Ragnar Óskarsson - Burt með lítilsvirðinguna

Ragnar Óskarsson

Ragnar Óskarsson

Ragnar Óskarsson - Burt með lítilsvirðinguna

Fyrir nokkrum árum komu fjölmargir Vestmannaeyingar saman á Stakkó til að mótmæla ófremdarástandi því sem ríkti í heilbrigðismálum okkar Eyjamanna. Þessi mótmæli áttu fyllilega rétt á sér enda var margt í megnasta ólestri og full ástæða til þess að mótmæla ástandinu og setja fram kröfur um umbætur. Í mótmælunum bar mest á hetjulegri framgöngu margra forystumanna Sjálfstæðisflokksins í bænum og í máli sínu hlífðu þeir ekki ríkisstjórninni sem þá sat við völd. Stór orð fuku enda málið grafalvarlegt.
En hvað hefur síðan gerst. Ég held að fullyrða megi að ekkert hafi gerst og enn búum við hér við allsendis ófullnægjandi heilbrigðisþjónustu. Hér þarf ekki að tíunda frekar þá ömurlegu stöðu sem heilbrigðismál okkar eru í, hún er okkur öllum kunn og er til háborinnar skammar.
Frá því að boðað var til mótmælanna á Stakkó hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið ráðandi í tveimur ríkisstjórnum og m.a. sérstaklega farið með heilbrigðismálun í landinu. Þeir sem hæst töluðu í mótmælunum hafa einhverra hluta vegna hvorki haft hátt síðan né mótmælt framkomu stjórnvalda nú eins kröftuglega sköruglega sem þá. Þeim ætti hins vegar að vera auðveldara nú en fyrr að ná eyrum ráðamanna þar sem flokkssystkini þeirra fara nú með völdin í landinu. Nú er lag.
Ég legg því til að það ágæta fólk sem fór með eldmóðinn að vopni á mótmælafundinn á Stakkó hér um árið sjái til þess að enn á ný verði haldinn fundur á Stakkó. Þar mætti endurtaka ummælin sem þá voru höfð uppi og jafnvel gefa í ef eitthvað er. Ég er meira en til í að mæta eins og þá og ég er viss um að fleiri eru til. Slagorðið á fundinum gæti verið: „Ríkisstjórn Íslands, burt með lítilsvirðingu ykkar gagnvart heilbrigðismálum Vestmannaeyinga.“
 
 

Georg Eiður - Gleðilegt sumar - Lundinn sestur upp

Að venju hefst sumarið hjá mér þegar lundinn sest upp og hann settist upp í gærkvöldi 16. apríl, sem er á þessum hefðbundna tíma. Kannski ekki beint sumarlegt veður í dag, en svona er nú einu sinni vorið okkar.   Ég ætla að vera nokkuð bjartsýnn með lunda sumarið í ár og finnst ég hafa ástæðu til, því eftir að hafa fengið nokkur þúsund bæjarpysjur bæði 2015 og 16, samfara miklu æti í sjónum allt í kring um landið og þá sérstaklega loðnu. Vonandi gengur það eftir.   Þann 28. febrúar sl. mætti ég á ágætan kynningarfund um þessa svokölluðu friðun fuglastofna í Vestmannaeyjum. Eins og við var að búast, þá eru eyjamenn almennt á móti þessu friðunar hjali, enda ekki góð reynsla af því þegar ríkið ræður yfir einhverju, samanber heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja og niðurskurðum þar, en svona blasir þetta við mér.   Umhverfisráðherra getur að sjálfsögðu hvenær sem er sett á friðun, en að öllu eðlilegu, þá gerir ráðherrann það ekki nema beðið sé um. Verði friðunin hins vegar sett á, þá verður ráðherrann að taka ákvörðun og á þeim nótum bar ég upp eina spurningu í lok fundar, sem var þannig að ef við gefum okkur það að búið sé að setja þessa friðun á og ráðherra fái inn á sitt borð ósk Vestmannaeyjabæjar um að leyfa áfram nokkra veiðidaga, en líka inn á sitt borð yfirlýsingar frá Dr. Erpi og Dr. Ingvari, að veiðar í nokkurri mynd væru ekki sjálfbærar á nokkrun hátt. Svar fulltrúa ríkisins var eins og við var að búast, að auðvitað myndi ráðherrann fyrst og fremst horfa á niðurstöðu rannsóknaraðila, Dr. Erps og Dr. Ingvars.   Þess vegna er mikilvægr að þessi friðun verði aldrei sett á og mér er eiginlega alveg sama um, hvaða fármunir þekkingarsetur Vestmannaeyja telur sig geta haft út úr þessu. Ég verð einfaldlega alltaf á móti því að færa yfirráðarréttinn á nokkru hér í Eyjum til ríkisins, sporin hræða.   Það skiptir engu máli þó að ég sé hættur að veiða og ætli mér ekki að veiða lunda oftar í Eyjum að öllum líkindum, sem er ekki bara ákvörðun sem ég hef tekið, heldur fjöl margir aðrir veiðimenn og þar með sýnt og sannað að okkur er treystandi til þess að fylgjast með og vernda okkar eigin fuglastofna.   Lundinn mun koma til Eyja í milljónatali löngu eftir að við erum farin héðan.   Georg Eiður Arnarson.    

Ragnar Óskarsson - Það er þetta með samhengið

  Að undanförnu hafa ráðamenn þjóðarinnar verið óþreytandi við að skýra fyrir okkur hversu vel allt gengur hjá okkur hér á landi. Bókstaflega allt sé í blóma. Við þurfum hins vegar ekki að kafa djúpt til þess að sjá hve hæpin og röng sú mynd er sem þeir draga upp fyrir okkur. Dæmin tala: • Heilbrigðisþjónustan er í molum og engar lausnir fram undan. Landspítalinn er yfirhlaðinn og fjárvana og það bitnar auðvitað á sjúklingum, einkum þeim sem minnst mega sín. • Sífellt er þrengt að menntakerfinu og nám gert erfiðara, sérstaklega fyrir venjulegt fólk. • Samgöngukerfi landsmanna er í megnasta ólestri og áætlanir um umbætur eru gersamlega úr takt við þá þörf sem blasir við. • Kjör aldraðra og öryrkja eru skammarleg. Fálmkenndar og yfirborðslegar aðgerðir duga engan veginn til að bæta þar úr. • Húsnæðismál ungs fólks eru í algerum ólestri. • Raunveruleg fátækt kemur æ oftar til umræðu þegar þegar félagsleg staða landsmanna er skoðuð. Ráðamenn þjóðarinnar annað hvort afneita þessum staðreyndum eða segja okkur að ekki séu til peningar til þess sinna því sem hér er gert að umræðuefni sem. Og þar með er málið afgreitt af þeirra hálfu. Það eru reyndar til meira en nóg af peningum í þessu landi. Vandamálið er hins vegar það að núverandi stjórnvöld eru ekki tilbúin undir nokkrum kringumstæðum að sækja þá penings sem nægðu til að koma heilbrigðisþjónustunni í lag, bæta menntakerfið, vinna að nauðsynlegu úrbótum í samgöngumálum, bæta úr húsnæðismálum ungs fólks og útrýma fátækt í landinu. Þessir peningar eru nefnilega í höndum hins auðuga hluta þjóðarinnar, þess hluta sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur slegið skjaldborg um. Flokkurinn stundar nefnilega grímulausa hagsmunagæslu fyrir hina ríku á kostnað þeirra sem minna og lítið sem ekkert hafa til skiptanna. Meðan þetta ástand varir eykst ójöfnuðinn í landinu og vandamál þeirra sem minnst hafa gera lítið annar an að aukast. Við hér í Eyjum höfum ekki farið varhluta af stöðunni. Og þá komum við að þessu með samhengi hlutanna. Á meðan ríkisstjórnin neitar að nota þá peninga sem til eru í heilbrigðismál er varla von til þess að að byggja upp nauðsynlega heilbrigðisþjónustu í Eyjum. Það er heldur ekki von til þess að við getum gert okkur raunhæfar vonir um úrbætur í samgöngumálum, hvorki á sjó né á landi. Ófullnægjandi framlög og stöðugur niðurskurður ríkisins til flugsamgangna innanlands mun einungis minnka þjónustu víða um land. Þetta dæmi þekki ég sérstaklega það sem ég hef setið í stjórn Isavia um nokkurt skeið og orðið vitni að því hvernig ríkið svíkur gefin loforð um framlög til flugvalla sem óhjákvæmilega, en því miður, kallar á samdrátt í allri flugvallastarfsemi. Árásir á aldraða og öryrkja munu halds áfram hér í Eyjum sem annars staðar og ungu fólki verður gert ókleift að hafa aðgang að húsnæði. Ofan á þetta allt mun síðan fátækt aukast. Það blasir sem sé við að beint samhengi er milli stefnu núverandi ríkisstjórnar undir forystu Sjálfstæðisflokksins og þess ástands sem lýst hefur verið hér að framan. Svo leyfir ólíklegasta fólk, jafnvel frammámenn hér í Eyjum að bera það á borð fyrir okkur að Sjálfstæðisflokkurinn gæti hagsmuna almennings á sama tíma og bilið milli þeirra sem mest og minnst hafa eykst sífellt.     Ragnar Óskarsson      

Menningarverðmæti Eyjamanna lokuð ofan í kössum

Ég er hugsi yfir menningarverðmætum okkar Eyjamanna og hvernig við eigum að halda sögu okkar á lofti. Eftir því sem ég kemst næst er töluvert af menningarmunum okkar geymdir í kjallara Safnahússins og á lofti Miðstöðvarinnar við Strandveg. Ég leiddi hugann að þessu þegar ég sá gamlar ljósmyndir af heimili hér í Eyjum. Á einni myndinni voru stórkostlegir munir sem aðstandendur gáfu byggðasafninu á sínum tíma. Nú eru þessir munir geymdir ofan í kössum í stað þess að þeim sé sómi sýndur með því að hafa þá til sýnis á safni, fyrir almenningssjónum. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt. Allir munir sem geymdir eru í kjallara Safnahússins og á lofti Miðstöðvarinnar eru menningarverðmæti þeirra sem byggðu upp samfélagið okkar, Vestmannaeyjar. Við eigum að virða söguna og halda henni á lofti. Eitthvað er um að þessir munir séu dregnir fram í dagsljósið úr geymslunum annað slagið. En að mínu viti er það ekki nóg. Það þarf að koma þeim öllum á einn stað þar sem safnið og þar af leiðandi sagan er sýnd gestum og gangandi. Safnahúsið hefur fyrir löngu sprengt starfsemina utan af sér en Helga Hallbergsdóttir og Kári Bjarnason ásamt öðru starfsfólki safnsins vinna þar mjög gott starf miðað við aðstæður. Nýtt og/eða stærra Safnahús eða Byggðasafn, sem sýndi okkur og gestum og gangandi alla þessa muni sem tengjast sögu Eyjanna væri sannarlega rós í hnappagat bæjaryfirvalda. Við skulum ekki gleyma forfeðrum okkar sem byggðu upp Eyjarnar með mikilli vinnu og eljusemi og lögðu grunninn að samfélagi okkar í dag. Sýnum þeim virðingu okkar þannig að við getum verið stolt af. Sýnum munina frá heimilum forfeðra okkar sem draga upp söguna og svipmyndir forfeðra okkar, sorgir og sigra. Eldheimar risu á mettíma og ekkert var til sparað enda verið að segja stórbrotna sögu. Það ætti því ekkert að vera því til fyrirstöðu að koma upp nýju Safnahúsi sem við getum öll verið stolt af. Saga Vestmannaeyja er ótrúlega viðburðarík og kraftmikil og við þurfum að gera henni góð skil.  

Landeyjahöfn, framhald af síðustu grein

Það var mjög ánægjulegt að sjá svar Sigurðar Áss við minni síðustu grein og kannski svolítið skrítið fyrir mig vegna þess, að eftir vandræðaganginn haustið 2010, þar sem í ljós kom að öll varnarorð mín frá því árunum áður varðandi Landeyjahöfn reyndust á rökum reist, heftur ríkt hálfgerð þöggun um mín skrif um Landeyjahöfn og vil ég þakka þeim á Eyjafréttum fyrir að ná eyrum Sigurðar.   Svar Sigurðar kom mér kannski ekki á óvart, enda heyrt svipað frá honum á opnum fundum og ekki dettur mér til hugar að efast um að hann fari með rétt mál varðandi þessi A-B-C svæði. Vandamálið hjá mér er kannski það, að ég setti þetta í mína síðustu grein vegna orða reynds skipstjóra úr eyjaflotanum, sem mér dettur ekki heldur til hugar að rengja, svo mér er nokkur vandi á höndum og þó.   Orð Sigurðar segja í raun og veru allt sem segja þarf, nýja ferjan mun geta siglt, samkv. þessu, til Þorlákshafnar, en hún er fyrst og fremst hönnuð og smíðuð til siglinga í Landeyjahöfn. Svo spurningin er því kannski fyrst og fremst þessi: Mun ferjunni nokkurn tímann verða siglt til Þorlákshafnar og hvað gerist ef frátafir verða sambærilegar til Landeyjahöfn og með núverandi ferju.   Það eru ótrúlega margir sem hafa komið að máli við mig núna í vikunni og ég hef fengið hinar ótrúlegust spurningar og jú, líka kjaftasögur. Svo mig langar að minna á það, að fyrir ári síðan var ákveðinn hópur fólks hér í bæ að vinna að því að koma á opnum fundi með hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu, fyrirtækjum í Vestmannaeyjum ásamt fulltrúum Siglingamálastofnunar, samgönguráðherra og annarra.   Ég kalla eftir því að slíkur fundur verði haldinn, það eru einfaldlega allt of margar kjaftasögur í gangi og um leið allt of mörgum spurningum ósvarað. Svo ég taki nú bara tvö pínulítil dæmi, sem samt skipta gríðarleg miklu máli. Margir sem skoðað hafa teikningar af nýju ferjunni, hafa verið óhressir með það, að kojunum í ferjunni skyldi vera snúið þversum, en svo heyrði ég það í dag, að búið væri nýlega að breyta þeim í langsum, sem breytir ansi miklu fyrir þá sem þekkja til.   En mikilvægara, að aðeins í þessari viku er ég búinn að heyra sennilega um 3 útgáfur af því, að samningurinn við þá sem eiga að smíða ferjuna, sé í uppnámi vegna þess að þeir neiti að bera ábyrgð á ferju, svona grunnristri, sem þeir áttu enga aðkomu að að hanna.   Að öðru leyti veit ég ekkert um þetta, en þessum spurningum þarf að svara og ég skora hér með á bæjarstjórn Vestmannaeyja að beita sér fyrir því að slíkur fundur verði haldinn sem fyrst.  

Georg Eiður Arnarson - Landeyjahöfn, staðan í dag

Landeyjahöfn opnaði í vikunni sem er óvenju snemmt. en fyrst og fremst ánægjulegt. Ástæðan er fyrst og fremst hagstæðar vindáttir að undanförnu þannig að Galilei fékk nægan tíma til þess að dæla út úr höfninni. Ég minni þó á að það er enn vetur og er t.d. ölduspáin að sýna allt að 7 metra ölduhæð um miðja vikuna, en veðurspáin fyrir næstu helgi er mun betri.   Eins og svo oft áður, þá rignir inn kjaftasögunum, fyrir sumum er einhver fótur en aðrar eru oft á tíðum tóm þvæla. Það vakti þó athygli mína að í morgunfréttum á Bylgjunni í síðustu viku kom fram að í gagnið væri komin ný aðferð til að losna við sandinn úr höfninni, sem gengi út á það að Galilei dældi niður sjó í höfninni, sem gerði það að verkum að sandurinn þyrlaðist upp og straumurinn bæri síðan sandinn í burtu. Þetta er, eftir því sem ég veit best, tóm þvæla, en rörið sem er framan á Galilei sem vissulega er ætlað til þess að dæla niður í sjó, en er fyrst og fremst til þess að ná betur sandinum frá görðunum, en rörið sem Galilei notar til að dæla sandi upp í skipið nær einfaldlega ekki til að dæla meðfram görðunum, og þess vegna var þessi aðferð fundin upp.   Mér er hins vegar sagt að það sé byrjað að setja upp einhvers konar þil í kring um höfnina landmegin, til þess að reyna að minnka foksandinn í höfninni, en það verður svo bara að koma í ljós hvort að það virkar eða ekki.   Sumar kjaftasögur eru svo ágengar að maður hefur heyrt þær oft, að maður leggur það á sig að leita eftir svörum m.a. hafði ég heyrt það nokkrum sinnum í vetur að ekki yrðu neinar festingar á bílaþilfarinu á nýju ferjunni m.a. til þess að geta fækkað verulega í áhöfninni. Mér þótti þessi saga frekar galin en sannleikurinn er sá, að á þilfari nýju ferjunnar verða svokallaðir fýlsfætur, eða í staðin fyrir raufar eins og á núverandi ferju, verða kúlur með götum í sem hægt er að krækja í þegar binda þarf farartæki niður. Um leið er nokkuð ljóst að ekki verður um verulega fækkun á nýju ferjunni, en hef þó nýlega heyrt það að hugsanlega verður fækkað úr 12 niður í 10 í áhöfn nýju ferjunnar.   Aðrar kjaftasögur hins vegar, vekja meiri athygli mína og sú nýjasta gengur út á það, að nýlega hafi siglingarleiðinni milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar verið færð yfir í svokallað B svæði. Ef það er eitthvað til í því, að nýja ferjan muni aðeins fá siglingaleyfi til siglinga á A og B svæðum, þá er staðan ótrúlega slæm því að veruleikinn er sá, að hafsvæðið milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar telst vera C svæði og ef þetta er rétt, þá skiptir það engu máli þó að nýja ferjan gæti siglt til Þorlákshafnar, þá hefði hún einfaldlega ekki leyfi til þess. Þessu til viðbótar er mér sagt, enn einu sinni, að það sé nánast forms atriði að ganga frá sölu á núverandi ferju og að henni verði hugsanlega flaggað út sama dag og nýja ferjan kemur til Eyja. Í mínum huga er þetta graf alvarlegt mál ef eitthvað af þessu er satt og ég skora hér með á þá, sem hugsanlega vita betur að svara þessu.   Það skiptir í mínum huga engu máli, þó að sumir geri grín að því að það þurfi B plan þ.e.a.s. að halda núverandi ferju í einhvern tíma eftir að nýja ferjan kemur. Það er hins vegar ekki búið að ganga frá þessu máli.   Að lokum þetta: Það hefur verið bara gaman að fylgjast með skrifum annarra um samgöngumálin okkar og fer þar fremstur í flokki bæjarstjórinn okkar. Ég er nú sammála Elliða í því, að ef ekki hefði verið búið að skrifa undir samning varðandi nýju ferjuna, þá hefði sá samningur að öllum líkindum hugsanlega lent undir niðurskurðar hnífnum hjá núverandi ríkisstjórn. Hin hliðin á þessu máli er sú að, nokkuð augljóslega erum við ekki að fara að fá háar upphæðir í nauðsinlegar breytingar og eða lagfæringar á Landeyjahöfn.   Elliði skrifar einnig um að hugsanlega muni fólki fjölga með tilkomu nýrrar ferju, ég hef hins vegar heyrt í fólki á öllum aldri sem er tilbúið að forða sér héðan ef þetta reynist ein illa og margir sjómenn spá. Reyndar hefur því miður líka orðið sú þróun að fólk sem á eldri fasteignir hér í bæ stendur frammi fyrir því að losna ekki við þær, nema jafnvel niður í hálfvirði, sem aftur hefur orðið til þess að fólk svilítið situr fast hérna.   Grein Ómars Garðarssonar frá því fyrr í vetur vakti líka athygli mína, en Ómar furðaði sig á því, hvers vegna ekki fengust neinir fjármunir í að bæta heilsugæsluna okkar og þeirri fáránlegu stöðu að Eyjamenn skuli þurfa að flytja til Reykjavíkur til að fæða börnin okkar. Margir hafa nú fjallað um þetta undanfarin ár og bent þá sérstaklega á þá staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn með allri sitt vald hér í Eyjum og á Alþingi Íslendinga, skuli ekki skila okkur neinu.   Varðandi hins vegar niðurskurðinn á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja, þá fjallaði ég nokkrum sinnum um hann áður en Landeyjahöfn var opnuð, þar sem ég varaði m.a. við því að ef Landeyjahafnar leiðin yrði valin, þá myndi það þýða niðurskurð á hinum ýmsu stofnunum á vegum ríkisins hér í bæ, svo þessi niðurskurður í sjálfu sér hefur ekki komið mér á óvart. Þetta er hins vegar að mínu mati, mikið réttlætismál og í því þurfum við öll að standa saman, en ég harma það enn einu sinni að spádómar mínir um afleiðingar Landeyjahafnar skuli enn einu sinn hafa staðist.  

Binni í Vinnslustöðinni - Að vaða elg og hóta VSV

Til allrar lukku er Kristinn H. Gunnarsson ekki húsasmiður því þá myndi hann lesa sentimetra og tommur til skiptis af mælistokknum sínum, allt eftir því hvað honum þætti henta hverju sinni í sama verkinu. Hætt er við að húsin hans yrðu fyrir vikið ekki endilega hornrétt og innréttingar myndu hvergi passa í ætluð rými. Mælikvarðar eru nauðsynlegir en það verður að kunna að brúka þá.   Í Fréttablaðinu 2. mars víkur Kristinn að skrifum mínum í sama blaði 28. febrúar og ruglar saman framlegð (EBITDA), framlegðarhlutfalli og rekstrarafgangi í skattaspori KPMG.   Í fyrsta lagi er Kristinn H. í málflutningi sínum á svipuðum slóðum og til dæmis Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, sem aldrei skildi mun á hagnaði og framlegð frekar en svo margir stjórnmálamenn. Frá framlegð dragast fjármagnskostnaður, skattar og gjaldfærðar afskriftir og þar kemur hagnaðurinn sem fellur í hlut hluthafa og nýtist til afborgana lána, nýfjárfestinga eða útgreiðslu arðs. Þetta ætti maður með mikla reynslu í stjórnmálum og störfum Alþingis og stjórnsýslu að vita. Á vefjum DV og BB má sjá að Kristinn hafi numið hagfræði og stjórnmálafræði að þingmennsku lokinni, auk BS-náms í stærðfræði í HÍ á yngri árum. Þess vegna verður að ætlast til þess að hann skilji lykilhugtök og beri saman sambærilegar tölur!   Hvort Vinnslustöðin er vel eða illa rekin skiptir engu máli í þessari umræðu en að gefnu tilefni má nefna að á dögunum lýsti Creditinfo hana fyrirmyndartæki, þriðja árið í röð. Árið 2016 var Vinnslustöðin í 35. sæti best rekinna fyrirtækja landsins af alls 35.000 fyrirtækjum sem Creditinfo kannaði. Creditinfo gerir strangar kröfur í mati sínu og færir rök fyrir niðurstöðum en Kristinn H. veður elg í eigin orðaleppum.   Í öðru lagi nýtir Kristinn hlutfallstölur frá Hagstofu Íslands um uppsjávarveiðar og vinnslu sem honum þykir sér henta. Upplýsingar Hagstofu Íslands byggjast á úrtakstölum um sjávarútveg, þar á meðal frá Vinnslustöðinni. Hann talar annars vegar um hreinan hagnað, sem er reiknuð stærð hjá Hagstofunni, og hins vegar um framlegð sem byggist á upplýsingum frá hluta sjávarútvegsfyrirtækjanna eftir því hvað á við hverju sinni. Á þessu tvennu er mjög mikill munur. Hann nefnir árið 2015 sem dæmi um góða afkomu uppsjávarveiða þar sem framlegð var 21,5% en lætur hjá líða að geta um að þá var hreint tap 0,2%, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar.   Gögn Hagstofunnar eru sem slík góð til síns brúks en sjálf hefur hún reyndar lýst efasemdum um að eigin gögn geti verið grundvöllur skattlagningar í sjávarútvegi.   Skilja ekki mikilvægi loðnuleitar   Í þriðja lagi greinir Kristinn ekki þann kjarna í grein minni að hvorki framkvæmdarvaldið né Alþingi, og augljóslega ekki Kristinn H. Gunnarsson sjálfur, skilja mikilvægi loðnuleitar og grunnrannsókna á sjávarauðlindinni. Ég benti á að loðnuleitin var fjárhagslega á ábyrgð loðnuútgerðanna af því að ríkisvaldið vildi ekki verja 20-40 milljónum króna í verkefnið. Loðnan sem fannst skilar ríki og sveitarfélögum 3,3 milljörðum króna í beinar tekjur sem sjávarútvegurinn stendur skil á, ef miðað er við „speglun“ skattaspors KPMG fyrir Vinnslustöðina yfir á loðnuvertíðina, og miklum óbeinum tekjum að auki. Mér kæmi ekki á óvart að hátt í 10 milljarðar króna rynnu í ríkiskassann af alls 17 milljörðum sem loðnuvertíðin skilar.   Í fjórða lagi hlýtur Kristinn að átta sig á að skattaspor félags fyrir rekstrarár getur ekki átt við eina vertíð sem stendur yfir í einn mánuð. Á sama hátt hlýtur hagfræðineminn að átta sig á að ef ekki hefði komið til þessara tekna af loðnuveiðum í ár hefði skattaspor Vinnslustöðvarinnar og sjávarútvegsins í heild verið mun minna. Hér liggur líka munur annars vegar á þeirri hugsun heilbrigðrar skynsemi að tekna sé aflað í þjóðarbúið og kakan stækkuð öllum til hagsbóta en hins vegar á þeirri fásinnu og þráhyggju sósíalískrar hugsunar og þekkingarleysis að tekjur verði aðallega til með sköttum.   Í fimmta og síðasta lagi þakka ég Kristni H. fyrir hreinskilnina ­í nafni hluthafa, starfsmanna og viðskiptavina Vinnslustöðvarinnar og Eyjamanna yfirleitt. Hann hótar því undir rós að taka af okkur lífsbjörgina, atvinnuna sjálfa. Kjarninn í málflutningi hans og annarra uppboðssinna á opinberum vettvangi er einmitt sá að bjóða skuli fólk og fyrirtæki í sjávarútvegi reglulega upp líkt og gert var með niðursetninga í sveitum fyrr á öldum.     Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar hf. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.    

Ragnar Óskarsson - Leiðréttingu strax

Íslenska ríkið á og ber ábyrgð á helstu innanlandsflugvöllum landsins. Ríkið felur Isavia ohf. að annast um þennan rekstur með því að gera þjónustusamning þar um með árlegum fjárveitingum úr ríkissjóði. Samkvæmt þjónustusamningnum á Isavia að sjá um daglegan rekstur flugvallanna, flugumsjón og viðhald svo eitthvað sé nefnt. Á undanförnum árum hefur fjárframlag ríkisins vegna þjónustusamningsins sífellt verið skorið niður og nú er svo komið vegna þessa að flugvellir landsins eru langt frá því að fá eðlilegt viðhalds- og rekstrarfé í samræmi við tilgang og markmið þjónustusamningsins. Þetta ástand er orðið mjög alvarlegt og hlýtur eðli málsins samkvæmt fyrr eða síðar að koma niður á þjónustu við íbúa víða um land. Við hér í Vestmannaeyjum höfum til þessa sloppið tiltölulega vel vegna niðurskurðarins þrátt fyrir allt, þótt við viljum að sjálfsögðu hafa betri flugþjónustu. Nú á dögunum var gripið til uppsagna hjá starfsmönnum Isavia á Vestmannaeyjaflugvelli og er það bein afleiðing af niðurskurði ríkisins til þjónustusamningsins sem hér hefur verið nefndur. Þetta eru dapurleg tíðindi. Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur látið þennan hluta samgöngumála til sín taka og mótmælt uppsögn og skerðingu á þjónustu. Á morgun, fimmtudag 9. mars, verða þingmenn Suðurkjördæmis í Vestmannaeyjum og eiga fund með bæjarstjórn. Þar er gott tækifæri fyrir bæjarstjórnina að mótmæla harðlega niðurskurði ríkisins til flugvalla og flugþjónustu og brýna þingmenn til að leiðrétta skerðinguna eigi síðar en strax.   Ragnar Óskarsson    

Alþjóðlegur bænadagur kvenna í dag - Ganga og samvera

Alþjóðlegur bænadagur kvenna er í dag og  hefst í Vestmannaeyjum með göngu frá Ráðhúsinu kl. 17.00 og samvera verður í Landakirkju kl. 18.00 föstudaginn 3. mars. Kjörorð dagsins er;  Ganga - biðja – samfélag - eining.   Fyrsta föstudag í mars ár hvert er alþjóðlegur bænadagur kvenna. Þá koma konur úr mismunandi kirkjudeildum saman til að biðja. Konur í Vestmannaeyjum hafa komið saman á þessum degi í marga áratugi. Á tímabili var samvera um kvöldið, en undanfarin ár hefur verið gengið um bæinn og beðið fyrir mörgum málefnum bæjarfélagsins. Ein þjóð sér um undirbúning dagsins hverju sinni. Í fyrra voru það konur frá Kúbu og var kaffihúsastemmning með límonaði í Hvítasunnukirkjunni eftir gönguna. Í ár eru það konur frá Filippseyjum sem hafa undirbúið daginn. Þær benda á mjög slæm kjör margra kvenna.   Úr dagskrá samverunnar:   Á Filippseyjum heilsum við með orðinu, Mabuhay! (Borið fram“ma-bú-hæ”). Það er á tungumálinu Tagalog sem er móðurmál okkar. Orðið hefur víðtæka merkingu og getur þýtt „megir þú lifa“, „skál“, „velkomin“ og „húrra“. Mabuhay!   Hér í Vestmannaeyjum, byrjum við kl. 17.00 við Ráðhúsið, gengið verður að Sjúkrahúsinu, síðan farið niður á bryggju og upp Heiðarveginn. Stoppað verður á leiðinni til að biðja. Gangan endar með samveru í Landakirkju kl. 18.00. Þar munu konur lesa efni frá Filippseyjum og kirkjukórskonur leiða söng. Þær konur sem treysta sér ekki til að ganga geta fengið bílfar og verður keyrt inn í Herjólfdal, á flugvöllinn og fleiri staði þar sem biðja skal. Einnig er hægt að mæta beint á samveruna kl. 18.00 í Landakirkju. Gangan og samveran eru öllum opin bæði konum og körlum á öllum aldri.   Við viljum sjá réttlæti og standa með þeim sem hallað er á. Mikilvægt er að fræðast um kjör annarra og biðja fyrir þeim. Það er sérstök blessun að koma saman í einingu. Það er einnig blessun fyrir bæjarfélagið að eiga fólk sem biður um vernd og blessun.   Velkomin á Alþjóðlegan bænadag kvenna 2017. Við bjóðum ykkur að hugleiða með okkur þema þessa árs, sem konurnar á Filippseyjum hafa undirbúið, „Sýni ég þér óréttlæti?“    

Breyting á leiguverði á leiguíbúðum í eigu Vestmannaeyjabæjar

Meðal mikilvægra verkefna fjölskylduráðs eru húsnæðismál. Í dag á og leigir Vestmannaeyjabær 58 íbúðir. Leigutakar eru ýmist fatlaðir, aldraðir eða fólk sem fær húsnæðisaðstoð vegna félagslegra aðstæðna. Þjónustuhópurinn er því fjölbreyttur og mikilvægt að honum sé boðin aðstoð í samræmi við þarfir hvers og eins.   Síðan 2014 hefur fjölskylduráð unnið einhuga að samræmingu leiguverðs á íbúðum í eigu Vestmannaeyjabæjar enda með öllu óeðlilegt að mismuna leigutökum án þess að til grundvallar liggi aðstöðumunur svo sem vegna fjárhagslegrar stöðu. Um leið og leiða hefur verið leitað til að samræma leiguverð hefur einnig verið horft til þess að færa það nær markaðsverði og draga þar með úr aðstöðumun þeirra sem leigja á almennum markaði og þeirra sem leigja af Vestmannaeyjabæ.   Vegna þessa hefur fjölskyldu- og tómstundarráð lagt á það áherslu að samhliða þessum breytingum verði teknar upp sérstakur húsnæðisstuðningur og þannig jafnaður réttur þeirra aðila sem eru á leigumarkaði og hinna sem leigja á almennum markaði. Þar með er einnig tekið tillit til fjárhagslegra aðstæðna og bótum beint til þeirra sem mesta hafa þörfina.   Húsaleigubætur hækkuðu um áramót og tekinn upp sérstakur húsnæðisstuðningur   Fyrsta skrefið í þessari réttlætisaðgerð var að samþykkja nýjar reglur um sérstakan húsnæðisstuðning og komu þær til framkvæmda nýverið. Um áramót hækkuðu húsnæðisbætur í takt við þróun verðlags. Á seinasta fundi sínum tók svo ráðið loka skrefið í þessari aðgerð og samræmdi leiguverð allra íbúða og verður það 1.200,- kr. á fermetra frá og með 1. apríl 2017. Í samræmi við leigusamninga verður þó ekki um hækkun að ræða hjá þeim sem eru í fastri leigu hjá Vestmannaeyjabæ fyrr en 12 mánuðum síðar eða 1. apríl 2018. Málið allt verður af sjálfsögðu kynnt leigutökum sérstaklega með bréfi sem inniheldur upplýsingar um breytingu á leigu auk þess sem ráðgjafi á vegum Vestmannaeyjabæjar býður leigutökum upp á viðtal til að fara yfir væntanlegar breytingar.   Ljóst er að húsaleiga á leiguhúsnæði á vegum Vestmannaeyjabæjar hefur í gegnum árin verið mun lægri en á almennum markaði og hefur það skapað mikla óánægju meðal þess hóps sem býr við lágar tekjur en hefur ekki komist í húsnæði hjá Vestmannaeyjabæ. Þetta bil hefur verið að aukast mikið á síðustu árum og í dag er leiguverð leigjanda hjá Vestmannaeyjabæ oft um 60% af markaðsverði óháð fjölskyldutekjum viðkomandi. Í allri sanngirni hljóta allir að geta séð að óeðlilegt er að sveitarfélag niðurgreiði leiguverð og skekki þannig leigumarkaðinn, og enn verra er þegar fólk með háar tekjur býr við niðurgreiddan húsnæðiskostnað en dæmi eru um að þeir sem leigja hjá Vestmannaeyjabæ hafi verið að greiða allt niður í 4,3% af ráðstafanafé í heildar húsnæðiskostnað. Ekki er óeðlilegt að húsnæðiskostnaður sé milli 20 – 30% af ráðstafanafé. Til eru dæmi um mun hærri húsnæðiskostnað á almennum leigumarkaði.       Til glöggvunar er hér nokkur dæmi um breytingu á leiguverði: a) Einstaklingur með eitt barn í tæplega 100 fm íbúð fer úr leigu upp á kr. 83.439,- í kr. 119,520,-. Viðkomandi aðili var áður með kr. 22.000,- í húsaleigubætur en þær hækka í 41.000 kr. Leiguverð fer þá úr kr. 61.439,- í kr. 78,520. Viðkomandi einstaklingur á rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi upp á kr. 28.520,- vegna lágrar tekna þannig að leigan færist niður í kr. 50.000,-. Húsnæðiskostnaður umrædds leigutaka miðað við ráðstafanafé lækkar úr 22,6% í 18,4%. b) Hjón í tæplega 85 fm íbúð fara úr leigu upp á kr. 70.621,- í kr. 101.160,-. Viðkomandi aðilar voru áður með kr. 20.574,- í húsaleigubætur en þær hækka í kr. 41.000,-. Leiguverð fer þá úr kr. 50.047,- í kr. 60.160,-. Húsnæðiskostnaður umræddra aðila miðað við ráðstafanafé hækkar úr 8,3% í 10%. c) Einstaklingur í tæplega 40 fm íbúð fer úr leigu upp á kr. 32.839,- í kr. 47.040,-. Viðkomandi aðili var áður með kr. 16.366,- í húsaleigubætur sem lækka í kr. 12.497,-. Leiguverð fer þá úr kr. 16.473,- í kr. 34.543,-. Húsnæðiskostnaður umrædds leigutaka miðað við ráðstafanafé hækkar úr 5% í 10,5%. d) Hjón í rúmlega 70 fm íbúð fara úr leigu upp á kr. 59.274,- í kr. 85.560,-. Viðkomandi aðilar voru áður með kr. 22.000,- í húsaleigubætur en þær lækka í kr. 15.207,-. Leiguverð fer þá úr kr. 37.274,- í kr. 70.353,-. Húsnæðiskostnaður umrædds leigutaka miðað við ráðstafanafé hækkar úr 5,9% í 11,2%. Eins og dæmin hér að ofan sýna þá er tilgangurinn með þessum breytingum að jafna kjör leigutaka og beina stuðningi fyrst og fremst að þeim þar sem þörfin er mest. Í draumaheimi væri hægt að bjóða öllum upp á alla þjónustu. Í heimi takmarkaðra auðæfa er það hinsvegar ein af skyldum okkar kjörinna fulltrúa að beina stuðningi mest að þeim sem mesta hafa þörfina. Virðingarfyllst, Trausti Hjaltason formaður fjölskyldu- og tómstundarráðs.      

Skattlagning heimagistingar

Í ársbyrjun tóku gildi breytingar á lögum og reglugerðum sem varða heimagistingu. Yfirlýstur tilgangur með þeim breytingum var að afmarka og skýra heimagistingu og einfalda skráningarferli. Með lagabreytingunni var gististöðum skipt í flokka og er heimagisting tilgreind í sérstökum flokki. Í lögunum er hugtakið heimagisting lögfest og skilgreint þannig: Heimagisting er gisting gegn endurgjaldi á lögheimili einstaklings eða í einni annarri fasteign sem hann hefur til persónulegra nota og er í hans eigu. Leyfi til heimagistingar er því aðeins veitt einstaklingum en ekki lögaðilum. Framangreindar breytingar taka aðeins til umsókna um leyfi fyrir heimagistingu. Ekki voru gerðar breytingar á skattlagningu tekna af heimagistingu. Því verður að telja að tekjur af heimagistingu verði áfram skattlagðar eins og aðrar tekjur einstaklings af atvinnurekstri. Einstaklingur sem hefur tekjur af heimagistingu er því í raun bókhaldsskyldur og þarf að haga sinni starfsemi í samræmi við lög um bókhald þar sem m.a. er gerð sú krafa að tekjuskráning skuli byggjast á skýru og öruggu kerfi sem tryggir að unnt sé að sannreyna að allar tekjur komi fram.   Við gerð skattframtals ber einstaklingi, sem hefur tekjur af heimagistingu, að útbúa rekstrarreikning yfir starfsemina þar sem gerð er grein fyrir öllum tekjum af henni. Til frádráttar er heimilt að færa þann kostnað sem hann hefur haft af því að afla teknanna. Hér er átt við þann viðbótarkostnað sem hann hefur af öflun teknanna, en ekki fastan kostnað sem ekki breytist við slíka leigu eins og t.d. fasteignagjöld, rafmagn og hiti. Tekjur af heimagistingu skattleggjast eins og aðrar launatekjur einstaklings eða í 37-46% skatthlutfalli.   Segja má að þeir einstaklingar sem hyggjast leigja út húsnæði hafi um þrjá kosti að velja í skattalegu tilliti, (1) langtímaleiga til einstaklinga, (2) skammtímaleiga til ferðamanna sem telst ekki heimagisting og (3) heimagisting í allt að 90 daga og langtímaleiga í hina níu mánuði ársins.   Í útreikningum hér á eftir er mismunur á skattlagningu og afkomu framangreindra valkosta dreginn fram. Miðað er við að húsnæði leigusala sé í útleigu allt árið í tilvikum 1 og 2 hér að framan og í 90 daga heimagistingu í lið 3 en í langtímaleigu hina níu mánuði ársins.   Dæmi 1. – langtímaleiga til einstaklinga Í dæminu er miðað við að íbúð sé leigð á 250.000 kr. á mánuði í langtímaleigu og eini kostnaður leigusala af eigninni séu fasteignagjöld en rafmagn, hiti og hússjóður sé greiddur af leigutaka. Ekki er tekið tillit til fjármagnskostnaðar þar sem hann hefur ekki áhrif á skattgreiðslur.       Dæmi 2 – skammtímaleiga til ferðamanna sem ekki telst heimagisting Miðað er við að sama íbúð og leigð var á 250.000 kr. á mánuði í langtímaleigu sé leigð út í skammtímaleigu á 22.000 kr. á sólarhring og nýting hennar sé að meðaltali 70% á ári. Þar sem tekjur eru umfram 2 m.kr. á ári ber að skrá starfsemina á virðisaukaskattsskrá og þá stofnast einnig skylda til að greiða gistináttaskatt sem hækkar úr 100 í 300 kr. þann 1. september 2017. Þar sem um atvinnurekstur er að ræða hækka fasteignagjöld og verða eins og af atvinnuhúsnæði. Ekki er gert ráð fyrir launagreiðslum eða kaupum á þjónustu vegna móttöku gesta, þvotta og þrifa.   Dæmi 3 – heimagisting í allt að 90 daga og langtímaleiga aðra daga ársins. Í útreikningum í dæminu hér á eftir er við það miðað að einstaklingur starfræki heimagistingu í allt að 90 daga en í langtímaleigu hina níu mánuði ársins. Tekjur af heimagistingunni eru lægri en 2 m.kr. og er starfsemin því ekki virðisaukaskattsskyld og ekki ber að innheimta gistináttaskatt. Ekki er gert ráð fyrir launagreiðslum eða kaupum á þjónustu vegna móttöku gesta, þvotta og þrifa.       Niðurstaða Athygli vekur við samanburð á afkomu af útleigu húsnæðis miðað við framangreindar forsendur að langtímaleiga, væntanlega án mikillar fyrirhafnar, er hagstæðari en skammtímaleiga til ferðamanna allt árið þó heildartekjur séu hærri þar sem verulegur viðbótarkostnaður og gjöld falla til við skammtímaleiguna. Rétt er að hafa í huga við samanburðinn að ekki er gert ráð fyrir eigin vinnu eða aðkeyptri vinnu við að veita þjónustu við skammtímaleiguna.    

