Þröstur Johnsen gerir bænum tilboð um leiguíbúðir að Bárustíg 2 og Sólhlíð 17

 Í bæjarráði í síðustu viku lá fyrir erindi frá frá Þresti B. Johnsen þar sem hann býður Vestmannaeyjabæ leiguíbúðir að Sólhlíð 17 og íbúðir fyrir fatlaða að Bárustíg 2. Hann býður upp á að leigja bænum íbúðirnar, bærinn kaupi þær, hafi makaskipti á húsunum og Ráðhúsinu og að byggja á lóð að Skólavegi 7 íbúðir fyrir fatlaða. Bæjarráð þakkaði einlægan áhuga bréfritara en segir að fyrir liggi að Vestmannaeyjabær stefni ekki að því að byggja leiguíbúðir fyrir almennan markað enda miklar framkvæmdir fyrirhugaðar á þeim vettvangi meðal einkaaðila. „Einu leiguíbúðirnar sem stefnt er að falla annarsvegar undir málefni fatlaðra og hinsvegar undir málefni aldraðra. Þegar er hafin hönnun og undirbúningur að framkvæmdum við nýjar íbúðir fyrir aldraða við Eyjahraun. Hvað varðar íbúðir fyrir fatlaða þá er horft til samstarfs við framkvæmdaaðila á svokölluðum Ísfélagsreit. Í því samhengi var meðal annars farið í opna hugmyndasamkeppni. Vestmannaeyjabær mun því láta reyna á þann möguleika áður en aðrar ákvarðanir verða teknar,“ segir í fundargerð bæjarráðs. Einnig segir að það sé einlægur vilji bæjarins að eiga og hafa starfsemi í Ráðhúsinu sem seinustu ár hefur hýst bæjarskrifstofur en var byggt sem spítali. Að lokum var bréfritara bent á að lóðaumsóknir falla ekki undir bæjarráð heldur umhverfis- og skipulagsráð og beri að beina umsóknum þangað á þar til gerðum eyðublöðum. Framundan eru gagngerar endurbætur á Ráðhúsinu og eru bæjarskrifstofurnar nú á annarri hæð Landsbankans við Bárustíg.  
>> Eldri fréttir

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Þurrkar upp áætlaðan rekstrarafgang

Afgreiða átti fjárhagsáætlun bæjarsjóðs og stofnana á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku þar sem hún var lögð fram til seinni umræðu. Af því varð ekki og er um að kenna nýgerðum kjarasamingi við kennara. Elliði Vignisson, bæjarstjóri hafði framsögu um fjárhagsáætlunina. Í máli hans koma fram að við gerð áætlunarinnar eins og hún liggur fyrir hafi einungis verið gert ráð fyrir 1,4% rekstrarafgangi af sveitarsjóði eða 41 milljón. Hans mat er að æskilegur rekstrarafgangur sem síðan sé nýttur til að mæta endurnýjun verkefna og fjárfestingum sé um 10 til 15%. „Fyrir liggur að nýundirritaður kjarasamningur við kennara leiðir til hækkunar launakostnaðar í grunnskólum uppá að minnsta kosti 57 milljónir króna og því ljóst að sú hækkun ein þurrkar upp allan rekstrarafgang sem áætlunin gerir ráð fyrir og myndi því halla á rekstur. Við svo verður ekki búið,“ segir í fundargerð. „Með hliðsjón af þessari miklu kostnaðaraukningu sem til kemur verði samningar við kennara samþykktir, samþykkir bæjarstjórn að fela bæjarstjóra og öðrum embættismönnum sveitarfélagsins að endurskoða fjárhagsáætlun ársins 2017 og gera þar ráð fyrir allt að 57milljóna kr. hækkun sem mætt verði eftir atvikum með samdrætti í þjónustu og annarri hagræðingu um leið og horft verði til þess að auka tekjur af gjaldskrám og álagningu,“ segir í lokaorðum. Þriggja ára áætlun Vestmannaeyjabæjar, 2018-2020 hlaut sömu örlög og var seinni umræðu frestað til næsta fundar í bæjarstjórn. Ekki náðist í Elliða vegna málsins en Sigurhanna Friðþórsdóttir,formaður Kennarafélags Vestmannaeyja sem er félag grunnskólakennara í Eyjum var hissa á skrifum bæjarstjóra. „Þetta er þvert á það sem kom fram hjá bæjarstjóra þegar við afhentum honum undirskriftir til stuðnings baráttu okkar. Einnig sagðist hann bjartsýnn á farsæla lausn tveimur dögum áður en samið var. Daginn eftir að skrifað var undir samninginn segir hann fjárhagsáætlun í uppnámi. Það var að sjálfsögðu vitað að þessi samningur eins og aðrir kjarasamningar kosta eitthvað. Það átti ekki að koma bæjarstjórn á óvart en þess má geta að við höfum verið samningslaus frá því maí í vor,“ sagði Sigurhanna.  

Greinar >>

Georg Eiður - Landeyjahöfn, staðan 22.11.2016

Mjög sérstök staða í Landeyjahöfn, en um leið að sjálfsögðu mjög ánægjuleg. Dýpið mikið og gott, enda gengið óvenju vel hjá Galilei 2000 að komast til dýpkunar, enda ölduhæðin í Landeyjahöfn í haust verið nokkuð hagstæð þó svo að vissulega hafi blásið nokkuð hressilega stundum og ég hef verið spurður út í þessar breytingar á stefni Galilei, en mér er sagt að eftir að skipið lauk dælingu sinni í Landeyjahöfn samkv. samningi, var þeim boðinn sérstakur auka samningur sem gekk út á það að hreinsa betur meðfram hafnargörðunum, en til þess að ná því urðu þeir að breyta rörinu framan á skipinu.   Að öðru leiti er lítið að frétta af einhverjum hugmyndum um lagfæringar á höfninni, skilst reyndar að varnargarðurinn sem reistur var með Markarfljótinu, sé að miklu leyti horfinn og einhver umræða orðin um að fjarlægja hugsanlega garðinn sem Herjólfur bakkar að þegar hann fer frá bryggju, með það að markmiði að minnka ölduhreyfingu innan hafnarinnar, en mér skilst að sú hugmynd hafi komið frá yfirmönnum Herjólfs. Veðurspáin framundan er ekkert sérstök en ef við Eyjamenn verðum heppnir með veðurfar í vetur, þá er alveg möguleiki á að það verði óvenju oft fært í Landeyjahöfn í vetur, ef miðað er við hversu gott dýpið er í höfninni.   Eitt af fjölmörgum verkefnum hafnarvarðar er að leysa og binda Herjólf. Ekki þarf maður að starfa lengur þar til þess að sjá, hvaða vandamál eru þar helst og langar mig að nefna 3 dæmi. Ég hef mjög oft tekið eftir því, að þegar bílar koma akandi niður Skildingarveginn (sérstaklega ferðamenn) og sjá bílana byrja að vera að safnast í raðirnar til að fara í Herjólf, þá reyna þeir ótrúlega oft að fara meðfram kaðlinum sem þar er, eða sömu leið og inn að bílaverkstæði Harðar og Matta og reyna síðan að komast meðfram Herjólfsafgreiðslunni að sunnanverðu og vestur inn á svæðið að biðröðinni og eiginlega furðulegt að ekki skuli nú þegar hafa orðið árekstrar þar þegar þeir mæta öðrum bílum sem eru að koma réttu leiðina. Ástæðan fyrir þessu er sú að merkingarnar sem sýna hvaða leið á að fara, sjást ekki fyrr en komið er inn í beygjuna til austurs, en að mínu viti ætti ekki að vera mikið mál að leysa þetta með því að setja áberandi skilti við kaðal vegginn, sunnan við bílaraðirnar.   Annað atriði sem mig langar að nefna tengist einnig merkingum, en fyrir nokkru varð ég vitni að því þegar rúta merkt Norðurleiðum keyrði upp undir ranann þar sem fólk gegnur um borð í Herjólf með töluverðu tjóni, og mér skilst á öðrum hafnarverðum að þetta gerist nú bara reglulega. Þarna þyrfti virkilega að bæta úr merkingum og aðvörunar skiltum. Þriðja atriðið sem mig langar að nefna fjallar um tímasetningar á ferðum Herjólfs þegar ferðirnar færast úr Landeyjahöfn í Þorlákshöfn. Við Eyjamenn sem förum yfirleitt akandi vitum að við fáum skilaboð ef breytingar verða, en þó ég hafi aðeins starfað þarna á þriðja mánuð, þá hef ég ótrúlega oft séð fólk koma hlaupandi niður á bryggju á slaginu 8, haldandi það að skipið fari ekki fyrr en hálf níu. Þessu væri að mínu viti mjög auðvelt að breyta einfaldlega með því að láta Herjólf alltaf fara á sama tíma í sínar fyrstu ferðir. Við vitum það að Herjólfur þarf að fara kl 8 til þess að halda áætlun, en hvers vegna hann fer ekki fyrr en 8:30 þegar hann fer í Landeyjahöfn, hef ég ekki hugmynd um, en gaman væri ef einhver vissi svarið.   Varðandi nýsmíðina, þá hef ég lítið heyrt annað en bara það sem komið hefur fram í fjölmiðlum að undanförnu að það sé verið að semja við Pólverja um að smíða ferjuna. Það sem ég hefði hins vegar viljað að gerðist á allra næstu árum, miðað við stöðuna í dag, það er að fundinn yrði rekstrar grundvöllur fyrir því að halda núverandi ferju um ókomin ár, enda hefur hún reynst okkur vel. Veit reyndar að það er búið að lofa okkur að halda henni í fyrstu 2 árin eftir að nýja ferjan kemur, en allar spár um þróun ferðamennskunnar benda til þess að ferðamönnum muni bara fjölga. Það ásamt að öllum líkindum meiri gámaflutningi milli lands og eyja ætti að mínu viti klárlega að geta skapað fleiri verkefni, auk þess að við gætum þá gripið til hennar þegar við þyrftum.   Að lokum verð ég að hafa eftir brandara frá vini okkar Jógvan hinum færeyska, sem mér skilst að hafi sagt í heitu pottunum fyrir nokkru síðan í Eyjum. Skrýtnir þessir Færeyingar, þeir vilja bara grafa göng í allar áttir á meðan Eyjamenn leysa þetta einfaldlega með batterís ferju.   Georg Eiður Arnarson