Þorsteinn Ingi Guðmundsson: Svar við grein Sigurgeirs B. Kristgeirssonar

Þorsteinn Ingi Guðmundsson: Svar við grein Sigurgeirs B. Kristgeirssonar

Í Eyjafréttum þann 13. sept fer Sigurgeir B. Kristgeirsson ekki fögrum orðum um færslur sem eru á facebook síðu sjómannafélagsins Jötuns en þar er rætt um verð á makríl. En þannig er að sannleikanum er hver sárreiðastur.
 
Öllum þeim sjómönnum sem eru á uppsjávarskipum er ljóst að það verð sem Vinnslustöðin greiðir sínum sjómönnum fyrir makrílinn er töluvert lægra en önnur fyrirtæki eru að greiða fyrir samskonar hráefni. Sigurgeir B. ætti að sjá sóma sinn í að upplýsa okkur um það verð sem þeir greiða fyrir makrílinn svo almenningur geti myndað sér skoðun á því hvað er rangt og hvað er rétt í þessu máli. Það er rétt að það komi fram að sjómenn hafa samband sín á milli og bera saman hvað þeir fá greitt úr hverju tonni og er samanburður alltaf fyrirtækjum hér í Eyjum óhagstæður.
 
Svo hnýt ég um þessa setningu. „Helgar tilgangur meðalið, að skapa óeiningu og múgæsingu í röðum sjómanna?“ Hafa þeir ekki skapað óeiningu sjálfir t.d með að hafa menn sem afleysingarmenn mánuðum saman og eyðileggja þar með veikindarétt þeirra. Láta þá borga karaleigu sem er brot á samningum og svar við þeirri einföldu spurningu um makrílverð að birta frétt úr fiskifréttum sem sýnir meðalverð á öllum uppsjávarfiski. Síðan telja þeir að það sanni eitthvað. Það er nú þannig að kolmunni er í þessum tölum sem birtar voru og hafa þau fyrirtæki sem hann ber sitt fyrirtæki saman við þúsundum tonna meira af kolmunna en fyrirtækin hér í Vestmannaeyjum. Verð á kolmunna er lægra en á makríl og því er verið að bera saman epli og appelsínur með slíkum samanburði.
 

Er Vegagerðin að fokka í okkur?

Þetta var fínasti fundur í gær, íbúafundurinn sem haldinn var í Höllinni. Um 160 manns mættu, en ég er nokkuð viss að ég hafi verið með þeim yngstu í hópnum. Þegar ég labbaði inn á slaginu 20:00 leit yfir hópinn sem mættur var, þá sá ég fljótlega hver úrslitin yrðu í nafnavalinu á nýju ferjunni. En eins og flestir vita voru það ég og 25 aðrir sem kusu nafnið Vilborg. Mér fannst sjarmerandi að ný ferja fengi nýtt nafn. Tákn um nýja og betri tíma í samgöngumálum okkar Eyjamanna. Svo er spurningin, verða þetta nýir og betrir tímar í sjósamgöngum okkar Eyjamanna. Vonandi. Ef ekki, hvað þá?   Elliði bæjarstjóri fór yfir þær óskir og langanir Eyjamanna um hvað við viljum sjá gert í þessum málum sem eru engar fréttir. Það er búið að fara yfir þessa hluti mörgum sinnum. Sem dæmi, að gjaldskrá og þjónustustig taki mið af því að hér er um þjóðveg að ræða.   Ferjan var kynnt, ég skildi ekki helmingin af því enda hef ég ekki vit á þessum málum. Vil vera jákvæð og ætlast til að allir séu að vinna vinnuna sína. Ferjan á allavega vera í litum Þórs, Týrs og ÍBV. Kojunum er búið að koma fyrir á teikningum, en hvernig kojurnar verða… lýsingarnar voru allavega ekki sérstakar. Sem móðir tveggja ungra barna, hoppa ég ekki af spenningi og skora á hönnuði að skoða þetta vel. En kannski þarf ég ekki að hafa þessar áhyggjur, það verður bara siglt í Landeyjahöfn.   Fulltrúi Vegagerðarinnar kom í pontu. Fór yfir fullt af tölum og staðreyndum sem skiluðu sér mjög illa til fólks og ekki gat fólk reddað sér með að lesa þær á glærunum því þær sáust ekki. Meira að segja ræðumaður sá þær ekki og giskaði að ég held tvisvar á einhverjar staðreyndir, enda virtist hann hafa verið neyddur til að mæta og þokkalega áhugalaus ef þið spyrjið mig. Tölurnar sem hann átti að skila til okkur voru samt mikilvægar og þarfar fyrir okkur að vita. Smá gegnsæi gangvart rekstraraðila og fleira. En það hættu allir að pæla í því þegar fulltrúi Vegagerðarinnar varpaði því fram, hversu marga ferðamenn við viljum svo sem fá? Hakan á fundagestum datt niður í gólf og Páll Magnússon fundarstjóri tók fyrir andlitið. Var þetta með ráðum gert? Kynning sem skilaði sér ekki til fólksins og skrýtin athugasemd sem stendur upp úr frekar en staðreyndir talnanna?   Eimskipsmenn fengu svo sjálfsagt sting í hjartað þegar Lúðvík Bergvinsson ávarpaði fundinn og talaði um að rekstur ferju ætti nú ekki að vera það flókinn. Við skulum allavega orða það þannig það langar engan að missa viðskipti sem eru að gefa.   Einnig var rætt hvort ferjan ætti að vera til reynslu hjá Vegagerðinni. Í umsjá Eimskip væntanlega? Í ákveðinn tíma áður en einhver annar tekur við. Ég fékk á tilfinninguna að það væri jafnvel ákveðið nú þegar. Annars veit ég ekkert hver er heppilegasti rekstaraðili sjósamgangna okkar.   Stjarna kvöldins var svo Samgönguráðherra. Hann virðist allavega skilja okkur. Lofaði að vera í ríkisstjórn allt kjörtímabilið og sannfærði mig um að hann ætlaði að græja þetta. Verst að það eru ekki að koma kosningar. Allavega eru Páll og Sigurður Ingi á fullu að koma því í gegn að við munum borga sama verð í báðar hafnir. Jeij!   Sara Sjöfn Grettisdóttir  Ritstjóri Eyjafrétta    

Lífshlaup

Þessa dagana eru landsmenn hvattir til aukinnar hreyfingar. Tilgangur átaksins er að sem flestir hreyfi sig markvisst og að hreyfing verði fastur liður í vinnu, skóla, frítíma og ferðamáta fólks. Það er í eðli okkar að hreyfa okkur. Strax í móðurkviði vorum við byrjuð að hreyfa okkur. Ungbörn hreyfa sig og þegar samhæfingu er náð fara börn að skríða, ganga og hlaupa. Fyrr en varir erum við farin að biðja börnin að hlaupa hægar og fara sér ekki að voða. Við höfum þó mismikla hreyfiþörf. Í samfélagi þar sem mikill tími fer í inniveru er líkamlegt ástand margra bágborið vegna of lítillar hreyfingar. Fyrir tíu árum dvaldi ég einn mánuð á heilsustofnun í Hveragerði. Þar var mikil hvatning til göngu.Þar var tekið dæmi um að við förum með bílinn í smurningu en hreyfing er smurning fyrir liði líkamans.Ef fólk var með verki í maga, baki, höfði eða fótum var ráðlagt að ganga. Það er um að gera að byrja hægt. Ganga stuttar vegalengdir og síðan lengra með hverjum degi. Febrúar er góður mánuður til að huga að hreyfingu eins og að ganga, hjóla, skokka, synda og stunda leikfimi og íþróttir. Það birtir með hverjum deginum, veðrið batnar, hálkan hverfur og snjórinn fer. Eitt vorið fór ég í gönguferðir árla morguns fyrir vinnu. Það var yndislegt að ganga austur á hraun og fylgjast með sólarupprásinni. Það tók smá tíma að venja sig, svo varð þetta ekkert mál, bara að klæða sig eftir veðri. Síðan í haust hef ég farið í sund á morgnana. Það hefur gefið mér styrk, aukið liðleika og svo er ég hress og fersk fyrir daginn. Við búum að mjög góðri sundaðstöðu hér í Eyjum. Margt sem við gerum er vani. Það tekur nokkrar vikur að venja sig á nýja siði. Það er gott að staldra við og mæla hvað við hreyfum okkur mikið á dag. Mælt er með að markviss hreyfing sé um hálf tími á dag. Móðir mín hefur verið mín fyrirmynd, hún hefur gengið lámark hálftíma á dag. Hún velur að fara ferða sinna gangandi ef hægt er. Þegar við eldumst og ráðum okkur sjálf verðum við værukærari og meira átak þarf til að breyta lífsmáta. Ef við sinnum líkama okkar vel eykur það vellíðan og það er mikilvægt að skilja, samþykkja og bera ábyrgð á líkamlegri stöðu. Líkamleg vellíðan er undistaða þess að líða vel andlega og tilfinningalega. Lykillinn að góðri líðan er líkamleg umhyggja og virðing fyrir sjálfum okkur.Við fáum kannski ekki fleiri ár, en okkur líður betur þann tíma sem við höfum til umráða. Það að samþykkja og elska okkur með öllum okkar ófullkomleika leysir okkur undan fjötrum ímyndar um ákveðið útlit. Þessi skrif eru mér hvatning til að hlusta á líkama minn og sinna honum eins og hann væri verðmætt musteri.    

Fasta

Nú er páskafasta hafin, þó er það líklega flestum fjarlægt að fasta vikurnar fyrir páska. Lestur Passíusálma er hafinn á rás 1 í útvarpinu og minnir það okkur á komu pákanna og er hluti af okkar menningu.   Undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á mikilvægi föstu fyrir líkamann. Fasta einn eða tvo daga í viku er ráðlagt. Sumir sleppa kjöti og stórum máltíðum, aðrir sleppa sætindum og enn aðrir einbeita sér að einhverju því sem þeim finnst hefta líf sitt. Fasta þýðir að sleppa að borða, einungis drukkið vatn. Líkaminn hefur gott af föstu, nema vegna veikinda, meðgöngu og brjóstgjafar.   Bolludagur, sprengidagur og öskudagur marka upphaf föstunnar, eftir þá daga var tekinn frá tími til að hugsa um þjáningu og dauða Krists.   Fyrir nokkrum árum ákváðum við fjölskyldan að taka páskaföstuna alvarlega og sleppa kjöti og fiski. Þessi ákvörðun var meðal annars tekin út frá vangaveltum yngsta sonar okkar (tæplega tvítugur)um að sleppa kjötáti. Fyrstu dagarnir hjá mér fóru í að finna góðar uppskriftir sem innihéldu prótein og ýmis konar baunaréttir voru eldaðir. Ég bý að þessu enn og elda oft grænmetisrétti. En þegar vikurnar liðu varð matseldin auðveldari og svo var tilfinningaþrungið að elda lambalæri á páskadag.   Ég sjálf hef ekki fastað nema fáa daga í einu eða hluta úr degi. Fastan er áskorun um aga. Eitt árið fastaði maki minn í nokkrar vikur. Hann drakk einungis vatn og saltvatn. Það var áhugavert að fylgjast með honum. Eftir nokkra daga föstu var löngun i mat horfin, síðan lækkaði hitastig líkamans og hann varð allur hægari. Hann byrjaði rólega að borða mat og leið vel. Margir andans menn hafa haft föstu að venju. Í guðspjöllunum talar Jesús um að þeir sem fasta eigi ekki að auglýsa það og halda áfram eðlilegu lífi. En á þeim tíma klæddu menn sig í hærusekk og báru á sig ösku, en öskudagur ber nafn sitt af föstubyrjun.   Hin kristna sýn á föstu er að taka frá þann tíma sem við notum til að borða (og í matarundirbúning) til að biðja, lesa uppbyggilegt efni og hugleiða það. Okkar andlegi eða innri maður verður virkari þegar líkaminn er ekki nærður.   Í fimmtugasta og áttunda kafla í spádómsbók Jesaja segir Drottinn: „Nei, sú fasta sem mér líkar er að leysa fjötra rangsleitningar, láta rakna bönd oksins og gefa frjálsa hina hrjáðu.....“ Kraft og áskorun föstunnar skal nota til góðra verka, öðrum til blessunar.   Þóranna M Sigurbergsdóttir

Sigurgeir Jónsson: Hvað á barnið að heita?

Sagan segir að eitt sinn hafi ferðamaður komið að bæ þar sem bjuggu fjórir bræður. Sá aðkomni spurði þá að nafni og varð sá elsti fyrir svörum: „Við bræðurnir heitum allir Jón, nema hann Siggi bróðir, hann heitir Gvendur.“ Einhverra hluta vegna datt skrifara þessi gamla saga í hug þegar hann renndi yfir umræðuna á samfélagsmiðlum í kjölfar þess að látið var uppi að nýja ferjan, sem á að sigla milli lands og Eyja, muni bera nafnið Vilborg en ekki Herjólfur eins og þrír fyrirrennarar hennar. Óhætt er að segja að þeir sem þar stinga niður penna séu í hæsta máta ósammála um þann gjörning og einhverjum finnst það ganga guðlasti næst að ætla að breyta út af þeirri reglu að Vestmannaeyjaferja skuli ekki bera Herjólfsnafnið. Þá vilja sumir nota tækifærið og kjósa um nafn á skipinu um leið og kosið verður til sveitarstjórnar í vor, telja að íbúar í Eyjum eigi að ráða því hvert nafnið verður. Elsti Herjólfur (þessi litli svarti) hóf siglingar árið 1959 ef skrifari man rétt. Hann var í eigu Ríkisskipa og skrifari minnist þess ekki að íbúar í Vestmannaeyjum hafi verið spurðir hvað hann ætti að heita, frekar en með nafngift á þau skip sem síðar leystu hann af hólmi. Þau fengu „átómatískt“ Herjólfsnafnið, eftir þeim aðila sem samkvæmt Hauksbók Landnámu er talinn fyrsti landnámsmaður í Vestmannaeyjum (þó svo að um það megi deila enda Hauksbók ekki talið nákvæmt vísindarit). En nú hefur smíðanefnd gefið út að nýja ferjan muni bera nafnið Vilborg og það vakið upp blendin viðbrögð. Ekki er þar seilst út fyrir landnámssöguna þar sem Vilborg var dóttir Herjólfs og hennar að góðu getið í þjóðsögum fyrir örlæti og hjálpsemi í garð náungans. Hinu sama var ekki að dreifa með föður hennar, sem vildi selja sveitungum sínum vatn úr vatnsbólinu í Herjólfsdal. Varð það að ósætti milli þeirra feðgina og olli því að Vilborg reisti sinn bæ austur á eyju og kom upp vatnsbóli þar sem allir fengu jafnan aðgang. En hvað skyldi smíðanefnd ganga til að varpa fram jafn róttækri tillögu og að skipta um nafn á aðalsamgöngutæki Eyjamanna? Skrifari hefur um það rökstuddan grun að því valdi hvað helst að núverandi Herjólfur eigi að vera áfram í notkun a.m.k. eitt ár samhliða nýja skipinu og þá gengur auðvitað ekki að tvö skip beri sama nafn. Það gæti valdið ruglingi. Hörðustu talsmenn Herjólfsnafnsins hafa bent á að hægt væri að tala um Nýja Herjólf og Gamla Herjólf en ekki hugnast nú skrifara ef mála ætti þau nöfn á kinnunga skipanna. Reyndar er gömul hefð fyrir því í Vestmannaeyjum og víðar að skip geti borið sama nafnið en þá með rómverskum tölustöfum á eftir, sem tilgreina númer hvað þau eru í röðinni. Við áttum Ísleif, Ísleif II, Ísleif III og Ísleif IV og sá Erlingur sem hæsta númerið fékk var Erlingur V. Þannig mætti samkvæmt þeirri reglu hafa núverandi Herjólf sem Herjólf III og nýja skipið Herjólf IV. Einhvern veginn grunar skrifara þó að það gæti líka valdið ruglingi. Auðvitað koma líka fleiri nöfn til greina. Á undan Herjólfi voru a.m.k. þrjú skip sem héldu uppi samgöngum milli lands og Eyja, fyrst Skaftfellingur VE, þá Gísli Johnsen VE og svo Vonarstjarnan (sem stundum var nefnd Mjólkur-stjarnan þar sem aðalhlutverk hennar var að flytja mjólk til Eyja). Einhvern veginn á skrifari þó ekki von á því að þessi nöfn hlytu hljómgrunn hjá Eyjamönnum. Vestmannaeyingar eru upp til hópa frekar íhaldssamir (eins og bæjarstjórnarkosningar undanfarinna ára vitna um). Þeir eru yfirhöfuð lítið fyrir það gefnir að breyta út af fornum venjum (rétt eins og hjónin í sögunni hér í byrjun sem létu syni sína flesta hverja heita sama nafni). En svo vaknar alltaf sú spurning hvort ekki sé kominn tími á breytingar. Og nú eru tímar breytinga, konur láta sífellt meira að sér kveða og kannski bara eðlilegt í ljósi þess að ný ferja beri nafn konu. Hér áður fyrr var það líka talið góðs viti ef skip hét kvennafni. Skrifari er ekki heittrúarmaður í því er fylgir nafngjöf á nýrri ferju. Fyrir honum er það meira mál að nýja ferjan nái að skila því hlutverki sem henni er ætlað en hvað hún kemur til með að heita. Skrifari hefur heldur aldrei óttast breytingar. En einhvern veginn hugnast honum betur að sjá nafnið Vilborg á kinnungi nýja skipsins en Herjólfur IV. Sá rómverski talnagrautur minnir hann einhvern veginn alltaf á liðna Danakonunga og tímabil einokunar og hnignunar í sögu Íslands. Og það er honum ekki að skapi.  

Ævar Austfjörð: Hvers vegna kjöt?

Borðaðu nú grænmetið þitt, Ævar svo þú verðir stór og sterkur! Þessi orð úr æsku. Sögð af fullkominni ást og umhyggju. Af fólkinu sem elskar mig mest. Mömmu og pabba, ömmu og afa. Reyndar, þegar ég hugsa þetta betur þá hafa amma og afi sennilega ekki sagt þetta. Enda man ég varla eftir því að það væri mikið grænmeti á borðum hjá þeim. Ég er ekki frá því að afi hafi kallað grænmeti „skepnufóður“. Við mannfólkið erum alltaf að læra eitthvað nýtt og oft lærum við eitthvað rangt, ég erfi það ekki við neinn. Margir búast við að ég muni skrifa lofgrein um hvað það gerir manni gott að borða bara kjöt. Það gerir manni vissulega gott eins og hugsanlega einhverjir hafa tekið eftir, á þeim breytingum sem orðið hafa á mér. Einnig eru einhverjir Íslendingar að reyna þetta fæði á sjálfum sér og flestir með góðum árangri. Flestir hafa svipaða sögu að segja, svefn batnar, skap batnar líkams- og liðverkir hverfa, hugsun verður skýrari, meltingarvandamál minnka, blóðþrýstingur lækkar, svo ekki sé minnst á að margir léttast verulega. Nokkur dæmi eru einnig um að liðagigt lagist að mestu. Best þykir flestum að geta alltaf borðað eins mikið og þeir vilja og það á svo sannarlega við um mig. Ég borða mikið og alltaf eitthvað gott og ég verð bókstaflega aldrei verulega svangur. Margir lenda í einhverskonar vanda með umskiptin yfir í þetta mataræði eins og t.d. tímabundið slen eða orkuleysi og verða hissa þegar þeim er tjáð að besta ráðið sé sennilega að borða meira. Annars hef ég mikla orku og mun betri einbeitingu en ég á að venjast.  Í þessari grein ætla ég hinsvegar að útskýra í eins stuttu máli og mér er mögulegt, hvers vegna dýr eru matur en plöntur eitthvað sem er borðað þegar ekki er til matur. Ég verð ekki með neinar tilvísanir í vísindagreinar eða rannsóknir en áhugasamir mega þó hafa samband ef þá vantar fróðlegt lesefni. Maðurinn er talinn hafa þróast í um 2-2.5 milljónir ára. Hann er talinn hafa borðað kjöt að hluta eða jafnvel mestu leyti allan þennan tíma og einnig er talið að sameiginlegur forfaðir mannsins og simpansa hafi borðað kjöt fyrir um 6 milljónum ára.  Nokkrar ástæður þykja gefa nokkuð öruggar sannanir fyrir kjötáti mannsins og þeirri staðreynd að við veiddum okkur til matar. Maðurinn hefur styttri ristil en stórir apar sem lifa að mestu á grænmeti. Aparnir hafa gerlaflóru í meltingarveginum sem gerir þeim kleift að gerja plönturnar og vinna úr þeim alla þá næringu sem þeir þurfa. Maðurinn getur ekki melt plöntur eins vel og þess vegna fer mikill hluti grænmetis í gegnum meltingarveginn án þess að næringin náist úr. Maðurinn hefur eiginleika til að búa til verkfæri og vopn til að veiða önnur dýr. Hann hefur þróað með sér hæfileika til að kasta fast. Það er nokkuð ljóst að við þróuðum ekki þennan kasthæfileika til að kasta steinum í ávexti sem hanga í trjám því þeir falla til jarðar þegar þeir eru tilbúnir. Heilinn er okkar besta vopn en hann er það tæki sem við höfum notað til að veiða nánast öll önnur dýr jarðarinnar okkur til matar. Maðurinn er eina tegundin sem eldar mat. Talið er að við höfum eldað mat í 300-500 þúsund ár og jafnvel eru kenningar um að kjöt hafi verið etið eldað í allt að 2 milljónir ára. Það er eldun á mat sem gerði þróun mannsins mun hraðari en annarra tegunda því með eldun á mat var okkur kleift að fá mun meira magn af hitaeiningum úr matnum og þar með vaxa og þróast hraðar. Það er eldamennskan og smíði áhalda og vopna sem gerir okkur mennsk.  Mestan tíma þessara tveggja milljóna ára höfum við því líklega borðað kjöt og hugsanlega fisk um 80% af árinu. Ekki er ólíklegt að egg hafi verið borðuð á vorin og ávextir og ber á haustin. Það má heldur ekki gleyma því að á þessum milljónum ára í þróunarsögu mannsins hefur hitastig á jörðinni verið breytilegt. Þar vekur athygli mína að langtímum saman hafa verið tímabil sem kallast ísaldir. Þær hafa staðið í þúsundir ára og þá hafa heitustu staðir jarðar verið svipaðir og Ísland er á okkar dögum. Við vitum vel að á Íslandi er nánast ekki hægt að rækta neitt með góðu móti nema gras. Og ekki getum við mennirnir lifað á grasi svo á þeim tímum er ljóst að við höfum að mestu borðað grasbíta. Grænmeti og plöntur eru í sjálfu sér ágætt fyrir þá sem það vilja. Það er reyndar oftast frekar vont á bragðið. Prófið bara að gefa smábarni, óvita, grænmeti að borða. Það vill það ekki. Enda vilja flestar plöntur ekki láta borða sig. Þær standa bara þarna með rætur í moldinni og eina vörn þeirra til að vera ekki étin er að framleiða efni sem hefur þau áhrif á þann sem er að borða það að viðkomandi verði illt, t.d. í maganum eða í hálsinum. Oft valda þessi efni, sem kallast „phytochemicals“ eða „antinutrients“, ertingu og jafnvel uppköstum. Og alls konar vanlíðan. Maðurinn hefur þó á löngum tíma náð að rækta þetta óbragð úr einhverjum plöntum þannig að það megi koma þeim niður með góðu móti. Gott ráð til að gera plöntu betri á bragðið er t.d. að steikja hana upp úr dýrafitu eins og smjöri. Ferskt salat fer jafnvel nærri því að bragðast sæmilega ef t.d. notaður er mikill ostur.  Það eru hins vegar til plöntur sem vilja láta borða sig, ávaxtaplöntur. Ávextirnir eru fallegir á litinn og sætir á bragðið. Ávaxtaplantan vill láta borða sig því þannig fjölgar hún sér og viðheldur þar sem sá sem borðar ávöxtinn þarf að skila af sér úrgangi sem ekki meltist eins og trefjum og svo að sjálfsögðu útsæði plöntunnar sem í flestum tilvikum eru kallaðir steinar.Plöntur sem ekki bera ávexti hafa falleg blóm sem gefa góða lykt og lokka til sín skordýr eins og býflugur sem sjá um að hjálpa þeim að viðhalda sér og svo eru það kornplönturnar sem treysta oftast á að vindurinn dreifi útsæðinu og hjálpi þannig til við að viðhalda tegundinni. Flestar ætisplöntur nútímans eru ekki til í náttúrunni í sömu mynd og hafa nánast verið búnar til af manninum. Dýrin hafa aðra vörn til að vera ekki borðuð. Þau geta hlaupið í burtu eða reynt að verja sig með öðrum hætti eins og að beita afli. Þess vegna eru engin eiturefni í kjöti og fiski því dýrið getur komið sér í burtu. Sú fullyrðing að kjöt sé krabbameinsvaldandi er studd með veikum faraldsfræðilegum rannsóknum sem eru í raun þess eðlis að þær geta ekki fundið beina orsök eða afleiðingu heldur aðeins veikar tengingar.   Ef við förum svo aðeins nær okkur í tíma þá er talið að maðurinn hafi ræktað dýr sér til matar í um 10 þúsund ár og einnig plöntur. Reyndar eru til kenningar þess efnis að maðurinn hafi upphaflega byrjað að rækta plöntur til að lokka dýrin til sín og veiða þau þannig. Frá því að Ísland byggðist var fæðuúrval lítið. Það er ljóst að hér á landi hefur fólk borðað lambakjöt og fisk mest allt árið. Egg hafa verið tekin á vorin og fugl veiddur upp úr miðju sumri og svo hafa verið borðuð ber og fjallagrös. Eitthvað hefur verið borðað af kartöflum og innfluttu korni síðustu 250-300 ár. Lítil sem engin grænmetisrækt var hér fyrr en um 1750. Fram að þeim tíma lifðu forfeður okkar á kjöti og fiski. Það er því alveg morgunljóst þegar sagan er skoðuð að við erum það sem kallað er omnivores eða dýr sem borðar bæði plöntur og dýr en dýr hafa þó augljóslega verið okkar aðalfæða.   Eftir að landyrkja hófst og við fórum að nýta fleiri plöntur til matar fyrir um 10 þúsund árum þá hefur maðurinn skroppið saman. Hann er vöðvaminni, beinin eru þynnri og viðkvæmari og heilinn hefur minnkað. Og því enda ég þetta með vísan í upphafsorð þessarar greinar, að það ætti að vera ljóst að varla nokkur maður hefur orðið stór og sterkur af því að borða grænmetið sitt. Ó nei! Það skrifast allt á kjötið. #meatheals  

Þóranna M. Sigurbergsdóttir: Ég líka #metoo

Undanfarið hefur verið mikil vakning um hverskonar kynbundið ofbeldi og áreitni undir millumerkinu #metoo. Henni er ætlað að draga ofbeldið fram í dagsljósið og breyta menningu samfélaga á þann hátt að kynbundið ofbeldi og áreitni verði ekki lengur liðið.   Margir hópar kvenna hafa risið upp og sagt frá reynslu sinni. Margar starfsstéttir hafa afhjúpað áratuga þögn. Viðhorf innan ýmissa hópa hefur leyft ýmsu misjöfnu að viðgangast. Svona er þetta og margir hafa notfært sér stöðu sína, vanþekkingu og styrkleika og komið illa fram. Þær konur sem hafa orðið fyrir áreitni, hafa lifað með skömmina, oftast í þögn. Það er fátt meira niðurbrjótandi en að lifa með leyndarmál sem ekki er hægt að tala um.   Ég sjálf er mjög þakklát fyrir að hafa ekki orðið fyrir áreitni eða misnotkun. Ég er þakklát fyrir að hafa átt föður, frændur, afa, kennara og félaga sem hafa sýnt mér virðingu. Ég hef rýnt í og skoðað samskipti mín við karlmenn og í gegnum tíðina hef ég heyrt af mönnum sem hafa farið yfir mörkin. Sem betur fer er umræða um þessi mál komin upp á yfirborðið. Margir drengir hafa orðið fyrir misnotkun og þarfnast hjálpar. Viðhorf í samskiptum kynjanna og milli fólks þarf að breytast þannig að við berum virðingu hvert fyrir öðru. Karlmenn þurfa hjálp til að breyta hugarfari og gerðum, hvernig á að vinna með ótta og minnimáttarkennd. Við þurfum líklega öll að breyta hugarfari okkar til að uppræta ofbeldi og áreitni. Samtal milli einstaklinga og hópa þarf að eiga sér stað. Samtal um áhrif kláms og mun á daðri, áreitni og ofbeldi. Einnig hvernig við getum unnið með tilfinningar. Erum við tilbúin að sýna mildi, fyrirgefningu og hjálp þegar einhver vill breyta hugarfari sínu og hegðun?   Samkvæmt jafnréttislögum eiga allir að hafa jafna möguleika til að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni. Það gerist ekki nema kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni verði upprætt. Við þurfum að standa vörð um þau sem eru minni máttar, börn og konur af erlendum uppruna. Tölum við okkar nánustu um siðferði og hvernig við getum breytt hegðun og viðhorfum okkar á meðal.   Þessi umræða og málefni kemur okkur öllum við. Það er hægt að breyta menningu og viðhorfum. Það tekur tíma, en ef við leggjum okkur öll fram gerist það fyrr. Við getum öll lagt okkar af mörkum, ég líka #metoo.    

Einar Kristinn: Flóttinn – endurminning

Nákvæmlega 45 árum eftir að eldgos hófst á Heimaey var ég, ásamt syni mínum, staddur heima hjá móður minni í kaffisopa. Ef litið er út um eldhúsgluggann sem snýr í austur blasir við Eldfell í allri sinni dýrð. Það er kannski ekki tignarlegasta fjallið á jarðarkringlunni né það hnarreistasta en það hefur óneitanlega haft ómæld áhrif á þær þúsundir manna sem bjuggu í Vestmannaeyjum í ársbyrjun 1973. Að verða vitni að því að sjá og heyra jörðina opnast, eldglæringar lýsa upp himininn og vikurmola rigna er ekkert minna en ótrúlegt og eflaust yfirþyrmandi. Þarna stóð ég, 45 árum síðar, og gat ekki með nokkru móti skilið hvað hefur farið í gegnum huga fólksins sem lagði leið sína niður á bryggju um miðja nótt þann 23. janúar 1973 með lítið annað en sjálft sig og sína nánustu. Móðir mín, sem var á áttunda aldursári þegar eldgosið hófst, hafði skrifað endurminningu sína í meistaranámi fyrir einhverjum átta árum og vildi svo til að skjalið var opið í tölvunni þegar ég heimsótti hana. Það fyrsta sem sló mig við lesturinn var hversu afslappað fólk var, enginn virtist fara á taugum þrátt fyrir rauðglóandi eldtungur í næsta nágrenni. Amma Jórunn hellti upp á kaffi og eftir smá snæðing var farið að huga að brottför. Þegar komið var í bátinn kom fólk sér fyrir í koju, ef þær voru á annað borð til staðar, annars var bara legið í lestum bátanna, innan um illa lyktandi veiðarfæri. Var æludallurinn síðan látin ganga á milli eftir þörfum. Í dag minnir þessi sjóferð hana mömmu á þátt úr myndaflokki sem fjallar um vesturfarana. Ritgerð mömmu fjallar sömuleiðis um Noregsferðina sem börnum á aldrinum 8-15 ára stóð til boða að fara í um sumarið. Þrátt fyrir að vera ekki orðin átta ára fékk mamma leyfi til að fara til Noregs í tíu daga. Maður á erfitt með að ímynda sér þetta gerast í dag. Reyndar á maður erfitt með að ímynda sér flest allt tengt gosinu enda lýsingarnar frá því eitthvað sem maður rekst helst á í skáldskap. Þetta er einungis lítið brot af upplifun einnar tæplega átta ára stelpu í gosinu. Margar af þessum mögnuðu sögum hafa verið sagðar og skráðar en margfalt fleiri eiga enn eftir að líta dagsins ljós og munu sennilega flestar þeirra aldrei gera það. Það væri í það minnsta spennandi og verðugt verkefni að taka saman fleiri sögur úr gosinu.    

Elliði Vignisson : 45 ár frá upphafi gossins á Heimaey

Í dag eru 45 ár frá upphafi gossins á Heimaey. Eyjamenn og landsmenn flestir minnast þess nú þegar jörðin rifnaði í jaðri byggðarinnar í Vestmannaeyjum og gló-andi hraun vall úr. Í ávarpi sínu við upphaf gossins sagði þáverandi biskup að varla hefði í annan tíma jafn mikill voði vofað yfir jafn mörgum Íslendingum á sama andartaki og þá nótt. Gosið á Heimaey væri einn hrikalegasti atburður sem orðið hefði í sögu landsins. Það voru vafalaust orð að sönnu og mikil var sú mildi að ekki varð tjón á lífi íbúa, björgunarmanna og framtíð byggðar.     Gosið var Eyjamönnum erfitt Þeir sem ekki upplifðu þessa atburði hljóta að eiga erfitt með að skilja þær tætingslegu tilfinningar sem við Eyjamenn berum enn í dag til þessara hamfara. Ég hef áður haldið því fram að gosið hafi verið okkur Eyjamönnum erfiðara en seinni tíma söguskýring hefur viljað vera láta. Eftir því sem ég hef orðið eldri hefur sú skoðun mín styrkst. Eftir sem áður ber ég mikla og djúpa virðingu fyrir þeirri söguskýringu sem oftast var haldið að mér sem barni og fólst í því að þetta hafi nú bara orðið til að styrkja okkur og svo var ýmislegt tínt til sem gosið hafi skilað.    Ekki dvalið við vandamálin Sú skýring á sjálfsagt rót í því að við Eyjamenn dveljum ekki lengi við vandamálin en snúum þeim í verkefni. Hjá því verður þó ekki horft að Eyjamenn urðu að hverfa í hendingskasti frá heimilum sínum með fátt annað með sér en fötin sem þeir klæddust. Eignatjónið varð gríðarlegt og við tóku tímar fullkominnar óvissu. Fjölskyldur tvístruðust og fréttirnar sem bárust af heimahögum voru oftar en ekki þungbærar.   Samfélag byggt á kjarki Þeim mun ótrúlegri var sá kjarkur sem Eyjamenn höfðu til að bera þegar þeir völdu að flytja aftur heim til Eyja. Að velja að takast á við það risavaxna verkefni að hreinsa bæinn af ösku og eignast á ný það samfélag sem var þeim svo kært. Að taka tafarlaust í sátt þá óblíðu náttúru sem ógnað hafði bæði lífi og eignum. Að veðja á rjúkandi eldfjallaeyju sem framtíð sína og sinnar fjölskyldu. Undir gunnfánum samheldninnar sneru Eyjamenn aftur og byggðu það fyrirmyndarsamfélag sem í dag á sér ekki hliðstæðu. Það þurfti kjark, dáð og þor til að endurreisa byggð í Eyjum. Af því áttu Eyjamenn nóg til að takast verkefnið.     Samhugur og drengskapur Ár hvert nota Eyjamenn 23. janúar til að staldra við og minnast þessa ótrúlegu atburða. Þá þakka þeir þá guðsmildi að ekki hafi farið verr og hversu vel þó tókst við hrikalegar aðstæður. Í hörmungunum sýndi hin íslenska þjóð hvers hún er megnug. Samhugurinn og drengskapurinn var alger. Fyrir það færum við Eyjamenn Íslendingum öllum þakkir. Á sama hátt réttu vinaþjóðir okkar Íslendinga Eyjamönnum hjálparhönd, bæði í gosinu og því ógnvænlega verkefni sem við tók í kjölfar þess. Það voru vinahót sem Eyjamenn gleyma aldrei.     Þakkir til þeirrar kynslóðar sem á undan fór Þeir Eyjamenn sem ekki fluttu til baka hafa síðan þá upp til hópa reynst sínum heimahögum vel. Það eru þeir sem svo oft mynda varðlínu um hagsmuni Vestmannaeyja sem um hefur munað. Öllum þessum aðilum færa Eyjamenn þakkir.   Sjálfur færi ég sérstaklega því hugrakka fólki sem á tvísýnustu tímum byggðar í Eyjum sneri heim strax að gosi loknu, hreinsaði Eyjuna af ösku og byggði á ný samfélag sem ekki á sér hliðstæðu í veröldinni.  

Trausti Hjaltason: Ánægja langt yfir landsmeðaltali

Árlega gerir Gallup þjónustukönnun í sveitarfélögum landsins. Á síðasta fundi Fjölskyldu- og tómstundarráðs var kynntur sá hluti sem snýr að ráðinu. Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með aðstöðu til íþrótta- iðkunar í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu voru 98% ánægð. Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu við barnafjölskyldur í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem tóku afstöðu sögðust 83% ánægð. Þegar spurt var hversu ánægðir íbúar væru með þjónustu við fatlað fólk í sveitarfélaginu kom í ljós að af þeim sem afstöðu tóku sögðust 78% vera ánægð. Allt er þetta vel er yfir landsmeðaltali. Rétt er að óska starfsmönnum sérstaklega til hamingju með þennan árangur og er hann vitnisburður um þann metnað sem ríkir meðal starfsmanna sveitarfélagsins.   Nýjar þjónustuíbúðir Klárlega er hægt að gera betur og innan skamms opnar nýbygging við Hraunbúðir sem bæta mun mikið þjónustu við heimilisfólk sem glímir við heilabilun eins og Alzheimer. Hafinn er undirbúningur að nýjum þjónustuíbúðum fyrir aldraða í Eyjahrauni, byrjað er að hanna nýtt sambýli fyrir fatlaða og fjölga sérhæfðum leiguíbúðum fyrir þá svo eitthvað sé nefnt.   Vel tekist til í Heimaey Á síðasta fundi ráðsins var kynnt starfsemi Heimaeyjar - vinnu- og hæfingarstöðvar. Í Heimaey fer fram dagþjónusta, hæfing, iðja, starfsþjálfun og vernduð vinna samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks og eftir reglugerð um atvinnumál fatlaðs fólks. Ánægjulegt er að sjá hversu vel hefur tekist til með þær breytingar sem gerðar voru á húsnæðinu og þjónustu í málaflokknum. Rétt er að benda á að sífellt er þörf á nýjum heppilegum verkefnum fyrir starfsmenn í verndaðri vinnu og eru fyriræki og félagasamtök hvött til að nýta sér þjónustu sem þar stendur til boða.   Ný álma og starfsmönnum fjölgað á Hraunbúðum Framkvæmdum við nýja álmu við Hraunbúðir er að ljúka og markmiðið er að byrja að nýta hana í febrúar. Hjúkrunarforstjóri er að skipuleggja starfsmannahaldið og starfsemina en starfsmönnum í umönnun mun fjölga við þessar breytingar. Með þessu fjölgar herbergjum á Hraunbúðum og býr þá stofnunin yfir herbergjum í samræmi við þær heimildir sem hún hefur fyrir dvalar- og hjúkrunarrýmum. Nýja álman býður upp á möguleika til að mæta sérhæfðum þörfum þeirra sem mestu þjónustuna þurfa, s.s. fólk með heilabilun. Í nýrri álmu verður salur sem nýtist sem matar- og samverustaður.  

Einar Kristinn Helgason: Skynsemi eða skemmtun?

Nú þegar jólin eru að baki og nýtt ár gengið í garð er ekki annað hægt en að líta fram á veginn og halda ótrautt áfram. En áður en það verður gert vil ég líta örlítið til baka á áramótin og Þrettándann og ræða um flugelda. Flugeldar voru augljóslega mikið í umræðunni fyrir áramótin, enda sá tími sem almenningi gefst leyfi til að sýsla með þá. Umræðan beindist þó að miklu leyti að skaðsemi þeirra frekar en að einhverju öðru og má segja þetta hafi verið hálfgert hitamál. Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins lá t.a.m. ekki á sínum skoðunum og lagði til að banna ætti almenna notkun flugelda vegna reyk- og rykmengunar, sóðaskaps og hávaðamengunar. Lagði Sævar Helgi til að landsmenn myndu frekar styrkja Björgunarsveitir með beinum fjárframlögum í stað þess að kaupa flugelda en eins og flestir vita er flugeldasalan stærsta fjáröflun björgunarsveita landsins. Daginn eftir kom síðan svar á Vísindavefnum við spurningunni „Kemur ekki gífurleg mengun af öllum þessum flugeldum um áramótin?“ Stutta svarið var já þar sem í vetrarstillum getur ryk safnast saman í andrúmsloftinu en við slíkar aðstæður um áramót getur magnið orðið hundraðfalt hærra en æskilegt er. Í raun getur styrkur þess verið á stærðargráðu náttúruhamfara eins og þegar eldfjallaaska berst til Reykjavíkur. Segir jafnframt að vegna ýmissa samfélagsbreytinga hefur magn innfluttra flugelda fjórfaldast síðustu 20 árin og mengunin aukist í takt við það. Svifryk vegna flugelda inniheldur hættuleg efni eins og þungmálmana blý, kopar, sink og króm og er talið að flugeldar beri ábyrgð á allt að 10-30% losun þessara efna á ársgrundvelli. Ólíkt annarri mengun sem oft er staðbundin þá er flugeldamengunin alltumlykjandi og þess vegna erfitt fyrir fólk sem er sérstaklega viðkvæmt fyrir menguninni að forðast hana. Þungmálmarnir brotna í þokkabót ekki niður og verða því eftir í umhverfinu og geta borist langar leiðir með vindum og vatni. Það hefur skapast hefð fyrir flugeldum á Íslandi yfir áramót eins og víða annars staðar en er hægt að réttlæta hefðir sem við vitum að eru slæmar fyrir umhverfið, menn og aðrar lifandi verur? Ber okkur ekki að virða rétt hvers og eins til að þurfa ekki að anda að sér lofti sem er mengað af völdum annarra? Ég hef aðallega rætt um mengun í þessum pistli en eins og kom t.d. fram hjá Sævari Helga þá fylgja ýmsir aðrir ókostir líka. Ekki má heldur vanmeta slysahættuna eins og sást í kvöldfréttum á nýársdag en minnstu munaði að illa færi þegar skotterta sprakk fyrirvaralaust við jörðu í miðju íbúðarhverfi. Kannski verður brugðið á það ráð í framtíðinni að almenn notkun flugelda verði bönnuð og eingöngu fagmenn fái að skjóta upp flugeldum eins tíðkast erlendis. Það væri í það minnsta skynsamlegra en eins og við vitum þá fer ekki skynsemi og skemmtun ekki alltaf saman.    

Sara Sjöfn: Lífsins kúnstir

Fyrstu mánuðir ársins eru í smá þoku hjá mér, þar sem í lok ársins 2016 fæddi ég 17 marka heilbrigðan dreng. Ég eins og aðrar mæður um þessar mundir eyddi tíu dögum í borginni og beið eftir vísitölufjölskyldumeðlimnum. Heima í Vestmannaeyjum beið einn þriggja ára. Þetta var það erfiðasta við þessa lífsreynslu, skilja þriggja ára barnið sitt eftir og vita ekki hvenær þú kemur tilbaka og þegar tilbaka er komið er annar einstaklingur orðinn partur af fjölskyldunni. Þessi þriggja ára var nú alveg nokkuð mikið sama enda í góðum höndum hjá ömmum og öfum. Ég hins vegar grenjaði nokkrum sinnum við þessa tilhugsun, hormónarnir og allt það. Þvílíkt kraftaverk sem eitt líf er ásamt allri þeirri gleði og geðshræringu sem því fylgir og vona ég að fæðingar í heimabyggð verði að veruleika aftur.   Fyrstu mánuðir ársins fóru því algjörlega í móðurhlutverkið, sem var yndislegt. Um mitt sumar á leiðinni í frí erlendis fékk ég það boð að taka við af Ómari Garðasyni sem ritstjóri Eyjafrétta. Ég átti svo sem ekki von á því þó ég vissi að Ómari langaði að fara minnka ábyrgðina. Eftir talsverðan umhugsunarfrest tók ég boðinu og 1. september var fæðingarorlofinu lokið, pabbinn tók við barninu og fór í fæðingarorlof og ég tók við sem ritstjóri.   Starf blaðamannsins er í senn krefjandi eins og það er skemmtilegt. Aldrei neinn dagur eins og maður sér aldrei fyrir endann, því það er alltaf næsta blað framundan. Eyjafréttir stíga inn í nýtt tímabil núna um áramótin og ætlum við að halda ótrauð áfram að flytja ykkur fréttir, viðtöl og allt það sem snýr að okkur Eyjamönnum. Flest allt okkar efni ratar í vikulega blaðið okkar en okkur til stuðnings er vefmiðillinn eyjafrettir.is sem er í endurhönnun og mun ný vefsíða líta dagsins ljós vonandi um næstu mánaðamót. Af nógu er að taka og munum við vera með fræðandi og upplífgandi blað einu sinni í viku sem ég vona að þú fáir inn um lúguna hjá þér.   Á tímamótum eins og þessum er alltaf gott að líta sér nær og vera þakklátur fyrir það sem maður á og fólkið í kringum mann. Reglulega er maður minntur á að heilsan er ekki sjálfsögð og óska ég mér og mínum góðrar heilsu á nýju ári. Ég fer full tilhlökkunar inn í nýtt ár. Þar bíða mín skemmtileg og krefjandi verkefni hjá Eyjafréttum og vonandi fullt af góðum samverustundum með fjölskyldu og vinum. Að lokum vill ég þakka fyrir samfylgdina á liðnu ári og óska ég ykkur öllum gleðilegs 2018.  

17/18

Að venju geri ég upp árið með mínum augum séð.   Margt merkilegt er búið að gerast á árinu, en að mínu mati kannski merkilegast tengt fótboltanum, en eins og flestir vita þá náðum við Eyjamenn þeim einstaka árangri að verða bikarmeistarar, bæði karla og kvenna og framtíðin því bara nokkuð björt þar.   Árangur landsliða okkar var líka góður og þá sérstaklega hjá karlaliðinu að komast áfram á HM í fyrsta skipti, en mér verður oft hugsað til baka þegar karlalið okkar berst í tal, að ég man eftir því þegar ég var svona kannski 12 ára gamall að leika mér í fótbolta uppi í barnaskóla nánast alla daga og þegar maður var orðinn einn af eldri strákunum og farinn að velja í lið, þá man ég vel eftir litlum ljóshærðum strák, sem var svolítið linur á þeim árum, en ég tók eftir því, að hann var strax sem peyji nokkuð sleipur spilari og valdi ég hann því oft í lið með mér. Fylgdist svo með honum að vaxa úr grasi og er í dag þjálfari Íslenska karlalandsliðsins og stolt okkar Eyjamanna og ég efast ekkert um það, að ef einhver getur gert kraftaverk á HM í sumar þá er það Heimir Hallgrímsson.   Hápunkturinn hjá mér á árinu var, eins og í fyrra, ferð til Grímseyjar, perlu norðursins. Var svo heppinn að komast loksins bátsferð í kring um eyjuna með heimamönnum og er nú þegar búinn að panta fyrir næsta sumar. Vonandi kemst ég í þá ferð.   Er enn í útgerð og er byrjaður mitt 31. ár í trilluútgerð. Reyndar aðeins í frítímum, enda má að vissu leyti segja að það fari nú ekkert vel saman að vera í fullri vinnu hjá höfninni og róa í frítímum, enda ekki svo mikið um frí, en það gengur bara því miður ansi rólega að selja bátinn. Áhuginn á að róa er frekar takmarkaður, enda lét ég frá mér í sumar þessi fáu tonn sem ég átti, en á móti kemur að það er afskaplega gott að vera laus við bankann, en alltaf er jafn gaman að draga fisk úr sjó.   Tíðarfarið í haust hefur verið alveg með ólíkindum gott og sést það kannski best á sennilega met nýtingu á Landeyjahöfn í haust, en svo gerði brælu í einhverja daga og þá lokast um leið.   Pólitíkin spilaði þó nokkra rullu hjá mér á árinu, en fyrst og fremst er ég frekar dapur yfir því hvernig mál hafa þróast á árinu.   Framtíðin er að sjálfsögðu óskrifað blað, en mín tilfinning fyrir 2018 er kannski fyrst og fremst sú, að þetta er klárlega ár tækifæra og uppgjörs að einhverju leyti við það sem er að baki. Það eru jú kosningar í vor, enn er algjörlega á huldu hvort ég taki þátt í vor, en ég fór í þetta fyrir tæplega 4 árum síðan. Bæði vegna áhuga, en ekki hvað síður fyrir forvitnis sakir.   Klárlega verða einhver uppgjör á næstu mánuðum og vonandi breytingar. Vonandi munu Eyjamenn hafa meira að segja um okkar lykil baráttu mál en hingað til, en ég ætla ekki að telja upp allt sem þarf að laga hér í Eyjum, enda er það efni í amk. 2 greinar í viðbót.   Vonandi verður árið bara gott fyrir okkur öll og í þeim anda óska ég öllum Eyjamönnum og landsmönnum gleðilegs nýs árs.  