Ólafur Björgvin Jóhannesson - Þú gerir þetta fyrir engan nema sjálfan þig

Enn eitt lífsstílsviðtalið er líklega það fyrsta sem margir hugsa þegar þeir lesa þessa fyrirsögn. Ég ætla ekki að fara að kenna þér hvernig þú átt að hefja nýjan lífsstíl heldur ætla ég að segja þér hvað fékk mig til að byrja. Hvað það var sem dreif mig upp úr sófanum. Það eru engir tveir eins og það sem virkar á mig virkar ekki endilega á þig. Ég gleymi seint þegar Gísli Hjartar Foster sagði mér frá því að það væri að byrja námskeið í Hressó með Biggest looser, þættir sem flestir ef ekki allir hafa séð, sem fyrirmynd. Hugmyndin er að vera ákveðinn hópur saman með völdum þjálfurum og enginn leyndarmál, eða hálfgert opinbert átak. Þegar Gísli nefndi þetta við mig var ég á mjög slæmum stað, var að hreyfa mig lítið og ekkert að spá í mataræðið. Ég var með pressu úr mörgum áttum að taka mig á, bæði vinir og fjölskylda höfðu áhyggjur af mér og auðvitað ég sjálfur. Ég var samt búinn að heyra sömu tugguna svo oft að að ég leiddi þetta bara hjá mér. Ég var einfaldlega ekki tilbúinn. Ég er matarfíkill og ég þurfti hjálp. Þess vegna hitti Gísli vel á mig þegar hann nefndi þetta við mig og ég sá leik á borði að þarna væri frábær tími til að snúa blaðinu við. Ég var búinn að prófa svo margt, sumt virkaði vel og annað ekki. Alltaf fór ég í sama farið og mér fannst ég vera að svíkja þá sem voru að reyna að hjálpa mér. Gekk það svo langt að ég vonaðist til að sleppa að hitta þetta fólk sem ég var búinn að ,,svíkja“. En auðvitað bitnaði þetta mest á sjálfum mér. Um leið og maður áttar sig á því að þú gerir þetta fyrir sjálfan þig, og engan annan, þá ertu búinn að taka fyrsta skrefið. Um það bil tveimur mánuðum fyrir námskeiðið í Hressó var ég ennþá með þetta á bakvið eyrað, hugsandi hvernig ég kæmist út úr þessu, og hvort ég væri nú að fara að svíkja Gilla vin minn sem hefur alltaf reynst mér svo vel. Svo fékk ég skilaboð að þetta væri að byrja, að ég ætti að mæta á fyrirlestur og svo í mælingar. Ég var búinn að nefna þetta við mínu nánustu þannig ég gat ekki annað en mætt, mestmegnis til að gera þeim til geðs. En það breyttist eitthvað í mér mjög fljótt því ég er mikill keppnismaður. Þarna var ég kominn, tilbúinn að fara að keppa við aðra og ætlaði mér sko að vinna þetta. Ég gleymi því ekki þegar ég steig á vigtina heima hjá mér. Hún sýndi 203.8 kg og var erfitt að kyngja því þar sem ég hef forðast að vigta mig undanfarin ár. Til að bæta gráu ofan á svart þá var vigtin í Hressó of lítil fyrir mig þar sem hún þolir bara 200 kg. Ég skammaðist mín mikið fyrir að vera langþyngstur af öllum en sagði þó Jóhönnu og þeim í Hressó að ég væri 203 kg. Já, ég þorði ekki að segja þessi auka 800 gr. Strangt mataræði og æfingar skiluðu sér strax og kílóin hrundu af mér. Ég var jú að fara að vinna þetta, var þyngstur og þess vegna hafði ég hvað mest að vinna. Námskeiðið varði í tvo mánuði og ég náði mínu markmiði, að vinna keppnina. Þarna var boltinn farinn að rúlla, ég var búinn að setja mér fullt af markmiðum og líðanin var orðin mun betri. Eins og ég sagði áðan var þetta opinbert átak og allir voru að fylgjast með mér. Mér fannst t.d. allir vera að spá í mig og skammaðist mín að fara út búð fyrir ömmu og afa þegar það voru keyptar kökur eða eitthvað sætt, hræddur um að vera dæmdur. Þetta var þó eflaust meira bara í hausnum á mér. Ég fékk mikla hvatningu og hrós úr öllum áttum sem hjálpaði mér mikið. Eftir námskeiðið hélt ég áfram á fullu, kílóin héldu áfram að hrynja af mér og þolið varð betra. Það sem ég gerði þarna sem ég hafði ekki gert áður var að ég lærði af fyrri mistökum. Ég vissi alveg uppskriftina að því að ná árangri og það hjálpaði mér að hafa þá þekkingu..Ég þurfti það aðhald sem ég fékk í Hressó, þau markmið og þá reynslu sem þau gáfu mér til að ná þessum árangri. Ég byrjaði í október 2014. Núna tæpum tveimur og hálfum ári seinna er ég enn að æfa á fullu og reyna að passa mataræðið. Í dag er ég um 130 kíló, missti meira en hálfan metra af mittismáli og lækkaði fitu-prósentuna um 18-19%. Ég hef verið duglegur að deila sögu minni í gegnum samfélagsmiðlana í von um að hreyfa við öðrum. Ég mæli hiklaust með því fyrir þá sem vilja taka fyrstu skrefin að kíkja í Hressó eða tala við einhvern sem hefur þekkingu í þessum málum. Það er ótrúlega erfitt að gera þetta sjálfur, oft þarf maður á stuðningi að halda. Í dag er ég að senda Önnu Dóru tölur þegar ég vigta mig og hún tekur mig í stöðumat reglulega. Í rúmt eitt og hálft ár hef ég staðið í stað. Það er óþolandi en samt ákveðinn sigur, því ég er búinn að finna lífsstíl sem gerir mér kleyft að lifa án þess að hlaða á mig aukakílóum. Það sem virkar á mig er hreyfing númer eitt, tvö og þrjú. Ég er mikill íþróttamaður í mér og æfi badminton, fer í ræktina, spila golf á sumrin, og elska alla útiveru. Í dag borða ég nánast það sem ég vil en verð bara að hreyfa mig meira og forðast að þyngjast aftur. Ég á mér ennþá markmið sem ég ætlaði að vera löngu búinn að ná en þetta snýst um þolinmæði þar sem nýja lífið mitt er rétt að byrja. Ég veit alveg hvað ég þarf að gera til þess að ná markmiðunum mínum. Það er að borða jafn hollt og skynsamlega og ég gerði í byrjun átaksins. Ég er ennþá virkur matarfíkill. Bara það eitt að stelast í smá nammi snemma dags veldur því að ég er að berjast á móti sykurlönguninni allan daginn. Eitt það mikilvægasta sem ég hef lært af þessu er að einn slæmur dagur er ekki endir alheimsins. Ég verð bara að eiga betri daga á eftir þessum slæmu. Ég á mér nokkrar fyrirmyndir, sem ég reyni að læra af á hverjum degi. Sumar þeirra eru á samskiptamiðlunum en svo er ég svo heppinn með að geta hitt aðra og fengið ráð og hvatningu. Ég gæti eflaust skrifað heila ritgerð um sjálfan mig, og þennan lífsstíl, en með þessu innslagi hef ég vonandi náð að miðla minni reynslu til einhvers sem langar að taka sín fyrstu skref eða halda áfram í því sem fyrir er. Ég er mjög sammála því að mataræðið er stærsti þátturinn, hreyfing er kannski ekki aukaatriði en hún er mikilvægur félagi í þessum lífsstíl. Nýja lífið mitt er svo miklu betra en það gamla, ég er að upplifa svo margt í dag sem mig gat aðeins dreymt um. Ég er auðvitað hræddur um að fara í gamla farið en ég ætla ekki leyfa mér það. Ég þarf því berjast alla daga í þessu. Sumir dagar eru bara slæmir og vigtin fer alveg upp einstaka sinnum, en ég tel mig sem betur fer orðinn það sterkan að ég næ henni alltaf niður aftur. Ég er íþróttamaður sem hefur róið hálft maraþon, unnið verðlaun í badminton, labbað upp á fjöll án þess að þurfa að taka pásu. Ég vann fyrir þessu öllu og er stoltur af því. Þetta snýst nefnilega um sjálfan þig og engan annan.  

Fimmti sjúkdómurinn

Ef þú sérð lasið barn rautt í kinnum eins og það hafi verið slegið utanundir beggja vegna er ekki ólíklegt að fimmti sjúkdómurinn sé hér á ferð. Nafnið mun vera þannig til komið að af þeim sjúkdómum sem herjuðu á börn var talað um skarlatssótt sem fyrsta sjúkdóminn, mislinga annan, rauða hunda þann þriðja, hlaupabólu fjórða og svo kemur sá fimmti. Einnig var talað um faraldsroða og á erlendum málum erythema infectiosum eða slapped cheek diease. Þetta er veirusjúkdómur orsakaður af paróveiru B19. Það eru til margar paróveirur þar á meðal veirur sem herja á dýr, þessi veira leggst eingöngu á menn. Við smit myndar líkaminn mótefni sem endist ævina út. Rannsóknir sýna að 40-60% manna hafa mótefni gegn veirunni og líklega sýkjast margir án þess að fá mikil eða nokkur einkenni. Algengast er að börn á aldrinum 5-15 ára veikist en þó geta allir sýkst. Smitið berst með úða frá nefi eða kverkum og það geta liðið 4-20 dagar frá smiti þar til einkenni koma fram. Einkenni í upphafi eru oft lík kvefi eða flensu, nefrennsli, hiti, höfuðverkur og beinverkir. Útbrot byrja í andliti og koma svo eftir nokkra daga fram á búk og útlimum, lófar og iljar eru oft undanskilin, þó getur komið fram kláði á iljum. Eftir að útbrot birtast er ekki hætta á smiti, þannig að ef börn eru hitalaus og líður vel er þeim óhætt að fara á leikskóla og skóla þrátt fyrir útbrot. Útbrotin geta verið sýnileg í allt að 3 vikur. Bólgur og eymsli í liðum geta fylgt fimmta sjúkdómnum, sérstaklega hjá fullorðnum. Það er engin meðferð til við sjúkdómnum en hægt að reyna að slá á kláða og mögulega önnur einkenni. Ef þunguð kona smitast á meðgöngu er líklegast að það valdi ekki skaða fyrir barnið. Í innan við 5% tilvika getur sýkingin þó valdið blóðleysi hjá fóstri, þannig að fósturlát verði. Forvarnir eru svipaðar og gegn öðrum loftbornum smitsjúkdómum. Sjúkdómurinn er almennt greindur á einkennum, það er hægt að mæla mótefni í blóði til greiningar en það er í undantekningartilvikum sem það er gert. f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands Helga Þorbergsdóttir Hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar í Vík    

Líknarmeðferð

Líknarmeðferð (e. palliative care) er meðferðarform sem gerir ráð fyrir heildrænni nálgun á vandamál einstaklinga sem glíma við alvarlega eða langvinna sjúkdóma. Orðið líkn merkir að hjálpa, hjúkra og lina þjáningar en markmið líknarmeðferðar er að stuðla að bættri líðan og auknum lífsgæðum fyrir sjúklinga og fjölskyldur þeirra. Það er gert með því að greina vandamálin snemma, veita viðeigandi meðferð við einkennum og tengja saman umönnun líkamlegra, sálfélagslegra og andlegra þátta. Einkenni er breyting á ástandi líkama eða sálar og er huglægt mat einstaklings á eigin heilsu og líðan. Algeng einkenni sem sjúklingar með alvarlega sjúkdóma glíma við eru til dæmis verkir, þreyta, andnauð, þunglyndi og kvíði. Meðferðin þarf að vera samþætt og einstaklingsmiðuð þar sem hugað er sérstaklega að persónulegum þörfum. Mikilvægt er að efla stuðningsnet í kringum sjúklinga og aðstandendur þeirra til að sjúklingurinn geti lifað eins virku lífi og hægt er miðað við aðstæður. Samskipti milli sjúklinga, aðstandenda og fagfólks þurfa að vera árangursrík til að mögulegt sé að veita viðeigandi þjónustu. Í fyrri skilgreiningu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) átti líknarmeðferð aðeins við þegar læknandi meðferð var hætt en með nýrri skilgreiningu frá árinu 2002 getur líknarmeðferð átt við allt frá því að einstaklingur greinist með alvarlegan sjúkdóm. Líknarmeðferð er þannig hægt að veita á sama tíma og læknandi meðferð fer fram en getur einnig staðið ein og sér. Hér á landi hefur hugtökunum líknarmeðferð og lífslokameðferð (e. end of life care) verið ruglað saman en lífslokameðferð er lokastig líknarmeðferðar sem felur í sér að læknandi meðferð er hætt og lífslok nálgast. Í líknarmeðferð er litið á dauðann sem eðlileg þáttaskil en meðferðin miðar að varðveislu lífs.   f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands Urður Ómarsdóttir Hjúkrunarfræðingur Lyflækningadeild og Bráðamóttöku    

2016 gert upp

Loksins búinn að finna tíma til þess að gera árið 2016 upp, en það hefur verið ótrúlega annasamt hjá mér í kring um áramótin. 2016 er hjá mér ár mikilla öfga og stórra ákvarðana. Sú stærsta var að sjálfsögðu mjaðmakúliskipti sem ég fór í 23. maí. Ég hafði að sjálfsögðu vitað þetta með árs fyrirvara en ekki fengið nákvæma dagsetningu fyrr en ca. 2 mánuðum fyrir aðgerð.   Síðasti vetur var erfiðasti veturinn minn í útgerð hér í Eyjum og sem dæmi um það, að þrátt fyrir að ég hafði fiskað 140 tonn sl. vetur, þá þurfti ég samt að fara niður í banka og biðja um fyrirgreiðslu í sömu viku og ég fór í aðgerðina. Þar hafði mest áhrif aðgerðir fráfarandi ríkisstjórnar, sem ég hef áður fjallað um. Það var mjög sérstakt að ganga frá öllu tengdu útgerðinni í maí og undirbúa fyrir lengsta sumarfríið, sem ég hef tekið eftir að ég fór að vinna og þá fyrst sem strákur í bæjarvinnu á vegum Vestmannaeyjabæjar.   Aðgerðin tókst mjög vel, en hún fór fram á borgarspítalanum, en margt samt rosalega skrítið eins og t.d. hvernig mér leið eftir mænudeyfinguna, þar sem líkaminn dofnaði allur upp, en heilinn mundi samt eftir því, í hvaða stellingu ég var þegar ég fór í mænudeyfinguna, sem var svolítið óþægilegt. Það að liggja síðan reyrður á hlið og hlusta á borvélar og hamarslátt, þar sem maður hristist allur og skalf meðan hamarshögginn dundu á mjöðminni, án þess þó að ég fyndi nokkuð fyrir því. Ég var svo heppinn að fá einkaherbergi og fékk líka leyfi til þess að liggja þar í 3 nætur, enda erfitt ferðalag að fara í fólksbíl austur í Landeyjahöfn og sigla svo yfir. Allt tókst þetta nú vel og í framhaldinu hófust síðan þrotlausar æfingar. Það leið reyndar ekki nema mánuður þangað til ég var farinn að dunda aðeins í bátnum og kom honum m.a. á flot aftur fyrir goslokahelgina, svo hann væri ekki fyrir á planinu. Fór svo út með sjóstöng að ná mér í soðið 6 vikum eftir aðgerð og prufuróður á sjó 2 mánuðum eftir aðgerð.   Allt gekk þetta bara nokkuð vel, þó að maður væri að sjálfsögðu svolítið aumur, en þetta m.a. varð til þess að ég ákvað að breyta út af 40 ára hefð og sleppa því að mæta á Þjóðhátíð og nota tímann í staðinn til þjálfunar, enda hafði ég þá þegar tekið ákvörðun ásamt félögum mínum að kíkja aftur til Grímseyjar helgina eftir Þjóðhátíð. Náðum við þar m.a. í lundann fyrir lundaballið. Því hafði nú verið spáð af nánum ættingjum að ég næði að snúa af mér löppina í þeirri ferð, en ég leit hins vegar á þessa ferð sem ákveðna prófraun, en ég hafði þá þegar gengið 2svar á Heimaklett. Allt gekk þetta vel og því kom það mér ekki á óvart að skurðlæknirinn minn úrskurðaði mig seinni partinn í ágúst tilbúinn í hvaða vinnu sem er.   Eitt af því sem ég hafði ákveðið þá þegar um vorið, og í raun og veru fyrir aðgerð, var að hætta í útgerð enda hefur meiningin með minni útgerð aldrei verið sú að starfa í þessu í einhverri sjálfboða vinnu. Reyndar hefur gengið ansi rólega að selja útgerðina og m.a. er ég þegar búinn að taka prufuróður eftir vinnu núna í janúar 2017, sem hefur ákveðna merkingu fyrri mig vegna þess að ég keypti fyrsta bátinn 1987 og hef því gert út nákvæmlega í 30 ár, þó að þessir róðrar að undanförnu séu nú meira svona til gamans.   Fljótlega eftir að ég var kominn af stað í sumar fór ég að leita mé að atvinnu í landi og sótti um hjá höfninni í lok júli og fékk vinnu og hóf störf þann 1. sept. Mér líkar bara nokkuð vel hjá höfninni, enda starfað við höfnina alla mína ævi. Breytingin er þó ofboðslega mikil, en svona ef ég skoða síðasta ár í heild sinni, þá verð ég bara að viðurkenna eins og er að þessir síðustu 4 mánuðir ársins eru einu mánuðurnir á árinu sem maður fékk eitthvað útborgað.   Pólitíkin var að sjálfsögðu til staðar hjá mér á árinu. Fyrst aðeins að Alþingiskosningunum. Mér voru boðin sæti á 3 listum en ég hafnaði því öllu. Fyrir því voru margar ástæður, kannski fyrst og fremst það að maður hafði bara hreinlega ekki tíma í þetta og kannski takmarkaðan áhuga. Kosningaúrslitin í sjálfu sér komu mér ekkert á óvart, nema kannski árangur Viðreisnar en mér þótti mjög skrítið að hitta fólk sem kaus Viðreisn og trúði því í alvöru að Viðreisn myndi aldrei fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.   Í bæjarpólitíkinni var þetta svolítið átaka ár hjá mér og hófst með flugelda sýningu á fundi framkvæmda og hafnarráðs þann 6. janúar í fyrra. Meirihlutinn var afar ósáttur með grein sem ég skrifaði fyrir þar síðustu áramót. Nú er það þannig að ég hef skrifað margar greinar í gegn um árin. Nokkrum sinnum áður hef ég reynt að skrifa mjög vandaðar greinar, þar sem ég fer yfir aftur og aftur, laga og leiðrétti. Þær greinar hafa nánast alltaf endað í ruslinu hjá mér, svo ég hef valið frekar að skrifa greinar um það sem ég hef verið að hugsa að undanförnu á þeim tíma og/eða fjalla um það sem fólk er að segja mér. Að sjálfsögðu er öllum velkomið að gagnrýna mínar greinar, en túlkun meirihlutans á grein minni fyrir rúmu ári síðan, hefur ekkert með það að gera hvað ég var að hugsa þegar ég skrifaði greinina og viðbrögð meirihlutans í framkvæmda og hafnarráði voru alls ekki við hæfi.   Í ágætu viðtali sem ég fór í í bæjarblaðinu Fréttum í byrjun febrúar sagði ég frá þessu og þeirri skoðun minni að meirihlutinn bæri að biðjast afsökunar á framkomu sinni í minn garð. Viðbrögð meirihlutans voru þau að senda erindi til bæjarstjórnar strax þarna í febrúar, þar sem þeir óskuðu eftir því að fundir ráðsins yrðu teknir upp hér eftir, vegna þess að fulltrúi minnihlutans væri með einhverjar dylgjur í þeirra garð. Að sjálfsögðu var þetta fellt í bæjarstjórn, og bara svo það sé alveg á hreinu, enginn í þessu ráði hefur beðið mig afsökunar. En ég hef í bili að minnsta kosti ákveðið að afgreiða þetta allt saman með orðum móður minnar sem hún kenndi mér strax á unga aldri: Sá á vægið sem vitið hefur.   Fundir í framhaldi af þessu voru nokkuð venjulegir, en margt af því sem gerðist á næstu vikum og mánuðum eftir þennan fund olli mér miklu meiri vonbrigðum, heldur en þessi fundur frá því í janúar. Og í lok sumars, eftir að mér bauðst starf hjá höfninni, var strax ljóst að ég gæti ekki líka starfað í hafnarráði. Ég bauð þá félaga mínum og oddvita Eyjalistans, Stefáni Jónassyni, að ég myndi draga mig út úr þessu og hleypa yngri manni að, en Stefán bauð mér að skipta við sig um ráð og gerði ég það og hóf ég störf í umhverfis og skipulagsráði í haust. Það er töluvert öðruvísi fólk í því ráði en því fyrra og störfin að mörgu leyti allt öðruvísi en mjög mikilvæg, enda held ég að það dyljist engum sem fer á rúntinn um bæinn okkar, allar þær miklu breytingar sem eru að verða, bæði varðandi lagnir í allar áttir sem og uppbygging á hafnarsvæðinu í kring um Fiskiðjuna og að þessu leytinu til má segja að framundan séu mjög spennandi tímar.   Margir sem gera upp árið reyna að spá fyrir um nýja árið og yfirleitt á frekar jákvæðan hátt, sem er nú bara eðlilegt. Mér finnst hins vegar vera mikil óvissa um þetta nýja ár. Jújú, það er búið að mynda ríkisstjórn, en hún hefur bara einn mann í meirihluta. Klárlega ríkisstjórn sem ég myndi aldrei kjósa, en hún verður dæmd af störfum sínum, hvort sem hún endist eða ekki. Nýbúið að skrifa undir smíði á nýrri ferju sem sumir telja mjög jákvætt. Afstaða mín er hins vegar óbreytt. Ef ekki verða settir alvöru fjármunir í nauðsynlegar breytingar í Landeyjahöfn, þá held ég að þessi ferja verði klárlega afturför.   Það var í fréttunum í gær, að lánshæfnismat Íslands hefði verið hækkað. Ekki ósvipað því sem gerðist reglulega rétt fyrir hrun. Fyrir nokkru síðan heyrði ég í hátt settum bankamanni, að að óbreyttu væri ekki nema ca. 2 ár í næsta hrun. Og hana nú!   Höfum þó í huga að sólin er farin að hækka og dagurinn að lengjast. Lundinn kemur í vor í milljónatali og hver veit, kannski leysist sjómannaverkfallið í vikunni. Óska öllum Eyjamönnum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir það gamla.    

Vangaveltur um sjávarútveg og sjómannadeiluna

Sæl verið þið sem nennið að lesa þetta . Ég ætla að kynna mig fyrir ykkur, ég heiti Gunnar og er búinn að vera á sjó síðan 1981 og verið stýrimaður frá 1989 og skipstjóri meira og minna frá 1996. Deilan sem sjómenn eiga í við SFS snýst um að Í síðustu samningum voru gerðar breytingar á skiptingu á milli sjómanna og útgerða. Þessar breytingar urðu til þess að sjómenn fengu ekki þá launahækkun sem þeim ber þegar fækkað er í áhöfn, það er að við aukið vinnuálag sem hlýst af því að vinnan lendir á færri höndum, skilar sér ekki í hærra kaupi heldur skilar það sér sem lægri heildarlaunakostnaður hjá útgerðinni. Deilan snýst engan vegin um gengi krónunnar, enda væri það að æra óstöðugan að ætla að sveiflast upp og niður með krónunni og það vita flest allir sjómenn. Að auki vilja sjómenn að eitthvað af þeim hagnaði sem útgerðin hefur lifað við á sama tíma og hún kærði sig ekki um að semja við okkur, verði notaður til að lækka fjarskipta kostnað okkar og til að bæta okkur upp tapið sem við urðum fyrir við afnám sjómannaafsláttar í sköttum, einnig til að lækka ofboðslegan kostnað sjómanna í hlífðarfatnaði. það er ekki verið að fara fram á að borga ekkert í olíunni heldur að olíverðs viðmið verði leiðrétt sem ákveður síðan prósentuna sem er dregin frá áður en kemur til skipta. Það viðmið hefur aldrei verið leiðrétt með hliðsjón af meðal verðbólgu í heiminum. Til þess að skiptaprósenta geti hækkað hjá okkur þarf olía að lækka niður fyrir öll söguleg viðmið.  Síðast en ekki síst þá vilja sjómenn taka af þá vitleysu sem sett var á í síðustu samningum um að það megi lækka laun sjómanna um 10 prósent til að hjálpa útgerðinni að kaupa nýtt skip. Sjómenn fá samt sem áður enga eignarhlutdeild í skipinu, heldur skal útgerðarmaðurinn einn eiga það þrátt fyrir að áhöfnin greiði töluverðar fjárhæðir í skipinu. Það væri gaman og gott fyrir umræðuna að fá að sjá útreikninga á því hve ríkissjóður og sveitafélög verða af miklum skattekjum við það að sjómenn á nýsmíðaskipum setja 10% eða sem nemur orlofi þeirra í styrk til útgerða sem síðan geta nýtt það allt til niðurgreiðslu á skipinu SÍNU án þess að greiða af því skatta.  Taktík SFS er sú sama og var alltaf hjá LÍÚ, sem er að snúa út úr öllu hjá sjómönnum og láta eins og við séum eintómir græðgis goggar og kjánar, síðan bíða þeir bara þar til ríkissjóður þolir ekki lengra verkfall og ríkisstjórnin grípur til lagasetningar til að stoppa verkfallið.  Íslendingar státa af því að vera eina þjóðin sem geri út sjávarútveg án ríkisstyrkja en raunin er sú að alþingi íslendinga setti í lög á sínum tíma að taka bæri 30% af heildar aflaverðmæti áður en kæmi til skipta við áhöfn. Mér finnst það ríflegur styrkur til útgerðar að ríkið verði af skatttekjum af þessum 30% aflaverðmætis, þannig má segja að íslenskur sjávarútvegur sé ekki aðeins ríkisstyrktur heldur líka sjómannastyrktur. Eins og hægt var að afnema skattaafslátt sjómanna með afnámi laga þá hlýtur að vera hægt að afnema þennan ríkisstyrk til útgerðarinnar með afnámi laga og gætu Íslendingar þá montað sig af því með sanni að reka sjávarútveg án ríkisstyrkja.  -Gunnar Þór Friðriksson  Höfundur er skipstjóri og því ekki í verkfalli, því að hans félag samþykkti samningana.    

Horft af bæjarhólnum

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins brá sér upp á bæjarhólinn sinn rétt fyrir áramótin, skyggndist um og lagði mat á stöðuna í þjóðlífinu. Á Gamlársdag mætti hann síðan í þáttinn Kryddsíld og gerði grein fyri því hvers hann hefði orðið vísari með sjálfum sér þarna á bæjarhólnum. Niðurstaðan var einföld. Á Íslandi er allt í svo góð lagi að „það þarf geðveiki til að sjá ekki hvað ástandið er gott,“ svo notuð séu hans óbreyttu orð. Á sama tíma og Bjarni mælir þessi orð er fróðlegt að skoða eftirfarandi aðstæður á Íslandi: • Heilbrigðisþjónustan í landinu er á heljarþröm og komin að fótum fram vegna fjársveltis. Þetta þekkjum við vel hér í Vestmannaeyjum. • Samgöngukerfið er fjársvelt, vegir víða ónýtir og viðhaldi ekki sinnt vegna fjársveltis, hvað þá að lagt sé í nauðsynlegar nýframkvæmdir. • Landhelgisgæslan er að miklu leyti óvirk vegna niðurskurðar. Öryggismál sjómanna og reyndar landsmanna allra eru þar með í molum. • Menntakerfi landsins er í megnasta ólestri, skólar fjársveltir og uppbyggingu er ekki sinnt. • Geysileg ólga er á vinnumarkaðinum. Sjómenn eru í verkfalli og fara fram á sanngjörn skipti. • Lífeyrismál landsmanna eru í uppnámi. Þannig mætti áfram telja. En Bjarni sér ekki þessar aðstæður þegar hann litast um af bæjarhólnum sínum. Hann getur því sannarlega glaðst með sjálfum sér og sínum. Hann getur glaðst yfir því að þeir sem eiga ómælda peninga þurfi ekki óttast að þeir verði notaðir til að standa straum af umbótum í landinu svo sem á þeim sviðum sem hér hafa verið gerð að umtalsefni. Ragnar Óskarsson  

Staða Vestmannaeyja sögulega sterk

Eins og öll ár skiptist á með skin og skúrum hjá mér persónulega á árinu 2016. Kaflar voru jafnvel erfiðir en einhvern veginn færir lífið okkur ætíð nægilega birtu til að eyða öllum skuggum. Þegar frá líður skapa svo erfiðu stundirnar tækifæri til þroska og lærdóms. Samfélagið getur verið grimmt og jafnvel vel gert fólk getur gleymdi þeirri gullnu reglu að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Þetta á ekki síður við um Vestmannaeyjar en önnur samfélög. Hvað sem öllu því líður þá er ekki sjálfgefið að fá að taka á móti nýju ári umvafinn ástvinum. Að líta yfir árið og njóta þeirrar gæfu að börnin manns, vinir og fjölskylda skuli halda lífi og heilsu eru forréttindi sem ekki öllum eru gefin. Heilt yfir var því árið 2016 mér og mínum gott.   Atvinnulífið styrktist Vestmannaeyjar héldu á árinu áfram að styrkjast og dafna. Gríðalegar framkvæmdir í atvinnulífinu settu svip sinn á bæjarlífið. Ekki eingöngu eru framkvæmdir sem þessar jákvæðar fyrir atvinnulífið á líðandi stundu heldur styrkja þær okkur og veita brautargengi inn í komandi tíð. Í kjölfarið á þeim verða stóru stöðvarnar í Vestmannaeyjum með landvinnslu á borð við það sem best gerist í heiminum. Fyrir okkur sem hér búum skiptir ekki minna máli að fjárfestingar sem þessar auka langtímaöryggi hvað breytingar í sjávarútvegi varðar. Landbundin verðmæti eins og hús sigla jú ekki í burtu eins og bátar og kvóti getur gert. Þá er einnig afar ánægjulegt að sjá lítil og meðalstór fyrirtæki til að mynda í fiskvinnslu, iðnaði og þjónustu dafna og sterka stjórnendur sækja fram.   Störfum í sjávarútvegi er að fækka Ekki verður hjá því horft að breyting er að verða á hvað varðar fjölda starfsmanna í sjávarútvegi. Aukin sjálfvirkni og tæknivæðing hverskonar fækkar störfum. Ekki hvað síst verðum við vör við að störfum fyrir sjómenn fækkar verulega ár eftir ár. Tekjur sveitarfélgsins af sjávarútvegi lækka þar með enda launaskattur (útsvar) langmikilvægasti tekjustofn okkar sameiginelga sjóðs. Við þessari stöðu þarf að bregðast. Þar sem fyrr gildir að sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær.   Ferðaþjónusta dafnar Ferðaþjónusta í Vestmannaeyjum hefur vaxið ævintýralega á seinustu árum og það þrátt fyrir erfiðleika í samgöngum. Nú er svo komið að í fyrsta skipti eigum við Eyjamenn raunhæfa möguleika til að byggja upp stoð til hliðar við sjávarútveginn og mæta þannig þeim veruleika sem fólginn er í fækkandi störfum til sjávar. Lykilatriðið til að svo geti orðið er að höggið verði á samgönguhnútinn og sótt fram með bótum á öllu því sem tengist Landeyjahöfn og er þar allt undir. Þótt ný ferja sé algerlega nauðsynleg þá er hún ein ekki nægjanleg til að tryggja öruggar samgöngur allt árið um Landeyjahöfn. Það þarf einnig að gera breytingar á höfninni.   Blikur á lofti Hvorki þarf að ferðast oft til Reykjavíkur né dvelja þar lengi til að sjá að þenslan þar er mikil og einkaneyslan vaxandi. Öll vitum við að slíku ástandi fylgir oft að samkeppnin um fólk og tækifæri. Hafi sagan kennt okkur eitthvað þá er það að landsbyggðin gefur eftir þegar höfuðborgarsvæðið vex. Þessi veruleiki ásamt sterkri krónu og færri störfum í sjávarútvegi leggur verkefni á borð okkar Eyjamanna.   Þjónustan mikið aukin Á nýliðnu ári hefur þjónusta Vestmannaeyjabæjar aukist mikið. Leikskólaplássum var fjölgað verulega, teknar upp heimagreiðslur og foreldrum þannig gert mögulegt að vera lengur heima hjá börnum sínum, niðurgreiðsla til dagmæðra var aukin þannig að hún næði niður í 9 mánaða, frístundakort hafa verið tekin upp og margt fleira. Þá hefur aðstaða til tómstundar fyrir eldri borgara verið aukin verulega, dagþjónusta fatlaðara tók stakkaskiptum með nýrri hæfingarstöð, byrjað var á nýrri deild við Hraunbúðir fyrir fólk með heilasjúkdóma svo sem Alzheimer, aðstaða til dagvistar á Hraunbúðum var öll endurnýjuð og lengi má áfram telja. Þessir þjónustuþættir bætast við þá sem fyrir eru svo sem niðurfelling á fasteignagjöldum fyrir eldri borgara, gjaldfrjálst aðgengi barna að sundlaug, myndalegt menningarstarf og svo margt fl.   Mikið framundan Áfram skal haldið á þeirri vegferð að byggja upp fyrirmyndar samfélag í Vestmannaeyjum. Nú þegar er byrjað að vinna að hönnun á nýjum þjónustuíbúðum fyrir aldraða, stefnt er að byggingu á allt að 6 íbúðum fyrir fatlaða, verið er að ljúka endurgerð á sýningarsal á Kviku og stefnt er að því að bjóða þar upp á kvikmyndasýningar, hafin er innleiðing á nýjum úrvinnsluleiðum sorps og margt fleira er í burðarliðunum. Við ætlum okkur að bjóða bæjarbúum upp eins mikla og góða þjónustu og mögulegt er.   Fylgt úr hlaði Staða Vestmannaeyja er sögulega sterk. Í áratug hefur allt kapp verið lagt á að greiða upp vaxtaberandi lán og skuldbindingar auk þess sem mikil áhersla hefur verið lögð á að bæta hagkvæmni í rekstri. Samhliða þessu hefur þjónusta við bæjarbúa stöðugt verið aukin og þá ekki síst á árinu 2016. Það er því ljóst að Vestmannaeyjabær og Eyjamenn mæta komandi verkefnum af styrk og festu. Í mínum huga er framtíð Vestmannaeyja gríðalega björt þótt næstu árum kunni að fylgja flókin verkefni. Sem fyrr skiptir þá mestu að Eyjamenn sjálfir sýni baráttuþrek, samstöðu og beri virðingu hver fyrir öðrum. Það er og mun ætíð verða lykillinn að uppgangi í Eyjum.   Með djúpri þökk fyrir liðin ár og von um áframhaldandi uppbyggjandi samskipti, Eyjum og Eyjamönnum til heilla.   Elliði Vignisson bæjarstjóri      

Georg Eiður Arnarsson - Besti vinur mannsins

Besti vinur mannsins er klárlega hundurinn, en jólin í ár eru fjórðu jólin okkar eftir að við fengum okkur hund. Ég er stundum spurður að því, af hverju hundurinn heitir Svenni, og svarið er það, að miðdóttir okkar átti vin sem hét Svenni sem lést nokkrum dögum áður en við fengum hundinn og hún fékk að ráða nafninu. Kannski ekki beint hundsnafn en Svenna er alveg sama. Það hafa margar kvikmyndir verið gerðar um hunda og öll þekkjum við sennilega nokkrar, en fyrir nokkrum árum var gerð mynd um hundinn Hatchi, sem er sannsöguleg, en saga Hatchi hófst í Japan árið 1936 þegar prófessor í skóla einum í litlu bæjarfélagi í Japan fékk sér hund sem hann skírði Hatchico. Á hverjum degi tók prófessorinn Hatchi með sér í vinnuna og lét hann bíða eftir sér við gosbrunn sem var fyrir framan skólann. Tveimur árum síðar var prófessorinn bráðkvaddur og Hatchi þar með heimilislaus, en það breytti engu fyrir hann, hann mætti á hverjum degi við gosbrunninn og beið eftir húsbónda sínum. Bæjarbúar tóku eftir þessu og þóttu mikið til um tryggð Hatchi og fóru að færa honum mat við gosbrunninn. Þannig gekk þetta í níu ár, eða þar til að Hatchi og húsbóndinn sameinuðust loksins í næsta lífi. Bæjarbúum þóttu þetta það merkilegt að þeir slógu saman í styttu af Hatchi sem enn stendur við þennan gosbrunn í þessu litla bæjarfélagi í Japan. Við mannfólkið getum margt lært af hundunum okkar og við fjölskyldan höfum farið í gegn um þetta allt saman með honum Svenna okkar. Sorgina þegar við förum út og hann fær ekki að koma með og svo ofsa kætina þegar við komum aftur heim, eindreginn vilja hans til að sníkja af okkur mat þegar hann finnur lykt af einhverju sem hann langar í, eindreginn brotavilja hans þegar hann reynir að laumast til að merkja skóna okkar, svo hann finni okkur nú alveg örugglega aftur ásamt kröfunni um það, að hann vilji fá að sofa uppí alveg sama hvað. Mikinn áhuga hans á að hrekja alla aðra hunda í burtu með því að gelta á þá og hvernig hann dansar um af kæti þegar hann veit að við erum að fara með hann í göngu. Já, við getum lært margt af hundunum okkar.   Góðir Eyjamenn og aðrir landsmenn, innilega gleðilega hátíð frá okkur og Svenna.  

Vestmannaeyjar ætla sér stóra hluti í ferðaþjónustu

Ferðaþjónusta er ein stærsta atvinnugrein í heimi. Í fyrra var veltan áætluð 7,2 trilljónir bandaríkjadala sem er um 9,8% af sameiginlegri vergri þjóðarframleiðslu í heiminum. Þessi atvinnugrein skapar um 284 milljónir starfa um allan heim. Það lætur því nærri að einn af hverjum 11 starfskröftum í heiminum starfi við ferðaþjónustu. Fyrir land og þjóð sem vill þróa þessa atvinnugrein skiptir miklu að vanda sig. Það er eftir miklu að slægjast.   Hið opinbera ber ábyrgð á innrigerð   Hlutverk hins opinbera –þ.e.a.s. ríkis og sveitarfélaga- er mikilvægt þegar það kemur að innri gerð ferðaþjónustu. Fjárfesting í innviðum er lang mikilvægasta hlutverkið. Samgöngumannvirki, neyðarþjónusta, heilbrigðisþjónusta, skilvirkt skatta- og lagaumhverfi og fl. er þar mikilvægt.     Sveitarfélög víða að standa sig vel   Víða hafa sveitarfélög ráðist í mikla fjárfestingu til að byggja undir þessa atvinnugrein og auka líkur á hagsæld hennar og þar með styrkja byggð. Það á við um Vestmannaeyjar eins og svo mörg önnur sveitarfélög. Ekki hvað síst hafa sveitarfélög á landsbyggðinni stigið fram fyrir skjaldarendur með markvissum fjárfestingum svo sem í afþreyingu, náttúruvernd, stígagerð og margt fl.     Ekkert kemur úr engu   Á fáum stöðum á landinu á ferðaþjónusta sér viðlíka tækifæri og hér í Eyjum. Með rökum má halda því fram að í fyrsta skipti í sögu byggðar í Eyjum hafi skapast jafn mikil tækifæri til að skapa nýja efnahagslega stoð, til hliðar við sjávarútveg. Ekkert kemur þó úr engu og tækifærin sigla framhjá séu þau ekki nýtt.     Mikil fjárfesting í Eyjum   Til að gera einkaðilum mögulegt að nýta tækifærin hefur Vestmannaeyjabær ráðist í mikla fjárfestingu í innviðum. Meðal helstu fjárfestinga seinustu ára sem tengjast ferðaþjónustu eru uppbygging miðbæjar, nýtt útivistarsvæði við íþróttamiðstöðina, uppbygging tjaldsvæða, gerð göngustíga, endurbætur á golfvelli, stofnun Sagn- og Sæheima og bygging Eldheima.     Ein helsta upplifun ferðaþjónustu í heiminum í Eyjum að mati The Guardian   Allt orkar tvímælis þá gert er. Það á sannarlega við um þessar framkvæmdir. Þegar upp er staðið efast þó fáir um að vel hafi verið að verki staðið. Á aðfangadag birti „The Guardian“ grein sem ber heitið „My best travel discovery of 2016“. Þar fjallar Robert Hull -sá víðfrægi ferðalagaskríbent- um Eldheima og færir rök fyrir því að safnið sé ein af helstu ferðaþjónustu upplifunum í heiminum árið 2016.       Vel að verki staðið   Í skrifum sínum segir hann meðal annars að Eldheimar séu... „allt það sem gestir vilja í nútíma safni. Með skrifum Robert Hull bætist enn ein rósin í hnappagat ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum. Um leið styrkja þau okkur, sem tímabundið gegnum mikilvægum stöðum í þessari uppbyggingu, í þeirri trú að vel sé að verki staðið. Þá ekki síst þegar til þess er litið að þessi skrif bætast við ómælt hrós fyrir meðal annars: frábær tjalstæði, eina bestu sundlaug á landinu, einn besta golfvöll í Evrópu, lifandi miðbæ og margt fleira – að ógleymdri okkar stórkostlegu náttúru.     Veldur hver á heldur   Þótt gott sé að staldra við og njóta áfangasigra, stórra sem smárra, þá skal áfram haldið. Þar skipta betri samgöngur náttúrulega höfuð máli en við heimamenn megum ekki láta seinagang á þeim vettvangi draga okkur blóð. Vestmannaeyjar ætla sé stóra hluti í ferðaþjónustu og sem fyrr þá veldur hver á heldur.    

Georg Eiður - Landeyjahöfn, staðan 22.11.2016

Mjög sérstök staða í Landeyjahöfn, en um leið að sjálfsögðu mjög ánægjuleg. Dýpið mikið og gott, enda gengið óvenju vel hjá Galilei 2000 að komast til dýpkunar, enda ölduhæðin í Landeyjahöfn í haust verið nokkuð hagstæð þó svo að vissulega hafi blásið nokkuð hressilega stundum og ég hef verið spurður út í þessar breytingar á stefni Galilei, en mér er sagt að eftir að skipið lauk dælingu sinni í Landeyjahöfn samkv. samningi, var þeim boðinn sérstakur auka samningur sem gekk út á það að hreinsa betur meðfram hafnargörðunum, en til þess að ná því urðu þeir að breyta rörinu framan á skipinu.   Að öðru leiti er lítið að frétta af einhverjum hugmyndum um lagfæringar á höfninni, skilst reyndar að varnargarðurinn sem reistur var með Markarfljótinu, sé að miklu leyti horfinn og einhver umræða orðin um að fjarlægja hugsanlega garðinn sem Herjólfur bakkar að þegar hann fer frá bryggju, með það að markmiði að minnka ölduhreyfingu innan hafnarinnar, en mér skilst að sú hugmynd hafi komið frá yfirmönnum Herjólfs. Veðurspáin framundan er ekkert sérstök en ef við Eyjamenn verðum heppnir með veðurfar í vetur, þá er alveg möguleiki á að það verði óvenju oft fært í Landeyjahöfn í vetur, ef miðað er við hversu gott dýpið er í höfninni.   Eitt af fjölmörgum verkefnum hafnarvarðar er að leysa og binda Herjólf. Ekki þarf maður að starfa lengur þar til þess að sjá, hvaða vandamál eru þar helst og langar mig að nefna 3 dæmi. Ég hef mjög oft tekið eftir því, að þegar bílar koma akandi niður Skildingarveginn (sérstaklega ferðamenn) og sjá bílana byrja að vera að safnast í raðirnar til að fara í Herjólf, þá reyna þeir ótrúlega oft að fara meðfram kaðlinum sem þar er, eða sömu leið og inn að bílaverkstæði Harðar og Matta og reyna síðan að komast meðfram Herjólfsafgreiðslunni að sunnanverðu og vestur inn á svæðið að biðröðinni og eiginlega furðulegt að ekki skuli nú þegar hafa orðið árekstrar þar þegar þeir mæta öðrum bílum sem eru að koma réttu leiðina. Ástæðan fyrir þessu er sú að merkingarnar sem sýna hvaða leið á að fara, sjást ekki fyrr en komið er inn í beygjuna til austurs, en að mínu viti ætti ekki að vera mikið mál að leysa þetta með því að setja áberandi skilti við kaðal vegginn, sunnan við bílaraðirnar.   Annað atriði sem mig langar að nefna tengist einnig merkingum, en fyrir nokkru varð ég vitni að því þegar rúta merkt Norðurleiðum keyrði upp undir ranann þar sem fólk gegnur um borð í Herjólf með töluverðu tjóni, og mér skilst á öðrum hafnarverðum að þetta gerist nú bara reglulega. Þarna þyrfti virkilega að bæta úr merkingum og aðvörunar skiltum. Þriðja atriðið sem mig langar að nefna fjallar um tímasetningar á ferðum Herjólfs þegar ferðirnar færast úr Landeyjahöfn í Þorlákshöfn. Við Eyjamenn sem förum yfirleitt akandi vitum að við fáum skilaboð ef breytingar verða, en þó ég hafi aðeins starfað þarna á þriðja mánuð, þá hef ég ótrúlega oft séð fólk koma hlaupandi niður á bryggju á slaginu 8, haldandi það að skipið fari ekki fyrr en hálf níu. Þessu væri að mínu viti mjög auðvelt að breyta einfaldlega með því að láta Herjólf alltaf fara á sama tíma í sínar fyrstu ferðir. Við vitum það að Herjólfur þarf að fara kl 8 til þess að halda áætlun, en hvers vegna hann fer ekki fyrr en 8:30 þegar hann fer í Landeyjahöfn, hef ég ekki hugmynd um, en gaman væri ef einhver vissi svarið.   Varðandi nýsmíðina, þá hef ég lítið heyrt annað en bara það sem komið hefur fram í fjölmiðlum að undanförnu að það sé verið að semja við Pólverja um að smíða ferjuna. Það sem ég hefði hins vegar viljað að gerðist á allra næstu árum, miðað við stöðuna í dag, það er að fundinn yrði rekstrar grundvöllur fyrir því að halda núverandi ferju um ókomin ár, enda hefur hún reynst okkur vel. Veit reyndar að það er búið að lofa okkur að halda henni í fyrstu 2 árin eftir að nýja ferjan kemur, en allar spár um þróun ferðamennskunnar benda til þess að ferðamönnum muni bara fjölga. Það ásamt að öllum líkindum meiri gámaflutningi milli lands og eyja ætti að mínu viti klárlega að geta skapað fleiri verkefni, auk þess að við gætum þá gripið til hennar þegar við þyrftum.   Að lokum verð ég að hafa eftir brandara frá vini okkar Jógvan hinum færeyska, sem mér skilst að hafi sagt í heitu pottunum fyrir nokkru síðan í Eyjum. Skrýtnir þessir Færeyingar, þeir vilja bara grafa göng í allar áttir á meðan Eyjamenn leysa þetta einfaldlega með batterís ferju.   Georg Eiður Arnarson    

Mikilvægi hreyfingar fyrir börn og unglinga

Í bæklingi gefnum út af embætti landlæknis, Ráðleggingar um hreyfingu, segir að „jákvæð reynsla af hreyfingu á unga aldri eykur líkurnar á að fólk temji sér lífshætti sem fela í sér hreyfingu á fullorðinsárum. Dagleg hreyfing er börnum og unglingum nauðsynleg fyrir eðlilegan vöxt, þroska og andlega vellíðan. Hún er sameiginlegur leikur sem skapar meðal annars tækifæri til að þjálfa hreyfifærni, bæta líkamshreysti, eignast vini, auka félagslega færni og efla sjálfstraust.“ Af því gefnu er ljóst að hreyfing hefur margvíslega kosti í för með sér og því ekki úr vegi að rýna nánar í umræddan bækling.   Ráðleggingar Í bæklingnum er ráðlagt að öll börn og unglingar eigi að hreyfa sig allavega í eina klukkustund á dag, þar sem hreyfingin á að vera bæði miðlungserfið (t.d. rösk ganga, hjóla, synda eða skokka rólega) og erfið (t.d. rösk fjallganga, hlaup og flestar íþróttir og önnur þjálfun sem stunduð er með árangur í huga). Umræddum tíma má skipta upp í nokkur styttri tímabil yfir daginn, t.d. tíu til fimmtán mínútur í senn. Með því að brjóta tímann niður í fleiri einingar verður verkefnið viðráðanlegra fyrir vikið. Sem dæmi er hægt að velta fyrir sér hversu margir geta gert hundrað armbeygjur í einni lotu? Líklega ekki margir, en hversu margir geta gert hundrað armbeygjur í fjórum lotum yfir daginn? Töluvert fleiri, það er nokkuð ljóst.   Einnig segir að fjölbreytni sé mikilvæg til að efla sem flesta þætti líkamans, svo sem afkastagetu lungna, hjarta og æðakerfis, vöðvastyrk, liðleika, viðbragð og samhæfingu. T.d. með því að skella sér í laugina og synda nokkrar ferðir er maður búinn að komast yfir öll ofangreind atriði á ekki lengri tíma en ca. hálftíma. Kröftug hreyfing hefur einnig góð áhrif á beinmyndun og beinþéttni, hreyfing á borð við göngur, hlaup og einhvers konar leikfimi. Sérstaklega er bent á að óæskilegt sé að verja meira en tveimur klukkustundum á dag í að spila tölvuleiki eða horfa á sjónvarp en eins og flestir vita getur sá tími verið margfalt meiri hjá bæði ungu fólki og fullorðnu og því mikilvægt að foreldrar setji gott fordæmi.   Hreyfing minnkar með hækkandi aldri Rannsóknir benda til að íslensk börn hreyfi sig minna eftir því sem þau verða eldri. Stúlkur hreyfa sig minna en drengir, taka síður þátt í íþróttastarfi og hætta fyrr í slíku starfi. Bæði kynin hreyfa sig meira á virkum dögum en um helgar. Af hverju ekki að skella sér með alla fjölskylduna í badminton um helgar? Það er meira að segja frítt í Vestmannaeyjum.   Hvers konar hreyfing? Eins og fyrr segir er fjölbreytt hreyfing mikilvæg. Börn eiga að geta fundið sér hreyfingu sem er bæði skemmtileg og í samræmi við getu þeirra. Fram kemur að góð hreyfifærni veiti börnum aukið sjálfstraust og tækifæri til að stunda fjölbreytta hreyfingu þegar þau verða eldri. Það er t.d. ekki óalgeng sjón í líkamsræktarsölum fullorðið fólk og jafnvel unglingar sem búa yfir lítilli sem engri samhæfingu eða þekkingu á líkamsrækt yfir höfuð og þar það kannski afleiðing þess sem getið er að ofan. Það er því margt vitlausara fyrir fólk í þessari stöðu en að leita til einkaþjálfara eða kunningja sem er vel að sér í líkamsrækt. Sum börn eru „rólegri í tíðinni“ en önnur og þurfa meiri hvatningu til að hreyfa sig. Þá er mikilvægt að ræða við börnin og reyna að finna skýringu á því hvers vegna þau hreyfa sig lítið. Jafnframt er mikilvægt að komast að því hvers konar hreyfing gæti höfðað til þeirra. Skertur hreyfiþroski og önnur þroskafrávik gera börnum erfiðara fyrir að taka þátt í hópleikjum og getur almennt dregið úr löngun þeirra til að hreyfa sig. Því fyrr sem gripið er inn í og tekið á slíkum frávikum því meiri líkur eru á að barnið bæti færni sína og kynnist hreyfingu á jákvæðan hátt. Nokkrir punktar sem foreldrar geta haft í huga: -Verið góð fyrirmynd og hreyft sig með börnunum. -Hugað að eigin hreyfivenjum og barna sinna. -Hvatt til útileikja og þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi. -Bent á athafnir sem fela í sér hreyfingu þegar börnunum leiðist. -Gefið gjafir sem hvetja til hreyfingar, s.s. bolta, sippubönd, skauta eða hjól. -Hvatt barnið til að ganga eða hjóla í og úr skóla. -Samið við barnið um tímamörk fyrir daglega afþreyingu við skjá.    

Hildur Sólveig - Ég á mér draum

Alþingiskosningar nálgast óðfluga og spennan í kringum þær er áþreifanleg. Margir hverjir, sérstaklega þeir sem ekki hafa brennandi stjórnmálaáhuga, eru væntanlega þó orðnir þreyttir á umræðunni, líkt og ég var orðin þreytt á 50 ára afmælisdagskrá RÚV, og því spenntir eftir að kosningunum loks ljúki.   Persónukjör Í kringum kosningar heyrist oft það sjónarmið hversu gott það væri ef hægt væri að að kjósa fólk en ekki flokka. Ég skil vel þá hugsun og er sammála henni að mörgu leyti. Hins vegar myndi slíkt fyrirkomulag væntanlega verða einkar erfitt í framkvæmd. Ég sé fyrir mér 63 alþingismenn, hver með sínar áherslur, stefnur, hugsjónir og hugðarefni eyða vikum ef ekki mánuðum í skoðanaskipti, rökræður og almennt þras við að reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Myndun ríkisstjórnar yrði án efa erfið, tímafrek og flókin. Því þurfum við Íslendingar í krafti fjöldans, líkt og okkur einum er lagið, að sameinast um stefnur, málefni og forgangsröðun og fylkja okkur bakvið þær. Að sjálfsögðu eru aldrei allir stuðningsmenn allra flokka alltaf sammála öllum þeim málum sem unnið er eftir en stefna hvers stjórnmálaafls er samþykkt af landsfundi þar sem félagsmenn, eins og ég sjálf, geta vissulega haft áhrif.   Umræðuhefðin má breytast Óskandi væri að almenn umræða um stjórnmál og það mæta fólk sem starfar á þeim vettvangi, væri á hærra plani. Óskandi væri að umræðan væri jákvæðari, uppbyggilegri og laus við niðurrif, persónuárásir og jafnvel samsæriskenningar sem eiga sér oftar en ekki engar stoðir í raunveruleikanum. Hugsanlega er ég barnaleg en ég hef þá trú að þeir einstaklingar sem gefa kost á sér í slík störf vilji vinna af heilindum þjóðinni til hagsbóta, en við höfum einfaldlega mismunandi nálgun að því markmiði. Draumur minn er að í stað þess að draga í sífellu fram fortíðardrauga og finna öðrum allt til foráttu að þá gætum við nýtt orkuna í að einblína meira á hvað við sjálf höfum fram að færa, hvað við gerum vel og helst hvað við viljum gera betur. Það eru aukinheldur engir óyfirstíganlegir ósigrar fólgnir í viðurkenndum mistökum eða skoðanaskiptum, slíkt er mannlegt og stjórnmálamenn eru vissulega mannlegir. Slík umræðuhefð gæti bætt úthald og aukið áhuga almennings gagnvart stjórnmálum og hugsanlega aukið virðingu þingstarfa og gert þau eftirsóknarverðari.   Kosningarétturinn mikilvægur Ég er búin að gera upp minn hug og meira að segja búin að kjósa. Ég kaus Sjálfstæðisflokkinn. Ekki af því að Píratar eru ,,ómögulegir afstöðulausir anarkistar“, ekki af því að Vinstri Grænir eru ,,mótsagnakenndir umhverfissinnaðir sósíalistar“, ekki af því að Samfylkingin eru ,,afturhaldssamir kommúnistar í útrýmingarhættu“ og sérstaklega ekki af því að ,,Sjálfstæðisflokkurinn eru eiginhagsmunasinnaðir íhaldsmenn sem leika sér í spillta vestrinu“. Heldur vegna þeirrar einföldu ástæðu að ég er stolt af þeim fjölmörgu góðu verkefnum sem Sjálfstæðisflokkurinn og það góða fólk sem í honum starfar hefur náð í gegn á því stutta kjörtímabili sem nú er að klárast. Margt má hins vegar gera betur, ég er t.d. engan veginn sátt við að í Vestmannaeyjum sé ekki hægt að fæða börn með góðu móti og að samgöngurnar okkar séu enn þann daginn í dag eins og þær eru þó vissulega horfi til betri vegar. Ég hef trú á að þrátt fyrir að Ísland búi við einstaka velsæld á flestum alþjóðamælikvörðum að þá höfum við alltaf möguleika á að ná lengra. Ég trúi því sérstaklega í ljósi velgengni hagstjórnar landsins undanfarinna ára að Sjálfstæðisflokkurinn sé best til fallinn til að hjálpa Íslandi á þeirri vegferð. Umfram allt hvet ég þig kjósandi góður til að mæta á kjörstað og taka afstöðu. Lýðræði og kosningaréttur er ekki sjálfgefinn. Virðum lýðræðið, kjósum.     Hildur Sólveig Sigurðardóttir Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum        

Ragnar Óskarsson - Hvorn kostinn vilt þú?

  Eftir því sem nær hefur dregið kosningum er orðið æ ljósara að höfuðandstæðingar í íslenskum stjórnmálum eru Vinstrihreyfingin- grænt framboð og Sjálfstæðisflokkurinn. Það er því ekki úr vegi að draga saman örfá atriði sem sýna þann meginmun í stefnu þessara tveggja flokka þannig að við kjósendur getum betur áttað okkur á hvernig við nýtum atkvæðisrétt okkar á laugardaginn. Örfá dæmi af mörgum eru hér nefnd:   Heilbrigðismál • Vinstri- græn vilja samfélagslega uppbyggingu heilbrigðismála þar sem allir njóta sömu réttinda á efnahags og stöðu. • Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið heilbrigðismálum í óefni og nú vill hann einkerekna heilbrigðisþjónustu sem gefur vildarvinum flokksins gróða í eigin vasa á kostnað almennings. Þessi stefna gagnast best þeim ríkustu í samfélaginu en skilur almenning eftir með dýra og ófullnægjandi heilbrigðisþjónustu.   Skattamál • Vinstri græn vilja innheimta sanngjarna skatta af þeim sem sannarlega hafa efni á að greiða þá. Við viljum einnig skattleggja þau alþjóðlegu fyrirtæki sem eru með rekstur á Íslandi en greiða ekki skatt til samfélagsins. Þá viljum við ná til skattsvika bæði hér heima og í gegnum skattaskjól. • Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að lækka skatta á hátekjufólk og auka þannig á óréttlætið í landinu. Flokkurinn hefur ekki mikinn áhuga á að ná til skattsvika, hvorki hér heima né í skattaparadísum erlendis enda eru málin sérstaklega óþægileg fyrir marga forystumenn og máttarstólpa flokksins. Margis þeirra, meira að segja ráðherrar, hafa beinlínis tengst skattaskjólum og þannig komist hjá því að taka þátt í að leggja sitt af mörkum til samfélagsins.   Auðlindamál • Vinstri græn leggja áherslu á að þjóðin sjálf á auðlindir landsins. Þjóðin á því að fá sanngjarnan arð af þessum auðlindum til þess m.a. að efla samfélagslega þjónustu. • Sjálfstæðisflokkurinn lítur á þjóðarauðlindirnar sem „einkaeign“ útvalinna og þeir eigi að njóta arðsins á kostnað almennings.   Hagsmunir Þjóðarinnar • Vinstri græn leggja áherslu á í sinni stefnu að hagsmunir þjóðarinnar skuli ávalt sitja í fyrirrúmi þegar teknar eru ákvarðanir um í nútíð og til framtíðar. • Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á sérhagsmuni á kostnað hagsmuna þjóðarinnar. Fáir einstaklingar njóta arðsins en þjóðin situr eftir með sárt ennið.   Þegar við göngum í kjörklefann á morgun skulum við hafa þessa og fleiri mikilvæga þætti í huga. Með því að kjósa Vinstri græn stuðlum við að réttlátu samfélagi en með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn stuðlum við að auknu misrétti og sérhagsmunum í stað þjóðarhagsmuna. Svo einfalt er málið. Hvorn kostinn vilt þú?   Ragnar Óskarsson    

Páll Magnússon - Stóru málin í Eyjum

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú setið í ríkisstjórn í rúm 3 ár. Á þessum skamma tíma hefur orðið alger viðsnúningur í rekstri ríkissjóðs og á lífsgæðum almennings. Sá viðsnúningur á rætur sínar annars vegar í hagfelldum ytri aðstæðum og hins vegar í skynsamlegri forystu Sjálfstæðisflokks í ríkisstjórn. Hallarekstri var snúið við og skuldir greiddar niður. Það eru því forréttindi fyrir nýja frambjóðendur eins og mig að finna og vita að nú gefst aukið svigrúm til enn frekari uppbyggingar grunnþjónustu ásamt áframhaldandi niðurgreiðslu skulda, haftalosunar, hagræðingar í ríkisrekstri og að hamla útþenslu ríkisútgjalda.     Heilbrigðis- og velferðarmál   Heilbrigðismál brenna eðlilega á landsmönnum og sannarlega er þjóðarsátt um áframhaldandi uppbyggingu í þeim málaflokki. Við Sjálfstæðismenn erum stolt af því að hafa á kjörtímabilinu aukið framlög til heilbrigðismála verulega og þjónustuna þar með. Á þessu ári verða útgjöld um 38,5 milljörðum hærri en 2013 þegar vinstri ríkisstjórnin fór frá. Hér í Eyjum er enn mikið verk að vinna og mikilvægt að gefast ekki upp fyrr en tryggð hefur verið t.d. full þjónusta við fæðandi mæður, aukin aðkoma sérfræðilækna og áframhaldandi efling heilsugæslu.   Menntamál   Tengsl rannsókna, menntunar og vísinda við nýsköpun eru grundvöllur hagvaxtar. Undir forystu Sjálfstæðisflokksins hefur aukin áhersla verið lögð á rannsóknir og vísindi og mikilvægt að áfram verði haldið á þeirri braut. Menntakerfið þarf að bregðast hratt við þeim áskorunum sem felast í tækniframförum upplýsingaaldar. Mannauður skiptir höfuðmáli í þjóðfélagi sem í síauknum mæli byggir á þekkingu. Hér í Eyjum hafa stór skref verið stigin hvað þetta varðar og dugir þar að vísa til hins nýja háskólanáms í haftengdri nýsköpun, mikilli eflingu Þekkingarsetursins, tengslum FABLAB við Framhaldsskólann og fleira mætti nefna. Á sama hátt þurfum við í sameiningu að efla á ný iðnmenntun í Vestmannaeyjum og sannarlega verður það meðal áherslumála á komandi kjörtímabili.   Samgöngur og aðrir innviðir   Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð verið sá flokkur sem myndalegast hefur staðið að hvers konar inniviðauppbyggingu. Við Sjálfstæðismenn viljum veita stórauknu fjármagni til viðhalds á vegakerfi landsins. Fjárfesta þarf í samgöngumannvirkjum, flutningskerfi raforku, fjarskiptum og löggæslu. Reykjavíkurflugvöllur er og verður óskertur í Vatnsmýri þar til betri kostur finnst. Hér í Vestmannaeyjum hefur staðan í samgöngumálum verið algerlega óboðleg í hátt í áratug. Landeyjahöfn hefur reynst erfiðari í notkun en nokkurn óraði fyrir og illu heilli hefur það dregist von úr viti að smíða nýja ferju. Nú sér fyrir endann á pattstöðunni og innan tveggja ára verður ný ferja komin í gagnið. Sú framkvæmd er nauðsynleg en ekki nægjanleg til að tryggja bót mála. Eftir stendur að vinna þarf höfnina út úr byrjunarörðugleikum og má það ekki dragast. Tafarlaust þarf síðan að bæta þjónustu við heimamenn svo sem með betra bókunarkerfi, sama fargjaldi í Þorlákshöfn og Landeyjahöfn og fl. Flugið er okkur Eyjamönnum líka mikilvægt og hvergi má gefa eftir í baráttunni fyrir eflingu þess.   Sjávarútvegsmál   Frá því að ból var fyrst byggt í Vestmannaeyjum hafa íbúar átt lífsgæði sín undir því hvernig gengur til sjávar. Fyrirtæki og íbúar hafa fyrir löngu náð að aðlaga sig að duttlungum nátúrunnar. Ógnin nú eru duttlungar stjórnmálamanna sem skirrast hvergi í ofsóknum gegn þessari grundvallaratvinnugrein í sjávarbyggðum. Nú sem fyrr er mikilvægt að tryggja sem mestan og bestan stöðugleika og núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi hefur í grundvallaratriðum reynst Íslendingum svo farsælt að þeir hafa nú mikinn arð af atvinnugrein sem aðrar þjóðir niðurgreiða. Það er óendanlega mikilvægt fyrir sjávarbyggð eins og Vestmannaeyjar að hrinda þessum árásum á kerfið og að það sé látið af vitleysislegum hugmyndum um að kollvarpa því.   Ágætu Eyjamenn, í prófkjöri fyrir fáeinum vikum studduð þið mig svo rösklega að eftir var tekið. Stuðningur ykkar tryggði mér fyrsta sætið á lista okkar Sjálfstæðismanna. Ég tek því umboði mjög alvarlega og heiti því að vinna að hagsmunum Eyjamanna og allra annarra sem ég er kjörinn til að vinna fyrir. Ég bið ykkur um standa með mér áfram - líka núna í seinni hálfleik - og mæta á kjörstað á laugardaginn og setja X við D.   Páll Magnússon Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi    

Oddný Harðardóttir - Berjumst fyrir betri samgöngum og heilbrigðisþjónustu

Það eru kosningar á laugardaginn og það eru margir flokkar í boði. Með þessu greinakorni vil ég mæla með því að þú kæri Vestmannaeyingur kjósir Samfylkinguna. Það eru margar ástæður fyrir því. Fyrst og fremst er ástæðan sú að Samfylkingin er jafnaðarmannaflokkur Íslands og berst fyrir jafnaðarstefnunni alla daga allan ársins hring. Við erum ekki jafnaðarmenn eingöngu dagana fyrir kosningar eins og dæmi er um hjá öðrum flokkum. Við viljum endurreisa heilbrigðiskerfið og gera það með því að styrkja opinbera hluta þess, spítalana og heilbrigðisstofnaninrar um allt land. Sjúkraflutningar eru þar með taldir.   Heilbrigðismálin brenna á íbúum í Vestmannaeyjum enda er augljóst vegna landfræðilegra ástæðna þarf að leggja meira til þjónustunnar en gert er. Samgöngumálin brenna líka á íbúum í Vestmannaeyjum enda er augljóst vegna landfræðilegra ástæðna þarf að leggja meira til samgöngumála en gert er.     Og þessi tvö stóru hagsmunamál íbúa Vestmannaeyja eru samofin. Það eru atvinnumálin líka. Nýr Herjólfur og betri Landeyjarhöfn er ekki bara nauðsynleg samgöngubót fyrir íbúa heldur er samgöngubótin nauðsynleg fyrir atvinnurekstur og ekki síst ferðaþjónustuna. Hver dagur sem ekki er mögulegt að sigla frá Landeyjahöfn bitnar á möguleikum Vestmannaeyinga til að selja þjónustu sína og skapa samfélaginu verðmæti. Svo ekki sé talað um mikilvægi þess að Vestmannaeyingar geti sótt þjónustu og heimsótt ættingja sína í landi.   Skólastarf sem mætir þörfum íbúa er einn af hornsteinum búsetuskilyrða í Vestmannaeyjum. Þar er framhaldsskólinn í lykilhlutverki og háskólastarfsemin drifkraftur nýsköpunar. Nýsköpun í sjávarútvegi er frjó og spennandi þessi misserin þar sem leitað er leiða til að hámarka virði hvers fisks sem dregin er að landi. Verðmætar afurðir í formi fegrunarkrema og sáraumbúða úr fiskroði eru nýjungar sem hafa gengið vel. Rannsóknir á enn fleiri möguleikum eru hafnar og ríkið á að ýta undir enn frekara starf á þessu sviði.   Samfylkingin jafnaðarmannaflokkur Íslands er með stefnu sem er innblásin af hugsjónum jafnaðarstefnunnar. Ég hvet þig lesandi góður til að skoða stefnuna okkar á heimsíðu Samfylkingarinnar www.xs.is og hugsa til okkar í kjörklefanum á laugardaginn. Kjósum Samfylkinguna!   Oddný G. Harðardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi    

Ragnar Óskarsson - Málin eru ekki flóknari

  Ég held að ekki sé ofsagt þegar því er haldið fram að heilbrigðismál á Íslandi séu í megnasta ólestri um þessar mundir. Í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem enn hangir hefur ástandið versnað og það svo um munar. Starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar býr við hörmulegar aðstæður og svo má áfram telja. Nú er reyndar svo komið að heilbrigðiskerfið er komið út á ystu nöf og á sama tíma blasir við að ríkisstjórnin hefur enga framtíðarsýn í heilbrigðismálum.     Þetta er kannski ekki alveg rétt hjá mér því æ oftar heyrist rætt um framtíðaráform ríkisstjórnarflokkanna sem felast í því að koma heilbrigðisþjónustunni í einkarekstur því slíkur rekstur muni allt böl bæta í þessum efnum. Stundum læðist reyndar að hjá mér sá ljóti grunur að ríkisstjórnin sé bæði ljóst og leynt að vinna skemmdarverk á hinu samfélagslega heilbrigðiskerfi til þess að koma einkarekstrinum að.     Verði þessi framtíðaráform að veruleika blasir það eitt við að þjónustunni hrakar gagnvart almenningi en hinir efnameiri fá sennilega betri þjónustu ef þeir geta borgað fyrir hana. Þarna er sem sé komið enn eitt dæmið um hvernig núverandi ríkisstjórn vill bæta kjör þeirra sem betur standa í samfélaginu á kostnað hinna sem minna hafa.     Gegn þessum áformum standa Vinstri- græn. Við teljum félagslegan rekstur heilbrigðisþjónustunnar grundvallaratriði. Einkarekstur í ágóðaskyni á ekki heima í velferðarþjónustunni. Arðgreiðslur úr heilbrigðisþjónustu eru óásættanlegar, grunnþjónusta og rekstur sjúkrahúsa er ekki gróðavegur.     Vinstri græn stefna einnig að því að öll heilbrigðisþjónusta á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum verði gjaldfrjáls og að dregið verði markvisst úr kostnaðarþátttöku sjúklinga á næsta kjörtímabili. Byrjað verði á að lækka kostnað vegna barna, öryrkja og aldraðra og þjónustu göngudeilda sjúkrahúsanna.     Kosningarnar hinn 29. okt. snúast meðal annars um það hvers konar heilbrigðisþjónustu við viljum hafa í landinu. Núverandi stjórnarflokkar vilja sníða heilbrigðiskerfið að þörfum þeirra sem næg efni hafa. Vinstri- græn vilja félagslegt heilbrigðiskerfi sem allir geta notað á tillits til efnahags og þjóðfélagsstöðu.   Málin eru ekki flóknari.   Ragnar Óskarsson    

Háplöntum fækkar og ný smádýr finnast í Surtsey

Árlegur leiðangur vísindamanna í Surtsey leiddi í ljós færri háplöntutegundir en undanfarin ár en hins vegar uppgötvuðust nýjar tegundir smádýra. Varpárangur máfa var með besta móti.   Árlegur leiðangur til líffræðirannsókna á Surtsey var farinn á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands dagana 18.–22. júlí. Áhersla var lögð á að framfylgja hefðbundnum rútínuverkum við vöktun á stöðu og framvindu lífríkisins. Einnig var markmiðið að losa eyna við ýmsa óæskilega aðskotahluti sem rekið hafði á fjörur í gegnum tíðina og fjarlægja restar af byggingarefni sem til féll við lagfæringar á Pálsbæ, húsi Surtseyjarfélagsins, síðastliðið haust. Leiðangurinn var skipulagður í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands og Surtseyjarfélagið að fengnu dvalarleyfi á eynni frá Umhverfisstofnun.   Tíðarfarið þetta sumar hafði verið einstaklega gott og var því fróðlegt að sjá hverju fram vatt á eynni. Hins vegar var veðrið óhagstætt til margra verka meðan á leiðangrinum stóð. Mikið hafði mætt á eynni í veðrahami undanfarins veturs og voru ummerki þess augljós á tanganum. Sjór hafði gengið yfir hann með látum, grjótgarðurinn rofnað á tanganum vestanverðum og sjór gengið inn á tangaflötina, sökkt var í sand leiru sem þar var og myndað nýja rofbakka. Austan megin hafði grjótgarðurinn breikkað mjög og færst langt inn á flötina. Mikill er máttur náttúruaflanna sem á eynni mæða.   Gróður   Háplöntutegundum sem fundust á lífi hafði fækkað um fjórar frá síðasta ári. Gleym-mér-ei, beringspuntur, maríustakkur, lækjagrýta og heiðadúnurt skiluðu sér ekki að þessu sinni, en friggjargras hins vegar en það finnst af og til, ekki á hverju ári. Alls fannst 61 tegund háplantna á lífi að þessu sinni en 65 í fyrra. Frá upphafi hafa alls fundist 73 tegundir háplantna á Surtsey. Nokkrar ætihvannir hafa vaxið á afviknum stað á undanförnum árum. Tvær hvannir fundust nú á nýjum stað í rofbakka á tanganum. Þar var annar gróður einnig í miklum blóma, eins og hrímblaðka og fjörukál, eftir að sjór hafði flætt þar yfir síðastliðinn vetur.   Gróska í máfabyggðinni var með fádæmum þrátt fyrir þurrviðrasama tíð framan af sumrinu, en hlýindi höfðu verið einstök og áburðargjöf mikil frá máfavarpi í miklum blóma. Þurrt tíðarfarið mátti greina á því að haugarfi var ekki eins öflugur og verða vill í úrkomusamri tíð, en grasvöxtur var með fádæmum. Þrátt fyrir þurrkana hafði gróður haldið velli á þurrum klöppunum ofan við hraunbjörgin. Undanfarin ár hefur melablóm aukist mjög á sandorpnum hraunum en nú mátti merkja bakslag í þeirri þróun.   Úttekt var gerð á föstum mælireitum, gróðurþekja mæld og tíðni tegunda skráð. Frekari úrvinnsla mæligagna fer fram síðar. Dýralíf   Árangur varps stóru máfanna var með albesta móti. Ekki einvörðungu mátti greina fjölgun varppara hjá öllum stóru máfunum þrem, svartbaki, sílamáfi og silfurmáfi, heldur var afkoma unga þeirra betri en nokkru sinni. Þeir voru hvarvetna, jafnt fleygir sem ófleygir, og ungadauði hafði verið lítill. Fæðuframboð í hafinu hefur því verið gott. Svartbakur hafði eflst hvað mest og hafði hrakið sílamáfana til landnáms á nýjum lendum og þannig verið lagður grunnur að aukinni gróðurframvindu á minna grónu landi. Fjölgunar svartbaka gætti einnig á tanganum. Þar hafa að jafnaði orpið um þrjú pör en nú allt að 30 pör. Hins vegar sáust engin ummerki þess að ritur hefðu mætt til varps á þessu vori. Engir lundar sáust heldur á hefðbundnum varpstað þeirra. Fýlar og teistur voru með hefðbundnu móti en fýlarnir höfðu augljóslega þurft að greiða krumma sinn toll. Hrafnspar eyjarinnar hafði nefnilega orpið að vanda og komið upp tveim ungum. Snjótittlingar voru samir við sig, nokkur pör með fleyga unga, þúfutittlingspar á óðali í máfavarpinu og tvær maríuerlur sáust, ein fullorðin og einn ungfugl en óvíst hvort maríuerlan hafi orpið að þessu sinni. Ef til vill voru þær aðkomnar eins og ungur steindepill sem sást á tanganum. Í fyrra fannst æðarkolla með nýklakta unga, nú sást æðarpar á sjónum. Annars var erfitt að meta varp fugla og árangur að þessu sinni. Snemma voraði í ár og leiðangurinn var farinn í seinna lagi.   Ástand smádýralífs var erfitt að meta vegna ríkjandi veðurs á rannsóknatíma, vinda og regns. Smádýrin létu löngum sem minnst á sér kræla. Árangur söfnunar með háfum var því mun lélegri en oftast áður. Þarf því að treysta á að fallgildrur í gróðurmælireitum og tjaldgildra í máfavarpi gefi betri upplýsingar þegar tími gefst til að vinna úr afla þeirra. Þrátt fyrir óhagstætt veðrið uppgötvuðust fjórar bjöllutegundir sem ekki höfðu áður fundist á eynni. Var það afar óvenjulegt því sjaldgæft er að nýjar bjöllur skjóti upp kolli. Þær voru fjallasmiður (Patrobus septentrionis), steinvarta (Byrrhus fasciatus) og tvær tegundir jötunuxa sem þarf að staðfesta betur, báðar fágætar og önnur svo að líkast til er hún auk þess ný fyrir Ísland. Ef rétt reynist teldust tíðindin stór í þessum fræðum. Athygli vakti að kálmölur (Plutella xylostella) var áberandi á flögri og mikið var af lirfum hans á fjörukáli og melablómi, jafnvel svo að ummerki sæjust. Annars er kálmölur útlensk tegund en algengur flækingur. Stundum nær hann að fjölga sér hér á landi á plöntum krossblómaættar sem eru ættingjar kálplantna.   Leiðangursfólk   Fræðimenn frá Náttúrufræðistofnun Íslands að þessu sinni voru Borgþór Magnússon (leiðangursstjóri), Erling Ólafsson, Matthías S. Alfreðsson og Pawel Wasowicz. Frá Landbúnaðarháskóla Íslands voru Bjarni Diðrik Sigurðsson og Hafdís Hanna Ægisdóttir (sjálfboðaliði í hreinsunarátaki). Håkan Wallander frá Háskólanum í Lundi og Alf Ekblad frá Háskólanum í Örebro (rannsökuðu ákveðna þætti jarðvegsmyndunar). Þórdís Vilhelmína Bragadóttir, fulltrúi Umhverfisstofnunar. Vilhjálmur Þorvaldsson og Jón Bjarni Friðriksson frá Veðurstofu Íslands, mættu í lok tímans til að viðhalda sjálfvirku veðurstöðinni.   Náttúrfræðistofnun Íslands greindi frá.  

Jóna Hrönn - Einstakir gestgjafar

Ég er á akstri nálægt hafnarsvæðinu í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgi. Fyrir framan mig á götunni er glæsilegur Pajero jeppi sem skyndilega hemlar. Út kemur Guðni Ólafsson skipstjóri og gengur rakleitt að ungum manni sem liggur sofandi upp við húsvegg búinn að fá sér einum of mikið.   Ég sé höfðingjann strjúka vanga piltsins og tala til hans áður en hann reisir hann upp og hjálpar honum upp í bílinn. Síðar um daginn hitti ég Guðna inni í Herjólfsdal, segi honum að ég hafi séð til hans og spyr hvort þarna hafi verið einhver honum tengdur. Nei, Jóna mín, ég veit nú raunar ekki hvað pilturinn heitir, en hann var illa staddur og ég fór með hann heim á Brimhólabraut.   Gerða mín skellti í hann kjötsúpu og svo lagði hann sig örlitla stund áður en ég keyrði hann aftur inn í Dal. Þá var hann aftur orðinn býsna glaður blessaður. Þetta gerðist fyrir 21 ári. Þá var ég prestur í Eyjum og tók m.a. þátt í neyðarvakt gagnvart ofbeldi á þjóðhátíð hverja verslunarmannahelgi.   Á svona hátíð birtist allt litróf mannlífsins í sinni sterkustu mynd. Fjölskyldur sameinast, ástin blómstrar, vináttubönd styrkjast. En svo eru líka hinar dökku hliðar stjórnleysis. Í Eyjum hafa menn alla tíð lagt sig fram í öryggismálum þjóðhátíðargesta.   Ég er afar stolt af forvarnaverkefninu Bleika fílnum þar sem allir geta verið aðilar að þeim skilaboðum að við líðum ekki kynferðisofbeldi í íslensku samfélagi. En besta gæsluliðið í Dalnum eru síðan Eyjamenn sjálfir í hvítu tjöldunum með sinni einstöku gestrisni og ástúð. Þeim fylgir gleði, skemmtilegar hefðir og vökul augu, eins og augun hans Guðna Ólafssonar.   Guð blessi minningu hans. Gleðilega Þjóðhátíð.   Þessi grein séra Jónu Hrannar Bolladóttur, fyrrum prests í Eyjum birtist á visir.is.    

