ÍBV með sigur í Lengjubikarnum

ÍBV með sigur í Lengjubikarnum

 Karlalið ÍBV sigraði Leikni R. í Lengjubikarnum í dag, lokastaða 1:3. Arnór Gauti Ragnarsson skoraði tvö mörk og Kaj Leo í Bartalsstovu eitt. Avni Pepa fékk að líta rauða spjaldið á 66. mínútu fyrir að sparka boltanum í dómarann en þrátt fyrir að vera einum færri tókst Eyjamönnum að sigla öruggum sigri í höfn.

Theodór og Ester voru valin best í meistaraflokki - myndir

Lokahóf ÍBV handboltadeildar var haldið á Háaloftinu sl. laugardag við hátíðlega athöfn. Þar komu saman leikmenn meistaraflokks og 3. flokks karla og kvenna, þjálfarar og aðrir velunnarar. Fjölmörg verðlaun voru veitt þetta kvöld og ber þar hæst verðlaun fyrir bestu leikmenn ársins en í karlaflokki þótti Theodór Sigurbjörnsson bestur en Ester Óskarsdóttir í kvennaflokki. Bæði tvö vel að þessu komin. Líkt og fram kom í ræðuhöldum framkvæmdastjóra og þjálfara var árangurinn í ár ekki beint í samræmi við metnað félagsins þó svo árangurinn hafi rímað ágætlega við spár sérfræðinga fyrir tímabilið. Stelpurnar enduðu með 17 stig í fimmta sæti deildarinnar sem nægði þeim ekki til að komast í úrslitakeppni. Í Coca-Cola bikarnum sigruðu stelpurnar Víking örugglega í fyrstu umferð en lentu síðan á vegg í annarri umferð gegn Stjörnunni þar sem lokatölur voru 32:23. Strákarnir enduðu aftur á móti í öðru sæti í Olís-deild karla með 36 stig, einu stigi á eftir toppliði FH. Í fyrstu rimmu sinni í úrslitakeppninni duttu Eyjamenn síðan út fyrir Val eins og frægt er en þangað til höfðu þeir verið taplausir í 12 leikjum. Í Coca-Cola bikarnum þurfti ÍBV að sætta sig við eins marks tap gegn Selfossi í fyrstu umferð sem verður að teljast vonbrigði. Þrátt fyrir að árangurinn hafi ekki verið eins góður og raun ber vitni var árið engu að síður viðburðaríkt, margir góðir sigrar og sömuleiðis margir ósigrar, mörg eftirminnileg augnablik og mörg augnblik sem fólk vill helst að falli í gleymsku. Það er alltaf hægt að tala um dómaraskandal, meiðsli, óheppni, hvað ef þetta og hvað ef hitt en þegar öllu er á botninn hvolft þá er niðurstaðan óumflýjanleg og endanleg. Það sem mestu máli skiptir er að horfa fram á veginn, læra af mistökunum og byggja ofan á það sem vel fór.   Verðlaunahafar Í þriðja flokki karla var Daníel Örn Griffin valinn efnilegasti leikmaðurinn, Ólíver Magnússon fékk viðurkenningu fyrir mestu framfarir, Ingvar Ingólfsson var valinn ÍBV-arinn og Gabríel Martinez Róbertsson besti leikmaðurinn. Í þriðja flokki kvenna var Ásta Björk Júlíusdóttir efnilegust, Hafrún Dóra Hafþórsdóttir sýndi mestu framfarirnar, Linda Petrea Georgsdóttir var valinn ÍBV-arinn og Sandra Erlingsdóttir var valinn besti leikmaðurinn. Í meistaraflokki karla hlaut Friðrik Hólm Jónsson Fréttabikarinn sem efnilegasti leikmaðurinn, Magnús Stefánsson var valinn ÍBV-arinn og Theodór Sigurbjörnsson besti leikmaðurinn. Í meistaraflokki kvenna hlaut Sandra Erlingsdóttir Fréttabikarinn sem efnilegasti leikmaðurinn, Sandra Dís Sigurðardóttir sýndi mestu framfarirnar, Greta Kavaliauskaite var valinn ÍBV-arinn og Ester Óskarsdóttir besti leikmaðurinn. Að lokum er rétt að greina frá því að tveir leikmenn ÍBV munu hverfa á braut eftir tímabilið, einn úr karlaliðinu og einn úr kvennaliðinu. Línumaðurinn öflugi Telma Amado mun róa á önnur mið eftir fjögur tímabil með ÍBV sem og markvörðurinn Kolbeinn Arnarsson en hann hefur allan sinn feril leikið með ÍBV.   Hér má sjá myndir frá kvöldinu.

Öruggur sigur Eyjamanna á KH - myndir

 Karlalið ÍBV í knattspyrnu tók á móti 4. deildar liðinu KH á Hásteinsvelli í kvöld er liðin mættust í 32-liða úrslitum Borgunarbikarsins. Það er skemmst frá því að segja að Eyjamenn fór með sigur af hólmi en lokatölur voru 4:1.   Líkt og fyrri daginn spilaði veðrið leiðinlega stóran þátt í leiknum en hífandi rokið í Eyjum í kvöld gerði það að verkum að leikurinn var ekki mikið fyrir augað. Heimamenn í ÍBV byrjuðu á móti vind en þrátt fyrir það lágu þeir á KH allan hálfleikinn. Undir lok hálfleiksins átti framherjinn reyndi Gunnar Heiðar Þorvaldsson skot sem hafnaði í þverslá og ekki löngu seinna komst Arnór Gauti Ragnarsson í ágætis færi en inn vildi boltinn ekki og staðan 0:0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.   Leikurinn breyttist þó nokkuð í síðari hálfleik en með vindinn með sér þjörmuðu Eyjamenn hressilega að gestunum sem vörðust ágætlega framan af. Kaj Leo í Bartalsstovu braut loks ísinn fyrir Eyjamenn með góðu marki, beint úr aukaspyrnu, á 57. mínútu. Innan við tíu mínútum frá marki Kaj Leo tókst Arnari Þórarinssyni, leikmanni KH, algjörlega upp úr þurru, að prjóna sig upp hægri kantinn en þegar inn í teyginn var komið fór hann illa að ráði sínu og sóknin rann út í sandinn. Annað mark ÍBV kom eftir rúman 70. mínútna leik og var þar að verki framherjinn ungi Breki Ómarsson, gott skot og óverjandi fyrir Guðmund Ragnar Vignisson í marki KH. Breki átti svo sannarlega eftir að láta að sér kveða í leiknum en á 84. mínútu leiksins bætti hann við sínu öðru marki og þriðja marki Eyjamanna en stuttu áður hafði skot hans hafnað í þverslá. Undir lok leiks gerði Pablo Punyed út um leikinn með fínu marki en hann hafði einungis verið inná í um fimm mínútur áður en honum tókst að skila boltanum í netið. Þó niðurstaða leiksins væri löngu ráðin tókst leikmönnum KH samt sem áður að klóra í bakkann á 90. mínútu og minnka muninn niður í þrjú mörk. Nær komust þeir ekki og góður sigur Eyjamanna staðreynd.   Myndir frá leiknum.  

