Fréttatilkynning frá Hollvinasamtökum Hraunbúða:

Hollvinasamtök Hraunbúða, nýstofnuð samtök, sem hafa það að markmiði að aðstoða heimilisfólk og aðstandendur Hraunbúða eru smátt og smátt að koma starfsemi samtakanna á fullt. Nú nýverið gekk stjórnin frá formlegri skráningu samtakanna og fékk við það kennitölu og í kjölfarið voru stofnaðir reikningar í bönkunum hér í Eyjum, Íslandsbanka og Landsbanka. Á báðum stöðum er sama númer, 200200 og kennitala samtakanna er 420317-0770. Styrktaraðilar eru í dag vel á annað hundrað og unnið er í því að safna fleirum. Þeir sem hafa þegar skráð sig í samtökin, geta því lagt inn á 0582-26-200200 í Íslandsbanka eða 0185-26-200200 í Landsbanka. Lágmarksgjald einstaklinga er kr. 2.500,- og fyrir fyrirtæki 25.000,-, að sjálfsögðu er öllum frjálst að greiða meira.   Markmiðið að vinna með öðrum Nú þegar hafa samtökin hitt starfsfólk og stjórnendur Hraunbúða, sem og fundað með aðstandendum heimilisfólks. Margt gagnlegt kom út úr þeirri þarfagreiningu og liggur þegar fyrir aðgerðarlisti sem unnið verður með og að næstu vikur og mánuði. Það fyrsta sem verður ráðist í eru kaup á þremur hjólastólum, en markmiðið er líka að vinna með öðrum aðilum sem hafa stutt vel við bakið á heimilisfólki í gegnum tíðina. Næsta verkefni eru kaup á nýjum blóðþrýstingsmæli, sem vonandi verður kynnt fljótlega. Þá hefur verið ákveðið að efna til Vorhátíðar þann 27. maí, milli klukkan 14 og 16. Hollvinasamtökin bjóða þar heimilisfólki og aðstandendum þeirra í sannkallaða sumarveislu og til viðbótar eru allir eldri borgarar í Eyjum boðnir hjartanlega velkomnir. Dagskrá vorhátíðar verður auglýst á næstu dögum.   Mikilvægt að hlúa vel að heimilisfólki Í spjalli okkar við aðstandendur og starfsfólk Hraunbúða kom margt fram sem hægt er að vinna að. Það er mikilvægt að hlúa vel að heimilisfólki og markmiðið hjá öllum sem að Hraunbúðum koma er að öllum líði sem allra best. Nú þegar erum við komin í samband við Rauða krossinn, sem hefur boðið upp á heimsóknarvini. Það göfuga starf er fjölbreytt og hægt er að kynna sér allt um það inn á www.raudikrossinn.is. Þá hefur nú þegar verið ein dýraheimsókn og fleiri á döfinni. Samtökin hafa einnig ákveðið að bjóða upp á helgarbíltúr Hollvinasamtakanna. Þar verður heimilisfólki boðið í stuttan bíltúr kl. 14 á laugardögum, en ef það viðrar ekki vel og spáin betri fyrir sunnudaginn, verður sunnudagsbíltúr um Eyjuna að sjálfsögðu frekar fyrir valinu. Aðstandendur og aðrir geta lagt okkur lið í þessu og boðið fleirum með í bíltúr um Eyjuna. Helgarbíltúrinn verður betur kynntur inn á Facebooksíðu samtakanna. Mjög góð hugmynd kom upp í spjalli samtakanna við aðstandendur, en það var að gera Þrettándaupplifun heimilisfólks sterkari og að gera Þrettándann að meiri fjölskyldu-og samverustund. Á næsta ári munu samtökin því standa fyrir Þrettándagleði á Hraunbúðum með kaffi og meðlæti. Jóla- og Þrettándalög spiluð og vonandi fleiri uppákomur, ásamt því að fá hefbundna heimsókna jólasveinanna, með tilheyrandi flugeldasýningu. Hollvinasamtökin munu taka að sér vinnu við nýtt aðstandendaherbergi Hraunbúða, en til stendur að útbúa það á næstunni. Samtökin auglýsa eftir aðila eða aðilum, sem geta tekið að sér upplestur úr bókum vikulega fyrir heimilisfólk. Tveir aðilar gætu líka skipt þessu á sig á tveggja vikna fresti. Sannarlega gefandi verkefni. Áhugasamir geta haft samband við Halldóru Kristínu í síma 861-1105 eða í tölvupósti, hallda78@hotmail.com.   Góðir gestir Þegar Guðni Ágústsson og Jóhannes Kristjánsson komu til að skemmta Eyjamönnum, fengu Hollvinasamtökin þá félaga til að koma og skemmta heimilisfólki Hraunbúða. Það gerðu þeir svo sannarlega og kom Guðni þar að auki færandi hendi með tvær bækur sem hann hefur skrifað. Virkilega skemmtileg stund á Hraunbúðum og þökkum við þeim félögum kærlega fyrir komuna. Eyjahjartað slær víða. Listamaðurinn Gunnar Júlíusson, sem býr á Álftanesi, gaf samtökunum merki samtakanna (lógó) og viljum við nota tækifærið og þakka Gunnari fyrir þessa höfðinglegu gjöf. Á þessari upptalningu sést að mörg spennandi verkefni bíða samtakanna. Við hvetjum sem flesta til að gerast hollvinir Hraunbúða með því að styrkja samtökin og þannig stuðla að enn betri þjónustu við heimilisfólkið. Við viljum líka bjóða alla hjartanlega velkomna sem vilja leggja samtökunum lið í þeim fjölmörgu og fjölbreyttu verkefnum sem framundan eru. Um leið þökkum við fyrir frábærar viðtökur og hlökkum til samstarfsins við bæjarbúa.   Stjórnin.  

Icewear hefur nú opnað glæsilega útivistarverslun í Vestmannaeyjum

Ný verslun Icewear er staðsett niður við Básaskersbryggju 2 og býður upp á vandaðan útivistarfatnað, skó og fylgihluti á góðu verði fyrir alla fjölskylduna. Einnig er úrval af Icewear fatnaði, teppum og ýmsum öðrum aukahlutum sem allt er unnið úr gæða ull. Í Icewear er einnig áhersla á smávörur og minjagripi fyrir gesti og gangandi sem sækja Vestmannaeyjar heim. Í versluninni verða góð opnunartilboð fyrir Eyjamenn á öllum Icewear fatnaði næstu dagana og bjóðum við alla velkomna að kíkja við og skoða fjölbreytt úrvalið. Sagan nær aftur til ársins 1972 þegar framleiðsla á fatnaði hófst á Hvammstanga með áherslu á ýmsar ullarvörur. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og Icewear vörumerkið kom til sögunnar árið 1984. Vörulínan spannar í dag eitt mesta úrval landsins af útivistarvörum fyrir dömur, herra og börn í bland við einstakt úrval af ullarfatnaði og aukahlutum. Vörur Icewear eru hannaðar á Íslandi og taka mið af þeim sér íslensku aðstæðum sem náttúran og veðurfarið bjóða upp á. Framleiðsla fer fram bæði hérlendis og erlendis þar sem áhersla er lögð á gæði og vellíðan við allar aðstæður og umfram allt sanngjörn verð. Í dag verslanir fyrirtækisins undir merkjum Icewear, Icewear Magasin og Ice-mart samtals ellefu talsins staðsettar í Reykjavík, Akureyri, Vestmannaeyjum og í Vík og að auki netverslunin www.icewear.is. Verið velkomin í verslun okkar við Bása við tökum vel á móti ykkur.   -Starfsfólk Icewear í Vestmannaeyjum    
>> Eldri fréttir

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Vonin að Landeyjahöfn læknist af þessari sandgræðgi og að öldurnar snúi sér annað

  Það sýnir hug íbúa í Vestmannaeyjum til stöðunnar í samgöngum að vel á fjórða hundruð manns mættu á fund í Höllinni í þar síðustu viku þar sem farið var yfir stöðuna. Ásmundur Friðriksson, alþingismaður stóð fyrir fundinum og ritstjórar Eyjar. Net og Eyjafrétta stýrðu fundinum en yfirskrift hans var; Rödd fólksins. Eftir framsöguræður gafst bæjarbúum tækifæri til að spyrja fulltrúa ríkis og bæjar út í samgöngumálin í nútíð og framtíð.   Auk Ásmundar voru frummælendur Sigþóra Guðmundsdóttir húsmóðir m.m., Elliði Vignisson bæjarstjóri, Jóhann Jónsson, Laufási. Fundarstjórar voru Ómar Garðarsson ritstjóri Eyjafrétta og Tryggvi Már Sæmundsson ritstjóri Eyjar.net. Ef hægt er að ramma inn niðurstöðu fundarins, er hún krafa um betri samgöngur, lægri fargjöld og bætta þjónustu. Úrbætur í þessum málum kölluðu á samstöðu Eyjamanna.     Milljón í gróða á dag Ásmundur hóf mál sitt á því að rekja söguna frá því fyrsti Herjólfur kom árið 1959 og tók við af Stokkseyjarbátnum. Með tilkomu nýs Herjólfs 1976 hófust daglegar siglingar til Þorlákshafnar og núverandi skip kom 1992. Nú er ný ferja í smíðum sem verður afhent í júní á næsta ári. Ásmundur sagði að á föstudaginn verði upplýst hvort hún verður alfarið knúin rafmagni, en það hefur ekki verið upplýst ennþá. Næst tók hann fyrir hvað Eimskip er að hafa út úr því að reka Herjólf fyrir Vegagerðina og niðurstaðan er að mati Ásmundar, ein milljón á dag allan ársins hring, eða hátt í 400 milljónir á ári. Sagðist Ásmundur hafa aflað sér öruggra heimilda í þessari rannsókn sinni. „Þar til annað kemur í ljós ætla ég að halda mig við þessa tölu,“ sagði Ásmundur. Sagði hann þetta ófært. „Samfélagið hér í Eyjum á að njóta þessa í lægri fargjöldum og betri þjónustu,“ bætti hann við og hélt áfram. „Það hefur lengi verið mín skoðun að rekstur Herjólfs eigi að vera í höndum heimamanna og hún hefur ekkert breyst.