Ragnar Óskarsson - Ókeypis námsgögn fyrir grunnskólabörn

Ragnar Óskarsson - Ókeypis námsgögn fyrir grunnskólabörn

Síðustu daga hafa borist fréttir af því að fjömörg sveitarfélög muni frá og með komandi hausti tryggja grunnskólabörnum ókeypis námsgögn og ritföng. Þessi ákvörðun er ánægjuleg og stuðlar ótvírætt að því að auka jafnrétti til náms á grunnskólastigi.
Ég er ekki viss um hvort Vestmannaeyjabær hefur tekið ákvörðun um ókeypis námsgögn fyrir grunnskólabörn hér í Eyjum. Hafi bæjaryfirvöld þegar gert það er full ástæða til að gleðjast. Hafi bæjaryfirvöld hins vegar ekki gert það er full ástæða til að hvetja þau til dáða og að þau tryggi grunnskólabörnum í Vestmannaeyjum aukið jafnrétti til náms með ókeypis námsgögnum.
Gaman væri að fá upplýsingar um stöðu þessara mála frá bæjaryfirvöldum.
 
Ragnar Óskarsson
 
 

Ragnar Óskarsson: Enn á ný

Enn eru kosningar á næsta leiti. Tæplega ársgömul ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins sprakk nýlega vegna alvarlegra spillingarmála og því þurfum við að kjósa að nýju.   Miðað við þá umræðu sem mest ber á hjá þjóðinni nú eru kröfurnar um jöfnun lífskjara, stöðugleika og heiðarleika og öflugt heilbrigðiskerfi.   Hvernig skyldu stjórnmálaflokkarnir bregðast við þessu ákalli þjóðarinnar? Hér tek ég dæmi um tvo stjórnmálaflokka og afstöðu þeirra.   Vinstri græn munu m.a. jafna lífskjör með skattakerfinu, leggja hærri skatta á þá sem búa við auðlegð en lækka og afnema skatta til þeirra sem minnst mega sín.   Vinstri græn munu beita sér fyrir stöðugleika í samfélaginu með ríkisstjórn sem gerir raunhæfar áætlanir og situr út kjörtímabil sitt. Stjórnkerfið mun verða gagnsætt og hvorki spilltir stjórnmálamenn né aðrir munu komast upp með ólögleg og siðlaus skattaundanskot, hvorki í skattaskjólum né annars staðar.   Vinstri græn munu leggja áherslu á að byggja upp öflugt heilbrigðiskerfi í þágu og eigu þjóðarinnar, heilbrigðiskerfi sem að undanförnu hefur verið látið grotna niður og er nú í raun komið að fótum fram.   Hvernig skyldi Sjálfstæðisflokkurinn líta á ákall þjóðarinnar?   Sjálfstæðisflokkurinn mun halda áfram með skattkerfi sem hyglar þeim auðugu á kostnað þeirra sem minna hafa. Stóreignafólk þarf ekki að örvænta því hagsmuna þess mun vel gætt. Aðrir mega áfram sitja eftir með sárt ennið.   Sjálfstæðisflokkurinn mun halda áfram sveltistefnu sinni gegn heilbrigðiskerfi landsmanna og að auki færa heilbrigðisþjónustuna í auknum mæli til einkarekstrar sem hafa mun í för með sér enn meiri kostnað og enn verri stöðu fyrir almenning í landinu.   Sjálfstæðisflokknum mun á næsta kjörtímabili ekki takast að skapa stöðugleika og heiðarleika. Tvær síðustu ríkisstjórnir þar sem flokkurinn var í forustu gáfust upp vegna einmitt vegna óheiðarleika og spillingarmála.   Ég nefni þessa tvo flokka hér vegna þess að þeir verða í kosningunum 28. október fulltrúar þeirra meginsjónarmiða sem tekist verður á um, um framtíð íslensks samfélags.   Ragnar Óskarsson  

Jóna Sólveig leiðir Viðreisn í Suðurkjördæmi

Ari Trausti Guðmundsson: Valkostur til breytinga

Við erum öll með á nótum þegar spurt er í hvaða málaflokkum úrbætur eru næstar og brýnastar í samfélaginu, bæði á landinu öllu og í Eyjum. Menn nefna án mikillar umhugsunar: Heilbrigðismál, kjör aldraðra og öryrkja, húsnæðismál, samgöngur og úrbætur í menntamálum. Veruleg samstaða er um hvað í málaflokknum þarf að lagfæra. Fleira kemur til í máli manna svo sem umhverfis- og loftslagsmál, atvinnugreinarnar og stjórnarskráin. Þá taka átakalínur að lita talið og það gildir einnig þegar rætt er um hvernig skuli standa að umbótum og hvar afla eigi fjár til þeirra. Pólitík er að stórum hluta grunduð á ólíkri afstöðu manna til þess hvernig samfélaginu á að vinda fram; við byggjum afstöðuna á lífsviðhorfum og hugmyndafræði. Núna hafa orðið til fleiri stjórnmálahreyfingar á Íslandi en nokkru sinni áður. Það tel ég stafa að uppbroti í samfélaginu við efnahagshrunið. Efnahagsmál í heiminum, opnun milli landa, afdrifarík hlýnun, ófriður víða og óöryggi fólks koma líka við sögu, þrátt fyrir aukna velmegun að meðaltali á Íslandi - sem um leið einkennist af vaxandi ójöfnuði og óþoli.   Mikilvægt er að stjórnmálaflokkur, sem stefnir að auknum jöfnuði, meira jafnrétti, traustum samfélagsrekstri þegar kemur að grunnþörfum okkar og að frelsi með ábyrgð, tali skýrt og málefnalega. Vissulega kjósa margir með hjartanu eins og sagt er og láta lífsviðhorfið ráða, sem er um margt ofureðlilegt, en atkvæðinu er enn betur varið en ella ef málefnaafstaða flokka er líka höfð með.   Vinstri hreyfingin - grænt framboð boðar umbætur til næstu fjögurra ára og svarar þannig ákalli mikils meirihluta þjóðarinnar - með sínum hætti. Við teljum gerlegt að mynda félagshyggjustjórn sem fetar aðrar og betri leiðir en tvær síðustu ríkisstjórnir. Á það fallast alls ekki allir og þar við situr. Lykilatriði er að afla ríki og sveitarfélögum tekna hjá þeim sem eru svo sannarlega aflögu færir, hlífa öðrum þegnum, færa til þeirra fjármuni og einnig til margvíslegra umbóta sem kallað er eftir og ekki stóð til að framkvæma samkvæmt fjármálastefnu síðustu ára. Slíkt útheimtir þor, yfirvegun, sanngirni og stöðugleika. Um leið má bæta eitt og annað í ríkisrekstrinum. VG er í stakk búið til að leiða alla þessa vinnu undir traustri forystu Katrínar Jakobsdóttur, í samvinnu við þá sem ná saman um samfélagslegar lausnir í áföngum í heilt kjörtímabil... og lengur en það.   Höfundur er í 1. sæti á lista VG í Suðurkjördæmi  

Karl Gauti: Gerum öldruðum og öryrkjum kleift að starfa með okkur án þess að bætur þeirra skerðist

Ágætu Eyjamenn Eins og ég sagði ykkur í síðustu viku, hef ég ákveðið að gefa kost á mér í komandi alþingiskosningum og skipa ég efsta sæti á lista flokks Fólksins í kjördæminu.   Að bjóða sig fram í þessa vinnu kostaði mig auðvitað heilmikla umhugsun, en ég hef alla tíð verið mikill hugsjónamaður, sérstaklega fyrir landsbyggðina og Eyjarnar. Þannig var þegar sameina átti embætti sýslumanns og lögreglustjóra hér í Vestmannaeyjum við risastór embættin á Suðurlandi, þá lagðist ég þver og endilangur gegn því og skapaði mér ekki miklar vinsældir uppi á landi. Með dyggum stuðningi bæjaryfirvalda varð árangurinn sá að nú eru hér í Eyjum vellaunuð störf stjórnenda á þessum embættum og forræði yfir málaflokkunum eru á staðnum, en ekki í hundruða kílómetra fjarlægð. Ég tel að víðar ætti svo að vera. Það þarf því enginn að velkjast í vafa um hvernig ég vinn af einurð fyrir því sem ég tel rétt og best fyrir þau byggðarlög, sem þurfa sífellt að verja sína grunnþjónustu. Ég læt einfaldlega verkin tala.   Samgöngur er annað mál og eðlilega endalaust áhyggjuefni hér í Eyjum. Þetta skil ég mæta vel, enda var ég tíður gestur í okkar „ástkæra“ Herjólfi í 16 ár. Landeyjahöfn hefur brugðist væntingum og menn hafa áhyggjur að nýtt skip muni ekki ná að sigla í höfnina yfir hörðustu kafla vetrarins. Höfnin og hafnarmynnið fyllist afar skjótt af sandi og öldulag getur verið illfyrirsjáanlegt. Ég segi strax : Ég hef ekki lausn á þessu öllum þessum vandamálum. En bæti við að þessa höfn þarf að klára og það fljótt og tryggja þarf að siglt sé til og frá Eyjum alla daga ársins. Framboð ferða fyrir farþega og bifreiðar þarf að mæta kröfum heimamanna og gesta þeirra. Ég mun, ef ég fæ til þess umboð, vera óþreytandi við að ná þessu fram.   Sjúkrahús víða úti á landi hafa misst mikið frá hruni og það hefur ekki verið fært byggðunum til baka. Það er óviðunandi að íbúar Vestmannaeyja og víðar þurfi að sækja til Reykjavíkur með næsta hvaða smákvilla sem er og að mæður og feður þurfi þar að bíða fæðingar nýjasta fjölskyldumeðlimarins vikum saman með öllum kostnaði, áhyggjum og fyrirhöfn. Hér er verk að vinna.   Þrátt fyrir að ég tali hér um þessi helstu hagsmunamál Eyjamanna stendur Flokkur fólksins þó fyrst og fremst fyrir því að útrýma fátækt í landinu. Þar höfum við bent á margar leiðir sem finna má í verkefnaskrá okkar. Brýnt er að bæta kjör aldraðra og öryrkja og það hyggjumst við gera í fyrsta lagi með því að stórhækka persónuafslátt þannig að þeir sem hafa 300 þús. krónur í mánaðartekjur greiði ekki af því skatt. Í öðru lagi viljum við afnema frítekjumarkið og leyfa þeim sem geta unnið að taka þátt í samfélaginu án þess að bætur skerðist á móti, annað er klár mannvonska. Við ætlum okkur að ráðast með kjafti og klóm að afnema verðtrygginguna og taka til í lífeyrissjóðakerfinu.   Gerum öldruðum og öryrkjum kleift að starfa með okkur án þess að bætur þeirra skerðist !   Bestu kveðjur. X – F Karl Gauti Hjaltason oddviti F listans í Suðurkjördæmi.  

Ásmundur Friðriksson: Við lækkum verðlag, skatta og gjöld. Við hækkum laun og kaupmátt

Ég er vanur því að hlutirnir gangi í kringum mig, en þegar ég settist á þing vorið 2013 fannst mér allir hlutir ganga hægt fyrir sig. Smátt og smátt lærðist taktur þingsins og nú þegar ég lít til baka er ánægjulegt að hafa verið þátttakandi í mörgum góðum verkum. Ánægjulegast er að sjá hvernig raunverulegur ávinningur hefur verið í aukinni velferð og bættum kjörum fólks.   Frá því að Sjálfstæðisflokkurinn settist í ríkisstjórn 2013 hefur ríkissjóður skilað afgangi sem nýttur hefur verið til að greiða niður lán ríkisins um hundruð milljarða með samsvarandi lækkun vaxtagreiðsla ríkissjóðs. Lægstu laun voru 191.000 kr. á mánuði 2013 en verða 300.000 kr. í maí 2018, en 6 mánuðum fyrr eða um næstu áramót verða lægstu bætur einstaklings í hópi eldri borgara 300.000 kr. eins og kröfur þeirra voru. Þá kemur fram að nærri helmingur ríkisstarfsmanna eða 43% þeirra eru með 800.000 kr. í laun á mánuði eða meira og þar af 13% með yfir eina milljón á mánuði eða meira. Á sama tíma hefur kaupmáttur launa aukist og nú er svo komið að í fyrsta skipti er staðfest að verðlag lækkar á vörum til neytenda. Afnám tolla og vörugjalda á verðlag hefur að mestu skilað sér til neytenda samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ sem nýlega var birt.   Lækkum skatta og gjöld Það er í raun ótrúleg staða sem birtist fólki núna þegar við rifjum hana upp til að minna okkur á hvað staða heimilanna hefur batnað og við finnum það öll á eigin skinni. Vörugjöld voru afnumin 2015 og lækkuðu tekjur ríkissjóðs um 6.5 milljarða. Tollar á öllum vörum öðrum en búvörum voru afnumdir í tveimur áföngum áramótin 2016 og 2017 og var áætlað að tekjur ríkisjóð lækkuðu um 6 milljarða króna en vegna aukinna ráðstöfunartekna heimilanna með tilheyrandi útgjaldaaukningu lækkuðu tekur ríkissjóð óverulega. Þá var hærra þrep virðisaukaskatts lækkað 2015 úr 25.5% í 24% og er vaskurinn þá sá lægst í okkar helstu samanburðarlöndum. Neðra þrep skattsins hækkaði á sama tíma úr 7 í 11%. Þá var neðra þrep tekjuskatts einstaklinga lækkað og milli þrepið afnumið. Við getum haldið áfram að telja niður, stimpilgjöld af fyrstu íbúðakaupum felld niður og tekið upp skattleysi séreignasparnaðar vegna íbúðakaupa sem nýta má til að greiða inn á höfuðstól verðtryggðra lána eða inn á afborganir óverðtryggðra lána. Þá hafa vextir á lánum til íbúðakaupa lækkað frá árinu 2013 úr 5% í það sem best gerist hjá lífeyrissjóðunum 2.8% og verðbólgan hefur verið innan verðbólgumarkmiða Seðlabanka Íslands allt þetta tímabil og komið böndum hækkun verðtryggingar. Tryggingagjaldið hefur lækkað úr 7,69% í 6,85% og við sjálfstæðismenn viljum áfram lækka gjaldið sem þó stendur undir mikilvægum velferðarpóstum í samfélaginu eins og fæðingarorlofi. Þá hefur frítekjumark fjármagnstekna hækkað, frítekjumark húsaleigutekna hækkað (aðeins greiddur skattur af 50% í stað 70% tekna), Eignarskattar lagðir niður sem var óréttlátur skattur sem fyrst og fremst kom niður á eldra fólki og þá var skattafsláttur vegna hlutabréfakaupa tengdum nýsköpun felldur niður.   Stöðugleiki Frá vorinu 2013 geng ég og við þjóðin öll öðru sinni til ótímabærra kosninga. Þær leggjast vel í mig vegna þess að þær snúast um að halda áfram á þeirri braut sem ég fór stuttlega yfir í þessari grein og er grunnurinn að þeirri auknu velferð sem við búum við í landinu. Valið í kosningunum 28. október nk. snýr um að viðhalda þeim stöðugleika sem er í landinu, treysta þá kaupmáttaraukningu og hagvöxt sem við búum við, eða skattahækkanir og innistæðulaus loforð vinstri flokkananna sem standast ekki skoðun.   Ásmundur Friðriksson alþingismaður      

Þorsteinn Ingi Guðmundsson: Svar við grein Sigurgeirs B. Kristgeirssonar

Í Eyjafréttum þann 13. sept fer Sigurgeir B. Kristgeirsson ekki fögrum orðum um færslur sem eru á facebook síðu sjómannafélagsins Jötuns en þar er rætt um verð á makríl. En þannig er að sannleikanum er hver sárreiðastur.   Öllum þeim sjómönnum sem eru á uppsjávarskipum er ljóst að það verð sem Vinnslustöðin greiðir sínum sjómönnum fyrir makrílinn er töluvert lægra en önnur fyrirtæki eru að greiða fyrir samskonar hráefni. Sigurgeir B. ætti að sjá sóma sinn í að upplýsa okkur um það verð sem þeir greiða fyrir makrílinn svo almenningur geti myndað sér skoðun á því hvað er rangt og hvað er rétt í þessu máli. Það er rétt að það komi fram að sjómenn hafa samband sín á milli og bera saman hvað þeir fá greitt úr hverju tonni og er samanburður alltaf fyrirtækjum hér í Eyjum óhagstæður.   Svo hnýt ég um þessa setningu. „Helgar tilgangur meðalið, að skapa óeiningu og múgæsingu í röðum sjómanna?“ Hafa þeir ekki skapað óeiningu sjálfir t.d með að hafa menn sem afleysingarmenn mánuðum saman og eyðileggja þar með veikindarétt þeirra. Láta þá borga karaleigu sem er brot á samningum og svar við þeirri einföldu spurningu um makrílverð að birta frétt úr fiskifréttum sem sýnir meðalverð á öllum uppsjávarfiski. Síðan telja þeir að það sanni eitthvað. Það er nú þannig að kolmunni er í þessum tölum sem birtar voru og hafa þau fyrirtæki sem hann ber sitt fyrirtæki saman við þúsundum tonna meira af kolmunna en fyrirtækin hér í Vestmannaeyjum. Verð á kolmunna er lægra en á makríl og því er verið að bera saman epli og appelsínur með slíkum samanburði.  

Geir Jón - Eyjamenn standa með þeim sem minna mega sín

 Ég vil fyrir hönd okkar Rauða krossfólks í Vestmannaeyjum þakka ykkur kæru bæjarbúar fyrir allan þann fatnað sem þið hafið komið með til okkar undanfarin ár. Mjög mikil aukning á fatnaði hefur borist til okkar undanfarna mánuði og hefur það glatt okkur óumræðilega. Þið hafið svo sannarlega sýnt það í verki að koma með allan þennan fatnað til okkar sem hefur gert okkur kleift að styðja enn betur alþjóðastarf Rauða krossins. Í sumar hefur verið lokað hjá okkur í Arnardrangi og því hafið þið verið dugleg að koma fatnaðnum í gáminn við Eimskip og þegar hann var orðinn fullur á sólarhring ákváðum við að bæta við öðrum gámi og var hann einnig vel nýttur. Ég vil þakka ykkur enn og aftur innilega fyrir hugulsemina og rausnarskapinn, þetta er okkur ómetanlegt. Nú höfum við opið í Arnardrangi á mánudögum og miðvikudögum frá kl. 16:00 til 18:00 og utan þess opnunartíma getið þið haft samband við mig í síma 779-0140 eða Þórunni í síma 899-2515 ef þið þurfið að losna við fatapoka. Mig langar til þess að biðja ykkur, ef þið eruð með föt á ungabörn 0-1 árs, handklæði, teppi, garn og efni að koma með það til okkar í Arnardrang. Úr því vinnum við og setjum í fatapakka til ungabarna í Hvíta-Rússlandi. Við höfum ásamt öðrum Rauða kross deildum getað sent mikið magn af fatnaði til þessara þurfandi barna og þar hafið þið kæru vinir verið okkur stoð og stytta ásamt fjölda af prjónakonum sem láta sitt ekki eftir liggja. Þakklæti okkar til ykkar kæru bæjarbúar er óendanlegt fyrir að hugsa svona hlýtt til okkar. Við væntum áframhaldandi samstarfs við ykkur og verið ávallt velkomin til okkar í Arnardrang.

Elliði: Við verðum að taka þennan rekstur yfir

Sem sagt, núna er staðan þessi eftir því sem ég kemst næst sagði Elliði Vignisson á heimasíðu sinni í gær:   Herjólfur er í slipp í Hafnafirði. Búið er að taka upp gírinn. Því miður er varahluturinn hinsvegar ekki á leið til landsins. Næsta skref er því að loka gírnum og sigla Herjólfi aftur til Eyja, jafn biluðum og hann var. Til landsins kom skip sem heitir „Röst“. Ágætis skip, nánast eins og Herjólfur. Eini munurinn hvað haffæri varðar er hlið sem sett var í Herjólf fyrir nokkrum árum en er ekki í Röstinni. Þess vegna má hún ekki sigla í Þorlákshöfn.   Á næstu dögum spáir skítabrælu. Ölduhæð slær yfir 4 metra og vindur í 24m pr. sek. Sem betur fer telja skipstjórnarmenn Röstina heppilegri til siglinga í Landeyjahöfn en Herjólf. Að hún ráði við hærri öldu. Til að mynda hefur hún nú þegar siglt í Landeyjahöfn í 2,7m öldu án nokkurra vandkvæða. Vonir standa til að hún ráði við talsvert hærri öldu, rétt eins og Baldur gerði. Sá böggull fylgir þó skammrifi að eftir því sem ég kemst næst þá miðar norska útgerðin við 20m vindhraða. Það er því vesen framundan.   Upplýsingaflæðið í kringum þetta er svo sér kapítuli. Engu líkara en að Vestmannaeyjabæ -sem þó er fulltrúi heimamanna- komi þetta ekki við. Enn hefur til dæmis ekki komið formleg tilkynning um að Herjólfur þurfi í slipp, né heldur að hann sé í slipp, hvað þá að okkur sé tilkynnt formlega að viðgerðin gangi ekki eftir. Við lásum um það á Facebook.   Niðurstaðan er því þessi: Herjólfur var bilaður og verður það áfram. Búið verður að taka hann úr drift í næstum tvær vikur þegar hann kemur jafn bilaður til baka. Beinn útlagður kostnaður ríkisins hleypur á tugum milljóna og kostnaður samfélgsins ómældur. Hver ber ábyrgðina? Það veit ekki nokkur maður.   Ég held að höfundar áramótaskaupsins hafi notað orðin „Helvítis fokking fokk“ yfir þær tilfinningar sem með mér bærast. Ætli eina leiðin sé ekki að bíða eftir að það opni á Brothers Brewery, fá sér einn Gölla og blóta. Bíða síðan eftir því að við tökum þennan rekstur yfir. Þetta gengur ekki svona.  