Helga Kristín Kolbeins, skólameistari FÍV: Menntun eykur víðsýni, eykur skilning okkar á því að líf allra er jafn mikilvægt

Eftir ræðu Björgvins Eyjólfssonar tók Helga Kristín Kolbeins, skólameistari, til máls. Fór hún meðal annars yfir mikilvægi menntunar í nútíma samfélagi og hversu miklu máli skiptir að hafa áhuga á viðfangsefninu. Að endingu fengu útskriftarnemendur uppbyggjandi lokaorð frá skólameistara sínum, veganesti sem mun án efa nýtast þeim í hinum miskunnarlausa heimi utan veggja FÍV:   Kæru útskriftarnemar, ég vil byrja þessa hátíð á að óska ykkur innilega til hamingju með daginn og þann árangur sem þið fagnið í dag. Þessi dagur er hátíðardagurinn ykkar. Eins og þið heyrðuð í máli Björgvins þá hefur skólastarfið á þessari önn verið öflugt og við leitum sífellt leiða til að bæta starfið, gera það fjölbreyttara og skilvirkara. Það er mikilvægt að hver og einn einstaklingur í þjóðfélaginu sé vel menntaður, mikilvægt fyrir samfélagið og efnahagslífið. Menntun eykur víðsýni, eykur skilning okkar á því að líf allra er jafn mikilvægt. Við viljum að einstaklingurinn geti nýtt sér menntun sína sér til gagns og höfum við útbúið mælitæki til að athuga hvort að svo sé. Við notum niðurstöður mælinganna til að meta hvernig til tekst. Röðum niðurstöðunum eftir löndum og gefum þeim einkunn eftir útkomunni. Við gerum þetta líka hérna. Gleðjumst þegar vel gengur, en verðum sár jafnvel reið þegar við röðumst ekki framarlega. Einnig erum við minnt á, að í samanburði við aðrar þjóðir, þá er útkoman okkur ekki hagstæð. Oftar en ekki er reynt að finna einhvern, sem hægt er að kenna um hvernig komið er fyrir okkur og endalausar rökræður eru síðan um hvernig eigi að fara að því að bæta niðurstöðurnar. Hvernig eigum við að raðast ofar í einkunnastiganum? Hvernig eigum við að tryggja gæði menntunar? Þegar rýnt er í niðurstöður rannsókna eins og Pisa sem meira en hálf milljón nemenda í 72 löndum tekur þátt í, þá er margt fleira en einkunnir einstakra námsgreina sem má finna. Þar fáum við líka svör við spurningum um starfshætti, viðhorf, hegðun og úrræði. Þegar við rýnum í þau svör, kemur í ljós að viðhorf til náms og trú á eigin getu skiptir megin máli. Eitthvað sem við vitum öll, en hversu miklu máli skipta þessir þættir?   Áhugasamir nemendur ná 12-15% betri árangri Hugarfarið hefur mikil áhrif, þannig finnur áhugasamur nemandi hjá sér meiri hvöt til að læra heima og vinna að því að ná framúrskarandi árangri. Áhugasamir nemendur ná 12-15% betri árangri en þeir sem hafa ekki áhuga á námsefninu. Nemandi með vaxandi hugarfar nær 9-17% betri árangri en sá sem hefur fast hugarfar. Fastmótað hugarfar merkir að nemendur telja að vitsmunir þeirra séu föst stærð, þeir eru klárir eða þvert á móti heimskir og ekkert getur breytt því. Hins vegar eru þeir sem telja sig ekki vera bundna af óbreytanlegum vitsmunum sínum, hvorki miklum eða litlum. Vitsmunir þeirra ráðist af ástundun þeirra í námi, sú afstaða kallast vaxandi hugarfar. Vaxandi hugarfar geta allir þróað og er öllum hollt því það snýst um hvernig við tölum við okkur sjálf. Það snýst um að: í staðinn fyrir að hugsa ég er ekki góð í þessu, hugsa ég frekar hvað vantar upp á hjá mér. Í staðinn fyrir að gefst upp finnur þú aðra aðferð við að leysa verkefnið. Verkefni sem þú telur að séu of erfið þá getur þú alveg leyst þau en það tekur þig lengri tíma. Við þurfum að vera meðvituð um hvað hugarfarið skiptir miklu máli og varast það að festast í fastmótuðu hugarfari. Kennarinn og fagmennska hans skiptir miklu máli í námi einstaklingsins. Nemendur sem njóta virkrar leiðsagnar kennara, koma mun betur út úr mælingum en þeir sem fá minni leiðsögn. En verkefnið er vandasamt því nemendur verða einnig að fá að vinna að sjálfstæðum verkefnum og tilraunum. Kennsluhættir hafa mikil áhrif á námsárangur. Það er því mjög mikilvægt að kennarastarfið öðlist þann sess og virðingu sem það á skilið. Kennarar Framhaldsskólans hafa verið að vinna að starfsþróunarverkefni sem miðar að aukinni fagmennsku kennara og eflingu lærdómssamfélagsins og er einkar ánægjulegt að það virðist sem að verkefnið sé þegar farið að bera ávöxt.   Nemendur ánægðari með kennara sína Í skólapúlsinum, könnun sem var framkvæmd í nóvember síðastliðnum, kemur í ljós að allir þættir sem lúta að kennurunum og vinnulagi í kennslustundum hafa hækkað frá síðustu mælingu og við sjáum þetta einnig í áfangamat sem framkvæmt er á hverri önn að þar hækkar ánægja nemenda með kennsluna um 10% á milli ára. Þetta hefur áhrif á útkomuna, brotfall og fall í áföngum er minna. Brottfallið er vel undir 5% en fall í áföngum er rúmlega 5%. Í skólapúlsinum kom í ljós að 80% nemenda hefur áhuga á náminu og það er sama hlutfall og þegar við tókum þátt í könnunni 2015. Það kemur ekki á óvart því að þrátt fyrir að við séum með nýja námskrá, þá vantar nýtt og endurbætt námsefni í framhaldsskólanna. Einnig þurfum við að bæta námsumhverfið og hafa þann búnað sem þarf til að styðji við nýja og betri námshætti.   Vantar um 70 milljónir til að endurnýja búnað Í vikunni var lagt fram nýtt fjárlagafrumvarp og í hlut Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum bættist við tæpt 10 þúsund króna framlag á hvern nemanda á árinu 2018, frá fyrra frumvarpi sem lagt var fram í haust. Á árunum 2019 og 2020 er gert ráð fyrir að fjármagn til skólans dragist ekki saman eins og gert var í fyrra frumvarpi. Peningum sem varið er í menntun er vel varið og við fáum mikla ávöxtun á það fjármagn og tryggjum framtíðina. Við rekum skólann innan fjárlaga, en það breytir ekki þeirri staðreynd að framhaldsskólastigið hefur verið undirfjármagnað í mörg ár og því miður á það sama við um okkar skóla. Menn eru ekki sammála um hversu mikið fjármagn vanti inn í kerfið en tölurnar eru frá tveimur upp í sautján milljarða. Okkur vantar um 70 milljónir til að endurnýja þann búnað sem okkur vantar, þannig að viðbótarframlagið sem við fáum með hverjum nema dugir skammt og enn er langt í land til að við getum lokið þeirri endurnýjun sem er löngu tímabær.   Gervigreind og vélmenni munu leysa öll störf sem byggja á endurtekningu Í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum erum við að mennta einstaklinga til að takast á við framhaldsnám og störf framtíðarinnar. Störf framtíðarinnar verða mjög ólík því sem við þekkjum í dag. Gervigreind og vélmenni munu leysa öll störf sem byggja á endurtekningu og þau störf sem verða til krefjast þess að einstaklingar hafi víðtæka þekkingu á mörgum sviðum, hæfni til að leysa flókin og skapandi verkefni og séu gagnrýnir í hugsun. Þessi þróun er í daglegu máli kölluð fjórða iðnbyltingin. Skólinn leggur til verkfæri til einstaklingar geti bætt við þekkingu og er vettvangur frjórrar hugsunar sem vekur forvitni, vekur þorsta til að afla frekari upplýsinga og leita nýrra leiða, sem verður til að uppbygging á sér stað. Í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum höfum við verið að byggja upp umhverfi og aðstöðu fyrir skapandi fólk, lausnamiðað umhverfi og frjóa hugsun. Í skólanum er lögð áhersla á að leggja grunninn að starfsfólki sem getur borið með sér frumkvöðlahugsun og eru því námsgreinar eins og listir og nýsköpun komnar í kjarna stúdentsprófsins. Í málm- og vélstjórn er skólinn að bæta við fullkomnum tölvustýrðum tækjum og hermum og hefur sett sér það markmið að aðstaðan sem nemendur hafi sé í fremstu röð og ekki síðra en í þeim löndum sem eru í fararbroddi í menntum mál- og vélstjórnargreina. Í lok október barst skólanum styrkur frá Gene Haas Foundation and National Institute for Metalworking Skills til að efla kennslu málmiðnargreina enn frekar og í bréfinu sem fylgdi styrkveitingunni er kennurum skólans þakkað það mikla framlag sem þeir hafa innt af hendi fyrir þróun þessara greina.   Stúdent nr. 1000 útskrifaður Í dag útskrifuðum við 13 nemendur sem luku námi af 5 námsbrautum. Námið er mislangt og hefur það tekið nemendurna mislangan tíma að ljúka því. Við erum öll stolt af nemendunum sem voru hérna uppi á sviði, glæsilegir fullorðnir einstaklingar með útskriftarhúfu á höfði og skírteini í hönd. Árið 1984 útskrifuðum við fyrstu stúdentana og í dag útskrifuðum við 1000 stúdentinn, þannig að nú eru stúdentar frá skólanum orðnir 1002. Skólinn hefur útskrifað yfir 500 nemendur með starfsréttindi og tæplega 600 nemendur úr grunnnámi starfsnáms. Þeir nemendur sem voru að ljúka námi standa núna á tímamótum. Framhaldsskólanámi er lokið, flestir voru að ljúka stúdentsprófi og geta hafið nám í háskóla, hér á Íslandi eða í útlöndum. Skólaárin í framhaldsskóla eru mótunarár þar sem lagður er grunnur að því sem koma skal. Markmið okkar er að einstaklingar útskrifist með þá hæfni sem fjórða iðnbyltingin gerir kröfur um. Mennta fólk þannig að það geti nýtt sé öll þau tækifæri sem framtíðin ber í skauti sér. Ef við ætlum að vera tilbúin að mæta nýjum tímum og geta nýtt okkur þá tækni sem er í boði, þarf miklu meira en orðin tóm. Við verðum að láta námið vera í forgangi og gera nemendurna hæfa til að takast á við þá spennandi tíma sem bíða okkar.   Til hamingju! Kæru útskriftarnemar, Fyrir hönd Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum þakka ég ykkur samfylgdina og óska ykkur alls góðs, hvert sem leiðir liggja. Þið hafið staðið ykkur vel og verið skólanum til sóma. Mér er heiður að því að vera með ykkur í dag, á stórum degi í lífi ykkar. Nú er tilefni til að fagna því þið hafið öll lokið langþráðum áfanga. Það eru mikil verðmæti í ykkur fólgin. Ég veit að þeir sem eru hér með okkur geta staðfest það, án þess að hika. Ykkar bíða krefjandi verkefni, framtíð samfélagsins liggur í höndum ykkar. Ég hvet ykkur til þess að nýta þessi tímamót til þess að hugsa um það hver verður næsti áfanginn á ykkar þroskabraut. Setjið ykkur markmið og ákveðið næstu skref til þess að ná þeim. Markmiðin geta snert allt milli himins og jarðar, bara að þau skipti ykkur sjálf máli. Nelson Mandela sagði að menntun væri besta tækið sem við höfum til þess að breyta heiminum. Menntun eykur víðsýni, menntun er til þess fallin að opna hjörtu okkar fyrir fegurð. Þið, kæru nemendur, eruð búin að sækja tíma í ótal námsgreinum þar sem setið er og spjallað um það sem skiptir máli í lífinu. Þið hafið rætt mikilvægar spurningar við samnemendur ykkar og kennara og fengið þjálfun í að skoða mál út frá mismunandi sjónarhóli. Fyrir marga er þessi þáttur menntunar sá notadrýgsti. Að fá tækifæri til að skoða hugmyndir og atburði í víðara samhengi,að máta sig og sínar skoðanir við það sem öðrum finnst. Munið að þið getið ráðið mjög miklu um það hvernig líf ykkar verður. Byrjið á að hugsa hvað langar mig! Og leyfið ykkur að hugsa stórt! Markmiðin sem þið setjið ykkur er vel hægt að ná. Verið trú landi ykkar og uppruna og farið vel með tungumálið okkar. Berið virðingu fyrir fjölskyldu ykkar og vinum og því samferðarfólki sem verður á vegi ykkar í framtíðinni. Fyrst og fremst berið virðingu og umhyggju fyrir ykkur sjálfum og þeim verkefnum sem þið takið að ykkur í framtíðinni. Ég vona og veit að þið eigið góðar minningar frá tíma ykkar hér í skólanum. Á framhaldsskólaárum kynnumst við oft á tíðum okkar bestu vinum sem við eigum ævilangt, þótt leiðir skilji á vissan hátt nú við brautskráningu. Viðhaldið vináttunni til hvors annars. Ég minni ykkur á að þið eruð ekki laus við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum þó að þið séuð að útskrifast héðan í dag. Þið eruð alla ævi nemendur skólans og skólinn er stoltur af ykkur eins og þið eruð stolt af ykkar skóla. Nú er það ykkar að nota hvert tækifæri til að tala vel um skólann.    

Björgvin Eyjólfsson, aðstoðarskólameistari: Skólastarfið og námið er vinna þar sem launin eru menntunin

 Samkvæmt venju reið Björgvin Eyjólfsson, aðstoðarskólameistari, á vaðið með stutt yfirlit um starf skólans á liðinni önn þegar útskrift FÍV fór fram 16. desember sl. Fór hann um víðan völl og ræddi meðal annars mannabreytingar, samstarfið við íþróttafélög bæjarins og ýmsar tölulega upplýsingar.   Af breytingu mannahalds er það að segja að til liðs við okkur kom Júlía Gristsenko, skiptikennari í ensku frá Eistlandi og njótum við starfskrafta hennar þetta skólaár í fjarveru Arndísar Maríu Kjartansdóttur sem fór í námsleyfi. Einnig bættist við Birita í Dali sem kennir lífsleikni og stafræna hönnun. Ólafur Friðriksson kenndi hönnun skipa og Hildur Vattnes tók að sér lífeðlisfræði á sjúkraliðabraut. Bæði voru þau í stundakennslu. Aðrar breytingar urðu ekki á starfsliði skólans. Kennt var nokkurn veginn sleitulaust út ágúst og allan september til námsmatsdaga hinna fyrri sem haldnir voru 12.-16 október. Eftir þá var gefið út miðannarmat. Seinna úthaldið var nokkuð heillegt og kennt var til 7. desember, þá tók við seinni námsmatstörnin 8-13 desember. Og nú erum við hér stödd til að ljúka starfi annarinnar.   Minna svigrúm fyrir vinnu og aðrar athafnir utan skólans Við styttingu náms til stúdentsprófs er augljóst að mikilvægi þess hefur aukist að nemendur mæti vel í skólann og sinni náminu af kostgæfni jafnt og þétt alla önnina. Minna svigrúm er því fyrir vinnu og aðrar athafnir utan skólans á starfstíma hans. Skólastarfið og námið er vinna þar sem launin eru menntunin og einingarnar sem skilar okkur síðan betri atvinnumöguleikum og lífsfyllingu í framtíðinni. Skólinn hélt áfram samstarfi við ÍBV íþróttafélag um akademíu í knattspyrnu og handknattleik þar sem 33 nemendur tóku þátt. Nú er Golfklúbburinn einnig með í þessu samstarfi í annað skipti. 5 nemendur voru í golfakademíunni og verða vonandi enn fleiri í framtíðinni. 15 sjúkraliðar héldu áfram í fjarnámi við skólann undir stjórn Guðnýar Bjarnadóttur og gengur það mjög vel. Skólinn er einnig þátttakandi í fjarmenntaskólanum sem er samstarfsverkefni 13 framhaldsskóla á landsbyggðinni. Það samstarf gefur okkur aukna möguleika á fjölbreytni í námi og heldur vonandi áfram að þróast á jákvæðan hátt. Við héldum áfram þátttöku í tveggja ára NORDPLUS verkefninu þar sem fjallað er um nýjungar og skipulagningu á sviði ferðaþjónustu. Samstarfsskólarnir eru frá Finnlandi Lettlandi og Svíþjóð. Fulltrúar nemenda og kennara okkar heimsóttu sænska skólann sem staðsettur er í Malmö nú í október. Verkefninu lýkur síðan í janúar með heimsókn allra skólanna til Lettlands. Advanía, fyrirtæki sem þjónustar tölvukerfið okkar hélt námskeið í kennslukerfi INNU fyrir kennara og var það haldið í október. Vanda Sigurgeirsdóttir hélt frábæran fyrirlestur um forvarnir gegn einelti ætlaðan forráðamönnum og starfsfólki skólans. Áætlað er að hún komi aftur á vorönninni með námskeið fyrir kennara. Björg Þorgeirsdóttir kom frá Kvennaskólanum og fór yfir ýmis hagnýt atriði varðandi kennslu í áföngum á þriðja þrepi   Aldrei fleiri í göngu yfir Fimmvörðuháls Sögulegum áfanga var svo náð er hópur nemenda gekk yfir Fimmvörðuháls síðustu vikuna í ágúst ásamt íþróttakennurum og nokkrum vöskum sjálfboðaliðum. Hópurinn taldi 39 manns og hefur aldrei verið jafn fjölmennur. Þetta er í fjórtánda skipti sem nemendur fara þessa ferð sem hluta af íþróttaáföngum skólans. Ýmsir fræðslufundir hafa verið haldnir fyrir nemendur á önninni og má þar nefna hefðbundna heimsókn Ástráðs félags læknanema sem var með kynfræðslu fyrir nemendur. Hugrún, félag háskólanema á heilbrigðis og hugvísindasviði gekkst einnig fyrir fræðslu um geðheilbrigði. Af félagsstarfi nemenda er það að segja að haldið var nýnemaball í byrjun september. Einnig héldu nemendur ýmsar uppákomur og spilakvöld í samkomusal skólans og bíóið bauð uppá sérstaka miðnætursýningu. Með tilkomu þessa nýja hljóðkerfis sem við erum nú að nota í fyrsta skipti eykst möguleiki nemenda til félagsstarfs í skólanum og vonandi nýta þeir sér það. Nemendafjöldi var svipaður á þessari haustönn og þeirri síðustu. Staðfestir það þær samfélagslegu breytingar sem landsbyggðin tekst nú á við þar sem ungu fólki fækkar með hverju árinu sem líður. Sem dæmi má taka að fyrstu árin mín í kennslu (ég byrjaði 1978) taldist lítill árgangur ef undir 100 nemendur voru í honum. Nú telst 70 manna árgangur stór en flestir eru milli 50 og 60. Svo eru menn hissa að ÍBV sé í vandræðum að manna yngri flokkana sína í handbolta og fótbolta og fólk heldur áfram að bera árangurinn saman við mun stærri bæjarfélög í örum vexti. Hversu raunhæft er það? En nóg af þessu.   Brottfall fer minnkandi Námið hófu sem sagt 234 nemendur í mismörgum einingum. Rúmlega 95 % þessara eininga skiluðu sér til prófs. Einungis 6 nemendur hættu námi á önninni og meðal fallprósenta í öllum áföngum er rúmlega 5%. Þetta telst mjög gott miðað við fyrri ár og erum við að sjá áframhaldandi árangur af markvissri vinnu skólans gegn brottfalli. Skapast hefur sú venja að veita nemendum með frábæra mætingu fría innritun á næstu önn og að þessu sinni bera tveir nemendur af og eru með 100% raunmætingu sem þýðir þeir hafa mætt í hvern einasta tíma á önninni. Geri aðrir betur. Þetta eru þeir: Árni Fannar Bæron Gerhardsson og Daníel Hreggviðsson.   Þessir nemendur fengu viðurkenningar við útskriftina Viðurkenningar frá íþróttaakademíu ÍBV: Sandra Erlingsdóttir og Elliði Snær Viðarsson. Viðurkenning fyrir mjög góðan árangur í þýsku frá Þýska sendiráðinu. Bergþóra Ólöf Björgvinsdóttir. Fyrir mjög góðan árangur í raungreinum frá Háskólanum í Reykjavík. Bergþóra Ólöf Björgvinsdóttir. Fyrir góðan árangur á stúdentsprófi. Þórey Lúðvíksdóttir meðaleinkunn 8,01. Fyrir mjög góðan árangur á stúdentsprófi. Bergþóra Ólöf Björgvinsdóttir meðaleinkunn 9,08.

Ari Trausti: Eitt skref af ótal mörgum

Undir jól og áramót ár hvert hyggja menn að næsta ári og hafa oftast uppi góðar vonir. Á yfirstandandi ári urðu stjórnmálamenn og kjósendur að takast á við stjórnarslit og nýjar kosningar. Í desember tókst að setja saman nýja ríkisstjórn með nokkuð óvæntu mynstri, jafnvel mjög umdeildu meðal kjósenda og félaga flokkanna.   Félagsmálastjórn Stjórnarsamningurinn er vissulega sáttmáli; málamiðlun milli mjög ólíkra, jafnvel andstæðra, stjórnarmiða og -stefna. Félagshyggja er þar með sterkum svip en allmörg málefni látin liggja milli hluta eða þau sett í skoðun. Samsteyputjórnin verður til við sérstakar aðstæður þar sem pólitískar línur og skilaboð reyndust flókin. Lögð verður að þessu sinni aðaláhersla á að koma af verulegum þunga til móts við ákall fólks um úrbætur lífsskilyrða eftir neyðarviðbrögð vegna fjámálahrunsins í fyrstu og svo of hægar endurbætur eftir þau. Verkefnin eru ærin, hvort sem horft er til heilbrigðis-, skóla- eða almannatryggingarmála, til rannsókna, nýsköpunar, byggðamála, jafnréttis eða gegnsæis í stjórnkerfi og hagsmunatengslum, hvað þá launamála, atvinnuvega og innviða í samgöngum. Inn í flest öll fyrrgreind málefnasvið fléttast umhverfismál og þá sér í lagi aðgerðir í loftslagsmálum, allt frá orkuskiptum í samgöngum og útgerð til endurheimt landgæða og bindingar kolefnis.   Sjáum til Verkin tala og koma mun í ljós hvort vonir fólks, sem m.a. má lesa að dálitlu leyti úr fyrstu viðhorfskönnunum, gangi eftir. Félagshyggjufólk einsetur sér að vera málsvari hins vinnandi manns og gerir sitt besta til að svo fari á næstu árum. Til langrar framtíðar þörfnumst við nýs hagskerfis sjálfbærni, jöfnuðar og hófsemdar, grænna og mannúðlegra viðmiða, og jafnvægis milli náttúrunytja og náttúruverndar. Ég tel okkur taka smáskref í þá átt með samstarfi þriggja ólíkra flokki á Alþingi að þessu sinni. Takist það bærilega, er tíma á þingi eins vel varið og kostur er í núverandi stöðu. Lesendum og öllum íbúum Suðurkjördæmis sendi ég hlýjar hátíðarkveðjur.  

Einar Kristinn - Að lífga sálaryl

Það voru fyrirmæli frá foringjanum að skrifa „jólalegan“ pistil að þessu sinni enda prýðir hann baksíðuna á sjálfu jólablaðinu. Ég hélt að það yrði nú ekkert tiltökumál og fullur sjálfstrausts settist ég fyrir framan lyklaborðið á mánudaginn og hófst handa við verkið. Tveimur tímum síðar var skjalið í tölvunni enn autt. Ég hef eytt þó nokkrum vinnutímum í desember, bæði við vinnslu aðventublaðsins og jólablaðsins, í að spyrja annað fólk hvað því finnst um hina og þessa hluti tengda jólunum, hefðir, jólalög, kvikmyndir, mat og tilfinningar svo eitthvað sé nefnt. En þegar röðin kom að mér sjálfum var lítið um svör. Mér er alls ekkert illa við jólin, þvert á móti finnst mér þau heilt yfir fín og jafnvel nauðsynleg í myrkasta skammdeginu en upprunalega voru jólin nokkurs konar skammdegishátíð þar sem tilgangurinn var öðru fremur ,,að lífga sálaryl“ eins og þjóðháttafræðingurinn Árni Björnsson orðar það í skrifum sínum. Mér finnst samt eins og fólk í dag sé stundum komið talsvert út af sporinu, ýmist meðvitað eða ómeðvitað og oft í skjóli hefða og venja. Það er eins og grunngildin verði undir, samvera, kærleikur, þakklæti, gleði og að njóta þess að slaka á. Of mikið púður fer í alls kyns undirbúning, leitina að hinni fullkomnu gjöf (sem verður að vera nógu dýr líka) og allt of krefjandi verkefni í eldhúsinu. Svo er líka lykilatriði að fanga öll fullkomnu sviðsettu augnablikin á mynd og deila með Instagram vinum sínum. Fyrir mína parta þá myndi ég segja að það góða við aðventuna og jólin sé að það ríkir einhver barnsleg eftirvænting í okkur öllum, óháð aldri. Það er misjafnt hvers við væntum og stundum veit maður hreinlega ekki af hverju þessi tilfinning býr í brjósti manns, hún bara fylgir árstímanum. Sem námsmaður fannst mér frelsistilfinning við lok jólaprófatarnarinnar eitt það allra besta við jólin og í kjölfarið að verja meiri tíma með fjölskyldu og vinum. Sem fjölskyldumaður á maður eflaust eftir að kynnast jólunum alveg upp á nýtt og læra að meta hluti sem maður áður tók sem sjálfsögðum. Í þokkabót fær maður að upplifa jólin í gegnum börnin sín og er það sannarlega eitthvað til þess að bíða eftirvæntingarfullur eftir enda jólin fyrst og fremst hátíð barnanna. Munum bara að tileinka okkur grunngildin og hafa þau í hávegum en ekki ósiðina sem muna vonandi vaxa af okkur með tíð og tíma.  

Georg Eiður - Jólin 2017

Það hefur oft verið erfitt að vera trillukarl í desember, enda tíðin ansi oft rysjótt um það leytið (aðeins rólegri hjá mér þessa dagana hjá höfninni), en það hefur oft kostað mikil átök að láta enda ná saman um þetta leytið. Ég náði þeim merka áfanga í nóvember, að þá voru akkúrat 30 ár síðan ég keypti minn fyrsta bát og í byrjun þessarar viku voru einmitt nákvæmlega 30 ár síðan ég eignaðist frumburðinn.   Þegar maður lítur til baka, þá voru t.d. jólin 1989 mjög erfið, en einmitt þá 16. desember fór ég í róður í rjóma blíðu, en var rétt kominn vestur fyrir eyjar þegar skall á austan rok. Baráttan við að komast til baka við klettinn var bátnum ofviða og í raun og veru var ég ótrúlega heppinn að komast lifandi frá því, en ég þurfti að fá far í land með stærri bát, en þessi trilla sem ég átti á þessum tíma hvílir á hafsbotni innan við eyjar.   Þessi jól voru því afskaplega erfið, ekki bara vegna þessa, heldur líka vegna þess að fyrr á árinu hafði ég fengið forræði yfir syni mínum og var því einstæður faðir, sofandi í sófa í stofunni hjá móður minni.   Um áramótin var því ansi lítill hugur í mér að fara eitthvað út á skemmtanalífið, en móðir mín pressaði á mig að drífa mig nú út að hitta annað fólk, enda líkur lífinu ekki við 25 ára aldur eins og marg oft hefur verið sannað.   Ég kíkti á nokkra staði en allstaðar var troð fullt og endaði með því að rölta upp í Hallarlund (þar sem nú er Betel). Það var frekar fátt um fólk þarna og ég settist niður til að fá mér eitt glas áður en ég færi heim. Tók þá fljótlega eftir ungri konu sem var að dansa við eldri mann. Eftir að hafa fylgst með þeim í smá stund þá leit unga konan skyndilega á mig og blikkaði mig. Í fyrstu hélt ég að þetta hefði verið einhver mis sýn, en nokkru seinni gerði hún þetta aftur. Stuttu síðar settist hún hjá fólki sem ég kannaðist nú eitthvað við, þar á meðal Guðný Anna Tórshamar.   Eftir að hafa heilsað og boðið gleðilegt nýtt ár, þá spurði ég að sjálfsögðu: Hver er þessi unga kona þarna?   Dinna svaraði: Þetta er hún litla systir mín, hún Matthilda María.   Eftir að hafa horft á hana smá stund kom eldri maðurinn aftur sem hún hafði dansað við og bauð henni upp, en núna afþakkaði hún boðið og horfði bara á mig.   Ég rétti henni því höndina án þess að segja nokkuð og við stigum okkar fyrsta dans.   Ég hef aldrei verið mikill dansari, en við Matthilda erum þó búin að dansa saman í bráðum 28 ár.   Það má því sannarlega segja það að þessi afskaplega erfiðu jól og áramót hafi endað vel og skilaboðin eru því nokkuð skýr: Það er alveg sama hversu dökkt útlitið er, það rofar alltaf til að lokum, við Matthilda höldum nú okkar 27. jól saman með hluta af börnunum okkar og óskum öllum Eyjamönnum og landsmönnum gleðilegra jóla.  

Sr. Guðmundur Örn: Jólin byrja í hjörtum okkar en ekki í IKEA

 Í aðdraganda jóla hef ég reynt að feta þennan margumtalaða veg yfirvegunar og rólyndis, en kannski ekki alltaf með þeim árangri sem ég vonaðist eftir. Ég hef raunar oft litið með örlítilli öfund til þeirra sem ekki eru að stressa sig á hlutunum. Fólk sem ekki er að æsa sig yfir smámunum og lætur hlutina bara hafa sinn gang, en ég er bara því miður ekki þannig af Guði gerður. Æskuvinur, sem var bóndi norður í Eyjafirði er þeim hæfileikum gæddur að vera ekki að stressa sig yfir smámunum og hefur haft orð nóbelsskáldsins að leiðarljósi í lífi sínu, nefnilega að „hlutirnir hafi tilhneigingu til að fara einhvern veginn, þó margur efist um það á tímabili”. Skömmu fyrir jólin 2007 hafði vinur minn samband við mig og spurði hvort ég gæti ekki skotist norður að skíra þríburana sína og gift þau hjónaleysin í leiðinni. Ég hélt það nú og við Gíslína mín æddum norður í mikilli stress ferð þar sem allt flug fór úr skorðum og því gátum við ekki eytt nema brot úr degi með vinum okkar. Þegar við Gíslína erum komin norður er ljóst að við erum ansi tæp á tíma og ég hringi í vin minn og segi honum að við séum á heldur meiri hraðferð en til stóð og spyr hvort ekki sé allt klappað og klárt fyrir stóru stundina. Jú, hann heldur það nú, allir mættir og nú sé bara beðið eftir okkur Gíslínu. Þegar við göngum inná heimilið sjáum við að allir gestir eru mættir og sitja að spjalli, vinur minn er að renna yfir dagblaðið og allt með rólegheitum, nema húsfreyjan er heldur stygg og hvæsir á þennan vin minn að fara nú að drífa sig að gera sig kláran. Þá fer félagi minn í að finna á sig föt, íslenska hátíðarbúninginn, og lendir í óskaplegu klandri með hnútinn á slifsinu sem fylgir og gefur sér tíma til að athuga hvort hann finni ekki einhverja aðferð við þetta á netinu. Svo reyndist ekki vera og því lét hann duga að kuðla þessu öllu einhvern veginn saman, þannig að þetta liti svona nokkuð sannfærandi út. Og þá voru allir tilbúnir, öllum boðið að ganga til stofu þar sem hin stóra stund skyldi fara fram. Þar sem við stöndum og bíðum eftir að gestirnir komi sér fyrir, þá rek ég augun í að vinur minn er skólaus við sparifötin og ég spyr hvort hann vilji ekki fara í spariskóna sína. Jú, jú, það stóð víst til. Og svo er farið að leita að spariskónum sem þarf síðan að pússa þegar þeir loksins finnast og við þetta tefst allt um enn einn hálftímann eða svo. Athöfnin gat þá loks farið fram og um leið og henni lauk rukum við Gíslína út í bíl og upp í flugvél sem flutti okkur aftur áleiðis til Eyja. Þegar við félagar tölum um þennan dag þá minnumst við hans með æði ólíkum hætti. Ég man eftir rosalegu stressi og látum, en vinur minn lygnir aftur augunum og minnist þess hversu allt gekk vel og hvað allir voru rólegir og rekur ekki minni til þess að einhver hafi verið orðinn óþolinmóður. Já, stundum vildi ég hafa meira af þessu rólyndi sem vinur minn býr yfir, þó ef til vill mætti krydda það með örlitlu skipulagi. En ég held að við getum flestöll lært að temja okkur rólyndi og yfirvegun í aðdraganda jólanna, því þannig náum við að njóta aðventunnar best, því jólin koma jú hvort sem verkefnalistinn hefur klárast eða ekki. Jólin byrja nefnilega í hjörtum okkar, en ekki í IKEA, eins og svo oft er hamrað á. Það er von mín og ósk að þú, ágæti lesandi, eigir eftir að njóta þess sem eftir er af aðventunni og að Guð gefi þér og þínum gleðileg jól.

Sara Sjöfn: Má ekkert?

 238 fjölmiðlakonur sendu frá sér yfirlýsingu á mánudaginn, ég var ein af þeim, til stuðning þeirra sem sagt hafa sína sögu og fordæma í leiðinni ofbeldi, áreiti eða niðurlægingu á forsendum kynferðis. Þið þekkið þetta öll #metoo, vandamálið er stórt og það er okkar allra, allsstaðar. Fleiri hundruð kvenna hafa stigið fram allstaðar í heiminum. Sjokkerandi? Nei, svo sem ekki, mögulega fyrir einhvern karlinn og sennilega einhverjir sem iða í skinninu og enn fleiri sem hafa áttað sig á því sem þeir hafa gert, en þótt í lagi. En það er ekki í lagi.  Það er ekki verið að stimpla alla karlmenn og ýta út í horn, það eru til fullt af góðum körlum sem mundu ekki detta það til hugar, en það er ekki verið að ræða þá núna! Það sem þótti fyndið áður fannst okkur konunum aldrei fyndið. Konurnar sem eru að stíga fram undir formerkjum #metoo eru ekki að segja sögur af pöbbanum, heldur úr vinnunni. Ekki misskilja mig, það er ekki sérstakt leyfi á pöbbanum eða undir áhrifum, þó margir skýli sér bakvið það. En að fá ekki gagnkvæma virðingu í vinnunni útaf því þú ert kona, er gjörsamlega óboðlegt og sem betur fer erum við flest sammála um það. Það þarf bara stoppa fingralöngu pervertana með sóðakjaftinn.  Og ef þú ert að velta fyrir þér hvort ekkert megi þá er svarið nei, allavega þegar kemur að áreiti, niðurlægingu eða ofbeldi á forsendum kynferðis. Eitt annað, karlmenn! Ef það eru málefni sem brenna á ykkur þar sem ykkur finnst karlmenn eða drengir verða undir, girðið ykkur í brók, látið í ykkur heyra og takið þátt í baráttunni, gerum þetta saman og búum til samfélag fyrir alla til þess að búa í! Áfram jafnrétti, áfram virðing!  

Ómar Garðarsson: Skipta drengir engu máli?