“   Ekki við bæjarstjórn að sakast Elliði Vignisson, bæjarstjóri sagði sýn bæjarstjórnar í samgöngum skýra en oft væri ómaklega vegið að bæjarstjórn. Vandinn sé að þetta er málaflokkur sem ekki er á höndum Vestmannaeyjabæjar. „Það á að þrýsta á Alþingi og alþingismenn því það eru þeir sem taka ákvarðanir í öllu sem lítur að samgöngum við Vestmannaeyjar,“ sagði Elliði. „En við berum ábyrgð með því að þrýsta á stjórnvöld og það höfum við gert. Alls hafa samgöngumál verið rædd 116 sinnum í bæjarstjórn og bæjarráði síðan í júlí 2006. Í nánast öllum tilvikum hafa allar ályktanir verið samþykktar einróma. Það segir meira en margt um afstöðu okkar sem störfum í bæjarstjórn.“ Næst spurði Elliði, hvert er hlutverk bæjarstjórnar hvað samgöngur varðar? „Bæjarstjórn hefur í dag enga formlega stöðu eða hlutverk hvað samgöngur varðar. Enga aðkomu að nefndum, ráðum eða nokkru öðru. Öll aðkoma er háð frumkvæði hennar og áhrifin eru með öllu bundin ákvörðun þingmanna og ráðherra.   Þrýst á úrbætur Það breytir því ekki að ábyrgð bæjarstjórnar er rík. Hún er fyrst og fremst að þrýsta á samgönguyfirvöld og vinna með þeim að úrbótum. Að halda lifandi umræðu um þetta mikla hagsmunmál og miðla upplýsingum til bæjarbúa sem og til yfirvalda eftir því sem tök eru á,“ sagði Elliði og brá upp nokkrum samþykktum bæjarstjórnar síðustu fimmtán árin. Strax 2006, þegar enn var siglt eingöngu í Þorlákshöfn kallar bæjarstjórn eftir fjölgun ferða Herjólfs úr tveimur í þrjár yfir sumartímann og ríkisstyrktu flugi. Einnig leigu á stærra skipi til siglinga í Þorlákshöfn enda Herjólfur þá orðinn „mjög gamall“, eins og tekið var fram. Sama ár ítrekar bæjarstjórn ríka áherslu á að rannsóknum vegna jarðganga verði lokið sem allra fyrst svo svara megi með óyggjandi hætti hver kostnaður vegna slíkra framkvæmda er. Seinna var ákvörðun tekin um Landeyjahöfn og allir Eyjamenn þekkja þá sögu en kröfur bæjarstjórnar eru þær sömu, bættar samgöngur og sanngjörn fargjöld. Árið 2008 var ákveðið að smíða nýja ferju en af því varð ekki vegna hrunsins og nú hyllir loks undir lausn í þeim málum.   Fer ekki nema nauðsyn kalli á Sigþóra Guðmundsdóttir kallaði sitt erindi, Samgöngur í augum húsmóður með börn í íþróttum og hún talaði tæpitungulaust. „Fyrir það fyrsta, þá fer ég ekki upp á land með fjölskylduna, nema brýna nauðsyn beri til yfir vetrartímann, hreinlega vegna kostnaðar. Tvö virk börn kalla á lokaðan klefa, þar sem ég hreinlega get ekki annað en legið í koju, til að halda heilsu og þau hafa engan skilning á veikindum móður sinnar þar til þau eru orðin veik sjálf,“ sagði Sigþóra. Hún sagði að í hvert einasta skipti sem hún fer upp á land fari allt á fullt í skipulagi og vangaveltum. „Fer Herjólfur? Hvert mun hann sigla? Hvenær þarf ég að vera komin á leiðarenda? Þarf ég þá að fara með fyrstu ferð, þar sem hún er í sögulegu samhengi, eina trygga ferðin? Hvað er ég að missa mikið úr vinnu fyrir 10 mínútna viðtal hjá lækni í borginni? Ég get svarað þessu. Prófaði sjálf í fyrra að skreppa til læknis. Tíminn var á þriðjudegi kl. 12.00. Brottför frá Vestmannaeyjum kl. 8.30 til Landeyjahafnar, keyra til Reykjavíkur, hitta lækni og svo var stefnan tekin heim um miðjan dag, en úps, þetta er þriðjudagur og engin ferð fyrr en 19.45, en þá var orðið ófært til Landeyjahafnar. Ég slapp þó heim í gegnum Þorlákshöfn og kom heim hálf ellefu að kvöldi til! Heppin! Er of flókið að Herjólfur sigli jafnt og þétt yfir daginn? Allt of langt er á milli ferða suma daga. Suma daga! Hvenær fer Herjólfur þennan daginn eða hinn? Getur áætlunin verið einfaldari? Ég þarf t.d. að kanna í hvert einasta skipti hvenær skipið siglir. Bara get ekki munað siglingartímana.“   Óvissan óþolandi Sigþóra sagði alla þessa óvissu gera hana óörugga, pirraða og leiða og verði til þess að hún tjái sig óvarlega, þegar krakkarnir heyra til. „Ég veit að ég þarf að vanda mig betur. Ég þarf þess,“ sagði Sigþóra og benti á að það ætti við um fleiri. „Krakkarnir mínir hafa ekki enn tekið það inn á sig en ef ég fer ekki að vanda mig í orðræðunni, kemur mögulega að því að þau neita að koma með, að þau fari að kvíða fyrir ferðalaginu, að þau hætti í íþróttum út af öllum ferðalögunum sem fylgja því að æfa keppnisíþrótt, að þau vilji fara héðan, fyrir fullt og allt. Og greinilega þurfum við öll að vanda okkur. Því þetta er vaxandi vandamál, sem kemur kannski aftan að okkur, sem ég áttaði mig engan veginn á, fyrr en eftir að hafa tekið að mér þjálfun hjá ÍBV.“ Hún sagði krakka tilkynna veikindi þegar kemur að keppnisferðum og þar gæti tal þeirra fullorðnu haft áhrif. „Við reiknuðum kannski bara alls ekki með því að Herjólfur yrði stærsta ástæða sumra að hætta í íþróttum. En það er raunveruleikinn, hjá sumum! Þetta er ekki bara af því börnin séu svona sjóveik heldur er orðræða okkar fullorðna fólksins ekki til að hjálpa. Öll þessi óvissa og pirringur smitast til þeirra. Við skulum vanda orðræðuna.“   Því næst ræddi hún biðlista og bókunarkerfið sem mætti vera betra. Og hún hefur efasemdir um nýja ferju. Óttast að hún sé engin töfralausn. „Auðvitað vona ég að það verði raunveruleikinn, að höfnin í Landeyjum læknist af þessari sandgræðgi og að öldurnar snúi sér eitthvert annað. Það væri auðvitað óskastaða, draumi líkust en það hræðir mig einhvern veginn. Ég er hræddust um að draumurinn breytist í martröð á miðri leið og þess vegna tel ég nauðsynlegt að hafa skipið sem hefur sinnt okkur hingað til, sem varaskeifu, siglandi til Þorlákshafnar, með fólk og gáma beint í framtíðar stórskipahöfnina þeirra.“   Byltingin sem ekki varð Grímur Gíslason, framkvæmdastjóri og fyrrum stjórnarmaður í Herjólfi hf. sem í mörg ár sá um rekstur ferjunnar auk þess að vera vélstjóri á skipinu í nokkur ár gat ekki mætt á fundinn en flutti erindi sitt í gegnum Skype. Ástæðan var óöryggi í samgöngum. Grímur byrjaði á að rekja sögu samgangna við Vestmannaeyjar á sjó og sagði að tilkoma Landeyjahafnar hafi átti að verða bylting sem hún hefur verið þegar hún virkar en því miður hefur virkni hennar ekki verið nálægt þeim væntingum sem gerðar voru til hennar sem heilsárshafnar. Hann eins og fleiri hafa efasemdir um nýtt skip og nú væri talað um að frátafir yrðu10%, 20% 30% eða meir. Það ætti bara