugum hugsunum og löngunum ykkar frá börnunum mínum.“ Höfundur þessara orða var fundinn sekur og dæmdur til sektar í hæstarétti sem skrifaði að„... orð hans hefðu verið í senn alvarleg, gróflega meiðandi og fordómafull.“ Mikilvægi þess að vera frjáls skoðana sinna og sannfæringar er slíkt að það hefur verið fest í stjórnarskrá Íslands. Jafnvel verstu hugsanir og vangaveltur (fyrir utan ofbeldishótanir og rætnar lygar um einstaklinga) ættu menn að geta sett fram, óhræddir um viðbrögð ákæruvaldsins en vonast eftir viðbrögðum og mótrökum samborgara. Slíkt er einfaldlega nauðsynlegt hverjum manni og skoðunum hans.   #dónaskapur_er_réttlætismál Hjálpar það málstað minnihlutahópa að beita valdi ríkisins til að þagga niður í mönnum með óþægilegar skoðanir í stað þess að leyfa almenningsálitinu að dæma orð viðkomandi. Ættu útgerðarmenn að taka upp þessa aðferð? Ef ekki má lengur tala um „fábjánana í þinginu“, „Sjálfsgræðgisflokkinn“, „asnana hinum megin við götuna“, „góða fólkið og latte sötrarana“ eða „ógeðslegu hvítu miðaldra kallana“ hvað eigum við þá eiginlega að tala um? Hvað ættu blaðamenn og pistahöfundar Stundarinnar að skrifa um?   Hatursorðræðulögregludeild Reykjavíkur Samkvæmt lögum getur sá sem með háði ræðst að hópi manna vegna trúarbragða átt yfir höfði sér sekt eða fangelsi. Í Reykjavík er deild starfandi um málefnið. Yfirmaður deildarinnar skrifaði nýlega „Réttur einstaklinga til að þurfa ekki að umbera fordómafulla tjáningu er hluti af grunnstoðum lýðræðis“.   Þetta mun bara versna.  

Georg Eiður: Stórskipahöfn í Vestmannaeyjum

Hefur verið draumur margra hér í Vestmannaeyjum árum og áratugum saman og reglulega setja framboð, sem bjóða fram hér í Eyjum, fram mjög vel útfærðar hugmyndir, en ekkert gerist.   Á 183. fundi framkvæmda og hafnarráðs þann 29.09.2015 var á dagskrá mál sem heitir bætt aðstaða fyrir móttöku skemmtiferðaskipa. Framkvæmdastjóri lagði fram uppfærða kostnaðaráætlun á flotbryggju norðan Eiðis. Hafnsögumaður fór yfir möguleika á móttöku skemmtiferðaskipa og sérstaklega ræddur möguleiki á aðstöðu norðan Eiðis og í Skansfjöru.   Mín afstaða á þessu hefur alltaf verið skýr. Stórskipa viðlegukantur við Eiðið er málið en hugmyndir um viðlögukant við Skansfjöru myndi fyrst og fremst aðeins nýtast skemmtiferðaskipum og þá aðeins þegar best og blíðast væri.   Vandamálið er kannski fyrst og fremst kostnaðar áætlunin, en Skans hugmyndin var áætlað að myndi kosta ca. 1300 milljónir en þá að sjálfsögðu fyrir utan allar framkvæmdir á landinu sjálfu, en stórskipa viðlögubryggja fyrir Eiðinu áætlað að kosti milli 6-7 milljarða.   Stærsti munurinn er hins vegar sá að slík bryggja myndi að sjálfsögðu auka verulega möguleika okkar á að taka allar stærðir af skipum, bæði skemmtiferðaskipum en líka gámaskipum. Einnig væri möguleiki þar að landa hugsanlega beint í gáma, enda er löndunar höfnin okkar nánast sprungin, eitthvað sem mun klárlega ekki lagast með komu tveggja nýrra togara núna í sumar, en að sjálfsögðu gerist þetta ekki af sjálfu sér.   Á 184. fundi framkvæmda og hafnarráðs þann 03.11.2015 óskaði ég eftir því að við tækjum aftur upp umræðuna um móttöku skemmtiferðaskipa og bókaði þar, að stefnt yrði að því að koma upp flotbryggju með landgangi við Eiðiðsfjöru, strax næsta sumar. framkvæmdastjóra falið að fylgja málinu eftir og ræða við hagsmunaaðila í ferðaþjónustunni, sem hafa áhuga á að nýta sér flotbryggjuna í suðlægum áttum, með það í huga að í staðinn komi þeir að, eða sjái um, uppbyggingu á aðstöðu á Eiðinu. Ekki er gert ráð fyrir að ferðamenn fari gangandi frá Eiðinu og framkvæmdastjóra því falið að ræða við ferðaþjónustaðila um það mál.   Hugmyndin á bak við þessa bókun var bæði til þess að reyna að ýta málinu af stað, en að sjálfsögðu líka til þess að reyna að beina meirihlutanum á rétta leið, því að að mínu mati er þessi Skansfjöru hugmynd að mestu leyti tóm þvæla, enda augljóst að mínu mati, að aðstæður þar bjóði ekki upp á skíka aðstöðu, fyrir utan það að það er náttúrlulega alveg galið að hægt verði að þjónusta gámaskip þar með tilheyrandi flutningum á gámum í gegn um miðbæinn.   Að sjálfsögðu var meirihlutinn algjörlega ósammála mér, en enn meiri vonbrigðum olli það mér að það voru bæjarfulltrúar minnihlutans líka og m.a. minnir mig að amk. annar bæjarfulltrúinn hafi greitt atkvæði gegn minni hugmynd.   Nú er til kynningar framtíðar skipulagsáætlun sem á að gilda til 2035. Þar er einnig talað um viðlögukant fyrir Eiðinu og/eða í Skansfjöru. Þetta er nú sennilega það mál sem ég hef mest rifist um í nefndum bæjarins, en það er mín skoðun að framboð sem setja fram þessa hugmynd og halda inni Skans hugmyndinni, geri það bara til þess að tefja málið. Eiðis hugmyndin er ágæt eins hún er kynnt í þessu framtíðar skipulagi, en það er þó einn stór galli á henni sem ég hefði viljað sjá breytt, en í útfærslunni er aðeins talað um að hægt væri að leggjast að viðlögukantinum að sunnan verðu.   Mín skoðun er hins vegar sú, að ef þetta verður einhvern tímann að veruleika þá eigi að gera þetta þannig að hægt sé að leggjast að kantinum, bæði norðan og sunnan megin og tvöfalda þannig nýtingar möguleikana og að sjálfsögðu þá líka tekjurnar.   Góður vinur minn úr starfinu með Eyjalistanum (en störfum mínum fyrir Eyjalistan lauk formlega í dag) spáði því í samtali okkar um síðustu helgi að stórskipa viðlögukanntur fyrir Eiðinu myndi aldrei verða að veruleika vegna kostnaðar.   Fyrir mig hins vegar snýst þetta ekki bara um að eyða fullt af peningum, heldur einmitt þver öfugt að auka verulega tekjurnar til lengri tíma litið, en kannski má segja að þetta mál sé einmitt svona mál sem að þeir sem byggðu upp Eyjuna okkar á sínum tíma, hefðu einfaldlega bara vaðið í, en í dag virðist vera ríkjandi einhvers konar kjarkleysi og það ekki bara hjá meirihlutanum, heldur minnihlutanum líka.  

Einar Kristinn: Karlmennska og hreðjalausir sojastrákar

Í dag er 21. mars, sem þýðir að það sé farið að styttast í annan endann á Mottumars, árlegs árveknis- og fjáröflunarátaks Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameinum í körlum. Yfirvaraskegg hefur ávallt verið einkennismerki átaksins en í ár fékk mottan hvíld og í staðinn var hægt að kaupa sokka í rakarastofustíl til að styrkja málstaðinn. Gott mál og gott átak.   Annað átak, eða öllu heldur bylting, ruddi sér til rúms fyrr í mánuðinum og var það sömuleiðis átak sem beinist að karlmönnum en það nefnist einfaldlega „Karlmennskan“. Um er að ræða samfélagsmiðlabyltingu undir myllumerkinu #karlmennskan og er tilgangur hennar að uppræta eitraða karlmennsku, þ.e. skaðlegar staðalímyndir og ákveðna hegðun sem kennd er við karlmennsku.  „Strákar. Störtum byltingu. Byltingu fyrir betra lífi, betri lífsgæðum og meira frelsi. Fyrir okkur, framtíðina, fortíðina, maka og lífsförunauta. Deilum sögum um reynslu okkar þar sem við fundum að eitthvað kom í veg fyrir að við gerðum ekki það sem við raunverulega vildum eða vildum ekki. Dæmi um norm eða viðmið sem hindruðu okkur,“ sagði upphafsmaðurinn, Þorsteinn V. Einarsson, í fésbókarfærslu sem hratt af stað byltingunni.   Viðbrögðin létu ekki á sér standa í athugasemdum undir færslunni eða á vefmiðlunum sem gerðu sér mat út þessari nýju byltingu. Óhætt er að segja að viðbrögð kvenna við þessari nýju byltingu hafi verið góð en skoðanirnar voru aðeins skiptari hjá karlmönnunum. Nokkrir harðir naglar kölluðu þetta vinstri feminsta áróður fyrir sojastráka sem væru lélegir í rúminu og búið væri að skera af hreðjarnar. Flestir tóku þessu þó fagnandi og margir hverjir deildu sögum af sjálfum sér þar sem ýmist bældar tilfinningar, vanlíðan og sýndarmennska voru í forgrunni. Handknattleiksmaðurinn Rúnar Kárason sagði t.a.m. frá því þegar hann grét yfir tilfinningaþrungnu atriði í kvikmyndinni Interstellar í rútu á leið í leik með liði sínu. Hann gerði þó allt hvað hann gat til halda í sér og fela gráturinn, allt í nafni karlmennskunnar. Annar talaði um ást sína á Baileys en pantaði það helst ekki á barnum vegna karlmennskunnar og sá þriðji skammaðist sín fyrir að elska Taylor Swift og Grey's Anatomy.  Karlmennsku minnar vegna er ég svo heppinn að hafa hvorki dálæti á Baileys né Taylor Swift. Það mun klárlega auðvelda mér að þykjast vera grjótharður karlmaður. Hins vegar hef ég séð umrætt atriði í Interstellar og svei mér þá ef það hefur ekki dregið fram einn eða tvo vökvadropa úr tárakirtlunum. Ætli ég sé þá ekki bara sojastrákur eftir allt.      

Sr. Viðar Stefánsson: Tæki og tól

Eitt af því sem gerir okkur að mönnum, þ.e.a.s. homo sapiens, er að við kunnum að nota ýmis tól, hluti eða tæki til að auðvelda okkur amstur hversdagsins. Hlutirnir geta verið einfaldir eða flóknir, allt frá ostaskerum yfir í tölvur, en flestir eiga þeir eitt hlutverk sem þeir eiga að sinna okkur til þæginda og vinnusparnaðar. Það skiptir þó máli að hlutirnir búi yfir ákveðnum eiginleikum, aukahlutum eða fítusum svo þeir virki eins og þeir eiga að virka og sendum við jafnvel vissa hluti aftur til viðgerðar ef svo er ekki. Klassískur áttaviti er vita gagnslaus ef hann finnur ekki norður og sama gildir um hjólbarðalausan bíl. Svo eru mörg tæki sem hreinlega virka ekki nema við áttum okkur á því hvernig við eigum að kveikja á þeim eins og t.d. hljómflutningstæki að ég tali nú ekki um blessuðu tölvuna. Lykill er einn af þessum hlutum sem mörg okkar notum daglega en þrátt fyrir að lykill sé einfaldur gegnir hann tvenns konar hlutverki: Annars vegar að læsa og hins vegar að opna og þrátt fyrir að lyklar komi í flestum stærðum og gerðum þá hafa þeir nær allir einungis þessi tvö hlutverk. Í vetur hafa 50 fermingarbörn sótt fræðslu um kristna trú hjá okkur í Landakirkju og það starf hefur sannarlega verið gjöfult og skemmtilegt. Margra áleitinna spurninga hefur verið spurt og ekki nærri því öllum svarað. Það er dýrmætt fyrir okkur sem stöndum að fræðslunni, og reyndar fyrir alla þá sem koma að uppeldi barna, að gefa heimssýn þeirra gaum og það er verðugt fyrir okkur að halda í hið barnslega innra með okkur eins lengi og við getum. Jáið góða sem fermingarbörnin segja í fermingunni sinni, og það já sem við sjálf sögðum í okkar eigin fermingu, og trúin sem þau og við játum er nokkurs konar lykill. Lykill sem opnar nýjar víddir í tilverunni og dýpkar lífið og merkingu þess og gerir það bærilegra. Sá lykill opnar og sýnir opinberlega frammi fyrir okkur mannfólkinu hvaða stefnu er ætlað að taka í lífinu. Hvaða heimssýn, gildi, venjur og siði þau ætla að hafa að leiðarljósi í lífinu. Jáið sýnir að Jesús á að vera þeim hinn gagnlegi áttaviti í lífinu. Áttavitinn sem þau geyma alltaf með sér, misfyrirferðamikinn kannski á hinum ýmsu skeiðum lífsins, en þó alltaf gagnlegur fyrir hug þeirra og anda. Þennan áttavita höfum við öll í vasanum og það er kannski rétt að huga að honum, handfjatla hann og nota við þetta fagnaðarríka tilefni sem ferming barnanna er en þó kannski ekki síður við þann fögnuð sem lífið sjálft er. Megi hinn lifandi Guð blessa fermingarbörnin hér í Vestmannaeyjum og fjölskyldur þeirra.      

Guðný Bjarnadóttir: Komið nær og lítið á mig

Þessi setning er úr ljóði þar sem öldruð kona lýsir aðstæðum sínum á hjúkrunarheimili og framkomu starfsfólks. Hún segir margt þó hún sé stutt. Alzheimer - stuðningsfélagið var stofnað 10. mars 2016. Á 2ja ára afmæli er og gott að staldra við og átta sig á hvort eitthvað hefur áunnist þann tíma. Félagið hefur lagt á það megináherslu að standa fyrir viðburðinum „Alzheimerkaffi“ og hafa sextán slíkir viðburðir verið haldnir frá byrjun. Sá sautjándi verður haldinn n.k. þriðjudag, 20.mars. Það hefur verið gefandi að starfa fyrir þennan málstað og stjórnin er afar þakklát fyrir góðar viðtökur bæjarbúa. Viðburðurinn „Alzheimerkaffi“ er ekki síst hugsaður sem stuðningur fyrir þá sem veikjast af heilabilunarsjúkdómum og fjölskyldum þeirra til að „gefa þeim rödd“. Vanmáttur þeirra sem veikjast og það erfiða ferli sem við tekur í fjölskyldum þeirra þarf að eiga málsvara. Til að koma málefninu til samfélagsins þarf að fá umræðu, því það sem ekki er talað um er ekki til. Feluleikur og vanmáttarkennd er versti óvinur þeirra sem þurfa á þjónustu vegna heilabilunarsjúkdóma að halda. Heilabilun er yfirheiti um nokkuð marga sjúkdóma sem tengjast vitrænni getu. Orsök heilabilunar geta verið margir ólíkir sjúkdómar, en Alzheimer er þeirra algengastur. Einnig er nauðsynlegt að halda því til haga að Alzheimer er ekki bara öldrunarsjúkdómur, þó vissulega hækki tíðni hans með hækkandi aldri. Fólk jafnvel innan við fimmtugt greinist með þennan sjúkdóm, sem gefur tilefni til að bregðast þurfi við með öðrum hætti, fólk á þeim aldri er enn í vinnu, jafnvel með ung börn og á allt öðrum stað í lífinu en þeir sem komnir eru á efri ár. Einkenni heilabilunarsjúkdóma birtast með margvíslegum hætti og hafa víðtæk áhrif á líf einstaklingsins og fjölskyldunnar. Algengustu einkennin eru af svokölluðum atferlis- og taugasálfræðilegum toga, en það er safn ákveðinnar hegðunar eða sálfræðieinkenna sem sjá má hjá einstaklingum með heilabilunarsjúkdóma. Algengustu einkennin eru þunglyndi, kvíði, ofskynjanir, ranghugmyndir, óróleiki, árásargirni, sinnuleysi, svefntruflanir og innsæisleysi eða hvatvísi. Almennt eru einkenni af þessum toga kölluð „hegðunarvandi“. Einkennin kalla á flókin úrræði og sérstaklega í ljósi þess að meðferðin krefst einstaklingsbundinnar nálgunar þar sem engin ein meðferð hentar öllum. Skv. rannsóknum er hegðunarvandi talinn stafa fyrst og fremst af því að líkamlegum, andlegum, félagslegum eða tilfinningalegum þörfum einstakling er ekki mætt. Hegðunarvanda sýnir einstaklingur vegna tjáningarörðugleika sem oft eru mjög miklir á seinni stigum sjúkdómsins og meiri líkur eru á hegðunarvanda ef einstaklingur fær ekki fullnægjandi aðstoð sem veitt er af virðingu, þekkingu og fagmennsku við athafnir daglegs lífs. Því er talið er mjög nauðsynlegt að umönnunaraðilar hafi þekkingu til að greina birtingu einkenna og átta sig á hvað aðferðum er mögulegt að beita til að bæta líðan einstaklingsins. Þá er einnig mikilvægt að þekkja vel til einstaklingsins og vera í góðu sambandi við aðstandendur hans. Til að þetta sé mögulegt þurfa þeir sem ráða yfir meðferð fjármuna að átta sig á því að hjúkrun fólks með heilabilun er flókin. Vitað er að notkun geðlyfja er hærri hér á landi en löndunum sem við berum okkur saman við. Það er ekki ákjósanlegt úrræði að beita „lyfjafjötrum“ til að takast á við hegðunarvanda einstaklings með heilabilun. Að nota fjötra hvort sem það eru lyf eða annað er merki um að ekki sé nægjaleg þekking né mönnun í boði í hjúkrun. Það á að vera keppikefli ráðamanna að viðhalda góðri þekkingu hjá umönnunarfólki, styrkja það og efla með öllum tiltækum ráðum, en vitað er að umönnunaraðilar sem annast einstaklinga með heilabilunarsjúkdóma eru útsettari fyrir kvíða og þunglyndi en meðal þeirra sem annast aðra sjúklingahópa. Fyrir hönd Alzheimer -stuðningfélags vil ég koma á framfæri þökkum til allra sem hafa styrkt félagið, en það eru bæði fyrirtæki og félagasamtök ásamt einstaklingum. Það er ómetanlegt að finna stuðning ykkar. Það er verk að vinna í þessum málaflokki og ég vil trúa því að Eyjamenn vilji vera fyrirmyndarsamfélag þegar kemur að þjónustu við þennan viðkvæma hóp, setja fjármuni í þekkingu, mönnun og utanumhald til að þeir sem veikjast af heilabilunarsjúkdómum geti notið umönnunar í sinni heimabyggð og eigi vissu fyrir hvert er innihald þjónustunnar sem sveitarfélagið veitir.  

