SFS - Viðræðuslit - Sjómenn víkjast undan ábyrgð

SFS - Viðræðuslit - Sjómenn víkjast undan ábyrgð

„Sjómannasamband Íslands, Sjómannafélag Íslands og VM Félag vélstjóra og málmtæknimanna tóku þá ákvörðun að slíta kjaraviðræðum við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) í dag. Vegna þeirra miklu hagsmuna sem samfélagið allt hefur af því að verkfall sjómanna taki enda, telur SFS ábyrgð verkalýðsfélaganna ríka. Sjómenn og sjávarútvegsfyrirtæki hafa falið samninganefndum að ná ásættanlegum kjarasamningi og undan því verkefni leysa aðilar sig ekki með því að ganga frá samningaborði,“ segir í fréttatilkynningu frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi sem nýlega barst.   „Í kjarasamningnum, líkt og samningum almennt, ber samningsaðilum að taka tillit til hvers annars og huga að hverju því málefnalega sjónarmiði sem gagnaðili setur fram. Í kjaraviðræðum SFS og samtaka sjómanna, hvort heldur viðræðum í aðdraganda samninganna tveggja sem sjómenn felldu á liðnu ári eða í þeirri samningalotu sem samtök sjómanna hafa nú gengið frá, hefur SFS unnið í samræmi við þessa grunnreglu. Verkalýðsfélögin þrjú hafa fengið ríka áheyrn um allar þær kröfur sem þau hafa sett fram og ríkur vilji hefur verið af hálfu SFS til að koma til móts við margar þeirra.   Tillitið hefur ekki verið gagnkvæmt og verkalýðsfélögin hafa því miður ekki ljáð máls á málefnalegum sjónarmiðum SFS. Það er miður að þau treysti sér ekki til að ræða allar hliðar kjaramála. Ljóst má vera að ógerlegt er að ganga að öllum kröfum þeirra,“ segir einnig í fréttatilkynningunni. Þannig að ekki sér fyrir endann á verkfalli sjómanna sem hófst 14. desember.    

Hann fyrsti formaður ÍBV íþróttafélags og hún fyrsta konan sem formaður Íþróttabandalagsins

Það var árið sem síðari heimsstyrjöldinni lauk að María Gísladóttir frá Norðfirði varð léttari og Þór Ísfeld Vilhjálmsson kom í heiminn nánar tiltekið 30. nóvember 1945. Var hann annað barn foreldra sinna. Og það má segja að hann hafi fæðst með blátt blóð, - allavega fjólublátt, þar sem faðir hans Vilhjálmur Árnason frá Burstafelli við Vestmannabraut var einn af hörðustu félagsmönnum Íþróttafélagsins Þórs á sínum tíma og blár var litur félagsins. Þótt drengurinn hafi ekki verið skírður eftir félaginu þá ber hann nafn þess og var skráður í það sem ungabarn. Sem ungur drengur og unglingur lék Þór Ísfeld knattspyrnu með félaginu sínu og Íþróttabandalagi Vestmannaeyja og þótti ágætur knattspyrnumaður. Eftir að skyldunáminu lauk við Gagnfræðaskólann fór Þór í Vélskólann og síðar Stýrimannaskólann í Eyjum og fór svo á sjóinn, var m.a. í eigin útgerð um tíma. Í land var stigið árið 1979 og þá tók hann að sér starfsmannastjórn hjá Vinnslustöðinni og á þeim vettvangi hefur hann starfað síðan.   Í pólitík og félagsmálum   Félagsmálastörf hafa alla tíð verið Þór afar hugleikin. Hann hefur sterkar skoðanir í pólitík og nokkuð látið að sér kveða á þeim vettvangi, var m.a. formaður Alþýðuflokksfélags Vestmannaeyja um skeið. Aðeins 17 ára gamall, árið 1962, var Þór fyrst kosinn í stjórn Íþróttafélagsins Þórs, það ár var Óli Árni eldri bróðir hans annálaritari félagsins og það ár var faðir hans Vilhjálmur, endurskoðandi félagsins, það má því segja að ræturnar séu sterkar. Eftir að sjómennsku Þórs lauk, hefur hann gefið sig allan að störfum fyrir íþróttahreyfinguna. Þór Ísfeld var formaður Íþróttafélagsins Þórs frá árinu 1985 til ársins 1994, eða í tæp 10 ár. Þetta voru mikil umbrotaár í íþróttahreyfingunni og bygging Þórsheimilisins reis á þessum árum. Starfið var margt og mikil hreyfing komin á einhverskonar samstarf eða sameiningu íþróttafélaganna, Þórs og Týs. Hann var í nefnd sem kom að stofnun ÍBV íþróttafélags. Þór Ísfeld var síðan fyrsti formaður þess félags árið 1996 og gegndi starfinu til ársins 2003. Það ár tók Þór að sér formennsku hjá Íþróttabandalagi Vestmannaeyja og gegndi því starfi þar til í apríl 2016. Þór hefur frá upphafi setið í stjórn Ferðajöfnunarsjóðs Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem fulltrúi Vestmannaeyja og Suðurlands og hann var 16 ár í stjórn Íþróttamiðstöðvar Vestmannaeyja. Hann var sæmdur heiðurskrossi Íþróttabandalags Vestmannaeyja í 70 ára afmælisveislu sinni.   Fann konuna ská á móti á Vestmannabrautinni   Þór leitaði ekki langt yfir skammt að eiginkonu. Ská á móti Bursta-felli sem stendur við Vestmannabraut stóð lágreist hús nr. 76, þar bjó Adólf Magnússon og Sigríður Jónsdóttir kona hans ásamt börnum sínum og meðal barna þeirra var Sólveig, - Dollý eins og hún er alltaf kölluð, - árinu yngri en Þór, fædd 1. október 1946. - Þótt í fyrstu hafi þau skötuhjú verið leikfélagar, varð samband þeirra nánara á unglingsárunum og stundum var laumupúkast hinumegin götunnar. Úr þessu varð farsælt hjónaband þeirra og þrjú myndarbörn.   Alla tíð verið mjög samstillt   Lengi vel vann Dollý utan heimilis, sem fiskverkakona í Vinnslustöðinni, hin síðari ár var hún starfsmaður Starfsmannafélags Vestmannaeyja. Þau hjón hafa alla tíð verið mjög samstillt og milli þeirra mikill samhljómur. Bæði verið samstíga þátttakendur í pólitísku starfi. En síðast en ekki síst á íþróttasviðinu. Dollý lék handbolta með Íþróttafélaginu Þór á sínum yngri árum, hlaut m.a. handknattleiksbikar félagsins árið 1962 og sat í stjórn þess um tíma. Dollý var einn af frumkvöðlum Pæjumótsins árið 1990, knattspyrnumóts í Eyjum fyrir stúlkur, sem enn er haldið. - Hún var formaður Íþróttabandalags Vestmannaeyja frá árinu 1992 til ársins 1997 og er eina konan sem gegnt hefur því starfi. Dollý hefur alla tíð verið mikill áhugamaður um íþróttir og missir varla af íþróttakappleik. Hún hefur verið einskonar málsvari kvennaíþrótta alla tíð. Má sjá í fundagerðum ÍBV íþróttafélags og Íþróttabandalagsins að Dollý hefur alla tíð borið hag kvennaíþrótta mjög fyrir brjósti og lét ósjaldan skoðanir sínar í ljósi á þeim vettvangi og hefur eflaust ekki veitt af. Saga íþróttahreyfingarinnar í Vestmannaeyjum hefur alla tíð verið samofin lífshlaupi þeirra hjóna og þau eru enn þátttakendur í leik og starfi hennar.  

Eyjamenn láta ekki hafa sig að fíflum aftur

„Hún var ísköld kveðjan sem nýr forsætisráðherra sendi Eyjamönnum og Suðurkjördæmi öllu þegar hann ákvað að enginn af lista Sjálfstæðismanna í kjördæminu ætti sæti í nýrri ríkisstjórn. Þetta gerði hann þrátt fyrir að flokkurinn næði hvergi betri árangri á landinu öllu í kosningunum í haust. Þetta er umhugsunarefni og þó ekki síður sú staða, að nú er við völd ríkisstjórn sem við með sanni getum kallað borgarstjórn,“ sagði Ómar Garðarsson, ritstjóri Eyjafrétta við afhendingu Fréttapýramídanna í gær. „Á síðasta kjörtímabili átti Suðurkjördæmi tvo ráðherra en samt var á brattann að sækja hjá Eyjamönnum í samgöngu- og heilbrigðismálum. Á þeirra vakt er staðan sú að það heyrir til undantekninga að Eyjakonur fæði börn sínu í Vestmannaeyjum. Á síðasta ári voru þau þrjú en 40 komu í heiminn uppi á landi,“ sagði Ómar einnig. Hann sagði þessa fáránlegu stöðu gera miklar kröfur til Eyjamanna á þingi sem eru Páll Magnússon, Ásmundur Friðriksson Sjálfstæðisflokki og Smári McCarthy Pírötum. „Við verðum líka að standa við bakið á þeim og koma því á framfæri að við erum ekki sátt.“ Ómar sagði mikla stemningu hafa verið í Vestmannaeyjum í kringum prófkjör Sjálfstæðismanna í haust sem skilaði Eyjapeyjunum Palla og Ása í fyrsta og annað sætið. „Náði þátttakan langt út fyrir raðir flokksins en sennilega finnst mörgum að til einskis hafi verið barist. Og sumir munu hugsa sem svo, ég læt ekki hafa mig að fífli aftur.“ „En af hverju þykir allt í lagi að ganga fram hjá okkur Eyjamönnum?,“ spurði Ómar og hélt áfram. „Líklega getum við þakkað það fjölmiðlum og ekki síst Ríkistútvarpinu sem ekki slær af þegar hægt er að segja slæmar fréttir frá Eyjum. Það væri svo sem allt í lagi ef einhvern tíma kæmu þar jákvæðar og huggulegar fréttir frá Vestmannaeyjum. Nú ætla ég að spyrja ykkur, man einhver hér inni eftir jákvæðri frétt eða umfjöllun um Vestmannaeyjar í RÚV okkar allra, á síðustu misserum? Það var reyndar eins og mildur blær úr suðri að heyra rödd Sighvats Jónssonar í umfjöllun um ráðstefnu um náttúruvá sem Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri stóð fyrir í síðustu viku. Þarna var rætt á faglegan hátt og upplýsandi um mál sem skiptir okkur sem hér búum miklu. Þetta er sami lögreglustjóri og fær stofnunina til að skjálfa fyrir hverja þjóðhátíð og ata okkur auri sem hér búum. Ég nenni ekki að hafa álit á öðrum fjölmiðlum en á meðan ég neyðist til að leggja í púkkið leyfi ég mér að hafa skoðun á því sem kemur frá RÚV.“ Ómar sagði Eyjamenn ekki þurfa að biðjast afsökunar á að vera til og þeir eigi víða hauka í horni þó RÚV verði seint talið í þeim hópi. „Hér er öflugt atvinnulíf, góðir skólar og menning stendur hér í meiri blóma en oft áður. Til dæmis eru bæði Sindri Freyr og Júníus Meyvant tilnefndir til hlustendaverðlauna FM-957. Við eigum fulltrúa, þau Alexander Jarl og Silju Elsabetu í bestu söngskólum í London og stutt er síðan Rúnar Kristinn útskrifaðist í London. Það má lengi halda áfram í þessari upptalningu og eru handhafar Fréttapýramídanna fyrr og nú verðugir fulltrúar okkar hvar sem er. Það má líka nefna Oddgeir, Ása í Bæ, Árna úr Eyjum, Binna í Gröf og marga fleiri sem skarað hafa fram úr. Við eigum líka fólk sem skarað hefur fram úr í íþróttum, Torfa Bryngeirs, Ásgeir Sigurvinsson, Hemma Hreiðars, Írisi Sæm, Andreu Atla, Margréti Láru og ÍBV-íþróttafélag sem hefur náð fleiri titlum á sínum 20 árum en nokkurt annað félag í handbolta og fótbolta. Svo megum við ekki gleyma honum Heimi Hallgríms, landsliðsþjálfara sem gerði Lars Lagerbeck að besta þjálfara Svíþjóðar á síðasta ári. Allt ólst þetta fólk upp hér og tók út sinn þroska. Auðvitað eru Vestmannaeyjar ekki 100% samfélag og verða seint og alltaf verða einhver verkefni sem þarf að leysa. Númer eitt er að hér sé ásættanleg sjúkraþjónusta sem unga fólkið sættir sig við og hitt eru samgöngurnar sem eru lykillinn að því að þetta samfélag nái að dafna og vaxa í framtíðinni,“ sagði Ómar og hvatti viðstadda að endingu til að standa vörð um Vestmannaeyjar.  

Þrettándinn hluti af menningu Eyjamanna

Frá því fyrir miðja síðustu öld hafa Vestmannaeyingar fagnað þrettándanum með glæsibrag þar sem saman koma jólasveinar, álfar, púkar og tröll að ógleymdum Grýlu og Leppalúða sem eru í heiðurssæti á hátíðinni. Það er mikið lagt í búninga og mikið kapp lagt á að tröllin séu sem svakalegust. Þetta er mikið sjónarspil sem hefst með flugeldasýningu af Hánni þaðan sem jólasveinarnir ganga niður með kyndlana á lofti. Síðan tekur við ganga um bæinn sem endar á malarvellinum við Löngulág þar sem dansað er í kringum mikinn bálköst. Mannfjöldi fylgist með og hafa þeir sjaldan verið fleiri sem fylgdust með en á þrettándanum í ár enda veður einstaklega gott.   Birgir Guðjónsson, Biggi Gauja eins og hann er venjulega kallaður, hefur aðstoðað Grýlu frá árinu 1967 og var hann með henni í 51. skiptið á þrettándanum í ár. „Að hugsa sér, það er fullyrt að ég hafi byrjað 1967 og hef verið með í þessu síðan. Þau voru því orðin 50 skiptin í fyrra samkvæmt myndum sem til eru,“ segir Biggi í spjallið við blaðamann í síðustu viku. Þá lá hann í flensu sem hafði verið að hrjá hann um áramótin en það aftraði honum ekki að mæta á þrettándann. „Þetta er búið að vera rosalega gaman annars hefði maður ekki staðið í þessu í öll þessi ár. Það var pabbi sem ýtti mér út í þetta. Hann var Leppalúði í nokkur ár og Unnur Guðjóns Grýlan og komum við Þórður Hallgríms inn fyrir þau árið 1967. Pabbi hafði engan tíma í þetta því hann hafði svo mikið að gera í tröllunum. Hafa ýmsir staðið mér við hlið í þessum slag.“ Þrátt fyrir hálfrar aldar feril í Grýluhlutverkinu segir Biggi að þetta sé alltaf jafn gaman. „Svo megum við ekki gleyma öllu fólkinu, sem telur um 200 manns, sem vinna þetta allt í sjálfboðaliðsvinnu. Það er enginn yfir þessu starfi en samt gengur þetta allt eins og smurð vél.“ Biggi segir þrettándann hluta af menningu Eyjamanna og viljinn til að halda þessu gangandi sé það sem haldi fólki við efnið. „Það er þessi gleði í kringum undirbúninginn og hátíðina sjálfa sem ýtir manni í gang. Ef maður kemst ekki í gott skap í öllum þessum hamagangi er eins gott að koma sér heim. Já, það er svo margt sem gerir þessa hátíð okkar Eyjamanna alveg einstaka. Við höfum yfirleitt verið ofsalega heppin með veður. Stundum hefur dúrað rétt á meðan á hátíðinni stendur og skollið á vitlaust veður strax eftir að henni lýkur. Í þetta skiptið var blíða allan daginn sem gerir þetta svo miklu skemmtilegra og léttara,“ sagði Biggi að endingu.  

Veitingastaðurinn Canton lokar vegna barneigna

„Það hlýtur að vera íhugunarefni að hátt í 50 fjölskyldur í Vestmannaeyjum þurfa að flytja búferlum á þessu ári,“ segir Hallgrímur Rögnvaldsson, eigandi Canton, um þá erfiðu stöðu sem barnafólk og fjölskyldur þeirra standa frammi fyrir í kringum barneignir. Þetta vandamál er mörgum Vestmanneyingum afar kunnuglegt og gerir fólk sér kannski ekki alveg grein fyrir alvarleika þess fyrr en það finnur sig sjálft í þeim sporum að þurfa að fara upp á land um óákveðinn tíma. Margir standa frammi fyrir því að missa daga eða vikur úr vinnu, þurfa að verða sér úti um gistiaðstöðu sem getur reynst dýrt svo ekki sé talað um blessað ferðalagið sem fólk þarf að leggja á sig. „Mér var sagt í sambandi við svæfingalækna að það kæmi ekki til greina að flytja inn útlendinga í þessi störf því Félag svæfingalækna á Íslandi hafi beitt sér gegn því að gefa þeim meðmæli. Það eru síðan við sem verðum fyrir barðinu á þessu. Auðvitað þarf að vera bæði skurðlæknir og svæfingalæknir hérna í Eyjum,“ heldur Hallgrímur áfram og bendir á að þjóðir á borð við England nýti mikið erlent vinnuafl í læknastörf þar í landi. Um næstu mánaðamót á sonur Hallgríms og unnusta hans, þau Mangmang Huang og Fei Fei, von á sínu fyrsta barni og í samráði við ljósmóður er stefnan sett á að fara upp á land 23. janúar. „Við þurfum að fara viku fyrir tímann og svo veit maður ekkert hvort þetta dregst eitthvað á langinn þannig óvissan er mikil,“ segir Hallgrímur sem er búinn að auglýsa lokun á Canton um óákveðinn tíma vegna þessa. „Í okkar tilfelli verðum við að taka okkur frí til að sinna þessu. Það er með ólíkindum að það sé verið að bjóða fólki upp á þetta og það er ekkert útlit fyrir að það verði einhver breyting á þessu,“ segir Hallgrímur og bendir á að gríðarlegur kostnaður fylgir þessu, „Það er bara fjölskyldan sem stendur að þessu,“ segir Hallgrímur um reksturinn á Canton en eins og fyrr segir þurfa þau að loka staðnum á meðan þessu stendur. „Við byrjum á því að vera í Ölfusborgum í eina viku og svo fáum við Drífanda íbúðina í Reykjavík frá og með 29. janúar í eina viku. Maður þakkar bara fyrir að þetta sé ekki um mitt sumar þegar það er brjálað að gera. Þá værum við í miklum vandræðum og gætum hreinlega ekki lokað,“ segir Hallgrímur að lokum.  

Afrek hans á Heimaslóð eru mikil og fyrir það ber að þakka

Víglundur Þór Þorsteinsson læknir fæddist að Brekku 24. júlí 1934 og ólst upp í Eyjum. Foreldrar hans voru Ingigerður Jóhannsdóttir húsfreyja og Þorsteinn Þ. Víglundsson skólastjóri og sparisjóðsstjóri m.m. Á unglings- og menntaskólaárum stundaði Víglundur Þór á sumrum verkamannavinnu, síldveiðar og landbúnaðarstörf. Lauk landsprófi við Gagnfræðaskólann vorið 1950, stúdentsprófi við Menntaskólann á Laugarvatni 1954. Íþróttakennaraprófi lauk hann við Íþróttakennaraskóla Íslands 1955. Hann var kennari við Gagnfræðaskólann 1955 til 1956 og síðan þjálfari og íþróttakennari á sumrum 1955 til 1958 og læknaprófi lauk hann í febrúar 1964, bandaríska útlendingaprófinu í læknisfræði í mars 1964. Kandídatsárið vann hann við Sjúkrahús Vestmannaeyja 1964, þar með staðgengill héraðslæknis, - og á sjúkrahúsum í Reykjavík. Var við sérfæðinám og störf í Bandaríkjunum. Bandaríska sérfræðingaprófinu lauk hann og mastersprófi (MSc) frá University of Minnesota. Almennt lækningaleyfi á Íslandi hlaut hann 24. september 1965 og sérfræðingaleyfi 8. mars 1971. Á efri árum hefur hann m.a. fengist við að innfæra á Heimaslóð.is ýmsan fróðleik um Eyjar og Eyjafólk, m.a. Blik, Sögu Vestmannaeyja, Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum, ritverk Árna Árnasonar símritara og hefur ritað allmargar æviskrár Eyjafólks á slóðina.   Heimaslóð   Heimaslóð, menningar- náttúru- og söguvefur Vestmannaeyja opnaði 12. nóvember árið 2005. Síðan þá hefur vefurinn vaxið gríðarlega og nú eru yfir 29 þúsund myndir og yfir 8 þúsund greinar sem allar tengjast Vestmannaeyjum og fólkinu sem þar býr og hefur búið. Þessi frábæri árangur hefur náðst ekki síst fyrir stórmerkilegt framlagt Víglundar Þórs Þorsteinssonar sem hefur í sjálfboðavinnu frá árinu 2006 unnið stórvirki í að safna saman, rita greinar og gera aðgengilegt efni um Vestmannaeyjar og Eyjabúa á veraldarvefnum á síðunni Heimaslóð og opna þannig aðgang fólks hvar sem það er statt að merkilegu gagnasafni sem áður var aðeins aðgengilegt á bókarformi, í skjölum eða einfaldlega ekki aðgengilegt almenningi. Afrek Víglundar Þórs á Heimaslóð eru mikil og fyrir það ber að þakka. Víglundur Þór hefur einnig verið sérlega öflugur við að fara yfir texta og myndir á Heimaslóð og tryggja að sem réttustu upplýsingar séu til staðar allt frá árinu 2006.   Blik   Árið 2007 var hafist handa við yfirfærslu Bliks yfir á stafrænt form í samstarfi við Safnahús Vestmannaeyja. Því verki lauk Víglundur Þór Þorsteinsson árið 2010 og kom þannig öllu safni Bliks á Heimaslóð. Greinar í Bliki eru um menningarmál af fjölbreyttum toga, og var ritstýrt af stofnanda þess Þorsteini Þór Víglundssyni, föður Víglundar Þórs. Greinarnar fjölluðu m.a. um einstaklinga, merka atburði, daglegt líf, atvinnumál, sögu, merk hús og minjar Eyjanna, safnamál, bindindismál og yfirlit yfir safnmuni Byggðarsafns.   Árið 2012 stýrði Víglundur og sá um innsetningu á Sögum og sögnum úr Vestmannaeyjum sem Jóhann Gunnar Ólafsson safnaði saman og voru gefnar út á árunum 1938-1939.   Skjöl og greinar úr fórum Árna Árnasonar Árið 2013 stýrði Víglundur og sá um innsetningu á öllu safni skjala úr fórum Árna Árnasonar símritara, en verkið var unnið í samstarfi við útgefendur verka Árna.   Æviskrár Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson Auk þess að vera virkur á öllum vígstöðum Heimaslóðar og bæta við upplýsingar sem þar eru hefur Víglundur Þór ritað frá grunni fjölda greina um Eyjafólk eða um 3000 greinar. Víglundur rekur þar gjarnan ættfræði fólksins og tengir það saman. Víglundur hefur lagt áherslu á að segja sögu alls Eyjafólks og skrifað um fjölda karla og kvenna sem ekki hafði verið ritað mikið um áður og jafnvel ekkert.  

Bjartmar Guðlaugsson er Eyjamaður vikunnar - Djúpt snortinn og stoltur

Hin síðari ár hefur Bjartmar Guðlaugsson verið einn ástsælasti listamaður Vestmannaeyja og í raun Íslands alls, en lag hans Þannig týnist tíminn var til að mynda valið besta lag Íslands frá upphafi. Í hinum árlega Fréttapíramýda Eyjafrétta sem fram fór í gær hlaut Bjartmar, fyrir ævistarf sitt, viðurkenningu fyrir framlag sitt til menningar og er því Eyjamaður vikunnar að þessu sinni.   Nafn: Bjartmar Anton Guðlaugsson. Fæðingardagur: 13. júní 1952. Fæðingarstaður: Fáskrúðsfjörður. Fjölskylda: Kvæntur Maríu Helenu Haraldsdóttur í 34 ár. Á þrjár dætur og átta barnabörn. Draumabíllinn: Góður húsbíll sem kemst allra sinna ferða. Uppáhaldsmatur: Íslenskur þorramatur, færeyskt skerpukjöt, siginn fiskur og yfirleitt allt sem er úldið. Versti matur: Skúmur sem við vinirnir matreiddum í tilraunaskyni, en rauðvínið var ágætt. Uppáhalds vefsíða: Allar frétta- og fjölmiðlasíður. Hvaða tónlist kemur þér í gott skap: Gömlu góðu Eyjalögin, að maður tali nú ekki um ljóðin. Aðaláhugamál: Tónlist, ljóðlist og myndlist. Hvaða mann/konu myndir þú vilja hitta úr mannkynssögunni: Picasso. Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Það er ekkert sem toppar Vestmannaeyjar. Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Ásgeir Sigurvinsson og ÍBV. Ertu hjátrúarfull/ur: Já. Stundar þú einhverja hreyfingu: Já, ég snýst í kringum sjálfan mig allan daginn. Uppáhaldssjónvarpsefni: Fréttir, fréttir, fréttir. Hvers virði er þessi viðurkenning fyrir þig: Ég er djúpt snortinn og stoltur að fá þessa viðurkenningu og sérstaklega á heimavelli. Hvaða verkefni eru á döfinni: Afmælistónleikar Ladda í Hörpunni um helgina, klára plötu sem kemur með vorinu og tónleikar um allt land. Einnig verð ég með myndlistasýningar á árinu. Eitthvað að lokum: Hugsa ávallt með hlýhug til æsku- og unglingsáranna í Vestmannaeyjum og þeirra fjölmörgu sem hvöttu mig áfram og beindu mér inná þá braut sem ég er á.  
>> Eldri fréttir

Mannlíf >>

Þrettándinn hluti af menningu Eyjamanna

Frá því fyrir miðja síðustu öld hafa Vestmannaeyingar fagnað þrettándanum með glæsibrag þar sem saman koma jólasveinar, álfar, púkar og tröll að ógleymdum Grýlu og Leppalúða sem eru í heiðurssæti á hátíðinni. Það er mikið lagt í búninga og mikið kapp lagt á að tröllin séu sem svakalegust. Þetta er mikið sjónarspil sem hefst með flugeldasýningu af Hánni þaðan sem jólasveinarnir ganga niður með kyndlana á lofti. Síðan tekur við ganga um bæinn sem endar á malarvellinum við Löngulág þar sem dansað er í kringum mikinn bálköst. Mannfjöldi fylgist með og hafa þeir sjaldan verið fleiri sem fylgdust með en á þrettándanum í ár enda veður einstaklega gott.   Birgir Guðjónsson, Biggi Gauja eins og hann er venjulega kallaður, hefur aðstoðað Grýlu frá árinu 1967 og var hann með henni í 51. skiptið á þrettándanum í ár. „Að hugsa sér, það er fullyrt að ég hafi byrjað 1967 og hef verið með í þessu síðan. Þau voru því orðin 50 skiptin í fyrra samkvæmt myndum sem til eru,“ segir Biggi í spjallið við blaðamann í síðustu viku. Þá lá hann í flensu sem hafði verið að hrjá hann um áramótin en það aftraði honum ekki að mæta á þrettándann. „Þetta er búið að vera rosalega gaman annars hefði maður ekki staðið í þessu í öll þessi ár. Það var pabbi sem ýtti mér út í þetta. Hann var Leppalúði í nokkur ár og Unnur Guðjóns Grýlan og komum við Þórður Hallgríms inn fyrir þau árið 1967. Pabbi hafði engan tíma í þetta því hann hafði svo mikið að gera í tröllunum. Hafa ýmsir staðið mér við hlið í þessum slag.“ Þrátt fyrir hálfrar aldar feril í Grýluhlutverkinu segir Biggi að þetta sé alltaf jafn gaman. „Svo megum við ekki gleyma öllu fólkinu, sem telur um 200 manns, sem vinna þetta allt í sjálfboðaliðsvinnu. Það er enginn yfir þessu starfi en samt gengur þetta allt eins og smurð vél.“ Biggi segir þrettándann hluta af menningu Eyjamanna og viljinn til að halda þessu gangandi sé það sem haldi fólki við efnið. „Það er þessi gleði í kringum undirbúninginn og hátíðina sjálfa sem ýtir manni í gang. Ef maður kemst ekki í gott skap í öllum þessum hamagangi er eins gott að koma sér heim. Já, það er svo margt sem gerir þessa hátíð okkar Eyjamanna alveg einstaka. Við höfum yfirleitt verið ofsalega heppin með veður. Stundum hefur dúrað rétt á meðan á hátíðinni stendur og skollið á vitlaust veður strax eftir að henni lýkur. Í þetta skiptið var blíða allan daginn sem gerir þetta svo miklu skemmtilegra og léttara,“ sagði Biggi að endingu.  

Hann fyrsti formaður ÍBV íþróttafélags og hún fyrsta konan sem formaður Íþróttabandalagsins

Það var árið sem síðari heimsstyrjöldinni lauk að María Gísladóttir frá Norðfirði varð léttari og Þór Ísfeld Vilhjálmsson kom í heiminn nánar tiltekið 30. nóvember 1945. Var hann annað barn foreldra sinna. Og það má segja að hann hafi fæðst með blátt blóð, - allavega fjólublátt, þar sem faðir hans Vilhjálmur Árnason frá Burstafelli við Vestmannabraut var einn af hörðustu félagsmönnum Íþróttafélagsins Þórs á sínum tíma og blár var litur félagsins. Þótt drengurinn hafi ekki verið skírður eftir félaginu þá ber hann nafn þess og var skráður í það sem ungabarn. Sem ungur drengur og unglingur lék Þór Ísfeld knattspyrnu með félaginu sínu og Íþróttabandalagi Vestmannaeyja og þótti ágætur knattspyrnumaður. Eftir að skyldunáminu lauk við Gagnfræðaskólann fór Þór í Vélskólann og síðar Stýrimannaskólann í Eyjum og fór svo á sjóinn, var m.a. í eigin útgerð um tíma. Í land var stigið árið 1979 og þá tók hann að sér starfsmannastjórn hjá Vinnslustöðinni og á þeim vettvangi hefur hann starfað síðan.   Í pólitík og félagsmálum   Félagsmálastörf hafa alla tíð verið Þór afar hugleikin. Hann hefur sterkar skoðanir í pólitík og nokkuð látið að sér kveða á þeim vettvangi, var m.a. formaður Alþýðuflokksfélags Vestmannaeyja um skeið. Aðeins 17 ára gamall, árið 1962, var Þór fyrst kosinn í stjórn Íþróttafélagsins Þórs, það ár var Óli Árni eldri bróðir hans annálaritari félagsins og það ár var faðir hans Vilhjálmur, endurskoðandi félagsins, það má því segja að ræturnar séu sterkar. Eftir að sjómennsku Þórs lauk, hefur hann gefið sig allan að störfum fyrir íþróttahreyfinguna. Þór Ísfeld var formaður Íþróttafélagsins Þórs frá árinu 1985 til ársins 1994, eða í tæp 10 ár. Þetta voru mikil umbrotaár í íþróttahreyfingunni og bygging Þórsheimilisins reis á þessum árum. Starfið var margt og mikil hreyfing komin á einhverskonar samstarf eða sameiningu íþróttafélaganna, Þórs og Týs. Hann var í nefnd sem kom að stofnun ÍBV íþróttafélags. Þór Ísfeld var síðan fyrsti formaður þess félags árið 1996 og gegndi starfinu til ársins 2003. Það ár tók Þór að sér formennsku hjá Íþróttabandalagi Vestmannaeyja og gegndi því starfi þar til í apríl 2016. Þór hefur frá upphafi setið í stjórn Ferðajöfnunarsjóðs Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem fulltrúi Vestmannaeyja og Suðurlands og hann var 16 ár í stjórn Íþróttamiðstöðvar Vestmannaeyja. Hann var sæmdur heiðurskrossi Íþróttabandalags Vestmannaeyja í 70 ára afmælisveislu sinni.   Fann konuna ská á móti á Vestmannabrautinni   Þór leitaði ekki langt yfir skammt að eiginkonu. Ská á móti Bursta-felli sem stendur við Vestmannabraut stóð lágreist hús nr. 76, þar bjó Adólf Magnússon og Sigríður Jónsdóttir kona hans ásamt börnum sínum og meðal barna þeirra var Sólveig, - Dollý eins og hún er alltaf kölluð, - árinu yngri en Þór, fædd 1. október 1946. - Þótt í fyrstu hafi þau skötuhjú verið leikfélagar, varð samband þeirra nánara á unglingsárunum og stundum var laumupúkast hinumegin götunnar. Úr þessu varð farsælt hjónaband þeirra og þrjú myndarbörn.   Alla tíð verið mjög samstillt   Lengi vel vann Dollý utan heimilis, sem fiskverkakona í Vinnslustöðinni, hin síðari ár var hún starfsmaður Starfsmannafélags Vestmannaeyja. Þau hjón hafa alla tíð verið mjög samstillt og milli þeirra mikill samhljómur. Bæði verið samstíga þátttakendur í pólitísku starfi. En síðast en ekki síst á íþróttasviðinu. Dollý lék handbolta með Íþróttafélaginu Þór á sínum yngri árum, hlaut m.a. handknattleiksbikar félagsins árið 1962 og sat í stjórn þess um tíma. Dollý var einn af frumkvöðlum Pæjumótsins árið 1990, knattspyrnumóts í Eyjum fyrir stúlkur, sem enn er haldið. - Hún var formaður Íþróttabandalags Vestmannaeyja frá árinu 1992 til ársins 1997 og er eina konan sem gegnt hefur því starfi. Dollý hefur alla tíð verið mikill áhugamaður um íþróttir og missir varla af íþróttakappleik. Hún hefur verið einskonar málsvari kvennaíþrótta alla tíð. Má sjá í fundagerðum ÍBV íþróttafélags og Íþróttabandalagsins að Dollý hefur alla tíð borið hag kvennaíþrótta mjög fyrir brjósti og lét ósjaldan skoðanir sínar í ljósi á þeim vettvangi og hefur eflaust ekki veitt af. Saga íþróttahreyfingarinnar í Vestmannaeyjum hefur alla tíð verið samofin lífshlaupi þeirra hjóna og þau eru enn þátttakendur í leik og starfi hennar.  

Greinar >>

2016 gert upp

Loksins búinn að finna tíma til þess að gera árið 2016 upp, en það hefur verið ótrúlega annasamt hjá mér í kring um áramótin. 2016 er hjá mér ár mikilla öfga og stórra ákvarðana. Sú stærsta var að sjálfsögðu mjaðmakúliskipti sem ég fór í 23. maí. Ég hafði að sjálfsögðu vitað þetta með árs fyrirvara en ekki fengið nákvæma dagsetningu fyrr en ca. 2 mánuðum fyrir aðgerð.   Síðasti vetur var erfiðasti veturinn minn í útgerð hér í Eyjum og sem dæmi um það, að þrátt fyrir að ég hafði fiskað 140 tonn sl. vetur, þá þurfti ég samt að fara niður í banka og biðja um fyrirgreiðslu í sömu viku og ég fór í aðgerðina. Þar hafði mest áhrif aðgerðir fráfarandi ríkisstjórnar, sem ég hef áður fjallað um. Það var mjög sérstakt að ganga frá öllu tengdu útgerðinni í maí og undirbúa fyrir lengsta sumarfríið, sem ég hef tekið eftir að ég fór að vinna og þá fyrst sem strákur í bæjarvinnu á vegum Vestmannaeyjabæjar.   Aðgerðin tókst mjög vel, en hún fór fram á borgarspítalanum, en margt samt rosalega skrítið eins og t.d. hvernig mér leið eftir mænudeyfinguna, þar sem líkaminn dofnaði allur upp, en heilinn mundi samt eftir því, í hvaða stellingu ég var þegar ég fór í mænudeyfinguna, sem var svolítið óþægilegt. Það að liggja síðan reyrður á hlið og hlusta á borvélar og hamarslátt, þar sem maður hristist allur og skalf meðan hamarshögginn dundu á mjöðminni, án þess þó að ég fyndi nokkuð fyrir því. Ég var svo heppinn að fá einkaherbergi og fékk líka leyfi til þess að liggja þar í 3 nætur, enda erfitt ferðalag að fara í fólksbíl austur í Landeyjahöfn og sigla svo yfir. Allt tókst þetta nú vel og í framhaldinu hófust síðan þrotlausar æfingar. Það leið reyndar ekki nema mánuður þangað til ég var farinn að dunda aðeins í bátnum og kom honum m.a. á flot aftur fyrir goslokahelgina, svo hann væri ekki fyrir á planinu. Fór svo út með sjóstöng að ná mér í soðið 6 vikum eftir aðgerð og prufuróður á sjó 2 mánuðum eftir aðgerð.   Allt gekk þetta bara nokkuð vel, þó að maður væri að sjálfsögðu svolítið aumur, en þetta m.a. varð til þess að ég ákvað að breyta út af 40 ára hefð og sleppa því að mæta á Þjóðhátíð og nota tímann í staðinn til þjálfunar, enda hafði ég þá þegar tekið ákvörðun ásamt félögum mínum að kíkja aftur til Grímseyjar helgina eftir Þjóðhátíð. Náðum við þar m.a. í lundann fyrir lundaballið. Því hafði nú verið spáð af nánum ættingjum að ég næði að snúa af mér löppina í þeirri ferð, en ég leit hins vegar á þessa ferð sem ákveðna prófraun, en ég hafði þá þegar gengið 2svar á Heimaklett. Allt gekk þetta vel og því kom það mér ekki á óvart að skurðlæknirinn minn úrskurðaði mig seinni partinn í ágúst tilbúinn í hvaða vinnu sem er.   Eitt af því sem ég hafði ákveðið þá þegar um vorið, og í raun og veru fyrir aðgerð, var að hætta í útgerð enda hefur meiningin með minni útgerð aldrei verið sú að starfa í þessu í einhverri sjálfboða vinnu. Reyndar hefur gengið ansi rólega að selja útgerðina og m.a. er ég þegar búinn að taka prufuróður eftir vinnu núna í janúar 2017, sem hefur ákveðna merkingu fyrri mig vegna þess að ég keypti fyrsta bátinn 1987 og hef því gert út nákvæmlega í 30 ár, þó að þessir róðrar að undanförnu séu nú meira svona til gamans.   Fljótlega eftir að ég var kominn af stað í sumar fór ég að leita mé að atvinnu í landi og sótti um hjá höfninni í lok júli og fékk vinnu og hóf störf þann 1. sept. Mér líkar bara nokkuð vel hjá höfninni, enda starfað við höfnina alla mína ævi. Breytingin er þó ofboðslega mikil, en svona ef ég skoða síðasta ár í heild sinni, þá verð ég bara að viðurkenna eins og er að þessir síðustu 4 mánuðir ársins eru einu mánuðurnir á árinu sem maður fékk eitthvað útborgað.   Pólitíkin var að sjálfsögðu til staðar hjá mér á árinu. Fyrst aðeins að Alþingiskosningunum. Mér voru boðin sæti á 3 listum en ég hafnaði því öllu. Fyrir því voru margar ástæður, kannski fyrst og fremst það að maður hafði bara hreinlega ekki tíma í þetta og kannski takmarkaðan áhuga. Kosningaúrslitin í sjálfu sér komu mér ekkert á óvart, nema kannski árangur Viðreisnar en mér þótti mjög skrítið að hitta fólk sem kaus Viðreisn og trúði því í alvöru að Viðreisn myndi aldrei fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.   Í bæjarpólitíkinni var þetta svolítið átaka ár hjá mér og hófst með flugelda sýningu á fundi framkvæmda og hafnarráðs þann 6. janúar í fyrra. Meirihlutinn var afar ósáttur með grein sem ég skrifaði fyrir þar síðustu áramót. Nú er það þannig að ég hef skrifað margar greinar í gegn um árin. Nokkrum sinnum áður hef ég reynt að skrifa mjög vandaðar greinar, þar sem ég fer yfir aftur og aftur, laga og leiðrétti. Þær greinar hafa nánast alltaf endað í ruslinu hjá mér, svo ég hef valið frekar að skrifa greinar um það sem ég hef verið að hugsa að undanförnu á þeim tíma og/eða fjalla um það sem fólk er að segja mér. Að sjálfsögðu er öllum velkomið að gagnrýna mínar greinar, en túlkun meirihlutans á grein minni fyrir rúmu ári síðan, hefur ekkert með það að gera hvað ég var að hugsa þegar ég skrifaði greinina og viðbrögð meirihlutans í framkvæmda og hafnarráði voru alls ekki við hæfi.   Í ágætu viðtali sem ég fór í í bæjarblaðinu Fréttum í byrjun febrúar sagði ég frá þessu og þeirri skoðun minni að meirihlutinn bæri að biðjast afsökunar á framkomu sinni í minn garð. Viðbrögð meirihlutans voru þau að senda erindi til bæjarstjórnar strax þarna í febrúar, þar sem þeir óskuðu eftir því að fundir ráðsins yrðu teknir upp hér eftir, vegna þess að fulltrúi minnihlutans væri með einhverjar dylgjur í þeirra garð. Að sjálfsögðu var þetta fellt í bæjarstjórn, og bara svo það sé alveg á hreinu, enginn í þessu ráði hefur beðið mig afsökunar. En ég hef í bili að minnsta kosti ákveðið að afgreiða þetta allt saman með orðum móður minnar sem hún kenndi mér strax á unga aldri: Sá á vægið sem vitið hefur.   Fundir í framhaldi af þessu voru nokkuð venjulegir, en margt af því sem gerðist á næstu vikum og mánuðum eftir þennan fund olli mér miklu meiri vonbrigðum, heldur en þessi fundur frá því í janúar. Og í lok sumars, eftir að mér bauðst starf hjá höfninni, var strax ljóst að ég gæti ekki líka starfað í hafnarráði. Ég bauð þá félaga mínum og oddvita Eyjalistans, Stefáni Jónassyni, að ég myndi draga mig út úr þessu og hleypa yngri manni að, en Stefán bauð mér að skipta við sig um ráð og gerði ég það og hóf ég störf í umhverfis og skipulagsráði í haust. Það er töluvert öðruvísi fólk í því ráði en því fyrra og störfin að mörgu leyti allt öðruvísi en mjög mikilvæg, enda held ég að það dyljist engum sem fer á rúntinn um bæinn okkar, allar þær miklu breytingar sem eru að verða, bæði varðandi lagnir í allar áttir sem og uppbygging á hafnarsvæðinu í kring um Fiskiðjuna og að þessu leytinu til má segja að framundan séu mjög spennandi tímar.   Margir sem gera upp árið reyna að spá fyrir um nýja árið og yfirleitt á frekar jákvæðan hátt, sem er nú bara eðlilegt. Mér finnst hins vegar vera mikil óvissa um þetta nýja ár. Jújú, það er búið að mynda ríkisstjórn, en hún hefur bara einn mann í meirihluta. Klárlega ríkisstjórn sem ég myndi aldrei kjósa, en hún verður dæmd af störfum sínum, hvort sem hún endist eða ekki. Nýbúið að skrifa undir smíði á nýrri ferju sem sumir telja mjög jákvætt. Afstaða mín er hins vegar óbreytt. Ef ekki verða settir alvöru fjármunir í nauðsynlegar breytingar í Landeyjahöfn, þá held ég að þessi ferja verði klárlega afturför.   Það var í fréttunum í gær, að lánshæfnismat Íslands hefði verið hækkað. Ekki ósvipað því sem gerðist reglulega rétt fyrir hrun. Fyrir nokkru síðan heyrði ég í hátt settum bankamanni, að að óbreyttu væri ekki nema ca. 2 ár í næsta hrun. Og hana nú!   Höfum þó í huga að sólin er farin að hækka og dagurinn að lengjast. Lundinn kemur í vor í milljónatali og hver veit, kannski leysist sjómannaverkfallið í vikunni. Óska öllum Eyjamönnum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir það gamla.