Það er ekki einfalt mál að vera ungur maður í dag með það á herðunum að allt böl mannkynsins sé karlmönnum að kenna. Þeir hafi deilt og drottnað og geri enn, allt undir formerkjum feðraveldisins sem er þó nokkuð óljóst hugtak. Ekki ætla ég að mæla bót því ofbeldi gegn konum sem nú er að koma upp á yfirborðið og lýsir reynslu kvenna af misbeitingu karla í krafti valds og áhrifa. Og manni er að verða ljóst að það sem þótti fyndið fyrir ekki svo löngu síðan er bara ekkert fyndið. En heildarniðurstaðan er sú að konur eru fórnalömb þar sem karlar er í hlutverki hins vonda. Ekki ætla ég að hætta mér frekar inn á þessar flughálu brautir sem umræða um samskipti kynjanna er í dag en langar til að vekja athygli á stöðu ungra manna og drengja nú þegar krafan er algjört jafnrétti kynjanna. Hér eru nokkrar staðreyndir sem fær mann til að staldra við. Þriðjungur drengja sem kemur upp úr grunnskóla á Íslandi getur ekki lesið sér til gagns. Hefur einhver áhyggjur af því? Ungum mönnum er níu sinnum hættara en konum að taka eigið lífið. Er þetta eitthvað sem vert er að athuga? Einstæðir karlar eru meðal þeirra verst settu í þjóðfélaginu. Er einhver að vekja athygli á þessu? Páll Vilhjálmsson vekur athygli á eftirfarandi á bloggsíðu sinni: -Doktor er æðsta lærdómsgráða við háskóla. Á einu ári veitti Háskóli Íslands 53 doktorsgráður, 39 fóru til kvenna en 14 til karla. Konur taka sem sagt nær 3 doktorsgráður af hverjum fjórum frá HÍ en karlar 1. Þessi ójöfnu kynjahlutföll endurspegla að konur sækja fremur háskólanám en karlar. Hlutföllin eru um 35/65 konum í vil. Strax við útskrift úr menntaskóla eru stúlkur öflugri en drengir. Útskriftarhópurinn í MR í vor var 60 prósent stúlkur en 40 prósent drengir. Í grunn- og framhaldsskólum hafa stúlkur kvenfyrirmyndir en drengir mun síður. Um 80 prósent kennara eru konur, segir Páll og bendir á að engin umræða er um þessa þróun, hvaða ástæður liggja að baki og hvaða áhrif hún mun hafa. Veruleg skekkja í háskólamenntun kynjanna leiðir til kynskipts vinnumarkaðar og það telst varla jákvæð þróun.  

Elliði Vignisson - Fæðingaþjónusta er óviðunandi í landsbyggðunum

Fyrir mér eru Vestmannaeyjar paradís á jörðu. Náttúran, fólkið, menningin, sagan, krafturinn samstaðan og svo margt fleira jarðtengir mig og lætur mig fljúga í senn. Samt er það svo að tveir hornsteinanna eru ekki í lagi, samgöngur og heilbrigðisþjónusta. Ég er afar bjartsýnn á að á næsta ári tökum við stórt skref hvað samgöngur varðar sem síðan mun leiða af sér enn fleiri slík í átt að betra ástandi. Út af borðinu standa þá heilbrigðismálin og þá sérstaklega fæðingaþjónustan.   Tilflutningur á kostnaði Tilgangurinn á bak við breytingar á fæðingaþjónustu er ekki hvað síst að ná niður kostnaði hins opinbera. Það vill þá e.t.v. gleymast að í raun er bara um tilflutning á kostnaði að ræða frá ríki til verðandi foreldra. Kostnaður við ferðalög og biðina á fæðingarstaðnum er oft verulegur. Ekki er ólíklegt að kostnaður við fæðingu, ferðalög, vinnutap og fl. hlaupi á hundruðum þúsunda og þaðan af meira. Sér er nú hver gjöfin til verðandi foreldra. Þar við bætast áhyggjur af ferðalaginu aftur heim og aðlögun fjölskyldunnar, sérstaklega eldri barna að eðlilegu lífi eftir heimkomuna tekur á. Hvað sem líður öllum Excelskjölum og flæðiritum þá er ljóst að fæðing fjarri heimabyggð valdur kvíða og streitu hjá barnshafandi konum auk töluverðrar röskunar á lífi fjölskyldunnar og mikils kostnaðar.   Samfélagslegt mikilvægi Áhrifin eru þó víðtækari. Fram hefur komið að skortur á þjónustu við konur í barneignaferlinu hefur almenn áhrif á dreifbýli. Gildi þess að hafa fæðingarþjónustu eru sennilega meiri fyrir samfélagið sjálft en margir gera sér grein fyrir. Það skiptir að mati þeirra sem best þekkja til miklu fyrir samfélagið að fæðingar séu hluti af lífinu þar. Að samfélagið sé samfella frá vöggu til grafar.   Manneskjusýn Svo mikið er víst að það er ekki í samræmi við manneskjusýn Eyjamanna að þessi mikilvægi þáttur lífsins verði frá þeim tekinn og í staðinn sett á fót læknisfræðilegt kassalagað kerfi sem aðskilur verðandi foreldra frá fjölskyldum sínum. Við Eyjamenn verðum að berjast áfram fyrir þessum sjálfsögðu réttindum. Þar leika þingmennirnir okkar lykilhlutverk.  

Ragnar Óskarsson: Hvar erum við?

Hvar erum við?   Í öllum samfélögum gegna fjölmiðlar mikilvægu hlutverki. Eitt mikilvægasta hlutverkið er að vera vettvangur gagnrýni og frjálsra skoðanaskipta. Með þetta í huga skoðaði ég skrif og umræðu bæjarfulltrúa sjálfstæðismanna um netmiðilinn Eyjar.net nú síðustu daga. Ég verð að viðurkenna að við lesturinn setti að mér hroll. Ég fékk á tilfinninguna að ég gæti varla verið í nútímanum og varla í frjálsu samfélagi. En hver vegna segi ég þetta? Ég nefni hér nokkur dæmi.   Gagnrýni sem miðillinn setur fram almennt á störf bæjarstjórnar eru skilyrðislaust og án nokkurs rökstuðnings dæmd dauð og ómerk. Hún sé sett fram af einhverjum annarlegum hvötum og sé einungis árás á Vestmannaeyjar.   Miðillinn lét gera könnun á viðhorfum Vestmannaeyinga til samgangna. Niðurstaðan var mjög eindregin í þá átt að Vestmannaeyingar eru ósáttir. Í stað þess að taka mark á niðurstöðunum og nýta sér þær réðust talsmenn sjálfstæðismanna á miðilinn og sökuðu hann um niðurrifsstarfsemi.   Nú síðast ruddust bæjarfulltrúar sjálfstæðismanna fram á ritvöllinn bæði sem eldri og yngri deild og gerðu almennt lítið úr miðlinum og höfðu í hótunum bæði beint og óbeint.   Þessi þrjú dæmi læt ég nægja að þessu sinni. Þau skýra hins vegar vel það sem ég sagði hér í upphafi. Það er sem sé ekki í lagi í samfélagi þar sem stjórnendur þola ekki gagnrýni og gera lítið úr þeim sem hana setja fram. Fjölmörg dæmi úr mannkynssögunni staðfesta þetta. Það er ekki í lagi að ráðast á tjáningarfrelsið eins og sjálfstæðismennirnir í bæjarstjórn gera. Vestmannaeyingar eiga betra skilið en slíkar trakteringar.   Lifi frjáls fjölmiðlun!   Ragnar Óskarsson  

Elliði Vignisson: Það þarf kjark til að breyta

Nafn Gísla J. Johnsen er samtvinnað sögu Vestmannaeyja. Hann var hér fæddur 10. mars 1881. Með verslun sinni og útgerðarrekstri átti hann stóran þátt í að bæla niður þá einokun sem hafi legið sem mara á Eyjamönnum í mannsaldir. Það var þó bara byrjunin á ævintýranlegri uppbyggingu Gísla. Eins og allir sem þora að gára vatnið var Gísli umdeildur og oft reyndist honum erfitt að glíma við neikvæðni samfélagsins og óttann við breytingar. Árið 1899, þegar Gísli var einungis 18 ára hóf hann verslunarrekstur í grimmri samkeppni við einokunarverslun Brydes. Vegna ungs aldurs fór verslunin þó ekki yfir á hans nafn fyrr en árið 1902. Árið 1904 keypti verslun hans eða „firmað“ eins og það var þá kallað fyrsta mótorbátinn sem kom til Suðurlands. Þar með varð til grunnurinn að Vestmannaeyjum eins og við þekkjum þær í dag. Á fyrsta áratug aldarinnar fjölgaði íbúum í Eyjum úr 607 í 1492 eða um 885 manns. Á þessum árum var lögð sú undirstaða sem skapaði frumkvæði og forystu Vestmannaeyinga í útgerð og sjávarútvegi æ síðan. Gísli lét sig fleira varða en eingöngu verslun og viðskipti og var hann til að mynda einn af hvatamönnum þess að byggður var viti á Stórhöfða og framkvæmdi það verk fyrir landsstjórnina.   Árið 1907 stofnaði firmað vélaverkstaði hér í Eyjum og hóf meðal annars innflutning á frystivélum og ári síðar reisti það stórt frystihús sem einnig var hið fyrsta í sinni röð hér á landi. 1911 stofnaði hann talsímafélag í Eyjum og kom á símasambandi við land og stuttu seinna var, undir hans stjórn, hafist handa við byggingar á [gamla] spítalanum sem síðar varð ráðhús . Árið 1913 reisti firma Gísla fyrstu fiskimjölsversmiðju hér á landi. Því var svo fylgt eftir með lýsisbræðslu. 1920 byggði firmað fyrstu olíugeyma hér á landi sem varð til þess að vélvæðing landsins gekk hraðar fyrir sig og olíuverð lækkaði til muna. Afrekin eru mörg fleiri og nánast óhætt að fullyrða að saga Vestmannaeyja og jafnvel landsins alls hefði orðið önnur ef hans framsýni og hugrekkis hefði ekki notið við.   Fyrir fólk sem lifir í ólgu samtímans og finnst allar hugmyndir um breytingar og nýjungar mæta andbyr er ágætt að lesa vandlega þessi orð úr þjóðhátíðarblaði Vísis frá 17. Júní 1944: „En Gísli hefir oft og tíðum átt við ramman reip að draga, þegar hann vildi koma einhverjum nýjungum á framfæri. Almenningur allra tíma er þannig gerður, að hann veigrar sér við að stíga út af braut vanans og hræðist erfiðleika brautryðjendastarfsins og vill helzt alltaf standa á sama sjónarhól og hjakka í sama hjólfarinu frá ári til árs og öld til aldar. Það hvílir því á herðum frumkvöðlanna að koma nýjungunum i framkvæmd, en launin eru annað hvort þakkir almennings eða vanvirða sem oftar er“ Það verður alltaf til úrtölufólk. Verum samt óhrædd við breytingar og stígum af braut vanans. Í framtíðinni felast tækifæri ef við þorum að nýta þau.  

Trausti Hjaltason: Furðuleg skoðanakönnun

Undanfarið hefur fyrirtækið MMR nú verið að vinna skoðanakönnun hér í Vestmannaeyjum. Um er að ræða sama fyrirtæki og vann könnun tengda samgöngum fyrir eyjar.net og datt meðal annars í hug að spyra hversu sammála bæjarbúar væru því að gerðar yrðu umbætur á Landeyjahöfn áður en ný Vestmannaeyjaferja verður smíðuð? Rétt eins og það væri mögulegt þá þegar. Eins og einn af svarendum þessarar könnunar hefur bent á (sjá hér) þá hefði allt eins verið hægt að spyrja: „“Hversu sammála eða ósammála ertu því að setja alla þróun í samgöngubótum á bið á meðan verið er að kanna hvort mögulegt sé að gera umbætur á Landeyjahöfn, jafnvel þó það þýði óbreytt ástand sjósamgangna næstu áratugi?” Sennilega hefði niðurstaðan þá orðið önnur.   Stríð gegn nýrri ferju   Þessi könnun sem unnin var í byrjun árs 2016 hefur síðan verið nýtt í hinu heilaga stríði gegn nýrri ferju og jafnvel látið að því liggja að við í bæjarstórn höfum ekki viljað breytingar á höfninni. Allir hljóta þó að sjá að bæjarstjórn fer fyrir það fyrsta ekki með samgöngumál heldur ríkið. Þá hefur bæjarstjórn ætíð verið algerlega einbeitt í þá átt að allt sé gert til að bæta ástandið svo fljótt sem verða má. Á það meðal annars bæði við um skip og höfn. Afhverju ætti bæjarstjórn ekki að vilja bæta höfnina?   Villandi spurningar   Í þeirri furðulegu könnun sem nú er verið að vinna kveður enn og aftur við þennan sama tón. Spurningar eru illa orðaðar og villandi. Því miður eru þær því líklegar til að rugla umræðuna enn frekar. Því miður neita þeir sem hringja fyrir MMR að veita upplýsingar um fyrir hvern könnunin er unnin. Þá mun sennilega ekki heldur verða upplýst hver greiði fyrir hana.   Dæmi um illa orðaða og villandi spurningu í núverandi könnun er þessi hér:  „Heldur þú að Landeyjahöfn í óbreyttu ástandi geti þjónað sjósamgöngum um ókomin ár?“. Hvað merkir þetta? Er hér átt við að aldrei verði þörf á að gera breytingar á höfninni? Merkir þetta að ekki þurfi þá þann dælubúnað sem verið er að koma upp? Merkir þetta að ekki þurfi að gera þær breytingar á innri görðum sem nú er unnið að? Merkir þetta að ef ég segi já þá sé ég sáttur við að aldrei verði neitt gert? Eina leiðin til að svara þessu er að segja „Nei“. Þannig myndi ég svara og sennilega allir í bæjarstjórn.   Sveitarfélög almennt fara ekki með samgöngumál   Þá er einnig spurt um hvernig hvernig svaranda þykir Vestmannaeyjabær hafa staðið sig í samgöngumálum. Vægast sagt furðuleg spurning í ljósi þess að Vestmannaeyjabær hefur ekkert umboð í samgöngumálum og enga formlega stöðu. Vestmannaeyjabær rekur ekki Herjólf, ræður engu um Landeyjahöfn og er ekki ætlað neitt formlegt hlutverk í samgöngum frekar en sveitarfélögum almennt í þeim málaflokki. Eins væri hægt að spyrja hvernig Vestmannaeyjabær hafi staðið sig hvað varðar fiskveiðistjórn og veiðigjöld. Eða jafnvel Seðlabankann og utanríksmál. Samgöngur eru einfaldlega ekki málaflokkar sem sveitafélög fara með þótt sannarlega tengist þetta hagsmunum þeirra og bæjarstjórnir álykti reglulega um málið og fjalli um það. Ekkert er hinsvegar spurt um álit á þeim sem raunverulega fer með þennan málaflokk og eini möguleiki svaranda til að koma á framfæri óánægju er með því að svara neikvætt í þessari spurningu.   Samstaða er líklegust til að skila árangri   Það verður því ekki annað séð en að tilgangurinn með þessari könnun sé sá sami og áður. Að rugla umræðuna og reyna að telja bæjarbúum trú um að bæjarstjórn vilji ekki breytingar á höfninni. Að hvetja til illdeilna í málaflokki þar sem samstaða skiptir sköpum. Tilgangurinn er því pólitískur frekar en nokkuð annað. Enn og aftur er því rétt að fram komi að bæjarstjórn hefur á öllum tímum viljað að allt sé gert til að bæta samgöngur. Þar með talið að breyta höfninni. Bæjarstjórn á ekki verkfræðileg svör við hvenig það sé hægt en veit sem er að samstaða hér heimafyrir er það sem líklegast er til þess að árangur náist.   Trausti Hjaltason   Bæjarfulltrúi.  

Hildur Sólveig: Af hverju er bæjarstjórn að skoða yfirtöku á rekstri Herjólfs?