Jón Pétursson: Staða Hraunbúða

Að gefnu tilefni er rétt að upplýsa um að á Hraunbúðum eru 37 heimilismenn í 29 hjúkrunarrýmum og 8 dvalarrýmum. Fjöldi rýma ræðst af samþykki frá ríkinu og hefur verið óbreyttur í nærri tíu ár. Þær breytingar sem áttu sér stað á Hraunbúðum nú fyrir skömmu, þar sem byggt var við Hraunbúðir aðstaða með um 5 herbergi og setustofu, var til að mæta tvennu. Í fyrsta lagi að fjölga herbergjum til að hægt sé að rúma alla 37 heimilismenn í einstaklingsherbergjum. Áður var herbergjafjöldinn á Hraunbúðum 33 þannig að heimilisfólk þurfti að deila með sér herbergi. Oft leystist þetta með því að hjón voru tekin samtímis inn á Hraunbúðir. Nú hafa breyttar inntökureglur dregið úr þeim möguleika. Í öðru lagi býður nýja álman á Hraunbúðum upp á betri aðstöðu til að þjónusta heimilismenn með miklar sérþarfir. Þar er átt bæði við fólk með alvarlega heilabilun og/eða hreyfivanda. Sem fyrr segir er fjöldi heimilismanna sá sami og áður. Mat á hjúkrunarþörf á Hraunbúðum segir að hjúkrunarþyngdin þar er einnig sú sama sl. þrjú ár. Umönnunarþörfin er oft misjöfn yfir daginn og yfir tímabil og álagið eftir því. Unnið hefur verið að ýmsum breytingum innanhúss til að einfalda verkferla og auka gæði í umönnun og hjúkrun. Lyfjaskömmtun hefur verið einfölduð og sjúkraskráningarkerfið virkjað. Hraunbúðir hefur yfir að ráða úrvals fólki sem sinni starfi sínu að alúð og metnaði. Til marks um það er umsagnir heimilismanna og aðstandenda.  Mönnun í umönnun og hjúkrun er misjöfn yfir daginn. Fyrir hádegi á virkum dögum eru allt að 10–11 starfsmenn sem sinna þessari þjónustu og þar af 2–3 hjúkrunarfræðingar. Eftir hádegi eru starfsmenn um 6–7 (þ.a. 2-3 hjúkrunarfræðingar) og á kvöldin 5–6 starfsmenn (þ.a. 1 hjúkrunarfræðingur). Á nóttunni eru 2 starfsmenn auk hjúkrunarfræðings á bakvakt. Alltaf er hægt að kalla út lækni. Mönnun um helgar er minni enda ekki sama þjónusta og á virkum dögum. Til viðbótar við mönnun í umönnun og hjúkrun er annað starfsfólk í húsinu t.d. íþróttakennari á morgnana sem er alltaf með hluta heimilismanna í þjálfun, iðjuþjálfi og svo starfsfólk í eldhúsi sem færir heimilisfólkinu matinn. Bætt var starfsmönnum í umönnun í lok síðasta árs og svo aftur tveimur starfsmönnum á vöktum á daginn við opnun á nýju aðstöðunni (alls 13,5 vinnustundum pr. dag). Aukning tekna sem og launakostnaður á Hraunbúðum hefur haldist í hendur sl. fimm ár og aukist um 30% á verðlagi ársins 2017. Starfsmannahaldið og annar rekstur Hraunbúða er algjörlega háð því framlagi sem ríkið leggur til stofnunarinnar. Vestmannaeyjabær hefur lagt sig fram við að halda uppi eins góðri þjónustu á Hraunbúðum og kostur er. Til marks um það hefur sveitarfélagið lagt til þjónustunnar allt að 350 milljónum sl. áratug til viðbótar við það fjármagn sem ríkið skammtar til hennar.  Markmið næstu ára er að auka gæði þjónustunnar, vinna að fjölgun hjúkrunarrýma, vinna að auknu rekstrarfé og tryggja áfram góða og metnaðarfulla umönnun og hjúkrun til heimilismanna. Þetta markmið næst með öflugri samvinnu og samstarfi allra þeirra sem vilja styðja við starfsemi Hraunbúða, sveitastjórnar, starfsmanna, aðstandenda og velunnara.  

Margrét Rós: Að skreyta sig með stolnum fjöðrum

Samgöngur skipta okkur Eyjamenn mjög miklu máli. Við höfum í mörg ár mátt berjast fyrir hverju einasta skrefi sem þokast hefur í rétta átt. Á þeirri vegferð hefur margoft sést hversu litla alúð þetta stóra mál hefur á meðal samgönguyfirvalda.   Flestir sem hafa fylgst með þessum málum vita að í útboði ríkiskaupa í júní árið 2016 var boðinn út rekstur og eignarhald nýrrar Vestmannaeyjaferju. Þar var skýrt tekið fram að eftir að ný Vestmannaeyjaferja kemur til þjónustu, verði sama gjald í Landeyjahöfn og í Þorlákshöfn. Sem sagt, að ekki verði um aukakostnað að ræða þegar ferjan siglir til Þorlákshafnar.   Það kemur mér því skringilega fyrir sjónir að sjá ráðherra og suma aðra stjórnmálamenn berja sér á brjóst, þegar örfáir mánuðir eru í nýtt skip, og eigna sér þessa ákvörðun sem tekin var af öðrum fyrir tæpum tveimur árum. Slíkt kallast einfaldlega að skreyta sig með stolnum fjöðrum.   Óhjákvæmilegt er að velta því fyrir sér hvort að þessi tilkynning ráðherra, eftir opnun Landeyjahafnar nú í mars, sé ekkert annað en útspil hans til þess að hylja þá staðreynd að hann ætlar í raun að skila auðu þegar kemur að því að taka þau alvöru skref sem kallað var eftir á fjölmennum borgarafundi fyrir skömmu.   Rétt er að minna ráðherra á að Eyjamenn vilja að Herjólfur verði rekinn sem hluti af þjóðvegakerfi landsmanna og að þjónustu verði hagað í samræmi við það. Almennur vilji okkar Eyjamanna er til að mynda að ferðum ferði fjölgað, að gjaldtaka sé sambærileg við það sem kostar að aka eftir þjóðvegum og að þjónusta sé stóraukin með hagsmuni heimamanna að leiðarljósi. Slíkt verður best gert með því að heimamenn sjálfir taki ábyrgð á þessum rekstri.   Margrét Rós Ingólfsdóttir  

Tryggvi Hjaltason: Vissir þú þetta um íslenska stráka?

 Ég átti samtal við nokkra kennara um mitt síðasta ár sem gaf mér svo mikla ónotatilfinningu enda átti ég erfitt með að trúa því sem ég var að heyra. Ég ákvað í kjölfarið að leggjast í rannsóknir og hef á síðustu mánuðum komist að þeirri niðurstöðu að eitt stærsta velferðarmál sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð í dag er mál sem fær mjög litla athygli, málið sem þessir kennarar voru að vekja athygli mína á. En það varðar þá skuggalegu þróun sem er að eiga sér stað gagnvart drengjunum okkar í skólakerfinu.   Mig langar að deila smá af niðurstöðum mínum úr þessari rannsókn sem ég búinn að vera að stunda sem er vægast sagt dapurleg:   Vissir þú að einn af hverjum þrem drengjum sem útskrifast úr grunnskóla getur ekki lesið sér til gagns. Þetta þýðir að eftir 10 ár í íslensku menntakerfi lendir þriðjungur drengja okkar í vandræðum á næsta skólastigi og eiga erfitt með að tileinka sér námsefni og taka virkan þátt í samfélaginu vegna þess að þeir eru ekki almennilega læsir. Þetta er nær þrefallt hærra hlutfall en hjá stúlkunum okkar.   Vissir þú að í síðasta innskráningarárgangi í Háskóla Íslands voru aðeins 37.2% af nemendunum strákar, eða rétt rúmlega þriðjungur.   Vissir þú að notkun hegðunarlyfja barna hefur margfalldast á Íslandi á undanförnum árum og er Ísland með eitt hæsta hlutfall í veröldinni þegar kemur að því að lyfja börn og þar eru strákar með miklu hærra hlutfall en stelpur.   Vissir þú að fjöldi drengja á aldrinum 5-9 ára sem fær ávísað tauga- og geðlyfjum samkvæmt Landlæknisembætti er 123 á hverja 1000 sem þýðir 12,3% drengjanna okkar sem eru bara 5-9 ára fá hegðunarlyf. Ástandið hjá stelpum er sannarlega heldur ekki gott á þessu sviði en þar fá 61 af hverjum 1000 hegðunarlyf sem er vissulega slæmt en samt tvöfallt betra ástand en hjá strákunum. Það eru tuttugufallt fleiri grunnskólabörn sem fá ávísað þunglyndislyfjum á Íslandi heldur en á Norðurlöndunum.   Vissir þú að sjálfsmorðstíðni drengja á aldrinum 10 til 19 ára er hvergi hærri á Norðurlöndum en á Íslandi?   Vissir þú að enginn hópur á Norðurlöndunum og fáir í veröldinni taka eins mikið af ADHD-lyfjum og íslenskir drengir á aldrinum 10 til 14 ára? en 13 prósent þeirra taka einhvers konar ADHD-lyf. Það er margfalt meira en tíðkast á öðrum Norðurlöndum en Svíþjóð kemst næst Íslandi með um 5 prósent hlutfall.   Vissir þú að á milli 2008 og 2016 18 földuðust ávísanir á svenflyfjum til drengja á aldrinum 10-14 ára.   Vissir þú að íslenskir drengir eru miklir neytendur á klámi. Meðal Íslenskur strákur byrjar að horfa á klám 11 ára gamall. Í unglingadeild grunnskóla horfa tveir af hverjum þrem drengjum á klám a.m.k. vikulega og þegar komið er í Framhaldsskóla er 40% af drengjunum okkar orðnir stórneytendur og horfa á klám 2-5 sinnum í viku og aðeins 10% drengja í Framhaldsskóla segist ekki hafa horft á klám undanfarin mánuð. Þriðjungur drengja á aldrinum 12-20 ára horfir á klám á hverjum degi.   Ekkert í líkingu við þetta gengur yfir stelpurnar okkar en mjög takmarkaður skilningur hefur verið á klámáhorfi og eru einungis núna fyrst að batna verkfærin til að skilja áhrif af klámneyslu á heilan en þau eru mjög mótandi þar sem flestir drengir viðurkenna að horfa á klám til að fróa sér, en slíkt myndar taugabrautir með áhrifaríkum hætti og er því hegðunarmótandi og því mjög líklegt til að hafa mikil áhrif á viðhorf og kynhegðun, jafnvel skaðlegrar hegðunar gagnvart öðrum, sérstaklega ef neyslan er mikil og aldurinn ungur sem er einmitt staðreyndin fyrir íslenska drengi.   Vissir þú að rannsóknir frá Menntamálaráðuneytinu hafa sýnt að kennarar hrósa frekar stúlkum en strákum og að strákum finnst námið ekki nærri því jafn skemmtilegt og stelpum?   Í stuttu máli þá höfum við smíðað kerfi sem drengir þrífast ekki í, þeir þurfa hegðunarlyf í miklu magni til þess eins að geta umborið kerfið og tekið þátt í því en kerfið þjónar þeim samt ekki betur en svo að eftir 10 ár hefur það ekki kennt þriðjungi þeirra að lesa almennilega, algjör grundvallarhæfni í samfélaginu okkar.   Drengirnir okkar geta í vaxandi mæli ekki sofið og eru rólega að útrýmast úr háskólanámi en hlutfall nýskráninga meðal drengja í Háskóla á íslandi hefur stanslaust lækkað gagnvart stúlkum.   Skilningur gagnvart þessu er betri víða í heiminum en á mörgum stöðum sem ég rannsakaði er skólakerfið smíðað betur með þarfir drengja í huga rétt eins og stúlkna. Drengir læra frekar í gegnum verklegt nám og eru miklu viðkvæmari fyrir áhugadrifnu námsefni en stúlkur. Drengir vilja skapa og eyða og hafa áhuga á öðruvísi bókmenntum en stelpur, meiri hasar og staðreyndir og minna um ljóð og skáldsögur. Það eru fyrst og fremst einkaskólar í Bretlandi og Bandaríkjunum sem hafa stigið öflug skref í þessu samhengi en með góðum árangri.   En ég ætla ekki að skilja við þessa yfirferð í algjöru vonleysi. Vegna þess að ég tel að það sé lausn og meira að segja mjög aðlaðandi lausn á borðinu.   Við þurfum að auka áhersluna á að virkja nám í gegnum leik og áhugasvið. Staðreyndin er að menntakerfið í dag keppir við tölvuleiki og klám, afþreyingu sem er sérhönnuð til að ná notandanum hratt og kröftuglega og notar testasterón og dópamín til þess.   Ímyndum okkur að drengjunum okkar (og stúlkum) stæði til boða strax í fimmta bekk að byrja að skapa það sem þau hafa áhuga á sem part af námi sínu í grunnskóla, þetta gæti verið allt frá haldbærri vöru eins og fatnað eða verkfærum yfir í kennsluefni eins og æfingaplan eða fyrirlestra yfir í list eins og að stofna hljómsveit eða gera bíómynd.   Kerfið myndi veita stuðning, frelsi og ráðleggingar í hvernig hægt er að ná sem bestum árangri við að skapa einhverskonar “vöru”. Áhersla er lögð á áhugadrifið sjálfstætt nám í gegnum leik og sköpun. Þegar fyrsta frumgerð liggur fyrir er farið yfir hvað lærðist, hvað hefði betur mátt fara og hvernig er hægt að bæta næstu útgáfu eða nota þekkinguna til að fara jafnvel í nýtt framleiðsluferli.   Þegar varan er síðan komin á góðan stað er hægt að skoða næstu skref, að greina nytjagildi hennar, hvort mögulegt sé að markaðssetja hana, gefa einhverjum sem þarf hana til að byggja upp samfélagið eða stofna fyrirtæki utan um vöruna. Þá tekur við enn meiri frelsi, kennsla, sköpun og áhugadrifið verkefni. Stuðningurinn getur verið tengdur inn í nýsköpunarstuðningsumhverfi stjórnvalda fyrir þá sem lengst ná til að sýna börnunum okkar að þau verða tekin alvarlega og veitt tækifæri á jafnréttisgrundvelli um leið og þau hafa byggt getuna í gegnum kerfið.   Framangreint fyrirkomulag myndi snerta á flestum greinum sem í dag eru kenndar á grunnskólastigi að einhverju leyti en það myndi gera það í gegnum áhugasvið, sköpun, sjálfstæði og verklega kennslu. Rannsóknir styðja með sannfærandi hætti að þetta er leið sem myndi henta strákum alveg sérstaklega til að losna við leiða og virkja orkuna sína á uppbyggilegan hátt.   Í staðin fyrir að læra stærðfræði, myndlist, smíði, viðskiptafræði eða lífsleikni í tómarúmi sem krefst oft þátt eins og kyrrsetu án samhengis (eitur í beinum drengja), væru börnin okkar að læra þessi fög sem verkfæri til að ná áhugadrifnum markmiðum sínum.   Ofangreint er enginn töfralausn eða eina lausnin en hún er dæmi um innlegg inn í umræðu um uppbyggilega nálgun á því hvernig hægt er að hjálpa drengjunum okkar sem virðast vera komnir í algjört öngstræti á fyrstu skrefum lífsins í samfélaginu okkar Íslandi.   Ég er tilbúinn að setja nokkra orku í að vekja athygli á þessum málum á næstu misserum og bið þig að deila þessum skrifum ef þú hefur áhyggjur af drengjunum okkar í skólakerfinu eða beina til mín upplýsingum sem kunna að vera viðeigandi um þetta málefni.   Takk fyrir að lesa