Eyjamenn réttu úr kútnum gegn Víkingi R.

ÍBV og Víkingur R. mættust í 3. umferð Pepsi-deildar karla á sunnudaginn þar sem heimamenn höfðu betur 1:0. Þess má geta að Kristján Guðmundsson, þjálfari Eyjamanna, gerði fimm breytingar á byrjunarliði sínu frá 5-0 tapinu gegn Stjörnunni í umferðinni á undan. Þeir Derby Carrillo, Kaj Leo í Bartalsstovu, Arnór Gauti Ragnarsson, Felix Örn Friðriksson og Gunnar Heiðar Þorvaldsson tóku sér sæti á varamannabekknum og inn komu þeir Halldór Páll Geirsson, Hafsteinn Briem, Devon Már Griffin, Sigurður Grétar Benónýsson og Atli Arnarsson. Sterk austanátt gerði leikmönnum erfitt fyrir en liðið sem var á móti vindi átti oft og tíðum í stökustu vandræðum með að koma boltanum fram á völlinn og þá heldur Eyjamenn en liðsmenn Víkings. Það kom þó ekki í veg fyrir að Álvaro Montejo, framherji Eyjamanna, náði að skila boltanum í netið eftir um 15. mínútna leik eftir góðan undirbúning Sigurðar Grétars Benónýssonar sem tókst með þrautseigju að koma boltanum langleiðina að marklínunni. Miður skemmtilegt atvik átti sér stað undir lok fyrri hálfleiks þegar Devon Már Griffin, varnarmaður Eyjamanna, og Geoffrey Castillion, leikmaður Víkings, lentu í samstuði sem varð til þess að sá fyrrnefndi þurfti að yfirgefa völlinn á börum en í ljós hefur komið að hann er fótbrotinn. Fram að þessu atviki hafði Devon átt mjög góðan leik í vörn ÍBV og því virkilega svekkjandi fyrir hann sjálfan sem og liðið ef hann verður lengi frá. Í síðari hálfleik buðu liðin ekki upp á neina flugeldasýningu og einkenndist leikurinn að mestu af baráttu. Undir lok leiks var Hafsteinn Briem, varnarmaður ÍBV, ekki fjærri því að tvöfalda forystu Eyjamanna en gríðarlega föst aukaspyrna hans fór hárfínt framhjá marki andstæðinganna. Með sigrinum komust Eyjamenn upp fyrir Víking R. en liðið er í áttunda sætinu með fjögur stig. Eftir skellinn í síðustu viku gegn Stjörnunni verða þessi úrslit að teljast virkilega góð og mjög jákvætt að sjá liðið halda markinu hreinu. Næsti leikur ÍBV verður í dag kl. 18:00 en þá mæta Eyjamenn 4. deildar liðinu KH í Borgunarbikarnum. Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, var nokkuð sáttur við úrslitin þegar blaðamaður hafði samband við hann. Varstu ánægður með hvernig leikmenn mættu til leiks eftir skellinn gegn Stjörnunni? „Já, það var mikil einbeiting í hópnum og við duttum bara inn á rétta stillingu, framkvæmd og hugarfar. Þetta var það sem þurfti til og er nóg í bili.“ Þú gerðir fimm breytingar á byrjunarliðinu fyrir leik, ertu enn að finna rétta liðið eða eru þetta skilaboð um að enginn á öruggt sæti? „Blanda bara, það var greinilega eitthvað rangt við Stjörnuleikinn og við þurftum að finna aðra blöndu. Við verðum bara að bíða og sjá hvort þetta dugar,“ segir Kristján. Nú hefur komið í ljós að Devon er fótbrotinn, er tímabilið úti hjá honum? „Hann verður í sex vikur í gipsi og svo fer hann í aðgerð þannig það er möguleiki að hann nái í skottið á mótinu. Þetta er mjög leiðinlegt, í ljósi þess að hann var búinn að brjóta sér leið í liðið en hann kemur sterkur til baka,“ segir Kristján að lokum  

Ungir og efnilegir leikmenn sem banka á dyrnar í meistaraflokki og rúmlega það

Til margra ára hefur verið hefð fyrir því að Eyjafréttir og áður Fréttir, hafa tekið þátt í að verðlauna efnilega leikmenn ÍBV, bæði í handbolta og fótbolta, fyrir afrek sín með svokölluðum Fréttabikurum. Eins og svo oft áður þá var enginn skortur á verðugum handhöfum þessara verðlauna í ár og því vafalaust erfitt fyrir þjálfara að skera úr um hver hafi átt þau skilið. Tveir leikmenn þóttu þó standa öðrum framar en það voru þau Friðrik Hólm Jónsson og Sandra Erlingsdóttir. Friðrik Hólm spilaði 16 leiki með meistaraflokki í vetur og tíu leiki með ÍBV U í 1. deildinni. Friðrik, sem er fæddur árið 1998, var einnig gjaldgengur með 3. flokki þar sem hann var algjör lykilmaður. Líkt og margir aðrir leikmenn ÍBV varð Friðrik fyrir því óláni að meiðast í vetur sem gerði það að verkum að hann missti af þó nokkrum leikjum. Það hefur þó margsannað sig að þegar á móti blæs koma menn oftar en ekki tvíefldir til baka og verður það vafalaust raunin með Friðrik. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Sandra Erlingsdóttir verið lykilmaður í meistaraflokki ÍBV frá því hún gekk til liðs við félagið fyrir tímabilið en áður var hún á mála hjá þýska úrvalsdeildarfélaginu Füsche Berlin. Á leiktíðinni lék Sandra 20 leiki fyrir meistaraflokk í deildinni og skoraði í þeim 97 mörk, sem gerir hana að næstmarkahæsta leikmanni liðsins, ásamt því að hafa skapað ótal tækifæri fyrir liðsfélaga sína. Líkt og Friðrik Hólm er Sandra fædd árið 1998 og hefur því sömuleiðis keppnisrétt með 3. flokki en þar var hún kjörinn besti leikmaður liðsins. Sandra lét einnig mikið af sér kveða með U-19 ára landsliði Íslands sem tók þátt í undankeppni EM í mars en þar var hún valin í úrvalslið undankeppninnar þrátt fyrir að íslenska liðið hafi ekki komist upp úr riðlakeppni.  

Yngri flokkar: Íslandsmeistarar í 5. og 6. flokki kvenna í handbolta

Það hefur verið nóg um að vera hjá yngri flokkum ÍBV síðustu misseri en nokkrir Íslandsmeistaratitla hafa farið á loft. Stúlkurnar í 5. flokki yngri og 6. flokki yngri tryggðu sér Íslandsmeistaratitil fyrir nokkru síðan og núna síðast var það 6. flokkur kvenna eldri en þær voru í eldlínunni um þar síðustu helgi. Fór þá liðið norður á Akureyri og vann alla fjóra leikina og eru þar með búnar að vinna fjögur af fimm mótum sínum í vetur og í heildina 24 af 25 leikjum. Þessi árangur varð til þess að tryggja þeim bæði deildar- og Íslandsmeistaratitil. Drengirnir í 6. flokki yngri náðu einnig góðum árangri en þeir tryggðu sér 3. sætið í deildarkeppni sinni. 5. flokkur kvenna eldri vann einn og tapaði þremur í 1. deild á síðasta móti ársins hjá þeim, fínn árangur hjá þeim á tímabilinu sem skilar þeim í 5-6. sæti. 4. flokkur kvenna yngri datt síðan út í undanúrslitum á móti HK í baráttunni um Íslandsmeistaratitil en leikurinn endaði 19-20 og réðust úrslitin í blálokin. 4. flokkur kvenna eldri spilaði í B-úrslitum og vann Fjölni í undanúrslitum og eru því komnar í úrslit. 4. flokkur yngri karla keppti sömuleiðis í B-úrslitum og vann þar Hörð frá Ísafirði. 6. flokkur karla fór líka til Akureyrar en þar voru þeir með þrjá sigra og eitt tap og enduðu í 2. sæti í 3. deild. B-liðið vann aftur á móti einungis einn leik en tapaði fjórum. Að lokum tapaði 5. flokkur karla öllum sínum leikjum á móti um helgina.    

Pepsi-deild karla: Eyjamenn byrja á markalausu jafntefli

ÍBV og Fjölnir skildu jöfn þegar liðin mættust í 1. umferð Pepsi-deildar karla á Hásteinsvelli á sunnudag, lokastaða 0:0. Varnarmaður Eyjamanna, Hafsteinn Briem, fékk rautt spjald strax á 14. mínútu leiksins er hann braut á Marcus Solberg sem var við það að sleppa einn í gegn eftir mistök í vörninni. Róðurinn var því þungur og voru Fjölnismenn með öll völd á vellinum eftir það. Yfirburðir Fjölnismanna héldu áfram í síðari hálfleik en Eyjamenn voru fastir fyrir og vörðust áhlaupum gestana vel og þá ekki síst markmaðurinn Derby Carillo en átti mjög góðan leik í markinu í dag. Fyrsta alvöru færi Eyjamanna kom ekki fyrr en á 80. mínútu þegar sóknarmaðurinn Álvaro Montejo náði ágætis skoti að marki Fjölnismanna en Þórður Ingason gerði vel og varði. Eins og fyrr segir héldu Eyjamenn út og geta þeir verið ánægðir með að ná stigi út úr leiknum í ljósi brottrekstur Hafsteins snemma leiks. Kristján Guðmundsson, þjálfari Eyjamanna, var að vonum ánægður með úrslit leiksins í ljósi þess að liðið var einum manni færra bróðurpart leiks. „Í ljósi þess hvernig leikurinn þróaðist er ég sæmilega sáttur við úrslitin en ég er ekki neitt sérstaklega ánægður með spilamennsku liðsins. Við vorum alls ekki nógu grimmir í byrjun leiks og lendum því fljótt undir og missum mann út af vegna þess. Eftir það erum við bara að verja markið og svæðin og reyna að halda stigi á heimavelli. Þegar vindurinn jókst var þetta erfitt en við fengum einn séns og það hefði verið gaman að stela þessu,“ segir Kristján. Það vakti athygli að Andri Ólafsson var með fyrirliðabandið í leiknum en ekki Avni Pepa hefur hingað til sinnt því starfi? „Við erum með svokallað fyrirliðateymi. Andri er þannig fyrirliði okkar en Sindri Snær Magnússon og Avni Pepa eru einnig í teyminu,“ segir Kristján. Næsti leikur liðsins er á sunnudaginn gegn Stjörnunni og vonast Kristján eftir góðum úrslitum þrátt fyrir að verkefnið sé erfitt. „Við erum að greina leikinn gegn Fjölni núna og svo förum við í að skoða Stjörnuna. Ég sá þá í Grindavík þar sem þeir gerðu jafntefli en það má ekki gleyma því að þeir eru taplausir á þessu ári. Þetta verður erfiður leikur og verkefnið er stórt en við verðum bara að stækka með,“ segir Kristján að lokum.  

Pepsi-deild kvenna: Sigur í fyrsta leik hjá stelpunum - Mæta Val í kvöld

 ÍBV hafði betur gegn KR í fyrstu umferð Pepsi-deildar kvenna sl. föstudag. Leiknum lyktaði með 1:0 sigri heimamanna þar sem Cloe Lacasse kom boltanum í netið á upphafsmínútum síðari hálfleiks. Aðstæður í Vestmannaeyjum voru ekki þær bestu fyrir knattspyrnuiðkun, rok og slydda á köflum, og setti það svo sannarlega svip á leikinn sem var ekki mikið fyrir augað. Blaðamaður ræddi við Sóleyju Guðmundsdóttur, fyrirliða ÍBV, eftir leik og var ekki annað að heyra en að hún hafi verið nokkuð ánægð með framvindu leiksins og ekki síst stigin þrjú. Hvernig fannst þér leikurinn spilast? „Ég var ánægð með okkar spilamennsku að mestu leyti, við bjuggumst við því að stjórna leiknum og við gerðum það vel. Við héldum boltanum ágætlega en hefðum samt getað valið skynsamari sendingar á köflum, miðað við aðstæður. Í seinni hálfleik pressuðu KR-ingarnir aðeins meira á okkur en við héldum einbeitingunni út allan leikinn og tókum öll þrjú stigin verðskuldað,“ segir Sóley. Þið eruð með marga nýja leikmenn, hvernig fannst þér þeir koma út? „Þær litu vel út og stóðust fyrsta leikinn í roki, rigningu og snjókomu þannig að ég er bara bjartsýn á framhaldið og býst við að þær eigi eftir að sýna sínar allra bestu hliðar í góðu veðri í sumar,“ segir Sóley, ánægð með liðsfélaga sína. Eins og þú segir þá voru aðstæður á föstudaginn kannski ekki þær bestu fyrir knattspyrnuiðkun og kom svolítið niður á áhorfendafjölda. Þið hljótið að vonast að eftir fleirum á völlinn í komandi leikjum? „Já, þetta veður var ekki að hjálpa okkur að slá einhver áhorfendamet. Auðvitað vonast ég eftir því að fólk komi á leiki hjá okkur í sumar og ég hvet þá sem hafa aldrei mætt á kvennaleik að gera það og gefa okkur séns, ég lofa því allavega að við njótum þess að spila í hvaða veðri sem er og fyrir hvaða áhorfendur sem er og við leggjum okkur allar fram að hafa gaman inni á vellinum sem smitast vonandi upp í stúku,“ segir Sóley. Næsti leikur ÍBV er í dag gegn sterku liði Vals en þeim er jafnframt spáð titlinum. Þrátt fyrir það telur fyrirliðinn góða möguleika á hagstæðum úrslitum. „Þetta er krefjandi verkefni sem bíður okkar í næstu umferð. Ég tel okkur hafa það sem þarf til að vinna Valsstelpurnar, þó að þær séu með mjög góða leikmenn í sínu liði og þeim spáð titlinum þá mætum við á Hlíðarenda með hausinn á réttum stað, gefum allt okkar í leikinn sem vonandi skilar okkur góðum úrslitum.“

Margar konur emjuðu úr hlátri og allar skemmtu sér konunglega - myndir

Konukvöld ÍBV meistaraflokks kvenna í knattspyrnu var haldið í Akóges síðastliðinn miðvikudag, 19. apríl og heppnaðist vel. Mikil stemning var fyrir kvöldinu því strax viku fyrir var lítið orðið eftir af miðum og mikill spenningur. Það stóðst á endum að daginn fyrir Konukvöldið var orðið uppselt. Þema kvöldsins var í takt við að sumardagurinn fyrsti var daginn eftir, skreytingar í sumar - Hawaii stíl. Mikið um blóm, pálmatré og sólstrandahlífar. ÍBV stelpur tóku á móti gestunum með því að hengja Hawaii krans um hálsinn við innkomu. Boðið var upp á sumarlega kokteila sem pössuðu vel við umhverfið. Stelpurnar sáu sjálfar um að bera fram matinn og þjóna til borðs. Ian Jeffs þjálfari meistaraflokks fór yfir markmið sumarsins og knattspyrnuráð kvenna sýndi videó með kynningu á leikmönnum og þjálfurum sumarið 2017. Sigurður Gíslason á GOTT var með glæsilegan fjögurra rétta matseðill sem samanstóð af steiktri risahörpuskel með avacado og blómkáli, gröfnum nautavöðva með pecanhnetum og klettasalati, þorkshnakka með kartöflumauki og humarsósu og súkkulaðimús með ferskum jarðarberjum og pistasíuís. Eyþór Ingi Gunnlaugsson var frábær með eftirhermur og tónlistaratriði. Margar konur emjuðu úr hlátri og allar skemmtu sér konunglega. Veislustjóri kvöldsins var Esther Bergsdóttir sem sló í gegn með nokkrum skemmtilegum sögum og bröndurum. Happadrætti með glæsilegum vinningum. Jón Ólafur Daníelsson blandaði Mánabars Irish Coffee fyrir skvísurnar. Öll vinna við kvöldið, við mat og framleiðslu og skipulag var í sjálfboðavinnu til styrktar stelpnanna okkar. „Knattspyrnuráð kvenna vill koma fram þakklæti til allra þeirra sem gáfu vinnu sína við að gera kvöldið eins glæsilegt og það var. Eins vill ráðið þakka öllum þeim fyrirtækjum sem gáfu vinninga í happadrættið og öllum þeim sem keyptu miða. Vonumst til þess að við getum endurtekið leikinn að ári,“ segir í frétt frá ráðinu.   Myndir frá kvöldinu

Kristján Guðmundsson þjálfari karlaliðs ÍBV: Stefnan sett á að komast upp úr neðri hluta deildarinnar

Kristján Guðmundsson tók við liði Eyjamanna í haust og hefur undanfarna mánuði unnið hörðum höndum að því að púsla saman liði en eins og svo oft þá er leikmannaveltan hjá liðum ÍBV oft meiri en gengur og gerist annars staðar. Blaðamaður ræddi við Kristján m.a. um undirbúningstímabil, markmið liðsins og búsetu hans í Eyjum. „Ég tók við í haust og var með Reykjavíkur strákana fram að áramótum. Á meðan voru þjálfararnir hér í Eyjum að skiptast á að sjá um hópinn sem samanstóð að mestu af strákum úr 2. flokki,“ segir Kristján um fyrstu vikur og mánuði í starfi. „Ég flyt síðan út í Eyjar í annarri viku í janúar og er búinn að vera með liðið síðan. Gunnar Heiðar kemur síðan inn í þetta með mér sem aðstoðarþjálfari í lok febrúar. Á meðan færðum við strákana í Reykjavík yfir til Kristjáns Ómars Björnssonar styrktarþjálfara og þjálfara Álftaness og bættum einnig við einum þjálfara til viðbótar, Guðmundi Viðari Mete, sem staðsettur var uppi á landi.“ Á meðan liðið var að stilla saman strengi á undirbúningstímabilinu tók það þátt bæði í fótbolti.net mótinu og lengjubikarnum og segir Kristján að úrslitin hefðu mátt vera betri. „Við lentum í þriðja sæti í .net mótinu og byrjuðum vel í lengjubikarnum en náðum ekki í úrslitakeppnina, sem var ekki alveg nógu gott. Að því loknu fórum við út til Spánar í æfingaferð sem gekk vel, við spiluðum enga leiki og æfðum bara. Heilt yfir höfum við sloppið við meiðsli og eru menn almennt bara tilbúnir,“ segir Kristján en bætir þó við að æfingaleikir hefðu mátt vera fleiri en raun ber vitni. „Það sem hefur vantað upp á eru æfingaleikir. Við tókum tvo helgina sem við komum heim að utan, síðan höfum við ekkert spilað. Það verða þá liðnar þrjár vikur sem við spilum ekkert fyrir fyrsta leik í Pepsi-deildinni sem er það lengsta sem ég hef lent í. Það eru svo sem margar ástæður fyrir þessu, liðin eru mörg hver erlendis eða enn að spila í lengjubikarnum og sum ekkert endilega æst í að spila á grasi þegar það eru komnir svona margir plastvellir. Það er samt sem áður möguleiki á leikjum en annars erum við bara að æfa á fullu og setja upp hvernig við ætlum að spila,“ segir Kristján. Ertu sáttur við hópinn í dag eða sérðu fram á að bæta við leikmönnum? „Já, við erum sáttir við hópinn en við erum að skoða hvort við getum bætt við okkur einum sterkum leikmanni í viðbót en eins og staðan er núna er það ekkert neglt.“ Mun það vera íslenskur eða erlendur leikmaður? „Það skiptir í raun engu máli hvaðan hann kemur, bara að hann sé nógu góður, það er aðal málið.“ Ykkur er spáð 9. sæti bæði hjá fótbolta.net og 365. Er það ekki bara eðlileg spá? „Jú, það er bara eðlileg spá út frá því að sérfræðingar hafa ekkert séð okkur mikið spila,“ segir Kristján sem sjálfur vill stefna hærra. „Á næstu dögum munum við setjast niður, þ.e.a.s. leikmannahópurinn og þjálfararnir, á fundi þar sem við ræðum markmið sumarsins. Frá því ég var ráðinn í haust hefur verið markmið okkar að bæta liðið, hvort sem það felst í því að bæta við leikmönnum eða efla þjálfun. Við viljum vinna okkur upp í miðjustrikið, svona sjötta til fimmta sæti, en það er síðan annað stökk að ná efstu liðunum. Það er hugsunin að lyfta liðinu upp frá þeim stað sem það hefur verið seinustu tvö til þrjú árin, þar áður var liðið alltaf í toppnum og í Evrópukeppnum og þangað viljum við fara aftur. Það er bara spurning hversu langan tíma það tekur, hvort sem það verður núna í sumar eða næsta sumar, það verður bara að koma í ljós,“ segir Kristján. Hvernig hefur þér gengið að aðlagast Vestmannaeyjum? Hvernig líkar þér að vera hér? „Mér líkar þetta stórvel, ég skemmti mér vel og það er mjög gaman. Þannig séð er ég að upplifa nýja hluti en samt ekki, þetta snýst náttúrulega allt um fótbolta. Það er gott að vera að þjálfa inni í húsi yfir veturinn, það er munur en við höfum þurft að bíða aðeins of lengi eftir því að komast út, ég hefði viljað fara út strax eftir utanlandsferðina en það var víst aðeins of snemmt. En eins og ég segi þá líkar mér vel, það er hugsað vel um mig og alls staðar tekið vel á móti mér, það verður væntanlega þannig á meðan við töpum ekki mörgum leikjum. Það er nefnilega oft þannig að um leið og maður fer að tapa leikjum þá gjörsnýst umhverfið en við vonum að svo verði ekki og vinnum að sjálfsögðu út frá því að allt verði í fínu standi,“ segir Kristján. Áður en Kristján skrifaði undir samning við ÍBV tók hann þá ákvörðun að láta hluti eins og samgöngur ekki á sig fá en eins og Vestmannaeyingar vita mæta vel er erfitt að stóla á þær. „Ég er ekki að láta neitt stuða mig sem er gefinn hlutur, það er stundum siglt til Þorlákshafnar og til hvers að láta það fara í taugarnar á sér, það er óþarfi. Það er oftast hægt að fljúga ef þú vilt það en þó það komi fyrir einhverja daga að þú komist ekki yfir á þeim tíma sem þú vilt þá áttu bara að vera búinn að undirbúa þig fyrir það. Ef þú ætlar að láta þessa hluti trufla þig þá nærðu ekki að vinna rétt. Þetta var ég alveg búinn að leggja niður fyrir mig og ég nýt þess bara að fara í Herjólf og eins með flugið, mér finnst alltaf jafn spennandi í aðfluginu hérna, þegar hann er að skella vélinni niður. Þetta er bara spurning um hvernig þú nálgast verkefnið, að láta ekki svona hluti trufla sig. Eins þýðir ekkert að grafa sig niður þó önnur lið hafa enga nennu í að koma hingað til að spila æfingaleik, maður á bara að vinna með það sem maður hefur og ná því besta út úr mannskapnum hérna hjá ÍBV eins og mögulegt er,“ segir Kristján. Ertu ánægður með umgjörðina hér hjá ÍBV, er þetta bara eins og þú hefur átt að venjast annars staðar? „Nei, þetta er aðeins öðruvísi en ég er samt alveg ánægður með umgjörðina, þannig séð. Það er öðruvísi að ferðast í þessa leiki yfir vetramánuðina, það eru ekkert allir að koma með í þá. Við erum oft bara tveir að stjórna liðinu en það er allt í lagi, leikmennirnir eru vanir þessu og sömuleiðis að sjá um búningana og allt það sjálfir. Á höfuðborgarsvæðinu værum við alltaf fimm til sjö í kringum liðið í hverjum einasta leik. Þetta er þannig nýtt fyrir leikmennina sem fáum af höfuðborgarsvæðinu, að sjá ekki sjúkraþjálfara sinn eða búningastjóra sinn í hverjum leik. Þeir geta þá dottið í þann gír að hugsa að við séum ekki eins faglegir og hin liðin en þetta er bara okkar veruleiki. Ef við bara útilokum þetta og vinnum í þessu sjálfir, þá getum við tekið ábyrgðina sjálfir í einhver skipti, við erum engin smábörn. Það er hins vegar mikill metnaður og vilji til að gera hlutina en stundum gerast þeir svolítið hægt, ég viðurkenni það alveg. Það getur líka verið kostur að gera hlutina rólega og skil ég ekki fólk í Vestmannaeyjum sem er að stressa sig, með einhver læti eða flýta sér í gegnum búðina eða eitthvað álíka, það hlýtur þá að vera eitthvað alveg sérstakt ef fólk þarf að gera það, allavega ætla ég ekki að detta í þann pakka,“ segir Kristján og hlær og heldur áfram á svipuðum nótum. „Ég nýt lífsins hér og vona líka að leikmennirnir sem koma ofan af landi geri það líka og njóti þess að spila fyrir ÍBV og sjái jákvæðu og réttu hlutina í öllu, þar er gríðarlega mikilvægt og þá mun manni ganga vel.“ Þú hefur væntanlega komið í þó nokkur skipti til Eyja lífsleiðinni, þá sem þjálfari andstæðingsins. Er eitthvað öðruvísi að koma hingað en á aðra staði? „Það var náttúrulega fyrst og fremst ferðalagið, þjálfarinn bað alltaf fyrst um flug og stjórnin segir nei. En áður en Landeyjahöfn kom til sögunnar var alltaf flogið í leikina og þá var bara vandamálið að komast niður og þar fram eftir götunum. Ég setti fljótlega bara upp það hugafar að þetta væri spennandi og gaman, loksins eitthvað uppbrot, ekki bara keyra í bíl inn á völl sem maður gerði í hverri viku á höfuðborgarsvæðinu. En aldrei hafði ég áhyggjur af stúkunni í Eyjum og það er kannski eitthvað sem fólk þarf að taka til sín. Ég kom ekkert hingað í fyrra sumar en heyrði að það hafi verið nokkuð góður stuðningur þannig að ég vona það verði áfram og jafnvel meira í sumar en það er bara undir okkur sjálfum komið. Í gegnum tíðina hefur mér gengið vel hér í Eyjum með þau lið sem ég hef þjálfað og alltaf haft mjög gaman að því að spila hér,“ segir Kristján. Sjálfur býr Kristján einn í Eyjum en segist duglegur að heimsækja fjölskylduna og hún hann. „Ég bý hér einn með heimsóknum frá fjölskyldu. Við vorum nú búin að setja upp kerfi hvenær konan myndi heimsækja mig í vetur þar sem hún á auðvelt með það í sinni vinnu. Það plan fór hins vegar allt í vaskinn því við vorum náttúrulega hverja einustu helgi í vetur uppi á landi að spila fótbolta. Þær ferðir urðu því færri en ætlast var til en fjölskyldan er dugleg að koma þegar færi er og vorum við t.d. öll hér um páskana þannig að þetta hefur gengið ágætlega. Svo hef ég ekki alltaf orðið eftir í Reykjavík þegar við erum að spila, bara gert það inn á milli þegar tíminn er réttur, oftast hef ég ferðast með liðinu til baka úr leikjum. Í sumar verður fjölskyldan meira og minna hérna í kringum mig, það er nóg að gera hjá mér en auðvitað vill maður alltaf hafa fjölskylduna nálægt sér,“ segir Kristján að lokum.  

Sóley Guðmundsdóttir fyrirliði ÍBV: Ég held að þetta verði bara fáránlega skemmtilegt sumar

Sóley Guðmundsdóttir, fyrirliði kvennaliðs ÍBV, var bjartsýn fyrir sumrinu þegar Eyjafréttir slógu á þráðinn til hennar við gerð blaðsins. Kvaðst hún þreytt á því að vera í miðjumoði í deildinni og vonast eftir að veita efstu liðunum aukna samkeppni í ár og jafnvel koma með einn bikar til Eyja. Hvernig líst þér á komandi tímabil? „Mér líst mjög vel á það, við erum búnar að nýta veturinn mjög vel til að þróa okkar leik og koma okkur í topp stand. Ég býst einnig við því að deildin í ár verði enn þá jafnari en í fyrra og að margir leikmenn muni vekja athygli fyrir góða spilamennsku. Svo kemur EM inn í þetta sem mun auka áhuga á kvennaknattspyrnunni þannig að ég held að þetta verði bara fáránlega skemmtilegt sumar,“ segir Sóley. Hver eru markmið ykkar? „Við erum orðnar vel þreyttar á því að enda í fimmta sæti og ætlum að rífa okkur upp úr því. Það er ekkert leyndarmál að við viljum bikar, það er allt of langt síðan að það kom alvöru titill til Eyja. Annars ætlum við auðvitað að fara inn í hvern leik með það að markmiði að vinna hann, hugsa vel um okkur í allt sumar og vera besta útgáfan af sjálfum okkur á hverjum einasta degi, því þannig náum við árangri,“ segir Sóley. Það hafa verið miklar breytingar á leikmannahópnum fyrir leiktíðina, hvernig hefur leikmönnum gengið að ná saman? „Já, það voru margar sem fóru frá okkur og margar nýjar sem komu inn. Það var mikill stígandi í okkar leik í vetur, við náðum betur saman með hverjum leik og fórum að læra inn á hverja aðra. Það tekur alltaf sinn tíma að slípa saman hóp þegar það eru svona miklar breytingar í einu en þetta er bara eitt af þeim verkefnum sem við erum búnar að vinna í í vetur og hefur held ég tekist nokkuð vel. Það er að sjálfsögðu alltaf hægt að bæta andann í hópnum og við munum halda áfram að vinna í hópnum í sumar og láta alla líða eins vel og hægt er, sama hvort sem það eru nýir leikmenn eða stelpur sem hafa búið í Eyjum allt sitt líf,“ segir Sóley að lokum.      

Ian Jeffs þjálfari kvennaliðs ÍBV: Vilja veita toppliðunum samkeppni

 Í samtali við Eyjafréttir kvaðst Ian Jeffs, þjálfari kvennaliðs ÍBV, spenntur fyrir komandi átökum en liðið spilar sinn fyrsta leik í Pepsi-deildinni á föstudaginn á heimavelli gegn KR. Ef við ræðum aðeins undirbúningstímabilið, hvernig finnst þér það hafa gengið hjá ykkur? „Heilt yfir bara mjög vel, eins og alltaf byrjaði það hægt og rólega á meðan við erum að fá leikmenn inn erlendis frá. Þetta er svolítið öðruvísi hér í Eyjum en hjá öðrum liðum. Það tekur alltaf smá tíma að finna út hvernig nýir leikmenn passa inn í okkar lið. Í fyrsta leiknum á móti Val töpuðum við 6:3 en eftir það hefur verið stígandi í okkar leik og við verið að taka miklum framförum. Við náðum síðan okkar markmiði, sem var að komast í undanúrslit lengjubikarsins en þar töpuðum við á móti Breiðabliki. En eins og ég segi þá líst mér bara vel á þetta,“ segir Jeffs. Það verða oft miklar breytingar á leikmannahópnum milli ára og eru til að mynda 12 leikmenn farnir og sjö komnir fyrir þetta tímabil. „Það er bara þannig með útlendingana, sumir vilja vera hér í eitt ár og síðan prófa eitthvað nýtt en aðrir fíla þetta og vilja vera áfram eins og t.d. Cloe Lacasse en hún er að hefja sitt þriðja tímabil með okkur og líður greinilega bara vel hér. Natasha Anasi er síðan bara ólétt þannig að það var ekki eins og hún vildi ekki vera áfram, henni leið vel hérna en svona er þetta bara. Við höfum síðan bara fyllt skörðin fyrir hina leikmennina sem fóru aftur heim eða í önnur lið með nýjum leikmönnum og þeir líta vel út,“ segir Jeffs og bætir við að hann eigi ekki eftir að koma til með að styrkja hópinn frekar. „Nei, við erum komin með okkar hóp, blöndu af erlendum og innlendum leikmönnum en við fengum t.d. Rut Kristjánsdóttur og Ingibjörgu Lúcíu. Við reynum alltaf að fá íslenska leikmenn og það er mjög gott að hafa fengið þessa tvo, ég er ánægður með það.“ Ykkur var spáð 5. sætinu af fótbolta.net er það ekki bara eðlilegt? „Jú, það er svo sem eðlileg spá, þeir skoða náttúrulega bara undirbúningstímabilið og meta eftir því. Mér líður samt betur núna en í fyrra þrátt fyrir að hafa ekki komist eins langt í lengjubikarnum. Þetta er gott á vissan hátt, það er ekki eins mikil pressa á okkur en innan hópsins verðum við að gera meiri kröfur, okkar markmið er töluvert meira en þetta, við viljum ekki vera miðjudeildarlið, við viljum vera ofar og reyna að berjast við þessi topplið. Við erum oft að spila vel gegn liðunum fyrir neðan okkur en við verðum að gera betur gegn þessum sterkustu liðum sem enduðu fyrir ofan okkur í fyrra. Við minnkuðum bilið á milli okkar og stóru liðanna á síðasta tímabili og verðum við núna að taka næsta skref í því ferli,“ segir Jeffs sem heldur að deildin verði áhugaverð í ár. „Ég held að deildin verði skemmtileg, það er ekki lengur bara þessi tvö til þrjú lið sem eiga möguleika á því að vinna eins og var fyrir fimm til sex árum, öll lið geta tekið stig hvert af öðru.“ Tímabilið hefst 28. apríl á Hásteinsvelli þegar ÍBV mætir KR og vonast Jeffs eftir betri byrjun en síðast. „Við byrjum vonandi betur en í fyrra. Við urðum þá lengjubikarmeistarar en byrjuðum samt mótið illa, töpuðum fjórum af fyrstu sex leikjunum og þar með búin að spila okkur úr toppbaráttunni. Við þurfum klárlega góða byrjun ef við ætlum að blanda okkur í toppbaráttuna,“ segir Jeffs að lokum.  

Leikir ÍBV í sumar

 Leikir ÍBV KVK í Pepsídeild kvenna 2017:   Fös. 28. apríl kl. 18 ÍBV – KR Mið. 03. maí kl. 18 Valur – ÍBV Þri. 16. maí kl. 18 Grindavík – ÍBV Lau. 20. maí kl. 14 ÍBV – FH Fim. 25. maí kl. 14 Þór/KA – ÍBV Mán. 29. maí kl. 18 ÍBV– UBK Fös. 16. júní kl. 18 Fylkir – ÍBV Þri. 20. júní kl. 18 ÍBV – Haukar Mið. 28. júní kl. 18 KR – ÍBV Sun. 02. júlí kl. 14 ÍBV – Valur Fim. 10. ágúst kl. 18 Stjarnan – ÍBV Þri. 15. ágúst kl. 18 ÍBV – Grindavík Þri. 22. ágúst kl. 18 FH – ÍBV Sun. 27. ágúst kl. 18 ÍBV – Þór/KA Mið. 06. sept. kl. 17:30 UBK – ÍBV Lau. 23. sept. kl. 14 ÍBV – Fylkir Fös. 29. sept. kl. 16:15 Haukar – ÍBV   Leikir ÍBV KK í Pepsídeild karla 2017:   Sun. 30. apríl kl. 17 ÍBV – Fjölnir Sun. 07. maí kl. 17 Stjarnan – ÍBV Sun. 14. maí kl. 17 ÍBV – Víkingur R. Sun. 21. maí kl. 14 Víkingur Ó. – ÍBV Lau. 27. maí kl. 16 ÍBV – ÍA Sun. 04. júní kl. 17 Valur – ÍBV Mið. 14. júní kl. 18 ÍBV – KR Sun. 18. júní kl. 17 Grindavík – ÍBV Sun. 25. júní kl. 17 ÍBV – FH Sun. 09. júlí kl. 17 ÍBV – Breiðablik Sun. 16. júlí kl. 16 KA – ÍBV Sun. 23. júlí kl. 17 Fjölnir – ÍBV Sun. 30. júlí kl. 17 ÍBV – Stjarnan Mið. 09. ágúst kl. 18 Víkingur R. – ÍBV Sun. 13. ág. kl. 18 ÍBV – Víkingur Ó. Sun. 20. ágúst kl. 17 ÍA – ÍBV Lau. 26. ágúst kl. 16 ÍBV – Valur Lau. 09. sept. kl. 16 KR – ÍBV Fim. 14. sept. kl. 17 ÍBV – Grindavík Sun. 17. sept. kl. 16 FH – ÍBV Sun. 24. sept kl. 14 Breiðablik – ÍBV Lau. 30. sept. kl. 14 ÍBV - KA  

Fótboltinn rúllar af stað með tveimur leikjum á Hásteinsvelli

Þrátt fyrir að veðurhorfur á landinu næstu daga bendi ekki til þess að sumarið sé á næsta leiti, breytir það því ekki að fótboltatímabilið er í þann mund að hefjast. Fyrstu leikirnir í Pepsi-deild kvenna munu fara fram á morgun en ÍBV á þó ekki leik fyrr en á föstudag þegar KR kemur í heimsókn en leikurinn hefst kl. 18:00. ÍBV og Fjölnir munu síðan etja kappi í Pepsi-deild karla á Hásteinsvelli á sunnudaginn og mun sá leikur hefjast kl. 17:00. Eftir síðasta tímabil var Kristján Guðmundsson, fyrrum þjálfari Keflavíkur og HB Þórshafnar, ráðinn til starfa sem þjálfari karlaliðsins eftir brotthvarf Bjarna Jóhannssonar og hefur hann undanfarna mánuði verið að setja mark sitt á starfið innan knattspyrnudeildar karla. ÍBV hefur ekki átt góðu gengi að fagna síðustu árin og iðulega verið meðal neðstu liða í botnbaráttu síðan Heimir Hallgrímsson steig frá borði sem þjálfari liðsins árið 2012. Síðan þá hefur hver þjálfarinn á fætur öðrum spreytt sig en aldrei enst í starfi. Miklar vonir eru því bundnar við komu Kristjáns Guðmundssonar um stöðugleika og betri árangur en sjálfur segir hann að fyrsta skrefið í ferlinu verði að skilja liðið frá botninum. „Við viljum vinna okkur upp í miðjustrikið, svona sjötta til fimmta sæti, en það er síðan annað stökk að ná efstu liðunum. Það er hugsunin að lyfta liðinu upp frá þeim stað sem það hefur verið seinustu tvö til þrjú árin, þar áður var liðið alltaf í toppnum og í Evrópukeppnum og þangað viljum við fara aftur,“ segir Kristján sem fer nánar yfir málin í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Eyjafrétta. Kvennalið ÍBV hefur undanfarin ár siglt lygnan sjó í deildinni og samkvæmt spám sérfræðinga verður engin breyting þar á í sumar. Ian Jeffs, þjálfari liðsins, segir þessar spár á vissan hátt góðar þar sem utanaðkomandi pressa ætti ekki að hafa mikil áhrif á leikmenn. Hins vegar telur hann mikilvægt að innan liðsins eigi væntingunum ekki að vera stillt í hóf. „Innan hópsins verðum við að gera meiri kröfur, okkar markmið er töluvert meira en þetta, við viljum ekki vera miðjudeildarlið, við viljum vera ofar og reyna að berjast við þessi topplið. Við erum oft að spila vel gegn liðunum fyrir neðan okkur en við verðum að gera betur gegn þessum sterkustu liðum, sem enduðu fyrir ofan okkur í fyrra. Við minnkuðum bilið á milli okkar og stóru liðanna á síðasta tímabili og verðum núna að taka næsta skref í því ferli,“ segir Jeffs.    

Myndasafnið >>

Öldudufl við Landeyjahöfn

Öldudufl við Landeyjahöfn

Stjórnmál >>

Greinar >>

Silja Dögg Gunnarsdóttir - Bjartar vonir veikjast

Bjartar vonir vöknuðu hjá Eyjamönnum og öðrum fyrir nokkrum árum síðan þegar ákvörðun var tekin um að byggja nýja höfn í Landeyjum og smíða nýja ferju. Í áratugi höfðu Eyjamenn búið við brotakenndar samgöngur. Fréttin af höfninni og ferjunni breiddist út og fólk sem hafði flutt frá Vestmannaeyjum, m.a. vegna slæmra samgangna, flutti nú heim aftur. Aðrir stofnuðu fyrirtæki til að geta tekið á móti ferðamönnum og fóru í því skyni út í umtalsverðar fjárfestingar.   Ferðaþjónustan í uppnámi Nú, mörgum árum síðar, er staðan enn slæm og ekki fyrirséð að hún batni í bráð af fjölmörgum ástæðum. Íbúar í Vestmannaeyjum, sem hafa haldið í vonina um úrbætur, eru sumir við það að gefast upp á biðinni eftir bættum samgöngum. Ferðaþjónustan er í uppnámi en nú þegar hefur einn aðalmánuðinn af vertíðinni, af fjórum, nánast fallið niður. Skaði samfélagsins er gríðarlegur en hann er þó ekki eingöngu mældur í krónum og aurum, því miður.   Svarleysi Nýlega var haldinn fjölsóttur fundur í Höllinni þar sem íbúar komu saman og ræddu samgöngumál, fóru yfir stöðuna og hver yrðu næstu skref. Þar kom fram að smíði nýrrar ferju er hafin en óvíst er með hvað eigi að gera til að gera varðandi nauðsynlegar úrbætur á Landeyjahöfn. Hvar er t.d. sanddælubúnaðurinn fyrir höfnina sem lofað var? Verður gamli Herjólfur látinn sigla áfram til Þorlákshafnar þegar nýja ferjan kemur til að tryggja flutninga á milli lands og Eyja? Hvers vegna þurfa Eyjamenn t.d. að borga háa vegatolla af sínum þjóðvegi þegar aðrir landsmenn þurfa ekki að gera það? Engin svör fengust við þessum spurningum á fundinum.   Óánægja með verð og tímatöflu Rekstraraðili Eimskips í Eyjum fékk fjölmargar fyrirspurnir og ábendingar varðandi bætta þjónustu og aðbúnað um borð. Fólk gagnrýndi tímatöfluna, bókunarkerfið og vildi fá nánari upplýsingar um samning Eimskips í þeim tilgangi að átta sig betur á verðlagningu farmiða. Fátt var um svör en ljóst að útboð verður á rekstrinum í haust og Eimskip hyggst sækjast eftir að fá umboðið. Sumir töldu að rekstrinum verði betur fyrirkomið hjá sveitarfélaginu og þá hugmynd ber að skoða vandlega. Að fundi loknum hafði undirrituð orðið örlítið vísari um sögu Herjólfs en vissi litlu meir en áður um næstu skref málsins. Ljós er að íbúar eru langþreyttir og hundóánægðir með ástandið.   Ferðin með Baldri Heimferðin frá Vestmannaeyjum var svo sér kapítuli út af fyrir sig. Þar sem flugið féll niður vegna veðurs stökk undirrituð um borð í Baldur. Eftir þá viðbjóðslegu sjóferð spyr maður sig óhjákvæmilega að því, hvaða snillingi datt í hug að taka bátinn af Vestfirðingum og skerða þeirra samgöngur enn frekar niður og senda hann suður til siglinga á milli lands og Eyja? Báturinn er alls ekki gerður fyrir úthafssiglingar og skoppaði um í umtalsverðri ölduhæð eins og korktappi. Eftir klukkustund náðum við til lands og martröðinni var lokið. Ég mun jafna mig á sjóveikinni og hef heitið því að stíga ekki um borð í dallinn aftur. Íbúar í Vestmannaeyjum hafa hins vegar ekkert val þar sem kerfið okkar er þannig að ákveðin grunnþjónusta er staðsett uppá landi, svo sem fæðingarþjónusta en sú umræða er efni í aðra grein.   Planið Þingmenn kjördæmisins munu án efa halda áfram að beita sér fyrir bættum samgöngum til Vestmannaeyja enda er ekki um flokkspólitískt mál að ræða heldur samfélagslegt réttlætismál. Opinn fundur bæjaryfirvalda með ráðherra samgöngumála og yfirmönnum Vegagerðarinnar sem halda á í kvöld er löngu tímabær. Þar á að krefjast svara um verkáætlun og tímalínu. Við þingmenn getum spurt og talað en samband við framkvæmdavaldið er nauðsynlegt ef árangur á að nást. Ég mæti, ef það verður fært…