Ragnar Óskarsson - Það er þetta með samhengið

Ragnar Óskarsson - Það er þetta með samhengið

 
Að undanförnu hafa ráðamenn þjóðarinnar verið óþreytandi við að skýra fyrir okkur hversu vel allt gengur hjá okkur hér á landi. Bókstaflega allt sé í blóma.
Við þurfum hins vegar ekki að kafa djúpt til þess að sjá hve hæpin og röng sú mynd er sem þeir draga upp fyrir okkur. Dæmin tala:
• Heilbrigðisþjónustan er í molum og engar lausnir fram undan. Landspítalinn er yfirhlaðinn og fjárvana og það bitnar auðvitað á sjúklingum, einkum þeim sem minnst mega sín.
• Sífellt er þrengt að menntakerfinu og nám gert erfiðara, sérstaklega fyrir venjulegt fólk.
• Samgöngukerfi landsmanna er í megnasta ólestri og áætlanir um umbætur eru gersamlega úr takt við þá þörf sem blasir við.
• Kjör aldraðra og öryrkja eru skammarleg. Fálmkenndar og yfirborðslegar aðgerðir duga engan veginn til að bæta þar úr.
• Húsnæðismál ungs fólks eru í algerum ólestri.
• Raunveruleg fátækt kemur æ oftar til umræðu þegar þegar félagsleg staða landsmanna er skoðuð.
Ráðamenn þjóðarinnar annað hvort afneita þessum staðreyndum eða segja okkur að ekki séu til peningar til þess sinna því sem hér er gert að umræðuefni sem. Og þar með er málið afgreitt af þeirra hálfu.
Það eru reyndar til meira en nóg af peningum í þessu landi. Vandamálið er hins vegar það að núverandi stjórnvöld eru ekki tilbúin undir nokkrum kringumstæðum að sækja þá penings sem nægðu til að koma heilbrigðisþjónustunni í lag, bæta menntakerfið, vinna að nauðsynlegu úrbótum í samgöngumálum, bæta úr húsnæðismálum ungs fólks og útrýma fátækt í landinu.
Þessir peningar eru nefnilega í höndum hins auðuga hluta þjóðarinnar, þess hluta sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur slegið skjaldborg um. Flokkurinn stundar nefnilega grímulausa hagsmunagæslu fyrir hina ríku á kostnað þeirra sem minna og lítið sem ekkert hafa til skiptanna. Meðan þetta ástand varir eykst ójöfnuðinn í landinu og vandamál þeirra sem minnst hafa gera lítið annar an að aukast.
Við hér í Eyjum höfum ekki farið varhluta af stöðunni. Og þá komum við að þessu með samhengi hlutanna. Á meðan ríkisstjórnin neitar að nota þá peninga sem til eru í heilbrigðismál er varla von til þess að að byggja upp nauðsynlega heilbrigðisþjónustu í Eyjum. Það er heldur ekki von til þess að við getum gert okkur raunhæfar vonir um úrbætur í samgöngumálum, hvorki á sjó né á landi. Ófullnægjandi framlög og stöðugur niðurskurður ríkisins til flugsamgangna innanlands mun einungis minnka þjónustu víða um land. Þetta dæmi þekki ég sérstaklega það sem ég hef setið í stjórn Isavia um nokkurt skeið og orðið vitni að því hvernig ríkið svíkur gefin loforð um framlög til flugvalla sem óhjákvæmilega, en því miður, kallar á samdrátt í allri flugvallastarfsemi. Árásir á aldraða og öryrkja munu halds áfram hér í Eyjum sem annars staðar og ungu fólki verður gert ókleift að hafa aðgang að húsnæði. Ofan á þetta allt mun síðan fátækt aukast.
Það blasir sem sé við að beint samhengi er milli stefnu núverandi ríkisstjórnar undir forystu Sjálfstæðisflokksins og þess ástands sem lýst hefur verið hér að framan.
Svo leyfir ólíklegasta fólk, jafnvel frammámenn hér í Eyjum að bera það á borð fyrir okkur að Sjálfstæðisflokkurinn gæti hagsmuna almennings á sama tíma og bilið milli þeirra sem mest og minnst hafa eykst sífellt.
 
 
Ragnar Óskarsson
 
 
 

Ómar Garðarsson: Skipta drengir engu máli?

Það er ekki einfalt mál að vera ungur maður í dag með það á herðunum að allt böl mannkynsins sé karlmönnum að kenna. Þeir hafi deilt og drottnað og geri enn, allt undir formerkjum feðraveldisins sem er þó nokkuð óljóst hugtak. Ekki ætla ég að mæla bót því ofbeldi gegn konum sem nú er að koma upp á yfirborðið og lýsir reynslu kvenna af misbeitingu karla í krafti valds og áhrifa. Og manni er að verða ljóst að það sem þótti fyndið fyrir ekki svo löngu síðan er bara ekkert fyndið. En heildarniðurstaðan er sú að konur eru fórnalömb þar sem karlar er í hlutverki hins vonda. Ekki ætla ég að hætta mér frekar inn á þessar flughálu brautir sem umræða um samskipti kynjanna er í dag en langar til að vekja athygli á stöðu ungra manna og drengja nú þegar krafan er algjört jafnrétti kynjanna. Hér eru nokkrar staðreyndir sem fær mann til að staldra við. Þriðjungur drengja sem kemur upp úr grunnskóla á Íslandi getur ekki lesið sér til gagns. Hefur einhver áhyggjur af því? Ungum mönnum er níu sinnum hættara en konum að taka eigið lífið. Er þetta eitthvað sem vert er að athuga? Einstæðir karlar eru meðal þeirra verst settu í þjóðfélaginu. Er einhver að vekja athygli á þessu? Páll Vilhjálmsson vekur athygli á eftirfarandi á bloggsíðu sinni: -Doktor er æðsta lærdómsgráða við háskóla. Á einu ári veitti Háskóli Íslands 53 doktorsgráður, 39 fóru til kvenna en 14 til karla. Konur taka sem sagt nær 3 doktorsgráður af hverjum fjórum frá HÍ en karlar 1. Þessi ójöfnu kynjahlutföll endurspegla að konur sækja fremur háskólanám en karlar. Hlutföllin eru um 35/65 konum í vil. Strax við útskrift úr menntaskóla eru stúlkur öflugri en drengir. Útskriftarhópurinn í MR í vor var 60 prósent stúlkur en 40 prósent drengir. Í grunn- og framhaldsskólum hafa stúlkur kvenfyrirmyndir en drengir mun síður. Um 80 prósent kennara eru konur, segir Páll og bendir á að engin umræða er um þessa þróun, hvaða ástæður liggja að baki og hvaða áhrif hún mun hafa. Veruleg skekkja í háskólamenntun kynjanna leiðir til kynskipts vinnumarkaðar og það telst varla jákvæð þróun.  

Elliði Vignisson - Fæðingaþjónusta er óviðunandi í landsbyggðunum

Fyrir mér eru Vestmannaeyjar paradís á jörðu. Náttúran, fólkið, menningin, sagan, krafturinn samstaðan og svo margt fleira jarðtengir mig og lætur mig fljúga í senn. Samt er það svo að tveir hornsteinanna eru ekki í lagi, samgöngur og heilbrigðisþjónusta. Ég er afar bjartsýnn á að á næsta ári tökum við stórt skref hvað samgöngur varðar sem síðan mun leiða af sér enn fleiri slík í átt að betra ástandi. Út af borðinu standa þá heilbrigðismálin og þá sérstaklega fæðingaþjónustan.   Tilflutningur á kostnaði Tilgangurinn á bak við breytingar á fæðingaþjónustu er ekki hvað síst að ná niður kostnaði hins opinbera. Það vill þá e.t.v. gleymast að í raun er bara um tilflutning á kostnaði að ræða frá ríki til verðandi foreldra. Kostnaður við ferðalög og biðina á fæðingarstaðnum er oft verulegur. Ekki er ólíklegt að kostnaður við fæðingu, ferðalög, vinnutap og fl. hlaupi á hundruðum þúsunda og þaðan af meira. Sér er nú hver gjöfin til verðandi foreldra. Þar við bætast áhyggjur af ferðalaginu aftur heim og aðlögun fjölskyldunnar, sérstaklega eldri barna að eðlilegu lífi eftir heimkomuna tekur á. Hvað sem líður öllum Excelskjölum og flæðiritum þá er ljóst að fæðing fjarri heimabyggð valdur kvíða og streitu hjá barnshafandi konum auk töluverðrar röskunar á lífi fjölskyldunnar og mikils kostnaðar.   Samfélagslegt mikilvægi Áhrifin eru þó víðtækari. Fram hefur komið að skortur á þjónustu við konur í barneignaferlinu hefur almenn áhrif á dreifbýli. Gildi þess að hafa fæðingarþjónustu eru sennilega meiri fyrir samfélagið sjálft en margir gera sér grein fyrir. Það skiptir að mati þeirra sem best þekkja til miklu fyrir samfélagið að fæðingar séu hluti af lífinu þar. Að samfélagið sé samfella frá vöggu til grafar.   Manneskjusýn Svo mikið er víst að það er ekki í samræmi við manneskjusýn Eyjamanna að þessi mikilvægi þáttur lífsins verði frá þeim tekinn og í staðinn sett á fót læknisfræðilegt kassalagað kerfi sem aðskilur verðandi foreldra frá fjölskyldum sínum. Við Eyjamenn verðum að berjast áfram fyrir þessum sjálfsögðu réttindum. Þar leika þingmennirnir okkar lykilhlutverk.  

Ragnar Óskarsson: Hvar erum við?

Hvar erum við?   Í öllum samfélögum gegna fjölmiðlar mikilvægu hlutverki. Eitt mikilvægasta hlutverkið er að vera vettvangur gagnrýni og frjálsra skoðanaskipta. Með þetta í huga skoðaði ég skrif og umræðu bæjarfulltrúa sjálfstæðismanna um netmiðilinn Eyjar.net nú síðustu daga. Ég verð að viðurkenna að við lesturinn setti að mér hroll. Ég fékk á tilfinninguna að ég gæti varla verið í nútímanum og varla í frjálsu samfélagi. En hver vegna segi ég þetta? Ég nefni hér nokkur dæmi.   Gagnrýni sem miðillinn setur fram almennt á störf bæjarstjórnar eru skilyrðislaust og án nokkurs rökstuðnings dæmd dauð og ómerk. Hún sé sett fram af einhverjum annarlegum hvötum og sé einungis árás á Vestmannaeyjar.   Miðillinn lét gera könnun á viðhorfum Vestmannaeyinga til samgangna. Niðurstaðan var mjög eindregin í þá átt að Vestmannaeyingar eru ósáttir. Í stað þess að taka mark á niðurstöðunum og nýta sér þær réðust talsmenn sjálfstæðismanna á miðilinn og sökuðu hann um niðurrifsstarfsemi.   Nú síðast ruddust bæjarfulltrúar sjálfstæðismanna fram á ritvöllinn bæði sem eldri og yngri deild og gerðu almennt lítið úr miðlinum og höfðu í hótunum bæði beint og óbeint.   Þessi þrjú dæmi læt ég nægja að þessu sinni. Þau skýra hins vegar vel það sem ég sagði hér í upphafi. Það er sem sé ekki í lagi í samfélagi þar sem stjórnendur þola ekki gagnrýni og gera lítið úr þeim sem hana setja fram. Fjölmörg dæmi úr mannkynssögunni staðfesta þetta. Það er ekki í lagi að ráðast á tjáningarfrelsið eins og sjálfstæðismennirnir í bæjarstjórn gera. Vestmannaeyingar eiga betra skilið en slíkar trakteringar.   Lifi frjáls fjölmiðlun!   Ragnar Óskarsson  

Elliði Vignisson: Það þarf kjark til að breyta

Nafn Gísla J. Johnsen er samtvinnað sögu Vestmannaeyja. Hann var hér fæddur 10. mars 1881. Með verslun sinni og útgerðarrekstri átti hann stóran þátt í að bæla niður þá einokun sem hafi legið sem mara á Eyjamönnum í mannsaldir. Það var þó bara byrjunin á ævintýranlegri uppbyggingu Gísla. Eins og allir sem þora að gára vatnið var Gísli umdeildur og oft reyndist honum erfitt að glíma við neikvæðni samfélagsins og óttann við breytingar. Árið 1899, þegar Gísli var einungis 18 ára hóf hann verslunarrekstur í grimmri samkeppni við einokunarverslun Brydes. Vegna ungs aldurs fór verslunin þó ekki yfir á hans nafn fyrr en árið 1902. Árið 1904 keypti verslun hans eða „firmað“ eins og það var þá kallað fyrsta mótorbátinn sem kom til Suðurlands. Þar með varð til grunnurinn að Vestmannaeyjum eins og við þekkjum þær í dag. Á fyrsta áratug aldarinnar fjölgaði íbúum í Eyjum úr 607 í 1492 eða um 885 manns. Á þessum árum var lögð sú undirstaða sem skapaði frumkvæði og forystu Vestmannaeyinga í útgerð og sjávarútvegi æ síðan. Gísli lét sig fleira varða en eingöngu verslun og viðskipti og var hann til að mynda einn af hvatamönnum þess að byggður var viti á Stórhöfða og framkvæmdi það verk fyrir landsstjórnina.   Árið 1907 stofnaði firmað vélaverkstaði hér í Eyjum og hóf meðal annars innflutning á frystivélum og ári síðar reisti það stórt frystihús sem einnig var hið fyrsta í sinni röð hér á landi. 1911 stofnaði hann talsímafélag í Eyjum og kom á símasambandi við land og stuttu seinna var, undir hans stjórn, hafist handa við byggingar á [gamla] spítalanum sem síðar varð ráðhús . Árið 1913 reisti firma Gísla fyrstu fiskimjölsversmiðju hér á landi. Því var svo fylgt eftir með lýsisbræðslu. 1920 byggði firmað fyrstu olíugeyma hér á landi sem varð til þess að vélvæðing landsins gekk hraðar fyrir sig og olíuverð lækkaði til muna. Afrekin eru mörg fleiri og nánast óhætt að fullyrða að saga Vestmannaeyja og jafnvel landsins alls hefði orðið önnur ef hans framsýni og hugrekkis hefði ekki notið við.   Fyrir fólk sem lifir í ólgu samtímans og finnst allar hugmyndir um breytingar og nýjungar mæta andbyr er ágætt að lesa vandlega þessi orð úr þjóðhátíðarblaði Vísis frá 17. Júní 1944: „En Gísli hefir oft og tíðum átt við ramman reip að draga, þegar hann vildi koma einhverjum nýjungum á framfæri. Almenningur allra tíma er þannig gerður, að hann veigrar sér við að stíga út af braut vanans og hræðist erfiðleika brautryðjendastarfsins og vill helzt alltaf standa á sama sjónarhól og hjakka í sama hjólfarinu frá ári til árs og öld til aldar. Það hvílir því á herðum frumkvöðlanna að koma nýjungunum i framkvæmd, en launin eru annað hvort þakkir almennings eða vanvirða sem oftar er“ Það verður alltaf til úrtölufólk. Verum samt óhrædd við breytingar og stígum af braut vanans. Í framtíðinni felast tækifæri ef við þorum að nýta þau.  

Trausti Hjaltason: Furðuleg skoðanakönnun

Undanfarið hefur fyrirtækið MMR nú verið að vinna skoðanakönnun hér í Vestmannaeyjum. Um er að ræða sama fyrirtæki og vann könnun tengda samgöngum fyrir eyjar.net og datt meðal annars í hug að spyra hversu sammála bæjarbúar væru því að gerðar yrðu umbætur á Landeyjahöfn áður en ný Vestmannaeyjaferja verður smíðuð? Rétt eins og það væri mögulegt þá þegar. Eins og einn af svarendum þessarar könnunar hefur bent á (sjá hér) þá hefði allt eins verið hægt að spyrja: „“Hversu sammála eða ósammála ertu því að setja alla þróun í samgöngubótum á bið á meðan verið er að kanna hvort mögulegt sé að gera umbætur á Landeyjahöfn, jafnvel þó það þýði óbreytt ástand sjósamgangna næstu áratugi?” Sennilega hefði niðurstaðan þá orðið önnur.   Stríð gegn nýrri ferju   Þessi könnun sem unnin var í byrjun árs 2016 hefur síðan verið nýtt í hinu heilaga stríði gegn nýrri ferju og jafnvel látið að því liggja að við í bæjarstórn höfum ekki viljað breytingar á höfninni. Allir hljóta þó að sjá að bæjarstjórn fer fyrir það fyrsta ekki með samgöngumál heldur ríkið. Þá hefur bæjarstjórn ætíð verið algerlega einbeitt í þá átt að allt sé gert til að bæta ástandið svo fljótt sem verða má. Á það meðal annars bæði við um skip og höfn. Afhverju ætti bæjarstjórn ekki að vilja bæta höfnina?   Villandi spurningar   Í þeirri furðulegu könnun sem nú er verið að vinna kveður enn og aftur við þennan sama tón. Spurningar eru illa orðaðar og villandi. Því miður eru þær því líklegar til að rugla umræðuna enn frekar. Því miður neita þeir sem hringja fyrir MMR að veita upplýsingar um fyrir hvern könnunin er unnin. Þá mun sennilega ekki heldur verða upplýst hver greiði fyrir hana.   Dæmi um illa orðaða og villandi spurningu í núverandi könnun er þessi hér:  „Heldur þú að Landeyjahöfn í óbreyttu ástandi geti þjónað sjósamgöngum um ókomin ár?“. Hvað merkir þetta? Er hér átt við að aldrei verði þörf á að gera breytingar á höfninni? Merkir þetta að ekki þurfi þá þann dælubúnað sem verið er að koma upp? Merkir þetta að ekki þurfi að gera þær breytingar á innri görðum sem nú er unnið að? Merkir þetta að ef ég segi já þá sé ég sáttur við að aldrei verði neitt gert? Eina leiðin til að svara þessu er að segja „Nei“. Þannig myndi ég svara og sennilega allir í bæjarstjórn.   Sveitarfélög almennt fara ekki með samgöngumál   Þá er einnig spurt um hvernig hvernig svaranda þykir Vestmannaeyjabær hafa staðið sig í samgöngumálum. Vægast sagt furðuleg spurning í ljósi þess að Vestmannaeyjabær hefur ekkert umboð í samgöngumálum og enga formlega stöðu. Vestmannaeyjabær rekur ekki Herjólf, ræður engu um Landeyjahöfn og er ekki ætlað neitt formlegt hlutverk í samgöngum frekar en sveitarfélögum almennt í þeim málaflokki. Eins væri hægt að spyrja hvernig Vestmannaeyjabær hafi staðið sig hvað varðar fiskveiðistjórn og veiðigjöld. Eða jafnvel Seðlabankann og utanríksmál. Samgöngur eru einfaldlega ekki málaflokkar sem sveitafélög fara með þótt sannarlega tengist þetta hagsmunum þeirra og bæjarstjórnir álykti reglulega um málið og fjalli um það. Ekkert er hinsvegar spurt um álit á þeim sem raunverulega fer með þennan málaflokk og eini möguleiki svaranda til að koma á framfæri óánægju er með því að svara neikvætt í þessari spurningu.   Samstaða er líklegust til að skila árangri   Það verður því ekki annað séð en að tilgangurinn með þessari könnun sé sá sami og áður. Að rugla umræðuna og reyna að telja bæjarbúum trú um að bæjarstjórn vilji ekki breytingar á höfninni. Að hvetja til illdeilna í málaflokki þar sem samstaða skiptir sköpum. Tilgangurinn er því pólitískur frekar en nokkuð annað. Enn og aftur er því rétt að fram komi að bæjarstjórn hefur á öllum tímum viljað að allt sé gert til að bæta samgöngur. Þar með talið að breyta höfninni. Bæjarstjórn á ekki verkfræðileg svör við hvenig það sé hægt en veit sem er að samstaða hér heimafyrir er það sem líklegast er til þess að árangur náist.   Trausti Hjaltason   Bæjarfulltrúi.  

Hildur Sólveig: Af hverju er bæjarstjórn að skoða yfirtöku á rekstri Herjólfs?

Umræðan sjálf hefur lengi verið almenn í langan tíma í sveitarfélaginu að heimamenn ættu að taka málin í sínar hendur til að komast nær ákvörðunartöku um samgöngumálin sem eru okkar stærsta hagsmunamál. Sveitarfélagið hefur áður reynt að bjóða í rekstur ferjunnar en ekki fengið erindi sem erfiði. Það var svo þann 29. september 2016 að bæjarstjórn Vestmannaeyja bókaði eftirfarandi á 1515. fundi sínum:   ,, Bæjarstjórn Vestmannaeyja fjallaði um niðurstöður útboðs á nýrri Vestmannaeyjaferju. Fyrir liggur að rétt eins og bæjarstjórn Vestmannaeyja benti á er hagkvæmast fyrir ríkið að láta smíða ferju og semja svo sérstaklega um rekstur hennar. Vestmannaeyjabær lítur á rekstur Herjólfs sem hornstein að innri gerð samfélagsins í Vestmannaeyjum. Í raun og veru er ekki nokkur munur á rekstri Herjólfs og rekstri annarra kafla vegakerfis Íslendinga. Bæjarstjórn telur því brýnt að rekstur Herjólfs verði ætíð séður sem hluti af þjóðvegakerfi Íslendinga og gjaldtöku og þjónustu verði hagað í samræmi við þá skilgreiningu. Þá bendir bæjarstjórn á að í fjölmörgum tilvikum hefur rekstur fjölbreyttra málaflokka í nærþjónustu svo sem málefni fatlaðra, rekstur grunnskóla og rekstur heilsugæslu verið fluttur frá ríki til sveitarfélags ýmist með almennum hætti eða sértækum samningum. Slíkt er gert til að tryggja hagsmuni nærsamfélagsins, bæta þjónustu og auka hagkvæmni. Með þetta í huga samþykkir bæjarstjórn Vestmannaeyja að fela bæjarstjóra að rita innanríkisráðherra bréf og óska þar eftir því að samið verði beint um rekstur ferjunnar við Vestmannaeyjabæ.”   Bæjarstjórn ítrekað krafist úrbóta í samgöngumálum Vestmannaeyja   Forsagan að ofangreindri ályktun var fyrst og fremst sú að ítrekað á undanförnum árum hefur bæjarstjórn ályktað, krafist og lagt mikinn þrýsting á ýmsar úrbætur í samgöngumálum á borð við:   nauðsyn frekari rannsókna og framkvæmda á Landeyjahöfn bættum aðferðum við sanddælingu og þjónustu sanddæluskipa kröfur um fjölgun ferða Herjólfs, aukins sveigjanleika í siglingaáætlun og að ekki sé dregið úr þjónustu skipsins á hátíðisdögum úrbætur á bókunarkerfi Herjólfur verði tiltækur amk. fyrst um sinn eftir að ný ferja hefur siglingar kröfur um hófstillingu fargjalda og samræmis sé gætt í gjaldtöku en ekki sé tekið margfalt gjald fyrir að fara til Þorlákshafnar og svo mætti mjög lengi áfram telja   Skilningsleysi samgönguyfirvalda á samgönguþörf samfélagsins   Þrátt fyrir þrýsting bæjaryfirvalda virðist skilningur á samgönguþörf Vestmannaeyja ekki vera fyrir að fara hjá samgönguyfirvöldum og tilmæli bæjarstjórnar gjarnan virt að vettugi og kemur upp í hugann lýsing Bjarna Sæmundssonar af ferð sinni með strandskipinu Sterling austur á firði árið 1920 sem kemur fram í bók Haraldar Guðnasonar við Ægisdyr:   ,,Það var heldur en ekki krökkt af farþegum, öll rúm full, reykingasalurinn og borðsalurinn sömuleiðis; hvar sem litið var og eitthvað var til að liggja á, var maður. Þar við bættust margir Vestmannaeyingar; þeir voru alls staðar, þar sem ekkert var til að liggja á nema gólfið. Ég man það, að ég var nærri dottin um eitthvað í göngunum fyrir utan klefadyrnar mínar um nóttina… Hélt ég, að það væri stór hundur, sem hefði hringað sig þarna saman, en við nánari aðgæslu sá ég, að þetta var sofandi maður. Vestmannaeyingar teljast annars ekki til farþega, og eru heldur ekki skoðaðir sem flutningur eða vörur, því að þeim er ekkert pláss ætlað; þeim er stungið hingað og þangað, þar sem þeir eru ekki fyrir neinum, bak við stiga, undir bekki og víðar, en í einu tilliti er þeim gert jafnt undir höfði og öðrum mönnum, og það af skárra taginu; þeir fá að borga fargjald eins og farþegar á fyrsta plássi. Svona er það á öllum stærri farþegaskipum, sem annars hafa getað fengið það af sér að koma við í Eyjum. En það hefur nú viljað bresta á það síðari árin."   Samgönguþörf samfélagsins mætir enn þann daginn í dag, hátt í 100 árum síðar, fullkomnu skilningsleysi samgönguyfirvalda, þrátt fyrir að Vestmannaeyingar greiði án ef hæstu vegtolla landsins fyrir samgönguleið sem enn er illu heilli ekki skilgreind sem þjóðvegur, á sama tíma og mjög rausnarleg framlög renna héðan beint inn í ríkissjóð.   Upplýsingagjöf mjög takmörkuð   Þeir atburðir sem áttu sér svo stað í vor þegar Baldur var fengin til afleysinga fyrir Herjólf sem hafði svo ekki haffærni til Þorlákshafnar voru gjörsamlega óskiljanlegir. Eitthvað sem bæjarfulltrúar heyrðu af sem orðrómi af götunni og trúðu til að byrja með ekki enda tilhugsunin fráleit en kom svo á daginn að var ekki orðrómur heldur raunveruleiki. Þarna kristallaðist sá upplýsingaskortur sem bæjarfulltrúar búa við. Það sama var svo uppi á teningnum við seinni slipptökuna þegar Röstin átti að leysa Herjólf af þrátt fyrir að bæjarstjórn hefði ályktað að á engum tímapunkti kæmi til greina að ferja sem hefði ekki haffærni til beggja hafna myndi leysa af við seinni slipptöku Herjólfs og ef ekki fyndist skip með haffærni í báðar hafnir yrði slipptöku seinkað vel á veturinn til að stór og öflug ferja sem réði vel við Þorlákshöfn gæti þá þjónustað til að samgöngur yrðu í það minnsta öruggar þangað. Bæjarfulltrúar fordæmdu opinberlega og í fjölmiðlum þær ráðstafanir sem gerðar voru vegna afleysingaferja Herjólfs og reyndust samfélaginu dýrkeyptar og enn og aftur voru kröfur bæjarstjórnar virtar að vettugi.   Fordæmin eru til í sögulegu samhengi   Sagan segir okkur að nokkrar af stærstu framförum í samgöngumálum Eyjamanna hafa orðið þegar Eyjamenn sjálfir eru komnir með upp í kok af afskiptaleysi ríkisins og taka málin í sínar eigin hendur, sbr. Herjólfur I, 1959 og stofnun félags um ferjurekstur Herjólfs II 1974     Ályktun fjölmennasta borgarafundar seinni ára um samgöngumál krafðist þess   Það var svo á stórgóðum og gríðarlega fjölmennum borgarafundi um samgöngumál í Vestmannaeyjum sem haldinn var í Höllinni þann 10 . maí þessa árs að frumkvæði Ásmundar Friðrikssonar þingmanns og héraðsfréttamiðlanna Eyjafrétta og Eyjar.net að samþykkt var samhljóða 6 liða ályktun sem bæjarstjórn Vestmannaeyja staðfesti og tók undir á fundi sínum næsta dag en sjötti og síðasti liður þeirrar ályktunar hljóðaði svo:   ,,Að rekstur ferjunnar verði í höndum heimamanna og hagnaður af rekstrinum verði nýttur til að lækka fargjöld, auka þjónustu og skili sér þannig beint til heimamanna.”  Þannig er allur vafi tekinn af því hver vilji bæjarbúa í þessum efnum er.   Vilji samgönguráðherra einlægur að koma Vestmannaeyjabæ nær rekstri Herjólfs   Bæjarstjórn átti svo óformlegan fund með Jóni Gunnarssyni iðnaðarráðherra í kjölfar fyrri borgarafundar þar sem farið var yfir áhyggjur og óánægju bæjarfulltrúa með samgöngumál og reifaðir möguleikar og rædd framtíðarsýn samfélagsins og virtist vilji innanríkisráðherra einlægur í því að Vestmannaeyjabær kæmi mun nær þessum rekstri en gengur og gerist í dag og ítrekaði ráðherra svo þessa afstöðu sína á seinni opna borgarafundinum um samgöngur í Höllinni. Mikil vinna hefur svo legið að baki alla daga síðan við að útbúa viljayfirlýsingu og vinna að mögulegum samningsdrögum en enn er ekkert fast í hendi hvað þetta varðar og engin ákvörðun um yfirtöku sveitarfélagsins á rekstri ferjunnar verið tekin af hálfu samgönguyfirvalda né Vestmannaeyjabæjar enn sem komið er.   Helstu ástæður fyrir áhuga sveitarfélagsins á yfirtöku rekstursins eru því eftirfarandi   Skilningur samgönguyfirvalda og rekstraraðila á þörfum samfélagsins er ekki sá sami og bæjaryfirvalda Tilmæli og óskir bæjaryfirvalda hvað þjónustu ferjunnar varðar hafa verið virtar ítrekað að vettugi Bæjarstjórn hefur gjarnan legið undir harðri gagnrýni hvað samgöngumál varðar þrátt fyrir að bera enga ábyrgð á málaflokknum og hafa því ver og miður ekki nokkurt einasta valdsvið yfir honum Mikill skortur á upplýsingagjöf af hálfu samgönguyfirvalda En fyrst og síðast, krafa bæjarbúa um aðgerðir þar að lútandi   Bæjarstjórn reynir allt hvað hún getur til að hafa áhrif á þetta langstærsta hagsmunamál okkar Eyjamanna og geta bæjarfulltrúar ekki látið sitt eftir liggja í þeim efnum. Bæjarfulltrúum er gjarnan gefið að sök að standa sig illa hvað samgöngumál varðar, en sá málaflokkur er því ver og miður einfaldlega ekki á okkar forræði. Með þessari viðleitni bæjarstjórnar er seilst langt umfram skyldur sveitarfélagsins til að tryggja með öllum mögulegum leiðum hagsmuni bæjarbúa og atvinnulífs í samfélaginu.   Hildur Sólveig Sigurðardóttir Forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja    

