Erlingur Richardsson nýr þjálfari ÍBV karla í handbolta

Erlingur Richardsson nýr þjálfari ÍBV karla í handbolta

Erlingur Richardsson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs ÍBV í handbolta. Þetta var tilkynnt á leik ÍBV og Stjörnunar nú í kvöld og skrifaði hann undir ráðningasamning núna rétt í þess, í hálfleik leiksins..

Komnar með nóg af fimmta sætinu

Aðspurð út í undirbúningstímabilið sagði Sóley Guðmundsdóttir það hafa gengið ágætlega þrátt fyrir að úrslit hafi ekki verið hagstæð. „Úrslit leikjanna eru ekki búin að vera nógu góð en við erum búin að ná að nýta þessa leiki vel og æfa vel.“   Ertu ánægð með þær breytingar sem orðið hafa á liðinu frá því á síðasta tímabili? „Það hafa orðið mjög litlar breytingar á hópnum sem er gott, ungu stelpurnar eru alltaf að fá meiri reynslu og við erum allar að læra betur inn á hvor aðra þannig ég er mjög sátt með hópinn,“ segir Sóley og bætir við að góð stemning sé í liðinu. „Já, mér finnst stemningin góð. Við erum allar að stefna í sömu átt og þá verður samheldnin meiri.“   Ykkar er spáð um miðja deild, hver er þín skoðun á því og hver eru ykkar markmið? „Það er kannski skiljanlegt miðað við síðust ár og miðað við gengið í vetur en við erum staðráðnar í því að enda ofar og við erum allar komnar með nóg af fimmta sætinu. Við ætlum okkur að gera betur en í fyrra og að stríða toppliðunum er eitthvað sem við erum að horfa á. Einnig leggjum við mikið upp úr að gera Hásteinsvöll að vígvelli þar sem ekkert er gefið eftir og að aðkomuliðin fái ekki að taka stig með sér héðan,“ segir Sóley.   Hverjir eru ykkar helstu styrkleikar? „Sami hópur og í fyrra er okkar helsti styrkleiki, við þekkjum hvor aðra og vitum hvað við getum.“   Hversu miklu máli skiptir að fá góðan stuðning á leikjum? „Að fá góðan stuðning skiptir öllu máli, það gefur svo mikinn auka kraft að finna fyrir stuðningnum úr stúkunni og sú orka smitast til okkar inn á völlinn,“ segir fyrirliðinn að lokum.    

Vandamálið ekki hér heima heldur á útivelli

„Undirbúningtímabilið er búið að vera svolítið erfitt hjá okkur, mikið af meiðslum og Cloé og Katie að koma seint til baka," sagði Ian Jeffs, þjálfari kvennaliðs ÍBV, í samtali við Eyjafréttir á dögunum. „Á hinn boginn hafa yngri leikmenn fengið fullt af tækifærum og fengið góða leiki gegn toppliðum í Lengjubikarnum. Þær fá hellings reynslu sem er mjög gott. Við höfum líka fengið tækifæri til að bæta okkar leik í fjarveru lykilleikmanna. Styrkleiki okkar í fyrra var mikill hraði fram á við en við höfum ekki haft hann núna í undirbúningnum. Við höfum því þurft að leggja meiri áherslu á uppbyggingu, senda fleiri sendingar okkar á milli og mér finnst við hafa náð að bæta það. Úrslitin hafa kannski ekki verið frábær, en spilamennskan hefur verið jákvæð."   Cloé Lacasse hefur verið algjör lykilmaður í liði ÍBV og segir Jeffs hana koma vel undan vetri þrátt fyrir litla leikæfingu. Sömule. „Hún spilaði sinn fyrsta leik gegn Þór/KA um daginn og svo aftur í æfingaleik nokkrum dögum síðar. Hún er í fínu formi en það er öðruvísi að spila leiki og æfa. Það sama má segja um Katie, hún spilaði sinn fyrsta leik gegn Þór/KA og svo hafa Sóley og Kristín Erna líka verið að glíma við meiðsli. Kristín kom til baka eftir aðgerð í mars og það tók hana lengri tíma að komast af stað en við bjuggumst við.“   Ekki hafa orðið miklar breytingar á liði ÍBV frá því í fyrra og er markvörðurinn Adelaide Gay eini leikmaðurinn sem fór frá félaginu. „Adelaide er eini leikmaðurinn frá því í fyrra sem er ekki með í ár, allir aðrir eru áfram. Í staðinn fengum við markvörðinn Emily Armstrong frá Bandaríkjunum. Ég tel að þetta sé mjög sterkt fyrir okkur, það er ekki oft sem ÍBV nær að halda sömu leikmönnunum ár eftir ár, vanalega eru þetta tíu leikmenn út og tíu inn. Ég fann það að þrátt fyrir að leikmenn voru að detta inn á síðustu stundu þá tók það engan tíma fyrir þá að komast aftur í rútínu. Það tekur nýja leikmenn alltaf tíma að aðlagast og fyrir okkur að læra inn á styrkleika þeirra. Núna veit ég alveg hvað ég hef í höndunum,“ segir Jeffs.   En hvað getur þú sagt um þennan nýja markvörð? „Hún er öðruvísi leikmaður en Adelaide sem var fremur lágvaxinn fyrir markvörð en á móti með mjög góðan leikskilning og tæknilega með bestu markvörðum sem ég hef séð í kvennaboltanum. Það er smá galli að vera lágvaxinn í marki, sérstaklega á Íslandi þar sem mikið er lagt upp úr fyrirgjöfum og föstum leikatriðum. Þegar það var ljóst að Adelaide vildi ekki vera áfram þá vorum við svolítið að horfa í það að fá hávaxinn markmann sem Emily er. Hún er í kringum 180 cm. á hæð sem er frekar hávaxið fyrir kvennamarkmann og ég held að hún muni nýtast okkur mjög vel, sérstaklega í föstum leikatriðum sem var okkar veikleiki,“ segir Jeffs.   Ykkur er spáð um miðja deild, er það eðlileg spá að þínu mati? „Já, það er bara eðlilegt miðað við undirbúningstímabilið. Þeir sem eru að spá eru náttúrulega að skoða undirbúningstímabilið og tímabilið í fyrra og reyna að fá einhvers konar svar út frá því. En þessar spár undanfarin ár hafa ekki verið sérlega nákvæmar. Það var enginn að spá Þór/KA titlinum í fyrra, ég held þeim hafi verið spáð fjórða sætinu. Svo var Stjörnunni spáð titlinum en þær enda í fjórða og gátu í raun endað neðar en við þar sem við gáfum svolítið eftir eftir bikarúrslitin. En spá er bara spá og ég hlusta ekkert á þær. Við erum með gott lið og sýndum það í fyrra, við erum með meiri breidd og leikmenn sem eru að koma úr meiðslum, yngri leikmenn reynslumeiri og útlendingar að taka sitt annað tímabil sem er stundum eins og að fá nýjan leikmann. Svo kemur væntanlega tilkynning fljótlega um nýjan leikmann þannig við erum enn sterkari en í fyrra þar sem mér fannst við óheppin að lenda ekki í þriðja sæti. En þetta verður erfitt, það eru fimm til sex lið í deildinni með mikil gæði en ég hef trú á mínu liði,“ segir Jeffs.   Hvers konar leikmaður er þetta sem þið eruð að fá? „Hún getur leyst margar stöður en er meira sóknarsinnuð. Hún getur verið á kantinum, sem fremsti maður, í vængbakverði og á miðjunni. Hún hefur góða reynslu af Englandi, Íslandi og Ítalíu og kemur vonandi sterk inn,“ segir Jeffs.   En hver eru ykkar markmið? „Það sem ég get gefið út er að við viljum gera betur en í fyrra. Við höfum alltaf lent í fimmta sæti þessi þrjú ár sem ég hef þjálfað liðið en samt alltaf búin að enda með fleiri stig en árið áður. Ég vona að sjálfsögðu að það haldi áfram á þessu tímabili. Ég vonast líka eftir meiri stöðugleika gegn liðunum í efri hlutanum á útivelli og sömuleiðis ekki missa einbeitinguna gegn liðunum sem við eigum að vinna á pappírunum, t.d. Grindavík hérna heima í fyrra og gegn Haukum og Fylki. Við þurfum að klára þessa leiki ef við ætlum að vera þar sem við viljum sem er ofarlega í deildinni,“ segir Jeffs.   Þið fenguð að máta ykkur við meistaraefnin í Þór/KA á dögunum hvernig fannst þér sá leikur spilast? „Þær eru með mjög gott lið, líkamlega sterkt og sóknarmenn sem geta klárað leiki upp á eigin spýtur. Það sást mjög vel í leiknum hvað Þór/KA er búið að eiga gott undirbúningstímabil, þær unnu Lengjubikarinn og svo okkur leik Meistara meistaranna. En þær eru nánast búnar að spila á sömu leikmönnunum frá því í febrúar og fúnkera því meira eins og lið. Fyrri hálfleikurinn var jafn en í seinni hálfleik keyrðu þær á okkur og það sýnir bara að við erum á eftir þeim eins og er. En ég hef engar áhyggjur, við munum eflast eftir því sem líður á mótið. Við erum með gott lið líkt og Breiðablik, Valur, Stjarnan og Þór/KA, ég tel að þessi fimm lið verði aftur í efri hlutanum. En eins og ég segi þá var vandamálið okkar ekki hér heima heldur á útivelli,“ segir Jeffs.   Aðspurður út í stuðninginn segir Jeffs að hann hafi verið fínn í fyrra en heilt yfir mætti vera betri á kvennaleikjum. „Pepsi-mörk kvenna var góð viðbót og bætir stemninguna í kringum kvennaboltann. Umgjörðin í deildinni er sífellt að batna og fólk alltaf að reyna að gera meira. Ég er bara jákvæður og vona að fólk komi að horfa á okkur, við ætlum að reyna að spila góðan fótbolta og skemmta áhorfendum og vonandi bara koma bara sem flestir á Hásteinsvöllinn og hvetji úr stúkunni en ekki bara í bílnum.“  

ÍBV á að endurspegla eyjarnar

 Eyjafréttir ræddu við Kristján Guðmundsson, þjálfara ÍBV, sl. föstudag en þá var hann á fullu að undirbúa liðið fyrir fyrsta leik í Pepsi-deildinni gegn Breiðabliki. Kristján var bjartsýnn fyrir leiktíðinni og fullur eftirvæntingar.   Telur liðið betur undirbúið en í fyrra Aðspurður út í undirbúningstímabilið sagðist Kristján vera þokkalega ánægður þrátt fyrir erfiðar samgöngur í byrjun árs. „Nú bjó ég að því að hafa verið búinn að fara í gegnum heilt tímabil hérna með liðinu og það var dýrmætt. Nú er ég búinn að læra á hlutina hérna, hvernig fólk hagar sér, hvernig ég haga mér, í hvaða pytt ég á ekki að detta í og annað. Svo er maður búinn að venjast ferðalögunum og með hverju maður á að fylgjast. Það sem var breytt frá því í fyrra var það að við náðum ekki að mæta í leiki í janúar og febrúar vegna samgangna. Deildarbikarinn var búinn 1. apríl þannig við þurftum sjálf að finna okkur leiki. Við þurftum nauðsynlega að bæta við leikjum því við vorum búnir að missa af svo mörgum leikjum og þurftum að spila liðið betur saman fyrir mótið. Í þetta sinn fór því meiri peningur í að ferðast upp á land í miðri viku til að spila æfingaleiki. Við röðuðum þessi niður eftir okkar hentugleika, styrkleiki liðanna sem við spiluðum við fór stigvaxandi og endaði svo á leik við FH hérna heima sex dögum fyrir mót. Það var virkilega gott að FH liðið kom.“ Er undirbúningurinn í ár s.s. betri en í fyrra? „Já, ég myndi halda það, ég held við séum nær en í fyrra.“ Það þarf þá ekki hálft mótið til að slípa liðið saman? „Vonandi ekki. En við erum t.d. að fá Yvan Erichot allt of seint í að spila heila leiki sem hefur áhrif á vörnina. Það hafa verið skakkaföll í vörninni, við höfum þurft að senda menn heim vegna meiðsla. Að öðru leyti lítur þetta bara vel út,“ segir Kristján.   Nauðsynlegt að brjóta upp mynstrið Nú voru töluverðar breytingar á liðinu frá því á síðasta tímabili. Voru þetta nauðsynlegar breytingar? „Já að einhverju leyti var nauðsynlegt að brjóta upp mynstrið og fá ferskari leikmenn sem þurfa að sanna sig. Það þarf átak í að komast upp úr fallbaráttunni, menn þurfa að brjóta niður múra til að komast upp á næsta stig. En við vildum að sjálfsögðu ekki missa alla þessa leikmenn sem við misstum en við þolum það alveg. Við höfum fengið í staðinn unga leikmenn og nokkra útlendinga þannig þetta er allt að smella. Það hvarf mest úr varnarlínunni, við misstum ekki svo mikið af miðjunni og svo skiptum við meðvitað um sóknarmenn. Varnarmaðurinn David Atkinson væntanlegur aftur í herbúðir ÍBV Að sögn Kristjáns var í raun úr litlu að moða á leikmannamarkaðnum á Íslandi í vetur. „Það voru örfáir leikmenn sem runnu út á samningi, leikmenn sem hefðu getað styrkt okkur. Við töluðum við einstaka aðila og allir voru jákvæðir en ákváðu að gera eitthvað annað en að koma til okkar. Þá er eina í stöðunni að finna unga og efnilega stráka sem þurfa að sanna sig. Við fengum það bæði hérna heima og úti. Síðan fengum við tvo reynslumikla Frakka og við munum einnig fá David Atkinson aftur til okkar, vonandi í vikunni,“ segir Kristján sem reiknar jafnvel með fleiri mönnum til viðbótar.   „Það er ekki útilokað að við fáum til okkar einn leikmann í viðbót. Við erum sennilega að horfa á miðjuna fyrst við erum komnir með David í vörnina og Frakkann í sóknina. Svo eru nú komnir nokkrir strákar upp úr öðrum flokki, það var alltaf stefnan að þeir kæmu inn í þennan hóp en þeir hafa verið óheppnir með fótbrot, kviðslit og annað sem er svolítið pirrandi. Það var stefnan að ná inn fimm til sex inn í þennan 18 manna hóp en ætli við séum ekki að ná inn þremur. Við viljum að þessir strákar fái mínútur.“ Hver er t.d. staðan á Devoni? Kom eitthvað bakslag? „Það er í raun ekkert bakslag, en við þurfum að vita nánar hver staðan er á honum. Það þarf eitthvað að skoða taugaendana í fætinum á honum en það lítur allt út fyrir að við getum látið hann spila, svona 98% líkur. Ef hann getur beitt sér og við erum ekki að skemma neitt þá mun hann spila en við tökum enga áhættu með hann, þess vegna er nauðsynlegt að fá allar upplýsingar og vera með allt á tæru.“   Eru með markvisst þrepa-prógramm Kemur þér á óvart að vera spáð botnbaráttu? „Pepsi-marka þátturinn spáir út frá deildarbikarúrslitum og þar erum við í þriðja sæti riðilsins og tökum helming stiganna sem í boði eru. Þjálfarar og forráðamenn félaganna spá okkur einnig neðst þannig það er greinilegt að við höfum ekki gert nógu mikið til að vera „sexy“ í þeirra augum. Við höfum allavega ekki rætt þetta einu orði hérna inni, við erum einbeittir á þau markmið sem við höfum sett okkur og þau snúast um miklu betri hluti en þetta. Við erum með markvisst þrepa-prógramm. En það getur svo sem alveg verið eðlilegt að spá okkur þarna, það getur vel verið að við séum ekki búnir að styrkja okkur nóg en það er skrýtið að við eigum ekki meiri innistæðu. Við vinnum bikarinn og erum síðan bara að breyta aðeins um hóp, af hverju ekki að breyta um hóp? En það getur verið fínt að vera bara spáð 12. sætinu, það er mótivering fyrir einhverja og við munum bara nýta okkur það,“ segir Kristján.   Eyjastemning Helsti styrkleiki liðsins segir Kristján vera liðsheildina. „Þótt við séum ekki að raða inn mönnum sem eru að koma úr atvinnumennsku þá erum við að búa til liðsheild. Það er hægt að nefna íslenska landsliðið en það er liðsheild sem er að vinna stærstu þjóðir heims sem hafa kannski stórkostlegustu einstaklingana. Þeir eru að vinna því þeir eru liðsheild, spila kerfið sitt og allir vita hvað þeir eiga að gera og með markmiðin alveg á tæru,“ segir Kristján sem hefur einnig lagst í mikla vinnu við að finna út hvað Eyjastemning er. „Ég tel mig vera búinn að komast að því af hverju hún hefur horfið og hvernig á að fá hana til baka. Það er eitt af markmiðum okkar að koma henni í gang, við erum aðeins á eftir áætlun þar. Það vantar ákveðna pósta inn í þetta hjá okkur svo við náum henni alfarið en það mun koma. ÍBV á að endurspegla eyjarnar, vinnusemi og að leggja sig fram, gera allt fyrir samfélagið, það er það sem við viljum fá og þá held ég að ÍBV verði sterkt lið.“ Sjálfsagt að stoppa menn úti á götu og spjalla á jákvæðu nótunum Stuðningurinn mun væntanlega skipta ykkur öllu í sumar eða hvað? „Það er erfitt að fara yfir einhverja ákveðna tölu í stúkunni en fyrst og fremst vill maður að þeir sem koma sendi jákvæða strauma og séu að hvetja liðið, sama hvernig gengur og úti í bæ að tala jákvætt, það munar gríðarlega miklu. Svo að sjálfsögðu láta andstæðinginn heyra það, menn verða að fá útrás. Fólk má síðan endilega stoppa mig og leikmennina úti á götu og spjalla við okkur á jákvæðum og léttum nótum og fá kannski svör við einni eða tveimur spurningum sem brenna á þeim, við erum alveg opnir fyrir því,“ segir Kristján að endingu.

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Stjórnmál >>

Því miður göngum við ekki samhent til þessara kosninga

Í síðustu viku sendum við fyrirspurn á tvo sitjandi þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi til að athuga hvar þeir standa varðandi klofningu flokksins hér í bæ. Páll Magnússon fyrsti þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi vildi ekki tjá sig um stöðuna. ''Ég hef ákveðið að tjá mig ekkert opinberlega um málefni okkar Sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum, að svo stöddu''.   Erfiðleikar eru til að sigrast á þeim Ásmundur Friðriksson sagði í samtali við Eyjafréttir að sem annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi styður hann auðvitað framboð flokksins í Vestmannaeyjum. „Ég hef fylgst með úr fjarlægð hvað var að gerast í framboðsmálum Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum og það tók mig sárt hver sú niðurstaða varð. Ég hef tekið þátt í fjölmörgum kosningabaráttum fyrir flokkinn í Eyjum og það hefur verið skemmtilegt að vinna í hópi samhentra sjálfstæðismanna og kvenna sem hafa frá því að ég man eftir mér unnið hvern stórsigurinn á fætur öðrum. Því miður göngum við ekki samhent til þessara kosninga eins og ég hafði vonað, en verkefnið verður að leiða ágreininginn í jörð og ná sátt í flokknum okkar. Það verður hlutverk okkar þingmanna og sjálfstæðismanna í Eyjum að loknum kosningum að horfa fram á veginn. Við erum umburðarlynd, víðsýn og þolum hvort öðru að við séum ekki sammála í öllum málum. Og þó að um stund sé slagsíða á bátnum þá er takmarkið að ná þeim aftur um borð sem hafa ákveðið að fá sér annað skipsrúm og nýtt föruneyti. Erfiðleikar eru til að sigrast á þeim en að lokum mun mótlætið styrkja okkur og við sameinast á ný undir merkjum Sjálfstæðisflokksins.“      

VefTíví >>

Pizzubakstur í stað netaafskurðar

Þegar ég var peyi hafði ég stundum aukapening út úr því að hjálpa mömmu að skera af netum. Bílskúrinn upp á Illó var oft yfirfullur af þessum litríku nælon flækjum og vinnudagurinn stundum langur. Það var þó bætt upp með nægu framboði af kremkexi og appelsíni.   Fjölskylduútgerðir Við skárum af netum fyrir hina og þessa útgerðamenn. Þeir áttu það allir sameiginlegt að vera frumkvöðlar. Byrjuðu snemma á sjó. Fóru svo í stýrimannaskólann. Tóku sennilega lán og keyptu svo bát. Þannig urðu til þessi fjölskyldufyrirtæki sem við unnum svo hjá við netaafskurð.   Frumkvöðlar Þessi tími er farinn og hann kemur ekki aftur. Frumkvöðlakraftur Eyjamanna er hins vegar sá sami. Auðvitað sjáum við hann víða enn í sjávarútvegi en fjölskylduútgerðir dagsins í dag eru oftar en ekki ferðaþjónustufyrirtæki.   Tækifæri Nú kaupa frumkvöðlarnir gamalt hús og breyta því gistiheimili. Þeir breyta stálsmiðju í veitingahús og sjoppu í pizzugerð. Kaupa reiðhjól og leigja út. Verða sér út um rútukálf og bjóða upp skoðunarferðir. Listinn yfir tækifærin er endalaus.   Jarðvegurinn Vestmannaeyjabær getur víða lagt þessum frumkvöðlum lið. Mestu skiptir samt að sjá til þess að innviðirnir styðji við vöxtinn. Samgöngurnar skipta þar að sjálfsögðu mestu en fleira þarf til. Vestmannaeyjabær hefur lagt sérstaklega ríka áherslu á að skapa hér sterka segla til að draga að ferðamenn og fá þá til að stoppa lengur en annars væri. Tilkoma Eldheima er gott dæmi um velheppnaða aðkomu Vestmannaeyjabæjar.   Fiskasafn Á sama hátt mun starfsemi alþjóðlega stórfyrirtækisins Merlin hafa hér víðtæk áhrif. Ekki einungis munu þeir verða hér með athvarf fyrir hvali í Klettsvíkinni, sem er einstakt í heiminum, heldur munu þeir einnig verða hér með fiska- og náttúrugripasafn á jarðhæð Fiskiðjunnar þar sem til sýnis verða lifandi fiskar. Auk þess verður sérstök áhersla lögð á að sýna lunda, og pysjur sem ekki geta lifað í villtri náttúru þannig gefið líf.   Baðlón Það er einnig ánægjulegt að segja frá því að Vestmannaeyjabær hefur þegar hafið samtal við sterka fjárfesta um aðkomu að baðlóni í nýja hrauninu. Meira um það síðar.   Hin stoðin Þótt sjávarútvegurinn sé okkar lang mikilvægasta atvinnugrein er ferðaþjónustan hér vaxandi og þegar orðin hin stoðin í hagkerfi okkar. Þótt liðin sé sú tíð að börn skeri af netum með foreldrum sínum þá hafa þau, eins og þeir sem eldri eru, þess í stað aðra –og ekkert síðri- aðkomu að atvinnulífinu. Í stað netaafskurðar baka þau pizzur, þjóna til borðs, afgreiða á hótelum og margt fl.   Ég er til Með samstilltu átaki og bættum samgöngum getum við stigið stór skref til frekari eflingar ferðaþjónustunnar. Þar þarf hinsvegar þrek, þor og jákvætt viðhorf. Fái ég til þess umboð er ég áfram til í að leggja mitt af mörkum.​     Elliði Vignisson bæjarstjóri