Georg Eiður: Fiskiðjan

Í minni fyrstu grein eftir að hafa dregið mig út úr bæjarpólitíkini ætla ég að fara aðeins yfir nokkur sjónarmið varðandi Fiskiðjuna, sem reyndar tengist inn í pólitíkina, enda málefni tengd framkvæmdum við Fiskiðjuna sennilega eitt af mest ræddu málunum á kjörtímabilinu bæði í Framkvæmda og hafnarráði og í Umhverfis og skipulagsráði, en ég lenti einmitt í því að þurfa að bóka sér á fundi Framkvæmda og hafnarráðs 15. júlí 2015.   Fiskiðjan utanhússframkvæmdir 2015   Tilboð opnuð í endurbætur á Fiskiðjunni. Eitt tilboð barst upp á samt. kr. 158.765.858.   En kostnaðaráætlun hljóðaði upp á kr. 167.787.000.   Meirihlutinn samþykkti tilboðið en ég bókaði sér svohljóðandi:   þar sem ekki liggur fyrir hvernig eigi að nýta þetta húsnæði í framtíðinni tel ég rétt að fresta fyrrihuguðum úrbótum og legg ég til að þetta fjármagn sem eyrnamerkt er þessu verkefni, verði frekar nýtt til þess að hefja stækkun á Hraunbúðum, enda þöfrin þar gríðarleg og að mínu mati er það verkefni miklu brýnna en þessar endurbætur á húsi Fiskiðjunnar.   Ástæðan fyrir þessari sér bókun minni var að fyrr á þessu sama ári hafði meirihlutinn sent inn umsókn til framkvæmdasjóðs eldri borgara (ég held að hann heiti það) til þess að fara í þessa stækkun, en umsóknin var það illa unnin að henni var hafnað.   Árið eftir hins vegar var send inn betri umsókn og eins og við vitum öll, þá opnaði núna í byrjun árs glæsileg viðbygging við Hraunbúðir og vil ég óska starfsfólki, íbúum og öllum Eyjamönnum til hamingju með þessa glæsilegu viðbyggingu við Hraunbúðir og einnig þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem komu að málinu á einn eða annan hátt.   Næsta bókun mín um Fiskiðjuna var sumarið 2016, einnig í Framkvæmda og hafnarráði, þar sem ég harmaði það að framkvæmdir við Fiskiðjuna stefndu í það að verða allt að 300 milljónir. Þessu hafnaði meirihlutinn að sjálfsögðu og settu fram tölur sem eru nánast þær sömu og gefnar voru upp í byrjun árs á þessu ári.   Það er hins vegar nokkuð ljóst að heildar kostnaður við það sem nú þegar er búið að gera við Fiskiðjuna, og þá inni í þeim tölum framkvæmdir við 2. hæðina, þá sennilega nálægt 600 milljónum og ef tekið er mið að því að aðeins önnur hæðin kostaði 210 milljónir, þá er nokkuð ljóst að 3. hæðin verður ekki ódýrari, en að sjálfsögðu vill ég óska öllum þeim fyrirtækjum sem fengið hafa nýja og glæsilega aðstöðu á 2. hæðinni til hamingju með aðstöðuna. Hamagangurinn við að klára þetta hefur hins vegar orðið til þess, að ótrúlega margir iðnaðarmenn hafa komið að máli við mig og spáð því að í framtíðinni muni koma fram raka skemmdir og í versta falli mygli skemmdir vegna þess, að ekki var klárað að utan áður en byrjað var að innan. Nokkrir hafa m.a. tekið eftir lensi rörunum á 3. hæðinni, bæði norðan og austan megin. Ég hef reyndar spurt um þessi rör nokkrum sinnum og jafn oft fengið að heyra það, að það sé löngu hætt að leka inn á 3. hæðina. Staðreyndin er hins vegar sú, að stóran hluta af síðustu viku, skagaði grýlukerti niður úr rörinu norðvestan megin en vonandi reddast þetta.   Í Umhverfis og skipulagsráði hefur eðlilega mikið verið rætt um Fiskiðjuna, en það sem kannski skiptir að mínu mati mestu máli er erindi tengt Fiskiðjunni frá því núna í janúar.   Ægisgata 2, umsókn um byggingarleyfi   Lög fram umsókn fyrir byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og breytingum á jarðhæð. The Beluga Byilding Company ehf. sækir um 700 fermetra viðbyggingu á tveimur hæðum og breyttri notkun á jarðhæð í sýningarsal sbr. innsend gögn. Fyrirhuguð notkun er sýning og umönnun sjávardýra og rannsóknir.   Ráðið samþykkir byggingaráform umsóknaraðila og felur byggingarfulltrúa framgang erindis.   Fyrir mér er þetta mál sem ég heyrði fyrst af fyrir ca. 2 árum og í raun og veru algjört lykil atriði í því að koma í veg fyrir að hús Fiskiðjunnar verði ekki baggi á bæjarfélaginu, enda nokkuð ljóst að heildar kostnaðurinn við að taka allt húsið í gegn færi að öllum líkindum aldrei undir milljarð, svo ég vona svo sannarlega að þetta gangi eftir, en eins og þetta hefur verið útskýrt fyrir mér, þá er ætlunin að flytja Fiska og náttúrusafn Vestmannaeyja á neðstu hæð Fiskiðjunnar og að það verði hluti af þessu batteríi hjá þessu erlenda fyrirtæki, en þar komum við einmitt inn á einu af lykil atriðunum fyrir því að ég ákvað að henda í þessa grein, en ég veit ekki hvort að allir geri sér grein fyrir því að gríðarlegur fjöldu sjómanna og bæjarbúa hefur í gegn um áratugina fært safninu okkar ýmsa dýrgripi m.a. margs konar fugla, fiska ásamt myndarlegu steinasafni og fleiru, en mig langar að koma því sérstaklega á framfæri, að þetta safn er náttúrulega í eigu okkar og vona það að passað verði upp á að það verði bara ekki afhent án skylyrða.   Það er enginn vafi á því að hið gamla hús Fiskiðjunnar verður mjög glæsilegt þegar öllum framkvæmdum verður lokið, en þetta kostar gríðarlega fjármuni og maður spyr sig svolítið, hvað verður þá um önnur hús í eigi bæjarins sem standa munu tóm eftir flutninga á allri þeirri starfsemi sem færast yfir í Fiskiðjuna og kostnaðin við það, en það kemur þá bara í ljós.  

Hildur Sólveig Sigurðardóttir: Grátur

Í ljósi mikilli viðbragða við tilfinningaríku viðtali við sigurvegAra íslensku söngvakeppninnar er ljóst að grátur er af mörgum misskilið fyrirbæri. Grátur er ekki merki um veikleika, kvenleika né barnaskap. Grátur er eðlilegt lífeðlisfræðilegt viðbragð við ýmsu líkamlegu og andlegu áreiti. Grátur getur verið viðbragð vegna sársauka, hvort sem er af líkamlegum eða andlegum meiði. Grátur getur verið viðbragð vegna gífurlegrar gleði og geðshræringar. Sjálf hef ég grátið, m.a. við stór íþróttaafrek í Íslandssögunni, þegar íslensk kona var kjörin ungfrú Heimur og nú síðasta föstudagskvöld grét ég yfir stórkostlegri sýningu á söngleiknum Ellý í Borgarleikhúsinu.   Lífeðlisfræði gráts Í rauninni er hægt að skipta gráti í þrennt, grunntár sem eru tárin sem myndast stöðugt og halda raka á augunum okkar, viðbragðstár sem myndast þegar framandi hlutir eða lykt kemur að augum (t.d. laukur) og sálræn tár sem koma sem viðbragð við sterkum tilfinningum og fjallað er um hér á eftir. Sterkar tilfinningar á borð við sorg, reiði, streitu og jafnvel yfirþyrmandi hamingju túlkar líkaminn sem merki um hættu. Í slíkum aðstæðum sendir mandlan, svæði í heilanum sem stjórnar úrvinnslu tilfinninga, boð til undirstúkunnar, kirtils á stærð við baun í heilanum sem er tengdur ósjálfráða taugakerfi líkamans. Ósjálfráða taugakerfið stjórnar viðbrögðum sem þú hefur ekki sjálf/ur stjórn á, á borð við líkamshita, hungur, þorsta og jú grát. Ósjálfráða taugakerfið kveikir á sympatíska taugakerfinu og baráttu- og flóttaviðbragðinu (e. fight or flight). Við þessi viðbrögð getur fólk fundið fyrir auknum hjartslætti, skjálfta, kökk í hálsi o.fl. Þessar tilfinningar verða til þess að undirstúkan framleiðir efnaboðið asetýlkólín sem binst viðtökum í heilanum sem sendir boð til tárakirtlanna sem seyta svo vökva = tárum.   Áhrif grátsins Þróunarsálfræðingar vilja jafnvel meina að þessi líffræðilegi eiginleiki okkar sé ákveðin leið til að láta aðra vita betur hvernig okkur líður og eiga þá betri möguleika á að fá hjálp, þ.e.a.s. þegar viðbragðið orsakast af neikvæðum tilfinningum. Einnig hafa tárin ákveðinn verndareiginleika, þ.e.a.s. hjúpa augað við hættulegar aðstæður. Þegar þú ert við það að fara að gráta þá gæti fyrsta viðbragð þitt verið að reyna að halda aftur af tárunum. En að leyfa þeim að flæða gæti verið skynsamlegri ákvörðun. Að tárast sendir boð til heilans um að losa endorfín sem kallast leucine-enkephalín sem hefur jákvæð áhrif á skapgerð og getur veitt ákveðinn létti. Það er náttúrulegt, eðlilegt og gott að gráta, allir gráta.   #éggrætlíka  

Að vera eða vera ekki........

.......í framboði.   Er klárlega sú spurning sem ég hef oftast fengið undanfarna mánuði. Oftast hef ég nú svarað því þannig:   Já, ég ætli að skoða það að taka þátt áfram, en fyrir nokkru síðan fór ég að velta því fyrir mér og rifja upp, á hvaða forsendum ég tók þátt í þessu fyrir 4 árum síðan og í raun og veru kom það mér svolítið á óvart að uppgötva það, að þær forsendur væru í raun og veru allar brostnar.   Eftir að hafa velt þessu fyrir mér síðustu vikurnar og rætt þetta við nokkra af félögum mínum á Eyjalistanum að undanförnu, þá tók ég þá ákvörðun um síðustu helgi að gefa ekki kost á mér í sæti á lista Eyjalistans fyrir komandi kosningar og hef ég nú þegar tilkynnt stjórn Eyjalistans það og á hádegi í dag, að loknum fundi hjá umhverfis og skipulagsráði, þá tilkynnti ég meirihlutanum að þetta væri minn síðasti nefndarfundur á þessu kjörtímabili.   Ég vil að lokum þakka félögum mínum á Eyjalistanum fyrir samstarfið sl 4 ár og óska þeim alls hins besta í komandi kosningum. Einnig vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu Eyjamönnum sem stutt hafa mig og hvatt áfram. Ég er sjálfur bara nokkuð sáttur við störf mín á kjörtímabilinu, en eins og gefur að skilja mun ég þar af leiðandi ekki taka þátt í kosningunum í vor og sjálfsagt gera upp kjörtímabilið betur síðar og að sjálfsögðu mun ég halda áfram að skrifa þegar og ef ég nenni.  

Ómar Garðarsson: Hér vil ég búa

Fyrir ekki mjög löngu síðan var ég spurður að því hvort ég ætlaði að halda áfram að búa í Vestmannaeyjum. Ástæðan, að ekki aðeins voru allir ungarnir flognir úr hreiðrinu heldur enginn þeirra búandi í Eyjum. Ég svaraði hiklaust játandi og þrátt fyrir að hafa velt spurningunni fyrir mér síðan er svarið hið sama. Ég og frú Þorsteina erum ekki á förum.   Ástæðurnar eru nokkrar enda jákvæðu hliðarnar fleiri en hinar neikvæðu og þar skorar fólkið hæst, því það er sama hvað hver segir, Eyjamenn eru skemmtilegir og eru lítið fyrir að flækja hlutina. Eitthvað sem hentar mér, verandi frekar hrekklaus og einföld sál. Það er ótrúleg orka í þessu samfélagi okkar sem Eyjafréttir hafa endurspeglað frá árinu 1974 og eiga vonandi eftir að gera um ókomna tíð. Orkan birtist okkur í menningar- og félagslífi, atvinnulífi og íþróttum þar sem ÍBV-íþróttafélag flýgur flestum félögum hærra þessa dagana. Hér er líka metnaður í rekstri stofnana og skólarnir eru að aðlaga sig nýjum tímum.   Eins og kemur fram í blaðinu í dag hefur mikið verið byggt hér síðustu ár og nú eru fleiri íbúðahús í byggingu en nokkurn tímann sem sýnir að ungt fólk hefur trú á framtíð Vestmannaeyja. Þá má ekki gleyma hvað hér er stutt í allt og gott aðgengi að starfsfólki opinberra stofnana, hjá bænum og í bönkunum. Eigi maður erindi við þær allar er hægt að græja það á einum klukkutíma eða tveimur. Þegar maður er kominn á þann aldur að vera hættur að vinna er fróðlegt að skoða hvað það er sem skiptir máli. Þar er fjölskyldan auðvitað efst á blaði og sú þjónusta sem stendur fólki til boða þegar kemur á efri árin.   Þar virðast Vestmannaeyjar vera á pari við það besta sem býðst og þó heilbrigðisþjónustan mætti vera betri er til staðar sjúkrahús og fært starfsfólk til að græja hlutina ef eitthvað bjátar á. En þessu fólki þarf að skapa betri tækifæri til að takast á við erfiðari tilfelli og hér eiga konur að geta fætt börn sín með fullu öryggi.   Samgöngur er mála málanna þar sem flugið sem valkostur hefur algjörlega gleymst. Við höfum einblínt á sjóleiðina og vonandi sjáum við fram á betri tíð með nýju skipi í haust. Krafan er svo að haldið verði áfram að gera Landeyjahöfn að því sem lagt var upp með, að vera heilsárshöfn. Í þessu samfélagi vil ég búa.  

