Gríðarlega mikilvægur undirbúningur fyrir sumarið

 Um páskana lögðu níu peyjar land undir fót og fóru til Spánar í golfæfingaferð með þjálfara sínum Einari Gunnarssyni golfkennara Golfklúbbs Vestmannaeyja. Þeir voru við æfingar í tíu daga við frábærar aðstæður á golfsvæði sem heitir La Sella og er staðsett miðja vegu á milli borganna Alicante og Valencia. Allur aðbúnaður var til fyrirmyndar og nutu peyjarnir sín í botn við æfingar. Aðspurður segir Einar að slík ferð sé gríðarlega mikilvæg í undirbúningi fyrir sumarið en peyjarnir hafa stundað æfingar í allan vetur í inniaðstöðu Golfklúbbs Vestmannaeyja. „Með því að fara í æfingaferð í aðdraganda sumarsins gefst okkur tækifæri að æfa hluti sem erfitt er að æfa yfir vetrartímann á Íslandi auk þess að ferð sem þessi er nýtt vel í að spila golf á grænu grasi sem við höfum ekki séð í marga mánuði heima í Vestmannaeyjum. Svo má ekki gleyma félagslega þættinum en ferðir sem þessar þjappa hópnum vel saman og ég verð nú bara að nefna að þessir peyjar eru algerlega til fyrirmyndar og eru sjálfum sér, golfklúbbnum og Vestmannaeyjum til sóma,“ segir Einar. Framundan er áframhaldandi æfingar og undirbúningur fyrir keppnistímabilið á unglingamótaröðum GSÍ. Peyjarnir munu taka þátt í fimm mótum í sumar og keppa á meðal bestu unglinga landsins á Íslandsbankamótaröðinni. Auk þess taka þeir þátt í Íslandsmóti golfklúbba í unglingaflokki en 18 ára flokkurinn verður einmitt leikinn á Vestmannaeyjavelli um miðjan ágúst og eru Eyjamenn hvattir til að mæta á völlinn og fylgjast með GV peyjunum.

Aron Rafn og Theodór drógu sig úr landsliðshópnum

Guðmund­ur Þórður Guðmunds­son, landsliðsþjálf­ari í hand­knatt­leik karla, hef­ur orðið að gera tals­verðar breyt­ing­ar á landsliðshópn­um sem hann fer með til Nor­egs í fyrra­málið þar sem ís­lenska landsliðið tek­ur þátt í fjög­urra liða móti sem hefst á fimmtu­dag­inn. www.mbl.is greindi frá.   Theo­dór Sig­ur­björns­son og Aron Rafn Eðvarðsson, leikmenn ÍBV hafa dregið sig úr hópnum. Ólaf­ur Andrés Guðmunds­son, Ólaf­ur Bjarki Ragn­ars­son, Ólaf­ur Gúst­afs­son, Ýmir Örn Gísla­son hafa einnig all­ir dregið sig út úr hópn­um. Flest­ir vegna meiðsla en einnig af per­sónu­leg­um ástæðum. Í þeirra stað hef­ur Guðmund­ur kallað inn í hóp­inn Elv­ar Örn Jóns­son og Teit Örn Ein­ars­son, leik­menn Sel­foss, Ágúst Birg­is­son úr FH og Hauka­mann­inn Daní­el Þór Inga­son. Fjór­ir leik­menn hafa verið kallaðir inn í B-landsliðið í hand­knatt­leik og þar á meðal er Eyjamaður­inn Elliði Snær Viðars­son.   Upp­haf­lega voru 20 leik­menn í hópn­um sem Guðmund­ur valdi um miðjan síðasta mánuð. Sex þeirra eru hrokkn­ir úr skaft­inu. Átján leik­menn fara til Nor­egs á morg­un. Mótið hefst á fimmtu­dag­inn í Sötra Ar­ena í ná­grenni Björg­vinj­ar í Nor­egi. Fyrsti leik­ur ís­lenska liðsins verður við norska landsliðið á fimmtu­dag. Síðan mæta Íslend­ing­ar Dön­um á laug­ar­dag og heims­meist­ur­um Frakka dag­inn eft­ir. 

Sandra Erlingsdóttir og félagar í U-20 tryggðu sér sæti á HM

 Kvennalandslið Íslands skipað leikmönnum 20 ára og yngri tryggði sér sæti á HM í handknatt-leik þegar liðið sigraði Litháen, 32:18 sl. sunnudag í undankeppnin sem leikin var í Vestmannaeyjum yfir helgina.    Ísland tapaði með einu marki, 24:25, fyrir Þjóðverjum á laugardeginum en vann fimmtán marka sigur á Makedóníu, 35:20, á föstudeginum. Hrafnhildur Skúladóttir, þjálfari kvennaliðs ÍBV, og Stefán Arnarson, þjálfari kvennaliðs Fram, eru þjálfarar U-20 liðsins en Fram og ÍBV mætast einmitt í úrslitakeppni Olís-deildarinnar og fer fyrsta viðureignin fram þriðjudaginn 3. apríl nk. á heimavelli Fram.   Sandra Erlingsdóttir, leikstjórn-andi ÍBV, er lykilmaður í U-20 liðinu og lét mikið til sín taka í leikjum helgarinnar. Var hún t.a.m. markahæst í leiknum gegn Makedóníu með átta mörk og næst markahæst gegn Þýskalandi með fimm mörk.    Er ekki óhætt að segja að þið séuð ánægðar með úrslit helgarinnar, þrátt fyrir naumt tap gegn Þjóðverjum? „Jú við erum ótrúlega ánægðar með þessa helgi, við vorum einu marki frá því að koma okkur inná EM í fyrra þar sem við gerðum jafntefli við Rúmeníu sem er eitt af bestu liðum heims í okkar aldursflokki. Það gaf okkur enn þá meiri orku í að klára þessa leiki. Við spiluðum virkilega góða vörn á móti Litháen og Makedóníu og kom það okkur smá á óvart hversu stórt við unnum þá leiki. Tapið á móti Þýskalandi var svekkjandi en við spiluðum einnig frábærlega í þeim leik. Þýska liðið lenti í fimmta sæti á EM í fyrra sem sýnir að við erum virkilega efnilegt lið sem getur náð langt í sumar ef við höldum þessum stíganda áfram.“   Lagðist það vel í íslenska liðið að spila undankeppnina í Eyjum og voru þið ánægðar með stuðninginn í stúkunni? „Já, þeim fannst rosalega gaman að vera loksins á heimavelli í Vestmannaeyjum með æðislega Eyjafólkið með sér í liði. Það var ótrúlega gaman að sjá hversu margir komu á leikina það er svo ótrúlegt hvað það gefur manni mikla auka orku að hafa góðan stuðning í svona leikjum og vil ég þakka öllum þeim sem komu og studdu okkur.“   Í næstu viku hefst úrslitakeppnin þar sem þið mætið Fram. Liðin hafa mæst fjórum sinnum á leiktíðinni og Fram haft betur í öll skiptin. Hvernig leggst þetta einvígi í ykkur og hvað þurfið þið að gera til að knýja fram hagstæð úrslit? „Þetta leggst bara vel í okkur. Miðað við úrslitin í vetur þá erum við litla liðið í þessu einvígi sem þýðir að pressan er öll á þeim. Við þurfum fyrst og fremst að hafa trú á okkur í þessu einvígi og koma inn í þessa leiki fullar sjálfstrausts og þá getur allt gerst,“ segir Sandra að lokum.

Heimir: „Mamma spurði hvað í fjandanum ég væri að hugsa“

Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska landsliðsins í fótbolta, á vafalítið eina áhugaverðustu sögu allra þjálfaranna á HM í Rússlandi í sumar ef ekki einfaldlega þá allra áhugaverðustu, greindi visir.is frá.   Eyjamaðurinn starfar, eins og alþjóð og brátt heimurinn veit, sem tannlæknir samhliða starfi sínu sem landsliðsþjálfari en fyrir aðeins tólf árum var hann að þjálfa sjötta flokk ÍBV á Shellmótinu. Eftir þrjá mánuði gengur hann við hlið Lionel Messi inn á völlinn á stærsta fótboltamóti heims.   Heimir ræddi þessa ótrúlegu sögu sína við fjölmiðlamanninn Roger Bennett sem er annar hlutinn af tvíeykinu Men in Blazers. MiB hefur haldið úti einu allra vinsælasta fótboltahlaðvarpi heims í mörg ár en Bennett og félagi hans, Michael Davies, eru einnig með vikulegan sjónvarpsþátt um ensku úrvalsdeildina á NBC.   Bennett er heillaður af uppgangi íslenska landsliðsins og gerði hann stutta heimildamynd fyrir Vice um Víkingana sem komu Evrópu á óvart og komust á EM 2016. Vísir ræddi við hann um það verkefni í maí fyrir tveimur árum.   Lagði tannlækningar á hliðina Bennett nýtti tækifærið fyrst Heimir var staddur í New York og fékk hann til sín í hljóðver en 20 mínútna spjall þeirra er virkilega áhugavert og skemmtilegt. Bretinn á ekki orð yfir sögu Heimis sem hann segir ótrúlega hvetjandi fyrir aðra.   „Þegar að ég horfi til baka eftir nokkur ár mun mér eflaust finnast þetta skrítið, en hlutirnir hafa komið til mín hver á fætur öðrum. Þannig hefur lífið mitt verið,“ segir Heimir sem þjálfaði börn og unglinga í 17 ár en hann stýrði einnig karla- og kvennaliði ÍBV. „Mér hefur alltaf liðið vel þar sem ég hef verið og ég hef notið mín í hverju starfi. Ég er aldrei að hugsa um að grasið sé grænna hinum megin heldur reyni ég að njóta hverrar stundar.“ Móðir Heimis hafði lítinn húmor fyrir því að hann væri að leggja tannlækningarnar á hilluna enda var hún búin að greiða menntaveginn fyrir strákinn. „Það er skrítið að vera í þessu þegar maður er búinn með sex ára háskólanám í tannlækningum sem borga vel. Ég þjálfaði alltaf meðfram því að vinna sem tannlæknir en þegar að mér bauðst að verða þjálfari í fullu starfi greip ég það þrátt fyrir að mamma væri ekki sátt,“ segir Heimir og hlær. „Hún spurði hvað í fjandanum ég væri að hugsa. Hún var búin að borga fyrir mig sex ára nám og nú var ég kominn í starf þar sem hægt var að reka mig næsta dag. Maður á að njóta stundarinnar og elta drauma sína.“ Erum með gott lið Heimir er fullur sjálfstraust fyrir HM eftir velgengni strákanna okkar undanfarin ár en hann er þó raunsær þegar kemur að því að liðið nái markmiði sínu.   „Vonandi getum við gert það sem við viljum gera og spilað vel. Við erum ekki með bestu leikmenn heims, en við erum með mjög gott lið. Ef við spilum eftir okkar einkenni og spilum með hjartanu og erum skipulagðir eigum við möguleika í öll lið. Við þurfum samt líka aðeins á heppni að halda,“ segir hann. „Við vitum að við getum tapað fyrir liðum eins og Argentínu og Þýskalandi þrátt fyrir að spila besta leik lífs okkar þannig að við þurfum smá heppni til að ná okkar markmiði sem er að komast upp úr riðlinum.“   Bennett spyr Heimi hver er stóri draumurinn og Eyjamaðurinn, sem er kominn þetta langt með íslenska liðið, segir að það sé hreinlega að fara alla leið.   „Það sem alla leikmenn og alla krakka dreymir um þegar að þeir eru ungir er að lyfta bikarnum. Það er draumurinn. Það er draumur sem allir eiga, ekki bara ég heldur allir. Er hann raunverulegur? Það verður að koma í ljós síðar,“ segir Heimir.   „Við eigum möguleika eins og allir aðrir en hann er kannski minni hjá veðmálafyrirtækjunum. Þetta er draumur allra og maður á ekki að vera hræddur við að segja það,“ segir Heimir Hallgrímsson.   Lestu meira hérna.      

Áfrýja ekki þrátt fyr­ir ærna ástæðu

Hand­knatt­leiks­deild Sel­foss hef­ur sent frá sér yf­ir­lýs­ingu þar sem sagt er að deild­in ætli ekki að áfrýja ákvörðun dóm­stóls HSÍ að vísa frá dómi kæru Sel­foss vegna fram­kvæmd­ar leiks Fram og ÍBV í lokaum­ferð Olís­deild­ar karla í hand­knatt­leik.     Yf­ir­lýs­ing hand­knatt­leiks­deild­ar Sel­foss:   „Hand­knatt­leiks­deild Umf. Sel­foss lýs­ir undr­un sinni yfir þeirri niður­stöðu dóm­stóls­ins að fé­lagið eigi ekki aðild að kæru vegna mistaka í fram­kvæmd leiks sem brjóta klár­lega í bága við leik­regl­ur HSÍ og hafa af­ger­andi áhrif á lok­aniður­stöðu deild­ar­keppni Ol­is­deild­ar­keppni [sic] karla 2017 - 2018. Ótví­rætt er að fé­lagið hef­ur lög­mæta hags­muni af niður­stöðu máls­ins og upp­fyll­ir þar með skil­yrði 33. gr. laga HSÍ sem er nægi­legt skil­yrði fyr­ir aðild að mál­inu. Sú niðurstaða að upp­fylla verði tvenn skil­yrði sömu grein­ar er að mati deild­ar­inn­ar röng túlk­un sem ekki get­ur staðist þar sem fé­lag sem mis­gert er við hef­ur að sjálf­sögðu alltaf hags­muni af niður­stöðu. Þá er lang­sótt sú túlk­un að í op­in­beru móti sem HSÍ ber ábyrgð á eigi fé­lagið ekki aðild eins og hér stend­ur á.   Hand­knatt­leiks­deild Umf Sel­foss tel­ur afar mik­il­vægt að all­ir aðilar sem koma að hand­bolt­a­starfi á Íslandi haldi stöðugt áfram að efla og auka fag­mennsku í hand­katt­leik á öll­um stig­um, þar á meðal í fram­kvæmd móta, leikja, dómgæslu, eft­ir­liti, þjálf­un og um­gjörð allri hjá báðum kynj­um og öll­um ald­urs­flokk­um.   Sú ákvörðun að bæta eft­ir­lits­manni HSÍ á alla leiki í Olís­deild karla var um­deild, ekki síst vegna kostnaðar fyr­ir fé­lög­in. Þeir hafa skil­greint hlut­verk á leikj­um og eiga að hafa góða yf­ir­sýn yfir skipti­svæðið all­an tím­ann og geta gripið inn í, ef nauðsyn kref­ur og í lok hálfleikja hafa þeir aðallega það hlut­verk að fylgj­ast með því að lög­lega sé staðið að inn­á­skipt­ing­um. Keppn­islið verða að gera þá kröfu að þess­ir starfs­menn leiks­ins eins og aðrir skili sínu hlut­verki af fag­mennsku og fram­fylgi rétt­um leik­regl­um.   Þar sem páska­helgi og úr­slita­keppni er framund­an hef­ur hand­knatt­leiks­deild Umf. Sel­foss ákveðið að áfrýja úr­sk­urðinum ekki til áfrýj­un­ar­dóm­stóls HSÍ þrátt fyr­ir að hafa til þess ærna ástæðu, enda er ekki löng­un fé­lags­ins til að vinna deild­ar­meist­ara­titil í dómsal. Kær­an hef­ur þegar skilað þeim ár­angri að vekja verðskuldaða at­hygli á af­drifa­rík­um af­leiðing­um mistaka við fram­kvæmd leiks Fram og ÍBV. Hand­knatt­leiks­hreyf­ing­in verður að hafa kjark til að horf­ast í augu við það þegar af­drifa­rík mis­tök verða í fram­kvæmd leikja og bæta þar úr.   Sel­fyss­ing­ar munu hér eft­ir sem hingað til skila sínu fram­lagi á keppn­is­vell­in­um af heiðarleika í sam­ræmi við leik­regl­ur og hlut­læga fram­kvæmd leikja. Við ósk­um ÍBV til ham­ingju með deild­ar­meist­ara­titil­inn í Olís­deild karla 2017 – 2018 og hlökk­um til kom­andi átaka í úr­slita­keppn­inni.   Sel­fossi, 25. mars 2018   Hand­knatt­leiks­deild Umf. Sel­foss“  

Arnar um atburðarás helgarinnar: „Búið að vera erfitt og það er ekkert leyndarmál"

„Það voru margir sem gerðu mistök um helgina og auðvitað varð að bregðast við því. Stjórn og handboltaráð fannst mér taka vel á þessum málum og fara eins vel í gegnum þetta og hægt var,” sagði Arnar í samtali við Akraborgina í gær og mælum við með að hlusa á viðtalið hérna.   En mun Sigurður snúa aftur á hliðarlínuna í vor? „Nei, engin ákvörðun verið tekinn um það. Sigurður Bragason er minn uppeldisfélagi. Hann gerði mistök sem enginn sér meira eftir en hann og við verðum að leyfa tímanum að líða og sjá hvernig málin þróast. Theodór, sem er mér einnig afskaplega kær, er að jafna sig. Staðan var ekkert sérstök, en hann er að koma til. Tíminn verður að leiða í ljós hver næstu skref verða og hvernig við tæklum þetta.”   Sigurbergur Sveinsson og Róbert Aron Hostert voru í agabanni í leiknum í gær, en Arnar segir að þeir eins og fleiri hafi gert mistök. „Eins og fleiri þá gerðu þeir mistök, en það gera allir mistök. Ég held ég þekki engan sem hefur ekki gert nein mistök. Þeir læra að því og eru örugglega búnir að því. Ég á ekki von á neinu öðru en að þeir komi sterkari til baka.”   „Þetta er allt að koma. Auðvitað er þetta búið að vera erfitt og það er ekkert leyndarmál. Það þarf enginn að ljúga einhverju öðru, en við erum að sjá ljósið og erum farnir að finna fyrir því aftur að við erum bikarmeistarar og ná stórum titli í hús.”      

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn