Bókaðir tímar falla niður í verkfalli lækna

Aðfaranótt mánudagsins 27. október hefst verkfall lækna ef ekki verður samið fyrir þann tíma.  Verkfallið stendur í tvo sólarhringa og lýkur því á miðnætti þriðjudagsins 28. október.  Læknar við Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum munu leggja niður vinnu eins og annarsstaðar en í tilkynningu á heimasíðu heilbrigðisstofnunarinnar er ítrekað að á verkfallsdögum sé skylt samkvæmt lögum að veita nauðsynlegustu heilbrigðisþjónustu, sem að mati Læknafélags Íslands er sambærileg læknisþjónustu sem veitt er um helgar og á hátíðisdögum.  Það þýðir að tímabókanir hjá lækni á heilsugæslu og göngudeildum fellur niður á meðan verkfalli stendur.  Þó er tekið við bókunum á verkfallsdögunum, ef samið verður en ef ekki, falla tímarnir niður.     „Íbúum er bent á að fylgjast með því að morgni verkfallsdaga hvort verkfall sé skollið á og munu þá bókuð viðtöl falla niður. Ítrekað er að nauðsynleg bráðaþjónusta lækna er til staða á HSU komi til verkfalls lækna.  Íbúar í heilbrigðisumdæmi Suðurlands eru beðnir um að fylgjast með tilkynningum á heimasíðu stofnunar HSU um hver áhrif yfirvofandi verkfalls munu verða á þjónustu lækna á starfstöðvum stofnunarinnar,“ segir í tilkynningu á heimasíðu heilbrigiðisstofnunarinnar sem Herdís Gunnarsdóttir, nýr forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands skrifar undir.   Læknar hafa svo aftur boðað verkfallsaðgerðir frá aðfaranótt mánudagsins 17. nóvember til miðnættis þriðjudaginn 18. nóvember og frá aðfaranótt mánudagsins 8. desember til miðnættist þriðjudaginn 9. desember.  

Eyjapeyjar með verkefni til Microsoft

Eyjapeyjarnir Sigurjón Lýðsson og Jóhann Sigurður Þórarinsson, ásamt Skagfirðingnum Guðmundi Jóni Halldórssyni, hafa undanfarin misseri unnið að hönnun tækis, Insulync sem er ætlað að halda upplýsingum um lyfjagjöf sykursjúkra, sem verður haldið saman á miðlægu safni, Cloudlync. Fyrirtæki þeirra, Medilync fékk á dögunum næst hæsta styrk sem Samtök Sunnlenskra sveitarfélaga veitti en rósin í hnappagatið kom á dögunum þegar tölvurisinn Microsoft bauð þeim að koma til þeirra til að vinna að Insulync og Cloudlync.   Sigurjón segir í samtali við Eyja­fréttir að þetta sé mikil og góð viðurkenning fyrir verkefnið. „Ég veit ekki til þess að nokkurt annað íslenskt fyrirtæki hafi fengið svona boð áður, hvað þá fyrirtæki úr Eyjum. Tækið er í smíðum og svo verður ferðin notuð til að tryggja ákveðin gæði þegar kemur að hugbúnaðarhlutanum. Tækið er fyrir sykursjúka, þannig að það mælir blóðsykur og gefur insúlín. Tækið geymir svo upplýsingar um inngjöf insulíns og blóðsykurmælingar sem síðan eru sendar í miðlæga gagnageymslu í skýinu (e. Cloud storage). Notandinn getur svo nálgast sín gögn í gegnum vafra eða þar til gert app. Einnig getur notandinn gefið öðrum aðgang að sínum gögnum s.s aðstandanda eða lækni.“ Hugmyndin kviknaði fyrir þremur árum en faðir Sigurjóns, Lýður Ægisson er sykursjúkur. Auk þess var hann í krabbameinsmeðferð og átti í erfiðleikum með að fylgjast með insúlín notkuninni í meðferðinni. Í kjölfarið fór Sigurjón að leita að hentugu tæki sem gæti hentað föður hans en hann fann ekkert. Sigurjón ákvað því að búa til svona tæki sjálfur. Síðan eru liðin þrjú ár og árangurinn í raun ótrúlegur. „Mestur tími hefur farið í rannsóknarvinnu en þetta er fyrsta árið núna sem við vinnum markvisst að tæknilegri útfærslu, þannig að í lok árs 2015 verðum við komnir langt með virka frumgerð af tæki og hugbúnaði.“   >> Nánar í blaði Eyjafrétta

Reisusaga Gunnars og Óskars - I og II hluti

Knattspyrnumennirnir og félagarnir Gunnar Þorsteinsson og Óskar Elías Zoega Óskarsson héldu á dögunum í mikla ævintýraferð til Indlands.  Strákarnir ætluðu að stunda þar jóga og læra á brimbretti en Gunnar skrifar pistla á facebooksíðu sína þar sem sagt er frá ferðinni.  Eyjafréttir hafa fengið leyfi Gunnars til að birta pistlana, sem nú eru orðnir tveir og birtum við því fyrstu tvo saman hér.    Reisusaga Gunnars og Óskars,hluti I Ég ætla að setja inn smá pistil af svaðilförum okkar vinanna hérna í Indlandi, aðallega til að halda mæðrum okkar rólegum! Pistillinn er í lengra lagi, ég verð seint þekktur fyrir að vera stuttorður. Það voru tveir rokspenntir Eyjapeyjar sem héldu til Indlands á þriðjudaginn. Við þurftum að bíða yfir nótt á Heathrow eftir tengiflugi til Abu Dhabi. Nískupúkarnir sem við erum tókum ekki í mál að borga fyrir fokdýra hótelgistingu og komum okkur vel fyrir á dúðuðum bekkjum. Believe it or not, á Heathrow var flygill sem á stóð bókstaflega 'PLAY ME' og þar sem ekkert var framundan nema 10 tíma bið ákvað ég að leika nokkra (ekki svo) ljúfa tóna. Ég held að aðrir gestir flugvallarins hafi verið orðnir ansi pirraðir að heyra bjagaða útsetningu mína af Für Elise. Beethoven hefði snúið sér í gröfinni hefði hann heyrt misþyrmingu mína á þessu meistarastykki hans. Hann var reyndar heyrnarlaus í lifanda lífi þannig hann slapp blessunarlega við það. Áfram héldum við til Abu Dhabi þar sem Óskar átti stórskemmtilegt trademark móment. Í öryggisleitinni tókum við eftir athyglisverðum búningi lögreglumannanna, en þeir gengu í hvítum kuflum með rauða klúta á höfðinu. Myndasmiðnum Óskari fannst þetta vera algjört Kodak móment og smellti nokkrum af á símann sinn. Við stóðum nógu mikið út úr röðinni, tveir ljósir yfirlitum meðal 200 Indverja, og smellirnir í myndavélinni drógu athyglina enn frekar að okkur. Það skipti engum togum, löggurnar tjúlluðust og hrifsuðu símann af honum. Sem betur fer eyddu þeir bara myndunum og skiluðu símanum svo aftur. Skipulagsleysi Indverja kom strax í ljós þegar hleypt var inn í flugvélina. Einn gæi sá um að skanna ALLA flugmiðana þannig röðin gekk ansi hægt. Á flugvellinum í Thiravaraputam (!) var ennfremur bara eitt öryggisleitarhlið þannig það tók enn lengri tíma að komast út af flugvellinum. Við þurftum ekki að bíða lengi eftir menningarsjokkinu. Á leiðinni út í leigubíl reyndi vasaþjófur að hnupla úr vasanum hjá Óskari. Rósa Baldurs, sérlegur fatahönnuður ferðalanganna, hafði hugsað fyrir því í hönnun sinni á jógabuxunum sem hún sérsaumaði á okkur peyjana. Engir vasar eru á buxunum þannig eina sem þjófurinn greip í var stellið á Óskari. Leigubílsferðin til jógasetursins var svakalegasta þeysireið lífs okkar. Engin voru beltin og ökuþórinn þeystist fram úr hverjum bílnum, mótorhjólinu og vegfarandanum á fætur öðrum. Helst þegar blindbeygja var framundan. Ég þakka æðri mætti fyrir að við skyldum komast í heilu lagi á leiðarenda. Sumir (Óskar) voru orðnir svo stressaðir að hann tók myndband þar sem hann tíundaði ást sína á fjölskyldu og eiginkonu, "bara ef við skyldum deyja". Það vakti athygli mína að þótt klukkan væri fimm að nóttu til voru margir á ferli. Sofa Indverjar ekki? Loksins kom að því að þessum pistli mínum lauk. Nei djók. Loksins kom að því að við komum til jógasetursins, 33 klukkustundum eftir að við héldum frá Leifsstöð og þremur klukkustundum seinna en gert var ráð fyrir. Eðli málsins samkvæmt vorum við því afar ferðaþreyttir eftir lítinn svefn á leiðinni. Enginn tími var til að leggja sig því prógram dagsins var hafið. Ansi skrautlegt atvik sér stað í fyrsta jógatímanum. Þrátt fyrir að eiga að heita íþróttamaður er ég með ansi gilda þjóhnappa sem rúmuðust greinilega illa í jógabuxunum fínu sem mamma saumaði. Í allra fyrstu sólarhyllingunni teygði ég fæturna í sundur og viti menn, buxurnar rifnuðu með látum allt frá rassi upp fyrir lífbein. Í jógasetri þar sem stranglega bannað er að ganga í aðsniðnum fötum hékk ég með nærbuxurnar úti restina af tímanum. Við vorum búnir að lofa fjölskyldunum (lesist: áhyggjufullum mæðrum) að láta vita af okkur þegar á leiðarenda var komið. Netsambandið er víst ekkert á setrinu og símasambandi náðum við ekki fyrr en seinna um daginn þannig sms-ið náðum við ekki að senda fyrr en seinnipartinn, 9 klukkustundum en seinna en við sögðumst ætla að gera. Í stuttu máli sagt var jógasetrið ekki það sem við bjuggumst við, og því ákváðum við að yfirgefa svæðið og halda til Kovalam strandlengjunnar. Það reyndist góð ákvörðun. Þó að ávallt sé logn hér brimið samt mikið, segja má því að aðstæður séu fullkomnar til brimbrettaiðkunnarVið tókum daginn í að koma okkur fyrir á hótelinu og skoða umhverfið, þar á meðal nokkrar af afviknari ströndunum. Þar voru nokkrir unglingspiltar að sparka bolta á milli sín, og auðvitað þurftum við að sýna "listir" okkar. Fljótlega drifu fleiri peyjar að þegar þeir sáu tvo ljóshærða útlendinga gera sig að fiflum. Að sjálfsögðu var stillt upp í leik, með trjágreinum og flöskum fyrir mörk. Við spiluðum alveg þangað til sólin hné til viðar. Mitt lið vann (að sjálfsögðu). Vá hvað þetta var gaman! Svona móment er einmitt ástæðan fyrir að maður heldur í svona ævintýri. Enginn af þeim talaði ensku en það skipti engu máli, einn bolti er nóg. "Fótbolti er tungumál" segja Tjallarnir alltaf. Á morgun hefst surf'ið. Það verður nú einhver gleðin með honum Zoega. Við sitjum í þessum töluðu (skrifuðu?) orðum og fylgjumst með mannlífinu við ströndina og drekkum nýpressaðan ananassafa. La dolce vita.   Reisusaga Gunnars og Óskar s - Hluti II Komið sæl aftur, ég ætla að stikla á smáu (því ekki stikla ég á stóru miðað við lengdina á þessum pistlum) yfir það sem við Óskar höfum haft fyrir stafni síðastliðna daga í þessu næst fjölmennasta ríki heims. Sturluð staðreynd dagsins: 35% Indverja eru taldir lifa undir fátæktarmörkum. Inni í verri hverfum borgarinnar sem við höfum bæði skoðað á tveimur jafn fljótum og sk. rickshaw, yfirbyggðu þríhjóla mótorhjóli, flæðir rusl um allar götur og ólyktin fyllir öll vit. Vannærð börn hlaupu upp að okkur í hrönnum og kölluðu stórum augum 'please monní'. Þegar maður upplifir örbirgðina svona á eigin skinni hugsar maður hversu agalega gott við höfum það á Íslandi. Hvernig nennum við að væla yfir smávegis roki, rigningu og dýrtíð þegar stór hluti heimsins hefur varla í sig og á? Svo verður það pottþétt þannig að korteri eftir að við komum heim verðum við byrjaðir að væla yfir snjónum og kuldanum... Innfæddir gera ýmislegt til að afla sér lifsviðurværis. Hér við ströndina, bækistöð okkar, eru skransalar áberandi. Þeir eru svo ágengir að á köflum minna þeir mann á ónefndan leikmann ÍBV (þú veist hver þú ert) sem alræmdur er fyrir örvæntingafulla leit að fórnarlambi korteri fyrir lokum á Lundanum. Fyrst um sinn hunsuðum við sölumennina algjörlega eins og kennt er, en svo komumst við að því að það er miklu skemmtilegra að hafa húmor fyrir þeim og reyna að prútta, án þess endilega að hafa í hyggju að kaupa nokkuð. Enskukunnátta sölufólksins takmarkast við 'very special price for you my friend' þannig samningaviðræður fara fram á táknmáli með miklu handapati, höfuðhristingum og svipbrigðum. Gömlu konurnar sem selja framandi ávexti eru skemmtilegastar. Þegar við bjóðum fáránlega lágt verð setja þær upp svip sem dramadrottningin Rachel McAdams út The Notebook og Mean Girls væri stolt af, stara á okkur í dágóða stund og labba svo hægt í burtu í þeirri von að við sjáum ljósið og komum hlaupandi til þeirra. Svo þegar þær ganga næst fram hjá horfa þær illilega á mann en þegar ég gretti mig á móti er brosið ekki langt undan. Ég geri meir grein fyrir við skrifin að framkoman gæti virkað dálítið hrokafull en við kaupum reglulega ávexti af þeim, hálft í hvoru til að réttlæta sjálfa okkur og svo eru ávextirnir líka fantagóðir, nýtíndir af trjánum í grenndinni. Þrátt fyrir að vera búnir að dvelja hér í viku er líkamsklukkan ennþá alveg snarringluð. Ég sofna og vakna á óreglulegustu tímum og sef ýmist í fimm tíma eða fimmtán á sólarhring. En eins og með allt annað er hægt að finna ljósið í myrkrinu, bókstaflega. Þegar maður situr úti á svölum að nóttu til er unaðslegt að fylgjast með eldingunum leiftra um næturhimininn og hlusta á ölduniðinn og monsoon-rigninguna dynja á húsþökunum. Þegar maður horfir á brimbrettakappa leika sér í öldunum hugsar maður með að þetta geti nú varla verið erfitt, þetta er bara spurning um að vippa sér upp á brettið og sameinast öldunni. Með það hugarfar allavega hófum við Zoega brimbrettaiðkun okkar. Að sjálfsögðu reyndist málið ekki svo einfalt. Við erum báðir búnir með á fjórðu klukkustund í kennslu og erum ennþá að basla við að standa upp án hjálpar og 'ná öldunum', þ.e. hitta á öldurnar til að geta riðið þeim (bein þýðing á 'ride the wave', er hún ekki skemmtileg? Fimmaurabrandaraaðdáandanum mér finnst hún sniðug). Óskar er nú skömminni skárri en ég. En eins og með allt annað hljótum við að ná tökum á tækninni með áframhaldandi æfingum. Á meðan njótum við ferlisins allavega í botn. Allir sem þekkja mig vita að ég er hrakfallabálkur mikill. Það hefur heldur betur sýnt sig í sörfinu (afsakið slettuna íslenskuunnendur). Á nokkrum dögum hefur mér tekist að skrapa magann og bæði hnén til blóðs, týnt GoPro vélinni minni, fengið annars stigs sólbruna í rúmlega 30 gráðu hitanum, fengið stórt sár á ilina eftir að hafa lent á steini og svo fengið brettið tvisvar af alefli í andlitið, sem olli því að ég get ekki tuggið eðlilega og er með króníska skúffu eins og Johnny Bravo. Nennir einhver að hringja á vælubílinn? Djók, það segir sitt um skemmtanagildi íþróttarinnar að allar hrakfarirnar eru margfalt þess virði. Dagurinn í dag er toppurinn hingað til. Við héldum af stað í birtingu til vatnakerfisins í Kerala þar sem við rérum á kanó. Þaðan fórum við til verndarsvæðis. Við komuna gerði svoleiðis úrhellisrigningu að leiðsögumaðurinn okkar gerði sér lítið fyrir og hljóp í næsta skjól þaðan sem hann kallaði einfaldlega 'walk straight guys!' Við fylgdum fyrirmælumum galvaskir og gengum eftir slóðanum í gegnum frumskóginn, með hinum ýmsu útúrdúrum. Þar vorum við Zoega sko í essinu okkar, fundumst við vera algjörir Bear Grylls-naglar. En eftir tæpan hálftíma fóru að renna á okkur tvær grímur, það gat nú varla verið að við áttum að ganga svona langt? Við snérum við og jújú, innan við 5 mínútum frá staðnum þar sem við skildum við leiðsögumanninn var stærðarinnar fíll svona 20 m frá veginum... Talandi um að sjá ekki skóginn fyrir trjánum. Við vorum greinilega að bíða eftir skilti sem á stæði: 'ELEPHANT HERE ->'. En gott og blessað, við komum á heppilegum tíma því fengum eitthvað aðeins að taka þátt í böðun fílskálfanna þar sem við fengum að upplifa kraftinn í þeim þegar einn kálfanna fældist og tók á sprett. Og þegar fíll kemst á ferðina stoppar hann ekkert. Hápunkturinn var svo þegar við settumst á bak fullvaxins tarfs. Og þar var sko ekki verið að stressa sig mikið á öryggismálum, við sátum einir á baki í frumstæðum söðli og fíllinn var ekki einu sinni bundinn! En hann reyndist alveg spakur þannig áhyggjur okkar hurfu fljótt og reiðtúrinn var stórskemmtilegur. Þvílíka upplifunin sem þetta var, klárlega eitt 'check' á bucket-listanum. Við lentum á spjalli við breska konu sem benti okkur á jógakennara í grenndinni. Nú stundum við jóga á hverju kvöldi uppi á þaki og fylgjumst með sólinni hníga til viðar. Er þetta ekki ein leið til að lifa lífinu til fulls?

GRV fær styrk úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar

Grunnskóli Vestmannaeyja (GRV) er einn fjögurra skóla sem fær styrk úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar en styrkirnir verða afhentir í húsakynnum CCP í Reykjavík í dag.  Auk GRV fær Smáraskóli, Kirkjubæjarskóli og Grunnskólinn í Sandgerði styrk, sem samtals er upp á fjórar milljónir.  Styrkirnir eru í formi tölvubúnaðar og þjálfunar kennara til forritunarkennslu fyrir nemendur.   „Sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar hóf starfsemi sína í byrjun árs 2014 og er megin hlutverk sjóðsins að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Skólar og sveitarfélög geta sótt um styrki úr sjóðnum til að efla tæknikennslu og notkun á tækni í skólastarfi og fá til þess þjálfun og tækjabúnað, allt eftir þörfum hvers og eins. Þetta er í annað sinn sem úthlutað er úr sjóðnum en fyrri úthlutunin fór fram 21. febrúar sl. Var þá úthlutað styrkjum að verðmæti fjórar milljónir króna. Samtals hefur því sjóðurinn úthlutað virði tæpra 8 milljóna króna í styrki til skóla á þessu ári,“ segir í fréttatilkynningu frá sjóðnum.   „Við erum mjög ánægð með þær viðtökur sem sjóðurinn hefur fengið og þann fjölda umsókna sem hafa borist. Við erum stolt af því að hafa náð að úthluta styrkjum að verðmæti 8 milljóna á fyrsta starfsári. Við höfum fengið til samstarfs við okkur rosalega flotta hollvini, bæði einkafyrirtæki sem og mennta- og menningarmálaráðuneytið sem sýnir okkur hvernig atvinnulífið og hið opinbera geta unnið saman og náð árangri,“ segir Guðmundur Tómas Axelsson, stjórnamaður í Forriturum framtíðarinnar.    Að sjóðnum koma fyrirtæki og stofnanir af öllum stærðum og gerðum. Þau leggja honum lið með því að leggja honum til fjármagn og tæknibúnað. Bakhjarlar og hollvinir sjóðsins eru Nýherji, Íslandsbanki, Landsbankinn, RB (Reiknistofa bankanna), CCP, Cyan veflausnir, Össur og mennta- og menningarmálaráðuneytið.  
>> Eldri fréttir

Stjórnmál >>

Fyrsti fundur bæjarstjórnar í dag

Bæjarstjórn Vestmannaeyja kemur saman í dag í fyrsta sinn á nýju kjörtímabili.  Niðurstaða bæjarstjórnarkosninganna í vor, voru á þann veg að Sjálfstæðisflokkur fékk fimm bæjarfulltrúa en Eyjalistinn tvo.  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn eru Elliði Vignisson, Páley Borgþórsdóttir, Páll Marvin Jónsson, Trausti Hjaltason og Birna Þórsdóttir en fulltrúar Eyjalistans eru Jórunn Einarsdóttir og Stefán Óskar Jónasson.  Elliði, Páley, Páll Marvin og Jórunn sátu öll í bæjarstjórn á síðasta kjörtímabili.  Stefán Óskar hefur áður verið í bæjarstjórn og var varamaður á síðasta kjörtímabili en þau Trausti og Birna eru ný.  Bæjarstjórnarfundurinn fer fram í Eldheimum og hefst klukkan 18:00.   „Þegar ég kom inn í bæjarstjórn 2002 voru útsvarstekjur á hvern íbúa á verðlagi þess árs rétt liðlega 200.000 krónur en á síðasta ári voru þær hátt í 475.000 krónur,“ sagði Stefán í samtali við Eyjafréttir, sem kom út í gær.   „Staðan í dag opnar á tækifæri að gera meira fyrir bæjarbúa og bæjarfélagið í heild. Ég er ekki að mæla með óráðsíu í fjármálum en það má gera betur á ýmsum sviðum. Auðvitað veltur þetta mikið á á sjávarútvegi og afkomu atvinnulífsins almennt. Á kjörtímabilinu 2002 og 2006 vorum við, ég og núverandi bæjarstjóri, Elliði Vignisson, að skoða þann möguleika á að rífa blokkina Áshamar 75 ef það gæti létt á skuldum bæjarins. Engum dettur það í hug í dag en sterkari innviðir bæjarfélagsins eru líka verðmæti,“ sagði Stefán.   Viðtalið má lesa í heild sinni í Eyjafréttum.  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Greinar >>

Svar til Elliða Vignissonar við opnu bréfi til þingmanna

Þakka þér fyrir opið bréf til okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins og ekki síður ástríða þín að halda uppi vörnum fyrir sjávarútveginn og sjávarbyggðir.   Ég get tekið undir að samráð varðandi frumvörp um veiðigjöld hafa í síðustu tvö skipti ekki verið eins og við sjálf ræddum um. Í mínum huga er það forsenda árangurs að hafa gott samráð við útveginn og samtök sjómanna varðandi lagasetningu og breytingar á rekstrarumhverfi greinarinnar. Þá þarf samráð við okkur þingmenn að vera meira og markvissara um verkefnin, vinnuna, uppleggið og niðurstöðuna sem við viljum sjá og stefnum að með pólitískri niðurstöðu okkar.   Varðandi bætt umhverfi fyrir atvinnulífið þá er það markviss stefna okkar að lækka álögur á atvinnulífið. Tryggingagjaldið er á hægri niðurleið, veiðigjöldin eru að mínu mati ósanngjörn þar sem hagnaður af vinnslunni er inn í veiðigjöldunum og það er auðvitað ófært. Ég vil að vinnslan hafi tækifæri til að greiða hærri laun og verði því ekki sérstaklega skattlögð vegna veiðigjald, sem útgerðin síðan greiðir. Ég kýs sjálfur einfalt veiðigjald og þess vegna mætti hækka almenna gjaldið lítillega og láta þar við sitja og engar undanþágur né afslættir vegna skulda verði í gjaldinu. Allir greiði sama gjald miðað við þá stuðla sem við höfum unnið með. Veiðigjöldin eru um 8 milljarðar á þessu ári en með óbreyttri stefnu fyrri ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur væri þau yfir 20 milljarðar svo við höldum því til haga. Í þessu sambandi ítreka ég vilja okkar til að lækka álögur á heimilin og einstaklingana í landinu. Það verkefni er líka og leið til aukins kaupmáttar.   Samkvæmt ifs-greiningu yfir afurðaverð útfluttra sjávarafurða heldur afurðaverð áfram að hækka. Afurðavísitalan hækkaði þannig um 2,4% í ágúst frá fyrri mánuði og 10% sl. 6 mánuði í íslenskum krónum. Í erlendum gjaldeyri hefur hækkunin verið aðeins minni eða um 2,2% í ágústmánuði og um 9,9% á sl. 6. mánuðum. Til samanburðar hafa laun sem hlutfall af rekstrarkostnaði í vinnslunni lækka um 30-50% sl. 7 ár.   Loðnuaflinn var vonbrigði á þessu ári eða um 130 þú. tonn á móti 450 þús. tonnum árið 2012. Spá Hafró fyrir næsta ár er 4-500 þús tonn. Það kemur til móts við minnkandi ársafla 2013, en loðnan er brellin og erfitt að reiða sig á hana.   Ég geri ekki lítið úr áhyggjum um minnkandi afla en við búum við breytileika í náttúrunni og ráðum ekki við aflabrest frekar en sumarheimsókn makríls sem hefur gjörbreytt afkomu uppsjávarveiða og aukið verðmæti og minnkað atvinnuleysi í sjávarplássum.   Varðandi það að gengið hafi verið fram af hörku og ósanngirni í álagningu veiðigjalda er rétt að þrátt fyrir að beygt hafi verið af leið fyrri ríkisstjórnar um veiðigjöldin þá eru gjöldin há. Unnið er að frumvarpi um breytinga á veiðigjöldum, en gjöldin eiga að taka mið af getu greinarinnar til að greiða fyrir aðgang að auðlindinni. Það gleðilega er að framlegð eftir útgerðaflokkum sjávarútvegsfélaga á árinu 2013 gefur sterka mynd af góðri afkomu greinarinnar þó mismunandi sé og greinilegt að útgerðaflokkar missterkir til að takast á við veiðigjöld.   Blönduð uppsjávar- og botnfiskfélög skila árið 2013 28% EBIDU, (32% 2012) Botnfiskútgerð og vinnsla 19% (23% 2012) og botnfiskútgerð 20% (22% 2012) Greiddur tekjuskattur sjávarútvegsfélaga var um 21,5% á árinu 2013 samkvæmt upplýsingum Deloitte sem fram komu á Sjávarútvegsdeginum í Hörpu í dag 8. okt.   Þrátt fyrir lækkun framlegðar jókst hagnaður greinarinnar milli áranna 2012 og 2013 úr 46 milljörðum í 53 milljarða árið 2013. Skuldir lækkuðu frá 2009 úr 494 ma í 341 ma eða um 153 milljarða 2013. Á árinu 2013 voru arðgreiðslur útvegsins til hluthafa 12 milljarðar en vor 6.3 ma árið 2012 þrátt fyrir lækkun framlegð milli áranna. Afurðaverð fer hækkandi og skuldir lækka. Það er góðæri í útveginum og framleiðni greinarinnar eykst.   Samkvæmt þessum upplýsingum er staða útvegsins góð og mikilvægt að sú staða endurspegli samfélagslega ábyrgð fyrirtækjanna, bætt launakjör starfsfólks og í hagsæld sjávarbyggðanna.   Með vinsemd Ásmundur Friðriksson alþingismaður.