að koma í ljós og væri eiginlega bara ekki hægt að segja til um það. „Mér fundust þessar yfirlýsingar ekki traustvekjandi því að ég ætlast til þess, miðað við það sem áður hefur verið sagt að nýting Landeyjahafnar nálgist, með nýju skipi, það sem lofað var í upphafi. Ef það gerist erum við að tala um mikla byltingu til framtíðar, þó svo að flutningsgeta skipsins hefði þurft að vera mun meiri,“ sagði Grímur. „Ef það gengur ekki eftir og þessi nýja ferja þarf að sigla til Þorlákshafnar 10% til 40% af siglingadögum þá er það mín skoðun að við séum að fara stórt skref afturábak í samgöngumálum.“   Dýpkun vandamálið Grímur nefndi að enn sé engin lausn í sjónmáli hvað varðar dýpkun í Landeyjahöfn, alla vega hafi hún ekki verið opinberuð. Hann sagði líka að alltof lítill hluti ferðamanna sem koma til landsins komi til Eyja. „Þó að ekki kæmu nema 20% ferðamanna til Eyja þá er það nærri hálf milljón. Það er því eftir miklu að slægjast, en því miður verður þetta aldrei möguleiki fyrr en öryggi er meira í ferðum. En öryggi í ferðum er ekki nóg, það þarf líka flutningsgetu og mikla ferðatíðni til að ná einhverju broti af þessum ferðamannastraumi og þar er við mikinn flöskuháls að eiga og gæti orðið áfram, því miður. Þar er ekki við náttúruöflin að eiga heldur nátttröll sem ekki virðast skilja mikilvægi samgangna fyrir Vestmannaeyjar.“   Þjóvegur sem á að vera opinn alla daga Grímur eins og Ásmundur taldi að hlutur Eimskips út úr rekstrinum væri á fjórða hundrað milljónir króna og þann hagnað ætti að nota til að lækka gjöld og fjölga ferðum. Þá tók hann fyrir ferðir á hátíðisdögum. „Þjóðvegurinn til Eyja á að vera opinn alla daga ársins, sama hvort um er að ræða nýársdag, jóladag, hvítasunnudag, sjómannadag, páskadag eða hvaða aðra daga. Tíðarandinn hefur breyst frá því fyrir 20 til 30 árum þegar eðlilegt þótti að allt væri lokað þessa dag. Það er bara ekki þannig í dag. Skipið á að sigla fulla áætlun alla daga. Þetta er grunnþjónusta samfélagsins. Ekki lokum við lögreglustöðvum eða sjúkrahúsum þessa daga. Ekki er Hvalfjarðargöngunum lokað þessa daga, jafnvel þó svo önnur leið sé í boði.“ Grímur sagði að framtíðin í samgöngumálum ráðist mikið af því hvernig nýrri ferju muni reiða af við siglingar í Landeyjahöfn. Gangi það vel muni verða tekið skref fram á við, ef ekki þá þurfi að hugsa hlutina upp á nýtt og fara með frjóum huga yfir sviðið. „Er lausnin fólgin í háhraða ferju? Þær eru gangmiklar, rista lítið, t.d. ein sem ristir rúma 2 metra og er rúmlega 16 metra breið og er sögð geta siglt í 4 metra ölduhæð. Eða þarf að hugsa enn stærra? Við þolum a.m.k. ekki stöðnun, svo mikið er víst,“ sagði Grímur.   Undir væntingum Jóhann Jónsson sagði að mikið vantaði upp á að Landeyjahöfn hefði staðist væntingar frá því hún var tekin í notkun árið 2010 og 50% til 60% nýting væri ekki ásættanleg. „Draumur um að hægt væri að nota höfnina í 4,5 til 5 metra ölduhæð er því miður ekki raunhæfur,“ sagði Jóhann og bætti við að höfnin og aðstaðan við hana sé of lítil og ferjan sem nú er í smíðum sé líka of lítil og henti illa til siglinga í Þorlákshöfn. Hann kallar eftir endurbótum á Landeyjahöfn sem hann sagði ekki í sjónmáli og hann hefur áhyggjur af því þegar nýja ferjan þarf að sigla í Landeyjahöfn. „Gjaldskráin er líka alltof há og þar er engin hemja að hver fjögurra manna fjölskylda þurfi að greiða 200.000 til 500.000 krónur á ári fyrir ferðalög milli lands og Eyja.“ Jóhann vill sjá breytingar á rekstri Herjólfs og að hagsmunir Eyjamanna verði hafðir að leiðarljósi. Farið verði fyrr á morgnana og ein ferð seinnipart dags verði aðeins fyrir gáma. „Eftir sjö ára siglingar í Landeyjahöfn er því miður að óbreyttu ekki hægt að hafa miklar væntingar, hvorki um nýtingu eða ódýrari samgöngur. Þeir sem ráða hvorki vilja né skilja við hvað þeir láta okkur Eyjamenn búa við. Ég held að við eigum betra skilið og þá er bara vonin um að úr rætist ein eftir,“ sagði Jóhann að endingu.   Gunnlaugur stóð í ströngu Á eftir var pallborð þar sem Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Herjólfs og Guðmundur Helgason frá Vegagerðinni bættust í hópinn. Guðmundur sagðist ekki vera mættur til að sitja fyrir svörum og því mæddi mikið á Gunnlaugi sem reyndi eftir mætti að svara því sem kom fram í máli frummælenda og sneri að Herjólfi og eins spurningum úr sal. Hann sagðist geta verið sammála mörgu en við margt væri ekki ráðið. Eimskip sæi um rekstur Herjólfs samkvæmt samningi við Vegagerðina og mjög margt að því sem verið væri að gagnrýna væri einfaldlega bundið í samningi s.s. gjaldskrá og hvernig hún breyttist með tilliti til Ferjuvísitölu“, fjöldi ferða, meðhöndlun afsláttakorta og fleira. Gunnlaugur minnti á að Eimskip hefði ekki sótt allar þær hækkanir sem vísitalan kvæði á um. Einnig að sl. tvö ár hefðu Vegagerðin og Eimskip bætt við um 40 ferðum í sumaráætlun og nú væri verið að bæta við rúmlega 100 til viðbótar við það. Hann sagði að tekist hefði ágætlega að vinda ofan af biðlistum en það væri verkefni sem þyrfti alltaf að vera í skoðun. Bókunarkerfið sem verið væri að nota sé í notkun um allan heim en vandamálið ef væri að það væri oft fullt fyrir bíla og þá staðreynd að ásókn væri mikill.   Best komið hjá einkaaðila Spurt var hver hefði ákveðið að fá Baldur í afleysingar fyrir Herjólfs og svaraði Gunnlaugur því að það væri Vegagerðarinnar að sjá um það að finna afleysingaskip. Leitað hefði verið til útgerðar Baldurs með þessa afleysingu núna í fjórða skiptið. Gunnlaugur sagði að ekki hefði fundist annað skip til að leysa Herjólf af hólmi á meðan Herjólfur er slipp og að margir hefðu á síðustu árum reynt að finna skip en án árangurs. Þá bað hann fólk að gæta allrar sanngirni í samskiptum við starfsfólk Herjólfs og Baldurs. „Þetta fólk er að gera sitt besta og vinnur sín störf af fullum heilindum og samviskusemi, oft við mjög erfiðar aðstæður,“ sagði Gunnlaugur og var mikið niðri fyrir um framkomu sumra viðskiptavina. Hann sagði líka að tölur um rekstrarafgang sem komið hefði fram hjá Ásmundi og Grími væru þættir sem hann vildi alls ekki ræða enda um að ræða rekstrarsamning í kjölfar útboðs þar hart hafi verið barist um verkið. „Núna er Herjólfur í slipp og það er rekstraraðilans að greiða slipptökuna. Þessu verðum við að gera ráð fyrir ásamt ýmsum öðrum kostnaði sem er á ábyrgð rekstraraðila,“ sagði Gunnlaugur. Að lokum sagði Gunnlaugur að það væri hans einlæga mat að rekstrinum væri best fyrir komið hjá einkaaðila og þar væri Eimskip fremst í flokki en auðvitað væri hann vanhæfur í að meta það.

Eyjamenn vikunnar: Vignir Stefánsson og Arna Þyrí Ólafsdóttir

 Þau Vignir Stefánsson og Arna Þyrí Ólafsdóttir héldu uppi merki Vestmannaeyja í úrslitakeppni karla og kvenna í handbolta þegar þau urðu á dögunum Íslandsmeistarar með liðum sínum, Vignir með Val og Arna Þyrí með Fram. Þessir öflugu handboltamenn eru því Eyjamenn vikunnar að þessu sinni.   Nafn: Arna Þyrí Ólafsdóttir. Fæðingardagur: 28. mars 1997. Fæðingarstaður: Vestmannaeyjar. Fjölskylda: Mamma mín heitir Þórunn Jörgens og pabbi minn heitir Ólafur Snorra, svo ,,litli“ bró Jörgen Freyr. Draumabíllinn: VW Golf 2017. Uppáhaldsmatur: Pestó-kjúlli. Versti matur: Þorramatur. Uppáhalds vefsíða: Pinterest.com. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Ég hlusta eiginlega á alla tónlist en gömul íslensk lög eru í miklu uppáhaldi. Aðaláhugamál: Handbolti. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Ég veit ekki alveg, haha. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Gautaborg í Svíþjóð. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Fram og ÍBV. Guðrún Ósk og Steinunn Björnsdóttir eru virkilega flottir íþróttamenn og ég held mikið upp á þær. Ertu hjátrúarfull: Nei og já. Ég reyni að hafa alltaf sömu rútínu fyrir leiki en annars ekkert meira. Stundar þú einhverja hreyfingu: Já, ég spila handbolta með Fram og er í Crossfit XY. Uppáhaldssjónvarpsefni: Despó og Greys eru í mjög miklu uppáhaldi. Hvernig er tilfinningin að vera Íslandsmeistari? Tilfinningin er mjög góð, þetta er alveg ógeðslega skemmtilegt og ég stefni klárlega á að gera þetta aftur einhvern tímann, helst sem fyrst! Stjarnan og Fram hafa verið yfirburðalið í vetur og í raun mjög lítið sem hefur skilið á milli liðanna. Stjarnan hafði betur í bikarúrslitunum 19:18 og vinna ykkur síðan í síðasta deildarleiknum og verða meistarar á markatölu. Það hlýtur að hafa verið sætt fyrir ykkur að ná loks að skáka þeim? Já, það var mjög gaman að vinna þær loksins í úrslitaleik af því við vorum búnar að tapa fyrir þeim tvisvar í úrslitum. Við ætluðum okkur að vinna þær í þetta skiptið og það tókst! Hvað tekur við á næsta tímabili? Heldur þú áfram í Fram? Ég er ekki búin að ákveða hvað ég ætla að gera á næsta tímabili. Ég er að skoða mig um og sjá hvað mér líkar við, svo tek ég líklegast bara ákvörðun í sumar um það hvað ég geri. .........................................................   Nafn: Vignir Stefánsson. Fæðingardagur: 21. júní 1990. Fæðingarstaður: Vestmannaeyjar. Fjölskylda: Esther og Stefán eru foreldrar mínir. Systkini, Birgir og Berglind. Kærasta mín Hlíf Hauksdóttir og sonur okkar Haukur Heiðar. Draumabíllinn: Væri til í flottan Benz eða Audi. Þýski bíllinn er heillandi. Uppáhaldsmatur: Góð steik og beranaise klikkar aldrei. Svo er auðvitað maturinn hjá mömmu hrikalega góður. Versti matur: Súr þorramatur. Uppáhalds vefsíða: Á ekki vefsíðu í sérstöku uppáhaldi. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Þarna verð ég að setja playlistann frá Bubba (Hlyn Morthens), fjölbreyttur og virkilega hressandi. Aðaláhugamál: Íþróttir af flestum gerðum. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Væri til í að taka einn golf-hring með Michael Jordan. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Vestmannaeyjar á fallegum sumardegi. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Valsliðið eins og það leggur sig 2016/2017 Ertu hjátrúarfullur: Nei get ekki sagt það. Stundar þú einhverja hreyfingu: Skottast stundum á handboltaæfingu. Uppáhaldssjónvarpsefni: Designated survivor, nýbúinn með þá þætti. Hvernig er tilfinningin að vera bikar- og Íslandsmeistari? Hún er hrikalega góð og sjá að erfiði vetrarins hefur skilað sér. Er þessi niðurstaða vonum framar eða höfðuð þið alltaf trú á því að geta hampað tveimur titlum í lok tímabils? Hún er vonum framar áður en við lögðum af stað, en þegar leið á tímabilið þá jókst trú okkar á því að við gætum tekið alla þá titla sem voru í boði. Mikið hefur verið rætt og ritað um leik ykkar gegn Potaissa Turda í Áskorendakeppni Evrópu þar sem þið voruð flautaðir úr leik eins og frægt er. Hvernig var að upplifa svona óréttlæti og spillingu frá fyrstu hendi? Það var í raun mjög skrítið og enginn okkar trúði því að þetta væri að gerast. En í hálfleiknum áttuðum við okkur á þessu og reyndum allt hvað við gátum til að reyna að berjast gegn þessu. Það var aldrei séns að okkar mati. Sérðu fyrir þér endurkomu í ÍBV á næstu árum? Ekki í augnablikinu en við útilokum aldrei neitt, þetta getur verið fljótt að breytast.     Vignir er til vinstri á myndinni en með honum er Ólafur Ægir Ólafsson sem á einnig ættir að rekja til Eyja en faðir hans er Ólafur Már Sigurðsson.

Greinar >>

Silja Dögg Gunnarsdóttir - Bjartar vonir veikjast

Bjartar vonir vöknuðu hjá Eyjamönnum og öðrum fyrir nokkrum árum síðan þegar ákvörðun var tekin um að byggja nýja höfn í Landeyjum og smíða nýja ferju. Í áratugi höfðu Eyjamenn búið við brotakenndar samgöngur. Fréttin af höfninni og ferjunni breiddist út og fólk sem hafði flutt frá Vestmannaeyjum, m.a. vegna slæmra samgangna, flutti nú heim aftur. Aðrir stofnuðu fyrirtæki til að geta tekið á móti ferðamönnum og fóru í því skyni út í umtalsverðar fjárfestingar.   Ferðaþjónustan í uppnámi Nú, mörgum árum síðar, er staðan enn slæm og ekki fyrirséð að hún batni í bráð af fjölmörgum ástæðum. Íbúar í Vestmannaeyjum, sem hafa haldið í vonina um úrbætur, eru sumir við það að gefast upp á biðinni eftir bættum samgöngum. Ferðaþjónustan er í uppnámi en nú þegar hefur einn aðalmánuðinn af vertíðinni, af fjórum, nánast fallið niður. Skaði samfélagsins er gríðarlegur en hann er þó ekki eingöngu mældur í krónum og aurum, því miður.   Svarleysi Nýlega var haldinn fjölsóttur fundur í Höllinni þar sem íbúar komu saman og ræddu samgöngumál, fóru yfir stöðuna og hver yrðu næstu skref. Þar kom fram að smíði nýrrar ferju er hafin en óvíst er með hvað eigi að gera til að gera varðandi nauðsynlegar úrbætur á Landeyjahöfn. Hvar er t.d. sanddælubúnaðurinn fyrir höfnina sem lofað var? Verður gamli Herjólfur látinn sigla áfram til Þorlákshafnar þegar nýja ferjan kemur til að tryggja flutninga á milli lands og Eyja? Hvers vegna þurfa Eyjamenn t.d. að borga háa vegatolla af sínum þjóðvegi þegar aðrir landsmenn þurfa ekki að gera það? Engin svör fengust við þessum spurningum á fundinum.   Óánægja með verð og tímatöflu Rekstraraðili Eimskips í Eyjum fékk fjölmargar fyrirspurnir og ábendingar varðandi bætta þjónustu og aðbúnað um borð. Fólk gagnrýndi tímatöfluna, bókunarkerfið og vildi fá nánari upplýsingar um samning Eimskips í þeim tilgangi að átta sig betur á verðlagningu farmiða. Fátt var um svör en ljóst að útboð verður á rekstrinum í haust og Eimskip hyggst sækjast eftir að fá umboðið. Sumir töldu að rekstrinum verði betur fyrirkomið hjá sveitarfélaginu og þá hugmynd ber að skoða vandlega. Að fundi loknum hafði undirrituð orðið örlítið vísari um sögu Herjólfs en vissi litlu meir en áður um næstu skref málsins. Ljós er að íbúar eru langþreyttir og hundóánægðir með ástandið.   Ferðin með Baldri Heimferðin frá Vestmannaeyjum var svo sér kapítuli út af fyrir sig. Þar sem flugið féll niður vegna veðurs stökk undirrituð um borð í Baldur. Eftir þá viðbjóðslegu sjóferð spyr maður sig óhjákvæmilega að því, hvaða snillingi datt í hug að taka bátinn af Vestfirðingum og skerða þeirra samgöngur enn frekar niður og senda hann suður til siglinga á milli lands og Eyja? Báturinn er alls ekki gerður fyrir úthafssiglingar og skoppaði um í umtalsverðri ölduhæð eins og korktappi. Eftir klukkustund náðum við til lands og martröðinni var lokið. Ég mun jafna mig á sjóveikinni og hef heitið því að stíga ekki um borð í dallinn aftur. Íbúar í Vestmannaeyjum hafa hins vegar ekkert val þar sem kerfið okkar er þannig að ákveðin grunnþjónusta er staðsett uppá landi, svo sem fæðingarþjónusta en sú umræða er efni í aðra grein.   Planið Þingmenn kjördæmisins munu án efa halda áfram að beita sér fyrir bættum samgöngum til Vestmannaeyja enda er ekki um flokkspólitískt mál að ræða heldur samfélagslegt réttlætismál. Opinn fundur bæjaryfirvalda með ráðherra samgöngumála og yfirmönnum Vegagerðarinnar sem halda á í kvöld er löngu tímabær. Þar á að krefjast svara um verkáætlun og tímalínu. Við þingmenn getum spurt og talað en samband við framkvæmdavaldið er nauðsynlegt ef árangur á að nást. Ég mæti, ef það verður fært…