Ragnar Óskarsson: Spurt er í austur en ...

Ég var að skoða ályktun bæjarráðs Vestmannaeyja frá 9. nóvember sl. um mögulega íbúakosningu vegna hugsanlegrar yfirtöku Vestmannaeyjabæjar á rekstri Herjólfs. Fyrir ráðinu lá erindi þar sem rætt er um möguleika á íbúakosningu vegna málsins.   Mér finnst bæjarráð annað hvort misskilja erindið eða hreinlega snúa út úr fyrir þeim sem það sendir. Sá sem sendir erindið er einungis að fara fram á að viðhöfð verði íbúakosning um það grundvallaratriði hvort Vestmannaeyjabær eigi að reka Herjólf eður ei. Bæjarráð svarar því til að ekki sé tímabært að viðhafa íbúakosningu um málið þar sem enginn samningur liggi fyrir um yfirtökuna. Þetta kalla ég misskilning eða útúrsnúning bæjarráðs. Í erindinu til ráðsins er ekki orð um einhvern samning sem ekki liggur fyrir heldur um grundvallaratriði. Þetta svar bæjarráðs er augljóst dæmi um það þegar spurt er í austur er svarað í vestur. Það þykir ekki gott í mannlegum samskiptum og allra síst í stjórnsýslunni.   Ég tel að mjög auðvelt sé að viðhafa íbúakosningu um þetta grundvallaratriði, kanna þannig hug bæjarbúa og veita bæjarstjórn betri forsendur til að taka ákvarðanir í málinu.   Nú þegar, og þótt fyrr hefði verið, væri til dæmis hægt að spyrja bæjarbúa þeirrar einföldu grundvallarspurningar hvort þeir vilji taka rekstur Herjólfs yfir á bæjarfélagið. Þar með fengist gott veganesti fyrir bæjarstjórnina til vandvirkari og lýðræðislegri ákvarðanatöku.   Með samþykkt sinni er bæjarráð og bæjarstjórn að hafna þessari lýðræðislegu aðkomu bæjarbúa. Vonandi endurskoða bæjaryfirvöld þessa afstöðu sína, sérstaklega ef þau vilja sameina frekar en sundra.   Ragnar Óskarsson  

Einar Kristinn Helgason - Málamyndagjörningur?

Það hefur ekki farið fram hjá neinum undanfarna daga að stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir, Vinstri græn, Framsóknarflokkurinn, Píratar og Samfylkingin hafa átt í stjórnarmyndunarviðræðum undir forystu Katrínar Jakobsdóttur. Ólíkt því sem gerðist í fyrra voru flokkarnir ekki búnir að útiloka samstarf við hvern annan fyrirfram, alla vega ekki opinberlega, og andrúmsloftið einhvern veginn allt annað og léttara.   Lengi vel virtist sem viðræðurnar væru í góðum farvegi milli flokkanna fjögurra, leiðtogar nokkuð bjartsýnir á að hægt væri að ná málamiðlunum í stóru málunum svokölluðu og allir tilbúnir að gefa eitthvað eftir til þess að láta þetta ganga upp.   Á mánudaginn var hins vegar komið annað hljóð í strokkinn, viðræðurnar sem höfðu staðið yfir í fjóra daga sigldu í strand. Vonbrigðin leyndu sér ekki, a.m.k. ekki meðal þeirra aðila sem komu að viðræðunum. Í viðtölum strax í kjölfarið virtust allir forystumenn flokkanna vera sammála um ágæti viðræðnanna en Framsóknarflokknum fannst hins vegar eins manns meirihluti vera of naumur. Það er vissulega rétt, eins manns meirihluti er naumur meirihluti en lá það ekki fyrir strax í upphafi? Var það ekki augljóst? Hefði ekki verið gráupplagt að bjóða þá öðrum flokki með í viðræðurnar, t.d. Flokki fólksins eða Viðreisn ef það var virkilega einhver áhugi fyrir þessu samstarfi yfir höfuð?   Það að Framsókn hafi efast um nauman meirihluta og ekki viljað taka inn fimmta flokkinn rennir stoðum undir þá kenningu að viðræðurnar hafi einungis verið málamyndagjörningur eins og sumir vilja meina. Nú þegar reynt hefur verið á vinstri stjórn og það mistekist, þá liggur beinast við að Vinstri græn, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur ræði næst saman, en það myndi vera óskastjórn Framsóknarflokksins samkvæmt kenningunni. Því verður allavega ekki neitað að Framsóknarflokkurinn er eins og svo oft áður í lykilstöðu en hvort að VG sætti sig við þessa þriggja flokka lendingu er erfitt að segja. Það væri kannski skásti kosturinn í stöðunni úr því sem komið er. Hvort það skili hinum margrædda pólitíska stöðugleika sem hefur verið ákall eftir verður bara að koma í ljós.    

Elliði Vignisson: Dýpi í Landeyjahöfn með því besta sem sést hefur á þessum árstíma - myndir

 Í gær var dýpið í Landeyjahöfn mælt. Eftir skítabrælu á sunnudaginn og þungan sjó átti maður allt eins von á því að dýpið væri orðið of lítið. Ölduhæð þennan tíma fór í allt að 6 metra og hamagangurinn ógnvænlegur. Þök rifnuðu af húsum hér í Eyjum og björgunarsveitir áttu annasaman tíma. Það var því ánægjulegt að sjá niðurstöðu mælingar frá því eftir hádegið í gær sem sýnir að dýpið í Landeyjahöfn er heilt yfir með því besta sem verið hefur.   Sem fyrr er það því ölduhæðin sem er að valda vanda en þumalputtareglan er sú að núverandi skip siglir ekki í Landeyjahöfn þegar ölduhæð fer yfir 2,5 metra. Þá þarf einnig að líta til þess að aðstæður geta verið margvíslegar og ókyrrðin mikil eftir brælur. Að lokum veldur það bæði áhyggjum og miklum vanda að Herjolfur er, eins og alþjóð þekkir, bilaður og því ekki mögulegt að beita fullu afli.   Skipstjórum Herjólfs og áhöfn er því nokkur vorkun. Öllum er þeim ljóst að bæjarbúar og gestir vilja sigla i Landeyjahöfn og eðlilega eru þau öll af vilja gerð. Aðstæður eru hinsvegar erfiðar, skipið afar óheppilegt og þar að auki bilað. Þessu sýnum við öll af sjálfsögðu fullan skilning.   Við þurfum því á góðu veðri að halda svo Herjólfur geti siglt í Landeyjahöfn. Vonandi fáum við það fljótlega því af fenginni reynslu þá lokast höfnin vegna grynninga milli ytri garða síðar í vetur.   (Enn og aftur minni ég á að Vestmannaeyjabær fer ekki með forræði á Landeyjahöfn og eru þessi skrif eingöngu til að upplýsa bæjarbúa um stöðu þessara mála. Upplýsingar draga enda úr deilum og auka skilning. Sameinum frekar en að sundra.)  

Ari Trausti: Að loknum kosningum

Að afloknum þingkosingum sendi ég öllum kjósendum í Suðurkjördæmi kveðjur og um leið þakkir fyrir ágæta kjörsókn, betri en í kosningunm 2016. Vonandi verða að minnsta kosti jafn margir eða fleiri í kjörklefum sveitarstjórnarkosninganna í sumarbyrjun. Átta þingflokkar telst met á Alþingi og setur okkur þingmönnum það fyrir að slípa og aga vinnubrögðin. Gera þau skilvirkari og sanngjarnari. Mörg, og flest mikil, verkefni bíða þingsins eftir óvænt hlé. Nokkur breyting varð á tíu manna þingliði Suðurkjördæmis. Ég sendi þeim sem hurfu a þingi góðar kveðjur og býð nýja þingmenn velkomna í hópinn. Hann hefur dálítið reynt að halda saman um tiltekin mál.   Árangur okkar vinstri-grænna í kjördæminu var viðunandi. Rúmlega eins og hálfs prósentustiga viðbót merkir að við erum á leið í rétta átt hvað málefni, traust og vinnubrögð varðar. Ég þakka stuðningsfólki VG fyrir vinnu og brautargengi hreyfingarinnar. Þá ber líka að þakka öðrum frambjóðendum í kjördæminu fyrir málefnalega baráttu, á opnum fundum í útvarpi og sjónvarpi.   Hvet til þess að næst verði efnt til umræðufunda frambjóðenda fyrir almenning hér og hvar í kjördæminu, í samvinnu flokkanna. Héraðsblöðin og aðrir heimamiðlar stóðu sig vel í aðdraganda koninganna.   Þessi pistill er saminn í miðjum viðræðum fjögurra flokka um myndun ríkisstjórnar. Þá er að sjá hvað úr verður og hvort tímabil umbóta og stöðugleika getur hafist.   Höfundur er þingmaður VG í Suðurkjördæmi  

Sigurður Ingi: Kærar þakkir

Nýliðin kosningabarátta var stutt og snörp sem var að mörgu leyti mjög gott. Baráttan var gefandi og skemmtileg allt fram á síðustu stundu. Ég er gríðarlega þakklátur fyrir þann stuðning og traust sem kjósendur hafa sýnt okkar öflugu frambjóðendum. Á bak við slíkan sigur liggur ómæld og óeigingjörn vinna frá sterku baklandi sem vann nótt sem dag að því að styrkja og treysta kjarnann. Á brattann var að sækja allt fram á síðustu stundu en ómetanleg er sú mikla samstaða sem varð til meðal okkar, alls staðar á landinu. Það er ekki sjálfgefið að slík samvinna og samkennd verði til svona skömmum tíma.   Uppbygging er hafin   Ég vil þakka öllum þeim sem lögðu fram óeigingjarna vinnu og settu svip sinn á kosningabaráttuna, en hún var fyrsta skrefið í þeirri uppbyggingu sem framundan er hjá flokknum. Hvort sem verkefnin voru að hringja og tala við fólk, skipuleggja og taka þátt í viðburðum, taka á móti fólki á kosningaskrifstofunni eða baka kökur, þá er hvert og eitt þeirra mikilvægt og styrkir liðsheildina.   Þá vil ég þakka fyrir góðar móttökur frá öllum þeim sem tóku á móti okkar frambjóðendum og sýndu málefnum okkar áhuga.   Það var einkar ánægjulegt að sjá hve mikið af nýju og kraftmiklu fólki bættist við í okkar góða hóp, sérstaklega ungt fólk. Því vil ég þakka skýrri málefnalegri sýn.   Ganga þarf rösklega til verks. Leysa þarf húsnæðismálin fyrir unga jafnt sem aldna, efla heilbrigðismálin, menntamálin og samgöngur vítt og breitt um landið. Við munum fylgja málefnum okkar eftir af miklum krafti og leggja okkar af mörkum til stöðugs stjórnarfars og bættra lífskjara um allt land.   Samhliða málefnalegum áherslum þá er krafa kjósenda okkar um að stjórnmálamenn axli meiri ábyrgð. Menn þurfa að þora að treysta, finna leiðir í erfiðum málum og vinna saman af heiðarleika. Hlutverk okkar stjórnmálamanna er jafnframt að hlusta, skilja og virða. Þannig öðlumst við traust. Getum við ekki öll verið sammála um það?   Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.  

Miðflokkurinn þakkar stuðninginn

Við félagar í Miðflokknum í Suðurkjördæmi viljum koma á framfæri kærum þökkum fyrir stuðninginn í aðdraganda alþingiskosninganna og einnig á kjördag.   Miðflokkurinn er flokkur með djúpar rætur á miðju stjórnmálanna. Flokkur fyrir skynsamt fólk með skýra sýn á grundvallarmál samfélagsins. Miðflokkurinn er flokkur sem veitt getur stöðugleika og staðið vörð um hefðbundin grunngildi en um leið verið flokkur hugmyndaauðgi og framfara. Flokkur sem leitar til þeirra sem best þekkja til á hverju sviði og styður góðar hugmyndir sama hvaðan þær koma. Miðflokkurinn vill halda áfram því starfi sem skilaði sér í hraðasta efnahagslega viðsnúningi nokkurrar þjóðar í seinni tíð og skila ávinningnum til þeirra sem eiga hann með réttu, almennings á Íslandi.   Miðflokkurinn lagði áherslu á það í aðdraganda kosninga að kynna sína stefnuskrá og eiga síðan um hana málefnalega umræðu. Sú nálgun skilaði okkur því að Birgir Þórarinsson náði kjöri sem kjördæmakjörinn þingmaður í Suðurkjördæmi og Elvari Eyvindarsyni sem varaþingmanni en 3999 atkvæði féllu í okkar hlut eða 14.3% gildra atkvæða í Suðurkjördæmi. Á landsvísu fékk Miðflokkurinn 10.9% gildra atkvæða sem er íslandsmet hjá nýju framboði. Sannarlega glæsilegur árangur.   Miðflokkurinn getur, ætlar og þorir að vinna í þágu landsmanna til framtíðar.   Takk, takk og aftur takk fyrir stuðninginn, Miðflokkurinn í Suðurkjördæmi  

Lokatölur í Suðurkjördæmi

Sjálfstæðisflokkurinn fékk fjórðung atkvæða í Suðurkjördæmi og þrjá þingmenn og var stærstur flokka þar. Með Pál Magnússon í farabroddi. Talningu atkvæða í kjördæminu lauk um sexleytið. Framsóknarflokkurinn fékk tvo þingmenn og fimm flokkar fengu einn þingmann hver. Það eru Miðflokkurinn, Vinstri-græn, Samfylkingin, Flokkur fólksins með Karl Gauta og Píratar með Smára MacCharty. Sjálfstæðisflokkurinn fór úr rúmlega 30 prósenta fylgi í Suðurkjördæmi í fyrra í 25,2 prósent núna. Það varð til þess að flokkurinn missti Unni Brá Konráðsdóttur, forseta Alþingis, af þingi.   Miðflokkurinn bæti við sig mestu fylgi í Suðurkjördæmi, fær 14,3 prósent og einn þingmann en var ekki í framboði síðast. Flokkur fólksins rúmlega tvöfaldar fylgi sitt frá síðustu kosningum og kemur að manni, fyrrverandi sýslumanninum Karli Gauta Hjaltasyni. Þetta eru einu flokkarnir sem auka þingstyrk sinn í kjördæminu.   Björt framtíð missti nær allt fylgi sitt í Suðurkjördæmi og Viðreisn missti þingmann sinn, Jónu Sólveigu Elínardóttur. Píratar misstu hátt í helming fylgis síns í kjördæminu en þegar enn átti eftir að birta lokatölur úr þremur kjördæmum hélt þingmaður þeirra í kjördæminu sæti sínu sem jöfnunarþingmaður. Slíkt getur þó auðveldlega breyst þegar nýjar tölur birtast. Niðurstaðan er sem hér segir að því er RÚV greinir frá: Sjálfstæðisflokkurinn fær 25,21%, missir 3,79% og fer úr 21 þingmanni í 16.Vinstri grænir fær 16,80%, bæta við sig 0,89% og fara úr 10 í 11 þingmennSamfylkingin fær 12,32%, bæta við sig 6,57, og fara úr 3 í 8 þingmennFramsóknarflokkurinn fær 10,92%, minnkar um 0,59% en heldur sínum 8 þingmönnumMiðflokkurinn fær 10,90%, og fær 7 nýja þingmenn kjörnaPíratar fá 8,94%, missa 5,53% og fara úr 10 í 5 þingmennViðreisn fær 6,57%, missa 3,91% og fara úr 7 niður í 4 þingmennFlokkur fólksins fær 7,25%, bæta við sig 3,71% og fær fjóra þingmenn kjörnaBjört framtíð hlaut 1,13%, tapa 6,03% og missa sína fjóra þingmenn   www.ruv.is greindi frá / Mynd: www.ruv.is  

Sigmundur Davíð: Kæru Eyjamenn

Á morgunn laugardag 28. október verður kosið til alþingis íslendinga. Miðflokkurinn sem stofnaður var þann 8. október s.l. býður nú fram í fyrsta sinn.   Miðflokkurinn er flokkur með djúpar rætur á miðju stjórnmálanna. Flokkur fyrir skynsamt fólk með skýra sýn á grundvallarmál samfélagsins. Miðflokkurinn er flokkur sem veitt getur stöðugleika og staðið vörð um hefðbundin grunngildi en um leið verið flokkur hugmyndaauðgi og framfara. Flokkur sem leitar til þeirra sem best þekkja til á hverju sviði og styður góðar hugmyndir sama hvaðan þær koma. Miðflokkurinn vill halda áfram því starfi sem skilaði sér í hraðasta efnahagslega viðsnúningi nokkurrar þjóðar í seinni tíð og skila ávinningnum til þeirra sem eiga hann með réttu, almennings á Íslandi.   Miðflokkurinn ætlar að styrkja á ný heilsugæsluþjónustu og sérfræðilækningar utan höfuðborgarsvæðisins. Miðflokknum finnst það sem dæmi óboðlegt að öryggi Eyjamanna sé stefnt í hættu vegna niðurskurðar á fjármagni til rekstrar Heibrigðisstofnunar Vestmannaeyja.   Miðflokkurinn ætlar að gera heildaráætlun fyrir uppbyggingu á samgöngum í öllum landshlutum. Nauðsynlegt er að taka á forgangsmálum á svæðum sem hafa beðið lengi eins og tryggar sjósamgöngur til Vestmannaeyja. Miðflokkurinn telur að besta lausnin í dag hvað varðar sjósamgöngur til eyja, felist í því að Vestmannaeyjabær taki yfir rekstur ferjusiglinga á milli lands og Eyja. Ef að Vestmannaeyjabær er sammála um að sú lausn sé sú besta þá er ekkert því til fyrirstöðu að framkvæma hana.   Miðflokkurinn er í stakk búinn til að vinna að fyrrnefndum málum af krafti og vera vélin í ríkisstjórnarsamstarfi. Til þess að svo megi vera þá þurfum við sterkt umboð frá kjósendum til stjórnarmyndunarviðræðna.   Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins  

Vilhjálmur Árnason: Heilbrigðisþjónusta heima í héraði

Fyrir rúmu ári síðan hófum við umræðu um að bæta við sérhæfðri sjúkraþyrlu inn í utanspítalaþjónustuna hér á Suðvesturhorni landsins. Slík þyrla yrði mönnuð bráðalækni og bráðatækni sem hefðu til taks öll þau tæki og búnað sem þarf til að veita bráðaþjónustu strax á vettvangi. Með þessu móti verður hægt að færa sérhæfða læknisþjónustu, utanspítalaþjónustu, út til fólksins á vettvangi til að draga verulega úr afleiðingum veikinda og slysa. Þessi þjónusta yrði hrein viðbót við þær öflugu bjargir sem við höfum í dag sem sjúkrabílarnir og björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar eru. Sjúkraþyrla myndi bæði draga úr álagi á þá aðila og veita þeim mikinn faglegan stuðning. Á þessu eina ári hefur Fagráð sjúkraflutninga Íslands skilað af sér ítarlegri skýrslu þar sem það leggur til að hafið verði sérstakt prufuverkefni með sjúkraþyrlu strax næsta vor. Fjölmargir aðrir fagaðilar eins og félag bráðalækna og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hafa tekið undir með fagráðinu. Þá hafa Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi einnig gefið út samantekt um nauðsyn þess að tekin verði upp þjónusta sjúkraþyrlu á Suðurlandi. Málið hefur verið kynnt fyrir ráðherrum ríkisstjórnarinnar við góðar undirtektir. Næsta skref er því hjá þeim sem mun taka við heilbrigðisráðuneytinu í nýrri ríkisstjórn að taka ákvörðun um að setja verkefnið af stað. Þetta er einn af stóru þáttunum í að efla heilbrigðisþjónustuna á landsbyggðinni ásamt eflingu heilsugæslunnar, fjarheilbrigðisþjónustu og uppbyggingu hjúkrunarheimila. Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins munum leggja okkur áfram fram við að koma þessu verkefni í höfn til að allir eigi jafnt og gott aðgengi að sem bestri heilbrigðisþjónustu.   Komum sjúkraþyrlunni á loft með því að setja X við D þann 28. október.  

Páll Magnússon: Samgöngur – enn og aftur!

Það er fagnaðarefni að í nýrri viljayfirlýsingu samgönguráðherra og bæjarstjóra Vestmannaeyja skuli vera tekið á þremur atriðum sem Eyjamönnum hefur lengi þótt augljós úrbótaefni: daglegum ferðum fjölgað í 8 á reglulegri áætlun; sama gjaldskrá gildi í Landaeyjahöfn og Þorlákshöfn - og gert ráð fyrir að gamli Herjólfur verði áfram til reiðu sem varaskip eftir að nýja ferjan kemur. Allt horfir þetta til mikilla bóta - samhliða því grundvallaratriði að forræðið yfir þessum málum færist hingað til Eyja og viðurkennt er að um sé að ræða almannaþjónustu en ekki hagnaðardrifinn rekstur. Þannig er gert ráð fyrir að rekstrarlegur ávinningur af nýju ferjunni samanborið við gamla Herjólf verði notaður til að bæta þjónustuna. Ég hef orðið var við ótta sumra um að Vestmannaeyjabær sé með þessu að endurvekja einhverskonar ‘‘bæjarútgerð‘‘ og takast á hendur rekstur sem hann hefur ekki vit á. Þessar áhyggjur tel ég óþarfar. Eftir sem áður er hægt að fara með reksturinn sjálfan í útboð eða semja um hann við þriðja aðila – eftir því sem metið er hagkvæmast hverju sinni. Nú þarf að tryggja tvennt til viðbótar: Rannsaka og reyna til þrautar að finna leiðir til að gera Landeyjahöfn að raunverulegri heilsárshöfn; og skoða með hvaða hætti flug milli lands og Eyja – bæði til Reykjavíkur og á Bakka – geti orðið raunverulegur viðbótarvalkostur fyrir venjulegt fólk. Það hjálpar okkur Eyjamönnum ekkert að harma stöðugt það sem við teljum hafa verið mistök í samgöngumálum okkar á síðustu árum. Við verðum alltaf að miða við raunverulega stöðu eins og hún er á hverjum tíma og taka síðan skrefin fram á við út frá henni. Það erum við að gera núna.   Páll Magnússon  

Jóna Sólveig Elínardóttir: Kjósum varanlega velferð

Okkur ber skylda til að fjárfesta í grundvallarstofnunum samfélagsins af skynsemi og til framtíðar. Það er á hinn bóginn dýrt að taka velferðina að láni eins og vinstri lántökuflokkarnir boða. Að ráðast í hundruða milljarða króna útgjaldaaukningu í áhættustórsókn mun auk þess enda með stórtapi fyrir allan almenning í landinu. Allt mælir gegn því að eyða afganginum og taka lán fyrir restinni eins og sumir flokkar boða nú. Öruggar samgöngur, góð heilbrigðis- og velferðarþjónusta, gott menntastarf á öllum skólastigum, tryggt húsnæði og öflugt atvinnulíf um allt land, allt eru þetta velferðarmál sem eiga ekki bara að vera í lagi, heldur í hæsta gæðaflokki. En velferð til framtíðar kallar á ábyrgð og ítrustu útsjónarsemi af hálfu stjórnvalda. Almannafé verður að forgangsraða í verkefni sem munu nýtast landsmönnum sem best. Að forgangsraða í uppbyggingu hjúkrunarheimila er skynsamleg nýting á almannafé enda stórbætir það bæði lífsgæði aldraðra að hafa aðgengi að viðeigandi þjónustu og dregur stórum úr kostnaði ríkisins af því að bjóða öldruðum upp á aðstæður sem hvorki þjóna þeim né sjúkrastofnunum landsins. Þannig bætum við líka þjónustu við aðra aldurshópa sem eru á biðlistum eftir þjónustu sjúkrahúsa. Að forgangsraða í samgöngukerfið í sinni víðustu merkingu, lífæðar samfélagsins, þjónar öllum til framtíðar. Þar ber að sjálfsögðu að forgangsraða á þau svæði þar sem álagið og óöryggið er hvað mest, þ.e. á suður- og suðvesturhorn landsins. Viðreisn vill að flugvélaeldsneyti kosti það sama um allt land þannig að flugfélög geti flogið beint á flugvelli á landsbyggðinni og við viljum að innanlandsflug verði skilgreint sem almenningssamgöngur líkt og strætó og ferjuflutningar. Að draga úr kostnaði við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis með einföldun byggingareglugerðar tryggir lægra húsnæðisverð og þjónar þannig öllum þeim fjölda sem nú er að undirbúa sig við að stíga fyrstu skref inn á íbúðamarkað sem og þeim sem vilja minnka við sig. Jafnréttismál eru velferðarmál. Þess vegna viljum við ná fram, í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og stéttarfélaga, þjóðarsátt um leiðréttingu launa kvennastétta sem aftur væri stórt skref í átt að því að útrýma kynbundnum launamun. Við viljum brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, efla leikskólastigið og að réttur til dagvistunar sé tryggður frá 12 mánaða aldri. Þá þarf að ráðast í átak gegn kynbundnu ofbeldi, m.a. með nýju samþykkisfrumvarpi sem Viðreisn lagði fram til að stórbæta réttarstöðu þolenda kynferðisofbeldis. Viðreisn sýndi á spilin um síðustu helgi, þ.e. hvernig við ætlum að fjármagna það sem við setjum fram í þessari kosningabaráttu. Upplýsingar um það má finna á heimasíðu flokksins. Þá eiga stjórnmálamenn að nýta öll möguleg tækifæri til að bæta lífskjör í landinu og þar er stærsta sóknarfærið að festa krónuna við öflugan gjaldmiðil til að ná niður vaxtastiginu og skapa íslenskum fyrirtækjum stöðugt og gott rekstrarumhverfi til framtíðar. Að festa gengið gæti helmingað vaxtakostnað heimila, fyrirtækja og ríkisins sem aftur skapar stóraukið svigrúm fyrir alla til varanlegrar velferðar. Almenningur á ekki að þurfa að vinna kauplaust í sex vikur á ári fyrir fljótandi íslenska krónu!   Kjósum varanlega velferð, lægri vexti og stöðugleika. Kjósum Viðreisn!  

Ragnar Óskarsson: Í von um góðan vetur

Á morgun fáum við að kjósa. Tvær síðustu ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins og fylgiflokka þeirra hafa hrökklast frá völdum vegna óeiningar en ekki síður vegna hneykslismála. Á síðust árum hefur enn og aftur og betur og betur komið í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn gætir sannarlega einkahagsmuna í stað hagsmuna almennings. Auk þess eru forystumenn flokksins flæktir í alls konar spillingarmál eins og okkur hefur rækilega verið bent á í umfjöllun fjölmiðla.   Vinstrihreyfingin- grænt framboð eru augljós andstæða við allt þetta. Hreyfingin stendur við þá stefnu sem hún boðar. Hún hefur á að skipa traustu fólki og forystukonu sem nýtur mikillar virðingar langt út fyrir allar flokkslínur, forystukonu sem sannarlega er verðugt forsætisráðherraefni í nýrri ríkisstjórn.   En fyrir hvað standa vinstri græn. Lítum á nokkra þætti og örlítinn samanburð.   · Vinstri græn ætla að færa skattabyrði af almenningi á auðmenn. Ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins hafa lækkað skatta á auðmenn en hækkað skatta á almenning.   · Vinstri græn ætla að efla samfélagslega rekna heilbrigðisþjónustu fyrir alla. Ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins hafa nánast rústað heilbrigðiskerfinu og leggja nú höfuðáherslu á einkarekið heilbrigðiskerfi sem stjórnast af gróðasjónarmiðum og þar sem efnahagur fólks ræður hvers konar heilbrigðisþjónustu við fáum.   · Vinstri græn ætla að gera menntun gjaldfrjálsa svo að ekki fari eftir efnahag hverjir hennar geta notið. Sjálfstæðisflokkurinn vill einkerekið skólakerfi knúið áfram af gróðasjónarmiðum.   · Vinstri græn ætla að efla almenningssamgöngur á landi í lofti og á sjó og hafna vegtollastefnu Sjálfstæðisflokksins.   · Vinstri græn ætla að gera ungu fólki kleift að tryggja sér húsnæði á viðráðanlegum kjörum og hafna okurstefnu Sjálfstæðisflokksins.   Og það er svo margt margt fleira sem andstæðurnar í íslenskum   stjórnmálum snúast um um þessar mundir þótt það sé ekki tíundað hér. Vinstri hreyfingin grænt framboð er því augljós kostur fyrir þá sem vilja stöðugleika, heiðarleika og réttlátt þjóðfélag þar sem hagsmunir almenning eru teknir fram yfir einkahagsmuni hinna ríku.   Listabókstafur Vinstri grænna er V.   Í von um góðan vetur!   Ragnar Óskarsson  

Oddný G. Harðardóttir og Arna Huld Sigurðardóttir: Kjósum Samfylkinguna

Það eru kosningar á laugardaginn og það eru margir flokkar í boði. Við sem skrifum þessa grein mælum með því að þú kæri lesandi kjósir Samfylkinguna. Það eru margar ástæður fyrir því. Fyrst og fremst er ástæðan sú að Samfylkingin er jafnaðarmannaflokkur Íslands og berst fyrir jafnaðarstefnunni alla daga allan ársins hring. Við erum ekki jafnaðarmenn eingöngu dagana fyrir kosningar eins og nýju flokkarnir sem fengu brautargengi í síðustu kosningum en felldu grímuna rækilega með fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2018. Við viljum endurreisa heilbrigðiskerfið og gera það með því að styrkja opinbera hluta þess, spítalana og heilbrigðisstofnanirnar um allt land. Sjúkraflutningar eru þar með taldir.   Heilbrigðismálin brenna á íbúum í Vestmannaeyjum og það gera samgöngumálin einnig, enda augljóst vegna landfræðilegra ástæðna að það þarf að gera miklu betur á þeim sviðum. Og þessi tvö stóru hagsmunamál eru samofin.   Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur átt við rekstrarvanda að stríða sem nauðsynlegt er að taka á af festu. Sjúkraflutninga verður að bæta og Samfylkingin vill að kaup eða leiga á þyrlum verði könnuð sérstaklega sem leið til að auka öryggi sjúklinga og tryggja að þeir komist undir læknishendur eins fljótt og mögulegt er. Nýta á í auknum mæli tækni og nýjustu tæki til að bæta heilbrigðisþjónustuna. Samfylkingin leggur áherslu á að fjarlækningar verði aðgengilegar þannig að landsbyggðin njóti greiningar færustu sérfræðinga án þess að þurfa að ferðast um langan veg.   Hagsmunir í húfi Nýr Herjólfur og betri Landeyjahöfn er ekki bara nauðsynleg samgöngubót fyrir íbúa heldur er samgöngubótin nauðsynleg fyrir atvinnurekstur og ekki síst ferðaþjónustuna. Hver dagur sem ekki er mögulegt að sigla frá Landeyjahöfn bitnar á möguleikum Vestmannaeyinga til að selja þjónustu sína og skapa samfélaginu verðmæti. Svo ekki sé talað um mikilvægi þess að Vestmannaeyingar geti sótt þjónustu og heimsótt ættingja sína í landi. Samfylkingin telur að það þjóni best hagsmunum íbúa Vestmannaeyja að bærinn sjái um reksturinn á nýju ferjunni. Skólastarf sem mætir þörfum íbúa er einn af hornsteinum búsetuskilyrða í Vestmannaeyjum. Þar er Framhaldsskólinn í lykilhlutverki og háskólastarfsemin drifkraftur nýsköpunar. Nýsköpun í sjávarútvegi er frjó og spennandi þessi misserin þar sem leitað er leiða til að hámarka virði hvers fisks sem dregin er að landi. Verðmætar afurðir úr fiskroði eru nýjungar sem hafa gengið vel. Rannsóknir á enn fleiri möguleikum eru hafnar og ríkið á að ýta undir frekara starf á þessu sviði.   Látum hjartað ráða för Samfylkingin jafnaðarmannaflokkur Íslands hefur ekki skipt um stefnu frá kosningum fyrir ári síðan. Stefnan er innblásin af hugsjónum jafnaðarmanna. Við hverjum þig lesandi góður til að skoða stefnuna okkar á heimsíðu Samfylkingarinnar www.xs.is og hugsa til okkar í kjörklefanum á laugardaginn.   Látum hjartað ráða för. Kjósum Samfylkinguna.    

Hildur Sólveig: Nýtum kosningaréttinn

Óstöðugleiki er óæskilegur Á morgun laugardaginn 28. október ganga Íslendingar til kosninga. Þær báru að mun fyrr en áætlað var og er það að mörgu leyti miður, fyrst og fremst fyrir þann stjórnarfarslega stöðugleika sem nauðsynlegur er þessu framsækna og brautryðjandi landi sem Ísland sannarlega er. Slíkur óstöðugleiki skapar óvissu og neikvæð viðhorf m.a. fyrir erlend fyrirtæki sem íhuga fjárfestingar á Íslandi, fyrir atvinnumarkaðinn sem heldur að sér höndum þegar efnahagsleg framtíð og þá sérstaklega skattaumhverfi er óráðið og ekki síst fyrir almenning sem vafalaust hefur takmarkað úthald fyrir þeirri umfjöllun, fréttaflutningi og gjarnan hatrammri og neikvæðu umræðu sem því miður er oft fylgifiskur kosninga.   Ég treysti stefnu Sjálfstæðisflokksins Ég er búin að nýta minn lýðræðislega rétt til að hafa áhrif á niðurstöður kosninga og hikaði hvergi við að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Það gerði ég eftir vandlega íhugun. Margt þarf vissulega að betrumbæta í okkar nærsamfélagi hér í Vestmannaeyjum en þá er mér nærtækast að hugsa til þess að ekki sé enn starfrækt skurðstofa í Vestmannaeyjum og að samgöngur séu í þeim farvegi sem þær hafa verið undanfarna mánuði. Slíkt er óásættanlegt með öllu. Þrátt fyrir það hefur frelsisstefna Sjálfstæðisflokksins með áherslu á jöfn tækifæri fyrir alla og lágar álögur skapað grundvöll fyrir vaxandi hagsæld, aukinn kaupmátt, minnkandi atvinnuleysi, aukið jafnrétti og skapað aðstæður sem fjölmörg ríki horfa öfundaraugum til.   Séreignarsparnaðarleiðin og verulega aukin framlög til heilbrigðismála Aðgerðir sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur innleitt og almenningur finnur vel fyrir eru t.d. séreignarsparnaðarleiðin þar sem fólk getur nýtt skattaafslátt og greitt séreignarsparnað sinn beint inn á höfuðstól húsnæðisláns eða safnað fyrir útborgun húsnæðis. Slíkt hefur mikil áhrif annars vegar á mánaðarlegar afborganir af húsnæðislánum sem skilar sér í auknum kaupmætti heimila og auðveldar hins vegar fólki að festa kaup á sinni fyrstu eign sem reynist fjölmörgum mjög erfitt miðað við ástand á húsnæðismarkaðnum í dag. Í öðru lagi var nýtt greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslans tekið í notkun í maí síðastliðnum þar sem stóraukin framlög voru tryggð í heilbrigðiskerfið. Fólk þarf í dag að greiða mun minna fyrir þá þjónustu sem það þarf að nýta sér innan heilbrigðiskerfisins en áður, t.d. eins og ég þekki sjálf í sjúkraþjálfun og leiðir það af sér að fólk veigrar sér síður við leita sér þjónustu, sem það sækir þá jafnvel fyrr en ella, en snemmtæk inngrip eru lykillinn að skjótum bata sem leiðir af sér minni afleiddan kostnað fyrir hagkerfið.   Berum virðingu fyrir lýðræðinu, kjósum.   Mergur málsins verður samt sem áður alltaf þessi, mættu á kjörstað, skilaðu atkvæði eftir þinni eigin hjartans sannfæringu og hafðu áhrif. Berum virðingu fyrir lýðræðinu sem svo margir hafa barist fyrir og jafnvel látið lífið fyrir að reyna að öðlast. Kjóstu!     Hildur Sólveig Sigurðardóttir Sjúkraþjálfari    

Sigurður Ingi Jóhansson: Vinna - vöxtur - velferð

  Vinna Atvinna er undirstaða vaxtar og velferðar og gegna lítil og meðalstór fyrirtæki þar lykilhlutverki. Hlutverk ríkisins er fyrst og fremst að skapa hagstæða umgjörð um atvinnulífið, meðal annars með einföldun skattkerfis og regluverks atvinnurekstrar. Koma þarf í veg fyrir að fyrirtæki búi við íþyngjandi kröfur sem ekki þjóna tilgangi sínum.   Mikilvægt er að gefa sem flestum tækifæri til að nýta starfskrafta sína með viðeigandi hætti. Framsókn vill afnema frítekjumarkið af atvinnutekjum. Margir þeir sem eru komnir á efri ár og eiga rétt á lífeyri frá almannatryggingum vilja halda áfram að vinna. Fólk á rétt á að hafa val. Þeir sem vilja og geta unnið, eiga að fá tækifæri til þess. Fátt er eins ömurlegt að langa til að halda áfram á atvinnumarkaðnum en upplifa neikvæða umbun í formi skerðingar á lífeyri. Atvinnuþátttaka aldraða leiðir til betri heilsu og heilbrigðara samfélags.   Vöxtur Framsókn vill fjarlægja húsnæðisliðinn út úr vísitölu neysluverðs og banna verðtryggingu á á neytenda- og íbúðalánum. Banna þarf ný verðtryggð lán svo heimilum bjóðist hagstæðir óverðtryggðir vextir og skapa þannig hvata og stuðning við heimili til að breyta verðtryggðum lánum í óverðtryggð. Verð á húsnæði hefur að jafnaði hækkað meira en verð á öðrum vörum og þjónustu sem skekkir vísitölu neysluverðs. Afleiðingin er að verðtryggðar skuldir heimilanna hafa hækkað um tugi milljarða undan- farin ár.   Framsókn vill stuðla að því að raunvextir lækki. Aðgerðir varðandi verðtryggingu og að húsnæðisliðurinn sé tekinn út úr vísitölunni munu stuðla að vaxtalækkun. Framsókn vill samstarf stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um hvernig hægt sé að sammælast um lækkun vaxta t.a.m. við kjarasamningsgerð.   Velferð Framsókn vill fjárfesta í heilbrigðis-, samgöngu- og menntamálum. Setja þarf 20 milljarða í heilbrigðis-, samgöngu- og menntamál til að bregðast við brýnni þörf. Framsókn telur mikilvægt að nota ríflegan afgang af ríkisrekstri til að fjárfesta í betra heilbrigðiskerfi, betri lífsgæðum og betri samgöngum ásamt því að lækka skuldir ríkissjóðs.   Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, 1. sæti í Suðurkjördæmi

Ragnhildur L. Guðmundsdóttir: Samgöngur og heilbrigðismál

Við viljum tryggja öruggar samgöngur fyrir alla. Með uppbyggingu samgangna viljum við tryggja öryggi íbúa landsins, mörg sveitarfélög búa við óásættanlegar samgöngur þar sem ófært er löngum stundum. Við viljum bæta vegi og göng þar sem því er ábótavant til að tryggja samgönguflæði allan ársins hring. Mikilvægt er að styðja við samgöngur á vegum, sjó og með flugi fyrir íbúa á landsbyggðinni þegar þeir þurfa að sækja þjónustu langt út fyrir heimabyggð sína.   Dögun vill að endurnýjun og viðhald vegakerfisins byggist á heildrænu landsskipulagi sem miði annars vegar að því að landið haldist áfram í byggð og hins vegar að því að hámarka umferðaröryggi samkvæmt svo kallaðri „núllsýn“ sem snýst um að fækka dauðaslysum í umferðinni niður í ekkert.   Að aka um Vestfirðina er ótrúlega fallegt en ég finn til með bílum þar sem vegirnir eru handónýtir, hola við holu. Þar er samt hægt að aka leiðar sinnar eða taka ferjuna Baldur yfir Breiðafjörðinn. Íbúar í Vestmannaeyjum eiga ekki kost á því að aka í land og er mér stórlega til efs að það muni hægt í nánustu framtíð. Ferjusiglingar og flug eru því þeirra þjóðvegur númer 1 og því eðlilegt að það sé til staðar fyrir íbúana í gegnum samgöngustofu. Ferjusiglingar á milli lands og Eyja þurfa að taka mið af aðstæðum, ég velti fyrir mér hvort „flugbátar“ loftpúðaskip gætu nýtst betur þarna á milli en slík skip voru notuð á milli Danmerkur og Svíþjóðar.   Við þurfum einnig að draga úr þungaflutningum á þjóðvegum enda þjóðhagslega hagkvæmt að taka upp strandsiglingar að nýju. Vegaframkvæmdir verði ætíð metnar með tilliti til öryggis- og umhverfissjónarmiða sem og styttingar akstursleiða.   Góðar samgöngur og gott aðgengi að heilbrigðiskerfi helst í hendur. Dögun telur það forgangsmál að snúa við niðurskurði í heilbrigðisþjónustu. Niðurskurðurinn hefur stórskaðað heilbrigðiskerfið og víðast hvar er þjónustan verulega skert. Þá er sjúkrahúsþjónusta orðin að mestu einangruð við LSH og FSA. Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu er í kreppu og víða úti um land gengur illa að reka og manna þjónustuna. Skortur er á heimaþjónustu og stuðningi við aldraða og sjúka.   Dögun vill að heilbrigðisþjónustan verði endurskipulögð og snúið frá allsherjar miðstýringu ráðuneytisins og forstjóraveldi á spítölum. Dögun leggur áherslu á að stjórnvöld skilgreini grunnþjónustu í heilbrigðiskerfinu og íbúar eiga ekki að þurfa að aka um langan veg til að fá góða heilbrigðisþjónustu. Dögun vill að sjúkrahúsþjónusta og aðgengi að sérhæfðu heilbrigðisstarfsfólki verði efld í öllum landshlutum. Dögun leggur áherslu á samstarf heilsugæslunnar og félags- og sálfræðiþjónustu.   Það er mikilvægt að kjör heilbrigðis- og umönnunarstétta verði bætt til að stöðva spekilekann og tryggja að sú fjárfesting sem lögð hefur verið í með menntun þessara stétta nýtist innanlands. Dögun vill að lýðheilsa og forvarnir verði sett í forgang í samfélaginu, vitund fólks um ábyrgð þess á eigin heilsu elfd og telur það vera ódýrara að halda fólki heilbrigðu en lækna sjúka.   Ragnhildur L. Guðmundsdóttir 1. sæti í Suðurkjördæmi Dögun, stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði.    

Silja Dögg Gunnarsdóttir: Tækifærin eru til staðar

Ísland er fámennt og dreifbýlt land og því er góð heilbrigðisþjónusta fyrir alla heilmikil áskorun. En markmiðið er að íbúar njóti jafnræðis.   Heilbrigðisáætlun Við Framsóknarmenn gerðum heilbrigðisáætlun fyrir Ísland, að forgangsmáli okkar. Málið var samþykkt vorið 2017. Áætlunin felur í sér að fé verði úthlutað til stofnana með markvissum hætti og tekið tillit til íbúaþróunar, aldurssamsetningar íbúa, fjarlægða og umfangi ferðamannastaða, svo eitthvað sé nefnt.   Fæðingar fjarri heimabyggð Brýnt er að komið sé til móts við fólk sem þarf að sækja fæðingarþjónustu um langan veg. Undirrituð hefur lagt fram frumvarp í tvígang um að lögum um fæðingarorlof verði breytt. Með frumvarpinu er lagt til að réttur foreldra til fæðingarorlofs eða -styrks framlengist sem nemur þeim tíma sem þeir þurfa að dveljast fjarri heimili til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp. Fólk á ekki að gjalda þess að búa fjarri fæðingarstöðum og fjarri heilbrigðisþjónustu almennt.   Fjármagnið er til staðar Við getum fjármagnað þessi verkefni. Framsóknarflokkurinn vill fjárfesta 20 milljarða í heilbrigðis-, samgöngu- og menntakerfinu, þar af færu 10 milljarðar í heilbrigðiskerfið. Slík fjárfesting ógnar ekki stöðugleikanum. Tekjuafgangur ríkissjóðs er umtalsvert meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það er kominn tími til að fjárfesta í heilbrigðiskerfinu okkar. Getum við ekki öll verið sammála um það?   Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins  

Birgir Þórarinsson: Til Eyjamanna

Við búum í lýðræðisríki, kjósendur hafa sem betur fer völd. Kjósendur geta ákveðið hverjir fara á þing og hverjir ekki. Margir frambjóðendur telja sig geta unnið landi og þjóð gagn og vilja verða þingmenn og aðrir vilja halda áfram að vera þingmenn. Sumir ná takmarkinu en aðrir ekki. Kjósendur geta líka, sem betur fer, tekið nokkuð upplýsta ákvörðun áður en þeir setja kjörseðilinn í kassann. Viljum við hafa fólk í vinnu sem á erfitt með að taka ákvarðanir eða taka af skarið? Viljum við hafa fólk í vinnu sem fer í skóla þegar það er kosið til þess að sinna þingstörfum? Viljum við hafa fólk í vinnu sem segir eitt en gerir annað?   Sjósamgöngur til Eyja Dæmalaus vandræðagangur þingmanna Suðurkjördæmis er varðar sjósamgöngur til Eyja er vægast sagt sorglegur. Greiðar samgöngur til og frá Eyjum eru ekki einkamál Eyjamanna. Greiðar samgöngur til Eyja eru hagsmunamál allra landsmanna til að landið allt virki sem ein heild. Kröfurnar sem Vestmannaeyjabær setur fram í dag fyrir hönd íbúa sinna sem sínar ítrustu kröfur í viðræðum sínum við kerfið og biðja þingmenn Suðurkjördæmis að aðstoða sig við eru þær helstar að heimamenn vilja tryggja reglulegar siglingar til og frá landi og að sá rekstur standi undir sér.   Er þessi ósk sem heimamenn kalla ítrustu kröfur, freklegar? Er krafan um greiðar sjósamgöngur á milli lands og Eyja, frekleg? Er óskin um að það verði siglt alla daga ársins, frekleg? Er óskin um að sömu fargjöld gildi, hvort sem siglt er að og frá Þorlákshöfn eða Landeyjahöfn, frekleg? Hvað finnst þér?   Okkur í Miðflokknum finnst þessar kröfur á engan hátt vera freklegar. „Ítrasta krafan“ er einfaldlega sjálfsögð.   Hvernig væri nú að kerfið og þingmenn Suðurkjördæmis settust niður með Eyjamönnum og færu ekki frá borði fyrr en besta lausnin í dag og til framtíðar er fundin og þeim síðan fylgt eftir af krafti þ.e. með framkvæmdum.   Upplýst hefur verið að nokkrir undirbúningsfundir hafi verið haldnir vegna þessa verkefnis nú rúmlega sjö árum eftir að Landeyjarhöfn var tekin í notkun. Sjö ára vandræðagangur og svo ekkert gefið upp um það hvað verið er að ræða eða hvort það sé verið að vinna að einhverri rökréttri lausn.   Miðflokkurinn telur að besta lausin í dag sé sú að Vestmannaeyjabær taki yfir rekstur ferjusiglinga á milli lands og Eyja. Eyjamenn sjái um rekstur nýju ferjunnar og að Herjólfur verði ávallt til staðar er á þarf að halda. Miðflokkurinn telur síðan að vinna þurfi af krafti að framtíðarlausn svo að samgöngur til Eyja séu minna háðar veðurguðum.   Miðflokkurinn er afl sem þorir. Miðflokkurinn er nýtt stjórnmálaafl sem byggt er á traustum grunni. Við erum komin í stjórnmál til þess að framkvæma og erum ekki ákvarðanafælin. Við ætlum að láta lýðræðið virka á Íslandi. Við látum ekki kerfið segja okkur fyrir verkum né telja okkur trú um að engu sé hægt að breyta. Við ætlum að breyta fjármálakerfinu, lækka vexti, afnema verðtrygginguna, leiðrétta kjör eldri borgara, byggja nýjan Landspítala og bæta samgöngur. Allt kostar þetta peninga en við höfum raunhæfar tillögur um hvaðan peningarnir eiga að koma. Þeir munu koma úr endurskipulagningu fjármálakerfisins. Við munum ekki hækka skatta. Við ætlum að bæta lífskjörin á Íslandi og bæta búsetuskilyrðin í Suðurkjördæmi. Við óskum eftir þínum stuðningi á laugardaginn kæri kjósandi, svo við getum hafist handa. X-M

Ásmundur Friðriksson: Skattahugmyndir VG og Samfylkingar er árás á kjör fólks

Á sama tíma og launþegar ríkisvaldsins eru að leggja fram launakröfur sínar er áhugavert að bera saman skattastefnu Sjálfstæðisflokksins og vinstri flokkanna á Alþingi. VG og Samfylkingin hafa boðað tugmilljarða aukningu ríkisútgjalda næstu 5 árin eða á bilinu 250-360 milljarða. Þessar tillögur kom fram við umræður um 5 ára fjármálaáætlun í þinginu sl. vor og kosta um 50-77 milljarða á ári. Til þess að ná inn tekjum til að standa undir þessum auknu útgjöldum hafa VG og Samfylkingin boðað miklar skattahækkanir. Boðun á hækkun veiðigjalda kemur ekki á óvart og enn síður kemur það á óvart að þeir sem eru eldir en 60 ára og eiga skuldlausar eignir sem fá kaldar kveðjur frá skattatvíburunum VG og Samfylkingunni með boðun á auðlegðarskatti. Það er ekkert nýtt í því að þeir flokkar leggi byrgðar á eldra fólkið umfram aðra. Skattatvíburarnir lögðu mikla áherslu á það í þinginu að laun lækna og hjúkrunarfólks hækkaði eins og raun varð á í síðustu kjarasamningum heilbrigðistétta. Nú leggja tvíburarnir skattaglöðu mesta áherslu á að ná þeim hækkunum til baka með sérstökum hátekjuskatti sem læknar og hátt launaðar heilbrigðisstéttir falla í. Fyrst krefjast skattglöðu tvíburarnir VG og Samfylkingin bættra kjara heilbrigðisstétta en vilja síðan draga ávinninginn til baka í ríkissjóð. Þá afnámu þeir sjómannaafsláttinn og nú á að bæta á saltið í það sár og grípa þá sjómenn sem best bera úr bítum í gildru hátekjuskatts. Sú skattlagning kemur til viðbótar mikilli kjaraskerðingu sem sjómenn hafa orðið fyrir vegna styrkingu krónunnar, en launaskerðing þeirra síðust misserin má telja í tugum prósenta líklega 35% og kveðjan frá skattatvíburunum því köld. Þessi draumahátekjuskattur skattatvíburanna er þó aðeins brot að því sem þarf til að loka útgjaldagatinu sem þeir boða en fram hefur komið að 76% hátekjuskattur á laun umfarm 2 mkr. á mánuði skili aðeins 2,7 milljörðum upp í 50-70 milljarða útgjaldaaukningu VG og Samfylkingar á ári. Það verður því leitað til almennings um það sem á vantar.   Skattastefna Sjálfstæðisflokksins er klár og liggur fyrir. Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir því á kjörtímabilinu 2013-2016 að afnema öll vörugjöld og tolla þó enn séu tollar á landbúnaðarvörum. Áhrifin eru lægra vöruverð sem skilar sér beint í vasa neytenda. Neðra þrep tekjuskatts var lækkað úr 40% eftir persónuafslátt í 37% og Sjálfstæðisflokkurinn boðar að lækka þrepið í 35%. Milliþrepið í tekjuskattinum var afnumið og millitekjuhópurinn fór því í neðra skattþrepið, en hærra þrepið er 46% eftir að persónuafsláttur er nýttur. Þessar skattalækkanir, aukin kaupmáttur, lág verðbólga og verulegar launahækkanir á vinnumarkaði hafa trygg heimilunum í landinu betri afkomu en áður hefur þekkst.   Hér liggja klárar línur í skattamálum. Það verður kosið um áframhaldandi skattalækkunarstefnu Sjálfstæðisflokksins sem mun skila hjónum með meðaltekjur um 600 þúsund krónum meira í ráðstöfunartekjur á ári. Eða skattahækkunarstefna skattatvíburanna í VG og Samfylkingu sem þeir fara ekki leynt með og mun leggjast þungt á allan almenning í þessu landi. Hlustið bara vandlega á hvað þeir boða í skattamálum, þó aðallega hverju þeir vilja ekki svara.   Ég mun kjósa með bættum hag heimilanna í landinu. Kjósum X-D á kjördag.   Ásmundur Friðriksson alþingismaður.  

Skúli Thoroddsen: Þá er það Viðreisn!

Villtu öfluga og góða heilbrigðisþjónustu fyrir alla þar sem fjármunir eru nýttir á skilvirkan hátt? Þá er það Viðreisn.   Villtu þjóðarsátt um kjör kvennastétta? Þá er það Viðreisn.   Villtu samfélag sem hugsar vel um börnin sín og hag eldri borgara? Þá er það Viðreisn.   Villtu uppstokkun landbúnaðarkerfisins í þágu neytenda og bænda? Þá er það Viðreisn.   Villtu nýsköpun og þekkingarsamfélag? Þá er það Viðreisn.   Villtu láta erlenda ferðamenn greiða kostnað af innviðum samfélagsins, sem þeir njóta, með sama virðisaukaskatti á gistingu og þú greiðir almennt fyrir þjónustu, að t.d. Bláa Lónið greiði skatt af svimandi háum aðgangseyri og lúxusgistingu? Þá er það Viðreisn.   Það besta við síðustu ríkisstjórn var Þorgerður Katrín, sem sá um hag neytenda og bænda og gætti almannahags í sjávarútvegi gegn sérhagsmunum, Benedikt, sem sá um skynsamlega fjármálastjórn og Þorsteinn, sem lagði grunn að nýrri húsnæðispólitík og náði árangri í jafnréttismálum. Það versta var leyndarhyggja Bjarna og þöggun og aðferð Sigríðar Andersen við skipan dómara, skólabókadæmi um spillingu og sérhagsmuni. Villtu almannahagsmuni í stað sérhagsmuna? Þá er það Viðreisn.   Margrómað velferðakerfi Norðurlandanna byggir á öflugu atvinnulífi og efnahagslegum stöðugleika, þ.m.t. stöðugum gjaldmiðli m.a. evru í Finnlandi og evrutengdri danskri krónu. Þar hafa frjálslyndir jafnaðarmenn lengst af ráðið för í samráði við launafólk um kjör þess og aðra aðila vinnumarkaðarins. Íslenskir jafnaðarmenn hafa ekki náð sama árangri. Ég nefni nú ekki hina. Ekki glata tækifærinu til að sigrast á vaxtaokrinu og tryggja stöðugleika til lengri tíma. Nei, við flöktandi íslenskri krónu og að Íslendingar verði fátæk þjóð í hafti. Tryggjum kjörin. Þá þarf frjálslynda Viðreisn í ríkisstjórn.   Viðreisn vill, eins og Samfylkingin, sækja um aðild að ESB og bera aðildarsamning undir Íslendinga í þjóðaratkvæðagreiðslu. Kjósendur eiga alltaf síðasta orðið! Þá er það Viðreisn.   Villt þú stunda málefnalega umræðu og stuðla að góðum stjórnarháttum með áherslu á gegnsæi og gott siðferði? Þá er það Viðreisn.   Villt þú tveggja flokka stjórn VG með Sjálfstæðisflokknum þar sem engu verður breytt, eða 3ja flokka stjórn VG með Pírötum og Samfylkingunni? Yrði það til góðs? Eigi almannahagsmunir og skynsamleg fjármálastefna án skattahækkana á almenning að ráða för í næstu ríkisstjórn, sem Katrín Jakobsdóttir og VG færi fyrir, þá þarf Viðreisn. Já, þá er það Viðreisn. X-C.   Skúli Thoroddsen lögfræðingur, skipar 14. sæti á lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi.  

Ragnar Óskarsson: Góði gírinn

Fyrir nokkrum dögum sagði ég ykkur frá vini mínum og miklum Sjálfstæðismanni sem ræddi við mig um samgöngumál okkar Eyjamanna. Hann hringdi í mig í gær og sagðist vera að mörgu leyti sammála mér um ábyrgð ráðherra á þeim málefnum sem undir þá heyrðu. Hann yrði líkast til bara að viðurkenna að Sjálfstæðismenn, bæði hér heima og á Alþingi hefðu staðið sig illa í þessu mikilvæga hagsmunamáli. „En þú verður að viðurkenna eitt, Raggi minn,“ sagði hann. „Ríkisstjórn Bjarna Ben hefur heldur betur aukið framlög til heilbrigðismála undanfarin ár. Ég sá það svart á hvítu í gögnum uppi í Ásgarði. Gögnin sýna að í heilbrigðismálum standa mínir menn sig sko og ætla að halda því áfram. Allt er því í góðum gír.“ Eftir þessa yfirlýsingu var ekki laust við að vinur minn fyndi til óblendins stolts yfir „sínu fólki.“ „Ja, þú segir nokkuð,“ sagði ég. „Ef þeir eru að standa sig svona vel, hvers vegna er þá stöðugur niðurskurður og samdráttur við sjúkrahússins okkar. Hvers vegna geta barnshafandi konur ekki fætt börn sín í Eyjum? Hvers vegna er nánast engar aðgerðir hægt að gera hér heima? Hvers vegna er geð- og sálfræðiþjónusta ófullnægjandi? Hvers vegna er augnlæknir hættur að koma hingað? Hvers vegna þurfa þeir sem vegna ástandsins verða aða fara til Reykjavíkur til að fá þjónustu að standa undir óheyrilegum kostnaði vegna ófremdarástandsins í heilbrigðismálum okkar Eyjamanna. Hvers vegna eru aðstæður orðnar svo óboðlegar að fólk er farið í verulegum mæli að hugsa sér til hreyfings héðan? Ég held að þú verðir að skoða þessi gögn upp í Ásgarði betur. Kannski vilja þeir sem segjast sýna með gögnunum hvernig Sjálfstæðismenn standa sig í heilbrigðismálum okkar Eyjamanna, birta þau almenningi. Ég er reyndar viss um að í það leggja þeir ekki, alla vega ekki fyrir kosningar. Það getur nefnilega enginn breytt klessuverki í glansmynd.   Ragnar Óskarsson    

Miðflokkurinn – Afl sem þorir

Nýtt kröftugt stjórnmálaafl hefur verið stofnað, Miðflokkurinn. Miðflokkurinn er stofnaður af fólki víða að úr samfélaginu, sem vill vinna að heill landsins alls og leggur mikla áherslu á að hagsmunir okkar allra fari saman. Flokkurinn hefur nú þegar á örfáum dögum frá stofnun sett fram áherslur sínar í stærstu og veigamestu málum sem varða alla Íslendinga. Stefnumálin eru róttæk og við ætlum að koma þeim til framkvæmda með því að vinna að réttu lausninni – skynsamlegustu lausninni – rökréttustu lausninni, sama hvaðan hugmyndirnar koma.   Endurskipulagning fjármálakerfisins Miðflokkurinn ætlar að afnema verðtrygginguna og lækka vexti í landinu. Með því að fylgja eftir ákveðinni aðgerðaráætlun í endurskipulagningu fjármálakerfisins verður verðtryggingin svelt í burtu af íslenskum fjármálamarkaði. Fyrst þá verður verðtrygging af neytendalánum gerð óheimil með lagabreytingu. Í öðru lagi þá mun ríkið nýta sér forkaupsrétt að Arion banka. Í þriðja lagi verða bankarnir minnkaðir með því að greiða úr þeim það eigið fé sem er umfram í bönkunum til ríkisins. Eftir yfirtökuna á Arion og endurskipulagningu bankanna þá verði Landsbankinn enn í ríkiseigu en komi til með að stofna netbanka sem mun bjóða lægstu mögulegu vexti. Arion banka verður skipt í þrennt þar sem allir Íslendingar munu eignast hlutabréf í bankanum endurgjaldslaust sem nemur einum þriðja af öllu hlutafé. Þriðjungur verður seldur í opnu útboði og ríkið heldur áfram ráðandi hlut í bankanum fyrst um sinn. Ný lög verða sett um Seðlabankann og lífeyrissjóðunum verði gert skylt að fjárfesta erlendis líkt og norski olíusjóðurinn gerir. Með ofangreindum aðgerðum og fleirum verður búið til lágvaxtaumhverfi, sem mun bæta lífskjör á Íslandi.   Landið allt Við viljum auka skilning landsmanna á því að hagsmunir allra fari saman. Þetta á við til dæmis í sambandi við nýtingu fjárfestinga í heilbrigðisþjónustu, þar sem bæði er hægt að nýta þá aðstöðu sem þegar er til og um leið að færa þjónustuna nær fólkinu. Við viljum tryggja flugvöll áfram í Vatnsmýrinni og með því tryggja góð tengsl milli höfuðborgar og landsbyggðar.   Nýtum kosningaréttinn Ágæti kjósandi. Frambjóðendur eru boðnir og búnir að koma til skrafs og ráðagerða. Einnig er hægt að senda fyrirspurnir á sudur@midflokkurinn.is. Mikilvægt er að allir nýti sinn kosningarétt því það skiptir máli hverjir eru við stjórnvölinn á Íslandi.    

Sigurður Ingi: Samgöngur til Eyja

Samgöngur til og frá Vestmannaeyjum eru og hafa verið mál málanna í Eyjum. Frá því að Landeyjahöfn var opnuð var ljóst að ekki myndi takast að nýta hana að fullu þar sem núverandi skip, Herjólfur, hentar ekki til innsiglingar í höfnina. Því miður hefur það dregist úr hófi, að hanna og smíða nýtt skip sem hentar Landeyjahöfn. Einnig var vitað að það myndi taka þónokkur ár ef ekki lengri tíma að þróa og aðlaga sandhöfnina við Landeyjar að þeim þörfum sem ferjusiglingar kalla á allt árið. Eigi að síður var stórt skref tekið og margir urðu glaðir þegar Landeyjahöfn var opnuð. Möguleikar fólks og fyrirtækja að nýta hana opnaði nýja vídd í samgöngum milli lands og Eyja. Þó voru þeir til sem gagnrýndu og töldu að þessi nýja vídd myndi ekki gagnast sem skyldi vegna þess að Herjólfur hentaði ekki og Landeyjahöfn væri stórgölluð, og höfðu þeir nokkuð til síns máls. Hitt er þó öllum ljóst að tækifærin sem öflug ferja og Landeyjahöfn gefa, hafa og munu gjörbreyta öllum samgöngum til og frá Eyjum til hins betra. Auðvelt er að benda á ferðaþjónustuna og vöxt hennar sem dæmi um það. Þrátt fyrir ólíkar skoðanir manna um nýja ferju, stöðuna í Landeyjahöfn og rekstrarform ferjusiglinganna er eitt sem allir geta verið sammála um, að núverandi aðstæður eru með öllu óverjandi.   Það sem þarf að gera 1. Ég hef oft nefnt, að þegar nýtt skip kemur verður „gamli Herjólfur“ að vera til taks um einhvern tíma, til að tryggja að hægt verði að sigla til Þorlákshafnar þegar veður og aðstæður hamla siglingum til Landeyjahafnar og á meðan reynsla kemur á nýtt skip. Ég hef talað fyrir þessu og í mínum huga er þetta skýrt. 2. Ég er sammála að skynsamlegt er að taka hugmyndum fagnandi um að Vestmannaeyjabær sjái um rekstur ferjunnar. Enginn er betri til að meta þörfina en heimamenn sjálfir. 3. Tryggja þarf sama gjald, óháð því í hvora höfnina er siglt. Allir eiga að geta nýtt sér samgöngur milli staða óháð búsetu og efnahag. Við Framsóknarmenn höfum viljað setja þetta inn í byggðaáætlun. 4. Halda áfram að hanna og þróa Landeyjaeyjahöfn. Brýnt er að fá mat frá nýjum óháðum aðila áður en haldið er áfram með verkefnið.   Til viðbótar þá verðum við Íslendingar að setja okkur stefnu um almenningssamgöngur um land allt. Einnig flugsamgöngur. Fyrirmyndir eru til í öðrum löndum t.d. í Skotlandi. Næsta ríkisstjórn og Alþingi verða að taka á þessum hlutum. Þar mun ekki standa á okkur Framsóknarmönnum. Við höfum skýra sýn á hvað þarf að laga, afl og kraft til að fylgja því eftir. Við höfum margoft sýnt það í verki.  

Karl Gauti: Ólíðandi að sumir aldraðir eigi varla fyrir jólagjöfum fyrir barnabörnin

Ágætu Eyjamenn   Eins og ég hef sagt ykkur, hef ég ákveðið að gefa kost á mér í komandi alþingiskosningum og skipa ég efsta sæti á lista Flokks fólksins í kjördæminu. Eftir að ég ákvað að fara í framboð hef ég komið nokkrum sinnum til Eyja og hef áttað mig á því hversu marga vini ég á hérna, þrátt fyrir að ég hafi nú ekki beint starfað við vinsæl störf sem lögreglustjóri og sýslumaður. Ég leit alltaf á mín störf sem þjónustustörf, í þjónustu fyrir fólkið í Eyjum. Einnig tók ég mikinn þátt í ýmsum félagsstörfum, sérstaklega í Taflfélaginu, Stjörnufræðifélaginu og fleiri félögum og reyndi alltaf að leggja mitt af mörkum. Það er langt síðan ég gerðist mikill landsbyggðarmaður og þetta vita þeir sem mig þekkja. Ég tel mig geta lagt þar til fjölmargt úr minni reynslu, en geri mér vel grein fyrir því að hlutum verður ekki breytt í einu vetfangi. Sumir hlutir eru þó þannig að skjótra viðbragða er þörf og svo er um heilbrigðis- og samgöngumálin í Eyjum. Ég sagði einhverstaðar að ég væri í atvinnuviðtali við þjóðina og auðvitað erum við það, frambjóðendur flokkanna, enginn á sér víst þingsæti, hann verður að leita til kjósenda sinna og bjóða fram vinnu sína og það sem kjósendur hafa helst til viðmiðunar eru fyrri störf viðkomandi og trúverðugleiki. Einhver spurði mig hvort ég yrði kjördæmapotari, yrði ég þingmaður. Ég tel þingmenn skylduga til að hlusta á kjósendur sína, líka eftir að þeir ná kjöri. Það er ekkert óeðlilegt við það þó þeir reyni að færa mál til betri vegar í sínu kjördæmi, annað væri það nú. Í annan stað vinna þingmenn að lagasetningu, sem gildir auðvitað í öllu landinu. Þar vil ég hafa víðsýni að leiðarljósi og að við sem þjóð getum öll lifað í sem réttlátustu samfélagi. Ég tel t.d. að það sé ótækt að sum börn meðal okkar lifi við fátækt á meðan aðrir hafi fleiri milljónir í laun. Og ég tel ólíðandi að sumir aldraðir eigi varla fyrir jólagjöfum fyrir barnabörn sín á meðan við vitum að nægur auður er til í landinu. Eitt af því sem getur fært þetta til betri vegar er að hækka skattleysismörk, sem hafa alls ekki fylgt þróun verðlags. Lækkun skatta á lægstu tekjuhópana, öryrkja og aldraða er þeim mikil kjarabót og í raun á ekki að skattleggja þá sem hafa undir 300 þús. kr. í mánaðarlaun. Hækkum skattleysismörkin ! Bestu kveðjur. X – F    

Ragnar Óskarsso: Þú ert alltaf svo

Um daginn lendi ég á spjalli við góðan vin minn sem er sjálfstæðismaður fram í fingurgóma. Við ræddum eins og venjulega um allt milli himins og jarðar. Þar koma að því að hann lýsti yfir mikilli hneykslan sinni á ófremdarástandinu í samgöngumálum okkar Vestmannaeyinga. Þessir höfðingjar hjá Vegagerðinni, Eimskip og Siglingastofnun væru fyrir vikið óalandi og óferjandi enda væru þeir að stöðva alla framþróun í samgöngumálum okkar. Ég gat vel og að fullum hug tekið undir með honum með ófremdarástandið en ég sagðist líta svolítið öðrum augum á við hverja væri að sakast í þessum efnum. Ég benti honum á að samgönguráðherra væri yfirmaður allra samgöngumála í landinu og hann væri því sá sem allt stæði og félli með. Ef samgönguráðherra vildi gæti hann skipað bæði Vegagerðinni og Siglingastofnum fyrir verkum. Því stæði þetta allt með því að ráðherrann og flokkur hans hefðu vilja og kjark til að bæta úr málum. Þá benti ég vini mínum á að Sjálfstæðisflokkurinn hefði á mörgum undanförum árum farið með fjárveitinga- og samgöngumál í landinu og auk þess væru flokkssystkini ráðherrans við völd í Vestmannaeyjum. Hér væri því varla hægt að hugsa sér betri aðstæður en að ráðast í úrbætur á samgöngumálum okkar, Sjálfstæðismenn á öllum vígstöðvum! Flokkurinn hefði hins vegar ekkert sinnt þessu brýna verkefni og því er staðan eins og hún er. Þar lægi því sökin ef saka ætti einhvern um ófremdarástandið. „Raggi, þú ert alltaf svo pólitískur,“ sagði þessi vinur minn og þurfti nauðsynlega að fara annað. Áður en hann fór náði ég hins vegar að segja honum að ég væri til í að taka svona umræðu um heilbrigðismálin líka. Þar væri líka auðvelt að finna vafasöm spor Sjálfstæðisflokksins.   Ragnar Óskarsson    

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Stjórnmál >>

Elliði Vignisson: Enn er alltof snemmt að fullyrða að við náum saman með ríkinu

Í gær funduðum fulltrúar Vestmannaeyjabæjar með ríkinu, en yfir standa viðræður um að Vestmannaeyjabær taki yfir rekstri Herjólfs. Elliði Vignisson bæjarstjóri sagði í samtali við Eyjafréttir að að enn einn fundurinn hafi verið í gær til þess að nálgast enn frekar þau markmið að ná fram verulegri þjónustuaukningu með nýrri ferju og tryggja betur áhrif og sjónarmið heimamanna hvað rekstur hennar varðar.  „Þar kynntum við sjónarmið okkar sem fyrst og fremst felast í því að færast nær þvi markmiði að sjóleiðin milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar verði séð sem „þjóðvegur“ okkar Vestmannaeyinga og þeirra sem vilja sækja okkur heim. Þar með reynum við að nálgast þá sjálfsögðu kröfu okkar að þjónusta og verðlag verði nær því að þetta sé þjóðvegur en ekki valkvæð þjónusta. Þá leggjum við einnig þunga áherslu á að þjóðvegurinn verði „opinn“ eins og framast er unnt og taki mið af þörfu þjónustustigi hvað tíðni ferða varðar en ekki hámarksnýtingu á hverri ferð og mögulegri arðsemi rekstrarins. Í langan tíma hafa þessar samgöngur að okkar mati verið skammtaðar úr hnefa en það á ekki að vera lögmál. Með nýrri ferju og annarri nálgun á verkefnið eiga Vestmannaeyjar að verða samkeppnishæfari varðandi íbúaþróun, atvinnuuppbyggingu og atvinnurekstur fyrirtækja sem hér starfa,“ sagði Elliði   Það eru alltaf gagnrýnisraddir„Ég hef séð að á seinustu dögum hafa einhverjir gagnrýnt þessa tilraun Vestmannaeyjabæjar og það er svo sem fátt sem kemur á óvart hvað það varðar. Allt okrar tvímælis þá gert er og margir eru ætíð hræddir við breytingar. Þegar við seldum hlut okkar í Hitaveitu Suðurnesja voru margir sem sögðu að við ættum að eiga hlutinn og selja hann þegar hann væri orðinn verðmætari. Þegar við byggðum Eldheima gekk fólk um og uppnefndi húsið og sagði að það yrði aldrei annað en baggi á okkur og á því yrði aldri áhugi meðal feðramanna. Þegar við aldusskiptum grunnskólunum fullyrtu margir að þetta gæti aldei gengið. Þegar við buðum út reksturinn á Sóla og sömdum við Hjalla var það mikið gagnrýnt og mjög lengi má áfram telja. Þegar upp er staðið áttar fólk sig oft betur á forsendum og verður þá oftast nær mun ánægðara. Það sem þó hefur rekið mig í rogastans eru fullyrðingar um að þetta leiði til einhverrar mismununar þannig að bæjarfulltrúar gangi fyrir. Þeir sem slíkt fullyrða verða að skilja að bæjarfulltrúar njóta ekki neinna sér kjara á neinni þjónustu hjá Vestmannaeyjabæ. Þeir greiða fullt verð í sund, börn þeirra ganga ekki fyrir á leikskóla og götur við heimili þeirra eru ekki ruddar snjó fyrr en hjá öðrum. Á sama máta koma þeir til með að nota Herjólf og greiða fyrir sína þjónustu rétt eins og hver annar enda yrði Herjólfur almenningsþjónusta sem rekinn yrði eins og önnur þjónusta sveitarfélagsins með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi,“ sagði Elliði.   Elliði sagði að hans mati væri það í raun fullkomið og algert ábyrgðarleysi að heykjast á því að takast á við þessa ábyrgð að gefnum ákveðnum forsendum.  „Hvenær gerðist það að Eyjamenn hættu að þora og vilja axla ábyrgð á eigin málum? Þannig þekki ég ekki okkar góða samfélag og þannig mun núverandi bæjarstjórn ekki nálgast þetta mál. Við sannarlega þorum og treystum okkar fólki til að axala ábyrgð.“   Fagfólk við samningaborðið „Fullyrðingar um að þetta verði fjárhagslegur baggi á okkur er líka dáldið einkennilegur, sérstaklega þegar engin, ekki einu sinni við sem stöndum í þessu, vitum enn um hvaða fjárhæð verður samið. Við höfum unnið með færustu sérfæðingum í gerð rekstrarmódels og samningagerð er á hendi lögmanna sem þekkja málið vel. Okkur eru síðan til ráðgjafar menn eins og Grímur Gíslason, Páll Guðmundsson og Lúðvík Bergvinsson sem allir hafa mikla og haldgóða þekkingu hvað varðar eðlil þessarar útgerðar og rekstri almennt. Það er því hvergi verið að kasta til höndunum og hagsmunum Vestmannaeyjabæjar verður ekki fórnað,“ sagði Elliði.   Elliði sagði að enn væri alltof snemmt að fullyrða að þau nái saman með ríkinu. „Það má öllum ljóst vera að við erum ekki að fara í þetta verkefni til að taka við því á þeim fosendum sem verið hefur seinustu ár. Við teljum að það þurfi langtum meiri þjónustu og ef ríkið vill nálgast þetta á þann máta með okkur þá erum við til í samstarf. Ef ekki næst saman þá væntanlega verður þetta boðið út og við höfum þá að minnsta kosti náð að koma okkar sjónarmiðum á framfæri og það leiðir þá ef til vill til þjónustu aukningar. Það væri því fráleitt að láta ekki reyna á þetta, jafnvel þótt það kosti mikla vinnu. Slíkt hræðist hvorki ég né aðrir sem að þessu koma“ sagði Elliði að lokum Meðfylgjandi er mynd sem Elliði tók á fundinum í dag. Á henni eru þeir Lúðvík Bergvinsson og Yngvi Jónsson frá okkur heimamönnum auk síðan fulltrúum frá ríkinu. Þeir Grímur og Páll sóttu fundinn í gegnum fjarfundarbúnað.  

VefTíví >>

Elliði Vignisson - Fæðingaþjónusta er óviðunandi í landsbyggðunum

Fyrir mér eru Vestmannaeyjar paradís á jörðu. Náttúran, fólkið, menningin, sagan, krafturinn samstaðan og svo margt fleira jarðtengir mig og lætur mig fljúga í senn. Samt er það svo að tveir hornsteinanna eru ekki í lagi, samgöngur og heilbrigðisþjónusta. Ég er afar bjartsýnn á að á næsta ári tökum við stórt skref hvað samgöngur varðar sem síðan mun leiða af sér enn fleiri slík í átt að betra ástandi. Út af borðinu standa þá heilbrigðismálin og þá sérstaklega fæðingaþjónustan.   Tilflutningur á kostnaði Tilgangurinn á bak við breytingar á fæðingaþjónustu er ekki hvað síst að ná niður kostnaði hins opinbera. Það vill þá e.t.v. gleymast að í raun er bara um tilflutning á kostnaði að ræða frá ríki til verðandi foreldra. Kostnaður við ferðalög og biðina á fæðingarstaðnum er oft verulegur. Ekki er ólíklegt að kostnaður við fæðingu, ferðalög, vinnutap og fl. hlaupi á hundruðum þúsunda og þaðan af meira. Sér er nú hver gjöfin til verðandi foreldra. Þar við bætast áhyggjur af ferðalaginu aftur heim og aðlögun fjölskyldunnar, sérstaklega eldri barna að eðlilegu lífi eftir heimkomuna tekur á. Hvað sem líður öllum Excelskjölum og flæðiritum þá er ljóst að fæðing fjarri heimabyggð valdur kvíða og streitu hjá barnshafandi konum auk töluverðrar röskunar á lífi fjölskyldunnar og mikils kostnaðar.   Samfélagslegt mikilvægi Áhrifin eru þó víðtækari. Fram hefur komið að skortur á þjónustu við konur í barneignaferlinu hefur almenn áhrif á dreifbýli. Gildi þess að hafa fæðingarþjónustu eru sennilega meiri fyrir samfélagið sjálft en margir gera sér grein fyrir. Það skiptir að mati þeirra sem best þekkja til miklu fyrir samfélagið að fæðingar séu hluti af lífinu þar. Að samfélagið sé samfella frá vöggu til grafar.   Manneskjusýn Svo mikið er víst að það er ekki í samræmi við manneskjusýn Eyjamanna að þessi mikilvægi þáttur lífsins verði frá þeim tekinn og í staðinn sett á fót læknisfræðilegt kassalagað kerfi sem aðskilur verðandi foreldra frá fjölskyldum sínum. Við Eyjamenn verðum að berjast áfram fyrir þessum sjálfsögðu réttindum. Þar leika þingmennirnir okkar lykilhlutverk.