Lágkúruleg aðför góða fólksins

Hvers eiga dugmiklir þingmenn eins og Ásmundur Friðriksson eiginlega að gjalda í þessu samfélagi? Mega menn ekki sinna sinni vinnu af ákefð og metnaði án þess að verða fyrir barðinu á hinu alræmda góða fólki sem svífst einskis. Fólkinu sem „setur sjálft sig á hærri siðferðislegan hest en annað fólk. Telur sig þess umkomið að tala með yfirlæti niður til annarra með einhverjum upphöfnum umvöndunartón, sem felur eiginlega í sér staðhæfinguna: „ég er betri manneskja en þú,“ eins og Páll Magnússon orðar það. Við erum að tala um menn sem vinna óeigingjarnt starf í þágu lands og þjóðar, fara á hinar ýmsu bæjarhátíðir og uppákomur út um allar trissur. Við erum að tala um viðburði þar sem æskilegt er að þingmenn láti sjá sig, sviðaveislur, þorrablót og þess háttar. Við erum að tala um að þjónusta kjósendur í landinu, því góðar hugmyndir eins og að kanna bakgrunn allra múslima í landinu, ganga úr skugga um að þeir hafi nokkuð fengið þjálfun í herbúðum hryðjuverkamanna, verða ekki til í tómarúmi. Eða koma í veg fyrir að hælisleitendur fái lágmarks tannlæknaþjónustu sem felst annað hvort í verkjatöflum eða að tennurnar séu dregnar úr þeim. Hvað með það þó Ásmundur hafi fengið 4,6 milljónir króna í endurgreiðslur vegna aksturs í fyrra, eða um 385 þús¬und krónur á mán¬uði. Á hann ekki bara rétt á því fyrst hann braut ekki neinar reglur og fékk engar athugasemdir frá þinginu? Tala ekki sjálfsmyndirnar og stöðfærslurnar á facebook sínu máli? Liggur þetta ekki í augum uppi? Hvað með það þó endurgreiðslan sé hærri en árslaun margra launþega í landinu. Hvað með það þó þetta sama fólk þurfi að ferðast langar leiðir til að fá nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og berjast með kjafti og klóm um hverja krónu. Svona er þetta bara. Reglurnar. Sem betur fer standa strákarnir okkar úr Suðurkjördæmi saman í þessu og láta engan bilbug á sér finna þó eitthvað hyski sem gengur undir nafninu „góða fólkið“ stofni til leiðinda og setji sig enn og aftur á háan hest. Þurfa ekki aðrir þingmenn hreinlega að fara að hugsa sinn gang og sinna fólkinu í landinu meira eins og Ásmundur gerir? Keyra meira í staðinn fyrir að gagnrýna aðra þingmenn í lélegum sjónvarpsþáttum á RÚV? Annars er undirritaður staðsettur í Reykjavík um þessar mundir, í tveggja vikna leyfi frá störfum til að fara með tveggja ára gamalt barn sitt í skurðaðgerð. Móðir og barn fá að vísu ferðakostnað greiddan til baka (tvær ferðir á ári) en ég þarf að borga því sem nemur flugferð frá Íslandi til San Francisco til þess eins að komast milli lands og Eyja. Svona eru bara reglurnar.    

Þetta finnst mér

Það opnaðist fyrir manni nýr veruleiki, þegar fulltrúi Vegagerðarinnar hafði lokið máli sínu á fundinum uppí Höll síðastliðið miðvikudagskvöld, þar sem málefni nýja Herjólfs voru til umræðu.  Nú fer maður að skilja betur af hverju margt varðandi rekstur Herjólfs er svona eða hinsegin. Áhugi fulltrúa Vegagerðarinnar á málefnum Herjólfs og samgöngumálum Eyjanna var akkúrat enginn , -  hann var mættur á fundinn af því hann var sendur af Vegagerðinni. - Birti hundruði talna sem enginn skildi eða sá og áttu lítið erindi fundinn, og tilgangurinn að sýna fram á hvað mikið væri gert fyrir samgöngumál Eyjanna. Steininn tók úr þegar hann fór að ræða hvort Vestmannaeyingar vildu kannski ekki fleiri ferðamenn. -  Eftir að hafa verið hikandi hvort rétt væri að Vestmannaeyjabær tæki yfir rekstur nýja Herjólfs, hvarf það hik, þegar fulltrúi Vegagerðarinnar hafði lokið máli sínu.   Ekki koma með skipið svona vanbúið fyrir farþega   - Ég hef frá upphafi verið jákvæður gagnvart nýja Herjólfi og aldrei tekið undir hinar fjölmörgu neikvæðu raddir varðandi skipið, - kannski til að vera ekki í hópi neikvæðra. – En það er sumt við smíði skipsins sem mér líkar ekki og veit að ég á mjög mörg skoðanasystkini.   - Það er hvernig búið verður að fólki sem ekki er sjóhraust. Þótt nýi Herjólfur eigi örugglega eftir að fjölga ferðum til Landeyjahafnar, þá vita það allir sem vilja vita, að fjóra til fimm mánuði ársins verður siglt til Þorlákshafnar meira og minna, og þá yfirleitt þegar veðrin eru verst. Nýja skipið verður hæggengara en núverandi Herjólfur. Það skiptir kannski ekki máli þegar siglt er til Landeyjahafnar. - En það skiptir máli þegar siglt verður til Þorlákshafnar.   - Þá kemur að því sem mér finnst afleitt varðandi nýja Herjólf, það eru kojumálin! - 30 fleta salur efst og fremst og hæst í skipinu, þar sem hreyfing skipsins er mest. - Með þessari hönnun á aðbúnaði fyrir farþega, sem þarna verða í einni kös, hugsanlega sjóveikt og illa haldið í vondum veðrum, er alveg galið og ótrúlegt að fulltrúi Vestmannaeyinga í smíðanefndinni skuli láta sér detta þetta í hug, - eða samþykkja það. Ég vil fleiri tveggja manna klefa þar sem fjölskyldur geta verið saman, þótt það bitni á öðru plássi.- Það verður líka að hugsa um vetrarferðirnar til og frá  Þorlákshöfn, sem aðallega Vestmannaeyingar nota, -  alveg eins og farþegafjöldann/ferðamennina á sumrin. - Þá skil ég ekki heldur þá ráðstöfun að klefarnir á efsta þilfari skuli vera örfáir fjögurra og átta manna klefar, en engir tveggja manna? Hverjum datt það virkilega í hug?   - Þegar ég hlustaði á Jóhannes Jóhannesson aðalhönnuð skipsins ræða þessi kojumál á einum hinna fjölmörgu Herjólfsfunda, þá fannst honum kojur allt að því óþarfar, sigla ætti í hálftíma/fjörtíu mínútur til Landeyjahafnar og lítil þörf á kojum á þeirri siglingaleið, nóg væri að hafa þessa fáu klefa á efsta þilfari enda væri klefar lítið notaðir að meðaltali yfir árið samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar. Og spurður af hverju klefarnir væru ekki frekar neðar í skipinu fannst honum það ekki skipta máli, það munaði svo litlu.   - Mér finnst að smíðanefndin eigi að snúa af villu vegar síns og gera aðbúnað farþega sem ekki eru sjóhraustir betri en fyrirhugað er, - og þótt það seinki komu skipsins þá er það betra en koma með skipið svo vanbúið til siglinga í Þorlákshöfn. Þetta finnst mér.Gísli Valtýsson  

Er Vegagerðin að fokka í okkur?

Þetta var fínasti fundur í gær, íbúafundurinn sem haldinn var í Höllinni. Um 160 manns mættu, en ég er nokkuð viss að ég hafi verið með þeim yngstu í hópnum. Þegar ég labbaði inn á slaginu 20:00 leit yfir hópinn sem mættur var, þá sá ég fljótlega hver úrslitin yrðu í nafnavalinu á nýju ferjunni. En eins og flestir vita voru það ég og 25 aðrir sem kusu nafnið Vilborg. Mér fannst sjarmerandi að ný ferja fengi nýtt nafn. Tákn um nýja og betri tíma í samgöngumálum okkar Eyjamanna. Svo er spurningin, verða þetta nýir og betrir tímar í sjósamgöngum okkar Eyjamanna. Vonandi. Ef ekki, hvað þá?   Elliði bæjarstjóri fór yfir þær óskir og langanir Eyjamanna um hvað við viljum sjá gert í þessum málum sem eru engar fréttir. Það er búið að fara yfir þessa hluti mörgum sinnum. Sem dæmi, að gjaldskrá og þjónustustig taki mið af því að hér er um þjóðveg að ræða.   Ferjan var kynnt, ég skildi ekki helmingin af því enda hef ég ekki vit á þessum málum. Vil vera jákvæð og ætlast til að allir séu að vinna vinnuna sína. Ferjan á allavega vera í litum Þórs, Týrs og ÍBV. Kojunum er búið að koma fyrir á teikningum, en hvernig kojurnar verða… lýsingarnar voru allavega ekki sérstakar. Sem móðir tveggja ungra barna, hoppa ég ekki af spenningi og skora á hönnuði að skoða þetta vel. En kannski þarf ég ekki að hafa þessar áhyggjur, það verður bara siglt í Landeyjahöfn.   Fulltrúi Vegagerðarinnar kom í pontu. Fór yfir fullt af tölum og staðreyndum sem skiluðu sér mjög illa til fólks og ekki gat fólk reddað sér með að lesa þær á glærunum því þær sáust ekki. Meira að segja ræðumaður sá þær ekki og giskaði að ég held tvisvar á einhverjar staðreyndir, enda virtist hann hafa verið neyddur til að mæta og þokkalega áhugalaus ef þið spyrjið mig. Tölurnar sem hann átti að skila til okkur voru samt mikilvægar og þarfar fyrir okkur að vita. Smá gegnsæi gangvart rekstraraðila og fleira. En það hættu allir að pæla í því þegar fulltrúi Vegagerðarinnar varpaði því fram, hversu marga ferðamenn við viljum svo sem fá? Hakan á fundagestum datt niður í gólf og Páll Magnússon fundarstjóri tók fyrir andlitið. Var þetta með ráðum gert? Kynning sem skilaði sér ekki til fólksins og skrýtin athugasemd sem stendur upp úr frekar en staðreyndir talnanna?   Eimskipsmenn fengu svo sjálfsagt sting í hjartað þegar Lúðvík Bergvinsson ávarpaði fundinn og talaði um að rekstur ferju ætti nú ekki að vera það flókinn. Við skulum allavega orða það þannig það langar engan að missa viðskipti sem eru að gefa.   Einnig var rætt hvort ferjan ætti að vera til reynslu hjá Vegagerðinni. Í umsjá Eimskip væntanlega? Í ákveðinn tíma áður en einhver annar tekur við. Ég fékk á tilfinninguna að það væri jafnvel ákveðið nú þegar. Annars veit ég ekkert hver er heppilegasti rekstaraðili sjósamgangna okkar.   Stjarna kvöldins var svo Samgönguráðherra. Hann virðist allavega skilja okkur. Lofaði að vera í ríkisstjórn allt kjörtímabilið og sannfærði mig um að hann ætlaði að græja þetta. Verst að það eru ekki að koma kosningar. Allavega eru Páll og Sigurður Ingi á fullu að koma því í gegn að við munum borga sama verð í báðar hafnir. Jeij!   Sara Sjöfn Grettisdóttir  Ritstjóri Eyjafrétta    

Lífshlaup

Þessa dagana eru landsmenn hvattir til aukinnar hreyfingar. Tilgangur átaksins er að sem flestir hreyfi sig markvisst og að hreyfing verði fastur liður í vinnu, skóla, frítíma og ferðamáta fólks. Það er í eðli okkar að hreyfa okkur. Strax í móðurkviði vorum við byrjuð að hreyfa okkur. Ungbörn hreyfa sig og þegar samhæfingu er náð fara börn að skríða, ganga og hlaupa. Fyrr en varir erum við farin að biðja börnin að hlaupa hægar og fara sér ekki að voða. Við höfum þó mismikla hreyfiþörf. Í samfélagi þar sem mikill tími fer í inniveru er líkamlegt ástand margra bágborið vegna of lítillar hreyfingar. Fyrir tíu árum dvaldi ég einn mánuð á heilsustofnun í Hveragerði. Þar var mikil hvatning til göngu.Þar var tekið dæmi um að við förum með bílinn í smurningu en hreyfing er smurning fyrir liði líkamans.Ef fólk var með verki í maga, baki, höfði eða fótum var ráðlagt að ganga. Það er um að gera að byrja hægt. Ganga stuttar vegalengdir og síðan lengra með hverjum degi. Febrúar er góður mánuður til að huga að hreyfingu eins og að ganga, hjóla, skokka, synda og stunda leikfimi og íþróttir. Það birtir með hverjum deginum, veðrið batnar, hálkan hverfur og snjórinn fer. Eitt vorið fór ég í gönguferðir árla morguns fyrir vinnu. Það var yndislegt að ganga austur á hraun og fylgjast með sólarupprásinni. Það tók smá tíma að venja sig, svo varð þetta ekkert mál, bara að klæða sig eftir veðri. Síðan í haust hef ég farið í sund á morgnana. Það hefur gefið mér styrk, aukið liðleika og svo er ég hress og fersk fyrir daginn. Við búum að mjög góðri sundaðstöðu hér í Eyjum. Margt sem við gerum er vani. Það tekur nokkrar vikur að venja sig á nýja siði. Það er gott að staldra við og mæla hvað við hreyfum okkur mikið á dag. Mælt er með að markviss hreyfing sé um hálf tími á dag. Móðir mín hefur verið mín fyrirmynd, hún hefur gengið lámark hálftíma á dag. Hún velur að fara ferða sinna gangandi ef hægt er. Þegar við eldumst og ráðum okkur sjálf verðum við værukærari og meira átak þarf til að breyta lífsmáta. Ef við sinnum líkama okkar vel eykur það vellíðan og það er mikilvægt að skilja, samþykkja og bera ábyrgð á líkamlegri stöðu. Líkamleg vellíðan er undistaða þess að líða vel andlega og tilfinningalega. Lykillinn að góðri líðan er líkamleg umhyggja og virðing fyrir sjálfum okkur.Við fáum kannski ekki fleiri ár, en okkur líður betur þann tíma sem við höfum til umráða. Það að samþykkja og elska okkur með öllum okkar ófullkomleika leysir okkur undan fjötrum ímyndar um ákveðið útlit. Þessi skrif eru mér hvatning til að hlusta á líkama minn og sinna honum eins og hann væri verðmætt musteri.    

Fasta

Nú er páskafasta hafin, þó er það líklega flestum fjarlægt að fasta vikurnar fyrir páska. Lestur Passíusálma er hafinn á rás 1 í útvarpinu og minnir það okkur á komu pákanna og er hluti af okkar menningu.   Undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á mikilvægi föstu fyrir líkamann. Fasta einn eða tvo daga í viku er ráðlagt. Sumir sleppa kjöti og stórum máltíðum, aðrir sleppa sætindum og enn aðrir einbeita sér að einhverju því sem þeim finnst hefta líf sitt. Fasta þýðir að sleppa að borða, einungis drukkið vatn. Líkaminn hefur gott af föstu, nema vegna veikinda, meðgöngu og brjóstgjafar.   Bolludagur, sprengidagur og öskudagur marka upphaf föstunnar, eftir þá daga var tekinn frá tími til að hugsa um þjáningu og dauða Krists.   Fyrir nokkrum árum ákváðum við fjölskyldan að taka páskaföstuna alvarlega og sleppa kjöti og fiski. Þessi ákvörðun var meðal annars tekin út frá vangaveltum yngsta sonar okkar (tæplega tvítugur)um að sleppa kjötáti. Fyrstu dagarnir hjá mér fóru í að finna góðar uppskriftir sem innihéldu prótein og ýmis konar baunaréttir voru eldaðir. Ég bý að þessu enn og elda oft grænmetisrétti. En þegar vikurnar liðu varð matseldin auðveldari og svo var tilfinningaþrungið að elda lambalæri á páskadag.   Ég sjálf hef ekki fastað nema fáa daga í einu eða hluta úr degi. Fastan er áskorun um aga. Eitt árið fastaði maki minn í nokkrar vikur. Hann drakk einungis vatn og saltvatn. Það var áhugavert að fylgjast með honum. Eftir nokkra daga föstu var löngun i mat horfin, síðan lækkaði hitastig líkamans og hann varð allur hægari. Hann byrjaði rólega að borða mat og leið vel. Margir andans menn hafa haft föstu að venju. Í guðspjöllunum talar Jesús um að þeir sem fasta eigi ekki að auglýsa það og halda áfram eðlilegu lífi. En á þeim tíma klæddu menn sig í hærusekk og báru á sig ösku, en öskudagur ber nafn sitt af föstubyrjun.   Hin kristna sýn á föstu er að taka frá þann tíma sem við notum til að borða (og í matarundirbúning) til að biðja, lesa uppbyggilegt efni og hugleiða það. Okkar andlegi eða innri maður verður virkari þegar líkaminn er ekki nærður.   Í fimmtugasta og áttunda kafla í spádómsbók Jesaja segir Drottinn: „Nei, sú fasta sem mér líkar er að leysa fjötra rangsleitningar, láta rakna bönd oksins og gefa frjálsa hina hrjáðu.....“ Kraft og áskorun föstunnar skal nota til góðra verka, öðrum til blessunar.   Þóranna M Sigurbergsdóttir

Sigurgeir Jónsson: Hvað á barnið að heita?

Sagan segir að eitt sinn hafi ferðamaður komið að bæ þar sem bjuggu fjórir bræður. Sá aðkomni spurði þá að nafni og varð sá elsti fyrir svörum: „Við bræðurnir heitum allir Jón, nema hann Siggi bróðir, hann heitir Gvendur.“ Einhverra hluta vegna datt skrifara þessi gamla saga í hug þegar hann renndi yfir umræðuna á samfélagsmiðlum í kjölfar þess að látið var uppi að nýja ferjan, sem á að sigla milli lands og Eyja, muni bera nafnið Vilborg en ekki Herjólfur eins og þrír fyrirrennarar hennar. Óhætt er að segja að þeir sem þar stinga niður penna séu í hæsta máta ósammála um þann gjörning og einhverjum finnst það ganga guðlasti næst að ætla að breyta út af þeirri reglu að Vestmannaeyjaferja skuli ekki bera Herjólfsnafnið. Þá vilja sumir nota tækifærið og kjósa um nafn á skipinu um leið og kosið verður til sveitarstjórnar í vor, telja að íbúar í Eyjum eigi að ráða því hvert nafnið verður. Elsti Herjólfur (þessi litli svarti) hóf siglingar árið 1959 ef skrifari man rétt. Hann var í eigu Ríkisskipa og skrifari minnist þess ekki að íbúar í Vestmannaeyjum hafi verið spurðir hvað hann ætti að heita, frekar en með nafngift á þau skip sem síðar leystu hann af hólmi. Þau fengu „átómatískt“ Herjólfsnafnið, eftir þeim aðila sem samkvæmt Hauksbók Landnámu er talinn fyrsti landnámsmaður í Vestmannaeyjum (þó svo að um það megi deila enda Hauksbók ekki talið nákvæmt vísindarit). En nú hefur smíðanefnd gefið út að nýja ferjan muni bera nafnið Vilborg og það vakið upp blendin viðbrögð. Ekki er þar seilst út fyrir landnámssöguna þar sem Vilborg var dóttir Herjólfs og hennar að góðu getið í þjóðsögum fyrir örlæti og hjálpsemi í garð náungans. Hinu sama var ekki að dreifa með föður hennar, sem vildi selja sveitungum sínum vatn úr vatnsbólinu í Herjólfsdal. Varð það að ósætti milli þeirra feðgina og olli því að Vilborg reisti sinn bæ austur á eyju og kom upp vatnsbóli þar sem allir fengu jafnan aðgang. En hvað skyldi smíðanefnd ganga til að varpa fram jafn róttækri tillögu og að skipta um nafn á aðalsamgöngutæki Eyjamanna? Skrifari hefur um það rökstuddan grun að því valdi hvað helst að núverandi Herjólfur eigi að vera áfram í notkun a.m.k. eitt ár samhliða nýja skipinu og þá gengur auðvitað ekki að tvö skip beri sama nafn. Það gæti valdið ruglingi. Hörðustu talsmenn Herjólfsnafnsins hafa bent á að hægt væri að tala um Nýja Herjólf og Gamla Herjólf en ekki hugnast nú skrifara ef mála ætti þau nöfn á kinnunga skipanna. Reyndar er gömul hefð fyrir því í Vestmannaeyjum og víðar að skip geti borið sama nafnið en þá með rómverskum tölustöfum á eftir, sem tilgreina númer hvað þau eru í röðinni. Við áttum Ísleif, Ísleif II, Ísleif III og Ísleif IV og sá Erlingur sem hæsta númerið fékk var Erlingur V. Þannig mætti samkvæmt þeirri reglu hafa núverandi Herjólf sem Herjólf III og nýja skipið Herjólf IV. Einhvern veginn grunar skrifara þó að það gæti líka valdið ruglingi. Auðvitað koma líka fleiri nöfn til greina. Á undan Herjólfi voru a.m.k. þrjú skip sem héldu uppi samgöngum milli lands og Eyja, fyrst Skaftfellingur VE, þá Gísli Johnsen VE og svo Vonarstjarnan (sem stundum var nefnd Mjólkur-stjarnan þar sem aðalhlutverk hennar var að flytja mjólk til Eyja). Einhvern veginn á skrifari þó ekki von á því að þessi nöfn hlytu hljómgrunn hjá Eyjamönnum. Vestmannaeyingar eru upp til hópa frekar íhaldssamir (eins og bæjarstjórnarkosningar undanfarinna ára vitna um). Þeir eru yfirhöfuð lítið fyrir það gefnir að breyta út af fornum venjum (rétt eins og hjónin í sögunni hér í byrjun sem létu syni sína flesta hverja heita sama nafni). En svo vaknar alltaf sú spurning hvort ekki sé kominn tími á breytingar. Og nú eru tímar breytinga, konur láta sífellt meira að sér kveða og kannski bara eðlilegt í ljósi þess að ný ferja beri nafn konu. Hér áður fyrr var það líka talið góðs viti ef skip hét kvennafni. Skrifari er ekki heittrúarmaður í því er fylgir nafngjöf á nýrri ferju. Fyrir honum er það meira mál að nýja ferjan nái að skila því hlutverki sem henni er ætlað en hvað hún kemur til með að heita. Skrifari hefur heldur aldrei óttast breytingar. En einhvern veginn hugnast honum betur að sjá nafnið Vilborg á kinnungi nýja skipsins en Herjólfur IV. Sá rómverski talnagrautur minnir hann einhvern veginn alltaf á liðna Danakonunga og tímabil einokunar og hnignunar í sögu Íslands. Og það er honum ekki að skapi.  

Ævar Austfjörð: Hvers vegna kjöt?

Borðaðu nú grænmetið þitt, Ævar svo þú verðir stór og sterkur! Þessi orð úr æsku. Sögð af fullkominni ást og umhyggju. Af fólkinu sem elskar mig mest. Mömmu og pabba, ömmu og afa. Reyndar, þegar ég hugsa þetta betur þá hafa amma og afi sennilega ekki sagt þetta. Enda man ég varla eftir því að það væri mikið grænmeti á borðum hjá þeim. Ég er ekki frá því að afi hafi kallað grænmeti „skepnufóður“. Við mannfólkið erum alltaf að læra eitthvað nýtt og oft lærum við eitthvað rangt, ég erfi það ekki við neinn. Margir búast við að ég muni skrifa lofgrein um hvað það gerir manni gott að borða bara kjöt. Það gerir manni vissulega gott eins og hugsanlega einhverjir hafa tekið eftir, á þeim breytingum sem orðið hafa á mér. Einnig eru einhverjir Íslendingar að reyna þetta fæði á sjálfum sér og flestir með góðum árangri. Flestir hafa svipaða sögu að segja, svefn batnar, skap batnar líkams- og liðverkir hverfa, hugsun verður skýrari, meltingarvandamál minnka, blóðþrýstingur lækkar, svo ekki sé minnst á að margir léttast verulega. Nokkur dæmi eru einnig um að liðagigt lagist að mestu. Best þykir flestum að geta alltaf borðað eins mikið og þeir vilja og það á svo sannarlega við um mig. Ég borða mikið og alltaf eitthvað gott og ég verð bókstaflega aldrei verulega svangur. Margir lenda í einhverskonar vanda með umskiptin yfir í þetta mataræði eins og t.d. tímabundið slen eða orkuleysi og verða hissa þegar þeim er tjáð að besta ráðið sé sennilega að borða meira. Annars hef ég mikla orku og mun betri einbeitingu en ég á að venjast.  Í þessari grein ætla ég hinsvegar að útskýra í eins stuttu máli og mér er mögulegt, hvers vegna dýr eru matur en plöntur eitthvað sem er borðað þegar ekki er til matur. Ég verð ekki með neinar tilvísanir í vísindagreinar eða rannsóknir en áhugasamir mega þó hafa samband ef þá vantar fróðlegt lesefni. Maðurinn er talinn hafa þróast í um 2-2.5 milljónir ára. Hann er talinn hafa borðað kjöt að hluta eða jafnvel mestu leyti allan þennan tíma og einnig er talið að sameiginlegur forfaðir mannsins og simpansa hafi borðað kjöt fyrir um 6 milljónum ára.  Nokkrar ástæður þykja gefa nokkuð öruggar sannanir fyrir kjötáti mannsins og þeirri staðreynd að við veiddum okkur til matar. Maðurinn hefur styttri ristil en stórir apar sem lifa að mestu á grænmeti. Aparnir hafa gerlaflóru í meltingarveginum sem gerir þeim kleift að gerja plönturnar og vinna úr þeim alla þá næringu sem þeir þurfa. Maðurinn getur ekki melt plöntur eins vel og þess vegna fer mikill hluti grænmetis í gegnum meltingarveginn án þess að næringin náist úr. Maðurinn hefur eiginleika til að búa til verkfæri og vopn til að veiða önnur dýr. Hann hefur þróað með sér hæfileika til að kasta fast. Það er nokkuð ljóst að við þróuðum ekki þennan kasthæfileika til að kasta steinum í ávexti sem hanga í trjám því þeir falla til jarðar þegar þeir eru tilbúnir. Heilinn er okkar besta vopn en hann er það tæki sem við höfum notað til að veiða nánast öll önnur dýr jarðarinnar okkur til matar. Maðurinn er eina tegundin sem eldar mat. Talið er að við höfum eldað mat í 300-500 þúsund ár og jafnvel eru kenningar um að kjöt hafi verið etið eldað í allt að 2 milljónir ára. Það er eldun á mat sem gerði þróun mannsins mun hraðari en annarra tegunda því með eldun á mat var okkur kleift að fá mun meira magn af hitaeiningum úr matnum og þar með vaxa og þróast hraðar. Það er eldamennskan og smíði áhalda og vopna sem gerir okkur mennsk.  Mestan tíma þessara tveggja milljóna ára höfum við því líklega borðað kjöt og hugsanlega fisk um 80% af árinu. Ekki er ólíklegt að egg hafi verið borðuð á vorin og ávextir og ber á haustin. Það má heldur ekki gleyma því að á þessum milljónum ára í þróunarsögu mannsins hefur hitastig á jörðinni verið breytilegt. Þar vekur athygli mína að langtímum saman hafa verið tímabil sem kallast ísaldir. Þær hafa staðið í þúsundir ára og þá hafa heitustu staðir jarðar verið svipaðir og Ísland er á okkar dögum. Við vitum vel að á Íslandi er nánast ekki hægt að rækta neitt með góðu móti nema gras. Og ekki getum við mennirnir lifað á grasi svo á þeim tímum er ljóst að við höfum að mestu borðað grasbíta. Grænmeti og plöntur eru í sjálfu sér ágætt fyrir þá sem það vilja. Það er reyndar oftast frekar vont á bragðið. Prófið bara að gefa smábarni, óvita, grænmeti að borða. Það vill það ekki. Enda vilja flestar plöntur ekki láta borða sig. Þær standa bara þarna með rætur í moldinni og eina vörn þeirra til að vera ekki étin er að framleiða efni sem hefur þau áhrif á þann sem er að borða það að viðkomandi verði illt, t.d. í maganum eða í hálsinum. Oft valda þessi efni, sem kallast „phytochemicals“ eða „antinutrients“, ertingu og jafnvel uppköstum. Og alls konar vanlíðan. Maðurinn hefur þó á löngum tíma náð að rækta þetta óbragð úr einhverjum plöntum þannig að það megi koma þeim niður með góðu móti. Gott ráð til að gera plöntu betri á bragðið er t.d. að steikja hana upp úr dýrafitu eins og smjöri. Ferskt salat fer jafnvel nærri því að bragðast sæmilega ef t.d. notaður er mikill ostur.  Það eru hins vegar til plöntur sem vilja láta borða sig, ávaxtaplöntur. Ávextirnir eru fallegir á litinn og sætir á bragðið. Ávaxtaplantan vill láta borða sig því þannig fjölgar hún sér og viðheldur þar sem sá sem borðar ávöxtinn þarf að skila af sér úrgangi sem ekki meltist eins og trefjum og svo að sjálfsögðu útsæði plöntunnar sem í flestum tilvikum eru kallaðir steinar.Plöntur sem ekki bera ávexti hafa falleg blóm sem gefa góða lykt og lokka til sín skordýr eins og býflugur sem sjá um að hjálpa þeim að viðhalda sér og svo eru það kornplönturnar sem treysta oftast á að vindurinn dreifi útsæðinu og hjálpi þannig til við að viðhalda tegundinni. Flestar ætisplöntur nútímans eru ekki til í náttúrunni í sömu mynd og hafa nánast verið búnar til af manninum. Dýrin hafa aðra vörn til að vera ekki borðuð. Þau geta hlaupið í burtu eða reynt að verja sig með öðrum hætti eins og að beita afli. Þess vegna eru engin eiturefni í kjöti og fiski því dýrið getur komið sér í burtu. Sú fullyrðing að kjöt sé krabbameinsvaldandi er studd með veikum faraldsfræðilegum rannsóknum sem eru í raun þess eðlis að þær geta ekki fundið beina orsök eða afleiðingu heldur aðeins veikar tengingar.   Ef við förum svo aðeins nær okkur í tíma þá er talið að maðurinn hafi ræktað dýr sér til matar í um 10 þúsund ár og einnig plöntur. Reyndar eru til kenningar þess efnis að maðurinn hafi upphaflega byrjað að rækta plöntur til að lokka dýrin til sín og veiða þau þannig. Frá því að Ísland byggðist var fæðuúrval lítið. Það er ljóst að hér á landi hefur fólk borðað lambakjöt og fisk mest allt árið. Egg hafa verið tekin á vorin og fugl veiddur upp úr miðju sumri og svo hafa verið borðuð ber og fjallagrös. Eitthvað hefur verið borðað af kartöflum og innfluttu korni síðustu 250-300 ár. Lítil sem engin grænmetisrækt var hér fyrr en um 1750. Fram að þeim tíma lifðu forfeður okkar á kjöti og fiski. Það er því alveg morgunljóst þegar sagan er skoðuð að við erum það sem kallað er omnivores eða dýr sem borðar bæði plöntur og dýr en dýr hafa þó augljóslega verið okkar aðalfæða.   Eftir að landyrkja hófst og við fórum að nýta fleiri plöntur til matar fyrir um 10 þúsund árum þá hefur maðurinn skroppið saman. Hann er vöðvaminni, beinin eru þynnri og viðkvæmari og heilinn hefur minnkað. Og því enda ég þetta með vísan í upphafsorð þessarar greinar, að það ætti að vera ljóst að varla nokkur maður hefur orðið stór og sterkur af því að borða grænmetið sitt. Ó nei! Það skrifast allt á kjötið. #meatheals  

Þóranna M. Sigurbergsdóttir: Ég líka #metoo

Undanfarið hefur verið mikil vakning um hverskonar kynbundið ofbeldi og áreitni undir millumerkinu #metoo. Henni er ætlað að draga ofbeldið fram í dagsljósið og breyta menningu samfélaga á þann hátt að kynbundið ofbeldi og áreitni verði ekki lengur liðið.   Margir hópar kvenna hafa risið upp og sagt frá reynslu sinni. Margar starfsstéttir hafa afhjúpað áratuga þögn. Viðhorf innan ýmissa hópa hefur leyft ýmsu misjöfnu að viðgangast. Svona er þetta og margir hafa notfært sér stöðu sína, vanþekkingu og styrkleika og komið illa fram. Þær konur sem hafa orðið fyrir áreitni, hafa lifað með skömmina, oftast í þögn. Það er fátt meira niðurbrjótandi en að lifa með leyndarmál sem ekki er hægt að tala um.   Ég sjálf er mjög þakklát fyrir að hafa ekki orðið fyrir áreitni eða misnotkun. Ég er þakklát fyrir að hafa átt föður, frændur, afa, kennara og félaga sem hafa sýnt mér virðingu. Ég hef rýnt í og skoðað samskipti mín við karlmenn og í gegnum tíðina hef ég heyrt af mönnum sem hafa farið yfir mörkin. Sem betur fer er umræða um þessi mál komin upp á yfirborðið. Margir drengir hafa orðið fyrir misnotkun og þarfnast hjálpar. Viðhorf í samskiptum kynjanna og milli fólks þarf að breytast þannig að við berum virðingu hvert fyrir öðru. Karlmenn þurfa hjálp til að breyta hugarfari og gerðum, hvernig á að vinna með ótta og minnimáttarkennd. Við þurfum líklega öll að breyta hugarfari okkar til að uppræta ofbeldi og áreitni. Samtal milli einstaklinga og hópa þarf að eiga sér stað. Samtal um áhrif kláms og mun á daðri, áreitni og ofbeldi. Einnig hvernig við getum unnið með tilfinningar. Erum við tilbúin að sýna mildi, fyrirgefningu og hjálp þegar einhver vill breyta hugarfari sínu og hegðun?   Samkvæmt jafnréttislögum eiga allir að hafa jafna möguleika til að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni. Það gerist ekki nema kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni verði upprætt. Við þurfum að standa vörð um þau sem eru minni máttar, börn og konur af erlendum uppruna. Tölum við okkar nánustu um siðferði og hvernig við getum breytt hegðun og viðhorfum okkar á meðal.   Þessi umræða og málefni kemur okkur öllum við. Það er hægt að breyta menningu og viðhorfum. Það tekur tíma, en ef við leggjum okkur öll fram gerist það fyrr. Við getum öll lagt okkar af mörkum, ég líka #metoo.    

Einar Kristinn: Flóttinn – endurminning

Nákvæmlega 45 árum eftir að eldgos hófst á Heimaey var ég, ásamt syni mínum, staddur heima hjá móður minni í kaffisopa. Ef litið er út um eldhúsgluggann sem snýr í austur blasir við Eldfell í allri sinni dýrð. Það er kannski ekki tignarlegasta fjallið á jarðarkringlunni né það hnarreistasta en það hefur óneitanlega haft ómæld áhrif á þær þúsundir manna sem bjuggu í Vestmannaeyjum í ársbyrjun 1973. Að verða vitni að því að sjá og heyra jörðina opnast, eldglæringar lýsa upp himininn og vikurmola rigna er ekkert minna en ótrúlegt og eflaust yfirþyrmandi. Þarna stóð ég, 45 árum síðar, og gat ekki með nokkru móti skilið hvað hefur farið í gegnum huga fólksins sem lagði leið sína niður á bryggju um miðja nótt þann 23. janúar 1973 með lítið annað en sjálft sig og sína nánustu. Móðir mín, sem var á áttunda aldursári þegar eldgosið hófst, hafði skrifað endurminningu sína í meistaranámi fyrir einhverjum átta árum og vildi svo til að skjalið var opið í tölvunni þegar ég heimsótti hana. Það fyrsta sem sló mig við lesturinn var hversu afslappað fólk var, enginn virtist fara á taugum þrátt fyrir rauðglóandi eldtungur í næsta nágrenni. Amma Jórunn hellti upp á kaffi og eftir smá snæðing var farið að huga að brottför. Þegar komið var í bátinn kom fólk sér fyrir í koju, ef þær voru á annað borð til staðar, annars var bara legið í lestum bátanna, innan um illa lyktandi veiðarfæri. Var æludallurinn síðan látin ganga á milli eftir þörfum. Í dag minnir þessi sjóferð hana mömmu á þátt úr myndaflokki sem fjallar um vesturfarana. Ritgerð mömmu fjallar sömuleiðis um Noregsferðina sem börnum á aldrinum 8-15 ára stóð til boða að fara í um sumarið. Þrátt fyrir að vera ekki orðin átta ára fékk mamma leyfi til að fara til Noregs í tíu daga. Maður á erfitt með að ímynda sér þetta gerast í dag. Reyndar á maður erfitt með að ímynda sér flest allt tengt gosinu enda lýsingarnar frá því eitthvað sem maður rekst helst á í skáldskap. Þetta er einungis lítið brot af upplifun einnar tæplega átta ára stelpu í gosinu. Margar af þessum mögnuðu sögum hafa verið sagðar og skráðar en margfalt fleiri eiga enn eftir að líta dagsins ljós og munu sennilega flestar þeirra aldrei gera það. Það væri í það minnsta spennandi og verðugt verkefni að taka saman fleiri sögur úr gosinu.    

Elliði Vignisson : 45 ár frá upphafi gossins á Heimaey

Í dag eru 45 ár frá upphafi gossins á Heimaey. Eyjamenn og landsmenn flestir minnast þess nú þegar jörðin rifnaði í jaðri byggðarinnar í Vestmannaeyjum og gló-andi hraun vall úr. Í ávarpi sínu við upphaf gossins sagði þáverandi biskup að varla hefði í annan tíma jafn mikill voði vofað yfir jafn mörgum Íslendingum á sama andartaki og þá nótt. Gosið á Heimaey væri einn hrikalegasti atburður sem orðið hefði í sögu landsins. Það voru vafalaust orð að sönnu og mikil var sú mildi að ekki varð tjón á lífi íbúa, björgunarmanna og framtíð byggðar.     Gosið var Eyjamönnum erfitt Þeir sem ekki upplifðu þessa atburði hljóta að eiga erfitt með að skilja þær tætingslegu tilfinningar sem við Eyjamenn berum enn í dag til þessara hamfara. Ég hef áður haldið því fram að gosið hafi verið okkur Eyjamönnum erfiðara en seinni tíma söguskýring hefur viljað vera láta. Eftir því sem ég hef orðið eldri hefur sú skoðun mín styrkst. Eftir sem áður ber ég mikla og djúpa virðingu fyrir þeirri söguskýringu sem oftast var haldið að mér sem barni og fólst í því að þetta hafi nú bara orðið til að styrkja okkur og svo var ýmislegt tínt til sem gosið hafi skilað.    Ekki dvalið við vandamálin Sú skýring á sjálfsagt rót í því að við Eyjamenn dveljum ekki lengi við vandamálin en snúum þeim í verkefni. Hjá því verður þó ekki horft að Eyjamenn urðu að hverfa í hendingskasti frá heimilum sínum með fátt annað með sér en fötin sem þeir klæddust. Eignatjónið varð gríðarlegt og við tóku tímar fullkominnar óvissu. Fjölskyldur tvístruðust og fréttirnar sem bárust af heimahögum voru oftar en ekki þungbærar.   Samfélag byggt á kjarki Þeim mun ótrúlegri var sá kjarkur sem Eyjamenn höfðu til að bera þegar þeir völdu að flytja aftur heim til Eyja. Að velja að takast á við það risavaxna verkefni að hreinsa bæinn af ösku og eignast á ný það samfélag sem var þeim svo kært. Að taka tafarlaust í sátt þá óblíðu náttúru sem ógnað hafði bæði lífi og eignum. Að veðja á rjúkandi eldfjallaeyju sem framtíð sína og sinnar fjölskyldu. Undir gunnfánum samheldninnar sneru Eyjamenn aftur og byggðu það fyrirmyndarsamfélag sem í dag á sér ekki hliðstæðu. Það þurfti kjark, dáð og þor til að endurreisa byggð í Eyjum. Af því áttu Eyjamenn nóg til að takast verkefnið.     Samhugur og drengskapur Ár hvert nota Eyjamenn 23. janúar til að staldra við og minnast þessa ótrúlegu atburða. Þá þakka þeir þá guðsmildi að ekki hafi farið verr og hversu vel þó tókst við hrikalegar aðstæður. Í hörmungunum sýndi hin íslenska þjóð hvers hún er megnug. Samhugurinn og drengskapurinn var alger. Fyrir það færum við Eyjamenn Íslendingum öllum þakkir. Á sama hátt réttu vinaþjóðir okkar Íslendinga Eyjamönnum hjálparhönd, bæði í gosinu og því ógnvænlega verkefni sem við tók í kjölfar þess. Það voru vinahót sem Eyjamenn gleyma aldrei.     Þakkir til þeirrar kynslóðar sem á undan fór Þeir Eyjamenn sem ekki fluttu til baka hafa síðan þá upp til hópa reynst sínum heimahögum vel. Það eru þeir sem svo oft mynda varðlínu um hagsmuni Vestmannaeyja sem um hefur munað. Öllum þessum aðilum færa Eyjamenn þakkir.   Sjálfur færi ég sérstaklega því hugrakka fólki sem á tvísýnustu tímum byggðar í Eyjum sneri heim strax að gosi loknu, hreinsaði Eyjuna af ösku og byggði á ný samfélag sem ekki á sér hliðstæðu í veröldinni.  

Trausti Hjaltason: Ánægja langt yfir landsmeðaltali

Árlega gerir Gallup þjónustukönnun í sveitarfélögum landsins. Á síðasta fundi Fjölskyldu- og tómstundarráðs var kynntur sá hluti sem snýr að ráðinu. Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með aðstöðu til íþrótta- iðkunar í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu voru 98% ánægð. Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu við barnafjölskyldur í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu sögðust 83% ánægð. Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu við fatlað fólk í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem afstöðu tóku sögðust 78% vera ánægð. Allt er þetta vel er yfir landsmeðaltali. Rétt er að óska starfsmönnum sérstaklega til hamingju með þennan árangur og er hann vitnisburður um þann metnað sem ríkir meðal starfsmanna sveitarfélagsins.   Nýjar þjónustuíbúðir Klárlega er hægt að gera betur og innan skamms opnar nýbygging við Hraunbúðir sem bæta mun mikið þjónustu við heimilisfólk sem glímir við heilabilun eins og Alzheimer. Hafinn er undirbúningur að nýjum þjónustuíbúðum fyrir aldraða í Eyjahrauni, byrjað er að hanna nýtt sambýli fyrir fatlaða og fjölga sérhæfðum leiguíbúðum fyrir þá svo eitthvað sé nefnt.   Vel tekist til í Heimaey Á síðasta fundi ráðsins var kynnt starfsemi Heimaeyjar - vinnu- og hæfingarstöðvar. Í Heimaey fer fram dagþjónusta, hæfing, iðja, starfsþjálfun og vernduð vinna samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks og eftir reglugerð um atvinnumál fatlaðs fólks. Ánægjulegt er að sjá hversu vel hefur tekist til með þær breytingar sem gerðar voru á húsnæðinu og þjónustu í málaflokknum. Rétt er að benda á að sífellt er þörf á nýjum heppilegum verkefnum fyrir starfsmenn í verndaðri vinnu og eru fyriræki og félagasamtök hvött til að nýta sér þjónustu sem þar stendur til boða.   Ný álma og starfsmönnum fjölgað á Hraunbúðum Framkvæmdum við nýja álmu við Hraunbúðir er að ljúka og markmiðið er að byrja að nýta hana í febrúar. Hjúkrunarforstjóri er að skipuleggja starfsmannahaldið og starfsemina en starfsmönnum í umönnun mun fjölga við þessar breytingar. Með þessu fjölgar herbergjum á Hraunbúðum og býr þá stofnunin yfir herbergjum í samræmi við þær heimildir sem hún hefur fyrir dvalar- og hjúkrunarrýmum. Nýja álman býður upp á möguleika til að mæta sérhæfðum þörfum þeirra sem mestu þjónustuna þurfa, s.s. fólk með heilabilun. Í nýrri álmu verður salur sem nýtist sem matar- og samverustaður.  

Einar Kristinn Helgason: Skynsemi eða skemmtun?

Nú þegar jólin eru að baki og nýtt ár gengið í garð er ekki annað hægt en að líta fram á veginn og halda ótrautt áfram. En áður en það verður gert vil ég líta örlítið til baka á áramótin og Þrettándann og ræða um flugelda. Flugeldar voru augljóslega mikið í umræðunni fyrir áramótin, enda sá tími sem almenningi gefst leyfi til að sýsla með þá. Umræðan beindist þó að miklu leyti að skaðsemi þeirra frekar en að einhverju öðru og má segja þetta hafi verið hálfgert hitamál. Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins lá t.a.m. ekki á sínum skoðunum og lagði til að banna ætti almenna notkun flugelda vegna reyk- og rykmengunar, sóðaskaps og hávaðamengunar. Lagði Sævar Helgi til að landsmenn myndu frekar styrkja Björgunarsveitir með beinum fjárframlögum í stað þess að kaupa flugelda en eins og flestir vita er flugeldasalan stærsta fjáröflun björgunarsveita landsins. Daginn eftir kom síðan svar á Vísindavefnum við spurningunni „Kemur ekki gífurleg mengun af öllum þessum flugeldum um áramótin?“ Stutta svarið var já þar sem í vetrarstillum getur ryk safnast saman í andrúmsloftinu en við slíkar aðstæður um áramót getur magnið orðið hundraðfalt hærra en æskilegt er. Í raun getur styrkur þess verið á stærðargráðu náttúruhamfara eins og þegar eldfjallaaska berst til Reykjavíkur. Segir jafnframt að vegna ýmissa samfélagsbreytinga hefur magn innfluttra flugelda fjórfaldast síðustu 20 árin og mengunin aukist í takt við það. Svifryk vegna flugelda inniheldur hættuleg efni eins og þungmálmana blý, kopar, sink og króm og er talið að flugeldar beri ábyrgð á allt að 10-30% losun þessara efna á ársgrundvelli. Ólíkt annarri mengun sem oft er staðbundin þá er flugeldamengunin alltumlykjandi og þess vegna erfitt fyrir fólk sem er sérstaklega viðkvæmt fyrir menguninni að forðast hana. Þungmálmarnir brotna í þokkabót ekki niður og verða því eftir í umhverfinu og geta borist langar leiðir með vindum og vatni. Það hefur skapast hefð fyrir flugeldum á Íslandi yfir áramót eins og víða annars staðar en er hægt að réttlæta hefðir sem við vitum að eru slæmar fyrir umhverfið, menn og aðrar lifandi verur? Ber okkur ekki að virða rétt hvers og eins til að þurfa ekki að anda að sér lofti sem er mengað af völdum annarra? Ég hef aðallega rætt um mengun í þessum pistli en eins og kom t.d. fram hjá Sævari Helga þá fylgja ýmsir aðrir ókostir líka. Ekki má heldur vanmeta slysahættuna eins og sást í kvöldfréttum á nýársdag en minnstu munaði að illa færi þegar skotterta sprakk fyrirvaralaust við jörðu í miðju íbúðarhverfi. Kannski verður brugðið á það ráð í framtíðinni að almenn notkun flugelda verði bönnuð og eingöngu fagmenn fái að skjóta upp flugeldum eins tíðkast erlendis. Það væri í það minnsta skynsamlegra en eins og við vitum þá fer ekki skynsemi og skemmtun ekki alltaf saman.    

Sara Sjöfn: Lífsins kúnstir

Fyrstu mánuðir ársins eru í smá þoku hjá mér, þar sem í lok ársins 2016 fæddi ég 17 marka heilbrigðan dreng. Ég eins og aðrar mæður um þessar mundir eyddi tíu dögum í borginni og beið eftir vísitölufjölskyldumeðlimnum. Heima í Vestmannaeyjum beið einn þriggja ára. Þetta var það erfiðasta við þessa lífsreynslu, skilja þriggja ára barnið sitt eftir og vita ekki hvenær þú kemur tilbaka og þegar tilbaka er komið er annar einstaklingur orðinn partur af fjölskyldunni. Þessi þriggja ára var nú alveg nokkuð mikið sama enda í góðum höndum hjá ömmum og öfum. Ég hins vegar grenjaði nokkrum sinnum við þessa tilhugsun, hormónarnir og allt það. Þvílíkt kraftaverk sem eitt líf er ásamt allri þeirri gleði og geðshræringu sem því fylgir og vona ég að fæðingar í heimabyggð verði að veruleika aftur.   Fyrstu mánuðir ársins fóru því algjörlega í móðurhlutverkið, sem var yndislegt. Um mitt sumar á leiðinni í frí erlendis fékk ég það boð að taka við af Ómari Garðasyni sem ritstjóri Eyjafrétta. Ég átti svo sem ekki von á því þó ég vissi að Ómari langaði að fara minnka ábyrgðina. Eftir talsverðan umhugsunarfrest tók ég boðinu og 1. september var fæðingarorlofinu lokið, pabbinn tók við barninu og fór í fæðingarorlof og ég tók við sem ritstjóri.   Starf blaðamannsins er í senn krefjandi eins og það er skemmtilegt. Aldrei neinn dagur eins og maður sér aldrei fyrir endann, því það er alltaf næsta blað framundan. Eyjafréttir stíga inn í nýtt tímabil núna um áramótin og ætlum við að halda ótrauð áfram að flytja ykkur fréttir, viðtöl og allt það sem snýr að okkur Eyjamönnum. Flest allt okkar efni ratar í vikulega blaðið okkar en okkur til stuðnings er vefmiðillinn eyjafrettir.is sem er í endurhönnun og mun ný vefsíða líta dagsins ljós vonandi um næstu mánaðamót. Af nógu er að taka og munum við vera með fræðandi og upplífgandi blað einu sinni í viku sem ég vona að þú fáir inn um lúguna hjá þér.   Á tímamótum eins og þessum er alltaf gott að líta sér nær og vera þakklátur fyrir það sem maður á og fólkið í kringum mann. Reglulega er maður minntur á að heilsan er ekki sjálfsögð og óska ég mér og mínum góðrar heilsu á nýju ári. Ég fer full tilhlökkunar inn í nýtt ár. Þar bíða mín skemmtileg og krefjandi verkefni hjá Eyjafréttum og vonandi fullt af góðum samverustundum með fjölskyldu og vinum. Að lokum vill ég þakka fyrir samfylgdina á liðnu ári og óska ég ykkur öllum gleðilegs 2018.  

17/18

Að venju geri ég upp árið með mínum augum séð.   Margt merkilegt er búið að gerast á árinu, en að mínu mati kannski merkilegast tengt fótboltanum, en eins og flestir vita þá náðum við Eyjamenn þeim einstaka árangri að verða bikarmeistarar, bæði karla og kvenna og framtíðin því bara nokkuð björt þar.   Árangur landsliða okkar var líka góður og þá sérstaklega hjá karlaliðinu að komast áfram á HM í fyrsta skipti, en mér verður oft hugsað til baka þegar karlalið okkar berst í tal, að ég man eftir því þegar ég var svona kannski 12 ára gamall að leika mér í fótbolta uppi í barnaskóla nánast alla daga og þegar maður var orðinn einn af eldri strákunum og farinn að velja í lið, þá man ég vel eftir litlum ljóshærðum strák, sem var svolítið linur á þeim árum, en ég tók eftir því, að hann var strax sem peyji nokkuð sleipur spilari og valdi ég hann því oft í lið með mér. Fylgdist svo með honum að vaxa úr grasi og er í dag þjálfari Íslenska karlalandsliðsins og stolt okkar Eyjamanna og ég efast ekkert um það, að ef einhver getur gert kraftaverk á HM í sumar þá er það Heimir Hallgrímsson.   Hápunkturinn hjá mér á árinu var, eins og í fyrra, ferð til Grímseyjar, perlu norðursins. Var svo heppinn að komast loksins bátsferð í kring um eyjuna með heimamönnum og er nú þegar búinn að panta fyrir næsta sumar. Vonandi kemst ég í þá ferð.   Er enn í útgerð og er byrjaður mitt 31. ár í trilluútgerð. Reyndar aðeins í frítímum, enda má að vissu leyti segja að það fari nú ekkert vel saman að vera í fullri vinnu hjá höfninni og róa í frítímum, enda ekki svo mikið um frí, en það gengur bara því miður ansi rólega að selja bátinn. Áhuginn á að róa er frekar takmarkaður, enda lét ég frá mér í sumar þessi fáu tonn sem ég átti, en á móti kemur að það er afskaplega gott að vera laus við bankann, en alltaf er jafn gaman að draga fisk úr sjó.   Tíðarfarið í haust hefur verið alveg með ólíkindum gott og sést það kannski best á sennilega met nýtingu á Landeyjahöfn í haust, en svo gerði brælu í einhverja daga og þá lokast um leið.   Pólitíkin spilaði þó nokkra rullu hjá mér á árinu, en fyrst og fremst er ég frekar dapur yfir því hvernig mál hafa þróast á árinu.   Framtíðin er að sjálfsögðu óskrifað blað, en mín tilfinning fyrir 2018 er kannski fyrst og fremst sú, að þetta er klárlega ár tækifæra og uppgjörs að einhverju leyti við það sem er að baki. Það eru jú kosningar í vor, enn er algjörlega á huldu hvort ég taki þátt í vor, en ég fór í þetta fyrir tæplega 4 árum síðan. Bæði vegna áhuga, en ekki hvað síður fyrir forvitnis sakir.   Klárlega verða einhver uppgjör á næstu mánuðum og vonandi breytingar. Vonandi munu Eyjamenn hafa meira að segja um okkar lykil baráttu mál en hingað til, en ég ætla ekki að telja upp allt sem þarf að laga hér í Eyjum, enda er það efni í amk. 2 greinar í viðbót.   Vonandi verður árið bara gott fyrir okkur öll og í þeim anda óska ég öllum Eyjamönnum og landsmönnum gleðilegs nýs árs.  

Helga Kristín Kolbeins, skólameistari FÍV: Menntun eykur víðsýni, eykur skilning okkar á því að líf allra er jafn mikilvægt

Eftir ræðu Björgvins Eyjólfssonar tók Helga Kristín Kolbeins, skólameistari, til máls. Fór hún meðal annars yfir mikilvægi menntunar í nútíma samfélagi og hversu miklu máli skiptir að hafa áhuga á viðfangsefninu. Að endingu fengu útskriftarnemendur uppbyggjandi lokaorð frá skólameistara sínum, veganesti sem mun án efa nýtast þeim í hinum miskunnarlausa heimi utan veggja FÍV:   Kæru útskriftarnemar, ég vil byrja þessa hátíð á að óska ykkur innilega til hamingju með daginn og þann árangur sem þið fagnið í dag. Þessi dagur er hátíðardagurinn ykkar. Eins og þið heyrðuð í máli Björgvins þá hefur skólastarfið á þessari önn verið öflugt og við leitum sífellt leiða til að bæta starfið, gera það fjölbreyttara og skilvirkara. Það er mikilvægt að hver og einn einstaklingur í þjóðfélaginu sé vel menntaður, mikilvægt fyrir samfélagið og efnahagslífið. Menntun eykur víðsýni, eykur skilning okkar á því að líf allra er jafn mikilvægt. Við viljum að einstaklingurinn geti nýtt sér menntun sína sér til gagns og höfum við útbúið mælitæki til að athuga hvort að svo sé. Við notum niðurstöður mælinganna til að meta hvernig til tekst. Röðum niðurstöðunum eftir löndum og gefum þeim einkunn eftir útkomunni. Við gerum þetta líka hérna. Gleðjumst þegar vel gengur, en verðum sár jafnvel reið þegar við röðumst ekki framarlega. Einnig erum við minnt á, að í samanburði við aðrar þjóðir, þá er útkoman okkur ekki hagstæð. Oftar en ekki er reynt að finna einhvern, sem hægt er að kenna um hvernig komið er fyrir okkur og endalausar rökræður eru síðan um hvernig eigi að fara að því að bæta niðurstöðurnar. Hvernig eigum við að raðast ofar í einkunnastiganum? Hvernig eigum við að tryggja gæði menntunar? Þegar rýnt er í niðurstöður rannsókna eins og Pisa sem meira en hálf milljón nemenda í 72 löndum tekur þátt í, þá er margt fleira en einkunnir einstakra námsgreina sem má finna. Þar fáum við líka svör við spurningum um starfshætti, viðhorf, hegðun og úrræði. Þegar við rýnum í þau svör, kemur í ljós að viðhorf til náms og trú á eigin getu skiptir megin máli. Eitthvað sem við vitum öll, en hversu miklu máli skipta þessir þættir?   Áhugasamir nemendur ná 12-15% betri árangri Hugarfarið hefur mikil áhrif, þannig finnur áhugasamur nemandi hjá sér meiri hvöt til að læra heima og vinna að því að ná framúrskarandi árangri. Áhugasamir nemendur ná 12-15% betri árangri en þeir sem hafa ekki áhuga á námsefninu. Nemandi með vaxandi hugarfar nær 9-17% betri árangri en sá sem hefur fast hugarfar. Fastmótað hugarfar merkir að nemendur telja að vitsmunir þeirra séu föst stærð, þeir eru klárir eða þvert á móti heimskir og ekkert getur breytt því. Hins vegar eru þeir sem telja sig ekki vera bundna af óbreytanlegum vitsmunum sínum, hvorki miklum eða litlum. Vitsmunir þeirra ráðist af ástundun þeirra í námi, sú afstaða kallast vaxandi hugarfar. Vaxandi hugarfar geta allir þróað og er öllum hollt því það snýst um hvernig við tölum við okkur sjálf. Það snýst um að: í staðinn fyrir að hugsa ég er ekki góð í þessu, hugsa ég frekar hvað vantar upp á hjá mér. Í staðinn fyrir að gefst upp finnur þú aðra aðferð við að leysa verkefnið. Verkefni sem þú telur að séu of erfið þá getur þú alveg leyst þau en það tekur þig lengri tíma. Við þurfum að vera meðvituð um hvað hugarfarið skiptir miklu máli og varast það að festast í fastmótuðu hugarfari. Kennarinn og fagmennska hans skiptir miklu máli í námi einstaklingsins. Nemendur sem njóta virkrar leiðsagnar kennara, koma mun betur út úr mælingum en þeir sem fá minni leiðsögn. En verkefnið er vandasamt því nemendur verða einnig að fá að vinna að sjálfstæðum verkefnum og tilraunum. Kennsluhættir hafa mikil áhrif á námsárangur. Það er því mjög mikilvægt að kennarastarfið öðlist þann sess og virðingu sem það á skilið. Kennarar Framhaldsskólans hafa verið að vinna að starfsþróunarverkefni sem miðar að aukinni fagmennsku kennara og eflingu lærdómssamfélagsins og er einkar ánægjulegt að það virðist sem að verkefnið sé þegar farið að bera ávöxt.   Nemendur ánægðari með kennara sína Í skólapúlsinum, könnun sem var framkvæmd í nóvember síðastliðnum, kemur í ljós að allir þættir sem lúta að kennurunum og vinnulagi í kennslustundum hafa hækkað frá síðustu mælingu og við sjáum þetta einnig í áfangamat sem framkvæmt er á hverri önn að þar hækkar ánægja nemenda með kennsluna um 10% á milli ára. Þetta hefur áhrif á útkomuna, brotfall og fall í áföngum er minna. Brottfallið er vel undir 5% en fall í áföngum er rúmlega 5%. Í skólapúlsinum kom í ljós að 80% nemenda hefur áhuga á náminu og það er sama hlutfall og þegar við tókum þátt í könnunni 2015. Það kemur ekki á óvart því að þrátt fyrir að við séum með nýja námskrá, þá vantar nýtt og endurbætt námsefni í framhaldsskólanna. Einnig þurfum við að bæta námsumhverfið og hafa þann búnað sem þarf til að styðji við nýja og betri námshætti.   Vantar um 70 milljónir til að endurnýja búnað Í vikunni var lagt fram nýtt fjárlagafrumvarp og í hlut Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum bættist við tæpt 10 þúsund króna framlag á hvern nemanda á árinu 2018, frá fyrra frumvarpi sem lagt var fram í haust. Á árunum 2019 og 2020 er gert ráð fyrir að fjármagn til skólans dragist ekki saman eins og gert var í fyrra frumvarpi. Peningum sem varið er í menntun er vel varið og við fáum mikla ávöxtun á það fjármagn og tryggjum framtíðina. Við rekum skólann innan fjárlaga, en það breytir ekki þeirri staðreynd að framhaldsskólastigið hefur verið undirfjármagnað í mörg ár og því miður á það sama við um okkar skóla. Menn eru ekki sammála um hversu mikið fjármagn vanti inn í kerfið en tölurnar eru frá tveimur upp í sautján milljarða. Okkur vantar um 70 milljónir til að endurnýja þann búnað sem okkur vantar, þannig að viðbótarframlagið sem við fáum með hverjum nema dugir skammt og enn er langt í land til að við getum lokið þeirri endurnýjun sem er löngu tímabær.   Gervigreind og vélmenni munu leysa öll störf sem byggja á endurtekningu Í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum erum við að mennta einstaklinga til að takast á við framhaldsnám og störf framtíðarinnar. Störf framtíðarinnar verða mjög ólík því sem við þekkjum í dag. Gervigreind og vélmenni munu leysa öll störf sem byggja á endurtekningu og þau störf sem verða til krefjast þess að einstaklingar hafi víðtæka þekkingu á mörgum sviðum, hæfni til að leysa flókin og skapandi verkefni og séu gagnrýnir í hugsun. Þessi þróun er í daglegu máli kölluð fjórða iðnbyltingin. Skólinn leggur til verkfæri til einstaklingar geti bætt við þekkingu og er vettvangur frjórrar hugsunar sem vekur forvitni, vekur þorsta til að afla frekari upplýsinga og leita nýrra leiða, sem verður til að uppbygging á sér stað. Í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum höfum við verið að byggja upp umhverfi og aðstöðu fyrir skapandi fólk, lausnamiðað umhverfi og frjóa hugsun. Í skólanum er lögð áhersla á að leggja grunninn að starfsfólki sem getur borið með sér frumkvöðlahugsun og eru því námsgreinar eins og listir og nýsköpun komnar í kjarna stúdentsprófsins. Í málm- og vélstjórn er skólinn að bæta við fullkomnum tölvustýrðum tækjum og hermum og hefur sett sér það markmið að aðstaðan sem nemendur hafi sé í fremstu röð og ekki síðra en í þeim löndum sem eru í fararbroddi í menntum mál- og vélstjórnargreina. Í lok október barst skólanum styrkur frá Gene Haas Foundation and National Institute for Metalworking Skills til að efla kennslu málmiðnargreina enn frekar og í bréfinu sem fylgdi styrkveitingunni er kennurum skólans þakkað það mikla framlag sem þeir hafa innt af hendi fyrir þróun þessara greina.   Stúdent nr. 1000 útskrifaður Í dag útskrifuðum við 13 nemendur sem luku námi af 5 námsbrautum. Námið er mislangt og hefur það tekið nemendurna mislangan tíma að ljúka því. Við erum öll stolt af nemendunum sem voru hérna uppi á sviði, glæsilegir fullorðnir einstaklingar með útskriftarhúfu á höfði og skírteini í hönd. Árið 1984 útskrifuðum við fyrstu stúdentana og í dag útskrifuðum við 1000 stúdentinn, þannig að nú eru stúdentar frá skólanum orðnir 1002. Skólinn hefur útskrifað yfir 500 nemendur með starfsréttindi og tæplega 600 nemendur úr grunnnámi starfsnáms. Þeir nemendur sem voru að ljúka námi standa núna á tímamótum. Framhaldsskólanámi er lokið, flestir voru að ljúka stúdentsprófi og geta hafið nám í háskóla, hér á Íslandi eða í útlöndum. Skólaárin í framhaldsskóla eru mótunarár þar sem lagður er grunnur að því sem koma skal. Markmið okkar er að einstaklingar útskrifist með þá hæfni sem fjórða iðnbyltingin gerir kröfur um. Mennta fólk þannig að það geti nýtt sé öll þau tækifæri sem framtíðin ber í skauti sér. Ef við ætlum að vera tilbúin að mæta nýjum tímum og geta nýtt okkur þá tækni sem er í boði, þarf miklu meira en orðin tóm. Við verðum að láta námið vera í forgangi og gera nemendurna hæfa til að takast á við þá spennandi tíma sem bíða okkar.   Til hamingju! Kæru útskriftarnemar, Fyrir hönd Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum þakka ég ykkur samfylgdina og óska ykkur alls góðs, hvert sem leiðir liggja. Þið hafið staðið ykkur vel og verið skólanum til sóma. Mér er heiður að því að vera með ykkur í dag, á stórum degi í lífi ykkar. Nú er tilefni til að fagna því þið hafið öll lokið langþráðum áfanga. Það eru mikil verðmæti í ykkur fólgin. Ég veit að þeir sem eru hér með okkur geta staðfest það, án þess að hika. Ykkar bíða krefjandi verkefni, framtíð samfélagsins liggur í höndum ykkar. Ég hvet ykkur til þess að nýta þessi tímamót til þess að hugsa um það hver verður næsti áfanginn á ykkar þroskabraut. Setjið ykkur markmið og ákveðið næstu skref til þess að ná þeim. Markmiðin geta snert allt milli himins og jarðar, bara að þau skipti ykkur sjálf máli. Nelson Mandela sagði að menntun væri besta tækið sem við höfum til þess að breyta heiminum. Menntun eykur víðsýni, menntun er til þess fallin að opna hjörtu okkar fyrir fegurð. Þið, kæru nemendur, eruð búin að sækja tíma í ótal námsgreinum þar sem setið er og spjallað um það sem skiptir máli í lífinu. Þið hafið rætt mikilvægar spurningar við samnemendur ykkar og kennara og fengið þjálfun í að skoða mál út frá mismunandi sjónarhóli. Fyrir marga er þessi þáttur menntunar sá notadrýgsti. Að fá tækifæri til að skoða hugmyndir og atburði í víðara samhengi,að máta sig og sínar skoðanir við það sem öðrum finnst. Munið að þið getið ráðið mjög miklu um það hvernig líf ykkar verður. Byrjið á að hugsa hvað langar mig! Og leyfið ykkur að hugsa stórt! Markmiðin sem þið setjið ykkur er vel hægt að ná. Verið trú landi ykkar og uppruna og farið vel með tungumálið okkar. Berið virðingu fyrir fjölskyldu ykkar og vinum og því samferðarfólki sem verður á vegi ykkar í framtíðinni. Fyrst og fremst berið virðingu og umhyggju fyrir ykkur sjálfum og þeim verkefnum sem þið takið að ykkur í framtíðinni. Ég vona og veit að þið eigið góðar minningar frá tíma ykkar hér í skólanum. Á framhaldsskólaárum kynnumst við oft á tíðum okkar bestu vinum sem við eigum ævilangt, þótt leiðir skilji á vissan hátt nú við brautskráningu. Viðhaldið vináttunni til hvors annars. Ég minni ykkur á að þið eruð ekki laus við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum þó að þið séuð að útskrifast héðan í dag. Þið eruð alla ævi nemendur skólans og skólinn er stoltur af ykkur eins og þið eruð stolt af ykkar skóla. Nú er það ykkar að nota hvert tækifæri til að tala vel um skólann.    

Björgvin Eyjólfsson, aðstoðarskólameistari: Skólastarfið og námið er vinna þar sem launin eru menntunin

 Samkvæmt venju reið Björgvin Eyjólfsson, aðstoðarskólameistari, á vaðið með stutt yfirlit um starf skólans á liðinni önn þegar útskrift FÍV fór fram 16. desember sl. Fór hann um víðan völl og ræddi meðal annars mannabreytingar, samstarfið við íþróttafélög bæjarins og ýmsar tölulega upplýsingar.   Af breytingu mannahalds er það að segja að til liðs við okkur kom Júlía Gristsenko, skiptikennari í ensku frá Eistlandi og njótum við starfskrafta hennar þetta skólaár í fjarveru Arndísar Maríu Kjartansdóttur sem fór í námsleyfi. Einnig bættist við Birita í Dali sem kennir lífsleikni og stafræna hönnun. Ólafur Friðriksson kenndi hönnun skipa og Hildur Vattnes tók að sér lífeðlisfræði á sjúkraliðabraut. Bæði voru þau í stundakennslu. Aðrar breytingar urðu ekki á starfsliði skólans. Kennt var nokkurn veginn sleitulaust út ágúst og allan september til námsmatsdaga hinna fyrri sem haldnir voru 12.-16 október. Eftir þá var gefið út miðannarmat. Seinna úthaldið var nokkuð heillegt og kennt var til 7. desember, þá tók við seinni námsmatstörnin 8-13 desember. Og nú erum við hér stödd til að ljúka starfi annarinnar.   Minna svigrúm fyrir vinnu og aðrar athafnir utan skólans Við styttingu náms til stúdentsprófs er augljóst að mikilvægi þess hefur aukist að nemendur mæti vel í skólann og sinni náminu af kostgæfni jafnt og þétt alla önnina. Minna svigrúm er því fyrir vinnu og aðrar athafnir utan skólans á starfstíma hans. Skólastarfið og námið er vinna þar sem launin eru menntunin og einingarnar sem skilar okkur síðan betri atvinnumöguleikum og lífsfyllingu í framtíðinni. Skólinn hélt áfram samstarfi við ÍBV íþróttafélag um akademíu í knattspyrnu og handknattleik þar sem 33 nemendur tóku þátt. Nú er Golfklúbburinn einnig með í þessu samstarfi í annað skipti. 5 nemendur voru í golfakademíunni og verða vonandi enn fleiri í framtíðinni. 15 sjúkraliðar héldu áfram í fjarnámi við skólann undir stjórn Guðnýar Bjarnadóttur og gengur það mjög vel. Skólinn er einnig þátttakandi í fjarmenntaskólanum sem er samstarfsverkefni 13 framhaldsskóla á landsbyggðinni. Það samstarf gefur okkur aukna möguleika á fjölbreytni í námi og heldur vonandi áfram að þróast á jákvæðan hátt. Við héldum áfram þátttöku í tveggja ára NORDPLUS verkefninu þar sem fjallað er um nýjungar og skipulagningu á sviði ferðaþjónustu. Samstarfsskólarnir eru frá Finnlandi Lettlandi og Svíþjóð. Fulltrúar nemenda og kennara okkar heimsóttu sænska skólann sem staðsettur er í Malmö nú í október. Verkefninu lýkur síðan í janúar með heimsókn allra skólanna til Lettlands. Advanía, fyrirtæki sem þjónustar tölvukerfið okkar hélt námskeið í kennslukerfi INNU fyrir kennara og var það haldið í október. Vanda Sigurgeirsdóttir hélt frábæran fyrirlestur um forvarnir gegn einelti ætlaðan forráðamönnum og starfsfólki skólans. Áætlað er að hún komi aftur á vorönninni með námskeið fyrir kennara. Björg Þorgeirsdóttir kom frá Kvennaskólanum og fór yfir ýmis hagnýt atriði varðandi kennslu í áföngum á þriðja þrepi   Aldrei fleiri í göngu yfir Fimmvörðuháls Sögulegum áfanga var svo náð er hópur nemenda gekk yfir Fimmvörðuháls síðustu vikuna í ágúst ásamt íþróttakennurum og nokkrum vöskum sjálfboðaliðum. Hópurinn taldi 39 manns og hefur aldrei verið jafn fjölmennur. Þetta er í fjórtánda skipti sem nemendur fara þessa ferð sem hluta af íþróttaáföngum skólans. Ýmsir fræðslufundir hafa verið haldnir fyrir nemendur á önninni og má þar nefna hefðbundna heimsókn Ástráðs félags læknanema sem var með kynfræðslu fyrir nemendur. Hugrún, félag háskólanema á heilbrigðis og hugvísindasviði gekkst einnig fyrir fræðslu um geðheilbrigði. Af félagsstarfi nemenda er það að segja að haldið var nýnemaball í byrjun september. Einnig héldu nemendur ýmsar uppákomur og spilakvöld í samkomusal skólans og bíóið bauð uppá sérstaka miðnætursýningu. Með tilkomu þessa nýja hljóðkerfis sem við erum nú að nota í fyrsta skipti eykst möguleiki nemenda til félagsstarfs í skólanum og vonandi nýta þeir sér það. Nemendafjöldi var svipaður á þessari haustönn og þeirri síðustu. Staðfestir það þær samfélagslegu breytingar sem landsbyggðin tekst nú á við þar sem ungu fólki fækkar með hverju árinu sem líður. Sem dæmi má taka að fyrstu árin mín í kennslu (ég byrjaði 1978) taldist lítill árgangur ef undir 100 nemendur voru í honum. Nú telst 70 manna árgangur stór en flestir eru milli 50 og 60. Svo eru menn hissa að ÍBV sé í vandræðum að manna yngri flokkana sína í handbolta og fótbolta og fólk heldur áfram að bera árangurinn saman við mun stærri bæjarfélög í örum vexti. Hversu raunhæft er það? En nóg af þessu.   Brottfall fer minnkandi Námið hófu sem sagt 234 nemendur í mismörgum einingum. Rúmlega 95 % þessara eininga skiluðu sér til prófs. Einungis 6 nemendur hættu námi á önninni og meðal fallprósenta í öllum áföngum er rúmlega 5%. Þetta telst mjög gott miðað við fyrri ár og erum við að sjá áframhaldandi árangur af markvissri vinnu skólans gegn brottfalli. Skapast hefur sú venja að veita nemendum með frábæra mætingu fría innritun á næstu önn og að þessu sinni bera tveir nemendur af og eru með 100% raunmætingu sem þýðir þeir hafa mætt í hvern einasta tíma á önninni. Geri aðrir betur. Þetta eru þeir: Árni Fannar Bæron Gerhardsson og Daníel Hreggviðsson.   Þessir nemendur fengu viðurkenningar við útskriftina Viðurkenningar frá íþróttaakademíu ÍBV: Sandra Erlingsdóttir og Elliði Snær Viðarsson. Viðurkenning fyrir mjög góðan árangur í þýsku frá Þýska sendiráðinu. Bergþóra Ólöf Björgvinsdóttir. Fyrir mjög góðan árangur í raungreinum frá Háskólanum í Reykjavík. Bergþóra Ólöf Björgvinsdóttir. Fyrir góðan árangur á stúdentsprófi. Þórey Lúðvíksdóttir meðaleinkunn 8,01. Fyrir mjög góðan árangur á stúdentsprófi. Bergþóra Ólöf Björgvinsdóttir meðaleinkunn 9,08.

Ari Trausti: Eitt skref af ótal mörgum

Undir jól og áramót ár hvert hyggja menn að næsta ári og hafa oftast uppi góðar vonir. Á yfirstandandi ári urðu stjórnmálamenn og kjósendur að takast á við stjórnarslit og nýjar kosningar. Í desember tókst að setja saman nýja ríkisstjórn með nokkuð óvæntu mynstri, jafnvel mjög umdeildu meðal kjósenda og félaga flokkanna.   Félagsmálastjórn Stjórnarsamningurinn er vissulega sáttmáli; málamiðlun milli mjög ólíkra, jafnvel andstæðra, stjórnarmiða og -stefna. Félagshyggja er þar með sterkum svip en allmörg málefni látin liggja milli hluta eða þau sett í skoðun. Samsteyputjórnin verður til við sérstakar aðstæður þar sem pólitískar línur og skilaboð reyndust flókin. Lögð verður að þessu sinni aðaláhersla á að koma af verulegum þunga til móts við ákall fólks um úrbætur lífsskilyrða eftir neyðarviðbrögð vegna fjámálahrunsins í fyrstu og svo of hægar endurbætur eftir þau. Verkefnin eru ærin, hvort sem horft er til heilbrigðis-, skóla- eða almannatryggingarmála, til rannsókna, nýsköpunar, byggðamála, jafnréttis eða gegnsæis í stjórnkerfi og hagsmunatengslum, hvað þá launamála, atvinnuvega og innviða í samgöngum. Inn í flest öll fyrrgreind málefnasvið fléttast umhverfismál og þá sér í lagi aðgerðir í loftslagsmálum, allt frá orkuskiptum í samgöngum og útgerð til endurheimt landgæða og bindingar kolefnis.   Sjáum til Verkin tala og koma mun í ljós hvort vonir fólks, sem m.a. má lesa að dálitlu leyti úr fyrstu viðhorfskönnunum, gangi eftir. Félagshyggjufólk einsetur sér að vera málsvari hins vinnandi manns og gerir sitt besta til að svo fari á næstu árum. Til langrar framtíðar þörfnumst við nýs hagskerfis sjálfbærni, jöfnuðar og hófsemdar, grænna og mannúðlegra viðmiða, og jafnvægis milli náttúrunytja og náttúruverndar. Ég tel okkur taka smáskref í þá átt með samstarfi þriggja ólíkra flokki á Alþingi að þessu sinni. Takist það bærilega, er tíma á þingi eins vel varið og kostur er í núverandi stöðu. Lesendum og öllum íbúum Suðurkjördæmis sendi ég hlýjar hátíðarkveðjur.  

Einar Kristinn - Að lífga sálaryl

Það voru fyrirmæli frá foringjanum að skrifa „jólalegan“ pistil að þessu sinni enda prýðir hann baksíðuna á sjálfu jólablaðinu. Ég hélt að það yrði nú ekkert tiltökumál og fullur sjálfstrausts settist ég fyrir framan lyklaborðið á mánudaginn og hófst handa við verkið. Tveimur tímum síðar var skjalið í tölvunni enn autt. Ég hef eytt þó nokkrum vinnutímum í desember, bæði við vinnslu aðventublaðsins og jólablaðsins, í að spyrja annað fólk hvað því finnst um hina og þessa hluti tengda jólunum, hefðir, jólalög, kvikmyndir, mat og tilfinningar svo eitthvað sé nefnt. En þegar röðin kom að mér sjálfum var lítið um svör. Mér er alls ekkert illa við jólin, þvert á móti finnst mér þau heilt yfir fín og jafnvel nauðsynleg í myrkasta skammdeginu en upprunalega voru jólin nokkurs konar skammdegishátíð þar sem tilgangurinn var öðru fremur ,,að lífga sálaryl“ eins og þjóðháttafræðingurinn Árni Björnsson orðar það í skrifum sínum. Mér finnst samt eins og fólk í dag sé stundum komið talsvert út af sporinu, ýmist meðvitað eða ómeðvitað og oft í skjóli hefða og venja. Það er eins og grunngildin verði undir, samvera, kærleikur, þakklæti, gleði og að njóta þess að slaka á. Of mikið púður fer í alls kyns undirbúning, leitina að hinni fullkomnu gjöf (sem verður að vera nógu dýr líka) og allt of krefjandi verkefni í eldhúsinu. Svo er líka lykilatriði að fanga öll fullkomnu sviðsettu augnablikin á mynd og deila með Instagram vinum sínum. Fyrir mína parta þá myndi ég segja að það góða við aðventuna og jólin sé að það ríkir einhver barnsleg eftirvænting í okkur öllum, óháð aldri. Það er misjafnt hvers við væntum og stundum veit maður hreinlega ekki af hverju þessi tilfinning býr í brjósti manns, hún bara fylgir árstímanum. Sem námsmaður fannst mér frelsistilfinning við lok jólaprófatarnarinnar eitt það allra besta við jólin og í kjölfarið að verja meiri tíma með fjölskyldu og vinum. Sem fjölskyldumaður á maður eflaust eftir að kynnast jólunum alveg upp á nýtt og læra að meta hluti sem maður áður tók sem sjálfsögðum. Í þokkabót fær maður að upplifa jólin í gegnum börnin sín og er það sannarlega eitthvað til þess að bíða eftirvæntingarfullur eftir enda jólin fyrst og fremst hátíð barnanna. Munum bara að tileinka okkur grunngildin og hafa þau í hávegum en ekki ósiðina sem muna vonandi vaxa af okkur með tíð og tíma.  

Georg Eiður - Jólin 2017

Það hefur oft verið erfitt að vera trillukarl í desember, enda tíðin ansi oft rysjótt um það leytið (aðeins rólegri hjá mér þessa dagana hjá höfninni), en það hefur oft kostað mikil átök að láta enda ná saman um þetta leytið. Ég náði þeim merka áfanga í nóvember, að þá voru akkúrat 30 ár síðan ég keypti minn fyrsta bát og í byrjun þessarar viku voru einmitt nákvæmlega 30 ár síðan ég eignaðist frumburðinn.   Þegar maður lítur til baka, þá voru t.d. jólin 1989 mjög erfið, en einmitt þá 16. desember fór ég í róður í rjóma blíðu, en var rétt kominn vestur fyrir eyjar þegar skall á austan rok. Baráttan við að komast til baka við klettinn var bátnum ofviða og í raun og veru var ég ótrúlega heppinn að komast lifandi frá því, en ég þurfti að fá far í land með stærri bát, en þessi trilla sem ég átti á þessum tíma hvílir á hafsbotni innan við eyjar.   Þessi jól voru því afskaplega erfið, ekki bara vegna þessa, heldur líka vegna þess að fyrr á árinu hafði ég fengið forræði yfir syni mínum og var því einstæður faðir, sofandi í sófa í stofunni hjá móður minni.   Um áramótin var því ansi lítill hugur í mér að fara eitthvað út á skemmtanalífið, en móðir mín pressaði á mig að drífa mig nú út að hitta annað fólk, enda líkur lífinu ekki við 25 ára aldur eins og marg oft hefur verið sannað.   Ég kíkti á nokkra staði en allstaðar var troð fullt og endaði með því að rölta upp í Hallarlund (þar sem nú er Betel). Það var frekar fátt um fólk þarna og ég settist niður til að fá mér eitt glas áður en ég færi heim. Tók þá fljótlega eftir ungri konu sem var að dansa við eldri mann. Eftir að hafa fylgst með þeim í smá stund þá leit unga konan skyndilega á mig og blikkaði mig. Í fyrstu hélt ég að þetta hefði verið einhver mis sýn, en nokkru seinni gerði hún þetta aftur. Stuttu síðar settist hún hjá fólki sem ég kannaðist nú eitthvað við, þar á meðal Guðný Anna Tórshamar.   Eftir að hafa heilsað og boðið gleðilegt nýtt ár, þá spurði ég að sjálfsögðu: Hver er þessi unga kona þarna?   Dinna svaraði: Þetta er hún litla systir mín, hún Matthilda María.   Eftir að hafa horft á hana smá stund kom eldri maðurinn aftur sem hún hafði dansað við og bauð henni upp, en núna afþakkaði hún boðið og horfði bara á mig.   Ég rétti henni því höndina án þess að segja nokkuð og við stigum okkar fyrsta dans.   Ég hef aldrei verið mikill dansari, en við Matthilda erum þó búin að dansa saman í bráðum 28 ár.   Það má því sannarlega segja það að þessi afskaplega erfiðu jól og áramót hafi endað vel og skilaboðin eru því nokkuð skýr: Það er alveg sama hversu dökkt útlitið er, það rofar alltaf til að lokum, við Matthilda höldum nú okkar 27. jól saman með hluta af börnunum okkar og óskum öllum Eyjamönnum og landsmönnum gleðilegra jóla.  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn