Eyjalistinn endurvekur umræðu um frístundakort:: Skipulagt æskulýðsstarf skilar ábyrgum þátttakendum út í samfélagið

Eyjalistinn endurvekur umræðu um frístundakort:: Skipulagt æskulýðsstarf skilar ábyrgum þátttakendum út í samfélagið

Á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku ítrekaði Eyjalistinn mikilvægi þess að sem flest ungmenni eigi möguleika á að stunda einhvers konar félags- og tómstundastarf og skyldu allra   sveitarfélaga að styðja börn og unglinga við það að eiga færi á að stunda íþrótta- og tómstundaiðkun. Gerir tillaga þeirra ráð fyrir 25.000 króna styrk á barn á ári. Þetta kom fram í   umræðu um fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2016. Lögðu þau til að umræðan um frístundakortin verði tekin upp á ný. Undir þetta skrifuðu Auður Ósk Vilhjálmsdóttir og Stefán Óskar Jónasson, bæjarfulltrúar Eyjalistans og í greinargerð segir að skipulagt félags- og tómstundastarf sé ekki aðeins mikilvægur vettvangur fyrir afþreyingu ungs fólks heldur sé það talið ein af grunnstoðum uppbyggilegrar þátttöku þess í samfélaginu.       „Börn og ungmenni sem taka þátt í markmiðsbundnu æskulýðsstarfi eru líklegri til þess að líta á sig sem ábyrga þátttakendur í samfélaginu auk þess sem sjálfsmynd barna er að miklu leyti mótuð í þátttöku þeirra í frístundum og tómstundastarfi,“ segir í bókuninni.   Vitna í rannsóknir   Þau benda á að stöðugt fleiri rannsóknir bendi til þess að beint orsakasamband sé að finna á milli líkamlegs atgervis, hreyfingar og námsframmistöðu barna og unglinga. Ennfremur, og ekki síður mikilvægt sé að rannsóknir gefi mjög sterka vísbendingu um að ungt fólk sem tekur þátt í skipulögðu æskulýðsstarfi hafi síður tíma og aðstæður til að falla fyrir áhættusömum freistingum. „Mikilvægi þess að sem flest ungmenni eigi möguleika á að stunda einhvers konar félags- og tómstundastarf er gríðarlegt og í ljósi fyrrnefndra þátta ætti það að vera skylda allra sveitarfélaga að styðja börn og unglinga við tómstundaiðkun,“ segja þau og leggja til að tekin verði upp frístundakort, sem er niðurgreiðsla á gjöldum til tómstundaiðkunar. Fyrri hugmyndir þeirra hljóðuðu upp á 15.000 krónur á barn á ári en tillagan miðar að því að forráðamenn allra barna á aldrinum 6 til 16 ára með lögheimili í Vestmannaeyjum geti sótt um frístundastyrki að upphæð kr. 25.000. – á barn til að greiða niður gjöld af tómstundaiðkun.     Hugmynd að framkvæmd Lagt er til að verkefnið verði tilraunaverkefni til tveggja ára. Úthlutun frístundastyrkja fari fram í gegnum Vestmannaeyjabæ og upphæðin renni beint til þess aðildarfélags sem forráðamenn óska. Aðildarfélög þurfi að gera skriflegan samning við Vestmannaeyjabæ um samstarf. Öll félög með skipulagt íþrótta- og tómstundastarf, undir leiðsögn, með starfsemi í að minnsta kosti tíu vikur samfellt geti óskað eftir samstarfi við   Vestmannaeyjabæ. Gert er ráð fyrir að tímabil hverrar styrkveitingar sé almanaksárið og yrði því styrkurinn til ráðstöfunar frá og með 1. janúar ár hvert. Ekki verður um að ræða beingreiðslur til forráðamanna, heldur hafi þeir rétt til að ráðstafa tilgreindri upphæð í nafni barns síns til niðurgreiðslu á þátttöku- og æfingagjöldum. Forráðamenn þurfa að sækja um styrkinn til Vestmannaeyjabæjar.     Hægt að skipta á milli  „Okkar hugmynd er að hægt sé að skipta frístundastyrknum niður á fleiri en eina tómstundaiðju en það er ekki hægt að flytja styrkinn á milli tómstunda á miðju tímabili. Ekki þarf að ráðstafa öllum frístundastyrknum í einu og ekki er mögulegt að nýta frístundastyrkinn á milli ára. Þá er lagt til að aðildarfélög geti ekki hækkað gjaldskrá sína á meðan tilraunaverkefnið   stendur yfir,“ segir í lokaorðum greinargerðarinnar. „Við neyðumst til að horfast í augu við þann blákalda veruleika að börn á Íslandi í dag sitja alls ekki við sama borð þegar kemur að þeim möguleika að stunda tómstundir og íþróttastarf,“ sagði Auður Ósk við Eyjafréttir. „Hagstofan vann rannsókn sem nefnist Lífskjör og lífsgæði barna og var gefin út fyrr á árinu. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna svart á hvítu sorglegan veruleika sem of stór hluti fjölskyldufólks á Íslandi býr við í dag.  Á síðasta ári var tæpur þriðjungur barna á Íslandi ekki í reglulegu tómstundastarfi, sem er gífurleg aukning á sl. fimm árum, en árið 2009 var hlutfallið rétt um 14%. Hlutfall þeirra barna sem ekki voru í reglulegu tómstundastarfi var margfalt hærra heldur en hlutfall þeirra barna sem ekki nutu annarra lífsgæða. Niðurstöður rannsóknarinnar gáfu ennfremur til kynna að áhrif fjárhags heimila á möguleika barna til tómstundaiðju hafi aukist í kjölfar hrunsins. Þetta eru sláandi niðurstöður í ljósi þess að skipulagt félags- og tómstundastarf skipar stóran þátt í forvörnum fyrir börn og unglinga.“     Léttir undir með fjölskyldum   Auður Ósk sagði að ef litið sé til heildarútgjalda í málaflokki æskulýðs- og íþróttamála fyrir síðasta ár myndi áætlaður kostnaður frístundakortsins einungis hljóða upp á rétt rúm þrjú prósent af útgjöldunum. Hún spyr hvort þessi kostnaður sé það mikill að ekki sé hægt að koma til móts við þau börn sem eiga ekki kost á því að stunda tómstunda- og íþróttastarf eða létt sé undir með þeim fjölskyldum sem rétt ná að dekka þennan útgjaldalið.  „Mér þykir mikilvægi þess að sveitarfélög bjóði upp á frístundakort gríðarlega mikið og tel að það ætti að flokkast sem forgangsmál. Það er þáttur af okkar hlutverki að standa vörð um það að öllum börnum standi til boða að stunda tómstundir óháð fjölskylduaðstæðum,“ sagði Auður Ósk.

Þrír þjófnaðir voru tilkynntir í liðinni viku

Það var í ýmsu að snúast hjá lögreglu í liðinni viku vegna hinna ýmsu mála sem upp komu. Skemmtanahald helgarinnar fór fram með ágætum og lítið um útköll á öldurhúsin.   Þrír þjófnaðir voru tilkynntir til lögreglu í liðinni viku en um er að ræða þjófnað á GSM síma í einu tilvikinu en í hinum er um að ræða þjófnað á peningum úr tveimur bifreiðum. Er talið að þjófnaðurinn úr annarri bifreiðinni hafi verið að kvöldi 16. nóvember sl. eða aðfaranótt 17. nóvember sl. þar sem bifreiðin stóð í innkeyrslu neðarlega á Heiðarvegi.   Í hinu tilvikinu stóð bifreiðin við veitingastaðinn Vöruhúsið að kvöldi 22. nóvember sl. Í báðum tilvikunum voru bifreiðarnar ólæstar og eru ökumenn og eigendur bifreiða hvattir til að læsa bifreiðum sínum en nokkuð er búið að vera um það að undanförnu að farið sé inn í bifreiðar og rótað í þeim og stolið verðmætum úr þeim.   Ekki er vitað hver þarna var að verki og eru þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um það beðnir um að hafa samband við lögreglu.   Eitt mál vegna brota á vopnalögum kom til kasta lögreglu í liðinni viku en eftir ábendingu hafði lögreglan afskipti af manni inni á einum af öldurhúsum bæjarins sem var með hníf í fórum sínum. Má viðkomandi búast við sekt fyrir ólöglegan vopnaburð.   Einn ökumaður var stöðvaður vegna gruns um ölvun við akstur og hafa þá alls 8 ökumenn verið stöðvaðir vegna gruns um ölvun við akstur það sem af er árinu en á sama tíma í fyrra voru þeir orðnir 10. Í ár hafa hins vegar 14 ökumenn verið stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna en á sama tíma í fyrra voru þeir 9.   Tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt lögreglu í liðinni viku en í öðru tilvikinu blindaðist ökumaður af sólinni, sem var lágt á lofti, með þeim afleiðingum að bifreiðinn sem hann ók lenti á kyrrstæðri bifreið. Í hinu tilvikinu missti ökumaður stjórn á ökutæki sínu í hálku með þeim afleiðingum að bifreið hans lenti á ljósastaur. Ekki var um slys á fólki að ræða í þessum óhöppum ein tjón varð bæði á bifreiðum sem og ljósastaurnum.   Laust eftir hádegi þann 18. nóvember sl. var lögreglu tilkynnt um slys í fjárhúsi suður á Eyju en þarna hafði maður fallið eina fimm metra niður af þaki, en hann hafði misst meðvitund við fallið. Maðurinn skaddaðist m.a. á hrygg við fallið og var fluttur á sjúkrahús með sjúkrabifreið.          

Ólíkar þríburasystur úr Eyjum

Þríburasystur fæddust á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja fyrir sextíu árum. Þær eru einu þríburarnir sem vitað er til að hafi fæðst í Vestmannaeyjum. Systurnar ætla að halda saman upp á afmælið í dag. Fæðing systranna vakti talsverða athygli og var m.a. greint frá henni í bæjarblaðinu Fylki og í landsblöðum. Foreldrar þeirra voru Sigríður Sigurðardóttir og Kolbeinn Sigurjónsson á Hvoli í Vestmannaeyjum. Þau áttu fyrir Kolbrúnu Hörpu, sem fæddist í febrúar 1954, og var á öðru ári þegar hún eignaðist systurnar þrjár, þær Önnu Ísfold, Marý Ólöfu og Guðrúnu Fjólu. Það má nærri geta hvort það hefur ekki verið nóg að gera með fjögur bleiubörn og að þurfa að þvo taubleiurnar í kolakyntum þvottapotti fyrir daga sjálfvirku þvottavélanna. Hjónin eignuðust svo þrjú börn til viðbótar, Ingibjörgu Sigríði 1957, Elvu Sigurjónu 1963 og Kolbein Frey 1973.   Margfaldur hjartsláttur Einu sinni þegar Anna ljósa var að hlusta mömmu í mæðraskoðun sá mamma að hún eldroðnaði í framan. Svo sagðist Anna ljósa heyra meira en einn hjartslátt,« sagði Marý um aðdragandann að fæðingu þeirra. Sigríður var send í röntgenmyndatöku því þá var ekki búið að finna upp ómskoðun. »Þá sáust tvö fóstur og svo var eitthvað miklu minna á bak við þau. Það var jafnvel haldið að það væri æxli en það hlýtur að hafa verið Anna því hún var minni en við Guðrún þegar við fæddumst.« Marý sagði að á þessum árum hefði ekki tíðkast að feður væru viðstaddir fæðingar barna sinna. Kolbeinn var því heima á Hvoli, en þau voru ekki með síma. Það var hins vegar sími á efri hæðinni. Hann fékk að hringja þar á spítalann.   Fyrst þegar hann hringdi sagði kona sem svaraði: Það er komið eitt og eitthvað eftir enn,« sagði Marý. »Anna fæddist fyrst og það voru fimm mínútur á milli mín og hennar. Næst þegar pabbi hringdi var sagt: Það eru komin tvö og eitthvað eftir. Pabbi skrönglaðist niður stigann. Tuttugu mínútum síðar fór hann aftur upp og hringdi. Þá var sagt: Það eru komin þrjú og það er eitthvað eftir enn. Þá hætti pabbi að hringja! Fylgjan var svo stór að þau héldu að fjórða barnið væri á leiðinni.« Vógu saman eins og stórt barn Anna Ísfold var fjórar merkur og 40 sentimetra löng, næst kom Marý Ólöf og Guðrún Fjóla síðust. Þær voru níu merkur hvor og 46 sentimetra langar, að því er sagði í Fylki. Marý hafði hins vegar heyrt að þær Guðrún hefðu verið átta merkur en Guðrún hafði heyrt að þær hefðu verið sex merkur hvor. Ljósmóðir var Anna Pálsdóttir og læknir Einar Guttormsson. Anna var nefnd eftir Önnu ljósmóður en Ísfoldarnafnið kom úr móðurættinni frá Vatnsdal í Eyjum. Marý var nefnd eftir Marie ömmusystur sinni og manni hennar Ólafi Kristjánssyni, sem var bæjarstjóri í Vestmannaeyjum og bróðir Oddgeirs Kristjánssonar tónlistarmanns. Guðrún var nefnd eftir hjúkrunarkonu á spítalanum en Fjólunafnið var út í loftið. Eins klæddar í æsku Marý sagði að þær systurnar hefðu yfirleitt verið eins klæddar á yngri árum. »Ef það var saumað á okkur þá var saumað þrennt alveg eins,« sagði Marý. »Við Anna erum dökkhærðar og brúneygar en Guðrún ljóshærð og græneyg eins og mamma var.« Systrunum ber saman um að þær séu mjög ólíkir persónuleikar og ekki eins í sér. Fylgjunni var hent á spítalanum áður en gengið var úr skugga um hvort þær Anna og Marý hefðu í raun verið eineggja tvíburar. Þegar þær komust á unglingsár fóru þær að velja sjálfar á sig föt og hættu að ganga eins klæddar. Marý sagði að þær Anna hefðu átt sama vinahóp en Guðrún átt aðra vini.   Okkur Önnu þótti voðalega erfitt þegar fólk spurði hvort við værum ekki alveg eins og hugsuðum eins því við vorum líkar í útliti,« sagði Marý. Hún sagði að það hefði farið svolítið í taugarnar á þeim að vera alltaf spyrtar saman sem »þríburarnir« og talað um þær sem eina heild en ekki sjálfstæða einstaklinga. Marý og Anna búa nú skammt hvor frá annarri í Vestmannaeyjum en Guðrún býr í Vogunum. Engin þeirra systra hefur eignast fleirbura. Anna eignaðist tvö börn, Marý fimm og Guðrún tvö. Marý sagði að þær systur hittust sjaldan allar þrjár núorðið. Þær ætla ekki að halda stóra veislu í tilefni afmælisins en fara saman í dekur og svo út að borða í Vestmannaeyjum á afmælisdaginn.   Viðtalið birtist í Morgunblaðinu í dag.

Kostnaður við hönnun á nýjum Herjólfi orðinn 147 milljónir

 Kostnaður við hönnun á nýjum Herjólfi, sem siglir milli lands og Eyja, var orðinn rúmar 147 milljónir króna í september síðastliðinn.   Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.   Í svarinu kemur fram að kostn­aður við ráðgjöf og sérfræðiaðstoð vegna hönnunar hafi numið 136,8 milljónir króna, og kostnaður vegna vatnslíkanprófana erlendis numið 139.200 evrum og var greitt fyrir þá vinnu um 21,5 milljónir króna.   Í svari við fyrirspurn Ásmundar um hver sé viðbótarkostn­aður vegna lengingar ferjunnar um 4,2 metra og tankprófana á stærri ferju segir að mat ráðgjafa Vegagerðarinnar sé að hann sé óverulegur - innan við tvö til fjögur prósent - þar sem fyrst og fremst sé um aukið stálmagn að ræða. Tilboð norska fyrirtækisins Polarkonsult í viðbótartankprófanir nemi 64.900 evrum, eða um 9,4 milljónir króna.   Ásmundur spurði jafnframt hversu hár hönnunarkostn­aður nýrrar ferju hafi upphaflega verið áætlaður.   „Algengt er að smíði og hönnun sé boðin út saman. Miðað er við að hönnunarkostn­aður ferju af þessari stærðargráðu geti numið allt að 15% af heildarkostnaði. Ákveðið var að skipta verkefninu upp og bjóða út fyrsta hluta hönnunar sérstaklega. Áætlaður hönnunarkostn­aður var 800.000 evrur (um 116 millj. kr.), þar af voru áætlaðar 300.000 evrur (44 millj. kr.) í prófanir og hermanir. Undanskilið í hönnunarkostnaði var eftirlit með hönnun, ráðgjöf við vinnuhóp, þátttaka í hermun, frekari prófanir o.fl.,“ segir í svari innanríkisráðherra.     vísir.is greindi frá. 
>> Eldri fréttir

Íþróttir >>

Fimmtán marka sigur á Fjölni

 ÍBV tók á móti Fjölni þegar þrettánda og síðasta umferðin á þessu ári fór fram þar sem ÍBV burstaði Fjölni 38-23.   ÍBV byrjaði leikinn betur og skoruðu stelpurnar fyrstu tvö mörkin. Stelpurnar náðu strax ágætis forskoti og eftir tíu mínútna leik var staðan 7-3. Fjölnir tók leikhlé í stöðunni 8-4 en það leikhlé skilaði ekki miklu fyrir gestina og á næstu þrem mínútum fengu þær fjögur mörk á sig en skoruðu aðeins eitt. Varnarleikur ÍBV var virkilega góður á þessum kafla og Sara Dís Davíðsdóttir var að verja vel þar fyrir aftan en það skilaði auðveldum hraðaupphlaupsmörkum.  Eftir tuttugu mínútna leik voru stelpurnar komnar með tíu marka forskot, 15-5 en þessi kafli var virkilega slæmur fyrir gestina en þær skoruðu ekki mark í tíu mínútur. Stelpurnar gengu inn til hálfleiks með ellefu marka forskot 21-10.    Lið ÍBV gaf ekkert eftir í síðari hálfleik þó forskotið hafi verið stórt og skoruðu þær fyrstu tvö mörkin og náði þrettán marka forskoti. Eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik var staðan 27-13. Mest náði ÍBV sextán marka forskoti,33-17 en lokatölur urðu 38-23.   Mörk ÍBV skoruðu þær; Vera Lopes 10, Ester Óskarsdóttir 7, Greta Kavaliuskaite 7, Díana Dögg Magnúsdóttir 4, Sandra Dís Sigurðardóttir 4, Telma Amado 2, Kristrún Ósk Hlynsdóttir 2, Sandra Gísladóttir 1 og Bergey Alexandersdóttir 1.         Sara Dís Davíðsdóttir varði fimmtán skot í marki ÍBV og Erla Rós Sigmarsdóttir varði fimm skot og þar af eitt víti.   

Mannlíf >>

Gripið til hagræðingar á Hraunbúðum ::Ræsting og snyrting verður boðin út

 Á fundi fjölskyldu- og tómstundaráðs í síðustu viku voru lagðar fram tillögur um breytingar á rekstrarþáttum á Hraunbúðum. Í fundargerð segir að rekstrarkostnaður hafi undanfarin ár verið hærri en nemur framlagi ríkisins. Hefur það sem upp á vantar verið greitt af bæjarsjóði. Nú á að grípa til hagræðingar og á m.a. að leita tilboða í ræstingu.   Í fundargerðinni er greint frá því að stöðugt sé verið að skoða leiðir til að bæta rekstur Hraunbúða ásamt því að hagræða þannig að fjármagn nýtist sem best til þjónustunnar. Eftir vandaða yfirferð á rekstri málaflokksins og samanburð á rekstri annarra sveitarfélaga á sama málaflokki var lagt til að leitað verði tilboða í ræstingu á Hraunbúðum. Vestmannaeyjabær áskilur sér rétt til að hafna öllum tilboðum reynist þau ekki hagstæðari en núverandi fyrirkomulag.   Líka verði óskað tilboða í þá þjónustu sem veitt er í beinni og eða óbeinni samkeppni við einkaaðila. Núverandi verktakasamningum vegna fót- og hársnyrtingar verði því sagt upp og auglýst eftir rekstraraðilum með útboði. Útboðsforsendur verða leiguverð og hagstætt verð, afsláttur, til þjónustuþega. Heimilismenn greiða sjálfir fyrir þjónustuna. Vestmannaeyjabær áskilur sér rétt til að hafna öllum tilboðum ef þau eru ekki ásættanleg.   Einnig að könnuð verði hagkvæmni þess að bjóða út fleiri þætti í rekstri Hraunbúða s.s. starfsemi eldhúss og heimsendingu matar. „Allur ávinningur af hagræðingu verði nýttur áfram í þjónustu við aldraða s.s. við eflingu dagvistunar á Hraunbúðum og í starfsemi aldraðra í Kviku,“ segir í fundargerð og samþykkti ráðið tillögurnar.  

Greinar >>

Almenningssamgöngur ::Hagsmunir þúsunda íbúa hljóta að vega þyngst.

Engum stjórnmálamanni dettur í hug að leggja það til að strætókerfi höfuðborgarsvæðisins verði tætt í sundur og þær leiðir sem skila hagnaði verði dregnar út úr kerfinu og gerðar að samkeppnisleiðum þar sem rútu- og ferðaþjónustufyrirtækin í landinu geta keyrt á þeim leiðum en láti sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu eftir að aka leiðarnar sem standa ekki undir kostnaði. Þó eru margar leiðir í strætókefi höfuðborgarinnar sem skila góðum hagnaði sem eðlilega standa undir kostnaði við þær leiðir sem ekki bera sig. En þegar kemur að almenningssamgöngum á landsbyggðinni gilda önnur lögmál. Þar sem fáar en sterkar leiðir bera upp net áætlana til fámennari byggða eru teknar út úr kerfinu og gerðar að samkeppnisleiðum og sveitafélögin sitja því eftir með þær leiðir sem ekki standa undir kostnaði. Mikilvægt kerfi almenningssamgangna sem sveitarfélögin hafa byggt upp, mun dragast saman og bitna mest á námsfólki og eldri borgurum. Fólksins á landsbyggðinni sem við eigum að standa vörð um. En rútufyrirækin sem koma á háannatíma fleyta rjómann af fjölda farþega yfir sumarið en hverf jafn harðan þegar umferðin minnkar á haustin og eftirláta sveitarfélögunum að þreyja Þorrann og Góuna með taprekstri.   Sveitarfélögin byggðu upp öflugar almenningssamgöngur. Með eflingu almenningssamgangna í landinu á síðustu árum hefur þjónustan skipt sköpum fyrir íbúa í dreifðari byggðum landsins og farþegum í kerfinu hefur fjölgað um tugi, jafnvel hundruð þúsunda farþega á ári, mismundandi eftir svæðum. Fjölgun farþega hefur gert sveitarfélögunum kleift að bætta þjónustuna sem hefur gjörbreytt stöðu unga fólksins í dreifðari byggðum landsins og opnað þeim nýja leið til að stunda framhalds- og háskólanám í höfuðborginni. Unga fólkið sem á heima í nálægð við stærri byggðakjarna getur nú sótt framhaldsnám á hverjum degi með þéttriðnu neti almenningssamgangna gegn hóflegu gjaldi og búið áfram í foreldrahúsum.   Þannig geta námsmenn á Suðurnesjum, Vesturlandi og Suðurlandi sótt háskólanám til höfuðborgarinnar á hverjum degi en búið áfram í Sandgerði, Selfossi, eða Borgarnesi. Dýrt leiguhúsnæði sem er af skornum skammti er því ekki þröskuldur fyrir háskólanámi í höfuðborginni vegna góðra almenningssamgangna. Þessu til viðbótar nota eldriborgarar í hinum dreifðu byggðum strætó til að sækja sér ýmsa þjónustu til höfuðborgarinnar, eins og læknis og sérfræðiþjónustu hverskonar. Margir treysta sér ekki að aka í höfuðborginni eða ferðast um langan veg, jafnvel báðar leiðir sama daginn. En þétt áætlun strætó hefur opnað nýja ódýra og þægilega leið fyrir eldra fólkið sem nýtir þjónustuna í auknu mæli.   Nú er gengið að þessari þjónustu sveitarfélaganna með því að einkavæða þær leiðir sem skila hagnaði á landsbyggðinni. Þannig ók eitt rútufyrirtækið á Suðurlandi í allt sumar og var með áætlun nokkrum mínútum á undan strætó og hirti þannig megnið af öllum farþegunum frá Reykjavík að Höfn. Nú hefur dregið úr straumi ferðamanna á svæðinu og rútufyrirtækið því hætt akstri á leiðinni en sveitarfélögin sitja uppi með áætlun fram á vor sem ekki stendur undir kostnaði á jafn góðu kerfi og byggt hefur verið upp. Í vor með komu fleiri ferðamanna mæta þeir sem fleyta rjómann af ferðamönnum og hirða kúfinn frá sveitarfélögunum. Þetta hefur aðeins eitt í för með sér að tapið sem verður á almenningssamgöngum sveitarfélaganna mun draga úr þjónustu við fólkið á landsbyggðinni. Ég trúi því ekki að vilji meirihluta þingsins standi til þess.   Mismunun er óþolandi og ég trú því ekki að þingmenn láti það gerast fyrir fram nefið á sér að fólki í landinu sem mismunað á þennan hátt, nægur er ójöfnuðurinn þegar kemur að heilbrigðis og menntakerfinu í landinu sem flestir verða að sækja til höfuðborgarinnar. Sveitafélögin vilja stuðningi við almenningssamgöngur. Í heimsókn þingmanna Suðurkjördæmis til sveitarfélaganna í kjördæmaviku fyrir skömmu, bað hver einasta sveitar- og bæjarstjórn þingmenn að hjálpa til við að tryggja áfram öflugt net almenningssamgangna sem eitt helsta hagsmunamál námsmanna og íbúa í kjördæminu. Ég hef miklar áhyggjur af því að ekki sé nægur vilji fyrir hendi hjá of mörgum þingmönnum til að uppfylla þessa ósk. Með þeim afleiðingum að lífæðar strætókerfisins á landsbyggðinni verði gerðar að samkeppnisleiðum þar sem hagmunir þúsunda íbúa á landsbyggðinni verði látnir víkja fyrir hagsmunum fárra. Þetta heitir á mannamáli, að einkavæða hagnaðinn og ríkisvæða tapið.   Ef þingmenn standa ekki vörð um almenningssamgöngur í landinu verður dregið verulega úr þjónustu fyrir viðkvæma hópa á landsbyggðinni allt árið. Unga fólkið sem getur búið í foreldrahúsum verður að finna sér aðrar leiðir til að búa og þá í dýru leiguhúsnæði sem jafnvel er ekki á lausu. Ég vil ekki búa þannig að námsfólkinu á landsbyggðinni. Sveitarfélögin munu ekki standa undir tugmilljóna taprekstri þar sem einkaaðilar fá að fleyta rjómann af farþegunum í stuttan tíma á ári og láta síðan ekki sjá sig þess á milli. Er það réttlætið sem á að ráða ferðinni. Ég sem sjálfstæðismaður hef haft að leiðarljósi að við stöndum saman stétt með stétt og stöndum vörð um hagsmuni fólksins, líka á landsbyggðinni.   Ásmundur Friðriksson alþingismaður.  

VefTíví >>