Kynslóðaskipti á Strandveginum

Það furða sig kannsk einhverjir á breyttu útliti blaðsins sem kom út i dag, breytt útlit þýðir nefnilega nýtt tímabil. Ómar Garðason ætlar hér með að létta af sér ábyrgðinni, fara að skrifa um það sem honum er hugleikið og setja keflið í hendurnar á mér. Ég vil kalla þetta kynslóðaskipti á Strandveginum, Ómar var allavega byrjaður sinn farsæla blaðamannaferil á Eyjafréttum þegar ég var að fæðast. Það er mikill heiður fyrir mig að fá tækifæri til að taka við og leiða Eyjafréttir inní nýtt tímabil, ég lít svo á að eigendur Eyjasýnar séu þar með að fjárfesta í framtíðinni. Það er nákvæmlega það sem Vestmannaeyjar þurfa, ungt og menntaðarfullt fólk sem er til í að keyra skipið áfram. Það er í raun magnað að í yfir 40 ár hefur verið gefið út bæjarblað í Vestmannaeyjum og það einu sinni í viku með fullt af efni og alltaf er reynt að hafa eitthvað fyrir alla. Planið er að halda þessu áfram ásamt því að stíga vel inní nútímann með nýrri og öflugri heimasíðu sem unnið er að. Vestmannaeyjar eru frábærar, hafa uppá svo margt að bjóða en ekkert er fullkomið. Við ætlum að taka á öllum þessum þáttum og skila til ykkar einu sinni í viku, blaði fullt af efni sem tengist Vestmannaeyjum beint og óbeint. Sumt efni verður á sínum stað ásamt ýmsum nýjungum. Einu sinni í mánuði verður aukablað með tilteknu þema sem við höfum verið að gera við góðar undirtektir. Við lofum skemmtilegu, lifandi og upplýsandi blaði inn um lúguna þína í hverri viku og minnum þig á kæri Eyjamaður að áskrift tryggir útgáfu.  

Brjóstagjöf og -mjólk

 Móðurmjólkin er sú allra besta næring sem völ er á fyrir ungabörn og er fullkomin næring fyrstu sex mánuðina, ein og sér þar sem hún inniheldur öll þau næringarefni sem barnið þarf á að halda sér til vaxtar og þroska. Einnig er ráðlagt að gefa móðurmjólkina fyrsta árið og gjarnan lengur. Brjóstamjólkin styrkir ónæmisvarnir barnsins, er mikilvæg fyrir slímhúð og meltingu, er alltaf til staðar, er hrein og án sýkla, ókeypis, auðmeltanleg og passlega heit. Móðurmjólkin og samsetning hennar er tilsniðin barninu á hverjum tíma og gefur því næringu sem passar barninu best, stuðlar að góðum þroska og er vörn gegn sjúkdómum. Brjóstagjöf er einnig óviðjafnanleg leið til náinna tengsla og tengslamyndunar við barnið. Brjóstagjöf er góður kostur fyrir móður þar sem hún stuðlar að góðum samdrætti í leginu eftir fæðinguna, tíðarblæðingar byrja seinna, hjálpar þyngdarstjórnun eftir fæðingu og til lengri tíma getur hún haft varnaráhrif gegn ákveðnum sjúkdómum. Konur sem hafa góða þekkingu á brjóstagjöf, virðast gefa börnunum sínum lengur brjóst. Gott er því að vera vel undirbúin fyrir brjóstagjöfina og fá hjálp við að ná raunhæfum markmiðum, byggja upp sjálfstraust og þekkingu. Mikilvægt er að styðja þær konur sem ekki geta haft börn sín á brjósti og þær sem velja að hafa þau ekki á brjósti. Það geta legið góðar ástæður að baki þess og því þurfa þær konur jafnvel sérstaka athygli og stuðning. Enginn á upplifa sig undir þrýstingi að brjóstfæða barnið sitt ef móður líður illa með það og óskar að hætta eða ekki byrja brjóstagjöf. Sýna þarf þeirri ákvörðun virðingu og styðja móður / foreldra með það. Brjóstagjöf er gefandi og mikilvæg tengslamyndun á sér stað í okkar hraða samfélagi í gegnum brjóstagjöfina. Það getur líka verið mjög krefjandi að vera með barn á brjósti og allskonar vandamál geta komið upp. Ljósmæður og hjúkrunarfræðingar á heilsugæslu hafa reynslu og þekkingu til að hjálpa konum og styðja þær í brjóstagjöfinni á hvern þann hátt sem hæfir hverju sinni og er konum bent á að leita á sína heilsugæslustöð ef vandamál koma upp.   f.h. HSU Suðurlands Björk Steindórsdóttir ljósmóðir HSU á Selfossi

Fleipur á Facebook

Á Fésbókarsíðu Sjómannafélagsins Jötuns er að finna tvær færslur sem birtar eru þar í nafni og á ábyrgð þess. Þar er fjallað um verðmyndun uppsjávarfisks á þann hátt að ekki er hægt að láta ósvarað: ------ ,,Sælir drengir hefur einhver velt því fyrir sér hvað það kostar bæjarfélagið þegar þessir stóru atvinnurekendur eru að halda niðri launum sjómanna með því að vera alltaf með lægsta verð fyrir þann afla sem landað er.“ ------ ,,Sælir félagar í síðustu viku var farið í að bera saman verð á makríl og reyndist vera yfir 10% munur á milli kaupenda.Ekki var verið að fara eftir því sem samþykkt var í vor að upplýsingagjöf væri í því formi að auðvelt væri að lesa úr henni til að það væri sýnilegt hvert verðið væri. Alltaf er maður jafn hissa að í Vestmannaeyjum er bæði lægsta verð og næstlægsta.“  Við sem stjórnum VSV fáum ítrekað að heyra að verð okkar sé með því lægsta á landinu, þrátt fyrir að staðreyndir sýni annað. Að gefnu tilefni er nú rétt að vitna í upplýsingar frá Fiskifréttum sem hafa í nokkur undanfarin ár ár tekið saman tölur um afla og aflaverðmæti skipa og birt í blaðinu. Upplýsingarnar fær blaðið frá fyrirtækjunum sjálfum. Í meðfylgjandi töflu er niðurstöðuna að finna. Þar kemur einfaldlega fram að á árinu 2016 var VSV með hæsta meðalverðið og Ísfélag Vestmannaeyja með næsthæsta. Árið 2015 var VSV með næsthæsta meðalverðið en Ísfélagið kom þar á eftir í þriðja sæti. Árið 2014 deildu VSV og Ísfélagið efsta sætinu á samanburðarlista Fiskifrétta. Þá sitjum við eftir með áleitna spurningu: Hvaða tilgangi þjónar það að fara með hreint fleipur á Fésbókarsíðu Sjómannafélagsins Jötuns og í nafni þess? Helgar tilgangurinn meðalið, að skapa óeiningu og múgæsingu í röðum sjómanna?   F.h. VSV, Sigurgeir B. Kristgeirsson  

Georg Eiður Arnarson - Fiskveiðiárið 2016/17

Þann fyrsta september byrjaði nýtt fiskveiðiár og því rétt að skoða það sem var að enda, mjög skrítið fiskveiðiár að baki. Byrjaði með löngu verkfalli sem að sögn sjómanna skilaði engu. Mjög góðri vertíð og þá bæði í bolfiskveiðum og uppsjávarveiðum, verðið hinsvegar á bolfiskinum hefur verið afar lélegt og þá sérstaklega verðlagsstofuverðið sem margar útgerðir með vinnslu greiða. Verðið erlendis, hinsvegar hefur verið með ágætum og því góður gangur í gámaútflutningum. Lélegt verð í beinum viðskiptum hinsvegar hefur annars orðið til þess að æ verr gengur að manna þau skip sem landa hjá eigin vinnslu og dæmi um það að flytja verður inn sjómenn til þess að halda úti sumum bolfiskveiðiskipum. Ekki góð þróun það og nokkuð ljóst að leita verður annarra leiða til þess að leysa það. Af minni eigin útgerð er það að segja að ekkert gengur að selja bátinn og það þrátt fyrir að ég sé búinn að lækka hann um helming í verði. Sem betur fer tókst mér þó að losna við kvótann en Ísfélagsmenn tóku kvótann fyrir mig og losuðu mig því við ansi þungan andardrátt bankans niður um hálsmálið á mér og kann ég þeim Ísfélagsmönnum miklar þakkir fyrir. Það er ekkert grín að skulda í bankakerfinu okkar og vextirnir maður, vá, er nema furða þó bankarnir græði. Ég er því kvótalaus og hef frekar lítinn áhuga á að róa enda er ennþá þannig að veiðigjöld eru greidd af lönduðum afla og því þessi ríkisstjórn líka braskararíkisstjórn eins og sú á undan. Það eina jákvæða sem ég hef séð er að línuívilnun er komin á allar tegundir en það hrekkur skammt enda bara fyrir landbeittar línuveiðar. Veiðiráðgjöf Hafró er enn einu sinni skrítin en eins og ég hafði áður spáð fyrir um þá lækkar langan enn og hefur nú lækkað um 50% á aðeins 2 árum. Viðbót í ýsu er hinsvegar góð en í þorski allt of lítil. Ufsavíðbótin fer hinsvegar í flokk með launguviðbótinni síðustu ár sem tóm vitleysa enda mörg ár síðan ufsakvótinn hefur náðst. En hvað sem verður þá hefur fiskverðið hækkað að undanförnu og það er aðeins aukning á sumum tegundum og á þeim nótum óska ég öllum sjómönnum og útgerðarmönnum gleðilegs nýs kvótaárs.  

Ragnar Óskarsson - Verum fjölskyldu- og barnvæn

Fyrir skömmu ræddi ég um bæjarmál við kunningja minn sem er sjálfstæðismaður fram í fingurgóma. Eftir að ég hafði hlustað á mikinn lofsöng um bæjarstjórann fórum við loks að ræða eitthvað sem ég taldi vera eitthvert vit í. Af mörgu var að taka. Ég taldi til dæmis að margt mætti betur gera í skólamálum. Hann var þá fljótur að segja mér að bærinn sinnti grunnskólanum í Vestmannaeyjum betur en nokkurt annað sveitarfélag og sama gilti um leikskólana. „Við erum nefnilega svo fjölskyldu- og barnvæn hér í Eyjum,“ sagði þessi ágæti kunningi minn. Þetta rifjaðist upp fyrir mér nú á dögunum þegar upplýst var að ekki stæði til að afhenda grunnskólanemendum í Vestmannaeyjum ókeypis námsgögn eins og fjölmörg sveitarfélög eru nú að gera í samræmi við sína fjölskyldustefnu. Í Vestmannaeyjum telst slíkt sem sé hvorki fjölskyldu- né barnvænt. Þá hefur nýlega verið upplýst að leikskólagjöld í Vestmannaeyjum eru langtum hærri en í öðrum sveitarfélögum. Þarna munar ekki nokkrum krónum, heldur fjallháum upphæðum sem foreldrar í Vestmannaeyjum þurfa að greiða í leikskólagjöld umfram foreldra í öðrum sveitarfélögum. Enn sem komið er hefur ekki fengist nein skýring á þessu. Reyndar taldi einn af forsprökkum sjálfstæðismanna í bæjarstjórn að við vísitöluna væri að sakast. Slík aulaskýring er auðvitað ekki fólki bjóðandi, allra síst barnafólki. Í framhaldi af þessum tveimur dæmum hef ég miklar efasemdir um hið fjölskyldu- og barnvæna samfélag sem okkur er sagt að sé í Vestmannaeyjum því þar er sko víða pottur brotinn. Þar duga ekki bara fögur orð og glansmynd sú sem keppst er við að draga upp fyrir okkur bæjarbúa. Mér finnst að við Vestmannaeyingar eigum að spyrja okkur hvort við ætlum að láta þetta yfir okkur ganga án þess að bregðast við. Verum fjölskyldu- og barnvæn.   Ragnar Óskarsson      