Páll Magnússon í Fréttablaðinu - Ærðir álitsgjafar

„Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum er þeirrar skoðunar að ótímabærar upplýsingar til fjölmiðla um meint kynferðisbrot geti verið skaðlegar af tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi geti þær aukið enn á þjáningar þolandans, m.a. í erfiðu kæruferli fyrstu dagana eftir brotið. Í öðru lagi geti þær torveldað rannsókn málsins og auðveldað gerandanum að komast undan. Hvort tveggja er stutt svo gildum og augljósum rökum að óþarfi er að fjölyrða um þau hér,“ segir Páll Magnússon í grein í Fréttablaðinu í dag.   „Í ljósi þessara sjónarmiða beindi lögreglustjórinn þeim tilmælum til viðbragðsaðila fyrir Þjóðhátíðina í Eyjum að þeir tjáðu sig ekki á fyrstu stigum málsins um meint kynferðisbrot.  Þetta voru eðlileg og rökrétt tilmæli af hálfu lögreglustjórans þótt þau hefðu vissulega getað verið betur orðuð, en þá ber reyndar að hafa í huga að þetta var minnisblað til viðbragðsaðila, sem einhver lak í fjölmiðla, en ekki fréttatilkynning. Nú tók við eitthvert sérkennilegasta sjónarspil sem ég hef orðið vitni að í opinberri umræðu – og hef ég þó marga fjöruna sopið í þeim efnum. Kannski mætti kalla þetta Íslandsmót álitsgjafa í útúrsnúningum 2015?     Allt í einu byrjaði einhver að garga: Þöggun! Þöggun! Álitsgjafarnir ærðust og löptu þessa orðaleppa upp hver eftir öðrum – greinilega margir hverjir án þess að hafa sjálfir lesið tilmæli lögreglustjórans. Í þeim er nefnilega ekki að finna snefil af tilburðum til þöggunar né tilmæli um slíkt. Aðeins vel rökstudd sjónarmið um tímasetningu á upplýsingagjöf með hagsmuni fórnarlambanna að leiðarljósi. Að kalla þetta þöggun er rökleysa og misnotkun á hugtakinu.     Staðreyndir málsins hindruðu þó ekki alls konar fólk í að stökkva upp á þennan útúrsnúninga- og fordæmingarvagn og óbrjálaðir menn voru jafnvel farnir að halda því fram í virðulegum útvarpsþætti að lögreglustjórinn væri sennilega að gæta einhverra vafasamra fjárhagslegra hagsmuna í Vestmannaeyjum með þessum tilmælum (sic!). Og alltaf varð ég meira og meira hissa á því hverjir tíndust upp á vagninn.   Og mest hissa varð ég þegar talskona Stígamóta brást við útúrsnúningunum og ruglinu eins og um staðreyndir væri að ræða.  Og enn var gefið í útúrsnúningana eftir Þjóðhátíðina. Þá sagði lögreglustjórinn í viðtali, þar sem augljóst var af samhenginu að verið var að tala um önnur brot en meint kynferðisbrot, að ekki hefðu orðið alvarlegar líkamsárásir. Þá var gargað: Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum telur nauðgun ekki alvarlega líkamsárás! (sic!). Og enn var talskona Stígamóta dregin á flot og lét sig hafa það að segja að ummæli lögreglustjórans, sem hann aldrei viðhafði, væru ekki svaraverð!     Alltaf þyngdust árásirnar á persónu hins nýja lögreglustjóra í Vestmannaeyjum og enduðu í hreinni viðurstyggð í kommentakerfum og samfélagsmiðlum.  Þá bar svo til að ung kona, hugrakkur þolandi tveggja nauðgana, steig fram og lýsti opinberlega heilshugar yfir stuðningi við þau sjónarmið sem fram komu í tilmælum lögreglustjórans. Ætla álitsgjafarnir og talskona Stígamóta líka að saka þessa konu um tilburði til þöggunar – eða skilningsleysi á hlutskipti þolandans?    Ég kann ekki betra ráð til þess málsmetandi fólks sem kastaði olíu á þennan útúrsnúninga- og fordæmingareld, ekki síst talskonu Stígamóta, en að það taki sig til og biðji Páleyju Borgþórsdóttur, lögreglustjóra, afsökunar hver á sínum loga í þessari galdrabrennu.   Páll Magnússon.

Vegið er að öryggi sjúklinga

Við hjá Eyjalistanum hörmum þá hagræðingu í starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) sem ráðist var í nú á dögunum. Ekki er langt síðan biðlað var til stjórnvalda af starfsfólki stofnunarinnar þar sem það taldi innviði hennar væru að springa. Niðurskurðurinn sem HSU hefur þurft að þola hefur verið mjög mikill og í staðinn fyrir að mæta auknum skilningi stjórnvalda og fá aukið fjármagn til heilbrigðismála er stofnuninni skylt að auka enn meir á niðurskurð, sem talinn var kominn að þolmörkum fyrr á þessu ári. Það er einnig sárt að sjá að sú endurskipulagning sem farið var í leiðir af sér umfram uppsagnir starfsmanna, sumarlokun á fjórum sjúkrarúmum hér í Vestmannaeyjum. Hér er verið að skerða heilbrigðisþjónustu á þeim tíma þegar fjöldi ferðamanna er í hámarki og þegar íbúafjöldi Vestmannaeyja margfaldast vegna ýmissa bæjarhátíða og íþróttamóta. Því miður kemur þessi stefnufesta stjórnvalda í niðurskurði til heilbrigðismála okkur í Vestmannaeyjum ekki á óvart. Mikið var vegið að heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum árið 2010 og enn héldu áfram óheyrilegar kröfur um aukinn niðurskurð sem leiddu m.a. til lokunar skurðstofunnar í Eyjum árið 2013. Þessi forkastanlegi niðurskurður hefur leitt til þess að verulega hefur dregið úr þjónustu heilbrigðisstofnunarinnar í Vestmannaeyjum, vegið hefur að öryggi sjúklinga og kostnaður þeirra sem og aðstandenda hefur aukist til muna. Svo langt gengur andvaralaus afstaða ríkisvaldsins til heilbrigðismála í Vestmannaeyjum að einróma niðurstaða faghóps, sem m.a. var að Vestmannaeyjar skuli vera fæðingarstaður með bráðaaðgang að skurðstofu með svæfinga- og skurðlækni allan sólahringinn, eru hunsuð. Þetta sinnuleysi verður svo bersýnt þegar vitað er að faghópurinn var skipaður af ráðherra sjálfum. Við hjá Eyjalistanum skorum á heilbrigðis- og fjármálaráðherra sem og núverandi þingmenn suðurkjördæmis að standa vörð um heilbrigðisþjónustu HSU og veita Vestmannaeyingum þá lágmarks grunnþjónustu sem ætti að teljast sjálfsögð. Bæjarfulltrúar og stjórn E-listans.    

Halla Tómasdóttir - Samstaða og kraftur

Kæru Vestmanneyringar Við Björn maðurinn minn áttum ánægjulega daga í Eyjum í lok apríl. Eyjurnar, sem eiga sérstakan stað í hjarta mér, skörtuðu sínu fegursta, fólkið var bjartsýnt og ekki spillti fyrir að sjá Eyjastelpur spila á Hásteinsvelli. Á síðustu dögum hef ég fundið aukinn meðbyr úr öllum áttum og sérlega skemmtilegt að fá fjölmargar kveðjur og stuðningsyfirlýsingar frá Eyjamönnum. Ég hef ekki farið leynt með að ég mun láta til mín taka á Bessastöðum, vinna fyrir fólkið í landinu, hvetja og opna tækifæri. Ég trúi á mátt áhrifavaldsins. Þó forseti fari ekki með framkvæmdavald getur hann sannarlega haft áhrif. Talað fyrir jafnrétti og heiðarleika, lagt áherslu á að efla frumkvöðlastarf og nýsköpun, lagt áherslu á að hlustað sé á fólkið í landinu. Ég mun sem forseti leggja mig fram um að hafa jákvæð áhrif á samfélag, atvinnulíf, mannlíf og náttúru.     Framganga íslensku landsliðana í knattspyrnu síðustu daga og vikur hefur sýnt mér hversu auðvelt við Íslendingar eigum með að sýna samstöðu þegar við sameinumst um ákveðið markmið. Ég var afskaplega stolt af því að sjá stelpurnar okkar sigra 8-0 á Laugardalsvelli nú í byrjun júní. Það var einstök upplifun að vera viðstödd eftirminnilegan opnunarleik strákanna okkar á EM í Frakklandi og að komast í úrslit er ævintýri líkast. Jákvæðni og samstaða íslenska stuðningsmannahópsins hefur vakið heimsathygli. Þetta getum við þegar við stöndum saman. Ég býð mig fram sem fyrirliða í því verkefni að sameina Íslendinga um uppbyggilega framtíðarsýn og leiða samtal byggt á jákvæðni og bjartsýni.     Ég hef menntun, reynslu og manngerð í starf forseta og er reiðubúin að bretta upp ermar og gera gagn. Ég hef mikla reynslu af því að leiða saman fólk og sætta sjónarmið og hef beitt mér fyrir samfélags og jafnréttismálum á alþjóðavettvangi með góðum árangri. Ég trúi á samtal og sættir til að leysa úr málum. Ég veit af reynslunni að átök og ágreiningur skila ekki árangri, en ég er með bein í nefinu og get tekið erfiðar ákvarðanir ef á þarf að halda.   Eyjamenn eru miklir keppnismenn, ég veit að þið viljið keppniskonu sem hefur sterkar taugar til Eyja á Bessastaði. Ég hvet ykkur kæru Eyjamenn til að kynna ykkur vel það sem frambjóðendur hafa fram að færa, mæta á kjörstað, nýta atkvæðisréttin og nota bæði hugvit og hjarta til að velja ykkar frambjóðanda.     HALLA TÓMASDÓTTIR – FORSETAFRAMBJÓÐANDI.

Ófriði lýst á hendur Eyjamönnum

Vestmannaeyjar fullkomnaðar undir forystu Guðlaugs Gíslasonar Árið 1960 skrifuðu Guðlaugur Gíslason, þá bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, Ingólfur Jónsson, þá landbúnaðarráðherra, og Bjarni Benediktsson, þá forsætisráðherra, undir samning þar sem Vestmannaeyjakaupstaður keypti úteyjarnar af íslenska ríkinu. Taldi Guðlaugur að um mikið framfaramál væri að ræða fyrir Eyjarnar og að þetta hefði verið eitt af merkustu málum í sinni bæjarstjóratíð. Í maí 2016 samþykkti bæjarstjórn Vestmannaeyja friðlýsingu sem felur m.a. í sér að margvíslegt vald er fært frá bæjaryfirvöldum til Umhverfisstofnunar, s.s. umsjón með búsvæðavernd fugla, landnotkun og mannvirkjagerð á hinu friðlýsta svæði sem eru allar úteyjarnar auk flestra búsvæða fugla á Heimaey.   Hvernig er staðið að friðlýsingu? Nú stendur yfir friðlýsing Kerlingafjalla. Þar er skipaður samráðsvettvangur fulltrúa aðliggjandi hreppa, Kerlingafjallavina og Umhverfisstofnunar. Í samráðsáætluninni kemur fram að samráð sé ,,afar mikilvægur hluti af undirbúningi friðlýsingar” og að það sé ,,mikilvægt að það hefjist á fyrstu stigum máls”. Ennfremur kemur þar fram að markmið samráðsins sé að veita þeim sem ,,hagsmuna eiga að gæta á svæðinu og þeim sem áhuga hafa á svæðinu að koma sínum sjónarmiðum á framfæri”. Að lokum er sagt í samráðsáætluninni að þannig sé ,,leitast við að skapa sátt um fyrirhugaða friðlýsingu”. Í áætluninni stendur einnig að þessir aðilar hafi sex vikur til þess að skila inn athugasemdum eftir að tillaga að auglýsingu um friðland í Kerlingafjöllum hafi verið auglýst. Mikill kurr í Bjargveiðimönnum Við erum vanir því að heyra kurr í lundanum okkar fallega en nú eru félagar í Bjargveiðafélagi Vestmannaeyja farnir að kurra líka. Málið var ekkert kynnt, hvorki fyrir þeim né öðrum Eyjamönnum, fyrir utan stuttan fund í Eldheimum sem fulltrúar bæjarstjórnar, fulltrúar skipulags og umhverfisráðs og formaður bjargveiðimanna voru boðaðir á. Þar var m.a. sagt að friðlýsingin hafi engin áhrif á nytjar þó að ekkert sé um það að finna berum orðum í reglugerðardrögum um friðlýsingu. Þar er sagt að ekkert megi byggja í úteyjunum heldur einungis viðhalda núverandi eignum sem þýðir m.a. að nauðsynleg endurnýjun húsnæðis, eins og sú sem átti sér stað í nánast öllum úteyjum undir lok síðustu aldar, geti ekki átt sér stað í framtíðinni. Þá er óskiljanlegt þegar okkur er gerð grein fyrir því að friðlýsing skipti í raun litlu máli en fáum á sama tíma fábrotin svör við spurningunni af hverju sé þá verið að leggja upp í þennan leiðangur yfirhöfuð. Nýting náttúrunnar hefur leikið stórt hlutverk í lífi Eyjamanna í gegnum aldirnar. Í ægifögur fuglabjörgin sóttu menn af harðfylgi björg í bú og sauðfé hefur séð hinum grænkollóttu úteyjum og fjöllum heimalandsins fyrir ókeypis hársnyrtingu um langa hríð. Þrátt fyrir að nytjarnar hafi á undanförnum áratugum þróast út í tómastundagaman má með sanni segja að bjargveiðimenn hafi verið eins konar vörslumenn náttúru Eyjanna, og viðhaldið menningu sem er einstök.   Stórmennska að viðurkenna mistök Friðlýsing búsvæðis sjófugla við Vestmannaeyjar snertir dýpstu rætur menningar Eyjanna. Ófullnægjandi kynning og málsmeðferð, sem stenst engan veginn þær kröfur sem umhverfisyfirvöld á Íslandi viðhafa í dag, er þessu mikilvæga máli ekki til framdráttar. Það er engum til góðs að þessu máli sé troðið ofan í kokið á Vestmannaeyingum. Ég trúi ekki öðru en að forystumenn beggja bæjarstjórnarflokkanna, sem greiddu atkvæði gegn friðlýsingunni, og allt hitt sómafólkið í bæjarstjórninni beiti sér fyrir því að málið verði tekið upp á nýjan leik og tryggi okkur heimamönnum áframhaldandi umsjón og yfirráð með okkar náttúruperlum.  

Stuttur en eftirminnilegur sjómannsferill

Frá því að ég var lítill stelpa var draumurinn minn að vera sjómaður, eða sjókona eins og sumir myndu vilja orða þetta. Ég gerði tilraun til þess að láta þennan draum minn rætast í janúar 2001 þegar ég fór fimm daga á sjó með Vestmannaey VE 54. Ég ætlaði mér stóra hluti þegar sjómennskuferillinn minn hófst á bryggjunni einn góðan veðurdag í janúar, þá á sautjánda ári. En sem lítil stelpa var draumurinn minn alltaf að feta í fótspor pabba og verða skipstjóri. Hugsunarhátturinn var ekki flóknari en það, að pabbi færi bara 
til hliðar um miðjan aldur og prinsessan myndi hoppa um borð og taka við stjórnvölnum. Lítið var hugsað út í allt það sem fylgdi því að vera á sjó. Reglulega fékk ég að fylgja með í stuttar sjóferðir, en þær voru aldrei lengri en hálfur sólarhringur. Allar enduðu þær á svipaðan máta: ég, liggjandi út í horni, hvítari en snjókarl og full vanmáttar.   Nú er komið af því! Sautján ára ákvað ég að nú skyldi ég herða mig upp og gera þetta eins og manneskja. Nú væri kominn tími til að skella sér í nokkra daga á sjó, drífa mig með strákunum í vinnsluna, kynnast aðeins starfinu um borð, fylgjast með pabba í draumastarfinu mínu og reyna að læra eitthvað af honum. Ég spurði pabba um veðrið næstu daga. Svarið var það sama og alltaf þegar maður spurði hann um sjóveðrið, sem sagt,,fínasta veður“ framundan! Á þessum tímapunkti var þetta besta hugmynd sem ég hafði fengið í langan tíma. Þegar komið var að brottför mætti ég alsæl á
 bryggjuna, með tvær stærðarinnar ferðatöskur
 troðfullar af allskyns dressum, í 10 sentimetra pinnahælum (sem er algjör staðalbúnaður þegar maður leggur upp í ferð eins og þessa) og tilbúin í allt sem
 lífið myndi bjóða upp á næstu daga. Ég man að ég hugsaði þegar ég labbaði um borð; Djöfulsins töffari ertu Sædís! Nú rætist draumurinn þinn, nú er komið að því! Bein í baki dröslaðist ég út úr borðsalnum Fyrsta mál á
 dagskrá þegar um borð var komið var að drífa sig
í borðsalinn til að spjalla við karlana. Kokkurinn
 hafði bakað þessa girnilegu köku fyrir mig og var
 tilbúinn með glæsilegan matseðil fyrir næstu daga í 
tilefni af veru minni um borð. Enda fátt annað í boði en að hafa glæsilegar veitingar á borðum þegar slík sjóprinsessa mætir um borð. Við vorum ekki komin
 út fyrir klettsnefið í Vestmannaeyjahöfn þegar ég var
 farin að síga niður í sófanum og einn hafði orð á því
 að ég væri orðin eitthvað hvít í framan. Matarlystin
 var farin að minnka og þarna vissi ég svo sannarlega
 hvað væri í vændum. Ég hugsaði með mér: hvernig í ósköpunum kem ég mér út úr þessum aðstæðum með sæmd! Hvernig kemst ég til baka ? Bein í baki dröslaðist ég út úr borðsalnum en þegar fram var komið lagðist ég á fjóra fætur og skreið í orðsins fyllstu merkingu inn í klefa til skipstjórans.   Þar lá ég í fimm sólarhringa og sá lítið annað en þúsund millilítra mæjonesfötuna sem mér var afhent fimmtán mínútum eftir að búið var að sleppa. Mig rámar í að regulega ,í þessari gáfulegu sjóferð minni kom einn og einn áhafnarmeðlimurinn inn og bauð mér vatn eða mat. Ég afþakkaði yfirleitt pent, enda ekkert grín ef ég þurfti að komast á klósettið sem var á hinum endanum á klefanum. Besta ráðið til þess að koma mér þangað var að láta mig detta úr kojunni og rúlla mér svo smátt og smátt yfir. Að komast aftur upp í kojuna var öllu erfiðara, enda tók ég mér oft nokkurra klukkutíma kríu á skítugu klósettgólfinu.     Bað mig vinsamlegast um að leita annað í framtíðinni Ég fór aldrei í vinnsluna með strákunum í þessari sjóferð, kynnti mér ekki starfið um borð, opnaði ekki þessar risastóru ferðatöskur sem fylgdu mér og komst aldrei upp í brú til pabba til þess að kynnast draumastarfinu mínu. Ég rétt fór þar í gegn þegar ég var borin í land við heimkomu nokkrum kílóum léttari. Aumingja skipstjórinn svaf á dýnu á gólfinu þessa fimm daga og bað mig vinsamlegast að leita eitthvert annað ef ég ætlaði mér í fleiri sjóferðir í framtíðinni, enda búin að æla ofan í allar fataskúffurnar hjá karlgreyinu.Þarna má segja að mínum sjómennskuferli hafi lokið. Hann var stuttur en eftirminnilegur. Ég lærði þó að ,,fínasta veður“ hjá sjómanni til fjörtíu ára og fínasta veður hjá lítilli draumóramanneskju, er ekki sama veðrið. Ég viðurkenni það þó, að enn þann dag í dag á ég mér þann draum að sigla inn innsiglinguna í Vestmannaeyjum með kjaftfullt skip af verðmætum. Mér skilst nefnilega að sú tilfinning sé alveg stórkostleg! En þangað til að af því verður stend ég stolt á bryggjunni og fylgist með hetjum hafsins og ýminda mér að ég sé ein af þeim.   Til hamingju með daginn kæru sjómenn og fjölskyldur Sædís Eva Birgisdóttir, draumasjókona    

Dugnaðarforkar og freyjur í Eyjum

Á dögunum kom ég í sérlega ánægjulega heimsókn til Vestmannaeyja. Mér hefur alla tíð fundist dugnaður og framtakssemi einkennandi fyrir Eyjamenn og er óhætt að segja að þessi heimsókn hafi sýnt það og sannað. Sú framtakssemi birtist ljóslifandi í heimsókn okkar til Gríms Kokks. Það var ekki annað hægt en að hrífast af þeirri ástríðu sem einkennir allt þeirra starf. Við borðuðum bestu löngu í heimi hjá Sigga á Gott og áttum sérlega skemmtilegt skátaspjall við Frosta. Þegar ég komst að því að þeir væru allir bræður mátti ég til með að spyrja Gísla föður þeirra í einlægni hvert leyndarmálið væri. Þá sagði hann mér af systur þeirra, en hún og hennar sonur stæðu að baki Slippnum og Mat og Drykk, en á báðum veitingastöðum höfum við notið sérlega góðs matar. Já Binni í Gröf má vera stoltur af sínum afkomendum.   Við heimsóttum Vinnslustöðina, en þar standa nú yfir miklar framkvæmdir. Auður tók á móti okkur hjá eldri borgurum á Hraunbúðum. Þar hittum við sérlega hressa Eyjapeyja og meyjar. Áttum m.a. ánægjulegt spjall við Möggu Karls, móður mesta sundkappa þjóðarinnar og við Sillu, en hún og systur hennar á aldrinum 91–95 voru allar búnar að ákveða að kjósa konu og tóku mér opnum örmum. Á rölti um bæinn kíktum við svo í verslanir og var vel tekið. Linda hjá Smart tískuverslun kannaðist í fyrstu ekki við forsetaframbjóðandann en eftir fjörugar umræður gerðist hún stuðningskona og skyrtan sem stóð til að kaupa varð framlag hennar til framboðsins og kann ég henni bestu þakkir fyrir.   Kvenkrafturinn var allsráðandi við lok ferðar þegar kvennalið ÍBV tók á móti kvennaliði Blika þar sem tekist var á um Lengjubikarinn. Bikarinn varð eftir í Eyjum að þessu sinni en bæði liðin sýndu snilldartakta og ég, Blikinn sjálfur, stóð mig að því að taka undir þegar lag Eyjamanna glumdi, svo skemmtilegt er það.   Ég býð mig fram til embættis forseta Íslands til að gera gagn og láta gott af mér leiða og vil vera duglegur fyrirliði heiðarleika, réttlætis, virðingar og jafnréttis. Ég fann fyrir miklum innblæstri þessa góðu daga í Eyjum og þakka Eyjamönnum einstaklega hlýjar og hressandi móttökur.    