Umræðan sjálf hefur lengi verið almenn í langan tíma í sveitarfélaginu að heimamenn ættu að taka málin í sínar hendur til að komast nær ákvörðunartöku um samgöngumálin sem eru okkar stærsta hagsmunamál. Sveitarfélagið hefur áður reynt að bjóða í rekstur ferjunnar en ekki fengið erindi sem erfiði. Það var svo þann 29. september 2016 að bæjarstjórn Vestmannaeyja bókaði eftirfarandi á 1515. fundi sínum:   ,, Bæjarstjórn Vestmannaeyja fjallaði um niðurstöður útboðs á nýrri Vestmannaeyjaferju. Fyrir liggur að rétt eins og bæjarstjórn Vestmannaeyja benti á er hagkvæmast fyrir ríkið að láta smíða ferju og semja svo sérstaklega um rekstur hennar. Vestmannaeyjabær lítur á rekstur Herjólfs sem hornstein að innri gerð samfélagsins í Vestmannaeyjum. Í raun og veru er ekki nokkur munur á rekstri Herjólfs og rekstri annarra kafla vegakerfis Íslendinga. Bæjarstjórn telur því brýnt að rekstur Herjólfs verði ætíð séður sem hluti af þjóðvegakerfi Íslendinga og gjaldtöku og þjónustu verði hagað í samræmi við þá skilgreiningu. Þá bendir bæjarstjórn á að í fjölmörgum tilvikum hefur rekstur fjölbreyttra málaflokka í nærþjónustu svo sem málefni fatlaðra, rekstur grunnskóla og rekstur heilsugæslu verið fluttur frá ríki til sveitarfélags ýmist með almennum hætti eða sértækum samningum. Slíkt er gert til að tryggja hagsmuni nærsamfélagsins, bæta þjónustu og auka hagkvæmni. Með þetta í huga samþykkir bæjarstjórn Vestmannaeyja að fela bæjarstjóra að rita innanríkisráðherra bréf og óska þar eftir því að samið verði beint um rekstur ferjunnar við Vestmannaeyjabæ.”   Bæjarstjórn ítrekað krafist úrbóta í samgöngumálum Vestmannaeyja   Forsagan að ofangreindri ályktun var fyrst og fremst sú að ítrekað á undanförnum árum hefur bæjarstjórn ályktað, krafist og lagt mikinn þrýsting á ýmsar úrbætur í samgöngumálum á borð við:   nauðsyn frekari rannsókna og framkvæmda á Landeyjahöfn bættum aðferðum við sanddælingu og þjónustu sanddæluskipa kröfur um fjölgun ferða Herjólfs, aukins sveigjanleika í siglingaáætlun og að ekki sé dregið úr þjónustu skipsins á hátíðisdögum úrbætur á bókunarkerfi Herjólfur verði tiltækur amk. fyrst um sinn eftir að ný ferja hefur siglingar kröfur um hófstillingu fargjalda og samræmis sé gætt í gjaldtöku en ekki sé tekið margfalt gjald fyrir að fara til Þorlákshafnar og svo mætti mjög lengi áfram telja   Skilningsleysi samgönguyfirvalda á samgönguþörf samfélagsins   Þrátt fyrir þrýsting bæjaryfirvalda virðist skilningur á samgönguþörf Vestmannaeyja ekki vera fyrir að fara hjá samgönguyfirvöldum og tilmæli bæjarstjórnar gjarnan virt að vettugi og kemur upp í hugann lýsing Bjarna Sæmundssonar af ferð sinni með strandskipinu Sterling austur á firði árið 1920 sem kemur fram í bók Haraldar Guðnasonar við Ægisdyr:   ,,Það var heldur en ekki krökkt af farþegum, öll rúm full, reykingasalurinn og borðsalurinn sömuleiðis; hvar sem litið var og eitthvað var til að liggja á, var maður. Þar við bættust margir Vestmannaeyingar; þeir voru alls staðar, þar sem ekkert var til að liggja á nema gólfið. Ég man það, að ég var nærri dottin um eitthvað í göngunum fyrir utan klefadyrnar mínar um nóttina… Hélt ég, að það væri stór hundur, sem hefði hringað sig þarna saman, en við nánari aðgæslu sá ég, að þetta var sofandi maður. Vestmannaeyingar teljast annars ekki til farþega, og eru heldur ekki skoðaðir sem flutningur eða vörur, því að þeim er ekkert pláss ætlað; þeim er stungið hingað og þangað, þar sem þeir eru ekki fyrir neinum, bak við stiga, undir bekki og víðar, en í einu tilliti er þeim gert jafnt undir höfði og öðrum mönnum, og það af skárra taginu; þeir fá að borga fargjald eins og farþegar á fyrsta plássi. Svona er það á öllum stærri farþegaskipum, sem annars hafa getað fengið það af sér að koma við í Eyjum. En það hefur nú viljað bresta á það síðari árin."   Samgönguþörf samfélagsins mætir enn þann daginn í dag, hátt í 100 árum síðar, fullkomnu skilningsleysi samgönguyfirvalda, þrátt fyrir að Vestmannaeyingar greiði án ef hæstu vegtolla landsins fyrir samgönguleið sem enn er illu heilli ekki skilgreind sem þjóðvegur, á sama tíma og mjög rausnarleg framlög renna héðan beint inn í ríkissjóð.   Upplýsingagjöf mjög takmörkuð   Þeir atburðir sem áttu sér svo stað í vor þegar Baldur var fengin til afleysinga fyrir Herjólf sem hafði svo ekki haffærni til Þorlákshafnar voru gjörsamlega óskiljanlegir. Eitthvað sem bæjarfulltrúar heyrðu af sem orðrómi af götunni og trúðu til að byrja með ekki enda tilhugsunin fráleit en kom svo á daginn að var ekki orðrómur heldur raunveruleiki. Þarna kristallaðist sá upplýsingaskortur sem bæjarfulltrúar búa við. Það sama var svo uppi á teningnum við seinni slipptökuna þegar Röstin átti að leysa Herjólf af þrátt fyrir að bæjarstjórn hefði ályktað að á engum tímapunkti kæmi til greina að ferja sem hefði ekki haffærni til beggja hafna myndi leysa af við seinni slipptöku Herjólfs og ef ekki fyndist skip með haffærni í báðar hafnir yrði slipptöku seinkað vel á veturinn til að stór og öflug ferja sem réði vel við Þorlákshöfn gæti þá þjónustað til að samgöngur yrðu í það minnsta öruggar þangað. Bæjarfulltrúar fordæmdu opinberlega og í fjölmiðlum þær ráðstafanir sem gerðar voru vegna afleysingaferja Herjólfs og reyndust samfélaginu dýrkeyptar og enn og aftur voru kröfur bæjarstjórnar virtar að vettugi.   Fordæmin eru til í sögulegu samhengi   Sagan segir okkur að nokkrar af stærstu framförum í samgöngumálum Eyjamanna hafa orðið þegar Eyjamenn sjálfir eru komnir með upp í kok af afskiptaleysi ríkisins og taka málin í sínar eigin hendur, sbr. Herjólfur I, 1959 og stofnun félags um ferjurekstur Herjólfs II 1974     Ályktun fjölmennasta borgarafundar seinni ára um samgöngumál krafðist þess   Það var svo á stórgóðum og gríðarlega fjölmennum borgarafundi um samgöngumál í Vestmannaeyjum sem haldinn var í Höllinni þann 10 . maí þessa árs að frumkvæði Ásmundar Friðrikssonar þingmanns og héraðsfréttamiðlanna Eyjafrétta og Eyjar.net að samþykkt var samhljóða 6 liða ályktun sem bæjarstjórn Vestmannaeyja staðfesti og tók undir á fundi sínum næsta dag en sjötti og síðasti liður þeirrar ályktunar hljóðaði svo:   ,,Að rekstur ferjunnar verði í höndum heimamanna og hagnaður af rekstrinum verði nýttur til að lækka fargjöld, auka þjónustu og skili sér þannig beint til heimamanna.”  Þannig er allur vafi tekinn af því hver vilji bæjarbúa í þessum efnum er.   Vilji samgönguráðherra einlægur að koma Vestmannaeyjabæ nær rekstri Herjólfs   Bæjarstjórn átti svo óformlegan fund með Jóni Gunnarssyni iðnaðarráðherra í kjölfar fyrri borgarafundar þar sem farið var yfir áhyggjur og óánægju bæjarfulltrúa með samgöngumál og reifaðir möguleikar og rædd framtíðarsýn samfélagsins og virtist vilji innanríkisráðherra einlægur í því að Vestmannaeyjabær kæmi mun nær þessum rekstri en gengur og gerist í dag og ítrekaði ráðherra svo þessa afstöðu sína á seinni opna borgarafundinum um samgöngur í Höllinni. Mikil vinna hefur svo legið að baki alla daga síðan við að útbúa viljayfirlýsingu og vinna að mögulegum samningsdrögum en enn er ekkert fast í hendi hvað þetta varðar og engin ákvörðun um yfirtöku sveitarfélagsins á rekstri ferjunnar verið tekin af hálfu samgönguyfirvalda né Vestmannaeyjabæjar enn sem komið er.   Helstu ástæður fyrir áhuga sveitarfélagsins á yfirtöku rekstursins eru því eftirfarandi   Skilningur samgönguyfirvalda og rekstraraðila á þörfum samfélagsins er ekki sá sami og bæjaryfirvalda Tilmæli og óskir bæjaryfirvalda hvað þjónustu ferjunnar varðar hafa verið virtar ítrekað að vettugi Bæjarstjórn hefur gjarnan legið undir harðri gagnrýni hvað samgöngumál varðar þrátt fyrir að bera enga ábyrgð á málaflokknum og hafa því ver og miður ekki nokkurt einasta valdsvið yfir honum Mikill skortur á upplýsingagjöf af hálfu samgönguyfirvalda En fyrst og síðast, krafa bæjarbúa um aðgerðir þar að lútandi   Bæjarstjórn reynir allt hvað hún getur til að hafa áhrif á þetta langstærsta hagsmunamál okkar Eyjamanna og geta bæjarfulltrúar ekki látið sitt eftir liggja í þeim efnum. Bæjarfulltrúum er gjarnan gefið að sök að standa sig illa hvað samgöngumál varðar, en sá málaflokkur er því ver og miður einfaldlega ekki á okkar forræði. Með þessari viðleitni bæjarstjórnar er seilst langt umfram skyldur sveitarfélagsins til að tryggja með öllum mögulegum leiðum hagsmuni bæjarbúa og atvinnulífs í samfélaginu.   Hildur Sólveig Sigurðardóttir Forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja    

Ragnar Óskarsson: Spurt er í austur en ...

Ég var að skoða ályktun bæjarráðs Vestmannaeyja frá 9. nóvember sl. um mögulega íbúakosningu vegna hugsanlegrar yfirtöku Vestmannaeyjabæjar á rekstri Herjólfs. Fyrir ráðinu lá erindi þar sem rætt er um möguleika á íbúakosningu vegna málsins.   Mér finnst bæjarráð annað hvort misskilja erindið eða hreinlega snúa út úr fyrir þeim sem það sendir. Sá sem sendir erindið er einungis að fara fram á að viðhöfð verði íbúakosning um það grundvallaratriði hvort Vestmannaeyjabær eigi að reka Herjólf eður ei. Bæjarráð svarar því til að ekki sé tímabært að viðhafa íbúakosningu um málið þar sem enginn samningur liggi fyrir um yfirtökuna. Þetta kalla ég misskilning eða útúrsnúning bæjarráðs. Í erindinu til ráðsins er ekki orð um einhvern samning sem ekki liggur fyrir heldur um grundvallaratriði. Þetta svar bæjarráðs er augljóst dæmi um það þegar spurt er í austur er svarað í vestur. Það þykir ekki gott í mannlegum samskiptum og allra síst í stjórnsýslunni.   Ég tel að mjög auðvelt sé að viðhafa íbúakosningu um þetta grundvallaratriði, kanna þannig hug bæjarbúa og veita bæjarstjórn betri forsendur til að taka ákvarðanir í málinu.   Nú þegar, og þótt fyrr hefði verið, væri til dæmis hægt að spyrja bæjarbúa þeirrar einföldu grundvallarspurningar hvort þeir vilji taka rekstur Herjólfs yfir á bæjarfélagið. Þar með fengist gott veganesti fyrir bæjarstjórnina til vandvirkari og lýðræðislegri ákvarðanatöku.   Með samþykkt sinni er bæjarráð og bæjarstjórn að hafna þessari lýðræðislegu aðkomu bæjarbúa. Vonandi endurskoða bæjaryfirvöld þessa afstöðu sína, sérstaklega ef þau vilja sameina frekar en sundra.   Ragnar Óskarsson  

Einar Kristinn Helgason - Málamyndagjörningur?

Það hefur ekki farið fram hjá neinum undanfarna daga að stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir, Vinstri græn, Framsóknarflokkurinn, Píratar og Samfylkingin hafa átt í stjórnarmyndunarviðræðum undir forystu Katrínar Jakobsdóttur. Ólíkt því sem gerðist í fyrra voru flokkarnir ekki búnir að útiloka samstarf við hvern annan fyrirfram, alla vega ekki opinberlega, og andrúmsloftið einhvern veginn allt annað og léttara.   Lengi vel virtist sem viðræðurnar væru í góðum farvegi milli flokkanna fjögurra, leiðtogar nokkuð bjartsýnir á að hægt væri að ná málamiðlunum í stóru málunum svokölluðu og allir tilbúnir að gefa eitthvað eftir til þess að láta þetta ganga upp.   Á mánudaginn var hins vegar komið annað hljóð í strokkinn, viðræðurnar sem höfðu staðið yfir í fjóra daga sigldu í strand. Vonbrigðin leyndu sér ekki, a.m.k. ekki meðal þeirra aðila sem komu að viðræðunum. Í viðtölum strax í kjölfarið virtust allir forystumenn flokkanna vera sammála um ágæti viðræðnanna en Framsóknarflokknum fannst hins vegar eins manns meirihluti vera of naumur. Það er vissulega rétt, eins manns meirihluti er naumur meirihluti en lá það ekki fyrir strax í upphafi? Var það ekki augljóst? Hefði ekki verið gráupplagt að bjóða þá öðrum flokki með í viðræðurnar, t.d. Flokki fólksins eða Viðreisn ef það var virkilega einhver áhugi fyrir þessu samstarfi yfir höfuð?   Það að Framsókn hafi efast um nauman meirihluta og ekki viljað taka inn fimmta flokkinn rennir stoðum undir þá kenningu að viðræðurnar hafi einungis verið málamyndagjörningur eins og sumir vilja meina. Nú þegar reynt hefur verið á vinstri stjórn og það mistekist, þá liggur beinast við að Vinstri græn, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur ræði næst saman, en það myndi vera óskastjórn Framsóknarflokksins samkvæmt kenningunni. Því verður allavega ekki neitað að Framsóknarflokkurinn er eins og svo oft áður í lykilstöðu en hvort að VG sætti sig við þessa þriggja flokka lendingu er erfitt að segja. Það væri kannski skásti kosturinn í stöðunni úr því sem komið er. Hvort það skili hinum margrædda pólitíska stöðugleika sem hefur verið ákall eftir verður bara að koma í ljós.    

Elliði Vignisson: Dýpi í Landeyjahöfn með því besta sem sést hefur á þessum árstíma - myndir

 Í gær var dýpið í Landeyjahöfn mælt. Eftir skítabrælu á sunnudaginn og þungan sjó átti maður allt eins von á því að dýpið væri orðið of lítið. Ölduhæð þennan tíma fór í allt að 6 metra og hamagangurinn ógnvænlegur. Þök rifnuðu af húsum hér í Eyjum og björgunarsveitir áttu annasaman tíma. Það var því ánægjulegt að sjá niðurstöðu mælingar frá því eftir hádegið í gær sem sýnir að dýpið í Landeyjahöfn er heilt yfir með því besta sem verið hefur.   Sem fyrr er það því ölduhæðin sem er að valda vanda en þumalputtareglan er sú að núverandi skip siglir ekki í Landeyjahöfn þegar ölduhæð fer yfir 2,5 metra. Þá þarf einnig að líta til þess að aðstæður geta verið margvíslegar og ókyrrðin mikil eftir brælur. Að lokum veldur það bæði áhyggjum og miklum vanda að Herjolfur er, eins og alþjóð þekkir, bilaður og því ekki mögulegt að beita fullu afli.   Skipstjórum Herjólfs og áhöfn er því nokkur vorkun. Öllum er þeim ljóst að bæjarbúar og gestir vilja sigla i Landeyjahöfn og eðlilega eru þau öll af vilja gerð. Aðstæður eru hinsvegar erfiðar, skipið afar óheppilegt og þar að auki bilað. Þessu sýnum við öll af sjálfsögðu fullan skilning.   Við þurfum því á góðu veðri að halda svo Herjólfur geti siglt í Landeyjahöfn. Vonandi fáum við það fljótlega því af fenginni reynslu þá lokast höfnin vegna grynninga milli ytri garða síðar í vetur.   (Enn og aftur minni ég á að Vestmannaeyjabær fer ekki með forræði á Landeyjahöfn og eru þessi skrif eingöngu til að upplýsa bæjarbúa um stöðu þessara mála. Upplýsingar draga enda úr deilum og auka skilning. Sameinum frekar en að sundra.)  

Ari Trausti: Að loknum kosningum

Að afloknum þingkosingum sendi ég öllum kjósendum í Suðurkjördæmi kveðjur og um leið þakkir fyrir ágæta kjörsókn, betri en í kosningunm 2016. Vonandi verða að minnsta kosti jafn margir eða fleiri í kjörklefum sveitarstjórnarkosninganna í sumarbyrjun. Átta þingflokkar telst met á Alþingi og setur okkur þingmönnum það fyrir að slípa og aga vinnubrögðin. Gera þau skilvirkari og sanngjarnari. Mörg, og flest mikil, verkefni bíða þingsins eftir óvænt hlé. Nokkur breyting varð á tíu manna þingliði Suðurkjördæmis. Ég sendi þeim sem hurfu a þingi góðar kveðjur og býð nýja þingmenn velkomna í hópinn. Hann hefur dálítið reynt að halda saman um tiltekin mál.   Árangur okkar vinstri-grænna í kjördæminu var viðunandi. Rúmlega eins og hálfs prósentustiga viðbót merkir að við erum á leið í rétta átt hvað málefni, traust og vinnubrögð varðar. Ég þakka stuðningsfólki VG fyrir vinnu og brautargengi hreyfingarinnar. Þá ber líka að þakka öðrum frambjóðendum í kjördæminu fyrir málefnalega baráttu, á opnum fundum í útvarpi og sjónvarpi.   Hvet til þess að næst verði efnt til umræðufunda frambjóðenda fyrir almenning hér og hvar í kjördæminu, í samvinnu flokkanna. Héraðsblöðin og aðrir heimamiðlar stóðu sig vel í aðdraganda koninganna.   Þessi pistill er saminn í miðjum viðræðum fjögurra flokka um myndun ríkisstjórnar. Þá er að sjá hvað úr verður og hvort tímabil umbóta og stöðugleika getur hafist.   Höfundur er þingmaður VG í Suðurkjördæmi  

Sigurður Ingi: Kærar þakkir

Nýliðin kosningabarátta var stutt og snörp sem var að mörgu leyti mjög gott. Baráttan var gefandi og skemmtileg allt fram á síðustu stundu. Ég er gríðarlega þakklátur fyrir þann stuðning og traust sem kjósendur hafa sýnt okkar öflugu frambjóðendum. Á bak við slíkan sigur liggur ómæld og óeigingjörn vinna frá sterku baklandi sem vann nótt sem dag að því að styrkja og treysta kjarnann. Á brattann var að sækja allt fram á síðustu stundu en ómetanleg er sú mikla samstaða sem varð til meðal okkar, alls staðar á landinu. Það er ekki sjálfgefið að slík samvinna og samkennd verði til svona skömmum tíma.   Uppbygging er hafin   Ég vil þakka öllum þeim sem lögðu fram óeigingjarna vinnu og settu svip sinn á kosningabaráttuna, en hún var fyrsta skrefið í þeirri uppbyggingu sem framundan er hjá flokknum. Hvort sem verkefnin voru að hringja og tala við fólk, skipuleggja og taka þátt í viðburðum, taka á móti fólki á kosningaskrifstofunni eða baka kökur, þá er hvert og eitt þeirra mikilvægt og styrkir liðsheildina.   Þá vil ég þakka fyrir góðar móttökur frá öllum þeim sem tóku á móti okkar frambjóðendum og sýndu málefnum okkar áhuga.   Það var einkar ánægjulegt að sjá hve mikið af nýju og kraftmiklu fólki bættist við í okkar góða hóp, sérstaklega ungt fólk. Því vil ég þakka skýrri málefnalegri sýn.   Ganga þarf rösklega til verks. Leysa þarf húsnæðismálin fyrir unga jafnt sem aldna, efla heilbrigðismálin, menntamálin og samgöngur vítt og breitt um landið. Við munum fylgja málefnum okkar eftir af miklum krafti og leggja okkar af mörkum til stöðugs stjórnarfars og bættra lífskjara um allt land.   Samhliða málefnalegum áherslum þá er krafa kjósenda okkar um að stjórnmálamenn axli meiri ábyrgð. Menn þurfa að þora að treysta, finna leiðir í erfiðum málum og vinna saman af heiðarleika. Hlutverk okkar stjórnmálamanna er jafnframt að hlusta, skilja og virða. Þannig öðlumst við traust. Getum við ekki öll verið sammála um það?   Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.  

Miðflokkurinn þakkar stuðninginn

Við félagar í Miðflokknum í Suðurkjördæmi viljum koma á framfæri kærum þökkum fyrir stuðninginn í aðdraganda alþingiskosninganna og einnig á kjördag.   Miðflokkurinn er flokkur með djúpar rætur á miðju stjórnmálanna. Flokkur fyrir skynsamt fólk með skýra sýn á grundvallarmál samfélagsins. Miðflokkurinn er flokkur sem veitt getur stöðugleika og staðið vörð um hefðbundin grunngildi en um leið verið flokkur hugmyndaauðgi og framfara. Flokkur sem leitar til þeirra sem best þekkja til á hverju sviði og styður góðar hugmyndir sama hvaðan þær koma. Miðflokkurinn vill halda áfram því starfi sem skilaði sér í hraðasta efnahagslega viðsnúningi nokkurrar þjóðar í seinni tíð og skila ávinningnum til þeirra sem eiga hann með réttu, almennings á Íslandi.   Miðflokkurinn lagði áherslu á það í aðdraganda kosninga að kynna sína stefnuskrá og eiga síðan um hana málefnalega umræðu. Sú nálgun skilaði okkur því að Birgir Þórarinsson náði kjöri sem kjördæmakjörinn þingmaður í Suðurkjördæmi og Elvari Eyvindarsyni sem varaþingmanni en 3999 atkvæði féllu í okkar hlut eða 14.3% gildra atkvæða í Suðurkjördæmi. Á landsvísu fékk Miðflokkurinn 10.9% gildra atkvæða sem er íslandsmet hjá nýju framboði. Sannarlega glæsilegur árangur.   Miðflokkurinn getur, ætlar og þorir að vinna í þágu landsmanna til framtíðar.   Takk, takk og aftur takk fyrir stuðninginn, Miðflokkurinn í Suðurkjördæmi  

Lokatölur í Suðurkjördæmi

Sjálfstæðisflokkurinn fékk fjórðung atkvæða í Suðurkjördæmi og þrjá þingmenn og var stærstur flokka þar. Með Pál Magnússon í farabroddi. Talningu atkvæða í kjördæminu lauk um sexleytið. Framsóknarflokkurinn fékk tvo þingmenn og fimm flokkar fengu einn þingmann hver. Það eru Miðflokkurinn, Vinstri-græn, Samfylkingin, Flokkur fólksins með Karl Gauta og Píratar með Smára MacCharty. Sjálfstæðisflokkurinn fór úr rúmlega 30 prósenta fylgi í Suðurkjördæmi í fyrra í 25,2 prósent núna. Það varð til þess að flokkurinn missti Unni Brá Konráðsdóttur, forseta Alþingis, af þingi.   Miðflokkurinn bæti við sig mestu fylgi í Suðurkjördæmi, fær 14,3 prósent og einn þingmann en var ekki í framboði síðast. Flokkur fólksins rúmlega tvöfaldar fylgi sitt frá síðustu kosningum og kemur að manni, fyrrverandi sýslumanninum Karli Gauta Hjaltasyni. Þetta eru einu flokkarnir sem auka þingstyrk sinn í kjördæminu.   Björt framtíð missti nær allt fylgi sitt í Suðurkjördæmi og Viðreisn missti þingmann sinn, Jónu Sólveigu Elínardóttur. Píratar misstu hátt í helming fylgis síns í kjördæminu en þegar enn átti eftir að birta lokatölur úr þremur kjördæmum hélt þingmaður þeirra í kjördæminu sæti sínu sem jöfnunarþingmaður. Slíkt getur þó auðveldlega breyst þegar nýjar tölur birtast. Niðurstaðan er sem hér segir að því er RÚV greinir frá: Sjálfstæðisflokkurinn fær 25,21%, missir 3,79% og fer úr 21 þingmanni í 16.Vinstri grænir fær 16,80%, bæta við sig 0,89% og fara úr 10 í 11 þingmennSamfylkingin fær 12,32%, bæta við sig 6,57, og fara úr 3 í 8 þingmennFramsóknarflokkurinn fær 10,92%, minnkar um 0,59% en heldur sínum 8 þingmönnumMiðflokkurinn fær 10,90%, og fær 7 nýja þingmenn kjörnaPíratar fá 8,94%, missa 5,53% og fara úr 10 í 5 þingmennViðreisn fær 6,57%, missa 3,91% og fara úr 7 niður í 4 þingmennFlokkur fólksins fær 7,25%, bæta við sig 3,71% og fær fjóra þingmenn kjörnaBjört framtíð hlaut 1,13%, tapa 6,03% og missa sína fjóra þingmenn   www.ruv.is greindi frá / Mynd: www.ruv.is  

Sigmundur Davíð: Kæru Eyjamenn

Á morgunn laugardag 28. október verður kosið til alþingis íslendinga. Miðflokkurinn sem stofnaður var þann 8. október s.l. býður nú fram í fyrsta sinn.   Miðflokkurinn er flokkur með djúpar rætur á miðju stjórnmálanna. Flokkur fyrir skynsamt fólk með skýra sýn á grundvallarmál samfélagsins. Miðflokkurinn er flokkur sem veitt getur stöðugleika og staðið vörð um hefðbundin grunngildi en um leið verið flokkur hugmyndaauðgi og framfara. Flokkur sem leitar til þeirra sem best þekkja til á hverju sviði og styður góðar hugmyndir sama hvaðan þær koma. Miðflokkurinn vill halda áfram því starfi sem skilaði sér í hraðasta efnahagslega viðsnúningi nokkurrar þjóðar í seinni tíð og skila ávinningnum til þeirra sem eiga hann með réttu, almennings á Íslandi.   Miðflokkurinn ætlar að styrkja á ný heilsugæsluþjónustu og sérfræðilækningar utan höfuðborgarsvæðisins. Miðflokknum finnst það sem dæmi óboðlegt að öryggi Eyjamanna sé stefnt í hættu vegna niðurskurðar á fjármagni til rekstrar Heibrigðisstofnunar Vestmannaeyja.   Miðflokkurinn ætlar að gera heildaráætlun fyrir uppbyggingu á samgöngum í öllum landshlutum. Nauðsynlegt er að taka á forgangsmálum á svæðum sem hafa beðið lengi eins og tryggar sjósamgöngur til Vestmannaeyja. Miðflokkurinn telur að besta lausnin í dag hvað varðar sjósamgöngur til eyja, felist í því að Vestmannaeyjabær taki yfir rekstur ferjusiglinga á milli lands og Eyja. Ef að Vestmannaeyjabær er sammála um að sú lausn sé sú besta þá er ekkert því til fyrirstöðu að framkvæma hana.   Miðflokkurinn er í stakk búinn til að vinna að fyrrnefndum málum af krafti og vera vélin í ríkisstjórnarsamstarfi. Til þess að svo megi vera þá þurfum við sterkt umboð frá kjósendum til stjórnarmyndunarviðræðna.   Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins  

Vilhjálmur Árnason: Heilbrigðisþjónusta heima í héraði

Fyrir rúmu ári síðan hófum við umræðu um að bæta við sérhæfðri sjúkraþyrlu inn í utanspítalaþjónustuna hér á Suðvesturhorni landsins. Slík þyrla yrði mönnuð bráðalækni og bráðatækni sem hefðu til taks öll þau tæki og búnað sem þarf til að veita bráðaþjónustu strax á vettvangi. Með þessu móti verður hægt að færa sérhæfða læknisþjónustu, utanspítalaþjónustu, út til fólksins á vettvangi til að draga verulega úr afleiðingum veikinda og slysa. Þessi þjónusta yrði hrein viðbót við þær öflugu bjargir sem við höfum í dag sem sjúkrabílarnir og björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar eru. Sjúkraþyrla myndi bæði draga úr álagi á þá aðila og veita þeim mikinn faglegan stuðning. Á þessu eina ári hefur Fagráð sjúkraflutninga Íslands skilað af sér ítarlegri skýrslu þar sem það leggur til að hafið verði sérstakt prufuverkefni með sjúkraþyrlu strax næsta vor. Fjölmargir aðrir fagaðilar eins og félag bráðalækna og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hafa tekið undir með fagráðinu. Þá hafa Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi einnig gefið út samantekt um nauðsyn þess að tekin verði upp þjónusta sjúkraþyrlu á Suðurlandi. Málið hefur verið kynnt fyrir ráðherrum ríkisstjórnarinnar við góðar undirtektir. Næsta skref er því hjá þeim sem mun taka við heilbrigðisráðuneytinu í nýrri ríkisstjórn að taka ákvörðun um að setja verkefnið af stað. Þetta er einn af stóru þáttunum í að efla heilbrigðisþjónustuna á landsbyggðinni ásamt eflingu heilsugæslunnar, fjarheilbrigðisþjónustu og uppbyggingu hjúkrunarheimila. Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins munum leggja okkur áfram fram við að koma þessu verkefni í höfn til að allir eigi jafnt og gott aðgengi að sem bestri heilbrigðisþjónustu.   Komum sjúkraþyrlunni á loft með því að setja X við D þann 28. október.  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Mannlíf >>

Eyjamenn kunna að hafa gaman

Sóli Hólm leggur nú land undir fót og mætir á Háaloftið í Vestmannaeyjum með splunkunýtt uppistand sem hlotið hefur frábærar viðtökur í kjallaranum á Hard Rock Cafe í Reykjavík. Sóli hefur verið einn vinsælasti skemmtikraftur þjóðarinnar síðustu ár ásamt því að hafa getið sér gott orð í sjónvarpi og útvarpi. Eftir að hafa þurft frá að hverfa um nokkurra mánaða skeið vegna veikinda snýr hann aftur með splunkunýtt uppistand, tilbúinn að draga sjálfan sig og aðra sundur og saman í háði. Sóli er maður margra radda og má búast við að þjóðþekktir einstaklingar fylgi honum í einhverri mynd upp á svið á Háaloftinu.   „Ég er ótrúlega spenntur að koma til Vestmannaeyja með uppistandið mitt. Ég hef skemmt nokkrum sinnum í Vestmannaeyjum og alltaf gengið frábærlega. Eyjamenn kunna að hafa gaman, hvort sem það er fyrstu helgina í ágúst eða síðustu helgina í febrúar,“ sagði Sóli í samtali við Eyjafréttir.  Lætur drauminn rætast Sóli sagðist hafa komið fram í Höllinni en aldrei á Háaloftinu áður, „kollegar mínir fyrir sunnan sem hafa gert það segja að það henti einkar vel fyrir uppistand svo ég hef bara góða tilfinningu fyrir þessu. Ég er búinn að vera með þessa uppistandssýningu á Hard Rock í Reykjavík og á Græna hattinum á Akureyri en þetta er eitthvað sem ég ákvað að gera þegar ég greindist með krabbamein síðasta sumar. Þá ákvað ég að um leið og mér yrði batnað myndi ég kýla á að láta þennan draum rætast, að vera með eigin sýningu, og blessunarlega hafa viðtökurnar verið frábærar og alltaf verið uppselt hingað til,“ sagði Sóli.  Afi hans var bæjarstjóri Sóli á rætur að rekja til Eyja, „ég á mínar tengingar til Vestmannaeyja. Afi minn, Hilmir Hinriksson, var af Gilsbakkakyni og faðir hans, Hinrik G. Jónsson var bæjarstjóri í Eyjum frá 1938-1946. Ég geri reyndar ekki ráð fyrir að margir mæti sem muni eftir langafa sem bæarstjóra, en það væri ánægjulegt,“ sagði Sóli Hólm að lokum.  

Stjórnmál >>

Uppstilling hjá Sjálfstæðisflokknum

Í gær rann út framboðsfrestur til röðunar fyrir Sjálfstæðisflokk Vestmannaeyja. Sjö gáfu gáfu kost á sér í Röðun, en frambjóðendur þurfta að vera tíu að lágmarki, skv. samþykkt aðalfundar Fullltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Vestamannaeyjum. Það verður því farið í uppstillingu. Ólafur Elíasson sagði í samtali við Eyjafrétta að, „Á fundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfél. í Vestm. var samþykkt sl. mánudag að röðun færi fram ef 10 eða fleirri gæfu kost á sér í framboð. Sá fjöldi barst ekki, en sjö framboð bárust og hefur Kjörnefnd því hafið vinnu við uppstillingu eins og samþykktin hvað á um.“ Fyrir þá sem ekki vita hvað uppstilling er, þá er það þegar Kjördæmisráð og fulltrúaráð geta ákveðið að kjósa uppstillingarnefnd sem hafi það hlutverk að gera tillögu um skipan framboðslista flokksins við alþingis- eða sveitarstjórnakosningar. Slík ákvörðun þarf að hljóta samþykki 2/3 hluta fundarmanna og gildir einungis fyrir einn framboðslista í senn. Tillaga uppstillingarnefndar um skipan framboðslista skal lögð fyrir til afgreiðslu á fundi kjördæmiseða fulltrúaráðs. Heimilt er að ákveða að bæði aðal- og varamenn taki þátt í atkvæðagreiðslu um tillöguna, en þá skal ákvörðun þar um tekin um leið og ákvörðun skv. 1. mgr. þessarar greinar er tekin og með sama hlutfalli atkvæða og gildistíma og þar greinir. Einfaldur meirihluti atkvæða nægir til að samþykkja listann. Miðstjórn setur samræmdar framkvæmdareglur um uppstillingu framboðslista á vegum flokksins.  Sú kjörnefnd sem kosin var til að annast framkvæmd röðunarinnar fær nú það hlutverk að stilla upp á lista Sjálfstæðisflokksins. Nefndina skipa samkvæmt samþykkt fulltrúaráðsfundar: Ólafur Elísson, formaður, Arnar Sigurmundsson, Bragi Magnússon, Elsa Valgeirsdóttir, Halla Svavarsdóttir, Ingólfur Jóhannesson og Silja Rós Guðjónsdóttir.