Vestmannaeyjar eru stærsti útgerðar- staður landsins

Varðandi fyrri hluta titils bókarinnar þá er hann sóttur í alkunna barnagælu.   Fagur fiskur í sjó, brettist upp á halanum með rauða kúlu á maganum. Vanda, banda, gættu þinna handa. Vingur, slingur, vara þína fingur. Fetta, bretta, svo skal högg á hendi detta.   Fyrir þá lesendur sem ekki kunna leikinn þá er farið með vísuna og handarbak barns strokið. Við síðasta orðið, „detta“, slær sá sem fer með vísuna laust á handarbakið en barnið reynir að kippa hendinni að sér. Reyndar er þessi hluti af titli bókarinnar einnig sóttur í annað bindi ævisögu föður míns, Einars Sigurðssonar, útgerðarmanns frá Vestmannaeyjum, sem meistari Þórbergur Þórðarson færði í letur og kom út árið 1968. Síðari hluti af titli bókarinnar „handa skólum og almenningi“ er fenginn úr Íslenzkri orðabók handa skólum og almenningi í ritstjórn Árna Böðvarssonar frá 1963. Í þessari bók er fjallað um sjávarútveg sem nær ekki eingöngu til fiska heldur einnig til alls lífs í eða við sjó, ár eða vötn og má þar nefna hvali, sem eru spendýr, og ýmsar tegundir hryggleysingja og plöntur. Oft er rætt um sjávarfang í þessu riti. Það er samheiti yfir áðurnefndar lífverur, hvort sem þær koma úr sjó, ám eða vötnum, og hvort sem þær eru veiddar, aldar eða ræktaðar. Orðið sjávarútvegur í þessari bók er notað yfir atvinnugrein sem stunduð er til að afla sér lífsviðurværis með veiðum eða eldi og tengdum atvinnugreinum í framleiðslu og þjónustu.   Fléttað saman dæmisögum Í umfjöllunina er í flestum köflum fléttað dæmisögum sem ætlað er að skýra efnið með afmörkuðum hætti. Á eftir hverjum kafla er samantekt, verkefni, það er einstaklingsverkefni og hópverkefni, hugtakaskýringar og skrá yfir heimildir sem notaðar eru í viðkomandi kafla. Í lok bókarinnar er efnið dregið saman og litið til framtíðar í sjávarútvegi. Birt eru æviágrip einstaklinga sem hafa sett svip sinn á sjávarútveg hér á landi. Í bókarlok er skrá yfir myndir og töflur, nafna- og atriðisorðaskrá auk hugtakaskýringa og heimildaskrár. Fiskveiðar hafa frá örófi alda verið mikilvægur hluti af fæðuöflun mannkyns en fyrir um 12.000 árum varð hin svokallaða landbúnaðarbylting. Þá tók maðurinn sér víða fasta búsetu og hóf að rækta jörðina, skipulega og halda búfénað. Maðurinn lærði fljótt að búa til færi og króka og þannig hófust veiðar og menn urðu leiknir í að leggja net og gildrur fyrir fiska. Snemma lærðist að búa til eins konar báta sem fara mátti á nokkuð frá landi og sækja fisk og síðar gerðu stærri skip mönnum kleift að sigla á ám og vötnum og með því að fikra sig meðfram bökkum. Enn síðar var lagt á haf út, ný fiskimið fundin og ókunn lönd numin. Þetta er gert að umtalsefni hér vegna þess að fiskveiðar og nýting fisks er ævaforn þótt verklagið sé fjarri sjávarútvegi nútímans.   Háðar veðurfari og öðrum náttúrulegum aðstæðum Fiskur fer yfirleitt mjög hratt yfir og það þarf sérstakan búnað til að veiða hann. Fiskveiðar eru einnig háðar veðurfari og öðrum náttúrulegum aðstæðum og veiðisvæði ná oft yfir mikið flæmi og breytast oft. Fiskur sést yfirleitt ekki við veiðar þótt nútímafiskileitartæki bæti þar úr. Fiskar eru einu villtu dýrin sem enn þann dag í dag eru veidd í miklum mæli til matar. Spendýr, eins og nautgripir eða fuglar, eins og kjúklingar, eru alin á afmörkuðum eða afgirtum svæðum, oft í búrum, til eldis og slátrunar. Nær öll matvara úr jurtaríkinu, eins og hrísgrjón og kartöflur, er ræktuð sérstaklega á afmörkuðum svæðum. Einkenni fiska, önnur en að lifa í sjó, vötnum eða ám, eru þau að þeir eru með kalt blóð, hreistur, ugga og anda með tálknum en með þeim vinna þeir súrefni úr sjó eða vatni. Fiskar eru þannig allt öðruvísi en spendýr sem eru með heitt blóð, lungu og slétta eða hærða húð. Spendýr geta flest unað sér vel í vatni en fiskur á þurru landi er í vondum málum. Landgrunnið, sem er næst landi, er mjög lítill hluti hafanna en þar er meginhluti fiskveiða stundaður. Mikið dýpi er í höfum heims og er þar margt ókannað enda mikið myrkur og þrýstingur þegar neðar dregur. Stundum er sagt að hafið sé síðasti ókannaði hluti heimsins.   Kynbætur á sjó og landi Framfarir í kynbótum hafa verið miklar í landbúnaði alla tíð og hafa þær auðvitað verið nýttar í fiskeldi í stórum stíl. Kynbætur fela það í sér að einstaklingum af sömu tegund er blandað saman, til dæmis þegar gen forystusauðs eða góðs stóðhests berast með sæðingu til næstu kynslóðar. Með því er reynt að fá fram einstaklinga með eftirsóknarverða eiginleika. Kynbætur eru algengar og hafa verið stundaðar í þúsundir ára. Dæmi um framfarir í eldi er að 56 daga kjúklingur var árið 1957 að meðaltali 905 grömm. Árið 2005, eða 48 árum seinna, var jafngamall kjúklingur að meðaltali 4.202 grömm og hafði þannig meira en fjórfaldast í þyngd á tæpum 50 árum. Til er þjóðsaga um það hvernig hrognkelsi, það er rauðmagi og grásleppa, varð til. Jesús Kristur var eitt sinn á gangi í sjávarfjöru með Símoni Pétri. Jesús hrækti í sjóinn og það varð rauðmagi. Símon Pétur gerði hið sama og það varð grásleppa. Kölski var þarna í nágrenninu og vildi ekki vera minni maður og hrækti líka í sjóinn en það varð marglytta og er hún flestum til ama og til lítils nýt. Þorskur hefur gegnt margvíslegu hlutverki í Íslandssögunni, ekki aðeins hefur hann verið helsta auðlind landsins frá öndverðu heldur hefur hann einnig verið tákn landsins. Þorskur sem merki Íslands er frá 15. öld. Þorskur var hluti af skjaldarmerki Danakonungs fram til upphafs 20. aldar.   Sjávarútvegur fyrr á tímum Þar sem fiskur hefur fylgt manninum lengi hefur hann birst í ýmiss konar listaverkum eins og málverkum, ljóðum og sögum svo öldum skiptir. Fiskur hefur einnig verið notaður sem merki. Þannig var fiskur tákn fyrir kristna menn í upphafi kristindómsins þegar þeir þurftu að fara huldu höfði vegna ofsókna. Þá þekktust menn á því þegar teiknaðar voru útlínur fisks eða svæði voru merkt með mynd af fiski til að láta vita að þar væru kristnir menn velkomnir. Jesús Kristur var nátengdur fiskveiðum enda sótti hann lærisveina sína ekki hvað síst til fiskimanna við Galíleuvatn í Galíleu. Enn þann dag í dag er hluti af skrúða páfa, æðsta yfirmanns kaþólsku kirkjunnar, svokallaður hringur fiskimannsins en hann er tilvísun í Símon Pétur sem var einn af lærisveinum Jesú. Símon Pétur, sem var einn af fiskimönnunum á Galíleuvatni, varð fyrsti biskupinn í Róm en biskupsembættið þar varð síðar að embætti páfa. Grænlendingar hafa alltaf verið háðir sjónum. Þegar presturinn Hans Egede kom til Grænlands í byrjun 18. aldar til að finna norræna menn og herða þá í trúnni fann hann aðeins inúíta. Hann hóf þá trúboð meðal þeirra, lærði grænlensku og var seinna kallaður Postuli Grænlands. Hins vegar voru ekki til orð í grænlensku yfir margt, þar á meðal brauð. Egede dó þó ekki ráðalaus og þýddi hin þekktu orð úr bæninni Faðir vor „Gef oss í dag vort daglegt brauð“ á eftirfarandi hátt yfir á grænlensku: „Gef oss í dag vorn daglega sel.“   Sækýr Í íslenskum þjóðsögum er sagt frá sækúm, sem lifa í sjó, en þær ganga stundum á land og geta þá orðið að venjulegum kúm en þær vilja þó alltaf fara í sjóinn aftur. Reyndar eru sækýr til sem eru spendýr og lifa í sjó og eru ekki ólíkar selum. Áður fyrr héldu sjómenn að þær væru hafmeyjar. Í færeyskum þjóðsögum er sagt frá selum sem ganga á land á þrettándanum, hafa hamskipti og breytast í fólk. Íslensk þjóðsaga segir frá konu, sem glataði selshami eða selskinni sínu, sem hún klæddist þegar hún var selur. Konan lifði á landi í mörg ár en henni tókst loks að komast yfir selshaminn aftur. Þá breytti hún sér í sel, en þegar hún steypti sér í sjóinn heyrðist hún mæla:   „Mér er um og ó, ég á sjö börn í sjó og sjö börn á landi.“   Fiskveiðar eru jafngamlar lífsbaráttu mannsins og í upphafi var algengast að róa á litlum fleytum, tiltölulega stutt frá landi, og veiða á handfæri en það er lína, sem er rennt í sjóinn, og er með króki á, oft með beitu. Þannig voru veiðar á Íslandi stundaðar allt frá landnámsöld og fram á 20. öld, einkum á bátum sem voru með fjórar til átta árar. Þeir Íslendingar sem reru á þessum árabátum eru nú væntanlega flestir fallnir frá en margar sögur eru frá þessum tíma sem greina frá því hversu lífsbaráttan var erfið. Afi minn, Sigurður Sigurfinnsson hreppstjóri í Vestmannaeyjum, var formaður eða skipstjóri á slíkum árabát og hann var einn sá fyrsti hérlendis sem eignaðist vélbát. Faðir minn og sonur Sigurðar, Einar ríki Sigurðsson, útgerðarmaður frá Vestmannaeyjum, reri sem ungur maður á árabátum frá Eyjum á fyrri hluta síðustu aldar.   Útlendingar byrjuðu snemma að herja á Íslandsmið Þjóðverjar og Englendingar, sem komu til að veiða og kaupa fisk á 15. öld, opnuðu ýmsa möguleika en innlenda höfðingjastéttin gætti þess vel að sjávarútvegur raskaði ekki landbúnaði sem var meginstoð valds og auðs hérlendis. Útlendingar máttu ekki hafa hér vetursetu, gera út skip eða ráða mikið af Íslendingum til starfa og gilti þetta bann í mörg hundruð ár og dró úr vaxtarmöguleikum sjávarútvegs. Englendingar stunduðu mikið veiðar og verslun á Íslandi á 15. öld enda er sú öld oft kölluð Enska öldin í sögubókum hér á landi. Margir aðrir útlendingar voru hér við fiskveiðar, ekki langt frá landi, eins og Þjóðverjar, Baskar, Frakkar og Hollendingar. Þrátt fyrir það voru þessar veiðar þó ekki það gjöfular að stóru þjóðirnar eins og Englendingar, Þjóðverjar eða Frakkar reyndu af einhverri alvöru að ná landinu úr höndum Danakonungs. Það hefði þó ekki verið erfitt enda Danmörk smáríki miðað við hin löndin. Það hversu einfalt það var að taka völdin á Íslandi sást vel í valdaráni Jörundar hundadagakonungs árið 1809.   Úr miðaldasamfélagi í borgaralegt nútímasamfélag á skömmum tíma Þróun búsetu og atvinnuhátta síðustu rúm eitt hundrað árin er ákaflega mikil og hröð. Ísland breyttist þá úr miðaldasamfélagi í borgaralegt nútímasamfélag á tiltölulega skömmum tíma miðað við önnur lönd. Tækni og framfarir breiddust hratt út meðal Íslendinga eftir að heimastjórn var komið á árið 1904. Skipin stækkuðu, meðal annars með togurunum. Útgerðarsögu Íslendinga er stundum skipt í árabátaöld frá landnámi og fram á 20. öld, skútuöld, sem var aðallega á 19. öld, vélbátaöld, sem hófst um 1900 og skuttogaraöld sem hófst um 1970. Vandamál ofveiði þekktist ekki fyrr á öldum þar sem veiðigetan var aldrei svo mikil að hún stefndi fiskstofnum í hættu. Auðvitað voru náttúrulegar sveiflur og stundum hvarf fiskurinn af hefðbundnum veiðislóðum en hann kom alltaf aftur. Við hina miklu tæknivæðingu 20. aldarinnar urðu afköstin við veiðar margföld á við það sem áður var. Fljótlega á 20. öldinni fór að bera á áhyggjum manna af ástandi fiskstofna og hættu á ofveiði.   Fiskveiðilandhelgin Barátta Íslendinga fyrir útfærslu fiskveiðilandhelginnar eða landhelginnar hófst á síðasta hluta 19. aldar og tók hún nærfellt 80 ár. Fiskveiðilandhelgi var hérlendis síðast á 19. öldinni víða 3 sjómílur. Árið 1901 gerðu Danir og Englendingar samning um að fiskveiðilandhelgin við Ísland yrði 3 mílur og sá samningur gilti í áratugi. Þó voru margir sem viðurkenndu ekki þessa landhelgi og sló oft í brýnu milli Íslendinga og útlendinga á erlendum togurum. Minnstu munaði að Hannes Hafstein, fyrsti ráðherra Íslands, þá sýslumaður á Ísafirði, létist þegar breskir landhelgisbrjótar sökktu bát hans viljandi árið 1899 en þrír íslenskir sjómenn sem voru með Hannesi drukknuðu. Til eru frásagnir af Vestmannaeyingum undir forystu Sigurðar Sigurfinnssonar hreppstjóra sem tóku þýskan togara um aldamótin 1900, sem var staðinn að veiðum í landhelgi, með því að fara um borð og yfirbuga áhöfnina. Íslendingar reyndu strax, þegar heimastjórn fékkst árið 1904, að fá stærri landhelgi en lítið gekk enda fór heimastjórnin ekki með utanríkismál landsins. Það var ekki fyrr en Ísland öðlaðist fullt sjálfstæði árið 1944 sem hægt var að færa landhelgina út á eigin forsendum.   Forysta á heimsvísu Íslendingar tóku þá forystu á heimsvísu í útfærslu fiskveiði-, og síðar efnahagslögsögu, og færðu landhelgina út í 4 mílur árið 1952 og drógu grunnlínupunkta þannig að firðir og flóar lentu innan lögsögunnar. Landhelgin var færð út í 12 mílur árið 1958, 50 mílur árið 1972 og í 200 mílur árið 1975. Þetta gekk ekki átakalaust fyrir sig og urðu hörð átök á miðunum þegar einkum Bretar, en einnig Þjóðverjar, reyndu að brjóta þessar ákvarðanir Íslendinga á bak aftur. Íslendingar höfðu þó fullan sigur og nú gildir í heiminum sú löggjöf á alþjóðavísu að efnahagslögsaga einstakra landa er 200 mílur og séu minna en 400 mílur milli tveggja landa gildir miðlína, það er lína þar sem jafnlangt er til landanna tveggja. Ákvarðanir hins nýja lýðveldis um að færa út landhelgina lögðu grunninn að velmegun Íslendinga sem sjálfstæðrar þjóðar í fyrsta skipti frá lokum þjóðveldistímans í lok 13. aldar. Landhelgismálið er líklega eina sviðið þar sem Íslendingar hafa lagt verulegan skerf til heimssögunnar fyrir utan bókmenntirnar miklu frá þjóðveldistímanum. Það má með réttu kalla 20. öldina á Íslandi öld sjávarútvegsins. Það var sjávarútvegurinn sem gerbreytti lífsskilyrðum hérlendis þótt fleiri atvinnugreinar hafi einnig bæst við síðustu áratugina. Sjávarútvegurinn lagði grunninn að þeirri verðmætasköpun og velmegun, sem Íslendingar búa við enn þann dag í dag.   Mundi morðið á Lincoln Ég segi nemendum mínum stundum þá sögu, að afi minn hafi vel munað eftir því þegar Bandaríkjaforseti var ráðinn af dögum. Flestir þeirra halda að átt sé við John F. Kennedy en það kemur einkennilegur svipur á þá þegar ég segi að það hafi verið Abraham Lincoln. Þá var afi minn, Sigurður Sigurfinnsson, á unglingsaldri. Þessu eiga nemendurnir erfitt með að trúa en er þó rétt. Þessi litla saga sýnir, ef til vill betur en margt, hvað fáar kynslóðir geta náð yfir langan tíma. Um leið er hún vitnisburður um það hve miklar breytingar þessar kynslóðir hafa upplifað því að gríðarlegar samfélagsbreytingar hafa átt sér stað síðan Lincoln var myrtur. Einn sona minna, Ágúst Ólafur, var við framhaldsnám í opinberri stjórnsýslu við New York University fyrir nokkrum árum. Þá voru elstu dætur hans, Elísabet Una og Kristrún, barnabörn mín, í grunnskóla í New York. Eitt sinn fór bekkur Elísabetar Unu, sem í voru auk hennar um 20 bandarísk börn, í ferð út í Ellis-eyju við Manhattan þar sem innflytjendur sem komu til New York komu á land og voru skráðir. Elísabet Una var sú eina í bekknum sem fann forföður sinn þar skráðan, langalangafa sinn, afa minn Ágúst Kristján Guðmundsson, sem ég heiti reyndar í höfuðið á. Afi minn kom síðar aftur til Íslands og stofnaði fjölskyldu með ömmu minni. Hún hét Elísabet Una, eins og langalangömmubarnið. Þessi saga sýnir sömuleiðis að tíminn hefur flogið áfram og margt hefur breyst hjá tveimur til þremur kynslóðum hérlendis og sjávarútvegurinn á drýgstan þátt í því.   Grunnatriði nútímasjávarútvegs Umgjörð sjávarútvegs hefur breyst gríðarlega á tiltölulega fáum árum eða áratugum. Áður fyrr, eða fram á 20. öld, héldu flestir að fiskstofnar heims væru óþrjótandi og að það þyrfti ekki mikið skipulag um veiðar. Annað kom á daginn og fjölmargir fiskstofnar voru ofveiddir og sumir voru og eru enn beinlínis í útrýmingarhættu. Á sama tíma fjölgaði fólki stórlega í heiminum eða meira en nokkurn tímann fyrr í sögunni og það þurfti að afla fæðu fyrir allt þetta fólk. Þessi fólksfjölgun hefur nær eingöngu átt sér stað í þróunarlöndunum en sáralítil og jafnvel engin fjölgun hefur orðið í mörgum vestrænum löndum. Einungis með tækniframförum, einkum í landbúnaði, hefur tekist að fæða allt þetta fólk þótt það hafi reyndar ekki tekist alls staðar. Víða í heiminum er alvarlegur fæðuskortur og margar milljónir manna látast úr hungri á ári hverju eða úr sjúkdómum sem má rekja til vannæringar. Nú á tímum eru fæðuöflun og loftslagsbreytingar alvarlegustu vandamálin sem mannkynið stendur frammi fyrir. Fátækar þjóðir hafa haslað sér stærri völl í sjávarútvegi heimsins, bæði í veiðum og vinnslu, og hefur það einkum orðið í Asíu þar sem mesta fólkfjölgunin hefur verið. Þar er þörf fátæks fólks til að hafa í sig og á mikil og þörfin fyrir því að brjótast til betri lífskjara. Þessar þjóðir eru í nákvæmlega sömu stöðu og Íslendingar voru í fyrir rúmum eitt hundrað árum nema að tæknin er komin mun lengra á veg en var þá. Þessar þjóðir ráða þó enn fæstar yfir nýjustu tækni í tengslum við sjávarútveg.   Misskipting matar Talið er að í veröldinni búi tæpur milljarður manna við hungur og um þrír milljarðar af þeim rúmum sjö milljörðum sem nú byggja jörðina glími við afleiðingar fæðuskorts. Álitið er að um 30% af öllum framleiddum matvælum eyðileggist í framleiðslu eða í dreifingu, til dæmis þegar matvælum er hent þegar þau eru komin fram yfir síðasta söludag. Það er ekki aðeins að matvælin eyðileggist heldur tapast allt sem lagt var í framleiðsluna og dreifinguna, eins og mannleg vinna, vatn og orka. Þetta er gífurleg sóun og mjög brýnt að framleiðendur og seljendur matvæla bæti þetta ferli. Íslendingar gætu vafalaust lagt meira til á alþjóðavettvangi í umræðunni um fæðuöflun framtíðarinnar, einkum hvað varðar sjávarfang, vegna þess að hér hefur verið rekinn arðbær sjávarútvegur sem hefur skilað miklum verðmætum til sameiginlegra verkefna. Þannig hefur sjávarútvegur hér verið gefandi en ekki þiggjandi eins og víðast hvar er raunin annars staðar í hinum vestræna heimi.   Markaðslögmál í sjávarútvegi Síðustu áratugina hafa Íslendingar framleitt margvíslegan tæknibúnað fyrir frystingu og aðra fiskvinnslu. Þar ber hæst framleiðslu Marels. Marel er alhliða fyrirtæki í þróun og smíði tæknibúnaðar fyrir matvælavinnslu, starfar í yfir 30 löndum og er með fleiri en 4.000 starfsmenn. Fyrirtækið Hampiðjan, sem framleiðir veiðarfæri, er nú stærsta veiðarfærafélag í heimi. Öll þessi tækniþróun í fiskvinnslu hefur verið mjög þýðingarmikil og leitt til aukinna gæða, lækkunar á kostnaði og gert Íslendinga að stórveldi í mörgum greinum tengdum sjávarútvegi. Aukin fiskneysla kemur ekki aðeins til vegna fólksfjölgunar heldur hefur eftirspurn fólks eftir hollum mat aukist. Nýjar venjur á Vesturlöndum eins og sushi fiskréttir, sem er hrár fiskur borinn fram í litlum bitum með hrísgrjónum, upprunalega frá Japan, hafa einnig stuðlað að aukinni eftirspurn eftir sjávarfangi. Sushi hefur jafnvel laðað fólk að fiski sem áður hafði forðast að borða fisk og á það ekki hvað síst við um ungt fólk.   Mikil veiði útlendinga Fiskveiðar við Ísland fyrr á tímum voru fyrst og fremst þorskveiðar. Veiðar útlendinga hófust hér við land á 14. og 15. öld en samskipti Íslendinga eftir þjóðveldistímann voru langmest við Noreg. Stundum er 14. öldin kölluð Norska öldin á Íslandi. Á 15. öld komu Englendingar mikið til Íslands til veiða og til að kaupa fisk og hin svokallaða Enska öld hófst. Þegar þróun íslensks sjávarútvegs er skoðuð er mikilvægt að gera sér grein fyrir hinni miklu veiði útlendinga hér við land. Ekki leikur nokkur vafi á því að fyrr á tímum veiddu útlendingar mun meira en Íslendingar enda á stærri skipum og gátu veitt lengra frá landi. Þorskur er verðmætasta fisktegundin hér við land, sérstaklega fyrr á tímum. Síldveiðar eru sérstakur kafli í sögu Íslendinga. Einn litríkasti síldarsaltandi þessa tíma var Óskar Halldórsson. Hann fæddist 1893 og lést 1953. Hann var mikill athafnamaður, bjó yfir mörgum hæfileikum og var samferðafólki sínu minnisstæður. Óskar var fyrirmyndin að Íslandsbersa, söguhetju Halldórs Laxness í bókinni Guðgjafaþula. Á síldveiðum sem og öðrum veiðum var hér áður fyrr allt frjálst og hver og einn mátti kaupa skip og halda til veiða. Mikil keppni ríkti meðal bestu skipstjórana um það hver væri efstur í lok vertíðar en slík keppni var ekki eingöngu bundin við síldveiðar. Fjölmargar aðrar tegundir eru veiddar hér við land, eins og loðna, ýsa, karfi, ufsi, makríll og ýmiss konar flatfiskur eins og lúða. Sú þjóðsaga lifir góðu lífi meðal Íslendinga að rákin sem er svo greinileg eftir endilangri ýsunni sé þannig til komin að kölski hafi ætlað að fá sér í soðið. Hann á að hafa læst krumlunum í ýsu og sjást svartir blettir þar sem sá vondi tók á ýsunni en hún barðist um og slapp úr greipum hans. Enn sjást förin eftir neglur hans en það er rákin góða. Einnig eru veidd hérlendis humar og rækja, sem eru verðmætar fisktegundir.   Lokadagurinn hátíðlegur Allt frá 18. öld var 11. maí síðasti dagur vetrarvertíðar. Sá dagur var kallaður lokadagur og oftast haldinn hátíðlegur í sjávarbyggðum. Höfundur minnist þess frá æskuheimili sínu að 11. maí var alltaf hátíðarmatur á borðum þegar öll fjölskyldan borðaði saman í hádeginu. Keppni milli skipstjóra og báta setti mikinn svip á útgerðarsögu Íslendinga á 20. öld en það hvarf eftir að kvótakerfið kom til sögunnar enda ekki hægt að keppa þá um afla eins og áður heldur var meiri áhersla lögð á gæði og verðmæti. Hátíðir tengdar fiskveiðum eru nú mun algengari en áður var og þeirra þekktust er Fiskidagurinn mikli á Dalvík, sem haldinn er hátíðlegur ár hvert, en þangað koma tugþúsundir manna og gæða sér á sjávarfangi. Árið 1982 var aflaverðmætið 76 milljarðar króna en árið 2015 var það 151 milljarður króna og hafði þannig tvöfaldast frá upphafi tímabilsins á sambærilegu verði. Þessi góði árangur er meðal annars ráðgjöf fiskifræðinga að þakka en betra skipulag og meiri aðgæsla hefur verið sýnd við veiðarnar. Það skilar sér í meiri verðmætum.   Sterk staða Vestmannaeyja Áhugavert er að skoða hvar umsvifin eru mest en það er hægt að gera á ýmsa vegu. Í töflu 5.1 eru sýndir þeir 20 staðir þar sem mestum afla hefur verið landað að meðaltali á ári frá árinu 1992 til og með árinu 2015. Eins og sést í töflu 5.1 eru Vestmannaeyjar efstar með meðalársafla upp á rúm 176 þúsund tonn og síðan kemur Neskaupstaður með um 174 þúsund tonn. Hér er uppistaðan loðna og annar uppsjávarfiskur en þessir staðir eru með mikla vinnslu uppsjávarafla. Þessar 20 hafnir eru með 84% af öllum lönduðum afla hérlendis á viðmiðunartímanum. Hin sterka staða Reykjavíkur vekur athygli í töflu 5.1 en þar vegur HB Grandi þungt alveg eins og Samherji skiptir gríðarlegu máli fyrir Akureyri svo og Ísfélag Vestmannaeyja og Vinnslustöðin fyrir Vestmannaeyjar.   Binni í Gröf Það hefur alltaf skipt miklu máli hérlendis að vera aflakló, ekki hvað síst á fyrri tímum þegar lífsafkoman réðst oft af því hversu vel gekk að afla sér matar, hvort sem það var úr sjó eða á annan hátt. Sögur hafa ætíð gengið um mikla aflamenn. Benóný Friðriksson úr Vestmannaeyjum, sem alltaf var kallaður Binni í Gröf, var einstaklega mikill fiskimaður og mjög oft aflakóngur Vestmannaeyja á Gullborg en það þurfti mikla sægarpa til að komast þar á toppinn. Binni í Gröf vann þann titil í sjö ár og þar af sex ár í röð. Aðrir Vestmannaeyingar, sem voru mörg ár með mestan afla á vertíðum, eru Óskar Matthíasson og Sigurjón Óskarsson, sonur hans. Eitt sinn, þegar þeir þurftu að endurnýja bát sinn, sóttu þeir um lán hjá Fiskveiðasjóði Íslands sem þá var helsti lánasjóður sjávarútvegsins. Stjórnin tók umsóknina fyrir en fannst vanta rekstraráætlun um útgerðina og bað þá feðga að bæta þar úr. Þeir hugsuðu sig um en sendu síðan stóra ljósmynd af sjálfum sér með verðlaunagripi sem þeir höfðu fengið fyrir að hafa orðið aflahæstir á vertíðum í Vestmannaeyjum. Stjórn Fiskveiðasjóðs tók málið fyrir aftur, samþykkti lánið umyrðalaust, rammaði myndina inn og hún hékk í húsakynnum sjóðsins meðan hann starfaði. Var það reyndar eina myndin í eigu sjóðsins.   Hvalveiðar Hvalveiðar urðu snemma hluti af samfélagi manna og fjölmörg örnefni hérlendis frá fyrstu tíð vísa til hvala. Ýmislegt sérkennilegt tengist hvalveiðum. Árið 1818 kom upp dómsmál í New York sem snerist um eftirlit með lýsi en tollur á lýsi var mismunandi eftir því hvort lýsið var unnið úr fiski eða öðru. Afurðin í þessu tilviki var hvallýsi og úrlausnarefni dómsins var að úrskurða hvort hvalur væri spendýr eða fiskur. Fjöldi vísindamanna kom fyrir dóminn og bar vitni um að hvalur væri spendýr. Þrátt fyrir það úrskurðaði kviðdómurinn að hvalur væri fiskur! Ein stærsta hvalveiðistöðin var á Flateyri og hinn norski eigandi hennar, Hans Ellefsen, reisti fallegt hús á Sólbakka, sem er fyrir ofan Flateyri. Ellefsen seldi síðar Hannesi Hafstein ráðherra, vini sínum, húsið fyrir eina krónu. Hannes flutti húsið til Reykjavíkur og reisti það við Tjarnargötu. Hann lét byggja við það og bjó í því eftir að hann varð ráðherra. Húsið fékk þá nafnið Ráðherrabústaðurinn og heitir enn.   Deilt um hvalveiðar Miklar deilur hafa oft ríkt um hvalveiðar Íslendinga en ljóst er að hvalur var ofveiddur við Ísland um aldamótin 1900. Þó var enn verra ástand á hvalastofnum í Suðurhöfum þar sem Japanir og Rússar veiddu hval ákaft. Hvalur hefur ekki verið ofveiddur hér við land síðustu áratugina en sumar tegundir eins og steypireyðurinn, stærsta dýr jarðar, er alfriðuð. Takmarkaðar hvalveiðar í atvinnuskyni við Ísland hófust á ný árið 2006. Umhverfissamtök, eins og Greenpeace, hafa mótmælt hvalveiðum frá miðjum áttunda áratug síðustu aldar eða í nær hálfa öld. Sum samtök beita ólögmætum aðgerðum, eins og þegar tveimur hvalveiðiskipum var sökkt í Reykjavíkurhöfn árið 1986. Hvalfriðunarsinnar beita stundum rökum um ofveiði til að mótmæla hvalveiðum. Slík rök eiga þó ekki við hérlendis. Mörgu fólki, einkum erlendis, finnst að maðurinn eigi einfaldlega ekki að veiða hvali eða seli. Þetta séu spendýr sem njóti sérstöðu í hugum margra. Minna má á baráttu frönsku leikkonunnar Brigitte Bardot fyrir veiðibanni á sel og náði hún miklum árangri með framgöngu sinni. Mikil andstaða er við hvalveiðar í Bandaríkjunum þótt þeir veiði reyndar sjálfir mikið af smáhval, enda er oft gerður greinarmunur á stórhvölum og smáhvölum, eins og hrefnu.   Laxeldi á 15. öld Lax hefur lengi verið alinn og hófst slíkt eldi til að mynda í Frakklandi á 15. öld en það er nú einkum stundað í suðurhluta heimsins eins og í Chile, Nýja-Sjálandi og Suður-Afríku, auk Noregs sem er stærsti framleiðandi Atlantshafslax í heiminum. Fyrir iðnbyltinguna var til mun meira af villtum laxi í ám en nú er raunin, til dæmis í stórfljótum eins og Rín í Þýskalandi og Thames í Bretlandi. Áður fyrr voru uppreisnir fanga í fangelsum í Englandi og Skotlandi ekki óalgengar vegna þess að fangarnir fengu, að eigin sögn, of mikinn lax í matinn. Þekkt er að vinnufólk í Borgarfirði gerði samninga um að það þyrfti ekki að borða lax oftar en tvisvar í viku.   Ofveiði og stjórnun fiskveiða Fiskstofnar eru náttúruauðlindir og eins og gildir um aðrar auðlindir er skynsamlegt að nýta þær á hagkvæman hátt. Sumar náttúruauðlindir eru endurnýjanlegar, eins og raunin er um fiskstofna, eða óendurnýjanlegar, eins og á við um kol og olíu. Nauðsynlegt er að láta endurnýjanlegar auðlindir endurnýja sig reglulega með því að gæta þess að ganga ekki um of á stofn auðlindanna og nýta þær á skynsaman hátt. Þannig er hægt að ná fram miklum hagnaði eða verðmætasköpun sem leiðir til bættra lífskjara auk þess sem ýmsar auðlindir eru oft mikilvæg uppspretta fæðu fyrir milljónir manna. Af hverju þarf að stjórna fiskveiðum umfram flest annað í efnahagslífinu? Ástæðan liggur í sérstöðu fiskstofna. Ef veiðum er ekki stjórnað verður ávallt veitt of mikið og fiskstofnum jafnvel útrýmt eða þeir nýttir á óhagkvæman hátt. Hins vegar er ekki sama hvernig veiðum er stjórnað og koma margar aðferðir til greina. Það þarf að gæta að ýmsu og síðustu áratugi hafa fá mál valdið jafnmiklum deilum hérlendis og stjórnun fiskveiða. Í sjálfu sér snýst fiskveiðistjórnun um fjórar spurningar, það er hversu mikið á að veiða af einstökum fisktegundum, hvernig á að veiða, en það varðar veiðarfæri, svæðalokanir, stærðartakmarkanir og svo framvegis, hver á að veiða og að síðustu hvernig arðinum af veiðunum sé ráðstafað.   Deilur um kerfi og gjaldtöku Deilur um stjórnkerfið og gjaldtöku í tengslum við fiskveiðar hafa aldrei verið einskorðaðar við hið stjórnmálalega landslag, innan flokka og utan og á Alþingi, heldur taka landsmenn virkan þátt í þeirri umræðu. Sumir leggja til að úthlutun sé til byggðarlaga eða vinnslustöðva en ekki skipa. Einnig er rætt um svokallaða potta en þá er tiltekið aflamagn tekið frá úthlutuðu magni og sett í potta. Úthlutað er úr pottum með önnur sjónarmið í huga, eins og byggðasjónarmið. Þessi leið hefur nokkuð verið farin hérlendis. Svipuð stjórnkerfi og við veiðar hérlendis eru notuð erlendis og er þetta fyrirkomulag í sókn á heimsvísu. Um aldamótin síðustu voru fimm ríki með kerfi einstaklingsbundinna og framseljanlegra aflahlutdeilda en um 2010 voru það 22 ríki sem stýrðu veiðum með þessum hætti og veiddu þau um fjórðung af heimsaflanum.   Hagkvæmni er eitt en réttlæti getur verið annað. Íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið þykir gott að mati margra sérfræðinga innlendra sem erlendra og er af flestum talið hagkvæmt. Hér ber hins vegar að hafa skýrt í huga að hagkvæmni er eitt en réttlæti getur verið annað. Er fiskveiðistjórnunarkerfið hérlendis réttlátt? Réttlæti lýtur hér að því hver fær í sinn hlut arðinn sem verður til í kerfinu. Hversu mikið eiga útgerðarmenn, sjómenn eða almenningur í landinu að fá í sinn hlut? Mörgum finnst kerfið ekki vera réttlátt og þess vegna hafna margir núverandi kerfi, þótt flestir hagfræðingar telji það hagkvæmt. Réttlæti og hagkvæmni togast oft á í samskiptum innan sérhvers samfélags og það er oft ekki auðvelt að finna hina sanngjörnu málamiðlun. Fiskmarkaðir, þar sem fiskur er seldur og keyptur, hafa haft líka áhrif á breytta stöðu byggðarlaga síðustu árin en mikið af fiski er flutt milli staða, til dæmis frá Vestfjörðum, til vinnslu annars staðar. Gjald fyrir afnot af sameiginlegri auðlind, veiðileyfagjald, er hægt að útfæra með ýmsum hætti. Veiðileyfi eru verðmæti sem verða til þegar stjórnvöld takmarka aðganginn að auðlindinni með lagasetningu. Sú útfærsla er hagkvæm og hefur skilað miklum verðmætum í íslenskt þjóðarbú sem sést meðal annars á því að veiðiheimildir eru leigðar og/eða seldar og keyptar á háu verði. Veiðileyfagjald var fyrst lagt á hérlendis um aldamótin, eða árið 2002, en hin síðustu ár hafa verið deilur um upphæð þess. Veiðileyfagjald, eða auðlindagjald, er reyndar lagt á víða. Þannig taka Norðmenn stærstan hluta af hagnaði í olíuvinnslu sinni í skatt, auðlinda- eða olíuskatt.   Markaðssetning sjávarfangs Alþjóðleg áhrif eru engin nýlunda í tengslum við sjávarútveg. Verslað hefur verið með fisk og afurðir sjávarfangs frá alda öðli. Alþjóðleg viðskipti með sjávarafurðir fara vaxandi og höndlað er með ferskan, saltaðan og frosinn fisk, hrogn, lýsi og mjöl og margvíslegan búnað og þjónustu í tengslum við sjávarútveg. Í dæmisögu eru mörg hugtök í tengslum við verslun og alþjóðavæðingu útskýrð og er Lionel Messi í miðpunkti sögunnar.   Fjármál í sjávarútvegi Án fjármagns og fjármögnunar auk góðs skipulags í fjármálum verður ekkert fyrirtæki langlíft, hvort sem er innan sjávarútvegs eða í annarri atvinnugrein. Samherji ber höfuð og herðar yfir önnur hefðbundin sjávarútvegsfyrirtæki og er nærfellt stærri hvað veltu varðar en næstu fjögur fyrirtæki samanlögð. Næststærst hefðbundinna sjávarútvegsfyrirtækja er HB Grandi í Reykjavík. Ísfélag Vestmannaeyja var stofnað árið 1901 og er það elsta enn starfandi fyrirtæki í sjávarútvegi á Íslandi. Hraðfrystistöð Vestmannaeyja og Ísfélag Vestmannaeyja sameinuðust undir nafni þess síðarnefnda árið 1992. Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum var stofnuð 1946. Vinnslustöðin sameinaðist Fiskiðjunni og Fiskimjölverksmiðjunni í Vestmannaeyjum 1992 undir nafni hinnar fyrstnefndu. Reyndar komast tvö íslensk fyrirtæki á listann yfir 40 stærstu sjávarútvegsfyrirtæki heims en það eru Samherji og Icelandic sem hvort um sig eru með tæplega 100 milljarða íslenskra króna í veltu á ári. Það verður að teljast mjög góður árangur en ekki er á mörgum stöðum í atvinnulífinu í heiminum, ef nokkrum, sem Íslendingar eiga lið í úrvalsdeildinni en það á við um sjávarútveginn. Þessi tvö fyrirtæki eru með starfsemi í mörgum löndum.   Sjávarútvegur og samfélagið Sjósókn á árabátum fyrri tíma var erfið vinna og þurfti þar þrek, þor og líkamsburði til. Það var því ekki að furða að yfirleitt voru það karlmenn sem sóttu sjóinn. Þó eru til frásagnir af konum sem reru á við karlmenn og margar þeirra urðu nafntogaðar. Merkileg er sú staðreynd að í samþykkt Alþingis frá árinu 1720, segir svo með nútímastafsetningu: „Ef hún [kona] gjörir karlmannsverk með slætti, róðri eða torfristu, þá á að meta verk hennar sem áður segir um karlmann til slíkra launa.“ Þetta er líklega elsta löggjöf hérlendis sem kveður á um sömu laun fyrir sömu vinnu, óháð kyni. Þessi samþykkt varð hluti Búalaga en Búalög voru skrá um verðlag á Íslandi og voru þau fyrst prentuð í Hrappsey árið 1775. Á árum áður var algengt að feðgar reru á sama bátnum og jafnvel fleiri úr fjölskyldunni. Þegar sjóslys urðu, og þau voru algeng, kom oft fyrir að sjómannskona missti mann, syni og bræður í sama slysinu og sat hún þá eftir með jafnvel ungbörn og enga fyrirvinnu. Mjög erfið lífsbarátta beið þessara kvenna. Konur í sjávarútvegi stunduðu ekki aðeins sjósókn í nokkrum mæli heldur önnuðust þær miklu oftar vinnslu aflans í landi. Þegar fiskvinnsla varð stóriðja Íslendinga á 20. öld átti það sér fyrst og fremst stað vegna mikillar atvinnuþátttöku kvenna. Á tímabili voru við lýði lög sem kváðu á um að helmingur af launum giftra kvenna skyldi vera skattfrjáls til að laða konur út á vinnumarkaðinn. Í smábátaútgerðinni er reyndar algengt að konan sjái um allt í landi og sé í raun framkvæmdastjóri fyrirtækisins þótt hún sé ekki alltaf skráð sem slík. Nú starfar Félag kvenna í sjávarútvegi og er það dæmi um breytta tíma.   Bónusdrottningar Í frystihúsum er oftast unnið eftir bónuskerfi en það er afkastahvetjandi launakerfi sem felur í sér að sú eða sá sem er fljótust/fljótastur að vinna fiskinn, til dæmis beinhreinsa og pakka, fær hæstu launin. Í Vestmannaeyjum voru konurnar, sem þetta gilti um, kallaðar bónusdrottningar. Gæta þurfti þess að láta ekki standa á því að nægur fiskur bærist til þeirra og ekki þýddi að slóra við að taka afurðirnar frá bónusdrottningunum. Það eru nær eingöngu konur sem vinna við snyrtingu á fiskflökum í landi, það er að beinhreinsa og pakka. Úti á sjó um borð í frystitogurum ganga bæði kynin í öll almenn störf. Dugnaði bónusdrottninganna má líkja við síldarstúlkurnar frá 7. áratug síðustu aldar en þær söltuðu síld í ákvæðisvinnu og gekk mikið á hjá mörgum þeirra. Það var hrópað hátt eftir salti og þær geymdu merki fyrir hverja saltaða tunnu í stígvélum sínum en launin fóru eftir fjölda merkjanna. Ljóst er því að konur hafa gegnt viðamiklu hlutverki og gera enn í íslenskum sjávarútvegi. Erlendis eru konur oft einnig mikilvægur hlekkur í sjávarútvegi, hvort sem það er í veiðum, vinnslu eða markaðssetningu, sérstaklega í þróunarlöndunum.   Baráttan við náttúruöflin Óblíð náttúra var og er reyndar enn eitt það erfiðasta sem menn þurfa að glíma við í tengslum við sjávarútveg á Íslandi enda fórust á öldum áður mjög margir sjómenn. Þannig segir í annálum frá slæmu veðri 9. mars 1685 en þá drukknuðu 132 manns. Það lætur nærri að miðað við fólksfjölda nú á tímum svari það til tæplega 900 manns, eða að fjórar farþegaþotur fullar af Íslendingum færust á einum degi. Þetta eru hlutfallslega margfalt fleiri en fórust í hryðjuverkaárásunum á tvíburaturnana í New York 11. september 2001. Þessi slysadagur á 17. öld var þó alls ekki einsdæmi. Árið 1700 drukknuðu 165 sjómenn á einum degi, hinn 8. mars, og er það mesti slysadagur í sögu sjávarútvegs hérlendis.   Forysta í slysavörnum Vestmannaeyingar tóku forystu í slysavörnum en björgunar- og varðskipið Þór kom til Vestmannaeyja árið 1920 og kom það að miklu gagni við björgun úr sjávarháska. Og sjóslysin hittu líka Eyjamenn. Átakanlegt slys varð við Vestmannaeyjar er Pelagus fórst 21. janúar 1982. Í þessu átakanlega sjóslysi við Vestmannaeyjar björguðust sex skipverjar en tveir skipverjar fórust auk tveggja björgunarmanna úr Eyjum.   Hægt er að fá stórt kast úr síðustu torfunni Um ofveiði hefur margt verið sagt. Jakob Jakobsson, helsti síldarsérfræðingur Íslendinga og fyrrum forstjóri Hafrannsóknastofnunar, orðaði þetta þannig: Hægt er að fá gott kast úr síðustu torfunni.“ Þegar eitthvað er birt innan gæsalappa í fræðilegum skrifum, sem þessi bók er, er sjálfsagt að geta heimildar og þá er vitnað í tiltekin skrif og blaðsíðutal í heimildinni. Hér háttar hins vegar svo til að ég heyrði Jakob Jakobsson segja þessi orð í ræðu en hann var oft fenginn til að flytja ræður á fundum sjávarútvegsmanna á árum áður. Jakob hafði gott lag á því að skýra fiskifræðina og rannsóknir tengdar henni á auðskiljanlegan hátt. Þetta festist í huga mínum. Ég man einungis eftir einu tilviki þegar Jakobi varð orða vant en það var þegar Sigurður Einarsson, bróðir minn, spurði Jakob á fundi útvegsmanna fyrir margt löngu hvort fiskar svæfu. Jakob svaraði fáu en sagði á næsta fundi að hann hefði eftir fundinn hringt í vini sina í fiskifræðinni um allan heim til að fá svar við þessari spurningu sem ekki hafði vaknað áður. Svarið var víst á þá leið að fiskar sofa ekki eins og við spendýrin en þeir hvíla sig stundum!   Ein af niðurstöðum bókarinnar er að Vestmannaeyjar eru stærsti útgerðarstaður landsins, bæði hvað varðar aflamagn og aflaverðmæti.     Samantektin er gerð af Ágústi Einarssyni  

