
Eyjafréttir >>
Norðureyjafréttir >>
Íþróttir >>
ÍBV semur við franskan framherja

ÍBV hefur samið við franska framherjann Guy Gnabouyou til tveggja ára en fótbolti.net greindi frá því í gær.
Hinn 28 ára Gnabouyou er uppalinn hjá Marseille og lék á sínum tíma fimm leiki fyrir aðalliðið. Einnig kom hann við sögu í einum leik með franska U-21 landsliðinu árið 2009.
Gnabouyou hefur á ferli sínum m.a. spilað með Inter Turku í Finnlandi, Sliema á Möltu og Torquay í ensku utandeildinni.
Mannlíf >>
Tendruðu ljós upp á Heimakletti

Um 40 strákar fóru upp á Heimaklett fyrr í kvöld til að tendra ljós til minningar um Sigurlás Þorleifsson sem var bráðkvaddur þar í gær. Í hópnum eru bæði núverandi og eldri nemendur Grunnskólans. Mynduðu þeir kross úr friðarkertum ásamt því að leggja friðarkertið víðsvegar um fjallið. Virkilega fallegt framtak hjá strákunum.
Stjórnmál >>
Skýr valkostur

Nú eru rúmar fjórar vikur til kosninga. Frá því að listi Eyjalistans var birtur hafa móttökurnar verið vonum framar. Á listanum er töluverð endurnýjun frá því í síðustu kosningum og gaman er að sjá hve mikið af ungu fólki var nú til í að gefa kost á sér til að vinna að góðum málum fyrir bæjarfélagið. Sjálfur er ég stoltur af því að fá að leiða þennan hóp og hlakka kosninganna.Málefnavinna Eyjalistans er komin á fullt skrið. Við höfum fengið með okkur fólk sem hefur mismunandi reynslu úr samfélaginu og vill taka þátt í því að gera góðan bæ enn betri. Líflegar umræður hafa skapast, meðal annars um það hvernig við getum bætt gæði grunn- og leikskóla, hvernig hægt sé að festa í sessi virkt íbúalýðræði, hvernig auka megi tiltrú almennings á stjórnkerfinu í bænum og hvernig við getum tryggt fjölbreytt og blómlegt atvinnulíf í bænum.Ljóst er að tryggar samgöngur eru eitt brýnasta hagsmunamál íbúa í Vestmannaeyjum á næstu árum. Á fundi um ferðaþjónustu á Íslandi í Eldheimum á dögunum kom fram bjartsýni ferðaþjónustuaðila til framtíðar. Í mínum huga snúast samgöngumálin ekki um það hvaða aðili sé bestur til þess fallinn að reka Herjólf heldur að ferjan sé rekin með hagsmuni íbúa í Vestmannaeyjum að leiðarljósi. Umræðan á því ekki að snúast um hvern, heldur hvernig. Við þurfum að tryggja öflugar samgöngur sem henta íbúum og atvinnulífi þannig að lífið í bænum geti blómstrað. Þetta þarf að vera leiðarstefið í umræðunni um samgöngumál en ekki hagsmunir fárra aðila.Kosningabaráttan sem nú fer í hönd mun bera keim af innanflokksátökum í Sjálfstæðisflokknum sem kristallast í því að nú eru boðnir fram tveir listar sjálfstæðismanna. Jafnvel þó svo að fyrirheit séu gefin um að framboð teygi sig frá hægri til vinstri þarf ekki að fara djúpt ofan í atburði síðustu vikna til að sjá hvernig í pottinn er búið. Valkosturinn er því skýr, áframhaldandi valdatíð sjálfstæðismanna eða nýjar áherslur þar sem raddir allra bæjarbúa fá að njóta sín.
Greinar >>
Fróðlegar kosningar
Sveitastjórnarkosningar verða haldnar laugardaginn 26. maí nk. Ljóst er að þrír listar munu bjóða fram Í Vestmannaeyjum og berjast um sætin sjö sem í boði eru í bæjarstjórn, þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn, Eyjalistinn og bæjarmálafélagið Fyrir Heimaey.
Það er öruggt að töluverð endurnýjun muni eiga sér stað í bæjarstjórn enda nýr listi sem býður fram og sömuleiðis mörg ný nöfn á bæði Eyjalistanum og lista Sjálfstæðisflokksins frá því fyrir fjórum árum. Það vekur einnig athygli að konur eru meira áberandi en áður en í samanlögðum efstu tveimur sætum flokkanna þriggja má finna fimm konur og aðeins einn karl.
Hingað til hafa augu flestra beinst að stigmagnandi átökum innan Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum. Segja má að átökin hafi náð hámarki þegar prófkjör flokksins var blásið af í byrjun árs en nokkru áður virtist sem flokkurinn væri á leið í sitt fyrsta prófkjör síðan árið 1990. Svo reyndist ekki vera því tillagan var felld á fundi fulltrúaráðs og í staðinn ákveðið að fara í röðun á lista eins og margoft hefur komið fram. Í kjölfarið var hið nýja bæjarmálafélag, undir forystu Írisar Róbertsdóttur sem áður hafði hafnað þriðja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins, sett á laggirnar. Ágreiningurinn virðist einnig ná niður í ungliðahreyfinguna því Hákon Jónsson, formaður Eyverja, sagði af sér á dögunum og skipar nú tíunda sætið á lista Fyrir Heimaey.
Það er því óhætt að segja að nokkurs kurrs gætir meðal Sjálfstæðismanna í Eyjum. En hvað með málefnin? Hvar ber helst á milli flokkanna þriggja? Það hefur minna farið fyrir því síðustu vikur og mánuði en á væntanlega eftir að skýrast fljótlega. Breytt vinnubrögð og lýðræðislegri hefur borið á góma en eitt stærsta málið verður væntanlega rekstur nýrrar ferju, hvort bærinn hyggst sjá um reksturinn eða bjóða hann út. Það verður væntanlega Borgarlínumál Eyjamanna.
Samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Fréttablaðið gerði á dögunum tapar Sjálfstæðisflokkurinn meirihlutanum í komandi kosningum en í könnuninni mældist flokkurinn með 41% fylgi, rúmum 32% minna en flokkurinn fékk í kosningunum 2014. Í sömu könnun fékk Fyrir Heimaey 32% og Eyjalistinn 25%. Til gamans gerðu Eyjafréttir sína eigin netkönnun sem opnaði í hádeginu á mánudaginn en rúmum sólarhring síðar höfðu 598 manns svarað. Þar fær Fyrir Heimaey 42%, Sjálfstæðisflokkurinn 31% og Eyjalistinn 16%. 10% voru óákveðnir. Hversu vel svona kannanir endurspegla veruleikann veit ég ekki en eitt er víst, það eru fróðlegir tímar framundan í pólitíkinni.
VefTíví >>
Lífið er blátt á mismunandi hátt

Föstudaginn 6. apríl 2018 verður Blái dagurinn haldinn hátíðlegur í fimmta sinn.Markmið Blár Apríl er að auka vitund og þekkingu almennings á einhverfu og að safna fé sem rennur óskert til styrktar málefnum sem hafa bein áhrif á börn með einhverfu og fjölskyldur þeirra. Við hvetjum vinnustaði, skóla og stofnanir til að hafa bláa litinn í heiðri á Bláa deginum, að fólk klæðist bláum fötum og veki þannig athygli á góðum málstað.
Eyjafréttir á Facebook >>
