ÍBV mætir Val í kvöld í átta liða úrslitum - sýndur í beinni á RÚV2

ÍBV mætir Val í kvöld í átta liða úrslitum - sýndur í beinni á RÚV2

 ÍBV og Valur mætast öðru sinni í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í handbolta í kvöld en leikurinn fer fram á Valsvellinum kl. 20:30. Fyrri leikur liðanna, á sunnudaginn var, endaði með öruggum sigri ÍBV 29:21 og geta Eyjamenn því tryggt sér sæti í undanúrslitin með sigri í kvöld. 
 
Þess má geta að leikurinn er sýndur í beinni á RÚV2.

Breiðablik sigraði TM mótið eftir úrslitaleik við Val

TM mótið eða Pæjumótið eins og það er oft kallað fór fram í þar síðustu viku en það er knattspyrnumót ætlað stelpum í 5. flokki. Mótið hófst á fimmtudag og lauk á laugardaginn með úrslitaleikjum. Að þessu sinni voru 84 lið frá 26 félögum sem tóku þátt í mótinu en það er aukning um átta lið. Í ár varð Breiðablik 1 TM móts meistari eftir sigur á Val 1 sem einmitt vann mótið í fyrra. Leikurinn fór 1-1 en þar sem að mark Breiðabliks kom fyrr urðu þær grænklæddu sigurvegarar. ÍBV 1 náði ágætis árangri á mótinu og spilaði um þriðja sætið en tapaði fyrir Stjörnunni 1, lokastaða 0:3.   Mótstjórinn hæst ánægður með útkomuna Þegar blaðamaður ræddi við Sigríði Ingu Kristmannsdóttur, mótstjóra, eftir helgina sagði hún mótið hafa gengið snurðulaust og vel fyrir sig, hvert sem á var litið. „Í dag er nær allt starf í kringum mótið orðið fjáraflanir fyrir iðkendur félagsins, sem rennur beint í ferðasjóð þeirra,“ sagði Sigríður Inga en á annað hundrað manns komu með einum eða öðrum hætti að þessari fjáröflun. „Svo erum við með í kringum 40 dómara sem fyrirtæki í bænum lána okkur yfir mótið og viljum við koma á framfæri innilegu þakklæti til þeirra. Mótið gekk í alla staði mjög vel, ef við horfum framhjá veðrinu á föstudaginn. Við fengum mikið hrós frá félögunum fyrir dagskrána, matinn, dómarana og að allar tímasetningar hafi staðist.“ Þrátt fyrir að Pæjumótið snúist fyrst og fremst um fótbolta þá er hæfileikakeppnin ávallt einn af hápunktum helgarinnar. „Í hæfileikakeppninni koma öll félög með atriði. Það er ýmist söngur eða dans, og allt frá einni stelpu upp í 30 stelpur í atriðunum. Í ár fengu KA stelpur verðlaun fyrir frumlegasta atriðið og Víkings stelpur fyrir flottasta atriðið. Ingó Veðurguð átti síðan að sjá um ball eftir hæfileikakeppnina en varð veðurtepptur í Reykjavík þar sem það var ekki flug á föstudag og hann rétt missti af Herjólfi. En við vorum svo heppin að Hreimur Örn var hérna sem foreldri og gátum við dobblað hann í að redda okkur. Það var mikið stuð á ballinu, dansað og sungið með,“ sagði Sigríður Inga. Á mótinu voru spilaðir 415 leikir allt í allt en öll úrslit eru inni á tmmotid.is. Sunna Daðadóttir, dóttir Þóru Hrannar Sigurjónsdóttur og Daða Pálssonar, var fulltrúi ÍBV í landsleiknum og var hún var einnig kosin í lið mótsins á lokahófinu.  

Sísí í lokahóp á EM

Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, tilkynnti í hádeginu lokahópinn fyrir Evrópumótið í Hollandi sem fram fer í næsta mánuði. Sigríður Lára Garðarsdóttir, leikmaður ÍBV, er í hópnum en hún hefur verið að stíga sín fyrstu skref með landsliðinu undanfarna mánuði.  Fanndís Friðriksdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir, leikmenn Breiðabliks, eru einnig í hópnum en þær hafa átt fast sæti um árabil. Systurnar Margrét Lára og Elísa Viðarsdætur munu ekki taka þátt að þessu sinni en þær eru báðar frá vegna meiðsla.   Stelpurnar okkar hefja leik á EM 18. júlí á móti stórliði Frakklands en í riðlinum eru einnig Sviss og Austurríki.   Hópurinn í heild sinni:   Markverðir: 1. Guðbjörg Gunnarsdóttir, Djurgården 13. Sonný Lára Þráinsdóttir, Breiðabliki 12. Sandra Sigurðardóttir, Val   Varnarmenn: 11. Hallbera G. Gísladóttir, Djurgården 4. Glódís Perla Viggósdóttir, Eskilstuna 3. Ingibjörg Sigurðardóttir, Breiðabliki 2. Sif Atladóttir, Kristianstad 19. Anna Björk Kristjánsdóttir, LB07 22. Rakel Hönnudóttir, Breiðabliki 21. Arna Sif Ásgrímsdóttir, Valur   Miðjumenn: 23. Fanndís Friðriksdóttir, Breiðabliki 10. Dagný Brynjarsdóttir, Portland Thorns 5. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Vålerenga 7. Sara Björk Gunnarsdóttir, Woflsburg 8. Sigríður Lára Garðarsdóttir, ÍBV 14. Málfríður Erna Sigurðardóttir, Val 6. Hólmfríður Magnúsdóttir, KR   Sóknarmenn: 17. Agla María Albertsdóttir, Stjörnunni 15. Elín Metta Jensen, Val 9. Katrín Ásbjörnsdóttir, Stjörnunni 16. Harpa Þorsteinsdóttir, Stjörnunni 18. Sandra María Jessen, Þór/KA 20. Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Breiðabliki      

Tap og sigur hjá stelpunum

 Eyjakonur þurftu að sætta sig við 3:1 tap gegn sterku liði Þór/KA í Pepsi-deild kvenna sl. fimmtudag. Fyrir leik voru Akureyringar á toppi Pepsi-deildarinnar en ÍBV í fjórða sæti með tíu stig. Akureyringar komust yfir eftir 17 mínútna leik en Sigríður Lára Garðarsdóttir jafnaði metin úr vítaspyrnu tuttugu mínútum síðar og voru liðin jöfn þegar flautað var til hálfleiks. Það var ekki fyrr en á 81. mínútu sem að Þór/KA komst aftur yfir en þá skoraði Sandra Mayor mark heimamanna. Nokkrum mínútum síðar bætti nafna hennar Sandra María Jessen við þriðja markinu fyrir Þór/KA og jafnframt því síðasta í leiknum.   Sanngjarn sigur á Breiðabliki ÍBV og Breiðablik mættust í sjöundu umferð Pepsi-deildar kvenna á Hásteinsvelli á mánudag þar sem Eyjakonur fóru með sigur að hólmi, lokastaða 2:0. Á 10. mínútu leiksins kom Katie Kraeutner ÍBV yfir eftir fínan sprett Cloé Lacasse upp kantinn en þaðan endaði boltinn hjá Kristínu Ernu Sigurlásdóttur sem síðan skilaði honum yfir á Katie. Staðan 1:0 og martraðarbyrjun hjá Kópavogsliðinu. Næstu mínútur skiptust liðin á að sækja og fór þar mest fyrir Cloé Lacasse í liði Eyjakvenna en hún átti enn einn stórleikinn og reyndi hvað eftir annað á vörn gestanna. Aftur rataði boltinn í net gestanna á 25. mínútu leiksins en þá slapp Kristín Erna í gegn og kláraði færi sitt með góðu skoti, óverjandi fyrir Sonný Láru Þráinsdóttur í marki Breiðabliks. Umdeilt atvik átti sér stað eftir tæpan 40 mínútna leik þegar Cloé Lacasse féll við inni í vítateig eftir viðskipti sín við varnarmann Blikanna. Dómarinn sá hins vegar ekkert athugavert og áfram hélt leikurinn. Liðsmenn ÍBV mættu sterkar til leiks í síðari hálfleik en Rut Kristjánsdóttir ógnaði marki gestanna í tvígang með stuttu millibili á upphafsmínútunum. Sömuleiðis áttu Blikar fína spretti og sóttu án þess þó að skapa sér nein alvöru marktækifæri. Lokastaðan því 2:0 sigur ÍBV á Breiðabliki, virkilega kærkominn og sanngjarn sigur.

Theodór og Ester voru valin best í meistaraflokki - myndir

Lokahóf ÍBV handboltadeildar var haldið á Háaloftinu sl. laugardag við hátíðlega athöfn. Þar komu saman leikmenn meistaraflokks og 3. flokks karla og kvenna, þjálfarar og aðrir velunnarar. Fjölmörg verðlaun voru veitt þetta kvöld og ber þar hæst verðlaun fyrir bestu leikmenn ársins en í karlaflokki þótti Theodór Sigurbjörnsson bestur en Ester Óskarsdóttir í kvennaflokki. Bæði tvö vel að þessu komin. Líkt og fram kom í ræðuhöldum framkvæmdastjóra og þjálfara var árangurinn í ár ekki beint í samræmi við metnað félagsins þó svo árangurinn hafi rímað ágætlega við spár sérfræðinga fyrir tímabilið. Stelpurnar enduðu með 17 stig í fimmta sæti deildarinnar sem nægði þeim ekki til að komast í úrslitakeppni. Í Coca-Cola bikarnum sigruðu stelpurnar Víking örugglega í fyrstu umferð en lentu síðan á vegg í annarri umferð gegn Stjörnunni þar sem lokatölur voru 32:23. Strákarnir enduðu aftur á móti í öðru sæti í Olís-deild karla með 36 stig, einu stigi á eftir toppliði FH. Í fyrstu rimmu sinni í úrslitakeppninni duttu Eyjamenn síðan út fyrir Val eins og frægt er en þangað til höfðu þeir verið taplausir í 12 leikjum. Í Coca-Cola bikarnum þurfti ÍBV að sætta sig við eins marks tap gegn Selfossi í fyrstu umferð sem verður að teljast vonbrigði. Þrátt fyrir að árangurinn hafi ekki verið eins góður og raun ber vitni var árið engu að síður viðburðaríkt, margir góðir sigrar og sömuleiðis margir ósigrar, mörg eftirminnileg augnablik og mörg augnblik sem fólk vill helst að falli í gleymsku. Það er alltaf hægt að tala um dómaraskandal, meiðsli, óheppni, hvað ef þetta og hvað ef hitt en þegar öllu er á botninn hvolft þá er niðurstaðan óumflýjanleg og endanleg. Það sem mestu máli skiptir er að horfa fram á veginn, læra af mistökunum og byggja ofan á það sem vel fór.   Verðlaunahafar Í þriðja flokki karla var Daníel Örn Griffin valinn efnilegasti leikmaðurinn, Ólíver Magnússon fékk viðurkenningu fyrir mestu framfarir, Ingvar Ingólfsson var valinn ÍBV-arinn og Gabríel Martinez Róbertsson besti leikmaðurinn. Í þriðja flokki kvenna var Ásta Björk Júlíusdóttir efnilegust, Hafrún Dóra Hafþórsdóttir sýndi mestu framfarirnar, Linda Petrea Georgsdóttir var valinn ÍBV-arinn og Sandra Erlingsdóttir var valinn besti leikmaðurinn. Í meistaraflokki karla hlaut Friðrik Hólm Jónsson Fréttabikarinn sem efnilegasti leikmaðurinn, Magnús Stefánsson var valinn ÍBV-arinn og Theodór Sigurbjörnsson besti leikmaðurinn. Í meistaraflokki kvenna hlaut Sandra Erlingsdóttir Fréttabikarinn sem efnilegasti leikmaðurinn, Sandra Dís Sigurðardóttir sýndi mestu framfarirnar, Greta Kavaliauskaite var valinn ÍBV-arinn og Ester Óskarsdóttir besti leikmaðurinn. Að lokum er rétt að greina frá því að tveir leikmenn ÍBV munu hverfa á braut eftir tímabilið, einn úr karlaliðinu og einn úr kvennaliðinu. Línumaðurinn öflugi Telma Amado mun róa á önnur mið eftir fjögur tímabil með ÍBV sem og markvörðurinn Kolbeinn Arnarsson en hann hefur allan sinn feril leikið með ÍBV.   Hér má sjá myndir frá kvöldinu.

Öruggur sigur Eyjamanna á KH - myndir

 Karlalið ÍBV í knattspyrnu tók á móti 4. deildar liðinu KH á Hásteinsvelli í kvöld er liðin mættust í 32-liða úrslitum Borgunarbikarsins. Það er skemmst frá því að segja að Eyjamenn fór með sigur af hólmi en lokatölur voru 4:1.   Líkt og fyrri daginn spilaði veðrið leiðinlega stóran þátt í leiknum en hífandi rokið í Eyjum í kvöld gerði það að verkum að leikurinn var ekki mikið fyrir augað. Heimamenn í ÍBV byrjuðu á móti vind en þrátt fyrir það lágu þeir á KH allan hálfleikinn. Undir lok hálfleiksins átti framherjinn reyndi Gunnar Heiðar Þorvaldsson skot sem hafnaði í þverslá og ekki löngu seinna komst Arnór Gauti Ragnarsson í ágætis færi en inn vildi boltinn ekki og staðan 0:0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.   Leikurinn breyttist þó nokkuð í síðari hálfleik en með vindinn með sér þjörmuðu Eyjamenn hressilega að gestunum sem vörðust ágætlega framan af. Kaj Leo í Bartalsstovu braut loks ísinn fyrir Eyjamenn með góðu marki, beint úr aukaspyrnu, á 57. mínútu. Innan við tíu mínútum frá marki Kaj Leo tókst Arnari Þórarinssyni, leikmanni KH, algjörlega upp úr þurru, að prjóna sig upp hægri kantinn en þegar inn í teyginn var komið fór hann illa að ráði sínu og sóknin rann út í sandinn. Annað mark ÍBV kom eftir rúman 70. mínútna leik og var þar að verki framherjinn ungi Breki Ómarsson, gott skot og óverjandi fyrir Guðmund Ragnar Vignisson í marki KH. Breki átti svo sannarlega eftir að láta að sér kveða í leiknum en á 84. mínútu leiksins bætti hann við sínu öðru marki og þriðja marki Eyjamanna en stuttu áður hafði skot hans hafnað í þverslá. Undir lok leiks gerði Pablo Punyed út um leikinn með fínu marki en hann hafði einungis verið inná í um fimm mínútur áður en honum tókst að skila boltanum í netið. Þó niðurstaða leiksins væri löngu ráðin tókst leikmönnum KH samt sem áður að klóra í bakkann á 90. mínútu og minnka muninn niður í þrjú mörk. Nær komust þeir ekki og góður sigur Eyjamanna staðreynd.   Myndir frá leiknum.  

Eyjamenn réttu úr kútnum gegn Víkingi R.

ÍBV og Víkingur R. mættust í 3. umferð Pepsi-deildar karla á sunnudaginn þar sem heimamenn höfðu betur 1:0. Þess má geta að Kristján Guðmundsson, þjálfari Eyjamanna, gerði fimm breytingar á byrjunarliði sínu frá 5-0 tapinu gegn Stjörnunni í umferðinni á undan. Þeir Derby Carrillo, Kaj Leo í Bartalsstovu, Arnór Gauti Ragnarsson, Felix Örn Friðriksson og Gunnar Heiðar Þorvaldsson tóku sér sæti á varamannabekknum og inn komu þeir Halldór Páll Geirsson, Hafsteinn Briem, Devon Már Griffin, Sigurður Grétar Benónýsson og Atli Arnarsson. Sterk austanátt gerði leikmönnum erfitt fyrir en liðið sem var á móti vindi átti oft og tíðum í stökustu vandræðum með að koma boltanum fram á völlinn og þá heldur Eyjamenn en liðsmenn Víkings. Það kom þó ekki í veg fyrir að Álvaro Montejo, framherji Eyjamanna, náði að skila boltanum í netið eftir um 15. mínútna leik eftir góðan undirbúning Sigurðar Grétars Benónýssonar sem tókst með þrautseigju að koma boltanum langleiðina að marklínunni. Miður skemmtilegt atvik átti sér stað undir lok fyrri hálfleiks þegar Devon Már Griffin, varnarmaður Eyjamanna, og Geoffrey Castillion, leikmaður Víkings, lentu í samstuði sem varð til þess að sá fyrrnefndi þurfti að yfirgefa völlinn á börum en í ljós hefur komið að hann er fótbrotinn. Fram að þessu atviki hafði Devon átt mjög góðan leik í vörn ÍBV og því virkilega svekkjandi fyrir hann sjálfan sem og liðið ef hann verður lengi frá. Í síðari hálfleik buðu liðin ekki upp á neina flugeldasýningu og einkenndist leikurinn að mestu af baráttu. Undir lok leiks var Hafsteinn Briem, varnarmaður ÍBV, ekki fjærri því að tvöfalda forystu Eyjamanna en gríðarlega föst aukaspyrna hans fór hárfínt framhjá marki andstæðinganna. Með sigrinum komust Eyjamenn upp fyrir Víking R. en liðið er í áttunda sætinu með fjögur stig. Eftir skellinn í síðustu viku gegn Stjörnunni verða þessi úrslit að teljast virkilega góð og mjög jákvætt að sjá liðið halda markinu hreinu. Næsti leikur ÍBV verður í dag kl. 18:00 en þá mæta Eyjamenn 4. deildar liðinu KH í Borgunarbikarnum. Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, var nokkuð sáttur við úrslitin þegar blaðamaður hafði samband við hann. Varstu ánægður með hvernig leikmenn mættu til leiks eftir skellinn gegn Stjörnunni? „Já, það var mikil einbeiting í hópnum og við duttum bara inn á rétta stillingu, framkvæmd og hugarfar. Þetta var það sem þurfti til og er nóg í bili.“ Þú gerðir fimm breytingar á byrjunarliðinu fyrir leik, ertu enn að finna rétta liðið eða eru þetta skilaboð um að enginn á öruggt sæti? „Blanda bara, það var greinilega eitthvað rangt við Stjörnuleikinn og við þurftum að finna aðra blöndu. Við verðum bara að bíða og sjá hvort þetta dugar,“ segir Kristján. Nú hefur komið í ljós að Devon er fótbrotinn, er tímabilið úti hjá honum? „Hann verður í sex vikur í gipsi og svo fer hann í aðgerð þannig það er möguleiki að hann nái í skottið á mótinu. Þetta er mjög leiðinlegt, í ljósi þess að hann var búinn að brjóta sér leið í liðið en hann kemur sterkur til baka,“ segir Kristján að lokum  

Ungir og efnilegir leikmenn sem banka á dyrnar í meistaraflokki og rúmlega það

Til margra ára hefur verið hefð fyrir því að Eyjafréttir og áður Fréttir, hafa tekið þátt í að verðlauna efnilega leikmenn ÍBV, bæði í handbolta og fótbolta, fyrir afrek sín með svokölluðum Fréttabikurum. Eins og svo oft áður þá var enginn skortur á verðugum handhöfum þessara verðlauna í ár og því vafalaust erfitt fyrir þjálfara að skera úr um hver hafi átt þau skilið. Tveir leikmenn þóttu þó standa öðrum framar en það voru þau Friðrik Hólm Jónsson og Sandra Erlingsdóttir. Friðrik Hólm spilaði 16 leiki með meistaraflokki í vetur og tíu leiki með ÍBV U í 1. deildinni. Friðrik, sem er fæddur árið 1998, var einnig gjaldgengur með 3. flokki þar sem hann var algjör lykilmaður. Líkt og margir aðrir leikmenn ÍBV varð Friðrik fyrir því óláni að meiðast í vetur sem gerði það að verkum að hann missti af þó nokkrum leikjum. Það hefur þó margsannað sig að þegar á móti blæs koma menn oftar en ekki tvíefldir til baka og verður það vafalaust raunin með Friðrik. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Sandra Erlingsdóttir verið lykilmaður í meistaraflokki ÍBV frá því hún gekk til liðs við félagið fyrir tímabilið en áður var hún á mála hjá þýska úrvalsdeildarfélaginu Füsche Berlin. Á leiktíðinni lék Sandra 20 leiki fyrir meistaraflokk í deildinni og skoraði í þeim 97 mörk, sem gerir hana að næstmarkahæsta leikmanni liðsins, ásamt því að hafa skapað ótal tækifæri fyrir liðsfélaga sína. Líkt og Friðrik Hólm er Sandra fædd árið 1998 og hefur því sömuleiðis keppnisrétt með 3. flokki en þar var hún kjörinn besti leikmaður liðsins. Sandra lét einnig mikið af sér kveða með U-19 ára landsliði Íslands sem tók þátt í undankeppni EM í mars en þar var hún valin í úrvalslið undankeppninnar þrátt fyrir að íslenska liðið hafi ekki komist upp úr riðlakeppni.  

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Stjórnmál >>

Greinar >>

Sjómannadagurinn í Vestmannaeyjum

Sjómannadagurinn hefur alltaf verið hátíðisdagur í mínum huga frá því ég man eftir mér. Á Siglufirði var Sjómannadagurinn stór hátíð þar sem sjómenn tókust á í hinum ýmsu keppnisgreinum skunduðu svo á ball á Hótel Höfn og tóku það stundum óklárt. Knattspyrnu á malarvellinum í sjóstökkum og bússum man ég eftir. Stakkasund í höfninni og reiptog. Keppni í netabætingu, kappróður og margt fleira. Í minningunni skipti þetta miklu máli fyrir unga drengi. Þeir urðu margir ákveðnir að verða kaldir kallar eins og sjóararnir, með uppbrettar ermar á köflóttu vinnuskyrtunum. Ég var einn þeirra sem fetaði þann veg að verða sjómaður og sé ekki eftir því. Ekki var maður burðugur fyrstu túrana en þetta hafðist allt með aðstoð og kennslu góðra sjómanna. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að lenda með góðum skipstjórum og áhöfnum. Nú er Sjómannadagurinn nánast aflagður á Siglufirði en þeir í austurbænum, Ólafsfirði hafa tekið upp merkið og halda veglega uppá daginn.   Dansað á þremur stöðum Ég og mín fjölskylda fluttum til Eyja 1989. Þá voru dansleikir og skemmtanir í þremur húsum. Höllinni, Alþýðuhúsinu og Kiwanishúsinu. Líklega um sex- til sjö hundruð manns þegar allt er talið. Og enn fleiri á dansleikjunum eftir skemmtanirnar. Þetta voru góðir og skemmtilegir tímar. Minn fyrsti Sjómannadagur í Eyjum var 1989. Þá fórum við áhöfnin á Frigginni sem Magni Jó var með, í Höllina til Pálma Lór og vorum niðri á Mylluhól. Einn bar var á hæðinni og sú sem sá um barinn þurfti að bregða sér í eldhúsið til að uppvarta. Komin var löng röð við barinn. Þá brá ég mér innfyrir barborðið og afgreiddi brennivín ofan í þyrsta sjómenn, tvöfaldan, þrefaldan og black russian. Þangað til ég sá bardömuna koma til baka. Enginn þurfti að borga á barnum hjá mér. Fyrirgefðu Pálmi minn.   Í Sjómannadagsráði Eftir nokkur ár í Eyjum var ég kominn í Sjómannadagsráð fyrir Jötunn og ekki varð aftur snúið. Afskaplega skemmtilegur tími að skipuleggja og vinna við Sjómannadaginn. Margir sjómenn sem maður hefur unnið með gegnum árin við skipulagningu og vinnu við daginn. Við þá segi ég takk fyrir samstarfið drengir þetta var stundum erfitt en á endanum alltaf gaman og gefandi. Að standa með sinn félagsfána við minnisvarða hrapaðra og drukknaðra við Landakirkju á Sjómannadegi og hlusta á Snorra Óskarsson minnast okkar föllnu félaga er í raun einstakt og ómetanlegt í minningunni. Þar drjúpum við sjómenn höfði fyrir Guði og mönnum. Við finnum fyrir smæð okkar fyrir Almættinu og náttúruöflunum. Sjómannadagurinn hefur alltaf verið hátíðisdagur í Eyjum og er enn. Sjómennirnir sjálfir hafa borið merkið, skipulagt og unnið vinnuna kringum hátíðina. Þannig viljum við hafa það. Við peyjana í Sjómannadagsráði segi ég, þið eruð dugnaðarforkar og sjómannastéttinni til sóma.   Sjómenn, fjölskyldur og allir Vestmannaeyingar til hamingju með Sjómannadaginn og mætum öll á viðburði helgarinnar.   Með Sjómannadagskveðju Valmundur Valmundsson