Bikarmynd ÍBV kvenna 2017 eftir Sigva

Myndband sem fær Eyjahjartað til þess að slá hraðar

Bikarmynd ÍBV kvenna 2017 eftir Sigva

:: Myndband sem fær Eyjahjartað til þess að slá hraðar

 

Hlakka til að fara inn í nýtt tímabil með okkar frábæra fólki

Arnar Pétursson, þjálfari karlaliðs ÍBV í handbolta, kvaðst spenntur og jafnframt bjartsýnn fyrir komandi leiktíð þegar blaðamaður settist niður með honum fyrir helgi. Liðinu er spáð sigri í Olís-deildinni í ár en deildin hefur sjaldan verið eins sterk og einmitt nú. „Strákarnir eru búnir að vera flottir og duglegir á undirbúningstímabilinu, menn eru búnir að leggja vel inn þannig að mér líst bara vel á þetta. Deildin verður skemmtileg í ár, það er fullt af öflugum mönnum að koma heim sem gerir þetta enn áhugaverðara,“ segir Arnar.   Ánægður með hópinn Í sumar bætti ÍBV við sig tveimur nýjum leikmönnum fyrir tímabilið og segir Arnar þá viðbót nauðsynlega. „Kolbeinn tók þá ákvörðun að fara í bæinn sem við skiljum alveg, stundum þurfa menn aðeins að breyta til. Fyrir vikið þurftum við að ná okkur í markmann og við náðum í Aron Rafn sem er frábært. Svo þurftum við að styrkja miðjuna í vörninni okkar þannig við náðum í Róbert í þá stöðu, hann er frábær kostur, ungur strákur sem er viljugur og flottur. Svo erum við með fullt af ungum strákum hjá okkur sem þurfa að fá sinn tíma og eiga það skilið. Í fyrra vorum við með átta 3. flokks leikmenn sem voru að spila og sjö af þeim skoruðu en í heildina skoruðu þeir yfir 150 mörk í deildinni fyrir okkur sem er náttúrulega bara frábært og maður er stoltur af því. Við viljum vera með blandað lið, byggt upp af okkar heimastrákum með nokkra afburðarleikmenn ofan af landi og okkur finnst það hafa tekist vel núna.“   Markmið liðsins að fá heimaleikjarétt fyrir úrslitakeppnina Er markmið liðsins að vinna titil eða titla í ár? „Nei ekki til að byrja með. Auðvitað dreymir okkur alla um að ná árangri og uppskera en við sem lið horfum meira í það að bæta okkur sem íþróttamenn, verða betri með hverjum leik, það er okkar stærsta markmið. En auðvitað viljum við ná topp fjórum eins og öll önnur lið og fá heimaleikjaréttinn og komast í sem besta stöðu þegar úrslitakeppnin byrjar,“ segir Arnar sem lætur titilspár ekki hafa mikil á sig. „Við þekkjum þetta alveg, við erum með mjög gott lið, það er engin spurning. Við lærðum mjög mikið á síðasta tímabili þar sem okkur var líka spáð titli en þetta hefur engin áhrif á okkur þannig séð.“ Aðspurður nánar út í síðasta tímabil segir Arnar það hafa verið svolítið sérstakt. „Fyrir áramót förum við í svolítinn meiðslapakka. Róbert Aron dettur út í fyrsta leik og kemur ekki inn fyrr en eftir áramót. Á hinn bóginn var ég ekkert ósáttur við tímann fyrir áramót, margir ungir strákar öðluðust mikilvæga reynslu. Frá 15. desember og þar til við mætum Val í úrslitakeppninni, töpum við ekki leik en það gerir einhverja fjóra mánuði. Við litum vel út og vorum að bæta okkar leik stanslaust. Svo mætum við Val og töpum hérna heima og það var sárt, maður var lengi að jafna sig eftir það en við töpuðum bara fyrir virkilega góðu Valsliði, hrikalega vel samstillt og flott lið. Þeir fóru síðan alla leið og kláruðu bæði bikar og deild. Þannig var þetta bara, svekkjandi en einnig mikill lærdómur sem við vonandi náum að nýta okkur.“ Æfingaferðina til Frakklands segir Arnar hafa verið mjög góða í alla staði þar sem allt hafi verið til alls. „Þarna var allt í göngufæri og aðstaðan til fyrirmyndar. Við sáum einnig að á okkar svæði hérna í Eyjum, sérstaklega varðandi lyftingar og styrktarþjálfun, að erum mjög framarlega og búum vel. En ferðin í heild sinni, æfingalega, félagslega og hóplega séð var mjög góð í alla staði.“   Deildin verður jöfn og spennandi Helstu keppinautar ÍBV í ár verða fjölmargir samkvæmt Arnari en eins og áður hefur verið komið inn á hefur deildin styrkst mikið. „Deildin er gríðarlega jöfn og mörg lið sem eru ótrúlega vel skipuð og öflug. Valsararnir eru Íslands- og bikarmeistarar en þeir bæta við sig einum besta leikstjórnanda íslensks handbolta fyrr og síðar, Snorra Steini Guðjónssyni. Þeir fá einnig úr atvinnumennsku Árna Sigtryggson sem hefur verið atvinnumaður í Þýskalandi í einhver tíu ár og Magnús Óla sem var atvinnumaður í Svíþjóð og gríðarlega öflugur leikmaður, þannig að þeir verða frábærir. Við erum einnig með FH-inga sem eru mjög vel skipaðir, Afturelding var sömuleiðis með mjög gott lið en þeir bæta við sig fjórum leikmönnum. Stjarnan fær landsliðshafsent til viðbótar við mjög öflugt lið og svo erum við með Haukana sem fá til sín landsliðsmarkvörð og okkar góðvin sem við þekkjum mjög vel, Pétur Pálsson. Svo eru líka önnur lið sem eru vel skipuð þannig að deildin verður frábær og við verðum að vera það líka ef við ætlum að keppa við þessi lið.“   Nýtt parket í stóra salnum tilbúið í október Af fyrstu sjö leikjum liðsins er einn heimaleikur en hann er um miðjan október. Ástæðan fyrir því er sú að verið er að skipta um gólf í stóra sal íþróttamiðstöðvarinnar en dúkurinn sem er löngu kominn til ára sinna mun víkja fyrir splunkunýju parketi. „Við erum spenntir fyrir því að byrja og komast heim til að spila fyrir okkar áhorfendur, þeir skipta okkur gríðarlegu máli en þessi stuðningur sem við höfum fengið undanfarin ár er partur af því að við getum stillt upp eins sterku liði og raun ber vitni og gert hlutina eins og við höfum verið að gera. Ég hlakka bara til að fara inn í nýtt tímabil með okkar frábæra fólki.“  

Viljum spila um stóra titilinn

Guðný Jenný Ásmundsdóttir, markmaður og fyrirliði kvennaliðs ÍBV, eða Jenný eins og hún er alla jafna kölluð, byrjaði að æfa handbolta níu ára gömul með ÍR en þar var hún í tvö ár. Þar hitti Jenný Hrafnhildi Skúladóttur fyrst en sú síðarnefnda var um skeið aðstoðarþjálfari í yngri flokkum félagsins. Eftir nokkurra ára dvöl hjá Fjölni í Grafarvoginum fór Jenný aftur í ÍR þar sem hún tók sín fyrstu skref í meistaraflokki. Blaðamaður settist niður með Jenný og ræddi komandi tímabil.   Hefur komið víða við á ferlinum Á ferlinum hefur Jenný einnig spilað með Haukum og norska úrvalsdeildarfélaginu Molde en þar spilaði hún í fjögur ár áður en hún tók sér pásu frá handbolta og einbeitti sér að barneignum og námi. „Ég byrjaði aftur hjá Val árið 2010 og var með þeim þar til ég eignaðist mitt þriðja barn árið 2014. Eftir það sá ég m.a. um markmannsþjálfun hjá Fylki og hjá yngri landsliðum og A-landsliðinu. Í janúar í fyrra langaði mig síðan til að byrja aftur og spilaði nokkrar leiki með Fylki áður en Hrafnhildur hringdi í mig og spurði mig hvort ég vildi ekki koma til Vestmannaeyja. Ég hafði áhuga á því og lét slag standa,“ segir Jenný í hraðri yfirferð. Jenný hefur sömuleiðis spilað yfir 50 leiki með íslenska landsliðinu og farið á tvö stórmót. „Ég fór bæði á HM 2011 og EM 2012 en HM var klárlega hápunktur ferilsins, það langflottasta sem ég hef tekið þátt í. Reyndar fór ég líka með U-20 landsliðinu á HM í Kína árið 1999 sem var mikið ævintýri en það var í fyrsta skipti sem íslenskt kvennalandslið komst í lokakeppni á stórmóti,“ segir hin 35 ára gamla Jenný sem hefur greinilega marga fjöruna sopið á löngum ferli.   Meiri breidd en í fyrra Eins og fyrr segir samdi Jenný við ÍBV fyrir síðasta tímabil og ekki löngu seinna var hún orðin fyrirliði liðsins en áður hafði Ester Óskarsdóttir borið bandið. „Það er útaf fyrir sig nóg álag að vera bara leikmaður þannig að þessi ákvörðun var tekin með það í huga að dreifa álaginu betur. Það er ekki eins og Ester hafi hætt að taka ábyrgð eftir að ég tók við bandinu, ég sinni bara ákveðnum hlutum og hún öðrum og það hefur gengið vel,“ segir Jenný og bætir við að stemningin í liðinu sé afar góð. „Við fórum í gegnum lærdómsríkt tímabil í fyrra og rétt misstum af sæti í úrslitakeppninni. Við vorum ákaflega svekktar með uppskeruna eftir veturinn en lærðum eins og ég segi mjög mikið. Leikmenn sem höfðu ekki verið að spila stór hlutverk fengu tækifæri til að spreyta sig og vera 60 mínútna leikmenn. Einnig vorum við líka með leikmenn sem voru að stíga upp úr meiðslum og fyrir vikið var breiddin kannski ekki mikil. Mér finnst breiddin hafa aukist núna og það er mikill hugur í leikmönnum, það vilja allir gera betur og komast í úrslitakeppnina.“   Nokkrar mannabreytingar Eftir síðasta tímabil fór portúgalski línumaðurinn Telma Amado aftur til heimalandsins eftir nokkurra ára dvöl á Íslandi. Hin unga Þóra Guðný Arnarsdóttir færði sig einnig um set en hún mun spila með Gróttu á komandi tímabili. „Á móti kemur Díana Kristín, sem spilaði með Fjölni í fyrra, til okkar, hún er örvhent skytta og það er virkilega góður liðsstyrkur í henni. Einnig fáum við línumann frá Spáni sem heitir Asun. Við vissum ekki beint mikið um hana áður en hún kom en hún hefur komið flott inn í hópinn, bæði sem leikmaður og sem karakter. Svo eru ungir leikmenn eins og Eva Aðalsteinsdóttir, sem var í Fylki í fyrra, að koma sterk inn í þetta sem eykur bara breiddina í liðinu enn frekar,“ segir Jenný.   Jákvæð æfingaferð til Hollands Þið voruð í æfingaferð í Hollandi fyrir skemmstu, stóð hún undir væntingum? „Þetta var mjög flott ferð, við fengum fullt af góðum æfingum og tvo góða leiki. Við æfðum með hollensku meisturunum þar sem var hátt tempó og mikil keyrsla. Daginn eftir spiluðum við svo æfingaleik við þær sem endaði með jafntefli en hefði hæglega getað endað með sigri hjá okkur. Strax morguninn eftir spiluðum við svo við lið sem endaði í sjötta sæti í hollensku deildinni í fyrra og unnum þær með níu marka mun. Þetta gaf okkur góða sýn á hlutina og margt mjög jákvætt við þessa tvo leiki,“ segir Jenný.   Vill gera heimavöllinn að gryfju ÍBV er spáð þriðja sætinu í ár en svo lengi sem liðið kemst í úrslitakeppnina þá er fyrirliðinn sáttur. „Það skiptir ekki öllu hvort við endum í þriðja eða fjórða sæti. Svona spár eru ekki mjög áreiðanlegar þar sem margt getur breyst á skömmum tíma. Mér finnst við hins vegar vera lið sem á að geta verið í topp fjórum sætunum, hvort sem það númer eitt, tvö, þrjú eða fjögur. Maður vill bara komast í úrslitakeppni og eiga möguleika á því að spila um stóra titilinn,“ segir Jenný sem að lokum hvetur alla til að mæta á leiki í vetur. „Við viljum spila hraðan bolta og skemmta áhorfendum, þannig að ég hvet alla til að mæta og hjálpa okkur að gera þetta að gryfju og erfiðum heimavelli. Þegar við finnum að við höfum stuðninginn á bak við okkur þá er allt hægt í þessu.“  