Hugleiðingar varðandi kapphlaupið um tjaldstæðin

Nú er þjóðhátíðin afstaðin og væntanlega flestir nokkuð ánægðir með hvernig til tókst, veður var frábært, dagskrá sömuleiðis og virðist vera að flestum hafi komið nokkuð vel saman. En samt sem áður hugsar maður til kapphlaupsins um tjaldstæðin og það sem gerist þar að því er virðist á hverju ári. Fólk er farið að hugsa þetta þannig að hin og þessi gata sé þeirra, og stæði þar innan frátekin fyrir þau, hvað sem raular og tautar, og hafa menn mismunandi skoðanir á því. En það sem alvarlegra er, er að fólk er farið að slasast, rífast, hóta og standa í handalögmálum.   Ég heyrði t.d. af einum sem þurfti að fara upp á spítala eftir þetta, einnig af börnum sem voru grátandi vegna þess að skyldmenni þeirra stóðu í pústrum út af tjaldstæði, aðrir voru í hálfgerðu „stand down“ sem gekk út að það að hvorugur neitaði að fara og það var bara spurning um hver nennti að sitja lengur að stæðinu þangað til að hinn gæfist upp.   Einnig átti ég samtal við fólk sem sagði mér að það neitaði að fara inn í Dal til að standa í þessu, það væri búið að fá nóg af þessu rugli, það væri komið hálfgert „shortest straw“ aðferð, sá sem dregur minnsta stráið, til að sjá hver þyrfti að hlaupa í þeirri fjölskyldu. Þannig að ég og fleiri í minni fjólskyldu settumst niður og komum upp með tillögu að úthlutunarleið sem hljóðar svo : - Auðvitað er sanngjarnt að þeir sem vinna í Dalnum fái fyrsta valrétt (þjóðhátíðarnefnd metur það hverjir eru starfsmenn). - Þeir sem vilja tjaldstæði senda þjóðhátíðarnefnd póst þar sem fram kemur breidd á tjaldi (og lengd ef tjald nær yfir tvær götur) ásamt kennitölu. • Einnig er tiltekið hvaða götur þau vilja helst vera á, fyrsta, annað og þriðja val. • Ef fólk vill endilega vera við hliðina á einhverjum þá komi það einnig fram í póstinum, þ.e. kennitala þess aðila. • Þjóðhátíðarnefnd veit hverjir eru stafsmenn og setja þá í sérstakan pott, hinir fara í annan pott. • Svo er dregið upp úr starfsmannapottinum, og raðað. • Síðan er dregið upp úr hinum pottinum og raðað. • Síðan er þetta birt á fréttamiðlum og fólki sagt hvenær það getur komið með súlurnar sínar. • Ef fólk er ekki sátt við staðsetninguna sína getur það reynt að skipta við aðra. • Til að ferlið sé gegnsætt (spennandi og skemmtilegt) væri hægt að annað hvort streyma því á netinu eða vera með fulltrúa frá bæjarstjórn eða einhverjum öðrum. Hérna sitja allir við sama borð (þ.e. starfsmenn vs rest). Engin hætta á að menn standi í handalögmálum eða slasist við handaganginn, eða áralöng vinátta fari í vaskinn vegna rifrilda um stæði.   Allstaðar í kringum okkur er verið að selja eða úthluta miðum, stæðum eða öðru án þess að fólk endi upp á spítala í röntgen. Við hljótum að geta gert þetta líka. Ég efast ekki um að hægt væri að fara einhverjar aðrar leiðir ef vilji er til og hvet ég fleiri til að senda inn tillögur. Með þjóðhátíðarkveðju. Maggi Gísla og co.    

Páll Magnússon: Stoltur!

 Fyrir viku ætlaði ég að skrifa stutta grein hér í Eyjafréttir um hvað ég væri stoltur af íþróttafélaginu mínu, ÍBV, fyrir stærstu og glæsilegustu Þjóðhátíð sem haldin hefur verið. Það fer a.m.k. ekkert á milli mála að Brekkan á sunnudagskvöldinu hefur aldrei verið stærri en nú; kíkið bara á myndirnar hans Óskar P. Friðrikssonar í síðustu Eyjafréttum. Það var líka fullyrt við mig að hvítu tjöldunum hefði fjölgað mikið á milli ára, sem eru enn betri fréttir ef réttar reynast. Um þetta átti sem sé greinin að fjalla, sem EKKI var skrifuð í síðustu viku. Síðan þá hefur ÍBV orðið bikarmeistari í meistaraflokki karla í fótbolta og meistaraflokkur kvenna komist í úrslit í bikarkeppninni annað árið í röð. Ekki minnkaði stoltið við þetta.   Glæsileg Þjóðhátíð Fyrst aðeins meira um Þjóðhátíð. Það er út af fyrir sig ekkert markmið að fjölga stöðugt gestum á Þjóðhátíð og það má leiða að því býsna sterk rök að af ýmsum ástæðum sé hátíðin nú þegar komin að einhverjum efri mörkum í fjölda - miðað við inntak og innviði. Og síst af öllu viljum láta fjöldann sliga þau stórmerkilegu menningarsögulegu verðmæti sem hátíðin felur í sér fyrir okkur bæjarbúa sjálfa. En þjóðhátíðarhaldið sjálft er alltaf að verða betra og betra í höndunum á ÍBV. Aðbúnaður gesta er alltaf að batna; öryggið er að aukast; þrif og hreinlæti er stöðugt að færast í betra horf; gæslan er að styrkjast og svona mætti áfram telja. Og síðan er mér skapi næst að halda að Þjóðhátíðin sé stöðugt að laða til sín prúðari og betri gesti! Sjálfur hef ég staðið sömu vaktina í hliðinu í Dalnum mörg undanfarin ár; 16 til 19 á föstudeginum. Á föstudeginum núna fóru sjálfsagt einhver þúsund manna fram og til baka um hliðið á þessum tíma. Ég sá áfengi á tveimur. Aðeins tveimur. Þannig háttar líka til að frá útidyrum heima hjá mér í Áshamrinum eru bara nokkrir metrar að tjaldstæði þar sem mikill fjöldi aðkomandi þjóðhátíðagesta heldur til. Þarna átti ég auðvitað leið um margoft meðan á hátíðinni stóð - á öllum tímum sólarhrings. Aldrei sá ég annað en glaðværa hópa af ungu fólki að skemmta sér vandræðalaust. Nú er ég ekki svo einfaldur að halda að ekki séu skuggahliðar þar sem 15.000 til 18.000 manns koma saman til að skemmta sér í þrjá til fjóra sólarhringa, en ég fullyrði að þeir skuggar eru á undanhaldi og bragurinn á hátíðinni nú er á margan hátt betri en hann var t.d. á meðan ég var á þeim aldri sem flestir aðkomandi gestir eru nú. Af þessu öllu er ég óskaplega stoltur af ÍBV, stjórn félagsins og starfsmönnum en síðast en ekki síst öllum þeim sjálfboðaliðum sem vinna þrekvirki fyrir félagið sitt á hverju einasta ári. Ekki bara við þjóðhátíðarhaldið heldur alla þessa stóru viðburði sem félagið stendur fyrir þar fyrir utan; pæju- og pollamót, Þrettándagleðina og fleira. Ætli megi ekki fullyrða að meirihluti allra innlendra gesta, sem sækja Eyjarnar heim á hverju ári, geri það í tengslum við viðburði á vegum ÍBV?   Ótrúlegt afrek Um helgina fengum við svo staðfesta sterka stöðu ÍBV á íþróttasviðinu þegar meistaraflokkur karla í fótbolta varð bikarmeistari með sigri á gríðarsterku liði Íslandsmeistara FH í úrslitaleik. Daginn eftir tryggði kvennaliðið sér svo sæti í bikarúrslitunum annað árið í röð. Þegar hér var komið sögu var ég um það bil að rifna af stolti! Meistaraflokkar karla og kvenna í handbolta líta síðan afar vel út nú í aðdraganda keppnistímabilsins. Í þessum afreksflokkum er síðan auðvitað að finna fyrirmyndirnar sem börnin og unglingarnir sækja sér í öflugu yngriflokkastarfi félagsins - og eru þeim hvati til þátttöku í íþróttum. Þessi staða - að íþróttafélag í rúmlega fjögur þúsund manna til þess að gera einangruðu bæjarfélagi eigi sér fjögur keppnislið í fótbolta og handbolta karla og kvenna í hópi þeirra bestu á Íslandi - er ekkert minna en ótrúlegt afrek! Að öllu samanlögðu fullyrði ég að ekkert íþróttafélag á Íslandi, og jafnvel þótt víðar væri leitað, er jafn mikilvægt sínu samfélagi og ÍBV er í Vestmannaeyjum. Langflestar fjölskyldur í Eyjum eiga sér einhvern snertiflöt við félagið nánast á hverjum einasta degi. ÍBV og allt sem félagið stendur fyrir er snar þáttur af sjálfsmynd Eyjamanna - og sennilega verðmætasta vörumerki þeirra, ef menn vilja leggja mat á slíkt. Að lokum þetta. Ég hvet alla forsvarsmenn þeirra góðu fyrirtækja og félaga í Eyjum sem leitað er til með að styrkja starfsemi ÍBV undir ýmsum formerkjum að taka eftirfarandi pól í hæðina: Það er ekki verið að sníkja af ykkur aur í einhvern óþarfa. Það er verið að hvetja ykkur til að styrkja íþrótta- og æskulýðsstarf og efla þannig þá samfélagslegu innviði sem þarf til að hæfileikaríkt og dugmikið fólk vilji búa og ala upp börnin sín í bænum; sem aftur er nauðsynleg forsenda fyrir ykkur til að fá gott fólk í vinnu! Með sama hætti vil ég segja við bæjaryfirvöld: Stuðningur við ÍBV er ekki bara stuðningur við íþróttastarf í þrengstu merkingu þess orðs heldur við miklu víðtækara og afar mikilvægt samfélagslegt hlutverk sem félagið hefur með höndum. Það hlutverk snýr t.d. að sjálfsmynd Eyjamanna í gegnum viðburði eins og Þjóðhátíð og íþróttaafrek á borð við bikarmeistaratitilinn um daginn - en einnig að hreinum hagrænum atriðum eins og að standa fyrir verulegum hluta af komum innlendra ferðamanna til Eyja. Og bæjaryfirvöld mega aldrei falla í þá gryfju að nota tekjur sem ÍBV hefur af Þjóðhátíð til réttlætingar fyrir minni stuðningi en tíðkast í öðrum bæjarfélögum. Þjóðhátíðartekjurnar gera nefnilega ekki meira en að vega upp þann umframkostnað sem hlýst af því að reka íþróttafélag í Vestmannaeyjum samanborið við höfuðborgarsvæðið. Ef þær þá ná því.   Áfram ÍBV! Páll Magnússon

Hildur Sólveig - Menntun í Vestmannaeyjum er öflug og góð

Í nútímasamfélagi skiptir aðgengi að menntun sköpum. Samfélagið breytist hratt og líklegt er að ráðandi hluti barna á leikskóla komi til með að vinna störf sem við eigum ekki nöfn yfir í dag. Ábyrgð kjörinna fulltrúa hvað stefnu og stjórn í þessum málaflokki er rík og mikilvægt að hvergi sé slegið af þegar sótt er fram. Í Vestmannaeyjum er rekið stórt og mikið fræðslukerfi sem spannar menntun frá leikskólastigi að háskólastigi og langar mig sem formanni fræðsluráðs Vestmannaeyjabæjar að stikla á stóru til að gera grein fyrir hversu víðtækt fræðslukerfi okkar Eyjamanna er.       Öflug leikskólaþjónusta hornsteinn menntunar og jafnréttis  Fjölbreytt leikskólaþjónusta er í boði en nýverið endurnýjaði Vestmannaeyjabær rekstrarsamning við Hjallastefnuna vegna leikskólans Sóla sem almenn ánægja hefur verið með. Sóli ásamt leikskólanum Kirkjugerði eru öflugar menntastofnanir þar sem yngstu nemendurnir hefja sína skólagöngu og með kærleiksríkri handleiðslu leikskólakennara tileinka þeir sér jafnt og þétt nýja þekkingu, læra umburðarlyndi og samvinnu ásamt því að efla sjálfstæði og þróa sköpunarhæfni sína. Kynjajafnrétti hefur mælst best á Íslandi til margra ára og má að mínu mati m.a. þakka öflugum leikskólum og hóflegum leikskólagjöldum íslenskra sveitarfélaga slíkan árangur, þar sem foreldrar treysta börnum sínum í höndum hæfra starfsmanna leikskóla í æ ríkara mæli. Rekstur leikskóla er síkvikur og nýjar þarfir myndast á hverju misseri. Fræðsluráð er með þá stefnu að tryggja öllum 18 mánaða börnum leikskólapláss og til að standa undir því markmiði styttist nú í að þörf fyrir auknu plássi myndist og til að mæta þeirri þörf hefur bæjarráð samþykkt fjárframlag til stækkunar leikskólans Kirkjugerði.     Grunnskóli Vestmannaeyja í sífelldri sókn Starfsemi Grunnskóla Vestmannaeyja hefur breyst umtalsvert á undanförnum árum. Stofnuninni var aldursskipt og varð í stað tveggja sjálfstæðra skóla, ein stór heild sem telur einn fjölmennasta grunnskóla landsins. Nýlega varð 5 ára leikskóladeild Víkurinnar einnig hluti af starfsemi GRV og stækkaði hann enn frekar við þá breytingu. Mikill metnaður hefur legið hjá starfsmönnum skólans og skólayfirvöldum í að ná góðum árangri í menntun grunnskólanemenda á sama tíma og mikil áhersla er lögð á heilsu og vellíðan nemenda. Ein stærsta áskorun grunnskólans líkt og annarra menntastofnana um þessar mundir mun vera að fylgja hraðri tækniþróun samtímans. Til þess að ná árangri er nauðsynlegt að allur aðbúnaður og starfsumhverfi nemenda og starfsfólks skólans sé eins og best verður á kosið hverju sinni. Samræmdar mælingar eru nú orðnar rafrænar og með dyggri aðstoð samfélagsins í Vestmannaeyjum er tækjakostur GRV sífellt að batna. Í síðustu viku samþykkti fræðsluráð 60 milljón króna tillögur sem miðuðu m.a. að því að styrkja stoðkerfi skólans og úrbætur hvað húsnæði og aðstöðu varðar og að draga úr álagi á kennara. Einnig eru nú hafnar tímabærar endurbætur utanhúss á húsnæði Barnaskólans og verkáætlun varðandi framkvæmdir á grunnskólalóðum eru í þróun.     Framhaldsskólinn býður upp á fjölbreytt tækifæri til menntunar Á síðasta ári tók gildi ný reglugerð um styttingu framhaldsskólans og hefur það verið krefjandi verkefni fyrir kennara og nemendur að aðlagast breyttu framhaldsskólaumhverfi. Fjölbreytt námsúrval er í boði við skólann þar sem val er um þrjár línur til stúdentsprófs, starfsbraut ætluð fötuðum nemendum, starfsréttindanám fyrir sjúkraliða og vélstjóra, grunnnám til iðnmenntunar í raf- og málmiðn og framhaldsskólabrú. Þess að auki er ein best útbúna FabLab smiðja landsins staðsett í húsnæði skólans og njóta nemendur góðs af. Af persónulegri reynslu er FÍV góður undirbúningur fyrir frekara nám enda hafa fjölmargir nemendur skólans haldið áfram í krefjandi háskólanám bæði hérlendis og erlendis.   Háskólanám stöðugt að aukast   Viska, fræðslu- og símenntunarmiðstöð hefur verið starfandi frá árinu 2003 og boðið upp á ýmis námskeið, endurmenntun, símenntun og fjarnám í samstarfi við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Á síðasta ári hóf svo Háskólinn í Reykjavík staðbundið nám við Haftengda nýsköpun, en fyrsti nemendahópurinn úr Vestmannaeyjum stóð sig afburðarvel og fékk m.a. tvenn verðlaun fyrir lokaverkefni sitt. Ánægjan með námið var mikil og ákvað Háskólinn í Reykjavík að bæta við möguleikanum á að hefja staðarnám í viðskiptafræði með áherslu á sjávarútveg næsta haust.   Stuðningur foreldra lykilatriði Líkt og sjá má er staða okkar Eyjamanna í menntamálum verulega góð. Fjölbreytnin í námsúrvali er mikil og hefur farið vaxandi, aðstæður og umhverfi skólanna eru í sífelldri þróun og kennarar og starfslið skólanna er dugmikið og metnaðarfullt í að veita nemendum sínum úrvalskennslu. Áfram þarf þó að sækja og þá ekki síst í hverskonar iðn- og verknámi enda er það sá jarðvegur sem atvinnulíf okkar þarf hvað mest á að halda. Að lokum er vert að taka fram að á öllum þessum menntastigum skiptir áhugi og stuðningur foreldra og aðstandenda við námið verulegu máli fyrir framvindu þess. Að sama skapi hefur samfélagsleg umræða mikil áhrif á þá ímynd sem sköpuð er af náminu. Vestmannaeyingar geta og eiga að vera stoltir af þeim menntastofnunum sem við eigum yfir af búa, þar er unnin ómetanleg vinna við að móta framtíðina. ,,Það þarf heilt þorp til að ala upp barn.”   Hildur Sólveig Sigurðardóttir Formaður fræðsluráðs Vestmannaeyjabæjar    

Sjómannadagurinn í Vestmannaeyjum

Sjómannadagurinn hefur alltaf verið hátíðisdagur í mínum huga frá því ég man eftir mér. Á Siglufirði var Sjómannadagurinn stór hátíð þar sem sjómenn tókust á í hinum ýmsu keppnisgreinum skunduðu svo á ball á Hótel Höfn og tóku það stundum óklárt. Knattspyrnu á malarvellinum í sjóstökkum og bússum man ég eftir. Stakkasund í höfninni og reiptog. Keppni í netabætingu, kappróður og margt fleira. Í minningunni skipti þetta miklu máli fyrir unga drengi. Þeir urðu margir ákveðnir að verða kaldir kallar eins og sjóararnir, með uppbrettar ermar á köflóttu vinnuskyrtunum. Ég var einn þeirra sem fetaði þann veg að verða sjómaður og sé ekki eftir því. Ekki var maður burðugur fyrstu túrana en þetta hafðist allt með aðstoð og kennslu góðra sjómanna. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að lenda með góðum skipstjórum og áhöfnum. Nú er Sjómannadagurinn nánast aflagður á Siglufirði en þeir í austurbænum, Ólafsfirði hafa tekið upp merkið og halda veglega uppá daginn.   Dansað á þremur stöðum Ég og mín fjölskylda fluttum til Eyja 1989. Þá voru dansleikir og skemmtanir í þremur húsum. Höllinni, Alþýðuhúsinu og Kiwanishúsinu. Líklega um sex- til sjö hundruð manns þegar allt er talið. Og enn fleiri á dansleikjunum eftir skemmtanirnar. Þetta voru góðir og skemmtilegir tímar. Minn fyrsti Sjómannadagur í Eyjum var 1989. Þá fórum við áhöfnin á Frigginni sem Magni Jó var með, í Höllina til Pálma Lór og vorum niðri á Mylluhól. Einn bar var á hæðinni og sú sem sá um barinn þurfti að bregða sér í eldhúsið til að uppvarta. Komin var löng röð við barinn. Þá brá ég mér innfyrir barborðið og afgreiddi brennivín ofan í þyrsta sjómenn, tvöfaldan, þrefaldan og black russian. Þangað til ég sá bardömuna koma til baka. Enginn þurfti að borga á barnum hjá mér. Fyrirgefðu Pálmi minn.   Í Sjómannadagsráði Eftir nokkur ár í Eyjum var ég kominn í Sjómannadagsráð fyrir Jötunn og ekki varð aftur snúið. Afskaplega skemmtilegur tími að skipuleggja og vinna við Sjómannadaginn. Margir sjómenn sem maður hefur unnið með gegnum árin við skipulagningu og vinnu við daginn. Við þá segi ég takk fyrir samstarfið drengir þetta var stundum erfitt en á endanum alltaf gaman og gefandi. Að standa með sinn félagsfána við minnisvarða hrapaðra og drukknaðra við Landakirkju á Sjómannadegi og hlusta á Snorra Óskarsson minnast okkar föllnu félaga er í raun einstakt og ómetanlegt í minningunni. Þar drjúpum við sjómenn höfði fyrir Guði og mönnum. Við finnum fyrir smæð okkar fyrir Almættinu og náttúruöflunum. Sjómannadagurinn hefur alltaf verið hátíðisdagur í Eyjum og er enn. Sjómennirnir sjálfir hafa borið merkið, skipulagt og unnið vinnuna kringum hátíðina. Þannig viljum við hafa það. Við peyjana í Sjómannadagsráði segi ég, þið eruð dugnaðarforkar og sjómannastéttinni til sóma.   Sjómenn, fjölskyldur og allir Vestmannaeyingar til hamingju með Sjómannadaginn og mætum öll á viðburði helgarinnar.   Með Sjómannadagskveðju Valmundur Valmundsson  

Silja Dögg Gunnarsdóttir - Bjartar vonir veikjast

Bjartar vonir vöknuðu hjá Eyjamönnum og öðrum fyrir nokkrum árum síðan þegar ákvörðun var tekin um að byggja nýja höfn í Landeyjum og smíða nýja ferju. Í áratugi höfðu Eyjamenn búið við brotakenndar samgöngur. Fréttin af höfninni og ferjunni breiddist út og fólk sem hafði flutt frá Vestmannaeyjum, m.a. vegna slæmra samgangna, flutti nú heim aftur. Aðrir stofnuðu fyrirtæki til að geta tekið á móti ferðamönnum og fóru í því skyni út í umtalsverðar fjárfestingar.   Ferðaþjónustan í uppnámi Nú, mörgum árum síðar, er staðan enn slæm og ekki fyrirséð að hún batni í bráð af fjölmörgum ástæðum. Íbúar í Vestmannaeyjum, sem hafa haldið í vonina um úrbætur, eru sumir við það að gefast upp á biðinni eftir bættum samgöngum. Ferðaþjónustan er í uppnámi en nú þegar hefur einn aðalmánuðinn af vertíðinni, af fjórum, nánast fallið niður. Skaði samfélagsins er gríðarlegur en hann er þó ekki eingöngu mældur í krónum og aurum, því miður.   Svarleysi Nýlega var haldinn fjölsóttur fundur í Höllinni þar sem íbúar komu saman og ræddu samgöngumál, fóru yfir stöðuna og hver yrðu næstu skref. Þar kom fram að smíði nýrrar ferju er hafin en óvíst er með hvað eigi að gera til að gera varðandi nauðsynlegar úrbætur á Landeyjahöfn. Hvar er t.d. sanddælubúnaðurinn fyrir höfnina sem lofað var? Verður gamli Herjólfur látinn sigla áfram til Þorlákshafnar þegar nýja ferjan kemur til að tryggja flutninga á milli lands og Eyja? Hvers vegna þurfa Eyjamenn t.d. að borga háa vegatolla af sínum þjóðvegi þegar aðrir landsmenn þurfa ekki að gera það? Engin svör fengust við þessum spurningum á fundinum.   Óánægja með verð og tímatöflu Rekstraraðili Eimskips í Eyjum fékk fjölmargar fyrirspurnir og ábendingar varðandi bætta þjónustu og aðbúnað um borð. Fólk gagnrýndi tímatöfluna, bókunarkerfið og vildi fá nánari upplýsingar um samning Eimskips í þeim tilgangi að átta sig betur á verðlagningu farmiða. Fátt var um svör en ljóst að útboð verður á rekstrinum í haust og Eimskip hyggst sækjast eftir að fá umboðið. Sumir töldu að rekstrinum verði betur fyrirkomið hjá sveitarfélaginu og þá hugmynd ber að skoða vandlega. Að fundi loknum hafði undirrituð orðið örlítið vísari um sögu Herjólfs en vissi litlu meir en áður um næstu skref málsins. Ljós er að íbúar eru langþreyttir og hundóánægðir með ástandið.   Ferðin með Baldri Heimferðin frá Vestmannaeyjum var svo sér kapítuli út af fyrir sig. Þar sem flugið féll niður vegna veðurs stökk undirrituð um borð í Baldur. Eftir þá viðbjóðslegu sjóferð spyr maður sig óhjákvæmilega að því, hvaða snillingi datt í hug að taka bátinn af Vestfirðingum og skerða þeirra samgöngur enn frekar niður og senda hann suður til siglinga á milli lands og Eyja? Báturinn er alls ekki gerður fyrir úthafssiglingar og skoppaði um í umtalsverðri ölduhæð eins og korktappi. Eftir klukkustund náðum við til lands og martröðinni var lokið. Ég mun jafna mig á sjóveikinni og hef heitið því að stíga ekki um borð í dallinn aftur. Íbúar í Vestmannaeyjum hafa hins vegar ekkert val þar sem kerfið okkar er þannig að ákveðin grunnþjónusta er staðsett uppá landi, svo sem fæðingarþjónusta en sú umræða er efni í aðra grein.   Planið Þingmenn kjördæmisins munu án efa halda áfram að beita sér fyrir bættum samgöngum til Vestmannaeyja enda er ekki um flokkspólitískt mál að ræða heldur samfélagslegt réttlætismál. Opinn fundur bæjaryfirvalda með ráðherra samgöngumála og yfirmönnum Vegagerðarinnar sem halda á í kvöld er löngu tímabær. Þar á að krefjast svara um verkáætlun og tímalínu. Við þingmenn getum spurt og talað en samband við framkvæmdavaldið er nauðsynlegt ef árangur á að nást. Ég mæti, ef það verður fært…  

Elliði Vignisson: Lítil mynd, en stór tíðindi

Það kann að vera að myndin hér til hliðar virki lítilfjörleg. Í henni er engu að síður fólgið fyrsta skrefið að næsta áfanga í því að bæta samgöngur við Vestmannaeyjar. Hún sýnir fyrstu stálplötuna í nýja Vestmannaeyjaferju vera skorna niður í skipasmíðastöðinni Crist í Póllandi og reiknað er með að skrokkurinn verði settur saman í haust. Gangi allt eftir verður ný Vestmannaeyjaferja afhent í Póllandi 20. Júní á næsta ári og hefur siglingar fyrir þjóðhátíð á næsta ári.  Ný kynslóð af ferju Sú ferja er í öllum megin dráttum sambærileg og núverandi Herjólfur í stærð en ber þó umtalsvert meira bæði af bílum og farþegum. Að sjálfsögðu verður hún með fullt haffæri til siglinga um öll heimsins höf, þar með talið til Þorlákshafnar. Mestu skiptir samt að henni er ætlað að sigla við allt annað öryggi í Landeyjahöfn og ráða við amk. 3,5 ölduhæð. Hin nýja ferja er algerlega ný kynslóð af ferjum, búin „azipull“ skrúfum, tvinntækni og fl. sem ekki hefur verið í farþegaskipum við Ísland áður.   Allt gengur vel Undirbúningur hefur gengið vel. Unnið hefur verið að því að fá þann raf- og vélbúnað sem til þarf en talsverður afgreiðslufrestur vill oft verða á slíku. Þá hefur einnig verið unnið í smávægilegri útfærslum og lokahönnun á til dæmis loftræstibúnaði auk þes sem líkanið var prófað til að reyna skrúfurnar, ganga frá loka útfærslu á þeim og finna út viðnám skrokks og fleira. Öfugt við það sem sögurnar hafa sagt hér í Eyjum þá gekk það allt saman vel.   Breyta þarf höfninni Fyrirliggja fyrirheit samgönguyfirvalda um að smíðatíminn verði nýttur til að gera nauðsynlegar breytingar á höfninni sjálfri og ber þar hæst breyting á innrigörðum (austan við viðlegukanntinn) sem og ný aðferð til dýpkunar sem tryggja á nægt dýpi í innsiglingunni.   Nóg komð af kyrrstöðu Það er nóg komið af kyrrstöðu. Samfélagið hér í Eyjum þarf á því að halda að samgöngur verði færðar til betri vegar.  

Fréttatilkynning frá Hollvinasamtökum Hraunbúða

Hollvinasamtök Hraunbúða, nýstofnuð samtök, sem hafa það að markmiði að aðstoða heimilisfólk og aðstandendur Hraunbúða eru smátt og smátt að koma starfsemi samtakanna á fullt. Nú nýverið gekk stjórnin frá formlegri skráningu samtakanna og fékk við það kennitölu og í kjölfarið voru stofnaðir reikningar í bönkunum hér í Eyjum, Íslandsbanka og Landsbanka. Á báðum stöðum er sama númer, 200200 og kennitala samtakanna er 420317-0770 .   Styrktaraðilar eru í dag vel á annað hundrað og unnið er í því að safna fleirum. Þeir sem hafa þegar skráð sig í samtökin, geta því lagt inn á 0582-26-200200 í Íslandsbanka eða 0185-26-200200 í Landsbanka. Lágmarksgjald einstaklinga er kr. 2.500,- og fyrir fyrirtæki 25.000,-, að sjálfsögðu er öllum frjálst að greiða meira ;).   Nú þegar hafa samtökin hitt starfsfólk og stjórnendur Hraunbúða, sem og fundað með aðstandendum heimilisfólks. Margt gagnlegt kom út úr þeirri þarfagreiningu og liggur þegar fyrir aðgerðarlisti sem unnið verður með og að næstu vikur og mánuði. Það fyrsta sem verður ráðist í eru kaup á þremur hjólastólum, en markmiðið er líka að vinna með öðrum aðilum sem hafa stutt vel við bakið á heimilisfólki í gegnum tíðina. Næsta verkefni eru kaup á nýjum blóðþrýstingsmæli, sem vonandi verður kynnt fljótlega.   Þá hefur verið ákveðið að efna til Vorhátíðar þann 27. maí, milli klukkan 14 og 16. Hollvinasamtökin bjóða þar heimilisfólki og aðstandendum þeirra í sannkallaða sumarveislu og til viðbótar eru allir eldri borgara í Eyjum boðnir hjartanlega velkomnir. Dagskrá vorhátíðar verður auglýst á næstu dögum.   Í spjalli okkar við aðstandendur og starfsfólk Hraunbúða kom margt fram sem hægt er að vinna að. Það er mikilvægt að hlúa vel að heimilisfólki og markmiðið hjá öllum sem að Hraunbúðum koma er að öllum líði sem allra best. Nú þegar erum við komin í samband við Rauða krossinn, sem hafa boðið upp á heimsóknarvini. Það göfuga starf er fjölbreytt og hægt er að kynna sér allt um það inn á www.raudikrossinn.is.   Þá hefur nú þegar verið ein dýraheimsókn og fleiri á döfinni. Samtökin hafa einnig ákveðið að bjóða upp á helgarbíltúr Hollvinasamtakanna. Þar verður heimilisfólki boðið í stuttan bíltúr kl. 14 á laugardögum, en ef það viðrar ekki vel og spáin betri fyrir sunnudaginn, verður sunnudagsbíltúr um Eyjuna að sjálfsögðu frekar fyrir valinu. Aðstandendur og aðrir geta lagt okkur lið í þessu og boðið fleirum með í bíltúr um Eyjuna. Helgarbíltúrinn verður betur kynntur inn á Facebooksíðu samtakanna.   Mjög góð hugmynd kom upp í spjalli samtakanna við aðstandendur, en það var að gera Þrettándaupplifun heimilisfólks sterkari og að gera Þrettándann að meiri fjölskyldu-og samverustund. Á næsta ári munu samtökin því standa fyrir Þrettándagleði á Hraunbúðum með kaffi og meðlæti. Jóla- og Þrettándalög spiluð og vonandi fleiri uppákomur, ásamt því að fá hefbundna heimsókna jólasveinanna, með tilheyrandi flugeldasýningu.   Hollvinasamtökin munu taka að sér vinnu við nýtt aðstandendaherbergi Hraunbúða, en til stendur að útbúa það á næstunni.   Samtökin auglýsa eftir aðila eða aðilum, sem geta tekið að sér upplestur úr bókum vikulega fyrir heimilisfólk. Tveir aðilar gætu líka skipt þessu á sig á tveggja vikna fresti. Sannarlega gefandi verkefni. Áhugasamir geta haft samband við Halldóru Kristínu í síma 861-1105 eða í tölvupósti, hallda78@hotmail.com.   Þegar Guðni Ágústsson og Jóhannes Kristjánsson komu til að skemmta Eyjamönnum, fengu Hollvinasamtökin þá félaga til að koma og skemmta heimilisfólki Hraunbúða. Það gerðu þeir svo sannarlega og kom Guðni þar að auki færandi hendi með tvær bækur sem hann hefur skrifað. Virkilega skemmtileg stund á Hraunbúðum og þökkum við þeim félögum kærlega fyrir komuna.   Á þessari upptalningu sést að mörg spennandi verkefni bíða samtakanna. Við hvetjum sem flesta til að gerast hollvinur Hraunbúða með því að styrkja samtökin og þannig stuðla að enn betri þjónustu við heimilisfólk. Við viljum líka bjóða alla hjartanlega velkomna sem vilja leggja samtökunum lið í þeim fjölmörgu og fjölbreyttu verkefnum sem framundan eru. Um leið þökkum við fyrir frábærar viðtökur og hlökkum til samstarfsins við bæjarbúa.    

Ari Trausti - Vor í lofti

Í gamla tímatalinu var fyrsti vetrardagur boðberi hækkandi sólar og betri tíðar með blóm í haga. Oftast var vorið þó varla vaknað en það sjáum við að þessu sinni gerast fyrstu vikur í maí. Veturinn var fremur mildur að jafnaði og í nokkru samræmi við hlýnandi veðurfar á heimsvísu. Náttúran býður samtímis upp á óvænta atburði eins og nýlegan jarðskjálfta skammt frá Árnesi, samt með öllu eðlilegan vegna spennulosunar í Suðurlandsskjálftabeltinu. Sömu augum getur verið að við munum bráðum líta eldgos í þeim fjórum megineldstöðvum sem allar sýna merki innri spennu og jafnvel upphitunar: Bárðarbungu, Kötlu, Heklu og Grímsvatna. Eins og ávallt fyrr, vonum við að eldsumbrotin valdi sem minnstum vandræðum og tjóni. Á Alþingi hefur veturinn liðið án stórra frétta. Stjórn og stjórnarandstaða takast á, oftast vel málefnalega og ná jafnvel saman eins og við afgreiðslu frumvarps um farþega- og farmflutninga, þar með talið almenningssamgöngur. Stóru bitbeinin krefjast meiri átaka. Þau eru til að mynda ríkisfjármálaáætlun og rammaáætlun, áætlun um orkuskipti, virðisaukaskattur á ferðaþjónustu, samgönguáætlun og stefnan í heilbrigðis- og menntamálum svo nokkuð sé nefnt. Ekki er vitað hvenær þingi lýkur en gera má ráð fyrir þing sitji fram í júnímánuð. Erfitt er að benda á umtalsverðar framfarir í málefnum Suðurkjördæmis, um fram það sem samþykkt var með fjárlögum fyrir 2017, án aðkomu ríkisstjórnar. Þar liggur á mörgu, svo sem frekari vegabótum, úrbótum í heilbrigðismálum, á ferðamannastöðum, í menntamálum og velferðarmálum. Því miður eru núverandi stjórnvöld afar treg til að afla fjár til bráðnauðsynlegra aðgerða og um það deila stjórnarliðar og við hin. Hvað sem pólitíkinni líður er ástæða til að gleðjast yfir vor- og sumarkomunni og hyggja vel að umhverfi til sjós og landa og að dýrum og fólki. Öll höfum við ólíkar aðstæður að kljást við og margar væntinganna verða aðeins að veruleika með samhjálp. Ég hef náð að skjótast hingað og þangað í kjördæminu í eftir að þinghald hófst í haust. Heimsóknirnar hafa verið ánægjulegar og ég þakka móttökur og fundi. Varla má slá slöku við því nú stefnir í sveitastjórnarkosningar næsta vor og að nýjum fjárlögum í haust. Ég sendi góðar vor- og sumarkveðjur í kjördæmið allt, frá Garðskagavita til Hornafjarðar, frá efstu sveitum Suðurlands suður til Víkur.     -Ari Trausti Guðmundsson er 6. þingmaður Suðurkjördæmis, fyrir VG

Kári Bjarnason, forstöðumaður Safnahúss skrifar: Knattspyrnuveislan að hefjast

Um helgina hefst sjálft knattspyrnuárið í efstu deild. Föstudaginn 28. apríl kl. 18:00 er komið að fyrsta leiknum er kvennaliðið okkar fær erkifjendurna KR í heimsókn en karlarnir, sem einnig eiga sinn fyrsta leik heima, mæta Fjölni sunnudaginn 30. apríl kl. 17:00. Ég hvet lesendur blaðsins til að fjölmenna á leiki ÍBV í sumar og njóta þeirra töfra sem búa í knattspyrnunni. Einfaldast er að kaupa árskort á kvennaleikina sem kosta aðeins 10.000 og ganga í stuðningsmannaklúbb karlanna fyrir 2.500 á mánuði. Undanfarin sumur hef ég mætt á flesta heimaleiki karla og kvenna og ég viðurkenni að ég sakna fleiri áhorfenda á kvennaleikina. Að mínu mati hafa leikirnir í kvennaknattspyrnunni almennt verið skemmtilegri en karlaleikirnir síðustu sumur. Fyrir einstakling sem spilar ekki nema með hjartanu er stórkostlegt að upplifa leik eftir leik þar sem heilt lið er sameinað í að gefast aldrei upp, elta alla bolta, fara í öll návígi, gleðjast þegar vel gengur, þjappa sér saman þegar á móti blæs og berjast og berjast. Ef þessi baráttuandi verður einnig til staðar hjá körlunum í sumar geta þeir komist ansi langt. En mér hefur fundist sem karlaknattspyrnan hafi verið kaflaskiptari. Stundum hefur að vísu verið hrein unun að horfa á karlaleikina, eins og dáleiddur stendur maður handan við girðingu og sér sóknirnar bylja á andstæðingnum eins og fárviðri standi yfir. Aðra stundina ólgar reiðin innra þegar leikmenn virðast veigra sér við að fara í sókn og dóla í þess stað endalaust á miðjunni. Óafmáanleg er minningin frá 93. mínútu í leik við Val fyrir fáeinum árum, við erum undir 0:1 og eigum innkast á vallarhelmingi andstæðingsins. En ónefndur leikmaður ÍBV lullar á eftir boltanum til að taka innkastið í stað þess að hlaupa. Á þjálfarabekk heyrist mjóróma væl sem engu breytir og tíminn rennur út. Stundir sem þessar líða illu heilli seint úr minni.   Fegurð þessa stórfenglega leiks Miklar tilfinningar eru þannig fylgifiskur knattspyrnuáhorfs. Að sjá Cloe þjóta upp völlinn með boltann límdan við lappirnar eða Sigríði Láru standa sem klettur á miðjunni eða Kristínu Ernu skyndilega komna á auða svæðið fyrir framan markið gefur gleði sem er líklega samstofna þeirri sem vímuefnaneytendur leita uppi alla tíð. Það stórkostlega við knattspyrnuna er að það þarf aldrei að renna af manni, alltaf einhvers staðar er verið að spila og með nútímatækni má vel una sér við að horfa á leiki í beinni útsendingu hvar og hvenær sem andinn grípur mann. Ég fór og fékk box á stærð við hálfan fótbolta. Með því undratæki er ég kominn með á annað hundrað knattspyrnustöðva hvaðanæva að úr veröldinni og þó þulir gargi á arabísku, grísku eða kínversku haggar það ekki við fegurð þessa stórfenglega leiks.   Mætum snemma Knattspyrnusýki er sem betur fer ólæknandi sjúkdómur. Ég hvet lesendur til að mæta snemma á völlinn, talsvert fyrir leik. Það er einfaldlega ekkert sem toppar að standa handan girðingar og sjá byrjunarliðið þitt vera að hita upp, taka eftir eða þykjast taka eftir hverjir ætla að nýta tækifærið, hvernig stemningin er í hópnum, sjá ný andlit og verða allt í einu snortinn af einhverju sem þú hefur ekki tekið eftir áður. Þannig leið mér þegar ég sá Gústa hið fyrst sinnið og svo get ég aldrei gleymt samlanda hans sem ég hlakkaði svo ósegjanlega til að sjá spila meira og meira. Í dag man ég ekki lengur nafnið hans. Aðeins stendur eftir minning af dásamlegri leikni í undirbúningnum og leiftrandi hraðabreytingum í örfáum sóknum sem ég sá hann leika.   Abel var engin hugarsýn Stundum hvarflar að mér að hann hafi verið hugarsýn fremur en raunverulegur einstaklingur, draumur á borð við brasilíska landsliðið sem handan við vökulífið er ennþá með Vava, Didi, Pele og hinn óviðjafnanlega Garincha innanborðs – þar til þú vaknar. En svo man ég aðra sem klárlega voru staðreynd og eru því miður horfnir á brautu. Abel var t.d. engin hugarsýn. Hann gat bæði heillað með sínum stóru höndum og kramið hjarta manns með á stundum óþarflega djörfum úthlaupum. Ég mun heldur aldrei gleyma því þegar ég horfði á hann eitt sinn taka snúning fyrir leik með nokkrum samherjum. Hvílík boltatækni, ætli hann hafi verið útileikmaður einhvern tíma? Svona renna saman myndir af gleði og sorg leiksins, ógleymanlegum einstaklingum sem heilla og ungum strákum sem maður sér að eru farnir að berja á dyrnar að byrjunarliðinu. Knattspyrnan er í senn andartakið þar sem einstaklingsframtakið blossar og eilífð þar sem herfræðileg list þvingar alla í liðinu til að vinna saman sem þar færi aðeins einn maður, ein sál og tíminn leysist upp. Sá sem leitar gleðinnar á að arka út á Hásteinsvöll. Mætið á kvennaleikina algjörlega til jafns við karla- leikina. Mætið helst vel fyrir leik. Njótið og hvetjið. ÍBV á vonandi eftir að eiga gott sumar bæði í karla- og kvennaknattspyrnunni.   Gleðilegt knattspyrnusumar.  

Georg Eiður - Gleðilegt sumar - Lundinn sestur upp

Að venju hefst sumarið hjá mér þegar lundinn sest upp og hann settist upp í gærkvöldi 16. apríl, sem er á þessum hefðbundna tíma. Kannski ekki beint sumarlegt veður í dag, en svona er nú einu sinni vorið okkar.   Ég ætla að vera nokkuð bjartsýnn með lunda sumarið í ár og finnst ég hafa ástæðu til, því eftir að hafa fengið nokkur þúsund bæjarpysjur bæði 2015 og 16, samfara miklu æti í sjónum allt í kring um landið og þá sérstaklega loðnu. Vonandi gengur það eftir.   Þann 28. febrúar sl. mætti ég á ágætan kynningarfund um þessa svokölluðu friðun fuglastofna í Vestmannaeyjum. Eins og við var að búast, þá eru eyjamenn almennt á móti þessu friðunar hjali, enda ekki góð reynsla af því þegar ríkið ræður yfir einhverju, samanber heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja og niðurskurðum þar, en svona blasir þetta við mér.   Umhverfisráðherra getur að sjálfsögðu hvenær sem er sett á friðun, en að öllu eðlilegu, þá gerir ráðherrann það ekki nema beðið sé um. Verði friðunin hins vegar sett á, þá verður ráðherrann að taka ákvörðun og á þeim nótum bar ég upp eina spurningu í lok fundar, sem var þannig að ef við gefum okkur það að búið sé að setja þessa friðun á og ráðherra fái inn á sitt borð ósk Vestmannaeyjabæjar um að leyfa áfram nokkra veiðidaga, en líka inn á sitt borð yfirlýsingar frá Dr. Erpi og Dr. Ingvari, að veiðar í nokkurri mynd væru ekki sjálfbærar á nokkrun hátt. Svar fulltrúa ríkisins var eins og við var að búast, að auðvitað myndi ráðherrann fyrst og fremst horfa á niðurstöðu rannsóknaraðila, Dr. Erps og Dr. Ingvars.   Þess vegna er mikilvægr að þessi friðun verði aldrei sett á og mér er eiginlega alveg sama um, hvaða fármunir þekkingarsetur Vestmannaeyja telur sig geta haft út úr þessu. Ég verð einfaldlega alltaf á móti því að færa yfirráðarréttinn á nokkru hér í Eyjum til ríkisins, sporin hræða.   Það skiptir engu máli þó að ég sé hættur að veiða og ætli mér ekki að veiða lunda oftar í Eyjum að öllum líkindum, sem er ekki bara ákvörðun sem ég hef tekið, heldur fjöl margir aðrir veiðimenn og þar með sýnt og sannað að okkur er treystandi til þess að fylgjast með og vernda okkar eigin fuglastofna.   Lundinn mun koma til Eyja í milljónatali löngu eftir að við erum farin héðan.   Georg Eiður Arnarson.    

Ragnar Óskarsson - Það er þetta með samhengið

  Að undanförnu hafa ráðamenn þjóðarinnar verið óþreytandi við að skýra fyrir okkur hversu vel allt gengur hjá okkur hér á landi. Bókstaflega allt sé í blóma. Við þurfum hins vegar ekki að kafa djúpt til þess að sjá hve hæpin og röng sú mynd er sem þeir draga upp fyrir okkur. Dæmin tala: • Heilbrigðisþjónustan er í molum og engar lausnir fram undan. Landspítalinn er yfirhlaðinn og fjárvana og það bitnar auðvitað á sjúklingum, einkum þeim sem minnst mega sín. • Sífellt er þrengt að menntakerfinu og nám gert erfiðara, sérstaklega fyrir venjulegt fólk. • Samgöngukerfi landsmanna er í megnasta ólestri og áætlanir um umbætur eru gersamlega úr takt við þá þörf sem blasir við. • Kjör aldraðra og öryrkja eru skammarleg. Fálmkenndar og yfirborðslegar aðgerðir duga engan veginn til að bæta þar úr. • Húsnæðismál ungs fólks eru í algerum ólestri. • Raunveruleg fátækt kemur æ oftar til umræðu þegar þegar félagsleg staða landsmanna er skoðuð. Ráðamenn þjóðarinnar annað hvort afneita þessum staðreyndum eða segja okkur að ekki séu til peningar til þess sinna því sem hér er gert að umræðuefni sem. Og þar með er málið afgreitt af þeirra hálfu. Það eru reyndar til meira en nóg af peningum í þessu landi. Vandamálið er hins vegar það að núverandi stjórnvöld eru ekki tilbúin undir nokkrum kringumstæðum að sækja þá penings sem nægðu til að koma heilbrigðisþjónustunni í lag, bæta menntakerfið, vinna að nauðsynlegu úrbótum í samgöngumálum, bæta úr húsnæðismálum ungs fólks og útrýma fátækt í landinu. Þessir peningar eru nefnilega í höndum hins auðuga hluta þjóðarinnar, þess hluta sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur slegið skjaldborg um. Flokkurinn stundar nefnilega grímulausa hagsmunagæslu fyrir hina ríku á kostnað þeirra sem minna og lítið sem ekkert hafa til skiptanna. Meðan þetta ástand varir eykst ójöfnuðinn í landinu og vandamál þeirra sem minnst hafa gera lítið annar an að aukast. Við hér í Eyjum höfum ekki farið varhluta af stöðunni. Og þá komum við að þessu með samhengi hlutanna. Á meðan ríkisstjórnin neitar að nota þá peninga sem til eru í heilbrigðismál er varla von til þess að að byggja upp nauðsynlega heilbrigðisþjónustu í Eyjum. Það er heldur ekki von til þess að við getum gert okkur raunhæfar vonir um úrbætur í samgöngumálum, hvorki á sjó né á landi. Ófullnægjandi framlög og stöðugur niðurskurður ríkisins til flugsamgangna innanlands mun einungis minnka þjónustu víða um land. Þetta dæmi þekki ég sérstaklega það sem ég hef setið í stjórn Isavia um nokkurt skeið og orðið vitni að því hvernig ríkið svíkur gefin loforð um framlög til flugvalla sem óhjákvæmilega, en því miður, kallar á samdrátt í allri flugvallastarfsemi. Árásir á aldraða og öryrkja munu halds áfram hér í Eyjum sem annars staðar og ungu fólki verður gert ókleift að hafa aðgang að húsnæði. Ofan á þetta allt mun síðan fátækt aukast. Það blasir sem sé við að beint samhengi er milli stefnu núverandi ríkisstjórnar undir forystu Sjálfstæðisflokksins og þess ástands sem lýst hefur verið hér að framan. Svo leyfir ólíklegasta fólk, jafnvel frammámenn hér í Eyjum að bera það á borð fyrir okkur að Sjálfstæðisflokkurinn gæti hagsmuna almennings á sama tíma og bilið milli þeirra sem mest og minnst hafa eykst sífellt.     Ragnar Óskarsson      

Menningarverðmæti Eyjamanna lokuð ofan í kössum

Ég er hugsi yfir menningarverðmætum okkar Eyjamanna og hvernig við eigum að halda sögu okkar á lofti. Eftir því sem ég kemst næst er töluvert af menningarmunum okkar geymdir í kjallara Safnahússins og á lofti Miðstöðvarinnar við Strandveg. Ég leiddi hugann að þessu þegar ég sá gamlar ljósmyndir af heimili hér í Eyjum. Á einni myndinni voru stórkostlegir munir sem aðstandendur gáfu byggðasafninu á sínum tíma. Nú eru þessir munir geymdir ofan í kössum í stað þess að þeim sé sómi sýndur með því að hafa þá til sýnis á safni, fyrir almenningssjónum. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt. Allir munir sem geymdir eru í kjallara Safnahússins og á lofti Miðstöðvarinnar eru menningarverðmæti þeirra sem byggðu upp samfélagið okkar, Vestmannaeyjar. Við eigum að virða söguna og halda henni á lofti. Eitthvað er um að þessir munir séu dregnir fram í dagsljósið úr geymslunum annað slagið. En að mínu viti er það ekki nóg. Það þarf að koma þeim öllum á einn stað þar sem safnið og þar af leiðandi sagan er sýnd gestum og gangandi. Safnahúsið hefur fyrir löngu sprengt starfsemina utan af sér en Helga Hallbergsdóttir og Kári Bjarnason ásamt öðru starfsfólki safnsins vinna þar mjög gott starf miðað við aðstæður. Nýtt og/eða stærra Safnahús eða Byggðasafn, sem sýndi okkur og gestum og gangandi alla þessa muni sem tengjast sögu Eyjanna væri sannarlega rós í hnappagat bæjaryfirvalda. Við skulum ekki gleyma forfeðrum okkar sem byggðu upp Eyjarnar með mikilli vinnu og eljusemi og lögðu grunninn að samfélagi okkar í dag. Sýnum þeim virðingu okkar þannig að við getum verið stolt af. Sýnum munina frá heimilum forfeðra okkar sem draga upp söguna og svipmyndir forfeðra okkar, sorgir og sigra. Eldheimar risu á mettíma og ekkert var til sparað enda verið að segja stórbrotna sögu. Það ætti því ekkert að vera því til fyrirstöðu að koma upp nýju Safnahúsi sem við getum öll verið stolt af. Saga Vestmannaeyja er ótrúlega viðburðarík og kraftmikil og við þurfum að gera henni góð skil.  

Ragnar Óskarsson - Burt með lítilsvirðinguna

Fyrir nokkrum árum komu fjölmargir Vestmannaeyingar saman á Stakkó til að mótmæla ófremdarástandi því sem ríkti í heilbrigðismálum okkar Eyjamanna. Þessi mótmæli áttu fyllilega rétt á sér enda var margt í megnasta ólestri og full ástæða til þess að mótmæla ástandinu og setja fram kröfur um umbætur. Í mótmælunum bar mest á hetjulegri framgöngu margra forystumanna Sjálfstæðisflokksins í bænum og í máli sínu hlífðu þeir ekki ríkisstjórninni sem þá sat við völd. Stór orð fuku enda málið grafalvarlegt. En hvað hefur síðan gerst. Ég held að fullyrða megi að ekkert hafi gerst og enn búum við hér við allsendis ófullnægjandi heilbrigðisþjónustu. Hér þarf ekki að tíunda frekar þá ömurlegu stöðu sem heilbrigðismál okkar eru í, hún er okkur öllum kunn og er til háborinnar skammar. Frá því að boðað var til mótmælanna á Stakkó hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið ráðandi í tveimur ríkisstjórnum og m.a. sérstaklega farið með heilbrigðismálun í landinu. Þeir sem hæst töluðu í mótmælunum hafa einhverra hluta vegna hvorki haft hátt síðan né mótmælt framkomu stjórnvalda nú eins kröftuglega sköruglega sem þá. Þeim ætti hins vegar að vera auðveldara nú en fyrr að ná eyrum ráðamanna þar sem flokkssystkini þeirra fara nú með völdin í landinu. Nú er lag. Ég legg því til að það ágæta fólk sem fór með eldmóðinn að vopni á mótmælafundinn á Stakkó hér um árið sjái til þess að enn á ný verði haldinn fundur á Stakkó. Þar mætti endurtaka ummælin sem þá voru höfð uppi og jafnvel gefa í ef eitthvað er. Ég er meira en til í að mæta eins og þá og ég er viss um að fleiri eru til. Slagorðið á fundinum gæti verið: „Ríkisstjórn Íslands, burt með lítilsvirðingu ykkar gagnvart heilbrigðismálum Vestmannaeyinga.“    

Landeyjahöfn, framhald af síðustu grein

Það var mjög ánægjulegt að sjá svar Sigurðar Áss við minni síðustu grein og kannski svolítið skrítið fyrir mig vegna þess, að eftir vandræðaganginn haustið 2010, þar sem í ljós kom að öll varnarorð mín frá því árunum áður varðandi Landeyjahöfn reyndust á rökum reist, heftur ríkt hálfgerð þöggun um mín skrif um Landeyjahöfn og vil ég þakka þeim á Eyjafréttum fyrir að ná eyrum Sigurðar.   Svar Sigurðar kom mér kannski ekki á óvart, enda heyrt svipað frá honum á opnum fundum og ekki dettur mér til hugar að efast um að hann fari með rétt mál varðandi þessi A-B-C svæði. Vandamálið hjá mér er kannski það, að ég setti þetta í mína síðustu grein vegna orða reynds skipstjóra úr eyjaflotanum, sem mér dettur ekki heldur til hugar að rengja, svo mér er nokkur vandi á höndum og þó.   Orð Sigurðar segja í raun og veru allt sem segja þarf, nýja ferjan mun geta siglt, samkv. þessu, til Þorlákshafnar, en hún er fyrst og fremst hönnuð og smíðuð til siglinga í Landeyjahöfn. Svo spurningin er því kannski fyrst og fremst þessi: Mun ferjunni nokkurn tímann verða siglt til Þorlákshafnar og hvað gerist ef frátafir verða sambærilegar til Landeyjahöfn og með núverandi ferju.   Það eru ótrúlega margir sem hafa komið að máli við mig núna í vikunni og ég hef fengið hinar ótrúlegust spurningar og jú, líka kjaftasögur. Svo mig langar að minna á það, að fyrir ári síðan var ákveðinn hópur fólks hér í bæ að vinna að því að koma á opnum fundi með hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu, fyrirtækjum í Vestmannaeyjum ásamt fulltrúum Siglingamálastofnunar, samgönguráðherra og annarra.   Ég kalla eftir því að slíkur fundur verði haldinn, það eru einfaldlega allt of margar kjaftasögur í gangi og um leið allt of mörgum spurningum ósvarað. Svo ég taki nú bara tvö pínulítil dæmi, sem samt skipta gríðarleg miklu máli. Margir sem skoðað hafa teikningar af nýju ferjunni, hafa verið óhressir með það, að kojunum í ferjunni skyldi vera snúið þversum, en svo heyrði ég það í dag, að búið væri nýlega að breyta þeim í langsum, sem breytir ansi miklu fyrir þá sem þekkja til.   En mikilvægara, að aðeins í þessari viku er ég búinn að heyra sennilega um 3 útgáfur af því, að samningurinn við þá sem eiga að smíða ferjuna, sé í uppnámi vegna þess að þeir neiti að bera ábyrgð á ferju, svona grunnristri, sem þeir áttu enga aðkomu að að hanna.   Að öðru leyti veit ég ekkert um þetta, en þessum spurningum þarf að svara og ég skora hér með á bæjarstjórn Vestmannaeyja að beita sér fyrir því að slíkur fundur verði haldinn sem fyrst.  

Georg Eiður Arnarson - Landeyjahöfn, staðan í dag

Landeyjahöfn opnaði í vikunni sem er óvenju snemmt. en fyrst og fremst ánægjulegt. Ástæðan er fyrst og fremst hagstæðar vindáttir að undanförnu þannig að Galilei fékk nægan tíma til þess að dæla út úr höfninni. Ég minni þó á að það er enn vetur og er t.d. ölduspáin að sýna allt að 7 metra ölduhæð um miðja vikuna, en veðurspáin fyrir næstu helgi er mun betri.   Eins og svo oft áður, þá rignir inn kjaftasögunum, fyrir sumum er einhver fótur en aðrar eru oft á tíðum tóm þvæla. Það vakti þó athygli mína að í morgunfréttum á Bylgjunni í síðustu viku kom fram að í gagnið væri komin ný aðferð til að losna við sandinn úr höfninni, sem gengi út á það að Galilei dældi niður sjó í höfninni, sem gerði það að verkum að sandurinn þyrlaðist upp og straumurinn bæri síðan sandinn í burtu. Þetta er, eftir því sem ég veit best, tóm þvæla, en rörið sem er framan á Galilei sem vissulega er ætlað til þess að dæla niður í sjó, en er fyrst og fremst til þess að ná betur sandinum frá görðunum, en rörið sem Galilei notar til að dæla sandi upp í skipið nær einfaldlega ekki til að dæla meðfram görðunum, og þess vegna var þessi aðferð fundin upp.   Mér er hins vegar sagt að það sé byrjað að setja upp einhvers konar þil í kring um höfnina landmegin, til þess að reyna að minnka foksandinn í höfninni, en það verður svo bara að koma í ljós hvort að það virkar eða ekki.   Sumar kjaftasögur eru svo ágengar að maður hefur heyrt þær oft, að maður leggur það á sig að leita eftir svörum m.a. hafði ég heyrt það nokkrum sinnum í vetur að ekki yrðu neinar festingar á bílaþilfarinu á nýju ferjunni m.a. til þess að geta fækkað verulega í áhöfninni. Mér þótti þessi saga frekar galin en sannleikurinn er sá, að á þilfari nýju ferjunnar verða svokallaðir fýlsfætur, eða í staðin fyrir raufar eins og á núverandi ferju, verða kúlur með götum í sem hægt er að krækja í þegar binda þarf farartæki niður. Um leið er nokkuð ljóst að ekki verður um verulega fækkun á nýju ferjunni, en hef þó nýlega heyrt það að hugsanlega verður fækkað úr 12 niður í 10 í áhöfn nýju ferjunnar.   Aðrar kjaftasögur hins vegar, vekja meiri athygli mína og sú nýjasta gengur út á það, að nýlega hafi siglingarleiðinni milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar verið færð yfir í svokallað B svæði. Ef það er eitthvað til í því, að nýja ferjan muni aðeins fá siglingaleyfi til siglinga á A og B svæðum, þá er staðan ótrúlega slæm því að veruleikinn er sá, að hafsvæðið milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar telst vera C svæði og ef þetta er rétt, þá skiptir það engu máli þó að nýja ferjan gæti siglt til Þorlákshafnar, þá hefði hún einfaldlega ekki leyfi til þess. Þessu til viðbótar er mér sagt, enn einu sinni, að það sé nánast forms atriði að ganga frá sölu á núverandi ferju og að henni verði hugsanlega flaggað út sama dag og nýja ferjan kemur til Eyja. Í mínum huga er þetta graf alvarlegt mál ef eitthvað af þessu er satt og ég skora hér með á þá, sem hugsanlega vita betur að svara þessu.   Það skiptir í mínum huga engu máli, þó að sumir geri grín að því að það þurfi B plan þ.e.a.s. að halda núverandi ferju í einhvern tíma eftir að nýja ferjan kemur. Það er hins vegar ekki búið að ganga frá þessu máli.   Að lokum þetta: Það hefur verið bara gaman að fylgjast með skrifum annarra um samgöngumálin okkar og fer þar fremstur í flokki bæjarstjórinn okkar. Ég er nú sammála Elliða í því, að ef ekki hefði verið búið að skrifa undir samning varðandi nýju ferjuna, þá hefði sá samningur að öllum líkindum hugsanlega lent undir niðurskurðar hnífnum hjá núverandi ríkisstjórn. Hin hliðin á þessu máli er sú að, nokkuð augljóslega erum við ekki að fara að fá háar upphæðir í nauðsinlegar breytingar og eða lagfæringar á Landeyjahöfn.   Elliði skrifar einnig um að hugsanlega muni fólki fjölga með tilkomu nýrrar ferju, ég hef hins vegar heyrt í fólki á öllum aldri sem er tilbúið að forða sér héðan ef þetta reynist ein illa og margir sjómenn spá. Reyndar hefur því miður líka orðið sú þróun að fólk sem á eldri fasteignir hér í bæ stendur frammi fyrir því að losna ekki við þær, nema jafnvel niður í hálfvirði, sem aftur hefur orðið til þess að fólk svilítið situr fast hérna.   Grein Ómars Garðarssonar frá því fyrr í vetur vakti líka athygli mína, en Ómar furðaði sig á því, hvers vegna ekki fengust neinir fjármunir í að bæta heilsugæsluna okkar og þeirri fáránlegu stöðu að Eyjamenn skuli þurfa að flytja til Reykjavíkur til að fæða börnin okkar. Margir hafa nú fjallað um þetta undanfarin ár og bent þá sérstaklega á þá staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn með allri sitt vald hér í Eyjum og á Alþingi Íslendinga, skuli ekki skila okkur neinu.   Varðandi hins vegar niðurskurðinn á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja, þá fjallaði ég nokkrum sinnum um hann áður en Landeyjahöfn var opnuð, þar sem ég varaði m.a. við því að ef Landeyjahafnar leiðin yrði valin, þá myndi það þýða niðurskurð á hinum ýmsu stofnunum á vegum ríkisins hér í bæ, svo þessi niðurskurður í sjálfu sér hefur ekki komið mér á óvart. Þetta er hins vegar að mínu mati, mikið réttlætismál og í því þurfum við öll að standa saman, en ég harma það enn einu sinni að spádómar mínir um afleiðingar Landeyjahafnar skuli enn einu sinn hafa staðist.  

Binni í Vinnslustöðinni - Að vaða elg og hóta VSV

Til allrar lukku er Kristinn H. Gunnarsson ekki húsasmiður því þá myndi hann lesa sentimetra og tommur til skiptis af mælistokknum sínum, allt eftir því hvað honum þætti henta hverju sinni í sama verkinu. Hætt er við að húsin hans yrðu fyrir vikið ekki endilega hornrétt og innréttingar myndu hvergi passa í ætluð rými. Mælikvarðar eru nauðsynlegir en það verður að kunna að brúka þá.   Í Fréttablaðinu 2. mars víkur Kristinn að skrifum mínum í sama blaði 28. febrúar og ruglar saman framlegð (EBITDA), framlegðarhlutfalli og rekstrarafgangi í skattaspori KPMG.   Í fyrsta lagi er Kristinn H. í málflutningi sínum á svipuðum slóðum og til dæmis Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, sem aldrei skildi mun á hagnaði og framlegð frekar en svo margir stjórnmálamenn. Frá framlegð dragast fjármagnskostnaður, skattar og gjaldfærðar afskriftir og þar kemur hagnaðurinn sem fellur í hlut hluthafa og nýtist til afborgana lána, nýfjárfestinga eða útgreiðslu arðs. Þetta ætti maður með mikla reynslu í stjórnmálum og störfum Alþingis og stjórnsýslu að vita. Á vefjum DV og BB má sjá að Kristinn hafi numið hagfræði og stjórnmálafræði að þingmennsku lokinni, auk BS-náms í stærðfræði í HÍ á yngri árum. Þess vegna verður að ætlast til þess að hann skilji lykilhugtök og beri saman sambærilegar tölur!   Hvort Vinnslustöðin er vel eða illa rekin skiptir engu máli í þessari umræðu en að gefnu tilefni má nefna að á dögunum lýsti Creditinfo hana fyrirmyndartæki, þriðja árið í röð. Árið 2016 var Vinnslustöðin í 35. sæti best rekinna fyrirtækja landsins af alls 35.000 fyrirtækjum sem Creditinfo kannaði. Creditinfo gerir strangar kröfur í mati sínu og færir rök fyrir niðurstöðum en Kristinn H. veður elg í eigin orðaleppum.   Í öðru lagi nýtir Kristinn hlutfallstölur frá Hagstofu Íslands um uppsjávarveiðar og vinnslu sem honum þykir sér henta. Upplýsingar Hagstofu Íslands byggjast á úrtakstölum um sjávarútveg, þar á meðal frá Vinnslustöðinni. Hann talar annars vegar um hreinan hagnað, sem er reiknuð stærð hjá Hagstofunni, og hins vegar um framlegð sem byggist á upplýsingum frá hluta sjávarútvegsfyrirtækjanna eftir því hvað á við hverju sinni. Á þessu tvennu er mjög mikill munur. Hann nefnir árið 2015 sem dæmi um góða afkomu uppsjávarveiða þar sem framlegð var 21,5% en lætur hjá líða að geta um að þá var hreint tap 0,2%, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar.   Gögn Hagstofunnar eru sem slík góð til síns brúks en sjálf hefur hún reyndar lýst efasemdum um að eigin gögn geti verið grundvöllur skattlagningar í sjávarútvegi.   Skilja ekki mikilvægi loðnuleitar   Í þriðja lagi greinir Kristinn ekki þann kjarna í grein minni að hvorki framkvæmdarvaldið né Alþingi, og augljóslega ekki Kristinn H. Gunnarsson sjálfur, skilja mikilvægi loðnuleitar og grunnrannsókna á sjávarauðlindinni. Ég benti á að loðnuleitin var fjárhagslega á ábyrgð loðnuútgerðanna af því að ríkisvaldið vildi ekki verja 20-40 milljónum króna í verkefnið. Loðnan sem fannst skilar ríki og sveitarfélögum 3,3 milljörðum króna í beinar tekjur sem sjávarútvegurinn stendur skil á, ef miðað er við „speglun“ skattaspors KPMG fyrir Vinnslustöðina yfir á loðnuvertíðina, og miklum óbeinum tekjum að auki. Mér kæmi ekki á óvart að hátt í 10 milljarðar króna rynnu í ríkiskassann af alls 17 milljörðum sem loðnuvertíðin skilar.   Í fjórða lagi hlýtur Kristinn að átta sig á að skattaspor félags fyrir rekstrarár getur ekki átt við eina vertíð sem stendur yfir í einn mánuð. Á sama hátt hlýtur hagfræðineminn að átta sig á að ef ekki hefði komið til þessara tekna af loðnuveiðum í ár hefði skattaspor Vinnslustöðvarinnar og sjávarútvegsins í heild verið mun minna. Hér liggur líka munur annars vegar á þeirri hugsun heilbrigðrar skynsemi að tekna sé aflað í þjóðarbúið og kakan stækkuð öllum til hagsbóta en hins vegar á þeirri fásinnu og þráhyggju sósíalískrar hugsunar og þekkingarleysis að tekjur verði aðallega til með sköttum.   Í fimmta og síðasta lagi þakka ég Kristni H. fyrir hreinskilnina ­í nafni hluthafa, starfsmanna og viðskiptavina Vinnslustöðvarinnar og Eyjamanna yfirleitt. Hann hótar því undir rós að taka af okkur lífsbjörgina, atvinnuna sjálfa. Kjarninn í málflutningi hans og annarra uppboðssinna á opinberum vettvangi er einmitt sá að bjóða skuli fólk og fyrirtæki í sjávarútvegi reglulega upp líkt og gert var með niðursetninga í sveitum fyrr á öldum.     Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar hf. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.    

Ragnar Óskarsson - Leiðréttingu strax

Íslenska ríkið á og ber ábyrgð á helstu innanlandsflugvöllum landsins. Ríkið felur Isavia ohf. að annast um þennan rekstur með því að gera þjónustusamning þar um með árlegum fjárveitingum úr ríkissjóði. Samkvæmt þjónustusamningnum á Isavia að sjá um daglegan rekstur flugvallanna, flugumsjón og viðhald svo eitthvað sé nefnt. Á undanförnum árum hefur fjárframlag ríkisins vegna þjónustusamningsins sífellt verið skorið niður og nú er svo komið vegna þessa að flugvellir landsins eru langt frá því að fá eðlilegt viðhalds- og rekstrarfé í samræmi við tilgang og markmið þjónustusamningsins. Þetta ástand er orðið mjög alvarlegt og hlýtur eðli málsins samkvæmt fyrr eða síðar að koma niður á þjónustu við íbúa víða um land. Við hér í Vestmannaeyjum höfum til þessa sloppið tiltölulega vel vegna niðurskurðarins þrátt fyrir allt, þótt við viljum að sjálfsögðu hafa betri flugþjónustu. Nú á dögunum var gripið til uppsagna hjá starfsmönnum Isavia á Vestmannaeyjaflugvelli og er það bein afleiðing af niðurskurði ríkisins til þjónustusamningsins sem hér hefur verið nefndur. Þetta eru dapurleg tíðindi. Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur látið þennan hluta samgöngumála til sín taka og mótmælt uppsögn og skerðingu á þjónustu. Á morgun, fimmtudag 9. mars, verða þingmenn Suðurkjördæmis í Vestmannaeyjum og eiga fund með bæjarstjórn. Þar er gott tækifæri fyrir bæjarstjórnina að mótmæla harðlega niðurskurði ríkisins til flugvalla og flugþjónustu og brýna þingmenn til að leiðrétta skerðinguna eigi síðar en strax.   Ragnar Óskarsson    

Alþjóðlegur bænadagur kvenna í dag - Ganga og samvera

Alþjóðlegur bænadagur kvenna er í dag og  hefst í Vestmannaeyjum með göngu frá Ráðhúsinu kl. 17.00 og samvera verður í Landakirkju kl. 18.00 föstudaginn 3. mars. Kjörorð dagsins er;  Ganga - biðja – samfélag - eining.   Fyrsta föstudag í mars ár hvert er alþjóðlegur bænadagur kvenna. Þá koma konur úr mismunandi kirkjudeildum saman til að biðja. Konur í Vestmannaeyjum hafa komið saman á þessum degi í marga áratugi. Á tímabili var samvera um kvöldið, en undanfarin ár hefur verið gengið um bæinn og beðið fyrir mörgum málefnum bæjarfélagsins. Ein þjóð sér um undirbúning dagsins hverju sinni. Í fyrra voru það konur frá Kúbu og var kaffihúsastemmning með límonaði í Hvítasunnukirkjunni eftir gönguna. Í ár eru það konur frá Filippseyjum sem hafa undirbúið daginn. Þær benda á mjög slæm kjör margra kvenna.   Úr dagskrá samverunnar:   Á Filippseyjum heilsum við með orðinu, Mabuhay! (Borið fram“ma-bú-hæ”). Það er á tungumálinu Tagalog sem er móðurmál okkar. Orðið hefur víðtæka merkingu og getur þýtt „megir þú lifa“, „skál“, „velkomin“ og „húrra“. Mabuhay!   Hér í Vestmannaeyjum, byrjum við kl. 17.00 við Ráðhúsið, gengið verður að Sjúkrahúsinu, síðan farið niður á bryggju og upp Heiðarveginn. Stoppað verður á leiðinni til að biðja. Gangan endar með samveru í Landakirkju kl. 18.00. Þar munu konur lesa efni frá Filippseyjum og kirkjukórskonur leiða söng. Þær konur sem treysta sér ekki til að ganga geta fengið bílfar og verður keyrt inn í Herjólfdal, á flugvöllinn og fleiri staði þar sem biðja skal. Einnig er hægt að mæta beint á samveruna kl. 18.00 í Landakirkju. Gangan og samveran eru öllum opin bæði konum og körlum á öllum aldri.   Við viljum sjá réttlæti og standa með þeim sem hallað er á. Mikilvægt er að fræðast um kjör annarra og biðja fyrir þeim. Það er sérstök blessun að koma saman í einingu. Það er einnig blessun fyrir bæjarfélagið að eiga fólk sem biður um vernd og blessun.   Velkomin á Alþjóðlegan bænadag kvenna 2017. Við bjóðum ykkur að hugleiða með okkur þema þessa árs, sem konurnar á Filippseyjum hafa undirbúið, „Sýni ég þér óréttlæti?“    

Breyting á leiguverði á leiguíbúðum í eigu Vestmannaeyjabæjar

Meðal mikilvægra verkefna fjölskylduráðs eru húsnæðismál. Í dag á og leigir Vestmannaeyjabær 58 íbúðir. Leigutakar eru ýmist fatlaðir, aldraðir eða fólk sem fær húsnæðisaðstoð vegna félagslegra aðstæðna. Þjónustuhópurinn er því fjölbreyttur og mikilvægt að honum sé boðin aðstoð í samræmi við þarfir hvers og eins.   Síðan 2014 hefur fjölskylduráð unnið einhuga að samræmingu leiguverðs á íbúðum í eigu Vestmannaeyjabæjar enda með öllu óeðlilegt að mismuna leigutökum án þess að til grundvallar liggi aðstöðumunur svo sem vegna fjárhagslegrar stöðu. Um leið og leiða hefur verið leitað til að samræma leiguverð hefur einnig verið horft til þess að færa það nær markaðsverði og draga þar með úr aðstöðumun þeirra sem leigja á almennum markaði og þeirra sem leigja af Vestmannaeyjabæ.   Vegna þessa hefur fjölskyldu- og tómstundarráð lagt á það áherslu að samhliða þessum breytingum verði teknar upp sérstakur húsnæðisstuðningur og þannig jafnaður réttur þeirra aðila sem eru á leigumarkaði og hinna sem leigja á almennum markaði. Þar með er einnig tekið tillit til fjárhagslegra aðstæðna og bótum beint til þeirra sem mesta hafa þörfina.   Húsaleigubætur hækkuðu um áramót og tekinn upp sérstakur húsnæðisstuðningur   Fyrsta skrefið í þessari réttlætisaðgerð var að samþykkja nýjar reglur um sérstakan húsnæðisstuðning og komu þær til framkvæmda nýverið. Um áramót hækkuðu húsnæðisbætur í takt við þróun verðlags. Á seinasta fundi sínum tók svo ráðið loka skrefið í þessari aðgerð og samræmdi leiguverð allra íbúða og verður það 1.200,- kr. á fermetra frá og með 1. apríl 2017. Í samræmi við leigusamninga verður þó ekki um hækkun að ræða hjá þeim sem eru í fastri leigu hjá Vestmannaeyjabæ fyrr en 12 mánuðum síðar eða 1. apríl 2018. Málið allt verður af sjálfsögðu kynnt leigutökum sérstaklega með bréfi sem inniheldur upplýsingar um breytingu á leigu auk þess sem ráðgjafi á vegum Vestmannaeyjabæjar býður leigutökum upp á viðtal til að fara yfir væntanlegar breytingar.   Ljóst er að húsaleiga á leiguhúsnæði á vegum Vestmannaeyjabæjar hefur í gegnum árin verið mun lægri en á almennum markaði og hefur það skapað mikla óánægju meðal þess hóps sem býr við lágar tekjur en hefur ekki komist í húsnæði hjá Vestmannaeyjabæ. Þetta bil hefur verið að aukast mikið á síðustu árum og í dag er leiguverð leigjanda hjá Vestmannaeyjabæ oft um 60% af markaðsverði óháð fjölskyldutekjum viðkomandi. Í allri sanngirni hljóta allir að geta séð að óeðlilegt er að sveitarfélag niðurgreiði leiguverð og skekki þannig leigumarkaðinn, og enn verra er þegar fólk með háar tekjur býr við niðurgreiddan húsnæðiskostnað en dæmi eru um að þeir sem leigja hjá Vestmannaeyjabæ hafi verið að greiða allt niður í 4,3% af ráðstafanafé í heildar húsnæðiskostnað. Ekki er óeðlilegt að húsnæðiskostnaður sé milli 20 – 30% af ráðstafanafé. Til eru dæmi um mun hærri húsnæðiskostnað á almennum leigumarkaði.       Til glöggvunar er hér nokkur dæmi um breytingu á leiguverði: a) Einstaklingur með eitt barn í tæplega 100 fm íbúð fer úr leigu upp á kr. 83.439,- í kr. 119,520,-. Viðkomandi aðili var áður með kr. 22.000,- í húsaleigubætur en þær hækka í 41.000 kr. Leiguverð fer þá úr kr. 61.439,- í kr. 78,520. Viðkomandi einstaklingur á rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi upp á kr. 28.520,- vegna lágrar tekna þannig að leigan færist niður í kr. 50.000,-. Húsnæðiskostnaður umrædds leigutaka miðað við ráðstafanafé lækkar úr 22,6% í 18,4%. b) Hjón í tæplega 85 fm íbúð fara úr leigu upp á kr. 70.621,- í kr. 101.160,-. Viðkomandi aðilar voru áður með kr. 20.574,- í húsaleigubætur en þær hækka í kr. 41.000,-. Leiguverð fer þá úr kr. 50.047,- í kr. 60.160,-. Húsnæðiskostnaður umræddra aðila miðað við ráðstafanafé hækkar úr 8,3% í 10%. c) Einstaklingur í tæplega 40 fm íbúð fer úr leigu upp á kr. 32.839,- í kr. 47.040,-. Viðkomandi aðili var áður með kr. 16.366,- í húsaleigubætur sem lækka í kr. 12.497,-. Leiguverð fer þá úr kr. 16.473,- í kr. 34.543,-. Húsnæðiskostnaður umrædds leigutaka miðað við ráðstafanafé hækkar úr 5% í 10,5%. d) Hjón í rúmlega 70 fm íbúð fara úr leigu upp á kr. 59.274,- í kr. 85.560,-. Viðkomandi aðilar voru áður með kr. 22.000,- í húsaleigubætur en þær lækka í kr. 15.207,-. Leiguverð fer þá úr kr. 37.274,- í kr. 70.353,-. Húsnæðiskostnaður umrædds leigutaka miðað við ráðstafanafé hækkar úr 5,9% í 11,2%. Eins og dæmin hér að ofan sýna þá er tilgangurinn með þessum breytingum að jafna kjör leigutaka og beina stuðningi fyrst og fremst að þeim þar sem þörfin er mest. Í draumaheimi væri hægt að bjóða öllum upp á alla þjónustu. Í heimi takmarkaðra auðæfa er það hinsvegar ein af skyldum okkar kjörinna fulltrúa að beina stuðningi mest að þeim sem mesta hafa þörfina. Virðingarfyllst, Trausti Hjaltason formaður fjölskyldu- og tómstundarráðs.      

Skattlagning heimagistingar

Í ársbyrjun tóku gildi breytingar á lögum og reglugerðum sem varða heimagistingu. Yfirlýstur tilgangur með þeim breytingum var að afmarka og skýra heimagistingu og einfalda skráningarferli. Með lagabreytingunni var gististöðum skipt í flokka og er heimagisting tilgreind í sérstökum flokki. Í lögunum er hugtakið heimagisting lögfest og skilgreint þannig: Heimagisting er gisting gegn endurgjaldi á lögheimili einstaklings eða í einni annarri fasteign sem hann hefur til persónulegra nota og er í hans eigu. Leyfi til heimagistingar er því aðeins veitt einstaklingum en ekki lögaðilum. Framangreindar breytingar taka aðeins til umsókna um leyfi fyrir heimagistingu. Ekki voru gerðar breytingar á skattlagningu tekna af heimagistingu. Því verður að telja að tekjur af heimagistingu verði áfram skattlagðar eins og aðrar tekjur einstaklings af atvinnurekstri. Einstaklingur sem hefur tekjur af heimagistingu er því í raun bókhaldsskyldur og þarf að haga sinni starfsemi í samræmi við lög um bókhald þar sem m.a. er gerð sú krafa að tekjuskráning skuli byggjast á skýru og öruggu kerfi sem tryggir að unnt sé að sannreyna að allar tekjur komi fram.   Við gerð skattframtals ber einstaklingi, sem hefur tekjur af heimagistingu, að útbúa rekstrarreikning yfir starfsemina þar sem gerð er grein fyrir öllum tekjum af henni. Til frádráttar er heimilt að færa þann kostnað sem hann hefur haft af því að afla teknanna. Hér er átt við þann viðbótarkostnað sem hann hefur af öflun teknanna, en ekki fastan kostnað sem ekki breytist við slíka leigu eins og t.d. fasteignagjöld, rafmagn og hiti. Tekjur af heimagistingu skattleggjast eins og aðrar launatekjur einstaklings eða í 37-46% skatthlutfalli.   Segja má að þeir einstaklingar sem hyggjast leigja út húsnæði hafi um þrjá kosti að velja í skattalegu tilliti, (1) langtímaleiga til einstaklinga, (2) skammtímaleiga til ferðamanna sem telst ekki heimagisting og (3) heimagisting í allt að 90 daga og langtímaleiga í hina níu mánuði ársins.   Í útreikningum hér á eftir er mismunur á skattlagningu og afkomu framangreindra valkosta dreginn fram. Miðað er við að húsnæði leigusala sé í útleigu allt árið í tilvikum 1 og 2 hér að framan og í 90 daga heimagistingu í lið 3 en í langtímaleigu hina níu mánuði ársins.   Dæmi 1. – langtímaleiga til einstaklinga Í dæminu er miðað við að íbúð sé leigð á 250.000 kr. á mánuði í langtímaleigu og eini kostnaður leigusala af eigninni séu fasteignagjöld en rafmagn, hiti og hússjóður sé greiddur af leigutaka. Ekki er tekið tillit til fjármagnskostnaðar þar sem hann hefur ekki áhrif á skattgreiðslur.       Dæmi 2 – skammtímaleiga til ferðamanna sem ekki telst heimagisting Miðað er við að sama íbúð og leigð var á 250.000 kr. á mánuði í langtímaleigu sé leigð út í skammtímaleigu á 22.000 kr. á sólarhring og nýting hennar sé að meðaltali 70% á ári. Þar sem tekjur eru umfram 2 m.kr. á ári ber að skrá starfsemina á virðisaukaskattsskrá og þá stofnast einnig skylda til að greiða gistináttaskatt sem hækkar úr 100 í 300 kr. þann 1. september 2017. Þar sem um atvinnurekstur er að ræða hækka fasteignagjöld og verða eins og af atvinnuhúsnæði. Ekki er gert ráð fyrir launagreiðslum eða kaupum á þjónustu vegna móttöku gesta, þvotta og þrifa.   Dæmi 3 – heimagisting í allt að 90 daga og langtímaleiga aðra daga ársins. Í útreikningum í dæminu hér á eftir er við það miðað að einstaklingur starfræki heimagistingu í allt að 90 daga en í langtímaleigu hina níu mánuði ársins. Tekjur af heimagistingunni eru lægri en 2 m.kr. og er starfsemin því ekki virðisaukaskattsskyld og ekki ber að innheimta gistináttaskatt. Ekki er gert ráð fyrir launagreiðslum eða kaupum á þjónustu vegna móttöku gesta, þvotta og þrifa.       Niðurstaða Athygli vekur við samanburð á afkomu af útleigu húsnæðis miðað við framangreindar forsendur að langtímaleiga, væntanlega án mikillar fyrirhafnar, er hagstæðari en skammtímaleiga til ferðamanna allt árið þó heildartekjur séu hærri þar sem verulegur viðbótarkostnaður og gjöld falla til við skammtímaleiguna. Rétt er að hafa í huga við samanburðinn að ekki er gert ráð fyrir eigin vinnu eða aðkeyptri vinnu við að veita þjónustu við skammtímaleiguna.    

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Mannlíf >>

Smalað í Álsey - myndir

Hópur manna fór með björgunarbátnum Þór út í Álsey í hádeginu þann 11. oktober. Frændurnir Heiðar Hinriksson og fjallkóngurinn Kristinn Karlsson höfðu farið áður á tuðru Kristins til að gera klárt fyrir smalamenn sem voru á leiðinni. LJósmyndari Eyjafrétta Óskar Pétur Friðriksson var með í för og segir hér frá.     Til stóð að fara mun fyrr í smalaferðina og nota góðan laugardag eða sunnudag til verksins, veðurguðinn er ekki alltaf á sömu skoðun og fjárbændur hvenær veðrið á að vera best þannig að núna varð að fara úr vinnu í miðri viku til að smala fénu og koma því til byggða.   Þegar lagt var að stað í hádeginu á miðvikudeginum, var veður gott og leit vel út með smalaveður. Eftir stutta siglingu með Þór fóru smalamennirnir í land í Álsey. Álsey er þannig gerð að ekki þarf um mikið berg að fara til að komast upp á hana, bergið er um 7 metra hátt en nú vildi svo til að allt var blautt eftir rigningu næturinnar. Bergið var því sleipt og það varð að fara upp með varkárni og passa sig á að renna ekki á sleipu grjótinu, grasið var að sjálfsögðu blautt líka.     Aðrir sem komu með í þessa ferð út í Álsey voru eftirtaldir:   Guðni Hjörleifsson, fjárbóndi, Haraldur Geir Hlöðversson, fjárbóndi, Ágúst Ingi Jónsson, fjárbóndi, Loftur Rúnar Smárason, bifvélavirki, Friðrik Benediktsson, steypubílstjóri, Birkir Helgason, stálsmiður og Jón Helgi Sveinsson, olíubílstjóri, auk frændanna sem áður er getið.   Strax og menn voru búnir að losa sig við bakpoka og töskur er upp á eyjuna var komið, var hafist handa við að gera réttina klára, aðrir fóru að gera leiðara frá réttinni og upp eftir eyjunni til að stýra fénu í réttina. Þegar réttin var tilbúinn fóru þeir menn sem það gerðu upp eftir eyjunni og byrjuðu að smala, við hinir héldum áfarm að gera leiðarann klárann. Nú fór að rigna á okkur og var úrkoma að mestu á meðan við vorum í eyjunni. Um það leiti sem leiðarinn var að verða tilbúinn komu smalamenn með féð og það rann fljótlega í réttina. Nú varð að stía réttina af þar sem ærnar voru settar öðru megin og lömb hinu megin. Þetta gekk vel og ánum var svo sleppt og gengu þær frelsinu fegnar í burtu og átu sitt gras. Ærnar voru ekki að fást um það þó lömbin væru höfð í réttinni, þær fóru sína leið.     Nú fór að styttast í að Lóðsinn kæmi til að sækja lömb og smala. Guðni Hjörleifs og Kristinn fóru að taka niður leiðarann og eftir það í tuðruna til að taka á móti fénu. Tveimur lömbum var komið fyrir í neti sem hengt var í sleppikrók sem hangir í vír sem liggur frá eyjunni og út í sjó, Þar var lömbunum slakað niður í tuðruna sem sigldi með þau út í Lóðsinn en um borð voru þeir Regin húsasmiður og Ingvi pípari sem tóku á móti fénu. Þegar búið var að slaka niður öllum lömbunum og því dóti sem í land átti að fara var lagt af stað aftur til baka, enn var grasið blautt eftir rigningu dagsins og bergið hálft eins og reikna má með. Ég fór fyrstur niður bergið og rólega fór ég, þar sem önnur höndin er hálf ónýt og kraftlítil og því var að vera var um sig og halda fast í bandið til að slasa sig ekki eða hrapa niður. Kristinn fjallkóngur kom á fullu gasi á tuðru sinni og tók mig um borð, eins og alla hina sem í eyjunni voru.   Hér má sjá myndir frá smöluninni  

Stjórnmál >>