Tilfinningin á toppnum var ólýsanleg

Síðastliðinn laugardag fór níu manna hópur héðan úr Eyjum í göngu upp á hæsta tind Íslands ásamt öðrum hundrað galvöskum göngugörpum. Ferðafélag Íslands sá um skipulagningu á ferðinni og gekk ferðin eins og í sögu. Veðrið var með besta móti og skyggnið var stórkostlegt.   Um miðjan febrúar frétti ég af hópi fólks hér Eyjum, sem setti stefnuna á hæsta tind Íslands í maí, Hvannadalshnjúk. Ég gat ekki annað en hugsaði með mér, hvað er að þessu fólki að nenna þessu? Hver er tilgangurinn að fara í 15 klukkutíma göngu til þess að komast á einn tind, er ekki bara nóg að fara á fallega Heimaklettinn okkar? Um páskahelgina flæktist ég í göngu með hluta af hópnum á Heimaklett. Í lok göngunnar hafði Ólöf Helgadóttir orð á því af hverju ég skellti mér ekki bara með þeim á hnjúkinn. Ég fussaði nú bara yfir þessari klikkuðu hugmynd og hélt heim á leið, enda fannst mér ég í engu standi til þess að fara í slíka göngu. Á þessum tíma hafði ég ekki gengið á fjöll í mörg ár.   Með hnjúkinn á heilanum Einhverra hluta vegna náði ég þó ekki að koma þessum blessaða hnjúk úr huga mér eftir spjallið við Ólöfu og byrjaði að forvitnast um þessa ferð. Mér fannst orðið tímabært að takast á við eitthvað stórt og krefjandi verkefni og viku seinna var ég búin að skrá mig í ferðina og fór að búa mig undir þessa áskorun. Það var þó eitthvað inn í mér sem hræddi mig aðeins, því þetta var eitthvað sem ég þekkti ekki, enda aldrei svo mikið sem komið á jökul eða farið í lengri gönguferðir en upp úr Herjólfsdal á Þjóðhátíð. Ég viðurkenni það alveg að ég hugsaði reglulega fram að ferðinni ;þú getur þetta ekkert. Hvað ertu búin að koma þér út í? Á ég að hætta við ? Ertu orðin eitthvað rugluð ? En loks kom að ferðalaginu og þá var ekki aftur snúið.   Spenningurinn í hópnum var mikill Ferðalagið hófst á veitingarstaðnum Gott föstudaginn 13. maí, þar sem hópurinn snæddi hollan og góðan mat áður en haldið var í Herjólf klukkan eitt. Spenningurinn í hópnum var mikill og voru því allir frekar háttstemmdir þennan dag. Þegar komið var úr skipinu var brunað beint á gistihúsið Hof þar sem við vorum nýbúin að fá tilkynningu um það að gangan myndi hefjast klukkan eitt aðfaranótt laugardagsins. Þar réði veðrið og því var eins gott að reyna að fá einhverja hvíld. Það gekk þó misvel hjá hópnum og því var fátt annað í boði en að hressa sig við um tíuleytið og byrja að gera sig kláran og græja sig.   Hvað var ég eiginlega búin að koma mér út í? Klukkan tólf á miðnætti var hópurinn tilbúinn og brunað var að Sandfelli þar sem upphafsstaður göngunnar var. Þar beið stór hópur fólks í dimmunni tilbúin í fjörið og ég hugsaði enn eina ferðina, í hvað ég væri búin að koma mér útí? Gengið var upp í einfaldri röð rúma 400 metra þar sem stoppað var stutt við læk og fengið sér vatn á brúsana og svo var haldið áfram. Veðrið var með besta móti þessa nótt og gangan gekk vel. Það var mesta furða hvað allir voru hressir miðað við svefnleysið, enginn fann fyrir þreytu. Það var bara eintóm gleði og spenna í hópnum.   Brekkan endalausa Þegar komið var á jökulinn var hópnum okkar skipt niður á tvær línur en þá vorum við komin í um 1100 metra hæð. Þá tók við að mínu mati erfiðasti parturinn. Kannski ekki líkamlega, heldur andlega. Þarna var maður bara einn með sjálfum sér að taka hænuskref í áttina að hnjúknum, sem maður sá ekki einu sinni og maður var bundinn í línu sem maður þurfti að passa að væri strekkt allan tímann. Þessi brekka er kölluð dauðabrekkan, en nafnið á henni á svo sannarlega við. Ég hélt um tíma að hún myndi aldrei taka enda. Þegar við vorum búin að labba þessa brekku í rúma tvo klukkutíma, var ég farin að segja við sjálfa mig á korters fresti ; hvernig í ósköpunum datt þér þessi vitleysa í hug?   Þvílík fegurð og þvílík foréttindi   Næst þegar þú færð svona flugu í hausinn þá framkvæmir þú hana ekki Sædís Eva, haltu þig bara á jafnsléttu! Þess á milli hljómaði ,,We all live in the yellow submarine,, með Bítlunum í hausnum á mér. Ég reyndi að flauta mér til skemmtunar, til þess að reyna að gleyma því hvað ég var orðin þreytt í bakinu á að bera þennan bakpoka fullan af mat og hugsaði mikið um að skilja hann eftir þar sem ég var. Ég hugsaði um það hvernig ég ætti að mála stofuna mína, þá fannst mér tilvalið að byrja að flauta gulur, rauður, grænn og blár lagið með þessum pælingum. Ég eyddi mörgum mínútum í að spá í því hvort ég ætti að hafa humarsúpu eða gúllassúpu í matinn á föstudeginum á þjóðhátíð og útfrá því hóf ég hörku samræður við sjálfan mig um þetta mál, enda stór ákvörðun að taka. En svo kom sólarupprás og allt sem var í gangi í hausnum á manni gleymdist. Þvílík fegurð og þvílík foréttindi að fá að upplifa þetta! Þarna var ég tilbúin í allt.   Eins og vera staddur á umferðamiðstöð Loks komumst við upp dauðabrekkuna, og þar var hann í allri sinni dýrð Hnjúkurinn. Á þessum tímapunkti fylltist maður af einhverri óútskýranlegri orku. Við stoppuðum í góða stund áður en haldið var á hnjúkinn, fólk fékk sér að borða og farastjórarnir bjuggu til þetta fína snjóvirki, svo konurnar gætu létt af sér í felum áður en haldið var lengra. Hnjúkurinn er brattur því var nauðsynlegt að taka upp ísöxina og skella á sig mannbroddunum. Það var aðeins um sprungur á leiðinni upp hnjúkinn sjálfan, því var mjög mikilvægt að fara varlega þarna upp og það vottaði fyrir smá hnút í maganum að sjá þær. Mikil örtröð var upp Hnjúkinn þannig að við vorum frekar lengi á leiðinni upp, þetta var eins og að vera staddur á umferðamiðstöð, einn hópur fór upp og annar niður.   Mögnuð tilfinning að standa á toppnum Loksins kom að því að maður stóð á toppnum eftir níu klukkustunda göngu og horfði yfir stórbrotna náttúruna sem í kring er. Tilfinninginn á toppnum var ólýsanleg og svei mér þá ef maður fékk ekki smá ryk í augun. Skyggnið var svo gott að það sást alla leið til Eyjunnar fögru. Það helltist einhver sæluvíma yfir mann sem erfitt er að lýsa og öll vandamál heimsins hurfu á meðan maður stóð þarna, tíminn stóð kyrr í smástund. Aldrei í lífinu hefði mig órað fyrir því að ég ætti eftir að standa á hæsta tind Íslands. Þetta gat ég!   Leiðin niður lengri en maður bjóst við Leiðin niður var svo ekkert nema hamingja og gleði eftir að hafa náð markmiðinu. Mér fannst ég auðveldlega geta sigrað heiminn eftir þetta. Ég viðurkenni þó að leiðin niður var lengri en ég bjóst við. Hitinn var mikill og lognið var algjört. Alltaf þegar maður hélt að maður væri að komast niður þá kom önnur brekka. Þegar við vorum komin að læknum sem við stoppuðum hjá í byrjun í 400 metrum, hugsaði ég með mér; nei hingað og ekki lengra ég verð að komast niður núna! Þá pakkaði ég niður göngustöfunum og hljóp eins hratt og ég mögulega gat til þess að komast á jafnsléttu. Loks hafðist þetta og tæpum fimmtán klukkustundum seinna var ég komin á upphafsstað göngunnar og ennþá hljómaði hið ágæta lag Bítlanna ,,We all live in the yellow submarine,, í hausnum á mér. Þvílíkur sigur að klára þetta verkefni.   Vel heppnuð ferð í alla staði Farastjórarnir frá Ferðafélagi Íslands höfðu flestir orð á því í göngunni að þeir hefðu sjaldan eða aldrei farið ferð upp hnjúkinn í öðru eins veðri. Veðurguðirnir voru okkar megin í lífinu þennan dag. Þegar lagt var að stað um nóttina, var óvissa um það hvort hægt væri að fara alla leið á toppinn og voru því björgunarsveitarmenn sendir upp fyrst, til þess að kanna aðstæður. Sjaldan hef ég verið eins glöð og þegar við vissum að við myndum toppa. Það hefði verið frekar svekkjandi að leggja alla þessa göngu á sig og komast ekki alla leið. Það gekk allt upp hjá okkur.   Lokaorð dagsins var skál Þessi dagur var ævintýri líkast frá A til Ö. Allt gekk upp og allir voru í fantaformi eftir gönguna þegar haldið var til baka á hótelið. Það fór þó að síga á seinni hlutann hjá flestum þegar við settumst fyrir framan Eurovision um kvöldið, enda flest búin að vaka í einn og hálfan sólahring og búin að ganga á hæsta tind Íslands, því orðið tímabært að koma sér í háttinn. Ég stóð í þeirri trú að lokaorðin mín þennan dag hafi verið góða nótt við yndislegu herbergisfélaga mína og mömmurnar mínar í ferðinni, Ólöfu og Gunnu. En frétti það þó daginn eftir frá þeim, að nokkrum mínútum eftir að ég sofnaði kallaði ég skál til þeirra, enda sjaldan eins góð ástæða til þess að skála eins og eftir svona fullkominn dag.   Betri göngufélaga er ekki hægt að óska sér Það sem stendur þó upp úr þessari ferð að mínu mati, fyrir utan það að ná toppnum, var félagsskapurinn sem fylgdi mér í þessa ferð. Elsku Katrín Laufey, Albert, Friðberg Egill, Guðrún, Ólöf, Auðbjörg Halla, Rakel Björk og Kristján takk fyrir að leyfa mér að deila þessari stórkostlegu stund með ykkur, þetta verður seint toppað. Þið eruð algjörir öðlingar og betri göngufélaga er ekki hægt að óska sér. Og elsku Ólöf mín, takk fyrir að koma með þessa klikkuðu hugmynd um páskana, ég verð þér ævinlega þakklát fyrir að hvetja mig til þess að koma með ykkur.        

Hroðalegir umhverfissóðar

Mikið rosalega sé ég eftir því að hafa ekki tekið betur undir og barist meira og mótmælt eyðileggingu miðbæjarins okkar af miklu meiri krafti en ég gerði. Það sem blasir við þegar maður kemur í miðbæinn er að það er nánast búið að rífa „öll“ eldri húsin þar, húsin sem áttu og geymdu sögu okkar. Við áttum að endurbyggja þessi niðurníddu hús og þar hefði Vestmannaeyjabær átt að koma inn í og aðstoða svo að við Eyjamenn getum bent á þau og sagt söguna okkar. Og ekki tekur betra við þegar maður lítur yfir nýjasta „afrek“ þessara niðurrifsafla.    Það að rífa niður hús og leyfa byggingu verslunar á einum fallegasta og flottasta byggingastað bæjarins var út í hött. Eins og spáð var hefur komið í ljós er algjört umferðaröngþveiti og menn leggja bílum sínum allstaðar,við Strandveg, Miðstræti og hirða svo bílastæðin af Vöruvali líka eins og þar væri ekki nægur vandi. Þarna eiga eftir að verða slys og fleiri en eitt því Herjólfgata og Miðstræti eru með þrengstu götum bæjarins. Þar ríkir umferðaröngþveiti alla daga. Lærðu menn ekkert af Krónubílastæðunum, Herjólfsstæðunum og Vilbergsstæðunum svo nokkur dæmi séu nefnd.    Svo er það sú staðreynd að staðsetning svona fyrirtækis skiptir engu máli svo framarlega að þar séu næg bílastæði og góð aðkoma fyrir bíla og önnur ökutæki, það labbar enginn með varninginn heim. Þessi bygging stingur líka verulega í stúf við sitt nánasta umhverfi. Þessir menn með bæjarstjórann í farabroddi hafa verið og eru hroðalegir umhverfissóðar og skilja eftir sig slóð illa ígrundaðra verka. Það er ekki nóg að vera alltaf að gapa í fjölmiðlum: -Við Eyjamenn, Lífið er yndislegt, nei það þarf að hugsa líka.    Og nú dúkkar upp nýjasta hugmynd þessa niðurrifsmanna en hún er sú að rífa gamla Ísfélagshúsið ,já rífa Ísfélagið og til að fegra hryllinginn þá á að byggja þarna íbúðir fyrir fatlaða,rífa,rífa,rífa það virðist vera það eina sem þessum niðurrifsmönnum dettur í hug og geta sett kraft í. Ég er alls ekki á móti því að byggðar verði íbúðir fyrir fatlaða nema síður sé eða að byggja íbúðir í miðbænum en það er alls ekki sama hvað það kostar eða á kostnað hvers, það er búið að eyðileggja miðbæinn nóg.   Framtíð Ísfélagshússins á að vera allt önnur og veglegri og á að fá þá virðingu sem það á skilið og sé ég fyrir mér nánast nákvæmlega það sama og gert var við gamla frystihúsið í Hafnarfirði ,þar Yfirtók bærinn húsið og úthlutað síðan húsinu til listamanna,prjónakvenna, hönnuða og hverskyns listframleiðenda fyrir vinnustofur og söluaðstöðu,ég sé fyrir mér vinnustofur og sölubása fjölmargra handverslistamanna þar sem þeir selja sínar afurðir í nálægð miðbæjarins og Vigtartorgsins og lífga uppá miðbæjarlífið. Og ég held til dæmis að það sé ekki til flottari staður undir Bakarí og Kaffihús en í Boganum.   Núverandi eigendur hússins ættu að gefa húsið til Vestmannaeyinga sem þakklætisvott fyrir sína velgengni með því skilyrði að það yrði látið standa og alls ekki rifið. Bergur M Sigmundsson    

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Mannlíf >>

Eyjahjartað - Guðmundur Andri, Egill Helga, Bubbi og Ómar Vald

Á morgun kl. 13.00 mæta þeir Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur, Egill Helgason fjölmiðlamaður, Bubbi Mortens tónlistarmaður og Ómar Valdimarsson blaðamaður með meiru í Sagnheima og ætla að segja frá þeim löngu liðnu dögum þegar þeir ungir og óábyrgir menn dvöldu í Vestmannaeyjum.   Það er Eyjahjartað sem stendur fyrir komu þeirra fjórmenninganna. Guðmundur Andri, Egill og Bubbi höfðu boðað komu sína síðasta haust en af því gat ekki orðið en nú eru þeir ákveðnir í að mæta og hefur Ómar Valdimarsson bæst í hópinn. Hingað til hafa brottfluttir Eyjamenn rifjað upp árin í Eyjum og hafa vinsældirnar farið sívaxandi. Í byrjun mars mættu hátt í 200 manns í Einarsstofu til að hlýða á Pál Magnússon á Símstöðinni, Gísla Pálsson á Bólstað og Brynju Pétursdóttir frá Kirkjubæ. Það verður örugglega fróðlegt að fá hina hliðina, heyra hvað þjóðþekktum einstaklingum finnst um þann tíma sem þeir voru í Eyjum. Er ekki að efa að þeir Guðmundur Andri, Egill, Bubbi og Ómar eiga eftir að koma með nýjan og skemmtilegan vinkil á lífið í Vestmannaeyjum á síðustu öld.   Þau sem standa að Eyjahjartanu eru Kári Bjarnason, Atli Ásmundsson, Þuríður Bernódusdóttir og Einar Gylfi Jónsson sem lofar góðri skemmtun á sunnudaginn. Í viðtali síðasta haust sagði Einar Gylfi um spjall sem hann, Atli og Þuríður áttu við Guðmund Andra, og Bubba: „Egill vann í Ísfélaginu eina vertíð og bjó hjá Óla í Suðurgarði sem segir allt sem segja þarf. Guðmundur Andri var í móttökunni í Ísfélaginu sumarið 1974 og bjó á verbúðinni þannig að þeir voru þar sem hjartað sló örast í Eyjum á þessum tíma.“ Bubbi var miklu lengur viðloðandi Eyjarnar. Allt frá árinu 1974 til 1980 að fyrsta platan hans, Ísbjarnarblús kom út. „Hann vann í Ísfélaginu, Fiskiðjunni og Vinnslustöðinni og bjó á verbúðunum, í Landlyst og Líkhúsinu. Hann kynntist mönnum eins og Einari klink og fleirum sem settu svip á mannlífið í Eyjum á þessum árum.“   „Ég og Þura stefnum á að koma og hlökkum mikið til. Það segir sitt um frásagnagleði þeirra félaga að málglatt fólk eins og við, Gylfi í Húsavík, Atli greifi og Þura í Borgarhól komu varla að orði þegar við hittum þá. Það var mikið hlegið og það verður ekkert öðruvísi í Sagnheimum á sunnudaginn,“ sagði Einar Gylfi að endingu.   Guðmundur Andri kallar erindi sitt Núll í tombólukassa. Minningar sumarstráks. Egill kallar sitt erindi Á vörubílspallinum hjá Stebba Ungverja en Bubbi er ekki með orðalengingar og kallar sína frásögn einfaldlega Hreistur. Ómar kallar sitt erindi, Fólkið mitt í Eyjum. Einar Gylfi flytur svo lokaorð fyrir hönd undirbúningsnefndar. Dagskráin hefst stundvíslega kl. 13.00 í Sagnheimum á annarri hæð í Safnahúsinu. Kári vildi koma að þökkum til forvígismanna Eyjahjartans fyrir þeirra vinnu við að koma saman hverri dagskránni eftir aðra og hvetur sem flesta til að koma, hlusta á skemmtilega upprifjun einstaklinga sem dvöldu hér á mótunarárum og einfaldlega gleðjast með glöðum.    

Stjórnmál >>