Reykjavíkurmaraþon :: Hlynur Andrésson sigraði í hálfmaraþoni:

Ætlaði að slá Íslandsmetið

Veikindi settu strik í reikninginn :: Langtímamarkmiðið Ólympíuleikarnir í Tókýó 2020

Reykjavíkurmaraþon :: Hlynur Andrésson sigraði í hálfmaraþoni:

Ætlaði að slá Íslandsmetið

:: Veikindi settu strik í reikninginn :: Langtímamarkmiðið Ólympíuleikarnir í Tókýó 2020

Þann 19. ágúst sl. fór fram árlegt Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka. Eyjamaðurinn Hlynur Andrésson gerði sér lítið fyrir og sigraði í hálfmaraþoni á tímanum 1:09:08, sem er jafnframt þriðji besti árangur sem Íslendingur hefur náð í Reykjavíkurmaraþoninu í vegalengdinni. Blaðamaður ræddi við Hlyn á dögunum um þetta mikla afrek.
Aðspurður hvort hann væri ekki sáttur með tímann sagði Hlynur svo ekki vera og að hann ætti meira inni. „Satt að segja þá var ég ekkert himinlifandi yfir tímanum sem ég hljóp, því að ég veit að ég get hlaupið töluvert hraðar. Ég hafði verið að berjast við veikindi stuttu fyrir hlaup og þau háðu mér víst svolítið á keppnisdag.“
Ef þú ferð aðeins í gegnum hlaupið frá upphafi til enda, hvernig fannst þér það hafa verið? Gekk allt eftir plani? Ég byrjaði fremur hratt því að ég ætlaði að sjá hvort að ég gæti sótt að íslandsmetinu, en eftir fimm kílómetra fann ég að ég átti mun erfiðara með ad halda uppi hraðanum en venjulega. Ég vissi þar með að ég ætti fremur erfitt hlaup fyrir hendi en þó gerði ég nóg til þess að sigra,“ segir Hlynur en samkvæmt honum er það afar misjafnt hversu lengi maður er að jafna sig eftir svona hlaup. „Þad fer alveg eftir því hversu mikið þú reynir á þig og á hvaða stigi þú ert sem hlaupari. En það er góð þumalputtaregla að taka einn dag í hvíld fyrir hverja þrjá kílómetra sem þú keppir, þannig að maður þarf sirka viku til að ná sér alveg eftir hálfmaraþon (21,1km).“
Þegar talið barst að skóbúnaði segist Hlynur hlaupa flesta kílómetra sína í skóm frá Brooks. „Aðallega týpurnar Glycerin og Ghost. Á keppnisdag þarf maður samt léttari skó og því var ég í Brooks Ravenna í Reykjavíkurmaraþoninu. Skór skipta mjög miklu máli, bæði upp á það að halda sér heilum og meiðslalausum og til þess að ná sem bestum árangri.“
 
Langtímamarkmiðið Ólympíuleikar í Tókýó 2020
Hvað tekur núna við? „Nú tekur við síðasta ár mitt í Bandaríkjunum þar sem ég mun klára meistaranám í frumeinda- og sameindalíffræði næsta vor og samtímis mun ég vera að keppa fyrir skólann minn í frjálsum og cross country (víðavangshlaupum),“ segir Hlynur sem heldur ótrauður áfram í átt að markmiðum sínum. „Ég var grátlega nálægt því að verða fyrsti Íslendingur til þess að hlaupa 5 km undir 14 mínútum í fyrra þegar ég hljóp 14:00.83, þannig að það væri gaman að ná því markmiði loksins. Svo er ég einnig ad vonast eftir að ná lágmarki á Evrópumeistaramótið í frjálsum sem verður haldið í Berlín í júlí á næsta ári. Langtíma markmiðið er samt enn þá Ólympíuleikarnir í Tókýó 2020,“ segir Hlynur að lokum.
 

Eitt vinsælasta kvennamótið þó víðar væri leitað

Guinot golfmótið var haldið í fimmta sinn um helgina. Fyrir mótinu standa mæðgurnar Ágústa Kristjánsdóttir og Magnúsína Ágústsdóttir. Um 60 konur tóku þátt í mótinu sem tókst glsæilega þrátt fyrir rigninguna.   „Það er gaman að segja frá því að þegar við skipulögðum mótið fyrst varð mamma löggiltur ellilýfeyrisþegi þegar þetta fyrsta opna kvennamót var haldið og það í 70 ára sögu klúbbsins. Mótið var kallað Magnúsínu mót og heppnaðist það mjög vel og við fundum mikinn áhuga. Konurnar sem kepptu skemmtu sér mjög vel og ekki skemmdi fyrir að hún Elsa okkar framkvæmastýra klúbbsins gerði einstaklega vel við okkur. Það vorum einnig nokkrir menn á bak við tjöldin sem græjuðu og tóku til hendinni við undirbúning mótsins og þar verð ég að nefna hann pabba, en þetta hefði ekki verið hægt án hans aðstoar,“ sagði Ágústa í samtali við Eyjafréttir. Mægðurnar fengu strax mikinn meðbyr eftir fyrsta mótið og ákváðu þá að gera þetta einu sinni enn og fengum til liðs við sig Guinot snyrtivörumerkið sem Cosmetics ehf. hefur umboð fyrir. „Þetta lukkaðist enn betur í annað sinn og við höfum haldið þetta núna fimm sinnum og mótið hefur fest sig í sessi sem eitt vinsælasta kvennamótið þó víðar væri leitað,“ sagði Ágústa og bætti við að Guinot væri franskt hágæða snyrtivörumerki sem hún og hennar starfsfólk á snyrtistofu Ágústu vinna mikið með, en nýverið flutti Ágústa snyrtistofu sína í Faxafen 5 í Reykjavík.    

Sex leikmenn skrifað undir hjá kvennaliði ÍBV í handbolta

ÍBV skrifaði í gær undir samninga við fjóra leikmenn, Ester Óskarsdóttir og Sandra Dís framlengdu við klúbbinn og Arna Sif Pálsdóttir og Sunna Jónsdóttir bætast í hópinn. Ester og Söndru Dís þarf ekki að kynna fyrir stuðningsmönnum ÍBV enda hafa þær verið buðarásar í liðinu undanfarið. Ester var á dögunum valin besti leikmaður og besti varnarmaður Olísdeildar kvenna enda var hún frábær í vetur. Frábærir leikmenn og mikil hamingja með að þær verði áfram í ÍBV.   Arna Sif Pálsdóttir er þriðja leikjahæðsta handknattleikskona Íslands frá upphafi með 129 landsleiki. Hún er alin upp hjá HK en hefur búið erlendis síðastliðin níu ár og spilað í Danmörku, Frakklandi og nú síðast í ungverjalandi.   Sunna Jónsdóttir hefur leikið 56 leiki fyrir Íslenska landsliðið. Undanfarin ár hefur hún búið erlendis og spilað sem atvinnumaður, fyrst með BK Heid í Svíðþjóð og svo með Skrim Kongsberg og HK Halden í Noregi. Á Íslandi spilaði hún með Fylki og Fram. Hún tók sér frí frá handbolta á síðasta tímabili þar sem hún eignaðist sitt fyrsta barn. Það er mikill styrkur að fá Örnu og Sunnu til ÍBV enda báðar frábærar bæði innan sem utan vallar, báðar sömdu til tveggja ára. Hrafnhildur Skúladóttir þjálfari er mjög spennt fyrir að fá þær til liðs við sig en hún þekkir vel til þeirra en hún spilaði bæði á móti þeim í félagsliðum og sem samherji í landsliðinu.     Á mánudagin framlengdu Karólína Bæhrenz Lárudóttir og Greta Kavaliuskaite einnig samninga sína við ÍBV. Karólína  um eitt ár og Greta um tvö.  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Greinar >>

„Í stað þess að axla ábyrgð á eigin mistökum er nú reynt að finna sök hjá öðrum“

Í gær sendi fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins í Vestmananeyjum frá sér ályktun þess efnis að ráðið gæti ekki litið á Pál Magnússon sem trúnaðarmann flokksins og lýstu yfir fullu vantrausti. Eyjafréttir höfðu samband við Pál og spurðu hann um hver hans viðbrögð væru við þessum fregnum. „Ástæðan fyrir því að ég hélt mig til hlés í kosningabaráttunni í Vestmannaeyjum var sú að þannig taldi ég mig best gæta heildarhagsmuna Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi öllu. Þetta gerði ég að mjög vel yfirveguðu ráði og eftir ráðfærslu við bestu og reyndustu menn. Eftir að flokkurinn klofnaði í Eyjum var ljóst að mjög stór hluti hans myndi fylgja hinu nýja framboði að málum. Reyndin varð sú að líklega gengu 30-40% af fylgjendum Sjálfstæðisflokksins til liðs við Heimaeyjarlistann. Ég leit og lít enn á það sem skyldu mína sem oddvita flokksins í kjördæminu að laða þetta fólk aftur til fylgis við Sjálfstæðisflokkinn. Ég geri svo sem ekki mikið með þessi fremur vanstilltu viðbrögð í Ásgarði í gærkvöldi. Flokkurinn klofnaði í herðar niður hér í Eyjum og tapaði öruggum meirihluta . Í stað þess að axla ábyrgð á eigin mistökum er nú reynt að finna sök hjá öðrum. Það er út af fyrir sig mannlegt en aðalatriðið er að finna leiðir til sátta þegar sjatnar í örvæntingunni og reiðinni,“ sagði Páll  

VefTíví >>

Baráttukveðjur frá ÍBV til Heimis og peyjana

Ungir sem aldnir ÍBV-arar söfnuðust saman á Hásteinsvelli á fimmtudaginn sl. og tóku upp skemmtilega kveðju. „Við fengum þá frábæru hugmynd að reyna að fá ÍBV-ara til að mæta í stúkuna og senda kveðju úr okkar fallega umhverfi á Heimi og peyjana hans í Rússlandi,“ sagði Dóra Björk Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags. „Ég veit ekki hvort fólk hér í Eyjum geri sér grein fyrir allri þeirra umfjöllun sem samfélagið okkar og félagið fær út á Heimi og árangur hans, saman ber t.d. umfjöllun CNN í gær.“  „Þeir sem þekkja Heimi vita að Ystiklettur er staðurinn hans hér sem og öll okkar fallega náttúra og ákváðum við að setja saman myndband þar sem að náttúran sem hann sækir sína orku í er aðalatriðið.   ÍBV á Heimi mikið að þakka en hann hefur þjálfað marga af okkur bestu leikmönnum í fótboltanum á einn eða annan hátt. Það eru aðeins 10 ár síðan hann var með 5. flokk ÍBV á N1 mótinu á Akureyri en núna er hann með bestu fótboltamenn Íslands á HM í fótbolta,“ sagði Dóra Björk sem sendir ásamt ÍBV og Eyjamönnum öllum Heimi baráttukveðjur, „Kæru ÍBV-arar Heimir, Íris, Hallgrímur og Kristófer við erum stolt af ykkur og hlökkum til að fá ykkur aftur heim.“   Myndbandskveðjuna sem unnin er í samvinnu við Off to Iceland má sjá í spilaranum hér að ofan.