Ekkert skemmtilegra en að spila fyrir framan þessa ÍBV áhorfendur

Hrafnhildur Skúladóttir var að vonum bjartsýn fyrir komandi tímabili þegar blaðamaður hitt hana sl. mánudag en daginn áður lagði ÍBV nýliðana í Fjölni að velli með 11 marka mun. „Þetta lítur rosalega vel út núna, svo gott sem allir heilir en Eva Aðalsteins var að koma úr liðþófaaðgerð þannig að það eru þrjár til fjórar vikur í hana. Annars eru allir reynsluboltar heilir,“ segir Hrafnhildur og bætir við að nýi línumaður liðsins, Asun Batista, hafi komið skemmtilega á óvart en ásamt því að spila hefðbundinn handbolta spilar Asun strandhandbolta og er heimsmeistari með spænska landsliðinu í íþróttinni. „Hún lítur mjög vel út, við renndum alveg blint í sjóinn með hana, hún hefði alveg eins getað verið hræðileg en hún er mjög flott. Hún tekur allt sumarið í strandhandbolta en er á veturna í venjulegum handbolta en síðast var hún að spila í efstu deild á Spáni. Hún er í þrusuformi þessi stelpa, mjög snögg og með geggjaðan stökkkraft.“ Skyttan Díana Kristín Sigmarsdóttir gekk einnig til liðs við ÍBV fyrir tímabilið og er ekki annað að heyra en að Hrafnhildur sé afar sátt við viðbæturnar á liðinu. „Díana Kristín var með tvö mörk í leiknum í gær en þurfti að fara útaf. Svo fengu bara ungu stelpurnar að spreyta sig helling þegar við vorum komnar einhverjum 13 mörkum yfir og það var flott að ná því. En Díana var alveg frábær á Selfoss mótinu og mun klárlega koma til með að styrkja okkur mjög mikið.“   Ánægð með að vera spáð þriðja sætinu En hver eru markmið liðsins? „Okkur var spáð þriðja sætinu og við erum bara ánægðar með það, markmið okkar er að komast í úrslitakeppnina og þegar þangað er komið setjum við okkur ný markmið. Við misstum af úrslitakeppninni síðast og ætlum okkur í hana núna. Við vitum ekkert hvernig hópurinn verður þá, ef við verðum með þrjá lykilleikmenn í meiðslum er kannski ekki raunhæft að stefna á titil en ef allir eru heilir og við erum í svipuðu standi og í dag þá er það alveg raunhæft, alveg klárlega,“ segir Hrafnhildur og svara því játandi aðspurð hvort henni þykir liðið samkeppnishæfara í ár en í fyrra. „Markmennirnir okkar hafa verið rosa flottir og það munar miklu. Erla spilaði reyndar ekki leikina úti en Jenný var alveg rosaleg, tók þessa hollensku meistara og snýtti þeim og er bara búin að vera svaðaleg upp á síðkastið. Í gær [sunnudag] var hún með 11 bolta varða og sex mörk fengin á sig. Ég meina ef við erum með svona markvörslu þá er titill alveg eitthvað sem við getum stefnt að, engin spurning.“   Hausinn skiptir öllu máli Stjarnan og Fram munu að öllum líkindum verða aðalkeppinautar ÍBV á komandi leiktíð ef marka má spár og telur Hrafnhildur sitt lið ekki vera neinn eftirbát liðanna tveggja. „Hausinn skiptir gríðarlega miklu máli í þessu og erum við alltaf að stefna að því að verða sterkari þar. Breiddin er sömuleiðis meiri og svo eru margar sem eru búnar að æfa sjúklega vel í sumar, tekið mikið af aukaæfingum og eru í formi lífs síns. Ég myndi aldrei segja að við værum með slakara lið á pappírunum heldur en Fram og Stjarnan, frekar bara jafn sterkt.“   Undir okkur sjálfum komið hvort áhorfendur mæti Nú er verið að setja parket á stóra salinn, er það ekki mikið gleðiefni? „Þetta verður geðveikt og skiptir ótrúlega miklu máli því hitt gólfið var bara ónýtt, ekki hægt að æfa á því. Það var bara ávísun á að tveir leikmenn myndu meiðast ef maður þurfti að vera þarna eina æfingu. Sem betur fer hef ég bara æft tvisvar sinnum inni í þessum sal á þessum tveimur árum sem ég hef verið hérna. Þetta varð að gerast og það er frábært að vera núna með þrjá geggjaða sali,“ segir Hrafnhildur sem vonast eftir góðum stuðningi í vetur frá áhorfendum. „Þetta verður svolítið undir okkur komið, hvort við verðum frábært lið sem spilar með mikilli gleði og stendur sig vel, þá mun fólk koma og horfa á okkur. Þetta helst í hendur, það nennir enginn að horfa á einhverja leiðindapésa sem eru í fýlu inni á vellinum þannig að við verðum bara að sjá til þess að það verði gaman til að trekkja fólk á völlinn, við ætlum okkur að gera það. Það er náttúrulega ekkert skemmtilegra en að spila fyrir framan þessa ÍBV áhorfendur þannig að því fleiri því betra.  

Ómetanlegar minningar sem við munum lifa með lengi

Blaðamaður sló á þráðinn til Sóleyjar Guðmundsdóttur, fyrirliða ÍBV, í gær en þá var hún staðsett í Reykjavík. Aðspurð hvernig henni fannst leikurinn hafa spilast sagði fyrirliðinn ÍBV liðið hafa byrjað vel en gefið aðeins eftir sem varð til þess að Stjarnan náði góðum tökum í lok fyrri hálfleiks. „Við byrjuðum mjög vel og vorum yfir í allri baráttu fyrstu 30 mínúturnar en svo duttum við niður og það nýttu Stjörnustelpur sér mjög vel og skoruðu tvö mörk rétt fyrir hálfleik. Það var eins og blaut tuska í andlitið og sem betur fer kom hálfleikur og við gátum rætt málin. Það gekk mjög vel og þegar við komum út í seinni hálfleik kom ekkert annað til greina en að gefa allt sem við áttum eftir til að snúa taflinu við. Í framlengingunni fannst mér við miklu sterkari og í raun bara spurning um hvenær sigurmarkið kæmi.“ Hvert var ykkar leikplan? „Við lögðum upp með að koma strax í veg fyrir að þær myndu ná takti í sitt spil og um leið og við myndum vinna boltann ætluðum við að keyra hratt á þær og komast á bakvið vörnina þeirra,“ segir Sóley sem viðurkennir að smá stress hafi gert vart við sig undir lok leiks. „Ég viðurkenni að þegar ég sá 85 mínútur á klukkunni hugsaði ég til bikarúrslitaleiksins í fyrra en ætli það hafi ekki bara gefið þennan auka kraft sem við fengum og skilaði okkur jöfnunarmarkinu. Þegar það kom þá var ég aldrei í vafa um að við myndum klára þetta.“ Það var mikið hlaupið í þessum leik, hversu erfitt er að halda út heila framlengingu? „Líkamlega var þetta einn erfiðasti leikur sem ég hef spilað, krampi gerði vart við sig óvenju snemma en við vorum með svo gott fólk í kringum okkur sem var við öllu búið með súkkulaði, banana og allt mögulegt til að halda okkur ferskum,“ segir Sóley. Vítaspyrnudómurinn var umdeildur, var þetta réttur dómur að þínu mati? „Já, mér fannst þetta vera víti. Snertingin var kannski ekkert rosalega mikil en þegar Cloé er komin á ferðina inni á teig þá þurfa varnarmennirnir að verjast mjög skynsamlega. Eins og í þessu tilfelli náði hún að skjóta sér á milli tveggja varnarmanna og eini sénsinn þeirra til að stoppa hana var að brjóta,“ segir Sóley. Hvernig var svo tilfinningin að lyfta bikarnum fyrir framan stuðningsmennina og koma síðan með hann heim til Eyja? „Að lyfta bikarnum með þessum frábæru stelpum fyrir framan alla geggjuðu stuðningsmennina okkar er ólýsanlegt. Ferðin heim til Eyja var ótrúleg! Biddý, ÍBV-ari og lögreglukona á Suðurlandi, fylgdi okkur til Landeyjahafnar með blikkandi ljós og þegar við komum í Landeyjahöfn tók á móti okkur flugeldasýning. Þetta var skemmtilegasta Herjólfsferð sem ég hef upplifað þar sem við fengum flugeldasýningu bæði á Elliðaey og Bjarnarey og svo þegar við sigldum inn innsiglinguna. Á bryggjunni voru móttökurnar fáránlega geggjaðar! Allur þessi fjöldi stóð þarna í rigningunni til að taka á móti okkur og syngja og fagna með okkur. Allir sem voru með okkur voru í sæluvímu og það var svo mikil gleði í hópnum. Þetta eru ómetanlegar minningar sem við munum lifa á lengi. Við erum allar svo ótrúlega þakklátar fyrir allan stuðninginn sem við fengum allt frá þjálfurum og stjórnarmeðlima til stuðningsmanna. Þetta er svo einstakt og við erum svo lánsamar að vera í ÍBV og búa í þessu samfélagi sem Vestmannaeyjar eru!“ segir Sóley að lokum.  

Ætlaði að slá Íslandsmetið

Þann 19. ágúst sl. fór fram árlegt Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka. Eyjamaðurinn Hlynur Andrésson gerði sér lítið fyrir og sigraði í hálfmaraþoni á tímanum 1:09:08, sem er jafnframt þriðji besti árangur sem Íslendingur hefur náð í Reykjavíkurmaraþoninu í vegalengdinni. Blaðamaður ræddi við Hlyn á dögunum um þetta mikla afrek. Aðspurður hvort hann væri ekki sáttur með tímann sagði Hlynur svo ekki vera og að hann ætti meira inni. „Satt að segja þá var ég ekkert himinlifandi yfir tímanum sem ég hljóp, því að ég veit að ég get hlaupið töluvert hraðar. Ég hafði verið að berjast við veikindi stuttu fyrir hlaup og þau háðu mér víst svolítið á keppnisdag.“ Ef þú ferð aðeins í gegnum hlaupið frá upphafi til enda, hvernig fannst þér það hafa verið? Gekk allt eftir plani? Ég byrjaði fremur hratt því að ég ætlaði að sjá hvort að ég gæti sótt að íslandsmetinu, en eftir fimm kílómetra fann ég að ég átti mun erfiðara með ad halda uppi hraðanum en venjulega. Ég vissi þar með að ég ætti fremur erfitt hlaup fyrir hendi en þó gerði ég nóg til þess að sigra,“ segir Hlynur en samkvæmt honum er það afar misjafnt hversu lengi maður er að jafna sig eftir svona hlaup. „Þad fer alveg eftir því hversu mikið þú reynir á þig og á hvaða stigi þú ert sem hlaupari. En það er góð þumalputtaregla að taka einn dag í hvíld fyrir hverja þrjá kílómetra sem þú keppir, þannig að maður þarf sirka viku til að ná sér alveg eftir hálfmaraþon (21,1km).“ Þegar talið barst að skóbúnaði segist Hlynur hlaupa flesta kílómetra sína í skóm frá Brooks. „Aðallega týpurnar Glycerin og Ghost. Á keppnisdag þarf maður samt léttari skó og því var ég í Brooks Ravenna í Reykjavíkurmaraþoninu. Skór skipta mjög miklu máli, bæði upp á það að halda sér heilum og meiðslalausum og til þess að ná sem bestum árangri.“   Langtímamarkmiðið Ólympíuleikar í Tókýó 2020 Hvað tekur núna við? „Nú tekur við síðasta ár mitt í Bandaríkjunum þar sem ég mun klára meistaranám í frumeinda- og sameindalíffræði næsta vor og samtímis mun ég vera að keppa fyrir skólann minn í frjálsum og cross country (víðavangshlaupum),“ segir Hlynur sem heldur ótrauður áfram í átt að markmiðum sínum. „Ég var grátlega nálægt því að verða fyrsti Íslendingur til þess að hlaupa 5 km undir 14 mínútum í fyrra þegar ég hljóp 14:00.83, þannig að það væri gaman að ná því markmiði loksins. Svo er ég einnig ad vonast eftir að ná lágmarki á Evrópumeistaramótið í frjálsum sem verður haldið í Berlín í júlí á næsta ári. Langtíma markmiðið er samt enn þá Ólympíuleikarnir í Tókýó 2020,“ segir Hlynur að lokum.  

Sáttur við tímabilið þó markiðið hafi verið sett á úrslitakeppnina

Eins og fram kom í síðasta tölublaði Eyjafrétta hefur KFS lokið keppni þetta tímabilið en liðið sigraði SR í lokaleiknum með sex mörkum gegn fjórum á heimavelli. Fyrir leikinn var ljóst að liðið kæmist ekki í úrslitakeppnina og væri sömuleiðis öruggt með þriðja sætið í B riðli 4. deildarinnar. Blaðamaður sló á þráðinn til Einars Kárasonar, þjálfara KFS, og ræddi við hann um tímabilið. Einar tók við liðinu af Hjalta Kristjánssyni fyrir sumarið eftir að hafa verið leikmaður þess um árabil. KFS endar í þriðja sæti B riðilsins á þínu fyrsta tímabili með liðið, ertu ánægður með árangurinn? „Ég er nokkuð sáttur við sumarið í heildina litið þrátt fyrir að markmiðið hafi verið sett á að ná úrslitakeppni, en við vissum að það væru sterk lið í þessum riðli og nánast öll lið gætu tekið stig í hvaða leik sem er,“ segir Einar sem telur þetta sumar hafa verið mjög lærdómsríkt fyrir hann sem þjálfara. „Algjörlega. Þetta er mitt fyrsta tímabil þar sem ég er að vinna með fullmótaða karlmenn innan um unga og spennandi leikmenn. Ég lærði eitthvað nýtt nánast vikulega og var fljótur að sjá hvað virkaði og hvað ekki.“ Tapleikirnir enda aldrei með meira en eins marks mun og virðist sem það hafi bara vantað herslumuninn í sumum leikjunum. „Það má segja það. Eins og ég sagði voru mörg sterk lið í þessum riðli og nokkuð ljóst að ekkert lið var að fara í gegnum þennan riðil án þess að tapa stigum. Til að mynda unnum við bæði liðin sem fara í úrslitakeppnina á heimavelli, tiltölulega sannfærandi, með eins marks mun en töpuðum að sama skapi báðum útileikjunum með eins marks mun.“ segir Einar.   Vel heppnað samstarf KFS og ÍBV KFS vann náið með ÍBV og fengu til að mynda margir ungir leikmenn að spreyta sig með liðinu. Fannst þér þetta samstarf hafa heppnast vel? „Frá mínu sjónarhorni séð fannst mér það ganga virkilega vel. Við höfum undanfarin ár verið í samstarfi við ÍBV en það voru allir sammála um að betur mætti fara að því. Ég var einnig ráðinn til að aðstoða Mick White með 2. flokk ÍBV og fannst mér við ná virkilega vel saman. Við æfðum saman, KFS/2.flokkur, sem gerði það að verkum að menn lærðu betur inn á hvern annan og urðu að einni heild. Það hjálpaði mér líka helling að ég var búinn að þjálfa marga af þessum peyjum frá því þeir voru í 4. flokki svo ég þekkti styrk þeirra flestra og galla. Ungu strákarnir fengu mikilvægan spiltíma og var byrjunarliðið hjá okkur í þó nokkrum leikjum að meðaltali 19.5 - 21.5 árs. Þessir strákar fengu traustið alveg frá fyrsta leik og ollu engum vonbrigðum,“ segir Einar, sáttur með sína menn. Aðspurður hvort hann haldi áfram með liðið segir Einar að hann hafi áhuga á því. „Áhuginn er klárlega til staðar frá mér séð. Ef aðstæður leyfa og allt gengur upp þá sé ég ekkert til fyrirstöðu. Eigum við ekki bara að segja já.“ Hvað tekur við núna, hvernig sérðu fyrir þér undirbúningstímabil og næsta sumar? „Góð spurning. Við stefnum á að byrja aftur að æfa saman eftir fríið sem tekur við þegar 2. flokkurinn klárar sitt tímabil. Við fengum ekkert alvöru undirbúningstímabil fyrir tímabilið í ár en stefnt er á að gera betur fyrir tímabilið 2018,“ segir Einar að lokum.  

Stjórnmál >>

Elliði Vignisson: Enn er alltof snemmt að fullyrða að við náum saman með ríkinu

Í gær funduðum fulltrúar Vestmannaeyjabæjar með ríkinu, en yfir standa viðræður um að Vestmannaeyjabær taki yfir rekstri Herjólfs. Elliði Vignisson bæjarstjóri sagði í samtali við Eyjafréttir að að enn einn fundurinn hafi verið í gær til þess að nálgast enn frekar þau markmið að ná fram verulegri þjónustuaukningu með nýrri ferju og tryggja betur áhrif og sjónarmið heimamanna hvað rekstur hennar varðar.  „Þar kynntum við sjónarmið okkar sem fyrst og fremst felast í því að færast nær þvi markmiði að sjóleiðin milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar verði séð sem „þjóðvegur“ okkar Vestmannaeyinga og þeirra sem vilja sækja okkur heim. Þar með reynum við að nálgast þá sjálfsögðu kröfu okkar að þjónusta og verðlag verði nær því að þetta sé þjóðvegur en ekki valkvæð þjónusta. Þá leggjum við einnig þunga áherslu á að þjóðvegurinn verði „opinn“ eins og framast er unnt og taki mið af þörfu þjónustustigi hvað tíðni ferða varðar en ekki hámarksnýtingu á hverri ferð og mögulegri arðsemi rekstrarins. Í langan tíma hafa þessar samgöngur að okkar mati verið skammtaðar úr hnefa en það á ekki að vera lögmál. Með nýrri ferju og annarri nálgun á verkefnið eiga Vestmannaeyjar að verða samkeppnishæfari varðandi íbúaþróun, atvinnuuppbyggingu og atvinnurekstur fyrirtækja sem hér starfa,“ sagði Elliði   Það eru alltaf gagnrýnisraddir„Ég hef séð að á seinustu dögum hafa einhverjir gagnrýnt þessa tilraun Vestmannaeyjabæjar og það er svo sem fátt sem kemur á óvart hvað það varðar. Allt okrar tvímælis þá gert er og margir eru ætíð hræddir við breytingar. Þegar við seldum hlut okkar í Hitaveitu Suðurnesja voru margir sem sögðu að við ættum að eiga hlutinn og selja hann þegar hann væri orðinn verðmætari. Þegar við byggðum Eldheima gekk fólk um og uppnefndi húsið og sagði að það yrði aldrei annað en baggi á okkur og á því yrði aldri áhugi meðal feðramanna. Þegar við aldusskiptum grunnskólunum fullyrtu margir að þetta gæti aldei gengið. Þegar við buðum út reksturinn á Sóla og sömdum við Hjalla var það mikið gagnrýnt og mjög lengi má áfram telja. Þegar upp er staðið áttar fólk sig oft betur á forsendum og verður þá oftast nær mun ánægðara. Það sem þó hefur rekið mig í rogastans eru fullyrðingar um að þetta leiði til einhverrar mismununar þannig að bæjarfulltrúar gangi fyrir. Þeir sem slíkt fullyrða verða að skilja að bæjarfulltrúar njóta ekki neinna sér kjara á neinni þjónustu hjá Vestmannaeyjabæ. Þeir greiða fullt verð í sund, börn þeirra ganga ekki fyrir á leikskóla og götur við heimili þeirra eru ekki ruddar snjó fyrr en hjá öðrum. Á sama máta koma þeir til með að nota Herjólf og greiða fyrir sína þjónustu rétt eins og hver annar enda yrði Herjólfur almenningsþjónusta sem rekinn yrði eins og önnur þjónusta sveitarfélagsins með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi,“ sagði Elliði.   Elliði sagði að hans mati væri það í raun fullkomið og algert ábyrgðarleysi að heykjast á því að takast á við þessa ábyrgð að gefnum ákveðnum forsendum.  „Hvenær gerðist það að Eyjamenn hættu að þora og vilja axla ábyrgð á eigin málum? Þannig þekki ég ekki okkar góða samfélag og þannig mun núverandi bæjarstjórn ekki nálgast þetta mál. Við sannarlega þorum og treystum okkar fólki til að axala ábyrgð.“   Fagfólk við samningaborðið „Fullyrðingar um að þetta verði fjárhagslegur baggi á okkur er líka dáldið einkennilegur, sérstaklega þegar engin, ekki einu sinni við sem stöndum í þessu, vitum enn um hvaða fjárhæð verður samið. Við höfum unnið með færustu sérfæðingum í gerð rekstrarmódels og samningagerð er á hendi lögmanna sem þekkja málið vel. Okkur eru síðan til ráðgjafar menn eins og Grímur Gíslason, Páll Guðmundsson og Lúðvík Bergvinsson sem allir hafa mikla og haldgóða þekkingu hvað varðar eðlil þessarar útgerðar og rekstri almennt. Það er því hvergi verið að kasta til höndunum og hagsmunum Vestmannaeyjabæjar verður ekki fórnað,“ sagði Elliði.   Elliði sagði að enn væri alltof snemmt að fullyrða að þau nái saman með ríkinu. „Það má öllum ljóst vera að við erum ekki að fara í þetta verkefni til að taka við því á þeim fosendum sem verið hefur seinustu ár. Við teljum að það þurfi langtum meiri þjónustu og ef ríkið vill nálgast þetta á þann máta með okkur þá erum við til í samstarf. Ef ekki næst saman þá væntanlega verður þetta boðið út og við höfum þá að minnsta kosti náð að koma okkar sjónarmiðum á framfæri og það leiðir þá ef til vill til þjónustu aukningar. Það væri því fráleitt að láta ekki reyna á þetta, jafnvel þótt það kosti mikla vinnu. Slíkt hræðist hvorki ég né aðrir sem að þessu koma“ sagði Elliði að lokum Meðfylgjandi er mynd sem Elliði tók á fundinum í dag. Á henni eru þeir Lúðvík Bergvinsson og Yngvi Jónsson frá okkur heimamönnum auk síðan fulltrúum frá ríkinu. Þeir Grímur og Páll sóttu fundinn í gegnum fjarfundarbúnað.  

Greinar >>

Hildur Sólveig: Af hverju er bæjarstjórn að skoða yfirtöku á rekstri Herjólfs?

Umræðan sjálf hefur lengi verið almenn í langan tíma í sveitarfélaginu að heimamenn ættu að taka málin í sínar hendur til að komast nær ákvörðunartöku um samgöngumálin sem eru okkar stærsta hagsmunamál. Sveitarfélagið hefur áður reynt að bjóða í rekstur ferjunnar en ekki fengið erindi sem erfiði. Það var svo þann 29. september 2016 að bæjarstjórn Vestmannaeyja bókaði eftirfarandi á 1515. fundi sínum:   ,, Bæjarstjórn Vestmannaeyja fjallaði um niðurstöður útboðs á nýrri Vestmannaeyjaferju. Fyrir liggur að rétt eins og bæjarstjórn Vestmannaeyja benti á er hagkvæmast fyrir ríkið að láta smíða ferju og semja svo sérstaklega um rekstur hennar. Vestmannaeyjabær lítur á rekstur Herjólfs sem hornstein að innri gerð samfélagsins í Vestmannaeyjum. Í raun og veru er ekki nokkur munur á rekstri Herjólfs og rekstri annarra kafla vegakerfis Íslendinga. Bæjarstjórn telur því brýnt að rekstur Herjólfs verði ætíð séður sem hluti af þjóðvegakerfi Íslendinga og gjaldtöku og þjónustu verði hagað í samræmi við þá skilgreiningu. Þá bendir bæjarstjórn á að í fjölmörgum tilvikum hefur rekstur fjölbreyttra málaflokka í nærþjónustu svo sem málefni fatlaðra, rekstur grunnskóla og rekstur heilsugæslu verið fluttur frá ríki til sveitarfélags ýmist með almennum hætti eða sértækum samningum. Slíkt er gert til að tryggja hagsmuni nærsamfélagsins, bæta þjónustu og auka hagkvæmni. Með þetta í huga samþykkir bæjarstjórn Vestmannaeyja að fela bæjarstjóra að rita innanríkisráðherra bréf og óska þar eftir því að samið verði beint um rekstur ferjunnar við Vestmannaeyjabæ.”   Bæjarstjórn ítrekað krafist úrbóta í samgöngumálum Vestmannaeyja   Forsagan að ofangreindri ályktun var fyrst og fremst sú að ítrekað á undanförnum árum hefur bæjarstjórn ályktað, krafist og lagt mikinn þrýsting á ýmsar úrbætur í samgöngumálum á borð við:   nauðsyn frekari rannsókna og framkvæmda á Landeyjahöfn bættum aðferðum við sanddælingu og þjónustu sanddæluskipa kröfur um fjölgun ferða Herjólfs, aukins sveigjanleika í siglingaáætlun og að ekki sé dregið úr þjónustu skipsins á hátíðisdögum úrbætur á bókunarkerfi Herjólfur verði tiltækur amk. fyrst um sinn eftir að ný ferja hefur siglingar kröfur um hófstillingu fargjalda og samræmis sé gætt í gjaldtöku en ekki sé tekið margfalt gjald fyrir að fara til Þorlákshafnar og svo mætti mjög lengi áfram telja   Skilningsleysi samgönguyfirvalda á samgönguþörf samfélagsins   Þrátt fyrir þrýsting bæjaryfirvalda virðist skilningur á samgönguþörf Vestmannaeyja ekki vera fyrir að fara hjá samgönguyfirvöldum og tilmæli bæjarstjórnar gjarnan virt að vettugi og kemur upp í hugann lýsing Bjarna Sæmundssonar af ferð sinni með strandskipinu Sterling austur á firði árið 1920 sem kemur fram í bók Haraldar Guðnasonar við Ægisdyr:   ,,Það var heldur en ekki krökkt af farþegum, öll rúm full, reykingasalurinn og borðsalurinn sömuleiðis; hvar sem litið var og eitthvað var til að liggja á, var maður. Þar við bættust margir Vestmannaeyingar; þeir voru alls staðar, þar sem ekkert var til að liggja á nema gólfið. Ég man það, að ég var nærri dottin um eitthvað í göngunum fyrir utan klefadyrnar mínar um nóttina… Hélt ég, að það væri stór hundur, sem hefði hringað sig þarna saman, en við nánari aðgæslu sá ég, að þetta var sofandi maður. Vestmannaeyingar teljast annars ekki til farþega, og eru heldur ekki skoðaðir sem flutningur eða vörur, því að þeim er ekkert pláss ætlað; þeim er stungið hingað og þangað, þar sem þeir eru ekki fyrir neinum, bak við stiga, undir bekki og víðar, en í einu tilliti er þeim gert jafnt undir höfði og öðrum mönnum, og það af skárra taginu; þeir fá að borga fargjald eins og farþegar á fyrsta plássi. Svona er það á öllum stærri farþegaskipum, sem annars hafa getað fengið það af sér að koma við í Eyjum. En það hefur nú viljað bresta á það síðari árin."   Samgönguþörf samfélagsins mætir enn þann daginn í dag, hátt í 100 árum síðar, fullkomnu skilningsleysi samgönguyfirvalda, þrátt fyrir að Vestmannaeyingar greiði án ef hæstu vegtolla landsins fyrir samgönguleið sem enn er illu heilli ekki skilgreind sem þjóðvegur, á sama tíma og mjög rausnarleg framlög renna héðan beint inn í ríkissjóð.   Upplýsingagjöf mjög takmörkuð   Þeir atburðir sem áttu sér svo stað í vor þegar Baldur var fengin til afleysinga fyrir Herjólf sem hafði svo ekki haffærni til Þorlákshafnar voru gjörsamlega óskiljanlegir. Eitthvað sem bæjarfulltrúar heyrðu af sem orðrómi af götunni og trúðu til að byrja með ekki enda tilhugsunin fráleit en kom svo á daginn að var ekki orðrómur heldur raunveruleiki. Þarna kristallaðist sá upplýsingaskortur sem bæjarfulltrúar búa við. Það sama var svo uppi á teningnum við seinni slipptökuna þegar Röstin átti að leysa Herjólf af þrátt fyrir að bæjarstjórn hefði ályktað að á engum tímapunkti kæmi til greina að ferja sem hefði ekki haffærni til beggja hafna myndi leysa af við seinni slipptöku Herjólfs og ef ekki fyndist skip með haffærni í báðar hafnir yrði slipptöku seinkað vel á veturinn til að stór og öflug ferja sem réði vel við Þorlákshöfn gæti þá þjónustað til að samgöngur yrðu í það minnsta öruggar þangað. Bæjarfulltrúar fordæmdu opinberlega og í fjölmiðlum þær ráðstafanir sem gerðar voru vegna afleysingaferja Herjólfs og reyndust samfélaginu dýrkeyptar og enn og aftur voru kröfur bæjarstjórnar virtar að vettugi.   Fordæmin eru til í sögulegu samhengi   Sagan segir okkur að nokkrar af stærstu framförum í samgöngumálum Eyjamanna hafa orðið þegar Eyjamenn sjálfir eru komnir með upp í kok af afskiptaleysi ríkisins og taka málin í sínar eigin hendur, sbr. Herjólfur I, 1959 og stofnun félags um ferjurekstur Herjólfs II 1974     Ályktun fjölmennasta borgarafundar seinni ára um samgöngumál krafðist þess   Það var svo á stórgóðum og gríðarlega fjölmennum borgarafundi um samgöngumál í Vestmannaeyjum sem haldinn var í Höllinni þann 10 . maí þessa árs að frumkvæði Ásmundar Friðrikssonar þingmanns og héraðsfréttamiðlanna Eyjafrétta og Eyjar.net að samþykkt var samhljóða 6 liða ályktun sem bæjarstjórn Vestmannaeyja staðfesti og tók undir á fundi sínum næsta dag en sjötti og síðasti liður þeirrar ályktunar hljóðaði svo:   ,,Að rekstur ferjunnar verði í höndum heimamanna og hagnaður af rekstrinum verði nýttur til að lækka fargjöld, auka þjónustu og skili sér þannig beint til heimamanna.”  Þannig er allur vafi tekinn af því hver vilji bæjarbúa í þessum efnum er.   Vilji samgönguráðherra einlægur að koma Vestmannaeyjabæ nær rekstri Herjólfs   Bæjarstjórn átti svo óformlegan fund með Jóni Gunnarssyni iðnaðarráðherra í kjölfar fyrri borgarafundar þar sem farið var yfir áhyggjur og óánægju bæjarfulltrúa með samgöngumál og reifaðir möguleikar og rædd framtíðarsýn samfélagsins og virtist vilji innanríkisráðherra einlægur í því að Vestmannaeyjabær kæmi mun nær þessum rekstri en gengur og gerist í dag og ítrekaði ráðherra svo þessa afstöðu sína á seinni opna borgarafundinum um samgöngur í Höllinni. Mikil vinna hefur svo legið að baki alla daga síðan við að útbúa viljayfirlýsingu og vinna að mögulegum samningsdrögum en enn er ekkert fast í hendi hvað þetta varðar og engin ákvörðun um yfirtöku sveitarfélagsins á rekstri ferjunnar verið tekin af hálfu samgönguyfirvalda né Vestmannaeyjabæjar enn sem komið er.   Helstu ástæður fyrir áhuga sveitarfélagsins á yfirtöku rekstursins eru því eftirfarandi   Skilningur samgönguyfirvalda og rekstraraðila á þörfum samfélagsins er ekki sá sami og bæjaryfirvalda Tilmæli og óskir bæjaryfirvalda hvað þjónustu ferjunnar varðar hafa verið virtar ítrekað að vettugi Bæjarstjórn hefur gjarnan legið undir harðri gagnrýni hvað samgöngumál varðar þrátt fyrir að bera enga ábyrgð á málaflokknum og hafa því ver og miður ekki nokkurt einasta valdsvið yfir honum Mikill skortur á upplýsingagjöf af hálfu samgönguyfirvalda En fyrst og síðast, krafa bæjarbúa um aðgerðir þar að lútandi   Bæjarstjórn reynir allt hvað hún getur til að hafa áhrif á þetta langstærsta hagsmunamál okkar Eyjamanna og geta bæjarfulltrúar ekki látið sitt eftir liggja í þeim efnum. Bæjarfulltrúum er gjarnan gefið að sök að standa sig illa hvað samgöngumál varðar, en sá málaflokkur er því ver og miður einfaldlega ekki á okkar forræði. Með þessari viðleitni bæjarstjórnar er seilst langt umfram skyldur sveitarfélagsins til að tryggja með öllum mögulegum leiðum hagsmuni bæjarbúa og atvinnulífs í samfélaginu.   Hildur Sólveig Sigurðardóttir Forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja